Þótt tóftir bæjarins Klappar austan Buðlungu í Þórkötlustaðahverfi Grindavíkur gefi ekki til kynna mikil merkilegheit er þar margs að minnast.
Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur 2018.
Fjallað er um bæjarstæðið í skýrslu um „Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð„. Þar segir m.a. um Klöpp og nágrenni:
„Þórkötlustaða er getið 1270 í rekaskrá Skálholtsstaðar þar sem Þórkötlustaðir eiga fjórðung af hvalreka milli Valagnúpa og Rangagjögurs á móti Staðastöðum, Járngerðarstöðum og Hraun/Hofi og er þar einnig getið um landamerki. DI II, 76.
Hjáleigur 1703 voru: Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Bugðunga. JÁM III, 12-13.
1840: Ætíð hefir þar verið tvíbýli, en nú eru þar þrír bændur, hjáleigur: Einland, Klöpp og Bullunga og tómthúsið Borgarkot. SSGK, 139.
Buðlunguvör
Buðlungavör 2023.
„Í klapparskoru (bás) við sjóinn framan við eystri Þórkötlustaðabæina er Buðlungavör. Þessi lending var notuð þegar hægt var,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar. „Austast á merkjum móti Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás… Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndri Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallendingin, sem nefnd er Buðlungavör. Fram undan vörinni
eru tveir boðar, sem heita Fjósi og sá ytri Lambhúsi,“ segir í örnefnaskrá AG.
Buðlungavör – för eftir kili árabátanna á klöppinni ofan vararinnar.
Meðan árabátarnir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært þótti, en í öllu misjöfnu var lent í Nesinu, sem kallað var, og áttu þeir Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveim stöðum. Þetta breyttist þegar vélar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent í Nesinu.“ segir Guðsteinn Einarsson. Ef gengið er suður traðirnar milli Miðbæjar og Vestari-Vesturbæjar, sem enn standa á Þórkötlustaðatorfunni, fram á kampinn og þá lítið eitt austur, gengur klöpp í suðsuðaustur fram í sjó. Austanvið klöppina er lygnara en þar er lendingin í Buðlunguvör. Buðlungavör er um 175 m suðaustan við Miðbæ Þórkötlustaða en um 70 m beint suður af Buðlungu. Ryðgaðir festarboltar eru á þessum slóðum við sjóinn. Stórgrýttur sjávarkampur og svartar hraunklappir í sjó fram. Vörin er stórt skarð í klettana um 15-20 m langt og 10 m breitt. Samkvæmt Lofti Jónssyni var lent upp við klöpp við vörina vestanverða og síðan var aflinn borinn upp á klöppina fyrir ofan sem nefnd var Skiptivöllur.
Teigur (eldri)
Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.
„Austast var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp. Sonur þeirra Árni byggði og hús þar sem hann nefndi Teig,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Samkvæmt upplýsingum sem koma fram hjá Árna Guðmundssyni (1891-1991) í myndbandi varðveittu hjá Ísmus var húsið byggt um 8 árum fyrir flóðið 1925, þá líklega 1918-1919 og var timburhús. Árni reif húsið eftir Stóraflóðið 1925 og flutti vestur eftir og steypti svo upp það hús sem stendur í dag (Klöpp/Teigur, sjá umfjöllun í húsakönnun vegna verndarsvæði). Það hús er byggt 1934 og er mögulegt að Árni hafi búið annars staðar á milli 1925-1934. Eldri Teigur, það bæjarstæði sem hér er skráð, er ekki merkt inn á túnakort frá 1918 og hefur líklega risið ári síðar. Húsið er merkt inn á uppdrátt Lofts Jónssonar.
Árni Guðmundsson (94 ára) við bæjarstæði Klappar.
Samkvæmt Árna Guðmundssyni byggði hann húsið á hólnum sem nefndur var Harðhaus [Harður]. Lítil ummerki sjást nú þar sem Teigur stóð áður en þar er hæð/hóll í túninu, fast austan við túngarð Klappar og fast sunnan við túngarð. Hæðin þar sem Teigur stóð er um 15 m austan við gamla Klappar og Buðlungabæinn. Hún er um 35x 12m að stærð og snýr austur-vestur. Þar sem hæðin rís hæst er hún um 1 m hærra en umhverfið. Hún nær að túngarði en raunar má á kafla sjá að mörk hennar eru norðan túngarðsins (1-2 m). Allra vestast á henni, um 1 m austan við túngarð er þúst. Þústin er 6,5×5 m að stærð og snýr norður-suður. Hún hefur líklega verið opin til suðurs. Þústin er frekar lá (um 0,2 m á hæð) og fellur inn í umhverfið. Engar grjóthleðslur sjást.
Öskugarður
Klöpp – Suðurgarður efst. Öskurgarðurinn kominn undir kampinn.
Garðlag sem líklega hefur að hluta til verið varnargarður lá áður frá túninu í Buðlungu/Klöpp og til vesturs alla leið að kálgörðum frá Austurbæjum Þórkötlustaða. Garðurinn hefur einnig markað af suðurhlið túna sem tilheyrðu Buðlungu/Klöpp. Segja má að þetta garðlag og suðurhlið hans austar hafi mögulega tengst en á milli er túnskiki Buðlungu/Klappar auk þess sem suðurhlið fyrrnefnds garðs er alveg horfin í rof. Garðurinn sem hér er skráður hefur upphaflega verið tæpir 110 m á lengd og var fast ofan við fjörukambinn. Á þeim slóðum sem garðurinn var hefur sjórinn þeytt yfir nokkru grjóti og er garðurinn alveg horfinn á löngum kafla.
Verbúð
Hraunreipi neðan sjávargötu Klappar að Buðlungavör. Minjar verbúðarinnar eru nú horfnar, enda segir Árni að „drjúgur hluti Klappartúnsins“ sé kominn undir kampinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Heimræði árið um kring og gánga þar skip heimabóndans. item áttært skip dómkirkjunnar um vertíðina, og fylgja því staðarins skipi bæði búð og vergögn, sem staðurinn við magt heldur“. Ekki er vitað hvar verbúðin hefur verið en líklegast hefur hún verið neðan við Þórkötlustaði eða á milli bæjarins og Buðlungu. Elsta þekkta lýsing á verbúðum í Þórkötlustaðalandi er í úttekt frá 4, júní 1738 þar sem getið er um tvær „sjómannabúðir. Var önnur þeirra í tveim stafgólfum, en hin í þrem, og báðar sagðar vel stæðilegar. Þessar búðir hafa að líkindum aðeins hýst eina skipsáhöfn hvor, en einnig voru til búðir fyrir tvær skipshafnir.“ segir í Sögu Grindavíkur.
Hafa ber í huga að sjávarkampurinn hefur sífellt verið að færa sig upp á landið ofanvert. Árni Guðmundsson vitnar um það í viðtali á Klapparstæðinu, þá 94. ára.
Buðlunga (elsta staðsetning)
Klöpp og hluti gömlu Buðlungu neðst t.v.
1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum [Þórkötlustöðum] að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,“ segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Buðlungu áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um 130 ár þar til nýtt íbúðarhús var byggt enn norðvestar árið 1933 og stendur það enn. Ekki er vitað nákvæmlega hvar elsta bæjarstæði Buðlunga var en það var beint suður af því bæjarstæði þar sem byggt var á 19. öld. Býlið var því staðsett gróflega við fjöruborðið beint (50 m) suður á bæjartóft og um 80 m SSA af íbúðarhúsinu í Buðlungu sem nú stendur (byggt 1933). Stórgrýttur fjörukambur og klappir fram af þeim.
Buðlunga (yngra bæjarstæði)
Tóftir Klappar og Buðlungu.
1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.“ segir í sóknarlýsingu. „Túnið á Buðlunga liggur að vörinni og sundvarðan var þar neðst í túni,“ segir í örnefnaskrá AG. Í fasteignamati 1916-1918 segir:
„Buðlunga, eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Eyjólfur Jónsson, dýrleiki 44. Tún og matjurtagarðar sérstakt, hagbeit og heiðarlönd óskipt sameign við Þórkötlustaði. Túngarður úr grjóti og vírgirðingu, matjurtagarðar 200 □ faðmar, gefa 15 tn í meðalári, 1 safnþró, alt í sæmilegu standi. Tún talið 3 dagsláttur, gefa af sér 55 hesta, mætti græða út. Útengi ekkert, útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við Klöpp og Einland. Uppsátursréttur í sameiningu við allar jarðirnar. Afföll nokkur af sjó á tún og garða. Eftirgjald til landeiganda kr. 40.00.
Gamla-Buðlunga.
Bærinn í Buðlungu var á tímabilinu frá því um 1800 og til 1933 um 40 m suðaustan við núverandi íbúðarhús í Buðlungu (byggt 1933). Bæjartóftir Buðlungu og Klappar eru sambyggðar, a.m.k. sjást ekki skýr skil á yfirgrónum tóftunum nú (2017). Þær eru fast suðvestan við núverandi útihússamstæðu í Buðlungu. Bærinn í Buðlungu var færður undan ágangi sjávar um aldamótin 1800, til norðurs eða upp í túnið. Talsverð bæjartóft er þar sem bæjarstæði Buðlungu og Klappar
virðast sambyggð, fast sunnan og austan við fjárhús og skemmu sem nú stendur í Buðlungu. Tún eru allt í kring nema að norðvestan þar sem er tihúsasamstæða og malarplan. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana. Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp.
Klöpp
Klöpp – sjórinn hefur brotið landið neðanvert í gegnum aldirnar…
1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13.
Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84
Klappar er getið sem hjáleigu frá Þórkötlustöðum í Jarðatali Árna og Páls frá 1703. 1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,“ segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Klappar áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um langt skeið en hætt var að búa á umræddum stað rétt fyrir 1930. Engin ummerki um elsta bæjarstæði Klappar sjást lengur.
Klöpp (yngra bæjarstæðið)
Klöpp – yngsta bæjarstæðið.
1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.,“ segir í sóknarlýsingu. „Austast var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Annar sonur þeirra hjóna byggði svo hús skammt austan við torfbæinn og nefndi Teig.
Klapparhjónin Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir.
Í fasteignamati 1916-1918 segir: „Jörðin Klöpp, eigandi og ábúandi Guðmundur Jónsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 3,44. Tún 3 dagsláttur, greiðfært, grasgefið, gefur af sér 50 hesta. Matjurtagarðar 300 faðmar, gefa 10 tn: af matjurtum, útengi ekkert, heiðarland og hagbeit óskipt í sameiningu við alla jörðina Þórkötlustaði. Útbeit sæmileg, fjörubeit góð, smalamennska erfið. Uppsátur í sameiningu við Þórkötlustaði, ekki til að leigja út. Samgöngur erfiðar á landi, brúkanlegar á sjó. Túnið liggur undir áföllum af sjó.
Árni Guðmundsson við gömlu Klöpp.
Í Klöpp stóð 1932 timburhús samkvæmt Fasteignabók 1932. Bærinn er talinn upp í fasteignabók 1938 en þá er ekki skráð hús þar. Fasteignabók 1938. Svæðið fór illa í stórflóðinu 1925. Tóftir Klappar sjást enn vel um 135 m ASA við Miðbæ Þórkötlustaða og fast austan við útihúsasamstæðu í Buðlungu. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana.
Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp. Er þetta óvanalegt og í lýsingu á mannvirkjunum verður hér allri tóftinni lýst en gert sérstaklega grein fyrir þeim hólfum sem eðlilegast er þá að ætla að hafi tilheyrt Klöpp. Tóftin er samtals 22,5×21,5 m að stærð og er því örlítið lengri austur-vestur en norður-suður. Í raun má segja að hún sé L-laga og eðlilegast er að álykta að sá hluti sem snýr norður-suður og er vestast hafi þá tilheyrt Buðlungu en hlutinn sem gengur til austurs syðst á svæðinu sé sá hluti sem tilheyrði Klöpp. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var hlandforin framan við bæjardyrnar, beint fyrir utan baðstofugluggann, sem var austan við eldhúsið. Árni fyllti síðar upp í forina. Það er um 7 m í þvermál og á því er mjög mikið af grjóti en í raun ekki önnur ummerki að sjá.
Gata
Sjávargatan frá Buðlungavör að Klöpp.
Sjávargatan frá Klöpp lá frá Klapparbænum gamla og niður að sjó í gegnum sjóvarnargarðinn. Gatan er merkt inn á túnakort frá 1918. Túngarður Klappar
myndaði vesturhlið traðanna alla leið að bænum, þar sem var hlið á túngarðinum en hlaðinn var traðarveggur að austan. Umhverfis traðirnar er grasi gróin slétta. Hólfið er nýtt fyrir hross og sést traðk og hrossaskítur víða.
Túngarður Klappar/Buðlungu markar vesturhlið traðanna frá suðurenda þeirra (þar sem hlið hefur verið á sjóvarnargarði) og hálfa leið heim að tóft Klappar eða samtals 28 m löngum kafla. Vesturveggurinn (túngarðurinn) mjög stæðilegur, víða 1 m á hæð en um 1,5 m þar sem mest er. Í veggnum sjást 6-8 umför af hleðslu. Austurhlið traðanna er 1-2 umför af grjóti. Hæð að innri brún allt að 0,5 m en ytri brún er ógreinilegri. Veggurinn er 0,3 á hæð og 0,8 m á breidd.
Austurhliðin er merkjanleg á um 16 m kafla. Um 4 m norðan við suðurenda traðanna hefur verið hlaðið þvert yfir þær, og girðing strengd þvert yfir svæðið. Timburþil hefur einnig verið lagt yfir traðarendann að sunnan.
Klöpp (þriðja bæjarstæði)
Klöpp – eldhúsið.
„Nýja“ húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Klapparbærinn hefur verið á nokkrum stöðum í Þórkötlustaðahverfi. Elsta staðsetningin er horfin í sjávarrof og var bærinn færður norðar í túnið um 1800. Ekki er vitað hversu lengi hann stóð þar en í upphafi 20. aldar hefur verið búið að byggja nýtt hús um 5 m sunnan við eldra bæjarstæðið og er það bæjarstæði skráð undir þessu númeri. Var það sonur hjónanna í Klöpp sem byggði húsið og nefndi það einnig Klöpp. Gömlu hjónin í Klöpp virðast þó hafa búið í yngra húsinu, því sem hér er skráð á tímabili. Um 1930 var svo bærinn fluttur á allt annan stað, norðvestarlega í Þórkötlustaðahverfi þar sem enn stendur steinsteypt parhús, Teigur og Klöpp en fjallað er um það síðastnefnda í húsaskráningu hverfisins. Ummerkin eru í túnskika sem tilheyrði Klöpp/Buðlungu.
Klöpp – bæjarstæðið.
Ekki er vitað nákvæmlega hvenær húsið sem hér er skráð var byggt en á heimasíðu Ferlis kemur eftirfarandi fram: „“Nýja“ húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Austan við gamla bæinn var byggt hús er nefndist Teigur. Marel í Klöpp og Árni í Teigi byggðu síðan samföst hús uppi á Leiti, sem enn standa [sjá húsaskráningu]“ Greinileg ummerki sjást eftir mannvirki á þessum stað. Steinsteypta þróin stendur enn að mestu. Líklega hefur þróin verið til að safna vatni. Árni staðfesti það síðar í viðtali. Hún er um 3 x 2,2 m að stærð og nýr norður-suður. Veggir eru 10-15 cm á þykkt og úr grófri steypu og að vestur- og norðurhliðum sjást för eftir bárujárn í steypunni. Talsverð uppsöfnun er innan veggja. Þróin er í suðausturhorni svæðis þar sem ætla má að íbúðarhúsið á Klöpp hafi staðið. Svæðið er rúmlega 6,5 m á kant og er 0,1 m hærra en umhverfið.
Hlaða
Klöpp – hlaðan.
Stæðileg útihúsatóft er um 14 m sunnan við bæjarstæði Klappar. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var heyhlaða á þessum stað sem faðir hans byggði. Guðmundur seldi reif svo húsið og seldi Indriða Guðmundssyni sem flutti það að Auðsholti. Túngarður markar af túnstæði Klappar/Buðlungu. Nú er beitarhólf fyrir hross á þessum slóðum. Tóftin er 11×7 m stór og snýr norður-suður. Hún er grjóthlaðin en gróin og eru veggir alveg yfirgrónir að utanverðu. Hún skiptist í tvö hólf og er það vestara stærra. Það er 6×3 m að innanmálin austur-vestur og virðist hafa verið opið til vesturs þótt þar megi greina lága hleðslu ofan í tóftinni. Aðrir veggir eru stæðilegir og stendur norðurveggur best, í allt að 1,8 m hæð og sjást þar 14-15 umför af börðu sjávargrjóti. Austan við er lítið hólf 3,4×1,7 m að innanmáli sem snýr norður-suður og er opið til suðurs. Ekki er op á milli hólfa en veggurinn sem er á milli hólfanna er mjög mikið hruninn (0,6 m á hæð).
Klöpp – hlaðan.
Tæpum 1 m frá suðvesturhorni tóftarinnar er lítill ferningur um 1 m á kant, líkt og þar hafi grjót verið hlaðið undir e.k. mannvirki. Til austurs frá tóftinni er um 4 m löng hæð sem er 0,5 m hærra en umhverfið og nær hún að túngarði. Þar sem hæðinni sleppir virðist mögulega hafa verið götutroðningur meðfram sunnanverðri tóftinni, samkvæmt túnakorti frá 1918. Ekki hefur þó verið op á túngarðinum á þessum stað og ekki sjást greinileg merki götunnar og hún er því aðeins skráð undir þessu númeri en ekki á sérstöku númeri eins og flestar verulegri götur sem þekktar eru á svæðinu.
Gata
Klöpp – Slokahraun og Hraun. Klapparbændur notuðu Slokahraunið til fiskverkunar.
Götur lágu áður þvert yfir tún Klappar og eru hlið eða op á túngarð Klappar að austan og vestan þar sem göturnar lágu í gegnum hann. Göturnar eru merktar inn á túnakort frá 1918. Götunum er viðhaldið að hestum en svæðið er nú beitarhólf hrossa. Göturnar lágu fyrir sunnan eldra bæjarstæðið en fyrir norðan það yngsta á þessu svæði. Ógreinilegar götur sjást á þessum stað í gegnum túnið, um 20 m langar. Ekki er hægt að merkja framhald þeirra til vesturs (þar sem margvíslegt rask hefur átt sér stað) en hægt er að rekja þær í um 50-60 m um túnið til austurs, þar til komið er að lítilli tjörn sem þar er.
Hrútakofi
Klöpp – fjárhústóft.
Samkvæmt Lofti Jónssyni var hrútakofi neðst eða syðst í túninu hjá Buðlungu/Klöpp. Árni Guðmundsson hafði greint honum frá þessu og Loftur taldi að það hefði verið umræddur kofi sem hefði horfið í flóðið 1925 og Árni greindi frá í viðtali 1986. Á þessum stað er grastó í sjávarkampinum beint niður af Klapparbænum. Engar eiginlegar leifar hrútakofa sjást lengur á þessum stað.
Engar eiginlegar leifar hrútakofa sjást lengur á þessum stað. Samkvæmt frásögn Árna Guðmundssonar (1891-1991) fóru mörg hús við Klöpp/Buðlungu mjög illa í Stórflóðinu 1925. Árni hafði þar hrút í kofa sem var járnklæddur. Þegar Stórflóðið varð þá tók þakið ofan af húsinu og hrútinn og allt. Þegar Árni kom daginn eftir var allt á kafi í sjó. Það varð bið á því að Árni kæmist en um kaffileytið daginn eftir þá sér er byrjað að fjara af túninu og þá fer hann að sjá ofan á kofann. Árni var viss um að hrúturinn væri dauður. Þegar hann loksins kemst að húsunum heyrir hann jarm og þá hafði hrútinum orðið til lífs að smá loftrými virðist hafa verið efst í húsinu. Þótti þetta talsvert merkilegt. Í sama flóði bjargaðist hestur Guðmundar bróður hans sem var í kofa á sömu slóðum.
Upphaf og þróun byggðar í Þórkötlustaðahverfi
Þórkötlustaðahverfi – túnakort 1918.
Náttúrufar í Grindavíkurhreppi einkennist af miklum eldshræringum sem hafa mótað svæðið allt frá því á forsögulegum tíma. Landbrot hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið enda er landsig hér á landi hvergi meira en einmitt á þessum slóðum. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál í hreppnum og hafa áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum. Sökum alls þessa er stór hluti hreppsins óbyggilegur. Meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna leynast þó víða grænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. Í mörgum þessara vinja hefur líklega snemma myndast þéttbýli á íslenskan mælikvarða og íbúar reitt sig á sjósókn samhliða skepnuhaldi. Þórkötlustaðahverfið er dæmi um slíkt svæði. Í þessum kafla verður gerð tilraun til að rýna í tiltækar vísbendingar um upphaf og þróun búsetu í Þórkötlustaðahverfi, allt fram á þennan dag.
Þórkötlustaðatorfan.
Þegar reynt er að ráða í byggðarþróun á tilteknu svæði má nota ýmsar vísbendingar sem finnast við fornleifaskráningu, úr fornum ritheimildum, stærð og dýrleika jarðar, jarðarheiti og landgæði til að setja fram tilgátur um upphaf og þróun byggðar. Kuml eru sjálfstæð vísbending um búsetu fyrir árið 1000 og kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku og vitna því um hið sama. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og
dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar.
Þórkötlustaðahverfi.
Samkvæmt Landnámubók var landnámsmaður í Grindavík Molda-Gnúpur Hrólfsson. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðmæri í Noregi, en bróðir hans var Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann samkvæmt Landnámu þar til landið spilltist af jarðeldum og flúði hann þá vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn. Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar.
Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.
Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir. Um tímasetningu landnáms í Grindavík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér
stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík.
Hvergi er hins vegar talað um hversu margir fylgdu Molda-Gnúpi. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má geta þess til að þeir hafi byggt fjóra stærstu bæina í Grindavík: Stað, Járngerðarstaði, Þórkötlustaði og þá mögulega Hraun.
Þórkötlustaðahverfi – örnefni og minjar (ÓSÁ.)
Haldbetri fornleifafræðileg vísbending um forna búsetu í Þórkötlustaðahverfi er hins vegar að finna í þeim minjum sem komið var ofan í þegar hlaða var byggð á bæjarhól Þórkötlustaða, um aldamótin 1900. Þar komu í ljós leifar skálabyggingar sem líklega er frá fyrstu öldum byggðar og bendir það eindregið til að byggð hafi verið komin á snemma í hverfinu og að sjálft bæjarstæðið hafi verið á svipuðum slóðum allt frá fyrstu öldum.
Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Á móti vegur sú staðreynd að byggð í Grindavík skiptist snemma í þrjú hverfi sem ætla mætti að hverfðust um elstu og bestu jarðirnar en þau eru kennd við jarðirnar Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði. Samanlagt verður að teljast líklegt að Þórkötlustaðir sé á meðal elstu jarða í Grindavíkurhreppi og líklegast að hún hafi komist í byggð á 9.-10. öld þótt frekari rannsókna sé þörf til að fullyrða nokkuð um það.
Þórkötlustaðir – varða.
Þótt ekki séu ítarlega heimildir tiltækar um Þórkötlustöðum á miðöldum er jarðarinnar getið á nokkrum stöðum í Fornbréfasafni. Athygli vekur að Krýsuvíkurkirkja átti þar landskika a.m.k. frá 13. öld en í máldögum frá þeim tíma og síðar kemur fram að kirkjan eigi „ix mæla land aa Þorkotlustodum“. Mælieiningin „mælir“ lands var notaður um stærðir kornakra og heimildin er því vísbending um akurrækt á svæðinu á fyrstu öldum.
Árið 1534 kemur fram á „bleðli“ sem varðveist hefur í fornbréfasafni að Eiríkur Pálsson skuldi Jochim Grelle fjögur hundruð fiska, sem eigi að greiðast í hlutum í Grindavík, bæði á Þórkötlustöðum, hjá Hauki (eða Hákoni) og hjá Þorgrími í Hópi og í heimild frá 1562 er getið um Þórkötlustaði í tengslum við mannsdráp sem þar átti sér stað. Bréf frá árinu 1563 sýnir að jörðin var þá orðin eign Skálholtsstaðar.
Heródes – álagasteinn við Þórkötlustaði.
Elsta ítarlega heimildin um Þórkötlustaði er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Þar er kostum og göllum jarðarinnar lýst og hjáleigur innan marka hennar taldar upp. Af lýsingunni fæst staðfest að gæði jarðarinnar voru fólginn í sjávarnytjum hennar fremur en skilyrðum til landbúnaðar. Samkvæmt jarðabókinni gat jörðin fóðrað 4 kýr, 20 ær, 16 lömb og 1 hest. Þar er þess getið að heimræði sé allt árið um kring, þang aðaleldiviður (þótt jörðin hafi átt kolagerð í almenningi), fjörugrastekja nægileg, selveiði til góðra hlunninda, rekavon góð (timbur og hvalur) og sölvafjara sæmilega góð en torfskurður aftur á móti sendinn, engjar engar, vatn aðeins flæðivatn og þess einnig getið að sjór brjóti af landi.
Þótt ekki sé getið um hjáleigubyggðina á Þórkötlustöðum fyrr en um 1703 eru allar líkur á að hún nái lengra aftur og Jón Þ. Þór telur hugsanlegt að hún eigi upphafi sitt að einhverju leyti að rekja allt aftur á 12.-13. öld þegar fiskneysla jókst til muna og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi.
Vestari Vesturbær Þórkötlustaða – flugmynd.
Ástæða aukins þunga sjávarútvegs var m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Líklegt er að verstöðvar hafi þá orðið til víðast þar sem stutt var á góð mið.
Ekkert er vitað um eignarhald Þórkötlustaða framan af. En jörðin var, eins og fyrr kemur fram, orðin stólseign um miðja 16. öld. Jón Þ. Þór telur líklegt að staðurinn hafi eignast jarðirnar í kjölfar plágnanna á 15. öld, þá líklega í þeim tilgangi að auka áherslu stólsins á sjósókn. Lítið er vitað um mögulega útgerð Skálholtsstaðar í Grindavík á 15.-16. öld en ljóst að þegar komið var fram á miðja 17. öld lagði Brynjólfur Sveinsson biskup á það ríka áherslu að auka og byggja upp útgerð á svæðinu öllu, þ.m.t. á Þórkötlustöðum. Í úttekt frá 1665 kemur fram að engin verbúð sé á Þórkötlustöðum en heimabóndi hýsi skipsáhöfn en þegar Jarðabók Árna og Páls er rituð 1703 er risin verbúð á jörðinni.
Þórkötlustaðahverfi.
Sem fyrr segir er Jarðabókin elsta heimildin um hjáleigubyggð á Þórkötlustöðum en þegar hún var rituð 1703 voru þar fimm hjáleigur og bjuggu samtals 60 manns í hverfinu, 13 á heimajörðinni en aðrir á hjáleigunum. Á 18. öld er jörðinni skipt í þrjá jarðparta og þeir seldir með stuttu millibili undir lok 18. aldar. Eftir það var hver partur orðin sjálfstæð eign, á við meðaljörð í gæðum. Svo virðist sem byggð haldist stöðug í hverfinu allt til loka 19. aldar. Í Sýsluog sóknarlýsingum frá 1840 kemur fram að þrjár hjáleigur séu í byggð á jörðinni og ein þurrabúð og 1847 eru fjórar hjáleigur í byggð. Árið 1801 bjuggu þar 44 á 10 heimilum og íbúafjöldinn var á bilinu 40-60 manns á 8-10 heimilum allt fram yfir 1880. Á sjálfri heimajörðinni var reyndar þríbýlt lengst af á 19. öld og bjó þar m.a. Árni Einarsson hreppstjóri 1882 á einum parti sem e.t.v. má túlka sem vísbendingu um að jarðarpartarnir þrír hafi enn verið í flokki með betri jörðum á svæðinu. Þó voru ábúendaskipti á jörðinni og hjáleigum hennar voru fremur ör, sérstaklega á síðari hluta aldarinnar.
Þórkötlustaðir – loftmynd 1954.
Á árunum 1880-1901 tekur Þórkötlustaðahverfið talsverðum breytingum. Þá meira en tvöfaldaðist íbúatala í hverfinu, fór úr 60 íbúum árið 1880 í 132 árið 1901 og úr 9 heimilum í 22. Þegar túnakort var gert fyrir Þórkötlustaði 1918 voru býlin í hverfinu 12 talsins auk fimm íbúðarhúsa á sjálfri bæjartorfunni og að auki var án efa tvíbýlt á sumum býlanna. Á fyrri hluta 20. aldar virðist hafa verið algengt að afkomendur fólks á eldri bæjarstæðunum í hverfinu hafi byggt sér ný hús innan hverfis. Sem dæmi um þetta byggðu börn Englandsbóndans upp Heimaland og Efraland í kringum 1940, dóttir eiganda Hvamms byggði húsið Þórsmörk 1938 og synir hjónanna úr Klöpp byggðu sér tvíbýlin Vestri-Klöpp og Teig norðvestarlega í hverfinu á 4. áratugnum. Ekki er ólíklegt að þetta hafi einnig verið raunin á árunum fyrir 1900.
Þórkötlustaðir.
Þórkötlustaðahverfi hélt áfram að blómstra og vaxa á fyrri hluta 20. aldar en þegar komið var undir miðbik aldarinnar voru aukin umsvif og fólksfjölgun í Járngerðarstaðahverfi ásamt nýjum hafnarmannvirkjum í Hópinu farin að hafa áhrif á hverfið, þótt þar byggju þá ríflega 200 manns í hátt í 30 íbúðum. Greinilegt var orðið að þungamiðja athafnalífs í Grindavík yrði í framtíðinni í Járngerðarstaðahverfi. Til að bregðast við þeim vanda sem steðjaði að byggðinni stofnaði fólk á svæðinu félagskap um byggingu frystihúss sem tók til starfa í hverfinu 1947 og var það starfrækt fram til 1992. Frystihúsið blés miklu lífi í atvinnu á svæðinu enda voru gerð út allt að fimm fiskiskip á sama tíma og keyptur fiskur af öðrum bátum til verkunar. Á fimmta áratugnum var stofnaður skóli í hverfinu og þar var einnig rekin verslun um nokkurra áratuga skeið.
Í „Fornleifaskráningu í Grindavík, 2. áfanga, 2002“ segir m.a. um Klöpp:
Klöpp – tóftir.
1703: Hjáleiga frá Þórkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84
Í sóknarlýsingu 1840 segir: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.“ Um 60 m suðaustan við núverandi íbúðarhús á Buðlungu stendur bárujárnsklædd skemma og suðaustan í henni eru tóftir Klappar. Þar var síðasti Klapparbærinn. Austan skemmunnar er hrossagirðing og lenda tóftirnar að mestu leyti innan hennar. Annars er umhverfis hana sléttað malarplan.
Klöpp – fjárhús.
Svæðið allt er um 50×40 m. Tóftirnar eru tvær, sú syðri minni og væntanlega útihús. Hún er um 9×5 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Vestara hólfið er opið til vesturs en hið eystra til suðurs. Fast norðvestan í tóftinni er steypustokkur, e.t.v. einhverskonar þró. Um 10 m norðan við tóftina eru tóftir Klapparbæjarins en skemman hefur rofið norðvesturhluta þeirra. Þær eru mjög greinilegar en ekki er um neinn bæjarhól að ræða. Tóftirnar eru um 22×14 m að stærð og skiptast í sex hólf og gang. Vestasta hólfið er enn undir þaki en mjög sigið. Op eru þrjú, til suðurs, norðurs og vesturs. Báðar tóftirnar eru mjög heillegar. Hleðslur eru úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er mest um 1,3 m en umför allt að átta. Grjótið er að einhverju leyti tilhöggvið. Umhverfis tóftirnar eru grjóthlaðnir túngarðar um 1 m háir. Suðurhluti þeirra liggur alveg í stórgrýttum sjávarkampinum en þó er vel hægt að greina hleðsluna. Norðan í henni miðri er tóftarbrot, mjög ógreinilegt en talsvert er af grjóti í því. Um 20 m sunnan við nyrðri tóftina eru grjóthleðslurnar tvöfaldar og mynda einskonar traðir, um 10 m langar, suður á kampinn.
Árni Guðmundsson í viðtali við ón Daníelsson.
Í myndbandi Ólafs Rúnars Þorvarðarsonar þar sem Jón Daníelsson í Buðlungu ræðir við Árna Guðmundsson kemur m.a. eftirfarandi fram: Árni: „Hér bjuggu afi minni og amma, Árni Einarsson og Guðrún Árnadóttir, ættuð austan úr Flóa. Hún var frá Gafli í Flóa.“
Í Sögu Járngerðarstaðarættarinnar segir að Árni Einarsson hafi verið fæddur 3. des. 1828 á Þórkötlustöðum, dáinn 14. ágúst 1882 í Klöpp, bóndi í Klöpp og Buðlungu. Kona hans hafi verið Guðrún Gamalíelsdóttir frá Hamri í Gaulverjabæ.
Foreldrar Árna voru Margrét Árnadóttir, f. 29. des 1861 í Hraunkoti í Grindavík, d. 26. ágúst 1947, húsfreyja í Klöpp, og maður hennar Guðmundur Jónsson, f: 19. okt. 1858 á Þórkötlustöðum, d. 3. des. 1936, bóndi og sjómaður. Foreldrar hans voru Jón Jónsson bóndi á Þórkötlustöðum og Valgerður Guðmundsdóttir frá Hrauni. Þau eignuðust sjö börn; Einar Guðjón, Guðrúnu, Valgerði, Jón, Árna, Guðmund Ágúst og Guðmann Marel.“
Klapparbletturinn er, skv. framangreindu, merkilegur fyrir margra hluta sakir. Slíkar minjar ber að varðveitta, þótt ekki sé fyrir annað en að minnast sögu fólksins, sem þar bjó…
Heimildir:
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð, Reykjavík 2018.
-Myndband Ólafs Rúnars Þorvarðarsonar – https://vimeo.com/113794968
-Fornleifaskráning í Grindavík, 2. áfangi, Reykjavík 2002.
Klöpp – skemma í Austurtúninu.
Helgafellsspítali og Camp Whitehorse
Undir Helgafelli í Mosfellshreppi voru stórir herkampar, s.s. Camp Treffert og Camp Helgafell. Þar var og Helgafellsspítali (Sacred Hill Hospital). Í dag (2023) er fátt um minjar er gefið gætu til kynna sögu mannvirkjanna, sem þarna voru reistar. Þó má enn sjá þar steypta vatnsgeyma, grunn varðskýlis ofan við gömlu Köldukvíslsbrúna, sem byggð var 1912 og sorpbrennsluofn. Undir ofanverðum bökkum Köldukvíslar að sunnanverðu má enn berja augum leifar herbúðanna, sem af einhverri ástæðu hefur skipulega verið ýtt fram af brúnunum.
Friðþór Eydal við vatnstanka sem reistir voru fyrir kalt og heitt vatn í hlíðum Helgafells í Mosfellsdal ofan við stærsta spítalann á hernámsárunum.
Í Læknablaðinu 2013 er umfjöllun Friðþórs Eydals um herspítalana á stríðsárunum undir fyrirsögninni „Merkileg saga herspítalanna á Íslandi„.
„Þetta er efni sem hafði safnast upp hjá mér og ég fann ekki stað í þeim bókum og ritgerðum sem ég hef skrifað um hersetuna og dvöl varnarliðsins á Íslandi,“ segir Friðþór Eydal sem um árabil var upplýsingafulltrúi varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og hefur rannsakað hersetuna flestum öðrum betur.
Í óbirtri ritgerð sem Friðþór hefur tekið saman og nefnist Herspítalar Breta og Bandaríkjamanna á Íslandi í síðari heimsstyrjöld rekur hann umfang þessarar starfsemi sem flestum núlifandi Íslendingum er með öllu ókunn og kemur eflaust mörgum á óvart hversu stór hún var í sniðum. Það átti sér skýrar ástæður sem Friðþór gerir glögga grein fyrir.
Vatnsstankarnir ofan við Kampana milli Helgafells og Köldukvíslar.
„Heilsufar hermanna er mikilvægur þáttur í skipulagi og viðbúnaði herliðs svo baráttuþrek og tiltækur liðsafli sé ávallt í hámarki. Heilbrigðisþjónusta hersins líkist því sem almennt tíðkast en þó með tveimur mikilvægum undantekningum þar sem ekki er gert ráð fyrir þjónustu við börn og aldraða en bráðaþjónusta, skyndihjálp flutningar og umönnun sjúkra og særðra af völdum styrjalda og farsótta er mikilvægur hluti starfsins,“ segir Friðþór.
Herkampar milli Köldukvíslar og Helgafells. Sá má gömlu brúna yfir Köldukvísl frá árinu 1912, en áður var þar vað á ánni. Bretar settu upp herspíatla í Stúdentagarðinum við Háskóla Íslands (Gamla-Garði) sumarið 1940 og einnig í gamla Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi sem var lítið notur um þær mundir. Jafnframt hófu þeir byggingu stórs braggahverfis á Ásum við rætur Helgafells fyrir spítalasveitina svo skila mætti stúdentum Gamla-Garði. Framkvæmdir hófust haustið 1940 og nefndust búrðirnar Helgafell Hospital. Samþykkti bæjarráð Reykjavíkur, sem hafði forgangsrétt á heitu vatni frá Reykjum, að selja Bretum vatn til þess að hita upp spítalann. Bygging spítalans reyndist tafsöm vegna tíðarfars og skorts á aðföngum en 711. byggingarsveit breska hersins (711 General Construction Company, Royal Engeneers), sem hafði verið með höndum, vann jafnframt að nokkrum öðrum umfangsmiklum verkefnum og hafði aðsetur í spítalabröggunum á framkvæmdatímanum.
Helgafellspítali á Ásum við Þingvallaveg var nær fullbyggður sumarið 1942. Neðst á myndinni t.v. sést heitavatnslögnin frá Reykjum og vatnsgeymar fyrir heitt og kalt vatn oafn við spítalabúrinar. Vesturlandsvegur lá í kröppum sveig niður að gömlu brúnni á Köldukvísl og skapaði verulega slysahættu í hálku. Neðar við ána til vinstri sér hvar hafin er smíði nýrrar brúar sem bætti umferðaröryggi um Vesturlandsveg til muna.
Skálunum var upphaflega ætlað að standa á víð og dreif til öryggis gegn loftárásum en frá því var horfið í hagræðingarskyni og flestar byggingarnar tengdar saman með göngum sem vatns- og raflagnir lágu einnig um. Eftir að spítalinn var fjarlægður var svæðið nýtt sem malarnáma en vatnsgeymar standa enn sunnan við veginn. – F. Eydal
Mynd þessi er merkt bandarískum landgönguliða að nafni Taffert sem tók hana á sínum tíma ásamt fleirum frá Camp Whitehorse sem var við svonefnda Ullarnesbrekku vestan við Helgafell. – F. Eydal
„Herflokkar hafa sérþjálfaða sjúkraliða sem veita bráðaþjónustu á vettvangi, hjúkrunarsveitir annast flutning særðra og reka sjúkraskýli skammt að baki víglínunnar. Sérþjálfað læknalið annast greiningu og skyndiaðgerðir til undirbúnings fyrir flutning á stærri sjúkraskýli eða spítala. Á erlendri grund er tekið tillit til fjarlægða og annarra aðstæðna í skipulagi spítalaþjónustu ásamt flutningi illa særðra eða sjúkra til heimalandsins.“
Braggagrunnur ofan gömlu brúarinnar yfir Köldukvísl, sennilega varðskýli.
Allt þetta þarf að hafa í huga þegar skoðað er hversu hratt breski herinn og síðar sá bandaríski komu upp fullkominni spítalaþjónustu við herlið sitt hér á landi og hversu hratt öll ummerki um þessa miklu starfsemi hurfu í stríðslok. Hreyfanleiki er lykilorðið enda er gert ráð fyrir því að víglínur færist til og þjónustan sé þétt að baki hinnar stríðandi fylkingar.
Minjar ofan Köldukvíslarbrúar, sennilega sorpbrennsuofn.
Friðþór kveðst hafa rannsakað talsvert skjalasöfn breska hersins og þess bandaríska í leit sinni að gögnum um herspítalana á Íslandi. „Ég hef fyrst og fremst leitast við að skilgreina kerfið sem unnið var eftir fremur en leita uppi sögur af einstaklingum. Hernaður bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni var af stærðargráðu sem heimsbyggðin hafði aldrei kynnst áður og hernámið á Íslandi var hluti af því.“
Herliðið nam tæpum helmingi þjóðarinnar
Leifar kampanna milli Helgafells og Köldukvíslar undir bökkum.
Breski herinn steig hér á land þann 10. maí 1940 og tilgangurinn var að hindra að Þjóðverjar kæmu sér upp flug- og flotabækistöðvum í landinu sem ógnað gætu Bretlandseyjum og skipaleiðum á Norður-Atlantshafi. „Bandaríkin voru hlutlaus í styrjöldinni til ársloka 1941 en með samningi Íslands, Bretlands og Bandaríkjanna tók bandarískt herlið við vörnum landsins og leysti breska hernámsliðið af hólmi. Hernámi Breta lauk því formlega 22. apríl 1942 og meginliðstyrkur breska hersins hélt af landi brott en breski flotinn og flugherinn störfuðu áfram í landinu með Bandaríkjaher þar til eftir stríðslok.“
Leifar kampanna milli Köldukvíslar og Helgafells undir bökkum.
Herafli bandamanna í landinu var alls nærri 50.000 þegar mest var sumarið 1943 og hafði um 80% liðsins aðsetur á höfuðborgarsvæðinu og Suðvesturlandi. Landsmenn voru aðeins 120.000 í upphafi hernámsins og íbúar Reykjavíkur um 40.000. „Þegar komið var fram á sumarið 1943 var ekki lengur talin hætta á innrás Þjóðverja í Ísland og var stór hluti herliðsins þá fluttur til Bretlands til þjálfunar fyrir innrásina á meginland Evrópu.“
Friðþór segir að hernaðaryfirvöld hafi í áætlunum sínum gert ráð fyrir að þurfa fullkomna heilbrigðisþjónustu fyrir allan þennan fjölda hermanna, enda Ísland afskekkt og spítalar ekki fyrir hendi nema fyrir landsmenn sjálfa. „Bandaríkjaher gerði ráð fyrir að forföll vegna veikinda, slysa og hernaðar gætu numið 5% af heraflanum á hverjum tíma og hagaði heilbrigðisþjónustunni í samræmi við það. Viðmið breska hersins voru helmingi lægri, eða 2,5% en þó var þörfin fyrir sjúkrarými strax í upphafi mjög mikil, því á fyrstu vikum hernámsins komu hingað um 17 þúsund hermenn.“
Brúin yfir Köldukvísl – byggð 1912, á tímum hestvagnatímabilsins.
Bretar þurftu að hafa snör handtök sumarið 1940 svo herlið þeirra gæti tekist á við íslenska veturinn. Tóku þeir ýmsar byggingar í Reykjavík á leigu, meðal annarra Menntaskólann í Reykjavík, Gamla-Garð og Laugarnesspítalann og komu upp sjúkraaðstöðu í þessum byggingum. Friðþór birtir í ritgerð sinni fróðleg bréfaskipti breska sendiherrans, Howards Smith, við yfirboðara sína í London þar sem hann leggur áherslu á mikilvægi góðra samskipta við íslensk yfirvöld svo ekki verði trúnaðarbrestur milli hersins og landsmanna. „Howard sagði málið sérlega viðkvæmt vegna þess að herinn hafði víða fengið inni í skólum um sumarið og ekki kæmi annað til greina en að skila því húsnæði að hausti eins og lofað hefði verið.“
Braggar í Camp Helgafell.
Friðþór segir það lífseigan misskilning varðandi hernámið að Bretar og síðar Bandaríkjamenn hafi farið fram með nokkrum yfirgangi og tekið það sem þeim sýndist til sinna afnota. „Staðreyndin er sú að Bretarnir leigðu allt húsnæði og lóðir sem þeir notuðu í upphafi hernámsins á markaðsverði og gerðu formlega samninga í flestum tilfellum. Verðbólgan sem varð í kjölfar hernámsins var engu lík og peningar streymdu frá hernum til landsmanna. Fólk flykktist af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar og eftirspurn eftir húsnæði margfaldaðist og leiguverð hækkaði. Það hafði ekki áhrif á leigusamningana sem Bretar höfðu gert og því fengu þeir það orð á sig að vera nískir og borga miklu minna en aðrir. Þetta var auðvitað ómaklegt.“
Herspítalar um allt land
George Eisel skytta komst einn af þegar sprengjuflugvél Franks M. Andrews yfirhershöfðingja Bandaríkjahers í Bretlandi með 15 manns innanborðs fórst á Fagradalsfjalli á Reykjanesi í maí 1943. Hér ræða íslenskir blaðamenn við hann á Helgafellsspítala, þeir eru frá vinstri Ívar Guðmundsson frá Morgunblaðinu, Hersteinn Pálsson rithöfundur og þýðandi frá Vísi og Jón Þórarinsson tónskáld frá Ríkisútvarpinu.
Herspítalarnir risu hratt og víða um land. Samgöngur á landi á þessum tíma voru lélegar svo ekki sé meira sagt, svo herdeildirnar sem sendar voru út á land urðu að vera sjálfum sér nægar um flesta hluti. Því risu spítalar utan Reykjavíkursvæðisins að Reykjum í Hrútafirði, að Hrafnagili í Eyjafirði og á Reyðarfirði og Seyðisfirði. Á Suðurlandi var reistur spítali í Kaldaðarnesi við flugvöllinn sem Bretar byggðu þar og einnig voru settir upp spítalar á Suðurnesjum, þeirra stærstur við Vogastapa.
Stærstu spítalarnir voru eftir sem áður í Reykjavík og nágrenni og reis mikið spítalahverfi í mynni Mosfellsdals við rætur Helgafells, svo og handan við fellið í landi Álafoss þar sem nú er Reykjalundur. Í Reykjavík voru sem áður sagði þrír spítalar. Þegar mest var voru á vegum herliðsins sjúkrarúm fyrir allt að 3000 hermenn en þessi viðbúnaður reyndist að miklu leyti óþarfur þar sem aldrei kom til innrásar Þjóðverja í Ísland og því varð ekkert úr þeim hernaðarátökum í landinu sem spítalarnir voru undirbúnir fyrir.
Læknar 92. spítalasveitarinnar gera aðgerð á hermanni í sjúkraskýlinu í Camp Cashman í Ytri-Njarðvík sumarið 1943.
„Bandaríkjamenn gerðu mjög metnaðarfulla áætlun um byggingu herspítala í landinu til að mæta stóráföllum af völdum farsótta og hernaðar. Þegar flest var árið 1942 voru 3277 bandarískir heilbrigðisstarfsmenn á landinu, þar af 234 læknar, 49 tannlæknar, 8 dýralæknar og heilbrigðisfulltrúar og 258 hjúkrunarkonur. Strax í árslok 1943 hafði þeim fækkað í 1163 og í stríðslok voru heilbrigðisstarfsmenn hersins 429.“
Helgafellsspítali var mjög stór á hvaða mælikvarða sem er og varð eins konar landspítali bandaríska herliðsins. Þar voru 1000 legurúm og starfsfólkið var 660 þegar flest var. Hverfið samanstóð af tugum stórra bragga, þar sem voru leguskálar, skurðstofur, heilsugæsla, tannlæknar, íbúðir starfsfólksins og birgðastöðvar. Í dag sjást engin ummerki um spítalann önnur en rústir vatnstanka á hæðinni fyrir ofan spítalasvæðið. Allt á það sér sögulegar skýringar en í stríðslok gerðu íslensk yfirvöld áætlun um að afmá sem flest ummerki hernámsins og lét smám saman fjarlægja alla bragga sem herliðið skildi eftir.
Sjúkrastofa Helgafellspítala.
„Hér á landi voru reistir um 12.000 braggar fyrir herliðið til íbúðar og umsvifa. Veruleg fækkun varð í herliðinu sumarið 1943 og stóðu þá mörg braggahverfi eftir auð en herinn hafði enga þörf fyrir þau eða tök á að rífa þau nema með miklum tilkostnaði. Samdist svo um að íslenska ríkið keypti vægu verði alla bragga og önnur mannvirki utan Reykjavíkurflugvallar og Keflavíkurflugvallar og endurseldi landsmönnum til þess að standa straum af kostnaði við umsamdan frágang á landi sem herliðið hafði haft á leigu. Fjölmargir braggar dreifðust þannig víða um land, meðal annars til bænda sem nýttu þá sem útihús og áhaldageymslur sem víða eru enn í fullri notkun. En fyrir vikið standa eiginlega engin upprunaleg braggahverfi eftir sem sögulegar minjar nema hluti hverfisins á Miðsandi í Hvalfirði. Segja má að nánast einu stríðsminjarnar sem eftir standa hafi dagað uppi fyrir trassaskap landeigenda sem fengu greiðslu fyrir að laga sjálfir til eftir herinn.“
Camp Helgafell.
Þörfin fyrir sjúkrarýmin reyndist minni en áætlað var enda var heilsufar hermanna á Íslandi betra en hernaðaryfirvöld höfðu gert ráð fyrir. „Engir teljandi sóttfaraldrar komu hér upp á stríðsárunum eins og búast mátti við. Slys voru þó alltíð enda umsvif hersins mikil, aðstæður framandi og náttúruöflin óblíð og skammdegið mikið. Mikil umferð ökutækja á lélegum vegum leiddi til tíðra umferðarslysa. Fátítt var að hermenn særðust í orustu en mikill fjöldi skipbrotsmanna var settur á land í Reykjavík. Voru margir illa á sig komnir af meiðslum og hrakningum og fengu aðhlynningu á spítölum hersins.
Kynsjúkdómar fátíðir
Söng- og leikkonan Marlene Dietrich að spjalla við sjúkling á Helgafellsspítala í september 1944. Hún heimsótti herafla Bandaríkjamanna, hitti íslensku ríkisstjórnina og hélt tónleika.
Kynsjúkdómar þóttu sérlega fátíðir meðal hermannanna hér á landi og var það talið því að þakka að skipulagt vændi þekktist ekki í landinu og að íslensk heilbrigðisyfirvöld höfðu mun yfirgripsmeiri heimildir til að hefta útbreiðslu slíkra sjúkdóma en gerðist í Bretlandi og Bandaríkjunum.
Geðheilsa er einn þeirra þátta sem gefa verður ríkan gaum þegar milljónir manna eru skyndilega kvaddir til herþjónustu og stífrar herþjálfunar við framandi aðstæður og langdvalar langt frá sínum nánustu. „Herliðið á Íslandi fór ekki varhluta af geðrænum kvillum en þó var það ekki algengara en annars staðar þrátt fyrir einangrun, skammdegi og leiða sem fylgdi einhæfum lifnaðarháttum. Herstjórnin lagði mikla áherslu á að halda hermönnunum að venjubundnum störfum, stífum æfingum og íþróttaiðkan og skipulagði fjölbreytta afþreyingu til að halda uppi baráttuþreki hinna ungu hermanna.“
Herspítali við Gamla-Garð í Reykjavík.
Íslensk heilbrigðisyfirvöld nutu að mörgu leyti góðs af hinni öflugu heilbrigðisþjónustu sem herliðið starfrækti. Ágæt samvinna var á milli þessara aðila um sóttvarnir og heilbrigðiseftirlit enda lagði herstjórnin mikla áherslu á slíkt í öllum viðskiptum við innlenda aðila. „Dýralæknar hersins leiðbeindu um eftirlit með matvælaframleiðslu enda keypti herliðið kjöt og mjólk af landsmönnum og var náið samstarf um eftirlit og lækningar búfjársjúkdóma en berklar voru til dæmis nokkuð útbreiddir í íslenskum nautgripum.“
Braggi ofan Köldukvíslar. Sennilega sami bragginn og grunnurinn hér að ofan.
Margir þeirra lækna sem fylgdu hernum voru í hópi færustu sérfræðinga hver á sínu sviði og var eflaust talsverður fengur að komu þeirra hingað til lands fyrir íslenska læknastétt sem einangraðist að miklu leyti frá umheiminum á stríðsárunum. „Margir landsmenn nutu sérfræðiþjónustu breskra og bandarískra lækna og hjúkrunarliðs þó þjónustan hafi fyrst og fremst verið ætluð herliðinu. Nokkur dæmi voru einnig um að hermenn hlytu umönnun íslenskra lækna og að Íslendingar fengju meðferð á herspítölum sem höfðu ýmsar tækninýjungar og nýjustu læknislyf sem landsmenn höfðu ekki, eins og undralyfið pensillín sem þá var einungis notað af hernum. Það væri vissulega fróðlegt að rannsaka þá sögu betur og þá hvaða áhrif spítalarekstur breska og bandaríska hersins á stríðsárunum hefur hugsanlega haft á þróun íslenskrar læknisfræði,“ segir Friðþór Eydal að lokum.
Heimild:
-https://www.laeknabladid.is/tolublod/2013/03/nr/4797
-Læknablaðið, 03. tbl. 99. árg 2013.
-Hersetan í Mosfellssveit og á Kjalarnesi 1940–1944, Friðþór Eydal 2022.
Úr „Sacred Hill Hospital“ sem var Helgafellsspítali.
Staðarberg – Berghraun – refagildra
Gengið var um hið misgreiðfæra Berghraun austan við Staðarhverfi í Grindavík.
Refagildra á Staðarbergi.
Berghraunið er ofan við Staðarbergið og sennilega eitt af Eldvarparhraunum. Þrátt fyrir úfið apalhraun eru helluhraunssléttur inni á milli. Næst berginu er sambland af hvorutveggja. Þegar gengið var ofan við Klaufir austarlega undan Staðarberginu sást glöggskyggnum heilleg hleðsla uppi í hrauninu. Þegar hún var skoðuð kom í ljós alveg heil refagildra. Meira að segja fellihellan var heil fyrir opinu. Gildran er hlaðin úr hraunhellum, en stoðsteinarnir sitt hvoru megin við helluna eru úr grágrýti. Þetta var 75. hlaðna refagildran, sem FERLIR hefur skoðað á Reykjanesi. Nýlega fannst gömul refagildra austan við Ísólfsskála. Fyrir nokkrum misserum var einungis talið að 3-5 slíkar væru til að Nesinu. Í dag eru u.þ.b. 90 slíkar þekktar á Reykjanesskaganum.
Fyrir skömmu var skoðuð önnur hlaðin refagildra í Básum ofan við Staðarberg (sjá að neðan). Án efa kunna fleiri hlaðnar refagildrur að leynast þarna í hraununum.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Refagildra í Básum.
Steinsholt og Þórusel
Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I“ árið 2011 er getið um Steinsholt, kot milli Vogastapa og Voga. Kot þetta var ekki langlíft, einungis í ábúð um fimm ára skeið. Eftirstandandi minjarnar segja þó sögu:
Steinsholt.
„Hóll er á Kristjánstanga sem heitir Guðnýjarhóll þar eru skemmtanir stundum haldnar. Norðan við Kristjánstangann heitir Síki, þetta er rás úr tjörn sem er þar fyrir ofan. Þar upp af tanganum er svo upp undir vegi holt með rústum á, þarna var býli sem hét Steinsholt, svo er þar hóll með rústum sem heitir Sandhóll“, segir í örnefnaskrá (AG).
„Innan Kristjánstanga er Síkið og liggja úr því Síkisrennan og Síkisrásin norðar, sem einnig nefnast Rennan og Rásin, [svo] Þá er Steinsholt og Steinsholtstún sem verið hefur heldur smátt í sniðum.“ segir í örnefnaskrá (GS). Steinsholt var byggt 1874 sem tómthús en hefur verið í eyði frá 1879. Sex tóftir og eitt gerði eru á svæðinu. Gerðið og tóftirnar eru í þýfðu graslendi 10-20 m vestan við Gamla-Keflavíkurveg. Síkistjörn er norðan við, á milli og uppi á Steinsholti, tveimur 1,5-2 m háum hæðum grónum grasi og mosa.
Steinsholt – bæjarstæðið.
Getið um minjastaðinn í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um „Mannlíf og mannvirki í hreppnum„. Þar segir: „Guðmundur Magnússon, koparsmiður, f. um 1834, og kona hans, Ástríður Guðmundsdóttir […] byggðu sér tómthús um 1874 er þau nefndu Steinsholt. Var það á milli Vogabyggðar og Vogastapa í landi Stóru-Voga. Landið fyrir neðan Steinsholt, eða sjávarmegin, heitir Kristjánstangi og var þar útgerð, enda landtaka góð. Á miðri nítjándu öld lagðist sá útgerðarstaður niður. […] Eins og áður segir byggðu þau í Steinsholti, þar sem enn má sjá klapparskoru, sem Guðmundur refti yfir og notaði fyrir eldsmiðju. Þrátt fyrir haga hönd voru hjónin bláfáttæk og bjuggu við lélegan húsakost. Í Steinsholti lést Guðmundur 29. mars árið 1879.“
Steinsholt – útihús.
Á þessum stað eru 6 tóftir; torf- og grjóthlaðið gerði, tóft í SV horni gerðisins, tóft fast NNA við NNA-enda gerðisins, tóft um 45 m SA, tóft fast SV við Gamla-Keflavíkurveg (samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur var þarna íbúðarhúsið í Steinsholti) og tóft vestan í Steinsholti og var hún smiðjan í Steinsholti samkvæmt „Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“.
Steinsholt – smiðja.
Í bókinni „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“, skrifuð af Guðmundi Björgvin Jónssyni og útgefin 1987 segir:
„Guðmundur Magnússon koparsmiður, f: um 1834, og kona hans, Ástríður Guðmundsdóttir, f. 17. júlí 1836 í Reykjavík, byggðu sér tómthús um 1874 er þau nefndu Steinsholt. Guðmundur var frá Reynivöllum í KJósarsýslu og bjó um 1856 í Garðhúsum í Vogum er var í eigu Stóru-Voga. Hann hafði í fyrstu ráðskonu er hann svo kvæntist. Árið 1958 voru þau húshjón í Stóru-Vogum og árið 1859 voru þau komin í Hólmabúðir. Árið 1870 fóru þau aftur að Stóru-Vogum uns þau fluttu að Steinsholti 1874. Enn má sjá þar klapparskoru, sem Guðmundur refti yfir og notaði sem eldsmiðju.
Steinsholt – matjurtargarður.
Þrátt fyrir haga hönd voru hjónin sögð bláfátæk og bjuggu við lélegan húsakost. Í Steinsholti lést Guðmundur 29. mars 1879, og þar með lagðist sá bær í eyði.
Fyrir norðan og neðan Steinsholts, í sandfjörunni, sést í skipsstefni upp úr sandinum. Þar var skipsskaði í sept. 1904, er seglskip slitnaði upp á Vogavík og rak upp í fjöru án manntjóns. Skipið var Mandal í Noregi og var með timburfarm, er fara átti til Jóhannesar Reykdals í Hafnarfirði. Hét skip þetta Fjallkonan. Mörg hús í hreppnum voru byggð úr þessu strandgóssi.
Þórusel.
Í „Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum“ 2011 er getið um „Vogasel“ millum Gamla-Keflavíkurvegarins og Reykjanesbrautar, heldur þó nær brautinni. Ekki er getið hver heimild um „Vogasel“ er á þessum stað. Vogasel; Gömlu-Vogasel og Nýju-Vogasel, eru hins vegar uppi í Vogaheiði, sunnan Brunnastaðasels. Hins vegar er í heimildum getið um „Þórusel“ þar sem „Vogasel“ er sagt vera.
Þórusel.
Lýsing á Þóruseli, sem var heimasel þar sem einu mannvirkin voru stekkur og hlaðið skjól, passar við lýsinguna: „Þá liggur þjóðvegurinn yfir Síkistjörn þar fyrir sunnan hækkar landið nokkuð og eru þar þrír hólar með hundaþúfum á heita Víkurhólar og Víkurhólaþúfur. Austan og ofan þessa svæðis er svo Leirdalur og syðst í honum Vogasel í Selhólum sem eru hér og lægð þar í milli. Sézt þetta vel af Reykjanesbraut,“ segir í örnefnaskrá.
Í heimaseli hélt smali fé sínu til haga, en selsmatsseljan kom í selið að morgni og fór heim að kveldi, enda skamma leið að fara. Svæðið í kringum Þórusel er vel grasi gróið, sem bendir til selstöðu. Stekkurinn gefur til kynna að í selinu hafi verið u.þ.b. 20 ær. Slík fjölg hefur þótt góð í seli fyrrum. Ofan við stekkinn er hlaðið skjól, líklega smalaskjól.
Þórusel er að öllum líkindum heimanfærð selstaða eftir að aldagamlar selstöður í heiðinni lögðust af um 1870. Að þeim gegnum færðust fráfærur nær bæjum vegna mannfæðar og breyttra búskaparhátta. Yngstu minjar selsbúskapsins má finna í stekkjum heimatúnanna, jafnan í jaðri túngarðsins.
Þórusel – uppdráttur.
Leirdalur heitir sunnan við syðstu hús í Vogum. Sunnan hans er gróin hraunbreiða og margir sprungnir hraunhólar með hundaþúfum. Á einum þessara hóla, um 100 m neðan Reykjanesbrautar og um 1,4 km SA af Stóru-Vogum, eru umtalsverðar hleðslur og gætu verið rústir Vogasels. Hraunhóllinn er krosssprunginn og gróinn, og talsvert af birkihríslum í sprungunni sjálfri. Umhverfis hann er gróið hraun. Hleðslurnar eru á hólnum, í krosssprungunni sem er nokkuð breið. Hleðslurnar eru úr grjóti, nokkuð signar og víða grónar í svörð. Hæð þeirra er þó mest um 1,2 m og þrjú umför nyrst á hólnum, en þar er að hluta hlaðið ofan á sprungu- eða gjárvegginn. Annarstaðar eru hleðslur mun lægri. Rústirnar eru á svæði sem er um 30×25 m.“
Þórusel.
Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur, „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi„, útg. 2007 segir m.a. um Þórusel:
„Heimildir úr Brunnastaðahverfi segja Þórusel vera á sléttlendinu suður og upp af Gíslaborg og innan við Vogaafleggjarann en ólíklegt hefur verið sel þar. Heimildir frá Vogamönnum segja Þórusel hafa verið ofan við Reykjanesbraut en eðan Hrafnagjár og þær verða látnar gilda hér þó svo að einnig sé ósennilegt að þar hafi verið selstaða“.
Nýju-Vogasel – uppdráttur ÓSÁ.
Annars staðar segir: „Nokkurn spöl vestan við Viðaukahólana fyrrnefndu sjáum við nokkuð stórt slétt svæði sem áður fyrr hefur verið grasi vaxið ofan við vegamótin í Voga og gæti heitið Þórusel. Nafnið Þórusel kannast flestir eldri menn við en erfitt er að staðsetja það eftir heimildum. Vogamenn segja umrætt svæði líklega heita Þórusel en Strandarmenn segja svæðið neðan Reykjanesbrautar og rétt austan við Vigaafleggjara heita Þórusel eins og fyrr er getið. Víst er að Þóru nafnið er ur Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga en á því átti að standa höfuðból og þar „átján hurðir á hjörum“. Engar rústir eru sjáanlegar á fyrrnefndu svæði þó grannt sé leitað en við tökum gildar heimildir úr Vogum um Þórusel á þessum stað þó svo að ólíklega hafi verið selstaða svo nærri byggð“.
Vogasel eldri.
Í bók Sesselju segir um Vogasel: „Utan í Vogaholti að norðaustanverðu er Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel.
Þar sjáum við þrjár gamalgrónar tóftir og eina nýlegri rétt fyrir ofan uppblásna kvos sem heitir Vogaselsdalur. Í Jarðabókinni 1703 segir að þarna hafi Stóru- og Minni-Vogar í seli“.
Í „Strönd og Vogar segir Árni Óla um „selstöður í heiðinni“: „Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún, en vatn mun þar ekki vera“.
Seltóftir „Nýja-Vogasels“ hafa enn ekki verið skráðar – sjá Ferlir.is; – Nýjasel – Pétursborg – Oddshellir – Vogasel – Ferlir
Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987.
-Örnefnaskrá fyrir Voga – Gísli Sigurðsson.
-Örnefnaskrá fyrir Voga – Ari Gíslason.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.
-Strönd og Vogar, Árni Óla, 1961.
Vogasel yngri.
Zepperlin yfir Reykjavík
Þýska loftfarið Zepperlin kom nokkrum sinum við ofan Reykjavíkur á ferðum sínum milli Evrópu og Ameríku á fjórða áratug 20. aldar.
Fimmtudaginn 17. júlí 1930 um klukkan 11:00 horfðu Reykvíkingar t.d. undrandi upp til himins þegar hið glæsilega þýska loftskip Graf Zeppelin sigldi í átt að borginni.
Zeppilin yfir nýbyggðum Landsspítalnuum.
Hægt og tignarlega nálgaðist það, grár líkami hans ljómaði í sólarljósinu. Það flaug mjög hægt yfir borgina í hringlaga mynstri og fegurð hennar heillaði alla sem urðu vitni að þessari miklu sjón. Þetta var sannarlega ógleymanlegt atriði þar sem Ísland hefur aldrei fengið betri fluggest. (Fálkinn, ágúst 1930)
Við lestur þessa texta í dag er eins og litla þorpið Reykjavík hafi fengið heimsókn frá geimskipi. Árið 1930 var Ísland enn mjög afskekkt og óljóst eyríki sem barðist við að halda í við nútímavæðinguna í Norður-Evrópu. Svartsýni var að aukast þar sem viðkvæmt hagkerfi Íslands hafði orðið fyrir alvarlegum áhrifum af upphafi kreppunnar miklu árið áður. Flugvélar voru sjaldgæf sjón, svo það hlýtur að hafa verið „sannlega ógleymanlegt atriði“ þegar þetta glæsilega þýska loftskip birtist fyrir ofan Reykjavík í júlí 1930.
Zeppilin í Reykjavík 30. júlí 1930.
Zeppelinar sigldu um heiminn til að sýna og prófa loftskipin. Zeppelin-fjölskyldan flutti farþega og póst í flugi yfir Atlantshafið á þriðja áratugnum fyrir Hindenburg-slysið 1937 og önnur pólitísk og efnahagsleg álitamál, sem flýttu fyrir því að loftskipin féllu. Ísland var heimsótt a.m.k. í annað sinn árið 1931.
Forsætisráðherra Íslands sendi skipstjóra Zeppelin símskeyti í kjölfar heimsóknar hans 1930:
„Kommadant, Graf Zeppelin.
Þróun Zepperin loftfaranna.
Í nafni íslensku þjóðarinnar býð ég þig, herra Kommandant, velkominn til Íslands. Ég bið ykkur að senda ríkisstjórn Þýskalands okkar innilegustu þakkir fyrir þann velvilja sem þeir hafa sýnt okkur með því að senda Graf Zeppelin til Íslands og bera því kveðjur Þýskalands á 1000 ára afmæli Íslands.
Hinar minnstu þýsku þjóða tekur náðarsamlega við þessari kveðju þeirrar stærstu. Heppnin fylgir þér, herra Kommandant, á ferð þinni til Íslands og heimferð til Þýskalands. Sendum bróðurkveðjur okkar frá Íslandi til Þýskalands“.
Yfirmaður Zeppelin var Ernst Lehmann. Hann lést daginn eftir að Graf Zeppelin hrapaði, af sárum.
Um klukkan 19:25 að staðartíma í New Jersey 6. maí 1937 kviknaði í þýska seppelfaranum Hindenburg þegar hann beygði sig í átt að viðlegukantinum á Naval Air Station í Lakehurst. Loftskipið var enn í um 200 fetum yfir jörðu.
Zeppilin yfir New York 1933.
Um var að ræða LZ 129 Hindenburg (Luftschiff Zeppelin #129; Skráning: D-LZ 129), sem var þýskt loftskip sem flutti farþega í atvinnuskyni, aðalskip af Hindenburg flokki, lengsta flokki flugvéla og stærsta loftskip miðað við rúmmál. Það var hannað og smíðað af Zeppelin Company (Luftschiffbau Zeppelin GmbH) og var rekið af þýska Zeppelin flugfélaginu (Deutsche Zeppelin-Reederei). Það var nefnt í höfuðið á Paul von Hindenburg fieldmarshal, sem var forseti Þýskalands frá 1925 til dauðadags 1934. Það kviknaði í því og eyðilagðist þegar reynt var að leggja að bryggju við viðlegustöng sína á flotaflugstöðinni í Lakehurst. Slysið olli 35 bana (13 farþegum og 22 áhafnarmönnum) af 97 manns um borð (36 farþegar og 61 áhöfn) og til viðbótar banaslysi á jörðu niðri.
Hamfarirnar voru umfjöllunarefni fréttamynda, ljósmynda og hljóðritaðra sjónarvotta. Ýmsar kenningar hafa verið settar fram bæði um orsök íkveikju fyrir eldsvoðann sem fylgdi í kjölfarið. Umfjöllunin braut traust almennings á risastóru, farþegaflutningastífu loftskipinu og markaði skyndilega endalok loftskipatímabilsins.
Um klukkan 19:25. að staðartíma kviknaði í þýska seppelfaranum Hindenburg þegar hann beygði sig í átt að viðlegukantinum á Naval Air Station í Lakehurst, New Jersey, 6. maí 1937. Loftskipið var enn í um 200 fetum yfir jörðu.
Heimild m.a.:
-https://en.wikipedia.org/wiki/Hindenburg_disaster
Bergskot /Auðnakot á Vatnsleysutrönd
Bergskot, einnig nefnt Auðnakot, á Vatnsleysuströnd getur í dag varla talist minnugt mörgum. Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I“ árið 2011 er m.a. fjallað um kotið.
Bergskot – túnakort 1919.
„Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar,“ segir í örnefnaskrá. Bergskot er um 200 m suðaustan við bæjarhól Auðna. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir hafi búið í Bergskoti til 1925 en þau eignuðust líka Höfða og sameinuðu jarðirnar. Líklega hefur verið hætt að búa í bænum 1925. Tengdasonur Þórarins byggði nýtt íbúðarhús um 30 m suðvestan við gamla bæinn og kallaði það Bergsstaði. Gamla Bergskotsjörðin fylgdi þó ekki húsinu.
Bergskot – tóttir. Bergsstaðir fjær.
Tóft bæjarins er í grösugu og tiltölulega flatlendu túni. Bergsstaðir, íbúðarhús, er fast vestan við bæjarhólinn. Ekki er að sjá greinilegan bæjarhól en umtalsverðar byggingar eru á bæjarstæðinu. Stór og greinileg bæjartóft sést á hólnum (Bergkotshól). Tóftin er um 14×14 m að stærð og skiptist í 3 hólf. Hún er grjóthlaðin og gróin.
Bergkotsbrunnur.
Bergkotsbrunnur var austan við bæinn. Brunnur þessi var hlaðinn innan, og var hann tæp mannhæð á dýpt. Vatn úr honum var notað handa skepnum og einnig til þvotta, en óhæft til drykkjar, svo sækja var neyzluvatn á næsta bæ, Landakot,“ segir í örnefnaskrá.
„Bærinn var hlaðinn út torfi og grjóti og kringum hann voru grjótgarðar. … Túnið fyrir sunnan bæinn var nefnt Suðurtún. Það nær að Höfðatúni. Grjótgarðar skýldu túninu að, en grjótgarðslögin sjást enn að mestu leyti og skilja túnið frá óræktuðum móum og klöppum,“ segir í örnefnaskrá. Túngarðurinn sést enn á stuttum kafla.
Bergskot.
Gísli Sigurðsson skráði örnefni í Auðnahverfi. Þar segir m.a.: „Innströnd byrjar við syðri landamerki Breiðagerðis. Auðnahverfi liggur þar innar. Þar eru bæirnir Auðnir, Höfði og Bergskot sem fyrrum nefndist Auðnakot og svo er eitt tómthús, Hóll.
Vestast í fjörunni er Bergskotsvör eða Bergskotslending. Milli fjöru og túna Auðnahverfis er Auðnakampur og þar á er sjávargarðurinn. Liggur hann allt inn að mörkum milli Auðnahverfis og Landakots. Við Bláklett taka við Bergskotsfjörur og þá taka við Höfðafjörur og þar er Höfðavör.
Bergskot stóð á Bergskotshól í Bergskotstúni en neðan hólsins.
Bergskot – útihús.
Ari Gíslason skráði örnefni fyrir Auðnar og Höfða. Þar segir: „Upp af Höfðatúni er gamalt býli sem heitir Bergskot og upp af því er Bergskotshóll með steinum eftir endilöngu og grasigrónum sprungum. Efri-Sundvarðan hefur verið nefnd fyrr og stendur hún á Þúfuhól sem er skammt austan tómthúsið Hól. Þá er talið að allt sé búið fyrir neðan veg.
Í ritinu „Mannlíf og mannvirku á Vatnsleysuströnd“ frá árinu 1987 segir Guðmundur Björgvin Jónsson m.a. eftirfarandi um Bergskot: „Bergskot var einnig nefnt Borghús. Um 1900 voru í Bergskoti Árni Sæmundsson, f. 1862 og kona hans, Sigrún Ólafsdóttir, f. 1872.
Jón Guðbrandsson.
Árið 1902 flutti fjölskyldan burt úr hreppnum til Reykjavíkur en þá komu að Bergskoti Árni Þorláksson og kona hans, Helga.
Bergskot var í upphafi tómthús og áttu búendur þar ekki annarra kosta völ en að vinna hjá öðrum fyrir öllum nausynjum og var því oft stuttur stans á þessum kotum, enda var Árni Þorláksson ekki lengi í Bergskoti.
Næst komu í Bergskot Þórarinn Einarsson, 24 ára, með foreldra sína, Einar Einarsson og konu hans, Margréti Hjartardóttur. Þórarinn giftist Guðrúnu Þorvaldsdóttur frá Álftártungukoti í Álftaneshreppi. Þau voru þar til 1925. Þá voru þau búin að eignast jörðina sem þá var orðin grasbýli. Þegar Þórarinn keypti Höfða þá sameinuðust jarðirnar og er svo enn.
Þegar Jón Guðbrandsson, tengdasonur Þórarins, byggði upp Bergskot og kallaði nýja húsið Bergsstaði, þá fylgdi gamla Bergkotsjörðin ekki með“. sem fyrr sagði.
Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirku á Vatnsleysuströnd, Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar.
Bergskot – túnakortið frá 1919 lagt ofan á loftmynd frá 2022.
Breiðagerði á Vatnsleysuströnd
Breiðagerði var bær á Vatnsleysutrönd. FERLIR knúði dyra á Breiðagerði 17, bústað Hólmgríms Rósenbergssonar, f: 1956 í Ormalóni á Sléttu. Gengið var í framhaldinu um bæjarstæði Breiðagerðis, en minjum á svæðinu hefur mikið verið raskað á tiltölulega skömmum tíma. T.d. hirtu starfsmenn Voga gamla bátaspilið ofan Breiðagerðisvarar og fleira í tiltekt fyrir nokkrum árum. Afraksturinn var sendur í eyðingu til Hringrásar. Hólmgrímur sagðist ekki eiga ættartengsl við staðinn, en hefði búið þarna um áratuga skeið.
Breiðagerði – Hólmgrímur Rósenbergsson við Breiðagerðisbrunninn.
Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hóllinn er allur mjög grasgefinn og vex mikið af þistlum á honum.
Í riti Guðmundar Björgvins Jónssonar (1987) um „Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi“ segir hann m.a. frá Breiðagerði: „Þríbýli var á jörðinni um aldamótin 1900 og að síðustu ábúendur fluttu af jörðinni um 1926.“
Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hann er litlu sunnan við sjávarkampinn, umkringdur nýbýlum og sumarbústöðum sem risið hafa á jörðinni á síðustu áratugum. Hóllinn er í litlu túni sem komið er í órækt. Íbúðarhús er litlu suðvestan við hann og fleiri hús eru nálægt honum til suðurs og suðausturs.
Bæjarhóllinn er um 54×30 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Hann er breiðastur í suðvesturenda. Norðausturhluti bæjarhólsins virðist vera náttúrulegur hóll en þó kunna að leynast í honum mannvistarleifar. Fast suðvestan við þann hól er steyptur húsgrunnur sem er um 5×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Önnur mannvirki er ekki að sjá á hólnum.
Brunnurinn í Breiðagerði.
Hóllinn er víðast um 2 m á hæð en hæstur í norðausturenda.
Hólmgrímur sagði að ætlunin hafði verið að reisa sumarhús á bæjarhólnum fyrir ca. 50 árum, þar var steyptur nefndur húsgrunnur, en ekkert meira varð úr framkvæmdunum.
Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla II“ frá árinu 2014 segir um sögu Breiðagerðis:
„Jarðadýrleiki er óviss, konungseign. JÁM III, 137.
9. september 1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV 707-708.
Breiðagerði – túnakort 1919.
13.9.1500: segir einnig að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, 513, 561.
30.5.1501: Viðeyjarklaustur kaupir Breiðagerði á Strönd fyrir 10 hdr. DI VII, 561.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 115.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og vogar, 26.
1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, 137. 1919: Tún alls 2,4 teigar, garðar 1100m2.
Breiðagerði – uppfært túnakort.
Breiðagerðisbærinn stóð í Breiðagerðistúni innarlega og var túnið að mestu sunnan (vestan) bæjarins,“ segir í örnefnaskrá [GS]. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að þríbýli hafi verið á jörðinni um aldamótin 1900 og að síðustu ábúendur hafi flutt af jörðinni um 1926. Bæjarhóllinn í Breiðagerði sést enn vel. Hann er litlu sunnan við sjávarkampinn, umkringdur nýbýlum og sumarbústöðum sem risið hafa á jörðinni á síðustu áratugum.
Bæjarhóllinn er í litlu túni sem komið er í órækt. Íbúðarhús er litlu suðvestan við hann og fleiri hús eru nálægt honum til suðurs og suðausturs.
Breiðagerði – túnakortið frá 1919 sett ofan á nútíma loftmynd ásamt skráðum fornleifum.
Bæjarhóllinn er um 54×30 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Hann er breiðastur í suðvesturenda. Norðausturhluti bæjarhólsins virðist vera náttúrulegur hóll en þó kunna að leynast í honum mannvistarleifar. Fast suðvestan við þann hól er steyptur húsgrunnur sem er um 5×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Önnur mannvirki er ekki að sjá á hólnum. Hóllinn er allur mjög grasgefinn og vex mikið af þistlum á honum. Hann er víðast um 2 m á hæð en hæstur í norðausturenda.“
Ari Gíslason skráði örnefnalýsingu fyrir Auðna og Höfða:
Breiðagerði – útihús.
„Jarðir á Vatnsleysuströnd næstar við Knarrarnes. Upplýsingar gaf Þórarinn Einarsson á Höfða. Þess er þá fyrst að geta að 1703 og bæði fyr og síðar var jörð sem Breiðagerði hét næst við Knarrarnes og eftir landskuld að dæma hefur það verið með stærri býlum hér á þessum slóðum. Breiðagerði hafði þá sín sérstöku merki, þar var þríbýli og eins mikið land eða meira en Höfðinn og Auðnir til samans. Víkin sem hér er á milli, heitir enn Breiðagerðisvík.“
Gísli Sigurðson skráði örnefnu Breiðagerðis og nágrennis:
Breiðagerðisvör – bryggja ofan vararinnar.
„Breiðagerðisbærinn stóð í Breiðagerðistúni, innarlega, og var túnið að mestu sunnan (vestan) bæjarins. Breiðagerðisbrunnur var sunnan bæjar. Heiman frá bæ lá sjávarstígurinn niður á kampinn. Breiðagerðisgata lá frá bæ upp á þjóðveginn. Á kampinum stóð Sundvarða, Neðri-). Á mörkunum milli Breiðagerðis og Auðnahverfis var Þúfuhóllinn og litlu ofar Sundvarðan, Efri-). Að sunnan lá landamerkjalínan um Geldingahólinn, Nyrðri-.
Litlistekkur.
Þar var í heiðinni Litlistekkur og Breiðagerðisskjólgarður, þar var einnig klettur nefndur Latur eða Breiðagerðislatur. Að innan lá landamerkjalínan upp frá Þúfuhól um Markavörður upp heiðina í Auðnaklofninga. Tók þá við Hrafnagjá sem lítið bar á er þarna var komið. Lína lá svo áfram upp yfir Klifgjá um Gjárnar. Þarna er að finna Breiðagerðissel. Síðan eru í landi Breiðagerðis Keilisbróðir, Nyrðri- og Litli-Hrútur og eru því Brúnir og Fjallið að einhverju leyti í landinu.“
Auðnasel og Breiðagerðissel – uppdráttur ÓSÁ.
Í skýrslu um „Deiliskráningu vegna áforma um byggingu frístundabyggðar í landi Breiðagerðis á Vatnsleysuströnd“ árið 2022 segir m.a.:
1703: Jarðadýrleiki er óviss, konungseign. JÁM III, bls. 137.
09.09.1447: Bréf um jarðaskipti Einar Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey. Einar lét klaustrið í Viðey hafa jarðirnar, Voga (20 hdr), Hlöðunes (20 hdr), tvenna Ásláksstaði (40 hdr, Knarrarnes tvö ( 30 hdr), Breiðagerði fyrir (10 hdr). DI IV, bls. 707-708.
13.9.1500: segir einnig að jörðin Breiðagerði á Strönd er í Kálfatjarnarkirkjusókn. DI VII, bls. 513, 561.
30.5.1501: Viðeyjarklaustur kaupir Breiðagerði á Strönd fyrir 10 hdr. DI VII, bls. 561.
1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, bls. 115.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 4 vættir fiska. Árni Óla, bls. 26.
Breiðagerðisvör.
Jörðin hefur verið í eyði frá 1926 og liggur undir Auðnum. Þar var þríbýli um aldamótin 1900.
Neðan Vatnsleysustrandarvegar í landi Breiðagerðis er húsaþyrping þar sem aðallega eru sumarbústaðir en einnig íbúðarhúsnæði.
1919: Tún alls 2,4 teigar, garðar 1100 m2.
1703: „Túnin spillast af sjáfarágángi og tjörn þeirri, sem innan garðs er. Engjar eru öngvar. Útihagar í lakasta máta og nær öngvir um vetur nema fjaran.“ JÁM III, bls. 137.
Breiðagerði 2022 – loftmynd.
Í „Mannlífi og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Guðmund Björgvin Jónsson (1987) segir um Breiðagerði:
„Nú er komið yfir landamerki á milli Knarrarnesbæjan og Auðnahverfis. verður þá fyrst fyrir jörðin Breiðagerði og láta mun nærri að þar hafi verið þríbýli um aldamótin. Í Breiðagerði bjuggu hjónin Sveinn Sæmundsson, bóndi, f: 1861 og kona hans Elín Sæmundsdóttir, f: 1860. þau voru síðustu búendur í Breiðagerði og fluttu til hafnarfjarðar um 1926 og bjuggu þar til æviloka. Þau áttu tvö börn, Guðrúnu, sem bjó í Sandgerði og Sesselju. Man ég þau hjón vel og þáði oft góðgerðir hjá þeim, enda nokkur gestanauð á heimilinu, því öllum þurfti aað gefa kaffisopa er þangað áttu erindi, sér í lagi þeim sem langt voru að komnir. Eitt lítið minningarbrot læt ég fylgja hér með. Þannig var að Sveinn átti „þarfanaut“ og þegar bændur úr sveitinni fóru með gripi sína að Breiðagerði, þá þurfti að „reka á eftir“ og höfðu ég og mínir jafnaldrar það embætti og uppskárum rúgköku með bræðingi ofaná hjá Elínu.
Breiðagerði – sundvarðan Neðri.
Þurrabúð 1. Þar bjuggu Hafliði Hallsson, f: 1862 og kona hans, Guðríður Torfadóttir, f: 1867.
Þurrabúð 2. Þar bjuggu Sumarliði Matthíasson, f: 1841 og kona hans, Þorbjörg Ólafsdóttir, f. 1847. Breiðagerði tiheyrir nú Auðnalandi og meirihluti af Breiðagerðislandi hefur nú verið látinn undir sumarbústaði.“
A sögn Hólmgríms var hlaðinn brunnur skammt norðar. Brunnurinn var grjóthlaðinn í lægð í túninu. Hann hefði byrgt brunninn fyrir um 40 árum með bárujárni og er það enn á sínum stað til að koma í veg fyrir slys. Áður var hlaðinn aflíðandi gangur niður að brunninum og hann hlaðinn niður, en nú sést ekki ofan í brunninn. Enn sést móta fyrir brunnganginum.
Breiðagerði – Sundvarðan Efri.
„Breiðagerðisnaust var upp frá fjörunni var allt eins kenndur við bæinn, Breiðagerðiskampur. Á honum var innarlega Breiðagerðisnaust og Breiðagerðisbúð og fram undan var svo Breiðagerðisvör, sem allt eins var nefnd Breiðagerðislending …,“ segir í örnefnaskrá.
Naustið var að líkindum þar sem merking er á túnakorti frá 1919 að mannvirki hafi verið á varnargarði/túngarði, um 120 m norðaustan við bæ. Við deiliskráningu árið 2016, sem unnin var vegna fyrirhugaðra sjóvarna í Breiðagerðisvík, fundust leifar af varnargarðinum á tveimur stöðum til viðbótar.
Breiðagerðisnaust var í lítilli vík á milli klappar á merkjum móti Auðnum og lítillar klappar til vesturs. Fjaran þar á milli er grýtt klapparfjara. Á sjávarkampinum er gróið en grýtt.
Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum, Áfangaskýrsla II – 2014.
-Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, Deiliskráning vegna áforma um byggingu frístundabyggðar – 2022.
-Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi. Guðmundur Björgvin Jónsson, 1987.
Breiðagerði – gamli vagnvegurinn (Almenningsvegurinn) að Knarrarnesi. Í fornleifaskráningu frá 2022 er vegagerðin skráð sem „garður“!?
Auðnaborg – Rauðstekkur – Lynghólsborg – Kúadalur – Fornistekkur
Gengið var í meginminjarnar á Strandarhæð milli Þórustaðaborgar og Hringsins (fjárborg).
Prestsvarða.
Haldið var upp frá Prestvörðunni ofan við Kálfatjörn með stefnu á Skálholt. Skálholt er flatt og breitt holt ofan við Landakot skamt ofan Strandarvegar. Á holtinu er leifar að þremur vörðum og leifar að litlu grjótbygri með vörðu í. Skammt vestur af Skálholti (ofan við veginn) er fjárhústóft á grónum hól. Skammt ofan við Skálholt er beinhlaðin hleðsla, skjól fyrir refaskyttu. Neðan hennar liggur símastrengurinn til vesturs og austurs. Víða í heiðinni má sjá hlaðið yfir strenginn.
Upp og suður af Skálholti er Auðnaborg í grasmóa sunnan í grösugum hól. Þetta er nokkuð heillegt rétt með stórum almenningi efst og tveimur dilkum, en uppi á hólnum við réttina eru tvær rústir. Einnig mótar fyrir litlum stekk neðan og vestan við borgina, en engar heimildir eru um nafn hans. Leiðigarður er í borgina úr norðvestri. Erfitt er að mynda alla réttina vegna þess hversu “flatlend” hún er. Gömul gata virðist ligga upp með réttinni að vestanverðu.
Auðnaborg.
Þá var stefnan tekin á grösugan hól nokkru suðvestar. Holtið þar nefnist Borg. Á holtinu eru rústir af beitarhúsum, tvær tóftir hlið við hlið. Litlu neðar í holtinu er greinilega nýrri fjárhústóft. Vatnsstæði í klöpp, sem vera á ofan og austan við efri rústina var þurrt að þessu sinni.
Í fjarska vestur af blasir við hár aflangur hóll, Arnarbæli. Í suðri er annar reglulegur grsahóll, Lynghóll. Stefnan var tekin á hann. Norðan við hólinn er nokkuð sléttlent. Á sléttunni er gömul fjárborg (hér nefnd Lynghólsborg) með leiðigarði til suðurs. Borgin er upp á litlum hrygg og er sýnilegust úr vestri.
Stekkur (rétt) í Kúadal.
Ofan sléttlendisins austan af Lynghól er stór hlaðinn grjóthringur uppi á klapparhól og er hann um átta metra í þvermál. Innan í honum er sléttur bali. Vegghæðin er mjög lítil og svo virðist sem þarna hafi átt að byggja fjárborg á stærð við Staðarborgina, en hætt hafi verið við verkið af einhverjum ástæðum.
Stefnan var tekin til norðvesturs með vestanverðu Arnarbæli. Þar, austan girðingar, hvílir Kúadalur, gösug dalkvos. Í henni er heillegur og fallega hlaðinn stekkur, tvíhólfa. Þarna er líklega um að ræða stekk frá Ásláksstöðum. Ofar í holtinu, að norðanverðu, mótar fyrir gömlum stekk eða öðrum mannvirki.
Fornistekkur.
Gengið var norður og austurmeð Arnarbæli, áleiðis að brekkum mót norðvestri þar nokkru austar. Þar uppi á holtinu er enn einn stekkurinn, Fornistekkur. Utan í brekkunni má sjá móta fyrir gömlum hleðslum, sennilega enn eldri stekk – í skjóli fyrir suðaustanáttinni.
Gengið var niður á Gamlaveg. Hann liggur frá Breiðagerði og svo til beint yfir heiðina og mætir Strandarvegi aftur nokkuð fyrir sunnan Brunnastaðahverfið. Víða er um kílómetra leið frá bæjum að veginum, sem þótti langt enda um klappir ogholt að fara, oft með þungar byrðar. Bændur hfðu þar hver sitthlið og brúsapall og á einstal astað má enn sjá merki um hlið og götu frá veginum í átt til bæja.
Gengið um Almenningsveg.
Strandarbændur undu ekki vegarstæðinu og börðust hart fyrir vegi nær byggðinni. Árið 1930 var nýr vegur gerður og Gamlivegur lagður af með lítilli eftirsjá bænda í Ásláksstaða-, Hlöðunes, og Brunnastaðahverfi.
Á gömlum kortum er Strandarheiði eyðimörk. Það var ekki fyrr en Sesselja Guðmundsdóttir lagði það á sig að ganga heiðina og safna markvisst örnefndum og minjastöðum á henni að heiðin varð “opinberuð” fáfróðum. Áður fyrr, líkt og á svo mörgum stöðum öðrum, veit einstaka maður um merka staði og forn mannvirki á afmörkuðum svæðum, en að honum gegnum hverfur (því miður) öll sú dýrmæta vitneskja. En það er fyrir áeggjan, ósérhlífni og dugnað fárra, sem örnefnunum og vitneskju, sem enn er fyrir hendi, hefur þó verið haldið við. Hlutur þeirra hefur jafnan verið vanmetin, en verður seint ofmetin.
Í bakaleiðinni lék sólin við hafflötinn.
Veður var frábært – stilla og hiti. Gangan tók 2 klst og 22 mín.
Heimild: Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja G. Guðmundsdóttir, 1995, bls. 29 –39.
Lynghólsborg.
Seltjarnarhjallasel
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Innri-Njarðvík má lesa eftirfarandi um „Seltjörn og nágrenni„:
Njarðvíkursel (Selið) sunnan Seljavatns (Seltjarnar).
„Jörð eða hverfi næst austan Ytri-Njarðvíkur. Upplýsingar gaf Finnbogi Guðmundsson í Tjarnarkoti og Guðmundur sonur hans.
Uppi í heiðinni upp af vegi, þegar farið er austanverðu, er þar í lægð gömul selstaða við lítið vatn, sem heitir Seljavatn. Þar í er hólmi með litlu kríu- og andavarpi. Norðanvert við vatnið er svonefndur Háibjalli eða Seltjarnarhjalli. Suður af tjörninni eru tættur, sem heita Sel. Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu. Norðvestur af Seljavatni er allstór hóll með vörðu, sem heitir Selhóll.“
Stekkur norðan Njarðvíkursels sunnan Seljavatns (Seltjarnar).
Forvitnilegt er að sjá að tjörnin hafði áður heitið „Seljavatn“, þ.e. í fleirtölu, sem bendir til þess að fleiri en eitt sel hafi verið við vatnið. Eftir skoðun svæðisins staðfestist að örnefnið hafi verið réttnefni á sínum tíma.
Í „Fornleifaskráningu við Seltjörn í Reykjanesbæ vegna deiliskipulags“ árið 2018 segir: „Í Sýslu- og sóknarlýsingu er tjörnin kölluð Seljavatn og að þar hafi verið sel frá Innri-Njarðvík. „Þessi selstaða, sem er í hrauninu upp frá Stapanum, er nú sökum peningafæðar aflögð.“
Rjúpa á vörðunni ofan við Selstjarnarhjallasel.
Þetta er skrifað árið 1840. Þó ekki hafi fundist heimildir um að búið hafi verið að staðaldri í Seli, benda minjarnar til þess að á einhverjum tímapunkti hafi verið búskapur þar þó hann hafi ekki verið nægjanlega lengi til að lenda í heimildum. Alþekkt er að selstöður breyttust í hjáleigur og öfugt, hjáleigur breyttust í selstöður. Sel er mjög líklega dæmi um slíkt.“
Þá segir: „Sex fornleifar voru skráðar á deiliskipulagsreitnum. Vafalítið eru þetta fornleifar sem tengjast búskap eða nytjum í Seli þar sem skepnur voru hafðar og veiðar í Seltjörn mikilvægar“. Um er að ræða seltóftirnar, stekk, rétt og kofa, vörðu og götu.
Seltjarnarhjallasel.
Seljabúskapur lagðist af á Reykjanesskaganum í lok 19. aldar. Tóftir „Njarðvíkursels“ sunnan Seljavatns (Seltjarnar) hafa enn verið í vitund Njarðvíkurmanna um miðja 20. öld enda eru þær af kynslóð seinni tíma selja. Þegar fyrsti Grindavíkurvegurinn (vagnvegurinn) var lagður af Stapanum árið 1913 lá leiðin niður að vestanverðum Háabjalla, suður með austanverðri Seltjörn og áfram að Arnarseturshraunsbrúninni þar sem stefnan var tekin á Gíghæð. Vegavinnuflokkurinn var í fyrsta áfanga með tjaldbúðir við gatnamót Suðurnesjavegar og hins nýja Grindavíkurvegar. Í öðrum áfanga nýttu vegagerðarmenn sér til skjóls tóftir Njarðvíkursels árið 1914. Þeir hafa eflaust lagfært einhverjar af þeim húsum sem fyrir voru og jafnvel byggt ný. Minjar eftir vegagerðarmennina eru meðfram öllum Grindavíkurveginum, allt þar til þeir komu að endastöðinni niður við Norðurvör Járngerðarstaða 1918.
Seltjarnarhjallasel – stekkur.
Við skoðun og leit að mögulegum minjum undir Seltjarnarhjalla (Háabjalla) komu í ljós selsleifar, s.s. stekkur og hringhlaðið hús auk annarra tófta. Á Bjallanum ofan við tóftirnar var fallin varða á klapparhól. Rjúpa hafði nýtt sér aðstöðuna. Skammt neðan hennar voru nánast jarðlægar leifar fjárborgar. Frá ofanverðu selinu mátti marka götu upp Njarðvíkurheiði áleiðis að Njarðvíkum. Ljóst er að þarna hefur fyrrum verið selstaða, að öllum líkindum mun eldri en sú fyrrnefnda, sennilega forveri hennar. Trjám hefur verið plantað í selstöðuna um nokkurt skeið. Þetta skógræktarsvæði undir Háabjalla (Seltjarnarhjalla) hefur nú verið nefnt „Sólbrekkur“.
Heimildir:
-Örnefnalýsing Innri-Njarðvíkur. Ari Gíslason skráði.
-Fornleifaskráning við Seltjörn í Reykjanesbæ vegna deiliskipulags, 2018.
Seltjörn (Seljavatn) og nágrenni.
Klöpp – sögulegar minjar
Þótt tóftir bæjarins Klappar austan Buðlungu í Þórkötlustaðahverfi Grindavíkur gefi ekki til kynna mikil merkilegheit er þar margs að minnast.
Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur 2018.
Fjallað er um bæjarstæðið í skýrslu um „Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð„. Þar segir m.a. um Klöpp og nágrenni:
„Þórkötlustaða er getið 1270 í rekaskrá Skálholtsstaðar þar sem Þórkötlustaðir eiga fjórðung af hvalreka milli Valagnúpa og Rangagjögurs á móti Staðastöðum, Járngerðarstöðum og Hraun/Hofi og er þar einnig getið um landamerki. DI II, 76.
Hjáleigur 1703 voru: Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Bugðunga. JÁM III, 12-13.
1840: Ætíð hefir þar verið tvíbýli, en nú eru þar þrír bændur, hjáleigur: Einland, Klöpp og Bullunga og tómthúsið Borgarkot. SSGK, 139.
Buðlunguvör
Buðlungavör 2023.
„Í klapparskoru (bás) við sjóinn framan við eystri Þórkötlustaðabæina er Buðlungavör. Þessi lending var notuð þegar hægt var,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar. „Austast á merkjum móti Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás… Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndri Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallendingin, sem nefnd er Buðlungavör. Fram undan vörinni
eru tveir boðar, sem heita Fjósi og sá ytri Lambhúsi,“ segir í örnefnaskrá AG.
Buðlungavör – för eftir kili árabátanna á klöppinni ofan vararinnar.
Meðan árabátarnir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært þótti, en í öllu misjöfnu var lent í Nesinu, sem kallað var, og áttu þeir Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveim stöðum. Þetta breyttist þegar vélar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent í Nesinu.“ segir Guðsteinn Einarsson. Ef gengið er suður traðirnar milli Miðbæjar og Vestari-Vesturbæjar, sem enn standa á Þórkötlustaðatorfunni, fram á kampinn og þá lítið eitt austur, gengur klöpp í suðsuðaustur fram í sjó. Austanvið klöppina er lygnara en þar er lendingin í Buðlunguvör. Buðlungavör er um 175 m suðaustan við Miðbæ Þórkötlustaða en um 70 m beint suður af Buðlungu. Ryðgaðir festarboltar eru á þessum slóðum við sjóinn. Stórgrýttur sjávarkampur og svartar hraunklappir í sjó fram. Vörin er stórt skarð í klettana um 15-20 m langt og 10 m breitt. Samkvæmt Lofti Jónssyni var lent upp við klöpp við vörina vestanverða og síðan var aflinn borinn upp á klöppina fyrir ofan sem nefnd var Skiptivöllur.
Teigur (eldri)
Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.
„Austast var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp. Sonur þeirra Árni byggði og hús þar sem hann nefndi Teig,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar um Þórkötlustaðahverfi. Samkvæmt upplýsingum sem koma fram hjá Árna Guðmundssyni (1891-1991) í myndbandi varðveittu hjá Ísmus var húsið byggt um 8 árum fyrir flóðið 1925, þá líklega 1918-1919 og var timburhús. Árni reif húsið eftir Stóraflóðið 1925 og flutti vestur eftir og steypti svo upp það hús sem stendur í dag (Klöpp/Teigur, sjá umfjöllun í húsakönnun vegna verndarsvæði). Það hús er byggt 1934 og er mögulegt að Árni hafi búið annars staðar á milli 1925-1934. Eldri Teigur, það bæjarstæði sem hér er skráð, er ekki merkt inn á túnakort frá 1918 og hefur líklega risið ári síðar. Húsið er merkt inn á uppdrátt Lofts Jónssonar.
Árni Guðmundsson (94 ára) við bæjarstæði Klappar.
Samkvæmt Árna Guðmundssyni byggði hann húsið á hólnum sem nefndur var Harðhaus [Harður]. Lítil ummerki sjást nú þar sem Teigur stóð áður en þar er hæð/hóll í túninu, fast austan við túngarð Klappar og fast sunnan við túngarð. Hæðin þar sem Teigur stóð er um 15 m austan við gamla Klappar og Buðlungabæinn. Hún er um 35x 12m að stærð og snýr austur-vestur. Þar sem hæðin rís hæst er hún um 1 m hærra en umhverfið. Hún nær að túngarði en raunar má á kafla sjá að mörk hennar eru norðan túngarðsins (1-2 m). Allra vestast á henni, um 1 m austan við túngarð er þúst. Þústin er 6,5×5 m að stærð og snýr norður-suður. Hún hefur líklega verið opin til suðurs. Þústin er frekar lá (um 0,2 m á hæð) og fellur inn í umhverfið. Engar grjóthleðslur sjást.
Öskugarður
Klöpp – Suðurgarður efst. Öskurgarðurinn kominn undir kampinn.
Garðlag sem líklega hefur að hluta til verið varnargarður lá áður frá túninu í Buðlungu/Klöpp og til vesturs alla leið að kálgörðum frá Austurbæjum Þórkötlustaða. Garðurinn hefur einnig markað af suðurhlið túna sem tilheyrðu Buðlungu/Klöpp. Segja má að þetta garðlag og suðurhlið hans austar hafi mögulega tengst en á milli er túnskiki Buðlungu/Klappar auk þess sem suðurhlið fyrrnefnds garðs er alveg horfin í rof. Garðurinn sem hér er skráður hefur upphaflega verið tæpir 110 m á lengd og var fast ofan við fjörukambinn. Á þeim slóðum sem garðurinn var hefur sjórinn þeytt yfir nokkru grjóti og er garðurinn alveg horfinn á löngum kafla.
Verbúð
Hraunreipi neðan sjávargötu Klappar að Buðlungavör. Minjar verbúðarinnar eru nú horfnar, enda segir Árni að „drjúgur hluti Klappartúnsins“ sé kominn undir kampinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Heimræði árið um kring og gánga þar skip heimabóndans. item áttært skip dómkirkjunnar um vertíðina, og fylgja því staðarins skipi bæði búð og vergögn, sem staðurinn við magt heldur“. Ekki er vitað hvar verbúðin hefur verið en líklegast hefur hún verið neðan við Þórkötlustaði eða á milli bæjarins og Buðlungu. Elsta þekkta lýsing á verbúðum í Þórkötlustaðalandi er í úttekt frá 4, júní 1738 þar sem getið er um tvær „sjómannabúðir. Var önnur þeirra í tveim stafgólfum, en hin í þrem, og báðar sagðar vel stæðilegar. Þessar búðir hafa að líkindum aðeins hýst eina skipsáhöfn hvor, en einnig voru til búðir fyrir tvær skipshafnir.“ segir í Sögu Grindavíkur.
Hafa ber í huga að sjávarkampurinn hefur sífellt verið að færa sig upp á landið ofanvert. Árni Guðmundsson vitnar um það í viðtali á Klapparstæðinu, þá 94. ára.
Buðlunga (elsta staðsetning)
Klöpp og hluti gömlu Buðlungu neðst t.v.
1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum [Þórkötlustöðum] að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,“ segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Buðlungu áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um 130 ár þar til nýtt íbúðarhús var byggt enn norðvestar árið 1933 og stendur það enn. Ekki er vitað nákvæmlega hvar elsta bæjarstæði Buðlunga var en það var beint suður af því bæjarstæði þar sem byggt var á 19. öld. Býlið var því staðsett gróflega við fjöruborðið beint (50 m) suður á bæjartóft og um 80 m SSA af íbúðarhúsinu í Buðlungu sem nú stendur (byggt 1933). Stórgrýttur fjörukambur og klappir fram af þeim.
Buðlunga (yngra bæjarstæði)
Tóftir Klappar og Buðlungu.
1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.“ segir í sóknarlýsingu. „Túnið á Buðlunga liggur að vörinni og sundvarðan var þar neðst í túni,“ segir í örnefnaskrá AG. Í fasteignamati 1916-1918 segir:
„Buðlunga, eigandi Hafliði Magnússon Hrauni, ábúandi Eyjólfur Jónsson, dýrleiki 44. Tún og matjurtagarðar sérstakt, hagbeit og heiðarlönd óskipt sameign við Þórkötlustaði. Túngarður úr grjóti og vírgirðingu, matjurtagarðar 200 □ faðmar, gefa 15 tn í meðalári, 1 safnþró, alt í sæmilegu standi. Tún talið 3 dagsláttur, gefa af sér 55 hesta, mætti græða út. Útengi ekkert, útbeit er fjalllendi og fjörubeit, smalamennska erfið. Reki sameiginlegur við Klöpp og Einland. Uppsátursréttur í sameiningu við allar jarðirnar. Afföll nokkur af sjó á tún og garða. Eftirgjald til landeiganda kr. 40.00.
Gamla-Buðlunga.
Bærinn í Buðlungu var á tímabilinu frá því um 1800 og til 1933 um 40 m suðaustan við núverandi íbúðarhús í Buðlungu (byggt 1933). Bæjartóftir Buðlungu og Klappar eru sambyggðar, a.m.k. sjást ekki skýr skil á yfirgrónum tóftunum nú (2017). Þær eru fast suðvestan við núverandi útihússamstæðu í Buðlungu. Bærinn í Buðlungu var færður undan ágangi sjávar um aldamótin 1800, til norðurs eða upp í túnið. Talsverð bæjartóft er þar sem bæjarstæði Buðlungu og Klappar
virðast sambyggð, fast sunnan og austan við fjárhús og skemmu sem nú stendur í Buðlungu. Tún eru allt í kring nema að norðvestan þar sem er tihúsasamstæða og malarplan. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana. Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp.
Klöpp
Klöpp – sjórinn hefur brotið landið neðanvert í gegnum aldirnar…
1703: Hjáleiga frá Þorkötlustöðum. JÁM III, 13.
Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84
Klappar er getið sem hjáleigu frá Þórkötlustöðum í Jarðatali Árna og Páls frá 1703. 1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin,“ segir í sóknarlýsingu. Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum stóð elsta bæjarstæði Klappar áður við sjó en var fært upp í landið um 1800. Þar stóð bærinn í um langt skeið en hætt var að búa á umræddum stað rétt fyrir 1930. Engin ummerki um elsta bæjarstæði Klappar sjást lengur.
Klöpp (yngra bæjarstæðið)
Klöpp – yngsta bæjarstæðið.
1840: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.,“ segir í sóknarlýsingu. „Austast var Klöpp þar sem bjuggu Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir. Þar byggði sonur þeirra Guðmundur nýtt hús rétt við gamla torfbæinn og nefndi það einnig Klöpp,“ segir í Húsakönnun Lofts Jónssonar fyrir Þórkötlustaðahverfi. Annar sonur þeirra hjóna byggði svo hús skammt austan við torfbæinn og nefndi Teig.
Klapparhjónin Guðmundur Jónsson og Margrét Árnadóttir.
Í fasteignamati 1916-1918 segir: „Jörðin Klöpp, eigandi og ábúandi Guðmundur Jónsson. Dýrleiki eftir síðasta mati 3,44. Tún 3 dagsláttur, greiðfært, grasgefið, gefur af sér 50 hesta. Matjurtagarðar 300 faðmar, gefa 10 tn: af matjurtum, útengi ekkert, heiðarland og hagbeit óskipt í sameiningu við alla jörðina Þórkötlustaði. Útbeit sæmileg, fjörubeit góð, smalamennska erfið. Uppsátur í sameiningu við Þórkötlustaði, ekki til að leigja út. Samgöngur erfiðar á landi, brúkanlegar á sjó. Túnið liggur undir áföllum af sjó.
Árni Guðmundsson við gömlu Klöpp.
Í Klöpp stóð 1932 timburhús samkvæmt Fasteignabók 1932. Bærinn er talinn upp í fasteignabók 1938 en þá er ekki skráð hús þar. Fasteignabók 1938. Svæðið fór illa í stórflóðinu 1925. Tóftir Klappar sjást enn vel um 135 m ASA við Miðbæ Þórkötlustaða og fast austan við útihúsasamstæðu í Buðlungu. Tóftin er innan hólfs sem nýtt er fyrir hrossabeit og sést talsvert traðk innan tóftar og við hana.
Sunnan og austan við skemmu í Buðlungu er stórt tóft. Samkvæmt heimildum var vesturhluti tóftarinnar bærinn í Buðlungu en austurhluti Klöpp. Er þetta óvanalegt og í lýsingu á mannvirkjunum verður hér allri tóftinni lýst en gert sérstaklega grein fyrir þeim hólfum sem eðlilegast er þá að ætla að hafi tilheyrt Klöpp. Tóftin er samtals 22,5×21,5 m að stærð og er því örlítið lengri austur-vestur en norður-suður. Í raun má segja að hún sé L-laga og eðlilegast er að álykta að sá hluti sem snýr norður-suður og er vestast hafi þá tilheyrt Buðlungu en hlutinn sem gengur til austurs syðst á svæðinu sé sá hluti sem tilheyrði Klöpp. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var hlandforin framan við bæjardyrnar, beint fyrir utan baðstofugluggann, sem var austan við eldhúsið. Árni fyllti síðar upp í forina. Það er um 7 m í þvermál og á því er mjög mikið af grjóti en í raun ekki önnur ummerki að sjá.
Gata
Sjávargatan frá Buðlungavör að Klöpp.
Sjávargatan frá Klöpp lá frá Klapparbænum gamla og niður að sjó í gegnum sjóvarnargarðinn. Gatan er merkt inn á túnakort frá 1918. Túngarður Klappar
myndaði vesturhlið traðanna alla leið að bænum, þar sem var hlið á túngarðinum en hlaðinn var traðarveggur að austan. Umhverfis traðirnar er grasi gróin slétta. Hólfið er nýtt fyrir hross og sést traðk og hrossaskítur víða.
Túngarður Klappar/Buðlungu markar vesturhlið traðanna frá suðurenda þeirra (þar sem hlið hefur verið á sjóvarnargarði) og hálfa leið heim að tóft Klappar eða samtals 28 m löngum kafla. Vesturveggurinn (túngarðurinn) mjög stæðilegur, víða 1 m á hæð en um 1,5 m þar sem mest er. Í veggnum sjást 6-8 umför af hleðslu. Austurhlið traðanna er 1-2 umför af grjóti. Hæð að innri brún allt að 0,5 m en ytri brún er ógreinilegri. Veggurinn er 0,3 á hæð og 0,8 m á breidd.
Austurhliðin er merkjanleg á um 16 m kafla. Um 4 m norðan við suðurenda traðanna hefur verið hlaðið þvert yfir þær, og girðing strengd þvert yfir svæðið. Timburþil hefur einnig verið lagt yfir traðarendann að sunnan.
Klöpp (þriðja bæjarstæði)
Klöpp – eldhúsið.
„Nýja“ húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Klapparbærinn hefur verið á nokkrum stöðum í Þórkötlustaðahverfi. Elsta staðsetningin er horfin í sjávarrof og var bærinn færður norðar í túnið um 1800. Ekki er vitað hversu lengi hann stóð þar en í upphafi 20. aldar hefur verið búið að byggja nýtt hús um 5 m sunnan við eldra bæjarstæðið og er það bæjarstæði skráð undir þessu númeri. Var það sonur hjónanna í Klöpp sem byggði húsið og nefndi það einnig Klöpp. Gömlu hjónin í Klöpp virðast þó hafa búið í yngra húsinu, því sem hér er skráð á tímabili. Um 1930 var svo bærinn fluttur á allt annan stað, norðvestarlega í Þórkötlustaðahverfi þar sem enn stendur steinsteypt parhús, Teigur og Klöpp en fjallað er um það síðastnefnda í húsaskráningu hverfisins. Ummerkin eru í túnskika sem tilheyrði Klöpp/Buðlungu.
Klöpp – bæjarstæðið.
Ekki er vitað nákvæmlega hvenær húsið sem hér er skráð var byggt en á heimasíðu Ferlis kemur eftirfarandi fram: „“Nýja“ húsið í Klöpp stóð sunnan við gamla bæinn, þar sem nú er steypt þró. Austan við gamla bæinn var byggt hús er nefndist Teigur. Marel í Klöpp og Árni í Teigi byggðu síðan samföst hús uppi á Leiti, sem enn standa [sjá húsaskráningu]“ Greinileg ummerki sjást eftir mannvirki á þessum stað. Steinsteypta þróin stendur enn að mestu. Líklega hefur þróin verið til að safna vatni. Árni staðfesti það síðar í viðtali. Hún er um 3 x 2,2 m að stærð og nýr norður-suður. Veggir eru 10-15 cm á þykkt og úr grófri steypu og að vestur- og norðurhliðum sjást för eftir bárujárn í steypunni. Talsverð uppsöfnun er innan veggja. Þróin er í suðausturhorni svæðis þar sem ætla má að íbúðarhúsið á Klöpp hafi staðið. Svæðið er rúmlega 6,5 m á kant og er 0,1 m hærra en umhverfið.
Hlaða
Klöpp – hlaðan.
Stæðileg útihúsatóft er um 14 m sunnan við bæjarstæði Klappar. Samkvæmt Árna Guðmundssyni (1891-1991) var heyhlaða á þessum stað sem faðir hans byggði. Guðmundur seldi reif svo húsið og seldi Indriða Guðmundssyni sem flutti það að Auðsholti. Túngarður markar af túnstæði Klappar/Buðlungu. Nú er beitarhólf fyrir hross á þessum slóðum. Tóftin er 11×7 m stór og snýr norður-suður. Hún er grjóthlaðin en gróin og eru veggir alveg yfirgrónir að utanverðu. Hún skiptist í tvö hólf og er það vestara stærra. Það er 6×3 m að innanmálin austur-vestur og virðist hafa verið opið til vesturs þótt þar megi greina lága hleðslu ofan í tóftinni. Aðrir veggir eru stæðilegir og stendur norðurveggur best, í allt að 1,8 m hæð og sjást þar 14-15 umför af börðu sjávargrjóti. Austan við er lítið hólf 3,4×1,7 m að innanmáli sem snýr norður-suður og er opið til suðurs. Ekki er op á milli hólfa en veggurinn sem er á milli hólfanna er mjög mikið hruninn (0,6 m á hæð).
Klöpp – hlaðan.
Tæpum 1 m frá suðvesturhorni tóftarinnar er lítill ferningur um 1 m á kant, líkt og þar hafi grjót verið hlaðið undir e.k. mannvirki. Til austurs frá tóftinni er um 4 m löng hæð sem er 0,5 m hærra en umhverfið og nær hún að túngarði. Þar sem hæðinni sleppir virðist mögulega hafa verið götutroðningur meðfram sunnanverðri tóftinni, samkvæmt túnakorti frá 1918. Ekki hefur þó verið op á túngarðinum á þessum stað og ekki sjást greinileg merki götunnar og hún er því aðeins skráð undir þessu númeri en ekki á sérstöku númeri eins og flestar verulegri götur sem þekktar eru á svæðinu.
Gata
Klöpp – Slokahraun og Hraun. Klapparbændur notuðu Slokahraunið til fiskverkunar.
Götur lágu áður þvert yfir tún Klappar og eru hlið eða op á túngarð Klappar að austan og vestan þar sem göturnar lágu í gegnum hann. Göturnar eru merktar inn á túnakort frá 1918. Götunum er viðhaldið að hestum en svæðið er nú beitarhólf hrossa. Göturnar lágu fyrir sunnan eldra bæjarstæðið en fyrir norðan það yngsta á þessu svæði. Ógreinilegar götur sjást á þessum stað í gegnum túnið, um 20 m langar. Ekki er hægt að merkja framhald þeirra til vesturs (þar sem margvíslegt rask hefur átt sér stað) en hægt er að rekja þær í um 50-60 m um túnið til austurs, þar til komið er að lítilli tjörn sem þar er.
Hrútakofi
Klöpp – fjárhústóft.
Samkvæmt Lofti Jónssyni var hrútakofi neðst eða syðst í túninu hjá Buðlungu/Klöpp. Árni Guðmundsson hafði greint honum frá þessu og Loftur taldi að það hefði verið umræddur kofi sem hefði horfið í flóðið 1925 og Árni greindi frá í viðtali 1986. Á þessum stað er grastó í sjávarkampinum beint niður af Klapparbænum. Engar eiginlegar leifar hrútakofa sjást lengur á þessum stað.
Engar eiginlegar leifar hrútakofa sjást lengur á þessum stað. Samkvæmt frásögn Árna Guðmundssonar (1891-1991) fóru mörg hús við Klöpp/Buðlungu mjög illa í Stórflóðinu 1925. Árni hafði þar hrút í kofa sem var járnklæddur. Þegar Stórflóðið varð þá tók þakið ofan af húsinu og hrútinn og allt. Þegar Árni kom daginn eftir var allt á kafi í sjó. Það varð bið á því að Árni kæmist en um kaffileytið daginn eftir þá sér er byrjað að fjara af túninu og þá fer hann að sjá ofan á kofann. Árni var viss um að hrúturinn væri dauður. Þegar hann loksins kemst að húsunum heyrir hann jarm og þá hafði hrútinum orðið til lífs að smá loftrými virðist hafa verið efst í húsinu. Þótti þetta talsvert merkilegt. Í sama flóði bjargaðist hestur Guðmundar bróður hans sem var í kofa á sömu slóðum.
Upphaf og þróun byggðar í Þórkötlustaðahverfi
Þórkötlustaðahverfi – túnakort 1918.
Náttúrufar í Grindavíkurhreppi einkennist af miklum eldshræringum sem hafa mótað svæðið allt frá því á forsögulegum tíma. Landbrot hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið enda er landsig hér á landi hvergi meira en einmitt á þessum slóðum. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál í hreppnum og hafa áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum. Sökum alls þessa er stór hluti hreppsins óbyggilegur. Meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna leynast þó víða grænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. Í mörgum þessara vinja hefur líklega snemma myndast þéttbýli á íslenskan mælikvarða og íbúar reitt sig á sjósókn samhliða skepnuhaldi. Þórkötlustaðahverfið er dæmi um slíkt svæði. Í þessum kafla verður gerð tilraun til að rýna í tiltækar vísbendingar um upphaf og þróun búsetu í Þórkötlustaðahverfi, allt fram á þennan dag.
Þórkötlustaðatorfan.
Þegar reynt er að ráða í byggðarþróun á tilteknu svæði má nota ýmsar vísbendingar sem finnast við fornleifaskráningu, úr fornum ritheimildum, stærð og dýrleika jarðar, jarðarheiti og landgæði til að setja fram tilgátur um upphaf og þróun byggðar. Kuml eru sjálfstæð vísbending um búsetu fyrir árið 1000 og kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku og vitna því um hið sama. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og
dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar.
Þórkötlustaðahverfi.
Samkvæmt Landnámubók var landnámsmaður í Grindavík Molda-Gnúpur Hrólfsson. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðmæri í Noregi, en bróðir hans var Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann samkvæmt Landnámu þar til landið spilltist af jarðeldum og flúði hann þá vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn. Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar.
Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.
Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir. Um tímasetningu landnáms í Grindavík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér
stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík.
Hvergi er hins vegar talað um hversu margir fylgdu Molda-Gnúpi. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má geta þess til að þeir hafi byggt fjóra stærstu bæina í Grindavík: Stað, Járngerðarstaði, Þórkötlustaði og þá mögulega Hraun.
Þórkötlustaðahverfi – örnefni og minjar (ÓSÁ.)
Haldbetri fornleifafræðileg vísbending um forna búsetu í Þórkötlustaðahverfi er hins vegar að finna í þeim minjum sem komið var ofan í þegar hlaða var byggð á bæjarhól Þórkötlustaða, um aldamótin 1900. Þar komu í ljós leifar skálabyggingar sem líklega er frá fyrstu öldum byggðar og bendir það eindregið til að byggð hafi verið komin á snemma í hverfinu og að sjálft bæjarstæðið hafi verið á svipuðum slóðum allt frá fyrstu öldum.
Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Á móti vegur sú staðreynd að byggð í Grindavík skiptist snemma í þrjú hverfi sem ætla mætti að hverfðust um elstu og bestu jarðirnar en þau eru kennd við jarðirnar Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði. Samanlagt verður að teljast líklegt að Þórkötlustaðir sé á meðal elstu jarða í Grindavíkurhreppi og líklegast að hún hafi komist í byggð á 9.-10. öld þótt frekari rannsókna sé þörf til að fullyrða nokkuð um það.
Þórkötlustaðir – varða.
Þótt ekki séu ítarlega heimildir tiltækar um Þórkötlustöðum á miðöldum er jarðarinnar getið á nokkrum stöðum í Fornbréfasafni. Athygli vekur að Krýsuvíkurkirkja átti þar landskika a.m.k. frá 13. öld en í máldögum frá þeim tíma og síðar kemur fram að kirkjan eigi „ix mæla land aa Þorkotlustodum“. Mælieiningin „mælir“ lands var notaður um stærðir kornakra og heimildin er því vísbending um akurrækt á svæðinu á fyrstu öldum.
Árið 1534 kemur fram á „bleðli“ sem varðveist hefur í fornbréfasafni að Eiríkur Pálsson skuldi Jochim Grelle fjögur hundruð fiska, sem eigi að greiðast í hlutum í Grindavík, bæði á Þórkötlustöðum, hjá Hauki (eða Hákoni) og hjá Þorgrími í Hópi og í heimild frá 1562 er getið um Þórkötlustaði í tengslum við mannsdráp sem þar átti sér stað. Bréf frá árinu 1563 sýnir að jörðin var þá orðin eign Skálholtsstaðar.
Heródes – álagasteinn við Þórkötlustaði.
Elsta ítarlega heimildin um Þórkötlustaði er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Þar er kostum og göllum jarðarinnar lýst og hjáleigur innan marka hennar taldar upp. Af lýsingunni fæst staðfest að gæði jarðarinnar voru fólginn í sjávarnytjum hennar fremur en skilyrðum til landbúnaðar. Samkvæmt jarðabókinni gat jörðin fóðrað 4 kýr, 20 ær, 16 lömb og 1 hest. Þar er þess getið að heimræði sé allt árið um kring, þang aðaleldiviður (þótt jörðin hafi átt kolagerð í almenningi), fjörugrastekja nægileg, selveiði til góðra hlunninda, rekavon góð (timbur og hvalur) og sölvafjara sæmilega góð en torfskurður aftur á móti sendinn, engjar engar, vatn aðeins flæðivatn og þess einnig getið að sjór brjóti af landi.
Þótt ekki sé getið um hjáleigubyggðina á Þórkötlustöðum fyrr en um 1703 eru allar líkur á að hún nái lengra aftur og Jón Þ. Þór telur hugsanlegt að hún eigi upphafi sitt að einhverju leyti að rekja allt aftur á 12.-13. öld þegar fiskneysla jókst til muna og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi.
Vestari Vesturbær Þórkötlustaða – flugmynd.
Ástæða aukins þunga sjávarútvegs var m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Líklegt er að verstöðvar hafi þá orðið til víðast þar sem stutt var á góð mið.
Ekkert er vitað um eignarhald Þórkötlustaða framan af. En jörðin var, eins og fyrr kemur fram, orðin stólseign um miðja 16. öld. Jón Þ. Þór telur líklegt að staðurinn hafi eignast jarðirnar í kjölfar plágnanna á 15. öld, þá líklega í þeim tilgangi að auka áherslu stólsins á sjósókn. Lítið er vitað um mögulega útgerð Skálholtsstaðar í Grindavík á 15.-16. öld en ljóst að þegar komið var fram á miðja 17. öld lagði Brynjólfur Sveinsson biskup á það ríka áherslu að auka og byggja upp útgerð á svæðinu öllu, þ.m.t. á Þórkötlustöðum. Í úttekt frá 1665 kemur fram að engin verbúð sé á Þórkötlustöðum en heimabóndi hýsi skipsáhöfn en þegar Jarðabók Árna og Páls er rituð 1703 er risin verbúð á jörðinni.
Þórkötlustaðahverfi.
Sem fyrr segir er Jarðabókin elsta heimildin um hjáleigubyggð á Þórkötlustöðum en þegar hún var rituð 1703 voru þar fimm hjáleigur og bjuggu samtals 60 manns í hverfinu, 13 á heimajörðinni en aðrir á hjáleigunum. Á 18. öld er jörðinni skipt í þrjá jarðparta og þeir seldir með stuttu millibili undir lok 18. aldar. Eftir það var hver partur orðin sjálfstæð eign, á við meðaljörð í gæðum. Svo virðist sem byggð haldist stöðug í hverfinu allt til loka 19. aldar. Í Sýsluog sóknarlýsingum frá 1840 kemur fram að þrjár hjáleigur séu í byggð á jörðinni og ein þurrabúð og 1847 eru fjórar hjáleigur í byggð. Árið 1801 bjuggu þar 44 á 10 heimilum og íbúafjöldinn var á bilinu 40-60 manns á 8-10 heimilum allt fram yfir 1880. Á sjálfri heimajörðinni var reyndar þríbýlt lengst af á 19. öld og bjó þar m.a. Árni Einarsson hreppstjóri 1882 á einum parti sem e.t.v. má túlka sem vísbendingu um að jarðarpartarnir þrír hafi enn verið í flokki með betri jörðum á svæðinu. Þó voru ábúendaskipti á jörðinni og hjáleigum hennar voru fremur ör, sérstaklega á síðari hluta aldarinnar.
Þórkötlustaðir – loftmynd 1954.
Á árunum 1880-1901 tekur Þórkötlustaðahverfið talsverðum breytingum. Þá meira en tvöfaldaðist íbúatala í hverfinu, fór úr 60 íbúum árið 1880 í 132 árið 1901 og úr 9 heimilum í 22. Þegar túnakort var gert fyrir Þórkötlustaði 1918 voru býlin í hverfinu 12 talsins auk fimm íbúðarhúsa á sjálfri bæjartorfunni og að auki var án efa tvíbýlt á sumum býlanna. Á fyrri hluta 20. aldar virðist hafa verið algengt að afkomendur fólks á eldri bæjarstæðunum í hverfinu hafi byggt sér ný hús innan hverfis. Sem dæmi um þetta byggðu börn Englandsbóndans upp Heimaland og Efraland í kringum 1940, dóttir eiganda Hvamms byggði húsið Þórsmörk 1938 og synir hjónanna úr Klöpp byggðu sér tvíbýlin Vestri-Klöpp og Teig norðvestarlega í hverfinu á 4. áratugnum. Ekki er ólíklegt að þetta hafi einnig verið raunin á árunum fyrir 1900.
Þórkötlustaðir.
Þórkötlustaðahverfi hélt áfram að blómstra og vaxa á fyrri hluta 20. aldar en þegar komið var undir miðbik aldarinnar voru aukin umsvif og fólksfjölgun í Járngerðarstaðahverfi ásamt nýjum hafnarmannvirkjum í Hópinu farin að hafa áhrif á hverfið, þótt þar byggju þá ríflega 200 manns í hátt í 30 íbúðum. Greinilegt var orðið að þungamiðja athafnalífs í Grindavík yrði í framtíðinni í Járngerðarstaðahverfi. Til að bregðast við þeim vanda sem steðjaði að byggðinni stofnaði fólk á svæðinu félagskap um byggingu frystihúss sem tók til starfa í hverfinu 1947 og var það starfrækt fram til 1992. Frystihúsið blés miklu lífi í atvinnu á svæðinu enda voru gerð út allt að fimm fiskiskip á sama tíma og keyptur fiskur af öðrum bátum til verkunar. Á fimmta áratugnum var stofnaður skóli í hverfinu og þar var einnig rekin verslun um nokkurra áratuga skeið.
Í „Fornleifaskráningu í Grindavík, 2. áfanga, 2002“ segir m.a. um Klöpp:
Klöpp – tóftir.
1703: Hjáleiga frá Þórkötlustöðum. JÁM III, 13. Enn hjáleiga 1801 og 1847. JJ, 84
Í sóknarlýsingu 1840 segir: „Klöpp og Bullunga; báðar þessar hjáleigur voru í landsuður frá bænum að sjá, niður í sjóinn, en eru báðar færðar hærra upp í túnið síðan aldamótin.“ Um 60 m suðaustan við núverandi íbúðarhús á Buðlungu stendur bárujárnsklædd skemma og suðaustan í henni eru tóftir Klappar. Þar var síðasti Klapparbærinn. Austan skemmunnar er hrossagirðing og lenda tóftirnar að mestu leyti innan hennar. Annars er umhverfis hana sléttað malarplan.
Klöpp – fjárhús.
Svæðið allt er um 50×40 m. Tóftirnar eru tvær, sú syðri minni og væntanlega útihús. Hún er um 9×5 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Vestara hólfið er opið til vesturs en hið eystra til suðurs. Fast norðvestan í tóftinni er steypustokkur, e.t.v. einhverskonar þró. Um 10 m norðan við tóftina eru tóftir Klapparbæjarins en skemman hefur rofið norðvesturhluta þeirra. Þær eru mjög greinilegar en ekki er um neinn bæjarhól að ræða. Tóftirnar eru um 22×14 m að stærð og skiptast í sex hólf og gang. Vestasta hólfið er enn undir þaki en mjög sigið. Op eru þrjú, til suðurs, norðurs og vesturs. Báðar tóftirnar eru mjög heillegar. Hleðslur eru úr torfi og grjóti. Hleðsluhæð er mest um 1,3 m en umför allt að átta. Grjótið er að einhverju leyti tilhöggvið. Umhverfis tóftirnar eru grjóthlaðnir túngarðar um 1 m háir. Suðurhluti þeirra liggur alveg í stórgrýttum sjávarkampinum en þó er vel hægt að greina hleðsluna. Norðan í henni miðri er tóftarbrot, mjög ógreinilegt en talsvert er af grjóti í því. Um 20 m sunnan við nyrðri tóftina eru grjóthleðslurnar tvöfaldar og mynda einskonar traðir, um 10 m langar, suður á kampinn.
Árni Guðmundsson í viðtali við ón Daníelsson.
Í myndbandi Ólafs Rúnars Þorvarðarsonar þar sem Jón Daníelsson í Buðlungu ræðir við Árna Guðmundsson kemur m.a. eftirfarandi fram: Árni: „Hér bjuggu afi minni og amma, Árni Einarsson og Guðrún Árnadóttir, ættuð austan úr Flóa. Hún var frá Gafli í Flóa.“
Í Sögu Járngerðarstaðarættarinnar segir að Árni Einarsson hafi verið fæddur 3. des. 1828 á Þórkötlustöðum, dáinn 14. ágúst 1882 í Klöpp, bóndi í Klöpp og Buðlungu. Kona hans hafi verið Guðrún Gamalíelsdóttir frá Hamri í Gaulverjabæ.
Foreldrar Árna voru Margrét Árnadóttir, f. 29. des 1861 í Hraunkoti í Grindavík, d. 26. ágúst 1947, húsfreyja í Klöpp, og maður hennar Guðmundur Jónsson, f: 19. okt. 1858 á Þórkötlustöðum, d. 3. des. 1936, bóndi og sjómaður. Foreldrar hans voru Jón Jónsson bóndi á Þórkötlustöðum og Valgerður Guðmundsdóttir frá Hrauni. Þau eignuðust sjö börn; Einar Guðjón, Guðrúnu, Valgerði, Jón, Árna, Guðmund Ágúst og Guðmann Marel.“
Klapparbletturinn er, skv. framangreindu, merkilegur fyrir margra hluta sakir. Slíkar minjar ber að varðveitta, þótt ekki sé fyrir annað en að minnast sögu fólksins, sem þar bjó…
Heimildir:
-Fornleifar í Þórkötlustaðahverfi – verndarsvæði í byggð, Reykjavík 2018.
-Myndband Ólafs Rúnars Þorvarðarsonar – https://vimeo.com/113794968
-Fornleifaskráning í Grindavík, 2. áfangi, Reykjavík 2002.
Klöpp – skemma í Austurtúninu.
Brimketill – Mölvík – Sandvík – Háleyjabunga
Gengið var að Brimkatli austan við Mölvík. Brimið lék við ketilinn sem og hamraða ströndina. Ægir skellti sér af og til upp í skálina og lék sér þar um stund eða þangað til hann renndi sér úr henni aftur.
Brimketill vestast á Staðarbergi.
Haldið var út með ströndinni til vesturs. Um er að ræða þægilega sandfjöru með smá klappalabbi neðan við misheppnuðu laxeldisstöðina ofan Mölvíkur. Stór steyptur stokkur gengur þar niður í fjöruna, kjörinn myndatökustaður yfir víkina. Ofan við kambinn er fúlatjörn þar sem fuglar undur hag sínum vel. Krían, sandlóan, spóinn og fleiri fuglar gleymdu sér þar í sátt og samlyndi.
Uppi á nefinu milli Mölvíkur og Sandvíkur er stórbrotið útsýni yfir að Háleyjabungu, Krossavíkurbjargi og Hrafnkelsstaðabergi til vesturs og yfir Mölvík og Staðarberg til austurs. Utan við heitir Víkur.
Tóft undir Háleyjarbungu.
Sandfjörur er með Sandvík, en auk reka er þar að finna mikinn fjölda plantna er setja sérstakan svip á umhverfið. Annars vegar er dökkur sandurinn og hins vegar litskrúðugar plöntur inni á milli steina og sandaldna.
Undir Háleyjabungu er forn tóft. Einhvers staðar segir að tóftin hafi verið útver, nýtt frá Skálholti, líklega sem rekavinnsla eða jafnvel lending undir bungunni. Nýlega hefur verið grafinn þverskurður í tóftina, líklega til að grennslast fyrir um aldur hennar. Neðan hennar er vik inn í ströndina, varin af hraunrana sjávarmegin, Háleyjahlein. Þarna rak m.a. lík óþekkta sjómannsins, sem nú hvílir í Fossvogskirkjugarði.
Varða á Háleyjabungu.
Á gígbarmi Háleyjabungu er gömul varða, nú orðin gróin. Skammt norðan hennar er önnur nýrri. Gígurinn sjálfur er hin fallegasta náttúrusmíð. Ef hann yrði gerður aðgengilegur hefði hann síður minna aðdráttarafl fyrir ferðamenn en t.d. Kerið í Grímsnesi. Háleyjabunga er í umdæmi Grindavíkur svo það hermir upp á þarlenda að gera hann sýnilegan áhugasömum og forvitnum vegfarendum á leið um svæðið.
Af Háleyjabungu er ágætt útsýni yfir að Sýrfelli og Hreiðrinu (Stampi) í norðri, Skálafelli í vestri og Grindavíkurfjöllunum í austri. Klofningahraun er áberandi þar á milli.
Brimketill (Oddnýjarlaug).
Með alla þessa síbreytilega náttúrufegurð þar sem lýsing og lyndisveður spila sjálfgefna möguleika ætti varla að verða erfitt fyrir ráðendur að nýta sér þá ótrúlega ódýru framkvæmdir er gera myndu svæðið aðgengilegra fyrir ferðalöngum. Annars væri vel þess virði að fara yfir þetta svæði með það fyrir augum að opna það túrhestum á leið um Reykjanesið. Vegagerð þarna er ótrúlega auðveld og kostnaðarlítil.
Á þessari leið eru a.m.k. þrír staðir sem ferðamenn hefðu sérstakan áhuga á að skoða og væru tilvaldir til að staðnæmast við á ferð um Reykjanesið. Tiltölulega auðvelt væri að gera sæmilegan slóða upp að brún Háleyjabungu og upp á nefið milli Mölvíkur og Sandvíkur. Slóði liggur nú þegar að Brimkatlinum.
Veður var frábært – hiti og stilla. Gangan tók 3 klst og 33 mín.
Brimketill.