Í auglýsingu fasteignasölu um Bröttukinn 29 í Hafnarfirði, sem seld var árið 2015, segir m.a.: „Verð 25,9 – Stærð 71 m2 – Einbýli – Verð per fm 363 – Byggingarár 1954.
Ottó Wathne Björnsson – ófullgert málverk Halldórs Árna Sveinssonar.
Á lóðinni er skráð 19 fm. geymsla, geymslan er nánast ónýt. Það má byggja hana aftur.
Byggingaréttur er á lóðinni bæði fyrir stækkun á húsinu um helming einnig að byggja bílskúr. Byggja má einnig eina hæð ofan á húsið.
Komið er inn í forstofu með dúk á gólfi. Stofa og eldhús eru með viðarborðum á gólfi. Gengið er niður stiga á neðri hæð. Þar er lítið hol með máluðu steingólfi, Herbergi með steingólfi, skápur. Inn af herbergi er lítil hitakompa.
Baðherbergi og þvottahús með flísum á gólfi, sturta er á baði.
Vel staðsett og snoturt 2ja herbergja einbýli með góðri lóð á vinsælum stað í Hafnarfirði. Eign sem getur boðið upp á ýmsa möguleika.
Um er að ræða snotra og sjarmerandi eign á tveimur hæðum með góðri lóð á vinsælum stað í Hafnarfirði. Eign sem vert er að skoða.“
Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar – jólablaði, árið 1962, er fróðleg grein eftir Magnús Jónsson (forstöðumann Byggðasafns Hafnafjarðar); „Bæir i bænum„.
Brattakinn 29.
Þar segir m.a. um „bæ Ottós“ að Bröttukinn 29:
„Árið 1908 komu til Hafnarfjarðar hjónin Halldór Sigurðsson frá Merkinesi í Höfnum og Pálína Pálsdóttir. Bjuggu þau fyrst í Gesthúsum. En þau vildu, eins og aðrir, búa undir eigin þaki og létu nægja lágreist bæjarlag á þeirri byggingu, þótt þá væri komið árið 1919. Gata var lögð framhjá bænum þrem árum síðar og þá lögð í hann vatnsleiðsla. Jafnframt hlaut hann númerið Krosseyrarvegur 5. Halldór dó árið 1920, en kona hans fimm árum síðar.
Fóstursonur þeirra, Janus Gíslason, bjó áfram í bænum, á dótturdóttur þeirra hjóna, Pálínu Arnadóttur. Hún giftist Hallbergi Péturssyni, og bjuggu þau í þessum bæ allt til ársins 1953. Þá var hann seldur Ottó W. Björnssyni og fluttur burt og stendur nú í góðu yfirlæti sem Brattakinn 29. Jafnframt var inngönguskúrinn lengdur, svo að nú er hann sem viðbygging jafnlöng bænum. Kjallarinn varð einnig allur ofanjarðar. Lengd bæjarins er 5,8 m, en breidd hans hefur upphaflega verið um 3,8 m. Með viðbyggingunni er hún orðin yfir 5 m. Hjá bænum hefur Ottó byggt útihús vegna atvinnu sinnar.“
Í „Húsakönnun“ fyrir Kinnar, íbúðahverfi í Hafnarfirði, árið 2020 segir m.a.:
Kinnar í byggingu.
„Könnunin er unnin samkvæmt beiðni Umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar. Málfríður Kristjánsdóttir arkitekt FAÍ vann skráninguna. Björn Pétursson bæjarminjavörður Hafnarfjarðar skrifaði sögulega samantekt.
Málfríður Kristjánsdóttir skrifaði um uppbyggingu hverfisins Rósa Karen Borgþórsdóttir safnvörður á Byggðasafni Hafnarfjarðar aflaði sögulegra upplýsinga.
Elsa Jónsdóttir landfræðingur hjá umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar aðstoðaði við gerð korta.
Formáli
Brattakinn 29.
Í janúar 2018 fól Umhverfis- og skipulagsþjónusta Hafnarfjarðarbæjar Málfríði Kristjánsdóttur arkitekt að gera húsaskráningu fyrir Kinnarnar í Hafnarfirði. Samkvæmt 16. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 skal skráning fornleifa, húsa og mannvirkja fara fram áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi. Minjastofnun Íslands setur reglur um lágmarkskröfur sem gera skal til skráningar fyrir hvert skipulagsstig.
Minjastofnun Íslands lagði til húsaskráningarforrit og hefur veitt leiðbeiningar. Byggðasafn Hafnarfjarðar veitti aðgang að ljósmyndum og aðstoðaði við skráningu á sögu einstakra húsa. Hefur framlag safnsins verið ómetanlegt. Þá hafði höfundur skráningar ótakmarkað aðgengi að teikningasafni og skráðum heimildum byggingafulltrúaembættisins. Allar brunavirðingar fyrir tímabilið þegar Kinnarnar voru í uppbyggingu eru glataðar. Öll hús voru ljósmynduð og skoðuð á staðnum.
Brattakinn 29.
Skráningin tekur alls til 153 bygginga. Þar af voru 9 friðaðar samkvæmt 29. grein laga um menningarminjar nr. 80/2012. Ellefu hús við Bröttukinn hafa verið flutt þangað og við Grænukinn er eitt flutningshús.
Samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 er hverfisverndarákvæði um Kinnarnar sem hljóðar svo : „Smágerður mælikvarði sem einkennir hverfið haldist óbreyttur og þar með byggðamynstur hverfisins sem er heillegt og gott dæmi um einbýlishús byggð um 1950“.
Varðveislumat húsanna á svæðinu er almennt hátt með tilliti til hverfisverndarákvæðisins og tilurð húsanna. Það er mikilvægt að breytingar og viðbyggingar séu hóflegar og í samræmi við götumyndir.
Söguleg samantekt
Kinnahverfið í byggingu.
Á eftirstríðsárunum var nokkur húsnæðisskortur í Hafnarfirði sem brugðist var við með ýmsum hætti. Meðal þeirra úrræða sem gripið var til á þessum tíma var að skipuleggja smáíbúðahverfi í nýju hverfi sem kallað var „Kinnarnar“. Umrætt landsvæði tilheyrði einni af hinum fornu fjórum bújörðum Hafnarfjarðar, Hamarskoti en sú jörð var keypt af bæjarsjóði Hafnarfjarðar árið 1912 að undanskildu Hamarskotstúni innan girðingar og Undirhamarskotstúnbletti. Fyrstu heimildir um jörðina eru frá árinu 1579 en þá hafði hún fyrir alllöngu verið komin í eigu Garðakirkju.
Hamarskot – tilgáta.
Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 er jarðardýrleiki talinn óviss þar sem jörðin tíundaðist engum en landskuld hennar var þá 60 álnir sem greiddust með 3 vættum fiska í kaupstað, engjar voru engar og vatnsból erfitt um vetur en þar var þó heimræði árið um kring og lending góð. Bærinn Hamarskot stóð þar sem Flensborgarskólinn stendur í dag.
Áður en uppbygging Kinnahverfisins hófst var landsvæðið nýtt um tíma til landbúnaðar. Þar stóð meðal annars allstórt fjós og hlaða sem byggt var 1931. Fjósið var byggt af og eftir teikningu Ásgeirs G. Stefánssonar fyrir Þorstein Björnsson. Þess má geta að Ásgeir teiknaði bæði og byggði fjölmörg hús í bænum á þessum árum. Fjós þetta vék fyrir byggðinni þegar hún tók að myndast í hverfinu.
Kinnahverfi.
Segja má að uppbygging Kinnahverfisins hafi hafist árið 1947 þegar fyrstu húsin voru byggð við Köldukinn. Flutningshús voru flutt á svæðið og sett niður árið 1949 en formlegt skipulag fyrir hverfið var ekki samþykkt fyrr en í desember 1951. Í frétt í Alþýðublaðinu frá þeim tíma segir meðal annars: „Milli 40 og 50 umsóknir um smáhúsalóðir í Hafnarfirði. Sérstakt hverfi ætlað húsunum, en bærinn leggur til teikningar ókeypis. /…/ Hafnarfjarðarbær hefur skipulagt sérstakt hverfi fyrir þessi hús ofarlega í bænum þar, sem eru svo kallaðar Kinnar. /…/ Þeir sem þess óska geta fengið ókeypis teikningar að húsum þessum hjá bænum, en einnig er þeim leyfilegt að láta teikna hús eftir eigin fyrirsöng.“ Nokkuð var um að eldri hús í bænum væru flutt í hverfið og olli það í sumum tilfellum deildum. Dæmi um það er hús sem áður var Reykjavíkurvegur 4 en það þurfti að víkja þaðan vegna breikkunar götunnar. Þá sendu fjöldi íbúa hverfisins bréf til bæjarins til að mótmæla þeim flutningi en í frétt Alþýðublaðsins sagði meðal annars um það mál „Hafnarfjörður fer að verða furðulegur bær. Ætli menn að byggja bílskúr, verða þeir að hlíta ströngum reglum byggingarsamþykktar en Pétur og Páll viðrast geta dröslað aflógahjöllum eftirlitslaust á grunna, a.m.k. í Kinnahverfinu. Flutningur Finnshúss upp í Grænukinn er bæjarstjórnarhneyksli og fyrir það verður „eigandi“ hússins ekki sóttur til saka.“
Brattakinn 29.
Deiliskipulagsuppdrátturinn af svæðinu var gerður af þeim Sigurði Jóni Ólafssyni og Friðþjófi Sigurðssyni og afmarkaðist þá af Hringbraut, Bárukinn og læknum að norðan. Eins og fram kemur hér að framan var lóðarhöfum boðið að fá húsateikningar þeim að kostnaðarlausu frá bænum og varð úr að um þriðjungur húsa í þessu hverfi, 55 talsins, var byggður eftir þeim teikningum. Teikningarnar voru eftir þá Friðþjóf og Sigurð og gefa þessi hús og þéttleiki byggðarinnar í hverfinu því ákveðin heildarsvip. Aldur húsa í hverfinu er að stærstum hluta frá
miðri 20. öld en þó eru nokkur hús eldri sem flutt voru þangað og einnig er þar að finna nýleg hús.
Yngstu húsin voru byggð undir aldamótin 2000 eftir að Pípugerð Jóns Guðnasonar við Bröttukinn 1 vék fyrir nýjum húsum en hún hafði verið starfrækt á þeim stað allt frá árinu 1929.
Uppbygging hverfisins
Flutningshús – Brattakinn 27.
Sigurður Jón Ólafsson og Friðþjófur Sigurðsson gerðu fyrsta deiliskipulagsuppdráttinn af svæðinu og var hann samþykktur 13. desember 1951. Svæðið var milli Hringbrautar og Bárukinnar en að norðan var Lækurinn. Þá voru 11 hús á svæðinu, þar af 5 aðflutt. Það má telja þá Sigurð og Friðþjóf feður byggðarinnar. Sigurður var bæjarverkfræðingur og byggingafulltrúi frá 1946-1959 en Friðþjófur var loftskeytamaður sem vann á þessum tíma við tæknistörf hjá Hafnarfjarðarbæ og varð síðan byggingafulltrúi í eitt ár 1961 og síðan frá árinu 1967. Samtals teiknuðu þeir 55 hús eða yfir en einn þriðja hluta allra húsa á svæðinu. Þetta átti sinn þátt að gefa hverfinu heildarsvip.
Fyrstu nýbyggingarnar í Kinnunum voru við Köldukinn nr. 7, 8 og 10 frá árinu 1947 en tveim árum síðar var farið að flytja þangað hús sem voru sett niður við Bröttukinn. Hverfið byggist upp á sama tíma og smáíbúðahverfið í Reykjavík en borgarstjórn Reykjavíkur hélt samkeppni meðal arkitekta um smáhús og vann Gunnar Ólafsson arkitekt þá samkeppni.
Tóbakspungur Ottós.
Tvö hús voru byggð samkvæmt hans teikningu annað við Köldukinn en hitt við Grænukinn. Bæði húsin eru mikið breytt í dag. Þá voru byggð fjögur hús eftir teikningu Guttorms Andrjessonar og Ólafs Guttormssonar sem einnig hafði verið byggt eftir í smáíbúðahverfinu.
Flest húsin á svæðinu risu á árunum 1951-1955 eða samtals 76 hús. Fyrstu húsin austan Bárukinnar voru flutningshús við Bröttukinn og eftir 1954 hófst uppbygging fyrst við Háukinn og Grænukinn og síðan Stekkjarkinn. Uppbygging austan Bárukinnar var hægari en var að mestu lokið 1970. Síðast var byggt á eignalóðum við Fögrukinn og Lækjarkinn.
Á þeim tíma sem hverfið var í byggingu var mikill húsnæðisskortur og innflutningshöft þar sem gjaldeyrir var af skornum skammti. Frá árinu 1947 giltu lög um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit en þá var heimilt að byggja íbúðarhús til eignaafnota án fjárfestingaleyfis ef stærð þess fór ekki yfir 350 rúmmetra. Fjárhagsráð var lagt niður í lok árs 1953 og þá var gert frjálst að byggja hús allt að 520 rúmmetra.
Mismunandi þættir sköpuðu þetta þétta byggðamynstur með þéttri byggð svo sem húsnæðisskortur, innflutningshöft, starfsemi fjárhagsráðs og teikningar af litlum einföldum einbýlis- og tvíbýlishúsum.“
Ottó W. Björnsson – Ottó Wathne Björnsson (7. júlí 1904 – 26. maí 1992)
Ottó Wathne Björnsson.
Líkt og fram hefur komið keypti Otto W. Björnsson Krosseyrarveg 5 árið 1954 og flutti að Bröttukinn 29.
Í kveðjuorði Stellu, frænku Ottós í Morgunblaðinu miðvikudaginn 1. júlí árið 1992 segir m.a.: „Ottó Wathne Bjömsson er dáinn. Hann var kominn hátt á níræðisaldur, lá kvalafulla banalegu, sem loks tók enda daginn fyrir uppstigningardag. Guði sé lof fyrir það. Ottó dvaldi síðustu árin á Sólvangi í Hafnarfirði og hafði litla fótavist, svo sennilega er hann mörgum gleymdum sem könnuðust við hann úr bæjarlífinu hér áður fyrr, bæði í Reykjavík og Hafnarfirði.
Það er eðlilegt að mannlífið breyti um svip í tímanna rás og um margt er það til bóta, en ekki get ég neitað því að oft finnst mér það um leið verða fátæklegra. Nú eiga helst allir að vera eins. Þeir smá hverfa hinir kynlegu kvistir, sem settu svip á bæjarbraginn áður fyrr.
Ottó var einn þeirra. Hann batt ekki bagga með öllum. Í mörg ár vann hann sem fjósamaður eða gegningamaður í sveit, stundum mörg ár á sama stað, svo sem hjá Þorgeiri í Gufunesi. Á milli brá hann sér í bæinn, þá gjarnan til móður sinnar, Gunnhildar kaupakonu í Skálholti, sem allir eldri Hafnfirðingar muna. Nú eða að hann kom í heimsókn til ömmu minnar Pálínu, en hún var frænka Gunnhildar. Hjá ömmu minni dvaldi hann sem unglingur í þrjú ár við nám og var það hans einasta skólaganga. Þar var vinurinn kominn í fjósagallanum og lyktaði allavega, því þótt margt megi segja gott um Ottó frænda minn, þá verður aldrei sagt að fataprjál og baðferðir hafi verið hans uppáhald.
Sem betur fer vitkast maður með aldrinum. Það er sennilega líka ætlunin með dvöl okkar hér…“ – Stella frænka.
Sveinn Björnsson skrifaði minningarorð um Ottó Wathne Björnsson 4. júlí 1992:
Málverk Sveins Börnssonar af Ottó Wathne Björnssyni.
„Ottó Wathne Björnsson Minning Ottó Wathne Björnsson, vinur minn, er látinn. Hann fæddist 7. júlí 1904 á Arnarstapa á Snæfellsnesi. Foreldrar hans voru Gunnhildur Bjarnadóttir og Björn Jónsson.
Ottó fluttist til Hafnarfjarðar 1920. Hann átti hús í Bröttukinn 29, Hafnarfirði. Þangað kom ég oft. Ottó var búinn að vera nokkur ár á Sólvangi. Hann var alltaf einsetumaður.
Ottó var sérstakur maður. Ég kynntist honum þegar ég kom í lögregluna 1954. Ég fékk fljótlega áhuga fyrir að mála hann en það gekk á ýmsu að til þess kæmi, hann var hálfhræddur við slíkt uppátæki og fór lengi undan í flæmingi. En loks tókst að fá hann til að sitja fyrir heima hjá honum. Hann vildi ekki koma í vinnustofu mína. Það var dálítið erfitt að fá hann til að sitja kyrran. Hann þurfti að vera að taka í nefið og alltaf að aka sér til og frá og með ýmsar brettur sem honum voru kannski eðlilegar. Einnig vildi hann alltaf vera að tala við mig. Þetta hafðist þó á endanum.
Ég var dálítið búinn að stúdera Ottó þegar hann kom á lögreglustöðina í Hafnarfirði, en það var mjög oft. Stundum kom hann seint á kvöldin og þá venjulega með flöskur í pokum og var þá oft þreyttur.
Hann kom til að hitta vini sína, þá einu eins og hann sagði stundum. Hann safnaði flöskum og keypti hingað og þangað, fór meira að segja til Keflavíkur og víðar.
Ottó hafði áður unnið almenn sveitastörf og ýmis verkamannastörf á ævinni. Hann var flöskukaupmaður 30 síðustu ár ævi sinnar. Í þá daga voru flöskur í verði og sérstaklega brennivínsflöskur.
Sveinn Björnsson.
Það var ekki ósjaldan að við á lögreglustöðinni ókum Otta heim með pokana sína fulla af flöskum. Hann kom stundum með nokkra poka í strætó í síðasta vagni. Voru strætóbílstjórar góðir við Otta og leyfðu honum að flytja þessa poka í vögnunum. Síðan bar hann þá á sjálfum sér að lögreglustöðinni. Eftir klukkan 3 á nóttunni þegar um hægðist í bænum og allt var orðið rólegt var honum hjálpað heim með varning sinn í hús sitt og inn í kjallara. Þá lá vel á karli og stundum bauð hann upp á flotta vindla og maltöl. Ottó var nefnilega góður vinur vina sinna. Hann var sérstakur og sérsinna en hrekklaus, góð sál.
Á seinni árum var honum gefið sjónvarp af vinum sínum í Reykjavík, en það setti hann aldrei í samband. Hlustaði bara á útvarpið, gömlu, góðu Gufuna, og lagði kapal.
Hann talaði fallega íslensku og var gaman að ræða við hann. Það voru stuttar setningar og hnitmiðaðar sem minntu á Hemmingway, sem hann hafði aldrei heyrt um eða lesið.
Ottó kom stundum heim til mín að Köldukinn 12 enda stutt að fara. Hann var góður við börn, hugsaði mikið um þá sem áttu bágt, en lítið um sjálfan sig. Hann var stundum skemmtilegur og lék á als oddi.
Hulda og Jónatan í Köldukinn 8 voru alltaf góð við Otta, gáfu honum að borða á hátíðum og Hulda kom honum í bað sem var ansi erfitt.
Kristinn Hákonarson yfirlögregluþjónn og Sólveig Baldvinsdóttir sendu honum oft mat um jólin og öðrum hátíðisdögum. Einnig vinir hans í Reykjavík. Einstæðingar eru oft látnir eiga sig en fyrr á árum meira gert í því að gleðja þá á hátíðum.
Ottó Wathne var ekki allra, hann var einn af þeim mönnum sem setti svip á bæinn okkar. Nú eru flestir þessir sérstöku menn gengnir til feðra sinna og engir þeim líkir koma í staðinn. Þeir voru nefnilega ansi vel gefnir margir hverjir og kunnu að svara fyrir sig.
Ottó var saklaus sál sem fólki þótti vænt um. Hann kunni að drekka kaffi af undirskál sem hann hélt fallega á og ekkert fór niður þótt hann væri með kreppta fingur.
Ég man vin minn alltaf, veri hann kært kvaddur. Það verður tekið vel á móti honum.“ – Krýsuvík, 29. maí ’92, Sveinn Björnsson.
Í Þjóðviljanum 8. júlí 1984 ræðir MHG við Ottó Wathne Björnsson um hvernig nafn hans er til komið, hestamennsku, flöskuverslun og eggjasölu með meiru… Hér verður einungis drepið niður á sumt, er fram kom í viðtalinu:
„Er þá ekki hann Ottó Wathne Björnsson úr Hafnarfirðinum allt í einu kominn hingað inn á gólf. Hann er auðvitað spurður almæltra frétta úr Firðinum, en hann kveður þaðan ekkert
tíðinda, sem í frásögur sé færandi. -„Ekki nema það að þú ert að verða áttræður,“ gellur þá í Lúðvík Geirssyni hér í næsta herbergi. Og þar náði blaðamaður þá í spotta, þökk sé Lúðvík.
Ekki þarf að efa að áttræður maður hafi frá ýmsu að segja og lyktir urðu líka þær að rabb okkar Óttós varð miklu léngra en svo að tök séu á að troða því í eitt blað, og því birtist hér aðeins lauslegt
og hraðsoðið hrafl.
Vitjað nafns
Blaðamanni lék forvitni á að vita hvernig varið væri ættartengslum þeirra Ottós Wathne athafnmannsins á Seyðisfirði og Ottós Wathne þeirra Hafnfirðinga.
– Uss, við erum ekkert skyldir, ansar Hafnfirðingurinn.
– Og hversvegna berð þú þá þetta nafn?
– Ja, það er nú saga að segja frá því. Og er þar þá fyrst til máls að taka að ég er fæddur undir Jökli, á Arnarstapa. Foreldrar mínir, Björn og Gunnhildur, bjuggu þar.
Það var gamli Ottó Wathne sjálfur, sem endilega vildi að ég yrði skírður þessu nafni. Foreldrar mínir þekktu hann auðvitað ekkert og voru búin að ákveða mér allt annað nafn. En svo í hálfan mánuð áður en ég var skírður vitjaði Wathne móður minnar í draumi, á hverri einustu nóttu í hálfan mánuð. Það munaði ekki um það. Hún var hætt að geta sofið. Og seinast klykkir hann út með því að segja að láti hún ekki barnið heita þessu nafni þá verði það aumingi, ef það þá fái að lifa.
Og þá segir hún við pabba: – Við verðum bara að skíra drenginn þessu nafni. Og það var gert, Ottó Wathne Björnsson er mitt skírnarnafn, taktu eftir því, skírnarnafn en ekki ættarnafn.
„Hefurðu nú kannski eignast krakka…?“
En þetta átti nú eftir að hafa sín eftirköst, skal ég segja þér, þó að gamla Wathne hafi sjálfsagt ekki grunað það. Ég fékk nefnilega einu sinni bréf frá lögfræðingi.
Mér þótti það nú skrítið og mömmu ekki síður. Maður tengdi lögfræðinga helst við einhver afbrot og ég vissi ekki til þess að ég hefði brotið nein guðs eða
manna lög. En mér var skipað að mæta hjá lögfræðingnum. Það var meira helvítið. Og mamma segir: – Hefurðu nú kannski eignast krakka með einhverri
stelpu, sem þú vilt svo ekki meðganga?
– Nei, nei, nei, ég held nú síður.
– Nei, ég trúi því heldur ekki á þig, en hvað getur maðurinn viljað?
– Já, það veit ég fjandakornið ekki frekar en þú. Neitaðu og vertu ákveðinn.
Heimsókn að Bröttukinn 29
Brattakinn 29.
FERLIR tók hús að Bröttukinn 29 að gefnu tilefni. Við skoðun á innviðum hússins var ljóst að bætt hafði verið við upphaflega húsið, sem flutt var frá Krosseyrarvegi 5 á sínum tíma. Gamla húsið er dæmigert fyrir hafnfirska byggingalist frá því í byrjun 2o. aldar; byggt af vanefnum, en hefur þrátt fyrir það þótt til mikilla framfara í híbýlagerð bæjarbúa frá fyrri tíð. Eftir sem tíma liðu varð þessi „nútímalegi“ húsakostu, líkt og vera vill, þó fljótlega úreltur; bæði hvað varðar gerð og stærð. Mörg húsanna þurftu og að víkja fyrir skipulegri gatnagerð og voru ýmist rifin eða flutt til.
Brattakinn 29.
Hugmyndir fólks um verndun gamalla húsa í bænum eru af ýmsum toga. Rétt að taka undir áhuga formanns Byggðasafns Hafnarfjarðar að koma slíkum sögulegum byggingum, sem ekki geta lengur þjónað sínu hlutverki í nútímanum, fyrir á afmörkuðu svæði, líkt og Árbæjarsafn er dæmi um í Reykjavík. Slíkt svæði er nærtækt í Hafnarfirði, þ.e. auðnin ofan Langeyris. Þar voru fyrrum t.d. húsin Eyrarhraun o.fl. slík. Allt voru þau dæmigerð hafnfirsk híbýli frá upphafi síðustu aldar. Með því að skipuleggja slíkan reit væru saman kominn á einum stað framtíðar dvalarstaður mikilla áður óæskilegra fortíðarverðmæta.
„Gamlar kreðslur eiga þó á stundum til að torvelda vænleg framtíðarskref“….
Heimildir:
-Fasteignauglýsing 2015.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar – jólablað, 15.12. 1962; Bæir í bænum – Magnús Jónsson.
-Kinnar, íbúðahverfi Hafnarfirði – Húsakönnun: Hafnarfjörður 2020.
-Morgunblaðið, miðvikurdagur 1. júlí 1992 – Ottó W. Björnsson; kveðjuorð – www.mbl.is/greinasafn/grein/87872/
timarit.is/page/1765836#page/n45/mode/2up
-Morgunblaðið, Sveinn Björnsson, 4. júní 1992 – Minningargreinar.
-Morgunblaðið, 4. júní 1992 – Minningargreinar.
-Þjóðviljinn 8. júlí 1984, bls 4 og 6: Hún var skagfirsk eins og þú – – mhg rœðir við m Ottó Wathne Björnsson um hvernig nafn hans er til komið, hestamennsku, flöskuverslun og eggjasölu með meiru – timarit.is/page/2893813#page/n3/mode/2up
Brattakinn 29 – Jóhannes Ármannsson er eigandi hússins.
Saltfisksetrið – ljóslifandi saga sjómennsku
Segja má með sanni að Saltfisksetur Íslands sé ein ein mest áberandi skrautfjörður Grindvíkinga um þessar mundir – ljóslifandi saga sjómennskunnar frá lokum hefðbundinnar verbúðarmennsku til þessa dags.
Eldri minjar fiskþurrkunar er víða að finna í umdæmi Grindavíkur, s.s. á Seltöngum, við Nótarhól við Ísólfsskála, í Slokahrauni í Þórkötlustaðahverfi, í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, við Síkin á Hópsnesi, við Brunnana í Járngerðarstaðahverfi og á Hvirflum í Staðarhverfi.
„Þegar leið á 18. öldina, og þilskip tóku að leysa áraskipin af hólmi, vað saltfiskur aðalútflutningsvara Íslendinga. Fram að því höfðu vaðmál og skreið verið undirstaða utanríkisverslunar. Með tilkomu togaranna varð saltfiskverkun í raun að stóriðju og saltfiskur hefur æ síðan skipt verulegu máli fyrir afkomu þjóðarbúsins. Grindvíkingar hafa löngu verið drjúgir við saltfiskinn og sýning um sögu verkunar og sölu á saltfiski og þýðingu hans fyrir þjóðarbúið í gegnum tíðina á því vel heima í þessu ágæta sjávarplássi við suðurströndina, “ segir í kynningu á sýningu Saltfisksetursins í Grindavík, en þar er ekki aðeins farið yfir sögu saltfiskverkunar á Íslandi heldur fléttast saga sjómennsku og þróun skipa og veiða er rakin.
Sýningin er mjög forvitnileg fyrir erlenda ferðamenn, fróðleg fyrir skólafólk sem getur hér kynnt sér mikilvægasta atvinnuveginn, og ánægjuleg fyrir hinn almenna Íslending sem fer í helgarbíltúr með fjölskylduna.
Aðstæður hafa hagað því þannig að ekkert byggðasafn er staðsett í Grindavík. Saltfisksetrið var opnað árið 2002 og kemur því í stað safns og hefur verið miðpunktur margvíslegrar menningarstarfsemi heimamanna og að auki aðdráttarafl og upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn sem sækja staðinn heim.
Sýningarskálinn er 650 m2 að grunnfleti og sýningarsvæði á tveimur gólfum, alls 510 m2. Grindavíkurbær var leiðandi aðili við byggingu setursins í samstarfi við stofnendur þess og aðra styrktaraðila. Bygging hússins var í höndum Ístaks hf, en hönnuðir sýningarskálans voru Yrki s/f arkitektar.
Í Salfiskssetrinu.
Samningur var gerður við Björn G. Björnsson sýningarhönnuð um hönnun og uppsetningu sýningarinnar. Saga salfisksins er sögð með stórum myndum, hnitmiðuðum texta og fáum en lýsandi munum. Gínur koma í staðinn fyrir fólk í leikmyndinni. Tæknin kemur við sögu þar sem notast er við sjónvörp á gólfum, sýningartjald á vegg, stærri sjónvörp og DVD spilara. Mörkuð er ákveðin leið í gegnum sýninguna og sagan þannig rakin í tímaröð.
Saltfisketrið er stór framkvæmdaraðili í Sjóarnum síkáta þar sem fjölmörg hátíðaratriði eru haldin í húsinu eins og fram kemur í veglegri dagskrá hátíðarinnar (menningarviðburðarskrá Grindavíkur).“
Segja má með nokkrum sanni að fáir aðfluttir Grindvíkingar virðast gera sér fullkomna grein fyrir þýðingu Salfisksetursins sem sögulegs minjasafns. Til áminningar má geta þess að á árum áður snart verkun þessi sérhvern fingur og sérhverja taug í líkama sérhvers íbúa þorpsins – svo nátengd var tilfinningin búsetunni að ekki var á milli skilið.
Heimild:
-Sjóarinn síkáti – fjölskylduhátíð í Grindavík 1.-3. júní 2007, bls. 4.
Um selsbúskap – Jónas Jónasson
Um selsbúskap (úr bókinni „Íslenskir þjóðhættir“ eftir séra Jónas Jónasson).
“Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaða eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru byggð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum flestar kýrnar. Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskona), og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur.
Færikvíar – selsmatselja og smali.
Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Ekki var mulið undir smalann í seljunum stundum. Var ekki dæmalaust, að honum væri ætlað að skaka strokkinn, á meðan mjaltarkonur mjöltuðu ærnar. Þótti þá vel úr rætast, ef nokkurn veginn félli saman, að strokkurinn væri skilinn og lokið væri mjöltunum. Af því er talshátturinn; “Það stenst á endum strokkur og mjaltir”. Sagt var og, að ráðskonur hefðu haft það til, að binda strokkinn upp á bakið á smalanum við smalamennsku og láta hann hlaupa með hann, og hafi skilist þannig smjörið. En ósennilegt er, að þetta hafi verið gert, síst almennt.
Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft voru og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bænum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu.
Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í strokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr.
Mjólkin var hleypt í skyr í kössum með loki. Voru þeir háir og mjóri, líkir venjulegu kofforti, og mátuleg klyf, er þeir voru fullir; þeir voru kallaðir selskrínur. Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Var skyrinu steypt í keröld heima og safnað til vetrar (söfnuðurinn).
Smalaskjól.
Smalamaður fylgdi ánum nótt og dag, eða þá að hann fylgdi þeim á daginn, en lét þær leika lausar á nóttunni. Stundum eða sumsstaðar var þeim og sleppt í bæði mál og þá smalað kvöld og morgna. Mikið var undir því komið, að smalinn væri góður. Alltaf átti smalinn að vera kominn með ærnar í sama mund í kvíabólið kvöld og morgna, og vandist hann furðanlega á það, þó að ekki hefði hann úr í vasanum. Oftast voru unglingar hafðir við smalamennsku, og var þeim oft ætlað miklu meira en þeim var treystandi til, því að þeim er var ekki hlíft, þó að þeir væru bæði ungir og pasturlitlir. Illt áttu þeir oft í meira lagi, er þeir áttu að fylgja fénu nótt og dag og tíð var stirð, rigningar og slagviðri. Þá byggðu þeir sér hús; byrgi eða smalabyrgi, á þeim stöðum, er fénu var mest haldið til haga, og voru þeir þar inni, þegar illt var eða þeir máttu sofna. Ærið voru þessi byrgi smá og lítilfjörleg, en þó skárri en úti.
Þegar komið var fram yfir fardaga, var farið að stía. Til þess var notaður stekkur, einhverskonar rétt, hæfilega stór fyrir ærnar. Í stekknum var kró, lambakró. Lömbin voru tínd úr stekknum og látin inn í króna. Það var gert seint á kvöldin, svo sem stundu fyrir lágnætti, og látið sitja svo um nóttina, þangað til um miðjan morgun daginn eftir. Þá var aftur farið í stekkinn og lömbunum hleypt saman við ærnar.
Eftir Jónsmessuna komu svo fráfærurnar. Þá voru ærnar reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar fyrst í kvíunum og reknar síðan í haga og setið þar yfir þeim.
Litla-Botnssel – tilgáta.
Heldur hefir vistin verið einmannaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera, enda komst hjátrúin þar að, sem eðlilegt var á þeim tímum. Mörg selmatseljan komst í tæri við huldumenn og urðu þungaðar við þeim; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti maðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók hann svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum. En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar sonur þeirra var orðinn fullorðinn og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir verða báðum jafnan að bana.
Eru margar þær harmasögur til. Stundum ólu þær börn í seljunum og báru út, og er því víða óhreint hjá gömlum seljum. Aftur er þess sjaldan getið, að útilegumenn hafi komist í tæri við selráðskonur.
Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig. Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754* að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átta vikur væru af sumri til tvímánaðar. Lítið mun það lagaboð hafa á unnið, enda var þá landið í kaldakoli af harðindum, fé fallið og fólk að deyja úr harðrétti; og svo kom fjárkláðinn mikli rétt á eftir. Þó var mjög víða haft í seli langt fram á 19. öld, þar sem lítið var um sumarhaga heima, þangað til fólkseklan neyddi menn til að hætta við selfarir og jafnvel fráfærur á síðustu áratugunum.
Smali og selsmatsseljur við stekk.
Selfara er víða getið, bæði í fornsögum vorum og lögum; má af því ráða, að sá siður hefir flust hingað frá Noregi og orðið hér að fastri venju. Selvenjur hafa þá verið hina sömu og á síðari tímum, nema skyr stundum verið flutt heim í húðum, skyrkyllum eða kollum í krókum, sbr. Njálu.
Ísland hefir alla tíð verið gott sauðland, enda er þess víða getið í fornritum og sögnum, að menn hafi verið fjármargir mjög, enda gekk þá fé sjálfala í skógum, meðan þeir voru óhöggnir á landi hér. En auðvitað var hvorki hús né hey handa þessum fjárfjölda, enda hrundi það niður, þegar harðindin dundu yfir. Fram á 19. öld var það víða enn siður á Suðurlandi, að ekki voru hús yfir sauði, önnur en jötulausar fjárborgir”.
*Lovsamling for Island III, nr. 559, bls. 219 – „Rentekammer-Skrivelse til constitueret Amtmand, Laugmand Magnus Gislason, ang. Skovenes Behandling. Kjöbenhavn 10. Mai 1755. —
Publiceret paa Altliinget ved den constituerede Amtmand Magnus Gislasons Bekjendtgjörelse 15. Juli 1755 (Althinigsb. s. A. Nr. xxvi, 2. 3), samt i Synodalforsamlingen for Skalholt Stift 1755. – Rentek. Isl. og Færö. Copieb. Litr. L, Sr. 559.
Udi indkomne allerund. Supplique af 30. Septembr. 1754 haver Han andraget, at de, som med Hans Maj“ og det publique Gods ere benaadede, foröde de derved befindende Krat-Skove og den tilvoxende Birke-Riis lader forhugge. Thi ville Herr Laugmand föie den Anstalt, og derover ved Sysselmændene alvorlig lade holde, at ingen, som med Jordegods er benaadet, enten selv eller ved andre forhugger de dertil hörende Krat-Skove, og mindre deraf noget afhænder, men samme Jangt mere freder og opelsker, saa fremt de ikke derfore Tiltale vil være upderkastede.1 Vi forblive & c.
Rentekammeret 10. Mai 1755.“
Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.
Reykjavík – úr sveit í borg
„Búskapur „Reykjavíkurbænda“ setti svip á höfuðstaðinn alveg fram á sjöunda áratuginn. Enda þótt sárafáir Reykvíkingar hefðu viðurværi sitt af landbúnaði eftir síðari heimsstyrjöldina og bændurnir væru ekki margir í hlutfalli við aðra íbúa hafði búsýsla þeirra áhrif á þróun bæjarins og dreifingu byggðarinnar. Þeir sem stunduðu einhvers konar búskap réðu yfir stórum og smáum túnum, yfirleitt svokölluðum erfðafestulöndum, sem voru fyrirferðarmikil í bæjarlandinu.
Framan af 19. öld höfðu einstaklingar yfirleitt leigt nytjatún bæjarins en þar sem færri komust að en vildu leið fljótt að því að þörfin rak menn til þess að rækta nálæga móa, en bærinn þurfti að hafa þar hönd í bagga, enda eigandi landsins. Upp úr miðri 19. öld lögðu bæjaryfirvöld grunninn að erfðafestuskilmálum síðari tíma. Blettirnir voru afhentir gegn árlegri leigu en leigutakar voru hins vegar skyldaðir til þess að láta af hendi byggingarlóðir gegn niðurfærslu á árgjaldinu að mati óvilhallra manna. Á síðasta aldarfjórðungi 19. aldar varð erfðafestan eina fyrirkomulagið á úthlutun lands sem var stærra en lóðir. Undir lok aldarinnar var síðan dregin skýr markalína milli lóða og erfðafestulanda.
Framan af 20. öld var reglum um erfðafestulöndin breytt á ýmsa vegu, m.a. tryggði bæjarstjórn eign sína á bæjarlandinu með nýjum skilmálum árið 1909, lög um rétt kaupstaða og kauptúna gagnvart þeim sem áttu stórar óbyggðar lóðir tryggðu ennfremur rétt bæjarins og rannsókn sem gerð var árið 1928 leiddi í ljós að bærinn væri hinn eiginlegi eigandi eldri landa og að réttur erfðafestu hafa væri einungis ræktunarréttur. Eftir að þessi niðurstaða fékkst átti enginn að velkjast í vafa um hver ætti erfðafestulöndin.
Lögsagnarumdæmi Reykjavíkur á þeim tíma var talið um 100 km² en landið vestan við Elliðaár aðeins um fimmtungur þess. Á nærri þriðjungi svæðisins voru erfðafestulönd.
Um miðja 20. öld einkenndist bæjarland Reykjavíkur því fremur af víðum grasvöllum og óræktuðu landi en húsum og götum og öðru því sem talið er dæmigert fyrir borgir.
Náttúran setti því enn sterkan svip á umhverfi bæjarbúa, ekki aðeins melar og móar, urð og grjót, grasvellir og óræktarland heldur var fjallahringurinn víður og enn sást haf nánast hvaðanæva úr bænum. Að þessu leyti tók Reykjavík vel á móti fólki sem þangað fluttist og hafði búið í sveit. Og líklega hefur fjöldi býlanna í bænum ekki spillt fyrir.
Býlin vestan Elliðaánna stóðu mörg á því svæði sem nýju hverfin í bænum röðuðu sér utan um. Í Laugardalnum var hvert býlið af öðru með grænum túnum. Á milli Rauðarárholts og Laugardals var einnig rekinn þróttmikill búskapur. Í Kringlumýrinni voru Kringlumýrarblettir þar sem fjöldi ábúenda stundaði dálítinn búskap. Við Suðurlandsbrautina, ekki langt frá þeim stað þar sem Hótel Esja reis síðar, stóð býlið Lækjarhvammur.
Ný byggð þrengdi víðar að erfðafestuhöfum. Í Langholti, Laugarási og Laugarnesi var talsvert um slíkt. Ný íbúðarhús sóttu einnig að býlum í jaðri Öskjuhlíðar.
Við Háteigsveg stóð Sunnuhvoll og skammt þar frá var bærinn Klömbur, sem Klambratún var kennt við en því var síðar gefið nafnið Miklatún. [Daninn Cristiian Christensen keypti býlíð Klömbrur 1934 og rak þar fyrst búskap en síðar svínasláturhús og reykhús. Húsið á Klömbrum var rifið 1965.]
Vestur í bæ voru jafnframt erfðafestulönd og býli, einnig í Skerjafirði. Alifuglabú bakarameistara var í Háaleiti og í Sogamýri voru nokkur nýbýli. Mýrin hafði verið þurrkuð upp og breytt í tún og þar var fjöldi erfðafestulanda, Sogamýrar- og Sogablettir. Í nágrenninu voru Bústaðir, þar var búið þar til í upphafi áttunda áratugarins. En á sjötta áratugnum voru á bænum tólf kýr mjólkandi og áttatíu ær. Bóndinn á Bústöðum, Ragnar Þ. Jónsson, réð yfir talsverðum túnum en „hafði glatað í greipar bæjaryfirvalda úthaga og engjum og þótti sárt við að sættast.“ Sumum gömlum sveitamönnum, sem komu í fjárhúsin á Bústöðum um miðja öldina og sáu sauðfé á garða, þótti sómi að því fé. Fleiri býli og erfðafestulönd voru í bæjarlandinu og í nágrenni bæjarins, í Kópavogi og á Seltjarnarnesi, var blómlegur búskapur.“
Til að gera langt mál stutt má segja að eftir þetta hafi Reykjavík breyst úr sveit í bæ. En í stað stekkjar varð bærinn að þeirri borg, sem við nú þekkjum.
Heimild:
-Eggert Þór Bernharðsson – ÞÆTTIR ÚR SÖGU REYKJAVÍKUR FRÁ 1940 – Sveit, bær, borg.
Sólskin fyrir 25 krónur
„Reykjavík hefir þá sérstöðu fram yfir margar aðrar höfuðborgir heims, að í hæsta nágrenni eru stór óbyggð svæði, sem eru tilvalin leikvangur þeirra, sem unna útiveru og gönguferðum. T.d. er svæðið frá Sandskeiði og suður að Keflavíkursvæðinu, svo óbyggt, að ekki er um að ræða einu sinni sumarbústaði. Að vísu er svæðið víða gróðurlítið, en sums staðar er líka mjög gróðurmikið, jafnvel kjarr. Sérkennileg fjöll og eldstöðvar frá fyrri tíð eru þarna margar, og er landið svo ósnortið, að glögglega má gera sér grein fyrir, hvernig þessar hroðalegu hamfarir eldsumbrotanna hafa farið fram.
Jón Kristinn.
Óskandi er, að þessi stóru svæði fái að verða ósnortin af mannavöldum, svo að við útivistardýrkendur fáum að njóta lengi enn.
Ein af ákjósanlegri gönguleiðum á þessum slóðum er leiðin úr Kaldárseli og suður til Selvogs, eftir gamalli hestagötu, sem er rudd og óslitin frá Setbergshlíðinni fyrir ofan Hafnarfjörð og alla leið suður úr, til Selvogs. Leið þessi er vörðuð svo að segja alla leiðina, og standa flestar þeirra enn, þó að vafalaust séu mörg ár síðan þær voru hlaðnar.
Fyrir nokkru lögðum við þrír göngufélagar land undir fót og fórum þessa leið frá Kaldárseli, en þangað létum við aka okkur. Ferðafélagarnir voru, auk mín, þeir Björn Þorsteinsson sagnfræðingur og Gísli Sigurðsson lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði, sem safnað hefir örnefnum á þessum slóðum, svo að báðir þekktu þessir menn svo að segja hvert fótmál.
Vegarslóðinn frá Hafnarfirði liggur í gegnum Helgadal, og gengum við þangað frá Kaldárseli, og síðan með Valahnúkum, en þar er hellir einn, sem Farfuglar hafa gert að bústað sínum með því að innrétta hellinn og setja í hann trégólf að nokkru. Fyrir nokkrum árum var þarna mannaferð um hverja helgi, en nú hefir þessi annars ágæti útilegubústaður verið vanræktur að nokkru. Farfuglar kalla þetta „hreiður“ sitt Valaból og er hin gamla Selvogsgata rétt við hellinn.
Frá Valahnúkum liggur leiðin nokkurn veginn beint yfir hraunið og í áttina að Grindaskörðum Við gefum okkur góðan tíma til að skoða okkur um, því að leiðin þarna suður um er skemmtileg, margir hellar og skútar, sumir mjög forvitnilegir. Og sumir eiga jafnvel sína sögu í fórum Björns og Gísla. Ekki er vitað, hvenær ferðir hófust þessa leið, en vafalaust er langt síðan, því að útræð; var snemma frá Selvogi og Herdísarvík. en kaupskip komu oft í Hafnarfjörð. Ennfremur var þessi leið farin til að sækja brennistein í námurnar í Brennisteinsfjöllum en á árunum 1860—1890 var unninn brennisteinn á þessum slóðum til útflutnings. Var brennisteininum mokað í poka, en síðan tóku ýmsir hestaeigendur að sér að reiða brennisteininn til Hafnarfjarðar fyrir eina krónu hestburðinn. Í Hafnarfirði var brennisteininum skipað um borð í kaupskip til útflutnings. En nú er umferðin minni þarna um slóðir, og segir Gísli okkur, en hann er oft þarna á ferðinni, að það teljist til tíðinda, ef að fólk sjáist á ferð um þessar slóðir. Til sanninda um, hversu fjölfarin leið hefir verið þarna áður fyrr, má sjá, að hestarnir hafa markað með hófunum djúpar hvilftir í harðar klappirnar.
Á meðan við erum á gangi yfir hraunið finnst okkur hann gerast rigningarlegur í lofti. Það þótti góður og gegn siður, áður fyrr, að heita á helga menn og kirkjur sér til fulltingis, ef á lá, og finnst okkur það vel við eiga, eins og á stendur að gera áheit, ef veður haldist bjart og rigningarlaust á ferð okkar suður yfir fjöllin. Ekki kemur okkur saman um á hverja sé bezt að heita, en við ákveðum að heita tuttugu og fimm krónum hver. Gísli telur Strandakirkju öruggasta, en ég hafði áður heitið á heilagan Þorlák með góðum árangri undir svipuðum kringumstæðum. Taldi Gísli þá, að ekki lægi á að ákveða til hverra áheitið skyldi renna, en það tók Björn af, því að það gæti kostað átök á himnum, ef við ákvæðum ekki sjálfir fyrirfram, hverjir skyldu fá krónurnar. Varð það að samkomulagi, að við Björn skyldum heita á heilagan Þorlák, en Gísli skyldi senda sínar tuttugu og fimm krónur til Strandakirkju, ef við fengjum sólskin.
Vegarslóðinn upp í Kerlingarskarðið er í ótal krákustígum vegna brattans. örnefni eru þarna mörg, enda blasa hnúkarnir og skörðin vel við frá Stór-Reykjavík. Flestar eru hæðirnar gamlar dyngjur og eldfjöll, sem gosið hafa fyrr á öldum, sum jafnvel fyrir ísöld. Örnefni eins og Bollarnir, þeir eru einir sex, Kerlingarskarð, Draugahlíð, og mörg fleiri heyrast af vörum Björns og Gísla, þegar við göngum suður í gegnum skarðið.
En hnúkarnir blasa einnig við langt utan af sjó, og sjómennirnir þekktu þá ekki alltaf til sömu örnefna og þeir, sem á landi ferðuðust. Höfðu þeir sinn hátt á í nafngiftum og til útskýringar góðum fiskimiðum. Sem dæmi má nefna, að utan úr Faxaflóa þóttust þeir sjá Þykkvalæri og Þunnalæri, en á milli þeirra var auðvitað Klofið. Þetta voru hnúkarnir í Grindaskörðum, en hins vegar var einn Valahnúka öðrum meiri, frá þeim að sjá, enda er hann mörgum kílómetrum nær sjó. Var sá kallaður Drellir á sjómannamáli. Þegar Drellir bar neðan til í Þykkvalærið, töldu sjómenn sig vera á öruggri fiskibleyðu út í Faxaflóa, í rennunnii á milli hrauna, eins og það var kallað. Þarna voru fengsæl togaramið, og fengu margir glöggir fiskimenn á togaratímanum góða afladaga á þessum slóðum, fyrr á árum. En tímarnir breytast og örnefnin á þessum slóðum hætta að hafa þá þýðingu í daglegu starfi manna, sem þau höfðu.
Ofanvert í Grindaskörðum [Kerlingaskarði] skiptist vegurinn, en slóðinn suður í Brennisteinsfjöllin liggur til vesturs, en leiðin til Selvogs áfram í suður. Við höldum áfram til suðurs.
Þrátt fyrir áheitin hafði Björn verið svo hygginn að hafa með sér feikimikla regnhlíf af enskri gerð, forláta grip, sem spannaði faðm eða meira í þvermál. Við Gísli efuðumst um, að slíkir gripir heyrðu ferðaútbúnaði til, en Björn taldi einmitt slíkan grip skara fram úr öðrum að notagildi, og það sannaði hann, þegar viö settumst til að borða nesti okkar, en þá spennti hann út regnhlífina góðu og snæddi í skjóli. En Björn hefir aldrei verið talinn feta troðnar slóðir í ferðamennsku.
Við félagarnir fórum okkur heldur hægt, þurftum margt að athuga á leiðinni, og margt að ræða, enda var okkur fæst mannlegt óviðkomandi. Þeir Gísli og Björn vitnuðu gjarnan til fyrri tíma og fornra heimilda, en þá varð ég að hafa mig allan við því að þar stóð ég svo langt að baki, hvað allan fróðleik snertir. En á söguslóðum eru sagnfróðir menn í essinu sínu, svo að þessu sinni skipaði ég sæti hins forvitna hlustanda.
Stóri-Bolli í Kóngsfelli.
Við gengum á Kóngsfell [Litla-Kóngsfell], sem er þarna á miðri heiði. Það er gamall reglulaga gígur, sem hefur merkilegu hlutverki að gegna að vera landamerki á milli Krýsuvíkur, Herdísarvíkur og á milli sýslnanna, Árnessýslu og Gullbringusýslu. Þaðan var gott útsýni yfir heiðina, en ekki er Kóngsfell svo tígulegt, að það veiti manni útsýn til höfuðborgarinnar, enda sést Kóngsfellið ekki frá Reykjavík. Á þessum slóðum er margt furðulegra steina, sem gaman er að skoða, en gjallið úr gígnum hefir tekið á sig hinar furðulegustu myndir. Ég vildi að ég hefði getað borið með mér helmingi meira en ég gerði.
Viö félagarnir komum víða við í umræðunum okkar í millum. Við ræðum um steina, jurtir og sagnfræði, en allt þetta freistar ferðalangsins. Einhvern tíma hefi ég lesið og ég sé nú, að í því er fólgin mikill sannleikur, að þegar maður ferðaðist til staðar í fyrsta sinn, að þá geri maður það einungis til að viðra sig og til að hafa komið á staðinn, en í annað sinn geri maður það til að glöggva sig enn betur á náttúrunni og fegurð hennar, en í þriðja sinn og fjórða fer maður að kafa dýpra og byrjar að forvitnast um sögu staðarins. Ef maður er í góðum félagsskap getur maður því gert sér það til erindis að ferðast um sömu staði aftur og aftur til aukinnar ánægju, vegna þess að maður sér ekki sama staðinn alltaf í sama ljósi. Þegar maður hefir kannað einn stað frá hinu náttúrufegurðar- eða frá jarðfræðilegu sjónarmiði, fer forvitnin að leiða mann inn á hin sögulegu sjónarmið, sem jafnvel eru óendanleg, því að ímyndunin getur leitt mann þangað, sem staðreyndirnar geta ekki. Þess vegna er líka gaman að sögunni.
Dauðsmannsskúti.
Sunnan Kóngsfells tekur við sérkennilegt landslag, gróðurmelar og brunnið hraun á víxl. Við komum að Dauðsmannsskúta, en þar áttu að hafa orðið úti menn í vetrarferð, og kann Gísli að segja fornar sögur um þá harmaatburði.
Nú tekur að halla á móti suðri, gróðurinn tekur að aukast, jarðvegurinn að verða meiri, og götuskorningurinn tekur að verða jafnvel dýpri, því að hestarnir ganga niður á fast jarðlag með tímanum.
Áheitin virðast hafa komið að fullkomnu gagni því að gott skyggni hélzt. Brátt kemur Selvogsviti í ljós, og suður á Selvogsbanka sjáum við óljóst togbátana vera að draga björg í bú, hvort sem þeir nú eru innan eða utan hinnar svokölluðu landhelgi.
Uppi á heiðinni hafði maður vart heyrt fuglakvak, enda gjörsamlega gróðurlaust, en eftir því sem sunnar dregur, heyrir maður fjölbreytilegar til fuglanna, og við heiðarbrún er samfelldur fuglaniður, enda horfir þarna á móti suðri og nýtur vel sólar. Við fylgjum hestagötunni alveg að þjóðveginum, enda bíður þar bíllinn, sem átti að flytja okkur heim aftur. Við höfum staðizt áætlun, því að við höfðum reiknað með sjö tíma hægri ferð og það reynist standa heima. Bíllinn reyndist ekki hafa þurft að bíða lengi.
Kaffisopi ferðalok er alltaf kærkominn, áður en við höldum í bæinn aftur, en elskuleg eiginkona beið með sopann í bílnum, enda átti hún í vændum miklu frískari eiginmann en þann, sem hún skildi við í Kaldárseli fyrir sjö tímum. – Jón Kristinn.
Heimild:
-Vísir, 18. júlí 1967, bls. 9-10.
Kerlingaskarð framundan.
Skrímsli við Kleifarvatn
Þann 2. nóvember 1984 birtist æsifengin frétt í DV er bar yfirskriftina „Skrímsli í Kleifarvatni.“ Þetta var í októberlok. Fréttin segir frá tveimur mönnum á rjúpnaveiðum er sáu ókennilegar skepnur í og við vatnið. Þeir sögðu að dýrin, sem voru tvö, hefðu verið dökkleit og hundsleg en bara mikið stærri. Förin eftir þau líktust hesthófum en voru talsvert stærri. Dýrin hurfu sjónum þeirra skömmu síðar.
Stefán Stefánsson, hinn kunni leiðsögumaður, sagði í skrifum sínum fyrrum að “svo sem mörgum er kunnugt liggur Kleifarvatn í klauf þeirri, sem verður millum Sveifluháls og Vatnshlíðarinnar, og þegar komið er sunnan við vatnið, virðist sem fjöll þessi nái saman við norðurenda vatnsins. Hyggja því sumir, að vatnið dragi nafn sitt af klofa þessum. Í landamerkjalýsingu er m.a. talað um Kleifina norðan við vatnið og virðist átt við kleif þá er gengur upp á Vatnshlíðarhornið, sbr. Kleifarhorn. Um háttsemi þessa stóra stöðuvatns og misvöxt þess hafa ýmsir mætir menn skrifað margt og mikið nú á síðari árum, og skal því ekki farið út í þá sálma hér.“
Vatnsskarð er nefnd geil í Undirhlíðar er skilur þær frá Sveifluhálsi. Fyrrum var það nefnt Markraki, en Vatnsskarð þar sem Kleifarvatn birtist mönnum á ferð úr Kaldárseli um Dalaleiðina, neðan Vatnshlíðahorns.
Kleifarvatn er stöðuvatn á miðjum Reykjanesskaga milli Sveifluháls og Vatnshlíðar. Vatnið er þriðja stærsta stöðuvatn á Suðurlandi, um 10 km2 og eitt af dýpstu vötnum landsins, eða um 97 m þar sem það er dýpst. Það hefur lítilsháttar aðrennsli þar sem er Seltúnslækur og Sellækur í Litla-Nýjabæjarhvammi, en ekkert frárennsli nema gljúpan jarðveg. Töluverður jarðhiti er syðst í vatninu og einnig út af Innri stapa vestan við það.
Fyrir einhverjum árum síðan voru silungsseiði látin í vatnið og dafnar fiskurinn sæmilega, einkum á hraunslóðum að austanverðu þar sem Hvammahraun (Hvannahraun) rann út í vatnið.
Munnmæli herma að skrímsli hafi haldið sig við Kleifarvatn og sjáist þar endrum og eins, sbr. framangreint. Á þetta að hafa verið ormskrímsli, svart að lit og á við meðal stórhveli að stærð. Eldri sagnir eru og til um skrímsli þetta.
Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.
Þá segir og enn af skrímsli í Kleifarvatni. Árið 1755 sást undarleg skepna, líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um, að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.
Fimm árum fyrr, eða árið 1750, þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi í tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Það er því ekki að furða þótt fólk furði sig einstaka sinnum á furðufyrirbærum þeim er það telur sig verða vart við nálægt Kleifarvatni, líkum þeim er að framan greinir – og eiga eflaust eftir að birtast á ný. Fáir hafa þó trúað slíkum sögnum – jafnvel þótt sannar séu.
Sjá skrímslasögu HÉR.
Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.reykjanesbaer.is/default.asp?cat_id=261
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Ahugaverdir_stadir
-Þorvaldur Thoroddsen – Ferðabók.
Kleifarvatn.
Brattakinn 29 – Ottó Wathne Björnsson (Otti flaska)
Í auglýsingu fasteignasölu um Bröttukinn 29 í Hafnarfirði, sem seld var árið 2015, segir m.a.: „Verð 25,9 – Stærð 71 m2 – Einbýli – Verð per fm 363 – Byggingarár 1954.
Ottó Wathne Björnsson – ófullgert málverk Halldórs Árna Sveinssonar.
Á lóðinni er skráð 19 fm. geymsla, geymslan er nánast ónýt. Það má byggja hana aftur.
Byggingaréttur er á lóðinni bæði fyrir stækkun á húsinu um helming einnig að byggja bílskúr. Byggja má einnig eina hæð ofan á húsið.
Komið er inn í forstofu með dúk á gólfi. Stofa og eldhús eru með viðarborðum á gólfi. Gengið er niður stiga á neðri hæð. Þar er lítið hol með máluðu steingólfi, Herbergi með steingólfi, skápur. Inn af herbergi er lítil hitakompa.
Baðherbergi og þvottahús með flísum á gólfi, sturta er á baði.
Vel staðsett og snoturt 2ja herbergja einbýli með góðri lóð á vinsælum stað í Hafnarfirði. Eign sem getur boðið upp á ýmsa möguleika.
Um er að ræða snotra og sjarmerandi eign á tveimur hæðum með góðri lóð á vinsælum stað í Hafnarfirði. Eign sem vert er að skoða.“
Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar – jólablaði, árið 1962, er fróðleg grein eftir Magnús Jónsson (forstöðumann Byggðasafns Hafnafjarðar); „Bæir i bænum„.
Brattakinn 29.
Þar segir m.a. um „bæ Ottós“ að Bröttukinn 29:
„Árið 1908 komu til Hafnarfjarðar hjónin Halldór Sigurðsson frá Merkinesi í Höfnum og Pálína Pálsdóttir. Bjuggu þau fyrst í Gesthúsum. En þau vildu, eins og aðrir, búa undir eigin þaki og létu nægja lágreist bæjarlag á þeirri byggingu, þótt þá væri komið árið 1919. Gata var lögð framhjá bænum þrem árum síðar og þá lögð í hann vatnsleiðsla. Jafnframt hlaut hann númerið Krosseyrarvegur 5. Halldór dó árið 1920, en kona hans fimm árum síðar.
Fóstursonur þeirra, Janus Gíslason, bjó áfram í bænum, á dótturdóttur þeirra hjóna, Pálínu Arnadóttur. Hún giftist Hallbergi Péturssyni, og bjuggu þau í þessum bæ allt til ársins 1953. Þá var hann seldur Ottó W. Björnssyni og fluttur burt og stendur nú í góðu yfirlæti sem Brattakinn 29. Jafnframt var inngönguskúrinn lengdur, svo að nú er hann sem viðbygging jafnlöng bænum. Kjallarinn varð einnig allur ofanjarðar. Lengd bæjarins er 5,8 m, en breidd hans hefur upphaflega verið um 3,8 m. Með viðbyggingunni er hún orðin yfir 5 m. Hjá bænum hefur Ottó byggt útihús vegna atvinnu sinnar.“
Í „Húsakönnun“ fyrir Kinnar, íbúðahverfi í Hafnarfirði, árið 2020 segir m.a.:
Kinnar í byggingu.
„Könnunin er unnin samkvæmt beiðni Umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar. Málfríður Kristjánsdóttir arkitekt FAÍ vann skráninguna. Björn Pétursson bæjarminjavörður Hafnarfjarðar skrifaði sögulega samantekt.
Málfríður Kristjánsdóttir skrifaði um uppbyggingu hverfisins Rósa Karen Borgþórsdóttir safnvörður á Byggðasafni Hafnarfjarðar aflaði sögulegra upplýsinga.
Elsa Jónsdóttir landfræðingur hjá umhverfis- og skipulagsþjónustu Hafnarfjarðarbæjar aðstoðaði við gerð korta.
Formáli
Brattakinn 29.
Í janúar 2018 fól Umhverfis- og skipulagsþjónusta Hafnarfjarðarbæjar Málfríði Kristjánsdóttur arkitekt að gera húsaskráningu fyrir Kinnarnar í Hafnarfirði. Samkvæmt 16. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012 skal skráning fornleifa, húsa og mannvirkja fara fram áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi. Minjastofnun Íslands setur reglur um lágmarkskröfur sem gera skal til skráningar fyrir hvert skipulagsstig.
Minjastofnun Íslands lagði til húsaskráningarforrit og hefur veitt leiðbeiningar. Byggðasafn Hafnarfjarðar veitti aðgang að ljósmyndum og aðstoðaði við skráningu á sögu einstakra húsa. Hefur framlag safnsins verið ómetanlegt. Þá hafði höfundur skráningar ótakmarkað aðgengi að teikningasafni og skráðum heimildum byggingafulltrúaembættisins. Allar brunavirðingar fyrir tímabilið þegar Kinnarnar voru í uppbyggingu eru glataðar. Öll hús voru ljósmynduð og skoðuð á staðnum.
Brattakinn 29.
Skráningin tekur alls til 153 bygginga. Þar af voru 9 friðaðar samkvæmt 29. grein laga um menningarminjar nr. 80/2012. Ellefu hús við Bröttukinn hafa verið flutt þangað og við Grænukinn er eitt flutningshús.
Samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 er hverfisverndarákvæði um Kinnarnar sem hljóðar svo : „Smágerður mælikvarði sem einkennir hverfið haldist óbreyttur og þar með byggðamynstur hverfisins sem er heillegt og gott dæmi um einbýlishús byggð um 1950“.
Varðveislumat húsanna á svæðinu er almennt hátt með tilliti til hverfisverndarákvæðisins og tilurð húsanna. Það er mikilvægt að breytingar og viðbyggingar séu hóflegar og í samræmi við götumyndir.
Söguleg samantekt
Kinnahverfið í byggingu.
Á eftirstríðsárunum var nokkur húsnæðisskortur í Hafnarfirði sem brugðist var við með ýmsum hætti. Meðal þeirra úrræða sem gripið var til á þessum tíma var að skipuleggja smáíbúðahverfi í nýju hverfi sem kallað var „Kinnarnar“. Umrætt landsvæði tilheyrði einni af hinum fornu fjórum bújörðum Hafnarfjarðar, Hamarskoti en sú jörð var keypt af bæjarsjóði Hafnarfjarðar árið 1912 að undanskildu Hamarskotstúni innan girðingar og Undirhamarskotstúnbletti. Fyrstu heimildir um jörðina eru frá árinu 1579 en þá hafði hún fyrir alllöngu verið komin í eigu Garðakirkju.
Hamarskot – tilgáta.
Í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703 er jarðardýrleiki talinn óviss þar sem jörðin tíundaðist engum en landskuld hennar var þá 60 álnir sem greiddust með 3 vættum fiska í kaupstað, engjar voru engar og vatnsból erfitt um vetur en þar var þó heimræði árið um kring og lending góð. Bærinn Hamarskot stóð þar sem Flensborgarskólinn stendur í dag.
Áður en uppbygging Kinnahverfisins hófst var landsvæðið nýtt um tíma til landbúnaðar. Þar stóð meðal annars allstórt fjós og hlaða sem byggt var 1931. Fjósið var byggt af og eftir teikningu Ásgeirs G. Stefánssonar fyrir Þorstein Björnsson. Þess má geta að Ásgeir teiknaði bæði og byggði fjölmörg hús í bænum á þessum árum. Fjós þetta vék fyrir byggðinni þegar hún tók að myndast í hverfinu.
Kinnahverfi.
Segja má að uppbygging Kinnahverfisins hafi hafist árið 1947 þegar fyrstu húsin voru byggð við Köldukinn. Flutningshús voru flutt á svæðið og sett niður árið 1949 en formlegt skipulag fyrir hverfið var ekki samþykkt fyrr en í desember 1951. Í frétt í Alþýðublaðinu frá þeim tíma segir meðal annars: „Milli 40 og 50 umsóknir um smáhúsalóðir í Hafnarfirði. Sérstakt hverfi ætlað húsunum, en bærinn leggur til teikningar ókeypis. /…/ Hafnarfjarðarbær hefur skipulagt sérstakt hverfi fyrir þessi hús ofarlega í bænum þar, sem eru svo kallaðar Kinnar. /…/ Þeir sem þess óska geta fengið ókeypis teikningar að húsum þessum hjá bænum, en einnig er þeim leyfilegt að láta teikna hús eftir eigin fyrirsöng.“ Nokkuð var um að eldri hús í bænum væru flutt í hverfið og olli það í sumum tilfellum deildum. Dæmi um það er hús sem áður var Reykjavíkurvegur 4 en það þurfti að víkja þaðan vegna breikkunar götunnar. Þá sendu fjöldi íbúa hverfisins bréf til bæjarins til að mótmæla þeim flutningi en í frétt Alþýðublaðsins sagði meðal annars um það mál „Hafnarfjörður fer að verða furðulegur bær. Ætli menn að byggja bílskúr, verða þeir að hlíta ströngum reglum byggingarsamþykktar en Pétur og Páll viðrast geta dröslað aflógahjöllum eftirlitslaust á grunna, a.m.k. í Kinnahverfinu. Flutningur Finnshúss upp í Grænukinn er bæjarstjórnarhneyksli og fyrir það verður „eigandi“ hússins ekki sóttur til saka.“
Brattakinn 29.
Deiliskipulagsuppdrátturinn af svæðinu var gerður af þeim Sigurði Jóni Ólafssyni og Friðþjófi Sigurðssyni og afmarkaðist þá af Hringbraut, Bárukinn og læknum að norðan. Eins og fram kemur hér að framan var lóðarhöfum boðið að fá húsateikningar þeim að kostnaðarlausu frá bænum og varð úr að um þriðjungur húsa í þessu hverfi, 55 talsins, var byggður eftir þeim teikningum. Teikningarnar voru eftir þá Friðþjóf og Sigurð og gefa þessi hús og þéttleiki byggðarinnar í hverfinu því ákveðin heildarsvip. Aldur húsa í hverfinu er að stærstum hluta frá
miðri 20. öld en þó eru nokkur hús eldri sem flutt voru þangað og einnig er þar að finna nýleg hús.
Yngstu húsin voru byggð undir aldamótin 2000 eftir að Pípugerð Jóns Guðnasonar við Bröttukinn 1 vék fyrir nýjum húsum en hún hafði verið starfrækt á þeim stað allt frá árinu 1929.
Uppbygging hverfisins
Flutningshús – Brattakinn 27.
Sigurður Jón Ólafsson og Friðþjófur Sigurðsson gerðu fyrsta deiliskipulagsuppdráttinn af svæðinu og var hann samþykktur 13. desember 1951. Svæðið var milli Hringbrautar og Bárukinnar en að norðan var Lækurinn. Þá voru 11 hús á svæðinu, þar af 5 aðflutt. Það má telja þá Sigurð og Friðþjóf feður byggðarinnar. Sigurður var bæjarverkfræðingur og byggingafulltrúi frá 1946-1959 en Friðþjófur var loftskeytamaður sem vann á þessum tíma við tæknistörf hjá Hafnarfjarðarbæ og varð síðan byggingafulltrúi í eitt ár 1961 og síðan frá árinu 1967. Samtals teiknuðu þeir 55 hús eða yfir en einn þriðja hluta allra húsa á svæðinu. Þetta átti sinn þátt að gefa hverfinu heildarsvip.
Fyrstu nýbyggingarnar í Kinnunum voru við Köldukinn nr. 7, 8 og 10 frá árinu 1947 en tveim árum síðar var farið að flytja þangað hús sem voru sett niður við Bröttukinn. Hverfið byggist upp á sama tíma og smáíbúðahverfið í Reykjavík en borgarstjórn Reykjavíkur hélt samkeppni meðal arkitekta um smáhús og vann Gunnar Ólafsson arkitekt þá samkeppni.
Tóbakspungur Ottós.
Tvö hús voru byggð samkvæmt hans teikningu annað við Köldukinn en hitt við Grænukinn. Bæði húsin eru mikið breytt í dag. Þá voru byggð fjögur hús eftir teikningu Guttorms Andrjessonar og Ólafs Guttormssonar sem einnig hafði verið byggt eftir í smáíbúðahverfinu.
Flest húsin á svæðinu risu á árunum 1951-1955 eða samtals 76 hús. Fyrstu húsin austan Bárukinnar voru flutningshús við Bröttukinn og eftir 1954 hófst uppbygging fyrst við Háukinn og Grænukinn og síðan Stekkjarkinn. Uppbygging austan Bárukinnar var hægari en var að mestu lokið 1970. Síðast var byggt á eignalóðum við Fögrukinn og Lækjarkinn.
Á þeim tíma sem hverfið var í byggingu var mikill húsnæðisskortur og innflutningshöft þar sem gjaldeyrir var af skornum skammti. Frá árinu 1947 giltu lög um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit en þá var heimilt að byggja íbúðarhús til eignaafnota án fjárfestingaleyfis ef stærð þess fór ekki yfir 350 rúmmetra. Fjárhagsráð var lagt niður í lok árs 1953 og þá var gert frjálst að byggja hús allt að 520 rúmmetra.
Mismunandi þættir sköpuðu þetta þétta byggðamynstur með þéttri byggð svo sem húsnæðisskortur, innflutningshöft, starfsemi fjárhagsráðs og teikningar af litlum einföldum einbýlis- og tvíbýlishúsum.“
Ottó W. Björnsson – Ottó Wathne Björnsson (7. júlí 1904 – 26. maí 1992)
Ottó Wathne Björnsson.
Líkt og fram hefur komið keypti Otto W. Björnsson Krosseyrarveg 5 árið 1954 og flutti að Bröttukinn 29.
Í kveðjuorði Stellu, frænku Ottós í Morgunblaðinu miðvikudaginn 1. júlí árið 1992 segir m.a.: „Ottó Wathne Bjömsson er dáinn. Hann var kominn hátt á níræðisaldur, lá kvalafulla banalegu, sem loks tók enda daginn fyrir uppstigningardag. Guði sé lof fyrir það. Ottó dvaldi síðustu árin á Sólvangi í Hafnarfirði og hafði litla fótavist, svo sennilega er hann mörgum gleymdum sem könnuðust við hann úr bæjarlífinu hér áður fyrr, bæði í Reykjavík og Hafnarfirði.
Það er eðlilegt að mannlífið breyti um svip í tímanna rás og um margt er það til bóta, en ekki get ég neitað því að oft finnst mér það um leið verða fátæklegra. Nú eiga helst allir að vera eins. Þeir smá hverfa hinir kynlegu kvistir, sem settu svip á bæjarbraginn áður fyrr.
Ottó var einn þeirra. Hann batt ekki bagga með öllum. Í mörg ár vann hann sem fjósamaður eða gegningamaður í sveit, stundum mörg ár á sama stað, svo sem hjá Þorgeiri í Gufunesi. Á milli brá hann sér í bæinn, þá gjarnan til móður sinnar, Gunnhildar kaupakonu í Skálholti, sem allir eldri Hafnfirðingar muna. Nú eða að hann kom í heimsókn til ömmu minnar Pálínu, en hún var frænka Gunnhildar. Hjá ömmu minni dvaldi hann sem unglingur í þrjú ár við nám og var það hans einasta skólaganga. Þar var vinurinn kominn í fjósagallanum og lyktaði allavega, því þótt margt megi segja gott um Ottó frænda minn, þá verður aldrei sagt að fataprjál og baðferðir hafi verið hans uppáhald.
Sem betur fer vitkast maður með aldrinum. Það er sennilega líka ætlunin með dvöl okkar hér…“ – Stella frænka.
Sveinn Björnsson skrifaði minningarorð um Ottó Wathne Björnsson 4. júlí 1992:
Málverk Sveins Börnssonar af Ottó Wathne Björnssyni.
„Ottó Wathne Björnsson Minning Ottó Wathne Björnsson, vinur minn, er látinn. Hann fæddist 7. júlí 1904 á Arnarstapa á Snæfellsnesi. Foreldrar hans voru Gunnhildur Bjarnadóttir og Björn Jónsson.
Ottó fluttist til Hafnarfjarðar 1920. Hann átti hús í Bröttukinn 29, Hafnarfirði. Þangað kom ég oft. Ottó var búinn að vera nokkur ár á Sólvangi. Hann var alltaf einsetumaður.
Ottó var sérstakur maður. Ég kynntist honum þegar ég kom í lögregluna 1954. Ég fékk fljótlega áhuga fyrir að mála hann en það gekk á ýmsu að til þess kæmi, hann var hálfhræddur við slíkt uppátæki og fór lengi undan í flæmingi. En loks tókst að fá hann til að sitja fyrir heima hjá honum. Hann vildi ekki koma í vinnustofu mína. Það var dálítið erfitt að fá hann til að sitja kyrran. Hann þurfti að vera að taka í nefið og alltaf að aka sér til og frá og með ýmsar brettur sem honum voru kannski eðlilegar. Einnig vildi hann alltaf vera að tala við mig. Þetta hafðist þó á endanum.
Ég var dálítið búinn að stúdera Ottó þegar hann kom á lögreglustöðina í Hafnarfirði, en það var mjög oft. Stundum kom hann seint á kvöldin og þá venjulega með flöskur í pokum og var þá oft þreyttur.
Hann kom til að hitta vini sína, þá einu eins og hann sagði stundum. Hann safnaði flöskum og keypti hingað og þangað, fór meira að segja til Keflavíkur og víðar.
Ottó hafði áður unnið almenn sveitastörf og ýmis verkamannastörf á ævinni. Hann var flöskukaupmaður 30 síðustu ár ævi sinnar. Í þá daga voru flöskur í verði og sérstaklega brennivínsflöskur.
Sveinn Björnsson.
Það var ekki ósjaldan að við á lögreglustöðinni ókum Otta heim með pokana sína fulla af flöskum. Hann kom stundum með nokkra poka í strætó í síðasta vagni. Voru strætóbílstjórar góðir við Otta og leyfðu honum að flytja þessa poka í vögnunum. Síðan bar hann þá á sjálfum sér að lögreglustöðinni. Eftir klukkan 3 á nóttunni þegar um hægðist í bænum og allt var orðið rólegt var honum hjálpað heim með varning sinn í hús sitt og inn í kjallara. Þá lá vel á karli og stundum bauð hann upp á flotta vindla og maltöl. Ottó var nefnilega góður vinur vina sinna. Hann var sérstakur og sérsinna en hrekklaus, góð sál.
Á seinni árum var honum gefið sjónvarp af vinum sínum í Reykjavík, en það setti hann aldrei í samband. Hlustaði bara á útvarpið, gömlu, góðu Gufuna, og lagði kapal.
Hann talaði fallega íslensku og var gaman að ræða við hann. Það voru stuttar setningar og hnitmiðaðar sem minntu á Hemmingway, sem hann hafði aldrei heyrt um eða lesið.
Ottó kom stundum heim til mín að Köldukinn 12 enda stutt að fara. Hann var góður við börn, hugsaði mikið um þá sem áttu bágt, en lítið um sjálfan sig. Hann var stundum skemmtilegur og lék á als oddi.
Hulda og Jónatan í Köldukinn 8 voru alltaf góð við Otta, gáfu honum að borða á hátíðum og Hulda kom honum í bað sem var ansi erfitt.
Kristinn Hákonarson yfirlögregluþjónn og Sólveig Baldvinsdóttir sendu honum oft mat um jólin og öðrum hátíðisdögum. Einnig vinir hans í Reykjavík. Einstæðingar eru oft látnir eiga sig en fyrr á árum meira gert í því að gleðja þá á hátíðum.
Ottó Wathne var ekki allra, hann var einn af þeim mönnum sem setti svip á bæinn okkar. Nú eru flestir þessir sérstöku menn gengnir til feðra sinna og engir þeim líkir koma í staðinn. Þeir voru nefnilega ansi vel gefnir margir hverjir og kunnu að svara fyrir sig.
Ottó var saklaus sál sem fólki þótti vænt um. Hann kunni að drekka kaffi af undirskál sem hann hélt fallega á og ekkert fór niður þótt hann væri með kreppta fingur.
Ég man vin minn alltaf, veri hann kært kvaddur. Það verður tekið vel á móti honum.“ – Krýsuvík, 29. maí ’92, Sveinn Björnsson.
Í Þjóðviljanum 8. júlí 1984 ræðir MHG við Ottó Wathne Björnsson um hvernig nafn hans er til komið, hestamennsku, flöskuverslun og eggjasölu með meiru… Hér verður einungis drepið niður á sumt, er fram kom í viðtalinu:
„Er þá ekki hann Ottó Wathne Björnsson úr Hafnarfirðinum allt í einu kominn hingað inn á gólf. Hann er auðvitað spurður almæltra frétta úr Firðinum, en hann kveður þaðan ekkert
tíðinda, sem í frásögur sé færandi. -„Ekki nema það að þú ert að verða áttræður,“ gellur þá í Lúðvík Geirssyni hér í næsta herbergi. Og þar náði blaðamaður þá í spotta, þökk sé Lúðvík.
Ekki þarf að efa að áttræður maður hafi frá ýmsu að segja og lyktir urðu líka þær að rabb okkar Óttós varð miklu léngra en svo að tök séu á að troða því í eitt blað, og því birtist hér aðeins lauslegt
og hraðsoðið hrafl.
Vitjað nafns
Blaðamanni lék forvitni á að vita hvernig varið væri ættartengslum þeirra Ottós Wathne athafnmannsins á Seyðisfirði og Ottós Wathne þeirra Hafnfirðinga.
– Uss, við erum ekkert skyldir, ansar Hafnfirðingurinn.
– Og hversvegna berð þú þá þetta nafn?
– Ja, það er nú saga að segja frá því. Og er þar þá fyrst til máls að taka að ég er fæddur undir Jökli, á Arnarstapa. Foreldrar mínir, Björn og Gunnhildur, bjuggu þar.
Það var gamli Ottó Wathne sjálfur, sem endilega vildi að ég yrði skírður þessu nafni. Foreldrar mínir þekktu hann auðvitað ekkert og voru búin að ákveða mér allt annað nafn. En svo í hálfan mánuð áður en ég var skírður vitjaði Wathne móður minnar í draumi, á hverri einustu nóttu í hálfan mánuð. Það munaði ekki um það. Hún var hætt að geta sofið. Og seinast klykkir hann út með því að segja að láti hún ekki barnið heita þessu nafni þá verði það aumingi, ef það þá fái að lifa.
Og þá segir hún við pabba: – Við verðum bara að skíra drenginn þessu nafni. Og það var gert, Ottó Wathne Björnsson er mitt skírnarnafn, taktu eftir því, skírnarnafn en ekki ættarnafn.
„Hefurðu nú kannski eignast krakka…?“
En þetta átti nú eftir að hafa sín eftirköst, skal ég segja þér, þó að gamla Wathne hafi sjálfsagt ekki grunað það. Ég fékk nefnilega einu sinni bréf frá lögfræðingi.
Mér þótti það nú skrítið og mömmu ekki síður. Maður tengdi lögfræðinga helst við einhver afbrot og ég vissi ekki til þess að ég hefði brotið nein guðs eða
manna lög. En mér var skipað að mæta hjá lögfræðingnum. Það var meira helvítið. Og mamma segir: – Hefurðu nú kannski eignast krakka með einhverri
stelpu, sem þú vilt svo ekki meðganga?
– Nei, nei, nei, ég held nú síður.
– Nei, ég trúi því heldur ekki á þig, en hvað getur maðurinn viljað?
– Já, það veit ég fjandakornið ekki frekar en þú. Neitaðu og vertu ákveðinn.
Heimsókn að Bröttukinn 29
Brattakinn 29.
FERLIR tók hús að Bröttukinn 29 að gefnu tilefni. Við skoðun á innviðum hússins var ljóst að bætt hafði verið við upphaflega húsið, sem flutt var frá Krosseyrarvegi 5 á sínum tíma. Gamla húsið er dæmigert fyrir hafnfirska byggingalist frá því í byrjun 2o. aldar; byggt af vanefnum, en hefur þrátt fyrir það þótt til mikilla framfara í híbýlagerð bæjarbúa frá fyrri tíð. Eftir sem tíma liðu varð þessi „nútímalegi“ húsakostu, líkt og vera vill, þó fljótlega úreltur; bæði hvað varðar gerð og stærð. Mörg húsanna þurftu og að víkja fyrir skipulegri gatnagerð og voru ýmist rifin eða flutt til.
Brattakinn 29.
Hugmyndir fólks um verndun gamalla húsa í bænum eru af ýmsum toga. Rétt að taka undir áhuga formanns Byggðasafns Hafnarfjarðar að koma slíkum sögulegum byggingum, sem ekki geta lengur þjónað sínu hlutverki í nútímanum, fyrir á afmörkuðu svæði, líkt og Árbæjarsafn er dæmi um í Reykjavík. Slíkt svæði er nærtækt í Hafnarfirði, þ.e. auðnin ofan Langeyris. Þar voru fyrrum t.d. húsin Eyrarhraun o.fl. slík. Allt voru þau dæmigerð hafnfirsk híbýli frá upphafi síðustu aldar. Með því að skipuleggja slíkan reit væru saman kominn á einum stað framtíðar dvalarstaður mikilla áður óæskilegra fortíðarverðmæta.
„Gamlar kreðslur eiga þó á stundum til að torvelda vænleg framtíðarskref“….
Heimildir:
-Fasteignauglýsing 2015.
-Alþýðublað Hafnarfjarðar – jólablað, 15.12. 1962; Bæir í bænum – Magnús Jónsson.
-Kinnar, íbúðahverfi Hafnarfirði – Húsakönnun: Hafnarfjörður 2020.
-Morgunblaðið, miðvikurdagur 1. júlí 1992 – Ottó W. Björnsson; kveðjuorð – www.mbl.is/greinasafn/grein/87872/
timarit.is/page/1765836#page/n45/mode/2up
-Morgunblaðið, Sveinn Björnsson, 4. júní 1992 – Minningargreinar.
-Morgunblaðið, 4. júní 1992 – Minningargreinar.
-Þjóðviljinn 8. júlí 1984, bls 4 og 6: Hún var skagfirsk eins og þú – – mhg rœðir við m Ottó Wathne Björnsson um hvernig nafn hans er til komið, hestamennsku, flöskuverslun og eggjasölu með meiru – timarit.is/page/2893813#page/n3/mode/2up
Brattakinn 29 – Jóhannes Ármannsson er eigandi hússins.
Varir og vitar
Eftirfarandi um varir og bryggjugerð birtist „Úr skýrslu erindreka innanlands“ í Ægi 1918.
„Engan mun undra, sem kynnir sér staðháttu fiskimanna sunnanlands, þótt raddir heyrist um endurbætur á leiðum og lendingum og jafnvel um nauðsyn hafna. Að skaganum leggja hinar feikiþungu Atlanshafsöldur langt sunnan úr höfum og kemur með ómælanlegu afli að ströndinni, rótandi öllu fjöruborði sem ekki er bjargfast, gerir hún öllu fjöruborði sömu skil frá Vesturhorni með allri suðurströndinni vestur að Garðskaga og að meðtöldum Akranesskaga.
Mörg af þessum fiskiverum eru fremur fámenn mestan hluta ársins, þótt á vertíðinni talsverður útvegur sé rekinn þaðan, anna því oft ekki þessir fáu heimilisföstu menn að halda við lendingunum, sem allvíða eru ekki annað en geilar í kletta, sem smásteinum hefir verið rutt úr, til að koma upp og ofan skipum sínum, þegar gott er sjólag. Fyr á tímum þótti sjálfsagt að vör væri undan hverjum bæ, en aukinn útvegur stærri skipa og meiri vöruflutningar hafa breytt þessu þannig, að nú þykir og er nauðsynlegt að eiga að minsta kosti eina góða lendingu í hverju fiskiveri, sem hægt sé í öllu bærilegu veðri að afgreiða skip til að á öllum tíma árs að geta veitt móttöku skipum þeim, er vörur flytja og lent með afla sinn.
Ein hin fyrsta lending á Suðurnesjum, sem lagfærð var í þessu augnamiði var »Varós« um 1885; lagði landssjóður þar nokkurt fé fram til þessa, en af svo skornum skamti, að hætta varð við hálfgert verk, og svo ilt eftirlit með viðhaldi Verksins, að nú sjást naumast nein vegsummerki eftir, þó má geta þess að sundvörðurnar standa enn, með ómyndar ljóstýrum sem kveikja á, ef búist er við að róðrarbátar séu á sjó.
Þá kemur næst, eftir því sem mér er sunnugt. Bátabryggja í Steinsvör á Akranesi, var það mjög góð lendingabót meðan stundaður var sjór að eins á opnum bátum, en eftir að vélabátaútvegur kom þar, er þessi bryggja algerlega ófullnægjandi og hættuleg vélbátum: er því lífsnauðsyn fyrir þetta kauptún, að koma sér upp bryggju í Lambhússundi hið allra fyrsta og væri óskandi að hreppsnefnd kauptúnsins væri skipuð svo hygnum mönnum, að þeir tækju þetta mál að sér og fylgdu því fram með dugnaði, kauptúninu til tekna, sóma og þæginda.
Þrátt fyrir það, þótt Varós á sínum tíma hafi verið álitinn bezta lending í Garði, er nú á seinni árum búið að endurbæta Gerðavör svo mikið, að deildin áleit heppilegra að gera lendingarbót þar, heldur en í Varós, og verð eg að telja það alveg rétt athugað. Hve mikil nauðsyn sé á þessu fyrirtæki sýnir bezt vörumagn það, sem flyzt að og frá Gerðum, þrátt fyrir hina mjög óþægilegu lendingu, sem þeir eiga við að búa nú. Vona eg að hreppsnefnd þessa hrepps lánist að koma þessu verki í framkvæmd hið fyrsta, og efast eg ekki um greiðan gang málsins hvar sem leitað er stuðnings, þar sem Garðurinn er og hefir verið aflasælasta fiskiver Suðurkjálkans.
Um bryggjugerð Keflavíkur vil eg geta þess, að þetta mál hefir lengi verið á dagskrá í hreppnum og áður gerðar áætlanir að bryggju á þessum stað, en sökum þess hversu útvegurinn hefir breyzt siðan, frá árabátum í vélbáta, var nauðsynlegt bæði að velja annað bryggjustæði og sömuleidis að hafa bryggjuna í öðru sniði fyrir þennan útveg. Hafa útvegsbændur átt mjög erfitt með að koma afla sínum á land síðustu ár, sökum ónauðsynlegrar meinbægni viðkomandi lóðareiganda, eftir því sem skýrt hefir verið frá, og því aðalnauðsyn fyrir sjómenn yfirleitt, að hreppurinn eignist bryggju til almennra afnota.
Enn er mönnum í fersku minni norðanrokið 24. marz 1916, þegar skiptaparnir miklu urðu í
Grindavík, þó það sérstaka lán ætti sér þá það, að mannbjörg yrði, hrein tilviljun, að þessi eini kútter skyldi hitta skipin. Eða gera menn sér í hugarlund liðan þessara manna? Fyrst af öllum mætti að leitast við að ná landi, þar til sár og magnleysi þjáir svo mennina, að enga viðleitni er hægt lengur að sýna, og með kvíða búfst við að hver báran sem að ber, geri enda á þessu striti; uppgefinn, kaldur, sár og soltinn situr sjómaðurínn þannig og sér hverju framvindur. Eða hvað sögðu þeir af líðan sinni skipverjarnir af vélbátunum sem lágu úti þessa nótt og næstu nætur á eftir, og er þar þó ólíku saman að jafna, þar sem þeir náðu landvari og gátu skriðið undir þiljur og ilað sér.“
Og þá birtist eftrifarandi um vita í Sandgerði í sama tölublaði Ægis.
„Í 6. tbl. Ægis þ. á. er greinarstúfur með þessari yfirskrift undirrituð af tveim Akurnesingum og þar sem ekki er að sumu leyti farið með rétt mál í fyrsta kafla greinarinnar, »Ljósin i Sandgerði«, þá vildi eg biðja yður herra ritstjóri að ljá þessum línum rúm í heiðruðu blaði yðar.
Í áminstum greinarkafla er þess meðal annars getið, að hinn 24. apríl hafi 3 vélbátar róið frá Sandgerði og eftir vanalega dvöl á miðum, hafi bátarnir farið að leita lands, og er nær dróg og dimma tók, hefðu formenn þeirra orðið þess varir, að ekki hefði verið kveikt á leiðarljósunum. Enn fremur að landsmenn sem tilheyrðu bátunum, hefðu farið til vitavarðar og beðið hann að kveikja, en hann hefði tjáð þeim, að samkvæmt auglýsingu stjórnarráðsins, hefði hann ekki átt að kveikja frá 1. apríl.
Hvað sem nú þessari stjórnarráðsauglýsingu viðvíkur, um að kveikja ekki frá 1. apríl, þá vildi eg skýra frá því, að eftir henni var alls ekki neitt farið, þegar þannig stóð á og vitaverði eða öðrum var kunnugt um, að bátar væru úti fyrir og þyrftu að leita hafnar i Sandgerði, þegar dagsljósið fór að hylja innsiglingarmerkin. Er það því allsendis tilhæfulaust, að vitavörður hafi nokkurntíma skorast undan því að kveikja þegar þess hefir gerst þörf.
Frá því að mótorbátaútgerð hófst í Sandgerði, hafa þar verið notuð rauð innsiglingaljós. Alt fram að síðastliðinni vetrarvertíð eða 1. jan. þ. á., voru það luktir sem dregnar voru upp í leiðarmerkin, með öðrum orðum sundtrén, og má eg viðstöðulaust fullyrða, að alla tíð, á hverjum tíma ársins, þegar kunnugt var um að bátar þyrftu að leita hafnar og ekki var sundabjart, voru þessi rauðu ljós viðhöfð og það alla tíð án nokkurs endurgjalds.
Á næstliðnu ári lét eg reisa 2 vita, þá er ræðir um í fyrnefndri grein, með miklu fullkomnara ljósi en hér að framan er um getið, gerði eg það til tryggingar því að leiðin inn á Sandgerðisvík yrði auðfarnari í myrkri. Sýna vitar þessir rautt fast ljós og komu til notkunar 1. janúar síðastl. og þar eð vitar þessir kostuðu mikið fé, var ákvarðað kr. 2,50 fyrir hlut af bátum þeim, sem að staðaldri notuðu þá sem leiðarvísi, og rætti það kallast undravert, hafl nokkur með ógeði goldið þessa smávægilegu upphæð fyrir jafnmikið lífsskilyrði og þeir eru.
Greinarhöfundar telja sérstaklega fjóra galla á þessum vitum (ljóskerum).
1. Að þau eru mikið of fjærri sjó.
2. Að þau eru of lág og þar af leiðandi ófær leiðarvísi að degi til, sem þau eiga þó jafnframt að vera.
3. Að þau hyljast strax ef um þoku eða úrkomu er að ræða.
4. Að frágangur vitanna er svo slæmur að ljósin mæta bæði súg og hristing ef storm gerir og þar af leiðandi geta þau ekki logað með sínu fulla ljósmagni.
Það mun nú svo með þessa vita eins og flest annað, að eitthvað megi að þeim finna, enda eru aðfinslur oftast á reiðum höndum, sumpart réttar og sumpart rangar, en hvað þessa upptöldu galla snertir, þá skal eg sem minst um þá ræða, þar mér er ekki svo kunnugt um þá, því leið mín liggur sjaldan eftir þessari sundleið, en eg vil samt benda á, að hinn síðasti er á engum rökum bygður, það er engu síður hægt að dæma um það af landi en af sjó, hvernig ljósin loga, og að öðru leyti álít eg ekki gott fyrir þá menn að dæma um frágang á húsi, sem þeir aldrei hafa stígið fæti sínum í.
Í sambandi við þetta vildi eg minnast á það að vetrarvertíðina 1916 kom það fyrir einn dag í bezta veðri, er nokkrir bátar voru á sjó, að snögglega brimaði svo að leiðin varð alófær, varð þá að kvöldinu nokkur ágreiningur á milli manna sem í landi voru um það, hvernig haga skyldi ljósum til að benda bátunum frá sundleiðinni. Nokkrir komu með þa uppástungu að draga upp ljós, aðrir að draga þau í mið tré og enn aðrir að sýna ekkert ljós, í augnamiði þess að þá væri leiðin algerlega lokuð, og varð það niðurstaðan, enda kom það i ljós, að engum kom til hugar að leita að sundinu þegar engin leiðarmerki sáust, og lögðu þvi bátar þessir inn fyrir Garðskaga og lágu í Garðsjónum í sléttsævi yfir nóttina, komu síðan að morgni er briminu var slegið niður.
Hið sama tilfelli kom fyrir síðastliðna vetrarvertið. Reis þá enn ágreinigur með tilhögun ljósanna, og varð aftur niðurstaðan sú, að sýna ekkert ljós, og varð það einnig til þess, að þeir bátar sem úti fyrir voru leituðu ekki til lands. Út af þessari óvissu með það hvernig gefa skyldi bendingar, þegar sundleiðin væri ófær og myrkur væri skollið yfir, voru allir formenn í Sandgerði boðaðir á fund, til þess að koma sér saman um eitthvað ákveðið. Á fundinum mættu flestallir formenn og útgerðarmenn og var eftirfarandi tillaga samþykt í einu hljóði: »Fundurinn samþykkir að alt af sé kveikt á vitunum, en þegar brim er svo mikið að sundið er álitið ófært, þá séu rauðu rúðurnar teknar frá, þannig að vitarnir sýni hvítt ljós, en á sama tíma sé stranglega bannað að hafa Carbidljós á bryggjum eða öðrum þeim stöðum sem vilt getur fyrir vitaljósunum«. Að svo búnu voru kosnir 3 kunnugir og vissir menn til þess að úrskurða hve nær ekki skyldi nota rauðu rúðurnar. Þessi breyting með ljósin var síðan tilkynt umsjónarmanni landsvitanna til birtingar.“
Framangreint er undritað „Reykjavík, í október 1917 – Loftur Loftsson. Þess má geta að nefndur Sandgerðisviti var byggður 1908 og hækkaður síðan verulega árið 1944.
Heimild:
–Ægir, 11. árg., 2. tbl. 1918, bls. 24-29.
Sandgerðisviti.
Kirkjusandur
Samkvæmt sumum heimildum náði Kirkjusandur frá Laugarnesi að Fúlalæk en aðrar heimildir segja að hann hafi náð allt vestur að Rauðarárvík.
Kirkjusandur.
Fúlilækur var þar sem Kringlumýrarbrautin er nú og er hann með öllu horfinn eins og reyndar sandfjaran sem Kirkjusandur dregur nafn sitt af en hún er komin undir uppfyllinguna sem Sæbrautin er er á. Kirkja var í Laugarnesi allt frá árinu 1170 og til loka 18. aldar og ef til vill er sandurinn kenndur við hana en hann gæti líka dregið nafn af kirkjunni í Vík. Sú kirkja stóð þar sem nú er Fógetagarðurinn við Aðalstræti og var hún undanfari Dómkirkjunnar. Í Oddgeirsmáldaga frá árinu 1379 segir að Jónskirkja í Vík eigi allan reka á Kirkjusandi.
Útræði hefur líklega verið frá fornu fari frá Kirkjusandi og á tuttugustu öldinni voru þar fiskverkunarhús. Um aldamótin 1900 voru Th. Thorsteinsson og Íslandsfélagið með fiskverkun á sandinum og voru þar tvær bryggjur. Seinna voru Júpiter og Mars með frystihús þar en Ísfélagið frá Vestmannaeyjum keypti húseignir þeirra og tók við rekstrinum eftir gosið í Heimaey. Á Kirkjusandi eru einnig bækistöðvar strætisvagna höfuðborgarsvæðisins og Sambands íslenska samvinnufélaga var þar með mikil umsvif þar eftir miðja síðustu öld. Þar voru aðalskrifstofur SÍS í byggingu þar sem nú eru aðalstöðvar Glitnis og þar var einnig byggt stórhýsi sem átti að verða sláturshús og kjötvinnsla en hýsir nú myndlistadeild Listaháskóla Íslands.
Á meðfylgjandi mynd má m.a. sjá holdsveikraspítalann á Laugarnesi (lengst til vinstri) og Laugarnesbæinn, fjærst.
Heimild:
-Hverfablaðið Laugardalur 2007.
Magnús Hafliðason á Hrauni – Gatan mín…
Jökull Jakobsson gengur hér með Magnúsi Hafliðasyni, Hrauni, um Seltanga, Hraun og Þórkötlustaðanes í Grindavík. Viðtalið var tekið 1973. Um er að ræða úrdrátt.
„Við erum nú á Selatöngum með Magnúsi Hafliðasyni frá Hrauni. Hér var útræði mikið í gamla daga. Nú sést ekki mikið eftir af því nema búðarrústir, haglega hlaðnar. Það er ákaflega eyðilegt þar sem við erum staddir, en þó fallegt. Við höfum ferðast langan veg um úfið og svart apalhraun og niður að ströndinni þar sem úthafsaldan lemur sandinn. Við erum staddir við Tangarsund.
Þú rerir nú ekki héðan sjálfur Magnús, en þú þekktir menn, sem reru héðan.“
„Ég þekkti aðallega hann Einar Einarsson. Hann var aðkomumaður úr Krýsuvíkurhverfinu. Vermennirnir voru víðs vegar frá en aðallega úr Krýsuvíkurhverfinu. Ég heyrði að hér hafi verið yfir 70 manns mest, þ.a. 26 Jónar og 16 Guðmundar. A.m.k. 14 eða 16 skip gengu héðan, sennilega mest áttæringar. Útgerð lagðist af eftir Básendaflóðið [1799]. Húsin hafa verið vel hlaðin. Menn bjuggu hér á vertíðinni, frá því í febrúar til 11. maí, vetrarvertíðin.
Sennilega hafa verið um 8 menn í hverju húsi og eldhús. Matur hefur mest verið fiskur og skrínukostur. Ekki var mikið skemmtanalíf í þá daga. Fólkið hefur þó ekki þótt leiðinlegt því það þekkti ekkert annað.
Alls staðar átti að vera reimt. Það sagði mér maður, þessi Einar, að vatnskútur hafi verið framan við dyrnar. Guðmundur hafi sofið nær dyrum með höfuð í átt að þeim. Hann rumskaði og snéri sér við. Í því hafi kúturinn tekist á loft og lenti akkúrat þar sem höfuðið hafði verið áður en hann snéri sér við. Hann sagði okkur þetta svona.
Þetta var afskaplega meinlaus draugur, hafi það verið einhvör. Þetta átti að hafa verið unglingur sem illa var farið með og menn höfðu verið beðnir fyrir. Einhver maður, sem þóttist vera skyggn, átti að hafa séð hann, hlaðið byssu sína og skorið silfurhnappa af treyju sinni, miðað og skotið í átt að honum. Þá hafi hann séð eldglæringar niður alla heiði og þá á hann að hafa farið hingað.
Einar var formaður hérna, en ég var svo ungur þegar hann var hjá okkur og var að segja okkur þetta. Vermennirnir létu vel yfir sér hér, smíðuðu ausur og klifbera í frístundum sínum.
Misjafnt var hversu róðrar voru langir, fór eftir veðri. Fóru í rökkrinu og komu að landi í myrkri. Allir voru þeir á handfærum. Alltaf var seilað, ef einhver fiskur var. Beinnálar voru á endanum. Ef vel fiskaðist var farið að landi og síðan róið út aftur, kannski einn maður skilinn eftir og hann bar fiskinn á bakinu upp. Fiskurinn var hertur á þessum görðum, sneri upp á morgnana og hvolft á kvöldin. Þeir dysjuðu hann í óþurrkatíð og sneru honum síðan upp þegar þornaði í veðri.
Stundum var seilað útá í vondum veðrum meðan andæft var og síðan sætt lagi til að lenda. Þá var skipið dregið upp á augabragði. Það var ekkert erfitt að seila.
Hér var aldrei saltað, bara hert og allt flutt á hestum. Ég tel ekki ráð að þeir hafi borið fiskinn, ekki að ráði. Vermenn komu allstaðar frá gangandi. Ég man eftir lestarmönnunum þegar þeir komu að sækja hausana í kringum jónsmessuna. Það var aðallega farið að salta þegar ég man eftir. Menn fengu sitt kaup, en það var lítið.“
„Nú erum við komnir heim til Magnúsar Hafliðasonar, heim að Hrauni. Okkur verður starsýnt á myndirnar á veggjunum í stofunni. Á einni myndinni er Magnús og einhverjir fleiri.“
„Þessi mynd er tekin eftir björgunina á Cap Fagnet. 38 mönnum var bjargað. Ég vaknaði um morgunin um kl. 03:00 við feiknarmikið píp. [Siggi Nonni (Sigurður Gíslason, f: 1923) á Hrauni sagði FERLIR að hann hefði vaknað um nóttina, heyrt flaut og vakið föður sinn, sem hafi barið í þilið hjá Magnúsi. Við það hafi Magnús vaknað og litið út um gluggann.]Þá hafði strandað togari hér úti. Það var látið vita. Þá var komið með björgunartækin og mönnum bjargað með línu. Þetta var í fyrsta skipti sem skotið var af línubyssu á Íslandi. Fyrir það fengum við medalíur.
Þegar bjargað var í Vondufjöru enskur togari fengum við líka medalíur. Þá var aftakabrim. Ég hringdi úti á stöð. Þá var slydduél. Svo fór ég upp eftir og það var ekki neinum blöðum að fletta að þetta var strand. Menn komu í einum hvelli. Allir björguðust nema skipstjórinn, hann drukknaði. [Togarinn Lois, 6. janúar 1947].
Dóttir mín fór út í fjós um kvöldið. Hún kom aftur inn með óvarlega miklu fasi þótt hún væri að jöfnu hæglát. Hún sagðist ekki skilja í ljósi úti á sjó. Ég fór út og sá strax hvers kyns var. Þetta var strand. Ég fór uppeftir með ljós og þá skutu þeir smáragettum í land. Glamrið í skipinu þegar sjórinn var að færa það til á klöppunum, það var mikið. Þegar ég kom heim á tún aftur drapst á ljósavélinni. Ég veit ekki hvað hefði gerst ef dóttir mín hefði ekki séð ljósið akkúrat þarna.
Ég fór fyrst á sjó á sjötta ári. Þá fór pabbi með okkur bræður stutt út. Ég réri alltaf með færi á sumrin þegar róið var. Nú er ég 81 árs og reyni að róa enn. Áraskipin voru tíróin fyrst og síðan áttróin, stundum sexróin. Á Hrauni var um 60 manns, margt sveitarmenn úr öllum sveitum. Þá var gaman að lifa. Nú er af sem áður var.
Eftirminnilegur maður að norðan, Jón Bergmann, var hérna. Hann var lögregluþjónn í Hafnarfirði um tíma. Hann var vel hagmæltur. Haldið var uppi glímum í landlegum. Jón lagði þá alla.
Ég man ekki eftir að hér hafi verið sukksamt. Fólkið bjó í búðum, sjóbúðum svona. Vonda veðrið var 1916. Búið var að róa lengi í blíðuveðri. Svo kom þetta veður, eins og skot. Ekki var um annað að gera en grípa árarnar. Þetta var þegar Ester bjargaði fjórum skipshöfnum. Margir misstu skip. Þetta var voðaveður. Enginn maður fórst.
Haldið var út smávegis búskap samhliða útvegi. Svo komu opnu trillurnar, en mér fannst mest gaman af áraskipunum. Það voru góð skip. En það var öðruvísi að geta látið vélarnar koma sér í land. Og verkaskiptingin var önnur. Félagsskapurinn á áraskipunu var betri og allt miklu skemmilegra. Fiskverðið var svo lágt að ekkert hafðist upp í kostnað, á áraskipunum og trillunum lengi framan af.
Fyrir okkur krakkana var ekkert fyrir okkur að gera. Börnin hjálpuðu til við að snúa heyinu. Ég gekk einn vetur að nafninu til í skóla, 29 börn voru í skólanum og einn kennari. Það var úti í Járngerðarstaðahverfi. Svo gengum við til prestsins úti í Staðarhverfi. Ég lærði nú lítið í skóla, heldur smátt. Kennarinn hét Erlendur.
Á jólunum var lítið um að vera, það var kerti og unglingunum þótti gaman að spila þá. Fólk kom hvað til annars og krakkar ólust allir upp á heimilunum. Pabbi og Sæmundur Tómasson á Járngerðarstöðum skiptust á heimsóknum um hátíðarnar sitthvort árið. Mikill kunningjaskapur var þarna á millum.“
„Þá erum við komnir út á Þórkötlustaðarnes. Hér hefur líka verið útræði eins og á Selatöngum. Og hér hefur verið bryggja og hér standa tóftir íbúðarhúsa og sitthvað fleira.“
„Hér reri ég alla mína tíð á vertíð. Þá var engin bryggja, bara lendingin þarna. Fiskurinn var borinn upp á þessa velli, hvör upp að sínum skúr og allur fiskur saltaður. Allir höfðu salthús hér.
Seinna kom hér bryggja og vélarnar komu í bátana. Þá var alltaf lent hér og allur fiskur saltaður. Hér í Þórkötlustaðahverfinu var fleira fólk, 6 eða 7 bátar, aðallega áttæringar og teinæringar. Allt gekk ágætlega. Þegar mótorbátarnir komu var ekki tiltækt að vera með bátana hér. Þeir voru fluttir út í Járngerðarstaðahverfi.
Ég var ekki formaður lengi. Pabbi var hér formaður og mikill fiskimaður, Benóný Benónýsson á Þórkötlustöðum, Hjálmar Guðmundsson sem síðar fluttist af Ísólfsskála, Jón Þórarinsson frá Einlandi, Guðmundur Benónýsson, einn af þeim yngri, og Kristinn Jónsson á Brekku og Árni Guðmundsson í Teigi tóku við af þeim eldri. Þetta voru feiknamiklir sjósóknarar og duglegir menn, stórir og hver með sínu móti, allt almennileika menn. Þeir ólust allir uppi við þessa harðneskju. Það þætti víst skrýtið núna, aðbúnaðurinn sem þá var.
Við beittum línuna austur á hrauni og urðum að bera bjóðin út á Nes á morgnana. Það var beitt hrognum og þau þoldu lítið frostið. Þau rifnuðu þá af krókunum þegar farið var að leggja. Þetta gengum við suðureftir á morgnana og heim á kvöldin.
Byggðin lagðist af hér þegar mótorar komust í bátana. Þá fluttist útgerðin út í hverfi. Hér var allt fyrir opnu hafi. Allir vildu heldur vera á góðu bátunum.
Hann var voðalaga leiður hérna í vörinni [neðan við Hraun] ef var norðanrok og hátt í, ef var kvika, stóð upp á. Utan við nesið var Einlandssund, sem kallað var.
Ég man aldrei eftir að hafa verið hræddur á sjónum. Oft hefur kvenfólkið heima verið hræddara en þeir sem á sjónum voru. Það kom aldrei neitt fyrir hérna, nema í eitt skiptið. Þá fórust þrír menn í góðu veðri. Báturinn var lítill og þeir voru fimm á. Það sló í baksegl og bátinn hvolfdi, þrír drukknuðu. Það þótti mikið að missa þrjá bændur héðan.
Ekki verður lengur ýtt bát úr vör héðan.“
Heimild:
-Jökull Jakobsson gengur með Magnúsi Hafliðasyni, Hrauni, um Seltanga og Þórkötlustaðanes í Grindavík frá 1973.
Magnús Hafliðason á Hrauni með björgunarhring Hans Hedtoft.
Móðhola
Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri eftir Ólaf Guðmundsson og Gísla Sigurðsson, lögregluþjón í Hafnarfirði, er m.a. getið um Móðholu.
Í lýsingunni er m.a. sagt frá Hvaleyrarsandi, norðvestan við Golfvöllinn. „Utan við Hvaleyri heitir Jónasarlending. Sker er þar skammt undan landi sem heitir Hrútur. Vestan við Hvaleyrarsund heitir Þvottaklettur. Þar kemur tært vatn undan hrauninu og er það af sumum talið vera vatn úr Kaldá. Þar næst heitir svo Gjögrin er ná að Skarfakletti. Innan við Skarfaklett[a] er víkin, nefnd Sandvík og við Skarfakletta[a] heitir Móðhola. Þar var kveðinn niður draugur endur fyrir löngu. Þar er smáhellisskúti og utar, fast við merkin móti Straumi, er vík sem heitir Þórðarvík.“
Í annarri örnefnalýsingu segir að Móðhola sé lítið jarðfall skammt ofan við ströndina. Sá, sem þar fer niður, getur átt í erfiðleikum með að komast upp aftur. Kannski það hafi þess vegna verið hentugt til að kveða niður draug.
Ætlunin var að athuga hvort Móðhola væri enn á sínum stað. Holan gæti verið komin inn fyrir mörk álversins og þá mögulega á þeim stað er fréttist af „mikilli rás“ út frá ströndinni.
Í örnefnalýsingunni segir jafnframt að „hér upp frá sjónum er allúfið brunahraun sem heitir Hvelyrarhraun eða Hellnahraun. Upp frá Þórðarvík opnast dalir er ganga þaðan inn í hraunið og heita þeir Leynidalir. Þeir eru innantil við hæsta brunann. Þar eru Leynidalaskjól.“ FERLIR skoðaði þau skjól á sínum tíma.
Hafnarfjarðarkaupstaður fékk afsalað til sín landi Garðarkirkju sem nú er innan staðarmarka kaupstaðarins árið 1913 og land Hvaleyrar var afsalað til Hafnarfjarðar 1956, nokkrum árum á undan Hraununum þar vestan af.
Alfaraleiðin milli Innnesja og Útnesja lá í gegnum Hellnahraunið. Þrátt fyrir tilkomu golfvallarins, sem þekur nú hluta leiðarinnar, og byggingu skolpdælustöðvar með tilheyrandi raski í hrauninu má enn sjá búta af gömlu leiðinni, m.a. vegabætur utan í hraunhól. Það verður nú að segjast eins og er að ráðamenn hafa ekki lagt sig mikið fram við að reyna að varðveita hina gömlu leið. Í staðinn fyrir að sníða mannvirkin að umhverfinu hafa þau verið sett niður eftir geðþótta og síðan malbikaðir stígar lagðir umhverfis. Svolítið vanhugsuð aðgerð því vel hefði mátt nýta gömlu leiðina í þágu golfvallarins.
Gengið var með ströndinni skv. framangreindri lýsingu. Þegar komið var að Skarfakletti var gengið spölkorn upp fyrir hann. Þar er lítil varða á lágum hraunhól. Í hraunhólnum er jarðfall, sem að öllum líkindum er Móðhola. Af einhverri ástæðu hefur þessum bletti verið þyrmt og verður það að öllum líkindum að teljast hrein tilvikjun.
Jarðfallið er um þriggja metra djúpt og gróið er að hluta í botninn. Börn, sem farið hefðu þarna niður, ættu ekki afturkvæmt. Sennilegast hefur sagan af draugnum Móð átt að fæla þau frá holunni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.