Staðarborg

Gengið var um ofanverða Kálfatjarnarheiði ofan og vestan Lynghóls. Reynt var að fylgja varðaði leið er horfið var frá í fyrri ferð um ofanverða heiðina, auk þess sem ætlunin var að skoða mannvistarleifar neðar í heiðinni; vestan og norðvestan Lynghóls.
VarðaVörður mynduðu, líkt og áður, tvöfalda röð til vesturs norðan núverandi Reykjanes-brautar. Þær staðfestu enn frekar að svo til bein leið hafi fyrrum legið yfir heiðarnar milli Kúagerðis og Vogastapa, allnokkru ofan Vatnsleysustrandar-vegar.
Þegar vel var að gáð mátti finna vörður og vörðubrot svo að segja á hverjum hól í heiðinni. Sumar voru grónar, en aðrar stóðu enn stöndugar. Á klapparholti suðaustan Lynghóls (Lynghólsborgar/ Þórustaðaborgar II) mátti sjá leifar enn einnar fjárborgarinnar, sennilega frá Landakoti. Bæjarhúsið þar neðanvert blasti við frá hólnum. Á öðrum hól skammt norðvestar mátti sjá a.m.k. fimm hlaðin skjól eftir refaskyttur í heiðinni. Auk þess mátti sjá leifar af enn eldri hlaðinni refagildru á hólnum miðjum. Vænta mátti minjaleifa í gróningum þar sem vörður eða vörðuleifar voru á hólum, en engar slíkar var hægt að staðsetja með óyggjandi hætti. Á sumum staðanna þyrftu þó að fara fram frekari rannsóknir áður en hægt væri að kveða á um hvort þar leyndust minjar eður ei. Fjárframlög til slíks ‘atarna liggur þó væntanlega ekki á lausu (eða fenginni reynslu).
Þar sem staðið var á efsta hólnum í heiðinni, þeim er bar við brún séð frá bænum, voru minjar. Erfitt var að sjá hvaða tilgangi þeir hafa þjónað. Um var að ræða einfaldar steinaraðir, 6×10 steinar, á tveimur stöðum á klapparhól. Svo virtist sem einhver hafi þarna verið að undirbúa vörðugerð eða einhverja aðra mannvirkjagerð í heiðinni.
Á næstunni verður vestanvert svæðið ofan Vatnsleysustrandar skoðað miklu mun nánar. Eflaust á þá ýmislegt áður meðvitað, en mönnum nú horfið, eftir að koma í ljós.Vatnsstæði
Í örnefnalýsingu (1976) fyrir Kálfatjörn lýsa bræðurnir Ólafur Erlendsson og Gunnar Erlendsson þessu vsæði svo: „Kálfatjörn hefur verið kirkjustaður líklega frá upphafi kristins siðar hér á landi. Kálfatjarnarland var, eins og gera má ráð fyrir um kirkjustað, allmikið. Kringum stórjarðir og kirkjustaði mynduðust oft hverfi af smábýlum (kot), sem fengu kýrgrasvöll, einnig önnur, er ekki nutu þeirra hlunninda. Þau voru kölluð þurrabúðir eða tómthús. Aðallífsframfæri hafði þetta fólk, sem við sjóinn bjó, af sjávargagni. Hverju býli var úthlutað dálitlum fjöruparti, þar sem skera mátti þang. Það var notað til eldiviðar, einnig þönglar. Um rétta leytið var þangið skorið og breitt til þerris á kampana og garða, líka var hirt og þurrkað það þang, sem rak á fjöru utan þess tíma, sem þangað var. Þegar þangið var þurrt var því hlaðið í stakka. Lýsingar á merkjum milli fjörupartanna kunna mönnum nú að þykja smásmugulegar. Það gat þó gilt 1-2 mánaða eldsneyti, hvort þessi grandinn eða skerið tilheyrði býlinu eður ei.

Hleðslur

Staðarborg, fjárborg hringlaga, mjög vel hlaðin – er friðlýstar minjar. Ólafur hefur heyrt þá sögn um Staðarborg, að presturinn á Kálfatjörn hafi látið fjármann sinn hlaða hana, er hann stóð yfir fé. Munnmæli eru um, að fjármaðurinn hafi heitið Guðmundur og verið frá Knarrarnesi. Hann þótti frábær hleðslumaður, en sérsinna. Sagt er, að hann hafi ekki viljað nýta þá steina, er aðrir báru til hans og viljað vera einn um valið. Sýnt er, að mestallt grjótið hefur hann tekið úr einni og sömu klöpp þar ekki allfjarri. Hann ætlaði að hlaða borgina upp í topp og er hún farin að draga mjög í sig ofan til. Þegar prestur komst að þessu harðbannaði hann slíkt og lét Guðmund hætta hleðslunni.
Á borginni voru áður lágar dyr svo að stórgripir kæmust ekki inn í hana. Upp úr 1920 lenti trippi inn í borgina og til að ná því út var rifið fyrir ofan dyrnar og eru þær nú heilar upp úr.
SkjólSkammt norður af borginni er mikil hæð, sem kallast Þorsteinsskáli. Smá tóftarbrot er á henni. Alllangan spöl til útsuðurs frá Staðarborg er nokkuð stór hóll, er Lynghóll nefnist. Suðaustur frá Þorsteinsskála, ekki alllangt frá steypta veginum, er vörðubrot á hól; þar heitir Marteinsskál. Til austurs – landnorðurs frá Marteinsskála, skammt frá veginum, er hóll, sem sker sig mjög frá umhverfinu, sökum stærðar og hæðar. Hann heitir Stóri-Hafnhóll. Annar litlu minni er til norðurs frá honum, Litli-Hafnhóll.“
Ekkert er minnst á örnefni á framangreindu svæði í lýsingunni. Skammt norðan klapparhólsins, sem refaskyttuminjarnar eru á, mátti sjá vatnsstæði í gróinni lægð milli klapparhóla. Vörðubrot voru allt um kring. Líklegt má telja að þarna hafi fyrrum verið vatnsstæði fyrir Lynghólsborg/Þórustaðaborg II, enda ekki langt að fara.
Þarna í brúnunum er víða gróið í bollum. Telja verður mjög líklegt að heiðin hafi verið algróin fyrrum. Það skýrir væntanlega þá staðreynd að hvarvetna, sem borið er niður í heiðinni, má finna leifar mannvistar og búsetu frá því fyrr á öldum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín. 

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Kálfatjarnarhverfi.

Varða

Kópavogsdysjar

Í bókinni „Rannsókn á Kópavogsþingstað“ eftir Guðrúnu Sveinbjarnardóttur er fjallað um fornleifauppgröft á þingstaðnum 1973-1976. Í inngangi eru raktar heimildir um svæðið sem og helstu minjar. Þar er m.a. minnst á fjögur kuml nálægt þingstaðnum, þ.e. Hjónadysjar, Systkinaleiði, Þorgarðsdys og Kuledys.
Kopavogsdysjar„Þingstaðurinn í Kópavogi er einn af þekktari þingstöðum landsins, og þá aðallega fyrir Kópavogseiðana svonefndu, sem þar voru unnir árið 1662. Talsverðar rústaleifar eru sjáanlegar á staðnum fyrir uppgröft, en að auki minna dysjar umhverfis staðinn á aftökur þær, sem þar áttu sér stað. Hjónadysjar eru enn allmikil þúst rétt austan við Hafnarfjarðarveginn. Vegavinnumenn rákust á dysina árið 1938, og fundu hauskúpu með miklu hári og aðra beinagrind hauslausa. Huldu þeir dysina aftur og var hún ekki rannsökuð frekar. Systkinaleiði munu nú vera undir Fífuhvammsveginum. Þorgarðsdys er rétt við gamla götuslóðann upp Arnarnesið, og efst á því er Kulesdys, dys Þjóðverja, sem dæmdur var til dauða fyrir manndráp.
Í AI V, bls. 56-7 segir: „Þann 23. febrúar 1582 var kveðinn upp dauðadómur á Kópavogsþingi yfir þýskum manni, Hinrik Kules, sem hafði vegið Bjarna Eíriksson á Bessastöðum. Sést dys hans, Kulesdys, enn efst á Arnarnesinu.“
Kopavogsdysjar-2Hinn 25. júní 1841 kom Jónas Hallgrímsson skáld við í Kópavogi á ferð sinni suður á Vatnsleysuströnd. Sýndi bóndinn þar, Árni Pétursson, honumgamla þingstaðinn, sem hann sagði vera í túninu og nefndi Þinggerði. Þá benti hann Jónasi á dysjar þeirra, sem teknir höfðu verið af lífi og var fróður um afdrif þess fólks.
Matthías Þórðarson krifaði grein um Kópavogsminjar í Árbók fornleifafélagsins 1929, en hann var þá þjóðminjavörður. „Suðaustan þjóðvegarins, rétt við Kópavogslækinn, hafa fundist fjórar dysjar, tvær og tvær saman. Eru þær nefndar hjónadysjar, sem er nær þingstaðnum (nr. 3 á uppdrætti Matthíasar) og systkinaleiði (nr. 4 á uppdrættinum) Þær síðarnefndu hafa nú horfið undir veginn.
Kopavogsdysjar-3Um Kule segir Matthías: „En hinn var dauðadómur yfir þýzkum manni, er Hinrik Kules hét. Var sá dómur kveðinn upp af sex mönnum, og samþyktur af Þórði lögmanni, 23. febr. 1582 »á almennilegu þriggja hreppa þingi« í Kópavogi. Þessi Hinrik Kules hafði vegið íslenzkan mann, Bjarna Eiríksson, á Bessastöðum sjálfa jólanóttina og ekki lýst víginu að lögum, svo það var dæmt morð og níðingsverk. En því er þessa dóms minnst hér, að sagt hefur verið, að dys sú, sem er efst á Arnarneshálsi, vestan við gamla veginn, sé dys dansks manns, er tekinn hafi verið af fyrir einhvern glæp. Skiljanlegt er að þjóðerni mannsins hafi skolast í frásögnunum, mann fram af manni í 3 aldir, og er ekki ólíklegt að þarna liggi Hinrik Kules. Dys þessi er nú að mestu grasi gróin.
Kopavogsdysjar-4Fleiri dysja verður vart í Kópavogi og sennilega eru þar nokkrar að auki, sem ekki eru kunnar nú. Verður sakmálasaga þessa þingstaðar ekki rakin hér, en getið nokkurra mála, sem kunn eru af annálum og dómabókum.“
Þá segir: „Árni prófessor Magnússon hefur getið þess í syrpu sinni, er hann nefnir Chorographica Islandica (213 svo í handrs. hans), að í Hraunhelli, er svo heitir, »fyrir sunnan Efferseyjarsel gamla«, hafi legið »þjófar (maður og kona) circa 1677, eða nokkru fyrr, hver þar fyrir ströffuð urðu á Kópavogsþingi 1677, þann 3. decembris«. Þau hafa sjálfsagt verið tekin af lífi þann dag samkvæmt dómi, dæmdum þar áður, líklega samdægurs, en af því er segir í Valla-annál og síðar skal tekið fram, er óvíst að aftaka þeirra hafi farið fram á sjálfum þingstaðnum. Hins vegar er þó líklegt, að dysjar tvær við Kópavogslæk séu leiði þeirra, því að þær eru nefndar »hjónadysjarnar«. Skal þeirra getið síðar.“
Kopavogsdysjar-5Í skýrslu frú Þuríðar Mathiesen segir m.a.: „Hún sagði mér af munnmælunum um dysina við veginn gamla efst á Arnarnesshálsi, sem getið er um hér að framan.
Neðar, á norðanverðum hálsinum, kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388—91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá sem sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi. Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaks-mál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita. Þar sjást enn á flöt niður við voginn, norðan gamla vegarins, litlar og óglöggar tóftir eftir kot, sem var þar fyrrum.“
Þegar litið var eftir dysjunum árið 2011 voru þær allar horfnar nema Kulesdysin efst á Arnarsneshæðinni.

Heimild:
-Rannsókn á Kópavogsþingstað, Guðrún Sveinbjarnardóttir, 1986.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1929, Matthías Þórðason, Kópavogsminjar, bls. 3-4 og 29-30.

Kópavogur

Frá Kópavogi.

Svartagil

Þann 31. júlí 1943 var flugslys norðan Þingvallavatns. Þetta gerðist kl. 15:34. Flugvélin var af gerðinni Grumman J2F Duck, 3ja manna flotvél, tvíþekja, svonefnd J2F. Flugmaðurinn, William Bentrod, lést, en félagar hans, George og Sullivan komust lífs af.
GrummanFlugvélar þessar voru m.a. notaðar hér á landi til að sækja og bjarga hermönnum úr sjó og vötnum.
Ragnar Jónsson, bóndi á Brúsastöðum, sagðist hafa heyrt af atvikinu. Flugvélin hefði farið í Gagnheiðina, slakkann ofan Svartagils, milli Ármannsfells og Súlna. Hann hefði oft gengið þar um en aldrei séð neitt brak úr vélinni og vissi því ekki nákvæmlega hvar slysstaðurinn gæti hafa verið.
Eggert Norðdahl taldi að flugvélin hafi komið niður þar sem síðar hafi verið gerð tún og því væru engin ummerki eftir slysið.
Svarta-21Ómar Gaukur Jónsson, ættaður úr Þingvallasveit sagði: „Vélin fórst í hlíðinni við Svartagil. Flugmaðurinn lést. Allt var flutt í burtu, vél sem annað eftir því sem mér er sagt. Ýmsar sögusagnir fylgdu þessu slysi t.d. að herminnirnir hafi ætlað að láta konu/konur í Svartagili vita af sér sem og að gedduseiði hafi verið um borð í vélinni og að þeim hafi verið varpað í Þingvallavatn þegar flugvélin missti flughæð/afl. Þetta með gedduseiðin er nú vart rétt og varla með konurnar, því sagt var að vélin hefði lent á símalínu í því samhengi, en þá var bara engin slík á svæðinu.
Urriðinn í Þingvallavatni var kominn til sögunnar fyrir þennan tíma þ.e. hans upphaf er frá ísöld.
Aftur á móti er sögusagnir að erlendir veiðimenn hafi fengið ofurgeddur á færi í vatninu, en þær ekki náðst, slitið allt og tætt og horfið síðan á vit djúpsins á ný.“

Í US Navy Airkraft Loss list segir um þessa vél:

Grumman Duck, Þingvallasveit. July 31, 1943
Grumman J2F-4 DuckGrumman Duck J2F – The Incident:

Grumman

Grumman J2F-4.

The plane crashed near the Lake Thingvellir, Iceland. The purpose of the flight is not known.
The reason for the crash is not known. An exact location of the crash site is not known.
According to information from people in the area, the plane crashed north of the deserted farm Svartagil (Black Canyon)

The Crew:
Pilot William Bentrod of VP84 Squadron was killed
Passengers Sullivan and George survived

The Aircraft:
Type: Grumman Duck J2F-4
BUNO: 1646
Operator: VP84 Squadron, NAS Keflavík
US Navy Squadron VP84 operated PBY-5A Catalina in Iceland from 2 October 1942 to 1 September 1943.

Svartagil

Svartagil og nágrenni – loftmynd.

 

Bláfjöll

Upplýsingar bárust um flugvélaflak austan Bláfjallahryggs, milli Leitis og Fjallsins eina. Staðsetningin var fremur óljós – gat verið annað hvort upp á sléttunni milli Bláfjallahryggjar og austurbrúnarinnar eða í rótum hennar. Því var ákveðið að skoða fyrst efra svæðið og síðan, ef það gæfi ekki árangur, leita það neðra og fara þá upp með Eldborgum í Kristnitökuhrauni.

Bláfjöll

Nú var gengið upp úr Draumadalagili í vestanverðum Bláfjöllum, úr u.þ.b. 200 metra hæð upp í uþ.b. 600 m hæð og þaðan niður á leitarsvæðið skammt austar. Allnokkuð brak átti að vera á vettvangi.
Bláfjöllin eru fjallaklasi sem rís hæst 685 m yfir sjávarmál. Lengi vel var talið að Hákollur væri hæstur í klasanum, en nú er ljóst að annar kollur skammt sunnar er svolítið hærri.Það er bratt upp vestanverðar hlíðar Bláfjalla beggja vegna Draumadalanna. Í raun ætti enginn að fara þar upp nema vita hvað hann er að gera. Mjög auðvelt er að komast í sjálfheldu í hlíðunum og því er nauðsynlegt að gaumgæfa vel áætlaða leið áður og á meðan á göngu stendur.
Þegar komið var upp í skarðið ofan gilsins blasti við útsýni til austurs og vesturs, svo langt sem augað eygði. Höfuðborgarsvæðið liggur þarna fyrir fótum svo og upplandið allt. Í austri er Geitafellið næst og stærst, auk þess sem vel sést þarna til Vestmannaeyja í góðu skyggni. Sólin gyllti snjókolla á efri brúnum, en niðurlandið var autt.

Bláfjöll

Þarna á brúninni er rautt gjall á kafla. Bendir það til þess að annað hvort hefur verið þarna eldri gígur fyrir, vatn hefur legið þarna yfir þegar gaus eða gosefni rifið með sér önnur efni á leiðinni upp á yfirborð. Þetta er einungis á litlum kafla.
Auk Brennisteinsfjalla sjálfra, tekur Brennisteinsfjallakerfið yfir Bláfjöll og Heiðina há en sprungurein þess nær til sjávar austan Krýsuvíkur. Norðan Bláfjalla ná sprungur og misgengi langt inn á Mosfellsheiði. Meðal myndana frá jökulskeiðum eru Langahlíðin sem er að stofni til gríðarstór stapamyndun. Brennisteinsfjöllin og framhald þeirra til norðausturs, hryggur sem nær norður í Kristjánsdalahorn, eru móbergsmyndanir. Bláfjöllin sjálf eru að verulegu leiti úr bólstrabergi og breksíu en víða með grágrýtishettu (Jón Jónsson, 1978). Hvalhnúkur, Austurásar og Vesturásar ná 7-8 km til suðausturs út frá Bláfjöllum og virðast vera framhald þeirra, að miklu leyti grafið í yngri hraun. Eldvirkni á nútíma hefur verið allmikil. Stóru dyngjurnar Heiðin há og Leitin tilheyra Brennisteinsfjallakerfinu. Veruleg eldvirkni varð á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og runnu þá m.a. hraun niður í Selvog og niður í átt að Heiðmörk auk þess sem Svínafellsbruni varð til.
Bláfjöll Mikil misgengi eru norðan Brennisteinsfjalla, s.s. Stórkonugjá, en mun minna ber á þeim í Bláfjöllum. Ein dyngjan enn, Sporið, er suðvestan Þríhnúka. Hún virðist vera eldri en þær fyrrnefndu og átti þátt í uppbyggingu hásléttunnar ofan Lönguhlíðar. Sporið sjálft er nú að mestu þakið nýrri hraunum.
Á síðustu árum hafa sjónir manna beinst í vaxandi mæli að móbergsmyndunninni hér vegna þess að sitthvað þykir benda til þess að slíkar myndanir sé að finna á reikistjörnunni Mars. Móbergið hefur aðallega myndast í eldgosum undir jökli, og slík gos hafa menn getað rannsakað hér á landi í Grímsvötnum, Kötlu og Surtsey (þar sem sjórinn kom í stað bræðsluvatns). Móberg myndast þannig, að 1200°C heit bráð snöggkælist í vatni. Þá hafa kristallar „ekki tíma til“ að vaxa og því myndast glersalli sem hleðst upp kringum gosopið. Þannig myndast hrúga af vatnsósa, lausri gosösku sem nefnist túff og ummyndast fljótlega í móberg (palagonít), sem er fast berg: Við 80-150°C hita hvarfast glerið við vatn, það „afglerjast“ og ýmsir kristallar myndast sem líma kornin saman og breyta túffinu í móberg.
Kannski sú bergtegund sem næst kemst því að vera séríslensk sé móbergið. Alkunn móbergsfjöll í nágrenni Reykjavíkur eru Helgafell sunnan við Hafnarfjörð, Hengill, hryggirnir á Reykjanesskaga svo og Bláfjöllin.
Bláfjöll Hraunbreiða austur frá Reykjavík sem ásamt ýmsum yngri hraunum (Hólmsárhraunum) gengur einnig undir nafninu Elliðaárhraun, einkum vestan til. Leitahraun er runnið úr eldstöðvum suðaustan undir Bláfjöllum, skammt fyrir sunnan Ólafsskarð. Heita þær Leiti og er hraunið við þær kennt. Það verður rakið óslitið frá Draugahlíðum niður í Elliðaárvog. Hefur það breiðst víða út, svo sem um Sandskeið og norðvestur yfir Fóelluvötn; heita þar Mosar. Einnig hefur hraunið runnið til austurs og niður á láglendi í Ölfusi, Hraunsheiði, og líklega í sjó í Þorlákshöfn. Í þessari álmu hraunsins er einn af stærstu hellum landsins, Raufarhólshellir. Annars staðar í hrauninu eru nokkrir smáhellar, svo sem hjá Vatnaöldum. Allvíða eru gervigígar í Leitahrauni, en merkastir eru Rauðhólarnir.
Suðurlandsvegur liggur á löngum kafla á Leitahrauni, frá Elliðaám að Draugahlíðum. Einnig liggur Þrengslavegur á hrauninu, frá Þrengslum og niður í Ölfus. Frá Draugahlíðum að Þrengslum liggur vegurinn á Svínahraunsbruna en það eru tvö apalhraun sem komið hafa upp á sögulegum tíma í Eldborgum vestan Lambafells og liggja ofan á Leitahrauni. Annað þessara hrauna hefur verið nefnt Kristnitökuhraun.
Bláfjöll Hraunið hefur runnið nálægt 2700 f. Kr. og flæddi niður Sandskeið og um Lækjarbotna. Þaðan rann það í Elliðavatn, sem hefur verið mun stærra en það er í dag, og myndaði Rauðhóla. Þaðan flæddi hraunið viðstöðulítið um Elliðaárdal í sjó fram við Elliðaárósa. Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. kringum Elliðaárhólmann.
Til aldurssamanburðar út frá nýlegum rannsóknum erlendra aðila hér á landi er Leitarhraun talið vera 5210±110cal (ca. 5200 ára), Búrfellshraunið 8060±120cal (ca. 8000 ára) og Þingvallahraun 10,330±80cal (ca. 10.300 ára).
Í Leitarhrauni eru Eldborgirnar tvær, Nyrðri-Eldborg og Syðri-Eldborg. Frá þeim er Svínahraunsbruninn runninn árið 1000 og það er því hið eiginlega Kristnitökuhraun. Þetta eru gjall- og klepragígar, reyndar með þeim fallegri. Leitargígurinn er hins vegar utan í austurhlíðum Bláfjalla, dyngjugígur sem fyrr segir.
Það var á sjötta áratug 20. aldar að framkvæmdarmanni datt í hug að ryðja slóða upp að Nyrðri-Eldborg með það fyrir augum að kanna þar efnisnámur. Ruddi hann gjallinu úr norðurhlíð gígsins með jarðýtunni, svona til að sannfærast um meðfærileika þess.
Ef ekki hefði orðið blaðamál í beinu framhaldi af þessum aðförum (Mbl) og fyrirhuguð efnistaka stöðvuð, væri gígurinn að öllum líkindum horfinn núna, eins og svo margir aðrir bræður hans á Reykjanesskaganum.
Bláfjöll Eldborgirnar sjást vel þegar komið er niður á neðri brúnir austurhlíða Bláfjalla, Lambafellið og Blákollur. Hlíðin er þarna allhá og ekki fýsileg niðurgöngu, nema í giljum ofan við Fjallið eina og skammt sunnan og innan við Leitið.
Þrátt fyrir leit sást hvorki tangur né tetur af flugvélaflaki á þessu svæði. Það er því ekki um annað að ræða en að fastsetja síðari ferðina, sem áætluð var – til vara.
Allt ofanvert Bláfjallasvæðið að norðaustanverðu var skoðað nokkuð vandlega. Flugvélaflakið átti hins vegar, að sögn viðmælanda, að vera vel greinilegt. Það er því ekki um annað að ræða en að leita undirlendið að austanverðu, sem fyrr sagði.
Ef einhver telur sig geta gefið upplýsingar um fyrrnefnt flugvélaflak er sá/sú hin/n sami/sama vinsamlegast beðin/n að hafa samband við ferlir@ferlir.is.
Frábært veður. Gangan og leitin tóku 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/ferdavefur/
-http://www.isor.is/
-Hraun og móbergsmyndanir á svæðinu frá Brennisteinsfjöllum að Hengli – Niðurstöður – Magnús Tumi Guðmundsson og Þórdís Högnadóttir – 2004.
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=1410
-http://www.unh.edu/esci/licciardi_et_al_2006.pdf
-http://www.warbirdalley.com/p38.htm

Eldborg

Krýsuvíkurleið

Áður en það var rutt varð að fara vestur yfir hálsa fyrir endann á hraunsuppkomunni þegar fara þurfti til Njarðvíkur eður Keflavíkur.

Ögmundardys

Jón Guðmundsson við Ögmundardys.

Bóndinn í Njarðvík átti dóttur. Hennar bað lausingi nokkur er Ögmundur hét, tröllmenni að stærð og kröptum. Bóndi vildi ei gipta dóttur sína fúlmenni þessu en treystist ei að standa í móti honum. Tekur hann því það ráð að lofa honum stúlkunni ef hann vildi vinna það til hennar að gera færan veg yfir hraunið, þar sem beinn yrði vegur til Suðurnesja.
Þetta verk tókst hann á hendur og framkvæmdi það duglega en lagðist til svefns að loknu verkinu austan til við hraunbrúnina en bóndi lá í leyni í hraungjótu. Ætlaði hann inum stundir að sofna vært og drap hann sofandi.
Þar er dys hans sem drepinn var og er hraunið síðan við hann kennt og kallað Ögmundarhraun.
Jón Guðmundsson frá Skála fylgdi FERLIRsfélögum að dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

-Huld I 231.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Herdísarvík

Ein frægasta ær síðari tíma er Herdísarvíkur-Surtla. Hún var í eigu Hlínar Johnson frá Herdísarvík á Reykjanesi.
SurtlaSurtla var svört, eins og nafnið gefur til kynna, og hafði einstakt lag á að gera menn sárfætta og reiða.
Í fjárskiptum vegna mæðiveikinnar haustið 1951 var svæðið frá Þjórsá að Hvalfirði hreinsað af fé, fyrir utan eina svarta kind og lamb hennar sem náðust ekki. Eftir áramótin náðist lambið þegar það örmagnaðist í einum eltingaleiknum en Surtla slapp ávallt burt. Hún sást nokkrum sinnum en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fulltrúa fjárskiptayfirvalda virtist engin leið að ná henni, hún ýmist stakk menn af í klettum sem voru öðrum ófærir eða þá að hún fannst ekki þegar til átti að taka.
Haustið 1952 gripu yfirvöld til örþrifaráða. Lagt var fé til höfuðs Surtlu. Hver sem næði skepnunni, dauðri eða lifandi fengi 2000 krónur í verðlaun. Eftir Fornagatalangan eltingaleik tveggja leitarhópa laugardaginn 30. ágúst féll Surtla fyrir byssuskoti, en þá hafði hún stokkið niður klettahamar sem var ófær öllum venjulegum skepnum. Surtla var felld í þriðja skoti og var í þremur reifum. Höfði hennar var skilað inn á skrifstofu sauðfjárveikivarna og vígalauna krafist. Aðalfyrirsögnin á forsíðu Tímans 2. sept. 1952 hljómaði þannig: Surtla lögð að velli í Herdísarvíkurfjalli á laugardagskvöld.
Ekki ríkti almenn ánægja með fall Surtlu því mörgum fannst að kindin ætti skilið að fá að lifa lengur, vegna þrautseigju hennar og harðskeytni, auk þess sem greinilegt var að hún þjáðist ekki af mæðiveiki. Fjölmargir skrifuðu greinar í blöð þar sem Surtlu var minnst auk þess sem vísur og ljóð voru ort um hana og endalok ævi hennar, en í þeim flestum fengu vígamennirnir bágt fyrir verkið. Það er greinilegt að kindin hefur orðið mörgum táknmynd frelsis og áræðni hennar vakti þjóðarathygli. Höfuð Surtlu er í dag í eigu Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis og hangir uppi á Rannsóknarstöðinni að Keldum.

Heimild:
-http://www.strandir.is/saudfjarsetur/frodl-fraegarkindur1.htm

Surtla

Surtla á Keldum.

Þórkötlustaðanes

Gengið var um Þórkötlustaðanes undir leiðsögn Péturs Guðjónssonar, en hann er fæddur í einum af þremur bæjum, Höfn, sem voru í Nesinu. Hinir tveir voru Arnarhvol og Þórshamar. Þórshamar stendur að hluta vestan við Flæðitjörnina. Útveggir eru heilir.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.

Gengið var frá Höfn, sem var sunnan við veginn. Húsið var flutt vestur í hverfi um miðjan fimmta áratug 20. aldar.
Blómatími útgerðar á Þórkötlustaðanesi var á öðrum, þriðja og fjórða áratug aldarinnar. Margir árabátar og síðar vélbátar voru gerðir þaðan út. Sjá má minjar íshúsanna og fiskhúsanna, lifrarbræðslu og salthúss, ráa og reiða.

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Þórkötlustaðanesi.

Bryggjan var byggð um 1930. Gamla vörin er skammt austan hennar. Ofan við vörina má enn sjá járnkengi, stýrislykkju og spil þar ofar. Þegar bátarnir voru dregnir upp var tógið þrætt í kengina, eftir því hvar bátarnir áttu að raðast ofan við kampinn. Áður voru bátarnir drengir á land á kampinn skammt austar, sunnan við lifrabræðsluna, sem síðar varð.
Vestan við Höfn eru allmörg íshús. Margar tóttanna eru mjög heillegar. Á veturna sáust vermenn oft þjóta út eftir að byrjaði að snjóa, rúlluðu upp snóboltum og renndu þeim niður í íshúsin. Þar voru milliþiljuð ker. Í lögin var settur saltblandaður snjór, sem gaf hið besta frost. Í kerjunum var beitan fryst.

Grindavík

Þórkötlustaðanesviti.

Vestan við Flæðitjörnina er húsið Þórshamar. Í kringum húsið er margt minja, s.s. gerði og fjárhús. Sunnan þess, skammt ofan við kampinn, er gömul fjárborg, eldri en aðrar minjar. Borgin gæti þess vegna verið frá tímum Hafur-Björns. Í kringum hana er gerði, Hraunsgerði, og lítil tótt sunnan við hana.

Þórhamar

Þórshamar í Þórkötlustaðanesi.

Vestan við Þórshamar er skrúðgarður, framfararspor þess tíma. Í húsinu bjó vitavörðurinn síðastur manna. Þótti hann furðulegur í háttum – stóð jafnvel nakinn niður á kampi þegar sunnan- og suðvestanáttin var hvað verst og lét hana leika um útlimi. Arinn, sem enn má sjá í húsinu, gerði hann er bæta átti um betur. Milliveggir voru rifnir niður til að auka rýmið, en við það fékk vitavörðurinn steypustykki ofan á sig. Lá hann um stund, en fannst og gert var að sárum hans.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – loftmynd.

Enn vestar er Strýtuhraun eða Strýtuhólahraun, nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.

Grindavík

Sjóslysaskilti í Þórkötlustaðnesi.

Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum.
Pétur fylgdi hópnum áfram vestur um Nesið. Vestan við vitan er dalur og í fjörunni undan honum er Markasteinn. Hann skiptir löndum Hóps og Þórkötlustaða. Á steininn er klappað L.M. Benti hann og á sundurlamda skipsskrokka og lýsti ströndum.

Þórkötlustaðanes

Sögu- og minjaskilti í Þórkötlustaðanesi.

Á leiðinni var ekið fram hjá Siggu, vörðu á hól, sem notuð var sem loka vendimið áður en vent var inn í Hópið. Grjótið úr vörðunni var tekið að mestu þegar verið var að tína það undir bryggjurnar. Nauðsynlegt er að endurgera vörðuna á meðan enn er vitað hvar hún var. Norðar eru gamlar sjóbúðir, sem nefndar voru Nesið. Þær verða skoðaðar í annarri ferð sem og þurrkgarðar og þurrkbyrgi, sem sjá má ofar á Hópsnesinu.
Sjá meira um Þórkötlustaðanes undir Lýsingar.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Festarfjall

Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.

Rauðskinna I 45

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík (Hraunssandur).

Breiðholt

Lítið er nú eftir af bænum Breiðholti, sem samnefnt hverfi í Reykjavík dregur nú nafn sitt af. Gamla bæjarstæðið var friðlýst árið 1981. Í Friðlýsingaskránni frá 1990 segir eftirfarandi um Breiðholt. „Hið gamla bæjarstæði Breiðholts, ásamt kirkjutóft og kirkjugarði, um 15-30 m norður frá húsinu Grjótaseli 21. Skjal undirritað af ÞM 28.07. 1981. Þinglýst 28.08.1981.“
Tóftir BreiðholtsbæjarinsÞegar leifarnar af bæjarstæðinu eru skoðaðar núna sjást einungis leifarnar af kirkjunni og að öllum líkindum hefur kirkjugarðurinn verið umhverfis hana. Byggt hefur verið allt um kring, svo vandlega að aðrar minjar eru nú horfnar með öllu. Er Breiðholtið bar á góma var það jafnan sett í samhengi við heilstæðar tóftaleifar. Nú er orðið „menningarlandslag“ notað um efnið. 
Með hugtakinu menningarlandslag er átt við það landslag eða umhverfi sem maðurinn hefur mótað með búsetu sinni hverju sinni. Í Reykjavík hafa fundist minjar um búsetu allt frá því á 9. öld og ber því fornleifum saman við ritheimildir um að hingað hafi fluttst fólk á þeim tíma sem nefnt er landnámsöld.
Nesið sem borgin stendur á hefur mótast af búsetu í margar aldir og hver kynslóð hefur markað sín spor í landið. Það umhverfi sem við þekkjum í dag er því manngert að miklu leyti. Þar má sjá margvísleg merki um búsetu; leifar bygginga, staði þar sem fanga hefur verið aflað og leiðir milli staða, líkt og sjá mátti í Breiðholti,en annað er falið í jörðu.
BreiðholtMeðal annarra minjastaða í Reykjavík þar sem sjá má menningarlandslag má nefna Laugarnes, Kvosina í miðbæ Reykjavíkur, Skildinganes við Skerjafjörð, eyjarnar á Kollafriði, Elliðárdal, Þingnes við Elliðárvatn og aðrar jarðir í austurhluta borgarinnar, Keldur, Grafarholt og Reynisvatn.
Hvorki er að sjá upplýsingar um býlið Breiðholt á vettvangi né er það sérstaklega merkt sem friðlýsingarstaður. Í því sambandi má gjarnan geta þess að í 
Þjóðminjalögum er kveðið á um skyldu Fornleifaverndar ríkisins að sjá til þess að friðlýstar fornleifar skuli merktar. Þar segir m.a. í 11. gr. laganna: „Fornleifavernd ríkisins lætur, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar og gefur út skrá um friðlýstar fornleifar og skal hún endurskoðuð á þriggja ára fresti. Fornleifavernd ríkisins lætur skrár þessar í té Þjóðminjasafni Íslands…

Breiðholt - tóft

Fornleifavernd ríkisins skal sjá til þess að friðlýstar fornleifar eða minjasvæði séu merkt með sérstökum merkjum. Tilkynna skal landeiganda og ábúanda með sannanlegum hætti um friðlýsinguna. Friðlýsingu fornleifa skal þinglýsa sem kvöð á landareign þá sem í hlut á. Þeim minjum, sem friðlýstar eru, skal fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifa og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Um stærra svæði skal leita samþykkis landeiganda. Friðlýstar fornleifar skulu færðar á skipulagskort. Fornleifar, sem friðlýstar hafa verið samkvæmt eldri lögum, skulu njóta friðlýsingar áfram.
Fornleifavernd ríkisins getur afturkallað friðlýsingu og skal afturköllunin auglýst með sama hætti og friðlýsingin.“
Viðurlagaákvæði er m.a. í 27. gr. laganna þar sem segir að brot á ákvæðum 11. gr. varði sektum.
Síðan framangreint var sett inn á vefsíðuna hefur verið sett upp upplýsingaskilti nálægt þar sem Breiðholtsbærinn stóð – sjá meira HÉR. Er það til mikillar fyrirmyndar.

Heimildir m.a.:
-Minjasafn Reykjavíkur.
-Þjóðminjalög nr. 107/2001 gr. 11.
-Skrá um friðlýstar fornleifar 1990.

Breidholt - baerinn IV

Loftsskúti
Gengið var upp frá Hvassahrauni og Rjúpnadals- og Geldingahraunin gaumgæfð. Ætlunin var að skoða skúta skammt sunnan Reykjanesbrautar, suðaustan við Hjallhóla, mögulegan Loftsskúta ofan við Virkishóla, kíkja niður í svonefndan Virkishólahelli, nýfundinn, og skoða svo hugsanlegan stað í Skógarnefi er leitt gæti til langþráðrar uppljóstrunar um Skógarnefsskútann, sem getið er um í örnefnaslýsingu fyrir Hvassahraun, og mikið hefur verið leitað að.
HvassahraunMeð í för voru Björn Hróarsson, Hellarannsóknarfélaginu, og Ásbjörn frá Garpar. Í leiðinni var m.a. kíkt á Skógarnefsgrenin og Urðarás sunnan við Hraunkrossstapa, en hann er einn stórbrotnasti brothringur landsins.
Fyrsti skútinn, sem skoðaður var, er sunnan í hól skammt sunnan við Reykjanesbrautina. Fyrirhleðslan er fallin. Skútinn er beint suður af réttinni, fyrsti hóll strax sunnan vegar, syðstur svonefndra Hjallhóla. Líklegt má telja að skútinn hafi verið notaður sem fjárskjól, en annar skúti, Hjallhólaskúti, er í hólunum milli gömlu og nýju Reykjanesbrautarinnar. Opið snýr til suðurs og mótar fyrir hleðslum við opið. Í þeim skúta er talið að geymdur hafi verið fiskur eða annað matarkyns því þar sáust til skamms tíma naglar eða krókar upp undir hellisloftinu (SG).
HvassahraunGrunur var um að Loftsskúti gæti verið vestan í hól, milli Smalaskála, Virkis- og Brennihóla, þ.e. sunnan við Virkið. Þar er skúti í jarðfalli. Greinilegt er að fé hefur notað skútann sem skjól. Hafði verið hlaðið fyrir skútann er sú hleðsla fallin og gróið yfir. Þyrfti að róta með skóflu í garðinum fyrir framan skútann til að sjá hvað þar leyndist. Varða er á hólnum. Skútinn er um 350m suður af Virkinu, 300m NA af Smalaskála og 600m NV af Brennihólum. Hann er grunnur, en gefur gott skjól fyrir SA áttinni.
Litið var ofan í Virkishólahelli. Hellirinn er í litlu jarðfalli suðvestan undir í hraunhól, u.þ.b. 200 metrum ofan (suðaustan) við Virkið. Ekki er vitað til þess að áður hafi verið farið niður í hellinn. Gatið liggur til norðurs úr opi mót suðri, en inn undir jarðfallinu að austanverðu er m.a. mosavaxinn kindarkjálki.
Björn liðaðist með ljós niður í hellinn, líklega sá fyrsti mannkyns, sem sögur fara af. Ekki er langt síðan einn FERLIRsfélaga ætlaði að kíkja í annan slíkan þarna skammt norðar, en mætti þá rebba innan við gættina.
Björn var hins vegar óragur. Þegar niður var komið blasti við sæmileg hraunbóla, en engin endagangur annar. Innst í bólunni voru nokkrar sauðatennur er bentu til þess að rebbi hafi gert sig þar heimakominn. Þarna hefur hann verið kóngur í hásölum um stund. Kjálkinn ofar í munnanum gæti staðfest það.
HvassahraunÞá var haldið til austurs upp Rjúpnadalahraunið, stundum nefnt Afstapahraunið eldra, og upp í Geldingahraunið með stefnu á Skógarnefið. Í rauninni er grunnurinn gamla Hrútagjárdyngjuhraunið, en inni á milli og til vængjanna má sjá móta fyrir minni hraunum, t.d. Dyngnahrauninu er kom út úr Dyngjurananum og Mávahlíðum ofan við Einihlíðar. Einn fallegasta hraunfoss þess má sjá í vestanverðum Einihlíðum ofan við Mosa. Þarna, í neðanverðu Skógarnefninu, hafði Ásbjörn komið auga á stað, sem gæti leitt til fundar Skógarnefsskúta.
Gengið var vestan við Hvassahraunssel og í gegnum selið. Vel mátti sjá á tóftunum við þessar aðstæður hversu kalsasamt hefði verið þarna að vetrarlagi, en selin voru að jafnaði ekki setin á þeim tíma. Ofan við selið eru tvær vörður við hraunsprungu. Gengið var í gegnum nýrra hraunhaft, sem virðist hafa komið úr litlu skammvænu gosi, vestan við Urðarás.
Skútinn er inn í sprungu austan í hól, rétt ofan við Skógargötuna og skammt vestan og innan landamerkja Hvassahrauns. Girðingin, sem talin hefur verið á mörkunum, er svolítið vestan markanna. Það virtist vera allnokkurt rými þarna inn í hólnum, eins og reft hafi verið yfir sprunguna en þakið fallið niður. Hellirinn er ofan við efsta krossstapann (Hraunkrossstapa). Ljós þurfti til að skoða hann. Björn fór bæði inn í hann að norðanverðu og einnig að vestanverðu, en engar mannvistarleifar var að sjá á þeim stöðum. Snjó hafði skafið yfir hliðarskúta, svo skoða þarf aðstæður betur í auðu. Þarna skammt norðvestar eru tvær vörður á litlum klapparhól; landamerki Hvassahrauns og Óttarsstaða.

Urðarás

Urðarás.

Skútinn er um 1 km fyrir ofan krossstapann, um 140m ofan við Skógargötuna og um 40m NA við línu sem dregin er milli Miðkrosstapa og Markhelluhóls (girðingu milli Hvassahrauns og Óttarsstaða).
Á bakaleiðinni var komið við í Skógarnefsgrenum. Grenin eru neðan við Skógarnefið, skammt ofan við efsta krosstapann. Grenjaskyttubyrgið er hlaðið um hraunskjól og grenin skammt frá. Tekinn var gps-punktur á byrgið.
Skammt norðvestan við grenin er merkilegt jarðfræðifyrirbæri; Urðarás. Um er að ræða svenefndan „brothring“. Hraunið hefur fallið niður á nokkrum kafla eftir að neðanjarðarhrauná, sennilegast úr Hrútagjárdyngju, hefur stíflast og glóandi hraunkvikan með þrýstingi sprengt sér leið upp með þeim afleiðingum að rásþakið hefur brotnað upp og síðan sigið niður aftur þegar glóandi hraunið flæddi undan. Sambærileg fyrirbæri má sjá á og við stærstu hella landsins, s.s. í Hallmundahrauni. Ólíklegt, enda var það ekki að sjá, að hraunkvikan hafi náð upp á yfirborðið, en hins vegar náðst að tæmast eftir öðrum leiðum eftir að þakið brast. Nokkurn veginn jafnslétt er neðan brothringssins, en svolítill halli ofan hans. Þessar aðstæður gætu skýrt það að ekkert hraun hafi komið upp úr annars djúpri rásinni. Eftir stendur stórbrotinn „brotadalur“ í miðju hrauni. Þetta eru algeng fyrirbæri á Hawai og víðar þar sem hraun renna í kvikugosum. Gaman er að eiga a.m.k. eitt slíkt á Reykjanesskagnum, og það eitt hið fallegasta á landinu.
SkógarnefErfitt er að finna Urðarás á færi, en hann er þess greinilegri úr loftið séður. Ekki er ólíklegt að ætla, enda hefur það sennilega aldrei verið gert, að skoða syðst í jarðfallinu hvort þar, neðst, kynnu að leynast göng á stórum helli, en ætla má, og önnur dæmi sýna slíkt, að í slíkum tilvikum er þetta gerist, er um mikið magn af glóandi hraunkviku í neðanjarðarrásum að ræða. Hún hefur komið niður frá eldstöðinni í Hrúatgjárdyngju, en neðan Urðaráss er tiltölulega slétt hraun. Þar hefur rennslið verið litið og því glóandi kvikan ekki náð að renna áfram að ráði. Afleiðingin, eða afurðin, var þetta merkilega jarðfyrirbæri.
Til fróðleiks er gaman að geta þess að þetta jarðfræðifyrirbæri hafði verið uppgötvað hér á landi löngu áður en erlendir vísindamenn uppgötvuðu merkilegheit þess. Þannig var að á vísindaráðstefnu erlendis á níunda áratugnum fjallaði vísindamaður um nýlega uppgötvun; brothringi á Hawai. Að fyrirlestri loknum stóð íslenskur vísindamaður upp og sagði þetta varla geta talist merkilegt því einn vísindamanna Íslands, Kristján Sæmundsson, hefði þá tveimur áratugum fyrr ritað um fyrirbærið í Sunnudagsblað Tímans. Þar lýsti hann brothringjum hér á landi. Hin nýlega uppgötvun teldist því til þeirra eldri á Íslandi.
Í rauninni er Hvassahraunið að meginefni til eitt hraun; Hrútagjárdyngjuhraun sem fyrr segir, en inn á milli koma lítil hraun, sem að framan greinir.
Lítið sást af rjúpu, en þegar að henni var komið var hún mjög gæf. Hins vegar sáust víða spor eftir hana í snjónum – og rebba.

Urðarás

Urðarás.