Eftirfarandi er stytt grein eftir Gísla Sigurðsson í Lesbók Morgunblaðsins 31. mars 2001. Hún fjallar um „Kolviðarhól undir Hellisskarði„. Önnur grein Gísla um Kolviðarhól birtist í Lesbókinni 7. apríl 2001 og er hægt að sjá hana undir yfirskriftinni „Kolviðarhóll II“ hér á vefsíðunni.

Sæluhúsið við Draugatjörn.
„Það þótti mikil framför þegar frumstæður kofi á Bolavöllum var lagður niður og sæluhús reist á Kolviðarhóli 1844. Betra hús reis þar 1877 og þá var sæluhúsavörður ráðinn. Eftir 1883 og fram til 1938 var úrvalsfólk á Hólnum, fyrst við frumstæð skilyrði og starfið fólst m.a. í því að bjarga aðframkomnum ferðamönnum ofan af Hellisheiði og úr Svínahrauni. Drykkjuskapur var algengur á ferðalögum, einkum á leið úr kaupstað. Fyrst var tímaskeið lestarferða, síðan hestvagnatímabilið og loks bílaöldin.

Kolviðarhóll 1910.
„Á árabilinu frá 1877 og framundir 1940 vissi hvert mannsbarn í Reykjavík og á Suðurlandi um Kolviðarhól, áningar- og gististaðinn við brún Hellisheiðar. Aðstöðunni þar átti fjöldi manns líf að launa og þar leituðu skjóls háir sem lágir, allt frá flökkurum til Íslandsráðherra og Kolviðarhóll var jafnvel viðkomustaður Friðriks konunngs VIII í Íslandsför hans 1907.

Kolviðarhóll 2010.
Menn komu á Hólinn fótgangandi og stundum aðframkomnir; sumir voru frægir förumenn, aðrir á leið í verið með föggur sínar og skrínur á bakinu. Lengi vel voru þó flestir ríðandi með hesta undir böggum, ýmist í lest eða ráku þá lausa, uns hestvagnatímabilið hófst. Þá var ekki lengur hægt að fara brattan stíginn upp Hellisskarðið ofan Kolviðarhóls, heldur var þá rudd braut suður með Reykjafelli og upp á Hellisheiðina um Hveradalabrekkur. Lengi vel lá Suðurlandsvegurinn sömu leið framhjá Kolviðarhóli og þaðan vestur yfir Svínahraun. Gistihúsið á Hólnum, hátt og reisulegt með þremur burstum, var rekið löngu eftir að bílaöld gekk í garð. En eftir að krókurinn upp að Kolviðarhóli var tekinn af og vegurinn lagður skemmri leið, fór svo að þessi frægi gististaður varð utan við alfaraleiðina.

Kolviðarhóll um 1930.
Árið 1977 urðu þau tímamót að húsið var brotið niður og síðan hefur Kolviðarhóll svo að segja fallið í gleymsku og dá.
Sá skortur á menningarlegum metnaði, sem lýsir sér í því að brjóta niður eitt prýðilegasta verk Guðjóns Samúelssonar húsameistara, er ótrúlegur og efni í sérstaka umfjöllun.

Hellisheiðargata.
Húsráðendur á Kolviðarhóli, sem sinntu hjálparstarfi og sáu gestum jafnframt fyrir gistingu og veitingum voru framan af hjónin Jón Jónsson og Ksristín Daníelsdóttir, síðan Guðni Þorbergsson og Margrét Jónsdóttir fram til 1905 og þá tóku við frægustu gestgjafar staðarins; Sigurður Daníelsson og Valgerður Þórðardóttir, fólk sem allir Sunnlendingar vissu deili á.
Þjóðleiðin forna frá Árnessýslu til Mosfellssveitar lá úr Ölfusi upp Kamba og þaðan vestur á Hellisheiði, austan við Hurðarás ofan Kolviðarhóls. Upp og niður úr skarðinu var hægt að komast með klyfjahesta, en alls ekki með hestvagna. Þegar komið var niður úr Hellisskarði lá leiðin um Bolavelli, vestur með Húsmúla og síðan um norðanvert Svínahraun, framhjá Lyklafelli og oft var komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Þessi leið milli byggða var talin rösk þingmannaleið, eða um 35 km. Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er leiðinni lýst. Þá voru hestagöturnar sagðar greinilegar á hraunhellunni.

Gata um Helluna á Hellisheiði.
Hestagöturnar, sem markast hafa í hraunhelluna á Hellisheiði af umferð járnaðra hesta sjást mjög greinilega á þriggja km kafla, en eftirtektarvert er, að þær skuli hafa verið orðnar svo greinilegar þegar fyrir 300 árum. Hurðarás var aftur á móti svo nefndur vegna þess, að þegar þangað kom á austurleið yfir heiðina var allt í einu eins og hurð væri opnuð og víðerni Suðurlands blöstu við, allt til Vestmannaeyja.
Kolviðarhóll var og er í Árnessýslu. Við Bolaöldu, vestan Svínahrauns eru sýslumörkin. Þótt Kolviðarhóll eigi sér alllanga sögu sem áningar- og gististaður er hann einnig sögustaður, svo nefndur eftir Kolviði á Vatni (Elliðavatni) sem barðist við þann mikla kappa Búa Anríðsson eftir því sem Kjalnesingasaga segir. Í sögunni er hann reyndar ýmist nefndur Kolfinnur eða Kolfiðr. Vildu báðir eiga Ólöfu hina vænu í Kollafirði og höfðu háð einvígi þar sem Búa veitti betur, en báðir lifðu. Ekki lét Kolviður sér það að kenningu verða og sat um líf Búa, sem var á heimleið frá Noregi og hafði gengið frá skipi sínu á Eyrum (Eyrarbakka).

Búasteinn.
Kolviður á Vatni hafði spurn af útkomu Búa og lét njósna um ferðir hans. Reið hann við tólfta mann í fyrirsát í Öxnaskarði ofan við Kolviðarhól. Biðu þeir þar við stein, rétt við götuna, sem nú er kallaður Búasteinn. Búi varð var við fyrirsátina af skarðinu og reið að steini einum miklum; sneri hannbaki að steininum svo ekki varð komist aftan að honum. Skiptust þeir búi og Kolviður á orðum og kvaðst Kolviður ætla að njóta þess að vera með flokk manna á móti honum; „skal þá vel við því taka,“ sagði Búi.
Er skemmst frá því að segja, að Búa tókst að gera menn Kolviðar óvíga hvern á eftir öðrum og féllu sex, en sjálfur sparaði Kolviður sig uns ekki varð undan vikist. Hjó hann þá „hart og tíðum og sótti alldrengilega. Hjóst skjöldur Búa, en Kolviður tók að mæðast. Þurfti Búi þá ekki mörg högg; ónýtti hann skjöld Kolviðar og veitti honum síðan það slag að andstæðinginn tók sundur í miðju“. Búi var „ákaflega vígmóður og nokkuð sár“, en gat haldið ferð sinni áfram. Steinninn heitir síðan Búasteinn. En eftir honum ógæfusama Kolviði á Vatni er Kolviðarhóll nefndur.

Hellukofinn á Hellisheiði – byggður upp úr Biskupsvörðu.
Öldum saman höfðu menn farið alfaraleiðina yfir Hellisheiðina án þess að nokkuð væri um húsaskjól þar til 1830 að Þórður bóndi á Tannastöðum hlóð birgi uppi á heiðinni sem enn stendur. En elsta heimild um sæluhúskofa í námunda við Kolviðarhól er eftir Hálfdán Jónsson lögréttumann í lýsingu Ölfushrepps frá 1703. Þar er minnst á sæluhús á Hvannavöllum (nú Bolavöllum) og segir þar svo: „Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka við fyrir neðan skarðið, stendur sæluhús (ei langt frá veginum) svokallað, hverju allt til þess tíma Ölvesbyggjarar hafa uppi haldið, vegfarandi fólki til innivistar, er og lofsvert að þetta sæluhús ei niður falli.“

Sæluhúsið við Draugatjörn.
Sveinn Pálsson, náttúrfræðingur, minnist á sama sæluhús hátt í öld síðar; segir að þar sé lítill kofi hlaðinn úr hraungrýti með torfþaki og að margir hafi dáið úr kulda í þessum kofa, örmagna af hungri og kulda.
Skammt frá kofanum var dálítil tjörn, nefnd Draugatjörn, og töldu margir svo reimt í kofanum að þar væri naumast vært. Hafði Magnús bóndi Pálsson á Fossi í Grímsnesi heldur betur fengið að kenna á því, annálað hraustmenni og gerði grín að draugatrú og myrkfælni. Gisti hann við annan mann í kofanum og brá sér út að tjörninni. Þar réðst að honum ófreskja og komst hann við illan leik, rifinn og tættur, inn í kofann. Sár á nefi greri aldrei, enda var það eðli sára sem draugar veittu, og Magnús varð aldrei samur maður eftir.

Kolviðarhóll 1907.
Eiríkur bóndi í Haga í Eystrihreppi komst mun betur frá viðskiptum við sæluhúsadrauginn. Hann var á ferð til skreiðarkaupa, hafði sest að í myrkri í kofanum og tók til matar síns. Þá fór hann að sjá eldglæringar í hinum enda kofans og sagði bara sísona: „Kvekið þið, kindur sælar, svo Hagakarlinn sjái til að rífa roðbitann sinn.“ Hættu þá glæringarnar og svaf Eiríkur þar rótt um nóttina. Svo skrái Brynjúlfur frá Minna-Núpi.
Sögur af þessu tagi urðu til þess að menn voru dauðsmeykir við að gista í kofanum, einkum ef þeir voru einir á ferð. Einu sinni hafði sú hræðsla alvarlegar afleiðingar. Gömul sögn úr Ölfusinu greinir frá því, að eitt sinn hafi ferðamaður leitað skjóls í kofanum og lokað kirfilega að sér að innanverðu. Um nóttina heyrði hann traðk utandyra og rjálað við hurðina eins og reynt væri að opna hana. Hirti hann ekki um það; hefur ugglaust búist þar við draugi og verið hræddur. Um morguninn brá þessum ferðalang ónotalega þegar hann opnaði og sá að utandyra lá dauður maður. Eftir það var gengið frá því að ekki væri hægt að loka kofanum að innanverðu með slagbrandi.

Kofinn við Draugatjörn var ísköld og ömurleg vistarvera, en þó sá skúti sem betri var en úti. Lengdin að innanverðu var aðeins 2,5 m og breiddin 1,5 m. Við annað hlaðgaflið var hlaðinn grjótbálkur, mýktur með torfi. Yfir dyrum var lítil gluggabora með gleri. Tóftin sést enn ef vel er að gáð.
Fleira gat verið varasamt á þessari óbyggðaleið en illviðri og draugar. Bolavellir og Bolasteinn minna á söguna um Skeiða-Otta og nautið ógurlega sem gekk í sumarhögum á völlunum við Kolviðarhól. Otti var bóndi austur á Skeiðum og átti erindi til Reykjavíkur þegar komið var að slætti og reið miklum kostahestum sem leið liggur vestur yfir Hellisheiði. Hann vissi um illræmdan griðung frá Viðey í högum hjá Kolviðarhóli og hafði hann orðið tveimur eða þremur mönnum að bana.

Bolasteinn.
Nautið lá við Bolastein og hóf þegar eftirför en Otti þeysti undan sem mest hann mátti. Samt dró saman með þeim og tók Otti þá það til ráðs að hann snaraðist af baki, tók upp hníf og lagðist niður milli krappra þúfna. Þar fleygði bolið sér yfir hann, en Otti skar hann á kvið og helltust yfir hann innyflin. Drapst bolinn þar en Otti gat haldið ferð sinni áfram.
Þau tímamót urðu 1844 að þá reis í fyrsta sinn hús uppi á sjálfum Kolviðarhólnum. Þá hafði farið fram fjársöfnun austan heiðar og vestan, og þótti vænlegast að reisa húsið á hólnum neðan við Hellisskarð.

Kolviðarhóll – fyrsta sæluhúsið.
Séra Páll Matthíasson á Arnarbæli valdi staðinn og hafði forgöngu um málið ásamt Jóni Jónssyni á Elliðavatni. Nýja sæluhúsið var allt úr timbri og stóð á sökkli sem hlaðinn var úr grjóti. Grunnflöturinn var 16 fermetrar og loft yfir þars em viðbótargistirými fékkst. Járnrimlar voru fyrir gluggum, liklega til að koma í veg fyrir rúðubrot skemmdarvarga. 24 menn gátu gist í einu á loftinu og komið inn 16 hestum niðri.
Enn urðu tímamót 1876 þegar ákveðið var að hefja vegarlagningu um Svínahraun.Þremur árum síðar var tekið annað skref og segir svo í Þjóðólfi: „Vegagjörðin yfir Kamba á Hellisheiði skal byrja í sumar.“ Eiríkur í Grjóta fór með flokk manna sumarið 1880 og lagði veg vestur yfir Hellisheiði, nokkru norðar og nær hinni fornu þjóðleið en núverandi Suðurlandsvegur.

Garður við Kolviðarhól.
Áratugi síðar, eða um 1870, hafði sú vakningaralda risið að bæta húsakost á Kolviðarhóli, enda var sæluhúsið frá 1844 þá orðið lélegt. Sigurður Guðmundsson málari hafði forgöngu um að reist yrði veitingarhús á Kolviðarhóli, sem gæti fullnægt þörfum ferðamanna.
Enn var efnt til samskota og Matthías Jochumsson, þá ritstjóri Þjóðólfs, hvatti menn til „drengilegra samskota“. Hægt gekk að safna, en það var svo loks 1877 að framkvæmdir hófust og landshöfðinginn lagði þá fram það sem til þurfti til viðbótar. Veggir voru hlaðnir úr tilhöggnu grjóti, ris var yfir og þar voru tvö herbergi. Niðri var eldhús með eldavél og ofni. Eftir að aðrar byggingar risu á Kolviðarhóli var þetta hús áfram notað til geymslu og öðru hverju var sofið í því fram til 1930. Fyrsta veturinn var þetta hús án gæslu, en öllum opið.
Ekki verður sagt að hlaðið hafi verið undir fyrsta sæluhúsavörðin, en Ebeneser Guðmundsson gullsmiður var náðarsamlegast ráðinn. Bergur Thorberg amtmaður yfir Suðuramtinu gaf út leyfisbréf og þar er tekið fram að Bergur sé riddari dannebrogsorðunnar og dannebrogsmaður.

Kolviðarhóll – Konungskoman 1907.
Ebeneser var „veitt leyfi til að hafa um hönd gestaveitingar á greindum stað, þannig að hann, auk þess að láta mönnum í té mat og kaffi m.m. einnig má veita áfenga drykki“. Þar með hafði náðst fram krafa margra um áfengissölu á fyrirhuguðum veitingastað á Kolviðarhól „til að auðvelda mönnum ferðina yfir heiðina“. Með þetta leyfi í höndum gat Ebenser kallast gestgjafi. Tekið var fram að hann ætti að hirða húsið, en það gat verið erfitt þar sem engin vatnsuppsspretta var.
Vatnsleysið á Kolviðarhóli varð strax til vandræða og réðst Ebeneser í að grafa brunn neðan við bæjarhólinn. Fyrir þetta fékk hann smáþóknun frá Suðuramtinu „með eftirtölum og ónotum“.

Kolviðarhóll 1939.
Ólafur Árnason tók að sér gestgjafahlutverkið á Kolviðarhóli 1880 og gegndi því næstu 3 árin. Hann eignaðist son með Málfríði, bústýru sinni, og var hann skírður Búi Kolviður eftir köppunum tveimur í Kjalnesingasögu. Þetta fyrsta barn sem fæddist á hólnum dó aðeins 5 vikna gamalt. Vorið 1883 giftust Ólafur og Málfríður og fluttu til Ameríku. Þar eignuðust þau 10 börn.
Þá fluttu á Kolviðarhól Jón Jónsson og kristín Daníelsdóttir. Þau sinntu gestgjafahlutverkinu næstu 12 árin. Eitt meginvandamálið var að ferðamenn voru flestir auralitlir og allur viðurgjörningur varð að vera eins ódýr og framast var kostur. Drykkjuskapur ferðamanna, slæm umgegni og fleira þurfti gestgjafinn að glíma við.

Kolviðarhóll 1957.
Guðni Þorbergsson frá Starkaðarhúsum í Flóa réðst vinnumaður að Kolviðarhóli 1886. Þar krækti hann í heimasætuna. Þau tóku við gestgjafahlutverkinu 1895. Þá var nýtt tímabil í samgöngum og flutningatækni hafið; Íslendingar búnir að finna upp hjólið og hestvagnaöld gengin í garð Gamla húsið á Hólnum var nú orðið allt of lítið og aldamótaárið 1900 byggði Guðni nýtt íbúðar- og gistihús við hlið hins eldra. Það var allt úr timbri, en kjallari var úr steinsteypu. Þá höfðu aðeins örfá hús verið steinsteypt í Reykjavík. Líklega hefur verið farið yfir lækinn til að sækja vatnið því steypumöl var sótt í fjöru við Reykjavík og ekið á hestvögnum. Með túnsléttun og garðhleðslum varð til nýbýli að Kolviðarhóli. Þar með var staðurinn orðinn bújörð í Ölfushreppi, en það stóð þó aðeins til 1936.
Nú er Orkuveita Reykjavíkur allsráðandi á svæðinu – með tilheyrandi eyðingarmætti.
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – Gísli Sigurðsson – 31.03-2001.

Kolviðarhóll 1929.
Prestastígur – frá Höfnum
Nafnið Prestastígur er nýlegt heiti á fornri og fyrrum fjölfarinni þjóðleið á Reykjanesi. Sú skýring á nafninu er þó líkleg að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið.
Upphaf Prestastígs ofan Hundadals.
Þegar þessi forna þjóðleið er farin frá Höfnum liggur leiðin frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Á vegi okkar verður þá nýlegur vegaslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðara. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Staðarhverfi.
Öll þessi leið er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir. Víða sést hvar umferðin hefur markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefur verið tínt úr götunni og lagt til hliðar.
Prestastígur – varða.
Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi, sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi og þar hafa skreiðarlestir verið á ferð. Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þarna um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á 17. og 18. öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipskaða sem urðu þar á fyrri hluta 17. aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785.
Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip á árunum 1870 – 1880 og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna. Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma. Hann byggði steinkirkju þá sem enn stendur á Hvalsnesi, en Ketill átti m.a. alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík.
Prestastígur – Eldvörp.
Landkostum hefur á síðari árum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar, sem fóru snemma í eyði. Haugsendar voru milli Kirkjuvogs og Merkisness, tún þar voru mikil, húsaskipan vegleg og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi:
Á Haugsendum er húsavist
sem höldar lofa.
Þar hefur margur glaður gist,
og gleymt að sofa.
Í seinni tíð er farið að nefna þessa fornu þjóðleið Prestastíg en hvergi finnast þess merki í gömlum heimildum. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast, liggur upp frá Húsatóftum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá einni sem héðan farinn verður þangað“. Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.
Prestastígur ofan Húsatófta.
Prestastígur liggur milli tveggja heimsálfa þar sem hann liggur yfir flekaskilin milli Evrópu- og Norðurameríkuflekanna, sem svo eru nefndir. Því má segja, að þegar Prestastígur er genginn, þá fari ferðalangar frá Ameríku og til Evrópu. Reykjanes er að vissu leyti einstakt í sinni röð þar sem þar er eini staðurinn á jarðríki þar sem sést greinilega hvernig úthafshryggur gengur á þurrt land. Best er að skoða sprungukerfið í Stóru-Sandvík eða sunnan við Valahnúk.
Þegar farið er frá Kalmanstjörn er gengið yfir nokkuð slétt, uppblásið helluhraun. Helluhraun þetta er hluti af stórri dyngju sem jarðfræðingar nefna Sandfellshæð. Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hraunið upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Í hrauninu ber mikið á hraunhólum sem eru sprungnir í kollinn.
Þar sem Prestastígur liggur hæst er komið fram á gjábrún. Þar heitir Haugsvörðugjá. Uppi á bakkanum vestan megin eru gjallgígahrúgöld og nefnist þar Haugur. Í kringum gígana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára.
Ef veður er gott er þess virði að taka stuttan útúrdúr og ganga á Einiberjahól sem er ævagamall, stakur gígur skammt sunnan við Prestastíg, suðvestur af Sandfellshæð.
Sunnan undir Sandfellshæð er stakur gíghóll, Rauðhóll og frá honum hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára.
Prestastígur – brú yfir Hrafnagjá.
Gengið er framhjá Rauðhól og austan við hann tekur við mosagróið apalhraun. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann árið 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur verið hlíft við efnistöku. Um tveimur kílómetrum norðar en þar sem Prestastígur fer yfir gígaröðina er allnokkur jarðhiti og þar hefur verið borað á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.
Þar sem Prestastígur fer yfir þetta sögulega hraun er það um 1,5 km á breidd. Þá er komið ofan í kima upp í hraunið og fyrst ber þar við stór og mikil gjá er nefnist Hrafnagjá og er hún í svonefndum Tóttarkrókum. Hraunið sem tekur við er blásið helluhraun og úr Sandfellshæð eins og vestar. Í Tóptarkrókum eru forn hlaðin byrgi sem menn vita nú ekki til hvers voru notuð. Austan við Eldvarpahraunið og niður að Húsatóftum ber mikið á stórum opnum gjám. Fyrst er nefnd Hrafnagjá. Ofan hennar er svonefnt Sauðabæli. Neðar er Miðgjá og næst Húsatóftum er Hjálmagjá. Komið er inn á vestanvert heimatúnið (golfvöllinn) í skarð á gjánni.
Heimild um jarðfræði:
-Kristján Sæmundsson. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi.
Ólafur Sigurgeirsson tók saman.
Bolasteinn
Í sögunni um Skeiða-Otta segir að „Bolavellir og Bolasteinn minna á söguna um Skeiða-Otta og nautið ógurlega sem gekk í sumarhögum á völlunum við Kolviðarhól.
Bolasteinn.
Otti var bóndi austur á Skeiðum og átti erindi til Reykjavíkur þegar komið var að slætti og reið miklum kostahestum sem leið liggur vestur yfir Hellisheiði. Hann vissi um illræmdan griðung frá Viðey í högum hjá Kolviðarhóli og hafði hann orðið tveimur eða þremur mönnum að bana. Nautið lá við Bolastein og hóf þegar eftirför en Otti þeysti undan sem mest hann mátti. Samt dró saman með þeim og tók Otti þá það til ráðs að hann snaraðist af baki, tók upp hníf og lagðist niður milli krappra þúfna. Þar fleygði bolið sér yfir hann, en Otti skar hann á kvið og helltust yfir hann innyflin. Drapst bolinn þar en Otti gat haldið ferð sinni áfram“.
Bolavellir eru nálægt Draugatjörn. Bolalda er vestar, á sýslumörkum. En hvar er Bolasteinn nákvæmlega?
Bolasteinn þjóðsaga
„Á grænni flöt vestan við [Bolasteins]´rásina er stór steinn sem heitir Bolasteinn. Þar segjir sagan að kona hafi bjargast upp undan mannýgum bola. Og þegar boli vildi ekki hafa sig burt, gat hún hellt úr nálhúsi sínu upp í hann. Þá fór hann að lina aðsóknina.“
Heimild m.a.:
-Byggðasafn Ölfuss – fornleifaskráning
Draugatjörn – rétt.
Vogur í Höfnum – landnámsbær
Á haustmánuðum árið 2002 var ákveðið af Byggðasafni Reykjanesbæjar og Umhverfis- og skipulagssviði bæjarins að ráðast í fornleifaskráningu fyrir bæjarfélagið. En skylt er samkvæmt skipulagslögum að vinna slíkt verkefni.
Í október var hafist handa og dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur sem rekur Fornleifafræðistofuna ráðinn til þess að stýra verkefninu og Sandra Sif Einarsdóttir þjóðfræðingur til að sinna skráningunni. Við fornleifaskráningu er mikið notast við loftmyndir. Þegar ein slík var skoðuð í nóvember 2002 sá Bjarni form landnámsskála í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju í Höfnum og styrktist sá grunur þegar hann fór og kannaði svæðið. Í lok nóvember gerði Bjarni prufuholur í miðju hins meinta skála. Það var gert í von um að finna langeld til þess að staðfesta að hér væri um skála að ræða (langeldar finnast einungis í skálum). Gerðar voru tvær holur og í þeirri seinni fannst langeldurinn á tæplega 1 m dýpi. Bjarni tók viðarkolasýni sem send voru í C-14 aldursgreiningu. Niðurstaðan úr þeirri greiningu var sú að það er hægt að segja með 95% vissu að skálinn sé frá árunum 690-900 e. Kr. Með öðrum orðum skálinn var við lýði á því tímabili.
Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli „Vágs ok Reykjaness“, sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara tengsla við orðið „vágr“ og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog. Í skýrslu sem Bjarni skrifaði svo um niðurstöður sínar segir hann frá þeim gruni sínum að fleiri rústir séu í kringum skálann, bæði vegna hóla á svæðinu sem gætu verið merki um rústir og vegna þess að í kringum skála frá þessum tíma eru gjarnan fleiri byggingar og aðrar mannvistarleifar, t.d. fjós, jarðhýsi og öskuhaugar.
Til þess að fá þetta staðfest var ákveðið að jarðsjámæla svæðið. Þær aðferðir á jarðsjámælingum sem í boði eru á Íslandi henta fornleifafræðirannsóknum ekki alltaf nógu vel og eru viðnáms- og segulmælingar venjulega notaðar við slíkt erlendis. Tim Horsley doktorsnemi í jarðeðlisfræði á fornleifafræðisviði háskólans í Bradford, Englandi var því fenginn til þess að framkvæma viðnáms- og segulmælingar á svæðinu. Rannsókn Tim á svæðinu í Höfnum ásamt öðrum sem hann hefur framkvæmt á Íslandi verða hluti af doktorsritgerð hans. Ritgerð hans fjallar um hvort hægt sé að framkvæma slíkar mælingar á Íslandi, en það hefur lengst af ekki verið talið hægt vegna sérstakrar jarðfræði landsins. Rannsóknir Tim hafa hins vegar leitt annað í ljós, þó verða svona mælingar líklega alla tíð mjög erfiðar sökum jarðfræði landsins. Þar sem að frekar djúpt er á fornleifarnar í Höfnum, eða tæpur 1 m þá var ákveðið að fara tvær umferðir með mælitækjunum og eftir þá fyrri taka u.þ.b. 0.5 m ofan af svæðinu til þess að nákvæmari niðurstöður gætu fengist úr rannsókninni og hægt yrði að bera saman niðurstöðurnar úr báðum mælingunum.
Tim viðnáms- og segulmældi 60 x 60 m stórt svæði í kringum landnámsskálann. Niðurstöðurnar sem Tim fékk úr mælingunum voru að auk skálans eru trúlega fimm rústir á svæðinu sem mælt var. Þrjú lítil „hús“ austan við skálann og tvær ógreinanlegar rústir vestan og norðvestan við skálann Eftir að mælingum Tims var lokið var hafist handa við að tyrfa yfir svæðið sem opnað var. Þar sem skálinn liggur var hlaðið upp nokkrum lögum af torfi til þess að líkja eftir útlínum hans. Hraunhellur voru settar nálægt miðju skálans til þess að tákna langeldinn og ein hraunhella sem táknar bæjarhelluna sett við hugsanlegan inngang. Þannig geta gestir og gangandi virt fyrir sér hvernig skálinn getur hafa litið út.
Á skilti við minjarnar stendur: „Árið 2003 fundust á þessum stað tóftir langhúss sem er 18m að lengd og 8 m að breidd. Þá eru greinilegar tóftir fleiri smáhýsa á svæðinu. Við C14 aldursgreiningu fornleifasýna kom fram sterk vísbending um að bærinn hafi verið reistur fyrir árið 900. Frekari rannsóknir eiga eftir að fara fram á svæðinu. Mögulega er hér kominn bústaður Herjólfs Bárðarsonar.
Svo segir í Landnámu: „Herjólfr… var frændi Ingólfs ok fóstbróðir. Af því haf Ingólfs honum land millum Reykjaness og Vágs. Hann sonr var Bárðr, faðir Herjólfs, þess er fór til Grænlands ok kom í hafgreningar.“. Herjólfur, landnámsmaður í Vogi, hefur því verið langafi Bjarna Herjólfssonar sem fyrstur Evrópumanna sá meginland Ameríku.
Reykjanesskaginn allur fellur undir Landnám Ingólfs Arnarssonar. Síðar gaf hann þeim sem hann vildi úr landnámi sínu. Þannig hefur landið sem Herjólfur fékk náð yfir allan Hafnahrepp.
Örnefnið „Vogur“ er væntanlega eldri mynd af „Kirkjuvogi“. Einnig er þekkt örnefnið „Lögrétta“ úr nágrenninu sem talið er að sé undir norðaustur horni kirkjugarðsins.“
Við Kirkjuvogskirkju er annað ankerið af Jamestown, sem náðst hefur upp af strandstaðnum við Ósa. Austan þess var Lögréttan.
Heimild:
-Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar.
-Upplýsingaskilti við „landnámsbæinn“ í Vogi (Höfnum).
Skilti við „Vog“ í Höfnum.
Meradalir
Fjallað er um örnefnið „Meradali“ á Vísindavefnum:
Hraun – Festarfjall (t.v.) og Lyngfell (t.h.).
„Í landi Hrauns austan við Grindavík, í fjalllendinu austan við hina heimsfrægu Geldingadali, er djúp dalkvos sem ber heitið Meradalir. Þegar þetta er ritað er hraun tekið að renna þangað eftir að nýjar gossprungur mynduðust norðaustan við Geldingadali. Hvorugir dalanna eru raunar miklir dalir eins og heitið gæti bent til en tekið fram í örnefnalýsingu Hrauns að hugtakið sé hér einnig notað um brekkur og kvosir.
Sel við Selskál.
Meradölum hefur verið lýst sem „gróðurlitlum leirflötum“ og sennilegt að þar hafi jarðvegsrof verið umtalsvert. Svæðið var notað til beitar, einkum að sumarlagi en sel frá mörgum jörðum í Grindavík voru austan við dalina, á svonefndum Selsvöllum auk þess sem örnefnið Selskál skammt vestan við gosstöðvarnar bendir til selstöðu. Þótt ótrúlegt megi virðast var einnig eldiviðartekja í nágrenninu sem er í upphafi 18. aldar sögð reitingur af lyngi, hrísi og slíku lítilvægu.
Geldingadalur fyrir gosið 2021.
Meradalir er djúp dalkvos í landi Hrauns. Bæði merar og geldingar, þá líkast til sauðir, hafa gengið á þessu svæði frá örófi alda. Örnefnið Meradalir eitt og sér er auðskilið og kemur kannski engum á óvart að bæði merar og geldingar, þá líkast til sauðir, hafi gengið á þessu svæði frá örófi alda. Fleiri búsmalanöfn af þessu tagi fyrirfinnast raunar í landi Hrauns, til dæmis Tryppalágar, Hrútadalur, Nauthóll og Kúalágar. Á hinn bóginn ber að hafa í huga að hér hafa sennilega ekki verið mjög stórir fjárhópar á fyrri öldum (þótt fjölgað hafi á 19.-20. öld) og tæplega nein stóð í Meradölum.
Hraunssel Sandfell og Höfði fjær.
Almennt séð eru landgæði rýr á þessum slóðum, enda hefur sjávarútvegur lengst af verið aðalatvinnuvegur í Gullbringusýslu en ekki landbúnaður og byggðin grundvallast á honum – ekki síst í Grindavík. Búfjárfjöldi er lítill svo langt sem tölur ná og til að mynda taldi bústofn Hrauns ekki nema tvo hesta og eina meri þegar jarðabók var rituð í upphafi 18. aldar – en auk þess þrjá sauði, fjórar kýr, ellefu ær, nokkrar gimbrar og lömb. Allt sauðfé gekk úti um 1840 og þá voru hvorki til fjárhús, beitarhús né fjárborgir í sókninni. Hesthús hafa áreiðanlega verið sjaldgæf líka og líklega hafa merar sem og önnur hross gengið úti árið um kring.
Nauthóll í Fagradal.
Meradölum hefur verið lýst sem „gróðurlitlum leirflötum“. Þeir sjást hér vel á loftmynd sem tekin var 5. apríl 2021 þegar hraun tók að renna niður í dalina. Meradalirnir breiða úr sér þar sem hrauntungan endar vinstra megin fyrir miðri mynd. Hægra megin á myndinni sést hraunið í Geldingdölum.
Selstóftir á Selsvöllum.
Til marks um beitargæði eða öllu heldur skort á þeim er tekið fram í sóknarlýsingu að á Suðurlandi finnist eigi jafngraslítil og gróðurlaus sveit. Sömuleiðis er fullyrt að á Hrauni sé ekki höfð nokkur skepna heima á sumrum vegna beitarskorts heldur allir hestar daglega fluttir langt í burtu, „…á bak við Fiskidalsfell, þó brúka eigi strax að morgni“, en fellið er heldur vestar en dalirnir sem hér eru til umræðu. Kannski geyma Meradalir vísbendingu um slíkar nytjar, og eru þá kannski helst vitnisburður um skort á landgæðum og að augu manna hafi beinst að hverjum einasta bletti sem gat fóðrað skepnu eða tvær.“
Rétt er að geta þess að örnefnið „Merardalir“ eru jafnan notað í fleirtölu vegna þess að dalirnir eru tveir; Meradalur og Syðri-Meradalur (Fremri-Meradalur). Slíkt og hið sama gilti og um Geldingadalina.
Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=81496
Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni skv. herforngjaráðskorti 1906.
Keilisnes
Keilisnes er nes milli Flekkuvíkur og Kálfatjarnar. Flestum núlifandi er það ferskast í minni vegna umræðna um væntingabyggingu álvers á síðasta árattug er gufaði upp jafnskjótt og hún hafði kviknað.
Efst á nesinu, skammt frá gamla þjóðveginum, er varða sem Stefánsvarða heitir, á hæð sem við hana er kennd. Þaðan er mikið útsýni yfir Faxaflóa. Örn Arnarson skáld lýsir siglingu Stjána bláa fyrir Keilisnes í örlagaþrungnasta minnigarkvæði sem ort hefur verið um íslenskan sjómann:
Löðri siglum hærra blés
Söng í reipum. Sauð á keipum.
Sá í grænan vegg til hlés.
Stjáni blái strengdi klóna,
Stýrði fyrir Keilisnes.
Ríkið á þarna landið. Fjárfest hafði verið í því eftir að vonarblær lék um byggingu álversins. Hugmyndir eru nú um það í bæjarstjórn Voga að falla frá því að skilgreina svæðið sem iðnaðarsvæði. Keilisnes kemur og til greina sem nýr staður undir álver Alcans í kjölfar þess að Hafnfirðingar felldu stækkun álversins í Straumsvík. Bæjaryfirvöld í Vogum á Vatnsleysuströnd íhuga hins vegar að falla frá því að skilgreina svæðið sem iðnaðarsvæði.
Hafnfirðingar höfnuðu því að álverið í Straumsvík yrði stækkað í 460.000 tonna ársframleiðslu, í atkvæðagreiðslu á dögunum. Síðan hefur komið fram að hægt er að stækka álverið í Straumsvík umtalsvert á núverandi lóð þess. Þá hefur einnig komið fram að kostnaður álversins vegna hugsanlegrar stækkunar sé þegar kominn yfir miljarð króna og spurning hvort stjórnendur fyrirtækisins vilji nýta þá fjármuni eða hætta rekstri hér og tapa þeim peningum alveg. Haft var eftir Gunnari Guðlaugssyni, sem líka leysir Rannveigu Rist af hólmi, í fréttum Stöðvar tvö að hugmyndin um Keilisnes væri góð. Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi og stjórnarmanni í Alcan, sagði í fréttum stöðvarinnar að Keilisnes væri einn möguleikanna. Nýjustu fréttir gefa Hafnfirðingum þó von um að álverið verði um kyrrt á sínum stað næstu nálæga áratugina.“
Keilisnesið er í Flekkuvíkurlandi. „Ríkið á land á Keilisnesi, sem fyrr sagði, og eignaðist það raunar vegna hugmynda um álver á nesinu, á tímum Viðeyjarstjórnarinnar. Lóðin þar er skilgreind sem iðnaðarlóð í aðalskipulagi Voga á Vatnsleysuströnd. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum, segir að verið sé að endurskoða aðalskipulagið og að það hafi komið til tals í bæjarstjórn, að falla frá því að skilgreina svæðið sem iðnaðarsvæði. Það verði þó ekki gert án samráðs við landeigandann. Fram kom í könnun Gallups að meirihluti landsmanna vill gera hlé á stóriðju næstu fimm árin; 2/3 kvenna og helmingur karla. Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, hefur sagt að ekki sé farsælt að stíga á bremsuna í þessum efnum.“ Þótt afstaða formannsins hafi verið raunhæf með hliðsjón af þróun þjóðarbúskapsins virtist hún úr takt við viðhorfs fólks er bar umhyggju fyrir náttúru og umhverfi landsins.
Á Keilisnesi dagaði fyrsti togari Íslendinga, Coot, uppi.
„Í marsmánuði (þann 6. mars) árið 1905 kom fyrsti togarinn í eigu Íslendinga, sem stofnað höfðu Fiskiveiðahlutafélag Faxaflóa árinu áður, til heimahafnar í Hafnarfirði. Skipið var breskur gufutogari sem hét Coot, þ.e. blesönd, en skipið var smíðað í Glasgow árið 1892 og mældist 141,5 brl. Útgerðin gekk brösuglega í fyrstu en síðan batnaði afkoman og síðustu árin var ágætis hagnaður af útgerð togarans, en skipið strandaði í desember 1908 við Keilisnes og náðist ekki á flot aftur. Togarinn Coot var ekki stórt skip, jafnvel á sínum tíma, og var ekki eiginlegur úthafstogari heldur ætlaður til veiða á innsævi og veiddi hann því aðallega í Faxaflóanum.
Togarinn gekk fyrir gufuaflsvél. Sá sem stuðlaði að því að Coot var keyptur til Íslands var útgerðarmaðurinn Einar Þorgilsson. Landsmenn vildu banna botnvörpur en svartsýni þeirra hvarf þegar þeir sáu hvað útgerðin gekk vel.

Á Coot var tólf manna áhöfn, allt Íslendingar. Útgerðin gekk oftast vel og skilaði miklum hagnaði til eigendanna. Erfiðlega gekk að gera togarann út fyrsta árið en betur þegar á leið og útgerðin skilaði miklum hagnaði eða alveg þangað til Coot strandaði við Keilisnes árið 1908, en það urðu endalok útgerðarinnar. Nú eru engin ummerki eftir strandið á Ströndinni, en ketillinn úr togaranum var tekin þaðan og settur upp við minjasafnið í Hafnarfirði.
Næst á eftir Coot kom togarinn Jón forseti árið 1907. Hann var á vegum útgerðarfélagsins Alliance. Eftir það kom hver togarinn á fætur öðrum til landsins og árið 1912 voru þeir orðnir tuttugu talsins á öllu landinu.
Í lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu eftir Skúla Magnússon er fjallað um Kálfatjarnarsókn. Þar eru sagðar 18 jarðir og eigi konungur 15 þeirra, en hinar 3 á Kálfatjarnarprestakall. „Mannfjöldi var árið 1703 [er] 401, en árið 1781 464. Engjar eru sagðar engar og eigi annar heyskapur en sá er fæst af túnunum og er ekki hægt að stækka þau. Frá flestum bæjum eru selstöður upp til fjalla. Í sókninni er hvergi hagfelldur staður til nýbýla, en eitthvert hið besta land til sauðfjárræktar, þar er Skúli hefur séð á Íslandi á fjögurra mílna svæði samhliða bæjunum. Á breiddina nær það svæði 2 mílur (danskar) frá sjónum upp að háfjöllunum sem greina Gullbringusýslu frá Árnessýslu. Þannig tekur þetta svæði yfir 8 fermílur.
Segir svo að á milli Kálfatjarnarsóknar og Garðasóknar sé hálent hraunsvæði, sem Almenningur nefnist. Er það 2 mílur að breidd og þriggja mílna langt frá sjónum upp að fjöllunum. Landslag og gróður er þar með sama hætti, sem fyrr segir um Kálfatjarnarþingsókn; þó er þarna meira smáhrís og lyng. Undir þessu hrauni er bærinn Lónakot, sem eyddist fyrir skömmu af sjávargangi (það er að sjóflóð árið 1776 reif bæði burtu grassvörðinn af túninu og fyllti húsin og vörina grjóti og möl).“
Meira er fjallað um Vatnsleysustrandarbæi, minjar og sagnir annars staðar á vefsíðunni.
Búrfellsgjá – skilti
Þegar gengið er að Búrfellsgjá frá sunnanverðri Vífilsstaðahlíð má lesa eftirfarandi texta á tveimur skilti, annars vegar skammt frá akveginum (bílastæðinu) og hins vegar skömmu áður en komið er að Vatnsgjá og Gjáarrétt.
Á hinu fyrrnefnda stendur: „Búfellsgjá er syðst í svonefndu Hjallamisgengi sem nær frá Vílfilsstaðahlíð að elliðavatni. Austan gjárinnar eru Hjallarnir, fallegar og gróskulegar kjarrbrekkur með vöxtulegum birkihríslum og blómlegum undirgróðri. Skammt frá er Hjalladalur, en þar á flötunum er nú áningarstaður og tjaldstæði. Hálftíma gangur er um Búrfellsgjá að Búrfelli. Gjáin er ein sérstæðasta hrauntröð landsins. Búfell er eldstöð frá nútíma og þaðan rann 18 km2 hraun fyrir um 7200 árum. Gjárétt var hlaðin úr hraungrjóti árið 1839. Hún var fjallskilarétt til ársins 1920 en er nú á fornminjaskrá.“
Búrfelli. Hrauntröðin er farvegur glóandi kvikunnar sem kom upp í gosinu og fyllti kvikan tröðina upp á barma. Í lok eldvirkninnar tæmdist hrauntröðin. Talið er að hraun þetta hafi runnið fyrir um 7000 árum.
óðum.
Á skiltinu við Gjáarrétt og Vatnsgjá stendur: „Búrfellsgjá er 3.5 km hrauntröð sem liggur vestur úr
Gjárrétt stendur á flötum hraunbotni Búrfellsgjár ekki langt frá misgengisbrúninni á mótum Selgjár og Búrfellsgjár. Réttin er hlaðin um 1840 úr hraungrýti úr nágrenninu. Innst í réttargerðinu er gjáarbarmurinn veggbrattur af náttúrunnar hendi og slútir fram yfir. Þar innundir berginu er hlaðið byrgi sem var notað sem fjárbyrgi og afdrep mann til gistingar.
Alldjúp gjá eða sprunga, Vatnsgjá er í botni Búrfellsgjár skammt norðan réttarinnar. Í gjánni eru um sex metrar niður að vatnsborði, vatnið er ferskt og endurnýjast sífellt. Vatnsgjá hefur verið forsenda fyrir selstöðu sem var á þessum sl
Leitir til Gjáarréttar voru þrjár. Í Suðurleit var leitað suður fyrir Kleifarvatn og um fjalllendið þar umhverfis. Í miðleit var leitarsvæðið í Kristjánsdölum og í hlíðunum þar uppaf, í Grindarskörðum og þar sem land liggur til norðurs að Húsafelli. Norðurleit var frá Húsafelli norður um Tungur.“
Þá er getið um tilheyrendur einstakra dilka í réttinni, s.s. 1. Grindavík, 2. Vatnsleysuströnd, 3. Suður Hafnarfjörður, 4. Setberg, 5. Hraunabæir, 6. Garðahverfi, 7. Vestur-Hafnarfjörður, 8. Urriðakot og Hofsstaðir, 9. Vílfilsstaðir, 10. Ómerkingar, 11, Vatnsendi o.fl. bæir í Seltjarnarneshreppi, 12. Selvogur og 13. Almenningur.“
Ekki er getið um vestasta dilkinn og þann ógreinilegasta (hefur ekki verið endurhlaðinn) en hann hefur líklega verið safndilkur til undirbúnings áður en fjárhópar einstakra bæja voru reknir frá réttinni um þær þrjár rekstrargötur er enn sjást upp úr Gjánni, þ.e. til Vatnsenda (Elliðavatns), í Hafnarfjörð og Garðahrepp og loks til Selvogs og Grindavíkur.
Tækifærið var notað í blíðviðrinu til að skoða Gerðið skammt frá réttinni, hrauntröðina, Búrfellsgíginn og nærliggjandi hella og skjól.
Víða á vefsíðunni er fjallað um Búrfellsgjá og nágrenni. Hægt er að finna fróðleikinn með því að skrá nafnið/heiti inn í leitarstrenginn efst á síðunni.
Búrfellsgjá – skilti.
Hrútagjárdyngjuhraun – hrauntröð – skúti
Í Hrútagjárdyngjuhrauni er gígur í gígaröð og falleg hrauntröð út frá honum. Heimildir herma að í hrauntröðinni sé lítill hellir eða stór skúti. Í honum er hlaðið undir bæli. Mosagróin hrossabein eru við opið. Ætlunin var m.a. að finna staðinn – og kíkja á gíginn.
Hrútadyngjuhraun varð til í Hrútagjá fyrir u.þ.b. 5000 árum síðan. Lítið fell suðaustan við Sandfell nefnist Hrútafell. Það gæti hafa dregið nafn sitt af gjánni – eða öfugt.
Til að auka enn á áhrif dyngusvæðisins seig landið vestan við hana og myndaði sigdal á milli misgengja. Um er að ræða sama virknisreinina og sjá má á Þingvallasvæðinu. Svæðið hefur væntanlega sigið einna mest á síðari öldum því nýrri hraun bæði fylla sigdalinn og efri brúnir hans beggja vegna. Um hefur verið að ræða þunnfljótandi helluhraun, nálægt 1/2 meters þykkt, sem nú er nær eingöngu þakið þykkum hraungambra. Þetta hraun kom upp á sprungurein Trölladyngjusvæðisins líkt og önnur hraun á svæðinu eftir að dyngjugosinu sleppti. Vestar er gígaröð utan í Trölladyngju, við Mávahlíðar, en það hraun rann m.a. niður Einihlíðar, og síðan gígaraðir austan við Fíflavallafjall og loks þessi, sem hér var ætlunin að skoða nánar. Að öllum líkindum er hér um að ræða hluta af gígaröðinni er myndaði Ögmundarhraun að sunnanverðu og Kapelluhraun að norðanverðu árið 1150. Hraunið við þennan hluta er ekki óáþekkt þessum hraunum og gróningarstaðan svipuð. Gígaröðin er um 25 km löng og nær frá Núpshlíðarhorni í suðri að Helgafelli í norðri.
Skammt austan gígaraðarinnar er gjá, sem þunnfljótandi hraunið hefur náð að fylla að hluta. Útsýni til norðurs er stórbrotið; hamraveggir og kollurinn á Fjallinu eina í fjarska. Til norðvesturs má sjá Mávahlíðahnúk og Mávahlíðar sunnan hans. Norðlingahálsinn skagar útnorður úr Sveifluhálsi. Vestan hans er falleg klettamyndun. Skammt raunsunnar eru Köldunámur.
Klettamyndanir utan í vestari hamraveggnum eru stórbrotnar. Þrátt fyrir nákvæma leit utan í honum fannst hvorki skúti né lítill hellir. Þegar stefnan var tekin upp á austari brún misgengisins tók við úfnara mosahraun, en þó ekki ógreiðfært. Ljóst er að víðast hvar á svæðinu geta verið rásir og skútar, sem nýta hefði mátt sem afdrep eða skjól um tíma, a.m.k. bentu ummerki austan hraunbrúnarinnar til þess. Þar var hlaðið gerði og flóraður stígur að því – sennilega eftir einhvern nútímamanninn.
Annars er Hrútagjár(miðkjarna)svæðið stórbrotið jarðfræðifyrirbæri. Glóandi kvikan hefur þrýst yfirborðinu upp þannig að fyrrum slétt helluhraunið myndar nú líkt og næstum lóðrétta veggi umhverfis hana, einkum að norðaustan- og suðvestanverðu. Gígurinn er nú hringlaga tjörn þar sem kvikan hefur storknað líkt og tappalaga lægð. Í jöðrunum eru djúpar gasuppstreymisrásir. Þegar hraunkvikan leitaði frá uppsprettunni lá leið hennar um traðir, sem nú eru mest greinilegar næst gígnum. Gífurlegur hraunmassi kom upp í gosinu og myndaði hann allt undirlendið, allt að Óttarstöðum í útnorðri (norðvestri) og að jöðrum Þráinsskjaldar (sem einnig er dyngja) í vestri. Nú er Hrútagjárhraunið þakið birki og víði, lyngi, fjalldrapa, grasi og öðrum þeim plöntutegundum er prýtt geta gamalt hraun hér á landi.
Í leiðinni var komið við í hluta Hrútagjárinnar og gjáin fetuð með háa bergveggina til beggja handa. Gjáin gefur Almannagjá og Hrafnagjá lítið eftir hvað mikilfengleik varðar.
Eftir að áð hafði verið í stærsta gígnum var röðinni fylgt til norðurs. Víða mátti sjá göt í gjám, en í jarðfalli einu miðlungsstóru var lítið op. Þar undir niðri virðtist vera stór hellir. Ekki varð komist þangað niður nema með aðstoð reipis. Ætlunin er að fara þangað fljótlega og skoða fyrirbærið. Stærðin gefur von um merkilegheit.
Hrútagjárdyngjan sem og hraunasvæðin milli Hálsanna eru stórbrotin útivistarsvæði og koma sífellt á óvart hvað fegurð og mikilfengleik varðar. Að þessu sinni var umhverfismyndin einstök á að líta því hitinn frá sólinni náði að endurheimta regnvatnið frá deginum áður. Við það varð fagurgrænn mosinn smám saman grár, auk þess sem gufan steig svo til beint upp af honum í logninu.
Ætlunin er að fara fljótlega aftur á vettvang og þá skoða hellinn, sem fengið hefur nafnið Ellefuhundruðogfimmtíu, betur með aðstoð hellamanna.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Flugvélaflak í Hrútagjárdyngjuhrauni I
Þegar FERLIR var á gangi um Hrútagjárdyngjuhraun nokkru austan svæðis ofan brúna í Almenningi er liggur milli Óttarsstaðasels og Lónakotssels, virtist mikið ganga á.
Gengið hafði verið upp gleymdan fornan stíg vestan við Rauðamelsstíg (sennilega Skógargötuna), í gegnum Óttarsstaðasel og áleiðis upp í Skógarnef. Þyrla hafði lent við litla flugvél, sem hafði hrapað í gróið hraunið efst og austast í Skógarnefinu, og snúist á bakið. Flugvélin bar einkennistafina TF-OND, Cessna 152, og virtist talsvert skemmd. Tveir menn sem verið höfðu í flugvélinni sakaði lítt. FERLIRsfélagar höfðu ekki verið sjónarvottar að aðdraganda óhappsins, en reyndu í framhaldinu að forvitnast svolítið um það.
Lögreglubíll frá Hafnarfirði var strax sendur á vettvang og var kölluð til þyrla, sem flutti mennina á slysa- og bráðadeild Landspítala – háskólasjúkrahúss en erfiðlega gekk að komast að vélinni þar sem hún lenti í Kapellu- eða Selhrauni um 6 km frá veginum.
þar sem ökutæki varð ekki fært um hraunið. Höggið er flugvélin lenti á jörðinni hefði verið töluvert því jarðvegur hafði rifnað upp, nefhjólið brotnað af og skrokkur vélarinnar verið aflagaður. Fulltrúi Rannsóknarnefndar flugslysa var með í för og hélt hann rannsókn sinni áfram þegar flugmaðurinn, nemi, og kennari úr vélinni voru fluttir á slysadeild til skoðunnar. Þeir hefðu verið að æfa hægflug í u.þ.b. 1000 feta hæð; dregið af vélinni og sett flapsana út til að geta flogið hægt. Þegar þeir hafi tekið eftir að flugvélin var að missa hæð reyndu þeir að gefa vélinni inn, en hún þá farið að halla á hliðina. Við það fór flugvélin niður og gat áhöfnin ekki komið í veg fyrir að hún hafnaði í jörðinni í beygjunni. Vélin lenti á nefinu og rann þannig stuttan spöl áður en hún fór yfir sig og hafnaði á hvolfi. Áhöfnin hafi síðan komist af sjálfdáðum út úr vélinni.
óhappið varð, hluti af aðalæfingasvæði flugnema. Slík atvik séu sem betur fer svo fátíð að sérhvert slíkt verður að teljast til einstakra tíðinda. Hér hafi verið um mannbjörg að ræða og það skipti öllu máli. Rannsókn á óhappinu myndi væntanlega upplýsa nánar um ástæðu þess. FERLIR minnist þess ekki að sambærilegt óhapp hafi áður orðið á þessu svæði – þrátt fyrir hina miklu flugumferð um langt skeið.
um 4000 ára. Kapelluhraun, öðru nafni Nýjahraun eða Bruninn, rann árið 1150, enda nær eingöngu þakið mosa (hraungambra). Hrútadyngjuhraunið er upprunnið úr dyngju, enda umfangsmest, en hin komu úr gjóskugígum. Á meðfylgjandi myndum er augljóslega um dyngjuhraun að ræða.
Í frétt MBL um málið sagði síðan: „Tilkynning um að lítil, tveggja sæta Cessna-152-flugvél með tveimur mönnum innanborðs hefði hrapað í hrauninu suður af álverinu í Straumsvík barst til Fjarskiptamiðstöðvar lögreglunnar kl. 19.09 í gærkvöldi.
Að sögn vakthafandi læknis voru mennirnir afar brattir miðað við óhappið en í gærkvöldi var ekki gert ráð fyrir að þeir yrðu lagðir inn heldur útskrifaðir eftir frekari rannsóknir. Ekki var talið að mennirnir þyrftu á áfallahjálp að halda. Þeir vildu ekki ræða við fjölmiðla.
Rannsókn á tildrögum slyssins hófst strax í gærkvöldi og mun standa yfir næstu daga.“
Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á höfðuborgarsvæðinu fóru lögreglumenn á vettvang með þyrlu Landhelgisgæslunnar
Að sögn flugmanna, sem rætt var við, er svæðið þar sem
Í fréttum fjölmiðla af slysinu var staðsetning þess eitthvað á reiki, ýmist nefnd Afstapahraun, Kapelluhraun eða Selhraun. Ef vel er að gáð gefur gróðurinn í hraununum nokkuð góða mynd af aldri þeirra. Hrútadyngjuhraun er elst sjáanlegu hraunanna neðan móbergshálsanna (sem urðu til í gosum undir ísaldarjökli), um 5000 ára, enda grónast og með fjölbreytilegastri flóru. Selhraunin fjögur, neðanverð, eru yngri, en Afstapahraunið eldra er runnið hefur þvert á þau gæti verið
Það sem vakti annars sérstaka athygli í þessari ferð voru hinir myndarlegustu sveppir víðast hvar í hraununum. Þeir höfðu greinilega náð að þroskast því þeir virtust í góðum blóma.
Gangan frá Óttarsstaðafjárborginni upp í ofanvert Skógarnefið tók u.þ.b. klukkustund. Flugvélaflakið er því nálægt 6 km ofan við Reykjanesbrautina. Frábært veður.
Þyrla hífir vélina upp.
Litlibær – Borgarkot – stórgripagirðing
Skoðuð var gömul stórgripagirðing austan Litlabæjar. Gengin var Gamlivegur (kirkjuvegurinn) í áttina að Keilisnesi og litið á stöplana. Þeir liggja í um 1.340 m aflíðandi bogadregna línu frá vestri, túngarði Bakka og Litlabæjar, til austurs og austast til norðurs að sjó.
Girðingarsteinn við Borgarkot.
Um 10 metrar eru á milli steinstöpla og er höggnar tvær holur í hvern stein, önnur ofan á og hin á suðurhliðina. Í þessar holur voru látnir stuttir tréstaurar og upp á þá væntanlega þrætt band á milli þeirra. Girðingin hefur verið til að varna stógripum göngu sunnar en bónda þótti við hæfi.
Steinar þessir eru fyrir margra hluta sakir merkilegir. Þeim er raðað í beina röð langa leið, í þá höggin tvö göt hvern og í götin reknir trétappar. Sennilega þekkjast fáir slíkir hér á landi, a.m.k. ekki á Reykjanesskaganum.
Girðingin er yngri en suðaustanverður túngarðurinn á Bakka og Litlabæ því ella hefði grjótið úr henni næst veggnum verið tekið í hann. Auðveldlega væri hægt að aldursgreina einn trétappann eða fleiri og komast á nálgunaraldri þeirra. En hvað sem öllum ágiskunum um aldur líður er hér um að ræða merkilegt mannvirki.
Þorvaldur Örn Árnason við stórgripagirðinguna ofan Borgarkots.
Þorvaldur Örn Árnason, kennari við Stóru-Vogaskóla, sendi FERLIR eftirfarandi fróðleik:
„Ég las í nýútkominni bók um Jamestown-strandið í höfnum að bændur á Vatnsleysuströnd hefðu keypt þar vír og rakið upp í þætti og notað í girðingar.
Við Heiða skoðuðum og tókum myndir 2012 af fornri stórgripagirðingu við Kálfatjörn og Keilisnes. Nú legg ég saman 2 + 2 og fæ út að þarna hafi menn notað vír úr Jamestown – og það fyrir aldamótin 1900!
Á bls.37 í bók Halldórs Svavarssonar, Strand Jamestowns, segir frá vírum og köðlum sem mikið var af. Þar segir:
„Ólafur Ketilsson sagði að faðir sinn hefði keypt allan vírinn og megnið af tóginu sem hann seldi síðan að mestu. Útvegsbændur keyptu tógið og notuðu meðal annars í netateina, stjórafæri og landfestar. Vírinn seldi hann til bænda í Vatnsleysustrandarhreppi sem einkum nýttu hann í túgirðingar. Þetta voru fyrstu vírgirðingarnar í Gullbringusýslu og sennilega á öllu landinu. Þeir Vatnsleysustrandarmenn röktu vírana upp, líklegt að þeir hafi verið þriggja eða fjögurra þátta og hver þáttur snúinn saman af mörgum grennri vírum. Með upprakningunni fengu þeir mjög langan einþættan vír. Eftir þetta var talað um að öll tún á Vatnsleysuströnd væru afgirt með vír.““
Þorvaldur Örn við einn stein stórgripagirðingarinnar. Sjá má trétappa með járnlykkju í steininum.
Kolviðarhóll I
Eftirfarandi er stytt grein eftir Gísla Sigurðsson í Lesbók Morgunblaðsins 31. mars 2001. Hún fjallar um „Kolviðarhól undir Hellisskarði„. Önnur grein Gísla um Kolviðarhól birtist í Lesbókinni 7. apríl 2001 og er hægt að sjá hana undir yfirskriftinni „Kolviðarhóll II“ hér á vefsíðunni.
Sæluhúsið við Draugatjörn.
„Það þótti mikil framför þegar frumstæður kofi á Bolavöllum var lagður niður og sæluhús reist á Kolviðarhóli 1844. Betra hús reis þar 1877 og þá var sæluhúsavörður ráðinn. Eftir 1883 og fram til 1938 var úrvalsfólk á Hólnum, fyrst við frumstæð skilyrði og starfið fólst m.a. í því að bjarga aðframkomnum ferðamönnum ofan af Hellisheiði og úr Svínahrauni. Drykkjuskapur var algengur á ferðalögum, einkum á leið úr kaupstað. Fyrst var tímaskeið lestarferða, síðan hestvagnatímabilið og loks bílaöldin.
Kolviðarhóll 1910.
„Á árabilinu frá 1877 og framundir 1940 vissi hvert mannsbarn í Reykjavík og á Suðurlandi um Kolviðarhól, áningar- og gististaðinn við brún Hellisheiðar. Aðstöðunni þar átti fjöldi manns líf að launa og þar leituðu skjóls háir sem lágir, allt frá flökkurum til Íslandsráðherra og Kolviðarhóll var jafnvel viðkomustaður Friðriks konunngs VIII í Íslandsför hans 1907.
Kolviðarhóll 2010.
Menn komu á Hólinn fótgangandi og stundum aðframkomnir; sumir voru frægir förumenn, aðrir á leið í verið með föggur sínar og skrínur á bakinu. Lengi vel voru þó flestir ríðandi með hesta undir böggum, ýmist í lest eða ráku þá lausa, uns hestvagnatímabilið hófst. Þá var ekki lengur hægt að fara brattan stíginn upp Hellisskarðið ofan Kolviðarhóls, heldur var þá rudd braut suður með Reykjafelli og upp á Hellisheiðina um Hveradalabrekkur. Lengi vel lá Suðurlandsvegurinn sömu leið framhjá Kolviðarhóli og þaðan vestur yfir Svínahraun. Gistihúsið á Hólnum, hátt og reisulegt með þremur burstum, var rekið löngu eftir að bílaöld gekk í garð. En eftir að krókurinn upp að Kolviðarhóli var tekinn af og vegurinn lagður skemmri leið, fór svo að þessi frægi gististaður varð utan við alfaraleiðina.
Kolviðarhóll um 1930.
Árið 1977 urðu þau tímamót að húsið var brotið niður og síðan hefur Kolviðarhóll svo að segja fallið í gleymsku og dá.
Sá skortur á menningarlegum metnaði, sem lýsir sér í því að brjóta niður eitt prýðilegasta verk Guðjóns Samúelssonar húsameistara, er ótrúlegur og efni í sérstaka umfjöllun.
Hellisheiðargata.
Húsráðendur á Kolviðarhóli, sem sinntu hjálparstarfi og sáu gestum jafnframt fyrir gistingu og veitingum voru framan af hjónin Jón Jónsson og Ksristín Daníelsdóttir, síðan Guðni Þorbergsson og Margrét Jónsdóttir fram til 1905 og þá tóku við frægustu gestgjafar staðarins; Sigurður Daníelsson og Valgerður Þórðardóttir, fólk sem allir Sunnlendingar vissu deili á.
Þjóðleiðin forna frá Árnessýslu til Mosfellssveitar lá úr Ölfusi upp Kamba og þaðan vestur á Hellisheiði, austan við Hurðarás ofan Kolviðarhóls. Upp og niður úr skarðinu var hægt að komast með klyfjahesta, en alls ekki með hestvagna. Þegar komið var niður úr Hellisskarði lá leiðin um Bolavelli, vestur með Húsmúla og síðan um norðanvert Svínahraun, framhjá Lyklafelli og oft var komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Þessi leið milli byggða var talin rösk þingmannaleið, eða um 35 km. Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er leiðinni lýst. Þá voru hestagöturnar sagðar greinilegar á hraunhellunni.
Gata um Helluna á Hellisheiði.
Hestagöturnar, sem markast hafa í hraunhelluna á Hellisheiði af umferð járnaðra hesta sjást mjög greinilega á þriggja km kafla, en eftirtektarvert er, að þær skuli hafa verið orðnar svo greinilegar þegar fyrir 300 árum. Hurðarás var aftur á móti svo nefndur vegna þess, að þegar þangað kom á austurleið yfir heiðina var allt í einu eins og hurð væri opnuð og víðerni Suðurlands blöstu við, allt til Vestmannaeyja.
Kolviðarhóll var og er í Árnessýslu. Við Bolaöldu, vestan Svínahrauns eru sýslumörkin. Þótt Kolviðarhóll eigi sér alllanga sögu sem áningar- og gististaður er hann einnig sögustaður, svo nefndur eftir Kolviði á Vatni (Elliðavatni) sem barðist við þann mikla kappa Búa Anríðsson eftir því sem Kjalnesingasaga segir. Í sögunni er hann reyndar ýmist nefndur Kolfinnur eða Kolfiðr. Vildu báðir eiga Ólöfu hina vænu í Kollafirði og höfðu háð einvígi þar sem Búa veitti betur, en báðir lifðu. Ekki lét Kolviður sér það að kenningu verða og sat um líf Búa, sem var á heimleið frá Noregi og hafði gengið frá skipi sínu á Eyrum (Eyrarbakka).
Búasteinn.
Kolviður á Vatni hafði spurn af útkomu Búa og lét njósna um ferðir hans. Reið hann við tólfta mann í fyrirsát í Öxnaskarði ofan við Kolviðarhól. Biðu þeir þar við stein, rétt við götuna, sem nú er kallaður Búasteinn. Búi varð var við fyrirsátina af skarðinu og reið að steini einum miklum; sneri hannbaki að steininum svo ekki varð komist aftan að honum. Skiptust þeir búi og Kolviður á orðum og kvaðst Kolviður ætla að njóta þess að vera með flokk manna á móti honum; „skal þá vel við því taka,“ sagði Búi.
Er skemmst frá því að segja, að Búa tókst að gera menn Kolviðar óvíga hvern á eftir öðrum og féllu sex, en sjálfur sparaði Kolviður sig uns ekki varð undan vikist. Hjó hann þá „hart og tíðum og sótti alldrengilega. Hjóst skjöldur Búa, en Kolviður tók að mæðast. Þurfti Búi þá ekki mörg högg; ónýtti hann skjöld Kolviðar og veitti honum síðan það slag að andstæðinginn tók sundur í miðju“. Búi var „ákaflega vígmóður og nokkuð sár“, en gat haldið ferð sinni áfram. Steinninn heitir síðan Búasteinn. En eftir honum ógæfusama Kolviði á Vatni er Kolviðarhóll nefndur.
Hellukofinn á Hellisheiði – byggður upp úr Biskupsvörðu.
Öldum saman höfðu menn farið alfaraleiðina yfir Hellisheiðina án þess að nokkuð væri um húsaskjól þar til 1830 að Þórður bóndi á Tannastöðum hlóð birgi uppi á heiðinni sem enn stendur. En elsta heimild um sæluhúskofa í námunda við Kolviðarhól er eftir Hálfdán Jónsson lögréttumann í lýsingu Ölfushrepps frá 1703. Þar er minnst á sæluhús á Hvannavöllum (nú Bolavöllum) og segir þar svo: „Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka við fyrir neðan skarðið, stendur sæluhús (ei langt frá veginum) svokallað, hverju allt til þess tíma Ölvesbyggjarar hafa uppi haldið, vegfarandi fólki til innivistar, er og lofsvert að þetta sæluhús ei niður falli.“
Sæluhúsið við Draugatjörn.
Sveinn Pálsson, náttúrfræðingur, minnist á sama sæluhús hátt í öld síðar; segir að þar sé lítill kofi hlaðinn úr hraungrýti með torfþaki og að margir hafi dáið úr kulda í þessum kofa, örmagna af hungri og kulda.
Skammt frá kofanum var dálítil tjörn, nefnd Draugatjörn, og töldu margir svo reimt í kofanum að þar væri naumast vært. Hafði Magnús bóndi Pálsson á Fossi í Grímsnesi heldur betur fengið að kenna á því, annálað hraustmenni og gerði grín að draugatrú og myrkfælni. Gisti hann við annan mann í kofanum og brá sér út að tjörninni. Þar réðst að honum ófreskja og komst hann við illan leik, rifinn og tættur, inn í kofann. Sár á nefi greri aldrei, enda var það eðli sára sem draugar veittu, og Magnús varð aldrei samur maður eftir.
Kolviðarhóll 1907.
Eiríkur bóndi í Haga í Eystrihreppi komst mun betur frá viðskiptum við sæluhúsadrauginn. Hann var á ferð til skreiðarkaupa, hafði sest að í myrkri í kofanum og tók til matar síns. Þá fór hann að sjá eldglæringar í hinum enda kofans og sagði bara sísona: „Kvekið þið, kindur sælar, svo Hagakarlinn sjái til að rífa roðbitann sinn.“ Hættu þá glæringarnar og svaf Eiríkur þar rótt um nóttina. Svo skrái Brynjúlfur frá Minna-Núpi.
Sögur af þessu tagi urðu til þess að menn voru dauðsmeykir við að gista í kofanum, einkum ef þeir voru einir á ferð. Einu sinni hafði sú hræðsla alvarlegar afleiðingar. Gömul sögn úr Ölfusinu greinir frá því, að eitt sinn hafi ferðamaður leitað skjóls í kofanum og lokað kirfilega að sér að innanverðu. Um nóttina heyrði hann traðk utandyra og rjálað við hurðina eins og reynt væri að opna hana. Hirti hann ekki um það; hefur ugglaust búist þar við draugi og verið hræddur. Um morguninn brá þessum ferðalang ónotalega þegar hann opnaði og sá að utandyra lá dauður maður. Eftir það var gengið frá því að ekki væri hægt að loka kofanum að innanverðu með slagbrandi.
Kofinn við Draugatjörn var ísköld og ömurleg vistarvera, en þó sá skúti sem betri var en úti. Lengdin að innanverðu var aðeins 2,5 m og breiddin 1,5 m. Við annað hlaðgaflið var hlaðinn grjótbálkur, mýktur með torfi. Yfir dyrum var lítil gluggabora með gleri. Tóftin sést enn ef vel er að gáð.
Fleira gat verið varasamt á þessari óbyggðaleið en illviðri og draugar. Bolavellir og Bolasteinn minna á söguna um Skeiða-Otta og nautið ógurlega sem gekk í sumarhögum á völlunum við Kolviðarhól. Otti var bóndi austur á Skeiðum og átti erindi til Reykjavíkur þegar komið var að slætti og reið miklum kostahestum sem leið liggur vestur yfir Hellisheiði. Hann vissi um illræmdan griðung frá Viðey í högum hjá Kolviðarhóli og hafði hann orðið tveimur eða þremur mönnum að bana.
Bolasteinn.
Nautið lá við Bolastein og hóf þegar eftirför en Otti þeysti undan sem mest hann mátti. Samt dró saman með þeim og tók Otti þá það til ráðs að hann snaraðist af baki, tók upp hníf og lagðist niður milli krappra þúfna. Þar fleygði bolið sér yfir hann, en Otti skar hann á kvið og helltust yfir hann innyflin. Drapst bolinn þar en Otti gat haldið ferð sinni áfram.
Þau tímamót urðu 1844 að þá reis í fyrsta sinn hús uppi á sjálfum Kolviðarhólnum. Þá hafði farið fram fjársöfnun austan heiðar og vestan, og þótti vænlegast að reisa húsið á hólnum neðan við Hellisskarð.
Kolviðarhóll – fyrsta sæluhúsið.
Séra Páll Matthíasson á Arnarbæli valdi staðinn og hafði forgöngu um málið ásamt Jóni Jónssyni á Elliðavatni. Nýja sæluhúsið var allt úr timbri og stóð á sökkli sem hlaðinn var úr grjóti. Grunnflöturinn var 16 fermetrar og loft yfir þars em viðbótargistirými fékkst. Járnrimlar voru fyrir gluggum, liklega til að koma í veg fyrir rúðubrot skemmdarvarga. 24 menn gátu gist í einu á loftinu og komið inn 16 hestum niðri.
Enn urðu tímamót 1876 þegar ákveðið var að hefja vegarlagningu um Svínahraun.Þremur árum síðar var tekið annað skref og segir svo í Þjóðólfi: „Vegagjörðin yfir Kamba á Hellisheiði skal byrja í sumar.“ Eiríkur í Grjóta fór með flokk manna sumarið 1880 og lagði veg vestur yfir Hellisheiði, nokkru norðar og nær hinni fornu þjóðleið en núverandi Suðurlandsvegur.
Garður við Kolviðarhól.
Áratugi síðar, eða um 1870, hafði sú vakningaralda risið að bæta húsakost á Kolviðarhóli, enda var sæluhúsið frá 1844 þá orðið lélegt. Sigurður Guðmundsson málari hafði forgöngu um að reist yrði veitingarhús á Kolviðarhóli, sem gæti fullnægt þörfum ferðamanna.
Enn var efnt til samskota og Matthías Jochumsson, þá ritstjóri Þjóðólfs, hvatti menn til „drengilegra samskota“. Hægt gekk að safna, en það var svo loks 1877 að framkvæmdir hófust og landshöfðinginn lagði þá fram það sem til þurfti til viðbótar. Veggir voru hlaðnir úr tilhöggnu grjóti, ris var yfir og þar voru tvö herbergi. Niðri var eldhús með eldavél og ofni. Eftir að aðrar byggingar risu á Kolviðarhóli var þetta hús áfram notað til geymslu og öðru hverju var sofið í því fram til 1930. Fyrsta veturinn var þetta hús án gæslu, en öllum opið.
Ekki verður sagt að hlaðið hafi verið undir fyrsta sæluhúsavörðin, en Ebeneser Guðmundsson gullsmiður var náðarsamlegast ráðinn. Bergur Thorberg amtmaður yfir Suðuramtinu gaf út leyfisbréf og þar er tekið fram að Bergur sé riddari dannebrogsorðunnar og dannebrogsmaður.
Kolviðarhóll – Konungskoman 1907.
Ebeneser var „veitt leyfi til að hafa um hönd gestaveitingar á greindum stað, þannig að hann, auk þess að láta mönnum í té mat og kaffi m.m. einnig má veita áfenga drykki“. Þar með hafði náðst fram krafa margra um áfengissölu á fyrirhuguðum veitingastað á Kolviðarhól „til að auðvelda mönnum ferðina yfir heiðina“. Með þetta leyfi í höndum gat Ebenser kallast gestgjafi. Tekið var fram að hann ætti að hirða húsið, en það gat verið erfitt þar sem engin vatnsuppsspretta var.
Vatnsleysið á Kolviðarhóli varð strax til vandræða og réðst Ebeneser í að grafa brunn neðan við bæjarhólinn. Fyrir þetta fékk hann smáþóknun frá Suðuramtinu „með eftirtölum og ónotum“.
Kolviðarhóll 1939.
Ólafur Árnason tók að sér gestgjafahlutverkið á Kolviðarhóli 1880 og gegndi því næstu 3 árin. Hann eignaðist son með Málfríði, bústýru sinni, og var hann skírður Búi Kolviður eftir köppunum tveimur í Kjalnesingasögu. Þetta fyrsta barn sem fæddist á hólnum dó aðeins 5 vikna gamalt. Vorið 1883 giftust Ólafur og Málfríður og fluttu til Ameríku. Þar eignuðust þau 10 börn.
Þá fluttu á Kolviðarhól Jón Jónsson og kristín Daníelsdóttir. Þau sinntu gestgjafahlutverkinu næstu 12 árin. Eitt meginvandamálið var að ferðamenn voru flestir auralitlir og allur viðurgjörningur varð að vera eins ódýr og framast var kostur. Drykkjuskapur ferðamanna, slæm umgegni og fleira þurfti gestgjafinn að glíma við.
Kolviðarhóll 1957.
Guðni Þorbergsson frá Starkaðarhúsum í Flóa réðst vinnumaður að Kolviðarhóli 1886. Þar krækti hann í heimasætuna. Þau tóku við gestgjafahlutverkinu 1895. Þá var nýtt tímabil í samgöngum og flutningatækni hafið; Íslendingar búnir að finna upp hjólið og hestvagnaöld gengin í garð Gamla húsið á Hólnum var nú orðið allt of lítið og aldamótaárið 1900 byggði Guðni nýtt íbúðar- og gistihús við hlið hins eldra. Það var allt úr timbri, en kjallari var úr steinsteypu. Þá höfðu aðeins örfá hús verið steinsteypt í Reykjavík. Líklega hefur verið farið yfir lækinn til að sækja vatnið því steypumöl var sótt í fjöru við Reykjavík og ekið á hestvögnum. Með túnsléttun og garðhleðslum varð til nýbýli að Kolviðarhóli. Þar með var staðurinn orðinn bújörð í Ölfushreppi, en það stóð þó aðeins til 1936.
Nú er Orkuveita Reykjavíkur allsráðandi á svæðinu – með tilheyrandi eyðingarmætti.
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – Gísli Sigurðsson – 31.03-2001.
Kolviðarhóll 1929.