Fyrsta sjálfrennireiðin kom til landsins árið 1904. Síðan eru liðin 103 ár, eða rétt rúmlega ein öld. Með tilkomu hennar þurfti að ráðast í úrbætur á gömlum vagngötum, sem nýlega hafði verið farið að huga að út frá hinum elstu slóðum, t.d. vegna atvinnubóta-vinnunnar, og jafnvel gera nýja vegi.
Þótt Hafnarfjörður hafi þanist út á þessu tímabili, einkum síðustu áratugina, og mikið verið byggt, nýir vegir verið lagðir yfir þá eldri og þeim jafnvel eytt vegna skammsýni, má enn berja nokkra búta fyrstu akveganna augum. Þeim fer þó óðum fækkandi. Einn þeirra, í Engidal, hvarf t.a.m. sjónum manna einn daginn fyrir skömmu og það þrátt fyrir að sá og aðrir stubbar séu nú þegar friðaðir skv. þjóðminjalögum. Enginn virðist hafa eftirlit með varðveislu þeirra, enda vitneskjan varla fyrir hendi. Í fornleifaskráningum svæða í Hafnarfirði er þessara fornleifa tæpast getið. Það er annars einkennandi fyrir Hafnarfjörð hversu höndunum virðist hafa verið kastað til við fornleifaskráningu á svæðinu undanfarin ár.
Einn heillegasti vegarkaflinn frá fyrstu tíð er í Kapelluhrauni, um 100-150 metra langur. Byggt hefur verið á svæðinu, en fyrir “slysni” hefur þessum kafla ekki verið eytt. Nú er unnið að vegargerð skammt frá og ný verksmiðjubyggð á að rísa á svæðinu, svo óvíst er um líftíma þessa síðasta fulltrúa elstu vegargerðar í Hafnarfirði. Meira um það síðar. Fyrst svolítið um aðdragandann.
Fjallað var um héraðavegabætur í Ísafold 1893. Frásögnin lýsir vel frumraun landans í vegagerð og ekki síst upphafi hennar er varð vegna hreppaatvinnunar er leiddi einungis til kaflaúrbóta á hinum gömlu þjóðleiðum og kom því lítt að gagni sem heilstæð lausn á samgöngumálum einstakra svæða: “Það er rænulaus maður eða harla tilfinningasljór um hagi landsins, er eigi gleðst yfir þeirri miklu breytingu, þeim snöggu umskiptum til batnaðar, sem orðið hafa á lands-vegagerð hér á landi á um síðasta áratug. Það er eigi svo að skilja, að miklu sé af lokið af því stórkostlega verkefni, að leggja góða vegi eða siðaðri þjóð samboðna um land allt. Slíks er engin von á jafnskömmum tíma og liðinn er síðan er farið var að gera hér vegi af viti og kunnáttu.
Framförin er í því fólgin, að nú er lið í því, sem gert er. Það er ekki nýtt kák, eins og áður, margoft innan skamms verra en það sem eftir hestafæturna lá, meðan þeir einir fengust við að leggja vegi um landið. Þeir bera í stuttu máli eins og gull af eyri, þessir vegakaflar, er gerðir hafa verið á landssjóðs kostnað síðan landsstjórnin vitkaðist loks svo, að hún fór að fá útlenda vegfræðinga og vegavinnumenn til þess að gera hér vegi og kenna innlendum mönnum vegagerðarlist.
Vitanlega eru vegir þessir samt sem áður engan veginn svo fullkomnir, sem verða má eða gott þykir í öðrum löndum, þar sem mikið er með vegi að gera. Vegna fátæktar vorrar og þess annars, að umferð er hér víðast fremur lítil, þá er höfð hér hin kostnaðar- eða íburðarminnsta vegagerð, er við þykir mega hlíta meðal menntaþjóðanna, og því eigi nærri því svo ramgjör og endingargóð sem ákjósanlegast væri, þó að harla ólíku sé saman að jafna því sem áður gerðist hér. Viðhald á henni verður því kostnaðarsamara en ella mundi. En hvað sem því líður, þá er umbótin í þessu efni stórmikil, einhver hinn álitlegasti framfaravottur, er vér höfum af að segja.
Almenningsvegur (Eiríksvegur) um Vatnsleysuströnd.
Þetta sjá nú og skilja flestir þeir, er einhver kynni hafa af hinni nýju vegagerð. Það var öðruvísi fyrst þegar hún hófst. Það voru eigi einungis ófróðir almúgamenn, sem hristu höfuðið yfir annarri eins vitleysu og að vera að hauga upp moldarbing og kalla það veg, heldur mátti heyra hámenntað þingmannsefni fárast út af því á þingmálafundi um þær mundir, að vera að panta vegagerðarmenn frá útlöndum, í stað þess að láta landsmenn njóta þeirrar vinnu. Jafnvel fyrir honum og hans nótum vakti þá enn sú hugsun, að vegavinna væri svona hér um bil niðursetuvinna.
En víða um land hafa menn enn lítil sem engin kynni af hinni nýju vegagerð, þó að sýnishorn sé raunar komið af henni í alla landsfjórðunga. Því bar það til nú á þessu sumri, að maður tók til að beita hinni nýju kunnáttu eða nýju aðferð í afskekktu héraði, en fékk óðara það vottorð almenningsálitsins þar, að hann hefði „auðsjáanlega“ ekkert vit á, hvernig vegi ætti að leggja: þeir sáu hann sem sé meðal annars sveigja veginn fyrir litla brekku, í stað þess að halda þverbeint upp hana, svo sem áður þótti sjálfsagt.
Hafnarfjörður fyrrum.
En þó að menn sjái annars almennt yfirburði hinnar nýju vegagerðar og viðurkenni þá í orði, þá eru þeir samt engan veginn svo rótfastir orðnir í meðvitund manna sem skyldi. Þegar til framkvæmdanna kemur er ýmist sem þeim þyki þó ekki neitt leggjandi í sölurnar fyrir þessa yfirburði, eða þá að þeir hugsa að eigi þurfi nema að hafa séð almennilega gerðan veg til þess að geta gert slíkan sjálfur.
Eiríksvegur ofan Vatnsleysu á Vatnsleysutrönd.
Það er hraparlegt að sjá þar enn dafna víðast sama vankunnáttu-kákið og áður var algengt um alla vegagerð hér á landi. Þarf eigi að lýsa, hvernig það er lagað. Einkennið er það, að áður langt um líður kjósa menn og skepnur af illu til heldur að fara utan hjá veginum en eftir honum, sé þess nokkur kostur. Það er sjálfsagt, að frá þessu eru nokkrar undantekningar; en það er þá oft líkara tilviljun en kunnáttu og fyrirhyggju.
Ráðið til að koma þessu af er það, að hafa við hverja vegagerð að minnsta kosti verkstjóra, sem kann hina nýju aðferð, hefir numið hana verklega. Hefði verið ráð í tíma tekið og sendir einn eða tveir menn úr hverri sýslu í vinnu við landssjóðsvegagerð þegar er lag komst á hana, þá væri nú ekki svo mikill hörgull á slíkum verkstjórum. En þó að það hafi verið vanrækt, þá eru samt nú orðið til svo margir, sem vinnu þessa kunna, að vel mætti fá slíka menn í öll héruð landsins, ef það væri fast sótt.
Hér nærlendis við Reykjavík að minnsta kosti ætti ekki að þurfa að leggja svo nokkurn vegarspotta jafnvel ekki á hreppavegum, að fyrir vinnunni stæði ekki maður, sem kann hina réttu aðferð að því. Það er að segja sjálfa vegavinnuna. Hitt, að afmarka vegarstefnu og mæla út vegarstæði svo vel sé hvað halla snertir og annað, það er auðvitað ekki nema á fárra manna færi hér að svo stöddu; en með því að það má gera löngu fyrir fram, á ýmsum tímum, mætti einnig fá sæmilega aðstoð til þess víða.
Hvað hreppavegi snertir er þetta sleifarlag mikið því að kenna, að lög gera ráð fyrir að hreppsmenn vinni að þeim sjálfir í dagsverkum. En ókleyft ætti ekki að vera fyrir það, að ráða utanhreppsmann fyrir verkstjóra, ef kunnáttu vantar innan hrepps. Einhver ráð mundi mega finna til þess. Hér er meira um að tefla en margur hyggur. Það er eytt á að giska um 20.000 kr. í hreppavegavinnu á ári hverju; og þó að ekki væri nema helming af því sama sem fleygt í sjóinn sakir kunnáttuleysis, þá er það ærinn skattur á fátæka þjóð; hann er óþolandi og óhafandi.
Skeifubrot í Alfaraleið.
Til sýsluvegavinnu eru lagðir eintómir peningar; eða að minnsta kosti á sýsluvegagjaldið að greiðast í peningum. Þar er því eigi dagsverkavinnan til neinnar fyrirstöðu því, að ráða til verksins þá sem kunna eða til verkstjórnar að minnsta kosti. En það mun tíðkast enn í flestum sýslunefndum, að sýslunefndarmanni hvers hrepps sé falið á hendur að sjá um sýsluvegavinnuna í sínum hreppi og að sá hinn sami láti annaðhvort orðalaust vinna hana „upp á gamla móðinn“, eða þá, ætli hann að fara að stæla nýja lagið, þá kunni hann einnig að gera slíka.
Þetta er raunar hin mesta ósvinna, hrapaleg vanbrúkun á fé, sem lagt er til almennings-þarfa, um 20.000 kr. ári, eins og til hreppaveganna. Það ætti engin sýslunefnd nú orðið að vera við annað en að láta vinna alla sína vegavinnu undir verkstjórn manns, sem kann verkið, – nema rétt einfalda vegaruðning, þar sem hún er látin duga. Hitt er að ausa í botnlausa hít. Með því lagi verða sýslurnar jafnilla staddar með vegi eftir 20, 30 eða 50 ár eins og nú; þar vinnst ekkert áfram; allt verður ónýtt jafnóðum.
Fornar götur og vegir vestan Hafnarfjarðar – vörðurkort ÁH.
Svo er annað. Það mun nú siður í mörgum ef eigi flestum sýslunefndum, að smábita niður sýsluvegaféð í alla hreppana á hverju ári, sitt lítið í hvern. Hver nefndarmaður skarar eld að sinni köku. Það lætur og vel í eyrum og sanngjarnlega, að hver hreppur fái að njóta síns sýsluvegagjalds. En slík stefna er mesta skaðræði. Fyrir það verður hálfu minna úr framkvæmdum en ella mundi; takmarkið næst hálfu seinna: það, að fá góða vegi um sýsluna. Hitt er rétt, að hafa ekki undir nema einn veg í einu, þar fyrst, sem mest er þörfin og mest umferðin, og ljúka við hann áður en tekið er til annarsstaðar, nema hvað hyggilegt getur verið að verja einhverju lítilræði til ruðninga, þar sem þess er mest þörf, eða til þess að gera fært yfir lítils háttar torfærur, auk viðhalds á fullgerðum vegarköflum, er síst má vanrækja.
Þó að hér sé talað um sama frágang á héraðavegum og landsvegum, þá er það eigi svo að skilja, að þeir þurfi endilega að vera jafn-íburðarmiklir eða kostnaðarsamir, heldur að eins hitt, að unnið sé að þeim á réttan hátt, svo að fullum notum komi hvað endingu snertir og annað.
Með öðrum orðum, að það, sem gert er af nýjum sýslu- eða hreppavegum, séu réttnefndir vegir, en ekki vegleysa. Eða þá reynt að bjargast við einfalda vegaruðning, þar sem það er takandi í mál. En ekki verið með gagnslaust kák, sem nefnd er vegasmíð, en er margsinnis verra en ógert. Sömuleiðis ríður á, að hafa hæfileg tól og tæki til vegavinnunnar. Ónýt áhöld eða ónóg gera hana að verkleysu.
Með svofelldri lögun eða því um líkri á héraða-vegabótum mundi brátt sjást votta fyrir mikilli framför í því efni, miklum stakkaskiptum frá því sem nú er, þó að ekki sé meira fé til þeirra lagt.”
Járnbrautarvegur í Hafnarfjarðarhrauni, milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.
Síðar var fjallað um akbrautir: “Samgöngumálið er án efa eitt með meiriháttar framfaramálum vorum, enda verður ekki annað sagt en að þingið hafi sinnt því einna best allra mála síðan landið fékk fjárhag sinn aðskilinn frá Danmörku og þingið fjárforræði. Vegir hafa verið lagðir og brýr gerðar, og þótt enn vanti stórmikið á, að þolanlegir akvegir séu komnir yfir landið, eða þótt þeir nái réttara sagt aðeins yfir lítinn hluta landsins, og fjölda margar ár þurfi að brúa enn, stærri og smærri, verður því þó ekki neitað að framfarir í vegagerð hafa verið afarmiklar á síðustu 20 árum; og þótt flutningabrautir þær og póstvegir, sem búið er að leggja, komist í engan samjöfnuð við eimreiðabrautir og rafmagnsbrautir annarra landa, verður þó að játa, að mikill er munurinn á hinum nýju vegum og einstigunum eða troðningunum yfir urðarholt og mýrarfláka, sem varla var fært nema fuglinum fljúgandi, þótt vegir væri nefndir.
Samgöngubætur þessar hafa kostað allmikið fé, eftir hinum smávöxnu árstekjum landsins, enda verður ekki annað sagt en að fjárveitingarvaldið hafi klifið þrítugan hamarinn til þess að einhverjir sæjust ávextir þess. Og þegar litið er til þess, að varla sást vegarspotti í landinu 1874, er til nokkurs væri nýtur, og engin á brúuð, er auðsætt, að hér er um stórar framfarir að ræða, þótt betur megi ef duga skal.
Engin furða er, þótt héraðarígur og hreppapólitík hafi risið upp bæði utan þings og innan um samgöngufærin, einkum akbrautirnar. Og enginn getur með sanni sagt, að það sé að skara eld að sinni köku á ósæmilegan hátt, að vilja fá svo mikla vegabót í héraði sínu, að hægt sé að komast slysalaust bæja í milli um hábjartan sumardag. Hins vegar er sjálfsagt, að þegar ekki er hægt að veita fé til margra fyrirtækja í einu, svo gagn sé að, verður að láta hin nauðsynlegustu sitja í fyrirrúmi, en láta önnur bíða, sem betur mega missa sig. Það er betra að fá einnar eða tveggja mílna langan veg óslitinn á einum stað, því sá vegur verður þó einhverjum að liði, en að búta veginn niður í 20-30 smáspotta, 1-200 faðma langa, hingað og þangað, sem engum geta að verulegu gagni komið, auk þess sem smáspottar hljóta að kosta töluvert meira að tiltölu en lengri vegur í einu lagi.
Járnbrautarvegur – fyrirhuguð lagning milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
Sumir eru þeir, er amast við, að jafnmiklu fé sé varið til vegagerðar og nú er gert, einkum akbrautanna. Þær verði ekki notaðar til vagnferða, því bændur þurfi eftir sem áður að hafa hesta til heyflutnings, og geri því ekki annað betra við þá en að nota þá til áburðar í kaupstaðaferðum, enda sýni reynslan, að ekki sé enn farið að nota vagna á akbrautum þeim, sem fullgerðar eru.
Það er og hefur jafnan verið siður þeirra manna, sem hafa viljað halda öllu í sama horfinu, að bera fyrir sig reynsluna, löngu áður en auðið er að kveðja hana til vitnis, í þeirri von, að geta blindað athugalítilla manna og talið þeim trú um, að hvert nývirki sé gagnslaust, ef það ber ekki jafnharðan hundraðfaldan ávöxt.
Ekki er nema eðlilegt, að vagnferðir séu ekki enn almennar eftir akbrautunum. Bændur þekkja lítt slíkt samgöngufæri, og vagnar eru ekki smíðaðir hér á landi, heldur verður að útvega þá frá útlöndum, og fáir þeir framkvæmdamenn í héruðum, er gangist fyrir slíku, en félagsandi auk þess ekki svo ríkur sem skyldi, svo að nokkrir menn útvegi sér vagna í samlögum. Auk þess er klyfjaflutningurinn svo rótgróinn þjóðinni af margra alda tísku, að eðlilegt er, þótt það taki töluverðan tíma, að vagnflutningar verði almennir, jafnvel þótt akbrautirnar séu til.
Það er og athugavert, að akbrautirnar geta ekki komið að fullum notum fyrr en sýsluvegir og hreppavegir er líka orðnir akfærir og komnir í samband við þær; þá verður kostandi til þess fyrir bændur, að gera akfæran veg frá heimili sínu á hreppavegina, og þá fyrst geta akbrautirnar orðið að notum. Þá má búsat við því, að ýmsir taki a reyna að gera veg út á engjarnar og hafa vagna til heyflutnings.
En þótt klyfjaflutningnum sé enn haldið áfram um nokkurn tíma, er óhætt að telja æðimikinn hagnað í vegabótunum þar, sem þær eru komnar á. Það er enginn efi á því, að vöruflutningar taka fyrir það miklu skemmri tíma en ella, og það hlýtur að vera fjársparnaður fyrir þjóðfélagið, svo framarlega sem tíminn er peningar.”
Fjallað var um sýsluveginn frá Reykjavík suður að Vogastapa: “Ég las um daginn í Ísafold um póstveginn í Árnessýslu; og datt mér þá í hug, að einnig mætti rita fáein orð um sýsluveginn frá Reykjavík suður í sýsluna. Ég ætla þá að fara úr Reykjavík suður eftir, og geta um ýmislegt, sem fyrir augun ber, hvað veginn snertir.
Þegar maður kemur niður í Fossvog, verða fyrir manni rásirnar þar. Þær eru að vísu þannig á sumrum, að fáum ókunnugum mundi til hugar koma, að við þær væri neitt að athuga; en á vetrum í leysingum verða þær lítt færar eða stundum ófærar.
Þá kemur Fossvogslækur, lækur þessi, sem er á sumrum ekki nema ofurlítil spræna, verður stundum á vetrum svo, að naumast verður yfir hann komist, og það ber við, að hann verður með öllu ófær.
Hafnarfjarðarvegur, lengst t.v., skv. herforngjakorti 1919.
Vegurinn upp Kópavogsháls er óhæfilega brattur, lítt fær með vagn, en vagnvegur á vegurinn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar að verða úr þessu. Með því að sneiða hálsins lítið eitt utar, má fá hann mjög hallalítinn.
Þegar kemur suður að Kópavogi, kemur ein torfæran, þótt stutt sé; hún er rétt við landnorðurhornið á túngarðinum í Kópavogi; þar eru götutroðningar, djúpir mjög, og verður þar á vetrum kafhlaup, þegar snjóþyngsli eru. Þá kemur brúin yfir Kópavogslæk. Að henni er mesta vegarbót, og er furða, að hún skyldi ekki vera á komin fyrir mörgum tugum ára; en trén í henni eru mikils til of veik; brúin skelfur undan gangandi manni, hvað þá heldur þegar hún er riðin.
Þá er nú úr því brýr yfir lækina, og vegur all góður þangað til kemur suður í Hafnarfjörð.
Þar er vegurinn lagður yfir Hamarinn hér um bil þar sem hann er brattastur; en auk þess er vegur þessi óruddur, ekkert í hann borið, og er hann fullur af lausu grjóti, og má það kallast hættulegt að ríða hann ofan að norðanverðu; í sunnanverðum Hamrinum neðst er sjórinn búinn að taka burtu hleðsluna úr veginum, og er honum því einnig hætta búin úr þeirri átt. Svo er þess að gæta, að rétt við endann á veginum er skipa-uppsátur þeirra manna, er búa þar í grennd. Af því, að sjórinn gengur þar rétt upp að veginum, standa skipin svo hátt, að ókunnugum mönnum, sem í myrkri fara um veginn, getur verið af þeim hætta búin; skipauppsátur er ekkert annað til þar í grennd.
Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.
Svo kemur nú suður undir Flensborg. Þar standa þilskip, og liggja járnkeðjur af þeim yfir þveran veginn, og er furða, að ekki skuli oft hafa hlotist slys af þeim. En þess ber að geta, að þar er enginn vegur lagður, nema hvað hrossin hafa unnið þar að vegavinnu. Flensborgarskóli á þar lóðina, sem skipin standa á, og leigir þar uppsátrið, og tekur 10 kr. fyrir hvert skip yfir veturinn. Ef skipin mega ekki hafa þar landfestar, þá er ekki til neins að ljá manni uppsátur; hafa þar að undanförnu legið 4 skip á vetrum; gjaldið eftir þau eru þá 40 kr., eður sama sem að skólaeignin sé 1000 kr. meira virði en ella. Eitt af tvennu er: annaðhvort verður að banna að hafa þar skipauppsátur, eða að leggja veginn annarsstaðar.
En látum oss halda lengra.
Um stórstraumsflóð flæðir alveg upp undir túngarðinn í Flensborg, og verða menn þá að ríða sjóinn fram með garðinum, oft talsvert djúpt, og auk þess er þar mjög grýtt, svo að þar er mjög illt yfirferðar.”
Í sama blaði árið 1983: “En þá tekur ekki betra við, þegar Ásbúðarmegin kemur; þar er hár bakki, sem upp verður að klöngrast; vinnist sú þraut, þá tekur við dý, sem hver hestur liggur í. Þegar búið er að draga þá upp úr því, er haldið suður Hvaleyrarholt. Þetta holt hefur ekki verið rutt í ár, og er það mjög seinfarið. En þegar kemur suður fyrir sandskörðin sunnanvert við Hvaleyrartjörn, þá liggur vegurinn svo lágt, að þar flóir yfir í stórstraumum.
Alfaraleiðin milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.
Svo koma nú Hraunin, þ. e. Gráhelluhraun, Kapelluhraun, Almenningur og Afstapahraun. Um veginn gegnum þau ætla ég ekki að tala; hann er alkunnur, og líklega ekki þeirrar núlifandi kynslóðar meðfæri að bæta hann svo, að nokkru nemi; þó ætti það að vera vinnandi vegur, að ryðja veginn gegnum þau árlega; þegar það er gjört, er þó ólíku betra að fara yfir þau, heldur en þegar vegurinn er fullur af lausu grjóti og steinvölum.
Þegar Hraununum sleppir, kemur Vatnsleysuheiði. Yfir hana mestalla hefir verið lagður upphækkaður vegur, en hann er nú orðinn því nær ófarandi, og miklum mun verri en gamli vegurinn var. Þessi upphækkaði vegur er í daglegu tal oft kallaður Vatnleysu(heiðar)brú, en af sumum „Svívirðingin“, og þykir bera það nafn með rentu; það er sama smiðs-markið á henni og Svínahraunsveginum gamla, og þarf þá ekki lengra til að jafna.
Þessi upphækkaði vegur stefnir frá Kúagerði til Kálfatjarnar, og er honum sleppir, þá tekur við hinn gamli vegur suður með bæjunum á Vatnsleysuströnd; þessi gamli vegur er allgóður á sumrum, enda er hann oftast vel ruddur; en á vorum og haustum, þegar bleyta og leysingar eru, er hann mjög illur yfirferðar, liggur sá vegur allt suður að Vogastapa og lengra ætla ég ekki að fara að sinni.
Hvað skal nú gjöra við þennan veg? Eins og er, er illa við hann unandi.
Ég skal leyfa mér að láta í ljósi skoðun mína um það; það fara svo margir þennan veg, að vonandi er, að einhverjir fleiri en ég skýri frá, hvernig þeir álíti þessu best í lag hrundið.
Í Fossvogi má ef til vill leggja veginn fyrir ofan rásirnar allar, nema hina syðstu; hana þarf að brúa.
Fossvogslæk ber brýna nauðsyn til að brúa, og það sem allra fyrst, og væri það lítill kostnaður.
Hafnarfjarðarvegur 1928 – Ásgrímur Jónsson.
Götutroðningana við Kópavogstún verður að brúa, og viðrist það auðgjört.
Kópavogslækjarbrúna þarf að athuga; það er of seint að gjöra það eftir að slys er búið að ljótast af því, hversu veikgjörð hún er. Í öllu falli væri nauðsynlegt að láta áreiðanlega menn, sem vita hafa á því, dæma um það, hvort henni sé treystandi eins og hún er.
Veginn yfir Hamarinn í Hafnarfirði, þar sem hann er, ætti alveg að leggja niður. Þar sem hann liggur upp Hamarinn, er mikils til of bratt; það er ógjörningur, og líklega heldur engin lagaheimild til, að vísa mönnum burtu með skip sín, sem uppsátur hafa rétt fyrir sunnan Hamarinn, en skipa-uppsátur þar og vegur geta ekki samrýmst. Sama er að segja um þilskipa-uppsátrið hjá Flensborg; annaðhvort er, að banna skólanum að hafa þar uppsátur, eða að leggja af sýsluveginn þar fram hjá. Og þegar þess er gætt, að vegurinn þar er afar-illa lagður, þ. e. undirorpinn sjávargangi, og menn verða að sæta sjávarföllum til að komast hann, þá virðist lítil eftirsjón í honum þar sem hann er.
En hvar ætti þá að leggja hann?
Hann ætti að leggjast sunnar upp Hamarinn en nú er, fyrir ofan bæinn „á Hamri“ neðan til í Jófríðarstaðaholti, fyrir sunnan Ásbúð og svo suður Hvaleyrarholt hér um bil beina stefnu á Hjörskot. Það, sem ynnist við að leggja veginn þannig, hjá því sem nú er, mundi verða: vegurinn upp Hamarinn yrði ekki eins brattur, hann yrði ekki undirorpinn sjávargangi; vegfarendum yrði engin hætta búin af bátum, sem nú standa því nær yfir þveran veginn; skólaeigninni í Flensborg yrði ekki meinað að hafa þann hag af þilskipa-uppsátri, sem hingað til hefir oftast samsvarað vöxtum af 1000 krónum; menn kæmust hjá hinni afarillu torfæru hjá Ásbúð, og um stórstraumsflóð þyrfti ekki að klifra upp sandskörðin hjá Hvaleyri.
Veginn suður Hraunin ætti sannarlega að ryðja á hverju ári; minna má það ekki vera; hann er full-illur samt.
Reiðskarð upp á Stapa.
Af hinum upphækkaða vegi suður Strandarheiði (eða Vatnsleysu-heiði), þar sem hann nú er, ætti sýslunefndin alls ekki að skipta sér. Sá vegur liggur vestur Ströndina, og ef menn ætla t. a. m. suður í Voga eða þaðan af lengra, þá er það sá afarkrókur, að ríða niður á Ströndina, að ég er viss um, að það nemur fullum þriðjungi, móti því að fara beint úr Kúagerði á Reiðskarð (upp Vogastapa). Strandarmenn mundu þá halda við gamla veginum sem hreppsvegi. En eigi að halda við hinum gamla vegi sem sýsluvegi, þá mundi sú aðgjörð, sem hann þarfnast, ef hann á að geta kallast viðunanlegur, dragast að verðinu til hátt upp í það, sem nýr vegur, beint frá Kúagerði á Reiðskarð, mundi kosta.
Sumir berja því við, að með slíku fyrirkomulagi þyrfti svo víða að leggja vegi frá Ströndinni upp á sýsluveginn. Þetta fæ ég ekki séð að sé nauðsynlegt. Sá, sem ætlar að koma við á Ströndinni, ríður hreppsveginn; en ætli maður beint frá Kúagerði suður, án þess að eiga erindi á Ströndina, þá fer maður sýsluveginn.
Ritað á Fidesmessu 1890.
Vegfarandi.”
Sumrin 1897 og 1898 lét sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, frá Fossvogi, en þangað hafði bæjarstjórn Reykjavíkur lagt áður og hefir þessa ekki enn verið getið í blöðum vorum.
”Vegur sá er sýslan lét byggja af nýju, er rúmar 5 rastir á lengd, einnig var borið ofan í og endurbættur gamall vegur (Hafnarfjarðarhraun) rúml. 1 ½ röst á lengd. Hver röst er 531 faðmur. Brýr voru gerðar yfir fjóra læki, og er ein þeirra þrjátíu áln. Lengd, með 50 álna löngum stöplum (þeir eru þrír) og 5 áln. Háum á fullum helmingi. Hinar eru 5-8 álna langar. Til vinnu þessarar var varið 9.600 kr.
Brýrnar allar kostuðu 1.800 krónur. Aðgerð við gamla veginn um 800 kr. Kostar þá her um bil kr. 2,80 faðmurinn í hinum nýja vegi. Í gegnum veginn eru 16 rennur gerðar úr grjóti 50×100 cm., utan ein úr timbri 3×2½ alin. Mold og möl höfð undir í öllum veginum með torf og grjót á hliðunum, nema um 150 faðmar eru eingöngu úr grjóti (púkkvegur). Ofaníburður allstaðar frá 8-12 þuml. á þykkt. Við vinnuna voru 12 menn fyrra sumarið með 4 hestum, en 15 til 18 hið síðara með 6 og 8 hestum. Verkstjóri var bæði sumrin Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði.
Það var myndarlega til ráðist af sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu að leggja veg þennan, og væri óskandi að hún fengi styrk til þess að geta gert meira í líka átt sem þetta. Hefir talsverð vagnaferð verið eftir vegi þessum síðan hann var fullger, en talsverð óþægindi eru að því, að ógert er enn við hallann ofan í Hafnarfjörð, því þar er vegurinn mikils til of brattur fyrir vagna, og er vonandi að ekki bíði mjög lengi svo búið.”
Af sýslufundargjörð í Gullbringu- og Kjósarsýslu í maí 1893 má sjá: “Ár 1893, hinn 26. maí, átti sýslunefndin í Kjósar- og Gullbringusýslu fund í þinghúsinu í Hafnarfirði. Fundinum stýrði oddviti nefndarinnar, sýslumaður Franz Siemsen. Allir nefndarmenn voru á fundi nema sýslunefndarmennirnir fyrir Mosfells, Vatnsleysu-strandar, Njarðvíkur og Rosmhvalaness hreppa; af þeim höfðu sýslunefndarmennirnir fyrir Njarðvíkur og Vatnsleysustrandarhreppa engin forföll tilkynnt. Þessi mál voru tekin til meðferðar.
8. Var rætt um gufubátaferðir á Faxaflóa og ákvað nefndin að ganga að boði kaupmanns W. Fischers og taka tiltölulegan þátt í kostnaðinum, en lýsti jafnframt óánægju yfir ferðaáætlun þeirri, sem lá fyrir, þar sem báturinn á millistöðvunum eigi kemur við á leiðinni til baka, svo hlutaðeigandi pláss fyrir þá sök geta eigi haft full not af ferðinni; krafðist nefndin, að þetta væri þegar lagað. Ennfremur áleit sýslunefndin, að tími sá, sem bátnum er ætlaður á ferðum, sérstaklega syðri hluta Gullbringusýslu, sé allt of naumur. – Að því er snertir kostnað þann, sem að tiltölu kemur á sýslufélagið þ. á., ákvað sýslunefndin, að greiða skyldi helminginn af sýslusjóðsgjaldi, en hinn helminginn af sýsluvegagjaldi upp á væntanlegt samþykki amtsráðsins, og fól nefndin oddvita, að útvega samþykkið.
9. Var rætt um vegagjörðir í sýslunni á yfirstandandi sumri og var ákveðið að verja til sýsluvega 1.100 kr. þannig:
Í Kjósarhr. til að gjöra við veginn norðan í Svínaskarði ………………. 50. kr.
Seltj.n.hr. til að gjöra við veginn frá Kópavogslæk ofan í Fossvog …… 75 kr.
Garðahr.:
a. til aðgjörðar á veginum frá Hafnarfjarðahrauni að Kópavogslæk, bera
ofan í brýr og ryðja …………………………………………………….. 150 kr.
b. til vegarins yfir hraunið fram á Álftanes ……………………………. 200 kr.
c. til vegarins frá Hafnarf. suður að hreppamótum ……………………. 100 kr.
350 kr.
Njarðvíkurhr. til framhalds vegi frá Ytra-Hverfi í Keflavík …………… 100 kr.
Rosmhvalanesshr. til að laga veginn frá Keflavík út í Garð …………… 100 kr.
Hafnarhr. til að laga veginn frá Ásabotnum ……………………………. 75 kr.
Grindavíkurhr. til að bæta veginn frá Drápshlíð til sýslumarka ……….. 350 kr.
1.100 kr.
10. Sýslunefndin fól oddvita að útvega á næsta hausti vegfróðan mann til þess að skoða vegstæði milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og gera áætlun um, hve mikið sú vegagjörð mundi kosta. Var jafnframt ákveðið, að skora á bæjarstjórn Reykjavíkur að skoða og ákveða vegstæði til Hafnarfjarðar í Reykjavíkurlandi.”
Í lögum frá Alþingi árið 1903 segir m.a. í ágripi: “Útgjöldin eru hin helstu þessi:
Til brúar á Jökulsá í Axarfirði 50.000 kr., til sýsluvegar frá Hafnarfirði í Keflavík 3.000 hvort árið mót jafnmiklu framlagi annarstaðar frá.”
Í Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983 segir m.a. að “um síðustu aldamót [1900] var enginn upphleyptur vegur til Hafnarfjarðar, og urðu bæjarbúar að leggja leið sína yfir malarkamba og eftir krókóttum hraunstígum. Um skipulega vegagerð var ekki að ræða fyrr en kauptúnið fékk kaupstaðarréttindi árið 1908.” Á þessum árum einblíndi hreppssnefnd Garðahrepps og síðan bæjarstórn Hafnarfjarðar að vegagerð til Reykjavíkur. Fyrsti almenninnilegi vegurinn yfir Hafnarfjarðarhraun var lagður 19874, skömmu áður en Kristján 9. Danakonungur kom til Hafnarfjarðar. Sá Sigurgeir Gíslason um vegalagninguna, sem lauk síðan 1898. Sigurgeir hafði síðan umsjón með vegalagningu sýsluvegarins til Njarðvíkur er lauk árið 1912 og síðan lagningu Grindavíkurvegarins er lauk árið 1918. Fyrsta bílnum var ekið áleiðis milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur skömmu eftir að fyrsti bíllinn kom til landsins árið 1904, en óvíst er hvort hann hafi komist alla leið. Vorið 1913 var Austin sportbíl ekið á milli bæjanna og er hún talinn fyrsta bifreiðinn sem koms klakklaust alla leið. Þangað til var vegurinn aðallega fyrir vagna og gangandi.”
Reykjanesskagi – vegir 1908.
Hafist var handa við að leggja sýsluveginn til vesturs frá Vesturhamri árið 1904, og var þetta hluti lagningu vegar milli Hafnarfjarðar og Vogstapa.
Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnastaði í Hraunum segir m.a.: “Um Brúnaskarð eystra liggur alfaraleiðin upp á Kapelluhraun, en svo nefnist neðsti hluti Nýjahrauns, sem ofar kallast Bruninn og enn ofar Háibruni. Landamerkjalínan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali og síðan áfram upp austurbrún Brunans. Alfaraleiðin lá suðvestur eftir Brunanum.”
Hin forna Alfaraleið lá um Brunann norðanverðan og framhjá kapellunni er hraunið var síðar nefnt eftir. Það er einmitt um framangreinda Leynidali sem fyrsti vegurinn lá frá Hvaleyrarholti og yfir Brunann. Enn má sjá hluta hans þrátt fyrir að veginum hafi að mestu verið eytt vestar í hrauninu. Elsti stígurinn lá yfir Brunann nokkru norðar, en þegar akvegurinn var lagður var vænlegast að feta krákustíga helluhraunsins (Hellnahraunsins) að hraunrúninni og síðan yfir apalhraun Kapelluhrauns með sem minnstum tilfæringum.
Gamli Suðurnesjavegurinn.
Sjá má hleðslur í köntum og yfir sprungur. Skammt frá og samhliða er slóði eftir jarðýtu og má telja mildi að henni hafi ekki verið ekið eftir vagngötunni. Síðar var akvegur lagður yfir hraunið nokkru norðar, endurbættur eftir að hernámsliðið kom til landsins og síðan smám saman eftir því sem ný og stærri ökutæki gerðu kröfur til. Þann hluta vegarins má einnig sjá austan Brunans í Hellnahrauni á litlum kafla sem og vestan hans, ofan við Gerði og Þorbjarnarstaði. Þar undir er einnig elsti akvegurinn þeim megin hraunsins.
Í Leynidölum eru hlaðin skjól. Þau gætu hafa verið eftir vegarvinnumennina, refaskyttur eða þá er lögðu jarðsímann í gegnum hraunið, en hann liggur skammt sunnan elsta akvegarins í gegnum hraunið. Sjá má yfirhleðslur á nokkrum stöðum. Eitt skjólið er einna fallegast, vandlega hlaðið. Það mun hafa verið topphlaðið, þunnar hraunhellur lagðar hverja yfir aðra, en efstu hellurnar eru nú fallnar niður á gólfið.
Frábært veður.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði – ÖÍ.
-Ísafold, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103:
-Ísafold, 17. júní 1893, 20. árg., 38. tbl., forsíða.
-Ísafold, 13. sept. 1893, 20. árg., 62. tbl., forsíða.
-Ísafold, 11. okt. 1890, 17. árg., 82. tbl., forsíða.
-Ísafold, 8. nóvember, 1902, 29. árg., 71. tbl., forsíða.
-Austri, 15. ágúst 1903, 13. árg., 27 tbl., bls. 98.
-Ísafold, 6. sept. 1905, 17.árg., 60. tbl., bls. 239:ll.
-Saga Hafnarfjarðar III, 1908-1983, Skuggsjá 1984.
Vörðufell – Jafndægur
Á loftmynd má sjá allnokkur göt á landinu sunnan og austan við Vörðufell í sunnanverðum Brennisteinsfjöllum. Tvö þeirra eru meira áberandi en önnur. Svo virðist sem í þeim geti verið leið undir hraunið úr Vörðufellsborgum og niður í eldra hraun er myndaði t.d. Lyngskjöld. Í honum má og sjá minni göt er gætu verið hluti af sömu hraunrásum.
Ekki eru mörg misseri síðan FERLIR uppgötvaði litskrúðugasta hraunhelli landsins undir Eldborg í Brennisteinsfjöllum. Að fenginni reynslu er ljóst að engir slíkir finnast nema fara á svæðið og skoða.
Farið verður um Lyngskjöld, hann gaumgæfður, og síðan haldið upp í götin fyrrnefndu.
Svæðið er í umdæmi Grindavíkur.
Lyngskjöldur er tiltölulega slétt helluhraun, líklega úr gígum vestan við sunnanvert Vörðufell. Nýrra hraun runnið að hluta til yfir það úr gígum norðvestan við Vörðufell. Einnig úr gígum Vörðufellsborgar norðaustan við fellið.
Mikil, löng og djúp hrauntröð er suðvestan við Vörðufell sem er framhald hrauntraðar úr gígunum efra. Bæði rofnar hún sunnan við Vörðufell þar sem sjá má mikil göt í nýrra hrauninu, auk þess sem stórt jarðfall er ofar í tröðinni. Hvorutveggja var skoðað í þessari ferð.
Reyndar er ekki heiglum hent að sækja Brennisteinsfjöllin heim. Þegar farið er í þau til norðurs þarf að huga að ýmsu ef rata á rétta leið í úfnu apalhrauni og þykkum hraungambra. Um aldur þessara hrauna er ekki vita, en telja má líklegt að Lyngskjöldurinn geti verið ca. 3500 ára og nýrri hraunin um 1000-2000 ára gömul. Sennilega hefur svæðið allt verið mjög virt um langt skeið, með stuttum hléum á millum.
Vitað er að hraun rann í Brennisteinsfjöllum um árið 1000, m.a. úr Bláfeldi (Draugahlíðargíg). Það kom niður Stakkavíkurfjall vestan við Hlíðarvatn. Annars eru sunnanverð Bláfjöll eitt stórbrotið jarðeldasvæði þar sem hver eldstöðin og gígaröðin hefur gosið eftir aðra. Víða er miklir gos- og móbergshryggir, sem komið hafa upp á síðasta jökulskeiði. Þar er og að finna einstaka stapa frá fyrra ísaldarskeiði. Tilkomumikið er að sjá hvernig einstök gos á hryggjunum hafa náð að bræði sig upp í gegnum íshelluna og mynda grágrýtisstapakolla. Einnig hafa undirliggjandi gossrásir náð að bræða af sér ísinn til hliðanna og mynda litla grágrýtisstapa, s.s. Höfðann út frá Sandafjöllunum.
Ofan og utan í þessum gömlu hryggjum eru svo ótal eldstöðvar, sem gosið hafa á ýmsum tímum á löngu tímabili. Miklar hrauntraðir liggja niður frá upptökunum, hrauntjarnir hafa myndast og hraungúlpar orðið til. Hrauntraðirnar eru sumar bæði breiðar og djúpar. Sú, sem ferðinni var heitið í að þessu sinni, við suðvestanverð Sandafjöll, hafði greinilega fóðrað hraunbreiðuna neðanverða (sunnanverða) í allnokkurn tíma því hún hafði smám saman hlaðist upp yfir landið umhverfis og myndað allnokkurn hæðarhrygg. Samanlagt er hrauntröðin um 3 km að lengd.
Skoðuð voru jarðföllin í Lyngskyldi. Það neðsta er stórt umleikis. Undir því gæti verið hólf, en ekkert gat var að sjá niður í það. Skammt sunnar steypist hraunáin fram af Geitahlíð (sem aðrir kalla Herdísarvíkurfjallsenda). Ofar er gat niður í rásina, en hún er svo lág að skríða þarf þar inn og undir hraunið.
Haldið var upp og yfir hraungambra á nýrra hrauni. Fjárgata liggur þar yfir. Þegar komið var upp að Höfða var áð. Þrátt fyrir margar hæðir og klettaborgir á þessu svæði er á því ótrúlega lítið um örnefni. Gæti það verið, annars vegar vegna þess að svæðið hefur ekki verið smalað um langa tíð og örnefnin því gleymst, eða ekki hefur verið talin ástæða til að nefna kennileitin þar sem fáir hafa að jafnaði farið þar um.
Þegar komið var upp í götin, sem ferðinni var heitið í, kom í ljós stærðarinnar niðurfall hið efra, en minna hið neðra. Bæði voru full af snjó þrátt fyrir snjóleysu á jörðu. Ofan efra jarðfallsins er hrauntröðin langa og djúpa svo löng sem augað eygði.
Farið var niður í jarðfallið. Reipi hafði verið tekið með, en nú var í því bæði það mikill snjór að auðvelt var að komast niður og svo var að sjá að hægt væri að komast niður með því að fara á réttum stað í það norðaustanvert. Efst norðanvert í jarðfallinu var rás inn undir hraunið. Þegar niður var komið reyndist rásin full af snjó. Ekki var því lengra haldið að þessu sinni. Neðst sunnanvert í jarðfallinu var snjór. Regndropar höfðu þó holað snjóinn svo stinga mátti löngum staf niður. Hann botnaði ekki þrátt fyrir lengdina. Þarna niðri var greinilega rás, sem kanna þyrfti nánar. Helli þessum var gefið nafnið „Jafndægur“ þar sem hann var uppgötvaður 21 mars þegar vorjafndægur voru þetta árið.
Haldið var upp eftir hrauntröðunni löngu. Efst í henni var lokuð rás, full af snjó.
Til baka var haldið nokkuð vestar en komið hafði verið. Skoðaðir voru nokkrir fallegir eldgígar. Suðvestan undir Sandafellum er mikil eldstöð. Sunnan úr henni ganga stuttar, en hrikalegar, hrauntraðir. Ein þeirra hefur myndað stóra hrauntjörn. Nú rísa umleikis hana háir bergveggir er mynda hið ágætasta skjól.
Tröllahár óx á mosa. Hraundrottning leið um Gambrann. Gervigígur stóð einn í lágri kvos. Þar hafði hraunið greinilega runnið niður beggja vegna eldri hæðar, og myndað aðstæður fyrir tjörn. Á seinni stigum gossins hafði hraunstraumurinn náð að renna niður í tjörnina og myndaðist þá gervigígurinn.
Þessi hluti Brennisteinsfjalla er öllu jafnan mjög fáfarinn. Jafndægur er uppi á hæð og því langt í frá að vera auðfundin. Til að geta gengið að henni þarf annað hvort góða loftmynd eða heppni – eða vitneskju um hvar hellinn er að finna.
Gengnir voru 10.5 km. Mesta hæð var um 350 m.y.s. Veður var frábært. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Dalur vættanna – Helgi Sigurðsson
Helgi Sigurðsson, sagnfræðingur á Árbæjarsafni, segir frá „Dal vættanna“ í DV árið 2001:
„Elliðaárdalurinn er eitt vinsælasta útivistarsvæði Reykvíkinga og á hverjum degi fara mörg þúsund manns um dalinn. Að öllu jöfnu er Elliðaárdalurinn fallegur, vinalegur og hættulaus en þegar gluggað er í söguna er margt öðruvísi en sýnist í fyrstu.
Mýrardraugurinn
Helgi segir að Elliðaárdalurinn búi yfir ýmsum huldum vættum. „Segja má að flestir bæir sem áttu land að dalnum tengist draugagangi eða huldufólki á einhvern hátt. Efsti bærinn í dalnum er Elliðavatn. Á seinni hluta 19. aldar settust tveir vinnumenn þar að drykkju í beitarhúsum ásamt manni er nefndist Magnús Jónsson, en hann hafði lært nokkuð í frönsku. Nokkrum dögum seinna fannst Magnús helfrosinn í mýri nálægt Vatnsenda og voru hrafnar lagstir á náinn. Talið var víst að hann hefði orðið úti vegna drykkjunnar. Líkið var flutt heim að Elliðavatni. Gekk Magnús síðan aftur við beitarhúsin. Fólk hafði ekki svefnfrið fyrir söng og drykkjurausi á frönsku, höggum og hurðaskellum. Draugurinn var fyrst kallaður Mangi og sótti mest að öðrum vinnumannanna sem drukkið höfðu með honum og hrökklaðist sá burt. Eftir það sást draugurinn mest við beitarhúsin og í mýrinni þar sem Magnús varð úti og eftir það var hann nefndur Mýrardraugurinn.“
Með hausinn í hendinni
Draugurinn.
„Önnur saga sem tengist dalnum ofanverðum er einnig frá 19. öld. Eftir að Guðmundur á Kópavogsbýlinu dó urðu menn óþyrmilega varir við að hann lægi ekki kyrr. Hann reyndist mjög mannskæður. Dag einn, haustið eftir að hann andaðist, gekk maður nokkur sem Stefán hét upp að Vatnsenda og dvaldist þar fram undir sólsetur. Honum var fylgt vestur að svonefndu Vatnsendahvarfi. Þegar fylgdarmaðurinn var nýskilinn við Stefán sá hann mann rétt fyrir norðan sig og þekkti hann strax Guðmund úr Kópavogi. Stefáni varð ekki um sel. Hann hélt þó áfram og var draugurinn alltaf á hlið við hann uns hann kom niður á móts við Breiðholt. Þá nam draugurinn allt í einu staðar, tók ofan hausinn og marghneigði sig fyrir Stefáni með hausinn í hendinni og hvarf. Guðmundur í Kópavogi sótti einnig að bóndanum í Breiðholti en hann stóð af sér allar skráveifur. Talið er að Guðmundur sé enn á ferli og menn telja sig verða vara við hann annað slagið.
Draugasteinar
„Svo nefndir Draugasteinar eru við stíginn við suðurenda Árbæjarstíflu… Þetta eru nokkur björg, allt að mannhæðarhá og er talið að í þeim búi álfar. Uppi á Breiðholtsbarðinu við fjölbýlishúsið að Vesturbergi 2-6 er önnur álfabyggð samkvæmt Fornleifaskrá Reykjavíkur. Trúin á álfabyggðina var svo sterk að fjölbýlishús sem átti að byggja á staðnum var flutt til að raska henni ekki. Þetta geta allir séð sem fara um Vesturberg.“
Framhjáhald og morð
Bústaðir 1972.
„Neðar í dalnum við austurenda Bústaðavegar stóð bærinn Bústaðir. Þar bjuggu eitt sinn hjón og var hjá þeim vinnumaður sem hét Þorgarður. Sagt var að konan héldi við Þorgarð og að bóndi þyrfti að sinna óvandari verkum og var oft úti yfir fé í illviðrum en Þorgarður sat heima. Eitt vetrarkvöld í byl kom bóndi ekki heim og heldur ekki nóttina eftir. Næsta morgun fannst hann í Elliðaánum með áverka sem menn ætluðu að hefði dregið hann til dauða og var Þorgarður fundinn sekur. Hann átti þess kost að greiða fébætur eða vera tekinn af lífi. Þorgarður fór til bóndans að Seli á Seltjarnarnesi og bað hann að leysa út líf sitt. Bóndinn var talinn vel í efnum og tók málaleitaninni ekki illa en það gerði húsfreyja hans. Þorgarður fékk því enga aðstoð og var tekinn af lífi. Gekk hann aftur og sótti að Selshjónunum og var því kallaður Sels-Móri. Hann var á ferli að minnsta kosti fram á síðustu öld.“
Sæskrímsli í Elliðaárvogi
Elliðaárdalur – kort.
„Árið 1883 var hraustmennið Guðmundur Guðbrandsson við Elliðaárvoginn að tína krækling í beitu. Skyndilega kom að honum ókennileg skepna þakin skeljum og á stærð við veturgamlan kálf. Guðmundur stóð í stimpingum við skepnuna í tvær klukkustundir en komst á endanum að Bústöðum. Hann var svo illa til reika að hann lá rúmfastur í tvo sólarhringa.“
Dvergar og álfar
Helgi segir að snemma vors 1990 hafi Erla Stefánsdóttir sjáandi verið í gönguferð um Elliðaárhólmann og orðið vitni að margvíslegri „innri birtingu náttúrunnar“ eins og hún orðaði það. „Strax og Erla kom yfir bogabrúna sá hún tvö sambyggð hús og „voru þybbnir dvergar þar á stjái“. Stutt þar frá var annar bær og voru smávaxnir dvergar úti fyrir, forvitnir og glaðir og störðu undrandi“ á hana. Ofar við ána sá Erla síðan jarðdverga eða gnóma, sem voru ekki hærri en 12 sentímetrar á hæð og klæddust björtum og litríkum fatnaði. Enn ofar, á hraunrana, kom hún í þorp jarðdverga. „Nokkur voru á einni hæð og fleiri á mörgum hæðum, með turnum og spírum og garðar voru í kringum hvert hús.“ Í furulundi þar skammt frá kom Erla síðan í álfabyggð og voru álfarnir á stærð við 6-8 ára börn. „Voru þeir græn- og rauðklæddir, með árur í sömu tónum og fötin. Sást vel inn til þeirra, voru herbergin lítil en mörg og mjóg snyrtilega búin.“ Á göngu sinni sá Erla einnig trjáverur og fortíðarmyndir kvenna við þvott á árbakka.“
Arnes í þófaramyllunni
Þófaramylla við Elliðaár.
„Meðal kunnustu útilegumanna á Íslandi fyrr á tíð var Arnes Pálsson, sem meðal annars bjó um skeið með Fjalla-Eyvindi og Höllu á Arnarvatnsheiði. Af Arnesi eru til ýmsar sögur og ein þeirra í Elliðaárdal. Í stuttu máli fjallar hún um gæslumann sem rakst á Arnes sofandi í þófaramyllunni snemma morguns: Arnes hafði staf í hendi og poka við hlið sér. Gæslumaðurinn greip það hvort tveggja og hljóp heim að Ártúni. Vaknaði þá Arnes og elti hann. Tókst gæslumanninum að senda stúlku til Reykjavíkur að… segja hvað um væri að vera. Reyndi hann síðan að tefja fyrir Arnesi en hann var ókyrr og enduðu samskipti þeirra með því að Arnes svipti gæslumanni flötum í bæjargöngunum og hljóp á brott. Hafði hann þá séð til þrjátíu manna flokks sem kom eftir Bústaðaholtinu frá Reykjavík. Veittu þeir Arnesi eftirför upp eftir Elliðaánum og þaðan allt suður í Garðahraun á Álftanesi þar sem hann hvarf þeim sjónum í skjóli myrkurs.“
Morð og drekkingar
Að sögn Helga eru Skötufoss og Drekkingarhylur einhverjir sögufrægustu staðir í Elliðaárdalnum. „Ef enn er reimt i dalnum þá ætti það að vera þar, bæði vegna morðs sem þar var framið og þar var líka opinber aftökustaður. Árið 1704 bjó að hálfum Árbæ maður sem hét Sæmundur Þórarinsson. Kona hans hét Steinunn Guðmundsdóttir og var Sæmundur þriðji eiginmaður hennar. Á móts við þau bjuggu Sigurður Arason og móðir hans. Kærleikar munu hafa verið með þeim Sigurði og Steinunni og eggjaði hún hann til að drepa bónda sinn. Kvöld eitt í september fóru þeir Sæmundur og Sigurður til veiða í Elliðaánum. Þegar þeir voru staddir við Skötufoss gekk Sigurður aftan að Sæmundi og sló hann með tréfjöl og hratt honum í hylinn. Daginn eftir lét Sigurður þau boð út ganga að Sæmundar væri saknað. Söfnuðust menn saman til leitar og fannst lík Sæmundar fljótlega í ánni. En hann var ekki bólginn eins og þeir sem drukkna og þótti sýnt að hann hefði dáið á þurru landi. Líkið var grafið en smám saman kom upp orðrómur um að Sigurður væri valdur að dauða Sæmundar eða hefði vitneskju um endalok hans. Var gengið á Sigurð og þegar hótað var að grafa upp líkið gekkst hann við morðinu. Var einnig gengið á Steinunni og viðurkenndi hún þátttöku sína eftir nokkrar umtölur yfirvaldsins. Fengu þau bæði líflátsdóm og voru tekin af lífi í Kópavogi skömmu síðar. Sigurður var höggvinn en Steinunni drekkt. „Fengu þau bæði góða iðran og skildu vel við“, eins og segir í Vallaannál.“
Drekkingarhylur
Helgi segir að það hafi þótti í frásögur færandi að Steinunni Guðmundsdóttur var drekkt í læknum fyrir austan Kópavogsþingstað en ekki á hefðbundnum stað í „Elliðaá syðri“ eins og komist er að orði í Vallaannál.
Eins og flestum er kunnugt voru konur fyrst og fremst líflátnar með drekkingu. Ekki er vitað hversu mörgum konum var drekkt í Elliðaám en ein þeirra var Vigdís Þórðardóttir. Vigdís hafði borið út barn sitt árið 1696, að Ingunnarstöðum í Brynjudal, Kjós. Heimildir eru fáorðar um mál hennar en konur sem báru út barn á þeim tíma voru nær undantekningarlaust fátækar og einstæðar. Líflátsdómar fyrir útburð tíðkuðust á 17. öld og fram á annan áratug 18. aldar.“
Heimild:
-Dagblaðið Vísir – DV, 15. september 2001, bls. 51.
Draugaklettur í Elliðaárdal.
Illuhraun – Illir
Eldvarpahraunin, Arnarseturshraun, Illahraun, Blettahraun og Bræðrahraun voru fyrrum nefnd Illuhraun. Nú nær Illahraunsnafnið þrengra yfir hraunkargann sunnan og suðvestan við Bláa lónið. Hraunin öll teljast til Reykjaneselda á tímabilinu 1211-1240.
Í Eldvörpum nær suðurendi Eldvarpagígaraðarinnar frá suðvestanverðu Staðarbergi, þar sem hraunið rann í sjó, en í norðaustri endar hún tæpa 2 km vestur af Bláa lóninu, við svonefndan Lat. Hún er alls um 10 km löng en nokkuð slitrótt. Mest hraunframleiðsla hefur verið á nýjustu sprungureininni í Eldvörpum, skammt sunnan miðju gígaraðarinnar.
Arnarseturshraun og Illahraun eru talin vera frá því stuttu eftir 1226, líklega nokkrum árum, en þau runnu bæði inn á Eldvarpahraun.
Á nýlegri loftmynd af hraunasvæðinu má glögglega sjá djúpa hrauntröð. Ætlunin var að ganga um hraunssvæðið norðan við Bláa lónið, leita að framangreindri hrauntröð og koma síðan m.a. við í hellinum Kubb og jafnvel fleiri óþekktum hellarásum á svæðinu. Ein þeirra reyndist vera hin dulúlegi Illir.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Grindavík – Þorbjörn. Illahraun fremst.
Fjaran
Strandirnar eru ein af perlum Álftaness, reitir sem sveitastjórnin hefur lýstur sem friðland. Þar er ríkt af fugli í fjörum og selir úti í skerjum Áður var þar mikið kríuvarp við litla tjörn á ströndinni.
Þótt fuglamergðin á Álftaneslandinu hafi verið meiri á árum áður og land verið hækkað að hluta með uppfyllingu, þá eru fjörurnar óbreyttar og skerin sannkallaður ævintýraheimur fyrir forvitið fólk á öllum aldri. Grjótið er iðandi af lífi og síbreytilegt. Tilfallandi sæbúar frá dýpri sjó verða hér á vegi fjörulallanna og þeir endurnýjast í ölduróti sem oft er ægifagurt á að líta.
Vorið 2004 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga náttúruverndaráætlun fyrir tímabilið 2004-2008 sem fól umhverfisráðuneytinu að vinna að friðlýsingu 14 nýrra svæða á landinu auk þess að stofna Vatnajökulsþjóðgarð. Markmiðið var að stuðla að traustari verndun íslenskrar náttúru, meðal annars með því að mynda net verndarsvæða til þess að vernda líffræðilega fjölbreytni landsins. Helmingur þessara svæða eru vel þekkt og mikilvæg fuglasvæði og auk þess vinsælir ferðamannastaðir eða útivistarsvæði. Tvö þeirra hafa mikla þýðingu fyrir fjölda farfugla sem heimsækja landið vor og haust þ.e. Álftanes og Skerjafjörður.
Strandlengja höfuðborgarsvæðisins er löng og er vinsæl til útivistar. Nýtur fjöldi fólks gönguferða sem og fugla- og náttúruskoðunar við ströndina. Sums staðar hafa framkvæmdir í gegn um tíðina leitt til verulegrar breytinga á umhverfi strandarinnar hér við höfuðborgarsvæðið. Slíkt leiðir til vitanlega til þess að fæðu- og búsvæðum margra tegunda lífvera meðal annars fugla raskast. Það hefur einnig leitt til þess að hlutar fjörunnar eru nú óaðgengilegri sem útivistarsvæði. Hins vegar, þrátt fyrir alla þá byggðaþróun og fjölgun sem orðið hefur á örfáum áratugum hér á Innnesjum, má segja að sveitarstjórnir og skipulagsyfirvöld hafi reynt að vera framsýn í störfum sínum. Þótt ströndunum hafi víða verið raskað, sérstaklega næst þéttbýlinu, er enn verulegur hluti strandarinnar frá Gróttu suður í Hafnarfjörð að hluta til óraskaður. Í því eru fólgin ómetanleg verðmæti fyrir íbúa þessa landshluta. Það eru mikil lífsgæði fólgin í því fyrir þéttbýlisbúa að eiga þess kost að njóta náttúrugæða og umhverfis sem er ómanngert að mestu leyti. Nú eru á vegum einhverra sveitarfélaga hér á höfuðborgarsvæðinu fyrirhugaðar umfangsmiklar breytingar á ströndinni og grunnsvæi meðal annars með auknum landfyllingum. Við undirbúning og ákvarðanatöku um slíkar landfyllingar er mikilvægt að hugað sé að umhverfisþáttum og þeim áhrifum sem framkvæmdirnar hafa á lífríkið og aðgengi almennings að náttúrulegum svæðum.
Mikilvægt er að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi samráð og samvinnu um verndun strandsvæða höfuðborgarsvæðisins og hvernig best megi varðveita náttúrulegt ástand og yfirbragð strandsvæðanna og eyja svæðisins. Mikilvægt er að sveitarfélögin taki höndum saman um að friðlýsa það svæði við Skerjafjörðinn sem er á náttúruverndaráætlun til þess að vernda náttúrufar svæðisins til framtíðar og skapa samfellt útivistarsvæði meðfram strandlengjunni. Að sjálfsögðu þarf í þessu ferli að ræða um mismunandi nýtingu og mismunandi verndarstig.
Mikilvægt er að meta hvaða svæði eru mikilvægust út frá náttúrufari og hvernig best megi viðhalda ásýnd og eðli þeirra. Það þarf jafnframt að sjá til þess að breytingar á svæðum sem minni þýðingu hafa fyrir líffræðilega fjölbreytni, jarðfræði eða vegna útivistar rjúfi ekki heildarsýn og samfellu svæðisins eða skerði útivistargildi þess.
Fyrir nokkrum árum var haldin hér á landi alþjóðleg ráðstefna um tengsl náttúru og friðlýstra svæða við heilsu, vellíðan og útivist. Þar kom skýrt fram hjá fyrirlesurum frá öllum Norðurlandanna að útivist á náttúrulegum svæðum hefur margháttuð jákvæð áhrif á fólk, s.s. heilsufar og lífsánægju, dregur úr streitu, eykur tengsl við náttúruna og bætir skilning á tengslum og stöðu mannsins í náttúrunni. Það skiptir miklu fyrir lífsgæði fólks í þéttbýli að menn hafi góðan aðgang að friðlýstum og náttúrulegum svæðum sem næst heimili sínu sem gengið er um af varúð og viðingu. Það er meðal annars af þessum ástæðum sem það skiptir miklu máli að vernda þá fjöruhluta, sem enn er óraskaðir á Reykjanesskaganum.
Fjaran utan við Álftanes er einstaklega aðgengileg fólki. Góður göngutúr um hana sannfærir viðkomandi ekki einungis um mikilvægi hennar fyrir lífríkið heldur og fyrir hinu jákvæðu áhrif, sem hún hefur fyrir þá er hennar fá að njóta.
Grótta – Freyja Jónsdóttir
Í Degi árið 2001 segir Freyja Jónsdóttir frá Gróttu:
„Fyrir Básendaflóðið 1799 þótti Grótta góð bújörð og hefur þar komið til að útræði þaðan var gott. Í Seltirningabók eftir Heimi Þorleifsson segir: „Grótta er fyrst nefnd í fógetareikningum frá árunum 1547 – 52, en nafnið þykir fornlegt og bendir til þess, að þar hafi lengi verið búið“. Grótta er eitt helsta kennileiti og útvörður Seltjarnarness. Hún geymir mikla og merkilega sögu sem ekki verður gerð skil í einni blaðagrein en reynt verður að draga fram það helsta. A átjándu öld var þarna mikil útgerð og segir í lýsingum Skúla Magnússonar að 1780 hafi verið gerðir út þaðan fjórir bátar.
Grótta var lengi hjáleiga frá stórbýlinu Nesi en ábúandi Gróttu mátti hafa sína eigin skipaútgerð. Að hafa sfna eigin útgerð hefur laðað að stórhuga útgerðarmenn þessara tíma. Stutt var á miðin og munaði miklu að róa frá Gróttu eða innan úr Reykjavík. En Grótta á sinn óvin þar sem Ægir gamli er, sem brýtur báru við strönd og sækist eftir landi Gróttutanga. Í aldanna rás hafa menn reynt að verjast landbroti með því að hlaða varnargarða við fjörukambinn.
Fyrsti nafnkunni ábúandinn var Sigurður Erlendsson, hann bjó í Gróttu árið 1696. Fram að flóðinu mikla eru á Gróttu sjö ábúendur fyrir utan það að stundum virðist hafa verið þar tvíbýli.
Í Básendaflóðinu voru ábúendur á Gróttu þau Sigurður Magnússon, fæddur 1751 og Guðrún Guðnadóttir, fædd 1748. Þau hjón virðast hafa búið áfram í Gróttu eftir flóðið þó að Grótta sé í sumum heimildum talin óbyggileg. Líklegt er að Sigurður hafi haft framfæri sitt af sjósókn og eða bátasmíði en hann er nefndur timburmaður í einu manntali (sjá Seltimingabók Heimis Þorleifssonar). Á heimili Sigurðar og Guðrúnar voru yfirleitt fimm til sex manns.
Jörðin hefur sennilega verið í eyði frá 1827 til 1840. En þar áður bjuggu á Gróttu Magnús Sigurðsson, sonur Sigurðar Magnússonar og Guðrúnar Guðnadóttur, fyrri ábúenda. Magnús var fæddur 1789. Kona hans var Ingibjörg Guðmundsdóttir, fædd 1797. Þau hjón fluttust að Bygggarði árið 1827.
Árið 1852 eru Jón Jónsson og Ketilríður Kristjánsdóttir farin að búa á Gróttu, ásamt þremur börnum sínum, Marju 4 ára, Ingjaldi 3 ára og Sigurði 1 árs. Þau bjuggu áður á Hvammi í Kjós, en lifðu á sjófangi eftir að þau fluttu að Gróttu. Jón var fæddur 1823 í Reynivallasókn. Ketilríður var fædd 1822 í Glaumbæjarsókn. Jón bjargaði tveimur mönnum úr sjávarháska út af Gróttutöngum árið 1859, en fórst sjálfur í sjóslysi með Einari í Ráðagerði 2. febrúar 1870. Ketilríður bjó áfram í Gróttu með bórnum sínum og fer ekki á milli mála að hún hefur verið kjarkmikil dugnaðarkona. Við manntal seint á árinu 1870 kemur fram að börn hennar og Jóns sem eftir eru í eyjunni með móður sinni eru: Marja 19 ára, Guðbjörg Dagný 12 ára og Jón 6 ára. En Ingjaldur og Sigurður koma ekki fram í Gróttu við það manntal. Þá er getið um einn vinnumann í Gróttu, Guðmund Helgason 45 ára.
Samkvæmt manntali frá árinu 1880 bjó þá í Gróttu, Þórður Jónsson, 44 ára skipasmiður og sjómaður, fæddur í Reykjavíkursókn og kona hans Sigurbjörg Sigurðardóttir 30 ára gömul, fædd í Stokkseyrarsókn. Einnig eru á heimilinu þrjú börn Þórðar frá fyrra hjónabandi: Pétur 15 ára, Þórður 13 ára og Guðrún 12 ára. Ennfremur fjögur börn þeirra hjóna: Sigurður 5 ára, Guðrún 4 ára, Þórður 3 ára og Guðbjörg á fyrsta ári. Það er eftirtektarvert að tvö börn af seinna hjónabandi Þórðar heita sömu nöfnum og tvö af börnum hans af fyrra hjónabandi. Þórður flutti í Mýrarhúsaskóla árið 1894 og gerðist þar umsjónarmaður. Þorvarður hefur búskap Árið 1901 er Þorvarður Einarsson, fæddur 1863 í Arnarbælissókn, tekin við búskap í Gróttu ásamt konu sinni Guðrúnu Jónsdóttur, fæddri 1859 á Morastöðum í Kjós. Hjá þeim eru þrjú börn þeirra: Jón Albert 4 ára, fæddur í Saurbæjarsókn, Guðrún 3 ára og Vilborg 2 ára sem báðar eru fæddar í Reykjavíkursókn. Einnig eru á heimilinu Benjamína Sigurjóna Sigfúsdóttir 13 ára, dóttir húsfreyjunnar og Einar Jónsson 72 ára, ættingi sem varð ekkill 1892. Einar lifði á framfæri sonar síns og hefur líklega verið faðir Þorvarðar. Þorvarður mun hafa byrjað búskap í Gróttu árið 1895 en þá gaf Gróttutún ekki af sér nema tæp tvö kýrfóður og var bæði þýft og rýrt. Þorvarður var bæklaður og gekk við hækju en dugnaður hans hefur verið með eindæmum, hann sléttaði túnið og stækkaði og gaf það af sér um 90 hestburði af töðu þegar hann lést árið 1931. Guðrún kona hans lést árið 1929.
Fyrsti vitinn í Gróttu var reistur árið 1897. Kveikt var á vitanum 1. september sama ár. Turninn undir vitanum var 8 metra hár, úr grjóti og steinsteypu. Vitinn var með spegli og snúningsáhaldi, sem tók ljósið af með vissum millibilum. Þessi ljósabúnaður var fundinn upp af Fleischer yfirverkfræðingi í Danmörku.
Árið 1912 var skipt um ljósabúnað vitans en upphafleg ljósakróna var notuð. Þá var sett upp blosstæki með dissousgasi. Árið 1918 var aftur skipt um tæki sem voru með gasglóðarnetlum og jókst ljósmagn vitans með því. Vitinn sem nú stendur í Gróttu er mun hærri en gamli vitinn. Kveikt var á honum 11. nóvember 1947. Þorvarður Einarsson bóndi á Gróttu tók við vörslu vitans og gegndi starfinu til dauðadags. Eftir hans dag tók Jón Albert sonur hans við vitavörslunni. Þorvarður varð eigandi að hálfri jörðinni Gróttu 17. maí 1904, sem hann keypti af Runólfi Ólafssyni í Mýrarhúsum. En 16. ágúst árið 1902 selja landssjóði Íslands jörðina Gróttu, þeir Guðmundur Einarsson í Nesi, Sigurður Ólafsson í Nesi, Guðmundur Ólafsson í Nýjabæ og Þórður Jónsson í Ráðagerði. Líklegt er að þarna sé um hálfa Gróttu að ræða því í afsalsbréfi stendur að býlið sé ekki metið til dýrleika og sé jarðarhúsa og kúgildalaust. Í kaupsamningi frá Runólfi Ólafssyni til Þorvarðar Einarssonar kemur fram að Runólfur eignast hálfa Gróttu með afsalsbréfi dagsettu 2 1 . ágúst 1902. Þann 29. apríl 1921 selur og afsalar í hendur landssjóði helming jarðarinnar Gróttu Þorvarður Einarsson og er þá býlið Grótta allt orðið í eigu landssjóðs.
Íbúðarhúsið sem enn stendur á Gróttu byggði Þorvarður 1904. Húsið var ein hæð og ris á hlöðnum kjallara. Byggt af timbri, klætt járni að utan og á þaki. Í kjallaranum er gólfið úr steinsteypu. Seinna var byggt ofan á húsið og er það nú með tveimur þriggja herbergja íbúðum. Gengið er inn í það um bíslag á suðurhlið. Lítill gluggakvistur er á suðurhlið á þaki.
Fjögurra kúa fjós og hlaða stóðu skammt frá húsinu sem hvort tveggja var byggt úr timbri og járni. Mjög gestkvæmt var í Gróttu sérstaklega fyrst eftir að vitinn var reistur þar. Í Seltirningabók er þess getið að um 2600 gestir hafi komið í Gróttuvita frá því að hann var reistur og til ársins 1927 en þá var þrjátíu ára afmæli vitans. Eins og að framan greinir tók Jón Albert við vitavörslu að föður sínum látnum. Hann stundaði mest sjóinn en hafði fyrstu árin lítilsháttar búskap. Jón Albert byggði sjóbúð og bætti lendingaraðstöðuna með því að gera bryggju fyrir framan sjóbúðina. Á bryggjunni var braut sem gekk í gegnum sjóbúðina og handspil fyrir ofan sjóbúðina. Við brygguna var pallur sem báturinn var settur á sem síðan rann eftir brautinni, þannig að einn maður gat tekið bátinn upp. Jón Albert hugsaði vel um æðarvarpið í Gróttu og í hans tíð voru yfir hundrað kollur á hreiðrum. Um árabil bjó hann einn í Gróttu. Jón Albert Þorvarðarson drukknaði í róðri 12. júní 1970. Eftir lát hans hefur ekki verið búið í Gróttu.
Árið 1978 fékk Rotarýklúbbur Seltjarnarness sjóbúð Alberts til eignar. Systur Jóns Alberts gáfu Rotarýklúbbnum húsið með þeim skilyrðum að það yrði gert upp, en þá var sjóbúðin komin í niðurníðslu. Suðaustan við sjóbúðina var hjallur og geymslukofi fyrir vestan hana. Þessar tvær byggingar hafa nú verið rifnar. Rótarýmenn hafa gert sjóbúðina upp og nýlega var hún stækkuð til muna. Þeir hafa einnig verið ötulir við að halda fjörum eyjarinnar hreinum.
Seltjarnarnesbær eignaðist Gróttu 8. nóvember 1994. Fyrst var ráðist í að endurgera vitavarðarbæinn að utan og síðan að innan og koma honum í upprunalegt horf, en fjósið, hlaðan og kamar sem stóð þar skammt frá voru rifin. Nýtt hús hefur verið byggt norðan við vitavarðarbæinn sem er fyrirhugað fræðasetur.
Grótta er vel gróið friðland með fjölskrúðugu fuglalífi. Þar er mikið kríuvarp ásamt ótal öðrum fuglategundum. Líklegt er að flestar tegundir fugla sem hafast við á Seltjarnarnesi verpi að einhverjum hluta úti í Gróttu. Þar er einnig talsvert fjölskrúðugur fjörugróður. Frá 1. maí til 1. júlí ár hvert er eyjan alfriðuð og allar mannaferðir um hana óheimilar. Friðunin er til þess að auka fuglavarp í Gróttu en það hefur dregist saman á síðustu árum og þá sérstaklega æðarvarpið.
Nokkuð er um það að fólk virði ekki friðlandið og gangi um eyjuna þegar fuglinn er í hreiðurgerð, sem óhjáhvæmilega hefur í för með sér að fuglinn hrekst í burtu. Það hefur komið fyrir að út í Gróttu hafa komið menn þeirra erinda að tína egg. Þó er svæðið merkt sem friðland og næsta ótrúlegt að fólk skuli ekki virða það.“
Heimild:
-Dagur, 27. janúar 2001, bls. 1-III.
Grótta – friðlýsing.
Klofningahraun – Dringull – Hróabásar
Í örnefnalýsingu fyrir Stað segir m.a. um svæðið í Klofningahrauni: „Dringull heitir stakur klettur, u.þ.b. 2-3 km norðvestur af Mölvík. Var hann alkunnugt kennileiti í smalamennskum hér áður. (Austur af honum er Stampahraun).“
Einnig segir: „Þá taka við tvö vik inn í bjargið. Nefnast þau Sölvabásar og Hróabásar. (Ath.: Yfirleitt voru nöfnin á básum þessum höfð í fleirtölu, þótt í rauninni sé hvor um sig bara einn bás). Hróabásar eru við vestari bergsendann. Í þeim var flóruð vör og sjást hennar enn nokkur merki. Bendir það til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráðar heimildir – aðeins munnmæli. Í Sölvabásum áttu Húsatóftir sölvatekju.“
Ætlunin var að skoða fyrrnefndar mannvistarleifar í Hrófabásum og leita Dringuls í Klofningahrauni. Eins og sjá má hér að framan er rithátturinn „Hróabásar“ í örnefnalýsingu, en „Hrófabásar“ á landakortum.
Í gossannálum segir m.a.: 1226-27 – nokkur gos á Reykjanesi. Þeim eru eignuð Yngra Stampahraun, (Klofningahraun), Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Þetta á var Viðeyjarklaustur stofnað (Ágústínusarregla). Það varð vellauðugt og eignaðist áður en lauk meginþorra jarða á Suðurnesjum.“
Í jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlandshafshryggnum mikla, sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Sköpunarsaga landsins verður hér ljóslifandi. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum, hafa um 200 eldstöðvar í fjórum eldstöðvakerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni, sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landsvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.
Í Matsskýrslu Náttúruverndar-samtaka Íslands vegna háspennulínulagnar um þetta svæði segir m.a.: „Hér er um svæði með sérstöðu á heimsmælikvarða í jarðfræðilegu tilliti. Samt var enginn jarðfræðingur fenginn til þess að skoða áhrifasvæðið og gaumgæfa umhverfisáhrifin. Umfjöllun skýrslunnar er ekki fullnægjandi hvað þetta varðar einkum m.t.t. sérstöðu jarðfræði svæðisins. Ekki kemur t.d. fram að línan fari þvert yfir Tjaldstaðagjárhraun áður en hún fer inn á Yngra Stampahraun. Tjaldstaðgjárhraun rann í sömu goshrynu og Eldra Stampahraun fyrir um 1500 – 1800 árum. Það getur verið mjög sérstök upplifun að ganga í 1600 ára gömlu hrauni, síðan í 800 ára gömlu hrauni og vita til þess að þarna megi í sjálfu sér búast við gosi á hverri stundu í jarðfræðilegum tímaskala.
Í matsskýrslu segir eftirfarandi (bls 6): „Hraun sem runnið hefur úr Stampagígum er einkennandi fyrir svæðið, úfið en töluvert sandorpið og gróðurlaust að mestu. Hraunið nefnist Stampahraun.“ Þarna er gefið í skyn að hraunin séu minna virði vegna þess að þau séu gróðurlaus og sandorpin. Þetta er mikill misskilningur. Verðmæti hrauna fer ekki eftir því hvort þau eru þakin gróðri eða ekki. Verðmæti hrauna fer fyrst og fremst eftir berggerð þeirra og þeim jarðmyndunum sem í hrauninu eru. Hraunin á utanverðu Reykjanesi, eru mjög merkileg á landsvísu vegna þess hve sérstakar jarðmyndanir þau eru. Stampagígaröðin er einstæð í sinni röð og saman mynda öll hraunin á svæðinu landslagsmynd sem er hrikaleg, ljóðræn og fögur.“
Gengið var bæði á Dringul og um Hófarbása. Fyrrnefndi staðurinn er líklegur smalamótastaður Grindvíkinga og Hafnarmanna, enda nálægt landamarkalínunni á Sýrfelli, en „flórinn“ á síðarnefnda staðnum virðist vera frá náttúrunnar hendi gjörður. Líklega er fyrrnefnd fullyrðing sett inn í örnefnalýsinguna eftir að einhver hafi sagt að þarna væri „líkt og flóruð vör“, en bæði eru lendingaraðstæður þarna óraunhæfar sem og uppsátur (sker og háar klappir). Engin vísbending er þarna um lendingu fyrrrum, hvorki í fjörunni né ofan hennar.
Dringull er 2.7 km NV við Mölvík. Hann er hæstur gjallgíga í röð slíkra að hluta til undir yngra Stampahrauni. Hraunbrúnin er skammt ofar. Gígaröðin er hluti af Tjaldstaðagjárhrauni austan Sýrfells.
Magnús Á Sigurðgeirsson skrifar grein um svæðið í Náttúrufræðinginn 1994-1995. Þar segir m.a.: „Stærst þessara hrauna á Reykjanesi er Tjaldstaðagjárhraun sem þekur um fímmtung nessins. Erfitt er að átta sig á stærð eldri sprunguhraunanna þar sem þau eru að miklum hluta þakin yngri hraunum. Eldra-Stampahraunið og Tjaldstaðagjárhraun runnu fyrir 1500-1800 árum, í sömu eldum eða goshrinu. Gígaraðirnar sem hraunin runnu frá liggja í framhaldi hvor af annarri, lítillega hliðraðar.
Við norðanverðan Kerlingarbás þar sem Eldri-Stampagígaröðin teygðist til sjávar hlóðst upp gjóskugígur í sjó skammt undan landi. Sjást þess merki að austurjaðar hans hafi legið við núverandi ströndu og að gjóskan hafí gengið yfír syðsta hluta gígaraðarinnar. Gjóskulagið má rekja um vestanverðan Reykjanesskaga.
Skýrasta dæmið um eldgos af þessu tagi er Yngra-Stampagosið á 13. öld, síðustu eldsumbrot á Reykjanesi. Í gosinu rann hraun frá gígaröð á landi og gjóskugos urðu undan og við ströndina þar sem gossprungan náði út í sjó. Hlóðust þar upp tveir gjóskugígar. Hlutar af gígrimum þeirra eru varðveittir á ströndinni gegnt dranginum Karli.
Mikilvægasta og best þekkta gjóskulagið í sniðinu er landnámslagið (LNL). Það myndaðist í miklum eldsumbrotum á Veiðivatnasvæðinu um 900 e.Kr. og nær útbreiðsla þess til meginhluta landsins (Guðrún Larsen 1984). Þetta gjóskulag má finna um allan Reykjanesskaga, ljósgulleitt á vestanverðum skaganum en tvílitt á honum austanverðum, með dökkan efri hluta og ljósari neðri hluta.
Til Reykjaneselda hafa verið heimfærð fjögur hraun auk Yngra-Stampahraunsins, sem eru: Klofningshraun, Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun, talin frá vestri til austurs (Haukur Jóhannesson 1989, Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson 1989).“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-Náttúrverndarsamtök Íslands – Greinargerð með athugasemdum Náttúruverndarsamtaka Íslands vegna mats á umhverfisáhrifum háspennulínu á utanverðu Reykjanesi.
-Örnefnalýsing fyrir Stað.
-Magnús Á. Sigurgeirsson, Náttúrufræðingurinn 64. árg. 1995-1995, bls. 211-214.
Klofningahraun.
Gullnáman í Þormóðsdal
Um gullnámuna í Þormóðsdal segir m.a. í Árbók VFÍ/TFÍ 1994-1995:
„Saga steiningar og tilrauna til gullnáms á Íslandi er nátengd. Lengi voru gamlar sagnir um að gull væri fólgið í jörðu í landi Miðdals í Mosfellssveit. Einar Guðmundsson lét á fyrsta áratug aldarinnar greina hversu mikið gull væri í sýnishorni úr kvartsæð sem lá yfir Seljadalsá. Niðurstöðurnar reyndust jákvæðar og í framhaldi af því var rannsóknum haldið áfram. Einar Benediktsson kom þar mikið við sögu og stóð hann ásamt öðrum fyrir stofnun nokkurra hlutafélaga um gullvinnslu í landi Þormóðsdals og Miðdals.
Aktieselskabet Pluto Limited var stofnað 1911 með bresku og norsku fjármagni og stóð það félag fyrir ítarlegum rannsóknum árin 1912 og 1913. Grafnar voru geilar í kvartsæðina niður sitt hvoru megin við Seljadalsá, en niðurstöður rannsókna þóttu ófullægjandi og rétt þótti að kanna málið enn frekar.
Fyrri heimsstyrjöldin tafði framgang rannsókna, en Norræna námufélagið vann við rannsóknir í Miðdal árin 1923-1924. Hlutafélagið Arkturus sem var stofnað með Þjóðverjum vann á svæðinu árin 1924-1925. Þessi félög réðust í kostnaðarsamar rannsóknir og grófu námugöng eftir kvartsæðinni sitt hvorum megin við Seljadalsá. Niðustöður rannsókna sem þessir aðilar stóðu fyrir voru nokkuð samhljóða. Gull var vissulega í kvartsinu og sýndu mælingar það var á bilinu 11-315 grömm í hverju tonni af grjóti. I mörgum gullnámum í Suður-Afríku, þar sem námuvinnsla þótti arðbær fengust aðeins 8-10 grömm af gulli úr hverju tonni af málmgrýti. Ætla má að að lengd kvartsæðarinnar, tæpir tveir kílómetrar og takmarkað umfang námunnar í Miðdal hafi verið helsta ástæðan fyrir því að álitið var að vinnsla á gulli borgaði sig ekki.
Ekki var þar með öll sagan sögð með námuvinnslu á gullkvartsi. Guðmundur Einarson frá
frá Miðdal (sonur Einars Guðmundssonar) hafði kynnst því erlendis, hvernig ýmsar bergtegundir voru notaðar til skreytinga við utanhúðun og kynnti Guðjóni Samúelssyni hugmyndir sínar. Á þessum árum var Þjóðleikhúsið í byggingu og var erfitt að fá gjaldeyri til að flytja inn erlend steinefni. Það þótti því tilvalið að nota kvars úr námunni í Miðdal og í framhaldi af því þróaði Guðjón aðferðir við hrafntinnukvartshúðun, fyrst á útveggi Þjóðleikhússins.
Þormóðsdalur – gullnámuvinnslan gaf góð fyrirheit.
Námuvinnsla í landi Miðdals og Þormóðsdals hélt þannig áfram en með öðrum formerkjum, þar sem fyrst og fremst var unnið kvarts úr haugunum sem urðu eftir gullgöftinn. Kvartsmulningur úr þessari námu hefur líklegast verið ríkjandi efni á fyrsta áratug steiningarinnar. Vorið 1933 var byrjað á utanhúðun útveggja á Þjóðleikhúsinu, með aðferð sem var nefnd hrafntinnu-kvartshúðun, eftir fyrirsögn Guðjóns Samúelssonar, sem þá var húsameistari ríkisins. Verkið var unnið af nokkrum múrurum undir stjórn Kornelíusar Sigmundssonar múrarameistara. Þjóðleikhúsið var fyrsta byggingin sem var múrhúðuð að utan með þessari aðferð, sem fólst í því að þrýsta eða kasta steinmulningi í límlag utan á afréttingarlag. Í múrhúðina utan á Þjóðleikhúsinu var notuð hrafntinna, kvarts, silfurberg og kalksteinn að hluta. Aðferðin sem slík er séríslensk og var Guðjón um tíma skráður fyrir einkaleyfi á aðferðinni, m.a. á Íslandi og í Danmörku.“
Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1999 er einnig sagt frá gullnámunni: „Fyrstu athugun á því hvort þarna væri að fmna gull gerði Einar H. Guðmundsson bóndi í Miðdal er hann sendi Benedikt Gröndal kvarzmola og bað hann að rannsaka gullinnihald hans. Niðurstaða Gröndals var sú að lítið gull væri í molanum. Steingrímur J. Þorsteinsson segir svo frá því í bók sinni um Einar Benediktsson að Einar bóndi í Miðdal hafi sent Steingrími Tómassyni frænda sínum sýnishorn af jarðvegi úr landi sínu en Steingrímur var búsettur í Ástralíu og fékkst við gullleit fyrr á árum. Steingrími Tómassyni þóttu sýnishornin álitleg og kom hann heim árið 1908 til frekari rannsókna að tilhlutan Einars Benediktssonar. Niðurstaða Steingríms var gull væri að finna beggja vegna Seljadalsár bæði í landi Miðdals og Þormóðsdals.
Í ævisögu sinni segir Tryggvi Einarsson frá Miðdal að Steingrímur Tómasson hafi ekki komið sérstaklega til landsins til að rannsaka gullið heldur var hann þegar hér var komið sögu orðinn aldraður og illa farinn af fyrra líferni. Þeim Miðdalsbræðrum þótti mikið til gamla mannsins koma og sýndu honum steina úr ánni sem þeir kölluðu draugasteina því að á þá glampaði þegar þeim var núið saman í myrkri. Steingrímur bað strákana að sýna sér hvar þeir hefðu fundið steinana. Eftir að hafa rannsakað þá komst hann að þeirri niðurstöðu að þetta væri gullkvarz. Steingrímur dvaldist hér á landi á annað ár en hélt síðan aftur til Ástralíu og hafði með sér sýnishornin úr Miðdal. Ári síðar sendi hann svo Einari Guðmundssyni niðurstöður úr nákvæmari rannsóknum sem sýndu að svo mikið væri þarna af gulli að það gæti borgað sig að vinna það. Hver svo sem ástæðan var fyrir heimkomu Steingríms þá sendi hann sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu beiðni um gullleitarheimild þann 17. ágúst 1908 og segist hafa fundið vott þess að málmur sé í landi Þormóðsdals „Hjerumbil 100 faðma fyrir vestan við bæinn, rétt fyrir utan túnið og hjerumbil 130 faðma frá ánni.“
Nokkru áður eða 14. ágúst höfðu borist aðrar málmleitarumsóknir og ekki leið á löngu þar til þær fóru að streyma inn í stórum stíl. Ekki var það þó svo að gullæði hefði gripið um sig meðal almennings því að flestar umsóknirnar komu frá sömu mönnunum. Þetta var hópur kringum Björn Kristjánsson kaupmann og ber mest á umsóknum frá honum, Hannesi S. Hanssyni og Sturlu Jónssyni en í tengslum við þá voru Tryggvi Gunnarsson bankastjóri, Eggert Claessen, Sveinn Björnsson lögmaður og síðar forseti, Sighvatur Bjarnason bankastjóri og fleiri góðborgarar. Um þetta leyti voru mældir út námuteigar í landi Þormóðsdals eftir námulögunum frá 1907, alls 77 teigar. Hver teigur var 100 000 m2.
Steingrímur J. Þorsteinsson segir að 21. maí árið 1909 hafi Námufélag Íslands gert samning um námaréttindin við Einar Guðmundsson og Gísla Björnsson mág hans en þeir áttu hvor sinn hlutann af Miðdal. Óvíst er hvernig afskiptum félagsins af námunni lauk og ekki var Einar Benediktsson í stjórn þess en gerði tilraun til að afla fjár fyrir félagið erlendis en hún endaði heldur snautlega.
Gullgrafari í Nýja Sjálandi.
Mikill áhugi var á námuvinnslu meðal Íslendinga á þessum árum og tengdist hann þeim framfarahug sem gegnsýrði allt samfélagið.
Að sögn Valgerðar Benediktsson hófust afskipti Einars Benediktssonar af Miðdalsnámunni þegar nafni hans Guðmundsson skrifað honum til London og bað hann að vera umboðsmaður sinn í Englandi. Fyrstu skjalfestu heimildir um afskipti Einars er hins vegar skýrsla sem hann skrifar til hinna bresku samstarfsmanna sinna 23. maí 1910 og bréf sem hann sendir til sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu 16. september sama ár þar sem hann tilkynnir að kaupmaður H.S. Hansson sé umboðsmaður þeirra hjóna og barna þeirra og hafi leyfi til að sækja um námateiga fyrir þau. Einar virðist hafa tekið til óspilltra málanna í London og vitnar Steingrímur J. Þorseinsson í áðurnefnda skýrslu þar sem ekki var dregið úr ágæti gullæðarinnar og er hún sögð liggja þvert yfir landareignina og langt út um héraðið. Árið 1911 tekur dótturfyrirtæki British North-Western Syndicate Miðdalsnámurnar á leigu og var ákveðið að fá Norðmenn með sérþekkingu á málmvinnslu til samstarfs um rannsóknir og vinnslu.
Til þessa verks var stofnað Aktieselskabet Pluto Limited með 100.000 punda hlutafé sem að langmestum hluta var í eigu British North-Western Syndicate. Norðmennirnir lögðu aðeins fram um 2000 pund af hlutafénu. Auk Einars sem var fulltrúi British North-Western Syndicate sátu sex Norðmenn stofnfundinn og auk Einars voru þrír Norðmenn í stjórn Pluto þeir Sigurd Kloumann, E. Wettre og Fredrik Hjort sem var formaður. Pluto gerði svo samning við landeigendur um nýtingu námunnar. Það er skemmst frá því að segja að strax árið 1911 komu tveir norskir verkfræðingar hingað til rannsókna á vegum félagsins og næstu tvö ár 1912 og 13 voru gerðar víðtækar athuganir á jarðveginum við ána. Tryggvi Einarsson segir að vísu að verkfræðingarnir hafi verið breskir og er lýsing hans á þessum rannsóknum er allævintýraleg. Verkfræðingarnir komu nefnilega ekki einir heldur með námuverkamenn með sér og voru það Finnar og Lappar frá Norður-Noregi.
Einnig voru í hópnum Norðmaður og Svíi. Síðan segir Tryggvi: „Lapparnir voru ansi skrítnir útlits, miklu lægri vexti en hinir og hausinn á þeim alveg snarkringlóttur. Þeir héldu alltaf hópinn. …Það var byrjað Miðdalsmegin við Seljadalsána, en kvarzlagið liggur undir hana. Grafin var djúp hola beint niður og hún timbruð að innan með þriggja tommu plönkum. Við Axel Grímsson vorum alltaf að sniglast í kringum verkamennina. Þeir voru góðir við okkur og lofuðu okkur stundum að húrra niður í námuna í tunnu, en allur uppgröfturinn var halaður upp í tunnu á spili. Þetta spil sem Englendingarnir notuðu, er til enn, að ég held, vestur í Gróttu…. Þetta var vandað spil og tunnan geysistórt eikarkerald, járnslegið. Ekki mátti láta vatn safnast í holuna. Þarna var því dæla, og við hana var unnið allan sólarhringinn. Við námuna var byggt allstórt skúrmyndað hús, og þar var líka eldhús. Þarna bjuggu sumir mennirnir í nokkur ár og sáu alveg um sig sjálfir. Það var grafið alveg eins og kvarzlagið lá, fyrst beint niður, en þegar komið var niður á nokkurt dýpi, fór laginu að halla töluvert til vesturs, tók svo á sig beygju og lá svo aftur beint niður, næstum út undir Seljadalsána.
Svo fór að lokum að ekki varð ráðið við vatnsagann í göngunum. Þá fluttu námamennirnir sig yfir á hinn bakkann en allt fór á sömu leið. Á svipuðum tíma hófst fyrri heimsstyrjöldin og gerði alla aðdrætti mjög erfiða. Þetta hvort tveggja varð til þess að hætt var við framkvæmdir en fjöldi sýnishorna náðist úr jarðlögunum.
Á þessum árum gerðu þeir nafnar Benediktsson og Guðmundsson ýmsar ráðstafanir til að tryggja námuréttindi sín í Þormóðsdal og Miðdal og eru varðveitt á Þjóðskjalasafni fjöldi beiðna um málmleitarheimildir frá þeim og samstarfsmönnum þeirra bæði fyrir sig, börn sín og annað skyldfólk. Öll börn Einars ogValgerðar og Einars Guðmundssonar sóttu um málmleitarheimildir í Þormóðsdal. Þessi athafnasemi varð tilefni til fréttar í blaðinu Reykjavík þar sem sagði að lögreglustjórinn í Hafnarfirði hafi látið mæla út 12 námuteiga handa félögum í Námafélagi Íslands og að 104 aðrir hafi lagt fram beiðnir um að mældir yrðu út handa þeim námuteigar. Beiðnirnar voru að sönnu fjölmargar en þær voru flestar frá þeim nöfnum, skyldmennum þeirra og fólki sem tengdist þeim. Fátt er sagt um námagröftinn í blöðunum í Reykjavík. Eina fréttin um Miðdalsnámuna er smáfrétt í Vísi þess efnis að fjöldi manna vinni við námuna en ekkert er getið um þjóðerni þeirra.
Í apríl árið 1912 barst svo sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu tilkynning dagsett 2. apríl þar sem Þorsteinn Kjarval, Einar Guðmundsson, Sigurður Sigurjónsson, Gísli Þorbjörnsson, Finnbogi Jóhannsson og Sveinn Gíslason afsala sér námuleigurétti sínum í löndum Leirvogstungu, Mosfells, Þormóðsdals og Óskots til Iceland Minerals Syndicate Limited, Charing Cross, London. Þetta félag hefur líklega verið í eigu Einars Benediktssonar og hefur hann haft þennan hátt á til að styrkja stöðu sína gagnvart hinum bresku og norsku samstarfsaðilum. Ekki voru allir uppnæmir yfir gullfundinum og í Vísi birtust tvær greinar undirritaðar af Búa þar sem þess var krafist að stjórnvöld létu rannsaka hvort hér væru finnanleg nýtanleg jarðefni og varað við glæframönnum sem haldi uppi trú manna á gullnámur.
Annars er þögn blaðanna um Miðdalsævintýrið einkennileg. Ef til vill hafa gullleitarmenn látið fátt uppi og passað vandlega upp á alla leka eða þá að bæjarbúar hafa vitað upp á hár var að gerast á svæðinu og það því ekki þótt fréttnæmt. Er það síðarnefnda óneitanlega líklegra ef tekið er mið af Íslendingseðlinu. Ljóst er þó af frásögn Morgunblaðsins um námagröftinn 1924-25 að mikið hefur verið rætt um málið og sumir óttuðust gullæði á borð við það sem geysað hafði í Ameríku og Ástralíu og að hingað flykktust misindismenn af ýmsu tagi. Blaðið hafnar öllum slíkum vangaveltum og segir að náman sé ekki af því tagi að menn geti labbað upp í Miðdal með tvær hendur tómar og fyllt vasa sína af gulli.
Á stríðsárunum lágu allar rannsóknir á námunni niðri og varð ekki af framkvæmdum fyrr en árið 1921. Eftir stríð keypti Einar Benediktsson hluta Gísla Björnssonar í Miðdal og styrkti þá enn stöðu sína. Það ár voru þeir nafnar í Englandi og áttu í samningaviðræðum við enska fjármálamenn, þar á meðal Neville Chamberlain, síðar forsætisráðherra Breta. Katrín Hrefna Einarsdóttir getur þess að Einar Guðmundsson hafi ekki síður vakið athygli hina bresku viðsemjenda en nafni hans Benediktsson. Í kjölfarið komu hingað menn á vegum félagsins og sendu þeir sýnishorn til Englands en þá kippti félagið að sér hendinni og meira varð ekki úr framkvæmdum í það skiptið.
Árið 1922 var Einar í Þýskalandi og komst þar í samband við Nordische Bergbau Gesellschaft í Hamborg. Þetta félag vann að rannsóknum í námunni á árunum 1923-24. Meðal þeirra þriggja sérfræðinga sem rannsökuðu námurnar var prófessor Konrad Keilhack, sem mun hafa verið mjög kunnur námafræðingur. Félagið lagði of fjár í rannsóknina (170 þús. íslenskar krónur) og segir Valgerður Benediktsson að félagið hafi greitt Einari 140 þús. gullmörk fyrir þær eignir sem hann hafi lagt fram. Jafnframt seldi Einar Benediktsson síðustu jarðirnar sem hann átti til að fjármagna framkvæmdir.24 Sigfús Blöndahl þáverandi aðalræðismaður Þýskalands í Reykjavík staðfesti þetta.
Sumarið 1924 hætti Nordische Bergbau Gesellschaft við rannsóknir sínar en Einar var ekki tilbúinn að leggja árar í bát. Haustið 1924 stofnar hann ásamt nýjum þýskum samstarfsmönnum námafélagið Arcturus og stóð það að framkvæmdum í Þormóðsdal árin 1924-25. Ýmsum sögum fer af framkvæmdum á svæðinu þessi ár frá 1923 til 1925. Til dæmis verður ekki betur séð en Valgerður Benediktsson og Tryggvi Einarsson slái þessum félögum saman í eitt. Þær fatæklegu heimildir sem til eru benda til að það hafi þó fyrst og fremst verið Arcturus sem stóð fyrir miklum framkvæmdum í Þormóðsdal.
Um allar fjármálaflækjurnar kringum félögin má lesa í ævisögu Einars Benedikssonar III eftir Guðjón Friðriksson, einkum 10.-13. kafla. Ekkert er minnst á framkvæmdirnar í dagblöðunum árið 1923 en hinn 3. febrúar árið 1925 kom smáfrétt í Morgunblaðinu þess efnis að í Miðdalsnámunni vinni nú milli 10 og 20 manns, grafin hafi verið 60 m löng göng og 10 metra djúp og von sé á þýskum verkfræðingi með vorinu og þá verði verkamönnum fjölgað. Verkfræðingurinn hét W.E Swinburne og reyndist þegar til kom vera Englendingur. Í viðtali við Morgunblaðið var hann ákaflega varkár og sagði að langur tími muni líða þangað til hægt sé að segja til um hvort vinnsla í námunni sé möguleg hvað þá heldur að vinnsla hefjist.28 Annar verkfræðingur, sem var þýskur og hét Marburg, starfaði við námuna og Tryggvi Einarsson segir að þar hafi einnig starfað amerískur yfirverkfræðingur.
Þann 3 maí birti Morgunblaðið svo samantekt úr þýska blaðinu Hamburger Nachrichten, þar sem fjallað er um námuna. Í upphafi greinarinnar er tekið fram að lítið hafi verið fjallað um framkvæmdirnar í Miðdal undanfarið og ástæðan sögð sú að oft áður hafi menn gert sér vonir um námugröft en orðið fyrir vonbrigðum. Greinin er eftir Dr. R. Friedrich Franz Grunow, einn af forgöngumönnum félagsins í Þýskalandi, og er bjartsýnin ríkjandi og námugangurinn sagður vera orðinn yfir km á lengd og einn m á þykkt. Hér er þó varla verið að tala um lengd ganganna heldur að öllum líkindum það svæði sem gull hefur þegar fundist á. Greinarhöfundur hefur eftir áðurnefndum dr. Keilhack að í námunni væru um 80 þús. tonn af námugrjóti en bætir síðan við að breskur verkfræðingur hafi talið að þar væru 160 þús. tonn. I greininni er fullyrt að í sýnishornum sem rannsökuð hafi verið í Þýskalandi hafi fundist 315 gr. af gulli í tonni en í lökustu sýnunum hafi magnið farið alveg niður í 11 gr. Til samanburðar nefnir höfundur námur í Suður-Afríku og Evrópu þar sem gullinnihald í tonni sé mun minna en vinnsla borgi sig samt vel. Að síðustu er þess getið að settar verði upp vélar til vinnslunnar með haustinu, búið sé að tryggja landareignir og námuréttindi og verið sé að undirbúa félagsstofnun með þýsku, hollensku og svissnesku fé.
Morgunblaðið er mjög varkárt í niðurlagsorðum sínum, staðfestir að mikið sé unnið í Miðdal en bendir jafnframt á það sem haft var eftir Breymann verkfræðingi í viðtalinu 23. apríl. Síðan bætir blaðið við að nokkuð kveði við annan tón í greininni í Hamburger Nachrichten?
Í áðurnefndum skjölum Einars á handritadeild Landsbókasafns er að finna teikningu af íbúðarhúsi sem hann hugðist reisa í Miðdal.
Tryggvi Einarsson segir í ævisögu sinni að faðir sinn hafi verið búinn að fá í hendur teikningar af verksmiðjuhúsinu. Hann segir að síðasti hluti vinnslunnar hafi verið að láta steinsallann sem búið var að mylja renna yfir silki og átti gullið að festast í því. Tryggvi segir líka að Þjóðverjarnir hafi verið búnir að mæla fyrir járnbraut sem hafi átt að leggja niður á Gufunesklöpp og einnig hafi verið uppi áætlanir u m virkja foss ofar í ánni. Ekki minnist Tryggvi á Einar Benediktsson í sambandi við þessar framkvæmdir heldur segir aðeins að Þjóðverjarnir hafi samið við föður sinn og hann átt að fá 10% af hagnaðinum af námunni.
Í Morgunblaðinu birtist svo frétt u m Miðdalsnámuna 2. júlí. Þar segir að Þjóðverjarnir séu til búnir til að afhenda hollenskum aðilum námuréttindin og hér sé staddur hollenskur lögfræðingur, Fokker að nafni, í þeim tilgangi að ganga frá þessum málum. Síðan er tekið fram að ekki hafi verið allskostar rétt með farið í greininni í þýska blaðinu og of mikið gert úr gullmagninu í námunni. Breyman verkfræðingur hikaði samt ekki við að leggja til að rannsóknum og undirbúningsvinnu verði haldið áfram. Til að komast að fullnægjandi niðurstöðu þurfi meiri tækjakost og víðtækari rannsóknir. Í greininni er fullyrt að þegar sé búið að leggja eina milljón gullmarka í framkvæmdina og þurfa muni annað eins áður en frumrannsóknum sé lokið. Hollendingarnir séu tilbúnir að leggja fram þetta fé.
Síðan segir: „Nokkrir menn hafa verið við vinnu í Miðdal í alt vor. En þeir hafa verið alt of fáir til þess að verkinu miði nokkuð verulega áfram. Hvað veldur töfinni? … Eftir því sem næst verður komið hefir þeim námumönnum engar hindranir verið lagðar í götu frá yfirvaldanna hendi. Gildandi lög gefa heldur enga átyllu til þess að svo verði gert. Almenningsálitið mun og vera á sama máli.“ Morgunblaðið fullyrðir hins vegar að hollenska félagið hafi ekki enn fengið í hendur þau skilríki sem forsvarsmenn þess telji nauðsynleg til að leggja fram fé til vinnslunnar.
Þetta voru síðustu fréttirnar af Miðdalsnámunni. Tryggvi Einarsson fullyrðir að Þjóðverjarnir hafi orðið að gefa vinnsluna upp á bátinn þegar þýsk yfirvöld breyttu markinu til að vinna bug á óðaverðbólgunni 1923. Steingrímur J. Þorsteinsson segir að sýnishornin hafi verið svo misjöfn að gæðum að Þjóðverjarnir hafi gefist upp. Af ævisögu Einars Benediktssonar eftir Guðjón Friðriksson er þó ljóst að ýmis konar klúður hefur ekki síður átt þátt í að námaævintýrinu lauk. Tryggvi Einarsson segir og frá því að 1938 hafi sömu aðilar og stóðu að Arcturusi haft samband við íslensk stjórnvöld og sótt um leyfi til námuvinnslu en fengið neitun. Þeir hafi svo enn haft samband við Guðmund Einarsson eftir heimsstyrjöldina en ekkert varð af framkvæmdum. Þjóðverjarnir voru þó ekki þeir einu sem höfðu trú á Miðdalsnámunni. Þann 26. júní árið 1928 skrifar Einar Benediktsson Matthíasi Rohde og Co. í Hamborg bréf þar sem hann segir meðal annars að íslenskt fjármálalíf sé að verða tilbúið undir tæknibyltingu og hægt sé að nota gullið í Miðdal sem grunn að traustri bankastarfsemi í Reykjavík og öðrum bæjum á Íslandi.
En lítum að lokum á námuna sjálfa. Hún er eins og áður sagði í gili sem Seljadalsá hefur grafið. Flest mannvirkin eru á eystri bakka árinnar. Þar hafa íslensku jarðfræðingarnir fundið nokkrar leitarholur frá fyrri tilraunum og ein göng sem eru uppistandandi (göng A) og op annarra sem fallin eru saman eða full af jarðvegi en þau eru nokkru fyrir sunnan göng A, ofar í hlíðinni. Á vestari bakka árinnar eru göng B. Þar hafa fyrri gullleitarmenn grafið á ská inn í bergið meðfram leirlagi sem gullkvarzið er í. Þetta leirlag er um 60 cm þykkt með kísilúrfellingum næst grjótinu og þar mun gullið að finna.
Þormóðsdalur er í útjaðri Stardalseldstöðvarinnar svonefndu, á svæði þar sem jarðlög hafa brotnað mjög mikið og umturnast. Gullið er líklega þannig til orðið að heitt vatn hefur streymt í hringrás í sprungum og brotum milli berglaga og tekið í sig ýmis jarðefni, þar á meðal gullútfellingar, sem það síðan hefur skilið eftir. Bergið þarna er laust í sér og flagnar auðveldlega og veðrast. Gullið fmnst á takmörkuðu svæði þvert yfir ána og er alsendis óvíst að heildarmagnið sé nægjanlegt til að réttlæta vinnslu, þrátt fyrir bætta tækni í þeim efnum á síðustu áratugum.
Göng A eru á eystri bakka árinnar. Fyrst hefur um tveggja metra breið opin renna verið grafin inn í klettavegginn og síðan gerð göng hvor til sinnar handar. Göng A eru á hægri hönd, um 11 m löng, tveir metrar á hæð og um metri á breidd, þó víðast hvar aðeins þrengri við loftið. Í þeim er um 50 cm djúpt vatn.Við opið er moldarhaft, um 1,60 m á þykkt. Þessi göng eru óregluleg og þegar innar dregur eru útskot í veggjum (sjá teikningu snið A).
Beint á móti göngum A er dálítill klefi. Hann er svipaður á hæð og göngin en nokkru rýmri. Í gólfi hans, innst vinstra meginn, er hola sem virtist full af grjótmulningi og jarðvegi. Verið getur að þar hafi önnur göng legið niður á við en ógerningur er að kanna það án viðamikilla framkvæmda.
Bergið austan megin árinnar virðist mun harðara í sér en vestan megin, Göng B eru í botninum á djúpum skurði og ólík göngum A. Þau eru um 10 m löng, regluleg og burstlaga. Hæðin er einnig regluleg, um 2,10 m undir mæni. Göngin eru um 1,70 m á breidd við gólf. Á gólfinu er nokkuð af lausagrjóti sem flagnað hefur úr veggjum og borist inn í göngin með vatni en það er um meters djúpt. Um þrjá metra frá opi hægra megin hefur hrunið úr gangaveggnum og myndast dálítið útskot inn í vegginn. Gullleitarmenn hafa lokað göngunum með moldarhafti enda engin ástæða til að óviðkomandi fari að troða sér inn í þau. Á vestari bakkanum má og sjá leifar af járnbrautarteinum sem notaðir hafa verið til að flytja jarðefni frá námugöngunum.
Fyrirtækið Iceland Resources hyggst hefja rannsóknarboranir í Þorlmóðsdal í Mosfellsbæ í sumar, með það að markmiði að kanna fýsileika þess að sækja þar gull í greipar jarðar. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu 2021.
Líklegt er að þessi tvenn göng séu frá framkvæmdum Arcturusmanna enda eru þau í samræmi við lýsingu Tryggva Einarssonar. Hann segir að Þjóðverjarnir hafi grafið inn í jarðlögin og látið vatnið renna út enda hafi þeim gengið betur en fyrirrennurum sínum. Eins og áður sagði fundu gullleitarmenn op þriðju ganganna nokkur sunnar og ofar í hlíðinni. Það eru líklega göngin frá 1913-14, grafm beint ofan í bergið og opið klætt með timbri. Eins og áður sagði þá er heildarlengd námaganganna nokkuð á reiki. Morgunblaðið segir göng Arcturusfélagsins hafa verið 60 m á lengd. Steingrímur J. Þorsteinsson segir göngin hafa verið um 150 m ogValgerður Benediktsson segir þau 200 m. Ekkert hefur fundist sem staðfestir neina af þessum fullyrðingum. Ljóst er hins vegar af þeim göngum sem fundist hafa að rannsóknargöngin hafi verið hér og þar í hlíðinni, grafm þar sem gullæðarnar fundust og síðan hætt þegar komið var að enda þeirra því að allar æðarnar eru stuttar og dreifðar um svæðið. Þegar talað er um tuga eða jafnvel hundruða metra löng göng hlýtur því að vera átt við samanlagða lengd ganganna. Mat heimildarmanna á lengd ganganna er hins vegar svo mismunandi að það er augljóslega byggt á sögusögnum og verður því ekkert fullyrt um raunverulegt umfang framkvæmdanna fyrr en gögn frá námufélögunum koma í leitirnar hvar svo sem þau eru niðurkomin.“
Heimildir:
-Árbók VFÍ/TFÍ, 7. árg. 1994-1995, 2. tbl., bls. 183.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 95. árg. 1999, bls. 111-126.
Gullnáman í Þormóðsdal.
Hafnarfjörður – frá upphafi vega
Fyrsta sjálfrennireiðin kom til landsins árið 1904. Síðan eru liðin 103 ár, eða rétt rúmlega ein öld. Með tilkomu hennar þurfti að ráðast í úrbætur á gömlum vagngötum, sem nýlega hafði verið farið að huga að út frá hinum elstu slóðum, t.d. vegna atvinnubóta-vinnunnar, og jafnvel gera nýja vegi.
Þótt Hafnarfjörður hafi þanist út á þessu tímabili, einkum síðustu áratugina, og mikið verið byggt, nýir vegir verið lagðir yfir þá eldri og þeim jafnvel eytt vegna skammsýni, má enn berja nokkra búta fyrstu akveganna augum. Þeim fer þó óðum fækkandi. Einn þeirra, í Engidal, hvarf t.a.m. sjónum manna einn daginn fyrir skömmu og það þrátt fyrir að sá og aðrir stubbar séu nú þegar friðaðir skv. þjóðminjalögum. Enginn virðist hafa eftirlit með varðveislu þeirra, enda vitneskjan varla fyrir hendi. Í fornleifaskráningum svæða í Hafnarfirði er þessara fornleifa tæpast getið. Það er annars einkennandi fyrir Hafnarfjörð hversu höndunum virðist hafa verið kastað til við fornleifaskráningu á svæðinu undanfarin ár.
Einn heillegasti vegarkaflinn frá fyrstu tíð er í Kapelluhrauni, um 100-150 metra langur. Byggt hefur verið á svæðinu, en fyrir “slysni” hefur þessum kafla ekki verið eytt. Nú er unnið að vegargerð skammt frá og ný verksmiðjubyggð á að rísa á svæðinu, svo óvíst er um líftíma þessa síðasta fulltrúa elstu vegargerðar í Hafnarfirði. Meira um það síðar. Fyrst svolítið um aðdragandann.
Fjallað var um héraðavegabætur í Ísafold 1893. Frásögnin lýsir vel frumraun landans í vegagerð og ekki síst upphafi hennar er varð vegna hreppaatvinnunar er leiddi einungis til kaflaúrbóta á hinum gömlu þjóðleiðum og kom því lítt að gagni sem heilstæð lausn á samgöngumálum einstakra svæða: “Það er rænulaus maður eða harla tilfinningasljór um hagi landsins, er eigi gleðst yfir þeirri miklu breytingu, þeim snöggu umskiptum til batnaðar, sem orðið hafa á lands-vegagerð hér á landi á um síðasta áratug. Það er eigi svo að skilja, að miklu sé af lokið af því stórkostlega verkefni, að leggja góða vegi eða siðaðri þjóð samboðna um land allt. Slíks er engin von á jafnskömmum tíma og liðinn er síðan er farið var að gera hér vegi af viti og kunnáttu.
Framförin er í því fólgin, að nú er lið í því, sem gert er. Það er ekki nýtt kák, eins og áður, margoft innan skamms verra en það sem eftir hestafæturna lá, meðan þeir einir fengust við að leggja vegi um landið. Þeir bera í stuttu máli eins og gull af eyri, þessir vegakaflar, er gerðir hafa verið á landssjóðs kostnað síðan landsstjórnin vitkaðist loks svo, að hún fór að fá útlenda vegfræðinga og vegavinnumenn til þess að gera hér vegi og kenna innlendum mönnum vegagerðarlist.
Vitanlega eru vegir þessir samt sem áður engan veginn svo fullkomnir, sem verða má eða gott þykir í öðrum löndum, þar sem mikið er með vegi að gera. Vegna fátæktar vorrar og þess annars, að umferð er hér víðast fremur lítil, þá er höfð hér hin kostnaðar- eða íburðarminnsta vegagerð, er við þykir mega hlíta meðal menntaþjóðanna, og því eigi nærri því svo ramgjör og endingargóð sem ákjósanlegast væri, þó að harla ólíku sé saman að jafna því sem áður gerðist hér. Viðhald á henni verður því kostnaðarsamara en ella mundi. En hvað sem því líður, þá er umbótin í þessu efni stórmikil, einhver hinn álitlegasti framfaravottur, er vér höfum af að segja.
Almenningsvegur (Eiríksvegur) um Vatnsleysuströnd.
Þetta sjá nú og skilja flestir þeir, er einhver kynni hafa af hinni nýju vegagerð. Það var öðruvísi fyrst þegar hún hófst. Það voru eigi einungis ófróðir almúgamenn, sem hristu höfuðið yfir annarri eins vitleysu og að vera að hauga upp moldarbing og kalla það veg, heldur mátti heyra hámenntað þingmannsefni fárast út af því á þingmálafundi um þær mundir, að vera að panta vegagerðarmenn frá útlöndum, í stað þess að láta landsmenn njóta þeirrar vinnu. Jafnvel fyrir honum og hans nótum vakti þá enn sú hugsun, að vegavinna væri svona hér um bil niðursetuvinna.
En víða um land hafa menn enn lítil sem engin kynni af hinni nýju vegagerð, þó að sýnishorn sé raunar komið af henni í alla landsfjórðunga. Því bar það til nú á þessu sumri, að maður tók til að beita hinni nýju kunnáttu eða nýju aðferð í afskekktu héraði, en fékk óðara það vottorð almenningsálitsins þar, að hann hefði „auðsjáanlega“ ekkert vit á, hvernig vegi ætti að leggja: þeir sáu hann sem sé meðal annars sveigja veginn fyrir litla brekku, í stað þess að halda þverbeint upp hana, svo sem áður þótti sjálfsagt.
Hafnarfjörður fyrrum.
En þó að menn sjái annars almennt yfirburði hinnar nýju vegagerðar og viðurkenni þá í orði, þá eru þeir samt engan veginn svo rótfastir orðnir í meðvitund manna sem skyldi. Þegar til framkvæmdanna kemur er ýmist sem þeim þyki þó ekki neitt leggjandi í sölurnar fyrir þessa yfirburði, eða þá að þeir hugsa að eigi þurfi nema að hafa séð almennilega gerðan veg til þess að geta gert slíkan sjálfur.
Eiríksvegur ofan Vatnsleysu á Vatnsleysutrönd.
Það er hraparlegt að sjá þar enn dafna víðast sama vankunnáttu-kákið og áður var algengt um alla vegagerð hér á landi. Þarf eigi að lýsa, hvernig það er lagað. Einkennið er það, að áður langt um líður kjósa menn og skepnur af illu til heldur að fara utan hjá veginum en eftir honum, sé þess nokkur kostur. Það er sjálfsagt, að frá þessu eru nokkrar undantekningar; en það er þá oft líkara tilviljun en kunnáttu og fyrirhyggju.
Ráðið til að koma þessu af er það, að hafa við hverja vegagerð að minnsta kosti verkstjóra, sem kann hina nýju aðferð, hefir numið hana verklega. Hefði verið ráð í tíma tekið og sendir einn eða tveir menn úr hverri sýslu í vinnu við landssjóðsvegagerð þegar er lag komst á hana, þá væri nú ekki svo mikill hörgull á slíkum verkstjórum. En þó að það hafi verið vanrækt, þá eru samt nú orðið til svo margir, sem vinnu þessa kunna, að vel mætti fá slíka menn í öll héruð landsins, ef það væri fast sótt.
Hér nærlendis við Reykjavík að minnsta kosti ætti ekki að þurfa að leggja svo nokkurn vegarspotta jafnvel ekki á hreppavegum, að fyrir vinnunni stæði ekki maður, sem kann hina réttu aðferð að því. Það er að segja sjálfa vegavinnuna. Hitt, að afmarka vegarstefnu og mæla út vegarstæði svo vel sé hvað halla snertir og annað, það er auðvitað ekki nema á fárra manna færi hér að svo stöddu; en með því að það má gera löngu fyrir fram, á ýmsum tímum, mætti einnig fá sæmilega aðstoð til þess víða.
Hvað hreppavegi snertir er þetta sleifarlag mikið því að kenna, að lög gera ráð fyrir að hreppsmenn vinni að þeim sjálfir í dagsverkum. En ókleyft ætti ekki að vera fyrir það, að ráða utanhreppsmann fyrir verkstjóra, ef kunnáttu vantar innan hrepps. Einhver ráð mundi mega finna til þess. Hér er meira um að tefla en margur hyggur. Það er eytt á að giska um 20.000 kr. í hreppavegavinnu á ári hverju; og þó að ekki væri nema helming af því sama sem fleygt í sjóinn sakir kunnáttuleysis, þá er það ærinn skattur á fátæka þjóð; hann er óþolandi og óhafandi.
Skeifubrot í Alfaraleið.
Til sýsluvegavinnu eru lagðir eintómir peningar; eða að minnsta kosti á sýsluvegagjaldið að greiðast í peningum. Þar er því eigi dagsverkavinnan til neinnar fyrirstöðu því, að ráða til verksins þá sem kunna eða til verkstjórnar að minnsta kosti. En það mun tíðkast enn í flestum sýslunefndum, að sýslunefndarmanni hvers hrepps sé falið á hendur að sjá um sýsluvegavinnuna í sínum hreppi og að sá hinn sami láti annaðhvort orðalaust vinna hana „upp á gamla móðinn“, eða þá, ætli hann að fara að stæla nýja lagið, þá kunni hann einnig að gera slíka.
Þetta er raunar hin mesta ósvinna, hrapaleg vanbrúkun á fé, sem lagt er til almennings-þarfa, um 20.000 kr. ári, eins og til hreppaveganna. Það ætti engin sýslunefnd nú orðið að vera við annað en að láta vinna alla sína vegavinnu undir verkstjórn manns, sem kann verkið, – nema rétt einfalda vegaruðning, þar sem hún er látin duga. Hitt er að ausa í botnlausa hít. Með því lagi verða sýslurnar jafnilla staddar með vegi eftir 20, 30 eða 50 ár eins og nú; þar vinnst ekkert áfram; allt verður ónýtt jafnóðum.
Fornar götur og vegir vestan Hafnarfjarðar – vörðurkort ÁH.
Svo er annað. Það mun nú siður í mörgum ef eigi flestum sýslunefndum, að smábita niður sýsluvegaféð í alla hreppana á hverju ári, sitt lítið í hvern. Hver nefndarmaður skarar eld að sinni köku. Það lætur og vel í eyrum og sanngjarnlega, að hver hreppur fái að njóta síns sýsluvegagjalds. En slík stefna er mesta skaðræði. Fyrir það verður hálfu minna úr framkvæmdum en ella mundi; takmarkið næst hálfu seinna: það, að fá góða vegi um sýsluna. Hitt er rétt, að hafa ekki undir nema einn veg í einu, þar fyrst, sem mest er þörfin og mest umferðin, og ljúka við hann áður en tekið er til annarsstaðar, nema hvað hyggilegt getur verið að verja einhverju lítilræði til ruðninga, þar sem þess er mest þörf, eða til þess að gera fært yfir lítils háttar torfærur, auk viðhalds á fullgerðum vegarköflum, er síst má vanrækja.
Þó að hér sé talað um sama frágang á héraðavegum og landsvegum, þá er það eigi svo að skilja, að þeir þurfi endilega að vera jafn-íburðarmiklir eða kostnaðarsamir, heldur að eins hitt, að unnið sé að þeim á réttan hátt, svo að fullum notum komi hvað endingu snertir og annað.
Með öðrum orðum, að það, sem gert er af nýjum sýslu- eða hreppavegum, séu réttnefndir vegir, en ekki vegleysa. Eða þá reynt að bjargast við einfalda vegaruðning, þar sem það er takandi í mál. En ekki verið með gagnslaust kák, sem nefnd er vegasmíð, en er margsinnis verra en ógert. Sömuleiðis ríður á, að hafa hæfileg tól og tæki til vegavinnunnar. Ónýt áhöld eða ónóg gera hana að verkleysu.
Með svofelldri lögun eða því um líkri á héraða-vegabótum mundi brátt sjást votta fyrir mikilli framför í því efni, miklum stakkaskiptum frá því sem nú er, þó að ekki sé meira fé til þeirra lagt.”
Járnbrautarvegur í Hafnarfjarðarhrauni, milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar.
Síðar var fjallað um akbrautir: “Samgöngumálið er án efa eitt með meiriháttar framfaramálum vorum, enda verður ekki annað sagt en að þingið hafi sinnt því einna best allra mála síðan landið fékk fjárhag sinn aðskilinn frá Danmörku og þingið fjárforræði. Vegir hafa verið lagðir og brýr gerðar, og þótt enn vanti stórmikið á, að þolanlegir akvegir séu komnir yfir landið, eða þótt þeir nái réttara sagt aðeins yfir lítinn hluta landsins, og fjölda margar ár þurfi að brúa enn, stærri og smærri, verður því þó ekki neitað að framfarir í vegagerð hafa verið afarmiklar á síðustu 20 árum; og þótt flutningabrautir þær og póstvegir, sem búið er að leggja, komist í engan samjöfnuð við eimreiðabrautir og rafmagnsbrautir annarra landa, verður þó að játa, að mikill er munurinn á hinum nýju vegum og einstigunum eða troðningunum yfir urðarholt og mýrarfláka, sem varla var fært nema fuglinum fljúgandi, þótt vegir væri nefndir.
Samgöngubætur þessar hafa kostað allmikið fé, eftir hinum smávöxnu árstekjum landsins, enda verður ekki annað sagt en að fjárveitingarvaldið hafi klifið þrítugan hamarinn til þess að einhverjir sæjust ávextir þess. Og þegar litið er til þess, að varla sást vegarspotti í landinu 1874, er til nokkurs væri nýtur, og engin á brúuð, er auðsætt, að hér er um stórar framfarir að ræða, þótt betur megi ef duga skal.
Engin furða er, þótt héraðarígur og hreppapólitík hafi risið upp bæði utan þings og innan um samgöngufærin, einkum akbrautirnar. Og enginn getur með sanni sagt, að það sé að skara eld að sinni köku á ósæmilegan hátt, að vilja fá svo mikla vegabót í héraði sínu, að hægt sé að komast slysalaust bæja í milli um hábjartan sumardag. Hins vegar er sjálfsagt, að þegar ekki er hægt að veita fé til margra fyrirtækja í einu, svo gagn sé að, verður að láta hin nauðsynlegustu sitja í fyrirrúmi, en láta önnur bíða, sem betur mega missa sig. Það er betra að fá einnar eða tveggja mílna langan veg óslitinn á einum stað, því sá vegur verður þó einhverjum að liði, en að búta veginn niður í 20-30 smáspotta, 1-200 faðma langa, hingað og þangað, sem engum geta að verulegu gagni komið, auk þess sem smáspottar hljóta að kosta töluvert meira að tiltölu en lengri vegur í einu lagi.
Járnbrautarvegur – fyrirhuguð lagning milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
Sumir eru þeir, er amast við, að jafnmiklu fé sé varið til vegagerðar og nú er gert, einkum akbrautanna. Þær verði ekki notaðar til vagnferða, því bændur þurfi eftir sem áður að hafa hesta til heyflutnings, og geri því ekki annað betra við þá en að nota þá til áburðar í kaupstaðaferðum, enda sýni reynslan, að ekki sé enn farið að nota vagna á akbrautum þeim, sem fullgerðar eru.
Það er og hefur jafnan verið siður þeirra manna, sem hafa viljað halda öllu í sama horfinu, að bera fyrir sig reynsluna, löngu áður en auðið er að kveðja hana til vitnis, í þeirri von, að geta blindað athugalítilla manna og talið þeim trú um, að hvert nývirki sé gagnslaust, ef það ber ekki jafnharðan hundraðfaldan ávöxt.
Ekki er nema eðlilegt, að vagnferðir séu ekki enn almennar eftir akbrautunum. Bændur þekkja lítt slíkt samgöngufæri, og vagnar eru ekki smíðaðir hér á landi, heldur verður að útvega þá frá útlöndum, og fáir þeir framkvæmdamenn í héruðum, er gangist fyrir slíku, en félagsandi auk þess ekki svo ríkur sem skyldi, svo að nokkrir menn útvegi sér vagna í samlögum. Auk þess er klyfjaflutningurinn svo rótgróinn þjóðinni af margra alda tísku, að eðlilegt er, þótt það taki töluverðan tíma, að vagnflutningar verði almennir, jafnvel þótt akbrautirnar séu til.
Það er og athugavert, að akbrautirnar geta ekki komið að fullum notum fyrr en sýsluvegir og hreppavegir er líka orðnir akfærir og komnir í samband við þær; þá verður kostandi til þess fyrir bændur, að gera akfæran veg frá heimili sínu á hreppavegina, og þá fyrst geta akbrautirnar orðið að notum. Þá má búsat við því, að ýmsir taki a reyna að gera veg út á engjarnar og hafa vagna til heyflutnings.
En þótt klyfjaflutningnum sé enn haldið áfram um nokkurn tíma, er óhætt að telja æðimikinn hagnað í vegabótunum þar, sem þær eru komnar á. Það er enginn efi á því, að vöruflutningar taka fyrir það miklu skemmri tíma en ella, og það hlýtur að vera fjársparnaður fyrir þjóðfélagið, svo framarlega sem tíminn er peningar.”
Fjallað var um sýsluveginn frá Reykjavík suður að Vogastapa: “Ég las um daginn í Ísafold um póstveginn í Árnessýslu; og datt mér þá í hug, að einnig mætti rita fáein orð um sýsluveginn frá Reykjavík suður í sýsluna. Ég ætla þá að fara úr Reykjavík suður eftir, og geta um ýmislegt, sem fyrir augun ber, hvað veginn snertir.
Þegar maður kemur niður í Fossvog, verða fyrir manni rásirnar þar. Þær eru að vísu þannig á sumrum, að fáum ókunnugum mundi til hugar koma, að við þær væri neitt að athuga; en á vetrum í leysingum verða þær lítt færar eða stundum ófærar.
Þá kemur Fossvogslækur, lækur þessi, sem er á sumrum ekki nema ofurlítil spræna, verður stundum á vetrum svo, að naumast verður yfir hann komist, og það ber við, að hann verður með öllu ófær.
Hafnarfjarðarvegur, lengst t.v., skv. herforngjakorti 1919.
Vegurinn upp Kópavogsháls er óhæfilega brattur, lítt fær með vagn, en vagnvegur á vegurinn milli Rvíkur og Hafnarfjarðar að verða úr þessu. Með því að sneiða hálsins lítið eitt utar, má fá hann mjög hallalítinn.
Þegar kemur suður að Kópavogi, kemur ein torfæran, þótt stutt sé; hún er rétt við landnorðurhornið á túngarðinum í Kópavogi; þar eru götutroðningar, djúpir mjög, og verður þar á vetrum kafhlaup, þegar snjóþyngsli eru. Þá kemur brúin yfir Kópavogslæk. Að henni er mesta vegarbót, og er furða, að hún skyldi ekki vera á komin fyrir mörgum tugum ára; en trén í henni eru mikils til of veik; brúin skelfur undan gangandi manni, hvað þá heldur þegar hún er riðin.
Þá er nú úr því brýr yfir lækina, og vegur all góður þangað til kemur suður í Hafnarfjörð.
Þar er vegurinn lagður yfir Hamarinn hér um bil þar sem hann er brattastur; en auk þess er vegur þessi óruddur, ekkert í hann borið, og er hann fullur af lausu grjóti, og má það kallast hættulegt að ríða hann ofan að norðanverðu; í sunnanverðum Hamrinum neðst er sjórinn búinn að taka burtu hleðsluna úr veginum, og er honum því einnig hætta búin úr þeirri átt. Svo er þess að gæta, að rétt við endann á veginum er skipa-uppsátur þeirra manna, er búa þar í grennd. Af því, að sjórinn gengur þar rétt upp að veginum, standa skipin svo hátt, að ókunnugum mönnum, sem í myrkri fara um veginn, getur verið af þeim hætta búin; skipauppsátur er ekkert annað til þar í grennd.
Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.
Svo kemur nú suður undir Flensborg. Þar standa þilskip, og liggja járnkeðjur af þeim yfir þveran veginn, og er furða, að ekki skuli oft hafa hlotist slys af þeim. En þess ber að geta, að þar er enginn vegur lagður, nema hvað hrossin hafa unnið þar að vegavinnu. Flensborgarskóli á þar lóðina, sem skipin standa á, og leigir þar uppsátrið, og tekur 10 kr. fyrir hvert skip yfir veturinn. Ef skipin mega ekki hafa þar landfestar, þá er ekki til neins að ljá manni uppsátur; hafa þar að undanförnu legið 4 skip á vetrum; gjaldið eftir þau eru þá 40 kr., eður sama sem að skólaeignin sé 1000 kr. meira virði en ella. Eitt af tvennu er: annaðhvort verður að banna að hafa þar skipauppsátur, eða að leggja veginn annarsstaðar.
En látum oss halda lengra.
Um stórstraumsflóð flæðir alveg upp undir túngarðinn í Flensborg, og verða menn þá að ríða sjóinn fram með garðinum, oft talsvert djúpt, og auk þess er þar mjög grýtt, svo að þar er mjög illt yfirferðar.”
Í sama blaði árið 1983: “En þá tekur ekki betra við, þegar Ásbúðarmegin kemur; þar er hár bakki, sem upp verður að klöngrast; vinnist sú þraut, þá tekur við dý, sem hver hestur liggur í. Þegar búið er að draga þá upp úr því, er haldið suður Hvaleyrarholt. Þetta holt hefur ekki verið rutt í ár, og er það mjög seinfarið. En þegar kemur suður fyrir sandskörðin sunnanvert við Hvaleyrartjörn, þá liggur vegurinn svo lágt, að þar flóir yfir í stórstraumum.
Alfaraleiðin milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.
Svo koma nú Hraunin, þ. e. Gráhelluhraun, Kapelluhraun, Almenningur og Afstapahraun. Um veginn gegnum þau ætla ég ekki að tala; hann er alkunnur, og líklega ekki þeirrar núlifandi kynslóðar meðfæri að bæta hann svo, að nokkru nemi; þó ætti það að vera vinnandi vegur, að ryðja veginn gegnum þau árlega; þegar það er gjört, er þó ólíku betra að fara yfir þau, heldur en þegar vegurinn er fullur af lausu grjóti og steinvölum.
Þegar Hraununum sleppir, kemur Vatnsleysuheiði. Yfir hana mestalla hefir verið lagður upphækkaður vegur, en hann er nú orðinn því nær ófarandi, og miklum mun verri en gamli vegurinn var. Þessi upphækkaði vegur er í daglegu tal oft kallaður Vatnleysu(heiðar)brú, en af sumum „Svívirðingin“, og þykir bera það nafn með rentu; það er sama smiðs-markið á henni og Svínahraunsveginum gamla, og þarf þá ekki lengra til að jafna.
Þessi upphækkaði vegur stefnir frá Kúagerði til Kálfatjarnar, og er honum sleppir, þá tekur við hinn gamli vegur suður með bæjunum á Vatnsleysuströnd; þessi gamli vegur er allgóður á sumrum, enda er hann oftast vel ruddur; en á vorum og haustum, þegar bleyta og leysingar eru, er hann mjög illur yfirferðar, liggur sá vegur allt suður að Vogastapa og lengra ætla ég ekki að fara að sinni.
Hvað skal nú gjöra við þennan veg? Eins og er, er illa við hann unandi.
Ég skal leyfa mér að láta í ljósi skoðun mína um það; það fara svo margir þennan veg, að vonandi er, að einhverjir fleiri en ég skýri frá, hvernig þeir álíti þessu best í lag hrundið.
Í Fossvogi má ef til vill leggja veginn fyrir ofan rásirnar allar, nema hina syðstu; hana þarf að brúa.
Fossvogslæk ber brýna nauðsyn til að brúa, og það sem allra fyrst, og væri það lítill kostnaður.
Hafnarfjarðarvegur 1928 – Ásgrímur Jónsson.
Götutroðningana við Kópavogstún verður að brúa, og viðrist það auðgjört.
Kópavogslækjarbrúna þarf að athuga; það er of seint að gjöra það eftir að slys er búið að ljótast af því, hversu veikgjörð hún er. Í öllu falli væri nauðsynlegt að láta áreiðanlega menn, sem vita hafa á því, dæma um það, hvort henni sé treystandi eins og hún er.
Veginn yfir Hamarinn í Hafnarfirði, þar sem hann er, ætti alveg að leggja niður. Þar sem hann liggur upp Hamarinn, er mikils til of bratt; það er ógjörningur, og líklega heldur engin lagaheimild til, að vísa mönnum burtu með skip sín, sem uppsátur hafa rétt fyrir sunnan Hamarinn, en skipa-uppsátur þar og vegur geta ekki samrýmst. Sama er að segja um þilskipa-uppsátrið hjá Flensborg; annaðhvort er, að banna skólanum að hafa þar uppsátur, eða að leggja af sýsluveginn þar fram hjá. Og þegar þess er gætt, að vegurinn þar er afar-illa lagður, þ. e. undirorpinn sjávargangi, og menn verða að sæta sjávarföllum til að komast hann, þá virðist lítil eftirsjón í honum þar sem hann er.
En hvar ætti þá að leggja hann?
Hann ætti að leggjast sunnar upp Hamarinn en nú er, fyrir ofan bæinn „á Hamri“ neðan til í Jófríðarstaðaholti, fyrir sunnan Ásbúð og svo suður Hvaleyrarholt hér um bil beina stefnu á Hjörskot. Það, sem ynnist við að leggja veginn þannig, hjá því sem nú er, mundi verða: vegurinn upp Hamarinn yrði ekki eins brattur, hann yrði ekki undirorpinn sjávargangi; vegfarendum yrði engin hætta búin af bátum, sem nú standa því nær yfir þveran veginn; skólaeigninni í Flensborg yrði ekki meinað að hafa þann hag af þilskipa-uppsátri, sem hingað til hefir oftast samsvarað vöxtum af 1000 krónum; menn kæmust hjá hinni afarillu torfæru hjá Ásbúð, og um stórstraumsflóð þyrfti ekki að klifra upp sandskörðin hjá Hvaleyri.
Veginn suður Hraunin ætti sannarlega að ryðja á hverju ári; minna má það ekki vera; hann er full-illur samt.
Reiðskarð upp á Stapa.
Af hinum upphækkaða vegi suður Strandarheiði (eða Vatnsleysu-heiði), þar sem hann nú er, ætti sýslunefndin alls ekki að skipta sér. Sá vegur liggur vestur Ströndina, og ef menn ætla t. a. m. suður í Voga eða þaðan af lengra, þá er það sá afarkrókur, að ríða niður á Ströndina, að ég er viss um, að það nemur fullum þriðjungi, móti því að fara beint úr Kúagerði á Reiðskarð (upp Vogastapa). Strandarmenn mundu þá halda við gamla veginum sem hreppsvegi. En eigi að halda við hinum gamla vegi sem sýsluvegi, þá mundi sú aðgjörð, sem hann þarfnast, ef hann á að geta kallast viðunanlegur, dragast að verðinu til hátt upp í það, sem nýr vegur, beint frá Kúagerði á Reiðskarð, mundi kosta.
Sumir berja því við, að með slíku fyrirkomulagi þyrfti svo víða að leggja vegi frá Ströndinni upp á sýsluveginn. Þetta fæ ég ekki séð að sé nauðsynlegt. Sá, sem ætlar að koma við á Ströndinni, ríður hreppsveginn; en ætli maður beint frá Kúagerði suður, án þess að eiga erindi á Ströndina, þá fer maður sýsluveginn.
Ritað á Fidesmessu 1890.
Vegfarandi.”
Sumrin 1897 og 1898 lét sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, frá Fossvogi, en þangað hafði bæjarstjórn Reykjavíkur lagt áður og hefir þessa ekki enn verið getið í blöðum vorum.
”Vegur sá er sýslan lét byggja af nýju, er rúmar 5 rastir á lengd, einnig var borið ofan í og endurbættur gamall vegur (Hafnarfjarðarhraun) rúml. 1 ½ röst á lengd. Hver röst er 531 faðmur. Brýr voru gerðar yfir fjóra læki, og er ein þeirra þrjátíu áln. Lengd, með 50 álna löngum stöplum (þeir eru þrír) og 5 áln. Háum á fullum helmingi. Hinar eru 5-8 álna langar. Til vinnu þessarar var varið 9.600 kr.
Brýrnar allar kostuðu 1.800 krónur. Aðgerð við gamla veginn um 800 kr. Kostar þá her um bil kr. 2,80 faðmurinn í hinum nýja vegi. Í gegnum veginn eru 16 rennur gerðar úr grjóti 50×100 cm., utan ein úr timbri 3×2½ alin. Mold og möl höfð undir í öllum veginum með torf og grjót á hliðunum, nema um 150 faðmar eru eingöngu úr grjóti (púkkvegur). Ofaníburður allstaðar frá 8-12 þuml. á þykkt. Við vinnuna voru 12 menn fyrra sumarið með 4 hestum, en 15 til 18 hið síðara með 6 og 8 hestum. Verkstjóri var bæði sumrin Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði.
Það var myndarlega til ráðist af sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu að leggja veg þennan, og væri óskandi að hún fengi styrk til þess að geta gert meira í líka átt sem þetta. Hefir talsverð vagnaferð verið eftir vegi þessum síðan hann var fullger, en talsverð óþægindi eru að því, að ógert er enn við hallann ofan í Hafnarfjörð, því þar er vegurinn mikils til of brattur fyrir vagna, og er vonandi að ekki bíði mjög lengi svo búið.”
Af sýslufundargjörð í Gullbringu- og Kjósarsýslu í maí 1893 má sjá: “Ár 1893, hinn 26. maí, átti sýslunefndin í Kjósar- og Gullbringusýslu fund í þinghúsinu í Hafnarfirði. Fundinum stýrði oddviti nefndarinnar, sýslumaður Franz Siemsen. Allir nefndarmenn voru á fundi nema sýslunefndarmennirnir fyrir Mosfells, Vatnsleysu-strandar, Njarðvíkur og Rosmhvalaness hreppa; af þeim höfðu sýslunefndarmennirnir fyrir Njarðvíkur og Vatnsleysustrandarhreppa engin forföll tilkynnt. Þessi mál voru tekin til meðferðar.
8. Var rætt um gufubátaferðir á Faxaflóa og ákvað nefndin að ganga að boði kaupmanns W. Fischers og taka tiltölulegan þátt í kostnaðinum, en lýsti jafnframt óánægju yfir ferðaáætlun þeirri, sem lá fyrir, þar sem báturinn á millistöðvunum eigi kemur við á leiðinni til baka, svo hlutaðeigandi pláss fyrir þá sök geta eigi haft full not af ferðinni; krafðist nefndin, að þetta væri þegar lagað. Ennfremur áleit sýslunefndin, að tími sá, sem bátnum er ætlaður á ferðum, sérstaklega syðri hluta Gullbringusýslu, sé allt of naumur. – Að því er snertir kostnað þann, sem að tiltölu kemur á sýslufélagið þ. á., ákvað sýslunefndin, að greiða skyldi helminginn af sýslusjóðsgjaldi, en hinn helminginn af sýsluvegagjaldi upp á væntanlegt samþykki amtsráðsins, og fól nefndin oddvita, að útvega samþykkið.
9. Var rætt um vegagjörðir í sýslunni á yfirstandandi sumri og var ákveðið að verja til sýsluvega 1.100 kr. þannig:
Í Kjósarhr. til að gjöra við veginn norðan í Svínaskarði ………………. 50. kr.
Seltj.n.hr. til að gjöra við veginn frá Kópavogslæk ofan í Fossvog …… 75 kr.
Garðahr.:
a. til aðgjörðar á veginum frá Hafnarfjarðahrauni að Kópavogslæk, bera
ofan í brýr og ryðja …………………………………………………….. 150 kr.
b. til vegarins yfir hraunið fram á Álftanes ……………………………. 200 kr.
c. til vegarins frá Hafnarf. suður að hreppamótum ……………………. 100 kr.
350 kr.
Njarðvíkurhr. til framhalds vegi frá Ytra-Hverfi í Keflavík …………… 100 kr.
Rosmhvalanesshr. til að laga veginn frá Keflavík út í Garð …………… 100 kr.
Hafnarhr. til að laga veginn frá Ásabotnum ……………………………. 75 kr.
Grindavíkurhr. til að bæta veginn frá Drápshlíð til sýslumarka ……….. 350 kr.
1.100 kr.
10. Sýslunefndin fól oddvita að útvega á næsta hausti vegfróðan mann til þess að skoða vegstæði milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur og gera áætlun um, hve mikið sú vegagjörð mundi kosta. Var jafnframt ákveðið, að skora á bæjarstjórn Reykjavíkur að skoða og ákveða vegstæði til Hafnarfjarðar í Reykjavíkurlandi.”
Í lögum frá Alþingi árið 1903 segir m.a. í ágripi: “Útgjöldin eru hin helstu þessi:
Til brúar á Jökulsá í Axarfirði 50.000 kr., til sýsluvegar frá Hafnarfirði í Keflavík 3.000 hvort árið mót jafnmiklu framlagi annarstaðar frá.”
Í Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983 segir m.a. að “um síðustu aldamót [1900] var enginn upphleyptur vegur til Hafnarfjarðar, og urðu bæjarbúar að leggja leið sína yfir malarkamba og eftir krókóttum hraunstígum. Um skipulega vegagerð var ekki að ræða fyrr en kauptúnið fékk kaupstaðarréttindi árið 1908.” Á þessum árum einblíndi hreppssnefnd Garðahrepps og síðan bæjarstórn Hafnarfjarðar að vegagerð til Reykjavíkur. Fyrsti almenninnilegi vegurinn yfir Hafnarfjarðarhraun var lagður 19874, skömmu áður en Kristján 9. Danakonungur kom til Hafnarfjarðar. Sá Sigurgeir Gíslason um vegalagninguna, sem lauk síðan 1898. Sigurgeir hafði síðan umsjón með vegalagningu sýsluvegarins til Njarðvíkur er lauk árið 1912 og síðan lagningu Grindavíkurvegarins er lauk árið 1918. Fyrsta bílnum var ekið áleiðis milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur skömmu eftir að fyrsti bíllinn kom til landsins árið 1904, en óvíst er hvort hann hafi komist alla leið. Vorið 1913 var Austin sportbíl ekið á milli bæjanna og er hún talinn fyrsta bifreiðinn sem koms klakklaust alla leið. Þangað til var vegurinn aðallega fyrir vagna og gangandi.”
Reykjanesskagi – vegir 1908.
Hafist var handa við að leggja sýsluveginn til vesturs frá Vesturhamri árið 1904, og var þetta hluti lagningu vegar milli Hafnarfjarðar og Vogstapa.
Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnastaði í Hraunum segir m.a.: “Um Brúnaskarð eystra liggur alfaraleiðin upp á Kapelluhraun, en svo nefnist neðsti hluti Nýjahrauns, sem ofar kallast Bruninn og enn ofar Háibruni. Landamerkjalínan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali og síðan áfram upp austurbrún Brunans. Alfaraleiðin lá suðvestur eftir Brunanum.”
Hin forna Alfaraleið lá um Brunann norðanverðan og framhjá kapellunni er hraunið var síðar nefnt eftir. Það er einmitt um framangreinda Leynidali sem fyrsti vegurinn lá frá Hvaleyrarholti og yfir Brunann. Enn má sjá hluta hans þrátt fyrir að veginum hafi að mestu verið eytt vestar í hrauninu. Elsti stígurinn lá yfir Brunann nokkru norðar, en þegar akvegurinn var lagður var vænlegast að feta krákustíga helluhraunsins (Hellnahraunsins) að hraunrúninni og síðan yfir apalhraun Kapelluhrauns með sem minnstum tilfæringum.
Gamli Suðurnesjavegurinn.
Sjá má hleðslur í köntum og yfir sprungur. Skammt frá og samhliða er slóði eftir jarðýtu og má telja mildi að henni hafi ekki verið ekið eftir vagngötunni. Síðar var akvegur lagður yfir hraunið nokkru norðar, endurbættur eftir að hernámsliðið kom til landsins og síðan smám saman eftir því sem ný og stærri ökutæki gerðu kröfur til. Þann hluta vegarins má einnig sjá austan Brunans í Hellnahrauni á litlum kafla sem og vestan hans, ofan við Gerði og Þorbjarnarstaði. Þar undir er einnig elsti akvegurinn þeim megin hraunsins.
Í Leynidölum eru hlaðin skjól. Þau gætu hafa verið eftir vegarvinnumennina, refaskyttur eða þá er lögðu jarðsímann í gegnum hraunið, en hann liggur skammt sunnan elsta akvegarins í gegnum hraunið. Sjá má yfirhleðslur á nokkrum stöðum. Eitt skjólið er einna fallegast, vandlega hlaðið. Það mun hafa verið topphlaðið, þunnar hraunhellur lagðar hverja yfir aðra, en efstu hellurnar eru nú fallnar niður á gólfið.
Frábært veður.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði – ÖÍ.
-Ísafold, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103:
-Ísafold, 17. júní 1893, 20. árg., 38. tbl., forsíða.
-Ísafold, 13. sept. 1893, 20. árg., 62. tbl., forsíða.
-Ísafold, 11. okt. 1890, 17. árg., 82. tbl., forsíða.
-Ísafold, 8. nóvember, 1902, 29. árg., 71. tbl., forsíða.
-Austri, 15. ágúst 1903, 13. árg., 27 tbl., bls. 98.
-Ísafold, 6. sept. 1905, 17.árg., 60. tbl., bls. 239:ll.
-Saga Hafnarfjarðar III, 1908-1983, Skuggsjá 1984.
Selvogur og umhverfi hans – Ólafur Jóhannson
Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1938 segir Ólafur Jóhannsson úr Ólafsey frá „Selvogi og umhverfi hans„. Lýsingin er áhugaverð miðað við þess tíma ferðamáta og auk þess góð ábending um að óþarfi er að burðast með pólitískar „byrgðar í bakpokanum“ á slíkum ferðalögum:
„Í góðviðriskaflanum í sept. fór jeg til Selvogs, í erindum fyrir fjelag hjer í Reykjavík. Jeg fór með bíl, sem leið liggur, að Hveragerði í Ölfusi. Þaðan hafði jeg hugsað mjer að flytjast á hinum meðfæddu flutningatækjum. Heiðríkja og blíðskaparveður var þá, og alla dagana er jeg var í ferðinni.
Hlíðarendi í Ölfusi.
Frá Hveragerði fór jeg eftir hinum nýja vegi, sem verið er að leggja út Ölfushrepp, og er hann kominn út á móts við Þóroddsstaði. Þaðan er slarkfær bílvegur út að Hraunum. Þegar þangað kemur beygist vegurinn dálítið til norðurs, út með fjallinu, áleiðis til Selvogsheiðar, og liggur vegurinn þar um helluhraun og aurflög, og er ekki fær bílum í rigningartíð. Tveir bæir eru þar út með fjallinu, og liggja þeir allfjarri hvor öðrum, og er þangað nær tveggja tíma gangur frá næstu bæjum í Ölfusi. Sá þeirra, er liggur næst Selvogsheiði, og er ysti bær í Ölfushrepp, heitir Hlíðarendi, og gisti jeg þar um nóttina.
Selvogsviti.
Morguninn eftir, um kl. 9, lagði jeg á Selvogsheiði, áleiðis til Selvogs. Vegurinn liggur fyrst út með alllöngu hamrabelti, og verður hann víða að liggja í gegnum slæm aurflög, eða um helluhraun, eða laust hraungrjót.
Heiðin smállækkar nokkuð vestur fyrir miðju, og liggur vegurinn á þeim kafla víða um mýrlendi og móa, og víðast mjög lágt, og er vegurinn ófær bílum á austanverðri heiðinni í rigningartíð, en hinsvegar myndi ekki þurfa að kosta mjög mikið fje að gera þar allgóðan sumarveg fyrir bíla. Þar á austurheiðinni er kjarngott beitiland, enda var þar allmargt sauðfje á víð og dreif.
Strandarkirkja 1940.
Þegar komið er um 2/3 vegar innanfrá, eða hæst á heiðina — en hún er hvergi há — sjest Selvogsþorp, og ber þar mest á vitanum og hinni oftnefndu Strandarkirkju. Leiðin lækkar fljótara og með jafnari halla að vestanverðu og er þar landslag fallegt, víða hallandi grundir, og því að miklu leyti sjálfgerður bílvegur, þar til fer að nálgast þorpið, þá fer að bera allmikið á foksandi og uppblæstri, og hefir foksandurinn gert Selvogsbúum mikið tjón, og sjást sandskaflar þar víða, t.d. er allhár grjótgarður um austanvert túnið í Nesi, og náðu þó sandskaflarnir upp fyrir miðju á honum, en samt sem áður hlífir garðurinn túninu mikið.
Jeg kom í Selvog eftir 4 tíma gang yfir heiðina. Jeg var þar öllum ókunnur, og ákvað að finna fyrst vitavörðinn að máli, og bað hann um gistingu meðan jeg dveldi í þorpinu, og var það strax til reiðu.
Guðmundur Jónsson vitavörður er vel greindur maður, fróður og athugull um margt í fortíð og nútíð, og dugnaðarmaður í búskap og hvívetna.
Nes – loftmynd 1958.
Þegar jeg hafði lokið erindi mínu, fór jeg að skoða hina nafnkendu Strandarkirkju, sem svo margra hugur virðist hvarfla til í andstreymi lífsins. Kirkjan er utanvert við þorpið, og nálægt sjó. Það er lagleg og vel hirt timburkirkja, og stendur hún, og grafreitur umhverfis, á sandhól. Stormarnir hafa um aldaraðir sorfið úr hólnum, en til þess að stöðva það, hefir verið hlaðinn allhár grjótgarður, að miklu leyti umhverfis hólinn, en hann er nú farinn að hrörna, og ætti að sjálfsögðu, að steypa þarna varnargarð um kirkju og grafreit, enda hefir Strandarkirkja ærið fje til að hlúa að sjer og sóknarbörnum sínum, lífs og liðnum. Talsvert hefir verið unnið að því að græða upp land kirkjunnar með góðum árangri.
Kirkjan á Strönd.
Mjer fanst eins og yfir þessari yfirlætislausu, snotru timburkirkju hvíla þögul, tignarleg ró. Má vera að það hafi verið af því, að jeg vissi, að samstiltur hugur margra Íslendinga hefir oft kvarflað til hennar til áheita í mótblæstri lífsins, og hinar miklu gjafir til hennar sýna, að oft hefir mönnum orðið að ósk sinni í því sambandi. Jeg ætla ekki að fara fleiri orðum um þessa hlið málsins, en „ef þjer hafið trúna, megnið þjer fjöllin úr stað að færa“, og „harla margt er á himni og jörð, er heimspekina dreymir ei um“.
Strandarkirkja hvað eiga í sjóði um 150 þús. kr. er gera verður ráð fyrir að sje í reiðufje. Þetta er meira fje en kirkjan þarf sjer til viðhalds. Mjer finst, að kirkjan — eða forráðendur hennar, sem hvað vera hlutaðeigandi sóknarnefnd, ríkisstjórn og biskup — ættu að verja nokkru af fje hennar til andlegra og líkamlegra hagsbóta fyrir sóknarbörn kirkjunnar.
Jeg vjek dálítið að þessu máli við Guðmund vitavörð. Hann sagði að sú hugsun hefði gert vart við sig þar, að gera Selvog að sjerstöku prestakalli. Kirkjan ætti að nokkru eða öllu leyti að leggja fram fje til þess að jafntímis yrði reist hæfilegt skólahús fyrir barna- og unglingakenslu, og íbúð fyrir prestinn, sem jafnframt væri aðalkennari. Líklegt þykir mjer að Selvogsbúar myndu sjá um, að í þann starfa slysaðist ekki hempukommúnisti, heldur maður, sem hefði áhuga fyrir að þroska ungmenni andlega og líkamlega á þjóðræðisgrundvelli. Margt fleira mætti nefna, er ætti vel við að kirkjan legði fje fyrir sóknarbörn sín, svo sem til bókasafns o.fl.
Nes í Selvogi.
Húsakynni í Selvogi eru yfirleitt góð, þar eru nokkur mjög snotur íbúðarhús úr timbri og steini. Garðrækt er þar töluverð, enda góð skilyrði fyrir henni. Tún eru furðanlega grasgefin, þrátt fyrir sandfok. Nautgriparækt getur ekki orðið þar mikil, en aftur á móti hafa Selvogsbúar allmargt sauðfjár, enda er þar snjóljett, og kjarngóð beit á heiðunum. Guðm. vitavörður í Nesi hefir, að sögn, um 800 sauðfjár, og mun það vera langflest hjá honum, enda er Nes aðaljörðin. Í jarðamatinu frá 1860 er Nes metið 55 hundruð.
Íbúar þorpsins virðast, að framkomu og yfirbragði, ekki standa að baki annara í kauptúnum og kaupstöðum. Menn skiftast, þar sem annarsstaðar, í pólitíska flokka. Þó heyrði jeg þess ekki getið, að einræðis- og kúgunarstefna kommúnista — og hinna dulbúnu fylgjenda þeirra — væri farin að gera vart við sig. Það ber vott um mikið andlegt þroskaleysi hjá þjóðinni, og andvaraleysi með frelsi sitt, ef hún uggir ekki að sjer fyr en hún hefir verið hnept í fjötra ófrelsis og kúgunar, ef til vill undir yfirstjórn erlendrar harðstjórnar.
Blóðferill komúnismans — bæði beint og óbeint — er að verða drepsóttum verri í heiminum. Nú á þjóðin engan Einar Þveræing, og því síður nokkurn Jón Sigurðsson. Þjóðin sjer, og horfir með kvíða á hættuna, en hefst ekki að. Sumir af sinnuleysi. Nokkrir trúa, ef til vill, ekki að hætta sje á ferðum. Aðrir ef til vill af því, að þeir vænta sjer hagnaðs af því að viðhafa „hin þöglu svik, að þegja við öllu röngu“.
Selvogsheiði – gata.
Guðmundur vitavörður álítur, að ekki muni verða ábyggilegur bílvegur suðurleiðina sakir snjóþyngsla er oft komi bæði á svæðinu frá Krýsuvík að Selvogi, og engu síður á austanverðri Selvogsheiði, sem liggur víðast mjög lágt, og virðist mjer það mjög líklegt, en sumarveg fyrir bíla má gera um heiðina, til Selvogs, með fremur litlum kostnaði. Vetrarvegur frá Reykjavík, um Krýsuvíkurheiði og Selvogsheiði, mun ekki reynast ábyggilegri, sjerstaklega í suðvestan snjó komu, en Hellisheiði. Ef Hellisheiðarvegurinn væri endurbættur, þannig, að hækka hann mjög víða upp, og færa hann upp úr lautunum (t.d. skamt frá Kolviðarhóli), er ástæða til að ætla, að hann yrði engu síður ábyggilegur en hinn, en svo miklum mun styttri og því ódýrari til notkunar. En Íslendingar þurfa að muna það, og vera við því búnir, að oft hafa komið þau fannalög, að bílvegir myndu hafa farið í kaf allvíða, og til þess að rökstyðja það, þarf ekki lengra aftur í tímann, en um og eftir síðustu aldamót.
Strandardalur.
Frá Selvogi ákvað jeg að fara skemstu leið til Hafnarfjarðar, og er það rúmir 40 km., og liggur leiðin yfir háa heiði, og mun hún vera um 20 km., og endar að norðanverðu í Grindaskörðum.
Jeg lagði af stað frá Selvogi kl. 9, og ljet Guðmundur vitavörður mjer í tje hest og fylgdarmann upp að heiðinni, sem er rúmur klukkutíma gangur. Heiðarbrúnin er fremur lág að sunnanverðu, en svo smáhækkar hún upp að miðju, og liggur mjög hátt alla leið norður á brún. Á miðri heiðinni er mikið og fagurt víðsýni austur til Eyjafjalla, Vestmannaeyja og á haf út, og var sjerstaklega aðdáunarvert, að sjá lífgeislaflóð „Almættisins erindreka“ leika um hafflötinn. Suðurhluti heiðarinnar er mestmegnis vaxinn mosa og lyngi, en þegar norðar kemur er fjölbreyttari gróður, og er kjarngóð beit þar allvíða. Norðanverð heiðin er hallalítil, þar skiftast á „fjallshnúkaraðir“ og dalir.
Selvogsgata.
Í dölunum skiftast á, gamalt hraunflóð og valllendisgróður, og liggur leiðin um þetta.
Þegar maður er staddur á fjöllum uppi, verður maður best var við alvöru- og tignarsvip náttúrunnar, og þar „þagnar dagur þras og rígur“, og eins og Gestur Pálsson segir: „Rekur sig þar ekki á nein mannaverk“, og jeg vil bæta við: Þar blasa við stórvirki náttúrunnar, er Jónas Hallgrímsson minnist á í hinu lotningarfulla erindi: „Hver vann hjer svo að með orku“.
Selvogsgata.
Vegurinn um heiðina er slæmur, lítið annað en margra alda hestatroðningar, víða með lausu hraungrjóthröngli, og lítur út fyrir, að þar hafi ekki verið hreinsuð gata á þessari öld, og er vegurinn þó líklega í tölu fjallvega.
Um eitt er ferð um þessa heiði varhugaverð að sumarlagi. Það er vatnsleysið. Jeg varð ekki var við nokkurt vatn frá því jeg lagði á heiðina, og þar til jeg kom niður undir Hafnarfjörð, að vatnslæk bæjarins, er kemur undan hrauninu. Jeg bjóst við vatnsleysi á þessari leið, þar sem þetta er alt brunnið land, er gleypir fljótlega alt yfirborðsvatn. Til þess að mig þyrsti síður, borðaði jeg einnngis skyr og mjólk áður en jeg lagði á heiðina, og nesti þorði jeg ekki að smakka fyr en við Hafnarfjarðarlækinn, af sömu ástæðu, enda bar þetta hvorttveggja tilætlaðan árangur.
Á norðurbrún heiðarinnar eru Grindaskörð. Um för Repps um Grindaskörð 1867 orti Kristján Jónsson skopkvæði, og þar meðal annars þetta:
Yfir geigvænleg Grindaskörð geystist fárramur ofurhugi;
með galdrakyngi og gneistaflugi dundi á jöklum hríðin hörð.
Höfuðskepnurnar hömuðust, hamaðist Repp þó engu miður.
Alteins og háreist bæjarbust er bugast ei neina storma viður.
Selvogsgata að Grindarskörðum.
Þegar komið er fram úr Grindaskörðum, á norðurbrún heiðarinnar, opnast fljótlega fagurt útsýni. Fyrir neðan heiðina liggur víðáttumikið mosavaxið helluhraun. Niður við sjóinn sjest Reykjavík, og sýnist hún liggja allnærri, af því að hæð fjallsins dregur eins og að sjer. Víðáttumikið útsýni er yfir Faxaflóann. Í þetta sinn lagði inneftir honum dálitla útrænu. Þá er fjallahálfhringurinn svipmikill, einkum Akrafjall, Hafnarfjall og Esjan, sem framverðir, og Snæfellsfjallgarðurinn með hinn tignarlega útvörð, Snæfellsjökul.
Þegar komið er niður af heiðinni, liggur vegslóðinn um helluhraun, vaxið grámosa á alllöngu svæði, og er mosalagið víða um 30 sm. á þykt, og var mýkri en nokkur fjaðrasófi að leggjast á. Leiðin frá heiðinni til Hafnarfjarðar mun vera um 20 km., og er um helmingurinn flatneskja, og því mjög villugjarnt í dimmviðri. Vegarslóðinn hefir, fyrir löngu síðan, verið varðaður, en vörðurnar eru að mestu hrundar, og því ekki vegvísir þegar þeirra er þörf.
Selvogsgatan neðanverð.
Sumsstaðar sjest fyrir götunni á þann hátt, að laut er troðin í hraunhellurnar eftir hestafætur, og hefir það sína sögu að segja.
Þegar komið er niður fyrir Hafnarfjarðargirðingu, liggur vegurinn eftir þröngum skorningum um hraunið, og er mjög vont yfirferðar, gatan mjög víða þakin af hraunmulning, og væri full þörf á, og kostnaðarlítið, að hreinsa götuna, þótt líklega sje þar ekki fjölfarið.“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 3. tbl. 23.01.1938, Selvogur og umhverfi hans – Ólafur Jóhannson frá Ólafsey, bls. 17-19.
Grindarskörð.
Vegagjörð úr Grindaskörðum
Eftirfarandi umfjöllun birtist í Ísafold 1880: „Vegagjörð úr Grindaskörðum ofan við Hafnarfjörð“ –
Verði nokkuð úr því áformi brennisteinsfjelagsins enska, að gjöra að sumri komanda góða akbraut úr brennisteinsfjöllunum ofan í Hafnarfjörð, þá væri ekki illa til fallið, að Grindaskarðavegurinn, sem er einn af þeim fjallvegum, er landssjóður samkvæmt lögum, 15. okt. 1875, á að kosta, jafnframt yrði ruddur, þótt upphaflega væri tilætlazt, að aðrir vegir gengi fyrir. Myndi það þá geta orðið að minnstum kostnaði og á haganlegastan hátt. Vesturhluti Árnessýslu og suðurhluti Gnllbringusýslu eiga heimtingu á, að þetta komist í kring, sem fyrst auðið er. Skreiðar- og kaupstaðarferðir eru miklar á þessari leið milli Eyrarbakka, Þorlákshafnar, Selvogs, Krýsuvíkur, Grindavikur, Hafnarfjarðar og suður með öllum sjó. Enda er Grindaskarðavegurinn einn þeirra fjallvega milli sýslna, sem samkvæmt áliti amtsráðs suðuramtsins eiga að hvíla á landssjóði (stj.tíð. 1876 B, bls. 75).“
Heimild:
-Ísafold, 26. nóvember 1880, bls. 120.
Kvöldsýn frá Grindaskörðum.