Selvogur - örnefna- og minjakort

Dr. Jón Helgason, biskup, ritaði grein í Lesbók Mbl. 17. janúar 1926 og nefndi hana „Um Strönd og Strandakirkju„.

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Tæpum tveim árum síðar, eða 2. október 1927, kom svo í sama riti greinin: „Erindi um Strandakirkju“ eftir séra Ólaf Ólafsson, sem þar hóf prestskap sinn.
Séra Helgi Sveinsson, sem einnig þjónaði Strandarkirkju, skrifaði í 18. árgang Kirkjuritsins grein, sem hann nefndi „Engilsvík“.
Allir koma þessir þjónar kirkjunnar inn á tilurð Strandarkirkju, en hver með sínum hætti.
Séra Helgi endursegir söguna um skipbrotsmennina, sem engillinn leiddi í örugga höfn, en gerir enga tilraun til þess að tímasetja hana.
Séra Ólafur segir í sinni grein: „Strandarkirkja er orðin ævagömul. Hinn rétta aldur hennar þekkir enginn, sumir ætla hana byggða við upphaf kristninnar hér á landi, á dögum Gissurar hvíta, en aðrir á dögum Staða-Árna, en enginn veit neitt með vissu. Ég hallast lang mest að þeirri gömlu þjóðsögu, að hún sé upphaflega og það snemma á tímum til orðin fyrir áheit manna í sjávarháska, áheitendurnir komust á land og björguðust á Strandarsundi, rétt fyrir vestan það er nefnilega hin alkunna Engilsvík. Ég styrktist í þessari trú við þá staðreynd að nú á okkar dögum hefur heil skipshöfn bjargast úr sjávarháska einmitt á þessum svæðum. Síðan eru um 30 ár.“
StrandarkirkjaDr. Jón hefur mál sitt á vísu eftir Grím Thomsen þar sem hann telur Gissur hvíta hafa reist fyrstu Strandarkirkjuna. Síðan segir biskupinn: „Hefi ég ekki annarsstaðar, það ég man, rekið mig á þá sögn að Gissur hvíti hafi fyrstu gert kirkju á Strönd í Selvogi. Vitanlega er ekkert því til fyrirstöðu að þetta sé rétt hermt þó söguleg rök vanti fyrir því.“
Nokkru síðan í sömu grein segir hann: „Hið sannasta, sem sagt verður um uppruna Strandarkirkju er að vér vitum ekkert um hann með vissu. Má vel vera að hún hafi verið reist þegar í fyrstu kristni og eins má vel vera, að hún hafi ekki verið reist fyrr en í tíð Árna biskups á síðari hluta 13. aldar.
Allir hafa þessir heiðursmenn ausið af sama gnægtarbrunni um sögu Selvogs og Strandarkirkju, en það eru vísur eftir séra Jón Vestmann, er prestur var í Selvogsþingum 1811-42 og inngangsritgerð við þær eftir dr. Jón Þorkelsson, þjóðskjalavörð, en það eru bestu heimildirnar, sem mér eru kunnar um þessi efni.
En hver setti kirkjuna þarna, hvenær og hversvegna?
Í StrandarkirkjuEða væri e.t.v. hyggilegra að huga fyrst að því hverjir þeirra, sem nefndir hafa verið til þessarar sögu, komi alls ekki til greina?
Fyrstan í þeim flokki, vil ég nefna Gissur hvíta.
Mér telst svo til, að í Íslendingasögum, Biskupasögum, Sturlungu, Heimskringlu og Flateyjarbók sé talað um hana á samtals rúmelga 100 blaðsíðum án þess að ég finni nokkuð, sem bendi til þessarar kirkjubyggingar og ég er algjörlega ósammála þeim rökum dr. Jóns Helgasonar, biskups, að það sé alveg jafngóð sagnfræði þótt enginn flugufótur finnist fyrir þeim kenningum, sem hún setur fram.
Þá er það Árni biskup Þorláksson (Staða-Árni, 1269-98).
Er líklegt að hann hafi lent í því hafvolki, að þar sé að leita upphafsins að Strandarkirkju – og er sennilegt, að hann og landeigandinn á Strönd hafi staðið saman að byggingu þessarar kirkju?
Fyrri spurningunni er hægt að svara hiklaust neitandi því að í sögu hans segir: „Eftir það er Árni biskup hafði skilið við virðulegan herra Jón erkibiskup…….. sigldu þeir í haf, og greiddist þeirra ferð vel og ekki allskjótt. Komu þeir skipi sínu í Eyjafjörð.“
StrandarkirkjaEn hver var þá eigandi Strandar á þessum tíma og hvernig var samkomulag hans og biskups?
„Á dögum Árna biskups Þorlákssonar………. átti Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), Strönd, Nes, og sjálfsagt fleiri jarðir í Selvogi. Biskup og hann stóðu mjög öndverðir í staðamálum og eru lítil líkindi til að Erlendur hafi farið „með fulltingi“ Árna biskups að reisa kirkju frá stofni á Strönd enda má sjá það á vitnisburði Þorbjarnar Högnasonar útgefnum á Strönd 13. maí 1367 að kirkja muni hafa verið sett þar fyrir löngu.“
Það má raunar segja, að Erlendur lögmaður hafi verið höfuð andstæðingur Árna biskups í staðamálum. Honum nægði meira að segja ekki að berjast við biskup hér innan lands heldur lagði á sig ferð til Noregs til þess að geta á þinginu í Niðarósi 1282 greitt atkvæði með útlegðardómi yfir Jóni erkibiskupi – vígsluföður Árna biskups.
Mér finnst það meira en furðulegt ef þessir erkifjendur í staðamálum hefðu getað sameinast um að gera nýja kirkju á jörð Erlends og það með þeim glæsibrag, að á aðeins 5-6 árum var hún orðin ein af ríkustu kirkjum landsins.

Strandarkirkja

„Elsta „Strendur-máldaga“ er nú þekkist hafa menn heimfært til tíma Árna biskups Þorlákssonar eða hér um bil 1275…….. og er Strönd þá svo stórauðug að rekum að hún togast á við Hjallamenn, Krýsvíkinga og sjálfan Skálholtsstól.“
Nú er það staðreynd að „kirkjan suður á sandinum situr ein og hljóð“ svo einhver hlýtur að hafa byggt hana og einhverntíma. En hver og hvenær?
Árni Óla er einn þeirra, sem skrifað hafa um Strandarkirkju. Eftir að hafa rætt nokkuð um upphaf hennar segir hann: „En sé nú gert ráð fyrir því að Strandarkirkja hafi verið reist áður en Árni varð biskup og ennfremur hitt, að munnmælasagan hermi rétt að það hafi verið biskup, sem heitið gerði um kirkjubygginguna. Þá gæti skeð að það hefði verið Þorlákur biskup helgi.“
Þarna hygg ég að naglinn hafi verið hittur beint á höfuðið. En af hverju Þorlákur biskup Þórhallsson öðrum biskupum fremur?
Til þess að svara þeirri spurningu þarf að leggja nokkra lykkju á leið sína – eða er það ef til vill bein lína að settu Strandarkirkjamarki?
Það þarf ekki að horfa lengi á Íslandskort til þess að sjá, að hafnir eru ekki höfuðprýði Suðurlandsins. Hinu má svo ekki gleyma, að eldsumbrot, jökulhlaup, hafís og hafrót hafa í aldanna rás gnauðað þar á ströndinni og því er ekki ólíklegt að það hafi í raun og veru verið allt önnur strönd, sem blasti við augum þeirra fóstbræðra Ingólfs og Hjörleifs er þeir komu af hafi, en sú sem við horfum á í dag.
Það skal látið liggja á milli hluta hér hvort Hjörleifur sigldi inn fjörð til þess að taka land við Hjörleifshöfða.
Á hitt skal aftur á móti bent að „Rangá mun hafa verið hafskipahöfn í tíð Sæmundar fróða“ og að „Rangá og Holtsósar eru dæmi um hafnir, sem lögðust niður.“
Svo er það Strandarsund í Selvogi, „Strandarsund, sem er suður og austur af kirkjunni, hefur sjálfsagt frá ómunatíð, allt þar til það tók að fylla af sandi á síðari öldum, verið einhver öruggast lendingarhöfn fyrir öllu Suðurlandi. Segja kunnugir menn, að enn sé oft kyrrt á Strandarsundi þó að allur Selvogssjór sé í einnu veltu. Er það gamalt mál, að aldrei berist skipi á á Strandarsundi „rétt förnu“….. Ýmsar sagnir hafa gengið um sundið. Sögðu sumir að jafnan væri lag á Strandarsundi á nóni dags.“
En hvað er þá orðið um Strandarsund?
Í ágúst 1706 voru þeir Jarðabókarmenn í Selvogi og var þá sagt að jörðin „Straund“ sé fyrir 10 árum í auðn komin. Einnig segir: „Heimræði hefur hér verið ár um kring, sem nú er fordjarfað síðan hafís rak hér inn í sundið, svo þaðan í frá er ófært nema í blíðviðrum og láleysu.“
StröndHvað var það, sem gerðist þarna í Selvogi á árunum 1694-96 og varð þess valdandi að í fardögum ´96 flýr síðasti maðurinn stórbýlið Strönd? Hvað fordjarfaði svo Strandarsund, að þar er síðan ólendandi nema í besta og blíðasta veðri?
Í Fitjaannnál segir um árið 1695: „Kom hafís fyrir norðan á jólum einnin fyrir Austfirði og seint á einmánuði fyrir Eyrarbakka og í Þorlákshöfn, svo þar varð ekki á sjó komist um nokkra daga, færðist svo vestur fyrir Reykjanes og öll Suðurnes. Þann 19. apríl rak hann inn fyrir Garð og svo meir og meir, Akranes, Mýrar og undir Snæfellsjökul.“
Það þarf varla nokkur að velkjast í vafa um að hafís, sem náði að fylla nær alla firði við Faxaflóa hefir í leiðinni mokað svo rækilega upp í mynni Strandarsunds, að það hefir verið létt verk fyrir foksandinn, sem þegar var farinn að granda túnum sveitarinnar, að fylla upp afganginn.
En hvað kemur þetta Þorláki Þórhallssyni við?
Nákvæmlega ekki neitt ef svo hefði ekki viljað til að faðir hans var Þórhallur FARMAÐUR.
Það mætti furðulegt heita ef skammdegiskvöldin á Hlíðarenda hefðu ekki einhverntíma verið stytt með sögum og samræðum um ferðir húsbóndans og jafn skrýtið gæti það talist ef aldrei hefði borið á góma þar á bæ, að úti í Selvogi væri höfn þar sem hægt væri að lenda a.m.k. tvisvar á dag nánast hvernig sem viðraði.
StrandarkirkjaMunnmælin herma að Strandarsund hafi ávallt verið fært á nóni. Það fær ekki staðist, en hitt gæti meira en verið, að sundið hefði oftast verið fært á öðrum hvorum liggjandanum eða á hálfföllnum sjó.
En einu gildir hvort munnmælin hafa hallvikað hér strangasta sannleika eitthvað lítillega eða ekki, Þorláki hlýtur að hafa verið ljóst strax í bernsku, að á einum stað á Suðurlandi mátti taka land í svo til hvernig veðri sem var, bara ef rétt var að verki staðið.
Þá er það sagan um hann Árna, sem fór til Noregs til þess að sækja húsavið. Þar hygg ég að þjóðsagan hafi ofið skemmtilega voð þar sem uppistaðan er frásögn yngri gerðar Þorlákssögu af heimför biskupsins úr vígsluför sinni til Noregs, en fegurðarskynið eitt látið ráð hvar ívafið var tekið.
Besta gerð þeirrar sögu, sem ég hefi séð er skráð af Konráði Bjarnasyni, fræðimanni frá Þorkelsgerði í Selvogi, en hann hefir söguna eftir Guðrúnu Jónsdóttur, sem gift var Árna Árnasyni, uppeldissyni Kristínar Jónsdóttur Vestmanns.
Bæði Þorlákssaga og þjóðsagan geta um skip, sem býst frá Noregi hlaðið húsaviði og í báðum endar ferðin í óveðri við Íslandsstrendur og mestur hluti viðarins tapast fyrir borð áður en landi er náð, en það tekst giftusamlega eftir að viss heit hafa verið gerð.
StrandarkirkjaEn hver var svo hlutur farmannssonarins í landtökunni í byrjun ágúst 1178. Hver var hlutur þessa skarpgáfaða en ráðríka manns, sem áreiðanlega þekkti Suðurland frá Vatnajökli og vestur úr eins og fingurna á sér? Hafði grillt svo í land að hann vissi upp á hár hvar hann var staddur? Hvers vegna vildi hann ekki heita fyrr en rutt var af skipinu öllu því, sem hann við brottför hafði talið ofhleðslu? Var það vegna þess að honum fannst að skipstjórnarmenn hefðu gott af refsingu fyrir mótþróa við biskupinn eða var það af þeirri einföldu ástæðu að hann vissi að svo hlaðið, sem skipið var, mundi það aldrei fljóta inn Strandarsund?
Þannig má leika sér að spurningum næstum í það óendanlega. En svör við þeim finnst engin. Á hinu tel ég ekki leika nokkurn vafa, að það voru gömul ráð Þórhalls farmanns, sem komu syni hans heilum í höfn úr vígsluförinni og urðu um leið til þess að hin fyrsta Strandarkirkja var byggð. Ég er heldur ekki í neinum vafa um að það er helgi Þorláks og áheit á hann, sem valda því að um öld eftir að hann lét reisa kirkju að Strönd var hún þegar orðin ein af ríkustu kirkjum landsins.
Og það er fleira en hugdettur minar, sem styða þá kenningu, að margnefnd kirkja hafi verið byggð á dögum heilags Þorláks því að kirknatal Páls biskups Jónssonar enda upptalningu sína á kirkjum í Árnesþingi með kirkjunni á Strönd í Selvogi.
Auðvitað er mér fulljóst, að frumritið af þeirri skrá er ekki til og ekki er hægt að útiloka að einhverjum vini Strandarkirkju, sem var að afrita skrána hafi þótt svo sjálfsagt, að hennar nafn stæði þar, að hann hafi bætt því við, en ég tel þann möguleika miklum mun minni en þann, að Erlendur lögmaður Ólafsson hafi farið að aðstoða Staða-Árna við að ná einu af tekjuhæstu óðulum sínum undir kirkjuna.“

Heimild:
-Tekið saman af Gunnari Markússyni í september 1991.
-http://www.olfus.is/Default.aspx?ObjectId=1|2&id=72&idx=6

Selvogur

Frá afhjúpun skiltis með örnefnum og minjum við Strandarkirkju í Selvogi.

Brunnur

Nes í Selvogi var lengi höfuðból. Bjuggu þar oft gildir bændur og efnuðust stundum vel af sjávarútvegi og sauðfjárbúskap. Um 1830 bjó þar bóndi sá, er Gísli hét Þorláksson: fæddur var hann í Selvogi um 1774 og dvaldist þar ævilangt. Hann virðist hafa verið í góðu áliti og hreppstjóri var hann Selvogsmanna um nokkurt skeið. Gísli var þríkvæntur og átti börn nokkur, en eigi koma þau við þessa sögu nema dóttir ein, sem Ólöf hét. Hana átti Gísli með miðkonu sinni, sem Ingveldur hét Gísladóttir. Ólöf var fædd í Nesi 9. október 1813 og dvaldist þar til 27 ára aldurs. Við fermingu fær hún þann vitnisburð hjá presti sínum, að hún sé „meðallagi gáfuð, lærði allt kverið smátt og stórt og hegðun skikkanleg.“ Í æsku hafði hún þótt efnisstúlka, fríð sínum með mikið og glóbjart hár og hög vel til handa.

NesMilli Ness í Selvogi og Þorlákshafnar voru vináttubönd, hvorutveggja voru hreppstjóraheimili, að vísu var allt stærra og meira í sniðum í Þorlákshöfn, en þau áttu það sameiginlegt að bera af um alla alþýðumenningu.

Það mun hafa verið fastmælum bundið haustið 1834, að Ólöf í Nesi færi til dvalar að Þorlákshöfn. Var hún þá tvítug að aldri og átti að læra hannyrðir hjá maddömu Hólmfríði, konu Magnúsar Beinteinssonar. Mun Ólöf hafa dvalist í Höfninni vetrarlangt eða fram undir 1835.

Nes

Nes í Selvogi – túnakort.

Nú kemur ný persóna til sögunnar, og verður nokkuð greint frá henni. Bergur hét maður og var Guðmundsson, fæddur í Króki í Hraungerðishreppi 1797. Voru foreldrar hans Guðmundur Hannesson bóndi í Króki og kona hans Herdís Bergsdóttir frá Reynisvatni í Mosfellssveit. Bergur kvæntist 1823 Margréti Jónsdóttur frá Sandlækjarkoti og byrjuðu þau búskap í Hvammsvík í Kjós. Þar eru þau talin búandi til ársins 1826. Síðasta árið var í félagsbúskap við Berg bróðir hans, Hannes, er síðar bjó að Hjalla í Ölfusi. Um þessar mundir sótti Bergur um leyfi með Hannesi bróður sínum að reisa nýbýli suðaustan undir Esjunni, en því synjað á þeim forsendum, að býlið myndi liggja á afréttarlöndum tveggja sýslna, lá og eigi „allskostar gott orð á þeim bræðrum“. Bergur varð snemma drykkfelldur og eigi við eina fjöl felldur, einkum í kvennamálum, en dugandi maður var hann talinn til verka og smiður góður. Með Margréti konu sinni átti Bergur tvö börn, skildu þau hjón síðar að borði og sæng, það var árið 1827. Annað barn þeirra dó í bernsku, en hitt komst til aldurs. Það var Þorsteinn, skipstjóri í Ytri-Njarðvík, f. 1823, og er margt dugandi fólk frá honum komið.

Tóftir

Tóftir við Nes.

Er Bergur hafði látið af búskap í Hvammsvík og skilið við konu sína, mun hann hafa verið á ýmsum stöðum, ýmist sem lausamaður ella í vinnumennsku. Árið 1835 er hann vinnumaður í Helli í Ölfusi hjá þeim hjónum Þorleifi Sæfinnssyni og Aldísi Vigfúsdóttur frá Fjalli á Skeiðum, systur Ófeigs ríka. Aldís þótti kona mikil fyrir sér og mælt, að bóndi hennar hefði stundum fullmikið konuríki. Veturinn sem Bergur dvaldist í Helli, gerðist það, að hann barnaði húsmóður sína. Barnið var mær og komst til fullorðinsára. Það var Guðrún á Grímslæk, f. 20. febrúar 1836. Hún giftist og átti margt barna, meðal þeirra var Marteinn Einarsson stórkaupmaður í Reykjavík. Til er saga um það, þegar Aldís í Helli hafði alið barnið, þá hafi Þorleifur maður hennar komið inn í baðstofuna og viljað líta á afkvæmið nýfætt. Þá átti Aldís að hafa sagt þetta, sem var í minnum haft: „Skiptu þér nú ekkert af þessu, við Bergur eigum þetta barn!“ –

Veturinn 1835 um vertíðarbyrjun lagði Bergur leið sína út í Þorlákshöfn og falaðist eftir skipsrúmi. Samdist þá svo um, að hann gerðist háseti hjá hinum nafnkunna formanni Jóni Ólafssyni í Hraunshjáleigu, er stýrði einu af skipum Magnúsar Beinteinssonar. Lítt samdi þeim Bergi og Jóni formanni, og taldi Jón, að Bergur hefði ill áhrif á skipshöfnina. Þar kom, að Bergur stökk úr skiprúminu, en aðrir sögðu, að Jón formaður ræki hann, og var það óvanalegt í Þorlákshöfn. Mælt var, að Jón teldi sig feginn að vera laus við Berg, þótt dugandi sjómaður væri og allvel fiskinn, en vildi ekki vinna það fyrir, sökum ýmissa þverbresta í fari hans. Eigi hvarf Bergur úr Höfninni, þótt hann færi af skipi Jóns Ólafssonar. Gekk hann nú um sinn á milli formanna og fékk að róa hjá þeim einn og einn róður. Var margt um það skrafað, en Jón Ólafsson hafði í flimtingum við formenn þá, er leyfðu honum að fljóta með, sögðust þeir mundu það gera, meðan Magnús Beinteinsson gerði hann ekki „plássrækan“. Nokkru eftir að þessir atburðir gerðust, samdist svo á milli Bergs og Magnúsar bónda Magnússonar á Hrauni, að hann smíðaði veiðibát fyrir Magnús, en hann var sem kunnugt er sonur Magnúsar Beinteinssonar. En með því að í Þorlákshöfn var smíðahús og smiðja með nægum tækjum, bað Magnús á Hrauni föður sinn leyfis, að Bergur mætti vinna að smíðinni úti í Höfn. Gaf Magnús Beinteinsson leyfi til þess, þótt eigi væri honum um dvöl Bergs þar gefið, eftir að hann fór úr skiprúminu. Fékk Bergur nú að sofa á bæjardyralofti; voru þar tvö rúm ætluð ótignari gestum. Þar hafði Jón Ólafsson formaður sofið á vetrarvertíðum, áður en hann flutti að Hraunshjáleigu.

Selvogur

Vörður í fjörunni austan Nesvita í Selvogi.

Það var eitt sinn, er Bergur hafði hafið bátssmíðina, að Jóni Ólafssyni varð gengið fyrir smiðjudyrnar í Þorlákshöfn. Sá hann þá, að hurð hneig að stöfum, en rauk úr strompi. Fýsti hann að vita, hver væri þar að smíðum, því að mjög hugaði hann hvatvíslega að öllum hlutum þar á staðnum, og var sem hann hefði auga á hverjum fingri, hvort sem hann var á landi eða sjó. Opnaði Jón nú smiðjudyrnar og birtist honum þá sjón, er hann starði á um stundarsakir sem steinilostinn. Var Bergur þar að hita byrðingsborð til beygingar yfir eldinum, en undir glóðinni blés heimasætan Ólöf frá Nesi. – Jón formaður gekk snúðugt á brott, án þess að mæla nokkurt orð. En fréttir hafði hann að segja í verbúðum þetta kvöld, er þóttu tíðindi, að Ólöf frá Nesi væri jafnframt hannyrðanáminu farin að stunda smiðjuverk og aðstoða Berg við bátasmíði. Um sömu mundir kom upp vísa þessi í Þorlákshöfn:

Er að smíða Bergur bát, –
bragðvís öllum konum.
Undurblíð og eftirlát
Ólöf virðist honum.

Nes

Nesborgir.

Eins og áður segir, hafði Bergur fengið að sofa í bæjardyraloftinu, og var hann þar einsamall. Það var eitt kvöld um háttatíma, að Magnúsi Beinteinssyni varð gengið fram til dyra að loka bænum og signa útihurð, sem venja hans var. Er hann hafði litið til veðurs og lokað bænum, hélt hann inn göngin. Þegar hann kom á móts við stigann upp í dyraloftið, virtist honum heyrast mannamál þar uppi. Hann staldraði snöggvast við og gekk síðan upp stigann að hurð þeirri, er var að sængurhúsinu. Var hún læst með skrá og stóð lykillinn í að utan. Magnús lauk hurðinni fyrirvaralaust upp og litaðist um hálfrökkvað hús. Lá Bergur þar í sæng sinni, en á rúmstokknum fyrir framan hann sat Ólöf frá Nesi og létu þau dátt hvort að öðru. En er Ólöf sá Magnús birtast í dyrunum, skipti það engum togum, að hún vatt sér eldsnöggt út og ofan stigann, svo að Magnús gat naumast áttað sig á viðbrögðunum, er hún skaust framhjá honum. – Einhvern pata hafði Magnús verið búinn að fá af samdrætti þeirra Bergs og Ólafar, en lítt trúað þeim sögum, álitið þær vera verbúðaslúður, er þagga þyrfti niður, en nú fannst honum hann fá fullar heimildir að söguburðinum. Hafði hann nú flutt ávítunarræðu nokkra yfir Bergi þarna í loftinu fyrir táldrátt við meyjuna. Kvað hann Berg skyldi tafarlaust næsta morgunn úr húsum víkja og eigi skyldi hann fá í verbúðum að vera. En eigi vildi hann reka hann á brott undir nóttina, dyraloftinu kvaðst hann nú læsa, svo að Bergur mætti ekki þaðan út komast án sinnar vitundar. Að því búnu gekk Magnús út, læsti hurðu og hafði lykilinn með sér. Einhverjir höfðu verið enn á fótum, er atburður þessi gerðist, og heyrt á samtal Magnúsar við Berg og barst sagan því út og beint til verbúðarmanna og þaðan flaug hún víða.

Nes

Nesborgir.

Næsta morgunn var Magnús árla á fótum, og var þá Bergur ferðbúinn. Fátt var um kveðjur við heimamenn og var fullyrt, að eigi hefði hann fengið tækifæri til að kveðja Ólöfu. Hélt Bergur þaðan að Hrauni og dvaldist þar um stund; var nú sem enn meira los kæmi á hann og slangraði hann um milli bæja í Hjallasókn og var ekkert dulur á dvöl sína í Þorlákshöfn og viðskiptin við heimasætuna frá Nesi. Fór svo fram um nokkrar vikur.

En það er af Ólöfu að segja, að hún dvaldist í Höfninni fram yfir sumarmál, en fór þá aftur heim að Nesi. Mælt var, að Magnúsi yrði það hugraun mikil, að hún skyldi hafa komist í kynni við Berg, því að nokkuð þótti litföróttur ferill hans. Ræddi hann þetta við Ólöfu með skynsamlegum fortölum, átaldi hana ekki, taldi hana nú reyndar sloppna úr klóm flagarans. En þar missást hinum hyggna Þorlákshafnarhúsbónda, sem nú mun sagt verða.

Nes

FERLIRsfélagar í Nesi.

Nokkru eftir að Bergur hafði orðið að víkja svo sviplega úr Höfninni, urðu menn þess varir, að Ólöfu barst sendibréf ofan úr Ölfusi. Eigi fóru sögur af því, að fólk innti hana eftir, hvaðan henni hefði borist bréfið og lá svo kyrrt um sinn. – En hér var það raunar Bergur, sem hafði tyllt sér einhvers staðar niður á flandri sínu og ritað Ólöfu bréf. Var efni þess innfjálgun mikil og þar tjáði hann henni, að eigi mætti hann lifa, án þess að ná fundi hennar. Og nú voru góð ráð dýr, eins og oft vill verða, þegar málum er svona komið Tiltók Bergur nú stað og stund, hvar þau mættu ná fundum saman og átt sem kallast á nútímamáli „stefnumót“. Og hann tiltók staðinn, sem hann taldi ákjósanlegan og öruggastan til samfundanna, en það var í Hleininni vestan við Hafnarberg. Bjart var orðið á nóttum og um annan tíma sólarhringsins var auðvitað ekki að ræða vegna mannaferða til þessa stefnumóts.

Nes

FERLIRsfélagar við gamla Nesvita.

Um klukkutíma gangur er heiman frá Þorlákshöfn út í Hleinina. Hún er af landi séð klapparhólsbunga há og mikil, en að framan standberg niður í sjó. Í gegnum hana þvera frá austri til vesturs er gjásprunga djúp og mikil með grasigrónum botni. Einhvern tíma í fyrndinni hefur hraunbungan klofnað og fremri hlutinn sjávarmeginn sigið frá, og hafa þá myndast göng í gegnum hana, eru þau sums staðar meir en mannhæðarhá. Til beggja handa þá inn er komið, er bergið víða með smástöllum og kvosum, þar sem máríerlur og smáfuglar byggja hreiður sín um varptímann. Hleinin er einn af sérkennilegustu stöðum, hvort sem á er litið af landi en þó einkum af sjó og ekki síst, þegar komið er inn í hana. Óvíða vermir sumarsólin betur á lognværum degi og friðsælli stað er vart hægt að hugsa sér. Ekkert glepur þar hugann nema bylgjugjálfrið undir bergveggnum og einstaka sinnum sjómávar er flögra þar yfir. Hleinin var athyglisverð sjófarendum og fiskimönnum á fyrri tíð. Framundan henni nokkuð undan er dýpi mikið og fiskisælt, og þar hlóðu formenn skip sín á fyrri tíð oft á stuttum tíma.

Selvogur

Selvogur – grafsteinn við Nes.

Nokkru eftir að heimsætunni frá Nesi hafði borist hið umgetna bréf frá Bergi, var það nótt eina, sem tiltekin hafði verið, að hún reis hljóðlega úr rekkju. Hún hefur sennilega haft á sér andvara nokkurn, ætlað fólki stundirnar, er það væri nýsofnað og svæfi sem fastast eftir vinnulangan dag. Hún laumaðist fáklædd niður loftstigann og þreif til utanyfirfata, er hún hafði falið um kvöldið, og smeygði sér í þau. Síðan laumaðist hún út úr bænum. Veður var kyrrt og milt. Ef til vill hefur einhver óróleiki bærst í brjósti hennar. En stefnt var til þess fundar, sem flestum mannlegum tilfinningum getur orðið yfirsterkari. Hún hljóp við fót og þótt sandurinn væri sums staðar gljúpur og léttstígir fætur hennar sykkju nokkuð í hann, sóttist ferðin furðu vel. Og ekki stóð á móttökum, sá kominn, er stefnt hafði henni þangað. Trúlega hefur hann verið mættur nokkru fyrr, og verið á gægjum milli vonar og ótta, hvort bitið yrði á öngul þann, er hann hafði á sinn hátt rennt í djúpið. Og stund samfundanna hefur eflaust liðið fljótt. Ekkert hefur truflað hana, nema ef verið hefur bylgjuskvaldrið undir Hleininni, sem orðið hefur eins konar undirspil athafnanna, er þarna gerðust. En skjótt hefur komið skilnaðarstund. Enginn veit nú, með hvaða hætti hún hefur gerst. Ætluðu þessar tvær persónur, hinn veraldvani maður, sem átti sér að baki næsta brosfellda sögu í kvennamálum, og hin tvítuga mær frá Nesi, sem ætla má að verið hafi lítt spjölluð af veröldinni og viðsjám hennar, að halda ástarfundum sínum áfram? Vafalítð hefur hún hugsað til þess, öðru máli má ætla að hafi gegnt um hann. En eitt er víst, að í Hleininni hittust þau ekki oftar. Og fyrir rismál var Ólöf komin aftur heim til Þorlákshafnar. Með sömu varkárni og hún hafði farið út úr bænum, læddist hún upp á baðstofuloftið og smeygði sér ofan í rúm sitt. Við það urðu einhverjir þó varir, sem voru farnir að losa svefninn. En eigi var því gaumur gefinn. Næsta dag sáu menn, að Ólöf var eitthvað miður sín, og þegar hún var innt eftir, hverju það sætti, kvaðst hún vera lítilsháttar lasin og jafnaði það sig, er frá leið. Nokkru síðar lauk dvöl Ólafar í Þorlákshöfn. Öllum hafði hún kynnst vel þar í vistinni, og kvöddu heimilismenn hana með söknuði. En þá hafði hún í trúnaði sagt einni vinkonu sinni í Höfninni af næturferðinni út í Hleinina, en sú gat ekki þagað yfir leyndarmálinu, og þá barst sagan út síðar meir.

Nes

Nesviti/Selvogsviti gamli.

Leið svo sumarið, að ekkert bar til tíðinda, sem nú er lengur munað. En um haustið gengu Selvogsmenn til altaris í Strandarkirkju. Þá var sálnahirðir þeirra séra Jón Vestmann. Hann var maður gáfaður og mannskyggn, einarður, en þó mildur í skapi. Ólöf í Nesi kraup við drottins borð eins og annað sóknarfólk í Selvogi. Það vakti almenna athygli í kirkjunni, að þegar hún reis upp af knéfallinu við gráturnar og gekk til sætis, var sem nokkurt fát kæmi á klerkinn og hik yrði á embættisgjörðinni og beindust rannsakandi augu hans að Ólöfu. Eftir embættið gáfu kirkjugestir henni flestir auga. Og því varð ekki leynt, sem klerkur hafði séð við útdeilinguna, stúlkan var ekki kona einsömul. Atburðurinn flaug út um alla sveitina og sama spurning var á allra vörum: hver ætti þungann, er hún gengi með. Ekki höfðu langir tímar liðið, þegar fréttin var komin til Þorlákshafnar.

„Signorinn“, Magnús Beinteinsson, setti hljóðann við þessa fregn, en eftir nokkra umhugsun lét hann söðla reiðhest sinn og tygjaðist reiðfötum. Hann hefur þá sjálfsagt farið í „bláu kvaíuna“, viðhafnar yfirhöfn sína, er hann bar jafnan til mannfunda, og förinni var stefnt út að Nesi í Selvogi. Fátt vissu menn, hvað gerðist í þeirri för. Sat Magnús lengi dags á einmælum við Gísla hreppstjóra, föður Ólafar, og síðla um kvöldið kom hann heim til Þorlákshafnar. Næsta dag bar gest að garði í Þorlákshöfn, það var Jón Ólafsson, formaður í Hraunshjáleigu, en hann mat Magnús mann mest þeirra, er verið höfðu í þjónustu hans. Jón snaraðist að Magnúsi og spurði hann almennra tíðinda. Magnús bað hann að ganga með sér inn í stofuna og læsti hann hurðinni, er þeir voru inn komnir. Ræddust þeir við og sagði Magnús Jóni, hversu komið væri fyrir Ólöfu og Bergur ætti barn það, er hún gengi með. Tók Magnús þá fram tvö staup, hellti á, kvað þá Jón skyldu drekka af og dreifa um stund andstreymi lífins. Að því búnu kvaddi Jón formaður og hélt leiðar sinnar.

Tíminn leið með sínum vanagangi. Eftir áramótin 1836, hinn 13. janúar, varð Ólöf í Nesi léttari. Hún fæddi sveinbarn, og var það vatni ausið eftir tvo daga og nefnt Jón. En ævidagar þessa barns urðu ekki margir. – Sama ár, 1836, ritar séra Jón Vestmann í kirkjubókina eftirfarandi: „Dáinn 14. september Jón Bergsson, dóttursonur hreppstjóra Gísla Þorlákssonar í Nesi, 36 vikna, úr landfarsótt.“

Nesviti

Nesviti.

Nú liðu svo fjögur ár, að engar sögur fara af Ólöfu. Hún dvaldist heima í Nesi og giftist ekki og verður horfið frá henni um sinn. En af Bergi er það að segja, að hann fór víða vistum um skeið, uns hann árið 1843 fluttist að Hraukhlöðu í Stokkseyrarhreppi og bjó þar til 1851. Hann dó í Einkofa á Eyrarbakka 5. mars 1861, 63 ára gamall „úr uppstígandi fótaveiki“, eins og komist er að orði í kirkjubókinni. Sem áður getur, átti Bergur tvö börn með konu sinni. Þá átti hann óskilgetinn son með Ingibjörgu Jónsdóttur, vinnukonu á Langstöðum í Flóa, og hét hann Gunnlaugur. Hann komst til þroskaára, en varð lítill lánsmaður, þótti snemma brellinn og hvinnskur og varð uppvís að gripdeildum. Þegar hann var vinnumaður að Laugardælum í Flóa stal hann ásamt félaga sínum hestum o.fl; ætluðu báðir að flýja til fjalla og gerast útilegumenn. Voru gripnir og dæmdir til þrælkunar í Kaupmannahafnarfestingu. Þaðan kom Gunnlaugur ekki aftur, mun hafa dáið áður en refsitímanum var lokið.

Nú kemur nýr maður til sögunnar. Hann hét Guðbrandur Torfason, fæddur 11. ágúst 1804 að Klafastöðum í Skilmannahreppi í Borgarfirði. Þar bjuggu þá foreldrar hans, Torfi Sveinsson og Margrét Guðbrandsdóttir, og áttu þau fleiri börn. Árið 1816 eru þau hjón búandi að Dægru í Garðasókn á Akranesi. Það ár er Guðbrandur sonur þeirra fermdur, 14 ára gamall. Fær hann þá þann vitnisburð, að hann sé sæmilega að sér og hlýðinn. Þetta sama ár virðist hann flytjast úr foreldrahúsum og er síðan á annan áratug á ýmsum bæjum í Borgarfirði í vinnumennsku. Virðist heldur óstöðugur í vistum. Árið 1833 er hann sagður vinnumaður á Vatnshamri í Andakílshreppi. Þá lýsir Sigríður nokkur Jónsdóttir á Kollslæk hann föður að barni, sem hún ól og skírt var Guðmundur, og gekkst Guðbrandur við því. Næsta ár er hann kominn að Mávahlíð og þá fyrst talinn bóndi, ógiftur. Bústýra hans er þá talin Elín Sigurðardóttir, 25 ára gömul, er hjá þeim tveggja ára sonur Guðbrandar og dóttir, sem Elín átti, 7 ára gömul. Eigi mun búskapur þeirra Guðbrandar og Elínar hafa staðið nema um tvö ár. Þá flytja þau frá Mávahlíð og virðist samvistum þeirra þá lokið: börn munu þau eigi hafa átt saman.

Nes

Nesfjara.

Árið 1837 var Stóri-Núpur í Árnessýslu veittur Guðmundi presti Vigfússyni og fluttist hann þangað sama ár. Séra Guðmundur var fæddur að Gullberastöðum í Borgarfirði og var uppvaxtarár sín þar í héraði. Vel getur því verið, að þeir Guðbrandur Torfason hafi verið eitthvað kunnugir og fluttist hann nú með presti austur að Stóra-Núpi. En eigi dvaldist hann þar nema eitt ár. Þaðan fór hann austur að Þúfu í Landeyjum og virðist dveljast þar næstu tvö ár, en flytur þá suður í Útskálasókn. En um sömu mundir er hann kominn að Nesi í Selvogi. Þar mun hann hafa verið sjómaður vetrarvertíðina 1840 og þar verða kynni með þeim Ólöfu að Nesi og Guðbrandi. Um vorið, hinn 17. maí 1840, eru þau gefin saman í Strandarkirkju, að afstöðnum lýsingum af predikunarstóli, Guðbrandur Torfason, 36 ára, sjómaður í Nesi og Ólöf Gísladóttir, 26 ára á sama bæ. – Liðið höfðu um fjögur ár frá því að hún lenti í ævintýrunum með Bergi Guðmundssyni, þar til hún komst í höfn hjónabandsins.

Nes

Nes – legsteinn.

Þau Ólöf og Guðbrandur settust ekki að í Selvognum heldur fluttust þau sama vorið og þau giftust til Grindavíkur. Þar settust þau að í einu tómthúsbýlanna, er hét Vallarhús. Þau eignuðust tvö börn saman. Má nú fara fljótt yfir sögu. Þau Guðbrandur og Ólöf bjuggu saman til æviloka eða í næstum aldarfjórðung. Þau munu ávallt hafa hokrað í þurrabúðarkotum, lengstum í Garðinum og Vogunum, og að líkindum oftast við þröngan kost, eins og raunar allur þorri fólks við svipuð lífsskilyrði á 19. öld. Ólöf dó á Brekku í Kálfatjarnarsókn 10. júlí 1874, 61 árs, en Guðbrandur tæpu ári seinna, hinn 3. mars 1875 í Tumakoti, 70 ára gamall.

Aðalheimildamaður minn að þessum frásagnarþætti var Þórður hinn fróði á Tannastöðum. Hann festi sjálfur frásöguna aldrei á blað, svo að ég vissi, en ég hripaði hana eitt sinn á blöð eftir honum jafnóðum og hann sagði frá og hreinritaði að kveldi. Var það einkum um veru Bergs í Helli og í Þorlákshöfn og stefnumótið í Hleininni. Fæðingardagar, dánardagar og ártöl, sem viðkoma fólkinu í þættinum, eru að sjálfsögðu úr kirkjubókum og fleiri heimildarritum.

Heimild:
-Saga Þorlákshafnar.
-http://www.olfus.is/Default.aspx?ObjectId=1|2&id=221&p=1&idx=7

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Merkinesbrunnur

„Regnvatn er mér vitanlega ekki haft til matar eða drykkjar hér á landi, annarstaðar en í Vestmannaeyjum. Vatnið er látið renna af husþökunum (járnþökum) niður í vatnsheldar
steinhlaðnar graflr. Þetta er talið neyðarúrræði, því að hreint vatn kemur ekki af þakinu fyrr on rignt hefir góða stund, og hætt við að vatnið volgni og skemmist, ef það geymist lengi í hita. Ef vatnssía er höfð millum þakrennunnar og grafarinnar, verður vatnið auðvitað hreinna og betra.
Brunnur-4Ár og vötn eru ekki hentug vatnshól. Vatnið verður oft of volgt á sumrum, og ofkalt á vetrum. Í leysingum og úrkomutíð verður það óhreint (gruggugt, skolótt); loks er hætt við, að saurindi komist í það, ef mikil bygð er nærri. Skal jafnan gæta þess, að hafa ekki peningshús, hauga eða forir nærri bæjarlæknum, fyrir ofan þann stað, þar sem vatn er sótt í hann.
Jarðvatn er bezta neyzluvatnið; það er hreinast og jafnkaldast. Víða kemur það sjálfkrafa upp úr eða út úr jörðinni; það köllum vér uppsprettur eða lindir. Vatnið í þeim er álíka
kalt sumar og vetur, aldrei volgt á sumrum, aldrei ískalt á vetrum. Er hitinn í þessu vatni mjög líkur meðalárs-hitanum í héraðinu kring um uppsprettuna. Lindirnar frjósa þess vegna ekki á veturna og eru því oft kallaðar kaldavermsli. Lindirnar gruggast ekki í leysingum á vorin; þær eru jafn-hreinar allan ársins tíma. Lindir eru því miklu betri vatnsból en ár og lækir, og lindarvatn er bezta, hreinasta og ljúffengasta vatnið, sem hægt er að fá.
Brunnur-3Þar sem engar lindir eru, má engu að síður víðast hvar ná í jarðvatnið, ef jarðvegurinn er þannig gerður, að hægt er að vinna hann og vatnið ekki afar-djúpt í jörðunni; ekki þarf annað en gera gang beint niður í jarðveginn, þar til er kemur niður í jarðvatnið. Jarðvatnið safnast þá á gangbotninn. Slíka ganga köllum vér brunna. Þeir eru tvenns konar, leggbrunnar og strokkbrunnar. Það er strokkbrunnur, ef gangur er grafinn niður í jarðveginn, en leggbrunnur ef járnpípa er rekin niður í jörðina. Allir brunnar hér á landi eru strokkbrunnar, enginn leggbrunnur til, mér vitanlega. Strokkbrunnar eiga að vora hlaðnir innan úr grjóti, og er mjög aríðandi, að hleðslan sé vatnsheld, til þess að óhreina vatnið í efstu jarðlögunum (leysingarvatn, regnvatn) komist ekki inn í gegn um hleðsluna og niður í brunninn. Ef brunnurinn er mjög grunnur, 4 – 8 fet, og bygt ból í kring, þá er ávalt hætt við, að óhreinindi geti komist niður í jarðvegsvatnið kring um brunninn og runnið inn í hann undir hleðsluna. Ef kostur er á vatni djúpt í jörðu, 20—40 fet eða meira, og brunnurinn gerður svo djúpur, þá má treysta því, að vatnið sé hreint. Í hleðsluna er ýmist hafður grásteinn eða múrsteinn og bor jafnan að líma stein við stein með steinlími (cementi).
Hér í Reykjavik eru brunnarnir hlaðnir úr höggnum grásteini og steinarnir vel límdir saman. Gallinn er sá, að grásteinninn er ávalt gljúpur (holóttur) og þar að auk dýr, ef hann er vel höggvinn. Almennur múrsteinn er líka of holóttur, en þóttur (klinkbrændt) múrsteinn ágætur, og þó hingað fluttur vafalaust talsvert ódýrari en höggvinn grásteinn. Ef beðið er um þess konar múrsteina utanlands frá, þá skal taka fram að þeir eigi að vera í brunna, því að þá verða sendir steinar með sérstöku lagi, sem bezt á við hringhleðslu.
Brunnur-2Í kringum steinstrokkinn skal setja hátt og lágt góðan deigulmó eða annan seigan jarðleir og hafa leirlagið hálfa alin á þykt eða meir. Ef brunnurinn er grafinn í gegn um leirlag eða móhellulag í jarðveginum, þá skal vandlega fylla opið gegn um þetta lag utanvert við brunnhleðsluna með samskonar leir. Leirinn ver óhreinu vatni aðgang að brunnstrokknum að utan. Steinstrokkurinn á að ná 1/2-l fet upp yfir yfirborð jarðvegsins og svo um búið, að halli sé frá brunninum á allar hliðar, til þess að leysingavatn og regnvatn geti ekki runnið ofan í brunninn. Utan um barmana á steinstrokknum skal vera 4 feta breiður vatnsheldur kragi úr steinsteypu eða steinum límdura saman, fleginn niður á við og út á við. Þessi kragi ver því, að saurugt vatn (af fótum manna o.s.frv.) geti sigið beina leið niður með hleðslunni. Hér á landi er víðast siður að sækja vatn í brunna á þann hátt að sökkva fötu niður í brunninn og vega hana upp á handafli eða með vindu. Brunnurinn er þá opinn og engin trygging fyrir því, að óhreinindi geti ekki komist niður í hann. Brunnar eiga jafnan að vera lokaðir; skal hafa vatnsheldan hlemm yfir brunnopinu og vatnsdælu gegn um hann miðjan til þess að ná upp vatninu. Ef hlemmurinn fellur alveg loftþétt að brunnopinu (í frostum á veturna) og dælað er úr brunninum nokkuð að mun, þá hættir vatn að koma úr dælunni innan skamms af því að ekki kemst loft niður í hrunninn í stað vatnsins, sem tekið er. Þess vegna á að vera strompur gegnum hlemminn við hliðina á dælunni og burst yfir strompinum; þessi strompur er líka nauðsynlegur til þess að óhreint loft safnist ekki í brunninn.
Brunnur-1Leggbrunnar eru þannig gerðir, að járnleggir eru settir niður í jörðina, hver á fætur öðrum og vandlega skeyttir saman, nýjum bætt við, þá er sá næsti á undan er að mestu kominn í kaf. Neðsti liðurinn á þessum langa, samskeytta járnlegg á að hafa odd á endanum, ná niður í jarðvatnið og vera alsettur smágötum á hliðunum, til þess að vatnið komist inn í hann. Ef leggendinn stendur í vatnsæð eða vel votri jorð, sem er millum tveggja vatnsbotna, þannig að vatnshelt lag er í jörðunni bæði undir og ofan á, og sé vatnið komið úr halla ofan úr brekkum og runnið á ská niður inn á milli vatnsbotnanna, þá verður þrýstingin á því svo mikil, að það spýtist upp í gegn um legginn. Það er gosbrunnur (artesiskur brunnur), eins konar lind, gerð af manna höndum. Oft er þó þrýstingin svo lítil, að vatnið kemst ekki upp alla leið og verður þá að sjúga það úr leggnum með dælu. Þessir leggbrunnar bera langt af strokkbrunnum: 1. Engin hætta er á því, að óhreinindi komist inn í þá eða niður í þá. 2. Járnleggi má setja mörg hundruð fet í jörð niður, en stokkbrunna er naumast unt að gera 100 feta djúpa, því síður dýpri; þess vegna er víða hægt að ná í vatn með járnleggjum, þar sem ekki er gerlegt að komast að því með nokkra öðru móti. 3. Leggbrunnar eru miklu ódýrari en strokkbrunnar úr steini. Í góðum strokkbrunnum kostar hvert dýptar-fet 20 -30 kr., en í leggbrunni ekki nema 8—15 kr. Tvent er þó enn að athuga; leggbrunnarnir hafa þann eina ókost, að vatn getur ekki safnast í þá að neinum mun milli þess að í þá er sótt; og þess vegna koma þeir ekki að liði þar sem jarðvatnið er mjög dræmt. Þó er það sjaldnast að leggbrunsgorð strandi á vatnsskorti. Hitt er verra, að það getur verið ógerningur að koma leggjunum niður, ef jarðvegurinn er grýttur. Þó má telja víst, að víða hér á landi megi gera leggbrunna, ef réttir staðir eru valdir.“

Heimild:

-Eir, 1. árg. 1899, 9. tbl. bls. 133-137.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Hraunum.

Eldvörp

Vefurinn „VisitReykjanes“ gaf út „göngukort„; Reykjanes-HikingMap, sem leiðbeina átti áhugasömu fólki um útivist að dásemdum Reykjanesskagans. Kortið og upplýsingarnar eru sæmilegar til síns brúks:

1. Arnarsetur

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – hrauntjörn.

Fremur stutt gossprunga (2 km) með gjall- og klepragígum. Hraun frá henni (um 20 ferkm) er stórskorið og þar eru hraunhellar og ummerki um mannvistir. Eldgosið er úr seinni hluta rek- og goshrinunnar Reykjaneseldar á árabilinu 1210-1240.

2. Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Stór þyrping móbergsfjalla frá síðari hluta ísaldar. Efst er hraundyngjan Kistufell. Fjöllin eru skorin nokkrum gossprungum með nútíma gígaröðum en þó ekki yngri en landnám. Háhitasvæði er norðan í fjöllunum. Þar var numinn brennisteinn nálægt 1880.

3. Djúpavatn/Spákonuvatn/Arnarvatn

Djúpavatn

Djúpavatn.

Þrjú stöðvötn í móbergshryggjunum Vesturhálsi og Sveifluhálsi, að mestu með grunnvatni. Djúpavatn er við samnefnda ökuleið, að hluta eldgígur. Spákonuvatn við Sogin er sprengigígur, eins og Arnarvatn við göngustíg yfir Sveifluháls.

4. Eldborg við Höskuldarvelli

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Norðvestur af Höskuldarvöllum, sléttu graslendi við rætur Grænudyngju og Trölladyngju, rís stór gjall- og klepragígur, eldri en landnám. Gígurinn er skemmdur eftir efnisnám. Jarðhitagufur stíga upp við gíginn.

5. Eldborg við Geitahlíð

Eldborg

Eldborg undir Geitahlíð.

Forsöguleg gossprunga skerst inn móbergsstapann Geitafell með fimm gígum. Eldborg er þeirra langstærstur og brattastur, úr gjalli en einkum kleprum. Austur úr honum liggur myndarlegur hraunfarvegur, hrauntröð.

6. Eldvörp

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Um 10 km löng gígaröð í skástígum hlutum úr gos- og rekhrinunniReykjaneseldum 1210-1240, ásamt um 20 ferkm hrauni. Jarðhiti er á yfirborði við miðbik raðarinnar og ein rannsóknarborhola. Mannvistarleifar eru hér og var við Eldvörp.

7. Grænadyngja/Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Brött móbergsfjöll vestan við Sog. Ungar gossprungur umlykja þau og háhitasvæði eru þar nálæg. Apalhraun runnu frá gosstöðvum suður til sjávar við Reykjanesbraut, t.d. Afstapahraun.

8. Hafnarberg

Hafnarberg

Hafnarberg.

Há og löng sjávarbjörg, að mestu úr hraunlögum, sunnan við gömlu verstöðina Hafnir. Nokkrar tegundir sjávarfugla verpa í þverhnípinu. Merkt og vinsæl gönguleið liggur þangað frá vegi að Reykjanesi.

9. Háleyjarbunga

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Lítil og flöt hraundyngja með stórum toppgíg, 20-25 m djúpum, eftir flæðigos. Hún er 9.000 ára gömul eða eldri, og úr frumstæðri basalttegund úr möttli sem nefnist pikrít. Grænir ólivínkristallar eru áberandi.

10. Hrafnagjá

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Siggengi á togsprungu, 12 km langt og allt að 30 m hátt. Það er lengsta brotalínan af þeirri gerð á Reykjanesskaga og sést af Reykjanesbraut. Gjáin er hluti dæmigerðs sigdals skammt frá Vogum.

11. Hrólfsvík

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Lítil vík, þekkt sem fundarstaður hraunmola með hnyðlingum, þ.e. grófgerðum djúpbergsmolum úr gabbróinnskoti. Hraunið er af óvissum aldri og uppruna.

12. Hrútagjáardyngja

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Hraundyngja, 6.000-6.500 ára, ásamt 80- 100 ferkm hrauni; alls rúmir 3 rúmkílómetrar. Hún er með stórum toppgíg og skorin djúpum gjám sem kunna að vera merki um ris vegna kvikuinnskota.

13. Hvassahraunskatlar

Hvassahrauns

Hvassahraunskatlar.

Hraundrýli í hrauni úr Hrútagjárdyngju. Þau myndast jafnan við öflugt gasútstreymi nálægt eldgíg en í þessu tilviki um 10 km frá dyngjuhvirflinum.

14. Katlahraun

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Hraun sem rann í sjó fram fyrir um 2.000 árum, hlóðst upp við ströndina vegna fyrirstöðu. Stór, hringlaga hrauntjörn myndaðist en tæmdist eftir að hlutar hennar höfðu storknað. Eftir standa margvíslegar hraunmyndanir.

15. Kerlingarbás

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás.

Leifar þriggja stórra gjóskugíga, 800 til 2.000 ára gamalla. Ofan á þeim liggja hraunlög, það efsta úr Yngri Stampagígum, úr Reykjaneseldum, eins og tvö yngstu gjóskulögin. Berggangar skera gjóskuna.

16. Lambafellsgjá

Lambafellsgjá

Í Lambafellsgjá.

Lambafell myndaðist sennilega á næst síðasta jökulskeiði. Toghreyfingar vegna plötuskriðs hafa klofið fellið. Í norðri opnast 150 m löng og 50 m djúp gjá en aðeins 3-6 m breið, með veggjum úr bólstrabergi. Gjáin er vel fær.

17. Méltunnuklif

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Lágt klettabelti með ólíkum jarðlögum, móbergi (palagónít túffi), gamalli jökulurð, millilögum, hraunlögum og einum roffleti; samtals ágætt yfirlit yfir helstu þætti í myndunarsögu Reykjanesskagans.

18. Rosmhvalanes

Rosmhvalanes

Á Rosmhvalanesi.

Stórt flatlendi með elstu jarðlögum Reykjanesskagans. Yfirborðslögin eru úr dyngjuhraunum, mjög jökulsorfnum. Myndunartíminn er talin vera tvö síðustu hlýskeið ísaldar sem gengu yfir fyrir 120.000 (Eem) til 240.000 árum (Saale).

19. Sandfellshæð

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Ein stærsta hraundyngja Reykjanesskagans. Hraunbreiðan úr henni nær vel yfir 100 ferkm. Toppgígurinn er stór en grunnur. Eldstöðin er um 14.000 ára en þá stóð sjór 30 m lægra en nú.

20. Skálafell

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.


Samsett eldstöð sem hlóðst upp fyrir 3.000 til 8.000 árum í fáeinum eldgosum. Efst er reglulegur gjall- og klepragígur. Misgegngi í grendinni mynda austurjaðar Reykjaneseldstöðvakerfisins og gos- og rekbeltisins á Suðvesturlandi.

21. Sog

Sog

Í Sogum.

Fáein vatnssorfin gil og lágir hryggir suðvestan við Trölladyngju mynda sundursoðið, myndbreytt og litríkt svæði eftir virka háhitahveri. Þar er töluvert um gufuaugu, vatnshveri og leirhveri.

22. Stampar

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

Tvær samsíða gossprungur með fjölda gjall- og klepragíga á Reykjanesi, nálægt Reykjanesvirkjun. Eldri gígarnir og hraun eru 1.800 til 2.000 ára en hinir urðu til í Reykjaneseldum, langri gos- og rekhrinu 1210-1240, ásamt 4,6 ferkm hrauni.

23. Sundhnúkaröð

Sundhnúkar

Sundhnúkar.

Gígaröð sem reis á gossprungu fyrir um 2.300 árum. Hraun frá henni rann til sjávar, m.a. þar sem nú er Grindavík. Þar voru ágætar bátalendingar í lóni sem smám saman þróaðist til góðrar hafnar og þéttbýlisins.

24. Sveifluháls

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Einn af lengstu og stærstu móberghryggjum jarðvangsins. Hann geymir góðan þverskurð af ásýndum móbergsmyndunar; lagskipt móberg (túff), þursaberg (breksju) og bólstraberg. Allt ber þetta vitni um átök kviku, jökulíss og vatns.

25. Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – gígurinn.

Stór og flöt hraundyngja, vel sjáanleg af Reykjanesbraut. Hún liggur langan veg yfir helluhraun hennar. Það er yfir 130 ferkm að flatarmáli og rúmmál gosmyndunarinnar a.m.k. 5,2 rúmkm. Dyngjan er talin um 14.000 ára gömul.

26. Ögmundarhraun

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – dys Ögmundar.

Stór hraunbreiða frá 1151. Hún er syðsti hluti nokkru yngri hrauna úr rek- og goshrinunni Krýsuvíkureldum (1151-1180). Gossprungan nær sundurslitin um 25 km til norðausturs. Ögmundur var sagður berserkur sem lagði veg um hraunið.

27. Brimketill

Brimketill

Brimketill – Oddnýjarlaug.

Lítil náttúrulaug í rofdæld með sjó, án jarðhitavirkni, við ströndina vestan við Grindavík. Þarna á skessan Oddný að hafa setið á góðum stundum.

28. Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa.

Táknræn göngubrú liggur yfir togsprungu sem rekja má til gliðnunar jarðskorpu vegna plötu-(fleka-)reks um Mið-Atlantshafshrygginn. Meðalrekhraðinn er um 2 cm/ár en hreyfingarnar verða í hrinum með mislöngu bili.

29. Eldey

Eldey

Eldey.

Eldey reis úr sjó í gjóskugosi og er gerð úr lagskiptu móbergi, 77 m há, um 15 km frá landi úti á Reykjaneshrygg sem er hluti Mið-Atlanshafshryggjarins. Aldur hennar er óþekktur. Um 18.000 súlupör halda sig á 0,3 ferkm flötu landi.

30. Gunnuhver

Gunnuhver

Gunnuhver.

Þyrping ólgandi leir- og gufuhvera á Reykjanesi. Þeir breytast með tíma. Þyrpingin varð til að nokkru eftir jarðskjálftahrinu 1967. Heitið vitnar um sögu af illræmdum draug, Gunnu, sem sökkt var með blekkingum ofan í hver.

31. Festarfjall/Hraunsvík

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Móbergsfjall eftir eldgos undir jökli, sennilega á síðasta jökulskeiði ísaldar. Sjávararof hefur afhjúpar háan þverskurð af móbergi, brotabergi og bóstrabergi ásamt aðfærslugangi kviku. Hann er sagður vera silfurfesti tröllskessu.

32. Hópsnes

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Lítið nes við Grindavíkurbæ, myndað við hraunrennsli frá gígaröð kenndri við Sundhnúk. Hraunið á hlut í góðum hafnarskilyrðum við bæinn.

33. Húshólmi

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Óbrinnishólmi (kipuka), land sem Ögundarhraun náði ekki af kaffæra árið 1151. Þar getur að líta rústir býlis og kirkju, auk hlaðinna veggja. Hluti húsanna og mest allt ræktarland hvarf í hraunið.

34. Keilir/Keilisbörn

Keilir

Keilir.

Keilulaga móbergsfjall tengt við lágan hrygg, Keilisbörn. Gosmyndunin kom undan ísaldarjökli á sínum tíma. Keilir er einkennisfjall Reykjanesskagans, vegna lögunar, og það er gamalt mið af sjó.

35. Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Stærsta stöðuvatn Reykjanesskagans, 9,1 ferkm og 97 m djúpt. Það fyllir í dæld milli Brennisteinsfjalla og móbergshryggjarins Sveifluhálss. Smálækir renna í það en aðeins grunnvatn úr því. Sagt er að þar búi svartur
risaormur.

36. Mannvistarleifar við Eldvörp

Eldvörp

Eldvörp – byrgi.

Ýmsar mannvistarleifar er af finna í Eldvarpahrauni; þrjá þjóðstíga milli byggða og þyrpingu kofa úr hraungrýti. Óvíst er um tilgang þeirra en varla unnt að samþykkja sögusagnir um útilegumenn.

37. Ósar

Ósar

Ósar.

Vogur með mörgum skerjum og hólmum við Hafnir. Í þorpinu er uppgrafnar rústir af norrænni eða keltnskri útstöð. Ósar eru verndarsvæði vegna fuglalífs og áhugaverðs sjávarvistkerfis.

38. Pattersonflugvöllur

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Undir gömlum flugvelli er að finna þjappað sjávarset með lítið steingerðum skeljum. Algengasta tegundin er sandmiga (smyslingur), 20.000 –
22.000 ára gamlar leifar vistkerfis frá því skömmu fyrir hámark síðasta jökulskeiðs.

39. Selatangar

Selatangar

Selatangar – sjóbúðir.

Lágir hrauntangar með rústum af verbúðum, að mestu úr hraungrýti. Auk þeirra eru þar fiskibyrgi, bæði til að þurrka fisk og geyma. Verstöðin var notuð frá því á miðöldum allt til 1884.

40. Snorrastaðatjarnir/Háibjalli

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Háibjalli er 10 m hátt siggengi næst Snorrastaðatjörnum. Þarna er gróskumikið og vinsælt útvistarsvæði, og farfuglar hvílast þar á leið sinni.

41. Sogasel

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Rústir af seli (sumarkofa þar sem fólk hafi auga með sauðfé á beit); skammt frá Grænudyngju og Sogum. Selið er sérstætt vegna þess að það var byggt inni í stórum gjallgíg.

42. Svartsengi

Svartsengi

Háhitasvæðið í Svartsengi.

Eitt af helstu háhitasvæðum á Reykjanesskaga. Þar er framleitt rafafl á landsnetið og heitt vatn til byggða á skaganum. Afrennsli frá virkjuninni er notað í Bláa lónið en auðlindagarðurinn er fyrirtaks dæmi um heildræna nýtingu jarðvarma.

43. Valahnúkar/Valabjargargjá/Valahnúksmöl

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Hér mætast þurrlendið og Mið-Atlantshafshryggurinn. Valahnúkur er rofið móbergsfell með bólstrabergi og þursabergi. Valabjargargjá er stórt siggengi og Valahnúksmöl, úr hnullungum, girðir fyrir lítinn sigdal austan við Valahnúk.

44. Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Stakt móbergsfjall norður af Grindavík. Misgengi þvera það og mynda grunnan sigdal. Hluti hans kallast Þjófagjá eftir 15 misyndismönnum sem þar eiga að hafa dvalist.

45. Básendar

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Gríðarmikil fárvirðri, við háflóð, olli versta sjávarflóði í manna minnum á Suðvesturlandi árið 1799. Heitið, Básendaflóð, er komið af lítilli verslunar- og verstöð. Þar breyttist ströndin til mikilla muna og byggðin eyddist að
mestu.

46. Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Stór steinn við þjóðleiðina milli Krýsuvíkur og Grindavíkur. Í honum eru þrjár holur. Sagnir herma að ein sé fyrir hunda, önnur fyrir menn og sú þriðja handa hestum. Ferðalangar áttu að geta treyst á að komast þarna í drykkjarvatn.

47. Garðskagaviti

Garðskagaviti

Garðskagaviti.

Eldri vitinn er reistur 1897 en hinn var byggður 1944. Áður hafði stóra varða verið hlaðin á skagatánni og 1884 var sett í hana ljósker. Svæðið er mikilvægt fyrir farfugla.

48. Gálgaklettar

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Efst á Þorbjarnarfelli við Grindavík eru háir móbergsklettar með þessu heiti. Þjóðsaga hermir að þar hafi staðbundnir þjófar verið teknir af lífi.

49. Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Vel viðhaldin kirkja og kirkjugarður frá árinu 1887. Kirkjan er byggð úr tilhögnu grágrýtishrauni (basalti) sem fengið var í nágrenninu. Hluti innviða
eru úr rekatimbri. Systurkirjkuna er að finna í Njarðvík.

50. Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Vitinn er elsti viti í fullri notkun á landinu, frá 1908. Lengst af var þar vitavörður og bóndi að störfum og má sjá ummerki eftir búskap víða í nágrenninu. Nú er vitanum að mestu fjarstýrt.

51. Skagagarðurinn

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Leifar af mjög löngum og háum garði síðan á fyrri hluta Þjóðveldisaldar (870-1000). Hann var byggður úr tofi og grjóti til að aðskilja húsdýr, tún og akra. Garðurinn er mjög siginn og hefur víða horfið með öllu.

52. Staðarborg

Staðarborg

Staðarborg.

Hringlaga fjárgeymsla en án þaks. Hún er rúmlega 2 m há, 8 m í þvermál og 35 m að ummáli og vandlega hlaðin úr flötu hraungrýti. Aldurinn er óþekktur en talinn í nokkrum öldum.

53. Vigdísarvellir

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Víðir, flatir grasvellir við rætur móbergshryggja. Þar sjást rústir tveggja smábýla sem minna á forna búskaparhætti á hálendi. Yngri bærinn var yfirgefinn eftir harða jarðskjálfta 1905.

54. Vogur í Höfnum

Hafnir

Skálinn í Höfnum.

Rústir elstu byggðar á Reykjanesskaga. Aldursgreind til 9. aldar. Þarna eru hefðbundinn skáli og smáhýsi. Ef til vill er um að ræða útstöð landkönnuða, svipaða byggingum norrænna manna á Nýfundnalandi.

55. Þórshöfn

Þórshöfn

Áletrun á klöpp við Þórshöfn.

Einn helsti 15. og 16. aldar verslunarstaður Þjóðverja á Íslandi. Á 18. öld tóku skip að nýta höfnina að nýju, en smám saman varð þar fáfarnara eftir því sem höfnin í Sandgerði batnaði.

Heimild:
-https://www.visitreykjanes.is/static/files/pdf/Reykjanes_HikingMap.pdf

Göngukort

Göngukortið.

Frá fyrstu tíð voru vegir á Íslandi fyrir fótgangandi.
Á 19. öld var farið að huga að vegabótum. VagnvegurEftirfarandi um vegabætur má lesa í Ísafold árið 1884: „En um vegabæturnar sjálfar er það að segja, að einsætt er að snúa sem skjótast við blaðinu og hætta að leggja fjárgötur og hrossatroðninga, en hafa það reglulega vagnvegi, það lítið sem gert er af nýjum vegum, og þá auðvitað helzt í byggð, þar sem þjettbýlast er. Láta sjer að öðru leyti nægja að ryðja hina gömlu vegi svo, að þeir sjeu ekki alveg ófærir, eða viðlíka færir og þeir hafa lengst af verið. Þetta mun þykja mikið í munni. En hvaða forsjálni eða framsýni er það, að vita fyrir víst, að hjer hljóta að komast á vagnvegir með tímanum, ef landið leggst ekki í eyði von bráðar, og halda samt áfram að eyða stórfje í vegagjörðir, sem þá eru ónýtar? Eða hafa menn hins vegar gjört sjer glögga grein fyrir, hve ómetanleg hlunnindi er að vagnvegum?“

Heimild:
-Ísafold, 19. nóv. 1884, bls. 181.

Konungsvegurinn

Friðrik VIII og Hannes Hafstein á Kambabrún.

Hóp

Í 85. kafla Landnámu segir:
„Maður hét Hrólfur höggvandi; hann bjó á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Hans synir voru þeir Vémundur og Molda-Gnúpur; þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir. Vémundur kvað þetta, er hann var í smiðju:
Ek bar einn af ellifu bana orð. Blástu meir!
Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á.

Hof í GrindavíkMolda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar.

En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.

Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðigur; síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sá ófreskir menn, að landvættir allar fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.

hop-234Hafur-Björn átti (Jórunni, stjúpdóttur Gnúps bróður síns). Þeirra son var Svertingur, er átti Húngerði, dóttur Þórodds Tungu-Oddssonar og Jófríðar Gunnarsdóttur, þeirra dóttir Þorbjörg móðir Sveinbjarnar, föður Bótólfs, föður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona. Gnúpur Molda-Gnúpsson átti Arnbjörgu Ráðormsdóttur, sem fyrr er ritað. Iðunn var dóttir Molda-Gnúps, er átti Þjóstar á Álftanesi. Þormóður var son þeirra.“ Iðunn var og dóttir Molda-Gnúps, er átti Þjóstar á Álftanesi. Þormóður var son þeirra.

Í Rekaskrá Skálholtsstaðar um 1270 segir m.a.: „Item þessi rekamörk eru hallden j Grindavik: J millum valagnüpa og Rangagiógurs ad huar sem hualur kiemur j Grindabijk j greindu takmarke skal skiptast j fiðra fiordunga. Skal eirn fiordung hafa Þorkotlustadir. annann stadarstadr. vr jarngerdarstada hlut. hinn fiorda hlut sjal hafa hraun og hof. skal hraun hafa tuo hlute. en hof þridiung. Item a klaustrid i videy. hemlming huers af hrauns hlut.“

Heimild:
-Landnámabók, 85. kafli
-Íslenskt fornbréfasafn fyrir 1270,
Hið íslenzka bókmenntafjelag, 1857, bls. 75-76.

Hóp

Hóp – gamli bærinn.

 

Urriðakotsstígur

Þegar gengið var um Hafnarfjarðarhraun (Flatahraun – Garðahraun) milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar (Hagavíkurlækjar) mátti sjá gamla götu liggja frá Hagavíkurvaðinu skáhallt upp á og inn á hraunið til suðurs.
Urridakotsstigur-2Á hrauninu ofan við vaðið er tvíhólfa hleðsla á grónum hólkolli og svo virðist sem jarðlægar af stærri tóft sé þar skammt neðar (vestar). Þessar hleðslur eru greinilega gamlar, en gætu hafa verið gerðar úr stórri vörðu á hraunbrúninni því þar er upphaf Urriðakotsstígs, öðru nafni Hagakotsstígur, er lá frá Hofstöðum 
um Hagakot að Urriðakoti. Niðurstöður nýjustu uppgrafta að Urriðakoti bendir til forna selstöðva, jafnvel allt frá því skömmu eftir landnám og fram yfir miðaldir; í fyrstu kúasel og síðan væntanlega fjársel.
Þegar gatan var gengin áleiðis að Urriðakoti kom í ljós að um kjörinn kúastíg var um að ræða; nánast sléttlendi að fara um að því er virðist torfarið hraun. Stígurinn hefur verið ruddur á köflum og sjást glögg ummerki þess. Vörður hafa verið á hraunklettum á a.m.k. tveimur stöðum, en nú eru á þeim einungis steinn við stein, en undir klettunum má sla leifar þeirra.
Urridakotsstigur-3Fljótlega eftir að komið er upp á hraunbrúnina að norðanverðu mátti sjá beinlínulaga grjóthleðslu undir liðna girðingu. Grjót hefur verð tekið úr hleðslunni á kafla og hlaðið úr því lítill skjólveggur. Skammt sunnar, austan stígsins, má sjá veglega, en tiltölulega nýlegt, hlaðið skjól. Þarna gæti fyrrum hafa verið skjól fyrir vegavinnumenn er unnu að gerð járnbrautavegarins
, sem fer þvert yfir Urriðakotsstíginn til austurs og vesturs að Miðaftanshól og áfram áleiðis niður að Einarssreit á Flötunum ofan Hafnarfjarðar.Stígurinn liggur að áberandi og formfögrum klapparhól í hrauninu skammt norðan Reykjanesbrautar. Kollur hans er líkur vörðu, en er af náttúrulegum völdum. Í næsta áberandi hraunhól skammt norðaustar eru hleðsluleifar, að því er virðist af skjóli.
Urridakotsstigur-4Stígurinn liggur vestan við fyrrnefnda hólinn og áfram til suðurs, áleiðis að vörðu sunnan Reykjanesbrautar. Á þeim kafla og þar fyrir sunnan hefur landinu verið raskað varanlega og því engin ummerki eftir stíginn eftirleiðis allt að Urriðakotstóftunum.
Urriðakots- / Hagakotsstígsins er getið í örnefnalýsingum fyrir Urriðakot, sbr. lýsingu Gísla Sigurðssonar: „Úr Hraunkrikanum lá Urriðakotsstígur (99) eða Hagakotsstígur (100). Úr Kaffigjótu lá Kirkjustígurinn (102) eða Stórakróksstígur (103) yfir í Stórakrók og þaðan yfir hraunið á Garðaholt heim að kirkju.“
Einnig má sjá hennar getið í örnefnalýsingu Svans Pálssonar, sbr.: „Á móts við Brekkutögl liggur stígur út í hraunið, sem nefndur var Hagakotsstígur (71). Um hann var farið milli Urriðakots og Hagakots, en Hagakot var skammt norðan við Vífilsstaðalæk, en suður af Hofsstöðum.“
Þegar Urriðakotsstígurinn var genginn var ljóst, þrátt fyrir að því er virtist úfið hraun, að þarna var um greiðfæru að ræða og í rauninni ákjósanlegustu leiðina á milli þessarra tveggja staða, þ.e. fyrrum höfuðbólsins og selstöðunnar forðum.

Heimild:
-Örnefnalýsing, Urriðakot, Gísli Sigurðsson.
-Örnefnalýsing, Urriðakot, Svanur Pálsson.

Hagakotsstígur

Hagakotsstígur.

Stapinn
Lengi hefur verið deilt um landamerki Innri-Njarðvíkur og Voga (Vatnsleysustrandarhrepps) – og ekki að ástæðulausu.

Innri-Skora á Stapanum

Í þinglýstu landamerkjabréfi Innra-Njarðvíkurhverfis og Voga, I-226-27, dags. 25/6 1889, þinglýst 16/6
1890, segir m.a.: „…“Úr miðri innri Skoru á Stapa, beina línu í Arnarklett svokallaðann, sem stendur í hrauninu fyrir ofan Vatnsgjár,…“ Í öðru landamerkjabréfi Stóru- og Minni-Voga, I-219-20, dags.23/5 1890, þinglýst 16/6 1890, sem og H-56 og Imb.37-41, segir: „…“Vestan og sunnan frá herjanssæti (Kerjansfæti sbr.H-56 eða Kerjanssæti??), eða úr uppgöngunum úr Kolbeinsskoru, þaðan sjónhending í Arnarklett, þaðan í klett er stendur norðan vert við Litlaskógfell“…“ Í þinglýstri lýsingu Jóns Daníelssonar, eiganda Stóru-Voga, Stóru- og Minni-Vogar, H-56, dags.20/8 1840, þinglýst 14/6 1887, segir: „…Vestan og sunnan: Frá Kerjansfæti, eður úr upp—Kolskoru, suður til Mörguvarða á gamla Stapavegi, þaðan sjónhending í Arnarklett, þaðan—nyrðri—á Litla-Skógfelli…“
Í landamerkjabréfunum er hvergi talað um Kolbeinsvörðu, sú varða er engu að síður til. Brúnavarðan (sumir vilja meina að það sé Kolbeinsvarða) rétt ofan við gamla Keflavíkurveginn þar sem hann liggur við Innriskoru er mið af sjó, eins og Magnús í Halakoti hefur staðfest. Þegar varðan ber í Stapafell er komið út fyrir brún, (hraunbrún) nánar tiltekið út í leirinn þar sem varla bregst ýsudráttur. „Það hef ég margreint og gefist vel“.
Innriskora, Grynnriskora, Kolbeinsskora, Kolskora eru reyndar fjögur heiti á sama stað. Þótt sjónhending hafi jafnan verið tekin sem sjónlína millum tveggja staða, hefur í seinni tíð, segja lögfróðir, að skilgreina megi sem beina línu þó ekki sjáist á milli.
Fótur "Kolbeinsvörðu" á Njarðvíkurheiði Það sem Jón Daníelsson skrifaði árið 1840 og lætur þinglýsa 1887 gæti vel rímað við þá kenningu að merkjalínan hefur legið úr Innri-Skoru (Grynnriskoru) í Kolbeinsvörðu og úr henni í Arnarklett. Þar lá línan nefnilega um Mörguvörður, sem nú hafa verið fjarlægðar líkt og svo til allar vörður í heiðinni, sem til voru fyrir um 1940. Ein af þeim var Kolbeinsvarðan.
Þær vörður, sem nú hafa verið nefndar „Mörguvörður“ eru nokkrar litlar á sléttu klapparholti, nokkru vestar.
Vörðufótur „Kolbeinsvörðu“ sést hins vegar enn. Gróið er um hann. Frá henni er sjónhending að Arnarkletti. Sjóhending er og hlýtur að hafa verið sjónlína – hvað sem svo sem hinir nýtilkomnu dómarar Hæstaréttar segja. Ef menn hafa viljað hafa það línu, á sjónhendingar, hefðu þeir einfaldlega skrifað „í línu“ eða´“beina línu“. Kolbeinsvarðan er ofan við Kolbeinsskor í Innri-Skoru (Grynnriskoru). Önnur varða sem hefði verið beint ofan við brúnina gæti aldrei haft sjónhendingu í Arnarklett. Þar hlýtur að hafa þurft a.m.k. eina vörðu á millum til – þ.e. vörðu þá er Ólafur frá Knarrarnesi tilgreinir. Hann sagði að sú varða hefði staðið þarna í heiðinni, há og mikil, uns bryggjugerðarmenn í Vogum komu á vörubíl, sóttu hana og sturtuðu í bryggjugarðinn. Skv. því ætti Vogalandið að ná allnokkuð vestar en nú er. Telja má að þetta landssvæði hafi ekki verið hátt metið fyrrum, hvorki af Njarðvíkingum né Vogamönnum og því hafi menn verið svolítið kærulausir um mörkin, jafnvel svo kærulausir að þeir fjarlægðu eina merkið, sem þar var.

Fótur "Kolbeinsvörðu" á Njarðvíkurheiði

Nú mætti halda að „Kolbeinsvarðan“ hafi fyrst verið dregin inn á þessa línu þegar Gísli Sigurðsson skráði örnefnaskrá um Voga. Ekki er minnst á Kolbeinsvörðu í framangreindum þremur landamerkjabréfum frá 19. öld. Gísli tilgreinir fremst í örnefnaskránni tvö þessara bréfa og fer rétt með, að því er virðist, nema hvað hann breytir skoru í skor í báðum bréfunum. Síðar í sömu skrá, þegar hann hefur upptalingu örnefnanna og byrjar við Njarðvík, þá dregur Kolbeinsvörðuna þar inní, og segir svo: „Suður eftir Stapanum liggja landamerki milli Stóru-Voga og Innri-Njarðvíkur frá svonefndu Herjanssæti í Kolbeinsskor eða Kolaskor. Skora þessi er einnig nefnd Innriskor eða Grynnriskor. Héðan liggur línan í Kolbeinsvörðu og þaðan yfir Stapaveginn, Gamla- í vörður nokkrar þar suður af er nefnast Mörguvörður, aðeins sunnar er svo þjóðvegurinn.
Héðan liggur línan suður á Bjalla. Austur og upp af Kolbeinsskor eru Þrívörður og þar hærra vörður sem nefnast Strákar.“
Þjóðvegurinn sem Gísli nefnir svo hlýtur að vera gamli Keflavíkurvegurinn (skrifað á þeim tíma). En hvar var sá „gamli Stapavegur“ sem Jón Daníelsson talar um 1840? Ekki Keflavíkurvegurinn sem lagður var 1912. Varla heldur Stapagatan eða Almenningsvegurinn sem þá hlýtur að hafa verið aðalleiðin og því varla kölluð „gamli“ Stapavegur, eða hvað?
Getur verið að eldri gata hafi legið sunnar, jafnvel á líkum slóðum og Reykjanesbrautin er nú? Þá gæti fyrr kenning um Kolbeinsvörðuna (mörkin) átt við rök að styðjast.
Magnús Ágústsson segist hafa róið undir Stapann í 20 ár á sínum yngir árum. Hann talaði um um Dýpri- og Grynnri-skoru. Kannaðist líka við Ytri- og Innri, en ekki við skor. „Við töluðum alltaf um skoru“, sagði hann. Gísli Sigurðsson talar ávallt um skor, minnist aldrei á skoru. Í annarri örnefnaskrá um Voga, sem Ari Gíslason skráði eftir Árna Klemens Hallgrímssyni, Ólafi Péturssyni, Knarrarnesi, „einhverjum í Grænuborg“ og Þorsteini Bjarnasyni, er talað um Innriskoru, öðru nafni Kolbeinsskoru“, ekki minnst á skor. Annars skiptir ekki höfuðmáli hvort og hver eða hvort talað um „skoru“ eða „skor“.
Magnús talaði mikið um Brúnavörðu sem mið en minntist ekki á Kolbeinsvörðu. Brúnavarða finnst í hvorugri örnefnaskránni, aðeins Brúnir.

Vogastapi ofanverður - Vogar fjær

Fyrst svolítið um Gísla. Hann setti óhemjumikið af upplýsingum á blað. Stundum hefur mátt heyra af „fótafúnu“ fólki að sumt af því hafi nú ekki verið alveg rétt. Reynsla þeirra, sem fylgt hafa skrifum Gísla, er hins vegar sú, eftir að hafa kannað og rakið það sem ekki á að hafa verið rétt, hefur reynst vera rétt. Málið er að það kannast ekki allir við öll örnefnanöfnin. Sumir þekkja þau undir öðrum nöfnum en aðrir, auk þess sem þau hafa tilhneigingu bæði til að breytast og færast til með tímanum. Þá breytast hljómyndanir og þar með nöfnin, sbr. hörsl og vik. Þá gátu jafnvel heilu fjöllin verið nefnd sitt hvoru nafninu, eftir því hvoru megin við það var spurt, sbr. fjöllin í Kjós. Þá er reynsla okkar, sem höfum gengið mikið um þetta svæði, að þótt reynt sé að ganga vandlega eftir lýsingum getur reynst mjög erfitt að staðsetja örnefnin, þótt ekki sé fyrir annað en að áttir fólks var misvísandi,“norður“ gat verið austur eða einfaldlega útnorður, „spölkorn“ gat verið langur gangur, „handan“ gat verið hvar sem var o.s.frv. Á Rosmhvalanesinu notuðu menn gjarnan Inn/Innri (suður) og Út/Ytri (norður).
Gísli vísaði gjarnan í heimildarmenn sína og gæti það gefið svar við misvísun á örnefnaheitum. Ýmislegt þurfti hann þó að leggja á minnið og skrá síðar, sbr. frásagnir starfsfélaga hans frá þessum tíma (sem FERLIR hefur haldið til haga). Eitt skemmtilegt nýlegt dæmi um ágreining um örnefnaheiti er vitinn á Þórkötlustaðanesi (sem þó er ekki örnefni). Þórkötlustaðabúar hafa aldrei nefnt vitann annað, enda á þeirra nesi. Landamerkin er í Markastein u.þ.b. 60 metrum vestar. Hópsmenn hafa löngum viljað teygja sig lengra inn á Nesið vegna reka og því ávallt kallað vitann „Hópsnesvita“, þrátt fyrir að hann sé alls ekki á Hópsnesi. Það nafn hefur þó ratað inn í gögn opinberra aðila, s.s. Vitamálastofunar. Svona getur þetta verið – ástæður nafngifta geta orðið af margvíslegum toga. Er núna að gera örnefnakort af Staðarhverfi í Grindavík. Þar er hóll, sem hefur heitið Holuhóll. Móakotsfólkið kallaði hann hins vegar Móakotshól.
Jæja – aftur að merkjunum. Stapagatan hefur varla verið kölluð Gamli-Keflavíkurvegur. „Gamli Stapavegur“, sem Jón Daníelsson talar um 1840, hefur að öllum líkindum verið Stapagatan. Grunur er um að vegarkafli (vagnvegur), sem enn sést hluti af austan við „Kolbeinsvörðu“, séu leifar af fyrsta akveginum, eða akslóðanum. Þegar bíllinn kom til landsins voru ekki til neinir vegir, einungis gamlar leiðir fyrir fólk og búfénað. Segja má að bíllinn hafi búið til fyrstu vegina, þ.e. ökumennirnir. Þeir fóru þá um svæði, sem líklegt væri að þeir kæmust áfram og greiðfærast var. Velta hefur um grjóti, en þeir hafa forðast miklar brekkur og líka gamlar djúpar götur. Ekki er ólíklegt að fyrsti slóðinn til Keflavíkur hafi myndast á þessum slóðum. Vegurinn 1912 hefur síðan tekið mið af nauðsynlegum breytingum og þörf á varanlegri gatnagerð.
Útsýni af Stapanum til VogaBrúnavarðan er, kv. ábendingu Magnúsar, varðan ofan við Innri-Skoru, rétt sunnan við Gamla-Keflavíkurveginn. Það að hún er ekki inni í örnefnalýsingu fyrir Innri-Njarðvík gæti bent til þess að hún hafi orðið til eftir gerð hennar, jafnvel sem mið, eins og Magnús lýsir. Vitað er þó að varðan hefur verið til a.m.k. frá því um 1940. Þá gæti hún hafa verið fjarlægð, en vegna mikilvægi hennar sem mið hafi hún verið endurhlaðin, eða einfaldlega hlíft af sömu ástæðu. Varðan er áberandi kennileiti frá sjó. Þar, eða skammt frá, gæti þess vegna hafa verið önnur varða fyrir, en verið fjarlægð. Mörg vörðubrot eru á Stapanum, en allflest eftir minni vörður.
Ekki er með öllu útilokað að „Kolbeinsvarðan“ gæti hafa verið varðan, sem Ólafur í Knarrarnesi sagði að hefði verið markavarða, „stór og mikil“ áður en hún var fjarlægð, allt nema neðsta lagið. Af ummerkjum þar virðist þessi varða ekki hafa verið í neinu samhengi við vörðuröð í heiðinni. Aftur á móti gæti hún líka hafa verið ónafngreindur „hornsteinn“ á mörkunum, því jafnan á að hafa verið „sjónhending“ milli merkja. Frá henni gæti hafa sést í næsta merki að austanverðu, Arnarklett, en það er ómögulegt frá vörðu ofan við Innri-Skoru. Ef þessi varða hefur verið landamerkjavarða verður það þó að teljast klaufalegt hjá Vogamönnum að fjarlægja hana við bryggjugerðina í ljósi ágreiningsmála er jafnan hafa verið um landamerki.
Skv. upplýsingum Sesselju Guðmundsdóttur hafði nefndur Ólafur heyrt framangreint frá föður sínum, Jóni G. Ben. Bendir hún á að í skrifum Jóns í Velvakanda 1983 segir Jón m.a.: Strandlengjan nær frá […] og að svonefnri Kolbeinsvörðu utanvert við Innri-Skor á Vogastapa“.  Sesselja telur að grjótið úr hinni einu sönnu Kolbeinsvörðu hafi svo alveg verið hreinsað burt á sínum tíma og er aðeins svarðgróinn grjóthringur eftir nú. Stóran varðan gæti hins vegar vel hafa verið á merkjum, en hún hafi aldrei heitið Kolbeinsvarða.Â
Ef „Kolbeinsvarða“ var á nefndum stað í Njarðvíkurheiði gæti það skipt sköpum, þótt ekki væri fyrir annað að nýtilkomið merki Reykjanesbæjar væri þá í landi Voga.
Þetta er að mörgu leiti áhugavert efni – og ekki víst
að allir verði sammála um allt – frekar en örnefnin. Hafa ber þó í huga framangreint; þótt einn telji eitthvað eitt vera hið rétta þarf það þó ekki að hafa verið hið eina rétta.

Stapi

Stapi – landamerkjavarða.

Refagildra

Ekki hefur mikið verið skráð og ritað um hlaðnar refagildrur. Slík veiðaðferð; grjótgildrur, virðast annað hvort hafa fallið í gleymsku eða orðið jarðlægar. Ástæðurnar eru nokkrar.
Í fyrsta lagi þótti Refagildra ofan við Tóftir - 2löngum ekki tiltökumál þótt grjótgildra væri í nánd við bæ, verstöð, geymslustað eða þéttbýli. Það var ekki fyrr en á síðustu öld sem notkun þeirra lagðist af, a.m.k. á Reykjanesskaganum. Í öðru lagi hafa gildrurnar verið í notkun um langan tíma, jafnvel allt frá landnámstíð, svo margar þeirra hafa gleymst og orðið að jarðarinnar ásýnd.
Þegar FERLIR skoðaði svæðið ofan við Stað og Húsatóftir við Grindavík komu í ljós sjö áður óþekktar grjótgildrur. Án efa eru þær fleiri, ef vel væri leitað. Hafa ber í huga að ekki er langt um liðið að FERLIR fann 3 áður óþekktar refagildrur austan Húsatófta.

Refagildra

Refagildra.

Engra þeirra er getið í rituðum örnefnaskrám eða fornleifaskráningum af svæðinu. Þrátt fyrir það eru þekktar refagildrur nálægt þeim bænum orðnar 10 talsins. Nú (í marsmánuði árið 2010) eru þekktar 51 grjóthlaðin refagildra á Reykjanesskaganum og ef að líkum lætur munu finnast fleiri er fram líða stundir. Hafa ber í huga að helmingur þekktra hraunhella á Íslandi hafa fundist eftir aldamótin 2000 – vegna þess að eftir það hefur verið leita skipulegar af slíkum náttúrufyrirbærum í ríkara mæli. Að leita að ummerkjum eftir refagildru krefst mikillar einbeitingar og gerir þá kröfu til leitandans að hann hafi þekkingu á hvar slíkar mannvistarleifar kunni að finnast.
Refagildra ofan við Tóftir - 3Á vefsíðu Fornleifastofnunar Íslands segir eftirfarandi um refagildrur: „Tófugildra: Gildra til að veiða í refi. Refagildrur eru nokkuð misjafnar að gerð en oftast grjóthlaðnir stokkar eða kassar sem hellur hafa verið lagðar yfir og grjóti jafnvel hlaðið þar ofan á. Agn var látið inn í gildruna og tófan þannig tæld inn en þá lokaðist stokkurinn með þar til gerðum lokubúnaði. Áður en eitur, dýrabogar og byssur urðu algeng fyrirbæri hafa refagildrur líklega verið eina vopn manna gegn tófunni.“
Páll Hersteinsson fjallar um refaveiðar í riti Landverndar  (nr. 7) árið 1980. Þar segir hann m.a.: “Forfeður okkar höfðu veitt loðdýr öldum saman, áður en þeir fluttust til Íslands fyrir 1100 árum.
Refagildra ofan við Tóftir -4Víða um landið eru örnefni, sem hafa að fyrra lið orðið gildra. Þannig eru fjölmörg Gildruholt, Gildruklettar, Gildrunef og Gildrumelar, Byrgisskarð og Byrgismelur, og getur sums staðar að líta á þessum stöðum steinhrúgur, sem líkjast stundum föllnum vörðum, en sums staðar sést á þeim nokkur lögun. Þetta eru refagildrurnar, sem tíðast hafa verið hlaðnar á klöpp eða þar sem jarðvegur var svo þéttur, að refirnir gátu ekki grafið sig út úr þeim.
Refskinn voru löggiltur gjaldmiðill.
Refurinn var álitinn mikill skaðvaldur.
Í Grágás og Jónsbók er tekið fram að melrakkar séu á hvers mann jörðu óheilagir.
Árið 1295 var samþykkt á Alþingi að hver sá maður sem hefði 6 sauði á vetri í sinni ábyrgð, skyldi veiða einn melrakka gamlan eða tvo unga á ári. Það kallaðist dýratollur.
Alþingissamþykkt þessi var síðan endurnýjuð orðrétt árið 1485, og árið 1680 féll samhljóða alþingisdómur.
Bændum var skylt að stunda grenjaleit á vorin á jörðum sínum og á afréttum á eigin kostnað, en tófuföngurum var greitt úr dýratollssjóði.
Árið 1809 gefa amtmenn út fyrirmæli til hreppstjóra um skyldur þeirra til að fylgja eftir refaveiðum.

Húsatóttir

Refagildra við Húsatóttir.

Árið 1834 voru veigamiklar breytingar gerðar á reglugerðum. Öll grenjaleit, grenjavinnsla og veiðar voru launaðar úr dýratollsjóði.
Árið 1890 samþykkir Kristján konungur níundi lög þar sem kveðið er á um að kostnað við eyðingu refa skuli greiða úr sveitarsjóði. Tveimur árum síðar var dýratollur innheimtur í síðasta sinn. Lýkur þar 6 alda sögu eins sérstæðasta skatts á Íslandi.
Tiltölulega litlar breytingar hafa orðið á lögum um refaveiðar síðan 1890 nema hvað að ríkið hefur smám saman tekið á sig stærri hlut af kostnaðinum.
Árið 1930 voru sett lög, sem kváðu á um, að sýslusjóður greiði verðlaun fyrir veidda hlauparefi en sveitasjóðir skuli standa undir kostnaði við grenjavinnslu.
Refagildra ofan við Tóftir - 7Ýmsar aðferðir hafa verið notaðar við refaveiðar á Íslandi. Algengast í upphafi byggðar mun hafa verið að bræla refi inni í grenjum á vorin og veiða þá í grjótgildrur á veturna. Notkun grjótgildra virðist hafa lagst niður í upphafi 19. aldar.
Um svipað leyti voru dýrabogar orðnir algengir, en tilkoma þeirra var sennilega aðalástæðan fyrir því, að hætt var að nota grjótgildrurnar. Hætt var að mestu að nota dýraboga við vetrarveiði um síðustu aldamót [1900], en þeir eru enn notaðir við yrðlingaveiðar á grenjum.
Um aldamótin 1700 voru byssur orðnar algengar við grenjavinnslu og í lok 18. aldar voru þær orðnar aðalvopnið við refaveiðar og hafa verið það síðan.
Byrjað var að eitra fyrir refi um miðja átjándu öld.
Þá voru hundar stundum notaðir til að hlaupa uppi og drepa refi. Þeir voru kallaðir dýrhundar.
Refagildra ofan við Tóftir - 8Fyrstu heimildir um víðtæka eitrunarherferð á vegum sveitarfélags eru frá 1837, en almennt taka sveitarfélög að eitra fyrir refi upp úr 1860. Hreint stryknin í duftformi kemur til sögunnar upp úr 1870, en er ekki komið í almenna notkun fyrr en undir aldamót. Trú manna hefur verið, að ,,vesælustu, úrræðaminnstu og einföldustu dýrin“ éti helst eitrið, en ,,athugulustu, harðgjörðustu og bestu veiðidýrin“ verði helst eftir.  Nú ríkir eitrunarbann.
Byrjað var að eitra fyrir refi um miðja átjándu öld.
Þá voru hundar stundum notaðir til að hlaupa uppi og drepa refi. Þeir voru kallaðir dýrhundar.
Fyrstu heimildir um víðtæka eitrunarherferð á vegum sveitarfélags eru frá 1837, en almennt taka sveitarfélög að eitra fyrir refi upp úr 1860. Hreint stryknin í duftformi kemur til sögunnar upp úr 1870, en er ekki komið í almenna notkun fyrr en undir aldamót. Trú manna hefur verið, að ,,vesælustu, úrræðaminnstu og einföldustu dýrin“ éti helst eitrið, en ,,athugulustu, harðgjörðustu og bestu veiðidýrin“ verði helst eftir.  Nú ríkir eitrunarbann.“
Refagildra ofan við Tóftir - 9Þór Magnússon, fyrrverandi þjóðminjavörður, segir frá refagildrum í Árbók Hins ísl. fornleifafélags árið 1980. Þar skrifar hann m.a.: „Til eru gamlar lýsingar af grjótgildrum þar sem hvatt er til að bændur útbúi þær til refaveiða. Elsta og jafnframt gleggsta lýsing þeirra er í Atla, riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, fyrst pr. í Hrappsey 1780.“ Þar segir, að dýrabogar leggist nú mjög af, en bóndi veitir Atla þarna nákvæma fyrirsögn um, hversu hann skuli útbúa gildrur sínar. Er lýsingin í rauninni nákvæmlega hin sama og hér mun brátt skýrt frá, en gert er ráð fyrir að hellan, sem lokar munnanum, sé krossbundin eða með gati, til að hún hlaupi niður í réttri andrá.
Í Lærdómslistafélags-ritunum, XII b. 1792, er grein um refaveiðar eftir Þórð Þorkelsson.
Í Reykjavíkurpóstinum 1848 þar sem segir, að slíkar grjótgildrur hafi verið víða tíðkaðar fyrrum en nær enginn beri nú við að nota þær.”
VegvísirGrjótgildrur eru þekktar á Grænlandi.
Grjótgildrur hafa verið notaðar víða um land. Gildrur þessar eru flestar af sömu gerð, úr allstóru grjóti, aflangar og munninn látinn snúa undan veðurátt.
Milli tveggja fremstu steinanna í þakinu er nokkur glufa. Þar hefur verið skorðað allvænt hellublað, um 20 sm breitt neðst og um 30 sm hátt, og gegnum það er klappað smágat ofarlega. Í gatinu hefur verið trétittur, sem legið hefur milli þaksteinanna og hellan þannig hangið uppi. Í tittinn var síðan bundið snæri, sem lá ofan á gildrunni og niður í hana aftast, hinn endinn bundinn í agnið, sem væntanlega hefur tíðast verið kjötbiti. Lá agnið innst í gildrunni og var nú útbúnaðurinn þannig, að þegar tófan skreið inn í gildruna og glefsaði í agnið og dró það til sín, kipptist titturinn úr gatinu og hellan rann niður. Rýmið í sjálfri gildrunni hefur verið við það miðað, að tófan kæmist mátulega fyrir en gæti ekki snúið sér við.

Ummerki í Berghrauni

Þannig átti hún erfitt með hreyfingar og gat með engu móti komist út aftur, enda var hún nú auðunnin í gildrunni, t.d. með broddstaf, sem lagt var inn á milli steinanna.
Gildra af þessari gerð er í rauninni einföld, en talsverða nákvæmni hefur þurft til að stilla helluna svo vel af, að hún rynni auðveldlega niður og skorðaðist og lokaði refinn inni. Er líklegt, að gildrur þessar hafi verið misvel veiðnar, enda er lágfóta kæn og hvekkist auðveldlega og er vör um sig, ekki síst ef hún finnur mannaþef af agninu. En í hörðum árum, þegar sultur svarf að, hefur svengdin orðið tortryggninni yfirsterkari.
Þessi gildra er hin eina, þar sem ég veit til að hellan hafi verið með gati fyrir trétitt. Annars hefur hellan yfirleitt verið krossbundin, samkvæmt þeim lýsingum, sem síðar verður getið, og lykkju á hinum enda bandsins bundið um afsleppan trétitt eða hvalbeinshæl innst í gildrunni þar sem agninu var komið fyrir, líklegast oftast smeygt bak við bandið. Þegar glefsað var í agnið kipptist bandið fram af tittinum og hellan féll niður.”
LáturÍ Þjóðviljann árið 1964 er skrifað um refagildru á Látrum. Þar segir óþekktur höfundur: „. . . Allra minnst kostar þig, að gjöra þér tófugildru, viðlíka og þú getur séð hana upp á brúninni hér fyrir ofan bæinn, en hún er gjörð eftir forskrift nokkurs gamals prests, sem gaf mér hana, og með því sá umbúnaður er nú flestum ókenndur hér í grenndinni. Hún er þessi:
1) Gildran sé hlaðin á hellu eða grjótgrundvelli, sem tóft eða kvíar, nokkuð lengri og hærri en tófa kann að vera, en svo þröng að tófa geti ekki snúið sér þar inni.
2) Í gafli miðjum standi tréhæll afsleppur neðanverðu.
3) Síðan er byggt yfir þessa tóft með grjóti svo það hlað hafi hæð sjálfrar jarðarinnar.
4) Innar við gaflinn skal vera svo mikið op, að þar verði bæði náð inn til að egna og líka að veiðin megi þar út takast ef á þarf að halda.
5) Strengur með lykkju á endanum, smokkaður á hælinn liggur svo upp úr þessu opi yfir á minnstu grjóthlaði, allt til dyra: þar er krossbundin hella (eða með gati) í hans öðrum enda, sem til ætlað er að niður detti, og þvi skal grjóthlaðið vera svo þykkt, sem hæð hellunnar verður að vera.
Austan Tófta6) Fyrir framan dyrnar standi fallega kantaðir steinar sinn hvoru megin, svo langt frá að hellan hafi nóga þröm eða pláss til að falla í millum þeirra og gildruveggjanna, en fyrir ofan lykkjuna á hælnum hangir agnbiti á annarri lykkju, svo til ætlað er að tófa kippi strengnum fram af undir eins og agninu.
7) Þegar gildran er tvídyruð þá er sín hella við hvorn enda, eins og fyrr segir um þá eindyruðu, en agnhællinn í miðjum vegg annarhvorrar langhliðar og á honum báðir hellustrengirnir.
8) Líklegt er að tófur séu óvarari við þá tvídyruðu. Loksins er agnið með grjóti byrgt, og allt látið verða sem líkast náttúrulegu grjótholti.“
Refgildra
Eftir þennan lestur verður vart um það deilt að skýring þeirra Látramanna, um hæla strengi og fallhellu, hafi hvorki verði staðlaus þjóðsaga né hugarórar heldur gömul raunhæf vitneskja. Ósagt skal látið hvort annað mannvirki þessarar tegundar fyrirfinnist óhrunið á landinu.”
Skammt ofar, í Berghrauni skammt vestan Lynghólshrauns, má sjá ummerki eftir grenjaskyttur; hlaðin skjól. Í örnefnalýsingu fyrir stað er þess sérstaklega getið að „mörg greni eru í Lynghólshrauni“. Þar verður leitað ummerkja fljótlega.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

 

Heimildir m.a.:
-http://www.instarch.is/instarch/ordasafn/r/
-Páll Hersteinsson, rit Landverndar (nr. 7) árið 1980.
-Heimild: Þjóðviljinn 16.02.1964, bls. 53.
-Helgi Gamalíelsson – Stað.

Húsatóftir

Refagildra við Húsatóftir.

refagildra

„HÉR segir frá einkennilegri aðferð til þess að ginna grenlægjur og veiða hvolpana: Hér skal sagt frá refagildru eða gothreiðri, sem ég hefi allmikla reynslu af. Í nágrenni gamalla urðargrenja útbýr maður gren, með einum útgangi, og í það er látið hræ af tófu. Upp úr greninu innst, þar sem tófunni er ætlað að hreiðra um sig, er gerður strompur eða gluggi og honum síðan lokað með seigum jarðvegshaus og nokkuð þung hella lögð ofan á.

Refagildra

Refagildra – teikning.

Tófur leggja gjarnan í slíkt  greni þegar á næsta vori. Áríðandi er að vitja um grenið á hæfilegum tíma. Þá er hægt að taka yrðlingana fyrirhafnarlaust upp um opið, og er það eitthvað annað en ná yrðlingunum úr urðargrenjum. Og þessu fylgir einnig sá kostur, að hægt er að vinna grenin áður en tófan er byrjuð að leggjast á lambfé.
Einu sinni þegar ég ætlaði að taka yrðlinga, greip ég í bakið á grenlægjunni, sem lá á þeim. Þá varð mér ljóst, að auðvelt er að hafa þarna þann útbúnað, að grenlægjan náist með yrðlingunum. Í eitt slíkt gren, sem ég bjó  til á þennan hátt, hefir tófan gotið 9 sinnum og allir yrðlingar náðst. Þótt ég telji það hafa mikla þýðingu að ganga vel frá þessum grenjum og hafa munnann vel falinn, þá tel ég samt að tófuhræið eigi mestan hátt í að hæna grenlægjur að þeim.“
Kristján Helgason

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Kristján Helgason, 23. apríl 1961, bls. 226.

Sundvörðurhraun

Refagildra í Sundvörðuhrauni.