Verkefni þetta var unnið í Ritheimildarrýni í Fornleifafræði við HÍ 2006.
Inngangur
Má sjá merki Jónsbókar í fornleifauppgrefti? Í leit að svari við þessari spurningu ákváðum við að best væri að lesa lögin gaumgæfilega en einnig ákváðum við að fara í atriðisorðaskrá Jónsbókar og vinsa út þau atriðiðsorð sem gætu verið „sýnileg“ á vettvangi. Ákvæði Jónsbókar og þau atriðisorð sem skoðuð voru er að finna í meðfylgjandi fylgiskjölum. Við ákváðum einnig að kynna okkur fjóra uppgraftastaði sem voru allir nema einn í byggð á gildistíma laganna. Þessir staðir eru Gljáskógar sem fór í eyði um miðja 11. öld, Þórarinsstaðir sem fór í eyði í lok 12. aldar, Gröf í Öræfum sem fór í eyði um miðja 14. öld og Kúabót í Álftaveri sem fór í eyði um miðja 15. öld. Uppgraftarskýrslurnar voru bornar við ákvæðin og atriðisorðin í leit að einhverri samsvörun. Að því loknu var ákveðið að taka út fjóra þætti og skoða þá sérstaklega. Þeir þættir eru ábúðarskylda, sáir og keröld, eyðibýli og loks byggðarlög og stærri svæði. Eftirfarandi greinargerð er afrakstur þeirrar vinnu.
Uppgraftarskýrslur
-Gljáskógar í Þjórsárdal
Kristján Eldjárn rannsakaði bæjarleifar í Gljáskógum í Þjórsárdal á árunum 1949-1960. Rústir bæjarins eru rétt um 2 km norðaustur af þjóðveldisbænum Stöng og er byggingarstíllinn áþekkur. Kristján taldi að bærinn hafi verið reistur á öðrum fjórðungi 11. aldar og farið í eyði rétt eftir miðja 11. öld og því aðeins verið í byggð í skamman tíma. Lokaskýrsla var svo gefin út í Árbók hins íslenzka fornleifafélags árið 1961.
–Þórarinsstaðir í Þjórsárdal
Kristján Eldjárn rannsakaði Þórarinsstaði í Þjórsárdal sumarið 1945. Kristján ályktaði um aldur rústanna og taldi að bærinn hafi aðeins verið í byggð í skamman tíma, líkt og í Gljáskógum, og taldi hann að bærinn hafi verið byggður um miðbik 13. aldar og farið í eyði í kringum árið 1300 í Helklugosi. Lokaskýrsla um uppgröftinn var síðan gefin út í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1949.
–Gröf í Öræfasveit
Gísli Gestsson hóf rannsókn bæjarleifa á Gröf í Öræfum árið 1955. Þar fundust leifar af bæ frá 14. öld sem fór í eyði vegna goss í Öræfajökli árið 1362. Taldi Gísli jafnframt að hugsanlega væru eldri búsetuminjar undir þeim fornleifum sem rannsakaðar voru. Lokaskýrsla um uppgröftinn var gefin út í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1959.
–Kúabót í Álftaveri
Á árunum 1972-1976 fór fram fornleifauppgröftur í Álftaveri undir stjórn Gísla Gestssonar á bæ sem seinna hlaut nafnið Kúabót. Á Kúabót var grafinn upp frekar stór bær ásamt heimakirkju. Jökulhlaup í kjölfarið á Kötlugosi mun hafa lagt bæinn í eyði í lok 14. aldar. Hugsanlega eru á staðnum eldri búsetuminjar. Lokaskýrsla var gefin út í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1986.
Jónsbók
–Ábúðarskylda
Er hægt að nýta ákvæði Jónsbókar um ábúðarskyldu leiguliða við túlkun fornleifa og á meðan uppgrefti stendur? Ef tillit er tekið til þeirra skýrslna sem lesnar voru má segja að fornleifafræðingarnir hefðu getað haft Búnaðarbálk Jónsbókar til hliðsjónar. Þar stendur að Leiguliðar skulu koma með allt sitt innbú til hússins og jafnframt taka það með sér þegar á fardaga er komið. Allt sem er naglfast í húsunum er eign jarðeiganda. Þetta ákvæði kemur fyrir í lið 9. Í lið 3 er grein gerð fyrir þeirri skyldu leiguliða að halda við þeim húsum sem á jörðinni voru þegar hann kom. Í lið 4 kemur fram hvenær leiguliði skuli koma og fara af jörðinni sem og hvað honum ber að taka með sér.
Ef uppgraftarskýrslur eru skoðaðar með hliðsjón af ábúðarskyldu leiguliða kemur í ljós að Jónsbók hefur vissulega einhverju við að bæta. Í uppgraftarskýrslunni á Gröf í Öræfasveit kemur fram að ekki er að sjá að þilin við bæjardyrnar hafi verið festar með járnöglum, hvorki á stoðirnar né aurstokkinn.
Eins og þegar hefur komið fram er í Jónsbók að finna ákvæði um að allt sem er naglfast í húsum sé eign jarðeiganda, hvort sem leiguliði hafi naglfest viðkomandi hlut eða jarðeigandi. Þó að Gísli lýsi og skrifi lítið um þetta má jafnvel draga þá ályktun af því að menn reyndu að komast í kringum þessi lög með því að festa þilin með öðrum hætti. Þannig að viðurinn sem fór í þilin myndi alfarið vera eign leiguliða.
Næst er vert að skoða uppgreftina á Kúabót og Þórarinsstöðum. Ekkert af húsgögnum og búsáhöldum fundust við þá uppgrefti ef frá eru taldir leifar sáa og setstokka á Kúabót. Erfitt er að sjá beint samband uppgraftanna við ávkæða Jónsbókar túlka eitthvað um ábúðarskylduna útfrá skýrslunum. Þó má ekki gleyma að báðir bæirnir fóru í eyði vegna hamfara og hefur það vissulega sitt að segja um hvað fólkið skildi eftir og hvað það tók með sér. Segja má að þegar bæirnir fóru í eyði hefur fólkið örugglega tekið nær allt með sér sem auðvelt var að taka í þeirri von að getað haldið áfram búskap.
Gljáskógar skera sig úr sökum þess að í raun fannst nánast ekkert við uppgröftinn þar. Auk þess er Gljáskógar eini bærinn sem ekki var yfirgefinn vegna hamfara. Gljáskógar var einfaldlega yfirgefinn, afhverju er ekki gott að vita. Hér líkt og áðan er þó líklegt að ástæðan fyrir því hve fáir gripir fundust sé einmitt vegna ákvæði Jónsbókar.
–Sáir og keröld
Á öllum þeim stöðum sem skoðaðir voru var að finna niðurgrafin keröld (sái). Í Kúabót í Álftaverum var að finna fimm jarðgrafna sái, tvo í búrinu og tvo í skemmunni, auk hringlaga klefa í norðvesturhluta búrsins en þar var einnig sár. Aðeins voru þó varðveittir sáirnir tveir í búrinu og sárinn í hringlaga klefanum. Sáirnir tveir í skemmunni höfðu greinilega verið fjarlægðir áður en að bærinn fór í eyði. Á Þórarinsstöðum í Þjórsárdal höfðu einnig verið sáir en þeir líkt og sáirnir tveir í búrinu á Kúabót höfðu verið fjarlægðir. Kristján Eldjárn, sem rannsakaði staðinn, furðaði sig á hvernig menn fóru að því að ná sánum út og datt honum helst í hug að búrþakið hafi verið rofið og sánum þannig verið komið út. Á bænum Gröf í Öræfasveit var einnig að finna sá en hann hafði ekki verið fjarlægður áður en að vikurinn, sem varð til þess að bærinn lagðist í eyði, féll. Á Gljáskógum í Þjórsárdal er í gólfinu djúpt kringlótt far með steinhellu á botninum. Ekki er því óhugsandi að þar hafi verið geymdur sár og taldi Kristján að skyr hafi verið geymt í búrinu.
Í öllum dæmunum hafa verið í bæjunum a.m.k. á einhverjum tímapunkti sáir. Ýmist höfðu þeir verði fjarlægðir áður en bærinn lagðist í eyði eða höfðu verið skildir eftir. Jónsbók segir um sái að, „…[e]f maður fer af jörðu og á hann þar ker inni, þá skal hann það út hafa fært og allt búsgagn sitt hið síðasta laugardaginn í fardögum, nema hinn lofi. Rétt er mani að brjóta hús til þess að færa ker sitt út ef hann bætir húsið aftur jafnvel sem áður var, ella færi út í stöfum.” Greinilegt er af þessu ákvæði Jónsbókar að ætlast var til þess að menn tækju með sér sína sái bæði þegar þeir fóru af jörðinni og jafnframt að menn kæmu með sá með sér þegar flutt var á nýjan stað. Í þessu ljósi kemur því á óvart að sáir hafi verið skildir eftir bæði á Kúabót og á Gröf þar sem á Gljáskógum og Þórarinsstöðum talsverð vinna hafði verið lögð í að ná þeim út. Hugsanlega hefur mikið og skyndilegt gjóskufallið á Gröf og Jökulhlaupið á Kúabót haft eitthvað með það að segja og orðið til þess að á báðum stöðunum var tekin ákvörðun um að eyða ekki dýrmætum tíma og orku og sáirnir því skildir eftir. Á Þórarinsstöðum hefur hins vegar verið tekin ákvörðun um að sárinn hafi verið þess virði að eyða tíma og orku í að ná honum út. Með hliðsjón af ákvæði Jónsbókar má því ætla að þegar fólk fluttist búferlum hafi sáirnir ávallt fylgt með, rétt eins og aðrir gripir, og ekki verið skildir eftir nema í algerri neyð.
–Eyðibýli
Bæirnir Gröf, Þórarinsstaðir og Kúabót fóru allir í eyði vegna hamfara en bærinn Gljáskólgar var yfirgefinn. Í Jónsbók er ákvæði um eyðibýli og hversu skal fara með jörð ef hún fæst ekki byggð: „Engi maður skal bólstað sinn í eyði leggja ef hann fær byggt. En ef hann fær eigi til leigu byggt, á skal hann bjóða þeim með vottum þá jörð að leiga er næstir búa eftir því sem sex skynsamir menn meta.“ Bærinn Gljáskógar var yfirgefinn um miðja 11. öld en það er áður en að Jónsbók tekur gildi. Er hugsanlegt að þetta ákvæði Jónsbókar sé því tilraun til að sporna við því að bæir færu í eyði líkt og gerðist á Gljáskógum.
–Bæir og byggðarlög
Mikilvægt er að hafa texta Jónsbókar til hliðsjónar bæði við undirbúning og vettvangsskoðun fornleifaskráningar og þegar meta á heilstætt búsetulandslag. Ákvæði er varða t.d. jarðaskipti (bls. 178), löggarð (bls. 173), löghlið (bls. 179), skógarneyslu (bls. 171), þjóðgötu (bls. 186), brúargerð (bls. 187), marksteina (bls. 244) og aldingarða (bls. 244) gætu þar mögulega gefið upplýsingar sem kannski liggja ekki beinlínis í augum uppi þegar gögn eru metin.
Hvert býli hefur verið samfélag út af fyrir sig og Jónsbók gerir í rauninni að nokkru ráð fyrir að svo sé. Í nútíma fornleifafræði hefur verið lögð áhersla á að reyna að greina samfélög, breytingar, trú og einstaka áhrifaþætti út frá fornleifunum. Ljóst er að gildandi lög hafa haft áhrif hverju sinni og því er mikilvægt að skoða heilstæð svæði með hliðsjón af því. Hvar kann þessara áhrifa að gæta? Gætu áhrif laganna skýrt einstök ummerki? Slíkra spurninga hefur ekki verið spurt, a.m.k. sér þess ekki merki í textum eða lýsingum af fornleifauppgröftum. Þó er mikilvægt að horft sé til ákvæða Jónsbókar auk ákvæða Grágásar og Járnsíðu þegar einstakir fornleifauppgreftir eru metnir og túlkaðir eða þegar fornleifaskráning er gerð fyrir bæi og/eða svæði.
Lokaorð
Má sjá merki jónsbókar í fornleifauppgrefti? Ákvæði Jónsbókar höfðu greinilega áhrif á gildistíma laganna. Leiguliðum var tryggður réttur til þess að flytja öll búsgögn með sér nema það sem var naglfast. Í þeim fornleifafræðilegu dæmum sem skoðuð voru bar voru þess greinileg merki að þennan rétt notaðfærðu leiguliðar sér. Einnig var leiguliðum tryggður réttur til að flytja niðurgrafna sái með sér þegar þeir fluttust búferlum. Í dæmunum sem skoðuð voru má leiða líkum að því að sá réttur hafi einnig verið nýttur. Hugsanlega er einnig að finna í Jónsbók ákvæði sem sett voru til að sporna við eyðingu byggðar líkt og á Gljáskógum. Hvers vegna var Jónsbók þá ekki notuð af þeim fornleifafræðingum sem rannsökuðu þessa staði? Hugsast getur að á þeim tíma sem þessar fornleifarannsóknir voru gerðar hafi texti Jónsbókar aðeins verið aðgengilegur þröngum hópi fræðimanna sem höfðu fengið þjálfum í textafræði. Útgáfur Jónsbókar með nútímalegum texta hafa ekki verið aðgengilegar fyrr en nýlega og munu þær áreiðanlega stuðla að því að Jónsbók verði nú meira en áður notuð í fornleifafræðilegum tilgangi.
Heimildaskrá:
Gísli Gestsson, Lilja Árnadóttir og Guðrún Sveinbjarnardóttir: „Kúabót í Álftaveri I-VIII.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1986. Hið íslenzka fornleifafélag. Reykjavík, 1987.
Gísli Gestsson: „Gröf í Öræfum.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1959. Hið íslenzka fornleifafélag. Reykjavík, 1959. bls. 5-87.
Jónsbók. Lögbók Íslendinga. [Hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578] Már Jónsson tók saman. Háskólaútgáfan. Reykjavík, 2004.
Kristján Eldjárn: „Bær í Gljáskógum í Þjórsárdal.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1961. Hið íslenzka fornleifafélag. Reykjavík, 1961. bls. 7-46.
Kristján Eldjárn: „Eyðibyggð á Hrunamannaafrétti.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1943-48. Hið íslenzka fornleifafélag. Reykjavík, 1949. bls. 1-43.
Fylgiskjal 1.
Ákvæði Jónsbókar sem skoðuð voru við úrlausn verkefnisins.
-Búnaðarbálkur 1.
Ef maður vill leigja jörð annars manns verður að nást handsölur með 2 vitnum og viðkomandi að búa á jörðinni í að minnstakosti 12 mánuði. Ef viðkomandi borgar ekki, fær hann eigi þá jörð.
-Búnaðarbálkur 3. Ábúðarskylda leiguliða
Halda á öllum húsum til haga á jörðinni er leiguliði fékk jörðina. Ef einhver hús hafa hlotið skaða skal leiguliði bæta það áður en hann fer af henni. Ef það er ekki gert er leiguliði skilt að borga landsdróttin eða sjá um að viðgerð sé gerð. Ef hann byggir annað/fleiri hús á jörðinni á hann þau sjálfur En honum er skylt að bjóða landsdrottni að kaupa húsið. Ef að jarðareigandi vill ekki húsið má leiguliði taka húsið fyrir fardaga, ef hann gerir það ekki á sá húsið sem jörðina á. Ef að leiguliði bætir þau hús sem eru fyrir með sínum eiginn við skal hann fjarlæga hann áður en hann fer, ef hann gerir það ekki á jarðareigandi viðinn.
-Búnaðarbálkur 4. Hvenær leiguliði á að koma á jörðina.
Á að koma á jörðina þegar á vor er komið. Á að vera alfluttur þegar 6 vikur eru liðnar af sumri. Má flytja húsgögn og annað hafurtask sitt er húsrúm leyfir. Ef viðkomandi sem var þar fyrir er ekki kominn út má hann vera í fjárhúsunum í þrjár nætur.
-Búnaðarbálkur 5.Hvað gerist með leigujörð ef leiguliði mætir ekki á jörðina.
Ef leigliði sem ætlaði að vera á jörðinni mætir ekki er sjö vikur eru liðnar af sumri, má jarðareigandi nýta jörðina sembest hann telur. Hann má leigja jörðina aftur.
-Búnaðarbálkur 6. Leigujörð er byggð er tveimur
ef að jarðareigandi selur 2 mönnum jörð til leigu skal sá fá hana sem fyrstur leigði og jarðareigandi að bæta hinum tapið með því að leigja honum aðra jörð eða gjalda honum jafnmikið fé og landskuldin var. Þetta skal gerast 2 vikum eftir að upp hefur komist að 2 menn leigja sömu spilduna.
-Búnaðarbálkur 7. Hvað á að fylgja leigulandi samkvæmt lögum.
Til leigulands telst: Allar fuglaveiðar,fiskveiðar og eggver, nema um annað er samið. Leigulandi fylgir allur reki. Eggversfugla skal engi maður veiða. Allt torf. Allan þann skóg sem er í landinu. Nýta á skóginn sem hann ætti sjálfur.
-Búnaðarbálkur 8.Hvernig á að færa bú sín á fardögum.
Þegar 6 vikur eru liðnar af sumri, á fimmtudegi, er fyrsti fardagur. Seinasti fardagur er þá sunnudagurinn þar á eftir. Öll mykja undan fé leiguliða skal dreifð á vellina áður en hann fer.
-Búnaðarbálkur 9. Hversu upptækt er góss leiguliða ef eigi er brott fært.
Leiguliði skal fjarlæga öll húsgögn áður en hann fer, síðasta laugardag í fardögum. Allt það sem er naglfast á jarðareigandi, ef það er skemmt skal leiguliði bæta það. Hey og korn má vera á jörðinni svo lengi sem engum er mein af því.
-Búnaðarbálkur 11. Hverjum má leiguliði hey selja samkvæmt lögum.
Áður en leiguliði fer af jörðu er honum skylt að reyna selja hey sitt til landeiganda. Ef landeigandi vill ekki kaupa ræður leiguliði hvað hann gerir við það. Ef tveir menn eiga hlut í heyinu skal það skiptast áður en reynt er að selja það.
-Búnaðarbálkur 13. Hvernig leiguliðar eiga að skipta húsum.
Ef fleiri en einn búa í óskiptum húsum. þeir skulu elda hús að manntali eigi að jarðaráhöfn, því að hjón þurfueldingar en eigi húsin.
-Búnaðarbálkur 14. og 15. um taðfall og hvernig því skal skipta
-Búnaðarbálkur 17. Lögfesting jarða
lögfesta skal að krkju eða þingi. Skal hann segja; Eg lögfesti hér í dag eign mína er N heitir, akra og töður, engjar og skóga, holt og haga, vötn og veiðistaði…
-Búnaðarbálkur 23.
Maður skal gera löggarð um hey sitt á annars manns jörðu og grafa í sínu engimarki torf til, sama um löggarð í fjárhögum.
-Búnaðarbálkur 26. lögfesta og fimmtarstefna.
Ef menn skilur á vegna áverka á jörðu þá skal það lögfest leggja fyrir fimmtarstefnu ef svo þykist til.
-Búnaðarbálkur 29. Ábyrgð á voðaeldi
Sá sem kveikir eldinn á hann og er ábyrgur fyrir honum. Leiguliðar bæta 2/3 hluta tjóns af völdum voðaelds en jarðareigandi 1/3.
-Búnaðarbálkur 31 og 32. garðaskipti og löghlið, löggarðar.
-Búnaðarbálkur 41. hvernig fer með jörð sem ekki er búið á.
Þeir sem næstir búa jörðinni er boðið að leiga jörðina.
-Búnaðarbálkur 44. Varðandi þjóðgötur
Þóðgata á að vera fimm álna breið, nema ef engi er nálægt, þá skulu sex skynsamir menn meta aðgerðina. Bændum er skylt að gera veg um héruð þar sem mestur er almannavegur.
-Búnaðarbálkur 45. Brúargerð
Ef á skilur lönd manna, þá skal sá sem ætlar að byggja brúnna spyrja hinn aðilann hvort hann vilji það einnig. Ef hann vill það eigi má hann taka torf beggja vegna árinnar.
-Búnaðarbálkur 56. Hversu veiðar eiga löndum að fylgja.
Hver maður á öll vötn og veiðistaði á sinni jörð. Ef tveir menn eiga land að veiði á, eiga þeir jafnmikinn rétt.
-Búnaðarbálkur 57. Eign á fuglaveiðum.
Vali alla, elftur og gæs og alla aðra fugla ómerkta á hver maður á sinni jörð, leiguliði sem landsdrottinn, nema frá sé skilt í kaupum þeirra. Þernur, æður eða andir skulu engi maður veiða(200 faðma tólfræð frá eggveri annars manns). Ekki má veiða fugla í landi manns svo að firr verði af eggveri viðkomandi.
-Kaupabálkur 13. Varðandi skrúðklæði
„…hver sá maður sem hann á tuttugu hundrað fjár og eigi minna, hvort sem hann er kvongaður eður eigi, má bera eina treyju með kaprúni af skrúði. En sá sem á fjóra tigi hundraða má þar með bera einn skrúðkyrti. Sá sem á átta tigi hundraða má bera þar með ólpu eður kápu tvídregna fyrir utan gráskinn. En sá sem á hundrað hundraða, hann má að frjálsu bera bera þessi klæði öll. Lærðir menn megu bera þau klæði sem þeir vilja og þeir handgengnir menn sem sér eiga skyldarvopn. Svo og þeim mönnum sem utan hafa farið er lofað að bera þau klæði er þeir flytja sjálfir út meðan þau vinnast þó að þeir eigi minna fé en fyrr skilur. En eigi skulu þeir kaupa hér á landi sér til burðar framar en fyrr segir. Nú ef nökkur ber skrúðklæði sá er minna fé á eður öðruvíss tilkomin en hér vottar, þá er sá sekur tveimur aurum fyrir hvert við konung, utan honum sé gefin, nema konur beri.“
-Kaupabálkur 5. Um lögauragjald
„Eyrir gulls þess er stenst elding fyrir sex tigi aura. Eyrir brennds silfurs fyrir sex aura. Járnketill nýr og óeldur og vegi fjóra fjórðunga, og liggi í átta skjólur fyrir fimmtán aura. Það er katlamálsskjóla er tré er sett í lögg og tekur öðrum megin á þröm upp, tólf þumlunga meðalmanni í naglsrótum. Stæltur lér, eggelningur, og vegi átján aura, heill og stálslegin, þeir skulu þrír fyrir tvo aura. Átta fjórðunga vætt blástursjárns fyrir fimm aura. Vætt fellujárns fyrir sex aura.“
-Kaupabákur 6. Um metfé
„Albreitt léreft þrjár álnar fyrir tvo aura. Enskt léreft tvíelnt, tvær álnar fyrir eyri. Mörk vax fyrir eyri. Skrúðklæði ný, skorin og óskorin, hafnarvaðmál ný og ónotin. Kattaskinn ný og lambsskinn, flatsmíði nýtt, vörusmíði nýtt, teint járn, eirkatlar nýir, það er allt metfé og þó réttgoldnir lögaurar. Allt metfé skulu virða sex skynsamir menn, þrír af hvors hendi.“
-Kaupabálkur 26. Um stikur og mælikeröld.
„En sá er réttur pundari er tuttugu merkur sé í fjórðung hvern og megi á vega tvær níu fjórðunga vættir, en eigi meira, og rísi að fjórðungi. … Stika skal sú vera að tvær álnar geri stiku, sem verið hefur að fornu. …skulu pundarar og mælikeröld liggja á Þingvelli undir lögmanns lási, skal þar eftir sýslumaður rétta sína pundara og stikur og mælikeröld. En bændur í hvers þeirra sýslu marki eftir þeirra pundurum, stikum og mælikeröldum. …En eigi eru allir bændur skyldugir mælikeröld að eiga“
-Mannhelgi 16. Um eyðihús
„Nú hlaupa útlaga menn í auðnahús eður þau hús er þeir menn eru fyrir er eigi vilja verja þá, þá eiga þeir er að sækja að brjóta hús að ósekju til þeirra ef þarf og bæta þeim fyrir skaða er hús átti eftir því sem sex skynsamir menn meta“
-Rekaþáttur 2. Hvar maður má flutningar taka fyrir annars landi.
Rekaviður og annað tvíumlíkt.
-Þjófabálkur 1. Matur.
“ef sá maður stelur mat er eigi fær sér vinnu til fósturs og helpur svo lífi sínu fyrir hungurs sakir, þá er sá stuldur fyrir öngvan mun refsingar verður”. Orðin “stelur mat” eru ekki í elstu handritum. “Steli maður hundi mann eður ketti, knífi eður belti” og öðru minna verðmætu greiðir hann sekt til konungs. Steli hann hins vegar “til eyris” skal hann færður til þings og þyngjast refsingar, jafnvel með því að fyrirgera landi sínu, við ítrekuð brot. Alvarleg refsing lá við að taka við þýfi og var sá nefndur “þjófsnautur”
-Þjófabálkur 2. Flet.
“Sá ábyrgist þjóf er hann bindur fjórum mörkum við konung þar til hann setur hann bundinn á flet umboðsmanns”. Væntanlega hefur umboðsmaður þurft að hafa geymslu fyrir þjófa.
-Þjófabálkur 6. Lýsi.
Þegar leitað er að stolnu fé í húsi annars “skal bóndi fá þeim lýsi sem þeir þurfa meðan þeir rannsaka”. Væntanlega til ljósa.
-Þjófabálkur 6. Hirslur.
Þegar leitað er að stolnu fé í húsi annars skal “ef eigi vilja láta lukla til að lúka upp hirslum sínum, þá er lok þeirra óheilög við broti”.
-Þjófabálkur 6. Gröf.
…”en stanga skulu þeir jörð og grafa á öllum stöðum og leita þar sem þeir vilja..”..
-Þjófabálkur 7. Gripur.
“Taka má maður fé sitt eður grip sinn að heimilu hvar hann finnur, ef eigi er á haldið”.
-Þjófabálkur 10. Marksteinn.
“nú tekur maður marksteina upp úr jörðu og setur niður á öðrum stað, og færir á þess hlut er í móti honum á, þá er hann sekur aleigu við konung”. ..”en sex aurum er maður sekur ef hann tekur upp marksteina og setur hverhi niður”.
-Þjófabálkur 10. Fé.
“Ef maður leggst undir fénað manna og drekkur, þá á hann öngvan rárr á sér. Ef maður mjólkar búfé annars manns stelandi hendi, bæti sem fyri stld sá er fé hefir til…”.
-Þjófabálkur 11. Aldin.
“Ef maður gengur í eplagarð manns eður hvannagarð eður næpugarð, og allt það aldin er menn hegna (hirða) með görðum eður gæslum, þó að vötn falli um, og vill sá eigi lofa er á, tvígildi þeim skaða er átti og tvo aura í þokkabót”.
-Þjófabálkur 12. Áifóður.
“Nú fer maður að veg með hrossi, og þó að þeir sé þrír saman, og stendur hey nær götu en bær eigi allnær, þá taki þeir að ósekju það sem hross þeirra þurfa til áifóðurs ef nauðsyn gengur til”. Þá skal hafa vöndul fyrir hesta heima við bæi hafi menn ekki fé.
-Þjófabálkur 14. Fundið fé.
“Ef maður finnur fé í jörðu manns, hafi sá þriðjung er finnur en landeigandi tvo hluti, en allt ef hinn hedlur ekki upp að lögum”. Ef grafið er í “haug eða agrefur jörð maður að ólofi þess er á til fjár, færi þeim er jörð á slíkt er hann fann og leggi í landnám og jarðarspell þeim er jörð á.”
-Þjófabálkur 16. Skip.
Fái maður lánað skip eða hross skal skila því á þann stað og í því ástandi, sem var.
-Þjófabálkur 18. Teningar.
Sekt er við að kasta teningum um peninga.
-Þjófabálkur 23. Sakeyrir.
“Allur sakeyrir löglliga sagður á menn skal goldinn á næstum fardögum eftir. Hann er rétt godlinn í vaðmálum og ullu og allri skinnavöru, og í öllu kvíkfé eftir vþí sem flestra mann gengur í millum í því hérðai, í slátrum og lls kyns mat, í léreftum og öllum austrænum varningi og öllu járnsmíði eftir sex manns virðingu, fella eigi til vöru né búfjár en virða þó til fullra aura”.
Fylgiskjal 2.
Atriðisorð úr Jónsbók sem skoðuð voru við úrlausn verkefnisins. Orð og blaðsíðutal fyrir aftan.
Afturfærsla 167
Albreitt léreft, hálfur þriðja alin á breidd 213
Aldingarður 291
Askur matarílát, mælieining 224, 318
Auðnahús, eyðihús 111
Ábúðarskylda 160
Blástursjárn, óunnið járn 212
Brík fjöl í rúmi 164
Búföng, aðdrættir 318
Búhlutir, búsáhöld 97, 163
Búnyt málnyt, mjólkurmatur 223
Búsgögn 141, 161, 164
Dyr 147 166 242 281
Eirketill 213
Eldfæri 229
Eldiviður 163, 170
Enskt lérefti, tveggja álna breitt 213.
Fellujárn járn sem búið er að hita úr sora og gjalt 212
Fjárhús 161
Flatsmíði, járn sem búið er að hamra til 213
Fyrnast, um hús eða skip 160, 187
Garður, heimili 134,138,215
Gráskinn, loðskinn, grávara 149
Grjót 172, 187, 199, 238
Hafnarvaðmál, hafnarvoð, dýrt og vandað vaðmál 213, 269
Heyhlaða, 164, 173, 177
Húsaspell skemmdarverk á húsi 166
Húsbrot, að rjúfa húsvegg til að ná út keri sem kemst ekki út um dyr 164 281
Húsgjörð, smíði húss 160, 280
Húsrúm 161
Húsverð 160
Hvalbein 199, 201, 203
Innanstokks 102
Innbyggjari 322
Innihús 161
Járnsmíði 213, 250, 292
Kaldakol, brottför af jörð fyrirlögboðinn tíma þannig að eldur til upphitunar og matargerðar slokknaði og kol kólnuðu 160, 163, 164, 280, 309
Kápa 149
Ker, kerald 164, 223, 257
Knífur, hnífur 109, 110, 239, 278, 303
Leiguból 152
Leigujörð, leiguland 159-162, 280
Lykill, að húsi 242
Lykill, til brennimerkingar 239, 290
Metfé, varningur sem meta þurfti sérstaklega 212, 213
Mungát, bjór 83
Mælikerald, 223, 224, 288, 314, 317
Naglfast 164
Oki, spýta negld þvert yfir fjalir til að halda þeim saman 179
Óeldur járnketill, sem ekki hefur verið soðið í 212
Ótelgdur viður, 200
Reipi 201, 234, 290
Rúm, svigrúm 83, 161, 230
Rýtningur, rýtingur 109, 278
Setstokkur, í húsi 204
Skaft 109, 152, 303
Skinnavara 98, 250, 292
Skjóla, fata 212
Skyldarvopn 149
Smjör 216, 218, 310
Spjótskaft 115, 278
Stafur, húsaviður 164
Stekkur 191
Stilli, hlaðin gildra til selveiða 206
Stokkur, á hnífi 303
Teint járn, járn sem hamrað er í teina 213
Teldgur viður, 198, 207
Timbur, 178, 283
Tré 169, 170, 199, 202, 212, 223, 286
Tunna 216
Ullarskyrta 242
Umbót, húsa 162
Úthýsi, útihús 242
Vaga, sleði 170
Vagn 170
Vatnskerald 236
Veiðigögn 196
Veiðivél 195, 196
Verkfæri 141
Veturhús 146
Viður 160-163, 170-172, 174, 198-200, 207, 232, 237, 238, 281, 282, 286, 290, 312 sjá 63
Vindauga, gluggi 173, 174, 242
Þari, þang 199, 200
Þrep, jarðvegsstallur 178
Örk, kista 257
Reykjanesviti – skjaldarmerki konungs
Í minnum manna skartaði Reykjanesviti skjaldarmerki Danakonungs – allt frá víxlu hans hinn 20. mars 1908 og fram til um 1970, eða í rúm 60 ár.
Merkið þótti bæði stórt og myndarlegt, enda bæði góður vitnisburður um tilvist konungs og viðurkenningu hans á mikilvægi mannvirkisins. Hjá sumum hefur jafnvel sú minning lifað að konungur hafi sjálfur komið hingað til lands og verið viðstaddur afhendingu skjaldarmerkisins. Fyrir því stendur þó enginn stafur í skráðum heimildum. Í dag er ekki að sjá ummerki eftir skjaldarmerkið á vitahúsinu. Í ljósi þess er nauðsynlegt að skoða eftirfarandi skrif. –
Í „Sjómannablaðinu“ árið 1998 má lesa eftirfarandi um fyrsta vitann á Íslandi: „Fyrsti viti á Íslandi var byggður á Valahnúk á Reykjanesi. Það var hinn 1. desember 1878 að kveikt á Reykjanesvitanum og hann þar með tekinn formlega í notkun. Árið 1897 voru gerðar endurbætur á Reykjanesvita, en hann var orðinn illa farinn, einkum vegna jarðhræringa.
Jarðhræringarnar urðu það afdrifaríkar fyrir Reykjanesvitann að árið 1907 var svo komið, að verulega hafði hrunið úr Valahnúknum og ekki nema 10 m frá vitanum fram á brún, en holt undir og allt sundursprungið. Neitaði vitavörðurinn að vaka í vitanum, og var úr því ákveðið að byggja nýjan vita á Bæjarfelli [Vatnsfelli], sem er hóll nokkru ofar en Valahnúkur. Var nýi vitinn var reistur árið 1908, úr grjóti og steinsteypu, 22 m á hæð upp á pall, sívalur að innan, 2.5 m í þvermál, en keilumyndaður að utan, 9 m í þvermál neðst en 5 m efst. Er því veggþykktin 3.25 m neðst og 1.25 m efst“.
Í „Sjómannablaðinu Víkingur“ árið 1978 var þetta skrifað: „Fyrsti vitinn hér við land var Reykjanesviti, en hann var byggður 1878 og var kveikt á honum 1. desember það ár.
Síðan gerðist ekkert fyrr en 1897, en þá voru byggðir þrír vitar. Þeir voru Garðskagaviti, Gróttuviti og vitinn sem stóð í Skuggahverfinu í Reykjavík. Upp úr aldamótunum fer svo þróunin að verða nokkuð hröð. Á þessum upphafsárum voru olíulampar ljósgjafinn í vitunum og brenndu þeir steinolíu.
Olíulamparnir kröfðust mikillar natni af vitavörðunum, sem auk þess að sjá um að næg olía væri fyrir hendi urðu að gæta þess að halda kveiknum og lömpunum hreinum og svo framvegis. En þess ber að geta að um aldamótin var ljósabúnaðurinn sérlega vandaður og mikið í hann lagt. Þetta var hreinasta völundarsmíð. Allt gler var handslípað, svo sem ljósakrónurnar og ljósbrjóturinn sem magnar upp ljósið. Þessi tæki eru enn í notkun sums staðar úti á landi, orðin hátt í aldargömul, en tvö þau elstu eru geymd sem safngripir á Siglingastofnun. Annað er úr eldri Garðskagavita og er frá 1897, en að sjá sem nýtt væri.“
Í „Óðni“ árið 1907 er sagt frá konungsskiptum í Danmörku: „Fyrir rjettu ári flutti »Óðinn« mynd Kristjáns konungs IX., sem, eins og kunnugt er, andaðist 29. jan. síðastl. og blöð okkar hafa einróma talið Íslandi allra konunga bestan. Friðrik konungur er fæddur 3. júní 1843, en Lovísa drotning 31. okt. 1851.“
Í „Skólablaðinu“ árið 1912 er þess getið að Friðrik VIII hafi dáið þann 14. maí 1912.
Í „Bjarma“ árið 1907 segir: „Hans hátign Kristján X. tók við konungdómi 15. maí 1912, þegar hinn vinsæli konungur Friðrik VIII. féll svo sviplega frá.
Fyrstur konunga vorra hafði faðir hans, Kristján IX., heimsótt land vort, á þjóðhátíðinni 1874, þegar hann kom með frelsisskrá í föðurhendi. Enginn Danakonungur hafði fyr stigið fæti á frónska grund. Friðrik VIII. heimsótti land vort, sumarið 1907. Þá voru sjálfstæðismál þjóðarinnar efst á baugi. Þá voru ungmennafélögin í uppsiglingu og fánamálið framarlega á dagskrá. Friðrik VIII. talaði í veizlu á Kolviðarhóli, um »ríkin tvö«, og þótti Íslendingum það vel mælt, en Dönum miður. Friðrik konungur hafði mikinn áhuga fyrir því, að látið væri að óskum Íslendinga um meira frelsi. En tilraunir þær, sem gerðar voru í hans tíð, mishepnuðust, og svo féll hann sviplega frá 1912.“
„Heimilisblaðið“ 1937: „Hinn 10. þ. m. kemur Friðrik IX. Danakonungur og Ingiríður drottning hans í opinbera heimsókn til Íslands, og er þetta sjöunda konungskoman í sögu landsins, en Friðrik IX er fjórði konungurinn, sem sækir landið heim. Fyrstur kom langafi hans, Kristján IX., á þúsund ára afmæli byggðar landsins 1874; þá afi hans, Friðrik VIII., árið 1907 og loks faðir hans, Kristján X., en hann kom fjórum sinnum til Íslands í valdatíð sinni, árin 1921, 1926, 1930 og 1936.“
Í „Sunnudagsblaðinu“ árið 1956 er sagt frá því að „þann 20. mars 1908 var kveikt á núverandi Reykjanesvita sem er 73 metra yfir sjávarmáli“.
Loks segir frá byggingu þriðja vitans á Reykjanesi í „Morgunblaðinu“ árið 1998: „Árið 1947 var síðan Litliviti byggður á bjargbrúninni skammt austan við Blásíðubás. Sama ár voru ný hús byggð yfir vitavörðinn í stað þeirra eldri, sem ummerki sjást ekki eftir í dag“.
Ekki er getið um skjöldinn í bókinni „Vitar á Íslandi“ frá árinu 2002. Hann (þeir) hangir uppi á vegg Siglingastofnunar að Vesturvör 2 í Kópavogi, tignarlegir á að líta og greinilega vel um haldið. Þegar FERLIR hafði samband við stofnuna brást starfsmaður hennar, Baldur Bjartmarsson, mjög vel við; upplýsti um tilvist skjaldarins og gaf góðfúslega kost á ljósmyndun hans.
Skjöldurinn sjálfur, sem er úr pottjárni og nánast mannhæðar hár, er með skjaldarmerki Kristjáns IX. og kórónu að ofan. Undir er spjald með áletrunni 1908 (MCMVIII). Til hliðar er annar skjöldur, minni, einnig úr pottjárni, með skjaldarmerki Friðriks VIII., en sá skjöldur hafði verið skrúfaður hafði verið yfir hinn.
Spjald við skjöldinn á vegg Siglingastofnunar: „Fyrsti viti á Íslandi var byggður á Reykjanesi 1878 og endurbyggður á öðrum stað 1908. Þetta konungsmerki var sett á seinni bygginguna. Eftir að Friðrik VIII. tók við stjórnartaumunum var neðra merkið sett yfir það fyrra“.
Hafa ber í huga, samanber ofangreint, að Friðrik VIII. var konungur yfir Íslandi þegar vitinn var vígður, en ekki faðir hans Kristján IX., sem dó 1907. Líkast til hefur skjöldurinn þegar verið mótaður í tíð Kristjáns, en honum síðan breytt viðeigandi eftir andlát hans.
Að sögn Konráðs Óla Fjeldsteds man vel eftir skildinum á vitanum. Hann hefði verið settur upp í tilefni af víxlu hans 1908. Flaggað hafði verið með hárri flaggstöng og stórum dönskum fána á Stanghól gegnt vitavarðarhúsinu af því tilefni. Sjálfur hefði hann haldið að konungur, Friðrik VIII., hefði komið til landsins af því tilefni, en þó hafi það ekki verið víst, sjálfur væri hann fæddur 1943. Skjöldurinn hefði síðan hangið uppi allt þangað til vitinn var múraður síðast, líklega um 1970. Þá hafi skjöldurinn verið færður inn eftir og ekki sést síðan. Skjaldarmerki konungs hefði einnig verið á ljósakúplinum í vitanum. Áður hefði verið þar gaslukt, en konungur hefði einnig gefið nýtt ljósker í tilefni víxlunnar.
Þarna er kominn skýringin á skjaldarmerkinu sem og á þeim tveimur merkjum konunga Íslands sem og tilvist þess á nýjum stað.
Skjaldarmerkið verður 105 ára á þessu ári (ef miðað er við uppruna þess). Því má með sanni telja það til fornminja sbr. ákvæði þjóðminjalaga. Lagt er þó til að skjaldarmerkið (skjaldarmerkin) umrædda verði fært aftur á upprunalega sögustaðinn – á Reykjanesvitann, þar sem það myndi sóma sér vel og vekja forvitni og aðdáun ferðamanna á svæðinu um ókomna tíð.
Heimild:
-Sjómannablaðið, 61. árg. 1998, 1. tbl., bls. 119.
-Baldur Bjartmarsson, Siglingastofnun.
-Sjómannablaðið Víkingur, Steingrímur Jónsson, 40. árg. 1978, 11.-12. tbl. bls. 21-26.
-Óðinn, 2. árg. 1906-1907, 1. tbl. bls. 2.
-Skólablaðið, 6. árg. 1912, 6. tbl., bls. 81.
-Bjarmi, 1. árg. 1907, 14. tbl., bls. 105.
-Heimilisblaðið, 26. árg. 1937, 5. tbl. bls. 67.
-Sunnudagsblaðið, 8. apríl 1956, bls. 129.
-Morgunblaðið 1. des. 1998, bls. 78.
-Vitar á Íslandi, Leiðarljós á landsins ströndum 1878-2002, Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson, Siglingastofnun, 2002.
-Konráð Óli Fjeldsted, f. 1943, Reykjanesbæ, sonur Sigurjóns Ólafssonar vitavarðar í Reykjanesvita.
Reykjanesviti.
Á leið til Krýsuvíkur
Eftirfarandi frásögn er úr Lesbók MBL 1950:
„Þessi mynd úr ferðabók Charles S. Forbes, er ferðist hjer um land 1859. Henni fylgir þessi lýsing á leiðinni frá Hafnarfirði suður á Ketilstíg: „Áfram, áfram var haldið, reynir vindur og regn mjög á hlífðarföt vor og fótabúnað. En við
Ferðast um Kapelluhraun – teikning frá 19. öld.
höfum vindinn á eftir og það flýtir fyrir okkur. Óhugsandi hefði verið að ferðast á móti honum. – Alls stað er er sama tilbreytingarleysið. Stundum liggur vegurinn yfir helluhraun og stundum yfir holuhraun. Það er hættulegt, einkum vegna þess hvað við förum greitt, því að í gegn um sprungur og gjótur getum við sjeð niður í hella, sem myndast hafa af gufum og er þakið á þeim stundum eitt eða tvö fet á þykt, en stundum ekki nema fáir þumlungar. Um veginn sjálfan er það að segja að hann var eins og gjallhrannir úr járnbræðsluofni, en þar sem hann var eitthvað skárri, var hann krókóttur og sleipur. En litlu, gáfuðu hestarnir okkar gerðu hvorki að hnjóta nje detta. Það var dásamlegt hvernig þeir reyndust. Jeg hefði ekki trúað því að hægt væri að ferðast ríðandi, ef jeg hefði ekki horft á leiðtoga okkar, stiftamtmanninn, sem altaf var á undan. Það hefði ekki verið þægilegt að detta hjer af baki, því að alls staðar er yfirborðið glerhart eins og járn. Á myndinni má betur sjá hvernig höfundi hefur funndist vegurinn. Það er engu líkara en að þeir fjelagar þræði háeggja Sveifluháls. Í baksýn sjer út á flóann og er sólin að setjast við Snæfellsjökul. Er nokkur mótsögn í því og lýsingu hans á veðrinu.“
Líklegra er að myndin sýni Helgafell í baksýn ef leið þeirra félaga hefur legið til Krýsuvíkur.
Heimild:
Mbl. 5. nóv. 1950.
Vatnsendahlíð – Guðmundarlundur – Básar
Stefnan var tekin á Vatnsendahlíð. Ætlunin var að skoða þar sitt hvora fornleifina, báðar leifar breitarhúsa.
Beitarhús frá Vatnsenda á Vatnsendaheiði.
Árið 1807 var með konungsboði sett á laggirnar nefnd til varðveislu fornminja í Danmörku og nýlendum hennar. Árni Helgason (1777 – 1869), dómkirkjuprestur í Reykavík árin 1814 – 1825, svaraði nefndinni árið 1821. Í fornleifaskýrslu sinni telur hann upp þrjá gripi, alla tilheyrandi Dómkirkjunni í Reykjavík. Í bréfi til Finns Magnússonar, dags. 1. mars sama ár, barmar Árni sér yfir fátækt sóknarinnar. Hann segir: „Hún er fyrst ein sú fátækasta á landinu af gömlum Menjagripum, þad sem hingad hefur komid, er jafnodum burtflutt til Kaupenhavnar af þeim utlendu er hellst hafa reist um sudurland. Af Sogum vorum er ecki ad ráda ad her á Nesi hafi nockud Hof verid i fornöld, þes siást ej heldur Menjar. Eingin veit her til Hauga, nema Óbóta manna sem dysiadir eru nálægt Kopavogi, Þingstad fornum her i Sveit. Þad er furdulegt ad í þeim stad sem fyrst bygdist á landinu skuli hvérgi siást neitt þeirra handaverk og nærri hvergi í Sögum getid þeirra sem hér hafa búid.“
Beitarhús frá Vatnsenda á Vatnsendaheiði.
Lýsingar af þessu tagi voru algengar um allt land og ekkert einsdæmi að prestar teldu sínar sóknir skorta fornaldarminjar jafnt sem önnur gæði. Í bréfi sem Árni prestur sendi með skýrslu sinni dagsettu þann 20. júní 1821 skýrir hann nánar út ástæður þess að á hans ófrjósama landshorni finnist ekkert markvert, þrátt fyrir að sjálfur Ingólfur Arnarson hafi numið þar land. Hafa ber í huga þegar þetta var skrifað í byrjun 19. aldar voru þær minjar, sem nú eru friðlýstar og þykja merkilegar, hluti af „nútímanum“ og því lítt merkilegar. „Til eru aðrar heimildir en skriflegar um byggð í Kópavogi, en það eru fornleifarnar sem þar finnast. Margt er enn ósagt um þær, aðeins nokkrar þeirra hafa verið rannsakaðar og engar þeirra alveg til fulls.“
Beitarhús á Vatnsendaheiði.
Í Fornleifaskrá Kópavogs, 2000, eftir Bjarna F. Einarsson, er getið um tvær fornleifar á hæðum ofan Vatnsenda, auk tveggja varða, á og við Vatnsendahlíð. Hin fyrrnefnda er „rúst (stekkur?) undir Vatnsendahvarfi. Rústin er fornleg að sjá. Ekki er sennilegt að um stekk sé að ræða, mun heldur beitarhús frá Vatnsenda. Uppblástur er einhver við rústina og tryggja þarf að hún verði honum ekki að bráð, annaðhvort með því að stöðva uppblásturinn eða rannsaka rústina. Með vaxandi byggð mun rústinni stafa ákveðin hætta og áður en að hún fer að verða fyrir spjöllum þarf að rannsaka hana til að komast að tegund hennar og aldri.
Beitarhús frá Vatnsenda við Litlabás.
Vegghleðsla í beitarhúsinu á Vatnsendaheiði.
Hin er beitarhús suður af Litlabás. „Eins og algengt er þá er beitarhúsið ekki langt frá landamerkjum Vatnsenda og Vífilsstaða. Þannig var hægt að nýta betur sitt eigið land og jafnvel land nágrannans einnig. Húsið er eitt tveggja beitarhúsa í Kópavogi (eða á hinu skráða svæði) og það elsta. Svæðið í kring um beitarhúsið er kjörið útivistarsvæði og mætti hugsa sér að nýta það til að segja sögu fjárbúskapar fyrr á öldum.“ Um þessa fornleif ofan við Litlabás segir ennfremur: „Beitarhús, engin hætta á raski, ágætt ástand, aldur 1550-1900 og minjagildi talsvert.“
Rústin stendur nokkuð hátt í grasi gróinni hæð. Af byggingarlagi að dæma má telja líklegt að rústin, sem er þrískipt; tvö fjárhús og heimkuml, sé frá því á seinni hluta 19. aldar. Veggir eru vandlega hlaðnir og tiltölulega sléttu mógrjóti, sem líkega er meginástæða staðsetningarinnar, auk þess sem vænlegt hefur þótt að hafa hana á vinsælum stað svo snjó festi síður við húsin. Þá hefur svæðið allt og verið kjarri vaxið og því ekki mörgum öðrum stöðum til að dreifa en þarna á hæðinni. Veggir standa nokkuð vel og má vel sjá byggingarlagið. Hlaðinn garður er eftir miðju syðstu tóftarinnar. Vandað hefur verið til verka. Fróðlegt væri að vita hver, eða hverjir, hafi verið þarna að verki. Líklegt má telja að fjárhús þetta hafi verið frá Vatnsenda. Mun stærri fjárhústóftir frá Elliðavatni er ekki svo langt frá, suðaustan við Vatnsendavatn, sjá HÉR.
Beitarhúsið við Litlabás.
Í skýrslunni (frá 2000) kemur m.a. fram að í Kópavogi eru nú; „22 fornleifar á 19 stöðum horfnar, þ.m.t. þær sem voru rannsakaðar og fjarlægðar. Flestar, ef ekki allar, hafa horfið á þessari öld og aðeins tvær þeirra eru rannsakaðar, en það eru Hjónadysjarnar við ósa Kópavogslækjarins og Kópavogsþingsstaður. Ástæður fjarlægingar eru m.a. athafnir setuliðsins á stríðsárunum og vöxtur bæjarins.
Eins og fram hefur komið eru fornleifar sbr. lögum 100 ára eða eldri. Af þessu leiðir að fljótlega munu fleiri minjar teljast til fornleifa svo sem minjar um fyrstu þéttingu byggðarinnar upp úr 1936, minjar um hersetuna,samgönguminjar o.s.frv. Trúlega verða fleiri minjar skilgreindar sem fornleifar síðar enda á það sama við okkur sem lifum í dag og Árna prest Helgason upp úr 1800, við sjáum ekki lengra en skilningur og þekking okkar leyfir.“
„Í hugum margra er Kópavogur tiltölulega sögulaust sveitarfélag, sem á upphaf sitt að rekja til 20. aldar. Það má vissulega til sanns vegar færa þar sem sveitarfélagið sjálft er ekki stofnað fyrr en 1948, en þétting byggðar hafði hafist nokkrum árum áður eða um 1936 (Lýður Björnsson 1990:46 og 146). Kaupstaðarréttindi fengust svo árið 1955. Á seinustu tveimur öldum var Kópavogur ekki í brennidepli og þótti jafnvel ekki búsældarlegt um að litast. Segir danski fræðimaðurinn Kristian P.E. Kålund svo frá jörðinni Kópavogi í ferðalýsingu sinni er birtist á prenti árin 1877-82: „Bærinn er á leiðum og ömurlegum stað; umhverfis hann eru lág grýtt hæðardrög eða dökkleitar þýfðar mýrar.“ (Kålund 1984:15).
Kópavogsjörðin var lang rýrasta jörðin af þeim jörðum sem eru í Kópavogslandi. Ekki er víst að jarðirnar hafi talist eftirsóknarverðar til ábúðar (Magnús Þorkelsson 1990(a):160). Það að nafnið á Hvammi breyttist í Hvammkot árið 1552 gefur vísbendingar um það. Hvammkotsnafninu var svo breytt um 1875 af Þorláki Guðmundssyni alþingismanni í Fífuhvamm (Guðlaugur R. Guðmundsson 1970:26 og 29).
Elsta ritaða heimild um byggð í landi Kópavogs er frá árinu 1234. Þá bregður Vatnsenda fyrst fyrir í Máldagaskrá um eignir Maríu kirkju og staðar í Viðey. Segir m.a. svo í skránni: „hvn a oc Elliðavatz land hálft. Oc allt land at vatzenda. Með þeim veiðvm oc gæðvm er þeim hafa fylgt at fornv. … Hamvndur gaf til staðarins holm þann. Er liggr j elliða am. niðr fra Vatzenda holmi.“ (Ísl. fornbréfasafn I 1857-76:507). Heimildir segja svo ekkert um svæðið fyrr en árið 1313, í skrá um leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs. Þá eru nefndir til sögunnar bæirnir Hvammur og Digranes, auk Vatnsenda. Segir m.a. svo um leigumálana í skránni: „At vatz ennda iij merkur. J hvamme c leigv. J digranesi iij merkur:“ (Ísl. fornbréfasafn II 1888:377).
Nafnið Kópavogur kemur fyrst fyrir í heimildum árið 1523. Er þar átt við Kópavogsþingstaðinn og tilefnið var dómur yfir Týla Péturssyni hirðstjóra, sem fundinn var sekur um morð o. fl. (Ísl. fornbréfasafn IX 1909-13:139-142). Bærinn Kópavogur kemur ekki fyrir í rituðum heimildum fyrr en 1553, þá í afgjaldareikningum Eggerts hirðstjóra Hannessonar á Bessastöðum. Er þar afgjald Þorsteins ábúanda tilgreint, en það var „viij alne vatmell.“ (Ísl. fornbréfasafn XII 1923-32:577).
Danska nefndin fyrrnefnda fékk nafnið Commissionen for oldsagers opbevaring. Nefndin sendi spurningalista til allra sókna konungsveldisins og til Íslands bárust þessir listar árið 1809, á dönsku.
Í bréfi sem Árni prestur Helgason sendi með skýrslu sinni dagsettu þann 20. júní 1821 skýrir hann nánar út ástæður þess að á hans ófrjósama landshorni finnist ekkert markvert, þrátt fyrir að sjálfur Ingólfur Arnarson hafi numið þar land. Árni skrifar: Vel tog Ingolf den förste Landnamsmand sig Boepæl i Reykevig; men baade dadlede hans Folkl da strax, denne hans Beslutning, og sagde de havde reist over alt for frugtbare Strækninger for at nedsætte sig her paa den nögne Kyst; og tillige fortælles at Jngolf siden efter, fandt det raadeligt at flytte her fra til Ølveset i sine ældre Aar, hvor hans Gravhöj ogsaa er at see. … Hof eller Tingstæd tales ikke heller om i dette Sogn; de som boede her sögte först Kialarnes, og siden til Hofstad på Alftenes … Her af synes jeg det er rïmeligt at paa dette Sted skulle man ikke vænte at finde Oldsagers Levninger.
Á þessum árum var skilgreining manna á fornleifum talsvert önnur en í dag og rústir í venjulegum skilningi ekki taldar til fornleifa. Yfirleitt áttu menn við leifar frá hinum glæsta þjóðveldistíma, sérstaklega tengdar þinghaldi og trúarbrögðum.“
Skammt frá Litlabás er Stóribás. Þar er nú hinn myndalegasti skógræktarlundur. Á skilti við Lundinn segir: „Guðmundur Halldór Jónsson varð snemma áhugasamur um ræktun landsins.
Hann er vaxinn úr grasi í fallegri sveit noðrur í Fljótum í Skagafirði, þar sem vetur eru snjóþungir og harðir, en jörð vaknar gjarnan iðagræn að vori undan hvítum feldi. Sú náttúrusýn hefur án efna haft sterk og mótandi áhrif á Guðmund. Hann hleypti ungur heimdraganum, en ann sínum bernskustöðvum og hefur á síðari árum kostað kapps að græða sárin foldar norður þar með umsvifamikilli skógrækt á jörð sinni Minna-Grindli.
Það er óhætt að segja að aðdragandi stofnunar Byggingavöruverslunar Kópavogs árið 1962, sem Guðmundur reisti og rak ásamt Hjalta Bjarnasyni mági sínum, hafi verið ræktunarstarf hans í landi Vatnsenda. Þar tók Guðmundur á leigu landspildu snemma á sjöunda áratugnum. Ásamt fyrri konu sinni Önnu Bjarnadóttur og börnum braut hann ófrjóa jörð og setti niður kartöflur og rófur. Uppskeran var síðan seld og ágóðanum varið í uppbyggingu verslunarrekstursins.
Guðmundarlundur.
Árið 1967 voru fyrstu trjáplöntur gróðursettar í Stórabásinn eins og þetta land heitir, þar á meðal sitkagrenisplanta, sem Guðmundur hljóp með upp í hlíðina og gróf niður mót suðvestri. Þetta tré er í dag mjög áberandi og gróskumikið þar sem það breiðir út sígrænar greinar og býður gesti og gangandi velkomna í Guðmundarlund. Af brennandi áhuga og óbilandi elju ræktaði Guðmundur upp þetta örfoka land, sem nú er orðið að sannkallaðri vin. Þegar illa áraði og harðir vetur brutu niður og eyðilögðu fyrri ræktunarstörf eða frostnætur á sumri felldu viðkvæmar plöntur, þá var horft til grenitrésins góða og byrjað upp á nýtt af tvíefldum krafti.
Guðmundarlundur.
Um árabil var plastgróðurhús í Stórabási eða Garðinum, því innan fjölskyldunnar var alltaf talað um að fara upp í Garð. Í þessu gróðurhúsi var eplatré ásamt perutré, sem bæði náðu að bera ávöxt og einnig heilmikil jarðaberjaræktun. Það er Guðmundi og fjölskyldu hans mikils virði að vita af þessum reit í höndum Skógræktarfélags Kópavogs og megi hann vaxa og dafna og veita bornum og óbornum ómældar yndisstundir.“
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimildir m.a:
-Skilti Skógræktarfélags Kópavogs við Guðmundarlund.
-Bjarni F. Einarsson – Fornleifaskráning Kópavogs 2000.
Vatnshlíðarhnúkur – Bliksteinar (Bleiksteinn)
Í umfjöllun um Höfðana við Hvaleyrarvatn er getið um Bliksteina, öðru nafni Bleiksteina eða Bleikstein.
Þegar örnefnalýsing fyrir Ás er lesin og reynt að staðsetja Bliksteina eftir henni er það næsta ómögulegt með nokkurri vissu þegar á vettvang er komið. Í örnefnalýsingunni (AG) fyrir Ás segir: „Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinaháls eða Bleiksteinaháls. Á honum eru tveir steinar ljósir að lit, sem heita Bliksteinar. Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.“
Ef hins vegar er skoðuð örnefnalýsing fyrir Hvaleyri segir um þetta: „“Línan móti Ási er á þessa leið: Úr Fuglstapaþúfum beina línu rétt fyrir sunnan Ásstekk í þúfu fyrir vestan skarð, sem er austast á Grísanesi, þaðan í Bleiksstein (svo) á Bleikisteinshálsi norðanverðum, þaðan um Hvaleyrarselhöfða, svo Þormóðshöfða og Fremstahöfða upp í Steinhús. Þetta er norðausturhlið landsins, sú sem veit að Ási.“ Síðar segir í sömu lýsingu: „Þá er næst Bleikisteinn í norðanverðum Bleikisteinshálsi.“
Eftir að hafa skoðað síðarnefndu örnefnalýsinguna var tiltölulega auðvelt að staðsetja Bleikstein. Á honum er gróin fuglaþúfa, sem einhverju sinni hefur verið lítil varða á jarðfastri klöppinni. Önnur klöpp er skammt norðar, en hefur verið raskað vegna grjótnáms í Hamranesi. Framan við Bleiksteinshálsinn (Bleiksteinahálsinn) er Hamranesið. Norðan undir því eru mikil björg, fagurlega skófum skreytt – trúlega álfabyggð. Dalurinn er í kvos norðan Hamradals og vestan við Bleiksteinsháls.
Nú hefur mikilli uppfyllingu verið hrúgað á hálsinn ofanverðan og austan í honum eru gamlir sorphaugar, sem nú er verið að nota sem tipp fyrir jarðvegsúrgang. Á ofanverðum Bleiksteinshálsi er óröskuð landamerkjavarða Áss og Hvaleyrar. Tippurinn er að nálgast vörðuna og vantar nú einungis 5-6 metra að henni.
Allt umleikis á holtinu hafa verktakar sætt lagi og tekið holtagrjót á víð og dreif til að selja garðeigendum, eflaust með leyfi bæjaryfirvalda.
Enn norðar er Vatnshlíðarhnúkur ofan Vatnshlíðar er hallar að Hvaleyrarvatni. Á honum er varða.
Fyrrnefndir Bliksteinar, Bliksteinn eða Bleiksteinn er sennilega eina þekkta örnefnið þeirrar merkingar á landinu (svo vitað sé). Því er ógnað þessa stundina; annars vegar með hinni miklu uppfyllingu að austanverðu og Hamranesnámunni að vestanverðu.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Hvaleyri.
-Örnefnalýsing fyrir Ás.
Bleiksteinsháls – kort.
Rústir Garðakirkju – Árni Óla
Árni Óla skrifaði um „Rústir Garðakirkju“ í Lesbók Morgunblaðsins ári 1951:
„Nú var það einn góðan veðurdag í sumar, að jeg hitti kunningja minn á götu og hann sagði: „Þú ættir að fara og skoða Garðakirkju, jeg er viss um að þjer þykir hún merkileg.“
Jeg ljet ekki segja mjer þetta tvisvar, steig upp í Landleiðabílinn og ók til Hafnarfjarðar. Og svo lagði jeg land undir fót, eins og svo ótal margir kirkjugestir höfðu áður gert. En nú eru gömlu göturnar horfnar og akvegir komnir í staðinn.
Landleiðavagn.
Það er ekki nema svo sem fjögurra rasta vegur frá Hamarskotslæk út að Görðum, og Hafnarfjarðarbær hefur nú teygt sig hálfa leiðina. Vegurinn liggur út með ströndinni. Hjer hefur hrauntlóðið fallið fram í sjó og má enn, eftir margar aldir sjá hverjar hamfarir hafa átt sjer stað, þegar glóandi hraunið og sjórinn mættust og alt varð hjer í eima og mökk, en ógurlegar gufusprengingar tættu hraunbreiðuna sundur, mynduðu gíga og turnuðu hálfstorknuðu hrauninu upp í hrannir og hrauka. Sumir þessir sprengjugígar eru nú grasi grónir í botninn, skemtilegar hvosir, þar sem er skjól í öllum áttum. En fram í sjóinn ganga svipill sker á aðra hönd og bera enn vitni um hver ákefð og þungi hefur verið í áhlaupi hraunstraumsins. Sjórinn varð að þoka undan því og um aldir hefur hann lamið þessar klappir og reynt að brjóta þær niður, en ekki tekist.
Garðavegur – steinn frá stríðstímum í götukanti.
Út á móts við Skerseyri liggur vegurinn yfir djúpa gjá eða hraunhvos og er þar hátt ofan af honum til beggja handa. Niðri í gjótunni liggja stórir steyptir steinar, þrístrendir og toppmyndaðir og líklega um metra á hæð. Steina þessa ljet herstjórnin steypa hjer á árunum og raðaði þeim á veginn. Var ætlunin að þvergirða veginn með þeim, ef til bardaga kæmi á landi. Eftir að herinn var farinn var þessum ferlíkjum velt ofan í gjótuna, en þeir eru, ásamt svo fjölda mörgu óðru, talandi tákn um það, að hernámsliðið bjóst við því í alvöru, að Þjóðverjar mundu gera innrás hjer.
Árni Óla.
Jeg er að svipast um hvort jeg sjái ekki turninn á Garðakirkju. En hann er hvergi sýnilegur. Þegar jeg kem út á móts við Bala hitti jeg unga og fallega stúlku og jeg dirfist að spyrja hana:
— Er langt út að Garðakirkju?
— Nei, hún er þarna, eða rústirnar af henni. Og hún bendir mjer á grátt hús og þaklaust fram undan.
— Hvenær var hún rifin? spurði jeg.
— Það eru mörg ár síðan, sagði hún. Turninn var orðinn svo ljelegur, að menn voru hræddir um að hann mundi hrynja. Og svo var hann rifinn og alt innan úr kirkjunni. En steinveggirnir standa enn.
Til hvers var kunningi minn að segja mjer að skoða kirkju, sem er alls ekki til? hugsaði jeg. Og í hálfgerðum vandræðum sagði jeg svo upphátt:
— Hvernig stóð á því að kirkjan hjer var lögð niður?
Það kom gletnissvipur á stúlkuna: — Þeir stofnuðu fríkirkju í Hafnarfirði og þá varð sóknarnefndin dauðhrædd um að allir Hafnfirðingar mundu verða fríkirkjumenn. Þeir mundu ekki nenna að ganga út að Garðakirkju, þegar kirkja væri komin í Hafnarfirði, og því ekki um annað að gera en flytja Garðakirkju til þeirra.
Fríkirkjan í Hafnarfirði í smíðum. Kirkjan var vígð þann 14. desember 1913 af séra Ólafi Ólafssyni presti safnaðarins og hafði hún þá verið reist á aðeins 3-4 mánuðum af nýstofnuðum söfnuðinum. Síðan hefur fjórum sinnum verið byggt við kirkjuna og síðast var henni breytt að innan við gagngerar endurbætur árið 1998.
Já, stundum kemur fjallið til Múhameds. Fyrir hundrað árum rúmum voru ekki nema fjögur eða fimm timburhús í Hafnarfirði. En smám saman tók hann að seiða til sín fólk. Jafnvægið í sókninni raskaðist. Garðahverfið, þar sem áður var mest þjettbýli, hvarf í skugga Hafnarfjarðar þegar hann reis á legg. Árið 1910 eru talin 228 hús í Hafnarfirði. Það var því eðlilegt að Hafnfirðingar gætu ekki unað því að sækja kirkju að Görðum, en vildu koma upp kirkju hjá sjer.
En þá var of dýrt fyrir Garðhverfinga að standa straum af sinni kirkju. Þeir kusu heldur að sækja kirkju til Hafnarfjarðar. Fólkinu fór líka fækkandi eftir því sem Hafnarfjórður óx. Þeir höfðu reist sjer skólahús skamt frá kirkjustaðnum. Nú eru skólaskyld börn svo fá í hverfinu, að það borgar sig ekki heldur að halda þar uppi skóla, svo börnunum er komið til kenslu að Bjarnastöðum eða í Hafnarfjörð og skólahúsið stendur autt. Þetta er eitt af tímanna táknum um þá þjóðflutninga, sem fara fram hjer innan lands.
En þetta breytist. Fólkið kemur aftur. Hafnarfjörður á fyrir sjer að þenjast út. Bygðin færist út með firðinum og gleypir einhvern tíma Garðahverfið. Og þegar svo er komið og mikil bygð er risin þar upp, þá þarf að koma þar bæði kirkja og skóli. Þá verður Garðakirkja endurreist og þá rís þar stórt og fagurt skólahús.
Jeg er kominn að Görðum. Þar hefur eitt sinn verið voldugur grjótgarður umhverfis túnið, en liggur nú hruninn og utan við hann er komin vírgirðing. Akbraut liggur heim túnið og skamt fyrir vestan hana stendur kirkjurústin gnapandi og einstæðingsleg, því að kirkjan hefur ekki staðið í kirkjugarðinum heldur utan við hann. Hún horfir tómum gluggatóftum út og suður og burstháir stafnar gnæfa yfir umhverfið. Veggirnir eru eitthvað um fjögurra metra háir, en stafnarnir helmingi hærri, því að rishæðin hefur verið álíka og vegghæð. Að innanmáli er kirkjutóftin 17 metrar á lengd og 8 á breidd. Öll er hún hlaðin úr íslensku grjóti og er hleðslan tvöföld, höggnir steinar í ytri hleðslu en óhöggnir í innri hleðslu og bundnir saman með steinlimi. Svo hafa allir veggir verið sljettaðir að utan og eins inni í aðalkirkjunni. Sjest enn á austurgafli boglína svo hátt uppi sem hvelfingin hefur náð.
Garðakirkja 1940.
En að innanverðu á vestri burstinni er hleðslan ber. Er snildar handbragð á henni og sýnir að þar hafa verið menn að verki, sem enn kunnu að hlaða sljetta og lóðrjetta veggi úr óhöggnu grjóti. Það munu fáir leika nú orðið og þess vegna er þessi bygging stórmerkileg, og þykir mjer ólíklegt að hún eigi nokkurn sinn líka hjer á landi. Hjer er byggingarlag, sem þyrfti að varðveitast, ef þess er nokkur kostur. Lítið á þennan háa og sljetta stafn, hlaðinn úr smáu grjóti, eins og það kom fyrir. Lítið á hleðsluna umhverfis dyrnar og hina bogadregnu glugga. Og segið mjer svo hvort þjer eruð mjer ekki sammála um að hjer sje íslensk byggingarlist, er sje þess virði að bún sje varðveitt. Að vísu er hún ekki svo gömul, að hún geti talist forngripur. En sje hún varðveitt, verður hún forngripur með tímanum, og mun þá þykja mjög merkilegur forngripur, er menn mundu ekki vilja missa fyrir nokkurn mun.
Um Garðapresta
Holger Rosenkrantz höfuðsmaður.
Garðakirkja var upphaflega helguð Pjetri postula. Prestatal hennar nær aftur til ársins 1284 og hafa þar setið margir merkir menn. Þar var Böðvar prestur Jónsson, er druknaði i Ölfusá 1518 ásamt dóttur sinni og fjölda manns (sumir segja 30, aðrir 40 eða 50). Var fólk þetta að koma úr pílagrímsför til krossins helga í Kaldaðarnesi. Þar var sjera Jón Ólafsson (um 1527—30) afi Jóns Egilssonar annálaritara og sjera Ólafs í Vestmannaeyum, er Tyrkir handtóku.
Eftir hann kom sjera Þórður Ólafsson, er dreymdi drauminn um Hannes hirðstjóra Eggertsson. — Hannes hafði látið taka Týla Pjetursson af lífi 1524 fyrir rán og gripdeildir. Árið 1530 varð Hannes bráðkvaddur í náðhúsinu á Bessastöðum. Þá dreymdi sjera Þórð að maður kom til hans og mælti: „Furðar yður hversu snögglega Hannes dó?“ Prestur kvað já við.
„Ekki skal yður undra það,“ mælti draummaður, „því að Hannes drap Týla og Týli drap Hannes.“
Sjera Jón Kráksson, hálfbróðir Guðbrands biskups (þeir voru synir Helgudóttur Jóns Sigmundssonar lögmanns) var kominn að Görðum 1569. Hjá honum dó Gísli biskup Jónsson á vísitatiuferð hinn 30, ágúst 1587.
Garðakirkja 1892.
Árið eftir tók Knútur Steinsson hirðstjóri Hlið á Álftanesi ásamt hjáleigum undan Garðakirkju, en ljet hana fá Vífilsstaði í staðinn. Í makaskiftabrjefinu lofaði hann að Garðakirkju skyldi árlega greidd ein tunna mjöls, vegna afgjaldsmismunar á þessum jörðum. En þegar Enevold Kruse varð valdsmaður, kom upp fjandskapur á milli hans og sjera Jóns Krákssonar, og til þess að hefna sín á presti, tók hann þessa mjöltunnu af Garðakirkju og hefur hún ekki goldist síðan. Sjera Jón Kráksson var grafinn í Garðakirkjugarð. Á legsteini hans var þessi áletrun: „Hjer hvílir sá frómi mann sjera Jón Kráksson, sem lifði trúlega, kendi siðlega, deyði loflega, ljóma mun eilíflega. Rjettlatir fara frá ógæfu og hvílast í sínum svefnhúsum.“ Hann dó 3. mars 1622, 89 ára að aldri. Dóttir hans var Margrjet kona Gísla lögmanns Hákonarsonar. Móðir hennar var Jarþrúður Þórólfsdóttir Eyólfssonar, en kona Eyólfs var Ásdís, systir Ögmundar biskups Pálssonar. — Biskup gaf Þórólfi systursyni sínum jarðirnar Laugarnes og Engey. Þess vegna komust þær jarðir í eigu Gísla lögmanns.
Garðakirkja 1956.
Eftir sjera Jón varð prestur í Görðum; Ólafur sonur hans, er jafnan skrifaði sig Ólaf Jónsson Kráksson. Hann var einlægur maður og bersögull og kom sjer því ekki vel við valdsmenn á Bessastöðum. Einu sinni er hann messaði í Bessastaðakirkju, kom vín og brauð ekki svo skjótt á altarið sem hann vildi, og sendi hann þá eftir hvoru tveggja heim að Görðum. Þá var Holger Rosenkrantz höfuðsmaður og notaði hann þetta tækifæri til þess að skylda Garðapresta að leggja framvegis vín og brauð til Bessastaðakirkju.
Þorkell Arngrímsson var prestur í Görðum 1658—1677. Hann var sonur Arngríms lærða á Melstað og Sigríður Bjarnadóttir, er kölluð var „kvennablómi“ af friðleik sínum. Þorkell prestur stundaði kálgarðarækt og þótti það nýlunda á þeim dögum. Hann var góður læknir og segir sagan að hann gæti læknað sár fjarverandi manna, ef honum væri sent blóð úr sárinu. Sonur hans var Jón biskup Vídalín, og var hann fyrst prestur í Görðum 1696—98.
Björn Jónsson Thorlacíus var prestur í Görðum 1720—1746. Laundóttir hans hjet Steinunn. Árið 1737 eignaðist hún barn og kendi það Skúla Magnússyni, er þá var sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, en hann vildi ekki gangast við því. Þá varð sjera Björn reiður og kvað honum eigi skyldi hlýða að gera dóttur sinni vansæmd. Gekk hann svo fast að Skúla að hann giftist Steinunni 15. sept. 1737. Má af slíku marka hver skörungur sjera Ólafur hefur verið, því að Skúli landfógeti ljet ekki sinn hlut fyrir neinum miðlungsmönnum.
Guðlaugur Þorgeirsson var prestur í Görðum 1747—1781. Hann tók að sjer að gera veðurathuganir fyrir þá Eggert Ólafsson og Bjarna Pálsson, og helt því síðan áfram til æviloka, eða um nær 30 ára skeið. Munu það vera hinar fyrstu samfeldu veðurathuganir, sem gerðar voru hjer á landi.
Árni Helgason bisku – 1777-1869.
Markús Magnússon var næsti prestur í Görðum (1781—1825). Hann var stiftprófastur og því bar honum að þjóna biskupsembætti þegar Hannes biskup Finnsson féll frá, og var það þá eitt af biskupsverkum hans að hann vígði dómkirkjuna í Reykjavík. Svo var hann í biskupskjöri, en féll fyrir Geir Vídalín. Hann stofnaði ásamt Jóni Sveinssyni landlækni fyrsta lestrarfjelag hjer á landi, og var það fyrir Gullbringusýslu, Kjósarsýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Hann hafði mikla garðrækt hjá sjer og árið 1787 fekk hann 10 rdl. verðlaun hjá landbústjórnarfjelaginu fyrir garðahleðslu. Munu það vera garðar hans sem enn sjer rústirnar af umhverfis túnið.
Síðan sátu jafnan þjóðkunnir menn í Görðum: Árni biskup Helgason 1825—1858, Helgi Hálfdanarson 1858—1867, Þórarinn Böðvarsson 1868—1895, Jens Pálsson 1895—1912.
Helgi Hálfdánarson prestur – 1826-1894.
Við prestkosningu þá er fram fór eftir fráfall sjera Jens Pálssonar, voru fimm prestar í kjöri. Voru þeim greidd atkvæði eins og hjer segir: Þorsteinn Briem 505, Björn Stefánsson 152, Guðmundur Einarsson 64, Árni Þorsteinsson 13 og Árni Björnsson 9. Þetta var í marsmánuði 1913. En mánuði seinna var haldinn fundur í Hafnarfirði og samþykkt að stofna þar fríkirkjusöfnuð. Þetta taldi sjera Þorsteinn Briem vera vantraust á sig og afsalaði sjer því embættinu. Um sumarið fór því aftur fram prestkosning og voru enn 5 umsækjendur. Þá fellu atkvæði svo, að sjera Árni Björnsson á Sauðárkróki var kosinn með 113 atkvæðum, Guðmundur Einarsson fekk 98, Björn Stefánsson 80, Sigurbjörn Á. Gíslason 5 og Hafsteinn Pjetursson ekkert atkvæði. Hinum nýkjörna presti var þá jafnframt gert að skyldu að flytjast til Hafnarfjarðar, ef kirkja yrði reist þar fyrir söfnuðinn. Sjera Árni var seinasti prestur í Görðum. Hann sat þar til 1928, en fluttist þá í Hafnarfjörð.
Ýmislegt um Garðakirkju
Fiskaklettur.
Akurgerði hjet jörð inst í Hafnarfirði og var hún eign Garðakirkju. Árið 1677 var hún tekin handa kaupmönnum, en Garðakirkja látin fá í staðinn 1/2 Rauðkollsstaði í Hnappadalssýslu, en vegna fjarlægðar varð kirkjan að selja þá jörð. Akurgerðisland eyddist smám saman af sjávargangi, og segir sjera Árni Helgason í sóknarlýsingu um 1840: „Enginn veit nú hve mikið land Akurgerði fylgdi, það hefur dankað svona, að kaupmenn sem eiga Akurgerði, eigna sjer ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamarskotslæk, og prestar í Görðum hafa ei ákært.“ Eftir þessu að dæma virðist hann hafa álitið að kaupmenn hafi sölsað undir sig meira land en þeim bar, jafnharðan og Akurgerðisland eyddist.
Gjáarrétt.
Kirkjuland heitir fyrir ofan bygðina, frá Elliðavatns og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi, og upp undir fjöllin. Þar áttu Garðar selstöðu og þar var haft í seli fram um 1832. Um 1840 var sett þar rjett fyrir Garðahrepp, hin svonefnda Gjáarrjett, sem enn stendur.
Skúli Magnússon.
Garðakirkja átti um miðja fyrri öld alt Garðahverfi og auk þess þessi býli: Hamarskot, Vífilsstaði, Hraunsholt og Selskarð. Hamarskotsland fekk Hafnarfjarðarkaupstaður keypt árið 1913, samkvæmt lagaheimild. Skúli Magnússon segir í sýslulýsingu sinni að þá sje 32 býli í Garðakirkjusókn, þar af voru 11 konungseign, 19 eign Garðakirkju og aðeins 2 bændaeign…
Lónakotsbærinn um 1940.
Syðsta býlið í sókninni var Lónakot, en það hafði eyðst af sjávargangi 1776. Gekk þá sjór yfir túnið, reif upp allan grassvörð, fylti bæjarhúsin og vörina með grjóti og möl. Sjera Árni Helgason segir að þau munnmæli gangi að út af þessu hafi bóndinn þar orðið svo sturlaður að hann hafi fyrirfarið sjer, og síðan hafi enginn þorað að búa þar. En Skúli Magnússon segir að margar skoðunargerðir hafi farið fram á jörðinni, og þar sje hvergi 30 ferálna stór blettur, sem hægt sje að gera að túni. Þó var bygð tekin upp aftur í Lónakoti um 1840.
Garðahverfi – bæir.
Árið 1781 eru áhöld um fólksfjölda í Garðasókn og Reykjavík. Þá eru taldir 385 íbúar í Garðasókn en 394 í Reykjavík. En talsverður munur virðist hafa verið á lífskjörum manna í þessum tveim ur sóknum, hvað þau hafa verið betri í Garðasókn. Þar var þá 41 bóndi, 14 hjáleigumenn og 34 þurrabúðarmenn. En í Reykjavíkursókn voru 8 bændur, 24 hjáleigubændur og 59 þurrabúðarmenn. Kvikfjáreign þessara manna var samtals (tölurnar fyrir Reykjavík í svigum): kýr 112 (69), kvígur 5 (1). naut 2 (1), kálfar 3 (2), ær 200 (20), sauðir 116 (9), hross 146 (106). Samkvæmt þessu eru rúmlega 3 menn um hverja kú í Garðasókn, en 5 1/2 um hverja kú í Reykjavík. Í Garðasókn eru tæplega tveir um hverja á, en nær 20 í Reykjavík. Og þegar þess er nú gætt, að þá var altaf fært frá, sjest best hvað viðurværi hefur verið betra í Garðasókn vegna þess að þeir höfðu miklu meiri mjólk en Reykvíkingar. Og svo eiga þeir í Garðasókn sauði til frálags, en Reykvíkingar sama sem sauðlausir.
Þórarinn Böðvarsson prestur – 1825-1895.
Lengstum mun hafa verið torfkirkja í Görðum. En timburkirkja er komin þar fyrir 1853. (Það ætti að vera kirkjan, sem Vellýgni Bjarni bjargaði. Hann var að koma úr róðri í dimmviðri og sá þá einhverja svarta flyksu í loftinu. Hann náði í hana og var þetta þá Garðakirkja. Hafði hún fokið. En Bjarni flutti hana í land og skilaði henni á sinn stað). Þessi kirkja var orðin ófær til messugerðar árið 1878, og heíur hún því sjálfsagt verið orðin nokkuð gömul, líklega bygð snemma á 19. öld. Um þetta leyti var sjera Þórarinn Böðvarsson prestur í Görðum. Vildi hann að kirkjan væri rifin og ný sóknarkirkja reist í Hafnarfirði, þar sem meginþorri sóknarbarnanna var. En því fekst ekki framgengt. Og svo var steinkirkjan bygð í Görðum 1879. Þótti hún þá veglegt hús.
Upp úr aldamótunum fór íbúum Hafnarfjarðar að fjölga mjög ört, og komu þá upp raddir um að þangað skyldi kirkjan flutt. Var sjera Jens Pálsson því meðmæltur, en það fórst þó fyrir. En árið 1910 afhenti hann sóknarnefnd Garðakirkju til umsjónar og fjárhalds.
Hafnarfjörður 1910. Kirkjan var byggð á túnblettinum miðsvæðis ofanverðum.
Eins og fyr getur höfðu Hafnfirðingar stofnað fríkirkjusöfnuð 1913 og sama árið reistu þeir veglega kirkju handa sjer. Leist þjóðkirkjusöfnuðinum þá ekki á blikuna, svo að þá um sumarið var fengið leyfi til þess að Garðakirkja yrði lögð niður og ný kirkja reist í Hafnarfirði. Var byrjað að grafa fyrir grunni hinnar nýu kirkju þá um haustið og komst hún upp ári síðar en fríkirkjan. Þá var talað um að selja Garðakirkju, en það fórst fyrir og var hún látin standa, en gripir hennar fluttir í hina nýju kirkju í Hafnarfirði. Tveimur árum seinna (1916) bundust 10 menn samtökum um að kaupa hina gömlu Garðakirkju og ætluðu að halda henni við. Flestir þeirra eru nú dánir og af kirkjunni er ekki annað eftir en steinveggirnir.
Gamlar kirkju í Hafnarfirði
Fríkirkjan í Hafnarfirði.
Nú voru risnar upp tvær nýar kirkjur í Hafnarfirði, eftir að staðurinn hafði verið kirkjulaus í hartnær tvær aldir. En áður höfðu verið þar tvær kirkjur.
Á Hvaleyri var kirkja í kaþólskum sið. Jörðin hafði snemma verið gefin Viðeyarklaustri, en kirkjunnar er fyrst getið á dögum Steinmóðs ábóta Bárðarsonar í Viðey (1444—1481). Hún á þá Hvaleyrarland. Í vísitatiubók Gísla biskups Oddssonar á árunum 1632—37 er lýsing á kirkjunni og segir að hún hafi verið með þremur bitum á lofti auk stafnbita. Í Jarðabók Árna og Páls er talin hálfkirkja á Hvaleyri og sögð liggja undir Garða og þar messað þrisvar á ári. Þetta var graftarkirkja og sást til skamms tíma móta fyrir kirkjugarðinum. Hún var lögð niður með konungsboði 17. maí 1765 og er þá nefnd bænhús. Mun hún seinast hafa verið svokölluð fjórðungskirkja og aðeins fyrir heimafólk.
Hafnarfjarðarkirkja. Kirkjan var vígð 20. desember 1914. Áður áttu Hafnfirðingar kirkjusókn að Görðum á Álftanesi.
Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðar-réttindi árið 1908 komst skriður á kirkju-byggingarmálið, þótt sú hugmynd hefði reyndar komið fram áður, t.d. um miðja 19. öld að byggð yrði kirkja í Firðinum. Hafnfirðingar leituðu til Rögnvalds Ólafssonar um teikningu að kirkju og skilaði hann teikningu í febrúar 1909. Samkvæmt henni var kirkjan úr steinsteypu og átti að taka 500 manns í sæti eða þriðjung íbúa kaupstaðarins.
Var kirkjunni valinn staður í landi sem bæjarfógeti hafði til umsjónar við Strandgötu. Framkvæmdir við kirkjugrunninn hófust haustið 1913 og lauk smíðinni á aðventu 1914. Yfirsmiður var Guðni Þorláksson, en hann andaðist úr lungnabólgu um það leyti sem smíði kirkjunnar lauk og var lík hans borið í kirkjuna á Þorláksmessu. Biskupinn, hr. Þórhallur Bjarnason, vígði kirkjuna 20. desember 1914.
Hina kirkjuna reistu Hamborgarkaupmenn þegar þeir versluðu í Hafnarfirði og er hennar fyrst getið 1537. Ekki vita menn nú hvar hún hefur staðið, en talið sennilegt að hún hafi verið á Óseyri, sunnan við fjörðinn. Kirkja þessi hefur verið timburkirkja og vönduð, því að þess er getið að hún hafi verið með koparþaki. Þessi kirkja var auðvitað óháð Skálholtsstól og þess vegna eru litlar heimildir um hana. Þó finst getið þriggja presta, sem þar voru á árunum 1538—1552.
Hinn 24. apríl 1608 skipaði Kristján IV. svo fyrir, að öll hús Þjóðverja hjer á landi, þau er stæði á jarðeignum kirkju eða konungs, skyldu rifin, og sennilega hefur þá kirkjan líka verið rifin.
Kirkjugarður í eyði
Kirkjugarðurinn í Görðum er umgirtur grjótgarði á þrjá vegu, en trjegirðingu á einn veg. Hann er nokkuð stór, þegar miðað er við kirkjugarða í sveit. En hann varð þó of lítill vegna þess hvað sóknarfólkið er margt. Um átta ára skeið eftir að Garðakirkja var lögð niður, voru öll slík frá Hafnarfirði flutt þangað til greftrunar. En þá var svo komið, þrátt fyrir það að kirkjugarðurinn hafði verið stækkaður, að hann var út grafinn. Og þá rjeðust Hafnfirðingar í það að gera nýan kirkjugarð hjá sjer á svokölluðum Öldum, sunnan og ofan við bæinn, og fór fyrsta greftrunin fram þar í mars 1921. Síðan er Garðakirkjugarður í eyði, eins og kirkjan, en samt hefur verið jarðað í honum við og við, vegna þess að menn hafa viljað láta ættingja hvíla saman.
„Nautgæfa fóðurgrasið grær“ á leiðunum í Garðakirkjugarði eins og í öðrum kirkjugörðum. Og hann hefur verið sleginn og taðan er komin í bagga, sem liggja þar í garðinum. Það er verið að hirða túnið og þessir baggar verða fluttir til hlöðu fyrir kvöldið.“
Sjá fróðleik um endurreisn Garðakirkju HÉR og HÉR.
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 47. tbl. 24.12.1951, Rústir Garðakirkju – Árni Óla, bls. 585-591.
Garðakirkja og kirkjugarðurinn 2014.
Grímannsfell – skilti
Við Grímannsfell í Mosfellsbæ er skilti. Á því má lesa eftirfarandi texta:
Halldór Laxnes við Köldukvísl.
„Kaldakvísl er dragá sem á upptök sín austan Grímannsfells og fellur eftir endilöngum Mosfellsdal. Suðurá sameinast ánni neðst í dalnum en Kaldakvísl fellur til sjávar í Leirvog.
Handan árinnar rís Grímannsfell 484 metra yfir sjávarmáli og er eitt hæst þeirra fella sem prýða sveitarfélagið. Fjallið, sem er að mestu úr móbergi og grágrýti, er einnig nefnt Grímarsfell og hafði Halldór Laxnes skýringu á þeirri nafnbreytingu. Hann ritaði í bókinni „Grikklandsárið“ sem kom út árið 1980: „Frá Laxnesi lokar Grímarsfell sjóndeildarhringnum til suðausturs og horfa klettabelti fjallsins í norður mót okkur, og safna skugga; fjallið hefur upphaflega verið kennt við Grímar sem síðan breyttist í Grímann uppá dönsku eins og annað hér. Efst í klettabeltunum klofnar fjallið fyrir miðju, en fyrir neðan kluftina byrja grænar hlíðar og hallar niðrað á þeirri sem fellur meðfram fjallinu ofan dalinn, Köldukvísl.“
Foss í Köldukvísl.
Jónsbók – má sjá merki hennar í fornleifauppgrefti?
Verkefni þetta var unnið í Ritheimildarrýni í Fornleifafræði við HÍ 2006.
Inngangur
Má sjá merki Jónsbókar í fornleifauppgrefti? Í leit að svari við þessari spurningu ákváðum við að best væri að lesa lögin gaumgæfilega en einnig ákváðum við að fara í atriðisorðaskrá Jónsbókar og vinsa út þau atriðiðsorð sem gætu verið „sýnileg“ á vettvangi. Ákvæði Jónsbókar og þau atriðisorð sem skoðuð voru er að finna í meðfylgjandi fylgiskjölum. Við ákváðum einnig að kynna okkur fjóra uppgraftastaði sem voru allir nema einn í byggð á gildistíma laganna. Þessir staðir eru Gljáskógar sem fór í eyði um miðja 11. öld, Þórarinsstaðir sem fór í eyði í lok 12. aldar, Gröf í Öræfum sem fór í eyði um miðja 14. öld og Kúabót í Álftaveri sem fór í eyði um miðja 15. öld. Uppgraftarskýrslurnar voru bornar við ákvæðin og atriðisorðin í leit að einhverri samsvörun. Að því loknu var ákveðið að taka út fjóra þætti og skoða þá sérstaklega. Þeir þættir eru ábúðarskylda, sáir og keröld, eyðibýli og loks byggðarlög og stærri svæði. Eftirfarandi greinargerð er afrakstur þeirrar vinnu.
Uppgraftarskýrslur
-Gljáskógar í Þjórsárdal
Kristján Eldjárn rannsakaði bæjarleifar í Gljáskógum í Þjórsárdal á árunum 1949-1960. Rústir bæjarins eru rétt um 2 km norðaustur af þjóðveldisbænum Stöng og er byggingarstíllinn áþekkur. Kristján taldi að bærinn hafi verið reistur á öðrum fjórðungi 11. aldar og farið í eyði rétt eftir miðja 11. öld og því aðeins verið í byggð í skamman tíma. Lokaskýrsla var svo gefin út í Árbók hins íslenzka fornleifafélags árið 1961.
–Þórarinsstaðir í Þjórsárdal
Kristján Eldjárn rannsakaði Þórarinsstaði í Þjórsárdal sumarið 1945. Kristján ályktaði um aldur rústanna og taldi að bærinn hafi aðeins verið í byggð í skamman tíma, líkt og í Gljáskógum, og taldi hann að bærinn hafi verið byggður um miðbik 13. aldar og farið í eyði í kringum árið 1300 í Helklugosi. Lokaskýrsla um uppgröftinn var síðan gefin út í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1949.
–Gröf í Öræfasveit
Gísli Gestsson hóf rannsókn bæjarleifa á Gröf í Öræfum árið 1955. Þar fundust leifar af bæ frá 14. öld sem fór í eyði vegna goss í Öræfajökli árið 1362. Taldi Gísli jafnframt að hugsanlega væru eldri búsetuminjar undir þeim fornleifum sem rannsakaðar voru. Lokaskýrsla um uppgröftinn var gefin út í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1959.
–Kúabót í Álftaveri
Á árunum 1972-1976 fór fram fornleifauppgröftur í Álftaveri undir stjórn Gísla Gestssonar á bæ sem seinna hlaut nafnið Kúabót. Á Kúabót var grafinn upp frekar stór bær ásamt heimakirkju. Jökulhlaup í kjölfarið á Kötlugosi mun hafa lagt bæinn í eyði í lok 14. aldar. Hugsanlega eru á staðnum eldri búsetuminjar. Lokaskýrsla var gefin út í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1986.
Jónsbók
–Ábúðarskylda
Er hægt að nýta ákvæði Jónsbókar um ábúðarskyldu leiguliða við túlkun fornleifa og á meðan uppgrefti stendur? Ef tillit er tekið til þeirra skýrslna sem lesnar voru má segja að fornleifafræðingarnir hefðu getað haft Búnaðarbálk Jónsbókar til hliðsjónar. Þar stendur að Leiguliðar skulu koma með allt sitt innbú til hússins og jafnframt taka það með sér þegar á fardaga er komið. Allt sem er naglfast í húsunum er eign jarðeiganda. Þetta ákvæði kemur fyrir í lið 9. Í lið 3 er grein gerð fyrir þeirri skyldu leiguliða að halda við þeim húsum sem á jörðinni voru þegar hann kom. Í lið 4 kemur fram hvenær leiguliði skuli koma og fara af jörðinni sem og hvað honum ber að taka með sér.
Ef uppgraftarskýrslur eru skoðaðar með hliðsjón af ábúðarskyldu leiguliða kemur í ljós að Jónsbók hefur vissulega einhverju við að bæta. Í uppgraftarskýrslunni á Gröf í Öræfasveit kemur fram að ekki er að sjá að þilin við bæjardyrnar hafi verið festar með járnöglum, hvorki á stoðirnar né aurstokkinn.
Eins og þegar hefur komið fram er í Jónsbók að finna ákvæði um að allt sem er naglfast í húsum sé eign jarðeiganda, hvort sem leiguliði hafi naglfest viðkomandi hlut eða jarðeigandi. Þó að Gísli lýsi og skrifi lítið um þetta má jafnvel draga þá ályktun af því að menn reyndu að komast í kringum þessi lög með því að festa þilin með öðrum hætti. Þannig að viðurinn sem fór í þilin myndi alfarið vera eign leiguliða.
Næst er vert að skoða uppgreftina á Kúabót og Þórarinsstöðum. Ekkert af húsgögnum og búsáhöldum fundust við þá uppgrefti ef frá eru taldir leifar sáa og setstokka á Kúabót. Erfitt er að sjá beint samband uppgraftanna við ávkæða Jónsbókar túlka eitthvað um ábúðarskylduna útfrá skýrslunum. Þó má ekki gleyma að báðir bæirnir fóru í eyði vegna hamfara og hefur það vissulega sitt að segja um hvað fólkið skildi eftir og hvað það tók með sér. Segja má að þegar bæirnir fóru í eyði hefur fólkið örugglega tekið nær allt með sér sem auðvelt var að taka í þeirri von að getað haldið áfram búskap.
Gljáskógar skera sig úr sökum þess að í raun fannst nánast ekkert við uppgröftinn þar. Auk þess er Gljáskógar eini bærinn sem ekki var yfirgefinn vegna hamfara. Gljáskógar var einfaldlega yfirgefinn, afhverju er ekki gott að vita. Hér líkt og áðan er þó líklegt að ástæðan fyrir því hve fáir gripir fundust sé einmitt vegna ákvæði Jónsbókar.
–Sáir og keröld
Á öllum þeim stöðum sem skoðaðir voru var að finna niðurgrafin keröld (sái). Í Kúabót í Álftaverum var að finna fimm jarðgrafna sái, tvo í búrinu og tvo í skemmunni, auk hringlaga klefa í norðvesturhluta búrsins en þar var einnig sár. Aðeins voru þó varðveittir sáirnir tveir í búrinu og sárinn í hringlaga klefanum. Sáirnir tveir í skemmunni höfðu greinilega verið fjarlægðir áður en að bærinn fór í eyði. Á Þórarinsstöðum í Þjórsárdal höfðu einnig verið sáir en þeir líkt og sáirnir tveir í búrinu á Kúabót höfðu verið fjarlægðir. Kristján Eldjárn, sem rannsakaði staðinn, furðaði sig á hvernig menn fóru að því að ná sánum út og datt honum helst í hug að búrþakið hafi verið rofið og sánum þannig verið komið út. Á bænum Gröf í Öræfasveit var einnig að finna sá en hann hafði ekki verið fjarlægður áður en að vikurinn, sem varð til þess að bærinn lagðist í eyði, féll. Á Gljáskógum í Þjórsárdal er í gólfinu djúpt kringlótt far með steinhellu á botninum. Ekki er því óhugsandi að þar hafi verið geymdur sár og taldi Kristján að skyr hafi verið geymt í búrinu.
Í öllum dæmunum hafa verið í bæjunum a.m.k. á einhverjum tímapunkti sáir. Ýmist höfðu þeir verði fjarlægðir áður en bærinn lagðist í eyði eða höfðu verið skildir eftir. Jónsbók segir um sái að, „…[e]f maður fer af jörðu og á hann þar ker inni, þá skal hann það út hafa fært og allt búsgagn sitt hið síðasta laugardaginn í fardögum, nema hinn lofi. Rétt er mani að brjóta hús til þess að færa ker sitt út ef hann bætir húsið aftur jafnvel sem áður var, ella færi út í stöfum.” Greinilegt er af þessu ákvæði Jónsbókar að ætlast var til þess að menn tækju með sér sína sái bæði þegar þeir fóru af jörðinni og jafnframt að menn kæmu með sá með sér þegar flutt var á nýjan stað. Í þessu ljósi kemur því á óvart að sáir hafi verið skildir eftir bæði á Kúabót og á Gröf þar sem á Gljáskógum og Þórarinsstöðum talsverð vinna hafði verið lögð í að ná þeim út. Hugsanlega hefur mikið og skyndilegt gjóskufallið á Gröf og Jökulhlaupið á Kúabót haft eitthvað með það að segja og orðið til þess að á báðum stöðunum var tekin ákvörðun um að eyða ekki dýrmætum tíma og orku og sáirnir því skildir eftir. Á Þórarinsstöðum hefur hins vegar verið tekin ákvörðun um að sárinn hafi verið þess virði að eyða tíma og orku í að ná honum út. Með hliðsjón af ákvæði Jónsbókar má því ætla að þegar fólk fluttist búferlum hafi sáirnir ávallt fylgt með, rétt eins og aðrir gripir, og ekki verið skildir eftir nema í algerri neyð.
–Eyðibýli
Bæirnir Gröf, Þórarinsstaðir og Kúabót fóru allir í eyði vegna hamfara en bærinn Gljáskólgar var yfirgefinn. Í Jónsbók er ákvæði um eyðibýli og hversu skal fara með jörð ef hún fæst ekki byggð: „Engi maður skal bólstað sinn í eyði leggja ef hann fær byggt. En ef hann fær eigi til leigu byggt, á skal hann bjóða þeim með vottum þá jörð að leiga er næstir búa eftir því sem sex skynsamir menn meta.“ Bærinn Gljáskógar var yfirgefinn um miðja 11. öld en það er áður en að Jónsbók tekur gildi. Er hugsanlegt að þetta ákvæði Jónsbókar sé því tilraun til að sporna við því að bæir færu í eyði líkt og gerðist á Gljáskógum.
–Bæir og byggðarlög
Mikilvægt er að hafa texta Jónsbókar til hliðsjónar bæði við undirbúning og vettvangsskoðun fornleifaskráningar og þegar meta á heilstætt búsetulandslag. Ákvæði er varða t.d. jarðaskipti (bls. 178), löggarð (bls. 173), löghlið (bls. 179), skógarneyslu (bls. 171), þjóðgötu (bls. 186), brúargerð (bls. 187), marksteina (bls. 244) og aldingarða (bls. 244) gætu þar mögulega gefið upplýsingar sem kannski liggja ekki beinlínis í augum uppi þegar gögn eru metin.
Hvert býli hefur verið samfélag út af fyrir sig og Jónsbók gerir í rauninni að nokkru ráð fyrir að svo sé. Í nútíma fornleifafræði hefur verið lögð áhersla á að reyna að greina samfélög, breytingar, trú og einstaka áhrifaþætti út frá fornleifunum. Ljóst er að gildandi lög hafa haft áhrif hverju sinni og því er mikilvægt að skoða heilstæð svæði með hliðsjón af því. Hvar kann þessara áhrifa að gæta? Gætu áhrif laganna skýrt einstök ummerki? Slíkra spurninga hefur ekki verið spurt, a.m.k. sér þess ekki merki í textum eða lýsingum af fornleifauppgröftum. Þó er mikilvægt að horft sé til ákvæða Jónsbókar auk ákvæða Grágásar og Járnsíðu þegar einstakir fornleifauppgreftir eru metnir og túlkaðir eða þegar fornleifaskráning er gerð fyrir bæi og/eða svæði.
Lokaorð
Má sjá merki jónsbókar í fornleifauppgrefti? Ákvæði Jónsbókar höfðu greinilega áhrif á gildistíma laganna. Leiguliðum var tryggður réttur til þess að flytja öll búsgögn með sér nema það sem var naglfast. Í þeim fornleifafræðilegu dæmum sem skoðuð voru bar voru þess greinileg merki að þennan rétt notaðfærðu leiguliðar sér. Einnig var leiguliðum tryggður réttur til að flytja niðurgrafna sái með sér þegar þeir fluttust búferlum. Í dæmunum sem skoðuð voru má leiða líkum að því að sá réttur hafi einnig verið nýttur. Hugsanlega er einnig að finna í Jónsbók ákvæði sem sett voru til að sporna við eyðingu byggðar líkt og á Gljáskógum. Hvers vegna var Jónsbók þá ekki notuð af þeim fornleifafræðingum sem rannsökuðu þessa staði? Hugsast getur að á þeim tíma sem þessar fornleifarannsóknir voru gerðar hafi texti Jónsbókar aðeins verið aðgengilegur þröngum hópi fræðimanna sem höfðu fengið þjálfum í textafræði. Útgáfur Jónsbókar með nútímalegum texta hafa ekki verið aðgengilegar fyrr en nýlega og munu þær áreiðanlega stuðla að því að Jónsbók verði nú meira en áður notuð í fornleifafræðilegum tilgangi.
Heimildaskrá:
Gísli Gestsson, Lilja Árnadóttir og Guðrún Sveinbjarnardóttir: „Kúabót í Álftaveri I-VIII.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1986. Hið íslenzka fornleifafélag. Reykjavík, 1987.
Gísli Gestsson: „Gröf í Öræfum.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1959. Hið íslenzka fornleifafélag. Reykjavík, 1959. bls. 5-87.
Jónsbók. Lögbók Íslendinga. [Hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578] Már Jónsson tók saman. Háskólaútgáfan. Reykjavík, 2004.
Kristján Eldjárn: „Bær í Gljáskógum í Þjórsárdal.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1961. Hið íslenzka fornleifafélag. Reykjavík, 1961. bls. 7-46.
Kristján Eldjárn: „Eyðibyggð á Hrunamannaafrétti.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1943-48. Hið íslenzka fornleifafélag. Reykjavík, 1949. bls. 1-43.
Fylgiskjal 1.
Ákvæði Jónsbókar sem skoðuð voru við úrlausn verkefnisins.
-Búnaðarbálkur 1.
Ef maður vill leigja jörð annars manns verður að nást handsölur með 2 vitnum og viðkomandi að búa á jörðinni í að minnstakosti 12 mánuði. Ef viðkomandi borgar ekki, fær hann eigi þá jörð.
-Búnaðarbálkur 3. Ábúðarskylda leiguliða
Halda á öllum húsum til haga á jörðinni er leiguliði fékk jörðina. Ef einhver hús hafa hlotið skaða skal leiguliði bæta það áður en hann fer af henni. Ef það er ekki gert er leiguliði skilt að borga landsdróttin eða sjá um að viðgerð sé gerð. Ef hann byggir annað/fleiri hús á jörðinni á hann þau sjálfur En honum er skylt að bjóða landsdrottni að kaupa húsið. Ef að jarðareigandi vill ekki húsið má leiguliði taka húsið fyrir fardaga, ef hann gerir það ekki á sá húsið sem jörðina á. Ef að leiguliði bætir þau hús sem eru fyrir með sínum eiginn við skal hann fjarlæga hann áður en hann fer, ef hann gerir það ekki á jarðareigandi viðinn.
-Búnaðarbálkur 4. Hvenær leiguliði á að koma á jörðina.
Á að koma á jörðina þegar á vor er komið. Á að vera alfluttur þegar 6 vikur eru liðnar af sumri. Má flytja húsgögn og annað hafurtask sitt er húsrúm leyfir. Ef viðkomandi sem var þar fyrir er ekki kominn út má hann vera í fjárhúsunum í þrjár nætur.
-Búnaðarbálkur 5.Hvað gerist með leigujörð ef leiguliði mætir ekki á jörðina.
Ef leigliði sem ætlaði að vera á jörðinni mætir ekki er sjö vikur eru liðnar af sumri, má jarðareigandi nýta jörðina sembest hann telur. Hann má leigja jörðina aftur.
-Búnaðarbálkur 6. Leigujörð er byggð er tveimur
ef að jarðareigandi selur 2 mönnum jörð til leigu skal sá fá hana sem fyrstur leigði og jarðareigandi að bæta hinum tapið með því að leigja honum aðra jörð eða gjalda honum jafnmikið fé og landskuldin var. Þetta skal gerast 2 vikum eftir að upp hefur komist að 2 menn leigja sömu spilduna.
-Búnaðarbálkur 7. Hvað á að fylgja leigulandi samkvæmt lögum.
Til leigulands telst: Allar fuglaveiðar,fiskveiðar og eggver, nema um annað er samið. Leigulandi fylgir allur reki. Eggversfugla skal engi maður veiða. Allt torf. Allan þann skóg sem er í landinu. Nýta á skóginn sem hann ætti sjálfur.
-Búnaðarbálkur 8.Hvernig á að færa bú sín á fardögum.
Þegar 6 vikur eru liðnar af sumri, á fimmtudegi, er fyrsti fardagur. Seinasti fardagur er þá sunnudagurinn þar á eftir. Öll mykja undan fé leiguliða skal dreifð á vellina áður en hann fer.
-Búnaðarbálkur 9. Hversu upptækt er góss leiguliða ef eigi er brott fært.
Leiguliði skal fjarlæga öll húsgögn áður en hann fer, síðasta laugardag í fardögum. Allt það sem er naglfast á jarðareigandi, ef það er skemmt skal leiguliði bæta það. Hey og korn má vera á jörðinni svo lengi sem engum er mein af því.
-Búnaðarbálkur 11. Hverjum má leiguliði hey selja samkvæmt lögum.
Áður en leiguliði fer af jörðu er honum skylt að reyna selja hey sitt til landeiganda. Ef landeigandi vill ekki kaupa ræður leiguliði hvað hann gerir við það. Ef tveir menn eiga hlut í heyinu skal það skiptast áður en reynt er að selja það.
-Búnaðarbálkur 13. Hvernig leiguliðar eiga að skipta húsum.
Ef fleiri en einn búa í óskiptum húsum. þeir skulu elda hús að manntali eigi að jarðaráhöfn, því að hjón þurfueldingar en eigi húsin.
-Búnaðarbálkur 14. og 15. um taðfall og hvernig því skal skipta
-Búnaðarbálkur 17. Lögfesting jarða
lögfesta skal að krkju eða þingi. Skal hann segja; Eg lögfesti hér í dag eign mína er N heitir, akra og töður, engjar og skóga, holt og haga, vötn og veiðistaði…
-Búnaðarbálkur 23.
Maður skal gera löggarð um hey sitt á annars manns jörðu og grafa í sínu engimarki torf til, sama um löggarð í fjárhögum.
-Búnaðarbálkur 26. lögfesta og fimmtarstefna.
Ef menn skilur á vegna áverka á jörðu þá skal það lögfest leggja fyrir fimmtarstefnu ef svo þykist til.
-Búnaðarbálkur 29. Ábyrgð á voðaeldi
Sá sem kveikir eldinn á hann og er ábyrgur fyrir honum. Leiguliðar bæta 2/3 hluta tjóns af völdum voðaelds en jarðareigandi 1/3.
-Búnaðarbálkur 31 og 32. garðaskipti og löghlið, löggarðar.
-Búnaðarbálkur 41. hvernig fer með jörð sem ekki er búið á.
Þeir sem næstir búa jörðinni er boðið að leiga jörðina.
-Búnaðarbálkur 44. Varðandi þjóðgötur
Þóðgata á að vera fimm álna breið, nema ef engi er nálægt, þá skulu sex skynsamir menn meta aðgerðina. Bændum er skylt að gera veg um héruð þar sem mestur er almannavegur.
-Búnaðarbálkur 45. Brúargerð
Ef á skilur lönd manna, þá skal sá sem ætlar að byggja brúnna spyrja hinn aðilann hvort hann vilji það einnig. Ef hann vill það eigi má hann taka torf beggja vegna árinnar.
-Búnaðarbálkur 56. Hversu veiðar eiga löndum að fylgja.
Hver maður á öll vötn og veiðistaði á sinni jörð. Ef tveir menn eiga land að veiði á, eiga þeir jafnmikinn rétt.
-Búnaðarbálkur 57. Eign á fuglaveiðum.
Vali alla, elftur og gæs og alla aðra fugla ómerkta á hver maður á sinni jörð, leiguliði sem landsdrottinn, nema frá sé skilt í kaupum þeirra. Þernur, æður eða andir skulu engi maður veiða(200 faðma tólfræð frá eggveri annars manns). Ekki má veiða fugla í landi manns svo að firr verði af eggveri viðkomandi.
-Kaupabálkur 13. Varðandi skrúðklæði
„…hver sá maður sem hann á tuttugu hundrað fjár og eigi minna, hvort sem hann er kvongaður eður eigi, má bera eina treyju með kaprúni af skrúði. En sá sem á fjóra tigi hundraða má þar með bera einn skrúðkyrti. Sá sem á átta tigi hundraða má bera þar með ólpu eður kápu tvídregna fyrir utan gráskinn. En sá sem á hundrað hundraða, hann má að frjálsu bera bera þessi klæði öll. Lærðir menn megu bera þau klæði sem þeir vilja og þeir handgengnir menn sem sér eiga skyldarvopn. Svo og þeim mönnum sem utan hafa farið er lofað að bera þau klæði er þeir flytja sjálfir út meðan þau vinnast þó að þeir eigi minna fé en fyrr skilur. En eigi skulu þeir kaupa hér á landi sér til burðar framar en fyrr segir. Nú ef nökkur ber skrúðklæði sá er minna fé á eður öðruvíss tilkomin en hér vottar, þá er sá sekur tveimur aurum fyrir hvert við konung, utan honum sé gefin, nema konur beri.“
-Kaupabálkur 5. Um lögauragjald
„Eyrir gulls þess er stenst elding fyrir sex tigi aura. Eyrir brennds silfurs fyrir sex aura. Járnketill nýr og óeldur og vegi fjóra fjórðunga, og liggi í átta skjólur fyrir fimmtán aura. Það er katlamálsskjóla er tré er sett í lögg og tekur öðrum megin á þröm upp, tólf þumlunga meðalmanni í naglsrótum. Stæltur lér, eggelningur, og vegi átján aura, heill og stálslegin, þeir skulu þrír fyrir tvo aura. Átta fjórðunga vætt blástursjárns fyrir fimm aura. Vætt fellujárns fyrir sex aura.“
-Kaupabákur 6. Um metfé
„Albreitt léreft þrjár álnar fyrir tvo aura. Enskt léreft tvíelnt, tvær álnar fyrir eyri. Mörk vax fyrir eyri. Skrúðklæði ný, skorin og óskorin, hafnarvaðmál ný og ónotin. Kattaskinn ný og lambsskinn, flatsmíði nýtt, vörusmíði nýtt, teint járn, eirkatlar nýir, það er allt metfé og þó réttgoldnir lögaurar. Allt metfé skulu virða sex skynsamir menn, þrír af hvors hendi.“
-Kaupabálkur 26. Um stikur og mælikeröld.
„En sá er réttur pundari er tuttugu merkur sé í fjórðung hvern og megi á vega tvær níu fjórðunga vættir, en eigi meira, og rísi að fjórðungi. … Stika skal sú vera að tvær álnar geri stiku, sem verið hefur að fornu. …skulu pundarar og mælikeröld liggja á Þingvelli undir lögmanns lási, skal þar eftir sýslumaður rétta sína pundara og stikur og mælikeröld. En bændur í hvers þeirra sýslu marki eftir þeirra pundurum, stikum og mælikeröldum. …En eigi eru allir bændur skyldugir mælikeröld að eiga“
-Mannhelgi 16. Um eyðihús
„Nú hlaupa útlaga menn í auðnahús eður þau hús er þeir menn eru fyrir er eigi vilja verja þá, þá eiga þeir er að sækja að brjóta hús að ósekju til þeirra ef þarf og bæta þeim fyrir skaða er hús átti eftir því sem sex skynsamir menn meta“
-Rekaþáttur 2. Hvar maður má flutningar taka fyrir annars landi.
Rekaviður og annað tvíumlíkt.
-Þjófabálkur 1. Matur.
“ef sá maður stelur mat er eigi fær sér vinnu til fósturs og helpur svo lífi sínu fyrir hungurs sakir, þá er sá stuldur fyrir öngvan mun refsingar verður”. Orðin “stelur mat” eru ekki í elstu handritum. “Steli maður hundi mann eður ketti, knífi eður belti” og öðru minna verðmætu greiðir hann sekt til konungs. Steli hann hins vegar “til eyris” skal hann færður til þings og þyngjast refsingar, jafnvel með því að fyrirgera landi sínu, við ítrekuð brot. Alvarleg refsing lá við að taka við þýfi og var sá nefndur “þjófsnautur”
-Þjófabálkur 2. Flet.
“Sá ábyrgist þjóf er hann bindur fjórum mörkum við konung þar til hann setur hann bundinn á flet umboðsmanns”. Væntanlega hefur umboðsmaður þurft að hafa geymslu fyrir þjófa.
-Þjófabálkur 6. Lýsi.
Þegar leitað er að stolnu fé í húsi annars “skal bóndi fá þeim lýsi sem þeir þurfa meðan þeir rannsaka”. Væntanlega til ljósa.
-Þjófabálkur 6. Hirslur.
Þegar leitað er að stolnu fé í húsi annars skal “ef eigi vilja láta lukla til að lúka upp hirslum sínum, þá er lok þeirra óheilög við broti”.
-Þjófabálkur 6. Gröf.
…”en stanga skulu þeir jörð og grafa á öllum stöðum og leita þar sem þeir vilja..”..
-Þjófabálkur 7. Gripur.
“Taka má maður fé sitt eður grip sinn að heimilu hvar hann finnur, ef eigi er á haldið”.
-Þjófabálkur 10. Marksteinn.
“nú tekur maður marksteina upp úr jörðu og setur niður á öðrum stað, og færir á þess hlut er í móti honum á, þá er hann sekur aleigu við konung”. ..”en sex aurum er maður sekur ef hann tekur upp marksteina og setur hverhi niður”.
-Þjófabálkur 10. Fé.
“Ef maður leggst undir fénað manna og drekkur, þá á hann öngvan rárr á sér. Ef maður mjólkar búfé annars manns stelandi hendi, bæti sem fyri stld sá er fé hefir til…”.
-Þjófabálkur 11. Aldin.
“Ef maður gengur í eplagarð manns eður hvannagarð eður næpugarð, og allt það aldin er menn hegna (hirða) með görðum eður gæslum, þó að vötn falli um, og vill sá eigi lofa er á, tvígildi þeim skaða er átti og tvo aura í þokkabót”.
-Þjófabálkur 12. Áifóður.
“Nú fer maður að veg með hrossi, og þó að þeir sé þrír saman, og stendur hey nær götu en bær eigi allnær, þá taki þeir að ósekju það sem hross þeirra þurfa til áifóðurs ef nauðsyn gengur til”. Þá skal hafa vöndul fyrir hesta heima við bæi hafi menn ekki fé.
-Þjófabálkur 14. Fundið fé.
“Ef maður finnur fé í jörðu manns, hafi sá þriðjung er finnur en landeigandi tvo hluti, en allt ef hinn hedlur ekki upp að lögum”. Ef grafið er í “haug eða agrefur jörð maður að ólofi þess er á til fjár, færi þeim er jörð á slíkt er hann fann og leggi í landnám og jarðarspell þeim er jörð á.”
-Þjófabálkur 16. Skip.
Fái maður lánað skip eða hross skal skila því á þann stað og í því ástandi, sem var.
-Þjófabálkur 18. Teningar.
Sekt er við að kasta teningum um peninga.
-Þjófabálkur 23. Sakeyrir.
“Allur sakeyrir löglliga sagður á menn skal goldinn á næstum fardögum eftir. Hann er rétt godlinn í vaðmálum og ullu og allri skinnavöru, og í öllu kvíkfé eftir vþí sem flestra mann gengur í millum í því hérðai, í slátrum og lls kyns mat, í léreftum og öllum austrænum varningi og öllu járnsmíði eftir sex manns virðingu, fella eigi til vöru né búfjár en virða þó til fullra aura”.
Fylgiskjal 2.
Atriðisorð úr Jónsbók sem skoðuð voru við úrlausn verkefnisins. Orð og blaðsíðutal fyrir aftan.
Afturfærsla 167
Albreitt léreft, hálfur þriðja alin á breidd 213
Aldingarður 291
Askur matarílát, mælieining 224, 318
Auðnahús, eyðihús 111
Ábúðarskylda 160
Blástursjárn, óunnið járn 212
Brík fjöl í rúmi 164
Búföng, aðdrættir 318
Búhlutir, búsáhöld 97, 163
Búnyt málnyt, mjólkurmatur 223
Búsgögn 141, 161, 164
Dyr 147 166 242 281
Eirketill 213
Eldfæri 229
Eldiviður 163, 170
Enskt lérefti, tveggja álna breitt 213.
Fellujárn járn sem búið er að hita úr sora og gjalt 212
Fjárhús 161
Flatsmíði, járn sem búið er að hamra til 213
Fyrnast, um hús eða skip 160, 187
Garður, heimili 134,138,215
Gráskinn, loðskinn, grávara 149
Grjót 172, 187, 199, 238
Hafnarvaðmál, hafnarvoð, dýrt og vandað vaðmál 213, 269
Heyhlaða, 164, 173, 177
Húsaspell skemmdarverk á húsi 166
Húsbrot, að rjúfa húsvegg til að ná út keri sem kemst ekki út um dyr 164 281
Húsgjörð, smíði húss 160, 280
Húsrúm 161
Húsverð 160
Hvalbein 199, 201, 203
Innanstokks 102
Innbyggjari 322
Innihús 161
Járnsmíði 213, 250, 292
Kaldakol, brottför af jörð fyrirlögboðinn tíma þannig að eldur til upphitunar og matargerðar slokknaði og kol kólnuðu 160, 163, 164, 280, 309
Kápa 149
Ker, kerald 164, 223, 257
Knífur, hnífur 109, 110, 239, 278, 303
Leiguból 152
Leigujörð, leiguland 159-162, 280
Lykill, að húsi 242
Lykill, til brennimerkingar 239, 290
Metfé, varningur sem meta þurfti sérstaklega 212, 213
Mungát, bjór 83
Mælikerald, 223, 224, 288, 314, 317
Naglfast 164
Oki, spýta negld þvert yfir fjalir til að halda þeim saman 179
Óeldur járnketill, sem ekki hefur verið soðið í 212
Ótelgdur viður, 200
Reipi 201, 234, 290
Rúm, svigrúm 83, 161, 230
Rýtningur, rýtingur 109, 278
Setstokkur, í húsi 204
Skaft 109, 152, 303
Skinnavara 98, 250, 292
Skjóla, fata 212
Skyldarvopn 149
Smjör 216, 218, 310
Spjótskaft 115, 278
Stafur, húsaviður 164
Stekkur 191
Stilli, hlaðin gildra til selveiða 206
Stokkur, á hnífi 303
Teint járn, járn sem hamrað er í teina 213
Teldgur viður, 198, 207
Timbur, 178, 283
Tré 169, 170, 199, 202, 212, 223, 286
Tunna 216
Ullarskyrta 242
Umbót, húsa 162
Úthýsi, útihús 242
Vaga, sleði 170
Vagn 170
Vatnskerald 236
Veiðigögn 196
Veiðivél 195, 196
Verkfæri 141
Veturhús 146
Viður 160-163, 170-172, 174, 198-200, 207, 232, 237, 238, 281, 282, 286, 290, 312 sjá 63
Vindauga, gluggi 173, 174, 242
Þari, þang 199, 200
Þrep, jarðvegsstallur 178
Örk, kista 257
Jarðfræði, eldfjallagarður og hellar
Í Flagghúsinu voru m.a. haldin fræðsluerindi um eldfjöll og hraunhella. Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur, flutti erindi um eldfjallagarða og framtíðarsýn. Ómar Smári Ármannsson (FERLIR) lagði upp erindi um grindvíska hella og Kristján Sæmundsson jarðfræðingur fjallaði um jarðfræði Reykjaness.
Erindi Ástu verður hér gert að aðalumfjöllunarefni. Hinum erindunum verður gerð ítarlegri skil síðar.
Ásta sagði m.a. að á miðhluta Reykjanesskagans þyrfti áhersla að verð á að varðveita einstaklega fjölbreyttar jarðmyndanir og minjar um eldvirkni á úthafshryggnum sem hafa algera sérstöðu á Jörðinni. Þessi hluti Skagans verði gerður sem aðgengilegastur öllum almenningi og ferðamönnum með vegum, stígum, þjónustumannvirkjum og sögu- og upplifunarstöðum og þar verði höfuðgestastofa svæðisins.
Á svæðinu eru Reykjanesfólkvangur og Bláfjallafólkvangur auk a.m.k. 15 svæða sem færð hafa verið á náttúruminjaskrá sem staðfestir að þar er að finna mikil verðmæti. Svæðið frá Stóra-Kóngsfelli suður og vestur fyrir Brennisteinsfjöll eru ósnortin víðerni og enn einstakt tækifæri að halda þeim sem slíkum. Hvergi annars staðar á Jörðunni sést úthafshryggur ,,ganga á land” svo sýnilega og á jafn aðgengilegum stað sem á Reykjanesi. Reykjanesskagi er svo einstakur á heimsvísu að það skortir í reynd alþjóðleg viðmið til að staðfesta alþjóðlegt verndargildi hans.
Á Reykjanesskaga eru fimm háhitasvæði og umtalsverð nýting er þegar til staðar á tveimur þeirra sem eru austast og vestast á skaganum. Á þessum svæðum er skynsamlegt að þróa áfram nýtingu jarðvarmans með orkuverum, heilsumannvirkjum og upplýsingastöðum fyrir ferðamenn jafnframt sem kannaðir verða möguleikar djúpborana sem geta margfaldað nýtingu þeirra.
Í allri mannvirkjagerð innan ,,Eldfjallagarðsins og fólkvagnsins” ber að hafa það að leiðarljósi að halda sjónrænum áhrifum í lágmarki. Ekki hefur verið gert heildstætt skipulag fyrir Reykjanesskaga og hafa ólíkir nýtingarmöguleikar því ekki verið skoðaðir og metnir. Nú er mikil eftirspurn eftir orkuvinnslu á svæðinu og því er brýnt að líta heildstætt á Reykjanesskaga með nýtingu allra auðlinda hans í huga.
Þá lagði Ásta fram nokkrar spurningar og svör um efnið, s.s. Hverjir eru möguleikar eldfjallagarðs á Reykjanesskaga? Hvað höfum við upp á að bjóða? Er Eldfjallagarður einstakt tækifæri til arðbærrar atvinnusköpunar?
Til að nýta náttúruna þarf hágæða vísindaþjónustu, alþjóðlegt tengslanet, aðgengi að þekkingu heimamanna, rannsóknaaðstöðu þar sem kennslustofan er náttúran.
Reykjanesskagi sem eldfjallagarður hefur marga kosti; frábær staður fyrir eldfjallagarð, mitt á milli Ameríku og Evrópu, aðeins 30 mín frá flugvelli og borg, plötuskil – land verður til á Reykjanes, hægt að “ganga” milli heimsálfa, gríðarleg fjölbreytni, eldgos undir jökli: Móbergskeilur, -hryggir og –stapar: Aveg einstakt! Litlar og stórar dyngjur. Minni gígar og fleiri tegundir, setströnd – rofströnd: Sandvík – Reykjanestá/ Krísuvíkurbjarg-Selatangar. Flottari og fleiri hrauntraðir og hraunhellar, miklu fjölbreyttari jarðhitasvæði, bullandi leirhverir, litrík gasaugu, útfellingar sem eiga fáa sína líka, lifandi listaverk “audio-visual upplifun: Hver hver með sinn takt! Auðlindagarður; samspil orku og umhverfis.
Reykjanes væri gósenstaður fyrir ljósmyndara; litríki hverasvæðanna. Krýsuvík er oftar en ekki i í dagskrá slíkra ferða. Reykjanes, brim og klettamyndir
Ómar Smári lýsti og sýndi ljósmyndir af nokkrum af smærri og stærri hellum Grindvíkinga, sem eru nú um 300 talsins. Fyrir síðustu aldamót voru þeir einungis innan við 20. Merkilegastur fyrrum þótti Grindarvíkurhellir, en hann er nú kominn undir veg. Væri það dæmi um vanþekkingu og áhugaleysi þeirra, sem gæta eiga að vermætum þeim er felast í hraunhellunum. En sem betur fer væru til fleiri hellar. Meðal þeirra væru mestu dýrgripir sinnar tegundar í heiminum. Vonandi verða þeir ekki líka eyðilagðir af sömu ástæðum.
Kristján kynnti gosbeltin og sýndi bæði dæmi um einkenni þeirra og myndanir. Þá rakti Kristján mismunandi jarðmyndanir, en þar er móbergsmyndunin hvað séríslenskust. Auk þess mætti sjá á Skaganum flestar ef ekki allar tegundir eldgosa. Aðspurður kvaðst Kristján um 50% líkur á eldgosi á Reykjanesskaga „innan tíðar“.
Eldgos í Fagradalsfjalli 2021.
Kjalarnes – frumbýlingar
Í upphafi Kjalnesinga sögu segir frá frumbýlingum á Kjalarnesi:
„Helgi bjóla, son Ketils flatnefs, nam Kjalarnes millum Leiruvogs ok Botnsár, ok bjó at Hofi á Kjalarnesi. Hann var nýtmenni mikit í fornum sið, blótmaðr lítill, spakr ok hægr við alla. Helgi átti Þórnýju, dóttur Ingólfs í Vík, er fyrst bygði Ísland. Þeirra synir voru þeir Þorgrímr ok Arngrímr; þeir voru báðir miklir ok sterkir, ok hinir vaskligustu menn. Helgi skipaði skipverjum sínum lönd þau, sem hann hafði numit; hann fékk Þrándi á þrándarstöðum, Eilífi í Eilífsdal, Hækingi í Hækingsdal, Tind á Tindsstöðum, ok þar hverjum sem honum þótti fallit vera. Maðr hét Örlygr; hann var írskur at allri ætt; í þann tíma var Írland kristið; þar réð fyrir [Konufögr Írakonungr. Þessi fyrnefndr maðr varð fyrir konungs reiði; hann fór at finna Patrek biskup, frænda sinn; en hann bað hann sigla til Íslands: því at þangat er nú, sagði hann, mikil sigling ríkra manna; en ek vil þat leggja til með þér, at þú hafir iij hluti: þat er vígð mold, at þú látir undir hornstafi kirkjunnar, [ok plenarium ok járnklukku vígða. Þú munt koma sunnan at Íslandi; þá skaltu sigla vestr fyrir, þartil er fjörðr mikill gengr vestan í landit; þú munt sjá í fjörðinn inn iij fjöll há, ok dali í öllum“; þú skalt stefna inn fyrir hit synnsta fjall; þar muntu fá góða hafn, ok þar er spakr formaðr, er heitir Helgi bjóla; hann mun við þér taka, því hann er lítill blótmaðr, ok hann mun fá þér bústað sunnan undir því fjalli, er fyr sagði ek þér frá; þar skaltu láta kirkju gjöra’, ok gefa [hinum heilaga Kolúmba. Far nú vel, sagði biskup, ok geym trú þinnar sem bezt, þótt þú verðir með heiðnum. Eptir þat býr Örlygr ferð sína, ok er frá ferð hans þat fyrst at segja, at allt gekk eptir því sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn; síðan fór hann at finna Helga bjólu, ok tók hann vel við honum; reisti Örlvgr þar nú hú ok kirkju, ok bjó þar síðan til elli.
Á ofanverðum dögum Konufögrs kom skip í Leiruvog; þar voru á írskir menn. Maðr hét
Andríðr, ungr ok ókvongaðr, mikill ok sterkr. Þar var þá kona sú, er hét Esja, ekkja ok mjok auðig. Sá maðr er nefndr Kolli, er þar var á skipi með þeim. Helgi tók við þeim öllum; Kolla setti hann niðr í Kollafjörð; en með því at Örlygr var gamall ok barnlauss, þá gaf hann upp land ok bú, ok tók Esja við; settist hún þá at Esjubergi. Allir þessir menn voru kallaðir skírðir; en þó var þat margra manna mál, at Esja væri [forn í brögðum. Andríðr fór um vetrinn til vistar til Hofs; var þar þá fóstbræðralag ok með sonum Helga. Andríðr bað Helga fá ser bústað ok kvonfang; Hann hafði auð fjár. Þá var skógi vaxit allt Kjalarnes, svo at þar at eins [var rjóðr, er menn ruddu til bæja eða vega. Braut mikil var rudd eptir holtinu frá Hofi; þangat riðu þeir Helgi ok Andríðr um vorit; ok er þeir komu út á holtið, þá mælti Helgi: ber vil ek, Andríðr, sagði bann, gefa þér jörð, ok at þú reisir þér bæ; mér þykkir sem þeir synir mínir vilji, at þér sitið nær. Eptir þat reisti Andríðr bæ í brautinni ok kallaði Brautarholt, því at skógrinn var svo þykkr, at honum þótti allt annat starfameira; Andríðr setti þar reisuligt bú saman.
Maðr hét Þormóðr, hann bjó í Þormóðsdal; með honum var systir hans, er Þuríðr het; hun var fríð sjónum ok auðig at fe. Þessar konu bað Helgi til banda Andríði, ok þessi konu var honum heitið. Þetta sumar var ok heitið Þorgrími Helgasyni Arndísi, dóttir Þórðar skeggja af Skeggjastöðum, ok voru brullaupin bæði saman at Hofi, ok var veitt með hinu mesta kappi; var þar ok allfjölmennt. Eptir boðit fór Þuríðr í Brautarholt, ok tók við [búi fyrir innan stokk; var þat brátt auðsætt, at hon var mikill skörungr. Þau höfðu margt gangandi fjár, ok gekk allt nær sjálfala úti í skóginum um nesið. Þetta haust [var honum vant kvígu þrévetrar, myrkrar; hon hét Mús. Þessi kvíga fannst [þrem vetrum síðar á nesi því, er liggr til vestrs undan Brautarholti, ok hafði hon þá með sér ij dilka, annann vetrgamlan, en annann sumargamlan; því kölluðu þeir þat Músarnes. Þann vetr, er Andríðr bjó fyrstan í Brautarholti, andaðist Helgi bjóla; þat þótti mönnum hinn mesti skaði, því at hann var hinn vinsælasti maðr. Um vorit skiptu þeir bræðr föðrarfi sínum, hafði þorgrímr föðrleifð þeirra ok mannaforráð, því at hann var eldri, en Arngrímr utjarðir. Hann reisti bæ við fjörðinn, er hann kallaði Saurbæ…“
Heimild:
-Íslendinga sögur, Kjalnesinga saga,1843, bls. 397-401.
Esja á Kjalarnesi.
Heygeymslur
Eftirfarandi er byggt á grein, sem Bergsteinn Kristjánsson, ritaði í Lesbók MBL sunnudaginn 15. maí 1949:
“Svo örar gerast nú breytingar á lifnaðarháttum Íslendinga, að ýmis vinnubrögð, sem voru algeng frá ómunatíð fram á þessa öld, eru nú að falla í gleymsku. Er því nauðsynlegt að halda til haga lýsingum á þeim. Hjer er lýst heyskap og störfum í sambandi við hann, eins og þau gerðust á Suðurlandi til skamms tíma.
Heyflutningur af engjum og túnum og heygeymsla í tóftum og heygörðum, hefur sennilega allt frá landnámsöld verið með svipuðum hætti. Þó mun það fullvíst, að á söguöld fluttu menn hey á sleðum eða stórum ækjum og beittu fyrir uxum eða hestum. En eftir því sem meira er aflað af heyum á ræktuðu landi, og menn gera meiri kröfur til afkasta í vinnubrögðum, og minni rýrnunar í geymslu, breytist bæði flutningur og geymsla heyanna. Og þótt enn megi finna dæmi um þess, að hey sje reitt á klökkum og geymt í heygörðum, er ekki að efa að þeir tímar eru ekki langt undan, að slík vinnubrögð verða talin með þeim þjóðháttum, sem hafa vikið fyrir öðrum öruggari og fljótvirkari aðferðum.”
Torf og reiðingsskurður kröfðust réttra aðstæðna. “Torfvöllurinn þurfti að vera hrein mýri, ekki of blaut og ekki of hörð. Ekki mátti vera þúfa í torfvellinum, því þá var vís galli á torfunni. Var oft hægt að finna slíka bletti meðfram keldum eða flóðum. Oft voru tveir menn við torfskurðinn, tók þá annar úr pælunni, og lóð torfinu í búnka. Hripaði þar úr því mesta vatnið og hafði það ljettst ótrúlega mikið á stuttum tíma er það var reitt á þerrivöll.” Við reiðingsristu þurfti sérstakt lag.
“Í hinni fornu heygeymslu var töluverð fjölbreytni, og virðist mjer að þar hafi verið sex aðferðir að ræða. Heyin voru sem sagt geymd í heyjum, samfelldum, lönum, kumlum, hlöðum og heyborgum. Skal nú leitast við að lýsa þessum aðferðum svo sem föng eru til.
Á hverjum bæ var heygarður. Á stórbæjum, var þetta stórt svæði, með vel hlöðnum, minnst axarháum veggjum og þannig umbúið, að einn veggurinn, helst gafl, væri í jörð, svo að taka mætti þar af lestinni, og velt böggunum ofan í heygarðinn, meðan heyin stóðu ekki upp úr garðinum, og var að þessu mikill hægðarauki við upphleðslu heyanna. Í kotbæjum voru heygarðarnir ekki einungis minni, heldur líka oft grynnri og óhentugri.
Í heygarðinum voru afmörkuð svæði eftir honum endilöngum, sem kölluð voru des. Var breidd þeirra nálægt 4-5 álnir eða um hálfur annar faðmur, en milli desanna voru grafnar grunnar geilar, sem ætlast var til að tækju við vatninu af heyunum. Á þessum desum var svo heyinu hlaðið upp, þar til nóg þótti í það komið, en þá var það mænt sem kallað var. Var það verk all vandasamt, og fór mjög misjafnlega úr hendi. Ef heyið sneri frá austri til vesturs, sem oft var, var byrjað að mæna á vesturenda. Var hlaðin tunnulaga kúpa á heyið og síðan þakið með heytorfi þannig að grasbrún torfunnar væri í vestur, en heyið færi svo smá hækkandi. Var ætlast til að tvær sex feta torfur næðu yfir um heyið, væru samskeytin á mæni þess. Sherstaklega þótti áríðandi að hafa vel sljett undir torfunum, því kæmi laut í heyið, varð úr dropi, en svo var það kallað ef vatn komst í heyið.
Vel upphlaðið hey er fagurt á að líta, að minnsta kosti í mínum augum, og svo hygg ég að fleirum þyki. Má vera að þar valdi nokkru um það öryggi og bjargráð sem maður veit að það geymir undir torffeldi sínum.
Þá var næst að geyma heyið í samfellum. Þegar menn höfðu heyað meira en von var til, heygarðurinn fullur, og heyin það há að ekki þótti óhætt að hækka þau meira, voru tvö ráð fyrir hendi, að steypa tveimur heyum saman í samfellu, eða að hlaða í lön. Ef tveimur heyum var steypt saman, var geilin milli þeirra fyllt með heyi, og síðan hlaðið upp rúmlega helmingi breiðara hey en vanalega. Komst í þetta allmikið hey, en aðferðin við upphleðsluna var hin sama. Í miklum heyskaparárum voru samfellur alltíðar.
Lanir var það kallað ef hlaðin voru upp lítil hey utan við heygarðinn. Var öll hin sama aðferð við þær, en heymagnið í þeim miklu minna en í heyunum. Þeim var oftast eytt framan af vetri og hurfu því fljótt úr sögunni.
Við fjárhús fjarri bænum var hey oft geymt í svokölluðum kumlum. Var halðin alldjúp tóft, og gjarnan innangengt í hana úr fjárhúsinu. Var hún fyllt af heyi, sem var vetrarforði þess fjár, sem geyma átti í húsinu. Með veggjum voru engar geilar og var kumlið því fyllt út í veggi, og síðan tyrft og umbúið sem hey eða lön væri. En oft voru nokkrir erfiðleikar á að verja þessi kuml fyrir fjenaði, að það ekki kæmist í heyið og spillti því eða jafnvel færi sér að voða.
Þá er að minnast á heyhlöður. Þær voru til á stöku bæjum, þar sem erfitt var um torfristu. Ef það væri athugað, hvar hlöður þessar voru í sveit settar, gæti jeg trúað að það kæmi í ljós, að helst hafi verið ráðist í byggingu þeirra á þeim bæjum, sem höfðu aðgang að grjóthellu eða rekaviði.
Hlöðurnar voru allstór hús, vanalega með háum grjótveggjum, þakið var gert upp með gildum viðum, vanalega rekavið, en viðirnir þurftu að vera mjög traustir vegna stærðar þaksins, og þess milkla þunga, sem alltaf var á þökum úr grjóthellu og torfi.
All dýrt mun hafa verið að byggja þessar hlöður og erfitt að halda þeim við, en auk þess gátu þær varla talist örugg heygeymsla því helluþök eru sjaldnast vatnsheld. Veldur það að hellan vill færast úr skorðum, og lautir koma í torfið.
Þá er að síðustu að minnast á borgirnar, þessi fornlegu og ósjálegu hús, sem hafa hlotið þetta glæsilega nafn.
Á beitarjörðum þar sem fjenu var ekki ætlað hús, voru þessar borgir byggðar víðsvegar um hagana, svo fjeð gæti bjargað sjer í þær í stórviðrum. Urðu borgir þessar að miklu liði til að veita fjenu skjól og ekki þurfti að vísa því veginn til þeirra.
Borgirnar voru þannig byggðar, að þær voru hlaðnar úr grjóti eða torfi í hring, litlar dyr voru við jörð svo að stór kind gat vel gengið þar um, en maður varla nema á fjórum fótum. Veggirnir voru hlaðnir upp en látnir slúta, svo að alltaf þrengdist hringurinn, þar til hann náði saman í toppinn.
Þessi hleðsluaðferð var kölluð að borghlaða. Stóðu þessar borgir mjög vel, og mun eitthvað vera enn af þeim uppistandandi á beitarjörðum, einkum um ofanverða Rangárvelli, því þar hafa þær verið hlaðnar úr hraungrjóti. En borgir þessar eru nú að verða merkilegar fornminjar.
Þar sem beit var góð og fjenu varla gefin heytugga allan veturinn og þá aðeins í aftökum og gefið á gaddinn, var gjarna byggð borg fyrir það litla hey, sem til þess var ætlað og hún þá kölluð heyborg.
Það gefur að skilja að oft var erfitt að leysa hey og gefa í opnum heygörðum. Úr þessu var víða bætt með góðum heyskjólum, þó það væri siður sumra manna að gefa jafnan úr opnu stáli, sem kallað var.
Heyskjólin voru reist við enda heysins úr trjám, og oft úr færigrindum, sem til voru á heimilinu, eða hrísi var raðað á trjen og svo tyrft yfir. Voru þau mjög misjöfn að frágangi, eftir því efni, sem menn höfðu fyrir endi, eða þeirri vinnu, sem þeir vildu leggja til þeirra.
Í langvarandi göddum mynduðust svo stór hús inn af heyskjólunum, er torfið á heyinu var gaddað og hjelst því uppi. En ef hlýnaði, fjell það niður, og varð þá að reisa heyskjólið á nýjan leik. Þessar torfhvelfingar voru kallaðar skútar, og þurfti að gæta þess vel er skútarnir stækkuðu, að þeir fjellu ekki niður að óvörum, því þá gátu þeir orðið að skaða eða jafnvel slysi.
Heimild:
-Lesbók Mbl. 15. maí 1949, Bergsteinn Kristjánsson, Torfskurður og heygeymsla, bls. 253-257.
Hlaða Kristmundar í Kaldárhellum.