Í „Fornleifaskráningu á Hengilssvæðinu III – Fornleifar á afrétti Ölfushrepps„, gerða af Orra Vésteinssyni 1998, er fjallað um ýmsar minjar á og við Kolviðarhól, Hellisheiði og í Hengli. Hér veður getið nokkurra þeirra:
Kolviðarhóll – tóftir.
„Bú var reist á Kolviðarhóli 1883 og varði til 1954, en þar sem sá búskapur tengist fremur sögu samgangna á svæðinu en búnaðarsögu þess.
Helsta sérkenni Hellisheiðar og Hengilssvæðisins eru hinar mörgu samgönguleiðir sem liggja þar um. Að vísu var hlutfallslega minna farið um Hellisheiði á fyrri öldum en nú, því að milli Suðurlands og Vesturlands voru þá yfileitt farnar aðrar leiðir, um Kjöl, Uxahryggi, Leggjabrjót, Botnsheiði eða Grafning um Kjósarskarð. Engu að síður var Hellisheiðin aðalleið milli vesturhluta Árnessýslu og Kjalarnesþings og eftir að kaupstaðir festust í sessi, fyrst í Þerney, svo í Hafnarfirði og Hólminum/Reykjavík óx mikilvægi þessarar leiðar.
Hellisheiðarvegur austan Lyklafells.
Hellisheiðarvegur lá áður fyrr mun norðar en nú en þegar komið var að vestan var farið norðan við Svínahraun en ekki í gegnum það eins og nú enda var úfið hraunið illfært bæði hestum og fótgangandi mönnum. Sléttir vellir eru norðan við hraunið með fram Engidalskvísl og síðan var farið upp með Húsmúla, sem dregur nafn sitt af sæluhúsi sem þar var við Draugatjörn og er frægt bæði fyrir að vera eitt hið elsta sem góðar heimildir eru um á Íslandi og fyrir draugagang sem varð til þess að húsið var fært á Kolviðarhól 1844.
Sæluhúsið við Draugatjörn.
Frá Draugatjörn lá leiðin framhjá Kolviðarhóli og upp Hellisskarð og síðan eftir sléttum hellum austureftir heiðinni og niður Kambana heldur sunnar en vegurinn er nú. Á vestari hluta heiðarinnar hafa myndast rásir í móbergshelluna eftir járnaða hófa sem þarna hafa farið yfir um aldir og eru það bæði sérstakar og mikilfenglegar minjar.
Hellisheiðarvegur um 1900.
Umferð jókst mjög á þessari leið á 19. öld eftir því sem mikilvægi Reykjavíkur óx og var hún einnig póstleið frá því að póstsamgöngur hófust í lok 18. aldar. Jókst þá einnig áhyggja manna af öryggi á leiðinni. Laust fyrir 1830 hlóð Þórður Erlendsson bóndi á Völlum í Ölfusi, að eigin frumkvæði að því er virðist, kofa úr hellugrjóti uppi á heiðinni sjálfri og stendur hann enn. Á þessum tíma hefur gamla sæluhúsið við Draugatjörn verið orðið hrörlegt auk þess sem margir virðast hafa veigrað sér við að gista þar vegna draugagangs. Það var síðan lagt niður er timburhús á hlöðnum sökkli var byggt á Kolviðarhóli 1844. Á þeim tíma voru ekki mörg timburhús á Íslandi og er þessi íburður til marks um mikilvægi leiðarinnar. Í hinu nýja húsi gátu sofið 24 menn og einnig var skjól fyrir 16 hesta. Þetta hús var síðan farið að láta á sjá þrjátíu árum síðar og 1878 var byggt, með opinberu fé, steinhús á Kolviðarhóli til að taka við timburhúsinu, sem eftir sem áður var notað sem hesthús. Sömu sögu er að segja að 1878 voru ekki mörg steinhús á Íslandi og sýnir þetta vel hversu mikilvægt það þótti að ferðamenn gætu leitað öruggs skjóls á þessari leið.
Kolviðarhóll 1907.
Vel var fylgst með byggingu þessa húss í Reykjavíkurblöðunum enda var þetta ein af fyrstu opinberu framkvæmdum sem Íslendingar réðust í eftir að þeir fengu sjálfstæðan fjárhag 1874.
Fimm árum eftir að steinhúsið á Kolviðarhóli reis, eða 1883, flutti þangað Jón Jónsson með fjölskyldu sína og var búið þar til 1954. Byggð á Kolviðarhóli byggðist fyrst og fremst á greiðasölu og var beinlínis hugsaður til að auka öryggi á leiðinni en þeir sem þar bjuggu fengust einnig við hefðbundinn búskap og má sjá um hann allmiklar minjar. Tún var ræktað á hólnum og sést enn vandaður túngarður í kring um það. Fleiri garðar voru hlaðnir í grenndinni sem minna á heyskap Kolviðarhólsbænda.
Kolviðarhóll.
Um svipað leyti og nýja sæluhúsið var byggt á Kolviðarhóli 1878 var lagður vegur yfir Svínahraun,mun norðar þó en núverandi vegur, og upp Hellisskarð yfir heiðina á sama stað og gamla þjóðleiðin. Þessi vegur var þó ekki vagnfær sem dró mjög úr nytsemi hans. Nýr vegur var lagður yfir Hellisheiði 1894-1895 og var þá vegarstæðið flutt suður fyrir Reykjafell og vagnfær leið gerð um Hveradali sem síðan sameinaðist gömlu leiðinni austar á heiðinni. Frá þessari vegagerð er örnefnið Smiðjulaut sem kennt er við smiðju vegagerðarmanna. Vegurinn sem nú er farinn er mun sunnar í Svínahrauni en norðar á Hellisheiði en gamli vegurinn og má víða sjá minjar um þessa gömlu vegagerð á heiðinni.
Smiðjulaut – Smiðjutóft.
Leiðin um Hellisheiði var fyrst og fremst farin af Ölusingum og þeim sem fóru yfir Sogið hjá Torfastöðum og síðan um Grafningsháls en úr Grafningi lá einnig fjölfarin leið um Dyrafjöll, Dyravegur, yfir Mosfellsheiði. Sá vegur liggur um nyrsta hluta afréttar Ölfusinga og er þessvegna getið hér. Fáfarnari leið var úr norðanverðum Grafningi um Ölkelduháls og Milli hrauns og hlíðar norðan við Orrustuhólshraun og saneinaðist hún Hellisheiðarvegi rétt austan við Hellisskarð. Þeir sem áttu leið í Þorlákshöfn eða Selvog frá innanverðum Faxaflóa fóru yfirleitt ekki Hellisheiði heldur Lágaskarðsveg eða Ólafsskarð, en Þrengslin sem eru á milli þessara leiða munu hafa verið fáfarin fyrrum.
Ólafsskarð.
Bæði Þrengslavegur og Lágaskarðsvegur klofnuðu frá Hellisheiðarvegi hjá Kolviðarhóli og lágu beint til suðurs með austurbrún Svínahrauns. Ólfasskarðsleið liggur hinsvegar mun vestar og sameinast ekki öðrum vegum fyrr en niðri í byggð, Hellisheiðarvegi hjá Fóelluvötnum, en Þrengslavegi sunnan við Þúfnavelli. Í Ólafsskarði munu vera rásir í móbergshelluna eins og á Hellisheiðarvegi og Dyravegi.
Grafningsvegur.
Þeir sem komu úr Borgarfirði eða enn lengra að vestan eða norðan og áttu erindi í Selvog, og þeir voru ekki fáir fyrr á öldum enda stórar verstöðvar þar suður með, fóru annaðhvort um Þingvöll eða Kjósarskarð og gátu þá valið að fara með bæjum um Grafning eða þræða austurbrún Mosfellsheiðar, vestur með Dyrfjöllum og koma á Hellisheiðarveg á Bolavöllum þaðan sem beinust leið var í Selvog um Lágaskarðsveg. Þó að þessi leið virðist auðveld og greiðfær eru sáralitlar heimildir um hana.
Aðrar leiðir sem skráðar eru á afrétti Ölfusinga voru fyrst og fremst notaðar af innasveitarmönnum og gangnamönnum. Þannig liggur leið, Skógarmannavegur, frá Þurá beint til norðurs yfir austurhluta Hellisheiðar og yfir Ölkelduháls til Nesja en þangað var farið til kolagerðar frá Hjalla. Frá Núpum liggur einnig gata upp á Hellisheiði og hefur hún einnig verið notuð af þeim sem fóru Hellisheiði en áttu erindi í vesturhluta Ölfushrepps.
Kolviðarhóll – yngsta húsið á hólnum.
Almenn sögn segir, að í Kolviðarhól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.“ Kolviðarhóll er hár og breiður náttúrulegur melhóll og stóð þar lengi sæluhús en bú var reist þar 1883.
Almenningsvegur liggur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba …, síðan vestur yfir Hellirsheiði, hvör að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísirs.“
1840: „Hellirsheiði er … vel rudd … Á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum.“ SSÁ, 205
Hellisskarð – gata.
„Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niðurí Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit. Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni.“
Hellisheiði – gamla gatan.
„Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.“
Eiríksvegur ofan Hveragerðis.
„Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum […]. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn […] en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður […].“
Austurvegur 1880.
„Frá stóru vörðunni á Efra Skarði lá leiðin til austurs um greiðfært hraun. Þar má sjá götu, sem grjótið hefur verið týnt úr og beinan upphlaðinn veg, þann fyrsta sem lagður var á Hellisheiði. Sá vegur mun hafa verið lagður árið 1879 og kallaður Eiríksvegur. Kenndur við verkstjórann, Eirík Ásmundsson frá Grjótá. Bílaslóðin sunnan fyrir Reykjafell liggur yfir gömlu götuna hjá litlum gíghól . .. Vörðurnar standa sig vel, flestar, og eru 18 vörður frá gíghólnum og austur á Syðri-Þrívörðu. Þar kemur hraunbrún, sem liggur þvert á leiðina. Á brúninni norðan götunnar stendur gamalt sæluhús … Niður af hraunbrúninni liggur sniðgata og enn er helluhraun með sporuðum klöppum. Næsti áfangi er önnur hraunbrún. Sú er nefnd Eystri Þrívörður.
Hellisheiðarvegur við Þrívörður.
Þar var talin hálfnuð leið yfir Hellisheiði. Þá tekur við ósléttara hraun, sunnan við apalhraunið. Þar er greinileg gata og hefur hún gróið grasi. Þegar nálgast austurbrúnina beygir hún til suðurs, vestan við Hurðarásinn, sem gamli bílvegurinn lá yfir. Síðan gegnum skarð sunnan á ásnum .. . Síðan lá leiðineftir vatnsfarvegi niður á Kambabrúnina … Síðan lá leiðin um sniðgötu niður Kambabrúnina, skammt ofan við gamla þjóðveginn, sem bíllinn notaði. Greinileg gata liggur niður Kambabrekkuna, gróin grasi. Síðan lá leiðin um melinn, sunnan Hamarsins.“ Útivist 6(1980), 82-86.
„Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, b. 1877-78] lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. / Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur .. .
Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjótá [!] tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum.
Hellisheiðarvegur.
Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba. 1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur … Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagðr áþann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim .. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.“ Magnús Grímsson: Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi, Landnám Ingólfs 2 (1985), 88-89. Vegurinn var færður suður fyrir Reykjafell á svipaðar slóðir og hann er enn í dag 1894-95.
Vörður eru hlaðnar allt frá Hellisskarði og að Syðri Þrívörðum, skammt austan við neyðarskýli Slysavarnarfélagsins við þjóðveg 1. Þær eru vel hlaðnar úr þunnu hraungrýti, toppmyndaðar, um 1,5 í botninn og um 1,5 m háar, með töluverðu af skófum og mosa. Þær eru með 60-140 m millibili, 90 m að meðaltali.
Hellisheiðarvegur.
„Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m í þvermál að innan á sömu klöppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak.“ segir í örnefnalýsingu. Kofinn er um 70 m norður af hinni vörðuðu Hellisheiðarleið, um 1,3 km vestan við neyðarskýli LHS við þjóðveg 1. Kofinn stendur framarlega á klapparbrún og er hann sjálfur á upphækkun á klöppinni. Kofinn sést allsstaðar af heiðinni. Í kringum hann sést hvar hleðslugrjót hefur verið rifið upp. Friðlýst 13.5.1971. „var byggður um 1830. Það gerði Þórður Erlendsson [1797-1872], þá bóndi á Völlum, síðar Tannastöðum. Biskupsvarða var stór og hlaðin í kross með 4 arma, þá var skjól í kverkunum. Hún var mjög gömul og hrunin í rúst. Hún stóð á klöpp hægra megin við veginn, þegar suður var farið (til Faxaflóa). Kofinn var byggður úr sama grjótinu, og að öllum líkindum á sömu klöppinni. Heimild fyrir þessu er Skúli Helgason, eftir Kolbeini Guðmundssyni bónda á Úlfljótsvatni, en hann hafði það eftir gömlum mönnum og langminnugum.“ Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr).
Hellukofinn.
„Á þeim stað sem hétu Syðri-Þrívörður var laust eftir 1820 byggður sæluhúskofi, orghlaðinn úr grjóti og þéttur með mosa. Kofi sá stendur enn óhaggaður eftir rúm 150 ár. Lítið skjól er þar nú því að þétting öll er fokin í burtu.“ SB III, 282. Kofinn er ferhyrndur að innan, 2×2 m og 1,85 m undir þak, um 20 umför af 7-15 sm þykkum hraunhellum. Suðausturhorn þaksins er aðeins farið að síga inn en annars standa hleðslurnar mjög vel. Dyr eru á norðurhlið, austantil. Veggir eru um 0,8 m þykkir við dyraop, þar er þröskuldur, 2 umför af hraunhellum. Talsverður mosi og skófir eru á kofanum. Inni í kofanum er hart moldargólf, að mestu slétt. Ekkert friðlýsingarmerki er á staðnum. Um byggingarár kofans er flest á huldu annað en að hann mun byggður eftir 1824 er Þórður Erlendsson fór að búa á Völlum og fyrir 1844 er nýtt sæluhús var byggt á Kolviðarhóli og mun kofinn hafa verið reistur á því tímabili sem ekkert sæluhús var við lýði vestan við heiðina. Þórður flutti búferlum að Tannastöðum 1836 en ekki er víst hvort af því megi ráða að hann hafi hlaðið kofann fyrir þann tíma.“
Sæluhúsið við Draugatjörn.
1703: „Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur Sælhús (ei langt frá veginum) so kallað, hvort allt þessa tíma Ölves innbyggjarar hafa upp haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli.“
19.6.1793: „Skömmu áður en komið er að fjallinu, sést lítill kofi, hlaðinn úr hraungrjóti, en með torfþaki. Hann er ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallast sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda.“
Draugatjörn – sæluhústóftin.
„Í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan; munu nú flestar þessar draugasögur gleymdar. […] Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól.“ „Það var lagt niður og nýtt sæluhús byggt á Kolviðarhóli 1844.“ „Norður af Bolavöllum vestarlega mun enn sjást votta fyrir hústóft einni. Var þar húskofi nokkur eða sæluhús, hið eina skýli, er til var vestan Hellisheiðar þar efra, og hæð sú, er sæluhús þetta stóð á, hinn svonefndi Húsmúli, er virðist hafa hlotið nafn þetta vegna sæluhúss þessa. En það sýnir, að það hefur staðið þarna langan tíma áður […].“ „Þar sem norðaustur horn Svínahrauns nær næst Húsmúlanum er tjörn í bilinu. Hún heitir Draugatjörn. Austan við tjörnina er lítil rúst á litlum hól. Þar stóð Sæluhúsið við Húsmúlann frá fornu fari fram til 1844, að það var flutt upp á Kolviðarhól, vegna draugagangs meðal annars.“ „Austan við tjörnina sést enn rúst af sæluhúsi, mjög gömlu… Þar hefur ekki verið rúm fyrir marga, eftir tóftarbrotinu að dæma, varla meira en einn mann og hest. Stærðin er 2,15×1,5 m.
Draugatjörn – sæluhúsið.
Ferðamenn urðu oft fyrir ásóknum í þessu húsi, svo að þeim varð ekki svefnsamt. Frásagnir um það eru prentaðar í þjóðsögum.“ Sæluhústóftin er á hraunhæð við austurenda Draugatjarnar, um 30 m frá henni. Uppi á lágum helluhraunshól eða hæð, þar sem mjór rani gengur norður úr Svínahrauni austan Draugatjarnar. Skammt frá tjörninni og læk sem rennur úr henni. Innan í tóftinni er hrunið hraungrýti en hún er allvel gróin í hliðum. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans; Gráskinna hin meiri I, 239-243.
Reykjafellsrétt í Dauðadal.
„Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell, norðan í því er Dauðidalur, í honum er fjárrétt.“ segir í örnefnalýsingu. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal.
Reykjafellsrétt í Dauðadal.
Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kring um hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við í dældinni og enn fjær eru mosaþembur. Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.
Þjófahlaup.
1703: „Ei alllangt frá Engidal eru almennar nautaréttir Ölvesinga og Kjalarnesþingsmanna, er árlega haldast þann þriðja dag oktobris mánaðar, ef ei er helgur, annnars næsta dag fyrir. Þessi fjallgarður brúkast almennilega fyrir nauta og hrossa afrétt. Skammt fyrir sunnan réttirnar við Engidalsá standa tveir klettar, sinn hvoru megin árinnar, og nefnist bilið milli þeirra Þjófahlaup.“ „Nauta- og sauðaafréttur liggur vestan og norðan Hellirsheiði, sameiginlegur við Grafningsmenn. […] nautaréttir [eru haldnar] þriðjudaginn í 23. viku sumars í Márardal undir Hengli.“
Réttirnar lögðust niður laust fyrir 1860. Engin eiginleg rétt er í Marardal en hlaðið er fyrir uppgönguleiðir. Dalurinn sjálfur er þverhníptur og er því rétt frá náttúrunnar hendi. Af lýsingu Hálfdanar er helst að sjá að réttin hafi verið við Engidalsá, og þar með ekki í Marardal heldur fyrir sunnan hann, hugsanlega á milli Marardals og Engidals en þar eru víða klettar við ána.
Réttin við Orrustuhól.
„Eftir bardagann í Orustuhólsréttum áttu Ölfusingar og Mosfellssveitarmenn að hafa skilið félag sitt um fjallleitir, og fluttu þá Ölfusingar réttir sínar austur á heiðina, austur fyrir Hengladalaá. [Árið 1878 var fé rekið inn í Hengladali] Var riðið fram Smjörþýfi og fram með Hengladalaánni, og sýndi þá gamall maður, er í förinni var, okkur yngri rekstarmönnunum þessar réttir. Sást þá vel fyrir þeim, bæði almenning og dilkum, þótt djúp skörð væru hrunin í veggi. Sumir dilkanna voru allstórir, gerði ekkert, almenningsdyr sneru á Hengil. Sennilega hefir Ölfusingum þótt afundið að hafa lögréttir sínar uppi á fjalli, og voru því réttirnar færðar undir Ingólfsfjall að Hvammi þegar fyrir 1700.“ Réttin fannst ekki og gæti verið farin í ána sem brýtur mikið af bökkunum. Smjörþýfi er um 1,5×0,5 km stór þúfnamói, mjög grösugur og greinilega gott beitiland. Suðaustan við tekur við lyngmói.
Af lýsingunni að dæma hefur réttin átt að vera norðan til á Smjörþýfi nálægt ánni og reiðgötunum sem liggja nálægt henni inn í Hengladali og eru mjög skýrar. Farvegur eftir leysingavatn er einnig undir brekkurótunum austanmegin norðantil á Smjörþýfi og gæti þar hafa verið réttarstæði sem síðan hefur horfið.
Engidalur – tóftir.
„Nokkrir hellar eru hingað og þangað í berginu umhverfis [Marar-] dalinn. Allir eru þeir nokkuð hátt uppi í hömrunum. Enginn þeirra er stór, en í flestum þeirra sjást einhver mannaverk: hleðslur, ártöl, fangamörk o.þ.h. Einn þessara hella er skammt frá götunni, sem liggur inn dalinn. Hann var notaður fyrir skýli handa réttamönnum. Fyrir framan hann hefir verið hlaðinn garður til skjóls. En líklega hefir hleðslan aldrei náð fast upp að berginu, enda hefir þess ekki þurft, því að þótt auðvelt sé fyrir menn að komast upp í hann, þá er hann svo hátt uppi, að nautin hafa ekki gert mönnum þar ónæði.“ Hellir þessi er austanmegin í Marardal, um 30 m frá hinni merktu gönguleið, um 3 m upp í hlíðinni.
Grasi gróin brekka upp í skútann og er þar troðinn sneiðingur. Hleðslan er gróin en hellisgólfið er bert. Skútinn sjálfur er um 12 m langur og 3 m djúpur þar sem mest er en hleðslan er 6 m löng og er fyrir norðurhlutanum.
Marardalur – hellisskúti.
Hellir er og í vesturhlíð Marardals, fyrir miðjum dalnum, gegnt uppgangi úr honum og eru áletranir í honum en ekki fundust áletranir í öðrum hellum eða skútum í dalnum. Hellirinn er um 6 m uppi í berginu og er tiltölulega auðvelt að komast upp í hann. Hellisgólfið er silla, 1,5-2 breið og um 7 m löng. Áletranirnar eru á hellisveggnum ofan við silluna, sunnantil í hellinum en ekki norðan. Elsta ártalið sem greint verður með vissu er 1917 en steinninn þarna er mjúkur og veðrast fljótt.
Heimild:
-Fornleifaskráning á Hengilssvæðinu III – Fornleifar á afrétti Ölfushrepps, Orri Vésteinsson, Fornleifastofnun Íslands 1998.
Marardalur – fyrirhleðslur.
Lífssteinar
„Eitt sinn fór hestadreingur að smala hestum. Hann fór norður á eingjar, og norður yfir fljót, og upp í hálsinn.
Þar varð fyrir honum hellusteinn. Á hellusteininum voru nokkrir smásteinar, sem voru á sífeldum hlaupum um helluna. Þeir ýmist hoppuðu hver yfir annan, eða hlupu hver í kríng um annan, eins og þegar lömb leika sér um stekk. Þeir voru bleikleitir, en þó með ýmsum litum og á ýmsri stærð. Piltinum varð starsýnt á þetta furðuverk. Þegar hann hafði horft á það stundarkorn, tók hann einhvern minnsta steininn, fór með hann heim og sýndi fólki. Það sagði það væri „lífsteinn“ og hellan „lífsteinahella.“ Þókt vænt um, ef hann hefði fært því helluna með öllu saman. Þá hefði það mátt biðja konúng einhverrar bænar, hverrar helzt, sem það hefði viljað. Vildi þá pilturinn fara aptur á stað og sækja helluna, en það sagði fólkið að mundi verða til einkis; því nú væri hellan með steinunum sjálfsagt horfin og búin að flytja sig, þar eð hún hefði mist einn steininn. Þar að auki sagði hann, að lífssteinahella sæist ekki nema á Jónsmessumorgun.“
Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri 1862, bls. 654.
Í Eilífsdal.
Leyndarmál Reykjanesskagans
„Austan við Grindavík, í miðju Ögmundarhrauni skammt austan Selatanga, er að finna afar merkilegar fornminjar, svonefndan Húshólma, þar sem glögglega má sjá fornar rústir, hús og garða en talið er að þær geti verið frá fyrstu tíð landnáms. Líklega hefur þar verið búseta fram á miðja 12. öld. Litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar á rústunum en þær eru friðlýstar.
Þær litlu rannsóknir sem þar hafa verið gerðar benda til þess að þorpið geti verið með elstu þekktu mannvistarleifum á landinu.
„Sennilega eru þetta almerkilegstu fornminjar á landinu. Ég hef reynt að vekja athygli Fornleifaverndar ríkisins á þessu. En þeir virðast álíta að fornminjar séu best geymdar niðurgrafnar. Þetta er stórmerkilegt svæði, að sjá garðana og tóttir gömlu kirkjunnar sem líklega hefur staðið þarna fram á 15. öld. Bærinn fór í eyði um 1150 og þetta hlýtur að vera einstakt tækifæri fyrir fornleifafræðinga að geta flétt ofan sögunni frá miðri 12. öld og niður,“ segir Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík í samtali við Víkurfréttir. Aðspurður telur hann fjárskort helst hafa hamlað því að ráðist yrði í fornleifauppgröft í Húshólma auk þess sem önnur svæði hafi verið ofar á forgangslistanum. „En þetta hlýtur að teljast afskaplega forvitnilegt svæði. Það veit enginn hversu stór hluti þorpsins fór undir hraunið,“ segir Ólafur.
Talið er að hraunið hafi runnið yfir allnokkra byggð en skyldi eftir óbrennishólma í miðju hraunrennslinu. Í dag má sjá þar leyfar nokkurra húsa og hefur eitt þeira líklega verið kirkjan en örnefnið Kirkjulág bendir eindregið til þess. Sjá má hleðslur fornra garða, fjárborgar, lítillar réttar eða stekks og fleira.
Ómar Smári Ármannson hefur tekið saman ýmsar heimildir um þetta svæði sem lesa má um á vefnum ferlir.is. Hann telur ekki ólíklegt að rannsóknir á Húshólma „gætu haft áhrif á hina stöðluðu ímynd af landnámi hér á landi,“ eins og hann kemst að orði í einum pistla sinna. „Það er jafnframt ein helsta skýringin á því hvers vegna ekki hafa þegar verið hafnar skipulegar rannsóknir á svæðinu,“ segir Ómar Smári ennfremur.
Svæðið hefur oft verið nefnt Gamla Krýsuvík en elstu skráðar heimildir um minjarnar eru frá byrjun 17. aldar. Í Óbrennishólma, sem er skammt norðvestar í Ögmundarhrauni eru einnig minjar stórrar fjárborgar, tóft og garðar sem hraunið stöðvaðist við.
Á þessum loftmyndum Oddgeir Karlssonar sést glögglega hvernig hraunið hefur runnið allt í kringum kirkjustæðið forna. Engin veit í rauninni hversu stór byggðin var og hve mikið af henni fór undir hraunið. Né heldur hvaða fólk bjó þarna. Sagan bíður eftir því að vera rannsökuð.“
Við þetta má bæta að gerðar hafa verið skýrslur um svæðið sem og tillögur um rannsóknir, aðgengi, merkingar og upplýsingar á vettvangi – fyrir daufum eyrum hingað til a.m.k.
Heimild:
–http://www.grindavik.is/v/5049
Skálatóft í Húshólma.
Þingvellir – Stekkjargjá – Snókagjá
Gengið var um Langastíg niður í Stekkjargjá á Þingvöllum.
Ætlunin var að ganga um gjána milli Öxarárfoss að Leirum, þ.e. Stekkjargjá og Snókagjá. Þótt auðvelt sé að ganga syðri hlutann, þ.e. milli fossins og Langastígs-
uppgöngunnar, er að sama skapi erfitt að ganga gjána þaðan að Leirum vegna hruns og stórra steina. Svæðið er þó kærkomið fyrir þá sem vilja upplifa landrekið í reynd því það er óvíða áþreifanlegra en einmitt þarna. Þá eru menningarminjarnar margar í Stekkjargjá – ef vel er að gáð; búðir, garðar, stígar og stekkir. Þá eru Gálgar, forn aftökustaður.
Árið 1912 setti þýski veðurfræðingurinn Alfred Wegener fram vísindalega kenningu til þess að útskýra landrekið. Hann hélt því fram að meginlöndin flytu á undirlagi sínu og gætu því flust úr stað. Hann taldi að meginlöndin hefðu verið ein heild, Pangea (al-álfa) fyrir um 200 milljónum ára. Þessi álfa hefði síðan brotnað upp, fyrst í tvennt, nyðri hluta (Laurasíu) og syðri hluta (Gondwanaland). Síðan klofnuðu þessi meginlönd enn frekar og bútana rak í sundur þangað til núverandi landskipan var náð.
Samkvæmt jarðfræðikenningum reka Norður-Ameríku og Evrasíuflekarnir hvor frá öðrum á Þingvöllum. Plötuskilin afmarkast af gjám sem liggja frá Reykjanesi og norðaustur um land. Segja má að Reykjaneshryggurinn (Mið-Atlantshafs-hryggurinn) „gangi“ á land á Reykjanesi. Hann markar skil þessara tveggja fleka. Austurhluti landsins er á Evrasíuflekanum og vesturhlutinn á Norður-Ameríkuflekanum. Skilin milli þeirra birtast ýmist sem opnar sprungur og gjár eða sem sem gígaraðir. Þau eru einna greinilegust í gjánum á Þingvöllum.
Það er varla hægt að útskýra jarðfræðilega sögu staðarins í stuttu máli. Hér mætast Evrópu- og Ameríkuplatan, hægt er að segja að maður standi með annan fótinn í Ameríku og hinn í Evrópu (sem er auðvitað bara plat). Áhugavert er að vita til þess að hugsa til þess að í árhundruð þjónuðu Þingvellir hlutverki sínu sem Alþingi landsmanna. Þarna hittist alþýða landsins kvað upp dóma og festi lög. Hvort sem að maður hefur áhuga á sögu, jarðfræði eða hvorugu þá eru Þingvellir staður sem vert er að sækja heim.
Jarðsaga Þingvallasvæðisins
„Á seinasta jökulskeiði lá þykkur jökull yfir öllu landinu sem var meira en 1000 m. þykkur þegar kaldast var. Undir jökulskildinum voru eldsumbrot sem mynduðu móberg.
Sum þessara eldgosa náðu að bræða sig í gegnum jökulskjöldinn og enduðu í hraunrennsli. Önnur bræddu einungis hvelfingu undir ísnum og mynduðu móbergsfjöll eða langa móbergshryggi.
Fyrir um 18.000 árum hlýnaði, jökulinn tók að leysa og hann hopaði smám saman inn í landið. Fyrsti vísirinn að Þingvallavatni kom fram fyrir 12000 árum. Þá lá jökultunga í Þingvallalægðinni og jökullón myndaðist syðst í henni, upp við Grafningsfjöllin. Þingvallavatn varð síðan til þegar jökullinn hopaði enn lengra norður og vatn frá honum safnaðist í lægðina.
Undan jöklinum komu í ljós mismunandi gerðir móbergsfjalla sem myndast höfðu við eldsumbrot undir ísfarginu.
Fyrir um 10.000 árum er jökullinn hafði nálgast núverandi stöðu, hófust mikil dyngjugos. Þá myndaðist Skjaldbreiður ein fallegasta dyngja landsins og um svipað leyti dyngjan sunnan við Hrafnabjörg sem Þingvallahraunið rann frá.
Talið er að gosin sem mynduðu dyngjurnar hafi staðið í áratugi. Hraunin tóku fyrir yfirborðsrennsli jökulvatns suður Þingvallalægðina. Allt vatn norðan frá hvarf í hraunið og kom undan því sem tært lindarvatn.
Hraun úr dyngjunni sunnan við Hrafnabjörg rann langt út í Þingvallavatn og lokaði fyrir afrennsli þess við Sogshorn svo vatnsborðið hækkaði en jafnframt minnkaði það mikið því hraunið fyllti það að stórum hluta. Hraunið sléttaði í svip yfir Þingvallalægðina en landsig og sprunguhreyfingar héldu áfram og gjárnar endurnýjuðust og má nú virða fyrir sér innri gerð hraunsins í gjáveggjunum.
Fyrir rúmum 3000 árum opnaðist 8 km löng gossprunga norðaustan við Hrafnabjörg og myndaði Þjófahraun. Hraunið breiddist út austan við Tindaskaga en álma úr því rann vestur af norðan við Hrafnabjörg.
Seinast gaus í Þingvallalægðinni fyrir 2000 árum. Gossprungan sem þá opnaðist er norðaustan við Hengil. Þá rann Nesjahraun í Grafningi og öskugígurinn Sandey reis upp af botni Þingvallavatns.
Eldvirkni hefur nú legið niðri á Þingvallasvæðinu í meir en 2000 ár, en ljóst er að einhverntímann í framtíðinni munu hraun aftur renna.“
Flekahreyfingar
Þingvellir – Snókagjá.
„Þingvallasvæðið tengist eldgosa- og sprungubeltinu sem liggur þvert yfir Ísland. Það er hluti flekaskila Atlantshafshryggjarins sem liggja norðan úr Íshafi og suður eftir öllu Atlantshafi.
Sigdældin er hluti af virku eldgosa- og sprungusvæði sem nær utan frá Reykjanesi norður í Langjökul. Ytri mörk þess eru við Súlnaberg í Botnssúlum og austur á Lyngdalsheiði og Laugarvatnsfjalli. Á Suðurlandi jagast flekarnir hvor framhjá öðrum en á Þingvöllum færast þeir í sundur og spilda á milli sígur. Fjarri flekaskilunum er hreyfingin jöfn, 2 cm á ári en á þeim sjálfum safnar bergið spennu á löngum tíma sem síðan losnar í umbrotahrinum þegar brotamörkum er náð. Síðast gekk slík umbrotahrina yfir Þingvallasvæðið vorið 1789. Þá gekk 10 daga jarðskjálftahrina yfir Þingvelli. Við það seig landið milli Almannagjár og Hrafnagjár um tæpa 2 m, mest í sigdældinni miðri.
Á þeim tíma sem liðinn er síðan hraunið rann nemur landsig um gjárnar samanlagt um 40 metrum en gliðnum um 70 metrum. Telja má víst að landslag á þingstaðnum sé talsvert breytt nú frá því sem var þegar þinginu var valinn staður.
Hið stöðuga landsig hefur valdið ágangi vatns upp í þinghelgina. Frá því að Alþingi var stofnað árið 930 má gera ráð fyrir að sigið nemi upp undir 4 metrum.
Vatnságangur og landsig hafði áhrif á þingstörfin en talið er að Þingvallakirkja hafi verið flutt á 16. öld þangað sem hún er nú. Lögrétta var færð úr stað 1594 því þá hafði hún einangrast á hólma í Öxará.
Við landsigið 1789 fór nokkuð af túni á Þingvöllum undir vatn, gjár opnuðust í og kringum túnið svo ekki var óhult fyrir gripi, og almenningsvegurinn yfir Öxarárósinn og meðfram Hallinum fór á kaf. Þinghald var í kjölfarið lagt niður á Þingvöllum og flutt til Reykjavíkur.
Í Vatnskoti nærri miðri sigdældinni hefur landsigið 1789 mælst um 2 og hálfur metri. Þar fór stór hluti af túninu undir vatn. Land mun halda áfram að síga á Þingvöllum með fyrirsjáanlegum ágangi vatnsins og árinnar á bakkana og þingstaðinn forna en enginn veit hversu langt er þar til næsta umbrotahrina skellur á með tilheyrandi landsigi.“
Sjá meira um Þingvelli HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimild:
-www.thingvellir.is/
Stekkjagjá.
Tyrkjaránið
Í Söguriti IV. 1. er m.a. fjallað um „Tyrkjaránið á Íslandi 1627„:
Tyrkjaránið.
„Rán það og manndráp þau, sem tyrkneskir sjóreyfarar frá Algier og Kyle á norðurströnd Suðurálfunnar frömdu hér á landi, í Austfjörðum, Vestmannaeyjum og Grindavík, 1627, og venjulega er nefnt Tyrkjaránið, hefir orðið mönnum minnisstætt á landi hér, og mart verið um það ritað, bæði af þeim, sem herleiddir voru af Tyrkjum og aptur komust hingað til lands, og svo af öðrum. Þó hafa frásagnir þessar og gögn hingað til að eins að litlu verið útgefin, og hvergi verið að þeim að ganga á einum stað, heldur hefir þessara frásagna, kvæða og skjala verið að leita í óvissu á víð og dreif í opinberum handritasöfnum og hjá einstökum mönnum.
Og sumt hefir fyrst verið að koma fram nú hin síðustu árin. Sá, sem fyrstur safnaði saman öllum frásögnum og skýrslum um Tyrkjaránið, var Árni Magnússon, en það safn hans brann alt hjá honum eins og fleira 1728. Hefir hann þá verið búinn að þrautsafna svo, að þá hafa líklega eingar afskriptir verið eptir á Íslandi af slíkum frásögnunum, svo sem af riti Einars Loplssonar úr Vestmannaeyjum og Halldórs Jónssonar úr Grindavik, sem bæði voru til fyrrum, en reynast nú glötuð, eins og mart af skjölum hlýtur að vera liðið undir lok, er snertir þetta efni.
Grindavík – minnismerki; Tyrkjaránið.
Um 1830-40 hafði Finnur Magnússon: hyggjað gefa út helztu frásagnir og skýrslur um ránið eptir því sem hann ritar etazráði Engelstoft 8. Apr. 1833; hafði Engelstoft þá í áformi að rita eitthvað um þetta efni, en af því varð þó ekki. Aldrei varð og heldur af því að Finnur gæfi út neitt af Tyrkjaránsritunum, enda var þá enn hörgull á afskriptum sumra þeirra í opinberum söfnum, síðan brunann hjá Árna.
Það fyrsta, sem séð verður, að gefið hafi verið út á prent um Tyrkjaránið, er dönsk þýðing af ferðasögu síra Ólafs Egilssonar, prentuð í Kaupmannahöfn 1741 (og önnur útgáfa síðar), en ekki var ferðasaga þessi gefin út á íslenzku fyrri en 1852. Bæði frá þýðingu þessari og útgáfu var lélega geingið. Betur var vandað til útgáfunnar af Tyrkjaránssögu Björns á Skarðsá, sem út kom í Beykjavík 18662). Allar þessar bækur eru nú orðnar ófáanlegar fyrir laungu.
Árið 1899 skrifaði meistari Sigfús Blöndal merka yfirlitsgrein um Tyrkjaránið í tímariti einu dönsku.
Annálar Björns frá Skarðsá.
Annað hefir ekki á prent komið um þetta efni sérstaklega, en bæði er Tyrkjaráns getið í Annálum Björns á Skarðsá, Árbókum Espólíns, Kirkjusögu Finns biskups og enn víðar.
Hér er nú safnað saman í eina heild öllum frásögnum, skjölum og kvæðum, er snerta Tyrkjaránið sérstaklega, og er þar ekkert undanfelt, sem til fróðleiks þótti horfa og fyrir manni hefir orðið af því, sem nokkur frásögn eða tíðindi eru í, nema það, er Jón prófastur Halldórsson hefir ritað í Biskupasögum sínum og Hirðsljóraannál, sem hvorftveggja er áður prentað ekki alls fyrir laungu. En til þess, að einnig frásögn hans fylgi þessari bók, þá þykir rétt að taka hana hér upp í formálann. Í Biskupasögunum segir hann svo frá:
Tyrkir.
»Um ránið i Vestmannaeyjum í tíð herra Odds biskups. Á hans dögum voru Vestmannaeyjar rændar tvisvar. Í fyrra sinni Anno 1614 af þeim eingelska sjóreyfara Jóni Gentelmann, hver með sínum reyfaralokki gekk um eyjarnar í hálfan mánuð, sem settu knífa og sverð sín á hálsa og barka þeim íslenzku og stuttar byssur fyrir þeirra brjóst, með spotti og skellihlátri; drápu þó hvorki né særðu nokkurn mann né smánuðu ærlegt kvenfólk, en ræntu og rupluðu öllu, sem þeir vildu nýta, en skemdu og fordjörfuðu það þeir vildu ekki. Þeir tóku burt þá stóru Landakirkjuklukku. En þá Jón kom fram til Einglands var hann tekinn og drepinn með sínum selskap. Bókstafir, sem steyptir stóðu á klukkunni, hermdu frá hverri kirkju á Íslandi hún var tekin; var hún þremur árum síðar send aptur til Vestmannaeyja eptir skipun Jacobs kóngs á Einglandi.
Grindavíkurhöfn fyrrum.
Hið síðara ránið gerðu Tyrkjar Anno 1627. Komu þeir fyrst á einu skipi þann 12. Junii í Grindavík og ræntu þar fé og peningum og XII eða fleiri mönnum, konum og körlum, en skáru og skammarlega særðu suma. Danska kaupskipið tóku þeir á höfninni með gózi og fólki; kaupmaðurinn gat flúið undan. Þar tóku þeir og annað kaupskip, sem sigla átti upp á Skutulsfjarðareyrarhöfn. Síðan lögðu þeir á tveimur skipum til Bessastaða, hvar Holger Rosenkranz höfuðsmaður halði búizt til varnar, ef svo mætti kalla, með nokkrum íslenzkum. Þá skotið var á móti þeim, er þeir lögðu inn á Seyluna, kom stanz á ræningjana, sneru við, en þá stóð annað skip þeirra fast á grunni; fluttu þeir þá af því á hitt, þar til flaut út aptur, því logn var og ládeyða; fóru svo burt. Ekkert hrós fékk hirðstjóri af sinni hugdirfsku og framkvæmd í þessu.
Íslandskort frá 1600.
Á sama sumri komu tvö önnur Tyrkja skip inn á Djúpavog fyrir austan; tóku þessi ræningjar þar danska kaupskipið á höfninni með fólki og gózi, hlupu með hrinum og háhljóðum um bygðina alt í kring að Heydölum, hertóku landsfólkið, en börðu sumt og drápu, ræntu kirkjur á Hálsi og Berufirði og öllu því, er þeir náðu og nýta vildu, en fordjörfuðu hitt, er þeir vildu ekki. Síra Jón Þorvarðsson á Hálsi tóku þeir í sæng hans um nótt og burt fluttu ásamt CX manneskjum öðrum, en drápu IX menn, sem menn vissu og fundu. Þaðan héldu þeir undir Vestmannaeyjar; tóku þeir eingelska duggu; þeir friðkeyptu sig með því að vísa ræningjum uppgaungu á eyjarnar, hvað helzt gerði Þorsteinn nokkur íslenzkur, sem áður hafði verið í eyjunum. Að kvöldi þess 17. Julii lögðu þessir ræningjar sunnan að eyjunum, hlupu þar upp óvanalegan veg CCC vopnaðir menn eður fleiri, skiptu sér í þrjá flokka, hlupu með hrópi og ofsahljóðum um alla bygðina, inn í hverja krá og afkyma, börðu fólkið, konur og karla, börn og gamalmenni, drápu sumt og sundurhjuggu í smátt með alls kyns háðungum, ráku það hópum saman eins og fé í kvíar ofan í Dönskuhúsin, völdu þar úr því þá, sem þeim leizt bezt á og fluttu fram á skip sín. Björg og hamra runnu þeir upp og klifruðu eins og léttfærustu bjargmenn, og gripu fólkið, sem sig hafði falið þar, en skutu niður með byssum það, sem þeir náðu ekki. Sóknarprestinn annan, síra Jón Þorsteinsson, með hans konu, börnum og heima fólki, fundu þeir í afviknum stað; fyrrgreindur Þorsteinn þekti hann og sagði; »Síra Jón! því ertu nú ekki í kirkju þinni?« Prestur svaraði: »Eg hefi verið þar í morgun«; hjó hann þrisvar í höfuðið hvað eptir annað; presturinn befalaði sig og sína sálu guði og dó svo, en konu hans og börn, svo og hinn prestinn, síra Ólaf Egilsson, með hans konu, börnum og fólkinu, börðu þeir og keyrðu í skip. CCXLII manneskjur hertóku þeir, en XXXIV fundust dauðar, fyrir utan þær, sem þeir brendu þá í Dönsku-húsunum veikar og vanfærar; þeir brendu og Landakirkju upp til ösku, ræntu öllu, sem þá girnti, en fordjörfuðu hitt. Þann 19. Julii sigldu þeir burt fram í Barbaríið með fólkið og alt það ránsfé«.
Járngerðarstaðir 1627.
Í Hirðstjóraannál farast séra Jóni svo orð, og er hann nú heldur skorinorðari um frammistöðu hirðstjórans og Dana á Bessaslaðaskanzi: »Anno 1627 kom Rosenkranz höfuðsmaður hingað í öndverðum Junio. Og er hann heyrði ránskap Tyrkjanna í Grindavík, sem byrjaðist þann 12. Junii, stefndi hann kaupförunum úr Hafnarfirði og Keflavík til sín í Seyluna, hvar hans sjálfs skip lá, en Hólmsskipið dvaldist inn í Leiruvogum; lét hann þar búast til varnar bæði á sjó og landi; lét (hann) gera virki eður skanz, sumir segja af fiskböggum, — upp á skop, að eg meina, eður þó réttara að segja, að virkið hafi ei gagnast meira en þótt hlaðið hefði verið af fiskaböggum. Var í þeirri virkisnefnu varla rúm fyrir fáeina menn, miklu síður fyrir heilan flokk manna eður varnarlið; voru þangað færðar feltbyssur — ef svo mætti kallast — þær, sem til voru, og þó varla nokkur af þeim til gagns.
Tyrkir.
Í þá daga og fram undir anno 1700 komu flestir sýslumenn, klausturhaldarar og aðrir forléningamenn til Bessastaða um Jónsmessu skeið og fyrir Alþing, að afhenda afgiptirnar af þeirra forléningum. Af þessum voru í það sinn komnir að Bessastöðum nokkrir sýslumenn, Jón Sigurðsson á Reynistað, sem áður var lögmaður, Sigurður og Þorbergur Hrólfssynir og nokkrir aðrir, með þeirra sveinum, svo og síra Þorlákur Skúlason, þá kosinn til biskups á Hólum. Þegar fyrrgreindir ræningjar lögðu tveimur skipum úr Grindavík og stefndu inn á Seyluna, bjuggust þessir menn og svo lit varnar með þeim Dönsku, og hvorutveggja, Tyrkjar og kristnir skutu af nokkrum slykkjum. Kom felmtur á ræningja og sneru við sínum skipum; þá slóð annað skip þeirra fast á grunni eður á kletti. Lognveður og ládeyða var. Fluttu þá ræningjar það fangna fólkið og annan þunga af því á hitt skipið, þar til það losaðist at klettinum, og áttu þeir tvo daga í þessu svamli; héldu svo skipunum út frá. En á meðan þeir voru í þessu starfi og ráðleysi, vildu hinir íslenzku bæði leggja að þeim og skjóta, en það vildu þeir Dönsku með eingu móti, hvar fyrir þeim var stórum álasað. Hafði höfuðsmaðurinn sinn hest söðlaðan og bundinn bak við Bessastaðabæ, til að ríða burt. Var lítt hrósað vörn hans og hugprýði í þessu. Var þetta undir sjálft Alþing, og kom hann þangað ei það sumar«.
Heimild:
Sögurit IV. 1., Tyrkjaránið á Íslandi 1627, Sögufélag gaf út, Reykjavík, prentsmiðjan Gutenberg, bls. 11-19.
Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.
Gamli Þingvallavegurinn – sæluhús – Þrívörður – Berserkjavarða
Ekki er langt síðan FERLIR fylgdi Gamla Þingvallaveginum frá Krókatjörn og upp á Háamel á Mosfellsheiði þar sem tóftir gamals greiðahúss voru skoðaðar. Nú var ætlunin að leita uppi tóftir sæluhúss ofan við Moldbrekkur skammt norðaustan við Háamel og í leiðinni skoða Þrívörður ofan við Heiðartjörn, Berserkjavörðuna og tóftir af hlöðnu sæluhúsi við gamla veginn.
Berserkjavarða við Gamla Þingvallaveginn.
Samkvæmt kortum liggja gamlar götur þvers og kurs um heiðina, en mestur er Gamli Þingvallavegurinn, sem lagður var um 1880. Á honum eru fallega hlaðin ræsi á allnokkrum stöðum, fallega hlaðin steinbrú, sennilega ein sú elsta á landinu og heillagar vörður og fyrrnefnt sæluhús við sýslumörkin efst á heiðinni. Vegurinn var lagfærður við konungskomuna árið 1907 og viðhaldið allt til ársins 1930.
Tóftir sæluhússins eru á klapparhrygg nokkru norðan við Þrívörður. Þær eru ranglega merktar inn á landakort. Tóftirnar eru ca. 5×8 m. Hurðaropið snýr mót suðvestri. Stór varða er vestan við húsið. Sýsluvörðurnar tvær eru enn vestar. Frá húsinu sér í vörður norður heiðina, áleiðis suður fyrir Leirvogsvatn.
Á þessum slóðum gerðist mikil harmsaga. Það var laugardagur, hinn þriðja í Góu, árið 1857, er 14 vertíðarmenn úr Biskupstungum og Laugardal höfðu lagt upp á Mosfellsheiði frá Þingvöllum. Veður var blítt um morguninn, frostlaust, en þung færð vegna snjóa.
Varða við Illaklif.
Þegar þeir fóru frá Kárastöðum var slíkt þíðviðri að vatn draup af upsum, en þegar komið var vestur í Vilborgarkeldu brast skyndilega á iðulaus norðanhríð með grimmdarfrosti og slíku hvassviðri að vart varð stætt.
Vermennirnir kusu samt að freista þess að halda áfram í þeirri von að finna sæluhúsið vestan við Þrívörður eða ná til bæja í Mosfellsdal. Sæluhúsið fundu þeir ekki og héldu áfram meðan þróttur vannst, þó klæði þeirra, blaut eftir þíðviðrið og ösl í ófærðinni, frysi í stokk.
Sæluhúsið í Moldarbrekkum 1896 – Daniel Bruun.
Mennirnir voru flestir orðnir örmagna alllöngu fyrir dagsetur og grófu sig því fönn undir Illaklifi ofan við Leirvogsvatn, nema tveir sem gátu haldið sér uppréttum og vakandi alla næstu nótt. Hinir sofnuðu og féllu í ómegin, fennti í kaf og frusu fastir við snjóinn.
Er leið að morgni tókst hinum vakandi að vekja félaga sína, sem enn voru lífs, og rífa þá upp úr snjónum. Voru 12 á lífi er dagaði. Þá herti veðrið enn og létust nú þrír í viðbót í höndum félags inna. Hinir brutust af stað og náðu fimm þeirra til bæjar í Bringum um miðjan morgun. Voru þeir svo þrekaðir að þeir gáðu ekki í fyrst að segja til þeirra sem ókomnir voru eða lágu dauðir uppi á heiðinni.
Jón Svamþórsson í Gamla sæluhúsinu við Seljadalsleið.
En jafnskjótt og húsráðanda á Bringum varð ljóst hvað hafði gerst, sendi hann eftir hjálp á næstu bæi, en fór sjálfur að leita þeirra sem enn kynnu að vera á lífi. Fann hann tvo þeirra villta er drógu eða hálfbáru tvo örmagna félaga sína með sér. Annar þeirra dó þó í höndum þeirra. Fórust þannig sex af þeim fjórtán, sem lagt höfðu upp í byrjun og þeir sem af komust voru flestir kalnir til stórskemmda og urðu örkulma lengi, sumir ævilangt. Hinir látnu fundust daginn eftir og voru jarðsettir að Mosfelli.
Mennirnir fimm urðu úti við hól við Illaklif sunnan og ofan við Leirvogsvatn. Rennur lækur þar niður að vatninu, sem sjaldan frýs. Fylgdi frásögn eftirlifanda að óneining hefði komið upp í hópnum hvert halda skyldi.
Skjól við Illaklif.
Sá sem hraustastur var, þekkti vel til og best slapp úr hrakningunum iðraðist þess jafnan að hafa ekki yfirgefið hópinn strax up kvöldið og reynt að brjóast til bæja eftir hjálp. Þessi atburður sýnir vel hversu alvarlegar afleiðingar vondur útbúnaður og fáfræði á ferðalögum gat haft í för með sér þegar í harðbakkan slær. En hann getur líka verið þörf áminning um um að ferðalög, um ekki lengri veg, geta verið varasöm ef ekki er allrar varúðar gætt og ferðabúnaður í góðu lagi. Auk þess má vel læra af honum þá lexíu að þegar allir vilja ráða för getur villan orðið þess meiri. Nauðsynlegt er að að láta þann ráða, sem mesta reynslu og besta þekkingu hefur á staðháttum.
Mennirnir, sem létust, eru grafnir í einni röð í ómerktum gröfum undir kirkjuveggnum í Mosfellskirkju.
Sæluhúsið við gamla Þingvallaveginn árið 1998.
Þrívörður eru vestan við Þórðargil, ofan við svonefndar Þrívörðulautir við Þrívörðuhrygg. Hjá vörðunum lá hin gamla leið til Þingvalla. Vörðurnar þrjár mynda þríhyrning á klapparholti. Þaðan er gott útsýni niður heiðina til austurs. Þessar vörður sjást vel þegar komið er að austan með stefnu á hábrún heiðarinnar. Austasta varðan er mest um sig, en sú vestasta stendur hæst. Þær eru allar úr lagi gengnar. Fallega hlaðin leiðarvarða er suðaustan við Þrívörður.
Við Gamla Þingvallaveginn, á hábrún þar sem útsýni er best til Þingvalla, stendur gamalt steinhlaðið sæluhús.
Gamli-Þingvallavegur; hleðslur gamla sæluhússins.
Steinarnir í veggina eru tilhöggnir líkt og eru í Alþingishúsinu. Sennilega hafa þeir verið fluttir þangað á sleðum að vetrarlagi. Fróðlegt væri að fá nánari upplýsingar um hús þetta. Líklegt þykir að það hafi verið byggt við konungskomuna og verið notað við för konungs þessa leið til Þingvalla árið 1907. Nú er það að mestu hrunið, einungis mótar fyrir neðstu steinaröðum. Konungur fór um veginn með fríðu föruneyti. Sjálfur reið hann langleiðina, en eftir fylgdu vagnar með kost og klósett. Sögðu templaranir í sveitinni að rekja hefði mátt slóðina eftir föruneyti kóngs þar sem eftir lágu tómar kampavínsflöskur í götunni.
Berserkjavarða er austarlega við Gamla Þingvallaveginn. Nafnið er hvorki fornt né kennt við hálftröll eða vígamenn. Vorið 1908 voru tveir unglingspiltar með viðlegu á heiðinni að hlaða vörður með fram veginum. Þessir piltar voru þeir Ólafur Magnússon frá Eyjum í Kjós og Jónas
Magnússon, bóndi í Stardal. Þeir voru rétt innan við tvítugt. Þetta var í kauptíð og margt ferðamann á leið suður og sunnan.
Gamli – Þingvallavegur – varða.
Áðu þeir gjarnan hjá vegamönnum, hvíldu hesta sína og þáðu kaffisopa. Þarna bar að ónefndan bónda austan úr Laugardal og fannst piltum hann vera með óþarflega herralæti og húsbóndahátt við þá, líkt og þeir væru hans þjónar en ekki gestgjafar. Kom þeim ásamt um, að rétt væri að gjöra honum einhvern grikk, ef hann kæmi við á leið úr kaupstaðnum. Tveim dögum síðar bar hann aftur að tjaldi þeirra, eitthvað við skál og ekki síður heimtufrekur og herralegur en í fyrra skiptið. En nú brá svo við að piltar voru stimamýktin holdtekin og til þjónustu reiðubúnir í hvívetna. Yfir kaffibollum dró ferðamaður upp axlarfulla flösku af brennivíni, fékk sér gúlsopa og bauð piltum að dá sér bragð. Þeir kváðust, sem satt var, vera slíkum drykk alls óvanir en dreyptu þó örlítið á pyttlunni.
Varða við gamla Þingvallaveginn.
Fylgdu þeir síðan komumanni til hests hans og gengu með honum á leið, skínandi af vinsemd. Að skilnaði var þeim aftur boðið bragð, en þegar þeir höfðu fengið flöskuna í hendur kviknaði eitthvað við nára hestins, sem tók viðbragð og hentist af stað. En þegar reiðmaður hafði n áð valdi á gæðingi sínum og náð flösku sinni, lá hún galtóm milli þúfna og piltar farnir sína leið. Var þá fátt um kveðjur. En sakir kátínu yfir vel heppnuðu bragði, að senda hinn heimtufreka kaupstaðafara þurrbrjósta sinn veg, og þó kannski öllu fremur vegna óþekktra kynna af áhrifum Bakkusar konungs, rann á pilta mesta kraftaæði og voru þó hraustir fyrir, ekki síst Ólafur, sem var afarmenni að kröftum. Veltu þeir með járnkörlum gríðarstóru bjargi úr holtinu þangað sem varða skyldi standa, færðu ofan á það annan klett og þar upp á lyftu þeir þeim þriðja. Var þá varðan hlaðin, rúmlega mannhæðahá. Verkstjóri þeirra hló þegar hann sá vegsummerkin og kvað þá mestu berserki. Fékk varðan þetta nafn síðan.
Gamli Þingvallavegurinn.
Um tíma voru einungis tveir steinar í vörðunni, en nú hefur hún verið lagfærð og efsta steininum aftur komið á sinn stað. Ljóst er að þeir, sem hlóðu vörðuna, hafa verið vel rammir af afli, enda engra aukvisa að gera slíkt. Þessi varða er öðruvísi en aðrar vörður við Gamla Þingvallaveginn. Hinar eru vel til myndaðar, svipaðar að hæð og með vegprestum.
Gamli Þingvallavegurinn er nú fornleif. Vegurinn, ræsin, brýrnar, sæluhúsin, vörðurnar og KM-steinarnir eru minjasafn hinnar gömlu vegagerðar milli höfuðbýlis og þingstaðar – Þingvalla – þar sem fléttast saman gamlar þjóðleiðir og minnismerki þeim tengdum.
Þegar staðið er efst á Mosfellsheiði er auðvelt að setja sig í spor vermannanna að austan forðum daga. Fárra kennileita er á að byggja þegar hríð og bylur hylur útsýn og varla er þar skjól að finna þegar á reynir.
Frábært veður. Betra gerist það ekki á heiðum uppi á þessum árstíma. Og þvílíkt útsýni…..
Heimild m.a.:
-Árbók F.Í. 1986.
Gamli Þingvallavegurinn.
Reynisvatnsheiði – minjar
Fá skrif eru til um jafn nærtæka heiði og Reynisvatnsheiðin er. Reyndar hefur heiðin sú ekki verið nærtæk öðrum en sumarbústaðaeigendum og tímabundum hernámsmönnum fyrr en allra síðustu árin. Eftir að Morgunblaðið byggði prentsmiðju og flutti síðan ritstöðvar sínar í Hádegismóa á Grafarheiðinni norðan Rauðavatns varð Reynisvatnsheiðin skyndilega í örskotsfjarlægð.
Að vísu var skógræktarfólk búið að undirbúa jarðveginn með því að planta trjám við Rauðavatn og utan í sunnanverða heiðina, gera göngustíga og reyna að laða fólk að útivistarmöguleikum hennar, en árangurinn skilaði sér ekki að ráði fyrr en byggðin fór að teygja sig áleiðis. Rauðavatnið sjálft varð aðalaðdráttarafl skautafólks, skaflskeiðunga og smábátaunnenda, en lengra náði áhugi þangaðleitenda tæpast – með örfáum undantekningum þó. Með byggðaaðþrengingunni jókst nýtingin svo að jafnvel þaulsetið listafólk sýndi því áhuga. Svæðið var síðan fornleifaskráð og því fékkst staðfest að búsetuminjar frá fyrri tíð leyndust í heiðunum. Einna merkilegust þeirra eru líklega leifar Grafarsels, fjárhústóft frá Hólmi, tvær fjárborgsleifar austan Rauðavatns og myndarleg fjárborg norðaustan á hæð austan vatnsins. Þá verður hlaðin ferköntuð rétt austan Rauðavatns að teljast til merkilegra fornleifa á svæðinu. Gömul gata liggur og ofan Rauðavatns áleiðis til austurs, að Lyklafelli, en utan í hana hafa myndast seinni tíma sumarhúsagötur. Nú eru til viðbótar komnir þar betrumbættir göngustígar, malbornir.
Reynisvatnsheiðin er spölkorn austar, eða millum Rauðavatns og Reynisvatns sem og Langavatns skammt austar. Austar er Miðdalsheiði.
Einn FERLIRsfélaga fór nýlega um Reynisvatnsheiðina og rak þá þjálfuð augun í umtalsverðar hleðslur sunnan í grónu holti. Þær eru tæpast numdar með venjulegum augum. Um er að ræða nánast ferkantað gerði, 10×12 m, með grónum jöðrum, en í því miðju eru tveir hlaðnir þverveggir, líkt og undirstöður eða hrófl að göflum. Grjótið í hleðslunum hefur þó verið með stærra móti. Skammt sunnar eru sprengiefnageymslur. Austan þeirra eru leifar af götu og steyptum grunni mannvirkis, líklega frá Seinni heimsstyrjöldinni. Þær virðast þó ekkert hafa með fyrrgreint mannvirki að ræða, sem virðist mun eldra.
Haft var samband við fulltrúa Minjasafns Reykjavíkur og athygli hans vakin á mannvirkinu.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.
Kolviðarhóll, Hellisheiði og Hengill
Í „Fornleifaskráningu á Hengilssvæðinu III – Fornleifar á afrétti Ölfushrepps„, gerða af Orra Vésteinssyni 1998, er fjallað um ýmsar minjar á og við Kolviðarhól, Hellisheiði og í Hengli. Hér veður getið nokkurra þeirra:
Kolviðarhóll – tóftir.
„Bú var reist á Kolviðarhóli 1883 og varði til 1954, en þar sem sá búskapur tengist fremur sögu samgangna á svæðinu en búnaðarsögu þess.
Helsta sérkenni Hellisheiðar og Hengilssvæðisins eru hinar mörgu samgönguleiðir sem liggja þar um. Að vísu var hlutfallslega minna farið um Hellisheiði á fyrri öldum en nú, því að milli Suðurlands og Vesturlands voru þá yfileitt farnar aðrar leiðir, um Kjöl, Uxahryggi, Leggjabrjót, Botnsheiði eða Grafning um Kjósarskarð. Engu að síður var Hellisheiðin aðalleið milli vesturhluta Árnessýslu og Kjalarnesþings og eftir að kaupstaðir festust í sessi, fyrst í Þerney, svo í Hafnarfirði og Hólminum/Reykjavík óx mikilvægi þessarar leiðar.
Hellisheiðarvegur austan Lyklafells.
Hellisheiðarvegur lá áður fyrr mun norðar en nú en þegar komið var að vestan var farið norðan við Svínahraun en ekki í gegnum það eins og nú enda var úfið hraunið illfært bæði hestum og fótgangandi mönnum. Sléttir vellir eru norðan við hraunið með fram Engidalskvísl og síðan var farið upp með Húsmúla, sem dregur nafn sitt af sæluhúsi sem þar var við Draugatjörn og er frægt bæði fyrir að vera eitt hið elsta sem góðar heimildir eru um á Íslandi og fyrir draugagang sem varð til þess að húsið var fært á Kolviðarhól 1844.
Sæluhúsið við Draugatjörn.
Frá Draugatjörn lá leiðin framhjá Kolviðarhóli og upp Hellisskarð og síðan eftir sléttum hellum austureftir heiðinni og niður Kambana heldur sunnar en vegurinn er nú. Á vestari hluta heiðarinnar hafa myndast rásir í móbergshelluna eftir járnaða hófa sem þarna hafa farið yfir um aldir og eru það bæði sérstakar og mikilfenglegar minjar.
Hellisheiðarvegur um 1900.
Umferð jókst mjög á þessari leið á 19. öld eftir því sem mikilvægi Reykjavíkur óx og var hún einnig póstleið frá því að póstsamgöngur hófust í lok 18. aldar. Jókst þá einnig áhyggja manna af öryggi á leiðinni. Laust fyrir 1830 hlóð Þórður Erlendsson bóndi á Völlum í Ölfusi, að eigin frumkvæði að því er virðist, kofa úr hellugrjóti uppi á heiðinni sjálfri og stendur hann enn. Á þessum tíma hefur gamla sæluhúsið við Draugatjörn verið orðið hrörlegt auk þess sem margir virðast hafa veigrað sér við að gista þar vegna draugagangs. Það var síðan lagt niður er timburhús á hlöðnum sökkli var byggt á Kolviðarhóli 1844. Á þeim tíma voru ekki mörg timburhús á Íslandi og er þessi íburður til marks um mikilvægi leiðarinnar. Í hinu nýja húsi gátu sofið 24 menn og einnig var skjól fyrir 16 hesta. Þetta hús var síðan farið að láta á sjá þrjátíu árum síðar og 1878 var byggt, með opinberu fé, steinhús á Kolviðarhóli til að taka við timburhúsinu, sem eftir sem áður var notað sem hesthús. Sömu sögu er að segja að 1878 voru ekki mörg steinhús á Íslandi og sýnir þetta vel hversu mikilvægt það þótti að ferðamenn gætu leitað öruggs skjóls á þessari leið.
Kolviðarhóll 1907.
Vel var fylgst með byggingu þessa húss í Reykjavíkurblöðunum enda var þetta ein af fyrstu opinberu framkvæmdum sem Íslendingar réðust í eftir að þeir fengu sjálfstæðan fjárhag 1874.
Fimm árum eftir að steinhúsið á Kolviðarhóli reis, eða 1883, flutti þangað Jón Jónsson með fjölskyldu sína og var búið þar til 1954. Byggð á Kolviðarhóli byggðist fyrst og fremst á greiðasölu og var beinlínis hugsaður til að auka öryggi á leiðinni en þeir sem þar bjuggu fengust einnig við hefðbundinn búskap og má sjá um hann allmiklar minjar. Tún var ræktað á hólnum og sést enn vandaður túngarður í kring um það. Fleiri garðar voru hlaðnir í grenndinni sem minna á heyskap Kolviðarhólsbænda.
Kolviðarhóll.
Um svipað leyti og nýja sæluhúsið var byggt á Kolviðarhóli 1878 var lagður vegur yfir Svínahraun,mun norðar þó en núverandi vegur, og upp Hellisskarð yfir heiðina á sama stað og gamla þjóðleiðin. Þessi vegur var þó ekki vagnfær sem dró mjög úr nytsemi hans. Nýr vegur var lagður yfir Hellisheiði 1894-1895 og var þá vegarstæðið flutt suður fyrir Reykjafell og vagnfær leið gerð um Hveradali sem síðan sameinaðist gömlu leiðinni austar á heiðinni. Frá þessari vegagerð er örnefnið Smiðjulaut sem kennt er við smiðju vegagerðarmanna. Vegurinn sem nú er farinn er mun sunnar í Svínahrauni en norðar á Hellisheiði en gamli vegurinn og má víða sjá minjar um þessa gömlu vegagerð á heiðinni.
Smiðjulaut – Smiðjutóft.
Leiðin um Hellisheiði var fyrst og fremst farin af Ölusingum og þeim sem fóru yfir Sogið hjá Torfastöðum og síðan um Grafningsháls en úr Grafningi lá einnig fjölfarin leið um Dyrafjöll, Dyravegur, yfir Mosfellsheiði. Sá vegur liggur um nyrsta hluta afréttar Ölfusinga og er þessvegna getið hér. Fáfarnari leið var úr norðanverðum Grafningi um Ölkelduháls og Milli hrauns og hlíðar norðan við Orrustuhólshraun og saneinaðist hún Hellisheiðarvegi rétt austan við Hellisskarð. Þeir sem áttu leið í Þorlákshöfn eða Selvog frá innanverðum Faxaflóa fóru yfirleitt ekki Hellisheiði heldur Lágaskarðsveg eða Ólafsskarð, en Þrengslin sem eru á milli þessara leiða munu hafa verið fáfarin fyrrum.
Ólafsskarð.
Bæði Þrengslavegur og Lágaskarðsvegur klofnuðu frá Hellisheiðarvegi hjá Kolviðarhóli og lágu beint til suðurs með austurbrún Svínahrauns. Ólfasskarðsleið liggur hinsvegar mun vestar og sameinast ekki öðrum vegum fyrr en niðri í byggð, Hellisheiðarvegi hjá Fóelluvötnum, en Þrengslavegi sunnan við Þúfnavelli. Í Ólafsskarði munu vera rásir í móbergshelluna eins og á Hellisheiðarvegi og Dyravegi.
Grafningsvegur.
Þeir sem komu úr Borgarfirði eða enn lengra að vestan eða norðan og áttu erindi í Selvog, og þeir voru ekki fáir fyrr á öldum enda stórar verstöðvar þar suður með, fóru annaðhvort um Þingvöll eða Kjósarskarð og gátu þá valið að fara með bæjum um Grafning eða þræða austurbrún Mosfellsheiðar, vestur með Dyrfjöllum og koma á Hellisheiðarveg á Bolavöllum þaðan sem beinust leið var í Selvog um Lágaskarðsveg. Þó að þessi leið virðist auðveld og greiðfær eru sáralitlar heimildir um hana.
Aðrar leiðir sem skráðar eru á afrétti Ölfusinga voru fyrst og fremst notaðar af innasveitarmönnum og gangnamönnum. Þannig liggur leið, Skógarmannavegur, frá Þurá beint til norðurs yfir austurhluta Hellisheiðar og yfir Ölkelduháls til Nesja en þangað var farið til kolagerðar frá Hjalla. Frá Núpum liggur einnig gata upp á Hellisheiði og hefur hún einnig verið notuð af þeim sem fóru Hellisheiði en áttu erindi í vesturhluta Ölfushrepps.
Kolviðarhóll – yngsta húsið á hólnum.
Almenn sögn segir, að í Kolviðarhól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.“ Kolviðarhóll er hár og breiður náttúrulegur melhóll og stóð þar lengi sæluhús en bú var reist þar 1883.
Almenningsvegur liggur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba …, síðan vestur yfir Hellirsheiði, hvör að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn til leiðarvísirs.“
1840: „Hellirsheiði er … vel rudd … Á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum.“ SSÁ, 205
Hellisskarð – gata.
„Hinn forni vegur yfir fjallgarðinn milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá af Kambabrún sjónhending í skarðið milli vesturenda Skarðshlíðar og norðurenda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með Húsmúla, niðurí Norðurvelli með norðurbrún Svínahrauns hjá Lyklafelli, og var þá komið í byggð hjá Helliskoti í Mosfellssveit. Á þessari löngu leið voru sama sem engar vörður. Austast á Hellisheiði voru vörðubrot og önnur vörðubrot vestast á heiðinni.“
Hellisheiði – gamla gatan.
„Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið.“
Eiríksvegur ofan Hveragerðis.
„Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta […] lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum […]. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn […] en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður […].“
Austurvegur 1880.
„Frá stóru vörðunni á Efra Skarði lá leiðin til austurs um greiðfært hraun. Þar má sjá götu, sem grjótið hefur verið týnt úr og beinan upphlaðinn veg, þann fyrsta sem lagður var á Hellisheiði. Sá vegur mun hafa verið lagður árið 1879 og kallaður Eiríksvegur. Kenndur við verkstjórann, Eirík Ásmundsson frá Grjótá. Bílaslóðin sunnan fyrir Reykjafell liggur yfir gömlu götuna hjá litlum gíghól . .. Vörðurnar standa sig vel, flestar, og eru 18 vörður frá gíghólnum og austur á Syðri-Þrívörðu. Þar kemur hraunbrún, sem liggur þvert á leiðina. Á brúninni norðan götunnar stendur gamalt sæluhús … Niður af hraunbrúninni liggur sniðgata og enn er helluhraun með sporuðum klöppum. Næsti áfangi er önnur hraunbrún. Sú er nefnd Eystri Þrívörður.
Hellisheiðarvegur við Þrívörður.
Þar var talin hálfnuð leið yfir Hellisheiði. Þá tekur við ósléttara hraun, sunnan við apalhraunið. Þar er greinileg gata og hefur hún gróið grasi. Þegar nálgast austurbrúnina beygir hún til suðurs, vestan við Hurðarásinn, sem gamli bílvegurinn lá yfir. Síðan gegnum skarð sunnan á ásnum .. . Síðan lá leiðineftir vatnsfarvegi niður á Kambabrúnina … Síðan lá leiðin um sniðgötu niður Kambabrúnina, skammt ofan við gamla þjóðveginn, sem bíllinn notaði. Greinileg gata liggur niður Kambabrekkuna, gróin grasi. Síðan lá leiðin um melinn, sunnan Hamarsins.“ Útivist 6(1980), 82-86.
„Framhald [vegar Eiríks í Grjóta um Svínahraun, b. 1877-78] lá upp um Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól; þar er enn (1973) efst í skarðinu lítt hrunin hleðslan í vegköntunum. / Hellisskarðsvegur var ekki vagnfær, til þess var hann of brattur .. .
Næst á dagskrá á Suðurlandsvegi var að leggja Kamba- og Hellisheiðarveg. Eiríkur frá Grjótá [!] tók þá vegagerð að sér og gefur þann veg enn að líta ef vel er skoðað í Kömbum.
Hellisheiðarvegur.
Er skemmst frá því verki að segja, að Kambavegur var lagður 1879 og var svo brattur að hann þótti lítt nothæfur og var ekki mikið farinn þau 15 ár sem liðu, þar til næst var lagður vegur um Kamba. 1880 hélt Eiríkur áfram vegarlagningu og lagði nú veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar; allt til þess er kom á helluhraunið sem var greiðfærara. Lengd þess vegar var um 4-5 km og var hann þráðbeinn og allvel gerður og er enn vel sýnilegur … Kunnáttuleysi í vegagerð og vantrú á notkun og framtíð vagna olli því, að vegirnir voru lagðr áþann hátt, að þeir útilokuðu þann möguleika að menn hæfu vagnferðir eftir þeim .. Til þess var brattinn í Hellisskarði og Kömbunum of mikill og einnig vantaði akfæran veg frá Reykjavík upp að Svínahrauni. Við þetta ástand sat að mestu fram yfir 1890.“ Magnús Grímsson: Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi, Landnám Ingólfs 2 (1985), 88-89. Vegurinn var færður suður fyrir Reykjafell á svipaðar slóðir og hann er enn í dag 1894-95.
Vörður eru hlaðnar allt frá Hellisskarði og að Syðri Þrívörðum, skammt austan við neyðarskýli Slysavarnarfélagsins við þjóðveg 1. Þær eru vel hlaðnar úr þunnu hraungrýti, toppmyndaðar, um 1,5 í botninn og um 1,5 m háar, með töluverðu af skófum og mosa. Þær eru með 60-140 m millibili, 90 m að meðaltali.
Hellisheiðarvegur.
„Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m í þvermál að innan á sömu klöppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak.“ segir í örnefnalýsingu. Kofinn er um 70 m norður af hinni vörðuðu Hellisheiðarleið, um 1,3 km vestan við neyðarskýli LHS við þjóðveg 1. Kofinn stendur framarlega á klapparbrún og er hann sjálfur á upphækkun á klöppinni. Kofinn sést allsstaðar af heiðinni. Í kringum hann sést hvar hleðslugrjót hefur verið rifið upp. Friðlýst 13.5.1971. „var byggður um 1830. Það gerði Þórður Erlendsson [1797-1872], þá bóndi á Völlum, síðar Tannastöðum. Biskupsvarða var stór og hlaðin í kross með 4 arma, þá var skjól í kverkunum. Hún var mjög gömul og hrunin í rúst. Hún stóð á klöpp hægra megin við veginn, þegar suður var farið (til Faxaflóa). Kofinn var byggður úr sama grjótinu, og að öllum líkindum á sömu klöppinni. Heimild fyrir þessu er Skúli Helgason, eftir Kolbeini Guðmundssyni bónda á Úlfljótsvatni, en hann hafði það eftir gömlum mönnum og langminnugum.“ Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr).
Hellukofinn.
„Á þeim stað sem hétu Syðri-Þrívörður var laust eftir 1820 byggður sæluhúskofi, orghlaðinn úr grjóti og þéttur með mosa. Kofi sá stendur enn óhaggaður eftir rúm 150 ár. Lítið skjól er þar nú því að þétting öll er fokin í burtu.“ SB III, 282. Kofinn er ferhyrndur að innan, 2×2 m og 1,85 m undir þak, um 20 umför af 7-15 sm þykkum hraunhellum. Suðausturhorn þaksins er aðeins farið að síga inn en annars standa hleðslurnar mjög vel. Dyr eru á norðurhlið, austantil. Veggir eru um 0,8 m þykkir við dyraop, þar er þröskuldur, 2 umför af hraunhellum. Talsverður mosi og skófir eru á kofanum. Inni í kofanum er hart moldargólf, að mestu slétt. Ekkert friðlýsingarmerki er á staðnum. Um byggingarár kofans er flest á huldu annað en að hann mun byggður eftir 1824 er Þórður Erlendsson fór að búa á Völlum og fyrir 1844 er nýtt sæluhús var byggt á Kolviðarhóli og mun kofinn hafa verið reistur á því tímabili sem ekkert sæluhús var við lýði vestan við heiðina. Þórður flutti búferlum að Tannastöðum 1836 en ekki er víst hvort af því megi ráða að hann hafi hlaðið kofann fyrir þann tíma.“
Sæluhúsið við Draugatjörn.
1703: „Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur Sælhús (ei langt frá veginum) so kallað, hvort allt þessa tíma Ölves innbyggjarar hafa upp haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli.“
19.6.1793: „Skömmu áður en komið er að fjallinu, sést lítill kofi, hlaðinn úr hraungrjóti, en með torfþaki. Hann er ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallast sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda.“
Draugatjörn – sæluhústóftin.
„Í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan; munu nú flestar þessar draugasögur gleymdar. […] Árið 1845 var nú kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól.“ „Það var lagt niður og nýtt sæluhús byggt á Kolviðarhóli 1844.“ „Norður af Bolavöllum vestarlega mun enn sjást votta fyrir hústóft einni. Var þar húskofi nokkur eða sæluhús, hið eina skýli, er til var vestan Hellisheiðar þar efra, og hæð sú, er sæluhús þetta stóð á, hinn svonefndi Húsmúli, er virðist hafa hlotið nafn þetta vegna sæluhúss þessa. En það sýnir, að það hefur staðið þarna langan tíma áður […].“ „Þar sem norðaustur horn Svínahrauns nær næst Húsmúlanum er tjörn í bilinu. Hún heitir Draugatjörn. Austan við tjörnina er lítil rúst á litlum hól. Þar stóð Sæluhúsið við Húsmúlann frá fornu fari fram til 1844, að það var flutt upp á Kolviðarhól, vegna draugagangs meðal annars.“ „Austan við tjörnina sést enn rúst af sæluhúsi, mjög gömlu… Þar hefur ekki verið rúm fyrir marga, eftir tóftarbrotinu að dæma, varla meira en einn mann og hest. Stærðin er 2,15×1,5 m.
Draugatjörn – sæluhúsið.
Ferðamenn urðu oft fyrir ásóknum í þessu húsi, svo að þeim varð ekki svefnsamt. Frásagnir um það eru prentaðar í þjóðsögum.“ Sæluhústóftin er á hraunhæð við austurenda Draugatjarnar, um 30 m frá henni. Uppi á lágum helluhraunshól eða hæð, þar sem mjór rani gengur norður úr Svínahrauni austan Draugatjarnar. Skammt frá tjörninni og læk sem rennur úr henni. Innan í tóftinni er hrunið hraungrýti en hún er allvel gróin í hliðum. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans; Gráskinna hin meiri I, 239-243.
Reykjafellsrétt í Dauðadal.
„Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell, norðan í því er Dauðidalur, í honum er fjárrétt.“ segir í örnefnalýsingu. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal.
Reykjafellsrétt í Dauðadal.
Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kring um hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við í dældinni og enn fjær eru mosaþembur. Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.
Þjófahlaup.
1703: „Ei alllangt frá Engidal eru almennar nautaréttir Ölvesinga og Kjalarnesþingsmanna, er árlega haldast þann þriðja dag oktobris mánaðar, ef ei er helgur, annnars næsta dag fyrir. Þessi fjallgarður brúkast almennilega fyrir nauta og hrossa afrétt. Skammt fyrir sunnan réttirnar við Engidalsá standa tveir klettar, sinn hvoru megin árinnar, og nefnist bilið milli þeirra Þjófahlaup.“ „Nauta- og sauðaafréttur liggur vestan og norðan Hellirsheiði, sameiginlegur við Grafningsmenn. […] nautaréttir [eru haldnar] þriðjudaginn í 23. viku sumars í Márardal undir Hengli.“
Réttirnar lögðust niður laust fyrir 1860. Engin eiginleg rétt er í Marardal en hlaðið er fyrir uppgönguleiðir. Dalurinn sjálfur er þverhníptur og er því rétt frá náttúrunnar hendi. Af lýsingu Hálfdanar er helst að sjá að réttin hafi verið við Engidalsá, og þar með ekki í Marardal heldur fyrir sunnan hann, hugsanlega á milli Marardals og Engidals en þar eru víða klettar við ána.
Réttin við Orrustuhól.
„Eftir bardagann í Orustuhólsréttum áttu Ölfusingar og Mosfellssveitarmenn að hafa skilið félag sitt um fjallleitir, og fluttu þá Ölfusingar réttir sínar austur á heiðina, austur fyrir Hengladalaá. [Árið 1878 var fé rekið inn í Hengladali] Var riðið fram Smjörþýfi og fram með Hengladalaánni, og sýndi þá gamall maður, er í förinni var, okkur yngri rekstarmönnunum þessar réttir. Sást þá vel fyrir þeim, bæði almenning og dilkum, þótt djúp skörð væru hrunin í veggi. Sumir dilkanna voru allstórir, gerði ekkert, almenningsdyr sneru á Hengil. Sennilega hefir Ölfusingum þótt afundið að hafa lögréttir sínar uppi á fjalli, og voru því réttirnar færðar undir Ingólfsfjall að Hvammi þegar fyrir 1700.“ Réttin fannst ekki og gæti verið farin í ána sem brýtur mikið af bökkunum. Smjörþýfi er um 1,5×0,5 km stór þúfnamói, mjög grösugur og greinilega gott beitiland. Suðaustan við tekur við lyngmói.
Af lýsingunni að dæma hefur réttin átt að vera norðan til á Smjörþýfi nálægt ánni og reiðgötunum sem liggja nálægt henni inn í Hengladali og eru mjög skýrar. Farvegur eftir leysingavatn er einnig undir brekkurótunum austanmegin norðantil á Smjörþýfi og gæti þar hafa verið réttarstæði sem síðan hefur horfið.
Engidalur – tóftir.
„Nokkrir hellar eru hingað og þangað í berginu umhverfis [Marar-] dalinn. Allir eru þeir nokkuð hátt uppi í hömrunum. Enginn þeirra er stór, en í flestum þeirra sjást einhver mannaverk: hleðslur, ártöl, fangamörk o.þ.h. Einn þessara hella er skammt frá götunni, sem liggur inn dalinn. Hann var notaður fyrir skýli handa réttamönnum. Fyrir framan hann hefir verið hlaðinn garður til skjóls. En líklega hefir hleðslan aldrei náð fast upp að berginu, enda hefir þess ekki þurft, því að þótt auðvelt sé fyrir menn að komast upp í hann, þá er hann svo hátt uppi, að nautin hafa ekki gert mönnum þar ónæði.“ Hellir þessi er austanmegin í Marardal, um 30 m frá hinni merktu gönguleið, um 3 m upp í hlíðinni.
Grasi gróin brekka upp í skútann og er þar troðinn sneiðingur. Hleðslan er gróin en hellisgólfið er bert. Skútinn sjálfur er um 12 m langur og 3 m djúpur þar sem mest er en hleðslan er 6 m löng og er fyrir norðurhlutanum.
Marardalur – hellisskúti.
Hellir er og í vesturhlíð Marardals, fyrir miðjum dalnum, gegnt uppgangi úr honum og eru áletranir í honum en ekki fundust áletranir í öðrum hellum eða skútum í dalnum. Hellirinn er um 6 m uppi í berginu og er tiltölulega auðvelt að komast upp í hann. Hellisgólfið er silla, 1,5-2 breið og um 7 m löng. Áletranirnar eru á hellisveggnum ofan við silluna, sunnantil í hellinum en ekki norðan. Elsta ártalið sem greint verður með vissu er 1917 en steinninn þarna er mjúkur og veðrast fljótt.
Heimild:
-Fornleifaskráning á Hengilssvæðinu III – Fornleifar á afrétti Ölfushrepps, Orri Vésteinsson, Fornleifastofnun Íslands 1998.
Marardalur – fyrirhleðslur.
Fornleifafræðingar og leikmenn
Fornleifafræðingar líta á sig sem vísindamenn, sem og þeir eru. Þeir eru, líkt og aðrir vísindamenn, jafnan uppteknir af því að takmarka umræðuefni fræðigreinarinnar og spyrja eigin spurninga, s.s. um hvað er hægt að tala og hvað ekki? Þeir halda sig og við þær vísindalegu kröfur, sem til þeirra eru gerðar vegna þess að þeir telja sig bera ábyrgð á viðfangsefni fagsins. Hér er að hluta til um misskilning að ræða og það af nokkuð þröngsýnum ástæðum. Það er reyndar ekkert að því að takmarka viðfangsefnin og beina athyglinni að ákveðnum atriðum, en þó má aldrei gleyma að sýna skilning á skoðunum annarra fræðimanna (sagnfræðinga og þjóðfræðinga) sem og jafnvel leikmanna? Og hvað er að því að opna fyrir aðrar túlkanir á ákvörðuðu viðfangsefni líðandi stundar? Ef þessir ólíku aðilar tækju sig nú saman, samhæfðu möguleika fræðigreinarinnar og reyndu að nýta allt það sem hún hefur upp á að bjóða henni til framdráttar væru líkur á góðum, og jafnvel ágætum, árangri miklu mun meiri en hingað til hefur þekkst.
Hafnir – landnámsskáli.
Fornleifafræðingar hafa undanfarna áratugi reynt að marka sér nýja „bása“ og um leið aukna möguleika. Þessi „básauppblátsur“ hefur hins vegar kallað á gagnrýni á það sem fyrir er og þar með sundurlyndi. Fagið hefur því ekki borið gæfu til að nýta sér það besta til enn betri nota.
Eitt helsta vandamál fornleifafræðinnar er þó almennt sambandsleysi fræðimanna og leikmanna. Hinir fyrrnefndu eru hafnir yfir það að ræða við þá síðarnefndu og þeir síðarnefndu reyna ekki einu sinni að nálgast þá fyrrnefndu af hógværum ástæðum. Hér vantar eðlilegan samráðsvettvang fyrir þessa mikilvægu vitundaaðila um fornleifafræðileg efni. Líklegt má telja að sameiginleg nálgun þeirra geti skilað miklu mun meiru inn í þjóðararfinn en hingað til hefur hefur verið.
Hér er ágætt dæmi: Leikmaður finnur merkilega fornleif. Hann reynir að koma vitneskjunni á framfæri, en vegna þess að viðkomandi er á fundi, á ráðstefnu, veikur eða í sumarfríi, er ekki hægt að koma upplýsingunum á framfæri. Leikmaðurinn gefst upp, en segir loks fréttamanni frá uppgötvuninni. Áhugi vaknar hjá fréttamanninum og hann kemur fréttinni á framfæri, enda telur hann sig vera að þjóna hagsmunum almennings. Einhver kerfiskarl, eða -kona, verður afbrýðissamur/-söm og ákveður að senda leikmanninum áminningu með vísan til 13. gr. þjóðminjalaga (tilkynna ber o.s.frv.). Leikmaðurinn verður sár og ákveður að tilkynna aldrei slíka fundi aftur, hvorki til viðkomandi stjórnvalds né fréttamanns. Og hver var ávinningurinn? Verri en enginn. Ef stjórnvaldið hefði hins vegar sent leikmanninum kveðju og þakkir fyrir árangurinn hefðu viðbrögð hans í framhaldinu, a.m.k. gagnvart því, orðið allt önnur og líklega árangursríkari. Viðbrögð opinberrar sjórnsýslu, þótt hún sé einungis marklítil orð í lögum eða reglugerð, getur því skipt máli um árangur.
Hofsstaður eftir fornleifauppgröft.
Reynslan sýnir að þegar fornleifafræðilegir vísindamenn fá tækifæri til að nálgast eðlilega og hversdagslega hluti á mannlegum forsendum þá hefur vitund þeirra breyst og skilningur aukist, bæði á viðfangsefninu og faginu í heild. Dæmi um þetta eru útgefnar staðbundar fornleifaskráningar, sem hingað til (skv. skilyrðum laga) hafa einungis verið unnar undir handleiðslu fornleifafræðinga. Sumum þeirra hefur verið ábótavant. Leikmenn hefðu möguleg getað bætt þar um betur.
Það eitt segir til um mikilvægi „eðlilegra samskipta“. Háskólasamfélagið eða afurð þess á í sjálfu sér enga möguleika að lifa sjálfstæðu lífi án „fóðurs“. Fóðrið mun og hefur alltaf komið frá áhugasömu fólki um ríkjandi viðfangsefni á hverjum tíma, hvort sem það hefur verið í formi texta á skinni eða „álestur“ landsins. Útfærslan og meðhöndlunin hefur hins vegar verið viðfangsefni vísindamannanna. Fóður fornleifafræðinnar verður einungis sótt til fortíðarinnar – hvort sem „nýjar“ uppgötvanir hennar eða ábendingar koma frá leikmanni eða einstaka fornleifafræðingi.
Brynjudalur – Ingunnarstaðasel (Þórunnarsel) – Hrísakotssel
Í Landnámu (Sturlubók) er fjallað um Brynjudal í Hvalfirði. „Hvamm-Þórir nam land á milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi. Þórir deildi við Ref hinn gamla um kú þá, er Brynja hét; við hana er dalurinn kenndur. Hún gekk þar úti með fjóra tigu nauta, og voru öll frá henni komin. Þeir Refur og Þórir börðust hjá Þórishólum; þar féll Þórir og átta menn hans.
Lúther á Refsdys.
Þorsteinn, son Sölmundar Þórólfssonar smjörs, nam land milli Botnsár og Fossár, Brynjudal allan. Hann átti Þorbjörgu kötlu, dóttur Helga skarfs; þeirra son var Refur hinn gamli, er Bryndælir eru frá komnir.
Nú eru taldir þeir menn, er búið hafa í landnámi Ingólfs, vestur frá honum.
Maður hét Ávangur, írskur að kyni; hann byggði fyrst í Botni.
Þar var þá svo stór skógur, að hann gerði þar af hafskip.
Hans son var Þorleifur, faðir Þuríðar, er átti Þormóður Þjóstarsson á Álftanesi og Iðunnar Molda-Gnúpsdóttur. Sonur Þormóðar var Börkur, faðir Þórðar, föður Auðunar í Brautarholti.
Kolgrímur hinn gamli, son Hrólfs hersis, nam land út frá Botnsá til Kalmansár og bjó á Ferstiklu.
Hann átti Gunnvöru, dóttur Hróðgeirs hins spaka. Þeirra börn voru þau Þórhalli, faðir Kolgríms, föður Steins, föður Kvists, er Kvistlingar eru frá komnir. Bergþóra var dóttir Kolgríms hins gamla, er átti Refur í Brynjudal.“ Jafnframt segir síðar að „Helgi skarfur var faðir Þorbjargar kötlu, er átti Þorsteinn Sölmundarson, þeirra synir Refur í Brynjudal og Þórður,“ Áður hafði verið skilmerkilega skráð að „Ingólfur bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.“
Stefnan var að þessu sinni tekin á Brynjudal í Hvalfirði. Ætlunin var m.a. að skoða hin fornu bæjarstæði Þorsteins í Múla, Refs á Stykkisvöllum og Þórðar á Þrándarstöðum (Þorbrandsstöðum), auk skjóla, seltófta og önnur bæjarstæði.
Ingunnarstaðir höfðu t.a.m. selstöðu í Þórunnarseli, í heimalandi, líkt og Hrísakot og Þrándarstaðir. Þessir bæir eru allir í Brynjudal. Í Jarðabókinni 1703 segir að „Þórunnarsel liggur og í Ingunnarstaða landi, þar ætla menn bygð hafi verið til forna, og sjest þar bæði fyrir girðingum og tóftaleifum. Enginn veit nær það hafi eyðilagst, en eyðileggingunni valdið hafi snjóþýngd og vetrarríki. Hafa nú Ingunnarstaðamenn þar selstöðu þá er þeim líkar. Túnstæði alt er í hrjóstur og mosa komið, og í því bæði berbeinur og skógarrunnar; kann því valla eður ekki aftur að byggjast, nema Ingunnarstöðum til baga og þó með stórerfiði.“ Um selstöðu Hrísakots segir að hana „hefur jörðin í sínu eigin landi víðara en í einum stað.“ Þetta bendir til þess að selstöðurnar hafi verið fleiri en ein og fleiri en tvær.
Maríuhellir er sagður í Brynjudal í Kjós. Hann var fyrr á tímum gott skjól fyrir sauðfé (Árbók Ferðafélags Íslands 1985, bls. 191). Skammt frá honum var Bárðarhellir. Örnefni í innanverðum Hvalfirði, við mynni Brynjudals, má rekja bæði til Bárðar sögu og Harðar sögu.
Hafsteinn Lúthersson, nú 92 ára, bjó síðast í Hrísakoti, eða til ársins 1975. Foreldrar hans áttu fyrrum bæði Hrísakot og Ingunnarstaði. Frænka hans, Guðrún Björnsdóttir, býr nú að Ingunnarstöðum. Aðspurð um minjar í dalnum benti Guðrún á nefndan Hafstein föðurbróðir hennar því þrátt fyrir háan aldur væri hann manna fróðastur um minjar og örnefni í Brynjudal.
Hafsteinn, sem býr nú á Akranesi, sagði tóftir Þórunnarsels vera á Selflötum við Brynjudalsá að sunnanverðu, innst í dalnum gegnt Þórisgili. Þær væru að mestu sokknar í mýrana, en enn mætti þó sjá móta fyrir þeim.
Hafsteinn sagði Bárðahelli hafa verið fremst í Brynjudal, innan við Voginn. Þetta hefði verið feikna fjárhellir, tekið um 100 fjár. Þegar sprengt var í hylnum fyrir laxastiganum á sjötta áratug síðustu aldar hefði hellirinn fallið saman. Hann væri því horfinn nú. Maríuhellir væri hins vegar norðan við ána ekki langt frá. Hann væri mun minni, varla meira en skúti. Þar hefði einnig verið skjól fyrir beitarfé.
Lúther Ástvaldsson býr að Þrándarstöðum (62 ára). Fyrrnefndur Hafsteinn er móðurbróðir hans. Lúther sagði greinilegar tóftir enn vera í Þórunnarseli. Einnig á Stykkisvöllum undir hlíðum Suðurfjalls, en þeir eru u.þ.b. 1 1/2 km vestar.
Stykkisellir, stundum nefndir Gulllandsvellir (Gullhlaðsvellir/Gullásvellir), komu við sögu í Harðar sögu Hólmverja og Ref gamla. Kristján Eldjárn og Þórhallur Vilmundarson hefðu komið í dalinn einn sunnudag fyrir fjöldamörgum árum þá er hann var 10 ára og hefði hann leiðbeint þeim inn á vellina. Þar eru tóftir. Sumir vilja meina að þar hefði bær Refs gamla verið, en um tíma var þar kirkja. Bænhús hefði og verið á Þrándarstöðum. Sjálfur hefði hann tilgátu um hvar það hefði verið, eða á fornum bæjarhól sem er skammt frá núverandi bæ. Þar suðaustan í bæjarhólnum hefur það líklega staðið, en hann hefði það eftir Þórði á Skógum að svo hafi jafnan verið þar í sveit fyrrum.
Lúther sagði forna leið, m.a. kirkjuleið, hafa verið um Hríshlíð um svonefndan Flúðastíg við Laugarlæk og yfir Hrísháls. Gatan hafi líklega legið þar allt frá þjóðveldisöld. Áður hafi verið fallegar hleðslur utan í stígnum í hlíðinni og hann flóraður á kafla, en eftir að Skógræktin hafi byrjað að athafna sig á Hrísakoti hefði verið farið með torfærutæki upp eftir stígum og hann aflagaður. Heit laug er ofarlega í hálsinum við gömlu leiðina, í Laugalæknum. Þar má enn sjá verksummerki eftir framkvæmdir hugvitsmannsins Lúthers Lárussonar, sem bjó á Ingunnarstöðum fyrr á síðustu öld. Þá sagði Lúther frá fornum bæjum, s.s. Múla og Þorbrandsstöðum. Sá fyrrnefndi var undir Múlafjalli í norðanverðum dalnum, en var færður suður yfir ána, í Skorhagaland, um 1600. Enn megi sjá tóftir í gamla bæjarstæðinu.
Harðar saga og Hólmverja gerðist í Geirshólmi í Hvalfirði árið 989. Sagan er skógarmannssaga og segir þar frá Herði Grímkelssyni, sem framast erlendis, fær jarlsdóttur af Gautlandi, en gerist síðan foringi fyrir stigamannaflokki, sem býr um sig í Geirshólma í Hvalfirði, unz móðurbróðir hans ræður hann af dögum. Ekkjan, Helga Jarlsdóttir, syndir síðan til lands með syni sína tvo unga. Styrmir fróði Kárason (d. 1245) er talinn höfundur frumgerðar sögunnar. – Bárðar saga er landvætta- og tröllasaga, sem gerist á landnámsöld. Bárður er sonur jötnakonungs í hafsbotnum. Hann flyzt til Íslands og gerist hollvættur Snæfellinga. – Þorskfirðinga saga er ýkjusaga, sem gerist að mestu leyti á landnámsöld. – Flóamanna saga tekur yfir tímabilið frá því um 870 til 1020, og er þar sögð saga fjögurra ættliða. Upphaf hennar er frásögn af deilum Atla jarls hins mjóva við þá fóstbræður Ingólf Arnarson og Hjörleif, en aðalsöguhetjan er Þorgils Örrabeinsfóstri, og er m.a. greint frá miklum hrakningum hans á Grænlandi.
Hörður var í svo miklum metum hjá Haraldi jarli á Gautalandi og Hróari syni hans að hann fékk Helgu jarlsdóttur fyrir konu. Eftir fimmtán ára dvöl í útlöndum, sneri Hörður heim með Helgu, konu sinni, og bjó um skeið í góðu yfirlæti. En vegna árekstra við nágranna og fjandskapar við einstakra manna fór brátt svo að hann lenti í ófriði og vígaferlum sem leiddu til þess að hann og Geir, fóstbróðir hans, voru dæmdir sekir skógarmenn. Lögðust þeir þá út, lifðu áránum og höfðu þrjú síðustu æviárin aðsetur á eyjunni litlu í Hvalfirði, Geirshólmi, ásamt fjölda annarra útlaga og stigamanna sem söfnuðust að þeim. Lauk þessu svo, að byggðamenn bundust samtökum um að yfirbuga þá. Undir yfirskini samninga og sátta voru útlagarnir gabbaðir í land og síðan drepnir. Hörður brá hart við, þegar hann varð áskynja um svikin, og hafði drepið þrettán menn, áður en hann var felldur. Nær sex tigir manna voru drepnir af Hólmverjum, og að auki þeir fóstbræður í Dögurðarnesi. Nú töluðu þeir um höfðingjarnir að ráð væri að fara eftir Helgu og drepa sonu þeirra Harðar. Þá þótti sumum of síð dags. Höfðu þeir þá að því samtak að þeim skyldi engi grið gefa né ásjá veita ella skyldu allir þeim hefna. Svo var ríkt við lagið. Þeir ætluðu út um morguninn en voru þar um nóttina.
Helga er nú í hólminum og þykist vita nú allar vélar og svik landsmanna. Hún hugsar nú sitt mál. Það verður nú hennar ráð að hún kastar sér til sunds og leggst til lands úr hólminum um nóttina og flutti með sér Björn son sinn fjögurra vetra gamlan til Bláskeggsár. Og þá fór hún móti Grímkatli syni sínum átta vetra gömlum því að honum dapraðist sundið þá og flutti hann til lands. Það heitir nú Helgusund. Þau fóru um nóttina upp á fjall frá Þyrli og hvíldust í skarði því er nú heitir Helguskarð. Hún bar Björn á baki sér en Grímkell gékk.
Helga fór með drengina til Þorbjargar, systur Harðar, að Indriðastöðum í Skorradal, og dvaldist í skjóli hennar í nokkur ár. Grímkell féll tólf ára, er hann leitaði hefnda eftir föður sinn. Helga fór þá með Björn til Hróars, bróðurs síns, jarls á Gautalandi. Ekki var Helga gift síðan svo að þess sé getið.
Björn varð mikill maður og kom aftur til Íslands drap marga menn í hefnd föður síns og varð hinn röskvasti maður. Fjórir menn og tuttugu voru drepnir í hefnd eftir Hörð. Enginn þeirra var fé bættur.
Stykkisvellir (Gullhlaðsvellir) komu einnig við sögu. „Refur hét maður Þorsteinsson, Sölmundarsonar, Þórólfssonar smjörs. Hann bjó á Stykkisvelli í Brynjudal. Hann var goðorðsmaður ríkur og garpur mikill. Hann var kallaður síðar meir Refur hinn gamli. Þorbjörg katla hét móðir hans. Hún bjó í Hrísum. Hún var fjölkunnig mjög og hin mesta galdrakona. Kjartan hét bróðir Refs. Hann bjó á Þorbrandsstöðum, mikill maður og sterkur og illa skapi farinn, ójafnaðarmaður um alla hluti. Því var hann furðu óvinsæll af alþýðu manna.“
Magnús Grímsson segir frá Brynjudal í Ferðabók sinni fyrir sumarið 1848, Lýsing Kjósarsýslu… „Brynjudalur gengur inn af Hvalfjarðarbotni sunnanverðum, og er Kjölfjallið að sunnanverðu, en Múlafjall að norðan, og Súlur og Botnsheiði fyrir dalbotninum. Dalurinn snýr í suðvestur og norðaustur. Lestarvegurinn liggur neðantil yfir dalsmynnið við sjóinn, og er eigi fagurt að líta þaðan upp í dalinn. En þegar inn kemur í dalinn fer þessi ófegurð af; dalurinn er eigi lángur, en breiður nokkuð; hliðarnar báðu megin háar og fagrar á að sjá; dalbotninn er sléttur og grösugur, og á, sem ekki er nema til prýðis, lykkjar sig eptir endilaungum dalnum, og fellur þar með hægum straumi innanum eyrarnar. Þessi á heitir Brynjudalsá.
Bárðarhellir er rétt við ána hjá lestamannaveginum; það er nú ekki nema skúti einn ómerkilegur. Sumir menn hafa rist þar á og krotað nöfn sín. (Í Bárðar sögu Snæfellsáss er sagt frá því, að landnámsmennirnir Bárður og Þorkell, bróðir hans, er verið höfðu óvinir, sættust heilum sáttum, og áttu „þeir síðan mörg skipti saman ok höfðu löngum samvistir saman í helli þeim í Brynjudal, er Bárðarhellir er kallaður síðan….“ Eggert Ólafsson og Bjarni Pásson skoðuðu hellinn 1755, og geta þeir þess í ferðabók sinni, að þar séu víða krotuð nöfn og rúnir við veggina. Finnur Magnússon prófessor kveðst hafa skoðað þessar ristur með föður sínum, þegar hann var um 14 ára aldur, eða um 1795, og getur þeirra í Runamo-riti sínu. Í grein um Kjósina, sem Gunnar Kristjánsson ritaði í Árbók Ferðafélagsins, kveður hann Bárðarhelli hruninn).
Í Landnámu segir svo um landnámsmennina Hvamm-Þóri og Ref hinn gamla: „Hvamm-Þórir nam land á milli Laxár ok Forsár ok bjó í Hvammi. Þórir deildi við Ref inn gamla um kú þá er Brynja hét. Við hana er dalurinn kenndr. Hon gekk þar úti með fjóra tigu nauta, ok váru öll frá henni komin. Þeir Refr ok Þórir börðust hjá Þórishólum. Þar fell Þórir ok átta menn hans:“ Þórishólar eru í Hvammi, rétt vestan við Hvammsós. Bær landnámsmannsins í Brynjudal, Ref hins gamla, stóð í Múla, samkvæmt Landnámu, en sá bær var í byggð fram til 1600 og sér móta fyrir rústum hans norðan Brynjudalsár gegnt Þrándarstöðum að því er virðist. Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín var bærinn Múli þá fluttur að Skorhaga.
Þrátt fyrir frásögn Landnámu um uppruna örnefnisins „Brynjudalur” mætti hugsa sér aðra skýringu á orðinu. Þórhallur Vilmundarson hefur sett fram þá skoðun, að nafnið sé hugsanlega skylt sænska orðinu bryn, sem merkir „svæði eytt af skógareldi“.
Brynjudalur er fagur dalur umgirtur háum fjöllum á báða vegu, fyrir botni hans gnæfa Hvalfell og Botnssúlur, sem sjást mjög langt að. Innsti bærinn, Hrísakot, er í eyði, þar var síðast búið 1964. Það hefur á seinni árum heyrt undir Ingunnarstaði, sem er frá fornu fari stærsta jörðin í dalnum og var kirkjustaður fram til 1800.
Skammt utan við Ingunnarstaði eru Þrándarstaðir undir Þrándarstaðafjalli. Rétt innan við bæinn er Þverárgil; í því rennur Þverá, sem kemur ofan af Kili. Ekkert nafn er á fossum þeim, er þar eru. Húsagil er mikið gil beint upp af bænum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir, að bænhús hafi staðið á Þrándarstöðum fyrr á tímum.
Ysti bærinn í Brynjudal er Skorhagi, lítil jörð. Skammt vestan við bæinn er Kliffoss í ánni, stundum nefndur Skorhagafoss. Í honum er laxastigi og einnig í fossinum sem neðar er og blasir við frá þjóðveginum. Sá foss nefnist Bárðarfoss eða Brynjudalsfoss. Í daglegu tali eru þeir nefndir Efrifoss og Neðrifoss. Sunnan við Bárðarfoss var áður fyrrnefndur hellir, er Bárðarhellir nefndist, hann er nú hruninn. Norðan við fossinn gegnt Bárðarhelli var Maríuhellir. Hann er nú næstum horfinn en var fyrr á tímum gott skjól fyrir sauðfé.
Dálítil laxveiði er í Brynjudalsá og hefur verið að því unnið á undanförnum árum að efla þar laxastofninn. Mikið lífríki er á Brynjudalsvogi og útfiri mikið. Norðan við voginn gnæfir Múlafjall; Rjúpnafjall nefnist brekkan fremst utan í fjallinu.
Ingunnarstaðir og Hrísakot eru í innanverðum Brynjudal sem er við innanverðan Hvalfjörð að sunnan og telst til Kjósarinnar enda í Kjósarhreppi. Innsti bærinn telst vera Hrísakot, sem fór í eyði 1964. Hrísakotið hefur á seinni árum heyrt undir Ingunnarstaði, sem er frá fornu fari stærsta jörðin í dalnum og var kirkjustaður fram til 1800. Jarðirnar hafa átt sameiginlegt óskipt land um langan aldur.
Brynjudalur hefur verið byggður allt frá landnámi en bær landnámsmannsins í Brynjudal, Refs hins gamla, stóð í Múla, en sá bær var í byggð fram til 1600.
Helsta heimild um merki jarðanna er landamerkjaskrá Ingunnarstaða ásamt Hrísakoti frá 26. apríl 1890 sem hljóðar svo: „Milli Ingunnarstaða og Skorhaga eru eru merki þannig: Þúfa sem stendur við Brynjudalsá og sjónhending úr þeirri þúfu til þess svonefndur Vörðuhvammslækur kemur fram af brúninni og þaðan norður á hámúlann þar til skiptist vatnahalli.
Milli Ingunnarstaða og Stóra-Botns ræður vatnahalli í múlanum og sömuleiðis þar sem „Súlur“ taka við og það austur að Þingvallakirkjulandi. Milli Ingunnarstaða og Þingvallakirkju eru merki bein lína frá svonefndri „Hásúlu“ eða „Mjóusúlu“, sem stendur í beinni línu við merki, að norðanverðu ræður svo stefna úr nýnefndri Súlu til upptaka Öxarárvið Mirkavatn, og þaðan sjónhending í suður á „Há Kjöl“. Svo ræður vatnahalli vestur eftir Kilinum til þess móts við, eða uppundan „Þverá“.
Milli Ingunnarstaða og Þrándarstaða ræður Þverá frá Brynjudalsá til efstu upptaka Þverár, og svo þaðan bein stefna upp á Kjöl, þar sem merki verða sett.“
Undir landamerkjaskrána rituðu eigendur Stóra-Botns, Þrándarstaða, Skorhaga og umboðsmaður Þingvallakirkjutorfunnar. Eigandi Ingunnarstaða ásamt Hrísakoti og eigandi Skorhaga gerðu landamerkjabréf 15. febrúar 1922 sem felur í sér smábreytingu á merkjum milli þeirra jarða þar sem landamerkjaþúfan við Brynjudalsá var horfin.
Búskapur hefur verið á Ingunnarstöðum frá landnámi til okkar tíma en Landgræðslusjóður hefur fengið ¾ jarðanna tveggja til skógræktar.
Ingólfur Arnarson nam allt land milli Ölfusár og Brynjudalsár. Landnámshringurinn lokast því í landi Brynjudals því upptök Öxarár eru í Myrkvavatni en upptök Brynjudalsár í Sandvatni. Þetta segir að landið var numið og um fullkominn eignarrétt var að ræða, fenginn með „námi“ eða „töku“. Stofnun eignarréttarins var með viðurkenndum hætti á þeirra tíma mælikvarða og spurning er því hvort eitthvað hafi breyst frá landnámi og þar til á 19. öld er merki voru skráð, sem valdi því að ekki ætti að viðurkenna einkaeignarrétt manna á landi til fjalls á þessu svæði.
Engir sérstakir sameiginlegir afréttir í eru Kjós samkvæmt almennum skilningi þar sem öll lönd innan Kjósar(sýslu) hafa frá upphafi fylgt ákveðnum jörðum. Hver landeigandi hefur nýtt sitt land til beitar, veiði eða annars og hefur ekki gert nokkurn greinarmun á landi sínu hvort það sé langt frá íbúðarhúsum eða í mikilli hæð o.s.frv. Aðeins er og hefur verið ein tegund lands, einkaeignarland. Samvinna um haustsmölun á ekki að breyta nokkru um eignarréttinn.
Búskapur hefur verið á Ingunnarstöðum frá landnámi til okkar tíma en Landgræðslusjóður hefur fengið ¾ jarðanna tveggja til skógræktar. Hluta jarðanna hefur verið skipt samkæmt landskiptagerð frá 27. sept. 1986 en annað land jarðanna er áfram í óskiptri sameign. Á túninu neðan við bæinn er Huldukonuklettur, sem ekki hefur mátt hrófla við.
Brynjudalur er stuttur, en undirlendið allmikið, enda var búið þar áður fyrr á fjórum bæjum, Ingunnarstöðum, Hrísakoti, þrándarholti og Skorhaga. Um hann rennur Brynjudalsá til sjávar. Skömmu áður en hún fellur í Brynjudalsvoginn er klettahaft þvert á leið hennar. Fram af því steypist áin í tveimur fossum. Sá efri heitir Kliffoss, stundum nefndur Skorhagafoss, en sá neðri Bárðarfoss eða Brynjudalsfoss. Nú eru þessir fossar ekki nema svipir hjá sjón, því laxastigar hafa verið gerðir framhjá þeim og þar rennur nú áin að hluta. Við Bárðarfoss voru tveir hellar, Bárðarhellir að sunnar en Maríuhellir að norðan. Fossinn og hellirinn eru kenndir við Bárð Snæfellsáss. Í sögu hans segir svo: „Oft sveimaði Bárður um landið og kom víða fram. Var hann svo oftast búinn að hann var í gráum kufli og svarðreip um sig, klafakerlingu í hendi og í fjaðurbrodd langan og digran. Neytti hann og hans jafnan, er hann gekk um jökla. þess er getið að þeir bræður hafi fundist og sæst heilum sáttum, Bárður og Þorkell. Áttu þeir síðan mörg skipti saman og höfðu löngum samvistir saman í Brynjudal í helli þeim er Bárðarhellir er kallaður síðan“.
Báðir þessir hellar voru svo djúpir að menn gátu leitað þar skjóls í hrakviðrum eða nýtt þá sér til gagns á annan hátt, m.a. sem skýli fyrir sauðfé í hríðarveðrum. En fara varð að öllu með gát, því þar þótti óhreint og eru af því nokkrar sögur. Þessa sögu er að finna í þjóðsögum Jóns Árnasonar: „Enn er það sögn um séra Hallgrím (Pétursson) að hann var á heimferð við þriðja mann sunnan yfir Brynjudalsvoga. Af því flóð fór í hönd, tóku þeir það til ráðs að liggja í Bárðarhelli við fossinn, til þess að fjaraði út um nóttina og rynni úr ánni.
Förunautum prests þótti illur fossniðurinn og ýrurnar úr honum inn í hellinn. Annar fylgdarmaður prests lá fremstur og gat ekki sofið, því honum sýndist ófreskja eða óvættur nokkur sækja að þeim og koma inn í hellisdyrnar. Bað hann þá prest að hafa bólaskipti við sig og lét hann eftir. Varð prestur nú var hins sama og förunautar hans. Er þá sagt að séra Hallgrímur hafi kveðið stefjadrápu…. og að ófreskjan hörfaði útúr hellinum við hvert stef, en þokaðist aftur nær á milli uns hún hvarf með öllu“.
Báðir hellarnir eru að mestu horfnir. Eiga þar hlut að máli tennur tímans og ekki síður mannanna verk.
Þrætur hafa verið um eignahald jarða í Brynjudal. Skógræktin hefur teygt anga sína inn í dalinn og síðan viljað gína yfir allt og öllu. Þann 21. júlí 2005 féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur um rétt Lúthers á Þrándarstöðum til kaupa á jörðinni Þrándarstöðum. Í dómnum eru raktar ýmsar áhugaverðar upplýsingar um Brynjudal og aðkomu Skógræktarinnar.
Með afsali, dags. 9. júlí 1937, eignaðist jarðakaupasjóður ríkisins jörðina Þrándarstaði í Kjósarhreppi, Kjósarsýslu, með jarðarhúsum og öllum gögnum og gæðum, sem jörðinni fylgdu, þó að undanskildum rétti námufélags Hvalfjarðar til málm- og steintegunda. Lúther fékk jörðina byggða til ábúðar og erfðaleigu með byggingarbréfi, útgefnu í landbúnaðarráðuneytinu 14. nóvember 1974. Jörðin er á náttúruminjaskrá, sem er skrá yfir friðlýst svæði og aðrar skráðar náttúruminjar. Í náttúruminjaskrá, 6. útg. 1991, er svæðinu lýst.
Björn Árnason, formaður Landgræðslusjóðs, og Kristinn Skæringsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, rituðu landbúnaðar-ráðuneytinu bréf, dags. 12. júní 2000, þar sem óskað var eftir því að gerður yrði samningur um skógrækt á því landi Þrándarstaða sem stefnandi myndi ekki nýta til heyskapar. Í bréfinu var vísað til bréfs Landgræðslusjóðs til landbúnaðarráðuneytisins í desember 1998 og bréfs ráðuneytisins til sjóðsins í júlí 1999. Jafnframt var vísað til funda formanns og framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Íslands með landbúnaðarráðuneytinu í febrúar 2000, auk fundar formanns og framkvæmdastjóra Landgræðslusjóðs með ráðuneytinu í maí sama ár. Í bréfinu segir enn fremur að á fundum í landbúnaðarráðuneytinu hafi verið lýst áformum og óskum sem uppi hafi verið innan stjórnar Landgræðslusjóðs, allt frá því 75% hlutur í jörðinni Ingunnarstöðum varð eign sjóðsins á 8. áratugnum. Þau áform gangi út á að gera Brynjudal að miðstöð útivistar og skógræktar í innanverðum Hvalfirði. Hafi sú stefna m.a. verið staðfest með ályktun á aðalfundi Skógræktar Íslands haustið 1997, sem beint hafi verið áfram til sveitarstjórna í Kjósarhreppi og Hvalfjarðarstrandarhreppi. Þá var vitnað til þess að Lúther hefði lýst því yfir að hann hygðist hætta fjárbúskap árið 2000. Vilji hann búa áfram á staðnum, nýta túnin til heyskapar en sækja aðra vinnu utan heimilis og hefði komið fram í viðræðum við hann að hann væri fús til að láta af hendi land úr jörðinni til skógræktar.
Hinn 4. janúar 2001 undirritaði landbúnaðarráðuneytið leigusamning við Landgræðslusjóð til 25 ára um hluta jarðarinnar Þrándarstaða til uppbyggingar skógræktar og útivistarsvæðis með samþykki ábúandans. Í leigusamningnum er um legu, takmörk og stærð hins leigða lands vísað til meðfylgjandi uppdráttar.
Lúther tilkynnti landbúnaðarráðuneytinu með bréfi, dags. 14. mars 2003, þá ákvörðun sína að nýta sér kauprétt sinn að jörðinni Þrándarstöðum. Í bréfinu segir að stefnandi uppfylli öll skilyrði 1. mgr. 38. gr. jarðalaga nr. 65/1976, þar sem hann hefði haft jörðina til ábúðar lengur en 10 ár og fyrir liggi tilskilin meðmæli frá hreppsnefnd og jarðanefnd.
Landbúnaðarráðuneytið óskaði umsagnar Umhverfisstofnunar og Skógræktar ríkisins um erindi L’uthers um kaup jarðarinnar. Í bréfi Umhverfisstofnunar til ráðuneytisins, dags. 22. ágúst 2003, er vísað til þess að jörðin sé á náttúruminjaskrá. Þá segir að Brynjudalur hafi ótvírætt náttúruverndargildi. Jörðin sé kjarri vaxin og innsti hluti sé án mannvirkja. Nálægð við mesta þéttbýli landsins gefi jörðinni útivistargildi og rætt hafi verið um Brynjudal og Botnsdal sem kjörið svæði fyrir fólkvang. Stofnunin mælti með að jörðin yrði áfram í eigu ríkisins og að hún yrði ekki seld.
Skógræktarstjóri taldi sölu jarðarinnar ekki koma til greina og vísaði til 2. mgr. 38. gr. jarðalaga um að kaupréttur næði ekki til jarða sem þörf væri á til opinberra nota eða væru nýttar til annars en búrekstrar, svo sem fólkvangar, sumarbústaðalönd eða jarðir til annarra útilífsnota. Vísað var til leigusamnings við Landgræðslusjóð frá 4. janúar 2001. Þá sagði að miðað við staðsetningu Brynjudals, sem í sjálfu sér væri alger náttúruperla, yrði dalurinn í framtíðinni mjög mikilvægt útivistarsvæði. Landgræðslusjóður og skógræktarfélögin, sem hefðu hafið skógrækt og skipulagningu svæðisins sem útivistarsvæði, muni eðlilega telja hagsmunum svæðisins betur borgið í opinberri eigu en einkaeign. Árekstrar sem yrðu í framtíðinni við skipulagningu og sölu sumarbústaðalóða, ef landið væri í einkaeigu, væru augljósir.
Með bréfi Lúthers, dags. 20. janúar 2004, óskaði hann eftir skriflegum rökstuðningi fyrir ákvörðun landbúnaðarráðu-neytisins með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lúther kvaðst hafa tekið við ábúð á jörðinni af foreldrum sínum í fardögum 1965 og hafi því haft jörðina til ábúðar og nytja til landbúnaðar í 40 ár. Formlega hafi hann fengið jörðina byggða á erfðaleigu frá fardögum 1974, en þá hafi hann haft ábúðina í tæp 10 ár. Hafi hann á ábúðartímanum nýtt jörðina til sauðfjárbúskapar og mjólkurframleiðslu, en hyggist nú friða jörðina fyrir beit búfjár og í framtíðinni stunda skógrækt á jörðinni. Lúther telur að hann uppfylli því skilyrði 1. mgr. 38. gr. jarðalaga um ábúðartíma á jörðinni. Þá hafi hann einnig framvísað til landbúnaðarráðuneytisins tilskilinni staðfestingu um að hann hafi setið jörðina vel, auk meðmæla frá sveitarstjórn og jarðanefnd með því að ríkið selji Lúther jörðina.
Lúther vísar til þess að landbúnaðarráðuneytið hafi, af einhverjum ókunnum ástæðum, leitað umsagnar Skógræktar ríkisins, án þess að heimild væri til þess í lögum. Enn fremur hafi ráðuneytið leitað til Umhverfisstofnunar vegna málsins. Fyrir liggi hins vegar að við undirbúning á töku ákvörðunar í málinu hafi ekki verið leitað til lögbundinna umsagnaraðila samkvæmt 2. mgr. 38. gr. jarðalaga, þ.e. til Bændasamtaka Íslands, áður Búnaðarfélags Íslands, og Náttúruverndarnefndar Kjósarhrepps. Þar með sé ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins ekki byggð á umsögnum frá lögbundnum umsagnaraðilum og hafi ráðuneytið því farið á svig við ákvæði jarðalaga við undirbúning ákvörðunar í málinu. Þá verði enn fremur ekki fram hjá því litið að synjun ráðuneytisins sé beinlínis byggð á neikvæðum viðhorfum Skógræktar ríkisins og Umhverfisstofnunar.
Lúther benti á að engin sérstök náttúrufyrirbæri séu innan landamerkja Þrándarstaða sem standi í vegi fyrir sölu jarðarinnar. Á það sé heldur ekki bent af hálfu Umhverfisstofnunar, heldur aðeins staðhæft að rætt hafi verið um Brynjudal og Botnsdal sem kjörið svæði fyrir fólkvang. Ekkert frekar liggi fyrir um stofnun fólkvangs á svæði þessu og sé slík breyting á landnotkun ekki á dagskrá skipulagsyfirvalda eftir því sem næst verði komist.
Niðurstaða dómsmálsins var eins kerfismeðlæg og hugsast gat – Skógræktinni í vil. Síðan hefur svæðinu verið raskað verulega, m.a. með eyðileggingu fornra stíga. Staðreyndin er sú að í Brynjudal eru fjölmargar fornleifar, sem sumar hverjar hafa aldrei verið skráðar. Að leifa nánast óhefta skógrækt á slíku svæði jaðrar við vanrækslu – a.m.k. gáleysi hlutaðeigandi yfirvalda.
Leiðsögumaður í þessari FERLIRsferð var Lúther Ástvaldsson, en svo skemmtilega vildi til að faðir hans var bróðir ömmu eins þátttakandans, bæði fædd á Þorbjarnarstöðum í Hraunum.
Byrjað var á því að huga að framangreindum hellum í botni Brynjudalsvogar. Lúther sagði hellana hafa verið undir Reynivöllum á 15. öld. Þá hefði þar verið aðstaða fyrir 50 sauði. Í dag er Bárðarhellir fallinn og Maríuhellir (Maríukirkja var að Reynivöllum) er nú einungis slútningur rétt neðan við fossinn (Sjávarfoss/Bárðarfoss). Engin ummerki eru þar nú eftir menn.
Á túni sunnan við Ingunnarstaði benti Lúther ferðalöngum á mannvistarleifar, líklega lítið hús. Vildi hann meina að þar gætu Stykkisvellir hafa verið. Hann átti eftir að breyta afstöðu sinni síðar í ferðinni. Þessi fornleift er órannsökuð og óskráð í dalnum, eins og flest annað, sem þar er.
Ofar með Brynjudalsá að sunnanverðu eru fjárhúsin fremri, frá Hrísakoti, auk fleiri tófta. Þar gæti hafa verið sel fyrrum og fjárhús hafa verið byggð upp úr því seint á 19. öld. Tóftirnar vestan og austan við fjárhúsin benda til eldri mannvirkja.
Nokkru ofar er Vörðuklettur (landamerki). Varða er þar á klapparholti, skammt frá gamalli leið. Enn ofar, í Kerlingardal, eru nokkur mannvirki á grónu svæði. Fyrst ber að telja fjárhús líku því sem neðar er. Lúther sagði þetta vera fjárhúsin efri, frá Ingunnarstöðum. Þegar faðir hans eignaðist báðar jarðirnar, Ingunnarstaði og Hrísakot, hefði hann nýtt neðra fjárhúsið, enda nær bæjum. Af ummerkjum að dæma virðist þessi fjárhústóft geta verið frá sama tíma og hin. Utan í henni vestanverði er hlaðinn sauðakofi. Vel sést móta fyrir hleðslum í báðum fjárhústóftunum.
Örskammt suðaustan við efra fjárhúsið er fornt sel. Enn sést móta fyrir litlum húsum og stekkur er undir klettabrún skammt norðaustar. Suðaustan við tóftirnar er fjárskjól eða rúmgóður hellisskúti. Hlaðið er fyrir munnann. Áin er fast neðan við hleðslurnar. Sennilega eru tóftirnar tilkomnar þarna vegna skútans. Forn garðhleðsla virðist skammt norðan við tætturnar. Þrátt fyrir að því hafi verið haldið fram að Þórunnarsel hafi verið á Selflötum sunnan árinnar verður að telja líklegast að hér sé það komið. Jarðabókin 1703 nefnir ekki Selflatir, einungis tilvist þess.
Haldið var yfir ána á ís. Á Selflötum eru tóftir sels, tvö stór rými og gróið í kring. Líklega hafa tóftirnar verið gerðar upp úr eldra seli. Þær virðast vera á flötum „bæjarhól“. Auk þess má sjá jarðlægar tóftir skammt suðaustan við þær. Engir garðar eða önnur mannvirki er þarna að sjá. Tóftirnar eru reglulegar með dyr mót suðri. Flest bendir til þess að þarna geti verið um mun nýrra sel að ræða en því sem lýst er í Jarðabókinni. Auk þess má telja ólíklegt að það hafi byggst upp úr bæ, eða bær verið þar áður. Það gæti hins vegar verið í selstöðunni, sem áður var lýst norðan árinnar. Hér gæti hins vegar verið um selstöðu frá Þrándarstöðum að ræða, en hún á að hafa verið í heimalandi. Sú selstaða gæti hafa verið í Seldal, vestar í norðanverðum Brynjudal, gegn Skorhaga, en Hrískot haft þarna í seli.
Gengið var til vesturs sunnan Brynjudalsár, niður á Stykkisvelli (Gulllandsvelli). Eftir nokkra leit fannst rústin, sem þar átti að hafa verið. Lúther sagði þá félaga Kristján og Þórhall dvalið þarna dagspart og væntanlega tekið holu í rústina. Ekki vissi hann hvað hefði komið út úr því. Hins vegar má sjá, að því er virðist, forna skálatóft á þessum stað, jafnvel tvær. Stærð annarrar er 14×6 metrar á breidd (miðað við utanvert). Dyr eru mót suðri. Tóftin uppfyllir öll skilyrði þess að í hana verði grafið með það fyrir augum að kanna aldur hennar, ekki síst þegar höfð er hliðsjón af framangreindum heimildum.
Í örnefnalýsingum er fjallað um Gullásvelli, sem líka voru nefndir Stykkisvellir. „Á þeim eru gamlar tættur, sem báru merki um að þar hefði verið byggð til forna.“
Lúther sýndi þátttakendum tóftir Kristínarkots, austan Ingunnarstaða, Kvíabólið og loks gamla kirkjugarðinn við bæinn. Austurhluti kirkjugarðsveggjarins sést enn. Hins vegar var keyrð grús í garðinn þegar bílastæðið við bæinn var stækkað. Garðurinn er að hluta til undir bílastæðinu og í lægra landi sunnan þess. Garðdraugurinn (kona) hefur stundum látið á sér kræla á Ingunnarstöðum.
Þá var haldið að hinu forna býli Múla, sem nefnt er hér að framan. Þar virðast vera tóftir tveggja skála, nákvæmlega jafn stóra og á Stykkisvöllum. Síðan gekk Lúther að þúst í túni, staðnæmdist á henni og sagði hana vera dys Refs; Refsleiði.
Loks var heimatúnið við Þrándarstaði skoðað svo og gamli bæjarhóllinn. Lúther lýsti einstökum tóftum í annars sléttuðu túninu; gömlu útihúsi, hesthúsi, bæjarstæði og ekki síst bæjarhólnum, sem hýst hefur Þorbrandsstaði til forna.
Brynjudalur er bæði einstaklega áhugavert minjasvæði út frá sögulegum forsendum og jafnframt áminning um það sem verða vill – ef yfirlýst skógræktarsjónarmið ná óbreytt fram að ganga.
Frábært veður. Gangan tók 5 kls. og 5 mín.
Heimildir m.a.:
-Harðar saga Hólmverja.
-Hafsteinn Lúthersson – Hrísakoti.
-Magnús Grimsson – Ferðabók fyrir sumarið 1848 – Lýsing Kjósarsýslu… bls. 45-51 (1988).
-Lúther Ástvaldsson – Þrándarstöðum.
-Guðrún Björnsdóttir – Ingunnarstöðum.
-Í Kjósinni, Þættir um nágrenni Reykjavíkur, Árbók Ferðafélags Íslands 1985, bls. 191.
-Finn Magnusson, Runamo og Runerne, Köb. 1845, bls. 186.
-Landnáma (Sturlubók) 8. kafli, 14. kafli og 46. kafli
-Örnefnalýsingar fyrir Skorhaga, Ingunnarstaði, Þrándarstaði og Hrísakot.
Brennisteinsfjöll – brennisteinsnáma
Brennisteinsfjöll draga nafn sitt af brennisteinssvæði því sem áður var unninn úr brennisteinn. Enn má sjá þar leifar námunnar sem og minjar eftir námumennina. Einnig á leið þeirra til og frá námusvæðinu, s.s. undir Kerlingarskarði við Grindarskörð (norðar) eða Bollaskörð, eins og þau voru einnig nefnd. Nefndir bollar eru ofan skarðanna þriggja, sem jafnan voru fær um hlíðarnarnar. Þverskarð er syðst þeirra.
Brennisteinsnámur – uppdráttur ÓSÁ.
Þegar gengið er áleiðis upp í Kerlingarskarðið blasa Bollarnir við, nyrst Stóribolli, þá Miðbolli og síðan Syðstubollar (Þríbollar), en einu nafni nefnast þeir Grindarskarðshnúkar. Undir skarðinu er tóft frá tímum brennisteinsvinnslunnar. Þar hafa námumenn “umskipað” afurðunum og tekið með sér birgðir upp á námusvæðið. Tugir hesta voru í hverri lest og margir höfðu atvinnu af vinnslunni og flutningunum. Til stóð að strengja vír úr Grindarskarðshnúkum niður á slétt hraunið neðan skarðsins, vírnum var skipað á land í Hafnarfirði, en hann var það þungur að ekkert farartæki gat flutt hann upp fyrir skarðið. Vírinn lá því óhreyfður á hafnarbakkanum árum saman – og væri þar enn ef einhver hefði ekki séð einhvern verðmæti í honum og/eða notagildi.
Ofan skarðsins blasir Miðbolli við í norðri, Kóngsfellið og Bláfjöllin austar. Löngum hefur verið deilt um hvort sýslumörkin mættust í Kóngsfelli eða Stóra-Kóngsfelli við Drottningu undir Bláfjöllum. Sagt er að fjárkóngarnir að austan, sunnan, vestan og norðan hafi mæst í Kóngsfelli og ráðið ráðum sínum þar. En þar sem menn hafi ekki verið alveg vissir um hvaða fell var hið eina rétta Kóngsfell, enda öll keimlík aðkomu, hafi nöfnin færst yfir á hin. Litla-Kóngsfell er t.d. á mótum þriggja gatna og Kóngsfell er á mótum þriggja sýslna.
Ofninn í brennisteinsnámunum.
Þegar haldið er inn í brennissteinsnámurnar sunnan í Brennisteinsfjöllum er þægilegast að halda til suðurs vestan Draugahlíða, yfir litlar gígaþústir, framhjá útdauðu hverasvæði á vinstri hönd og síðan suður eftir miklu misgengi (sigdal), sem þarna liggur þvert í gegn ofan Draugahlíða. Hinn myndarlegi Draugahlíðagígur trjónar stór og stoltlegur á baki þeim. Hvirfill stendur að vestanverðu, en hann er stærsta eldstöð Brennisteinsfjalla, frá því á síðasta jökulskeiði. Þegar komið var upp á hrygg sunnan gígins opnaðist fagurt útsýni yfir Brennisteinsfjöllin. Þessi fjallshryggur hefur verið eldvirkur fyrir og eftir landnám.
Þegar gengið er á ská niður gróna hlíð má fljótlega sjá nokkuð stóra tóft af búðum brennisteinsnámumanna. Í henni má enn sjá bálkana beggja vegna sem og leifar pottofns. Tóftin stendur undir læk, sem kemur ofan úr hlíðinni.
Neðar eru brennisteinsnámurnar. Þær eru í hraunhlíð. Sést vel hvernig grafið hafði verið inn í bakkann og brennisteinskjarninn eltur inn og niður í hraunið. Svæðið hefur að öllum líkindum verið miklu mun virkara á námutímanum. Götur liggja frá námusvæðinu út á stóra hrauka þar sem námumenn hafa losað sig við afkastið. Hlaðin tóft er í skjóli í hraunkvos og við hana ofn hlaðinn úr múrsteinum. Bakki hefur hrunið yfir ofninn, en með því að skafa jarðveginn ofan af kemur hann í ljós.
Tóft brennisteinsmanna í Námuhvammi.
Englendingar hófu þar brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin sjálfr er sögð hafa verið um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Brennisteinn var fyrst fluttur út frá Íslandi á 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld. Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:
„Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.“
Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.
Tóft húss námumanna undir Kerlingarskarði.
Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær. Árið 1560 náði konungur undir sig brennisteinsversluninni en hagnaður hans af þeirri verslun fyrsta árið var nokkur. Hagnaðurinn fór síðan minnkandi og mátti m.a. kenna um lágu verði á brennisteini erlendis. Á fyrri hluta 18. aldar lifnaði þó aftur yfir brennisteinsversluninni en árið 1852 var ákveðið að hvíla brennisteinsnámurnar þar sem búið var að fara illa með þær og vinna í þeim í langan tíma en brennisteinninn hafði í raun ekki fengið að endurnýja sig. Undir lok 19. aldar var nokkur brennisteinsvinnsla í Krýsuvík. Árið 1951 gerði Íslenska brennisteinsvinnslan hf. síðan tilraun til brennisteinsvinnslu í námum í Suður-Þingeyjarsýslu en sú starfsemi gaf fljótt upp öndina.”
Gata um Kerlingarskarð.
Þar með lauk áhuga manna á brennisteinsvinnslu hér á landi. Eftir standa námusvæðin, þ.á.m. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvík, um þennan sérstaka þátt í atvinnu- og útflutningssögu landsins. Líkt og ofninn, námurnar og minjar námumanna eru enn sýnilegar í Brennisteinsfjöllum má enn sjá minjar brennisteinsnámsins við Seltún og í Baðstofu í Krýsuvík – ef vel er að gáð. Vonandi ber landsmönnum gæfa til að varðveita þessi svæði – þrátt fyrir stóriðju og „knýjandi“ orkuþörf, sem verður óþörf innan skammrar fram framtíðar.
Augljóst þykir að landsmenn hafa þörf fyrir nútímaþægindi, s.s. rafmagn. Stóriðja er hins vegar tilbúin skammtímahagvaxtarvon. Þessi skammtímahagvaxtarvon er líklegasta og greiðasta leiðin að eyðileggingu hinnar ómetanlegu náttúru og hins óafturkræfa umhverfis til lengri tíma litið.
Landsfólk þarf að gera þá kröfu til stjórnmálamanna, am.k. þeirra, sem vænta má að hafi eitthvert vit í kollinum (hvort sem um er að ræða karla eða konur), að þeir gefi sér tíma, afli nauðsynlegra upplýsinga, meti síðan valkosti og taki „réttmæta“ ákvörðun, líkt og dómarar þurfa að gera í „mannefnalegum“ málum. Það er „kýrskýrt“ (GÁS) að hinum síðastnefndu hefur oftlega mistekist að lesa skynsamlega út úr raunverulegu meginmáli einstakra viðfangsefna þeirra (kannski vegna tímaleysis eða „færibandslegra, kerfis-, laga- eða reglugerðalegra krafna“ (forskrifta)) og niðurstöðurnar verið eftir því. Ákvörðunar um náttúruna og umhverfið má aldrei vega með sama viðmiði.
Auðvitað er niðurlagið raunamædd ræða – en nauðsynleg áminning samt sem áður. Staðreyndir segja að meðan 80% fólks er sama um hvað sem er (nema sjálft sig) er 20% fólks hugsandi um hið sama (um annað en sjálft sig).
Framangreint niðurlag er ekki gagnrýni eða vanmat – einungis „föðurleg“ ábending til nálægrar framtíðar (og hefur vonandi skapað rými fyrir enn eina upplýsandi ljósmynd/uppdrátt).
Heimildir m.a.:
-http://www.idan.is/1000/01,01,02_brennisteinn.html
-Saga Hafnarfjarðar.
Gata á námusvæðinu.