Eldey

Eldey er 77.2 m hár þverhníptur klettadrangur 14.4 km (8 sjómílur) suðvestan við Reykjanes. Eyjan er mynduð úr móbergi og er nú um 0,029 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum sem stendur á einni grynningu og nær 45 sjómílur (um 85 km) frá landi. Kallast hann Fuglasker eða Eldeyjar. Eitt þessara skerja var Geirfuglasker þar sem síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins. Það sökk að mestu í eldsumbrotum haustið 1830. Geirfuglasker eru nú blindsker u.þ.b. 5 sjómílum utan Fuglaskerja.
EldeyÍ Eldey hefur verið ein mesta súlubyggð sem þekkist í heiminum og er eyjan jafnan þakin súlu að sumarlagi. Við talningu, sem gerð var 1949, var fjöldi súlna í og við eyjuna talin um 70 þúsund. Nú er óheimilt að fara í eyna án leyfis [Umhverfisstofnunar] og til verndar fuglalífi eru skotveiði bönnuð nær eynni en 2 km. Eyjan var friðlýst sérstaklega árið 1974.
Ekki er vitað til þess, að Eldey hefði verið klifin, þegar þrír vaskir Vestmannaeyingar klifu hana 30. maí 1894. Þeirra á meðal var Hjalti Jónsson (Eldeyjar-Hjalti), sem hafði áður klifið Háadrang hjá Dyrhólaey er þótti mikið afrek (aðrir nefna fílfdirfsku í því sambandi). Þremenningarnir töldu sig hafa séð festibolta á nokkrum stöðum í berginu í Eldey, sem gaf til kynna, þetta væri ekki í fyrsta skipti, sem menn hefðu farið upp á hana. Enda væri óraunhæft að ætla að svo hefði verið því eyjan hefur um aldir verið talin mikil „matarkista“, auk þess sem ætla megi að hún hefur löngum verið ofurhugum áskorun. Vitað er að árlega var farið í Eldey til fugla eftir 1894 þar til hún var friðuð árið 1940.

Eldey

Talið er, að a.m.k. 10 eldgos hafi orðið á þessu svæði á sögulegum tíma. Gosið 1783 er einna þekktast. Þá myndaðist eyja, sem var kölluð Nýey. Hún var strax eignuð Danakonungi með úrskurði hans hátignar. Þegar hennar var svo vitjað næsta ár, var hún horfin. Einhver eldsumbrot voru á þessum slóðum á árunum 1970-71.
Í munni brezkra sjómanna hét Eldey „Count Rock” og „Flour Sack”. Eldeyjarboði er blindsker u.þ.b. 57 km suðvestan Reykjaness. Stundum eru brotin þar tugir metra á hæð og fiskimið eru góð þar í kring. Líklega er þessi boði leifarnar af Nýey. Brezkir nefndu boðann „Blinders”. Á Eldeyjarbanka voru fyrrum góð fiskimið, m.a. síld og humar.  Aðalsiglingaleið skipa liggur milli meginlandsins og Eldeyjar.
Súlan er sjófugl sem heldur sig úti á rúmsjó nema yfir varptímann í apríl og maí þegar hún sækir í klettaeyjar í Norður-Atlantshafinu til að verpa.
Í síðustu ferðinni í Eldey (20. jan. 2008) kom í ljós stór Eldeyog djúp sprunga  á yfirborði eyjarinnar og gæti stórt stykki brotnað úr henni, t.d. við snarpan jarðskjálfta. Snarpir skjálftar hafa að undanförnu verið á hafsbotni nærri Eldey. Sprungan var meðal þess sem kom í ljós þegar  Tilgangur þessa nýjasta leiðangurs var að setja upp sjónvarpsmyndavél í eyjunni sem mun væntanlega senda út mynd í hágæða upplausn allan sólarhringinn, allan ársins hring.
Eyjarfarar segja gróðurfar í eyjunni ekkert. „Þetta er eingöngu klöpp og skítur, já og það djúpur skítur. Ef ekki hefði verið frost þegar leiðangurinn var farinn í Eldey, þá hefðu leiðangursmenn þurft að vaða skít a.m.k. upp á miðja kálfa og fullyrt er að sumsstaðar á eyjunni háu sé gúanóið undir bælum súlunnar allt að metri á dýpt.“ Ef grannt er skoðað má sjá sýnishorn af mörgum þeirra plantna er finna má á meginlandinu, s.s. hvönn, tófugras, melgresi, burnirót, sóleyjar og fífla.
Um tuttugu einstaklingar hafa „opinberlega“ komið í Eldey frá því hún var fyrst klifin árið 1896. Síðast var skv. því farið í Eldey 1982, þannig að þessi stærsta súlubyggð í heimi getur ekki sagt að hún hafi orð á sér fyrir að verða fyrir átroðningi ferðamanna.

Heimild m.a.:
-wikipedia.org
-grindavik.is

Eldey

 

Surtla

„Stefndi Surtla nú aftur að Brúnunum en þar hagar þannig til að ókleifir klettar eru þar á köflum en á milli er kleift. í samtali við Morgunblaðið 2. september 1952 segir Jón Kristgeirsson m.a.: „Skipti það engum togum, að Surtla fer fram af klettabrúninni og niður klettabeltið sem ég hafði ekki ímyndað mér að væri fært nema fljúgandi fugli. Í klettunum stanzaði hún um stund.“
herdisarvik-229Bræðurnir voru einnig hvíldinni fegnir en ekki tjáði að hvílast lengi því að hvíldin kom fleirum að gagni en þeim. Surtla kunni að nota sér aðstæðurnar, kastaði mæðinni og safnaði kröftum fyrir næstu atrennu. Þegar hér var komið sögu höfðu nokkrir bílar staðnæmst á veginum fyrir neðan hlíðina og var þar saman kominn hópur fólks, sem fylgdist með atburðunum í fjallinu. Reyndi fólkið sem niðri stóð að gefa þeim bræðrum ábendingar um ferðir kindarinnar en hljóðbært var þarna í fjöllunum.
Ekki höfðu þeir hvílst lengi, er lagt var á stað á ný. Tók Surtla þá enn á sprett og beygði inn að berginu, hljóp utan í því nokkurn spöl og fótaði sig í stórgrýtisskriðu, snarbrattri, sem teygði sig upp eftir skoru í hengifluginu en skyndilega þaut hún beint niður stórgrýtta skriðuna í miklum loftköstum. Ekki áttu þeir sem á horfðu von á því að halda þyrfti elingarleiknum áfram en ekki urðu þó þarna endalok ævi þessarar harðgerðu skepnu. Stefndi Surtla nú niður á undirlendið en Hallgrími tókst að komast yfir hana og hélt hún á ný á brattann.
Á brúninni vörnuðu þeir Jón og Hákon henni uppgöngu. Þóttust menn nú sjá að Surtla var farin að þreytast því hún var farin að reyna að fela sig í gjótum og lautum. Barst leikurinn þannig um stund eftir fjallshlíðinni í austurátt eða þar til bræðurnir sáu að vænlegra væri að fá hana til að snúa við, því þeir væru orðnir kunnugri vesturhlutanum og ættu hægara um vik að fást við hana á þeim slóðum.
Surtla-221Hafði eltingarleikurinn nú staðið á fimmtu klukkustund og var Surtla á klettasyllu. Var Hallgrímur fyrir neðan ána en Jón og Hallgrlmur fyrir ofan. Nokkur kyrrð var nú á, því bræðurnir ætluðu sér að þrengja hringinn og freista þess að handsama Surtlu. Eins og áður sagði voru nokkrir hópar manna á ferli i fjalllendinu ofan við Herdisarvík þeirra erinda að leita Surtlu þennan dag. Í einum þeirra voru þeir Sigurgeir Stefánsson, verslunarmaður, Kristinn Hannesson, verzlunarmaður og Jóhannes Guðmundsson, verzlunarstjóri en allir voru þeir þremenningarnir búnir skotvopnum. Voru þeir á ferli nokkru vestar en Jón, Hákon, Hallgrímur og Óskar og voru á leið heim að bifreið sinni er þeir sáu í kíki hvar menn voru á hlaupum uppi á Brúnum. Fara þeir í átt til bræðranna og koma þar að sem Hallgrímur stendur heðan Brúnanna en hinir uppi, en Surtla var að kasta mæðinni í klettunum. Sigurgeir og Kristinn fara upp í klettana, Kristinn að vestanverðu en Sigurgeir að austan. Jóhannes kemur sér fyrir hjá Hallgrími. Bræðurnir sjánúað komnir eru til leiksins menn búnir vopnum og biðja þeir þess, að Surtla verði ekki skotin þarna í höndunum á þeim. Ekki urðu aðkomumennirnir við ósk þeirra og jafnskjótt og Sigurgeir og Kristinn hafa komið sér fyrir skýtur Jóhannes í klettana rétt við bæli Surtlu. Tók hún þá á rás vestur eftir klettunum en sneri við austur á bóginn. Meðan þessu fór fram gullu skotin hvert af öðru I hllðina en ekkert hæfði Surtlu, fyrr en hún lenti í fangi Sigurgeirs, sem hæfði hana í þriðja skoti, eins og segir í viðtali við Kristin Hannesson í Morgunblaðinu 2. september 1952. Dauðaskotið var í hnakkann og kom út um ennið.
Þar með var æviskeið þessarar harðgerðu svörtu sauðkindar á enda. Ekki var hún þó gleymd, því næstu dægur snúast umræður manna á milli vart um annað en dauða Surtlu, í dagblöðum höfuðstaðarins birtast fjölmargar greinar og vísur um hana og haldið er áfram að deila um, hvort rétt hafi verið að málum staðið með  því að láta hana falla fyrir skoti- í smalamennskum.
Surtla var eins og áður sagði í þremur reifum þegar hún féll en talið er að hún hafi verið 5 til 6 vetra. Það er hald manna að hún hafi aldrei í hús komið en vitað er að nokkrum sinnum tókst að reka hana í aðhald, þó jafnan stykki hún úr því, er hún hafði skilað lambi sínu. Mánudaginn 1. september lá höfuð Surtlu á skrifstofu Sauðfjárveikivarna en síðar var það og búkur Surtlu flutt til rannsóknar á Keldum. Við rannsókn þar fundust engin merki um að kindin hefði verið sýkt, hvorki af garnaveiki né mæðiveiki. Líkamsleifum Surtlu var að rannsókn lokinni brennt nema hvað Birni A. Blöndal, starfsmanni Sauðfjárveikivarna, tókst að bjarga höfði hennar og lét hann stoppa það upp. Fyrir nokkrum árum var Tilraunastöðinni að Keldum og Sauðfjárveikivörnum fært höfuðið að gjöf frá Birni.“

Heimild:
-Morgunblaðið 7. apríl 1977, bls. 101.

Surtla

Surtla á Keldum. Sigurður Sigurðsson klappar holdgervingnum.

Reykjanesskagi

Margir virðast hafa mikinn áhuga á Reykjanesskaganum, enda úr fjölmörgu að velja. Á meðan sumir njóta þess að ganga um svæðið og skoða smáatriðin hafa aðrir gaman að því að aka um það og njóta útsýnisins.
Víða má sjó jarðmynduninaFá landsvæði bjóða upp á fjölbreyttari möguleika til útivistar. Ef benda ætti á einn tiltekinn stað öðrum fremri væri úr vandi að velja. Landssvæðið í heild er svo stórbrotið og fallegt; sjá má myndunina og jarðsöguna hvar sem á það er litið, menningarsagan er við hvert fótmál og ófáir staðir eru til sem ekki tengast þjóðtrú og sögulegum atburðum. Í rauninni er sá staðurinn fallegastur þar sem þú ert staddur hverju sinni. Allt umfram það er einungis myndbreyting í allri fegurðinni.
Í elstu heimildum segir að fyrst hafi land verið numið á Reykjanesskaganum, en svo er landssvæðið nú jafnan nefnt er þá spannaði landnám Ingólfs Arnarssonar.
Jarðhiti er óvíða meiriMinjar frá fyrri tíð eru víðar en fólk grunar, jafnvel heilstæð búsetusvæði. Garðar eru enn víða heillegir, götur grópaðar í berghelluna og hlaðnar réttir eða fjárborgir skipta hundruðum. Brunnar voru svo til við hvern bæ og sjást fjölmargir þeirra enn. Verbúðir og mannvirki þeim tengdum eru víða við ströndina og ef vel er að gáð má sjá hlaðin skjól og sæluhús við gamlar þjóðleiðir. Til marks um verðmætin í minjunum einum má auk þess nefna að enn má sjá leifar um 250 selja á landssvæðinu. Þá eru víða vörður, sem hlaðnar hafa verið til marks um söguleg atvik, minningar um fólk er varð úti á ferðum sínum eða til leiðsagnar og tilvísunar. Auk þessa má nefna hina fjölmörgu hella á svæðinu. Sumir þeirra geyma mannvistarleifar.

Mannvistarleifar í helli

Mikilvægt er að efla enn frekar áhuga fleirri á möguleikum Reykjanesskagans. Áður þarf þó að huga að ýmsu; sveitarstjórnarfólk þarf að sammælast um að eyða engu að óathuguðu máli er skipt getur máli í framangreindu samhengi, íbúarnir sjálfir þurfa að verða meðvitaðir um möguleikana og tala um þá með jákvæðum formerkjum, áhugafólk með þekkingu á svæðinu þarf að ýta undir áhuga annarra og fagfólk, ekki síst í minjavörslunni, þarf að beina athygli sínu að svæðinu í mun meira mæli en það hefur gert hingað til. Þá er gildi aukinnar samvinnu ferðaþjónustuaðila á svæðinu í heild aldrei ofmetin.
Það fólk, sem hefur aflað sér mikillar vitneskju um svæðið, skoðað það lengi, leitað uppi vettvang er lýst hefur verið eða sagt frá í ræðu og riti, uppgötvað annað áður óþekkt, fengið tækifæri til að setja hluti í samhengi eða sýna fram á rangildi, þarf að vera meðvitað um mótunaráhrif sín. Hér vegur jákvæðnin þyngst á vogarskálunum. Sem dæmi má taka örnefni.

Atvinnusagan

Gamalt fólk býr yfir mikilli þekkingu á þessum þætti og felast í upplýsingum þess mikil verðmæti. Vitað er þó að örnefni hafa breyst frá einum tíma til annars og til eru þeir staðir, sem fólk þekkir undir fleiru en einu nafni. Þá hafa örnefni færst á milli, t.d. hæða og hóla. Stundum bregst fólk, sem telur sig búa yfir mikilli eða staðbundinni þekkingu, illa við upplýsingum um annað en það sjálft telur hið eina og rétta. Oft hefur þurft að verja lengri tíma í að leiðrétta slíkt fólk og færa rök fyrir hinu gagnstæða en að svara fyrirspurnum þess er minni vitneskju á að hafa, öllu jöfnu.
Mikið hefur breyst á skömmum tíma og margt færst til betri vegar í framangreindum efnum. Enn sem fyrr er sérstaklega mikilvægt að allir hlutaðeigandi samhæfi sig í að efla upplýsingamiðlun, auðvelda aðgengi og hvetji aðra til að nýta sér hina stórkostlegu möguleika Reykjanesskagans til útivistar.
Eldvörp

Í Eldvörpum.

Festisfjall

Festirfjall (Festarfjall/Festisfjall) er skammt austan við Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála.

Festisfjall

Berggangur undir Festisfjalli.

Um er að ræða einstaklega „myndrænt“ fjall, eða fell öllu heldur ef taka á mið af öðrum nærliggjandi fellum. Það er þverhnípt að sunnanverðu, fram við Hrólfsvíkina, en aflíðandiað norðanverðu, inn til landsins. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag. Önnur saga segir að tröllkonan í Festisfjalli sé systir tröllkonunnar í Katlahrauni og hafi þær tíðum heimsótt hvora aðra. Heimilisaðstæðum sé þó ólíkt saman að jafna þar sem fyrirfast fjallið er annars vegar og Ketillinn hins vegar, með bergstöndum sínum og hellum.
GöngusvæðiðÓfáir eru sagðir hafa séð tröllsystur þessar, en þó hefur lifað sú saga á Ísólfsskála, sem þær hafa þurft að klofa yfir í heimsóknum sínum, að þaðan hafi útsýnið loftleiðis á stundum þótt kynlegt.
Festarfjall er í raun brimsorfin eldstöð þar sem um helmingur móbergsfjallsins er sorfin burt. Ef vel er að gáð á lágsævi má sjá hinglaga bergstanda utar í Hrólfsvíkinni. Þar mun gígur eldstöðvarinnar hafa verið fyrrum. Hafa ber í huga að þarna er um 11.000 ára gamla jarðmyndun að ræða, sem Ægir hefur herjað á jafn lengi með öllum látum. Mikið er um hnyðlinga í hrauninu ofanvert við bergið og einnig má sjá merki kvikublöndunar í berginu, bæði ofan við Ægissand og í fellinu sjálfu. Bæði í sunnanverðu Festisfjalli og í Lyngfelli má sjá bergganga kvikurásarinnar forðum daga steypta í hlíðar þeirra. Í berginu við Hraunsvík er nokkurt fuglalíf, t.d. lundi, rita og fýll, og á Hraunssandi mikið kríuvarp. Skjólgóð strönd er neðan Festarfjalls.
Festarfjall og nágrannafjöllin eru brimsorfin eldstöð. Í lágfjöru má sjá hringlaga gígstöplana í Hraunsvíkinni. Mikið er um hnyðlinga í hrauninu undir berginu og einnig má sjá merki kvikublöndunar í því. Í berginu við Hraunsvík er nokkurt fuglalíf, t.d. lundi, rita og fýll og á Hraunssandi er mikið kríuvarp.

Heimild m.a.:
-grindavik.is

Hraunsvík

Lónakot

Leitað var að og skoðaðir Grænhólsskjól og Hausthellir í landi Lónakots og Sjónarhólshellir í landi Óttarsstaða.
SjónarhólshellirSjónarhólshellir eru nálægt mörkum jarðanna og Grænhólsskjól nálægt mörkum Hvassahrauns, en Hausthellir skammt vestan við heimatúnið í Lónakoti. Því hefur verið haldið fram að Sjónarhólshellir hafi einnig verið nefnt Smalaskálaskjól, en það er norðvestan í Smalaskálahæð, sbr. örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði: „
Vestan við Rauðamel stóra er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, hellir, sem fé lá inni í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnann. Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, frá því fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.“ Síðastnefnda skjólið hefur verið staðsett á fyrrgreindum stað. Einnig var reynt að staðsetja Magnúsardys í Lónakotslandi í þessari ferð.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Lónakot minnist hann m.a. á Hausthelli og Magnúsardys, sbr.: „Markaklettur [er] Hausthellirá innanverðu Hraunsnesi. Af Markakletti lá landamerkjalínan milli Lónakots og Hvassahrauns upp í Skógarhól, þaðan í Stóra-Grænhól. Suður frá Grænhól var svo Grænhólsker, hættulegt fé. En í austur frá hólnum var Grænhólsskjól. Vestur [á væntanleg að vera austur því að vestan er land Hvassahrauns, auk þess Brunnhólar eru austan markanna, í Lónakotslandi] frá Sjónarhól var Brunnhóll. Í hrauninu niður frá Hádegishæð var sprungin klöpp, nefndist Magnúsardys. Maður að nafni Magnús varð þarna úti og var urðaður í sprungunni. Suður og upp frá Magnúsardys var Hraunsnesþúfa og Hausthellir, fjárskjól gott.“
Örnefni þau, sem hér hafa verið nefnd, liggja öll neðan Suðurnesjavegar og nú Reykjanesbrautar og alfaraleiðar, sem áður er nefnd.“
Fram kemur að Hádegishæð er skammt ofan við túngarðinn: „Umhverfis þennan þúfnakarga var Kotagarðurinn, hlaðinn, einfaldur grjótgarður. Nokkru lengra uppi í hrauninu var Hádegishæð.“ Nokkrar sprungur eru neðan Hádegishæðar og því erfitt að staðsetja Magnúsardysina þar með einhverri vissu. Það var því ekki gert að þessu sinni. Sjá meira
HÉR. Vestan við heimatúnið er Hausthellir í gróinni kvos. 

Grænhólsskjól

Grónar hleðslur eru framan við opið og dyr á þeim. Hellirinn sjálfur er fremur lítill, en reft hefur verið yfir tóftina framan við hann. Skjólgóður nátthagi er suðvestan við hellinn og hlaðinn brunnur austan hans (í Brunnhóll).
Þegar leitað var að framangreindu var gengið fram á afvelta lamb. Reynt var að færa það á fætur, en þá lagðist það út af. Augun lýstu ótta og uppgjöf. Blóð virtist vera aftan við vinstri afturfót. Tófan kann að hafa verið þarna að verki (enda búandi greni í hraunhól skammt frá). Veikindi gætu einnig hafa verið orsökin.
SkotbyrgiAugljósasta skýringin kom í ljós í hrauninu skammt vestar. Skolli rak skyndilega út trýnið upp úr skúta og „hvopsaði“ áður en hann hvarf inn aftur. Eftir stutta bið sást hann á ferðinni innan við opið – órólegur.

Sjónarhólshellir-2

Haft var samband við Bjarnferð, fjárumsýslumann svæðisins, og honum kynnt ástand lambsins. Þá var Helgi Gam. í Grindavík fenginn til að takast á við dýrbítinn enda ekki forsvaranlegt að hafa hann þarna svona skammt frá fjárhúsunum í Lónakoti, vomandi yfir fénu nótt sem dag.
Í örnefnalýsingu SG (með leiðréttingum) fyrir Óttarsstaði kemur eftirfarandi fram um Sjónarhólshelli: „Fyrir ofan fjörukampinn var uppgróinn sandbakki, sem nefndist Sandar. Þar vestast eru landamerki milli Óttarsstaða og Lónakots. Ofan við Sanda er Sandatjörn, skiptist milli Óttarsstaða og Lónakots. Úr Söndum liggur landamerkjalínan í Markhól, sprunginn klapparhól skammt fyrir ofan kampinn. Þaðan liggur línan suðsuðaustur í Sjónarhól. Á honum er Sjónarhólsvarða, en suður frá honum er Sjónahólshellir, fjárhellir stór inni í krika. Hann var áður yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður (sjá meira
HÉR).“
Hleðslur við Sjónarhólshelli, líkt og við Hausthelli, eru enn nokkuð heillegar. Gróið er framan við bæði skjólin og vatnsstæði í nágrenni beggja.
Þegar nágrenni „Haustshellis“ var skoðað betur kom í ljós enn eitt fjárskjólið; vandlega hlaðin fyrirhleðsla með ágætu rými fyrir innan. Opið sneri mót austri (sem þótti ónentugt að vetrarlagi). Gólfið var gróið og sjá mátti þar rekavið er benti til þess (sem reyndar þykir sjálfsagt) að reft hafi verið yfir milli fyrirhleðslunnar og þakveggjar hraunsins. Fjárskjól þetta er hvergi getið í örnefnalýsingum né hefur þess verið getið í fornleifaskráningum af svæðinu – ekki frekar en lambaskjólið ofar í hrauninu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Lónakot.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun.
-Örnefnalýsing fyrir Óttarsstari.
-Gísli Sigurðsson.

Sjónarhólshellir

Sjónarhólshellir.

 

Víti

Gengið var af gamla Herdísarvíkurveginum þar sem hann byrjar í Krýsuvík (nálægt Stóra-Nýjabæ) að Vegghamri og áleiðis inn í Kálfadali.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Ætlunin var m.a. að skoða Víti, hinn mikla hraunfoss, og tökustaðinn þar sem leikin íslensk stuttmynd, „Tunglið, tunglið, taktu mig“, var filmuð við upphaf kvikmyndagerðar hér á landi (1954), haldið yfir ofanverða Vegghamra og um Kálfadali, berja hin fagra hraunfoss Víti augum, ganga með Geithöfða, skoða nýendurheimta hveri við suðurenda Kleifarvatns, ganga með Hvammi og Hvammholti austan Hverahlíðar við fjöruborð Kleifarvatns alla leið að tóftum hins þjóðsagnakennda Kaldrana suðvestan við vatnið. Þar eru friðlýstar fornminjar.

Breiðivegur

Breiðivegur.

Enn sést móta fyrir gamla veginum (Breiðavegi) ofan við mýrarnar austan Arnarfells. Hann liggur mun nær hlíðum Geitahlíðar en nýi þjóðvegurinn, en sést vel frá honum. Elsta þjóðleiðin er enn austar, í brúnunum, neðan við Vegghamra og upp Deildarháls milli Stóru-Eldborgar og Geitahlíðar. Þar liggur hann niður Kerlingardal og áfram yfir hraunið til Herdísarvíkur. Í Kerlingadal deildu þær Herdís og Krýsa með tilheyrandi afleiðingum fyrir bæði þær báðar sem og aðra. Eldborgin skartaði sínu fegursta.
Vegghamrarnir eru klettabelti vestan Geitahlíðar. Þeir eru hluti af grágrýtishálsi er aðskilur Kálfadali frá umhverfinu sunnan þeirra og suðvesturhlíðum Geitahlíðar.

Víti

Móbergsmyndanir vestan Vítis.

Þegar komið var upp fyrir hálsinn blasti við stórbrotið móbergslandslag og varla stingandi strá. Það var ekki að ástæðulausu sem þeir fyrstu geimfarar er stigu síðar fæti á tunglið komu hingað til æfinga fyrir þá ferð. Landslagið er ekki ólíkt því sem ætla megi að gerðist á þeim fjarlæga hnetti. Skútar og litlir hellar eru inn í móbergsklöppina, sem vindur, vatn, frost og veður hafa mótað í gegnum tíðina. Þarna, inni undir geysifallegu, og varla jarðnesku, móbergsgili, var ein af fyrst leiknu íslenslu kvikmyndunum tekin, Tunglið, tunglið taktu mig. Kvikmyndatökumaðurinn var Ásgeir Long.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Handan við hæðina tóku Kálfadalir við. Þeir eru tveir, en þó innangengt á milli þeirra um tiltölulega mjótt skarð. Botn syðri dalsins hefur nær fyllst af hrauni úr gígum austan og ofan við hlíð hans. Sennilega er hraunið frá svipuðum tíma og hraunið úr Stóru-Eldborg. Tilkomumikill hraunfoss rann þá niður hlíðina, Kálfadalahlíðar, og storknaði, líkt og hraunið. Falleg náttúrusmíð. Hraunfoss þessi, sem er mjög áberandi á svæðinu, hefur gengið undir nafninu Víti, sennilega vegna upprunans.
Fylgt var vesturbrún dalsins til norðurs og gengið inn í nyrðri dalinn. Við enda hans er Gullbringa, tiltölulega lítið fjall, sem sumir segja að sýslan hafi verið nefnd eftir. Aðrir segja Gullbringurnar vera hlíðarnar austan við fjallið. Enn aðrir segja nafn sýslunnar vera dregið af Gullbringunum ofan Mosfellsheiðar.

Hvað sem því leið var ákveðið að ganga upp eftir fallegu gili á vestanverðum dalnum, yfir austurfjöll Kleifarvatns og vestur með sunnanverðu vatninu, skoða hveri er komu í ljós er sjatnaði í vatninu eftir jarðskjálftana árið 2000 og nýta auða ströndina til göngunnar.

Kálfadalir

Við Kálfadali – móbergsmyndanir.

Stefnan var tekin upp úr Kálfadölum um skarðið og síðan haldið niður hart hjanið áleiðis að Geithöfða. Sunnan hans var beygt með vatninu, hverirnir skoðaðir og haldið út á ísilagt vatnið með Hvammholti. Lambatangi skagar út í vestanvert vatnið. Hann átti eftir að koma við sögu síðar í ferðinni.
Þegar komið var að tóftum Kaldrana suðvestan við Kleifarvatn var rifjuð upp sagan af þeim Herdísi og Krýsu. Þegar þær deildu um landamerki sín neðan við Eldborgina lagði Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið.

Um Kleifarvatn gengu þó ennþá fleiri sögur um. Árið 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Árið 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga (Lambatanga) eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Frá Kaldrana er ágætt útsýni yfir sögusviðið.
Frábært veður. Birtan var ævintýraleg. Það var engu líkara en gengið væri í gegnum ævintýri, slík var birtan sem og landslagið í ferðinni.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=261

Víti

Víti í Kálfadölum.

Dágon

Í Alþýðublaðinu árið 1970 skrifar Gestur Guðfinnsson um Dágon; Guð Filista á Selatöngum:
Ögmundadys„Í Selatöngum, hinni fornu veiðistöð Krýsvíkinga, er margt athyglisvert að sjá og skoða. Kannski furðar maður sig þó mest á að hitta þar fyrir sjálfan guð Filista í flæðarmálinu, að vísu niðurbrotinn og næstum því að engu orðinn, en samt sem áður gegnandi þýðingarmiklu embætti.
Gísli Sigurðsson varðstjóri og örnafnasafnari í Hafnarfirði vakti athygli okkar á þessu ekki alls fyrir löngu, en hann hafði sína vitneskju frá dr. Jakobi Benediktssyni málfræðingi, svo og úr Biblíunni. Það hefur lengi verið vitað um stand eða drang í Selatöngum, sem kallaður hefur Verið Dágon eða Dagon, — en flestum hefur þótt nafnið torskilið og ekki íslenzkulegt.
dagon-221Í bókinni Frá Suðurnesjum er að finna ritgerð, sem heitir Frá Valahnúk til Seljabótar eftir Guðstein Einarsson. Þar er m. a. vikið að þessum kletti í eftirfarandi klausu; „Dágon er hraunstandur uppi í kampinum á Selatöngum og eru í honum landamerki milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Kirkjurnar komu víða við með ítök í gamla daga, og þarna fyrir Ísólfsskálalandi, frá Dágon að austan og vestur; um Veiðibjöllunef, átti Kálfatjarnarkirkja allan stórviðarreka, þ. e. ábúandinn mátti sjálfur hirða það sem kallað var morkefli. Ítak þetta var svo keypt af núverandi ábúanda og eiganda Ísólfsskála um 1920, svo það er ekki kirkjueign lengur.“

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840—41 eftir séra Geir Bachmann kemur þessi sami klettur einnig við sögu. Þar stendur m. a.: „Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krýsu- og Grindavíkur.“
Gísli kvað ýmsar tilgátur hafa verið uppi um heitið á klettinum og hefði hann þess vegna hringt til dr. Jakobs Benediktssonar málfræðings og spurt hann um það. Taldi Jakob líklegast, að Dagon væri biblíunafn, enda kom það á daginn, þegar Gísli fór að blaða í Biblíunni. Þetta er einmitt nafn á sjálfum guði Filistanna, að vísu ritað Dagón, en ekki Dagon, eins og í sóknarlýsingunni. Það er bezt að gefa heilagri ritningu orðið, þegar málum er þar, komið að Ísraelsmenn hafa beðið ósigur fyrir Filistum og sáttmálsörkin er komin í hendur óvinanna:

Selatangar

Á Selatöngum.

„En Felistar höfðu tekið Guðs örk og flutt hana frá Ebeneser til Asdód. Og Filistar tóku Guðs örk og fluttu hana í hús Dagóns og settu hana við hliðina á Dagón. En er Asdódmenn risu árla morguninn eftir, sjá, þá lá Dágón á grúfu á gólfinu fyrir framan örk Jahve. Tóku þeir þá Dágón og settu hann aftur á sinn stað. Og þeir risu árla u m morguninn daginn -eftir, og sjá, þá lá Dagón á grúfu á gólfinu fyrir framan örk Jahve; höfuð Dagóns og báðar hendur voru brotnar af honum og lágu á þröskuldinum: bolurinn einn var eftir af Dagón. Fyrir því stíga prestar Dagóns og allir þeir, sem ganga inn í hús Dagóns, ekki á þröskuld Dagóns í Asdód, og helzt það enn í dag. Og hönd Jahve lá þungt á . Asdód-mönnum, hann Skelfdi þá og sló þá með kýlum — Asdód og héraðið umhverfis. En þegar Asdód-búar sáu, að þetta var þannig, þá sögðu þeir: Örk Ísrels Guðs skal eigi lengur hjá oss vera, því að hörð er hönd hans á oss og á Dagón, guði vorum.“ En það er fleira skemmtilegt við þetta en nafnið.

Selatangar

Á Selatöngum.

Örlög Dagons í Selatöngum urðu nefnilega ekki ósvipuð endalokum nafna hans í Biblíunni. Hann brotnaði í einhverju stórbriminu og lagðist á grúfu í flæðarmálinu. Það er ekki einu sinni eftir af honum uppistandandi bölurinn, hvað þá meira. Kunnugir vita hins vegar nokkurn veginn hvar Dagon var, hann stóð í fjörukampinum rétt utan við svokallaða Vestri-Hlein, ekki langt vestan við verbúðirnar og fiskbyrgin, þar sem dálítil klettasnös skagar fram í fjöruna.
Erfitt er að spá nokkuð í tildrögin að nafngiftinni, líklega er merkingin heldur niðrandi, þó að þarna sé að vísu um háttsetta persónu að ræða, Filistar hafa víst aldrei verið hátt upp skrifaðir í almenningsálitinu á Ísandi. Landamerkjadeilur koma kannski einna helzt í hugann, þar sem þetta var landamerkjaklettur, en kirkjur áttu hagsmuna að gæta á báða bóga. Hins vegar virðist ljóst að nafnið sé tilkomið eftir að kristinn siður og biblíuþekking varð almenningseign á Suðurnesjum.“ — G. G.

Heimild:
-Alþýðublaðið 8. október 1970, bls. 7 og 11.

Selatangar

Á Selatöngum.

Helguvík

Gengið var upp á Keflavíkurbjarg norðan við Grófina og síðan sem leið lá yfir og framhjá Helguvík, yfir á Hólmsberg og að Stakksnípu. Þar undir er kletturinn Stakkur í sjónum, en af honum dregur fjörðurinn nafn sitt. Þjóðsaga tengist klettinum. Þá var gengið áfram til norðurs eftir bjarginu þangað til komið var að Helguvík.

Keflavíkurberg

Vatnsskál á Keflavíkurbergi.

Fremst á berginu, eftir að skoðaðir höfðu verið drykkjarsteinn og handgerður brunnur, tóftir og Stekkjarlág, fyrrum samkomustaður Keflvíkinga, var komið að Brennunípu. Líklegt er að nafnið sé tilkomið líkt og önnur brenninefni, s.s. Brennuhóll og Brenna, en slíkir staðir eru venjulega gegnt gömlum innsiglingum við varir eða lendingar. Kveikt var í bálkesti á þessum hólum þegar farið var að rökkva eða myrkur var skollið á til að leiðbeina þeim, sem enn voru á sjó og voru að róa í land, réttu leiðina. Einnig stærri skipum, sem enn var von á af hafi, við sömu aðstæður.
Stakksfjörður, sem er hafssvæðið utan við bergið (bergin), er breiður og djúpur fjörður sem gengur til suðurs úr Faxaflóa og afmarkast að austan af Keilisnesi á Vatnsleysuströnd en af Stakksnípu í Hólmsbergi að vestan.

Stakkur

Hellunef er skammt norðar. Þar eru mörk hinnar gömlu Keflavíkur. Náðu mörkin til suðurs að Stekkjarhamri þar sem Ytri-Njarðvík tók við. Gengið var áfram til norðurs á bjarginu, að Helguvík. Hún er lítil hamravík þar sem nú er ætlunin að byggja upp blómlegt atvinnulíf í kringum stórskipahöfn, loðnubræðslu, loðnuflokkunarstöð, sementssölu, steypustöð og malbikunarstöð. Til stendur að fjölga enn stórum fyrirtækjum í Helguvík. Víkin var áður falleg hömrum girt náttúruvík, sniðin af eðlilegum ástæðum, en nú er hún dæmi um niðurbrotna hugmyndastefnu.

Hólmsbergsviti

Stakksnípuviti.

Norðan við Helguvíkina tekur Hólmsbergið við. Syðst á því er Stakknsípa. Undir henni er klettadrangurinn Stakkur. Viti er á Stakksnípu, reistur 1958. Stakksfjörður dregur nafn af Stakki.
Í þjóðsögunni af Rauðhöfða, sem gerast á í fornöld, segir m.a. að löngum aðdraganda gegnum er gerist á Hvalsnesi og varðar afleiðingar hans í samskiptum við álfkonu í Geirfuglaskeri, að hann tók undir eins á rás og æddi sem vitstola norður eftir þangað til hann kom fram á Hólmsberg, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt. Þegar hann kom fram á bergsbrúnina staldraði hann við.

Keflavíkurberg

Keflavíkurberg – Stekkjalág.

Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn að bergið sprakk undir fótum honum og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði. En kletturinn sem fram hljóp með hann í sjóinn stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur. Eftirmálar af sögunni urðu síðan í Hvalfirði.
Önnur saga segir að þegar upp komust svik mannsins varð hann óður og steypti sér í sjóinn og breyttist í hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af því nafni dregur Faxaflói nafn sitt

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Í enn annarri frásögn segir að er upp komast svik mannsins, er hér nefnist Helgi, segir hann allt af létta og fer síðan inn þvera heiði og fram af Hólmsbergi. Um leið og hann stakk sér féll úr berginu klettur og er hann hér um 100 faðma fyrir framan bergið og heitir Stakkurinn til þessa dags.
Gangan endaði að þessu sinni við við vitann á Hellisnípu. Þar undir að norðanverðu er Selvík. Hægt er að ganga niður í víkina og er hún hin fallegasta – í góðu verði.
Ofan Grófarinnar er Keflavíkurborg, gömul fjárborg við Sandgerðisveginn fyrrum.
Í rauninni er þetta svæði ein hin dýrmætasta útivistarperla Keflvíkinga, en of fáir þeirra virðast því miður gera sér grein fyrir því. Fjölmargt er að skoða á annars ekki lengri leið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=226
-Jón Árnason I 82.

Keflavíkurberg

Brunnur á Keflavíkurbergi.

Þórshöfn
Staðhættir
Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes.

Kaupstaðagatan

Kaupstaðagatan norðan Ósa.

Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi.

En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði.
Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð.

Flankastaðir

Flankastaðir.

Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.

Bærinn Sandgerði

Sandgerðisviti

Sandgerðisviti.

Um 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði (1883) stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta síðustu aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.

Sandgerðisvör

Sandgerðisvör var við svokallaðan Hamar, þar sem nú er aðalgarður hafnarinnar. Til að komast inn á Sandgerðisvík þarf að fara í gegnum Hamarssund, en það er norðan við Bæjarskerseyri.

Sandgerði

Sandgerði.

Sundið er fremur þröngt og getur verið vandratað fyrir ókunnuga. Eru um 800 metrar frá mynni sundsins að höfninni sjálfri. Á tímum árabáta var sund þetta þrautarsund. Það var notað við landtöku þegar önnur sund lokuðust vegna brims og urðu ófær bátum.

Sandgerði telst ekki til stærri bæja landsins með rúml. 1.400 íbúa en margt bendir til þess að bærinn hafi samt sem áður alla burði til að verða í fremstu röð sveitarfélaga á landinu. Sandgerði er fyrst og fremst útgerðarbær og er ánægjulegt að segja frá því að stöðugt er verið að bæta hafnaraðstöðuna og búa í haginn fyrir þau útgerðarfyrirtæki sem hér starfa.

Fræðasetrið Rannsóknarstöðin Náttúrustofan

Sandgerði

Fræðasetrið í Sandgerði.

Í Sandgerði er starfrækt Botndýrarannsóknarstöðin BioIce og þar stunda virtir fræðimenn, innlendir og erlendir, botndýrarannsóknir. Náttúrustofa Reykjaness starfar þar undir sama þaki og hafa þessi fyrirtæki gefið bæjarfélaginu nýjan og ferskan blæ. Ekkert eitt verkefni hefur haft eins mikil áhrif á stöðu bæjarfélagsins út á við. Gestum sem heimsækja Fræðasetrið fjölgar stöðugt. Stórir hópar, innlendir jafnt sem erlendir heimsækja setrið árið um kring, kynna sér starfsemi þess og skoða þar m.a. uppstoppuð sjávardýr og fugla.

Sandgerði

Sandgerði.

Undanfarin ár hefur Sandgerði tekið örum breytingum sem hafa miðað að því að gera bæjarfélagið betra og þjónustuvænna til að búa í. Má þar m.a. nefna byggingu þjónustuíbúða fyrir eldri borgara, stækkun grunnskólans og leikskólans, bætt aðstaða við sundlaugina, stækkun á anddyri íþróttahússins. Risin er ný og glæsileg verslun og mikið átak hefur verið gert í umhverfismálum. Margt fleira mætti nefna, eins og t.d. að tekin hefur verið ákvörðun um að reisa myndarlegan miðbæjarkjarna í samvinnu við Búmenn, þar sem gert er ráð fyrir ráðhúsi, íbúðum og þjónustufyrirtækjum í hjarta bæjarins til hagsbóta fyrir bæjarbúa. Sú framkvæmd mun gera bæinn fegurri og meira aðlaðandi og auðvelda íbúunum að sækja alla þjónustu.

Félagslíf æskulýðsins

Sandgerðisviti

Sandgerðisviti.

Skýjaborg er félagsheimili æskulýðsins, og þar fer fram blómlegt og uppbyggjandi félagsstarf þar sem unga fólkið nýtur sín undir leiðsögn fagfólks. Mikil rækt hefur verið lögð við tónlistina og unglingarnir tekið þátt í söngvakeppnum og náð verulega góðum árangri. Einnig hefur verið kennd fatahönnun í grunnskólanum og í framhaldi af því hefur starfsfólk Skýjaborgar aðstoðað hina ungu hönnuði við að taka þátt í hönnunarsamkeppni þar sem árangur hefur einnig verið frábær.
Í tengslum við Skýjaborg er svo mjög góð útivistaraðstaða ásamt fótboltavelli þar sem fram fara heimaleikir Reynis í Sandgerði. Körfuboltinn er einnig öflugur og keppt er bæði í meistaraflokki og yngri flokkum en æfingar eru stundaðar í hinu glæsilega íþróttahúsi bæjarins.

Sandgerði

Sandgerði – sundlaug.

Í sundlauginni sem tengist íþróttahúsinu stunda yngri krakkarnir sundæfingar. Búið er að lagfæra umhverfi laugarinnar og koma fyrir vaðpolli fyrir yngstu börnin. Þar hefur verið sett upp nýtt gufubað og einnig stendur til að stækka og dýpka sjálfa sundlaugina. Þegar þeim framkvæmdum er lokið verður öll aðstaða þar til fyrirmyndar.
Aðrir áhugaverðir staðir eru Ný-Vídd; listagallerí þar sem áhugafólk um listsköpun hefur vinnuaðstöðu og í sama húsi er kertaverksmiðjan Jöklaljós sem framleiðir kerti af öllum stærðum og gerðum. Loks má nefna Púlsinn, sem er nýr staður, en þar er boðið upp á nám í leiklist, jóga, leikfimi og ýmsu öðru áhugaverðu.
Ýmislegt fleira er í boði fyrir unga sem aldna, s.s. kór- og kirkjustarf, skátar, unglingadeild björgunarsveitarinnar, golfkennsla o.fl.

Höfnin

Sandgerði

Sandgerði – höfnin.

Hafnarframkvæmdir hafa verið miklar og má þar nefna dýpkun innan hafnar, bygging varnargarðs og miklar fyllingar við norðurbryggju. Varanlegt slitlag hefur verið lagt á alla norðurbryggju með nýjum kanttrjám. Einnig hefur norðurbryggjan verið lengd og hafnarsvæðið verið stækkað til mikilla muna frá því sem áður var. Á hafnarsvæðinu og í tengslum við það hafa risið nokkur fyrirtæki í glæsilegum byggingum. Þar má nefna Fiskmarkað Suðurnesja, og fiskvinnslufyrirtækin Tros og Ný-fisk ásamt fleiri fyrirtækjum.

Álög

Sandgerði

Listaverkið Álög.


Vart er hægt að hugsa sér stórfenglegri sýn en þá sem blasir við þegar keyrt er inn í Sandgerði. Þar mætast himinn og haf og útsynningurinn lemur skerjagarðinn með brimföldum sem tóna við hið fagra listaverk Álög sem stendur við innkeyrsluna í bæinn. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og þar gefur að líta þrjár rústfríar öldur sem tákna að hafið er eilíft en maðurinn sem stendur þar hjá er úr pottstáli því hann er forgengilegur. Verkið var sett upp á 100 ára afmæli Miðneshrepps 1986 til minningar um látna sjómenn.

Hunangshella

Hunangshella

Hunangshella.

Hunangshella er löng klöpp á þjóðveginum norðan við Ósabotna. Sagan segir að eitt sinn hafi þar hreiðrað um sig finngálkn ( afkvæmi tófu og kattar) og varnað ferðamönnum vegar. Dýrið var afar styggt en loks tókst að skjóta það meðan það sleikti upp hunang sem hellt hafði verið yfir helluna.

Þórshöfn

Lindarsandur

Lindarsandur neðan Melabergs.

Þórshöfn var helsti verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld og sló þar stundum í brýnu milli þeirra og Englendinga. Með einokunarversluninni minnkaði mikilvægi Þórshafnar og lagðist hún af sem verslunarstaður. Á 19. öld hófust skipakomur þangað á nýjan leik og sóttu heimamenn það fast að hún yrði gerð að löggiltum verslunarstað en án árangurs.
Árið 1881 strandaði rétt hjá Þórshöfn enska vöruflutningaskipið Jamestown. Skipið var eitt allra stærsta seglskip sinnar tíðar, meira en 100 metra langt og 20 metra breitt og er eitt af tröllauknum akkerum þess varðveitt í Höfnum. Farmurinn var afar verðmætur því lestar skipsins voru fullar af úrvals timbri. Efra Sandgerði sem er elsta húsið í Sandgerði er byggt úr þessu timbri. Sögur segja þó að ballest skipsins hafi verið öllu verðmætari því hún hafi verið mexikóskt silfurgrýti. Ef til vill liggur því verðmætur silfursjóður á hafsbotni í Ósum.

Básendar / Gálgar

Gálgar

Gálgar.

Básendar urðu verslunar- og útgerðarstaður strax á 15. öld. Framan af voru þeir í eigu Viðeyjarklausturs en eftir siðaskiptin tók konungsvaldið útgerðina í sinar hendur og máði hún hámarki að fyrstu tugum 18. aldar en um þær mundir voru konungsbátar í Gullbringusýslu milli 80 og 100 talsins. Rekstur konungsútgerðarinnar var þó ekki burðugri en svo að árið 1769 var hún lögð niður.

Enn um sinn héldu þó danskir einokunarmenn áfram að stunda verslun frá staðnum og voru margir þeirra afar illa þokkaðir. Í kvæðinu Básendapundarinn eftir Grím Thomsen segir frá útistöðum Skúla fógeta við einn slíkan. Verslun lagðist af á Básendum eftir gríðarlegt sjávarflóð aðfaranótt 9. janúar 1799, þar sem kaupmaðurinn á staðnum misti allar eigur sínar og ein kona drukknaði.

Gálgar nefnast tveir háir klettar skammt fyrir ofan gönguleiðina. Milli þeirra er nokkurra faðma breitt sund sem ævagamlar sagnir herma að sakamenn hafi verið hengdir í. EF þetta á við rök að styðjast, má gera ráð fyrir að á næstu grösum hafi verið héraðsþing til forna.

Stafnes

Stafnes

Á Stafnesi.

Stafnes var fjölmennasta verstöð Suðurnesja á 17. og 18. öld, enda var það ásamt Vestmannaeyjum miðstöð konungsútgerðarinnar. Áfram var róið af kappi frá Stafnesi fram undir miðja þessa öld, þrátt fyrir fjölmörg háskaleg sker sem grandað hafa ófáum skipum og bátum. Meðal skipa sem strönduðu var togarinn Jón forseti sem fórst þar árið 1928, en til þess slyss má rekja stofnun slysavarnardeildarinnar Sigurvonar í Sandgerði.

Hvalsnes

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hvalsnes hefur frá fornu fari verið kirkjustaður. Þar hafa setið ýmsir þekktir prestar en frægastur er þó vafalaust Hallgrímur Pétursson. Í kirkjunni er varðveittur legsteinn Steinunnar Hallgrímsdóttur sem talið er að skáldið haf sjálft höggvið. Núverandi kirkja var vígð árið 1887 og er einhver allra fegursta steinkirkja landsins. Fyrir byggingu hennar stóð Ketill Ketilsson hreppstjóri í Höfnum en altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson málara.

Melaberg

Melaberg

Melaberg.

Á Melabergi bjó samkvæmt þjóðsögunni fátæk ekkja ásamt syni sínum. Eitt sinn henti soninn það ólán að verða strandaglópur við eggjatínslu í Geirfuglaskeri og tókst ekki að bjarga honum fyrr en ári síðar. Allt var á huldu um hvað á daga mannsins hefði drifið á eyjunni, uns álfkona nokkur gaf sig fram við messu í Hvalsneskirkju og vildi kenn honum barn sitt.

Melabergsvegur

Melabergsvegur.

Maðurinn sór fyrir að vera faðir barnsins en við það féllu á hann álög huldukonunnar svo hann steyptist í hafið og breyttist í rauðhöfða illhveli. Hvalur þessi grandaði mörgum bátum, uns fjölkunnugur maður náði með göldrum að hrekja hann inn Hvalfjörð og upp í Hvalvatn, en þar hafa fundist hvalbein sem menn höfðu til sannindamerkis um söguna.
Neðan Melabergs er Lindarsandur, en þar kemur upp ferskt vatn undan klöppunum.

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi

Másbúðarhólmi.

Í Másbúðarhólma voru mikilvægar bækistöðvar konungsútgerðarinnar og eru þar enn miklar verminjar. Másbúðir voru einnig vetvangur fyrsta byssubardaga Íslandssögunnar árið 1551. Þá sóttu norðlenskir hefnendur að tveimur fylgdarsveinum Kristjáns skrifara, drápu annan en hinn slap eftir að hafa skotið einn norðanmanna á flóttanum.

Fuglavík
Fuglavík var fyrr á tímum stórt útgerðarhverfi og voru þar einkum vermenn frá öðrum landshornum. Samhliða fiskveiðunum var þar mikil sölvatekja en Íslendingar treystu um aldir mjög á söl, bæði til manneldis og sem skepnufóður.

Sandgerði

Básendar

Básendar – festarhringur.

Sandgerði er með elstu höfuðbólum á Suðurnesjum. Þaðan hefur alla tíð verið stunduð mikil útgerð enda Sandgerði einhver mikilvægasta verstöð landsins, á sama tíma og dró úr mikilvægi flestra annarra verstöðva á Rosmhvalsnesi.
Árið 1990 fékk Sandgerði kaupstaðarréttindi og er með yngstu kaupstöðum landsins.

Bæjarsker

Bæjarsker er ef til vill elsta höfuðból Suðurnesja en margt bendir til þess að þar hafi búið Steinunn gamla, sem Ingólfur Arnarson gaf mestallan norðanverðan Reykjanesskaga.

Býjaskersrétt

Býjaskersrétt.

Væntanlega hefur Steinunn stundað útgerð af kappi, en Bæjarskerseyrin þótti lengi ein besta veiðistöð Suðurnesja. Landbrot vegna ágangs sjávar hefur þó leikið eyrina grátt og eftir ofsaflóð veturinn 1769 og síðar Básendaflóðið 1799 hnignaði útgerð þar mjög.

Hvalsnesgata

Hvalsnesgata.

Flankastaðir
Að Flankastöðum voru fyrr á tímum haldnir vikivakar og jólagleði. Ýmsir kirkjunnar þjónar höfðu horn í síðu þessara dans- og gleðisamkoma sem þeir töldu ýta undir drykkjuskap og lauslæti. Voru þessar samkomur því bannaðar um 1745. Var því spáð að prestinum Árna Hallvarðssyni ætti eftir að hefnast fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði á voveiflegan hátt.

Kirkjuból

Kirkjuból

Kirkjuból.

Kirkjuból var forðum þar sem nú heitir Gamlaból. Þar var áður höfðingjasetur og vetvangur sögulegra atburða. Árið 1433 gerðist það að hópur manna úr lífverði Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups, undir forystu Magnúsar kæmeistara,bryta í Skálholti, brenndi bæinn til ösku. Með því vildu þeir hefna fyrir niðurlægingu Magnúsar, en heimasætan á bænum , Margrét slap þó úr eldinum ein manna og sór þess dýran eið að giftast hverjum þeim manni er kæmi fram hefndum. Sá maður reyndist vera Þorvarður Loftsson höfðingjasonur frá Möðruvöllum. Árið 1551 dró svo aftur til tíðinda að Kirkjubóli, en þá hefndu norðlenskir vermenn aftöku Jóns Arasonar Hólabiskups árið áður. Fóru þeir fjölmennu liði að umboðsmanni konungs, Kristjáni skrifara og mönnum hans,myrtu alla og svívirtu líkin. Því næst héldu þeir út á Álftanes, handsömuðu böðulinn sem tekið hafði biskupinn af lífi og neyddu hann til þess að drekka bráðið blý. Tókst danska konungsveldinu að koma lögum yfir fæsta þessara manna.

Skagagarðurinn

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Skagagarðurinn forni sést enn skammt norð-austur af Kolbeinsstöðum. Garðurinn er sennilega frá 10. öld og girti nyrsta hluta Rosmhvalsness frá öðrum hlutum Reykjanesskaga. Garðurinn er aðlíðandi norðanmeginn en hár og lóðréttur til suðurs, enda hefur honum væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá miklum kornökrum sem voru nyrst á skaganum.

Hafurbjarnastaðir

Að Hafurbjarnarstöðum hefur verið bær allt frá landnámsöld. Þar fannst árið 1868 kumlateigur úr heiðni sem telja verður einn merkasta fornleifafund Íslandssögunnar, en dr. Kristján Eldjárn lauk rannsóknum á honum árið 1947. Í teignum voru bein sjö eða átta manna auk ýmissa gripa. Heillegasta beinagrindin er varðveitt í glerkassa á Þjóðminjasafni Íslands eins og margir munu kannast við.

-www.sandgerdi.is

Þórshöfn

Þórshöfn.

Leiðarendi

Farið var í hellinn Leiðarenda skammt frá Bláfjallavegi í Stórabollahrauni (Skúlatúnshrauni).

Leiðarendi

Haldið í Leiðarenda.

Opið er í stóru jarðfalli að undangengnum stuttum stíg í gegnum hraunið frá veginum. Inngangan er falleg, rauðleit og regluleg. Um er að ræða víða og háa hraunrás. Helsta einkenni hennar eru flögur á veggjum og lofti og hafa þær fallið sums staðar á gólf. Dropsteinar eru og á gólfum og fallegar hraunmyndanir í loftum og á veggjum. Næstum því innst í lengstu rásinni er beinagrind af rollu og dregur hellirinn nafn sitt af örlögum hennar. Alveg innst er stór hrauntjörn, sem er heldur lægri en rásin sjálf.

Leiðarendi

Í Leiðarenda.

Samtals er Leiðarendi um 400 metra langur. Hægt er að fara í hring og koma út um austuropið, ef vilji er til að skríða spölkorn á maganum. Nauðsynlegt er að hafa mjög góð ljós því hellirinn er bæði stór og dimmur.
Hjartartröðin er hraunrás þarna skammt austar. Hún er með nokkrum steinbrúm. Tröðin endar í jarðfalli og liggur op vestan í því undir nýrra hraun. Hellirinn er víður. Skammt innan við opið er hrun. Hægt er að fara hægra megin við það og áfram inn eftir hellinum. Þá er komið að öðru miklu hruni. Hægt er einnig að fara yfir það og halda áfram. Mikilvægt er að vera vel búinn þegar þessi hellir er skoðaður.
Frábært veður, en það skiptir nú litlu máli í hellaskoðun.

Leiðarendi

Leiðarendi – uppdráttur ÓSÁ.