Öskjuholtsskjól

Gengið var frá Reykjanesbraut upp að Virkishólum og Grænudölum þar sem Loftskúti var skoðaður.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Virkishólarnir sjást vel frá Reykjanesbrautinni skammt ofan við og norðan nýju gatnamótanna að Hvassahrauni. Þeir standa þrír saman og eru áberandi klettahólar með djúpum sprungum þvert og endilangt. Á milli þeirra er jarðfall með fyrirhleðslum, sem nefnist Virkið og var notað til þess að hleypa til í um fengitímann. Virkið er vel gróið og við norðurenda þess, þar sem gengið er niður í jarðfallið, eru hleðslur með brún þess.

Virkishólar

Virkið í Virkishólum.

Austur af Virkishólum eru Grænudalir, sem sumar heimildir kalla Grendali. Dalirnir eru djúpir kjarr- og grasbollar í klettásum, en slíkt landslag er einkennandi fyrir Hvassahraunslandið. Á einum hraunhólnum er varða, sem heitir Grænadalsvarða og við þennan hól sunnanverðan er fjárskjól með hleðslum, sem heitir Grænudalahellir eða Loftskúti. Op þess snýr í suðurátt. Sumir segja að menn frá Hvassahrauni hafi geymt rjúpur sínar í skútanum er þeir voru við veiðar uppi í hrauninu að vetrarlagi.

Hvassahraun

Smalaskáli.

Loks var gengið til vesturs norðan línuvegarins að svonefndum Bláberjakletti. Þetta er fallegur strýtumyndaður klapparhóll, en í kringum hann eru gras- og lynglautir, sem eiga að hafa gefið af sér ófá bláberin. Hóllinn er klofinn eftir endilöngu í skeifu og hægt að ganga í gegnum klofann. Að sunnanverðu er hóllinn bogadreginn og bak hans nokkuð slétt.
Ofar er Smalaskáli með fallegu fjárskjóli og sunnan hans er Öskjuholt, einnig með fallegu fjárskjóli.
Gengið var norður að Virkishólum og að upphafsstað. Hraunið þarna er mjög auðvelt yfirverðar, nokkuð slétt þótt mishæðótt sé með fallegum jarðföllum og vel gróið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Fjárskjól

Fjárskjól í Öskjuholti.

Sandgerðisfjara
Fyrr á öldum varð fólk úti milli bæja á Miðnesi og Miðnesheiði.
Fræg er sagan af Runólfi Runólfssyni húsmanni úr Klapparkoti er í þá tíð nefndist Kólga. Hann varð úti milli Landakots í Sandgerðishverfi og Flankastaðirheimilis síns í Flankastaðahverfi aðfaranótt 17. október 1879. Hafði Runólfur komið að Landakoti skömmu fyrir hátt á heimleið úr Keflavík. Hafði hann skamma viðdvöl en hélt heimleiðis um ellefuleytið, allkenndur af víni er hann hafði meðferðis. Þótt skömm væri leiðin auðnaðist Runólfi ekki að rata hana í náttmyrkri og stormi. Af honum fannst hvorki tangur né tetur um nokkra hríð. En um jólaleytið fóru bein Runólfs að reka upp undan Flankastöðum. Að sögn sr. Sigurðar B, Sívertsen “voru öll bein slitin í sundur og allt hold af þeim”. Á kreik komust þjóðsögur syðra um að Írafellsmóri, sá víðförli ári, hefði grandað Runólfi eða þá illvígt sæskrýmsli.
Haukur Ólafsson, FERLIRsfélagi vakti nýlega athygli á eftirfarandi:
Hafsteinn„Mig langar að vekja athygli á annarri frásögn um Runólf Runólfsson, Runka, sem var einn helsti milliliður Hafsteins Björnssonar, miðils, við annan heim.“
Hafsteinn Björnsson er talinn vera einn stórkostlegasti og öruggasti sannanamiðill sem Ísland hefur alið. Hann fæddist að Syðri-Höfdölum í Viðvíkursveit í Skagafjarðarsýslu 30. október 1914. Skyggni gekk í móðurætt Hafsteins og fékk hann því góðann stuðning í æsku. Hann var ekki skammaður fyrir lygar og ósannsögli eins og margir skyggnir einstaklingar í æsku. Móðir hans var skyggn og berdreyminn og hún hjálpaði honum mikið til í þessum málum. Hafsteinn sá bæði framliðna og huldufólk í æsku og eitt sumarið þegar hann var milli fimm og sex ára, þá var hann við leik úti og sér þá litla stúlku á aldur við hann sjálfan standa við horn eins kofa. Stúlkan bað hann um að fylgja sér og þau löbbuðu saman út og fyrir ofan bæinn að allháum hól sem heitir Mikligarður. Þegar Hafsteinn kemur þangað þá sér hann ekki hólinn, heldur birtist honum lítill bær og utan við bæjardyrnar sat um það bil þriggja ára gamall drengur, en hann var bróðir litlu stúlkunnar. Þau fóru öll að leika saman og fundir þeirra endurtókust hvað eftir annað.

Glaumbær

Þau urðu náin leiksystkini um sumarið og alveg uppfrá því eða þangað til að Hafsteinn flutti frá bænum Hátúni. Hann fór margoft innum huldubæinn og alla leið inn í eldhús þar sem að hann þáði flóaða sauðamjólk frá huldukonunni, móður barnanna. Hafsteinn sá þessa konu oft koma heim úr fjarveru frá heimili sínu. Hún kom alltaf úr sömu átt, ofan úr Sæmundarhlíð og bar alltaf bagga á bakinu. Seinna komst Hafsteinn að því að sú var trú manna að miklar huldufólksbyggðir væru efst og syðst í Sæmundarhlíðinni.
Á unglingsárum veiktist Hafsteinn og lá lengi á sjúkrahúsi, eftir þetta þoldi hann illa erfiðisvinnu. Hann flutti til Reykjavíkur og starfaði meðal annars sem afgreiðslumaður í búð. Oft á tíðum kom það fyrir að Hafsteinn reyndi að afgreiða fólk sem samstarfsmenn hans sáu ekki. Árið 1937 hlotnaðist Hafsteini starf sem lyftuvörður í Landsímahúsinu við Austurvöll. Á þessum tíma var skyggni hans ótamin og hann átti í miklum erfiðleikum með að greina hverjir voru lifandi eða liðnir. Hann heilsaði til dæmis oft fólki sem enginn annar sá nema hann einn.
ÚtskálakirkjaHafsteinn var varð mjög skyggn og flutti oft skilaboð að skyggnilýsingum loknum. Hann starfaði í 40 ár og var einn virtasti miðill sem hér hefur starfað. Hann hélt margoft fámenna fundi sem fjöldafundi og hann kom með ótrúlegustu skilaboð og smáatriði sem hann hefði ekki með nokkru móti getað vitað og er óhætt að segja að enginn hafi komið svikinn af fundum með Hafsteini.
Hafsteinn féll niður örendur við heyvinnu þann 15. ágúst 1977.
Frásögnina af Runka er að finna í bókinni Miðillinn, Hafsteinn Björnsson, eftir Elínborgu Lárusdóttur.  Frásögnin er mun lengri en í bókinni segir m.a.: „Jæja, það er best að ég segi þá, hver ég er. Ég heiti Runólfur Runólfsson og var ég 52 ára, er ég lést. Ég bjó með kellu minni í Kólgu eða Klapparkoti hjá Sandgerði. Var ég á ferð frá Keflavík seinni hluta dags og var fullur. Ég kom við hjá Sveinbirni Þórðarsyni í Sandgerði. Þar þáði ég góðgerðir. Þegar ég ætlaði að fara, fannst þeim veðrið svo vont, að þeir vildu láta fylgja mér heim til mín.

Lærleggur

Þá varð ég vondur og sagðist ekkert fara, ef ég fengi ekki að fara einn. Heim til mín var ekki nema 15 mínútna gangur, eða tæplega það. Fór ég svo, en ég var blautur og illa á mig kominn. Gekk ég inn Kambinn, sem kallaður er. Þegar ég var kominn yfir Kambinn, settist ég undir klett, sem kallaður er Flankastaðaklettur, en hann er nú næstum horfinn. Þar tek ég upp flöskuna og sýp drjúgum á. Svo sofna ég. Flóðið kemur, mig tekur út. Þetta er í október 1879. Finnst ég ekki fyrr en í janúar 1880. Rak mig þá upp, en þá komust hundar og hrafnar í mig og tættu mig sundur. Leifarnar af mér fundust og voru grafnar í Útskálakirkjugarði. En þá vantaði lærlegginn. Hann tók út aftur, en rak svo síðar upp í Sandgerði, og þar hefir hann verið að þvælast síðan, og nú er hann hjá Lúðvík.
Þeir spyrja nú, Lúðvík og Niels, hvar þeir geti fundið sönnun þess, að hann sé sá, sem hann segist vera.
Hann svarar; í kirkjubókum Útskálakirkju.
Nú er farið að grennslast um þetta. Þeir finna nafn hans þar, sem hann hefir vísað á, og stendur heima hvað ártal áhrærir og aldur hans. En nú er eftir að finna legginn.“
Í framhaldinu segir svo af leitinni að leggnum, sem fannst að lokum milli þilja í húsí í Sandgerði eftir spennandi leit og var jarðaður með pomp og prakt í Útskálakirkju 1940, eða um 60 árum eftir lát Runólfs.“
Fróðleg og bráðskemmtileg frásögn er felur í sér sönnun um líf eftir þetta líf! 
Heimildir m.a.:
-Elínborg Lárusdóttir, Miðillinn, Hafsteinn Björnsson
-www.hugi.is

Sandgerðisfjara

Orkuverið Jörð

Eftirfarandi upplýsingar birtust í Fréttablaðinu árið 2009 undir fyrirsögninni „Sólkerfi á Reykjanesi“.
orka-3„Unnið er að því hörðum höndum að setja upp pláneturatleik um Reykjanesið í tengslum við sýninguna Orkuverið Jörð. „Stöplarnir fyrir pláneturnar eru komnir upp, en það á eftir að setja pláneturnar á þá,“ segir Róbert Kjartansson, sýningarstjóri Orkuversins Jarðar, í tengslum við svokallaðan pláneturatleik sem verið er að setja upp. Eftirlíkingu af plánetunum verður dreift um Reykjanes. Sólin er staðsett fyrir utan stöðvarhús Reykjanesvirkjunar og verða aðrar plánetur í hlutfallslega réttri fjarlægð frá sólinni. „Hægt verður að keyra á milli plánetanna en hugmyndin er sú að stilla reikistjörnunum upp svo að hægt verði að fylgja þeim inn í Reykjanesbæ.
Ég geri ráð fyrir orka-10því að þær verði allar komnar upp í sumar.“ Ratleikurinn er settur upp í tengslum við sýninguna Orkuverið Jörð sem er í stöðvarhúsi Reykjanesvirkjunar. „Sýningin fjallar um orku. Það má segja að henni sé skipt upp í fjóra hluta og er byrjað á kenningunni um Miklahvell. Þá er farið yfir í reikistjörnurnar í sólkerfinu og þeim öllum stillt upp í réttum stærðarhlutföllum. Næsti hluti er saga mannsins og orkunnar saman, allt frá því að við virkjum eldinn og fram á okkar daga. Svo er það orkunotkunin í heiminum. Þar er farið yfir það hvaðan við fáum orkuna, hvort sem það er úr jarðefnaeldsneyti, fallvötnum eða jarðvarma. Síðasti hluti sýningarinnar er virkjunin sjálf og orkuframleiðslan,“ útskýrir Róbert.
Þegar Róbert er spurður hvers vegna ákveðið hafi verið að orka-4ráðast í þetta verkefni segir hann að í rauninni hafi tækifærið bankað upp á. „Það komu hingað tveir herramenn, þeir Simon Hill frá Bretlandi og Björn Björnsson frá List og sögu, með þá hugmynd að setja upp þessa sýningu og þá var miðað við orkutengda ferðaþjónustu. Hugmyndin var að setja upp þessa sýningu við hliðina á orkuverinu sjálfu,“ segir Róbert og bætir við að hægt sé að sjá inn í orkuverið frá sýningunni því einn veggur þess sé gerður úr gleri.

Orka er líf
orka-5Inngangur sýningarinnar leiðir okkur í gegnum kenninguna um upphaf alheimsins með Miklahvell. Fyrir um 13,7 milljörðum ára var alheimurinn ekki stærri en greipaldin en sprakk svo út á ógnarhraða; slíkum ógnarhraða að ljósið sem fer með um 300.000 km hraða á sekúndu, ferðast ekki eina blýantslengd á þeim tíma. Ljósið fer 7 ½ hring um jörðina á einni sekúndu.
Þegar við höfum hafið ferð okkar með látum í Miklahvell leiðir Albert Einstein okkur inn í sýninguna. En hann var einn af þeim frumkvöðlum sem kom okkur í skilning um lögmál alheimsins. Vitanlega stóð hann á herðum risanna eins og Newton orðaði það sjálfur; Pýþagóras lagði fram kúlulaga jörð og reikistjörnur sem ferðuðust í hringi umhverfis mikinn eld. Aristóteles teiknaði upp heimsmynd með jörðina í miðju alheimsins og Aristarkos staðsetti allar sýnilegar reikistjörnur í réttri röð í sólkerfinu.
Kópernikus setti sólina miðju í staðinn fyrir jörðina („himnarnir snúast ekki, við orka-6gerum það“) og Johannes Kepler nýtti sér stærðfræðina og reiknaði út að kenningarnar áttu samleið með útreikningum.
Galileo Galilei horfði í gegnum sinn stjörnukíki og sannaði með sínum eigin augum. Newton setti fram þyngdarlögmálið sem heldur öllu saman og lagði stærðfræðilegan grunn með bók sinni Principia. Einstein setti fram afstæðiskenninguna, útvíkkun alheimsins, svartholin, hvítholin og raðaði öllu saman. Georges Lemaître steig fram og alheimurinn fæddist og síðan kom Hubbel og sá hann allan á einni nóttu.
Eftir að gestir hafa farið í gegnum sköpun alheimsins liggur leiðin inn í fyrsta hluta safnsins í gegnum vetrarbrautina okkar og inn í sólkerfið sem við tilheyrum. Sýningin skiptist í 4 hluta og eru þeir aðgreindir með veggjum sem líkja eftir hverfilblöðum:

Sólkerfið okkar
orka-7Stjörnufræðingar hafa varpað því fram að jörðin sé eins og eitt sandkorn á öllum ströndum jarðar í samræmi við stærð alheimsins. Þannig að smæð okkar sólkerfis er gríðarleg í samanburði við þær kenningar sem leiða líkur að því að 100.000 – 200.000 milljón sólir séu í vetrarbraut okkar (Milky Way). Gagnvirkur skjár leiðir gesti í gegnum allar reikistjörnurnar í okkar sólkerfi og sérstök líkön sýna hverja plánetu fyrir sig. Þú getur kynnst því hversu heitt er á Merkúr og hvað Júpiter hefur mörg tungl og allt þar á milli.

Maðurinn og orkan
orka-8Hvernig maðurinn hefur virkjað orkuna sér til framdráttar er kjarninn í þessum sýningarhluta. Hér getur að líta hvernig tækniþróunin er alltaf að verða hraðari og hraðari eftir því sem tíminn líður.
Gagnvirkur skjár gefur gestum tækifæri á að kynna sér helstu uppgötvanir ásamt því að sérstakur sýningargripur sýnir hvernig orkan breytist úr einu formi yfir í annað; snigill Arkimedesar breytir hreyfiorku mannsins í fallorku, þaðan í vindorku sem loks hellir upp á.

Mismunandi orkugjafar
Í þessum hluta safnsins kynnast sýningargestir mismunandi orkugjöfum og því hvernig maðurinn nýtir sér orkuna til að knýja daglegt líf. Sólarorka, vindorka, kjarnorka, vetni, etanól, jarðefnaeldsneyti (kol, olía, gas). Nánast öll staðbundinn orka á Íslandi kemur frá umhverfis-vænum orkugjöfum (vatnsfallsvirkjunum eða jarðvarmavirkjunum).
Því er öðruvísi farið í flestum öðrum löndum þessa heims. T.d. kemur yfir 90% af allri raforkuframleiðslu bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum frá jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.

Virkjun jarðvarma á Íslandi
orka-9Í síðasta hluta sýningarinnar er greint frá því á hvern hátt HS Orka virkjar jarðvarma á Reykjanesi. Glerveggur gefur gestum tækifæri á að sjá inn í vélasal virkjunarinnar þar sem tveir gufuhverflar framleiða hvor um sig 50 megavött af rafafli. Sú orka nægir til að knýja Reykjavíkurborg á góðum sumardegi. Hver hverfill um sig kostar 3 milljarða og eru það dýrustu og afkastamestu sýningargripirnir. Jarðskjálftahermi er að finna í þessum sýningarhluta.

Allir, sem leið eiga út á Reykjanes, ættu að koma við í Orkuverinu Jörð með það fyrir augum að skoða og fræðast um það sem sýningin hefur upp á að bjóða.

Heimild:
-Fréttablaðið 10. júní 2009, bls. 26.
-www.hsorka.is/kynningarefni.

Reykjanesvirkjun

Í Reykjanesvirkjun.

Kapelluhraun

Gengið var frá íþróttahúsinu á Ásvöllum yfir að Rauðhól, síðan um Hellnahraunin yfir að Kapelluhrauni og hraunið skoðað milli iðnaðarsvæðisins og gasstöðvar Álversins. Þar er lægð í hrauninu, sléttari en umhverfið og ef vel er að gáð má sjá þar mannvistarleifar á nokkrum stöðum.

Rauðhóll

Rauðhóll – uppdráttur GK.

Rauðhóll er, eða öllu heldur var, sunnan undir Hvaleyrarholti. Þar stóð áður lítill hóll, úr rauðu hraungjalli og með grunna gígskál. Líklega var hér um gervigíg að ræða en þeir myndast þegar hraun rennur yfir votlendi og það tekur í sig gufuna, tætist í sundur og verður að gjalli og rauðamöl. Á tímabili var tekið mikið af rauðamöl úr honum í vegi. Síðan var gryfjan notuð sem sorphaugar. Núna er lítið eða ekkert eftir af honum. Í stað hans er malargryfjan, en í miðjunni hefur verið skilinn eftir smá stabbi. Ferðamenn á leið um Reykjanesbrautina sjá nú þessa óhrjálegu gryfju í stað hins formfagra Rauðhóls. Bergið í hólleifunum var fremur fínkornótt með plagióklasdílum og örsmáir ólivíndílar komu fyrir en sáust varla með berum augum.

Rauðhóll

Rauðhóll við Hafnarfjörð – uppdráttur GK.

Varðandi aldur Rauðhóls er ekki hægt að segja nákvæmlega en hann hlýtur að vera eldri en hraunið sem hefur runnið upp að honum sem er Hellnahraun yngra og talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Rauðhóll hafði að geyma merkilegar jarðsöguheimildir. Dýpst í malargryfjunni var svokölluð barnamold sem var allt að ½ metri að þykkt. Moldin er mjúk, þjál og ljósgulbrún að lit meðan hún var vot, en varð stökkari viðkomu og snjóhvít við þurrk. Ef hún var sett undir smásjá kom í ljós að hún var næstum því eingöngu úr örsmáum kísilþörungaskeljum.

Rannsóknir hafa sýnt að þarna hafi verið tjörn áður en hóllinn varð til. Næst kom fínn sandur morandi af skeljum og skeljabrotum af sjódýrum. Skeljar finnast þarna vegna þess að hraunið sem gígurinn er í hefur runnið yfir setlög á strönd.

Rauðhóll

Rauðhóll í dag.

Á eftir skeljasandinum lá frekar þunnt lag af fínni brúnni sandhellu sem var miklu fastari í sér og þar voru engar skeljar að finna.
Þegar gengið er yfir nokkuð slétt Hellnahraunið er ljóst að þar er ekki einungis um eitt hraun að ræða.
Hellnahraun eldra (Skúlatúnshraun) er slétt helluhraun og er talið hafa runnið fyrir 2000 árum. Það kom úr Brennisteinsfjallakerfinu, líklega frá Stórabolla í Grindaskörðum og stíflaði meðal annars Hvaleyrarvatn. Hraunið myndar ströndina milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts.
Hellnahraun yngra kemur eins og Hellnahraunið eldra úr Brennisteinsfjallakerfinu og er talið hafa runnið fyrir 1000 árum. Hraunið kom frá Tvíbollum í Grindaskörðum og er sléttara og þynnra. Nýja Haukahúsið stendur á þessu hrauni. Þetta hraun hefur valdið því að Ástjörnin varð til.

Leynir

Skjól í Leyni.

Þess má geta að Kristintökuhraunið er frá sama tíma og sömu hrinu og á því 1000 ára afmæli einmitt þetta ár, en haldið verður upp á 1000 ára afmæli kristintökunnar núna í sumar.
Hraunið sem Álverið við Straumsvík stendur á heitir Kapelluhraun eða Nýjahraun og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151. Hraunið er komið úr stuttri gígaröð er opnaðist undir Undirhlíðum. Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Á og utan í lágum hraunhólum inni í hrauninu er mannvistarleifar á nokkrum stöðum, s.s. hlaðið byrgi á hraunhól, hlaðið skjól í hraunklofa og annað utan í hraunvegg. Minjar þessar eru skammt ofan við gömlu Alfaraleiðina milli Hafnarfjarðar og Útnesja.

Kapella

Kapellan 2022.

Í hrauninu ofan við álverið er hlaðin rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan. Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn kapellu á nálægum slóðum og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna,verkfræðinga og jarðfræðinga. Einhverra hluta vegna er þessi rúst á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu, en hún er í raun líka eftirlíking af hinni fornu kapellu, sem var eyðilögð þegar hraunið var fjarlægt á sínum tíma.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/RAUDHOLL.HTM

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Þórkötlustaðarétt

Núverandi Þórkötlustaðarétt í Þórkötlustaðahverfi var hlaðin af Grindavíkurbændum um aldamótin 1900. Grjótið var að að einhverju leyti tekið úr Vatnsheiðinni, auk þess sem kom upp úr túnsléttun í hverfinu og úr hraunhellunni umhverfis réttina. Hún var síðan endurbætt skömmu fyrir árið 2000. Réttin hefur ávallt þótt góð til síns brúks.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt – loftmynd 1954.

Fyrrum var fé Grindvíkinga vel á fjórða þúsund á vetrarfóðrum. Féð af fjalli fyllti safnhólfið sem og alla dilka. Urðu bændur að rýma af og til úr dilkunum svo þeir gætu dregið allt sitt fé. Þegar gerðið kom til ofan við réttina greiddist heldur úr þrengslunum.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt 1954 – uppdráttur ÓSÁ.

Áður var lögréttin í Krýsuvík, suðvestur undan Arnarfelli (Arnarfellsréttin). Hætt var að nota hana um 1950. Þangað til varð að reka úrdrátt frá Þórkötlustaðarétt upp í Krýsuvík og var afgangsféð selt þar.

Réttin suðaustan við Bæjarfellið var vorrétt. Þá voru rúningsréttir t.d. á Vigdísarvöllum og í Stóra-Hamradal, sem enn sjást leifar af.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í Borgarhraunsrétt var réttað frá því fyrir aldamótin 1800.

Sigurður Gíslason á Hrauni í Grindavík lýsti smalamennskum í Grindavíkurhreppi (10. nóvember 2004):
„Eftir að seljabúskap lauk voru lagðir til 20 menn í vorsmalamennsku í Krýsuvík, sem tók minnst þrjá daga og allt upp í viku. Fyrst hafi verið smalað á Vigdísarvöllum, Selsvalla- og Sveiflubergshálsar og Selsvellir teknir með frá Núpshlíðarhálsi, Dyngjurnar, Höskuldarvellir inn á Norðlingaháls þegar Höskuldarvellir voru með í smölun. Oft hafi komið tveir til þrír menn af Ströndinni (þ. e. Vatnsleysuströnd). Daginn eftir, ef vel hafði gengið, voru tjöldin flutt vestur yfir Selsvallaháls, menn dreift sér í smölun frá Sogum vestur með Drif<f>felli, sunnan undir Keili, farið um Hemphól, vestasti maður farið fram Dalahraun og Beinavörðuhraun, þaðan um Bleikshól og þaðan austur að Borgarrétt. Í suður frá Sogum verið farið fram fyrir Hraunssel, syðsti maður sunnan við Méltunnuklif og Skála-Mælifell og réttað í Borgarhraunsrétt.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt 2020 – uppdráttur ÓSÁ.

Haustsmölun hafi verið í 22. viku sumars. Á laugardegi var smalað í Krýsuvík og féð rekið til Þorkötlustaðaréttar á sunnudegi en þann dag smalað Hraunsland frá Selsvallahálsi og Ísólfsskála- og Þorkötlustaðalönd. Fjórir menn hafi farið að vestan um Skógfellin og Kálffellsheiði, innsti maður farið inn á Hemphól og beðið eftir þeim, sem komu að austan. Tuttugu manna hópur fór ríðandi inn Selsvelli, inn í Sog, í Kerið, þá riðið inn með Trölladyngju, þar var skipt. Fimm menn látnir smala Dyngjurnar, austasti maður fór fyrir austan Fíflavallafjall og gat þurft að fara austur að Hofmannaflöt ef fé sást þar. Aðrir fóru vestur yfir Oddafell að Keili og vestasti maður hitti þann, sem beið við Hemphól. Þaðan var haldið suður um Kálffell, Aura, Dalahraun og Beinavarðahraun [í lýsingunni er ýmist talað um Beinavörðu- eða Beinavarðahraun] fram Vatnsheiði til réttar. Austasti maður fór um Óbrennuhólma og þaðan um Miðreka og út um Selatanga, Mölvík til Ísólfsskála og áfram til réttar. Fé hafi verið smalað til rúnings fram til ársins 1991 og menn haft stóð á fjalli, Ísólfsskálabóndi fram til 1990.“

Þórkötlustaðarrétt

Gamla Þórkötlustaðarréttin við Efra-Land.

Áður en Þórkötlustaðaréttin kom til réttuðu Þórkötlustaðabændur þar sem nú er grjótgarður vestast innan girðingar Efra-Lands, þ.e. þar í norðvesturhorninu, sem nú er. Þar var Gamla réttin. Í henni var enginn dilkur, einungis gerði. Sjá má leifar hennar ef vel er að gáð. Réttin var mun stærri en ætla mætti, en grjót var tekið úr henni og notað í garðana, sem sjá má ofan við Efra-Land.”

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – skálasvæðið.

Hafur-Björn Molda-Gnúpsson er sagður, ef marka má þjóðsöguna, hafa átt gnægð fjár, enda “efnaðist hann mjög af fé” eftir draumfarirnar með landvættinum og tilkomu geithafursins í hjörð hans (þess vegna er allt fé Grindvíkinga öðruvísi en annað fé landsmanna), og bræður hans fiskuðu aldrei sem fyrr. Auðguðust þeir bræður bæði af gæðum lands og sjávar.
Ekki þarf að leita að fjárrétt Hafur-Björns og bræðra því annað hvort hafa þeir ekki þurft að rétta eða sú rétt gæti löngu verið komin undir hraun því ekki eru ófá hraunin við Grindavík, sem runnið hafa eftir að ætt Molda-Gnúps bjó þar eftir árið 934. Fyrstu heimildir um byggð í Þórkötlustaðahverfi er um miðja 13. öld, en þá höfðu hraunin ofan núverandi byggðar runnið og kólnað að mestu. Við norðvesturhúshornið á núverandi Þórkötlustöðum (Miðbæjar) eru tóftir fornaldarskála að mati Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi (skrifað 1903). Hann skyldi þó aldrei vera eldri, og það jafnvel mun eldri, en gosið ofan við Grindavík árið 1226. Minjarnar, ef vel er að gáð og ef tilgáta Brynjúlfs er rétt, gætu þess vegna verið frá upphafi landnáms í Grindavík.

Samantekt; ÓSÁ fyrir ferlir.is

Heimild m.a.:
-Úrskurður Óbyggðanefndar – mál nr. 1/2004; Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Þórkötlustaðarétt

Þórkötlustaðarétt.

Áni

Gengið var frá Selvogsréttunum austan við Hlíðarvatn og upp í Selbrekkur neðst í svonefndu Rofi. Þar voru skoðaðar tóftir Vogsósasel við Stekkjardældir, sem sumir hafa álitið vera Hlíðarsel. Tóftirnar eru innan marka Vogsósa. Þórarinn, bóndi, staðfesti að um sel frá þeim bæ væri að ræða.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Gengið var áfram austur Rofið og stefnan tekin á einn af stærstu hraunhólunum í heiðinni, með stefnu á Katlabrekkur. Þar undir vestanverðum hólnum er Hlíðarborgin. Hún hefur verið allnokkurt mannvirki, en verið breytt síðar því inni í henni er hlaðið hús eða stekkur. Hvorutveggja gæti hafa tengst athöfnum í Hlíðarseli, sem er þarna skammt frá. Selið er í nokkurra mínútna fjarlægð til suðausturs, utan í og á grónum hól. Þar eru talsverðar rústir, sem rissa þarf upp við tækifæri. Austan við tóftirnar er nafngreind fjárborg.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var til norðurs inn á svonefnda Hlíðargötu, er liggur frá Suðurfaravegi (Selvogsgötu) þar sem hann kemur niður úr Strandardal áleiðis að Strönd í Selvogi, og henni fylgt til vesturs, áleiðis að tóftum bæjarins Hlíðar. Við götuna er fjárborg undir Borgarskörðum og tvær tóftir skammt vestar. Op hellisins Ána birtist á vinstri hönd.
Þegar komið er að Hlíð ofan við Hlíðarvatn verða fyrst fyrir tóftir norðan þjóðvegarins. Þar móta fyrir húsum og görðum. Sunnan þjóðvegarins eru bæjartóftir og skammt vestar með vatninu eru tóftir útihúsa og garðar.
Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú í bráðum 80 ár. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn, en talið er að elsti bæjarhlutinn hafi verið við tanga, sem nú stendur út í vatnið þar fyrir neðan. Þegar hækkaði í vatninu fóru þær rústir í kaf.

Borgarskarðsborg

Borgarskarðsborg.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá bókinni í álfheimum. Í henni segir frá komu skips á Eyrarbakka; var þar á skipherra er leit út fyrir að vera þar eigi allur er hann var séður. Stýrimaður tók Jón nokkurn með sér út í skipið eftir nokkrun aðdraganda og leggur hann þá Jóni á herðar að sækja bók sem væri sama í og þeirri er hann ætti, en bókinni lauk hann upp sem snarast hann kunni og lét strax aftur. Fekk Jón eigi annað að sjá og fer með það. Ræður faðir hans honum að finna Eirík prest á Vogsósum.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Eiríkur spyr hann að: „Hvað er þér á höndum ljúfurinn minn?“ Jón segir honum málavöxtu alla. Eiríkur prestur spyr hann hvort hann muni eftir nokkru letri er á henni var eða geti myndað stafi eftir þeim er í henni voru. Jón kveðst það mundi kunna, og er prestur sér stafina mælti hann: „Það hefur verið sú hin versta galdrabók sem til er og mun þér þungt veita að ná henni, en þú verður hérna í nótt.“
Að morgni fær prestur honum bréf og segir honum að ganga beint á Svörtubjörg er standa spölkorn fyrir norðan Hlíð, bóndabýli í Selvogi; muni hann svo um sjá að hann hitti þar kotbæ; skuli hann þar heim ganga og fá bónda bréfið. Jón gerir sem prestur býður honum; kemur hann að bænum og hittir þar konu aldraða og stúlku; aldraðan mann sér hann þar og, og fær Jón honum bréfið. Kall biður hann inn ganga. Er hann hafði lesið bréfið sagði hann: „Sízt hugða eg að Eiríkur prestur vildi mig feigan. Þó skaltu dvelja hér í vetur, en ég mun eigi heima verða, og máttu mig feigan telja verði ég ei kominn á enn fyrsta sumardag.“

Hlíðarkot

Tóft ofan Hlíðar.

Líkar Jóni þar vel og koma þau bóndadóttur sér vel saman. Á sumardagsmorguninn fyrsta kom karl. Fekk hann Jóni bókina og bréf með til Eiríks prests. Kvaðst hann þann vetur í þyngstar þrautir komið hafa; hefðu þrjár álfkonur geymt bókina í undirheimum og haft að leik að henda henni milli brjósta sinna. Segir hann honum og að dóttir sín sé eigi heilbrigð og muni það vera af hans völdum. Sagðist hann vilja að hann kæmi til sín alfarinn er hann hefði bókinni skilað.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Játaði Jón því og heldur síðan niður að Vogsósum. Fær hann Eiríki presti bréf kalls og bókina. Verður Eiríkur honum feginn og segir hann Jóni að hann hafi hjá álfafólki dvalið þann vetur. Segir hann Jóni að henda bókinni í brjóst stýrimanni er hann komi í land af skipinu.
Síðan heldur Jón austur á Eyrarbakka og bíður þess að skipið kemur; og er stýrimaður rær í land bát sínum rær Jón á móti honum og sendir bókinni á brjóst honum svo stýrimaður fellur aftur á bak í sjóinn og varð eigi bjargað. En með styrk Eiríks prests kemur bókin aftur í höndur Jóni og gefur hann hana Eiríki presti og heldur síðan til kallsins og hefur eigi síðan af honum spurzt.
Segir önnur saga frá því að Eiríkur hafi komið þessari miklu galdrabók, sem síðar var nefnd Gullskinna, fyrir í Kálfgili við Urðarfell ofan við Svörtubjörg. Þess er og getið að í bókinni sé getið um upphaf byggðar á Íslandi og að sú lýsing sé önnur ern segir frá í síðari tíma skrifum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Rauðhólssel

Gengið var frá Höskuldarvallavegi, til suðurs með gígum og yfir að Rauðhól, að Rauðhólsseli. Að því búnu var gengið um norðanverðan Þráinsskjól að Þórustaðastíg og skoðuð ummerki í heiðinni norðan Keilis.

Rauðhólssel

Rauðhólssel – uppdráttur.

Eins og svo víða á Reykjanesskaganum hafa sammsýnir menn dundað við að krafla utan af fallegum hraungígum og eldvörpum. Þannig hefur smám saman verið grafið utan af fallegum mosavöxnum hraunhól stutt sunnan við veginn upp að Höskuldarvöllum. Stígur liggur með austanverðum hólnum, áleiðis yfir að Rauðhól. Norðvestan við hólinn, undir hraunbakka Þráinsskjaldarhrauns, eru tóftir Rauðhólssels. Minni-Vatnsleysa hafði selstöðu undir Oddafelli, en þangað var bæði langt og erfitt að sækja. Stóra-Vatnsleysa hafði hins vegar í seli undir Rauðhól þar sem heitir Rauðhólssel. Þar voru hagar sæmilegir, en stórt mein af vatnsleysi.

Rauðhólssel

Rauðhólssel – Rauðhóll.

Gengið var upp með Rauðhól, ofan hraunskila, en nýrra hraun hefur runnið að því eldra að austanverðu. Stíg var fylgt áleiðis að Keili, en þegar komið var á Þórustaðastíg var honum fylgt áleiðis niður heiðina.
Þráinsskjöldur er stór hraunbunga norðaustan af Fagradalsfjalls. Litlar minjar eldsumbrota eru í hvirfli hennar, en geysimikil hraun hafa runnið til suðurs, vesturs og þó miklu mest til norðurs. Hraunið rann kringum Keili og Keilisbörn og færði Litla Keili næstum í kaf. Þessar hraunbreiður heita einu nafni Þráinsskjaldarhraun og ná austan frá Vatnsleysuvík vestur að Vogastapa. Þannig stendur öll byggð í Vogum og Vatnsleysuströnd í þessu hrauni.

Kolhóll

Stóri-Kolhóll.

Talið er að Þráinsskjaldarhraun hafi runnið fyrir um 9000 árum. Þráinsskjöldur er einna mikilvirkasta eldstöðin á öllum Reykjanesskaga.
Gengið var vestur fyrir Keili og skoðuð gömul gata, sem þar liggur á ská upp heiðina. Gatan liggur austur með sunnanverðu fjallinu, en þegar komið er vestar niður í heiðina virðist gatan hverfa í gróðureyðinguna.
Skammt norðar var Kolhóll sem og Stóri-Kolhóll. Gengið var að honum og síðan beygt var frá honum til norðurs og gengið yfir hraunið að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Prestastígur

Ólafur Sigurgeirsson skrifaði á mbl.is. árið 1999 stutta grein; „Gengið um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur„.

Ketill Ketilsson

Ketill Ketilsson í Höfnum.

„Gengið verður um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Hafnir voru fyrr á öldum, segir Ólafur Sigurgeirsson, blómlegur útgerðarstaður. FÍ efnir á sunnudaginn, 18. apríl, til gönguferðar um gömlu þjóðleiðina milli Hafna og Grindavíkur. Þegar leiðin er farin úr Höfnum liggur hún frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru- Sandvík, þaðan hjá Haugum og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar og fylgir gatan þar hraunjaðri Eldvarpahraunsins. Þar verður á vegi okkar nýlegur vegarslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðarans mikla. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá að Húsatóftum í Staðarhverfi. Öll þessi leið er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir, víða sést hvar umferðin hefir markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefir verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi, þar hafa skreiðarlestir verið á ferð.

Prestastígur

Prestastígur.

Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þar um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á sautjándu og átjándu öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað, sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipsskaða sem urðu þar á fyrri hluta sautjándu aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð, á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur, en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785. Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils Ketilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip, á árunum 1870­1880, og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma, hann byggði steinkirkju þá á Hvalsnesi sem enn stendur, en Ketill átti meðal annars alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík. Landkostum hefur á síðari öldum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar sem snemma fóru í eyði, en Haugsendar voru á milli Kirkjuvogs og Merkiness, voru tún þar mikil, vegleg húsaskipan og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi: Á Haugsendum er húsavist sem höldar lofa. Þar hefur margur glaður gist, og gleymt að sofa. Ég hefi stundum heyrt þessa fornu þjóðleið nefnda Prestastíg en hvergi hefi ég fundið það nafn í þeim bókum sem ég hefi séð. Þó má geta þess að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið þar til Staðarprestsetur var lagt af 1928 og Kirkjuvogskirkja lögð til Grindavíkurprests. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast liggur upp frá Húsatóttum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá eini sem héðan farinn verður þangað.“ Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.“

Heimild:
-Mbl.is, 17. apríl 1999.

Prestastígur

Gengið um Prestastíg.

Valahnúkur

Í bókinni „Sjómannasaga“ eftir Vilhjálm Þ. Gíslason er m.a. sagt frá gamla Reykjanesvitanum: „Ein af helstu framfaramálum þessara umbrotaára fyrir aldamótin [1900], voru vita og hafnamál. Alla tíð hafði Íslandsströnd verið dimm og vitalaus, enda hafði einlægt verið reynt að haga millilandasiglingum svo, að þær lentu í langdegi og björtum nóttum.
Reykjanesvitinn 1878En vitanlega bar skip oft að landi í skammdegi og myrkri. Fiskimenn á vetrarvertíðum áttu oft harða sókn gegn hættum myrkursins. Þegar siglingar aukast og  skipaferðir með ströndum fram, vex vitanlega þörfin á því að fá ljósmerki og vita. Danska stjórnin tók fyrst þunglega óskum Íslendinga um vita. Undireins og Íslendingar fá sjálfir stjórn fjármála sinna, fara þeir að hugsa um vitabyggingar. Halldór Kr. Friðriksson og Snorri Pálsson hreifa málinu á Alþingi 1874 og Grímur Thomsen ljet þessi mál einnig til sín taka. Fyrsti vitinn var reistur á Reykjanesi, bygður af Rothe, og var fyrst kveikt á honum 1. des. 1878. Vitinn kostaði tæpar 3 þús. krónur, en ljóstækin voru gefin frá Danmörku.
Arnbjörn Ólafsson var fyrsti vitaðvörðurinn og hafði hann kynt sjer vitavörslu í Danmörku. Vitavarðarlaunin voru 900 kr. á ári, en voru brátt hækkuð upp í 1200 kr. Síðan var Jón Gunnlaugsson lengi vitavörður (1884-1902). Nýr viti var reistur á Reykjanesi 1907-08. Reykjanesviti var lengi eini viti landsins. Upp úr 1880 er farið að veita 500 til 1000 kr. á ári til þess að koma upp ljósvörðum, en ekki var framkvæmdin meiri en svo, að þessar fjárveitingar voru ekki einægt notaðar. Árið 1884 var reist ljósvarða á Garðskaga. Einstakir útgerðarmenn beittu sjer fyrir framkvæmdum eða reistu vita á sinn kostnað eins og Otto Wathne á Dalatanga. Árið 1897 voru reistir vitar á Garðskaga, í Gróttu og í skuggahverfinu í Reykjavík. Jón Helgason var lengi vitaðvörður á Garðskaga, og síðan Ísak Sigurðsson, en Þorvarður Einarsson í Gróttu.“

Heimild:
-Vilhjálmur Þ. Gíslason, Sjómannasaga, 1945, bls. 476-470.

Reykjanesviti í byrjun aldar

Litlalandssel

Genginn var slóði upp á Búrfell í Ölfusi. Þegar upp var komið var gengið inn á þjóðleiðina, sem nú er merkt sem slík um Ólafsskarðsveg vestan fellsins og honum fylgt áleiðis að Geitafelli.

Ólafsskarðsvegur

Ólafsskarðsvegur – ÓSÁ.

Í örnefnaskrá segir hins vegar að „um[Ólafsskarð] liggur Ólafsskarðsvegur, og áfram suður með Bláfjöllum, um Þúfnavelli norðan við Geitafell, niður hjá Grislingahlíð, að Litlalandi … „Ólafsskarðsleið frá Litlalandi liggur um Fagradal, Þúfnavelli, milli Fjallsins eina og Bláfjalla, um Ólafsskarð, Jósefsdal á þjóðveg neðan við Þórishamar.“ Þannig er Ólafsskarðsvegur merktur inn á gömul kort.

Hlíðarendasel er í götunni þegar þriðjungur leiðarinnar er ófarinn að Geitafelli, eða þar sem hraunbungan ber hæst, með stefnu af Búrfelli í Hrútagil (Fálkaklett).
Bærinn Hlíðarendi stendur undir Hlíðarendafjalli, í hvammi milli Ytra-Buganefs að austan og Áss að vestan.
Slóðinn upp á Búrfell er nokkuð brattur, en greiðfær. Áður en komið er að efstu brúnum fellsins var beygt út af slóðanum til vinstri og inn á sæmilega sýnilega þjóðleiðina um Ólafsskarðsveg, sem lá frá Ölfusá áleiðis til Reykjavíkur um Jósepsdal og Lyklafell. Yfirleitt eru Búrfellin, sem eru 47 talsins hér á landi, nokkuð há stapafjöll með klettum ofantil.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Þetta Búrfell er hins vegar hraungígur ofan við brún Hlíðarendafjallsins. Efst í því er gígur.
Ólafsskarðsvegurinn, sú gamla þjóðleið á milli Ölfuss og Svínahrauns, er varðaður á kafla, en sést að öðru leyti ógreinilega. Helst er að sjá hann þar sem hann hefur mikið til legið um grónar lænur.
Fagurt útsýni er suður af heiðinni, af Búrfelli, um allt til sjávar. Leiðin liggur upp í Jósefsdal um Ólafsskarð og síðan niður með Lyklafelli austan Fóelluvatna.

Litlalandssel

Litlalandssel.

Ólafsskarðsvegur er nefndur eftir samnefndum bryta í Skálholti. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.

Lyklafell

Lyklafell – varða við Austurleiðina að Kolviðarhóli fremst.

Um Lyklafell fjallar og þekkt þjóðsaga af sama meiði. Hún er um nefndan Ólaf bryta í Skálholti. Á að hafa soðið upp úr milli hans og ráðskonunnar á staðnum. Hún var ótúlegt skass og skaut honum svo skelk í bringu að hann lagði á blindan flótta, m.a. um veg þann sem síðar var nefndur eftir honum, og nam ekki staðar fyrr en við Lyklafell og kastaði þar búrlyklunum. Síðan hélt hann um Ólafsskarð upp úr Jósefsdal Ólafsskarðveg og heitir skarðið einnig eftir honum.
Þessi hluti Ólafsskarðsvegar, norðan Búrfells, er vel greinilegur og auðvelt að fylgja götunni áleiðis að Geitafelli. Þegar komið er svo til á efstu hæðina er hraunið tekur að halla að Geitafelli með stefnu í Fálkaklett er svo að segja gengið yfir tóftir í götunni.

Geitafell

Geitafell og nágrenni – kort.

Þar er Hlíðarendaselið á milli hóla. Um er að ræða tvær tóttir sitt hvoru megin götunnar og síðan er hlaðinn stekkur á hraunhól norðan þeirra. Á bak við selið að austanverðu er skúti, sem líklega hefur verið notaður sem geymslustaður. Selið lætur ekki mikið yfir sér og erfitt gæti verið að finna það ef ekki væri gatan. Litlalandsselið, sem er þarna allnokkur suðaustar, er t.d. erfitt að finna nema komið sé að því úr suðri. Sama má segja um Hlíðarendasel.
Leitað var annarra hugsanlegra minja við selið. Erfitt er að leita þarna í hrauninu, hver bollinn og hraunhæðin er upp af annarri, en skammt sunnan við Réttargjá, undir hraunhól í skjóli fyrir suðaustanáttinni, skammt ofan Götugjár, fannst hleðsla, sem gæti verið stekkur. Þar austur af heita Selvellir. Engar merkjanlegar tóftir eru þar, en vellirnir eru vel grónir.
Gatan var rölt til baka með viðkomu á gíg Búrfells. Sólin roðagyllti Geitafellið að baki og á móti lýsti sólarrönd hafflötinn.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra
-Farfuglinn (1975)
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel – uppdráttur ÓSÁ.