Geldingadalir

Í frétt RÚV þann 19. mars 2021 segir frá eldgosinu í Geldingadölum í Fagradalsfjalli:
„Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli um klukkan korter í níu föstudagskvöldið 19. mars 2021. Í fyrri hluta apríl hafa fleiri gossprungur opnast. Engin hætta steðjar að byggð vegna gossins. Fjöldi fólks hefur lagt leið sína að gosinu.“

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – staðsetning eldgoss í Geldingadölum.

Framangreint gos í Geldingadölum kom svolítið á óvart hvað staðsetninguna varðar, en nokkrum mánuðum fyrr höfðu mælst verulegir jarðskjálftar norðan og norðvestan við Grindavík (Þorbjörn). Fargradalsfjall er hins vegar norðaustan og austan við Grindavík (Þorbjörn).

Í Wikipedia er fjallað um eldgosið í Fagradalsfjalli 2021 frá upphafi til loka:

Geldingadalur

Gígur í Geldingadal eftir gosið 2021.

„Eldgos hófst við Fagradalsfjall þann 19. mars 2021 kl. 20:45 í kjölfar jarðskjálftahrinu sem stóð í meira en 3 vikur. Öflugasti skjálftinn var 5.8 stig. Gosið kom úr kvikugangi sem náði frá Keili að Fagradalsfjalli. Kvikan fann sér fyrst leið til yfirborðs í Geldingadölum við austanvert Fagradalsfjall nærri Stóra-Hrúti. Eldgosið hefur einnig verið kallað Geldingadalagos eða Geldingadalsgos (þó í raun sé örnefnið Geldingadalir). Eldgosið er flokkað sem dyngjugos en slík gos eru fátíð. Kvikan er frumstæð kemur úr 17-20 kílómetra dýpi. Tegund hraunsins er helluhraun og apalhraun. Fleiri gígar opnuðust á upphafsvikum gossins en þegar á leið einangraðist virknin við einn gíg. Hundruð þúsunda hafa skoðað gosið. Eldgosið jók virkni sína eftir því sem á leið sem er óvanalegt.Fagradalsfjall

Gígurinn nyrst í Fagradalsfjalli.

Nær 800 ár voru síðan gaus síðast á Reykjanesskaga þegar Reykjaneseldar geysuðu. Og 6000 ár eru síðan gaus í Fagradalsfjalli. Þá rann Beinavörðuhraun.

Frá 18. september hætti hraunflæði frá gígnum. Gosið stóð í um hálft ár og er 4. lengsta gosið á 20. og 21. öld.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Sprunga var metin í byrjun um 200 metrar á lengd þegar þyrla Landhelgisgæslunnar náði fyrstu myndum en síðar 500 metrar. Þann 20. mars mat svo Páll Einarsson sprunguna sem 200 metrar en ofmat var á stærð hennar. Syðri endi tungunnar var nokkra km frá Suðurstrandarvegi. Hrauntungur runnu í suðsuðvestur og vestur í Geldingadali. Geldingadalir eru lokaðir og hraunstreymið varð að fylla dalinn til að komast áleiðis.

Reykjanesskagi

Geldingadalur; eldgos 2021.

Upphafi gossins er líkt við Fimmvörðuhálsgosið. Krýsuvíkurvegi og Fagradalsvegi var lokað. Degi fyrir gosið var búið að loka Suðurstrandarvegi vegna skemmda sem urðu á veginum í kjölfar jarðskjálftahrinunnar. Mengunarviðvörun var send til Árnessýslu þar sem vindáttin liggur í austur frá gosstaðnum, í átt að Hveragerði.

Nokkurn fjölda fólks dreif að og voru sumir vanbúnir, í slæmu skyggni og þurftu björgunarsveitir að bjarga týndu og hröktu fólki. Sumir fóru fullnálægt gígnum en tilmæli voru um. 21. mars var brekka upp að gígnum lokuð. En Almannavarnir og löggæsla bentu á að hrunið gæti úr gígnum og nýjar sprungur gætu opnast. Varað var við að hættulegt gas gæti safnast saman í lægðum í stilltu veðri.

Fólk gekk frá Svartsengi þar sem Suðurstrandarvegur var lokaður vegna viðgerða sökum skjálftanna. En ákveðið var að stika leið frá Suðurstrandarvegi þar sem það var öruggara og styttri.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – jarðýtur voru mættar til að stýra hraunflæðinu.

21. mars: Hraunið var metið 0,15 ferkílómetrar (Magnús Tumi Guðmundsson).
22. mars: Almannavarnir lokuðu svæðinu við eldgosið vegna gasmengunar.
24. mars: Tveir aðalgígar gjósa og eru samvaxnir. Hraunið fyllir nánast dalinn. Ferðamenn flykkjast á staðinn.
26. mars: Allt að tíu milljónir króna framlag var ákveðið af ríkinu til að bæta aðgengi fyrir þá sem vilja skoða gosstöðvarnar.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – glóandi hraun.

27. mars: Lokað var eftir hádegi vegna versnandi veðurs. Fylgst var með ferðamönnum með tilliti til sóttkvíarbrota.
28. mars: Hraunið þekur Geldingadalina. Vegagerðin býr til bílastæði þar sem gönguleiðin við Suðurstrandarveg byrjar.
31. mars: Flúormengun mælist í regnvatni við eldstöðvarnar. Ákveðið var að hafa opið frá 6-18 og rýma kl. 22 á svæðinu um páskana. Þekja hraunsins er um 0,3 ferkílómetrar.
2. apríl: Vart varð við fyrstu gjósku gossins eða ljósleitan vikur. Nornahár fannst einnig.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – margir skemmtu sér vel við hraunjaðarinn.

5. apríl: Nýjar sprungur opnuðust, 100-200 metrar að lengd, hálfum kílómetra norðaustan við gígana sem fyrir voru. Hraunelfur tók að renna niður í Meradali. Yfir 500 manns voru á gosstöðvunum og var svæðið rýmt. Virkni gíganna í Geldingadölum minnkaði og var talið að nýju sprungurnar væru hluti af sama kvikuinnskoti.
7. apríl: Ný sprunga, um 150 metra löng, opnast á milli hinna tveggja og rennur hraun í Geldingadali.
8. apríl: Flatarmál hrauns er 0,62 ferkílómetrar samkvæmt Jarðvísindastofnun og hefur hraunflæði aukist með nýjum gígum.
10. apríl: Fjórða sprungan opnaðist milli tveggja nýjustu. Svæði var afmarkað sem hættusvæði á gosstöðvunum þar sem líklegast er að sprungur opnist.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

13. apríl: Enn fleiri sprungur eða gígar opnast og rennur hraunið í suðurátt frá þeim.
16. apríl: Hraun tekur að renna austur úr Geldingadölum. Um fjórðungur landsmanna hefur gert sér ferð að gosinu, um 90 þúsund manns.
19. apríl: Nyrsti gígurinn sem var öflugur rétt eftir páska er kulnaður. Hraunið þekur alls tæpa 0,9 ferkílómetra.
27. apríl: Flatarmál hrauns er 1,13 ferkílómetrar. Virkni mest í syðsta gígnum þar sem strókarnir ná allt að 50 metrum. Virkni í elstu samliggjandi gígunum nær engin.
4. maí: Virknin í þessum eina gíg gengur með hléum og er kröftug inn á milli. Hraun hefur þeyst meira en 200 metra í loft. Rignt hefur gjósku og eru hættur á hraunbombum. Hættusvæði var endurskilgreint.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

10. maí: Lokað var fyrir aðgengi að gosstöðvunum vegna gróðurelda og óhagstæðrar vindáttar. Hæstu strókar hafa náð um 460 metra sem er hærra en Empire State-byggingin.
11 maí: Hraunrennsli er tvöfalt öflugra en það hefur alla jafnan verið. Flatarmál er 1,8 ferkílómetrar (á við Elliðavatn) og hefur hraun fyllt Syðri-Meradal ( þó kallaður Nafnlausi dalurinn af sumum) suðaustur af gígnum.
14. maí: Hafist var handa að reisa varnargarða norður af Nátthaga til að hindra flæði hrauns niður dal í átt að Suðurstrandarvegi.
22. maí: Hraunið fór yfir eystri varnargarðanna og tók að flæða niður að Nátthaga.
1. júní: Hrauntungur ógna útsýnishólnum sem er nálægt gígnum og vestari varnargarðinum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – hraunmyndun.

4. júní: Hraunrennsli lokar fyrir Gónhól og vestari varnargarðar rofna. Stærð hraunsins er nær 3 ferkílómetrar.
10. júní: Virkni gossins hefur breyst. Í stað reglulegra gosstróka fossar stöðugt úr gígnum.
13. júní: Hrauntaumur rennur frá Geldingadölum og niður í Nátthaga og rýfur þar með gönguleið A.
18. júní: Hraun fyllir Nátthaga og nálgast haft suðvestan við hann. Hraunið nálgast Suðurstrandarveg. Ákveðið er að byggja ekki varnargarða til að vernda veginn. Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

26. júní: Varnargarður er byggður við suðvesturenda Nátthaga. Bandarískur ferðamaður týndist við gosstöðvarnar og sást síðast norður af Stóra Hrúti. Hann fannst meira en sólarhring seinna og hafði slasast og týnst. Gönguleið C meðfram Langahrygg er orðin aðalleiðin til að sjá gíginn.
7. júlí: Í byrjun júlí minnkaði virkni í gígnum og tók hann löng hlé. 7. júlí hafði verið hlé í nær 2 sólarhringa en loks sást í glóð í gígnum þó kvika ylli ekki upp úr honum.
23. júlí: Gosið hefur runnið í Meradali síðustu 3 vikur. Hraunflæði hefur minnkað og telur Magnús Tumi jarðeðlisfræðingur að gosið sé að fjara út á næstu vikum eða 2 mánuðum. Hraunið þekur 4 ferkílómetra.
16. ágúst: Nýr gígur opnast við hliðina á aðalgígnum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

5. september: Rýkur úr gígnum en sést ekki í kviku. Gosið er í næstlengsta hléi frá upphafi.
11. september: Gosið heldur áfram en gosrás gígsins hafði verið stífluð. Hraun flæðir utan í gígnum eða í göngum.
15. september: Hraun tekur að flæða niður í Nátthaga úr mismunandi áttum úr hrauntjörn í Geldingadölum þar sem er yfirflæði. Svæðið á gönguleið A var rýmt og lokað tímabundið. Eldgosið er 6 mánaða og er gígurinn orðinn 334 metra hár.
14. október: Ekki hefur gosið í rúman mánuð eða frá 18. september. Rýkur þó úr gígnum. Flatarmál hrauns er tæpir 5 ferkílómetrar.
1. nóvember: Gosinu í Geldingadölum er formlega lokið. Leitarþyrst hellaáhugafólk þarf þó að bíða enn um stund til að geta metið og skoðað aðstæður í hrauninu.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – eldgos.

Á Vísindavef HÍ var spurt: Hversu stórt var gosið í Geldingadölum?
„Gos í Geldingadölum hófst 19. mars 2021 og tveimur mánuðum síðar, 17. maí, birtist á Vísindavefnum svar við spurningunni Er líklegt að gosið í Geldingadölum standi lengi? Í svarinu voru færð að því rök, byggt á gefnum forsendum, að ólíklegt væri að gosið yrði langvinnt eða hraunið rúmmálsmikið. Öll eru þessi hugtök – langt og stutt, lítið og stórt – afstæð og merkingarlítil án tiltekins viðmiðs. Því fylgir hér til samanburðar þríein tafla yfir lengd, rúmmál og afl 14 gosa þar sem þessir þættir eru þekktir eða áætlaðir. Töflunni er sem sagt raðað upp á þrjá vegu eftir vaxandi gildi hvers hinna þriggja þátta.
Samkvæmt töflunni hlýtur gosið í Geldingadölum að teljast nokkuð langt meðal samfelldra gosa á 20. og 21. öld – aðeins Heklugosið 1947-48, Surtseyjargosið 1963-67 og Kröflueldar 1975-84 vöruðu lengur; Heklugosið 1980-81 mætti virðast lengra, en var í rauninni tvö stutt gos (3 og 7 dagar) með 7 mánaða hléi á milli og Kröflueldar voru röð smærri gosa með hléum á milli.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – megingígurinn.

Gosið í Geldingadölum telst nokkuð langt meðal samfelldra gosa á 20. og 21. öld. Það er hins vegar neðarlega á lista yfir rúmmál gosefna og næstaftast á lista þar sem miðað er við meðalafl 14 þekktra gosa.

Geldingadalur

Geldingadalur; gígur eftir eldgosið 2021.

Hvað varðar rúmmál gosefna eru Geldingadalir neðarlega á lista, aðeins hraun flæðigosanna úr Öskju 1961, Heklu 1981 og Fimmvörðuhálsi 2010 eru minni. Og hvað meðalafl (m3/sek) gossins snertir voru Geldingadalir raunar næstaftastir á merinni – aðeins afl 7–daga flæðigoss Heklu 1981 var minna. Lágar tölur fyrir afl Kröfluelda og Heklu 1980-81 stafa af því að tímalengdin er talin frá upphafi eldsumbrotanna til enda.
Öflugustu gosin á listanum eru annars vegar flæðigosin miklu, Skaftáreldar 1783-84 og Holuhraun 2014-15, og hins vegar sprengigos, hrein (Hekla 1980) eða með „stuttum flæðigoshala“ (Hekla 1991 og 2000) – sprengihluti Heklu 1947 var gríðarlega öflugur en honum fylgdi langvarandi hraunflæði.
Samkvæmt þessu reyndist höfundur svarsins á Vísindavefnum 17. maí 2021 ekki sannspár um væntanlega lengd gossins í Geldingadölum, en um hin atriðin tvö – hvort gosið marki upphaf nýrra Reykjaneselda, og hvort gossprungurnar muni teygja sig langar leiðir – mun framtíðin ein eiga svör.“

Hér má sjá MYNDIR af eldgosinu í Geldingadölum.

Heimildir:
-https://www.ruv.is/frett/2021/03/18/eldgosid-i-geldingadolum-i-beinni-utsendingu
-https://is.wikipedia.org/wiki/Eldgosi%C3%B0_vi%C3%B0_Fagradalsfjall_2021
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=82586

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – fjölmargir lögðu leið sína að gosstöðvunum á meðan var.

Esjuberg

Í skýrslu um „Breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi milli Varmhóla og vegamóta Hvalfjarðarvegar“ árið 2020 eru fornleifalýsingar. Ein þeirra getur um Esjuberg, sbr. eftirfarandi:

Esjuberg

Esjuberg – meintur kirkjugarður.

„Bærinn á Esjubergi stendur á skriðuvæng upp undir rótum Esju. Mörk jarðarinnar eru á móti Skrauthólum að vestan og Mógilsá að austan. Á Esjubergi voru áður fyrr samþykktir og kveðnir upp dómar. Finna má dóm í Íslensku fornbréfasafni sem kveðinn var upp 1480 og þar var þingstaður 1541 og 1746 þegar Jón Oddsson Hjaltalín gerði Lýsingu Kjósarsýslu.
Örnefnin Leiðhamar og Leiðvöllur, sem eru á mörkum Mógilsár og Esjubergs, benda til þess að þar hafi verið haldin leiðmót, leiðarþing eða héraðsþing sem haldið var að afloknu Alþingi þar sem greint var frá störfum þess og birtar tilkynningar. Fyrsta símstöðin í Kjalarneshreppi var á Esjubergi, sennilega komin 1912.

Esjuberg

Esjuberg – tóft á Bænhúshól.

Esjuberg var landnámsjörð Örlygs gamla Hrappssonar Bjarnarsonar bunu. Landnámabók segir frá því að Helgi bjóla Ketilsson hafi gefið frænda sínum, bræðrungi, Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk. Landnáma getur þess einnig að Örlygur hafi búið á Esjubergi og látið gera þar kirkju sem fóstri hans Patrekur biskup í Suðureyjum hafði sagt fyrir um, en Patrekur hafði sent hann með kirkjuviði, járnklukku, plenáinum og vígða mold til að setja undir hornstafina. Kirkjan gæti hafa verið tileinkuð heilögum Kolumba.
Kirkja Örlygs er talin vera fyrsta kirkjan á Íslandi. Kirkjunnar er einungis getið í kirkjuskrá Páls biskups frá því um 1200.
Esjuberg
Reyndar segir frá kirkjunni í Kjalnesingasögu sem er talin rituð á tímabilinu 1300-1320. Þar segir frá því að Helga Þorgrímsdóttir, eiginkona aðalsöguhetjunnar Búa, hafi látið grafa hann undir syðri kirkjuveggnum og segir „[þ]á stóð enn kirkja sú at Esjubergi, er Örlygr hafði látit gera“. Eftir þessu að dæma hefur kirkjan ekki verið uppistandandi á ritunartíma sögunnar um 1300 og gæti hafa verið niðurlögð á fyrri hluta 13. aldar. Hvers vegna er ekki vitað og margt getur komið til greina. Kirkjur voru stöðutákn svo höfðingi gæti hafa dáið eða misst stöðu sína til annars. Kirkjan gæti líka hafa verið lögð niður vegna skriðufalla.

Esjuberg

Esjuberg – meint kirkjutóft sunnan við bæinn.

Jarðarinnar er getið nokkrum sinnum í skjölum sem varða hvalreka Viðeyjarklausturs á milli Esjubergs og Valagnúpa, fyrst í skrá varðandi hvalskipti á Rosmhvalanesi um 1270, svo um 1270 í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um hvalrekann, og aftur 1285 um skipti á hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs. Esjuberg kemur fram í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395.
Esjuberg kemur fram í skýrslu Hannesar Pálssonar umboðsmanns og kapelláns Danakonungs, um allskonar óskunda og yfirgang, rán, vígaferli og löglausa verslun Englendinga á Íslandi á árunum 1420-1425.
Árið 1480 var úrskurðað í Esjubergsdómi í eignarmálum Soffíu Loftsdóttur og Gunnlaugs Teitssonar. Árið 1497 gaf Böðvar prestur Jónsson vitnisburð um reka Viðeyjarklausturs á milli Klaufar og Esjubergs. Á Esjubergsþingi þann 30. september 1541 var felldur dómur um lögmæti bréfs Alexíusar ábóta í Viðey um jarðirnar Skrauthóla og Bakka í Brautarholtssókn. Þá kemur jörðin fram í fógetareikningum 1547-1552. Á Esjubergi voru kveðnir upp dómar um beit og fjárrekstur 1565-1566.

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Jarðarinnar er getið á minnisblöðum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns Kjalarnesþings árið 1569 og þjófnaðardómur var kveðinn upp þar 14. janúar 1657.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs 1686-1695 og þá metin á 40 hundruð. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Esjuberg í eigu konungs en jarðardýrleiki óviss. Kvaðir voru meðal annarra um mannslán á vertíð suður á Stafnes. Þá var hægt að fórðra sjö kýr, tólf lömb og þrjá hesta. Jörðin hafði þá haft til langs tíma fría afrétt fyrir hesta og geldnaut á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var góð en mótak til eldiviðar slæmt. Silungsveiði hafði jörðin í Leirvogsá lengst af. Rekavon var nokkur og skelfiskfjara var á Leiðvallargranda. Selstöðu átti jörðin undir Svínaskarði að sunnan og þar var berjalestur nokkur. Helstu ókostir voru að úthey voru lítil og skriður ógnuðu bæði mönnum, húsum og skepnum. Stórviðrasamt var á Esjubergi og stóð mönnum og skepnum ógn af skriðum sem ollu þar tjóni.

Esjuberg

Esjuberg – örnefni.

Tvær hjáleigur voru þá á Esjubergi. Litla Esjuberg sagt afbýli heima við bæ og Árvöllur önnur hjáleiga og reiknaðist jarðardýrleiki beggja með heimajörðinni. Þegar Jón Oddson Hjaltalín gerði lýsingu Kjósarsýslu 1746 var þingstaður á Esjubergi. Kaupverð Esjubergs með Grund (Austurbæ) og Árvöllum árið 1816 þegar jörðin var seld úr eigu konungs var 2100 ríkisdalir.

Esja

Meintur kirkjuhóll á „Kirkjuflöt“ ofan Leiðvalla.

Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var Esjuberg í bændaeigu, metið á 40 hundruð og með einum ábúanda. Í neðanmálsgrein er sagt að jarðabækurnar geti ekki um hjáleigurnar nema árið 1802, en þá er getið Austurbæjar sem er líklega sama hjáleiga og sýslumaður og prestur kalla Grund. Jörðin var metin á 40 forn hundruð í Jarðarmati á Íslandi 1849-50. Hjáleigurnar lögðust báðar af eftir mikið ofanflóðaveður 2. september 1886.
Innan úttektarsvæðisins sem skráð er undir Esjuberg er einstakur minjastaður sem var þingstaður en hann er horfinn. Aðrar minjar eru herminjar á Leiðhömrum, ekki er talið líklegt að þær verði fyrir áhrifum framkvæmdarinnar.
Leiðvöllur er örnefni sem var á malarkambi við Kollafjörð norðanverðan. Ef loftljósmynd frá 1946 er borin saman við nýlegar loftmyndir má sjá að á svæðinu hafa orðið miklar breytingar vegna landsigs, sandnáms og vegagerðar. Vegna þessara þátta hafa grjóteyrin og tjörnin horfið.

Esjuberg
Staðhættir
: „Vestar er Leiðvöllur, sem talinn er vera hinn gamli þingstaður Kjalarnesþings. Nú er þar aðeins malareyri, sem fellur yfir í flóðum. Ofar var Leiðtjörn, en sandnámið hefur nú eyðilagt hana nema austast. Í hana rann Markagil.“ Leiðvöllur er örnefni sem var á malarkambi niður við sjó út með Kollafirði norðanverðum, á mörkum jarðanna Esjubergs og Mógilsár.

Esjuberg

Forn gata ofan Leiðvalla að Esjubergi.

Örnefnið bendir til þess að þarna hafi verið haldin héraðsþing að loknu alþingi. Ofar var Leiðtjörn og kirkjuflöt var ofan við hana en þar var sagt að hefði verið bænhús eða kirkja og viðirnir í hana verið fluttir um Leiðvöll. En talið hefur verið líklegra að sagnir eigi við um kirkjuna á Esjubergi.

Örnefnin Leiðvöllur, Leiðtjörn og Leiðhamrar sem þarna eru gefa vísbendingar um að þarna hafi verið haldin leiðamót, leiðaþing eða héraðsþing. Leiðvöllur er fornt nafn og merkir „völlur þar sem haldin eru leiðamót“. Staðurinn gæti því hafa dregið nafn sitt af leiðaþingi sem haldið var að loknu Alþingi til að greina frá störfum þess og birta tilkynningar.
Lengi hefur verið talið að Kjalarnesþing, sem var sett á fyrir stofnun Alþingis um 930, og talið undanfari þess, hafi fyrst verið á Leiðvelli. Fram kemur í Íslendingabók að fyrir stofnun Alþingis að áður „… vas þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfsson landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu.“

Esja

Esja – stekkur ofan Leiðvalla.

Í Landnámu er tekið í sama streng og staðkunnugur höfundur Kjalnesinga sögu virðist hafa horft á tóftir búðanna sem sáust enn suður við sjóinn um 1300. Þorsteinn Ingólfsson var útnefndur allsherjargoði á Alþingi og báru afkomendur hans titilinn eftir það svo það er ekki ólíklegt að hann hafi sett það. Þegar kristni var lögfest árið 1000 var Þormóður Þorkelsson sonarsonur hans allsherjargoði.
Þegar Kristian Kålund kom á Leiðvöll 1873 taldi hann staðinn svara til lýsinga í Kjalnesinga sögu um Kjalnesingaþing, flöt og löng grasræma á norðurströnd Kollafjarðar. Eyrin var þá að mestu þakin sjávarmöl og sjór gekk stundum yfir hana. Kålund taldi lítil og óglögg merki búðartófta að sjá þar, helst vestast og innst á eyrinni undir hallanum. Þar voru ef til vill nokkrar lágar upphækkanir sem gátu líka verið grónar skriður eða þúfur.
Sigurður Vigfússon forngripavörður kom á Leiðvöll 20. júlí 1880. Þá blasti við honum breið grjóteyri sem gekk út í sjó með malarkamb fyrir framan og langs fyrir ofan eyrina lá síki. Austan og uppaf því var lítil graseyri sem hét Kirkjuflöt og þar sáust leifar af lítilli tóft. Það var eina mannvirkið sem hann fann þrátt fyrir mikla leit.“

Heimild:
-Breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi milli Varmhóla og vegamóta Hvalfjarðarvegar – fornleifalýsing; Esjuberg, 2020.

Esjuberg

Esjuberg neðan við Grund – útialtari; til minningar um fyrstu kirkjuna hér á landi.

Vogar

Í Vogum er upplýsingaskilti við Arahól og Aragerði. Á skiltinu er eftirfarandi texti:

Arahólavarða
Vogar
Vörðuna á Arahól lét Hallgrímur Scheving Árnason útvegsbóndi í Minni-Vogum hlaða árið 1890. Verkið vann frændi hans Sveinbjörn Stefánsson. Varðan er hlaðin úr höggnu hraungrýti og steinlímd með kalki úr Esjunni sem unnið var í kalkofninum í Reykjavík. Varðan mun ekki hafa verið hlaðin í neinum ákveðnum tilgangi. Þegar varðan var nokkuð farin að láta á sjá, um það 100 árum eftir að hún var reist, var hún löguð með sementi af Leifi Kristánssyni frá Helgafelli.

Skrúðgarður
Vogar
Þegar húsum tók að fjölga og byggð að þéttast í Vogum sáum menn fyrir sér að honn víði og fagri hvammur sem Aragerði var, yrði sjálfkjörinn skrúðgarður og skemmtilundur Vogamanna í framtíðinni. Fyrstu trjánum var plantað þar upp úr 1950 fyrir atbeina Egils Hallgrímssonar (Árnasonar) kennara frá Austurkoti. Árið 1968 gáfu landeigendur Kvenfélaginu Fjólu Aragerði til umsjár. Í dag er það í umsjón sveitarfélagsins. Í hinum skjólsæla hvammi er bæjarhátíð sveitarfélagsins haldin ár hvert.

Vegagerð Hafnargötu
Vogar
Eftir að Útgerðarfélag Vatnsleysustrandar hóf starfsemi sína á Eyrarkotsbakka var orðið aðkallandi að bæta úr vegleysunni og koma þangað akfærum vegi. Því réðst Útgerðarfélagið í lagningu Hafnargötu um 1931. Verkið var líklega unnið í þegnskylduvinnu og meira eða minna með höndum. Grjót var flutt með hestvögnum í Sólheimabrekkuna og Vogatjörnina norðanverða. leyfi fyrir grjótnámi fékkst hjá landeigendum. grjóri var lengi bætt í tjörnina, því þar vildi vegurinn síga.Vogar

Vogar

Í Vogum, skammt norðan við Stóru-Voga, er fróðleiksskilti á Eyrarkotsbakka. Á því er eftirfarandi texti:

Útgerðarfélag Vatnsleysustrandar
Vogar
Í fjörunni má sjá leifar af Gömlubryggju sem reist var að tilstuðlan Útgerðarfélags Vatnsleysustrandar sem stofnað var 1930. Ástæðan fyrir stofnun félagsins var breytt atvinnuástand í hreppnum í kjölfar þjóðfélagsbreytinga. Ungir menn réðu sig frekar á togara úr öðrum héruðum en opin skip heimamanna.
Markmið Útgerðarfélagsins var aðs tulða að atvinnuppbyggingu. Allt varð að byggja frá grunni, báta, bryggju og fiskverkunarhús (Braggann). Samið var um smíði tveggja 22 tonna báta í Danmörki sem fengu nöfnin Huginn og Muninn. Því næst var ráðist í smíði bryggju og fiskverkunarhúss. Bryggjan var 84 m löng og 3 m breið timburbryggja sem fór að mestu á þurrt um stórstraumsfjöru. Fiskverkunarhúsið var ein hæð með risi. Niðri var aðstða fyrir bátana, gert að fiski, saltað og beitt. Í risinu var verbúð og mötuneyti fyrir þá sem á þurftu að halda.
Vogar
Mikið var lagt í kostnað við uppbygginguna. Heimskreppa skall á 1931, fiskverð hrundi á mörkuðum auk þess sem áföll dundu yfir. Útgerðarfélagið komst í greiðsluþrot árið 1935 og var leyst upp. Sigurjón J. Waage frá Stóru-Vogum keypti bryggjuna, húsið og annan vélbátinn, Huginn. Hann lét setja nýja vél í bátinn og gaf honum annað nafn, Jón Dan, eftir langafa sínu, Jóni Daníelssyni sem miklar hreystisögur fóru af. Sigurjón rak útgerðina til dánardægurs árið 1944.
Þrátt fyrir stutta starfsemi félagsins er það talið hafa verið gæfuspor fyrir byggðina. Það veitti mörgum atvinnu og stöðvaði með því flóttann úr hreppnum.
Vogar

Vogar

Í Vogum er upplýsingaskilti sunnan við Minni-Vogavör um mannlífið á sjávarbakkanum. Á því er eftirfarandi texti:

Vör og sjávarhús
Vogar
Í flæðarmálinu má sjá Minni-Vogavör er Egill Hallgrímsson (1817-1884) útvegsbóndi í Austurkoti lét ryðja. Vörin var sameiginleg fyrir Minni-Voga og Austurkot. Beggja vegna vararinnar voru hlaðnir öflugir grjótgarðar til að skýla henni. Efst í vörinni höfðu útgerðarbændurnir uppsátur báta sinna. Á sjávarkambinum voru sjávarhús, fiskreitir (svæði þar sem fiskur var lagður og þurrkaður) og lifrarbræðsluhús. Enn má sjá grunna sjávarhúsanna ef vel er að gáð.

Egill ríki
Vogar
Egill var annálaður dugnaðarmaður og efnaður eftir því. Árið 1870 eignaðist hann þilskipið Lovísu sem gert var út við Faxaflóa. sagt var að hann hafi borgað skipið með silfupeningum. Þegar skipið var ekki á veiðum hafði hann það í förum milli anda, sendi það með saltfisk til Spánar og lét það taka saltfarm til baka. Egill gerði út marga báta, keypti fisk og seldi salt. Hann leit sjálfur eftir öllu og rakaði saman auði og var um langt skeið talinn einn ríkasti bóndinn á Suðurnesjum.

Lífið á bakkanum
Vogar
Á tímum átabátaútgerðar var mikið líf við sjávarsíðuna. Árabátar komu með aflann í varirnar, þaðan sem hann var borinn í sjávarhúsin og á klappirnar í kring til verkunar. Þegar vélbátaútgerðin hóf innreið sína og bátarnir urðu stærri var hafnaraðstaða byggð þar sem hún er í dag, út af Eyrarkotsbakka. Fiskvinnslan fluttist í fiskvinnusluhús við höfnina og lagðist starfsemin á bakkanum smám saman af. Á bakkann var lagður vegaslóði til Grænuborgar eftir að bílar komu til sögunnar.
Vogar

Saltfiskur

Veiddur fiskur hefur verið verkaður með ýmsum aðferðum í gegnum aldirnar hér á landi.
Í „Þurrkhandbók“ Matís; Fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um þurrkun á fiski, segir m.a.:

Skreiðalest

Skreiðalest.

„Þurrkun eða hersla fisks er ævaforn aðferð og er enn í dag mikilvæg aðferð til að lengja geymsluþol fiskafurða víða um heim.
Skreið og þurrkaðar fiskafurðir hafa verið verslunarvara í árhundruð í Evrópu og víðar. Fyrr á öldum var skreið mikilvæg verslunarvara í innlendum og erlendum vöruskiptum Íslendinga. Erlendir kaupmenn komu til landsins og fengu skreið í skiptum fyrir ýmsar nauðsynjavörur.
Skreiðar er nokkrum sinnum getið í Íslendingasögum og Sturlungu. Fyrst er hún nefnd um 1200 og eftir það kemur hún ítrekað fram í heimildum. Á fimmtándu öld er talað um að skreið sé orðin mikilvæg verslunarvara hjá þýskum og enskum kaupmönnum. Á verslunarmáli nefndist útflutningsskreiðin allmörgum nöfnum svo sem „plattfiskur“, „malflattur fiskur“, „kviðflattur fiskur“, „reithertur fiskur“, „hengifiskur“, „hnakkafiskur“, „ráhertur fiskur“ og „ráskerðingur“.
Mörg þessara orða vísa til tiltekinna verkunaraðferða og er rétt að benda á að mikinn fróðleik um skreið og skreiðarverkun fyrr á öldum er að finna í Íslenskum sjávarháttum eftir Lúðvík Kristjánsson.

Skeiðahjalli

Skreiðahjalli á Vestfjörðum.

Algengasta heitið á hertum fiski meðal landsmanna var harðfiskur eða skreið og víða var þetta meginuppistaða fæðu hér á landi. Algengast var að berja fiskinn og neyta hans með smjöri ef það var á boðstólum, en ekki mun það hafa verið algengt að bleyta upp fiskinn og sjóða eins og víða var gert erlendis.
Það þótti ekki gott ef fiskur sem hengdur hafði verið upp frysi, enda var það skemmd á vörunni í augum erlendra kaupmanna, en landanum þótti aftur á móti besta skreiðin vel verkuð freðýsa. Sýnir þetta m.a. að það sem okkur þykir gott er endilega ekki það sem öðrum hentar, enda er neysla landans á harðfiski með öðrum hætti en gerist almennt í helstu viðskiptalöndum okkar.

Hjallur

Dæmigerður fiskhjallur, til vinstri,  við býli fyrrum. Slíkur hjallar þóttu sjálfsagðir á nánast hverjum bæ allt fram til loka 20. aldar.

En það voru fleiri tegundir en þorskur þurrkaðar og má eiginlega segja að nánast allar tegundir væru þurrkaðar með einum eða öðrum hætti, enda litlir möguleikar á öðrum aðferðum til að verja fiskinn skemmdum hér á landi þar sem salt var lengi vel af skornum skammti og kæling og frysting ekki möguleg fyrr en á síðustu öld.
Það eru til frásagnir af þurrkun mjög margra tegunda, sumar voru þurrkaðar að fullu meðan aðrar þóttu betri signar eða kæstar fyrir þurrkun, svo eru til frásagnir af því að háfur hafi verið þurrkaður og nýttur sem eldiviður.

Skreið

Skreiðalest.

Þar sem þorskurinn var og er enn verðmætasta og best nýtta fisktegundin hér við land, þá eru til mestar upplýsingar um verkun og vinnslu hans. Skreiðarverkun var mjög mikilvæg atvinnugrein langt fram á síðustu öld þar sem heill hausaður spyrtur fiskur var hengdur á hjalla í öllum sjávarþorpum landsins. Aðrar tegundir eins og ufsi, langa og keila voru einnig nokkuð algengar tegundir sem fóru svipaða leið og þorskurinn.
Þegar leið á tuttugustu öldina og aflasamdráttur var orðinn staðreynd þá dró umtalsvert úr framleiðslu og útflutningi á skreið, einnig voru ýmsar blikur á lofti á stærsta markaðnum, Nígeríu, á þessum árum. Einhverra hluta vegna þótti hæfa að nota lakara hráefni í þessa vinnslu, jafnvel hráefni sem ekki þótti hæft til frystingar eða söltunar.
Með minni afla og hækkandi verðs á ferskum, frystum og söltuðum afurðum hefur hefðbundin skreiðarverkun minnkað verulega.“

Skreið

Selatangar

Selatangar – verminjar.

Í framangreint yfirlit vantar fiskinn, sem verkaður var í verum landsins allt frá landnámi til loka 19. aldar. Verin voru og eru órjúfanlegur hluti sögu þjóðarinnar. Hjallar voru víða að vísu, en í litlum mæli. Réðst umfang þeirra yfirlit af nálægum aðdráttum rekaviðs. Á hjöllunum var fiskurinn hengdur upp óflattur, þ.e. með haus og sporð. Annars var fiskurinn flattur og vind- og sólþurrkaður á hlöðnum grjótgörðum. Þess á milli var hann geymdur í hlöðnum steinbyrgjum þar sem loft var látið leika um hann svo sem kostur var. Verin voru jafnan mönnuð að vetrarlagi, þ.e. frá byrjun febrúar til lokadags 11. maí. Kuldinn skaðaði ekki verkunina, heldur þvert á móti,  og svartir hraungarðarnir auðvelduðu hana með aðstoð dagshitans frá sólinni.
Leifar mannvirkja, sem notuð voru við þessa vinnsluaðferð má enn finna víða á Reykjanesskaganum, einkum á honum sunnanverðum, s.s. á Selatöngum, í Slokahrauni, í Strýthólahrauni, ofan Húsatófta og í Eldvörpum. Síðastnefndi staðurinn var reyndar ekki verkunnarstaður, heldur geymslustaður. Ummerki má einnig finna á skaganum norðanverðum, s.s. ofan við Krossavíkurbjarg, við Juknkaragerði, Hafnir og Stafnes.

Hjallar/trönur

Trönur

Trönur ofan Grindavíkur.

Þegar Íslendingar uppgötvuðu trönubúskapinn má segja að fjandinn hafi náð að fanga tækifærið. Trönusvæðin spruttu allt umleikis þéttbýlisstaðina á Suðvesturlandi og útflutningur á skreiðinni jókst til mikilla muna. Heilu hjarðsveitirnar voru gerðar út með striga, pressur og sótstrimla… Í dag má sjá heilu hraunssvæðin þakin föllnum trjáspýrum með tilheyrandi rotnun.

Harðfiskur

Harðfisakur

Verðandi harðfiskur; skreið…

Harðfiskur var unninn úr framangreindri fiskverkun. Hann var þurrkaður og barinn fiskur, oftast unninn úr ýsu, steinbít eða þorski, en einnig þekkist harðfiskvinnsla úr ufsa, kolmunna og lúðu. Harðfiskur var áður fyrr einn helsti matur Íslendinga, og var hann gjarnan borðaður með smjöri eða sölvum. Er harðfiskur sérlega próteinrík næring, harðfiskur (ýsa) inniheldur 80-85% prótein.
Í seinni tíð hefur harðfiskur verið flakaður og síðan forunninn með heit loftþurrkun eftir að hafa verið baðaður upp úr 5% saltpækli, fiskurinn er síðan frystur, skorinn í bita og raðað á grind sem sett er inn í þurkklefa. Heita loftið veldur því að fiskurinn hitnar, en við það gufar vatn upp úr honum. Tekur þessi vinnsluaðferð um 36-48 klst.
Einnig hefur kæliþurrkun verið beitt, þar sem fiskurinn er handflakaður, flökin snyrt og hreinsuð og sjáanleg bein og blóð fjarlægð. Þá er fiskurinn látinn liggja í 2% saltpækli í um 30 mínútur. Loks er fiskurinn þurrkaður í þurrklefa, þar sem þurrkað er við -5 °C-0 °C.
Einungis um 10% af upphaflega hráefninu skilar sér í seljanlegri vöru eftir þurrkun. Endurspeglar hátt söluverð á harðfiski í dag þessa staðreynd.

Saltfiskur

Fiskverkun

Saltfiskverkun við útgerðarhús.

Saltfiskur er fiskur, oftast þorskur sem búið er að meðhöndla með söltun til að hann geymist betur. Salti er stráð á nýjan fisk og það dregur til sín vatn úr fiskholdinu, leysist upp og myndar pækil. Pækillinn þynnist eftir því sem hann dregur meira af vatni úr fiskinum og saltið fer smán saman inn í fiskholdið þangað til saltupplausnin í fiskinum er orðin jafnsterk og í pæklinum. Því meira salt sem er í pæklinum, þeim mun saltari verður fiskurinn og með minna vatnsinnihald. Söltunin breytir líka bragði fisksins.

Einarsreitur

Einarsreitur. Einn af fjölmörgum satfiskreitunum ofan Hafnarfjarðar fyrrum.

Ýmsar aðferðir hafa verið notaðar við saltfiskvinnslu. Nú á tímum er fiskur oftast forsaltaður í 2-3 daga með sprautun og pæklun eða pæklun eingöngu. Eftir það er fiskurinn þurrsaltaður eða kafsaltaður í ker og þá mettast fiskurinn af salti. Við söltun fer saltstyrkur í fiskvöðva úr 0,2% NaCI sem er náttúrulegt í rúm 20% í saltaðri afurð. Söltun breytir próteinum fisksins og það verða við það breytingar á bragði og lykt og áferð. Nauðsynlegt er að útvatna saltfisk fyrir neyslu vegna þess hve hátt saltinnihald hans er. útvötnun fer þannig fram að fiskurinn lagður í vatn í nokkra daga og vatnið endurnýjað með vissu millibili. Við útvötnunina flæðir salt úr fiskvöðva út í vatnið og vöðvinn tekur í sig vatn. Eftir útvötnun er vatnsinnihald fisksins svipað og í ferskum fiski en saltinnihaldið er 1-2% hærra. Fisk sem á að steikja eða nota í ofnrétti þarf að útvatna meira en ef sjóða á fiskinn því salt fer út í vatn sem fiskur er soðinn í. Útvötnun saltfisks þarf að fara fram í kæli.

Fiskreitur

Fiskreitur við Ljósutröð-Sólvangur fjær.

Algengast er að nota þorsk sem hráefni til saltfiskvinnslu en einnig má nota aðra bolfiska eins og ufsa, löngu, keilu, blálöngu og ýsu og er prótein og fituinnihald þessara tegunda svipað. Bolfiskar safna ekki fitu í holdið heldur lifrina.

Löng hefð er fyrir neyslu saltfisks í Suður-Evrópu og Rómönsku-Ameríku.

Fyrr á öldum var saltfiskverkun ekki mögulegt vegna þess að ekki var aðgangur að nægjanlegu miklu salti og var þá fiskur þurrkaður á ýmsan hátt, sem fyrr sagði. Elstu heimildir um saltfiskverkun á Íslandi eru frá því skömmu eftir 1600. Á 17. öld var mest um að saltað væri í tunnur eða fiski staflað beint í lestar skipa. Á 18. öld hófst saltfiskvinnsla á nokkrum stöðum á landinu en samkvæmt konungsbréfi frá 1760 þá skyldu kaupmenn sjá um að í hverri fiskihöfn dveldust í eitt eða tvö ár útlendir menn sem skyldu kenna verkun saltfisks.

Þegar leið á 18. öld var aðferð sem kölluð var „Terraneuf-aðferðin“ eða sú nýfundlenska mest notuð við saltfiskvinnslu en þá var fiskur blóðgaður og útflattur strax og hann var veiddur og þveginn úr vatni eða sjó. Eftir þvottinn átti fiskur að liggja nokkrar klukkustundir í kös áður en hann var saltaður til að vætan rynni úr fiskinum.

Saltfiskssetur

Saltfiskssetur Grindavíkur – Sögusýning saltfiskvinnslunnar.

Saltfiskverkun og saltfisksala var mikilvæg atvinnugrein á 19. og 20. öld og sá grunnur sem sjávarþorp byggðu á. Framleiddur var þurrkaður saltfiskur sem var saltaður í stæður og síðan oftast umsaltað áður byrjað var á vöskun og þurrkun. Það tók fjórar til sex vikur að þurrka fiskinn og þessi aðferð var vinnuaflsfrek því breiða þurfti fiskinn út að morgni ef veður leyfði og taka hann síðan saman um kvöldið. Saltfiskvinnslan stóð vanalega frá vori til hausts. Konur, börn og gamalmenni verkuðu fiskinn í landi en karlarnir voru á sjó. Vöskunarkonur tóku við fisknum þegar búið var að landa aflanum og þær snyrtu og hreinsuðu og himnudrógu og þvoðu fiskinn með strábustum. Fiskurinn var svo skolaður áður en hann var fluttur á fiskreitina til söltunar.

Kirkjusandur

Kirkjusandur – saltfiskþurrkun.

Alveg til 1900 var fiskurinn vaskaður utandyra en síðar voru reist vöskunarhús sem þó voru ekki upphituð. Á fiskireitunum tóku saltarar við fisknum og hlóðu honum í stæður og söltuðu. Fiskurinn var geymdur þar í um tvær vikur en þá hófst útbreiðsla sem fór þannig fram að fiskur var lagður á reitina ofan á grjót eða litlar trégrindur. Hann var þar allan daginn ef veður var gott en á kvöldin var honum aftur hlaðið í stakk og segldúkur breiddur yfir. Eins þurfti að taka hann strax saman ef það gerði rigningu. Fiskur taldist fullþurr ef greina mátti hendi hinnar handar í gegnum hann ef honum var haldið móti sól og hann hélst beinn ef haldið var í sporðinn og honum haldið láréttum. Þegar þurrkun var lokið var fiskur fluttur í hús og skipt eftir stærðum í málfisk, millifisk og smáfisk. Þaðan var honum skipað út á kaupskip og fluttur aðallega til Spánar og Portúgal. Spánarmarkaður lokaðist við borgarastyrjöldina þar 1936.

Það var skortur á vinnuafli á Íslandi eftir seinni heimsstyrjöldina og þá var farið að flytja út blautverkaðan fisk sem síðan var oft þurrkaður af kaupendum á Spáni og Portúgal þar sem vinnuafl var ódýrara. Stöðug aukning var í framleiðslu saltfisks allt fram undir 1930 og var útflutningur mestur 80 þúsund tonn á ári en oftast 30-50 þúsund tonn. Þegar líða tók á 20. öld gerðu bætt tækni og betri skipakostur kleift að flytja út ísfisk og saltfiskframleiðsla minnkaði.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Har%C3%B0fiskur
-https://is.wikipedia.org/wiki/Saltfiskur
-Þurrkhandbókin – Fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um þurrkun á fiski, Matís.

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni utan Grindavíkur.

Ferlir

Í Morgunblaðinu 2006 fjallar Örlygur Steinn Sigurjónsson um „Hellana í Brennisteinsfjöllum„:

„Í Brennisteinsfjöllum á Reykjanesi er áhugavert útivistarsvæði sem státar af fjölmörgum hraunhellum, skrifar Örlygur Steinn Sigurjónsson að lokinni gönguferð um svæðið í fylgd kunnugra.

Brennisteinsfjöll

Ofan Fagradals.

Það er alltaf sérstök og dulúðug stemmning að fara í hellaferð og hvernig gat mann grunað að hin margumræddu Brennisteinsfjöll lumuðu á talsverðum fjölda hella sem vert er að skoða? Fróðir ferðafélagar á borð við Ómar Smára Ármannsson frá gönguhópnum FERLIR og Einar Júlíusson frá Hellarannsóknafélagi Íslands eru nauðsynlegir á ferðum sem þessum en einnig má þess geta að bæði umrædd félög halda úti heimasíðu, www.ferlir.is og www.speleo.is. Ekki er úr vegi að geta þess einnig að Hellarannsóknafélagið hefur á heimasíðu sinni lýst yfir stuðningi við framtíðarsýn Landverndar undir yfirskriftinni „Reykjanesskagi – eldfjallagarður og fólkvangur“. Segir ennfremur að
framtíðarsýnin grundvallist á náttúruvernd samhliða fjölbreyttri nýtingu á auðlindum Rekjanesskagans.
Hellarannsóknafélag Íslands lýsir yfir fullum stuðningi við þetta verkefni og telur það sérstaklega ánægjulegt að vernda eigi stór hraun, hraunmyndanir og gíga sem eru einstakir á heimsvísu. Segir Hellarannsóknafélagið að Brennsteinsfjöllin og næsta nágrenni við þau sé stærsta ósnortna landsvæðið á Reykjanesskaganum og hafi að geyma ótal marga hella sem hafa verið lítt rannsakaðir. Gígarnir og hraunin séu ótalmörg og hvert og eitt einstakt út af fyrir sig og mikil þörf á að vernda þetta svæði í heild sinni.
Undir þetta getur hver sá sem skoðar sig um á svæðinu tekið heilshugar og víst er að af nógu er að taka. Bara í þeirri ferð sem farin var að þessu sinni var í senn farið í þekkta hella og leitað nýrra.

Rannsóknarlögreglan neðanjarðar

FERLIR

FERLIR – húfa, sem þaulsetnir þátttakendur fengu sem viðurkenningarvott.

Um gönguhópinn FERLIR er það að segja að hann stóð upphaflega fyrir Ferðahóp rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík og hefur vaxið fiskur um hrygg frá stofnun árið 1999. Segja má að félagsskapurinn sé nú orðinn ein helsta uppspretta þekkingar á hellum, seljum, letursteinum, skútum, fjárborgum og fleiru á Reykjanesskaganum. Lögð er nokkur áhersla á að fá staðkunnuga á hverjum stað til að fræða þátttakendur í hverri ferð og eru

Lýðveldishellir

Við op Lýðveldishellis.

Ferlisferðirnar nú orðnar vel yfir eitt þúsund talsins. Því fylgir nokkuð sérstök tilfinning að ferðast með rannsóknarlögreglumönnum í leit að hellum og guð hjálpi þeim heimska bófa sem dytti í hug að ramba inn á Reykjanesið með ránsfeng eða fíkniefni og telja góssið öruggt í fyrsta hellisskúta sem hann fyndi. Með þeirri aðferðafræði myndi skrattinn aldeilis hitta ömmu sína en það er önnur saga. Ferlisfélagar eru heldur ekki eingöngu rannsóknarlögreglumenn heldur fólk úr lögreglunni almennt og allir þeirra vinir eða vandamenn. Sérstök derhúfa er veitt sem viðurkenning fyrir fimm Ferlisferðir. En gönguhópurinn hefur nú nýtt undanfarin misseri til að ganga um hin einstöku svæði á Reykjanesi og var upphaflegt markmið að fara eitt hundrað ferðir um svæðið til að skoða það helsta. En þrátt fyrir ferðirnar þúsund eru enn stór svæði ókönnuð. Hafa Ferlismenn nú skoðað á fjórða hundrað hella og nafngreinda skúta svo fátt sé talið.

Kistuhellar

Í Kistuhellum.

Finna má urmul leiðarlýsinga á heimasíðu Ferlis og má samsinna fullyrðingum um að svæðið á Brennisteinsfjöllum, þ.e. Kistufell, Kista og Eldborg, sé ótrúlegur undraheimur með ósnertum litskrúðugum hellum og einstökum náttúrufyrirbærum er nauðsynlegt er að standa vörð um þessa einstöku veröld, segir þar.
Á liðnum árum hafa uppgötvast þarna langir hellar og enn er svæðið langt í frá fullkannað. Gangan yfir að hellasvæðinu í Brennisteinsfjöllum tekur 2–3 klukkustundir og er haldið frá bílunum við Breiðdal við Kleifarvatn. Upp úr Hvammadal er fylgt gömlum stíg sem áður var genginn milli Kaldársels og Krýsuvíkur. Þegar upp á brúnina er komið er beygt til vinstri til að fylgja stíg austur með brúninni yfir á slétta hraunhellu Kistuhrauns, sem liggur þar milli Kistufellshraunsins í austri og Eldborgarhraunsins í vestri. Undir hinu síðarnefnda og vestar sjást fleiri Eldborgarhraun. Gangan getur talist löng og sjálfsagt er að reikna með heilum degi í hana fram og tilbaka að meðtöldum hellaferðunum.

Duttu niður í Lýðveldishellinn

Ferlir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinsfjöllum.

Í vesturhlíðum Kistu er svokallaður Lýðveldishellir sem dregur nafn sitt af því að þann 17. júní árið 1994 fundu Guðmundur Löve og Þröstur Jónsson hellinn. Samkvæmt frásögn Ferlis voru þeir þarna á ferð í mikilli þoku og rigningu þegar þeir svo til „duttu“ niður um opið á hellinum. Er hann um 200 metra langur. Ferlismenn leituðu þessa hellis á sínum tíma en við þá leit uppgötvaðist annar hellir, sem fékk heitið Þjóðhátíðarhellir Norðmanna því hellisfundinn bar einmitt upp á 17. maí. Hellisopin eru ekki langt hvort frá öðru, en reyndar sinn í hvoru hrauninu, segir á Ferlisvef.
FerlirAð þessu sinni var farið ofan í annan helli sem Ferlismenn fundu líka og heitir sá FERLIR og er þarna í nágrenninu. Er þetta með litskrúðugri hellum landsins og ógleymanlegur þeim sem niður í hann fara. Lítil hraunbreiða sem þar er að finna er svo óveðruð að halda mætti að hraunið væri nýrunnið og -storknað. Þótt aldur þess sé talin í mörgun öldum virðist það samt svo glænýtt og það er töfrum líkast og horfa á þetta fyrirbæri sem gæti jafnast á við að hitta fyrir ungbarn úr grárri forneskju.
Í raun jafnast fátt á við góða hellaferð. Ljóst er að margfalt fleiri hellar en eingöngu Raufarhólshellir standa fólki til boða. Sjálfsagt er að taka með góð ljós og hlýjan fatnað sem má skemmast við mögulegan núning í hellunum. Nesti og ferðatilhögun þarf að ganga frá og sýna góða umgengni hvar sem farið er.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 350 tbl. 24.12.2006. Hellarnir í Brennisteinsfjöllum, bls. 52.

Ferlir

Skrautlegar jarðmyndanir í hellinum FERLIR.

Vogar - skilti

Við Stóru-Voga í Vogum, milli Sæmundarnefs og Eyrarkotsbakka, er upplýsingaskilti. Á skiltinu er eftirfarandi texti:

Fornt höfuðbýli
Vogar
Höfuðbýlið Stóru-Vogar mun hafa verið landnámsjörð Kvíguvogar. Þar var hálfkirkja, líklega fram til siðaskipta. Ekert sést til hennar í dag en mannabein sem fundust í bæjarhólnum að vestanverðu þykja benda til þess að þar hafi staðið kirkja og kirkjugarður.
Minna ber á grasigrónum bæjarhól Stóru-Voga nú en áður vegna ágangs sjávar og framkvæmda við Stóru-Vogaskóla. Að norðanverðu, fast við bæðinn má enn sjá leifar af veggjum fjóss og hlöðu sem hlaðið var úr grjóti.

Ættaróðalið
Vogar
Rústir Stóru-Voga bera vott um stórhug við byggingu íbúðarhússs. Þær eru útveggir steinhúss sem reist var árið 1871 og er talið hafa verið fyrsta steinhús sem íslenskur bóndi lét reisa. Veggir hússins voru úr höggnu grjóti, límdu saman með kalki. Loft, gólf og þaksúð var úr timbri og á þakinu voru hellur. Smiður var Sverrir Runólfsson steinhöggvari. Árið 1912 byggði Sigurjón J. Waage nýtt hús á grunni þess gamla og var gamla húsið að hluta kjallari nýja hússsins.
Ættin sem kennd er við Stóru-Voga er komin af Jóni Daníelssyni, „hinum ríka eða sterka“ (1771-1855). Á steini við fánastangir framan við Stóru-Vogaskóla er hreysti Jóns minnst. Steinninn sem vegur 450 kg á Jón að hafa tekið úr Stóru-Vogavörinni þegar eitt skipa hans steytti á honum í lendingu.
Ættarnafnið Waage tók Magnús sonur Jóns upp er hann lagði stund á siglingafræði og skipasmíði erlendis snemma á 19. öld. Með ættarnafninu vildi hann kenna sig við Voga. Smíðaði hann um 100 báta og 2 þilskip.

Vogar

Stóru-Vogar – skilti.

Vogar - skilti

Í Vogum, ofan við innri Vogavíkina, er upplýsingaskilti um Hólmabúðir og Gullkistuna. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Hólmabúðir og Gullkistan
VogarÍ Hólmanum hefur eflaust verið veiðistöð um margar aldir en saga þeirrar útgerðar er glötuð. Frá um 1830 þekkja menn hins vegar söguna þegar verstöðin Hólmabúðir rísa. Þá risu hin svokölluðu „anleggshús“ sem menn nefndu í daglegu tali salthús og fisktökuhús stórkaupmanna, gróssera á 19. öld. Talið er að hér hafi verið gerðir út 18-20 bátar þegar best lét á 19. öld og sjómenn og landverkafólk verið um 140-150. Ummerki verstöðvanna eru óðum að hverfa þó enn megi sjá leifar af miklum mannvirkjum, húsagrunnum, kálgörðum, upphlöðnum torfveggjum, uppsátur og grjótbyrgjum fremst á Hólmanum þar sem sjómenn hafa salta fisk sinn.
Seinastur með útræði í Hólmanum árið 1910-1012 var Haraldur Böðvarsson. Eftir það flutti hann útgerðina, fyrst til Sandgerðis og síðar til Akraness.
Fiskimiðin undir Vogastapa voru kölluð Gullikistan vegna mikillar og góðrar veiði. Þjóðsagan sefir frá mikilli fiskgengd undir Reykjanesskagann, í göngum sem lágu frá Grindavík og komu upp undan Vogastapa.

Bæirnir undir Vogastapa
Vogar
Undir Vogastapa er lítið undirlendi. Vestast þar sem udirlendið er minnst voru Kerlingabúðir. Þar voru sjóbúðir sem sorfnar hafa verið burt af sjávarróti og landeyðingu. Um Kerlingabúðir eru til þjóðsögur.
Næst kom Stapabúð, síðast í ábúð árið 1896, þá Brekka sem lagðist í eyði árið 1928 og í Hólminum var þurrabúð. Stapabúð og Brekka voru grasbýli og greiddu þau landskuld til Stóru-Voga, er átti landið. Undir Stapanum sést ekki til sólar í 18 vikur.

Pramminn á Langaskeri
Vogar
Pramminn á Langaskeri var hluti af færanlegri höfn bandamanna við innrásina í Normandí í Frakklandi í seinni heimsstyrjöldinni. Tilgangurinn var að auðvelda hraða uppskipun hergagna og herliðs úr stórum herskipum sem ristu djúpt og komust ekki nálægt ströndinni.
Eftir stríðið keypti íslenskur athafnamaður, Óskar Halldórsson, nokkra pramma og lét draga þá hingað til lands. Prammarnir voru notaðir í hafnargerð, þeim var sökkt og fylltir grjóti og steypu.
Vogar

Staðarborg

Í Morgunblaðið 19. ágúst 2021 skrifar Sigurður Bogi Sævarsson um „Rölt að rústum á Reykjanesskaga„:

„Minjar! Hrundar borgir og veröld sem var. Yfirgefnir staðir við Straumsvík og víðar segja miklar sögur.

Kapella við Straumsvík, Staðarborg á Vatnsleysuströnd og Selatangar vestan við Grindavík. Þrír staðir suður með sjó eru hér til frásagnar, minjar frá fyrri tíð sem greinarhöfundur hefur gert sér erindi til að skoða að undanförnu.

Grúsk í gömlum ritum leiðir í framhaldinu oft til ferðalaga þar sem svör við einu leiða af sér spurningar um annað. Svipur landsins er fjölbreyttur; náttúran og minjar um menningu, sögu og lífsbaráttu.

Barbara við Straumsvík

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni.

Á hraunruðningi sunnan við álverið í Straumsvík er hlaðið byrgi; friðlýstar rústir kapellu sem láta lítið yfir sér. Vegur liggur frá Reykjanesbraut að hólnum þar sem kapellan blasir við. Veggir þessa húss voru endurhlaðnir fyrir margt löngu; en þekjan sem hvíldi á veggjunum er löngu fallin. Alfaraleiðin til byggða og verstöðva á Suðurnesjum lá forum daga nærri kapellunni. Við hana var kennt hraunið sem hér rann seint á 12. öld, segir Jónatan Garðarsson útvarpsmaður í pisli á vefnum hraunavinir.is.
Sjálf húsatóftin er rúmir tveir metrar á hvern kant og dyr snúa til vesturs. Á ví herrans ári 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn, þjóðminjavörður og síðar forseti Íslands, rústir kapellunnar og fann þá brot úr líkneski heilagrar Barböru.

Kapella

Stytta af heilagri Barböru í kapellunni.

„Líkneskið sýnir þá að húsarúst þessi mun vera síðan fyrir siðaskipti… Það hefur að líkindum verið kapella þar sem vegfarendur gætu staðnæmst til að gera bæn sína,“ segir Kristján Eldján í grein í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1955. Kristján tók fram að líkneski Barböru sanni ekki fullkomlega að þarna hafi verið kapella „…en hún bendir þó til þess að menn hafi haft þar tilbeiðslu um hönd öðrum stöðum fremur,“ eins og þar stendur.
Á degi heilagrar Barböru þótti gott að heita í háska af eldi, sprengingum og slíku, jafnframt því að vera verndarvættur hermanna. Í dag er í kapellurústinni eftirgerð líkneskis Barböru, en stundum kemur fólk kaþólskrar trúar til bænagjörðar og annars slíks á þessum stað, sem stendur við þjóðbraut þvera.

Hringur á heiði

Staðarborg

Staðarborg.

Á Reykjanesbraut, rétt eftir að komið er suður fyrir Kúagerði og að afleggjaranum á Vatnsleysuströnd, sést Staðarborg, sem er á heiðinni norðan við veginn. Að borginni er best að ganga afleggjarann að Kálfatjarnarkirkju, hvar er skilti og skýrir merkingar sem koma fólki á sporið. Leiðin er um. 1.5 kílómetrar og þegar komið er inn á heiðina sést borgin brátt; hringur sem að utanverðu er umm 35 metrar í ummáli. Tveggja metra háir veggirnir eru hlaðnir úr grjóti og ummál hringsins er um 8 metrar.
Staðarborg var friðlýst árið 1951, en ekki er vitað hvenær hún var hlaðin. Um tilurð hennar er aðeins til munnmælasaga; sú að Guðmundur nokkur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest, sem hafi þótt nóg um þegar honum varð ljóst að fullhlaðið með þekju myndi mannvirkið gnæfa yfir turn kirkjunnar á Kálfatjörn. Hafi prestur þá bannað að haldið yrði áfram, svo Guðmundur hljóp frá verkinu sem síðan hefur staðið óhreyft um aldir.

Verstöð við suðurströnd

Selatangar

Fiskbyrgi á Selatöngum.

Selatangar eru gömul verstöð austan við Grindavík, um þrjá kílómetra vestan við minni Geldingadals þar sem hraunelfur úr Geldingadölum hefur runnið fram í átt að Suðurstrandarvegi. Frá Selatöngum var um aldir og alveg fram til ársins 1880 róið til fiskjar á vegum Krýsuvíkurbónda og Skálholtsbiskups og þarna standa enn minjar um verbúðir, fiskbyrgi og fiskigarða.
Alls eru þarna rústir um 20 húsa og nokkurra annarra mannvirkja. Þarna tíðkaðist til dæmis að þurrka fiskinn; sem síðan var geymdur til vertíðarloka.
„Fiskverkunin fólst fyrst og fremst í því að þurrka fiskinn. Fiskurinn var breiddur á garða eða möl og roðið ætíð látið snúa niður á daginn en upp að næturlagi. Sums staðar var fiskur þurrkaður í grjótbyrgjum eins og þeim sem eru á Selatöngum. Birgin voru einnig notuð til að geyma fullharðnaðan fisk,“ segir í umfjöllun á vef Minjastofnunar Íslands.

Heimild:
-Morgunblaðið 19. ágúst 2021, Rölt að rústum á Reykjanesskaga – Sigurður Bogi Sævarsson, bls. 12.

ísólfs

Gengið um Selatanga.