Hús Bjarna riddara Sívertsens er að Vesturgötu 6 í Hafnarfirði. Byggingarár: 1803-1805, hönnuður: Ókunnur. Byggðasafnið tók við húsinu 1974. Það var friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Sögufræg hús í Hafnarfirði
Hús Bjarna riddara.
Í Þjóðlífi 1987 er fjallað um „Sögufræg hús í Hafnarfirði“:
„Í miðbæ Hafnarfjarðar, nánar tiltekið við Vesturgötu 4, stendur rúmlega aldargamalt hús sem lengst af hefur gegnt nafninu „Hansensbúð“. Danskur kaupmaður, Knudsen að nafni, lét byggja húsið árið 1880 og rak þar verslun til ársins 1914. Þá keypti það Ferdinand Hansen, kaupmaður af dönskum ættum, og þaðan dregur húsið nafn sitt. F. Hansen starfrækti verslun í Hansensbúð til dauðadags 1950, en þá tók yngsti sonur hans, „Dengsi“ Hansen við rekstrinum og hélt honum áfram næstu tíu árin. Þá var húsið selt hlutafélaginu Rán h.f. sem enn þann dag í dag er eigandi þess. Næstu 20 árin var Hansensbúð leigð undir ýmiskonar starfsemi, svo sem skrifstofuhald og æskulýðsstarf. Einnig var þar um tíma starfræktur tónlistarskóli, svo eitthvað sé nefnt.
Hús Bjarna riddara 1972.
Um 1980 var húsið orðið illa farið eftir óslitna notkun í heila öld. Þá stóð til að Hafnarfjarðarbær keypti húsið, því áhugi var meðal margra um að endurbyggja það í sinni upprunalegu mynd og starfrækja þar byggðasafn, en úr því varð aldrei. Á árinu 1984 ákváðu eigendurnir loks að hefja sjálfir endurbyggingu og tók hún á annað ár. Að henni lokinni var húsið leigt félögunum Birgi Marel Jóhannessyni og Sigurði Óla Sigurðssyni, sem reka þar nú veitingahúsið A. Hansen. Veitingastaðurinn A. Hansen hefur nú verið starfræktur í eitt ár í þessu gamla húsi. Þar er ekki aðeins hægt að fá sér að borða í notalegu umhverfi, heldur hefur það þróast upp í að verða hálfgerð menningarmiðstöð. Ýmis félagasamtök halda þar fundi, málverkasýningar eru alltaf öðru hverju og jafnvel hefur Leikfélag Hafnarfjarðar fengið þar inni fyrir leiksýningar.
Þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar frá því kaupmennirnir Knudsen og Hansen versluðu í Hansensbúð er margt við húsið sem minnir á gamla tíma. Gamlar myndir af skipaútgerð Hafnfirðinga í gegnum tíðina prýða veggina, svo og myndir frá æskuárum Hafnarfjarðar.
Í næsta nágrenni við A. Hansen er hús Bjarna Sívertsens, [Vesturgata 6] en það er elsta hús Hafnarfjarðar, byggt um 1803. Þar er nú Byggðasafn Hafnarfjarðar til húsa. Bjarni Sívertsen var fátækur vinnumaður hjá ríkum hjónum í Selvoginum. Þegar húsbóndi hans dó varð Bjarni ráðsmaður ekkjunnar og giftist henni síðar. Þá tók hann sér nafnið Sívertsen.
Bjarni Sívertssen – stytta í Hellisgerði.
Bjarni vann sér það helst til frægðar að vera eini Íslendingurinn sem vitað er að hafi verið sæmdur riddaranafnbót. Sagan segir að Bjarni hafi verið farþegi á dönsku kaupskipi á tímum Napóleonsstyrjaldanna. Englendingar sneru skipinu til Kaupmannahafnar og vildu kyrrsetja það þar, en Bjarni kom ásamt öðrum farþegum í veg fyrir það og varð það til þess að eftir það fengu dönsk skip að fara frjáls ferða sinna.
Danakonungur þakkaði Bjarna þennan árangur og sæmdi hann að launum riddara nafnbótinni. Sívertsenshjónin byggðu húsið árið 1803 og bjuggu í því í langan tíma.
Seinna komst það í eigu Knudsens kaupmanns, sem áður er nefndur, og bjó þar lengi vel verslunarstjóri hans, Kristján Siemsen. Húsið komst í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar um miðja þessa öld og var í niðurníðslu allt til 1964. Þá var hafin endurbygging þess og lauk henni um 1974. Þetta elsta hús þeirra Hafnfirðinga gegnir nú hlutverki Byggðasafns Hafnarfjarðar.
Vesturgata 6, hús Bjarna Sívertsen og Brydehús. Byggðasafn Hafnarfjarðar
Hús Bjarna var byggt 1803 og er elsta hús Hafnarfjarðar. Brydehús var byggt 1865.
Brydepakkhús stendur við hliðina á húsi Bjarna riddara. Knudsen kaupmaður byggði það árið 1865 sem vöruhús. Húsið er stórt, enda veitti kaupmenn ekki af miklu geymsluplássi á þeim árum þegar skipaferðir til íslands voru strjálar. Í gegnum tíðina hefur pakkhúsið mest verið nýtt undir geymslu á fiski og síðar varð það geymslupláss fyrir útgerðarvörur Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Í lægri viðbyggingu hússins var svo Slökkviliðsstöð Hafnarfjarðar til húsa um langan tíma. Þar er nú til húsa Sjóminjasafn Íslands. Þessi þrjú gömlu og fallegu hús bera sig vel þar sem þau standa á nákvæmlega sama stað og þau voru upphaflega, gömlu verslunarlóð Knudsens í Akurgerði. Það má því segja að Knudsen hafi komið sér vel fyrir nú á tölvuöld, líkt og hann gerði þegar hann var með verslun í Hansensbúð, vörulager í Brydepakkhúsi og geymdi verslunarstjórann sinn í húsi Bjarna riddara.“
Hafnfirðingar hlúa að húsi frá Napólontímunum
Í Vísi 1971 er grein með yfirskriftinni „Hafnfirðingar hlúa að húsi frá Napóleonstímunum“ og fjallar um uppgerð Vesturgötu 6. Rætt var við Gísla Sigurðsson, lögregluvarðstjóra, um þær endurbætur, sem verið er verið gera á húsi Bjarna riddara Sívertsens.
„Í Hafnarfirði er verið að dytta að húsi, sem um langa hríð hefur staðið til að hresst yrði upp á og endurnýjað. Það er merkilegt hús og hefur sögulegt gildi, enda bjó þar eitt sinn Bjarni Sívertsen eða Bjarni riddari, eins og hann er líka kallaður.
Og nú eru Hafnfirðingar að gera við þetta hús til að forða því frá glötun. Um þessa björgunarstarfsemi var stofnað félag, og varaformaður þess er Gísli Sigurðsson, lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði, sem er manna fróðastur, og til hans leitaði blm. Vísis til að frétta af þessu starfi, sem er til fyrirmyndar.
Sívertsenhús og nágrenni.
Jú,“ segir Gísli. „Það er forsaga þessa máls, að Bjarni heitinn Snæbjörnsson læknir flutti erindi í Rótaryklúbbnum hérna um, að nauðsynlegt væri aö reyna að gera eitthvað til að varðveita hús Bjarna riddara og sömuleiðis væri rétt að gera tilraun til að komast yfir muni, sem voru i eigu hans. og koma þeim síðan fyrir í húsinu. Síðan var sent bréf um málið til allra félaga og samtaka í Hafnarfirði, og upp úr því var stofnað félag til að koma upp húsi Bjarna.
Fyrst þegar farið var að huga að húsinu kom það á daginn að jörð hafði hækkað umhverfis húsið: og hlaðist að því. Fyrir bragðið var húsið mjög fúið neðst. Þá var tekið til við að skipta um þann við, sem fúinn var, og vandað vel til verksins. Eitt og annað smálegt var líka gert, en þar kom, að féð þraut. Þetta var fyrir nokkrum árum. Mig minnir, að Bjarni Snæbjörnsson hafi fyrst vakið máls á þessu árið 1936.
Sívertsenhús.
Nú höfum við fengið styrk frá bæ og ríki til að lagfæra húsið. Í svipinn er verið að taka þá uppfyllingu, sem hefur safnast kringum húsið; sá jarðvegur er fjarlægður Síðan verður unnið, þar ti] búið er að ganga frá umhverfi hússins. Þá verður tekið til við endurbyggingu hússins sjálfs. Þjóðminjavörður ætlar að útvega okkur fagmenn til þess starfa, líkast til mennina, sem hafa verið að vinna í Viðey.“
Við spyrjum um sögu hússins, og þar er ekki komið að tómum kofanum hjá Gísla.
„Það er kannski ekki gott að segja fyrir víst hvenær þetta hús var byggt,“ segir Gísli. „En ég hef nú samt mínar kenningar um það, þótt ég geti því miður ekki rökstutt þær jafn óvéfengjanlega og ég vildi helzt.
En svoleiðis var, að hér úti á Langeyri stóðu verslunarhús, og 1804 dó sá, sem þar höndlaði.
Sívertsenhús.
Dánarbúið, sem var líka þrotabú, var boðið upp. Bjarni hefur greinilega haft áhuga á einu húsinu því að hann bauð í það 163 ríkisdali, en það var verslunarstjóri héðan úr Firðinum, sem það hreppti fyrir 303 ríkisdali. Ég held, að Bjarni hafi síðan gengið inn í kaupin, og látið rífa húsið og flytja þangað sem það stendur nú og byggt það þar, ofurlítið stærra, en það var í upphafi.
Þetta finnst mér líkleg skýring á tilkomu hússins, einkum af því, að á þessum árum finnst mér vafasamt, að Bjarni hafi átt skipakost til að draga að sér við til húsagerðar, ef hann mögulega gat fengið efnið á annan hátt, því að hann hafði nóg með alla aðdrætti til verslunarinnar.“
Gísli telur líklegt, að húsið hafi verið reist árið 1805, og dregur þá ályktun meðal annars af því, að til er heimild um að húsið hafi verið risið árið 1809, en árin þar á milli má segja, að Bjarni hafi haft öðrum hnöppum að hneppa en standa í húsbyggingum. Hann ferðaðist til útlanda, og var með eindæmum óheppinn í því ferðalagi, því að hann var hertekinn af skoskum víkingum og fluttur til Bretlands Honum tókst eftir langa mæðu að fá Joseph Banks í Englandi til að aðstoða sig við að losna, en þá tók ekki betra við, því að hann var varla fyrr sloppinn úr haldinu en hann lenti aftur í klóm víkinga og var fluttur til Skotlands á nýjan leik.
Sívertsenhús.
Gísli lætur ekki á sér standa að segja okkur allt, sem okkur fýsir að vita um Bjarna riddara Sívertsen, þennan merka hafnfirska borgara:
„Bjarni fæddist austur i Selvogi 6. apríl 1763. Hann virðist hafa verið mesti efnispiltur, því að Jón Halldórsson lögréttumaður í Nesi tekur hann til sín, þá 17 til 18 ára gamlan. Þá gerist það eftir tiltölulega stuttan tíma, að Jón Halldórsson drukknar, og þá er Bjarni eftir til að hugga ekkjuna. Þau giftust skömmu síðar. Hann var 21 árs og hún 37 ára og átti sjö börn. Þau Bjarni eignuðust síðan sex börn saman, og af þeim komust tvö á legg.
Til að gera langa sögu stutta, er næst að segja frá því, að verslun er gefin frjáls, og Bjarni fer að höndla á Eyrarbakka, en hrökklast þaðan vegna misklíðar við kaupmenn á staðnum.
Akurgerði og klettar ofan þess.
Síðan hélt hann til Danmerkur og festi sér Hafnarfjörð, sem verslunarstað, og umsvif hans þar ætti að vera óþarfi að rekja.“
Og við látum þetta nægja um Bjarna Sívertsen, þótt Gísli geti eflaust sagt okkur ótal margt til viðbótar. og látum það bíða þess tíma, þegar hægt verður að hlusta á framhaldið í húsi Bjarna innan um þá muni, sem þar stóðu árið 1805, þegar þeir Napóleon og Bjarni voru upp á sitt besta. — PB
Hús Bjarna riddara Sívertsens
Hús Bjarna riddara 1973.
Í Helgafelli 1943 fjallar Ágúst Steingrímsson um „Hús Bjarna riddara Sívertsens“:
„Í Hafnarfirði stendur enn hús Bjarna riddara Sívertsens, byggt 1804. Húsið er enn að mestu í upprunalegri mynd. Breytingar hafa verið smávægilegar, og mikið af viðum hússins er óskemmt með öllu, svo sem í efra gólfi, sperrum og þaki. Útveggir eru hlaðnir úr múrsteini í timburbinding. Er þetta líklega eina húsið hérlendis, sem byggt er á þennan hátt.
Sem stendur eru skrifstofur bæjarins í húsinu, en þar sem ráðhús bæjarins verður fullgert innan skamms, verða þær fluttar þangað á næstunni. Sé hið gamla hús látið standa autt og afskiptalaust, er því eyðUegging vís, áður en langt um líður. Samkvæmt skipulagsuppdrætti bæjarins á húsið líka að þoka þaðan sem það nú er, enda nýtur það sín þar illa sökum þrengsla.
Skrif Sigurðar B. Sívertsen í bók útg, 1841.
Eina ráðið til þess að bjarga húsinu frá glötun er því að flytja það. Til þess þarf nokkurt fé. En væri því fé illa varið, sem til þess færi að bjarga húsi Bjarna Sívertsens? Húsi, sem er dýrgripur á margan hátt, fallegt, hefur menningarsögulegt gildi og er síðast, en ekki sízt minnisvarði Bjarna riddara Sívertsens, sem vissulega á skilið, að minningu hans sé haldið á lofti, og engu síður fyrir það, þótt gleymst hafi að geta hans í nýútkominni Iðnsögu Íslands, hvernig sem á því stendur.
Nú, þegar menn virðast kunna að meta betur en nokkru sinni fyrr gömul menningarverðmæti, ætti fjárskortur ekki að hamla björgun hússins, eins og árar. — Verslunarstéttinni ætti að vera það metnaðarmál, að varðveitt sé minning hins fyrsta íslenska verslunarmanns, sem nokkuð kvað að. Iðnaðarmenn ættu að minnast fyrsta skipasmiðsins. Hafnarfjarðarbær ætti að hlúa að minningu eins besta borgara síns. Þjóðin öll á að læra að meta heillastörf bestu sona sinna og sýna slíkt í verki.“
-Ágúst Steingrímsson.
Hús Bjarna riddara endurbyggt og gert að safni
Hús Bjarna riddara 1994.
Í Tímanum 1973 segir; „170 ára gamalt hús gert sem „nýtt“ – Hús Bjarna riddara í Hafnarfirði endurbyggt og gert að safni:
„Fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Svo hljóðar gamall málsháttur, sem er furðu lífseigur, enda felast í honum sannindi, sem eiga við alla tíma. Sökum fjárskorts hefur ekkert verið hægt að vinna að endurbyggingu Viðeyjarstofu i ár, þótt það verk sé alllangt á veg komið. Öll fjárveitingin, sem veitt var til verksins i ár, fór til kaupa á þakskífum á bygginguna og verður að biða betri tíma og frekari fjárveitingar að koma þeim fyrir á sínum stað. Af þessu leiðir, að þeir smiðir, sem unnu við Viðeyjarstofu og allir eru vanir endurbyggingu gamalla og sögulegra húsa, geta nú sinnt öðru verkefni og eru nú önnum kafnir við endurreisn húss Bjarna Sívertsens í Hafnarfirði. Hefur því verki miðað allvel og er gert ráð fyrir að ljúka því á næsta ári, þjóðhátíðarárinu 1974.
Smiðirnir, sem verkið vinna, eru þrír. Þótt þeir hafi ekki numið endurbyggingu gamalla húsa sérstaklega, hafa þeir aflað sér nokkurrar reynslu á þessu sviði.
Sívertsenhús og Pakkhúsið.
Smiðirnir eru Gunnar Bjarnason, Leifur Hjörleifsson og Jón Guðmundsson. Er Gunnar yfirsmiður. Sjálfir láta þeir lítið yfir sérstakri kunnáttu sinni á þessu sviði, en sannleikurinn er sá, að það er ekki og allra smiða færi, þótt góðir handverksmenn séu, að fást við störf sem þessi. Gunnar Agústsson, hafnarstjóri í Hafnarfirði, sér að mestu um verkið af hálfu bæjarins, og sagði hann í viðtali við Tímann, að það hafi verið mikið lán að fá þessa menn til verksins. Því það er svo, að endurbygging gamals húss er vandasamt verk, ef gera á þær kröfur, að því verði breytt í upprunalega mynd, og er nauðsynlegt, að þeir, sem við þetta fást, hafi tilfinningu fyrir því verki, sem þeir eru að vinna og fari hvergi út fyrir þann ramma sem þeim er settur, sem er að umskapa húsið í upprunalega mynd, og gera það hvorki betra né lakara og umfram allt að láta ekki nútíma hagkvæmni sjónarmið hafa áhrif á vinnu sína. Enda er svo, að það er miklu dýrara að umskapa Sívertsenhúsið í upprunalega mynd heldur en að reisa nýtt hús af svipaðri stærð. Reynt er að nota sem mest af þeim efniviði, sem upphaflega var i húsinu, en það var byggt árið 1803. Síðan hefur því verið breytt nokkuð, en ekki svo að miklu nemi hvað snertir heildarútlit, og allar meginstoðir hússins standa enn.
Smiðir við vinnu í húsi Bjarna riddara.
Áður en vinna við húsið hófst, var fenginn hingað til lands danskur arkitekt, sem er sérfræðingur í endurbyggingu gamalla húsa. Í fyrrasumar gerði hann teikningar af frumgerð hússins, og sagði þá, að engum vandkvæðum væri bundið að gera þetta gamla hús upp og umbreyta því í upprunalegt horf. Á þeim tíma, sem hús Bjarna riddara hefur staðið, hafa verið gerðar á því ýmsar breytingar, var m.a. skipt um ytri klæðningu, og sett falskt bindiverk utan á húsið, en það hefur nú verið numið á brott. Að innanverðu hefur lítið verið átt við bygginguna. Settar hafa verið dyr milli herbergja, eldstæði breytt, en auðvelt er að sjá hverju hefur verið breytt og hvernig.
Hús Bjarna riddara var byggt í Kaupmannahöfn og flutt tilbúið til Íslands og reist í Hafnarfirði. Var þetta gert af hagkvæmnisástæðum, því að ódýrara var að smíða húsið fyrst, rífa siðan og reisa aftur á Íslandi, heldur en að þurfa að flytja óþarflega mikinn efnivið yfir úthafið. Dýr hefur fraktin verið í þá daga. Samt ber þess að geta, að Bjarni riddari var sjálfur kaupmaður og átti skip í förum, en hann var upphafsmaður þilskipaútgerðar hér á landi, sem kunnugt er.
Pakkhúsið og Sívertsenhús.
Að sögn Gunnars er búið að vinna fyrir tæpa milljón krónur í húsinu, það sem af er þessu ári. Húsið var áður i eigu Hafnarfjarðarhafnar, en er nú eign bæjarins, og er undir sérstakri umsjón þjóðminjavarðar. Upphafið að endurreisn hússins var stofnun samtaka í Hafnarfirði, sem gefið var nafnið Félagið hús Bjarna riddara. 18. okt. s.l. yfirtók bærinn húsið og allar framkvæmdir og eru fyrirmæli frá bæjarráði um að ljúka verkinu snemma á næsta ári og opna húsið með sýningu á húsinu og munum úr eigu Bjarna Sívertsen Í tilefni 1100 ára byggðar á næsta ári. Þá verða einnig sýndir munir úr sögu Hafnarfjarðar. Byggðasafnsnefnd var falið að sjá um uppbyggingu hússins. Veitir bærinn og Þjóðminjasafnið fé til framkvæmdanna.
Sofa húss Bjarna riddara.
Ætlunin er, að á neðri hæðinni verði munir úr eigu og viðvíkjandi ævistarfi Bjarna Sívertsen. Þar mun bæjarstjórn einnig hafa móttökur. Gegnir húsið þá að nokkru leyti hlutverki ráðhúss. Á efri hæðinni verða myndir og munir úr sögu Hafnarfjarðar.
Til er talsvert af munum úr búi Bjarna riddara. Í Þjóðminjasafni eru til húsgögn og fleira. Í minjasafni Hafnarfjarðar er sitthvað til, og allmargir aðilar í Hafnarfirði og viðar hafa tilkynnt, að þeir eigi muni úr búi Bjarna riddara og muni gefa þá til safnsins. Um munina i Þjóðminjasafninu er að segja, að gefið hefur verið vilyrði fyrir, að þeir fáist í hús Bjarna riddara, þegar þar að kemur.
Gunnar Ágústsson sagði, að haldið yrði látlaust áfram að vinna við húsið þar til verkinu lýkur. Haldið er í hverja nothæfa flís, sem enn er í húsinu, og annað er smíðað. Er margt af innviðum hússins, sem byggja þarf upp hrein módelsmiði. Veggfóður er rifið af, málning skafin og dúkar teknir af gólfum, og eru upprunalegu fjalirnar viðast hvar heilar, en í nokkrum herbergjum þarf að skipta um gólf.
Sívertsenhús.
Vitað er, að við bakhlið hússins var merkilegt útihús og við hæfi höfðingjaseturs. Löngu er búið að rifa það, en gamall maður man, hvernig það var útlits, og hefur verið gerð teikning af kamrinum eftir hans fyrirsögn og verður hann að sjálfsögðu reistur. Á honum voru tvennar dyr bæði utan frá og innan úr húsinu. En þótt byggingarlagið verði látið halda sér verður sett vatnssalerni í smáhúsið, þegar þar að kemur.
Í eigu byggðasafnsins eru nokkrir gamlir kolaofnar, sem notaðir voru til upphitunar. Þeir verða nú settir í þær stofur, sem bersýnilegt er, að ofnar hafa verið í. Þar verða þeir fremur sem minjagripir og er þeim ekki ætlað að hafa hagnýtt gildi, því að lofthitun verður í húsinu.
Pakkhúsið.
Við hlið húss Bjarna riddara er gamalt pakkhús, svo kallað Brydeshús, og var það einnig í eigu hafnarinnar. Þetta hús verður einnig tekið undir byggðasafnið í Hafnarf. Hús þetta var byggt sem verslunarhús árið 1862. Nokkrar breytingar verða gerðar á því, en hvergi nærri eins viðamiklar og á húsi Bjarna. Í þessu húsi verður minjasafn Hafnarfjarðar, og standa vonir til, að innan skamms fáist einnig næsta hús, sem slökkvistöðin er nú í, en hún verður brátt flutt. Í sambandi við þjóðhátíðina næsta sumar er ráðgert að setja upp sjóminjasýningu i Brydeshúsi, en allgott safn muna er til í Hafnarfirði, enda eru allar líkur á, að Sjóminjasafn Íslands rísi í Hafnarfirði, sem nánar verður skýrt frá í blaðinu.“
Elsta hús í Hafnarfirði
Við uppgerð húss Bjarna.
Í Dagblaðiðnu 1978 segir; „Elsta hús Hafnarfjarðar – Hús Bjarna riddara Sívertsen:
„Elzta hús i Hafnarfirði er hús Bjarna riddara Sívertsen að Vesturgötu 6, frá fyrsta tug 19. aldar. Húsið er varðveitt sem safn þó lítið sé til af hlutum úr heimili Bjarna.
Bjarni Sigurðsson fæddist að Nesi í Selvogi árið 1765. Kona hans Rannveig Filippusdóttir var stórættuð, nokkuð eldri en Bjarni og mun hann hafa fengið með henni auð og áræði. Árið 1790 hóf hann verslunarrekstur í Vestmannaeyjum en hann hafði áður fengist nokkuð við slíkan rekstur í heimabyggð sinni.
En hann hugsaði enn hærra og hélt sumarið 1793 til Kaupmannahafnar til að fá lán til verslunarreksturs og annarra umsvifa. Málalokin urðu góð og í byrjun næstu aldar hefur hann mörg járn i eldinum. Hann kaupir eða kemur sér upp verslunar- eða íbúðarhúsnæði á Akurgerðislóð í Hafnarfirði, kaupir jörðina Ófriðarstaði 1804 og eignast líka Óseyri og svo Hvaleyrartorfuna árið 1816. Allar þessar jarðir stórhækkuðu að mati, á meðan þær voru í eigu Bjarna. Ófriðarstaðir sem nú eru oftast nefndir Jófríðarstaðir, áttu þá land að sjó. Þar hugsaði Bjarni sér skipasmíðastöð og er hún talin fullbúin árið 1805. En þegar árið 1803 hafði þó fyrsta nýsmíðaða þilskip hans hlaupið af stokkunum. Nefndist það Havnefjords Pröven.
Akurgerði fyrrum.
Ef til vill má telja Bjarna það til fordildar að nefna öll skip sín dönskum nöfnum, taka upp eftirnafnið Sívertsen og taka í seinni tíð að dveljast i Kaupmannahöfn á vetrum. En hið jákvæða í fari hans hlýtur þó að teljast þyngra á metum, dugnaður, fjölhæfni og hjálpsemi. Einkum kom þetta í ljós í sambandi við utanför Bjarna árið 1807. Honum og öðrum skipverjum var ókunnugt um ófriðinn milli Englendinga og Dana og kom mjög á óvart að vera af þeim fyrrnefnda neyddir til að halda til Skotlands. Er ekki að orðlengja það að alls voru það orðin um 15 Íslandsför sem Englendingar höfðu kyrrsett þar í höfnum. Auðséð er af samtíma skjölum að þáttur Bjarna að farsælli lausn þessara mála var ekki lítil. Kom þar, að öll Íslandsförin voru látin laus.
Húsið Vesturgata 6 er talið vera elsta hús Hafnarfjarðar, byggt af Bjama riddara Sívertsen líklega árið 1805. Þangað kom Kristján konungur IX 1874. Þar áttu verslunarstjórar Knudtzons verslunar löngum heima, en eftir að sú verslun lagðist niður og áður en Brydesverslun kom til sögunnar, mun Jón Steingrímsson trésmiður hafa búið þar. En arið 1902 fluttist verslunarstjóri Brydesverslunar í þetta hús, Jón Gunnarsson.
Það var sumarið 1809 að hinn kunni Jörundur hundadagakonungur var hér. Þótt Jörundur væri í sjálfu sér ekki óvinsæll þá komu hér öðru hvoru enskir ævintýramenn, sjóræningjar sumir hverjir, sem vitanlega var best að vera laus við. Valdi Trampe stiftamtmaður, Bjarna og annan mann til Englandsfarar til að stemma stigu við þessu. Var þetta hin mesta trúnaðarför, og sýnir valið á Bjarna bezt það traust, sem stiftamtmaður bar til hans. En valið var viturlegt, því að vegna hinna fyrri afskipta sinna af verslunarmálum Íslendinga í Bretlandi hlaut Bjarni að standa betur að vígi en flestir aðrir til að koma þar fram fyrir hönd þjóðar sinnar. Þaðan hélt Bjarni til Kaupmannahafnar þar sem hann var sæmdur riddarakrossi af Danakonungi árið 1812.
Sívertsenhús og nágrenni.
Eftir þetta rak Bjarni verslun sína farsællega og gerðist auðugur maður. Var hann sjálfur i förum milli landa og sat á vetrum í Kaupmannahöfn en leit á sumrum eftir verslun sinni í Hafnarfirði.
Árið 1825 dó kona hans og um hana orti Bjarni Thorarensen þekkt eftirmæli. Sonur þeirra, Sigurður, kvæntist Guðrúnu, systur Helga biskups Thordersen. Árið 1832 fluttist Bjarni alfarinn til Kaupmannahafnar, en hafði árið áður kvænst danskri konu. En þegar hér var komið átti hann ekki langt eftir ólifað. Hann andaðist árið 1833 og hvílir í danskri mold.“
-GAJ.
Bjarni og Byggðasafn Hafnarfjarðar
Pakkhús – sýning.
Í Morgunblaðinu 1984 segir; „Af Bjarna Sívertsen og Byggðasafni Hafnarfjarðar — rætt við Gísla Sigurðsson fyrrv. lögregluþjón“:
„Gísli Sigurðsson fyrrum lögreglumaður og safnvörður Byggðasafnsins í Hafnarfirði man tímana tvenna, en hann fluttist til Hafnarfjarðar fyrir rúmlega 70 árum. Þar starfaði hann lengst af sem lögregluþjónn, en gegndi jafnframt starfi safnvarðar Byggðasafns Hafnarfjarðar og starfaði mikið á vegum safnsins. Blm. Mbl. tók Gísla tali þar sem hann býr á Hrafnistu í Hafnarfirði og byrjaði ég á því að spyrja hann um bernsku hans og uppvaxtarár.
Ég er fæddur á Sólheimum í Hrunamannahreppi árið 1903 og ólst þar upp hjá foreldrum mínum, Sigurði Gíslasyni og Jóhönnu Gestsdóttur, en þau voru þar í vinnumennsku, sagði Gísli.
Gísli Sigurðsson, foreldrar og systkini.
Árið 1911 fluttust þau til Hafnarfjarðar og höfðu þá eignast fimm börn. Þar gekk ég í barnaskóla og var fermdur 1917. Eftir ferminguna fór ég strax í verkamannavinnu. Sumarið 1918 vann ég í mótekju en svo fór ég á eyrina. Næsta áratuginn vann ég aðallega hjá Edinborg sem synir Ágústs Flygenring voru með. Þetta fyrirtæki gerði út togarann Ými frá 1919 til 1928 og var hann annar af tveim togurum sem gerðir voru út frá Hafnarfirði þessi ár. Ágúst Flygenring var þá forstjóri Landverslunarinnar og hafði kolasöluna í Hafnarfirði eftir stríðsárin. Veturinn 1918 varð Hafnarfjörður alveg kolalaus og var þá eldað við mó í hverju einasta húsi. Þetta kolaleysi varð erfitt fyrir fólk því miklir kuldar voru þá um veturinn.
NÆTURVAKTIN
Gísli Sigurðsson.
Hvenær byrjaðir þú svo í lögreglunni hér í Hafnarfirði?
— Það var 1. júní 1930 að ég fór í lögregluna. Þá voru starfandi hér 3 lögregluþjónar. Það var venja að þeir sem voru að byrja hefðu næturvaktina og var ég á næturvakt fyrstu árin. Þá var maður á ferli um götur bæjarins frá kl. 9 á kvöldin til kl. 6 á morgnana allan ársins hring.
Þetta átti ekki illa við mig — ég var einrænn og einþykkur í skapi og var alveg sama þótt ég sæi ekki mann nótt eftir nótt. Nei, það var yfirleitt ekki mikið að gera, enda Hafnfirðingar ákaflega löghlýðið fólk. Það var líka minna um að vera á þessum árum — bílar voru t.d. sárafáir og kom varla fyrir að árekstur yrði. Að vísu þurftum við jafnan að fylgjast með dansleikjum sem þá voru haldnir á Hótel Birninum og vera tagltækir ef eitthvað bar út af, sem sjaldnast varð. Í jafn spökum kaupstað og Hafnarfirði þurfti maður yfirleitt aldrei að skipta sér af fólki. Þá þurftum við alltaf að vera tollvörðum til aðstoðar þegar skip komu að utan. Þetta var á bannárunum og var aðallega verið að ganga úr skugga um að skipverjar reyndu ekki að komast með sterkt vín til landsins. Þá tíðkaðist það að eiginkonur skipverja á togurunum fóru með þeim til Englands í einhverri vorferðinni og var þá mikið keypt. Ég man að það var alltaf glatt á hjalla þegar við vorum að tollskoða er skipin komu úr þessum ferðum og þarna eignaðist maður marga vini og hefur sú vinátta haldist síðan.
Bruggtæki.
Var bruggað í Firðinum á þessum árum?
— Já, það komu upp nokkur mál og maður komst í það að leita hjá mönnum að bruggi og bruggunartækjum. Þá fóru lögreglumennirnir í Hafnarfirði mikið út i sýsluna í landaleit með Birni Blöndal sýslumanni. Ég slapp hins vegar við þessar ferðir að mestu þar sem ég var með næturvaktina þessi ár. Svo voru bannlögin numin úr gildi 1934 og þar með var bruggið að mestu úr sögunni.
Það var ágætt að vera í lögreglunni á þessum árum þótt aðstaðan væri engin sem við höfðum, því lögreglustöð fengum við ekki fyrr en 1939.
Nú hefur þú starfað mikið að byggðasafnsmálum hér í Hafnarfirði og verið safnvörður við Byggðasafnið í áratugi — hvað varð til þess að þú hófst að sinna þessu verkefni?
BYGGÐASAFN HAFNARFJARÐAR
Gísli Sigurðsson, minjavörður
— Árið 1953 var sett á laggirnar byggðasafnsnefnd hér í Hafnarfirði og fór svo að ég var skipaður í hana ásamt Óskari Jónssyni útgerðarmanni, sem var formaður nefndarinnar, og Grími Andréssyni kaupmanni.
Varð það mitt hlutverk að fara á milli góðbúa og safna munum. Hugur okkar stóð mjög til að vernda hús Bjarna Sívertsen riddara og þar höfðum við sterkan bakhjarl þar sem var Bjarni Snæbjörnsson læknir, en hann var mikill áhugamaður um að húsið yrði verndað og gert upp. Bæjarskrifstofur Hafnarfjarðar höfðu þá lengi verið þarna til húsa og voru nýlega fluttar þaðan en húsvörðurinn bjó ennþá á loftinu.
Húsið var fremur illa farið en þeir munir sem söfnuðust voru geymdir þar fyrstu árin. Nokkrum árum síðar fengum við til umráða Knudtzons-pakkhúsið og voru munirnir þá fluttir þangað.
Hús Bjarna riddara var svo grandskoðað og endurbyggt í fyrri mynd.
Bjarni Sívertsen
Við uppgerð húss Bjarna.
Hús Bjarna Sívertsen mun hafa verið byggt árin 1703—05, en pakkhúsið þar sem safnið er nú til húsa ekki fyrr en 1862. Ég hef alltaf haft mikla intressu fyrir Bjarna Sívertsen og hans fjölskyldu enda var Bjarni hinn merkasti maður þótt ekki ætti hann til stórra að telja. Skírnarnafn hans var Bjarni Sigurðsson og réðst hann ungur til Rannveigar Filipusdóttur og Jóns Halldórssonar í Selvogi á Suðurnesjum. Nokkru síðar drukknaði Jón og tók Bjarni saman við ekkjuna sem þó var tveimur áratugum eldri en hann.
Þau Jón og Rannveig höfðu verið töluvert efnuð og hefur það eflaust ráðið miklu um þennan ráðahag Bjarna.
Til Hafnarfjarðar fluttist Bjarni 1790 og höfðu þau Rannveig þá eignast fimm börn. Bjarni hóf hér verslun og jafnframt umfangsmikla þilskipaútgerð og skipasmíðar. Hann mun hafa gert út ein 13 skip í fisk og siglingar og voru það talin geysileg umsvif á þessum árum, er Íslendingar voru heldur framtakslitlir almennt.
Gísli með kíki Bjarna.
Það sést á ýmsu að Bjarni var harður í horn að taka og hafði góða hæfileika til að koma ár sinni fyrir borð ef því var að skipta. Þegar Jörundur hundadagakóngur sló eign sinni á Ísland var ófriður milli Dana og Englendinga, og hafði Bjarni lent í því að vera kyrrsettur í Skotlandi meðan á þessum ófriði stóð. Félagi Jörundar sem stóð með honum að hernámi Íslands, Gilpin að nafni, tók sér það fyrir hendur að ræna hér Jarðabókarsjóðnum. Þetta var gildur sjóður sem notaður var til að greiða úr öllum embættismönnum á Íslandi. Bjarni hafði fregnir af þessu til Skotlands og tókst honum með harðfylgi að fá því framgengt að Gilpin var neyddur til að skila Dönum sjóðnum, sem varla hefur verið auðvelt. Fyrir þetta var Bjarni sleginn til riddara.
Bjarni Sívertsen.
Bjarni varð þó ekki gæfumaður að öllu leyti. Aðeins eitt af fimm börnum þeirra Rannveigar lifði til fullorðinsára. Það var Sigurður Bjarnason Sívertsen kaupmaður í Reykjavík. Hann var einstakt ljúfmenni en hafði ekki erft hæfileika föður síns til kaupmennsku. Kona hans var Guðrún Guðmundsdóttir og var mikill skörungur — hún hafði greiðasölu fyrir alþingismenn í Reykjavík og steypti einnig kerti. Dauða Sigurðar bar að með einkennilegum hætti en hann var á miðjum aldri er hann andaðist. Eitt sinn er Sigurður er á gangi í Reykjavík tekur hann eftir því að úrið hans er stoppað. Hann fór þá inn til úrsmiðs að láta líta á það en hnígur svo niður látinn þar í búðinni. Eftir að Rannveig dó tók Bjarni sér danska bústýru sem var miklu yngri en hann og eignuðust þau eina dóttur saman. Þau bjuggu síðustu árin í Kaupmannahöfn og þar dó Bjarni 1833, þá nýgiftur barnsmóður sinni. Frá Járngerði dóttur þeirra er kominn mikill ættgarður í Noregi og munu ekki færri en 200 manns rekja ættir sínar til hennar. Sjálfur var Bjarni ættaður úr Flóanum og liggja ættir okkar einhvers staðar saman.
Hvernig gekk þér að afla muna til Byggðasafnsins?
150 ÁRA GAMALL ÁRABÁTUR?
Bátur á Byggðasafni Hafnarfjarðar.
— Það gekk allvel og menn voru furðu fúsir á að láta af hendi verðmæta gripi til okkar. Þó vorum við búnir að missa úr höndum okkar mikið safn sem Andrés Johnson rakari hafði dregið saman hér í Hafnarfirði, en það voru alls um 25 þúsund munir. Safn Andrésar fór allt til Þjóðminjasafnsins og stendur Ásbúðarsafn saman af því.
Samt gekk okkur furðu vel að efna til safnsins. Það má nefna hluti eins og gamla kistla, koffort og hljóðfæri, auk allra helstu veiðarfæra frá skútuöldinni. Þá leitaði ég uppi alla rokka, hesputré og kamba, og er sumt af því sem safnaðist trúlega orðið mjög gamalt þó erfitt sé að segja nákvæmlega til um aldurinn. Þá tókst mér að ná í árabát sem að minnsta kosti er 100 ára gamall og e.t.v. 150 ára. Síðasti eigandi hans var Helgi Guðmundsson frá Melshúsum sem reri honum lengi til grásleppuveiða.
Hvernig náðirðu í þennan bát?
— Ég tók hann hreinlega í fjörunni þar sem Helgi hafði dáið frá honum. Það voru svo borgaðar fyrir hann 750 kr. til ættingja Helga að mig minnir. Aðrir gamlir munir í safninu sem vert er að minnast á eru borðstofuborð og stólar úr búi Bjarna Sívertsen, en við borðið gátu setið 18 manns þegar gestkvæmt var á þessu rausnar heimili.“
-Viðtal: Bragi Óskarsson
Hafnarfjörður um miðja 19. öld.
Þannig var… – Byggðasafn Hafnarfjarðar
Björn Pétursson, núvernadi forstöðumaður Byggðasafns hafnarfjarðar skrifaði lokaverkefni til MA–gráðu í safnafræði við Háskóla Íslands 2014. Þar rekur hann sögu Byggðasafnsins og skrifar m.a.:
Upphafið
Hafnarfjörður fyrrum – 1772.
„Formlegt upphaf Byggðasafns Hafnarfjarðar má rekja til fundar í bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í janúar 1953. Þar voru til umfjöllunar breytingar á fjárhagsáætlun bæjarsjóðs og lögðu fulltrúar Alþýðuflokksins fram tillögu undir liðnum „Hellisgerði o.fl.“ þar sem fram kemur í c-lið að veita skuli 10.000 kr. til byggðasafns. Ekki eru neinar frekari skýringar á þessari tillögu en hún var send eins og áætlunin í heild til samþykktar bæjarráðs og var samþykkt þar.
Gísli Sigurðsson.
Samkvæmt munlegum sögusögnum í bænum var það einkum lögregluvarðstjórinn, Gísli Sigurðsson, sem lagði hart að bæjarfulltrúunum að hrinda þessu verki í framkvæmd en ekki hafa fundist neinar heimildir er styðja þá sögu þó vissulega verði hún að teljast ansi líkleg.
Óskar Jónsson framkvæmdastjóri bar fram tillöguna um fjárveitingu til byggðasafnsins og samkvæmt viðtali sem tekið var við hann og birt í Alþýðublaðinu var hugmyndin „að safna saman og varðveita frá glötun gamla muni, sagnir og myndir úr atvinnu- og menningarlífi Hafnfirðinga fyrr á tímum, eins gömlum og til næst, og koma þessu fyrir í safninu.“
Spil við Helgustaði.
Þegar Byggðasafn Hafnarfjarðar var stofnað voru í gildi fyrstu lög um byggðasöfn sem samþykkt höfðu verið hér á landi, lög númer 8 frá 12. febrúar 1947, og báru nafnið „Lög um viðhald fornra manvirkja og um byggðasöfn“. Athyglisvert er að þegar þessi lög voru sett var ekkert starfandi byggðasafn á landinu en þó var söfnun hafin á nokkrum stöðum.
Þegar Byggðasafn Hafnarfjarðar var stofnað árið 1953 var ekkert friðað hús í eigu ríkisins í bænum. Strax í upphafi komu upp hugmyndir um að koma safninu fyrir í Sívertsens-húsinu við Vesturgötu. Í frétt Alþýðublaðsins frá því í janúar 1953 er þessi hugmynd viðruð en þar sagði „Sívertsenshúsið var íbúðarhús Bjarna riddara og fjölskyldu hans frá því um aldamótin 1800 til 1835. Þetta hús er því um 150 ára gamalt, og sögufrægt að því leyti, að það var bústaður Bjarna, sem mestan þátt átti í viðgangi Hafnarfjarðar á þeim tíma.
Hellisgerði 1942.
Er það gömul hugmynd, að flytja það í Hellisgerði, sem er skrúðgarður Hafnfirðinga, og verður það þá væntanlega gert sem líkast úr garði og það var á árum Bjarna riddara.“
Í annarri frétt, sem birtist í Morgunblaðinu kemur hugmyndin um flutning Sívertsens-hússins aftur fram en þar sagði „Komið hefur til tals, að byggðasafnið yrði í svokölluðu Sívertsenhúsi, en í því bjó Bjarni riddari Sívertsen frá því árið 1800 til 1835. Er þetta elzta hús í Hafnarfirði, um 150 ára gamalt. … Stungið hefur verið upp á því, að húsið yrði flutt í Hellisgerði, skrúðgarð Hafnfirðinga, og gert þá sem líkast úr garði og það var í tíð Bjarna Sívertsens. Þó telja margir, að við flutning hússins þangað, myndi það tapa sínum upphaflega svip, því að miklum erfiðleikum er bundið að flytja það. Allt er enn í óvissu, hvort af þessum flutningi verður.“
Stiginn upp á loftið í húsi Bjarna.
Ef til vill er þarna að finna skýringuna á því hversvegna stofnun byggðasafns var sett undir liðinn „Hellisgerði ofl.“ í fjárhagsáætlun bæjarins þegar stofnað var til þess. Þessi hugmynd, að varðveita Sívertsens-húsið, er þó enn eldri. Sívertsens-húsið hafði verið eign Hafnarsjóðs Hafnarfjarðar frá árinu 1924 og voru bæjarskrifstofur Hafnarfjarðar þar til húsa á árunum 1930-1944. Þegar bæjarskrifstofurnar fluttu úr húsinu komu upp ýmsar hugmyndir um hvaða hlutverk þetta sögufræga hús ætti að fá en snemma kom upp hugmynd um að varðveita það í upphaflegri mynd. Eftir umræður í bæjarstjórn var bæjarstjóra falið að ræða við hafnaryfirvöld um málið og lauk þeim samræðum með því að snemma árs 1944 var samþykkt í hafnarstjórn að afhenda húsið endurgjaldslaust til bæjarstjórnar enda skuldbatt bæjarstjórnin sig til að láta gera húsið upp og varðveita það í upprunalegri mynd. Hvenær hugmyndin skýtur fyrst upp kollinum er erfitt að segja en að öllum líkindum kom hún fyrst fram opinberlega þegar Ágúst Steingrímsson tæknifræðingur og fyrrverandi bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði ritaði grein um málið í tímaritið Helgafell árið 1943. Hann átti einnig fyrstur manna hugmyndina að því að flytja húsið í Hellisgerði. Sú hugmynd hans kom fram í bréfi sem hann sendi Málfundafélaginu Magna árið 1946 en málfundafélagið sá um og rak Hellisgerði á þessum tíma. Í því bréfi gekk hann þó enn lengra en einungis að varðveita húsið, því þar kemur fram sú hugmynd að láta húsið hýsa byggðasafn.
Hellisgerði fyrrum.
Magna-menn brugðust við þessu bréfi með því að rita bæjarstjórn Hafnarfjarðar erindi um málið. Bæjarstjórn brást við því á þann hátt að lýsa sig reiðubúna til viðræðna en óskaði þess jafnframt að Málfundafélagið Magni hefði forgöngu um að stofna nefnd og fá félagsamtök í bænum til að taka þátt í verkefninu. Tveimur árum síðar var svo samþykkt í bæjarráði að leggja til við bæjarstjórn Hafnarfjarðar að bærinn yrði aðili að samkomulagi um athuganir á flutningi og varðveislu á húsi Bjarna Sívertsen. Rúmum mánuði síðar var það samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Fulltrúa í þessari nefnd áttu, auk bæjarstjórnar, Málfundafélagið Magni, Útgerðarmannafélag Hafnarfjarðar, Iðnaðarmannafélag Hafnarfjarðar og Kaupmannafélag Hafnarfjarðar.
Safnkosturinn
Hafnarfjörður 1890.
Þegar samþykkt var að stofna Byggðasafn Hafnarfjarðar árið 1953 hafði nokkur söfnun átt sér stað í bænum en þó var enn vitað af munum sem voru varðveittir hjá bæjarbúum. Ein af ástæðum þess að safnið var stofnað var að menn óttuðust að þessir gripir glötuðust ef þeim yrði ekki safnað saman og varðveittir á viðurkenndu safni. Í frétt frá árdögum Byggðasafns Hafnarfjarðar, sem birtist í Morgunblaðinu, sagði meðal annars: „Það sem vakir fyrir bæjarráði með stofnun byggðasafns, er að varðveita frá glötun gamla muni, sem kunna að vera til í Firðinum frá fyrri tímum — sömuleiðis allan þann fróðleik, er varðar atvinnu- og menningarlíf Hafnfirðinga. Eitthvað mun vera til af munum í Firðinum, sem kæmi til mála að setja á hið tilvonandi safn. T.d. er hér elzti rafall á Íslandi, sem Jóhannes Reykdal flutti til landsins og notaði til raflýsingar fyrstur manna hér á landi. —
Gísli Sigurðsson, minjavörður. með einn gripanna.
Ýmsir aðrir gamlir munir eru til í Firðinum, sem ekki má draga öllu lengur að koma fyrir á einn stað, ef þeir eiga ekki að gleymast eða týnast.“12 Auk þessa hafði upplýsingum um lifnaðarhætti og menningu verið safnað í Hafnarfirði um nokkurt skeið og í fréttum af stofnun safnsins var komið inn á þá söfnun. Í Alþýðublaðinu sagði „Áhugi á því að varðveita fornan fróðleik og minjar frá glötun virðist vera mikill í Hafnarfirði. En vafalaust er þó Gísli Sigurðsson starfsamastur allra áhugamanna í því efni. Hann hefur um skeið safnað með viðtölum við aldraða Hafnfirðinga lýsingum á gömlum húsum, húsbúnaði, staðháttum í bænum og atvinnuháttum, og einnig hafa fléttast inn í þetta gamlar minningar og sagnir og örnefni. Hvernig bærinn var fyrir aldamót.
Gísli sagði, er blaðið ræddi við hann um þessa söfnun hans í gær, að hann leitaðist fyrst og fremst við að afla lýsinga af bænum eins og hann var fyrir aldamót. Mesta rækt hefur hann lagt við að skyggnast inn í líf alþýðunnar, t.d. fá að vita, hvernig húsbúnaður var í gömlu bæjunum og annað slíkt.“
Hagldir úr horni.
Morgunblaðið fór nokkuð betur ofan í þetta en þar sagði að „Nokkrir Hafnfirðingar hafa á undanförnum árum safnað miklum fróðleik úr lífi fólks í Firðinum frá fyrri tímum, sem vissulega kemur að góðum notum fyrir væntanlegt byggðasafn.
Hefur Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn, verið einna skeleggastur í söfnun alls konar gamals fróðleiks. Hann hefur til dæmis gert sér far um að kynnast, hvernig gömlu bæirnir voru útlítandi í Hafnarfirði fyrir aldamót og jafnframt um fyrirkomulag innan húss. Einnig hefur hann kynnt sér, svo sem kostur hefur verið á, hvar bæirnir stóðu. Sömuleiðis hefur Gísli viðað að sér miklum fróðleik um líferni Hafnfirðinga fyrir aldamót. Mestar og beztar upplýsingar hefur hann fengið hjá öldruðum Hafnfirðingum, en einnig af gömlum sögnum og örnefnum. Gísli Sigurðsson hefur með söfnun þessa fróðleiks, varðveitt frá glötun þann fjársjóð, sem getur orðið uppistaðan í væntanlegu byggðasafni Hafnfirðinga.“
Elstu fundargerðir byggðasafnsnefndar eru því miður glataðar en Gísli rekur upphafsárin ágætlega í viðtali sem tekið var við hann og birt í blaðinu í Hamri í tilefni af 50 ára afmæli Hafnarfjarðarkaupstaðar árið 1958. Þar kemur hann meðal annars að munasöfnuninni í árdaga Byggðasafns Hafnarfjarðar en þá hafði safnið fengið Sívertsenshúsið til afnota. Þar kemur fram að söfnun muna hafi farið af stað strax og safnið var stofnað og fljótlega eftir að það fékk Sívertsens-húsið afhent hafi verið fluttir þangað um 200 munir.
„Húsið var ekki í sem beztu ástandi og þurfti því mikillar viðgerðar við. Þegar nefndin fékk það undir hendur var efri hæð þess leigð út og síðan hefur allt húsið verið hitað upp.
Munir Byggðasafnsins.
Þessir tvö hundruð munir voru flestir frá sjóvinnu ýmis konar, en síðan hefur bætzt það mikið við safnið, að það telur nú um sjöhundruð skrásetta muni. Auk þessa eru enn fjölmargir hlutir, sem safnið á, eða hefur fengið vilyrði fyrir, sem enn eru geymdir víðsvegar um bæinn, vegna þess hve húsnæði safnsins er ófullnægjandi. Allur gólfflötur hússins er aðeins 8 x 14 mtr. að flatarmáli og segir það sig sjálft, að svo lítið húsnæði fullnægir engan veginn þeim kröfum, sem gera verður til húsnæðis fyrir gott byggðasafn. Tillaga byggðasafnsnefndarinnar til lausnar þessu vandamáli er sú, að safnið fái einnig stóra pakkhúsið, sem stendur við hliðina á Sívertsenshúsi. En það mun vera byggt um 1840 og er því í tölu allra elztu húsa hér í Hafnarfirði og þess vegna mjög æskilegt til þessara nota.“
Teikning að fyrirhuguðu sjóminjasafni á Skerseyri við Hafnarfjörð.
Síðar í sama viðtali telur Gísli upp nokkra helstu muni safnsins og gefur sú upptalning nokkuð góða mynd af safnkostinum eins og hann var á fyrstu árum safnsins. Þar er meðal annars haft eftir Gísla: „Áhugi Hafnfirðinga fyrir byggðasafninu hefur komið mjög glögglega í ljós með hinum rausnarlegu gjöfum, sem því hafa borizt frá mörgu fólki. Eins og áður er sagt er mikill hluti safnsins
viðkomandi sjóvinnu og er það ekki einkennilegt, þegar athuguð er saga og atvinnuhættir Hafnarfjarðar.
Áður en Byggðasafn Hafnarfjarðar var stofnað höfðu tveir aðilar stundað markvissa söfnun á gömlum munum í bænum og hvorugt þeirra safna endaði á Byggðasafni Hafnarfjarðar. Ásbúðarsafn, sem Andrés Johnson rakari í Ásbúð við Hafnarfjörð hafði safnað saman árum saman, keypti ríkið og setti á Þjóðminjasafn Íslands en hitt var safn muna er Þorgerður Bergmann safnaði og endaði það á Árbæjarsafni í Reykjavík. Er rétt að staldra hér við og skoða þessi söfn nánar þar sem söfnun þessara einstaklinga, svo og stofnun Sjóminjasafns Íslands í Hafnarfirði síðar höfðu töluverð áhrif á safnkost Byggðasafns Hafnarfjarðar.
Safn Þorbjargar Bergmann
Mikilsmetin hjón ein bjuggu í Hafnarfirði í upphafi 20. aldar. Þau sem hér er átt við voru Sigfús Bergmann og kona hans Þorbjörg Sigurðardóttir Bergmann. Sigfús var kaupmaður í bænum en lét þó einnig ýmis önnur málefni kaupstaðarins sig varða. Hann var til dæmis kjörinn í fyrstu bæjarstjórn Hafnarfjarðar, var frumkvöðull að stofnun sjúkrasamlags í bænum, var framkvæmdastjóri trésmiðjunnar Dvergs um tíma og einn af eigendum gosdrykkjaverksmiðjunnar Kaldá, sem var sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi auk þess sem hann átti hlut í nokkrum útgerðum í bænum. Þau Sigfús og Þorbjörg reistu sér hús við Strandgötuna, aðal verslunargötu bæjarins, þar sem verslunin var á jarðhæð en íbúð á tveimur hæðum þar fyrir ofan. Verslaði hann þar bæði með matvöru og álnavöru.
Þau hjónin voru mjög virk í þessari söfnun sinni þó Þorbjörg hafi sannarlega staðið þar við stjórnvölin. Líf Þorbjargar tók nýja stefnu árið 1918 þegar Sigfús lést úr spænsku veikinni. Flutti hún þá úr íbúð sinni en bjó þó um sinn áfram í sama húsinu en leigð það út að mestu. Þar bjó hún til ársins 1930 er hún flutti til Reykjavíkur til Huldu, dóttur sinnar, og eiginmanns hennar, Einars Sveinssonar. Þorbjörg lést 14. maí 1952 en fyrir dauða sinn gaf hún skýr fyrirmæli um að safn hennar dreifðist ekki og að ekkert af því færi úr landi.
Árbæjarsafn – Árbær.
Dóttir hennar og tengdasonur færðu Reykvíkingafélaginu safnið að gjöf nokkrum mánuðum eftir dauða Þorbjargar sem nokkrum árum síðar gaf safnið áfram, með samþykki gefendanna, til Árbæjarsafns. Hafa verður í huga að þegar hér er komið sögu er þegar búið að stofna Byggðasafn Hafnarfjarðar en við ritun þessarar ritgerðar fundust engar heimildir um að komið hafi til tals að gefa safnið þangað. Það hefði þó verið eðlilegur gjörningur þar sem megnið af umræddum gripum var safnað í Hafnarfirði, mun eðlilegri en að gefa gripina á byggðasafn þeirra Reykvíkinga.
Bergmanns fjölskyldan um 1910. Sigfús Bergmann kaupmaður lést 1918 úr spönsku veikinni. 1920 lést Hrefna elsta dóttirin og 1922 lést Hulda miðjudóttir þeirra hjóna. Þorbjörg hélt áfram rekstrinum í húsi þeirra við Strandgötu í Hafnarfirði fram til 1936 að hún flutti til dóttur sinnar í Reykjavík.
Minjasafn Þorbjargar Bergmann var mjög mikilvægt fyrir safnið í Reykjavík og til vitnis um það má vitna í frétt Tímanns af opnun Árbæjarsafns en þar sagði: „Skjala- og minjasafn Reykjavíkurbæjar í Árbæ verður opnað almenningi á sunnudaginn kl. 2 að viðstöddum mörgum gestum. Verður safnið opið eitthvað fram eftir haustinu. Fyrir skömmu barst því hin veglegasta gjöf frá Reykvíkingafélaginu, en það er mjög verðmætt safn ýmissa muna, sem frú Þorbjörg Bergmann í Hafnarfirði hafði safnað. Fer það nú í Árbæ með samþykki fyrri gefenda.“
Af þessu má sjá að safn það sem Þorbjörg safnaði saman í Hafnarfirði á fyrri hluta 20. aldar var merkilegt safn og í sjálfu sér uppistaðan í munasafni Árbæjarsafns á upphafsárum þess. Munir sem hefðu skipt sköpum fyrir Hafnarfjörð á þeim árum sem unnið var að því að koma Byggðasafni Hafnarfjarðar á fót.
Ásbúðarsafnið
Annar safnari sem verið hafði afkastamikill í Hafnarfirði á fyrri hluta 20. aldar, áður en Byggðasafn Hafnarfjarðar var sett á fót, var Andrés Johnson eða Andrés í Ásbúð eins og hann var jafnan kallaður. Bakgrunnur Andrésar var sá að hann fæddist á Leifsstöðum í Selárdal í Norður-Múlasýslu laugardaginn 5. september árið 1885. Ungur flutti hann til Vesturheims en er hann snéri aftur settist hann að í Hafnarfirði og gerðist hárskeri þar. Við komuna til Hafnarfjarðar hóf hann að safna að sér hverskonar forngripum og munum sem notaðir voru í gamla íslenska bændasamfélaginu áður en hin mikla atvinnubylting tuttugustu aldarinnar gerbreytti samfélaginu.
Gripur úr Ásbúðarsafninu.
Varð þessi söfnun fljótlega mjög umfangsmikil og lét hann ekki nægja að safna munum í Hafnarfirði og nágrenni hans heldur hélt hann í ferðir út um allt land í þeim tilgangi að safna gömlum munum. Eflaust hefur þessi hegðun hafnfirska rakarans þótt nokkuð undarleg enda ekki algengt áhugamál á þessum tíma. Hins vegar varð hann það þekktur fyrir þetta áhugamál sitt að menn fóru að bjóða honum muni og jafnvel að safna fyrir hann að einhverju leyti. Til eru frásagnir af því að hann hafi jafnan rætt um þessi mál við viðskiptavini sína á rakarastofunni og þá hafi margir komið þangað færandi hendi og gefið muni úr þeirra eigu. Í frétt sem skrifuð var í blaðið Frjáls Þjóð árið 1955 í tilefni af opnun sýningar á þessum munum sagði meðal annars um Andrés: „Nú eru gripir í safni hans orðnir um eða yfir 25.000. Það mun láta nærri, að nær allir þeir fjármunir, sem Andrés hefur unnið fyrir um dagana, umfram það er hann þurfti sér til lífsframfæris, hafi farið fyrir safngripi. Það er mikil fórn fyrir óarðbært hugsjónastarf.
Árbær 1948.
En annað, sem dýrmætara er og miklu sjaldgæfara en peningar, hefur þó verið lagt í þetta starf. Það er eljan og þrautseigjan, tryggðin og staðfestan við torsótt verkefni. Menn geta vart gert sér fulla grein fyrir því, hve mikla árvekni og þolinmæði það hefur kostað að ná þessum munum öllum saman.“
Alla þessa muni dró Andrés heim í hús sitt, Ásbúð, við Hafnarfjörð en húsið var ekki stórt og fór svo áður en langt um leið að plássleysi var farið að hamla þessari söfnun. Brást Andrés við því árið 1942 með því að leggja erindi fyrir Alþingi þar sem hann bauð safn sitt til kaups með tilgreindum skilyrðum. Varð það úr og eins og sést á frétt um byggingu Þjóðminjasafnsins sem birtist í Ingólfi árið 1944 varð þetta safn ein af burðarstoðum Þjóðminjasafnsins á þessum tíma, í fréttinni sagði meðal annars: „Þjóðminjasafnið. Alþingi hefur veitt þrjár millj. króna til að gera yfir það hús. Hið væntanlega stórhýsi á ekki einungis að rúma Forngripasafnið gamla heldur einnig Iðnminjasafn, Sjóminjasafn, Mannamyndasafn, svonefnt Ásbúðarsafn, … og söfn, sem kennd eru við einstaka menn: Jón Sigurðsson o.fl. Sömuleiðis listasafn. … Má því og vænta, að bundinn verði bráður bugur að því að reisa þetta langþráða skýli yfir hið stórmerka safn þar sem það er m.a. nokkurn veginn óhult fyrir bruna.“
Í Þjóðminjasafninu.
Til að gera ljóst hve stórt Ásbúðarsafn var í sniðum er rétt að tína til það sem skrifað var um safnið þegar það var formlega opnað í Þjóðminjasafninu á sjötugs afmæli Andrésar 1955. „Í Gær opnaði Þjóðminjasafnið Ásbúðarsafn, er safnað er af Andrési Johnson í Ásbúð í Hafnarfirði, á 70 ára afmæli hans. Er þetta stærsta minjasafn, sem nokkur Íslendingur hefur dregið saman. Safnið kom í eigu Þjóðminjasafnsins árið 1944, með sérstökum samningi við safnara þess. … Ásbúðarsafnið er geysi mikið safn.
Sjóminjasafn Íslands
Þá er komið að þriðja stóra safninu sem hvarf úr Hafnarfirði en það er Sjóminjasafn Íslands.
Hvenær fyrstu hugmyndir um sjóminjasafn kviknuðu í Hafnarfirði er ekki gott að segja en með nokkurri sanni má rekja það aftur til aldamótanna 1900 þegar skólastjórinn í Flensborgarskólanum, Jón Þórarinsson, lagði fram sínar hugmyndir um „fiskiáhaldasafn“.
Aðdragandinn að skrifum Jóns um þessi málefni var sá að árið 1898 sótti hann sjóminjasýningu í Bergen í Noregi. Taldi hann mikilvægt að stofnað yrði sjóminja-, eða fiskiáhaldasafn hér á landi en ekkert varð þó úr þessum hugmyndum hans, hvorki í Hafnarfirði né annarsstaðar á Íslandi í hans tíð. Hafnarfjörður byggðist fyrst og síðast upp vegna góðrar hafnar frá náttúrunnar hendi.
Eins kemur það líka fram hjá þeim aðilum er fyrstir stóðu að Byggðasafni Hafnarfjarðar að það ætti að hluta til að varpa ljósi á þennan hluta menningararfsins sem sjósókn og fiskvinnsla er. Þetta kemur fram í tillögum er byggðasafnsnefnd lagði fyrir bæjarráð Hafnarfjarðar á þessum fyrstu árum safnsins en þar eru settar fram hugmyndir að vexti og viðgangi safnsins til framtíðar. Þar kemur fram listi yfir þá þætti sem safnið ætti að sinna og sýna og hvaða hlutar sögunnar það væru sem þeir helst vildu varpa ljósi á. Listinn er sannarlega langur og metnaðarfullur og snýr að sýningaaðstöðu í Pakkhúsinu að Vesturgötu 6.
Gísli Sigurðsson með erlendum áhugamanni um fornleifar.
Uppúr 1970 fer að sjá fyrir endann á þeim verkefnum og fram á varanlega sýningaaðstöðu í Sívertsens-húsinu. Áhugavert er að rýna í viðtal sem tekið var við Gísla Sigurðsson árið 1973, en hann hafði þá starfað við safnið, sem nefndarmaður, frá stofnun þess. Í umræddu viðtali sagði Gísli „Þegar maður hefur verið jafn lengi í þessu og ég og lifir orðið fyrir þetta, þá er maður ekki í rónni, viti maður einhversstaðar af gömlum og sögulegum hlut, fyrr en hann er fenginn. Það er Gísli Sigurðsson, fyrrum lögregluþjónn í Hafnarfirði, sem sagði þetta er við löbbuðum með honum um geymsluherbergi, skúra og skúraloft og skoðuðum þá muni sem dregnir hafa verið saman fyrir væntanlegt sjóminjasafn í Hafnarfirði, en að þessum safnmálum hefur Gísli starfað allt síðan árið 1953 að stofnuð var nefnd til að koma á laggirnar sjóminjasafni í Firðinum. Því miður hefur málinu ekki miðað betur en svo að enn eigum við ekkert safnhús, en aftur á móti eigum við orðið gott safn gripa, meira en nóg sem undirstöðu í safn.“ Ekki má þó við blaðamanninn einan sakast því ljóst er að Gísli notar í þessu viðtali orðið „sjóminjasafn“ frekar en „byggðasafn“ eins og fram kemur í eftirfarandi línum í sama viðtali: „Þú sagðir mér Gísli að þið hefðuð byrjað 1953 að safna að ykkur munum. — Já það er rétt. Það ár var skipuð nefnd af bæjarstjórninni sem átti að hafa það hlutverk að koma á stofn sjóminjasafni í Hafnarfirði. Ég var skipaður í þessa nefnd strax og hef verið í henni síðan. … — Hvern telurðu nú merkastan hlut í safni ykkar? —
Bátur á Byggðasafni Hafnarfjarðar.
Það er nú ekki gott að segja. Hér eru margir fallegir og sögulegir munir. Ég vil nefna til yfir 100 ára gamlan bát með Faxaflóalagi, eins og það var kallað.“
Það sem hér gerist merkilegt er einkum tvennt, eins og áður segir er Gísli farinn að nota orðið „sjóminjasafn“ og svo hitt að hann telur merkasta mun safnsins vera bát og þó einungis sé um hans persónulega mat að ræða gefur það sannarlega vísbendingu um áherslur og áhuga þess manns sem sá um söfnun gripa til safnsins fyrstu 20 ár þess. Í lok þessa sama viðtals útskýrir hann máls sitt betur og er þá bersýnilegt að stefnubreyting hefur orðið og rökstyður hann mál sitt er hann svarar spurningu blaðamannsins: „Nú er þetta orðið miklu meira en sjóminjasafn hjá ykkur, Gísli, þetta er allt eins gott byggðasafn fyrir Hafnarfjörð.
— Já, það má kannski segja það. Þegar maður tekur til við að safna svona gömlum gripum með sérsafn eins og sjóminjasafn í huga, þá kemur það eins og af sjálfu sér að maður tekur til handargagns annarskonar gamla og verðmæta muni og síðan gerist það einnig að fólk sendir okkur alls konar muni, þótt þeir séu í sjálfu sér ekki endilega í tengslum við sjóinn eða sjóminjar. En gættu svo að öðru. Hafnarfjörður hefur alla tíð átt allt sitt undir sjó og sjómennsku, og því má segja sem svo að allir munir héðan tengist að einhverju marki sjóminjasafni. Þar á ég við þessa gömlu muni sem við erum að safna. Á þeim tíma, fyrir þetta 50 til 100 árum eða meira, var hér allt miðað við sjó og sjósókn, og séu munirnir ekki tengdir sjónum beint, þá óbeint kannski, þannig að þeir eru úr búi einhvers sjómanns. Hinsvegar má segja að yngri munir, sem vissulega geta haft sögulegt gildi, séu ekki eins tengdir sjónum, enda hafa málin breyst á síðari árum eins og allir vita. En vissulega væri það gaman ef hér risu bæði sjóminjasafn og byggðasafn Hafnarfjarðar. Efni til slíks er fyrir hendi.“
Hafnarfjörður skömmu fyrir 1900 – mynd í eigu Byggðasafns Hafnarfjarðar.
Á þessum tíma var ákveðin vakning á Íslandi varðandi verndun sjóminja og fara hugmyndir að skjóta upp kollinum um þetta mál æ oftar. Sem dæmi um þetta er leiðari Alþýðublaðsins 28. júlí 1973 undir nafninu „Sjóminjasafn vantar“ en þar er tíundað um mikilvægi sjósóknar fyrir Ísland í gegnum aldirnar. „Mörgum hefur orðið hugsað til þess, að ekkert eigum við Íslendingar sjóminjasafnið og litla tilburði höfum við í frammi til þess að eignast það. Gamlir og merkir bátar eru að grotna niður umhirðulausir eða umhirðulitlir. Ýmiss konar áhöld og munir frá bátum og útgerð týna sem óðast tölunni og verða bráðum hvergi til. Þetta getur ekki gengið öllu lengur. Íslendingar verða að eignast gott og myndarlegt sjóminjasafn. Sjóminjasafn Íslands á að varðveita muni, sem Íslendingar hafa notað bæði fyrr og síðar við sjósókn og í sjóferðum. Það á að varðveita báta og skip, sem einkennandi hafa verið á hinum ýmsu tímum, og væri t.d. smíðaður knörr, yrði hann dýrgripur í slíku safni. Það á að varðveita ýmis tæki og tól, sem notuð hafa verið í landi við fiskvinnslu og fiskverkun. Og þar á að varðveita bækur og myndir, skjöl og skilríki um skip, sjómennsku og sjósókn.“
Hús Bjarna og nágrenni.
Í sömu grein er þó einnig minnst á það að varla sé hægt að setja upp sjóminjasafn án þess að tengja við það fiskasafn og í því samhengi er minnst á fiskasafn það sem var þá til staðar í Sædýrasafninu í Hafnarfirði og því frumkvöðlastarfi sem þar hafði verið unnið. Í lok greinarinnar segir: „En fiskasafnið í Sædýrasafninu þarf að auka og efla, og þar þarf að koma upp rannsóknaraðstaða fyrir fiskifræðinga. Til þess þyrfti að koma á samvinnu safnsins, hafrannsóknarstofnunarinnar og ef til vill háskólans. Kannski væri sjóminjasafn vel staðsett í nágrenni Sædýrasafnsins. Hitt er víst, að ekki er vanzalaust fyrir Íslendinga að eiga ekki sómasamlegt fiska- og sjóminjasafn.“
Skerseyri.
Þarna er enn komin upp hugmynd um formlegt Sjóminjasafn Íslands í Hafnarfirði. Umræðan sem þarna var komin af stað vatt nokkuð uppá sig í framhaldinu og varð til þess að haustið 1973 kom fram umræða á Alþingi Íslendinga um málið. Tveir þingmenn, þeir Gils Guðmundsson og Geir Gunnarsson, lögðu fram þingsályktunartillögu um stofnun Sjóminjasafns Íslands í Hafnarfirði. „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja nú þegar, í samráði við þjóðminjavörð, undirbúning að stofnun sjóminjasafns. Skal leitað eftir samvinnu við Hafnarfjarðarbæ um hentugt landssvæði undir slíkt safn, svo og um byggingu þess og rekstur. Tillaga þessi fékk góðar viðtökur á Alþingi og var samþykkt óbreytt í febrúar 1974 með samhljóða atkvæðum.“
Teikning að fyrirhuguðu sjóminjasafni á Skerseyri.
Aðeins er vikið að því í áðurnefndu viðtali við Gísla Sigurðsson: „Nú hefur verið flutt þingsályktunartillaga um að reisa Sjóminjasafn Íslands hér í Hafnarfirði, hvernig list þér á það? — Já, ég var að heyra þetta, og ég skal segja þér að þetta eru einhver mestu gleðitíðindi sem ég hef heyrt lengi. Gils Guðmundsson og Geir Gunnarsson eiga ómældar þakkir skildar fyrir að flytja þessa tillögu. —
Myndi þá ykkar safn falla inn í þetta sjóminjasafn Íslands? Já, það hygg ég, sem sérstök deild eða eitthvað svoleiðis. En við skulum bara athuga það, að uppistaðan í sjóminjadeild Þjóðminjasafnsins eru munir héðan úr Hafnarfirði, og raunar víðar að, en það var Hafnfirðingur sem safnaði þeim og gaf þá til Þjóðminjasafnsins. Það var sá mikli og ötuli safnari Andrés Johnson rakari frá Ásbúð í Hafnarfirði. … Það væri því ekki margt að því að sameina þennan safnvísi okkar Sjóminjasafn Íslands sem reist yrði hér í Firðinum.“
Teikning að fyrirhuguðu sjóminjasafni á Skerseyri.
Réttu ári áður en þingsályktunartillagan var lögð fram var Þór Magnússon þjóðminjavörður gestur á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar. Þar var hann að kynna þá tillögu að Sjóminjasafn Íslands yrði fundinn staður í Hafnarfirði og að um sérstakt samvinnuverkefni yrði að ræða á milli Hafnarfjarðarbæjar og ríkissjóðs við uppbyggingu og rekstur safnsins.
Bæjarráðsmenn tóku hugmyndunum vel og bókuðu í fundagerð að bæjarráð hafi lýst áhuga sínum á málinu. Í viðtali við Kristinn Ó. Guðmundsson bæjarstjóra Hafnarfjarðar lýsti hann meðal annars sinni skoðun á þessari hugmynd: „Ég hef alveg sama viðhorf til þess og bæjarráðið. Svona safni verður hvorki komið upp né það rekið nema opinberir aðilar komi til.
Skerseyri – túnakort 1903.
Í þessu sama viðtali kemur einnig fram að Þór Magnússon hafi ætlað, eftir fund sinn með bæjarráði, að ræða við menntamálaráðherra og upplýsa hann um stöðu mála. Eflaust á það sinn þátt í að þingsályktunartillagan var lögð fram. Í kjölfar þessa lét menntamálaráðherra skipa nefnd um sumarið 1974 sem hafði það verkefni að vinna tillögu um Sjóminjasafn Íslands og samvinnu á milli Þjóðminjasafns Íslands og Hafnarfjarðarbæjar varðandi það. Í nefndinni sátu þeir Þór Magnússon, þjóðminjavörður, Gunnar Ágústsson, hafnarstjóri í Hafnarfirði og formaður byggðasafnsnefndar bæjarins, Jón Kr. Gunnarsson, forstjóri Sædýrasafnsins í Hafnarfirði og skipstjórinn Gunnar H. Oddsson. Í frétt Þjóðviljans af málinu um haustið þetta sama ár kemur ákveðin rökstuðningur fyrir því að safninu hafi verið valinn staður í Hafnarfirði. „Sú ákvörðun alþingis, að væntanlegt Sjóminjasafn Íslands rísi í Hafnarfirði er vissulega vel við hæfi. Hafnarfjörður er útgerðarbær frá fornu fari og þar er enn blómstrandi atvinnulíf kringum sjávarútveginn.
Þorskanet.
Þaðan voru fyrst lögð þorskanet hérlendis, þaðan hófst þilskipaútgerðin og þaðan var gerður út fyrsti gufutogarinn, sem Íslendingar eignuðust. Og í Hafnarfirði er nú þegar kominn fyrsti vísirinn að sérstöku sjóminjasafni, eina safnið á landinu, sem hefur sérhæft sig á þessu sviði. … Sjálfir hafa Hafnfirðingar farið mjög myndarlega af stað með sitt safn, eins og sýningin sem þeir héldu þar í sumar sannaði best. … Einn helsti kosturinn við að hafa sjóminjasafn landsins í útgerbarbæ eins og Hafnarfirði er að þar verður það jafnframt í lifandi tengslum við sjávarútveginn, sem stór hluti bæjarbúa byggir afkomu sína á enn.
Hafnarfjörður fyrrum.
Þarna kemur fram enn sterkari yfirlýsing varðandi Byggðasafn Hafnarfjarðar en áður hafði komið fram um að safnið hafi fyrst og síðast verið sjóminjasafn. Þarna er talað um að safnið hafi sérhæft sig á þessu sviði. Þrátt fyrir þessar samþykktir og nefndarskipanir gerist lítið í málinu næstu árin.
Sjóminjasafn Íslands opnaði Í Reykjavík með hátíðlegri athöfn á sjómannadaginn, 7. júní 1986.
Sjóminjasafn Reykjavíkur.
Sagt var frá því í fjölmiðlum og í Sjómannadagsblaðinu var fréttin undir fyrirsögninni „Sjóminjasafn Íslands, Loksins“. Í Morgunblaðinu mátti meðal annars lesa eftirfarandi frétt af opnuninni: „Sjóminjasafn Íslands var opnað við hátíðlega athöfn á laugardaginn af Sverri Hermannssyni, menntamálaráðherra. Safnið er til húsa í Brydepakkhúsi við Vesturgötu í Hafnarfirði. Í ræðu Gils Guðmundssonar, formanns sjóminjasafnsnefndar, kom fram, að opnun safnsins í þeim húsakynnum væri aðeins áfangi á langri leið. Framtíðarstarfsemi safnsins er ætlaður staður á svonefndri Skerseyri fyrir vestan Hafnarfjörð, niður undir Hrafnistu.“55 Í ræðu sinni tók Sverrir sérstaklega fram að stofnun safnsins í Hafnarfirði ætti ekki að hafa áhrif á söfnun sjóminja annarsstaðar á landinu, „tilkoma Sjóminjasafnsins raskaði í engu því mikla starfi, sem unnið hefði verið til að varðveita sjóminjar víðs vegar um land. Einstök byggðalög myndu að sjálfsögðu gæta eigin minja áfram.“
Sjóminjasafn Reykjavíkur.
Menn voru að þó ekki á eitt sáttir um Sjóminjasafn Íslands á þessum tíma og sitt sýndist hverjum. Einar Vilhjálmsson tollvörður skrifaði til að mynda harða grein í Sjómannablaðið Víking þar sem hann gagnrýndi þau plön sem þá voru í gangi í Hafnarfirði og taldi í raun að verið væri að beita blekkingum til að fjármagna lítið byggðasafn. Hann hafði greinilega ekki mikla trú á uppbyggingaráformum Sjóminjasafns Íslands í bænum og sagði meðal annars: „Um nokkurra ára skeið hefur ríkisfé verið varið til vafasamra framkvæmda, við lítið byggðasafn í Hafnarfirði, og þeim brögðum beitt að kalla þetta „Sjóminjasafn Íslands“, til þess að réttlæta málið og ná opinberu fé. … Nú voru kerfismenn búnir að taka málið í sínar hendur og var búið til fyrirtækið „Sjóminjasafn Íslands“, og peningar fengnir úr ríkiskassanum til að kosta þessa stofnun, sem getur aldrei orðið það sem nafnið bendir til, heldur aðeins byggðasafn. Látið er í veðri vaka að sem útgerðarbær sé Hafnarfjörður umfram Reykjavik og aðra útgerðarstaði, safnið skreytt með lánsmunum frá Þjóðminjasafni og úr einkaeigu til þess að svo líti út í augum almennings, að um verulegt sjóminjasafn sé að ræða.
Sjóminjasafn Reykjavíkur.
… Við skulum vona að hætt verði að ausa fé í þetta byggðasafn Hafnfirðinga og þeir látnir einir um það að gera það svo úr garði sem þeim hæfir, en hafist verði handa um að koma upp raunverulegu sjóminjasafni í Reykjavík og það tengt Sjómannaskólanum, sjómannasamtökum, útgerðaraðilum og stofnunum í sjávarútvegi auk Þjóðminjasafns.“
Það sem gerst hafði var, ólíkt því sem gerst hafði með Ásbúðarsafnið og safn Þorbjargar Bergmann, að munirnir voru enn í bænum og enn til sýnis á safni. Hins vegar var búið að færa stóran hluta safnkosts byggðasafnsins yfir á annað safn í bænum sem ekki var í eigu Hafnfirðinga heldur var það deild í Þjóðminjasafni Íslands. Hins vegar þróuðust mál á annan veg en ætlað var og hinar metnaðarfullu hugmyndir um uppbyggingu sjóminjasafns Íslands við Skerseyri urðu aldrei að veruleika. Framþróun byggðasafnsins varð ekki eins hröð og eðlilegt hefði verið enda fékk sjóminjasafnið það sýningahús sem ætlað var upphaflega byggðasafninu og eina sýningaaðstaða þess lengi vel var í Sívertsens-húsi og síðar einnig í Siggubæ. Ekki var það einungis raunin að safnkostur byggðasafnsins sem tengdist sjóminjum væri afhentur sjóminjasafninu heldur voru sjóminjar teknar út af söfnunarstefnu byggðasafnsins á þessum tíma og var þeim aðilum sem buðu byggðasafninu sjóminjar næstu árin ætíð vísað yfir á sjóminjasafnið.
Hafnarfjörður fremstur í bátasmíði.
Uppúr aldamótunum 2000 tekur þetta mál enn og aftur óvænta stefnu. Þá voru menn almennt búnir að gefa drauminn um öflugt sjóminjasafn upp á bátinn og raddir fara að heyrast um að rétt væri að loka safninu í Hafnarfirði. Um þetta leyti er viðgerðum að ljúka á Þjóðminjasafni Íslands og farið að styttast í opnun nýrra sýninga þar í endurbættu húsnæði auk þess sem Sjóminjasafnið Víkin í Reykjavík er að líta dagsins ljós. Við þau tímamót er tekin ákvörðun um að Þjóðminjasafnið muni ekki standa að sýningum á höfuðborgarsvæðinu nema í safnhúsinu sjálfu og loka þá bæði sjóminjasafninu og Nesstofusafni á Seltjarnarnesi.
Vöknuðu Hafnfirðingar nú enn upp við vondan draum, nú ætlaði Þjóðminjasafnið að loka Sjóminjasafni Íslands og fara með alla munina til Reykjavíkur en eftir stæði útgerðar- og sjósóknarbærinn Hafnarfjörður með byggðasafn án sjóminja.
Árið 2004 var sjóminjasafninu endanlega lokað og byggðasafnið fékk pakkhúsið undir sýningastarfsemi sína.
Lokaorð
Hafnarfjörður fyrrum.
Í köflunum hér að framan hefur verið farið yfir sögu Byggðasafns Hafnarfjarðar og minjavörslunnar í bænum og þeim erfiðleikum sem einkenndu uppvaxtarár þessa málaflokks í bænum. Árið 1974 fékk safnið varanlegt húsnæði undir sýningastarfsemi er viðgerðum á Sívertsens-húsinu lauk. Fjórtán árum síðar, árið 1988 áskotnaðist safninu Siggubær og var sýningastefna þessara húsa nokkuð ljós frá upphafi. Í Sívertsens-húsinu var sýnt hvernig yfirstéttafjölskyldan í Hafnarfirði bjó í upphafi 19. aldar auk þess sem ljósi var varpað á merkilega sögu Bjarna Sívertsen og fjölskyldu hans en í Siggubæ var sýnt hvernig alþýðufjölskyldan í Hafnarfirði bjó í byrjun 20. aldar og hvernig hinir dæmigerðu bárujárnsbæir í litu út.
Hafnarfjörður fyrrum – Brekkugata.
Það verður ekki dregin dula yfir þá staðreynd að vangaveltur og vandræðagangur í kringum Sjóminjasafn Íslands töfðu mjög fyrir allri þróun og þroska byggðasafnsins. Segja má að hin síðari uppbygging á Byggðasafni Hafnarfjarðar hefjist árið 1994 þegar það fékk langþráð sýninga- og lagerhúsnæði í Smiðjunni, Strandgötu 50. Þá var í fyrsta sinn kominn í notkun hjá byggðasafninu boðlegur fastur sýningasalur þar sem hægt var að setja upp sýningar um sögu og menningu Hafnarfjarðar og nágrennis. Smiðjan var stækkuð í tvígang, fyrst árið 1997 og svo aftur 1999 og hafði þá tvo veglega sýningasali ásamt góðu lagerhúsnæði. Árið 2004, í kjölfar þess að Sjóminjasafn Íslands var lagt niður, var sýningastarfsemi byggðasafnsins flutt úr Smiðjunni yfir í Bryde-pakkhús að Vesturgötu 6 en lageraðstöðu fékk safnið í þjónustumiðstöð bæjarins við Hringhellu.
Tæplega hálfri öld eftir að hugmyndin kom fyrst upp um sýningaaðstöðu fyrir byggðasafnið í Pakkhúsinu varð það að veruleika.“
Heimildir:
-Þjóðlíf 1. mars 1987, Sögufræg hús í Hafnarfirði, bls. 32.
-Helgafell, 2. des. 1943, Ágúst Steingrímsson, Hús Bjarna riddara Sívertsens, bls. 437.
-Tíminn 18. nóv. 1973, 170 ára gamalt hús gert sem „nýtt“, Hús Bjarna riddara í Hafnarfirði endurbyggt og gert að safni, bls. 40 og 36-37.
-Dagblaðið 5. des. 1978, Hafnarfjörður liðna tímans í máli og myndun, Hús Bjarna riddara Sívertsen GAJ, bls. 16.
-Vísir, 28. ágúst 1971, Hafnfirðingar hlúa að húsi frá Napóleonstímunum, GB — Rætt v/ð Gísla Sigurbsson, lögregluvarðstjóra, um þær endurbætur, sem verið er
að gera á húsi Bjarna riddara Sívertsens, bls. 9.
-Morgunblaðið 12. febr. 1984, Af Bjarna Sívertsen og Byggðasafni Hafnarfjarðar — rætt við Gísla Sigurðsson fyrrv. lögregluþjón, bls. 35.
-Þannig var… – Byggðasafn Hafnarfjarðar, Björn Pétursson – Lokaverkefni til MA–gráðu í safnafræði, Félagsvísindasvið, 2014, 47 bls.
Byggðasafn Hafnarfjarðar.
Ratleikur Hafnarfjarðar 2024
Ratleikur Hafnarfjarðar er nú, árið 2024, haldinn í 27. sinn.
Ratleikskortið 2024.
Leikurinn er, líkt og jafnan, bæði fjölbreyttur og skemmtilegur. Þemað að þessu sinni er þjóðsögur og ævintýri . Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarfréttar og forstjóri Hönnunarhússins, lagði út leikinn. Lykillinn að leiknum, Ratleikskortin, liggja frammi, án endurgjalds, á eftirtöldum stöðum: Fjarðarkaupum, Bókasafni Hafnarfjarðar, Ráðhúsinu, Bensínstöðvum N1, Suðurbæjarlaug, Ásvallalaug, Sundhöll Hafnarfjarðar og víðar. Guðni lofar góðum verðlaunum þeim er verðskulda.
Ef einhver vill hins vegar koma athugasemdum á framfæri er rétt að sá/sú snúi sér til Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstýru í Hafnarfirði.
Hér má lesa fróðleiksþætti Ratleiksins í ár:
1. Skerseyri – sæskrímsli
Hluti af Íslandskorti Guðbrands Þorlákssonar, biskups, 1590.
Á landakortum fyrri alda má oft á tíðum sjá, auk landa og örnefna, hinar ýmsu kynjaskepnur hafsins. Landakönnuðir og kortagerðamenn, sem vildu láta taka sig alvarlega, skráðu það eitt er þeir sjálfir sáu eða fengu staðfest eftir „áreiðanlegustu“ heimildum. Af því að dæma ættu kynjaskepnurnar að hafa verið til á þeim tímum, þótt ekki hafi alltaf tekist fullkomlega að teikna þær af ítrustu nákvæmni, þ.e. hvað varðar lögun og lit.
Skerseyri.
Stærðina höfðu menn þó jafnan á hreinu og voru ekkert að draga úr henni svo neinu næmi. Oftar en ekki brá skepnunum einungis fyrir stutta stund og yfirleitt við verstu aðstæður, s.s. í myrkri, brábrimi eða þegar einhver var í sjávarháska. Vitað er, ef tekið er mið af steingervingum, sem fundist hafa, að til voru forsögulegar skepnur, bæði í sjó og á landi, er voru ægilegri og með annað svipmót en nú þekkist og miklu mun stærri, lengri og hærri.
Skerseyri – tóftir.
Margar frásagnir eru til af skrímslum hér á landi og enn eru að finnast kvikindi, sem talið hefur verið að ættu að vera útdauð fyrir löngu. Þannig eru til sögn um að fyrrum hafi hér fyrir neðan fundist 33 feta “útdauður” sæormur í líki áls. Rétt er að hafa vara á sér þegar gengið er um ströndina. Á Jónsmessunótt, sem er mjög sérstök og dulúðug, eru dæmi um að selir fari úr hami sínum og taka á sig mannsmynd.
2. Brúsastaðir – draugur
Brúsastaðir – bátsnaust.
-Á Brúsastöðum við Malirnar standa tvö hús, gamli Brúsastaðabærinn nærri sjónum og ofar í landinu stendur nýbýlið Brúsastaðir 2.
Neðan gamla bæjarins ganga hraundrangar í sjó fram, sem sjórinn hefur brotið á síðustu áratugum. Nefnast þeir Stifnishólar og segir sagan að þar hafi verið kveðinn niður draugur um 1800. Ofan þeirra er hlaðinn garður og bátsnaust skammt vestar. Brúsastaðir voru eins og hvert annað hafnfirskt grasbýli með smá túnskika í kringum bæjarhúsin, litla matjurtargarða í gjótum og vatnsbrunn í nálægri hrauntjörn.
Stifnishólar.
Fólkið sem byggði þessi grasbýli lifði af því sem landið og sjórinn gaf, hafði fáeinar kindur og mjólkandi kú, reri til fiskjar og vann tilfallandi störf til sjós og lands.
Á heimasíðu Brúsastaðaættar er sagt að nafnið tengist fuglum af ætt Brúsa, þ.e. Himbrimum og Lómum. Þessi nafnahugmynd er nýleg en til er eldri og sennilegri skýring á nafninu.
Brúsastaðir.
Í eina tíð stóðu margar verbúðir í landi Garðakirkju. Þegar einokunarverslunin lagðist af 1787 fjölgaði lausakaupmönnum og versluðu m.a. á Langeyri. Kaupmennirnir stóðu ekki lengi við en grasbýli tóku að byggjast þar sem kaupbúðir og verbúðir stóðu áður.
Getið er um Litlu-Langeyri í manntali 1801. Þetta kot var í eyði þegar Jón Oddsson kom þangað 1890 og tók að endurbyggja bæinn. Þegar hann var að grafa fyrir grunni hússins fann hann brot úr leirbrúsa og kallaði bæinn þar eftir Brúsastaði. Það má ímynda sér að leirbrúsinn hafi verið frá þeirri tíð er lausakaupmenn versluðu á Langeyri seint á 18. öld, þó skýringin geti verið önnur.
Stifnishólar og Brúsastaðir.
Oddur Jónsson og kona hans Sigríður Guðrún Eiríksdóttir sem komu frá Brynjudal í Hvalfirði tóku við Brúsastöðum af Jóni, en Eyjólfur Kristjánsson Welding og Ingveldur Jónsdóttir fluttu í Brúsastaðabæinn frá Hraunhvammi 1915. Það eru afkomendur þessara hjóna sem tilheyra Brúsastaðaættinni. Sonur þeirra Þórður Kristinn tók við búskapnum árið 1932 og eftir hans dag 1965 bjó Unnur dóttir Þórðar á Brúsastöðum ásamt Birni Kristófer Björnssyni eiginmanni sínum.
3. Víðistaðir – óbrynnishólmi – verndardísir
Víðistaði – minningarsteinn.
-Víðistaðir er óbrynnishólmi er myndaðist í Búrfellsgosinu fyrir rúmlega 5000 árum. Hólmann byggði mannfólk síðar á öldum. Þegar hraunið ofanvert rann ofan frá Búrfelli höfðust verndardísir við á svæðinu. Dísirnar voru afleifð huldufólks, sem hafði búið um sig í holtinu er þá fór undir hraun. Síðar, þegar mennirnir námu landið, varð huldufólkið komið upp á náðir mannanna og líkti eftir siðum þeirra, hafði kaupstaði á svipuðum slóðum og mennskt fólk, þing eins og Íslendingar fyrrum, og huldumenn þurftu í kaupstað á lestum eins og aðrir.
Oft hefur heyrzt strokkhljóð og búsáhaldaglamur í hólum og er eignað huldufólki. Þeir eru forsjálli og verklagnari en menn, og er hverjum hið mesta happ sem getur hegðað sér eftir háttum þeirra, til dæmis við heyþurrka, fiskróðra og þess háttar.
Víðistaðir – hvíldarstaður í skjóli hrauns.
Og eftir þeim heimildum sem við höfum um lifnaðarhætti huldufólks fyrr á öldum mætti ætla að það væri búið að taka bæði bifreiðar og flugtækni í þjónustu sína nú. En það er ekki það huldufólk sem við þekkjum úr þjóðsögunum.
Spurningin er hversu vel huldufólkinu líkar við reisn kristnilegrar kirkju í hraunjaðri Víðistaða?
4. Hellisgerði – huldufólk – hellir
Hellisgerði.
-Álfar í íslenskri þjóðtrú eru um margt sérstakir og er orðið notað um sérstakan flokk huldufólks. Íslenskir álfar búa jafnan í klettum eða steinum og iðka búskap sinn líkt og mennirnir en kjósa að vera látnir í friði. Í íslenskum þjóðsögum er mikið til af lýsingum af samskiptum álfa og manna. Háskalegt er þar jafnan að styggja álfa, til dæmis með því að raska bústað þeirra eða slá svokallaða álagabletti. Í Hellisgerði er Fjarðarhellir, fjárhellir álfanna. Gerðið tekur nafn sitt af hellinum.
Í Hellisgerði.
Í Hafnarfirði hefur í nokkur ár verið haldin álfahátíð í Hellisgerði á Jónsmessunni. Gerðið er vel þekkt búsvæði álfa og því líklegt að slíkar vættir verði varir gestanna þessa kynngimögnuðu nótt.
Þann 15. mars árið 1922 hélt Guðmundur Einarsson framsögu á fundi Málfundafélagsins Magna er hann nefndi “Getur félagið Magni haft áhrif á útlit Hafnarfjarðar?” Svaraði hann spurningunni játandi, m.a. með því að koma upp skemmti- og blómagarði sem yrði bænum til mikillar prýði. Í kjölfarið var stofnuð nefnd til að vinna áfram með tillöguna og komst hún að þeirri niðurstöðu að “Hellisgerði” á milli Reykjavíkurvegar og Kirkjuvegar væri kjörið fyrir garðinn. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti að láta félaginu í té hið umbeðna garðsvæði endurgjaldslaust sama ár.
Hellisgerði – Fjarðarhellir.
Sumarið 1923 var haldin þar Jónsmessuhátíð til að afla fjár til starfseminnar og við það tækifæri afhenti Magnús Jónsson bæjarfógeti Málfundafélaginu Magna Hellisgerði formlega.
Í skipulagskrá sem samin var fyrir garðinn kemur fram að tilgangur hans var fyrst og fremst þríþættur. Í fyrsta lagi að vera skemmtigarður þar sem bæjarbúar ættu kost á að njóta ánægju og hvíldar í tómstundum sínum.
Hjarta Hafnarfjarðar er í Hellisgerði.
Í öðru lagi að vekja áhuga bæjarbúa á blóma- og trjárækt og í þriðja lagi að geyma óraskaðar minjar um hið sérkennilega bæjarstæði Hafnarfjarðar.
Vorið 1924 hófst ræktun í Hellisgerði. var þá Ingvar Gunnarsson ráðinn starfsmaður þar og var hann forstöðumaður garðsins allt til dauðadags árið 1962.
Upphafleg stærð Hellisgerðis var um 400 m2 en árið 1960 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að láta Magna í té 6000 m2 land til viðbótar. Eftir að starfsemi Magna lagðist niður hefur umsjón og eftirlit Hellisgerðis verið á herðum garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar.
Í tilefni af eitt hundrað ára afmæli Hellisgerðis á þessu ári hefur Hafnarfjarðarbær lagt í verulegar úrbætur á garðinum.
5. Hamarinn – huldukona
Hamarinn.
-Hafnarfjörður er sannkallaður álfabær. Fram kom í úttekt sjáandans Erlu Stefánsdóttur, sem hún gerði fyrir Hafnarfjarðarbæ á tíunda áratug síðustu aldar, að í Hamrinum (Hamarkotshamri) sé merkilegasta og stærsta álfabyggðin í bænum. Ein elsta frásögnin af staðnum er um Gunnar Bjarnason, bónda í Hamarskoti, sem heyrði söng frá Hamrinum.
Sagan segir að eitt sinn er Gunnar var á gangi norðan- eða austanmegin í Hamrinum á vetrarkvöldi um jólaleytið hafi hann heyrt söng í honum.
Hamarinn – þjóðsagnakenndur staður álfa og huldufólks.
Gekk hann þá á hljóðið og kom að opnum dyrum á Hamrinum, sem hann gekk inn um. “Kemur hann inn í mannahýbýli og stendur söngurinn þá sem hæst. Þá var það venja á landi hér, ef að gest bar að garði, meðan á húslestri stóð, þá gekk hann hljóðlega inn, yrti ekki á neinn og heilsaði ekki fyrr en að lestrinum loknum. Þessari venju fylgdi Gunnar. Sat hann hljóður meðan á söngnum stóð og hlustaði með gaumgæfni á lesturinn, sem á eftir fór. Er mælt, að hann hafi kannast við lögin og sálmana en eigi hugvekjuna eða predikunina. Eftir lesturinn var sunginn sálmur og að honum loknum gekk Gunnar úr jafnhljóðlega og þá er hann kom inn.” Þrátt fyrir margar tilraunir Gunnars varð hann aldrei aftur var við álfana í Hamrinum.
Ýmsir þekktir Hafnfirðingar hafa þó lýst sýnum þeirra af álfkonunni í Hamrinum.
6. Setberg – Galdraprestsþúfa – draugur
Galdraprestsþúfa.
-Lítill hóll er við norðurbrún gamla vegarins frá Setbergi upp að Urriðakotsvatni. Friðþjófur Einarsson á Setbergi sagði hólinn heita Galdraprestshóll. Í honum væri grafinn nafngreindur prestur, Einar, og væri til þjóðsaga um hann. Sá hefði komið undir eftir að sýn birtist föður hans, sem jafnframt var prestur úti á landi, í draumi og gat hann í framhaldi af því barn með ungri konu á altari kirkjunnar. Hertrukki var ekið utan í hólinn á stríðsárunum og valt hann við það sama. Ekki er getið um kirkju þarna, en gamall grafreitur er norðan við hólinn. Það hafi komið í ljós þegar verið var að slétta túnið snemma á 20. öldinni. Einar þessi mun hafa verið rammgöldróttur.
Tóftir gamla Setbergsbæjarins.
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir um hól þennan: “Frá vesturbæjarhorni lágu Setbergstraðir austur um túnið. Þar sem það var hæst, var farið framhjá Galdraprestsþúfu, en þúfa sú mun vera kapella, sem eitt sinn var hér á Setbergi. Eru ströng fyrirmæli um að hrófla ekki við þúfu þessari.”
Galdraprestsþúfa við gamla Setbergsbæinn.
Til eru sögur um bænahús eða kapellu við Setbergsbæinn og á hún að hafa staðið þar sem nú er “Galdraprestaþúfa” skammt frá bæjarrústinni. Þar réð meðal annars ríkjum sr. Þorsteinn Björnsson, en eftir hann liggur kvæðasafnið “Noctes Setbergenes” eða Setbergsnætur sem varðveitt er í Árnasafninu. Kvæðasafn þetta orti hann meðal annars til að “stytta sér hið leiða líf” eins og hann orðaði það sjálfur.
Í örnefnaskráningu Svans Pálssonar fyrir Setbergsland segir m.a.:
Galdraprestsþúfa.
„Í gegnum túnið á bak við bæinn lá Urriðakotsvegur, sem lá upp að Urriðakoti. Fast sunnan við Urriðakotsveginn í túninu er mjög stór þúfa, Galdraprestsþúfa, sem ekki má hreyfa. Þar á samkvæmt þjóðtrúnni að vera grafinn séra Þorsteinn Björnsson, sem dvaldist síðustu æviár sín á Setbergi og lést 1675. Um hann má lesa nánar í bókinni Frásagnir eftir Árna Óla, útgefandi Menningarsjóður 1955 bls. 100-117.“
7. Hvaleyri – Móðhola – draugur
Móðhola.
– Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri eftir Ólaf Guðmundsson og Gísla Sigurðsson, lögregluþjón í Hafnarfirði, er getið um Móðholu. Í lýsingunni er m.a. sagt frá Hvaleyrarsandi, norðvestan við núverandi golfvöll. “Utan við Hvaleyri heitir Jónasarlending. Sker er þar skammt undan landi sem heitir Hrútur. Vestan við Hvaleyrarsund heitir Þvottaklettur. Þar kemur tært vatn undan hrauninu og er það af sumum talið vera vatn úr Kaldá. Þar næst heitir svo Gjögrin er ná að Skarfakletti. Innan við Skarfaklett[a] er víkin, nefnd Sandvík og við Skarfakletta[a] heitir Móðhola, en Móðhóll klapparhryggurinn, sem holan er í.
Móðhola – vörðubrot.
Þar þótti reimt hér fyrrum, en andríkur prestur í Görðum kom að þessum reimleikum og ku hafa kveðið drauginn Móða niður. Þar er smáhellisskúti og utar, fast við merkin móti Straumi, er vík sem heitir Þórðarvík.”
Í annarri örnefnalýsingu segir að Móðhola sé lítið jarðfall skammt ofan við ströndina. Sá, sem þar fer niður, getur átt í erfiðleikum með að komast upp aftur. Kannski það hafi þess vegna verið hentugt til að kveða niður drauginn umdædda. Engar sagnir eru um að draugurinn hafi komist upp úr holunni eða hafi valdið fólkinu á Hvaleyri frekari vandræðum eftir niðursetninguna.
Ofan fjörunnar skammt norðar er hluti af leifum Fjarðarkletts GK 210.
8. Hvaleyrarvatn – nykur
Upplýsingaskilti við Hvaleyrarsel.
-Í Gráskinnu hinni meiri (Sigurður Nordal og Þórbergur Þórðarsona) er sagt, að nykur sé í Hvaleyrarvatni annað árið en hitt árið í Kasthúsatjörn á Álftarnesi. Var selstaða áður við Hvaleyrarvatn. Eitt sinn voru þar karl og kerling og gættu búpenings. Fór konan að sækja vatn og kom ekki aftur. Seinna fannst lík hennar mikið skaddað rekið upp úr vatninu og þótti líklegt að nykurinn hefði drekkt konunni. Hafa eldri menn oft heyrt skruðninga frá vatninu er ísa leysir og er það talið stafa af nykrinum.
Hvaleyrarsel.
Sagt er ennfremur að eitt sinn hafi fjögur börn verið að leik út á Álftarnesi og séð þar eitthvað sem líktist hesti. Fóru öll á bak nema eitt barnanna, en það sagðist ekki nenna. Hristi þá dýrið börnin af sér og stökk út í tjörnina. Þóttust menn vita að þetta hefði verið nykur.
Önnur sögn segir að nykurinn sé jafnan annað árið í Hvaleyrarvatni, en hitt í Urriðavatni. Fari hann millum vatnanna um undirgöng.
“Sunnan við Hvaleyrarvatn, undir Selhöfða eru tóftir tveggja selja. Austar eru tóftir, líklega sels frá Ási, niður undan skátaskálanum Skátalundi, en vestar, á grónum tanga, eru tóftir Hvaleyrarselsins.
Nykur.
Þar lagðist selsbúskapur af eftir að smali frá Hvaleyri fann selsstúlku látna og illa leikna niður við vatnið. Talið var að nykur, sem átti að hafa haldið til í vatninu annað hvert ár, hafi ráðist á og banað stúlkunni. Nykurinn átti, skv. sögnum, að búa hitt árið í Urriðakotsvatni, en hann mun hafa drepist þar frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást aldrei til hans eftir það.” Það er þó aldrei of varlega fari þegar Hvaleyrarvatn er annars vegar.
9. Borgarstandur – huldufólk
Borgarstandur.
-Eftirfarandi sögn af huldukonu í Borgarstandi norðan Kaldársels er úr bókinni „Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur XII“, Reykjavík 1957, safnað af Guðna Jónssyni. Hér er hún verulega stytt, en söguna alla má lesa á ferlir.is.
“Í suðaustur frá Hafnarfirði er staður sá, sem heitir Kaldársel. Sigríður Jónsdóttir húsfreyja í Hafnarfirði, kona Helga Sigurðssonar, hefir sagt frá því, sem hér er ritað, um dvöl sína í Kaldárseli. er frásögn hennar á þessa leið:
„Ég er upp vaxinn á Setbergi við Hafnarfjörð. Þegar ég var 13 ára gömul, bjuggu hjón í Kaldárseli, er hétu Jón Jónsson og Sigríður Ásgrímsdóttir. Höfðu þau búið þar 2-3 ár. Eftir nýár 1873 var ég lánuð í Kaldársel húsfreyju til aðstoðar, og dvaldi ég þar til vors eða þangað til á venjulegum vinnuhjúaskildaga.
Borgarstandur.
Þá er það eitt kvöld að loknum mjöltum, að húsfreyja gengur inn í búrið og verður litið á búrhilluna. Kemur hún auga á tveggja marka ask, mjallahvítan, er stendur tómur á búrhillunni, og þekkti hún þegar, að hann var eigi til á heimilinu. Kemur hún inn og segir: “Verði mér aldrei verra við, Sigga. Frammi á búrhillu stendur tómur askur, sem ég ekki kannast við”. Þá segi ég: “Ef þetta hefði komið fyrir hjá henni mömmu, þá veit ég, hvað hún hefði gert. Hún hefði látið mjólk í hann”.
Borgarstandur – fjárskýlistóft.
Húsfreyja lét að orðum mínum og hellti askinn fullan af mjólk. Næsta morgun var askurinn horfinn, en kvöldið eftir um mjaltatíma er askurinn kominn aftur og er þá tómur, og gekk þetta svo á hverju kvöldi, þar til vika var af sumri. Þá dreymir húsfreyju eina nótt, að kona kemur til hennar og segir: “Mikið á ég þér að þakka, og þinnar hjálpsemi og hjartagæzku skal ég lengi minnast. Maðurinn minn hefir legið sjúkur um langan tíma, og hefir þú haldið lífinu í honum með gjöfum þínum og litlu barni, sem við eigum. Vildi ég fegin sýna einhvern lit á að endugjalda þér það, sem þú hefir gjört fyrir mig og mína, en hagur minn leyfir ekki að launa þér þetta, eins og vera bæri. En þegar þú býrð um rúmið þitt, þá muntu finna nokkuð undir neðsta stykkinu, sem þú átt að eiga. Nú þarf ég eigi lengur að mér góðsemi þína”.
Fjárborg á Borgarstandi.
Konan hvarf síðan burtu, og sá húsfreyja hana ganga norður í klettabyrgi nokkurt, sem er þar fast við túnið.
Jón og Sigríður höfðu ákveðið að flytja sig um vorið frá Kaldárseli og niður að Ási. Á krossmessudaginn komu foreldrar mínir bæði upp í Kaldársel til þess að hjálpa þeim með flutninginn. Mamma fer nú að taka fötin úr rúmi Sigríðar og tínir upp hverja spjör, þar til komið er niður á bálkinn. Þá verður henni litið nær höfðalaginu og kemur auga á svarta smátusku á stærð við hundseyra. Dregur hún það upp, og smástækkar það. Flettir hún því í sundur, og kemur þá innan í því stórt og fagurraut alklæðispils, sýnilega nýtt, og var það hinn bezti gripur. Voru á því þrjár leggingar grænar með eitthvað þumlungs millibili og kantabryddað með sama lit. Mamma réttir húsfreyju pilsið, en hún segir: “Æ, blessuð Vilborg, taktu það. Ég hefi ekkert við það að gera”.
Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.
Mamma svarar þá: “Ekki tek ég pilsið handa mér eða mínum. Þér er ætlað það, og ættir þú sjálf þes að njóta. En viljir þú það ekki, þá skal ég taka pilsið heim til mín og gera úr því föt handa Halldóru dóttur þinni. Hún á að fermast næsta vor”. Þegar hér var komið, kallar pabbi til þeirra og kveðst vera tilbúinn og vill fara að halda af stað. Bað þá húsfreyjan hann að doka við litla stund, fannst henni hún þurfa að kveðja nábúa sína, áður en hún flytti burt fyrir fullt og allt. Mun hafa hreyft sér hjá henni vinarþel og þakklátssemi við hina huldu grannkonu sína, þótt hún léti það lítt uppi.
Kaldársel um 1932. Gamla selið sett inn á ljósmyndia.
Gekk nú Sigríður norður í byrgi það, sem fyrr um getur. Féll hún á kné frammi fyrir klettunum, en hvað hún sagði eða hugsaði, fæ ég eigi frá skýrt. Var þetta kveðja henna, þegar hún yfirgaf Kaldársel.”
Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866.
10. Markasteinn – huldufólk
Markasteinn – huldufólkssteinn á mörkum Urriðakots og Setbergs.
-Í örnefnalýsingu Svans Pálssonar fyrir hluta Setbergslands segir: “Suðaustan Kúadals er aflöng hæð frá norðaustri til suðvesturs, Þverhlíð. Á suðvesturenda Þverhlíðar er svokallað Háanef. Austur af Þverhlíð er Syðsta-Tjarnholt, öðru nafni Fremsta-Tjarnholt, en syðst á því er stór klettur með grasþúfu uppi á. Það er Markasteinn og er á mörkum Setbergs, Urriðakots og Garðakirkjulands. Í Markasteini átti að búa huldufólk og taldi amma mín, Sigurbjörg Jónsdóttir, sig einu sinni hafa heyrt þar strokkhljóð, þegar hún var unglingur.
Suðvesturhlíð Sandahlíðar, Kúadalshæðar og Þverhlíðar heitir einu nafni Setbergshlið. Hraunið þar suðvestur af heitir Gráhelluhraun og dregur nafn af stórum kletti í hrauninu, Gráhellu, sem reyndar er alls ekki hellulaga. Undir honum eru leifar fjárhúss frá Setbergi.
Gráhella.
Milli hraunsins, Lækjarbotnahrauns og Gráhelluhrauns, og hlíðanna, Svínholts og Setbergshlíðar, liggur Selvogsgata. Hún liggur frá Hafnarfirði, Selvogsgötu, austur í Selvog.
Lengi vel var girt umhverfis Markastein til að undirstrika friðhelgi hans með hliðsjón af framangreindri sögn.
Örskotsfjarlæð er á milli Markasteins og Gráhellu. Báðir staðirnir eru vel þess virði að skoða.
11. Óttarsstaðir – álfakirkja
Óttarsstaðir – álfakirkja; merki.
-Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði segir m.a.: „Kattarhryggur var langur bali rétt suðaustur af Vesturbænum að Óttarsstöðum. Sunnan við Kattarhrygginn er klettur margsprunginn, er nefndist Stólpi eða Álfakirkja í lægð. Bjó jafnan huldufólk í þessum klettum. Mátti því ekki hreyfa þar við strái, ekki vera í leik eða hafa mikinn hávaða“.
Messað var í Álfakirkunni á Jónsmessunótt eftir miðjan júní. Frásagnir eru um mikla glaðværð og litaskrúð þegar samkoman stóð sem hæst.
Álfakirkjan.
Nóttin er ein af mögnuðustu nóttum ársins og fylgja henni margar þjóðsögur. Kýr geta tekið upp á því að tala en hver sá sem verður vitni af því getur sturlast. Á Jónsmessunótt fara álfar og huldufólk á stjá og náttúran tekur hamförum. Allir Íslendingar hafa heyrt um lækningarmátt daggarinnar sem myndast á grösum Jónsmessunætur. Fjölmargir hafa þá venju að velta sér upp úr dögginni naktir og trúa því jafnvel að þá megi óska sér.
Álfakirkjan við Óttarsstaði.
Upphaflega var 24 júní heiðin sumarsólstöðuhátíð þar sem lengsta degi ársins var fagnað. Síðar ákvað Rómverskakirkjan að afmæli Jesú og Jóhannesar skírara skyldu vera haldin á fornum sólstöðuhátíðum og þar með varð 24. júní að fæðingarhátíð Jóhannesar skírara. Kirkjunnar menn áttuðu sig ekki á því að sumarsólstöður höfðu færst fram um þrjá daga, til 21. júní, og því ber Jónsmessu ekki upp á lengsta degi ársins. Ástæðan fyrir því að hátíðin heitir ekki Jóhannesarmessa eða Jóhannesarmessunótt er sú að Jóhannes er oft nefndur Jón eða Jóan í fornum ritum.
Norðan við Álfakirkjuna að Óttarsstöðum er, að sögn, forn kirkjugarður.
12. Lónakot – álfaborg
Lónakotsklettar.
-Búið var í Lónakoti framundir 1930, en eftir það var byggt myndarlegt sumarhús, sem er löngu fallið. Sæmundur Þórðarson keypt jörðina 1939 af Guðlaugi Engilbert Sveinssyni (1883-1955). Guðlaugur sem ætíð var nefndur Laugi Lóna, flutti þá búferlum frá kotinu inn í Hafnarfjörð. Guðlaugur tók við Lónakoti árið 1902, en þá hafði jörðin verið í eyði í tvö ár eftir að Hallgrímur Grímsson og seinni kona hans Rannveig Ólafsdóttir fluttu þaðan ásamt fjórum börnum sínum. Fimmta barnið höfðu þau misst úr skarlatsótt aldamótaárið 1900. Þeim var gert ókleift að búa í Lónakoti eftir að bæjarhúsin voru brennd í kjölfar farsóttarinnar sem kom upp á bænum.
Lónakotsklettar.
Þegar Guðlaugur tók við jörðinni hófst hann handa með að byggja nýjan bæ á Bæjarhólnum. Hann bjó í Lónakoti ásamt sambýliskonu sinni Guðríði Jónsdóttur og þeim fæddist dóttirin Jónína Björg 1904. Þegar Guðlaugur og Guðríður fluttu frá Lónakoti á þriðja áratug 20. aldar eins og svo margir aðrir Hraunamenn, héldu þau áfram að nýta jörðina fyrir búfénað sinn. Þau bjuggu þá í litlu bakhúsi við Krosseyrarveg.
Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.
Þegar gengin er gatan niður að Lónakoti frá Reykjanesbraut blasir við, er komið er framhjá Hádegisvörðu, stök háleit klettaborg; Lónakotsklettar.
Rétt austanvert við götuna er þúfnakargi og lítil fjárhústóft með hlöðnum einföldum garði umhverfis, Kotagarði. Þetta svæði nefnist Kofinn eða Dys í Koti og rétt austar er fjárgerði sem kallast Kotagerði. Þarna mun gamli Lónakotsbærinn hafa staðið áður en Landlæknir lét brenna kotið eftir að skarlatssótt kom upp. Tveimur árum síðar voru bæjarhúsin byggð upp á Bæjarhólnum, sem nú blasir við.
Dóttir Sæmundar, Sjöfn, man vel eftir því að hún og systir hennar, Guðrún, hafi séð til álfa við klettaborgina þegar þær dvöldu með föður sínum, Sæmundi, í Lónakoti.
13. Þorbjarnarstaðir – Himnaríki
Himnaríki.
-Búskapur lagðist af á Hraunabæjunum um 1930, en síðast var búið á Þorbjarnastöðum árið 1939. Þá höfðu bæði Gerði og Péturskot lagst af. Sverrir, kaupfélagsstjóri í Hafnarfirði, byggði síðan sumarbústað nálægt tóftunum. Hann er nú horfinn, en sjá má móta fyrir grunninum.
„Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki).
Þorbjarnarstaðir – Þorbjarnarstaðastekkur/Himnaríki.
Ekkert spurðist til bóndans um hríð, en hesturinn skilaði sér fljótt heim. Sjálfur kom bóndi undir vökulok“. Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar fyrir Þorbjarnarstaði segir, að „hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum við Alfaraleiðina skammt vestar, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu þar sem nú er Stekkurinn. Síðan er þarna kallað Himnaríki“.
14. Steinkirkja – fjárskjól
Álfakirkja – „Steinkirkja“. Fjárskjól fremst.
-Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði segir m.a.: „Þar suður og upp af (Bekkjaskúta/fjárskjól) er stakur klapparhóll, klofinn, kallaður „Steinkirkja“. Norðan í henni er upphlaðinn fjárskúti. Suðvestur af Steinkirkju eru hólar, sem Valklettar heita“.
Steinkirkja dregur ekki nafn sitt af engu. Hún er stakt sprungið hraunhveli í annars grónu Hrútagjárhrauninu norðan hraunlænu Eldra-Afstapahrauns. Í sprungunni er steinn er líkist predrikunarstól. Engar skráðar sagnir eru um tilvist álfa tengda kirkjunni en líklegt verður að telja að þær hafi verið til í munnmælum fyrrum líkt og frásagnir herma.
Fjárskjólið norðan undir hólnum er rúmgott með veglegri fyrirhleðslu.
15. Straumssel – huldumenn
Straumssel – Tilgáta ÓSÁ.
-Áður fyrr voru selsstörfin og smalamennskan órjúfanlegur hluti sumarvinnunnar frá fráfærum til sláttar. Enn í dag má sjá ummerki um rúmlega 400 selstöður á Reykjanesskagnum, en selfarir lögðust að mestu um 1870.
Selsstörfin héldust mikið til óbreytt um aldir. Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem lítið var um haga nærri bæjum að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaðar eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri.
Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.
Í Selin var farið með allan ásauð og stundum kýrnar. Selin voru venjulega þrjú hús: selbaðstofa, búr og eldhús til hliðar eða frálaust. Þannig voru flest selin á Reykjanesskaganum, reyndar með breytingum frá einum tíma til annars. Stekkir og kvíar voru og til mjalta. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í strokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr.
Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Heldur hefir vistin verið einmanaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera. Þrátt fyrir komu bóndans komst hjátrúin þar að, sem eðlilegt var á þeim tímum. Urðu til margar sögur þar sem selmatseljur komust í tæri við huldumenn og urðu þungaðar eftir þá; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti huldumaðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók hann svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum. En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar barn þeirra var orðið fullorðið og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir urðu báðum jafnan að bana.
16. Tobbuklettsrétt vestari – draugur
Tobba.
Tobba, Þorbjörg, var yfirsetukona af tröllsættum við nátthaga í Grenigjám í landi Straums. Þegar skyggja tók síðla sumars átti draugur það til að áreita hana, án meinsemda í fyrstu. Draugur þessi fór víða og eru nálæg örnefni því til stafestingar, s.s. Draugadalir á Alfaraleiðinni, þar sem hann angraði ferðamenn, Draughóll og Draughólshraun. Síðarnefndu örnefnin urðu til eftir að Tobbu leiddist ásælni draugsa eina nóttina, sat fyrir honum norðaustan við klett þann er við hana er kenndur, og kom honum að óvörum. Eftir langvinn átök sá draugurinn sitt óvænna og flúði uppi í torfært hraunið ofanvert þarf þar sem hann hvarf inn í háan hól, en þar sem Tobba stóð móð eftir birtust fyrstu sólargeislar morgunskímunnar yfir Lönguhlíðum með þeim afleiðingum að hún varð að steini – þar sem hún er enn í dag.
Tobbuklettsrétt.
Nú nefnist nátthaginn Tobbuklettsrétt. Há varða, Tobbuklettsvarða, er á hól skammt norðar. Undir honum eru hleðslur; Tobbubæli.
Ari Gíslason segir í örnefnalýsingu: „Austur af Rauðamel, norður af Grenigjá, eru Tobbuklettar þrír klettar í röð í grasbrekku. Ofan við Grenigjár tekur svo við hraunssvæði sem heitir Draughólshraun og efst af því er svo stór hóll sem heitir Draughóll.“
Gísli Sigurðsson segir í lýsingu: „Úr Pétursbyrgi liggur landamerkjalínan á austurhlið Straums í svonefnda Tó, Tóhól eða Tóklett, sem er rétt vestan við Þorbjarnarstaðatún, og þaðan suður á Seljahraun. Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir.
Draughóll í Draughólshrauni.
Suðsuðaustur frá Mjósundum blasir við hóll í hrauninu, nefnist Draughóll. Kringum hann er úfið hraun og nefnist það Draughólshraun. Af Tókletti lá landamerkjalínan suður yfir Seljahraun í Tobbuklett vestari. Þar uppi á klettunum er Tobbuklettsvarða.“
Ofan við Selhraun (ofan Þorbjarnarstaða og vestan Þorbjarnarstaða-Rauðamels) eru engin örnefni, fyrr en kemur í Tobbukletta, Tobbuklett eystri og Tobbuklett vestri, en þar var Tobbuklettsvarða, og lá landamerkjalínan um hana. Tobbuklettaskarð var allbreið lægð milli klettanna. Hér var stígur (Straumsselsstígur vestari), sem lá allt til Krýsuvíkur, „jafnframt fjallreiðarvegur á kafla“, segir og í örnefnalýsingu.
Tobbuklettsrétt vestari – uppdráttur ÓSÁ.
Í skrá G.S. segir, að „framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefir verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir í, í Tobbukletti vestri“. Tobbuklettsvarðan vestari hefur verið lagfærð og sést vel norðan Tobbuklettsréttar. Hleðslur réttarinnar eru enn vel greinilegar.
Klettarnir nafngreindu eiga að hafa verið þrír; og þeir eru það, ef vel er að gáð.
Í örnefnalýsingum hefur verið getið um Tobbukletta vestari og Tobbukletta austari. Austari Tobbuklettar eru fast við austri Straumsselsstíginn (Fornaselsstíg). Þar í kleppasprungu eru fyrirhleðslur og varða ofar.
17. Álfakirkja – álfar – Gerðisstígur
Álfakirkja við Gerðarstíg.
-Við Gerðisstíg vestan Brunans (Kapelluhrauns) eru klettaborg, millum Neðri-Hella og Vorréttarinnar. Dæmi eru um að smalar, sem staldrað hafa þar við á ferðum sínum hafi óvart glatað þar einhverju af eigum sínum. Þegar þeir hafi síðan uppgötvuðu missinn og snúið til baka hefur ekki brugðist að þeir hafi endurheimt munina. Hafa þeir vilja kenna um glettum álfanna er þarna hafast við í kringum Álfakirkjuna.
Gerðisstígurinn var ruddur þar sem hann liggur inn í Selhraunið og áfram með hraunkantinum áleiðis að Efri-Hellum.
Vorréttin.
Neðri-hellir er rúmgóður skúti með hleðslum fyrir í grónu jarðfalli. Í sjónlínu til austurs ber Vorréttin við kantinn á Kapelluhrauni. Þetta er vel hlaðin rétt. Gott skjól eru í hraunskútum innan hennar.
Efri-hellar eru enn ofan við hraunkantinn. Allir þessir staðir eru verðugir skoðunar. Hrauntungurnar ofar eru allsstórt gróið hraunssvæði enn ofar, umlukið nýja hrauninu (Kapelluhrauni/Brunanum/Nýjahrauni).
Skammt sunnan við Álfakirkjuna er Rauðamelsréttin í langri og breiðri hraunsprungu. Hleðslur eru bæði við hana og í gróinni sprungunni.
18. Valahnúkar – tröll
Tröllin á Valahnúkum.
-Steinrunnin tröll trjóna efst á Valahnúkum. Þau sáust langt að og reyna heldur ekki að leynast.
Annars eru tröll fallega ljót, hvert með sitt sérkenni. Þau eru afar misjöfn í útlit, sum stórskorin, önnur með horn og vígtennur, stór eyru og nef en lítil augu. Vörtur finnst þeim vera mesta prýði og oft virðast þau grimm á svip, en það segir bara hálfa söguna því flest eru þau gæðablóð og trygglindir náttúruvættir. Tröllin eru bæði stór og sterk, í sumum þjóðsögum er sagt að þau séu líka heimsk, gráðug og oft svolítið grimm en í öðrum sögum eru þau góð og launa vel fyrir ef að eitthvað gott er gert fyrir þau. Tröll ferðast yfirleitt um á nóttunni og þá einkum að vetrarlegi.
Tröllin á Valahnúk. Helgafell fjær.
Tröllin búa í hömrum og klettum upp í fjöllum eða í hellum. Sum tröll mega ekki vera úti í dagsljósi og verða að steini þegar sólin kemur upp, þau heita nátttröll. Tröllin á Valahnúkum eru ágætt dæmi um tröll, sem hafa dagað uppi þegar þau voru of sein fyrir á heimleið þegar þau höfðu sótt sér hval við Hvaleyri – sólin kom upp yfir Bláfjöllum og þau urðu að steini þar sem þau voru stödd þá stundina.
19. Víghóll – saga
Varða á Víghól í Garðabæ – Húsfell fjær.
-Ekki er vitað hvaðan nafnið Víghóll er komið, en ef menn vilja leika sér svolítið með nafngiftir á svæðinu gætu sumar þeirra hafa tengst veru útilegumanna og sakamanna í hraununum. Þeir hafa áreiðanlega gætt þess vel að ekki væri hægt að koma þeim að óvörum. Hafi það hins vegar gerst gætu þeir hafa flúið á Víghól til að standa betur að vígi er að var sótt. Einhverjir þeirra gætu hafa verið vegnir þar. Hafi einhverjir yfirvaldsins menn einnig verið drepnir við þá atlögu gæti hefndarþorsti hafa blossað upp í sigurvegurunum og þeir ákveðið að hengja hina handteknu þegar í stað í hæsta gálga á svæðinu. Gálgaklettar sjást vel sunnar í hrauninu, séð frá Víghól.
20. Gálgaklettar – aftökustaður
Gálgaklettar við Selvogsgötu.
-Við Selvogsgötuna austan Helgafells má finna Gálgakletta sem svipar mjög til klettanna á Stafnesi.
Á svæðinu eru fjölbreytt hraun, gróin svæði og klettabelti. Klettarnir sjást vel ef Selvogsgötunni er fylgt til austurs þegar komið er yfir ásinn austan Mylgludala (austan Valahnúka (Valabóls)). Í Setbergsannál á 15. öld segir m.a. að “12 þjófar [voru] í einu teknir syðra í helli þar sem nefnt er Húsfell. Hafi yfirvaldið, í stað þess að drösla þjófunum til byggða, ákveðið að hengja á í Gálgaklettum í Húsafellsbruna.“ Líklegra má telja að nefndur hellir hafi verið Rauðshellir í Helgadal, vestan Húsfells.
21. Dauðadalir – útilegumenn
Dauðadalir – jarðfall.
Dauðadalir hafa löngum haft yfir sér dulúð, án þess að nokkrar skráðar heimildir séu beinlínis til um þá. Þó hallast margir að því að útilegumennirnir, sem handsamaðir voru við Húsfell á 15. öld hafi um skeið haldið til í dölunum. Hér er að finna hin ágætustu skjól, en hvergi er sýnilegum mannvistarleifum til að dreifa, nema ef vera skyldi í Rauðshelli í Helgadal. Aðrar gætu mögulega verið þaktar mosa, líkt og víða eru dæmi um. Þá skortir hér vatn, að því er virðist við fyrstu sýn. Hins vegar, ef betur er að gáð, má vel merkja forna lækjarfarvegi neðan vestanverða Markraka, auk vatnsbólsins ofan Kaldárhnúka í Helgadal.
Hellir í Dauðadölum. Helgafell fjær.
Sagan gæti mjög líklega tengst annarri slíkti. Ólafur Briem skrifaði í Andvara árið 1959 um “Útilegumannaslóðir á Reykjanesfjallgarði”. Þar getur hann m.a. um útilegumenn við Selsvelli undir Sveifluhálsi í byrjun 18. aldar:
“Selsvellir og Hverinn eini. Vestan við Núpshlíðarháls miðjan er víðáttumikið graslendi, sem heitir Selsvellir. Þar voru áður sel frá Grindavík, og sjást þar enn nokkrar seltóttir. Norðan við Selsvelli nær hraunið á kafla alveg upp að hálsinum. Þar er Hverinn eini úti í hrauninu. Hann er í botninum á kringlóttri skál, sem er alþakin hraunbjörgum, og koma gufur alls staðar upp á milli steinanna, en vatn er þar ekkert.
Hverinn eini.
Nú er hverinn ekki heitari en svo, að hægt er að koma alveg að honum án allra óþæginda og gufan úr honum sést ekki nema skamman spöl. En til skamms tíma hefur hann verið miklu heitari.
Fyrir sunnan Selsvelli og við Hverinn eina var athvarf þriggja útileguþjófa vorið 1703. Í alþingisbókinni það ár er skýrt frá dóminum yfir þeim, og talið upp það, sem þeir höfðu stolið og brotið af sér. Þeir eru þar nefndir útileguþjófar, en ekki nánar sagt frá útilegu þeirra. En saga þeirra er greinilegast rakin í Vallaannál, sem ritaður er af séra Eyjólfi Jónssyni á Völlum í Svarfaðardal.
22. Markraki – tröll
Markraki.
-Þeir fáu sem lagt hafa leið sína um Markraka undir Löngulíð hafa veitt athygli “vörðu” á móbergshrygg. Í dag er varðan sú landamerkjavarða millum landa Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Svo var nú ekki fyrrum.
Þessi varða er merkilegt fyrirbæri. Sagan segir að tröllskessa í Kistufelli (sumir segja í Hvyrfli) hafi fyrir alllöngu lagt af stað við sólsetur áleiðis að Hvaleyri þar sem frést hafði af hvalreka. Systrum hennar ofan við Bolla og í Kerlingarhnúk hefðu og borist boðin. Þær héldu hiklaust niður að Hvaleyri.
Kistufell og Kistufellsgígur.
Tröllskessan í Kistufelli átti lengri leið fyrir höndum. Hún þurfti að fara niður háheiðina ofan Lönguhlíðar með stefnu á Kerlingargil. Í myrkri og þoku villtist hún af leið og kom fram á brún hlíðarinnar þar sem nú heitir Mígandagróf. Nafnið er ekki komið af engu, en skal ekki fjölyrt meira um það hér. Nú er þar í og ofan við pollinn ein hin mesta litskrúð, sem þekkist á gjörvöllum Reykjanesskaganum, ef frá eru skildir hverirnir.
Horft niður Kerlingargil.
Um nóttina rofaði til. Tröllskessan hélt þá sem leið lá áleiðis niður Kerlingargilið og hugðist halda niður að Hvaleyri. Á leið sinni niður gilið heyrði hún í næturkyrrðinni hvar lóan og spóin sungu hinn yndælasta og ljúfasta samsöng í hlíðinni. Staldraði tröllskessan því við um stund neðan við gilið til að hlusta á dásemd næturinnar. Á meðan marði hún jurtir og málaði í hrifningu listaverk á nálæga steina, sem enn má sjá í hlíðinni.
Þegar söngnum lauk var langt liðið á nóttina.
Markraki – landamerkjavarða.
Þegar skessan var kominn niður á Markraka sá hún fram á að henni myndi ekki endast tími til að fara alla leið niður að Hvaleyri og til baka áður en nóttin varð að degi. Raðaði hún steinum í kringum sig og hlóð síðan úr nokkrum þeirra vörðu á hryggnum til marks um vilja hennar áður en hún hélt örg til baka upp Kerlingargilið og heim. Á leiðinni um Lönguhlíð að Kerlingargili kastaði hún nokkrum stórum steinum frá sér. Eru steinar þessir jafnan nefndir Kerlingarsteinar.
23. Gullkistugjá – saga
Gullkistugjá – jarðfall.
-Gullkistugjá er löng sprungurein sem fer m.a. í gegnum suðausturhluta Helgafells og suður um hraunið. Séra Friðrik Friðriksson stofnandi sumarbúða KFUM og K í Kaldárseli gaf sprungureininni nafnið Gullkistugjá. Manngerð brú er þvert yfir miðja gjána. Í þjóðsögum eru sagnir um faldar gullkistur í gjám og sprungum. Jafnan, þegar fólk hefur reynt að ná þeim upp, á þá nálægur bær líkast því að stæði í ljósum logum svo hræðsla greip um sig meðal viðkomandi og hætt var við verkið.
Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, er í Landnámu sagður hafa búið á Skúlastöðum. Han nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt.
Gullkistugjá.
Munnmæli munu vera um að Skúlastaðir hafi verið þar sem Skúlatúnshraun sé, norðan við Lönguhlíðarhorn, sbr. umfjöllun í ritinu Garðabær – byggð milli hrauns og hlíða.
Árni Helgason minnist á Skúlastaði og menjar þeirra í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 (bls. 211). Hafi Skúlastaðir staðið þar sem munnmæli segja, eru líkur fyrir því að Almenningsskógalandið og Garðaland hafi verið hluti af landnámsjörð Ásbjörns heitins. Ekki er vitað til þess að fornleifarannsókn hafi farið fram í Skúlatúni.
Hins vegar bendir flest til þess að nefndir Skúlastaðir hafi í fornöld verið í Helgadal. Þar eru órannsakaðar húsaminjar.
24. Stóri Skógarhvammur – tröll
Stórkonusteinar.
-Stórkonusteinar nefnast nokkur móbergsbjörg í Lönguhlíðakróki, heldur nær Kerlingarskarði en Kerlingargili (sem er utan við Lönguhlíðarhornið). Samkvæmt gamalli munnmælasögu velti tröllskessa í Stórkonugjá björgunum niður af Lönguhlíðarfjalli þegar eftirreiðarmenn reyndu að fanga hana.
Stórihvammur eða Lönguhlíðarhvammur austan Lönguhlíðarhorns var mjög grösugur í eina tíð og gott beitiland, en sandburður úr hlíðunum hefur spillt undirlendinu. Þó má enn sjá gróin valllendi milli hrauns og hlíða. Hraunið úr Bollunum kom frá gígunum ofan Skarðanna. Stóribolli er þar einn formfegursti gígur landsins og enn nær óraskaður.
Stóri-Skógarhvammur.
Ofan hvammsins eru tvö gil og upp af því vestara áberandi móbergsklettur, sem nefnist Stórahvamms-Stapi. Beggja vegna að ofanverðu eru háir móbergsveggir. Kerlingagilið er ágæt gönguleið og greiðfær upp á Lönguhlíðar og áfram inn í Brennisteinsfjöll. Um gilið fóru smalamenn fyrrum.
Sagan segir að tröllskessa í Kerlingarhnúk hafi farið að heimta hvalreka á Hvaleyri ásamt systur sinni. Skiptin drógust vegna deilna um réttindi til hlutanna. Systirin hélt heim áleið um kvöldið ásamt fjölskyldu sinni, en skessan í Kerlingarhnúk ákvað að dvelja daginn eftir hjá vinkonu sinni í Hvaleyrarhamri. Eins og alkunna er dagaði fjölskyldan fyrrnefnda uppi á Valahnúkum þegar sólin birtist þeim ofan við Grindarskörðin snemmmorguns.
Hvaleyri.
Tröllskessan úr Kerlingarhnúk og vinkona hennar í Hamrinum tóku upp á ýmsu sér til gamans er hrekkti mennska menn á Hvaleyri. Varð svo mikið ónæði af skessunum að ábúendur ákváðu að fara gegn þeim. Söfnuðu þeir liði við sólsetur og kveiktu elda á Hamrinum. Heimaskessan kærði sig kollótta, en vinkona hennar vissi ekki hvaðan á hana stóð veðrið. Ákvað hún að flýja ónæðið og halda heim á leið. Þegar tröllskessan var komin upp að Hvaleyrarvatni og áfram á Stórhöfða varð henni litið aftur. Sá hún þá háværan flokk manna með kyndla fylgja henni þétt eftir. Hélt hún þá för sinni áfram upp Stórahvammsgil ofan við Stórahvamm (hét áður Stórkonuhvammsgil) í Undirhlíðum og alla leið upp á Lönguhlíðar um Stórkonugjá ofan við þar sem nú heitir Stórihvammur eða Lönguhlíðahvammur (-krókur).
Stórkonugjá og nágrenni – kort frá 1903.
Þarna gætu örnefni hafa færst til í tímans rás. Eftirmenn fylgdu þétt á eftir skessunni. Þegar þeir voru komnir í Stórahvamm (sumir segja hann heita Stjórahvamm) bað fyrirliðinn þá nema staðar, enda tröllskessan var þá kominn upp á efstu brúnir ofan gjárinnar. Það var líka vel af ráðið því nú tók tröllskessan til við að kasta í þá stórum steinum, hverjum á fætur öðrum. Fylgdarmenn forðuðu sér út úr seilingu og mun það hafa orðið þeim til lífs. Biðu þeir af sér húmið. Skömmu fyrir birtingu hvarf tröllskessan í átt að Kerlingarhnúk og linnti þá látunum.
Til marks um atburðinn forðum má enn sjá nefna Stórkonusteina undir Stórkonugili og er Stórahvamms-Stapi þeirra stærstur. Lækur rennur niður í Lönguhlíðarkrók frá Kerlingarskarði vestanverðu. Heitir hann Stórkonulækur.
25. Leirdalir (Slysadalur) – sögn um slysfarir
Slysadalur.
-Slysadalir eru sagðir hafa heitið Leirdalir, en þeir eru reyndar skammt suðaustar þar sem er Leirdalstjörn. Eftir að útlendur ferðamaður kom frá Krýsuvík um Slysadali með þrjá til reiðar á 19. öldinni og hafði farið um Hvammahraun og niður Fagradal að vetrarlagi (hin leiðin var um Helluna þarna vestan af, í austanverðum hlíðum Sveifluhálsins ofan við Kleifarvatn, en það mun hafa verið óvegur fyrrum og ekki fyrir hesta). Þegar ferðamaðurinn kom niður í Leirdali voru vilpur í dalnum og voru þær ísi lagðar. Fór svo að maðurinn missti tvo hesta sinna niður um ísinn, en mannskaði varð ekki.
Enn má sjá grónar stórar þúfur í Slysadal, en það ku vera dysjar hestanna tveggja.
26. Landamerkjavarða – þjóðsaga
Fremstihöfði.
-Þjóðsögur hafa jafnan tengst vörðum. Má þar m.a. nefna þjóðsöguna er kveður á um að sá eða þeir sem færa til landamerkjavörður og hlaða aðrar til að villa um fyrir fólki eigi á hættu að þurfa að burðast með grjót það sem eftir er – að þeim látnum. Þjóðsögurnar voru þannig oftlega kennisögur, nokkurs konar dæmisögur, um það hvernig væri best að haga sér í lifanda lífi.
Fremstihöfði – landamerkjavarða.
Hér er hinn ríki sagnaþáttur notaður til að vara við og stemma stigu við röskun landamerkja, líkt og einstök „tiltekt“ trúarbragðasögunnar urðu síðar í handleiðslu landans til að auka líkur á „réttum“ gjörðum hans í hinu jarðneska lífi – og yfirvaldið hafði velþóknun á. Framangreint er ekki af ástæðulausu. Einstakir bændur voru fyrrum grunaðir um að útfæra landamerki jarða sinna eftir því sem aðstæður sköpuðust, hvort sem var vegna þekkingaleysis eða af gefnu tilefni, s.s. við ábúendaskipti.
27. Húshellir – hreindýraveiðimenn
Húshellir – op.
-Norðan Hrútargjárdyngju er Húshellir. Inngangur hans er í vestanverðri fallinnar hraunbólu. Þegar inn er komið blasir við geymur og eru gangar í tvær áttir. Á miðju gólfinu er hlaðið hús, ca. 2×2 metrar í ummál. Bein eru í einum gangnanna, þeim er liggur í suður. Ekki er vitað af hverju beinin kunna að vera. Ekki er heldur vitað hvers vegna húsið var hlaðið í hellinum. Þarna gætu hreindýraveiðimenn hafa haft aðstöðu um tíma, eða einhverjir aðrir, einhverra hluta vegna. Húsið er sennilega hlaðið til að halda hita á þeim er þar gistu svo og forðast vatn er lekur úr loftum eftir rigningar. Botn hússins hefur verið fóðraður með mosa.
Húshellir – op.
Í stórvirkinu “Íslenskir hellar” segir Björn Hróarsson svo frá Húshelli: “Björn Finnsson og Hörður Þór Sigurðsson fundu Húshelli sumarið 1988. Hellismunninn er um tveir metrar á breidd og eins og hálfs meters hár. Innan við munnann skiptist hellirinn í tvær meginrásir og eina þrengri. Þegar komið er rétt inn fyrir hellismunnann blasir við töluverð hvelfing með sléttu gólfi. Á miðju gólfinu er sérkennilegt byrgi, hlaðið úr hraungrjóti. Hleðslan er falleg og sýnilega gömul.
Steinunum er haganlega hlaðið á þrjá vegu og veit opna hliðin mót munnanum.
Í Húshelli.
Moldarjarðvegur hefur sytrað niður um hellisþakið og myndað þunnt lag á gólfi hellisins framan við byrgið. Inni í byrginu er einnig mold en þar sem hún virðist vera þykkari en fyrir utan gæti verið skán undir. Steinarnir sem notaðir hafa verið í hleðsluna eru feiknastórir og þyrfti ákveðna og einarða menn til að gera sér það að leik að hlaða byrgið. Margt bendir til þess að hleðslan sé gömul. Fæstir hlaða stórum steinum að gamni sínu og hefur byrgð því líklega þjónað einhverjum tilgangi, til dæmis svefnkró, og gærur og dúkur strengdur yfir til að verjast regni úr hellisþakinu. Nokkuð drýpur úr loftinu og hefur vatnið borið með sér fínan leir eða mold eins og áður var getið.
Í Húshelli.
Ofan á veggjum byrgisins hafa hlaðist upp tveggja til fimm sentimetra háar strýtur. Veggirnir eru um 1,5 metrar á hæð. Stafnveggurinn er um 1,2 metrar á lengd en hliðarnar tæpir tveir metrar. Breidd veggjanna er að jafnaði um 40 cm. Neðstu steinarnir og þeir stærstu eru hið minnsta 300 kíló.
Til hliðar við byrgið og litlu innar eru beinaleifar, bæði sauðfjár- og stórgripabein. Beinin liggja á víð og dreif en einnig hefur hnútum verið stungið inn á milli steinanna að innanverðu í byrginu og rennir það stoðum undir þá eknningu að einhver hafi hafst við í hellinum, líklega í skamman tíma þó.
Dýrabein í Húshelli.
Hleðslan í Húshelli er ráðgáta. Hverjir hlóðu þetta, hvenær og af hverju? Í gömlum sögnum segir af útilegumönnum á Selsvöllum á 18. öld. Útilegumennirnir héldu til við Vellina, nálægt Hvernum eina, en herjuðu á Vatnsleysuströnd, meðal annars stálu þeir frá bóndanum í Flekkuvík. Eftir að þeir höfðu flutt sig “norður með fjöllunum, í helli sem þar er,” áreittu þeir og rændu ferðalanga. Yfirvaldið safnaði liði, handtók mennina og færði til Bessastaða þar sem dæmt var í máli þeirra. Hvort húshleðslumennirnir voru þarna komnir veit nú auðvitað enginn. Ef til vill hafa hreindýra- eða rúpnaveiðimenn haft þarna afdrep í veiðiskap sínum en síðustu hreindýrin á þessu svæði voru drepin á fyrstu árum tuttugustu aldar. Þekktir eru nokkrir veiðimenn frá þessum tíma er höfuðust við í athvörfum á þessum slóðum. Um þá hafa spunnist þjóðsögur, sem fæstar hafa þó ratað á pappír.
Slóð Ratleiks Hafnarfjarðar er https://ratleikur.fjardarfrettir.is/.
Ratleikur Hafnarfjarðar 2024- kort.
Skógrækt ofan Hafnarfjarðar
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað 25. október 1946. Félagið er með þeim stærstu á landinu og starfið er mjög blómlegt.
Upphafið
Við Hvaleyrarvatn.
Þegar Skógræktarfélags Íslands var stofnað 1930 voru nokkrir Hafnfirðingar á meðal stofnenda og á næstu árum bættust fleiri í hópinn. Skógræktarfélag Íslands var stofnað sem höfuðfélag skógræktarmála og ráðgefandi aðili fyrir héraðsfélög vítt og breitt um landið. Félagið var janframt hugsað sem héraðsfélag skógræktarfólks í Reykjavík og Hafnarfirði til að byrja með. Þetta fyrirkomulag þótti ekki gott til lengdar svo að ákveðið að stofna sérstök héraðsfélög í Reykjavík og Hafnarfirði.
Fyrstu árin
Stóri-Skógarhvammur – minningarsteinn um Ingvar Gunnarsson.
Fyrsti formaður Skógræktarfélagsins var Ingvar Gunnarsson barnaskólakennari, en hann var brautryðjandi í skógrækt og hóf t.a.m. ræktun í Skólalundi í Undirhlíðum árið 1930. Þeir sem skipuðu fyrstu stjórn félagsins með honum voru ötulir ræktunarmenn sem höfðu stundað trjárækt um árabil þegar félagið var stofnað.
Fyrsti reiturinn sem tekinn var til ræktunar var 7 hektara spilda í norðanverðu Gráhelluhrauni skammt ofan Lækjarbotna. Gunnlaugur Kristmundsson Sandgræðslustjóri og kennari lagði til að þessi spilda yrði fyrir valinu.
Hvaleyrarvatn.
Upphaflega hugmyndin var að taka til ræktunar landsvæðið ofan við Sandvík norðaustan Hvaleyrarvatns en vegna kulda og erfiðs árferðis vorið 1947 var þeirri hugmynd slegið á frest um sinn. Girðingavinnu í Gráhelluhrauni lauk vorið 1947 og 27. maí gróðursetti Ingvar formaður fyrsta birkitréð við hátíðlega athöfn. Mikill hugur var í félagsmönnum sem lögðu drjúga hönd á plóg og fyrsta sumarið voru skógarfurur, rauðgreni og birki gróðursett í reitnum, alls 2.300 trjáplöntur. Sérstakir hakar voru útbúnir til að auðvelda gróðursetningu í hinu grýtta hraunlandslagi. Margir töldu þetta frumherjastarf vera goðgá og spáðu því að ræktunin ætti eftir að misheppnast.
Hraunrétt – herforingjaráðskort.
Þrátt fyrir ýmis áföll gekk starfið vonum framar og nú er Gráhelluhraunsskógur gróskumikill og nánast alveg sjálfbær. Þorvaldur Árnason skattstjóri tók við formennskunni 1949 og var fyrsta verk hans að fá svæðið í Gráhelluhrauni stækkað um 30 hektara í áttina að Hraunsrétt. Jón Gestur Vigfússon tók við formennskunni 1954 og gegndi henni til 1958 þegar séra Garðar Þorsteinsson var kosinn formaður.
Hraunrétt á loftmynd 2022 – nú horfin.
Þegar nýja ræktunarsvæðið í Gráhelluhrauni hafði verið girt var ákveðið að planta út sitkagreni og lerki í hrauninu. Skógræktarfélagið naut á þessum árum dyggrar aðstoðar nemenda og kennara Barnaskóla Hafnarfjarðar sem tóku þátt í gróðursetningunni á hverju vori, auk meðlima félagasamtaka í bænum. Fyrsta áratuginn voru alls gróðursettar um 80-90 þúsund trjáplöntur í Gráhelluhrauni. Árið 1965 var aftur gróðursett í Gráhelluhrauni og aðaláherslan lögð á birki, stafafuru og bergfuru. Voru 30 þúsund nýjar trjáplöntur gróðursettar fram til ársins 1978 og á allra síðustu árum hefur verið plantað þar út nokkrum fjölda árlega.
Ræktun lands og lýðs
Í Gráhelluhrauni.
Girðingarefni lá ekki á lausu á upphafsárum félagsins vegna haftastefnunnar. Þetta mikilvæga mál mæddi mjög á stjórnarmönnum og girðingarefni kostaði félagið mikla fjármuni. Gráhelluhraunsgirðingin gekk fyrir og þess vegna dróst úr hömlu að girða landsvæðið norðaustan Hvaleyrarvatns sem félaginu hafði verið lofað við stofnun þess. Útland bæjarins var ekki eingöngu ætlað sem útivistar- og ræktunarsvæði því á þessum árum var það fyrst og fremst notað sem haglendi fyrir sauðfé frístundabænda í bænum.
Tóftir við Gráhellu.
Vorið 1957 fékk félagið formlega úthlutað 32 hektara landsvæði í hlíð Beitarhúsaháls við Hvaleyrarvatn. Þar voru nokkrar gróðurtorfur, en landið var að stærstum hluta blásið holt, stórgrýti og leirflög og gaf ekki von um mikla ræktunarmöguleika. Engu að síður var landið girt sumarið 1957 og girðingin stækkuð 1963 þegar viðbótarlandi við Húshöfða var úthlutað til félagsins. Gróðursetning hófst af krafti vorið 1958 og voru 15 þúsund trjáplöntur gróðursettar í hlíðum Beitarhúsahálsins fyrsta sumarið. Munaði einna mest um ómældar vinnustundir Guðmundar Þórarinssonar og Ólafs Vilhjálmssonar, að öðrum ólöstuðum.
Árið 1959 fékk Skógræktarfélagið leyfi til að girða af 56 hektara land umhverfis Stóra-Skógarhvamm í Undirhlíðum. Næstu fimm árin önnuðust piltar í vinnuskólanum í Krýsuvík gróðursetningu undir stjórn Hauks Helgasonar. Félagið tók einnig við skóginum í Skólalundi og var Undirhlíðagirðingin stækkuð 1961 þegar Kúadalur og hluti Kaldárhnúka syðri bættust við ræktunarsvæðið. Sama ár var ákveðið að dreifa lúpínufræjum í örfoka land við Hvaleyrarvatn.
Uppeldisreitir
Beitarhús við fyrrum selstöðu Jófríðarstaða í Beitarhúsahálsi.
Helstu útgjöld Skógræktarfélagsins voru lengst af fólgin í kaupum á skógarplöntum til gróðursetningar, sem gekk stundum illa að útvega. Þetta kom niður á starfinu en oft hljóp Jón Magnússon í Skuld undir bagga og bjargaði félaginu um plöntur til gróðursetningar.
Jón Magnússon í Skuld.
Sumarið 1973 gaf hann félaginu fjölda birkiplatna úr gróðrastöð sinni og hvatti til þess að félagið kæmi sér upp ræktunarstöð. Vorið 1975 var fyrsta skrefið tekið þegar félagið kom upp græðireitum á Beitarhúsahálsi. Félagsmenn söfnuðu fræi víða um land, og reyndar út um allan heim, og á vorin var sáning trjáfræja árviss viðburður. Á ýmsu gekk til að byrja með en tíu árum eftir að upphafsskrefin voru tekin var framleiðsla gróðrastöðvarinnar komin á það stig að félagið var sjálfbjarga um nær allar plöntur sem notaðar voru á ræktunarsvæðum þess. Þetta var fyrsti vísirinn að gróðrastöðinni sem nú er rekin sem sjálfstætt fyrirtæki og nefnist Gróðrastöðin Þöll.
Skógræktarfélagið fékk úthlutað viðbótarlandi 1979 sem ætlunin var að reita niður í landnemaspildur.
Listaverk í Höfðaskógi (Beitarhúsahálsi).
Auglýst var eftir einstaklingum og fyrirtækjum sem vildu taka land í fóstur. Hugmyndin hlaut góðan hljómgrunn og vorið 1980 fengu 24 einstaklingar og fjölskyldur þeirra, ásamt 11 fyrirtækjum úthlutað landnemareitum í sunnanverðu Gráhelluhrauni og hrauninu vestur af Sléttuhlíð. Félagið hóf sama ár útplöntun á furutrjám í Selhöfða og þegar sorphaugunum við Hamranes var lokað 1987 stækkaði ræktunarsvæðið út í Selhraun vestan Hvaleyrarvatns.
Þegar útlönd Hafnarfjarðar og Garðabæjar höfðu verið girt 1979 lauk lausagöngu búfjár í bæjarlandinu. Þetta leiddi til þess að þeirri hugmynd var hreyft af fullri alvöru að taka niður allar girðingar á ræktunarsvæðum félagsins. Ekki var einhugur um þetta mál því margir töldu fulla ástæðu til að viðhalda girðingum til að verja skógræktarlöndin fyrir ágangi um ókomna tíð. Það leið því nokkur tími áður en hafist var handa við að fella girðingarnar og fjarlægja þær en nú eru öll skógarsvæði félagsins opin og ógirt.
Landnemar
Hólmfríður Finnbogadóttir.
Vorið 1989 tók Hólmfríður Finnbogadóttir við formennsku í Skógræktarfélaginu. Hún hafði verið í stjórn þess í tæpan áratug og var fyrsta konan til að gegna formennsku í félaginu. Hólmfríður tók við framkvæmdastjórn félagsins ári síðar. Hólmfríður Árnadóttir var formaður félagsins 1999-2002 en þá tók Níels Árni Lund við og gegndi formennskunni í 9 ár. Jónatan Garðarsson tók við formennskunni vorið 2009.
Sumarið 1980 tók Skógræktarfélagið við Höfðalandi og úthlutaði því í áföngum til fjölda landnema. Fleiri svæði fylgdu með í þessum áfanga, þ.á.m. Seldalur sem er hluti Landgræðsluskóga átaks sem efnt var til þegar Skógræktarfélag Íslands varð sextugt 1990. Seldalur þótti ekki sérlega ákjósanlegur ræktunarreitur því hann var þakinn gróðursnauðum jökulleir sem breyta þurfti í ræktanlegt land. Lúpínufræjum var sáð í dalinn og rofabörð stungin niður áður en 50 þúsund trjáplöntur voru gróðursettar þar. Þetta rúmlega 20 hektara svæði hefur tekið verulegum stakkaskiptum frá því að fyrstu trén voru gróðursett þar.
Félagsaðstaðan og gróðurhúsin
Höfðaskógur – aðstaða Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.
Framan af átti félagið ekkert almennilegt húsnæði, aðeins lítinn verkfæraskúr í Gráhelluhrauni og annan í Höfðaskógi. Um tíma hafði félagið vinnuskúr til afnota og þar var fundað þó aðstæður væru mjög þröngar. Vorið 1990 var bætt úr aðstöðuleysinu þegar 40 fermetra sumarhúsi var komið fyrir norðan Húshöfða. Húsið var allt í senn starfsmannahús, skrifstofa, fundarstaður og móttökuhús félagsins. Húsið fékk nafnið Höfði og var til mikilla bóta eftir langvarandi aðstöðulesi. Samt sem áður vantaði enn upp á aðstöðuna því verkfæri og annar búnaður var geymdur í litlum skúr. Hagur félagsins vænkaðist heldur betur sumarið 2003 þegar því áskotnaðist gömul kennslustofa. Húsið var flutt í Höfðaskóg, þar sem útbúin var aðstaða fyrir starfsmenn og búnað, ásamt skrifstofu félagsins. Þetta hús hlaut nafnið Selið. Til viðbótar hefur félagið til afnota nokkur köld gróðurhús á ræktunarreitnum og eitt nýlegt upphitað hús sem hefur breytt miklu varðandi starfsemina.
Höfðaskógur
Hvaleyrarvatn – minjar.
Starfsstöð Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er suðvestan Kaldárselsvegar skammt frá Hvaleyrarvatni, á landsvæði sem hlotið hefur nafnið Höfðaskógur. Félagsaðstaða og ræktunarstöð félagsins er á Beitarhúsahálsi sem dregur nafn sitt af Jófríðarstaðaseli sem varð að beitarhúsi þegar selfarir lögðust af.
Húshöfði – Beitarhús og Jófríðarstaðasel.
Þar sem selið stóð eru nú tóftir beitarhúss sem var sennilega byggt rétt fyrir aldamótin 1900. Tóftirnar sjást ennþá en húsið stóð skammt frá þeim stað sem nú er útikennslustofa félagsins er. Þetta er einfalt skýli með bekkjum inn á milli trjánna í fallegum lundi. Kennslustofan var útbúin að tilstuðlan skólastjóra hjónanna Harðar Zópahníassonar og Ásthildar Ólafsdóttur sem gáfu félaginu peningagjöf á 60 ára afmæli þess í því skyni að efla áhuga skólabarna á skógrækt.
Höfðinn suðaustan við Beitarhúsaháls og er sennilega nefndur eftir beitarhúsinu, en eldra nafn á höfðaum er Heimastihöfði, enda sá höfðanna sem er næstur Jófríðarstaðabænum. Nokkrir höfðar til viðbótar falla undir Höfðaland, sem nú er aðal ræktunarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.
Selhöfði – fjárborg.
Höfðarnir heita auk Húshöfða, Selhöfði, Stórhöfði, Miðhöfði og Efstihöfði sem var allt eins nefndur Fremstihöfði. Einn höfði til viðbótar var tilgreindur í gömlum skjölum og nefndur Þormóðshöfði. Hann heitir í dag einu nafni Langholt enda frekar um holt eða ás að ræða en eiginlegan höfða.
Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946 fékk stjórnin 32 hektara landspildu útmælda við Vatnsendann norðaustan Hvaleyrarvatns. Hugmyndin var að hefja þar ræktun vorið 1947, en vegna mikilla vorkulda var ekki talið ráðlegt að hefja þar gróðursetningu að svo komnu máli. Þess í stað var 7 hektara spilda í nyrsta hluta Gráhelluhrauns girt og þar var gróðursett af krafti næstu árin. Vorið 1956 fékk Hákon Bjarnason skógræktarstjóri nokkuð stóra landspildu afhenta í Vatnshlíð. Hann hófst von bráðar handa við að brjóta landið undir ræktun ásamt fjölskyldu sinni og vinum. Nokkrum árum seinna reisti hann sumarhús fyrir fjölskylduna á þessum reit og stendur það hús enn í dag.
Höfðaskógur.
Hákon var merkur frumkvöðull og þegar hann hafði undirbúið ræktun í Vatnshlíð töldu félagar í Skógræktarfélaginu að rétt væri að hefjast handa við samskonar landbótarvinnu suðvestur af Beitarhúsahálsi. Sumarið 1957 var 32 hektara landspilda girt og hófst gróðursetning vorið 1958 í nánast örfoka hlíðinni. Girðingin var stækkuð í áföngum og þar kom að allt Höfðalandið var lagt undir ræktun árið 1979 þegar fjárheld girðing umlukti loksins höfuðborgarsvæðið.
Nokkrir vegslóðar voru lagðir um Höfðana, landið reitað niður og deilt út til einstaklinga, fjölskyldna, félaga og fyrirtækja sem tóku land í fóstur árið 1980. Víða hafa vaxið upp fallegir trjálundir og gróðurinn sækir sífellt í sig veðrið þó sums staðar sé trjávöxturinn frekar stutt á veg kominn.
Í Höfðaskógi.
Trjágróðurinn í Höfðaskógi er af margvíslegum toga en mest ber á greni, furu, birki, víði, reyni og aspartegundum. Á 50 ára afmæli Skógræktarfélagsins árið 1996 var opnaður trjásýnilundir með rúmlega 250 trjátegundum og kvæmum á elsta ræktunarsvæðinu ofan Hvaleyrarvatns. Á síðustu árum einnig verið unnið að því að planta út öllum þekktum tegundum rósa sem finnast hér á landi í suðurhlíðum Húshöfða. Þetta er samstarfsverkefni Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands.
Vatnshlíðarlundur
Vatnshlíðarlundur.
Hjálmar Rögnvaldur Bárðarson skipaverkfræðingur og siglingamálastjóri og eiginkona hans Else Sörensen Bárðarson létu eftir sig miklar eignir en þau áttu enga afkomendur. Else lést 28. maí 2008 en Hjálmar tæplega ári seinna 7. apríl 2009. Létu þau eftir sig eignir og fjármuni sem þau ánöfnuðu nokkrum aðilum. Landgræðsla ríkisins og Landgræðslusjóður hlutu 30% af eigum þeirra hvert um sig, en það sem eftir var skiptist jafnt milli Fuglaverndarfélags Íslands og þriggja safna.
Hjálmar óskaði eftir því í erfðaskrá sinni að fénu sem rann til Landgræðslusjóðs yrði varið til landgræðsluskógræktar „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“.
Vatnshlíð – skilti.
Stofnaður var minningarsjóður um hjónin sem starfa mun í 10 ár með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og í landgræðsluskógrækt með lúpínu. Jafnframt var Hjálmarssjóður settur á laggirnar sem veitir styrki til landgræðsluverkefna. Hjálmarssjóður hefur m.a. gert samning við Skógræktarfélag Hafnarfjarðar um að gróðursetja í nokkurra hektara landsvæði í Vatnshlíð norðan Hvaleyrarvatns þar sem áður var berangur en lúpínan hefur breytt svæðinu í vænlegt ræktunarland.
Ætlunin er að útbúa minningarreit um Hjálmar og Else í Vatnshlíðinni og vinnur Þráinn Hauksson landslags arkitekt að hönnun reitsins.
Skógurinn í Vatnshlíð.
Gróðursetning í Vatnshlíð hófst með formlegum hætti laugardaginn 17. september 2011. Hjálmar var mikill áhugamaður um náttúru Íslands og kunnur ljósmyndari. Fuglaljósmyndir hans skipuðu stóran sess í lífsstarfinu og þess vegna var lögð sérstök áhersla á að gróðursetja berjarunna, reynitré og fleiri tegundir sem hafa sérstakt gildi fyrir fugla. Ætlunin er að koma upp ljósmyndahúsi við Hvaleyarvatn með tíð og tíma til að auðvelda fuglaljósmyndurum að ná góðum fuglamyndum og bæta aðstöðuna við vatnið. Svæðið er mjög vinsælt meðal þeirra sem stunda fuglaljósmyndun enda fuglalíf í skóginum við Hvaleyrarvatn sérstaklega fjölbreytilegt.
Hjálmar Rögnvaldur bjó lengi við Álftanesveg skammt frá norðurbæ Hafnarfjarðar en hann fæddist árið 1918 á Ísafirði og ólst þar upp.
Minningarreitur og hólmar í Hvaleyrarvatni
Hólmarnir í Hvaleyrarvatni.
Framkvæmdir við minningarreit um Hjálmar Rögnvald Bárðarson skipaverkfræðing og siglingamálastjóra og eiginkonu hans Else Sörensen Bárðarson í Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn gengur vel. Reiturinn er hannaður af Þráni Haukssyni landslagsarkitekt og það eru Kristján Ingi Gunnarsson og Bjarni Sigurðsson sem hafa séð um framkvæmdina. Þeir hafa jafnframt útbúið þrjá hólma í vestanverðu Hvaleyrarvatni.
Seldalur
Seldalur.
Seldalur er suðvestur af Hvaleyrarvatni og umlukinn hálsum og höfðum. Selhöfði er norðan við dalinn og Stórhöfði suðvestan hans. Þar á milli er annarsvegar Seldalsháls og hinsvegar ónefndur háls sem tengir saman Stórhöfða og Langholt. Dalurinn var mjög illa farinn þegar Skógræktarfélagið tók hann til ræktunar árið 1990. Uppgræðsla dalsins var hluti af Landgræðsluskóga átaki sem hleypt var af stokkunum í tilefni af 60 ára afmæli Skógræktarfélags Íslands þetta sama ár. Á vetrum safnaðist vatn í dalbotninn og leirkenndur jarðvegurinn var mjög rokgjarn á sumrin í mestu þurrkum. Meðlimir Skotveiðifélags Hafnarfjarðar höfðu verið með aðstöðu til skotæfinga í dalnum um frá 1968 til 1988 og þar var mikið magn af brotnum leirdúfum, högglum og öðru sem minnti á veru félagsmanna þar.
Tóft í Seldal.
Fyrsta verkið fólst í að hreinsa dalinn, stinga niður rofaborð, bera áburð, grasfræ og lúpínufræ í flögin og freista þess að hefta uppblástur og fok. Síðan var hafist handa við að gróðursetja harðgerðar trjátegundir eins og birki, víði, furu, greni og alaskaösp. Alls voru gróðursettar 50 þúsund trjáplöntur fyrsta kastið í þenna rúmlega 20 hektara dal. Mikil vinna hefur verið lögð í búa svo um að trjágróðurinn fái sem best skilyrði til að vaxa og hefur landið hreinlega tekið stakkaskiptum. Það voru því mikil vonbrigði þegar eldur var borinn að þurrum gróðrinum í dalnum seinnihluta marsmánaðar 2010. Kveikt var í rusli sem þar var skilið eftir og líka borinn eldur að þurrum gróðri á fleiri en einum stað. Þetta orsakaði það að 4-5 hektarar, eða fjórðungur svæðisins, fuðraði upp á skömmum tíma.
Björnslundur í Seldal
Björnslundur – minnismerki í Seldal.
Björn Árnason var bæjarverkfræðingur Hafnarfjarðar frá 1968 til 1995. Hann sinnti trjárækt og landgræðslu af miklum áhuga og hafði brennandi áhuga á útvist. Eftir komuna til Hafnarfjarðar varð hann þess áskynja hversu illa uppland bæjarins var farið af ofbeit og uppblæstri og vildi setja aukinn kraft í uppgræðslu landsins. Björn gaf kost á sér til setu í stjórn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og átti þar sæti frá 1996 til 2004. Einu ári áður en hann tók sæti í stjórninni keypti hann jörðina Mykjunes í Holtum í Rangárvallasýslu. Hóf hann umfangsmikla skógrækt í Mykjunesi og helgaði krafta sína þessu áhugamáli sínu af fullum krafti næstu árin. Naut hann dyggrar aðstoðar barna sinna, barnabarna og annarra við ræktunarstarfið og hafði áorkað gríðarlega miklu þegar hann kvaddi þessa jarðvist austur í Mykjunesi vorið 2007.
Björn Árnason.
Árið 1989 þegar Hólmfríður Finnbogadóttir formaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar var ráðin í fullt starf sem framkvæmdastjóri var eitt fyrsta verkið að leita samninga við Hafnarfjarðarbæ um viðbótar landsvæði til ræktunar. Gengið var frá nýjum samningi í mars 1990 og stuttu seinna hófst verkefnið „Landgræðsluskógar – átak 1990“ í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Íslands. Átakið var styrkt með framlagi úr ríkissjóði og tók Skógræktarfélag Hafnarfjarðar þá ákvörðun að leggja sitt af mörkum til að átakið tækist sem allra best. Björn lagði til að félagsmenn hæfu landgræðsluátakið með uppgræðslu í Seldal milli Selhöfða og Stórhöfa. Þessi 20 ha dalbotn var illa farinn af uppblæstri og landeyðingu og full ástæða til að snúa þróuninni við. Næstu tvö sumur voru 80 þúsund trjáplöntur gróðursettar í Seldal og unnið þar að meiriháttar landbótum. Dalurinn breyttist smám saman úr auðn í fallegan gróðurreit.
Minningarskjöldur um Björn Árnason í Seldal.
Vorið 1991 var lögð fyrir skipulagsnefnd Hafnarfjarðarbæjar tillaga Þráins Haukssonar landslagsarkitekts að heildarskipulagi útivistarsvæða í grennd við Hvaleyrarvatn. Þráinn vann skipulagstillögu sína í náinni samvinnu við Björn Árnason bæjarverkfræðing og Jóhannes S. Kjarval skipulagsstjóra Hafnarfjarðar. Helstu markmið tillögunnar voru að stuðla að skynsamlegri og varfærnislegri meðferð og nýtingu svæðisins, vernd einstakra náttúrufyrirbæra, aukinni uppgræðslu og skógrækt og að bæta möguleikana á fjölbreyttri útivist. Jafnframt var lögð áhersla á að tryggja góð tengsl byggðarinnar við útivistarlöndin með bættu umferðarkerfi. Vegaslóðarnir sem lagðir voru í framhaldinu voru fyrst og fremst hugsaðir til að auðvelda ræktunarfólki að fara um upplandið, en þeir hafa nýst til gönguferð og hverslags umferðar um Höfðana eins og landið nefnist einu nafni.
Kvöld við Hvaleyrarvatn.
Björn kom að þessu máli með beinum hætti þar sem það var í hans verkahring að tryggja fjármagn til vega- og stígagerðar. Þetta tókst þrátt fyrir að þungt væri fyrir fæti framanaf. Núna spyr enginn hvers vegna svona erfiðlega gekk að fjármagna gerð vegaslóðanna, þar sem þeir þykja alveg sjálfsagður hluti af svæðinu í dag og enginn vill án þeirra vera.
Eftir andlát Björns kom fljótlega upp sú hugmynd að minnast hans með viðeigandi hætti en hann var einn af heiðursfélögum Skógræktarfélagsins. Var samþykkt að reisa honum minningarstein austarlega í Seldal. Grágrýtissteini með koparplötu var fundinn staður í fallegum hlíðarslakka og var steinninn afhjúpaður á Skógar- og útivistardegi fjölskyldunnar laugardaginn 19. júlí 2008.
Gráhelluhraun
Minningarskjöldur um Guðmund Þórarinnsson í Gráhellihrauni.
Fyrsta verk stjórnar eftir að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað haustið 1946 var að útvega hentugt land til skógræktar. Upphaflega hugmyndin var að hefja trjárækt í örfoka brekkunum norðan Hvaleyrarvatns, en vegna kulda vorið 1947 var leitað að skjólsælla svæði. Forvígismenn félagsins töldu nyrsta hluta Gráhelluhrauns henta vel til ræktunar og fengu leyfi bæjaryfirvalda til að girða 7 hektara reit í hrauninu upp af Lækjarbotnum.
Gróðursetning hófst við hátíðlega athöfn 27. maí 1947 og fyrsta sumarið voru 2.300 trjáplöntur settar niður. Næsta áratug var aðal starfsemi félagsins tengd skógrækt í Gráhelluhrauni. Sérstakir hakar voru útbúnir til að koma plöntum niður í hraunið sem reyndist prýðilega lagað til skógræktar eins og reiknað hafði verið með.
Skógræktargirðingin var stækkuð um 30 hektara 1949 og næstu árin var umtalsverðu magni af birkiplöntum, skógarfurum, rauðgreni, sitkagreni og lerki plantað út, hátt í 100 þúsund plöntum.
Í Gráhellihrauni.
Á tímabilinu 1965-78 var um 30 þúsund stafafurum, bergfurum og birkitrjám plantað út í hrauninu, en eftir það hefur Gráhelluhraunsskógur nánast verið sjálfbær.
Skógurinn endurnýjar sig sjálfur að miklu leyti og töluvert ber á sjálfsánum furutrjám. Birki- og víðirunnar hafa breitt verulega úr sér og lyng og gamburmosi þekja hraunið ásamt fjölbreyttum lággróðri af margvíslegu tagi. Á hverju ári er plantað út í svæðið til að auka tegundafjölda og viðhalda ræktunarsvæðinu.
Allar girðingar hafa fyrir löngu verið fjarlægðar í Gráhelluhrauni og göngustígur lagður til að auðvelda öllum að njóta þessa gróskumikla og fjölbreytta skógarsvæðis.
Minningarskjöldur 4 brautryðjenda á Gráhelluflöt
Minningarskjöldur um fyrrum skógræktarmenn á Gráhelluflöt.
Laugardaginn 9. ágúst 2008 var fjögurra brautryðjenda skógræktarstarfs í Hafnarfirði minnst með því að afhjúpa minningarskjöld á hraunkletti í norðanverðu Gráhelluhrauni, skammt frá þeim stað þar sem ræktunarstarf á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hófst vorið 1947.
Í Gráhelluhrauni.
Fyrsta gróðursetningaferðin í Gráhelluhraun var farin 27. maí 1957. Lautirnar í Gráhelluhrauni reyndust skjólgóðar og vel lagaðar fyrir skógrækt. Ráðist var í að grisja rauðgrenið í Gráhelluhrauni fyrir jólin 1958 og bæjarbúum boðið að kaupa hafnfirsk jólatré.
Minningarsteinar á vegum félagsins eru orðnir þó nokkuð margir og eru á víð og dreif um ræktunarsvæðin. Það á vel við að minnast þessara fjögurra frumkvöðla í saman enda komu þeir allir að starfinu á umbrotatímum í sögu þjóðarinna. Með áræðni, bjartsýni go umfram allt skýrri framtíðarsýn áttu þeir hver á sinn hátt stóran þátt í að Skógræktarfélag Hafnarfjarðar varð öflug fjöldahreyfing á upphafsárunum og er enn í dag eitt fjölmennasta skógræktarfélag landsins.
Skólalundur
Skólalundur.
Kúadalur og Litli-Skógarhvammur í Undirhlíðum tilheyrðu beitilandi Garðakirkju og leiguliða kirkjunnar um aldir, en landið komst í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar 1912. Haglendið var illa farið af hrístöku, beit og uppblæstri árið 1926 þegar skógræktarstjóri vakti athygli bæjarstjórnar Hafnarfjarðar á að tímabært væri að girða nokkra skógi vaxna runna í Undirhlíðum og friða skóglendið.
Gráhelluhraun.
Málið fór fyrir girðinganefnd bæjarins sem ákvað að láta girða gróskumesta skógarhvamminn.
Birkið og víðitrén áttu því í vök að verjast þegar Ingvar Gunnarsson kennari plantaði fyrstu barrtrjánum ofarlega í Litla-Skógarhvammi 1930. Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar tók við Undirhlíðareitnum var fyrsta verkið að girða Skólalund. Girðingin var stækkuð 1961 norðaustur fyrir Kúadal að Syðri-Kaldárhnúkum, lúpínu var sáð í örfoka landið og hafist handa við að klæða það skógi. Sitkagrenitrén í Skólalundi eru þau hæstu í Undirhlíðum. Kúadalsgirðingin var fjarlægð 2005 og Útivistarskógur í Undirhlíðum opnaður í ágúst 2006 í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.
Skógarhvammur.
Einnig var bætt við 30 hektara svæði í norðaustur frá Skólalundi árið 1961 þegar Kúadalur bættist við ræktunarsvæðið. Gróðursetningastarfið í Undirhlíðum naut forgangs, en mikil vinna fór í viðhald á girðingunni. Þegar nýtt árþúsund gekk í garð þótti ástæðulaust að halda í gömlu girðingarnar og voru þær teknar niður.
Þann 25. júní 2005 fór fram táknræn athöfn í Undirhlíðaskógi þegar 75 trjáplöntur voru gróðursettar í Skólalundi til að minnast 75 ára afmælis Skógæktarfélags Íslands og að 75 ár voru liðin frá því að Ingvar Gunnarsson gróðursetti þar fyrstu trén.
Sumarið 2006 var sett upp skilti með loftmynd við Skólaund og skógurinn formlega opnaður almenningi. Sumarið eftir voru gömlu girðingarnar teknar niður umhverfis Stóra-Skógarhvamm og var hann opnaður almenningi með formlegum hætti 25. ágúst 2007 með því að nokkrum trjám var plantað þar út.
Sitkagrenitrén í Skólalundi eru þau hæstu í Undirhlíðum.
Undirhlíðar
Undirhlíðar.
Undirhlíðar eru bólstrabergshæðir sem liggja frá Kaldárbotnum í norðaustri að Vatnsskarði í suðvestri og spanna um 7 km. Beggja vegna eru hraun frá sögulegum tíma, ásamt eldri hraunum. Undirhlíðaleið lá með norðanverðum hlíðarfætinu en sunnan við Undirhlíðar var Dalaleið. Hvorutveggja voru fornar þjóðleiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Móskarðshnúkar nefnast móbergshæðir ofan við Stóra-Skógarhvamm með fallega mótaðri skál sem snýr opi mót norðri.
Undirhlíðar – einir.
Undirhlíðar tilheyrðu Garðakirkju á Álftanesi frá alda öðli, en Hafnarfjarðarbær keypti hluta kirkjulandsins 1912. Undirhlíðar voru vaxnar kjarri og kröftugum fóðurgrösum og töldust helstu bithagar búpenings Garðaklerka og leiguliða þeirra. Selfarir lögðust af í Kaldárseli um 1866 þegar Þorsteinn Þorsteinsson reyndi þar fasta búsetu, sem lánaðist illa. Hafnfirðingar höfðu vanist á að sækja sér hrís og lyng til eldiviðar í Undirhlíðar og Gjárnar, en hrístakan bættist ofan á vetrarbeitina sem gekk nærri gróðrinum. Árið 1917 var vinnuflokkur að störfum við vatnsrennu sem leggja átti frá Kaldárbotnum að Sléttuhlíð. Þegar færi gafst leituðu mennirnir að runnagróðri nærliggjandi gjótum og hlíðum. Hrísið var slitið upp með rótum, eða sargað sundur við rót.
Gjár.
Þegar fregnin af viðartökunni barst bæjaryfirvöldum til eyrna var Einar Sæmundsen skógarvörður beðinn um að gera úttekt á málinu. Niðurstaða hans var sú að búið væri að spilla stórum gróðurspildum á milli Gjánna, í Undirhlíðum og víðar svo að stór hluti af grónu landi var nær ónýtur. Einar brást við aðstæðunum með því að skipuleggja skynsamlega grisjun til að stöðva rányrkjuna. Fjórir menn voru þjálfaðir til verksins og grisjuðu þeir rúmlega 30 hestburði – tvö og hálft tonn af eldiviði – en síðan var landið friðað.
Agner F. Kofoed Hansen skógræktarstjóri lagði til við bæjarstjórn 1926 að friða þá skógarrunna sem eftir voru í Undirhlíðum. Girðinganefnd tók sér góðan tíma áður en ákveðið var að girða af einn hvamm þar sem uppblástur og skemmdir voru minnstar.
Vorferðir Barnaskólanema í Skólalund
Drengir úr Vinnuskólanum í Krýsuvík við skógrækt í Undirhlíðum.
Árið 1930 hóf Ingvar Gunnarsson kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar gróðursetningu í Undirhlíðum en Litli-Skógarhvammur var girtur í ársbyrjun 1934. Sama vor hófu nemendur Barnaskóla Hafnarfjarðar ræktun Skólalundar undir stjórn Ingvars.
Drengir úr Vinnuskólanum í Krýsuvík við skógrækt í Undirhlíðum.
Næstu árin plöntuðu börnin út mörg þúsund trjáplöntum, en starfinu lauk þegar fullplantað var í girðinguna fáum árum seinna. Skógrækargirðingin fékk lítið sem ekkert viðhald en 1942 gerði bæjarstjórnin samning við Fjáreigendafélag Hafnarfjarðar um sumarbeit innan bæjargirðingarinnar. Fjáreigendur tóku að sér að annast viðhald allra girðinga í upplandinu, en þrátt fyrir samninginn töldu þeir sig ekki hafa efni á að viðhalda skógræktargirðingunni. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri ritaði bæjarstjóra bréf 1948 og óskaði eftir því að girðingin væri endurnýjuð. Sumarið áður hafði sauðfé gert sig heimakomið í Skólalundi og skemmt birkikjarrið mikið og bitið stöku skógarfurur og grenitré.
Stóri-Skógarhvammur bætist við ásamt Kúadölum
Undirhlíðar 2008.
Girðingamálið stóð í stappi í nokkur ár en þegar séra Garðar Þorsteinsson tók við sem formaður félagsins komst skriður á málin. Árið 1958 fékk félagið leyfi bæjaryfirvalda til að girða 56 ha svæði umhverfis Stóra-Skógarhvamm. Húsdýraáburður úr Krýsuvíkurbúinu var einnig notaður til að bera á blásna mela og allt þetta starf skilaði góðum árangri. Skógarreiturinn hefur nánast verið sjálfbær frá 1964.
Stóri-Skógarhvammur í Hafnarfirði opnaður
Í Laufblaðinu, fréttablaði Skógræktarfélags Íslands 2007, segir frá opnun skógarsvæðisins í Stóra-Skógarhvammi:
Haukur Helgason.
„Skógræktarfélag Hafnarfjarðar opnaði skógræktarsvæðið Stóra-Skógarhvamm laugardaginn 25. ágúst. Stóri-Skógarhvammur var friðaður árið 1958/59 og hófst ræktunarstarf Skógræktarfélags Hafnarfjarðar í kjölfarið. Piltar úr vinnuskólanum í Krýsuvík voru nýttir til verksins, sem störfuðu að ræktuninni undir leiðsögn Hauks Helgasonar, sem var stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar.
Vinnuskólinn í Krýsuvík starfaði fram til ársins 1964 og hefur síðan þá lítið verið gróðursett. Árangur þessar aðgerða er mjög góður og eru þarna nú mjög vöxtulegur og fallegur skógur af ýmsum tegundum. Jafnframt hefur birkiskógurinn aukist mjög að umfangi og breiðst út.
Nú er unnið að því að gera svæðið aðgengilegra almenningi til að njóta útivistar í þessu fallega umhverfi og hefur Skógræktarfélag Hafnarfjarðar notið stuðnings Samfélagssjóðs Alcan og velvilja Landsvirkjunar og Hafnarfjarðarbæjar við að koma verkinu í framkvæmd.“
Cuxhaven-lundur
Dórothea afhjúpar minningarskjöld í Cuxhavenreitnum.
Skammt fyrir vestan Hvaleyrarvatn er svokallaður Cuxhaven-lundur. Lundurinn er í umsjón vinabæjarfélagsins Cuxhahvan – Hafnarfjörður.
Fyrst var gróðursett í lundinn árið 1998. Lundurinnn er merktur.
Það er hefð fyrir því að gestir frá Cuxhaven sem hingað koma heimsækja lundinn og gróðursetja ef færi gefst. Í mörg ár hefur sendinefnd frá Cuxhaven komið og heimsótt félagið fyrstu helgina í aðventu í tengslum við afhendingu þjóðverjanna á jólatré til bæjarins sem staðsett er á Thorsplani.
Föstudaginn 6. júlí komu nokkrir félagar úr Vinabæjarfélaginu Cuxhaven – Hafnarfjörður ásamt nokkrum góðum gestum frá Þýskalandi saman í Cuxhaven lundinum við Hvaleyrarvatn.
Minnismerki – Jónas Guðlaugsson.
Tilgangur samfundarins var afhjúpun minningarskjaldar um Jónas Guðlaugsson fyrrverandi rafveitustjóra og formann félagsins til margra ára. Ekkja Jónasar Dóróthea Stefánsdóttir afhjúpaði skjöldinn sem komið var fyrir á látlausum steini sem er skammt frá minningarsteini um Rolf Peters, en þeir voru miklir mátar. Að afhjúpun lokinni voru gróðursett 30 tré sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gaf til minningar um Jónas, en hann var alla tíð dyggur stuðningsmaður Skógræktarfélagsins.
Jónas og Rolf Peters frá Cuxhaven áttu mikinn þátt í þeim góðu samskiptum sem mynduðust milli vinabæjanna Hafnarfjarðar og Cuxhaven í Þýskalandi eftir að stofnað var til þeirra árið 1988. Þetta leiddi til þess að árið 1993 var stofnað félag í Hafnarfirði um vinabæjarsamstarfið og tók Jónas strax sæti í stjórn félagsins.
Minningarmerki um Rolf Peters.
Hann var formaður félagsins á árabilinu 1999 til 2007 og voru stjórnarfundir gjarnan haldnir á heimili hans og Dórótheu. Jónas var jafnan í fararbroddi þegar gesti frá Þýskalandi bar að garði og sá til þess að þeir nytu þess besta sem Hafnarfjörður hafði upp á að bjóða. Þegar Jónas ákvað að láta af stjórnarsetu vegna heilsufarsástæðna árið 2007 voru þau hjón gerð að heiðursfélögum í Vinabæjarfélaginu. Þetta var ekki eina viðurkenningin sem Jónasi hlotnaðist því borgaryfirvöld í Cuxhaven veittu honum heiðursorðuna ,,Schloss Ritesbüttel“ árið 2002 og Johannes Rau forseti Þýskalands sæmdi hann heiðursorðunni ,,Das Verdienstkrauz 1. Klasse“ árið 2003.
Heimildir:
-https://skoghf.is/um-felagie/
-https://skoghf.is/hoefeaskogur/
-https://skoghf.is/seldalur/
-https://skoghf.is/grahelluhraun/
-https://skoghf.is/skolalundur/
-https://skoghf.is/undirhliear/
-https://skoghf.is/vatnshlidarlundur/
-https://skoghf.is/cuxhaven-lundur/
-Laufblaðið – Fréttablað Skógræktarfélags Íslands, 2007. bls. 7.
Í Gráhelluhrauni.
Skansinn – upplýsingaskilti
Við Skansinn á Bessastaðanesi má lesa eftirfarandi texta á upplýsingaskilti við tóftirnar:
„Skansinn er hvort tveggja til marks um ófriðartíma fyrri alda og aðsetur æðsta valds landsins á Bessastöðum. Hér eru jafnframt minjar um kotbýli frá 19. öld þar sem Óli skans bjó.
Varnir gegn útlenskum hervíkingum
Skansinn.
Vígvirkið Skansinn á uppruna sinn að rekja til Tyrkjaránsins árið 1627. Annálar greina frá því að höfuðsmaðurinn danski, Holgeir Rosenkranz, hafi spurt rán í Grindavík og látið „tilbúa í Seylunni virki eður skans, (sumir sögðu af fiskiböggum), og setja á byssur þær fáu, til voru“. Þar vörðust landsmenn alsírskum sjóræningjum sem sigldu inn á höfnina á tveimur skipum. Meðal þeirra sem voru skikkaðir í skansinn var Jón Indíafari, reynd fallbyssuskytta. „Fýruðu þeir nokkrum stykkjum þeim á móti og ránsmenn í sama máta af sínum skipum á land upp.“
Þegar annað ránsskipið festist á grynningum fullt af herteknum Íslendingum vildu varnarliðar skjóta án afláts og frelsa fangana um borð en Danir héldu aftur af þeim. Ruddu sjóræningjarnir ýmsu ránsgóssi frá borði, reru með fanga í hitt skipið og sigldu brott með aðfallinu til Vestmannaeyja.
Fjórum áratugum eftir þetta barst Friðriki Danakonungi sú flugufregn til eyrna að fjandvinir hans Englendingar hygðust hertaka Ísland. Gerði hann út Ottó Bjelke með stórt stríðsskip til að bæta varnirnar hér á landi.
Upplýsingaskiltið – Skansinn í baksýn.
Svokallaður skanstollur var lagður á til að fjármagna gerð virkis „til varnar fyrir útlenzkum hervíkingum“. Árið 1668 var skans reistur í nesinu norðan við Bessastaðatún, ferkantaður, tuttugu málfaðmar á hvern veg, tveggja mannhæða hár og „með fallbyssu besettur“. Ottaskans, eins og hann var kallaður, þótti lítilsverðar með hliðsjón af þeim fjármunum sem til hans runnu, „einn lítill skansvottur í afsökunarnafni ásýndar“.
Árið 1809 lét Jörundur hundadagakonungur reisa vígi við Arnarhól til varnar Reykjavík. Voru fallbyssurnar í Bessastaðaskansi fluttar þangað þótt hálfsokknar væru og ryðgaðar, sex að tölu fyrir sex punda skot, og dyttað að þeim svo hægt yrði að hleypa af þeim skotum. Eftir að skammvinnum valdatíma Jörundar lauk var lítt hirt um virkið og segir í árbókum Espólíns að flestum fallbyssunum hafi verið sökkt í sjó.
Leifar af fallbyssum frá Bessastöðum voru fluttar í Þjóðminjasafn Íslands. Í fornleifakjallaranum á Bessastöðum getur að líta fallbyssu og kúlur sem taldar eru vera úr Bessastaðaskansi.
Bessastaðaland
Bessastaðir.
Flóðs og fjöru gætir í Bessastaðatjörn síðan ósinn var stíflaður árið 1953. meðan enn fjaraði í tjörninni kom upp með fjöru brík frá Prentsmiðjuflöt, þar sem var prentsmiðja Skúla Thoroddsen snemma á 20. öld og liggur hún að Stekkjarmýrarhól. Var sú leið oft farin, ekki síst ríðandi og nefndist Steinboginn.
Hjá Sjóbúðaflöt er tóft sem kallaðist Sjóbúð og enn fremur mun þarna hafa verið uppsátur, Bessastaðavör.
Í Bessastaðatjörn eru hólmar þar sem æður verpir. Bessi, bóndi á Bessastöðum, er sagður heygður í þeim stærsta, Bessahólma, hinir tveir eru manngerðir í tíð Ásgeirs Ásgeirssonar forseta. Kóri fékk nafn eftir fæðingarstað Ásgeirs í Kóranesi á Mýrum.
Austan við Skansinn eru veggjarústir, trúlega úr Skólanausti þar sem skólapiltar geymdu bát sinn.
Bessastaðanes – uppdráttur ÓSÁ.
Á Sauðatanga eru leifar af sauðaborgum og ef til vill hrossaskjóli.
Skothúsið, hóll með sýnilegum tóftum á, þar sem hæst ber á Bessastaðanesi, hefur verið fyrirtaks byrgi til gæsaveiða. Grjóthlaðnir veggir skammt vestan við byrgið kunna að hafa verið rétt eða hrossaskjól.
Tóftarbrot eru á Ranatá og Vestaritanga en hlutverk þeirra er ekki þekkt.
Í Kringlumýri er ríkt fuglalíf og þar eru víða niður við sjó fornar hringlaga grjóthleðslur fyrir æðarvarp.
Tóftir af bænum hans Óla skans
Skansinn og bær Óla skans.
Á 19. öld var reist lítið býli við Seyluna, hjáleiga frá Bessastöðum, sem nefnt var eftir Skansinum. Þar var búið til ársins 1927. þekktastur ábúenda er án efa Ólafur Eyjólfsson, Óli skans kallaður, sem bjó þar á ofanverðri 18. öld. Gamanvísa um hann er sungin enn í dag, en afbökuð.
Rétt er hún svona:
Óli Skans, Óli Skans,
er hér á róli.
Fía hans, Fía hans
fær hjá honum skjóli.
Óla er kalt á kinnunum,
Fía vill ei orna honum.
Fram í eldhús til hennar
tíðum leggur göngurnar.
Gísli Jónsson listmálari bjó síðast í Skansinum með seinni konu sinni Björgu Böðvarsdóttur við bjargneyð og einangrun.
Málverk Gísla prýddu veggi og meðal þeirra fegurstu er myndin sem hér fylgir af Skansinum og hann gaf konu sinni með rósamáluðum ramma utan um.“
Óla skans er lýst svo
Ljóðið um Óla skans.
Salvör Kristjana Gissurardóttir bloggar um Óla Skans árið 2018. Þar segir hún m.a.: „Hann var meðalmaður að vexti, heldur grannur, dökkur í andliti, langleitur, ennið lágt, nefið frekar stutt, en allhátt. Gekk hann alltaf alrakaður. Hann var með frekar ljósleitt, slétt og sítt hár, sem var skipt fyrir miðju. Eyrun voru stór og áberandi. Hakan var óvenjulega breið. Hann var lotinn í herðum. Var hann þrifnaðarmaður hinn mesti, kátur, fjörugur og lífsglaður, en enginn söngmaður. Hann var kenndur við fæðingarstað sinn og kallaður Óli Skans, og er við hann kennt hið alkunna danslag, sem allir þekkja.
Bessastaðanes – Skansinn.
Ólafur þessi var vinnumaður nokkur ár hjá móður minni, og var hann einn fyrsti háseti hjá mér, er ég byrjaði formennsku. Hann var liðlegur sjómaður, og féll mér ágætlega við hann. Ólafur varð síðar holdsveikur og dó á spítalanum í Laugarnesi.“
Átti Óli skans sem sagt enga konu sem hét Vala og var hann ekkert tengdur skansi nema að því leyti að hann ólst upp á litlum bæ í lendingunni á Bessastöðum?
Óli skans virðist hafa vakið upp sköpunarkraft skálda og Stefán Jónsson yrkir um Óla og í kvæðum Stefáns hefur Fífa breyst í Völu. Svo hefur Loftur Guðmundsson líka vísun í Óla skans oftar en einu sinni í kvæðinu Réttarsamba.
Skólanaust við Skansinn.
Ég giska á að fyrsta vísan um Óla skans þar sem hann vildi láta Fíu orna sér hafi verið sungin við ákveðið danslag og svo hafi það fylgt Óla eftir, dansarnir breytast með tímanum og ég man ekki hvað dansinn hét sem maður lærði í danstímum bernskunnar og undir var spilað og sungið lagið um Óla skans, hét dansinn skottís eða eitthvað annað? En þessi danstaktur tíðarfarsins sem fylgir Óla skans með nafn sem minnir á dans kveikir líka upp fylgikonur, Fía og Vala og Gunna. Fía hlýjar Óla, en Vala ráðskast með hann.
Lagið „ÓLI skans“
Óli skans, Óli skans,
ógnar vesalingur,
Vala hans, Vala hans
veit nú hvað hún syngur.
Óli, Óli, Óli skans.
Vissulega vildu fáir
vera í sporum hans.
Óli er mjór, Óli er mjór.
Óli er líkur fisi.
Vala er stór, Vala er stór.
Vala er eins og risi.
Óli, Óli, Óli skans.
Sjá hve þú ert sauðarlegur,
segir konan hans.
Þú ert naut, þú ert naut.
Þannig hóf hún tölu.
Óli gaut, Óli gaut
augunum til Völu.
Óli, Óli, Óli skans.
Ákaflega önuglynd
er eiginkonan hans.
Óli hlaut, Óli hlaut
auman reynsluskóla.
Vala braut, Vala braut
viðbeinið í Óla.
Óli, Óli, Óli skans.
Voðalegur vargur er hún
Vala, konan hans.
Upplýsingaskiltið um Skansinn og Bessastaðanes – bær Óla skans í baksýn við Skansinn.
Heimildir:
-Upplýsingaskilti við Skansinn á Bessastaðanesi.
-https://salvor.blog.is/blog/salvor/entry/2214985/
-Kristinn Jóhannesson, Þættir úr landvarnasögu Íslendinga – Saga, 1. tölublað (01.01.1968), bls. 122-138.
-Kvæði Stefáns Jónssonar Harpan, 9-12. tölublað (01.12.1937), bls 186.
-Skansinn og Bessastaðastofa (ferlir.is).
Frá vígslu upplýsingaskiltisins við Skansinn.
Garðar um aldarmótin 1800 og Kaldársel
Fjallað er m.a. um „Séra Markús Magnússon í Görðum á Álftanesi“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1992 og Alþýðublaðinu árið 1958. Í síðarnefndu skrifunum er getið um tengsl Markúar og mannvirkja í og við Kaldársel.
Í Lesbókinni segir:
Garðakirkja fyrrum.
„Næstan merkisklerka sem setið hafa í Görðum má telja Markús Magnússon (1748-1825) sem þjónaði Álftnesingum frá 1780 til æviloka. Hann hafnaði biskupsembætti á Hólum, en gegndi um skamma hríð biskupsdómi í Skálholti 1796-1797. Markús lét málefni er vörðuðu bættan þjóðarhag nokkuð til sín taka. Hann var m.a. einn af stofnendum Landsuppfræðingarfélagsins 1779 og hvatti samsveitunga sína mjög til jarðabóta og garðyrkju (Páll Eggert Olason, 1948-1952. HI-.47).
Nálægt hálfri annarri mílu frá Hafnarfirði beygðum við upp frá sjónum að litlu bæjarþorpi, sem heitir Garðar. Þar er prestsetur og kirkja en fáein kot umhverfis aðalbýlið.
Presturinn heitir Markús Magnússon. Hann er prófastur eða umsjónarmaður kirknanna í Gullbringusýslu. Auk heimakirkjunnar í Görðum þjónar nann einnig Bessastaðakirkju… . [P]restsetrinu [fylgir] stórt, grösugt land.
Við heilsuðum upp á síra Markús og sátum stundarkorn inni hjá honum. Hýbýlum hans verður ekki hrósað fyrir mikil þægindi, en hann hefir nærri lokið við að láta byggja sér nýjan bæ í grennd við hinn gamla, og þar fær hann miklu betri húsakynni. Hann á dálítið bókasafn, 100-150 bindi. (Henry Holland, 1960:71.)“
Fjárborg á Borgarstandi við Kaldársel. Myndin er tekin af Daniel Bruun 1898.
Í Alþýðublaðinu segir:
„Enn segir í Ferðabók Sveins: Hinn 1. nóvembermánaðar könnuðum við áðurnefndan helli, sem reyndist vera skapaður við jarðeld á sama hátt og Surtshellir, sem lýst er í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Hellir þessi er svo fallegur, að hann á skilið sérstaka lýsingu, en dagurinn var svo stuttur, að við gátum eigi gert hana. Verður bún því að bíða betra tíma. Við fundum aðra hella ok könnuðum 40 faðma af einum þeirra, en vissum eigi, hversu langur hann var alls, því að við höfðum hvorki kerti né blys. Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá að hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo að hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Auk þessa hefur þessi dugnaðarbóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd.
Fjárskjól og heykuml við Kaldársel – uppdráttur ÓSÁ.
Þetta eru eins konar fjárhús, mönnum sínum, búmaður góður og ýtti mjög á eftir sóknarbændum sínum í garðrækt og jarðyrkju.“ Hann var í biskupsstað í eitt ár, en það voru fleiri Garðaprestar. Hann var beðirin að taka Hólastól árið 1787, en baðst undan; vildi heldur sitja í Görðum.
Varla er vafi á því, að selið, sem Sveinn Pálsson getur um, er Kaldársel, enda eru hinir mestu og fallegustu hellar þar í grennd. Er og ljóst af þessari frásögn, að Garðar hafa átt beitiland þar i kringum Helgafell og í Undirhlíðum, og sennilega allt upp í Grindaskörð. Hefur allt þetta víðáttumikla fjalllendi þá legið undir Garða.“
Að ofan má sjá að nefndur Markús hafi látið byggja bæði fjárborgirnar á Borgarstandi sem og hlaðið um fjárskjólin norðan hans, væntanlega í kringum aldarmótin 1800.
Sjá meira um Kaldársel HÉR.
Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 21. desember 1992, Gísli Ragnarsson; Kirkjustaðurinn á Görðum, bls. 40.
-Alþýðublaðið 19. apríl 1958, Stefán Júlíusson; Garðar á Álftanesi, bls, 7.
Heykuml við Kaldársel.
Hús Bjarna riddara og Byggðasafn Hafnarfjarðar
Hús Bjarna riddara Sívertsens er að Vesturgötu 6 í Hafnarfirði. Byggingarár: 1803-1805, hönnuður: Ókunnur. Byggðasafnið tók við húsinu 1974. Það var friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Sögufræg hús í Hafnarfirði
Hús Bjarna riddara.
Í Þjóðlífi 1987 er fjallað um „Sögufræg hús í Hafnarfirði“:
„Í miðbæ Hafnarfjarðar, nánar tiltekið við Vesturgötu 4, stendur rúmlega aldargamalt hús sem lengst af hefur gegnt nafninu „Hansensbúð“. Danskur kaupmaður, Knudsen að nafni, lét byggja húsið árið 1880 og rak þar verslun til ársins 1914. Þá keypti það Ferdinand Hansen, kaupmaður af dönskum ættum, og þaðan dregur húsið nafn sitt. F. Hansen starfrækti verslun í Hansensbúð til dauðadags 1950, en þá tók yngsti sonur hans, „Dengsi“ Hansen við rekstrinum og hélt honum áfram næstu tíu árin. Þá var húsið selt hlutafélaginu Rán h.f. sem enn þann dag í dag er eigandi þess. Næstu 20 árin var Hansensbúð leigð undir ýmiskonar starfsemi, svo sem skrifstofuhald og æskulýðsstarf. Einnig var þar um tíma starfræktur tónlistarskóli, svo eitthvað sé nefnt.
Hús Bjarna riddara 1972.
Um 1980 var húsið orðið illa farið eftir óslitna notkun í heila öld. Þá stóð til að Hafnarfjarðarbær keypti húsið, því áhugi var meðal margra um að endurbyggja það í sinni upprunalegu mynd og starfrækja þar byggðasafn, en úr því varð aldrei. Á árinu 1984 ákváðu eigendurnir loks að hefja sjálfir endurbyggingu og tók hún á annað ár. Að henni lokinni var húsið leigt félögunum Birgi Marel Jóhannessyni og Sigurði Óla Sigurðssyni, sem reka þar nú veitingahúsið A. Hansen. Veitingastaðurinn A. Hansen hefur nú verið starfræktur í eitt ár í þessu gamla húsi. Þar er ekki aðeins hægt að fá sér að borða í notalegu umhverfi, heldur hefur það þróast upp í að verða hálfgerð menningarmiðstöð. Ýmis félagasamtök halda þar fundi, málverkasýningar eru alltaf öðru hverju og jafnvel hefur Leikfélag Hafnarfjarðar fengið þar inni fyrir leiksýningar.
Þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar frá því kaupmennirnir Knudsen og Hansen versluðu í Hansensbúð er margt við húsið sem minnir á gamla tíma. Gamlar myndir af skipaútgerð Hafnfirðinga í gegnum tíðina prýða veggina, svo og myndir frá æskuárum Hafnarfjarðar.
Í næsta nágrenni við A. Hansen er hús Bjarna Sívertsens, [Vesturgata 6] en það er elsta hús Hafnarfjarðar, byggt um 1803. Þar er nú Byggðasafn Hafnarfjarðar til húsa. Bjarni Sívertsen var fátækur vinnumaður hjá ríkum hjónum í Selvoginum. Þegar húsbóndi hans dó varð Bjarni ráðsmaður ekkjunnar og giftist henni síðar. Þá tók hann sér nafnið Sívertsen.
Bjarni Sívertssen – stytta í Hellisgerði.
Bjarni vann sér það helst til frægðar að vera eini Íslendingurinn sem vitað er að hafi verið sæmdur riddaranafnbót. Sagan segir að Bjarni hafi verið farþegi á dönsku kaupskipi á tímum Napóleonsstyrjaldanna. Englendingar sneru skipinu til Kaupmannahafnar og vildu kyrrsetja það þar, en Bjarni kom ásamt öðrum farþegum í veg fyrir það og varð það til þess að eftir það fengu dönsk skip að fara frjáls ferða sinna.
Danakonungur þakkaði Bjarna þennan árangur og sæmdi hann að launum riddara nafnbótinni. Sívertsenshjónin byggðu húsið árið 1803 og bjuggu í því í langan tíma.
Seinna komst það í eigu Knudsens kaupmanns, sem áður er nefndur, og bjó þar lengi vel verslunarstjóri hans, Kristján Siemsen. Húsið komst í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar um miðja þessa öld og var í niðurníðslu allt til 1964. Þá var hafin endurbygging þess og lauk henni um 1974. Þetta elsta hús þeirra Hafnfirðinga gegnir nú hlutverki Byggðasafns Hafnarfjarðar.
Vesturgata 6, hús Bjarna Sívertsen og Brydehús. Byggðasafn Hafnarfjarðar
Hús Bjarna var byggt 1803 og er elsta hús Hafnarfjarðar. Brydehús var byggt 1865.
Brydepakkhús stendur við hliðina á húsi Bjarna riddara. Knudsen kaupmaður byggði það árið 1865 sem vöruhús. Húsið er stórt, enda veitti kaupmenn ekki af miklu geymsluplássi á þeim árum þegar skipaferðir til íslands voru strjálar. Í gegnum tíðina hefur pakkhúsið mest verið nýtt undir geymslu á fiski og síðar varð það geymslupláss fyrir útgerðarvörur Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Í lægri viðbyggingu hússins var svo Slökkviliðsstöð Hafnarfjarðar til húsa um langan tíma. Þar er nú til húsa Sjóminjasafn Íslands. Þessi þrjú gömlu og fallegu hús bera sig vel þar sem þau standa á nákvæmlega sama stað og þau voru upphaflega, gömlu verslunarlóð Knudsens í Akurgerði. Það má því segja að Knudsen hafi komið sér vel fyrir nú á tölvuöld, líkt og hann gerði þegar hann var með verslun í Hansensbúð, vörulager í Brydepakkhúsi og geymdi verslunarstjórann sinn í húsi Bjarna riddara.“
Hafnfirðingar hlúa að húsi frá Napólontímunum
Í Vísi 1971 er grein með yfirskriftinni „Hafnfirðingar hlúa að húsi frá Napóleonstímunum“ og fjallar um uppgerð Vesturgötu 6. Rætt var við Gísla Sigurðsson, lögregluvarðstjóra, um þær endurbætur, sem verið er verið gera á húsi Bjarna riddara Sívertsens.
„Í Hafnarfirði er verið að dytta að húsi, sem um langa hríð hefur staðið til að hresst yrði upp á og endurnýjað. Það er merkilegt hús og hefur sögulegt gildi, enda bjó þar eitt sinn Bjarni Sívertsen eða Bjarni riddari, eins og hann er líka kallaður.
Og nú eru Hafnfirðingar að gera við þetta hús til að forða því frá glötun. Um þessa björgunarstarfsemi var stofnað félag, og varaformaður þess er Gísli Sigurðsson, lögregluvarðstjóri í Hafnarfirði, sem er manna fróðastur, og til hans leitaði blm. Vísis til að frétta af þessu starfi, sem er til fyrirmyndar.
Sívertsenhús og nágrenni.
Jú,“ segir Gísli. „Það er forsaga þessa máls, að Bjarni heitinn Snæbjörnsson læknir flutti erindi í Rótaryklúbbnum hérna um, að nauðsynlegt væri aö reyna að gera eitthvað til að varðveita hús Bjarna riddara og sömuleiðis væri rétt að gera tilraun til að komast yfir muni, sem voru i eigu hans. og koma þeim síðan fyrir í húsinu. Síðan var sent bréf um málið til allra félaga og samtaka í Hafnarfirði, og upp úr því var stofnað félag til að koma upp húsi Bjarna.
Fyrst þegar farið var að huga að húsinu kom það á daginn að jörð hafði hækkað umhverfis húsið: og hlaðist að því. Fyrir bragðið var húsið mjög fúið neðst. Þá var tekið til við að skipta um þann við, sem fúinn var, og vandað vel til verksins. Eitt og annað smálegt var líka gert, en þar kom, að féð þraut. Þetta var fyrir nokkrum árum. Mig minnir, að Bjarni Snæbjörnsson hafi fyrst vakið máls á þessu árið 1936.
Sívertsenhús.
Nú höfum við fengið styrk frá bæ og ríki til að lagfæra húsið. Í svipinn er verið að taka þá uppfyllingu, sem hefur safnast kringum húsið; sá jarðvegur er fjarlægður Síðan verður unnið, þar ti] búið er að ganga frá umhverfi hússins. Þá verður tekið til við endurbyggingu hússins sjálfs. Þjóðminjavörður ætlar að útvega okkur fagmenn til þess starfa, líkast til mennina, sem hafa verið að vinna í Viðey.“
Við spyrjum um sögu hússins, og þar er ekki komið að tómum kofanum hjá Gísla.
„Það er kannski ekki gott að segja fyrir víst hvenær þetta hús var byggt,“ segir Gísli. „En ég hef nú samt mínar kenningar um það, þótt ég geti því miður ekki rökstutt þær jafn óvéfengjanlega og ég vildi helzt.
En svoleiðis var, að hér úti á Langeyri stóðu verslunarhús, og 1804 dó sá, sem þar höndlaði.
Sívertsenhús.
Dánarbúið, sem var líka þrotabú, var boðið upp. Bjarni hefur greinilega haft áhuga á einu húsinu því að hann bauð í það 163 ríkisdali, en það var verslunarstjóri héðan úr Firðinum, sem það hreppti fyrir 303 ríkisdali. Ég held, að Bjarni hafi síðan gengið inn í kaupin, og látið rífa húsið og flytja þangað sem það stendur nú og byggt það þar, ofurlítið stærra, en það var í upphafi.
Þetta finnst mér líkleg skýring á tilkomu hússins, einkum af því, að á þessum árum finnst mér vafasamt, að Bjarni hafi átt skipakost til að draga að sér við til húsagerðar, ef hann mögulega gat fengið efnið á annan hátt, því að hann hafði nóg með alla aðdrætti til verslunarinnar.“
Gísli telur líklegt, að húsið hafi verið reist árið 1805, og dregur þá ályktun meðal annars af því, að til er heimild um að húsið hafi verið risið árið 1809, en árin þar á milli má segja, að Bjarni hafi haft öðrum hnöppum að hneppa en standa í húsbyggingum. Hann ferðaðist til útlanda, og var með eindæmum óheppinn í því ferðalagi, því að hann var hertekinn af skoskum víkingum og fluttur til Bretlands Honum tókst eftir langa mæðu að fá Joseph Banks í Englandi til að aðstoða sig við að losna, en þá tók ekki betra við, því að hann var varla fyrr sloppinn úr haldinu en hann lenti aftur í klóm víkinga og var fluttur til Skotlands á nýjan leik.
Sívertsenhús.
Gísli lætur ekki á sér standa að segja okkur allt, sem okkur fýsir að vita um Bjarna riddara Sívertsen, þennan merka hafnfirska borgara:
„Bjarni fæddist austur i Selvogi 6. apríl 1763. Hann virðist hafa verið mesti efnispiltur, því að Jón Halldórsson lögréttumaður í Nesi tekur hann til sín, þá 17 til 18 ára gamlan. Þá gerist það eftir tiltölulega stuttan tíma, að Jón Halldórsson drukknar, og þá er Bjarni eftir til að hugga ekkjuna. Þau giftust skömmu síðar. Hann var 21 árs og hún 37 ára og átti sjö börn. Þau Bjarni eignuðust síðan sex börn saman, og af þeim komust tvö á legg.
Til að gera langa sögu stutta, er næst að segja frá því, að verslun er gefin frjáls, og Bjarni fer að höndla á Eyrarbakka, en hrökklast þaðan vegna misklíðar við kaupmenn á staðnum.
Akurgerði og klettar ofan þess.
Síðan hélt hann til Danmerkur og festi sér Hafnarfjörð, sem verslunarstað, og umsvif hans þar ætti að vera óþarfi að rekja.“
Og við látum þetta nægja um Bjarna Sívertsen, þótt Gísli geti eflaust sagt okkur ótal margt til viðbótar. og látum það bíða þess tíma, þegar hægt verður að hlusta á framhaldið í húsi Bjarna innan um þá muni, sem þar stóðu árið 1805, þegar þeir Napóleon og Bjarni voru upp á sitt besta. — PB
Hús Bjarna riddara Sívertsens
Hús Bjarna riddara 1973.
Í Helgafelli 1943 fjallar Ágúst Steingrímsson um „Hús Bjarna riddara Sívertsens“:
„Í Hafnarfirði stendur enn hús Bjarna riddara Sívertsens, byggt 1804. Húsið er enn að mestu í upprunalegri mynd. Breytingar hafa verið smávægilegar, og mikið af viðum hússins er óskemmt með öllu, svo sem í efra gólfi, sperrum og þaki. Útveggir eru hlaðnir úr múrsteini í timburbinding. Er þetta líklega eina húsið hérlendis, sem byggt er á þennan hátt.
Sem stendur eru skrifstofur bæjarins í húsinu, en þar sem ráðhús bæjarins verður fullgert innan skamms, verða þær fluttar þangað á næstunni. Sé hið gamla hús látið standa autt og afskiptalaust, er því eyðUegging vís, áður en langt um líður. Samkvæmt skipulagsuppdrætti bæjarins á húsið líka að þoka þaðan sem það nú er, enda nýtur það sín þar illa sökum þrengsla.
Skrif Sigurðar B. Sívertsen í bók útg, 1841.
Eina ráðið til þess að bjarga húsinu frá glötun er því að flytja það. Til þess þarf nokkurt fé. En væri því fé illa varið, sem til þess færi að bjarga húsi Bjarna Sívertsens? Húsi, sem er dýrgripur á margan hátt, fallegt, hefur menningarsögulegt gildi og er síðast, en ekki sízt minnisvarði Bjarna riddara Sívertsens, sem vissulega á skilið, að minningu hans sé haldið á lofti, og engu síður fyrir það, þótt gleymst hafi að geta hans í nýútkominni Iðnsögu Íslands, hvernig sem á því stendur.
Nú, þegar menn virðast kunna að meta betur en nokkru sinni fyrr gömul menningarverðmæti, ætti fjárskortur ekki að hamla björgun hússins, eins og árar. — Verslunarstéttinni ætti að vera það metnaðarmál, að varðveitt sé minning hins fyrsta íslenska verslunarmanns, sem nokkuð kvað að. Iðnaðarmenn ættu að minnast fyrsta skipasmiðsins. Hafnarfjarðarbær ætti að hlúa að minningu eins besta borgara síns. Þjóðin öll á að læra að meta heillastörf bestu sona sinna og sýna slíkt í verki.“
-Ágúst Steingrímsson.
Hús Bjarna riddara endurbyggt og gert að safni
Hús Bjarna riddara 1994.
Í Tímanum 1973 segir; „170 ára gamalt hús gert sem „nýtt“ – Hús Bjarna riddara í Hafnarfirði endurbyggt og gert að safni:
„Fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott. Svo hljóðar gamall málsháttur, sem er furðu lífseigur, enda felast í honum sannindi, sem eiga við alla tíma. Sökum fjárskorts hefur ekkert verið hægt að vinna að endurbyggingu Viðeyjarstofu i ár, þótt það verk sé alllangt á veg komið. Öll fjárveitingin, sem veitt var til verksins i ár, fór til kaupa á þakskífum á bygginguna og verður að biða betri tíma og frekari fjárveitingar að koma þeim fyrir á sínum stað. Af þessu leiðir, að þeir smiðir, sem unnu við Viðeyjarstofu og allir eru vanir endurbyggingu gamalla og sögulegra húsa, geta nú sinnt öðru verkefni og eru nú önnum kafnir við endurreisn húss Bjarna Sívertsens í Hafnarfirði. Hefur því verki miðað allvel og er gert ráð fyrir að ljúka því á næsta ári, þjóðhátíðarárinu 1974.
Smiðirnir, sem verkið vinna, eru þrír. Þótt þeir hafi ekki numið endurbyggingu gamalla húsa sérstaklega, hafa þeir aflað sér nokkurrar reynslu á þessu sviði.
Sívertsenhús og Pakkhúsið.
Smiðirnir eru Gunnar Bjarnason, Leifur Hjörleifsson og Jón Guðmundsson. Er Gunnar yfirsmiður. Sjálfir láta þeir lítið yfir sérstakri kunnáttu sinni á þessu sviði, en sannleikurinn er sá, að það er ekki og allra smiða færi, þótt góðir handverksmenn séu, að fást við störf sem þessi. Gunnar Agústsson, hafnarstjóri í Hafnarfirði, sér að mestu um verkið af hálfu bæjarins, og sagði hann í viðtali við Tímann, að það hafi verið mikið lán að fá þessa menn til verksins. Því það er svo, að endurbygging gamals húss er vandasamt verk, ef gera á þær kröfur, að því verði breytt í upprunalega mynd, og er nauðsynlegt, að þeir, sem við þetta fást, hafi tilfinningu fyrir því verki, sem þeir eru að vinna og fari hvergi út fyrir þann ramma sem þeim er settur, sem er að umskapa húsið í upprunalega mynd, og gera það hvorki betra né lakara og umfram allt að láta ekki nútíma hagkvæmni sjónarmið hafa áhrif á vinnu sína. Enda er svo, að það er miklu dýrara að umskapa Sívertsenhúsið í upprunalega mynd heldur en að reisa nýtt hús af svipaðri stærð. Reynt er að nota sem mest af þeim efniviði, sem upphaflega var i húsinu, en það var byggt árið 1803. Síðan hefur því verið breytt nokkuð, en ekki svo að miklu nemi hvað snertir heildarútlit, og allar meginstoðir hússins standa enn.
Smiðir við vinnu í húsi Bjarna riddara.
Áður en vinna við húsið hófst, var fenginn hingað til lands danskur arkitekt, sem er sérfræðingur í endurbyggingu gamalla húsa. Í fyrrasumar gerði hann teikningar af frumgerð hússins, og sagði þá, að engum vandkvæðum væri bundið að gera þetta gamla hús upp og umbreyta því í upprunalegt horf. Á þeim tíma, sem hús Bjarna riddara hefur staðið, hafa verið gerðar á því ýmsar breytingar, var m.a. skipt um ytri klæðningu, og sett falskt bindiverk utan á húsið, en það hefur nú verið numið á brott. Að innanverðu hefur lítið verið átt við bygginguna. Settar hafa verið dyr milli herbergja, eldstæði breytt, en auðvelt er að sjá hverju hefur verið breytt og hvernig.
Hús Bjarna riddara var byggt í Kaupmannahöfn og flutt tilbúið til Íslands og reist í Hafnarfirði. Var þetta gert af hagkvæmnisástæðum, því að ódýrara var að smíða húsið fyrst, rífa siðan og reisa aftur á Íslandi, heldur en að þurfa að flytja óþarflega mikinn efnivið yfir úthafið. Dýr hefur fraktin verið í þá daga. Samt ber þess að geta, að Bjarni riddari var sjálfur kaupmaður og átti skip í förum, en hann var upphafsmaður þilskipaútgerðar hér á landi, sem kunnugt er.
Pakkhúsið og Sívertsenhús.
Að sögn Gunnars er búið að vinna fyrir tæpa milljón krónur í húsinu, það sem af er þessu ári. Húsið var áður i eigu Hafnarfjarðarhafnar, en er nú eign bæjarins, og er undir sérstakri umsjón þjóðminjavarðar. Upphafið að endurreisn hússins var stofnun samtaka í Hafnarfirði, sem gefið var nafnið Félagið hús Bjarna riddara. 18. okt. s.l. yfirtók bærinn húsið og allar framkvæmdir og eru fyrirmæli frá bæjarráði um að ljúka verkinu snemma á næsta ári og opna húsið með sýningu á húsinu og munum úr eigu Bjarna Sívertsen Í tilefni 1100 ára byggðar á næsta ári. Þá verða einnig sýndir munir úr sögu Hafnarfjarðar. Byggðasafnsnefnd var falið að sjá um uppbyggingu hússins. Veitir bærinn og Þjóðminjasafnið fé til framkvæmdanna.
Sofa húss Bjarna riddara.
Ætlunin er, að á neðri hæðinni verði munir úr eigu og viðvíkjandi ævistarfi Bjarna Sívertsen. Þar mun bæjarstjórn einnig hafa móttökur. Gegnir húsið þá að nokkru leyti hlutverki ráðhúss. Á efri hæðinni verða myndir og munir úr sögu Hafnarfjarðar.
Til er talsvert af munum úr búi Bjarna riddara. Í Þjóðminjasafni eru til húsgögn og fleira. Í minjasafni Hafnarfjarðar er sitthvað til, og allmargir aðilar í Hafnarfirði og viðar hafa tilkynnt, að þeir eigi muni úr búi Bjarna riddara og muni gefa þá til safnsins. Um munina i Þjóðminjasafninu er að segja, að gefið hefur verið vilyrði fyrir, að þeir fáist í hús Bjarna riddara, þegar þar að kemur.
Gunnar Ágústsson sagði, að haldið yrði látlaust áfram að vinna við húsið þar til verkinu lýkur. Haldið er í hverja nothæfa flís, sem enn er í húsinu, og annað er smíðað. Er margt af innviðum hússins, sem byggja þarf upp hrein módelsmiði. Veggfóður er rifið af, málning skafin og dúkar teknir af gólfum, og eru upprunalegu fjalirnar viðast hvar heilar, en í nokkrum herbergjum þarf að skipta um gólf.
Sívertsenhús.
Vitað er, að við bakhlið hússins var merkilegt útihús og við hæfi höfðingjaseturs. Löngu er búið að rifa það, en gamall maður man, hvernig það var útlits, og hefur verið gerð teikning af kamrinum eftir hans fyrirsögn og verður hann að sjálfsögðu reistur. Á honum voru tvennar dyr bæði utan frá og innan úr húsinu. En þótt byggingarlagið verði látið halda sér verður sett vatnssalerni í smáhúsið, þegar þar að kemur.
Í eigu byggðasafnsins eru nokkrir gamlir kolaofnar, sem notaðir voru til upphitunar. Þeir verða nú settir í þær stofur, sem bersýnilegt er, að ofnar hafa verið í. Þar verða þeir fremur sem minjagripir og er þeim ekki ætlað að hafa hagnýtt gildi, því að lofthitun verður í húsinu.
Pakkhúsið.
Við hlið húss Bjarna riddara er gamalt pakkhús, svo kallað Brydeshús, og var það einnig í eigu hafnarinnar. Þetta hús verður einnig tekið undir byggðasafnið í Hafnarf. Hús þetta var byggt sem verslunarhús árið 1862. Nokkrar breytingar verða gerðar á því, en hvergi nærri eins viðamiklar og á húsi Bjarna. Í þessu húsi verður minjasafn Hafnarfjarðar, og standa vonir til, að innan skamms fáist einnig næsta hús, sem slökkvistöðin er nú í, en hún verður brátt flutt. Í sambandi við þjóðhátíðina næsta sumar er ráðgert að setja upp sjóminjasýningu i Brydeshúsi, en allgott safn muna er til í Hafnarfirði, enda eru allar líkur á, að Sjóminjasafn Íslands rísi í Hafnarfirði, sem nánar verður skýrt frá í blaðinu.“
Elsta hús í Hafnarfirði
Við uppgerð húss Bjarna.
Í Dagblaðiðnu 1978 segir; „Elsta hús Hafnarfjarðar – Hús Bjarna riddara Sívertsen:
„Elzta hús i Hafnarfirði er hús Bjarna riddara Sívertsen að Vesturgötu 6, frá fyrsta tug 19. aldar. Húsið er varðveitt sem safn þó lítið sé til af hlutum úr heimili Bjarna.
Bjarni Sigurðsson fæddist að Nesi í Selvogi árið 1765. Kona hans Rannveig Filippusdóttir var stórættuð, nokkuð eldri en Bjarni og mun hann hafa fengið með henni auð og áræði. Árið 1790 hóf hann verslunarrekstur í Vestmannaeyjum en hann hafði áður fengist nokkuð við slíkan rekstur í heimabyggð sinni.
En hann hugsaði enn hærra og hélt sumarið 1793 til Kaupmannahafnar til að fá lán til verslunarreksturs og annarra umsvifa. Málalokin urðu góð og í byrjun næstu aldar hefur hann mörg járn i eldinum. Hann kaupir eða kemur sér upp verslunar- eða íbúðarhúsnæði á Akurgerðislóð í Hafnarfirði, kaupir jörðina Ófriðarstaði 1804 og eignast líka Óseyri og svo Hvaleyrartorfuna árið 1816. Allar þessar jarðir stórhækkuðu að mati, á meðan þær voru í eigu Bjarna. Ófriðarstaðir sem nú eru oftast nefndir Jófríðarstaðir, áttu þá land að sjó. Þar hugsaði Bjarni sér skipasmíðastöð og er hún talin fullbúin árið 1805. En þegar árið 1803 hafði þó fyrsta nýsmíðaða þilskip hans hlaupið af stokkunum. Nefndist það Havnefjords Pröven.
Akurgerði fyrrum.
Ef til vill má telja Bjarna það til fordildar að nefna öll skip sín dönskum nöfnum, taka upp eftirnafnið Sívertsen og taka í seinni tíð að dveljast i Kaupmannahöfn á vetrum. En hið jákvæða í fari hans hlýtur þó að teljast þyngra á metum, dugnaður, fjölhæfni og hjálpsemi. Einkum kom þetta í ljós í sambandi við utanför Bjarna árið 1807. Honum og öðrum skipverjum var ókunnugt um ófriðinn milli Englendinga og Dana og kom mjög á óvart að vera af þeim fyrrnefnda neyddir til að halda til Skotlands. Er ekki að orðlengja það að alls voru það orðin um 15 Íslandsför sem Englendingar höfðu kyrrsett þar í höfnum. Auðséð er af samtíma skjölum að þáttur Bjarna að farsælli lausn þessara mála var ekki lítil. Kom þar, að öll Íslandsförin voru látin laus.
Húsið Vesturgata 6 er talið vera elsta hús Hafnarfjarðar, byggt af Bjama riddara Sívertsen líklega árið 1805. Þangað kom Kristján konungur IX 1874. Þar áttu verslunarstjórar Knudtzons verslunar löngum heima, en eftir að sú verslun lagðist niður og áður en Brydesverslun kom til sögunnar, mun Jón Steingrímsson trésmiður hafa búið þar. En arið 1902 fluttist verslunarstjóri Brydesverslunar í þetta hús, Jón Gunnarsson.
Það var sumarið 1809 að hinn kunni Jörundur hundadagakonungur var hér. Þótt Jörundur væri í sjálfu sér ekki óvinsæll þá komu hér öðru hvoru enskir ævintýramenn, sjóræningjar sumir hverjir, sem vitanlega var best að vera laus við. Valdi Trampe stiftamtmaður, Bjarna og annan mann til Englandsfarar til að stemma stigu við þessu. Var þetta hin mesta trúnaðarför, og sýnir valið á Bjarna bezt það traust, sem stiftamtmaður bar til hans. En valið var viturlegt, því að vegna hinna fyrri afskipta sinna af verslunarmálum Íslendinga í Bretlandi hlaut Bjarni að standa betur að vígi en flestir aðrir til að koma þar fram fyrir hönd þjóðar sinnar. Þaðan hélt Bjarni til Kaupmannahafnar þar sem hann var sæmdur riddarakrossi af Danakonungi árið 1812.
Sívertsenhús og nágrenni.
Eftir þetta rak Bjarni verslun sína farsællega og gerðist auðugur maður. Var hann sjálfur i förum milli landa og sat á vetrum í Kaupmannahöfn en leit á sumrum eftir verslun sinni í Hafnarfirði.
Árið 1825 dó kona hans og um hana orti Bjarni Thorarensen þekkt eftirmæli. Sonur þeirra, Sigurður, kvæntist Guðrúnu, systur Helga biskups Thordersen. Árið 1832 fluttist Bjarni alfarinn til Kaupmannahafnar, en hafði árið áður kvænst danskri konu. En þegar hér var komið átti hann ekki langt eftir ólifað. Hann andaðist árið 1833 og hvílir í danskri mold.“
-GAJ.
Bjarni og Byggðasafn Hafnarfjarðar
Pakkhús – sýning.
Í Morgunblaðinu 1984 segir; „Af Bjarna Sívertsen og Byggðasafni Hafnarfjarðar — rætt við Gísla Sigurðsson fyrrv. lögregluþjón“:
„Gísli Sigurðsson fyrrum lögreglumaður og safnvörður Byggðasafnsins í Hafnarfirði man tímana tvenna, en hann fluttist til Hafnarfjarðar fyrir rúmlega 70 árum. Þar starfaði hann lengst af sem lögregluþjónn, en gegndi jafnframt starfi safnvarðar Byggðasafns Hafnarfjarðar og starfaði mikið á vegum safnsins. Blm. Mbl. tók Gísla tali þar sem hann býr á Hrafnistu í Hafnarfirði og byrjaði ég á því að spyrja hann um bernsku hans og uppvaxtarár.
Ég er fæddur á Sólheimum í Hrunamannahreppi árið 1903 og ólst þar upp hjá foreldrum mínum, Sigurði Gíslasyni og Jóhönnu Gestsdóttur, en þau voru þar í vinnumennsku, sagði Gísli.
Gísli Sigurðsson, foreldrar og systkini.
Árið 1911 fluttust þau til Hafnarfjarðar og höfðu þá eignast fimm börn. Þar gekk ég í barnaskóla og var fermdur 1917. Eftir ferminguna fór ég strax í verkamannavinnu. Sumarið 1918 vann ég í mótekju en svo fór ég á eyrina. Næsta áratuginn vann ég aðallega hjá Edinborg sem synir Ágústs Flygenring voru með. Þetta fyrirtæki gerði út togarann Ými frá 1919 til 1928 og var hann annar af tveim togurum sem gerðir voru út frá Hafnarfirði þessi ár. Ágúst Flygenring var þá forstjóri Landverslunarinnar og hafði kolasöluna í Hafnarfirði eftir stríðsárin. Veturinn 1918 varð Hafnarfjörður alveg kolalaus og var þá eldað við mó í hverju einasta húsi. Þetta kolaleysi varð erfitt fyrir fólk því miklir kuldar voru þá um veturinn.
NÆTURVAKTIN
Gísli Sigurðsson.
Hvenær byrjaðir þú svo í lögreglunni hér í Hafnarfirði?
— Það var 1. júní 1930 að ég fór í lögregluna. Þá voru starfandi hér 3 lögregluþjónar. Það var venja að þeir sem voru að byrja hefðu næturvaktina og var ég á næturvakt fyrstu árin. Þá var maður á ferli um götur bæjarins frá kl. 9 á kvöldin til kl. 6 á morgnana allan ársins hring.
Þetta átti ekki illa við mig — ég var einrænn og einþykkur í skapi og var alveg sama þótt ég sæi ekki mann nótt eftir nótt. Nei, það var yfirleitt ekki mikið að gera, enda Hafnfirðingar ákaflega löghlýðið fólk. Það var líka minna um að vera á þessum árum — bílar voru t.d. sárafáir og kom varla fyrir að árekstur yrði. Að vísu þurftum við jafnan að fylgjast með dansleikjum sem þá voru haldnir á Hótel Birninum og vera tagltækir ef eitthvað bar út af, sem sjaldnast varð. Í jafn spökum kaupstað og Hafnarfirði þurfti maður yfirleitt aldrei að skipta sér af fólki. Þá þurftum við alltaf að vera tollvörðum til aðstoðar þegar skip komu að utan. Þetta var á bannárunum og var aðallega verið að ganga úr skugga um að skipverjar reyndu ekki að komast með sterkt vín til landsins. Þá tíðkaðist það að eiginkonur skipverja á togurunum fóru með þeim til Englands í einhverri vorferðinni og var þá mikið keypt. Ég man að það var alltaf glatt á hjalla þegar við vorum að tollskoða er skipin komu úr þessum ferðum og þarna eignaðist maður marga vini og hefur sú vinátta haldist síðan.
Bruggtæki.
Var bruggað í Firðinum á þessum árum?
— Já, það komu upp nokkur mál og maður komst í það að leita hjá mönnum að bruggi og bruggunartækjum. Þá fóru lögreglumennirnir í Hafnarfirði mikið út i sýsluna í landaleit með Birni Blöndal sýslumanni. Ég slapp hins vegar við þessar ferðir að mestu þar sem ég var með næturvaktina þessi ár. Svo voru bannlögin numin úr gildi 1934 og þar með var bruggið að mestu úr sögunni.
Það var ágætt að vera í lögreglunni á þessum árum þótt aðstaðan væri engin sem við höfðum, því lögreglustöð fengum við ekki fyrr en 1939.
Nú hefur þú starfað mikið að byggðasafnsmálum hér í Hafnarfirði og verið safnvörður við Byggðasafnið í áratugi — hvað varð til þess að þú hófst að sinna þessu verkefni?
BYGGÐASAFN HAFNARFJARÐAR
Gísli Sigurðsson, minjavörður
— Árið 1953 var sett á laggirnar byggðasafnsnefnd hér í Hafnarfirði og fór svo að ég var skipaður í hana ásamt Óskari Jónssyni útgerðarmanni, sem var formaður nefndarinnar, og Grími Andréssyni kaupmanni.
Varð það mitt hlutverk að fara á milli góðbúa og safna munum. Hugur okkar stóð mjög til að vernda hús Bjarna Sívertsen riddara og þar höfðum við sterkan bakhjarl þar sem var Bjarni Snæbjörnsson læknir, en hann var mikill áhugamaður um að húsið yrði verndað og gert upp. Bæjarskrifstofur Hafnarfjarðar höfðu þá lengi verið þarna til húsa og voru nýlega fluttar þaðan en húsvörðurinn bjó ennþá á loftinu.
Húsið var fremur illa farið en þeir munir sem söfnuðust voru geymdir þar fyrstu árin. Nokkrum árum síðar fengum við til umráða Knudtzons-pakkhúsið og voru munirnir þá fluttir þangað.
Hús Bjarna riddara var svo grandskoðað og endurbyggt í fyrri mynd.
Bjarni Sívertsen
Við uppgerð húss Bjarna.
Hús Bjarna Sívertsen mun hafa verið byggt árin 1703—05, en pakkhúsið þar sem safnið er nú til húsa ekki fyrr en 1862. Ég hef alltaf haft mikla intressu fyrir Bjarna Sívertsen og hans fjölskyldu enda var Bjarni hinn merkasti maður þótt ekki ætti hann til stórra að telja. Skírnarnafn hans var Bjarni Sigurðsson og réðst hann ungur til Rannveigar Filipusdóttur og Jóns Halldórssonar í Selvogi á Suðurnesjum. Nokkru síðar drukknaði Jón og tók Bjarni saman við ekkjuna sem þó var tveimur áratugum eldri en hann.
Þau Jón og Rannveig höfðu verið töluvert efnuð og hefur það eflaust ráðið miklu um þennan ráðahag Bjarna.
Til Hafnarfjarðar fluttist Bjarni 1790 og höfðu þau Rannveig þá eignast fimm börn. Bjarni hóf hér verslun og jafnframt umfangsmikla þilskipaútgerð og skipasmíðar. Hann mun hafa gert út ein 13 skip í fisk og siglingar og voru það talin geysileg umsvif á þessum árum, er Íslendingar voru heldur framtakslitlir almennt.
Gísli með kíki Bjarna.
Það sést á ýmsu að Bjarni var harður í horn að taka og hafði góða hæfileika til að koma ár sinni fyrir borð ef því var að skipta. Þegar Jörundur hundadagakóngur sló eign sinni á Ísland var ófriður milli Dana og Englendinga, og hafði Bjarni lent í því að vera kyrrsettur í Skotlandi meðan á þessum ófriði stóð. Félagi Jörundar sem stóð með honum að hernámi Íslands, Gilpin að nafni, tók sér það fyrir hendur að ræna hér Jarðabókarsjóðnum. Þetta var gildur sjóður sem notaður var til að greiða úr öllum embættismönnum á Íslandi. Bjarni hafði fregnir af þessu til Skotlands og tókst honum með harðfylgi að fá því framgengt að Gilpin var neyddur til að skila Dönum sjóðnum, sem varla hefur verið auðvelt. Fyrir þetta var Bjarni sleginn til riddara.
Bjarni Sívertsen.
Bjarni varð þó ekki gæfumaður að öllu leyti. Aðeins eitt af fimm börnum þeirra Rannveigar lifði til fullorðinsára. Það var Sigurður Bjarnason Sívertsen kaupmaður í Reykjavík. Hann var einstakt ljúfmenni en hafði ekki erft hæfileika föður síns til kaupmennsku. Kona hans var Guðrún Guðmundsdóttir og var mikill skörungur — hún hafði greiðasölu fyrir alþingismenn í Reykjavík og steypti einnig kerti. Dauða Sigurðar bar að með einkennilegum hætti en hann var á miðjum aldri er hann andaðist. Eitt sinn er Sigurður er á gangi í Reykjavík tekur hann eftir því að úrið hans er stoppað. Hann fór þá inn til úrsmiðs að láta líta á það en hnígur svo niður látinn þar í búðinni. Eftir að Rannveig dó tók Bjarni sér danska bústýru sem var miklu yngri en hann og eignuðust þau eina dóttur saman. Þau bjuggu síðustu árin í Kaupmannahöfn og þar dó Bjarni 1833, þá nýgiftur barnsmóður sinni. Frá Járngerði dóttur þeirra er kominn mikill ættgarður í Noregi og munu ekki færri en 200 manns rekja ættir sínar til hennar. Sjálfur var Bjarni ættaður úr Flóanum og liggja ættir okkar einhvers staðar saman.
Hvernig gekk þér að afla muna til Byggðasafnsins?
150 ÁRA GAMALL ÁRABÁTUR?
Bátur á Byggðasafni Hafnarfjarðar.
— Það gekk allvel og menn voru furðu fúsir á að láta af hendi verðmæta gripi til okkar. Þó vorum við búnir að missa úr höndum okkar mikið safn sem Andrés Johnson rakari hafði dregið saman hér í Hafnarfirði, en það voru alls um 25 þúsund munir. Safn Andrésar fór allt til Þjóðminjasafnsins og stendur Ásbúðarsafn saman af því.
Samt gekk okkur furðu vel að efna til safnsins. Það má nefna hluti eins og gamla kistla, koffort og hljóðfæri, auk allra helstu veiðarfæra frá skútuöldinni. Þá leitaði ég uppi alla rokka, hesputré og kamba, og er sumt af því sem safnaðist trúlega orðið mjög gamalt þó erfitt sé að segja nákvæmlega til um aldurinn. Þá tókst mér að ná í árabát sem að minnsta kosti er 100 ára gamall og e.t.v. 150 ára. Síðasti eigandi hans var Helgi Guðmundsson frá Melshúsum sem reri honum lengi til grásleppuveiða.
Hvernig náðirðu í þennan bát?
— Ég tók hann hreinlega í fjörunni þar sem Helgi hafði dáið frá honum. Það voru svo borgaðar fyrir hann 750 kr. til ættingja Helga að mig minnir. Aðrir gamlir munir í safninu sem vert er að minnast á eru borðstofuborð og stólar úr búi Bjarna Sívertsen, en við borðið gátu setið 18 manns þegar gestkvæmt var á þessu rausnar heimili.“
-Viðtal: Bragi Óskarsson
Hafnarfjörður um miðja 19. öld.
Þannig var… – Byggðasafn Hafnarfjarðar
Björn Pétursson, núvernadi forstöðumaður Byggðasafns hafnarfjarðar skrifaði lokaverkefni til MA–gráðu í safnafræði við Háskóla Íslands 2014. Þar rekur hann sögu Byggðasafnsins og skrifar m.a.:
Upphafið
Hafnarfjörður fyrrum – 1772.
„Formlegt upphaf Byggðasafns Hafnarfjarðar má rekja til fundar í bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í janúar 1953. Þar voru til umfjöllunar breytingar á fjárhagsáætlun bæjarsjóðs og lögðu fulltrúar Alþýðuflokksins fram tillögu undir liðnum „Hellisgerði o.fl.“ þar sem fram kemur í c-lið að veita skuli 10.000 kr. til byggðasafns. Ekki eru neinar frekari skýringar á þessari tillögu en hún var send eins og áætlunin í heild til samþykktar bæjarráðs og var samþykkt þar.
Gísli Sigurðsson.
Samkvæmt munlegum sögusögnum í bænum var það einkum lögregluvarðstjórinn, Gísli Sigurðsson, sem lagði hart að bæjarfulltrúunum að hrinda þessu verki í framkvæmd en ekki hafa fundist neinar heimildir er styðja þá sögu þó vissulega verði hún að teljast ansi líkleg.
Óskar Jónsson framkvæmdastjóri bar fram tillöguna um fjárveitingu til byggðasafnsins og samkvæmt viðtali sem tekið var við hann og birt í Alþýðublaðinu var hugmyndin „að safna saman og varðveita frá glötun gamla muni, sagnir og myndir úr atvinnu- og menningarlífi Hafnfirðinga fyrr á tímum, eins gömlum og til næst, og koma þessu fyrir í safninu.“
Spil við Helgustaði.
Þegar Byggðasafn Hafnarfjarðar var stofnað voru í gildi fyrstu lög um byggðasöfn sem samþykkt höfðu verið hér á landi, lög númer 8 frá 12. febrúar 1947, og báru nafnið „Lög um viðhald fornra manvirkja og um byggðasöfn“. Athyglisvert er að þegar þessi lög voru sett var ekkert starfandi byggðasafn á landinu en þó var söfnun hafin á nokkrum stöðum.
Þegar Byggðasafn Hafnarfjarðar var stofnað árið 1953 var ekkert friðað hús í eigu ríkisins í bænum. Strax í upphafi komu upp hugmyndir um að koma safninu fyrir í Sívertsens-húsinu við Vesturgötu. Í frétt Alþýðublaðsins frá því í janúar 1953 er þessi hugmynd viðruð en þar sagði „Sívertsenshúsið var íbúðarhús Bjarna riddara og fjölskyldu hans frá því um aldamótin 1800 til 1835. Þetta hús er því um 150 ára gamalt, og sögufrægt að því leyti, að það var bústaður Bjarna, sem mestan þátt átti í viðgangi Hafnarfjarðar á þeim tíma.
Hellisgerði 1942.
Er það gömul hugmynd, að flytja það í Hellisgerði, sem er skrúðgarður Hafnfirðinga, og verður það þá væntanlega gert sem líkast úr garði og það var á árum Bjarna riddara.“
Í annarri frétt, sem birtist í Morgunblaðinu kemur hugmyndin um flutning Sívertsens-hússins aftur fram en þar sagði „Komið hefur til tals, að byggðasafnið yrði í svokölluðu Sívertsenhúsi, en í því bjó Bjarni riddari Sívertsen frá því árið 1800 til 1835. Er þetta elzta hús í Hafnarfirði, um 150 ára gamalt. … Stungið hefur verið upp á því, að húsið yrði flutt í Hellisgerði, skrúðgarð Hafnfirðinga, og gert þá sem líkast úr garði og það var í tíð Bjarna Sívertsens. Þó telja margir, að við flutning hússins þangað, myndi það tapa sínum upphaflega svip, því að miklum erfiðleikum er bundið að flytja það. Allt er enn í óvissu, hvort af þessum flutningi verður.“
Stiginn upp á loftið í húsi Bjarna.
Ef til vill er þarna að finna skýringuna á því hversvegna stofnun byggðasafns var sett undir liðinn „Hellisgerði ofl.“ í fjárhagsáætlun bæjarins þegar stofnað var til þess. Þessi hugmynd, að varðveita Sívertsens-húsið, er þó enn eldri. Sívertsens-húsið hafði verið eign Hafnarsjóðs Hafnarfjarðar frá árinu 1924 og voru bæjarskrifstofur Hafnarfjarðar þar til húsa á árunum 1930-1944. Þegar bæjarskrifstofurnar fluttu úr húsinu komu upp ýmsar hugmyndir um hvaða hlutverk þetta sögufræga hús ætti að fá en snemma kom upp hugmynd um að varðveita það í upphaflegri mynd. Eftir umræður í bæjarstjórn var bæjarstjóra falið að ræða við hafnaryfirvöld um málið og lauk þeim samræðum með því að snemma árs 1944 var samþykkt í hafnarstjórn að afhenda húsið endurgjaldslaust til bæjarstjórnar enda skuldbatt bæjarstjórnin sig til að láta gera húsið upp og varðveita það í upprunalegri mynd. Hvenær hugmyndin skýtur fyrst upp kollinum er erfitt að segja en að öllum líkindum kom hún fyrst fram opinberlega þegar Ágúst Steingrímsson tæknifræðingur og fyrrverandi bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði ritaði grein um málið í tímaritið Helgafell árið 1943. Hann átti einnig fyrstur manna hugmyndina að því að flytja húsið í Hellisgerði. Sú hugmynd hans kom fram í bréfi sem hann sendi Málfundafélaginu Magna árið 1946 en málfundafélagið sá um og rak Hellisgerði á þessum tíma. Í því bréfi gekk hann þó enn lengra en einungis að varðveita húsið, því þar kemur fram sú hugmynd að láta húsið hýsa byggðasafn.
Hellisgerði fyrrum.
Magna-menn brugðust við þessu bréfi með því að rita bæjarstjórn Hafnarfjarðar erindi um málið. Bæjarstjórn brást við því á þann hátt að lýsa sig reiðubúna til viðræðna en óskaði þess jafnframt að Málfundafélagið Magni hefði forgöngu um að stofna nefnd og fá félagsamtök í bænum til að taka þátt í verkefninu. Tveimur árum síðar var svo samþykkt í bæjarráði að leggja til við bæjarstjórn Hafnarfjarðar að bærinn yrði aðili að samkomulagi um athuganir á flutningi og varðveislu á húsi Bjarna Sívertsen. Rúmum mánuði síðar var það samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Fulltrúa í þessari nefnd áttu, auk bæjarstjórnar, Málfundafélagið Magni, Útgerðarmannafélag Hafnarfjarðar, Iðnaðarmannafélag Hafnarfjarðar og Kaupmannafélag Hafnarfjarðar.
Safnkosturinn
Hafnarfjörður 1890.
Þegar samþykkt var að stofna Byggðasafn Hafnarfjarðar árið 1953 hafði nokkur söfnun átt sér stað í bænum en þó var enn vitað af munum sem voru varðveittir hjá bæjarbúum. Ein af ástæðum þess að safnið var stofnað var að menn óttuðust að þessir gripir glötuðust ef þeim yrði ekki safnað saman og varðveittir á viðurkenndu safni. Í frétt frá árdögum Byggðasafns Hafnarfjarðar, sem birtist í Morgunblaðinu, sagði meðal annars: „Það sem vakir fyrir bæjarráði með stofnun byggðasafns, er að varðveita frá glötun gamla muni, sem kunna að vera til í Firðinum frá fyrri tímum — sömuleiðis allan þann fróðleik, er varðar atvinnu- og menningarlíf Hafnfirðinga. Eitthvað mun vera til af munum í Firðinum, sem kæmi til mála að setja á hið tilvonandi safn. T.d. er hér elzti rafall á Íslandi, sem Jóhannes Reykdal flutti til landsins og notaði til raflýsingar fyrstur manna hér á landi. —
Gísli Sigurðsson, minjavörður. með einn gripanna.
Ýmsir aðrir gamlir munir eru til í Firðinum, sem ekki má draga öllu lengur að koma fyrir á einn stað, ef þeir eiga ekki að gleymast eða týnast.“12 Auk þessa hafði upplýsingum um lifnaðarhætti og menningu verið safnað í Hafnarfirði um nokkurt skeið og í fréttum af stofnun safnsins var komið inn á þá söfnun. Í Alþýðublaðinu sagði „Áhugi á því að varðveita fornan fróðleik og minjar frá glötun virðist vera mikill í Hafnarfirði. En vafalaust er þó Gísli Sigurðsson starfsamastur allra áhugamanna í því efni. Hann hefur um skeið safnað með viðtölum við aldraða Hafnfirðinga lýsingum á gömlum húsum, húsbúnaði, staðháttum í bænum og atvinnuháttum, og einnig hafa fléttast inn í þetta gamlar minningar og sagnir og örnefni. Hvernig bærinn var fyrir aldamót.
Gísli sagði, er blaðið ræddi við hann um þessa söfnun hans í gær, að hann leitaðist fyrst og fremst við að afla lýsinga af bænum eins og hann var fyrir aldamót. Mesta rækt hefur hann lagt við að skyggnast inn í líf alþýðunnar, t.d. fá að vita, hvernig húsbúnaður var í gömlu bæjunum og annað slíkt.“
Hagldir úr horni.
Morgunblaðið fór nokkuð betur ofan í þetta en þar sagði að „Nokkrir Hafnfirðingar hafa á undanförnum árum safnað miklum fróðleik úr lífi fólks í Firðinum frá fyrri tímum, sem vissulega kemur að góðum notum fyrir væntanlegt byggðasafn.
Hefur Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn, verið einna skeleggastur í söfnun alls konar gamals fróðleiks. Hann hefur til dæmis gert sér far um að kynnast, hvernig gömlu bæirnir voru útlítandi í Hafnarfirði fyrir aldamót og jafnframt um fyrirkomulag innan húss. Einnig hefur hann kynnt sér, svo sem kostur hefur verið á, hvar bæirnir stóðu. Sömuleiðis hefur Gísli viðað að sér miklum fróðleik um líferni Hafnfirðinga fyrir aldamót. Mestar og beztar upplýsingar hefur hann fengið hjá öldruðum Hafnfirðingum, en einnig af gömlum sögnum og örnefnum. Gísli Sigurðsson hefur með söfnun þessa fróðleiks, varðveitt frá glötun þann fjársjóð, sem getur orðið uppistaðan í væntanlegu byggðasafni Hafnfirðinga.“
Elstu fundargerðir byggðasafnsnefndar eru því miður glataðar en Gísli rekur upphafsárin ágætlega í viðtali sem tekið var við hann og birt í blaðinu í Hamri í tilefni af 50 ára afmæli Hafnarfjarðarkaupstaðar árið 1958. Þar kemur hann meðal annars að munasöfnuninni í árdaga Byggðasafns Hafnarfjarðar en þá hafði safnið fengið Sívertsenshúsið til afnota. Þar kemur fram að söfnun muna hafi farið af stað strax og safnið var stofnað og fljótlega eftir að það fékk Sívertsens-húsið afhent hafi verið fluttir þangað um 200 munir.
„Húsið var ekki í sem beztu ástandi og þurfti því mikillar viðgerðar við. Þegar nefndin fékk það undir hendur var efri hæð þess leigð út og síðan hefur allt húsið verið hitað upp.
Munir Byggðasafnsins.
Þessir tvö hundruð munir voru flestir frá sjóvinnu ýmis konar, en síðan hefur bætzt það mikið við safnið, að það telur nú um sjöhundruð skrásetta muni. Auk þessa eru enn fjölmargir hlutir, sem safnið á, eða hefur fengið vilyrði fyrir, sem enn eru geymdir víðsvegar um bæinn, vegna þess hve húsnæði safnsins er ófullnægjandi. Allur gólfflötur hússins er aðeins 8 x 14 mtr. að flatarmáli og segir það sig sjálft, að svo lítið húsnæði fullnægir engan veginn þeim kröfum, sem gera verður til húsnæðis fyrir gott byggðasafn. Tillaga byggðasafnsnefndarinnar til lausnar þessu vandamáli er sú, að safnið fái einnig stóra pakkhúsið, sem stendur við hliðina á Sívertsenshúsi. En það mun vera byggt um 1840 og er því í tölu allra elztu húsa hér í Hafnarfirði og þess vegna mjög æskilegt til þessara nota.“
Teikning að fyrirhuguðu sjóminjasafni á Skerseyri við Hafnarfjörð.
Síðar í sama viðtali telur Gísli upp nokkra helstu muni safnsins og gefur sú upptalning nokkuð góða mynd af safnkostinum eins og hann var á fyrstu árum safnsins. Þar er meðal annars haft eftir Gísla: „Áhugi Hafnfirðinga fyrir byggðasafninu hefur komið mjög glögglega í ljós með hinum rausnarlegu gjöfum, sem því hafa borizt frá mörgu fólki. Eins og áður er sagt er mikill hluti safnsins
viðkomandi sjóvinnu og er það ekki einkennilegt, þegar athuguð er saga og atvinnuhættir Hafnarfjarðar.
Áður en Byggðasafn Hafnarfjarðar var stofnað höfðu tveir aðilar stundað markvissa söfnun á gömlum munum í bænum og hvorugt þeirra safna endaði á Byggðasafni Hafnarfjarðar. Ásbúðarsafn, sem Andrés Johnson rakari í Ásbúð við Hafnarfjörð hafði safnað saman árum saman, keypti ríkið og setti á Þjóðminjasafn Íslands en hitt var safn muna er Þorgerður Bergmann safnaði og endaði það á Árbæjarsafni í Reykjavík. Er rétt að staldra hér við og skoða þessi söfn nánar þar sem söfnun þessara einstaklinga, svo og stofnun Sjóminjasafns Íslands í Hafnarfirði síðar höfðu töluverð áhrif á safnkost Byggðasafns Hafnarfjarðar.
Safn Þorbjargar Bergmann
Mikilsmetin hjón ein bjuggu í Hafnarfirði í upphafi 20. aldar. Þau sem hér er átt við voru Sigfús Bergmann og kona hans Þorbjörg Sigurðardóttir Bergmann. Sigfús var kaupmaður í bænum en lét þó einnig ýmis önnur málefni kaupstaðarins sig varða. Hann var til dæmis kjörinn í fyrstu bæjarstjórn Hafnarfjarðar, var frumkvöðull að stofnun sjúkrasamlags í bænum, var framkvæmdastjóri trésmiðjunnar Dvergs um tíma og einn af eigendum gosdrykkjaverksmiðjunnar Kaldá, sem var sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi auk þess sem hann átti hlut í nokkrum útgerðum í bænum. Þau Sigfús og Þorbjörg reistu sér hús við Strandgötuna, aðal verslunargötu bæjarins, þar sem verslunin var á jarðhæð en íbúð á tveimur hæðum þar fyrir ofan. Verslaði hann þar bæði með matvöru og álnavöru.
Þau hjónin voru mjög virk í þessari söfnun sinni þó Þorbjörg hafi sannarlega staðið þar við stjórnvölin. Líf Þorbjargar tók nýja stefnu árið 1918 þegar Sigfús lést úr spænsku veikinni. Flutti hún þá úr íbúð sinni en bjó þó um sinn áfram í sama húsinu en leigð það út að mestu. Þar bjó hún til ársins 1930 er hún flutti til Reykjavíkur til Huldu, dóttur sinnar, og eiginmanns hennar, Einars Sveinssonar. Þorbjörg lést 14. maí 1952 en fyrir dauða sinn gaf hún skýr fyrirmæli um að safn hennar dreifðist ekki og að ekkert af því færi úr landi.
Árbæjarsafn – Árbær.
Dóttir hennar og tengdasonur færðu Reykvíkingafélaginu safnið að gjöf nokkrum mánuðum eftir dauða Þorbjargar sem nokkrum árum síðar gaf safnið áfram, með samþykki gefendanna, til Árbæjarsafns. Hafa verður í huga að þegar hér er komið sögu er þegar búið að stofna Byggðasafn Hafnarfjarðar en við ritun þessarar ritgerðar fundust engar heimildir um að komið hafi til tals að gefa safnið þangað. Það hefði þó verið eðlilegur gjörningur þar sem megnið af umræddum gripum var safnað í Hafnarfirði, mun eðlilegri en að gefa gripina á byggðasafn þeirra Reykvíkinga.
Bergmanns fjölskyldan um 1910. Sigfús Bergmann kaupmaður lést 1918 úr spönsku veikinni. 1920 lést Hrefna elsta dóttirin og 1922 lést Hulda miðjudóttir þeirra hjóna. Þorbjörg hélt áfram rekstrinum í húsi þeirra við Strandgötu í Hafnarfirði fram til 1936 að hún flutti til dóttur sinnar í Reykjavík.
Minjasafn Þorbjargar Bergmann var mjög mikilvægt fyrir safnið í Reykjavík og til vitnis um það má vitna í frétt Tímanns af opnun Árbæjarsafns en þar sagði: „Skjala- og minjasafn Reykjavíkurbæjar í Árbæ verður opnað almenningi á sunnudaginn kl. 2 að viðstöddum mörgum gestum. Verður safnið opið eitthvað fram eftir haustinu. Fyrir skömmu barst því hin veglegasta gjöf frá Reykvíkingafélaginu, en það er mjög verðmætt safn ýmissa muna, sem frú Þorbjörg Bergmann í Hafnarfirði hafði safnað. Fer það nú í Árbæ með samþykki fyrri gefenda.“
Af þessu má sjá að safn það sem Þorbjörg safnaði saman í Hafnarfirði á fyrri hluta 20. aldar var merkilegt safn og í sjálfu sér uppistaðan í munasafni Árbæjarsafns á upphafsárum þess. Munir sem hefðu skipt sköpum fyrir Hafnarfjörð á þeim árum sem unnið var að því að koma Byggðasafni Hafnarfjarðar á fót.
Ásbúðarsafnið
Annar safnari sem verið hafði afkastamikill í Hafnarfirði á fyrri hluta 20. aldar, áður en Byggðasafn Hafnarfjarðar var sett á fót, var Andrés Johnson eða Andrés í Ásbúð eins og hann var jafnan kallaður. Bakgrunnur Andrésar var sá að hann fæddist á Leifsstöðum í Selárdal í Norður-Múlasýslu laugardaginn 5. september árið 1885. Ungur flutti hann til Vesturheims en er hann snéri aftur settist hann að í Hafnarfirði og gerðist hárskeri þar. Við komuna til Hafnarfjarðar hóf hann að safna að sér hverskonar forngripum og munum sem notaðir voru í gamla íslenska bændasamfélaginu áður en hin mikla atvinnubylting tuttugustu aldarinnar gerbreytti samfélaginu.
Gripur úr Ásbúðarsafninu.
Varð þessi söfnun fljótlega mjög umfangsmikil og lét hann ekki nægja að safna munum í Hafnarfirði og nágrenni hans heldur hélt hann í ferðir út um allt land í þeim tilgangi að safna gömlum munum. Eflaust hefur þessi hegðun hafnfirska rakarans þótt nokkuð undarleg enda ekki algengt áhugamál á þessum tíma. Hins vegar varð hann það þekktur fyrir þetta áhugamál sitt að menn fóru að bjóða honum muni og jafnvel að safna fyrir hann að einhverju leyti. Til eru frásagnir af því að hann hafi jafnan rætt um þessi mál við viðskiptavini sína á rakarastofunni og þá hafi margir komið þangað færandi hendi og gefið muni úr þeirra eigu. Í frétt sem skrifuð var í blaðið Frjáls Þjóð árið 1955 í tilefni af opnun sýningar á þessum munum sagði meðal annars um Andrés: „Nú eru gripir í safni hans orðnir um eða yfir 25.000. Það mun láta nærri, að nær allir þeir fjármunir, sem Andrés hefur unnið fyrir um dagana, umfram það er hann þurfti sér til lífsframfæris, hafi farið fyrir safngripi. Það er mikil fórn fyrir óarðbært hugsjónastarf.
Árbær 1948.
En annað, sem dýrmætara er og miklu sjaldgæfara en peningar, hefur þó verið lagt í þetta starf. Það er eljan og þrautseigjan, tryggðin og staðfestan við torsótt verkefni. Menn geta vart gert sér fulla grein fyrir því, hve mikla árvekni og þolinmæði það hefur kostað að ná þessum munum öllum saman.“
Alla þessa muni dró Andrés heim í hús sitt, Ásbúð, við Hafnarfjörð en húsið var ekki stórt og fór svo áður en langt um leið að plássleysi var farið að hamla þessari söfnun. Brást Andrés við því árið 1942 með því að leggja erindi fyrir Alþingi þar sem hann bauð safn sitt til kaups með tilgreindum skilyrðum. Varð það úr og eins og sést á frétt um byggingu Þjóðminjasafnsins sem birtist í Ingólfi árið 1944 varð þetta safn ein af burðarstoðum Þjóðminjasafnsins á þessum tíma, í fréttinni sagði meðal annars: „Þjóðminjasafnið. Alþingi hefur veitt þrjár millj. króna til að gera yfir það hús. Hið væntanlega stórhýsi á ekki einungis að rúma Forngripasafnið gamla heldur einnig Iðnminjasafn, Sjóminjasafn, Mannamyndasafn, svonefnt Ásbúðarsafn, … og söfn, sem kennd eru við einstaka menn: Jón Sigurðsson o.fl. Sömuleiðis listasafn. … Má því og vænta, að bundinn verði bráður bugur að því að reisa þetta langþráða skýli yfir hið stórmerka safn þar sem það er m.a. nokkurn veginn óhult fyrir bruna.“
Í Þjóðminjasafninu.
Til að gera ljóst hve stórt Ásbúðarsafn var í sniðum er rétt að tína til það sem skrifað var um safnið þegar það var formlega opnað í Þjóðminjasafninu á sjötugs afmæli Andrésar 1955. „Í Gær opnaði Þjóðminjasafnið Ásbúðarsafn, er safnað er af Andrési Johnson í Ásbúð í Hafnarfirði, á 70 ára afmæli hans. Er þetta stærsta minjasafn, sem nokkur Íslendingur hefur dregið saman. Safnið kom í eigu Þjóðminjasafnsins árið 1944, með sérstökum samningi við safnara þess. … Ásbúðarsafnið er geysi mikið safn.
Sjóminjasafn Íslands
Þá er komið að þriðja stóra safninu sem hvarf úr Hafnarfirði en það er Sjóminjasafn Íslands.
Hvenær fyrstu hugmyndir um sjóminjasafn kviknuðu í Hafnarfirði er ekki gott að segja en með nokkurri sanni má rekja það aftur til aldamótanna 1900 þegar skólastjórinn í Flensborgarskólanum, Jón Þórarinsson, lagði fram sínar hugmyndir um „fiskiáhaldasafn“.
Aðdragandinn að skrifum Jóns um þessi málefni var sá að árið 1898 sótti hann sjóminjasýningu í Bergen í Noregi. Taldi hann mikilvægt að stofnað yrði sjóminja-, eða fiskiáhaldasafn hér á landi en ekkert varð þó úr þessum hugmyndum hans, hvorki í Hafnarfirði né annarsstaðar á Íslandi í hans tíð. Hafnarfjörður byggðist fyrst og síðast upp vegna góðrar hafnar frá náttúrunnar hendi.
Eins kemur það líka fram hjá þeim aðilum er fyrstir stóðu að Byggðasafni Hafnarfjarðar að það ætti að hluta til að varpa ljósi á þennan hluta menningararfsins sem sjósókn og fiskvinnsla er. Þetta kemur fram í tillögum er byggðasafnsnefnd lagði fyrir bæjarráð Hafnarfjarðar á þessum fyrstu árum safnsins en þar eru settar fram hugmyndir að vexti og viðgangi safnsins til framtíðar. Þar kemur fram listi yfir þá þætti sem safnið ætti að sinna og sýna og hvaða hlutar sögunnar það væru sem þeir helst vildu varpa ljósi á. Listinn er sannarlega langur og metnaðarfullur og snýr að sýningaaðstöðu í Pakkhúsinu að Vesturgötu 6.
Gísli Sigurðsson með erlendum áhugamanni um fornleifar.
Uppúr 1970 fer að sjá fyrir endann á þeim verkefnum og fram á varanlega sýningaaðstöðu í Sívertsens-húsinu. Áhugavert er að rýna í viðtal sem tekið var við Gísla Sigurðsson árið 1973, en hann hafði þá starfað við safnið, sem nefndarmaður, frá stofnun þess. Í umræddu viðtali sagði Gísli „Þegar maður hefur verið jafn lengi í þessu og ég og lifir orðið fyrir þetta, þá er maður ekki í rónni, viti maður einhversstaðar af gömlum og sögulegum hlut, fyrr en hann er fenginn. Það er Gísli Sigurðsson, fyrrum lögregluþjónn í Hafnarfirði, sem sagði þetta er við löbbuðum með honum um geymsluherbergi, skúra og skúraloft og skoðuðum þá muni sem dregnir hafa verið saman fyrir væntanlegt sjóminjasafn í Hafnarfirði, en að þessum safnmálum hefur Gísli starfað allt síðan árið 1953 að stofnuð var nefnd til að koma á laggirnar sjóminjasafni í Firðinum. Því miður hefur málinu ekki miðað betur en svo að enn eigum við ekkert safnhús, en aftur á móti eigum við orðið gott safn gripa, meira en nóg sem undirstöðu í safn.“ Ekki má þó við blaðamanninn einan sakast því ljóst er að Gísli notar í þessu viðtali orðið „sjóminjasafn“ frekar en „byggðasafn“ eins og fram kemur í eftirfarandi línum í sama viðtali: „Þú sagðir mér Gísli að þið hefðuð byrjað 1953 að safna að ykkur munum. — Já það er rétt. Það ár var skipuð nefnd af bæjarstjórninni sem átti að hafa það hlutverk að koma á stofn sjóminjasafni í Hafnarfirði. Ég var skipaður í þessa nefnd strax og hef verið í henni síðan. … — Hvern telurðu nú merkastan hlut í safni ykkar? —
Bátur á Byggðasafni Hafnarfjarðar.
Það er nú ekki gott að segja. Hér eru margir fallegir og sögulegir munir. Ég vil nefna til yfir 100 ára gamlan bát með Faxaflóalagi, eins og það var kallað.“
Það sem hér gerist merkilegt er einkum tvennt, eins og áður segir er Gísli farinn að nota orðið „sjóminjasafn“ og svo hitt að hann telur merkasta mun safnsins vera bát og þó einungis sé um hans persónulega mat að ræða gefur það sannarlega vísbendingu um áherslur og áhuga þess manns sem sá um söfnun gripa til safnsins fyrstu 20 ár þess. Í lok þessa sama viðtals útskýrir hann máls sitt betur og er þá bersýnilegt að stefnubreyting hefur orðið og rökstyður hann mál sitt er hann svarar spurningu blaðamannsins: „Nú er þetta orðið miklu meira en sjóminjasafn hjá ykkur, Gísli, þetta er allt eins gott byggðasafn fyrir Hafnarfjörð.
— Já, það má kannski segja það. Þegar maður tekur til við að safna svona gömlum gripum með sérsafn eins og sjóminjasafn í huga, þá kemur það eins og af sjálfu sér að maður tekur til handargagns annarskonar gamla og verðmæta muni og síðan gerist það einnig að fólk sendir okkur alls konar muni, þótt þeir séu í sjálfu sér ekki endilega í tengslum við sjóinn eða sjóminjar. En gættu svo að öðru. Hafnarfjörður hefur alla tíð átt allt sitt undir sjó og sjómennsku, og því má segja sem svo að allir munir héðan tengist að einhverju marki sjóminjasafni. Þar á ég við þessa gömlu muni sem við erum að safna. Á þeim tíma, fyrir þetta 50 til 100 árum eða meira, var hér allt miðað við sjó og sjósókn, og séu munirnir ekki tengdir sjónum beint, þá óbeint kannski, þannig að þeir eru úr búi einhvers sjómanns. Hinsvegar má segja að yngri munir, sem vissulega geta haft sögulegt gildi, séu ekki eins tengdir sjónum, enda hafa málin breyst á síðari árum eins og allir vita. En vissulega væri það gaman ef hér risu bæði sjóminjasafn og byggðasafn Hafnarfjarðar. Efni til slíks er fyrir hendi.“
Hafnarfjörður skömmu fyrir 1900 – mynd í eigu Byggðasafns Hafnarfjarðar.
Á þessum tíma var ákveðin vakning á Íslandi varðandi verndun sjóminja og fara hugmyndir að skjóta upp kollinum um þetta mál æ oftar. Sem dæmi um þetta er leiðari Alþýðublaðsins 28. júlí 1973 undir nafninu „Sjóminjasafn vantar“ en þar er tíundað um mikilvægi sjósóknar fyrir Ísland í gegnum aldirnar. „Mörgum hefur orðið hugsað til þess, að ekkert eigum við Íslendingar sjóminjasafnið og litla tilburði höfum við í frammi til þess að eignast það. Gamlir og merkir bátar eru að grotna niður umhirðulausir eða umhirðulitlir. Ýmiss konar áhöld og munir frá bátum og útgerð týna sem óðast tölunni og verða bráðum hvergi til. Þetta getur ekki gengið öllu lengur. Íslendingar verða að eignast gott og myndarlegt sjóminjasafn. Sjóminjasafn Íslands á að varðveita muni, sem Íslendingar hafa notað bæði fyrr og síðar við sjósókn og í sjóferðum. Það á að varðveita báta og skip, sem einkennandi hafa verið á hinum ýmsu tímum, og væri t.d. smíðaður knörr, yrði hann dýrgripur í slíku safni. Það á að varðveita ýmis tæki og tól, sem notuð hafa verið í landi við fiskvinnslu og fiskverkun. Og þar á að varðveita bækur og myndir, skjöl og skilríki um skip, sjómennsku og sjósókn.“
Hús Bjarna og nágrenni.
Í sömu grein er þó einnig minnst á það að varla sé hægt að setja upp sjóminjasafn án þess að tengja við það fiskasafn og í því samhengi er minnst á fiskasafn það sem var þá til staðar í Sædýrasafninu í Hafnarfirði og því frumkvöðlastarfi sem þar hafði verið unnið. Í lok greinarinnar segir: „En fiskasafnið í Sædýrasafninu þarf að auka og efla, og þar þarf að koma upp rannsóknaraðstaða fyrir fiskifræðinga. Til þess þyrfti að koma á samvinnu safnsins, hafrannsóknarstofnunarinnar og ef til vill háskólans. Kannski væri sjóminjasafn vel staðsett í nágrenni Sædýrasafnsins. Hitt er víst, að ekki er vanzalaust fyrir Íslendinga að eiga ekki sómasamlegt fiska- og sjóminjasafn.“
Skerseyri.
Þarna er enn komin upp hugmynd um formlegt Sjóminjasafn Íslands í Hafnarfirði. Umræðan sem þarna var komin af stað vatt nokkuð uppá sig í framhaldinu og varð til þess að haustið 1973 kom fram umræða á Alþingi Íslendinga um málið. Tveir þingmenn, þeir Gils Guðmundsson og Geir Gunnarsson, lögðu fram þingsályktunartillögu um stofnun Sjóminjasafns Íslands í Hafnarfirði. „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja nú þegar, í samráði við þjóðminjavörð, undirbúning að stofnun sjóminjasafns. Skal leitað eftir samvinnu við Hafnarfjarðarbæ um hentugt landssvæði undir slíkt safn, svo og um byggingu þess og rekstur. Tillaga þessi fékk góðar viðtökur á Alþingi og var samþykkt óbreytt í febrúar 1974 með samhljóða atkvæðum.“
Teikning að fyrirhuguðu sjóminjasafni á Skerseyri.
Aðeins er vikið að því í áðurnefndu viðtali við Gísla Sigurðsson: „Nú hefur verið flutt þingsályktunartillaga um að reisa Sjóminjasafn Íslands hér í Hafnarfirði, hvernig list þér á það? — Já, ég var að heyra þetta, og ég skal segja þér að þetta eru einhver mestu gleðitíðindi sem ég hef heyrt lengi. Gils Guðmundsson og Geir Gunnarsson eiga ómældar þakkir skildar fyrir að flytja þessa tillögu. —
Myndi þá ykkar safn falla inn í þetta sjóminjasafn Íslands? Já, það hygg ég, sem sérstök deild eða eitthvað svoleiðis. En við skulum bara athuga það, að uppistaðan í sjóminjadeild Þjóðminjasafnsins eru munir héðan úr Hafnarfirði, og raunar víðar að, en það var Hafnfirðingur sem safnaði þeim og gaf þá til Þjóðminjasafnsins. Það var sá mikli og ötuli safnari Andrés Johnson rakari frá Ásbúð í Hafnarfirði. … Það væri því ekki margt að því að sameina þennan safnvísi okkar Sjóminjasafn Íslands sem reist yrði hér í Firðinum.“
Teikning að fyrirhuguðu sjóminjasafni á Skerseyri.
Réttu ári áður en þingsályktunartillagan var lögð fram var Þór Magnússon þjóðminjavörður gestur á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar. Þar var hann að kynna þá tillögu að Sjóminjasafn Íslands yrði fundinn staður í Hafnarfirði og að um sérstakt samvinnuverkefni yrði að ræða á milli Hafnarfjarðarbæjar og ríkissjóðs við uppbyggingu og rekstur safnsins.
Bæjarráðsmenn tóku hugmyndunum vel og bókuðu í fundagerð að bæjarráð hafi lýst áhuga sínum á málinu. Í viðtali við Kristinn Ó. Guðmundsson bæjarstjóra Hafnarfjarðar lýsti hann meðal annars sinni skoðun á þessari hugmynd: „Ég hef alveg sama viðhorf til þess og bæjarráðið. Svona safni verður hvorki komið upp né það rekið nema opinberir aðilar komi til.
Skerseyri – túnakort 1903.
Í þessu sama viðtali kemur einnig fram að Þór Magnússon hafi ætlað, eftir fund sinn með bæjarráði, að ræða við menntamálaráðherra og upplýsa hann um stöðu mála. Eflaust á það sinn þátt í að þingsályktunartillagan var lögð fram. Í kjölfar þessa lét menntamálaráðherra skipa nefnd um sumarið 1974 sem hafði það verkefni að vinna tillögu um Sjóminjasafn Íslands og samvinnu á milli Þjóðminjasafns Íslands og Hafnarfjarðarbæjar varðandi það. Í nefndinni sátu þeir Þór Magnússon, þjóðminjavörður, Gunnar Ágústsson, hafnarstjóri í Hafnarfirði og formaður byggðasafnsnefndar bæjarins, Jón Kr. Gunnarsson, forstjóri Sædýrasafnsins í Hafnarfirði og skipstjórinn Gunnar H. Oddsson. Í frétt Þjóðviljans af málinu um haustið þetta sama ár kemur ákveðin rökstuðningur fyrir því að safninu hafi verið valinn staður í Hafnarfirði. „Sú ákvörðun alþingis, að væntanlegt Sjóminjasafn Íslands rísi í Hafnarfirði er vissulega vel við hæfi. Hafnarfjörður er útgerðarbær frá fornu fari og þar er enn blómstrandi atvinnulíf kringum sjávarútveginn.
Þorskanet.
Þaðan voru fyrst lögð þorskanet hérlendis, þaðan hófst þilskipaútgerðin og þaðan var gerður út fyrsti gufutogarinn, sem Íslendingar eignuðust. Og í Hafnarfirði er nú þegar kominn fyrsti vísirinn að sérstöku sjóminjasafni, eina safnið á landinu, sem hefur sérhæft sig á þessu sviði. … Sjálfir hafa Hafnfirðingar farið mjög myndarlega af stað með sitt safn, eins og sýningin sem þeir héldu þar í sumar sannaði best. … Einn helsti kosturinn við að hafa sjóminjasafn landsins í útgerbarbæ eins og Hafnarfirði er að þar verður það jafnframt í lifandi tengslum við sjávarútveginn, sem stór hluti bæjarbúa byggir afkomu sína á enn.
Hafnarfjörður fyrrum.
Þarna kemur fram enn sterkari yfirlýsing varðandi Byggðasafn Hafnarfjarðar en áður hafði komið fram um að safnið hafi fyrst og síðast verið sjóminjasafn. Þarna er talað um að safnið hafi sérhæft sig á þessu sviði. Þrátt fyrir þessar samþykktir og nefndarskipanir gerist lítið í málinu næstu árin.
Sjóminjasafn Íslands opnaði Í Reykjavík með hátíðlegri athöfn á sjómannadaginn, 7. júní 1986.
Sjóminjasafn Reykjavíkur.
Sagt var frá því í fjölmiðlum og í Sjómannadagsblaðinu var fréttin undir fyrirsögninni „Sjóminjasafn Íslands, Loksins“. Í Morgunblaðinu mátti meðal annars lesa eftirfarandi frétt af opnuninni: „Sjóminjasafn Íslands var opnað við hátíðlega athöfn á laugardaginn af Sverri Hermannssyni, menntamálaráðherra. Safnið er til húsa í Brydepakkhúsi við Vesturgötu í Hafnarfirði. Í ræðu Gils Guðmundssonar, formanns sjóminjasafnsnefndar, kom fram, að opnun safnsins í þeim húsakynnum væri aðeins áfangi á langri leið. Framtíðarstarfsemi safnsins er ætlaður staður á svonefndri Skerseyri fyrir vestan Hafnarfjörð, niður undir Hrafnistu.“55 Í ræðu sinni tók Sverrir sérstaklega fram að stofnun safnsins í Hafnarfirði ætti ekki að hafa áhrif á söfnun sjóminja annarsstaðar á landinu, „tilkoma Sjóminjasafnsins raskaði í engu því mikla starfi, sem unnið hefði verið til að varðveita sjóminjar víðs vegar um land. Einstök byggðalög myndu að sjálfsögðu gæta eigin minja áfram.“
Sjóminjasafn Reykjavíkur.
Menn voru að þó ekki á eitt sáttir um Sjóminjasafn Íslands á þessum tíma og sitt sýndist hverjum. Einar Vilhjálmsson tollvörður skrifaði til að mynda harða grein í Sjómannablaðið Víking þar sem hann gagnrýndi þau plön sem þá voru í gangi í Hafnarfirði og taldi í raun að verið væri að beita blekkingum til að fjármagna lítið byggðasafn. Hann hafði greinilega ekki mikla trú á uppbyggingaráformum Sjóminjasafns Íslands í bænum og sagði meðal annars: „Um nokkurra ára skeið hefur ríkisfé verið varið til vafasamra framkvæmda, við lítið byggðasafn í Hafnarfirði, og þeim brögðum beitt að kalla þetta „Sjóminjasafn Íslands“, til þess að réttlæta málið og ná opinberu fé. … Nú voru kerfismenn búnir að taka málið í sínar hendur og var búið til fyrirtækið „Sjóminjasafn Íslands“, og peningar fengnir úr ríkiskassanum til að kosta þessa stofnun, sem getur aldrei orðið það sem nafnið bendir til, heldur aðeins byggðasafn. Látið er í veðri vaka að sem útgerðarbær sé Hafnarfjörður umfram Reykjavik og aðra útgerðarstaði, safnið skreytt með lánsmunum frá Þjóðminjasafni og úr einkaeigu til þess að svo líti út í augum almennings, að um verulegt sjóminjasafn sé að ræða.
Sjóminjasafn Reykjavíkur.
… Við skulum vona að hætt verði að ausa fé í þetta byggðasafn Hafnfirðinga og þeir látnir einir um það að gera það svo úr garði sem þeim hæfir, en hafist verði handa um að koma upp raunverulegu sjóminjasafni í Reykjavík og það tengt Sjómannaskólanum, sjómannasamtökum, útgerðaraðilum og stofnunum í sjávarútvegi auk Þjóðminjasafns.“
Það sem gerst hafði var, ólíkt því sem gerst hafði með Ásbúðarsafnið og safn Þorbjargar Bergmann, að munirnir voru enn í bænum og enn til sýnis á safni. Hins vegar var búið að færa stóran hluta safnkosts byggðasafnsins yfir á annað safn í bænum sem ekki var í eigu Hafnfirðinga heldur var það deild í Þjóðminjasafni Íslands. Hins vegar þróuðust mál á annan veg en ætlað var og hinar metnaðarfullu hugmyndir um uppbyggingu sjóminjasafns Íslands við Skerseyri urðu aldrei að veruleika. Framþróun byggðasafnsins varð ekki eins hröð og eðlilegt hefði verið enda fékk sjóminjasafnið það sýningahús sem ætlað var upphaflega byggðasafninu og eina sýningaaðstaða þess lengi vel var í Sívertsens-húsi og síðar einnig í Siggubæ. Ekki var það einungis raunin að safnkostur byggðasafnsins sem tengdist sjóminjum væri afhentur sjóminjasafninu heldur voru sjóminjar teknar út af söfnunarstefnu byggðasafnsins á þessum tíma og var þeim aðilum sem buðu byggðasafninu sjóminjar næstu árin ætíð vísað yfir á sjóminjasafnið.
Hafnarfjörður fremstur í bátasmíði.
Uppúr aldamótunum 2000 tekur þetta mál enn og aftur óvænta stefnu. Þá voru menn almennt búnir að gefa drauminn um öflugt sjóminjasafn upp á bátinn og raddir fara að heyrast um að rétt væri að loka safninu í Hafnarfirði. Um þetta leyti er viðgerðum að ljúka á Þjóðminjasafni Íslands og farið að styttast í opnun nýrra sýninga þar í endurbættu húsnæði auk þess sem Sjóminjasafnið Víkin í Reykjavík er að líta dagsins ljós. Við þau tímamót er tekin ákvörðun um að Þjóðminjasafnið muni ekki standa að sýningum á höfuðborgarsvæðinu nema í safnhúsinu sjálfu og loka þá bæði sjóminjasafninu og Nesstofusafni á Seltjarnarnesi.
Vöknuðu Hafnfirðingar nú enn upp við vondan draum, nú ætlaði Þjóðminjasafnið að loka Sjóminjasafni Íslands og fara með alla munina til Reykjavíkur en eftir stæði útgerðar- og sjósóknarbærinn Hafnarfjörður með byggðasafn án sjóminja.
Árið 2004 var sjóminjasafninu endanlega lokað og byggðasafnið fékk pakkhúsið undir sýningastarfsemi sína.
Lokaorð
Hafnarfjörður fyrrum.
Í köflunum hér að framan hefur verið farið yfir sögu Byggðasafns Hafnarfjarðar og minjavörslunnar í bænum og þeim erfiðleikum sem einkenndu uppvaxtarár þessa málaflokks í bænum. Árið 1974 fékk safnið varanlegt húsnæði undir sýningastarfsemi er viðgerðum á Sívertsens-húsinu lauk. Fjórtán árum síðar, árið 1988 áskotnaðist safninu Siggubær og var sýningastefna þessara húsa nokkuð ljós frá upphafi. Í Sívertsens-húsinu var sýnt hvernig yfirstéttafjölskyldan í Hafnarfirði bjó í upphafi 19. aldar auk þess sem ljósi var varpað á merkilega sögu Bjarna Sívertsen og fjölskyldu hans en í Siggubæ var sýnt hvernig alþýðufjölskyldan í Hafnarfirði bjó í byrjun 20. aldar og hvernig hinir dæmigerðu bárujárnsbæir í litu út.
Hafnarfjörður fyrrum – Brekkugata.
Það verður ekki dregin dula yfir þá staðreynd að vangaveltur og vandræðagangur í kringum Sjóminjasafn Íslands töfðu mjög fyrir allri þróun og þroska byggðasafnsins. Segja má að hin síðari uppbygging á Byggðasafni Hafnarfjarðar hefjist árið 1994 þegar það fékk langþráð sýninga- og lagerhúsnæði í Smiðjunni, Strandgötu 50. Þá var í fyrsta sinn kominn í notkun hjá byggðasafninu boðlegur fastur sýningasalur þar sem hægt var að setja upp sýningar um sögu og menningu Hafnarfjarðar og nágrennis. Smiðjan var stækkuð í tvígang, fyrst árið 1997 og svo aftur 1999 og hafði þá tvo veglega sýningasali ásamt góðu lagerhúsnæði. Árið 2004, í kjölfar þess að Sjóminjasafn Íslands var lagt niður, var sýningastarfsemi byggðasafnsins flutt úr Smiðjunni yfir í Bryde-pakkhús að Vesturgötu 6 en lageraðstöðu fékk safnið í þjónustumiðstöð bæjarins við Hringhellu.
Tæplega hálfri öld eftir að hugmyndin kom fyrst upp um sýningaaðstöðu fyrir byggðasafnið í Pakkhúsinu varð það að veruleika.“
Heimildir:
-Þjóðlíf 1. mars 1987, Sögufræg hús í Hafnarfirði, bls. 32.
-Helgafell, 2. des. 1943, Ágúst Steingrímsson, Hús Bjarna riddara Sívertsens, bls. 437.
-Tíminn 18. nóv. 1973, 170 ára gamalt hús gert sem „nýtt“, Hús Bjarna riddara í Hafnarfirði endurbyggt og gert að safni, bls. 40 og 36-37.
-Dagblaðið 5. des. 1978, Hafnarfjörður liðna tímans í máli og myndun, Hús Bjarna riddara Sívertsen GAJ, bls. 16.
-Vísir, 28. ágúst 1971, Hafnfirðingar hlúa að húsi frá Napóleonstímunum, GB — Rætt v/ð Gísla Sigurbsson, lögregluvarðstjóra, um þær endurbætur, sem verið er
að gera á húsi Bjarna riddara Sívertsens, bls. 9.
-Morgunblaðið 12. febr. 1984, Af Bjarna Sívertsen og Byggðasafni Hafnarfjarðar — rætt við Gísla Sigurðsson fyrrv. lögregluþjón, bls. 35.
-Þannig var… – Byggðasafn Hafnarfjarðar, Björn Pétursson – Lokaverkefni til MA–gráðu í safnafræði, Félagsvísindasvið, 2014, 47 bls.
Byggðasafn Hafnarfjarðar.
Sumardvöl og fiskeldi við Straumsvík
Nokkrir sumarbústaðir voru byggðir í Hraunum við Straumsvík nokkru fyrir miðja 20. öldina. Meðal þeirra sem heilluðust af þessu sérstæða og að margra mati fallega landsvæði voru þrír félagar, bræðurnir Marinó og Kristinn Guðmundssynir sem voru báðir málarameistarar og Björn Jóhannesson doktor í jarðvegsfræði sem hafði mikinn áhuga á hegðun laxfiska. Þeir voru afar heillaðir af Lónakoti og tjörnunum sem þar eru en þar gátu þeir ekki fengið land á leigu eða til kaups. Gengu þeir þá eftir strandlengjunni frá Lónakoti og inn fyrir Straumsvík til Hafnarfjarðar og þaðan út á Álftanes í leit að ákjósanlegum stað til að reisa sumarkofa eins og þeir kölluðu það.
Straumur.
Eftir að hafa grandskoðað strandlengjuna voru þeir sammála um að innsti hlutinn við norðaustanverða Straumsvík væri ákjósanlegasti staðurinn. Þar hafði staðið kotbýlið Litli-Lambhagi á tanga sem heitir Stróki og skammt frá honum voru Hólmarnir og Straumsvatnagarðar. Þar voru aflögð útihús og merkilega vel hlaðið eldhús úr hraungrjóti frá því seint á 19. öld. Eftir nokkra eftirgrennslan fengu þremenningarnir leyfi til að reisa lítið íveruhús innarlega á Stróka.
Bjarni Bjarnason.
Bjarni Bjarnason skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni átti þetta land allt, en hann eignaðist jarðirnar Straum og Þorbjarnarstaði ásamt Litla- og Stóra-Lambhaga árið 1919. Rak hann um árabil ágætis bú í Straumi og nytjaði allar jarðirnar til heyskapar og beitar. Bjarni lét byggja Straumshúsið sem enn stendur árið 1927 úr steinsteypu eftir að gamli bærinn brann. Sá sem teiknaði húsið var Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins, en húsið ber svipmót burstabæjar, en Guðjón hafði áhuga á að skapa nýja íslenska byggingarhefð með skírskotun til fyrri tíma.
Þegar Bjarni ákvað að selja jarðir sínar við Straumsvík rétt eftir seinni heimsstyrjöldina keypti Björn landspilduna umhverfis sumarkofa þeirra félaga, með landamerkjum nokkru austan Stróka. Höfðu þeir stækkað húsið það mikið að hægt var með sanni að tala um sumarhús enda dvöldu þeir oft ásamt vinum og ættingjum á þessum slóðum sumarlangt og lengur ef aðstæður leyfðu.
Tóftir Stóra-Lambhaga.
Ástæðan fyrir staðarvalinu var sú að við Stróka fannst þeim ríkja fágæt náttúrufegurð. Spilaði þar inn í hversu merkilegt náttúrufarið er við hina lygnu og friðsælu Straumsvík þar sem ferskt vatn rennur framundan hrauninu og veldur því að sjórinn er afar tær á þessum slóðum. Grashólmar og sker innst í Straumsvík skipta stöðugt um svipmót þar sem sjórinn á það til að hylja landið á flóði og svo birtist það aftur þegar fellur út og fjarar. Fallaskiptin og mismunandi sjávarstaða eftir því hvernig stendur á flóði og fjöru hafa veruleg áhrif á umhverfi Stróka og valda síbreytilegu náttúruspili. Þarna var líka fjölskrúðugt fuglalíf, stundum sáust selir á sundi eða þeir sóluðu sig á skerjum rétt hjá Stróka alveg óhræddir. Sólarlagið var líka töfrandi og myndaði Snæfellsjökul og Snæfellsfjallgarðurinn handan Faxaflóans einskonar ramma sem sólin settist á bak við. Litbrigði náttúrunnar breyttust árið um kring og stundum var hafið ólgandi og skolaði þara og fiski upp á hólmana en á öðrum tímum var þetta kyrrðarinnar staður þar sem tíminn stóð nánast í stað. Refur átti það til að sjást á vappi í fjörunni og minkar gerðu sér greni framarlega á tanganum þar sem fiskur lónaði stutt frá landi.
Straumsvík 1965. Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi sem og tjarnirnar.
Landspildan var tekin eignarnámi þegar undirbúningur að álverinu hófst um miðjan sjöunda áratuginn en þá höfðu Björn og félagar stundað tilraunir með laxeldi í Straumsvík um nokkurt skeið. Þessar tilraunir grundvölluðust á einstæðum vatnsbúskap svæðisins.
Lambhagi – stífla v/fiskeldis.
Stuttu eftir að félagarnir byggðu sumarhúsið fóru þeir að mæla og efnagreina ferskt grunnvatnið sem fellur út í Straumsvík undan hrauninu við botn víkurinnar. Reiknuðu þeir út að talsverður hluti Kaldár, sem hverfur ofan í hraunið rúmlega kílómetra neðan upptaka sinna, félli til sjávar rétt vestan við Stróka. Allavega töldu þeir sig geta greint það á fjöru að allstraumhörð ferskvatnskvísl félli í þröngum stokki með fram nyrsta hluta tangans. Þeir mældu hitastig grunnvatnsins sem streymdi undan hrauninu margsinnis og reyndist það vera nákvæmlega 4 gráður á Celsíus árið um kring. Stóðu mælingarnar árum saman og alltaf voru niðurstöðurnar þær sömu. Björn var sannfærður um að vatnið hefði hagstæða efnaeiginleika fyrir laxaklak og sökkti hann vírkörfum í lón við hraunjaðarinn til að sannreyna þetta. Niðurstaðan var sú að laxaklakið skilað góðum árangri en ekki var alveg ljóst hvernig nýta mætti aðstöðuna við Straumsvík til laxaframleiðslu.
Mannvirki í tjörnunum við Lambhaga.
Þeir prófuðu sig áfram og fljótlega gerðu þeir tilraunapoll í litlu lóni sunnanvert við Stróka nálægt Keflavíkurveginum sem hlaut nafnið Pollurinn. Hann var dýpkaður með jarðýtu en þannig háttaði til að lónið tæmdist ekki þó að fjaraði út vegna þess hversu mikill vatnsstraumurinn var undan hraunjaðrinum. Steyptu þeir félagar einskonar hlið eða dyraumbúnað við mynni Pollsins þar sem hægt var að koma fyrir gildru. Laxar gátu þar með gengið í Pollinn en áttu þaðan ekki undankomu nema þeim væri hreinlega sleppt lausum í sjóinn. Pollurinn var hreinn og moldarlaus til að byrja með, en þegar vegur var lagður að álverinu rétt við hliðina á Pollinum barst talsvert magn af fokefnum í hann. Þar með varð botninn þakinn þykku leðjulagi sem hefði þurft að moka í burtu eða reyna að skola út með útfallinu. Þetta var hins vegar ekki gert þannig að aðstæður í Pollinum breyttust með tíð og tíma.
Straumsvík 2020.
Félagarnir eyddu mikilli vinnu, tíma og fjármunum í að flytja bleiklax frá Alaska til Íslands 1965 til 1966. Árangurinn varð neikvæður að öðru leyti en því að flutningur á 120.000 aughrognum frá Kódakeyju til Íslands tókst vel. Samvinna við Veiðimálastofnun tókst ekki um framkvæmd þessarar tilraunar, en vorið 1966 sýndu þeir fram á að laxaseiði silfrast við 4 gráðu hita á 6 vikum. Þegar Marinó og Kristinn féllu frá hélt Björn áfram að nýta aðstöðuna á Stróka og stunda þarna tilraunir sínar.
Straumsvík – Loftmynd af svæðinu.
Sumarið 1980 var sjógönguseiðum sleppt úr Pollinum eftir 56 daga dvöl í körfu og sneri ein 4,5 punda hrygna aftur í Pollinn sumarið eftir. Gerð var hafbeitartilraun í Pollinum 1981 til 1982 og kom í ljós að eftir 84 daga svelti sjógönguseiða í körfu lifðu næstum því öll sumarið 1982. Sumarið áður var sjógönguseiðum haldið í körfu í Pollinum með sáralítilli fóðrun í 56 daga áður en þeim var sleppt til sjávar. Aðeins eitt af þessum seiðum rataði aftur heim í Pollinn árið eftir. Þá var búið að koma fyrir nokkrum laxaseiðum í körfu í Pollinum, en norðmaðurinn Nordeng varpaði þeirri tilgátu fram að lax gangi ekki í vatn nema þar séu fyrir laxaseiði eða lax. Taldi Björn að hrygnan sem skilaði sér í Pollinn um sumarið hefði sennilega ekki gert það ef þar hefðu ekki verið fyrir laxaseiði.
Lambhagi um 1970.
Laxeldisfyrirtækið Pólarlax var um árabil með aðstöðu Hafnarfjaðrarmegin við álverið og notaði meðal annars hvalalaug Sædýrasafnsins í eldisstarfinu. Sumarið 1981, sem var sama sumar og hrygnan skilaði sér í Pollinn, sleppti Pólarlax þó nokkrum stórum laxaseiðum úr kví sem var í Straumsvík. Sumarið eftir komu miklar laxagöngur inn í Straumsvík og stökk laxinn í víkinni svo að ekki fór á milli mála að þarna var eitthvað um að vera. Kom það fyrir þegar mest gekk á að hálfgert umferðaröngþveiti skapaðist á Reykjanesbrautinni því vegfarendur snarhemluðu og hlupu út úr bílum sínum til að fylgjast með þessari óvenjulegu sjón. Laxinn var að koma heim eftir vetrardvöl í hafinu og þetta sjónarspil var alveg einstakt.
Straumsvík.
Vonir manna um að laxinn gengi upp í ferskvatnslónin í Straumsvík gengu ekki eftir þar til Björn lagði til að komið yrði fyrir körfu með laxaseiðum í Pollinum. Þetta virkaði eins og segull og 5. ágúst 1982 höfðu 170 laxar gengið í Pollinn. Endurheimtur sjógönguseiðanna sem sleppt var 1981 og komu sem sjógengnir laxar sumarið eftir voru um 20% til 30% en stórar torfur gengu í ystu lónin í lok veiðitímans án þess að hægt væri að handsama þær. Heimtur reyndust ekki eins vel og reiknað var með en menn voru sannfærðir um að þær gætu gengið betur þar sem laxinn skilaði sér aftur á heimaslóðir þó hann gengi ekki allur inn Pollinn. Niðurstaðan var því sú að heimtur gætu vaxið með árunum ef réttum aðferðum væri beitt. Prófað var að sleppa seiðum næstu árin úr kvíunum utan við hvalalaugina en heimtur voru ekkert sérstakar.
Eldhús og tóftir við Litla-Lambhaga.
Næsta skipti sem sjógönguseiðum var slepp úr kvíum í Straumsvík var sumarið 1985. Sami háttur var hafður og fyrr. Seiðum komið fyrir í körfu í Pollinum sumarið 1986 sem hafði þau áhrif að laxar gengu í Pollinn og tilraunin sannaði sig í raun og veru. Eftir þetta gerðist ýmislegt sem varð til þess að fiskeldisfyrirtækið Pólarlax var tekið til gjaldþrotaskipta 20. janúar 1989 og lauk skiptunum 20. desember 1991 án þess að nokkuð hefði fengist greitt af lýstum kröfum. Þar með var botninn farinn úr þessum merku tilraunum með laxfiska í Straumsvík.
Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.
Sumarhúsið á innanverðum Stróka grotnaði smám saman niður þar til það var ekki talið forsvaranlegt að láta það standa og var það rifið og efniviðurinn fjarlægður. Nú er ekkert annað eftir en steinsteyptar gólfplötur og gamla eldhúsið sem hlaðið var fyrir rúmlega einni öld. Þetta hús er nákvæmlega eins í lögun og að allri gerð og samsvarandi hús við Óttarsstaði eystri og vestri, bara örlítið minna umfangs. Löngu var búið að breyta steinhlaðna húsinu í svefnhýsi með tilheyrandi veggklæðningum úr viði og innanstokksmunum. Húsið stendur nú opið fyrir veðrum, vindum og spellvirkjum og bíður þess sem koma skal, en það væri gustukaverk að halda því við og sjá til þess að síðasta heillega steinhlaðna húsið í Hraunum fengi að standa áfram um ókomna tíð.
Sjá meira HÉR.
Heimild:
–http://www.hraunavinir.net/fiskeldi-og-sumardvol–vid–straumsvik/#more-950
Lambhagar fyrrum. Stóri-Lambhagi framar
Mjói vegurinn – mesta umferðaræð Íslands II
Björn Þorsteinsson sagnfræðingur skrifaði um „Mjóa veginn – mestu umferðaræð Íslands“ í Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað, árið 1962, en vegurinn sá var Hafnarfjarðarvegur þeirra daga.
Hafnarfjörður.
„Síðastliðið ár ferðuðust með strætisvögnum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur rúmlega 900 þúsundir manna. (Áætluð tala eftir farmiðum: 915.829.) Sama ár fóru um 10 þúsund bifreiðir til jafnaðar á dag yfir brúna á Fossvogslæk.
Mest umferð var um verzlunarmannahelgina í byrjun ágúst, en þá fóru um 15.600 bifreiðir á dag yfir lækinn. Um þann hluta vegarins hafa því farið rúmlega hálffjórða milljón ökutækja á árinu eða a. m. k. rúmlega 7 milljónir manna, ef gert er ráð fyrir, að hvert farartæki hafi a. m. k. tvo menn innanborðs, ekil og farþega, en það mun vera allt of lág tala. Strætisvagnarnir fara 50 ferðir fram og aftur alla virka daga, en þar við bætast aukavagnar kvölds og morgna. Þeir munu því fara um 100 einstakar ferðir milli borganna á hverjum sólarhring. Samkvæmt farmiðasölunni ættu að vera um 25 menn í hverjum vagni til jafnaðar. Þeir, sem fara um Fossvogsbrúna, eru auðvitað ekki nærri allir einungis á ferðalagi milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
Aðalskipulag Reykjavíkur 1962 – 83 boðaði hraðbrautir um höfuðborgarsvæðið. Fossvogsbraut átti til dæmis að liggja inn eftir Fossvogsdal milli Kópavogs og Reykjavíkur.
Leið margra liggur í Kópavog, suður á Álftanes, og býsna margir sækja á Suðurnesin, en þeir, sem að sunnan koma, eru sumir að koma úr Kópavogi. Samt sem áður mun það ekki of í lagt, að milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur ferðist rúmlega milljón manna á ári, eða nær sexföld tala allra Íslendinga.
Vegurinn, sem á að anna allri þessari umferð, er fyrir löngu orðinn allt of mjór, auk þess sem hann er bæði holóttur, óþarflega hlykkjóttur og bráðhættulegur í frosti, snjó og regni. Það ætti alls ekki að taka yfir 12 til 15 mínútur að komast milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar á okkar dögum, en ferðalagið tekur venjulega um 25 mínútur og oft talsvert lengri tíma.
Um milljón manns eyðir því um 10.000.000 mínútum eða 16.666 klst. og 40 mín, eða rúmum 20.833 átta stunda vinnudögum á ári í óþarfa silagang á þessari leið. Ef einhver heldur, að hér sé um hæpna útreikninga að ræða, þá er þess að minnast, að það er ekki ein milljón, heldur a. m. k. 7 milljónir, sem leggja að einhverju leyti leið sína um Hafnarfjarðarveginn, meðan jörðin er að silast sporbaug sinn í kringum sólina.
Slæmir vegir í þéttbýli eru dýrir á okkar tímum. í hvert sinn, sem við silumst milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, erum við að greiða vegatoll hinnar ólögðu brautar, án þess að þau útgjöld komi að nokkru gagni. En seinagangur er ekki að öllu leyti neikvæður. Hann gefur ferðamönnum m. a. tóm til þess að athuga umhverfið, þegar sessunauturinn er ekki allt of skemmtilegur og aðlaðandi.
Meistaraverk náttúrunnar
Hafnarfjörður fyrrum.
Leiðin liggur úr Hafnarfirði, einhverju sérkennilegasta bæjarstæði hér á landi. Náttúran hefur gert frumdrætti að dálitlu listaverki upp frá höfninni, og það er vandmeðfarið eins og öll verk sinnar tegundar. Helztu hlutar þess eru hraun, lækur og hamar. Hvert þeirra býr yfir sérstökum töfrum, sem mannanna verk eiga að lúta, en ekki eyðileggja. Það er hægt að ganga þannig frá hlutunum í þessum bæ, að hraundrangarnir séu aðeins ljótir og leiðir farartálmar, sem skaga svartir og hálfbrotnir út í göturnar, gjóturnar séu óþverraholur, og lækurinn falli í óyndislegum sementsstokk til sævar.
Hafnarfjörður um 1940 – Hellisgerði.
Þótt Hafnfirðingar kannist við slík fyrirbrigði og þekki hverfi, þar sem hverju húsinu er troðið að öðru, svo að eitt rekur sig á annars horn, og göturnar eru furðulegir krákustígir, þá blasir víðar við sjónum smekkvísi og umhyggja fyrir verkum skaparans. En bærinn á eftir að vaxa mikið. Það er ekki of í lagt, að á svæðinu Hafnarfjörður — Reykjavík muni búa um 180 þús. manns árið 2000, ef engin sérstök ógæfa sækir okkur heim. Það er jafnvel sennilegra, að um aldamótin muni búa á þessu svæði rúmlega 200 þúsundir manna. Hafnarfjörður mun eflaust eiga eftir að gera betur en tvöfaldast að íbúatölu á næstu 38 árum. Framtíðaráætlanir um skipulag bæjarins verður að gera á grundvelli þess, að hér rísi upp stórborg einhvern tíma. Hún mun m. a. teygja sig yfir hraunið meðfram nýja veginum, upp Setbergshlíðina og inn hraundalinn. Þar á lækurinn og umhverfi hans að vera mesta borgarprýðin, tjarnir og trjágarðar. —
Einnig mun byggð þéttast um Jófríðarstaðaland frá Skuld og suður og austur dalinn meðfram Grænugrófarlæk.
Ferfœttir skipulagsstjórar
Hafnarfjörður – Klaustrið ofar.
Hér er ekki ætlunin að dveljast einkum við framtíðina, heldur hyggja lítið eitt að fortíðinni.
Hafnarfjörður er með elztu verzlunarhöfnum á landi hér. Fjörðurinn verður aðalhöfn landsins á 15. öld og heldur því sæti að mestu fram á daga Skúla Magnússonar.
Skúli gamli bjó í Viðey og vildi hafa innréttingarnar sínar, nýsköpunarfyrirtækin, sem hann stofnaði, sem næst sér. Það var upphaf Reykjavíkur. Við verðum að fyrirgefa honum staðarvalið, af því að honum gekk gott eitt til.
Jófríðarstaðor á fyrri hluta 20. aldar.
Hér í firðinum mun lútherskt kirkjuhald eiga upphaf sitt á Íslandi, hér sló fyrsti íslenzki kaupmaðurinn tjöldum og hér hófst rafvæðingin á Íslandi hjá honum Reykdal. Þótt Hafnarfjörður væri svo mikilvægur verzlunarstaður á 15. og 16. öld, að erlendir kaupmenn þreyttu hingað kappsiglingu á hverju vori, þá gerðu Íslendingar seint nokkuð til þess að greiða fyrir samgöngum hingað á landi.
Sauðkindin var lengi helzti skipulagsmeistarinn á Íslandi og vegamálastjóri. Í Landnámu segir, að „sumir þeir, er fyrstir komu út, byggðu næstir fjöllunum og merktu að því landkostina, að kvikfé fýstist frá sjónum til fjallanna“. Feður fræknu treystu auðheyrilega betur framsýni sauðkinda sinna en eigin dómgreind og létu stjórnast af sjónarmiðum þeirra til landgæða og búsældar við bólstaðaval. Jafnvel íslenzkir stórhöfðingjar eins og biskuparnir eltu forystusauðina upp í afdal norðan lands og upp fyrir öll stórvötn syðra. Til Skálholts varð ekki komizt úr neinni átt nema með þrálátum sundreiðum og selflutningum, en sauðir biskups áttu greiða leið til fjalla. Svo virðist sem hann Ingólfur gamli hafi verið nær eini heilskyggni maðurinn, sem hingað flutti í upphafi landsbyggðar. —
Hafnarfjörður.
Þær þjóðir, sem létu ekki stjórnast af hagspeki ferfætlinga, reistu sér aðalstjórnar- og menntasetur við góðar hafnir eða verzlunarleiðir, og þar risu upp þorp, sem urðu miðstöðvar atvinnulífsins í landinu, er stundir liðu. Hér var því ekki að heilsa. Í 740 ár var helzta höfuðsetur landsins uppi í Tungum, og þar var of t margt um manninn. En Skálholtsstaður var höfuðsetur íslands, meðan hér bjó frumstæð landbúnaðarþjóð í atvinnuefnum, en ekki stundinni lengur. Hefði biskupsstóllinn hins vegar staðið hér á Innnesjunum í landnámi Ingólfs, hefði hann orðið grundvöllur þeirrar borgar, sem Ísland skorti langan aldur. En stóllinn stóð á sínum stað, og það þurf til eitt mesta eldgos veraldarsögunnar að viðbættum ógurlegum jarðskjálftum til þess að hrekja hann til strandar, og á leiðinni liðaðist hann nær algjörlega í sundur.
Hafnarfjörður var löngum verzlunarstaður án þess að vera svo mikið sem þorp, og hingað lágu koppagötur úr ýmsum áttum yfir hraunin allt til ársins 1873. Að innan lágu Gömlufjarðargötur, troðningar frá túngarðshorni á Hraunsholti að Sjónarhóli, og þaðan niður um Háaklif hjá hliðinu á Hellisgerði. Þar stendur nú hálfbrotinn klettur, Svensensklettur, sem áður lá austan að klifinu. Kletturinn er kenndur við skipstjóra, Svensen, sem lengi sigldi upp Hafnarfjörð á vegum Knudtzons. Þangað gekk hann til þess að skyggnast til veðurs og gá til skipa.
Svensensklettur.
Vegurinn
Einn talaði um veg yfir vegleysur og hraun,
einn vitnaði í samtök, er ynnu þyngstu raun,
einn mældi fyrir vegi og vissi upp á hár,
hvar vegurinn ætti að koma, svo liðu hundrað ár.
Það breyttist ekki hraunið og björgin lágu kyrr.
Í byggðinni var talað um veginn eins og fyrr.
Einn hafði góðan vilja en öðrum þróttur þraut,
og þriðja fannst það heimska að leggja nokkra braut.
-Davíð Stefánsson.
Konungskoman 1874
Horft upp eftir Háaklifi, nú Reykjavíkurvegi – að Sjónarhóli.
Um 1873 bárust þau tíðindi til Hafnarfjarðar, að kóngurinn í Kaupmannahöfn ætlaði að heimsækja Ísland. Hafnfirðingar sáu það þegar af hyggjuviti sínu, að kóngur mundi aldrei fara svo af Fróni, að hann hefði ekki komið í Hafnarfjörð, þann stað, sem löngum var frægastur íslenzkra hafna og forfeður Kristjáns Friðrikssonar höfðu leigt við ærnu gjaldi.
Hins vegar fengu þeir strangar áhyggjur af því, að það væri alls ekki kóngi bjóðandi að eyða hálftíma í að paufast Gömlufjarðargötur yfir hraunið; hans hátign gæti þar að auki dottið og hlotið skrámur.
Konungsheimsóknin 1874.
Þá var Kristinn Zimsen verzlunarstjóri hjá Knudtzon hér í Firðinuni, Hann gekkst fyrir því, að vegur var lagður frá Sjónarhóli yfir Flatahraun inn í Engidal. Þetta varð svo konunglegur vegur, að hér eftir var talið 10 mínútna skokk milli fyrrgreindra bæja.
Kóngurinn kom í Fjörðinn ári síðar, en Hafnfirðingar reyndust mjög tómlátir, þótt hans hátign birtist á Mölinni. Yfir Háaklif var lagt siglutré milli kletta, skreytt birki og lyngi. Klettarnir voru svo háir, að það var vel reitt undir ..lauftréð“. Kóngur hafði orð á því, að honum fannst sem hann hrapaði ofan í bæinn, þegar hann fór niður Háaklif.
Niðri á Mölunum var fólk í óðaönn að taka saman fisk. Kóngur gekk um sjávargötuna frá Linnetskletti og vestur að húsi Kristins Zimsens, sem eitt sinn var hús Bjarna Sívertsens. Við götu hans var engin skrúðfylking glápandi þegna, horfandi höggdofa á, hvernig kóngurinn hreyfði sig. Þó voru það ýmsir, sem veittu honum óskipta athygli. Börnin hættu leikjum sínum og fylgdust álengdar með hverju fótmáli hans. Meðal þeirra var Nielsína Abigael Ólafsdóttir, þá á 5. ári, en hún sagði löngu síðar Gísla Sigurðssyni frá konungskomunni til Hafnarfjarðar og hann mér. Níelsína giftist Daníel Daníelssyni dyraverði í stjórnarráðinu.
Konungsheimsóknin 1874.
Á stakkstæðunum héldu menn áfram að rogast með börur sínar og taka saman fiskinn, rétt eins og ekkert væri um að vera í plássinu.
Þó er þetta ekki öldungis rétt, því að maður nokkur vék af einu stakkstæðinu rétt hjá Knudtzonsbryggju, gekk í veg fyrir konung og bauð hann velkominn í plássið. Nafn pessa konungdjarfa Hafnfirðings mun með öllu gleymt, og ræðan var aldrei skráð. Hún var þýdd fyrir konung, og hann gaf þessum fullrúa hafnfirzkrar sjómannastéttar gullpening fyrir kveðjuna, en hann hneigði sig og gekk aftur til vinnu sinnar við fiskinn. Þar með var hinni opinberu móttökuathöfn lokið. – Kristinn Zimsen bauð konungi inn, og Katinka, dóttir hans, færði hnum blómvönd úr garðinum bak við húsið. Kóngur þáði glas af léttu öli, það voru veitingarnar, og tók stúlkuna á kné sér og þakkaði henni móttökurnar.
Konungur hvarf á braut upp Illaklif og hélt með föruneyti sínu inn veginn frá Sjónarhóli. Hann hafði öldungis óviljandi orðið til þess, að Hafnfirðingar kynntust vegabótum.
Nœstu áfangar
Hafnarfjörður.
Hafnfirðingar voru svo hrifnir af nýja veginum, að á næsta ári höfðu þeir uppi allmikil áform um vegabætur. Þann 12. apríl kemur hreppsnefnd Álftaneshrepps til aukafundar, og segir svo m. a. í fundargerðarbókinni:
„Á fundinum var fyrst rætt, hverjar uppástungur skyldi gjöra um, hvað vinna skyldi að þjóðveginum á næsta sumri. Var samþykkt af öllum nefndarmönnum, að góður vegur skuli lagður frá hinum nýja vegi, sem liggur ofan í Hafnarfjörð og suður undir Hvaleyri, og ætlar nefndin til þess 800 kr. þurfi, en skyldi upphæð þessi ekki fást öll, álítur nefndin óumflýjanlegt að gjöra við kafla þann, sem kallast Hamar, og nú til þess ætla 400 krónur.
Fossvogur – áætluð brú.
Einnig álítur nefndin mjög nauðsynlegt að leggja brú yfir mýrina frá trébrúnni á Hraunsholtslæk inn að Arnarneslæk, og ætlar nefndin, að til þess að gjöra góða brú mundi þurfa 1000 krónur, en að mikið megi bæta mýrina með 400—500 krónum. Var oddvita falið að semja uppástungu um þetta.“
Af fundargerðinni sést, að brýnustu vegabæturnar voru að ryðja braut yfir Vestur-Hamarinn, þar sem Vélsmiðja Hafnarfjarðar stendur, og „brúa“ Austurmýrina, sem nú kallast Hofstaðamýri. Að brúa merkir að gera veg, bera a. m. k. ofan í verstu svakkana í mýrinni.
Talað er um trébrú á Hraunsholtslæk, en hvenær hún var gerð, er mér ókunnugt. Menn ætla að ráðast í talsvert og eru allbjartsýnir.
Fyrirhuguð Borgarlína.
Alþingi fékk nokkurt fjárforræði með stjórnarskránni 1874, en afl þeirra hluta, sem gera skal, var þó af býsna skornum skammti. Lán voru ekki auðfengin, og lítið varð oft úr framkvæmdum, þótt viljinn væri góður. Árið eftir berst hreppsnefndinni beiðni frá Reykvíkingum um styrk til brúargerðar á Elliðaárnar. Hafnarfjörður hafði verið helzta verzlunarhöfn við Faxaflóa, og þangað höfðu bændur sótt í kaupstað hundruðum saman austan úr sveitum, þótt tekið væri að byggja upp í Reykjavík.
Brúargerð á Elliðaárnar var fyrirboði þess, að viðskiptaleið bænda mundi breytast, og hreppsnefndin synjaði um styrkinn.
Þegar þetta mál er til umræðna, kemur fram, að Konungsvegurinn yfir Flatahraun liggi undir skemmdum. Veittar eru 300—400 kr. til þess að láta bera ofan í hann.
Brúargerðin yfir Austurmýrina hefur auðsæilega strandað á féleysi, en margt kallar að. Álftnesingar þurfa að komast yfir mýrarfenin undan túninu á Selskarði, en þar „er ófær vegur“, og 400 kr. eru veittar til „brúargerðar“ þar. „Ef mögulegt væri að fá meira fé“, ákveður nefndin að ráðast á Hraunsholtið , láta ryðja þar „vegarbreidd og gjöra skurð við hlíðarnar“. Til þess ætlar hún 200 kr., ef hægt er á einhvern hátt að höndla þá fjárhæð.
Dýrt vegagjald
Hafnarfjörður 1920.
Árin líða, og lítið er hægt að framkvæma sökum fátæktarinnar. Í 1000 ár höfðu menn búið á Íslandi án þess að leggja nokkurn vegarspotta, svo teljandi sé. Menn höfðu slarkað einhvern veginn yfir ófærurnar eða orðið til í þeim. Menn björguðust eða fórust; það er hið endalausa efni íslenzkra ferðasagna í gamla daga. Hver kaupstaðarferð var svaðilför víðast á landinu. Og menn þurftu ekki að leggja í langferðir til þess að lenda í lífsháskum.
Féleysi, þróttleysi, klæðleysi, vegaleysi og allsleysi varð mörgum að fjörtjóni milli bæja, ef nokkuð varð að veðri, en mórum, skottum og illum vættum var kennt um ófarirnar. Álfhóll heitir klapparhóll á Digraneshálsi. Við hann er kennd Álfhólsbraut. Það er dálítill hlykkur á götunni hjá hólnum, af því að Finnbogi Rútur bannaði vegagerðarmönnum að brjóta byggð álfanna. Rétt sunnan við hólinn innan girðingar eru tættur sennilega af stekk. Þar í urðinni á að vera huslaður maður, sem varð úti á leiðinni milli Bústaða og Digraness. Þetta á að hafa verið ekki mjög merkilegur borgari á sinni tíð, og þess vegna var ekki fengizt um hann frekar.
Borgarlína – framkvæmdir í Hafnarfirði.
Hábunga Garðaholts heitir Völuleiði. Undan útnorðurhorni girðingar á háholtinu vestan vegar er dys. Ekki á völva að hafa verið heygð þar að fornu, heldur mæðgur tvær, sem urðu þar úti á leið frá Bessastöðum að Görðum. Sagt er, að konan hafi farið að Bessastöðum með unga dóttur sína, sem hún kenndi einum manni yfirvaldsins, en sá vildi ekki við kannast. Af þeim sökum féll sá grunur á, að móðirin hefði fargað barni sínu og sér sjálfri á þessum stað, lagzt fyrir og hætt að þreyta göngur milli góðbúanna.
Um 1912 verður maður úti frá Lásakoti í Skógtjarnarhverfi á leið austur með Völuleiði. Hjörleifur, faðir Ingimundar Hjörleifssonar í Ásbúðartröð 3, verður úti í Garðahrauni veturinn 1909—10.
Margir kannast við kvæði Matthíasar Jochumssonar um börnin frá Hvammskoti (nú Fífuhvammi), sem drukknuðu á útmánuðum 1874 í Kópavogslæk:
Þrjú stóðu börnin við beljandi sund
næddi vetrarnótt yfir náklædda grund.
Hlökkuðu hjörtun svo heimkomufús,
hinum megin vissu sín foreldrahús.
En lækurinn þrumdi við leysingarfall,
fossaði báran og flaumiðan svall.
Hímdu þar börnin við helþrunginn ós;
huldu þá sín augu Guðs blásala ljós.
„Langt að baki er kirkjan,
sem komum við frá,
en foreldranna faðmur
er fyrir handan á.
í Jesú nafni út í,
því örskammt er heim.“
En engill stóð og bandaði
systkinum tveim.
Eitt sá tómt helstríð —
og hjálpaðist af;
hin sáu Guðs dýrð — og bárust í kaf.
Brostin voru barnanna bláljósin skær,
brostu þá frá himnum smástjörnur tvær.
Foreldrarnir tíndu upp
barna sinna bein,
og báran kvað grátlag
við tárugan stein.
Hafnarfjörður kemst í vegasamband
Hafnarfjörður.
Það þurftu margir að greiða dýran vegatoll, af því að hér voru hvorki til brýr né vegir. Verstu mýrarsvakkarnir út á Álftanesið voru brúaðir á árunum eftir 1876, en árið 1879 er fyrst ráðizt í vegagerð yfir Hraunsholtið. Á næstu árum geisa fádæma harðindi hér á landi, en allt um það eru Garðhreppingar, sem voru orðnir sérstakt hreppsfélag, alltaf hafnasamir við vegagerð. Árið 1881 kemst vegur yfir Hraunsholtið, og þá og á næsta ári munu gerðar brýr yfir Austurmýrina og upp Arnarnesið. Sá vegarkafli að Arnarneslæk var löngum nefndur „Mýrarbrú“. Arnarneslækurinn var þó óbrúaður enn um skeið.
Árið 1883 er tekið að leggja veg frá Hamrinum suður á Hvaleyri og hugsa fyrir brú á Kópavogslæk. Sú brú mun hafa komizt á 1884 eða 1885, og hefur sennilega einungis verið göngubrú í fyrstu. Um þær mundir eignast Garðahreppur nýja stétt embættismanna, vegabætarana, og bera þeir Magnús Brynjólfsson á Dysjum og Þorgils Halldórsson í Miðengi fyrstir þann titil.
Hreppnum var skipt í umdæmi milli þeirra. Skyldi Magnús sjá um vegagerðina í Hafnarfjarðarhraunum, en Þorgils í Garðahverfi og uppbæjum.
Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.
Ekki urðu neinar stórbreytingar á vegamálum hreppsins við tilkomu þessara embættismanna. Af samgöngubótum fara heldur fáar sögur næsta áratuginn. Verkfærakostur manna var af mjög skornum skammti, venjulega ekki annað en skófla, járnkarl, haki eða mölbrjótur og handbörur. Árið 1899 samþykkir hreppsnefndin að kaupa Landssjóðsverkfæri fyrir kr. 17,50. — sautján krónur og fímmtíu aura — til hreppsvegasjóðs. Þá var „kirkjuvegurinn með sjónum fram að Görðum orðinn bráðófær“ og skyldi ráðizt í endurbætur á honum með 300 kr. lántöku.
Lítið var fengizt um vega- og gatnagerð í þorpinu sjálfu. Brú var gerð á lækinn um 1785, að því er Gísli Sigurðsson telur. Sú brú var sunnan við Brúarhraunsklett. Annar brúarsporðurinn stóð á Brúarklöppinni, en hinn á eyraroddanum. Þetta mannvirki kom helzt að gagni á fjöru, því að á flóðinu var það umflotið sjó. Síðar er brúin færð, og stendur hún þá um skeið fram undan þeim stað, þar sem búð Olivers er nú.
Hafnarfjörður 1954 – loftmynd.
Þessar brýr voru gerðar og kostaðar af kaupmönnum. Í þriðja sinn er henni fundinn staður undan Einarsbúð, og það er sá brúarflutningur, sem vofir yfir 1902. Þegar brúin var færð, fylgdi því m. a. sá kostnaður að teygja veginn að henni. Hreppsnefndin leitaði til sýslunefndar um fjárstyrk til framkvæmda og fékk 500 kr. til vegagerðar niður í Hafnarfjörð, um þorpið og til búargerðar gegn tvöfaldri upphæð til sömu framkvæmda annars staðar frá. Það fé lagði hreppsnefndin til, og þá um vorið var í fyrsta sinn lagður „viðunanlegur akvegur“ ofan í Hafnarfjörð.
Hafnarfjörður 1900.
Sumarið 1902 var í fyrsta sinn hægt að komast með vagna niður í verzlunarstaðinn Hafnarfjörð, en ekki í gegnum þorpið. Á næsta ári var nýja brúin byggð á lækinn og hafizt handa um vegagerð í þorpinu. Þá varð það, að búendur í Brekkunni sunnan lækjar báðu hreppinn að leggja til land undir veg, sem þeir ráðgera að leggja beint upp Brekkuna (Illubrekku) milli sýslumannshússins og barnaskólans, „þar sem nú er mjór gangstígur“. Einnig báðu þeir um fjárstyrk til vegagerðarinnar. Þeir fengu landið, ræmu af lóð barnaskólans, og var heitið 20 króna virði í vinnu, sem hreppurinn útvegaði. Með þennan bakhjarl var einnig tekið við að leggja Suðurgötuna.
Þar með opnaðist akfær leið gegnum Hafnarfjörð, og árið eftir veitti landssjóður 2.800 kr. til vegagerðar milli Hafnarfjarðar og Vogastapa. Sá vegur átti langt í land, en þó var áfanga náð; Hafnarfjörður var kominn i vegasamband við umhverfið. Hitt var annað mál, að vegakerfið beindi brautir manna til Reykjavíkur, en ekki hinnar fornu hafnar við Faxaflóa.
Helztu heimildarmenn mínir eru þeir Gísli Sigurðsson lögregluþjónn og Adolf J. E. Petersen verkstjóri.“
-B. P.
Vegagerð í bænum bundin öðruleikum
Hafnarfjörður 1907.
Í skýrslu um „Húsakönnun í miðbæ Hafnarfjarðar frá árinu 2019 segir m.a. um vegagerð í byrjun 20. aldar:
„Segja má að þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi árið 1908 hafi ekki verið nokkurt skipulag á byggðinni og fáar eiginlegar götur í bænum. Strandgatan og Reykjavíkurvegurinn voru þó á sínum stað en að öðru leyti má segja að einungis hafi verið um slóða og stíga að ræða. Þar sem bæjarfélagið var fámennt og bæjarsjóður ekki vaxinn til stórframkvæmda var ljóst að kostnaðarsamar framkvæmdir eins og gatnagerð var, sérstaklega í svo erfiðu landslagi, yrðu ekki forgangsverkefni. Árið 1911 var sett á fót nefnd sem fékk það hlutverk að gefa götum og slóðum í Hafnarfirði nöfn og tölusetja hús í bænum. Í greinargerð sem nefnd þessi sendi frá sér sagði meðal annars:
Hafnarfjörður – örnefni (ÓSÁ).
„Þegar maður fer um Hafnarfjörð og virðir fyrir sér byggðina, verður maður þess fljótt var, að öll ný veglagning er bundin miklum örðuleikum, ekki aðeins vegna hins hrjóstruga landslags, heldur einkum og ekki sízt sökum þess, hve óreglulega hefir verið byggt og ekkert fyrir hugað frá öndverðu um það, hvar vegir ættu að byggjast, þegar fram liðu stundir.“
Niðurstaða nefndarinnar var að gefa flestum þeim götum og slóðum sem fyrir voru í bænum nöfn en á þeim svæðum sem skipulagsleysið var hvað mest var brugðið út af þeirri reglu og svæðin einfaldlega kölluð „hverfi“ og hús númeruð innan þeirra.“
Heimildir:
-Alþýublað Hafnarfjarðar, jólablað, 15. des. 1962, Björn Þorsteinsson sagnfræðingur – Mjói vegurinn – Mesta umferðaræð Íslands, bls. 6-8.
-Miðbær Hafnarfjarðar, Skýrsla um húsakönnun, 2019.
Hafnarfjörður.
Lækjarkot
Grjóthleðsla og torf, sem fannst við framkvæmdir nýs hótels á lóð Íslandsbanka við Lækjargötu, er talið vera ummerki eftir torfbæinn Lækjarkot sem byggður var árið 1799 og var fyrsta íbúðarhúsið sem reist var á þessum slóðum.
Uppgraftarsvæðið við Lækjargötu.
Bærinn á sér merka sögu, af honum eru til teikningar og málverk frá fyrri árum og Kristján konungur IX. kom þar inn í Íslandsheimsókn sinni 1874, að því er fram kemur í umfjöllun um uppgröft þennan í Morgunblaðinu.
Sýni voru tekin á svæðinu og eru þau nú til rannsóknar hjá Fornleifastofnun. Sé um bæinn að ræða, er líklegt að svæðið verði rannsakað og grafið upp, að mati Lísabetar Guðmundsdóttur, fornleifafræðings hjá Fornleifastofnun Íslands.
Fornleifagröftur við hornið á Lækjargötu og Vonarstræti, sem hófst í maí síðastliðnum vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar, hefur leitt í ljós það sem virðist vera skálabygging frá tímum landnáms. Lísabet Guðmundsdóttir fornleifafræðingur, sem stýrir uppgreftrinum, segir þennan fund breyta miklu um það sem við töldum okkur vita um byggðasögu Reykjavíkur.
Skálar í Aðalstræti.
„Við höfum náttúrulega vitað um þessa elstu byggð í Reykjavík þar sem Aðalstrætið er,“ segir Lísabet, en þær bæjarrústir komu í ljós við uppgröft á áttunda áratugnum. „Við töldum okkur vita að aðalbyggðakjarninn hafi verið á því svæði, en okkur bara datt ekki í hug að það væri eitthvað þarna við Lækjargötuna. Og það var eiginlega það sem var svolítið skemmtilegt.“
Áfram var grafið í sólinni í dag.Vísir/Andri MarinóUppgröfturinn átti upphaflega að taka um fjórar vikur en sú áætlun breyttist skiljanlega þegar skálinn fannst í síðasta mánuði. Fyrir var vitað að bærinn Lækjarkot, sem byggður var árið 1799, hafði staðið á lóðinni, sem og timburhús sem reist var árið 1887.
„Þegar við vorum búin að klára að grafa þær byggingar upp, þá var náttúrulega slatti eftir,“ segir Lísabet.
„Það var með svona ofsalega flottu landnámstorfi í veggjum, þannig að það virtist vera frekar gamalt. Við erum náttúrulega ekki komin með aldurinn á hreint ennþá,en það kemur bara þegar við förum í úrvinnsluna.“
Lísabet segist búast við því að uppgröfturinn muni standa yfir í um tvær til þrjár vikur til viðbótar. Hún telur ekki líkur á að áform um hótelbyggingu raskist nokkuð vegna fundarins en segir viðræður þegar hafnar við framkvæmdaraðila um varðveislu grjóts, hellna og varðeldar úr skálanum.
Heimildir:
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/05/06/merkur_baer_ur_felum_vid_laekjargotu/
-https://www.visir.is/g/2015314513d
-http://www.torfbaeir.com/Tomthus/T-Laekjarkot.html
Mynd Jóns Helgarsonar af Reykjavík árið 1836, trúlega máluð nálægt 1890. Lækjarkot sést lengst til vinstri á myndinni suðaustan við Dómkirkjuna. Efst á myndinni má sjá Hlíðarhús og torfbæi i Grjótaþorpi og við Vesturgötu. Lækjarkot var reist árið 1799 austast á Austuvelli. Runólfur forstjóri Innréttinganna bjó þar en drukknaði í Tjörninni 1811 „aðeins mjög lítið drukkinn“ samkvæmt annálum. Meðal seinni ábúenda má nefna Þórð malakoff, sem var um margt sérkennilegur og bjó þar um 1870. Bærinn var rifinn árið 1887. Bærinn stóð þar sem nú er Lækjargata 10a sem er óbyggð lóð í dag. Fornleifauppgröftur árið 2015 sýndi ekki aðeins merki um bæinn Lækjarkot heldur einnig áður ókunnan landsnámsbæ.
Helgadalshellar – I
Búrfell upp af Hafnarfirði er eldstöð af þeirri gerð sem kallast eldborg. Gígurinn er aðeins einn og rís 180 m y.s., hlaðinn úr gjalli og hraunkleprum. Hraunið frá honum nefnist einu nafni Búrfellshraun en einstakir hlutar þess hafa sérnöfn;
Helgadalshellar – uppdráttur ÓSÁ.
•Smyrlabúðarhraun
•Gráhelluhraun
•Lækjarbotnahraun
•Urriðakotshraun
•Hafnarfjarðarhraun
•Garðahraun
•Gálgahraun
Búrfellshraunin.
Þrjár stórar hrauntungur hafa runnið frá Búrfelli til sjávar.
1. Sú stærsta fór niður með Vífilsstaðahlíð og náði í sjó bæði í Hafnarfirði og við Arnarnesvog.
2. Önnur tunga rann í átt að Kaldárbotnum og síðan niður hjá Ásfjalli og í sjó við Hamarinn í Hafnarfirði.
3. Þriðja hrauntungan rann suður fyrir Kaldárbotna og til sjávar í Straumsvík. Hún er nú að mestu hulin yngri hraunum.
Þegar hraunið rann stóð sjór um 10 m lægra við landið en hann gerir nú. Mörg hverfi í Hafnarfirði og Garðabæ standa á Búrfellshrauni.
Sprungur og misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem nær allt frá Elliðavatni að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu NA-SV sem teygir sig frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell.
Í Helgadalshellum.
Hraunið er talið um 24 km2 að flatarmáli en um þriðjungur þess er hulinn yngri hraunum. Rúmmálið er um 0,5 km3. Það er um 8000 ára og með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu.
Hrauntjarnir og -traðir mynduðust í hrauninu meðan á gosi stóð. Þær stærstu nefnast Búrfellsgjá og Selgjá. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið. Hrauntjarnir mynduðust t.d. í Kringlótturgjá og í Gjánum við Kaldársel, en hraunið, Helgadalshraun / Kaldárhraun, rann úr þeim, bæði neðanjarðar er mynduðu hraunrásir er síðan urðu að hellum líkt og sjá má í Helgadal. Stærstu hrauntraðirnar, auk Búrfellsgjár og Selgjár, eru Lambagjá og Vesturgjá.
Margir hraunhellar, auk hellanna í Helgadal, eru í Búrfellshrauni. Lengstur er Selgjárhellir (Skátahellir) yfir 200 m langur, en þekktastir eru Maríuhellar við veginn upp í Heiðmörk.
Hér má sjá MYNDIR úr Helgadalshellunum.
Helgadalshellar – uppdráttur ÓSÁ.
Skagagarðurinn – Skálareykir
Í „Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags í Garði árið 2017“ er m.a. fjallað um Skagagarðinn og Skálreyki:
Skagagarðurinn
Skagagarðurinn.
„Lokaðist það af svonefndum Skagagarði, sem hlaðinn var frá túngarði Útskála og þvert fyrir tána yfir í túngarðinn á Kirkjubóli. Sér leifar hans hér og hvar enn,“ segir í örnefnalýsingu. Í sýslu- og sóknalýsingu frá um 1860 segir ennfremur: „Fyrir ofan Skagann hefur legið garður einn mikill, sem enn er kallaður Skagagarður, frá túngarðinum á Útskálum beint yfir í Túngarðinn á Kirkjubóli.“
Enn sér fyrir Skagagarði sunnan Skagabrautar en norðan hennar er hann farinn í tún og þar sjást engin ummerki hans.
Í Chorographicu Árna!Magnússonar frá 1720 segir: „Garður (sú sveit) hefur nafn af girðingum. Menn meina landið hafi afgirt verið frá Hrafnkelsstöðum og so continue að Þórustöðum.“ Í sýslu-og sóknalýsingu frá 1839: „… Ein hefir höfuðgirðing verið yfir þveran Skagann, sem Skagagarður kallast; á honum voru að sögn læst hlið.“ Í annarri lýsingu frá um 1840 segir ennfremur: „Mikill garður hefir í fyrndinni þaðan [frá Flankastöðum] legið, sem enn sést merki til, og hefir náð allt inn að Útskálum. Er það sögn manna, að með þeim garði hefðu allir átt að fara, sem innan að sóttu jólagleði þessa [á Flangastöðum], svo ekki villtust menn, þó niða myrkur væri.
Skagagarðurinn – loftmynd 1954.
Þessi fornaldargarður liggur sunnanvert fyrir Skaganum eða heiðar megin, en Skaginn er sléttlendur og hagbeitarpláss frá Útskálum. Er þessi garður, sem heita má gersamlega niður fallinn, kallaður Skagagarður og hefir líkast til í fyrndinni verið varnargarður fyrir skaganum á hverjum verið hafa yrktir sáðakrar, og má enn sjá merki garðlaga, sem hlaðin hafa verið kringum sáðreitina. En á þessum aðalvarnargarði áttu að hafa verið læst hlið.“
Í grein Magnúsar Grímssonar, Fornminjar um Reykjanesskaga frá 1860 segir um Skagagarð: „Rústirnar af garði þessum, sem nú eru að mestu grasi grónar og líta út eins og ávalur hryggur, eru glöggar nema á stöku stöðum, þar sem mælt er, að hlið hafi verið á honum. Garðurinn hefur að mestu verið hlaðinn úr stórgrýti og að líkindum afar hár og þykkur, eftir sem út lítur 3/4 álna á þykkt. Nú geta 2 menn riðið samsíða ofan á rúst hans víðast hvar. Með!þessum garði hefur Skaginn með öllum ökrum og hofinu (?) verið alveg afgirtur.“
Skagagarðurinn – loftmynd.
Kristján Eldjárn skrifar í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1977: „En Skagagarðurinn mikli, sem byggðin hefur nafn af og prestarnir lýsa svo fagurlega, hann er enn til, friðlýstur og heill, að öðru leyti en því að á einum stað var rofið skarð í hann 1964 til að komast þar í gegn með veg sem liggur frá Sandgerði til Út-Garðs…. Á milli Út-Garðs (Útskálahverfis) og Kirkjubólshverfis er víðáttumikið land, sem ætíð hefur verið lítt eða ekki byggt fyrr á tíð og raunar enn á vorum dögum. Þetta er sendið land og grýtt og virðist ekki kostamikið. Upp undir heiðinni og þá ofarlega eða efst á Skaganum liggur Skagagarðurinn þvert yfir hann í nokkurn veginn beinni línu frá Útskálum, þ.e. Túngarðinum á Útskálum, þótt sú samkoma sjáist ekki nú, og þar til hann hverfur fyrir ofan bæina Kolbeinsstaði og Hafurbjarnarstaði í Kirkjubólshverfi, þar sem hann hefur á sama hátt náð sambandi við túngarð.
Skagagarðurinn.
Þessi beini garður, hinn!raunverulegi Skagagarður, hefur verið röskir 1500 m að lengd. Hann er sannarlega þess virði að skoða hann. Hugsum okkur að við komum eftir þjóðveginum frá Sandgerði og stefnum til garðs. Fyrir ofan Kolbeinsstaði klofnar vegurinn í tvennt. Til hægri liggur vegur til Inn-Garðs og síðan áfram til Keflavíkur. Til vinstri liggur áðurnefndur vegur til Út-Garðs og hann förum við. Þá sjáum við fljótlega Skagagarðinn nærri vegi til vinstri handar og ekki líður á löngu þar til við komum þar sem vegurinn sker garðinn. Þar er ráð að staldra við, ef maður hefur hug á að átta sig á Skagagarðinum. Við lítum um öxl og sjáum hvernig hann nær sambandi við túnin í Kirkjubólshverfi, og til hinnar handarinnar sjáum við glöggt hvernig garðurinn stefnir til norðausturs rétt utan við Útskálakirkju.
Skagagarðurinn.
Hér er auðvelt að sjá hvernig garðurinn tengir saman Útskálahverfi og Kirkjubólshverfi og hvernig hann girðir af Skagann, nokkurn veginn á mörkum hans og heiðarinnar. Hér er mjög auðskilið að þetta er aðalvarnargarður Skagans og einnig hvernig hann hefur getað tengst túngörðum til beggja hliða, sem vel hugsanlega hafa náð alla leið til Rafnkelsstaða að austan og Þórustaða að vestan eins og Árni Magnússon segir, eða jafnvel alla leið til Flankastaða eins og prestarnir segja. Í Kirkjubólshverfinu má enn rekja þessa garða að mestu leyti og á loftmynd sjást þeir greinilega og hvernig þeir enda við sjó rétt fyrir sunnan Þórustaði. Í Garðinum sést þetta miður sökum þess hve mjög hefur byggst þar en þó hygg ég að einnig þar mætti sjá búta af túngörðum ofan gömlu túnanna. Ekki fer hjá því að Skagagarðurinn veki undrun fyrir mikilleika sakir. Sú spurning hvarflar jafnvel í hug manns sem snöggvast að hann sé alls ekki mannaverk, heldur náttúrulegur ávalur ás. Slíkt væri dálaglegt.
Skagagarðurinn.
Til þess að vera ekki einn um ábyrgðina fékk ég þrjá glögga menn til að gera með mér áreið á garðinn haustið 1976. Einn þeirra var dr. Sigurður Þórarinsson. Hann sagði orðrétt þegar hann sá garðinn: „Það er ekkert í náttúrunnar ríki sem getur búið þetta til.“ Reyndar urðum við allir vel sammála um að vissulega væri Skagagarðurinn mannaverk. Hann má heita þráðbeinn, og þegar vel er að gáð er fleira sem sýnir að hann er af mannahöndum gerður. Hann hefur verið borið saman úr grjóti og jarðvegshnausum og áreiðanlega verið bæði hár og þykkur en með tímanum flast út og að nokkru sandorpist. Við þetta hefur hann smátt og smátt fengið þennan ávala svip og að lokum orðið firnabreiður í grunninn, víða líklega um 15m.
Skagagarður.
Skýrar hleðslur sjást varla í honum nú, þótt steinar standi upp úr víða, og þegar skarðið var rofið í hann vegna vegarins 1964 tók verkstjóri (Björn Jóhannesson)!ekki eftir greinilegri hleðslu svo hann muni. Reyndar er túngarðurinn á Hofi í Garði fróðlegur til samanburðar við Skagagarð. Hann er með ólíkindum mikill og ávalur nokkuð á svipaðan hátt, en til muna minna útflattur. Og beint upp frá gerðum, við hornið á íþróttavellinum sem nú er, má sjá vænan bút af mjög fornlegu garðlagi sem að öllu leyti minnir á Skagagarðinn sjálfan. Að sögn prestanna góðu áttu nokkur hlið að hafa verið á Skagagarðinum. Ekki er það nema eðlilegt, en í raun réttri er þetta hermt í sögum til þess að skýra nokkur skörð sem nú eru í garðinn. En sum þeirra eru langtum of víð til að teljast hlið, og kem ég nú ekki auga á nærtæka skýringu á skörðum þessum. Garðurinn kann að hafa verið rofinn af einhverjum ástæðum, en þó mætti fremur virðast við athugun sem skörðin hafi verið frá upphafi og þá ef til vill fyllt upp í þau með einfaldri grjótgirðingu, sem síðan hefur hrunið eða verið fjarlægð. Hefur garðurinn kannski aldrei verið fullgerður í sinni stóru mynd?“
Skagagarðurinn.
Í bók Jóns Böðvarssonar, Suður með sjó frá 1988 segir: „Nýjar rannsóknir jarðfræðinganna Guðrúnar Larsen og Hauks!Jóhannessonar hafa leitt í ljós að Skagagarðurinn á Suðurnesjum er miklu eldri en áður var haldið. Niðurstöðu þessa fengu þau eftir að hafa grafið gegnum garðinn á þremur stöðum. Að sögn Hauks mælist garðurinn nú 1500 metra langur, og hefur náð meðalmanni í öxl fyrr á öldum…. Garðurinn er stöllóttur að innanverðu en sléttur að utan, þannig að unnt hefur verið að reka fé út yfir hann án þess það kæmist inn aftur og hefir það líklega komið sér vel vegna!akurreina innan garðsins. Ofan á Skagagarði er grjóthleðsla sem telin er jafngömul torfgarðinum. Haukur segir að aldur garðsins megi greina all nákvæmlega út frá öskulögum sem sjást þegar grafið er í gegnum hann. Ljóst er að hann hafi verið reistur skömmu eftir að öskulag, kennt við landnám, féll í upphafi tíundu aldar. Svokallað miðaldalag er myndaðist við gos í sjó út af Reykjanesi árið 1226 lagðist ofan á garðinn, sem þá var að miklu leyti kominn í kaf vegna foks.“
Í skýrslu Garðars Guðmundssonar og fleiri í Árbók hins íslenska fornleifafélags frá 2002-2003 segir: „Hrun úr garðinum er undir miðaldalaginu frá 1226 og landnámslagið er í torfi garðsins. Magnús Á. Sigurgeirsson telur garðinn hlaðinn á 10.-11.öld.“
Skagagarður.
Viðbót 2017: Garðurinn var rakinn frá Skálareykum norður að Skagabraut. Hann er ekki mjög áberandi en sést þó alla leiðina sem lágur hryggur,5-8m breiður og mest 0,3-0,4m hár, algróinn. Hann fjarar heldur út eftir því sem nær dregur Skagabraut. Rúmum 100 m sunnan Skagabrautar er líkt og rask hafi orðið á garðinum á rúmlega 10 m löngum kafla sem sést helst á því að þar er garðurinn mjög ógreinilegur og gróður með öðru móti en í móanum umhverfis. Þar sem raskinu sleppir liggur greinilegur hryggur líkt og í framhaldi af garðinum en heldur meira í austur en fyrr, í stefnu skammt vestan við Skagabraut 23. Þessi hryggur tilheyrir líklega ekki garðinum heldur virðist hann liggja fast vestan við hrygginn þótt hann sé orðinn mjög óljós á þessu bili. Garðinn má rekja þokkalega á loftmynd í stefnu á heimreiðina að Skagabraut 36. Leiða má að því líkum að heimreiðin sé ofan á garðlaginu forna, sem haldi svo áfram til norðurs skammt vestan við bæjarhól á Útskálum og allt niður að sjó. Áður hafði í skráningu verið vikið að því að líklega væri garðurinn horfinn norðan Skagabrautar en á loftmyndum virðist votta fyrir honum í túninu tæpa 100 m NNV af íbúðarhúsinu á Útskálum.
Skálareykir
Skálareykir – tóftir.
Í örnefnalýsingu segir: „Skálareykir eru gamlar bæjarrústir fast við miðjan Skagagarð. Þar sér fyrir túngarði og húsarústum…Skálareykja finnst ekki getið, hvorki 1703 né 1847. Eru til ýmsar tilgátur um býli þetta, m.a. að Ketill gufa hafi byggt skála, annan að Gufuskálum og annan að Útskálum. Svo var byggður nýr bær, þar sem reykirnir sáust frá báðum hinum skálunum, og því nefndur Skálareykir. Önnur segir, að þar sjáist merki og að þar hafi verið draugagangur, er setti bæinn í eyði, en trúlegra er, að það hafi verið vatnsskortur og fjarlægð frá sjó.
Tóftir Skálareykja.
„1839:“Í mæli er að bær!hafi þá staðið á Skaganum nálægt þessum garði, sem Skálareykir hafi verið kallaðir; hafa allt til þessa sést þar bæjarrústir og mót til túngarðs. Ekki eru nema munnmæli, að þaðan hafi staðurinn verið fluttur að Útskálum, en hitt er víst, að þar hafi einhverntíma verið jörð byggð, þó hennar sé ekki getið.“
SSGK, 162;c.1840: „Nálægt þessum garði er í mæli, að hafi staðið bær, sem Skálareykir hafi heitið, og sjáist þar nú til bæjarrústa og túngarðsgirðingar umhverfis. Hvergi hef ég í jarðabókum séð þá jörð nefnda, enda hef ég fátt fengið í hendur af gömlum skjölum.“
SSGK,184;c.1860: „Með þessum garði hefur Skaginn með öllum ökrum og hofinu (?) verið alveg afgirtur, og þá hefur að líkindum enginn bær staðið fyrir utan hans nema einn, sem enn sér rústir af og hét á Skálareykjum [Skálareykir hdr.]. Sá bær hefir staðið þétt við garðinn miðjan, Skagamegin, og má vera að þar hafi verið gæzlumaður akranna og garðsins, ef bærinn er svo gamall eins og garðurinn. Á Skálareykjum sér enn fyrir túngörðum og bæjar- og húsarústum í meðallagi stórum.“
Skálareykir – tóftir.
1902: „Fyrir austan þær (girðingar), þar sem nú er fjárrétt, er sagt að bær hafi verið og heitið Skálareykir. Er sagt að á þeim bæ hafi hvílt sú skylda, að verja akrana og girðingarnar fyrir ágangi af skepnum. Ekki er getið hvers vegna hann er kenndur við reyki. Má vera það bendi til þess, á þessu svæði hafi fyrrum verið jarðhitar, sem seinna hafi kólnað, og með þeim jarðhita hafi akuryrkjan þar staðið og fallið.“
BJ í Árbók 1903, 36. Rústir býlisins má greina um 200 m sunnan við fiskverkun H. Péturssonar og um 300 m suðvestan við nýlegt íbúahverfi við Spóaland. Rústir býlisins eru í þýfðu túni. Hluti þess er afgirtur og nýttur til hrossabeitar. Nokkuð af ökuslóðum liggja í kringum og og þvert yfir rústirnar.
1977 segir í Árbók Ferðafélagsins: „Minnast verður á Skálareyki. Rétt er það sem prestarnir herma að garðlag harla fornlegt afmarkar þar vænan blett rétt utan við garðinn og þó reyndar báðum megin við hann, því að garðurinn liggur gegnum girðinguna eins og best sést á loftmynd. Innan í girðingunni mótar fyrir mjög vallgrónum mannaverkum, en tvær grjóthlaðnar og snotrar húsatóftir miklu unglegri ofan á. Þar sagði fólk í Garði að gullkista væri grafin. Hvort þarna hefur verið! bær skal ósagt látið, en þessar minjar eru friðlýstar með garðinum sem rétt er, því að þær eru eins og samvaxnar honum. Nafnið mun líklega að hálfu dregið af Útskálum, en að hálfu er það óráðin gáta.“
Skálareykir – uppdráttur.
KE í ÁFÍ 1977, 117. Rústir býlisins eru báðu megin Skagagarðs sem sést vel á þessu svæði og ná yfir svæði sem er um 200 x 130 m stórt. Bæjarhóllinn hefur líklega verið þar sem tóft A er nú en hún virðist vera fremur ung. Gætu því eldri byggingarstig verið undir tóftinni. Er hóllinn um 15 x 15 m að stærð og 0,5 m hár. Er hann veglegasti hóllinn á svæðinu og grasi vaxinn. Tóft A: Ofan á hólnum er tóft, líklega af fjárhúsi. Er hún 10 x 10 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Bæði snúa í NA-SV. Hólf I, hið austara, er 6 x 2,2 m að innanmáli og hefur um 2 m breitt op á syðri skammhlið. Fyrir utan opið er röð fremur stórra steina. Hólf II er 6 x 2,5 m að innanmáli og er op á því fyrir miðri vestari langhlið. Er opið ríflega 1 m breitt. Veggir tóftarinnar eru flestir 2 m breiðir nema sá sem aðskilur hólfin tvö, hann er aðeins um 1 m að breidd. Allir eru veggirnir 0,6 m háir. Líklega eru þeir grjót- eða torf- og grjóthlaðnir og sér í steina í öllum veggjum. Hleðslur eru grónar grasi. Gerði B: 5 m norðvestan við tóft A er ferhyrnt gerði. Hefur það líklega umlukið kálgarð eða rétt. Er það 16 x 15 m að stærð og snýr í NA-SV. Breidd veggja er um 1,5 m og hæð þeirra 0,3 m. Á stöku stað sést glitta í grjót í gegnum grassvörðinn. Ekki er eins þýft innan garðlagsins og utan þess.
Skálareykir – loftmynd.
Erfitt er að átta sig á aldri garðlagsins en líklega er það ekki mjög fornt. Gerði C: 20 m sunnan við tóft A er annað gerði. Er það 26 x 7 m að utanmáli og snýr í NA-SV. Skammhliðar gerðisins virðast hafa rofnað í burtu en víða vantar einnig hluta í langhliðar. Breidd veggja er um 0,8 m og hæð þeirra er 0,4 m. Ekkert grjót sést í hleðslunum. Nánast engar þúfur eru innan garðlagsins. Líkt og garðlag B kemur helst til greina að um sé að ræða kálgarð eða einhvers konar aðhald.
Skaggarður – loftmynd.
Aldur garðlagsins er óræður. Tóft D: 3 m suðvestan við tóft A er afar ógreinileg tóft útihúss. Er hún u.þ.b. 11 x 9 m að utanmáli og snýr í VNV-ASA. Virðist hún við fyrstu sýn aðeins vera upphækkun í landslaginu eða framhald af bæjarhólnum en ef vel er að gáð má greina leifar tveggja hólfa. Snúa bæði til NNV-SSA. Sést glitta í grjót á nokkrum stöðum sem líklega er úr veggjum útihússins. Tóft þessi er líklega mun eldri en tóft A. Garðlag E: Túngarður liggur utan um býlið. Afmarkar hann svæði sem er sporöskjulaga, u.þ.b. 200 x 130 m að stærð og snýr í N-S. Garðurinn er mikið siginn og sést sem hryggur í túninu, 3-5 m breiður og um 0,2 m hár. Víðast hvar er fremur greinilegur nema norðaustast þar sem hann hverfur sjónum á um 80 m vegalengd. Aðeins sést í grjót á stöku stað. Tóft F:!95 m suður af tóft A og upp við garðlag E er lágur hóll. Er hann 9 x 4 m að stærð, 0,3 m hár og flatur að ofan. Líklegast verður að teljast að útihús hafi staðið þar en að hleðslur þess séu nú útflattar. Tóft G: Austast við garðlag E, um 45 m suðaustan við tóft A er hóll. Er hann 8 x 7 m að stærð og ríflega 1 m hár. Stingur hann nokkuð í stúf við hið flata umhverfi í kring. Engar greinilegar rústir eru á honum en ójöfnur ofan á honum gætu verið leifar mannvirkis.
Skagagarðurinn gerður sýnilegur
Skagagarðurinn – minnismerki.
Suðurnesjabær fékk í sumar (2020) styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem lið í sérstöku fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna COVID-19-faraldursins.
Suðurnesjabær sótti um styrk úr sjóðnum vegna verkefnisins. Það nefnist „Aðkomusvæði við Skagagarðinn“, nýr ferðamannastaður í Garði. Verkefnið felur í sér hönnun og verklegar framkvæmdir. Markmiðið er að gera Skagagarðinn sýnilegan og vekja athygli á honum.
Heimild:
-Garður á Reykjanesi: Fornleifaskráning vegna deiliskipulags – Birna Lárusdóttir, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2017.
Heimildaskrá:
-ÁFÍ 1977: Kristján Eldjárn. 1977. „Skagagarður – fornmannaverk“. Árbók Ferðafélags Íslands bls. 107-119. Ferðafélag Íslands.
-Árbók 1902: Brynjúlfur Jónsson. 1903. „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902.“ Árbók Hins Íslenska Fornleifafélags, bls. 31-52.
-Árbók 2002-2003: Garðar Guðmundsson o.fl. „Fornir akrar á Íslandi. Meintar minjar um kornrækt á fyrri öldum.“ Árbók Hins íslenzka!fornleifafélags, bls. 79-106.
-Árni Magnússon. 1953. „Chorographica Islandica.“ Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju: annar flokkur. Bókmenntafélagið, Reykjavík.
-Birna Lárusdóttir!(ritstj.). 2008. Fornleifaskráning í Sveitarfélaginu Garði I: fornleifar frá Rafnkelsstöðum að Útskálum (auk hjáleigna). FS404k08011. Fornleifastofnun Íslands.
-Fasteignabók 1956-57: Fasteignabók I. Mat fasteigna í sýslum samkvæmt lögum nr. 33 frá 1955. Reykjavík 1956-57.
-Herforingjaráðskort 1910: Generalstabens topografiske kort. Nr. 17, Suðurnes N.A. Mælt 1908, útg. 1910. Kjöbenhavn.
-Jón Böðvarsson. 1988. Suður með sjó: Leiðsögn um Suðurnes. Rótaríklúbbur Keflavíkur, Keflavík.
-Loftmynd 1974: LMI-Kort-D16-D-5481. Landmælingar Íslands.
-Magnús Grímsson. 1940. „Fornminjar á Reykjanesskaga.“ Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess II, 243-62. Reykjavík.
-SSGK: Sýslu- og sóknalýsingar Gullbringu- og Kjósarsýslu. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Reykjavík. 1937-39.
-Túnakort 1919: Túnakort fyrir Rosmhvalaneshrepp frá því um 1919. Þjóðskjalasafn Íslands.
-Umsögn Minjastofnunar Íslands um deiliskipulag í Garði, dags.!5. september 2017. MÍ201708-0023/6.09/ÞH 34
-Ö-Útskálar: Örnefnaskrá fyrir Útskála. Ari Gíslason skráði. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Skagagarðurinn í Garði.