Í ritgerð Ástu Hermannsdóttir til MA-prófs í fornleifafræði við Háskóla Íslands árið 2014 er m.a. fjallað um rannsóknir á seljum á hluta Snæfellsness og jafnframt almennt um sel og seljabúskap hér á landi. Síðarnefndi hlutinn er fyrir margt athyglisverður og verður efni hans því getið að hluta til hér á eftir.
„Seljabúskapur var lengi framan af lítt rannsakaður á Íslandi en á síðustu áratugum hafa farið fram fornleifarannsóknir sem miða að því að gera bragarbót þar á. Ritgerðin miðar að því að líta yfir farinn veg og benda á þá staðreynd að seljabúskapur var hluti af samfélags- og efnahagslegu kerfi hvers bæjar og svæðis og þess vegna má gera ráð fyrir mismun og margbreytileika í seljabúskap á landsvísu. Alhæfingar um ýmsa þætti seljabúskapar á Íslandi og hugmyndir um einsleitni í seljabúskap eiga ekki við og nauðsynlegt er að skoða sel og seljabúskap hvar sem er í sínu landslags-, samfélags- og efnahagslega samhengi. Í síðasta hluta ritgerðarinnar er sýnt fram á hve mikilvægt samhengi seljabúskaparins er í rannsóknum á honum og hvernig breytingar í því kerfi sem hann var hluti af höfðu áhrif á seljabúskapinn.
Inngangur
Seljabúskapur er búskaparform sem nokkuð hefur verið fjallað um og rannsakað á Íslandi og þá sérstaklega á síðustu áratugum. Fornleifarannsóknir á seljum á Íslandi hafa aukist á þessum tíma en fáar þeirra eru þó mjög umfangsmiklar og veldur það því að umfjöllun um sel og seljabúskap er oft byggð á takmörkuðum raungögnum (en. empirical data). Þótt sel séu skráð við fornleifaskráningar eins og aðrar minjar er því þó sjaldnast svo farið að í úrvinnslu þeirra felist frekari rannsókn á minjunum. Rannsóknir á seljabúskap hafa því ekki sótt mikið í þau yfirgripsmiklu gögn sem venjubundnar fornleifaskráningar skilja eftir sig. Seljabúskapur var ekki stakstætt kerfi heldur hluti af flóknara samfélags- og efnahagslegu kerfi hvers bæjar og svæðis en einnig landsins alls. Grundvöllur seljabúskaparins lá í þessum þáttum og breytingar á þeim hafa í gegnum aldirnar haft áhrif á breytingar í seljabúskap og ekki síst endalok hans.
Í hluta ritgerðarinnar verður fjallað um þær íslensku fornleifarannsóknir sem beinst hafa að seljum og seljabúskap í það minnsta að hluta. Einnig er sagt frá nýlegum fornleifarannsóknum á sama efni á hinum Norðurlöndunum til að setja rannsóknir á Íslandi í stærra samhengi.
Umfjöllunin um sel og seljabúskap er alls ekki ætluð til alhæfingar um sel og seljabúskap á Íslandi heldur þvert á móti til þess að vekja umræður og skoðanaskipti og benda á að seljabúskapur var flóknari og margbreytilegri en hingað til hefur verið gengið út frá. Tilgangur ritgerðarinnar er að draga fram þá staðreynd að seljabúskapur, framkvæmd hans og umfang, hefur ekki verið eins alls staðar á landinu og að við eigum enn margt ólært um þetta forna búskaparform. Auk þessa er ætluð hliðarafurð ritgerðarinnar að sýna fram á að fornleifaskráning getur gefið af sér heildstæðar rannsóknir og það þarf ekki alltaf stórtæka uppgrefti til að geta skapað nýja þekkingu: fornleifaskráning er fornleifarannsókn.
Fornleifarannsóknir á seljum
Í þessum hluta verður fjallað um fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið á Íslandi og beinst hafa að hluta til eða öllu leyti að seljum. Teknar verða saman helstu upplýsingar um rannsóknirnar og niðurstöður þeirra og í lokin metið hvað fræðimenn telja sig nú vita um sel og seljabúskap á grundvelli fornleifafræðinnar og með hjálp sagnfræðinnar og á hvaða sviðum upplýsingar vantar.
Seljarústir er misjafnlega auðvelt að þekkja en yfirleitt er miðað við að rústirnar séu nokkuð frá bæ, ekki sé mikil mannvistaruppsöfnun á staðnum nema vísbendingar séu um búsetu þar fyrir eða eftir að seljabúskapur var þar stundaður, um fleiri en eina rúst sé að ræða og góð vísbending er ef aðhald eða einhvers konar innrekstrarmannvirki er á staðnum. Örnefni eru mikið notuð þegar sel eru skráð og geta þau bæði bent á staði sem nauðsynlegt er að leita á við fornleifaskráningu en einnig geta þau gefið vísbendingar um hlutverk rústa sem hafa áður óljóst eða óþekkt hlutverk. Til dæmis getur fengist vísbending um hlutverk þekktrar rústar með áður óþekkt hlutverk ef upplýsingar um seljaörnefni koma fram í nýjum heimildum eða viðtölum við heimildamenn. Ætíð verður þó að skoða slíkar upplýsingar með gagnrýnum hætti í samhengi við fornleifarnar og umhverfi þeirra. Heimildamenn eru mikilvægur viskubrunnur um sel, ekki síst á þeim stöðum þar sem seljabúskapur hélst sem lengst. Sums staðar er þó svo komið að fáir sem engir eru eftir sem hafa þekkingu á seljabúskap ákveðinna svæða ekki síst hvað varðar staðsetningu seljanna og tilhögun búskaparins enda er hann sums staðar lagstur af að nær öllu leyti fyrir 1800.
Hefðbundin sýn á sel og hugtakanotkun
Áður en lengra er haldið verður hér sett fram hin hefðbundna sýn á seljabúskap á Íslandi og í kjölfarið verða skýrð nokkur hugtök og orð sem koma fyrir í ritgerðinni og notkun/merking þeirra í henni til að fyrirbyggja misskilning.
Seljabúskapur á Íslandi
Merking orðanna sel, selstaða og seljabúskapur er ekki almennt þekkt í dag. Fæstir vita hvað felst í þessum orðum séu þeir undanskildir sem tilheyra elstu kynslóð landsins. Enn síður veit fólk hve mikilvægur þáttur selin voru í búskap þjóðarinnar. Í Íslenskri orðabók segir um sel: „útihús í högum langt frá bæjum þar sem búfénaður er látinn ganga á sumrin“ (2005:1259) og um selstöðu: „það að hafa búpening í seli > selstaða langt á fjöllum uppi“ (2005:1260). Samkvæmt þessum skilgreiningum ná orðin sel og selstaða ekki yfir nákvæmlega sama hlutinn heldur í raun yfir byggingar annars vegar (sel) og svæði eða jafnvel athafnir hins vegar (selstaða). Ljóst er að ekki er alltaf farið með þessi hugtök á þennan hátt en reynt verður að ganga hér í takt við ofangreindar skilgreiningar eins og hægt er. Í öllu falli voru sel/selstöður til þess fallin að fara þangað með búsmala – kindur og kýr – á sumrin. Þetta var gert til að koma skepnunum frá heimatúninu svo hægt væri að rækta það upp og slá um sumarið. Í selstöðunum voru hús sem hýstu þá sem þar dvöldu, eldhús, geymsla/búr og jafnvel fleiri rými. Víða er talað um að í seli hafi verið þrjú hús eða rými (sjá t.d. Hitzler 1979:72; Jónas Jónasson 1945:62). Auk þessara rýma gefur augaleið að líklegt er að flestar ef ekki allar selstöður hafi haft einhvers konar aðhald eða innrekstrarmannvirki til þess að halda utan um skepnurnar á meðan á mjöltum stóð. Í Búalögum frá 17. öld er talað um að þrjár konur eigi að vera í seli ef þar eru 80 mjólkandi ær og 12 kýr (Búalög 1915-33:34). Svipuð tala kemur fram víða en oft er einnig nefndur til sögunnar smali sem sjá skal um féð (sjá
t.d. Jónas Jónasson 1945:62).
Skýring hugtaka og orða
Selstaða: svæði þar sem seljabúskapur hefur farið fram. Getur verið eitt eða fleiri sel.
Sel: fornleifar í selstöðu sem eiga saman og mynda þar með eitt sel, þ.e. frá sama tíma, sama bæ o.s.frv. Skipting fornleifa á milli selja er yfirleitt byggð á túlkun fornleifanna á yfirborði.
Kvíarúst: einföld, aflöng rúst eða aflöng rúst með tveimur löngum rýmum samhliða notuð til mjalta.
Rúst/tóft/hús: fornleifar sem eru samfastar og hafa verið ein bygging.
Rými: hólf/herbergi innan rústar/tóftar/húss.
Aðföng: auðlindir í náttúrunni sem hægt hefur verið að nýta við hverja selstöðu.
Seljarannsóknir á Íslandi
Áhugi íslenskra fræðimanna á seljabúskap og minjum um hann virðist ekki hafa verið mikill fyrr en á síðustu áratugum 20. aldar. Ástæðan getur verið sú að seljabúskapurinn er víða nálægur í tíma en hann var við lýði fram undir og jafnvel fram á 20. öld sums staðar á landinu (m.a. Hólmgeir Þorsteinsson 1972). Þrátt fyrir að fornfræðingar og áhugamenn um fornminjar á Íslandi í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. færu víða um, skráðu og rannsökuðu virðast sel og seljabúskapur ekki hafa fangað áhuga þeirra. Líklega má að miklu leyti rekja það til stefnu þess tíma sem að mestu leyti snerist um að minjar sem tengdust Íslendingasögunum og gömlu handritunum væru þær sem vert væri að rannsaka. Sel og seljabúskapur voru yfirleitt ekki stór þáttur í hetjusögum fornaldar og hafa rannsóknir á þeim því ekki þótt spennandi kostur.
Á áttunda áratug 20. aldar fóru seljarannsóknir að fá byr í seglin og hefur vegur þeirra aukist mjög á síðustu 10-15 árum. Í raun má segja að seljarannsóknir séu í tísku og er líklegt að áhuga fræðimanna á seljum nú sé hægt að rekja til þess að vitundarvakning hefur orðið í að skrásetja minjar gamla bændasamfélagsins og vitneskju þar að lútandi áður en kynslóðin, sem nú gengur sín síðustu spor, hverfur alveg. Seljabúskapurinn er hluti af þessu gamla bændasamfélagi sem hverfur nú hratt. Fátt er ritað um seljabúskapinn, lítið eða nær ekkert af gripum tengdust honum sérstaklega þannig að ekki eru minjar hans geymdar á söfnum landsmanna. Víða er einnig svo langt síðan seljabúskapur lagðist af að elstu menn muna vart hvenær síðast var haft í seli, hvað þá hvar rústir seljanna er að finna. Vitneskjan er þó ekki alltaf svona gloppótt og þar sem seljabúskapur hélst lengst eru bæði til ritaðar og munnlegar heimildir fólks sem þekkti seljabúskapinn af eigin raun.
Egon Hitzler
Varla er hægt að byrja umræðu um rannsóknir á seljum án þess að minnast á doktorsritgerð Egon Hitzlers frá áttunda áratug síðustu aldar. Hitzler er þýskur fræðimaður sem dvaldist hér á landi sem sendikennari við Háskóla Íslands á árunum 1974-79. Rannsókn Hitzlers, sem unnin var á sjöunda og áttunda áratugnum, var sú fyrsta sem fjallaði nokkuð heildstætt um sel og seljabúskap á Íslandi. Ritgerðin var gefin út á þýsku og hefur ekki verið þýdd á íslensku þannig að innihald og niðurstöður hennar eru ekki öllum aðgengileg.
Rannsóknin er eitt fyrsta dæmið um rannsókn á seljum og seljabúskap þar sem ekki var einungis unnið með heimildir þótt þær væru stærsti hluti verkefnisins heldur voru einnig nokkur sel skoðuð á vettvangi. Þannig má segja að fyrsta fræðilega úttektin á seljum, sem gæti að einhverju leyti talist fornleifafræðileg, sé hluti af þessu doktorsverkefni.
Hitzler reynir í doktorsritgerð sinni að setja saman heildstæða mynd af seljabúskap á Íslandi og notar til þess mestmegnis ritaðar heimildir. Hann dregur margvíslegar ályktanir af þeim og m.a. kemst hann að því, eins og ýmsir aðrir, að selhúsin hafi verið þrjú (Hitzler 1979:72). Hitzler skoðar mismunandi hliðar seljabúskapar, s.s. mannvirki, skipulagningu, upphaf og endi, auk þess að skoða sel á ýmsum tímum út frá heimildum. Kafli VI í doktorsritgerð Hitzlers fjallar um vettvangsskoðun hans á meintum seljarústum í Sauðadal í Austur-Húnavatnssýslu. Með þeirri skoðun vildi hann reyna að svara því hvort seljabúskapur hefði eitthvað breyst á svæðinu á 18. og 19. öld, eða frá því að Jarðabók Árna og Páls var rituð (ibid.:188). Því svarar Hitzler játandi og kemst að þeirri niðurstöðu að breytingarnar hafi að mestu leyti byggst á breyttu eignarhaldi og þar af leiðandi skiptum á seljum og byggingu nýrra selja (ibid.:212).
Sveinbjörn Rafnsson
Árið 1990 kom út ritið Byggðaleifar í Hrafnkelsdal og á Brúardölum eftir Sveinbjörn Rafnsson. Í því er gerð grein fyrir rannsóknum sem fram fóru á 8. og 9. áratug síðustu aldar en þær miðuðu að því að skrá byggðaleifar og grafa í nokkrar þeirra til að reyna að varpa ljósi á byggðasögu svæðisins í samhengi við ritaðar heimildir.
Guðrún Sveinbjarnardóttir
Fyrsta alvöru fornleifarannsóknin á Íslandi, sem beint var að seljum að hluta eða öllu leyti, var rannsókn sem Guðrún Sveinbjarnardóttir vann fyrir doktorsritgerð sína, Farm abandonment in Medieval and Post-Medieval Iceland: an interdisciplinary study, á árunum 1979-1985. Í þeirri rannsókn skrásetti Guðrún eyðibýli, meint eyðibýli og sel á þremur stöðum á landinu: í þremur dölum í Berufirði, undir Eyjafjöllum og í Austur- og Vesturdal í Skagafirði. Auk þess að skrá staðina voru tekin borkjarnasýni og grafnar prufuholur á mörgum þeirra til að staðfesta að um mannvistarleifar væri að ræða sem og að kanna aldur og umfang rústanna sem þar var að finna. Gjóskulög voru notuð til aldursgreiningar þegar slíkt var mögulegt. Einnig voru gerðar fornvistfræðilegar rannsóknir á sýnum sem tekin voru á nokkrum rannsóknarstaðanna. Niðurstöður rannsóknarinnar setti Guðrún fram í áðurnefndri doktorsritgerð sinni en sá hluti gagnanna sem sneri að seljum kom þó lítið við sögu í ritgerðinni sjálfri. Aftur á móti birti Guðrún þær niðurstöður í grein sem kom út í Acta Archaeologica og nefnist
„Shielings in Iceland: an Archaeological and Historical survey“ (1991). Í greininni útlistar Guðrún sögulegan bakgrunn seljabúskapar á Íslandi í stuttu máli og gerir þar á eftir grein fyrir öllum þeim selstöðum sem hún skráði í rannsókn sinni. Þessi atriði voru skráð fyrir hverja selstöðu: stærð og lögun, staðsetning, heimabær, elstu heimildir og aldur, sem yfirleitt fékkst út frá heimildum, auk þess sem stundum er skráð lega, lýsing á ástandi rústar eða annað slíkt. Teikningar eru af mörgum seljanna en nær engar ljósmyndir.
Heilt á litið er það sem fram kemur í greininni nokkuð upplýsandi. Niðurstöður rannsóknarinnar eru ræddar stuttlega í lok greinarinnar og er hægt að draga þar fram nokkur aðalatriði. Guðrún telur að verulegar vísbendingar séu um seljabúskap á svæðunum þremur og að ekki hafi verið langt á milli selja og heimabæja (Guðrún Sveinbjarnardóttir 1991:91). Að sama skapi telur hún að norska módelið, að skipta seljum upp í tegundir eftir fjarlægð frá bæ og athöfnum í selinu (sjá Reinton 1976:28- 29), eigi ekki við á Íslandi (Guðrún Sveinbjarnardóttir 1991:91). Svæðin hafa öll að geyma nokkuð ungar seljaminjar og eru byggingar á stöðunum um 1-2 að meðaltali og fjöldi rýma um 3-4 (ibid.:91). Í sambandi við fjölda rýma nefnir Guðrún að líklegt sé að gamla hugmyndin um að þrjú rými í seljum hafi verið venjulegur fjöldi hafi ekki alltaf átt við rými í byggingu heldur vinnusvæði (en. activity areas) (ibid.:92). Ein helsta niðurstaða Guðrúnar er sú að sel hafi í fyrstu tíð verið staðsett nær bæjum en þau hafi síðan verið færð hærra upp í landslaginu (ibid.:92).
Þessi fyrsta rannsókn er að nokkru leyti brautryðjandaverk í skilningi íslenskra fornleifafræðinga á seljarústum en þarna er í fyrsta sinn komin skrá yfir seljarústir, einkenni þeirra, útlit og staðsetningu á ákveðnum svæðum. Niðurstöður greinarinnar gefa líka tóninn fyrir það sem á eftir kom í seljarannsóknum á Íslandi þótt fáir hafi tekið upp atriði eins og færslu selja frá láglendi hærra upp í landið og rými sem hugsanleg vinnusvæði í stað afmarkaðra, fastra húsrýma. Reyndar segir framarlega í greininni að
„Hingað til hafa engar fornleifafræðilegar vísbendingar um sel verið til frá neinu tímabili á Íslandi“ (Guðrún Sveinbjarnardóttir 1991:74 [þýð. höf.]). Þótt hægt sé að neita þessari staðhæfingu á grundvelli þess að vísbendingarnar hafi verið til í formi jarðfastra minja, það hafi bara enginn tekið sig til og túlkað þær, er það rétt að enginn fornleifafræðingur hafði fram að þessu nýtt sér sel sérstaklega sem efnivið í rannsóknir hér á landi.
Ragnheiður Traustadóttir
Rannsóknin í Urriðakoti er framkvæmdarannsókn vegna nýs íbúðahverfis við Urriðavatn í Garðabæ. Svæðið var skráð á árunum 2005-2006 og fóru eftir það fram forrannsóknir og heildaruppgröftur á minjum á hluta svæðisins á árunum 2007-2011. Bæjarstæði Urriðakots, bæjar sem er a.m.k. frá fyrri hluta 16. aldar, er stutt frá uppgraftarsvæðinu. Grafnar voru tvær rústaþyrpingar, yngri og eldri, og opnað á milli þeirra og nokkuð út fyrir rústirnar víða. Eldra svæðið er frá 10.-12. öld og samanstendur af litlum skála, fjósi, vinnsluhúsi og soðholu. Yngra svæðið, miðaldasvæðið, er frá því eftir 1226 með byggingu sem samanstendur af baðstofu, eldhúsi og sambyggðri baðstofu og búri og auk þess tilheyrir hugsanlega einnig skemma þessu skeiði. Ragnheiður Traustadóttir túlkar bæði skeiðin sem sel en þó eru ekki öll kurl komin til grafar í rannsókninni þar sem lokaskýrslu um hana hefur ekki verið skilað. Eldra selið telur Ragnheiður vera kúasel enda hefur fjósið rúmað 16-18 bása en skálinn er mjög lítill, aðeins um 12 m á lengd. Vinnsluhúsið er áfast fjósinu og er það nokkuð stórt, um 4×12-13 m. Ekkert eldstæði er í skálanum og gólflög eru mjög þunn.
Miðaldasvæðið er frá því eftir 1226 eins og sagði hér að ofan en Ragnheiður álítur þó að það hafi farið úr notkun á 14. öld.
Margrét Hrönn Hallmundsdóttir
Uppgröftur á svokölluðu Koti á Rangárvöllum hefur verið í gangi frá árinu 2008. Um er að ræða eina rúst, garðlag og aðhald við það og voru rústirnar skráðar árið 2005 og könnunarskurðir teknir árið 2006. Margrét segist hafa talið frá upphafi að um sel væri að ræða og að sú hugmynd hafi ekkert breyst þótt enn sé lítið vitað um starfsemi í húsinu.
Margrét Björk Magnúsdóttir
Seljarannsóknir Bjarkar í Reykjavík eru tvíþættar. Annars vegar er um að ræða samantekt og skráningu á seljum í Reykjavík (Margrét Björk Magnúsdóttir 2011a) og hins vegar er um að ræða könnunarrannsókn og aldursgreiningu nokkurra selja á Kjalarnesi (Margrét Björk Magnúsdóttir 2011b). Til grundvallar í fyrri hluta rannsóknarinnar voru lagðar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, örnefnaskrár og fleiri ritheimildir (Margrét Björk Magnúsdóttir 2011a:9). Innan borgarmarka Reykjavíkur er 81 jörð og voru sel og selstöður þeirra allra skráðar upp úr heimildum (ibid.:46) en hluti þeirra hafði þegar verið skráður á vettvangi. Auk heimildaskráningarinnar var leitað að nokkrum seljum sem ekki höfðu verið skráð á vettvangi áður á Kjalarnesi og greind ýmis atriði tengd þeim seljum sem skráð höfðu verið á vettvangi, þ.e. gamlar skráningar og nýjar, s.s. fjarlægð frá bæ í loftlínu, dýrleiki heimajarðanna, fjöldi húsa og rýma. Meðaltal húsa í vettvangsskráðum selstöðum er 1,42 hús og meðaltal rýma er 3. Meðalvegalengd frá bæ að seli er 8,6 km en algengustu fjarlægðirnar eru um 12 km, 7 km og 2 km (ibid.:46-47).
Smærri rannsóknir
Bjarni F. Einarsson/Fornleifafræðistofan ehf. – Hólasel í Eyjafirði, Fornasel í Straumsvík, sel við Úlfljótsvatn og sel á Síðuheiðum Hólasel í Eyjafirði.
Rannsókn í Fornaseli var afsprengi samvinnu Fornleifafræðistofunnar ehf. við Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar en selið er í landi Hafnarfjarðar. Á árunum 1999 og 2000 voru grafnar þrjár prufuholur í rannsóknarskyni í Fornasel, hver í sína rústina, en skráð voru þrjú hús og tveir stekkir á svæðinu. Holurnar voru grafnar í því skyni að reyna að fá sýni til C-14 kolefnisaldursgreiningar og kanna ástand fornleifanna á staðnum. Eitt C-14 sýni var greint og benda niðurstöður þess og keramik, sem fannst í sama lagi, til þess að lagið sé með 95% öryggi frá 1550-1630 (Bjarni F. Einarsson 2001:10). Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að líklega hafi verið haft í seli í Fornaseli allt frá um 1600 og fram á 19. öld. Húsin á staðnum virðast hafa verið endurbyggð að minnsta kosti þrisvar sinnum en ólíklegt er talið að öll hafi þau verið í notkun í einu eða að hlutverk þeirra hafi haldist óbreytt allan þann tíma. Ekkert rennandi vatn er á svæðinu en rigningarvatni hefur verið safnað í vatnsból fast við rústirnar (ibid.:12).
Haustið 2010 voru grafnar tvær prufuholur, hvor í sína rústina, í meint sel við Fossá við Úlfljótsvatn. Rústirnar fundust árið 2005 og þóttu fornlegar og áhugaverðar og styrkti Orkuveita Reykjavíkur umrædda rannsókn. Markmið rannsóknarinnar var að ná í sýni til C-14 kolefnisaldursgreiningar sem og gjóskulög, einnig til aldursgreiningar. Auk þess átti að kanna hvort hægt væri að lesa út úr gólflögum upplýsingar, t.d. um hvort húsið hafi verið mannabústaður eða ekki (Bjarni F. Einarsson 2011:5). Þrjár rústir voru skráðar á svæðinu 2005 og voru grafnar prufuholur í tvær þeirra eins og fyrr sagði. Eitt C-14 sýni, úr húsi 2, var aldursgreint og var niðurstaða greiningarinnar sú að sýnið væri með 95% öryggi frá 900-920 eða 960 – 1040 e. Kr. (ibid.:11). Af gjóskusýnunum er það að segja að svart lag, sem lá vel yfir gólfi húss 1, var greint sem Katla 1500 (ibid.:12) og er ljóst af því að húsið er yfirgefið einhverju áður en sú gjóska féll. Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að þarna hafi fólk hafst við um lengri eða skemmri tíma í lok 10. aldar eða í byrjun 11. aldar. Talið er hugsanlegt að ekki hafi einungis farið fram venjulegur seljabúskapur á staðnum heldur hafi mannvist við Fossá tengst auðlindum á svæðinu, s.s. slægjum og mýrarauða (ibid.:14-16).
BA og MA ritgerðir íslenskra fornleifafræðinema Auk ofantalinna rannsókna hafa fjórir íslenskir nemar í fornleifafræði skrifað lokaritgerðir, BA eða MA, sem fjallað hafa um eða komið hafa inn á sel á mismunandi hátt.
Albína Hulda Pálsdóttir – Segðu mér sögu af seli: Fornleifafræðileg úttekt á íslenskum seljum Í BA ritgerð sinni fjallar Albína um sel og seljabúskap á Íslandi. Hún fer yfir sagnfræðilegar heimildir viðkomandi seljum sem og fyrri rannsóknir, bæði íslenskar og norrænar. Hún kemur einnig inn á spurninguna hvernig hægt sé að þekkja sel frá öðrum fornleifum. Helstu fornleifafræðilegu nýjungar ritgerðarinnar liggja í greiningu á seljum sem skráð höfðu verið í Ísleifu, gagnagrunn Fornleifastofnunar Íslands ses., þegar ritgerðin var skrifuð. Þar leitaðist Albína við að skoða fjölda selja út frá heimilda- og vettvangsskráðum rústum en auk þess að athuga seljarústir gerðar- og landfræðilega út frá rústum sem skráðar höfðu verið á vettvangi. Aðallega var skoðaður fjöldi hólfa og flatarmál seljanna, fjöldi rústa, aðrar fornleifar tengdar seljunum, dýrleiki heimajarðar og stærð selja, vegalengd milli sels og bæjarhóls og staðsetningar í landslagi út frá hæð yfir sjávarmáli (Albína Hulda Pálsdóttir 2005:42-50). Helstu niðurstöður ritgerðarinnar eru að stærð og útlit selja er misjafnt (ibid.:51) en þó er fjöldi rústa yfirleitt 1-3 og fjöldi hólfa oftast 3 þótt meðalfjöldi sé 4,66 (ibid.:44). Sel virðast yfirleitt vera á jaðri hins byggilega hluta landslagsins, í tilfellum Norðaustur- og Suðurlands t.d. um 200 m/y.s. (ibid.:50-51), og að meðaltali eru um 2 km á milli sels og meints bæjarhóls heimajarðar í loftlínu (ibid.:50). Að lokum er vert að nefna að Albína telur að ekki sé hægt að þekkja sel frá öðrum minjum á einfaldan hátt og auk þess falli þær sagnfræðilegu heimildir, sem til eru um sel og seljabúskap, ágætlega að niðurstöðum sem fornleifafræðin hefur komist að (ibid.:51).
Ómar Smári Ármannsson – Sel og selstöður á Reykjanesskaganum – vestan Esju: Heimildir, fjöldi, staðsetning, gerð og aldur Í BA ritgerð sinni fjallar Ómar Smári um sel og selstöður á Reykjanesskaga, vestan Esju, bæði út frá sagnfræðilegum heimildum og vettvangsskoðun á fornleifum. Markmiðið með rannsókninni er að safna saman heimildum um sel og selstöður á þessu svæði, staðsetja þær, kanna fjölda þeirra, gerð mannvirkja, reyna að aldursgreina þær út frá heimildum og bera þær saman (Ómar Smári Ármannsson 2007:4). Aðaluppistaðan í ritgerðinni er upptalning á þeim seljum sem á svæðinu eru, sagnfræðilegar upplýsingar um þær og fornleifafræðilegar ef rústirnar hafa verið staðsettar á vettvangi. Eiginleg fornleifaskráning var ekki gerð á seljunum en yfirleitt fylgja myndir og jafnvel teikningar og gróf lýsing á rústunum og því sem á svæðinu er að finna. Selstöður á Reykjanesinu hafa sín sérkenni,t.d. nokkra hella, og víða eru selstígar sem enn eru mjög greinilegir (ibid.:183). Að öðru leyti má draga helstu niðurstöður ritgerðarinnar varðandi rústirnar saman í nokkur atriði: víða eru misgamlar tóftir (ibid.:181) og þar af leiðandi fleiri en ein kynslóð selja á staðnum, sum selin virðast færast nær bæjum með tímanum en önnur eru endurbyggð á sömu eða svipuðum slóðum (ibid.:195), þrískipt rými eru mjög algeng og seljarústirnar eru yfirleitt einfaldar og frekar litlar en þó virðast eldri rústir vera einfaldari, óreglulegri og minni (ibid.:196). Ómar Smári skoðar auk rústanna sjálfra hugsanlegar ástæður endaloka seljabúskapar í stuttu máli og setur fram nokkrar tillögur þar að lútandi.
Sædís Gunnarsdóttir – The transhumant landscape of Saurbæjarhreppur. A study of shielings, dependent farms and their locations in connection to the mother settlements.
Í MA ritgerð sinni fjallar Sædís um landslag búfjár og ferðir þess í landslaginu (en. transhumant landscape) og skoðar hún hvaða þættir móta þetta landslag. Aðalrannsóknarefni hennar eru bæir, hjáleigur og sel, staðsetningar þeirra í landslaginu og vinna með þær staðsetningar í GIS (Geometric information system). Viðfangsefnið var Saurbæjarhreppur í Eyjafirði og skoðaðir voru eftirfarandi þættir fyrir hvern og einn stað: staðsetning, hæð yfir sjávarmáli, halli svæðisins, næsti nágranni og fjarlægð á milli svæða. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að í raun sé enginn ákveðinn munur á staðsetningum bæja og hjáleiga en að sel séu hins vegar staðsett í öðrum hlutum landslagsins (Sædís Gunnarsdóttir 2002:[abstract]). Helsti munurinn á staðsetningu selja og hjáleiga er hæð yfir sjávarmáli og halli svæðisins, auk fjarlægðar frá bæ. Selin eru mun hærra í landslaginu þar sem meiri halli er og fjær bæ en hjáleigurnar (ibid.:53-56). Sædís bendir á að þennan mun á staðsetningum hjáleiga og selja mætti nýta til þess að greina á milli rústa sem ekki er vitað hvort eru sel eða hjáleigur (ibid.:[abstract]). Að öðru leyti eru niðurstöður rannsóknarinnar þær að það sé aðallega byggðamynstur sveitarinnar sem hafi áhrif á landslag búfjárins, auk aðgangs að beitarsvæðum í fjalllendi og virði jarðanna; stærri og eldri jarðir séu þannig oft með aðgang að fjalllendi þar sem sel þeirra eru staðsett en minni jarðir hafi sel nær bæjunum sjálfum (ibid.: [abstract]).
Stefán Ólafsson – Smávegis um rústaþyrpingar í Kelduhverfi.
MA ritgerð Stefáns fjallar ekki beinlínis um sel heldur flokkunarkerfi sem hann hefur þróað til þess að gera grein fyrir þeim minjastöðum í Kelduhverfi sem: a) hafa mjög líklega verið býli, b) hafa mögulega verið býli og c) hafa ólíklega verið býli. Flokkunarkerfið nýtir fjölda rústa og garðlög til að greina á milli mikillar eða lítillar búsetu og heilsárs- eða árstíðabundinnar búsetu. Enda þótt ritgerðin fjalli um þetta ákveðna efni þá kemur Stefán aðeins inn á sögu seljarannsókna (sjá Stefán Ólafsson 2012:21-23) þar sem hluti staða í gagnagrunninum, sem hann vinnur með, eru sel eða staðir skráðir sem sel. Stefán tekur saman helstu rannsóknir sem gerðar hafa verið á seljum en segir að lokum að rannsóknir, sem byggjast á því að staðsetja og greina seljarústir á yfirborði líkt og Guðrún Sveinbjarnardóttir gerði að hluta og verkefnið Seljabúskapur á norðanverðu Snæfellsnesi snýst um, hafi gefið óljósar niðurstöður og að „… þekking á seljum [sé] í raun jafn þokukennd og áður“ (ibid.:23).
Sel á öðrum vettvangi
Fyrir utan rannsóknir á seljum og seljabúskap á Íslandi og ritgerðir um sama efni hafa fornleifaskráningaskýrslur að geyma upplýsingar um sel og seljabúskap víða um land. Við venjubundna fornleifaskráningu getur fornleifafræðingur rekist á hvaða tegundir minja sem er, þar á meðal sel. Skráningar sem þessar beinast þó ekki að seljum sérstaklega og mun því ekki verða leitað fanga þar í þessari ritgerð. Auk þess hafa sel og seljabúskapur án efa vakið áhuga leikmanna og því er hægt að búast við einhverjir utan fornleifafræði hafi tekið saman upplýsingar um sel og seljabúskap og minjar þeirra á ákveðnum svæðum. Ekki verður leitast við að komast yfir slíkar samantektir þar sem ekki er um raunverulegar fornleifarannsóknir að ræða þótt þær geti án efa búið yfir upplýsingum sem gætu reynst áhugaverðar og merkilegar.
Hver er staða þekkingar á seljum í dag?
Þær fornleifafræðilegu rannsóknir sem gerðar hafa verið á seljum hingað til hafa veitt nokkra innsýn í sel og seljabúskap á Íslandi en þó er mörgum spurningum enn ósvarað. Helstu atriði, sem skoðuð hafa verið, eru rústirnar sjálfar, hæð þeirra yfir sjávarmáli, fjöldi húsa og rýma, fjarlægð frá bæ og dýrleiki heimajarða. Hugsanlegri notkun norska módelsins, þ.e. skiptingu selja í mjólkursel, aðfangasel, alsel og jafnvel heimasel, sumarsel og millisel (sjá Reinton 1969) hér á landi hefur verið velt upp af nokkrum rannsakendum en engin ákveðin afstaða virðist vera til notkunar þess hér á landi. Í flestum tilfellum er samstaða um að í seli séu þrjú hús/rými og oftast kvíar eða annað aðhald auk þess. Þau eru oftast fjarri bæjum, nálægt góðum beitarhögum og ám/lækjum þótt til séu undantekningar á því eins og öðru. Seljarústir eru yfirleitt í smærri kantinum og er gengið út frá því að í seljum sé að jafnaði ekki mikil mannvistaruppsöfnun þannig að bæjarhólar og aðrir slíkir mannvistarhólar finnast þar yfirleitt ekki. Margir nota túngarða sem breytu þegar verið er að áætla hvort um sel eða bæ er að ræða og þá er reglan sú að við sel séu ekki túngarðar.
Uppgröftur á seljum hefur gefið meiri og ítarlegri upplýsingar varðandi starfsemina þar en til voru áður og eru vísbendingar um að mun fleira hafi farið fram í þeim en hinn hefðbundni mjólkurbúskapur sem þekktur er frá seinni öldum (sjá t.d. umfjöllun um Pálstóftir hér að framan). Hugmyndinni um að fleiri auðlindir en beit og mjólkurvinnsla hafi verið nýttar á meðan á seljatímanum stóð hefur verið velt upp í sumum rannsóknanna en lítið hefur verið fjallað um í hve miklum mæli nýting á auðlindum gæti hafa verið, t.d. hvort mjólkurvinnslan hafi verið stærsti hlutinn eða hvort nýting annarra auðlinda hafi gegnt stærra hlutverki en hingað til hefur verið talið. Hér spilar líka tíminn inn í og það verður að segjast að allt of fáir hafa velt því upp í alvöru hvort seljabúskapur hafi breyst í tímans rás.
Í tengslum við þetta má líka benda á að ekki er alltaf gerður nægilegur greinarmunur á kynslóðum þeirra selja sem verið er að vinna með í rannsóknum. Það skiptir máli hvort rústir, sem verið er að rannsaka, eru frá sama tíma eða ekki. Ef t.d. 12 rústir eru í selstöðu þá getur verið um fleiri en eina og fleiri en tvær kynslóðir selja að ræða. Ekki er nóg að skrá mikinn fjölda selja og segja að tölfræðilega séu mörg sel á vissum stöðum (sjá t.d. aftast í Guðrún Sveinbjarnardóttir 2011) án þess að meta hvort um mismunandi kynslóðir er að ræða. Slíkar alhæfingar eru í líkingu við það að segja að á vissu svæði séu mörg eyðibýli en gera ekki greinarmun á eyðibýlum frá 11. og 19. öld. Að sama skapi þarf að skoða þann möguleika að margir bæir hafi notað sama selið eins og Birna Lárusdóttir hefur rætt um að hugsanlega hafi átt sér stað í Reykjahverfi í Norðurþingi (Birna Lárusdóttir 2006:61).
Að síðustu er sláandi hve fáir hafa fjallað um mun á seljum milli sveita, t.d. staðsetningu þeirra og rústunum sjálfum. Staðarval er greinilega mjög breytilegt eftir landsvæðum en athygli rannsakenda hefur aðallega beinst að því að skoða staðsetningu með tilliti til hæðar yfir sjávarmáli. Ljóst er að landslag hvers svæðis hlýtur að hafa mikil áhrif á staðarval en fleira þarf þó að skoða og bera saman á milli svæða. Er það bara landslagið sem hefur áhrif á staðsetningu seljanna? Er húsagerðin mismunandi? Er hún mismunandi á ákveðnum tímum eða hefur hún alltaf verið það? Eru sömu auðlindir nýttar í sama magni? Eru ákveðnar byggingar tengdar ákveðnum athöfnum bara að finna á sérstökum svæðum? Þannig mætti lengi telja. Rannsakendur þurfa að viðurkenna að það er munur á milli svæða og að mínu mati er ógerningur að alhæfa á landsvísu margt sem viðkemur seljum. Ýmsir þættir tengjast án efa á milli svæða eða yfir landið allt, t.d. gæti hluti ástæðunnar fyrir því af hverju seljabúskapur leggst af í síðasta lagi í byrjun 20. aldar átt við allt landið eða stór landsvæði. En ég tel að í fæstum tilvikum sé hægt að alhæfa um sel og seljabúskap á stórum landsvæðum þar sem landslag er mjög ólíkt.
Auðvitað þarf mun fleiri og viðameiri rannsóknir á seljum og seljabúskap til að svara ofangreindum spurningum, auk annarra, t.d. varðandi upphaf og endalok seljabúskapar, áhrif hans á samfélagið og stöðu þeirra sem í seljunum voru en ég tel þó mikilvægt að fræðimenn fari að velta þeim upp í rólegheitum. Fleiri rannsóknir munu án efa verða gerðar á næstu árum enda eru sel í tísku um þessar mundir sem rannsóknarefni. Væntanlega mun með hverri rannsókn safnast ný þekking í sarpinn enda eigum við enn margt ólært um sel og seljabúskap á Íslandi í tíma og rúmi.
Seljarannsóknir á Norðurlöndum á síðustu árum
Sel hafa ekki einungis verið rannsökuð á Íslandi á síðustu áratugum heldur einnig á hinum Norðurlöndunum en seljabúskapur er einmitt landnýtingarform sem barst að öllum líkindum hingað til lands með landnámsmönnunum. Ein umtalaðasta seljarannsókn Norðurlanda er rannsókn Reintons, norsks sagnfræðings, (sjá Reinton 1969) þar sem hann setti fram hugmyndir sínar um mismunandi gerðir selja í Noregi (nefnt norska módelið hér að framan og eftirleiðis). Samkvæmt Reinton eru í Noregi til þrjár yfirgerðir selja: heimasel, millisel og fjar- eða fjallsel, tvö hin síðarnefndu einnig nefnd sumarsel. Heimaselin voru oft stoppistöðvar á leið í sumarselin (Reinton 1969:25- 28). Hver bær gat haft fleiri en eina gerð sels. Undir yfirgerðunum þremur eru síðan undirgerðir sem ráðast að mestu leyti af landslagi hvers svæðis fyrir sig og eru þær þrjár helstu alsel, mjólkursel og sláttusel. Nöfn undirseljanna skýra sig að nokkru leyti sjálf. Alselin voru algengust og þannig nýtt að verið var þar allt sumarið og afurðir ekki fluttar heim á bæ fyrr en um haustið. Margs konar verk voru unnin í selinu, ekki bara tengd búsmala heldur einnig nýting á auðlindum í nágrenninu. Í mjólkurseljum var aðaláherslan á mjaltir ánna og var mjólkin yfirleitt flutt heim og unnin áfram þar. Sláttuselin höfðu það hlutverk helst að safna heyi til vetrarfóðurs. Sel af þessari gerð virðast ekki hafa verið algeng víða en nýting sláttu- og mjólkurselja hefur verið takmarkaðri en nýting alselja (ibid.: 28-29). Þótt rannsóknir Reintons eigi við miðaldir þá voru sel til í Noregi á víkingatímanum þegar land er numið á Íslandi og enn hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að nýting á beitarlandi hafi breyst mikið frá 800 til 1350 e. Kr. þótt selhúsin hafi örlítið breytt um svip (Øye og Myhre 2002:372-3). Þannig er allt eins líklegt að seljagerðir Reintons geti átt sér stoð í raunveruleikanum allt aftur á víkingaöld.
Á Grænlandi hafa einnig farið fram rannsóknir á seljum og var gróðurfar selstöðu í Vatnahverfi í Eystribyggð rannsakað nýlega með frjókorna- rannsóknum og tengdum aðferðum. Þannig var uppbygging selsins tímasett og áhrif þess á vistkerfið skoðuð auk þess sem breytingar á landnýtingu í selstöðunni voru greinanlegar í frjókornaritum (sjá Ledger et al. 2013). Að ákveðnu leyti byggist umræða rannsóknarinnar á rannsókn Albrethsens og Kellers sem birt var 1986 (sjá Albrethsen og Keller 1986) en þeir kortlögðu mögulegar seljarústir við Eiríksfjörð í Eystribyggð og ræddu m.a. tengsl rústanna við norska módelið sem nefnt var hér að framan. Selið, sem Ledger og félagar rannsökuðu, var sett á laggirnar um 1050-1150 og verður greinileg aukning á landnýtingu þannig að farið er að slá meira og safna heyi um 1225-1325. Höfundar telja það benda til þess að starfsemi selsins hafi breyst í þá átt að slá og safna vetrarfóðri á meðan beit hafi jafnvel verið færð fjær selinu eða að selstaðan hafi einfaldlega þróast yfir í býli (Ledger et al. 2013:819).
Sel og seljabúskapur
Þótt fornleifarannsóknir á seljum hafi gefið af sér nýjar upplýsingar, sumar sem ýtt hafa undir nýja hugsun varðandi sel og seljabúskap, eru þó enn mörg göt í þekkingunni sem mikilvægt er að fylla í með fleiri og víðtækari rannsóknum. Seljarannsóknir á Íslandi hafa víða gefið upplýsingar um aldur seljanna og jafnvel að einhverju leyti umfang búskaparins í þeim. Hafa margar rannsóknanna hingað til verið uppgreftir af mismunandi stærðum og eru prufuholurannsóknir algengastar. Slíkar rannsóknir gefa þó alltaf takmarkaða niðurstöðu eins og gefur að skilja og er því varla hægt að gera ráð fyrir að annað komi út úr þeim en aldur og eðli rústanna. Undantekningin á þessu er ef tekin eru sýni til annars konar rannsókna, s.s. frjókorna- og skordýrarannsókna, líkt og gert hefur verið í rannsóknum á seljum Reykholts. Færri seljarannsóknir hafa grundvallast á fornleifaskráningu en slíkar rannsóknir hafa það fram yfir uppgraftarrannsóknir að hægt er að rannsaka minjar á stærra svæði og fá þannig yfirlit yfir heilar sveitir eða aðrar ákjósanlegar einingar eins og gert hefur verið í verkefninu Seljabúskapur á norðanverðu Snæfellsnesi. Hins vegar getur verið erfiðara að aldursgreina rústir með nokkurri nákvæmni eða gera sér grein fyrir hvað fram hefur farið á staðnum þegar um skráningarrannsóknir er að ræða. Það er því ljóst að mismunandi rannsóknaraðferðir gefa af sér ólík gögn og hefur hver aðferð sína kosti og galla.
Mestum upplýsingum hefur hingað til verið safnað um aldur selja, fjölda rústa og rýma í seljum, hæð yfir sjávarmáli, dýrleika jarða og fjarlægð frá bæ. Slíkar upplýsingar eru góðar og gildar og gefa t.a.m. hugmynd um tengsl jarðastærða við seljabúskap, áhrif landslags á staðsetningar selja og umfang seljabúskaparins út frá rústum seljanna. Hins vegar hefur sjaldan verið fjallað um mannlega þætti seljabúskaparins, þ.e. hvaða fólk var í seljum og hver staða þess var, eða breytileika seljabúskaparins. Það er nefnilega svo eins og fram kom í fyrsta hluta þessarar ritgerðar að gætt hefur hugmynda um ákveðna einsleitni í seljabúskap á Íslandi og hvort sem það er orsök eða afleiðing þess að selin eru oft ekki skoðuð í tengslum við samhengi þeirra, hvort sem er landslag, efnahag eða samfélag, þá er ljóst að þetta er eitt vandamála seljarannsókna á Íslandi – það gleymist að setja selin í samhengi og gera ráð fyrir mismun og margbreytileika seljabúskaparins.
Seljabúskapur var hluti af flóknu samfélags- og efnahagslegu kerfi sem tekið hefur mið af þörfum samfélagsins en einnig hvers bæjar fyrir sig á hverjum tíma. Því er mikilvægt að skoða seljabúskap í tengslum við samhengi hans á hverju svæði fyrir sig. Einungis með því er hægt að fá innsýn inn í hvaða hlutverki þetta búskaparform gegndi og hvaða þættir höfu helst áhrif á það. Þótt grunnhugmyndin á bakvið seljabúskapinn virðist hafa verið sú sama á landsvísu benda rannsóknir eins og sú á Pálstóftum til þess að vinnsla í seljum hafi að einhverju leyti tekið mið af umhverfinu og þeim auðlindum sem í því voru. Rannsóknir á þessum þætti seljabúskapar gætu að mínu mati hjálpað til við að varpa ljósi á fjölbreytileika hans á Íslandi. Enn vantar þó meiri raungögn um seljabúskap á mismunandi svæðum til þess að hægt sé að skoða hvaða þættir voru ólíkir og hvaða þættir voru líkir í seljabúskap á Íslandi og hvað í samhengi seljanna hafi valdið þessum breytileika.
Sel á Íslandi – eðli og umfang
Seljabúskapur er æði gamalt fyrirbæri á Íslandi þótt skilningur á hugtakinu og því sem það stendur fyrir minnki með hverri kynslóð og trúlega hafa fæstir þeirra, sem fæddir eru á seinustu áratugum 20. aldar eða seinna, nokkra þekkingu á því. Ljóst er þó að seljabúskapur hefur haft stóru hlutverki að gegna í landbúnaði og þar með afkomu Íslendinga og er því vert að rannsaka fyrirbærið nánar. Í umræðunni hér á eftir verður leitast við að skoða ýmis atriði tengd seljabúskapnum, allt frá upphafi hans til endaloka. Farið verður yfir umfang hans og eðli, kjarna hans og aðra mögulega starfsemi í seljunum samhliða kjarnanum og að lokum verður seljahugtakið sjálft skoðað.
Upphaf og eðli
Seljabúskapur er talinn hafa komið með landnámsmönnunum til Íslands (m.a. Jakob Benediktsson 1972:718) og hugsanlegt er að hann hafi hafist strax í upphafi byggðar. Í Landnámabók er sagt frá landnámsmanninum Birni austræna í Bjarnarhöfn í Helgafellssveit en hann er sagður hafa haft „selför upp til Selja“ (Íslendinga sögur I:72). Vísbendingu um eina aðra selför er að finna í Landnámu en þar er Geirmundur heljarskinn sagður hafa haft selför í Bitru (ibid.:93). Íslendingasögurnar segja einnig frá selförum sögupersóna og ber þar helst að nefna frásagnir í Hrafnkels sögu Freysgoða (Íslendinga sögur X:83-87), Laxdæla sögu (Íslendinga sögur IV:97,169-170), Vatnsdæla sögu (Íslendinga sögur VII:101-103), Grettis sögu Ásmundarsonar (Íslendinga sögur VI:93,166-169) og Hallfreðar sögu vandræðaskálds (Íslendinga sögur VII:169). Erfitt er þó að meta sannleiksgildi þessara frásagna þegar kemur að því að reyna að átta sig á aldri seljabúskapar á Íslandi og eðli hans í upphafi. Líklegt verður þó að telja að seljabúskapurinn hafi í fyrstu fylgt norskum hefðum enda hafi hann verið hluti af landbúnaði Noregs í langan tíma fyrir landnám Íslands. Þó má gera ráð fyrir ákveðinni aðlögun búskaparformsins að umhverfinu á Íslandi, bæði landslagi og samfélagi. Elsta heimild um seljabúskap í Íslenzku fornbréfasafni er frá því 1140 (ÍF I:180) en þótt víða séu selfarir nefndar í safninu eftir það fylgja sjaldnast meiri upplýsingar en að ákveðinn bær eða kirkja eigi selför á tilteknum stað.
Áhugavert er að velta upp þeirri staðreynd að sé farið í gamlar heimildir, s.s. Íslenzkt fornbréfasafn, þá er hugtakið selför helst notað í tengslum við seljabúskap. Hins vegar er mun algengara í yngri heimildum að talað sé um selstöður. Til að mynda er orðið selstaða notað í Jarðabókinni og er það mun algengara en selför, í það minnsta í skrifum um Hnappadals- og Snæfellsnessýslu. Að sama skapi eru orðin sel og selför notuð í Grágás (2001:319-320) en sætur og setur í Jónsbók (2004:186,198) og má líklega rekja þá orðnotkun til norskra lagabálka. Þessi breyting á orðnotkun ein og sér vekur forvitni og er vert að velta því fyrir sér hvort einungis er um breytt orðaval að ræða í tímans rás sem þýði í raun ekki neitt eða hvort breyting hafi orðið á seljabúskapnum, hugsanlega á landsvísu þar sem ekki ekki virðist endilega vera landsvæðamunur á notkun þessara orða, hvort heldur er á eðli búskaparháttanna eða framkvæmd.
Þessari spurningu verður ekki svarað hér en mig langar þó að benda á tengingu sem orðin selstaða og selstöð hafa vissulega við orðið verstöð. Bendir orðnotkunin til ákveðinnar vinnslueiningar og þess að selstaðan sé útstöð frá sínum heimabæ (sjá t.d. umfjöllun um útstöðvar og sel sem útstöð í Bjarni F. Einarsson og Sindri Ellertsson Csillag 2010:129,135-137). Þannig er selstaðan efnahagsleg eining innan býlisins og gegnir ákveðnu hlutverki í örheimi (en. micro-cosmos) býlisins. Þótt staðreyndin virðist vera sú að orðið selför hafi verið notað á fyrstu öldum en síðar selstöður í meira mæli yfir þessa búskaparhætti er ekki þar með sagt að tilvist seljabúskaparins sem efnahagsleg eining og útstöð hafi breyst í eðli sínu. Hins vegar er hægt að velta því upp hvort seljabúskapur hafi í upphafi verið stundaður meira af menningarlegum og jafnvel pólitískum ástæðum en brýnni þörf og hvort breytt orðaval geti stafað af meiri efnahaglsegum ávinningi af seljabúskapnum á seinni öldum og mikilvægi hans að því leyti – hann hafi þannig verið sambærilegur við verstöðvar.
Vísbendingar eru um að seljabúskapur hafi ekki verið stöðugur í gegnum aldirnar heldur hafi hann víða lagst af um tíma á ákveðnum stað og síðan verið tekinn upp aftur, jafnvel áratugum ef ekki öldum seinna. Ástæður þessa eru óljósar en í Íslenzku fornbréfasafni má lesa um deilur manna í millum vegna þess að aðili hefur hafið seljabúskap á gamalli selstöðu sem hann ekki hefur notkunarleyfi fyrir (t.d. ÍF V:365). Ljóst er að fyrst óvissa var um hver ætti tilgreinda selstöðu hlýtur annaðhvort að vera að endurnýjun hafi verið slík á svæðinu að upplýsingarnar hafi glatast eða þá að svo langur tími sé liðinn frá því síðast var haft í seli á viðkomandi stað að vitneskjan um selstöðurnar sé við það að glatast. Af þessu að dæma, sem og skráðum fornleifum auk aldursgreininga líkt og í Þórsárdalsseli sem fjallað var um í II. hluta ritgerðarinnar, er ljóst að víða eru nokkrar, jafnvel margar, kynslóðir selja á sama stað. Þær geta verið til komnar af því að nýjar byggingar voru reistar á stöðugum selstöðum þegar þurfa þótti eða vegna þess að gamlar selstöður voru teknar aftur í notkun og nýjar byggingar byggðar í stað þess að lappa upp á þær sem fyrir voru. Þannig geta sýnilegar kynslóðir selja verið bæði dæmi um samfellu (en. continuity) í seljabúskap en einnig rof (en. discontinuity).
Sums staðar hafa bæir og/eða kirkjur átt fleiri en eina selstöðu. Sést þetta í Íslenzku fornbréfasafni þar sem t.a.m. Grenjaðarstaðarkirkja í Suður-Þingeyjarsýslu á tvö sel; selför til Kringluvatns og hálfa selför „í skarði uppi“ (ÍF II:431). Ekki er ljóst hvort um mismunandi tegundir selja hefur verið að ræða eða hvort búsmalanum hefur einfaldlega verið skipt upp til að nýta betur landið eða vegna landþrengsla í selstöðunum. Annar möguleiki er einnig að selstöðurnar hafi ekki verið nýttar samtímis heldur til skiptis. Ástæðuna fyrir slíkri nýtingu er erfitt að sjá en mögulega hefur það verið vegna viðkvæms gróðurs eða nýtingar ákveðinna auðlinda í hvorri selstöðunni fyrir sig. Í Noregi var þekkt að bæir ættu fleiri en eitt sel og flyttu sig á milli þeirra á ákveðinn hátt sem bundinn var í hefðir (Myhre og Øye 2002:370). Engar vísbendingar eru þó enn um að þetta hafi verið gert hér á landi.
Í rannsóknum Guðrúnar Sveinbjarnardóttur á seljum Reykholts í Borgarfirði hefur þó komið í ljós að staðurinn átti fleiri en eitt sel. Var eitt þeirra, Faxadalur, í notkun líklega allt frá 11./12. öld og fram á þá 19. Engar vísbendingar var að finna um að selið hefði nokkurn tíma lagst af á þessu tímabili. Tvö önnur sel Reykholts hafa verið rannsökuð, Reykholtssel og Norðurtungusel, en þau voru ekki í notkun á sama tíma og virðist Norðurtungusel hafa verið leigt út á seinni öldum en seljabúskap þar lauk ekki fyrr en um miðja 19. öld. Ekki er ljóst hvers vegna Reykholt hafði í seli að því er virðist á tveimur stöðum í einu og engar vísbendingar fundust um ólíka starfsemi á stöðunum (Guðrún Sveinbjarnardóttir og Egill Erlendsson 2012).
Umfang seljabúskapar
Af ofangreindri umræðu má sjá að varla er hægt að búast við því að seljabúskapur á Íslandi hafi verið byggður á landlægu kerfi sem var eins alls staðar, bæði í framkvæmd og eðli. Án efa hefur umfang seljabúskaparins verið mismunandi, svo sem áherslur, staðsetningar og annað. Erfitt er að áætla umfang hans á hverjum stað út frá fornleifum, hve margir voru í selinu á hverjum tíma og hve mikið var gert þar, nema með uppgrefti á þeim í heild sinni. Út frá rústum á yfirborði er hugsanlega hægt að meta hvort húsin þykja lítil eða stór, mörg eða fá, og draga þannig ályktanir varðandi umsvif á staðnum en slíkar ályktanir eru þó einungis getgátur sem dregnar eru upp í ljósi þeirra staðreynda sem fyrir hendi eru.
Heimildir um seljabúskap í Íslenzku fornbréfasafni eru margar en þó ekki margvíslegar. Oft er einungis sagt að umtalaður bær eða kirkja eigi selför á ákveðnum stað og síðan ekki söguna meir. Þó er hægt að lesa út úr öllum færslunum í heild að selfarir hafa verið mikilvæg ítök, líkt og skógarhögg eða reki, og að seljabúskapur virðist ekki hafa verið stöðugur alls staðar heldur hafa sel fallið úr notkun og síðan verið tekin í notkun á ný eins og nefnt var hér að framan. Í Fornbréfasafninu er nefnt að farið hafi verið með kindur, kýr, hross og jafnvel geitur í sel (t.d. ÍF III:566,621; ÍF V:266). Hrossin eru þarna líklega vinnudýr, m.a. til að flytja heim á bæ afurðir sem framleiddar voru í selinu en ólíklegt verður að teljast að hryssur hafi verið færðar í sel til mjalta eins og annar búsmali þótt neysla kaplamjólkur sé þekkt.
Benedikt Eyþórsson sagnfræðingur kom inn á seljabúskap í meistararitgerð sinni um búskap og rekstur í Reykholti (Benedikt Eyþórsson 2008:117-129). Fjallar hann um seljabúskap og eðli hans út frá Íslendingasögunum og öðrum heimildum og kemst að þeirri niðurstöðu að tvö kerfi seljabúskapar hafi tíðkast á Íslandi: 1) fámennar selfarir þar sem aðaláhersla var á beit og mjólkurvinnslu og 2) fjölmennar selfarir þar sem meirihluti fólks á bænum fór í selið og vann þar fleiri störf en þau sem viðkomu beit og mjólkurvinnslu. Telur Benedikt þetta kerfi líkjast fulseterbruk (ís. alsel) kerfinu í Noregi og að kerfin tvö hafi verið notuð hér á landi þegar á miðöldum (ibid.:128). Verð ég að segja að mér finnst að þær vísbendingar fyrir tvöföldu kerfi í seljabúskapnum allt frá upphafi seljabúskapar og a.m.k. fram á 17. öld, sem Benedikt dregur fram, beri að taka alvarlega. Þó verð ég að slá varnagla við frásagnir í annálum um selfarir á 17. öld sem hægt er að túlka bæði sem fjölmennar selfarir en einnig þannig að heimilisfólk hafi verið í heimsókn í selinu. Í báðum tilfellum brenna heimabæirnir og allt fólk bjargast því það er í seli (Annálar 1922-1927:209,242-243) en bæjarbruni fær mann til að velta því fyrir sér hvort fólk hafi ekki einungis brugðið sér af bæ í stuttan tíma. Myndi fólk skilja eftir glóð eða annað sem gæti valdið brunahættu ef það væri að fara af bæ til lengri tíma? Þótt síðari tíma hugmyndir um seljabúskap séu að mestu leyti byggðar á hugmyndum um fámennar selfarir, sauðfé og mjólkurvinnslu þá er næsta víst að þessi hugmynd á ekki við um öll sel í gegnum alla Íslandssöguna og líklegast er að hugmyndir þessar séu sprottnar upp úr frásögnum fólks sem síðast var í seljunum (sbr. t.d. Bragi Sigurjónsson 1953:253-255 og Hólmgeir Þorsteinsson 1972, þótt báðir tali þeir einnig um kýr í selinu) auk frásagna fræðimanna eins og Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili. Segir Jónas að í seli hafi einungis verið ein selráðskona og smali en ef fé var margt hafi selráðskonan tekið með sér eina eða tvær unglingsstúlkur til viðbótar (Jónas Jónasson 1945:62). Gera verður ráð fyrir að hafi seljabúskapur borist strax með fyrstu landnámsmönnum og síðan áfram með þeim sem seinna komu þá hafi hann ekki verið einsleitur heldur jafnvel hver gert hlutina á þann hátt sem hann þekkti og vildi. Þannig er mögulegt að seljabúskapur hafi með tímanum þróast yfir í tvöfalt kerfi sem þótti henta íslensku samfélagi.
Segja má að það sem fram kemur í Íslenzku fornbréfasafni um seljabúskap stangist ekki á við hugmyndir Benedikts um tvöfalt kerfi í seljabúskap á Íslandi. Þó ýtir það frekar undir hugmyndir um fámennari selfarir þar sem hvergi er fjallað greinilega um stórtækari selfarir eða starfa í seljunum. Ekki er þó öll sagan sögð með rituðum heimildum og er Íslenzkt fornbréfasafn auðvitað einungis safn bréfa sem varðveist hafa og ómögulegt að segja hvað hefur staðið í bréfum sem glötuð eru. Að sama skapi eru allar hugmyndir okkar um seljabúskap á Íslandi byggðar á götóttum heimildum fyrri alda og orðmörgum lýsingum seinni alda selfara. Hér þyrfti fornleifafræðin að koma til skjalanna og hjálpa til við að stoppa í götin og reyna að varpa frekara ljósi á umfang seljabúskapar og starfann í seljunum.
Fornleifafræðilega séð er kenningin um tvöfalt kerfi í seljabúskapnum vandkvæðum háð því óljóst er hvort og hvernig hægt er að greina slíkt kerfi í fornleifunum. Líklegt er að bæði fámennar og fjölmennar selfarir hafi skilið eftir sig minjar þar sem selja- búskapurinn virðist alltaf hafa kallað á að hafa kvíar/aðhald og geymslu og/eða vinnslurými. Hér verður því gengið út frá að minni selfarirnar sjáist glöggt í fornleifunum og möguleikinn á fámennum selförum sem eru ósýnilegar í fornleifafræðilegu tilliti útilokaður. Slíkar athafnir, þ.e. mjaltir og meðhöndlun búsmala þar sem engar varanlegar byggingar eru, kýs ég að kalla ekki seljabúskap. Sé litið á gögn sem safnað var í verkefninu Seljabúskapur á norðanverðu Snæfellsnesi er ljóst að erfitt er að greina vísbendingar um fámennar selfarir annars vegar og fjölmennar hins vegar. Helsta ástæða þessa er að með yfirborðsskráningu er ekki hægt að staðfesta hvaða rými seljanna voru íverurými selfólksins. Í sumum seljunum, s.s. Grundarseli í Eyrarsveit (sjá mynd 9), eru rústirnar fáar og ekki mjög stórar og gefur það þá tilfinningu að ekki hafi margir dvalið í selinu. Hér kemur þá upp spurningin um hvort einhver hluti selfólksins, sem kannski hefur dvalið í selinu tímabundið við ákveðin störf, hafi hafst við í mannvirkjum sem nú eru horfin af yfirborði. Það væru þá helst tjöld, sem gætu hafa verið með hlöðnum grunni eða slíku. Hugmynd þessari er þó einungis kastað hér fram án frekari vísbendinga um að notkun tjalda í seljum hafi tíðkast.
Annar möguleiki varðandi fjölmennar selfarir er einnig sá að einhver hluti fólksins hafi farið fram og til baka yfir daginn og einungis lítill hluti selfólksins hafst við í selinu yfir nóttina. Slíkan möguleika þarf þó að skoða í tengslum við hvert sel fyrir sig með tilliti til fjarlægðar frá bæ og aðgengis að selinu. Í sumum seljum eru rústir þó fleiri og/eða með stærri rýmum og er það vísbending um fjölmennari selfarir þar sem fólk dvaldi allt í selhúsunum. Sem dæmi um slíkt má nefna Svelgsársel neðra í Helgafellssveit (sjá mynd 10) en þar eru þrjú rými sem gætu komið til greina sem íverurými og gætu einhver þeirra jafnvel verið samtíða. Nálægt því seli fannst einnig heystæði sem hugsanlega hefur verið heyjað í á seltímanum.
Þegar litið er á fornleifarnar virðast ekki forsendur fyrir að skipta selstöðunum í Helgafells- og Eyrarsveit í tvo hópa, fámennar og fjölmennar selfarir, og í reynd má spyrja hvort nokkuð vinnst með slíkum bókhaldsæfingum. Upplýsingar um fjölda fólks í seljum eru áhugaverðar og geta gefið hugmynd um hve mikil framleiðni selsins var og hve mikið af auðlindum í nágrenni þess gætu hafa verið nýttar en það segir þó ekki alla söguna. Ekki er mikilvægast að skoða hve margt var í seljunum hverju sinni heldur frekar hver tilgangur og áhrif seljanna voru í efnahagslegum og samfélagslegum skilningi. Til er frásögn af ferðalangi á fyrri hluta 19. aldar sem er á ferð nálægt seli Þorlákshafnar sunnan við Hellisheiði og kemur þar við til að fá sér að drekka því hann er þyrstur og sér reyk í selinu (Skúli Helgason 1963). Þannig er líklegt að í seljunum hafi ekki óviðkomandi verið bannaður aðgangur heldur hafi þau verið vinnslustöð og dvalarstaður fólks þar sem gestir og gangandi voru velkomnir. Aðrar seinni tíma frásagnir segja einnig frá gestakomum í selin, sérstaklega um helgar, og var þá oft glatt á hjalla (Bragi Sigurjónsson 1953:254; Hólmgeir Þorsteinsson 1972:143). Ekki síður væri mikilvægt að rannsaka stöðu þeirra sem í seljunum voru, ekki bara hve margir voru þar heldur hverjir. Var selfólkið eingöngu hraust vinnufólk á góðum aldri eða fóru húsbændur í selin líka? Voru liðléttingar skildir eftir heima á bæ ef margir fóru í sel eða var þeim einnig fengin vinna þar?
Hvað fór fram í seljum?
Eins og fram hefur komið hér að framan snýst grunnhugmyndin um seljabúskap á Íslandi um beit búpenings, mjaltir og mjólkurvinnslu í seljunum. Fólk dvaldist í seljunum frá fráfærum á vorin og fram eftir sumri og voru afurðirnar, sem til urðu í selinu, fluttar heim á bæ með reglulegu millibili (Jónas Jónasson 1945:62-63). Nauðsynlegt var að hafa aðgang að vatni til þess að þrífa ílátin, sem nota þurfti við mjólkurvinnsluna, auk þess sem íveruhús, eldhús og geymsluhús voru talin hinn venjulegi húsakostur í seljum (m.a. Jónas Jónasson 1945:62).
Því hefur verið haldið fram að í seljum hafi ekki verið eldstæði, heldur sé slíkt vísbending um heilsársbúsetu: „Mér finnst ólíklegt að seljafólk hafi ómakað sig á að halda eldi lifandi í húsum sínum yfir hásumarið“ (Gunnar Karlsson 2009:107) eru orð sem Gunnar Karlsson hafði um eldstæði sem fannst á Pálstóftum. Sé Íslenzkt fornbréfasafn skoðað kemur í ljós að staðhæfing þessi getur vart staðist þar sem greinilegt er að í seljum var eldiviður nauðsynlegur, ekki síst í ljósi þess að hita þarf mjólk – flóa hana – til þess að hægt sé að gera úr henni skyr (sbr. Hólmgeir Þorsteinsson 1972:141-142). Sést þetta einnig á því að eigendur jarða gefa leyfi fyrir eldiviðartöku eins og selin þurftu (sjá t.d. ÍF V, 707; ÍF III, 137). Að auki er ljóst að ýmis önnur not voru höfð af eldstæðum en til þess að ylja sér við eingöngu og tel ég að ekki nokkur fornleifafræðingur myndi halda því fram að eldstæði væri skýrt merki um heilsársbúsetu þar sem gera má ráð fyrir að eldstæði geti fundist á flestum stöðum, ef ekki öllum, þar sem menn hafa á annað borð hafst við.
Í hinni hefðbundnu sýn á seljabúskapinn sá kvenfólkið um öll mjólkurverk og annað sem þeim tengdist í selinu en smalinn sá um að koma búsmalanum í og úr haga á milli mjalta. Samkvæmt þeirri mynd sem dregin er upp af selförum í eldri heimildum er þó óljósara hver gegndi hvaða hlutverki í seljabúskapnum. Þó eru til nokkur dæmi um frásagnir af verkaskiptingu í seljum. Í Hrafnkels sögu Freysgoða segir frá konum sem mjólka í seli Hrafnkels auk þess sem Einar smali á að viða heim öllum sumarviði á meðan hann er í seli (Íslendinga sögur X:83,86). Í Laxdæla sögu segir frá húskörlum sem stunda heyverk í seli (Íslendinga sögur IV:167) en þó lítur út fyrir að það sé eftir að seljatímanum lýkur og í Grettis sögu segir frá Auðuni á Auðunarstöðum sem fer í sel og kemur heim með mat þaðan, m.a. skyr (Íslendinga sögur VI:93). Þessar frásagnir ríma þó við verkaskiptingar í yngri heimildum.
Fornleifarannsóknir á Íslandi hafa því miður ekki gefið miklar upplýsingar um það sem fram fór í seljunum, helst sökum þess hve fá sel hafa verið grafin upp. Upplýsingar, sem þó hafa safnast, eru áhugaverðar og gefa að nokkru leyti nýja sýn á verkefni selfólksins. Ber þar helst að nefna niðurstöður uppgraftarins á Pálstóftum sem fjallað var um í I. hluta þessarar ritgerðar en þar fundust vísbendingar um að skartgripasmíði hafi verið stunduð í selinu auk þess sem gæsabein benda til þess að gæsir hafi verið veiddar í nágrenninu og nýttar í selinu og/eða fluttar heim á bæ (Lucas 2008:91-92). Þótt vísbendingar finnist í seljum um hvað þar fór fram getur fornleifafræðin ekki sagt okkur hver vann hvaða störf og því er ekki hægt að vita hvort hlutverk kynjanna í seljabúskapnum hefur breyst í aldanna rás. Líklegt er þó að ekki einungis kyngervi hafi ráðið verkum fólks í seljum heldur einnig staða og aldur. Mætti því ef til vill spyrja hvort siðir og venjur hafi stjórnað því hvort ákveðnir heimilismenn færu í selið og hvort veran í selinu hafi verið eftirsótt eða ekki, hvort hún hafi verið virðingarverð og veitt fólki upphafningu – eða jafnvel þvert á móti.
Kjarni seljabúskapar og önnur starfsemi
Enn bendir flest til þess að grunnurinn í seljabúskap á Íslandi hafi verið búsmalinn, beitin og mjólkurvinnslan sem honum tengdist þótt rannsóknir eins og sú á Pálstóftum hafi náð að víkka þá sýn nokkuð. Færslur í Íslenzku fornbréfasafni gefa sterklega til kynna að búsmalinn sé kjarni selfararinnar. Þannig er minnst á búsmala eða sauðfé/kýr/geitur/hesta víða þar sem meira er sagt um selfarir en bara það að ákveðin kirkja eða jörð eigi selför á tilteknum stað (t.d. ÍF I:577; ÍF II:447,671; ÍF III:363; ÍF IV:161; ÍF XIV:251) og hvergi í heimildum er getið um að kjarni þess sem fram fór í seljum hafi verið annað en ofangreint.
Hér verður ekki skilið á milli kúaselja annars vegar og fjárselja hins vegar enda ekki litið svo á að vinna í seljunum hafi verið mjög ólík hvort sem haldnar voru þar kýr, ær eða geitur. Dæmi eru í Helgafells- og Eyrarsveit um staði þar sem hugsanlegt er að seljabúskapur með kýr og ær hafi verið stundaður í sama selinu en til að geta séð það út frá vettvangsskráningu seljarústanna þarf að gera ráð fyrir að kýrnar hafi verið hýstar yfir nóttina og því sé sérstakt mannvirki að finna í slíkum seljum, hagafjós. Þeir staðir eru m.a. Staðarbakkasel í Gautsstaðagróf í Helgafellssveit – en þar eru bæði tvöfaldar kvíar og stór aflöng rúst sem gæti verið hagafjós – og Gilssel í landi Kvernár í Eyrarsveit en þar er einnig að finna hugsanlegar kvíar og hagafjós. Munurinn er þó sá að mögulega skiptist Gilsselið í tvær kynslóðir og gæti þá verið að hagafjósið tilheyri einungis annarri þeirra og líklega hinni eldri.
Sé litið til fornleifafræðinnar blasir við ákveðið vandamál þegar skoða á þennan meinta kjarna seljabúskaparins, beitina og mjólkurvinnsluna, eins og Gavin Lucas hefur bent á í tengslum við rannsóknina á Pálstóftum (Lucas 2008:92; Lucas 2011:196-197). Tilvist rennandi vatns eða annarrar góðrar vatnsuppsprettu er ágæt vísbending þegar kemur að því að draga ályktanir um mjólkurvinnslu á staðnum. Sé slíkt ekki fyrir hendi er ólíklegt að mjólk hafi svo nokkru nemi verið unnin á staðnum en þó verður að gera ráð fyrir tímanum í þessu samhengi og taka mark á því að landið er síbreytilegt og lækir og vatnsuppsprettur geta horfið í tímans rás. Auk þessa er mögulegt að rigningarvatni hafi verið safnað eða brunnar grafnir. Yfir höfuð er eina leiðin að segja til um tilvist búsmala í seljum, þegar einungis er um yfirborðsrannsóknir að ræða, að skoða hvort mannvirki eru á staðnum sem tilheyra búsmala, s.s. kvíar, aðhöld, garðar eða slíkt. Séu þess konar mannvirki ekki til staðar er ekki hægt að vita með vissu hvort búsmali hafi verið haldinn á viðkomandi stað. Með uppgrefti er hins vegar hægt að segja meira og geta ýmsar greiningar komið þar að góðum notum, s.s. greiningar á skordýrum (sjá t.d. Vickers og Guðrún Sveinbjarnardóttir 2013), örformgerðargreiningar á jarðvegi þar sem m.a. er hægt að greina úrgang dýra og frjókornagreiningar þar sem hægt er að merkja breytingar á nýtingu lands, t.d. vegna beitar (sjá t.d. Borthwick, Edwards og Cook 2005; Ledger, Edwards og Schofield 2013). Auk þessa er mögulegt að finna ílát og önnur merki um mjólkurvinnslu. Vandamálið liggur þó ef til vill í því að þótt engar vísbendingar finnist er ekki hægt að slá því föstu að búpeningur hafi hvergi komið nærri í starfsemi selsins. Fræðilega séð getur því komið upp áhugaverð staða. Aðalgerandi (en. agent) seljabúskaparins að því er virðist, búsmalinn, getur verið ósýnilegur í fornleifunum sem vekur spurningar um hvernig skuli í því ljósi haga umfjöllun um sel. Var stundaður seljabúskapur án búsmala? Vangaveltur í tengslum við þessa síðustu spurningu verða teknar upp aftur síðar en fyrst skal hugað að öðrum starfa í selinu, ótengdum búsmalanum.
Nokkrar vísbendingar má finna í rituðum heimildum um að önnur aðföng eða ítök hafi verið nýtt á meðan á seltímanum stóð en þurfti í selinu sjálfu en slíkar vísbendingar eru þó ekki sterkar. Til að mynda má gera ráð fyrir að allar frásagnir af heyverkum í seljum teljist sem aðfanganýting fyrir heimabæinn þar sem hey teljast til vetrarfóðurs (sbr. ma. frásögn í Laxdæla sögu (Íslendinga sögur IV:167)). Frásögur af eldiviðartöku, hrísrifi og torfristu eru erfiðari viðureignar þar sem um nýtingu í seljunum eingöngu gæti verið að ræða (t.d. ÍF III:447; ÍF XV:435). Ljóst er að þótt fáar séu heimildirnar þá hefur nýting auðlinda í nágrenni selja sums staðar tíðkast og líklegt er að mjög víða hafi eldiviður fyrir selið verið fenginn úr nánasta umhverfi þess. Fyrir utan smávægilegar vísbendingar hér og þar er ágæt frásögn rituð af sr. Guðlaugi Sveinssyni þar sem hann lýsir ýmsum verkum í seljum í lok 18. aldar sem ekki einungis virðast vera draumsýn hans á seljabúskapinn heldur eiga sér stoð í raunveruleikanum (Guðlaugur Sveinsson 1786). Þannig fjallar Guðlaugur um hrístekju, kolagjörð, fjallagrasatekju og heyverk sem verk sem vert er að vinna í seli samhliða umhirðu búsmalans og mjólkurverkum.
Þótt vísbendingar um að ítök og auðlindir í nágrenni selja hafi verið nýtt meðan á seltímanum stóð séu litlar og víða engar er ekki þar með sagt að slíkt hafi ekki verið gert. Hugsanlegt er að slíkt hafi verið svo sjálfsagt að ekki hafi þótt vert að nefna það. Einnig getur verið að sums staðar hafi nýtingin verið í svo litlum mæli að ekki hafi þótt ástæða til að nefna hana og enn annars staðar getur auðvitað verið að selfólkið hafi einungis haft með búsmalann að gera og ekkert annað. Að mínu mati er það þó mjög mikil einföldun að gera ráð fyrir að ekkert annað hafi farið fram í seljum en mjólkurvinnsla og þegar greinilegar auðlindir eru í næsta nágrenni við sel verður að teljast líklegt að þær hafi verið nýttar að einhverju marki. Í ljósi þess að víða eru greinilegar auðlindir í nágrenni selja verður einnig að velta upp þeirri spurningu hvort seljum hafi að einhverju leyti verið valinn staður með nýtingu þeirra í huga.
Þó svo að skráningar á seljum geti sjaldnast gefið miklar vísbendingar um hvað í seljunum fór fram finnst mér sjálfsagt að líta á umhverfi seljanna til þess reyna út frá því að áætla hvaða auðlindir hafi verið hægt að nýta á svæðinu.
Seljabúskapur án búsmala?
Eins og áður sagði bendir ekkert til annars en að sel hafi verið mjög ákveðin gerð af vinnslustöð þar sem búsmali og mjólkurvinnsla voru í forgrunni en líklega þó með nýtingu annarra auðlinda í bland að meira eða minna leyti. Notkun orðsins sel á Íslandi yfir staði og vinnslustöðvar, sem ekki uppfylla þessi meginskilyrði, á sér því engan stuðning í raunveruleikanum eftir því sem næst verður komist. Þetta á við hvort sem litið er til fyrstu alda Íslandsbyggðar eða seinni alda. Notkun og tilbúningur hugtaka eins og „kolasel“ í íslensku samhengi þar sem enginn búskapur fór fram heldur einungis kolagjörð og hugsanlega skyldar athafnir er því ekki heppileg og ætti að forðast því það grefur undan hugtakinu sel og því sem það stendur fyrir.
Hvað er sel í fornleifafræðilegum skilningi?
Helsta vandamálið, þegar kemur að fornleifafræði og seljum, er hvernig þekkja skuli seljarústir á yfirborði. Það getur reynst misjafnlega erfitt og fer mikið eftir landsvæðum hve greinilegar rústirnar eru og hve auðvelt er að greina þær frá öðrum rústaþyrpingum, s.s. kotbýlum. Að geta skilið á milli sels og rústaþyrpingar með annað hlutverk liggur að miklu leyti hjá viðkomandi fornleifafræðingi og skiptir þá miklu að sá hinn sami hafi reynslu og þekki vel til minja á svæðinu sem verið er að rannsaka. Þetta á ekki einungis við þegar skráðar eru rústir með áður óþekkt hlutverk eða áður óþekktar rústir heldur einnig þegar skráðar eru þekktar rústir með meint þekkt hlutverk samkvæmt munnmælum því ekki er alltaf víst að þekking á hlutverki rústanna hafi borist rétt milli kynslóða. Annað sem getur valdið vandamálum er að fornleifar hafa oft gegnt fleiri en einu hlutverki í gegnum tíðina og getur reynst erfitt að greina þau hvert frá öðru á yfirborði. Til að mynda er mjög þekkt að beitarhús eða bæir hafi verið byggð á gömlum selstöðum og jafnvel bæði beitarhús og bæir. Í þeim tilfellum getur reynst erfitt eða jafnvel ómögulegt að greina undir öllu kraðakinu elstu rústirnar.
Fyrir utan þetta eru seljarústir svo mismunandi að sel lítur ekki alltaf út eins og sel. Hér kemur til þekking fornleifafræðingsins á minjum á svæðinu eins og fram kom hér að framan. Í tilfelli verkefnisins Seljabúskapur á norðanverðu Snæfellsnesi vorum við komin með ákveðna tilfinningu fyrir því hvað væru sel og hvað ekki eftir að hafa unnið ákveðinn tíma á svæðinu og skoðað rústir í Helgafellssveit í gönguferðum í nokkur ár. Það er erfitt að skýra hver grunnurinn í hugsanaganginum var en reyni maður að ráða í það hafði líklega mest að segja staðsetningar, landslagið umhverfis og svo rústirnar sjálfar. Yfirleitt samanstóð rústaþyrpingin af einni stórri rúst með þremur til fjórum rýmum auk kvía/aðhalds og jafnvel fleiri rústa eða mörgum litlum rústum og kvíum/aðhaldi. Einn stað skráðum við sem hafði örnefnið Sel (í landi Berserkseyrar) en þá rúst töldum við í raun ekki vera sel og var sú ályktun dregin af staðsetningu, umhverfi og útliti rústarinnar (sjá mynd 11) en engar aðrar rústir voru í nágrenni hennar. Það má því ætla að þessir þrír þættir hafi mikið með það að gera hvort um er að ræða sel eða ekki, a.m.k. í tilfelli Helgafells- og Eyrarsveitar. Ekki síst er mikilvægt að hafa í huga að í seli hljóta yfirleitt að vera minnst tvær rústir: marghólfa rúst með íverurými, geymslu og/eða vinnslurými og kvíarúst.
Erfitt er að búa til uppskrift af því hvernig seljarústir eiga að líta út. Þó hefur verið reynt að tína til ákveðin atriði sem hægt er að nota til að greina á milli selja og býla. Eitt er að ekki eru bæjarhólar í seljum. Það gefur augaleið að þessi punktur hefur eitthvað til síns máls enda var í flestum tilfellum einungis hafst við í seljum á sumrin og því er ekki mikil mannvistaruppsöfnun í þeim. Á móti kemur að margar sögur eru til af fólki, sérstaklega í seinni tíð, sem bjó í millibilsástandi í eitt eða fleiri ár í seljum. Ef slíkt hefur gerst í sama selinu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar er allt eins víst að mannvistaruppsöfnun hafi aukist og því hafi selið farið að líkjast meira bæ að því leyti. Engu að síður er selið áfram sel þótt það hafi verið bær á þessum ákveðna tímapunkti. Hér kemur því aftur upp vandamálið með breytileg hlutverk fornleifanna og áhrif mismunandi hlutverka á þær.
Næsta víst er að sé gengið út frá umræðunni hér að ofan varðandi kjarna seljabúskaparins er ljóst að eitt mikilvægt atriði verður undantekningarlítið að vera í seljum en það eru kvíar eða aðhald til þess að halda utan um búsmalann á meðan mjólkað er. Komi fornleifafræðingur að rústum með óþekkt hlutverk þar sem ekki eru kvíar eða aðhald er ólíklegt að sá hinn sami myndi túlka rústaþyrpinguna sem sel.
Líta verður á minjasvæðið sem heild og skoða rústirnar í samhengi við umhverfið – rannsaka menningarlandslagið. Þannig þarf að leggja saman gerðir rústanna, staðsetningu þeirra og umhverfi, auðlindir í nágrenninu, aðgengi og fjölda rústa. Ég vil ekki taka undir að hæð yfir sjávarmáli sé endilega atriði sem gott er að nota til að skilgreina sel á landsvísu en hitt er annað mál að sel eru líklega oftast staðsett ofar í landslaginu og lengra inn til landsins en heimabæir þeirra. Í Helgafellssveit þýðir þetta ekki marga metra yfir sjávarmáli en hins vegar yfirleitt nokkrum kílómetrum lengra inn til landsins, annaðhvort inn í dalina við fjöllin eða á sléttuna upp af ströndinni. Svona hefur landslag hvers svæðis áhrif á hvar seljum hefur verið valinn staður.
Bestu tilfinninguna gefur það auðvitað ef gengið er að selinu eftir gömlum leiðum, þjóðleiðum og selgötum, og mest gefandi væri að ganga frá hverjum heimabæ í viðkomandi sel. Það er þó því miður sjaldnast í boði þegar verið er að vinna fornleifaskráningu, aðallega tímans vegna. Sums staðar verður þó að ganga nokkurn spöl að seljunum sem gefur tækifæri til að ganga í gegnum landið og fá tilfinningu fyrir menningarlandslaginu og samhengi seljanna við landslagið.
Seljarústir geta verið margar eða fáar í hverri selstöðu og eru líklegustu áhrifavaldarnir í þeim efnum án efa samfella í seljabúskap, kynslóðir selja, umfang seljabúskaparins og nýting fleiri en eins bæjar á selstöðunni. Fjallað var um þessi atriði hér að framan en mig langar að nefna þau hér örstutt aftur til að leggja áherslu á hve ólíkar rústaþyrpingar selja geta verið og ekki megi gleyma þeim möguleika að um margar og jafnvel aðskildar kynslóðir geti verið að ræða í sömu selstöðunni. Einnig getur sama selstaðan hafa innihaldið sel margra bæja frá sama tíma.
Sel og seljabúskapur á Íslandi
Af umræðunni hér að framan má sjá að seljabúskapur á Íslandi hefur verið flóknari og margslungnari en frásagnir Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili gefa til kynna og það er langt því frá að við höfum á honum fullkominn skilning og þekkingu. Seljabúskapur hefur líklega fylgt landnámsmönnum hingað til lands strax í upphafi og hefur án efa tekið mið af þeim venjum sem hver og einn þekkti. Líklegt er því að seljabúskapurinn hafi ekki alls staðar verið eins í upphafi byggðar. Þessi mismunur á seljabúskapnum hefur haldist í gegnum tíðina en helgast líklega mest af landslagi hvers staðar og þeim áherslum sem hver og einn hafði í seljabúskapnum, þ.e. skepnufjölda og nýtingu annarra auðlinda. Ekki verður vart við neina stórfellda, landlæga breytingu á seljabúskap á Íslandi en breyting orðavals frá selför í selstöðu gæti bent til þess að einhvers konar breyting hafi orðið á búskaparháttunum þótt einnig gæti verið um nokkurn veginn merkingarlausa breytingu á orðnotkun að ræða. Seljabúskapur virðist hafa getað lagst af í nokkur ár eða jafnvel áratugi og síðan verið tekinn upp aftur. Á því eru engar haldbærar skýringar en líklega hafa aðstæður á hverjum bæ ráðið því eða breytingar á náttúrufari.
Hvað varðar seljabúskapinn sjálfan, umfang hans og verkin sem unnin voru í selinu er ljóst að kjarni seljabúskaparins hefur verði búsmalinn og mjólkurvinnslan sem honum fylgdi. Vinnslustaður, sem ekki byggðist á búsmala, ætti því ekki að kallast sel. Þó eru vísbendingar um að búsmalatengd vinna sé ekki sú eina sem hafi verið unnin í seljum og því eru miklar líkur á að víða hafi önnur aðföng verið nýtt úr nágrenni seljanna, bæði til hagnýtingar í seljunum sjálfum en einnig til að flytja heim á bæ. Líklegt er að til hafi verið fámennar og fjölmennar selfarir þar sem fjöldi fólks í selinu hefur haft áhrif á hve mikil afköst selsins voru hverju sinni. Hitt er svo annað mál að aðalatriðið er ekki endilega hve margir voru í selinu hverju sinni heldur frekar hvaða hlutverki selin gegndu í efnahags- og samfélagslegu tilliti. Þannig hafa selin að því er virðist ekki verið jaðarfyrirbæri heldur staðir sem jafnvel voru „í leiðinni“ og gestagangi vel tekið. Áhugavert væri að skoða hverjir voru í seljunum, hvaða starfa þeir höfðu og hvaða stöðu seljabúskapurinn hafði í samfélaginu – hvort vistin í seljunum var eftirsótt eða ekki. Að mínu mati ættu fræðimenn framtíðarinnar að spyrja sig spurninga af þessu tagi auk þess að reyna að setja seljabúskapinn á hverjum stað í samhengi við landslag, samfélag og efnahag til þess að auka skilning á honum á hverju svæði fyrir sig því seljabúskapur hefur ekki alltaf eða alls staðar verið það sama og seljabúskapur þótt kjarni hans hafi verið búsmalinn og störf honum tengd.
Samfélag og efnahagur
Seljabúskapurinn er partur af búskap bæja og spila þar líklega stórt hlutverk bæði hefðir og efnahagslegur ávinningur. Ekki var þó nóg að hafa einungis hugsjónina að vopni þegar kom að seljabúskap heldur þurfti bæði að hafa aðgang að landsvæði og mannskap til að geta stundað hann. Það var því ekki á allra færi að stunda seljabúskap þótt viljinn væri hugsanlega fyrir hendi. Engum sögum fer þó af því hvort bændur á minni bæjum, kotum og hjáleigum hafi haft áhuga á því að stunda sjálfir seljabúskap. Það er þó líklegt þar sem dæmi eru um í Jarðabókinni að hjáleigur megi nýta selstöðu með heimajörðinni.
Forsendubrestur
Ef reynt er að svara fyrri spurningunni er ljóst að eitthvað hlýtur að hafa sett af stað snjóboltann sem svo að lokum varð til þess að farið var að leggja niður selstöður; slíkt gerist ekki upp úr þurru. Grunnforsendur seljabúskaparins hljóta að hafa brostið eða í það minnsta breyst á einhverjum tímapunkti og ýtt þróuninni af stað. Líklegast er að hér sé um marga samverkandi þætti að ræða. Sé litið á framangreind atriði varðandi endalok seljabúskapar í samhengi við umræður um fólksfækkun og fiskleysi í Ferðabók Eggerts og Bjarna, auk ítarlegrar umfjöllunar Hitzlers um endalok seljabúskapar, er hægt að draga upp eftirfarandi mynd sem gæti skýrt upphaf þróunarinnar. Þessi skýring er byggð bæði á land- og svæðisbundnum upplýsingum en vísbendingarnar eru fáar og því verður víða að geta í eyðurnar.
Á árunum 1200-1500 eru vísbendingar um að smjörverð hafi hækkað ört og því er líklegt að blómatími seljabúskaparins hafi verið á þeim tíma þar sem smjör var ekki eingöngu ætlað til heimabrúks heldur einnig til að borga skuldir, t.d. við jarðeigendur, og nota sem gjaldmiðil í verslun og öðrum viðskiptum eins og síðar verður fjallað um. Samkvæmt rannsóknum Jóns Jóhannessonar á verðlagi smjörs var vætt smjörs um árið 1200 metin á 30 álnir en strax þegar Jónsbók var lögtekin árið 1281 var verðið komið upp í 48 álnir. Á 15. og 16. öld fór verðið upp í hæstu hæðir og komst í 80 álnir. Rekur Jón þessar verðhækkanir til aukinnar eftirspurnar innanlands og utan. Ekki einungis var það vegna matarvenja Íslendinga heldur var smjör einnig gjaldmiðill sem notaður var til að borga biskupstólum, klaustrum og jarðeignamönnum auk þess sem smjör varð útflutningsvara í síðasta lagi árið 1480 og líklega nokkuð fyrr (Jón Jóhannesson 1958:144). Í klaustrum og víðar söfnuðust upp gríðarlegar birgðir smjörs sem urðu umtalsefni erlendra manna á ferð um Ísland. Árið 1555 kom út í Róm bók Olaus Magnusar um fólkið í norðri, Historia de Gentibus Septentrionalibus. Hefur hann skrifað um Ísland einhverju áður en bókin kom út þar sem klaustrin voru þá enn við lýði en um smjörbirgðir á Íslandi segir hann: „… in Iceland may be found such an abundant supply of salted butter, owing to the numerous herds of cattle and the luxuriant pastures, that there are insufficient barrels and kegs to hold it all … [it is stored] partially for consumption at home, but more particularly for barter with merchants. … Tubs of this plentiful butter are to be found in the monastery which the people in their own tongue call Helgafell. Its economy is based on butter and dried fish, an equivalent of richer treasures“ (Magnus 1998:1085-1086).
Af þessum skrifum Olausar má sjá að smjör hefur verið mikið verðmæti um og fyrir miðja 16. öldina og þá er fiskurinn það einnig. Lýsing þessi er án efa nokkuð ýkt, sérstaklega fyrri hluti hennar, og er ólíklegt að allt þetta smjör sé afurð kúa heldur er líklegra að þarna sé um bæði sauða- og kúasmjör að ræða. Burtséð frá því er samt nokkuð ljóst að smjörframleiðsla hefur enn á þessum tíma, undir miðja 16. öld, verið töluverð og smjör notað sem gjaldmiðill í verslun og viðskiptum. Má í ljósi þessa gera ráð fyrir að seljabúskapur hafi enn staðið með blóma þegar hér er komið sögu og mest af smjörinu framleitt í seljunum.
Sé litið á klaustrin og eignir og viðskipti þeirra í smjöri er hægt að velta upp þeim möguleika að endalok klaustranna gætu hafa haft áhrif á seljabúskap landsmanna. Þegar klaustrunum var lokað hafa án efa losnað gríðarlegar smjörbirgðir og það hefur hugsanlega haft áhrif á verðlag og eftirspurn eftir smjöri fyrst á eftir. Enn fremur hætti fólk að borga klaustrunum með smjöri og því hefur þörfin fyrir það sem gjaldmiðil minnkað þar sem ólíklegt er að konungur hafi tekið við miklum borgunum í smjöri en hann tók við miklu af eignum klaustranna. Hugsanlegt er að tengsl endaloka klaustranna og smjöreignar þeirra hafi haft enn meiri áhrif í sveitum þar sem margar jarðir voru í eigu klaustranna.
Sé litið á útflutning á ný eru til tölur frá 1585 um útfluttar vörur frá Nesvogi í Helgafellssveit. Sjávarafurðir eru mesti og verðmætasti hluti útflutningsins en þó er einnig að finna landbúnaðarvörur á listanum. Þannig er verðmæti útfluttra vara metið á 569 vættir og eru 496 af þeim tilkomnar vegna skreiðar. Þar á eftir kemur lýsi með 33,5 vættir og lax með 13 vættir. Vaðmál og löng höld eru 12 vættir og smjör síðan 8,5 vættir. Auk þessa voru einnig flutt út 120 kg af blautfiski, 4 kindur og uxi sem öll samanlagt hafa nokkuð minna heildarverðmæti en smjörið (Ásgeir Ásgeirsson og Ólafur Ásgeirsson 1992:105). Smjör er því fimmta verðmætasta útflutningsvaran í Nesvogi en þó er villandi að nota slíkt orðalag þar sem verðmæti smjörs er ekki nema 0,017% af heildarverðmæti skreiðarinnar og 0,015% af heildarútflutningsverðmæti.
Árið 1625 eru til tölur yfir útflutning frá landinu í heild og eru þá fiskafurðir 75,1% heildarútflutningsverðmæta en ullarvörur og ýmsar vörur um 14% og eru smjör, æðardúnn og skinn þar undir, u.þ.b. 2% verðmætisins (Gísli Gunnarsson 1987:54). Greinilegt er að fiskur er langtum mikilvægasta útflutningsvaran og gera má ráð fyrir að vegur hans í útflutningi hafi vaxið jafnt og þétt frá því að skreið varð útflutningsvara á 14. öld og tók við af vaðmáli sem aðalútflutningsvara Íslendinga (Jón Jóhannesson 1958:139). Verðlag fisks virðist hafa verið frekar hátt fram undir 1550 en á milli 1550 og 1600 varð verðfall sem hefur líklega haft einhver áhrif á íslenskan fisk þótt óvíst sé hve mikil þar sem hann var seldur á sérstökum markaði í Evrópu (Gísli Gunnarsson 1987:55-56).
Hvað forsendur seljabúskaparins varðar má gera ráð fyrir að í upphafi hans hér á landi hafi hann gegnt bæði efnahagslegu og samfélagslegu hlutverki eins og rætt hefur verið um fyrr í þessari ritgerð. Þótt líklegt sé að stór hluti afurða seljanna hafi verið nýttur til heimabrúks og til að borga skuldir við eigendur jarða er líklegt að smjör og/eða aðrar mjólkurafurðir hafi verið notaðar í viðskiptum að einhverju leyti jafnvel frá upphafi. Hugsanlegt er þó að með hækkandi smjörverði á tímabilinu 1200-1500 hafi mikilvægi smjörs í viðskiptum aukist og þess vegna hafi forsendur seljabúskaparins og mikilvægi hans í tengslum við ákveðna þætti í afkomu býlisins færst í meira mæli yfir á viðskiptahlutann en neysluhlutann. Sé þetta rétt hefur það haft mikil áhrif á seljabúskapinn þegar fiskur fór að taka algerlega yfir í magni og verðmæti því þá hafði seljabúskapurinn blásið út en afurðirnar voru farnar að falla í verði.
Líklegt er að með aukinni áherslu á fisk sem verslunar- og viðskiptavöru hafi staða smjörs í sama tilgangi breyst og mikilvægi þess minnkað. Í kjölfarið á því er líklegt að áhugi og efnahagslegur ávinningur af seljabúskap hafi einnig minnkað (sbr. Hitzler 1979:236). Hvenær nákvæmlega þessi breyting verður er erfitt að segja en í Ferðabók Eggerts og Bjarna kemur fram að þeim þykir merkilegt að áður fyrr hafi fiskveiðar verið minni en í þeirra tíð þegar nær allir stunda sjóinn. Þá hafi landbúnaður verið aðalatvinna fólks en „hann er nú í mesta vesaldómi“ (Ferðabók Eggerts og Bjarna 1981:202). Ferðabókin er auðvitað skrifuð um miðja 18. öld en tónninn í þessari umræðu Eggerts og Bjarna gefur til kynna að alllangt sé síðan þessi breyting varð.
Líklegt er því að þessi áherslubreyting frá landbúnaði yfir í fiskveiðar verði um 1600 þegar verð er farið að hækka aftur á fiski og fiskgengd er enn þá mikil. Helgi Þorláksson hefur velt upp svipuðum hugmyndum um endalok seljabúskaparins og tengt þær m.a. við útflutningsverslun. Nefnir hann að þýskir kaupmenn hafi gjarnan keypt smjör en danskir einokunarverslunarmenn ekki haft á því mætur (Helgi Þorláksson 2004:21-22). Þetta styður það sem sett var fram hér að framan að breytingar um 1600 hafi verið grunnurinn að forsendubresti seljabúskaparins en einokunarverslun Dana hófst einmitt árið 1602.
Eggert og Bjarni láta í veðri vaka að á 17. öld hafi fiskveiðar á Snæfellsnesi orðið til þess að landbúnaðinum hnignaði og eftir að stórabóla gekk yfir á árunum 1707-1709 hafi mannfæð verið slík að útróðrar frá bæjum lögðust niður. Landbúnaðurinn hafi þó verið kominn í slíkar ógöngur að mikla vinnu hefði þurft að leggja af mörkum til að ná honum í fyrra horf og í stað þess að leggja í slíkt, vegna þess að menn voru orðnir vanir því að borða mestmegnis fisk, hafi bændur sent fólk í ver og jafnvel farið sjálfir. Nú – um miðja 18. öld – sé svo komið að mestur vinnukraftur fari í sjósókn og því geti komið harðindaár ef fiskurinn bregst þar eð landbúnaðurinn sé ekki nægur til að geta tekið við sveiflunum í fiskinum þótt tíðarfar sé honum hagstætt (Ferðabók Eggerts og Bjarna 1981:203).
Líklegt er þó að ekki sé öll sagan sögð hjá Eggerti og Bjarna þegar kemur að niðurníðslu í landbúnaði og er ekki eingöngu fiskveiðum Íslendinga eða almennu dugleysi þeirra í landbúnaði um að kenna. Á 15. öld hófst Litla ísöldin á norðurslóðum (Dugmore et al. 2007:177) og hefur kólnandi veðurfar henni tengt haft áhrif á fólk, dýr og ekki síst gróðurfar. Í tengslum við minnkandi landgæði í kjölfar kólnandi veðurs getur verið að menn hafi tekið þá ákvörðun að flytja vinnuafl frá landbúnaðinum yfir á fiskveiðar (sbr. Dugmore, Keller og McGovern 2007:29) og þess vegna hafi fiskveiðarnar sjálfar ekki verið aðalástæða þess að vinnuaflsflutningurinn átti sér stað. Í tengslum við rannsóknir á veðurfari og kólnun á norðurslóðum hefur því verið velt upp að stöðug kólnun og stök slæm ár hafi ekki endilega verið verst heldur það þegar forspárgildi veðursins var orðið lítið, ekki var hægt að gera ráð fyrir nokkurn veginn stöðugu veðurfari og þ.a.l. hafi ákvarðanir verið teknar sem gátu dregið dilk á eftir sér. Slíkar ákvarðanir í tengslum við gróðureyðingu eru t.d. þær að breyta búskaparháttum þannig að stjórna ekki beit búfjár með smölum og auka með því hættuna á því að það gangi of nærri viðkvæmum svæðum (ibid.:25-29). Í kjölfar kólnandi veðurs og versnandi gróðurfars, auk hugsanlegrar gróðureyðingar á köflum, getur verið að búsmala hafi verið fækkað og að það hafi einnig haft áhrif á seljabúskapinn.
Til að taka saman umræðuna hér að ofan eru vísbendingar um að fram að ritun Jarðabókarinnar hafi tilvist og mikilvægi seljabúskaparins fylgt eftirfarandi atburðarás: að hátt smjörverð á árunum 1200-1500 hafi skapað umhverfi fyrir blómaskeið seljabúskaparins. Í kjölfar aukinnar áherslu á fisk í verslun og viðskiptum minnkaði eftirspurn eftir smjöri og í samvinnu við breytta veðráttu og færslu vinnuafls frá landbúnaði yfir á fiskveiðar minnkaði áhugi og efnahagslegur ávinningur af seljabúskapnum um 1600. Víða leggst hann af í kjölfarið en þó ekki alls staðar.
Seljabúskapur hvers bæjar fyrir sig
Þegar grunnstoðir seljabúskaparins voru fallnar, eða í það minnsta orðnar valtar, voru án efa sérstakar aðstæður á hverjum bæ fyrir sig sem ákvörðuðu hvort og hvenær seljabúskapur bæjarins var lagður niður. Slíkar ástæður geta hafa legið í aðstæðum á bænum sjálfum og/eða í seljalandinu. Ástæður eins og mannekla, ónýt selhús, erfitt aðgengi að selinu og breytt gróðurfar geta allar hafa átt við, hver í sínu tilviki eða jafnvel saman. Í sumum tilfellum getur verið að forsendubresturinn hafi verið nægur til þess að hætta seljabúskap en svo hefur ekki verið hjá öllum. Erfitt er að greina nákvæmlega út frá rústum á yfirborði endanlegar ástæður þess að hvert sel fyrir sig fór í eyði en þó eru ákveðnar vísbendingar um hvað olli því að seljabúskap var hætt.
Á heildina litið legg ég til þá skýringu að við áherslubreytinguna um 1600 hafi hann farið mjög halloka þegar mannskap á bæjunum var skipt niður á verk. Á 17. öld voru harðindi og plágur sem leiddu til fólksfækkunar, þótt það komist ekki með tærnar þar sem stórabóla hefur hælana, og þá hafi seljabúskapurinn víða verið lagður af til að geta sett meira vinnuafl í fiskveiðar. Hins vegar lagðist það sem fram fór í seljunum ekki niður heldur voru mjólkandi ær og kýr hafðar heima á bæ í heimakvíum eða færikvíum þar sem það átti við og þeim beitt á engjar og haga nærri bæjunum. Auðlindir hafa einnig verið nýttar áfram en þó á annan hátt, m.a. með sérstökum ferðum, s.s. grasaferðum. Að færa færa mjólkandi ær – og kýr þar sem það átti við að kýr væru enn í seli á þessum tíma – heim á bæ krefst þess auðvitað að landrými sé fyrir slíka búskaparhætti heima við.
Eru þetta endalokin?
Umfjöllunin hér að framan er byggð á vísbendingabrotum héðan og þaðan og er ég fullkomlega meðvituð um að víða eru getgátur látnar tengja punktana saman. Hins vegar tel ég að atburðarásin sé líkleg, sérstaklega á þessu svæði þar sem greinilegar vísbendingar eru í byggðarþróuninni um það að fiskveiðar og mikilvægi þeirra hafi haft áhrif á samfélagið auk þess sem fylgni á milli langlífis seljabúskaparins og jarðnæðis er næsta augljós. Hér á eftir langar mig að ræða hvernig hægt væri með frekari rannsóknum að kanna þessa kenningu og renna þannig frekari stoðum undir hana eða hafna henni.
Gera má ráð fyrir að í tengslum við ofangreinda breytingu hafi þurrabúðum fjölgað en líklega hafa þær verið komnar til sögunnar eitthvað áður þegar fiskur tók við af vaðmáli sem aðalútflutningsvara landsmanna á 14. öld. Lausamenn gátu flutt sig á milli vinnuveitenda og stofnað þurrabúðir og er líklegt að með meiri áherslu á fiskveiðar hafi þurrabúðirnar byrjað sitt blómaskeið. Uppruni plássanna í Eyrarsveit gæti því hugsanlega legið í þessum breytingum sem urðu á atvinnuvegunum á 16./17. öld og væri ein leið til að kanna sannleiksgildi tilgátunnar um endalok seljabúskaparins á svæðinu að aldursgreina þurrabúðir í Eyrarsveit. Einnig væri hægt að aldursgreina verstöðvar á bæjum í sveitinni og reyna að greina helstu athafnatímabil þeirra en slík rannsókn myndi gefa hugmynd um á hvaða tímabilum bæir juku áherslu á fiskveiðar.
Vandamálið við allar rannsóknir, sem byggjast á aldursgreiningum á þessu svæði, er þó að engin greinanleg gjóskulög frá sögulegum tíma er að finna í jarðvegi eins og rætt hefur verið áður. Þar sem gera má ráð fyrir að efnismenning í seljum og búðum, hvort sem er verbúðum eða þurrabúðum, sé einföld og víða rýr og þ.a.l. erfitt að aldursgreina gripina þá þyrfti mikla heppni til að geta aldursgreint mannvistarlög með gripum. Eina örugga leiðin er því að gera kolefnisaldursgreiningar og þar sem þær þyrftu að vera nokkuð margar má gera ráð fyrir að rannsóknir af þessu tagi yrðu dýrar þótt framkvæmdin væri í raun einföld.
Hægt væri að rannsaka selin sjálf til að fá aldursgreiningar á yngstu fösum þeirra og jafnvel greina umsvif í þeim. Minnkun selhúsanna á ákveðum tíma gæti verið vísbending um breyttar áherslur en einnig breytingar á því hvað þar fór fram. Væri vert að skoða hvort hægt væri að sjá vísbendingar um aukin umsvif í verkum tengdum auðlindanýtingu á svæðinu og minnkuð umsvif tengd búsmalanum á síðasta skeiði seljanna. Hið síðarnefnda gæti þó reynst erfitt að sjá nema hugsanlega ef sáför eða aðrar álíka leifar af efnismenningu mjólkurvinnslu og geymslu á mjólk skytu upp kollinum. Slíkar vísbendingar væri einnig hægt að skoða á heimabæjum seljanna en þær rannsóknir væru þó mun flóknari og erfiðari í framkvæmd enda bæjarhólarannsóknir af allt öðru flækjustigi en seljarannsóknir þegar kemur að uppgrefti.
Síðast en ekki síst væri hægt að gera umhverfisrannsóknir í anda þeirra sem gerðar hafa verið við sel Reykholts og reyna með þeim hætti að greina minnkandi umsvif, breyttar áherslur í seljabúskapnum og minnkandi landgæði sem gætu hafa leitt til forsendubrests. Ekki síður væri hægt að rannsaka umsvif og umhverfisbreytingar við ströndina og reyna þannig að tímasetja margrædda aukna áherslu á fiskveiðar. Umhverfisrannsóknir sem þessar bjóða upp á marga möguleika og líklegt að einhverjar niðurstöður kæmu úr þeim þótt ekki væri nema að staðfesta tímasetningu á endalokum seljabúskaparins. Hvað þessar rannsóknir varðar er þó sama vandamálið þegar kemur að aldursgreiningum að nota þyrfti kolefnisaldursgreiningar til að aldursgreina breytingar í sýnum.
Lokaorð
Seljabúskapur á Íslandi var mun flóknara og margbreytilegra fyrirbæri en sú mynd gefur til kynna sem Jónas Jónasson dregur upp í Íslenzkum þjóðháttum (1945). Fornleifarannsóknir á seljum á Íslandi hafa hjálpað til við að varpa nýju ljósi á seljabúskap Íslendinga. Oft er þó umfjöllun um seljabúskap byggð á takmörkuðum raungögnum og því munu nýjar rannsóknir vonandi bæta meiri þekkingu í sarpinn á komandi árum. Margt er enn órannsakað og þá ekki síst mannlegi þátturinn – staða og hlutverk selfólksins. Mín von er að umfjöllunin hér að framan um birtingarmyndir seljabúskaparins, mismun og fjölbreytni veki upp hugmyndir og kveikjur að nýjum rannsóknarverkefnum sem geta hjálpað til við að geta í eyðurnar varðandi þetta mikilvæga og margbreytilega búskaparform fortíðarinnar.
Seljabúskapurinn kom að öllum líkindum með landnámsmönnunum og var hann ekki einungis stundaður fyrir efnahagslegan ávinning og betri landnýtingu heldur einnig sem hluti af hefð sem tekin var með heiman að. Selin verða að hefð í nýja landinu og tíðkast líklega um allt land. Sniðið á búskaparháttunum og seljunum sjálfum hefur þó verið misjafnt þótt kjarninn hafi alltaf verið búsmalinn og mjólkurvinnsla honum tengd. Ekki síst hefur landslag haft áhrif á staðsetningar og nýtingu seljanna og má ekki gera of lítið úr mögulegum þætti auðlinda í nágrenni þeirra í þessu samhengi. Venjan virðist hafa verið að fólk fór í selin með búsmalann og dvaldi þar yfir seltímann, eins og tíðkaðist í alseljum í Noregi. Einhver fór svo á milli með afurðir hvort sem sá var staðsettur heima á bænum eða í selinu.
Seljabúskapurinn var hluti af samfélags- og efnahagslegu kerfi bæjarins, sveitarinnar og landsins alls. Selin voru því ekki einungis efnahagsleg eining innan býlisins heldur líka samfélagsleg. Þau voru staðir þar sem gestir voru velkomnir og staðsett við alfaraleiðir hafa þau verið áfangastaðir fleira fólks en bara selfólksins. Ekki síst hafa selin haft pólitíska þýðingu og menn bæði helgað sér land með þeim, jafnvel langt frá bæ, og einnig sýnt vald sitt út á við með því að hafa selin á sjónrænt mikilvægum stöðum. Seljabúskapurinn hefur því margar hliðar sem vert er að skoða í samhengi við samfélag, efnahag og landslag hvers svæðis fyrir sig og þannig það kerfi sem hann var hluti af.
Ekki síst skiptir þetta samhengi miklu þegar kemur að endalokum seljabúskaparins og má glögglega sjá það í tilfelli Helgafells- og Eyrarsveitar. Landslag og jarðnæði sveitanna eru að öllum líkindum helstu áhrifaþættir varðandi endalok seljabúskaparins eftir að forsendubrestur tengdur auknum fiskveiðum, minnkandi mikilvægi smjörs, manneklu og breyttum landgæðum kemur af stað því ferli sem endalokin voru. Þannig höfðu breytingar á því efnahags- og samfélagslega kerfi sem seljabúskapurinn var hluti af áhrif á seljabúskapinn og hrundu af stað endalokum hans. Munurinn á endalokum seljabúskapar í þessum tveimur samliggjandi sveitum sýnir að óvarlegt er að alhæfa um seljabúskap á landsvísu og gera ráð fyrir einsleitni í umræðum um hann. Ekki þarf að skoða stærra svæði en þetta til að rekast á greinilegan mun sem grundvallast á samhengi seljabúskaparins.
Umfjöllunin hér að framan sýnir að hægt er að nýta fornleifaskráningu sem rannsóknaraðferð í fornleifafræði og að fornleifaskráning getur gefið miklar og áhugaverðar upplýsingar sé hún vel unnin og hugað að atriðum eins og nákvæmum staðháttalýsingum og skráningu mikilvægra atriða fyrir hverja tegund minja, eins og vatnsuppsprettum og nálægum auðlindum í tilfelli selja. Fornleifarannsóknir þurfa ekki að grundvallast á uppgrefti til að geta skilað nýjum og áhugaverðum niðurstöðum: fornleifaskráning er fornleifarannsókn!“
Sjá má ritgerðina í heild HÉR.
Skreytt grjót frá Vatnsleysu metið á hálfa milljón
Í Fréttablaðinu föstudaginn 23. febrúar 2018 mátti lesa eftirfarandi frásögn: „239 ára grjót frá Vatnsleysu metið á hálfa milljón“.
Virgill Scheving Einarsson.
„Danskur grjóthnullungur fannst við jarðvegsframkvæmdir á landi Efri-Brunnastaða á Vatnsleysuströnd fyrir nokkrum árum. Steinninn er frá 1779 og fornmunasali í Skotlandi metur hann á hálfa milljón íslenskra króna.
Þegar Virgill Scheving Einarsson, landeigandi á Efri-Brunnastöðum -Skjaldarkoti í Vogunum, erfði landareignina flutti hann heim frá Skotlandi, þar sem hann hafði búið í fimmtán ár, og réðist í heilmiklar framkvæmdir á eigninni.
„Það var skurðgröftur í gangi hérna fyrir þremur árum og ég fór eitthvað að skoða í jarðvegshauginn sem kom upp úr skurðinum og rek augun í sérkennilegan stein sem liggur þar,“ segir Virgill.
„Ég sá að það voru stafir á honum þannig að ég þurrkaði af honum og sé að öðru megin á honum stendur ártalið 1779 og hinum megin eru skrautskrifaðir upphafsstafir tveggja einstaklinga.“
Virgill telur víst að steininn hafi verið steyptur til minningar um brúðkaup, veglegur minnisvarði um tímamótaatburð í lífi löngu horfinna ábúenda. „Ofan á honum hefur verið klemma sem hefur brotnað af. Steininn hefur verið skraut.“
Með hjálp fornmunasala og sérfræðinga í Skotlandi komst Virgill að því að steininn kemur frá Danmörku. „Það voru tvíbýli hérna og einhverjir ábúendur hafa gift sig og látið steypa þetta í Danmörku.“
„Steinninn vegur um eitt kíló og Virgill segir hann ekki mikinn um sig, álíka stóran og „Neskaffi-krukku eða eitthvað þannig.“
Hann fór með steininn til Glasgow og sýndi hann fornsala þar í borg.
Brunnastaðasteinninn – 1779.
„Karlinn hafði hann í viku, lét skoða hann og röntgenmynda til þess að komast að því hvað væri í honum. Niðurstaðan er að í honum er hart danskt granít, sennilega frá Jótlandi. Hann er vel steyptur. Það var ekki komið svona gott sement, eða steinlím eins og þeir kalla það hingað til lands á þessum tíma. Það kom allt frá Danmörku í þá daga. Hann bauð mér 500 þúsund kall í hann og sjálfsagt smyr hann einhverju á hann og selur hann áfram.“
Virgill byrjaði á að kanna áhugann á steininum hér heima en hann reyndist enginn. „Ég talaði við sveitarfélagið hérna og þeir sýndu mér afturendann. Þeir hafa nú ekki komið vel fram við mig hérna í Vogunum. Þeir hirtu líka nafnið af okkur og kalla þetta Voga. Ég á heima á Vatnsleysuströnd en ekki Vogum. Ég sýndi Minjastofnun hann líka og þar var enginn áhugi heldur.“
Virgill ætlar sér því að fara með steininn aftur til Glasgow og selja hann þar. Steinninn hafi í sjálfu sér ekkert gildi fyrir honum enda ekki frá forfeðrum hans kominn.
„Mitt fólk kom hingað úr Árnessýslu 1943 þannig að hann tengist því ekki þannig að ég er bara að spá í að fara með hann úr landi. Þeir segja að það sé ólöglegt en ég ætla bara að láta karlinn fá hann. Hann lætur mig þá fá hálfa milljón fyrir hann. Ég er ekki í neinu hallæri með peninga eða svoleiðis en finnst alveg eins gott að láta steininn bara fara þessa leið.“
Sjá meira um steininn HÉR.
Heimild:
-Föstudagur 23. febrúar 2018.
Brunnastaðasteinninn.
Reykjanes – hringferð
Ljóst er að náttúrufegurð og menningarsaga Reykjanessins hefur verið vanmetin í gegnum tíðina. Nú er komið að því að breyta um betur og auðvelda áhugasömu fóki að tileinka sér svæðið með lítilli fyrirhöfn, en til mikillar ánægju.
Áður en lagt er af stað skal a.m.k. hafa tvennt í huga:
A. Jarðfræði
Reykjanesið er stórmerkilegur staður frá jarðfræðilegu sjónarmiði, myndað á skilum Evrópu og Ameríku þar sem hafsbotnsplöturnar tvær reka sitt í hvora áttina. Þannig stækkar Ísland því meir sem Evrópa og Ameríka fjarlægjast.
Elsti hluti Reykjaness, Rosmhvalanes, er um 200 þúsund ára gamalt. Við lok síðustu ísladar var hér mikil eldgosahrina sem, stóð lengi og má segja að hún sé megin uppistaða landslagsins eins og það er í dag. Þetta eru gos í Sandfellshæð og Þráinsskildi fyrir um 12-13 þúsund árum og í Hrútagjá fyrir um 5-6 þúsund árum. Öll eru þessi hraun vel sýnileg í dag og ná frá Reykjanestá að Hafnarfirði, en eru þó að hluta til hulin hraunum sem runnið hafa í aldanna rás. Eldri hraunin eru mjög sprungin vegna jarðskjálfta og landreks.
Frá landnámi hafa runnið 13 apal- og helluhraun á Reykjanesi og eru þau m.a.: Illahraun við Bláa lónið frá 1226, Arnarseturshraun frá 1226, Eldvarpahraun við Árnastíg frá 1211, Yngra-Stampahraun við Öngulbrjótsnef frá 1211, Ögmundarhraun frá 1151 í Krýsuvíkureldum, Kapelluhraun rann til sjávar við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði árið 1150.
Gígar sem sjá má á Reykjanesi eru dyngjur eins og t.d. Þráinsskjöldur á Strandarheiði, klepra- og/eða gjallgígar eins og við Búrfell við Hafnarfjörð, gjóskugígar eins og Eldvörpin yst á Reykjanesinu og sprengigígar eins og Grænavatn við Krýsuvík.
Miðaldalagið 1226/1227 kom úr eldgosi sem hófst í sjó út af Reykjanestá og spúði það gos mikilli ösku og vikri yfir landið. Askan úr því hefur verið nefnd “Miðaldalagið” en hún var það mikil að vart sást til sólar í heilt ár og var það kallað sandasumar og sandavetur. Það ár drápust 100 naut frá Snora Sturlusyni í Reykholti sem hann hafði í Svignaskarði.
Á Reykjanesi eru fjölmargar gjár og sprungur. Í sumum þeirra vex fallegur gróður, s.s. burknar. Einnig eru hrauntraðir, þar sem hraun hefur runnið í rásum eins og í Brúfellsgjá og Gígnum við Lágafell. Þá ber skaginn ummerki jarpskorpuhreyfinganna þar sem misgegi finnast, t.d. á Haábjalla og Hrafnagjá.
B. Jarðhiti
Reykjanesið er í virku gosbelti og því eru mörg háhitasvæði þar, en þau helstu eru á Reykjanestá, Svartsengi, Trölladyyngju og í Krýsuvík. Helstu einkenni háhitasvæða er fjölbreytni í litum. Leirinn gefur brúnan lit og hvítan, glópagillið virðist dökkblátt, breinnisteinninn fagurgulur og kopasamböndin eru blágræn. Þar eru einnig gufuhverir þars em gufan kemur stundum upp undir þrýsingi í vellandi blágráum leirhverum sem skvetta úr sér leirslettum er gufubórunar springa. Á Reykjanesskaganum hefur sjór síast inn í jarðlögin og hitnað. Heita vatnið í Svartsengi er t.d. 2/3 sjór en yst á Reykjanesi er það eingöngu sjór. Niðri í um 5 km dýpi á þessum slóðum má ætla að fáist um 500°C yfirþrýst gufa í stað 240-340°C sem algengt er í 2 km djúpum holum. Á meira dýpi eykst þannig gufuafl úr 3-4 MW í 40-50 MW.
Ef tilraunadjúpboranir á Reykjanesi fara að óskum gæti það gerbreytt allri orkuvinnlsu hér á landi – og jafnvel víðar í heiminum.
Sjá leiðsagnir um Reykjanes: 1 – 2 – 3– 4 – 5 – 6 – 7 – 8 – 9 – 10 –11 – 12 – 13 – 14 – 15 – 16 – 17 – 18 – 19.
Reykjanesskaginn – fyrrum landnám Ingólfs.
Sel og seljabúskapur á Íslandi…
Í ritgerð Ástu Hermannsdóttir til MA-prófs í fornleifafræði við Háskóla Íslands árið 2014 er m.a. fjallað um rannsóknir á seljum á hluta Snæfellsness og jafnframt almennt um sel og seljabúskap hér á landi. Síðarnefndi hlutinn er fyrir margt athyglisverður og verður efni hans því getið að hluta til hér á eftir.
„Seljabúskapur var lengi framan af lítt rannsakaður á Íslandi en á síðustu áratugum hafa farið fram fornleifarannsóknir sem miða að því að gera bragarbót þar á. Ritgerðin miðar að því að líta yfir farinn veg og benda á þá staðreynd að seljabúskapur var hluti af samfélags- og efnahagslegu kerfi hvers bæjar og svæðis og þess vegna má gera ráð fyrir mismun og margbreytileika í seljabúskap á landsvísu. Alhæfingar um ýmsa þætti seljabúskapar á Íslandi og hugmyndir um einsleitni í seljabúskap eiga ekki við og nauðsynlegt er að skoða sel og seljabúskap hvar sem er í sínu landslags-, samfélags- og efnahagslega samhengi. Í síðasta hluta ritgerðarinnar er sýnt fram á hve mikilvægt samhengi seljabúskaparins er í rannsóknum á honum og hvernig breytingar í því kerfi sem hann var hluti af höfðu áhrif á seljabúskapinn.
Inngangur
Seljabúskapur er búskaparform sem nokkuð hefur verið fjallað um og rannsakað á Íslandi og þá sérstaklega á síðustu áratugum. Fornleifarannsóknir á seljum á Íslandi hafa aukist á þessum tíma en fáar þeirra eru þó mjög umfangsmiklar og veldur það því að umfjöllun um sel og seljabúskap er oft byggð á takmörkuðum raungögnum (en. empirical data). Þótt sel séu skráð við fornleifaskráningar eins og aðrar minjar er því þó sjaldnast svo farið að í úrvinnslu þeirra felist frekari rannsókn á minjunum. Rannsóknir á seljabúskap hafa því ekki sótt mikið í þau yfirgripsmiklu gögn sem venjubundnar fornleifaskráningar skilja eftir sig. Seljabúskapur var ekki stakstætt kerfi heldur hluti af flóknara samfélags- og efnahagslegu kerfi hvers bæjar og svæðis en einnig landsins alls. Grundvöllur seljabúskaparins lá í þessum þáttum og breytingar á þeim hafa í gegnum aldirnar haft áhrif á breytingar í seljabúskap og ekki síst endalok hans.
Í hluta ritgerðarinnar verður fjallað um þær íslensku fornleifarannsóknir sem beinst hafa að seljum og seljabúskap í það minnsta að hluta. Einnig er sagt frá nýlegum fornleifarannsóknum á sama efni á hinum Norðurlöndunum til að setja rannsóknir á Íslandi í stærra samhengi.
Umfjöllunin um sel og seljabúskap er alls ekki ætluð til alhæfingar um sel og seljabúskap á Íslandi heldur þvert á móti til þess að vekja umræður og skoðanaskipti og benda á að seljabúskapur var flóknari og margbreytilegri en hingað til hefur verið gengið út frá. Tilgangur ritgerðarinnar er að draga fram þá staðreynd að seljabúskapur, framkvæmd hans og umfang, hefur ekki verið eins alls staðar á landinu og að við eigum enn margt ólært um þetta forna búskaparform. Auk þessa er ætluð hliðarafurð ritgerðarinnar að sýna fram á að fornleifaskráning getur gefið af sér heildstæðar rannsóknir og það þarf ekki alltaf stórtæka uppgrefti til að geta skapað nýja þekkingu: fornleifaskráning er fornleifarannsókn.
Fornleifarannsóknir á seljum
Í þessum hluta verður fjallað um fornleifarannsóknir sem gerðar hafa verið á Íslandi og beinst hafa að hluta til eða öllu leyti að seljum. Teknar verða saman helstu upplýsingar um rannsóknirnar og niðurstöður þeirra og í lokin metið hvað fræðimenn telja sig nú vita um sel og seljabúskap á grundvelli fornleifafræðinnar og með hjálp sagnfræðinnar og á hvaða sviðum upplýsingar vantar.
Seljarústir er misjafnlega auðvelt að þekkja en yfirleitt er miðað við að rústirnar séu nokkuð frá bæ, ekki sé mikil mannvistaruppsöfnun á staðnum nema vísbendingar séu um búsetu þar fyrir eða eftir að seljabúskapur var þar stundaður, um fleiri en eina rúst sé að ræða og góð vísbending er ef aðhald eða einhvers konar innrekstrarmannvirki er á staðnum. Örnefni eru mikið notuð þegar sel eru skráð og geta þau bæði bent á staði sem nauðsynlegt er að leita á við fornleifaskráningu en einnig geta þau gefið vísbendingar um hlutverk rústa sem hafa áður óljóst eða óþekkt hlutverk. Til dæmis getur fengist vísbending um hlutverk þekktrar rústar með áður óþekkt hlutverk ef upplýsingar um seljaörnefni koma fram í nýjum heimildum eða viðtölum við heimildamenn. Ætíð verður þó að skoða slíkar upplýsingar með gagnrýnum hætti í samhengi við fornleifarnar og umhverfi þeirra. Heimildamenn eru mikilvægur viskubrunnur um sel, ekki síst á þeim stöðum þar sem seljabúskapur hélst sem lengst. Sums staðar er þó svo komið að fáir sem engir eru eftir sem hafa þekkingu á seljabúskap ákveðinna svæða ekki síst hvað varðar staðsetningu seljanna og tilhögun búskaparins enda er hann sums staðar lagstur af að nær öllu leyti fyrir 1800.
Hefðbundin sýn á sel og hugtakanotkun
Áður en lengra er haldið verður hér sett fram hin hefðbundna sýn á seljabúskap á Íslandi og í kjölfarið verða skýrð nokkur hugtök og orð sem koma fyrir í ritgerðinni og notkun/merking þeirra í henni til að fyrirbyggja misskilning.
Seljabúskapur á Íslandi
Merking orðanna sel, selstaða og seljabúskapur er ekki almennt þekkt í dag. Fæstir vita hvað felst í þessum orðum séu þeir undanskildir sem tilheyra elstu kynslóð landsins. Enn síður veit fólk hve mikilvægur þáttur selin voru í búskap þjóðarinnar. Í Íslenskri orðabók segir um sel: „útihús í högum langt frá bæjum þar sem búfénaður er látinn ganga á sumrin“ (2005:1259) og um selstöðu: „það að hafa búpening í seli > selstaða langt á fjöllum uppi“ (2005:1260). Samkvæmt þessum skilgreiningum ná orðin sel og selstaða ekki yfir nákvæmlega sama hlutinn heldur í raun yfir byggingar annars vegar (sel) og svæði eða jafnvel athafnir hins vegar (selstaða). Ljóst er að ekki er alltaf farið með þessi hugtök á þennan hátt en reynt verður að ganga hér í takt við ofangreindar skilgreiningar eins og hægt er. Í öllu falli voru sel/selstöður til þess fallin að fara þangað með búsmala – kindur og kýr – á sumrin. Þetta var gert til að koma skepnunum frá heimatúninu svo hægt væri að rækta það upp og slá um sumarið. Í selstöðunum voru hús sem hýstu þá sem þar dvöldu, eldhús, geymsla/búr og jafnvel fleiri rými. Víða er talað um að í seli hafi verið þrjú hús eða rými (sjá t.d. Hitzler 1979:72; Jónas Jónasson 1945:62). Auk þessara rýma gefur augaleið að líklegt er að flestar ef ekki allar selstöður hafi haft einhvers konar aðhald eða innrekstrarmannvirki til þess að halda utan um skepnurnar á meðan á mjöltum stóð. Í Búalögum frá 17. öld er talað um að þrjár konur eigi að vera í seli ef þar eru 80 mjólkandi ær og 12 kýr (Búalög 1915-33:34). Svipuð tala kemur fram víða en oft er einnig nefndur til sögunnar smali sem sjá skal um féð (sjá
t.d. Jónas Jónasson 1945:62).
Skýring hugtaka og orða
Selstaða: svæði þar sem seljabúskapur hefur farið fram. Getur verið eitt eða fleiri sel.
Sel: fornleifar í selstöðu sem eiga saman og mynda þar með eitt sel, þ.e. frá sama tíma, sama bæ o.s.frv. Skipting fornleifa á milli selja er yfirleitt byggð á túlkun fornleifanna á yfirborði.
Kvíarúst: einföld, aflöng rúst eða aflöng rúst með tveimur löngum rýmum samhliða notuð til mjalta.
Rúst/tóft/hús: fornleifar sem eru samfastar og hafa verið ein bygging.
Rými: hólf/herbergi innan rústar/tóftar/húss.
Aðföng: auðlindir í náttúrunni sem hægt hefur verið að nýta við hverja selstöðu.
Seljarannsóknir á Íslandi
Áhugi íslenskra fræðimanna á seljabúskap og minjum um hann virðist ekki hafa verið mikill fyrr en á síðustu áratugum 20. aldar. Ástæðan getur verið sú að seljabúskapurinn er víða nálægur í tíma en hann var við lýði fram undir og jafnvel fram á 20. öld sums staðar á landinu (m.a. Hólmgeir Þorsteinsson 1972). Þrátt fyrir að fornfræðingar og áhugamenn um fornminjar á Íslandi í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. færu víða um, skráðu og rannsökuðu virðast sel og seljabúskapur ekki hafa fangað áhuga þeirra. Líklega má að miklu leyti rekja það til stefnu þess tíma sem að mestu leyti snerist um að minjar sem tengdust Íslendingasögunum og gömlu handritunum væru þær sem vert væri að rannsaka. Sel og seljabúskapur voru yfirleitt ekki stór þáttur í hetjusögum fornaldar og hafa rannsóknir á þeim því ekki þótt spennandi kostur.
Á áttunda áratug 20. aldar fóru seljarannsóknir að fá byr í seglin og hefur vegur þeirra aukist mjög á síðustu 10-15 árum. Í raun má segja að seljarannsóknir séu í tísku og er líklegt að áhuga fræðimanna á seljum nú sé hægt að rekja til þess að vitundarvakning hefur orðið í að skrásetja minjar gamla bændasamfélagsins og vitneskju þar að lútandi áður en kynslóðin, sem nú gengur sín síðustu spor, hverfur alveg. Seljabúskapurinn er hluti af þessu gamla bændasamfélagi sem hverfur nú hratt. Fátt er ritað um seljabúskapinn, lítið eða nær ekkert af gripum tengdust honum sérstaklega þannig að ekki eru minjar hans geymdar á söfnum landsmanna. Víða er einnig svo langt síðan seljabúskapur lagðist af að elstu menn muna vart hvenær síðast var haft í seli, hvað þá hvar rústir seljanna er að finna. Vitneskjan er þó ekki alltaf svona gloppótt og þar sem seljabúskapur hélst lengst eru bæði til ritaðar og munnlegar heimildir fólks sem þekkti seljabúskapinn af eigin raun.
Egon Hitzler
Varla er hægt að byrja umræðu um rannsóknir á seljum án þess að minnast á doktorsritgerð Egon Hitzlers frá áttunda áratug síðustu aldar. Hitzler er þýskur fræðimaður sem dvaldist hér á landi sem sendikennari við Háskóla Íslands á árunum 1974-79. Rannsókn Hitzlers, sem unnin var á sjöunda og áttunda áratugnum, var sú fyrsta sem fjallaði nokkuð heildstætt um sel og seljabúskap á Íslandi. Ritgerðin var gefin út á þýsku og hefur ekki verið þýdd á íslensku þannig að innihald og niðurstöður hennar eru ekki öllum aðgengileg.
Rannsóknin er eitt fyrsta dæmið um rannsókn á seljum og seljabúskap þar sem ekki var einungis unnið með heimildir þótt þær væru stærsti hluti verkefnisins heldur voru einnig nokkur sel skoðuð á vettvangi. Þannig má segja að fyrsta fræðilega úttektin á seljum, sem gæti að einhverju leyti talist fornleifafræðileg, sé hluti af þessu doktorsverkefni.
Hitzler reynir í doktorsritgerð sinni að setja saman heildstæða mynd af seljabúskap á Íslandi og notar til þess mestmegnis ritaðar heimildir. Hann dregur margvíslegar ályktanir af þeim og m.a. kemst hann að því, eins og ýmsir aðrir, að selhúsin hafi verið þrjú (Hitzler 1979:72). Hitzler skoðar mismunandi hliðar seljabúskapar, s.s. mannvirki, skipulagningu, upphaf og endi, auk þess að skoða sel á ýmsum tímum út frá heimildum. Kafli VI í doktorsritgerð Hitzlers fjallar um vettvangsskoðun hans á meintum seljarústum í Sauðadal í Austur-Húnavatnssýslu. Með þeirri skoðun vildi hann reyna að svara því hvort seljabúskapur hefði eitthvað breyst á svæðinu á 18. og 19. öld, eða frá því að Jarðabók Árna og Páls var rituð (ibid.:188). Því svarar Hitzler játandi og kemst að þeirri niðurstöðu að breytingarnar hafi að mestu leyti byggst á breyttu eignarhaldi og þar af leiðandi skiptum á seljum og byggingu nýrra selja (ibid.:212).
Sveinbjörn Rafnsson
Árið 1990 kom út ritið Byggðaleifar í Hrafnkelsdal og á Brúardölum eftir Sveinbjörn Rafnsson. Í því er gerð grein fyrir rannsóknum sem fram fóru á 8. og 9. áratug síðustu aldar en þær miðuðu að því að skrá byggðaleifar og grafa í nokkrar þeirra til að reyna að varpa ljósi á byggðasögu svæðisins í samhengi við ritaðar heimildir.
Guðrún Sveinbjarnardóttir
Fyrsta alvöru fornleifarannsóknin á Íslandi, sem beint var að seljum að hluta eða öllu leyti, var rannsókn sem Guðrún Sveinbjarnardóttir vann fyrir doktorsritgerð sína, Farm abandonment in Medieval and Post-Medieval Iceland: an interdisciplinary study, á árunum 1979-1985. Í þeirri rannsókn skrásetti Guðrún eyðibýli, meint eyðibýli og sel á þremur stöðum á landinu: í þremur dölum í Berufirði, undir Eyjafjöllum og í Austur- og Vesturdal í Skagafirði. Auk þess að skrá staðina voru tekin borkjarnasýni og grafnar prufuholur á mörgum þeirra til að staðfesta að um mannvistarleifar væri að ræða sem og að kanna aldur og umfang rústanna sem þar var að finna. Gjóskulög voru notuð til aldursgreiningar þegar slíkt var mögulegt. Einnig voru gerðar fornvistfræðilegar rannsóknir á sýnum sem tekin voru á nokkrum rannsóknarstaðanna. Niðurstöður rannsóknarinnar setti Guðrún fram í áðurnefndri doktorsritgerð sinni en sá hluti gagnanna sem sneri að seljum kom þó lítið við sögu í ritgerðinni sjálfri. Aftur á móti birti Guðrún þær niðurstöður í grein sem kom út í Acta Archaeologica og nefnist
„Shielings in Iceland: an Archaeological and Historical survey“ (1991). Í greininni útlistar Guðrún sögulegan bakgrunn seljabúskapar á Íslandi í stuttu máli og gerir þar á eftir grein fyrir öllum þeim selstöðum sem hún skráði í rannsókn sinni. Þessi atriði voru skráð fyrir hverja selstöðu: stærð og lögun, staðsetning, heimabær, elstu heimildir og aldur, sem yfirleitt fékkst út frá heimildum, auk þess sem stundum er skráð lega, lýsing á ástandi rústar eða annað slíkt. Teikningar eru af mörgum seljanna en nær engar ljósmyndir.
Heilt á litið er það sem fram kemur í greininni nokkuð upplýsandi. Niðurstöður rannsóknarinnar eru ræddar stuttlega í lok greinarinnar og er hægt að draga þar fram nokkur aðalatriði. Guðrún telur að verulegar vísbendingar séu um seljabúskap á svæðunum þremur og að ekki hafi verið langt á milli selja og heimabæja (Guðrún Sveinbjarnardóttir 1991:91). Að sama skapi telur hún að norska módelið, að skipta seljum upp í tegundir eftir fjarlægð frá bæ og athöfnum í selinu (sjá Reinton 1976:28- 29), eigi ekki við á Íslandi (Guðrún Sveinbjarnardóttir 1991:91). Svæðin hafa öll að geyma nokkuð ungar seljaminjar og eru byggingar á stöðunum um 1-2 að meðaltali og fjöldi rýma um 3-4 (ibid.:91). Í sambandi við fjölda rýma nefnir Guðrún að líklegt sé að gamla hugmyndin um að þrjú rými í seljum hafi verið venjulegur fjöldi hafi ekki alltaf átt við rými í byggingu heldur vinnusvæði (en. activity areas) (ibid.:92). Ein helsta niðurstaða Guðrúnar er sú að sel hafi í fyrstu tíð verið staðsett nær bæjum en þau hafi síðan verið færð hærra upp í landslaginu (ibid.:92).
Þessi fyrsta rannsókn er að nokkru leyti brautryðjandaverk í skilningi íslenskra fornleifafræðinga á seljarústum en þarna er í fyrsta sinn komin skrá yfir seljarústir, einkenni þeirra, útlit og staðsetningu á ákveðnum svæðum. Niðurstöður greinarinnar gefa líka tóninn fyrir það sem á eftir kom í seljarannsóknum á Íslandi þótt fáir hafi tekið upp atriði eins og færslu selja frá láglendi hærra upp í landið og rými sem hugsanleg vinnusvæði í stað afmarkaðra, fastra húsrýma. Reyndar segir framarlega í greininni að
„Hingað til hafa engar fornleifafræðilegar vísbendingar um sel verið til frá neinu tímabili á Íslandi“ (Guðrún Sveinbjarnardóttir 1991:74 [þýð. höf.]). Þótt hægt sé að neita þessari staðhæfingu á grundvelli þess að vísbendingarnar hafi verið til í formi jarðfastra minja, það hafi bara enginn tekið sig til og túlkað þær, er það rétt að enginn fornleifafræðingur hafði fram að þessu nýtt sér sel sérstaklega sem efnivið í rannsóknir hér á landi.
Ragnheiður Traustadóttir
Rannsóknin í Urriðakoti er framkvæmdarannsókn vegna nýs íbúðahverfis við Urriðavatn í Garðabæ. Svæðið var skráð á árunum 2005-2006 og fóru eftir það fram forrannsóknir og heildaruppgröftur á minjum á hluta svæðisins á árunum 2007-2011. Bæjarstæði Urriðakots, bæjar sem er a.m.k. frá fyrri hluta 16. aldar, er stutt frá uppgraftarsvæðinu. Grafnar voru tvær rústaþyrpingar, yngri og eldri, og opnað á milli þeirra og nokkuð út fyrir rústirnar víða. Eldra svæðið er frá 10.-12. öld og samanstendur af litlum skála, fjósi, vinnsluhúsi og soðholu. Yngra svæðið, miðaldasvæðið, er frá því eftir 1226 með byggingu sem samanstendur af baðstofu, eldhúsi og sambyggðri baðstofu og búri og auk þess tilheyrir hugsanlega einnig skemma þessu skeiði. Ragnheiður Traustadóttir túlkar bæði skeiðin sem sel en þó eru ekki öll kurl komin til grafar í rannsókninni þar sem lokaskýrslu um hana hefur ekki verið skilað. Eldra selið telur Ragnheiður vera kúasel enda hefur fjósið rúmað 16-18 bása en skálinn er mjög lítill, aðeins um 12 m á lengd. Vinnsluhúsið er áfast fjósinu og er það nokkuð stórt, um 4×12-13 m. Ekkert eldstæði er í skálanum og gólflög eru mjög þunn.
Miðaldasvæðið er frá því eftir 1226 eins og sagði hér að ofan en Ragnheiður álítur þó að það hafi farið úr notkun á 14. öld.
Margrét Hrönn Hallmundsdóttir
Uppgröftur á svokölluðu Koti á Rangárvöllum hefur verið í gangi frá árinu 2008. Um er að ræða eina rúst, garðlag og aðhald við það og voru rústirnar skráðar árið 2005 og könnunarskurðir teknir árið 2006. Margrét segist hafa talið frá upphafi að um sel væri að ræða og að sú hugmynd hafi ekkert breyst þótt enn sé lítið vitað um starfsemi í húsinu.
Margrét Björk Magnúsdóttir
Seljarannsóknir Bjarkar í Reykjavík eru tvíþættar. Annars vegar er um að ræða samantekt og skráningu á seljum í Reykjavík (Margrét Björk Magnúsdóttir 2011a) og hins vegar er um að ræða könnunarrannsókn og aldursgreiningu nokkurra selja á Kjalarnesi (Margrét Björk Magnúsdóttir 2011b). Til grundvallar í fyrri hluta rannsóknarinnar voru lagðar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, örnefnaskrár og fleiri ritheimildir (Margrét Björk Magnúsdóttir 2011a:9). Innan borgarmarka Reykjavíkur er 81 jörð og voru sel og selstöður þeirra allra skráðar upp úr heimildum (ibid.:46) en hluti þeirra hafði þegar verið skráður á vettvangi. Auk heimildaskráningarinnar var leitað að nokkrum seljum sem ekki höfðu verið skráð á vettvangi áður á Kjalarnesi og greind ýmis atriði tengd þeim seljum sem skráð höfðu verið á vettvangi, þ.e. gamlar skráningar og nýjar, s.s. fjarlægð frá bæ í loftlínu, dýrleiki heimajarðanna, fjöldi húsa og rýma. Meðaltal húsa í vettvangsskráðum selstöðum er 1,42 hús og meðaltal rýma er 3. Meðalvegalengd frá bæ að seli er 8,6 km en algengustu fjarlægðirnar eru um 12 km, 7 km og 2 km (ibid.:46-47).
Smærri rannsóknir
Bjarni F. Einarsson/Fornleifafræðistofan ehf. – Hólasel í Eyjafirði, Fornasel í Straumsvík, sel við Úlfljótsvatn og sel á Síðuheiðum Hólasel í Eyjafirði.
Rannsókn í Fornaseli var afsprengi samvinnu Fornleifafræðistofunnar ehf. við Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar en selið er í landi Hafnarfjarðar. Á árunum 1999 og 2000 voru grafnar þrjár prufuholur í rannsóknarskyni í Fornasel, hver í sína rústina, en skráð voru þrjú hús og tveir stekkir á svæðinu. Holurnar voru grafnar í því skyni að reyna að fá sýni til C-14 kolefnisaldursgreiningar og kanna ástand fornleifanna á staðnum. Eitt C-14 sýni var greint og benda niðurstöður þess og keramik, sem fannst í sama lagi, til þess að lagið sé með 95% öryggi frá 1550-1630 (Bjarni F. Einarsson 2001:10). Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að líklega hafi verið haft í seli í Fornaseli allt frá um 1600 og fram á 19. öld. Húsin á staðnum virðast hafa verið endurbyggð að minnsta kosti þrisvar sinnum en ólíklegt er talið að öll hafi þau verið í notkun í einu eða að hlutverk þeirra hafi haldist óbreytt allan þann tíma. Ekkert rennandi vatn er á svæðinu en rigningarvatni hefur verið safnað í vatnsból fast við rústirnar (ibid.:12).
Haustið 2010 voru grafnar tvær prufuholur, hvor í sína rústina, í meint sel við Fossá við Úlfljótsvatn. Rústirnar fundust árið 2005 og þóttu fornlegar og áhugaverðar og styrkti Orkuveita Reykjavíkur umrædda rannsókn. Markmið rannsóknarinnar var að ná í sýni til C-14 kolefnisaldursgreiningar sem og gjóskulög, einnig til aldursgreiningar. Auk þess átti að kanna hvort hægt væri að lesa út úr gólflögum upplýsingar, t.d. um hvort húsið hafi verið mannabústaður eða ekki (Bjarni F. Einarsson 2011:5). Þrjár rústir voru skráðar á svæðinu 2005 og voru grafnar prufuholur í tvær þeirra eins og fyrr sagði. Eitt C-14 sýni, úr húsi 2, var aldursgreint og var niðurstaða greiningarinnar sú að sýnið væri með 95% öryggi frá 900-920 eða 960 – 1040 e. Kr. (ibid.:11). Af gjóskusýnunum er það að segja að svart lag, sem lá vel yfir gólfi húss 1, var greint sem Katla 1500 (ibid.:12) og er ljóst af því að húsið er yfirgefið einhverju áður en sú gjóska féll. Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að þarna hafi fólk hafst við um lengri eða skemmri tíma í lok 10. aldar eða í byrjun 11. aldar. Talið er hugsanlegt að ekki hafi einungis farið fram venjulegur seljabúskapur á staðnum heldur hafi mannvist við Fossá tengst auðlindum á svæðinu, s.s. slægjum og mýrarauða (ibid.:14-16).
BA og MA ritgerðir íslenskra fornleifafræðinema Auk ofantalinna rannsókna hafa fjórir íslenskir nemar í fornleifafræði skrifað lokaritgerðir, BA eða MA, sem fjallað hafa um eða komið hafa inn á sel á mismunandi hátt.
Albína Hulda Pálsdóttir – Segðu mér sögu af seli: Fornleifafræðileg úttekt á íslenskum seljum Í BA ritgerð sinni fjallar Albína um sel og seljabúskap á Íslandi. Hún fer yfir sagnfræðilegar heimildir viðkomandi seljum sem og fyrri rannsóknir, bæði íslenskar og norrænar. Hún kemur einnig inn á spurninguna hvernig hægt sé að þekkja sel frá öðrum fornleifum. Helstu fornleifafræðilegu nýjungar ritgerðarinnar liggja í greiningu á seljum sem skráð höfðu verið í Ísleifu, gagnagrunn Fornleifastofnunar Íslands ses., þegar ritgerðin var skrifuð. Þar leitaðist Albína við að skoða fjölda selja út frá heimilda- og vettvangsskráðum rústum en auk þess að athuga seljarústir gerðar- og landfræðilega út frá rústum sem skráðar höfðu verið á vettvangi. Aðallega var skoðaður fjöldi hólfa og flatarmál seljanna, fjöldi rústa, aðrar fornleifar tengdar seljunum, dýrleiki heimajarðar og stærð selja, vegalengd milli sels og bæjarhóls og staðsetningar í landslagi út frá hæð yfir sjávarmáli (Albína Hulda Pálsdóttir 2005:42-50). Helstu niðurstöður ritgerðarinnar eru að stærð og útlit selja er misjafnt (ibid.:51) en þó er fjöldi rústa yfirleitt 1-3 og fjöldi hólfa oftast 3 þótt meðalfjöldi sé 4,66 (ibid.:44). Sel virðast yfirleitt vera á jaðri hins byggilega hluta landslagsins, í tilfellum Norðaustur- og Suðurlands t.d. um 200 m/y.s. (ibid.:50-51), og að meðaltali eru um 2 km á milli sels og meints bæjarhóls heimajarðar í loftlínu (ibid.:50). Að lokum er vert að nefna að Albína telur að ekki sé hægt að þekkja sel frá öðrum minjum á einfaldan hátt og auk þess falli þær sagnfræðilegu heimildir, sem til eru um sel og seljabúskap, ágætlega að niðurstöðum sem fornleifafræðin hefur komist að (ibid.:51).
Ómar Smári Ármannsson – Sel og selstöður á Reykjanesskaganum – vestan Esju: Heimildir, fjöldi, staðsetning, gerð og aldur Í BA ritgerð sinni fjallar Ómar Smári um sel og selstöður á Reykjanesskaga, vestan Esju, bæði út frá sagnfræðilegum heimildum og vettvangsskoðun á fornleifum. Markmiðið með rannsókninni er að safna saman heimildum um sel og selstöður á þessu svæði, staðsetja þær, kanna fjölda þeirra, gerð mannvirkja, reyna að aldursgreina þær út frá heimildum og bera þær saman (Ómar Smári Ármannsson 2007:4). Aðaluppistaðan í ritgerðinni er upptalning á þeim seljum sem á svæðinu eru, sagnfræðilegar upplýsingar um þær og fornleifafræðilegar ef rústirnar hafa verið staðsettar á vettvangi. Eiginleg fornleifaskráning var ekki gerð á seljunum en yfirleitt fylgja myndir og jafnvel teikningar og gróf lýsing á rústunum og því sem á svæðinu er að finna. Selstöður á Reykjanesinu hafa sín sérkenni,t.d. nokkra hella, og víða eru selstígar sem enn eru mjög greinilegir (ibid.:183). Að öðru leyti má draga helstu niðurstöður ritgerðarinnar varðandi rústirnar saman í nokkur atriði: víða eru misgamlar tóftir (ibid.:181) og þar af leiðandi fleiri en ein kynslóð selja á staðnum, sum selin virðast færast nær bæjum með tímanum en önnur eru endurbyggð á sömu eða svipuðum slóðum (ibid.:195), þrískipt rými eru mjög algeng og seljarústirnar eru yfirleitt einfaldar og frekar litlar en þó virðast eldri rústir vera einfaldari, óreglulegri og minni (ibid.:196). Ómar Smári skoðar auk rústanna sjálfra hugsanlegar ástæður endaloka seljabúskapar í stuttu máli og setur fram nokkrar tillögur þar að lútandi.
Sædís Gunnarsdóttir – The transhumant landscape of Saurbæjarhreppur. A study of shielings, dependent farms and their locations in connection to the mother settlements.
Í MA ritgerð sinni fjallar Sædís um landslag búfjár og ferðir þess í landslaginu (en. transhumant landscape) og skoðar hún hvaða þættir móta þetta landslag. Aðalrannsóknarefni hennar eru bæir, hjáleigur og sel, staðsetningar þeirra í landslaginu og vinna með þær staðsetningar í GIS (Geometric information system). Viðfangsefnið var Saurbæjarhreppur í Eyjafirði og skoðaðir voru eftirfarandi þættir fyrir hvern og einn stað: staðsetning, hæð yfir sjávarmáli, halli svæðisins, næsti nágranni og fjarlægð á milli svæða. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að í raun sé enginn ákveðinn munur á staðsetningum bæja og hjáleiga en að sel séu hins vegar staðsett í öðrum hlutum landslagsins (Sædís Gunnarsdóttir 2002:[abstract]). Helsti munurinn á staðsetningu selja og hjáleiga er hæð yfir sjávarmáli og halli svæðisins, auk fjarlægðar frá bæ. Selin eru mun hærra í landslaginu þar sem meiri halli er og fjær bæ en hjáleigurnar (ibid.:53-56). Sædís bendir á að þennan mun á staðsetningum hjáleiga og selja mætti nýta til þess að greina á milli rústa sem ekki er vitað hvort eru sel eða hjáleigur (ibid.:[abstract]). Að öðru leyti eru niðurstöður rannsóknarinnar þær að það sé aðallega byggðamynstur sveitarinnar sem hafi áhrif á landslag búfjárins, auk aðgangs að beitarsvæðum í fjalllendi og virði jarðanna; stærri og eldri jarðir séu þannig oft með aðgang að fjalllendi þar sem sel þeirra eru staðsett en minni jarðir hafi sel nær bæjunum sjálfum (ibid.: [abstract]).
Stefán Ólafsson – Smávegis um rústaþyrpingar í Kelduhverfi.
MA ritgerð Stefáns fjallar ekki beinlínis um sel heldur flokkunarkerfi sem hann hefur þróað til þess að gera grein fyrir þeim minjastöðum í Kelduhverfi sem: a) hafa mjög líklega verið býli, b) hafa mögulega verið býli og c) hafa ólíklega verið býli. Flokkunarkerfið nýtir fjölda rústa og garðlög til að greina á milli mikillar eða lítillar búsetu og heilsárs- eða árstíðabundinnar búsetu. Enda þótt ritgerðin fjalli um þetta ákveðna efni þá kemur Stefán aðeins inn á sögu seljarannsókna (sjá Stefán Ólafsson 2012:21-23) þar sem hluti staða í gagnagrunninum, sem hann vinnur með, eru sel eða staðir skráðir sem sel. Stefán tekur saman helstu rannsóknir sem gerðar hafa verið á seljum en segir að lokum að rannsóknir, sem byggjast á því að staðsetja og greina seljarústir á yfirborði líkt og Guðrún Sveinbjarnardóttir gerði að hluta og verkefnið Seljabúskapur á norðanverðu Snæfellsnesi snýst um, hafi gefið óljósar niðurstöður og að „… þekking á seljum [sé] í raun jafn þokukennd og áður“ (ibid.:23).
Sel á öðrum vettvangi
Fyrir utan rannsóknir á seljum og seljabúskap á Íslandi og ritgerðir um sama efni hafa fornleifaskráningaskýrslur að geyma upplýsingar um sel og seljabúskap víða um land. Við venjubundna fornleifaskráningu getur fornleifafræðingur rekist á hvaða tegundir minja sem er, þar á meðal sel. Skráningar sem þessar beinast þó ekki að seljum sérstaklega og mun því ekki verða leitað fanga þar í þessari ritgerð. Auk þess hafa sel og seljabúskapur án efa vakið áhuga leikmanna og því er hægt að búast við einhverjir utan fornleifafræði hafi tekið saman upplýsingar um sel og seljabúskap og minjar þeirra á ákveðnum svæðum. Ekki verður leitast við að komast yfir slíkar samantektir þar sem ekki er um raunverulegar fornleifarannsóknir að ræða þótt þær geti án efa búið yfir upplýsingum sem gætu reynst áhugaverðar og merkilegar.
Hver er staða þekkingar á seljum í dag?
Þær fornleifafræðilegu rannsóknir sem gerðar hafa verið á seljum hingað til hafa veitt nokkra innsýn í sel og seljabúskap á Íslandi en þó er mörgum spurningum enn ósvarað. Helstu atriði, sem skoðuð hafa verið, eru rústirnar sjálfar, hæð þeirra yfir sjávarmáli, fjöldi húsa og rýma, fjarlægð frá bæ og dýrleiki heimajarða. Hugsanlegri notkun norska módelsins, þ.e. skiptingu selja í mjólkursel, aðfangasel, alsel og jafnvel heimasel, sumarsel og millisel (sjá Reinton 1969) hér á landi hefur verið velt upp af nokkrum rannsakendum en engin ákveðin afstaða virðist vera til notkunar þess hér á landi. Í flestum tilfellum er samstaða um að í seli séu þrjú hús/rými og oftast kvíar eða annað aðhald auk þess. Þau eru oftast fjarri bæjum, nálægt góðum beitarhögum og ám/lækjum þótt til séu undantekningar á því eins og öðru. Seljarústir eru yfirleitt í smærri kantinum og er gengið út frá því að í seljum sé að jafnaði ekki mikil mannvistaruppsöfnun þannig að bæjarhólar og aðrir slíkir mannvistarhólar finnast þar yfirleitt ekki. Margir nota túngarða sem breytu þegar verið er að áætla hvort um sel eða bæ er að ræða og þá er reglan sú að við sel séu ekki túngarðar.
Uppgröftur á seljum hefur gefið meiri og ítarlegri upplýsingar varðandi starfsemina þar en til voru áður og eru vísbendingar um að mun fleira hafi farið fram í þeim en hinn hefðbundni mjólkurbúskapur sem þekktur er frá seinni öldum (sjá t.d. umfjöllun um Pálstóftir hér að framan). Hugmyndinni um að fleiri auðlindir en beit og mjólkurvinnsla hafi verið nýttar á meðan á seljatímanum stóð hefur verið velt upp í sumum rannsóknanna en lítið hefur verið fjallað um í hve miklum mæli nýting á auðlindum gæti hafa verið, t.d. hvort mjólkurvinnslan hafi verið stærsti hlutinn eða hvort nýting annarra auðlinda hafi gegnt stærra hlutverki en hingað til hefur verið talið. Hér spilar líka tíminn inn í og það verður að segjast að allt of fáir hafa velt því upp í alvöru hvort seljabúskapur hafi breyst í tímans rás.
Í tengslum við þetta má líka benda á að ekki er alltaf gerður nægilegur greinarmunur á kynslóðum þeirra selja sem verið er að vinna með í rannsóknum. Það skiptir máli hvort rústir, sem verið er að rannsaka, eru frá sama tíma eða ekki. Ef t.d. 12 rústir eru í selstöðu þá getur verið um fleiri en eina og fleiri en tvær kynslóðir selja að ræða. Ekki er nóg að skrá mikinn fjölda selja og segja að tölfræðilega séu mörg sel á vissum stöðum (sjá t.d. aftast í Guðrún Sveinbjarnardóttir 2011) án þess að meta hvort um mismunandi kynslóðir er að ræða. Slíkar alhæfingar eru í líkingu við það að segja að á vissu svæði séu mörg eyðibýli en gera ekki greinarmun á eyðibýlum frá 11. og 19. öld. Að sama skapi þarf að skoða þann möguleika að margir bæir hafi notað sama selið eins og Birna Lárusdóttir hefur rætt um að hugsanlega hafi átt sér stað í Reykjahverfi í Norðurþingi (Birna Lárusdóttir 2006:61).
Að síðustu er sláandi hve fáir hafa fjallað um mun á seljum milli sveita, t.d. staðsetningu þeirra og rústunum sjálfum. Staðarval er greinilega mjög breytilegt eftir landsvæðum en athygli rannsakenda hefur aðallega beinst að því að skoða staðsetningu með tilliti til hæðar yfir sjávarmáli. Ljóst er að landslag hvers svæðis hlýtur að hafa mikil áhrif á staðarval en fleira þarf þó að skoða og bera saman á milli svæða. Er það bara landslagið sem hefur áhrif á staðsetningu seljanna? Er húsagerðin mismunandi? Er hún mismunandi á ákveðnum tímum eða hefur hún alltaf verið það? Eru sömu auðlindir nýttar í sama magni? Eru ákveðnar byggingar tengdar ákveðnum athöfnum bara að finna á sérstökum svæðum? Þannig mætti lengi telja. Rannsakendur þurfa að viðurkenna að það er munur á milli svæða og að mínu mati er ógerningur að alhæfa á landsvísu margt sem viðkemur seljum. Ýmsir þættir tengjast án efa á milli svæða eða yfir landið allt, t.d. gæti hluti ástæðunnar fyrir því af hverju seljabúskapur leggst af í síðasta lagi í byrjun 20. aldar átt við allt landið eða stór landsvæði. En ég tel að í fæstum tilvikum sé hægt að alhæfa um sel og seljabúskap á stórum landsvæðum þar sem landslag er mjög ólíkt.
Auðvitað þarf mun fleiri og viðameiri rannsóknir á seljum og seljabúskap til að svara ofangreindum spurningum, auk annarra, t.d. varðandi upphaf og endalok seljabúskapar, áhrif hans á samfélagið og stöðu þeirra sem í seljunum voru en ég tel þó mikilvægt að fræðimenn fari að velta þeim upp í rólegheitum. Fleiri rannsóknir munu án efa verða gerðar á næstu árum enda eru sel í tísku um þessar mundir sem rannsóknarefni. Væntanlega mun með hverri rannsókn safnast ný þekking í sarpinn enda eigum við enn margt ólært um sel og seljabúskap á Íslandi í tíma og rúmi.
Seljarannsóknir á Norðurlöndum á síðustu árum
Sel hafa ekki einungis verið rannsökuð á Íslandi á síðustu áratugum heldur einnig á hinum Norðurlöndunum en seljabúskapur er einmitt landnýtingarform sem barst að öllum líkindum hingað til lands með landnámsmönnunum. Ein umtalaðasta seljarannsókn Norðurlanda er rannsókn Reintons, norsks sagnfræðings, (sjá Reinton 1969) þar sem hann setti fram hugmyndir sínar um mismunandi gerðir selja í Noregi (nefnt norska módelið hér að framan og eftirleiðis). Samkvæmt Reinton eru í Noregi til þrjár yfirgerðir selja: heimasel, millisel og fjar- eða fjallsel, tvö hin síðarnefndu einnig nefnd sumarsel. Heimaselin voru oft stoppistöðvar á leið í sumarselin (Reinton 1969:25- 28). Hver bær gat haft fleiri en eina gerð sels. Undir yfirgerðunum þremur eru síðan undirgerðir sem ráðast að mestu leyti af landslagi hvers svæðis fyrir sig og eru þær þrjár helstu alsel, mjólkursel og sláttusel. Nöfn undirseljanna skýra sig að nokkru leyti sjálf. Alselin voru algengust og þannig nýtt að verið var þar allt sumarið og afurðir ekki fluttar heim á bæ fyrr en um haustið. Margs konar verk voru unnin í selinu, ekki bara tengd búsmala heldur einnig nýting á auðlindum í nágrenninu. Í mjólkurseljum var aðaláherslan á mjaltir ánna og var mjólkin yfirleitt flutt heim og unnin áfram þar. Sláttuselin höfðu það hlutverk helst að safna heyi til vetrarfóðurs. Sel af þessari gerð virðast ekki hafa verið algeng víða en nýting sláttu- og mjólkurselja hefur verið takmarkaðri en nýting alselja (ibid.: 28-29). Þótt rannsóknir Reintons eigi við miðaldir þá voru sel til í Noregi á víkingatímanum þegar land er numið á Íslandi og enn hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að nýting á beitarlandi hafi breyst mikið frá 800 til 1350 e. Kr. þótt selhúsin hafi örlítið breytt um svip (Øye og Myhre 2002:372-3). Þannig er allt eins líklegt að seljagerðir Reintons geti átt sér stoð í raunveruleikanum allt aftur á víkingaöld.
Á Grænlandi hafa einnig farið fram rannsóknir á seljum og var gróðurfar selstöðu í Vatnahverfi í Eystribyggð rannsakað nýlega með frjókorna- rannsóknum og tengdum aðferðum. Þannig var uppbygging selsins tímasett og áhrif þess á vistkerfið skoðuð auk þess sem breytingar á landnýtingu í selstöðunni voru greinanlegar í frjókornaritum (sjá Ledger et al. 2013). Að ákveðnu leyti byggist umræða rannsóknarinnar á rannsókn Albrethsens og Kellers sem birt var 1986 (sjá Albrethsen og Keller 1986) en þeir kortlögðu mögulegar seljarústir við Eiríksfjörð í Eystribyggð og ræddu m.a. tengsl rústanna við norska módelið sem nefnt var hér að framan. Selið, sem Ledger og félagar rannsökuðu, var sett á laggirnar um 1050-1150 og verður greinileg aukning á landnýtingu þannig að farið er að slá meira og safna heyi um 1225-1325. Höfundar telja það benda til þess að starfsemi selsins hafi breyst í þá átt að slá og safna vetrarfóðri á meðan beit hafi jafnvel verið færð fjær selinu eða að selstaðan hafi einfaldlega þróast yfir í býli (Ledger et al. 2013:819).
Sel og seljabúskapur
Þótt fornleifarannsóknir á seljum hafi gefið af sér nýjar upplýsingar, sumar sem ýtt hafa undir nýja hugsun varðandi sel og seljabúskap, eru þó enn mörg göt í þekkingunni sem mikilvægt er að fylla í með fleiri og víðtækari rannsóknum. Seljarannsóknir á Íslandi hafa víða gefið upplýsingar um aldur seljanna og jafnvel að einhverju leyti umfang búskaparins í þeim. Hafa margar rannsóknanna hingað til verið uppgreftir af mismunandi stærðum og eru prufuholurannsóknir algengastar. Slíkar rannsóknir gefa þó alltaf takmarkaða niðurstöðu eins og gefur að skilja og er því varla hægt að gera ráð fyrir að annað komi út úr þeim en aldur og eðli rústanna. Undantekningin á þessu er ef tekin eru sýni til annars konar rannsókna, s.s. frjókorna- og skordýrarannsókna, líkt og gert hefur verið í rannsóknum á seljum Reykholts. Færri seljarannsóknir hafa grundvallast á fornleifaskráningu en slíkar rannsóknir hafa það fram yfir uppgraftarrannsóknir að hægt er að rannsaka minjar á stærra svæði og fá þannig yfirlit yfir heilar sveitir eða aðrar ákjósanlegar einingar eins og gert hefur verið í verkefninu Seljabúskapur á norðanverðu Snæfellsnesi. Hins vegar getur verið erfiðara að aldursgreina rústir með nokkurri nákvæmni eða gera sér grein fyrir hvað fram hefur farið á staðnum þegar um skráningarrannsóknir er að ræða. Það er því ljóst að mismunandi rannsóknaraðferðir gefa af sér ólík gögn og hefur hver aðferð sína kosti og galla.
Mestum upplýsingum hefur hingað til verið safnað um aldur selja, fjölda rústa og rýma í seljum, hæð yfir sjávarmáli, dýrleika jarða og fjarlægð frá bæ. Slíkar upplýsingar eru góðar og gildar og gefa t.a.m. hugmynd um tengsl jarðastærða við seljabúskap, áhrif landslags á staðsetningar selja og umfang seljabúskaparins út frá rústum seljanna. Hins vegar hefur sjaldan verið fjallað um mannlega þætti seljabúskaparins, þ.e. hvaða fólk var í seljum og hver staða þess var, eða breytileika seljabúskaparins. Það er nefnilega svo eins og fram kom í fyrsta hluta þessarar ritgerðar að gætt hefur hugmynda um ákveðna einsleitni í seljabúskap á Íslandi og hvort sem það er orsök eða afleiðing þess að selin eru oft ekki skoðuð í tengslum við samhengi þeirra, hvort sem er landslag, efnahag eða samfélag, þá er ljóst að þetta er eitt vandamála seljarannsókna á Íslandi – það gleymist að setja selin í samhengi og gera ráð fyrir mismun og margbreytileika seljabúskaparins.
Seljabúskapur var hluti af flóknu samfélags- og efnahagslegu kerfi sem tekið hefur mið af þörfum samfélagsins en einnig hvers bæjar fyrir sig á hverjum tíma. Því er mikilvægt að skoða seljabúskap í tengslum við samhengi hans á hverju svæði fyrir sig. Einungis með því er hægt að fá innsýn inn í hvaða hlutverki þetta búskaparform gegndi og hvaða þættir höfu helst áhrif á það. Þótt grunnhugmyndin á bakvið seljabúskapinn virðist hafa verið sú sama á landsvísu benda rannsóknir eins og sú á Pálstóftum til þess að vinnsla í seljum hafi að einhverju leyti tekið mið af umhverfinu og þeim auðlindum sem í því voru. Rannsóknir á þessum þætti seljabúskapar gætu að mínu mati hjálpað til við að varpa ljósi á fjölbreytileika hans á Íslandi. Enn vantar þó meiri raungögn um seljabúskap á mismunandi svæðum til þess að hægt sé að skoða hvaða þættir voru ólíkir og hvaða þættir voru líkir í seljabúskap á Íslandi og hvað í samhengi seljanna hafi valdið þessum breytileika.
Sel á Íslandi – eðli og umfang
Seljabúskapur er æði gamalt fyrirbæri á Íslandi þótt skilningur á hugtakinu og því sem það stendur fyrir minnki með hverri kynslóð og trúlega hafa fæstir þeirra, sem fæddir eru á seinustu áratugum 20. aldar eða seinna, nokkra þekkingu á því. Ljóst er þó að seljabúskapur hefur haft stóru hlutverki að gegna í landbúnaði og þar með afkomu Íslendinga og er því vert að rannsaka fyrirbærið nánar. Í umræðunni hér á eftir verður leitast við að skoða ýmis atriði tengd seljabúskapnum, allt frá upphafi hans til endaloka. Farið verður yfir umfang hans og eðli, kjarna hans og aðra mögulega starfsemi í seljunum samhliða kjarnanum og að lokum verður seljahugtakið sjálft skoðað.
Upphaf og eðli
Seljabúskapur er talinn hafa komið með landnámsmönnunum til Íslands (m.a. Jakob Benediktsson 1972:718) og hugsanlegt er að hann hafi hafist strax í upphafi byggðar. Í Landnámabók er sagt frá landnámsmanninum Birni austræna í Bjarnarhöfn í Helgafellssveit en hann er sagður hafa haft „selför upp til Selja“ (Íslendinga sögur I:72). Vísbendingu um eina aðra selför er að finna í Landnámu en þar er Geirmundur heljarskinn sagður hafa haft selför í Bitru (ibid.:93). Íslendingasögurnar segja einnig frá selförum sögupersóna og ber þar helst að nefna frásagnir í Hrafnkels sögu Freysgoða (Íslendinga sögur X:83-87), Laxdæla sögu (Íslendinga sögur IV:97,169-170), Vatnsdæla sögu (Íslendinga sögur VII:101-103), Grettis sögu Ásmundarsonar (Íslendinga sögur VI:93,166-169) og Hallfreðar sögu vandræðaskálds (Íslendinga sögur VII:169). Erfitt er þó að meta sannleiksgildi þessara frásagna þegar kemur að því að reyna að átta sig á aldri seljabúskapar á Íslandi og eðli hans í upphafi. Líklegt verður þó að telja að seljabúskapurinn hafi í fyrstu fylgt norskum hefðum enda hafi hann verið hluti af landbúnaði Noregs í langan tíma fyrir landnám Íslands. Þó má gera ráð fyrir ákveðinni aðlögun búskaparformsins að umhverfinu á Íslandi, bæði landslagi og samfélagi. Elsta heimild um seljabúskap í Íslenzku fornbréfasafni er frá því 1140 (ÍF I:180) en þótt víða séu selfarir nefndar í safninu eftir það fylgja sjaldnast meiri upplýsingar en að ákveðinn bær eða kirkja eigi selför á tilteknum stað.
Áhugavert er að velta upp þeirri staðreynd að sé farið í gamlar heimildir, s.s. Íslenzkt fornbréfasafn, þá er hugtakið selför helst notað í tengslum við seljabúskap. Hins vegar er mun algengara í yngri heimildum að talað sé um selstöður. Til að mynda er orðið selstaða notað í Jarðabókinni og er það mun algengara en selför, í það minnsta í skrifum um Hnappadals- og Snæfellsnessýslu. Að sama skapi eru orðin sel og selför notuð í Grágás (2001:319-320) en sætur og setur í Jónsbók (2004:186,198) og má líklega rekja þá orðnotkun til norskra lagabálka. Þessi breyting á orðnotkun ein og sér vekur forvitni og er vert að velta því fyrir sér hvort einungis er um breytt orðaval að ræða í tímans rás sem þýði í raun ekki neitt eða hvort breyting hafi orðið á seljabúskapnum, hugsanlega á landsvísu þar sem ekki ekki virðist endilega vera landsvæðamunur á notkun þessara orða, hvort heldur er á eðli búskaparháttanna eða framkvæmd.
Þessari spurningu verður ekki svarað hér en mig langar þó að benda á tengingu sem orðin selstaða og selstöð hafa vissulega við orðið verstöð. Bendir orðnotkunin til ákveðinnar vinnslueiningar og þess að selstaðan sé útstöð frá sínum heimabæ (sjá t.d. umfjöllun um útstöðvar og sel sem útstöð í Bjarni F. Einarsson og Sindri Ellertsson Csillag 2010:129,135-137). Þannig er selstaðan efnahagsleg eining innan býlisins og gegnir ákveðnu hlutverki í örheimi (en. micro-cosmos) býlisins. Þótt staðreyndin virðist vera sú að orðið selför hafi verið notað á fyrstu öldum en síðar selstöður í meira mæli yfir þessa búskaparhætti er ekki þar með sagt að tilvist seljabúskaparins sem efnahagsleg eining og útstöð hafi breyst í eðli sínu. Hins vegar er hægt að velta því upp hvort seljabúskapur hafi í upphafi verið stundaður meira af menningarlegum og jafnvel pólitískum ástæðum en brýnni þörf og hvort breytt orðaval geti stafað af meiri efnahaglsegum ávinningi af seljabúskapnum á seinni öldum og mikilvægi hans að því leyti – hann hafi þannig verið sambærilegur við verstöðvar.
Vísbendingar eru um að seljabúskapur hafi ekki verið stöðugur í gegnum aldirnar heldur hafi hann víða lagst af um tíma á ákveðnum stað og síðan verið tekinn upp aftur, jafnvel áratugum ef ekki öldum seinna. Ástæður þessa eru óljósar en í Íslenzku fornbréfasafni má lesa um deilur manna í millum vegna þess að aðili hefur hafið seljabúskap á gamalli selstöðu sem hann ekki hefur notkunarleyfi fyrir (t.d. ÍF V:365). Ljóst er að fyrst óvissa var um hver ætti tilgreinda selstöðu hlýtur annaðhvort að vera að endurnýjun hafi verið slík á svæðinu að upplýsingarnar hafi glatast eða þá að svo langur tími sé liðinn frá því síðast var haft í seli á viðkomandi stað að vitneskjan um selstöðurnar sé við það að glatast. Af þessu að dæma, sem og skráðum fornleifum auk aldursgreininga líkt og í Þórsárdalsseli sem fjallað var um í II. hluta ritgerðarinnar, er ljóst að víða eru nokkrar, jafnvel margar, kynslóðir selja á sama stað. Þær geta verið til komnar af því að nýjar byggingar voru reistar á stöðugum selstöðum þegar þurfa þótti eða vegna þess að gamlar selstöður voru teknar aftur í notkun og nýjar byggingar byggðar í stað þess að lappa upp á þær sem fyrir voru. Þannig geta sýnilegar kynslóðir selja verið bæði dæmi um samfellu (en. continuity) í seljabúskap en einnig rof (en. discontinuity).
Sums staðar hafa bæir og/eða kirkjur átt fleiri en eina selstöðu. Sést þetta í Íslenzku fornbréfasafni þar sem t.a.m. Grenjaðarstaðarkirkja í Suður-Þingeyjarsýslu á tvö sel; selför til Kringluvatns og hálfa selför „í skarði uppi“ (ÍF II:431). Ekki er ljóst hvort um mismunandi tegundir selja hefur verið að ræða eða hvort búsmalanum hefur einfaldlega verið skipt upp til að nýta betur landið eða vegna landþrengsla í selstöðunum. Annar möguleiki er einnig að selstöðurnar hafi ekki verið nýttar samtímis heldur til skiptis. Ástæðuna fyrir slíkri nýtingu er erfitt að sjá en mögulega hefur það verið vegna viðkvæms gróðurs eða nýtingar ákveðinna auðlinda í hvorri selstöðunni fyrir sig. Í Noregi var þekkt að bæir ættu fleiri en eitt sel og flyttu sig á milli þeirra á ákveðinn hátt sem bundinn var í hefðir (Myhre og Øye 2002:370). Engar vísbendingar eru þó enn um að þetta hafi verið gert hér á landi.
Í rannsóknum Guðrúnar Sveinbjarnardóttur á seljum Reykholts í Borgarfirði hefur þó komið í ljós að staðurinn átti fleiri en eitt sel. Var eitt þeirra, Faxadalur, í notkun líklega allt frá 11./12. öld og fram á þá 19. Engar vísbendingar var að finna um að selið hefði nokkurn tíma lagst af á þessu tímabili. Tvö önnur sel Reykholts hafa verið rannsökuð, Reykholtssel og Norðurtungusel, en þau voru ekki í notkun á sama tíma og virðist Norðurtungusel hafa verið leigt út á seinni öldum en seljabúskap þar lauk ekki fyrr en um miðja 19. öld. Ekki er ljóst hvers vegna Reykholt hafði í seli að því er virðist á tveimur stöðum í einu og engar vísbendingar fundust um ólíka starfsemi á stöðunum (Guðrún Sveinbjarnardóttir og Egill Erlendsson 2012).
Umfang seljabúskapar
Af ofangreindri umræðu má sjá að varla er hægt að búast við því að seljabúskapur á Íslandi hafi verið byggður á landlægu kerfi sem var eins alls staðar, bæði í framkvæmd og eðli. Án efa hefur umfang seljabúskaparins verið mismunandi, svo sem áherslur, staðsetningar og annað. Erfitt er að áætla umfang hans á hverjum stað út frá fornleifum, hve margir voru í selinu á hverjum tíma og hve mikið var gert þar, nema með uppgrefti á þeim í heild sinni. Út frá rústum á yfirborði er hugsanlega hægt að meta hvort húsin þykja lítil eða stór, mörg eða fá, og draga þannig ályktanir varðandi umsvif á staðnum en slíkar ályktanir eru þó einungis getgátur sem dregnar eru upp í ljósi þeirra staðreynda sem fyrir hendi eru.
Heimildir um seljabúskap í Íslenzku fornbréfasafni eru margar en þó ekki margvíslegar. Oft er einungis sagt að umtalaður bær eða kirkja eigi selför á ákveðnum stað og síðan ekki söguna meir. Þó er hægt að lesa út úr öllum færslunum í heild að selfarir hafa verið mikilvæg ítök, líkt og skógarhögg eða reki, og að seljabúskapur virðist ekki hafa verið stöðugur alls staðar heldur hafa sel fallið úr notkun og síðan verið tekin í notkun á ný eins og nefnt var hér að framan. Í Fornbréfasafninu er nefnt að farið hafi verið með kindur, kýr, hross og jafnvel geitur í sel (t.d. ÍF III:566,621; ÍF V:266). Hrossin eru þarna líklega vinnudýr, m.a. til að flytja heim á bæ afurðir sem framleiddar voru í selinu en ólíklegt verður að teljast að hryssur hafi verið færðar í sel til mjalta eins og annar búsmali þótt neysla kaplamjólkur sé þekkt.
Benedikt Eyþórsson sagnfræðingur kom inn á seljabúskap í meistararitgerð sinni um búskap og rekstur í Reykholti (Benedikt Eyþórsson 2008:117-129). Fjallar hann um seljabúskap og eðli hans út frá Íslendingasögunum og öðrum heimildum og kemst að þeirri niðurstöðu að tvö kerfi seljabúskapar hafi tíðkast á Íslandi: 1) fámennar selfarir þar sem aðaláhersla var á beit og mjólkurvinnslu og 2) fjölmennar selfarir þar sem meirihluti fólks á bænum fór í selið og vann þar fleiri störf en þau sem viðkomu beit og mjólkurvinnslu. Telur Benedikt þetta kerfi líkjast fulseterbruk (ís. alsel) kerfinu í Noregi og að kerfin tvö hafi verið notuð hér á landi þegar á miðöldum (ibid.:128). Verð ég að segja að mér finnst að þær vísbendingar fyrir tvöföldu kerfi í seljabúskapnum allt frá upphafi seljabúskapar og a.m.k. fram á 17. öld, sem Benedikt dregur fram, beri að taka alvarlega. Þó verð ég að slá varnagla við frásagnir í annálum um selfarir á 17. öld sem hægt er að túlka bæði sem fjölmennar selfarir en einnig þannig að heimilisfólk hafi verið í heimsókn í selinu. Í báðum tilfellum brenna heimabæirnir og allt fólk bjargast því það er í seli (Annálar 1922-1927:209,242-243) en bæjarbruni fær mann til að velta því fyrir sér hvort fólk hafi ekki einungis brugðið sér af bæ í stuttan tíma. Myndi fólk skilja eftir glóð eða annað sem gæti valdið brunahættu ef það væri að fara af bæ til lengri tíma? Þótt síðari tíma hugmyndir um seljabúskap séu að mestu leyti byggðar á hugmyndum um fámennar selfarir, sauðfé og mjólkurvinnslu þá er næsta víst að þessi hugmynd á ekki við um öll sel í gegnum alla Íslandssöguna og líklegast er að hugmyndir þessar séu sprottnar upp úr frásögnum fólks sem síðast var í seljunum (sbr. t.d. Bragi Sigurjónsson 1953:253-255 og Hólmgeir Þorsteinsson 1972, þótt báðir tali þeir einnig um kýr í selinu) auk frásagna fræðimanna eins og Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili. Segir Jónas að í seli hafi einungis verið ein selráðskona og smali en ef fé var margt hafi selráðskonan tekið með sér eina eða tvær unglingsstúlkur til viðbótar (Jónas Jónasson 1945:62). Gera verður ráð fyrir að hafi seljabúskapur borist strax með fyrstu landnámsmönnum og síðan áfram með þeim sem seinna komu þá hafi hann ekki verið einsleitur heldur jafnvel hver gert hlutina á þann hátt sem hann þekkti og vildi. Þannig er mögulegt að seljabúskapur hafi með tímanum þróast yfir í tvöfalt kerfi sem þótti henta íslensku samfélagi.
Segja má að það sem fram kemur í Íslenzku fornbréfasafni um seljabúskap stangist ekki á við hugmyndir Benedikts um tvöfalt kerfi í seljabúskap á Íslandi. Þó ýtir það frekar undir hugmyndir um fámennari selfarir þar sem hvergi er fjallað greinilega um stórtækari selfarir eða starfa í seljunum. Ekki er þó öll sagan sögð með rituðum heimildum og er Íslenzkt fornbréfasafn auðvitað einungis safn bréfa sem varðveist hafa og ómögulegt að segja hvað hefur staðið í bréfum sem glötuð eru. Að sama skapi eru allar hugmyndir okkar um seljabúskap á Íslandi byggðar á götóttum heimildum fyrri alda og orðmörgum lýsingum seinni alda selfara. Hér þyrfti fornleifafræðin að koma til skjalanna og hjálpa til við að stoppa í götin og reyna að varpa frekara ljósi á umfang seljabúskapar og starfann í seljunum.
Fornleifafræðilega séð er kenningin um tvöfalt kerfi í seljabúskapnum vandkvæðum háð því óljóst er hvort og hvernig hægt er að greina slíkt kerfi í fornleifunum. Líklegt er að bæði fámennar og fjölmennar selfarir hafi skilið eftir sig minjar þar sem selja- búskapurinn virðist alltaf hafa kallað á að hafa kvíar/aðhald og geymslu og/eða vinnslurými. Hér verður því gengið út frá að minni selfarirnar sjáist glöggt í fornleifunum og möguleikinn á fámennum selförum sem eru ósýnilegar í fornleifafræðilegu tilliti útilokaður. Slíkar athafnir, þ.e. mjaltir og meðhöndlun búsmala þar sem engar varanlegar byggingar eru, kýs ég að kalla ekki seljabúskap. Sé litið á gögn sem safnað var í verkefninu Seljabúskapur á norðanverðu Snæfellsnesi er ljóst að erfitt er að greina vísbendingar um fámennar selfarir annars vegar og fjölmennar hins vegar. Helsta ástæða þessa er að með yfirborðsskráningu er ekki hægt að staðfesta hvaða rými seljanna voru íverurými selfólksins. Í sumum seljunum, s.s. Grundarseli í Eyrarsveit (sjá mynd 9), eru rústirnar fáar og ekki mjög stórar og gefur það þá tilfinningu að ekki hafi margir dvalið í selinu. Hér kemur þá upp spurningin um hvort einhver hluti selfólksins, sem kannski hefur dvalið í selinu tímabundið við ákveðin störf, hafi hafst við í mannvirkjum sem nú eru horfin af yfirborði. Það væru þá helst tjöld, sem gætu hafa verið með hlöðnum grunni eða slíku. Hugmynd þessari er þó einungis kastað hér fram án frekari vísbendinga um að notkun tjalda í seljum hafi tíðkast.
Annar möguleiki varðandi fjölmennar selfarir er einnig sá að einhver hluti fólksins hafi farið fram og til baka yfir daginn og einungis lítill hluti selfólksins hafst við í selinu yfir nóttina. Slíkan möguleika þarf þó að skoða í tengslum við hvert sel fyrir sig með tilliti til fjarlægðar frá bæ og aðgengis að selinu. Í sumum seljum eru rústir þó fleiri og/eða með stærri rýmum og er það vísbending um fjölmennari selfarir þar sem fólk dvaldi allt í selhúsunum. Sem dæmi um slíkt má nefna Svelgsársel neðra í Helgafellssveit (sjá mynd 10) en þar eru þrjú rými sem gætu komið til greina sem íverurými og gætu einhver þeirra jafnvel verið samtíða. Nálægt því seli fannst einnig heystæði sem hugsanlega hefur verið heyjað í á seltímanum.
Þegar litið er á fornleifarnar virðast ekki forsendur fyrir að skipta selstöðunum í Helgafells- og Eyrarsveit í tvo hópa, fámennar og fjölmennar selfarir, og í reynd má spyrja hvort nokkuð vinnst með slíkum bókhaldsæfingum. Upplýsingar um fjölda fólks í seljum eru áhugaverðar og geta gefið hugmynd um hve mikil framleiðni selsins var og hve mikið af auðlindum í nágrenni þess gætu hafa verið nýttar en það segir þó ekki alla söguna. Ekki er mikilvægast að skoða hve margt var í seljunum hverju sinni heldur frekar hver tilgangur og áhrif seljanna voru í efnahagslegum og samfélagslegum skilningi. Til er frásögn af ferðalangi á fyrri hluta 19. aldar sem er á ferð nálægt seli Þorlákshafnar sunnan við Hellisheiði og kemur þar við til að fá sér að drekka því hann er þyrstur og sér reyk í selinu (Skúli Helgason 1963). Þannig er líklegt að í seljunum hafi ekki óviðkomandi verið bannaður aðgangur heldur hafi þau verið vinnslustöð og dvalarstaður fólks þar sem gestir og gangandi voru velkomnir. Aðrar seinni tíma frásagnir segja einnig frá gestakomum í selin, sérstaklega um helgar, og var þá oft glatt á hjalla (Bragi Sigurjónsson 1953:254; Hólmgeir Þorsteinsson 1972:143). Ekki síður væri mikilvægt að rannsaka stöðu þeirra sem í seljunum voru, ekki bara hve margir voru þar heldur hverjir. Var selfólkið eingöngu hraust vinnufólk á góðum aldri eða fóru húsbændur í selin líka? Voru liðléttingar skildir eftir heima á bæ ef margir fóru í sel eða var þeim einnig fengin vinna þar?
Hvað fór fram í seljum?
Eins og fram hefur komið hér að framan snýst grunnhugmyndin um seljabúskap á Íslandi um beit búpenings, mjaltir og mjólkurvinnslu í seljunum. Fólk dvaldist í seljunum frá fráfærum á vorin og fram eftir sumri og voru afurðirnar, sem til urðu í selinu, fluttar heim á bæ með reglulegu millibili (Jónas Jónasson 1945:62-63). Nauðsynlegt var að hafa aðgang að vatni til þess að þrífa ílátin, sem nota þurfti við mjólkurvinnsluna, auk þess sem íveruhús, eldhús og geymsluhús voru talin hinn venjulegi húsakostur í seljum (m.a. Jónas Jónasson 1945:62).
Því hefur verið haldið fram að í seljum hafi ekki verið eldstæði, heldur sé slíkt vísbending um heilsársbúsetu: „Mér finnst ólíklegt að seljafólk hafi ómakað sig á að halda eldi lifandi í húsum sínum yfir hásumarið“ (Gunnar Karlsson 2009:107) eru orð sem Gunnar Karlsson hafði um eldstæði sem fannst á Pálstóftum. Sé Íslenzkt fornbréfasafn skoðað kemur í ljós að staðhæfing þessi getur vart staðist þar sem greinilegt er að í seljum var eldiviður nauðsynlegur, ekki síst í ljósi þess að hita þarf mjólk – flóa hana – til þess að hægt sé að gera úr henni skyr (sbr. Hólmgeir Þorsteinsson 1972:141-142). Sést þetta einnig á því að eigendur jarða gefa leyfi fyrir eldiviðartöku eins og selin þurftu (sjá t.d. ÍF V, 707; ÍF III, 137). Að auki er ljóst að ýmis önnur not voru höfð af eldstæðum en til þess að ylja sér við eingöngu og tel ég að ekki nokkur fornleifafræðingur myndi halda því fram að eldstæði væri skýrt merki um heilsársbúsetu þar sem gera má ráð fyrir að eldstæði geti fundist á flestum stöðum, ef ekki öllum, þar sem menn hafa á annað borð hafst við.
Í hinni hefðbundnu sýn á seljabúskapinn sá kvenfólkið um öll mjólkurverk og annað sem þeim tengdist í selinu en smalinn sá um að koma búsmalanum í og úr haga á milli mjalta. Samkvæmt þeirri mynd sem dregin er upp af selförum í eldri heimildum er þó óljósara hver gegndi hvaða hlutverki í seljabúskapnum. Þó eru til nokkur dæmi um frásagnir af verkaskiptingu í seljum. Í Hrafnkels sögu Freysgoða segir frá konum sem mjólka í seli Hrafnkels auk þess sem Einar smali á að viða heim öllum sumarviði á meðan hann er í seli (Íslendinga sögur X:83,86). Í Laxdæla sögu segir frá húskörlum sem stunda heyverk í seli (Íslendinga sögur IV:167) en þó lítur út fyrir að það sé eftir að seljatímanum lýkur og í Grettis sögu segir frá Auðuni á Auðunarstöðum sem fer í sel og kemur heim með mat þaðan, m.a. skyr (Íslendinga sögur VI:93). Þessar frásagnir ríma þó við verkaskiptingar í yngri heimildum.
Fornleifarannsóknir á Íslandi hafa því miður ekki gefið miklar upplýsingar um það sem fram fór í seljunum, helst sökum þess hve fá sel hafa verið grafin upp. Upplýsingar, sem þó hafa safnast, eru áhugaverðar og gefa að nokkru leyti nýja sýn á verkefni selfólksins. Ber þar helst að nefna niðurstöður uppgraftarins á Pálstóftum sem fjallað var um í I. hluta þessarar ritgerðar en þar fundust vísbendingar um að skartgripasmíði hafi verið stunduð í selinu auk þess sem gæsabein benda til þess að gæsir hafi verið veiddar í nágrenninu og nýttar í selinu og/eða fluttar heim á bæ (Lucas 2008:91-92). Þótt vísbendingar finnist í seljum um hvað þar fór fram getur fornleifafræðin ekki sagt okkur hver vann hvaða störf og því er ekki hægt að vita hvort hlutverk kynjanna í seljabúskapnum hefur breyst í aldanna rás. Líklegt er þó að ekki einungis kyngervi hafi ráðið verkum fólks í seljum heldur einnig staða og aldur. Mætti því ef til vill spyrja hvort siðir og venjur hafi stjórnað því hvort ákveðnir heimilismenn færu í selið og hvort veran í selinu hafi verið eftirsótt eða ekki, hvort hún hafi verið virðingarverð og veitt fólki upphafningu – eða jafnvel þvert á móti.
Kjarni seljabúskapar og önnur starfsemi
Enn bendir flest til þess að grunnurinn í seljabúskap á Íslandi hafi verið búsmalinn, beitin og mjólkurvinnslan sem honum tengdist þótt rannsóknir eins og sú á Pálstóftum hafi náð að víkka þá sýn nokkuð. Færslur í Íslenzku fornbréfasafni gefa sterklega til kynna að búsmalinn sé kjarni selfararinnar. Þannig er minnst á búsmala eða sauðfé/kýr/geitur/hesta víða þar sem meira er sagt um selfarir en bara það að ákveðin kirkja eða jörð eigi selför á tilteknum stað (t.d. ÍF I:577; ÍF II:447,671; ÍF III:363; ÍF IV:161; ÍF XIV:251) og hvergi í heimildum er getið um að kjarni þess sem fram fór í seljum hafi verið annað en ofangreint.
Hér verður ekki skilið á milli kúaselja annars vegar og fjárselja hins vegar enda ekki litið svo á að vinna í seljunum hafi verið mjög ólík hvort sem haldnar voru þar kýr, ær eða geitur. Dæmi eru í Helgafells- og Eyrarsveit um staði þar sem hugsanlegt er að seljabúskapur með kýr og ær hafi verið stundaður í sama selinu en til að geta séð það út frá vettvangsskráningu seljarústanna þarf að gera ráð fyrir að kýrnar hafi verið hýstar yfir nóttina og því sé sérstakt mannvirki að finna í slíkum seljum, hagafjós. Þeir staðir eru m.a. Staðarbakkasel í Gautsstaðagróf í Helgafellssveit – en þar eru bæði tvöfaldar kvíar og stór aflöng rúst sem gæti verið hagafjós – og Gilssel í landi Kvernár í Eyrarsveit en þar er einnig að finna hugsanlegar kvíar og hagafjós. Munurinn er þó sá að mögulega skiptist Gilsselið í tvær kynslóðir og gæti þá verið að hagafjósið tilheyri einungis annarri þeirra og líklega hinni eldri.
Sé litið til fornleifafræðinnar blasir við ákveðið vandamál þegar skoða á þennan meinta kjarna seljabúskaparins, beitina og mjólkurvinnsluna, eins og Gavin Lucas hefur bent á í tengslum við rannsóknina á Pálstóftum (Lucas 2008:92; Lucas 2011:196-197). Tilvist rennandi vatns eða annarrar góðrar vatnsuppsprettu er ágæt vísbending þegar kemur að því að draga ályktanir um mjólkurvinnslu á staðnum. Sé slíkt ekki fyrir hendi er ólíklegt að mjólk hafi svo nokkru nemi verið unnin á staðnum en þó verður að gera ráð fyrir tímanum í þessu samhengi og taka mark á því að landið er síbreytilegt og lækir og vatnsuppsprettur geta horfið í tímans rás. Auk þessa er mögulegt að rigningarvatni hafi verið safnað eða brunnar grafnir. Yfir höfuð er eina leiðin að segja til um tilvist búsmala í seljum, þegar einungis er um yfirborðsrannsóknir að ræða, að skoða hvort mannvirki eru á staðnum sem tilheyra búsmala, s.s. kvíar, aðhöld, garðar eða slíkt. Séu þess konar mannvirki ekki til staðar er ekki hægt að vita með vissu hvort búsmali hafi verið haldinn á viðkomandi stað. Með uppgrefti er hins vegar hægt að segja meira og geta ýmsar greiningar komið þar að góðum notum, s.s. greiningar á skordýrum (sjá t.d. Vickers og Guðrún Sveinbjarnardóttir 2013), örformgerðargreiningar á jarðvegi þar sem m.a. er hægt að greina úrgang dýra og frjókornagreiningar þar sem hægt er að merkja breytingar á nýtingu lands, t.d. vegna beitar (sjá t.d. Borthwick, Edwards og Cook 2005; Ledger, Edwards og Schofield 2013). Auk þessa er mögulegt að finna ílát og önnur merki um mjólkurvinnslu. Vandamálið liggur þó ef til vill í því að þótt engar vísbendingar finnist er ekki hægt að slá því föstu að búpeningur hafi hvergi komið nærri í starfsemi selsins. Fræðilega séð getur því komið upp áhugaverð staða. Aðalgerandi (en. agent) seljabúskaparins að því er virðist, búsmalinn, getur verið ósýnilegur í fornleifunum sem vekur spurningar um hvernig skuli í því ljósi haga umfjöllun um sel. Var stundaður seljabúskapur án búsmala? Vangaveltur í tengslum við þessa síðustu spurningu verða teknar upp aftur síðar en fyrst skal hugað að öðrum starfa í selinu, ótengdum búsmalanum.
Nokkrar vísbendingar má finna í rituðum heimildum um að önnur aðföng eða ítök hafi verið nýtt á meðan á seltímanum stóð en þurfti í selinu sjálfu en slíkar vísbendingar eru þó ekki sterkar. Til að mynda má gera ráð fyrir að allar frásagnir af heyverkum í seljum teljist sem aðfanganýting fyrir heimabæinn þar sem hey teljast til vetrarfóðurs (sbr. ma. frásögn í Laxdæla sögu (Íslendinga sögur IV:167)). Frásögur af eldiviðartöku, hrísrifi og torfristu eru erfiðari viðureignar þar sem um nýtingu í seljunum eingöngu gæti verið að ræða (t.d. ÍF III:447; ÍF XV:435). Ljóst er að þótt fáar séu heimildirnar þá hefur nýting auðlinda í nágrenni selja sums staðar tíðkast og líklegt er að mjög víða hafi eldiviður fyrir selið verið fenginn úr nánasta umhverfi þess. Fyrir utan smávægilegar vísbendingar hér og þar er ágæt frásögn rituð af sr. Guðlaugi Sveinssyni þar sem hann lýsir ýmsum verkum í seljum í lok 18. aldar sem ekki einungis virðast vera draumsýn hans á seljabúskapinn heldur eiga sér stoð í raunveruleikanum (Guðlaugur Sveinsson 1786). Þannig fjallar Guðlaugur um hrístekju, kolagjörð, fjallagrasatekju og heyverk sem verk sem vert er að vinna í seli samhliða umhirðu búsmalans og mjólkurverkum.
Þótt vísbendingar um að ítök og auðlindir í nágrenni selja hafi verið nýtt meðan á seltímanum stóð séu litlar og víða engar er ekki þar með sagt að slíkt hafi ekki verið gert. Hugsanlegt er að slíkt hafi verið svo sjálfsagt að ekki hafi þótt vert að nefna það. Einnig getur verið að sums staðar hafi nýtingin verið í svo litlum mæli að ekki hafi þótt ástæða til að nefna hana og enn annars staðar getur auðvitað verið að selfólkið hafi einungis haft með búsmalann að gera og ekkert annað. Að mínu mati er það þó mjög mikil einföldun að gera ráð fyrir að ekkert annað hafi farið fram í seljum en mjólkurvinnsla og þegar greinilegar auðlindir eru í næsta nágrenni við sel verður að teljast líklegt að þær hafi verið nýttar að einhverju marki. Í ljósi þess að víða eru greinilegar auðlindir í nágrenni selja verður einnig að velta upp þeirri spurningu hvort seljum hafi að einhverju leyti verið valinn staður með nýtingu þeirra í huga.
Þó svo að skráningar á seljum geti sjaldnast gefið miklar vísbendingar um hvað í seljunum fór fram finnst mér sjálfsagt að líta á umhverfi seljanna til þess reyna út frá því að áætla hvaða auðlindir hafi verið hægt að nýta á svæðinu.
Seljabúskapur án búsmala?
Eins og áður sagði bendir ekkert til annars en að sel hafi verið mjög ákveðin gerð af vinnslustöð þar sem búsmali og mjólkurvinnsla voru í forgrunni en líklega þó með nýtingu annarra auðlinda í bland að meira eða minna leyti. Notkun orðsins sel á Íslandi yfir staði og vinnslustöðvar, sem ekki uppfylla þessi meginskilyrði, á sér því engan stuðning í raunveruleikanum eftir því sem næst verður komist. Þetta á við hvort sem litið er til fyrstu alda Íslandsbyggðar eða seinni alda. Notkun og tilbúningur hugtaka eins og „kolasel“ í íslensku samhengi þar sem enginn búskapur fór fram heldur einungis kolagjörð og hugsanlega skyldar athafnir er því ekki heppileg og ætti að forðast því það grefur undan hugtakinu sel og því sem það stendur fyrir.
Hvað er sel í fornleifafræðilegum skilningi?
Helsta vandamálið, þegar kemur að fornleifafræði og seljum, er hvernig þekkja skuli seljarústir á yfirborði. Það getur reynst misjafnlega erfitt og fer mikið eftir landsvæðum hve greinilegar rústirnar eru og hve auðvelt er að greina þær frá öðrum rústaþyrpingum, s.s. kotbýlum. Að geta skilið á milli sels og rústaþyrpingar með annað hlutverk liggur að miklu leyti hjá viðkomandi fornleifafræðingi og skiptir þá miklu að sá hinn sami hafi reynslu og þekki vel til minja á svæðinu sem verið er að rannsaka. Þetta á ekki einungis við þegar skráðar eru rústir með áður óþekkt hlutverk eða áður óþekktar rústir heldur einnig þegar skráðar eru þekktar rústir með meint þekkt hlutverk samkvæmt munnmælum því ekki er alltaf víst að þekking á hlutverki rústanna hafi borist rétt milli kynslóða. Annað sem getur valdið vandamálum er að fornleifar hafa oft gegnt fleiri en einu hlutverki í gegnum tíðina og getur reynst erfitt að greina þau hvert frá öðru á yfirborði. Til að mynda er mjög þekkt að beitarhús eða bæir hafi verið byggð á gömlum selstöðum og jafnvel bæði beitarhús og bæir. Í þeim tilfellum getur reynst erfitt eða jafnvel ómögulegt að greina undir öllu kraðakinu elstu rústirnar.
Fyrir utan þetta eru seljarústir svo mismunandi að sel lítur ekki alltaf út eins og sel. Hér kemur til þekking fornleifafræðingsins á minjum á svæðinu eins og fram kom hér að framan. Í tilfelli verkefnisins Seljabúskapur á norðanverðu Snæfellsnesi vorum við komin með ákveðna tilfinningu fyrir því hvað væru sel og hvað ekki eftir að hafa unnið ákveðinn tíma á svæðinu og skoðað rústir í Helgafellssveit í gönguferðum í nokkur ár. Það er erfitt að skýra hver grunnurinn í hugsanaganginum var en reyni maður að ráða í það hafði líklega mest að segja staðsetningar, landslagið umhverfis og svo rústirnar sjálfar. Yfirleitt samanstóð rústaþyrpingin af einni stórri rúst með þremur til fjórum rýmum auk kvía/aðhalds og jafnvel fleiri rústa eða mörgum litlum rústum og kvíum/aðhaldi. Einn stað skráðum við sem hafði örnefnið Sel (í landi Berserkseyrar) en þá rúst töldum við í raun ekki vera sel og var sú ályktun dregin af staðsetningu, umhverfi og útliti rústarinnar (sjá mynd 11) en engar aðrar rústir voru í nágrenni hennar. Það má því ætla að þessir þrír þættir hafi mikið með það að gera hvort um er að ræða sel eða ekki, a.m.k. í tilfelli Helgafells- og Eyrarsveitar. Ekki síst er mikilvægt að hafa í huga að í seli hljóta yfirleitt að vera minnst tvær rústir: marghólfa rúst með íverurými, geymslu og/eða vinnslurými og kvíarúst.
Erfitt er að búa til uppskrift af því hvernig seljarústir eiga að líta út. Þó hefur verið reynt að tína til ákveðin atriði sem hægt er að nota til að greina á milli selja og býla. Eitt er að ekki eru bæjarhólar í seljum. Það gefur augaleið að þessi punktur hefur eitthvað til síns máls enda var í flestum tilfellum einungis hafst við í seljum á sumrin og því er ekki mikil mannvistaruppsöfnun í þeim. Á móti kemur að margar sögur eru til af fólki, sérstaklega í seinni tíð, sem bjó í millibilsástandi í eitt eða fleiri ár í seljum. Ef slíkt hefur gerst í sama selinu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar er allt eins víst að mannvistaruppsöfnun hafi aukist og því hafi selið farið að líkjast meira bæ að því leyti. Engu að síður er selið áfram sel þótt það hafi verið bær á þessum ákveðna tímapunkti. Hér kemur því aftur upp vandamálið með breytileg hlutverk fornleifanna og áhrif mismunandi hlutverka á þær.
Næsta víst er að sé gengið út frá umræðunni hér að ofan varðandi kjarna seljabúskaparins er ljóst að eitt mikilvægt atriði verður undantekningarlítið að vera í seljum en það eru kvíar eða aðhald til þess að halda utan um búsmalann á meðan mjólkað er. Komi fornleifafræðingur að rústum með óþekkt hlutverk þar sem ekki eru kvíar eða aðhald er ólíklegt að sá hinn sami myndi túlka rústaþyrpinguna sem sel.
Líta verður á minjasvæðið sem heild og skoða rústirnar í samhengi við umhverfið – rannsaka menningarlandslagið. Þannig þarf að leggja saman gerðir rústanna, staðsetningu þeirra og umhverfi, auðlindir í nágrenninu, aðgengi og fjölda rústa. Ég vil ekki taka undir að hæð yfir sjávarmáli sé endilega atriði sem gott er að nota til að skilgreina sel á landsvísu en hitt er annað mál að sel eru líklega oftast staðsett ofar í landslaginu og lengra inn til landsins en heimabæir þeirra. Í Helgafellssveit þýðir þetta ekki marga metra yfir sjávarmáli en hins vegar yfirleitt nokkrum kílómetrum lengra inn til landsins, annaðhvort inn í dalina við fjöllin eða á sléttuna upp af ströndinni. Svona hefur landslag hvers svæðis áhrif á hvar seljum hefur verið valinn staður.
Bestu tilfinninguna gefur það auðvitað ef gengið er að selinu eftir gömlum leiðum, þjóðleiðum og selgötum, og mest gefandi væri að ganga frá hverjum heimabæ í viðkomandi sel. Það er þó því miður sjaldnast í boði þegar verið er að vinna fornleifaskráningu, aðallega tímans vegna. Sums staðar verður þó að ganga nokkurn spöl að seljunum sem gefur tækifæri til að ganga í gegnum landið og fá tilfinningu fyrir menningarlandslaginu og samhengi seljanna við landslagið.
Seljarústir geta verið margar eða fáar í hverri selstöðu og eru líklegustu áhrifavaldarnir í þeim efnum án efa samfella í seljabúskap, kynslóðir selja, umfang seljabúskaparins og nýting fleiri en eins bæjar á selstöðunni. Fjallað var um þessi atriði hér að framan en mig langar að nefna þau hér örstutt aftur til að leggja áherslu á hve ólíkar rústaþyrpingar selja geta verið og ekki megi gleyma þeim möguleika að um margar og jafnvel aðskildar kynslóðir geti verið að ræða í sömu selstöðunni. Einnig getur sama selstaðan hafa innihaldið sel margra bæja frá sama tíma.
Sel og seljabúskapur á Íslandi
Af umræðunni hér að framan má sjá að seljabúskapur á Íslandi hefur verið flóknari og margslungnari en frásagnir Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili gefa til kynna og það er langt því frá að við höfum á honum fullkominn skilning og þekkingu. Seljabúskapur hefur líklega fylgt landnámsmönnum hingað til lands strax í upphafi og hefur án efa tekið mið af þeim venjum sem hver og einn þekkti. Líklegt er því að seljabúskapurinn hafi ekki alls staðar verið eins í upphafi byggðar. Þessi mismunur á seljabúskapnum hefur haldist í gegnum tíðina en helgast líklega mest af landslagi hvers staðar og þeim áherslum sem hver og einn hafði í seljabúskapnum, þ.e. skepnufjölda og nýtingu annarra auðlinda. Ekki verður vart við neina stórfellda, landlæga breytingu á seljabúskap á Íslandi en breyting orðavals frá selför í selstöðu gæti bent til þess að einhvers konar breyting hafi orðið á búskaparháttunum þótt einnig gæti verið um nokkurn veginn merkingarlausa breytingu á orðnotkun að ræða. Seljabúskapur virðist hafa getað lagst af í nokkur ár eða jafnvel áratugi og síðan verið tekinn upp aftur. Á því eru engar haldbærar skýringar en líklega hafa aðstæður á hverjum bæ ráðið því eða breytingar á náttúrufari.
Hvað varðar seljabúskapinn sjálfan, umfang hans og verkin sem unnin voru í selinu er ljóst að kjarni seljabúskaparins hefur verði búsmalinn og mjólkurvinnslan sem honum fylgdi. Vinnslustaður, sem ekki byggðist á búsmala, ætti því ekki að kallast sel. Þó eru vísbendingar um að búsmalatengd vinna sé ekki sú eina sem hafi verið unnin í seljum og því eru miklar líkur á að víða hafi önnur aðföng verið nýtt úr nágrenni seljanna, bæði til hagnýtingar í seljunum sjálfum en einnig til að flytja heim á bæ. Líklegt er að til hafi verið fámennar og fjölmennar selfarir þar sem fjöldi fólks í selinu hefur haft áhrif á hve mikil afköst selsins voru hverju sinni. Hitt er svo annað mál að aðalatriðið er ekki endilega hve margir voru í selinu hverju sinni heldur frekar hvaða hlutverki selin gegndu í efnahags- og samfélagslegu tilliti. Þannig hafa selin að því er virðist ekki verið jaðarfyrirbæri heldur staðir sem jafnvel voru „í leiðinni“ og gestagangi vel tekið. Áhugavert væri að skoða hverjir voru í seljunum, hvaða starfa þeir höfðu og hvaða stöðu seljabúskapurinn hafði í samfélaginu – hvort vistin í seljunum var eftirsótt eða ekki. Að mínu mati ættu fræðimenn framtíðarinnar að spyrja sig spurninga af þessu tagi auk þess að reyna að setja seljabúskapinn á hverjum stað í samhengi við landslag, samfélag og efnahag til þess að auka skilning á honum á hverju svæði fyrir sig því seljabúskapur hefur ekki alltaf eða alls staðar verið það sama og seljabúskapur þótt kjarni hans hafi verið búsmalinn og störf honum tengd.
Samfélag og efnahagur
Seljabúskapurinn er partur af búskap bæja og spila þar líklega stórt hlutverk bæði hefðir og efnahagslegur ávinningur. Ekki var þó nóg að hafa einungis hugsjónina að vopni þegar kom að seljabúskap heldur þurfti bæði að hafa aðgang að landsvæði og mannskap til að geta stundað hann. Það var því ekki á allra færi að stunda seljabúskap þótt viljinn væri hugsanlega fyrir hendi. Engum sögum fer þó af því hvort bændur á minni bæjum, kotum og hjáleigum hafi haft áhuga á því að stunda sjálfir seljabúskap. Það er þó líklegt þar sem dæmi eru um í Jarðabókinni að hjáleigur megi nýta selstöðu með heimajörðinni.
Forsendubrestur
Ef reynt er að svara fyrri spurningunni er ljóst að eitthvað hlýtur að hafa sett af stað snjóboltann sem svo að lokum varð til þess að farið var að leggja niður selstöður; slíkt gerist ekki upp úr þurru. Grunnforsendur seljabúskaparins hljóta að hafa brostið eða í það minnsta breyst á einhverjum tímapunkti og ýtt þróuninni af stað. Líklegast er að hér sé um marga samverkandi þætti að ræða. Sé litið á framangreind atriði varðandi endalok seljabúskapar í samhengi við umræður um fólksfækkun og fiskleysi í Ferðabók Eggerts og Bjarna, auk ítarlegrar umfjöllunar Hitzlers um endalok seljabúskapar, er hægt að draga upp eftirfarandi mynd sem gæti skýrt upphaf þróunarinnar. Þessi skýring er byggð bæði á land- og svæðisbundnum upplýsingum en vísbendingarnar eru fáar og því verður víða að geta í eyðurnar.
Á árunum 1200-1500 eru vísbendingar um að smjörverð hafi hækkað ört og því er líklegt að blómatími seljabúskaparins hafi verið á þeim tíma þar sem smjör var ekki eingöngu ætlað til heimabrúks heldur einnig til að borga skuldir, t.d. við jarðeigendur, og nota sem gjaldmiðil í verslun og öðrum viðskiptum eins og síðar verður fjallað um. Samkvæmt rannsóknum Jóns Jóhannessonar á verðlagi smjörs var vætt smjörs um árið 1200 metin á 30 álnir en strax þegar Jónsbók var lögtekin árið 1281 var verðið komið upp í 48 álnir. Á 15. og 16. öld fór verðið upp í hæstu hæðir og komst í 80 álnir. Rekur Jón þessar verðhækkanir til aukinnar eftirspurnar innanlands og utan. Ekki einungis var það vegna matarvenja Íslendinga heldur var smjör einnig gjaldmiðill sem notaður var til að borga biskupstólum, klaustrum og jarðeignamönnum auk þess sem smjör varð útflutningsvara í síðasta lagi árið 1480 og líklega nokkuð fyrr (Jón Jóhannesson 1958:144). Í klaustrum og víðar söfnuðust upp gríðarlegar birgðir smjörs sem urðu umtalsefni erlendra manna á ferð um Ísland. Árið 1555 kom út í Róm bók Olaus Magnusar um fólkið í norðri, Historia de Gentibus Septentrionalibus. Hefur hann skrifað um Ísland einhverju áður en bókin kom út þar sem klaustrin voru þá enn við lýði en um smjörbirgðir á Íslandi segir hann: „… in Iceland may be found such an abundant supply of salted butter, owing to the numerous herds of cattle and the luxuriant pastures, that there are insufficient barrels and kegs to hold it all … [it is stored] partially for consumption at home, but more particularly for barter with merchants. … Tubs of this plentiful butter are to be found in the monastery which the people in their own tongue call Helgafell. Its economy is based on butter and dried fish, an equivalent of richer treasures“ (Magnus 1998:1085-1086).
Af þessum skrifum Olausar má sjá að smjör hefur verið mikið verðmæti um og fyrir miðja 16. öldina og þá er fiskurinn það einnig. Lýsing þessi er án efa nokkuð ýkt, sérstaklega fyrri hluti hennar, og er ólíklegt að allt þetta smjör sé afurð kúa heldur er líklegra að þarna sé um bæði sauða- og kúasmjör að ræða. Burtséð frá því er samt nokkuð ljóst að smjörframleiðsla hefur enn á þessum tíma, undir miðja 16. öld, verið töluverð og smjör notað sem gjaldmiðill í verslun og viðskiptum. Má í ljósi þessa gera ráð fyrir að seljabúskapur hafi enn staðið með blóma þegar hér er komið sögu og mest af smjörinu framleitt í seljunum.
Sé litið á klaustrin og eignir og viðskipti þeirra í smjöri er hægt að velta upp þeim möguleika að endalok klaustranna gætu hafa haft áhrif á seljabúskap landsmanna. Þegar klaustrunum var lokað hafa án efa losnað gríðarlegar smjörbirgðir og það hefur hugsanlega haft áhrif á verðlag og eftirspurn eftir smjöri fyrst á eftir. Enn fremur hætti fólk að borga klaustrunum með smjöri og því hefur þörfin fyrir það sem gjaldmiðil minnkað þar sem ólíklegt er að konungur hafi tekið við miklum borgunum í smjöri en hann tók við miklu af eignum klaustranna. Hugsanlegt er að tengsl endaloka klaustranna og smjöreignar þeirra hafi haft enn meiri áhrif í sveitum þar sem margar jarðir voru í eigu klaustranna.
Sé litið á útflutning á ný eru til tölur frá 1585 um útfluttar vörur frá Nesvogi í Helgafellssveit. Sjávarafurðir eru mesti og verðmætasti hluti útflutningsins en þó er einnig að finna landbúnaðarvörur á listanum. Þannig er verðmæti útfluttra vara metið á 569 vættir og eru 496 af þeim tilkomnar vegna skreiðar. Þar á eftir kemur lýsi með 33,5 vættir og lax með 13 vættir. Vaðmál og löng höld eru 12 vættir og smjör síðan 8,5 vættir. Auk þessa voru einnig flutt út 120 kg af blautfiski, 4 kindur og uxi sem öll samanlagt hafa nokkuð minna heildarverðmæti en smjörið (Ásgeir Ásgeirsson og Ólafur Ásgeirsson 1992:105). Smjör er því fimmta verðmætasta útflutningsvaran í Nesvogi en þó er villandi að nota slíkt orðalag þar sem verðmæti smjörs er ekki nema 0,017% af heildarverðmæti skreiðarinnar og 0,015% af heildarútflutningsverðmæti.
Árið 1625 eru til tölur yfir útflutning frá landinu í heild og eru þá fiskafurðir 75,1% heildarútflutningsverðmæta en ullarvörur og ýmsar vörur um 14% og eru smjör, æðardúnn og skinn þar undir, u.þ.b. 2% verðmætisins (Gísli Gunnarsson 1987:54). Greinilegt er að fiskur er langtum mikilvægasta útflutningsvaran og gera má ráð fyrir að vegur hans í útflutningi hafi vaxið jafnt og þétt frá því að skreið varð útflutningsvara á 14. öld og tók við af vaðmáli sem aðalútflutningsvara Íslendinga (Jón Jóhannesson 1958:139). Verðlag fisks virðist hafa verið frekar hátt fram undir 1550 en á milli 1550 og 1600 varð verðfall sem hefur líklega haft einhver áhrif á íslenskan fisk þótt óvíst sé hve mikil þar sem hann var seldur á sérstökum markaði í Evrópu (Gísli Gunnarsson 1987:55-56).
Hvað forsendur seljabúskaparins varðar má gera ráð fyrir að í upphafi hans hér á landi hafi hann gegnt bæði efnahagslegu og samfélagslegu hlutverki eins og rætt hefur verið um fyrr í þessari ritgerð. Þótt líklegt sé að stór hluti afurða seljanna hafi verið nýttur til heimabrúks og til að borga skuldir við eigendur jarða er líklegt að smjör og/eða aðrar mjólkurafurðir hafi verið notaðar í viðskiptum að einhverju leyti jafnvel frá upphafi. Hugsanlegt er þó að með hækkandi smjörverði á tímabilinu 1200-1500 hafi mikilvægi smjörs í viðskiptum aukist og þess vegna hafi forsendur seljabúskaparins og mikilvægi hans í tengslum við ákveðna þætti í afkomu býlisins færst í meira mæli yfir á viðskiptahlutann en neysluhlutann. Sé þetta rétt hefur það haft mikil áhrif á seljabúskapinn þegar fiskur fór að taka algerlega yfir í magni og verðmæti því þá hafði seljabúskapurinn blásið út en afurðirnar voru farnar að falla í verði.
Líklegt er að með aukinni áherslu á fisk sem verslunar- og viðskiptavöru hafi staða smjörs í sama tilgangi breyst og mikilvægi þess minnkað. Í kjölfarið á því er líklegt að áhugi og efnahagslegur ávinningur af seljabúskap hafi einnig minnkað (sbr. Hitzler 1979:236). Hvenær nákvæmlega þessi breyting verður er erfitt að segja en í Ferðabók Eggerts og Bjarna kemur fram að þeim þykir merkilegt að áður fyrr hafi fiskveiðar verið minni en í þeirra tíð þegar nær allir stunda sjóinn. Þá hafi landbúnaður verið aðalatvinna fólks en „hann er nú í mesta vesaldómi“ (Ferðabók Eggerts og Bjarna 1981:202). Ferðabókin er auðvitað skrifuð um miðja 18. öld en tónninn í þessari umræðu Eggerts og Bjarna gefur til kynna að alllangt sé síðan þessi breyting varð.
Líklegt er því að þessi áherslubreyting frá landbúnaði yfir í fiskveiðar verði um 1600 þegar verð er farið að hækka aftur á fiski og fiskgengd er enn þá mikil. Helgi Þorláksson hefur velt upp svipuðum hugmyndum um endalok seljabúskaparins og tengt þær m.a. við útflutningsverslun. Nefnir hann að þýskir kaupmenn hafi gjarnan keypt smjör en danskir einokunarverslunarmenn ekki haft á því mætur (Helgi Þorláksson 2004:21-22). Þetta styður það sem sett var fram hér að framan að breytingar um 1600 hafi verið grunnurinn að forsendubresti seljabúskaparins en einokunarverslun Dana hófst einmitt árið 1602.
Eggert og Bjarni láta í veðri vaka að á 17. öld hafi fiskveiðar á Snæfellsnesi orðið til þess að landbúnaðinum hnignaði og eftir að stórabóla gekk yfir á árunum 1707-1709 hafi mannfæð verið slík að útróðrar frá bæjum lögðust niður. Landbúnaðurinn hafi þó verið kominn í slíkar ógöngur að mikla vinnu hefði þurft að leggja af mörkum til að ná honum í fyrra horf og í stað þess að leggja í slíkt, vegna þess að menn voru orðnir vanir því að borða mestmegnis fisk, hafi bændur sent fólk í ver og jafnvel farið sjálfir. Nú – um miðja 18. öld – sé svo komið að mestur vinnukraftur fari í sjósókn og því geti komið harðindaár ef fiskurinn bregst þar eð landbúnaðurinn sé ekki nægur til að geta tekið við sveiflunum í fiskinum þótt tíðarfar sé honum hagstætt (Ferðabók Eggerts og Bjarna 1981:203).
Líklegt er þó að ekki sé öll sagan sögð hjá Eggerti og Bjarna þegar kemur að niðurníðslu í landbúnaði og er ekki eingöngu fiskveiðum Íslendinga eða almennu dugleysi þeirra í landbúnaði um að kenna. Á 15. öld hófst Litla ísöldin á norðurslóðum (Dugmore et al. 2007:177) og hefur kólnandi veðurfar henni tengt haft áhrif á fólk, dýr og ekki síst gróðurfar. Í tengslum við minnkandi landgæði í kjölfar kólnandi veðurs getur verið að menn hafi tekið þá ákvörðun að flytja vinnuafl frá landbúnaðinum yfir á fiskveiðar (sbr. Dugmore, Keller og McGovern 2007:29) og þess vegna hafi fiskveiðarnar sjálfar ekki verið aðalástæða þess að vinnuaflsflutningurinn átti sér stað. Í tengslum við rannsóknir á veðurfari og kólnun á norðurslóðum hefur því verið velt upp að stöðug kólnun og stök slæm ár hafi ekki endilega verið verst heldur það þegar forspárgildi veðursins var orðið lítið, ekki var hægt að gera ráð fyrir nokkurn veginn stöðugu veðurfari og þ.a.l. hafi ákvarðanir verið teknar sem gátu dregið dilk á eftir sér. Slíkar ákvarðanir í tengslum við gróðureyðingu eru t.d. þær að breyta búskaparháttum þannig að stjórna ekki beit búfjár með smölum og auka með því hættuna á því að það gangi of nærri viðkvæmum svæðum (ibid.:25-29). Í kjölfar kólnandi veðurs og versnandi gróðurfars, auk hugsanlegrar gróðureyðingar á köflum, getur verið að búsmala hafi verið fækkað og að það hafi einnig haft áhrif á seljabúskapinn.
Til að taka saman umræðuna hér að ofan eru vísbendingar um að fram að ritun Jarðabókarinnar hafi tilvist og mikilvægi seljabúskaparins fylgt eftirfarandi atburðarás: að hátt smjörverð á árunum 1200-1500 hafi skapað umhverfi fyrir blómaskeið seljabúskaparins. Í kjölfar aukinnar áherslu á fisk í verslun og viðskiptum minnkaði eftirspurn eftir smjöri og í samvinnu við breytta veðráttu og færslu vinnuafls frá landbúnaði yfir á fiskveiðar minnkaði áhugi og efnahagslegur ávinningur af seljabúskapnum um 1600. Víða leggst hann af í kjölfarið en þó ekki alls staðar.
Seljabúskapur hvers bæjar fyrir sig
Þegar grunnstoðir seljabúskaparins voru fallnar, eða í það minnsta orðnar valtar, voru án efa sérstakar aðstæður á hverjum bæ fyrir sig sem ákvörðuðu hvort og hvenær seljabúskapur bæjarins var lagður niður. Slíkar ástæður geta hafa legið í aðstæðum á bænum sjálfum og/eða í seljalandinu. Ástæður eins og mannekla, ónýt selhús, erfitt aðgengi að selinu og breytt gróðurfar geta allar hafa átt við, hver í sínu tilviki eða jafnvel saman. Í sumum tilfellum getur verið að forsendubresturinn hafi verið nægur til þess að hætta seljabúskap en svo hefur ekki verið hjá öllum. Erfitt er að greina nákvæmlega út frá rústum á yfirborði endanlegar ástæður þess að hvert sel fyrir sig fór í eyði en þó eru ákveðnar vísbendingar um hvað olli því að seljabúskap var hætt.
Á heildina litið legg ég til þá skýringu að við áherslubreytinguna um 1600 hafi hann farið mjög halloka þegar mannskap á bæjunum var skipt niður á verk. Á 17. öld voru harðindi og plágur sem leiddu til fólksfækkunar, þótt það komist ekki með tærnar þar sem stórabóla hefur hælana, og þá hafi seljabúskapurinn víða verið lagður af til að geta sett meira vinnuafl í fiskveiðar. Hins vegar lagðist það sem fram fór í seljunum ekki niður heldur voru mjólkandi ær og kýr hafðar heima á bæ í heimakvíum eða færikvíum þar sem það átti við og þeim beitt á engjar og haga nærri bæjunum. Auðlindir hafa einnig verið nýttar áfram en þó á annan hátt, m.a. með sérstökum ferðum, s.s. grasaferðum. Að færa færa mjólkandi ær – og kýr þar sem það átti við að kýr væru enn í seli á þessum tíma – heim á bæ krefst þess auðvitað að landrými sé fyrir slíka búskaparhætti heima við.
Eru þetta endalokin?
Umfjöllunin hér að framan er byggð á vísbendingabrotum héðan og þaðan og er ég fullkomlega meðvituð um að víða eru getgátur látnar tengja punktana saman. Hins vegar tel ég að atburðarásin sé líkleg, sérstaklega á þessu svæði þar sem greinilegar vísbendingar eru í byggðarþróuninni um það að fiskveiðar og mikilvægi þeirra hafi haft áhrif á samfélagið auk þess sem fylgni á milli langlífis seljabúskaparins og jarðnæðis er næsta augljós. Hér á eftir langar mig að ræða hvernig hægt væri með frekari rannsóknum að kanna þessa kenningu og renna þannig frekari stoðum undir hana eða hafna henni.
Gera má ráð fyrir að í tengslum við ofangreinda breytingu hafi þurrabúðum fjölgað en líklega hafa þær verið komnar til sögunnar eitthvað áður þegar fiskur tók við af vaðmáli sem aðalútflutningsvara landsmanna á 14. öld. Lausamenn gátu flutt sig á milli vinnuveitenda og stofnað þurrabúðir og er líklegt að með meiri áherslu á fiskveiðar hafi þurrabúðirnar byrjað sitt blómaskeið. Uppruni plássanna í Eyrarsveit gæti því hugsanlega legið í þessum breytingum sem urðu á atvinnuvegunum á 16./17. öld og væri ein leið til að kanna sannleiksgildi tilgátunnar um endalok seljabúskaparins á svæðinu að aldursgreina þurrabúðir í Eyrarsveit. Einnig væri hægt að aldursgreina verstöðvar á bæjum í sveitinni og reyna að greina helstu athafnatímabil þeirra en slík rannsókn myndi gefa hugmynd um á hvaða tímabilum bæir juku áherslu á fiskveiðar.
Vandamálið við allar rannsóknir, sem byggjast á aldursgreiningum á þessu svæði, er þó að engin greinanleg gjóskulög frá sögulegum tíma er að finna í jarðvegi eins og rætt hefur verið áður. Þar sem gera má ráð fyrir að efnismenning í seljum og búðum, hvort sem er verbúðum eða þurrabúðum, sé einföld og víða rýr og þ.a.l. erfitt að aldursgreina gripina þá þyrfti mikla heppni til að geta aldursgreint mannvistarlög með gripum. Eina örugga leiðin er því að gera kolefnisaldursgreiningar og þar sem þær þyrftu að vera nokkuð margar má gera ráð fyrir að rannsóknir af þessu tagi yrðu dýrar þótt framkvæmdin væri í raun einföld.
Hægt væri að rannsaka selin sjálf til að fá aldursgreiningar á yngstu fösum þeirra og jafnvel greina umsvif í þeim. Minnkun selhúsanna á ákveðum tíma gæti verið vísbending um breyttar áherslur en einnig breytingar á því hvað þar fór fram. Væri vert að skoða hvort hægt væri að sjá vísbendingar um aukin umsvif í verkum tengdum auðlindanýtingu á svæðinu og minnkuð umsvif tengd búsmalanum á síðasta skeiði seljanna. Hið síðarnefnda gæti þó reynst erfitt að sjá nema hugsanlega ef sáför eða aðrar álíka leifar af efnismenningu mjólkurvinnslu og geymslu á mjólk skytu upp kollinum. Slíkar vísbendingar væri einnig hægt að skoða á heimabæjum seljanna en þær rannsóknir væru þó mun flóknari og erfiðari í framkvæmd enda bæjarhólarannsóknir af allt öðru flækjustigi en seljarannsóknir þegar kemur að uppgrefti.
Síðast en ekki síst væri hægt að gera umhverfisrannsóknir í anda þeirra sem gerðar hafa verið við sel Reykholts og reyna með þeim hætti að greina minnkandi umsvif, breyttar áherslur í seljabúskapnum og minnkandi landgæði sem gætu hafa leitt til forsendubrests. Ekki síður væri hægt að rannsaka umsvif og umhverfisbreytingar við ströndina og reyna þannig að tímasetja margrædda aukna áherslu á fiskveiðar. Umhverfisrannsóknir sem þessar bjóða upp á marga möguleika og líklegt að einhverjar niðurstöður kæmu úr þeim þótt ekki væri nema að staðfesta tímasetningu á endalokum seljabúskaparins. Hvað þessar rannsóknir varðar er þó sama vandamálið þegar kemur að aldursgreiningum að nota þyrfti kolefnisaldursgreiningar til að aldursgreina breytingar í sýnum.
Lokaorð
Seljabúskapur á Íslandi var mun flóknara og margbreytilegra fyrirbæri en sú mynd gefur til kynna sem Jónas Jónasson dregur upp í Íslenzkum þjóðháttum (1945). Fornleifarannsóknir á seljum á Íslandi hafa hjálpað til við að varpa nýju ljósi á seljabúskap Íslendinga. Oft er þó umfjöllun um seljabúskap byggð á takmörkuðum raungögnum og því munu nýjar rannsóknir vonandi bæta meiri þekkingu í sarpinn á komandi árum. Margt er enn órannsakað og þá ekki síst mannlegi þátturinn – staða og hlutverk selfólksins. Mín von er að umfjöllunin hér að framan um birtingarmyndir seljabúskaparins, mismun og fjölbreytni veki upp hugmyndir og kveikjur að nýjum rannsóknarverkefnum sem geta hjálpað til við að geta í eyðurnar varðandi þetta mikilvæga og margbreytilega búskaparform fortíðarinnar.
Seljabúskapurinn kom að öllum líkindum með landnámsmönnunum og var hann ekki einungis stundaður fyrir efnahagslegan ávinning og betri landnýtingu heldur einnig sem hluti af hefð sem tekin var með heiman að. Selin verða að hefð í nýja landinu og tíðkast líklega um allt land. Sniðið á búskaparháttunum og seljunum sjálfum hefur þó verið misjafnt þótt kjarninn hafi alltaf verið búsmalinn og mjólkurvinnsla honum tengd. Ekki síst hefur landslag haft áhrif á staðsetningar og nýtingu seljanna og má ekki gera of lítið úr mögulegum þætti auðlinda í nágrenni þeirra í þessu samhengi. Venjan virðist hafa verið að fólk fór í selin með búsmalann og dvaldi þar yfir seltímann, eins og tíðkaðist í alseljum í Noregi. Einhver fór svo á milli með afurðir hvort sem sá var staðsettur heima á bænum eða í selinu.
Seljabúskapurinn var hluti af samfélags- og efnahagslegu kerfi bæjarins, sveitarinnar og landsins alls. Selin voru því ekki einungis efnahagsleg eining innan býlisins heldur líka samfélagsleg. Þau voru staðir þar sem gestir voru velkomnir og staðsett við alfaraleiðir hafa þau verið áfangastaðir fleira fólks en bara selfólksins. Ekki síst hafa selin haft pólitíska þýðingu og menn bæði helgað sér land með þeim, jafnvel langt frá bæ, og einnig sýnt vald sitt út á við með því að hafa selin á sjónrænt mikilvægum stöðum. Seljabúskapurinn hefur því margar hliðar sem vert er að skoða í samhengi við samfélag, efnahag og landslag hvers svæðis fyrir sig og þannig það kerfi sem hann var hluti af.
Ekki síst skiptir þetta samhengi miklu þegar kemur að endalokum seljabúskaparins og má glögglega sjá það í tilfelli Helgafells- og Eyrarsveitar. Landslag og jarðnæði sveitanna eru að öllum líkindum helstu áhrifaþættir varðandi endalok seljabúskaparins eftir að forsendubrestur tengdur auknum fiskveiðum, minnkandi mikilvægi smjörs, manneklu og breyttum landgæðum kemur af stað því ferli sem endalokin voru. Þannig höfðu breytingar á því efnahags- og samfélagslega kerfi sem seljabúskapurinn var hluti af áhrif á seljabúskapinn og hrundu af stað endalokum hans. Munurinn á endalokum seljabúskapar í þessum tveimur samliggjandi sveitum sýnir að óvarlegt er að alhæfa um seljabúskap á landsvísu og gera ráð fyrir einsleitni í umræðum um hann. Ekki þarf að skoða stærra svæði en þetta til að rekast á greinilegan mun sem grundvallast á samhengi seljabúskaparins.
Umfjöllunin hér að framan sýnir að hægt er að nýta fornleifaskráningu sem rannsóknaraðferð í fornleifafræði og að fornleifaskráning getur gefið miklar og áhugaverðar upplýsingar sé hún vel unnin og hugað að atriðum eins og nákvæmum staðháttalýsingum og skráningu mikilvægra atriða fyrir hverja tegund minja, eins og vatnsuppsprettum og nálægum auðlindum í tilfelli selja. Fornleifarannsóknir þurfa ekki að grundvallast á uppgrefti til að geta skilað nýjum og áhugaverðum niðurstöðum: fornleifaskráning er fornleifarannsókn!“
Sjá má ritgerðina í heild HÉR.
Ratleikur Hafnarfjarðar 2020
Ratleikur Hafnarfjarðar er nú haldinn í 23. sinn. Umsjónamaður leiksins er Guðni Gíslason hjá Hönnunarhúsinu (Fjarðarfréttum).
Ratleikskortin má m.a. finna í sundlaugum bæjarins, á skrifstofu Ráðhússins og á N1 við Lækjargötu. Góðar göngur….
1. Fornubúðir (verslun)
Fornubúðir
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyri segir m.a.: „Þá er komið að Óseyrartjörn. Hér tekur Grandinn mikinn sveig út í höfnina. Nefnist þar Kringla, en innsti hluti Grandans heitir Háigrandi og Grandahöfuð. Hér stóð verzlunarstaðurinn við Hafnarfjörð í eina tíð, Fornubúðir.“
Á síðustu öld sást enn móta fyrir grunnum verslunarhúsa á Grandanum, en þær eru nú að mestu horfnar.
Hvaleyrarlón.
2. Móðhola (draugur) – Hvaleyrarhraun
Móðhola.
Vesturlandamerki Hvaleyrar að norðanverðu lá niður í Þórðarvík um Stóruvörðu, sem stóð á hraunbrúninni rétt þar sem alfaraleiðin lá upp á Kapelluhraunið (hún var því miður eyðilögð við jarðvegsraskið í hrauninu). Frá Þórðarvík og innar nefnast Gjögur, og liggur leiðin innanvert við þau. Skarfaklettur er innarlega á Gjögrunum og enn innar Háanef. Suður af því liggur leiðin hjá djúpri gjótu, nefnist Móðhola, en Móðhóll klapparhryggurinn, sem holan er í. Þar þótti reimt hér fyrrum, en andríkur prestur í Görðum kom af þessum reimleikum og ku hafa kveðið drauginn Móða niður. Enn er þó allur varinn góður í gjótunni; merki hafa horfið úr henni án skýringa.
3. Miðaftanshóll (landamerki, járnbraut)
Miðaftanshóll.
Árið 1918 gekk í garð með almennu atvinnuleysi hér í Hafnarfirði og eins í Reykjavík. Stofnað var til svokallaðrar dýrtíðarvinnu. Það var lagning nýs vegar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Í suð-vestur um hraunið átti vegurinn að liggja og Miðaftanshóllinn að hverfa að helmingi undir veginn, þaðan eftir hrauninu niður á melinn norðan Setbergshamars og yfir Kaplalæk, svo um Sjávarhraunið niður á Hörðuvelli og tengjast þar Lækjargötunni. Þetta átti að verða bezti og breiðasti vegur landsins fram að þessu, nefnilega 7 metra breiður, svo breiður, að auðvelt væri að leggja járnbrautarteina á annarri vegarbrúninni, þeirri eystri. Vegagerðinni var aldrei lokið, eins og svo oft á þessum tíma.
Enn í dag má sjá leifar af dýrtíðarvinnunni við Miðaftanshól. Öðrum köflum vegagerðarinnar hefur því miður verið spillt. Varðan á hólnum er fyrrum hornmark milli landa Garðalands, Hafnarfjarðarlands og landa Urriðakots, Hagakots og Vífilsstaða.
4. Hagakotsstígur (selstígur)
Hagakotsstígur.
Í Urriðakoti við Urriðakotsvatn hefur verið seljabúskapur til forna. Þar hafa verið grafin upp mannvirki frá landnámstímanum sem hafa verið túlkuð sem kúasel, það er sumardvalastaður eða eins konar útibú frá bæ þar sem kýr voru hafðar yfir sumartímann. Fundist hafa leifar af skála, fjósi og húsi til mjólkurvinnslu og ostagerðar sem og soðholu. Þá eru þar nokkrar kynslóðir af yngri seljum með þrískiptum húsum, baðstofu og búri auk eldhúss, sem ná frá 13. til 15. aldar. Selsstaðan hefur væntanlega verið frá Hofstöðum og liggur selsstígurinn um Hagakot og Hafnarfjarðarhraun að Urriðakoti.
5. Gráhella (fjárhús)
Tóftir við Gráhellu.
Í örnefnalýsingu fyrir Setberg segir m.a.: „Landamerkjalínan liggur hér upp á hraunið, sem nefnist Gráhelluhraun, og er nú tunga þessi öll undir umsjón Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Hraunið er kennt við stóran stein, Gráhellu; við hana vestanverða eru Gráhellutættur eftir stekk eða fjárhús. Úr Gráhellu liggur línan í Setbergssel. Selvogsgatan liggur áfram suður frá Svínholti að Setbergshlíð, ýmist við hlíðina eða út á hrauninu, þar til kemur að Háanefi innst á hlíðinni, og héðan liggur gatan í selið. Þessi staður er reyndar einnig kallaður Kethellir, Kershellir og Kjöthellir.“
6. Setbergshlíð (fjárhús)
Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.
Þegar komið er fyrir Háanef og komið þar upp á holtið, er komið í Húsatún, og þar eru beitarhúsin frá Setbergi. Hlaðnir veggir hússins er mjög vel greinilegir, sem og heystæðið. Á brúninni sunnan Húsatúns er Húsatúnsvarða. Mikil sumarumferð var um Selvogsgötuna fyrrum, en hún liggur í gegnum Setbergsselið. Vegna þessa ákvað Setbergsbóndinn að flytja aðstöðuna frá götunni og upp á holtið.
7. Dyngjuhóll (landamerki)
Varða á Dyngjuhól.
Landamerki Vífilsstaða og Urriðakots lá um Máríuhella, en Urriðakotsfjárhellir, sem þar er heyrði til Urriðakoti. Þegar haldið var suður með hraunbrúninni var fyrst fyrir Dyngjuhóll eða Hraunhóll (Hádegishóll frá Vífilsstöðum) með Dyngjuhólsvörðum. Á Dyngjuhól eru tvær markavörður. Suðvestan undan hólnum var Dyngjuhólsflöt. Sunnan við tók við Bruninn. Þar út í er Smyrilsklettur og Grásteinn, en framhjá honum lá Grásteinsstígur (nú ágætur göngustígur).
8. Flóðahjalli (stríðsminjar)
Grjótbyrgi á Flóðahjalla.
Fremst á Flóðahjalla heitir Hádegisholt og var eyktarmark frá Urriðakoti. Eyktarmörk minna á horfna tíð með sínum búskaparháttum og mannlífi. Flóðahjalli er grágrýtisrani, sem liggur í um það bil norðvestur í framhaldi af Setbergshlíð. Hjallinn er allnokkuð gróinn og kjarrivaxinn að sunnanverðu, en er nú, því miður umlukinn þéttri lúpínubreiðu á sumrum. Tóft er á og umhverfis klöpp eða klapparfláka nokkurn spöl vestan við hæsta hluta Flóðahjalla. Hún er óreglulega hringlaga, hlaðin úr grágrýti og hafa steinarnir án efa verið fengnir uppi á hrygg hjallans. Grjótveggirnir hafa að mestu verið hlaðnir á melnum utan við klöppina. Þar, sem veggirnir hafa staðist best, má ætla, að þeir hafi verið nokkuð á 2. m að hæð. Öll er tóftin er nærri 800 m². Norðanvert í tóftinni eru innri hleðslur. Á klöppinni syðst á Flódahjallieru nokkrar stafristur. Þar er höggvið ártalið 1940, fangamarkið D.S. og væntanlega mannsnafnið J.E.Bolan. Auk þess má greina fangamörkin J.A. og G.H. með annarri og yngri (?) stafagerð svo og ártalið 1977 (?). Bolan er þekkt mannsnafn í Englandi. Það og ártalið 1940 bendir því eindregið til þess að hér hafi Bretar verið að verki hernámsárið 1940. Tóftin („the stone defence work mentioned“) mun hafa verið reist af mönnum úr 1/7 herfylki Wellingtons, sem var hluti af herdeild Camp Russel í Urriðaholti.
9. Urriðakotshraun (fjárhús)
Urriðakotshraun – fjárhús – Kjarval.
Um er að ræða „Fjárhústóftina syðri“, skv. heimildum. Það var upphaflega reist sem Sauðahús. Guðmundur í Urriðakoti hafði á vetrum lömb og hluta af ánum í fjárhúsi heima við tún og beitti ánum með gjöf. Hluti af ánum var hafður fram eftir vetri við beitarhús í hraunjaðrinum þar nærri, sem nú er golfvöllurinn. Þegar snjóþyngsli voru, fór Guðmundur með hey í stórum poka upp eftir að hygla ánum. Guðmundur átti einnig um það bil 20 sauði, þegar mest var. Gengu þeir sjálfala, einkum í austanverðri Vífilsstaðahlíð, Selgjá, Búrfellsgjá og á Tungum, og gátu haft afdrep í hellum og skútum, sem þar eru víða. Á síðari árum notaði Guðmundur skúta í jaðri Búrfellshrauns undir Vífilsstaðahlíð, sunnan við Kolanefsflöt og örskammt frá grillstæðinu og bílastæðinu, sem nú er, til þess að gefa við sauðum sínum í harðindum. Hann bar heyið í pokum yfir hraunið frá beitarhúsunum.
Þessa húsatóft sem stendur ágætlega enn í dag málaði Kjarval í það minnsta einu sinni ásamt nánasta umhverfi. Í baksýn málaði hann Grindaskarðahnúka og hluta Lönguhlíða. Að vísu færði hann aðeins í stílinn og lagfærði sjónarhornið lítilsháttar til að koma þessu öllu fyrir á málverkinu. Kjarval nefndi staðinn og málverkið einfaldlega „Fjárrétt“.
10. Vífilsstaðaborg (fjárborg, Heiðmörk)
Fjárborg og fjárhús frá Urriðakoti undir Vífilsstaðahlíð.
Misvísandi upplýsingar voru lengi vel um staðsetningu svonefndrar „Vífilsstaðaborgar“ og var jafnvel talið að hún hefði farið undir nýja veginn í gegnum Heiðmörk vestan Vífilstaðahlíðar. En hún fannst fyrir nokkrum árum – á ólíklegasta stað. Um er að ræða hlaðnar tvískiptar fjárhústóttir auk fjárborgarinnar. Augljóst er að grjót hefur verið tekið úr borginni í fjárhúsin. Önnur tóftin, sú stærri, liggur frá suðri til norðurs. Dyr eru á norðurgafli. Hitt húsið er samhliða og samfast vestan við hið fyrra. Dyr eru þar einnig á norðurgafli. Bálkur er við þveran suðurgaflinn.
Stór, hringlaga tóft, er augljóslega fjárborgin. Opið snýr mót norðri. Birkihrísla stendur upp úr austanverðri borginni og er hún að verða fórnarlamb vanrækslu. Veggir eru þykkir og greinilegir. Engar heimildir eru til um þennan stað, en líklegt er að mannvirkin hafi tilheyrt Garðapresti líkt og selin í Selgjá og Búrfellsgjá. Nýlega var gerður vélgerður stígur svo til alveg við mannvirkin, en eins og flestum ætti að vera kunnugt njóta fornminjar ákveðinnar friðhelgi í tiltekinni fjarlægð frá nútímaframkvæmdum.
11. Kringlóttagjá (hrauntjörn)
Í Kringlóttugjá.
Búrfellshraun rann í fjórum hrinum fyrir u.þ.b. 8000 árum. Síðasta hrinan rann til suðurs að Valahnúkum og Kaldárhnúkum. Eldvarpið Búrfell er hringlaga kambur úr hraunkleprum utan um stóran eldgíg, Búrfellsgíg.
Í lok gossins kom hraunið allt út undan suðurbarmi gígsins. Það hraun varð raunar mjög lítið að vöxtum hjá því sem áður hafði runnið vestur af. Þetta hraun, sem var síðasta framleiðsla gossins í Búrfelli, myndar nú mjög flatvaxna bungu sunnan við Búrfell. Hún minnir á hvirfil lítillar hraundyngju að öðru leyti en því, að ekkert hallar norður af henni. Á hábungunni, um 400 m suður frá rótum Búrfells, er allsérkennileg skál, grunn og flatbotna, kringd 5—10 m háum klettaveggjum. Þvermál hennar er 200—300 m og lögunin óregluleg. Upp úr botni hennar rísa klettaeyjar, flatar að ofan og nokkuð jafnháar börmunum. Þessi náttúrusmíð heitir Kringlóttagjá. Kringlóttagjá er hrauntjarnarstæði. Barmar hennar voru storknar skarir að glóandi kvikunni, en tjörnin hefur haft frárennsli neðanjarðar um æðar í nýstorknuðu hrauninu og lækkað í henni áður en hún storknaði í botn.
12. Húsfellsbruni n/Húsfells (refagildra)
Refagildra ofan við Húsfell.
Frá síðasta gosskeiði eru þekktir þrennir eldar, þeir fyrstu á 10. öld og hinir síðari á 12. og 13. öld. Hraun frá fyrstu eldunum eru í Brennisteinsfjallakerfinu, s.s. Tvíbollahraun, Breiðdalshraun, Húsfellsbruni, Selvogshraun og Kristnitökuhraunið. Þrjú fyrstnefndu hraunin hafa verið aldursgreind. Mögulegt verður að teljast að einhver þessara hrauna hafi brunnið á 11. öld. Öll liggja þessi hraun ofan á Landnámslaginu og undir Miðaldalaginu (ML) frá 1226.
Fyrrum, eftir gerð Heiðmerkurgirðingar, var sett hlið á girðinguna til þess að tryggja ábúanda Vatnsenda aðgengi með fé í land sitt þar fyrir ofan, í svonefndan Húsfellsbruna; ávallt hefði verið litið svo á að Húsfellsbruni væri í eignarlandi Vatnsenda annars vegar og Elliðavatns hins vegar og ekki nýttur af neinum öðrum. Ávallt var gengið út frá því að mörkin lægju frá Húsfelli í hól, kallaður Einiberjahlíð, sem liggur á mörkum Vatnsendalands og Garðakirkju. Úr Einiberjahlíð lágu mörkin legið í Kóngsfell. Norðan undir Húsfelli er fallega hlaðin refagildra að gamalli hefð.
13. Valahnúkar (tröll)
Valahnúkar eru taldnir hafa myndast í gosi fyrir um 120 þúsund árum. Nafngiftin gæti verið komin af nafni Fálka sem eru stundum kallaðir valir. Undanfarin ár hafa hrafnar haft laupi í hnúkunum.
Tröllin á Valahnúkum.
Sagan segir að „einu sinni hafa nátttröllafjölskylda búið í Kerlingarhnúk sunnan við Kerlingarskarð, en Tröllapabbi norðan við Kerlingargil og er þá Lönguhlíðahorn á millum. Stórkonusteinar eru norður undir Lönguhlíðarhorni. Sögn er af tilvist þeirra, en hún verður ekki rakin hér.
Eitt sinn að vetri þegar dagurinn var stystur ákvað fjölskyldan í Kerlingarhnúk að leggja land undir fót og sækja sér hval til Hafnarfjarðar en sá hafði rekið á Hvaleyri. Þetta var löngu áður en mennskir höfðu sest að hér. Lögðu tröllin; móðir, faðir, dóttir og stálpaður sonur þegar af stað er sólin hafði skriðið undir ysta hafflöt Faxaflóans. Hundur þeirra fylgdi fast á eftir. Þau töfðust á leiðinni eftir að hafa færst um of í fang. Þegar fjölskyldan kom upp á Valahnúka kom sólin upp í Kerlingarskarði og þau urðu umsvifalaust að steini – þar sem þau eru enn þann dag í dag.
14. Helgafell (Kastali)
Kastali í Helgafelli.
Helgafell er móbergshryggur og eitt af mest áberandi fjöllunum í fjallahringnum ofan Hafnarfjarðar. Það er um 340 m hátt, víða bratt og hömrótt. Mjög vinsælt er að ganga á fjallið og er þá auðveldast að fara frá Kaldárseli upp á hrygginn norðanmegin í fjallinu. Fallegt útsýni er af Helgafelli og má meðal annars sjá hvernig hraun í nágrenninu hafa runnið og landslagið liggur.
Í næsta nágrenni Hafnarfjarðar eru mörg móbergsfjöll og má þar meðal annars nefna Bláfjöll, Vífilsfell, Kóngsfell, Rauðuhnjúka, Valahnjúkar og Húsfell. Móbergshryggir, eins og fellin og hnúkarnir, hafa myndast í gosi á langri sprungu undir jökli á kuldaskeiði ísaldar.
Helgafell og nágrenni – örnefni (ÓSÁ).
Efst á Helgafelli er Riddarinn. Hann átti tvífara í Brunanum (mið af sjó), en hann var fjarlægður vegna rasks á sínum tíma – umhugsunarlaust. Suðaustan í Helgafelli er hár klettaveggur, nefndur Kastalinn.
Rotaryklúbbur Hafnarfjarðar endurnýjaði útsýnisskífuna á fellinu þann 18. júní 2019.
15. Óbrinnishólahellir (fjárskjól)
Óbrinnishólahellir.
Óbrinnishólahraun er með yngstu hraunum í Hafnarfirði. Það er að miklum hluta úfið kargahraun með samfelldri ráðandi mosaþembu. Óbrinnishólabruni á að hafa runnið 190 f.Kr. Í hrauninu stendur Stakur, blásinn malarhóll sem var vaxinn kjarri í hlíðum og allgróinn. Smalakofi frá Hvaleyrarbændum var á Stak. Í Óbrinnishólakeri, sem er mosavaxin hrauntjörn, er Óbrinnishólahellir. Hellirinn er í gjárbarminum að sunnanverðu. Hlaðið er gerði fyrir framan munnan, en opið inn að öðru leyti. Rásin er um 15 metrar, björt og rúmgóð. Gólfið er flórað fremst, en annars er gólfið nokkuð slétt. Hellirinn er ágætt athvarf, en hann er fornt fjárskjól sem rúmaði nokkra tugi fjár og var notað af Hvaleyrarbændum, sem nýttu sér vetrarbeitina utan í Stak og Undirhlíðum öldum saman. Óbrinnishólarnir er nú óðum að hverfa vegna malartöku.
16. Brunatorfur (Þorbjarnastaðaborg)
Þorbjarnastaðaborg.
Fjárborg Þorbjarnastaðafólksins efst í Brunatorfunum (Brund-, Brunn-), svonefnd Þorbjarnastaðarfjárborginni, ein sú stærsta og heillegasta í umdæmi Hafnarfjarðar. Borgin er og mjög falleg. Ef horft væri niður á hana er hún ekki ósvipuð merki tiltekinnar sjónvarpsstöðvar (Skjár 1). Borgin var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna, þeirrar Ingveldar Jónsdóttur (dóttur Jóns Guðmundssonar á Setbergi (Guðmundar frá Haukadal (Álfsstöðum), Jónssonar frá Fossi)), og Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi, skömmu eftir aldarmótin 1900. Líklega hefur staðið til að topphlaða borgina ef marka má miðjugarðinn, lögun hleðslunnar og hellurnar, sem enn bíða upphleðslu utan við hana. Ef að líkum lætur hefur börnunum verið bannað að ljúka verkinu, enda ekki verkfræðilega mögulegt að topphlaða svo stóra fjárborg. Þorbjarnastaðafjárborgin er svipuð að byggingarlagi og önnur fjárborg á Reykjanesi, þ.e. Djúpudalaborgin í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnastöðum var einmitt ættaður úr Selvogi, sem fyrr sagði.
17. Efri-Hellar (fjárhellir)
Efri-hellar – fjárskjól.
Við hraunbrún Brunans ofan Gerðis í Hraunum eru tvö fjárskjól; Neðri-hellar og Efri hellar. Í þeim síðarnefndu er hlaðið framan við tvo langa skúta í grónum bala, sem í raun eru samtengdir. Þetta eru gamlir fjárhellar frá Þorbjarnastöðum. Skjól þessi eru dæmigerð fyrir fjárskjól fyrri tíma – þegar sérstaklega hönnuð hús eða skjól, önnur en fjárborgir, fyrir fé þekktust ekki. Ofan við hellana var Bruninn jafnan nefndur Brenna.
Enn ofan eru Hrauntungurnar, innan við hraunkantinn. Tungurnar eru allsstórt gróið hraunssvæði, umlukið nýja hrauninu. Í þeim austanverðum er fallegur skúti, Hrauntunguhellrar, sem hlaðið er fyrir. Skútinn er í jarðfalli utan í hraunklettum og lokar hrísla opinu eftir að hún tekur að laufgast.
18. Sigurðarskúti (fjárhellir, falleg ásýnd)
Sigurðarskúti.
Norðan undir Sigurðarhæð, vestan Straums og sunnan Óttarsstaða, var Glaumbær, sumarbústaður og seinna barnaheimili (brann). Ekki langt suður af Glaumbæ er hellisskúti, sem Sigurðarhellir heitir. Hleðsla nokkur er fyrir skútann og á einhver Sigurður að hafa haldið þar til í gamla daga, enda var alvanalegt, að flökkukarlar hefðust við tímabundið í hellisskútum sem þessum hellum. Sunnan við munnan eru leifar gerðis.
Suðvestur af skútanum er mikill klapparrani og hár. Suðaustan í honum er feiknamikið jarðfall. Fyrir endanum á því eru hleðslur miklar, sem nefnast Kúarétt. Þar mun augljóslega hafa verið stöðull og nátthagi fyrir kýr.
19. Vatnagarðahellir (fjárskjól)
Vatnagarðahellir.
Vatnagarðahellir er skammt utan við merkin móti Lónakoti. Þau lágu um Vatnagarða. Þarna er fjárhellir, sem hlaðið hefur verið fyrir, og gengið hefur undir nafninu Vatnagarðahellir og Vatnagarðafjárskjól, syðst í Vatnagörðunum, sem eiginlega liggur í landi Óttarsstaða, sem og nokkrar tjarnanna ofan Lónakots. Líklegt má þó telja að Lónakotsbændur hafi löngum nýtt fjárskjólið, enda handhægara fyrir þá en Óttarsstaðabændum, sem hefðu þurft að fara um langan veg í skjólið. Annars voru fjárskjólin í Hraunum nýtt af útigangsfé fyrrum – þrátt fyrir landfræðilega afmörkun einstakra bæja. Vatnagarðahellir er dæmigert fjárskjól á Reykjanesskagnum, með munna mót vestri; í skjóli fyrir vondum vetrarveðrum.
20. Smalaskálahæð (byrgi)
Smalaskálahæð – byrgi.
Vestan við Rauðamel stóra (nú grjótnáma) er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi refaskyttu. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Á honum er rammi um fyrrum listaverk; „Slunkaríki“.
Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, hellir, sem fé lá inni í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnann. Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla, Óttarsstaða (Kristrúnarborg) frá því fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.
Smalabyrgið sjálft, sem hæðin er kennd við, er hlaðið utan í hraunklett, skammt sunnan við gamla Keflavíkurveginn (Suðurnesjaveginn).
21. Tobbuklettsrétt (hleðslur)
Tobburétt vestari – uppdráttur ÓSÁ.
Ofan við Selhraun (ofan Þorbjarnastaða og vestan Þorbjarnarstaða-Rauðamels) eru engin örnefni, fyrr en kemur í Tobbukletta, Tobbuklett eystri og Tobbuklett vestri, en þar var Tobbuvarða, og lá landamerkjalínan um hana. Tobbuklettaskarð var allbreið lægð milli klettanna. Hér var stígur (Straumsselsstígur vestari), sem lá allt til Krýsuvíkur, „jafnframt fjallreiðarvegur á kafla“, eins og segir í örnefnalýsingu.
Í skrá Gísla Sigurðssonar segir, að „framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefir verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir í, í Tobbukletti vestri“. Tobbuvarðan eystri var á eystri klettinum og sést vel þegar genginn er stígurinn upp í Gjásel og Fornasel. Tobbuvarðan vestari hefur verið lagfærð og sést vel norðan Tobbuklettsréttar. Hleðslur réttarinnar eru enn vel greinilegar.
22. Brennusel (kolagrafir, milklar hleðslur)
Brennisel.
Seljahraun er lágt brunahraun upp af Gvendarbrunnshæðinni (angi af eldra Afstapahrauni). Landamerkjalínan lá frá Gvendarbrunni (Gvendarbrunnshæðarskjóli) suður yfir hraunið og þaðan upp í Mjósundavörðu. Skammt vestur af vörðunni eru Bekkir og fyrir ofan þá Bekkjahraun. Þar var gríðarmikill fjárhellir, hlaðinn og reft yfir, kallaður Bekkjaskútinn. Er hann í alldjúpri laut eða jarðfalli, sem kallast Bekkjahraunsker.
Í örnefnalýsingu segir: „Töluvert norðvestur af Bekkjunum eru Brenniselshæðir. Þar eru tveir fjárskútar, kallaðir Brenniselshellrar. Annar er feiknastór og var yfirreftur, en nú er það fallið niður. Jarðfall uppgróið er fyrir framan hann. Þar suður og upp af er stakur klapparhóll, klofinn, kallaður Steinkirkja. Norðan í henni er upphlaðinn fjárskúti.“
Brennusel er greinilegt kolasel. Selstöðum fyrrum voru til ýmissa nota, s.s. til fjár- og kúahalds, kolagerðar, fugla- og eggjatekju o.fl. Í dag eru slíkar selstöður nefndar „útstöðvar“ á fínu fjölmiðlafornleifamáli.
Framan við miklar hleðslur í jarðfalli eru leifar húss og skammt austar er hlaðið skjól. Áberandi varða er ofan við aðstöðuna.
23. Hólsbrunnshæð (stórbrotið jarðfall)
Lónakotssel – uppdráttur ÓSÁ.
Örnefni neðan Lónakotssels og ofan Alfaraleiðarinnar milli Útnesja og Suðurnesja eru fá. Ofan vegarins liggur landamerkjalínan (enn sjást í hrauninu einstaka girðingastaur á stangli sem og undirhleðslur) um Taglhæðarvörðu á Taglhæð. Þaðan um Hólsbrunn og Hólsbrunnsvörðu á Hólsbrunnshæð, sem eiginlega er klapparflatneskja allmikil um sig. Þaðan liggur svo línan um Skorásvörðu á Skorás ofan selsins og þaðan í Mið-Krossstapa.
Á Hólsbrunnshæð er gríðarlegt jarðfall, sem hæðin dregur nafn sitt af (það er líkt og náttúrulegur brunnur í laginu). Ekki er ólíklegt að jarðfallið sé hluti af mikilli neðanjarðarhraunrás er nær upp að Urðarási ofan krosstapanna og jafnvel lengra upp í Hrútargjárdyngjuhraunið.
24. Lónakotssel (sel)
Landamerkjavarða við Lónakotssel.
Eins og segir í landamerkjalýsingu Lónakots og Óttarsstaða, „liggur landamerkjalínan úr Sjónarhól í Vörðu eða Klett austan til við Lónakotssel (varðan sú er áberandi utan í hraunhól við landamerkjagirðinguna skammt austan við austasta stekkinn í selinu). Þar höfðu í seli auk Lónakotsbónda hjáleigumenn frá Óttarsstöðum. Enda eru þarna þrjár (eru reyndar fjórar) aðgreindar seljatættur. Selið liggur rétt austan við Skorás, sem af þessum ástæðum er nefndur Lónakotsselshæð. Norðan í því er jarðfall nokkurt og nefnist Skorásbyrgi eða Lónakotsselshæðarbyrgi. Þar mátti nátta ásauðum. Norður frá Skorás er Lónakotsselsvatnsstæði í flagi og þraut oftast í þurrkatíð. Skjöldubali er klapparhæð norður frá Hólbrunnshæð.“
25. Straumssel (sel)
„Þegar Flánum sleppir, tekur við mikil brekka og hraunið, úfið mjög. Þar taka við svonefndir Katlar, djúpir hraunbollar og hraunhryggir. Ofar taka svo við Straumsselshöfðar. Sunnarlega í höfðunum er Höfðavatnsstæði uppi á hól. Þar er á sumrum drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra. Þá er skammt í Straumssel, sem er eitt merkasta selið hér um slóðir, því þar var búið 15 til 20 ár um miðja öldina, sem leið. Selstætturnar eru í Straumsselstúni. Þarna stóð bær fram á þessa öld, sem Tjörvi lét reisa, en ekki var þar stöðug búseta, því að bærinn brann. Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Fjárhús er hér innan garðs, og hér er Selsgarðurinn, matjurtagarður. Austur frá Selinu var Selsbrunnurinn eða Straumsselsvatnsstæði, sem er ker, og þrýtur þar aldrei vatn. Suður og upp frá selinu er Straumsselshæð. Þar á er Straumsselshæðarvarða og sunnan í hæðina er Straumsselshæðarskjól.“
Þegar komið er í Straumssel eru tóftir Tjörvabæjarins mest áberandi. Straumsselið sjálft er skammt austar. Tóftir þess eru vel greinilegar.
26. Óttastaðasel (sel)
Óttarsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.
„Óttarsstaðasel er sunnan við Meitla. Í þeim er Meitlaskjól. Frá Meitlunum blasir selið við. Þar endar Skógargatan. Rústir eru eftir tvö sel, þrjár byggingar í hvoru. Snúa dyr austur og vestur. Gríðarmikið graslendi er hjá selinu. Vestan við túnið er hæð og vestan í henni gríðarstór hellir. Hefur sýnilegar verið reft yfir þetta skjól og það þá verið bezta fjárskýli. Efst í túninu er klapparker með vatni, á annan metra að dýpt. Vatnið þornar mikið upp á sumrin og verður tómt grugg í þurrkum. En vestan í smáhæð vestast í túninu er hola í klöpp og í henni mikið vatn og tært, sem aldrei þornar. Við holuna lá alltaf flaska í gamla daga, til þess að ferðamenn gætu fengið sér vatnssopa.
Í suður frá selinu sér í op á miklum hraunbás. Þar er ævagömul rétt (nátthagi), sem stendur óhögguð enn í dag. Réttin stendur á klöpp og eru veggir hlaðnir frá hvorum kersbarmi og allrúmgott, þegar inn er komið. Sennilega hefur verið haft þar fé á nóttunni.“
Í Óttarsstaðseli má finna flest það er prýðir dæmigert sel á Reykjanesskaganum; selsstíg, selsvörðu, vatnsból, fjárskjól, nátthaga, stekki og selshús; baðstofu, búr og eldhús.
27. Sauðabrekkuskjól (hellisskjól)
Sauðabrekkuskjól.
„Efst í Óttarsstaðalandi, dálítinn spöl suðaustur af Búðarvatnsstæði, er allmikið jarðfall, sem nefnist Sauðabrekkugjá. Hún liggur frá suðvestri til norðausturs, og er hár barmur að norðanverðu, en lágt að sunnan. Hrafninn verpir oft í norðurbarminum. Gras er í botninum og að sunnanverðu við gjána. Stóra- Sauðabrekka er sunnan gjárinnar, en Litla-Sauðabrekka norðan hennar. Mosar eru kallaðir í hrauninu rétt sunnan gjárinnar. Krýsuvíkurmörkin liggja yfir þá. Aðeins sunnan við gjána og vestan við Stóru-Sauðabrekku eru Sauðabrekkuskjól við Sauðabrekkuhella. Þaðan er stutt vestur í Markhelluhól. Í honum er klöpp, sem nefnist Markhella, og eru klappaðir i hana stafirnir Ótta., Hvass., Krv. Er þetta hornmark á milli Óttarsstaða, Hvassahrauns og Krýsuvíkur.“
Sauðabrekkuskjólið hefur greinilega verið ætlað smölum fyrrum til að grípa til í misjöfnum veðrum fjarri öllu nærtæku; gólfið er flórað og hella er lögð yfir glugga.
Sjá nánari fróðleik um einstaka framangreinda staði á www.ferlir.is.
Tengsl við Ratleikinn á Fjarðarfréttum HÉR.
Hólsbrunnshæð.
FERLIRsferillinn – sagan í stuttu máli
2007 – 12. maí (fyrsta daginn eftir lokadag – upprifjun);
Strandarhæð – Árnavarða.
FERLIR-001: Helgafell. Fyrsta FERLIRsferðin. Þátttakendur mættu og voru við öllu búnir. Takmarkið var að komast fyrstu ferðina – allt til enda. Þegar öllum lúnum, og sumum mjög þreyttum, hafði tekist það, loksins, var markmiðið sett á a.m.k. eitt hundrað ferðir um Reykjanesskagann með það fyrir augum að skoða hann svo til allan – næstu mánuðina.
FERLIR-100 – ákveðið var að fara a.m.k. eitt hundrað FERLIRsferðir til viðbótar um Reykjanesskagann því ljóst var nú að mikið var enn óskoðað. Orðið þreyta var ekki lengur til í orðaforðanum. Öllum var nú meðvitað um að því meiri vitneskja sem fékkst því minna töldu þeir sig vita um svæðið.
Í Eldvörpum.
FERLIR-200 – ákveðið að reyna að halda áfram og freysta þess að komast yfir sem flestar minjar og sögulega staði á Reykjanesi áður en skósólarnir væru allir. Svolítill styrkur fékkst frá Menningarmálanefnd Hafnarfjarðar til að skrá og ljósmynda minjar og minjastaði á Reykjanesi. Gerðar voru exel-skrár yfir helstu tegundir minja og gps-punktar þeirra skráðir. (Gps-tæki var fengið að láni hjá Jóni Svanþórssyni, ljósmyndavél hjá ónafngreindu fólki og ljósmyndarinn hverju sinni kostaði framköllun).
FERLIR-300 – í ljós hafði komið að af ótrúlega miklu var af að taka. Listinn yfir óskoðuð svæði og áður fundnar, en týndar, og líklegar ófundnar minjar lengdist óðfluga. Ákveðið var að ganga a.m.k. eitt hundrað ferðir til viðbótar og reyna að “tæma” svæðið “ af „skráningarskyldum“ minjum.
Njarðvík – brunnur.
FERLIR-400 – skráning minja hafði gengi vel og ótrúlega margar minjar og minjastaðir fundist við “leitir” á einstökum svæðum. Til að varðveita samhengið var og ákveðið að rissa upp helstu minjasvæðin til varðveislu og sem hugsanleg gögn til varanlegri framtíðar. Í fyrstu umferð voru teiknuð upp um 100 svæði. Uppdrættirnir hafa verið varðveittir í Reykjanesskinnu, sem verður, um sinn a.m.k., einungis til í einu órafrænu eintaki.
FERLIR-500 – þátt fyrir að búið væri að ganga og fara yfir einstök svæði og skoða, leita og skilgreina, komu enn í ljós minjar, sem ekki hafði verið vitað um áður, s.s. garðar, refagildrur, gamla leiðir, borgir, fjárskjól, brunnar, vatnsstæði o.fl. Ákveðið var að halda áfram enn um sinn, en láta síðan staðar numið við FERLIR-600.
Innri-Njarðvíkursel.
FERLIR-600 – ljóst var að ekki yrði komist yfir allt svæðið með það fyrir augum að skrá allt, sem þar væri að finna. Ákveðið var að fresta ferð nr. 600, fara beint í nr. 601, en beina athyglinni fyrst og fremst að áhugaverðustu svæðunum, s.s. í umdæmi Grindavíkur og Hafnarfjarðar, en önnur sveitarfélög á svæðinu hafa ekki sýnt fornum minjum sínum jafn mikinn áhuga og þau. Fyrir lá að hér var um mikil verðmæti til framtíðar að ræða. Áhugi á umhverfi, útivist og hreyfingu fóru greinilega stigvaxandi.
FERLIR-700 – minjar og saga eru ekki einu auðævi Reykjanesskagans. Jarðfræði, umhverfi, dýralíf, flóra sem og annað er lítur að áhugaverðum útivistarmöguleikum á svæðinu er í rauninni ótæmandi ef vel er að gáð.
Byrgi vegavinnumanna við Grindavíkurveg.
Svæðið nýtur nálægðar um 2/3 hluta þjóðarinnar, en þrátt fyrir það er það eitt hið vannýttasta á landinu. Mikill áhugi hefur verið á að reyn að „opinbera“ minjar, minjasvæði og forn mannvirki á Reykjanesi og gera þær aðgengilegar áhugsömu fólki. Í byrjun árs 2004 var afráðið að sækja um styrk úr Þjóðhátíðarsjóði, sem er í vörslu Seðlabanka Íslands, með það fyrir augum að leggja drög að slíkri „opinberun“, hvort sem væri með rafrænum hætti eða blaðrænum. Þann 9. júní 2004 barst tilkynning frá sjóðsstjórninni um að FERLIR hafi verið veittur umbeðinn styrkur. Nú verður ekki aftur snúið. Stefnt var að opinberri og birtingu uppsafnaðra upplýsinga og fróðleiks (sem birtist nú lesendum hér á vefsíðunni).
Og enn er haldið áfram – á meðan að einhverju er að stefna. Síðasta FERLIRsferðin var nr. 2000. Nú er stefnt að því að ferðirnar um Reykjanesskagann, fyrrum landnám Ingólfs, verði a.m.k. 3999 talsins…
Ferlir á ferð í Selvogi.
Fróðleikssöfnun…
Á vefsíðunni hefur af og til verið fjallað um einstaka staði, minjar eða minjasvæði á Reykjanesskaganum (landnámi Ingólfs).
Tilgangurinn með umfjölluninni er hefur m.a. verið að fá viðbrögð fólks, sem hugsanlega kann að búa yfir vitneskju um hvorutveggja – og jafnvel ýmislegt umfram það. Með því hefur verið hægt að safna bæði ábyggilegum og áður óþekktum upplýsingum um sérhvert umfjöllunarefni. Hafa ber í huga að einstakir staðir hafa í gegnum tíðina verið nefndir fleiru en einu nafni og jafnvel þótt sumir telji það nafn, sem þeir þekkja, vera hið eina rétta, kann raunin að vera bæði önnur og hvorutveggja. Upplýsingar geta því stundum orðið misvísandi, en þó ávallt upplýsandi. Orð geta verið stafsett með mismunandi hætti. Óbrinnishólahraun hefur t.a.m. verið ritað sem „Óbrennishólahraun“ og „Óbrynnishólahraun“. Þá þarf stundum bara að láta reyna á hvað kann að vera líklegast og réttast þótt nafnið sjálft geti í raun verið aukaatriði í öllu því, sem það hefur upp á að bjóða. Þess vegna er svo mikilvægt að sem flestir, sem búa yfir upplýsingum um efnið, láti í sér heyra – þótt ekki sé fyrir annað en að fá „hugskeyti“ frá fólki er veit um staði, sem öðrum eru nú gleymdir, en því þykir sérstaklega áhugaverðir.
FERLIR hefur þegar skoðað og safnað upplýsingum um 400 sel eða selstöður á Reykjanesskaganum, yfir 90 fjárborgir, um 140 brunna og vatnsstæði, um 240 gamlar leiðir, 60 hlaðnar refagildrur, um 660 hella, skúta og fjárskjól, um 80 letursteina, um 90 hlaðnar réttir, um 25 skotbyrgi, um 230 sæluhús og sögulegar tóttir, um 25 hlaðnar vegavinnubúðir, um 180 sögulegar vörður auk vara, nausta, grenja o.fl. o.fl. o.fl. o.fl. á svæðinu. Margt hefur og uppgötvast við eftirgrennslan og skipulegar leitir. Allt myndar þetta heildir búskapar- og atvinnusögu svæðisins. Miklar upplýsingar hafa fengist frá áhugasömu og margfróðu fólki á Reykjanesi, sem hefur skráð, gefið út og/eða þekkir til staðanna. Er því sérstaklega þakkaður skilningurinn og alúðin við miðlun efnis. Þessa fólks verður alls getið ef og þegar „Bókin mikla – Reykjanesskinna“ kemur út.
Ef áhugasamir lesendur telja sig enn búa yfir upplýsingum um einstaka staði, sem ástæða er til að skoða, varðveita og skrá, eru þeir beðnir að hafa samband við netfangið ferlir@ferlir.is.
FERLIR – fyrstu ferðirnar
Föstudaginn 1. maí árið 2020 varð FERLIR tuttugu og eins árs. Þennan dag fyrir jafnmörgum árum hittust nokkrir starfsfélagar í Lögreglunni í Reykjavík við Kaldársel. Ætlunin var að skoða nærumhverfið með tillliti til sögu svæðisins, minjar og náttúru þess; hvort sem varðaði flóru eða fánu. Jafnframt var takmarkið að nýta áhugavert svæði, Reykjanesskagann (fyrrum landnám Ingólfs) til hreyfingar og útivistar, ekki síst sem tilbreytingu frá hinu daglega amstri vinnunnar.
Selvogs-Jói mætti þá við öllu búinn að teknu tilliti til áður birtrar auglýsingar; „ætlunin er að feta yfir læki, kafa í hella og fara á fjöll“…
Hver FERLIRsferðin rak síðan aðra í framhaldinu. Í dag eru þær orðnar fleiri en þrjú þúsund talsins – með hlutfallslega miklum uppsöfnuðum fróðleik, að ekki sé talað um öll hreyfingarígildin (lýðheilsugildin).
Fljótlega var FERLIRsvefnum komið á fót, í árdaga allra vefsíðugerða. Til þess fékkst styrkur til kaupa á fartölvu frá Rannsóknarsjóði Seðlabankans til að vinna texta, myndir og birta. Alla tíð síðan hafa öll sveitarfélögin í fyrrum landnámi Ingólfs, utan Grafningshrepps, auk einstakra fyrirtækja, stutt viðhald vefsíðunnar (þ.e. greitt tilfallandi hýsingargjöldin frá ár til árs). Þeim hefur á móti staðið til boða að nota allt efni hennar þegnum sínum að kostnaðarlausu, hvort sem um er að ræða í leik eða starfi. Það á jafnframt við um alla aðra er áhuga hafa á útivist og vilja fræðast um fólkið er byggt hefur landssvæðið til þessa.
Á þessu tímabili hefur reynst nauðsynlegt vegna tækniframfara og hýsingarkrafna að uppfæra vefsíðuna þrisvar sinnum, nú síðast með styrk úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar. Vandinn hefur jafnan falist í að nýta eldra uppsafnað efni og aðlaga það að breyttum breytanda. Í dag standa slíkra breytingar yfir…
Vonandi mun áhugasömu fólki um svæðið nýtast innihald vefsíðunnar til langrar framtíðar.
HÉR má sjá nokkrar ljósmyndir frá fyrstu FERLIRsferðunum…
FERLIRsþátttakendur í Bálkahelli.
Rannsókn á seljum í Reykjavík
Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um „Rannsókn á seljum í Reykjavík“ árið 2011:
„Elstu ritheimildir sem varða sel á Íslandi eru trúlega Grágás, lagasafn íslenska þjóðveldisins sem talið er ritað á þjóðveldisöld og varðveist hefur í handritum frá 13. öld, og Íslendingasögur sem flestar eru taldar ritaðar á 13. öld. Talið er að ákvæði um sel í Grágás séu aðlöguð frá Norskum lögum. Þar segir meðal annars að sel skuli vera inna landamerkja og þau megi ekki staðsetja á afrétti. Í Jónsbók lagabók Magnúsar lagabætis sem tók gildi árið 1281 og var í notkun framá 18. öld, í skinnhandriti frá því um 1363, eru ákvæði sem varða sel.24 Þar er mönnum sagt hvernig þeir skuli haga ferðum sínum til sels (sætr), að fara skuli fornar götur yfir landareignir annarra, og hvar selin skuli vera.25 Þetta ákvæði er vísbending um að sel hafi getað verið langt frá bæ. Í Jónsbók er einnig kveðið á um á hvaða tíma eigi að hafa í seli en þar kemur fram að halda skuli kýr og fé sem skilið hefur verið frá lömbum sínum í seli yfir sumarið frá miðjum júní fram í miðjan ágúst. Þá eru sel einnig oft nefnd í lýsingu stærri býla og kirkjustaða. Af umfjöllun þessara miðaldaritheimilda má sjá að sel hafa verið mikilvæg og verðmæt. Sel koma nokkuð oft fyrir í Íslendingasögum sem bendir til þess að seljabúskapur hafi verið útbreiddur og vel þekktur á Íslandi á þeim tíma sem ritun sagnanna hófst á 13. öld. Í Laxdælu er seli og staðsetningu þess lýst. Selið er sagt samanstanda af tveimur húsum íveruhúsi og búri, nálægt á. Í síðari heimildum er talin venja að þrjú rými séu í seli, búr, eldhús og svefnstaður.
Rannsóknir á seljum á Íslandi eru nokkrar en fram til þessa hefur aðeins farið fram einn fornleifauppgröftur á rústum sem taldar eru hafa verið sel út frá staðsetningu og árstíðabundini notkun. Sú rannsókn fór fram árið 2005 vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á Kárahnjúkum sem eru á austanverðu hálendinu. Þar fór fram heildaruppgröftur á stað sem heitir Pálstóftir en hann er í 600 m hæð yfir sjávarmáli, um 90 km frá næstu strönd og í minnst 15 km fjarlægð frá næsta bæ. Rannsóknin á Pálstóftum leiddi í ljós að þar hefði verið árstíðabundin búseta og bentu gjóskulög á staðnum til notkunar á tímabilinu 940 til 1070. Þar komu einnig fram vísbendingar um fjölbreyttar athafnir t.d. handverk, veiðar og trúariðkun.29 Fjórar rústir voru grafnar upp á svæðinu, rústir I-IV. Aðalhúsið rúst I var stærst um 15m², þar var eldstæði í miðju og hefur trúlega verið svefnstaður. Rúst II var um 3m² og var túlkuð sem geymsla. Rúst III lá í halla frá hinum og sneri öðruvísi en hin húsin. Hún var um 9m² að stærð og allt benti til að þar hefði verið opið aðhald kannski notað til mjalta. Rúst IV var óvenjulegust, var seinni viðbót við suðurhlið byggingar I minna en 9m² með eldstæði í miðju og steini lagðri stétt frá eldstæðinu og út. Talið var að það gæti hafa verið svefnstaður fyrir eina til tvær manneskjur. Fram að uppgreftrinum á Pálstóftum höfðu rannsóknir á seljum aðallega byggt á ritheimildum.
Daniel Bruun var danskur kafteinn sem tók sér fyrir hendur að rannsaka íslenskar fornleifar og ferðaðist í þeim tilgangi um landið í 14 sumur í kringum aldamótin 1900 síðar.
Niðurstöður hans birtust árið 1928 í bókinni Fortidsminder og Nutidshjem paa Island. Þar segir hann að fjarlægari beitilönd hafi verið hagnýtt til selstöðu og sellönd séu eign jarðanna sem liggi langt frá bæjum. Bruun segir að sel hafi til forna ýmist verið kölluð sumarsetur eða sumarhús og þangað hafi flestir flutt af bæjunum með allar kvíær, kýr og margt af hestum flutt til að hlífa heimahögum. Hann telur að selstöðum hafi fækkað vegna þess að kúm fækkaði. Bruun segist hafa séð gamlar seltóftir á nokkrum stöðum sem voru venjulegast þrjú sambyggð hús, eldhús, selbaðstofa og mjólkurbúr og kvíar í grennd við húsin.
Í bók norska sagnfræðingsins Lars Reinton Til seters. Norsk seterbruk og seterstell frá árinu 1969 kemur fram að í Noregi þekkist þrjár megin gerðir selja sem notaðar voru á mismunandi tíma yfir sumarið. Heimasel (n.heimsetrane) voru nálægt bæjarhúsum og þangað var flutt strax á vorin. Millisel (n. mellomsetrar) voru lengra frá bæ en lengst frá bæ voru sumarselin (n. sommarsetra) sem voru aðalselin og voru inní skógi eða upp til fjalla.
Reinton telur að svipað seljakerfi hafi verið notað á Íslandi á söguöld. Hann greindi selin í Noregi einnig eftir eðli þeirra og skilgreindi þrennskonar sel; fullsel, mjólkursel, heysel eftir þeim störfum sem þar fóru fram. Fullsel voru yfirleitt reisulegust þar sem aðstaða til mjólkurvinnslu þurfti að vera góð. Þar þekktust einnig vetrarsel þar sem haft var geldfé til að klára heyforða. Þessa þrískiptingu selja telur Guðrún Sveinbjarnardóttir að ekki eigi við á Íslandi.
Dr. Egon Hitzler gaf út árið 1979 doktorsritgerð sína um sel og selfarir á Íslandi bókina SelUntersuchungen zur Geschicte des isländischen sennwesens sit der landnahmezeit. Rannsókn hans byggðist að mestu leiti á ritheimildum og er grundvallarrit um sel og selstöður á Íslandi. Niðurstaða hans varðandi skipulag húsa í seljum var að venjulegast hafi verið 3 byggingar aðskildar eða í þyrpingu, raðað á mismunandi vegu.
Árið 1991 skrifaði Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur grein um rannsókn sem hún gerði á seljum á þrem landsvæðum á Íslandi, Eyjafjallasveit, Berufirði og Ausur og Vesturdal í Skagafirði. Guðrún rannsakaði ritheimildir um landnám á svæðinu, kortlagði minjar og tímasetti útfrá gjóskulögum. Þá var einnig gerð fornvistfræðileg rannsókn á staðnum Engihlíð í Fossárdal til þess að reyna að greina hvort þar hefði verið sel eða býli. Niðurstaða Guðrúnar var að fjarlægð frá býli að seli var yfirleitt stutt. Fjöldi bygginga í seljunum var yfirleitt 1-2 sem skiptust í 3-4 rými. Á tveimur stöðum fundust aðeins ein bygging og einum stað voru tíu byggingar. Uppröðun bygginga var mjög breytilegt á milli staða og einnig hæð yfir sjávarmáli. Mest af selstöðunum sem voru staðsettar lægra virtust vara elstar. Bæði Eyjafjallasveit og Berufirði og benda sel nöfn bæja til að þeir hafi í fyrstu verið sel á láglendi. Í Skagafirði eru dæmi um sel frá fyrstu tíð staðsett innarlega í landi langt frá bæ sem breyttust í býli og aftur í sel eða beitarhús. Í Aðaldal voru sel nýtt sem beitarhús á vetrum og sýnir sú mikla notkun beitarlands mikilvægi þess fyrir efnahag bæja áður fyrr. Allar minjarnar eru taldar vera frá miðöldum og til 1800 og líkjast ekki bæjum frá þeim tíma. Greinilegt var af gögnum að mörkin milli býlis og sels var stundum stutt. Á þeim stöðum í Aðaldal þar sem notkun var breytileg telur Guðrún að notkunin hafi væntanlega stjórnast af veðurfari og hagsæld. Margir staðir í Vesturdal sem túlkaðir hafa verið sem smábýli höfðu meiri einkenni sels en býlis og Engihlíð í Fossárdal er kannski dæmi um slíkan stað. Niðurstöður greininga frá Engihlíð voru að á síðasta notkunarskeiði staðarins hefði það verið nýtt sem sel með hugsanlega einhverri heyvinnslu en ekki var hægt að greina hvort staðurinn hefði í fyrstu verið býli. Til að fá úr þessu skorið var lagt til að gerð yrði nánari sýnataka í tengslum við uppgröft á staðnum.
Árið 2002 skoðaði Sædís Gunnarsdóttir fornleifafræðingur í mastersritgerð sinni sel sem hluta af búsetu landslagi jaðarbyggða og tók fyrir Saurbæjarhreppi í Eyjafjarðarsýslu.
Sædís notaði GIS til þess að skilja dreifingu tengsla á milli selja og sjálfstæðra og ósjálfstæðra býla. Þar kom fram að fjarlægð milli bæjar og sels sýndi tvíþætt mynstur. Stærri hópurinn var um það bil 1,5 km frá bæ en minni hópurinn í 3 km fjarlægð. Þetta mynstur virtist tengt efnahag bæjanna þar sem efnaðri býli áttu fjarlægari sel, kannski vegna þess að þeir áttu einnig stærra landsvæði. Sædís telur að nota megi hæð yfir sjávarmáli til að greina á milli smærri býla og selja. Sel voru að meðaltali í 300 m h.y.s. en býli í 150 m h.y.s. Halli á landi var líka meiri í seljum eða um 12° en á býlum um 6° halli.
Albína Hulda Pálsdóttir fornleifafræðingur skrifaði árið 2005 BA ritgerð þar sem hún gerði fræðilega úttekt á seljum. Í rannsókn sinni notaði hún gögn úr fornleifaskráningum frá Fornleifastofnun Íslands og vann úr þeim tölfræðilegar upplýsingar um sel. Hún skoðaði fjölda rústa á hverjum selstað og var meðalfjöldi á hverju selstæði 2,30 en algengast var að aðeins sé ein rúst sé á hverjum stað en á flestum selstæðum er ein til þrjár rústir. Albína skoðaði einnig tengsl á milli dýrleika jarða árið 1686 og fjölda rústa á selstæði, hólfafjölda og flatarmáls. Niðurstaðan var, að eftir því sem dýrleiki jarða var hærri þá jókst fjöldi rústa, hólfa og flatarmáls. Einnig skoðaði hún meðalfjarlægð frá bæ í sel í beinni loftlínu og var niðurstaðan að rúmir 2 km eru á milli í beinni loftlínu og sjaldnast hafi verið nema 1-4 klukkustunda gangur frá bæ í sel.
Árið 2007 skrifaði Ómar Smári Ármannsson viðamikla BA ritgerð um sel og selstöður. Hann hefur lengi leitað uppi sel og selstöður og var ritgerðin afrakstur 6 ára vinnu og í henni er að finna upplýsingar um mikinn fjölda selja. Hann segir megingerð selja á Reykjanesskaganum sé þrískipt rými þar sem eldhús sé fráskilið og stekkir séu skammt frá eða áfast húsumum. Seljastígar sem lágu frá bæ að seli sem enn eru sjáanlegir séu oftast um 7 km eða um 1½–2 klukkustunda gangur. Einnig telur hann að staðsetning selja í útlendum jarða hafi verið skilaboð um eignarhald.
Í þessari rannsókn hafa verið teknar saman heimildir um sel og selstöður allra jarða sem eru innan borgarmarka Reykjavíkur eða tilheyra þeim árið 2010. Með samantektinni er komið yfirlit yfir fjölda og staðsetningu selja sem nota má til samanburðar og frekari rannsókna. Þegar sel í Reykjavík eru skoðuð með hliðsjón af fyrri rannsóknum á seljum annars staðar á landinu, kemur í ljós að fjölbreytileiki þeirra er álíka og annarstaðar á landinu.
Í fyrri rannsóknum hefur athyglin beinst að nokkrum þáttum eins og fjölda húsa og rýma innan þeirra á hverjum stað, fjarlægð frá býli að seli, hæð yfir sjávarmáli og halla lands, en auk þess hafa sel verið skoðuð sem hluti af búsetulandslagi. Þegar fjöldi húsa og rýma var skoðaður kom í ljós að fjöldi húsa á hverri selstöðu var 1-2 hús en meðaltal þeirra var 1,42. Í flestum húsum eru 3-4 rými og að meðaltali eru 3 rými í hverju húsi. Þessar tölur eru líkar og fram hafa komið í öðrum rannsóknum og heimildum.
Fjarlægð frá býli að seli var einnig skoðuð. Algengasta fjarlægð var annarsvegar um 12 km, hinsvegar 7 km og síðan um 2 km. Meðalvegalengd var 8,6 km en meðalgildi var 7,3 km. Þegar dýrleiki jarða og fjarlægð sels frá býli var skoðað var ekki hægt að greina fylgni þar á milli.
Af þessari samantekt má sjá að töluverður efniviður er til staðar til frekari rannsókna á seljum og selstöðum. Tóftir seljanna eru mikilvægar menningarminjar og vitnisburður um þátt í atvinnusögu okkar allt frá landnámi framá 20. öld. Það er því mikilvægt að gerðar verði nákvæmar athuganir á þeim, en frekari rannsóknir geta gefið svör við ýmsum spurningum. Náttúrufegurð er mikil á öllum selstöðusvæðunum innan borgarmarkanna og eru þau kjörin til útivistar. Þar sem tóftir selja eru enn vel greinanlegar auka þær á upplifun landsins þar sem þær kúra að því er virðist samvaxnar landinu.“
Sjá Skýrsluna.
Sjá úrdrátt úr BA-ritgerð ÓSÁ um „Sel vestan Esju“ frá árinu 2007.
Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur; Skýrsla nr. 159.
Baðsvallasel – uppdráttur
Um FERLIR
FERLIRstóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík.
Ferlir í Selvogi.
Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu í tilbreytingu frá hversdagslegum önnum, krefjandi rannsóknum og kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig utan starfstöðvanna – víttka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta úthverfi. Reykjanesskaginn varð fyrir valinu, bæði vegna nálægðarinnar og ekki síður vegna lítils áhuga fólks almennt á því svæði (þótt undarlega megi teljast) þrátt fyrir fjölbreytileikann.
Ferlir á Sveifluhálsi.
Eftir að þátttakendur höfðu kynnt sér og rannsakað gaumgæfilega margvíslegar heimildir, -bæði gamlar og nýjar, skráðar og óskráðar – kom í ljós að Skaginn hafði upp á ótrúlega mikla fjölbreytni að bjóða; allt frá fornum minjum um búsetu frá því fyrir upphaf norræns landsnáms til áþreifanlegrar atvinnuþróunarsögu frá fornöld til vorra tíma, þjóðsagnakennda staði, fornar þjóðleiðir, stórkostlega og síbreytilega náttúrufegurð, tímasetta jarðsögu, fjölbreytta flóru og fánu, sendnar strandir jafnt sem rísandi björg, magnþrungið brim, langa fjallgarða, formfögur fjöll, gróna dali, tifandi læki, fjölskrúðug jarðhitasvæði og svo mætti lengi telja.
Reykjanesskagi – fornar leiðir.
Til að gera langa sögu stutta er rétt að nefna að þegar hafa verið farnar rúmlega 4000 gönguferðir um Reykjanesskagann, sem markast af hinu forna landnámi Ingólfs, vestan línu milli Hvalfjarðarbotns og Ölfusárárósa. Hópurinn, breytilegur frá einum tíma til annars, hefur notið leiðsagnar frábærs fólks á einstökum afmörkuðum svæðum. Því fólki verður seint fullþakkað fyrir móttökurnar.
Ferlir við Markastein.
Árangurinn má sjá á vefsíðunni. Auk texta má sjá fjölda mynda og uppdrætti af yfir 200 minjasvæðum. Margt mjög áhugasamt fólk hefur verið með í ferðum. Sumt af því hafði áður skoðað og skráð merkilegar upplýsingar á einstökum svæðum. Þátttaka þess hefur gert hópnum kleift að auka víðsýnið og fræðast um ýmislegt það, sem áður virtist óþekkt. Við leitir hefur hópurinn og fundið áður óþekktar minjar og staðsett aðrar, sem heimildir voru um en virtust týndar. Alls staðar, þar sem bankað hefur verið að dyrum, hefur hópnum verið mjög vel tekið. Þátttakendur hafa einnig átt frábært samstarf við ágæta fulltrúa Hellarannsóknarfélagsins (Björn Hróarsson), Ferðamálafélags Grindavíkur (Erling Einarsson), kirkjuverði, skólastjórnendur, staðkunnugt heimafólk, innfædda leiðsögumenn og marga fleiri á ferðum sínum.
Ferlir í Bálkahelli.
Sem dæmi má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Ólafsson, hefur verið áhugasamur um sitt umdæmi og mætt í margar ferðir er farnar hafa verið innan umdæmisins. Verður það að teljast einkar virðingarvert því talsverður tími hefur farið í ferðir um það víðfeðma umdæmi. Safnað hefur verið miklum fróðleik um Skagann, skráðir GPS-punktar á minjar, hella, skúta, sel, sögulega staði, flugvélaflög, vörður, fornar þjóðleiðir og annað er merkilegt hefur þótt. Þá hafa einstök minjasvæði, s.s. Gömlu Hafnir, Básendar, Húshólmi, Selatangar, Krýsuvík, Selalda, Strandarhæð, Kaldársel o.fl. staðir verið dregnir upp skv. lýsingum eldra fólks, en fróðleiksmiðlun þess verður seint metin að verðleikum. Viðtöl hafa og verið tekin við þekkingarfólk, sem enn man hvaða minjar voru hvar, af hvaða tilefni og hvað var gert á hverjum stað á hverjum tíma.
Áhugasömu fólki um Reykjanesskagann hefur jafnan verið boðið velkomið í hópinn.
Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.