Spákonuvatn

Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor í líffræði við Kennaraháskóla Íslands og formaður stjórnar Reykjanesfólkvangs 2002-20, skrifaði grein í Náttúrufræðinginn árið 2006 undir yfirskriftinni „Reykjanesfólkvangur – Auðlind við bæjarmörkin“:

Hrefna Sigurjónsdóttir

Hrefna Sigurjónsdóttir.

„Reykjanesfólkvangur var auglýstur sem friðland þegar hann var stofnaður fyrir rúmum 30 árum. Tilgangurinn var fyrst og fremst sá að taka frá land þar sem landsmenn, og þá einkum höfuðborgarbúar, gætu notið útivistar á svæði nálægt byggð sem væri lítt snortið og þar sem margt áhugavert væri að sjá. Sveitarfélögin sem stóðu að stofnun fólkvangsins, sem er um 300 ferkílómetrar að stærð, eru Reykjavík, Hafnarfjörður, Grindavík, Kópavogur, Seltjarnarnes og Reykjanesbær. Grindavík og Hafnarfjörður eiga mestallt landið. Fulltrúar meirihlutans í hverju sveitarfélagi mynda stóm og hefur fulltrúi Reykjavíkur alltaf verið formaður. í auglýsingunni er kveðið á um að nýting jarðvarma sé undanþegin friðlýsingu og einnig að eignarréttur ráði þegar um framkvæmdir sé að ræða, en þó með því skilyrði að Náttúruverndarráð (nú Umhverfisstofnun) úrskurði að ekki sé um of mikið jarðrask að ræða.

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur – loftmynd.

Undirrituð tók við stjórn fólkvangsins seint á árinu 2002 sem fulltrúi R-listans. Þótt ég hafi farið töluvert um Reykjanesið fyrir þann tíma þekkti ég svæðið illa. Ég vissi ekki hver mörk fólkvangsins væru. Ég hafði komið nokkrum sinnum í Krýsuvík og skoðað hverina og kirkjuna og einu sinni keyrt um Vigdísarvelli. Einnig hafði ég komið á Selatanga. Nú, tæpum 4 árum seinna, þekki ég fólkvanginn mun betur og fullyrði að þarna er um að ræða fjársjóð sem við eigum að vernda fyrir komandi kynslóðir sem útivistarsvæði og miðstöð fræðslu.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Mig grunar að flestir höfuðborgarbúar séu í svipuðum sporum og ég var. Þeir þekkja ekki svæðið! Það eru væntanlega ýmsar ástæður fyrir þessari fákunnáttu en í mínum huga hefðu sveitarfélögin getað staðið sig betur í því að vekja athygli á svæðinu og byggja það upp sem útivistarsvæði.

Tíminn hefur verið nægur. Hvað veldur? í skýrslu um fólkvanginn, sem Sigrún Helgadóttir náttúrufræðingur vann fyrir stjórnina, er samankominn mikill fróðleikur. Höfundur bendir m.a. á að fulltrúar í stjórninni hafa svo til aldrei verið áhrifamenn í sveitarfélögunum og að fjárveitingar hafa alltaf verið skammarlega litlar.

Krýsuvík

Krýsuvík – fyrirhugaðir borteigar.

Starfsemin hefur verið sú sama ár eftir ár og því miður hefur lítið miðað í að gera átak í málefnum fólkvangsins.

Núverandi stóm hefur hug á að hefja slíkt átak. Haldið var málþing í september 2005 um stöðu og framtíð svæðisins, opnuð var heimasíða og sótt hefur verið um hærri fjárframlög til sveitarfélaganna. Stefnt er að því að ráða landvörð næsta sumar. En hvað framtíðin ber í skauti sér er óljóst því eftir kosningar verður ný stjórn skipuð. Að mínu mati er þetta ekki gott stjórnarfyrirkomulag. Vonandi verður breyting þar á. Ein hugmynd er að stofna einskonar þjóðvang þar sem ríki og sveitarfélög ynnu saman og fagaðilar sætu í stóm. Eitt er víst – þegar á reynir eru völd þessarar stjórnar afar lítil.

Sandfellsklofi

Sandfellsklofi – ummerki eftir utanvegaakstur.

Skilningur á gildi svæðisins sem friðlýsts lands virðist vera takmarkaður. Slæm umgengni er til marks um það. Vélhjóla- og jeppamenn sækja stíft inn í fólkvanginn og hafa valdið miklum skemmdum. Þessi ólöglega umferð um allar trissur er orðin gífurlegt vandamál og eykst jafnt og þétt samfara auknum innflutningi slíkra ökutækja. Stórn fólkvangsins hefur verið á einu máli um að akstur slíkra tækja fari ekki saman við það markmið að fólkvangurinn skuli vera griðland fyrir göngufólk og þá sem koma til að njóta kyrrðarinnar og náttúrunnar. Ofbeit hefur lengi verið vandamál og sú aðferð að loka féð innan beitarhólfa í fólkvanginum, sem landeigendur hafa gert í samvinnu við Landgræðsluna, hugnaðist sjórninni ekki. Engu að síður var það framkvæmt. Skort hefur á að gömul mannvirki séu fjarlægð en slíkt er á ábyrgð landeigenda. Skilti freista skyttna og síðastliðið sumar gáfu landeigendur heimsfrægum leikstjóra leyfi til að brenna gróður í einu fallegasta fjallinu. Og svo tekur steininn úr nú þegar fyrirætlanir Hitaveitu Suðurnesja um tilraunaboranir og nýtingu mjög víða um fólkvanginn eru ljósar.

Sogin

Sogadalur – borplan.

Reyndar fengu þeir leyfi árið 2000 til tilraunaborana við Trölladyngju, hafa borað þar eina holu og eru nýbyrjaðir á annarri við Sogin. Markmiðið er að stofna til allt að fjögurra 100 MW virkjana á miðju nesinu til að afla raforku fyrir álver. Enda þótt ákvæði um nýtingu jarðvarma hafi verið sett í friðlýsinguna getur engum heilvita manni að hafa dottið í hug að unnt væri að leggja allt svæðið undir í þeim tilgangi. Þegar ég skoða svona áform þá setur að mér hroll.

Hvernig stendur á því að okkur Íslendingum þykir ekki vænna um landið okkar?

Krýsuvík

Krýsuvík – fyrirhuguð háspennulínulega u Sveifluháls.

Vilja menn sjá virkjanir, raflínur og verksmiðjur um allt? Eða eru ráðamenn að taka ákvarðanir sem almenningur er kannski ekki sammála? Sumar skoðanakannanir benda til að svo sé. Það er kominn tími til að fólk láti heyra í sér. Vonandi ber þjóðin gæfu til þess að snúa við blaðinu og átta sig á því að falleg og stórkostleg náttúra er auðlind sem okkur ber að vernda. Um leið þarf að tryggja að fólk hafi tækifæri til að njóta náttúrunnar og fræðast um undur hennar. Ljóst er að ýmis atvinnutækifæri felast í slíkri nýtingu.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 1.-2. Tölublað (2006), Reykjanesfólkvangur – Auðlind við bæjarmörkin, Hrefna Sigurjónsdóttir, bls. 58.

Sog

Í Sogum.

 

Selvogur

Farið var í Selvoginn. Gengið var að flaki vélbátsins Varðar sem liggur í stórgrýtisurð skammt fyrir austan Selvogsvita. Bátinn rak upp í brimi árið 1956 og fórust allir sem um borð voru, fimm menn.

Selvogur

Vörður í fjörunni austan Nesvita í Selvogi.

Flakið er illa farið en stefnishlutinn, með lúkarnum, er eftir og nokkuð þarna frá er afturdekkið, skreytt með ryðguðu dráttarspili.
Þátttakendur fengu sér kaffisopa og meðlæti þarna við flakið, með útsýni út yfir hafið og landið, böðuð í sólskini.
Þegar einn FERLIRs félaginn stóð upp, féll hann afturábak og kláraðist þannig úr könnunni yfir hann. Þar sem FERLIRs menn eru orðnir ýmsu vanir í þessum ferðum lét hann þetta ekki aftra sér í að fá aftur í könnuna. Teygði hann sig síðan í girnilega brauðsneið með áleggi. Skipti þá engum togum að brauðsneiðin var slegin úr höndum hans og féll hún niður í stórgrýtið.

Nesborgir

Nesborgir í Selvogi.

Annar FERLIRs félagi missti síðan kaffikrúsina sína niður í grjótið, þó án þess að hún brotnaði. Þátttakendur þökkuðu fyrir móttökurnar þótt í gletnara lægi væru. En allir voru sammála um að þarna vildu þeir ekki eiga næturstað fyrst svona fjörugt sé í glaða sólskini.
Gengið var að Nesi og skoðaðar þær miklu minjar sem þarna eru.

Nes

Nes – legsteinn.

Mikið hefur verið leitað að legsteini þeim sem Kristófer Bjarnason, kirkjuvörður með meiru, hafði bjargað undan jarðýtunni um miðja síðustu öld, þegar bóndinn í Nesi var að byggja hlöðu og fjós.
Vitað var að þarna hafði verið kirkjugarður og kirkja sem var endanlega aflögð 1706 en síðastur var þar grafinn Jón Jónsson, bóndi í Nesi. Hann andaðist árið 1702. Síra Jón Vestmann hefir þessa athugasemd um Jón bónda en hann ritaði m.a. „Lýsingu Selvogsþinga árið 1840“
„Hann byggði sér skemmu úr kirkjutóftarrústinni frá forntíð og var að bón hans loks grafinn í skemmunni“. (Landnám Ingólfs, Guðni Jónsson).
Nokkrar fleiri heimildir eru um kirkju í Nesi.

Nes

Nes í Selvogi.

Forn maldage:
(1313) „Maraíu kirkia j Nese og hins helga mangvs jarls: og ins sæla Thorlaks biskups og hinnar helgv Katerynv meyjar er (Finnr) Bjarnmason liet goira. a xx hvundrvd j heima landeog tielld vmm kirkiv . smelltan kross og annann steindann. Alltarisklædi iij. kluckur iiij og fimta brotna. kertastikur ij. og glodarker. elldbera. lysisolv. og Alltaris mvnnlavg. skiov. og stavckvl. og handklæde tuo. og peturs skrift. ij kyr. a og kirkia“ (Fornleifaskráning í Ölfusi)

Máld (1313) 1397: Maríukirkja j Nesi …a .xxc j heimalandi, iij. kyr oc vj. ær…lofadur gropttur heimamonnum oc fatækum monnum í Nesi, tyund liggur þar til heimmanna oc af Biarnastodum.
(Fornl.sk. í Ö)

Selvogur

Selvogs-Jói með nýfundna legsteininn.

Kristófer fann þrjá legsteina, tvo stóra og einn lítinn sem hann taldi vera legstein frá barni. Var hann með kross.
Fyrir nokkrum árum ætlaði hann að ná í steinana en fann þá aðeins tvo þá stóru og fór með þá á minjasafn á Selfossi. Litla steininn fann hann ekki.
Nú þurfti ekki að leita, einn FERLIRs félaginn gekk beint að steininum þar sem hann var hálf niðurgrafinn við niðurfallinn vegginn á hlöðunni. Blasti krossinn í steininum við, moldfylltur.
Kristófer var látinn vita af fundinum og ætlar hann að huga að steininum ef einhverjar framkvæmdir verða þarna á staðnum. Hann var sammála FERLIRs félögum um að þessi steinn ætti ekki heima upp í hillu á minjasafni heldur fái að vera í sínu rétta umhverfi, gamla kirkjugarðinum í Nesi, með mannlífstónað öldugljálfrið við ströndina.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Húsatóftir

Í bókinni „Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók„, sem gefin var út árið 1975, skrifuð af Gísla Brynjólfssyni, má lesa eftirfarandi um horfnu þurrabúðirnar í landi Húsatófta; Vindheima, Blómsturvalla, Dalbæjar og Hamra:

Vindheimar

Húsatóftir

Vindheimar.

Það var árið 1911, að Árni Jónsson á Húsatóftum seldi Magnúsi syni sínum í hendur þriðjunginn af sínum patri í Tóftum.
Á einum þriðja reisti hann sjáfstætt býli, sem hann nefndi Vindheima, og bjó þar með Vilborgu konu sinni og tveim börnum þeirra til vorsins 1919, að þau hjón fluttust til Reykjavíkur ásamt syni sínum Sigurði, mállausum.
En það er af Vindheimum að segja, að eftir að Árni fluttist þaðan 1919, að næsta ár er Jódís dóttir hans talin þar til heimilis með ungum syni sínum, Árna Vilberg.
Síðan stendur húsið autt – og þó.

Húsatóftir

Vindheimar – tóftir.

Austur í Járngerðarstaðahverfi er Templarahúsið sameiginleg miðstöð hverfanna þriggja fyrir mannfagnaði hvers konar. En þangað er klukkutíma gangur úr Staðarhverfi, Og ósjaldan um hraun að klöngrast, sé Rásin óvæð. Staðhverfingar bregða því á það ráð um sinn að fá Vindheimahúsið léð til samkomuhalds.
Að lokinni álfabrennu á þrettándanum og dansi kringum hana uppi á barðinu austur af Stað, er hlaupið við fót heim að Vindheimum. Ljós eru tendruð, nikkan tekin á kné og danssporin stigin af ungum og öldnum.

Húsatóftir

Vindheimar (Kristinn Reyr).

Á stundum er polkinn eða rællinn svo heillandi á Vindheimaballi, að pörin leiðast ekki til síns heima, fyrr en mál er að skinnklæðast, hrinda fram skipi og róa út á mið í skímu komandi dags.
Fleira verður og til tíðinda á Vindheimum þau ár. Þangað kemur ekki ómerkari „list um landið“ en sjálfur Ingimundur fiðla. Segist ætla að halda samkomu, fyrst húsið sé falt – aðgangur 10 aura, takk. Auglýsingin berst eins og eldur í sinu frá manni til manns, bæ frá bæ. Og snillingurinn stillir sína strengi og strýkur þá töfraboga. Hann syngur sumpart með eða leikur aðrar listir fyrir troðfullu Vindheimahúsi.

Húsatóftir

Vindheimar – sjávargatan. Bærinn (tóftirnar) efst t.h.

Líkt og himneskur sendiboði með sakramenti snillinnar inn í fásinnið eitt vökubjart vor.
Að öðru leyti eru Vindheimar í eyði til 1925, að þangað flytur Sveinn Ásmundsson með ráðskonu, Gíslínu Jónsdóttur. Þau voru þar í eitt ar.
Tvær vetrarvertíðir – 1924 og 1925, reri Gísli silfursmiður Gíslason skipi sínu frá Húsatóftum og hafði bækistöð á Vindheimum.
Næst er getið um fólk á Vindheimum árin 1933 og 1934. Þá búa þar hjónin Benedikt Benediktsson og Anna Jónsdóttir. Þau fluttust til Reykjavíkur.
Þar með er sögu Vindheima lokið.

Dalbær

Húsatóftir

Dalbær.

Á árunum 1906 til 1964 voru byggð ekki færri en fimm tómthús í landi Húsatófta. Ber það í raun og veru ljósan vott um það, hve atvinnuástandið í plássinu var gott og hve björtum augum menn litu á framtíðarmöguleikana í Staðarhverfinu allt fram á fjórða áratuginn.
Fyrsta þurrabúiðin, sem hér verður nefnd, – Dalbær – reist árið 1906 af þeim Ingvari Hólmsteinssyni og Eydísi Þorsteinsdóttur. Dalbæ fylgdi tæpl. tveggja dagslátta land, tún og garður, sem gaf 15 tunnur af kartöflum árið 1916.

Húsatóftir

Dalbær – tóftir.

Þau Ingvar og Eydís eignuðust fjögur börn, sem upp komust; Guðrún, húsfreyja í Merki, Eydís á heima í Keflavík, en tveir synir dóu á besta aldri. Eyjólfur andaðist 31 árs úr lungnabólgu austur á Eskifirði 13. ágúst 1923 og Sveinn drukknaði 28 ára gamall þegar Björgvin fórst á Jángerðastaðasundi með allri áhöfn 14, mars 1926.
Ingvar Hólmsteinsson lést 14, sept. 1917, en Eydís ekkja hans bjó áfram í dalbæ næstu sjö árin. Þá fluttist hún til Guðrúnar dóttur sinnar í Merki þar sem hún var til dauðadags. Hún andaðist 30. des. 1936 og var þá komin yfir hálfnírætt.

Húsatóftir

Dalbær – tóftir.

Eftir Eydísi komu að Dalbæ Gunnsteinn Einarsson frá Húsatóftum með sinni ungu konu, Elsie Jónsdóttur, Helgasonar frá Hömrum. Þau byggðu steinhús það sem enn stendur í Dalbæ og mega heita þar síðustu ábúendur. Þau fluttust inn í Járngerðarstaðahverfi 1946. Guðsteinn Einarsson tók við hreppstjórastarfinu af föður sínum og hafði það á hendi til dauðadags. Einnig var hann oddviti hreppsnefndar um tíma. Hann var fróður um sögu Grindavíkur og minnugur á liðna atburði, eins og ritgerð hans í bókinni „Frá Suðurnesjum“ ber með sér.
Eftirlifandi ekkja Guðsteins er Sigrún Guðmundsdóttir frá Ísólfsskála. Hún varð hreppstjóri að manni sínum látnum og er eina konan á Íslandi, sem gegnt hefur því embætti.

Blómsturvellir

Húsatóftir

Blómsturvellir.

Til forna var hjáleiga frá Stað, nefnd Blómsturvellir. Þegar úttekt var gerð á Grindavíkurhöndlun árið 1783, átti þar heima Jón nokkur Knútsson, en ekki er af honum önnur vitneskja en sú, að hann skuldaði versluninni 3 ríkisdali og 64 1/2 skilding. Og Blómsturvellir þeir fóru í eyði um aldamótin 1800 vegna sandágangs. Svo liðu rúmlega hundrað ár.
Þá gerðist það, að reist var þurrabúð með þessu fallega nafni í landi Húsatófta. Hún er fysrt nefnd í manntali árið 1914. Þá eru þeir einir taldir þar til heimilis bræðurnir Ólafur og Árni, synir Vilborgar og Árna á Húsatóftum. Þeir drukknuðu báðir með Magnúsi bróður sínum þann 8. apríl 1915.
Næsta ár er enginn talinn eiga heima á Blómsturvöllum.

Húsatóftir

Blómsturvellir (Kristinn Reyr).

En árið eftir, 1916, flytjast þau hjónin, ágústa systir þeirra bræðra og Pétur Jónsson frá Hópi, Grindavík, í Þessa þurrabúð ásamt sínu sínum Kristni, þá á öðru ári. Þau hófu búskap að Hæðarenda í Járngerðarstaðahverfi, fluttust skömmu síðar í Akrakot, en komu nú þaðan út í Hverfi, eins og kallað var, og tóku Blómsturvellina á leigu.
En með afsalsbréfum, dagsettum 17. nóvember 1917, gefur Árni Jónsson á Vindheimum dóttur sinni, Ágústu, Blómsturvallalóðina, 900 ferfaðma – en selur Pétri húsið, sem á henni stendur fyrir 810 krónur.

Húsatóftir

Blómsturvellir – útihús.

Næstu árin er Pétur formaður á áraskipi, sem hann gerir út á vetrarvertíð. Hann fluttist með fjölskyldu sína til Keflavíkur árið 1922.
Stóð húsið autt um skeið, en var síðan rifið og efniviður þess fluttur sjóleiðina með mótorbát til Keflavíkur. En ekki varð úr, að húsið yrði endurbyggt þar.
Eftir það er ekki talin byggð á Blómsturvöllum, í fagurnefndu þurrabúð úr landi Húsatófta.
En líta má nánar á grunn Blómsturvallahússins.
Hann var 4.60×5.20 metrar að meðtalinni veggjaþykkt 40 cm eða um 24 fermetrar. Auk þess anddyri eða viðbyggður skúr 3.30×3.30 – rúmir 10 fermetrar.
Að sögn var húsið úr timbri, alþiljað að innan í kross.

Húsatóftir

Blómsturvellir – tóftir.

Á lofti voru geymd skinnklæði. Í anddyri stóð olíufat með drykkjarvatni, er borið var í fötum úr brunni í Dalbæjartúni. Úr anddyri var gengið í eldhús – en þar inni eldavél. borð og skápar. En úr eldhúsinu mátti fara hringinn um herbergin þrjú. Eitt þeirravar stofa með kommóðu í horni, borði og stólum. Á vetrarvertíð bættust fjölskyldunni nokkrir vermenn – nefndir útgerðarmenn í daglegu tali. Og urðu þá tveir að deila með sér rekkju.
Um haustnætur var Blómsturvallakjallarinn – sem enn má greina rústir af, næstum fullur af eldilviði til vetrarins. matmæli voru einnig geymd þar.

Hamrar

Húsatóftir

Hamrar.

Svo lét sr. Brynjólfur magnússon um mælt í líkræðunni yfir Jóni vitaverði helgasyni, að hann hefði tekið sér það allnærri að fara frá Reykjanesi, „en þó bar hann harm sinn vel og í hljóði“.
Og eflaust hefur honum gengið betur að sefa særða lund sína vegna þess, að hann fékk ærið verk að vinna við að byggja yfir sína stóru fjölskyldu og koma sér fyrir á nýjum stað. Jón fékk útmælda 900 ferfaðma lóð hjá Einari á Húsatóftum og byggði sér þar lítið, pappaklætt timburhús og kallaði á Hömrum. Það var aðeins 28 fermetrar að falatarmáli. Fyrsta árið voru þar 11 manns í heimili. En hjartarúmið á Hömrum var nóg, ekki stóð á því. Aldrei leið Jóni betur, segir sr. Brynfólfur, „en er hann hafði hóp vina sinna kringum sig og var þá jafnan fremstur í gleðinni og skemmtilegur viðræðum“.

Húsatóftir

Hamrar – útihús.

Á Hömrum voru litlar sen engar landsnytjar utan kartöflugarður. Þó hafði Jón oftast nokkrar kindur en ekki aðrar skepnur. En hann stundaði sjóinn af kappi, var formaður á skipi, sem hann átti með öðrum, og aflaði vel og mun afkoman því hafa verið eftir hætti allgóð, a.m.k. eftir að börnin fóru að komast upp.
Árið 1930 fékk Jón Stað til ábúðar og fluttist þangað. Eftir hann kom enginn að Hömrum og eru þau Agnes og Jón því einu húsráðendur í þessari þurrabúð á Húsatóftum.

Heimild:
-Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók, 1975, Gísli Brynjólfsson, bls. 92-110.

Grindavík

Grindavík 2024.

 

Helgafell

Eftirfarandi grein birtist í Mbl 4. febrúar árið 2001 um „Helgafell við Kaldárbotna„.
Kaldárbotnar„Helgafell í landi Hafnarfjarðar lætur frekar lítið yfir sér, en upp á það eru nokkrar skemmtilegar gönguleiðir. Útsýnið af því kom einnig Regínu Hreinsdóttur á óvart.
VIÐ hefjum gönguna við vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum. Nokkrar skemmtilegar uppgönguleiðir eru á Helgafellið bæði að sunnan- og norðanverðu. Auðveldast er þó að ganga upp að norðaustanverðu, þar sem brattinn er minnstur og það gerum við í þetta skipti. Fyrir þá sem ekki hyggja á fjallgöngu er einnig vel þess virði að ganga kringum fellið og heilsa upp á riddarann, móbergsstrýtuna sunnan á háfjallinu.
Kynjamyndir í Riddarinnmóbergi Fellið er skriðurunnið þar sem uppgangan hefst en ofar hefur lausagrjótið sópast burt og í ljós koma ýmsar kynjamyndir sem vindurinn hefur verið að dunda sér við að sverfa í móbergið, síðan jökla leysti. Þarna er hægt að gleyma sér lengi dags við að dást að listasmíð náttúrunnar, allskonar öldumynstri, skálum, örþunnum eggjum og andlitsdráttum trölla og álfa ef vel er að gáð. Landslagið er sumstaðar svo framandi að allt í einu læðist kannski að manni að einhvern veginn hafi maður í ógáti lent á tunglinu.

Helgafell

Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.

Hraunflæmið sem blasir við allt í kring vekur einnig ósjálfrátt til umhugsunar um hversu kraftmikil öfl eru að verki í náttúrunni. Síðasti hluti leiðarinnar er brattastur og nokkuð skriðurunninn og betra er að hafa varann á sér svo manni skriki ekki fótur í lausagrjótinu.

Músarhellir og farfuglar
TröllAf toppi fellsins sér vel til allra átta. Bláfjöll, Langahlíð, Sveifluhálsinn, Keilir og Búrfellsgjá eru meðal kunnugra kennileita sem standa upp úr hrauninu auk þess sem vel sést yfir höfuðborgarsvæðið.
Þegar við höfum horft nægju okkar að þessu sinni, og skrifað í gestabókina, höldum við aftur sömu leið til baka. Þegar niður er komið er upplagt að koma við í Valabóli norðaustan í Valahnúkum, en þar er skjólsæl vin í eyðimörkinni sem Bandalag íslenskra farfugla hóf að rækta upp 1942.

Valaból

Valaból – Músarhellir.

Innan uppgræðslusvæðisins er hellirinn Músarhellir sem notaður var af gangnamönnum allt til aldamótanna 1900 og þar gerðu farfuglar sér hreiður, ef svo mætti að orði komast og notuðu sem gististað á ferðum
sínum. Þetta er einnig vinsæll áningarstaður þeirra sem ganga Selvogsgötuna.

Kyrrðin áhrifamikil
VeðrunEftir skruðninginn í smásteinum í göngunni á Helgafellið verður kyrrðin sem ríkir í Valabóli enn áhrifameiri. Þar er eins og löngu liðnir atburðir liggi í loftinu og blærinn reyni að hvísla að manni gleymdum sögum. Ef við ákveðum ekki hér og nú að gerast útilegumenn og setjast að í þessum sælureit, skulum við halda förinni áfram meðfram Valahnúkunum. Þá getum við annars vegar valið að fara sömu megin við vatnsbólið og við komum eða tekið stefnuna á Helgadal þar sem við gætum rekist á hraunhella sem gaman er að skoða. Það er svo um að gera að nota heimferðina til að spá í hvaða uppgönguleið ætti að velja á Helgafellið í næsta skipti.“

Heimildir:
-Gönguleiðir á Íslandi, Reykjanesskagi. Einar Þ. Guðjohnsen 1996.
-Árbók 1984, Ferðafélag Íslands.
-Mbl 4. febrúar 2001, blaðsíða 3.

Helgafell

Helgafell og nágrenni – örnefni og leiðir – ÓSÁ.

Ægissíða

Á skilti við fisk- og beitningaskúrana við Ægissíðu, þ.e. þeirra sem eftir eru eða hafa verið gerðir upp, má lesa eftirfarandi texta undir yfirskriftinni „Gull úr greipum Ægis konungs„:

Ægissíða

Ægissíða – skilti.

„Langt fram eftir 20. öldinni var stundað útræði úr vörum á Reykjavíkursvæðinu. Flestar varirnar eru nú horfnar undir uppfyllingar og því fátt sem minnir á þennan þátt í atvinnusögu borgarinnar.
Grímstaðavör er ein af sjö vörum við Skerjafjörð og sú þeirra sem lengst var róið frá. Betri lending var talin vera í Grímstaðavör en í öðrum vörum við Skerjafjörðinn, meðal annars vegna skerja fyrir utan sem drógu úr öldunni. Vörin er kennd við bæinn Grímsstaði á Grímsstaðaholti.

Grímsstaðaholt

Grímsstaðaholt – Fremst á myndinni sjást Þormóðsstaðir en hvíta húsið t.v. er Garðarnir.

Grímsstaðaholtið afmarkast af Suðurgötu, Starhaga, Ægissíðu og Hjarðarhaga. Grímur Egilsson reisti sér býli á þessu svæði árið 1842 sem hann nefndi Grímsstaði. Fljótlega var farið að kenn aholtið við býlið. Síðasti Grímsstaðabærinn stóð nálægt gatnamótum Dunhaga og Ægissíðu.
Grímsstaðavörin var þekktust fyrir útgerð grásleppubáta síðustu áratugina en áður fyrr var ekki síður gert út á þorsk og ýsu. Þegar mest var voru 16 bátar gerðir út frá vörinni. Þrír til fjórir réru alltaf en hinir um helgar eða þegar tími gafst til frá öðru. Tíðarfarið réði því hvaða daga var hægt að róa. Björn Guðjónsson gerði síðastur út frá Grímsstaðavör eða allt til ársins 1998.

Varnargarður

Ægissíða

Uppdráttur af aðstöðunni við Ægissíðu.

Á kreppuárunum var veitt fé í atvinnubótavinnu við hafnargerð í Grímsstaðavör. Byrjað var að hlaða garð einn mikinn og atti hann að verða upphaf bryggjugerðar í vörinni. Hætt var við garðinn í miðjum kliðum vegna þess að menn höfðu ekki trú á höfn í vörinni vegna þess hversu mikið útfiri var við fjörðinn. Einnig að í vestanátt mundi flóðið standa beint upp á höfnina. Menn álitu því að vænlegra væri fyrir bátana í Grímsstaðavör að fá teina og sleða en bryggju.

Brautir

Ægissíða

Myndir úr Grímsstaðavör.

Eftir að hætt var við bryggjugerð í Grímsstaðavör voru settir niður teina í vörina. Teinarnir komu að góðu gagni. Meðal annars gat einn maður sjósett bát á eigin spýtur. Áður höfðu venjulega fjórir til fimm bátar farið í róður um svipað leyti á morgnana og hjálpuðust menn þá að við sjósetninguna.

Garðar, Lambhóll og Þormóðsstaðir
Í næsta nágrenni við Grímsstaðavörina voru býlin Garðar, Lambhóll og Þormóðsstaðir. Garðar eru við núverandi gatnamót Ægissíðu og Lynghaga. Byggð reis í Görðum um 1860. Sigurður Jónsson, sem frægur var fyrir umsvifamikla útgerð og fiskvinnslu, var ávallt kallaður eftir húsinu, en hann keypti það árið 1892. Núverandi íbúðarhús í Görðunum er talið vera frá 1881-1883.
Lambhóll var býli úr landi Skildingarness. Það er jafnvel talið að á þessum slóðum hafi verið lambhús frá Skildingarnesi. Núverandi hús í Lambhól eru fyrir neðan Ægissíðu, milli Þormóðsstaða og Garða en nær sjónum.

Ægissíða

Ægissíða – skilti.

Þormóðsstaðir eru rétt við Lambhól og Garðana. Í heimildum er fyrst getið um býli þar um 1850 en ekki er ljóst við hvern það er kennt. Á árunum 1912-1927 rak fiskveiðifelagið Alliance í samvinnu við aðra lifrabræðslu á Þormóðsstöðum. Lifrabræðsluhúsið, Brenneríið, var strýtulaga og setti mikinn svip á umhverfið. Á Þormóðsstöðum voru einnig fiskreitir og fiskhús. Timburhúsin þrjú við Starhaga tilheyra fyrrum Þormóðssstaðabyggðinni.

Hrognkelsi
ÆgissíðaHrongkelsið er klunnalegur fiskur, með stuttan haus, lítinn kjaft og smáar tennur. Augun eru lítil. Roðið er mjög þykkt og kallað hvelja. Hrognkelsi hefur enga rák. Grásleppan (kvk) er dögggrá að ofan en ljósari á hliðum og hvít eða ljósgræn að neðan. Rauðmaginn (kk) er dögkkgrár að ofan og grágrænn að neðan, en verður rauður að neðan um hrygingartímann. Hrognkelsavertíðin var frá mars til júlí.
ÆgissíðaRauðmagi og grásleppa þóttu sæmileg til átu en grásleppuhrogn þóttu aftur móti ólystug fæða lengi vel og voru aðseins etin ef ekki var annað að hafa. Um miðja 20. öldina urðu þau hins vegar eftirsótt útflutningsvara og breytti það stöðu hrognkelsaveiðanna mjög. Umdanfarna áratugi hafa grásleppuhrogn verið háttverðlögð. En neysla á rauðmaga og grásleppu hefur dregist saman.“

(Prentvillur á skiltinu hafa verið leiðréttar í meðfylgjandi texta.)

Á gafli austasta beitarskúrsins skammt frá skiltinu má lesa eftirfarandi á skilti:
Menningarminjar við Grímsstaðavör
ÆgissíðaBorgarsögusafn Reykjavíkur hefur umsjón með varðveislu minja við Grímstaðavör. Árið 2018 var gerð fornleifarannsókn á svæðinu, skipt var um jarðveg og möl sett í kring um skúrana til þess að halda gróðri í skefjum og svæðinu snyrtilegu. Stefnt er að því á næstu árum að gera við hvern skúr fyrir sig, styrkja þá og laga, en halda útliti þeirra að mestu óbreyttu. Skúrarnir verða fjarlægðir á eðan á viðgerðum stendur.
Frekari upplýsingar veitir Borgarsögusafn Reykjavíkur.“

Ægissíða

Ægissíða – menningarminjarnar 2024.

Laugarnes

Á Laugarnesi í Reykjavík er skilti. Yfirskriftin á skiltinu er; „Velkomin á Laugarnes„.

Laugarnes

Laugarnes – skilti.

Á skiltinu má lesa eftirfarandi texta: „Laugarnes er ein af útivistarperlum Reykjavíkur. Hér er eina náttúrumyndaða fjaran sem eftir er á norðurströnd Reykjavíkur frá Örfirisey að Grafarvogi. Fjaran er mikilvæg fyrir fuglalíf, þar sem á svæðinu verpa nokkrar fuglategundir.
LaugarnesMenningarlandslagið í Laugarnesi hefur mótast af búsetu í margar aldir og hver kynslóð hefur markað sín spor í landið.
Búið er í fjórum húsum á svæðinu auk þess sem Listasafn Sigurjóns Ólafssonar er starfrækt hér.

Hernámið
LaugarnesBreski herinn gekk á land í Reykjavík þann 10. maí 1940. Hann lagði undir sig ýmsar byggingar fyrir starfsemi sína auk þess sem reistar voru tjaldbúðir víðsvegar um bæinn.
Síðar voru reistir hermannaskálar eða svokallaðir braggar á vegum hernámsliðsins. Í Reykjavík risu um 80 braggahverfi sem hýstu um 12.000 hermenn. Eitt þeirra var hér vestast á Laugarnesi, Laugarneskampur.
LaugarnesÁrið 1941 tók síðan bandaríska seturliðið við Laugarneskampi sem hýsti þá aðallega sjúkradeildir hersins auk skála hjúkrunarkvenna, yfirmanna og annarra hermanna. Kampurinn samanstóð af 100 bröggum og öðrum byggingum.
Þegar umsvif bandaríska hersins drógust saman um 1945, var kampurinn nýttur sem íbúðarhúsnæði fyrir Íslendinga. Á árunum 1951-1957 voru íbúar flestir í kampinum eða um 300 manns.
Þessi byggð setti um tíma mikinn svip á Laugarnesið en er nú horfin með öllu. Í einum bragganum bjó Sigurjón Ólafsson myndhöggvari með fjölskyldu sinni. Þar var byggt listasafn sem ber nafn hans.“

Skammt frá skiltinu er annað upplýsingaskilti um fyrrum holdveikraspítalann á Lauganesi – sjá HÉR.

Laugarnes

Laugarnes – búsvæði Hrafns Gunnlaugssonar.

 

Kaldársel

Hafnarfjörður á einkar fallega og fjölbreytilega landskosti.

Hafnarfjörður

Vitinn við Vitastíg.

Í bænum sjálfum eru bæði sögulegir staðir og minjar, sem varðveittar hafa verið, bæði meðvitað og ómeðvitað. Má í því sambandi nefna letursteinana á Hvaleyrarhöfða, garðana ofan við Langeyri, fiskireitinn uppi á Hrauni, stekkinn í Stekkjarhrauni, fjárskjólið utan í Gráhellu í Gráhelluhrauni og fjárborgina á Höfða við Kaldársel. Hins vegar er fjölmargt, sem ganga þarf í, segja frá á aðgengilegum stað, kortleggja og merkja síðan á vettvangi. Að hluta til hefur það verið gert í Hraununum við Straum, en óvíða annars staðar. Í hrauninu ofan við Hraunbæina eru nokkur sel, s.s. Fornasel, Gjásel, Straumssel, Óttarstaðasel, Lónakotssel og Brennisel með tilheyrandi mannvirkjum, hlöðnum fjárhellum, stekkjum, kvíum, gerðum og nátthögum. Stígar liggja að öllum þessarra mannvirkja og þau eru í mjög stuttu og aðgengilegu göngufæri frá byggð. Þannig er ekki nema u.þ.b. 20 mínútna gangur í Straumssel. Með Óttarstaðaselsstíg eru t.d. nokkur mjög falleg fjárskjól, en öll ómerkt. Við Hvaleyrarvatn er Hvaleyrarsel og í Kaldárseli var Kaldársel. Enn má sjá móta fyrir tóttum selsins.

Stórhöfði

Stórhöfði – fjárskjól.

Mannvirki eru allt í kringum Hvaleyrarvatn og svo er einnig um Kaldársel, s.s. fjárborgin, fjárhellarnir, nátthaginn og gerðin. Gamla vatnsleiðslan er dæmi um mannvirki, sem áhugavert er að skoða.
Þá eru hellarnir nálægt Helgadal ekki síðri, s.s. 90 metra hellirinn, 100 metra hellirinn, Fosshellir og Rauðshellir. Mikið er gengið um svæðið nálægt Valahnjúkum, s.s. í Valaból, og um Helgafell. Á því svæði eru einnig mjög áhugaverðar jarðmyndanir, ekki síst sunnan Helgafells.

Kaldársel

Kaldársel – fjárhellir.

Gvendarsel er í Gvendarselshæð, en gígarnir utan í hæðinni eru líklega með áhuguverðustu skoðunarstöðum áhugafólks um jarðfræði. Fallegur fjárhellir er í Óbrennishólum, en hann mun væntanlega fljótlega hverfa undir malarnámið verði ekkert að gert. Mikilvægt er að merkja gömlu Selvogsgötuna frá tilteknum upphafsstað, s.s. í Lækjarbotnum við gömlu stífluna. Svæðið norðan og sunnan Sléttuhlíðar býður upp á mikla möguleika, en þar eru m.a. Kershellir, Hvatshellir, Ketshellir og fjárhellar Setbergssels og Hamarkotssels. Við Krýsuvíkurveginn er stutt í Hrauntunguna, en þar er fallega hlaðið fjárskjól í jarðfalli, og Þorbjarnarstaðafjárborgina. Sveifluhálsinn er útivistarmöguleiki út af fyrir sig, sem ástæða er að mæla með. Margir þekkja möguleikana í kringum Kleifarvatn og Hveradal.

Seltún

Seltúnsselið sést á þessari mynd Sigfúsar Eymundssonar frá 1884 – myndin er tekin frá Lambafelli að Seltúni.

Þar var sel frá Krýsuvík. Þá er orðið aðkallandi að merkja staði í Krýsuvík, s.s gömlu bæina í kringum Bæjarfellið, t.d. Snorrakot, Norðurkot, Læk, Litla-Nýjabæ, Stóra-Nýjabæ, Suðurkot, Arnarfell, og niður við Selöldu. Arngrímshellir er í Krýsuvíkurhrauni, en frá honum er sagt í þjóðsögunni um Grákollu. Þar skammt frá er Bálkahellir og Krýsuvíkurhellir neðar. Dysjar Herdísar og Krýsu eru undir Stóru-Eldborg og dys Ögmundar er í Ögmundarhrauni. Minjarnar í Húshólma og Óbrennishólma eru líklega með þeim merkilegustu hérlendis. Í Húshóma má sjá leifar eftir fornan skála, gömlu Krýsuvíkurkirkju, gamals bæjar, forns garðs, sjóbúð, stekk og gerði, sem hraunið hefur runnið að. Í Óbrennishólma eru tvær fjárborgir, líklega með þeim elstu á landinu, auk garðlags, sem hraunið hefur runnið að, og leifar af fornum garði.

Krýsuvíkurheiði

Athvarf í Krýsuvíkurheiði.

Undir Selöldu eru tóttir Krýsuvíkursels og bæjanna Eyri og Fitja. Í Strákum er hlaðið fjárhús. Á Krýsuvíkurheiði er Jónsbúð og fallega hlaðið sæluhús sunnan í henni. Fjárborg er vestan í Borgarholti og Hafliðastekkur utan í Bæjarfelli. Gestsstaðir eru líklega næst elstur bæja í Krýsuvík, utan Kaldrana. Merkja þarf tóttir Gestsstaða, sem eru undir hæðunum sunnan við Krýsuvíkurskóla. Aukþess er forn tótt utan í Sveifluhálsi nokkru sunnar.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Flestir aka framhjá tóttum Kaldrana, án þess að veita þeim gaum, en þær liggja undir hæðinni austan við gatnamótin að Hverahlíð. Fjölmargir stígar og gamlar þjóðleiðir liggja um þetta svæði, s.s. Drumbsdalavegur yfir að Vigdísarvöllum, Sveifluvegur, Hettuvegur og Ketilsstígur, Vatnshlíðarstígur um Hvammahraun og Austurvegur um Deildarháls að Herdísarvík. Þá eru leiðir um Almenninga ekki síðri, auk Markhelluhóls og Búðarvatnsstæðisins. Í Sauðarbrekkum eru mjög fallegir gjallgígar og er einn þeirra holur að innan. Hann hefur að öllum líkindum verið notaður sem íverustaður um tíma. Ofar, á Hrútardyngjusvæðinu, eru á annan tug langra manngengna hraunhella, sem eru sértaklega fallegir, en vandmeðfarnir.

Alfaraleið

Alfaraleiðin við gatnamót Lónakotsselsstígs.

Að sumu þarf að gera gangskör að, s.s. að finna og merkja Góðholu og Kaldadý, vegna upphafs vatnsveituframkvæmda í bænum. Hingað til hefur skógrækt þótt merkisfyrirbæri og óþarfi er að gera lítið úr henni. En hins vegar er mikilvægt að gæta þess að skógræktin skemmi ekki minjar og gönguleiðir, eins og farið er að bera á. Þá þarf að huga að merkilegum svæðum, en sum þeirra hafa verið skemmd að undanförnu. Nýjasta dæmið er Alliansreiturinn við Hrafnistu. Honum var mokað á brott á hluta úr degi fyrir skömmu. Vert er að minnast Hraunsréttarinnar, sem var fjarlægð á svo til einum degi. Svo var einnig með eystri fjárborgina í Kaldárseli. Hrauntungusel er í jaðri iðnaðarsvæðisins við Molduhraun. Búið er að moka hluta að því í burtu, en eftir stendur hluti tóttar utan í Hádegishól.

Alfararleiðin á milli Innesja og Útnesja var með þeim fjölfarnari á öldum áður. Hún er sæmilega vörðuð í dag frá Þorbjarnarstöðum og vestur um Hvassahraun (Rjúpnadalshraun) og ennþá vel greinileg. Hins vegar er með hana eins og svo margt annað. Tiltölulega fáir vita um tilvist hennar. Svo er einnig með veginn undir járnbrautina, sem stóð til að leggja yfir Garðahraun. Gamla þjóðleiðin um Engidal á bak við Fjarðarkaup er einnig að glatast, en hún er enn vel greinileg.
Hafnarfjörður hefur alla burði til að gera sögu sína, minjar og möguleika opinbera bæjarbúum og öðru áhugasömu fólki.

Rauðshellir

Í Rauðshelli.

https://ferlir.is/hafnarfjordur-2/https://ferlir.is/hafnarfjordur-verslun-og-utgerd/

Ás

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður skerst inn úr sunnaverðum Faxaflóa, og eru takmörk fjarðarins Hvaleyrarhöfði að sunnan, en Bali eða Dysjar að norðan. Hafnarfjarðar er fyrst getið í Hauksbókartexta Landnámu, en þar segir svo um brottför Hrafna-Flóka og förunauta hans frá Íslandi:

Setberg

Teikning af Setbergsbænum eftir Sir Joseph Banks frá 1772.

“Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og á Herjólf, – hann kom í Herjólfshöfn. Flóki kom í Hafnarfjörð, – þeir fundu hval á eyri einniút frá firðinum og kölluðu þar Hvaleyri – þar fundust þeir Herjólfur.” Menn hafa leitt að því getum, að Herjólfshöfn, sem segir frá í Landnámu, sé Hvaleyrartjörn, en hún var höfnin í Hafnarfirði, sem fjörðurinn dregur nafn sitt af.
Í landnámu segir, að Hafnarfjörður hafi verið í landnámi Ásbjarnar Özurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarssonar. Ásbjörn nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, allt Álftanes og bjó á Skúlastöðum.

Garðar

Garðar.

Enginn veit lengur, hvar sú jörð var, en giskað hefur verið á, að hún hafi verið, þar sem nú eru Garðar á Álftanesi. Að öðru leyti fer fáum sögum af Hafnarfirði, frá því að land byggðist og allt fram til upphafs 15. aldar. Hans er hvergi geti í fornöld í sambandi við verslun og siglingar, og er sennilegt, að strjálbýlt hafi verið við fjörðinn á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, enda voru fiskveiðar lítið stundaðar hér á landi á því tímabili miðað við það, sem síðar varð. Það er athyglisvert, að Hafnarfjarðar er þá fyrst getið að marki í heimildum, þegar fiskafurðir verða aðalútflutningsvara landsmanna í stað landbúnaðarafurða. Þessi umskipti urðu um 1400. Þá varð skreið eftirsóttasta útflutningsvara Íslendinga í stað vaðmáls.

Herjólfshöfn

Herjólfshöfn í Hafnarfirði.

Sökum legu sinna og ágætra hafnarskilyrða frá náttúrunnar hendi varð Hafnarfjörður ein helsta verslunar- og fiskveiðihöfn landsins laust eftir 1400. Hafnarfjarðar var fyrst getið í sambandi við verslun 1391. Þá kom þangað kaupskip frá Noregi, og þremur árum síðar lagði norskt skip úr höfn í Hafnarfirði. Þeirra eru einu dæmin, sem kunn eru, um siglingar til Hafnarfjarðar á 14. öld. Ljóst er, að Hafnarfjörður var ekki jafnþekkt verslunarhöfn á þessum tíma og síðar varð, enda voru siglingar hingað til lands mjög stopular á 14. öld, og sum árin féll sigling alveg niður.
Í upphafi 15. aldar hófu Englendingar fiskveiðar og verslun hér við land, og þá hófst nýtt tímabil í sögu Hafnarfjarðar. Fyrsta enska kaupskipið, sem sögur fara af, kom til Hafnarfjarðar árið 1413.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Þegar Englendingar hófu siglingar hingað til lands um 1412, varð gjörbreyting til batnaðar á verslunarháttum, og fyrir vikið versluðu Íslendingar mikið við þá, en Danakonugur reyndi hins vegar að halda versluninni við Ísland í sama horfi og áður, þ.e. að einskorða hana við Björgvin í Noregi.
Þegar fram sótti, voru Englendingar ekki sérlega vel þokkaðir meðal Íslendinga, því þeir þóttu yfirgangssamir og áttu það til að ræna skreið landsmanna. Sló í brýnu með Englendingum og Íslendingum á ofanverðir 15. öld, e.t.v. oftar en einu sinni.

Flensborgarhöfn

Flensborgarhöfn – minningaskjöldur við minnismerki um Hansaverslunina.

Í kringum 1468 hófu Hansamenn siglingar til Íslands, Í fyrst komu skip þeirra frá Björgvin, en fljótlega hófust siglingar frá ýmsum þýskum Hansaborgum, svo sem Lýbiku, Hamborg og Brimum. Hörð samkeppni var milli Englendinga og Þjóðverja um bestu verslunarstaðina og þá einkum Hafnarfjörð. Kunn eru átökin þar 1475 og atlagan að Básendum 1490 (sjá Grindavíkurstríðið) eru urðu upphafið að endalokum á verslun Englendinga hér á landi.

Þýskabúð

Þýskabúð við Straumsvík.

Þjóðverjar virðast hafa hrakið Englendinga frá Hafnarfirði, Straumsvík og Básendum um og eftir 1480 og þegar kom fram á fyrri hluta 16. aldar höfðu þeir náð undirtökunum á verslunni hér á landi.
Hafnarfjörður var aðalhöfn Hamborgaramanna hér á landi á ofanverði 15. öld og alla 16. öld, enda engrar íslenskrar hafnar getið jafnoft í verslunarskjölum Hambogarkaupmanna og Hafnarfjarðar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki við Flensborgarhöfn um veru Þjóðverja í Hafnarfirði fyrrum.

Á fyrri hluta 16. aldar færðust þýsku kaupmennirnir í aukana. Þá fóru þeir að hafa vetursetu hér á landi og ráku umfangsmikla útgerð á Suðurnesjum í trássi við bann konungs. Nú hóf konungsvaldið tilraunir til að hnekkja veldi Þjóðverja. Fyrsta skrefið í þá átt var að hirðstjóri konungs, Otti Stígsson, gerði árið 1543 upptæka alla báta þeirra á Suðurnesjum og aðrar eignir. Vorið 1550 handtóku þeir umboðsmann hirðstjórans, Kristján skrifara, en létu hann lausan í Hafnarfirði um sumarið, þegar hirðstjóri kom til landsins.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar af Reykjanesskaga 1831, önnur útgáfa.

Um þessar mundir fylgdu Danakonungur þeirri stefnu að koma versluninni til Íslands í hendur danskra kaupmanna. Friðrik 2. Tók upp þá nýbreytni að selja einstakar hafnir á leigu. Við þessa ráðstöfun jókst vald konngs yfir versluninni og þetta var undanfari þess, að Danir tækju hana alfarið í sínar hendur. Kristján 4. Danakonungur gaf út tilskipun um einokunarverslun Dana hér á landi árið 1602. Þá varð úr sögunni hið beina verslunarsamband milli Íslands og Þýskalands og um leið Hafnarfjarðar og Hamborgar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – verslun Einar Þorgilssonar.

Verslunarstaðurinn í Hafnarfirði hét Fornubúðir og var á Háagranda, ysta tanga Hvaleyrargranda, gegnt Óseyri. Á fyrri hluta einokunartímabilsins, 1602 – 1787, var Hafnarfjörður helsti verslunarstaður á landinu.

HafnarfjörðurÁ árunum 1684-1732 var í gildi svokölluð umdæmaverslun. Landinu var skipt í mörg verslunarumdæmi, og var landsmönnum bannað að versla utan þess umdæmis, sem þeir voru búsettir í, að viðlögðum algerum eignamissi og þrælkun í járnum á Brimarhólmi. Kaupsvæði Hafnarfjarðar náði yfir Kálfatjarnar-, Garða- og Bessastaðasóknir, og voru íbúar þar árið 1702 samtals 980.
Árið 1774 tók konungur við versluninni, og breytist þá ýmislegt Íslendingum í hag.

-Úr Saga Hafnarfjarðar – Ásgeir Guðmundsson – 1983.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður nútímans.

Setberg

Gengið var yfir Setbergsholtið og um norðanvert Urriðavatn.
Gamli Setbergsbærin er vestan í holtinu. Enn má sjá tóftir Urriðakot-2hans og garða. Burstirnar hafa snúið á móti vestri, niður að Hamarskotslæk með útsýni yfir Hafnarfjörð. Hlöðnu vörslugarðanir standa margir hverjir enn þrátt fyrir umsvifin á golfvelli Setbergsmanna. Komið var við á Galdraprestshól, en hóllinn stendur fast við gamla veginn upp að Urriðakoti. Við hann er kennd saga prests nokkurs sem koma hafði átt undir á altari kirkju einnar norðlenskrar. Afkvæmið varð prestur og þótti göldróttur með afbrigðum. Til eru margar sögur af fjölkyngi hans.

Urriðakot

Urriðakot – rétt við Lambatanga.

Norðan við Urriðakot er Lambatangi. Á honum er nokkrar fornar hleðslur, en landamerki Setbergs og Urriðakots eru á honum vestanverðum. M.a. má, ef vel er gáð, hlaðna refagildru. Hlaðnir garðar eru á austanverðum tanganum og skammt norðar er fallega hlaðið gerði í klettasprungu. Álftir höfðu verpt í einum hólmanna austan við tangann.

Urriðakot

Urriðakot – letursteinn.

Í túninu neðan við Urriðakotsbæinn, sem Jón Guðmundsson, fyrrum stórbóndi á Setbergi (áður bóndi á Bryggju og á Tortu, þeim bæjum einum í Biskupstungum er Skálholtsstóll, auk Haukadals, náði ekki að söðla undir sig), sonur Guðmundar Jónssonar hins fjárglögga í Haukadal (fyrrum bónda á Álfsstöðum á Skeiðum), leit augum hinsta sinni vorið 1907, áður en hann flutti sig háaldraður á láglendið, er letursteinn klappaður af ábúandanum 1846.
Gengið var til baka um gömlu götuna að stíflunni. Sefgrasið í víkinni var orðið nokkuð hátt miðað við árstíma (sbr. meðfylgjandi mynd), en venjulega lítur það ekki svona út fyrr en um mánaðarmótin júní-júlí.

Urriðakot

Urriðakot – rétt á Lambatanga.

Engan fisk var að sjá við stífluna, sem er líka nokkuð óvenjulegt.

Urriðakot

Urriðakot – leifar bæjarins 2024.

Gengið var þvert yfir golfvöllinn á bakaleiðinni. Golfarnir hættu leik sínum, tóku ofan og biðu fullir lotningar á meðan FERLIRsfélagar liðu hjá.
Veður var frábært – logn og sól.

Urriðakotsvatn

Urriðakotsvatn.

Fagradalsfjall

Gengið var vestur Drykkjarsteinsdal norðan Slögu, upp Brattháls undir Lyngbrekkum og beygt áleiðis til norðurs austan hans. Þaðan var gangið upp á Langahrygg og skoðað flugvélaflak, sem þar er efst í öxlinni. Gengið var áfram til norðurs að Stóra-Hrút, haldið til vesturs sunnan hans, í átt að Geldingadal. Horft var niður í dalinn og síðan haldið áleiðis til norðurs upp á Langhól, hæstu bungu Fagradalsfjalls (385 m.y.s.). Efst undir Langhól eru leifar flugvélaflaks.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og umhverfi.

Gengið var niður af Langhól til norðausturs, skammt austan við fallegan þverskorinn gíg nyrst í fjallinu og gengið niður að Dalsseli. Frá því var haldið um Nauthólaflatir og Fagradal til suðurs, gengið milli fjallsins og Sandhóls-innri, um Kastið, skoðað flugvélaflak þar og síðan niður af því að sunnanverðu, haldið framhjá Sandhól og síðan um Borgarhraun framhjá Borgarfjalli til baka. Á leiðinni var komið við í Borgarhraunsréttinni og Borgarhraunsfjárborgin skoðuð áður en komið var að upphafsstað.
Fagradalsfjall er vestasta fjall Reykjanesfjallgarðsins. Er það raunverulega fjölbreytileg lítil háslétta, með nokkrum hnjúkum, einkum að vestanverðu, móbergsstapi.

Langhóll

Á slysstað á Langhól.

Gengið var um Hrútadali og austur Drykkjarsteinsdal norðan Slögu. Fylgt var slóðinni frá Ísólfsskála, framhjá grettistaki og inn á Hlínarveginn.
Staðnæmst var við Drykkjarsteininn. Símon Dalaskáld orti um hann vísu og þjóðsaga er tengd steininum. Vísan var eftirfarandi:

Drykkjarsteinn með þorstans þraut
þráfalt gleður rekka.
Sá hefur mörgum geiragaut
gefið vatn að drekka.

Sagnir hafa og verið um að steinninn hafi verið vígður af Guðmundi góða Hólabiskupi með þeim orðum að vatnið í steininum ætti að vera allra meina bót. Vatn var nú í báðum skálum hans, en sú sögn hefur fylgt steininum að vatnið í þeim ætti aldrei að þverra. Þá mætti ekki saurga vatnið, enda fékk sá sem það gerir, bágt fyrir.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinninn í Drykkjarsteinsdal.

Gengið var framhjá Stóra-Leirdal og Lyngbrekkum, inn á Hlínarveginn, sem Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála (f:1921)ásamt fjórum öðrum, þ.á.m. Indriða föðurbróðir hans, lögðu gegn kaupi fyrir Hlín Johnson íHerdísarvík árið 1932. Var lagður vagnfær vegur frá Skála ofan Slögu alla leið í Krýsuvík, aðallega fyrir fyrirhugaða heyflutninga þaðan til Grindavíkur. Hlínarvegurinn er beinn og mjög greinilegur á sléttum melnum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – gígur.

Sumsstaðar er jeppaslóðinn kominn yfir veginn. Jón man að sérhver vegavinnumanna fékk kr. 100 greitt fyrir verkið úr hendi Hlínar. Vegurinn sést vel til hliðar við nýrri veg upp með Lyngbrekkum og síðan áfram áleiðis að Méltunnuklifi.
Haldið var áfram upp með austanverðum Bratthálsi og Lyngbrekkum og stefnan tekin upp með Langahrygg. Gengið var upp gil, sem þar er. Ofan þess er flak af bandarískri flugvél er þar fórst með 12 manna áhöfn. Allir létust. Í gilinu er einnig talsvert brak, m.a. hreyfill. Einn áhafnameðlima var liðsforingi í landhernum sem var með sem farþegi. Flugvélin var tveggja hreyfla flugbátur af gerðinni PBM-1 Mariner (flugsveit: VP-74) og var að koma aftur til Skerjafjarðar eftir fylgd með skipalest SV af landinu. Vélin flaug á fjallið í dimmviðri þann 2. nóvember 1941. Ennþá má glögglega sjá hvernig flugvélin hefur lent efst í brúninni, tæst í sundur, brunnið að hluta og vindur og vatn síðan séð um að hrekja það sem eftir varð smám saman niður á við.

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli. Stóri-Hrútur hægra megin (fjær).

Gengið var inn með efstu hlíðum hryggsins að Stórahrút. Stórihrútur er fallega formað fjall otan í austanverðu Fagradalsfjalli. Vestar er sendinn slétta, en norðar sér niður í Merardali. Handan þeirra er Kistufell, einnig fallega formað. Landslagið þarna er stórbrotið og ekki var verra að veðrið gat ekki verið betra. Undir Stórahrút eru hraunbombur, sem hafa orðið til er hraunkúlur runnið seigfljótandi niður hlíðar fjallsins í frumbernsku.

Langihryggur

Langihryggur – brak.

Gengið var í “dyraop” Geldingadals þarna skammt vestar. Dalurinn er gróinn í botninn að hluta, en moldarleirur mynda fallegt mynstur í litaskrúði hans norðanverðan. Hraunhóll er í nær miðjum dalnum. Gróið er í kringum hann. Sagan segir að Ísólfur gamli á Skála hafi mælt svo fyrir um að þarna skyldi hann dysjaður eftir sinn dag “því þar vildi hann vera er sauðir hans undu hag sínum svo vel”. Segir það nokkuð um gildi sauðanna og virðinguna fyrir þeim fyrrum.
Þá var haldið á fótinn, upp Fagradalsfjall og áleiðis upp á Langhól, hæsta hluta fjallsins. Slóð eftir tæki hersins, sem fóru á slysstað á sínum tíma, sjást enn í fjallinu. Hæsta bungan er í 385 m.h.y.s. Efst á henni er landmælingastöpull. Þaðan er fallegt útsýni yfir Þráinsskjöldinn, Keili, Strandarheiði og Vogaheiði.

Dalssel

Í Dalsseli.

Gengið var niður af fjallinu að norðanverðu. Þar er einn af fallegri gígum landsins. Hann er þverskorinn, þ.e. hægt er að horfa inn í hann, þar sem hann liggur utan í fjallshlíðinni. Gígurinn er um 70 metra hár og tignarlegur eftir því. Vel er hægt að sjá þarna hvernig eldgígar hafa orðið til. Þessi hefur opnast til norðurs og hraunið þá runnið út úr honum þar, en skilið gígrásina eftir ófyllta.

Fagradalsfjall er myndað við gos undir jökli og flokkast undir s.k. stapa því gosið hefur á endanum náð upp úr íshellunni og náð að mynda hraun. Megingígurinn er nyrst á fjallinu. Þaðan hefur svo hraunið runnið til suðurs og er fjallið um 100 metrum lægra þar.
Lækjarfarvegi var fylgt niður með norðanverðu fjallinu til vesturs þangað til komið var að Dalsseli. Tóftirnar eru á vestanverðum bakkanum, en lækurinn hefur smám saman verið að narta bakkann undan selinu. Neðar eru Nauthólaflatir.

Kastið

Kastið.

Eftir göngu til suðurs með vestanverðu Fagradalsfjalli var komið að Kastinu. Í hlíðinni ofan við Kastið er brak úr B-24 sprengiflugvél er fórst þar þann 3. maí árið 1943. Um borð í vél þessari var m.a. hershöfðinginn Frank M. Andrews, sem bíó o.fl. hefur verið nefnt eftir á Keflavíkurflugvelli. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum. Eftirminnileg ljósmynd var tekin á vettvangi skömmu eftir slysið.

Andrews

Slysstaðurinn í Kastinu. Þaðan hefur nú, á áttatíu ára tímabili, verið hirt nánast allt er gefur slysstaðnum gildi.

Frank. M. Andrews var æðstur í herafla Bandaríkjanna í Evrópu er hann fórst á Fagradalsfjalli eftir að flugmaðurinn hafði villst af leið í aðflugi til Reykjavíkur. „He was born on February 3, 1884 in Nashville, Tennessee and was killed in an aircraft accident in Iceland on May 3,1943. He was buried in Section 3 of Arlington National Cemetery. Andrews Air Force Base in Maryland is named in his honor. His death in a B-24 Liberator on May 3, 1943 was an enormous loss.“
AndrewsGengið var greiða leið niður af Kastinu að sunnanverðu. Skammt sunnar og austar með fjallinu er Selskálin. Hún er nú að mestu fokin burt. Sunnan hennar er Einbúi, stór hóll. Sunnan hans sést móta fyrir gamalli götu, sem kastað hefur hefur verið upp úr. Við hana er hlaðið gerði. Þaðan var haldið að Borgarhraunsrétt undir hraunbrúninni sunnan Borgarfells og síðan áfram að Borgarhraunsborginni. Gamla gatan frá Siglubergshálsi liggur að Drykkjarsteinsdal. Borgin er norðan hennar og er allstór. Gróið er í henni og í kringum hana. Hún er utan í hól og hallar til suðausturs. Í henni hefur verið hlaðin kví eða kró. Í borginni austanverðri má sjá hversu þykkir veggir hennar hafa verið, eða faðmur. Þarna hefur verið mikið mannvirki á meðan var. Talið er að borg þessi hafi verið frá Viðeyjarklaustri, sem hafði fé á þessum slóðum líkt og t.d. í Borgarkoti á Vatnsleysuströnd og víðar. Frá Borgarhraunsborg var örstutt eftir inn á slóðann frá Drykkjarsteinsdal niður að Ísólfsskála.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 55 mín.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.