Í kynningu bókar Daniels Bruun; „Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár„, segir m.a.:
„Daniel Bruun hefur skynjað að hann varð hér vitni að einstæðri þjóðfélagsbreytingu, með þjóð sem hafði staðið nánast í sömu sporunum hvað snerti verkhætti í 1000 ár. Hér var þjóðfélag að ganga úr álögum, ef svo má segja, kasta af sér miðaldaham.
Og þá kom mér í hug orð gamla bóndans, sem sagði við ungan arftaka sinn: Milli mín og þín eru þúsund ár, en milli mín og Egils Skallagrímssonar eru aðeins fáein ár.“
Svo fórust Þór Magnússyni, þjóðminjaverði, m.a. orð er hann opnaði sýningu um þjóðfræðinginn og fornleifafræðinginn Daniel Bruun í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands í síðasta mánuði. Tilefni sýningarinnar var útkoma bókarinnar Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár – frá landnámi til loka 19. aldar eftir Bruun í þýðingu Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum. í bókinni, sem kom fyrst út á dönsku um síðustu aldamót, eru á áttunda hundrað teikningar og ljósmyndir eftir höfundinn, en Daniel Bruun var einn af brautryðjendum í rannsóknum menningarminja á Íslandi. Grípum aftur niður í erindi Þórs Magnússonar, en hann ritar einnig formála að bókinni, sem bókaforlagið Örn og Örlygur gefur út.
Rit Daniels Bruun um búsetu Íslendinga á Grænlandi.
„Daniel Bruun var einn mikilvirkasti og merkasti rannsakandi hins gamla íslenska þjóðfélags fyrir daga hinnar miklu þjóðfélagsbyltingar… Hann hafði á fyrri árum fengist við fornleifarannsóknir á Grænlandi og síðan beindist áhugi hans að Íslandi.
Hann ferðaðist um ísland ásamt fylgdarmönnum sínum, um byggð og óbyggð, kannaði landið en kannaði ekki síst þjóðlífið, hið gamla, íslenska þjóðlíf, sem hann sá manna bezt að var þá óðum að þoka fyrir nýjum þjóðfélagsháttum. – Gömlu torfbæirnir þokuðu fyrir timburhúsum og jafnvel steinhúsum í sveit og bæ, seljabúskapur var því nær alveg horfinn, hestakerrur fóru að koma til sögu og menn þurftu þá ekki lengur að hefja allar byrðar á klakk, og jafnvel sá hilla undir bílaöld með sinni ómældu breytingu. Gufuskip voru að komast í eigu landsmanna og fyrsti vélbáturinn var tekinn í notkun um aldamótin. Farið var að smíða brýr á vatnsmestu fljótin og leggja vagnvegi þar sem áður voru aðeins hestagötur…
Daniel Bruun 1910.
Daniel Bruun heillaðist fyrst af fornleifafræðinni og fyrstu rannsóknir hans hérlendis beindust einkum að uppgreftri fornrústa, hofa og hörga, sem menn töldu svo vera, rústa af bæjum og öðrum mannvirkjum, sem tengdust landnáms- og söguöld. En það sést glöggt að brátt beindist áhugi hans ekki sízt að því þjóðlífi, sem þá gat enn að líta en var senn að kveðja, og hann virðist þá hafa einbeitt sér að því að skrá og skýra frá mannlífinu í landinu eins og það var þá… Og hér á sýningunni má einkum sjá ljósmyndir og teikningar og vatnslitamyndir þeirra Daniels Bruun og Johannesar Klein auk mynda annarra ljósmynda, sem Daniel Bruun hefur aflað á ferðum sínum. En allt beindist þetta að sama marki, að bjarga og varðveita heimildir um þetta fornlega þjóðfélag á hjara heims, sem hafði að geyma svo mörg einkenni járnaldar í Evrópu, sem þá var þar löngu um garð gengin.
Er við litumst um hér á sýningunni sjáum við hvarvetna hvernig áhugasvið Daniels Bruun birtist. Og við getum ekki annað en heillast af því sem honum varð starsýnast á og vildi festa á filmu fyrir eftirkomendur okkar… Maður verður meira en lítið snortinn við að virða fyrir sér myndir eins og t.d. af þeim nafnkennda klerki sr. Þorvaldi á Melstað stíga á bak blesótta klárnum sínum, eða Eggert í Helguhvammi spila á langspilið sitt, Indriða bónda í Gilhaga fara yfir Svartá með hund sinn á lendinni á klárnum eða myndina af mjaltastúlkunni Svanfríði Jóhannesdóttur í Bárðardal, sem gengur heim af stöðli með mjólkurföturnar í grind, en sú mynd prýðir bæði auglýsingamyndsýningarinnar og hlífðarhylki bókarinnar…
Mér hefur alltaf fundist, frá því ég sá þessa mynd fyrst, að hér hafi ljósmyndarinn hitt á það augnablik óskastundarinnar eins og Sigurður Sigurðsson segir í kvæði sínu: Sól, stattu kyrr… Hér segir Daniel Bruun: „Andartak, stattu kyrrt. – Og þar með er það orðið eilíft.“
Eitt af mörgum ritum Daniels Bruun.
Flestir Íslendingar, sem útivistum og ferðalögum unna og eitthvað hafa lesið um þau efni, munu kannast vel við Daniel Bruun höfuðsmann, sem oft og mörgum sinnum hefir ferðast um hér á landi og skrifað margar gagnlegar og góðar bækur um ferðalög á íslandi og náttúru þess. Hann lést að heimili sínu í Hellerup í Danmörku á þessu hausti, 75 ára að aldri.
Daniel Bruun var mjög víðförull maður. Strax á unga aldri ferðaðist hann til Afríku og skrifaði síðar bók um þá ferð, er hann nefndi »Algier og Sahara«. Eftir að hafa ferðast víða um suðurlönd, hneigðist hugur hans norður á bóginn og fór hann síðan margar ferðir til Íslands og Grænlands og virðist, eftir bókum hans að dæma, að hin norðlægari lönd hafi síst hrifið hann minna en hin suðlægari. Helstu bækurnar, sem hann hefir ritað um ferðir sínar á norðurhveli jarðar, eru: »Det höjeNord«, »Erik den röde«, »Turistruter paa Island« og »Fortidsminder og Nutidshjem paa Island«.
Daniel Bruun var maður vel menntaður og fer saman í öllum hans frásögum fróðleikur og fagurt mál. Einnig var hann ágætur teiknari og eru flestar ferðabækur hans prýddar teikningum eftir hann sjálfan.
Daniel Bruun.
Það þarf ekki lengi að lesa bækur Bruun’s til þess að finna, hve hlýtt honum var til íslensku þjóðarinnar og hve mikil ítök náttúra landsins átti í huga hans og hjarta.
Eitt sinn mættust þeir Bruun og F. W. Howell í óbyggðum uppi. Þeir slógu upp tjöldum sínum og dvöldu saman næturlangt. Í bók sinni »Det höje Nord«, lýsir Bruun þessum samvistum þeirra þannig: »Það leið á kvöldið. Samferðamennirnir voru þreyttir og gengu til hvíldar í tjald sitt. En við Howell sátum lengi í tjaldi hans og ræddum um þetta dýrlega land, þar sem sjóndeildarhringurinn virtist óendanlega langt í burtu. —
Rit Daniels Bruun um hálendi Íslands 1907.
Þetta land, sem við elskum báðir, því þar nutum við frjálsir og glaðir hinnar mikilfenglegu náttúru þess. Við skiptumst á lýsingum af landfræðilegum staðháttum. Howell var Englendingur. Hann hafði yndi af að ferðast hér á landi og kom hingað sumar eftir sumar. Hann var djarfur og athugull ferðamaður og fór til ýmissa þeirra staða hér á landi, sem menn höfðu sjaldan eða aldrei komið á áður.
Hann fór t. d. fyrstur manna (ásamt tveim Englendingum og tveim Íslendingum) yfir Langjökul (1899), á svipuðum stað og skátarnir fóru í sumar, Svo sorglega tókst til, að eitt sinn, er Howell, ásamt fylgdarmönnum sínum, var á ferð í Skagafirði (sumarið 1901) drukknaði hann í á einni, er þeir ætluðu að ríða yfir. Fylgdarmenn hans voru búnir að finna vaðið á ánni, og voru um það bil að leggja í hana með baggahestana, þá leggur Howell i ána á hesti sínum, en mun hafa farið litið eitt afvega, svo straumurinn hrifsaði bæði hestinn og manninn, og náðist ekki í Howeli, fyr en hann var látinn.
Hinar mörgu lýsingar, sem Daniel Bruun hefir skrifað um íslenska fjallvegi þykja bæði glöggar og réttar og koma enn að góðu gagni innlendum og erlendum ferðamönnum. Hann hefir og gert uppdrátt af Íslandi, sem var gefinn út árið 1913 með styrk úr landssjóði Íslands.
Mynd; Daniel Bruun.
Bruun þótti maður viðkynningargóður og hefir eflaust eignast marga vini hér á landi. Hans hefir þó ekkert verið getið hér á prenti, svo teljandi sje, síðan hann lést, en vel virðist það eiga við, að eitthvert hinna íslensku tímarita birti nú frásögn um ævistörf hans.
Ég hefi að eins kynst Daniel Bruun í gegnum bækur hans og svo mun um fjölda Íslendinga. Eftir þá viðkynningu munu allir sammála um, að við andlát hans hafi fallið í valinn óvenju þrekmikill, drenglyndur og gáfaður máður, sem okkur Íslendingum ber að minnast með þakklæti fyrir það, sem hann hefir fyrir okkur gert.
Árið 1929 var hann gerður að heiðursfélaga í Ferðafélagi Íslands.
Daniel Bruun lætur eftir sig ekkju og tvo uppkomna syni, Frantz og Erling að nafni.
Amildklaustur í Viborg 1909.
Hermaðurinn, Daniel Bruun, var ungur liðsforingi í danska hernum, fornleifafræðingur og rithöfundur. Hann fæddist 27. janúar 1856 í Asmild-klaustri nálægt Viborg á Jótlandi. Faðir hans var þar grósseigandi og mikilsmetinn maður.
Bruun var alinn upp við ósnortna heiðanáttúru og naut hann mikils frjálsræðis í æsku. Hann var að eigin sögn óstýrilátur og hafði lítinn áhuga á skólabókarlærdómi en var haldinn sterkri útþrá og ævintýralöngun. Hann var stuttan tíma við nám í latínuskólanum í Viborg en réðst í siglingu 16 ára gamall. Komst hann í sinni fyrstu ferð allt suður til Höfðaborgar í Suður-Afríku.
Mynd; Daniel Bruun.
Síðan fékkst hann við eitt og annað þangað til hann settist í liðsforingaskólann danska. Hann varð lautinant í hernum 1879 og gegndi þar ýmsum störfum og varð höfuðsmaður er tímar liðu. Hann lét ekki af herþjónustu fyrr en 1918 en þá hafði hann verið sjálfboðaliði á styrjaldarárunum 1914 til 1918. Á sínum herþjónustuárum fór Bruun ýmsa hliðarkróka eins og í rannsóknarferðir til Grænlands og íslands, var í tvö ár í Útlendingahersveitinni frönsku í Alsír, fór rannsóknarferðir til afskekktustu svæða Túnis og Mansjúríu og var stríðsfréttaritari Berlingske Tidende í Mansjúríu í stríðinu milli Rússa og Japana 1904.
Frá því á unga aldri vakti fornleifafræðin áhuga hans og allt það sem henni við kom. Hann hefur sennilega erft þennan áhuga frá föður sínum því sá hafði mikinn hug á fornleifarannsóknum. Þá spilaði líka inní að í héraðinu kringum Viborg voru sífellt að finnast fornleifar frá fornsögulegum tíma. Með því öllu fylgdist Bruun og var hann skipaður eftirlitsmaður með öllu slíku af hálfu Þjóðminjasafnsins danska, þegar hann gegndi störfum fyrir her og lögreglu. Aldrei nam hann fornleifafræðin í háskóla en hann las allt sem hann náði í um fræðin og varð hinn lærðasti á fornleifasviðinu. Fornleifafræðin beindi hug hans til Grænlands og þangað ferðaðist hann, fyrst 1894 um Eystri byggð og seinna um Vestri byggð 1903. Á Grænlandi er margt minja frá Íslendingabyggðinni fornu en í ferðum sínum kannaði Bruun fjölda bæjarrústa í hinum fornu byggðum Grænlendinga og vann aðallega við rannsóknir á húsagerð þeirra. Bruun varð brautryðjandi í fornleifarannsóknum á Grænlandi.
Brynjúlfur Jónsson, skáld og fræðimaður, bjó í Gerðiskoti frá 1911 með syni sínum Degi Brynjúlfssyni búfræðingi (síðar oddvita í Gaulverjabæ) er hóf búskap á jörðinni 1907. Kona Dags var Þórlaug Bjarnadóttir (1880-1966) frá Sviðugörðum í Gaulverjabæjarhreppi. Brynjúlfur kvæntist aldrei, en hann átti Dag með stúlku, Guðrúnu að nafni Gísladóttir, frá Káragerði í V.-landeyjum. Brynjúlfur er fæddur að Minna-Núpi í Gnúpverjahreppi í Árnessýslu 26. sept. 1838. Foreldrar hans voru Jón Brynjúlfsson og Margrét Jónsdóttir, er lengi bjuggu að Minna-Núpi. Brynjúlfur er kominn í beinan karllegg frá Þorláki biskupi Skúlasyni, en móðir afa hans var dóttir Halldórs biskups Brynjúlfssonar. 17 ára fór hann fyrst til sjóróðra, og reri upp frá því 13 vetrarvertíðir, flestar í Grindavík og nokkrar vorvertíðir í Reykjavík. Þar komst hann í kynni við ýmsa menntamenn, og má helst til þess nefna dr. Jón Hjaltalín landlækni Árna Thorsteinsson landfógeta, Jón Pjetursson yfirdómara, Jón Árnason bókavörð og Sigurð Guðmundsson málara. Þeir tveir er fyrst voru nefndir vöktu áhuga hans á ýmsum greinum náttúrufræðinnar, en hinir þrír á fornum fræðum íslenskum: ættvísi, þjóðsögum og fornmenjarannsóknum. Þá kom það fyrir vorið 1866, að hann missti snögglega heilsuna. Var það helst kennt bilun við byltu af hestbaki. Heilsubilun þessi lýsti sér einkum í magnleysi, er kvað svo ramt að, að hann mátti ekkert á sig reyna. Þótt hann að nafninu til væri oftast á ferli, átti hann erfitt með allan gang og riðaði sem dauðadrukkinn maður; gat hann og hvorki klætt sig né afklætt sjálfur, né heldur lesið eða skrifað og þegar hann aftur styrktist svo mikið að hann fór að geta lesið og skrifað þá gat hann það þó því að eins að hann héldi bókinni eða blaðinu og skriffærunum beint fram undan augunum. Smám saman komst hann aftur til nokkurn veginn heilsu, en um venjulega líkamsáreynslu var ekki framar að tala. En þá kom fróðleikur sá er hann hafði aflað sér honum að notum. Stundaði hann þá barnakennslu nokkra vetur á Eyrarbakka og las og samdi ýmislegt í hjáverkum. En á sumrin ferðaðist hann á milli kunningjanna. Árið 1892 komst hann svo í þjónustu Fornleifafélagsins. Síðar fékk hann titilinn „dannebrogsmaður“. Brynjúlfur lést úr lungnabólgu 1914. En það ár flytja Dagur og Þórlaug frá Gerðiskoti. Upp frá því lagðist Gerðiskot í eiði en nokkrar deilur hafa spunnist um landamerki á þessum slóðum, en Eyrarbakkahreppur keypti jörðina þegar hún féll úr ábúð. Teikningin er eftir Daniel Bruun. Heimild: -Tímaritið Óðinn 01.10.1908 og 01.11.1916. Alþýðublaðið , 223. Tölublað. 1961 Konur fyrir rétti eftir Jón Óskar. Frjáls Þjóð 1959 Alþýðubl. 10.9.1947 & 5.10.1961 Morgunbl. 297 tbl. 1983.
Upphaf rannsókna Bruuns á Íslandi er rakið til rannsókna hans á Grænlandi 1894. Á Grænlandi heppnaðist honum að finna hvernig fornbýlin hefðu verið gerð, byggingarlag og húsaskipan og byggingarefni og tókst honum einnig að finna marga hina fornu kirkjustaði og leiða rök að hvar hin fornu höfuðból Brattahlíð og Garðar hefðu verið. Fundir Bruuns á Grænlandi vöktu athygli í Danmörku og hann afréð að sækja um rannsóknarstyrk til dönsku stjórnarinnar svo hann mætti kanna fornleifar á Íslandi því þar voru enn til bæir af sömu gerð og voru fyrir mörg hundruð árum og rústir eyðibýla frá fornöld. Margt þóttist hann geta fundið í Noregi og í Færeyjum, en á Íslandi mest.
Mynd; Daniel Bruun.
Það var sumarið 1896, sem Bruun fór fyrstu ferð sína til Íslands. Fór hann víða um land, en skoðaði fátt til hlítar heldur undirbjó hann jarðveginn undir framhaldsrannsóknir. Verkefnið var stærra en hann hafði búist við í fyrstu því það snerist ekki eingöngu um fornleifakönnun heldur einnig um könnun á húsagerð seinni alda og síðasta hluta 19. aldarinnar og rekja eftir því þróunarsögu húsagerðar á Íslandi. Húsunum tengdust ótalmörg atriði menningarsögunnar, búskaparhættir, mataræði, ferðalög og klæðnaður og ýmislegt fleira.
Eina farartækið í þá daga var hesturinn og með tilliti til þess og að landið var vega- og brúarlaust að mestu, vekur það furðu manna hve víða Bruun fór hverju sinni. Íslendingar vissu naumast hvað vegur var og segir Bruun á einum stað af konu einni, sem fór um nýlagðan veg yfir flóasund. Lét kerling illa af ferð sinni, hesturinn hafði legið á kviði hvað eftir annað og hún varla komist leiðar sinnar og svo spurði hún til hvers garðurinn væri, sem lá með fram veginum. Þessi garður, sem kerling átti við, var nýi vegurinn en hún hafði riðið eftir brautarskurð. Seyðisfjörður var fyrsti viðkomustaður Bruuns á Íslandi en á meðan hann dvaldist þar gekk hann um og teiknaði umhverfið.
Uppdráttur Daniels Bruun og Finns Jónssonar af verslunarstaðnum á Gásum við Eyjafjörð 1907.
Fyrsta landferð Bruuns var frá Húsavík til Mývatns og var þá fylgdarmaður hans Guðmundur nokkur Magnússon. Bruun leist ekki betur en svo á manninn að hann lét hann fara þegar þeir komu á Akureyri. Það er misjafnt hvað Bruun þykir um Íslendinga ef marka má fyrstu dagbók hans af íslandi. Hann hefur miklar mætur á einstökum mönnum. Þannig er Stefán Stefánsson kennari á Möðruvöllum „glæsilegur ungur maður, hagsýnn og vísindamaður í senn,“ séra Árni á Skútustöðum, „geðfelldur og gáfaður“, bændurnir Björn og Páll á Hofstöðum við Mývatn „hjálpsamir og elskulegir menn“. Það voru þó ekki allir sem fengu þessar ágætiseinkunnir hjá Bruun og er að sjá sem aðrir hafi reynst honum verr. Bruun skrifar: „Margir Íslendingar eru furðulegur skríll, ruddalegir og ryðjast inn á mann feimnislaust, blístara, hrækja allt í kringum sig, en gestrisnir eru þeir við alla, og allir virðast jafnir í þeirra augum, fylgdarmaðurinn jafnt og fararstjórinn.“ Þegar leið á átti hið gagnstæða eftir að verða uppi á teningnum þegar Bruun ræðir um Íslendinga en ef hann hefði ekki komið oftar til Íslands hefðu Íslendingar setið uppi með þennan dóm.
Bruun fór víða um landið í sinni fyrstu ferð. Hann ferðaðist mikið um Suðurlandið og austur með. Kom á Þingvelli, í Skálholt og á Reyki á Skeiðum og hafði m.a. náttstað á Stóra-Núpi. Þar bjó séra Valdimar Briem en hann var vinur Björns M. Ólsens rektors sem var Bruun samferða. Það fóru fram fjörugar samræður þetta kvöld á Stóra-Núpi á skrifstofu prestsins og að þeim loknum fóru menn að sofa. Rétt áður er þeir festu svefn ræddu þeir félagarnir um hvað það væri gott og notalegt að dveljast í íslensku torfbæjunum. Síðan sofnuðu þeir í næturkyrrðinni grunlausir um að áður en mánuðinum lyki hefðu jarðskjálftar lagt setrið í rúst og svift fólkið húsaskjóli.
Frá Stóra-Núpi hélt Bruun einn síns liðs inn í Þjórsárdalinn og gisti þar að Ásólfsstöðum. Hann segir svo frá: „Fólkið var að heyskap en stúlkur mjólkuðu ær í kvíum. Ekki brást íslenska gestrisnin hér fremur en annars staðar, einu áhyggjur húsfreyju og bónda virtust vera þær, að þau gætu ekki látið fara nógu vel um okkur.
Mynd Daniels Bruun af Íslendingi um aldamótin 1900.
Allt var hreint og snoturt innanhúss eins og á öllum þeim stöðum sem ég hefi komið á í þessum sveitum. En til dæmis um hve fábrotið lífið er í sveitunum má geta þess, að sonur bóndans, fullorðinn maður, hafði aldrei smakkað te, fyrr en hann drakk það hjá okkur um kvöldið.“
Ferðaðist Bruun víðar um Suðurlandið en ferðalýsingu sinni lýkur hann með eggjan til Dana um að leggja fram skerf til fjársöfnunar þeirrar, sem þegar var hafin undir vernd konungs til hjálpar á landskjálftasvæðunum.
Það var ári seinna, á Þingvöllum 25. júlí 1897, að Daniel Bruun og fylgdarlið hófu aðra Íslandsferð sína. Nú var hann með fasta áætlun og var hún liður í kerfisbundnum rannsóknum, sem ríkisstjórnin danska og Carlsberg-sjóðurinn höfðu veitt styrk til. Var ætlunin á þessu sumri að kanna nokkra elstu bæina og skipan þeirra, bæði norðan lands og sunnan og fá úr því skorið hvort munur hefði verið á húsagerð eftir landshlutum. Á Þingvöllum þennan júlídag voru samankomnir fimm menn, með tuttugu og sex hesta, þrjú tjöld með tveimur ferðabeddum og rúmum átján ferðakoffortum, fullum af nesti og öðrum ferðabúnaði.
Svanfríður Jóhannesdóttir í Bárðardal – ljósm. Daniel Bruun.
Leiðangursmenn voru auk Bruuns þeir Fonnesbech-Wulff riddarakapteinn, Magnús Vigfússon aðalfylgdarmaður, Jóhann Zoega og Páll Guðmundsson aðstoðarmenn. Þeir ætluðu yfir Kjöl. Þeir komu við á Hruna þar sem Brynjólfur Jónsson á Minna-Núpi og Snorri Jónsson frá Hörgsholti slógust í för með þeim. Bruun þótti Brynjólfur mest líkjast hetju úr fornsögunum, með ljóst skegg sitt þar sem hann kom riðandi fót fyrir fót að Hruna. „Þessi gamli fátæki bóndamaður, iðjusamur og þaulkunnugur fornsögu Íslands gladdist mjög af að hitta mann, sem honum var kunnugt um að kunni vel að meta rannsóknir hans, og augu hans ljómuðu af ánægju.“ Og seinna segir Bruun: „Fornleifafélagið kostar ferðalög hans, kemur hann á hverju hausti heim með verulegan árangur, svo er skarpari athugunargáfu hans og framúrskarandi áreiðanleik fyrir að þakka.“ Og ekki líst Bruun verr á Snorra Jónsson. „Hann er lítill vexti, sköllóttur með ljóst alskegg og ljómandi, hvöss augu og hlær hjartanlega. Hann er í einu orði sagt skínandi maður, og augu hans ljóma, þegar hann segist vilja koma með okkur og honum verður tíðrætt um árnar, vöðin og tóttirnar. Hann hefur farið á öræfin 40 sinnum, og allir, sem leggja leiðir sínar þangað inn eftir vilja fá Snorra með sér.“
Portretmynd Daniels Bruun af Brynjúlfi Jónssyni.
Fyrsta ágúst voru leiðangursmenn komnir að Tungufelli og þaðan var haldið á fjöllin að morgni. Fjórða ágúst höfðu þeir grafið í tóttirnar á Þórarinsstöðum og Laugarhvammi og í Tjarnarkoti við Hvítárvatn, þar sem nú er sæluhús Ferðafélags Íslands. Fimmta ágúst skrifar Bruun í dagbók sína: „Rigning og hvassviðri, svo að við lá að tjöldin fykju, en við festum þau niður með skóflunum. Ég leit í Íslendingatjaldið. Brynjólfur sat og réri í gráðið. Honum var vel heitt.“ „Hér er gott að vera, ó hversu gott,“ sagði hann. Við höfðum grafið allan daginn og Brynjólfur gamli hafði ekki vikið frá greftrinum, þessi góði, gamli maður. Honum til óblandinnar ánægju fundum við eldstæði í þeirri tótt, sem hann hafði haldið áður að væri eldhús. Honum var létt í skapi, þar sem hann stjáklaði um í regnkápu sinni við hugsunina um að hann hefði lifað ágætan dag. Augu hins fátæka, ljúfa öldungs ljóma af ástúð, mildi og þakklátssemi, hverju sinni sem ég ræði við hann um rannsóknir hans, en þær eru í sannleika sagt góðar. Að loknum máltíðum staulast hann til mín við staf sinn, til að þakka mér fyrir matinn, enda þótt ég hafi beðið hann að spara sér það ómak.“
Færikvíar – ljósmynd Daniels Bruun.
Lýsing Bruuns á samferðamanni sínum Brynjólfi og fleirum gefa nokkuð góða mynd af anda þeim, sem hefur ríkt í ferðum Bruuns og hvað honum þótti um þá, sem hann kynntist að ráði. Gekk þessi hin fyrri Kjalarferð Bruuns óhappalaust. Kom hann og fylgdarlið á Akureyri 21. ágúst en þaðan lá leið þeirra austur um Þingeyjarsýslu þar sem Bruun kannaði rústir fremst í Bárðardal.
Síðan hélt Bruun og lið hans að Öskju en þeir sáu þar ekkert fyrir þoku svo þeir fóru þaðan snarlega en þegar þeir komu niður úr fjöllunum var bjart og besta veður og gekk þeim greiðlega að finna rústirnar í Hrauntungu, sem Bruun hafði heyrt að væru þar og grófu þeir í þeim. Bruun fór Sprengisand suður en á þessum tímum var ekki óalgengt að nokkur uggur væri í mönnum við að leggja á sandinn einkum ef veðurútlit var ótryggt og nokkurt afrek þótti að fara þessa leið. Það var lengstum fimm til sex gráðu frost á leiðinni suður Sprengisand og nóttina sem þeir gistu við Dalsá var tíu stiga gaddur.
Portretmynd Daniels Bruun af Íslendingi.
Komu þeir til Reykjavíkur 6. september. Bruun var ánægður með árangur þessarar ferðar um Ísland. Tvisvar hafði hann farið þvert yfir hálendið, skoðað margar fornrústir og séð að engu verulegu munaði á húsaskipan sunnan lands og norðan og að sú skipan að reisa bæjarhúsin um göng í miðju var ekki til í fornöld. Það er önnur ferð Bruuns yfir Kjöl, sem þeir Ísfilmmenn ætla að kvikmynda í sumar.
Þá ferð fór hann 1898 og fór hann þá suður Kjöl. Að ríða suður yfir Kjöl var aðalferð hans þetta sumar. Honum hafði orðið ljóst sumarið áður að mikil samgöngubót væri að því, ef leiðin suður Kjöl væri greinilega merkt og auðsær væri sá tímasparnaður að fara þá leið milli landsfjórðunga hjá því að fara þjóðveginn um Holtavörðuheiði. Þá var honum einnig ljóst að margt væri skoðunarvert fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi og að ferðamannastraumur til Íslands gæti orðið landinu nokkur tekjulind, en vel varðaður vegur yfir Kjöl væri álitleg ferðamannaleið. Því var það að loknum fornleifarannsóknum Bruuns 1898 að hann ræddi við Pál Briem amtmann en hann þekktist boð Bruuns um að hafa tilsjón með að Kjölur yrði varðaður.
Teikning Daniels Bruun frá Kaldárseli – Borgarstandur.
Í för með Bruun þetta sumar var danskur málari, Johannes Klein að nafni en hans hlutverk var að mála og teikna, en auk þess var hann snjall ljósmyndari. Svo var það 12. ágúst, sem leiðangursmenn komu saman með hesta og farangur að Gilhaga í Skagafirði. Um ferðina skrifaði Bruun rit, sem hann nefndi „Tværs over Kelen“ og er hin fyrsta eiginlega leiðarlýsing hans frá Íslandi. Samferðamönnum sínum lýsir Bruun svona: „Fyrstan skal telja Magnús Vigfússon, sem sér fyrir öllu. Hann er ungur maður frá Reykjavík og fyrirmynd allra fylgdarmanna. Ekkert er honum léttara en að stjórna hesti, og hann fer auðveldlega með heilan flokk af klyfjahestum. Hann talar dönsku reiprennandi, er afbragðs matsveinn, lipur rakari og fimur framreiðslumaður. Auk þess er hann hógvær maður, háttvís og síviljugur.
Mynd Daniels Bruun af íslenskum kvenmanni um aldamótin 1900.
Á vetrum bindur hann bækur, er veitingaþjónn, baðvörður eða hvað sem býðst af vinnu. En á sumrin er hann fyrst í essinu sínu, þegar ferðamennirnir koma til landsins og ævintýrin blasa við. Ég get ekki hrósað honum nógsamlega eftir að hann hefir verið fylgdarmaður minn tvö sumur, og ég mæli með honum við alla ferðamenn, en einkum þó þá, sem vilja fara Kjalveg, því að hann þekkir Magnús öllum mönnum fremur.
Úr Reykjavík var einnig Ámundi Ámundason, kyrrlátur og rólyndur maður, sem hafði allt í röð og reglu og ætíð var hægt að treysta. Þá var og Böðvar Bjarnason, prestaskólastúdent frá Reykhólum, ágætur maður. Ég réð hann heima hjá sér, aðallega sem túlk. Það er ekki óvanalegt, að íslenskir stúdentar ráði sig til allskonar starfa á sumrin, til að afla sér fjár til að standast námskostnaðinn á vetrum. Þeir eru í kaupavinnu, fylgdarmenn með ferðamönnum, og raunar taka hvaða vinnu sem býðst. Þeir þykjast ekki of fínir til að vinna erfiðisvinnu, og er það mjög geðfelldur þáttur í fari þeirra. Enn koma til tveir menn, sem fylgdu okkur suður yfir fjöllin. Annar þeirra var sjötugur bóndi, Indriði að nafni, frá næsta bæ við Gilhaga, traustur, gamall maður, en þótt hann væri tekinn að gefa sig hikaði hann ekki við að gerast fylgdarmaður okkar, þegar ég lýsti því fyrir honum, hversu mikilvægt það væri fyrir mig að njóta aðstoðar hans og kunnugleika, til að merkja leiðina yfir öræfin, sem hann þekkti öllum mönnum betur. Tengdasonur hans, Magnús bóndi í Gilhaga, kom einnig með honum, svo að Indriði yrði ekki einn á ferðinni á heimleiðinni.“
Ferðin hófst 13. ágúst. Upp úr Gilhagadalnum var haldið upp á hásléttuna og lá leiðin til vesturs upp á Litlasand. Fyrsta áin sem þeir fóru yfir var Svartá. Þar sá Bruun í fyrsta sinn hvernig menn reiddu hunda sína yfir vatnsföll. Indriði kallaði á hund sinn, sem stökk þegar í stað upp á lend hestsins og þannig náðu þeir þrír, maður, hundur og hestur, yfir ána. Þeir áðu hjá sæluhúsinu við Aðalmannsvatn. Um nóttina sváfu þeir sunnan við Ströngukvísl en komu að Blöndu eftir tveggja tíma reið þann 14. ágúst. Þar kom í hlut Indriða og tengdasonar hans að finna vað og tókst þeim það vandræðalítið. Bruun og Klein riðu síðan upp á Rjúpnafell og Indriði fór með lestina til Hveravalla, þar sem þeir tjölduðu.
Á Kili.
Þeir merktu alla leiðina vandlega með smávörðum og einkum vöðin á ánum en árið eftir voru hlaðnar varanlegar vörður undir umsjón Magnúsar Vigfússonar. Það var dvalið í tvo daga á Hveravöllum. Skoðaðar voru minjar um dvöl Fjalla-Eyvindar, kofatóttina og hverinn, sem hann sauð mat sinn í. Þá skoðuðu þeir og gamla tótt, sem verið gat af sæluhúsi eða útilegumannakofa, eða jafnvel hús frá landnámsöld þegar Þjóðólfur hinn hvinverski hafði vetursetu á Kili. Þó vörðu þeir mestum tíma sínum í að kanna hraunið og merkja leiðina frá Dúfufelli að Kjalfelli. Í hrauninu fundu þeir nokkrar vörður, sem sönnuðu að þar hefði verið farið fyrrum. Við sumar vörðurnar voru bein og komust þeir seinna að því að þau mundu vera úr fé Reynistaðarbræðra, sem fórst þar á Kili, sem kunnugt er. „Indriða vöknaði um augu, þegar hann sá beinin og varð um leið hugsað til þeirrar harmsögu, er þarna hafði gerst,“ skrifar Bruun.
Teikningar og myndir Daniels Bruun frá Kaldársseli.
Á Hveravöllum skildu Gilhagamenn við Brunu. Kvöddust þeir með virktum og var Bruun þeim innilega þakklátur fyrir fylgdina og aðstoðina. 16. ágúst var lagt af stað á ný suður til byggða. Þeir fóru vestan við Kjalhraun og komu við í Þjófadölum. Þeir lentu í sandroki en er lengra dró suður gekk á með regn- og slydduéljum. Næsta dag fóru þeir niður með Hvítá en ætlunin var að ríða hana á svonefndu Skagfirðingavaði. Þeir fundu vaðið eftir nokkrar árangurslausar tilraunir en það liggur í krókum milli hólma og eyra og reyndist engan veginn hættulaust. Ekkert mátti út af bera svo að allt færi ekki á kaf í sandbleytu. Magnús hrökk af baki þegar hestur hans festi framfæturna í sandbleytunni. Hann náði sér og hestinum þó upp, en sökk í sandinn upp að öxlum í þeim umbrotum. Bruun barst litlu neðar út af vaðinu í miðri ánni og fór þar á hrokasund. Magnús reið honum þegar til hjálpar og náðu þeir við svo búið á bakkann hinu megin. Þar gistu þeir um nóttina.
Úr leiðangri Daniels Bruun árið 1898.
Daginn eftir komu þeir að Gullfossi og Geysi og þaðan riðu þeir til Þingvalla og gistu þar. Vígja átti Valhöll daginn eftir. Þegar vígslan fór fram var ekki flaggað dönskum fána heldur fálkamerkinu íslenska. Sárnaði Brunn það mjög og þótti það óvirðing við Danmörk. Reið hann þaðan í fússi. Spunnust af þessu einhver blaðaskrif og fóru einhverjir óvirðingarorðum um Bruun en aðrir skrifuðu afsökunargreinar og tóku upp hanskann fyrir Bruun. Ditlev Thomsen konsúll skrifaði Daniel Bruun afsökunarbréf fyrir hönd íslenska ferðafélagsins, sem hann veitti forstöðu. Varð ekki meira úr því máli.
Mynd Daniels Bruun.
Eins og áður sagði fór Bruun alls 13 ferðir um landið og er ógjörningur að geta þeirra allra í stuttri blaðagrein. Við skulum ljúka þessu á orðum hans sjálfs sem er að finna í endurminningabók hans. Þannig fer hann orðum um ævistarf sitt: „Þegar ég horfi til baka og renni huganum yfir atburði langrar ævi hlýt ég að viðurkenna með þakklæti, að mér hefir auðnast að lifa í samræmi við eðlisfar mitt og hæfileika, en á hinn bóginn verð ég að játa að það leið mjög langur tími, þangað til ég vegna óstöðugs skaplyndis míns fann þær brautir, sem mér var áskapað að fara eftir. Ég sé það nú, að hefði ég frá upphafi kunnað að einbeita mér að einhverju einu áhugaefna minna, gæti ég ef til vill hafa unnið meira og leyst verk mitt betur af hendi, en raun hefir á orðið, t.d. sem fornfræðingur, stríðssagnaritari, rithöfundur eða hermaður, en þetta varð allt eins konar „skæruhernaður“. En hvað um það, ég hefi fengið fullnægju við að starfa á þessum mörgu og ólíku sviðum, sem hugur minn stóð til, og vonandi unnið einhver þau verk, sem hafa gildi bæði í nútímanum og framtíðinni. Ég hugsa þá fremur öðru til rannsókna minna á Færeyjum, Íslandi og Grænlandi.“
— Samantekt Arnaldur Indriðason.
Heimildir:
-Þjóðlíf – Bókakynning (01.11.1987), Örn og Örlygur; Daniel Bruun – Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár, bls. 9-11.
-Úti – 1. tölublað (15.12.1931), bls. 6 og 26.
-Morgunblaðið – 145. tölublað – II (04.07.1982), Daniel Bruun, „Hermaður, fornleifafrœðingur og rithöfundur“, bls. 45, 46, 52 og 53.
Úr bókinni – teikning Daniels Bruun.
Falin skógræktarperla í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar
Kristbjörg Ágústsdóttir skrifaði um skógræktina í Brunntorfum (Brundtorfum/Brunatorfum) í Skógræktarritið árið 2012 undir fyrirsögninni „Hraunið“ – falin skógræktarperla í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar„:
Í Brunntorfum.
„Um miðbik síðustu aldar hófu fjórir menn að gróðursetja tré í hrjóstrugu hrauni suður af Hafnarfirði. Skógrækt ríkisins átti landið en taldi ekki miklar líkur á því að þar gæti risið skógur. Í dag er þarna stór og mikill sjálfbær skógur, sambland náttúrulegs gróðurs og gróðursettra trjáa. Þetta svæði kallar fjölskylda höfundar „Hraunið“ og þangað hafa þrjár kynslóðir lagt reglulega leið sína til að gróðursetja, bera á, hlúa að, njóta og upplifa. Í þessari yfirlitsgrein er ætlunin að segja frá tilurð svæðisins og landnámsmönnunum fjórum og kynna svæði sem fleiri og fleiri eru að uppgötva. Greinin er byggð á BS ritgerð minni úr Umhverfisskipulagi frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2006.
Í upphafi 6. áratugarins féll hluti jarðarinnar Straums, um 2000 ha, til Skógræktar ríkisins. Var það Bjarni Bjarnason, skólastjóri Héraðsskólans á Laugarvatni, sem gaf landið. Straumur var landstór jörð og þar hafði verið fjárbúskapur til margra ára. Landið var því mikið beitt, hrjóstrugt og ófrjótt og kallaði það á friðun og gróðursetningu. Svæðið, sem kallast Almenningur og er sunnan við Kapelluhraun í Hafnarfirði, var það fyrsta sem Skógræktin eignaðist nálægt höfuðborginni og var hafist handa við að girða af um 200 ha árið 1953.
Með nýjum skógræktarlögum, sem tóku gildi 1955, var skógræktarstjóra heimilt að leigja land til einstaklinga, félaga eða stofnana innan girðinga Skógræktar ríkisins, gegn því að leigutakar gróðursettu barrskóg í landið.
Björn Þorsteinsson í Brunntorfum.
Þessi leigusvæði voru með erfðafestu og gerðir voru sérstakir samningar um þau. Þetta voru kallaðar landnemaspildur og fengu landnemar allar plöntur gefins en ekki mátti byggja á landinu.
Þrátt fyrir að svæðið í Straumi væri ókræsilegt til gróðursetningar voru fjórir félagar sem gerðu samning við skógræktina um leigu á landi. Þeir fengu hver 10 ha svæði í suðvestur hluta girðingarinnar. Þessir menn voru: Björn Þorsteinsson (1918–1986), Broddi Jóhannesson (1916–1994), Marteinn Björnsson (1913-1999) og Þorbjörn Sigurgeirsson (1917–1988). Það sem þessir menn áttu sameiginlegt, auk þess að vera tengdir fjölskylduböndum, voru hugsjónir þeirra, eldmóður og áhugi á náttúrunni. En hverjir voru þessir menn?
Upphafsmenn skógræktar í „Hrauninu“
Brunntorfuhellir (Brundtorfuskjól).
Björn Þorsteinsson fæddist á Þjótanda í Villingaholtshreppi. Hann ólst upp á Hellu og í Selsundi undir Heklurótum. Hann var prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands en hafði áður kennt bæði við Menntaskólann við Hamrahlíð og Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Margar bækur og greinar liggja eftir hann, meðal annars Íslandssaga til okkar daga sem kom út eftir andlát hans. Vorið 1985 hlaut hann viðurkenningu fyrir ræktunarstörf sín í „Hrauninu“ frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir merkilegt framlag til umhverfismála á höfuðborgarsvæðinu. Björn lést árið 1986, 68 ára gamall.
Fornasel.
Broddi Jóhannesson fæddist í Litladalskoti í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði. Hann lauk doktorsprófi í sálarfræði í München 1940 og fór þá að kenna við Kennaraskólann, en þar tók hann við skólastjórastöðu árið 1962.
Broddi Jóhannesson.
Árið 1971 varð skólinn að Kennaraháskóla Íslands og var Broddi rektor hans til ársins 1975. Broddi setti sitt mark á þróun kennaramenntunar á Íslandi með hugsjónum sínum og dug. Hann var mikill náttúruunnandi og náttúruverndarsinni löngu áður en talað var um menn sem slíka. Broddi lést árið 1994, 78 ára gamall.
Marteinn Björnsson fæddist að Orrastöðum í Torfalækjarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Hann lauk prófi í verkfræði við Danmarks Tekniske Højskole árið 1944 og vann sem verkfræðingur hjá Bæjarverkfræðingnum í Reykjavík og Almenna byggingafélaginu meðal annars en einnig var hann með sjálfstæðan rekstur.
Þorbjörn Sigurgeirsson.
Lengst af starfaði Marteinn sem byggingafulltrúi Suðurlands með aðsetur á Selfossi (1958–83). Marteinn lést árið 1999, 86 ára gamall.
Þorbjörn Sigurgeirsson fæddist að Orrastöðum í Torfalækjarhreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Hann var doktor í eðlisfræði og frumkvöðull greinarinnar á Íslandi. Hann var meðal annars forstöðumaður Eðlisfræðistofnunar frá upphafi hennar árið 1958 til ársins 1966. Þorbjörn starfaði fyrst og fremst sem tilraunaeðlisfræðingur og jarðeðlisfræðingur og varð þjóðkunnur fyrir hraunkælingu við eldgos í Heimaey árið 1973. Þorbjörn lést árið 1988, 70 ára gamall.
Í upphafi höfðu menn ekki mikla trú á að hægt væri að rækta skóg í „Hrauninu“.
Þorbjarnastaðaborg.
Það var í raun tilraunastarfsemi hjá Hákoni Bjarnasyni skógræktarstjóra að láta þá félaga hafa landið til að sjá hvort það væri hægt. Á Hákon að hafa sagt við Björn eitt sinn að þetta hafi gengið betur en hann hafði búist við þar sem hann hafði talið landið vera allt of þurrt. Þrátt fyrir að búið væri að girða svæðið var ekki friður fyrir sauðfé, þarna voru frekar og heimavanar kindur sem fóru í gegnum allar girðingar. Suðurhluti girðingarinnar var að auki lélegur, þoldi illa snjó og var til vandræða. Girðinguna var reynt að laga á hverju vori og dró þá aðeins úr ágangi sauðfjár, nægjanlega til að í ljós kæmu ýmis fjölgresi sem ekki höfðu sést áður.
Gróðursetning og trjátegundir í „Hrauninu“
Fornaselsvarða.
Aðkoma Kristins Skæringssonar að „Hrauninu“ var tengd starfi hans hjá Skógrækt ríkisins, fyrst sem starfsmaður í plöntuafgreiðslu og síðar sem skógarvörður Suðvesturlands. Kristinn fylgdist með þeim félögum við skógræktarstörfin og gaf þeim ráðleggingar. Það var aðallega stafafura sem var gróðursett, enda landið rýrt og hentaði fyrir furuna, en einnig voru gerðar tilraunir með margar aðrar tegundir. Plönturnar voru til reiðu hjá Skógræktinni svo lengi sem þeir tóku við. Mikið var gróðursett í upphafi og þétt en ekki mikið klippt frá þar sem verið var að hugsa um skjólið.
Hellishólsskjól.
Eftir að Marteinn hóf störf á Suðurlandi árið 1958 og flutti á Selfoss fékk hann svæði fyrir austan og lagði áherslu á ræktun þess. Broddi gróðursetti heilmikið í „Hrauninu“ en fékk síðar land á Silfrastöðum í Skagafirði þar sem hann gróðursetti. Það voru því Björn og Þorbjörn sem sinntu „Hrauninu“ langmest. Þeir gengust upp í þessu og hrifu fólk með sér. Einn af þeim sem hreifst með var Arngrímur Ísberg og fékk hann úthlutað svæði við hlið Marteins árið 1980.
Í gegnum árin gengu félagarnir um svæðið og báru á áburð en einnig voru gerðar tilraunir með lífrænan heimilisúrgang. Auk þessa var gróðursett lúpína í leirflög til að undirbúa jarðveg betur. Þessi vinna bar þann árangur að allskonar gróður fór að spretta sem enginn vissi að væri til staðar eins og blágresi og fleiri blómategundir.
Hellishólsskúti.
Félagarnir reyndu að gróðursetja Bæjarstaðabirki en einhverra hluta vegna gekk það ekki, það þreifst illa og lognaðist út af. Það var ekki fyrr en upp úr 1980, þegar girðingin varð loks fjárheld, að náttúrulega birkið tók aðeins við sér þegar kindin, eða ókindin eins og „Hraunverjar“ kölluðu hana, fór og eftir árið 1990 tók það virkilega við sér. Einirinn tók einnig við sér og reis upp og burknar sýndu sig í hellisskútum.
Stafafura er ríkjandi tegund í „Hrauninu“ en einnig má þar finna sitkagreni, rauðgreni, broddfuru, lindifuru (alpa-afbrigði), alaskaelri og þöll en ekki í miklum mæli. Mikið var reynt við lerki en því virtist ekki líka vel vistin, hvorki rússalerki né síberíulerki. Þar er einnig að finna tvo silfurreyni og töluvert af ilmreyni en hjónin Arngrímur og Bergljót týndu reyniber, dreifðu yfir birkikjarr og létu svo fuglana um afganginn. Í viðtali orðaði Arngrímur afraksturinn á þann hátt að: „þegar maður lítur yfir þessi ár sem við höfum verið þarna þá finnst mér að ávöxturinn hafi verið meiri og betri en maður bjóst við“.
Mörk svæðisins
Vatnsból í Fornaseli.
„Hraunið“ afmarkast af landamerkjum sem gerð voru fyrst á korti 1955 og svo endurgerð á korti 1989 og þá hnitsett. Alls er svæðið um 55 hektarar og er innan vatnsverndarsvæðis Hafnarfj arðar, að hluta til innan grannsvæðis (vatnsvernd II) og að hinum hluta innan fjarsvæðis (vatnsvernd III).
Frá Krýsuvíkurvegi liggur slóði inn á svæðið sem greinist í tvennt. Þetta er einbreiður, grófur malarslóði og er á köflum aðeins jeppafær. Ekki eru nein bílastæði en við enda slóðanna er breikkun þar sem hægt er að snúa við bíl. Girðing er umhverfis hluta svæðisins sem er orðin mjög léleg og liggur niðri á köflum. Með því að fjarlægja girðinguna og opna svæðið væri auðveldara fyrir fólk að fara þar um og njóta þessarar leyndu náttúruperlu. Stigi er yfir girðingu á einum stað en hann er orðinn fúinn og hættulegur.
Gjásel.
Tvær þekktar minjar eru í „Hrauninu“. Fyrst skal nefna fallega hlaðna fjárborg sem er heilleg, en hún varð fyrir skemmdum í jarðskjálftanum 1968 sem átti upptök sín í Krýsuvík. Fjárborgin nefnist Þorbjarnarstaðarborg og var hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjóna um aldamótin 1900. Tóftir eru af seli sem talið er að hafi tilheyrt Þorbjarnarstöðum, nefnt Fornasel. Við Fornasel er stórt vatnsból nánast í miðju tóftanna en þær eru af húsi og eldhúsi nokkru fjær. Sumarið 2002 gróf Bjarni Einarsson fornleifafræðingur í tóftirnar og kom í ljós að þær virtust vera frá því um 1400–1500. Það var Umhverfis- og útivistarfélag Hafnarfjarðar sem stóð að þessari rannsókn.
Marteinn Björnsson.
Rétt utan við skógræktarsvæðið eru tóftir af Gjáseli. Töluvert er af vörðum á svæðinu og eru þær ýmist leiðarvörður eða landamerkjavörður.
Nokkuð er um gönguleiðir á svæðinu og hafa Loftmyndir ehf. gefið út göngukorti af Reykjanesi. Hluti gönguleiðanna eru gamlar þjóðleiðir til Hafnarfjarðar, til dæmis Hrauntungustígur. Aðrar gönguleiðir eru til að mynda Gerðarstígur sem liggur frá Straumsvík upp í Gjásel og Straumselsstígur samsíða en vestar, frá Straumsvík að Straumsseli.
Á síðustu árum hefur Sigurgeir Þorbjörnsson, sonur Þorbjörns Sigurgeirssonar, verið duglegur við að marka stíga innan svæðisins ásamt fjölskyldu sinni. Einnig er byrjað að hnitsetja stígana og er vilji til að útbúa skilti sem sýna gönguleiðir og segja frá sögu svæðisins, tilurð þess og minjum.
Gránuskúti við Gjásel.
Framsýni landnámsmannanna var mikil og ber að þakka þeim öllum fyrir dugnað þeirra og þrautseigju. „Hraunið“ er arfleið þeirra til komandi kynslóða.“
Sjá meira um skógrækt í Brunntorfum HÉR.
Heimild:
-Skógræktarritið 2012, 2. tbl., Skógræktarfélag Íslands; Kristbjörg Ágústsdóttir, „Hraunið“ – falin skógræktarperla í hrauninu sunnan Hafnarfjarðar, bls. 8-13.
–http://www.skog.is/wp-content/uploads/2019/03/Rit2012-2-lr.pdf
Í Brunntorfuhelli. Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði: „Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m. Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir. Einnig var þetta svæði kallað Brunntorfur, Brunntorfuvörður og Brunntorfuhellir. Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stóð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur. Þá er Fornasel, sel frá Þorbjarnarstöðum. Má enn sjá, að þrjár hafa verið þarna vistarverur. Selið stendur á Fornaselshæð. Rétt við Selið er vatnsstæði, nokkuð niðurgrafið. Norðan undir hæðinni eru rústir eftir kvíar. Suður og upp frá selinu var Gránuskúti eða Gránuhellir.“ [Hér ruglað saman Fornaseli annars vegar og Gjáseli hins vegar, þ.e. hið síðarnefnda er nefnt „Fornasel“. Við það er nefndur Gránuskúti. – ÓSÁ]
Brennisteinsminjar í Krýsuvík
FERLIR hefur um árabil upplýst um mögulegar minjar brennisteinsnáms í Krýsuvík, enn sýnilegar, með vísan til skráðra heimilda um slíkt allt frá því á 18. öld. Svörun viðkomandi stofnana eða einstaklinga hefur hingað til engin verið.
Tóft neðan Baðstofu.
Í óvæntri umfjöllun um löngu fyrrum uppljóstrun um efnið í Grindavík mátti lesa eftirfarandi;
Krýsuvík – Hetta, Hattur og Baðstofa ofan Hveradals.
„Þetta kemur mér mjög á óvart og hlýtur að setja allt málið í talsvert uppnám,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttur bæjarfulltrúi VG í Hafnarfirði um upplýsingar um að neðan fjallsins Baðstofu í Krýsuvík séu baðstofuhverir, gamlar brennisteinsnámur og aðrar leyfar um mannvistir en HS orka hefur fengið leyfi til að bora á svæðinu.
,,Það hefur einungis verið veitt leyfi til tilraunaboranna og þá með hliðsjón af því að svæðinu hefur þegar verið raskað. Ég hef hinsvegar ekki heyrt um neinar fornminjar þarna.“
Tóft neðan Baðstofu.
Ómar Smári Ármannsson hjá gönguhópnum FERLIR upplýsti í desember árið 2010 um þessar minjar í fyrirlestri um byggð og brennistein í Krýsuvík á baðstofukvöldi í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hann vakti m.a. athygli á því að þeirra væri ekki getið í nýlegri fornleifaskráningu af svæðinu.
Talið er að á árunum 1724 – 1729 hafi tveir Þjóðverjar, Holzman og Sechmann, byrjað að taka brennistein úr „Krýsuvík“. Þegar Innréttingar Skúla Magnússonar voru stofnaðar um miðja átjándu öld var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein á Íslandi og er síðan talið er að brennisteinsvinnsla hafi svo verið unnin í Krýsuvík, með hléum þó, allt til ársins 1885.Ómar Smári vísaði í skýrslu manns að nafni Ole Henchel sem ferðaðist um Krýsuvík árið 1775 og nefnir meðal annars hús sem tilheyrðu brennisteinsvinnslunni.
„Ég athugaði ásigkomulag húsanna, með tilliti til þess að aftur yrði upp tekin brennisteinsvinnsla. Þau voru gerð úr torfi og grjóti á íslenzka vísu, en um þau og annan útbúnað, sem til vinnslunnar heyrði, er það skemmst að segja, að það var allt gersamlega ónýtt og húsin fallin, svo allt verður að gera að nýju, eins og hefði aldrei farið fram brennisteinsvinnsla eða nokkur hús og mannvirki til þeirra hluta verið þar. Þar sem aðeins eru liðin 8-9 ár síðan brennisteinsvinnslan lagðist niður, hefðu þó hús og áhöld átt að vera í nothæfu ástandi, ef eitthvert eftirlit hefði verið haft með þeim. Þar hefði legið beint við að fela bóndanum í Krýsuvík umsjá með húsunum gegn einhverri lítilli þóknun, þar sem hann er þarna bústetur og hafði unnið við brennisteinsvinnsluna…“
Árið 1942 fékk Hafnarfjörður svæðið sunnan Kleifarvatns til takmarkaðra afnota, meðal annars brennisteinsnámusvæðin.
Seltún í Krýsuvík – minjar brennisteinsvinnslunnar.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttur, bæjarfulltrúi, segist ætla að hafa samband við formann skipulags og bygginganefndar í Hafnarfirði vegna málsins. Hún segir þó undarlegt að ekki hafi komið fram neinar ábendingar fyrr en málið hafi verið í vinnslu frá árinu 2006. Hún segir engar framkvæmdir farnar af stað. Afgreiðslan gefi einungis leyfi til tilraunaboranna og feli ekki í sér fyrirheit um nýtingarrétt. Enn eigi eftir að móta umhverfis og auðlindastefnu fyrir sveitarfélagið og endarleg niðurstaða hljóti að ráðast af því.“
Ekkert framangreint ætti að koma sæmilega upplýstu fólki, jafnvel einstökum bæjarfulltrúum, á óvart. Bygginga- og skipulagsfulltrúa gæti þó þótt viðfangsefnið óþægilegt.
Landvinningar á Reykjanesskaga
Í Þjóðviljanum helgina 23.-24. ágúst 1980 var viðtal við Björn Þorsteinsson undir fyrirsögninni „Landvinningar á Reykjanesi“ um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap:
Hér reyndar um Fornasel ofan við Brunntorfur að ræða.
„Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. Björn Þorsteinsson prófessor hefur um áratugaskeið stundað skógrækt í Straumsheiðinni ásamt nokkrum öðrum áhugamönnum um landgræðslu. Þar heitir í Straumsseli. Björn telur Reykjanesskagann vera hið mesta gósenland vegna margvíslegra landkosta og vill friða hann fyrir sauðfé og láta úthluta fólki þar ræktunarlöndum. Við áttum samtal við Björn fyrir skemmstu og þar útlistaði hann sjónarmið sín.
— Já, Reykjanesskaginn hefur jafnan búið yfir mestu aðdráttarafli allra héraða á Íslandi. — Eftir rækilega rannsókn á landkostum sló fyrsti landnámsmaðurinn tjöldum til frambúðar í Reykjavík. Þar var mikið undirlendi, varp- og akureyjar, þar var hægt að rækta bygg og brugga, góð fiskimið, laxár, veiðivötn, selalátur, hvalreki og geirfuglabyggðir skammt undan og fuglabjörg, góðar hafnir, heitar laugar og talsverður reki. Auk þess var beitiland sem aldrei brást á Reykjanesskaga.
Björn Þorsteinsson í Brunntorfum.
Skaginn var skógi vaxinn og þar gekk sauðfé sjálfala frá upphafi vega uns Herdísarvíkur-Surtla féll fyrir hundum og mönnum árið 1952 að mig minnir, sællar minningar. Hvergi var öllum þessum gæðum hlaðið jafn ríkulega á eitt hérað og af því býr þar nú nálega helmingur þjóðarinnar. Skaginn var síðar nefndur Gullbringusýsla, en það mun afbökun. Dönsku umboðsmennirnir hafa kallað Bessastaðaumboðið: Den guld indbringende syssel.
Menn sóttu hingað á Inn- og Suðurnes frá upphafi vega, keyptu sér land eða hótuðu hernaði fengju þeir ekki jarðnæði. Eyvindur í Kvíguvogum hrökklaðist t.d. til Heiðarbæjar undan Hrolleifi Einarssyni Ölvissonar barnakarls. Hér urðu menn að bindast samtökum, stofna til þinghalds og stjórngæslu til þess að verjast hvers konar ágangi. Upphafs allsherjarríkis mun að leita á Þingnesi við Elliðavatn.
Þetta er vatnsstæðið í Fornaseli.
Blm.: Voru ekki útvegsbændur á Reykjanesskaga einhverjir ríkustu menn landsins hér fyrrum?
— Jú, fiskimiðin hafa verið svo stórgjöful við Reykjanes að þar hafa jafnan verið einhverjar bestu verstöðvar landsins. Allt frá því á 15. öld hafa stórveldi glímt um Reykjanesskaga. Ég vil einnig bæta því við að jarðhitinn á Reykjanesskaga er ómældur og lítið nýttur enn. Garðbæingar ættu að vita að laug var í Hliðstúni, en hefur aðeins komið upp síðustu aldir á blásandi fjöru. Volgra var norðan til við Arnarnesi undan Gvendarbrunni, en á Reykjanesskaga heitir fersk uppspretta Gvendarbrunnur. Um skagann liggja mörk skaparans milli austurs og vesturs. Þar skiptir hann veröldinni með eldsprungu sem er nú einna virkust norður í Gjástykki.
—Skaginn er í rauninni ein af tilraunastöðvum skaparans í landasmíð. Þar æfir hann tilvonandi arkitekta sköpunarverksins áður en hann felur þeim stærri verkefni annars staðar í geimnum.
Þar er hvert náttúruundur öðru meira. Eitt er Kleifarvatn, ævintýravatn, sem menn nýta ekki til neinnar hlítar af því að í því er flóð og fjara, en láðst hefur að binda vatnsborðið. Það er auðgert með um 4 km skurði, en að honum gerðum opnast ómældir möguleikar til fiskræktar og annarrar ræktunar, búsetu og siglinga.
Blm.: Nú er Reykjanesskagi í vitund margra heldur hrjóstrugur. Ert þú á annarri skoðun?
— Já, skaginn er í raun mjög frjósamur, en gróðri var eytt þar gegndarlaust á 19. öld. Eftir 1820 hefur engin stórplága geisað hér landi og sveitirnar yfirfylltust af fólki. Þá flýði það hrönnum til verstöðva og á Vatnsleysuströnd komst fólksfjöldinn upp í um 650 manns árið 1870. Þá var gróðri skagans eytt svo að hann hefur staðið rúinn og eyddur eftir. Ég tel að mikill orkusparnaður yrði að því að veita ræktunarfúsu fólki landspildur á skaganum gegn ræktunarskyldu. Á þann hátt væri hægt að breyta skaganum í sígrænan gróðurreit á 10-15 árum. Fólk við Faxaflóa þarf ekki að æða norður í Aðaldal til þess að tjalda á hrauni. Skaginn er mjög fagur og fjölbreyttur og sökum orkukreppu er brýnt að Faxaflóaþjóðin kynnist því að þar eru dásemdir tilverunnar engu minni enn annars staðar á landinu.
Blm.: — Og því vilt sem sagt friða Reykjanesskaga fyrir sauðfé?
— Já, með því og að úthluta fólki þar ræktunarlöndum vinnst þrennt: Fólki hættir að leiðast, orkuvandinn leysist því að menn losna við að flýja austur á Hérað eða til sólarlanda sér til afþreyingar og nytjaskógar og unaðsreitir munu prýða Reykjanesskagann. Síðast en ekki síst er óhemjukostnaði við girðingar létt af ræktunarmönnum.
Hraunin ofan Straumsvíkur.
Blm.: Hafið þið Straumsheiðingjar orðið fyrir tjóni af völdum sauðfjár í landi ykkar?
— Við erum líklega búnir að planta um hundrað þúsund trjáplöntum síðan við byrjuðum og þó að girðingin sé tvöföld, bæði gaddavír og vírnet, er tjónið ómælt. Það þarf ekki nema eina kind að brjótast inn til að valda miklum skaða. Ísland var og er eignarréttarins land. Hingað komu menn til þess að eignast land og hér voru engir frumbyggjar fyrir, —landið var numið til séreignar, en með því er ekki sagt að eignarrétturinn sé svo heilagur að leggja þurfi í auðn hans vegna heil héröð. Ég tel að eigendur sauðfjár eigi að gæta eigna sinna í heldum girðingum. Þeir eiga að vera ábyrgir fyrir tjóni sem rollurnar valda hjá öðrum. — Það þættu skrýtin lög í landi ef innbrotsþjófar gætu afsakað gerðir sínar með því að læsingar væru ekki nægilega traustar. Hér hafa hirðingjasjónarmið ríkt um aldir og sauðfé verið friðheilagt enda hefur gróðurlendi eyðst jafnt og þétt eins og hjá öðrum hirðingjum. Mál er að linni og gróðurinn verði friðhelgur.
Hraunin ofan Straumsvíkur.
Blm.: Hvað er til ráða? Hvernig á að breyta alda gamalli hefð?
— Í lögum er og hefur verið um aldir ákvæði um ítölu, ítölu búfjár í haga. — Ítala er ákvörðun eða öllu heldur áætlun um það hve margt búfé hver og einn megi hafa í sameiginlegu beitilandi. Ítala er leyfður fjöldi búfjár frá hverjum nytjanda beitar í sameiginlegt land. Nú mun um þriðjungi fullorðins sauðfjár ofaukið í haga hér á landi. Þennan bústofn verður að skera niður. Enginn, hvorki stétt manna né einstaklingur á minnsta rétt á því að eyða lífríki landsins, leggja gróðurlendi í auðn. Ítöluákvæðinu var framfylgt allstrangt oft á tíðum fram á öld véltækni og fóðurbætis, en eftir það hefur allt gengið úr skorðum. Vistfræðingar okkar eiga að vita nú orðið nákvæmlega hvað hektari gróðurlendis ber af búfé, og auðvitað þolir landið misjafnlega mikið eftir aðstæðum og gróðurfari. Þeir eiga að stjórna ítölu í landið undir forystu landgræðslustjóra með aðstoð stjórnvalda. Allt annað er stjórnleysi eða anarkismi. Útgerðarmenn verða að leggja skipum sínum af því að vernda þarf fiskistofna. Á sama hátt verða bændur að takmarka búsmala sinn af því að vernda þarf gróðurlendi. Landeyðing er höfuðglæpur og íslenskur sauðfjárbúskapur er víða vélvædd rányrkja.
Fjárskjólið í Brunntorfum.
Líttu á Grafninginn og uppsveitir Rangárvalla- og Árnessýslu, svo að dæmi séu tekin. Ég veit að núverandi landgræðslustjóri, Sveinn Runólfsson, hefur beitt ítöluákvæðum til þess að draga úr ofbeit á einstökum svæðum en gróðurlendur eru samt á undanhaldi og því má alls ekki una. Menn hafa verið að amast við sumarbústöðum borgarbúa á ýmsum forsendum en þeim fylgir gróður, sauðfjárbúskap og auðn.
Ingvi Þorsteinsson sagði í Þjóðviljanum fyrir hálfum mánuði að Grænland væri ekki ofbeitt enda fallþungi dilka þar meiri en hér. Þetta stafar ekki af framsýni bænda þar í sveitum, heldur af því að þeir setja enn á guð og gaddinn og horfalla árlega, gjörfelldu 1968 og rollubúskapurinn hangir þar á horriminni. Þeir eru litlir ræktunarmenn, en hér er heyöflunin vélvædd og þar með er haldið lífi í hundruðum þúsunda sauðfjár á vetrum og þeim sleppt á úthagann þessa fáu mánuði, sem hér er þíð jörð.
Ef náttúran fær að vera í friði ríkir oftast einhvers konar jafnvægi innan hennar. Nútímabúskapur hefur rofið þetta jafnvægi hjá okkur. Hér eru milljarðar greiddir í verðbætur til bænda til þess að þeir geti eytt landinu, en aðrir milljarðar eru greiddir í landgræðslusjóð. — Þessi háttur skipulagsmála var eitt sinn kenndur við Bakkabræður.
Stórsektir þarf að leggja við landeyðingu — í stað þess að nú er hún verðlaunuð.
Í Fornaseli (Brunnseli?).
Blm.: Þú minntist eitt sinn á það við mig að stofna þyrfti landvinningafélag til þess að herja á auðnirnar, endurheimta þær í ríki gróðursins. Hefurðu gert eitthvað í þeim málum.
— Ég er orðinn ónýtur í öllu félagsstarfi. Hins vegar þykir mér tímabært að gera menningarbyltingu á Íslandi. Hér verða menn að hverfa frá hirðingjamenningu og taka upp ræktunarmenningu. Þeir verða að hætta að trúa á heilaga sauði, og hver maður verður að vera ábyrgur fyrir eigum sínum og þar með sauðkindum, sem valda mér og öðrum óbætanlegu tjóni. Hirðingjar hafa ávallt skilið eftir sig sviðið land, hvort sem þeir búa austur í Mongólíu, suður í Arabíu eða norður á Íslandi.
Blm.: Eiga þá sauðfjáreigendur að girða af sauði sína?
Björn: Í ræktunarlöndum í grennd við þéttbýli á sauðfé ekki að líðast. Það er ómannlegt að leggja þá byrði á ræktunarmenn að girða af hvern skika vegna þess að nokkrir sauðfjárdýrkendur hafa það sér til dundurs að halda skemmdarvörgum til beitar í löndum þeirra. Allir sem vilja rækta land eiga að geta fengið erfðafestuskika að kostnaðarlausu gegn ræktunarskyldu á friðuðu landi. Erfðafestan á að falla úr gildi og landið að ganga aftur til fyrri eiganda, ef ræktunarskyldunni er ekki fullnægt.
Blm.: Þetta hljómar vel, en ríki og bæjarfélög eiga fæst mikið land til slíkra hluta.
Björn: Ef menn nýta ekki landið, eins og t.a.m. Reykjanesskagann, á ríkið að gera slík svæði upptæk til handa þeim, sem eru fúsir til þess að rækta þau. — Hér hefur ræktunarmálum verið mjög litið sinnt. Engin fræðsla er um þau mál innan hefðbundins skólakerfis. Eitt hið fyrsta sem gera þarf er að fræða fólk um það, hvernig hægt er að rækta landið. Ég get best borið um það sjálfur, að vanþekking mín á ræktunarmálum hefur verið mér dýr. —
„Brunnurinn“ (vatnsstæðið) í Fornaseli (Brunnseli?).
Ræktunarfræðsla þarf að verða kjörsvið í öllum skólum. Þar á fólk að geta fræðst um undirstöðuatriði í garðrækt, ylrækt, trjárækt og skipulagningu garða og gróðursvæða, og margt annað kæmi til álita, ef mannafli og fræðslu væri til.
Hér er garðyrkjuskóli og útskrifar ágætlega menntað fólk, en þetta ágæta fólk fær mér vitanlega enga þjálfun í því að miðla öðrum af þekkingu sinni, kenna fræði sín. Þekking á lífríkinu í kringum okkur er hverjum manni dýrmætt veganesti. Fræðsla í margs konar náttúrufræðum hlýtur að vaxa í framtíðinni. Ræktunarfræðsla er mikið og vanrækt mál. — Það er ekki á okkar færi að fjalla um það sem skyldi. Menningarbylting verður að vera mjög róttæk ef hún á að standa undir nafni. – G.Fr
Rétt er að geta þess að sel það er fjallað er um í greininni er ekki Straumssel, heldur Fornasel ofan við Brunntorfur (sjá m.a. mynd af vatnsstæðinu við Fornasel, sem sagt er að sé við Straumssel). Fornasel er ofan við Gjásel (þessum seljum er stundum ruglað saman í skrifum), en það hefur einnig verið nefnt „Brunnsel“, sbr. „Brunntorfur“. Straumssel er mun vestar, í svonefnum Almenningum. – aths. ÓSÁ.
Heimild:
-Þjóðviljinn – 191.-192. tölublað (23.08.1980); Viðtal við Björn Þorsteinsson um unaðsreiti og löglausan sauðfjárbúskap á Reykjanesi, bls. 12-13.
Í Brunntorfum.
Reykjanesstrandið mikla og Jamestown
Í Ægi árið 1930 er m.a. fjallað um „Reykjanesstrandið mikla“ utan við Valahnúksmöl á Reykjanesi og „Stóra strand“ Jamestown við Hvalvík utan við Ósa, gegnt Höfnum:
„Hr. hreppstjóri Ólafur Ketilsson á Óslandi í Höfnum, hefur sent »Ægi« ágæta grein um skipströnd þar syðra. Með því hér er um langt mál að ræða, en rúm í «Ægi« af skornum skammti, er eigi unnt að birta greinina í einu lagi, en þar eð hún er bæði ítarleg og skemmtileg, verður hún að birtast í pörtum eftir því sem rúm leyfir.
Valahnúksmöl (Reykjanesstrandið mikla).
Valahnúkur og Valahnúskmöl.
Á fyrsta tug 19. aldarinnar, rak á land á svo nefndri Valahnúkamöl á Reykjanesi, geysilega stór timburfloti; var flotinn benslaður með sverum járnböndum þversum og langsum. Í flota þessum voru mörg hundruð ferköntuð tré frá 12—18 álna löng, og frá 12—18 þml. á kant.
Frá James Town í Ameríku.
Flest voru trén úr furu — Pitch-pine, og svo nokkur eikartré. Um stærð flotans má nokkuð marka af því, að 18 al. löng trén stóðu upp á endann, sem bindingur til og frá í flotanum, og svo haganlega var hann byggður, að hvergi var hægt að fela hönd á millum trjánna, en fleiri þúsund smá eikarbútar frá 1—3 al. voru líka í flotanum, kallaðir tylftarstykki, til uppfyllingar í allar holur millum trjánna. Sagt var að floti þessi hefði átt að fara til Englands frá Ameríku, en að skipið hefði farist, sem hafði hann í drætti en sennilega hefur skipið verið komið upp undir Reykjanes er það fórst, því mikið af fataræflum og öðru dóti var á flotanum, sem sýndi að menn höfðu verið á honum, fyrir skemmstu, áður en hann bar að landi.
Hestaklettur – Hafnir að handan.
Uppboð var haldið á öllum trjánum, eftir að búið var að bjarga öllu undan sjó, en um verð á trjánum er mér ekki vel kunnugt, en dýrasta tréð fór á 12 dali (24 kr.) og keypti það Brandur heitinn Guðmundsson langafi Björns Þórðarsonar kaupmanns á Laugavegi 46.
Tugi ára var svo verið að saga niður í borðvið öll þessi tré, sem keypt voru mestmegnis af Vatnsleysustrandar, Rosmhvalaness, Grindavíkur og Hafnahreppsbúum; var allt reitt á hestum, þegar búið var að koma því í borð. Aðeins Hafnahreppsmenn fluttu flest trén heil sjóveg, höfðu stundum 5—6 tré aftan í skipinu í einu; var þá lagt á stað frá Reykjanesi um stórstraumsfjöru, og norðurstraumurinn svo látinn hjálpa til með róðrinum. Síðustu tré Hafnamanna voru sótt 1852, af Gunnari sál. Halldórssyni, föður séra Brynjólfs sál. mágs mín, sem var prestur að Stað í Grindavík.*
Jamestown (stóra strandið).
Vorið 1881, á hvítasunnumorgun rak á land norðanvert við Kirkjuvogssund, geysilega stórt skip, í hafrótar-vestanroki, var sjáanlegt, meðan skipið var að veltast í brimgarðinum, að það mundi mannlaust með öllu. Ekki var hægt að komast út í skipið þrjá fyrstu dagana eftir að það strandaði, fyrir brimi. Þegar skipið strandaði, lá á »Þórshöfn« skammt þar frá, er skipið strandaði, danskt kaupskip frá H. P. Duusverzlun í Keflavík.
Jamestown – ankeri í Höfnum.
Skipstjórinn hét Petersen; sagði hann okkur strax, sem skipið var strandað, að það væri amerískt timburskip, fullt stafna á milli af tómum plönkum, og 3500 tonn að stærð. Var svo að heyra, sem skipstjóri væri nákunnugur skipinu, því hann sagði okkur líka nákvæmlega um allan útbúnað á því ofandekks, sem allt stóð heima, er komið var um borð í skipið. Hefur skipstjóri sennilega verið búinn að hitta skipið í hafi, áður en að það strandaði hér við land.
Á fjórða degi var sjór loks orðinn það dauður, að komist var um borð, og er óhætt að fullyrða að mörgum manninum var orðið meir en mál að komast um borð í báknið!
Ólafur Ketilsson við ankeri af Jamestown.
Og aldrei gleymi ég þeirri stund, þegar ég, þá 16 ára unglingur, stóð í fyrsta sinni inn á þilfari »Jamestown«, og horfði undrandi og hugfanginn á þetta 60 faðma langa skipsbákn 1 Set ég hér stutta lýsingu á »Jamestown« hinu stærsta skipi, sem strandað hefur við Ísland, síðan landið byggðist.
»Jamestown« var þrímastraður barkur, og eins og áður er sagt, nákvæmlega 60 faðmar á lengd, en um breidd þess man ég ekki með vissu, en það var jafnbreitt og franska skútan var löng, sem um sumarið var höfð til að flytja planka úr því.
Þrjú þilför voru í skipinu, og óskiptur geimur hver lest, og hver lest troðin eins og síld í tunnu, af tómum plönkum, og enn þá eftir 50 ár blasir við augum mínum einn óskaplegi geimur, efsta lestin, þegar búið var loks að tæma hana, 60 faðma langa, og hátt á þriðju mannhæð á dýpt, á af því nokkurn veginn gera sér grein fyrir, hver kynstur hafi rúmast í öllum þessum geim, af plönkum.
Tveir stórir salir voru á efsta þilfari; var annar salurinn miðskips, en hinn Willum aftasta og mið siglutrés, var aftari salurinn hið mesta skrauthýsi, eða réttara sagt, hafði verið, því búið var að brjóta þar allt og bramla, sennilega bæði af manna- og náttúrunnar völdum, en fyrir aftan öftustu siglu, var hálfdekk, sem tæplega var manngengt undir, hefur að öllum líkindum verið forðabúr skipsins, því þar var að finna ýmislegt matarkyns, svínsflesk, nautakjöt m. m., og hrannir af spýtnabraki, póleruðu mahoni, bæði í útskornum rósum og þiljum, sem borist höfðu þangaðúr salnum, og auk þess voru þar kynstrin öll bæði af skrám, lömum og skrúfum, sem allt var úr kopar. 6 herbergi höfðu verið sitt til hvorrar hliðar í salnum, sennilega allt svefnherbergi, en allt var það orðið brotið að mestu, en mátti þó sjá, að öll höfðu herbergin verið mjög skrautleg, því útskornar, póleraðar mahoní-rósir á millum bita, og mahoníþiljur voru sums staðar óbrotnar, en flest voru þó skilrúm millum herbergjanna brotin að meiru og minnu. Fremri salurinn var að öllu íburðarminni, en var þó að nokkru leyti skipt í svefnherbergi, en ekki líkt því eins vönduð, og sjáanlegt var að borðsalur hafði verið í öðrum enda salsins, þó ekkert fyndist þar afborðbúnaði, eða neinu því, sem verðmæti var í.
Af öllu því tröllasmiði, sem sjá mátti á skipi þessu, var þó þrennt, sem mesta undrun mína vakti, — fyrst miðsiglutréð, tveir feðmingar að gildleika, með 18 afarsverumjárngjörðum, annað undirbugtspjótið, sem kallað er, 36 þml. á kant, og það þriðja, stýrislykkjurnar (3) úr kopar, en hvað þær hver um sig voru þungar, get ég ekki gert neina ágiskun um, en ég vil þó geta þess, að einn sunnudag fórum við Eiríkur sál. bróðir minn, ásamt þriðja manni, til þess að reyna að ná efstu lykkjunni, því hún hékk á einum nagla, og því að kalla mátti laus úr sæti sínu (stýrið var brotið af). —
Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum
Bundum við afarsverum nýjum kaðli í lykkjugatið, en vorum þeir aular að hafa dálítinn slaka á kaðlinum, svo þegar við loksins vorum búnir að losa naglann, og vega hana úr sætinu (falsinu), þá purpaði hún kaðalinn eins og brennt bréf hefði verið, um leið og hún hrökk niður, og munaði minnstu að hún mélaði bátinn, sem við vorum í.
Sægur af fólki, hvaðanæva af landinu, kom um sumarið til þess að skoða þetta skipsbákn, og mátti stundum heyra óp og vein, og guð almáttugur ! þegar verið var að drösla kvenfólkinu upp þennan 17 tröppu riðlandi stiga, sem náði upp að öldustokk skipsins.
Eftir að »Jamestown« strandaði og ráðstöfun hafði verið gerð til þess af landshöfðingja Hilmar Finsen, að fara að bjarga til lands plönkunum, neituðu suðurnesjabændur algerlega að hreyfa hönd að björgun, töldu það alveg óvinnandi verk, en vildu hins vegar fá skipið keypt með öllu, eins og það stóð. En er því var neitað, buðu sig fram til að bjarga úr skipinu þrír menn í Reykjavík, þeir kaupmennirnir Páll sál Eggerz og Jón sál. Vídalín og Sigurður Jónsson járnsmiður, sem enn þá er á lífi, nú á níræðisaldri. Komu þeir hingað á strandstaðinn snemma í júnímánuði á franskri skútu (Loggortu); var skipstjóri Ólafur Benediktsson Waage. Fengu þeir félagar mikið af verkafólki hér, því þeir buðu óvenjulega hátt kaup í duglega menn, 25 aura um tímann! 3 kr. um daginn fyrir 12 tíma þrælkun, þótti þá óheyrilega hátt kaup, og allt borgað í skíru gulli og silfri, á hverju laugardagskvöldi. Keflavíkurkaupmennirnir voru ekki í þann tíð vanir að borga verkafólki í gulli og silfri vinnu sína, heldur i uppskrúfuðum vörum, þurrum og blautum! Var þessari nýjung um greiðslu verkkaups tekið með hinum mesta fögnuði af suðurnesjabúum, og margur sá maðurinn, sem átti laglegan skilding um haustið í kistuhandraðanum, því í þá daga þekktust ekki tálsnörur núlímans, bíóin, kaffihúsin m. m., sem nú tæma vasa verkamannsins verkalaunum sínum!
Hvað margir »Loggortu«farmar af plönkum voru fluttir til Reykjavíkur man ég ekki með vissu, en jafnaðarlega var verið i tvo daga að ferma skútuna, og svo aðra tvo daga að flytja í land í stórum flotum, því öllu var skipað í land upp á helming. Þegar kom fram í júlímánuð fóru bændur líka að bjarga upp á helming, voru þá oft frá 12—20 plankar á hvern mann, í helmingaskiptum, og stundum var það mikið meira, sem hver maður hafði í sinn hlut eftir daginn, þegar svo stóð á að sunnanstormur var, því þá var plönkunum dyngt í sjóinn og látnir reka til lands, frá 600—800 st. í einu!
Í júlímánaðarlok var loksins efsta lestin tæmd af timbrinu. í tvo mánuði voru fleiri tugir manna að tæma eina skipslest og þó þrásinnis fleygt í sjóinn mörg hundruð plönkum á dag! Það ætti að gefa nútíðarmanninum nokkurn veginn ljósa hugmynd um hver ógrynni af plönkum hafi verið í öllum (3) lestum skipsins.
Þegar efsta lestin var tæmd, var fyrsta uppboðið haldið, var sjávarströndin á fleiri hundruð faðma svæði þá ein óslitin plankahrúga. Voru í hverju númeri frá 10—20 plankar. Voru plankarnir 6—9 ál. langir, en 3 1/2 tom. þykkir, og af mismunandi breidd 6—11 tom. Kristján sál. Jónsson, hæstaréttardómari, var þá sýslumaður i Gullbringusýslu, og hélt hann fyrsta uppboðið. Stóð uppboðið í tvo daga; var verð á plönkunum 25—50 au. og mundu það þykja góð timburkaup nú. Að plankauppboðinu loknu, var sjóboðið haldið. Keypti faðir minn möstrin og alla kaðla (vantinn) og víra m. m. á 24 kr„ en skipið sjáltt með öllu timbri sem í því var í mið og neðstu lest, var hæstbjóðandi H. P. Duus, kaupmaður í Keflavík, fyrir kr. 301,00, en hann bauð í það fyrir föður minn og aðra suðurnesjabændur, en kom þar aldrei nálægt eftir uppboðið.
Grjót úr ballest Jamestown.
Strax eftir uppboðið var byrjað að skipa upp úr skipinu aftur og því haldið áfram stanslaust til 10. sept., en þá kom suðvestanrok með stórbrimi og klofnaði skipið þá í tvennt og rak hver spíta til lands. Var stórfengleg sjón að sjá allan þann flota, þegar hann kom að landi, mundi engum manni hafa dottið í hug, ef ekki hefði vitað, að öll sú plankabreiða væri úr einu skipi og þó var búið að taka meiri partinn úr miðlestinni og allt úr efstu lestum er skipið brotnaði.
Ég minnist þess, að þegar skipið var nýstrandað, kom til föður míns maður, sem hét Sölvi Sölvason, og lengi var búinn að vera í siglingum. Sagði hann föður mínum, að hann þyrði að taka 18 sextíulesta skonnortufarma úr skipinu, en faðir minn taldi það þá öfgar einar. En það hefði verið áhættulaust að tvöfalda þá tölu. Allt var skipið eirslegið í sjó og koparseymt og voru það laglegir koparboltar, sem gengu í gegnum botnrangirnar. Sendi faðir minn mörg þúsund kg. til Englands af kopar. Það eina, sem tapaðist og aldrei sást, var afturstafn skipsins með stýrislykkjunum. Hefir það sennilega sokkið sökum þyngslanna af lykkjunum.
Hver kynstur að sumir af suðurnesjabændunum söfnuðu að sér af plönkunum, má meðal annars marka af því, að faðir minn seldi í einu til Jóhanns nokkurs snikkara á Eyrarbakka 1200 st. og sá ekki á eftir, að á hafði verið tekið.
Óttarsstaðir í Hraunu. Húsið var að mestu byggt úr viðum Jamestown.
Þegar leið á sumarið fór að kvisast að ballest skipsins væri afar mikils virði, jafnvel meira verðmæti en skipið sjálft með öllum farminum. Um nýjársleytið kom svo fyrirspurn til föður míns frá landshöfðingja um hvað orðið hefði af ballestinni og hvort ekki væri hægt enn þá að bjarga henni, því hún (ballestin) hefði verið auðæfi mikil, óhreinsað silfurgrjót frá Mexico. Hleypti þessi fregn heldur en ekki púðri í okkur strákana og var ekki dregið á langinn að fara og slæða botninn á strandstaðnum. En allir þessir silfurloftkastalar okkar hrundu og urðu að engu, þó við værum að slæða dag eftir dag, fengum við aldrei einn einasta mola og gátum aldrei séð einn einasta stein í botninum þó við sæjum vel í botn.
Ankeri úr Jamestown. Viktor Guðmundsson stendur hjá.
Vorið eftir kom svo Sigurður Jónsson, járnsmiður, sem áður er nefndur, í sömu erindagerðum og var ég oft með honum við að slæða, en það fór á sömu leið. Við höfðum erfiðið og ekkert annað. Sennilega hefir svo farið, að þegar skipið brotnaði, hefir botninn sagast fram í briminu og hvolft þar úr sér á leirbotni áður en botninn rak til lands. Hins vegar alveg óskiljanlegt, að í þau 50 ár, sem liðin eru síðan að skipið strandaði, skuli aldrei einn moli hafa borist til lands í öllum þeim hafrótum, sem komið hafa i þessi 50 ár.
Ólafur Ketilsson í Höfnum.
Það eina, sem mér er kunnugt um að náðst hafi af ballestinni, er einn hnullungsmoli, sem Sigurður Ólafsson, bóndi í Merkinesi náði. Skreið hann eitthvað niður með afturstafni skipsins og fann þá þennan mola. Var Sigurður mikill járnsmiður sem kunnugt er. Fór hann með molann í smiðju sína og bræddi úr silfrið, en hve mikið hann fékk af silfri veit ég ekki, því ég sá það aldrei.
Eg hefi orðið nokkuð langorður um þetta stóra strand, þó ótal margt sé enn þá ósagt, en sökum þess að mér er ekki kunnugt um, að nokkur maður, allt til þessa hafi skrifað einn sögulegan staf strandinu viðvíkjandi, þá hefi ég ekki viljað láta undir höfuð leggjast að skrásetja það helsta um þetta mikla strand, svo jafn-stórmerkur viðburður ekki týndist algerlega úr annálum Íslands.
Einkennileg tilviljun má það kallast, að tvö alstærstu timburströndin, sem borið hefir að ströndum þessa lands skuli hafa lent í Hafnahreppi.“
Sjá meira um Reimleika í Valahnúkshelli í tengslum við „Reykjanesstrandið mikla og einnig meira um Jamestown-strandið.
Heimildir:
-Ægir – 11. Tölublað (01.11.1930) – bls. 138-140.
-Ægir – 12. Tölublað (01.12.1930) – bls. 273-275.
Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd eru að mestu byggðir úr viðum Jamestown.
Vitar á Íslandi – ágrip
Eftirfarandi ágrip af „Vitasögu Íslands“ var tekið saman af Tómasi Lárusi Vilbergssyn, í tengslum við nám í NKN-2007:
„Margir sjá vita í gegnum rómantísk augu, þeir draga upp mynd í hugum manna af björgunarafrekum og hetjudáð annars vegar og kyrrð og náttúrufegurð út á afskekktu nesi hins vegar ásamt heillandi byggingarlist. Vitabyggingar eru sér arkitektúr út af fyrir sig og rísa yfirleitt einir mannvirkja á þeim stöðum sem þeir eru. Vitar hafa frá örófi alda gegnt veigamiklu hlutverki fyrir sjófarendur og oft og tíðum verið það leiðarljós sem skyldi milli lífs og dauða hjá sjómönnum. Vitar höfðu lýst sjómönnum um alla Evrópu í margar aldir áður en fyrsti vitinn var byggður hér við land. FiskveiðarÍslendinga höfðu að mestu verið stundaðar á opnum bátum þar sem menn létu sér nægja að hafa mið af kennileitum í landi. Þó að þilskipaútgerð hafi eitthvað verið stunduð í kringum 1875 var ekki haldið út um dimmasta tímann og menntaðir skipstjórnarmenn það fáir að þeir mynduðu ekki neinn þrýstihóp. Stopular siglingar voru að landinu og var talið að ekki færu nema um 70 skip hjá Reykjanesi árlega. Samt sem áður vara reynt að leggja fram frumvarp um sérstakt vitagjald árið 1875, þrátt fyrir að enginn viti væri risinn á landinu.
Fyrsti vitinn rís
Árið 1877 voru veittar 14000 krónur úr landssjóði til vitabyggingar á Valahnúk á Reykjanesi og 12000 úr ríkissjóði Dana. Þar með reis fyrsta vitabyggingin á Íslandi og kveikt var á Reykjanesvita 1. desember 1878. Verkið var erfitt því torsótt var að draga grjót og annað efni upp á Valahnjúk við allskyns aðstæður og frekar litla verkþekkingu á svona byggingum.Eins og títt er um opinberar byggingar á Íslandi þá fór þessi bygging 10000 krónur fram úr áætlun.
Vitavörðurinn
Reykjanesviti og fyrsti vitavörðurinn, Arnbjörn Ólafsson.
Vitinn þurfti mikla umhirðu þar sem hann hafði verið reistur á svo afskekktum stað og því var ráðinn vitavörður í fullt starf við vitann. Landshöfðinginn réð Arnbjörn Ólafsson til starfans árið 1878 og átti hann að fá 800 krónur í árslaun og þurfti að halda vinnumann og borga honum af þeim launum.
Einnig hafði hann endurgjaldslaus afnot af vitavarðarbústaðnum og mátti nota til eigin þarfa 30 potta árlega af steinolíubirgðum vitans. Vitavörðurinn starfaði eftir ítarlegu erindisbréfi eftir danskri fyrirmynd.
Erindisbréfið kvað ítarlega á um alla umsýslu við vitann, húsin og landið í kring, umhirðu á ljósabúnaði og nákvæma útlistun hvernig halda átti dagbók yfir embættisstörfin. Í 10 gr. Erindisbréfsins segir m.a.: „Hálfri klukkustund fyrir sólsetur, ber vitaverði og aðstoðarmanni hans að vera til staðar við vitann, til þess samkvæmt starfsreglugjörðinni að undirbúa allt, til þess að kveikja vitann. Byrjað skal að kveikja svo snemma, að vitinn sje klukkustund eptir sólsetur með fullri birtu og á að halda henni við þangað til 45 mínútum fyrir sólaruppkomu“. (Vitar á Íslandi, 2002: 38). Einnig var ætlast til þess að vitaverðir sýndu gestum vitana enda margir forvitnir um þessar byggingar. Útbúnar voru sérstakar reglur um heimsóknir gesta í vita og máttu vitaverðir, frá 1910, heimta gjald af gestum.
Í reglum um heimsóknir segir m.a.: „Vitavörður hefir leyfi til að sýna aðkomandi mönnum vitann að innan, frá því er hann hefir lokið hinni daglegu ræstingu , þangað til stundu áður en hann kveikir á vitanum aptur…. Það er fyrirboðið að leyfa nokkrum ölvuðum manni að ganga í vitann, eða þeim, sem eru ræfalega til fara. Vitavörður skal vera þægilegur í viðmóti við þá, sem óska að sjá vitann, og skýra þeim frá ásigkomulagi allra vitafæranna.“ (Stjórnartíðindi 1897 B, bls.446-447).
Óblíð náttúruöfl
Náttúra landsins fór hörðum höndum um vitann, bæði veður og jarðskjálftar sem skuku Reykjanesskagann annað veifið og í jarðskjálfta 1887 fór ljósabúnaður vitans illa. Farmenn í siglingum voru farnir að kvarta út af ljósleysinu og sumarið 1896 var danskur vitafræðingur T.N. Brinch kvaddur til landsins til að kanna ástandið. Brinch kom með tillögu að endurnýjun ljósabúnaðar, vita með snúningsljósi á Garðskaga, hornvita á Gróttu við innsiglinguna til Reykjavíkur. Einnig voru samþykktir, samkvæmt hans ráði, vitar við innsiglinguna við Reykjavík og Hafnarfjörð. Þessar framkvæmdir voru framkvæmdar sumarið 1897 undir stjórn Brinch vitafræðings auk þess sem það var samþykkt að ráða vitaeftirlitsmann sem sæi um eftirlit með viðhaldi og rekstri vitanna. Í sumum tilfellum bjuggu vitaverðirnir á svokölluðum vitajörðum þar sem þeir gátu drýgt tekjur sínar með hlunnindum af jörðinni og stundum fiskveiðum. Lítið gerðist í vitamálum næstu árin.
Fyrsti vitinn í einkaframkvæmd
Austfirðingar vildu fá vita til sín en töluðu fyrir daufum eyrum. Þá tók Otto Wathne, útgerðarmaður á Seyðisfirði, sig til og lét byggja vita á sinn eigin kostnað 1895 á Dalatanga, en danska vitamálastjórnin lagði til ljósabúnað. Var vitinn starfræktur til 1908, en þá lét vitamálastjórnin reisa nýjan vita á Dalatanga.
Vitavæðing
Árið 1908 voru komnir vitar í alla landsfjórðunga og nokkrir litlir innsiglingarvitar hér og þar um landið. Hæðir og lægðir voru í byggingu vita næstu áratugina, aðallega vegna peningaskorts, stríðs og fleira. Á afskekktustu stöðunum voru reist íbúðarhús fyrir vitaverðina og þeirra fjölskyldur, annars var þeirra gætt af næstu bæjum. Með fjölgun vitanna var gert út sérstakt vitaskip sem sá um að þjónusta vitana. Með tilkomu Veðurstofu Íslanda urðu vitaverðir fastir veðurathugunarmenn og drýgði það aðeins tekjur þeirra en krafðist líka mikillar yfirlegu og nákvæmni. Um þarsíðustu aldamót voru vitarnir 5 að tölu en uppbyggingu vitakerfisins lauk með byggingu Hrollaugseyjavita árið 1954 en þá var ljósvitahringnum um landið lokað.
Gróttuviti.
Í dag er fjöldi ljósvita við strendur landsins alls 104. Í dag fá flestir ljósvitaanna 104 orku sína frá rafmagni, samveitum, eða rafgeymum. Sólarorkan sér um að knýja 41 vita. Hvaleyrarviti í Hvalfirði er eini vitinn sem enn er með gasljósi. Starfsmenn Siglingarstofnunar sinna viðhaldi vitanna og baujanna fyrir utan innsiglingar og hafnarvita sem eru í eigu og umsjón sveitarfélaga. Öryggishlutverki vitanna má skipta í þrennt. Þeir leiðbeina um staðsetningu, vara við siglingahættum og vísa leið inn á hafnir og skipalægi.“
Heimild:
-Wikipedia.org
Reykjanesviti á Valahnúk.
Vatnafjallakofinn
Snemma árs 1897 fóru bræðurnir Þorsteinn Kjarval og Ingimundur fiðla fótgangandi úr Ölfusi yfir Hellisheiði.
Vatna-sæluhúsið við Sandskeið.
Þeir sungu sálma á leiðinni að Kolviðarhóli þar sem þeir gistu; næsta dag lentu þeir í blindbyl í Svínahrauni og var nauðugur einn kostur að gista í Vatnakofanum, rústir hans eru örskammt frá vegamótum Suðurlandsvegar og Bláfjallavegar, sjá ljósmynd.
Í þessari fjallaferð var Ingimundur fiðlulaus en sálmasöngurinn brást þeim bræðrum ekki; vindgígjan annaðist undirleikinn. Morguninn eftir var komið sæmilegt veður og næturgestirnir í húsi sælunnar héldu áfram för sinni í áttina að höfuðstað Íslands.
Vatna-Sæluhúsið við Sandskeið.
Skógarnytjar
Jón Karlsson frá Gýgjarhólskoti skrifar um „Skógarnytjar“ í Litla Bergþór árið 1999:
Birkiskógur.
„Vafalaust hefur skógur verið notaður hér á landi allt frá landnámi og fram á tækniöld, þó það hlyti að dragast saman eftir því sem skógarnir gengu til þurrðar og líklegt má telja að vinnubrögð og nýting hafi yfirleitt verið með svipuðum hætti. Lítið mun vera til af heimildum um þennan þátt í atvinnusögu þjóðarinnar og ekki minjar nema axir og axarblöð og svo reipi, reiðingar og klyfberar, sem jafnframt var notað við heyskap og aðra flutninga, en miklu meira er um heimildir um þau vinnubrögð bæði í máli og myndum.
Á fjórða og fimmta áratug þessarar aldar kynntist ég nokkuð nýtingu birkiskóga eins og tíðkast hafði frá ómunatíð en var að hverfa við breytta þjóðlífshætti. Til ársins 1943 átti ég heima í Efstadal í Laugardal, einni víðlendustu skógarjörð í héraðinu og líklega þó víðar væri leitað. Þar sem við, sem munum þessa tíma, erum nú hver af öðrum ýmist að varða gamalærir eða fara í gröfina, vil ég reyna að festa á blað það sem ég man um þessi efni, bæði hvernig staðið var að verki við að afla skógarins og hvernig hann var notaður. Þá var þó hætt að fella skóginn með öxi en farið að nota skógarklippur, en allt var flutt heim á reiðingshestum. Venjulega var farið fyrst með klippurnar og skógurinn tekinn upp eða felldur eins og það var líka nefnt. Ef kostur var á að hafa með sér ungling eða liðlétting þótti gott að láta raða saman nokkrum hríslum í knippi eins og þær áttu að liggja í bagganum svo fljótlegra væri að leggja í baggann þegar bundið var.
Reipi.
Nauðsynlegt var að leggja rétt í baggann og áttu allir lurkar að snúa eins og ná jafnlangt fram. Þar sem nær allar birkihríslur eru bognar áttu þær allar að snúa kryppunni upp þannig að bagginn yrði bungumyndaður og átti reipissilinn að vera á bungunni á bagganum, annars rákust lurkarnir í hausinn á hestinum. Þá þurfti að gæta þess að láta reipin snúa sitt á hvað svo baggarnir ættu hvor sínu megin á hestinum. Einhvern veginn sáu menn út hvenær bagginn var orðinn hæfilega stór og var þá reipið lagt yfir hann, dregið í hagldir og hert og síðan farið með töglin út fyrir endana á bagganum sitt hvoru megin ef tveir bundu saman. Síðan var töglunum brugðið í reipið á baki baggans og hert þar í en ekki bundin saman bakreipin eins og á heysátu. Væri skógurinn hávaxinn, þannig að bagginn yrði langur og mjór, var reiptaglinu stundum brugðið utan um hann aftur nær endanum og hert þar að en ekki lagt út fyrir endann á honum. Ef einn maður batt skógarbagga þá herti hann fyrst taglið sem nær var liminu og fullgekk frá því og síðar því sem nær var lurkunum. Þegar skógarbaggar voru látnir upp á hesta voru lurkarnir látnir snúa fram og upp. Var gengið undir baggann, hann reistur upp á endann með limið niður, staðið fram með hestinum með aðra hendina á reipissilanum og honum krækt á klakkinn. Ef baggarnir voru langir dróst limið við jörð en lurkarnir stóðu upp fyrir haus á hestinum.
Klyfberi með reiðing.
Fyrst var látið upp á aftasta hestinn í lestinni því hestur með böggum gat ekki gengið á milli bagganna sem búið var að færa saman tvo og tvo til að láta þá upp.
Skógurinn var að langmestu leyti notaður til eldsneytis og þótti best að nokkuð mikið væri af lurkum, limið þótti lélegt eldsneyti, þótti fuðra fljótt upp og gefa lítinn hita. Var stundum sagt að það væri eintómt helvítis brum. Því var sóst eftir að taka skóg þar sem hann var fremur stórvaxinn, en í Efstadalsskógi var lítið um mjög stórar hríslur með sverum lurkum. Skógurinn hefur kannski verið of þéttur til að hríslurnar næðu þroska og yfirleitt náðist að fella þær með skógarklippunum. Menn höfðu líka furðanlegt lag á að jaga utan úr stofninum með klippukjaftinum þar til hann náði að gapa utan um lurkinn. Stundum kom fyrir að klippuskaftið var brotið við þessi átök og var þá einhvern veginn losaður lurkur sem nota mætti í nýtt skaft, farið með hann heim ásamt brotnu klippunum og smíðað nýtt skaft. Nauðsynlegt þótti að hafa skán (sauðatað) í eldinn með birkiskóginum, en hún brann hægar og logaði lengur og var kallað eldfesta.
Klyfberi.
Skógur var notaður við að þurrka skánina og var þá sett lag af skógi á jörðina, svona meters breið röst, síðan lag af skán og svo skógur og skán á víxl þar til kominn var hæfilega hár hraukur. Efst var sett nokkuð þykkt lag af skógi og látinn mynda hrygg. Svo var þakið með torfi, eða kannski þakjárni ef það var til síðustu árin sem þetta tíðkaðist. Mór var þurrkaður með sama hætti þar sem bæði var kostur á mó og skógi. Viðurinn úr hrauknum var þurrari en annar viður, nefndur skánarviður og þótti góður til uppkveikju. Viðurinn var kurlaður niður með skógarklippunum svo hann kæmist í það eldstæði sem kynda átti. Reynt var að geyma eldivið inni eftir því sem húspláss leyfði og þurfti þá að kurla hann eitthvað niður til að nota plássið. Þá var skógur notaður undir torf á fénaðarhúsum og var þá nefndur raftur eða raftviður. Var smíðuð grind úr timbri, sperrur og langbönd, og síðan raðað á það skógi og reynt að gera þétt og slétt yfirborð eins og hægt var. Erfitt var að leggja það úr kræklóttum viði og var helst reynt að finna skóg sem hafði þrúgast niður undan snjóþyngslum svo hríslurnar lágu flatar með jörðinni. Illa munu þessi þök hafa enst því rafturinn var alltaf blautur undir torfinu og fúnaði fljótt enda var þetta að mestu niðurlagt fyrir mitt minni.
Torfljár.
Algengt var að nota skóg sem aðhald við aðrekstra á fé og var þá böggunum raðað saman án þess að sundra þeim. Stundum voru líka gerðar fjárréttir með þessum hætti, en fé sem vant var að ganga í skógi var nokkuð áleitið að smjúga út úr þess háttar réttum. Einnig þótti sjálfsagt og nauðsynlegt að raða skógi kringum útihey, bæði til skjóls og til að verja þau fyrir skepnum. Allt var þetta síðan notað í eldinn þegar það hafði lokið þessu bráðabirgðahlutverki.
Ásmundur Þorleifsson, sem lengi bjó í Efstadal, mun hafa gert lítið eitt til kola eftir 1920. Reiddi þá skóginn heim ólurkaðan með liminu og gaf nautgripum limið, en hann var þá með smábúskap á litlum parti af jörðinni, háaldraður maður.
Birkilurkar ofan við Kerin.
Lítilsháttar var smíðað úr birkilurkum, svo sem hagldir á reipi, sköft á heykróka, skammorf á torfljái, klyfberabogar, aktygjaklafar og fleira smálegt. Þá voru bundnar saman mjúkar greinar í vendi til að sópa hlöðugólf og annað því um líkt og voru þeir nefndir sóflar. Þá var og sjálfsagt að hafa hríslu í hendinni hvort sem reka þurfti skepnur eða hvetja latan reiðskjóta. Einnig var mikilvægt fyrir börn og unglinga að hafa frjálsan aðgang að þessum smíðaviði þegar annað timbur var tæplega til. Börkur af birki mun eitthvað hafa verið notaður til að lita föt og band til fatagerðar. Skógarnýra var einhvers konar æxlismyndun sem einstöku sinnum fannst á birkihríslum og var þjóðtrú að ekki yrði eldsvoði á bæ þar sem það væri geymt.
Mest var flutt heim af skógi á haustin til að hafa í eldinn yfir veturinn og minnir mig að talið væri þurfa eina 100 hestburði á hausti. Svo var alltaf tekið eitthvað á vorin líka í skánarhraukana, að fjárréttinni og til kyndingar við ullarþvott sem unninn var við læk fyrir utan tún. Heldur þótti skógarreiðslan fara illa með reipi og reiðinga. Aftur á móti var talið mjög gott að byrja að temja tryppi með því að reiða á þeim skóg, því þau sáu lítið nema aftan í næsta hest þegar búið var að láta upp á lestina.
Reipi með hagldir.
Fróðlegt væri að vita hvað mikið var tekið upp í Efstadalsskógi ár hvert, en það verður ágiskun. Tvíbýlt var á jörðinni og ef ætla mætti að 100 hestburðir væru fluttir heim á hvorum bæ að haustinu og auk þess nokkuð á vorin gætu það verið allt að 300 hestar samtals. Þá var sóttur skógur frá öðrum bæjum, Böðmóðsstöðum nokkuð, en ekki mjög mikið því hverinn sparaði mjög eldivið þar. Einnig var sóttur skógur frá Haga og Vatnsholti í Grímsnesi og eitthvað var flutt austur í Biskupstungur. Það gætu því hafa verið teknir 300 til 400 hestburðir á ári.
Hagldir.
Ekki held ég að þessi nýting hafi haft nein teljandi áhrif á vöxt skógarins í heild, kannski í fremur auðveldað honum að endurnýja sig. Kolagerð mun hafa lagst niður að mestu um 1870 og mun skógurinn hafa verið í stöðugum vexti síðan fram að þessum tíma, eða um 70 ára skeið. En á fimmta áratug aldarinnar gjörféllu víðáttumiklar skógarbreiður sem voru það langt frá bæ að þangað var hvorki sóttur skógur til eldiviðar né hann nýttur til vetrarbeitar. Skiptar skoðanir voru um hvað valda mundi. Sumir kenndu skógarmaðki, aðrir stórviðri. En Grímur Jónsson föðurbróðir minn, sem síðar bjó á Ketilvöllum og var manna gjörkunnugastur Efstadalsskógi, sagði mér að greina hefði mátt feigðarmerki á skóginum nokkrum árum áður en hann fór að fúna niður. Fúi hefði verið kominn í miðja lurkana, brúnleitur mergur, og áleit hann að skógurinn hefði nær allur vaxið upp samtímis eftir að kolagerð lagðist niður og því verið jafngamall og dáið úr elli.
Skógarnýra.
Árið 1943 fluttist ég með foreldrum mínum og systkinum að Gýgjarhólskoti í Biskupstungum. Nokkur fyrstu árin fengum við að taka smávegis af skógi í Einholtslandi. Þar var skógur ekki víðáttumikill en mun stærri hríslur og gildari stofnar en í Efstadalsskógi. Var sagt að skógurinn hefði verið grisjaður, líklega síðan fyrir aldamót, skildar eftir fallegustu hríslurnar en tekið frá þeim til að auka þeim vaxtarrými og var mælst til að við héldum sama verklagi.
Birkið ofan við Kerin í Undirhlíðum.
Nú eru þessir vöxtugu runnar ýmist gjörfallnir eða fúnir fauskar, en þar sem áður var smákjarr er að vaxa upp skógur. Víða eru smá birkihríslur að skjóta upp greinum sínum á skóglausum svæðum eftir að sauðfé fækkaði og vetrarbeit lagðist niður. Einnig bjóða framræstar mýrar upp á nýja möguleika og má sjá litlar birkihríslur á skurðbökkum til og frá. Virðist fræið geta borist nokkuð langar leiðir, sennilega með skafrenningi. Vafalaust tekur mjög langan tíma fyrir skóginn að klæða landið á ný og er mannsævi varla nema spölur í þeirri vegferð.
Þetta hef ég verið að skrifa upp í smáköflum veturinn 1998 til ’99, en Inga Kristjánsdóttir frá Gýgjarhóli aðstoðaði mig við að raða efninu saman og setja í tölvu. Kannski mætti enda pistilinn á stöku sem ég gerði á ári trésins:
Yndi vekur öllum hjá
iðgrænn skógur fríður.
Hríslu þarf í hendi sá
sem hesti lötum ríður.“ – Jón Karlsson, Gýgjarhólskoti.
Heimild:
-Litli Bergþór – 2. tölublað (01.07.1999), Jón Karlsson frá Gýgjarhólskoti; „Skógarnytjar“, bls. 20-21.
Undirhlíðar – Stóri-Skógarhvammur.
Vatnsból og brunnar
Skrifað var um „Vatnsból og brunna“ í Eir árið 1899:
Gvendarbrunnur við Alfaraleiðina.
„Neysluvatn á að vera boðlegt til drykkjar og óskaðvænt heilsu manna. Vatnið er því að eins boðlegt til drykkjar, að það sé bragðgott, litlaust, tært og lyktarlaust og hæfilega kalt bæði sumar og vetur. Vatnið er gómtamara ef ögn er í því af kolsýru (uppsprettuvatn). Vatnið er óskaðvænt heilsu manna, ef ekki eru saman við það nein þau efni, dauð eða lifandi, er sýkt geti líkamann, ef vatnsins er neytt, en um þetta verður oft ekki dæmt í fljótu bragði; þarf til þess nákvæma efna- og gerlarannsókn.
Hvergi á jörðunni finnum vér alvog hreint vatn. Á leiðinni úr skýjunum niður á jörðina tekur regnvatnið i sig ýmis efni úr loftinu, bæði loftkennd efni, ryk og gerla; þá er niður er komið, fær vatnið í sig ýmis efni úr jarðveginum, leysir þau upp, eða blandast þeim.
Vatnsból.
Eyjólfur Sæmundsson í vatnsstæði Straumssels.
Ár og vötn eru ekki hentug vatnsból. Vatnið verður oft of volgt á sumrum, og of kalt á vetrum. Í leysingum og úrkomutíð verður það óhreint (gruggugt, skolótt); loks er hætt við, að saurindi komist i það, ef mikil byggð er nærri. Skal jafnan gæta þess, að hafa ekki peningshús, hauga eða forir nærri bæjarlæknum, fyrir ofan þann stað, þar sem vatn er sótt í hann.
Jarðvatn er besta neysluvatnið; það er hreinast og jafnkaldast. Viða kemur það sjálfkrafa upp úr eða út úr jörðinni; það köllum vér uppsprettur eða lindir. Vatnið í þeim ei álíka kalt sumar og vetur, aldrei volgt á sumrum, aldrei ískalt á vetrum. Er hitinn í þessu vatni mjög líkur meðalárs-hitanum i héraðinu kring um uppsprettuna. Lindirnar frjósa þess vegna ekki á veturna og eru því oft kallaðar kaldavermsli. Lindirnar gruggast ekki í leysingum á vorin; þær eru jafn-hreinar allan ársins tíma. Lindir eru því miklu betri vatnsból en ár og lækir, og lindarvatn er besta, hreinasta og ljúffengasta vatnið, sem hægt er að fá.
Lind á Gufuskálum – við bæ Steinunnar gömlu?
Þar sem engar lindir eru, má engu að síður víðast hvar ná i jarðvatnið, ef jarðvegurinn er þannig gerður, að hægt er að vinna hann og vatnið ekki afar-djúpt í jörðunni; ekki þarf annað en gera gang beint niður í jarðveginn, þar til er kemur niður í jarðvatnið. Jarðvatnið safnast þá á gangbotninn.
Slíka ganga köllum vér brunna. Þeir eru tvenns konar, leggbrunnar og strokkbrunnar. Það or strokkbrunnur, ef gangur er grafinn niður í jarðveginn, en leggbrunnur ef járnpípa er rekin niður í jörðina. Allir brunnar hór á landi eru strokkbrunnar, enginn leggbrunnur til. Strokkbrunnar eiga að vora hlaðnir innan úr grjóti, og er mjög áríðandi, að hleðslan sé vatnsheld, til þess að óhreina vatnið í efstu jarðlögunum (leysingavatn, regnvatn) komist ekki inn í gegn um hleðsluna og niður í brunninn. Ef brunnurinn or mjög grunnur, 4 – 8 fet, og byggt ból í kring, þá er ávalt hætt við, að óhreinindi geti komist niður í jarðvegsvatnið kringum brunninn og runnið inn í hann undir hleðsluna. Ef kostur er á vatni djúpt í jörðu, 20—40 fet eða meira, og brunnurinn gerður svo djúpur, þá má treysta því, að vatnið sé hreint. í hleðsluna er ýmist hafður grásteinn eða múrsteinn og bor jafnan að líma stein við stein með steinlími (sementi).
Dæmigerður grafinn brunnur á Reykjanesskaga – við Norðurkot.
Hér á landi er víðast siður að sækja vatn í brunna á þann hátt. að sökkva fötu niður í brunninn og vega hana upp á handafli eða með vindu. Brunnurinn er þá opinn og engin trygging fyrir því, að óhreinindi geti ekki komist niður í hann.
Bakkabrunnur á Vatnsleysuströnd.
Brunnar eiga jafnan að vera lokaðir; skal hafa vatnsheldan hlemm yfir brunnopinu og vatnsdælu gegn um hann miðjan til þess að ná upp vatninu. Ef hlemmurinn fellur alveg loftþétt að brunnopinu (i frostum á veturna) og dælt er úr brunninum nokkuð að mun, þá hættir vatn að koma úr dælunni innan skamms af því að ekki kemst loft niður í brunninn í stað vatnsins, sem tekið er. Þess vegna á að vera strompur gegn um hlemminn við hliðina á dælunni og burst yfir strompinum; þessi strompur er líka nauðsynlegur til þess að óhreint loft
safnist ekki í brunninn.
En ekki er allt fengið þó að vatnið sé nógu mikið, það verður líka, heilsunnar vegna, að vera hreint og óskaðvænt og vera ljúffengast. Besti svaladrykkur í heimi er vatn, blákalt vatn. – G. B. “
Sjá MYNDIR af brunnum á Reykjanesskaga.
Heimild:
-Eir – 9. tölublað (01.09.1899), G.B.; Vatnsból og brunnar, bls. 129-137.
Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.
Daniel Bruun
Í kynningu bókar Daniels Bruun; „Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár„, segir m.a.:
„Daniel Bruun hefur skynjað að hann varð hér vitni að einstæðri þjóðfélagsbreytingu, með þjóð sem hafði staðið nánast í sömu sporunum hvað snerti verkhætti í 1000 ár. Hér var þjóðfélag að ganga úr álögum, ef svo má segja, kasta af sér miðaldaham.
Og þá kom mér í hug orð gamla bóndans, sem sagði við ungan arftaka sinn: Milli mín og þín eru þúsund ár, en milli mín og Egils Skallagrímssonar eru aðeins fáein ár.“
Svo fórust Þór Magnússyni, þjóðminjaverði, m.a. orð er hann opnaði sýningu um þjóðfræðinginn og fornleifafræðinginn Daniel Bruun í Bogasal Þjóðminjasafns Íslands í síðasta mánuði. Tilefni sýningarinnar var útkoma bókarinnar Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár – frá landnámi til loka 19. aldar eftir Bruun í þýðingu Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum. í bókinni, sem kom fyrst út á dönsku um síðustu aldamót, eru á áttunda hundrað teikningar og ljósmyndir eftir höfundinn, en Daniel Bruun var einn af brautryðjendum í rannsóknum menningarminja á Íslandi. Grípum aftur niður í erindi Þórs Magnússonar, en hann ritar einnig formála að bókinni, sem bókaforlagið Örn og Örlygur gefur út.
Rit Daniels Bruun um búsetu Íslendinga á Grænlandi.
„Daniel Bruun var einn mikilvirkasti og merkasti rannsakandi hins gamla íslenska þjóðfélags fyrir daga hinnar miklu þjóðfélagsbyltingar… Hann hafði á fyrri árum fengist við fornleifarannsóknir á Grænlandi og síðan beindist áhugi hans að Íslandi.
Hann ferðaðist um ísland ásamt fylgdarmönnum sínum, um byggð og óbyggð, kannaði landið en kannaði ekki síst þjóðlífið, hið gamla, íslenska þjóðlíf, sem hann sá manna bezt að var þá óðum að þoka fyrir nýjum þjóðfélagsháttum. – Gömlu torfbæirnir þokuðu fyrir timburhúsum og jafnvel steinhúsum í sveit og bæ, seljabúskapur var því nær alveg horfinn, hestakerrur fóru að koma til sögu og menn þurftu þá ekki lengur að hefja allar byrðar á klakk, og jafnvel sá hilla undir bílaöld með sinni ómældu breytingu. Gufuskip voru að komast í eigu landsmanna og fyrsti vélbáturinn var tekinn í notkun um aldamótin. Farið var að smíða brýr á vatnsmestu fljótin og leggja vagnvegi þar sem áður voru aðeins hestagötur…
Daniel Bruun 1910.
Daniel Bruun heillaðist fyrst af fornleifafræðinni og fyrstu rannsóknir hans hérlendis beindust einkum að uppgreftri fornrústa, hofa og hörga, sem menn töldu svo vera, rústa af bæjum og öðrum mannvirkjum, sem tengdust landnáms- og söguöld. En það sést glöggt að brátt beindist áhugi hans ekki sízt að því þjóðlífi, sem þá gat enn að líta en var senn að kveðja, og hann virðist þá hafa einbeitt sér að því að skrá og skýra frá mannlífinu í landinu eins og það var þá… Og hér á sýningunni má einkum sjá ljósmyndir og teikningar og vatnslitamyndir þeirra Daniels Bruun og Johannesar Klein auk mynda annarra ljósmynda, sem Daniel Bruun hefur aflað á ferðum sínum. En allt beindist þetta að sama marki, að bjarga og varðveita heimildir um þetta fornlega þjóðfélag á hjara heims, sem hafði að geyma svo mörg einkenni járnaldar í Evrópu, sem þá var þar löngu um garð gengin.
Er við litumst um hér á sýningunni sjáum við hvarvetna hvernig áhugasvið Daniels Bruun birtist. Og við getum ekki annað en heillast af því sem honum varð starsýnast á og vildi festa á filmu fyrir eftirkomendur okkar… Maður verður meira en lítið snortinn við að virða fyrir sér myndir eins og t.d. af þeim nafnkennda klerki sr. Þorvaldi á Melstað stíga á bak blesótta klárnum sínum, eða Eggert í Helguhvammi spila á langspilið sitt, Indriða bónda í Gilhaga fara yfir Svartá með hund sinn á lendinni á klárnum eða myndina af mjaltastúlkunni Svanfríði Jóhannesdóttur í Bárðardal, sem gengur heim af stöðli með mjólkurföturnar í grind, en sú mynd prýðir bæði auglýsingamyndsýningarinnar og hlífðarhylki bókarinnar…
Mér hefur alltaf fundist, frá því ég sá þessa mynd fyrst, að hér hafi ljósmyndarinn hitt á það augnablik óskastundarinnar eins og Sigurður Sigurðsson segir í kvæði sínu: Sól, stattu kyrr… Hér segir Daniel Bruun: „Andartak, stattu kyrrt. – Og þar með er það orðið eilíft.“
Eitt af mörgum ritum Daniels Bruun.
Flestir Íslendingar, sem útivistum og ferðalögum unna og eitthvað hafa lesið um þau efni, munu kannast vel við Daniel Bruun höfuðsmann, sem oft og mörgum sinnum hefir ferðast um hér á landi og skrifað margar gagnlegar og góðar bækur um ferðalög á íslandi og náttúru þess. Hann lést að heimili sínu í Hellerup í Danmörku á þessu hausti, 75 ára að aldri.
Daniel Bruun var mjög víðförull maður. Strax á unga aldri ferðaðist hann til Afríku og skrifaði síðar bók um þá ferð, er hann nefndi »Algier og Sahara«. Eftir að hafa ferðast víða um suðurlönd, hneigðist hugur hans norður á bóginn og fór hann síðan margar ferðir til Íslands og Grænlands og virðist, eftir bókum hans að dæma, að hin norðlægari lönd hafi síst hrifið hann minna en hin suðlægari. Helstu bækurnar, sem hann hefir ritað um ferðir sínar á norðurhveli jarðar, eru: »Det höjeNord«, »Erik den röde«, »Turistruter paa Island« og »Fortidsminder og Nutidshjem paa Island«.
Daniel Bruun var maður vel menntaður og fer saman í öllum hans frásögum fróðleikur og fagurt mál. Einnig var hann ágætur teiknari og eru flestar ferðabækur hans prýddar teikningum eftir hann sjálfan.
Daniel Bruun.
Það þarf ekki lengi að lesa bækur Bruun’s til þess að finna, hve hlýtt honum var til íslensku þjóðarinnar og hve mikil ítök náttúra landsins átti í huga hans og hjarta.
Eitt sinn mættust þeir Bruun og F. W. Howell í óbyggðum uppi. Þeir slógu upp tjöldum sínum og dvöldu saman næturlangt. Í bók sinni »Det höje Nord«, lýsir Bruun þessum samvistum þeirra þannig: »Það leið á kvöldið. Samferðamennirnir voru þreyttir og gengu til hvíldar í tjald sitt. En við Howell sátum lengi í tjaldi hans og ræddum um þetta dýrlega land, þar sem sjóndeildarhringurinn virtist óendanlega langt í burtu. —
Rit Daniels Bruun um hálendi Íslands 1907.
Þetta land, sem við elskum báðir, því þar nutum við frjálsir og glaðir hinnar mikilfenglegu náttúru þess. Við skiptumst á lýsingum af landfræðilegum staðháttum. Howell var Englendingur. Hann hafði yndi af að ferðast hér á landi og kom hingað sumar eftir sumar. Hann var djarfur og athugull ferðamaður og fór til ýmissa þeirra staða hér á landi, sem menn höfðu sjaldan eða aldrei komið á áður.
Hann fór t. d. fyrstur manna (ásamt tveim Englendingum og tveim Íslendingum) yfir Langjökul (1899), á svipuðum stað og skátarnir fóru í sumar, Svo sorglega tókst til, að eitt sinn, er Howell, ásamt fylgdarmönnum sínum, var á ferð í Skagafirði (sumarið 1901) drukknaði hann í á einni, er þeir ætluðu að ríða yfir. Fylgdarmenn hans voru búnir að finna vaðið á ánni, og voru um það bil að leggja í hana með baggahestana, þá leggur Howell i ána á hesti sínum, en mun hafa farið litið eitt afvega, svo straumurinn hrifsaði bæði hestinn og manninn, og náðist ekki í Howeli, fyr en hann var látinn.
Hinar mörgu lýsingar, sem Daniel Bruun hefir skrifað um íslenska fjallvegi þykja bæði glöggar og réttar og koma enn að góðu gagni innlendum og erlendum ferðamönnum. Hann hefir og gert uppdrátt af Íslandi, sem var gefinn út árið 1913 með styrk úr landssjóði Íslands.
Mynd; Daniel Bruun.
Bruun þótti maður viðkynningargóður og hefir eflaust eignast marga vini hér á landi. Hans hefir þó ekkert verið getið hér á prenti, svo teljandi sje, síðan hann lést, en vel virðist það eiga við, að eitthvert hinna íslensku tímarita birti nú frásögn um ævistörf hans.
Ég hefi að eins kynst Daniel Bruun í gegnum bækur hans og svo mun um fjölda Íslendinga. Eftir þá viðkynningu munu allir sammála um, að við andlát hans hafi fallið í valinn óvenju þrekmikill, drenglyndur og gáfaður máður, sem okkur Íslendingum ber að minnast með þakklæti fyrir það, sem hann hefir fyrir okkur gert.
Árið 1929 var hann gerður að heiðursfélaga í Ferðafélagi Íslands.
Daniel Bruun lætur eftir sig ekkju og tvo uppkomna syni, Frantz og Erling að nafni.
Amildklaustur í Viborg 1909.
Hermaðurinn, Daniel Bruun, var ungur liðsforingi í danska hernum, fornleifafræðingur og rithöfundur. Hann fæddist 27. janúar 1856 í Asmild-klaustri nálægt Viborg á Jótlandi. Faðir hans var þar grósseigandi og mikilsmetinn maður.
Bruun var alinn upp við ósnortna heiðanáttúru og naut hann mikils frjálsræðis í æsku. Hann var að eigin sögn óstýrilátur og hafði lítinn áhuga á skólabókarlærdómi en var haldinn sterkri útþrá og ævintýralöngun. Hann var stuttan tíma við nám í latínuskólanum í Viborg en réðst í siglingu 16 ára gamall. Komst hann í sinni fyrstu ferð allt suður til Höfðaborgar í Suður-Afríku.
Mynd; Daniel Bruun.
Síðan fékkst hann við eitt og annað þangað til hann settist í liðsforingaskólann danska. Hann varð lautinant í hernum 1879 og gegndi þar ýmsum störfum og varð höfuðsmaður er tímar liðu. Hann lét ekki af herþjónustu fyrr en 1918 en þá hafði hann verið sjálfboðaliði á styrjaldarárunum 1914 til 1918. Á sínum herþjónustuárum fór Bruun ýmsa hliðarkróka eins og í rannsóknarferðir til Grænlands og íslands, var í tvö ár í Útlendingahersveitinni frönsku í Alsír, fór rannsóknarferðir til afskekktustu svæða Túnis og Mansjúríu og var stríðsfréttaritari Berlingske Tidende í Mansjúríu í stríðinu milli Rússa og Japana 1904.
Frá því á unga aldri vakti fornleifafræðin áhuga hans og allt það sem henni við kom. Hann hefur sennilega erft þennan áhuga frá föður sínum því sá hafði mikinn hug á fornleifarannsóknum. Þá spilaði líka inní að í héraðinu kringum Viborg voru sífellt að finnast fornleifar frá fornsögulegum tíma. Með því öllu fylgdist Bruun og var hann skipaður eftirlitsmaður með öllu slíku af hálfu Þjóðminjasafnsins danska, þegar hann gegndi störfum fyrir her og lögreglu. Aldrei nam hann fornleifafræðin í háskóla en hann las allt sem hann náði í um fræðin og varð hinn lærðasti á fornleifasviðinu. Fornleifafræðin beindi hug hans til Grænlands og þangað ferðaðist hann, fyrst 1894 um Eystri byggð og seinna um Vestri byggð 1903. Á Grænlandi er margt minja frá Íslendingabyggðinni fornu en í ferðum sínum kannaði Bruun fjölda bæjarrústa í hinum fornu byggðum Grænlendinga og vann aðallega við rannsóknir á húsagerð þeirra. Bruun varð brautryðjandi í fornleifarannsóknum á Grænlandi.
Brynjúlfur Jónsson, skáld og fræðimaður, bjó í Gerðiskoti frá 1911 með syni sínum Degi Brynjúlfssyni búfræðingi (síðar oddvita í Gaulverjabæ) er hóf búskap á jörðinni 1907. Kona Dags var Þórlaug Bjarnadóttir (1880-1966) frá Sviðugörðum í Gaulverjabæjarhreppi. Brynjúlfur kvæntist aldrei, en hann átti Dag með stúlku, Guðrúnu að nafni Gísladóttir, frá Káragerði í V.-landeyjum. Brynjúlfur er fæddur að Minna-Núpi í Gnúpverjahreppi í Árnessýslu 26. sept. 1838. Foreldrar hans voru Jón Brynjúlfsson og Margrét Jónsdóttir, er lengi bjuggu að Minna-Núpi. Brynjúlfur er kominn í beinan karllegg frá Þorláki biskupi Skúlasyni, en móðir afa hans var dóttir Halldórs biskups Brynjúlfssonar. 17 ára fór hann fyrst til sjóróðra, og reri upp frá því 13 vetrarvertíðir, flestar í Grindavík og nokkrar vorvertíðir í Reykjavík. Þar komst hann í kynni við ýmsa menntamenn, og má helst til þess nefna dr. Jón Hjaltalín landlækni Árna Thorsteinsson landfógeta, Jón Pjetursson yfirdómara, Jón Árnason bókavörð og Sigurð Guðmundsson málara. Þeir tveir er fyrst voru nefndir vöktu áhuga hans á ýmsum greinum náttúrufræðinnar, en hinir þrír á fornum fræðum íslenskum: ættvísi, þjóðsögum og fornmenjarannsóknum. Þá kom það fyrir vorið 1866, að hann missti snögglega heilsuna. Var það helst kennt bilun við byltu af hestbaki. Heilsubilun þessi lýsti sér einkum í magnleysi, er kvað svo ramt að, að hann mátti ekkert á sig reyna. Þótt hann að nafninu til væri oftast á ferli, átti hann erfitt með allan gang og riðaði sem dauðadrukkinn maður; gat hann og hvorki klætt sig né afklætt sjálfur, né heldur lesið eða skrifað og þegar hann aftur styrktist svo mikið að hann fór að geta lesið og skrifað þá gat hann það þó því að eins að hann héldi bókinni eða blaðinu og skriffærunum beint fram undan augunum. Smám saman komst hann aftur til nokkurn veginn heilsu, en um venjulega líkamsáreynslu var ekki framar að tala. En þá kom fróðleikur sá er hann hafði aflað sér honum að notum. Stundaði hann þá barnakennslu nokkra vetur á Eyrarbakka og las og samdi ýmislegt í hjáverkum. En á sumrin ferðaðist hann á milli kunningjanna. Árið 1892 komst hann svo í þjónustu Fornleifafélagsins. Síðar fékk hann titilinn „dannebrogsmaður“. Brynjúlfur lést úr lungnabólgu 1914. En það ár flytja Dagur og Þórlaug frá Gerðiskoti. Upp frá því lagðist Gerðiskot í eiði en nokkrar deilur hafa spunnist um landamerki á þessum slóðum, en Eyrarbakkahreppur keypti jörðina þegar hún féll úr ábúð. Teikningin er eftir Daniel Bruun. Heimild: -Tímaritið Óðinn 01.10.1908 og 01.11.1916. Alþýðublaðið , 223. Tölublað. 1961 Konur fyrir rétti eftir Jón Óskar. Frjáls Þjóð 1959 Alþýðubl. 10.9.1947 & 5.10.1961 Morgunbl. 297 tbl. 1983.
Upphaf rannsókna Bruuns á Íslandi er rakið til rannsókna hans á Grænlandi 1894. Á Grænlandi heppnaðist honum að finna hvernig fornbýlin hefðu verið gerð, byggingarlag og húsaskipan og byggingarefni og tókst honum einnig að finna marga hina fornu kirkjustaði og leiða rök að hvar hin fornu höfuðból Brattahlíð og Garðar hefðu verið. Fundir Bruuns á Grænlandi vöktu athygli í Danmörku og hann afréð að sækja um rannsóknarstyrk til dönsku stjórnarinnar svo hann mætti kanna fornleifar á Íslandi því þar voru enn til bæir af sömu gerð og voru fyrir mörg hundruð árum og rústir eyðibýla frá fornöld. Margt þóttist hann geta fundið í Noregi og í Færeyjum, en á Íslandi mest.
Mynd; Daniel Bruun.
Það var sumarið 1896, sem Bruun fór fyrstu ferð sína til Íslands. Fór hann víða um land, en skoðaði fátt til hlítar heldur undirbjó hann jarðveginn undir framhaldsrannsóknir. Verkefnið var stærra en hann hafði búist við í fyrstu því það snerist ekki eingöngu um fornleifakönnun heldur einnig um könnun á húsagerð seinni alda og síðasta hluta 19. aldarinnar og rekja eftir því þróunarsögu húsagerðar á Íslandi. Húsunum tengdust ótalmörg atriði menningarsögunnar, búskaparhættir, mataræði, ferðalög og klæðnaður og ýmislegt fleira.
Eina farartækið í þá daga var hesturinn og með tilliti til þess og að landið var vega- og brúarlaust að mestu, vekur það furðu manna hve víða Bruun fór hverju sinni. Íslendingar vissu naumast hvað vegur var og segir Bruun á einum stað af konu einni, sem fór um nýlagðan veg yfir flóasund. Lét kerling illa af ferð sinni, hesturinn hafði legið á kviði hvað eftir annað og hún varla komist leiðar sinnar og svo spurði hún til hvers garðurinn væri, sem lá með fram veginum. Þessi garður, sem kerling átti við, var nýi vegurinn en hún hafði riðið eftir brautarskurð. Seyðisfjörður var fyrsti viðkomustaður Bruuns á Íslandi en á meðan hann dvaldist þar gekk hann um og teiknaði umhverfið.
Uppdráttur Daniels Bruun og Finns Jónssonar af verslunarstaðnum á Gásum við Eyjafjörð 1907.
Fyrsta landferð Bruuns var frá Húsavík til Mývatns og var þá fylgdarmaður hans Guðmundur nokkur Magnússon. Bruun leist ekki betur en svo á manninn að hann lét hann fara þegar þeir komu á Akureyri. Það er misjafnt hvað Bruun þykir um Íslendinga ef marka má fyrstu dagbók hans af íslandi. Hann hefur miklar mætur á einstökum mönnum. Þannig er Stefán Stefánsson kennari á Möðruvöllum „glæsilegur ungur maður, hagsýnn og vísindamaður í senn,“ séra Árni á Skútustöðum, „geðfelldur og gáfaður“, bændurnir Björn og Páll á Hofstöðum við Mývatn „hjálpsamir og elskulegir menn“. Það voru þó ekki allir sem fengu þessar ágætiseinkunnir hjá Bruun og er að sjá sem aðrir hafi reynst honum verr. Bruun skrifar: „Margir Íslendingar eru furðulegur skríll, ruddalegir og ryðjast inn á mann feimnislaust, blístara, hrækja allt í kringum sig, en gestrisnir eru þeir við alla, og allir virðast jafnir í þeirra augum, fylgdarmaðurinn jafnt og fararstjórinn.“ Þegar leið á átti hið gagnstæða eftir að verða uppi á teningnum þegar Bruun ræðir um Íslendinga en ef hann hefði ekki komið oftar til Íslands hefðu Íslendingar setið uppi með þennan dóm.
Bruun fór víða um landið í sinni fyrstu ferð. Hann ferðaðist mikið um Suðurlandið og austur með. Kom á Þingvelli, í Skálholt og á Reyki á Skeiðum og hafði m.a. náttstað á Stóra-Núpi. Þar bjó séra Valdimar Briem en hann var vinur Björns M. Ólsens rektors sem var Bruun samferða. Það fóru fram fjörugar samræður þetta kvöld á Stóra-Núpi á skrifstofu prestsins og að þeim loknum fóru menn að sofa. Rétt áður er þeir festu svefn ræddu þeir félagarnir um hvað það væri gott og notalegt að dveljast í íslensku torfbæjunum. Síðan sofnuðu þeir í næturkyrrðinni grunlausir um að áður en mánuðinum lyki hefðu jarðskjálftar lagt setrið í rúst og svift fólkið húsaskjóli.
Frá Stóra-Núpi hélt Bruun einn síns liðs inn í Þjórsárdalinn og gisti þar að Ásólfsstöðum. Hann segir svo frá: „Fólkið var að heyskap en stúlkur mjólkuðu ær í kvíum. Ekki brást íslenska gestrisnin hér fremur en annars staðar, einu áhyggjur húsfreyju og bónda virtust vera þær, að þau gætu ekki látið fara nógu vel um okkur.
Mynd Daniels Bruun af Íslendingi um aldamótin 1900.
Allt var hreint og snoturt innanhúss eins og á öllum þeim stöðum sem ég hefi komið á í þessum sveitum. En til dæmis um hve fábrotið lífið er í sveitunum má geta þess, að sonur bóndans, fullorðinn maður, hafði aldrei smakkað te, fyrr en hann drakk það hjá okkur um kvöldið.“
Ferðaðist Bruun víðar um Suðurlandið en ferðalýsingu sinni lýkur hann með eggjan til Dana um að leggja fram skerf til fjársöfnunar þeirrar, sem þegar var hafin undir vernd konungs til hjálpar á landskjálftasvæðunum.
Það var ári seinna, á Þingvöllum 25. júlí 1897, að Daniel Bruun og fylgdarlið hófu aðra Íslandsferð sína. Nú var hann með fasta áætlun og var hún liður í kerfisbundnum rannsóknum, sem ríkisstjórnin danska og Carlsberg-sjóðurinn höfðu veitt styrk til. Var ætlunin á þessu sumri að kanna nokkra elstu bæina og skipan þeirra, bæði norðan lands og sunnan og fá úr því skorið hvort munur hefði verið á húsagerð eftir landshlutum. Á Þingvöllum þennan júlídag voru samankomnir fimm menn, með tuttugu og sex hesta, þrjú tjöld með tveimur ferðabeddum og rúmum átján ferðakoffortum, fullum af nesti og öðrum ferðabúnaði.
Svanfríður Jóhannesdóttir í Bárðardal – ljósm. Daniel Bruun.
Leiðangursmenn voru auk Bruuns þeir Fonnesbech-Wulff riddarakapteinn, Magnús Vigfússon aðalfylgdarmaður, Jóhann Zoega og Páll Guðmundsson aðstoðarmenn. Þeir ætluðu yfir Kjöl. Þeir komu við á Hruna þar sem Brynjólfur Jónsson á Minna-Núpi og Snorri Jónsson frá Hörgsholti slógust í för með þeim. Bruun þótti Brynjólfur mest líkjast hetju úr fornsögunum, með ljóst skegg sitt þar sem hann kom riðandi fót fyrir fót að Hruna. „Þessi gamli fátæki bóndamaður, iðjusamur og þaulkunnugur fornsögu Íslands gladdist mjög af að hitta mann, sem honum var kunnugt um að kunni vel að meta rannsóknir hans, og augu hans ljómuðu af ánægju.“ Og seinna segir Bruun: „Fornleifafélagið kostar ferðalög hans, kemur hann á hverju hausti heim með verulegan árangur, svo er skarpari athugunargáfu hans og framúrskarandi áreiðanleik fyrir að þakka.“ Og ekki líst Bruun verr á Snorra Jónsson. „Hann er lítill vexti, sköllóttur með ljóst alskegg og ljómandi, hvöss augu og hlær hjartanlega. Hann er í einu orði sagt skínandi maður, og augu hans ljóma, þegar hann segist vilja koma með okkur og honum verður tíðrætt um árnar, vöðin og tóttirnar. Hann hefur farið á öræfin 40 sinnum, og allir, sem leggja leiðir sínar þangað inn eftir vilja fá Snorra með sér.“
Portretmynd Daniels Bruun af Brynjúlfi Jónssyni.
Fyrsta ágúst voru leiðangursmenn komnir að Tungufelli og þaðan var haldið á fjöllin að morgni. Fjórða ágúst höfðu þeir grafið í tóttirnar á Þórarinsstöðum og Laugarhvammi og í Tjarnarkoti við Hvítárvatn, þar sem nú er sæluhús Ferðafélags Íslands. Fimmta ágúst skrifar Bruun í dagbók sína: „Rigning og hvassviðri, svo að við lá að tjöldin fykju, en við festum þau niður með skóflunum. Ég leit í Íslendingatjaldið. Brynjólfur sat og réri í gráðið. Honum var vel heitt.“ „Hér er gott að vera, ó hversu gott,“ sagði hann. Við höfðum grafið allan daginn og Brynjólfur gamli hafði ekki vikið frá greftrinum, þessi góði, gamli maður. Honum til óblandinnar ánægju fundum við eldstæði í þeirri tótt, sem hann hafði haldið áður að væri eldhús. Honum var létt í skapi, þar sem hann stjáklaði um í regnkápu sinni við hugsunina um að hann hefði lifað ágætan dag. Augu hins fátæka, ljúfa öldungs ljóma af ástúð, mildi og þakklátssemi, hverju sinni sem ég ræði við hann um rannsóknir hans, en þær eru í sannleika sagt góðar. Að loknum máltíðum staulast hann til mín við staf sinn, til að þakka mér fyrir matinn, enda þótt ég hafi beðið hann að spara sér það ómak.“
Færikvíar – ljósmynd Daniels Bruun.
Lýsing Bruuns á samferðamanni sínum Brynjólfi og fleirum gefa nokkuð góða mynd af anda þeim, sem hefur ríkt í ferðum Bruuns og hvað honum þótti um þá, sem hann kynntist að ráði. Gekk þessi hin fyrri Kjalarferð Bruuns óhappalaust. Kom hann og fylgdarlið á Akureyri 21. ágúst en þaðan lá leið þeirra austur um Þingeyjarsýslu þar sem Bruun kannaði rústir fremst í Bárðardal.
Síðan hélt Bruun og lið hans að Öskju en þeir sáu þar ekkert fyrir þoku svo þeir fóru þaðan snarlega en þegar þeir komu niður úr fjöllunum var bjart og besta veður og gekk þeim greiðlega að finna rústirnar í Hrauntungu, sem Bruun hafði heyrt að væru þar og grófu þeir í þeim. Bruun fór Sprengisand suður en á þessum tímum var ekki óalgengt að nokkur uggur væri í mönnum við að leggja á sandinn einkum ef veðurútlit var ótryggt og nokkurt afrek þótti að fara þessa leið. Það var lengstum fimm til sex gráðu frost á leiðinni suður Sprengisand og nóttina sem þeir gistu við Dalsá var tíu stiga gaddur.
Portretmynd Daniels Bruun af Íslendingi.
Komu þeir til Reykjavíkur 6. september. Bruun var ánægður með árangur þessarar ferðar um Ísland. Tvisvar hafði hann farið þvert yfir hálendið, skoðað margar fornrústir og séð að engu verulegu munaði á húsaskipan sunnan lands og norðan og að sú skipan að reisa bæjarhúsin um göng í miðju var ekki til í fornöld. Það er önnur ferð Bruuns yfir Kjöl, sem þeir Ísfilmmenn ætla að kvikmynda í sumar.
Þá ferð fór hann 1898 og fór hann þá suður Kjöl. Að ríða suður yfir Kjöl var aðalferð hans þetta sumar. Honum hafði orðið ljóst sumarið áður að mikil samgöngubót væri að því, ef leiðin suður Kjöl væri greinilega merkt og auðsær væri sá tímasparnaður að fara þá leið milli landsfjórðunga hjá því að fara þjóðveginn um Holtavörðuheiði. Þá var honum einnig ljóst að margt væri skoðunarvert fyrir erlenda ferðamenn á Íslandi og að ferðamannastraumur til Íslands gæti orðið landinu nokkur tekjulind, en vel varðaður vegur yfir Kjöl væri álitleg ferðamannaleið. Því var það að loknum fornleifarannsóknum Bruuns 1898 að hann ræddi við Pál Briem amtmann en hann þekktist boð Bruuns um að hafa tilsjón með að Kjölur yrði varðaður.
Teikning Daniels Bruun frá Kaldárseli – Borgarstandur.
Í för með Bruun þetta sumar var danskur málari, Johannes Klein að nafni en hans hlutverk var að mála og teikna, en auk þess var hann snjall ljósmyndari. Svo var það 12. ágúst, sem leiðangursmenn komu saman með hesta og farangur að Gilhaga í Skagafirði. Um ferðina skrifaði Bruun rit, sem hann nefndi „Tværs over Kelen“ og er hin fyrsta eiginlega leiðarlýsing hans frá Íslandi. Samferðamönnum sínum lýsir Bruun svona: „Fyrstan skal telja Magnús Vigfússon, sem sér fyrir öllu. Hann er ungur maður frá Reykjavík og fyrirmynd allra fylgdarmanna. Ekkert er honum léttara en að stjórna hesti, og hann fer auðveldlega með heilan flokk af klyfjahestum. Hann talar dönsku reiprennandi, er afbragðs matsveinn, lipur rakari og fimur framreiðslumaður. Auk þess er hann hógvær maður, háttvís og síviljugur.
Mynd Daniels Bruun af íslenskum kvenmanni um aldamótin 1900.
Á vetrum bindur hann bækur, er veitingaþjónn, baðvörður eða hvað sem býðst af vinnu. En á sumrin er hann fyrst í essinu sínu, þegar ferðamennirnir koma til landsins og ævintýrin blasa við. Ég get ekki hrósað honum nógsamlega eftir að hann hefir verið fylgdarmaður minn tvö sumur, og ég mæli með honum við alla ferðamenn, en einkum þó þá, sem vilja fara Kjalveg, því að hann þekkir Magnús öllum mönnum fremur.
Úr Reykjavík var einnig Ámundi Ámundason, kyrrlátur og rólyndur maður, sem hafði allt í röð og reglu og ætíð var hægt að treysta. Þá var og Böðvar Bjarnason, prestaskólastúdent frá Reykhólum, ágætur maður. Ég réð hann heima hjá sér, aðallega sem túlk. Það er ekki óvanalegt, að íslenskir stúdentar ráði sig til allskonar starfa á sumrin, til að afla sér fjár til að standast námskostnaðinn á vetrum. Þeir eru í kaupavinnu, fylgdarmenn með ferðamönnum, og raunar taka hvaða vinnu sem býðst. Þeir þykjast ekki of fínir til að vinna erfiðisvinnu, og er það mjög geðfelldur þáttur í fari þeirra. Enn koma til tveir menn, sem fylgdu okkur suður yfir fjöllin. Annar þeirra var sjötugur bóndi, Indriði að nafni, frá næsta bæ við Gilhaga, traustur, gamall maður, en þótt hann væri tekinn að gefa sig hikaði hann ekki við að gerast fylgdarmaður okkar, þegar ég lýsti því fyrir honum, hversu mikilvægt það væri fyrir mig að njóta aðstoðar hans og kunnugleika, til að merkja leiðina yfir öræfin, sem hann þekkti öllum mönnum betur. Tengdasonur hans, Magnús bóndi í Gilhaga, kom einnig með honum, svo að Indriði yrði ekki einn á ferðinni á heimleiðinni.“
Ferðin hófst 13. ágúst. Upp úr Gilhagadalnum var haldið upp á hásléttuna og lá leiðin til vesturs upp á Litlasand. Fyrsta áin sem þeir fóru yfir var Svartá. Þar sá Bruun í fyrsta sinn hvernig menn reiddu hunda sína yfir vatnsföll. Indriði kallaði á hund sinn, sem stökk þegar í stað upp á lend hestsins og þannig náðu þeir þrír, maður, hundur og hestur, yfir ána. Þeir áðu hjá sæluhúsinu við Aðalmannsvatn. Um nóttina sváfu þeir sunnan við Ströngukvísl en komu að Blöndu eftir tveggja tíma reið þann 14. ágúst. Þar kom í hlut Indriða og tengdasonar hans að finna vað og tókst þeim það vandræðalítið. Bruun og Klein riðu síðan upp á Rjúpnafell og Indriði fór með lestina til Hveravalla, þar sem þeir tjölduðu.
Á Kili.
Þeir merktu alla leiðina vandlega með smávörðum og einkum vöðin á ánum en árið eftir voru hlaðnar varanlegar vörður undir umsjón Magnúsar Vigfússonar. Það var dvalið í tvo daga á Hveravöllum. Skoðaðar voru minjar um dvöl Fjalla-Eyvindar, kofatóttina og hverinn, sem hann sauð mat sinn í. Þá skoðuðu þeir og gamla tótt, sem verið gat af sæluhúsi eða útilegumannakofa, eða jafnvel hús frá landnámsöld þegar Þjóðólfur hinn hvinverski hafði vetursetu á Kili. Þó vörðu þeir mestum tíma sínum í að kanna hraunið og merkja leiðina frá Dúfufelli að Kjalfelli. Í hrauninu fundu þeir nokkrar vörður, sem sönnuðu að þar hefði verið farið fyrrum. Við sumar vörðurnar voru bein og komust þeir seinna að því að þau mundu vera úr fé Reynistaðarbræðra, sem fórst þar á Kili, sem kunnugt er. „Indriða vöknaði um augu, þegar hann sá beinin og varð um leið hugsað til þeirrar harmsögu, er þarna hafði gerst,“ skrifar Bruun.
Teikningar og myndir Daniels Bruun frá Kaldársseli.
Á Hveravöllum skildu Gilhagamenn við Brunu. Kvöddust þeir með virktum og var Bruun þeim innilega þakklátur fyrir fylgdina og aðstoðina. 16. ágúst var lagt af stað á ný suður til byggða. Þeir fóru vestan við Kjalhraun og komu við í Þjófadölum. Þeir lentu í sandroki en er lengra dró suður gekk á með regn- og slydduéljum. Næsta dag fóru þeir niður með Hvítá en ætlunin var að ríða hana á svonefndu Skagfirðingavaði. Þeir fundu vaðið eftir nokkrar árangurslausar tilraunir en það liggur í krókum milli hólma og eyra og reyndist engan veginn hættulaust. Ekkert mátti út af bera svo að allt færi ekki á kaf í sandbleytu. Magnús hrökk af baki þegar hestur hans festi framfæturna í sandbleytunni. Hann náði sér og hestinum þó upp, en sökk í sandinn upp að öxlum í þeim umbrotum. Bruun barst litlu neðar út af vaðinu í miðri ánni og fór þar á hrokasund. Magnús reið honum þegar til hjálpar og náðu þeir við svo búið á bakkann hinu megin. Þar gistu þeir um nóttina.
Úr leiðangri Daniels Bruun árið 1898.
Daginn eftir komu þeir að Gullfossi og Geysi og þaðan riðu þeir til Þingvalla og gistu þar. Vígja átti Valhöll daginn eftir. Þegar vígslan fór fram var ekki flaggað dönskum fána heldur fálkamerkinu íslenska. Sárnaði Brunn það mjög og þótti það óvirðing við Danmörk. Reið hann þaðan í fússi. Spunnust af þessu einhver blaðaskrif og fóru einhverjir óvirðingarorðum um Bruun en aðrir skrifuðu afsökunargreinar og tóku upp hanskann fyrir Bruun. Ditlev Thomsen konsúll skrifaði Daniel Bruun afsökunarbréf fyrir hönd íslenska ferðafélagsins, sem hann veitti forstöðu. Varð ekki meira úr því máli.
Mynd Daniels Bruun.
Eins og áður sagði fór Bruun alls 13 ferðir um landið og er ógjörningur að geta þeirra allra í stuttri blaðagrein. Við skulum ljúka þessu á orðum hans sjálfs sem er að finna í endurminningabók hans. Þannig fer hann orðum um ævistarf sitt: „Þegar ég horfi til baka og renni huganum yfir atburði langrar ævi hlýt ég að viðurkenna með þakklæti, að mér hefir auðnast að lifa í samræmi við eðlisfar mitt og hæfileika, en á hinn bóginn verð ég að játa að það leið mjög langur tími, þangað til ég vegna óstöðugs skaplyndis míns fann þær brautir, sem mér var áskapað að fara eftir. Ég sé það nú, að hefði ég frá upphafi kunnað að einbeita mér að einhverju einu áhugaefna minna, gæti ég ef til vill hafa unnið meira og leyst verk mitt betur af hendi, en raun hefir á orðið, t.d. sem fornfræðingur, stríðssagnaritari, rithöfundur eða hermaður, en þetta varð allt eins konar „skæruhernaður“. En hvað um það, ég hefi fengið fullnægju við að starfa á þessum mörgu og ólíku sviðum, sem hugur minn stóð til, og vonandi unnið einhver þau verk, sem hafa gildi bæði í nútímanum og framtíðinni. Ég hugsa þá fremur öðru til rannsókna minna á Færeyjum, Íslandi og Grænlandi.“
— Samantekt Arnaldur Indriðason.
Heimildir:
-Þjóðlíf – Bókakynning (01.11.1987), Örn og Örlygur; Daniel Bruun – Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár, bls. 9-11.
-Úti – 1. tölublað (15.12.1931), bls. 6 og 26.
-Morgunblaðið – 145. tölublað – II (04.07.1982), Daniel Bruun, „Hermaður, fornleifafrœðingur og rithöfundur“, bls. 45, 46, 52 og 53.
Úr bókinni – teikning Daniels Bruun.
Eldborg undir Trölladyngju
Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“ skrifar Sesselja Guðmundsdóttir m.a. um Eldborgina undir Trölladyngju og næsta nágrenni.
Jarðhiti við Eldborg.
„Jarðhiti er í suðurenda Vestra-Lambafells í brekku sem snýr til vesturs. Í fellinu nyrst er djúp og mikilfengleg gjá, Lambafellsgjá, sem gaman er að skoða. Gjáin gengur inn í mitt fellið og er mjög þröng neðst, eða 1—3 m á breidd, en víkkar þegar ofar dregur, lengd sprungunnar er um 150 m og hærra veggstálið er 20-25 m hátt. Það er skemmtilegur „álfabragur“ á því að geta gengið inn í fjall og síðan upp úr því. Í fellinu er bólstrabrotaberg og í gjárveggjunum sést hver „koddinn“ við annan. Örnefnið Lambafellsklofi hefur einnig heyrst og þá er átt við gjána og ein heimild nefnir fellið sjálft Klofningsfell.
Jarðhiti í Lambafelli.
Með hlíðum Lambafella liggur Mosastígur (Rauðamelsstígur) . Fyrrum var farið meðfram Núpshlíðarhálsi eða yfir hann allt eftir því hvort fólk var á leið til Krýsuvíkur, á Vigdísarvelli, Selatanga eða til Grindavíkur og var leiðin þarna um kölluð Hálsagötur. Dr. Bjarni Sæmundsson lýsir þessum götum í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1936 og segir hann Grindvíkinga nota orðasambandið „aðfara inn í Fjall“ þegar þeir fóru göturnar vestan hálsins.
Eldborg undir Trölladyngju í dag.
Frá Vestra-Lambafelli höldum við yfir svolítið hraunhaft og komum að Eldborg eða Katli en síðara nafnið er að finna í heimild frá Hvassahrauni. Eldborgin var fallega lagaður gígur um 20 m hár með djúpa og gróna gígskál. Borgin var á náttúruminjaskrá en er þar ekki lengur. Mikið efni hefur verið tekið úr gígnum allt frá því vegur var lagður þarna upp eftir og fram til dagsins í dag.
Í Lambafellsklofa.
Framkvæmdir við tilraunaborholur á svæðinu hafa tekið sinn toll úr Eldborg og er borgin nú sorglegt merki um aðför að náttúrugersemum. Jarðhiti er í og við borgina. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: „Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svœði og sennilega hið síðasta. Það er yngra en Afstapahraun …“. Hraunið er frá sögulegum tíma eins og fyrr segir.
Eldborgarhraun sem þekur tæplega fimm ferkílómetra rann upp að Lambafellum og síðan áfram norður og niður úr. Hraunið liggur m.a. að Mosum, Snókafelli og Sóleyjakrika. Sumir kalla fyrrnefnt hraun Lambafellshraun en líklega er réttara að kenna það við Eldborgina sem það kom úr.
Jónsbrennur heitir hitasvæðið suður og vestur af Eldborg og þar sjáum við töluverða gufu á nokkru svæði. Ekki er vitað frá hvaða manni nafnið er komið. Menjar um gamla tilraunaborholu frá Orkustofnun má sjá ofan Jónsbrenna, fast við norðurrætur Trölladyngju.“
Í bókinni „Icelandi pictures“ eftir Frederik W.W. Howell frá árinu 1893 má sjá teiknaða mynd af Eldborginni.
Teikning Frederik W.W. Howells af Eldborginni 1893.
Árni Óla segir í bók sinni „Strönd og Vogar“ eftirfarandi um Eldborgina undir Dyngjum:
„Norðan við Trölladyngju er stór, gamall og rauður eldgígur, sem nefnist Eldborg. Hann er um 70 fet á hæð. Milli hans og fjallsins er mikill jarðhiti og koma vatnsgufur þar víða upp, allt inn að Höskuldarvöllum og út að Sogi. Fara má norðan við fjöllin og austur fyrir þau. Blasir þá við fell skammt norðaustur í hrauninu. Kallast það Mávahlíðar. Þar eru einnig stórkostlegar gosstöðvar. Rétt fyrir neðan efsta toppinn á þeim (237 m) er stór gígur, allur sundur tættur af eldsumbrotum. Héðan hafa runnið mikil hraun, og sum eftir landnámstíð.“
Jarðhitinn við Eldborg.
Vatnsgufusvæðið umleikis Eldborgina er mismundandi greinanlegt. Það sést best þegar kólnar í veðri. Norðan hennar eru hleðslur, sem einhverjir hafa hlaðið til gufubaðsnota um tíma.
Heimildir:
-Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 123-126.
-Strönd og Vogar, Eldfjöllin, Árni Óla, bls. 250.
-Icelandi pictures, Frederik W.W. Howell, London 1893, bls. 141
Eldborg norðan Trölladyngja. Lambafell fjær.