Skýjaop

Ætlunin var að fylgja götu, sem sjá má á upppdrætti Björns Gunnlaugssonar frá árinu 1831, en á honum eru dregnar upp helstu þjóðleiðir í landnámi Ingólfs. Á uppdrættinum liggur Sandakravegurinn t.a.m. milli Innri-Njarðvíkur og Ísólfsskálavegar, en ekki úr Vogum, eins sýnt hefur verið á kortum í seinni tíð. Þá er Skógfellavegur ekki á uppdrættinum.
Kort af svæðinu - rautt er leiðin á uppdrættinumFyrrnefnd gata liggur frá Núpshlíðarhálsi (Vestari Móhálsi), líklega frá Hraunsseli eða Selsvöllum og norður að austanverðu Driffelli. Þaðan liggur gatan skv. uppdrættinum norður fyrir Driffell, en beygir síðan til norðvesturs vestan Keilis þar sem hún liggur áfram niður Strandarheiði og heim að Breiðagerði á Vatnsleysuströnd.
Byrjað var á því að huga að öðrum mögulegum leiðum norðan Oddafells og beggja vegna Driffells. Nokkrir stígar liggja þar yfir úfið apalhraun, en hvergi greiðfærir. Þarna virðist hafa verið um fjárgötur að ræða, sem einstaka ferðalangur hefur eflaust villst inn á í gegnum tíðina. Líklega hafa þessar götur orðið til þegar tiltölulega greiðfært vera yfir hraunið á þykkum hraungambranum, en þegar hann var farinn að láta verulega á sjá og jafnvel eyðast hefur umferð um hverja og eina þeirra lagst af – og aðrar orðið til.
Einu reiðgöturnar frá Núpshlíðarhálsi liggja yfir helluhraun gegnt Hraunsseli, Selsvallaseljunum og síðan frá Moshól norðvestast á Selsvöllum og að Driffelli, með því til norðurs að austanverðu, niður á helluhraunssléttu norðvestan þess og þar niður fyrir hraunröndina. Þessari leið verður lýst síðar.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli. Moshóll t.v.

Gengið var eftir Þórustaðastíg frá Moshól í átt að Driffelli. Þarna er gatan á kafla djúpt mörkuð í slétta hraunhelluna. Hálfhendis að Driffelli eru gatnamót; annars vegar gatan sem liggur að Driffelli til norðvesturs og áfram til norðurs með því austanverðu, og hins vegar gata, sem liggur að sunnanverðu Driffellinu. Þeirri götu var fylgt yfir að hraunröndinni. Þá var komið inn á jaðurgróninga fellsins. Gatan liggur þar með öxlinni vestur fyrir fellið. Sérkennilegur móbergsveðrungur í karlslíki liggur þar réttsælis við götuna.
Þegar komið var vestur fyrir Driffell mátti sjá kindagötur yfir úfið apalhraunið. Einni þeirra var fylgt yfir hraunið. Inni í því miðju greinist gatan; annars vegar til suðvesturs og hins vegar til norðvesturs – að Keili.
Uppdrátturinn frá 1830Þegar þeirri síðarnefndu var fylgt út úr hrauninu mátti handan þess glögglega sjá að samansafn fjárgatna að handan sameinuðust þarna við hraunröndina.
Þá var stefnan tekin á sunnanverðan Keili. Keilisbræður þeir er sjá mátti á fyrrnefndum uppdrætti voru augljósir á sjá úr norðaustri; þrír klettastandar á hraunbrún. Svolítið norðvestar sjást til Litla-Keilis.
Þegar Keilir rann nær mátti glögglega sjá móbergskjarnan í fjallinu, umlukinn grágrýtisbrotabergsmynduninni. Gata lá þar til vesturs og austurs. Varða er við hana á suðvesturrót fjallsins. Reynt var að fylgja henni líklega leið áleiðis niður heiðina, en hún virtist ávallt taka enda. Þá var ákveðið að halda að vörðu nyrst á háheiðarbrúninni. Það reyndist rétt ákvörðun.
Gatnamótin austan sandhóls austan KeilisVið mosavaxna vörðuna lá gömul gata. Henni var fylgt um gróninga til norðvesturs, að annarri vörðu. Þar lá gatan á ská niður á við í gróninga og síðan yfir þá að enn einni vörðunni. Frá henni virtist gatan augljós áleiðis niður heiðina. Sólin lék við Kálfatjarnarkirkju neðanvert á Ströndinni og nálæga bæi. Augljóst var hvert gatan stefndi. Ákveðið var að fylgja götunni til baka upp að suðvesturhorni Keilis, en fara síðan aðra ferð þangað uppeftir og í gegnum Breiðagerðissel að.
Varða við götuna vestan KeilisÞegar gatan var rakin upp eftir reyndist hún augljós. Vörður staðfestu og legu hennar. Við eina þeirra var brúnleitt glerbrot, greinilega úr handunninni flösku með þykkum veggjum og djúpum botni. Þarna hafa einhverjir fyrirmennirnir losað sig við hluta af farangrinum á ferð þeirra til eða frá Keili. Reyndar er þessi aðkoma að Keili einna álitlegust. Þarna liggur hann fyrir fótum ferðalanga og er hvorutveggja hið ákjósanlegasta myndefni og áþreifanlegasta rannsóknarefni.
Gatan var rakin til austurs með sunnanverðum Keili. Frá honum að norðanverðu Driffelli reyndist vera um tvær leiðir að velja; annars vegar að fylgja stígnum áfram með fjallinu og síaðn áfram eftir stíg austan þess, eða fara út af stígnum suðaustan við fjallið. Sá stigur liggur sunnan ílangs sandhóls og síðan með honum til norðausturs austan hans. Þar er greinilega fjölfarin gatnamót. Þegar staðið var upp á sandhólnum fékkst hin ákjósanlegasta yfirsýn yfir láglendið.
Varða við götuna vestan KeilisGatnamótin fyrrnefndu virðast við fyrstu sýn hafa verið Þórustaðastígur annars vegar og „Breiðagerðisstígur“ hins vegar. Við nánari athugun reyndust vera gatnamót suðvestan gatnamótanna, líklega styttingur inn á Þórustaðastíginn norðvestan Driffells. Þegar „Þórustaðastígnum“ var fylgt áleiðis að hraunraöndinni var að sjá sem stígurinn hlyti að hafa legið lengra til norðurs uns hann sveigði til norðvesturs – enda reyndist sú raunin.
Þá var götunni loks fylgt sléttu helluhrauni að norðanverðu Driffelli og áfram til suðausturs austan þess – uns komið var á stíginn, sem lýst er hér að framan og lá frá Moshól.

Breiðagerðisstígur

Götur norðan Keilis.

Af framangreindu má sjá að eina gatan, sem liggur um bréfsefni uppdráttarins er sú er kemur frá Moshól, eftir svonefndum helluhraunslögðum Þórustaðastíg, með austanverðu Driffelli til norðurs, niður helluhraun norðan þess og yfir hraunröndina. Hraun þetta, þótt víðfeðmt er, virðist ekki hafa nefnu, ekki frekar en margt annað á þessum slóðum. Hún greinist frá aðalleiðinni norðaustan sandhólsins og liggur þá niður með honum og síðan til vesturs með sunnanverðum Keili. Sú gata hefur hér verið nefnd „Breiðagerðisstígur“. Nánari eftirfylgni á eftir að leiða í ljós nákvæmari legu hennar (sjá Breiðagerðisstígur neðanverður).

Breiðagerðisstígur

Vörðukort norðan Keilis (ÁH).

Á fyrrnefndu korti af Reykjanesskaganum eftir Björn Gunnlaugsson frá árinu 1831 eru sýndar gamlar þjóðleiðir á svæðinu. Auk þess eru sýnd ýmiss örnefni, sem virðast annað hvort hafa gleymst er verið færð úr stað. Gata er, sem fyrr sagði, sýnd frá Breiðagerði á Vatnsleysuströnd, upp í Breiðagerðissel, og áfram upp heiðina áleiðis að suðvesturhorni Keilis. Þar liggur gatan sunnan við Keili og í Driffell og áfram heim að Vigdísarvöllum.
Þegar FERLIR var í seljaferð í Voga- og Strandaheiði fyrir nokkrum árum var m.a. komið inn á götu með svipaða stefnu og Breiðagerðisstígnum er lýst á kortinu. Þar gæti þó verið um svonefna leið um „Brúnir“ að ræða. Ætlunin er að huga að henni síðar.

Keilir

Keilir.

Og þá svolítið um Keili vegna þess hve nándin var mikil að þessu sinni: „Keilir er einkennisfjall Reykjaness og stolt Vogamanna. Nafnið fær fjallið af fallegri lögun sinni sem sannarlega er keila. Keilir er móbergsfjall sem rís 379 metra yfir sjávarmáli. Keilir er til orðinn við gos undir jökli á ísöld. Hann er þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndaðrar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju er ver það gegn veðrun.“
Hér hefur verið minnst á Oddafell. Á vef Örnefnastofnunar má sjá eftirfarandi um það viðfangsefni: „Nokkur dæmi eru þess að talan einn sé sett á eftir því sem hún á við.
Fjallið eina er nefnt á þremur stöðum á Suðvesturlandi og var valið örnefni mánaðarins á heimasíðu Örnefnastofnunar í júlí 2004. Eitt þeirra er lágt hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda, skammt vestan við Krýsuvíkurveg, norður af Sveifluhálsi. Eftir mynd að dæma er þetta réttnefni, fjallið stendur eitt og sér á flatneskju (Ólafur Þorvaldsson 1999:27).

Keilir sjálfur - svona í lokin

Annað er austan undir Bláfjöllum, við svonefnda Ólafsskarðsleið, og er eftir lýsingu og korti í Árbók FÍ 2003 (82, 84) stakt í umhverfinu, rétt eins og hitt. Þriðja fjallið, sem nefnt hefur verið svo, heitir öðru nafni Oddafell og er við vesturjaðar Höskuldarvalla, en þeir eru við vesturrætur Trölladyngju á Reykjanesskaga. Þorvaldur Thoroddsen kallaði Oddafell Fjallið eina, en líklegt að hér sé um nafnarugling að ræða, Þorvaldur hafi flutt nafnið á fjallinu sem nefnt var hér áður yfir á þetta, því að engar heimildir séu aðrar um þetta nafn. Í örnefnaskrá Stóru- og Minni-Vatnsleysu segir að upp með Oddafellinu að austan sé gamall leirhver sem heitir Hverinn eini og í annarri skrá er talað um hann sem mikinn gufuhver sem sé nú lítilvirkur orðinn. Má vera að samband sé milli nafnsins á hvernum og fjallinu.

Breiðagerðisstígur

Breiðagerðisstígur.

Til frekari fróðleiks má geta þess að Minni Vatnsleysa hafði „selstöðu þar sem heitir Oddafell og er þangað bæði langt og erfitt að sækja. Eru þar hjálplegir hagar og vatns nægjanlegt.“ Stóra Vatnsleysa hafði hins vegar „selstöðu þar sem heitir Rauðhólssel. Eru þar hagar sæmilegir, en stórt mein af vatnsleysi.“
Þegar gatan, sem sýnd er á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar var rakin, virtist hún miklu mun greinilegri en Þórustaðastígurinn, er liggur norðan Keilis. Af því að dæma virðist gatan hafa verið mun fjölfarnari í seinni tíð, eða allt þar til að ferðalög á hestum lögðust af millum Vatnsleysustrandar og Hálsanna.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Oddafell

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi er merkileg fornleif. Ýmsar ályktanir hafa verið dregnar um aldur mannvirkisins, sem lá frá Vogsósum við Hlíðarvatn að Nesi austast í Selvogi.
Bjarni F. Einarsson gerði rannsókn á Fornagarði sumarið 2003 og skrifaði skýrslu: „Fornleifar nr. 22 í Ölfusi, Árnessýslu. Skýrsla um fornleifarannsókn sumarið 2003„.

Bjarni F. Einarsson

Bjarni F. Einarsson.

„Að beiðni Vegagerðarinnar tók Fornleifafræðistofan að sér að grafa snið í gegnum hinn svokallaða Fornagarð sem liggur í landi Vogsósa og Strandar í Ölfushreppi í Árnessýslu.
Fornigarður liggur frá Hlíðarvatni, rétt norður af bæjarstæði Vogsósa og til suðurs í átt að Strandarkirkju. Yfirleitt er talið að hann hafi síðan legið til austurs utan um byggðina í Selvoginum. Ekki er víst að hann hafi upphaflega legið svo, heldur sveigt til vesturs eða suðvesturs skammt norðan við Strandarkirkju.
Hinn fyrirhugaði Suðurstrandarvegur mun óhjákvæmilega rjúfa Fornagarð. Garðsins er trúlega getið miðaldaheimildum og því merkilegur. Árið 1927 voru allar „Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar“ friðlýstar í landi Vogsósa og Vindáss“.
FornigarðurTil að vegaframkvæmdir gætu gengið eftir var talið nauðsynlegt að rannsaka stuttan kafla á Fornagarði þar sem hinn fyrirhugaði vegur mun fara í gegn um hann. Markmiðið með þessari rannsókn var að reyna að grafast fyrir um aldur garðsins og að kanna byggingu hans frekar en hægt var að sjá af þeim hluta hans sem reis upp úr sandinum.
Almennt er talið að Fornagarðs sé fyrst getið í rekaskrá Strandarkirkju árið 1275. Þar segir m.a.: Sex vætter æ huertt land fyrer garde enn fiorar utan gardz og skal reida med slijku sem rekur: (Ísl. fornbréfasafn 1893:124).
Garðsins er ekki getið aftur fyrr en í bréfi séra Jóns Vestmanns [1769 – 1859] til hinnar konunglegu dönsku nefndar til varðveislu fornminja í Danmörku. Er bréfið ritað þann 25. júní 1818.
FornigarðurÍ lýsingu Jóns segir svo um garðinn: Máské mætti telia Meniar-Fornaldar; Sýnishorn af þeim stóra Vórdslu Gardi, úr Hlídar-Vatni, alt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa Vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar/ sem óll skyldu þá hafa samfóst verid/ med læstu Hlídi ad Lógbýli hvóriu; – Eignad er verk þetta Erlendi Þorvardssyni sem Hér var Lógmadur sunnan og Austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd í Selvogi og Deidi þar 1576. … Þessum naudsynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidhaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, i Fyrndinni góda og prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, ad sógn Mann (Frásögur um fornaldarleifar 1983:228).

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.
Hér má m.a sjá Fornagarð umlykja neðanverða byggðina austan Strandar.

Næst er garðsins getið í Sýslu- og sóknarlýsingum árið 1840 og enn er það séra Jón Vestmann sem heldur á pennanum. Hljóðar lýsing hans svo: „Engar fornleifar eru hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlendar lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina. Var þá hagalandið milli garðs og fjalla, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hvörju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þess vegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis. Þar um er þessi vísa:

Fegurðin um fram annað
einna var þó mest,
vart mun verða sannað,
víða hafi sést
öll vera tún í einum reit,
garði varin miklum mjög
um meiri part af sveit“. (Sýslu- og sóknarlýsingar 1979:226-27).

Vogsósar

Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ. Hér má sjá upphaf Fornagarðs við Vogsósa. Gamlahlið var á Fornugötu, neðst t.h.

Í Örnefnaskrá Vogsósa, sem var tekin saman á sjöunda áratug síðustu aldar, virðist nafnið Fornigarður fyrst koma fram svo að vitað sé (Örnefnaskrá Vogsósa). Kannski festist nafnið á garðinn þegar menn uppgötvuðu að hugsanlega hafi verið átt við þennan garð í rekaskrá Strandarkirkju árið 1275. Áður virðast menn hafa kennt hann við Erlend Þorvarðsson lögmann á 16. öld eins og fram kemur hér að ofan. Margt mun vera kennt við þann mann og sumt þjóðsagnakennt. Sagt er í Örnefnaskrá að á garðinum sé hlið sem Gamlahlið heitir. Hafi það verið eitt af hliðum Fornagarðs að lögbýlunum sbr. lýsingar séra Jóns Vestmanns hér að ofan. Hlið þetta er líklega nokkuð langt norðan við hinn kannaða hluta garðsins og langt fyrir utan áhrifasvæði Suðurstrandarvegar. Það var ekki kannað hvort hlið þetta væri enn sýnilegt.
Vegna vinnu við umhverfismat Suðurstrandarvegar var vegastæðið kannað með tilliti til fornleifa. Fyrsta könnun átt sér stað þann 11. september 2000. Garðinum er lýst svohljóðandi í Fornleifaskrá (Fornleifaskrá Íslands): „Garðurinn var aðallega skoðaður þar sem hann er í hættu vegna vegagerðarinnar. Hann virðist þó nær samfelldur, nema við sinn hvoran endann þar sem hann hefur máðst svolítið“. 13/6 2001

Fornigarður

Fornigarður – aðrir minni garðar greinast út frá megingarðinum.

Við vettvangsathugun þann 12/6 voru enn fleiri garðar skoðaðir á svæðinu og þeir teiknaðir inn á loftmynd hjá Vegagerðinni. Garðarnir virðast fyrst og fremst liggja við S – hluta þess svæðis sem Fornigarður afmarkar en þó norður af Víghól. Allir eru þeir mjög svipaðir og sumir mjög orpnir sandi.
Breidd þeirra er meiri en gefin er upp í lýsingu hér að ofan, eða 3 – 4 m (sandur) og hæðin getur verið rúmur einn metri (Fornleifaskrá).
Fornigarður, og allar aðrar fornleifar í landi Vogsósa, Strandar og Vindáss, voru friðlýstar árið 1927 (Fornleifaskrá 1990:78).

Fornigarður

Fornigarður ofan Ness.

Landið sem Fornigarður liggur um er að mestu leyti örblásið, sandorpið og lítt gróið land. Víða sér í bera hraunhelluna. Í kring um Vogsósa og Strandarkirkju eru þó grónir blettir og lúpínu hefur verið sáð innan landgræðslugirðingar sem þarna er. Ekki virðast nein rofabörð vera eftir sem sýnt gætu fyrra yfirborð eða hve mikið land hefur blásið burt á svæðinu. Slíkt má þó sjá nokkuð austar, eða austan við malarveginn að hverfinu í Selvoginum.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Sandurinn sem þarna liggur kemur trúlega aðallega frá ósum Ölfusár, enda má rekja þetta sandorpna og blásna land alla leið þangað. Þessi sandblástur hefur sennilega snemma orðið að vandamáli fyrir bændur í Vogsósum og byggðinni þar hjá…

Nokkrir garðar af ýmsum gerðum hafa verið rannsakaðir hér á landi. Túngarðar, sem finna mátti við nær hvert býli áður fyrr, enda tekið fram í Jónsbók að „hver maður skal löggarð gera um töðuvöll sinn“ (Sigurður Þórarinsson 1982:5), eru sennilega algengastir garða og allmargir þeirra hafa verið rannsakaðir.
Í hinum fornu lögum Grágás og Jónsbók er t.d. að finna ákvæði um breidd og hæð löggarða og hvenær vinna við þá skyldi fara fram. Skyldu þeir vera fimm fet á þykkt niður við rót en þrjú fet efst. Hæð þeirra skyldi taka í öxl. Yfirfært í metra gerir þetta 1,25 – 1,50 m að neðan og 0,75 – 0,90 að ofan og ca. 1,5 – 1,6 m á hæð (Kristmundur Bjarnason 1979:34). Breidd Fornagarðs uppfyllir ekki þessi ákvæði hinna fornu laga. Hins vegar fer hann mjókkandi eftir því sem ofar dregur í samræmi við lögin fornu.

Fornigarður

Fornigarður í Sevogi.

Árið 1776 kom þúfnatilskipunin svokallaða (Sami 1978). Í henni var kveðið á um að girða skyldi öll tún torf- eða grjótgarði, verði því við komið. Hver bóndi átti að hlaða árlega sex faðma í grjótgarði eða átta í torfgarði, fyrir sig sjálfan og hvern verkfærann mann á bænum. Garðarnir áttu að vera tvær álnir (0,98 – 1,14 m) á hæð og tvær og hálf alin (1,23 – 1,43 m) á breidd eða þykkt að neðanverðu, að minnsta kosti. Fornigarður uppfyllir ekki heldur þessi ákvæði hvað breiddina varðar.

Tilgáta um Fornagarð
Þegar loftmynd er skoðuð af svæðinu kemur vel í ljós hvernig Fornigarður skiptir sér skammt NNV af Strandarkirkju. Sá hluti hans sem liggur til SA, í átt að byggðinni í Selvogi, er greinilega miklu veigaminni og sennilega yngri en aðalgarðurinn. Það er tilgáta mín að hinn eiginlegi Fornigarður, eða hvað hann gat hafa heitið í upphafi, hafi legið í boga frá Hlíðarvatni að ströndinni og sá hluti sem beygir til SV þar sem garðurinn skiptir sér, sé hluti af þessum upprunalega garði.

Selvogur

Sveinagerði í Selvogi – fast við Fornagarð.

Sagnir um að Fornigarður hafi legið utan um alla byggðina í Selvogi eru mögulega ungar og til komnar löngu eftir að upprunalegi garðurinn var gleymdur og Vogsósar fluttir á núverandi stað. Í fyrsta lagi er bogadreginn garðurinn líkur þeim túngörðum sem við þekkjum frá fyrstu öldum byggðar í landinu. Þannig voru túngarðarnir utan um landnámsbýlin, ef þeir voru til staðar yfirleitt. Síðar breyttust þeir í lögun og færðust gjarnan nær býlunum.
Munnmæli herma, eins og fram kom hér að framan, að upphaflega hafi Vogsósar staðið þar sem nú heitir Baðstofuhella austan við ósa Óssins. Ef rétt er, getur Fornigarður vel hafa verið byggður utan um hinn upprunalega túngarð Vogsósa (sem var hugsanlega úr torfi og því algerlega horfinn). Garðurinn er þó nokkuð langt frá og umfangsmikill miðað við þá túngarða sem við þekkjum í dag.

Fornigarður

Baðstofuhella – fyrrum bæjarstæði Vogsósa?

Ef við hins vegar gefum okkur að garðurinn hafi verið sandvarnargarður utan um gömlu tún Vogsósa, getur þetta komið heim og saman. Túnin lifðu bæinn og geta hafa verið nýtt löngu eftir að hann hafði veri fluttur. Það má ímynda sér að þegar sandáblástur var orðinn að vandamáli, líklega einhvern tímann upp úr 1100 AD skv. sniði, hafi túngarðurinn verið færður frá bæjarstæðinu svo hann mætti þjóna bæði sem túngarður og sandvarnargarður.

Vogsósar

Vogsós – herforingjakort 1903.

Eftir að Vogsósar höfðu verið fluttir, ef svo var, missti garðurinn upphaflegt hlutverk sitt og prjónað var við hann á kafla og hann tengdur þeim túngörðum sem voru utanum byggðina í Selvogi svo verja mætti bæði hana og gömlu túnin í kringum Baðstofuhelluna ágangi sandsins.

Það var þó ekki sandurinn sem herjaði verst á svæðið við Baðstofuhelluna, það var sjórinn.

Vogsósar

Vogsósar – tóft ofan Baðstofuhellu.

Þar er nú aðeins ber klöppin eftir og engin ummerki um að þar hafi staðið fornbýli. Landbrotið er gríðarlegt á þessum stað og erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig það hefur litið út við upphaf byggðar í landinu. Vitað er að allmargar eyjar hafi fyrrum verið í Ósnum, en eru nú flestar horfnar; geta þó kunnugir bent á, hvar þær hafa verið. Nöfn eyjanna voru Sandey, Grjótey, Húsey, Hrútey og Fagurey (Örnefnaskrá Vogsósa). Brýtur þar land enn.

Niðurstaða Bjarna

Fornigarður

Fornigarður.

Fornigarður er byggður einhvern tímann eftir 1104 AD. Um það leyti verður sandfok all áberandi á svæðinu og hlýtur það að hafa skapað ákveðin vandamál fyrir bændur þar. Til að verja tún frá þessum vágesti hefur mikill garður verið hlaðinn utan um tún Vogsósa þar sem hann stóð fyrst, eða þar sem nú heitir Baðstofuhella.
Nafnið Fornigarður er ekki ýkja gamalt og alls óvíst hvort garðurinn hafi haft nokkurt nafn í byrjun. Smám saman missir garðurinn þýðingu sína, kannski vegna þess að menn gáfust upp á vonlausri baráttunni við sandinn. Þó hefur honum verið haldið við með miklu minni tilkostnaði en áður. Grjóti hefur verið hrúgað upp eftir þörfum, en ekki vandað mikið til verksins enda ekki þörf á því.

Fornigarður

Fornigarður sunnan Vogsósa.

Rannsóknin leiddi í ljós að garðurinn er að mestu leyti heill þar sem hann var skoðaður undir sandinum, þó eitthvað kunni að vanta upp á efsta hluta hans. Þannig má ganga út frá því sem vísu að garðurinn sé jafn vel á sig kominn annarsstaðar þar sem eins háttar til og á rannsóknarstaðnum, með nokkrum undantekningum. Suðurhluti hans er trúlega mest laskaður og hugsanlega mætti rekja garðinn eitthvað lengra í átt að sjónum.“

Bryndís G. Róbertsdóttir rannsakaði og skrifaði skýrslu um „Aldur Fornagarðs í landi Strandar og Vogsósa í Selvogi út frá gjóskulögum“ árið 2004:

„Að beiðni Fornleifafræðistofunnar, fyrir hönd Vegagerðarinnar, tók höfundur að sér að aldursgreina Fornagarð í Selvogi út frá þekktum gjóskulögum.
Ekki hafa farið fram kerfisbundnar rannsóknir á gjóskulögum í Selvogi eða nágrenni.

Bryndís G. Róbertsdóttir

Bryndís G. Róbertsdóttir.

Í þessari greinargerð verður því að raða saman bútum úr rannsóknum margra jarðfræðinga til að átta sig á hvaða gjóskulög er líklegt að finna í Selvogi.
Gjóskulög sem vænta má að finnist í Selvogi eiga flest upptök sín á eystra gosbeltinu og hefur eldstöðin Katla í Mýrdalsjökli verið þar virkust. Einnig má búast við gjósku úr eldgosum sem orðið hafa í sjó skammt undan Reykjanesi, en eldstöðvarnar eru á vestasta hluta Reykjanes-Langjökuls gosbeltisins.
Gjóskurannsóknir á eystra gosbeltinu eiga sér langa sögu, eða allt frá því Sigurður Þórarinsson hóf gjóskurannsóknir hér á landi á fjórða áratug síðustu aldar. Rannsóknir hans beindust í upphafi að gjósku úr Heklu.

Fornigarður

Fornigarður – snið.

Höfundur byrjaði á því að skoða þversnið sem búið var að grafa í gegnum garðinn. Þar sem illa gekk að finna gjóskulög í sniðinu, fór höfundur að leita að betra sniði. Í botni skurðarins sem grafinn var í gegnum Fornagarð hafi orðið eftir stór hraunhella, sem var neðst úr garðinum og óhreyfð. Höfundur gróf niður með henni að vestanverðu og kom þar niður í fok og undir því góðan jarðveg, þar sem fundust mörg og vel varðveitt gjóskulög. Þó að rannsóknin snerist eingöngu um gjóskulög frá sögulegum tíma, ákvað höfundur að mæla allt sniðið.

Fornigarður

Fornigarður – snið.

Botn Fornagarðs er hraungrýti úr Selvogsheiðarhrauni. Fok er undir garðinum. Jón Jónsson (1978) sem ortlagt hefur öll hraun á Reykjanesskaga telur að hraunin undir Fornagarði séu komin frá dyngju sem kennd er við Selvogsheiði. Auk gígs efst á Selvogsheiðinni, eru 3 aðrir gígir á dyngjunni; Strandarhæð, Vörðufell og nafnlaus gígur suður af Svörtubjörgum. Við þunnsneiðaskoðun reyndist ekki unnt að greina mun á hraunum frá þessum fjórum gígum, svo litið er á þessi hraun sem sömu myndunina. Jón Jónsson (1978) telur að Selvogsheiðarhraunin séu væntanlega frá því snemma á nútíma, þegar sjávarstaða hafi verið lægri en nú. Það má sjá af því að yfirborði hraunanna hallar tiltölulega jafnt út í sjó, litlir sem engir sjávarhamrar eru með sjó fram og hvergi hefur fundist vottur af bólstrabergsmyndun meðfram ströndinni.

Niðurstaða Bryndísar

Fornigarður

Fornigarður – snið.

Frá neðri brún Fornagarðs og niður að gjóskulaginu Hekla 1104 eru 20,8 cm af foksandi, jarðvegsblönduðu foki og jarðvegi neðst.
-Fornigarður er örugglega mun yngri en gjóskulagið Hekla 1104. Jarðvegur á milli Heklu-1104 og foksins er 0,55 cm. Ef miðað er við sömu jarðvegsþykknun á ári og frá Landnámlaginu 870 að Heklu 1104, hefur jarðvegurinn myndast á 13 árum. Miðaldalagið, sem talið er myndað í eldgosi í sjó skammt undan Reykjanesi árið 1226, finnst ekki undir garðinum, né í sýni neðst úr foki.
-Uppblástur í nágrenni Fornagarðs hefur hafist fyrir 1226, hugsanlega um 1120. Erfitt, eða nánast ógjörningur, er að meta hve hratt fokefni hlaðast upp. Hér er sett fram einföld nálgun og gert ráð fyrir að upphleðsluhraði fokefna sé sá sami og jarðvegs. Árleg þykknun foks undir Fornagarði er sú sama og árleg jarðvegsþykknun frá Landnámslagi 870 að Heklu 1104.

Fornigarður

Fornigarður.

-Fornigarður er hlaðinn um 1595. Árleg þykknun foks frá Heklu 1104 og upp að núverandi yfirborði beggja vegna garðsins er sú sama.
-Fornigarður er hlaðinn á árabilinu 1405-1445. Ef að nálgunin hér að ofan er raunhæf, þá er Fornigarður hlaðinn á tímabilinu 1400-1600. Í frásögn frá 1818, sem skráð var af Jóni Vestmann, presti að Hlíð í Selvogi, er lýsing á stórum vörslugarði sem liggur frá Hlíðarvatni allt fram að Strönd. Garðinn eignar hann Erlendi Þorvarðssyni, lögmanni frá 1520-1554, sem bjó lengi á efri árum að Strönd í Selvogi og dó þar 1576 (Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823).

Fornigarður

Fornigarður – snið.

-Þessi frásögn um að Fornigarður hafi verið hlaðinn á 16. öld getur staðist miðað við þá nálgun sem höfundur hefur gert hér að ofan á þykknun foks undir og til hliðar við garðinn. Varpað er fram þeirri hugmynd að Fornigarður hafi til viðbótar við það að vera vörslugarður, einnig verið sandvarnargarður. Fokið gæti þá hafa átt uppruna sinn í fjörunni framan við Hlíðarvatn og við ósa útfalls Hlíðarvatns.“

Heimildir:
-Fornleifar nr. 22 í Ölfusi, Árnessýslu. Bjarni Einarsson 2004; Skýrsla um fornleifarannsókn sumarið 2003.
-Aldur Fornagarðs í landi Strandar og Vogsósa í Selvogi út frá gjóskulögum, Bryndís G. Róbertsdóttir, 2004.

Vogsósar

Vogsósar – hið forna bæjarstæði, fornigarður, Fornagata; loftmynd.

Þórarinn Snorrason

Þegar tekið er hús á Þórarni Snorrasyni (f. 8.8. 1931) er ógjarnan komið að tómum kofanum.
Vogsos-23FERLIR heimsótti hann á vormánuðum 2012 með það að markmiði að rissa upp minjar og örnefni í ræktuðum túnum Vogsósa (Vogsósa I og Vogsósa II) tók hann aðkomandi fagnandi eins og hans er jafnan von og vísa – og bauð í kaffi og meðlæti er hans hustra annaðist af alúð.
Spjallið snerist um tilefnið – að ganga um bæjartúnin, rifja upp örnefnin og sýnilegar minjar, teikna hvorutveggja á blað og setja fram með skiljanlegum hætti – til varðveislu til handa komandi kynslóðum.

Strönd

Strönd – upplýsingaskilti við Strönd í Selvogi.

Hafa ber í huga að þótt örnefnalýsingar séu til af Vogsósalandi eru þær þannig fram settar að erfitt er óvönum að átta sig á einstaka staðsetningum. Úr þessu þurfti að bæta um betur og þess vegna var FERLIR kominn á vettvang að þessu sinni. Reyndar hefur FERLIR og Þórarinn áður átt bæði góð og árangursrík samskipti, eins og t.d. má sjá á ýmsum lýsingum af nálægu umhverfi og ekki síst „Selvogs-uppdrættinum“, sem nú má líta augum framan við Strandarkirkju. Þórarinn  gjörþekkir þetta svæði og veit, líkt og aðrir, að sú vitneskja kemur til með að hverfa að honum gengnum. Enginn er jú eilífur…

Vogsos-24

Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir að Þórarni hafði verið tilkynt um tilefni komunnar brást hann ljúfmannlega við, eins og hans er von og vísa. Vildi þó fá að drekka teið sitt í friði um sinn því hann var nýgenginn úr sparifötunum (sem lágu á stólbaki í stofunni) enda nánast að koma inn úr dyrunum eftir samsöng í messu með kirkjukórnum í Þorlákshöfn.
„Ég sá leifar af kind hér skammt upp í heiðinni í gær. Varstu að egna fyrir tófu, Þórarinn.“
„Nei, var hún hyrnd?“, spurði Þórarinn.
„Já, en það voru bara hauskúpan og hryggurinn eftir, auk ullarlagða á víð og dreif.“
„Það passar. Ég saknaði einnar hyrndar í haust. Þetta gæti vel hafa verið hún. Tófan hefur komist í hana. Ég náði 8 tófum frá skothúsinu mínu hér ofangarðs s.l. sumar. Það virðist vera nóg af henni.“
„Tók eftir greni þarna ofarlega í heiðinni í gær, merkt með vörðu og tveimur steinum ofan við opið.“
„Já, kannast við það. Var tófan í því?“
„Nei, það virtist yfirgefið.“
„Hefurðu komið upp að Hvalhnúk?“, spurði Þórarinn.
„Já, nokkrum sinnum, hvers vegna spyrðu?“
„Það er til gömul saga um nafngiftina – hefurðu heyrt hana?“.
„Nei, ekki svo ég muni.“
Vogsos-25„Það er nefndilega það. Sjáðu til“, sagði Þórarinn og fékk sér í nefið; „Þórir haustmyrkur byggði fyrstur manna Hlíð í Selvogi. Hann átti margt fjár, en saknaði jafnan margs þess að hausti.
Eitt sinn rak hval á fjörurnar. Þetta þótt hvalreki á þeim tíma. Þórir sótti í hvalinn, en tók eftir því að meira var horfið af honum en hann hafði tekið. Sá hann þá hvar tröllskessa var á leið upp Hlíðarskarð með byrgðar. Fylgdi hann tröllsskessunni eftir upp undir Hvalhnúk þar sem hann náði henni loksins. Bað hún hann þá griða því hún ætti nýfætt barn heima er þyrfti hennar við.
Vogsos-26Sá Þórir aumur á skessunni. Sagðist hann láta henni hvalketið eftir ef hún sæi til þess að ekki yrði um fjárrýrð á fjöllum. Samþykkti skessan það og fór sína leið, en talið hefur verið að bústaður hennar hafi verið í Stórkonugjá ofan fellsins.
Næsta haust bar svo við að Þórir saknaði einskis fjár af fjalli.
Sjáðu til, þessi saga hefur ekki verið skráð, en hún hefur verið almannarómur hér og útskýrir örnefnin þarna efra“, sagði Þórarinn og kímdi.

Fornigarður

Skýrsla um fornleifarannsókn sumarið 2003 – Aldur Fornagarðs í landi Strandar og Vogsósa í Selvogi; Bjarni F. Einarsson. 2004

„Það kom hingað maður fyrir nokkrum misserum“, hélt Þórarinn áfram. „Hann var fornleifafræðingur, eins og þú, og var að rannsaka fyrirhugað vegsstæði nýja vegarins (Suðurstrandarvegar). Þetta var skondinn karl, kom hingað og var afskaplega uppáþrengjandi. Ég var með honum í þrjá daga að skoða svæðið er vegurinn átti að liggja um, allt frá Þorlákshöfn að Krýsuvík. Enga borgun bauð hann mér þó fyrir vikið.“
„Gerði hann einhverjar rannsóknir?“
„Já“, sagði Þórarinn. Hann gróf þvert í gegnum Fornagarð, sagðist þurfa að skoða jarðlögin undir garðinum. Mér fannst gröfturinn svolítið skondinn. Hann kom með mann með sér og hann gróf stuttan tíma fyrir hádegi og stuttan tíma eftir hádegi með góðum hléum á millum. Það þættu ekki góð vinnubrögð hér í sveitinni.“
„Fékkstu einhverja niðurstöður úr rannsóknunum?“
„Nei, aldrei.“
Að þessu samtali loknu var gengið út. Þrátt fyrir að Þórarinn væri orðinn 81. árs var ekki að sjá að það háði honum á nokkurn hátt. Hann gekk rösklega yfir túnin, klofaði yfir girðingar og lýsti aðstæðum og örnefnum, líkt og sjá má á meðfylgjandi uppdrætti. Ljóst var á þessari göngu að þarna fór einn þeirra nútímamerkismanna er enn hafði bæði ágæt tengsl við landi sitt sem og menningu fortíðarinar frá örófi alda.

Vogsos-27

Vogsósar – Bænhúshóll.

Á göngunni var m.a. gengið á Gíslhól, Réttarhól, réttin skoðuð, klofað yfir Gamla túngarðinn / Fornagarð er náði frá Hlíðarvatni yfir um að Nesi í Selvogi, Imphóll skoðaður sem og tóftir Impukofa, litið á Fagurhól og Vaðhól, spekulerað á Bænhúshól (Túnhól) þar sem ku hafa verið bænhús til forna, skoðaður steinn sá er Eggert, síðasti sérann á Vogsósum lést örendur við 1908, Vellir og Vallabrún litin augum sem og Klettisþúfuhólar ofan Beitarhúsahæðar.
Að göngunni lokinni var ekki um annað að ræða en að þiggja kaffisopa við eldhúsborðið að Vogshúsum II þar sem þráðurinn var tekinn upp að nýju þar sem frá var horfið. Aðallega var þá rætt um gamla bændasamfélagið, hrístöku á heiðunum, fjárbeit og eftirminnilegt fólk; aðallega þó úr Grindavík.
Frábært veður.

Frétt 28. desember 2023 +

Þórarinn Snorrason

Þórarinn Snorrason í fjárhúsinu með þrílembinga.

„Þórarinn Snorrason, bóndi í Vogsósum 2 í Selvogi, er látinn, 92 ára að aldri. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi á jóladag. Hann hafði legið á sjúkrahúsi um mánaðarskeið eftir að hafa lærleggsbrotnað er hann féll við útistörf við fjárhúsin í Vogsósum en þar stundaði hann sauðfjárbúskap.

Þórarinn var fæddur í Vogsósum þann 8. ágúst árið 1931. Hann var síðasti oddviti og hreppsstjóri Selvogshrepps en hreppurinn sameinaðist Ölfusi árið 1989. Þá var hann stóran hluta ævi sinnar helsti vörslumaður Strandarkirkju sem hringjari, kirkjuvörður og formaður sóknarnefndar.

Eiginkona hans var Elisabeth Charlotte Johanna Herrmann. Hún fæddist í Þýskalandi þann 28. desember 1927. Hún lést árið 2018. Þau gengu í hjónaband árið 1954 og eignuðust fimm börn en afkomendahópurinn telur auk þeirra núna níu barnabörn og þrjú barnabarnabörn.

Þórarinn Snorrason

Þórarinn Snorrason.

Þórarinn var aðalviðmælandi í þættinum Um land allt sem Stöð 2 gerði um Selvoginn haustið 2013. Þar sagði Þórarinn meðal annars frá kynnum sínum af skáldinu Einari Benediktssyni, sem bjó síðustu æviár sín í Herdísarvík.

Hér má sjá þáttinn um Selvog:

Þórarinn var á barnsaldri þegar Einar Benediktsson bjó í Selvogi, kom oft í Herdísarvík og man vel eftir honum. Þórarinn rifjaði meðal annars upp þegar hann varð vitni að hinstu för Einars úr Herdísarvík þegar lík hans var borið til Vogsósa en þá var enginn vegur kominn þar á milli.“

Heimildir:
-Þórarinn Snorrason, bóndi, fæddur á Vogsósum 8.8.1931.
-https://www.visir.is/g/20232508248d/thorarinn-snorra-son-i-vog-sosum-latinn

Þórarinn Snorrason

Þórarinn Snorrason og Ómar spá og spekulera um fyrirhugaðan uppdrátt af Selvogi.

Rjúpnahæð

FERLIR var boðið í skoðunarferð um loftskeytastöðina á Rjúpnahæð. Stöðin, þakin möstrum, línum og lögnum, var reist af Bretum á hæðinni ofan og utan við höfuðborgina snemma í Seinni heimsstyrjöldinni.
Sjálf bækistöðin var hýst í Aðkoman að loftskeytastöðinnitveimur bröggum efst á hæðinni, milli tveggja mastra er enn standa. Bandaríkjamenn yfirtóku síðan bækistöðina. Þeir voru rifnir og nýtt hús byggt undir vaxandi og ómissandi starfsemi árið 1952. Það hús stendur enn og hýsir um þessar mundir allar kynslóðir senda, allt frá örfáum vöttum til nokkurra þúsunda. Á næstu mánuðum (þetta er ritað í okt. 2007) verða möstrin felld og húsið jafnað við jörðu. Svæðið er komið á framkvæmd deiliskipulags Kópavogs og þá og þegar að því kemur verður engu þyrmt – ef af líkum lætur. Nú þegar er byrjað að grafa fyrir og leggja götur á svæðinu.

Rjúpnahæð

Í loftskeytastöðinni á Rjúpnahæð.

Umsjónarmaður loftskeytastöðvarinnar, greinilega eldklár á sínu sviði, en fannst greinilega miður, líkt og áheyrendum, að rífa þyrfti hið veglega hús á hæðinni. Skipulagið gerir þar ráð fyrir tvöföldum nútímavegi (sem eflaust verður orðinn úreltur eftir hálfa öld), en með ofurlítilli hugsun og broti af skynsemi hefði auðveldlega verið hægt að gera það að miðstöð svæðisins; annað hvort sem safnhúsi eða einhverju öðru ekki síður merkilegu. En  gróðarhyggjan spyr ekki að slíku – lóðin mun vera verðmætari en húsræksnið, sem þó virðist bara í ágætu ástandi, enda vel vandað til verksins í upphafi.

Loftskeytastöðin á Rjúpnahæð

Vangaveltur koma óneitanlega upp um hvers vegna íbúar Kópavogs hafi ekkert lagt til málanna í þessum efnum. Kannski hafa þeir bara ekki skoðað málið nægilega vel eða velt væntanlegum afleiðingum fyrir sér – sem og möguleikum á nýtingu hússins.
Ætla má að einhver hafi tekið skyndiákvörðun um brotthvarf þessara minja í reykfylltu herbergi án sérstakrar umhugsunar.
Loftnetin utandyra virtust fleiri en eyjarnar á Breiðafirði og hólarnir í Vatnsdal. Víravirkin eru sum að sjálfsögðu orðin úrelt, en þau þjónuðu þó sínum tilgangi á meðan var. Það eitt ætti að kalla á svolítið viðstaldur. Mannsævin er stutt, en ávallt minninga virði. Það finnst a.m.k. afkomendunum. Þeim finnst og mikilvægt að halda í minningu þeirra, öðrum eftirlifandi til áminningar og eftirbreytni. Ákvarðanatakar í bæjarstjórn Kópavogsbæjar virðast allir tröllum gefnir í þeim efnum.
Með elstu minjum stöðvarinnarÞegar inn í sendistöðina var komið birtist fyrst íslenskt karlkyns; Spói. Hann tók fagnandi á móti hálfkvenkynssammyndinni Brá – ætlaði reyndar aldrei að láta af fagnaðarlátununum. Greyið var reynar að koma úr eistaaðgerð og því ekki til stórræðna líklegur.
Inni í sendistöðinni var óendanlega mikið af sendum og öðrum tækjum. Aðallega stuttbylgju og langbylgjusendar fyrir flugfjarskipti. Í kjallaranum voru síðan fm sendar fyrir x-ið og einhverjar fleiri stöðvar. Ekki var þera neitt útvarpstæki, bara símtól sem hægt var að tengja við suma sendana. Í rauninni eru þarna minjar um upphaf fjarskipta hér á landi. Fyrsti sendirinn, „serial no 1“, brann að vísu yfir á sínum tíma, en þarna er enn „serial no 2“, sem verður að teljast allnokkur safngripur. Síðan tekur hver safngripurinn við af örðum – í þróunarröðinni. Sum nöfnin er alkunn, en önnur ekki. Í ljós kom að þekking og reynsla íslenskra sérfræðinga dugðu vel til að betrumbæta sum tækin þeannig að þau dugðu betur en áður þekktist. Það er jú varðveislunnar virði. Ekki er vitað til þess að saga loftskeytastöðvarinnar hafi verið skráð – líklegra er lengra í söguna en eyðileggingu hennar.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – langbylgjustöðin.

Fólk vill víst ekki hafa loftnetin þarna lengur, sem verður jú að teljast eðlilegt. Það verður víst að vera pláss fyrir fleiri blokkir eða einbýlishús í Kópavogi. Þó hefði ekki orðið fráfallssök þótt eitt ef elstu möstrunum hefði verið hlíft, sem minjamastri fyrir það sem var (hugsað fram í tímann).
Einkahlutafélag mun á næstunni hefja rekstur fjarskiptamastra á gamla varnarsvæðinu í nágrenni Grindavíkur samkvæmt upplýsingum blaðsins. „Í dag rekur félagið möstur við Rjúpnahæð í Kópavogi, en á því svæði stendur til að byggja og þurfa möstrin því að víkja. Þau möstur verða þó ekki flutt til Grindavíkur heldur munu Flugfjarskipti nota möstur sem bandaríski herinn skildi eftir við fjallið Þorbjörn. Möstrin á Rjúpnahæð verða tekin niður og gerður hefur verið samningur við Kópavogsbæ um frágang þess máls. Möstrin sem Flugfjarskipti hyggjast taka í notkun í námunda við Grindavík eru um 10-12 talsins, en þau verða notuð til fjarskipta við flugvélar á flugi í íslenska flugstjórnarsvæðinu yfir Norður-Atlantshafi.

Staðfesting á elsta "núlifandi" sendir stöðvarinnar

Í fyrra keypti Flugfjarskipti hluta jarðarinnar á Galtarstöðum í Flóahreppi og hugðust flytja möstrin sem standa á Rjúpnahæð þangað. Stjórn hreppsins hafnaði hins vegar beiðni Flugfjarskipta um að fá að reisa möstrin þar, en hæð þeirra átti að vara 18-36 metrar. Gert er ráð fyrir að flutningurinn frá Rjúpnahæð fari fram í áföngum á þessu ári og næsta, en möstrin á Rjúpnahæð verða í notkun þar til að fyrirtækið er endanlega flutt á nýjan stað. Kópavogsbær reiknar með að hægt verði að hefja byggingar af fullum krafti næsta sumar og að svæðið verði að mestu full byggt 2010-2011.“ Hið jákvæða í þessu öllu saman er að starfsemin færist til Grindavíkur, en hið neikvæða felst í niðurrifshugsjóninni.

Loftskeytastöðin

Loftskeytastöðin á Melunum.

Til frekari fróðleiks er rétt að rifja upp að loftskeytastöðin á Melunum tók til starfa 17. júní 1918. Þetta var neistasendistöð með krystalviðtækjum. Tvö 77 metra möstur voru reist fyrir loftnet. Loftskeytastöðin sendi út og tók á móti á morsi fyrsta áratuginn. Síðar annaðist hún einnig talskipti og veitti öllum skipum í námunda við Ísland ómetanlega þjónustu sem stórbætti öryggi sjófarenda.
Elsti sendirinn - sem væntanlega veðrur fargaðFrá örófi alda hafa menn reynt að finna aðferðir til að hafa samskipti við aðra. Sending reykmerkja og trumbusláttur eru meðal þeirra aðferða sem notaðar voru í upphafi en fjarskiptatækni nútímans byggist aftur á móti á eiginleikum rafmagns og rafsegulmagns. Gríðarlegar framfarir urðu í tæknimálum á 19. öld. Þá bjó t.d. Ampére til nálaritsíma og stuttu síðar smíðaði Morse nothæfan ritsímalykil og bjó til sérstakt stafróf. Árið 1876 talaði Bell í síma í fyrsta skipti og Marconi sendi fyrstu loftskeytin árið 1897.
Árið 1906 markar tímamót í fjarskiptasögu Íslendinga. Það ár var sæsímastrengur fyrir ritsíma lagður frá Skotlandi um Færeyjar til Íslands og kom hann á land á Seyðisfirði. Skeyta- og talsími var lagður frá Seyðisfirði um Akureyri og til Reykjavíkur og rauf hann einangrunina innanlands. Margir mótmæltu lagningu símans og töldu loftskeyti vænlegri kost en Hannesi Hafstein ráðherra tókst að sannfæra Alþingi um ágæti símans.

Pósthússtræti 3

Pósthússtræti 3 –
Barnaskóli, pósthús, símahús og lögreglutöð.
Í fyrstu hýsti húsið Barnaskóla Reykjavíkur (1883-1898) en þá var það tekið undir pósthús og stuttu síðar Landsíma Íslands. Árið 1931 var húsið tekið undir Lögreglustöð Reykjavíkur sem var hér til ársins 1965 þegar ný lögreglustöð var opnuð við Hlemm. Í kjallara hússins voru fangageymslur sem gengu undir nafninu „Steinninn“ eða „Grjótið.“

Það liðu þó mörg ár þar til allir landsmenn komust í símasamband en lagningu síma í sveitir lauk í kringum 1960 og voru þá enn margir símar á sömu línunni.

Landssími Íslands var stofnaður sama ár og símtæknin kom til landsins, árið 1906, og var hann til húsa í gamla barnaskólanum í Reykjavík á horni Pósthússtrætis og Hafnarstrætis. Fyrsti yfirmaður Landssímans var Norðmaðurinn Olav Forberg sem hafði stjórnað lagningu símalína um landið. Fyrstu menntuðu íslensku símamennirnir voru símritarar sem höfðu verið í námi hjá Mikla norræna ritsímafélaginu í Kaupmannahöfn.
Eftirsóknarvert þótti að vinna við talsímann og sköpuðust með honum ný atvinnutækifæri fyrir karla og konur. Árið 1935 var síma- og póstþjónustan sett undir einn hatt en árið 1998 skildu leiðir á ný og Landssími Íslands hf. var stofnaður.
Fornfálegheit lofskeytastöðvarinnarLoftskeytastöð tók til starfa á Melunum í Reykjavík þann 17. júní 1918 í því húsi sem Fjarskiptasafnið er nú og kallaðist hún Reykjavík radíó. Sunnan- og norðanmegin hennar voru tvær 77 m háar loftnetsstangir. Fyrsta kallmerki stöðvarinnar var OXR en árið 1919 var Íslandi úthlutað kallmerkinu TF og bar stöðin síðan kallmerkið TFA. Upphaflega var loftskeytastöðin hugsuð sem varasamband til útlanda, viðbót við sæsímann, en aðalhlutverk hennar varð brátt þjónusta við skip og báta og var hún bylting fyrir öryggi þeirra.
Í fyrstu fóru öll fjarskipti við skip fram á morsi en talfjarskipti hófust árið 1930. Fyrsta íslenska fiskiskipið sem fékk loftskeytatæki var togarinn Egill Skallagrímsson, árið 1920.

Rjúpnahæð

Möstur loftskeytastöðvarinnar á Rjúpnahæð.

Tveimur árum síðar var fyrsti loftskeytamaðurinn ráðinn til starfa á íslenskt skip. Þegar skipum með loftskeytatæki fór að fjölga varð hörgull á mönnum sem gátu sinnt þessum störfum og var því efnt til námskeiðs fyrir unga menn sem vildu læra loftskeytafræði. Lauk fyrsti hópurinn námi árið 1923. Á hernámsárunum var Reykjavík radíó undir eftirliti hernámsliðsins. Þá voru loftskeytastöðvar reistar víða um land, t.a.m. á Rjúpnahæð og tvær við Grindavík.
Síminn hefur sinnt radíóþjónustu við flugvélar frá því í lok síðari heimsstyrjaldar. Þeirri þjónustu er sinnt í Gufunesi. Stöðinni á Rjúpnahæð hefur jafnan verið fjarstýrt þaðan.

Landsímahúsið við Austurvöll

Landsímahúsið við Austurvöll.

Árið 1963 fluttist öll starfsemi Reykjavík radíó í Gufunes sem er nú aðalstrandstöð fyrir skip auk þess að veita flugvélum fjarskiptaþjónustu.

Reykvíkingar voru fljótir að taka við sér og fá sér síma. Árið 1912 voru notendur í bænum alls 300 talsins, tíu árum síðar voru þeir nær 1100 og árið 1928 voru um 2400 símnotendur í Reykjavík. Þrátt fyrir að búið væri að byggja eina hæð ofan á gömlu símstöðina voru þrengslin orðin slík að ekkert pláss var fyrir fleiri skiptiborð og voru vinnuaðstæður mjög erfiðar. Ákveðið var að reisa nýtt hús fyrir starfsemi Símans og fékkst til þess lóð við Austurvöll.

Rjúpnahæð

Loftskeystastöðin á Rjúpnahæð – MWL.

Árið 1932 voru fyrstu sjálfvirku símstöðvarnar í Reykjavík og Hafnarfirði teknar í notkun. Þá gátu bæjarbúar hringt hver í annan án þess að fá samband í gegnum „miðstöð“ og hafa eflaust einhverjir saknað þess að þurfa ekki lengur að tala við stúlkurnar þar.
Sjálfvirkum stöðvum fjölgaði smám saman á landinu og árið 1976 voru allir þéttbýlisstaðir komnir með sjálfvirkan síma. Árið 1986 voru allir símar landsmanna tengdir sjálfvirkum stöðvum og fréttir sem menn heyrðu óvart í gegnum sveitasímana heyrðu sögunni til.
Símastaurar og línur sáust vart lengur í landslaginu þar sem farið var að plægja strengina í jörðu eða setja upp radíósambönd. (Vonandi mun slík þróun og verða v/jarðvarmavirkjanir hér á landi til lengri framtiðar litið).

Loftskeytamöstur á Rjúpnahæð

Lagning ljósleiðara um landið hófst árið 1985. Með honum jukust talgæði til muna en stafræn kerfi eru auk þess öruggari og hagkvæmari en fyrri kerfi. Flutningur annarra gagna en símtala varð mögulegur og var almenna gagnaflutningsnetið tekið í notkun ári síðar. Fyrstu stafrænu (digital) símstöðvarnar voru opnaðar árið 1984 og náði sú tækni til allra símstöðva ellefu árum síðar. Með stafrænu tækninni var unnt að bjóða upp á ýmsa sérþjónustu. Íslendingar eru fljótir að tileinka sér nýjungar og það átti svo sannarlega við um farsímana. NMT-kerfið hóf göngu sína árið 1986 og GSM-kerfið árið 1994. Árið 1998 var breiðbandið tekið í notkun og verður það notað fyrir margvíslegan gagnaflutning í framtíðinni, s.s. síma, sjónvarp, útvarp og tölvur. Það hefur verið kallað upplýsingahraðbraut framtíðarinnar.

Scotice

Fyrstadagsumslag frá árinu 1962.

Talsamband við útlönd á stuttbylgjum var opnað árið 1935 og voru um 250 samtöl afgreidd fyrsta mánuðinn. Gjaldið fyrir útlandasímtal þætti hátt í dag en það var þá 33 kr. fyrir þriggja mínútna símtal sem jafngilti því sem næst heilu ærverði. Til samanburðar má geta þess að áskrift að dagblaði kostaði á sama tíma 2-3 kr. á mánuði. Nýr sæsímastrengur, Scotice, milli Skotlands og Íslands var tekinn í notkun árið 1962 og olli hann enn einni byltingunni í samskiptum Íslendinga og annarra þjóða. Í tengslum við strenginn var komið upp telexþjónustu hér á landi og varð hún mjög vinsæl hjá fyrirtækjum og stofnunum. Ári síðar var Icecan-strengurinn, milli Íslands og Kanada, formlega tekinn í notkun.
Elsta braggahúsið var á millum mastrannaÁrið 1980 kom jarðstöðin Skyggnir til sögunnar og fóru þá samtöl til útlanda um gervihnött. Þá var fyrst hægt að hringja beint til annarra landa. Skyggnir sinnir enn hluta þjónustunnar og er einnig notaður sem varaleið en árið 1994 var nýr sæstrengur, Cantat-3, tekinn í notkun. Hann liggur þvert yfir Atlantshafið, frá Evrópu til Ameríku, en grein frá honum
tengist Íslandi. Um hann fer nú meirihluti símtala frá landinu til útlanda og mikill gagnaflutningur, s.s. Internetið.
Í deiliskipulagi fyrir Rjúpnahæð segir m.a.: „Í tillögunni er gert ráð fyrir nýju íbúðarsvæði vestast í Rjúpnahæð. Nánar tiltekið afmarkast deiliskipulagssvæðið af opnu svæði við fyrirhugaða Smalaholti til vesturs, skógræktarsvæði og golfvelli GKG til norðurs, fyrirhugaðri byggð við Austurkór, Auðnukór og Álmakór til austurs sveitarfélagsmörkum Kópavogs og Garðabæjar til suðurs. Áætlað er að á svæðinu rís 120 íbúðir í sérbýli og fjölbýli. Aðkoma er fyrirhugðu Ásakór um Austurkór.“
Svo mörg voru þau orð…
Beitarhústóft frá Fífuhvammi norðan í RjúpnahæðVið skoðun FERLIRs komu í ljós tóftir norðan við afmarkaða girðingu loftskeytastöðvarinnar. Í gögnum segir að „í norðurhlíðum Rjúpnahæðar ofan golfvallar eru menjar gamals sels. Selið var verndað með bæjarvernd í tengslum við framkvæmdir sem áætlaðar voru á svæðinu. Framkvæmdir þessar voru Landgræðsluskógrækt, lagning reiðstíga og gerð golfvallar.“
Ef grannt er skoðað er þarna um að ræða leifar beitarhúss, væntanlega frá Fífuhvammi. Fífuhvammslækur hefur áður runnið um dalverpið, sem nú hefur verið fylt upp. Ofan við bakka þess hefur nefnt sel að öllum líkindum verið. Erfitt verður að staðsetja það af nákvæmni úr því sem komið er, bæði vegna þess að trjám hefur verið plantað í neðanverða hlíðina auk þess sem verulegt rask hefur orðið neðan hennar vegna undangenginna framkvæmda.
Mannvirkin og söguleg tilvist þeirra mun að óbreyttu hverfa á næstu mánuðum. Reyndar er leitt til þess að vita því áhugafólk um söfnun minja frá stríðsárunum hefur lengi leitað eftir slíku húsnæði fyrir safn. Myndirnar hér að ofan voru teknar í okt 2007, en myndin að neðan ári síðar. Segja má að nú sé Snorrabúð stekkur.

Heimildir m.a.:
-http://siminn/saga_simans/+loftskeytast.is
-http://www.fjarskiptahandbokin.is/
-Kopavogur.is

Loftskeytastöðin haustið 2008

Þorbjarnastaðaborg

 Tilkomumikil heilleg hringlaga fjárborg stendur á hrauntungu sunnan til í vesturjarðri Brunans (Nýjahrauns/Kapelluhrauns), fast neðan við svonefndar Brundtorfur. Borgin er orðin mosavaxin og fellur því nokkuð vel inn í landslagið umhverfis. Kunnugt minjaleitarfólk á þó auðvelt með að koma auga á leifarnar. Ekki eru allmörg ár síðan hleðslurnar voru alveg heilar, en vegna seinni tíðar ágangs hefur norðvesturhluti veggjarins hrunið inn að hluta. Hraukar nálægt FjárborginniEinhverjum hefur þótt við hæfi að ganga á veggnum með fyrrgreindum afleiðingum – og er það miður því þarna er bæði um einstaklega fallegt mannvirki að ræða frá fyrri tíð og auk þess heillegt og áþreifanlegt minnismerki um fyrri tíma búskaparhætti.
Undirlag Fjárborgarinnar er blandhraun, sem rann úr alllangri gígaröð árið 1151, þeirri sömu og gaf af sér Ögmundarhraun og hluta Afstapahrauns. Uppruni þessa hluta hraunsins er úr Rauðhól undir Vatnsskarði (sjá meira undir.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Fjárborgin mun vera hlaðin af börnum Þorbjarnarstaðahjónanna, þeirrar Ingveldar Jónsdóttur (dóttur Jóns Guðmundssonar á Setbergi (Jónssonar frá Haukadal í Biskupstungum (ættaður frá Álfsstöðum á Skeiðum)), og Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi, skömmu eftir aldarmótin 1900. Augljóst má telja að til hafi staðið að topphlaða borgina, ef marka má voldugan miðjugarðinn, lögun vegghleðslunnar og hellurnar, sem enn bíða upphleðslu utan við hana sem og umhverfis.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg í Selvogi.

Þorbjarnarstaðafjárborgin er svipuð að byggingarlagi og önnur fjárborg á Reykjanesskaganum, þ.e. Djúpudalaborgin í Selvogi, en bóndinn á Þorbjarnarstöðum var einmitt ættaður þaðan og hefur verið kunnugur hraunhelluhleðslulaginu er einkennir þá fjárborg. Hún stendur enn nokkuð heilleg, enda enn sem komið er orðið fyrir litlum ágangi manna.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Í Örnefnaskrá fyrir Þorbjarnastaði má sjá eftirfarandi um mannvistarleifar og örnefni í Brundtorfum: „Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré. Úr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Í Efrigóm Hrauntungukjafts er Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhellar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m.
Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir.“

Hrauntunguskjól

Hrauntunguskjól (Hellisskjól).

Þá má nefna Brundtorfuskjólið. Við skoðun á vettvangi mátti m.a. sjá ýmislegt og skynja annað. Fyrst og fremst er Fjárborgin fulltrúi u.þ.b 80 slíkra, sem enn sjást, í fyrrum landnámi Ingólfs.
Í öðru lagi er hún dæmigerð fyrir skýli þau er bændur reistu fé sínu allt frá landnámsöld fram í byrjun 20. aldar. Fé var ekki tekið í hús, enda engin slík til, en skjól gert fyrir það í hellum og skútum. Jafnan var gólfið sléttað og hlaðið fyrir til skjóls. Á annað hundrað slík mannvirki má enn sjá á svæðinu. Eitt þeirra er fyrrnefnt Hellishólsskjól skammt frá Fjárborginni.
Fjárborgin framanverðStaðurinn er tilvalinn til að hlaða mannvirki á; gnægð hraunhellna. Norðan við Fjárborgina má sjá hvar hellunum hefur verið staflað í hrauka með það fyrir augum að bera þær að borginni. Hraukarnir, sem og hraunhellurnar norðan í borginni, benda til þess að hætt hafi verið við verkið í miðju kafi. Staðsetningin er hins vegar ekki góð með hliðsjón að því að fé leiti þangað inn af sjálfsdáðum. Til að mæta því hafa verið hlaðnir tveir langir leiðigarðar út frá opi borgarinnar til suðurs, að gróningunum framanverðum.

Í stuttu innskoti má geta þess að örnefnið „Brundtorfur“ virðist hafa verið afleitt af „Brunatorfur“, enda var hraunið löngum nefnt „Bruninn“ og í þeim eru nokkrar grónar „torfur“; óbrinnishólmar. Einnig hefur svæðið verið nefnt „Brunntorfur“, en á því má í rigningartíð finna vatn í lægðum.

Þorbjarnarstaðaborg

Þorbjarnarstaðaborg í Hraunum.

Mannvirkið sjálft er reglulega og vandlega hlaðið. Útveggurinn hallar inn á við eftir því sem vegghleðslan hækkar. Hætt hefur verið við hana í u,þ.b. tveggja metra hæð. Inni í miðjum hringnum er hlaðinn garður, þó ekki samfastur útveggnum. Hlutverk hans hefur verið að halda undir þakið er að því kæmi. Ef mannvirkið hefði verið fullklárað hefði líklega verið um að ræða stærsta sjálfbæra helluhraunshúsið á þessu landssvæði.

Hellukofinn

Hellukofinn á Hellisheiði.

Helluhúsið (sæluhúsið) á Hellisheiði er byggt með svipuðu lagi, en minna. Þessi Hellukofi er borghlaðið sæluhús byggt við alfaraleið í kringum 1830. Þvermál þess er 1,85 sm og hæðin er 2 m. Hellukofinn hefur getað rúmað 4 – 5 manns. Talið er að Hellukofinn hafi verið byggður á svipuðum stað og gamla „Biskupsvarðan“ . Biskupsvarðan var ævafornt mannvirki, krosshlaðið þannig að menn og hestur gætu fengið skjól fyrir vindum úr nær öllum áttum. Þessi varða stóð fram á 19. öld en henni var ekki haldið við og var farin að hrynja. Grjótið úr vörðunni var notað til þess að byggja Hellukofann.
DyrnarEkki er að sjá að annað og eldra mannvirki hafi staðið þar sem Fjárborgin stendur nú. Hvatinn að Hellukofanum var að byggja sæluhús fyrir fólk upp úr fyrrum krosslaga fjárskjóli. Slík fjárskjól þekkjast vel á Reykjanesskaganum, s.s. sunnan við Reykjanesbrautina ofan Innri-Njarðvíkur og við Borgarkot á Vatnsleysuströnd.
En hver var hvatinn að byggingu Fjárborgarinnar – þessa mikla mannvirkis? Sennilega hefur hann verið af tvennum toga; annars vegar frekari mannvirkjagerð og úrbætur á svæði, sem þegar hafði að geyma fjárskjól, bæði Hellishólsskjólið norðvestar og Brunntorfuskjólið suðaustar, og auk þess hefur, ef að ættarlíkum lætur, í verkefninu falist ákveðin útrás fyrir atorkusamt fólk er hefur við yfirsetuna viljað hafa eitthvað meira fyrir stafni.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Þá má af líkum telja, sbr. framangreint, að heimilisfaðirinn hafi haft einhver áhrif þar á með frásögnum sínum af uppeldisstöðvum hans í Selvogi þar sem Djúpudalaborgin hefur verið böðuð mannvirkjaljóma, enda fá sambærileg og jafn stórkostleg mannvirki þá til á þessu landssvæði. Hafa ber þó í huga að Djúpudalaborgin er hálfu minni að ummáli og því auðveldari til topphleðslu. Umfang Þorbjarnastaðaborgarinnar hefur gert það að verkum fá upphafi að verkefnið var dæmt til að mistakast. Aðrar fjárborgir voru hálfhlaðnar og ekki að sjá að ætlunin hafi verið að hlaða þær hærra. Þó er þar ein undantekning á.
Fjárborgin innanverðFjárborgin á Strandarheiði ofan við Kálfatjörn er hringlaga, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m., þ.e.a.s. nokkurn veginn jafnstór Þorbjarnarstaðaborginni. Gólfið inni í borginni er grasi gróið og rennislétt. Ekki er vitað hvenær borgin var upphaflega hlaðin en menn telja hana nokkurra alda gamla. Munnmæli herma, að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest.

Staðarborg

Staðarborg.

Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat þannig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina samað að ofanverðu, kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951.
Innviðir StaðarborgarÞessi frásögn af Staðarborginni gæti einnig hafa haft áhrif á hleðslufólkið frá Þorbjarnarstöðum. Hraunhellum hefur verið raðað, sem enn má sjá, undir vegg borgarinnar að utanverðu svo auðveldara væri að velja úr hentugt grjót hverju sinni. Á svipaðan hátt og við gerð Staðarborgarinnar hefur eitthvað komið upp á er varð til þess að hætt var við verkið í miðjum klíðum. Ólíklegt er að þar hafi prestur gefið fyrirmæli um, en öllu líklegra að annað hvort hafi hjáseta yfir fé í Brundtorfum verið hætt um þetta leyti eða breytingar hafa orðið á mannaskipan að Þorbjarnarstöðum. Hafa ber í huga að til er frásögn af dugmiklum vinnumanni á Þorbjarnarstöðum á fyrri hluta 19. aldar (sjá meira undir. Ef hann hefur átt þarna einhvern hlut að máli er Fjárborgin u.þ.b. hálfri öld eldri en áætlað hefur verið hingað til.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Hvað sem öllum vangaveltum líður um tilurð og tilefni Þorbjarnarstaðafjárborgarinnar er hún enn mikilsumvert mannvirki; bæði áþreifanlegur minnisvarði um áræði forfeðranna er byggðu sína tilveru og framtíð afkomenda sinna á því sem til féll á hverjum stað hverju sinni og jafnframt vitnisburður um merkar búsetuminjar fyrri tíma.
Rétt er þó að geta þess svona í lokin að ekki er vitað til að starfsfólk Fornleifaverndar ríkisins hafi skoðað og metið mannvirkið til verðleika.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnastaði.

Þorbjarnarstaðafjárborg

 

Grænhóll

 Ætlunin var að leita að svonefndu Grænhólsskjóli á mörkum Lónakots og Hvassahrauns. FERLIR hafði áður reynt að finna skjólið, en tókst það ekki í það sinnið. Í þeirri lýsingu sagði m.a.:

Grænhóll

Grænhóll – merki Landmælinga Íslands.

„Þá var haldið yfir að Grænhól, eða Stóra-Grænhól. Þrátt fyrir leit sunnan við hólinn fannst svonefndur Grænhólsskúti ekki. Reyndar er ekki getið um Grænhólsskúta sem fjárskjól svo hann gæti verið einn af nokkrum tiltölulega litlum skútum sunnan við hólinn. Sá skúti gæti hafa fengið nafn vegna einhvers atburðar er þar á að hafa gerst, s.s. að maður hafi leitað þar skjóls undan veðri eða ö.þ.h.“

Eins og þekkt er orðið er FERLIR ekki á því að gefast upp þótt fara þurfi stundum nokkrar ferðir til að leita nafnkenndum mannvistarleifum.
Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun segir m.a.: „Þá tekur við stórt svæði, klettar og berg niður með sjó og við sjó. Þetta heitir einu nafni Hvalbása, þar rak hval. Upp af því er svo nafnlaus hraunfláki alla leið upp að Skyggni, nema Selningaklöpp er smáköpp niður og austur frá Skyggni. Grýlholt er brunabelti þar austur frá og Grænhólsskúti er suðaustur af Grænhól og þar upp af Grýlhólum upp að vegi er hraunhólabelti sem heitir Krapphólar.“

Grænhólsskúti

Í örnefnalýsingu fyrir fyrir Lónakot segir auk þess (Ari Gíslason): „Vestast í landi jarðarinnar er jaðarinn á Hraunsnesi, en það er tangi, sem gengur frá hrauninu fram í sjó og er á hreppamerkjum. Þar nokkuð ofar er í hrauninu hæð, sem heitir Skógarhóll, og enn ofar er Grænhóll. Er þá komið með merkin upp að vegi.“
Gísli Sigurðsson bætti um betur: „Af Markakletti lá landamerkjalínan milli Lónakots og Hvassahrauns upp í Skógarhól, þaðan í Stóra-Grænhól. Suður frá Grænhól var svo Grænhólsker, hættulegt fé. En í austur frá hólnum var Grænhólsskjól.“
Í framangreindum lýsingum á Grænhólsskúti að vera suðaustur eða austur af Grænhól. Þar hafði verið leitað áður svo ákveðið var að leita á svæði innan tiltekins radíus frá Grænhól. Við þá leit fannst skjólið; innan við eitthundrað metra suðaustur af hólnum – í skjóli fyrir austanáttinni, Lónakotsmeginn við markagirðinguna. Skjólið er austast í grunnu grónu ílöngu jarðfalli. Hlaðið hefur verið skútann til hálfs og dyr að vestanverðu. Grjót hefur fallið í dyrnar. Inni er sæmilega slétt gólf, þakið tófugrasi.
Frábært veður. Leitin tók 22 mín.
Útsýni frá Grænhólsskúta að Grænhól

Hermann

Í Mbl. þann 5. nóvember árið 1991 mátti lesa eftirfarandi frétt undir fyrirsögninni „Kindakjöt tekið úr innsigluðum gámi í Grindavík„:

grindviskir fjarbaendur-991Kindaskrokkar sem voru innsiglaðir í frystigámi í Grindavík var stolið sl. laugardag. Skrokkarnir voru settir í frystigám eftir að slátrun var stöðvuð í iðnaðarhúsnæði í lok september.
Skrokkarnir hafa verið í frystigámi meðan beðið var úrlausnar hvað ætti að gera við þá. Heilbrigðisnefnd Suðurnesja var búin að kveða upp úr með að kjötið skyldi afhent eigendum en yfirdýralæknir kærði þann úrskurð til heilbrigðisráðuneytis sem leitaði eftir umsögn Hollustuverndar og síðan var að lokum kveðið upp úr með að kjötinu skyldi fargað. Staðið hefur á fullnustu úrskurðarins og kjötið verið í frystigámi síðan til að verja það skemmdum.
Lögreglunni í Grindavík barst síðan tilkynning á laugardagskvöld að kjötið væri farið úr gáminum og kom þá í ljós að búið var að rjúfa innsiglið og kjötið, 125 skrokkar, var allt á bak og burt. Að sögn lögreglunnar er málið í rannsókn og verst hún allra frétta af því. Ekki er vitað hver eða hverjir stóðu að verknaðinum. Það er litið mjög alvarlega á það að rjúfa innsigli og það í sjálfu sér varðar við hegningarlög.“

Kjöthvarið

Hermann: „Við bara bárum kjötið yfir í bílinn“. Sigurður Ágústsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, hlustar.

Í kjölfarið hófst umfangsmikil aðgerð og síðan rannsókn lögreglunnar í Keflavík, yfirheyrslur og leitir undir háværri fjölmiðlaumfjöllun – án árangurs.

Nú, tæplega 20 árum síðar hefur einn þátttakandanna, Hermann Ólafsson, upplýst rannsóknarfólk FERLIRs um málsatvik – þ.e. hvað raunverulega gerðist, í grófum dráttum. Öðrum nöfnum er haldið leyndum enn um sinn.

Kjöthvarfið

Kjöthvarfið – myndin er úr eftirlitsmyndavél.

„Þetta er viðurkenning á gömlu „glæpamáli“, upplýsti Hermann.  „Magnús heilbrigði frá heilbrigðiseftirlitinu krafðist þess að lögreglan innsiglaði [slátur]húsið. Tveimur eða þremur dögum seinna kröfðumst við að fá að setja kjötið í frystigám til að koma í veg fyrir að það eyðilegðist. Menn voru ekki alveg klárir á hvort urða ætti kjötið á þeirri stundu. Skömmu seinna kom maður á bíl frá Sorpeyðingustöðinni með nýjan gám og sagðist eiga að sækja kjötið. Við höfðum samband við lögregluna, sem sagði við manninn að enn væri ekki búið að klára málið. Við það hvarf hann á braut.

Um kvöldið fórum við þangað niðureftir og tökum úr sambandi ljósið stóra á planinu, höfðum fengið lánaðan bílinn hjá J, Econolinerinn stóra, bökkuðum honum inn á gólf, söguðum innsiglið hvasst við gáminn, bárum allt kjötið yfir í bílinn og gerðum allt klárt; lokuðum gámnum, límdum lásinn með tonnataki og límdum innsiglið á aftur.

Kjöthvarfið

Hermann: „Þetta var svo spennandi“.

R var með okkur á staðnum, en við D fórum tveir á bílnum. Ferðinni var heitið út í Garð. Þar átti kjötið að fara í gám hjá H, sem átti von á okkur.
Ég gleymi aldrei þeirri stundu er ég opnaði hurðina á húsinu með fjarstýringunni, bíllinn var svo þungur. Hann rétt hafði þetta. Ég man þetta alltaf, eins og það hefði gerst í gær.

Kjöthvarfið

Hermann: „Lögreglan yfirheyrði okkur, án árangurs“.

Við keyrðum Reykjanesleiðina úteftir. Þegar við komum út í Víkur var spennan orðin svo mikil að ég sagði við D: „Finnst þér þetta ekki gaman?“. „Jú“, svaraði D og hló.
Svo fórum við út í Garð. H átti að vera úti í Sandgerði, á afleggjaranum þar, og taka á móti okkur, en hann miskildi þetta eitthvað. Hann var a.m.k. ekki þar. Við komum kjötinu fyrir í gámnum í garði og keyrðum hina leiðina til baka. Þá fundum við H sofandi í aftursætinu á bílnum sínum þar. Ég varð svo reiður að ég stökk út og sló í þak bílsins til að vekja hann. Honum dauðbrá.

Kjöthvarfið

Hermann: „Það var búið að undirbúa þetta.“

Búið var undirbúa þetta þannig að einn okkar færi til Hveragerðis og hringdi í lögregluna úr tíkallasíma klukkan átta kvöldið eftir og tilkynnti að verið væri að stela kjötinu úr gámnum. Síðan átti hann einfaldlega að leggja á.  Í millitíðinni átti annar maður að fara upp að húsinu, þar sem gámurinn var, í myrkrinu, klippa á innsiglið, opna gáminn upp á gátt og láta sig hverfa að því búnu.

lögregla

Lögreglumenn að störfum.

Innan skamms kom svo lögreglan á staðinn, og það með ekki litlum látum. Gámurinn stóð opinn og tímafrek rannsóknin hófst.
Margir voru yfirheyrðir vegna málsins. Og auðvitað var þeirra á meðal rokið beint til mín. Allt gerðist þetta mjög hratt. 
Í framhaldinu byrjaði yfirheyrslan. Ég settist niður og lögreglumaðurinn byrjaði að vélrita án þess að spyrja mig um nokkurn skapan hlut. Ég var búinn að undirbúa mig, en nú þyrmdi yfir mig, fór að ókyrrast – vissi ekki á hverju ég átti von. Þögnin og óvissan voru yfirþyrmandi. 

Kjöthvarfið

Hermann: „Lögreglan spurði mig hvort ég ætti þátt, en ég svaraði neitandi.“

„Þú hefur ekkert komið að þessu innbroti?“, spurði lögreglumaðurinn allt í einu.
„Nei, nei“, svaraði ég – og virtist hissa. Ég hlít að hafa verið bara nokkuð sannfærandi – og bætti við: „Þetta er svo sem búið og gert; við höfum slátrað heima hingað til eins og um alllanga tíð“. 

Lögregla

Sveinn Björnsson, Jóhannes og Eddi í rannsóknarlögreglu Hafnarfjarðar.

Þá segir hann: „Já, ég skil ekki þessi fíflalæti!“
Við þetta viðhorf létti mér óumræðanlega. Eftirleikurinn varð því tiltölulega auðveldur.
Svona var þetta. Fáir hafa hingað til vitað hvernig þetta gekk í raun og veru fyrir sig. Margar getgátur hafa hafa verið á lofti, en ónákvæmar. „Dularfulla kjöthvarfið“, átti sér stað, sem fyrr sagði, fyrirr- u.þ.b. 32 árum síðan.“

Til nánari upplýsinga um aðdraganda framangreinds mál er rétt að rifja upp tvær aðrar blaðafregnir. Sú fyrri birtist í DV þann 27. september 1991 undir fyrirsögninni „Heimaslátrun stöðvuð í Grindavík“:

Vildum spara okkur akstur til Selfoss – segir Hermann Ólafsson fjáreigandi „Við erum búnir að eiga kindur síðan við vorum smábörn og heimaslátrun hefur viðgengist síðan sögur hófust.

Kjöthvarfið

Hermann á tali við fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjón í Grindavík.

Ef við hefðum slátrað heima í fjárhúsunum hefði enginn sagt neitt en svo eru þessi læti þegar við ætlum að fara rétt að hlutunum,“ sagði Hermann Ólafsson, einn fjáreigendanna í Grindavík sem slátraði fé sínu sjálfur í gær.

Þrettán „hobbíbændur“ tóku sig saman og slátruðu 120 kindum í nýuppgerðu iðnaðarhúsnæði í Grindavík í gær. Þegar upp komst lét heilbrigðisfulltrúi innsigla húsnæðið. „Það var mættur bíll frá sorpeyðingarstöðinni og það átti að henda öllu kjötinu en lögreglan stöðvaði það sem betur fer og lögreglustjóri tekur væntanlega ákvörðun um það í dag hvað gert verður við kjötið.“
Hhrutar-991ermann sagði þá ekki hafa verið að fela neitt og að það hefði alltaf verið meiningin að nota allt kjötið til einkaneyslu. Þeir hefðu bara viljað spara sér 200 kílómetra akstur til Selfoss.“

Í seinni fréttinni, sem birtist í Tímanum 2. nóv. 1991 undir fyrirsögninni „Hverjir mega, hverjir ekki? segir:
„Í haust voru „hobbýbændur“ í Grindavík stöðvaðir af heilbrigðisyfirvöldum við heimaslátrun í þéttbýli. Kjötið var gert upptækt, en endanleg niðurstaða málsins hefur ekki fengist ennþá. Hvort sem menn vilja tala um það í hálfum hljóðum eða upphátt, er það staðreynd að heimaslátrun er algeng, bæði til einkanota, gjafa og sölu. Þetta á við um flestar tegundir kjöts, en að öllum líkindum er mest um að stórgripum sé slátrað utan sláturhúsa. En hvaða lög og reglugerðir gilda um heimaslátrun?

Greindavíkurréttir

Hermann í Stakkavík og Birgir á Hópi í Grindavíkurréttum.

Í lögum no. 30 frá 1966 um meðferð, skoðun og mat sláturafurða segir að heimaslátrun sé bönnuð öðru vísi en til einkanota. Í heilbrigðisreglugerð no. 149 frá síðasta ári segir hins vegar að í kaupstöðum og kauptúnum sé óheimilt að slátra búfé utan sláturhúsa, enda þótt afurðir séu ætlaðar til heimilisnota eingöngu. öll heimaslátrun utan kaupstaða og kauptúna sé óheimil; ábúandi lögbýlis í strjálbýli megi þó slátra hæfilegum fjölda af eigin búfé heima á lögbýlinu, sé það eingöngu ætlað til heimilisnota á lögbýlinu. Með öllu sé óheimilt að selja slíkt kjöt eða á annan hátt dreifa því frá lögbýlinu, til dæmis til gjafa, vinnslu og frystingar.“

Þar höfum við það. Kannski var þetta bara aldrei neitt mál? Hverjir áttu kjötið? Hver var að stela frá hverjum? Kannski var bara engu stolið þegar upp var staðið!?…

Hermann upplýsti síðar í viðtali við einn FERLIRsfélagann: „Að fenginni reynslu skil ég ekki hvers vegna við gerðum ekki þá kröfu á hendur ríkinu að það bætti okkur skaðann. Kjötið var jú í vörslu þess þegar það hvarf!?…

Heimild:
-DV, 27. september 1991, bls. 40.
-DV 30. september 1991, bls. 48.
-Morgunblaðið 1. okt. 1991, bls. 7.
-Tíminn 2. nóv. 1991, bls. 1.
-Mbl. 5. nóv. 1991.
-Uppljóstrari FERLIRs, Hermann Ólafsson í Stakkavík.

Thorkotlustadahverfi-pan-991

 

Drumbdalaleið

 Gengið var frá Bala á Vigdísarvöllum inn á Drumbdalastíg (-veg/-leið) er liggur yfir sunnanverðan Sveifluháls og áleiðis að Krýsuvíkurbæjunum undir Bæjarfelli.
DrumbdalastígurTil baka var ætlunin að ganga að hinum fornu bæjartóftum Gestsstaða og um Hettustíg að Vigdísarvöllum, en vegna óvæntra uppgötvanna á leiðinni var ákveðið að breyta út af upphaflegri leiðardagskrá. Sú ákvörðun leiddi til enn óvæntari uppgötvana, sem lesa má um hér á eftir.

Drumbdalastígur, er liggur millum Stóra- og Litla-Drumbs, hefur einnig verið nefndur Sveifla sbr. kort, sem gefið var út af Bókmenntafélaginu 1831, og auk þess, skv. korti Ólafs Ólavíusar (1775), þar sem hálsinn er nefndur  Austari Móhálsar, er leiðin nefnd Móhálsastígur. Þarna var gamla kirkjugatan milli Vigdísarvalla og Krýsuvíkur. Í raun er um svolítinn misskilning að ræða er stafar að því að þeir, sem færðu upplýsingarnar á blað, höfðu ekki gengið leiðirnar sjálfir; Sveifla er sunnan undir Hettur og um hana liggur gömul þjóðleið upp frá Gestsstöðum í Krýsuvík. Við suðaustanverða Hettu eru gatnamót, annars vegar götu er liggur áfram til norðurs að Ketilsstíg og hins vegar götu er liggur til vesturs að Vigdísarvöllum, svonefndur Hettustígur.
Tóftir Vigdísarvalla - Mælifell fjærir Nú var ætlunin að sannreyna hinar ýmsu „tilgátur“ um fyrrnefndan Drumbdalastíg. Gömul kort, t.d. kortið frá 1831, sýnir stíginn liggja norðan Drumbs, en nýrri kort, s.s. frá Hafnarfjarðarbæ (gildandi aðalskipulag) og Reykjanesfólkvangi, sýna stíginn liggja sunnan við Drumb (sem reyndar er algerlega út úr kú). Líkleg ástæða er sú að Drumbur hefur verið (við skrifborðið) yfirfærður á litla bróður hans norðanverðan. Þetta átti eftir að skýrast betur á leiðinni framundan. Í fyrrnefnda tilvikinu höfðu heimamenn (presturinn) greinilega lagt út leiðina, en í því síðara hefur gatan verið dregin upp eftir kortagrunni við skrifborð á bæjarskrifstofunum (eða annars staðar).
Þegar lagt var af stað frá tóftum Bala var ákveðið að ganga yfir tóftum Vigdísarvalla og hefja gönguna þar. Þrjú nýbýli risu í Krýsuvíkurlandi á 19. öldinni, öll í fyrri seljalöndum. Árið 1830 reis nýbýli á Vigdísarvöllum, kennt við þá. Í Jarðartali J. Johnsen 1847 eru taldar sjö hjáleigur með Krýsuvík og eru Vigdísarvellir og Bali meðal þeirra. Hvorug þessara hjáleiga er nefnd í Jarðarbók Árna og Páls. Bali lá syðst [vestast] á Vigdísarvöllum.
DrumbdalastígurÍ nýrri jarðarbók fyrir Ísland frá 1848 er getið um átta hjáleiga með Krýsuvík og hafa Fitjar bæst við. Fitjar voru vestast á Selöldu. Enn má finna rústir þessara kotbæja, enda eru þeir merktir inn á kort. Fitjar og Bali virðast hafa lagst í eyði eftir skamma hríð, en Vigdísarvellir héldust í byggð fram yfir aldamót, þrátt fyrir endurtekna skaða vegna jarðskjálfta. Ólíklegt er að Krýsuvíkurbændur hafi leigt úr selstöður eftir að þessi býli byggðust.”
Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningaminjar í Grindavík frá árinu 2001 segir að Vigdísarvellir hafi verið hjáleiga Krýsuvíkur en nýtt sem selsstaða frá Þórkötlustöðum. “Selstöðu brúkar jörðin [Þórkötlustaðir] og hefur lengi brúkað í Krýsuvíkurlandi, þar em heitir á Vigdísarvöllum, segja menn að selstaðan sjé ljéð frá Krýsuvík, en Krýsuvík aftur ljeð skipstaða fyrir Þórkötlustaðalandi. Vigdísarvellir eru nýbýli frá 1830, en var áður selstaða. Var í eyði um 1880, en byggðist á ný fram yfir aldamótin 1900 [Saga Grindavíkur]. Baðstofan hrundi í jarðskjálfta 28. eða 29. janúar 1905 og stórskemmdust þá öll hús á Vigdísarvöllum og á Litla-Nýjabæ.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Tóftir Bala virðast nú mest áberandi þarna undir Bæjarfelli (Grindvíkingar nefna það Bæjarháls sbr. merkingar á kortum). Ástæðan er fyrst og fremst sú að við bæinn sunnanverðan var hlaðin fráfærurétt, sem notuð var talsvert eftir að hann fór í eyði.

Drykkjarsteinn efst í Drumbdal.

Gengið var til austurs yfir að tóftum Vigdísarvallabæjarins. Þegar tóftirnar eru skoðaðar má vel sjá hvernig bæjarskipanin hefur verið; Þrjár burstir hafa verið á bænum mót suðri, en sú austasta verið án dyra. Þar var baðstofa og innan af henni afrými bændahjónana. Vestar var eldhús, innst, og framrými innan við aðalinnganginn. Vestan hans var skemma og vestast gerði með fjósi nyrst, fast við bæinn. Hugsanlega hefur verið innangengt úr bænum í fjósið. Rýmið gæti hafa hýst 3-4 kýr. Austar er matjurtargarður, sem eflaust hefur verið brúkaður eftir að búskapur lagðist af á Vigdísarvöllum.

Bali

Bali.

Aftan við bæinn eru tóftir, líklega sauðakofi. Garður umlykur heimatúnið, frá austanverðri fjallhlíð Bæjarfells (mót suðri) til austanverðs Núphlíðarhálsar. Annars er áhugavert að skoða fyrrnefnt kort Björns Gunnlaugssonar (Bókmenntafélagsins) frá árinu 1831 því þar nefndir hann hálsinn Vestari Móháls og Seifluháls Austari Móháls, þ.e. norðurhluta hans.

Drumbur

Svo virðist sem garður hafi verið innan heimatúngarðsins, en ljóst er að þar hefur verið gamall lækjarfarvegur. Lækurinn sá gerir jafnan vart við sig eftir miklar rigningar. Þótt lítill virðist vera öllu jöfnu hefur honum tekist að skapa Vigdísarvellina alla um árþúsundir, þegjandi og hljóðarlaust. Lækurinn, ónafngreindur, hefur hlaupið þarna um víða völlu, allt eftir aðstæðum á hverjum tíma. Honum hefur tekist að sigrast á þeim öllum, enda er hann um þessar mundir að undirbyggja framburð sinn í Ögmundarhrauni, sunnan Ísólfskálavegar, og gengur bara býsna vel. Ef af líkum lætur mun honum takast, smám saman, þótt lítill sé, að bera undir sig leir og jarðveg úr vesturhlíðum Sveifluhálsar; fylla upp í hraun og sprungur, allt þangað til hann mun renna fram af og blandast samdropum sínum í Atlantshafinu neðan Miðreka. Annars er „lækurinn“ tveir slíkir. Annar rennur um Vigdísarvelli og hinn frá Hettuhlíðum um Bleikingsdal. Lækirnir sameinast síðan á Klettavöllum (Suðurvöllum), nokkru sunnar. Þaðan rennur hann óheftur að „endalokunum“ (sunnan Ísólfsskálavegar).
Vegna mísvísandi upplýsinga um ætlaða legu Drumbdalastígs var ákveðið að láta þær allar lönd og leið, en byrja þess í stað á að nýju á upphafsstað.
Gata liggur frá framangreindum bæjarstæðum til suðausturs, yfir þýflendi, upp hlíð og áfram inn gróðursælan dal. Efst og fremst á brúnum hans er gatan djúpt mörkuð í móbergshelluna.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur um Drumbdal. Vigdísarvellir framundan.

Dalurinn innan af, hömrum girtur að austanverðu, hefur ekkert nafn. Einn þátttakendanna kom með þá tilgátu að þarna gæti verið um hinn eiginlega „Litla-Hamradal“ að ræða. Hálfnafni hans, Stóri-Hamradalur, væri mun framar í austanverðum „Vestari Móhálsi“, en það dalverpi, sem nú nýtur nafngiftarinnar „Litli-Hamradalur“ gæti í raun ekki státað af neinum hömrum. Sá dalur hefði stundum gengið undir nafninu Görnin. Samkvæmt upplýsingum Lofts Jónssonar í Grindavík nær görnin frá Stóra-Hamradal og að brún framan í Núpshlíð. Bílvegurinn liggur um hluta Garnarinnar. Til hennar hefur jafnan verið vísað í landamerkjalýsingum Krýsuvíkur og Ísólfsskála. Segja verður eins og er að þessi fallegi dalur, Stóri-hamradalur, hömrum girtur að austanverðu, hefur án efa verðskuldað nafngift fyrrum, enda lá kirkjugatan milli Vigdísarvalla og Krýsuvíkur um hann í u.þ.b. hálfa öld.

Drumbdalastígur

Drumbdalastígur.

Sunnan við „Litla-Hamradal“ beygir gatan til austurs, inn í sunnanverðan Bleikingsdal, þvert yfir hann og á ská upp hann að austanverðu. Ofan hans sést gatan vel, en síður þar sem hún beygir til norðausturs enn ofar. Þegar hlíðin þar var skágengin var komið upp í Drumbsdal. Efst á brúnum voru tröllkatlar; hin ákjósanlegustu drykkjarsteinar, fullir af vatni. Frá brúninni sást bæði heim að Vigdísarvöllum og yfir að Bæjarfelli framundan. Stóri-Drumbur ber þar hæst við á hægri hönd og Litli-Drumbur á þá vinstri. Millum eru tvær smávaxnir grágrýtishólar.

Gullhamrar

Gullhamrar.

Drumbdalastígur liggur niður Sveifluhálsinn austanverðan, að sunnanverðu. Þar beygir hann áleiðis niður að Einbúa uns komið er á gömlu þjóðleiðina millum Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Skammt norðar á sunnanverðum hálsinum er gerði undir háum móbergsklettum; Gullhamrar. Vörðubrot má enn sjá við götuna, sem og hlaðna brú yfir moldarflag. Gatan kemur að Krýsuvíkurkirkju við réttina sunnnan í Bæjarfelli.
Hverfum nú svolítið til fyrri tíðar. Eftirfarandi er frásögn Gísla Sigurðssonar um leiðir í Krýsuvík þar sem hann lýsir Drumbdalastígnum og leiðum að honum frá Krýsuvík…
Drumbdalastígur að Vigdísarvöllum“Við höfum verið við guðsþjónustu í Krýsuvíkurkirkju. Við höfum notið góðgerða á heimili kirkjuhaldarans. Við kveðjum þá alla með virktum. Komnir fram á hlað ráðum við ráðum okkar, því um tvær leiðir er um að ræða. Við tökum þá sem liggur austur úr túni, enda verðum við samferða Norðurkotsbóndanum. Við förum ofan traðanna og yfir Dalinn í Norðurkotstraðir og eftir þeim. Norðurkotsbóndinn fer heim til sín, en við höldum austur og innar með Bæjarfelli. Erum áður en langt um líður komin að garði er liggur ofan úr fellinu og út á Rauðhólsmýrina, er garður þessi átti að liggja norðan og ofan við Litla-Nýjabæ, en verkinu lauk þarna úti í mýrinni. Þegar komið er alveg norður fyrir fellið verður fyrir okkur steinn mikill og n okkrar rústir kringum hann. Hér er Hafliðastekkur, en hvenær sá Hafliði bjó hér og hafði hér stekk er ekki að vita. Héðan stefnum við svo norður og upp mýrina austan við Skugga og þar upp á hálsinn.

Hús í selstöðunni

Við erum þá aftur stödd heima á hlaði í Krýsuvík. Og nú höldum við vestur um Dal í túninu og þar vestur úr Vesturtúngarðshliði og erum áður en varir komin á Alfaraleiðina gömlu, upp á Bæjarhálsi og höldum eins og leið liggur vestur yfir melana að Svartakletti, vestur frá honum norðan við Einbúa og þar upp á Hálsinn og erum þá komin að Stóra-Drumb.
Höldum svo norður um ofanverða Drumbsdali og yfir hálsinn hjá Litla-Drumb. Leið þessi nefnist Drumbsdalastígur. Þegar þangað kemur sveigir gatan nokkuð til norð-austurs og niður að læk. Þá er vert að staldra við. Ég var svo heppinn fyrir nokkru, að fá í hendurnar kort, sem út var gefið 1831 af Bókmenntafélaginu, eins og þar stendur “af hinu íslenska bókmenntafélagi”. Þegar ég leit á þetta kort og tók að lesa örnefni og fleira, hvað er það þá sem ég rekst á? Ekkert minna en að leiðin sem við erum að fara um, þegar kemur norður fyrir Litla-Drumb. Hún nefnist S V E I F L A: Og þá höfum við fundið hvers vegna Austurhálsinn er kenndur við, en eins og þið vitið nefnist hann SVEIFLUHÁLS: Vil ég einnig minna á að hálsarnir hér eru á korti Ólafs Ólavíusar (1775), kallaðir Móhálsar og leiðin hér, kirkjugatan frá Vigdísarvöllum er þar nefnd MÓHÁLSASTÍGUR. Einnig eru hálsarnir nefndir Núpshlíðarháls (Vesturháls) og Sveifluháls (Austurháls) eins og áður greinir.
Stekkur í Við höldum svo niður af hálsinum að Kringlumýrarlæk og austur með honum að vaði yfir hann. En áður en við höldum áfram er ómaksins vert að koma við þar sem lækurinn fellur vestur af og niður. Þar fellur hann um móbergsklappir. Hefur hann, þó lítill sé, grafið gil í móbergið og skilið þar eftir sig þvílíkan skúlptúr að aðdáunarvert er. Brestur mig orð til að lýsa hvílíka fegurð þar er að finna. En sjón er sögu ríkari og komið þið með með og skoðið listaverk þessa litla lækjar.
Við höldum svo niður af Hálsinum í dalinn milli Móhálsanna og yfir að Vigdísarvöllum. Það er af Vigdísarvöllum að segja, að um aldir var þar selstöð frá Þorkötlustöðum í Grindavík. Var selstaðan látin í té fyrir skipsuppsátur á Þorkötlustöðum. 1834 segja kirkjubækur fyrst frá því, að þar sé ábúandi, leiguliði frá Krýsuvík. Bali aftur á móti er ekki byggður fyrr en 1845 og er í byggð fram til 1870. En Vigdísarvellir voru í byggð fram um aldamótin síðustu. Um æði margar gönguleiðir er að ræða frá Vigdísarvöllum.”
Eins og segir fyrr í þessum texta var ákveðið að ganga til baka eftir mögulegum Drumbdalastíg. Af fyrri heimildum að dæma virtist hann hafa legið um „víða völlu“.
Til að gera langa göngu stutta kom í ljós að Drumbdalastígur liggur svo til beinustu leið milli Vigdísarvallabæjanna og Krýsuvíkur; allnokkuð fjarri hinum „opinberu leiðarmerkingum“.
Tóftir BalaÁ ferðalaginu uppgötvuðust óvæntar tóftir; að öllum líkindum ummerki eftir Þórkötlustaðaselið, allt til 1830. Um var að ræða hlaðinn stekk, hús og kví. Ummerkin, hver af öðrum, staðfestu grunsemdirnar. Selstaðan er staðsett á einstaklega skjólsælum stað og þarna hefur lækurinn líklega runnið fyrrum. Vigdísarvellirnir sjálfir hafa verið hinir ágætustu bithagar og með tilvist selsins er komin skýring á hlöðnu fjárskjóli þarna skammt frá. Bleikingsvellirnir suðaustanverðir hafa auk þess verið einstaklega góðir bithagar, auk þess sem svæðið allt hefur verið hið ákjósanlegast fyrir smalann.

Reykjanesskaginn býður upp á ótrúlega möguleika, ekki einungis í jarðvarmaorkuframleiðslu til skammrar framtíðar heldur og til nýtingarmöguleika ósnotinnar náttúru til langrar framtíðar.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir (Bali). Horft af Bæjarhálsi. Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Hingað til hafa ferðamenn, sem hingað koma, einkum verið að sækjast eftir ósnortinni náttúru. Það eitt gefur tilefni til að ætla hversu eftirsóknarverð og „dýrmæt“ ósnortin náttúra mun verða eftir s.s. eina öld – þ.e. þegar barnabörn okkar munu vera að vaxa úr grasi og þurfa á atvinnutækifærum að halda.
Um þessar mundir eru gróðaöflin því miður allsráðandi. Takmarkið er að gera sér mat úr öllu mögulegu, kaupa á kostakjörum og selja með margföldum gróða. Hvernig og á hvers kostnað sá gróði er fengin virðist ekki skipta neinu máli – enda fáir að velta slíku fyrir sér.
Nauðsynlegt er að horfa svolítið fram á veginn, yfir næstu hæðir og hálsa – jafnvel til langrar framtíðar!
Frábært veður. Gangan tók
4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:

-Handrit Gísla Sigurðssonar – Landslag og leiðir – Útvarpið – Gönguleiðir út frá Krýsuvík.
-hafnarfjordur.is
-reykjanesfolkvangur.is
-kort – Björn Gunnlaugasson – 1931.
-Lýsing – Olafur Olavius.
-Orri Vésteinsson.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Jól

 Jól hefjast á miðnætti 25. desember. Þau eiga sér á norðurslóðum ævaforna sögu tengda vetrarsólhvörfum.

Jól

Nafnið er norrænt, og er einnig til í fornensku. Frummerking þess er óljós. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær jól voru haldin í heiðnum sið, sennilega með fullu tungli í skammdeginu. Ekki vita menn heldur hvernig þau voru haldin, nema að þau voru „drukkin“ með matar- og ölveislum. Buðu íslenskir höfðingjar oft fjölmenni til jóladrykkju. Norræn jól féllu síðar saman við kristna hátíð. Svipuð kristnun heiðinna hátíða um þetta leyti hafði áður átt sér stað suður við Miðjarðarhaf, og var þá ýmist minnst fæðingar Krists eða skírnar.
Á 4. og 5. öld komst sú venja víðast á að minnast fæðingarinnar 25. desember en skírnarinnar og tilbeiðslu vitringanna 6. janúar, og má þangað rekja jóladagana 13 á Íslandi. Helgi aðfangadagskvölds á rót sína í vöku sem almenn var kvöldið fyrir katólskar stórhátíðir enda var oft talið að sólarhringurinn byrjaði á miðjum aftni klukkan sex. Fasta fyrir jól var einnig lögboðin, stundum miðuð við Andrésmessu 30. nóvember, en oftast fjórða sunnudag fyrir jól. Þaðan eru sprottnir aðventusiðir síðari tíma.

Jól

Mikil þjóðtrú tengist jólum og jólaföstu í miðju íslensku skammdegi. Grýla er þekkt sem flagð frá 13. öld og er á 17. – 18. öld barnaæta tengd jólunum. Fyrst fréttist af jólasveinum á 17. öld sem afkvæmi Grýlu og miklu illþýði. Þeir taka nokkuð að mildast á 19. öld, koma þá ýmist af fjöllum eða af hafi, eru oftast 9 eða 13. Spurnir eru af rúmlega sjötíu jólasveinanöfnum. Seint á 19. öld tekur eðli jólasveina og útlit að blandast dönskum jólanissum annarsvegar en evrópskum og amerískum jólakarli hinsvegar.
Um 1930 verður sú aðlögun að jólasveinarnir koma fram í rauðum alþjóðaklæðnaði og verða gjafmildir, en halda íslenskum sérnöfnum og fjölda. Um miðja 20. öld fóru jólasveinarnir að gefa börnum í skóinn að norðurevrópskum sið.

Jól

Til jólahaldsins var oft slátrað kind á fyrri öldum og höfð kjötsúpa á aðfangadagskvöld. Hangiket var einnig fastur jólamatur, en rjúpur upphaflega fátækrafæði. Vegna korneklu voru grautar og brauðmeti þó mesta nýnæmið eins og við önnur hátíðabrigði á fyrri öldum, þar á meðal laufabrauðið sem áður virðist útbreitt um allt land en einkum norðan og norðaustan eftir miðja 19. öld.
Snemma á 20. öld hefst kökugerð í stórum stíl til jóla og yfirgnæfði sjálfan jólamatinn, en hefur nú látið undan síga fyrir fjölbreyttara veislufæði. Jólatré breiddust upphaflega út frá mótmælendum í Þýskalandi. Einstaka grenitré tók að berast til Íslands á síðara hluta 19. aldar en slík jólatré urðu ekki algeng fyrr en um síðari heimsstyrjöld. Þangað til var hérlendis oftast notast við heimasmíðuð tré. Jólagjafir tíðkuðust ekki hérlendis fyrr en seint á 19. öld, og voru sumargjafir öldum saman almennari. Hinsvegar fékk vinnufólk og heimilismenn sitthvað klæðakyns fyrir jólin sem einskonar launauppbót. Tengdar því eru sagnir um jólaköttinn, sem á sér ættingja í nautslíki við Eystrasalt og annan af geitarkyni í Noregi.

Heimild:
-Saga daganna eftir Árna Björnsson, útgefin 1996.

Jól

Jólasveinn.

Eldborg

„Löngu áður en Ísland byggðist og saga þess hefst hafa afar mikil eldsumbrot orðið á Reykjanesskaganum, og má svo heita að allur vestur hluti hans sé hraunstorkið flatlendi, sem er þó svo gamalt að ógjörlegt er að segja, hvenær það hafi brunnið eða hvaðan það hafi runnið. Upp úr hraunbreiðu þessari standa þó einstakir móbergshnúkar og eldvörp, sem allt eru gamlar eldstöðvar en þó mjög misgamlar.
Vordufellsborgi-221Út úr miðhálendinu íslenzka gengur svo langur fjallarani í suðvestur og út á Reykjanes. Þessi samfellda fjallatunga nær allt vestur á miðjan skagann eða vestur á móts við Grindavík og er mjög eldbrunnin, enda er þar hinn mesti urmull af eldgígum og öðrum gosstöðvum.
Þó að langmestur hluti hinna víðáttu miklu hrauna á Reykjanesskaganum hafi runnið áður en sögur hefjast, og engar sagnir séu til af þeim náttúruhamförum, sem myndað hafa undirstöðu skagans, þá er málum þó ekki svo farið, að engin gos hafi orðið eða engin hraun runnið svo að sögur fari af.

Herbert

Á ofanverðum áttunda tug tólftu aldar dvaldist í hinu fræga cisterciensaklaustri í Clairvaux (Clara vallis) í Frakklandi kapellán,
sem Herbert hét eða Herbertus. Herbert þessi hafði áður verið ábóti í Mores í héraðinu Longres og varð síðar erkibiskup í Torres á Sardíníu.
Á meðan Herbert dvaldist í Clairvaux-klaustri, samdi hann rit mikið, sem heitir Liber miraculorum eða Bók undranna. Þetta ritverk hefur varðveitzt í þremur handritum, en þó ekki í heild nema í einu þeirra, sem er pergament-handrit frá klaustrinu Aldersbech í Passau og varðveitt í ríkisbókhlöðunni í Munchen (Cod. lat. Monac. 2607 4to). Þetta handrit er frá því snemma á 13. öld.
Í ritinu Chronicon Clarevallense, frá þriðja tug 13. aldar, er sagt, að Herbert hafi ritað bók sína árið 1178. En í ritgerð, sem birtist í sænska tímaritinu Scandia 1931, hefur prófessor Lauritz Weibull í Lundi sýnt fram á, að bókin hafi ekki verið rituð öll á því ári, heldur á árunum 1178—1180.
Meðfylgjandi myndir eru smækkaðar myndir af textasíðunum 107v og 108r í Múnchen-handritinu.

Í íslenzkum annálum og öðrum fornum heimildum er all oft getið elda, er uppi hafa verið á Reykjanesi og hrauna er runnið hafa, en þó má gera ráð fyrir því að ekki sé allra slíkra viðburða getið í þeim heimildum, er nú eru til, því að ekkert af þeim er ritað á Suðurnesjum eða í grend við þau, heldur á fjarlægari stöðum, og má geta nærri, að heimildaritararnir hafi ekki haft mjög nákvæmar fréttir af því, sem gerðist á Reykjanesi suður, enda var skaginn þá mjög afskektur og illur yfirferðar og talinn hinn mesti útkjálki, þó að hann liggi nú í þjóðbraut. Heimildirnar eru með öðrum orðum mjög svo ónákvæmar, og algengt er, að þeim beri ekki saman í frásögnum af eldsumbrotunum og gætir oft mjög miklu bæði um ártöl og annað, t. d. hafa margir annálarithöfundar ruglað saman Trölladyngjum hér syðra við samnefnd fjöll á Austurlandi.
Bæði Eggert Ólafsson og Sveinn Pálsson, sem ferðuðust mikið um landið mestallt og ritað hafa stórmerkar og yfirgripsmiklar lýsingar á landi og þjóð, minnast á það, hversu heimildirnar um gos og hraunrennsli á Reykjanesi séu rýrar að vöxtum og ónákvæmar, og Sveinn kennir því um að íbúar skagans hafi verið of menntunar litlir og lítt gefnir fyrir bókleg fræði og ritstörf, til þess að sjónarvottar að þeim umbrotum, sem orðið hafa, hafi fært nákvæmar frásagnir af þeim í letur.
Margra ára nábýli við danska valdsmanninn á Be
ssastöðum og hörð lífskjör við óblíðar höfuðskepnur hafi þjakað svo íbúa skagans, og fengið, þeim annað að hugsa um en að færa í letur lýsingar á atburðum, sem gerðust samtíma þeim.
Draugahlidargigur-221Mig langar nú til þess að tína saman þau helztu af þeim lauslegu frásagnar brotum, sem til eru af eldgosum á Reykjanesi og á hafsbotni fyrir utan skagann, og mun ég telja þau upp í réttri tímaröð, eftir því sem unnt er.

Árið 1000 er fyrst getið um eldgos á Íslandi, sem hægt er að árfæra með fullri vissu, og er þess getið í Kristnisögu. Þetta skeður sama árið og kristni er lögleidd hér á landi og voru menn einmitt á þingi, er fréttin barst til eyrna þeirra um, að hraunflóð streymdi niður í Ölfus og stefndi á bæ Þórodds goða. Heiðnir menn þóttust strax sjá, að hér væri um hefnd reiðra guða að ræða, og kváðu það eigi undur, þó að goðin reiddust slíkum tölum sem um trúskiptin voru við höfð.
Eldborg-221Þá var það, að Snorri goði sagði hin frægu og rökvísu orð: „Um hvat reiddust guðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á ? “ en það hraun brann löngu áður en nokkur maður steig fæti sínum á íslenzka grund, svo að enginn hefur þá getað orðið til þess að móðga goðin.
Það var áður fyrr almennt ætlun manna að þetta hraun, sem hér getur hafi verið Þurrárhraun, sem runnið hefur úr mikilli gígaröð á há Hellisheiði við svokallað Hellisskarð. Hitt er þó miklu líklegra, að hér sé um annað hraun að ræða, er Eldborgarhraun heitir og runnið hefur úr nokkrum eldgígum austan við Meitla (Stóra og Litla Meitil) og einu nafni heita Eldborg. Þetta hraun er mjög lítið gróið og fellur niður í Ölfus miklu nær Hjalla heldur en Þurrárhraun. Meitlar eru nokkru austar en Bláfjöll.

Trolladyngja-221Árið 1151 er eldur uppi í Trölladyngju. Samfara gosi þessu urðu miklir jarðskjálftar á Reykjanesi og varð af þeim nokkurt tjón bæði á mönnum og húsum. Trölladyngja er í norður endanum á allmiklum fjallarana, sem Vesturháls heitir eða Núphlíðarháls (hálsinn endar að sunnan í fjalli þvi, er Núphlíð heitir og er oft nefndur eftir því). Háls þessi liggur frá norðaustri til suðvesturs og er 13—14 km. langur. Hann liggur samhliða en nokkru (ca. 4 km.) vestar en Austurháls eða öðru nafni Sveifluháls. Kleifarvatn liggur svo alveg austan undir þeim hálsi.

Mávahlíðar

Mávahlíðar.

Norðaustur af Trölladyngju eru Mávahlíðar, þar eru margir sundurtættir smá gígir, og hafa þaðan runnið hraunkvíslir saman við Afstapahraun, en það hefur átt aðalupptök sín í Trölladyngju og þeim fjölda gíga, sem eru umhverfis hana í fjallarananum. Afstapahraun hefur runnið allt til sjávar á milli Vatnsleysu og Hraunbæja og fyrir vestan svokallaða Almenninga eða vestast í þeim. En Almenningar eru einu nafni nefnd ákaflega víðlend hraunbreyða og gömul, sem nær allt frá Hvaleyri suður á Vatnsleysuströnd. Austur hluti þessarar hraunbreiðu hefur runnið úr mörgum gígaröðum í svonefndum Undirhlíðum, sem liggja norðaustur frá Mávahlíðum en í áframhaldi af Sveifluhálsi. Frá gígum við Helgafell og miðgígunum við Undirhlíðar hefur Kapelluhraun runnið ofan á gömlu hraununum og til sjávar rétt austan við Straum. Hraunið hefur sennilega runnið á Söguöldinni og er í annálum alltaf kallað „nýja hraun“. Það ber nafn af því, hversu úfið það er.

Afstapahraun-221

Árið 1188 er enn eldur uppí í Trölladyngju.
Árið 1211 (aðrir segja 1210) urðu mikil eldsumbrot í sjó fyrir Reykjanesi. Þá risu Eldeyjar hinar nýju úr hafi, en hinar hurfu, er alla ævi höfðu staðið (ísl. annálar). Miklir landskjálftar fylgdu og margt manna lét lífið, 18 manns að sögn Guðmundarsögu.
Árið 1219 er enn eldur fyrir Reykjanesi og jarðskjálftar miklir.
Árin 1223—1227 voru alltaf öðru hvoru umbrot fyrir Reykjanesi og jarðskjálftar.
Samfara þeim var og mikil óáran árin 1226 og 1227, myrkt var um miðjan dag svo sem nótt væri af sandfoki og ösku.
Sumarið 1226 var t. d. kallað rotsumar hið mikla og veturinn, sem var fellivetur mikill, sandvetur.
Árið 1231 er ennþá eldur uppi fyrir utan Reykjanes og var mikill grasbrestur um sumarið, sem kallað var sandsumar.
Árið 1238 er enn gos fyrir Reykjanesi, án þess þó að frekari sagni r séu til um það.
Árið 1240 er enn eldgos fyrir Reykjanesi og er þess getið, að sól hafi orðið rauð. Landskjálftar urðu og svo miklir á Suðurnesjum, að sex bæir hrundu þar til grunna. Ekki er Arnarseturshraun-221þó getið um, að manntjón hafi orðið.
Árið 1285 er getið um, að land hafi fundizt vestur af Íslandi, og Skálholtsannáll segir, að þá hafi Duneyjar fundizt. Hins vegar er landfundur þessi ekki settur í samband við eldgos eða eldsumbrot svo að getið sé.
Eldsumbrota á 13. öldinni og um aldamótin 1300 á hafsbotni fyrir utan Reykjanes er oft getið erlendis, og það eru talin stór undur, að sjórinn skuli brenna.
Árið 1340. Gísli biskup Oddsson segir í annálum sinum frá eldgosi í Trölladyngju þetta ár og segir, að hraun hafi runnið í sjó fram í Selvogi. Þetta mun þó næsta ómögulegi, vegna þess að þar á milli eru tveir fjallgarðar, svo að hraun hefur ekki getað runnið frá Trölladyngju og niður í Selvog. Hins vegar má geta þess, að mjög nýleg hraun hafa runnið úr Brennisteinsfjöllum, Kistufelli og nálægum eldgígum og einmitt niður í Selvog. Svo að líklega hefur eldurinn verið uppi einhverstaðar á þeim eystri slóðum, en það ruglazt til hjá Gísla, enda er þessa goss í Trölladyngju hvergi getið annars staðar.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Þetta sama ár halda menn og, að Ögmundarhraun hafi runnið [rann reyndar 1151], en það kom úr þrem gígaröðum við suðaustur hornið á Núphlíðarhálsi og rann niður í sunnanverða dældina, sem er á milli Austur- og Vestur-hálsanna (Núphlíðar- og Sveifluhálsa) og rann svo allt til sjávar austan frá Krýsuvíkurbjargi og vestur að Ísólfsskála. Hraunflóð þetta hefur vafalaust farið að nokkru yfir byggð, og sér enn allmikilla bæjarrústar austast í hrauninu í svokölluðum Húshólma, og segir Eggert Ólafsson, að þar hafi verið kirkjustaður, er Hólmsstaður hafi heitið og sjái ennþá minjar kirkjugarðsins. Hraunið er ákaflega úfið og ógreitt yfirferðar, og sagt er, að nafn þess sé þannig til komið, að maður að nafni Ögmundur hafi verið fenginn til þess að ryðja slóð yfir hraunið og skyldi hann svo taka vegatoll af hverjum vegfarenda, sem um hraunið færi.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni.

Til tollgæslunnar reisti hann sér svo hreysi við austur enda ruðningsins. En ferðamenn hafa ekki kunnað þessari kvöð, ef þeir þurftu að leggja leið sína um hraunið, því svo mikið er víst, að eitt sinn, þegar að er komið finnst Ögmundur myrtur við kofa sinn. Hann var svo dysjaður í hraunbrúninni eystri og sér þar enn dysina. En nafn vegagerðarmannsins hélzt svo við hraunið.
Vestan hraunsins og norðan rís Núpahlíð upp í þverhnýptu hamrabelti. Jarðsig hefur eflaust orðið, þegar hraunið rann, og jörðin klofnað um eldsprunguna, því að uppi á hamrabeltisbrúninni sér hálfa eldgígana. Í annáli Gísla biskups segir enn sama ár: „Einnig Reykjaneshöfði eyddist í eldi meira en að hálfu, sjást merki hans ennþá í rúmsjó, gnæfandi drangar, sem af þessu nefnast Eldeyjar, — eða Driftarsteinn, eins og eldri menn vilja kalla þá.
Sömuleiðis Geirfuglasker, þar sem allt til þessa sjást fjölmargir brunnir steinar“.

Geirfuglasker

Geirfuglasker.

Slíka voða viðburði segja aðrir orðið hafa árin 1389—1390 og eru frá þeim tíma uppi munnmæli um, að Reykjanes hafi eyðst að hálfu. Slíkar sagnir, frá hvoru árinu sem er, munu þó ekki á rökum reistar, af því að í Fornskjalasami Íslands er gamalt skjal frá 1270, sem sýnir, að þá hafi landslag á nestánni verið það sama sem í dag og sömu örnefni.
Árið 1360. Eldsuppkoma enn í Trölladyngju, og Flateyjarannáll getur þess, að margir bæir hafi eyðst austur í Mýrdal vegna öskufalls, vikurinn hafi borizt upp á Mýrar og eldana séð af Snæfellsnesi. Sennilega hafa þó verið eldar uppi samtímis í Austurjöklunum, af því að ólíklegt er, að vikurfall úr Trölladyngju hafi eytt bæi í Mýrdal, sérstaklega sem þess er ekki getið frá nærsveitunum, að gosið hafi verið sérlega stórfenglegt.
Nupshlidarhals-221Árið 1389—90 er enn greint frá eldgosi í Trölladyngju og í frásögn af því gætir sömu firrunnar nú hjá Jóni Espólín, þar sem hann segir frá því, að hraun hafi runnið þaðan suður í sjó og austur í Selvog. Líklegra er að þau hraun, sem hann getur um, að runnið hafi suður til hafs, hafi komið úr gígaröðum syðst á Núphlíðarhálsi og fyrir vestan hálsinn, og séu nýjustu hraunin, sem runnið hafa í grennd við Ísólfsskála.
Árið 1422 er eldur uppi útsuður frá Reykjanesi. Lögmannsannáll segir frá því gosi þannig: „ … kom upp eldur í hafi í útsuður undan Reykjanesi, skaut þar landi upp, sem sjá má síðan, þeir er þar fara nærri síðan“.
Árið 1510. Gos í Trölladyngju, ekki er frekar skýrt frá gosi þessu.
Árið 1583 var eldur uppi fyrir Reykjanesi, og Gísli biskup Oddsson getur þess, að kaupmenn frá Bremen hafi séð eldana brenna í hafdjúpinu og þótt stór undur.

Eldey

Eldey.

Árið 1783. Snemma í maí mánuði þetta ár sjá sæfarendur reykjarmökk mikinn stíga upp úr hafinu um 7 mílur út af Reykjanestá, og ösku og vikurfallið var svo mikið, að skip á þeim slóðum, á um það bil 20—30 mílna svæði, áttu illt með, að komast í gegn um vikurhrannirnar. Hafði myndast þarna allhá klettaeyja og sögðu sumir, að hún hefði verið full míla að ummáli, en aðrir voru ekki eins stórtækir og töldu ummál hennar einungis verið hafa þriðjungur úr mílu. Sjávardýpi umhverfis eyna hafði og breytzt all-verulega, og boði, sem braut mjög á, hafði myndazt l1/3 mílu í norðaustur frá eyjunni.
Með konungsúrskurði frá 26. júní s. á. sló Danakonungur og stjórn eign sinni á þessa nýju eyju, sem var nefnd Konungsey. En þetta nýja land eða eyja virðist ekki hafa kunnað hinni konunglegu náð og virðing sem skyldi og hvarf aftur í djúpin blá til uppruna síns. En það er ætlun manna, að Eldeyjarboði svonefndur sé leifar þessarar horfnu eyju, eða, að hann hafi að minnsta kosti orðið til við eldsumbrotin þetta ár.
Stampahraun-221Þetta sama ár, en litlu síðar eða 8. júní, hefjast hinir ægilegu Skaftáreldar, sem stóðu svo nær til áramóta. Móðuharðindin, einhver þau ægilegustu harðindi og vesöld, sem yfir landið hafa gengið, fylgdu svo í kjölfar þessara elda.
Árið 1830 er enn eldur fyrir Reykjanesi með all-miklu vikurgosi. Það var hinn 6. eða 7. mars (aðrir segja 13. mars), að eldsins varð fyrst vart skammt fyrir sunnan og vestan Eldeyjarboða, og stóð fram í maímánuð.
Árið 1879 er gos fyrir Reykjanesi. Dagana 30. og 31. maí sáu menn frá Kirkjuvogi í Höfnum eldsuppkomu nálægt Geirfuglaskerjum hér um bil 8 mílur undan landi eða á mjög svipuðum slóðum og eldsins varð vart árið 1830. 

geirfugl-221

Næsta hálfan mánuð, eða fram um miðjan júní, var svo kolsvört þokubræla yfir hafinu, vestur af Reykjanesi, en þokulaust allsstaðar fyrir innan. Rétt áður en þokunni létti varð svo allmikið öskufall á landi og sá þess vel merki á grasi, en eldsins urðu menn ekki varir nema áður nefnda tvo daga; vikur sást heldur enginn og engir jarðskjálftar fundust svo að getið sá, svo að vart hefur gos þetta verið mjög mikið, og þess er aðeins getið ýtarlegar en annarra gosa, þó að meiri munu hafa verið, vegna þess hversu skammt er síðan það var.
Árið 1884 í júlí mánuði þóttust ýmsir hafa orðið varir við eldgos úti fyrir Reykjanesi, en engar nákvæmar né áreiðanlegar fréttir urðu af því og er mjög vafasamt hvort rétt sé hermt. Sumir þóttust jafnvel hafa séð nýja eyju rísa úr djúpinu þann 26. júlí fyrir norðvestan Eldey í um það bil þriggja mílna fjarlægð.
Ég hefi nú drepið lauslega á eldsumbrot þau, er sögur og annálar greina frá að verið hafi á Reykjanesskaganum og fyrir vestan hann á hafsbotni, og talið þau upp í réttri tímaröð.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.

Það er hins vegar víst, að mörg hraun á Reykjanesskaganum hafa brunnið síðan á landnámstíð, þó að gosanna sé hvergi getið og menn viti því ekki með neinni vissu hvaðan þau hafa runnið, enda mergð gíganna svo gífurleg, að eðlilegt er, að annálahöfundar og aðrir heimildarritarar hafi ruglað þeim saman, er þeir gátu um gos og hraunrennsli í sambandi við þau. En alla leið suður og vestur endilangan skagann má segja, að sé samfelld röð eldgíga stórra og smárra, og það er ekki laust við, að ennþá sé hiti í sumum þeirra, t. d. sumum upp af Grindavík.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – sveimar.

Allar eldstöðvarnar á skaganum liggja í nokkurn veginn beinni línu frá norðaustri til suðvesturs, og sömu stefnu hefur eldstöðvahryggurinn, sem liggur neðan sjávar frá ystu nöf skagans. Þetta er og sama megin eldstöðva línan, sem liggur um þvert landið, og eyjan Jan Mayen, sem er eldbrunnin, liggur á mjög svipaðri línu, langt norður í hafi. Þá er skaginn einnig mjög sundur skorinn af gjám og sprungum sem hafa flestar sömu stefnu og gígaraðirnar og eru á svipuðum slóðum. Það er alls ekki óhugsandi, að einhver hinna mörgu gíga á Reykjanesi taki upp á þeim ósköpum að fara að gjósa, áður en langt um líður.
Kaldarsel-221Ég vil í þessu sambandi minnast nokkrum orðum á jarðskjálfta, sem hafa gengið yfir Reykjanesskagann og hafa haft sögulegar afleiðingar i för með sér; sumra hefi ég þegar getið, eða þeirra, sem hafa staðið í sambandi við eldgos á þessum slóðum. Ég minnist á jarðskjálftana hér í þessu sambandi, vegna þess að þeir standa einmitt svo oft í nánum tengslum við eldgos, enda þótt slíkt sé ekki endilega nauðsynlegt; og jarðskjálftar þurfa engan veginn að orsakast af eldgosum beinlínis. Verstu og hættulegustu landskjálftarnir hafa venjulega komið sem þjófur á nóttu og ekki sýnilegt, að þeir hafi staðið í neinu sambandi við eldgos. Hins vegar fylgist að, að eldgosasvæði eru einnig mjög oft meiri landskjálftasvæði en önnur.

Jarðskjálftar

Jarðskjálftar á Reykjanesi í júlí 2004.

Jarðfræðirannsóknir hafa sýnt, að jarðskjálftakippir eru nátengdir brestum og sprungum í jarðskorpunni, en á eldgosasvæði eru einmitt miklu meir af sprungum og gjám en annars staðar, en eins og áður getur þá er Reykjanesskaginn ákaflega sprunginn og sundur skorinn; jarðskjálftar eru líka mjög tíðir á skaganum einkum sunnan til á honum, sér í lagi eru smákippir tíðir.
Á fyrri öldum hafa menn mjög fáar frásagnir af jarðskjálftum á skaganum, líklega vegna þess hveru linir og meinlausir þeir hafa oftast verið, og mönnum ekki þótt í frásögur færandi nema þeir yrðu mönnum eða skepnum að bana, leggðu bæi í rústir eða röskuðu til jörðinni.
Herdisarvik 1900-221Árið 1663 er eiginlega fyrst getið jarðskjálfta á Reykjanesi svo að nokkru nemi. Að sögn séra Þorkels Arngrímssonar Vídalín í Görðum eyddi þá marga bæi um skagann allan. Kleifarvatn minnkaði stórlega; vatnið sogaðist svo í gjár neðanjarðar, að nú varð fær vegur fram með því undir klettunum, en áður hafði vatnið náð 300 fet upp í hamarinn. Þá er þess getið í riti nokkru, sem gefið var út í Frankfurt 1715, að jarðskjálfti hafi orðið á Íslandi 1653, og sagt, að borgin „Keplavvick“ hafi þá beðið mikið tjón. Ef nokkur fótur er fyrir þessu, gæti hér verið um sama jarðskjálftann að ræða, en ártalið skolast til.
Árið 1724 ganga enn landskjálftar yfir Reykjanesskagann aðallega að sunnan og austan. Bærinn í Herdísarvík hrundi, og ráðsmaður Skálholtsstóls, Arngrímur Bjarnason að nafni, dó undir Krýsuvíkurbjargi við sölvatekju af grjótflugi úr bjarginu.
Árið 1754 er enn getið landskjálfta, og í Krýsuvík kom upp nýr hver 6 faðma víður og 3 faðma djúpur.
Badstofa-221Árið 1879 urðu allharðir landskjálftakippir á Reykjanesskaga um lok maímánaðar. Harðastir voru þeir um hverasvæðið við Krýsuvík; bær féll á Vigdísarvöllum og fólk flúði úr bæjum í Nýjabæ við Krýsuvík.
Árið 1887, morguninn hinn 28. október urðu allmiklir jarðskjálftar víða um Suðurland, en voru lang harðastir utarlega á Reykjanesskaga, og í Höfnum fundust um daginn 40 kippir og voru sumir mjög harðir. Valahnúkur, sem Reykjanesvitinn stóð þá á, klofanaði og mynduðust þar þrjár eða fleiri sprungur allmiklar, og var ein þeirra aðeins um 3 álnir frá sjálfum vitanum; síðar þetta ár (í desember) féll 7 faðma langt og 3 faðma breitt stykki framan úr hnúknum. Á ljósabúnaði vitant urðu allmikil spjöll og vitavörður varð að slökkva öll ljós í honum. Upp úr þessu var vitinn svo fluttur af hnúknum vegna þess að menn voru alls ekki lengur óhultir með hann á þeim stað. Þá sprungu og veggir í steinolíuhúsi vitans og bær vitavarðarins skekktist einnig og skemmdist. Leirhverinn Gunna, sem er skammt austan við bæinn á Reykjanesi á svo kölluðum Hvervöllum, breyttist einnig talsvert.
reykjanesviti 1884Árið 1889, um haustið, 13. október, urðu harðar jarðskjálftahreyfingar víða kringum Faxaflóa. Skip í hafi fyrir Reykjanesi urðu greinilega vör þessara jarðhræringa. Mestir urðu jarðskjálftar þessir á Krýsuvíkursvæðinu, en minni þegar lengra kom fram á skagann og enginn spjöll urðu á vitanum né umhverfis hann. Hús hrundi á Hvassahrauni og steinhús á Sjónarhól klofnaði og ýms smávægilegri spjöll urðu á húsum á Vatnsleysu-ströndinni. Á Vigdísarvöllum og í Krýsuvík hrundu allmörg peningshús algjörlega.
Árið 1896, hið ægilega jarðskjálftaár, þegar allt Suðurlandsundirlendið lék á reiðiskjálfi síðari hluta sumars, urðu menn á Reykjanesskaganum aðeins lítillega varir við jarðskjálfta.
Árið 1899 urðu enn jarðhræringar við Faxaflóa sunnanverðan og lang harðastir suður með sjó á Reykjanesskaganum. Aðfaranótt 27. febrúar fundust t. d. 12 kippir, sumir mjög harðir, í Keflavík milli kl. 1 og 2,15. Í Höfnum hrundi kotbær einn, Magnúsarbær í Kirkjuvogi, til grunna, en hann var heldur lélega byggður. Jarðskjálftar þessir urðu þó lang mestir úti á Reykjanestánni sjálfri í grend við vitann, og ekki varð kveikt á honum á meðan jarðskjálftinn stóð yfir. Þá þorði fólkið ekki að hafast við í bænum um nóttina, vegna þess að grjótflug var nokkturt úr fellinu, sem bærinn stendur undir. Hús höfðu og skekkst og sprungið, og tröppurnar við vitadyrnar höfðu sprungið frá, ljóskeilan oltið á hliðina og glasið brotið.

Reykjanes

Reykjanes – misgengi.

Þá hafði 200 faðma löng sprunga komið í jörðina við Gunnuhver og stefndi hún frá landnorðri til útsuðurs, eða eins og allar aðrar eldsprungur á Reykjanesskaganum.
Ég hefi nú drepið mjög lauslega á helztu eldsumbrotin og jarðskjálftana, sem orðið hafa á Reykjanesskaganum frá því að land okkar byggðist fyrir um það bil tíu og hálfri öld síðan og sem getið er í fornum heimildum bæði annálum og sögum. Ég hefi tínt þessi brot saman úr ýmsum áttum, en hefi þó aðallega stuðst við hin gagnmerku rit Þorvaldar Thoroddsen: Lýsing Íslands, Jarðskjálftar á Suðurlandi og Landskjálftar á Íslandi auk Íslenzkra Annála. Einnig hefi ég haft hliðsjón af og tekið atburði eftir þeim ritum, sem nú skulu talin: Íslenzk Annálabrot og Undur Íslands eftir Gísla Oddsson biskup í Skálholti; Ferðabók þeirra félaganna Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar ritaða af þeim fyrrnefnda; Ferðabók Sveins Pálssonar og Rit um jarðelda á Íslandi, sem Markús Loftsson, bóndi á Hjörleifshöfða, hefur safnað til og ritað.

Husholmi-grafreiturÉg vil taka það fram, að ég hefi einungið tekið þessi brot saman og látið frá mér fara með það fyrir augum, að það gæti orðið til þess, að þeir, sem á Reykjanesskaganum búa og greinarkorn þetta lesa, myndu ef til vill frekar minnast og halda til haga sögnum, sem þeir hafa heyrt frá atburðum þeim, sem hér greinir frá, eða öðrum, sem eru þess verðir, að sagnir og lýsingar af þeim séu geymdar en ekki gleymdar og sem myndu verða kærkomnar upplýsingar og heimildir fyrir þann eða þá, sem síðar eiga eftir að fást við að rita tilkomna lýsingu þessa eldbrunna skaga og sögu þeirra manna, sem hann hafa byggt, allt frá því að Ingólfur Arnarson, fyrsti landnámsmaðurinn, sló eign sinni á hann gjörvallan og til vorra tíma.“

Heimild:
-Faxi, 8. árg. 1948, 3. tbl., bls. 10.
-Faxi, 8. árg. 1948, 4. tbl., bls. 6-7.
-Faxi, 8. árg. 1948, 5. tbl., bls. 3-4.

Eldgos

Eldgos í Geldingadölum 2021. – Árni Sæberg.