Elliðavatn

Elliðavatn (Vatn) var löngum ein þekktasta jörðin í nágrenni Reykjavíkur og höfðingjasetur á tímabili. Bæjarstæðið er glæsilegt, en umhverfið gerbreyttist þegar stíflað var vegna vatnsmiðlunar 1924. Þá stækkaði vatnið um helming, en hinar frægu Elliðavatnsengjar hurfu. Bújörðin Elliðavatn er ekki til lengur, hún er orðin hluti af friðlandinu í Heiðmörk.

Elliðavatn

Elliðavatn – Ben. Gröndal.

Flest nútímafólk hefur enga hugmynd um þær umhverfisbreytingar sem orðið hafa á bökkum Elliðavatns, eða hvernig vatnið leit út á fyrsta fjórðungi 20. aldarinnar. Ásamt með beitarlandinu uppi á Elliðavatnsheiði voru víðáttumiklar og grasgefnar engjar beztu hlunnindi jarðarinnar á Vatni. Túnið var alltaf lítið, en hafi Elliðavatnsbændur náð í starung á engjunum; sem ekki er ólíklegt, þá var hann kúgæft hey og þótti geysileg búbót. Lítið eitt vestan við miðju vatnsins eins og það er nú var allstór eyja sem skildi vötnin nánast að. Úr vestara vatninu rann áin Dimma allar götur niður að brúnni við núverandi Seláshverfi. Þar rann í hana áin Bugða, en svo heitir neðsti og vestasti hluti Hólmsár. Tvö læmi tengdu þó árnar saman við hólinn Skyggni, skammt frá stíflunni sem síðar kom.

Elliðavatn

Elliðavatn – stífla.

Á árunum 1923-1928 eignaðist Rafmagnsveita Reykjavíkur jörðina Elliðavatn og 1924 var ráðizt í vatnsmiðlun með stíflu sem síðar var tvívegis hækkuð og flestir þekkja þessa stíflu núna. Við stíflugerðina hefur vatnsborð Elliðavatns hækkað hvorki meira né minna en um heilan metra og vatnið hefur stækkað um það bil um helming. Eyjan út af Þingnesi fór að stórum hluta í kaf, svo og hinar rómuðu Elliðavatnsengjar.
Ekki verður séð að því hafi verið mótmælt árið 1924, eða að tilfinning hafi verið fyrir því að þarna væri verið að vinna náttúruspjöll.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Elliðavatn, þessi náttúruperla við útmörk höfuðborgarsvæðisins, er að stórum hluta uppistöðulón. Í umhverfi Elliðavatns er víðast hvar fagurt um að litast og bærinn sem ber nafn af vatninu var byggður á fallegum stað á nesi sem skagar út í vatnið frá austri. Það land sem fyrrum tilheyrði jörðinni Elliðavatni var þó aldrei stórt. Vatnsendaland var mun stærra og Hólmsland var það einnig; það náði allar götur upp í Bláfjöll, sunnan við Elliðavatn.
Allt er þetta umhverfi mikilfenglegt, en einhver fegursti reiturinn er við smærri vötnin norðaustur og austur af Elliðavatnsbænum: hjá Helluvatni, Hrauntúnstjörn og Kirkjuhólmatjörn. Þessi undrafögru smávötn sjást þegar ekið er sem leið liggur að Elliðavatni framhjá Rauðhólunum. Vegurinn liggur á brú yfirálinn úr Helluvatni og áfram upp í Heiðmörk, en afleggjari er heim að Elliðavatnsbænum.

Rauðhólar

Svona lítur eystri hluti Rauðhólanna út í dag.

Norðan við Helluvatn eru nokkrir lágir gjallhólar af sama uppruna og Rauðhólarnir, en óskemmdir. Rauðhólarnir urðu til fyrir 4.600 árum þegar glóandi og þunnfljótandi hraunstraumur rann úr eldstöðinni Leiti í Svínahrauni og fylgdi nokkurn veginn sömu slóð til sjávar og Suðurlandsvegurinn. Þorleifur Einarsson jarðfræðingur taldi að Elliðavatn, eða einhver hluti þess, hafi þá náð þangað sem Rauðhólarnir mynduðust og hefur það eflaust verið tilkomumikil sjón að sjá glóandi hraunstraum þurrka vatnið upp. Hraunstraumurinn hélt áfram niður í voginn sem 3.500 árum síðar var kenndur við Elliða, skip Ketilbjarnar hins gamla. Árnar bera og nafn skipsins og trúlega Elliðavatn einnig.
Vatnið í tjörnunum þremur sprettur fram undan hraununum í Heiðmörk, en að hluta er það úr Suðurá sem á upptök sín í Silungapolli og undir Selfjalli hjá Lækjarbotnum.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
Elliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað. Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesinga sögu, sem skrifuð var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ „er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn“ hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að.

Elliðavatn

Elliðavatn.

Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
Ekki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, „síðan Kolfiðr hefir spillt henni“.

Elliðavatn

Elliðavatn – bærinn.

Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé „kóngl. Majestat.“ Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með „iii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola“ (viðarkol).

Elliðavatn

Elliðavatn 1836.

Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, „tveir dagslættir“ renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup „ef þeim heppnast afli.“ Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta „til fálkafjár í Hólmskaupstað“.

Elliðavatn

Elliðavatn á 19. öld.

Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar „fer mjög í þurð“. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga „lök og lítt nýtandi“.
Þessi lýsing bendir ekki til mikillar búsældar á Elliðavatni. Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma upp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé.

Elliðaár

Elliðaár.

Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú. Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist „mikil stofa“ þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, „meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað“.

En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Ugglaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap.

Elliðavatn

Elliðavatn í leiðangi Gaimard.

Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur; hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal var teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum.
Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Fyrir kemur að þekkt kennileiti eru óþekkjanleg og þar á meðal er hæðin ofan við Elliðavatnsbæinn.
Kirkja var aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið.

Þingnes

Þingnes – uppgraftarsvæði.

Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má að kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk.

Uppdráttur af minjum í Þingnesi

Minjasvæði við Þingnes.

Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og hafa fleiri en Jónas Hallgrímsson rannsakað hann. Þeirra á meðal er Sigurður Guðmundsson málari, sem gerði uppdrátt af staðnum, Brynjólfur frá Minna-Núpi, Daniel Bruun, Finnur Jónsson prófessor, svo og Þjóðminjasafnið að sjálfsögðu. Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett „at ráði Ulfljóts ok allra landsmanna þar es nú nes, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu“.

Þinganes

Fornleifauppgröftur á Þingnesi.

Því er verr, að ekki eru til neinar heimildir um það hvar Kjalarnessþing var háð, en vísir menn hafa talið að um tíma hafi það verið í Þingnesi. Rannsóknir sem fóru fram 1984 benda eindregið til þess að þar hafi mannfundir farið fram. Dr. Jakob Benediktsson telur ljóst í Sögu Íslands, 1. bindi sem út kom 1974, að Kjalarnesþing hafi verið eins konar undanfari Alþingis, enda þótt það hafi ekki verið löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og „sennilegt sé að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að þinginu á Kjalarnesi.“
Sé þetta rétt er Þingnes hinn allra merkasti staður á bökkum Elliðavatns.

Lesbók Mbl. – GÍSLI SIGURÐSSON

Elliðavatn

Elliðavatn.

Jón Svaþórsson
Í Rjúpnadölum að Rauðuhnúkum virðist liggja gömul gata, sem að mestu er gróið yfir. Þó vottar fyrir henni sums staðar í gróðurræmum og í hraunum.
Gengið var frá Bláfjallavegi í átt að Rauðuhnúkum. Fljótlega var komið að götu í gegnum hraunið að Rauðuhnúkum (GPS N64 01 525 W21 36 724). Stutt ganga var í gegnum hraunhaftið og síðan framaf hraunbrún við hnúkana. Stefnt var á áberandi dæld í hnúkunum. Gengið í vestur frá Bláfjallavegi (GPS N64 01 585 W21 36 764) á götu, stutt í gegnum hraunið. Þegar komið var út úr því kom fljótlega í ljós mjög greinileg gata sem stefnir að hlíðinni framundan. Síðan var komið að hrauntungu og liggur gata inn í hraunið (GPS N64 01 731 W21 37 013 h.y.s 330m). Gatan verður ógreinileg þegar inní hraunið er komið. Ef gengið er niður með hraunkantinum, er komið að mjög greinilegri götu inn í hraunið (GPS N64 01 810 W21 36 958 h.y.s. 316m). Hér virðist vera stytst yfir hraunið. Þegar yfir er komið (GPS N64 01 832 W21 37 080 h.y.s. 314m) sjást götur sniðhallt upp hlíðina framundan, vestan við lága klettaborg. (GPS N64 01 984 W21 37 325). Gatan liggur svo niður með lækjarfarvegi og niður á rinda með leiðarvörðu sem áður hefur verið mynnst á. Ef farið er niður til hægri þegar komið er yfir hraunið. Liggur leiðin um grasivaxna hvamma og síðan hallalítið upp með klettaborginni austanverðri (GPS N64 02 066 W21 37 116 h.y.s 321m), síðan fram á brúnir og sést þá leiðarvarðan greinilega framundan, niðri á rindanum.
Héðan var gengið að Bláfjallavegi örstutta leið, þar sem farskjóti beið tilbúinn við kröppu beygjuna. Ekki er ólíklegt að þarna hafi verið gata á milli gömlu leiðarinnar til höfðustaðarins vestan Fóelluvatna og Selvogsgötu og/eða Heiðarvegar vestan í Heiðinni há. Með því hafa vegfarendur getað sparað sér talsverðan krók ef ferðinni var heitið milli Selvogs og Reykjavíkur eða lengra. Mikið jarðrask hefur orðið í Bláfjöllum, en votta ætti fyrir leiðinni syðst og vestast í þeim, ofan við Strompa. Þar eru, skv. annarri lýsingu af þessu svæði, nokkur vörðubrot er gætu hafa tengst þessari leið. Skammt norðan við Litla-Kóngsfell eru gatnamót sem og vestan við það. Bæði mótin eru merkt með þremur vörðum. Við syðri gatnamótin liggur stígur af Selvogsgötu yfir á Hlíðarveg (sem jafnan er talinn vera Selvogsgata) og síðan til norðausturs inn á heiðina. Við nyrðri gatnamótin liggur stígur af Selvogsgötu yfir á Hlíðarveg og einnig af henni yfir á Heiðarveginn.

Selvogsgata

Litla-Kóngsfell.

Ekki er ólíklegt að þarna megi einnig finna áfanga af þessum götum til norðurs, niður með vestanverðum Bláfjöllum og niður með Draugahlíðum að austanverðu.
Ljóst er að fljótlega grær yfir götur, sem hætt er að nota. Gatan um Grindarskörð sést t.d. ógreinilega, nema þar sem hún skásker hlíðina að vestanverðu og hófar og fætur hafa markað för í klappir þar fyrir neðan. Vörðubrot geta einnig gefið ákveðnar vísbendingar um legu hinna gömlu gatna.
Skv. upplýsingum Jóns Jónssonar, jarðfræðings, mun bæði Kóngsfellshraun (úr Bláfjalla-Kóngsfelli) og Rjúpnadalahraun (einnig úr Bláfjalla-Kóngsfelli) hafa runnið eftir landnám. Gamlar götur á þessu svæði gætu því einhverjar verið eldri en hraunin.

Frábært veður – gangan tók 2 klst og 2 mín.

-Jón Svanþórsson.

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur í Brennisteinsfjöllum.

Reykjanesskagi

Góð gönguleiðakort af tilteknum svæðum eru mikilvæg. Svo virðist sem ákveðin feiðmni virðist ráða þegar kemur að birtingu þeirra í góðri upplausn á veraldarvefnum. Hér á eftir eru dæmi um nokkur kort af svæðum á Reykjanesskaganum, s.s. Þingvöllum, Hengli, Heiðmörk, Mosfellsbæ og Reykjanesskaga.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – kort.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – kort.

Reykjanesskagi

Jarðfræði Reykjanesskagans – Isor.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Hengill

Hengilssvæðið – kort.

Mosfellsbær

Gönguleiðir í Mosfellsbæ

Elliðaárdalur

Eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins er Elliðaárdalurinn.

Leitarhraun

Leitarhraun í Elliðaárdal.

Elliðaárnar hafa oft verið nefndar perla Reykjavíkur, enda einstakt að laxveiðiá renni í gegnum höfuðborg. Reykjavíkurborg keypti Elliðaárnar árið 1906, ekki til laxveiða heldur beislunar vatnsafls og rafstöðin var reist um 1920. Um það leyti hefur líklega hafist trjárækt í Elliðaárdalnum en árið 1951 hóf Rafmagnsveita Reykjavíkur skógræktar- og uppgræðslustarf í árhólmanum, sem er eitt mesta aðdráttarafl dalsins.
Fuglalíf er fjölskrúðugt í Elliðaárdal og þar hafa einnig fundist fornminjar, m.a. frá tíð Innréttinganna.
Elliði sá sem Elliðaár eru nefndar eftir var skip Ketilbjörns gamla landnámsmanns.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur 1880 – Ben. Gröndal.

Í Landnámu segir: „Ketilbjörn hét maður ágætur í Naumudal; hann var Ketilsson og Æsu, dóttur Hákonar jarls Grjótgarðssonar. Hann átti Helgu dóttur Þórðar skeggja. Ketilbjörn fór til Íslands, þá er landið var víða byggt með sjá [þ.e. sjó]. Hann hafði skip það er Elliði hét. Hann kom í Elliðaárós fyrir neðan heiði“.
Ingólfur Arnarson, landnámsmaður í Reykjavík, er talinn fyrsti eigandi Elliðaánna. Eflaust hafa laxveiðar verið stundaðar í Elliðaánum allt frá upphafi byggðar í Reykjavík, þótt áður hafi það verið með öðrum hætti en nú. Fram eftir öldum áttu bændur og kirkjan veiðirétt í Elliðaánum, en við siðaskiptin lagði Danakonungur eignir kirkjunnar undir sig og eignaðist um leið veiðina í Elliðaánum. Í upphafi lét hann stunda veiðarnar fyrir sig en síðan voru þær leigðar út, fyrst árið 1757, að því er talið er.

Elliðaárdalur

Elliðaár.

Upp úr 1800 fór konungur að selja jarðir sem að Elliðaánum liggja. Átti hann laxveiðirétt í Elliðaánum í um 300 ár. Áður fyrr var laxinn veiddur ýmist með ádrætti í voginum við árósana, eða með stíflun árkvíslanna, annarrar í einu og var þá vatninu veitt í hina. Þannig var laxinn tíndur upp því sem næst á þurru. Reykvískur kaupmaður sem átti árnar um tíma gekk mjög nærri laxastofninum með því að veiða laxinn í kistur og voru báðar kvíslarnar þvergirtar með þeim búnaði. Laxinn fór ekki að rétta úr kútnum fyrr en Englendingur nokkur, Pyne að nafni, keypti árnar árið 1890. Þá hófust þar stangaveiðar með líkum hætti og nú eru stundaðar. Reykjavíkurborg keypti síðan Elliðaárnar árið 1906, sem fyrr sagði.

Elliðavatn

Elliðavatn – Ben. Gröndal.

Elliðaárvirkjun var vígð árið 1921. Þremur árum síðar var hafizt handa við gerð miðlunarstíflu uppi við Elliðavatn. Henni var lokið 1926 og við þessar framkvæmdir fór Elliðavatnsengi ofan núverandi stíflu undir vatn. Fram að þeim tíma rann Bugða um engjarnar og sameinaðist Dimmu, sem var afrennsli Elliðavatns, sem var þá helmingi minna en það er nú. Neðan ármóta þessara þveggja áa fékk áin nafnið Elliðaár.
Líklegt er, að Ingólfur Arnarson hafi grafið fyrsta brunninn í Reykjavík. Um aldamótin 1900 voru 34 brunnar í Reykjavík og árið 1906 brauzt út taugaveikifaraldur vegna mengaðs vatns í mörgum þeirra. Árið 1909 var tekið neyzluvatn úr Elliðaánum til hausts en þá var vatnsveitan frá Gvendarbrunnum tilbúin.

Kristján X

Kristján X. sem var konungur Danmerkur frá 1912 til 1947 ásamt Alexandrínu af Mecklenburg-Schwerin drottningu.

Vesturfarinn Frímann B. Arngrímsson hvatti fyrstur manna til athugunar á möguleikum til virkjunar Elliðaánna til hitunar og lýsingar húsa í Reykjavík. Bæjarstjórn samþykkti þó ekki byggingu rafstöðvar þar fyrr en 26. september 1918. Steingrímur Jónsson, rafmagnsverkfræðingur, var ráðinn rafmagnsstjóri í Reykjavík 1. júní. Kristján X og Alexandrína drottning hans vígðu stöðina 27. júní 1921.
Elliðaárnar falla úr Elliðavatni, þær kvíslast um miðbik dalsins og renna í tveimur kvíslum til sjávar. Er fleirtölumyndin Elliðaár dregin af kvíslum þessum..

Jarðfræði Elliðaárdals er stórkostleg vegna jarðfræðilegrar sundurgerðar. Við Elliðaárósa eru merkileg setlög, kölluð Elliðavogslögin og má þar finna leifar ýmissa plantna sem uxu við Elliðavog fyrir nokkur hundruð þúsund árum og skeljar af grunnsævi. Það má einnig finna jökulrákaðar grágrýtisklappir, hraun frá nútíma og sjávarhjalla.

Viðeyjareldstöð

Viðeyjareldstöðin.

Í Elliðaárdal hafa fundist minjar sem tengjast nýsköpun í atvinnuháttum Íslendinga, en það eru leifar af byggingum sem reistar voru vegna ullarvinnslu Innréttinganna um miðja 18. öldina. Innréttingarnar, sem svo voru nefndar, höfðu það að markmiði að stuðla að framförum í atvinnulífi. Skúli Magnússon landfógeti hafði forgöngu um stofnun fyrirtækisins. Sögufrægasta byggingin frá tíð Innréttinganna er húsið við Aðalstræti 10.

Reykjavík

Þófaramylla við Elliðaár.

Minjar Innréttinganna, sem enn sjást og færri vita um, eru rústir sem standa í árhólmanum nokkru neðan við rafstöðvarbygginguna, á móts við veiðistað sem nefnist Teljarastrengur. Þarna voru þófaramylla, litunarhús og sútunarverkstæði, en vefsmiðjan var í Aðalstræti. Ástæða þess að þófaramyllunni og litunarhúsinu var komið fyrir í Elliðaárdal var sú að starfsemin þarfnaðist rennandi vatns. Tilgangur þæfingarinnar var að þétta ullarvoðir og gaf straumur árinnar drifkraftinn. Sneri hann vatnshjóli sem tengt var drifhjóli sem aftur tengdist búnaði sem hamraði ullina. Þegar ullin hafði verið þæfð, sem var mismikið eftir því til hvers átti að nota hana, var hún gjarnan lituð. Talið er að litunarhúsið hafi staðið skammt frá þófaramyllunni, en óvíst nákvæmlega hvar. Þó er talið að húsið hafi staðið nokkru neðan við mylluna. Tvennar aðrar rústir eru á þessum slóðum. Er talið að önnur hvor geti verið leifar sútunarverkstæðis.

Elliðaárdalur

Camp Ártún.

Stríðsárin, 1939-1945, settu mark sitt á íslenskt þjóðlíf og ekki síst Elliðaárdalinn. Eftir hernám Íslands og tilkomu setuliðs, skiptu hermenn þúsundum hér á landi, fyrst Bretar, en síðan Bandaríkjamenn. Voru víða reistir braggar þar sem setuliðið dvaldist, svonefndir kampar, og voru nokkrir slíkir í Elliðaárdal. Sjást ummerki þeirra á nokkrum stöðum. Alls voru kamparnir fimm talsins. Sá efsti, nefndur Camp Baldurshagi, var ofarlega í Elliðaárdal, við nyrðri enda skeiðvallarins. Sjást þar rústir hans. Fjórar þyrpingar voru neðarlega við ána, Camp Phersing, skammt frá rafstöðinni, Camp Battle var aðeins neðar, Camp Hickham var í Ártúnsbrekkunni þar sem jarðhýsin eru nú og loks Camp Fenton Street, en hann var þar sem nú er athafnasvæði fyrirtækisins Ingvar Helgason.

Elliðaárdalur

Camp Baldurshagi.

Fleiri braggaþyrpingar voru í næsta nágrenni, bæði á Ártúnshöfða og vestan Elliðaáa. Einu ummerki um hernaðarmannvirki við Elliðaárnar neðanverðar eru í Ártúnsbrekku. Annars vegar eru það dæld eftir sandpokavígi sem fallin er saman að mestu og hins vegar ummerki undir yfirborði jarðar, neðanjarðarbyrgi, en munni þess er hulinn jarðvegi.

Elliðaárnar voru síðasti farartálminn á leiðinni til Reykjavíkur þegar komið var til bæjarins úr austri. Lá þjóðbrautin um Ártún og yfir árnar á vaði rétt neðan við rafstöðina núverandi, eftir Bústaðahálsi, Öskjuhlíð og niður í Kvos. Er ekki að undra að fljótlega hafi þótt nauðsynlegt að brúa árnar og voru fyrstu brýrnar byggðar árið 1883. Nú er svo komið að Elliðaárnar eru sú á landsins sem flestar brýr eru yfir. Hafa glöggir menn talið yfir 20 brýr á ánum.

Elliðaárdalur

Letursteinn í Elliðaárdal.

Á 30 ára afmælisári Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1951 hófu starfsmenn fyrirtækisins undir stjórn Steingríms Jónssonar, rafmagnsstjóra, skógræktar- og uppgræðslustarf í Ellidaárhólma og lögðu þar með grunn að þeirri skógrækt sem þar er. Fyrsta árið voru gróðursettar 3000 plöntur. Upp úr 1970 var dalurinn friðaður fyrir beit en nokkru áður var skógrækt hafin í afgirtu hólfi í árhólmanum. Við friðunina tók gróður við sér og hófst þá gróðurframvinda sem enn á sér stað.

Í Elliðaánum lifa fjórar tegundir fiska sem kalla mætti nytjafiska, aðallega lax, urrið og bleikja, en einnig má þar finna ál í litlum mæli. Í ánum er auk þess fjölskrúðugt botndýralíf sem er mikilvægur þáttur í uppvexti seiðanna.

Elsta

Viðeyjareldstöðin.

Gos með hraunrennsli um Elliðaárdalinn hefur aðeins einu sinni orðið frá því að ísa leysti fyrir um 10 þúsund árum. Það er Leitarhraun sem er nefnt eftir gíg sem það kom úr austan Bláfjalla. Hraunið rann fyrir um 5000 árum og flæddi niður Sandskeið og um Lækjarbotna. Þaðan rann það í Elliðavatn, sem hefur verið mun stærra en það er í dag, og myndaði Rauðhóla. Þaðan flæddi hraunið viðstöðulítið um Elliðaárdal í sjó fram við Elliðaárósa. Hraunið er mjög greinilegt í Elliðaárdalnum sérstaklega þar sem áin hefur skorið sig í gegnum hraunið t.d. kringum Elliðaárhólmann. Elsta bergið þarna er þó frá meginselstöð mun utar er gaf af sér hraunmyndun fyrir 3-4 milljón árum (sjá HÉR).

Heimildir m.a.:
http://www.rafheimar.is

Við Elliðaárnar

Við Elliðaárnar.

Völvuleiði

Í Lesbók Morgunblaðsins 1992 fjallar Sigurður Ægisson um „Sagnir og minjar um Völvuleiði á Íslandi„. Völvur voru fölkunnugar og sögðu fyrir um örlög manna og óorðna hluti. Víða um land, einkum fyrir austan og suðaustan, eru völvuleiði; þúfur í túni, óreglulegar þústir, steinar eða hólar og fylgir oft blettinum sú arfsögn, að sá sem byggi upp leiðið eða haldi því við, fái einhvern glaðning eða happ í staðinn. Hér er drepið niður í frásögnina.

Völvuleiði

FERLIRsfélagar á Völvuleiði ofan Dysja á Álftanesi.

„Hin fornu trúarbrögð Íslendinga eru nefnd ásatrú, eða norræn trú. Árið 999 eða 1000 lögðust þau af, að nafninu til a.m.k., og kristin trú var lögleidd. Ásatrúin var margþætt, og skartaði ýmsum kynjaverum. Þar í flokki voru t.d. dísir, fylgjur og völvur.
Um þessi fyrirbæri er nú á dögum lítið vitað, enda ritaðar heimildir um þennan fyrsta sögulega tíma landsmanna flestar tiltölulega ungar, og því með kristnum formerkjum. Sem dæmi má nefna, að hinar elstu Íslendingasögur eru taldar ritaðar á fyrsta þriðjungi 13. aldar. Engin þeirra er samt til í frumriti sínu; elsta varðveitta söguhandritið er brot úr Egilssögu, frá miðri 13. öld.

Völvuleiði

Völvuleiðið í Leyningshólum, innst í Eyjafirði; rúnasteinn liggur þar yfir. Jónas Hallgrímsson, skáld, kom þar mörgum sinnum til rannsókna.

Ein heimild telst þó merkilegri en aðrar, þegar kemur að því að forvitnast um völvurnar. Það er Eiríkssaga rauða, er m.a. segir frá Þorbjörgu nokkurri, sem kölluð var lítilvölva. Sagan er talin rituð um miðja 13. öld, en geymir þó tiltölulega lítt brenglaðar eldri myndir, eins og reyndar eftirfarandi lýsing gefur til kynna. Þar segir orðrétt: Í þenna tíma var hallæri mikið á Grænlandi. Höfðu menn fengið lítið, þeir sem í veiðiferð höfðu verið, en sumir eigi aftur komnir.
Þessi heimild er ómetanleg, og mun vera nákvæmasta lýsing á búnaði seiðkonu eða völvu, er geymst hefur. Athyglisvert er að lesa um þessi dýrindis klæði, sem benda til þess hver virðingarstaða þessara kvenna í raun var á heiðnum tíma. Má geta þess til dæmis, að samkvæmt Grágás var kattarskinn margfalt verðmeira en refaskinn.

Völvuleiði

Völvuleiði við Einholt á Mýrum (Guðm. Ólafsson).

Mikill fjöldi álagabletta á Íslandi er lifandi dæmi um „neista heiðninnar“ fram á okkar daga, þ.e.a.s. trú á huldufólk og álfa margs konar.
Eitt af því sem gæti líka hafa varðveist frá gamalli tíð er merkilegt fyrirbæri, sem kallast völvuleiði, en það eru minjar og örnefni víða um land, einkum þó fyrir austan og suðaustan. Oft er þar um að ræða þúfur í túni, óreglulegar þústir, steina eða hóla.
Um flest þessara völvuleiða er ekkert meira vitað; örfáum fylgja þó sagnir, munnlegar eða ritaðar. Kemur þar iðulega fram, að sá, er byggi upp leiðið eða haldi því við, fái einhvern glaðning eða happ í staðinn.

Völvuleiði

Efst í Hólmahálsinum, nokkru ofan við veginn, er leiði völvunnar sem hefur verndað Reyðarfjörð og Eskifjörð fyrir utanaðkomandi árásum um aldir. Hægt er að keyra eða ganga frá þjóðveginum upp að Völvuleiði efst á Hólmahálsi. Áður voru þar þrjár steinhellur en nú hefur verið hlaðin há varða á legstað völvunnar, sem er talin vera verndarvættur Reyðarfjarðar. Sagan segir að Völva ein hafi búið á Sómastöðum í Reyðarfirði nokkru fyrir þann tíma er Tyrkir rændu hér við land árið 1627. Áður en hún andaðist mælti hún svo fyrir að sig skyldi grafa þar er best væri útsýni yfir Reyðarfjörð og kvað þá fjörðinn aldrei mundu rændan af sjó meðan nokkurt bein í sér væri ófúið. Var hún þá grafin á fyrrnefndum stað. Þegar Tyrkir komu að Austfjörðum hugðust þeir sigla inn á Reyðarfjörð og ræna Hólmakirkju og kaupstað að Breiðuvíkurstekk. Þóttust þeir eiga þar fangsvon góða, en er þeir komu í fjarðarmynnið kom á móti þeim geysandi stormur svo að fjöll þakti í sjávarroki beggja megin fjarðar. Urðu þeir frá að hverfa við svo búið. 

Það athyglisverðasta við þessi „leiði“ — burtséð frá því, hvað undir kann að liggja — er, að menn hafa verið að hlúa að þeim allt fram á okkar tíma, þ.e.a.s. undir lok 20. aldar, hlaða þau upp og snurfusa, og það í landi, sem búið er að vera kristið í næstum 1000 ár.

Völvurnar

Þeir, sem á landnámsöld vildu fræðast um komandi tíma, gengu m.a. til völvu. Hún var fjölkunnug og sagði fyrir örlög manna og óorðna hluti.
Orðið völva er talið dregið af fornu orði, völur, er merkir stafur, en þess lags tæki munu völvurnar hafa notað, m.a. er þær frömdu seið. Orðtakið „að fara á vonarvöl“, þ.e.a.s. að vera með betlara- eða göngumannastaf, er einnig komið frá þessu, en sumar eða allar völvurnar flökkuðu um.
Af fornum bókum má ráða, þrátt fyrir allt, að völvur hafa á 8., 9., og 10. öld verið algengar á Norðurlöndum og Grænlandi, en tekið að fækka upp úr því, við tilkomu hins nýja siðar, kristinnar trúar.
Og nú er spurt: Hafi þessar eftirlegukindur heiðindóms lifað fram á 11. öld og haldið iðju sinni áfram, hvað skyldi þá hafa verið gert með jarðneskar leifar þeirra síðar? Í kristnu landi, vel að merkja. Ekki kom til greina að setja þær í kirkjugarð, og því hefur bara eitt verið til ráða: að grafa þær fyrir utan svæði hinnar vígðu moldar.
Á milli 50 og 60 völvuleiði (þ.e.a.s. örnefni óg/eða minjar) hafa varðveist fram á okkar daga á Íslandi, á meðan engin heimild eða vitneskja er til um slík örnefni á Norðurlöndunum og Grænlandi. Mörg leiðanna snúa í norður-suður, eins og títt var með grafir heiðinna manna, en sum þó einnig í austur-vestur.

Staðirnir

Völvuleiði

Völvuleiði – eitt af mörgum.

Í raun og veru skiptir ekki nokkru máli hvort völvuleiðin eru raunverulegar grafir eða ekki. Út frá þjóðfræðilegu sjónarmiði er hitt áhugaverðara, að þessi örnefni kviknuðu, og héldust lifandi fram á okkar daga. Það eitt segir margt.
Tekist hefur verið að finna, með dyggri aðstoð góðra manna, 49 staði á landinu, þar sem völvur eiga að sögn að vera grafnar. Yfirleitt má finna heimildir um þessi leiði á prenti; í sumum tilvikum þó ekki. Stundum eru fleiri en eitt leiði á hverjum stað. Langoftast er talað um völvuleiði í þessu sambandi (ýmist ritað með hástaf eða litlum), en fyrir kemur þó Völvuhóll, og á örfáum stöðum er þess einungis getið, að þar sé völva grafin, en örefnið sjálft hefur týnst.

Lokaorð

Völvuleiði

Völvuleiðið á Hólmahálsi endurreist.

Í ritgerðarkorni sem þessu verður ekki komist langt í greiningu á jafn viðamiklu efni og hér er á borðinu. Enda var tilefnið ekki það, heldur að vekja athygli á þessu merkilega örefni, Völvuleiði, sem enginn virðist hafa lagt niður fyrir sig að rannsaka fyrr en núna.
Ef við drögum saman ofanritað, kemur þetta í ljós: Til er á Íslandi, einkum þó austanlands og suður eftir, fjöldi svokallaðra völuleiða. Oft er hér um að ræða þúfu í
túni eða utan, stundum í laginu eins og gröf; yfirleitt er samt um ólögulega þúst að ræða, kannski vegna aldursins. Í örfáum tilfellum er þessum leiðum haldið við, og fylgir þá einhver gömul sögn, um að happ reki á fjörur þess, er slíkt gerir, eða því um líkt.

Völvuleiði

Völvuleiðið á Garðaholti ofan Dysja.

Fundist hafa um 50 staðir á landinu, þar sem völvur eiga að sögn að liggja grafnar. Þó vantar hálft landið inn í myndina, einhverra hluta vegna.
Völvuleiðin eru flest orðin máð og lasin, og því erfitt að sjá hvernig þau í raun snúa. Þó má í sumum tilvikum greina stefnuna, og er hún þá ýmist norður-suður eða austur-vestur. Hvað þetta allt gefur til kynna, er ómögulegt að vita á þessu stigi málsins. En framtíðin á vonandi eftir að skera úr um það.“

Heimildir:
-https://www.bbl.is/folk/menning/volvur-og-volvuleidi
-Lesbók Morgunblaðsins 21. nóv. 1992, Sagnir og minjar um Völvuleiði á Íslandi, Sigurður Ægisson, bls. 6-8.

Völvuleiði

Völvuleiði á Íslandi.

Víghóll

Örnefnið „Víghóll“ á Digraneshálsi í Kópavogi var á allra vörum fyrir skömmu. Margar fyrirspurnir um nafnið hafa síðan borizt Þórhalli Vilmundarsyni, forstöðumanni Örnefnastofnunar Þjóðminjasafns. Í þessari grein Lesbókar Morgunblaðsins frá árinu 1994 svarar hann þeim fyrirspurnum. Hér birtist hluti greinarinnar.

Þórhallur Vilmundarson

Þórhallur Vilmundarson.

„Frá því að deilur risu um kirkjubyggingu á Víghóli á Digraneshálsi í Kópavogi á liðnu ári, hafa ýmsir spurt mig, hvort nokkuð sé vitað um uppruna nafnsins og merkingu. Ég vil af þessu tilefni greina frá eftirfarandi:
Ekki eru til, svo að mér sé kunnugt, gamlar heimildir um örnefnið í Kópavogi. Það kemur fyrir í örnefnaskrám frá þessari öld, bæði í eintölu, Víghóll, og í fleirtölu, Víghólar, sbr. götunafnið Víghólastígur og félagsheitið Víghólasamtökin.

Margir Víghólar
VíghóllÞegar hugað er nánar að örnefninu Víghóll eða Víghólar, vekur það athygli, að nafnið er víðar til en í Kópavogi. Þannig er mér kunnugt um fjóra aðra Víghóla á Suðvesturlandi: einn í Selvogi, tvo í Garðabæ og einn í Mosfellssveit. Víghóll er og í Kjarrárdal (Kjarradal) í Borgarfirði, á Fellsströnd í Dölum, í Steingrímsfirði, í Hörgárdal (þar eru þeir reyndar tveir), á Jökuldal og undir Eyjaflöllum. Víghólar eru í Öxnadal og á Síðu. Engra þessara nafna er getið í fornum heimildum.

Munnmæli um Víghólana – Heiðarvíg og fornmannadys

Víghóll

Víghólar á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki er mér kunnugt um munnmæla eða skýringarsagnir um átta Víghólanna, en ung munnmæli eða skýringarsagnir eru hins vegar til um hina sex: Kristian Kálund segir það nú (þ.e. 1877) sögn heimamanna, að „Heiðarvígin“ (sbr. Heiðarvíga sögu) hafi verið tvenn, önnur þeirra í Kjarradal, sunnan ár, hjá Víghóli, og þar í grennd sé dys hinna föllnu. Kálund bendir á, að þessi frásögn sé í ósamræmi við frásögn Heiðarvíga sögu og að Heiðarvígin á Tvídægru eigi að hafa átt sér stað eftir kristnitöku.

Hrakspár hefnt í Selvogi

Víghólsrétt

Víghólsrétt í Selvogi.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir um Víghól í Selvogi, að Erlendur lögmaður Þorvarðsson á Strönd í Selvogi (d. 1576) hafi drepið þar smalamann að launum fyrir þá hrakspá, að jörðin Strönd ætti eftir að verða eyðisandur.

Eru þeir réttnefndir Víghólar?

Húsfell

Húsfell – Víghóll neðst til vinstri.

Mörg efnisatriðin í þessum vígaferlasögnum eru lítt trúverðug. Verður að telja líklegt, að yfírleitt séu þessar sagnir spunnar upp til skýringar á nöfnunum. Jafnframt eru sagnir þessar skemmtileg dæmi um það, hve ríkan þátt örnefni eiga í myndun sagna, og á það reyndar ekki aðeins við um síðari tíma, heldur einnig ritunartíma Íslendingasagna.
En þótt sagnirnar um Víghólana séu ekki sem sennilegastar, stendur eftir spurningin: Eru hólar þessir réttnefndir Víghólar, þ.e. kenndir við vígaferli á fyrri tíð? Fjöldi nafnanna veldur óhjákvæmilega efasemdum um, að öll þessi nöfn eigi sér þennan uppruna. En á hvaða skýringu aðra er þá unnt að benda?

Veghóll og Veghólar

Víghóll

„Liðinu stefnt að Víghól“

Þegar að er hugað, kemur í ljós, að til era á landinu sviplík -hólsnöfn: Veghóll og Veghólar. Þannig má fljótlega tína upp úr örnefnaskrám Veghóla á Mýrum við Hrútafjörð, og er gamla reiðgatan frá Mýrum í Tjarnarkot sögð hafa legið um hólana, Veghól á Litlu-Giljá í Þingi, Veghól á Presthólum í Öxarfirði, Veghóla á Bótarheiði í Hróarstungu, Veghól á Litlabakka í sömu sveit, þar sem vegur er sagður hafa verið áður fyrr, og Veghóla í Skuggahlíð í Norðfirði inn og niður af Vegahnúk, en hestavegur er sagður liggja vestan við hann. Veghólar hafa augljóslega verið mönnum eins konar vörður eða vegvísar við vegi, ekki aðeins fjölfarnar leiðir, heldur einnig hinar fáfarnari. Nútímamenn verður að minna á, að hér er um fornar reiðgötur eða göngustíga að ræða, sem horfið gátu í fyrstu snjóum, og því var ekki vanþörf á kennileitum, sem vísað gátu veginn.
Nú vaknar sú spurning, hvort hér kunni að hafa slegið saman tveimur örnefnum: Veghólum og Víghólum — og þá þannig, að ýmsum Veghólum hafi verið breytt í Víghóla og nöfnin þannig gerð sögulegri.

Eitt örnefni dregur til sín annað – dæmi: Búrfell/Búfell

Búrfell

Búrfell við Þingvelli.

Það er þekkt fyrirbæri í örnefnafræðum, að eitt örnefni dragi til sín annað. Dæmi þess hygg ég megi finna í hinum fjölmörgu Búrfells-nöfnum hér á landi. Þau hafa helzt verið talin vera líkingarnöfn og draga nafn af lögun sinni („efter formen“, segir Finnur Jónsson). Átt er við, að þau séu kubbsleg og minni á búr, einkum stafbúrin norsku. Þessi skýring getur átt við mörg Búrfell, en þó ekki öll, t.d. ekki það Búrfell, sem næst er höfuðborgarbúum, sunnan Hafnarfjarðar.
Nú er til austur í Vopnafirði Búfell ofan við Hauksstaði. Að sögn Friðbjarnar Hauks Guðmundssonar bónda þar (f. 1946) kallaði eldra fólkið fellið ævinlega Búfell, m.a. afi hans, Friðbjörn Kristjánsson (f. 1894), og börn Víglundar Helgasonar (f. 1884), sem bjó á Hauksstöðum á undan Friðbirni Kristjánssyni. Nafnið er ritað Búfell í örnefnaskrá, en á herforingjaráðskorti stendur hins vegar Búrfell, og er það lítið dæmi um ofríki Búrfells-nafnmyndarinnar. Mér þykir líklegt, að Búfell hafi upphaflega verið fleiri á landinu, sbr. norsku fjallaheitin Bufjell á Þelamörk og Bufjellet á Vestfold.

Búfell

Búfell í Þjórsárdal.

Fyrri liður Búfells er trúlega no. bú í merkingunni „búpeningur’“ og ætti Búfell þá að merkja „fell“, þar sem búpeningur var hafður á beit eða í „seli“, sbr. „fara til sætra (þ.e. selja) með bú sínu“, eins og segir í norsku fornbréfi. Friðbjörn Haukur Guðmundsson segir mér, að fram og niður af enda Búfells sé Selbotn með tóftum og niður undan Selbotni séu beitarhúsatóftir. Hann segir, að mjög góð beit sé í Búfelli. Til hliðsjónar eru hér einnig íslenzk örnefni eins og Búhólar, Búland og Bústaðir.

Dreifing Veghóla og Víghóla

Víghóll

Víghóll við Hvammsfjörð.

Dreifing Veghóla- og Víghóla-nafna ýtir undir þá hugmynd, að Veghóla-nöfn hafi breytzt í Víghóla: Á Suðvesturlandi eru fimm Víghólar með tiltölulega stuttu millibili, og á öllu Suður- og Vesturlandi, austan frá Síðu norður í Steingrímsfjörð, eru 10 Víghólar, en enginn Veghóll. Síðan bregður svo við, að Húnaþing er Víghólalaust svæði, en þar eru hins vegar fimm Veghólar, hvernig sem menn vilja skýra það. Í Eyjafirði eru þrír Víghólar á litlu svæði, en engir Veghólar. Á Norður- og Austurlandi frá Tjörnesi til Norðfjarðar eru hins vegar átta Veghólar, en aðeins einn Víghóll. Þessi dreifing virðist ekki einleikin, og sýnist eðlilegast að skýra hana með því, að á tilteknum svæðum hafi eitt nafnið eða nafnbreytingin kveikt aðra. Nefna mætti þrennt, sem kynni að hafa stuðlað að nafnbreytingunni:

Orrustuhóll

Orrustuhóll á Hellisheiði.

Í fyrsta lagi: Þegar þess er gætt, að langflest Víghóls-nöfnin eru ekki varðveitt í eldri heimildum en frá 20. öld, vaknar eðlilega sú spurning, hvort framburðarruglingur eða samruni e og i (hljóðvilla) hafi í einhverjum tilvikum hrundið breytingunni af stað. Þegar menn gerðu ekki greinarmun á Veghóll og Vighóll, hafi merkingin týnzt, nýrrar merkingar verið leitað og úr orðið Víghóll. Hljóðvillu eða flámælis fór að gæta um miðja 19. öld eða fyrr, sennilega fyrst á Suðvesturlandi. Þessi skýring getur þó trúlega ekki átt við alla Víghólana, bæði vegna aldurs sumra nafnmyndanna og legu sumra hólanna.
Hér má ekki gleyma því, að örnefni taka oft breytingum, án þess að fylgt sé hljóðalögmálum, og eiga slíkar breytingar sér ekki sízt stað, er menn leita nýrrar merkingar í nafninu.
Í öðra lagi: Ekkert Víghóla-örnefni er í íslenzkum fornsögum, en þar er þess hins vegar alloft getið, að bardagar hafi verið háðir á hólum eða hæðum.
Í þriðja lagi: Þekktar skráðar sögur, svo sem um Heiðarvíg í uppsveitum Borgarfjarðar og Víga-Glúm í Eyjafirði, kunna að hafa ýtt undir nafnbreytingu í þeim héruðum.

Hvernig liggja Víghólarnir við vegum?

Orrustuhraun

Rétt undir Orrustuhrauni á Hellisheiði.

Ef Víghólarnir hafa upphaflega heitið Veghólar, ættu þeir að liggja við gamla vegi, og verður því að leita svars við spurningunni: Hvernig liggja Víghólarnir við vegum? Hér má gera þá athugasemd, að það sanni ekki mikið, þótt í ljós komi, að Víghólar séu við vegi, því að víg hafi einatt verið framin á eða við vegi og alfaraleiðir. Því er til að svara, að vopnaviðskipti og víg hafa samkvæmt samtímaheimildum og sögnum einnig átt sér stað við aðrar aðstæður: heima við bæi eða á flótta til skógar eða fjalls, í fjöru, eyjum og á annnesjum, í kolaskógi, á engjum eða í úthögum og á heiðum, þar sem setið var yfir fé o.s.frv.

Hvað um hestavíg?

Hestaþinghóll

Hestaþinghóll í Kjós.

Aðra athugasemd má gera: Gæti verið átt við hestavíg í Víghóls-nöfnunum, sbr. örnefni eins og Hestaþingshamar (svo í Sturlungu, síðar Hestavígshamar) í Skagafirði, Hestavígshólmi á mótum Blöndu og Svartár, Víghestahvammur hjá Sauðafelli í Dölum, Hestaþingshóll hjá Kaldaðarnesi í Flóa og í landi Vallar í Hvolhreppi, Hestaþingsflöt hjá Hróarsholti í Flóa og Hestaþingstaðir nærri Flögu í Skaftártungu, og hólarnir þá eðlilega verið við reiðgötur? Því er til að svara, að hestaþing (hestaat, hestavíg) voru samkvæmt fornum heimildum yfirleitt háð á sléttum grundum á samkomustöðum: á þingstöðum. Margir Víghólanna uppfylla engan veginn þessi skilyrði, t.d. Víghólarnir á Digraneshálsi, í Mosfellssveit, Kjarrárdal, Arnkötludal og Hörgárdal.

Síðasta hestavíg á Íslandi

Þingvellir

Hestaat var stundað til forna. t.d. við Þingvelli.

En hvað þá um síðasta hestavíg á Íslandi við Vindhóla fram af Fnjóskadal árið 1623, sem Jón Espólín segir frá. Segir Jón Espólín og, að hann hafi ekki vissu fyrir þessum uppruna Vindhólanafnsins. Þegar hugleidd eru hestavíg og Víghólar, ber einnig að hafa í huga, að engar heimildir, hvorki sagnarit, skjöl né munnmæli, tengja nokkurn hinna mörgu Víghóla við hestavíg.

Víghóll í Selvogi

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Víghóll í landi Ness í Selvogi er samkvæmt ömefnaskrá við Víghólsrétt, ofan við Nes. „Frá túngarðshliði (í Nesi) að austan lá gata upp í heiðina, upp hjá Víghólsrétt, upp á Klakksflatir. Tvær smávörður við götuna vom kallaðar Ljúf og Leið, ekki vitað hvers vegna,“ segir í skránni. Heimildarmaður þessa er Eyþór Þórðarson frá Torfabæ í Selvogi (1898-1988, var í Torfabæ til 1962). Þórarinn Snorrason bóndi í Vogsósum (f. 1931) segir Víghól vera á Heimasandi um 2 km norðaustur af Nesi, og er land þar löngu uppblásið. Hann telur eðlilegast, að leiðin frá höfuðbólinu Nesi austur í Ölfus hafi legið um Víghól, Klakksflatir, Hellisþúfu og Kvennagönguhól.

Víghóll sunnan Hafnarfjarðar

Víghóll

Víghóll í Garðabæ vestan Húsfells.

Í örnefnaskrá óbyggðarinnar suður frá Hafnarfirði segir, að Víghóll heiti norðan við Mygludali milli Valahnúka og Húsfells. Selvogsgata eða Grindaskarðavegur liggur milli Valahnúka og Víghóls, um 300 m sunnan við Víghól. Þorkell Jóhannesson prófessor og Óttar Kjartansson, sem kannað hafa þetta svæði, segja, að frá suðurhrauni Búrfells sé „gamalt og tiltölulega flatt hraun. Þar eru farnir allglöggir slóðar í átt að Víghól.“ Að sögn Þorkels Jóhannessonar liggur þessi leið síðan meðfram Víghól og þar á Selvogsgötu. Götuslóðana hefur hann ekki getað rakið austan Búrfells í átt að Löngubrekkum (á Heiðmörk), en tekur fram, að kjarr kunni að hafa hulið gamlar slóðir í Búrfellsdal. Gömul reiðleið er frá Elliðavatni suður allar Tungur undir Löngubrekkum í Búrfellsgjá. Þess má geta til, að götuslóðarnir „í átt að Víghól“ séu hluti vermannaleiðar frá Mosfellssveit, Kjós, Vestur- og Norðurlandi um Elliðavatn og Tungur á Selvogsgötu eða Grindaskarðaveg hjá Víghól.

Arnarnes

Arnarnes og Arnarneshæð 1954.

Í Selvogi var mikil verstöð fyrrum. Árið 1703 voru íbúar þar nærri 200 að tölu; þaðan voru gerð út árið 1785 rösklega 30 skip, og á þeim voru 380 menn, þar af 340 aðkomumenn. Má nærri geta, að margir hafa átt leið í Selvog á fyrri tíð, flestir sjálfsagt af Suðurlandi, en sumir að vestan og norðan. Ef rétt er til getið, má Víghóllinn hafa verið vegvísir á hinni gömlu vermannaleið og er þá jafnframt minnismerki um hana.

Víhóll í Arnarneslandi í Garðabæ

Víghóll

Víghóll Mosfellssveit.

Örnefnaskrá Arnarness, sem Gísli Sigurðsson lögregluþjónn í Hafnarfirði (1903-85) skráði, segir, að Vífilsstaðagata hafi legið frá alfaraleiðinni á Arnarnesholti „inn með holtinu, sem nefndist Móholt. Hér einhvers staðar á að vera hóll, er nefnist Víghóll.“ Ekki hefur mér tekizt að hafa uppi á þessum Víghól. Sigríður Gísladóttir á Hofstöðum (f. 1921) þekkir hann ekki. Hún telur Móholt vera sama og Nónholt, en mór var tekinn í mýrinni norðan við Arnarneslækinn á stríðsárunum fyrri. Vífilsstaðagatan gamla lá frá Vífilsstöðum sunnan í Nónholtinu á Arnarneshæð.

Víghóll í Mosfellssveit

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 1954.

Um Víghól í Mosfellssveit segir séra Magnús Grímsson á Mosfelli (1825-60): „Á skarðinu, sem skilr Helgafell og Reykjafjall, stendr hamar einn, svo sem þriggja mannhæða hár, upp úr sléttri melbúngu. Hann heitir Víghóll, en eigi veit eg af hverju það nafn er dregið. Hjá hól þessum liggr vegrinn ofan í Skammadalinn og suðr í Reykjahverfi, þar sem Reykjalaug er.“

Víghóll á Digraneshálsi

Og þá er að lokum komið að Víghólnum (eða Víghólunum) á Digraneshálsi í Kópavogi, sem var tilefni þessarar greinar. Digranesháls eða hluti hans virðist áður hafa heitið Langi jörvi samkvæmt frásögn Árna Magnússonar prófessors í Kaupmannahöfn. Hann segir, að jörvi (jörfi) merki „slétt melholt, ex. gr. (þ.e. til dæmis) langa slétta holtið fyri ofan Kópavog. Almennt málfæri syðra í Mosfellssveit: Þar yfir á jörfanum, yfir á langa jörfann. Langi jörfi heitir melurinn fyri ofan Kópavog.“

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 1958.

Adolf J. E. Petersen vegaverkstjóri (1906-85) segir í örnefnaskrá Kópavogskaupstaðar: „Víghólar eru í tvennu lagi, annar hóllinn er sunnan við Digranesveginn, en hinn er norðan við þann veg og ber nokkuð hátt, enda er þaðan eitt mesta útsýni af Digraneshálsinum, og þar er útsýnisskífa.“ Fyrrnefndi hóllinn er neðan við húsið nr. 94 við Digranesveginn, og segir Bergsveinn Jóhannsson (f. 1915), sem þar hefur átt heima frá 1960, að Ingjaldur Ísaksson í Smárahvammi (1909—91) hafi kallað hólinn Neðri-Víghól og sagt, að það væri hinn rétti Víghóll. Hann er um 140-50 m suður og niður af efri Víghólnum.

Víghóll

Víghólar í Kópavogi 2022.

Haustið 1992 heimsótti ég á Hrafnistu í Reykjavík Guðbjörgu Jónsdóttur frá Digranesi (f. 1899 og átti þar heima til 1923) og spurði hana um gamlar leiðir vestur frá Digranesi. Guðbjörg lézt á síðastliðnu sumri (1993).
– Hvaða leið fóruð þið frá Digranesi til Kópavogs (þ. e. gamla bæjarins í Kópavogi), þegar þú varst að alast upp?
„Við fórum brekkurnar sunnan í Digraneshálsinum.“
– Fóruð þið ofan eða neðan við neðri Víghólinn?
„Neðan við hann.“
– Hvernig lá leiðin frá Digranesi til Reykjavíkur?

Kópavogur

Á nyrðri Víghól í Kópavogi.

„Þá var farið á ská yfir Digraneshálsinn og niður brekkurnar að norðanverðu talsvert norðan við efri Víghólana og síðan beint á Fossvogsbrúna. Á þeirri leið voru fen, og það var ekki fyrir aðra en kunnuga að fara hana.“
– Var þá einnig farið eftir hálsinum frá Digranesi út á alfaraveginn milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar?
„Já, þá leið fóru ferðamenn stundum, og var þá farið eftir holtinu rétt fyrir norðan Víghólana, yfir Stútulaut, lægðina vestan við Víghólana, og eftir háhálsinum
út á Hafnarfjarðarveg.“
– Átti Digranesfólk ekki einnig erindi þessa leið?

Víghóll

Útsýnisskífa á nyrðri Víghól í Kópavogi.

„Jú. Fé föður míns sótti í fjöruna fram af Kársnesinu, og þar var faðir minn einu sinni hætt kominn í flæðiskeri, en Vigfús Guðmundsson vert sá til hans frá Skerjafirði og kom honum til bjargar. Mér eru minnisstæðir Borgarhólarnir þarna utar á hálsinum, þar sem Kópavogskirkja stendur nú, því að við krakkarnir höfðum svo gaman af bergmálinu í klettunum. Faðir minn ruddi bílveg eftir hálsinum frá Hafnarfjarðarvegi heim í Digranes árið 1914, og fór Buicksbíll frá Hafnarfirði fyrstur veginn.“

Víghóll

Víghóll í Kópavogi – skilti.

Ég sneri mér til Bergþóru Rannveigar Ísaksdóttur (f. 1905) í Tungu hjá Fífuhvammi (sem áður hét Hvammkot og þar áður Hvammur) og spurði hana, hvernig kirkjuvegurinn hefði legið fyrrum — fyrir bílaöld — frá Hvammkoti til Reykjavíkur, en þangað átti Hvammkot kirkjusókn.
„Farið var frá Fífuhvammi eða Hvammkoti yfir Kópavogslækinn og upp Stútuslakka yfir Digraneshálsinn vestan við Víghóla og svo beint af augum á brúna yfir Fossvogslækinn og síðan austan við Leynimýri yfir Öskjuhlíðina sem leið liggur til kirkju í Reykjavík,“ sagði Bergþóra.
– Í Stútuslakkanum hefur verið farið neðan við neðri Víghólinn. Var hann eina kennileitið í brekkunum?
„Já, hann var í brekkunni fyrir austan slakkann og var eina kennileitið í brekkunni sunnan frá séð. Efri Víghólana ber hins vegar við loft frá Fífuhvammi, ég sé útsýnisskífuna héðan.“
-Þetta er þá leiðin, sem bömin þrjú frá Hvammkoti fóru hinn örlagaríka vetrardag 1874, þegar þau fylgdu frænku sinni, sem gekk til spurninga í Reykjavík?

Kópavogur

Fífuhvammur/Hvammskot.

„Já, það var mikil sorgarsaga. Til okkar í Fífuhvamm kom eitt sinn gamall sjómaður, sem sagðist hafa verið á ferð þennan dag og lent í því að bera ásamt föðurnum eldri dótturina örenda frá Danskavaði á Kópavogslæk heim í Hvammkot. Síðan lögðust þeir við hlið stúlkunnar í von um, að hún lifnaði. „Það var köld nótt, og það var löng nótt,“ sagði hann.“
Í örnefnaskrá Digraness má sjá, að götuslóði frá Digranesi norðan í Digraneshálsinum að Fossvogslækjarbrú var nefndur Kirkjuleið, Kirkjugata eða Prestsgata.

Kópavogur

Upplýsingaskilti við Fífuhvamm.

Framangreind athugun á fjölda, dreifingu og legu Víghólanna virðist mér benda til þess, að hér sé yfirleitt um upphaflega Veghóla að ræða, þó að sjálfsagt sé að slá þann varnagla, að meðal þessara mörgu Víghóla kunni að leynast hóll, sem réttilega hafi verið svo nefndur eða fengið nafnið að tilefnislausu sem flökkunafn.
Af þessum sökum — svo og vegna allra aðstæðna — tel ég því ólíklegt, að Víghóll á Digraneshálsi sé með réttu orðaður við forn mannvíg og illdeilur og hygg eðlilegra að líta á hann sem vegvísi á kirkjuleið. Óþarft ætti því að vera að láta hólinn kveikja hugsanir um illindi og úlfúð. Fremur ætti hann að geta verið tilefni hugleiðinga um veginn og lifið — og dauðann.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 26. mars 1994, Víghóll, Þórhallur Vilmundarson, bls. 9-11.

Víghólar

Víghólar á Íslandi – kort.

Hvalsnes

Hvalsneskirkja var vígð á jólum 1887. Ketill Ketilsson, stórbóndi í Kotvogi, þáverandi eigandi Hvalsnestorfunnar, kostaði kirkjubygginguna.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Hvalsneskirkja er byggð úr alhöggnum steini og var grjótið sótt í klappir í nágrenninu. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon (182-1887) og Stefán Egilsson. Um tréverk sá Magnús Ólafsson (1847-1922). Allur stórviður var fenginn úr fjörunum í nágrenninu, m.a. súlurnar. Viðamiklar viðgerðir fóru fram árið 1945 undir umsjón Húsameistara ríkisins. Kirkjan er friðuð.
Altaristaflan er eftirgerð af Dómkirkjutöflunni, máluð af Sigurði Guðmundssyni (1833-1874) árið 1886 og sýnir hún upprisuna.

Hvalsneskirkja

Legsteinn Steinunnar í Hvalsneskirkju.

Einn merkilegasti gripur kirkjunnar er legsteinn yfri Steinunni Hallgrímsdóttur, sem dó á fjórða ári (1649). Hún var dóttir Hallgríms Péturssonar (1614-1674), eitt mesta sálmaskáld Íslendinga, sem þjónaði þá sem prestur í Hvalsnessókn. Kona hans var Guðríður Símonardóttir. Hallgrímur Pétursson þjónaði á Hvalsnesi fyrstu prestskaparár sín (1644-1651).
Hella þessi var lengi týnd, en fannst 1964 þar sem hún hafði verið notuð í stéttina framan við kirkjuna.
Kirkja hefur líklega verið á Hvalsnesi lengi. Hennar er fyrst getið í Kirknaskrá Páls biskups frá 1200 og stóð hún til ársins 1811 er Hvalsnesprestakall var lagt niður. Íbúarnir voru mjög ósáttir við það og var ný kirkja byggð 1820. Hún var timburkirkja. Núverandi kirkja er fyrsta kirkjan, sem stendur utan kirkjugarðsins. Í kaþólsku tengdust margir dýrlingar kirkjunni. María guðsmóðir, Ólafur helgi, heilög Katrín, Kristur, allir heilagir og hinn heilagri kross.

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Tröllafoss

Landmælingar Íslands gáfu á sínum tíma út stafrænt „Hryllingskort“ þar sem listuð eru upp allflest örnefni er tengst gætu hryllingi af einhhverju tagi hér á landi. Að eftirskráðu eru þau þar að lútandi örnefni er tengjast Reykjanesskaganum með einum eða öðrum hætti.

Hryllingsörnefnakort Lmi

„Hryllingsörnefnakort“ Landmælinga Íslands.

Austan Mölvíkur taka við Draugagjártangar, sker og drangur fram í sjó, og austur af þeim taka svo við Draugagjár, og eru þar klappir og klettar. Á einum stað liggur milli klettanna gjá; þar svarrar sjórinn fast. Á Draugagjárlóninu er steinn mikill, Skarfaklettur. Austarlega í Draugagjám er klöpp, þangi vaxin og öðrum sjávargróðri. Í eina tíð lá Steinbogi út á klöppina, og þá leið fór féð til beitar. En á flæði hraktist það af klöppinni í ker, sem þar liggur inn af, og drapst þar. Þar af var kerið kallað Drápsker. Fyrir þessa sök var steinboginn brotinn. (Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Stakkavík)

Stakkavík

Stakkavík og Hlíðarvatn – örnefni.

Tangi eða hólmi er úti í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Arnarþúfa er suður af tanganum. Sat þar örninn oft og hlakkaði yfir veiði. Þar fyrir sunnan skerast inn í landið vikin þrjú. Þar er fyrst Kristrúnarvik, og þá Girðingarvik, sem er nýlegt nafn, og þá vik með mörgum nöfnum, Vondavik, Forarvik og Moldarvik. Í viki þessu var venjulega kafhlaup af for, og því eru nöfnin. Gerð hafði verið brú með grjóti yfir vikið, og var að því nokkur bót. (Gísli Sigurðsson – örnefnalýsing fyrir Hlíð)

Hraun

Hraun – uppdráttur ÓSÁ.

Örnefni sem mér eru kunn í landi Hrauns eru eftirfarandi: Með sjó er Markabás vestast. Hann er austan við svonefnd Slok og skiptir löndum á milli Þórkötlustaða og Hrauns. Austan við Markabás er Hádegistangi. Hádegisklettur er þar ofan og sunnan við. Hann hét öðru nafni Klofaklettur, tvær strýtur voru upp úr honum en önnur er nú brotin af fyrir mörgum áratugum. Þetta var hádegismark frá gamla bænum á Hrauni. Þar norðan við er Skarfatangi. Það er smátá sem skagar út í sjóinn en fer í kaf á flóði. Magnús Hafliðason segist muna eftir grasi á Skarfatanga og þegar hann var ungur hafi gamlir menn sagt sér að grasbakki hafi verið á Skarfatanga. Skip hafa strandað sitt hvoru megin við Skarfatanga. Franski togarinn Cap Fagnet að sunnan og kútterinn Hákon að norðanverðu. Vikið norðan við Skarfatanga heitir Vatnagarður og sama nafn ber syðsti hluti túnsins þar upp af. Sker út af Vatnagarði kemur aðeins upp úr á stórstreymisfjöru og er kallað Klobbasker. Sagt er að það hafi komið upp þegar bænahús var aflagt á Hrauni (sennil. Á 17. öld).

Hraun

Hraun í Grindavík.

Gamla sundið lagðist þá einnig af. Vatnstangi er norðan við Vatnagarð. Þar rennur fram ferskt vatn. Fast norðan Vatnstanga er Suðurvör og var þar aðallending á Hrauni. Norðan við Suðurvör er sker og var farið fast með því þegar lent var og var það nefnt Rolla.
Norðurvör er í þröngum klöppum þar norður af og þar var aðeins hægt að lenda í mátulega sjávuðu. Baðstofa er stór klöpp fast fyrir norðan Norðurvör. Þar norður af er Bótin og þar var nyrsta lendingin. Þaðan var hægast að fara út í vondu. Efst í Bótinni er klettur sem fer í kaf á flóði og heitir Barnaklettur. Þar áttu að hafa flætt og síðan drukknað tvö börn. (Loftur Jónsson – örnefnalýsing fyrir Hraun)

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell – Baðsvellir nær.

Þorbjörn mun upphaflega hafa heitið Þorbjarnarfell en nú er það nafn alveg glatað. Hann rís upp hár og tignarlegur frá Grindavík séð yfir alla flatneskjuna.
Toppur fjallsins er klofinn af stórri sprungu sem heitir Þjófagjá. Þar eiga að hafa haldið til þjófar og ræningjar er gerðu Grindvíkingum slæmar búsifjar. Lauk því svo að þeir fóru að þeim, handtóku þá og hengdu í Gálgaklettum sem eru í Hagafelli austur af Þorbirni. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Járngerðarstaði)

Skipsstígur

Götur og hraun ofan Grindavíkur.

Hraunið vestur af Kasti heitir Beinavörðuhraun og nær fram að Hrafnshlíð, Fiskidalsfjalli og Vatnsheiði. Norður á móts við áður getinna er hraunið mikið sléttara með stórum mosaþembum og heitir þar Dalahraun. Í Dalahrauni eru tveir hólar með nokkru millibili og heita Innri-Sandhóll og Sandhóll sem er hærri og sunnar. Gömul gata inn með Fagradalsfjalli að vestan og allt til Voga heitir Sandakravegur. [Beinavörðuhraun rann fyrir u.þ.b. 6000 árum.] (Loftur Jónsson – örnefnalýsing fyrir Hraun)

— Eru ekki líka draugar hér á Reykjanesi?

Óskar Aðalsteinn

Óskar Aðalsteinn, vitavörður.

Óskar: Jú, það vantar ekkert uppá það. Ég varð strax var við par, sem hélt til í kjallaranum hjá okkur hér. Mér líkaði illa við það hyski. Mér fannst stafa kuldi, jafnvel illska frá þeim. Mér hefur tekist aö koma þeim útúr kjallaranum, en þau eru samt ekki farin.
Ég hef spurt karlmanninn hvort þau ætli ekki aö koma sér burt, en hann þverskallast viö. Þau eru búin að vera hér siðan á 18. öld. Fórust á enskum togara. Þessi náungi var illmenni, hefur morð á samviskunni. Hann segist hvergi finna frið, eins og oft vill verða með menn sem deyja í slysi og hafa illt á samviskunni. Ég veit að hann vill gera okkur illt, en hann er bara ekki nógu kröftugur til þess, sem betur fer. (Viðtal við Valgerði Hönnu Jóhannsdóttur og Óskar Aðalsteinn, vitaverði í Reykjanesvita – Þjóðviljinn 2. des. 1978, bls. 11)

Norðan Selhellu er Seljavogur og norðan hennar er Beinanes (Ari Gíslason – Örnefnastofnun)

Ósabotnar

Ósabotnar – uppdráttur ÓSÁ.

Stafnes hefur verið á sama stað frá öndverðu. Landamerki milli Hvalsness og Stafnesshverfis eru í viki einu litlu sem heitir Mjósund, stundum kallað Skiptivík, sunnan við Ærhólma. Endar landið í Djúpavogi í Ósabotnum. Átti Stafnes inn í land að Beinhól og Háaleiti. Heimild um blóðvöll; Beinhóll: „Þar var slátrað hrossum til refafóðurs,“ segir í örnefnalýsingu. (Ari Gíslason -Örnefnaskrá)

Þegar komið var austur fyrir Hunangshelluna var haldið frá gatnamótunum að Njarðvík eftir reiðleiðinni þar sem Lágafellsleiðin sameinast henni áleiðis að gamla verslunarstaðum í Þórshöfn. Gatan er greinileg í heiðinni og sjá má fallnar vörður við hana. Þegar komið var yfir austanverðan Djúpavog tók við vagnvegur frá Illaklifi áleiðis að verslunarstaðnum.

Kaupstaðaleiðin

Kaupstaðaleiðin ofan Illaklifs.

Af og til mátti þó sjá gömlu reiðleiðina út frá veginum. Á Selhellu og við Draugavog eru tóftir, bæði ofan Selhellu og efst á henni. Vestan við tóttina er fallegt vatnsstæði í klöpp. Efst við sunnanverðan Selvoginn, sem er næsti vogur, eru einnig tóttir. Gengið var inn fyrir voginn og inn á þjóðleiðina, ofan við Beinanesið að Hestaskjóli og áfram fyrir Djúpavog, sem fyrr sagði. Í botni vogarins liggur girðing upp í heiðina, í átt að varnarsvæðinu. Norðan vogarins, þegar upp á holtið (Illaklif) er komið, er Kaupstaðaleiðin rudd svo til þráðbein á drjúgum kafla. Í stað þess að fylgja leiðinni niður að tóttum sunnan við Illaklif var haldið áfram vestur yfir holtið, að kletthól, sem þar er beint framundan. Vestan undir hólnum er allnokkuð gras og í því tóttir Stafnessels. (Ferlir.is)

Gálgar

Gálgar/Gálgaklettar ofan Stafness.

Þá er að bregða sér upp í heiðina. Á Flötunum fyrrnefndu er svo nefnd Urðarvarða, og ofan túns er Heiðarvarða. Beint upp af túni eins og 1 km er varða á leið til Hafna. Hún heitir Pétursvarða og stendur þar á klettasyllu. Þar til austurs er garðbrot fyrir fé, nefnt Skjólgarður. En niðri við Flatirnar er vik, sem fellur upp í og er nefnt Fagradalsvik. Þar upp frá er Fagridalur, sem nú hefur verið girtur af. Hér nokkuð austar upp frá sjó, suður frá Draughól, eru klettar tveir allháir og nokkurra faðma breitt sund á milli. Heitir þetta Gálgaklettar. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Stafnes)

Másbúð

Brúin út í Másbúðarhólma.

Norðan í Langarifi, skammt framan við Réttarklappir, er stór og hár klettur, ljótur og hrikalegur, ílangur og söðulbakaður; heitir hann Svartiklettur. Lítið eitt utar er stórt og hátt sker, fast norðan við rifið; heitir það Illasker. Út í Illasker má ganga þurrum fótum um fjöru; sækir sauðfé mjög í skerið, því þar eru söl, en af því leiðir ákaflega flæðihættu. Líklega hafa öll „Illusker“ á Miðnesi fengið nafnið vegna flæðihættu. (Magnús Þórainsson – örnefnalýsing fyrir Másbúðir – Nesjar)

Gamla Sandgerðisgatan (Sandgerðisvegurinn, sbr. Sig. B. Sívertsen – sóknarlýsing um 1880) var gengin frá Sandgerði að Grófinni í Keflavík.

Sandgerðisvegur

Gengið um Draugaskörð á Sandgerðisvegi.

Gatan sést þar sem hún kemur undan einum húsgrunnanna á nýbyggingarsvæðinu ofan bæjarins og liðast síðan upp móann. Vestan við Vegamótahól, þar sem voru gatnamót Sandgerðisgötu og Bæjarskersvegar, liggur gatan undir nýja Sandgerðisveginn, en kemur aftur undan honum í Draugaskörðum. Ofan við þau eru t.d. Efri-Dauðsmannsvarðan. Þar liggur hann áfram til suðurs framhjá Dynhól. Fallnar vörður eru vinstra megin götunnar svo til alla leið upp að Gotuvörðu. (Ferlir.is)

Garðskagi

Garðskagi – kort.

Naust hafa fyrr verið nefnd sem býli, en er nú horfið í sjó. Heitir þar nú Naustarif, þar sem bær þessi var, en nú brýtur á því sem þaragarði fyrir framan land og fer í kaf um öll flóð. Fyrr var talað um Lónsós og Lónið, sem er fram undan Akurhúsum. Hér er svo hin lendingin í Útskálalandi landmegin við Naustarif og heitir Króksós. Innan við ósinn er svonefnd Manntapaflúð, sem ekki mun tilheyra Útskálalandi. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Útskála).

Vatnsleysa

Vatnsleysa – örnefni.

Rétt utan túngarðs Minni-Vatnsleysu eru klettar tveir, sem kallast Gálgaklettar. Þó eru þeir nefndir til frekari glöggvunar Gálgaklettur nyrðri og Gálgaklettur syðri. Klettar þessir standa í fjörubakkanum, og er þröngt vik á milli þeirra. (Jónas Þórðarson, örnefnalýsing fyrir Stóra- og Minni-Vatnsleysa)

Trölladyngja er eldfjall semmyndaðist við gos undir jökli fyrir lok ísaldar og rétt við hana er Grænadyngja, en oft er talað um fjöllin sem tvíbura og saman eru þau kölluð Dyngjurnar. (Reykjanesgeopark.is)

Út í Lambhúsatjörn ganga Hrauntangar. Þar innar með sjónum eru svonefndir Gálgaklettar, sem svo skiptast í Gálga og Litlagálga, sem er nær hrauni og innan við Stóragálga. Þar eru tjarnir, sem heita Vatnagarðar. Framar eru Gálgaflöt. (Ari Gíslason – örnefnaskráning fyrir Garðahverfi)

Garðahverfi

Garðahverfi – örnefni (ÓSÁ).

Á milli Kringlu og Oddakotsóss eru Vöðlar. Þar eru leirur og hægt að vaða um fjörur. Aðeins úti í sjó, rétt fyrir vestan Granda, er svolítil steinaþyrping, sem heitir Draugasker (et.). Það fer í kaf með flóði. (Kristján Eiríksson – örnefnalýsing fyrir Garðahverfi)

Verður nú rakin merkjalína Garðalands, er Vífilstaðalandi sleppir. Arnarbæli var fyrr nefnt. Þaðan er línan í austur-landsuður upp í Hnífhól, og þaðan með sömu stefnu í mitt Húsfell, sem er allhátt fell, sem rís hér upp af hraunbreiðunni. Breytir nú stefna merkjanna suður í miðja Efri-Strandatorfu, svo beint suður í Markraka í Dauðadölum. Markraki er hóll, en dalirnir eru lægðir kringum hólinn. Við Markraka breytist stefna merkjanna. Þar vestur eða norður frá er allhátt fell, sem heitir Helgafell. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Garðaland)

Dauðadalir

Dauðadalir – hellisop í jarðfalli.

Stórabollahraun er talið vera um 2700 ára. Hraunið ber keim af dyngjugosi. Gígurinn, mjög stór, er utan í vestanverðu Kóngsfelli í norðanverðum Grindaskörðum ofan Hafnarfjarðar. Hraunið er undir Tvíbollahrauni, komið úr gígum skammt sunnar. Dauðadalahellarnir eru í Stórabollahrauni, Þeir eru nokkrir, þ.á.m. Flóki. Leiðarendi, einn mest sótti ferðamannahellir á landinu, er einnig í Stórabollahrauni. Yfir honum hvílir Tvíbollahraunið. Á einum stað hefur það náð að þröngva sér inn í hellinn.

Tvíbollar

Tvíbolli.

Upptök Tvíbollahrauns eru í framangreindum Tví-Bollum eða Mið-Bollum. Tví-Bollarnir þeir eru tveir samliggjandi gígar í brúnum Grindarskarða, í um 480 m hæð yfir sjó. Hraunið hefur fossað niður bratta hlíðina niður á láglendið en einnig runnið í lokuðum rásum. Hraunið flæmdist síðan til norðurs milli móbergshnúka og klapparholta allt niður undir Hvaleyrarholt við Hafnarfjörð.
Tvíbollahraun er runnið eftir landnám og er eitt af nokkrum hraunum sem brunnu í miklum eldum á 10.-11. öld. (Ratleikur hafnarfjarðar 2021)

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur (Bláfeldur).

Vesturmynd Draugahlíðar var sem ævintýraland elddrottningarinnar. Hraungígar og mosagróið land. Dúnmjúkur ljós gulgrænn mosi sem birtist með hvítum og svörtum tilbrigðum. Litadýrðin var ótrúleg, samspil grábláa hraunsins, gjóskusteinar sem voru ljósrauðir og ótal afbrigði af mosa. Vætan í loftinu og snjórinn gerði allt tilkomumeira. Gekk niður fönnina og kom niður á hinn þykka mjúka mosa sem maður ber ósjálfrátt lotningu fyrir. Náttúruteppi sem hefur verið samviskulega ofið í meir en þúsund ár.

Draugahlíðagígur

Draugahlíðagígur í Brennisteinsfjöllum.

Margar álfakirkjur má hér finna, furðusmíð íslenskra náttúru í líkingu við margar „Sagrada Familia“ Gaudis. Steinborgir í Grindaskörðum eru tilkomumiklar og gaman að ganga þar fram ótroðnar slóðir. Klifra niður steinklappir og láta sig detta niður í bratta fönnina. Sjá kvöldsólina hverfa út við Snæfellsjökull. Allt borgarsvæðið er undir, en næst dökkrautt Húsfell og Helgafell, Þríhnúkahraun. Í norðausturátt er Þríhnúkahellir. Alstaðar dýrgripir sköpunarverksins sem kynslóðir eiga eftir að uppgötva og njóta. (Sigurður Antonsson – blogg)

Dauðsmannsskúti

Dauðsmannsskúti. Litla-Kóngsfell fjær.

En við höldum áfram og liggur leiðin um austurenda Draugahlíðar. Þar hefur bæði verið ruddur vegur og hlaðinn. Þegar niður kemur liggur leiðin yfir hraun, sem nefnist Skarðahraun, kennt við Grindaskörð. Þar förum við gegnum girðingarhlið og litið eitt austar eru svo tvær vörður, sem við köllum Tvívörður. Liggur nú leiðin austur og upp undir Kóngsfellið litla.
Í hrauntröðum, sem þar eru, blasir við okkur lítill skúti. Hann er kallaður Dauðsmannsskúti. Þar varð úti maður um 1860. Skörðin búa yfir mikilli dul, þvi 1633 hvarf þarna maður og hefur ekkert af honum fengizt. Haldið var að tröll hafi heillað hann. (gísli Sigurðsson – Gamla Selvogsgatan)

Mæðgnadys

Mæðgnadys.

Í Örnefnaskrá 1964 er nefnd Mæðgnadys: „Dys eða þúfa norðan í holtinu skammt frá Garðagötu [nr. 54] norðan Torfavörðu [nr. 49] Þar varð úti griðkona frá Görðum með barn sitt ungt […] mæðgur […]“. (Gísli Sigurðsson – Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum)

Gengið var norður með vesturjarði hraunsins og inn á svonefndan Sakamannastíg (Gálgastíg) í Gálgahrauni.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Skammt austar, norðan stígsins má sjá nokkrar mjög gamlar hleðslur. Ein þeirra er herðslugarður og sést móta fyrir húsi á einum stað. Stígnum var fylgt að Gálgaklettum. Klettarnir, sem eru þrír; Vesturgálgi, Miðgálgi og Austurgálgi, standa reisulegir rétta ofan við sjóinn. Sígurinn liggur beint að þeim. Utan í vestanverðum Gálgaklettum er skeifulaga garður, sennilega Gálgaflöt. Í henni voru sakamenn dysjaðir. (Ferlir.is)

Völvuleiði

Á Völvuleiði.

Völvuleiði er við Holtsendann, austan til á Garðaholti. Gamall stígur, Kirkjustígur, lá við Völvuleiði. Á 18. öld er þess getið í lýsingu séra Markúsar Magnússonar. Hann segir að fornar sagnir séu um Völvuleiði. Þar sé grafin Völva (spákona), sem farið hafi um í heiðni. Bóndinn í Pálshúsi vísaði FERLIR á Völvuleiðið á sínum tíma. Völvuleiði munu vera til víða um land og segir t.d. af einu þeirra í Njálssögu. Í örnefnaslýsingum Garðabæjar segir að Mæðgnadys sé í norðanverðu Garðaholti, sunnan við Presthól. Svo virðist sem fyrri hluti lýsingarinnar sé rétt (í norðanverðu Garðaholti), en síðari hlutinn getur vart staðist. (Ferlir.is)

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

“Sviðholtsættinni fylgdi draugur, sem kallaður var Þorgarður. En um uppruna hans er þessi saga:
Hallldór faðir Bjarna í Sviðholti bjó að Skildinganesi og var maður auðugur. Um þessar mundir fekk maður einn, sem annað hvort var dæmdur til dauða eða ævilangrar fangelsisvistar, leyfi til þess að leysa sig út með peningum, en hann var sjálfur fátækur og fekk því loforð hjá Bjarna fyrir gjaldi því, er þurfti. Aðrir nefna til þess bróður Halldórs. Þá er Halldór var að telja gjaldið, kom að kona hans. Hún sópaði saman peningunum og sagði að þarfara væri aft verja þeim öðruvísi en að kasta þeim svo á glæður. Seki maðurinn fekk ekki fjeð, og sagði hann að svo mætti fara að tiltæki konunnar yrði henni til lítillar hamingju og ættliði hennar. Nú átti að flytja hann utan, en dugga sú, er hann var á, týndist fyrir Austfjörðum með allri áhöfn. Eftir þetta gekk hann aftur og sótti mjög að konu Halldórs og fór svo að hún ljest. Tók draugurinn þá fyrir aðra menn í ættinni og varð að ættarfylgju. Hann var nefndur Þorgarður. Hann var síðar dysjaður á Arnarneshæð. (Ferlir.is)

Skorarhylur

Skorarhylur.

„Rétt fyrir innan Skorarhyl voru Draugaklettar, sem trúlega eru enn til. Þeir voru nokkurn veginn á móti Árbæ og hljóta því nú að vera til móts við Höfðabakkabrúna. Draugaklettar voru nokkuð stórir klettar, dökkir á lit, og átti að vera þar huldufólk.“ (Athugasemdir og viðbætur Þóru Jónsdóttur við Örnefnaskrá Breiðholts)

Þegar hugað er nánar að örnefninu Víghóll eða Víghólar, vekur það athygli, að nafnið er víðar til en í Kópavogi. Þannig er mér kunnugt um fjóra aðra Víghóla á Suðvesturlandi: einn í Selvogi, tvo í Garðabæ og einn í Mosfellssveit. Engra þessara nafna er getið í fornum heimildum. (Víghóll; Lesbók Morgunblaðsins, Þórhallur Vilmundarson, 26.03.1994, bls. 6.)

Húsfell

Húsfell – Víghóll neðst til vinstri.

Draugaklettar eru í Breiðholsthvarfi á móts við Árbæinn, ekki háir en dökkir að lit. Þar fer ekki sögum af draugum; hins vegar átti huldufólk að búa í þeim.
Einnig er talað um Draugasteina skammt frá suðurenda Árbæjarstíflu.
Uppi á Breiðholtshvarfinu, eða við fjölbýlishúsið Vesturberg 2-6, er önnur álfabyggð í hól einum, skv. Fornleifaskrá Reykjavíkur. Trúin á hana lifir svo sterkt að þegar byggja átti fjölbýlishús þar sem hóllinn var, í samræmi við skipulag annarra húsa við götuna, þótti það óráðlegt. Var ákveðið að hrófla ekki við hólnum heldur víkja frá skipulagi og byggja húsið fyrir framan hann. (Ferlir.is)

Viðey

Viðey – kort.

Þar sem eyjan gengur næst landi gegnt Vatnagörðum nefnist Sundklöpp, en Sundbakki autast, gegnt Gufunesi; á þeim stöðum voru hestar sundlagðir úr eynni. Suður af túninu eru Kvennagönguhólar, g er sagt, að þar hafi huldufólk búið. Þar niður undan heitir Drápsnes við sjóinn. (Viðey, útvarpserindi dr. Guðna Jónssonar 28. 12. 1962)

Líkaflöt, austan í hólnum. Þar höfðu verið þvegin lík.“ (Ágúst Jósefsson – Minningar og svipmyndir úr Reykjavík, Leiftur, Reykjavík, 1959. Örnefnakort unnið 1984-1986 af Einari J. Hafberg frá Viðey)

Gaman er að ganga út á Þórsnes og vestur fyrir það, yfir á Kríusand. Þaðan er hægt að fara með ströndinni vestur að bryggju. Sé farið aftur eftir veginum er ráðlegt að ganga niður í Kvennagönguhóla, skoða réttina og hellisskútann Paradís.

ViðeyLoks er svo farið um Heljarkinn heim að stofu, minnisvarði Skúla skoðaður, Danadys og Tóbakslaut. Hin leiðin er í vestur. Veginum er fylgt af Viðeyjarhlaði, vestur á Eiði. (DV – Viðey; tvær gönguleiðir vinsælastar, 24, júni 1992, bls. 27)

Í Viðey hafa trúlega um 3.000 manns verið bomir til moldar, en á öldum áður þótti það örugg leið til himnaríkis, ef munkamir í Viðey sáu um síðasta spölinn. Slík helgi hvíldi yfir grafreitnum, að lík frá landi voru lauguð á Þvotthól við Líkaflöt, áður en þau voru færð til hinstu hvíldar. ( Morgunblaðið – Viðey; eyjan við bæjardyr Reykjavíkur, 20.08.1988, bls. 17)

Gönguskarð heitir þar sem gengið er upp á kinnina. Þar voru dysjaðir fjórir Danir, sem vegnir voru eftir víg Diðriks af Mynden.(Útvarpserindi Guðna Jónssonar. Á örnefnakortinu er dysin merkt inn á upp á kinninni rétt suður af uppgöngunni upp Gönguskarði – Örnefnaskrá yfir Viðey)

Tröllabörn

Tröllabörn.

Tröllabörnin eru nokkurs konar systkini Rauðhóla í jarðsögunni, ef svo má að orði komast. Bæði náttúrufyrirbrigðin mynduðust í sama eldgosinu, sem átti sér stað fyrir rétt rúmum 5000 árum í eldstöðinni Leitum austan Bláfjalla. Frá Leitum runnu tveir heljarmiklir hraunstraumar, annars vegar til suðurs niður á láglendið vestan Ölfusárósa og hins vegar til norðurs og nefnist sá Svínahraun. Mjó hraunlæna læddist svo loks til vesturs, yfir Sandskeið og Fóelluvötn, niður Lækjarbotna og um Elliðavatn alla leið niður í Elliðavog. Á þeirri leið mynduðust Tröllabörn og Rauðhólar þegar hraunstraumurinn flæddi yfir vatnsósa mýrarlendi. (Vísindavefurinn)

Orrustuhóll

Réttin við Orrustuhól.

Orrustuhóll er í Orrustuhólshrauni sunnan við Litla-Skarðsmýrarfjall. Í lýsingu frá árinu 1703 segir að “fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orrustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn, þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.” Önnur lýsing segir að “austan undir hrauninu er Orrustuhóll. Gömul sögn kveður á um, að á þessum slóðum hafi verið sundurdráttarrétt. Áttu réttarmenn að hafa orðið missáttir og barist á hólnum. (Ferlir.is)

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

Árið 1703 var hún talin nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. “Er og lofsvert, að þetta sælhús skuli ei niður fallið (1793)”. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Í örnefnalýsingu segir að í ekkert hús var að venda [á leiðinni yfir Hellisheiði] nema smákofa, er var í Svínahraunstöglum, sem ganga út á Norðurvellina. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan. (Ferlir.is)

Lakastígur

Lakastígur.

Þarna um dalina liggur Lakastígur (Lákastígur), greiðfærasta leiðin milli Þrengsla og vestanverðrar Hellisheiðar. Reyndar er um Lágaskarðsleið að ræða því hún liggur Lágaskarð sem er þarna mitt á milli.
Gengið var upp á vesturbrún Norðurhálsa, en svo nefnist næsti stallur á undirhlíðum Skálafells ofan Hverahlíðar. Þegar upp er komið má sjá hversu víðlent svæðið er, mosaþýfi, smáhæðir og stallar er hallar að brúnum. Haldið var inn að Trölladal og áfram til austurs með norðurbrún Tröllahlíðar að norðurhlíð Skálafells. (Ferlir.is)

Sleðaás

Steinn við Sleðaás (Matthías Þórðason).

Sumir hafa haldið og halda enn, að Sleðaás sé sama og Tröllaháls. Á Íslandskortinu eftir Björn Gunnlaugsson er Sleðaás settur ofan til við Tröllaháls, og Sveinn Pálsson talar um í Dagbók sinni 1772, að Sleðaás sé einnig þar (sbr. Kålund I, bls. 151), enn þetta getur með engu móti verið rétt, sögurnar sanna það. Sleðaás heitir enn í dag ásklifið, sem gengur suður úr Ármannsfelli fyrir ofan grænu brekkuna, sem kallaður er Bás, og Sleðaáshraun heitir þar niður undan. Grettissaga Kh. 1853 nefnir Sleðaás, bls. 31, þar sem höfðingjarnir áðu, er þeir riðu af þingi, og Grettir hóf steininn, er sagan segir að liggi þar í grasinu. (Ferlir.is)

Líkatjörn

Líkatjörn.

Úr Suðurhól eftir hæstu brúnum Krossfjalla og í há Sandfell. Þaðan norður eftir Líkatjarnarhálsi og í Bátsnef (líklega fremur nýtt örnefni), sem er sunnan við Hagavík.
Fagrabrekka byrjar fyrir ofan og norðan Sandfellskrika og liggur niður á Líkatjarnarháls. Fremst á Líkatjarnarhálsi er djúpur dalur, sennilega gígur, nefndur Pontan. Líkatjörn er rangt merkt á kortið. Hún er nú horfin. Þegar Guðmann man fyrst eftir, var þetta aðeins uppsprettulind, mjög lítil að ummáli. Hún var rétt austan Líkatjarnarháls og hefur sennilega horfið undir sand, framburð úr Sandfelli. Þar rétt fyrir ofan er mýri, en Leirur fyrir norðaustan og síðan Leirhóll. Sú sögn er um Líkatjörn, að í henni hafi þvegin, er þau lík verið voru flutt austur að Skálholti. (Guðmann Ólafsson – örnefnalýsing fyrir Hagavík)

MosfellsheiðiBeinakerling var einnig á Mosfellsheiði, skammt frá Borgarhólunum. Hún lagðist af nálægt 1880, eptir að sæluhúsið var reist á heiðinni. Frá þeirri kerlingu er þessi vísa:
„Herra minn guð, eg held nú það”
hann Sigurður rendi
…………………..vað,
„mikil skelfing! Vittu hvað”.
Vísan er frá síðara hluta 19. aldar, og kveðin á leið í verið; eru í henni orðatiltæki manns þess, sem hún er kveðin til.” (Ferlir.is)

Guðnahellir

Guðnahellir.

Talið er að útilegumenn hafi m.a. hafst við í helli í Illaklifi á Mosfellsheiði. Hellir þessi hefur í seinni tíð verið nefndur Guðnahellir eftir Guðna Bjarnasyni (f: 1971) refaskyttu á Harðastöðum sem hefur legið þar á greni.
Á þessum slóðum gerðist mikil harmsaga laust eftir miðja 19. öld. (Ferlir.is)

Leirvogsá rennur um Stardal, sem eins og nafnið gefur til kynna, er nokkuð votlendur.

Tröllafoss

Tröllafoss.

Í Stardal eru leifar fornrar megineldstöðvar sem kennd er við dalinn. Stardalseldstöðin var virk fyrir um 1,8 milljónum ára og er hún mikið rofin. Stardalshnjúkar eru grunnstætt berginnskot eða bergsylla, líklega efsti hluti kvikuþróar eldstöðvarinnar.
Tröllafoss er í miðri öskju hinnar fornu eldstöðvar. Hann fellur milli hamra ofan í gljúfur sem áin hefur grafið í gegnum Tröllalágar í mynni Stardals. Fyrir neðan fossinn breiðir áin úr sér sem slæða yfir bergið. Gljúfrið er um 500 metra langt og 50 til 80 metra breitt og kallast TröllagljúfurT. (Mannlíf.is)

Niður af Austurenni er vont dý, sem heitir Vondadý. Það er hættulegt skepnum. Mýrarsund er sunnan við Pyttalæk, suður af Austurenni, sem heitir Mjóaveita og dregur nafn af lögun sinni. Það er mjög grasgefið. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Vellir)

Skálafell

Skálafell.

Um mitt fellið austan Flágils kemur annað gil ofan úr háfjallinu. Ofan við miðjar hlíðar fellur lækur þess fram af þverhníptum svörtum hamrastalli niður í klettabás sem nefnist Bolabás og gilið Bolagil. Skýringu á þessu örnefni hefur höf. heyrt að svartur hamraveggurinn minni á svart naut sem standi á bás séð heiman frá bænum, einkum þegar fjallið er hvítt af snjó, en snjór tollir aldrei í hamravegg þessum.

Skálfell

Skálafell – Beinagil.

Þriðja gilið í fellinu er nokkuð austar og kemur lækur þess úr drögum neðan við fjallsbrúnina. Gilið liggur niður fjallið skammt vestan við skíðaskála KR og liggur nær þráðbeint niður fjallið og kallast Beinagil, þ.e. gilið beina. Skammt austan þess er eins og mjúk brún niður eftir fjallinu og sést nú ekki meir af því heiman frá bæ. Þessi brún er stundum nefnd Höggið. Báðum megin við Beinagil neðarlega í fjallinu eru mjúkir ávalir melhólar með grasteygingum á milli og nefnast Jafnhólar. Fjórða gilið í fellinu kemur úr austurhlíð fellsins úr skálarmyndaðri kvos og heitir Grensgil. Nafnið er dregið af tófugreni sem er skammt austan við gilið og hafa refir þar löngum lagt í þetta greni áður en skíðalyftur og menningarhávaði flæmdu þá þaðan. (Egill Jónasson – örnefnalýsing fyrir Stardal)

Svínaskarð

Dys í Svínaskarði – Innradys.

Skammt austan við Þverfellsgil er Einbúi. Þetta er fallegur, einstakur melhóll, fast ofan götunnar, sem liggur upp til Svínaskarðs. Einbúagil liggur hjá hólnum niður í Skarðsá. Austur af Einbúa eru Einbúalágar. Svo hækkar vegurinn upp á Svínaskarð. Þar á há-skarðinu eru tvö dys, sem heita Fremradys og Innradys. Upp af öllu þessu, sem hér er talið, er stór röð af hnúkum, sem heita Móskarðshnúkar, og skörðin milli þeirra heita Móskörð. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Þverárkot)

Svínaskarð

Svínaskarð – Fremridys.

Fyrir norðan Hrafnagil eru tvö djúp gil. Hátt upp í fjallið norðan við nyrðra gilið er stór steinn og smáskúti undir honum: Einstakiklettur. Lækirnir úr þessum giljum sameinast þegar kemur niður á láglendi. Undan þeim hefur myndazt stórt jarðfall niður að á: Vondasprunga. Milli Vondusprungu og skriðunnar úr Hrafnagili. er stór grasivaxin lægð: Hrafnagilslág. Norðan sprungunnar er allstórt graslendi, norðan til á því eru tveir melhólar, Sandhólar. Milli þeirra er smálækur: Sandhólalækur. (Þórður Oddsson – örnefnalýsing fyrir Eilífsdal)

Kjós

Kjós – kort.

Vatn fellur til Miðdalsár; þá er næst Hrútatunga. Vestan við hana heitir Illagil að ofan. Þá tekur við breið tunga, er heitir Skessutungur ofan til, en Helguhólstungur (neðan til. Neðan til í þeim er grjóthóll, sem heitir Helguhóll. Austan við Skessutungur er lækur, sem heitir Svörtuskriðulækur. Fer hann úr Illagili og rennur eftir grundum, sem nefnast Vellir. Hér er áin að verða til. (Ari Gíslason – örnefnalýsing fyrir Miðdal)

Beint niður undan Valshömrum, við lækinn, er holt, sem heitir Stefánarholt. Nokkuð fyrir framan fremri Valshamarinn rennur smálækur niður úr Hálsinum, hann heitir Hálslækur. Töluverðum spöl framar kemur annar og stærri lækur niður Hálsinn og heitir hann Drápskriðulækur. Hann rennur norður dalinn og sameinast Hálslæknum, eftir það heitir lækurinn Birtingslækur. Hann fellur í Dælisá skammt fyrir framan Háaleiti. (Ellert Eggertsson – örnefnalýsing fyrir Meðalfell)

Valshamar

Valshamar.

Eftir Torfdal rennur samnefnd á, Torfdalsá í henni eru þrír fossar: Kálfabanafoss neðst, rétt áður en Torfdalsá sameinast Flekkudalsá, þá Hjallafoss en efsti fossinn heitir Þrengslafoss, en efsti hluti Torfdals heitir Vestri-Þrengsli og Eystri-Þrengsli. Flekkudalsá rennur um Flekkudal. Í henni eru tveir fossar, Grafarfoss í miðjum dal og Suðurdalsfoss syðst í botni dalsins.
Ofan til og vestan á Miðtunguhjalla er hóll er Skyggnir heitir. Þaðan sést í báða dalina. Miðtungan endar í háu standbergi rétt við Kálfabanafoss, Miðtunguberg, móti því norðan Torfdalsár er Kálfabanaberg, vestar Snös, klettanibba. Milli þeirra Kúahvammur. Stórihvammur er við Flekkudalsá, neðan Miðtunguhjallans. Holtið ofan við Grjóteyrarbæinn heitir aðeins Holt. (Magnús Blöndal og Guðni Ólafsson – örnefnalýsing fyrir Grjóteyri og Flekkudal)

Þjóðskarð

Þjóðskarð.

Í Melafjalli upp af bænum eru skörð. Lækurinn, sem rennur um Melagil, kemur um Stekkjarskarð í brúninni, en nokkru innar er stórt skarð í klettana, sem heitir Þjóðskarð. Vestar er far í berginu eða plötunni, sem heitir Skessuspor. Milli þessara skarða er venjulega nefnt „Milli skarða“. (Ar Gíslason – örnefnalýsing fyrir Mela (Melahverfi))

Dys er hvorugkynsorð (Dysið). Þar fram hjá lá vegurinn vestur undir Dauðsmannsbrekkum. Þjóðsögur greina frá því að bóndi nokkur á Fossá hafi setið þarna fyrir ferðamönnum, drepið þá og rænt. (Páll Bjarnason – örnefnaskrá fyrir Fossá)

Gíslagata

Dys í Dauðsmannsbrekkum á Reynivallahálsi.

Á Reynivallahálsi er þýfður og rofinn melur. Ofan af jafnsléttu er einstigið illgreinanlegt í fjallshlíðinni. Enn er hægt er að ganga upp þennan göngustíg (2010). Vegurinn liggur upp meðfram gilinu á landamerkjum og beygir svo í vestur upp/út hlíðina milli tveggja efstu fjalla. Stígurinn liggur yfir hálendið yfir á Svínaskarðsveg ANA við Dauðsmannsbrekkur. Á Reynivallahálsi og í Dauðsmannsbrekkum er gatan (Gíslagötudrög) enn greinilegur mjór malarstígur sem er um 0,2-0,4 m á breidd og <0,2 m á dýpt. (Fornleifaskráning í Kjósarhreppi III, 2012)

Reykjanesskagi

„Hryllingsörnefnakort“ af Reykjanesskaga.

Útskálakirkja
Útskálakirkja var vígð 1863. Formsmiður af henni var Einar Jónsson frá Brúarhrauni (1818-1891).
Árið 1975 var forkirkjan stækkuð. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Gränz, málarameistara. Hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu, sem nær var horfin.Útskálakirkja

Kirkjan er af yngri turngerð og er friðuð.
Altaristaflan er eftir útlendan málara og sýnir boðun Maríu. Predrikunarstóllinn var að öllum líkindum upprunalega í Dómkirkjunni í Reykjavík. Skírnarfonturinn er eftir Ríkharð Jónsson.
Séra Sigurður B. Sívertsen (1808-1887) var prestur í Útskálum í tæplega hálfa öld. Hann vann að mörgum framfaramálum, s.s. jarðabótum og húsbyggingum. Hann lét m.a. byggja kirkjuna, sem nú stendur, en þekktastur er hann fyrir Suðurnesjaannál, sem hann skrifaði.
Kirkja hefur líklega verið á Útskálum frá fyrstu tíð. Hennar er fyrst getið í kirknaskrá Páls biskups frá um 12000. Þá var kirkja einnig á Kirkjubóli, en þeirrar kirkja er síðast getið í heimildum frá 14. öld. Dýrlingar kirkjunnar í kaþólskri tíð voru Pétur postuli og Þorlákur helgi.

Útskálar

Útskálakirkja – rúnasteinn.

Einn hryggilegasti atburður sjóferðasögu Íslands tengist kirkjunni. Þann 8. mars 1685 fórust 136 á sjó, flestir af Suðurnesjum. Um nóttina rak 47 lík á lad í Garðinum og var 42 þeirra búin sameiginleg gröf í Útskálakirkjugarði. Það er talið að aldrei hafi jafn margir verið jarðaðir á sama degi frá sömu kirkju landsins.

Útskálakirkja

Útskálakirkja.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja var vígð 18. júlí 1886. Hún var reist að frumkvæði Ásbjörns Ólafssonar, bónda í Innri-Njarðvík.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.

Kirkjan er gerð úr alhöggnum steini og var grjótið sótt í heiðina fyrir ofan byggðarlagið. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon (1842-1887).
Viðarmiklar viðgerðir fóru fram á kirkjunni 1944, en þá hafði hún ekki verið notuð sem sóknarkirkja frá 1917, og síðan aftur 1980-1990. Arkitekt að seinni viðgerð var Hörður Ágústsson. Kirkjan er friðuð.
Altaristaflan (1986) er eftir Magnús Á. Árnason og sýnir krossfestinguna.
Forn kirkjuklukka (1725) er ein þriggja kirkjuklukkna í turninum.
Saga kirkju í Innri-Njarðvík er nokkuð slitrótt. Í heimildum frá 13. öld er kirkju getið. Hún virðist hafa verið lögð niður á 16. öld, en endurreist á síðari hluta 17. aldar. Kirkjan var aflögð 1917, en endurgerð 1944 og hefur verið þjónað í kirkjunni síðan. Í kaþólsku var hún Maríukirkja og Þorlákur helgi var einnig dýrlingur kirkjunnar.
Sjá meira um Innri Njarðvíkurkirkju HÉR.

Njarðvíkurkirkja

Innri-Njarðvíkurkirkja.