Þorbjörn

Gengið var á Þorbjarnarfell (231 m.y.s) upp frá Eystri-Klifhól ofan við Klifhólahraun (sunnan fellsins). Stefnan var tekin upp suðurhlíð þess að Þjófagjá. Þjóðsagan segir að ræningjar hafi hafst þar við á 17. öld og herjað á bæjarbúa. Sama heimild kveður á um að enn megi sjá helli þeirra í gjánni.
Gönguleiðin„Miklir“ fréttasnjóar hafa herjað á Grindvíkinga undanfarna daga svo ætla má að einhverjir þeirra hafi nú safnast fyrir í Þjófagjánni. Ætlunin var að reyna að brjótast upp í gegnum gjána og síðan niður kafaldið að Hádegisgili (séð frá Baðsvallaseljunum) og halda síðan á snjóskriðu niður misgengið er einkennir miðju fellsins, allt niður á Baðsvelli, að fyrrum selstöðum Grindvíkinga. Þar má enn sjá rústir seljanna við Kvíalág og Stekkjarhól. Alvöru Grindjánar og aðrir bæjarbúar höfðu verið hvattir til þátttöku, en einungis þeir allra alvarlegustu létu sjá sig. Að sumu leiti var það skiljanlegt því lágrenningur þakti láglendið, en heiðríkja var ofan við einn metran. Þeir, sem ekki voru staðnir upp á tvo 
fæturna svo snemma, gátu varla hafa áttað sig á því. Þetta átti þó eftir að breytast.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell. Þjófagjá efst, Klifhólar neðst t.h.

Annars reis „fréttasnjórinn mikli“ í Grindavík alls ekki undir nafni þegar betur var að gáð. Að vísu hafði verktökum tekist að moka honum upp í nokkra hrauka og ruðninga innanbæjar, en utar var aftur á móti hvergi torfæra vegna snjóa. Gangan að Þorbirni var því álíka auðveld og á vordegi.
Bæjarstjórinn vakir yfir GrindavíkFram hafði komið að 
FERLIRsfélagar kalli nú ekki allt ömmu sína og fullyrtu að yrði verði ekki til trafala, enda væri það snjómagn sem nú huldi grund eins og föl í samburði við snjómagn minninga frá fyrri tíð. Í þá tíð voru húsin að vísu lágreistari. Er mest snjóaði þurftu íbúarnir að moka sig út um snjógöng. Þegar út var komið sáust engin hús, einungis hvítdrifnir snjóskaflar eins langt og augu eygðu. Mannlífið var líka svolítið öðruvísu þá – eins og fram kemur í fyrsta kafla í óskrifuðu handriti um Gindavík og Grindvíkinga:

Þjófagjá efst

Rökkrið grúfir yfir láð og land. Tunglið guðar ofar skýjum. Í suðri, þar sem himinn og haf renna saman í eitt, líða öldurnar mjúklega inn litlu víkina undir skinrönd – uns þær lognast loks út af hvítfyssandi í fjöruborðinu. Snjór þekur jörð ofan við fjöruna. Grýtt ströndin næst sjónum er auð.
        Það er kalt í veðri og þrátt fyrir lygnuna g
nauðar vindurinn ámátlega utan við gluggann. Ofan sjávarbakkans liðast lágrenningurinn hægt með jörð­inni af suð­austri. Bjartar stjörnur glitra á himninum. Ekki er lifandi veru að sjá á ferli utan dyra.
      

Þórkötlustaðir

Grindavík.

Í fjarlægð má í skímunni greina fáeina kofa og nokkrar húsnefnur vestar með ströndinni. Þær snúa flestar mót opnu úthafinu. Sum húsanna virðast halla fram eins og þau væru að búa sig undir að þurfa að mæta enn máttugri hafáttinni.
        Í vestri sést ljósabaugur handan hæðar – í hverfinu. Þar er víðast ratljóst bæði utan dyra og innan. Hverfisfólkið býr í nýrri og betri híbýlum en þeim gömlu, sem fyrir eru hérna megin við Nesið.

Grindavík

Grindavík.

        Lágt Nesið skilur staðina að – bæði í tíma og rúmi. Margt er ólíkt með íbúunum. Fólkið austanvert við Nesið segir t.d. “alltaf” þegar íbúarnir vestanvert við það segja “aldrei” í sömu merkingunni. Þannig eru gæftir alltaf góðar hjá því á meðan þær eru aldrei slæmar hjá hinu og þótt sólin sjáist aldrei vestur í Hverfi er hún alltaf  á bak við skýin austan við Nesið.  Og það fólk játar jafnan þegar hitt neitar. Þá er eftir því tekið hversu íbúarnir austurfrá hafa tileinkað sér vel það sem ekki er til. Þeir eru nægjusamari og nærast frekar á væntingum – virða fortíðina og vænta mikils af framtíðinni á meðan þeir vesturfrá eru nokkuð fastheldnir á líðandi stund – nútíðina. Framfarirnar hafa orðið meiri þar en að austanverðu því fólkið hefur nýtt sér betur það sem upp á er boðið á hverjum tíma.
        Torfufólkið lét ekki myrkrið og ámátlegt ýlfrið í vindinum raska ró sinni. Þetta er harðgert fólk, sem hefur lifað tímana tvenna. Yngra fólkið vill frekar búa í nýrri húsunum handan við Nesið þar sem þægindin hafa í seinni tíð bæði verið meiri og sjálfsagðari.

Þjófagjá - án kafaldsbyls

Gengið var um Klifhólahraunið er liggur austan við Lágafell og að Klifhól eystri upp undir Þorbirni. Í örnefnalýsingu er þessu svæði, og öðru framundan, lýst þannig: „Sunnan í [Lágafelli] er Lágafellsbrekka en austan í því er Lágafellstagl. Vestur af Lágafelli eru Óbrynnishólar og norður frá þeim er Tæphella. Norður af Lágafelli er svo Skipsstígshraun.
Þorbjörn mun upphaflega hafa heitið Þorbjarnarfell en nú er það nafn alveg glatað. Hann rís upp hár og tignarlegur frá Grindavík séð yfir alla flatneskjuna. Toppur fjallsins er klofinn af stórri sprungu sem heitir Þjófagjá. Þar eiga að hafa haldið til þjófar og ræningjar er gerðu Grindvíkingum slæmar búsifjar. Lauk því svo að þeir fóru að þeim, handtóku þá og hengdu í Gálgaklettum sem eru í Hagafelli austur af Þorbirni. Við norðurenda Þjófagjár er dalmynduð kvos, Hádegisgil og Miðmundagil. Það eru eyktamörk frá seli er var á Baðsvöllum og síðar getur.

Gyltustígur

Gyltustígur (t.h.).

Klifhólar eru útrennsli úr Þorbirni en sunnan í Þorbirni er fyrst Eystri-Klifhóll. Ofar í Klifinu er Fiskitorfa. Neðar og vestar er Vestri-Klifhóll og þar ofar er Krókatorfa. Vestan við Klifhól, utan í fjallinu vestast, er Gyltustígur, eins konar hraunveggur. Hann er vestarlega í Þorbirni að sunnanverðu frá Lágafellstagli og upp úr. Vegghamrar  er lágur hraunhamraveggur suðaustan í Lágafelli og tengir það við Þorbjörn. Vesturhlið Þorbjarnar er brattar skriður sem heita Skjónabrekkur. Milli Klifhólanna er Klifhólatorfa niður af Krókatorfu sem nú er aðeins snepill.

Grindavík

Þorbjarnarfell og Baðsvellir. Selháls lengst t.v.

Ef farið er yfir Selháls sem er milli Þorbjarnar og Hagafells taka við sléttir vellir, Baðsvellir. Sagt er að þeir dragi nafn af því að þar hafi ræningjar baðað sig. Norðan í Þorbirni eru tvö gil grasivaxin. Eystra gilið er Hádegisgil en hitt er Miðmundagil. (Sjá meira um eyktarmörk).
GálgaklettarAlveg niður við hraun er hallandi graslendi. Þar er slétt laut sem heitir Kvíalág. Þar með hrauninu eru tvennar seltættur og hóll. Þar austan við heitir Stekkjarhóll. Norðan í Þorbirni er girðing sem á að verða skógræktarsvæði og hefur hlotið nafnið Selskógur. Norður frá Þorbirni breytir hraunið um svip og heitir eftir því Illahraun.“
Þegar komið var upp fyrir Klifhólatorfu skall á þvílíkur skafrenningur að hvergi eygði dökkan díl. Snjófjúkið varð slíkt að þátttakendur áttu erfitt með andardrátt. Þrátt fyrir þrálátalæti hunds, sem var með í förinni, var ákveðið að halda áfram, enda búnaðurinn eins og best var á kosið. Komist var með erfiðismunum upp fyrir eystri gjárbarminn og stefnan tekin þverleiðis á Þjófagjá. Þegar henni var náð kom í ljós að gjáin var full af snjó. Þarna var þá allur snjórinn, sem ekki hafði fests á láglendi utan Grindavíkurbyggðar. Hann hafði leitað skjóls í gjánni. Kafaldbylur rann lárétt fram af efribrúnum Þjófagjár, en féll síðan niður í hana sem lóðrétt snjókoma. Í suðri sveimaði bæjarstjórinn yfir byggðinni í lítili flugvél – svona til að kanna hvernig snómoksturinn hafði gengið fyrir sig.

Þjófagjá

Þjófagjá.

Einn FERLIRsfélaga hafði útbúið nýmóðins snjóþrúgur úr áli – og haft þær meðferðis. Þær voru nú dregnar fram, settar undir fætur og ferðinni haldið áfram upp gilið. Þrúgurnar reyndust vel á annars óþéttum snjónum. Efst í gjánni var sótt um einkaleyfi fyrir framtakinu.
Eftirleiðin reyndist auðveldari, enda hafði kafaldinu létt. Niðurundir að sunnanverðu hafði Grindavík dregið sig í kút í lágrenningnum. Komið var í dalverpið þar sem fyrrum braggahverfi hersetumanna var og síðan undanhallarennslið nýtt niður að Baðsvöllum.
Sjá meira um Þjófagjá og Gyltustíg. Einnig Baðsvelli.
Frábært ferð. Gangan tók 3 klst og 3 mín. (Ljósmyndum úr ferðinni er ekki til að dreifa úr Þjófagjánni því aðstæður þar voru álíka hvítar og sjá má að baki þessum skrifaða texta).

Baðsvallasel

Baðsvellir – Baðsvallasel; uppdráttur ÓSÁ.

 

Baðsvellir

Gengið var um Baðsvelli og leitað Baðsvallaselja.

Hópssel

Hópssel.

Ein tóft er vestur undir Hagafelli, alveg við Grindavíkurveginn að austanverðu og mun það hafa verið hluti sels frá Hópi, enda í Hópslandi. Önnur tóft því tengdu er í lægð undir Selshálsi og er vatnsstæði framan við hana. Stekkurinn er í hvylft skammt sunnar, undir Selhálsi.
Hitt selið, Baðsvallasel, er á Baðsvöllunum sjálfum sem og utan í hraunkantinum vestan þeirra. Þar eru bæði tóftir og a.m.k. tveir stekkir. Fjöldi stekkja í selstöðu segja jafnan til um fjölda selja.

Baðsvellir

Baðsvellir – tóftir.

Í umfjöllun Guðrúnar Gísladóttur um Sel og selstöður í Grindavík í ritinu “Söguslóðir”, afmælisriti helgað Ólafi Hannessyni sjötugum, 1979, segir hún m.a.: „Mönnum kemur eflaust margt fyrr í hug en græna selhaga og þriflegar selstúlkur, þegar minnst er á Grindavík, enda staðurinn frægari fyrir fisk undir hverjum steini en búkap. En Grindvíkingar hafa ekki lifað af fiski einum saman, og til skamms tíma þurftu þeir að sjá sér að mestu fyrir bújörðum sjálfir.“

Baðsvellir

Selstaða á Baðsvöllum.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703 er m.a. getið um selstöður frá Grindavíkurbæjunum á Baðsvöllum. Frá Krýsuvík

voru tvær selsstöður á jörðinni; önnur til fjalls en hin nálægt sjó, báðar merkilegar góðar. Á Ísólfsskála er ekki minnst á selsstöðu. Frá Hrauni er selstaða langt frá og þó sæmilega góð. Þórkötlustaðir brúkaði selstöðu lengi í Krýsuvíkurlandi þar sem heitir á Vigdísarvöllum. Selstaðan var leigð frá Krýsuvík, en Krýsuvík fékk aftur skipsstöðu fyrir landi Þórkötlustaða. Selstaðan er góð, en langt og erfitt að sækja. Hóp þurfti að kaupa selstöðu, en hafði áður Selstöðu við Baðsvelli, sbr. Hópssel undir Selhálsi.

Baðsvallasel

Baðsvallasel.

Járngerðarstaðir brúkaði selstöðu á Baðsvöllum, sem fyrr segir, en „menn kvarta um að þar séu hagar of litlir og þröngir. Stórt mein var af vatnsleysi og þurfti fyrir þær sakir að kaupa selstöðu annars staðar.“ Járngerðarstaðamenn gerðu og tilkall til selstöðunnar í Fagradal norðan Fagradalsfjalls þar sem er Dalssel.
Það er athyglisvert, að selstöðunum er lýst sem sæmilega góðum, góðum eða merkilega góðum, nema Baðsvöllum.

Selsvellir

Gömlu selin á Selsvöllum.

Þar eru hagar sagðir litlir og vatnsból ófullnægjandi. Enda mun selstaðan snemma hafa verið færð upp á Selsvelli þar sem Grindavíkurbændurnir höfðu lengi í seli – eða allt frá á seinni hluta 19. aldar. Hraunsselið er þar skammt frá.
Önnur megintófin á Baðsvöllum er norðan við greniskóginn, sem þar hefur verið plantaður, en hin er inni í skóginum, um- og ásetin trjám, sem þyrfti að fjarlægja. Kvíar og stekkir eru með hraunkantinum.

Baðsvallasel

Baðsvallasel – uppdráttur ÓSÁ.

Sundhnúkur

Gjár, sigdældir og misgengi eru fjölmörg í og við Grindavík. Þessi jarðfræðifyrirbrigði sjást nánast einungis í eldri hraunlögum, en nánast öll ofanverð Grindavíkur er hulin nýlegum hraunum og því erfitt, ef ekki ómögulegt, að greina sprungur undir þeim í eldri jarðlögum.

Vatnsheiði

Vatnsheiði (dyngja).

Dyngjurnar, s.s. Sandfellshæð, Lágafell, Vatnsheiði og Festarfjall, skópu undirstöðu Grindavíkurhverfanna fyrir meira en 11 þúsund árum. Þórgötlustaðanesið er t.d. sköpun Vatnsheiðarinnar. Í lágfjöru má t.d. sjá móta fyrir hinum forna gíg Festarfjalls/Lyngfells í sjónum framan við fellin. Talið er að hann sé jafnvel frá því á fyrra ísaldarskeiði (KS). Fyrir ca. 5-3 þúsund árum, mótuðu stök eldvörp umhverfið, en síðustu tvö þúsund árin hafa gígaraðirnar smurt nýju „deigi“ sínu yfir gömlu „kökuna“ og þar með hulið stóran hluta af framangreindum jarðfræðifyrirbrigðum sjónum nútímans.
Hér á eftir verður lýst þeim nafngreindum gjám og sprungum í og við Grindavík, sem getið er um í örnefnalýsingum, frá vestri til austurs.

Staður:

Grænabergsgjá

Grænabergsgjá við Grindavík.

Sandgjá/Draugagjá: „Sandgjá, svört og dimm, liggur þvert yfir Hvirflana. Hún er kölluð Draugagjá. Nú er hún orðin nær full af sandi“.

Grænabergsgjá: „Austan við Grænaberg er Grænabergsgjá. Liggur hún í suðvestur til sjávar. Sést vel ofan í hana beggja megin við bílveginn, þar sem hann liggur yfir gjána á hafti“.

Lambagjá: „Austan við Reykjanesklif er hraunlægð, sem nær austur að Moldarlág, allmiklum, grýttum moldarflákum með smávegis gróðri. Upp af hraunlægðinni eru Klofningar eða Klofningshraun, sem ná austur að Lambagjá, en sú gjá er upp af Moldarláginni“.

Húsatóftir:

Húsatóftir

Baðstofa.

Baðstofa: „Norðaustur af Tóftatúni er Baðstofa, mikil gjá, 18 faðma djúp, þar af er dýpt vatnsins í botni hennar 9 faðmar. Töluverður gróður er á hamrasyllum í gjánni. í Baðstofu var oft sótt vatn, er brunnar spilltust í stórflóðum. Þótti vatn þar mjög gott. Svo sagði Lárus Pálsson hómópati, að hann tæki hvergi vatn í meðul annars staðar en í Baðstofu. Sögn er um, að Staðarprestar hafi fengið að sækja vatn í Baðstofu gegn því, aö Húsatóftabændur fengju að taka söl í landi Staðar“.

Hjálmagjá: „Vestast (efst) í túni Húsatófta byrjar gjá, grasi gróin í botninn. Vestri hamraveggurinn rís allmiklu hærra en sá eystri, og reyndar er enginn eystri veggur neðst. Gjá þessi heitir Hjálmagjá. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsta með dýrlegum ljósahjálmum, sem báru mjög af lýsiskollunum í mannheimi“.

Grindavík

Grindavík – eldgos í umdæmi Grindavíkur; blátt eru dyngjur (eldri en 5000 ára), grænt eru eldborgir (eldri en 3000 ára) og rautt eru gígaraðir (frá 3000 árum til nútíma).

Túngjá/Tóftagjá: „Framhald Hjálmagjár með túninu heitir Túngjá og síðan heitir hún Tóftagjá og er hún eina 2-3 km á lengd“.

Haugsvörðugjá

Haugsvörðugjá.

Haugsvörðugjá: „Á Hvirflum eru tvær vörður, Hvirflavörður. Neðri varðan er ofan við efsta flóðfar, hin um 150 m ofar. Vörðurnar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli Húsatófta og Staðar með stefnu um Skothól í Hauga við Haugsvörðugjá, en hún er á mörkum milli Húsatófta og Hafna“.

Skothólsgjá: „Vestast í Tóftakrókum er Skothóll í mörkum milli Húsatófta og Staðar, fast upp undir apalhrauninu (Eldborgahrauni). Skothólsgjá liggur eftir endi-löngum hólnum frá norðaustri til suðvesturs. Á Skothól hefur líklega verið legið fyrir tófu“.

Grýtugjá: „Um 1/2 km norður af Skothól er Grýtugjá. Allmikið graslendi er á þessu svæði. Um 1500 m norður af Grýtugjá er Sauðabæli, hár hóll“.

Klifgjá

Klifgjá.

Hrafnagjá: „Vestur af Grýtugjá, upp undir jaðri apalhraunsins, er Hrafnagjá. Hún liggur frá norðaustri til suðvesturs eins og allar gjár á þessu svæði og reyndar allar gjár á Reykjanesi. Frá Hrafnagjá er einstigi um hraunið frá Sauðabæli út í Óbrennishóla“.

Klifgjá: „Klifgjá er norðvestast í apalhrauninu, suðvestan við Þórðarfell, sbr. kortið. Gamli vegurinn frá Grindavík til Keflavíkur liggur austan við túnið á Húsatóftum, og liggur hann um Klifgjá vestast í jaðri hennar. Þar er svokallað Klif, snarbratt niður í gjána. Er það hálfgert einstigi og illt yfirferðar með klyfjahesta“.

Járngerðarstaðir:

Bjarnagjá

Bjarnagjá við Grindavík.

Bjarnagjá: „Vesturmerki Járngerðarstaða eru frá Markhól, sem er við sjó, um Bjarnagjá, þaðan í Hvíldarklett og úr honum sjónhending í Stapafellsþúfu um Þórðarfell. Bjarnagjá er norðaustur frá honum. Hún er stutt en í tveim hlutum og er efri partur hennar 18 faðma djúpur. Í Járngerðarstaðalandi eru allmargar gjár eins og Bjarnagjá, hyldjúpar og með söltu vatni“.

Hrafnagjá: „Markhól sem fyrr var getið. Fyrir ofan og austan hann er Stórhóll, sem áður er getið. Þar austur með er Hrafnagjá upp af Sandvikinu, en hún liggur til austurs. Stekkjarhólar eru rétt niður við kampinn“.

Silfurgjá: „Í utanverðri Grindavík eru margar hyldjúpar gjáarsprungur með vatni í, sem á yfirborði er að mestu ósalt, og flæðir og fjarar í þeim eins og sjónum.

Sifra

Silfurgjá.

Ein af þessum gjám heitir Silfurgjá, skammt fyrir ofan túngarðinn á Járngerðarstöðum. Í þessari gjá segir sagan að fólgin sé kista full af silfurpeningum. Hafa verið gerðar ýmsar tilraunir til þess að hefja þennan fjársjóð upp, en þær hafa strandað á því að þá er menn hafa náð kistunni upp á gjáarbarminn, þá hefir mönnum sýnst allt Járngerðarstaðarþorpið standa í björtu báli og hafa menn því jafnan sleppt kistunni aftur. Síðasta tilraunin sem á að hafa verið gjörð fór á þá leið að þeir slepptu ekki einungis kistunni heldur fylltu gjána upp með mold svo að nú er yfir kistunni grasi gróin brekka“.
„Skammt fyrir ofan þorpið er gjáin Silfra. Er sagt að í henni sé fólgin kista full af silfurpeningum. Gjá þessi er upp af Vatnsstæðinu“.

Stamphólsgjá

Grindavíkurhellir í Stamphólsgjá.

Stamphólsgjá: „Stamphólsgjá er ofan við byggð í Járngerðarstaðahverfi. Hún er einnig í Hópslandi að hluta“.

Gjáhúsagjá: „Svo er Gjáhúsagjá í túninu. Í öllum upptöldum gjám og svo í dalnum og Vatnsstæði var fram um aldamót töluvert af ál, en heldur var hann smár, stærstur í Silfru. Þó var hún lengst frá sjó. Þó var eg ekki viss um Stamphólsgjá, að áll væri þar. Um álaveiðar okkar strákanna á eg uppskrifað. Allar gjár stefna eins, frá norðaustri til suðvesturs. Í raun og veru má rekja þessa gjá (Stamphólsgjá) alla leið ofan úr Hópsheiði og gegn um allt: Krosshúsagjá, Gjáhúsagjá, Vallarhúsagjá og Flúðagjá, þetta er allt í sömu stefnu, þó höft séu heil á milli og endar út í sjó vestast á Flúðum“.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðir og nágrenni.

Nautagjá: „Hún er í útjaðri á túninu Drumbar og kemur þar í stað girðingar á svo sem 20 faðma lengd. Ekki er hún breið, en þó stökkva hvorki menn né skepnur yfir hana. Öll talin er hún ekki lengri en 40-50 faðmar, og í hanni [svo] er hylur á einum stað nærri norðurenda. Hylji köllum við þar, sem ekki sést í botn, en þeir eru mjög misdjúpir. Í hana kemur Ræsirinn, það er rás úr Vatnsstæðinu. Stundum kom fyrir, að skepnur syntu þar inn á túnið, þegar þær sáu þar grængresið fyrir innan, en úthagar voru litlir“.

Grindavík

Járngerðarstaðir – gjár; uppdráttur ÓSÁ.

Magnúsargjá: „Magnúsargjá er í raun og veru sama sprungan. Hún var í sömu stefnu og svo sem 15 faðmar á milli endanna. (Allar gjár stefna frá norðaustri til suðvesturs.) Á þeirri leið var þó opin „gjóta“ með vatni í; þó var hún nafnlaus. Magnúsargjá var öll fremur grunn. Þar var enginn hylur, og á einum stað mátti stökkva yfir hana. Þar var hún svo sem einn og hálfur metri. Eg tel, að þessar gjár báðar hafi verið svo sem eitt hundrað og þrjátíu faðmar enda á milli, að meðtöldum þeim föðmum, sem á milli þeirra voru“.

Þjófagjá

Í Þjófagjá.

Þjófagjá: „Þorbjörn mun upphaflega hafa heitið Þorbjarnarfell en nú er það nafn alveg glatað. Hann rís upp hár og tignarlegur frá Grindavík séð yfir alla flatneskjuna. Toppur fjallsins er klofinn af stórri sprungu sem heitir Þjófagjá. Þar eiga að hafa haldið til þjófar og ræningjar er gerðu Grindvíkingum slæmar búsifjar. Lauk því svo að þeir fóru að þeim, handtóku þá og hengdu í Gálgaklettum sem eru í Hagafelli austur af Þorbirni“.

Hóp:
Vatnsgjá: „Austar á Kambinum var varða, sem nú er horfin, og hét hún Sigga. Rétt hjá Siggu ofan við Kambinn er Vatnsgjá. Í henni gætti flóðs og fjöru“.

Gjáhólsgjá: „Beint vestur af bænum Hópi austan við veginn er hraunhóll, sem heitir Stamphóll, og gjá inn með hrauninu frá Járngerðarstöðum, austur með veginum, heitir Stamphólsgjá. Austar er Gjáhólsgjá og Gjáhólsvatnsstæði. Milli tjarnanna er smáhraunrimi, breiður slakki með hamrabeltum beggja vegna. Slakkinn heitir Gjáhólsgjá. Austan við gjána er Gjáhóll. Þarna hafði herinn fylgsni í síðasta stríði“.

Þórkötlustaðir:

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – uppdráttur ÓSÁ.

Gjáin: „Gjáin ofanverð er framhald Vatnsgjárinnar. Efst við hana er Gjáhóll. Hjá Gjáhól er löng lægð en mjó frá norðri til suð-suðvesturs sem heitir Gjáhólsgjá“.

Hraun:
Ekki er getið um gjár í Hraunslandi, en vissulega má sjá misgengi í Borgarhrauni er liggur til norðausturs frá Hrafnshlíð að Einbúa.

Ísólfsskáli:
Hjálmarsbjalli: „Frá vikinu og austur í Skálabót er lágt berg sem heitir Hjálmarsbjalli og er eins og smátota fram í sjóinn. Bjallinn er misgengi.
Bjallinn er klettastallur og nær frá Hjálmarsbjalla og inn í Ból sem er undir fellinu Slögu vestast. Hæðarbunga vestan undir Slögu heitir Slögubringur“.

Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Stað, Húsatóftir, Járngerðarstaði, Hóp, Þórkötlustaði, Hraun og Ísólfsskála.
-Map.is

Grindavík

Grindavík – sýnilegar gjár, sprungur og misgengi.

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur, lést árið 2005. Jón var afkastamikill vísindamaður og ritaði um fræði sín í skýrslur, blöð, bækur og tímarit, bæði íslensk og erlend. Á 85 ára afmæli hans var gefið út bókin Eyjar í eldhafi honum til heiðurs með safni greina um náttúrufræði. Þar má finna æviágrip hans og ritalista.

Jón Jónsson

Jón Jónsson, jarðfræðingur.

Jón Jónsson var fæddist 3. október 1910 að Kársstöðum í Landbroti. Hann starfaði aðallega á sviði jarðhita og neysluvatnsrannsókna og vann brautryðjandastarf við sundurgreiningu og kortlagningu hrauna á Reykjanesskaga.

Jón innritaðist í jarðfræðideild Uppsalaháskóla 1954. Það haust varð Jón 44 ára. Vorið 1958 lauk hann námi með tvöfaldri útskrift með kandidats- (fil.kand.) og licenciatpróf (fil. lic.). Lokaritgerðin fjallaði um afstöðubreytingar láðs og lagar við Ísland og um kísilþörunga í sjávarseti.

Jón hóf störf á Raforkumálaskrifstofunni (síðar Orkustofnun) 1958. Hann fékkst mikið við jarðfræðikortlagningu á starfsferli sínum og vann frábært brautryðjandastarf við sundurgreiningu og kortlagningu hrauna á Reykjanesskaga. Sú vinna skilaði sér á kortum og í mikilli skýrslu um hraun og jarðmyndanir á skaganum sem Orkustofnun gaf út.

Jón Jónsson

Rit Jóns Jónssonar – Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Árni Hjartarson skrifaði minningargrein um Jón í Náttúrufræðinginn árið 2005. Þar segir m.a.: „Jón Jónsson jarðfræðingur lést þann 29. október sl. [2005] 95 ára að aldri. Þar með er fallinn frá síðasti fulltrúi frumherjanna í íslenskri jarðfræðingastétt.
Námsferill hans var óvenjulegur um margt. Barnalærdóm og vísi að unglingafræðslu hlaut hann í Þykkvabæ, fór síðan 1928 að Eiðum og sat þar tvo vetur í Alþýðuskólanum. Haustið 1933 hélt hann til Svíþjóðar og vann þar næstu árin við ýmis störf jafnframt því sem hann sótti sér fræðslu á námskeiðum og í bréfaskólum. Námið var þó æði óskipulagt og sundurleitt. Tíminn leið og Jón kom víða við, bæði í Svíþjóð, Þýskalandi og á Íslandi. Árið 1945 settist hann að í Uppsölum og kynntist Tómasi Tryggvasyni, sem þá hafði nýlega lokið jarðfræðinámi við háskólann þar. Fyrir tilstilli Tómasar kynntist Jón fleiri jarðfræðingum og jarðfræðiprófessorum og tók að kynna sér fag þeirra. Síðan fékk hann vinnu sem aðstoðarmaður við jarðfræðistörf og sumarið 1949 tók hann þátt í leiðangri til Grænlands undir stjórn dr. Lauge Koch og stundaði steingervingaleit. Hann starfaði síðan sem rannsóknarmaður á steingervingasafninu í Uppsölum. Hann tók einnig þátt í sænskum leiðöngrum og jarðfræðirannsóknum á Hoffellssandi 1951-1952.

Grindavík

Grindavík – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Sumarið 1954 fór Jón til Íslands og fékk þá þann starfa að gera jarðfræðikort af Reykjavík og nágrenni með Tómasi Tryggvasyni. Samsumars giftist hann Guðrúnu Guðmundsdóttur, eftirlifandi eiginkonu sinni. Þegar hér var komið sögu má segja að Jón hafi verið orðinn jarðfræðingur að atvinnu, en hann hafði engin prófréttindi og nú var gengið ákveðið til verks að kippa því í liðinn. Jón safnaði saman sundurleitum námsvottorðum sínum og kúrsum, fékk þau með harðfylgi dæmd sem jafngildi stúdentsprófs haustið 1954 og innritaðist þá strax í jarðfræðideild Uppsalaháskóla. Það haust varð Jón 44 ára.
Nú var skipt um gír, námið var þaulskipulagt og gekk hratt. Vorið 1958 var því lokið með tvöfaldri útskrift þegar hann tók kandídats- (fil.kand.) og licentiat-próf (fil.lic.) sama daginn. Lokaritgerðin fjallaði um afstöðubreytingar láðs og lagar við Ísland og um kísilþörunga í sjávarseti.

Sprungur

Sprungur í nágrenni Reykjavíkur. Uppdráttur Jóns Jónssonar, jarðfræðings.

Jón hóf störf á Raforkumálaskrifstofunni (síðar Orkustofnun) sama ár og hann lauk prófum. Framan af voru verkefni hans einkum á sviði neysluvatns- og heitavatnsöflunar. Boranir eftir heitu vatni voru þá komnar á skrið og heppnuðust víða vel undir hans tilsögn. Hann vann einnig sem jarðhitaráðgjafi í ýmsum löndum Mið-Ameríku og Afríku á vegum Sameinuðu þjóðanna og fleiri stofnana.
Jón fékkst mikið við jarðfræðikortlagningu á starfsferli sínum og vann frábært brautryðjandastarf við sundurgreiningu og kortlagningu hrauna á Reykjanesskaga.

Árið 1980 lét Jón af störfum fyrir jarðhitadeild Orkustofnunar en hélt þó áfram eigin rannsóknum og ráðgjöf í neysluvatns- og jarðhitamálum.

Jón Jónsson

Jarðfræðikort Jóns Jónssonar – eldgosasvæði, sprungur og gígar ofan höfuðborgarsvæðisins.

Á þessi skeiði beindust augu hans mjög að Eyjafjöllum og af þeim gerði hann jarðfræðikort sem út kom ásamt ítarlegri lýsingu 1989. Á síðustu árunum beindist áhugi hans í auknum mæli að átthögunum í Vestur-Skaftafellssýslu og hinum miklu hraunaflæmum frá Eldgjá, Lakagígum og Hálsagígum. Síðustu rannsóknarleiðangrana fór Jón á það svæði árið 2002, þá á 92. aldursári. Þótt Jón hæfi ekki jarðfræðistörf fyrr en á fimmtugsaldri spannar starfsferill hans á því sviði vel á sjötta tug ára og er lengri en flestir jarðfræðingar geta státað af.

Helgafellshraun

Hraunin ofan Helgafells – Jón Jónsson.

Jón Jónsson var öflugur vísindamaður sem sést m.a. á þeim fjölda greina sem hann skrifaði um fræði sín í skýrslur, blöð, bækur og tímarit, bæði íslensk og erlend. Hann var heiðursfélagi í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og einn afkastamesti greinahöfundur Náttúrufræðingsins frá upphafi. Í efnisyfirliti tímaritsins er hann skráður fyrir 77 titlum um fjölmörg efni tengd jarðfræðum. Fyrsta greinin kom 1951, það voru minningarorð um sænskan jarðvísindamann og Íslandsvin, en fyrsta jarðfræðigreinin birtist 1952 og var ávöxtur rannsóknanna á Hoffellssandi. Hún nefnist „Forn þursabergslög í Hornafirði“.

Jón Jónsson

Jón Jónsson – jarðfræðikort af Hrútagjárdyngju og nágrenni.

Flest ár þaðan í frá birtist eitthvað eftir hann í ritinu og stundum margar greinar. Í 55. árgangi (1985) urðu þær t.d. sjö. Síðasta greinin kom 2002, „Poas og Katla“, en þar ber hann saman þessi tvö miklu eldfjöll.

Raunvísindamönnum er oft skipt í tvo hópa, þá sem stunda frumrannsóknir, draga saman þekkingu, skrifa lýsingar og setja fram rannsóknargögn, og hina sem nota þessar rannsóknir og grundvallargögn til að smíða úr þeim kenningar eða fræðilegar skýjaborgir og verða gjarnan frægir af. Kenrúngar falla og frægðin dofnar, en vandaðar frumrannsóknir standast tímans tönn og bera gerendum sínum góðan orðstír um aldir. Því mun Jóns Jónssonar lengi minnst í heimi jarðfræðanna.
Náttúrufræðingurinn kveður hinn gengna vísindamann og greinahöfund með þökk og virðingu. – Árni Hjartarson

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org
-https://timarit.is/files/71237940
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 2005, Jón Jónsson, jarðfræðingur, 1910-2005, Árni Hjartarson, bls. 74.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga. Jón Jónsson lagði grunninn að kortinu ásamt Kristjáni Sæmundssyni o.fl.

Sundhnúkar

Jón Jónsson jarðfræðingur tók upp heitin „Sundhnúkagígar“ og „Sundhnúkahraun“ í grein í Náttúrufræðingnum árið 1974 og dró þau af gömlu örnefni, Sundhnúk, sem er hæsti gígurinn í Sundhnúkagígaröðinni. Strangt til tekið ætti því að tala um Sundhnúksgíga og Sundhnúkshraun. Hnúkurinn er gamalt leiðarmerki af sjó og dregur nafn sitt af því hlutverki. Merkir „sund“ þá tiltekna leið sem var fær fyrir báta, oft þröng siglingaleið milli skerja eða boða.

Hóp

Hóp – uppdráttur ÓSÁ.

Það er ljóst af lýsingum að það hefur verið vandasamt að ná landi heilu og höldnu í Grindavík en Sundhnúkur hefur verið eitt af mörgum mikilvægum leiðarmerkjum fyrir innsiglingu í svonefnt Járngerðarstaðasund. Þeir sem sóttu sjóinn þurftu að kunna skil á þessum merkjum, sem gátu verið hvort heldur manngerð eða náttúruleg, og geta lesið í landslagið og síbreytilegar sjónlínur milli merkja eftir því sem báturinn færðist nær landi.
Lýsing á Járngerðarstaðasundi frá 1931 þar sem Sundhnúkur kemur við sögu er svohljóðandi: „Varða ofan við húsin á Hópi á að bera í vörðu (Heiðarvörðu/Hópsheiðarvörðu), sem stendur uppi í Hópsheiði, og þær aftur í svokallaðan Sundhnúk, sem er ávalur hnúkur á bak við Hagafell. Stefnunni skal haldið á þessi merki, þangað til að Svíraklettur, sem er vestan við Hópsrifið, ber í Stamphólsvörðu, sem stendur á hraunbrúninni, að sjá á Þorbjörn. Er þá haldið á þau merki, þar til Garðhúsaskúr ber norðan til í vörina, þá er haldið á þessi merki, og inn í vör.“ Stamphólsvarðan er nú horfin vegna nýbyggðar.

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan (innsiglingarvarða).

Varir Járngerðarstaðabænda voru vestan Hópsins, þ.e. Suðurvör, Skökk (Stokkavör), Norðurvör og Staðarvör. Hópsvörin var austan við Hópið.
„Skip Járngerðarstaðabænda reru úr [Norðurvör og Suðurvör], en fyrir innan þær var þriðja vörin og hét Staðarvör. Þaðan reru skip Skálholtsstóls á meðan enn var útræði á vegum stólsins í Grindavík. Dró vörin nafn af Skálholtsstað“, segir í Sögu Grindavíkur I.
1703: „Skip stólsins gánga hjer venjulega iii eða iiii, og hafa þeir verbúðir fyrir sig, sem stóllinn uppbyggir. En soðningu kaupa skipverjar. Hafa þessi skip stólsins verið so um lángar stundir, en alt þar til í tíð Mag. Brynjólfs var gefin til heimabóndans undirgift undir þau skip, sem fleiri voru en tvö af stólsins hendi. Og hýsti heimabóndi þá skipshöfn. En í tíð Mag. Brynjólfs var uppbygð önnur staðarins verbúð, sem síðan hefur viðhaldist, og engin undirgift verið frá stólnum lögð til bóndans…Átroðning líður jörðin mikinn af hestum þeirra manna, er róa á stólsins skipum…“JÁM III.

Hóp

Hóp – efri innsiglingarvarðan.

„Austan við Akurhúsanef er komið að gömlu lendingunum. Þar var kallaður Gamlisjór. Næst nefinu var Stokkavör, þá Suðurvör og síðan Norðurvör, sem hét öðru nafni Skökk. Næst austur af er Staðarvör“, segir í örnefnaskrá Ara Gíslasonar.
„Innan við Staðarvör tók við malarkampur, sem Staðarhúsakampur nefndist. Þar munu verbúðir Skálholtsstaðar hafa staðið á fyrri tíð. Þar fyrir innan var Svartiklettur …“ segir í Sögu Grindavíkur I.

Heiðarvarða

Heiðarvarða.

Stórgrýtt fjara neðan sjávargarðs og um 200 m austan við Suðurvör, verbúðirnar voru upp af henni. Engin ummerki um lendinguna eru nú greinileg. Skálholtsbyggingarnar voru upp af fjörunni þar sem síðar stóð löng bygging, Kreppa. Undir austurenda hennar voru tóftirnar frá Skálholti.
Þess má geta að þekking á leiðarmerkjum hefur ekki aðeins verið mikilvæg fyrir heimamenn, enda reru margir aðkomumenn frá Grindavík og þar var lengi aðalverstöð Skálholtsstaðar.

Heimild m.a.:
-Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum – https://www.facebook.com/arnastofnun/

Grindavík - kort 1751

Uppdráttur Christophs Klogs af Grindavíkurhöfn frá 1751, Staður og Húsatóftir vestast og Járngerðarstaðir og Hóp austast. Grynningar og sker sýnd með ýmsum táknum. Skjalið er varðveitt á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn.

 

Á ferð FERLIRs með vesturmærum Grindavíkur frá austanverðum Valahnúk um Sýrfell, Súlur og Stapafell áleiðis að Arnarkletti var m.a. gengið þvert á forna þjóðleið milli Lágafells og Ósabotna (Hafna/Keflavíkur).
LeidirLeið þessi er vörðuð litlum vörðum og eru sumar fallnar fyrir alllöngu, einkum norðan af.
Þegar fyrrnefnd leið var skoðuð frá sunnanverðu Lágafelli og henni fylgt niður að Ósabotnum kom í ljós að sumstaðar hafi verið kastað úr götunni, en mosi gróið yfir. Þannig sást hún t.d. greinilega suðvestan í Lágafelli, brú var hlaðin á Súlugjá og þá sást hún vel norðan Mönguselsgjár. Lægð er í landinu svo til alla leið að Mönguselsgjá. Gatan er vörðuð í lægðinni. Ljóst er að leið þessi hefur ekki verið farin um aldir og hún virðist flestum gleymd. Ekki er ólíklegt að leiðin hafi verið notuð fyrr á öldum jafnt fyrir ferðir frá Þórkötlu- og Járngerðarstöðum í Hafnir, að Básendum og í Keflavík. Ekki hefur enn verið fullkannað hvar gatnamótin eru, en það verður gert fljótlega, nú þegar búið er að kanna meginleiðina.
Í örnefnalýsingu Vilhjálms Hinriks Ívarssonar frá Merkinesi um Hafnahrepp má lesa eftirfarandi: „Svo sem 1/2 kílómetra norðaustar í gjánni er klapparhóll, sem lítið ber á, og heitir hann Gamli-Kaupstaður. Ekki er kunnugt um nafngift þessa nema ef vera kynni, að setja megi í samband við alfaraleið (hestagötu) úr Grindavík til Keflavíkur til forna og þarna hafi máske verið áningarstaður.“
Varda-30Líklega á Vilhjálmur Hinrik við þessa götu þegar hann nefnir alfaraleiðina. Um er að ræða auðvelda reiðleið, tiltölulega slétta að Lágafelli. Ásinn, sem þar þarf að fara yfir, er aflíðandi, gróinn og mjög greiðfær.
Sem fyrr sagði er ætlunin að skoða þetta víðfeðmi betur fljótlega m.t.t. framangreinds. Ekki er ólíklegt að ætla að hlöðnu fiskibyrgin undir Sundvörðuhrauni (við Árnastíginn) og í Eldvörpum (við Hafnaheiðaveginn) hafi verið staðsett með hliðsjón af þessa leið, sem eftirleiðis verður nefnd Lágafellsleið.

Heimild:
-Hafnir (Hafnahreppur), Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði; fæddur 12/8 1899, Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu; flytur að Merkinesi í Höfnum 1934.

Lágafell

Varða við Lágafellsleið.

Sprunga

Dr. Haukur Jóhannesson, jarðfræðingur, og Dr. Ásta Rut Hjartardóttir, jarðeðlisfræðingur, skrifuðu grein í rit Verkfræðingafélag Íslands um „Bergsprungur og byggingar á höfuðborgarsvæðinu“ árið 2018.

Haukur Jóhannesson

Dr. Haukur Jóhannesson.

Staða Íslands á flekaskilum meginfleka býður upp á aðstæður sem finnast óvíða annars staðar og krefst sérstakrar aðgátar við mannvirkjagerð. Þéttbýli á Íslandi færist nú óðfluga inn á svæði þar sem berggrunnur er sundurskorinn af virkum misgengjum og sprungum. Sprungusveimur kenndur við Krýsuvík liggur um austustu hluta höfuðborgarsvæðisins. Virkni á sprungum hans tengist að öllum líkindum kvikuhreyfingum í eldstöðvarkerfi Krýsuvíkur og á flekaskilunum á Reykjanesskaga sem láta til sín taka á þúsund ára tímakvarða. Hætta sem mannvirkjum er búin stafar annars vegar af færslum um sprungurnar í tengslum við slíka virkni og hins vegar af gjökti þegar bylgjur frá fjarlægum skjálftum ganga yfir. Tjón má að líkindum fyrirbyggja að talsverðu leyti með því að forðast að byggja mannvirki yfir sprungurnar. Mælt er með breyttu verklagi við mannvirkjagerð á virkum sprungusvæðum.

Inngangur

Ásta Rut Hjartardóttir

Dr. Ásta Rut Hjartardóttir.

Ísland er um margt frábrugðið öðrum löndum og margs að gæta við mannvirkjagerð sem ekki þarf annars staðar. Flekaskil milli tveggja stærstu jarðskorpufleka jarðarinnar liggja í gegnum landið (1. mynd), og það er því nokkuð sérkennilega í sveit sett með tilliti til jarðskorpuhreyfinga. Á seinustu áratugum hefur byggð og mannvirkjagerð færst lengra inn á svæði þar sem virkar bergsprungur eru algengar. Þetta á sérstaklega við um höfuðborgarsvæðið en önnur þéttbýlissvæði má einnig nefna, t.d. Húsavík, Kópasker, Selfoss og Grindavík. Í umfjöllun framkvæmdaaðila um sprungurnar og þau atriði sem varast ber gætir stundum nokkurrar ónákvæmni og stundum vantar á að þeir sem um málið fjalla hafi fylgst með breyttum hugmyndum og auknum skilningi sem fengist hefur með rannsóknum hin síðari ár.

SprungurSkilin milli Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans liggja eftir Reykjanesskaga endilöngum (sjá t.d. greinar eftir Pál Einarsson 2008 og Sveinbjörn Björnsson o. fl. 2018). Þau ganga á land norðan Reykjanestár, liggja undir Svartsengi, austur undir Fagradalsfjall, Krýsuvík, allt austur undir Hellisheiði. Þar greinast þau í tvennt. Önnur greinin fer til NA um Þingvelli og Langjökul, hin til austurs um skjálftasvæði Suðurlands og er hún miklu virkari. Hraði færslunnar milli flekanna er um 19 mm á ári á Reykjanesskaga og er hann jafn milli ára. Skilin eru þó engan vegin grönn lína heldur á aflögunin sér stað á um 30 km breiðu belti umhverfis skilin. Innan aflögunarbeltisins hleðst upp spenna sem losnar í snöggum atburðum, bæði jarðskjálftum og kvikutengdum atburðum, innskotum og eldgosum. Þessir atburðir eru ekki jafndreifðir í tíma og virðist tímasetning þeirra ráðast að nokkru af framboði á bergkviku úr möttli jarðar.

Sprungur

Sprungumyndun eftir jarðskjálfta.

Svo virðist sem kvikuvirknin sé bundin við kvikutímabil, sem standa í nokkur hundruð ár (Kristján Sæmundsson og Magnús Sigurgeirsson 2013). Milli kvikutímabila virðast líða um þúsund ár. Fyrstu aldirnar eftir landnám Íslands gekk hrina eldgosa yfir Reykjanesskaga sem endaði árið 1240. Síðan þá hefur flekahreyfingin leitt til jarðskjálfta fremur en gosvirkni. Skjálftavirknin virðist einnig vera hviðukennd en lengd hviðanna og bil milli þeirra eru mun styttri. Síðan um aldamótin 1900 hafa skjálftar náð hámarki á um 30 ára fresti. Stærstu skjálftar ná stærðinni 6-6,5. Greina má fjögur virk tímabil: Fyrsti áratugur tuttugustu aldar, 1929-35, 1967-75, og 2000-03 (Páll Einarsson 1991, 2015; Sveinbjörn Björnsson o. fl. 2018).

Sprungukerfin
SprungurAflögunin umhverfis flekaskilin á sér stað að stórum hluta með sprunguhreyfingum. Greina má tvenns konar sprungukerfi:
A) Sprungusveimar eldstöðvarkerfa. Á skaganum eru í meginatriðum fjögur eldstöðvarkerfi sem oft eru kennd við Reykjanes,
Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengil. Stundum eru þau talin fleiri, t.d. er Reykjanes- og Krýsuvíkurkerfunum stundum skipt í tvennt, en við látum það liggja milli hluta. Í gegnum hvert þeirra liggur öflugur sprungusveimur með gossprungum, gjám og siggengjum. Sveimarnir eru um 10 km breiðir og nokkrir tugir kílómetra að lengd. Þeir liggja skáhallt á flekaskilin, hafa NA-SV stefnu, og teygja sig því inn á flekana beggja vegna skilanna. Það er sprungusveimur Krýsuvíkur sem kemur helst við sögu í austustu byggðum Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Reykjavíkur og Mosfellsbæjar.
SprungurSprungusveimarnir tengjast kvikuvirkni eldstöðvarkerfanna. Reynsla frá Kröflueldum sýnir að þeir eru helst virkir þegar gangar skjótast inn í jarðskorpuna undir þeim (Ásta Rut Hjartardóttir o.fl. 2012, 2016). Ef það sama á við á Reykjanesskaga, er líklegt að þeir séu helst virkir á kvikuskeiðunum, og þar með að síðustu umtalsverðu færslur á þeim séu tæpast yngri en frá þrettándu öld.
B) Rannsóknir á jarðskjálftum á Reykjanesskaga síðustu áratugina hefur leitt í ljós að þeir stærstu verða vegna sniðgengishreyfinga (Páll Einarsson 2015). Þeir eru því óháðir misgengjunum í sprungusveimunum, sem eru siggengi. Stefna þessara sniðgengja er oftast nálæg N-S.

Fjallsgjá

Fjallsgjá – misgengi.

Nánari rannsóknir hafa leitt í ljós að þessi sniðgengi má víða sjá á yfirborði (Páll Einarsson o.fl. 2018). Þau eru um 10 km löng og liggja hlið við hlið þvert á flekaskilin. Þau hafa stundum verið kölluð bókahillumisgengi. Þau ná ekki eins langt inn í flekana og sprungusveimarnir. Þau ná því ekki inn á byggingaland þéttbýlisins. Lega helstu þekktu sprungukerfanna er sýnd á mynd 1. Þau eru fundin með hjálp loftmynda og kortlagningar úti í mörkinni með nákvæmum GPS-tækjum (sjá t.d. greinar Páls Einarssonar 2010 og Clifton og Kattenhorn 2006). Einnig er stuðst við vinnu stúdenta við Jarðvísindadeild HÍ en námsverkefni þeirra um áratuga skeið hafa nýst vel í þessum tilgangi (sjá t.d. grein Pálma Erlendssonar og Páls Einarssonar 1996).

Krýsuvíkursprungusveimurinn
SprungurÞað er ljóst af mynd 1 að það er fyrst og fremst sprungusveimurinn sem kenndur er við Krísuvík sem varast ber þegar mannvirkjum er valinn staður á höfuðborgarsvæðinu. Mynd 2 sýnir afstöðuna til þéttbýlisins enn betur. Sprungukortin sem sýnd eru hér ásamt myndum 3 og 4 eru byggð á sprungukortum Clifton og Kattenhorn (2006) og jarðfræðikortum ÍSOR (Kristján Sæmundsson o.fl. 2016) en einnig ítarlegri könnun höfunda þessarar greinar um áratuga skeið. Einnig hafa mörg verkefni nemenda í Jarðvísindadeild HÍ verið unnin á þessu svæði.

Berggangur

Berggangur í Krýsuvík.

Miðja virkninnar á þessu sprungukerfi er á Krýsuvíkursvæðinu þar sem kerfið sker hin eiginlegu flekaskil. Eldvirkni og jarðhitavirkni er þar í hámarki. Þaðan liggur sveimurinn til suð-vesturs í átt til sjávar og til norð-austurs í átt til höfuðborgarsvæðisins og er sú grein hans öllu lengri. Þrjár gerðir sprungna einkenna sprungusveiminn. Mest eru áberandi siggengi, þ.e. sprungur þar sem annar barmurinn hefur sigið miðað við hinn. Siggengin sjást því vel í landslaginu, og getur misgengisfærslan verið fáeinir tugir metra. Í öðru lagi finnast í sveimnum opnar sprungur eða gjár með litlum sem engum lóðréttum færslum. Í þriðja lagi eru innan sveimsins gossprungur, þar sem bergkvika hefur náð yfirborði í sprungugosi. Gosvirknin dvínar þó eftir því sem norðar dregur og nyrsta gosstöðin er í Búrfelli ofan Hafnarfjarðar. Sprungusveiminn má hins vegar rekja lengra þótt líka dragi úr sprunguvirkninni til norðurs. Hann virðist enda í Mosfellsdal. Sunnan dalsins, í Helgafelli, má sjá sprungur og misgengi af óvissum aldri sem gætu tilheyrt sprungusveimnum.

Berggangur

Kvikugangur.

Í Mosfelli norðan dalsins er hins vegar lítið um sprungur (mynd 2). Yfirleitt sjást bergsprungurnar best þar sem land stendur hátt. Þar sem land liggur lægra eru sprungurnar oft huldar seti og jarðvegi þannig að illa sést til þeirra.
Norðan Búrfells, þar sem eldvirkninni sleppir, verður sprungusveimurinn mjög áberandi í landslaginu (mynd 3) enda hafa hér ekki runnið hraun til að jafna út landslagið. Þetta svæði er að mestu nýtt til útivistar, sem verður að teljast ákjósanleg notkun á mikið sprungnu landi.

Hjallar

Hjallar – misgengi.

Sprungusveimurinn er tvöfaldur á þessu svæði. Aðalgrein hans myndar djúpan sigdal sem afmarkast að vestan af Hjallamisgenginu svokallaða. Auk þess má greina grunnan sigdal vestar, sem sker hálsana við Hvaleyrarvatn og sunnan og austan Urriðakotsvatns. Þessi vestari grein er stundum kennd við Trölladyngju. Á byggingasvæðinu við Urriðakotsvatn hafa komið í ljós opnar sprungur þegar grafið var fyrir húsgrunnum. Mjög dregur af þessari grein sveimsins þegar norðar dregur. Þó má líklega rekja til hans tilvist sprungna sem komið hafa í ljós í húsgrunnum í Hólahverfi í Breiðholti.

Höfuðorgarsvæðið

Höfuðborgarsvæðið – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Megingrein sprungusveimsins heldur áfram til NA um Heiðmörk og liggur Elliðavatn í dældinni þar sem sigið hefur mest. Austurmörk sprungusvæðisins eru þar nokkuð óljós vegna ungra hrauna sem runnið hafa austan frá Bláfjallasvæðinu og yfir sprungurnar.

Norðaustan Elliðavatns taka við Norðlingaholt, Rauðavatn og Hólmsheiði. Landið hér er greinilega sprungið en erfitt er að festa hendur á einstökum sprungum (mynd 4). Sprunguvirknin er greinilega minni en sunnan Elliðavatns og aldur sprungnanna óvissari (Kristbjörn Egilsson o. fl. 1996).
Ótvíræð merki um hreyfingar á síðustu 10 000 árum má þó finna á a.m.k. fjórum stöðum (sjá mynd 4). Gapandi gjár og niðurföll í jarðvegsþekju benda til hreyfinga eftir að jökull fór síðast yfir svæðið. Við skipulag byggðar á Norðlingaholti var tekið tillit til tveggja sprungna sem staðfestar voru með skurðgreftri. Það vekur þó athygli að sprungur liggja mun þéttar í sama sprungukerfi norðan Rauðavatns, sem gæti bent til þess að ekki séu öll kurl komin til grafar í Norðlingaholti. Þar gætu fleiri sprungur leynst.

Úlfarsfell

Úlfarsfell.

Norðan Úlfarsár taka við Úlfarsfells- og Lágafellssvæðin, sem bæði eru greinilega sprungin. Þar hafa þó ekki fundist ótvíræð merki um hreyfingar á síðustu 10 000 árum, þótt ekki sé hægt að útiloka virkni á því tímabili. Tvö greinileg sprungukerfi sjást (mynd 4). Annað er framhald Krísuvíkursveimsins og hefur NA-SV stefnu. Einnig sjást hér misgengi með N-S stefnu. Ef til vill eru hér á ferðinni gömul merki um virkni á sniðgengjum, eins konar bókahillu-misgengjum, frá fyrri kafla jarðsögunnar þegar skjálftasvæði Suðurlands lá norðar en nú er.

Hafravatn

Hafravatn (HWL).

Fjalllendið austan Hafravatns er talsvert sprungið og hafa sprungurnar yfirleitt NNA-læga stefnu. Þetta sprungukerfi á sér ekki greinilegt framhald til SV eða NA, að minnsta kosti ekki í nýlegum sprungumyndunum. Líklega eru þetta sprungur frá eldri köflum jarðsögunnar, jafnvel myndunarskeiði berggrunnsins sem þær eru í. Ekki er þó hægt að fullyrða um það.

Umræða og athugasemdir
SprungurÞað er ljóst að staðsetning mannvirkja á sprungusvæði og í nágrenni virks jarðskjálftasvæðis á flekaskilum gerir óvenjulegar kröfur til hönnunar. Til viðbótar álagi vegna bylgjuhreyfinga frá nálægum skjálftum kemur hætta á að hreyfingar verði á virkum sprungum sem skeri undirstöður eða valdi aflögun á mannvirkinu.

Sigdalur

Sigdalur.

Við hönnun mannvirkisins er því skynsamlegt að reyna að taka mið af hugsanlegum hreyfingum. Þetta er sérstaklega áríðandi þar sem ekki er hægt að vera viss um að allar sprungur séu þekktar þegar framkvæmdir hefjast. Æskilegt væri að haga hönnun þannig að hægt sé að bregðast við nýjum upplýsingum sem berast meðan á byggingu stendur, t.d. þegar jarðvegi er flett af berggrunninum og sprungur koma betur í ljós. Nánar er fjallað um þetta í bókinni „Náttúruvá á Íslandi“ sem kom út 2013 (Páll Imsland 2013).
Höfundar þessarar greinar hafa á löngum starfsferli oft verið kallaðir til ráðgjafar við mannvirkjagerð þar sem bergsprungur koma við sögu. Ekki fer hjá því að mörg sjónarmið séu uppi þegar byggja skal á ótraustum grunni. Í eftirfarandi kafla er tekið á nokkrum þeirra álitamála sem upp hafa komið í þessari vinnu.

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa.

Því er stundum haldið fram að „það séu sprungur alls staðar á Íslandi og því engin leið að byggja nema undir sé sprunga“. Þetta er rangt. Vissulega eru bergsprungur algengar á Íslandi, en þær skipa sér oftast í ákveðin kerfi sem hægt er að kortleggja, sjá mynd 1. Sprungur sem eru líklegar til að haggast á næstu öldum, er flestar tengdar flekaskilunum sem liggja í gegnum landið.
Byggingaland sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu teygir sig nú í auknum mæli inn á sprungusvæði, eins og glöggt kemur fram á mynd 2. Það er sjálfsögð varúðaraðgerð að byggja mannvirki einungis á óbrotnum spildum milli sprungna. Með því má koma í veg fyrir slys og draga úr tjóni í náttúruhamförum framtíðarinnar. Kostnaðaraukning er hins vegar óveruleg.

Hrafnagjá

Hrafnagjá við Grindavík.

Það er stundum lögð umtalsverð vinna í að flokka þekktar sprungur í „virkar“ og „óvirkar“ sprungur. Aðferðir byggja oftast á því að grafa skurði þvert yfir sprungurnar og athuga jarðvegssnið. Þessi flokkun orkar tvímælis í besta falli. Ef jarðvegur hefur raskast yfir sprungu í berginu undir, er það vissulega vísbending um að hreyfing hafi orðið á sprungunni. Tímasetningin er hins vegar óviss því jarðvegur heldur áfram að sitra niður í sprunguna með úrkomu og grunnvatnsbreytingum um langt skeið á eftir. Tilviljun getur líka ráðið því að ekki sjáist rask í skurðinum þótt hreyfing hafi orðið. Því ber að varast oftúlkun á niðurstöðum slíkra athugana.
Sprungusveimur Krýsuvíkur er ótvírætt virkur enda er hann hluti af aflögunarsvæði meginflekaskilanna í gegnum landið. Það er engin leið að flokka einstakar sprungur innan sveimsins sem „óvirkar“ og aðrar sem „virkar“. Þær verða allar að teljast virkar í þeim skilningi að þær eru hluti af hreyfikerfi sem er sannanlega og mælanlega á hreyfingu.
Stundum örlar á þeirri hugmynd að sprunga sem ekki hefur hreyfst í langan tíma (þúsund – 10 þúsund ár) sé „óvirk“ eða ólíkleg til að hreyfast frekar. Þetta getur verið réttlætanleg röksemdafærsla þar sem færslur eiga sér stað á einföldum sprungukerfum.

Bjarnagjá

Bjarnagjá við Grindavík.

Þetta á ekki við á Íslandi. Vegna þess hve hreyfingin deilist á margar sprungur þá getur tími milli atburða á hverri þeirra verið mjög langur. Sprunga sem ekki hefur haggast í 10 þúsund ár getur einmitt verið sprungan sem hreyfist næst.
Í umræðunni hefur stundum komið fram sú skoðun að sprungusvæði séu ónothæf til bygginga, jafnvel til hvers konar nota. Þetta er að okkar mati fjarri lagi. Sprungusvæðin á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess eru flest hlutar af sprungusveimum eldstöðvarkerfanna á Reykjanesskaga. Þessi sprungukerfi eru virk fyrst og fremst í tengslum við kvikuvirkni kerfanna. Miklar færslur á sprungum eru líklegastar þegar gangainnskot verða innan sveimsins. Þeim fylgja skjálftar en þeir verða sjaldan stórir. Hættan sem stafar af sprungunum er því fyrst og fremst vegna sprunguhreyfinga, ekki vegna titrings frá skjálftum. Byggingar og mannvirki innan sprungusveimanna ættu því ekki að verða fyrir meira tjóni en gengur og gerist nema þau standi á sprungunum og séu tengd berggrunninum báðum megin. Við teljum skynsamlegt ákvæðið í reglugerð að „óheimilt sé að byggja á þekktum jarðsprungum, misgengi eða nálægt hverum“. Sprungurnar og næsta nágrenni þeirra má hins vegar nýta til annarra hluta, sem útivistarsvæði, fyrir lagnastokka, gangstíga, bílastæði, akbrautir o.s.frv.

Grænabergsgjá

Grænabergsgjá við Grindavík.

Sú hugmynd stingur stundum upp kollinum að hægt sé að byggja yfir sprungur ef húsið er hannað fyrir jarðskjálftaálag. Við leggjum áherslu á að helsta hætta sem stafar af sprungunni er mismunafærslan sem þar getur orðið, ekki titringur frá jarðskjálftum. Siggengi sprungusveimanna eru ekki líkleg til að valda stórum jarðskjálftum. Stærsta skjálftaálag á byggingar á svæðinu er því frá skjálftum með upptök í meiri fjarlægð. Gegn þeim þarf vissulega að hanna byggingarnar og umtalsverð þekking er til staðar til að gera það. En færslur á misgengjum eru erfiðari viðfangs. Það er erfitt að taka tillit til þeirra við hönnun, hins vegar auðvelt að sneiða hjá því að byggja mannvirki yfir þær.

Baðstofa

Baðstofa við Húsatóftir.

Við mælum með því að eftirfarandi verklag sé viðhaft við byggingar á sprungusvæðum. Sum atriðin eru þegar í reglum og hluti núverandi verklags:
A) Sprungukort byggt á yfirborðsrannsóknum liggi fyrir við gerð skipulags nýrra hverfa á sprungusvæðum. Engar byggingar séu skipulagðar yfir sprungur.
B) Komi í ljós sprunga í byggingareit við nánari skoðun, s.s. þegar jarðvegi er flett af, skal byggingareiturinn færður til innan lóðarinnar svo byggingin liggi ekki yfir sprunguna.
C) Ef ekki er hægt að færa bygginguna til innan lóðarinnar skal húsbyggjandanum úthlutað nýrri lóð, enda hætt við að hús byggt yfir sprungu verði lítils virði, hvort sem sprungan hreyfist eða ekki.
Rétt er að taka fram að ekki er hægt að tryggja að undirlag mannvirkis sé ósprungið þótt þetta verklag sé viðhaft. Sprungur geta verið ógreinilegar og erfitt að koma auga á þær við aðstæður á byggingarstað. Við teljum þó að með þessu lagi megi draga verulega úr hugsanlegu tjóni á mannvirkjum í kvikuatburðum sem vafalítið eiga eftir að ganga yfir höfuðborgarsvæðið í framtíðinni.“

Heimild:
-https://www.vfi.is/media/utgafa/Bergsprungur_01242018.pdf

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Kálffell

Í riti Orkustofnunar „Jarðfræðikort af Reykjanesskaga“ ritar Jón Jónsson, jarðfræðingur, skýringar við efnið. Hér fjallar hann um Kálffellshraun ofan Voga.

Kálffell

Kálffell – loftmynd.

„Þessari eldstöð lýsti Guðmundur G. Bárðarson (192)) fyrstur manna. Það er gígaröð neðst í hlíðum Þráinsskjaldar í suðaustur frá Litla-Skógfelli. Gígaröð þessi er í fjórum köflum, en mest hraunrennsli sýnist hafa verið úr allstórum hraungíg í næstaustasta kafla gígaraðarinnar.

Kálffell

Kálffell og nágrenni – loftmynd.

Vestustu gígirnir eru fast við röndina á Sundhnúkahrauni, en tangi úr því hefur runnið norður á við austan við Litla-Skógfell. Meginstraumur Kálffellshrauns hefur svo runnið norður á við og sennilega upp að Litla-Skógfelli, en þar er það hulið af áður nefndum tanga úr Sundhnúkhrauni. Þetta hraun er allfornlegt og brotið af misgengissprungum á mörgum stöðum. Er það bæði um að ræða gapandi gjár með litlu eða engu misgengi og sprungur með margra metra misgengi. þetta bendir til þess að hraunið sé tiltölulega gamalt, því ekki sjást sprungur í Sundhnúkahrauni né heldur í Arnarsetushrauni, en þau hraun takmarka Kálffellshraun að vestan. Bergið í hrauninu einkennist af allstórum plagoklasdílum á strjálingi og ólinvíndílum með smáum spinell kristöllum innan í.“
Í sunnanverðu Kálffelli er Oddshellir (hraunbóla) og fjárhellar með fyrirhleðslum; tengdir veru Odds frá Grænuborg þar um aldarmótin 1900 – sjá HÉR.

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 146-147.

Kálffell

Kálffell.

Kálffell

Veður var eins og samið hafði verið um – 10 stiga hiti og rakavænn andvari af suðri.

Nýjasel

Nýjasel.

Fyrst var komið við í Nýjaseli undir Nýjaselsbjalla og það skoðað. Kvengöngufólkið þótti eldhúsið tilkomumikið, enda í stærra lagi miðað við önnur svipuð, sem skoðuð hafa verið – 90×120 cm.
Þá var haldið eftir Skógfellavegi að Brandsgjá og skoðuð gjáin þar sem Brandur missti niður tvo hesta á leið sinni að Ísólfsskála. Brandur var þá að koma úr Vogum og hafði fengið sér í staupinu áður en lagt var af stað. Við brúna yfir gjána er fallega hlaðin varða.
Áfram var genginn Skógfellavegur uns beygt var út af honum til suðurs og gengið niður Mosadalagjá og haldið að Kálffelli. Skoðaðar voru hleðslur í og við fellið, litið á fjárhellinn og síðan farið ofan í Oddshelli, sem nefndur er eftir Oddi frá Grænuborg austan Voga. Oddur hélt til í hellinum og þar var hann er Ólafur Þorleifsson ætlaði að heimsækja hann á aðfangadag um aldarmótin 1900, en átti ekki afturkvæmt. Hann féll ofan í sprungu á leiðinni. Heitir sprungan Ólafsgjá. Þar fannst hann um 40 árum síðar, sitjandi á syllu.

Oddshellir

Í Oddshelli.

FERLIRsfólkið átti góða stund í Oddshelli. Kveikt var á jólakerti, snætt var hangikjöt og því rennt niður með Malti og Appelsíni. Þá var boðið upp konfekt og því skolað niður með úrvals koníaki. Sesselja Guðmundsdóttir, sem var með í ferð og þekkir hverja þúfu á þessu svæði. Færði hún FERLIR að gjöf bók sína, “Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi”, sem nú er uppseld og var henni við þetta tækifæri afhent FERLIRshúfa, sem hún hafði áunnið sér fyrir þátttöku sína í FERLIRsferðum.

Kálffell

Kálffell – fjárskjól við Oddshelli.

Þegar út var komið var ákveðið að ganga nokkra hringi um einiberjarunna, sem þar er – svona í tilefni hátíðarinnar, sem í hönd fór.

Oddshellir

Oddshellir.

Frá Oddshelli var haldið í Nýja-Vogasel og það skoðað. Um er að ræða nokkur hús, stekk og kví. Eitt húsanna hefur verið nokkuð stór með nokkrum vistarverum. Þaðan var haldið niður í Gamla-Vogasel og það skoðað.
Þá var haldið til baka og má segja að dagsbirtan og góða veðrið hafi verið nýtt til hins ýtrasta.

Kálffell

Í Kálffelli.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja var vígð 11. júní 1893. Forsmiður var Guðmundur Jakobsson, húsasmíðameistari (1860-1933), en um útskurð og tréverk sá Þorkell Jónsson, bóndi í Móakoti.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Málun kirkjunnar þótti sérstök, en hana annaðist Nikolaj Sófus Bertelsen (1855-1915). Sá málaði m.a. Iðnó, Dómkirkjuna og fleiri merkar byggingar að innan. Málaraverk Nikolaj er hins vegar víðast hvar horfið, en í Kálfatjarnarkirkju má enn sjá að hluta þessa framlags hans til byggingarinnar. Steinsmiður var Magnús Árnason.
Viðgerð á kirkjunni var lokið á hundrað ára afmæli hennar. Hún er reisuleg timburkirkja af tvíloftagerð. Hún er friðuð. Þegar kirkjan var reist á sínum tíma var hún stærsta sveitakirkja landsins og rúmaði öll sóknarbörnin í einu. Þá stóð sjávarútvegur með miklum blóma á Vatnsleysuströndinni og margir vel efnum búnir útvegsbændur bjuggu þar.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja – altaristafla.

Altaristaflan er eftirgerð af töflu Dómkirkjunnar og málaði Sigurður Guðmundsson (1833-1874) hana árið 1866. Hún sýnir upprisuna.
Kirkja hefur líklega verið á Kálfatjörn allt frá upphafi. Hún kemur fyrir í kirknatali Páls biskups frá 1200 og var hún Péturskirkja í kaþólskri tíð.

Umhverfi kirkjunnar á sér merka sögu og á hlaðinu við kirkjuna stendur meðal annars hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19. öld.

Kálfatjarnarkirkja er í Tjarnaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi. Hún var byggð á árunum 1892-93 og vígð 11. júní 1893, sem fyrr segir, af biskupi, herra Hallgrími Sveinssyni.

Bygging kirkjunnar gekk afar hratt, hófst smíði hennar þegar eftir að gamla kirkjan hafði verið rifin, sú kirkja náði aðeins 29 ára aldri, byggð 1864.

Nýtt þjónustuhús við kirkjuna var vígt 15. apríl 2001.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.