Tag Archive for: Grindavík

Gunnuhver

Gunnuhver er gufuhvera- og leirpyttaklasi á Reykjanesi, en svo nefnist ysti oddi Reykjanesskagans. Gufu- og leirhverir stafa af suðu í jarðhitageymi. Gufan leitar upp og blandast yfirborðsvatni. Henni fylgja gastegundir. Þær gera vatnið súrt. Af því umbreytist hraungrýti og móberg í leir með tilheyrandi sílitabreytingum.
Gufustreymið jókst áberandi á tímabili er þrýstingur lækkaði í jarðhitageyminum við vinnslu vatns og gufu úr honum. Stærsti leirhver landsins, nú með digrum suðustólpa í 20 m víðum stampi, er efst í brekkunni. Um tíma náði gosstólpinn um 10 m hæð og slettur úr honum hlóðust á barmana.

Gunnuhver

Gunnuhver og nágrenni.

Óróasamt er á Reykjanesi af völdum jarðskjálfta. Þeir koma í hrinum en eru vægir, þeir stærstu rúmlega 5 að stærð. Í helstu hrinunum hefur sprunga sem liggur frá Valbjargagjá til norðausturs um Gunnuhver hreyfst til, síðast fyrir um 40 árum. Við slík umbrot hefur hveravirkni aukist um tíma og efnaríkt vatn úr jarðhitageyminum náð til yfirborðs og myndað goshveri með útfellingum af hverahrúðri. Þetta voru sjóhverir. Kísilhóll er nefndur eftir kísilhellu efst á honum. Í henni eru skálar eftir kulnaða goshveri. Kulnaður bolli „Hversins 1919“ er um 100 m sunnar, ofan vegar. Hann var síðast virkur kringum 1970. Skammt þar suðvestan við var Geysir (Reykjanes-Geysir);  virkur kringum aldamótin 1900 og framan af 20. öld. Engin merki sjást um hann nú.

Gunnuhver

Gunnuhver – litadýrð.

Á þessu sumri (2021) hefur hverasvæðið nálægt Gunnuhver tekið verulegum breytingum, einkum vegna þess að jarðsjórinn á hverasvæðinu hefur þornað svo um munar; fagurlituð ölkelda, sem þarna var um tíma, er nú horfin og svo mætti lengi telja.

Einhverjum hálfvita hefur látið sér detta í huga að koma upp skiltum umleikis Reykjanesvita með áletrunni „Payzone“ þar sem krafist er kr. 1000 greiðslu fyrir að leggja bifreið um stund á svæðinu. Á skiltunum er vakin athygli á rafrænu eftirliti. Framangreint hefur gert það að verkum að Íslendingar leggja ekki nálægt vitanum.

Hverasvæðið er síbreytilegt og þurrkarnir að undanförnu hafa aukið verulega á litadýrðina – sjá MYNDIR.

Gunnuhver

Við Gunnuhver.

Sveifluháls

Sveifluháls eða Austari Móháls er bæði eitt af aðgengilegustu útivistarsvæðunum á Reykjanesskaganum og jafnframt það stórbrotnasta.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Óvíða er hægt að sjá fyrrum jarðmyndun skagans jafn augljóslega og á hálsinum. Arnarvatn í samspili við Folaldadalina í norðri og Smérdalina í suðri eru einstakar náttúruperlur – sjá MYNDIR

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi við Ketilsstíg.

Ketilsstígur

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943 fjallar Ólafur Þorvaldsson um „Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar„, þ.á.m.a. Ketilsstíg:

„Ég ætla nú að lýsa að nokkru vegum, götum og stígum, sem liggja milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur og oftast voru farnir. Að sjálfsögðu sleppi ég hér þeim nýja Krýsuvíkurvegi, sem nú er að mestu fullger. Þó á hann þegar nokkra sögu, en hún er annars eðlis og skal ekki rakin hér.

Undirhlíðavegur

Krýsuvíkurleiðir

Krýsuvík – gamlar götur (ÓÞ).

Fyrst skal hér lýst þeim vegi, sem mest var farinn og aðallega, þegar farið var með hesta. Vegur sá var tekinn úr Hafnarfirði öðru hvoru megin Hamarskotshamars, upp yfir Öldur, þar sem nú er kirkjugarður Hafnfirðinga, upp í Lækjarbotna, með Gráhelluhrauni sunnanverðu, upp að Gjám, sem er hraunbelti frá því móts við Fremstahöfða, upp í Kaldársel. Þar var venjulega aðeins staldrað við, hestar látnir drekka, þegar farið var yfir ána, því að oftast var ekki um annað vatn að ræða, fyrr en til Krýsuvíkur var komið.
Frá Kaldárseli lá leiðin yfir smáhraunbelti, unz komið var að Undirhlíðum. Lá vegurinn suður með þeim, víða allsæmilegur, moldar- og melgötur. Vegurinn liggur yfir eitt hraunhaft, norðarlega með Undirhlíðum, kringum eldvörp þau, sem Ker heita, og hefur hraun streymt þar upp undan hlíðinni á vinstri hönd, þegar suður er farið.
Syðst með Undirhlíðum, eða nokkru sunnar en Stórihríshvammur, er farið yfir mel úr rauðu gjalli, og heitir sá melur Vatnsskarðsháls, þaðan er stutt í Vatnsskarð, þar sem hinn nýi vegur liggur nú úr hrauninu upp á hálsinn. Í Vatnsskarði var talin hálfnuð leiðin milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Venjulega var áð þar snöggvast, lagað á hestunum, gert að, sem kallað var, stundum kippt ofan, einkum ef lest var ekki þung.

Vatnsskarð

Vatnsskarð og Undirhlíðar – kort.

Þegar lagt er upp úr Vatnsskarði, taka við hinir svonefndu Hálsar, réttu nafni Sveifluháls, og má segja, að suður með hálsinum sé góður vegur. Sem næst þriggja stundarfjórðunga lestagang frá Vatnsskarði skerst dálítil melalda fram úr hálsinum, og heitir þar Norðlingaháls. Nokkru þar sunnar sjást í hálsinum leifar af brennisteinshverum, og heitir það svæði Köldunámur. Þar litlu sunnar tekur við stór grasflöt, sem Hofmannaflöt heitir. Við suðurenda hennar rís upp úr hálsinum hæsti tindur Sveifluháls, sem Miðdagshnjúkur heitir. Veit ég ekki, hvernig það nafn er til orðið, — en gamalt er það. Ef um dagsmörk er að ræða í því sambandi, getur það ekki komið frá Krýsuvík. Fremur gæti það átt við frá Hvaleyri eða Ási eða annars staðar í grennd Hafnarfjarðar. Þegar Hofmannaflöt sleppir, er skammt ófarið að Ketilsstíg, þar sem vegurinn liggur upp yfir hálsinn. Stór steinn er á hægri hönd og á honum dálítil varða, og er það leiðarmerki um það, að þeir, sem til Krýsuvíkur ætluðu, tækju stíginn upp í hálsinn, en héldu ekki lengra suður með, því að sá vegur lá til Vigdísarvalla og enda alla leið suður fyrir háls, og er syðsti útvörður þessa langa og tindótta háls, fagurt, keilulagað fell, — Mælifell.

Ketilsstígur

Ketilsstígur norðan Ketils.

Þegar Ketilsstígur er tekinn, liggur vegurinn fyrst upp allbratt klettahögg, en þegar upp á það er komið, liggur Ketillinn svo að segja fyrir fótum manns. Ketillinn er kringlóttur, djúpur dalur eða skálinn og ofan í hálsinn. Grasflöt er í botni Ketilsins, sem er svo djúpur, að botn hans mun vera jafn undirlendinu fyrir neðan Hálsinn.

Ketilsstígur

Ketillinn. Fíflvallafjall , Grænadyngja og Hrútafell fjær

Vestur- og norðvesturbrún Ketilsins er þunnur móbergshringur, en norður-, austur- og suðurhliðar eru hálsinn sjálfur upp á brún, og er hæð hans þar um 350 m. Ketilsstígur liggur því í fullan hálfhring um Ketilinn, hærra og hærra, þar til á brún kemur. Láta mun nærri, að verið sé 30—4 5 mín. upp stíginn með lest, enda sama þótt lausir hestar væru, því að flestir teymdu hesta sína upp stíginn.

Ketilsstígur

Ketilsstígur

Ketilsstígur er tvímælalaust erfiðasti kaflinn á þessari hér umræddu leið. Slæmt þótti, ef laga þurfti á hestum í stígnum, og búast mátti við, ef baggi hrökk af klakk, hvort heldur var á uppleið eða ofan, að hann þá, ef svo var lagaður, ylti langt niður, því að utan stígsins, sem heita má snarbrattur, eru mest sléttar skriður ofan í Ketilbotn. Ketilsstígur er mjög erfiður klyfjahestum og sízt betri niður að fara en upp. Þegar upp á brún kemur, sést, að hálsinn er klofinn nokkuð langt norður, allt norður að Miðdagshnjúk, og eru í þeirri klauf sanddalir, sem Folaldadalir heita. Af vestari brún hálsins liggur vegurinn spölkorn eftir sléttum mel til suðausturs, og blasir þar við hæsta nípa á austurbrún hálsins og heitir Arnarnípa. Litlu sunnar er komið að dálitlu stöðuvatni, sem Arnarvatn heitir. Eftir það fer að halla niður af hálsinum að sunnan, og er nú ekki eins bratt og að vestan, þar til komið er fram á síðari brekkuna, sem er brött, en stutt. Þegar brekkunni sleppir, er komið í grashvamm, sem Seltún heitir.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

[Framangreind lýsing er verulega ýkt. Ekkert snarbretti er á þessari leið og er hún mjög auðveld göngufólki upp á hálsinn.]
Allur er hálsinn uppi, norðan vegar, gróðurlaus, en sunnan vegar er sæmilegur gróður. Allhár og umfangsmikill hnjúkur er sunnan vegarins, þegar austur af er farið, og heitir sá Hattur. Víðsýnt er af vesturbrún Sveifluháls, þaðan sér yfir allan Faxaflóa, allt til Snæfellsness, en af austurbrún blasir Atlantshafið við, sunnan Reykjaness.

Arnarvatn

Arnarvatn við Ketilsstíg.

Þegar í Seltún kemur, er talið, að komið sé til Krýsuvíkur, þó er um einnar stundar lestagangur heim að Krýsuvík. Í Seltúni eru nokkrir leirhverir, og kraumar í sumum græn leðja, aðrir eru dauðir.
Úr Seltúnshvamminum er farið yfir alldjúpt gil, Selgil. Á sumrum seytlar þar vatn í botni, en á vetrum getur það orðið ófært með hesta sökum fannar, sem í það skeflir, þar eð gilið er djúpt og krappt.
Sunnan gilsins er Seltúnsbarð, og stóðu þar fram yfir aldamót síðustu tvö allstór timburhús, sem enskt félag, er rak brennisteinsnám þar og í Brennisteinsfjöllum á síðari hluta nítjándu aldar, reisti þar.
Nú eru þessi hús löngu horfin. Af Seltúnsbarði er haldið yfir svonefnda Vaðla. Eftir það taka við melar, og liggur vegurinn þar á vesturbakka Grænavatns. Nokkru norðvestar er Gestsstaðavatn, umlukt háum melum, og sést ekki af veginum. Þegar Grænavatni sleppir, er örstuttur spölur suður á móts við Nýjabæina, Stóri-Nýibær til vinstri, Litli-Nýibær til hægri, og þar með komið í Krýsuvíkurhverfi. Milli Nýjabæjanna og heimajarðarinnar Krýsuvíkur er um 12 mín. gangur. Tún heimajarðarinnar liggur sunnan undir og uppi í Bæjarfelli, en bæjarhús, kirkjan og kirkjugarðurinn standa á hól eða hrygg sunnarlega á túninu.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Hér hefur verið lýst að nokkru aðalveginum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, sem, eins og fyrr segir, var oftast farinn og aðalleið á sumrin, þegar farið var lausríðandi eða með lest, og var þessi leið talin um 8 klst. lestagangur.

Seltún

Brennisteinsnámuvinnslusvæðið við Seltún.

Þá mun ég hér að nokkru lýsa tveimur stígum, sem vestar liggja og aðallega voru farnir af gangandi mönnum, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi, bæði af því að þessar leiðir lágu mun beinna við til Hafnarfjarðar eða frá, svo líka eftir því, hvernig snjór lá, ef mikill var. Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t.d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum en með Undirhlíðum og Hálsum. Hins vegar gat síðartalda leiðin verið snjóminni, ef mikið snjóaði af suðvestri. Þetta þekktu menn af langri reynslu. Annars voru vetrarferðir fátíðar með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Þó kom fyrir, að farið var fyrir jólin, aðallega þá með rjúpur til að selja, svo og stöku sinnum á útmánuðum. Venjulega fóru menn vetrarferðir, ef farnar voru, gangandi, og ýmist báru menn þá eSa drógu á sleSa þaS, sem með var verið. Stillt var svo til, að tungl væri í vexti og færi og veðurútlit sem ákjósanlegast. Margir voru þá mjög veðurglöggir, og var þar eftir ýmsu að fara, sem löng reynsla, ásamt skarpri eftirtekt kenndi mönnum.

Stórhöfðastígur
Þegar ferðamenn fóru Stórhöfðastíg, var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, um hlaðið í Ási, oft gist þar, ef menn t. d. komu frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls, suður yfir Selhraun, vestan undir Stórhöfða, nokkurn spöl suðaustur með honum, lagt á hraunið frá suðrhorni hans, fyrst um gamalt klappahraun, þar til komið var á nýrra brunabelti, sem á sínum tíma hefur runnið ofan á gamla hraunið.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Gegnum nýja brunann liggur stígur eða gata, sem enginn veit, hvenær ruddur hefur verið, annars með öllu ófær hestum. Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Hólmar þessir heita Snókalönd. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til, og helzt ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkru austar en þar, sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum.

Snókalönd

Snókalönd.

Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkru stærra, og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni, veit víst enginn lengur, en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi, að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn — geitla. Í öðru lagi, að blettir þessir, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafn sem land af töngum þeim og hornum, sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd, og gæti því þýtt „Krókalönd“. Í orðabók Blöndals segir, að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til, að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert þar til kola fyrrum.
Gatan út í Snókalöndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég, að svo geti farið, að hann gleymist og nafnið týnist, þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar, en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.

Snókalönd

Gata í Snókalönd.

Af þessum örsókum get ég hér þessara litlu hólma með hinu fágæta og fallega nafni. Þess má geta, að gren er í vestara Snókalandinu — Snókalandagren.
Þegar suður úr brunanum kemur, liggur stígurinn upp með suðvesturbrún hans, og fylgir maður brunanum, þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum, sem farið er þá að nálgast.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur – Fremstihöfði og Helgafell fjær.

Úr því liggur stígurinn meira til suðurs, þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn, og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðaveginn, skammt suður af Sandfellsklofa.
Stórhöfðastíg fóru stundum lausríðandi menn frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar. Fóru þá sem leið lá inn með hálsum, þar sem sú leið er allgóður reiðvegur, þar til kom á móts við, þar sem Stórhöfðastígurinn lá vestur á milli Fjallsins eina og Sandfells. Sá stígur var stundum tekinn, því að við það féll úr mikill krókur, inn með Undirhlíðum um Kaldársel, en hitt bein lína til Hafnarfjarðar. Þó að Stórhöfðastígurinn sé frekar slitróttur, var gott að láta hestinn njóta hægu ferðarinnar, en jafnsnemma komið til Hafnarfjarðar eða fyrr, þrátt fyrir stirðari veg.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Þeir, sem ætluðu sér Hrauntungustíg frá Hafnaríirði til Krýsuvíkur, fóru um Jófríðarstaði að Ási, þaðan um bkarð vestan Ásfjallsaxlar, yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness, undir vesturenda þess, austur að stórum steini flötum ofan, sem er þar stakur á jafnsléttu. Frá honum er farið suður á gamalt helluhraun um 10 mínútur, þá tekur við Nýibruni eða Háibruni, sem runnið hefur ofan á eldra hraunið. Gegnum brunann er, eins og á Stórhöfðastíg, rudd allgreiðfær gata, sennilega gerð á svipuðum tíma og Stórhöfðastígur, en hver það hefur látið gera, veit víst enginn, en nijög gamlar eru þessar vegabætur, og eru þær sennilega fyrstu vegabætur, sem gerðar hafa verið til Krýsuvíkur. Þó kann að vera, að stígurinn gegnum Ögmundarhraun, sem fyrr getur, sé eldri, og þá sennilega þær fyrstu. Gegnum Háabrunann er sem næst 20 mín. gangur með lest, og þegar á suðurbrún hans kemur, ganga til beggja handa suður úr brunanum tvær brunatungur, sem stígurinn liggur suður á milli, og ná þessar tungur spölkorn suður á svokallaðan Almenning, sem er nú búfjárhagar Hraunajarðanna, en hefur fyrr á öldum, eins og nafnið bendir til, verið frjáls til afnota fleiri en Hraunabændum, t. d. til kolagerðar, og sjást þar enn allvíða leifar gamalla kolagrafa. Af brunatungum þessum tel ég víst, að stígurinn hafi nafn fengið, Hrauntungustígur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Eftir að suður úr Hrauntungum kemur, er óglögg, sums staðar jafnvel engin gata, og verður því sjónhending að ráða, enda torfærulaust yfir kjarri vaxið lágahraun, en allt á fótinn. Þegar kemur dálítið upp í Almenninginn, fer maður nálægt gömlu selstæði, sem Gjásel heitir, og er þar venjulega vatn. Sennilega hefur þar verið haft í seli frá Þorbjarnarstöðum eða Stóra-Lambhaga í Hraunum.

Fornasel

Fornasel – vatnsstæði.

Nokkru austar er annað selstæði, sem Fornasel heitir. Þegar suður á há-Almenning kemur og útsýnið víkkar til suðurs, sést hár klettahryggur í suðvestur, og eru það Sauðabrekkur. Norður af þeim er farið yfir víða og djúpa gjá, á jarðbrú, Sauðabrekkugjá, eftir það er komið á svonefnda Mosa, sem er flatt grámosahraun, og er gata þar allglögg. Þá er hár brunahryggur, sem liggur frá norðri til suðurs á vinstri hönd og heitir Hrútagjá, Hrútadalir þar suður af. Þegar Mosum sleppir, hefur maður Mávahlíðarhnjúk og Mávahlíðar skammt sunnar á hægri hönd.
Móti Mávahlíðum syðst er komið í Hrúthólma; er það langur, en fremur þunnur melhryggur, nokkuð gróinn neðan, öllum megin, smávin í þessari brunaeyðimörk. Þegar úr Hrúthólma er farið, taka við sléttar hraunhellur, ágætar yfirferðar. Sunnarlega á þessum hellum er stakt móbergsfell, Hrútafell. Þegar á móts við það kemur, en það er nokkuð til hægri við stíginn, er stutt þar til komið er á sumarveg Krýsuvíkur, skammt norðan Ketilsstígs.
Þessi leið, sem hér hefur lýst verið að nokkru, var að heita má eingöngu farin af gangandi mönnum, og stundum ráku Krýsvíkingar fé til förgunar þessa leið. Sömuleiðis kom fyrir, að hún var farin af Herdísarvíkurmönnum, svo og Selvogsbúum, þegar þeir ráku fé í kaupstað, ef snjór var fallinn á fjallið og Kerlingarskarð, sem annars var þeirra aðalleið til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
Hér hefur þá nokkuð ýtarlega verið gerð tilraun til að lýsa þeim þremur höfuðleiðum, sem lágu milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, frá því þar varð fyrst byggð, fram á síðustu ár.

Hrútfell

Hrútfell.

Að lokum vil ég svo geta að nokkru fjórðu leiðarinnar, sem kom fyrir, að Krýsvíkingar fóru, ef með hesta voru fyrir néðan, þ.e. í Hafnarfirði, og dreif niður svo miklum snjó, að hinum leiðunum var engri treyst. Þá gat þessi leið verið fær. Leið þessi lá frá byggð í Hraunum sunnan Hafnarfjarðar.

Rauðamelsstígur

Rauðamelsstígur.

Þegar menn fóru þessa leið, var venjulega farið út af Suðurnesjaveginum, norðan Rauðamels, skammt sunnan Óttarsstaða, um Óttarsstaðasel, vestan undir Skógarnefjum, sunnan Einihlíða, en norðan Lambafells, fram hjá afar stórum klettum, sem eru einstæðir á sléttum mosaflákum og Bögguklettar heita, þaðan yfir brunatagl, sem liggur upp að norðurhálsi Trölladyngju, upp slóða yfir hálsinn, síðan yfir helluhraun slétt norðan Hörðuvalla, sem er nokkurt undirlendi mót norðri, milli Trölladyngju og Grænudyngju. Þá er komið að fjalli, sem Fíflavallafjall heitir, og farið nokkuð suður með því að austan, þar til komið er undir Stórusteinabrekku, þaðan liggur stígurinn yfir slétt helluhraun norðan Hrútafells, unz komið er á stíginn upp úr Hrúthólma, sem er á Hrauntungustígsleið, sem áður getur.
Önnur leið upp úr Hraunum lá nokkru norðar, — eða upp frá Þorbjarnarstöðum, venjulega norðan Draughólshrauns, um Straumsel, norðan Gömluþúfu, sem er hár og umfangsmikill klettur upp úr hæstu hæð Hraunaskógar (Almennings). Þegar upp fyrir Gömluþúfu kom, mátti fara hvort menn vildu heldur, austan eða vestan Sauðabrekkna, og var komið á Hrauntungustíg norðan Mávahlíða. Þessi leið var helzt farin af Hraunamönnum, er svo voru almennt kallaðir, sem fóru aðallega til fjárleita haust og vor til Krýsuvíkur, svo og af Krýsvíkingum, þegar fyrir kom, að þeir sóttu sjóföng til Hraunabænda, því að meðan Hraunajarðir voru almennt í byggð sem bændabýli, sem var fram yfir síðustu aldamót, — enda tvær jarðir enn —, var þaðan mikil sjósókn.

Hellan

Krýsuvíkurvegur um Helluna.

Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki áður farið. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara þessa leið en áður var.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

Þessi leið mun ekki hafa talizt til höfuðleiða milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, enda sjaldan farin, og þá helzt á vetrum. Þó tel ég hana ekki með öllu ómerkilega, og ber fleira til en eitt. Það er þá fyrst, að þessi leið er stytzta og beinasta lestaleiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðasta og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún var nokkrum annmörkum háð, — og hún gat verið hættuleg.
Þessa leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar væru tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrufyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo að fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávallt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesta að vetri til, varð Kleifarvatn að vera á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en eftir vetrarsólhvörf.
Meginorsök þess, hve vatnið leggur seint, er vafalaust sú, að allmikill hiti er í botni þess, sér í lagi að sunnanverðu, og hafa, þegar vatnið er lítið, verið talin þar milli 10 og 20 hveraaugu, sem spýta sjóðheitri gufu upp í vatnið og í loft upp, þegar út af þeim fjarar. Hvað sem um skoðanir manna og reynslu í þessu efni er að segja, er hitt víst, að frosthörkur voru venjulega meiri og stóðu oft lengur, eftir að kom fram yfir miðjan vetur. Hins vegar var vorís ekki treyst, þótt þykkur væri.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1943, Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar – Ólafur Þorvaldsson, bls. 83-87.

Arnarvatn

Arnarvatn við Ketilsstíg.

Stóra-Eldborg

Þorvaldur Thoroddsen skrifaði um „Ferðir um Suðurland sumarið 1883„. Skrifin birtust m.a. í Andvara 1884:

„Frá Geitahlíðarenda og vestur að Ögmundarhrauni er hraunlaus kafli og er það fásjeð á Reykjanesi. Þetta hraunlausa svæði nær frá Kleyfarvatni suður í sjó milli Sveifluháls og Lönguhlíðarfjallanna, en undir eins og Sveifluháls sleppur, taka við eilíf brunahraun. Í Geitahlíð, sem er suðvesturhlutinn af Lönguhlíð, eru dóleríthamrar efst, en móberg undir; svo er jarðmyndunin frá Herdísarvík norður að Grindaskörðum.

Grænavatn

Grænavatn.

Nyrzt í dældinni milli Lönguhlíðar og Sveifluháls er Kleifarvatn; fram með því liggur vegur úr Hafnarfirði, en nú var eigi hægt að fara hann, því svo mikill vöxtur var í vatninu. Menn hafa tekið eptir því, að Kleifarvatn vex og þverrar á víxl, og vex jafnvel mest, þegar þurrkar ganga — að því er menn segja — hvernig sem því er nú varið; í því er engin veiði, engin branda nema hornsíli. Sunnar, nálægt Krýsuvík, eru tvö mjög einkennileg vötn, Grænavatn og Geststaðavatn, litlu fyrir neðan námurnar; þau eru bæði kringlótt og mjög djúp; sagt er, að sextugu færi hafi verið rennt í Grænavatn og eigi náð botni. Vötn þessi eru á flötum melum og melgarður eða melbryggja hringinn í kringum þau. Skálar eða katlar líkir þessum, en minni og vatnslausir, eru þar í kring.

Krýsuvík

Krýsuvík – Baðstofa framundan; Krýsuvíkurnámurnar sunnan Seltúns.

Krýsuvíkurnámur eru utan í Sveifluhálsi, norður af Krýsuvík, og dálítið fyrir neðan hann. Móberg er í hálsinum öllum, og brennisteinsblettir og sundursoðinn leir allvíða í honum; en mest kveður þó að því við Krýsuvík. Hinar súru gufur koma upp um sprungur í móberginu; í giljum og vatnsræsum, er ganga niður í fjailið, hefir jarðvegurinn við það soðnað allur í sundur; móbergið er orðið að marglitum leir og gegnumofið af brennisteinssúrum steinsamböndum.

Baðstofa

Hverasvæðið norðan Baðstofu í Krýsuvík.

Víða eru þar stórir, bullandi leirkatlar, sem alltaf sýður í; fremur lítið er þar samt um brennistein, og miklu minna en í námurnar fyrir norðan í Þingeyjarsýslu. Móbergið er víða upplitað og orðið hvítleitt af gufunum, en hraunmolarnir úr því liggja lausir kolsvartir ofan á, af því að soðnað hefir í kringum þá. Undarlegt þykir mjer, ef það getur borgað sig að vinna þær. Ensku fjelögin, sem hafa námurnar, og ætla sjer að taka þar brennistein, kopar og buris, eru byggð í lausu lopti á hlutabrjefum. Englendingur nokkur, J. W. Busby, keypti fyrst Krýsuvíkurnámur 1858 fyrir milligöngu Dr. Jóns Hjaltalíns; sjera S. B. Sivertsen og Sveinn Eiríksson bóndi í Krýsuvík seldu fyrir 1400 dali; eptir kaupbrjefinu mega Englendingar taka allan brennistein í Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkurlandi, ásamt öllum málmiðartegundum, or þar kynni að finnast; auk þess hafa þeir ýms rjettindi önnur. Síðan hafa námurnar farið hendi úr hendi og verið seld í þeim hlutabrjef.

Frá Krýsuvík fórum við snöggva ferð upp í Trölladyngju, sem jeg þá skoðari miklu nákvæmar seinna um sumarið, og síðan niður að Kaldárseli. Vegurinn liggur um Ketilstíg, síðan norður með Sveifluhálsi að vestan og svo fram með Undirhlíðum.

Ketilsstígur

Ketilsstígur – í hlíðinni hægra megin við Ketilinn.

Sveifluháls er allur úr móbergi, og á honum ótal tindar og hnúkar; hvergi hefir gosið í þessum hálsi, og engin eru þar eldmerki, nema mjög gamlir gígir við suðurenda hálsins nálægt Mælifelli. Hálsinn er víða sundursoðinn af súrum eldfjallagufum, og þeir hafa, ef til vill, einmitt þess vegna engin gos komið, af því að gufurnar höfðu þar stöðuga útrás; annars eru öll fjöllin og dalirnir í kring sundurrótaðir af jarðeldum og eintómar gígaraðir fram með hverri hlíð. Undirhlíðar eru nokkurs konar áframhald af Sveifluhálsi, eða þó öllu heldur hjalli, er gengur út undan norðurenda hans, og halda þær áfram norður fyrir Helgafell.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Fram með Undirhlíðum eru margar gígaraðir, og eru sumir eldgígirnir upp á rönd þeirra rjett við Helgafell. Frá gígum þessum hafa mikil hraun runnið. Undir miðjum hlíðunum eru mjög nýlegir gígir; þeir hafa hlaðizt upp úr uppblásnum hraunsteinum, sem er tyldrað hverjum ofan á annan, og eru þeir því fjarska brattir. Aðalgígurinn er 70 fet á hæð og hefir 40—50° halla út á við. Úr pessum gígum hefir Kapelluhraun runnið niður í sjó sunnan við Hafnarfjörð. Þetta hraun hefir eflaust runnið síðan land byggðist; útlit þess bendir til þess, og í fornum bókum er það kallað Nýja-hraun, þannig t. d. í Kjalnesingasögu, og í íslenzkum annálum er sagt frá því, að skip hafi brotnað 1343 við Nýja-hraun fyrir utan Hafnarfjörð.

Kapelluhraun

Kapelluhraun norðanvert – eldvörp og gamlar sprungur.

Kapelluhraun hefir runnið niður með hlíðunum fyrir neðan Kaldársel niður að Stórhöfða, en beygir þar frá þeim til vesturs og norðurs. Sumir eldgígarnir og hraunstraumarnir við Helgafell eru mjög nýlegir. Á einum stað sá jeg þar mjög einkennilegan, sjerstakan hraunblett; hraunið hafði runnið út úr smáholum utan í litlu melbarði og fossað niður í smálækjum eins og uppsprettur; engir gígir höfðu samt myndazt, eins og vant er að vera við hraun, heldur hafði hraunleðjan beinlíns ollið á nokkrum stöðum út úr sprungu í melbarðinu; sprungan sjest eigi, en opin eru í vanalega stefnu, eins og aðrir gígir þar í nánd, frá norðaustri til suðvesturs; kringum uppvörpin er dálítil hrúga af hraunsteinum og svo hraunpípur niður úr; hraunbletturinn, sem komið hefir úr opum þessum, er mjög lítill, á að gizka 300 faðma langur og 10—20 faðma breiður.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Ásarnir, sem ganga niður undir Hvaleyri, eru nokkurs konar álma út úr Undirhlíðum og skilur hún Kapelluhraun frá Hafnarfjarðarhrauni. Hafnarfjarðarhraun er mjög gamalt; það virðist hafa komið úr stórum gömlum gíg norður af Helgafelli og vestur af Húsfelli, en síðan hefir landið milli þess gígs og Setbergshlíðaenda sokkið, og sjest vel í gjábarminum vestri allt norður undir Elliðavatn. Önnur gjá hefst rjett fyrir vestan Húsfell og gengur í suðvestur með Helgafelli suður um hraun þau, er komin eru frá Grindaskörðum; hún heitir Gullkistugjá; yfir hana verður eigi komizt nema á einstöku stað.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir um Suðurland sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 25-28.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.

Sellesjupollur

Í Fréttablaðinu árið 2020 fjalla þeir Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson um „Litadýrð“ Soganna og nágrennis:

Spákonuvatn

Spákonuvatn- Trölladyngja og Grænadyngja fjær.

„Stundum er leitað langt yfir skammt þegar kemur að náttúruperlum. Á Reykjanesi, við dyragætt höfuðborgarinnar, er fjöldi spennandi útivistarsvæða sem eru mörgum lítt kunn og ennþá færri hafa heimsótt. Eitt þeirra er sérkennilegt háhitasvæði upp af Höskuldarvöllum, ekki langt frá Keili og sunnan Trölladyngju og Grænudyngju.

Sogasel

Sogaselslækur.

Þessi litríku leirgil kallast því skrítna nafni Sogin og hafa mótast af jarðhita og eldvirkni í iðrum jarðar. Í gegnum gilin rennur Sogalækur en á Reykjanessskaga eru ekki margir lækir eða ár, þar sem yfirborðið er víðast þakið gljúpum en fallega mosavöxnum hraunum.
Sogin eru einkar litrík og minna um margt á Jökulgil á Torfajökulssvæðinu, enda þótt þau séu miklu minni. Þau er því stundum kölluð Litlu Landmannalaugar en ólíkt Torfajökulssvæðinu og hverasvæðinu í Krýsuvík, sem er skammt frá, státa þau ekki lengur [af] spúandi hverum. Engu að síður er svæðið allt sannkölluð útivistarparadís og litadýrð Soganna minnir óneitanlega á olíumálverk.

Sogin

Ofan Soga.

Þarna býðst fjöldi spennandi gönguleiða sem henta flestum og eru tilvaldar fyrir hálfsdags- eða kvöldgöngu. Aðeins tekur hálftíma að komast að svæðinu akandi frá höfuðborginni og er einfaldast að aka veginn upp að Keili og áfram að bílastæði við ónýtta tilraunaborholu upp af Höskuldarvöllum.

Sogin

Sogin.

Annar valkostur er að hefja gönguna austar, frá Krýsuvíkurvegi. Frá bílastæðinu upp af Höskuldarvöllum er gengið í suðaustur í átt að Spákonuvatni, en á leiðinni ber fyrir augu fallegan eldgíg með einkar fallegu útsýni vestur að píramídalaga Keili.
Stuttu síðar blasa tvö önnur falleg gígvötn við, Grænavatn og Djúpavatn, og þegar komið er upp á nálægan hrygg sést vel yfir Sveifluháls og stóran hluta Reykjaness. Sveigt er til norðurs og koma þá litrík Sogin skyndilega í ljós, líkt og úr leynum og með stórkarlalegar Grænudyngju og Trölladyngju í baksýn. Litadýrðin er ólýsanleg, ekki síst í björtu og annað hvort hægt að halda ofan í gilin eða halda sig ofar í gróðurvöxnum hlíðum. Áður en snúið er heim er tilvalið að ná tindi annað hvort Grænudyngju (400) eða Trölladyngju (375 m) en af þeirri síðarnefndu er frábært útsýni yfir höfuðborgina og fjöllin norðan hennar.
Þessi móbergsfjöll urðu til við gos undir ísaldarjöklinum, en í hlíðum þeirra eru síðan yngri eldgígar sem sumir hverjir hafa gosið á nútíma og skilið eftir sig falleg mosavaxin hraun.“

Heimild:
-Fréttablaðið, 216. tbl. 08.10.2020, Litadýrð í leynu, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, bls. 12.

Sogin

Sogin.

Haldið var í Sogin, þvergil er Sogalækur hefur myndað á u.þ.b. ellefu þúsund árum. Afurðin liggur að fótum fram; grasi grónir Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki.

Sogin

Í Sogum.

Litli Sogalækurinn er ágætt dæmi um hversu lítilmagninn fær áorkað á löngum tíma. Hann ætlar sér að ná til sjávar í Kúagerði – og mun eflaust takast það eftir nokkur hundruð ár.
Sogin skilja nánast af Núpshlíðarháls og Dyngurnar (Trölladyngju og Grænudyngju). Þau eru 150-200 m djúp leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og aðeins eimir af enn. Þægilegt er að ganga að Sogunum frá Lækjarmýri norðan Djúpavatns. Þaðan er u.þ.b. 800 m gangur að litadýrðinni.

Sogin

Sogin – skilti við Lækjarmerki. Gefið er til kynna að 5 km gangur sé að Sogunum, en hann er í raun um 800 m.

Auðveld ganga er upp með Djúpavatnseggjum. Sunnan við gilið er útsýnið stórbrotið yfir að Dyngjunum og litadýrðin mikil. Hún breytist jafnan, bæði eftir birtu og veðri. Þannig eru allir litir skarpari í sólskyni eftir rignardag. Leirkenndur jarðvegurinn er rokgjarn, en drekkur í sig bleytu. Á hálsinum milli Soga og Spákonubatns er ágætt útsýni yfir undirlendið þar sem Keilir trónir í allri sinni dýrð. Fallegur hver er í hlíðinni sunnan við Sogalæk og fallaásýndin sunnan Dyngnanna er stórbrotin. Svæðið er skammt frá höfðuborgarsvæðinu.
Sjá má myndir úr Sogunum og nágrenni HÉR.

Sog

Í Sogum.

 

Ísólfsskáli

Í jólablaði Víkurfrétta árið 1984 eru Ísólfur Guðmundsson og Herta Guðmundsson á Ísólfsskála heimsótt undir fyrirsögninni „Eina lögbýlið á Suðurnesjum heimsótt, Verða að búa við algjöra einangrun yfir vetrarmánuðina – samgöngulaus, jafnvel hita, vatns, rafmagns og símalaus“:

[Hafa ber í huga að ritstjórar og blaðamenn Víkurfrétta hafa í gegnum tíðina haft eingregin vilja til að heimfæra Grindavík upp á Suðurnesin, sem er gegn öllum fyrri heimildum. Efnisumfjöllunin sem slík á hins vegar erindi til almennings.]

Inngangur – Eina lögbýlið á Suðurnesjum heimsótt

Ísólfsskáli

Herta og Ísólfur á Skála.

Verða að búa við algjöra einangrun yfir vetrarmánuðina – samgöngulaus, jafnvel hita-, vatns-, rafmagns. Eins og flestir vita er þéttbýiasti staður landsins hérna á suðvestur horninu, og þvi teljast Suðurnesin vera með þéttbýlustu svæðum landsins. Er það þá ekki skritið, að á þessu svæði skuli finnast bóndabýli sem er aðeins 5 km frá einum af þremur kaupstöðum á svæðinu, þar sem heimilisfólkið verður að búa við einangrun oft frá hausti og fram á vor, vegna þess hve vegarsamgöngur eru slæmar? Þetta fólk, sem er hið eina á Suðurnesjum sem hefur afkomu sina eingöngu af fjárbúskap, verður einnig, þó það sé ekki lengra frá þéttbýli, að búa rafmagnslaust og vatnslaust meira og minna á hverjum vetri. Laugardaginn 1. desembersl. brutust Víkurfréttir á bíl með drifi á öllum hjólum til þessa fólks og tóku það tali, og birtist viðtalið hér á eftir. En fyrir þá sem ekki eru þegar farnir að renna grun um hverja er verið að tala, skal þess getið að hér er átt við hjónin Ísólf og Herthu Guðmundsson, að Ísólfsskála við Grindavík.

Ísólfsskáli
Ferðin að Ísólfsskála gekk nokkuð vel, þó var það ansi skrítin tilfinning í þessu góða veðri, að á Grindavíkurveginum frá Seltjörn og upp undir Gíghól [Gíghæð], var það þétt hrímþoka að aðeins var nokkurra metra skyggni.
Nú, eftir að henni lauk gekk ferðin vel. En til þess að komast að Ísólfsskála þarf að fara yfir Festarfjall og þar var algjörlega ófært fyrir venjulega fólksbíla, en fyrir þann farkost sem við völdum til fararinnar var þetta lítið mál. Þó voru kaflar sem voru afar slæmir jafnvel fyrir slíkan bíl.
Engu að síður tókst vel að komast á staðinn og eftir að hafa fengið kaffi hjá þeim hjónum var sest inn í stofu. Fyrst báðum við Ísólf að segja frá uppruna og sögu jarðarinnar.
„Ísólfsskáli er landnámsjörð, hér er ég fæddur og uppalinn“, sagði Ísólfur bóndi, „pabbi og mamma bjuggu hérna líka í 5 1/2 ár og afi bjó hérna. Hann var þrígiftur og átti 33 börn og eitt á milli kvenna, þannig að börnin voru 34. Hann hóf búskap að Hjalla í Ölfusi og þaðan fluttist hann að Breiðagerði á Vatnsleysuströnd. Þá fluttist hann að Vigdísarvöllum, bjó þar í nokkur ár. Síðan fluttust þau hingað og hér létust þau. Eftir það var Skálinn í eyði í 3 ár, en eftir það var Brandur bróðir hans pabba hér í 3 ár, en þá flutti pabbi hingað úr Grindavík 1916 og bjó hér eins og áður segir í 51 1/2 ár.
Ísólfsskáli
Mamma var gift áður, en við systkinin erum 11 á lífi, 5 hálfsystkini og 6 alsystkini. Eitt, þ.e. elsta hálfsystkinið, er nýlega dáið, en hann bjó hérna í Grindavík. Fyrst þegar pabbi kom hérna þá var þetta eiginlega ekki árennilegt, þetta var nú ekki annað en smá túnsnepill sem náttúrulega varð að slá með orfi og ljá eins og það gerðist í gamla daga, og þá setti hann á þetta eina belju og 10 gemlinga, og ég held að hann hafi fengið eitthvað um 20-25 hesta af heyi af þessu með því að slá þetta með orfi og ljá og kroppa þetta saman. Nú eru túnin með því sem hann stækkaði og ég líka, orðin um 40 hektarar, að mér er sagt. Þar af leiðandi hefur þetta stækkað smátt og smátt, en erfiðleikar fyrst voru miklir hérna varðandi það að rækta þetta, því að hér voru sandur og melar og varð að tína ofan af þessu grjót með handafli og grafa það niður til þess að losna við það, eða þá að bera það út fyrir í hauga.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – ýtusléttur Ísólfs ofan Skála.

Svo eftir að ýturnar komu þá fengum við ýtu hingað tvívegis til að ýta hérna melum og með því móti gátum við ræktað töluvert svæði hérna og þetta hefur þróast svona. Núna er ég eingöngu með fé, hátt á þriðja hundrað, en þetta fer að verða nokkuð mikið, því fóðurverð hefur hækkað mikið og þetta því orðið nokkuð dýrt. Ég keypti áburð í fyrra fyrir 60 þúsund. Svo keypti ég aftur í vor og þá fyrir 120 þúsund, og það var ekki nema 3 tonnum meira, svo á þessu sést hvað allt hefur hækkað“.
-Eru þeir ekki orðnir fáir hér á Suðurnesjum sem lifa á búskap?
„Þetta er eina lögbýlið sem er eingöngu með fjárbúskap, en þeir eru fleiri með fé hérna í Grindavík og á Vatnsleysuströnd. Eru það aðallega bræðurnir á Efri-Brunnastöðum sem eru með margt fé. En fé hefur fækkað á skaganum undanfarin ár, því mér var sagt að 1922 hefði verið 22 þúsund fjár hérna á Reykjanesskaganum og 100 hross í fjalli, auk þess sem allir bændur voru með beljur, eina, tvær og þrjár, en núna er ekki nema líklega 3 þúsund kindur á þessu svæði. Er þetta yfirleitt komið heim í rétt eða hólf við fyrstu eða aðra rétt og ekkert beitt yfir vetrarmánuðina, en áður fyrrgekk þetta fé úti allt árið og svo á sumrin suður í Selvogi eða Ölfusi. Nú eru menn að tala um ofbeit, en það er ekki fyrir hendi, því undanfarin ár hafa verið köld, eins og t.d. í fyrra þegar heyin hröktust ekki einu sinni á túnunum, því þau voru eins og í kæliskap og í sumar hröktust þau meira, því það var heitara og í sumar var gott sumar hvað sprettu snertir“.
-Hefur þú hér einhver önnur hlunnindi, s.s. reka?
Ísólfsskáli.-„Nei, að vísu rekur hérna smávegis af belgjum og plastkúlum, en maður verður eiginlega að passa þetta þvi það er svo mikið af fólki sem gengur um og annað hvort hirðir þetta eða þá hreinlega gengur vopnað um og skýtur þetta og eyðilegur, og það er það sem gerir það að verkum að þessi umferð hérna er ekki góð þegar menn skemma svona mikið í kringum sig. Það væri allt í lagi með þessa umferð, ef það væru almennilegir menn sem gengju um þetta“.
-Nú er aðeins korters keyrsla til Grindavíkur, búið þið við einangrun?
-„Það eru 5 km héðan til Grindavíkur, en þeir hafa aldrei verið það framfærir menn að þeir legðu rafmagn þessa leið. í upphafi uppistóð oddviti Grindavíkur ásamt nokkrum úr hreppsnefndinni sem þá var, að hreppurinn keypti ljósavél, 10 ha. Lister og aðra að Stað við Grindavík, því þá var búið á þessum tveimur bæjum. Nú, það var náttúrlega betra að hafa þessar vélar en myrkrið, en þær reyndust mjög illa, að minnsta kosti þessi hérna, því að það var rétt að maður gat haft ljóstýru af henni, annað ekki“.
-En hvernig eru þessi mál núna?
-„Ég hef mikið rifist út af þessu bæði við þingmenn og aðra. En þingmennirnir virðast ekkert gera fyrir mann. Eins hef ég rifist við bæjarstjórn og bæjarráð og hafa þeir sýnt þessu máli nokkurn skilning. Keyptu þeir vél, að vísu gamla og gerðu hana upp, og létu mig hafa hana. Verð ég síðan að sjá um rekstur á henni, og núna sl. sumar fór rafall í henni og þá kostaði 26 þúsund að láta gera við vélina fyrir utan rafvirkja sem ég varð að fá til að rífa hana í sundur og setja saman aftur. Kostaði þetta því stórfé. Tel ég þetta vera algjörlega ófullnægjandi að hafa þessa ljósavél, því að í 3 mánuði á síðasta ári vorum við hitalaus og vatnslaus vegna bilunar, því ef vélin ekki snýst, er allt stopp“.
-Hvernig eru þá símamálin?
Ísólfsskáli
-„Fyrst var hérna bara „bretasími“ sem var lagður á jörðina og var hann í lagi ef logn var, en ef það gerði vind þá hristist hann og skarst í sundur á jörðinni.
Nú, einu sinni fór ég að rífast í því að fá síma, við Ólaf heitinn Thors rétt fyrir kosningar. Spyr ég hann um símann og sagðist hann skyldi athuga það. Svo varð nú ekkert úr því, nema að ég var með þennan helv … bretasíma sem á höppum og glöppum í lagi. Nú, svo koma kosningarnar og þá er ég staddur í Grindavík og þá er Ólafur þar. Þá segir einn við hann: Hvernig heldur þú að kosningarnar fari núna, Ólafur? Ja, ætli það rokki ekki til eins og vant er, segir Ólafur. Ja, þú átt nú einn þarna, og bendir á mig.
Ja, ég segi þá við hann að ég lifði nú ekki á lygum og svikum. Þá segir Ólafur og ræskti sig: Ég man nú ekki eftir því aö hafa lofað þér þessu, en þetta kom til tals. Já, en ég vil nú að það sé byrjað á að mæla fyrir þessu. Nú, daginn eftir komu verkfræðingar og byrjuðu að mæla fyrir þessu, og síðan kom síminn“.
-Þannig að síminn hefur komið vegna kosningaloforðs Ólafs Thors?
-„Já, en það gildir ekki varðandi þá þingmenn sem nú eru, t.d. varðandi rafmagnið, því ég hef talað við þá marga, bæði Gunnar Schram og fleiri. Þeir virðast engir vilja vinna fyrir okkur, við eigum enga þingmenn núna, sem vilja starfa fyrir kjósendur sína, eins og virðist þó vera varðandi aðra landshluta. Þar koma þingmenn vilja kjósenda á framfæri og efna loforðin. Enda leggja þessir þingmenn rafmagn og láta byggja brýr o.fl., en þingmenn okkar gera ekki neitt“.
-Þrátt fyrir það að aðeins 5 km séu til Grindavíkur, þá er oft ófært hingað svo mánuðum skiptir og þið því algörlega einangruð?

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

-Já, 1932 þegar þetta hús var byggt hérna, var enginn vegur hingað og þá þurfti að leggja veg til að koma efninu í húsið. Þá fóru pabbi og systkinin í þáð að ryðja veg og voru allirsneiðingar handmokaðir, fyrst brekkurnar til að komast upp og svo aftur niður. Svo fengum við hálfs annars tonna vörubíl til að koma hingað með efnið í sperrurnar og sementið. Gekk ágætlega að komast hingað niður, en verra að komast upp aftur, því það var svo laust í brekkunum. Enduðu mál með því að farið var ofan í Grindavík til að fá skipshöfn af bát til að koma hingað. Lentu þeir í fjörunni og síðan ýttu þeir bílnum upp brekkurnar“.
-Eruð þið þá í algjörri einangrun frá hausti til vors, og haf ið því engin tök á að nýta ykkur þá þjónustu sem sveitarfélagið býður upp á?
-„Nei, þeir hafa nú komið hingað og rutt veginn t.d. ef ég verð rafmagnslaus og eins ef mig hefur vanhagað um eitthvað sérstakt. Það er hins vegar útilokað i sambandi við slysahættu og annað að hafa engar samgöngur við Grindavik, því hér er heldur hvergi hægt að koma aö af sjó. Enda sýndi þaö sig einu sinni, er ég var vakinn hér upp um miðja nótt, að þá hafði maður sem ætlaði á bát úr Grindavík til Eyrarbakka orðið að taka land hérna fyrir neðan vegna bilunar á vél. Var hann orðinn það kaldur að ef hér hefði ekki verið fólk, þá hefði hann ekki lifað þetta af. Á þessu sést að nauðsynlegt er að hafa byggð hérna. En það væri ekkert vandamál, ef hér væri rafmagn, en það ástand sem er á þeim málum háir manni bæði varðandi féð og annað. Hér vill fólk reisa sumarbústaði og laxeldi, og einnig hafa menn viljað fá að búa hér, en þetta strandar allt á rafmagninu, því þetta er mátulega langt frá þéttbýliskjarnanum“.
-Hvað myndi ske ef hér kæmi upp eldur að vetrarlagi?
-„Þá er annað hvort að reyna að slökkva sjálfur eða reyna að fá hjálp með því að hringja, svo framarlega sem síminn er ekki bilaður“. Til að geta lifað í slíkri einangrun, verðið þið ekki að lifa eftir öðrum kenningum en aðrir íbúar í þessum mikla þéttbýliskjarna sem Suðurnes eru?

Ísólfsskáli

Jólagetraun Víkurfrétta 1984.

-„Jú, lífið hér byggist upp á því að vera sjálfum sér nógur og geta bjargað sér, hvað sem kemur fyrir“.
-Hvað gerið þið af ykkur í ykkar frítíma?
-„Hér er engin leið að sjá sjónvarp. Hafa þeir frá sjónvarpinu komið til að mæla það út, en fjöllin virðast skyggja á, þannig að í sjónvarp næst ekki nema til komi sendir til að endurvarpa t.d. frá Grindavik. Annars líður dagurinn þannig, að ég er allan daginn yfir fénu, síðan matast maður og sefur, eða þá að maður lítur í bók. Við erum afskipt af öllum félagsmálum. Hitt er verra, að hingað hefur á undanförnum áru

m komið mikið af alls konar óþverralýð, sem hafa verið að skjóta hér og eyðileggja. Skotið hefur verið á húsin hér, jafnvel þó fólk hafi verið í þeim, á fjárhúsin. Einu sinni skutu þeir rétt yfir konuna þegar hún var hér uppi við hjalla, en þá var ég í grenjaleit. Eru því víða för eftir kúluskot hér á húsunum. Virðast þetta vera einhverjir vitleysingar. Sem dæmi get ég sagt að hér verpir mikið af fýl og eitt árið sem það var mjög áberandi, óku þeir hér um og skutu fuglinn út um bílgluggann og létu hræin liggja síðan tvist og bast. Þessir menn virðast geta fengið byssuleyfi hvenær sem þeim dettur í hug, án þess að hafa ákveðin skotsvæði í huga. Sama er með selinn, hann flýtur hér um allar fjörur eftir að hafa verið skotinn af þessum mönnum“.
-Að lokum?
-„Það verður að fá hingað rafmagn. Það er helv… hart aö þurfa að eyða 1600 lítrum af olíu á mánuði. Þó maður fái þennan olíustyrk þá dugar þaö ekki. Samt reynir maður að spara olíuna eins og hægt er. Nú hefur hún hækkað enn, og þá sjá menn hvað þetta gildir. Svo það, að halda þessari vél gangandi, þetta eyðileggst og því þarf að endurnýja það. Nú, svo ef eitthvað bilar, þá kostar þetta tugi þúsunda, svo það er útilokað fyrir einn mann að standa undir þessu helv. … nema að þingmenn eða einhverjir menn hafi það að markmiði eins og í öðrum byggðarlögum, að leggja hingað rafmagn“.
ÍsólfsskáliHúsfreyjan á Ísólfsskála heitir Hertha Guðmundsson. Við spurðum hana hvernig henni fyndist að búa þarna.
„-Mér líkar það alls ekki illa. Ef hér væri bara meiri hiti í húsinu og meira rafmagn, þá væri þetta allt í lagi, en eins og nú er getum við ekki haft nein raftæki, t.d. er frystikistan geymd í húsi í Grindavik“.
-Eru rafmagnsmálin þá aðalvandamálið hérna?
-„Já, ljósavélin bilar oft, þá erum við gjörsamlega hitalaus, vatnslaus og ljóslaus. Það hefur oft komið fyrir að maður hefur verið 3-4 mánuði vatnslaus og þá lifir maður bara af rigningarvatni og þá er ekki hægt að hugsa um þvott, nema þá sem fátækraþvott eins og hann var í gamla daga. Fólk í Grindavík hefur oft boðið okkur að þvo fyrir okkur. En þetta finnst mér það versta við að vera hérna. En vatnsskorturinn stafar af því að í rafmagnsleysinu er ekki hægt að dæla vatninu og því verðum við að notast við rigningarvatnið. Það hefur því komið fyrir að við höfum þurft að fá vatn til neyslu frá Grindavík“.
-Finnst þér ekkert bagalegt að missa af ýmsu sem gerist í félagsmálum?
-„Jú, mann langar nú stundum að komast í samband við fólk eða á samkomur eða annað því um líkt. Við vitum ekkert um þau mál“.
-Hvernig er þá um háveturinn, leiðist ykkur ekkert?
-„Jú, það kemur stundum fyrir, sérstaklega ef símasambandslaust er. Þessi mál hafa nú lagast stórlega eftir að Keflavíkursímstöðin tók við þessum málum. Þær hafa oft samband við okkur eftir slæm veður til að athuga hvort allt sé í lagi. Það er mikil bót“.
-Hvernig líður dagurinn hjá þér?
-„Ég er mikið í handavinnu, sauma, hekla og les töluvert. Ég fæ bækur að heiman og les þær. Svo er maður allan daginn að hugsa um skepnurnar því það er afkoman okkar“.
-Nú ert þú þýsk að uppruna, hefur þú samband við Þýskaland?
-„Já, já, við höfum mikið samband, og margt fólk sem kemur hingað á sumrin kemur við hérna. Síðan hef ég mikið samband við þetta fólk“.
-Hvernig komst þú hingað til lands?
Ísólfsskáli
-„Ég kom hingað til lands í gegnum ráðningu hjá Jóni Helgasyni núverandi landbúnaðarráðherra, en hann var þá í Lubeck að ráða fólk til Íslands. Þetta var árið 1949. Kom ég hingað til lands með gamla Maí frá Hafnarfirði. Höldum við enn kunningsskap þrenn hjón sem eins var með, þ.e. konan kom með togaranum hingað til lands. Voru þetta mikil viðbrigði að koma hingað, með mínar minningar, og setjast svo að á sveitabæ sem var svona afskekktur, því ég kom beint hingað að Ísólfsskála. Var þetta allt mjög nýtt fyrir mér, þó ég hafi alist upp á sveitabæ, þó voru viðbrigðin kannski ekki alveg eins mikil og þau hefðu getað orðið að koma hingað. Ég er mikið náttúrubarn og finnst gott að vera mikið úti. Ég gæti ekki hugsað mér að vera alltaf inni“.
-Hvað finnst þér um Íslendinga sem Þjóðverji?
-„Íslendingar eru ágæt þjóð að sumu leyti, en ég held að þeir kunni ekki að hagræða hagsmunum sínum rétt. Þeir hafa of fljótt orðið ríkir að loknu stríðinu og hafa síðan átt erfitt með að halda á peningamálum sínum“.
-Að lokum?
„Ég vil óska öllum kunningjum okkar og vinum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs“.
Þetta fólk býr eins og fram kemur við mikla einangrun, þó það sé aðeins um 5 km frá Grindavik. Það sættir sig við að vera meira og minna innilokað, en rafmagnsmálin eru aftur á móti mikið mál hjá þeim, enda furðulegt að það skuli ekki vera fyrir löngu búið að leggja rafmagn í þessa átt út frá Grindavík eins og í hina áttina. Eins er það mikið öryggismál bæði fyrir þau og sæfarendur, að lagður verði upphækkaður vegur þarna, sem ekki væri eins snjóþungur og sá sem nú er, því þarna fyrir utan eru mið bátaflotans og því þarf að vera akfært þarna, ef eitthvað ber út af, t.d. skipsstrand eða annað því um líkt. Enda ófært að slíkar vegsamgöngur skuli vera hér á einum mesta þéttbýliskjarna landsins. – epj.

Heimildir:
-Víkurfréttir, jólablað, 47. árg. 13.12.1984, Eina lögbýlið á Suðurnesjum heimsótt, Verða að búa við algjöra einangrun yfir vetrarmánuðina – samgöngulaus, jafnvel hita, vatns, rafmagns og símalaus.
-Morgunblaðið, 28. tbl. 03.02.1965, Gengið á fjörur, bls. 12.
Ísólfsskáli

Ísólfsskáli

Í Vísi árið 1967 er viðtal við hjónin á „Ísólfsskála; Agnesi Jónsdóttur og Guðmund Guðmundsson“, undir fyrirögninni „Fimm tugir ára á bröttum kambi við brimlúðar flúðir“:

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli 1915-1930; – Sæmundur G. Guðmundsson.

„Það var gaman að vera ungur Íslendingur í dag,“ sagði við mig vaxandi maður ekki alls fyrir löngu. Hann stóð rétt á tvítugu, vænn og“ vörpulegur.
Vonandi á hann framundan langa og giftudrjúga ævi, og á eftir að sjá og reyna margt, sem sýnir honum fyllri og fegurri lífsmynd en þá sem heillar hann í dag.
En hvað er þá að vera ungur Íslendingur? Eru það aðeins árin, sem segja til um aldur fólks — eða er það eitthvað annað og meira? Ef til vill getur sú innri glóð, sem skapazt hefur við reynslu áranna viðhaldið æskunni, sem eðlislægri eigind, en jafnframt auðgað hana rökhyggju og víðsýni.
Milli brattra gróðurlítilla hæða, skammt ofan við brimsorfna strönd nokkru austar en Grindavíkurþorp, stendur snoturt og vel umgengið býli sem heitir Ísólfsskáli. Þangað hef ég nú lagt leið mína og notið til þess atbeina tveggja systkina, sem slitið hafa þar barnsskónum á bröttum brimlúðum mölum. Og í notalegri stofu, þar sem ég get hreiðrað um mig í mjúku hægindi, situr andspænis mér kona. — Já, víst er aldurinn orðinn hár, því nú á hún 90 ár að baki. — En hvort aldurinn segir alla sögu tel ég vafasamt og nú skulum við heyra stutta þætti úr lífssögu þessarar konu, og blik bjartra augna segir mér að þar á megi nokkurt mark taka — ennþá sé minnið trútt og dómgreindin óbiluð.
Ísólfsskáli
— „Ég heiti Agnes Jónsdóttir og er fædd á Þórkötlustöðum í Grindavík. Foreldrar mínir voru Jón Þórðarson og Valgerður Gamalíelsdóttir, sem þar bjuggu, og þar ólst ég upp.
— Það er sennilega orðin mikil breyting á frá þeim tíma?
— Já, það er meira millibilið. Þá voru bara nokkrar torfbaðstofur í Þórkötlustaðahverfinu, og öll útgerð á áraskipum. Veiðarfærin voru handfæri og lína. Afli var oft ágætur, einkum á vertíðinni, og fiskurinn gekk mjög nærri landi. Þó brimlending sé í Grindavík og oft tvísýn landtaka kom mjög sjaldan fyrir að ekki væri fært Þórkötlustaðasund. — Það eru álög á því sundi.
— Hver eru þau álög?

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – túnakort 1918.

— Það var álfkona, sem missti manninn sinn á Járngerðarstaðasundi. — Þar fórust 18 skip. — En hún sagði að aldrei skyldi skipstapi verða á Þórkötlustaðasundi ef rétt væri farið — og það ég bezt veit hefur þetta rætzt, — aldrei farizt skip. En á Járngerðastaðasundi munu þau orðin 20. — Og ég man eftir að hafa orðið áhorfandi að slysförum þar.
— Manst þú eftir mikilli fátækt í æsku þinni?
— Ójá. Það höfðu nú margir lítið fyrir framan hendurnar. Flestir höfðu mjög fáar kindur, t. d. höfðu foreldrar mínir 11 kindur, og svo höfðu þau eina kú. Aðalbjargræðið var því sótt til sjávar. Faðir minn stundaði alltaf sjó, og segja má að þaðan brysti aldrei björg. Ég man enga ördeyðu vertíð.
— Þú manst hörðu árin um 1880?
— Já. Þá var afskaplega mikill snjór, t.d. man ég það að grafa þurfti göng til að komast út úr bæjunum. Þeir voru að vísu ekki háreistir.
— Hvenær ert þú fædd?
— Þann 3. desember 1876.
— Þú ert þá orðin vaxin kona um aldamót?
— Já, og ég man eftir slysförum sem urðu hér á sjó aldamótaárið, það var úti á rúmsjó — ekki við land. Þetta var 28. október um haustið. Af þessum báti var einum manni bjargað en þrír fórust. Hann var þó ekki langlífur því á vertíðinni lézt hann. Og ævilok hans urðu þau, að hann fór fram í Þórkötlustaðanes, og hafði með sér byssu. Það var oft siður að skjóta fugl til bjargræðis heimilum. En skotið hljóp úr byssunni og varð honum að bana.

Þórkötlustaðir

Hraun í Grindavík – Þórkötlustaðagata.

— „Þegar ég var 23ja ára gömul fór ég frá foreldrum mínum og réðist til manns og var hjá honum í 11 ár og áttum við saman 6 börn. — En svo sundraðist það samband og fór ég þá aftur til foreldra minna og var hjá þeim um tíma. En svo vorið 1910 fór ég til hans Guðmundar míns, sem þá var lausamaður á Hrauni og þar vorum við í 6 ár, en fluttum þá hingað að Ísólfsskála og höfum verið hér síðan eða 51 ár, þann 4. júní í vor.
Ísólfsskáli— Hvernig var nú um að litast þegar þú komst hingað?
— Það var nú ekkert björgulegt. Jörðin hafði þá verið þrjú ár í eyði og fremur köld aðkoman. Baðstofan var lítil og ekki vel útlítandi. — Meðan við dvöldum á Hrauni hafði Guðmundur þar útgerð á stóru áraskipi, sem á voru 11 menn og höfðum við þá 18 manns í heimili. Fyrstu árin eftir að við fluttum hingað hafði hann áfram útgerð á Hrauni yfir vertíðina, og þá var ég ein heima með krakkana. — En það, að við fluttum hingað orsakaðist nokkuð af því, að ég hygg, að Guðmundur er hér fæddur og uppalinn. Hann er nú 83 ára og við höfum átt saman 6 börn. Mín börn eru því 12 og af þeim 11 á lífi.
— Þetta er orðið þó nokkuð ævistarf?
— Já, það hefur stundum orðið að taka til hendinni. Fyrst þegar við komum hér var aðeins örlítill túnblettur kringum húsið. En hér er nú orðin töluverð ræktun og mest unnin upp úr sandi.
— Hvað er þér nú sérstaklega minnisstætt frá þessari 50 ára veru hér í Ísólfsskála?
Ísólfsskáli
— Hér í skálanum hefur okkur liðið mikið vel. Aldrei orðið fyrir neinum óhöppum eða á föllum sem þannig eru frásagnarverð. Lífið hefur verið fábrotið en oftast notalegt og alltaf heldur miðað í átt til batnandi hags, svo það er ekki undan neinu að kvarta. Við vorum að vísu mjög fátæk fyrstu árin meðan börnin voru í æsku.
Hjá okkur voru tvö börn mín frá fyrra sambandi og svo öll börn okkar Guðmundar. Auk
þess tókum við tvö börn í fóstur.

Isólfsskáli

Ísólfsskáli – bærinn og útihús.

– Bættuð við það sem lítið var?
— Já, þess var þörf vegna barnanna.
— Þú manst þá tíð þegar askar voru matarílát fólksins?
— Já, heima hjá pabba og mömmu var ætíð borðað úr öskum og með hornspónum, og á þá voru grafin fangamörk eigendanna. Ljósabúnaður á heimilinu voru fýsislampar — kveikurinn í þá var snúinn úr ljósagarni. — Og fræðin mín — Helgakverið — lærði ég við lýsislampa. — Eldiviðurinn sem brennt var. Í eldhusinu var mosi og þang. — Ég man mjög vel eftir því aö ég var þar að lesa kverið mitt og þá féll sótkökkur úr mæninum niður á bókina.
— Fékkst þú tilsögn í skrift á þínum uppvaxtarárum?
— Já, ég var látin í skóla, sem þá starfaði í Garðhúsum og vorum við tvær systur þar sína vikuna hvor. Og hérna getur þú séð skriftina mína, — og nú réttir hún mér bók, sem er þannig frágengin að margur 70 árum yngri gæti verið hreykinn af. — Og þessi bók hefur að geyma mikinn og merkilegan fróðleik, í hana er skrifuð dagleg veðurlýsing síðustu 30 ára.
— Og það virðist svo sem höndin sé því nær jafnstyrk á síðustu og fyrstu síðum bókarinnar.
— Finnst þér minni þitt nokkuð farið að förlast?
— Nei, ekki held ég það, ennþá man ég flesta atburði sem nokkurs er um vert í lífshlaupi mínu — og ég get fylgzt með því sem fram fer í kringum mig og haft full not af blöðum og útvarpi.
Ísólfsskáli
Og nú er hér kominn bóndi Agnesar, Guðmundur Guðmundsson, en foreldrar hans, Guðmundur Hannesson og Guðrún Jóelsdóttir, bjuggu hér í Ísólfsskála í 20 ár — en þegar þau féllu frá flutti hann út í Grindavík, og byrjaði að stunda þaðan sjó 14 ára gamall.

Guðmundur og Agnes

Guðmundur og Agnes á Skála.

— Var nú ekki stremið að setjast undir svo stórar árar á þeim aldri?
— Jú, náttúrlega var það erfitt, og svo að setja skip og bera upp fiskinn. En skipin varð öll að setja af handafli, spil voru ekki komin fyrr en á síðustu sjófaraárum mínum, en þau yoru nú fremur ófullkomin í fyrstu.
— Og hvað segir þú svo um fimmtíu ára samstarf ykkar hjóna hér á Ísólfsskála?
— Mér finnst það hafa verið gott og lífið hér ánægjulegt og boðið okkur marga góða kosti, þótt örðugt væri í fyrstu.
— Hefur þú aldrei róið héðan að heiman?
— Það er tæpast teljandi. Fyrstu árin reri ég frá Hrauni — lá þar við, en hún var ein heima með börnin og satt að segja var ég þá aldrei í rónni þegar vond voru veður. — En vorum að reyna að rétta okkur við þetta hlutskipti meðan við vorum að reyna að rétta okkur úr kútnum og börnin að komast á legg. — Öll innkaup varð að spara til að geta staðið í skilum og borgað allt upp einu sinni á ári.  Þá hlaut maður líka nokkra tiltrú í viðskiptum.
— Eru engin selalátur eða lagnir hér í nágrenninu?

Nótarhóll

Nótarhóll.

— Jú, líklega hefur það nú verið, því hér framan við tána hérna er hóll, sem hét Nótarhóll.
Svo hér fyrri — 1703 — var stunduð selveiði í látrum hér austur á Selatöngum — en þann veiðirétt áttu Krýsuvíkingar að nokkru.

Krýsuvík

Krýsuvík 1936.

— Þú manst eftir byggð í Krýsuvík?
— Já, en hún var þó farin að dragast saman bá. Faðir minn bjó þar nokkur ár á Vígdísarvöllum.
— Hefur þú aldrei lent í neinum verulegum erfiðleikum á sjó, Guðmundur?
— Nei, ég hef nú verið formaður hér og svo líka róið austur á fjörðum, bæði Borgarfirði, Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði og reri út í Seley, en aldrei lent í neinu sem í frásögur er færandi og á sér ekki ótal hliðstæður í lífi íslenzkra sjómanna.
— En þú hefur oft aflað vel?
— Já, svona eftir hætti en mig skorti efni til að hafa nægilega góðan útbúnað hvað veiðarfæri snerti. Ég þurfti að fá allt að láni hjá kaupmanninum — Einari í Garðhúsum. Hann var svo sem ágætur ef maður stóð í skilum og eins og ég sagði áðan, þannig hafðist þetta. —

Ísólfsskáli

En svo þurfti að byggja hér upp, þá fór ég til Tryggva Þórhallssonar og hann aðstoðaði mig við að fá til þeirra framkvæmda 6000 króna lán úr byggingar- og landnámssjóði.
— Voru það ekki talsverðir peningar þá?
— Jú, en það var nú sama. Það var nú ekki nóg.
— Lengst af ykkar búskap hér á Ísólfsskála, að frá teknum fyrstu árunum, hafið þið haft ykkar aðalframfæri af landbúnaði?
— Já, það hefur verið svo, en við höfum aldrei haft stórt bú, til þess eru engin skilyrði, útengi er ekkert, og heysskapur ekki annar en sá sem tekinn verður á ræktuðu landi. Hér er engin fjörubeit á veturna, en dálítið kropp hér upp í hrauninu, þannig að í sæmilegum vetrum gengu sauðir mikið úti, meöan ég hafði þá.
— Þú hefur haft sauði?
— Já, ég held þeir hafi komizt upp í 40. Hvað sumarhaga snertir er hér mikið landrými.
— Hér kemur ekki hafís?
— Aldrei hefur það komið fyrir svo langt sem við munum, en af því höfum við haft sagnir frá eldri tímum.
— Hvað gerði fólkið sér til skemmtunar á ykkar æskuárum?
— Það þætti nú held ég fábreytt núna. Gíslakeðja — Höfrungaleikur og feluleikur. — Fullorðna fólkið lagði sig í rökkrinu og þá fengu unglingarnir að leika sér með því móti að hafa ekki hátt.
— Þú segist ekki hafa gert út héðan?
— Nei, en faðir minn gerði héðan út tvo báta einu sinni og það var vegna þess að hann fékk ekki uppsátur úti í Nesi [Þórkötlustaðanesi].
Þetta gekk nú ágætlega, það var í tvö skipti sem þeir hleyptu út í Nes. Annað skiptið fyrir brim — en annað skipti vegna þess að hann var svo hvass á norðan og þá börðu þeir upp í nesið.
— Hvernig lending er hér?
— Hún getur nú ekki talizt góð. Með landinu er alltaf geysilegur austanstraumur. Og þegar komiö var úr róðri var aflinn allur settur á seilar utan við lendinguna, færi bundið við og dufl sett á, en færið var í hnykli í skipinu og rakti sig þegar tekinn var landróðurinn, um leið og lagið kom. Þegar skipið kenndi grunns, stukku allir út og brýndu því undan sjó.
Þurfti hér oft mikið snarræði og örugg handtök. Síðan voru seilarnar dregnar í land og bornar á bakinu hér upp á kambinn, þar sem aflanum var skipt. — Það var stórt atriði að formaðurinn væri öruggur að taka lagið, og eins var það þegar farið var frá landi, þá var skipinu ýtt niður — hver maður stóð við sitt ræði og þegar formaðurinn kallaði — lagið — stukku allir upp í og gripu til ára og fyrir kom að fram á mennirnir komust ekki upp í og voru innbyrtir þegar fram á lónið kom. — Hér út á Selatöngum var þetta svona líka.
Ísólfsskáli
— Var þaðan útræði?
— Já, ég hef heyrt að fyrir Bátsendaflóðið hafi gengið þaðan 14 skip og ennþá sjást glögg merki verbúðanna.
— Já, það er margs að minnast frá fyrri árum, t.d. á haustin, þá var „þangað“ í fjörunni og reitt upp á fleiri hesta.
— Þangað? — Hvað kallarðu að þanga?
— Nú, þangið í fjörunni var tekið og reitt upp og svo þurrkað til eldiviðar. — Svo var reittur mosi. — Þetta var aðaleldsneytið, og svo dálítið af taði. Þetta var svo allt borið heim til bæjar á bakinu og þar var eina eldstóin hlóðir. T.d. þegar konan fór í mosatekju, þá bar hún hann heim í „fætli“ og prjónaði á leiðinni. — Svona var nú vinnumennskan þá.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

— Er ekki hægt að fara með sjó úti í Grindavík?
— Nei. Það er ógengt, verður að fara hér efra — eins er það inn til Krýsuvíkur.
— Hvernig voru skiptin á þessum áraskipum hér?
— Væru 11 á þá var skipt í 14 staði. — Þrír hlutir dauðir, — einn fyrir skipið og tveir fyrir veiöarfærin — formannshlutur þekktist ekki, enginn aukapartur fyrir það. — En nú skal ég segja þér nokkuð: — Einu sinni rauk hann upp í suðvestan veður aö næturlagi, þeir fara allir ofan og þá er báturinn farinn en skipið komið á hliðina — Þeim tókst að bjarga því við illan leik. — En hvar heldurðu að bátinn hafi rekið? — Hann rak vestur á Hraunssand á móti þessu stórviðri — Svona sterkur er straumurinn. —
— Hve langa línu höfðuð þið?
— Það var nú dálítið misjafnt — stundum á vorin lögðu þeir 300 króka hérna í leirinn og fylltu bátana. Og eftir því man ég, að pabbi reri stundum á vorin með 60 króka skötulóð hérna austur á Mölvíkina — og það var oft skata á hverju einasta járni — kannski ber svona einn öngull. — Allt saman stór skata. — Það er góður matur vel verkuð skata. — Þá var svo mikið lifað á harðæti og bræðingi. Þetta kom mergnum í mann — sérstaklega bræðingurinn — en hann var búinn til úr bræddri tólg og sjálfrunnu þorskalýsi. — Hver útvegsbóndi varð að leggja háseta til eitt fat undir lifur og ég held einnig fjórðung af rúgi og fjórðung af fiski. — Svo fékk hver maður 50 pund af mjöli, sem átti að duga í kökumat yfir veturinn, og einn sauð, sem átti að duga í kæfu, hvort sem menn vildu heldur stykkjakæfu eða soðkæfu — svo tvo fjórðunga af tólg og einn af smjöri — eða þrjá af smjöri. — Þetta var matan. Soðninguna tóku menn af afla. Það voru tveir í hverju rúmi, þeir höfðu kastið saman og tóku af því. — Fiskurinn var svo verkaður sem harðfiskur eða skreið á þeirra tíma vísu, en með nokkuð ólíkum hætti og nú er gert. Salt var þá ekki fáanlegt.
Ísólfsskáli
– Ég tók eftir mjög vel hlöðnum grjótgörðum víða hér umhverfis túnið og niður við sjóinn. Eru þeir þín verk?
— Já, flestir eru þeir hlaðnir eftir mig.
— Er ekki trjáreki hér?
— Jú, dálítill. T. d. get ég sagt þér að báturinn sem brotnaði hérna vestur á Hraunssandinum var smíðaður úr einu rekatré.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – nýrri bærinn.

Já, það er margt sem rifjast upp þegar litið er til baka um langan veg — og víst væri fróðlegt að heyra meira úr lífssögu þeirra Ísólfsskálahjóna — sem svo margt er frábrugðin þeirri sögu sem skráð yrði um hagi þeirra, sem nú eru ungir eða innan við miðjan aldur. —
Ungir? — Það er nú spurningin. — Er það gamalt fólk, sem hér hefur talað? — ánægt með sitt hlutskipti — laust við andlega lífsþreytu, að vísu með rúnir áranna ristar í skurnið.
— Hver er ungur?
„Oft hefur sjötugur fyrir
tvítugs manns tær stigið“.

Í Náttúrufræðingnum 1947 er vitnað í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41 eftir sr. Geirs Backmanns um Ísólfsskála:

„Ísólfsskáli er þar austast við sjó. Getur Jarðabók þess (ár 1703), að vatnsból, sem þá er grafinn brunnur, sé háskalegt bæði mönnum og skepnum, enda sjórinn þá kominn svo nærri, að hætta sé á, að brunninn fylli af möl og grjóti, og þá jafnvel hætta á, að jörðin leggist í eyði af vatnsleysi. Svo illa hefur þó ekki farið. En að sjórinn hefur gengið upp í brunninn og fyllt hann, má sjá á því, að séra Geir Bachmann getur þess árið 1841, að mikill vatnsskortur sé á Ísólfsskála og ekki annars kostur þar en fjöruvatna og sé það vatn haft bæði til neyzlu heimilisfólks og búpenings. En fjöruvötn eru nefndar þær uppsprettur, einatt aðeins seytlur, sem koma upp fyrir neðan flóðmál og ekki er hægt að ná til nema um fjöru. Líka getur séra Geir þess, að sjór brjóti land á Ísólfsskála og sandur frá sjónum sé farinn að berast upp í selalátur jarðarinnar undir Festarfjalli og spilla þeim.
Frá Ísólfsskála eru 4—5 rastir til hinnar eiginlegu Grindavíkurbyggðar, því að björg eru með sjónum, svo að ekki verður farin stytzta leið, heldur verður að fara kringum Festarfjall.“

Heimildir:
-Vísir, blað II 12.06.1967, Fimm tugir ára á bröttum kambi við brimlúðar flúðir, Viðtal dagsins er við hjónin á Ísólfsskála, Agnesi Jónsdóttur og Guðmund Guðmundsson, bls. 16-17.
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 01.04.1947, landnám Ingólfs – Grindavík, bls. 42.
-Geir Bachmann: Lýsing Grindavíkursóknar 1840—41.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – uppdráttur ÓSÁ.

Leiðarendi

Á bílastæði við hellirinn „Leiðarenda“ við Bláfjallaveg er skilti. Á því stendur:

Jarðfræði

Leiðarendi

Leiðarendi – op.

Hraunhellirinn Leiðarendi er í þjóðlendu milli Hafnarfjarðar og Grindavíkur innan Reykjanesfólkvangs. Auk þess njóta hraunhellar sérstakrar verndar samkvæmt náttúrverndarlögum (61, gr. laga nr. 60/2013) og allir dropsteinar í hellum landsins eru friðlýstir.

Hraunhellar myndast þegar kvika rennur í hraunrás undir yfirborði, sem síðan nær að tæmast áður en kvikan storknar. Leiðarendi myndaðist í hraungosi úr Stórabolla í grindarskörðum fyrir um 2000 árum. Yfir það hraun rann svo yngra hraun fyrir rúmlega 1000 árum sem kennt er við gígin Tvíbolla. Það hraun hefur náð að brjóta sér leið inn í hellinn á nokkrum stöðum. Leiðarendi er um það bil 900 metra langur, með fjölda viðkvæmra hraunmyndana eins og dropsteina, hraunstráa og hraunsepa, ásamt litríkum útfellingum.

Leiðarendi

Leiðarendi – dropsteinn.

Dropsteinar, hraunstrá og hraunsepar í hellum myndast við kónun hraunsins og eru fullmótuð fljótlega eftir að hraunið myndast. Þau halda ekki áfram að vaxa og t.d. dropsteinar í kalkhellum erlendis. Því er allt rask á þeim varanlegt.

Hraunin tvö við Leiðarenda nefnast eldra og yngra Hellnahraun þegar nær dregur byggð. Þau mynduðu Hvaleyrarvatn og Ástjörn sem eru hraunstífluð vötn.

Umgengisreglur

Leiðarendi

Leiðarendi – uppdráttur ÓSÁ.

-Leiðsögumenn eða fararstjórar skulu útvega sér leiðbeiningar um umgengisreglur hjá Hafnarfjarðarbæ áður en farið ermeð hópa inní hellinn.
-Hámarksstærð hópa eru 8 manns á hvern leiðsögumann.
-Ekki má snerta hraunstrá, dropsteina eða viðkvæmt hellaslím á veggjum og í lofti.
-Fararstjórar bera ábyrgð á að útvega nauðsynlegan búnað eins og hjálma og ljós.
-Ekki má kveikja eld inni í hellinum.
-Öll neysla matar og/eða drykkja er bönnuð.
-Landvörður er starfandi í fólkvanginu og brot á þessum reglum verða kærð til lögreglu.

Leiðarendi

Leiðarendi – texti á skilti.

Búðarvatnsstæðið

Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík segir Þorsteinn Bjarnason frá Háholti m.a. frá Búðarvatnsstæðinu:

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

„Frá Dagon er landamarkalínan í Núphlíð. Austan í henni, syðst, er Skalli, en austan undir Núphlíð er Sængurkonuhellir. Frá Núphlíð eru landamerki sjónhending í vesturrætur á Trölladyngjum, frá þeim í Markhelluhól við Búðarvatnsstæði. Að norðan eru mörkin sjónhending úr Markhelluhól, norðvestan við Fjallið eina, öðru nafni Eldborgarhellir, í Melrakkagil, sem kemur niður úr Undirhlíðum.“

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík sem Ari Gíslason skráði segir m.a:
„Norður frá Mávahlíðum rís upp Mávahlíðarhnúkur. Héðan til norðausturs liggur leiðin um hraun að Búðarvatnsstæði.“

Merkhella

Markhella – áletrun.

Í skráningu „Menningarminja í Vatnsleysustrandarhreppi“, svæðisskráningu, sem Sædís Gunnarsdóttir skráði árið 2006 segir:
„Búðarvatnsstæði – heimild um vatnsból
Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er Hraunhóll.” segir í örnefnaskrá “Gömul hestagata iggur meðfram hrauninu og við fylgjum henni í austurátt fyrir tunguna og að Búðarvatnsstæðinu. Um vatnsstæðið endilangt liggur gamla sauðfjárveikivarnargirðingin sem hefur vísað okkur veginn hingað til. Vatnsstæðið er nokkuð stórt og virðist hafa verið lagað til af mannahöndum.” “Það kúrir í grasbletti ofan við úfið hraunið og þaðan er útsýnið vítt og fallegt til suðurs og austurs. Örnefnið er sérkennilegt og gæti bent til þess að við vatnsstæðið hafi verið áningarstaður og þá jafnvel yfir nótt, þ.e. einhverskonar “búðir”. Ekki er ólíklegt að þeir sem unnu við kolagerð í Almenningi hafi hafist við tímabundið við Búðarvatnsstæðið og af því sé nafnið dregið.”

Markhella

Markhella – áletrun.

Í Örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun eftir lýsingu Gísla Sigurðssonar og upplýsingum, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980 segir m.a.:
„Er þá komið á Dyngjuháls. Austur af honum eru Mávahlíðar, en þar um liggur landamerkjalínan milli Hvassahraunslands sunnanvert og Krýsuvíkur. Austur af Lambafellum eru Einihlíðar, og vex þar einir. Ofan eða sunnan þeirra er Einihlíðabruni. Sunnan Einihlíða lá landamerkjalína Hvassahrauns og Krýsuvíkur í Markaklett, sem er austur af Búðarvatnsstæði. Hann er nefndur Markhelluhóll í landamerkjalýsingu. Stafirnir Hvassa.- Ótta. – Krv. eru þar markaðir á hellu, sem snýr við norðaustri [hellan snýr reyndar við norðvestri]. Á hólnum er varða, sem mun heita Markhelluhólsvarða. Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er hraunhóll. Þar vestur af er lægð í hrauninu, sem nefnist Helgulaut. Þar hafði kona að nafni Helga orðið úti.“

Í Örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði, lýsingu Gísla Sigurðssonar segir m.a.:

Markhella

Markhella – áletrun.

„Úr Markhelluhól liggur merkjalínan um vestasta hluta Sauðabrekkugjár, en þá um Búðarvatnsstæði, og skiptist það jafnt milli Óttarsstaða og Hvassahrauns. Norður og niður af vatnsstæðinu nefnast Búðarhólar. Mörkin liggja líklega gegnum þá.“

Markhelluhóll

Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið.

Búðarvatnsstæðið er á sléttu hrauni undir nýrri hraunbrún. Á brúninni, á svonefndum Markhelluhól, eru tvær vörður, önnur lítil og hin mosavaxin; greinilega fornar. Um vatnsstæðið lá fyrrum sauðfjárveikigirðing og má enn sjá staura hennar við og í nágrenni við það. Girðingin var þá á mörkum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða. Hvers vegna framangreindir stafir hafi verið grafnir á steinvegg Markhellu, í eins og hálfs kílómeters fjarlægð frá Búðarvatnsstæðinu til austurs, hefur aldrei verið skýrð að fullu. Ekki er ólíklegt að ætla að einhver á ströndinni hafi látið sér detta í hug að krota nöfnin þarna, enda í skjóli frá mögulegri umferð Krýsuvíkurbænda um ofanverð fáfarin hraunin. Landamerkjalýsingin um Markhelluna á þessum stað kemur a.m.k. ekki heim og saman við fyrri lýsingar.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík – Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði.
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, svæðisskráning; Sædis Gunnarsdóttir, 2006.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun; lýsing Gísla Sigurðssonar, víða tekin upp orðrétt. Upplýsingar, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980. Hann hafði áður borið lýsingu Hvassahrauns undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikotinu. Guðmundur er fæddur á Hvassahrauni árið 1919.
-Örnefnalýsing – Óttarsstaðir; lýsing Gísla Sigurðssonar var borin undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti og síðan samin upp úr henni ný lýsing. Gústaf er fæddur í Reykjavík 1906, en ólst upp í Eyðikotinu í Hraununum og var þar til 1937.

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.