Færslur

Þórkötlustaðanes

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1996 fjallar Þórarinn Ólafsson um “Vetrarvertíð í Þórkötlustaðahverfi”.

Þórarinn Ólafsson

“Trilluútgerð í Þórkötlustaðahverfi á sér langa sögu, en hún lagðist niður 1946. Vertíð hófts eftir að aðkomumennirnir sem ráðnir höfðu verið komu, og var það venjulega um miðjan janúar. Þá var hafist handa við undirbúning fyrir vertíðina. Að vísu voru heimamenn búnir að fara yfir línuna, hreinsa ásinn, hnýta á, setja upp línu, fella og bæta net, en það var aðallega gert á haustin því þá var nægur tími til þeirra hluta. Einnig var búið að bika og lita línu og net. Var það aðallega gert í heimahúsum.
Eitt var það sem higa þurfti vel að, var ískofinn. Hver trilla hafði sinn kofa og þurfti að fylla hann af snjó til að hægt væri að geyma beitu og beitta línuna, því ekki var til íshús í Þórkötlustaðarhverfi þá. Í ískofanum var kassi sem geymdi síld og bjóð og utan um þennan kassa var hólf, 5-6 tommu breitt, og í það var settur snjór blandaður meðs alti og við það fékkst ágætis frost í kassann. Það þurfti að líta vel eftir kassanum og þótti það leiðinleg vinna að passa upp á kassann. Rafmagn þekktist ekki á þeim tíma í Þórkötlustaðahverfi. Notaðar voru gasluktir í skúrana en svokallaðar hænsnaluktir til að lýsa sér þegar gengið var til skips. Var oft gaman að sjá ljóslínuna sem myndaðist alla leið suður í Nes, því margir voru mennirnir með luktir og allir fóru á sjó á svipuðum tíma.
Þegar í Nesið kom var farið fyrst í ískofann og balarnir teknir og bornir á bakinu niður á bryggju. Síðan var skipið sett niður, bjóðin tekin um borð og haldið í róður. Yfirleitt voru níu menn á hverju skipi, fjórir á sjó og fimm í landi. Skipin voru tólf að tölu, 4-7 tonn að stærð. Vertíðin 1941 var að mig minnir síðasta vertíðin sem fiskur var saltaður að einhverju marki í Nesinu. Síðar var fiskurinn bara slægður og þótti það mikill léttir á vinnu hjá mannskapnum. Þá var aflinn seldur í skip og siglt með hann á Englandsmarkað. Þegar skipið var róið tók beitningin við. Að henni lokinni var aðgerðarvöllurinn undirbúinn, en alltaf var gert að úti þegar salta var.
Þórkötlustaðanes
Uppþvottakista, flatningsborð og hausningabúkka var komið fyrir á sinn stað. Síðan fóru sumir að leggja á hnífa en aðrir að ná í sjó í kistuna, sérstakleha þegar lágsjávað var, því þá var langt að fara. Oftast var þó reynt að bíða eftir að sjór kæmi í Skottann, en í honum var fljóð og fjara og var þá miklu styrttra að fara. Þegar skip kom að var fiskinum kastað upp með stingjum á bryggjuna og þaðan upp á bílpall sem ók honum upp á aðgerðarvöll.
ÞórkötlustaðanesNæst var að setja skipið upp á kamp. Til þess var notað heimatilbúið spil, en það var sívalur trjádrumbur sem tvö göt voru í gegnum ofarlega og spírur teknar í gegnum götin svo kross myndaðist. Á spírurnar lagðist mannskapurinn og gekk hring eftir hring og voru þeir margir þegar lágt var í. Tveir menn studdu skipið og formaðurinn hlunnaði fyrir, Þessi aðferð lagðist af stuttu seinna og kom þá vélknúið spil og hlunnarnir steyptir niður, skipið lagt á sliskju og skipshörfninn horfði bara á.
Þá var eftir að gera að. Fiskurinn hausaður, flattur, þveginn og saltaður. Hrogn og lifur voru auðvitað hirt og lagt inn hjá lifrabræðslunni. Það var passað vel up á lifrina því hún sagði til um fiskiríið yfir vertíðina. Sá taldist aflakóngur sem hafði flesta potta af lifur. Hjá lifrabræðslunni var fyrsti vísir að verslun í hverfinu, því hjá Guðmanni bræslu, eins og hann var kallaður, fékkst sítrón, malt, vettlingar og tóbak og mig minnir að hann hafi verið með kæfubelgi stundum og kannski eitthvað lítilsháttar fleira. Það var ekki ónýtt hjá krökkunum að verða sér úti um lifrarbodd á bryggjunni og leggja inn hjá Guðmanni bræslu og fá sítrínuflösku í staðinn.
Þegar landlega var, þá var tíminn notaður til að umsalta fiskinum, spyrða upp hausa og hryggi og koma þeim út í hraun til þurrkunar. Þegar kom fram í febrúar var farið að huga að netunum, tína grjót í fjörukampinum, það borið í skúrana og hoggin rauf í steinana og snærishanki utan um þannig að úr urðu netasteinar. Einnig þurfti á stjórum að halda, en það voru þungar hellur sem meitluð voru göt í gegnum og tréklossi rekinn í gatið og voru þeir notaðir á sitt hvorn enda netratrossunnar.
ÞórkötlustaðanesLoðnan gekk yfirliett um mánaðarmótin febrúar og mars og var þá strax skipt yfir á net. Netatíminn stóð í 2-3 vikur og var þá skipt yfir á línu aftur til 11. maí, en þá var sá einlegi lokadagur. Var þá búið að ganga frá skipum í naust, formaðurinn búinn að gera upp við aðkomumennina, en þeir voru yfirlitt ráðnir upp á kaup. Nú gátu menn gert sér glaðan dag. Man ég að okkur krökkunum þótti lokadagurinn ein mesta hátíð ársins, mkikill gleðskapur og sungið við raust. Loks komu bílar frá Steindóri og sóttu mennina og var ekki frítt við að saknaðarsvipur væri á mörgu andlitinu.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Ekki má gleyma þætti húsmæðranna á vertíðinni. Sjómennirnir þurftu fæði og þjónustu, því þeir voru á heimilunum. Braggar þekktust ekki. Þegar róðir var, var þeim færður maturinn suður í Nes og lenti það meðal annars á börnunum. Það lenti líka á kvenfólkinu að verka sundmagana úr þorskinum. hann var plokkaður, þveginn og saltaður. Á vorin var hann útvatnaður, þurrkaður og seldur. Á einstaka heimilum var hann nýttur til matar. Á flestum heimilum réði húsmóðirin sér húshjálp, svokallaðar hlutakonur, yfir vertíðina, því mikið var að gera. Það var eins með þær, þessi mikla vinna sem af þeimm var krafist kom ekki í veg fyrir að þær kæmu aftur og aftur, ef þær þá ekki náðu sér í mannsefni og fóru hvergi. Eins og áður segir voru aðkomumennirnir ráðnir upp á kaup og þess vegna gat formaðurinn gert upp við þá á lokadag, en heimamenn voru ráðnir upp á hlut. Við hlutamenn var ekki hægt að gera upp fyrr en búið var aðs elja fiskinn. Það lenti því á heimamönnum að vaska, þurrka og pakka fiskinum og við það unnu allir sem vettlingi gátu valdið.

Þórkötlustaðanes

Gamla bryggjan í Nesi.

Að endingu langar mig að minnast á þann góða félgasskap sem var í Þórkötlustaðahverfinu sem ég man eftir. Aaðkomumennirnir voru á einkaheimilum og urðu þeir einir af fjölskyldunni. Oft kom það fyrir þegar við krakkarnir vorum að leika okkur að sjómennirnir voru með okkur í allskonar leikjum, Ég minnist þess einnig að margir sjómannanna komu vertíð eftir vertíð og við marga aðkomausjómennina bundust löng vináttubönd.
Fyrsta vertíðin mín var árið 1941, þá 14 ára gamall. Það fiskaðist vel þessa vertíð og man ég að fyrripart vertiðar var norðanstilla og róið upp á hvern dag og mikið að gera. Það var nú ekkert að því þótt vinnan væri mikil og erfið, en svefnleysið, það var hrikalegt. Ég veit ekki hvað sagt yrði við formann í dag, sem ekki leyfði 14 ára ungling að sofa nema 2-3 tíma á sólarhring hátt í mánaðartíma, en þetta gerðist nú samt í því skiprúmi sem ég var í fyrstu vertíðna. Helgarfrí þekktust ekki. En þetta gleymdist og áfram verið á sjó og urðu árin næstum 50 á sjónum.
Ef ég ætti að velja mér ævistarf aftur mundi ég vilja endurtaka allt, nema fyrstu vertíðina.” – Grindavík 10. apríl 1996, Þórarinn Ólafsson

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1996, Vetrarvertíð í Þórkötlustaðahverfi, Þórarinn Ólafsson, bls. 49-51.

Þórkötlustaðanes

Athafnasvæðið í Nesinu – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvík

Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands og fjölbreytt litadýrð náttúrunnar á hverasvæðinu við Seltún hefur heillað margan ferðamanninn, auk listamanna. Stórbrotið landslag Krýsuvíkur er vel fallið til útivistar og náttúruskoðunar. Hér ber einna hæst sprengigíginn Grænavatn, leirhverina við Seltún og Kleifarvatn að ógleymdum Sveifluhálsi og síðast en ekki síst Krýsuvíkurbjarg, stórbrotinn útvörður svæðisins niður við ströndina. Margar gamlar gönguleiðir liggja út frá Krýsuvík, sem áhugavert er að huga nánar að.

Lifandi náttúra
HverKynngikraftur náttúrunnar blasir við augum í Krýsuvík. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás. Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhverir leika taktfasta sinfóníu, hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Náttúruöflin eira engu í glímunni við gróðurinn, vatnsrof leikur stórt hlutverk þegar það rignir og ísa leysir. Vindurinn flettir þekjunni burtu og feykir jarðvegi á haf út þar sem öldur ólmast við klettaströnd og mola standbergið hvíldarlaust. Þetta er íslensk náttúra í öllu sínu veldi.

Litrík hverasvæði
BaðstofaHelstu hverasvæði Krýsuvíkur eru Seltún, Hverahvammur, Hverahlíð,  Austurengjar, suðurhluti Kleifarvatns og Sveifla undir Hettutindi, sem Sveifluháls heitir eftir. Við Seltún er Svunta og stór leirhver sem myndaðist þegar Drottningarhola sprakk haustið 1999. Fúlipollur er austan þjóðvegar og enn austar er Engjahver sem magnaðist við mikinn hverakipp 1924. Hann er líka nefndur Stórihver og svæðið umhverfis hann Austurengjahverir.

Land í mótun
Land í mótunVirka gosbeltið sem liggur eftir Reykjanesskaga er milli landreksflekanna sem kenndir eru við Evrópu og Ameríku. Elsti hlutinn eru Lönguhlíðarfjöll norðaustan Kleifarvatns sem sýna merki tveggja kuldaskeiða og tveggja hlýskeiða. Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði. Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtishraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ber mest á mó og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hafa runnið frá. Fyrir vestan og austan Krýsuvík eru yngri hraun, Litlahraun, Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun sem eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum, gígum við Eldborgir sunnan Geitahlíðar og í gossprungum í Móhálsadal.

Sprengigígar kallast á
GrænavatnLandslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýmsum tímum. Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit sólarinnar í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum. Beggja vegna þjóðvegarins eru lítil gígvötn sem kallast Augun.

Krýs og Herdís deila um landamerki
DysjarÞjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir Krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í Herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr í deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll. Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna  þar sem þær mættust. Þegar þær hittust á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kynngimagn Krýsuvíkur.

Fornminjar
TóftÍ landi Krýsuvíkur eru víða merkar fornleifar og búsetuminjar. Elstar eru Gestsstaðarústirnar, sennilega frá fyrri hluta miðalda. Mestar eru fornleifarnar í Krýsuvíkurhverfi undir Bæjarfelli þar sem höfuðbólið og flestar hjáleigurnar voru. Nútímavæðing hefur lítið komið við sögu og jörðin haldist nánast óbreytt frá fyrri tíð, en snemma á sjöunda áratugnum varð sögulegt slys á bæjarhólnum. Krýsuvíkurbærinn, sem stóð vestan kirkjunnar, var þá kominn að falli og voru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að ryðja hólinn og slétta út minjar um þennan merka bæ. Neðan hólsins og allt í kringum hann eru gömlu túnin með túngörðum sínum ósnertum að mestu, tóftir gömlu kotanna og fleiri merkar fornminjar.

Dulúð regnsins
Það getur verið mjög votviðrasamt í Krýsuvík því þar gætir fyrst áhrifa frá lægðum sem nálgast landið úr suðvestri. Umhleypingar eru algengir með tilheyrandi úrkomu en í norð- og austlægum áttum má gera ráð fyrir þurrviðri í Krýsuvík. Þá skartar staðurinn sínu fegursta, en einnig getur dulúðin sem fylgir þokulofti og skýjuðu veðurfari búið yfir ólýsanlegri fegurð.

Einföld bændakirkja
KrýsuvíkurkirkjaKrýsuvíkurkirkju er fyrst getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en núverandi kirkju byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1857. Þetta er lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns, og eina húsið sem enn stendur á bæjarhólnum. Kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 31. maí 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar. Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðustu greftrun þar. Á vorin er haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd þar upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.

Fuglalíf og eggjataka
KrýsuvíkurbjargUm 57.000 sjófuglapör verpa í Krýsuvíkurbergi, aðallega rita og svartfugl, sem skiptist í álkur, langvíur og stuttnefjur. Einnig verpir þar nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi. Fyrrum var eggjataka mikil og máttu kotamenn taka tiltekið magn af fugli og eggjum úr berginu. Svo mikið fékkst af svartfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu var að segja af bergfuglinum sem gaf af sér kjöt og fiður. Á Krýsuvíkurheiði og í nágrenni Bæjarfells verpir mófugl, spói, heiðlóa, snjótittlingur og fleiri tegundir. Arnarfell og Arnarfellsstjörn eru kunn kennileiti á Krýsuvíkurheiði og á miðjum Sveifluhálsi eru Arnarvatn og Arnarnípa. Þessi nöfn vísa til þess að ernir hafi orpið á þessum stöðum í eina tíð.

Mannrækt í Krýsuvíkurskóla
KrýsuvíkurskóliUm miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætlunin að reisa skóla fyrir unglinga sem þurftu á sérúrræðum að halda. Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Hafa þau rekið þar meðferðarheimili, uppeldis- og fræðslustofnun fyrir fíkniefnaneytendur.

Hnignandi gróður

Í Krýsuvík

Gróðri hefur farið mjög aftur í Krýsuvík á síðustu öldum. Talið er að jörðin hafi verið kjarri vaxin milli fjöru og fjalls af birkiskógi og víðikjarri, áður en Ögmundarhraun brann. Í jarðabók Páls Vídalín og Árna Magnússonar 1703 er sagt að skógur til kolagerðar nægi ábúendum. Skógurinn eyddist að mestu á harðindaskeiði sem gekk yfir landið í lok 19. aldar. Þá hófst landeyðing með miklum uppblæstri og vatnsrofi í landi Krýsuvíkur. Sauðfjár- og hrossabeit hafði einnig afdrifarík áhrif. Á Sveifluhálsi eru fáeinir grasbalar sem gefa til kynna að þar hafi verið mun grónara í eina tíð. Svæðið sunnan Kleifarvatns einkennist af miklu mýrlendi, slægjulandinu Vesturengjum og Austurengjum. Austan Arnarfells er Bleiksmýri og sunnan Trygghóla er Trygghólamýri.

Ritháttur Krýsuvíkur
TóftirÞegar gamlar sagnir frá Krýsuvík eru skoðaðar kemur glögglega fram að nafn víkurinnar er ætíð ritað með ý en ekki í eins og oft sést í seinni tíð. Örnefnið Krýsuvík er trúlega dregið af orðinu Crux sem merkir kross og hefur Krossvíkin hugsanlega verið við sjóinn nærri Húshólma í Ögmundarhrauni þar sem munnmæli herma að fyrsti bærinn hafi staðið. Mesta fuglabjarg Reykjaness Krýsuvíkurberg, mesta fuglabjarg Reykjaness, er um 7 km langt frá Bergendum við Keflavík í austri til Heiðnabergs vestan Hælsvíkur og 40 hektarar að flatarmáli. Bergið er um 50 m hátt á löngum kafla en Strandaberg, austasti hlutinn, er um 70 m hátt.
Rauðskriða er áberandi kennileiti á vesturhluta bergsins en neðan hennar var einstigið Ræningjastígur sem var eina gönguleiðin niður í fjöru. Meðan enn var farið á sölvafjöru var jafnan farið af sjó því bergið var ekki árennilegt öðrum en sigmönnum. Ræningjastígur var samt fær þeim sem treystu sér til að feta hann en nú er hann ófær með öllu.

Höfuðból og hjáleigur
KrýsuvíkurbjargKrýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins með mörgum hjáleigum. Munnmæli herma að byggðin hafi upphaflega verið í Húshólma, óbrennishólma í austanverðu Ögmundarhrauni.  Þar er altént mjög fornt bæjarstæði sem kallað er Hólmastaður í eldri heimildum. Hjáleigur voru að jafnaði fimm til átta talsins en í gömlum heimildum er getið um 13 býli. Á heimajörðinni voru Suðurkot, Norðurkot, Snorrakot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Arnarfell og nýbýlið Lækur. Fjær voru kotin Vigdísarvellir, Bali, Fitjar og Fell. Kaldrani stóð við suðvesturenda Kleifarvatns og Gestsstaðir sunnan Krýsuvíkurskóla.

Fiskisæld undir berginu
Sjósókn var alla tíð mikilvæg fyrir afkomu Krýsvíkinga. Undir Krýsuvíkurbergi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt en þar er engin lending. Líklega hefur góð lending verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík, en eftir að Ögmundarhraun rann tók hana af og eftir það var gert út frá Selatöngum. Biskupsskip frá Skálholti, skip útvegsbænda í Árnes- og Rangárþingum og sjávarbænda í Hraunum gengu frá Selatöngum með leyfi Krýsuvíkurbónda.  Krýsvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir.

Kynlegt er Kleifarvatn
Krýsuvík 1810Kleifarvatn er 10 ferkílómetrar að flatarmáli og stærsta stöðuvatn á Reykjanesskaga. Það er á milli Sveifluháls í vestri og Vatnshlíðar í austri. Aðrennsli í vatnið er takmarkað og ekkert frárennsli er sjáanlegt ofanjarðar. Vatnsborðið fylgir grunnvatnsyfirborði svæðisins sem sveiflast um allt að 4 m á tugum ára. Félagar úr Stangveiðifélagi Hafnarfjarðar fluttu bleikjuseiði í Kleifarvatn um 1960 og dafnar fiskurinn bærilega í vatninu. Áður fyrr þóttust menn verða varir við kynjaveru líka stórum ormi í vatninu.

Sjá meira undir Krýsuvík – yfirlit HÉR og HÉR.

Heimild:
-visithafnarfjordur.is

Krýsuvík

Krýsuvík.

Sigvaldi Kaldalóns

Minnisvarði um lækninn og tónskáldið Sigvalda Kaldalóns var vígt 10. nóvember 1996 en það er staðsett við Kvennó. Af því tilefni flutti Gunnlaugur A. Jónsson, barnabarn Sigvalda, ávarp í Kvenfélagshúsinu:

Grindavík

Afhjúpun minnisvarðans.

Góðir áheyrendur!
Fyrir hönd Kaldalónsfjölskyldunnar vil ég af heilum hug þakka þá ræktarsemi sem þið Grindvíkingar sýnið minningu afa míns, Sigvalda S. Kaldalóns, læknis og tónskálds, með því að reisa honum fagran minnisvarða og boða af því tilefni í dag til þessarar ánægjulegu samkomu nú á 50. ártíð Sigvalda.
Þessi ræktarsemi ykkar og trúfesti við minningu Sigvalda Kaldalóns er í fullu samræmi við hlýhug Grindvíkinga og velvild í hans garð alveg frá byrjun, og raunar í takt við aðdragandann að því að hann settist að hér í Grindavík þegar hann var skipaður héraðslæknir í Keflavíkurhéraði árið 1929 í óþökk Læknafélagsins. Sú saga er kunnari en svo að hana þurfi að rifja upp.

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi ásamt Einari Dagbjartssyni.

En óhætt er að segja að Grindvíkingar hafi tekið hinum nýskipaða lækni opnum örmum með Einar í Garðhúsum í broddi fylkingar sem tók Sigvalda og fjölskyldu hans inn á heimili sitt meðan verið var að reisa honum læknisbústað hér í Grindavík.

Það fer vel á því að minnisvarðinn um Sigvalda skuli reistur hér við Kvenfélagshúsið því með því félagi starfaði Sigvaldi mikið enda lét hann jafnan mikið til sín taka á sviði menningarmála í Grindavík og hefur Einar Einarsson skólastjóri í Grindavík komist þannig að orði að ár Sigvalda hér hafi verið eins og „menningarleg vígsla í héraðinu” og að áhrifin af veru hans hér verði aldrei þurrkuð út, og víst er um það að lögin “Suðurnesjamenn” og “Góðan daginn Grindvíkingur” munu seint gleymast Suðurnesjamönnum.

Í Grindavík bjuggu þau hjónin Sigvaldi og Margrete Kaldalóns í fimmtán ár og voru árin hér að mörgu leyti frjóustu ár Sigvalda á tónlistarsviðinu þrátt fyrir að hann ætti lengst af við heilsuleysi að stríða. Margir hafa orðið til að vitna um þá miklu gestrisni sem einkenndi menningarheimili þeirra hjóna.
Margir af kunnustu listamönnum þessarar þjóðar dvöldu á heimili þeirra lengri eða skemmri tíma. Má þar nefna Gunnlaug Scheving listmálara, Stein Steinarr skáld og Ríkharð Jónsson myndhöggvara að ógleymdum bróður Sigvalda, Eggerti Stefánssyni rithöfundi og söngvara.

Sigvaldi Kaldalóns

Minnisvarðinn.

Í sumum tilfellum var dvöl þessara kunnu listamanna á heimili Sigvalda ekki aðeins lyftistöng fyrir menningarlíf í Grindavík heldur fyrir alla þjóðina. Þannig hafa Grindavíkurár Gunnlaugs Scheving hlotið þann sess að vera sérstakur kapítuli í sögu íslenskrar myndlistar, eins konar óður til íslenskra sjómanna með svipuðum hætti og lag Sigvalda Kaldalóns „Suðurnesjamenn”.
Móðir mín, Selma Kaldalóns, hefur lýst því hvernig faðir hennar samdi lög sín: “Hann samdi þegar hann var í stemmningu,” hefur hún sagt og bætir við: “Hann samdi stundum úti á göngu, raulaði þá fyrir sér lagstúf og spilaði strax, þegar hann kom heim. Oft samdi hann líka seint á kvöldin eða á nóttunni. Það kom líka fyrir, að hann reis frá matborðinu og gekk að hljóðfærinu til þess að leika það, sem þá sótti á hann. Hann hafði þörf fyrir að láta aðra njóta með sér og stundum fór hann út á götu og mætti kannski sjómanni, sem var að koma upp úr skipi, og sagði við hann: – Komdu snöggvast inn með mér, ég ætla að spila fyrir þig lag, – það er nýtt lag.”
Sigvaldi varð snemma mjög heilsuveill, og þegar þar við bættist að hann gat aðeins lagt stund á tónsmíðar í hjáverkum frá annasömum læknisstörfum er með ólíkindum hve miklu hann fékk áorkað. Það er þó ekki magn tónsmíðanna sem mun halda nafni hans á lofti um ókomin ár heldur sú staðreynd að fjölmörg laga hans urðu svo að segja á svipstundu þjóðareign og eru það enn þann dag í dag.
Jóhanns skáld úr Kötlum komst þannig að orði um tónlist Sigvalda í minningargrein:

Grindavík

Kvenfélagshúsið.

„Vart mun finnast sú sál á Íslandi, að hún hafi ekki einhverju sinni orðið snortin af söngvum hans, vart sú rödd, sem ekki hefur reynt að taka undir þá. Eins og mild kveðja vorboðans hafa þeir borizt efst upp í dali, yzt út á nes, bóndinn hefur raulað þá yfir fé, sjómaðurinn á vaktinni, heimasætan á meðan hún beið unnustan síns. Þetta eru tónar alþýðunnar í upphafningu norræns blóma, yljaðir af hjartaglóð snillingsins. Þetta eru tónar, sem allir skilja og eiga og þess vegna geta þeir ekki dáið.”
Það var ekki ætlun mín að rekja hér æviferil afa míns, Sigvalda Kaldalóns, heldur fyrst og fremst að þakka ykkur Grindvíkingum fyrir þá ræktarsemi sem þeir hafa nú í dag með svo afgerandi hætti sýnt minningu Sigvalda Kaldalóns. Alveg sérstaklega vil ég þakka menningarmálanefnd Grindavíkur fyrir hennar þátt í þessu máli og ánægjuleg kynni af nefndarmönnum meðan á undirbúningi þessarar minningarhátíðar hefur staðið.
Af kynnum mínum af því ágæta fólki er ég þess fullviss að menningarmálin eru í góðum höndum hér í Grindavík sem fyrr.
Enn á ný: Kærar þakkir og til hamingju með minnisvarðann.

Hér má sjá myndband frá athöfninni.

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi og Karen Margrethe.

Árið 1929 fluttist til Grindavíkur skáldið og læknirinn Sigvaldi Kaldalóns, með komu hans þurftu grindavíkingar ekki lengur að sækja læknisþjónustu til Hafnarfjarðar eða Keflavíkur.
Hagur bæjarbúa af Sigvalda var mikill, hann hafði mikil áhrif á félags- og mennngarlífið. Leið Sigvalda til Grindavíkur var ekki auðveld. Þegar staða héraðslæknis í Keflavík losnaði árið 1929 upphófst mikið átakamál milli Læknafélagsins og Jónasar frá Hriflu sem þá var dómsmála- og heilbrigðisráðherra.
Læknafélagið sá til þess að einungis ein umsókn bærist um þetta starf en fyrir tilstilli manna í ráðuneytinu og hugsanalega Jónasar barst á borð umsókn frá Sigvalda Kaldalóns. Var Sigvaldi ráðinn til embættisins en Læknafélagið sem var á móti ráðningunni beitti ýmsum brögðum meðal annars að sjá til þess að enginn í Keflavík myndi hýsa hann.
Þrátt fyrir mótlætið þáði Sigvaldi starfið og sá Jónas frá Hriflu um að hann fengi húsaskjól í Grindavík og að bæjarbúar myndu reisa honum bústað sem þeir stóðu við.

Grindavík

Læknishúsið – Hamraborg, Vesturbraut 4. Byggt 1930. Teiknað af Guðjóni Samúelssyni.

Sigvaldi varð vinsæll í Grindavík, átti hann það til að kalla til sín fólk af götunni bara til þess eins að spila fyrir það og gestagangur einkenndi heimilislíf læknishjónanna, þess má geta að nokkrar þjóðþekktir einstaklingar bjuggu hjá þeim hjónum um tíma. Gunnlaugur Scheving listmálari bjó hjá þeim í rúmlega eitt ár og þar urðu til hans merkustu sjávarmyndir. Halldór Laxness bjó hjá þeim hjónum meðan hann vann að Sölku Völku. Steinn Steinar fékk einnig að njóta góðs af gestrisni læknishjónanna og vann við sín hugarefni.
Sigvaldi missti heilsuna mjög skyndilega sumarið 1945 og ári seinna fluttu þau hjón aftur til æskustöðva hans. Þá var starfs- og tónlistardögum hans lokið og einu ári síðar lést hann.
Árið 2004 var stofnað í Grindavík klúbbur til heiðurs Sigvalda Kaldalóns, klúbburinn hefur tvíþætt hlutverk annað er að vera bakhjarl knattspyrnudeilarinnar og hitt er að halda í heiðri verkum Sigvalda Kaldalóns með því að halda tónleika og menningartengda atburði.

Heimild:
-http://www.grindavik.is/listaverk
-http://grindavik.is/felogogsamtok og Jón Þ.Þór 1996,bls.315-320.

Grindavík

Grindavík – Járngerðarstaðahverfi. Læknishúsið er fyrir miðri mynd.

Oddur V. Gíslason

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1991 er frásögn um þegar “minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason” var afhjúpaður í Staðarkirkjugarði.

Oddur V. Gíslason

Frá athöfninni.

“Minnisvarði um Odd V. Gíslason var afhjúpaður í kirkjugarðinum á Stað í Grindavík 22. september 1990. Sr. Oddur var prestur í Grindavík og Höfnum 1879-1894 og var mikill forvígismaður um slysavarnir og fræðslu í þeim efnum.
Minnisvarðinn er gerður af listamanninum Gesti Þorgrímssyni, steyptur í brons og stendur á áletruðum steini. Hann er reistur að frumkvæði sóknarnefndar Grindavíkur og Hafna auk ættingja sr. Odds og Slysavarnarfélags Íslands.
Gunnar TómasonOddur beitti sér fyrir fræðslumálum í Grindavík og var á undan sinni samtíð um nýjungar. Þá stofnaði Oddur bjargráðanefndir um land allt sem voru undanfarar slysavarnadeilda sem voru stofnaðar seinna.
Við athöfnina tóku til máls Svavar Árnason, formaður sóknarnefndar, og herra Ólafur Skúlason biskup yfir Íslandi, sem minntust sr. Odds og starfa hans. Eftir athöfnina í Staðarkirkjugarði bauð bæjarstjórn Grindavíkur til kaffisamsætis í félagsheimilinu Festi. Þar rakti Gunnar Tómasson, varaforseti Slysavarnarfélags Íslands, æviferil Odds. Þar kom m.a. fram að hann fór ekki alltaf troðnar slóðir og var orðinn þjóðsagnarpersóna í lifandi lífi. Fræg er sagan af Oddi þegar hann rændi brúði sinni Önnu Vilhjálmsdóttur frá Kirkjuvogi í Höfnum á gamlársdag árið 1870 til að giftast henni.”

Oddur Vigfús Gíslason (8. apríl 1836 – 10. janúar 1911) var íslenskur guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður. Hann barðist lengi vel fyrir því að íslenskir sjómenn lærðu að synda, einnig að sjómenn tækju með sér bárufleyg svokallaðan, sem var holbauja með lýsi í og lak lýsið í sjóinn og lygndi með því bárurnar, og ýmsum öðrum öryggisatriðum fyrir sjómenn. Horft hefur verið til Odds sem frumkvöðuls sjóslysavarna á Íslandi.

Oddur V. Gíslason

Bátur Björgunarsveitar Þorbjörns í Grindavík, Oddur V. Gíslason.

Oddur var prestur, fyrst að Lundi í Borgarfirði frá 1875, svo á Stað í Grindavík var þar frá 1878 til 1894 þegar hann fluttist til Kanada og tók við preststörfum í Nýja Íslandi þangað til hann fluttist til Chicago og fór að læra til læknis á gamalsaldri og útskrifaðist kominn á áttræðisaldur.

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Oddur talaði fyrir því að sjómenn tækju upp að sigla á þilskipum í stað róðrarbáta.

Björgunarskip björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík er nefnt eftir Oddi.

Oddur stóði í mikilli útgáfustarfsemi, gaf meðal annars út fyrstu kennslubókina í ensku hér á Ísla

ndi, gaf út fjölmörg rit tileinkuð sjómönnum og árið 1892 gaf hann út rit sem kallaðist Sæbjörg og fjallaði um ýmis mál sem honum þótti geta farið betur á Íslandi. Hann lést 10. Janúar 1911, 74 ára gamall og var jarðsunginn í Brookside cemetery í Winnipeg, Manitoba.

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1991, Minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason afhjúpaður, bls. 18.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Oddur_V._G%C3%ADslason

Oddur V. Gíslason

Grindavík

Í Sjómannadagsblaðinu árið 1978 er fjallað um “Minnisvarða um drukknaða menn frá Grindavík”.

Grindavík

Upphaflega hugmyndin af minnisvarðanum.

“Í janúar 1952 stofnaði Kvenfélag Grindavíkur „Minningarsjóð drukknaðra manna frá Grindavík”. Tekjur sjóðsins voru ágóði af sölu minningakorta.
Vegna verðbólgunnar varð sjóðurinn aldrei það afl, sem honum hafði verið ætlað að verða, þ. e. að standa undir kostnaði við gerð minnisvarða.
Á 25 ára afmæli sjóðsins, í janúar 1977, var samþykkt á fund í Kvenfélaginu að óska eftir samstarfi við bæjarfélagið og sjómannafélagið um að hrinda málinu í framkvæmd. Fékk málið góðar undirtektir og var skipuð 8 manna undirbúningsnefnd með þátttöku fyrrgreindra aðila og Útvegsbændafélags Grindavíkur, sem óskaði eftir aðild að málinu. Nefndina skipa: Sæunn Kristjánsdóttir, formaður og Ólína Ragnarsdóttir, ritari frá kvenfélaginu; Helga Emilsdóttir, gjaldkeri og Sigurpáll Einarsson frá bæjarstjórn; Kjartan Kristófersson og Haraldur Tómasson frá sjómannafélaginu og Tómas Þorvaldsson og Einar Símonarson frá útvegsbændafélaginu. Kom nefndin saman til fyrsta fundar 31. mars 1977 og hefur síðan unnið að undirbúningi málsins.

Grindavík

Minnisvarðinn “Vonin. Á skildinum stendur; “Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera; Jes. 30.15”. Kjartan Ragnarsson h.m.

Að undangengnum ýmsum athugunum og viðræðum m. a. við ýmsa listamenn var ákveðið að reisa minnisvarða eftir verki Ragnars Kjartanssonar myndhöggvara og voru 3 tillögumyndir eftir hann sýndar í Félagsheimilinu Festi á sjómannadaginn 1977. Var síðan ein þeirra myndi valin sem fyrirmynd varðans, og undirbúningsnefndinni falið hlutverk framkvæmdanefndar.
Samningur við listamanninn var undirritaður 12. desember s.l. og á hann að skila verkinu tilbúnu til afsteypu í brons um áramótin 1978 —79. Fer nú fram athugun á því hvar muni vera hagkvæmast að fá afsteypu af myndinni.
Gerð þessa minnisvarða er nefndarmönnum sem og Grindvíkingum öllum mikið metnaðarmál, en víst er að hún mun kosta mikið fé.
Fyrsta fjáröflun nefndarinnar fór fram í Festi 3. desember s.l. og vill nefndin þakka þeim mörgu sem studdu þetta málefni þá. Margir einstaklingar hafa gefið fé til minningar um látna ástvini. Verkalýðsfélag Grindavíkur gaf 500.000 kr. og Skipstjóra- og stýrimannafélagið Vísir í Keflavík 300.000 kr. Ýmsir aðrir, félög og einstaklingar, hafa lofað fjárframlögum og þakkar nefndin öllum þessum aðilum höfðinglegar gjafir og góðar undirtektir.”

Grindavík

Skjöldurinn á minnismerkinu.

Á sjómannadaginn 1980 var afhjúpaður minnisvarðinn Von, reistur eftir verki Ragnars Kjartanssonar, myndhöggvara. Minnisvarðinn „Von” sýnir sjómannsfjölskylduna horfa út á hafið í von um að fjölskyldufaðirinn komist heill í höfn. Á minnisvarðanum stendur ritað: ,,Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera; Jes. 30.15″
Eftir hörmulegt sjóslys í janúar 1952 þar sem Grindvíkingur GK 39 fórst með fimm manna áhöfn við Hópsnes í ofsaveðri, ákvað Kvenfélag Grindavíkur að stofna sjóð til minningar um drukknaða sjómenn og var tekna aflað með ýmsu móti, m.a. með sölu minningarkorta. Sjómannafélag Grindavíkur, Útvegsmannafélag Grindavíkur og bæjarstjórn komu einnig að undirbúningi og framkvæmd málsins.

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 1. tbl. 01.06.1978, Minnisvarði um drukknaða menn frá Grindavík, bls. 41.
-Sjómannadagsblað Grindavíkur árið 2000, 20 ár frá afhjúpun minisvarða drukknaðra manna, bls. 29.

Grindavík

Minnismerkið.

Hæna

Í Bæjarbót árið 1985 er sagt frá “Hænsnahúsinu í Grindavík”. Frásögnin var tekin úr Fálkanum 9. janúar 1932. Þar er sagt frá frumkvöðlastafi Einars Einarssonar í Krosshúsum um hænsnarækt og eggjabúskap. Hafa ber í huga að “frumkvöðlastarf” líkt þessu hafa jafnan, því miður, fremur hvatt “kjaftakerlingar” hversdagsins til dáða en aðra áræðnari til varanlegri árangurs.

Hænsnabúið í Grindavík

Hænsnahúsið

Hænsnahús Einars í Grindavík.

Vaxandi trú á land vort og mátt íslensku þjóðarinnar lýsir sjer ekki hvað síst í ýmsum verklegum framkvæmdum íslendinga á síðari árum.
Einn af ötulustu framkvæmdamönnum meðal yngri manna hjer á landi, Einar Einarsson í Krosshúsum í Grindavík (sonur Einars kaupmanns í Garðhúsum) hefir nú ráðist í að setja á stofn hænsnabú, sem er stærra og myndarlegra en áður eru dæmi til á Íslandi.
Hænsnabúið í Grindavík er rúmlega hálfs þriðja árs gamalt, og eru þar nú um 1000 hænur.

Hænsnahús

Í hænsnahúsi Einars.

11. maí 1929 voru fyrstu ungarnir teknir út úr 266 eggja Grand Danois útungunarvjel búsins. Hænsnabúið er í 70 m langri og 6’A m breiðri byggingu með geysistórum gluggum. Stofnkostnaður búsins var 20 þús. krónur.

Til þess að sjá um þetta hænsnabú varð Einar Einarsson að fá sjer útlending, er kunni starf sitt til hlítar. Fyrir valinu varð danskur maður, Einar Tönsberg að nafni. Hann byrjaði að vinna sem aðstoðarpiltur á dönsku hænsnabúi, er hann var 10 ára gamall. Síðar gekk hann í skóla og lauk gagnfræðaprófi 16 ára gamall. Næstu 5 ár vann Tönsberg síðari á vetrum við eitt af stærstu hænsnabúum í Danmörku, en ferðaðist á sumrin, meðal annars til Svíþjóðar og Þýzkalands til þess að skoða þar hænsnabú og kynna sjer hænsnarækt af eigin sjón og reynd. í því skyni var hann einnig á sjerstökum námskeiðum. Í nóvember 1930 kom hann til íslands og var þá ráðinn umsjónarmaður hænsnabúsins í Grindavík. Hefir hann gegnt því starfi prýðilega, en nú eru störf búsins að verða meiri en svo, að hann fái unnið þau hjálparlaust.

Hænsnahús

Í hænsnahúsi Einars.

Á hænsnabúinu í Grindavík hefir varpið aukist mjög upp á síðkastið, vegna þess að hænurnar eru undir vísindalegu eftirliti. Víðast hvar hjer á landi verpa hænur aðeins frá febrúarbyrjun til septemberloka, en hjá Einari í Krosshúsum verpa þær 10-11 mánuði á ári. Þann mánaðartíma, sem hænurnar verpa ekki, fella þær fiður, og er því hagað svo með sjerstökum aðferðum, að þær gera það í júnímánuði, bæði vegna þess,að þá eru egg ódýrust og því minnst markaðsspjöll. En einnig mega hænsnin best við því að vera fiðurlítil í júní vegna veðráttunnar.
í Danmörku og Canada þykir það yfirleitt góð eggjatekja á hænsnabúum að fá daglega í október-, nóvember-, desember og janúarmánuði það mörg egg, að samsvari 20% af fjölda hænsnanna. Það er því eftirtektarvert, að á hænsnabúinu í Grindavík er ekkjatekjan miklu hærri. Núna er hún 45% á dag af fjölda hænsnanna, ef með eru taldir hænuungar, sem ekki hafa enn náð fullum þroska. Sje hins vegar aðeins miðað við hænur, sem náð hafa fullum aldri, verður útkoman 65%.

Hænsnahús

Egg hænsnahússins.

Það fyrsta, sem vekur athygli, þegar maður skoðar hænsnabúið í Grindavík, er það að hænurnaar eru allar drifhvítar og prýðilega aldar og hirtar.
Þær eru allar af hreinræktuðu ítölsku kyni, og keypti Einar Einarsson upphaflega hænsnastofn af besta hænsnabúi í Danmörku. Til þess að hænsnin úrkynjist ekki, er jafnan slátrað í júnímánuði öllum þeim hænum, sem ekki hafa verpt svo miklu, að svari kostnaði. Aftur á móti eru þær hænur, sem verpt hafa 200 eggjum eða meiru, teknar frá og aldar sjerstaklega til þess að láta þær verpa útungunareggjum. Hanar til undaneldis eru ekki teknir úr eggjum annara hæna en þeirra, sem verpt hafa í minnsta lagi 230 eggjum á ári. En auk þess eru annaðhvert ár keypt útungunaregg frá fyrirmyndarhænsnabúum erlendis, til þess að hænsnin verði ekki of skyld og hraustur kynstofn haldist.
Með stofnun fyrsta fyrirmyndar – hænsnabús á íslandi, sem jafnast fyllilega á við samskonar stofnanir erlendis, hefir hann vissulega unnið mikið þarfaverk. Sá, er þetta ritar, álítur, að vel sje vert að skreppa til Grindavíkur til þess eins að sjá þennan myndarbúskap Einars í Krosshúsum, enda hafa þó nokkrir menn gert það.
Til útungunar eru eingöngu notaðar vjelar, og er útungunartíminn 20 dagar. Á sjötta degi eru eggin lýst og tekin frá þau, sem reynast ófrjó. Eggin eru enn lýst á tólfta og átjánda degi og ef þá sjest, að ungar hafa dáið í einhverjum af eggjunum, eru þau tekin burt. Ef loftið í vjelunum verður of þurrt, eru látnir bakkar með vatni undir eggin, og fæst við það nægur raki.
Eggjunum er snúið þrisvar á sólarhring, því að ella mundi rauðan í þeim síga og fóstrin deyja.
HænsnahúsHitinn á eggjunum á að vera 103° á Fahrenheit. Útungunaregg mega aldrei vera eldri en tólf daga, þegar þau eru látin í vjelarnar, því að eftir þann tíma fara rauðan og frjóefni hennar að tapa sjer.
Á tuttugasta og fyrsta degi eru ungarnir teknir úr vjelunum og látnir undir upphitaða skerma, sem nefndir eru fósturmæður. Venjulega koma 75-80% af hraustum ungum úr vjel. Á fyrsta degi er þeim að eins gefinn sandur og vatn, en næsta dag er þeim gefið haframjöl og sjerstakt þurrfóður, sem í eru ýms efni, þar á meðal þurrkaðar áfir.
Nú á tímum, þegar alþjóð manna er orðið ljóst, að Íslendingar eiga umfram alt að búa að sinni eigin framleiðslu og leitast við að fullnægja þörfum sínum með innlendum iðnaði, hljóta menn að líta á þetta framtak Einars Einarssonar með velvild. Með stofnun fyrsta fyrirmyndar-hænsnabús á íslndi, sem jafnast fyllilega á við samskonar stofnanir erlendis, hefir hann vissulega unnið mikið þarfaverk. Sá, er þetta ritar, álítur, að vel sje.’vert að skreppa tíl Grindavíkur til þess eins að sjá þennan myndarbúskap Einars í Krosshúsum, enda hafa þó nokkrir menn gert það.
Samkvæmt verslunarskýrslum hafa á árunum 1918—1928 verið flutt inn egg fyrir verðmagn sem hjer segir:
Ár 1918 2.536 kr.
— 1919 10.656 —
— 1920 15.986 —
— 1921 77.424 —
—’ 1922 105.650 —
— 1923 137.328 —
— 1924 97.060 —
— 1925 144.924 —
— 1926 156.704 —
— 1927 134.856 —
— 1928 149.118 —

Einar Einarsson

Einar Einarsson.

Þar með er talið það verð, sem gefið hefir verið fyrir þurkuð egg frá 1921. Árið 1928 hefir einnig verið byrjað að flytja inn niður soðin egg, en ekki svo að neinu næmi það ár.
Meðan þeim upphæðum, sem hjer er getið, er árlega fleygt út úr landinu fyrir vöru, sem hjer er auðgert að framleiða, er sannarlega ekki alt sem skyldi.
En því er ver, að það eru ekki eggin ein, sem vjer Íslendingar höfum látið útlendinga færa okkur hingað árum saman á erlendum skipum, í stað þess að framleiða vörurnar sjálfir og efla þannig atvinnu og velmegun í landinu.
Einar í Krosshúsum segir, að gömlil „præserveruð” útlend egg og gömul íslensk egg spilli allmikið eggjamarkaði hjer, því að enn sje fjölda margir, sem ekki geri sjer ljóst, hve geysimikla kosti glæný egg hafi fram yfir gömul, hálfskemd (gg. Einar lætur stimpla öll egg frá hænsnabúi sínu, og merki hans á að tryggja kaupendum góða vöru. Verðið segist hann miða við verð á fyrsta flokks eggjum í Danmörku.
Einar Einarsson segist muni geta selt lifandi hænuunga, svo að þúsundum skiptir, ef markaður bjóðist. Væri vel, ef hann gæti þannig smám saman útvegað sem flestum hænsni af hinu ágæta ítalska kyni. Hann kveðst og liafa sell uin 1000 liaMisni til veislumatar í Reykjavík síðast liðið ár. Framtakssemi Einars og allur sá myndar bragur, sem auðkennir þessa slarfsemi hans, gefur góðar vonir um, að hún geti orðið öðrum athafnamönnum vorum til fyrirmyndar. – Sigurður Skúlason.

Á myndunum sem hjer fylgja er sýnt: Efst á bls. 3 hænsnabúið að utan, en neðar á sömu síðu gangir inni í húsi. Á þessari bls. sjest efst í dálkinum piltur með hænu og  eggjakarfá stendur hjá, en neðst er það sýnt, hvernig umbúðirnar eru, sem eggin koma í á markaðinn.

Heimild:
-Bæjarbót, 11. tbl. 01.12.1985, Hænsnahúsið í Grindavík – Úr Fálkanum 9. janúar 1932, bls. 3-4 – bls. 2.
-Morgunblaðið, 162, Útför Einars Einarssonar í Krosshúsum, tbl. 19.07.1962, bls. 2.
-Einar Einarsson, Krosshúsum látinn, Faxi 7. tbl. 01.09.1962, bls. 117.

Einar Einarsson

Halldór Laxness

Í Faxa árið 1982 birtist hugvekja í tilefni af áttræðisafmæli Haldórs Laxness þar sem hann m.a. mærir Grindavík – og það ekki að ástæðulausu.

Grindavík

Grindavík 1939.

Á árunum 1937—1939 gaf Lestrarfélagið í Grindavík út tímarit, sem nefndist Mímir. Markmiðið með útgáfu ritsins var, eins og segir í 1. tölublaði, að reyna að vekja af dvala Lestrarfélagið Mími, er sofið hafði svefni hinna réttlátu um nokkurt skeið. Var ritið selt til ágóða fyrir félagið, á 10 aura eintakið. Ritstjórar voru Einar Kr. Einarsson, skólastjóri, Jochum Eggertsson og
Einar Einarsson í Krosshúsum. Í 4. tölublaði Mímis frá 1937 er viðtal við Halldór Laxness. Viðtalið hefur Einar Einarsson í Krosshúsum að líkindum átt við skáldið og í tilefni þess að
Halldór Laxness er áttræður um þessar mundir. Þótti við hæfi að fá það birt hér í Faxa nú. Fer viðtalið hér á eftir:

“Tíðindamaður blaðsins heimsótti Halldór Kiljan Laxness þar sem hann dvelur nú [í Krosshúsum] yfir páskana, önnum kafinn yfir ritvél sinni. Þrátt fyrir mikið annríki var skáldið svo vingjarnlegt að svara nokkrum spurningum, sem tíðindamaður lagði fyrir hann.
-Kemur framhald af „Ljósi heimsins”?

Halldór Laxness

Halldór Laxness.

-Já, næsta ár mun koma út ný bók, framhaldssaga af niðursetningnum, sem nú er ekki lengur niðursetningur, eins og þér vitið. Hvers vegna nefnduð þér bókina „Ljós heimsins”? Bókin skýrir frá baráttu skáldsins við heimskuna og tregðuna.
-Þér notið alveg sérstakt mál í bók yðar, haldið þér ekki, að það geti aflagað mál hinnar yngri kynslóðar?
-Ég vona að mál bókarinnar sé auðvelt aflestrar og spilli ekki málsmekk neins.

-Á hve mörg mál hafa bækur yðar verið þýddar?
-Dönsku, þýsku, sænsku, ensku og hollensku og verið að vinna að þýðingu á frönsku.

-Mörgum finnst þér vera svartsýnn í bókum yðar?
-Það er alltaf sagt að raunsæishöfundar séu svartsýnir. Lífið er ströng barátta, og sögur mínar eru raunsæar. Þegar lífsskilyrði alþjóðar batna verður skáldskapurinn ósjálfrátt bjartsýnni.
-Haldið þér ekki að útlendingar geti fengið of slæmar hugmyndir um Ísland við að lesa bækur yðar?
-Það held ég ekki, vesaldómur almennings er í flestum löndum meiri en á Íslandi, svo það er ekkert nýtt fyrir útlendinga að heyra um fátækt fólk. Annars er fólkið allsstaðar eins, aðeins ofurlítið breytt á yfirborðinu. Þegar maður er búinn að tala dálitla stund við mann frá t.d. Buenos Aires er maður óðar kominn inn á sama umræðu etni og í samtali við fólk hér í Grindavík.
-Viljið þér segja ofurlítið frá þessu ferðalagi, sem þið fóruð í sumar?
Ég hefi skrifað ofurlítið um það annarstaðar, og ég er líka ónýtur að segja ferðasögur. Það koma náttúrlega fyrir ýms atvik á ferðalagi, en þeim hef ég mest gaman af þegar ég er búinn að skrifa um þau í skálsögum, kannski í ofurlítið breyttri mynd.

Krosshús

Krosshús.

-Sumir hneykslast á ýmsu í bók yðar „Ljós heimsins” t.d. 16. kap.
-Það er með bók eins og jólaköku, jólakökur mega ekki vera eintómar rúsínur, en ef engin rúsína er í þeim, er það heldur engin jólakaka.
-Hvernig líst yður á Grindavík?
-Mér líst afar vel á Grindavík. Þar vinn ég betur en víðast hvar annarstaðar, hér skrifaði ég seinni hlutann af „Fuglinn í fjörunni” og „Napóleon Bónaparte” og gerði uppkast að „Ljós heimsins”. Eftir kynningu minni af öðrum íslenskum sjóþorpum, held ég, að Grindavík sé með bestu plássum landsins. Húsin eru rúmgóð og falleg, mættu kannski standa skipulegar. Sjáið þér börnin þama úti á túninu, öll vel klædd með höfuðföt og sko. Þið ættuð að sjá pláss eins og Ólafsvík og Bíldudal og Eskifjörðog víðar þar sem fólk varla hefur eldsneyti til að kynda undir pottinum með.
Vér þökkum herra Laxness fyrir samtalið, óskum honum gleðilegra páska og kveðjum.”

Heimild:
-Faxi, 4. tbl. 01.05.1982, Í tilefni áttræðisafmælis Halldórs Laxness, bls. 92.

Grindavík 1958

Grindavík (Járngerðarstaðarhverfi) 1958.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Í útgáfu Sögufélagsins um “Gullbringu- og Kjósarsýslu; sýslu- og sóknarlýsingar” má m.a. lesa um örnefni, atburði o.fl. í sýslunum á árunum 1839-1855.

Útgáfa Sýslu- og sóknalýsinga Gullbringu- og Kjósársýslu markaði upphaf endurútgáfu Sögufélags á Sýslu- og sóknalýsingum Hins íslenska bókmenntafélags sem lengi höfðu verið ófáanlegar. Guðlaugur R. Guðmundsson sagnfræðingur og Svavar Sigmundsson rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast undirbúning útgáfunnar.

Gullbringu- og Kjósarsýsla.
Í bókinni eru ítarlegar upplýsingar á sýslunni og flestum sóknum hennar, skrifaðar af staðkunnugum mönnum á fyrstu áratugum nítjándu aldar, áður en nútíminn gekk í garð, og í henni eru birtar myndir af kirkjum og nokkum höfundanna. Í viðauka eru sýnd sóknarmörk og gamlar götur eftir korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844. Sýslu- og sóknalýsingar Gullbringu- og Kjósársýslu eru grundvallarrit um örnefni og lýsingar á fornum leiðum á svæðinu og kjörið rit fyrir þá sem unna sögu og staðfræði á suðvesturhorni landsins.

-Stutt lýsing á Gullbringu- og Kjósarsýslu – Þórður Jónasson [1852]
-Geir Backmann – Grindavík 1840-’41
-Brandur Guðmundsson – Lýsing á Höfnum
-Sigurður Sívertsen – Útskála- og Kirkjuvogssóknir 1839
-Pétur Jónsson – Kálfatjarnarprestakall 1840
-Árni Helgason – Garðaprestakall 1842
-Stefán Þorvaldsson – Lýsing á Mosfells- og Gufunessóknu 1855
-Sigurður Sigurðsson – Lýsing á Reynivallasókn 1840

Formáli
“Hefst þá meginsform þessa bindis, en það eru sýslulýsingar og sóknalýsingar þær, sem gerðar voru að tilhlutun Hins íslenska bókmenntafélags. Aðalhvatamaður þessa verks var skáldið Jóns Hallgrímsson, er hugðist þannig að safna efni til ýtarlegrar og nákvæmlegrar Íslandslýsingar, sem hann hafði ætlað sér að semja, en entist ekki aldur til.

Boðsbréf og spurningar frá deild Hins íslenska bókmenntafélags í Kaupmannahöfn til sýslumanna og presta á Íslandi 1839.
Spurningarnar voru:

Í fyrsta lagi:

1. Afstaða og stærð landsins.
2. Landslag.
3. Haf og vötn.
4. Veðráttufar og loftslag.
5. Auðæfi náttúrunnar.
6. Kynferði og eðlisfar þjóðarinnar.

Í öðru lagi:
1. Landsbyggð allt frá landnámstíð.
2. Læknisdæmi.
3. Veraldleg skipan allt frá landnámstíð.

Í þriðja lagi:
A. Uppruni og forlög þjóðarinnar (almennt yfirlit).
B. Þjóðarlýsing.
C. Landsstjórnarsagan.

Þórður Jónason: Stutt lýsing á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1852

Þórður Jónason

Þórður Jónason.

“Sýslur þessar hétu fyrrum Kjalarnesþing, og eru þær báðar eitt prófastdæmi og sami sýslumaður í þeim báðum; heitir hann héraðdómari í Gullbringusýslu, en sýslumaður í Kjósarsýslu.
Gullbringusýsla er að landslagi frábrugðin öðrum sýslum í landinu. Hún er mestmegnis hraun og melar; þar vantar víða sauðfjár- en alls staðar kúahaga; útheyisslægjur eru engar og utantúns lítið og allvíðast ekkert graslendi. Þar eru engar ár og einungis 3 lækir í allri sýslunni. Atvinnuvegur sýslubúa er því einkum fiskiveiði, og sækja þangað og margir úr öðrum sveitum á vetrarvertíðinni, bæði úr Norðurlandi og úr Árnessýslu. Nafnkenndustu veiðistöðvar eru Vogar, Njarðvíkur (Norðvíkur) og Hafnir.
Gullbringusýsa er íll yfirferðar og vegirnir bæði krókóttir og slitróttir. Bæirnir standa með sjónum og byggðin er hvergi tvésett, og sýslan er þannig öll á lengdina.
Í Kjósarsýslu, sem Elliðaár aðskilja frá Gullbringusýslu, eru landskostir þar á móti góðir, víðast nægar slægjur og mikið graslendi, móskurður góður, torfrista og hagar vetur og sumar og hægt til allra aðdrátta, og má að vísu telja Kjósarsýslu í þessu tilliti með hinum bestu sýslum á landinu.
Innan sýslu eru engir fjallvegir, nema ef telja skyldi Svínaskarð milli Kjósar og Mosfellssveitar, sem mun vera hér um bil 2 mílur bæja á milli.
Bæði Mosfells- og Hellisheiði eru býsna langir fjallvegir og vandrataðir á vetrardag. Eru því vörður reistar og sæluhús byggð á heiðum þessum, eitt á Mosfellsheiði, en 2 á Hellisheiði handa ferðamönnum, og eiga þeor oft náttstað á Hellisheiði í sæluhúsum þessum, þegar þá dagar uppi á leiðinni. Torfærur eru engar á vegum þessum, nema menn villist af réttum vegi, en þá kvað ferðamönnum hætta búin, einkum á Hellisheiði, þegar fara skal niður af heiðinni, því heiðin er mjög brött að austanverðu.

Grindavík – Geir Backmann 1840-’41
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Takmörk sóknarinnar eru að vestanverðu Valahnúkur, sem aðskilur bæði land og reka Hafna og Grindavíkur. Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krisi- og Grindavíkur.
Í Grindavíkursókn eru einasta 7 aðalbýli, en hina bæina köllum vér hjáleigur, og eru þær nú á tímum 13 byggðar. Hinn fyrsti og vestasti bær í sökninni er Staður. Stekkjarveg í landnorður frá Stað er annað aðalbýlið Húsatóttir. Hið þriðja býlið er Járngerðarstaðir. Fjóra býlið er Hóp. Hið 5ta býlið eru Þorkötlustaðir. 6ta aðalbýlið er Hraun. Á milli Hrauns og hins 7da býlisins, Ísuskála, alii Ísólfsskála, sem er austasti bærinn í sókninni, er hið minnsta 1 1/4 míla, því nú verður að afra almenningsveg upp svo kallað Hálsa.
Það er vel að merkja við allar jarðir í sókn þessarri, að þær árlega að segja má, ganga af sér bæði til lands og sjávar, sumar af sjó og sandfoki, t.d. Staður, Hraun og Þorkötlustaðir, af sandfoki Húsatóttir, af sjávargangi Járngerðarstaðir, Hóp og Ísuskáli, en við hvertveggi mætti þó með pössun og atorku mikið gjöra.

Geir Backmann

Geir Backmann.

Staður á selstöðu á Selsvöllum. Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er allgrösugt, en bíst fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér gjöra þess selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svoköllum Þrengslum. Flestir bæir í Grindavík hafa haft í seli einhvers staðar til fjalla; er mér sagt, að vatnsleysi olli því, að allar þær eru afræktar og getur vel verið sannleiki. Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpst á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið. Vanalegt er að reka sel í 8du v(iku) sumars, og aftur úr því 16 eða síðast 17 v(iku) af sumri, nema óþerrir hafi hamlað fólki að ná töðum af túnum sínum. Ekkert er hér afréttarlandM allt fé ungt og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð.
Hér skulu hvergi finnasdt nokkrar fornmannaleifar, nema ef væru nokkur garðlög úti um hraun, sem ég ímynda mér helst gjörð umkring gamalla manna beitiland. Ekki veit ég að fornleifar hér fundnar og því ekki heldur vera hér í nokkurs manns geymslu.
Ég óska, að línur þessar mættu koma að því gagni, sem til er miðað.”

Lýsing á Höfnum – Brandur Guðmundsson
Gullbringu- og kjósarsýsla
Byggð þessi er við sjóinn, hvar Kirkjuvogsósar byrja; er sjór fyrir vestan og norðan, en Ósarnir liggja til austurs landnorðurs, eru um hálfa viku sjávar að lengd með skerjum víða. [Í Jarðabók ÁM segir, að Gamli Kirkjuvogur hafi legið í auðn lengur en 120 ár 1703, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi. “Heyrt hefi eg, að þær 3 jarðir Stóra- og Litla-Sandhöfn og Kirkjuhöfn hafi lagts í eyði, að kirkja hafi staðið þar, eftir að jörðin lagist í eyði, en ofnaumt mun tilnefnt tímatalið á annað hundrað ár síðan [hefir lagst í eyði um 1660, því tilnefnd Ingigerður sál. vissi aðeins til, að uppblásin mannabein í hennar minni hefðu verið flutt til Kirkjuvogskirkju og lögð í kirkjugarð, og eru þó síðan full 100 ár… – Á sama aukablaði getur Brandur og þess, að hann hafi á “landcommissiþingi á Járngerðarstöðum 1801 séð í bók hjá commissariis Kirkjuvog nefndan fyrir norðan Ósa ár 1516, sem mig minnir og þar í getið eyðijarða Haugsenda hér og Arnargerðis”].
24 geirfuglum alls á skip langmest, en optast 5 til 8, en seinustu 2 vorin hafi hann ekki sést.
Engar vita menn þar fornmenjar í jörðu eða á, en steinkol meina menn vera á Reykjanesi.
Þetta er þá sú upplýsing, er eg get í stuttu máli meðdeilt yður, prestur minn góður, í því áður umtalaða og bið eg yður auðmjúklega að virða, en skyldi þar þurfa nokkru við að bæta, vilda eg að því leyti get sýna viljann, en bið auðmjúklega leiðréttingar á missmíðinni og yfirsjónum.”

Útskálaprestakall – Sigurður B. Sívertsen 1839
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Útskálaprestakall inniheldur 3 aóknir, nl. Útskála, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir; þær 2 síðari voru lagðar við 1811.
Takmörk milli Útskála- og Kirkjuvogssóknar er Háaleiti, milli Hvalsness- og Kirkjuvogssóknar Ósar þeir, er skerast inn í austur-landnorður, og þaðan upp að Háaleiti. Á millum Útskála- og Hvalsnessóknar eru engin örnefni, sem sóknir skilja.
Í Útskálasókn eru þessi byggðalög: Keflavík, Leiran, Stórihólmur, Gufuskálar (landnámsjörð) og Rafnkelsstaðir.
Fyrir sunnan Skagann kemur Nesið, sem liggur suður með sjónum. Þar var í fyrri daga höfuðból, sem Kirkjuból heitir, sem nú að mestu má heita komið í eyði. Á Kirkjubóli var áður hálfkirkja eða bænahús, sem síðar var af tekið. Eftir máldögum átti Péturskirkja að Kirkjubóli xl hndr. í heimalandi, fjórðung í Geirfuglaskeri og viðreka allan á Skarðaurð. (Á Kirkjubóli var junkherra Ívar Hólmur drepinn af biskupssveinum í Skálholti 1443. Líka Kristján skrifari í hefndir eftir Jón biskup Arason, voru þeir, sem Norðlingar drápu, dysjaðir fyrir norðan túngarð á Hafurbjarnastöðum, hafa bein þeirra í núverandi manna minnum blásið upp úr sandinum.
Flangastaðir er jörð. Hennar er getið í Landnámu, og mælt, að Flangur, sem fyrstu skyldi hafa byggt hana, sé heygður þar í túninu; er grjót umhverfis leiði hans, ef tilhæfi er í.
Á Býjaskerjum var áður kirkja, sem um er geið í Vilchins-máldaga, og kennd er við Ólaf kóng helga; er haldið, að hún hafi staðið á svonefndum Kirkjukletti.
Sunnar, í fullt útsuður, stendur Hvalsnes. Þar er snotur timburkirkja, annexía frá Útskálum. Hvalsneskirkja var fyrst byggð og vígð 1370, með þeim máldaga.
Syðst liggja Bátssandar, gamall kaupstaður, sem fór í stórflóði, sem síðan er kallað Básendaflóðið. Það var árið 1799, nóttina m(illi) 8. og 9. jan.
Sunnar með sjónum liggur Þórshöfn; það er mjó vík, sem þýskir höfðu lagt inn skipum sínum, þá þeir höfðu verslun.
Tveir liggja alfaravegir útúr sókninni, sem nefnast Sandgerðis- og Hvalsnesvegur. Liggja þeir báðir inn í Keflavík; kemur sá fyrri á Garðveg skammt fyrir innan Keflavík, en hinn liggur beint að sunnan og byrjast við Melbergsá. Til er líka gamall vegur, sem aflagður er, frá Stafnesi og suður með sjó, inn fyrir Ósa og suður í Hafnir; það er gamall kaupstaðavegur frá Bátssöndum; er hann grýttur og langur.

Sigurður Sívertssen

Sigurður Sívertsen.

Sunnan við Kalmanstjörn er Sandhöfn, eyðijörð, sem af lagðist og fór í eyði vegna sandsfoks, því ekkert sést eftir nema lítið af hól, hvar bærinn skyldi hafa staðið. Sunnar er Eyrin, fyrir innan Hafnarberg. Þar var bær og útræði fyrir rúmum 50 árum síðan.
Sunnar eru Skjótastaðir, sem meint verið hafi ein eyðijörð, enda er í mæli, sem satt mun vera, að allt Reykjanes hafi fyrr meir byggt verið.
Sunnar eru Valhúkar, sem er bergnös há, þá Valahnúksmöl (við hvörja trjáviðaskipið mikla strandaði um árið, eða réttara sagt þau mörgu og stóru tré bárust að landi).
Eldey er stór klettur í hafinu í vestur frá Reykjanesi. Mest hafa fengist þar á seinni tímum 24 geirfuglar í einu, en í 2 skipti seinast ekki sést.
Af fornleifum veit ég öngvum innan þessara <sókna> merkilegum. Steinn er eða klettur, sem stendur í svo nendu Kistugerði nálægt Rafnkelsstöðum með áklöppuðum rúnastöfum. Ekki hafa menn getað lesið úr þeim, en hafa þó oft verið af teiknaðir. (Líklega er það frá seinni tímum og skammstafað eða bundið mannsnafn). Að þar skammt frá sé heyður Rafnkell sá, sem jörðin er kennd við, eru munnmæli, sem við ekkert hafa að styðjast.)
Á Flangastöðum eða þar í túni nálægt Klöll er grjóthrúga, líkt sem dys. Þar hafa gamlir menn sagt, að heygður væri Flangur sá, sem í landnámstíð mundi fyrstu byggt hafa þá jörð, eða sem hún nefnist eftir. Annað dys eða haug þykjast menn geta séð í túni á Nesjum, sem áður lá til Másbúða, og segir fólk, að þar liggi undir Már sá, sem fyrstur hafi byggt Mársbúðir. Því er líka bætt við munnmæli þessi, að Katla hafi heitið kona hans, skörungur mikill. Annar haugur sé og í túninu, undir hverjum að liggi smali Márs.
Þetta, í flýti saman tekið og uppskrifað, en þó sem sannleikanum næst og nákvæmast sem orðið gat, biður undirskrifaður félagið vel að virða.”

Kálfatjarnarprestakall – Pétur Jónsson 1840
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Takmörk Njarðvíkusóknar að utanverðu er skurður eður dæld, sem liggur beint frá heiði, rétt við höndlunarstaðinn Keflavík ofan við sjó; frá hans efri enda upp í heiðinni að Gömlu-Þúfu á svo kölluðu Háaleiti, af hvörju sjá má umhverfis 3já vegu í sjó.
Hvergi er rennandi vatn, en brunnar grafnir, víðast slæmir og saltir.
Höfuðbæir í Njarðvíkum eru tevir; innri- og Ytri-Njarðvík; hinir eru afbýli, hjáleigur og kot.
kirkjan í Njarðvík, orðin altimburkirkja, á ekkert utan það hún á stendur, þar sem hún fékki ekki kirkjrétt fyrri en í Jóns biskups Vídalíns tíð, og Njarðvíkur áttu áður kirkjusókn yfir heiði, suður í Hafnir; varð fyrst annexía frá Hvalsnesi og þar eftir að Kálfatjörn.
Á Kálfatjörn er nýbyggð altimburkirkja.
Þetta er það helsta, sem ég get skýrt frá.”

Garðaprestakall – Árni Helgason 1842
Gullbringu- og Kjósarsýsla
“Álftanessveit, sem yfir grípur Garða- og Bessastaðasóknir, hefur að norðanverðu við sig Reykjavíkursókn, að sunnanverðu Kálfatjarnar.
Á næstliðnu sumri þóttist fyrrverandi kaupkm(aður) í Keflavík A. Gunnarssonon hafa fundið brennisteinsnámu í Hraunamannalandi, nálægt Stórhöfðastígsvegi, er enginn vissi af áður. Hann segist hafa sent út með kaupmanni Siemsen nokkuð af þessum fundið, en eg þekki ei dóminn.
Þesir bæir eru í Garðasókn: Syðst Lónakot, þá Óttarstaðir með tveimur hjáleigum, Straumur, Þórbjarnarstaðir með tveimur tómthúsum, Lambhagi. Allir þessir bæir heita einu nafni Hraunabæir. Nú kemur Hvaleyi með 5 hjáleigum; ei hafa þær allar grasnyt. Óseyri með tómthúsi. Ás með tíomthúsi. Ófriðarstaðir, Hamarskot. Sá eiginlegi Havnarfjarðarhöndlunarstaður tekur nú við. Þar var áður jörð tilheyrandi Garðakirkju, sem hét Akurgerði; nú sjást hennar ekki menjar. Þessi jörð var tekin frá Garðaprestakalli fyrir hálfa Rauðkollsstaði vestur í Hnappadalssýslu. Enginn veit nú, hvað mikið land Akurgerði fylgdi, og þingsvitni, sem tekið var nálægt 1790, gat engu orkað, það hefir dankað svona, að kaupmenn, sem eiga Akurgerði, eigna sér ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamrakotslæk, og prestar í Görðum hafa eigi ákært. Á þessu petti eru nú þrjú höndlunaraðsetur, grossera KnutZons, Thomsens og Linnets.
Í Bessastaðasókn eru þessir bæir: Bessastaðir, Lambhús og Breiðabólstaðir.
Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því sokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit eg og, að nú brúkar enginn hér selstöður, og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöðu héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 a 60 ár.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Úr sókninni liggur vegur úr Hafnarfirði upp í Selvog, sem heitir Grindarskraðavegur. Syðst er Ólafsskarðsvegur, svo er Lágaskarð og loks Hellisheiðarvegur. Á þessum vegi eru, þá Hellisheiði er farin, 3 sæluhús; þeir, sem fara Lágaskarð, gefa haft gagn af einu þeirra, og af öðru þeirra þeir, sem fara Ólafsskarð. Hjá Arnarnesi liggur og vegur og til hægri handar, þá héðan er farð, upp úr Kópavogi inn að Helliám, sem kemur þar saman við alfaraveg allra austa, norðan- og vestanmanna, sem ferðast til Reykjavíkur. Við fleta þessa vegi er gjör árlega, brýr lagðar hér og hvar yfir bleytuflög, en vörður brúkast ei nema á fjallvegum og þó ei öllum. Á Hellisheiðar- og Lágaskarðsvegi eru Bolavellir, upp vi fjallið, og Vötnin, nokkru nær byggðinni hérna megin, almennustu áfangastaðirnir. Helliskot er næsti bær á sama vegi hérna megin við fjallið, hinum megin Reykir eða Reykjakot.
Fornleifar eru varla, að megi kalla. Skoðað hef eg klappir þær, sem eru utarlega á Hvaleyrarhöfða, og séð, að þær eru margvíslega útrispaðar (bergið er ekki hart). Mörg nöfn get eg þar lesið, sem voru alþekkt nöfn danskra og þýskra, og eru þessi nöfn líklega skrifuð þar af sj´ómönnum framandi þjóða, helst meðan kaupstaðurinn var þeim megin við fjörðinn, rétt eins og margir hafa grafið nöfn sín inní bergið í Rauðshellir, sem þangað hafa komið; sums staðar er hvað skrifað ofan í annað. Mögulegt er, að þeir, sem betur eru læsir, geti hér fundið rúnir.
Gerði tvö, sem sumir ætla, að séu dómhringir, finnast. Hið annað á Hofstöðum, hitt í Ráðagerðistúni, sem er næsti bær við Garða.

Lýsing á Mosfells- og Gufunessóknum – Stefán Þorvalddson 1955
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Mosfellsprestakall er tvær kirkjusóknir, Mosfells og Gufuness.
Þrír liggja þjóðvegir um sóknirnar; 1. Vegur sá, er liggur norðan yfir Svínaskarð, sem er stuttur fjallvegur milli Kjósar og Kjalarness og Mosfellssveitar. – 2. Sá, er liggur austan yfir Mosfellsheiði og fram í Seljadal, niður hjá bæjunum Þormóðsdal, Miðdal og Reynisvatni og Árbæ, og 3ji vegurinn liggur suðaustan yfir Hellisheiði, fyrir sunna Helliskot og norðan Klapparhlt og Árbæ.
Fornmenjar eru hér fáar sem engar, hvörki rúnir eða myndir, húsatóftir eða dómgringar. En haugur einn er hér í dalnum, á landamærum milli Hraðastaða og mosfells, á sléttu undirlendi við Suðurá, og er haugur sá nefndur Hraðaleiði. Hann er aflangur og snýr í norður og suður og ekki allstór. Það er mælt, að Hraði hafi verið þræll í fornöld, en hafi fengið frelsi, og hafi hann þá reist bæs inn þarm er enn kallast Hraðastaðir, og sé þessi haugur yfir hann orpinn og við hann kenndur.”

Lýsing á Reynivallasókn – Sigurður Sigurðsson 1940
Gullbringu- og Kjósarsýsla
“Meðtekið hefi eg á næstl(iðnu) sumri ykkar heiðursverða og góða bréf til mín af 30. apríl f.á., áhrærandi það efbi að svara upp á þær spurningar, sem bréfið hljóðaði upp á. En bæði vasleysi þá í stað og sumarannir hindruðu mig frá því að sýna lit á að koma þessu í verk, síst í lagi nokkuð eftir óskum, sem þurfti, þar fáviska, aldurdómur og ókunnleiki, þar sem maður kemur gamall langt að, bægði mér að geta nákvæmari útmálan gefið en þessa.”

Heimild:
-Gullbringu- og Kjósarsýsla; sýslu og sóknarlýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855, Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson, Sögufélagið 2007.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Kort Björn Gunnlaugssonar.

Ása

Í Þjóðmálum, 2. hefti 01.06.2015, er fjallað um “Ásustrandið 1926” utan við Járngerðarstaði í Grindavík, en það mun hafa verið upphafið að endalokum Duus-verslunar í Keflavík. Enn í dag má sjá ketilinn úr togaranum á fjöru í Stórubót, auk þess enn má bera augum skipsbjölluna sögulegu á veitingastaðnum Bryggjunni í Grindavík.

Duus

Hús Duusverslunar í Keflavík.

“Peter Duus og kona hans, Ásta Tómasdóttir Beck, stofnuðu útgerðar- og verslunarfélagið H.P. DUUS árið 1848. Það var starfrækt í Keflavík til ársins 1920 þegar starfsemin var flutt til Reykjavíkur. Árið 1904 keypti H.P. Duus, eða Duusverslun, tæplega níutíu tonna kútter sem bar nafnið Ása. Kútter Ása strandaði við Hvalsnes 10. október 1917. Þrátt fyrir erfið skilyrði bjargaðist áhöfnin í land og varð ekki manntjón. Skipið var á leið til útlanda með saltfiskfarm, veðrið var ágætt en skyggni lítið vegna þoku.
H.P. Duus lét óhappið ekki slá sig út af laginu og uppfærði hinn ónýta kútter þegar í almennilegan togara úr járni. Sá hét áður Vínland en fékk nú nafnið Ása. Hann var var ríflega þrjú hundruð tonn, smíðaður í Hollandi 1917 og talinn hið ágætasta skip.
Útgerðin gekk ágætlega næstu árin, allt fram að því að Ása strandaði á Víkurflúðum undan Malarrifi í desember 1925. Togarinn eyðilagðist á strandstað en áhöfnin bjargaðist eftir nokkra hrakninga, líkt og gerðist þegar kútterinn Ása strandaði við Hvalsnes. Rétt eins og þá var það var talið sérstakt happ að áhöfnin skyldi sleppa ósködduð úr strandi á þessum stað í slæmu veðri.
Fram að þessu strandi hafði verið nokkur völlur á Duus-verslun. Hún átti í byggingu nýjan togara í Englandi hjá skipasmíðastöðinni Smiths Dock Co. Ltd. Þrátt fyrir að strand Ásu við Malarrif skekkti nokkuð fjárhag fyrirtækisins var nýsmíðinni haldið áfram og og var nýi togarinn sjósettur í febrúar 1926. Mánuði síðar kom skipið til Reykjavíkur í fyrsta sinn, nefnt Ása RE 18, þrátt fyrir fyrri áföll tveggja skipa með því nafni.

ÁsaDuus-verslun átti allt sitt undir útgerð þessa skips. Það var vel vandað að allri gerð og talið eitt glæsilegasta og best búna skip togaraflotans.  Skipið fór í sínu fyrstu veiðiferð á svonefndum Grunnhalla á Selvogsbanka. Þar fékkst fullfermi og upp úr miðnætti 2. apríl 1926 var haldið af stað til Reykjavíkur.
Klukkan að ganga fjögur um morguninn varð fólk í Grindavík þess vart að skip var strandað á Flúðum austan Járngerðarstaðahverfis. Skipverjar sendu belg í land með orðsendingu þess efnis að þeir myndu halda kyrru fyrir í skipinu uns fjaraði út. Með orðsendingunni fengu Grindvíkingar að vita um hvaða skip var um að ræða.
Um hádegisbil lét áhöfn Ásu björgunarhring með línu reka í land. Björgunarmenn drógu síðan togvír á línunni og festu í landi. Áhöfnin sagaði í sundur tunnu og útbjó björgunarstól og einnig bjuggu skipverjar til dragreipi.

Ása

Ketill Ásu í Stórubót – h.m.

Á þessum tímum voru ekki komin björgunartæki sem nú eru til, enda var erfitt að koma á sambandi milli skips og lands. Það var álandsvindur á suðaustan og nokkur stormur en í land var löng leið því að þarna er útgrynni. Fyrst vildi línan festast í botni þar til haft var nógu stutt á milli flotholta á henni, þá fékkst hún til að reka vestur á Stórubót. Á lága sjónum var hægt að fara á bát út á Bótina og ná þannig í belginn. Þá var eftir að bera línuna þangað sem styst var í land frá skipinu en það var í Eystri-Hestaklettinum. Eftir að það hafði tekist var fljótlega gengið frá tækjum svo að hægt væri að draga mennina í land. Það gekk vel og allir björguðust.
Þar sem hér var um nýtt skip að ræða var mikið gert til að ná því út aftur. Meðal annars var fengið til þess danskt björgunarskip, Uffe. Það mun hafa verið í maímánuði sem Uffe byrjaði á björgunarstarfinu og var við það nokkuð fram í júnímánuð. Mestur tíminn mun hafa farið í að létta Ásu og steypa í göt sem komin voru á botninn og einnig að slétta fjöruna sem draga átti skipið eftir.
ÁsaÞegar þessum undirbúningi var lokið var á stórstraumsflóði farið að taka í skipið og var það dregið 2–3 lengdir sínar út. Af einhverri ástæðu var þá hætt að draga skipið þannig út, með afturendann á undan, og farið að snúa því þarna í fjörunni. En þegar skipið var komið nokkurn veginn þversum, þ.e. lá flatt fyrir sjónum, hreyfðist það ekki meira — og þannig var skilið við það litlu seinna. Það hélt margur hlutlaus áhorfandinn að hægara hefði verið að snúa skipinu þegar það hefði verið komið á flot en að gera það meðan það lá í fjörunni.
Fyrstu dagana í júlí gerði storm og brim. Á einu flóðinu hvarf Ása algerlega svo að ekkert sást eftir nema brak í fjörunni og ketillinn þar sem skipið hafði verið. Svo virðist að það verki eins og dínamítsprengja þegar brimsjór fellur ofan í skip með opnar lúgur, krafturinn er svo mikill á sjónum ásamt því að samþjappað loft er inni í skipinu. Jafnvel þótt um járnskip sé að ræða geta þau tæst í sundur undan nokkrum sjóum.
En þótt brimaldan brjóti skipskrokka, gamla sem nýja, eru nokkrir hlutir um borð í togurum sem brim nær ekki að mala. Togspil, gufuketill og aðalvél eru svo gegnsterk að þótt allt annað hverfi standa þau af sér stórsjóina til áratuga og verða eins konar minnismerki um liðna atburði og hálfgleymda. Þannig er einmitt um ketil og aðalvél Ásu RE 18 sem enn má sjá á fjöru neðan við Stórubót vestan Grindavíkur.

Ása

Ása – bjallan á Bryggjunni.

Vel má gera sér í hugarlund það áfall sem eigendurnir urðu fyrir þegar hinni nýju Ásu tókst ekki einu sinni að ljúka sinni fyrstu veiðiferð. Það hafði aldrei verið landað afla úr skipinu en það var að fara í land, sem fyrr segir, með fullfermi úr sinni fyrstu veiðiferð.
Sú saga gekk á sínum tíma manna á meðal að upphaf endaloka Duus-verslunar hafi verið þegar hún hóf byggingu fiskhúss við Kaplaskjól í Reykjavík árið 1917. Þar sem húsið átti að standa var fyrir hóll. Þegar farið var að grafa fyrir grunni hússins dreymdi stúlku eina í nágrenninu að til hennar kæmi kona. Hún bað stúlkuna að fara til Duus og segja honum að hún byggi í hólnum og biðja hann að byggja hús sitt annars staðar. Stúlkan gerði svo sem fyrir hana var lagt. En hún talaði fyrir daufum eyrum. Duus hafði ekki trú á draumnum og lét halda áfram byggingunni. Konan hélt áfram að birtast stúlkunni í draumi og varð því þungbúnari sem byggingunni miðaði áfram. Að endingu lét hún svo um mælt að verk þetta skyldi marka endalok velgengni Duus-verslunar.
Hvort sem marka má drauminn eður ei reið hvert áfallið af öðru yfir Duusverslun upp frá þessu og þrjá skipstapa á nokkrum árum — síðast strand hinnar nýju Ásu — þoldi fyrirtækið ekki.
Eitt af því sem varðveittist í Ásu-strandinu við Grindavík 1926 var skipsbjallan. Líklega hefur Einar Einarsson, útgerðarmaður og stórkaupmaður í Grindavík, eignast bjölluna eftir strandið. Næstyngsti sonur Einars, Hlöðver Einarsson, seldi bjölluna síðar Davíð Sch. Thorsteinssyni iðnrekenda og athafnamanni. Haustið 2014 gaf Davíð Jóhannesi Einarssyni, einum af yfirmönnum Cargolux í Lúxemborg, síðar ræðismanni Íslands í Mónakó, bjölluna, en Jóhannes er yngri sonur Einars Sigurjóns Jóhannessonar sem var fyrsti vélstjóri á Ásu.”
Bjallan framangreinda hangir nú á veitingastaðnum Bryggjunni við höfnina í Grindavík þar sem meðfylgjandi mynd var tekin.

Heimild:
-Þjóðmál. 2. hefti 01.06.2015 – Ásu-strandið 1926, bls. 52-55.

Ása

Ása – skipsbjallan á Bryggjunni.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall er móbergsfjall á Reykjanesskaganum vestanverðum. Það er talið vera vestasti hluti Reykjanesfjallgarðsins, en vestan þess eru stök fell. Fagradalsfjall er aflangt frá austri til vesturs, um 385 metrar á hæð og er þar með hæsta fjall á Reykjanesskaga. Það hefur orðið til á ísöld við gos undir jökli og er smáhraunlag á því ofanverðu, sem gefur til kynna að gosið hafi náð lítið eitt upp úr jöklinum. Fjallið flokkast því sem stapi.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Fagradalsfjallskerfið er fyrst nefnt hjá Mary Gee. Hún dregur fram öll helstu einkenni þess, en það er um flest ólíkt öðrum eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga. Kerfið er um fimm kílómetra breitt á milli Svartsengis- og Krýsuvíkurkerfanna. Lengdin er um 15 kílómetrar milli Keilis í norðaustri og Húsafjalls í suðvestri. Sérstaða þess felst í því að eiginlegur sprungusveimur tengist því ekki, og fátt er um misgengissprungur og gjár með norðaustur-suðvestur stefnu. Þar er ekki heldur að finna langar gossprungur. Hins vegar eru þar allmargar skjálftasprungur með norð-suðlæga stefnu. Háhitasvæði tengist því heldur ekki.
Einkennandi gosmyndanir eru dyngjur eða ígildi þeirra, það er stapar, bólstrabergs- og móbergsstrýtur, sem og stuttar gossprungur og snubbóttir móbergshryggir. Langihryggur er þeirra lengstur, um tveir kílómetrar. Tvær stórdyngjur eru í kerfinu, Fagradalsfjall, raunar stapi, vart eldri en frá síðasta jökulskeiði, og Þráinsskjöldur frá síðjökultíma, sjá mynd. Aldursgreiningar á skeljum næst undir breksíuhluta Þráinsskjaldar á Vatnsleysuströnd gáfu aldurinn 12.620±55 og 12.605±50 kolefnisár sem samsvarar um 14.100 almanaksárum.

Land á Reykjanesskaga utanverðum hefur orðið íslaust á Bølling-Allerød hlýskeiði. Það hófst fyrir um 14.500 árum og lauk fyrir 12.500 árum. Eftir fylgdi 1000 ára kuldaskeið, yngri Dryas, með nýrri framrás jökuls. Þetta 3000 ára tímabil er oft nefnt síðjökultími og þá runnu elstu hraunin á utanverðum Reykjanesskaga, þar á meðal Þráinsskjöldur. Þegar hann myndaðist hefur sjávarborð verið um 35 metrum lægra en nú, en skilin milli hrauns og breksíuhluta í honum eru á því dýpi.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

Að frátöldum stórdyngjunum eru 30-40 smáfell í Fagradalsfjallskerfinu. Þau eru þó ekki endilega mynduð í jafnmörgum gosum. Sex þeirra, þar á meðal Skála-Mælifell, eru úr öfugt segulmögnuðu, ólivínríku bergi. Aldursgreiningar sýna þau um 90.000 ára, frá segulflöktstíð sem kennd hefur verið við Skála-Mælifell. Af öðrum goseiningum kerfisins má nefna Festarfjall. Þar má sjá gosganginn í sjávarhömrum, Festina sem fæddi það. Gangur úr pikríti með stefnu á Lyngfell (einnig úr pikríti) sést í fjörustálinu nokkru austar en Festin, efalaust aðfærsluæðin. Gossprungan hefur í því tilviki verið um 700 metra löng. Bergið í goseiningum kerfisins er þóleiít, ólivínbasalt og pikrít.

Vatnsheiði

Við op K-9 neðst í Vatnsheiði.

Í kerfinu eru tólf gígar og stuttar gígaraðir frá eftirjökultíma, allt í því vestanverðu, nema ein dyngja á austurjaðrinum, norðan í Hraunsels-Vatnsfelli. Óvíst er hvort gos hafi verið jafnmörg. Elst hraunanna er sennilega Hrólfsvíkurhraun, frægt fyrir fjölda hnyðlinga sem aðallega sjást í einu belti. Líklega hefur gosið byrjað í sjó og þá myndast túffbingurinn í Berjageira upp af Hrólfsvík. Sjór hefur eytt honum að hluta áður en hraunið úr Vatnsheiði lagðist að og varði hann fyrir frekara rofi.
Aðalgosreinin frá eftirjökultíma nær frá Vatnsheiði norðaustur fyrir Fagradalsfjall með tíu hraunum. Stærst þeirra, að undanskildum Þráinsskildi, eru smádyngjan Vatnsheiði, að mestu leyti úr pikríti, og Borgarhraun úr þóleiíti. Borgarhraun er upprunnið í fjórum gígum suðvestan í Fagradalsfjalli. Önnur hraun eru lítil, en erfitt er þó að ákvarða stærð þeirra, því að yngri hraun hafa lagst yfir þau vestan frá. Yngsta hraunið í kerfinu mun vera Beinavörðuhraun, en það er eldra en Reykjanesgjóskan R~6000.

Heimildir:
-Gee, M. A. M., 1998. Volcanology and Geochemistry of Reykjanes Peninsula: Plume-Mid-Ocean Ridge interaction. Doktorsritgerð, Royal Holloway University of London. 315 bls.
-Kristján Sæmundsson, óbirt gögn 2011.
-Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1995c. Um aldur stóru dyngnanna á utanverðum Reykjanesskaga. Eyjar í eldhafi. Afmælisrit til heiðurs Jóni Jónssyni jarðfræðingi (Björn Hróarsson, Dagur Jónsson og Sigurður Sveinn Jónsson í ritnefnd). Gott mál, Reykjavík, 165-172. Aldursgreiningar á bergi úr sex af þessum fellum gáfu fyrst til kynna að þau væru um 46.000 ára, frá svokallaðri Laschamp-segulflöktstíð (kennt við þorpið Laschamp í Chaine de Puys í Mið-Frakklandi) (Levi og fleiri, 1990. Late Pleistocene geomagnetic excursion in Icelandic lavas: confirmation of the Laschamp excursion. Earth and Planetary Science Letters, 96, 443-457).  Nákvæmari aldursgreiningar á fjórum af þessum öfugt segulmögnuðu fellum (Jicha og fleiri, 2011) sýna hins vegar, að þau eru mun eldri eða um 90.000 ára.
-Sveinn P. Jakobsson og fleiri, 1978. Petrology of the Western Reykjanes peninsula, Iceland. Journal of Petrology, 19, 669-705.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65697

Fagradalsfjall

Jarðskjálftar í og við Fagradalsfjall.