Tag Archive for: Ögmundarhraun

Katlahraun

Í Dagblaðinu Vísir, helgarblaði árið 1983 er fjallað um Ögmundar- og Katlahraun undir fyrirsögninni „Aðrar dimmuborgir“ og undirsögninni „svipast um á skrítnum slóðum í Ögmundarhrauni við Grindavík„.

„Suðurhluti Reykjanesskaga er ekki í alfaraleið. Þjóðbrautin liggur tugi kílómetra frá, og því hefur svo verið lengi að fáir ferðamenn hafa lagt leið sína til þessa landshluta. Það verður að teljast miður, ef höfð er í huga sú merkilega en jafnframt hrikalega náttúrufegurð sem þar gefst að skoða.

Í Katlahrauni
Katlahraun
Einhver sérstæðasti staður suðurstrandar Reykjanesskagans er án efa Ögmundarhraun. Það liggur milli Grindavíkur og Krýsuvíkur — á láglendinu milli fjalls og fjöru — og þekur um sextán ferkílómetra í það heila.
Í hrauninu er að finna marga sérkennilega staði. Einn þeirra er þar sem heitir í Katlahrauni. Hann er nánast inni í miðju Ögmundarhrauni og er harla vandfundinn enda hafa fáir Íslendingar séð hann. Staðurinn er eiginleg sigdæld og markast af háum hraunveggjum allt í kring.
Katlahraun
Þegar gengið er fram á brún sigdældarinnar er sem yfir víðfeðman íþróttaleikvang að líta, slík er lögun hennar. Niðri í þessari hraunborg er yfir illfært og gróft helluhraun að fara, sem er víða sprungið, og því hættulegt yfirferðar en fjölbreytnin í landslaginu þarna er töfrandi og svo til endalaus. Háa hraunstapa er að finna niðri í dældinni svo og ýmsar aðrar sérstæðar hraunmyndanir, svo sem þar sem helluhrauniö hefur brotnað í hluta og staflast upp í þyrpingar og myndað allskyns hella og skúmaskot.

Hellar og skútar
Katlahraun
Í veggjunum eða hraunfjöllunum sem afmarka sigdældina eru margir hellar, misstórir eins og gengur, en þeir stærstu eru allt að tíu metra langir og álíka háir. Litlir bergskútar eru um allt í veggjunum og á einum stað er eins og þeir myndi eins konar hillusamstæðu í hraunfjallinu.
Á öðrum stað má skoða einhverja sérkennilegustu hraunmyndun sigdældarinnar. Þar jafnast lögun bergsins á við kirkjuhurð! „Ef huldufólk er á annað borð til, þá býr það þarna,” lét einhver hafa eftir sér sem leið átti um. Þessi náttúrlega hurð sést á einni ljósmyndinni sem fylgir þessum texta og er rétt að geta að hún er um tveir metrar á hæð en breiddin um hálfur annar metri. Í heild sinni minnir þessi hraunborg í Ögmundarhrauni — sigdældin og hraunveggirnir í kringum hana — mjög á Dimmuborgir í Mývatnssveit.
Katlahraun
Gróðurinn er þó ekki eins mikill og nyrðra en kynjamyndirnar og sérkennileg lögun hraunsins er allt eins mikil. Og fyrst minnst er á gróður þá er vert að geta þess að fyrir utan mosann vex í þessari hraunborg um eins metra hár burkni um hásumartímann, og segja þeir sem komið hafa á staðinn á þeim tíma að hvergi annars staðar í landinu hafi þeir séð svo merkilegt blómskrúð sem þennan burknagróður inni í stórbrotnu helluhrauninu.

Ögmundur og vegurinn

Ögmundarhraun

Hin forna gata um Ögmundarhraun, áður en vagnvegurinn var lagður.

Nafn sitt dregur Ögmundarhraun af manni þeim sem fyrstur er álitinn hafa rutt vegslóða yfir þetta illfæra svæði. Er sagt frá því í heimildum frá átjándu öld að Ögmundur nokkur hafi rutt veg um hraunið og verið myrtur að launum austan við það, þar sem dys hans sé. Á nítjándu öldinni voru svo skráðar ítarlegri sagnir um Ögmund þennan. Jón Vestmann prestur í Selvogi skráir sögu um Ögmund og Ögmundarhraun tvisvar á fyrri hluta nítjándu aldar. Hjá honum er sagan lík um Ögmund, nema þar vinnur hann við vegagerðina gagngert til að fá dóttur bónda nokkurs í héraðinu sér til handa, en bóndi drepur hann sofandi áður en hann fær hennar.
Brynjólfur frá Minna-Núpi skráði einnig sögu um Ögmund og þetta hraun sem við hann er kennt á síðari hluta nítjándu aldar. Þar er sagan svipuð hinum fyrri en vegurinn um Ögmundarhraun fær þessa einkunn:

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Deilt um aldur
Katlahraun
Annars hefur mikið veriö skrifaö um ögmundarhraun sem slíkt. Einkum og sér í lagi hefur mikið verið fjallað um hugsanlegan aldur þess — og eru menn ekki á eitt sáttir um hvenær þetta hraun hafi flætt yfir. Þó er vitað með vissu að það hafi gerst eftir að landnám hófst. Er Ögmundarhraun samkvæmt því yngsta hraunið á Reykjanesskaga.
Katlahraun
En hvenær í sögu Íslandsbyggðar hraunið rann eru menn ekki vissir um og um getgátur eru menn ekki sammála, sem fyrr segir. Hafa menn reyndar skipst í tvo nokkuð vel afmarkaða hópa í þessum efnum. Vill annar ætla að hraunið hafi runnið á fyrri hluta elleftu aldar, nánar tiltekið árið 1010, og byggir hann þá ágiskun sína á geislakolsaðferðinni svokölluðu, þar sem tekin eru sýni víða úr hrauninu og þau aldursgreind á rannsóknarstofu.
Hinn hópurinn rýnir fremur í ritheimildir en jarðsýni og telur þær gefa eðlilegri og raunhæfari vísbendingu um aldur hraunsins. Er bent á að ekki sé getið hraungosa á Reykjanesskaga í heimildum fyrr en komi fram á sexlándu öld. Um sama leyti hafi kirkjustaðurinn Krýsuvík verið lagður niður sem slíkur og telur hópurinn orsökina vera hraunrennslið. Af þessu, svo og mörgu öðru, megi draga þá ályktun að Ögmundarhraun hafi runnið seint á árabilinu 1558 til 1563.

Hver maður hrífst af

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Hvað sem aldri Ögmundarhrauns líður, þá er það að finna í öllu sínu veldi við suðurströnd Reykjanesskaga — og þeir sextán ferkílómetrar sem það þekur eru mikilfengleg náttúruundur sem hver maður hrífst af. Til vitnisburðar um það eru myndirnar sem hér birtast á síðunni, en þær eru teknar í þeirri merkilegu sigdæld sem er að finna inni í miðju Ögmundarhrauni og áður var minnst á.“ – SER

Heimild:
-Dagblaðið Vísir, 131, tbl., helgarblað 11.06.1983, Aðrar dimmuborgir, bls. 16-17.

Katlahraun

Kaltlahraun – Selatangar fjær.

Kapelluhraun

Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson skrifuðu grein í Jökul árið 1991 um „Kapelluhraun og gátuna um aldur Hellnahrauns„:

Sigmundur Einarsson

Sigmundur Einarsson.

„Fjórir aðskildir hraunflákar mynduðust í Krýsuvíkureldum. Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó. Næst norðan við það er lítið hraun sem mnnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megingossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Hraunin eru dæmigerð fyrir apalhraunin sem koma upp í gliðnunarhrinum á Reykjanesskaga. Hraunin eru þunnfljótandi og gasrík og mynda oft þunnt frauðkennt helluhraun næst gígunum. Algeng þykkt slíkra hrauna er um einn metri á sléttu landi og eru hraunaðrarnir oft ekki nema um hálfur metri á hæð. Þegar hraunin hafa runnið nokkur hundruð metra frá gígunum hefur verulegur hluti gassins verið rokinn úr hraunkvikunni, þannig að hún verður seigari og hraunið þykknar og breytist smám saman í apalhraun sem verður þeim mun úfnara sem fjær dregur gígunum. Hæstu hraunjaðrar af þessari gerð á Reykjanesskaga eru 10-15 m.

Ögmundarhraun

Haukur Jóhannesson

Haukur Jóhannesson.

Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunnar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og rann í sjó fram á um 5 km breiðu belti. Hraunið fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík. Þessi hraunfláki er stærstur af þeim fjórum sem mynduðust í Krýsuvíkureldum. Hann gæti hafa myndast í tveimur gosum (en þó í sömu goshrinu). Sá hluti hraunsins sem kominn er frá gígunum við Djúpavatn hefur runnið til austurs og síðan til suðurs austan Traðarfjalla. Við suðurbrún Traðarfjalla leggst yfir það yngra hraun sem runnið hefur frá þeim hluta gígaraðarinnar sem liggur í skarðinu milli Traðarfjalla og Núpshlíðarháls. Hraunið er allúfið austan Traðarfjalla, enda hefur það runnið þar í nokkrum halla.

Syðri hluti hraunsins fyllir allan Móhálsadal sunnan Traðarfjalla. Þar er hraunið víðast slétt hellhraun en í dalnum ofanverðum er það að verulegu leyti horfið undir framburð lækja, sem er afar mikill á þessum slóðum.

Krýsuvíkureldar

Krýsuvíkureldar – hraunakort.

Móbergið í hálsunum í grennd er mikið ummyndað vegna jarðhita og því auðrofið. Jafnhliða ummynduninni þéttist bergið þannig að úrkoma hripar ekki beint niður, eins og víðast á Reykjanesskaga, heldur myndar læki sem renna á yfirborði. Þeir hverfa reyndar fljótlega niður í jörðina er þeir koma út fyrir ummyndaða svæðið. Af þessum sökum er ógerningur að segja til um þykkt hraunsins í dalnum. Meginhraunið hefur komið upp í dalnum sunnanverðum. Þegar hraunið fellur suður úr dalnum breytist það að mestu í úfið apalhraun, enda búið að renna alllangan veg frá gígunum. Hraunið hefur síðan runnið allt til sjávar og fyllt hina fomu Krýsuvík. Ætla má að á flatlendi sé hraunið víðast um 5-10 m þykkt og miklu þykkara þar sem það náði út í sjó. Í Móhálsadal er það eflaust nokkru þynnra og vart meira en 3-4 m þykkt, en slík tala er þó ágiskun ein. Flatarmál hraunsins er um 18,6 km2 og ef gert er ráð fyrir 7 m meðalþykkt er rúmmálið um 0,13 km3.
Norður af Djúpavatni liggur ungleg gígaröð til norðausturs eftir Móhálsadal, í beinu framhaldi af gígum Krýsuvíkurelda.

Hellnahraun

Hellnahraun

Mannvirki í Eldra-Hellnahrauni.

Helluhraunið sunnan og vestan við Hvaleyrarholt í Hafnarfirði heitir Hellnahraun (Guðmundur Kjartansson hefur nefnt hraunið Hvaleyrarhraun þar sem hann minnist á það í sínum greinum og það nafn hefur hraunið fengið á kortum Landmælinga íslands. Flestir jarðfræðingar sem um það hafa fjallað hafa álitið hraunið mjög gamalt, án þess þó að færa fyrir því haldbær rök. Hraunið er dæmigert helluhraun, með ávölum sprungnum hraunkollum, að mestu gróðurlaust nema í gjótum og bollum og þess sjást engin merki að það hafi nokkum tíma verið gróið að marki. Allt var á huldu um aldur hraunsins þar til sumarið 1986, en þá tókst okkur að finna nothæft jarðvegssnið sem liggur inn undir hraunið, norðvestan við Stórhöfða. Þar kom í ljós að Landnámslagið liggur inn undir hraunið. Áður töldum við að Hellnahraun hefði runnið í sama gosi og Kapelluhraun og einnig að Hellnahraun og hraunið frá Óbrinnishólum væru eitt og sama hraunið (sbr. Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980).

Selhóll

Selhóll í Eldra-Hellnahrauni, skammt vestan Hvaleyrarvatns.

Við nánari könnun á Óbrinnishólum sumarið 1989 kom í ljós að athuganir Jóns Jónssonar (1974) á þeim standa óhaggaðar. Þá var aðeins eftir að kanna mót Hellnahrauns og Óbrinnishólahrauns nánar, en á jarðfræðikorti Jóns Jónssonar (1978a) er Hellnahraunið talið eldra. Könnunin leiddi í ljós að vestur af Stórhöfða hefur Hellnahraunið augsýnilega runnið út yfir hraunið frá Óbrinnishólum og er því örugglega yngra. Að fenginni þessari niðurstöðu þótti ljóst að Hellnahraun hlaut að hafa komið upp nærri nyrsta hluta Undirhlíða. Þar er þó engum eldstöðvum til að dreifa nema Gvendarselsgígunum en hraunið frá þeim hefur greinilega runnið út yfir Hellnahraunið. Hægt er að ímynda sér að gígarnir hafi horfið undir Gvendarselshraun en sú skýring er ekki sennileg í ljósi þess hversu þunnt Gvendarselshraunið er. Einnig má hugsa sér að Hellnahraun hafi komið úr sjálfum Gvendarselsgígum í byrjun goss en sú skýring verður að teljast langsótt.

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun (svart), Yngra-Hellnahraun (grátt), Óbrinnihólabruni (ljósgrár) og Kapelluhraun (blátt). Fært inn á nútíma loftmynd.

Eftir allmiklar vangaveltur um uppruna Hellnahrauns fannst, eins og stundum vill verða, einföld og augljós skýring. Hraunið er einfaldlega ekki komið úr eldstöðvakerfi Trölladyngju, heldur eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Sunnan undir Helgafelli er allmikill helluhraunsfláki. Næst Helgafelli liggur ofan á honum tiltölulega mjór taumur af yngra helluhrauni sem hverfur inn undir Gvendarselshraun.
Jón Jónsson (1977) hefur fjallað um hraun þetta og telur það komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum. Ekki verður annað séð en að Hellnahraun sé framhald Tvíbollahrauns til vesturs. Í Krýsuvíkureldum flæddi hraunið frá Gvendarselsgígum yfir hluta hrauntaumsins þannig að samhengið rofnaði og hefur það villt mönnum sýn. Hellnahraun er auk þess einsdæmi á Reykjanesskaga að því leyti að það hefur runnið þvert yfir eitt eldstöðvakerfi og langleiðina yfir í það næsta, þ.e.a.s. hraunið kemur upp í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla, rennur þvert yfir eldstöðvakerfi Trölladyngju og þar sem það liggur næst sjó við Hvaleyrarholt er það í aðeins um 5 km fjarlægð frá austustu sprungunum sem þekktar eru í eldstöðvakerfi Reykjaness.

Hellnahraun

Yngra-Hellnahraun ofan Hafnarfjarðar.

Þegar Hellnahraunið var kannað nánar sumarið 1991 kom ýmislegt nýtt í ljós. Sem fyrr segir liggur Hellnahraunið út á hraunið frá Óbrinnishólum vestur af Stórhöfða. Við könnun á neðri hluta hraunsins reyndist aldursafstaðan þveröfug, þ.e. Óbrinnishólahraunið hefur runnið út yfir Hellnahraun. Þegar betur er að gáð reynist Hellnahraun samanstanda af tveimur hraunum sem hér á eftir verða nefnd Yngra- og Eldra-Hellnahraun. Hraunin eru ákaflega lík í ytri ásýnd og var nokkrum erfiðleikum bundið að greina þau að, en það tókst. Aldur Eldra Hellnahraunsins er ekki þekktur að öðru leyti en því að það er eldra en hraunið frá Óbrinnishólum og yngra en Búrfellshraunið. Eftir útliti að dæma er það þó vart eldra en 3000-1000 ára. Hraunið er líkt og Yngra-Hellnahraunið komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið í átt til sjávar.

Aldur Yngra Hellnahraunsins

Hellnahraun

Hellnahraun – gömul þjóðleið.

Jón Jónsson (1977) fann Landnámslagið undir Tvíbollahrauni og einnig kolaðarjurtaleifar sem hann lét aldursgreina. Taldi Jón hraunið hafa runnið á fyrstu árum Íslandsbyggðar. Árið 1988 tókum við sýni af koluðum jurtaleifum á sama stað og Jón hafði tekið sín sýni, við suðvesturhorn Helgafells. Einnig var tekið sýni af koluðum jurtaleifum undan Yngra Hellnahrauninu, í rústum af gömlum gervigíg, Rauðhól, skammt frá mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar.
Frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla hefur á sögulegum tíma runnið annar helluhraunstaumur, sem minnir mjög á Yngra-Hellnahraunið. Hraunið kom upp sunnan við Kistufell í Brennisteinsfjöllum, rann til norðvesturs eftir Lönguhlíðarfjöllum og síðan fram af þeim niður í Fagradal og Breiðdal við Undirhlíðar. Þetta hraun hefur Jón Jónsson (1978a) nefnt Breiðdalshraun. Aldursgreining, sem Jón lét gera, bendir sterklega til að það hafi runnið í sömu goshrinu og Yngra-Hellnahraun. Líklegast hafa öll þessi hraun runnið á sama tíma á 9. eða 10. öld.
Vegið meðaltal greininganna gefur tækjaaldurinn 1100+35 BP. Mestar líkur eru á að hraunin hafi runnið annaðhvort á árunum 894-923 eða, sem er mun líklegra samkvæmt útreikningunum, á árunum 938-983.“

Þeir félagar, Haukur og Sigmundur, skrifuðu einnig grein í Náttúrufræðinginn árið 1998; „Hraun í nágrenni Straumsvíkur„:

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni

Óbrinnishólabruni.

Fyrir um 1800 árum varð gos í Krýsuvíkurrein og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum við Bláfjallaveg (Jón Jónsson 1974). Hraunið frá þeim, sem að hluta heitir Óbrinnishólabruni, rann í mjóum taumi langleiðina niður undir Straumsvík. Gígarnir í Óbrinnishólum eru nú aðeins svipur hjá sjón því þeir hafa verið grafnir út.

Hellnahraunið yngra

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun í sjó fram sunnan Hvaleyrar.

Fyrir um eitt þúsund árum hófst goshrina á Reykjanesskaga (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991). Hrinan hófst með gosum í Brennisteinsfjallarein á tíundu öld. Þá runnu m.a. Svínahraunsbruni frá Eldborgum við Lambafell (Kristnitökuhraun), stórir hraunflákar í Húsfellsbruna komu frá Kóngsfellsgígum og Eldborg í Bláfjöllum og mikil hraun runnu frá gígaröðum í Brennisteinsfjöllum; runnu þau m.a til sjávar í Herdísarvík. Þá gaus í Tvíbollum í Grindarskörðum og rann einn hrauntaumurinn nánast sömu leið og Skúlatúnshraun í átt til Straumsvíkur. Hrauntaumurinn endaði skammt frá Sædýrasafninu sáluga og átti þá ófarna um 300 m til sjávar.

Kapelluhraun

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krýsuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni. Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krýsuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík. í sama gosi rann hraun frá röð minni gíga sem liggur meðfram Undirhlíðum og norður um Gvendarselshæð. Rann það m.a. niður í Kaldárbotna.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – hrauntröð.

Kapelluhraun er úfið apalhraun og hefur verið hinn versti farartálmi nýrunnið. Því hafa menn tekið það ráð að ryðja braut í gegnum það. Brautin hefur nú verið eyðilögð með öllu, að undanskildum um tuttugu metra kafla við svonefnda Kapellu sem er lítil rúst í hrauninu. Kristján Eldjárn rannsakaði kapellu þessa 1950 (Kristján Eldjárn 1956) og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Heilög Barbara var góð til áheita gegn eldsgangi hvers konar. Hún var einnig verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðsmannna og námumanna og raunar einnig verkfræðinga og jarðfræðinga. Kapellutóftin er á fornminjaskrá.
Kapelluhraunið var ákaflega fallegt, úfið og mosagróið, en nú hefur karganum verið flett af yfirborði þess á stórum svæðum svo hörmung er á að líta. Álverið í
Straumsvík stendur á hrauninu.

Heimildir:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1991, Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns – Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson, bls. 61-77.
-Náttúrufræðingurinn 3.-4. tbl. 01.05.1998, Hraun í nágrenni Straumsvíkur, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, bls. 171-177.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort Ísor.

Krýsuvíkureldar

Í Jökli 1991 er fjallað um „Krýsuvíkureldana“ 1151:

Gossprunga Krýsuvíkurelda

Krýsuvíkureldar
Gossprungan og hraunin sem frá henni hafa runnið em sýnd á 1. mynd. Eins og flestar gossprungur á Suðvesturlandi hefur hún meginstefnu nálægt N45°A. Gjallhröngl syðst í austurhlíð Núpshlíðarháls markar suðvesturenda gígaraðarinnar en norðausturendinn er austanvert í norðausturenda Undirhlíða, á móts við Helgafell ofan Hafnarfjarðar. Vegalengdin milli enda sprungunnar er um 25 km.
Syðst í Núpshlíðarhálsi er austurhlíðin orpin gjalli og hrauni sem sést vel af Ísólfsskálavegi þar sem hann liggur næst hálsinum. Gígaröðin liggur til norðausturs í eða við vesturhlíð Móhálsadals, allt norður undir Vigdísarvelli, fyrst slitrótt en síðan samfellt, og sumstaðar er gígaröðin tvöföld. Um þremur kílómetrum sunnan Vigdísarvalla breytist stefnan skyndilega; gígaröðin sveigir þvert yfir dalinn og fær síðan mun norðlægari stefnu. Áfram liggur hún skástígt norður með vesturhlíð Sveifluháls að Slögu og þaðan slitrótt með Vigdísarhálsi að Traðarfjöllum og hefur þá hliðrast aftur að Núpshlíðarhálsi.
Krýsuvíkureldar
Gossprungan liggur um Traðarfjöll vestanverð og í dalverpinu milli þeirra og Núpshlíðarháls. Á móts við Djúpavatn slitnar gossprungan en tekur sig upp aftur skammt norðan við vatnið. Þar em nyrstu gígamir á suðurhluta sprungunnar utan í Núpshlíðarhálsi, beint vestur af Hrútafelli. Þar sem landið liggur hæst í Móhálsadal slitnar gossprangan en hún tekur sig upp á ný skammt norðan við Vatnsskarð, en þar er landið tekið að lækka verulega. Þaðan liggur gígaröðin, tvöföld á kafla en nokkuð slitrótt, áfram til norðausturs vestan undir móbergshryggnum Undirhlíðum. Skammt norðan Bláfjallavegar sveigir gígaröðin upp í móbergið og norðausturendi hennar, sem Jón Jónsson (1978) hefur nefnt Gvendarselsgíga, liggur austan undir nyrsta hluta Undirhlíða, skammt sunnan við Kaldársel.
Skammt vestur af Mávahlíðum er um 400 m löng gígaröð. Mjög er líklegt að hún hafi myndast í þessari sömu goshrinu. Stefna gígaraðarinnar er um N60°A, sem er um 15° frávik frá meginstefnu gossprungunnar.
Fjarlægðin milli enda gossprungunnar er um 25 km en í henni er um 8 km löng eyða, þannig að alls hefur gosið á um 17 km langri sprungu. Syðri hlutinn er um 10,5 km að lengd og nyrðri hlutinn um 6,5 km.

Hraun Krýsuvíkurelda

Krýsuvíkureldar

Krýsuvíkureldar – kort jarðfræðinga lagt yfir loftmynd.

Eins og sjá má á 1. mynd mynduðust fjórir aðskildir hraunflákar í Krýsuvíkureldum. Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó. Næst norðan við það er lítið hraun sem runnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megin gossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Öll hraunin eru ólivínþóleiít basalt. Bergfræðirannsóknir Einars Gunnlaugssonar (1973) sýna að þau eru hvert öðru lík og að hraunin í Móhálsadal verða ekki greind hvert frá öðrum í þunnsneið. Þau eru dæmigerð fyrir apalhraunin sem koma upp í gliðnunarhrinum á Reykjanesskaga. Hraunin eru þunnfljótandi og gasrík og mynda oft þunnt frauðkennt helluhraun næst gígunum. Algeng þykkt slíkra hrauna er um einn metri á sléttu landi og eru hraunjaðrarnir oft ekki nema um hálfur metri á hæð. Þegar hraunin hafa runnið nokkur hundruð metra frá gígunum hefur verulegur hluti gassins verið rokinn úr hraunkvikunni, þannig að hún verður seigari og hraunið þykknar og breytist smám saman í apalhraun sem verður þeim mun úfnara sem fjær dregur gígunum. Hæstu hraunjaðrar af þessari gerð á Reykjanesskaga eru 10-15 m.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunnar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og rann í sjó fram á um 5 km breiðu belti. Hraunið fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík.
Þessi hraunfláki er stærstur af þeim fjórum sem mynduðust í Krýsuvíkureldum. Hann gæti hafa myndast í tveimur gosum (en þó í sömu goshrinu). Sá hluti hraunsins sem kominn er frá gígunum við Djúpavatn hefur runnið til austurs og síðan til suðurs austan Traðarfjalla. Við suðurbrún Traðarfjalla leggst yfir það yngra hraun sem runnið hefur frá þeim hluta gígaraðarinnar sem liggur í skarðinu milli Traðarfjalla og Núpshlíðarháls. Samsvarandi mörk hafa hins vegar ekki fundist á sjálfri gígaröðinni, sem virðist alveg samfelld norður skarðið að gígunum við Djúpavatn. Norðurbrún hraunsins er milli 0,5 og 1,0 m há en annars staðar hefur fyllst að jöðrunum þannig að þeir sjást ekki. Hraunið er allúfið austan Traðarfjalla, enda hefur það runnið þar í nokkrum halla.

Traðarfjöll

Traðarfjöll – loftmynd.

Syðri hluti hraunsins fyllir allan Móhálsadal sunnan Traðarfjalla. Þar er hraunið víðast slétt helluhraun en í dalnum ofanverðum er það að verulegu leyti horfið undir framburð lækja, sem er afar mikill á þessum slóðum. Móbergið í hálsunum í grennd er mikið ummyndað vegna jarðhita og því auðrofið. Jafnhliða ummynduninni þéttist bergið þannig að úrkoma hripar ekki beint niður, eins og víðast á Reykjanesskaga, heldur myndar læki sem renna á yfirborði. Þeir hverfa reyndar fljótlega niður í jörðina er þeir koma út fyrir ummyndaða svæðið. Af þessum sökum er ógerningur að segja til um þykkt hraunsins í dalnum. Meginhraunið hefur komið upp í dalnum sunnanverðum. Þegar hraunið fellur suður úr dalnum breytist það að mestu í úfið apalhraun, enda búið að renna alllangan veg frá gígunum. Hraunið hefur síðan runnið allt til sjávar og fyllt hina fornu Krýsuvík. Ætla má að á flatlendi sé hraunið víðast um 5-10 m þykkt og miklu þykkara þar sem það náði út í sjó. Í Móhálsadal er það eflaust nokkru þynnra og vart meira en 3-4 m þykkt, en slík tala er þó ágiskun ein. Flatarmál hraunsins er um 18,6 km2 og ef gert er ráð fyrir 7 m meðalþykkt er rúmmálið um 0,13 km3.
Norður af Djúpavatni liggur ungleg gígaröð til norðausturs eftir Móhálsadal, í beinu framhaldi af gígum Krýsuvíkurelda. Þegar fyrri hluti greinarinnar var skrifaður var það álit okkar að gosið hefði á allri þessari sprungu í Krýsuvíkureldum, en þá hafði aðeins syðsti hluti gossprungunnar verið kannaður að fullu. Síðar hefur komið í ljós að þessir nyrstu gígar eru eldri og hefur Landnámslagið fundist ofan á hrauninu frá þeim.

Hraun við Lœkjarvelli

Mávahlíðarhraun

Mávahlíðarhraun – jarðfræðikort Ísor.

Skammt norðan við Djúpavatn hefur hraun runnið til austurs frá litlum gígum sem þar liggja, austan undir Núpshlíðarhálsi. Þunnfljótandi kvikan hefur myndað helluhraun, sem víðast er 1-2 m þykkt, og hefur lengst náð að renna austur að Hrútafelli, um 500 m vegalengd. Hluti hraunsins er nú horfinn undir framburð lækjarins á Lækjarvöllum. Í jarðvegssniðum við gígana sést glöggt að Landnámslagið liggur neðan við gjalldreif frá þeim en Miðaldalagið ofanvið. Flatarmál þessa hrauns er 0,47 km2 og ef gert er ráð fyrir tveggja metra meðalþykkt er rúmmálið um 0,001 km3.

Mávahlíðahraun

Mávahlíðar

Mávahlíðar – loftmynd.

Skammt norðan við Fíflavallafjall er móbergshryggur er nefnist Mávahlíðar. Um 300 m vestan við hann er stutt gígaröð og liggur frá henni stórskorin og torfarin hrauntröð til norðausturs meðfram Mávahlíðum.
Hraunið, Mávahlíðahraun, hefur einkum runnið til norðurs og norðvesturs, lengst um 3 km frá gígunum, og fallið í tveimur fossum fram af Einihlíðum. Það er víðast mjög úfið og illt yfirferðar en ekki mjög þykkt. Mávahlíðahraun rennur alls staðar út yfir eldri hraun og því augljóst að það er eitt af yngstu hraununum norðan við Dyngjurnar.
Suðvestur af gígaröðinni liggur önnur gígaröð eftir endilöngum móbergshrygg sem teygir sig til norðausturs frá Grænudyngju. Frá henni hefur runnið hraun sem hverfur undir hraunið frá Mávahlíðagígum og einnig undir hraunið frá Eldborg við Trölladyngju.
Jón Jónsson (1978) taldi gígana sem mynduðu Mávahlíðahraunið framhald þessarar gígaraðar til norðausturs og að ekki yrði annað séð en að hraunin rynnu saman í eitt þar sem þau koma saman. Jón nefndi hraunið í heild Dyngnahraun en sá samt ástæðu til að fjalla um Mávahlíðahraunið sérstaklega og nefna hvað það væri unglegt. Mávahlíðahraunið er örugglega yngra en Dyngnahraunið. Því til stuðnings hefur Landnámslagið fundist ofan á Dyngnahrauninu og er það því örugglega runnið fyrir landnám. Landnámslagið liggur hins vegar inn undir Mávahlíðahraun og má því ljóst vera að þessi hraun hafa ekki myndast í sama gosi. Mávahlíðahraun er um 3,7 km2 að flatarmáli og meðalþykktin er áætluð 5 m. Rúmmál hraunsins er þá um 0,02 km3.

Kapelluhraun

Kapelluhraun

Kapelluhran – loftmynd.

Sem fyrr sagði höfðu höfundar ekki að fullu kannað hraunin frá nyrsta hluta gígaraðarinnar þegar fyrri greinin um Krýsuvíkurelda var skrifuð. Þá var það skoðun okkar að Kapelluhraun, hraunin frá Óbrinnishólum og Hellnahraun hefðu öll runnið í sama gosinu. Könnun á svæðinu sumarið 1989 leiddi í ljós að þetta var ekki alls kostar rétt og verður nánar vikið að því síðar.
Meginhraunflákinn sem myndaðist í Krýsuvíkureldum á þessu svæði er vestan undir Undirhlíðum, milli Óbrinnishóla og Vatnsskarðs.
Mestur hluti hraunsins hefur komið úr tveimur syðstu kílómetrum gossprungunnar og sýnu mest úr syðsta og vestasta gígnum. raunstraumurinn frá honum hefur fallið til norðurs og norðvesturs eftir lægð sem var á milli hraunsins frá Hrútagjárdyngju, þ.e. Almenninga, og hraunsins frá Óbrinnishólum, allt til sjávar í Straumsvík. Þetta er hið eiginlega Kapelluhraun, þó svo að hér sé nafnið notað um hraunið í heild. Jarðvegssnið við jaðar Kapelluhrauns er sýnt á 6. mynd. Næst gígnum hefur hraunið runnið eftir snoturri hrauntröð og liggur vegurinn til Krýsuvíkur yfir hana skammt norðan við gíginn. Mesta lengd þessa hraunstraums er um 10 km. Frá öðrum hlutum gossprungunnar hafa aðeins runnið þunnfljótandi hraun um skamman veg. A svæðinu sunnan við Óbrinnishóla hafa þau myndað allmikla hrauntjörn sem síðar hefur sigið saman er gas rauk úr kvikunni.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort Ísor.

Á nokkrum stöðum í hrauninu má sjá hvernig það hefur runnið niður í gjár og sprungur og er augljóst að hraunið er víða aðeins eins eða tveggja metra þykkt á þessu svæði. Skammt sunnan við Bláfjallaveg hefur hraunið runnið umhverfis litla hæð úr bólstrabrotabergi sem nefnist Stakur, en milli hans og Óbrinnishóla eru aðeins 300-400 m. Telja verður næsta líklegt að hæðin hafi eftir gosið verið kölluð Óbrennishóll eða -hólmi og nafnið síðar færst yfir á gjallgígana sem nú heita Óbrinnishólar. Skammt norðan við Bláfjallaveg eru litlir en snotrir gígar við rætur Undirhlíða og nefnast þeir Kerin. Frá þeim hefur runnið lítið hraun til vesturs og norðurs. Norðan við gígana er hraunið á nokkrum kafla svo rennislétt að furðu sætir. Rétt er á þessum stað að rifja upp kafla úr fyrri grein okkar, þar sem vitnað er í lýsingu Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á eldgosi á Islandi sem að öllum líkndum á við um Krýsuvíkurelda (hluti af þýðingu Jakobs Benediktssonar sem birtist í grein Sigurðar Þórarinssonar 1952): „Og þótt furðulegt sé frásagnar, bráðnuðu fjöll úr grjóti og jafnvel málmi algjörlega fyrir eldi þessum eins og vax, runnu yfir landið og þöktu það, svo að dalirnir umhverfis fylltust af leðjunni og fjalllendi jafnaðist við jörðu. En bráðnu klettarnir, sem runnu út yfir allan jarðveginn í allar áttir, dreifðust síðan, þegar eldinum slotaði, og þá varð yfirborð jarðar eins og úr marmara og eins og steinlagt stræti, og jörðin, sem áður var byggileg og frjósöm, varð að eyðimörk.“ Þó svo að víða megi finna sæmilega slétta bletti í hrauninu frá Krýsuvíkureldum er enginn þessum líkur.
Kerin
Leiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar hefur um aldir ýmist legið vestanundir eða uppi á Undirhlíðum og hefur þetta „marmarahraun“ því verið vel þekkt af öllum þeim sem þarna áttu leið um. Þar sem gossprungan sveigir upp í Undirhlíðar verður hún slitróttari og eru þar aðeins tveir litlir gígkoppar á móberginu. Litlu norðar taka við Gvendarselsgígar sem Jón Jónsson (1978) hefur nefnt svo. Frá Gvendarselsgígum hefur runnið lítið hraun sem þekur botn lítils dals milli nyrsta hluta Undirhlíða og Helgafells, norður að Valahnúkum. Hraunið hefur runnið fram úr dalnum til norðvesturs. Lítill hrauntaumur hefur runnið niður í Kaldárbotna en meginhraunstraumurinn, sem reyndar er ekki stór, hefur runnið út yfir farveg Kaldár og meðfram honum, um eins kílómetra veg.
Þykkt Gvendarselshrauns virðist víðast um og innan við einn metri. Hraunin frá Gvendarselsgígum og Kerjum verða ekki talin sérstök hraun, heldur hluti af Kapelluhrauni, enda um einn samfelldan hraunfláka að ræða. Alls þekur Kapelluhraun 13,7 km2. Ef meðalþykktin er um 5 m er rúmmál þess um 0,07 km.

Aldur hraunanna
í fyrri grein voru leiddar að því líkur að Ögmundarhraun hafi runnið árið 1151 og er þar jöfnum höndum stuðst við frásagnir annála, geislakolsaldur og rannsóknir á öskulögum.

Heimild:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1991, Krýsuvíkureldar, bls. 64-69.

Kerið

Kerið – gígur.

Húshólmi

Gengið var inn í Húshólma um Húshólmastíg (1.1 km). Með í för var m.a. hinn mæti Grindvíkingur Dagbjartur Einarsson. Skoðað var aðhald austast í hólmanum, stekkur eða rétt og brunnur sem og hugsanlegar seltóftir. Þá var litið á grenið nyrst sem og skotbyrgi refaskyttunar, auk gróins gerðis í hraunkrika. Allt eru þetta nýlegri minjar í hólmanum, en engu að síður minjar manna, sem þar voru í ákveðnum erindagjörðum, hvort sem var að sitja yfir ám eða liggja fyrir ref.

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Skammt vestar er forn fjárborg. Hún var skoðuð. Gengið var að fornum garði er legið hefur þvert yfir hólmann, en hefur nú látið verulega á sjá. Garðurinn er heillegastur að norðvestanverðu, næst hraunkantinum. Þá var gengið að bogadregnum garði skammt sunnar. Honum var fylgt inn í hraunið uns komið af að hinu fornu minjum ofan við Kirkjulág. Um er að ræða tvo skála. Hraunið frá 1151 hefur umlukið þann nyrðri. Í honum sjást stoðholur eftir miðju tóftar, jafnvel tvöföld. Svo virðist sem hraunið hafi einni brennt torfið utan af tveimur eða þremur hringlaga byggingum skammt suðaustan hans.
Meginskálinn virðist vera með sveigðum veggjum. Dyraop er mót suðri, en við austurenda hans er bygging. Dyraop er þar einnig mót suðri.
Í Kirkjuláginni eru garðar, tóft áætlaðrar kirkju sem og hugsanlegur skáli vestan hennar. Torfhlaðnir bogadregnir veggir eru norðan og austan hennar. Þeir umlykja og kirkjutóftina.

Brúnavörður

Brúnavörður að baki.

Vestan hennar er stígur er liggur að Brúnavörðunum, á hraunkantinum að suðvestanverðu. Hann er flóraður að hluta. Sagt er að sonur Guðmundar Bjarnasonar frá Krýsuvík hafi lagt stíginn, en áður hafi forn stígur úr Húshólma legið að Selatöngum sjávarmegin, en hann lagst af við áganginn.
Þar er fornt garðlag, forn fjárborg sem og hugsanlega tóft topphlaðins húss. Ofar og norðar í hólmanum er hlaðinn veggur er hraunið hafði stöðvast við fyrrnefnt ár. Skammt ofar í hrauninu er nýrra hringlaga skjól.
Húshólmastígur hefur greinilega verið mikið notaður í gegnum tíðina því óvíða má sjá markað í jarðfast grjót, en víðast hvar hefur grjóti verið kastað úr götunni og myndar smærra grjót undirlagið. Hann er auðveldur umferðar. Þegar komið er í Hólmann er við enda hans fyrirhleðsla til að varna því að fé leitaði eftir stígnum og út úr Hólmanum.

Húshólmi

Húshólmi – stekkur.

Í líklegum brunni ofarlega í hólmanum virðast vera hleðslur. Þar skammt frá er réttin eða stekkurinn, auk annarra ógreinilegra mannvirkja, s.s. lítil tóft og hlaðið hringgerði.
Megingarðarnir í Húshólma eru gerðir úr torfi. Undirlagið var steinhlaðið. Þvergarður um Kirkjuflötina virðist þó hafa verið hlaðinn með grjóti.
Efst er þvergarður til austurs og vesturs. Hraunið hefur runnið yfir hann vestast. Annar garður liggur skammt sunnar til suðausturs og í boga til suðvesturs. Á hann er þvergarðurinn. Innan hans að norðanverðu er skeifulaga gerði. Það sést best þegar sólin er tiltölulega lágt á lofti. Heitir þar Kirkjuflöt.
Á meginminjasvæðinu í hrauninu vestan Húshólma virðast vera þrír, skálar, kirkjutóft og garðar. Í nyrsta skálanum er stoðholuröð, sennilega tvöföld, miðskálinn er heillegur af útlitslínum að dæma og sá syðsti er þvert á þá efri. Austan við hann er kirkjutóftin, í svokallaðri kirkjulág. Til austurs frá henni inn í Húshólma liggur kirkjugatan.

Húshólmi

Beinteinsbúð í Húshólma.

Tóft (Beinteinsbúð) er skammt ofan rekagötuna niður að Hólamsundi. Hún gæti verið frá verið Krýsuvíkurbænda við útfræði þar árið 1917. Annars gerðu þeir fyrrum út frá Selatöngum. Húshólmastígur og stígurinn að Brúnavörðunum sem og stígurinn upp með vestanverðu Ögmundarhrauni gæti verið gömul vergata þeirra, en þá hefur Húshólminn verið á 1/3 leiðarinnar og þeir þá átt um 2/3 hennar eftir. Ekki er með öllu útilokað að einhverri tóftinni við Húshólma hafi enn verið haldið við sem skjóli á þeirri leið, t.d. kirkjutóftinni.
Frá því að fyrst var farið að búa í Krýsuvík, sem nú er, og fram á síðstu ár (ritað 1951), hafa alltaf verið þar menn, sem vissu að í Húshólma hefur endur fyrir löngu verið byggð, og hún ekki alllítil, svo sem sjá má af húsarústum og öðrum ummerkjum, sem eru þar enn í dag. Húshólmi – eða staður sá, sem svo hefur verið nefndur um langan aldur, er austast í Ögmundarhrauni, er það óbrenndur heiðalandsblettur, um 25-30 ha að stærð.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Hinum sýnilegu minjum í Húshólma, sem vitna það í þögn sinni, en þó svo glöggt, að ekki verður um villst, að það hafi fólk búið endur fyrir löngu, hefur hraunflóðið þyrmt, þegar það beljaði þarna fram ís jó, yfir stórt og sennilega fagurt land og gott ásamt byggð, sem enginn veit, hve mannmörg hefur verið. – Þegar staðnæmst er við þessar fornu húsarústir, þá hlýtur hver hugsandi maður að fyllast undrun yfir þeirri algjöru þögn, sem svo rækilega hefur fram á þennan dag hvílt yfir þeim atburðum, sem hér hafa gerst.
Eggert Ólafsson segir í ferðabók sinni um jarðelda í Trölladyngju: “Að minnsta kosti er það víst, að krýsvíkingar kunna að segja frá ægilegum jarðeldi, er brann í fjöllum þessum í fornöld. Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóftanna.”

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Þorvaldur Thoroddsen segir í ferðabók sinni um rústirnar í Húshólma: “Ein sú lengsta er 49 fet, en breidd hennar sést ei fyrir hrauni.” Og ennfremur segir hann: “Þessar tóttir, sem hraunið hefur runnið yfir, eru full sönnun fyrir því, að það hefur myndast síðan land byggðist, þótt hvergi finnist þess getið í sögum eða annálum.” Einnig getur Þorvaldur um allmarga garða, sem sjáist þar enn. Hann segir um Ögmundarhraun, að Jónas Hallgrímsson hafi giskað á, að það hafi runnið í kringum 1340, “án þess þó að færa heimildir fyrir því”.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifar í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903 um Húshólma og fornminjarnar þar. Þar getur hann garða og húsarústa á svipaðan hátt og Þorvaldur Thoroddsen. Í greins inni kemst Brynjúlfur þannig að orði á einum stað: “Krýsuvík hefur til forna staðið niður undir sjó, fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbjargi. Nafnið Krýsuvík bendir til þess.” Brynjúlfur er sá eini af þessum þremur fræðimönnum, sem minnist á og telur víst, að Krýsuvík hafi verið upphafalega þar, sem nú er Húshólmi.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Það, sem einkum styður þá kenningu, að Krýsuvíkin hafi í upphafi staðið við sjó, er aðallega þetta: Nafn byggðarinnar – Krýsuvík, eins og Brynjúlfur Jónsson bendir á, því að lítt hugsanlegt er, hafi byggðin staðið frá landnámi þar, sem nú er, að hún hefði þá fengið þetta nafn, því að þar er ekki um neina vík að ræða, ekki einasta að byggðin sé það nærri Kleifarvatni, að nafnið gæti þaðan verið komið. Í öðru lagi eru það hinar miklu húsarústir og önnur verksummerki í Húshólma, með nöfnum svo sem Kirkjuflöt og Kirkjulág. Nöfn þessi benda til, að þar hafi kirkja verið, en aldrei mun getið nema einnar kirkju í Krýsuvík, og er að ég hygg fyrst getið í máldaga 1275, en prests getið þar snemma á 14. öld. Mun þetta hvort tveggja áður en Ögmundarhraun myndaðist.

Húshólmi

Í Húshólma.

Nú mun vera vaknaður nokkur áhugi fyrir hinum fornu rústum í Húshólma. Vonandi tekst áður en langur tími líður að lyfta þeim huliðshjálmi, sem fram að þessu hefur hvílt yfir leifum þessara fornu byggðar, þessum leifum, sem segja má, að neitað hafi að láta ægivald elds og hrauns undiroka sig, til þess að síðar, þegar við værum þess umkomin, gætum lesið sögu þessara byggðar og að einhverju leyti sögu þess fólks, sem þarna lifði og starfaði – og “sat meðan sætt var”.

Strjálir munu róðrar hafa verið frá Húshólma síðustu aldirnar. Þó munu menn stöku sinnum hafa lent þar bátum sínum, einkum á seinni árum, til þess að sækja timbur og annað það, sem á land hefur þar skolað, því rekasælt er í Hólmanum í góðum rekárum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Eins hefur það borið við, að sjóhraktir menn hafa náð þar landi. Þannig tók þar land um eða laust fyrir 1920, skipshöfn af selveiðiksipinu “Kóp”, sem sökk út af Krýsuvíkurbjargi á leið til Austurlands með saltfarm.
Skipshöfnin barði skipsbátnum í norðanbáli og kulda vestur með landi, en landtaka víst vart hugsanleg fyrr en í Húshólma, enda norðanáttin besta áttin þar. Þeir lentu í Húshólma heilum bát sinum, settu hann undan sjó, gengu svo – einhverjir eða allir – til Krýsuvíkur, því að allir komust þeir þangað og fengu þar og í Stóra-Nýjabæ, sem voru einu bæirnir í byggð þá.
Þær viðtökur og viðurgerning, sem Íslendingar eru svo þekktir fyrir þegar svo stendur á, ekki einasta hérlendis, heldur og allvíða erlendis.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Vitað er það, að Krýsvíkingar höfðu á síðari öldum útræði nokkurt, en þeir reru ekki út úr Húshólma, heldur frá Selatöngum, sem liggja fjær en tvennar vegalengdir í Húshólma, og hefur þetta vitanlega orsakað af því einu, að eins og þá var komið, mun ófært hafa verið talið útræði úr Húshólma, en gott frá Selatöngum að öðru leyti en því, að vatnslaust má telja þar, en oftast nægt vatn í Húshólmanum.
Svo var það sumarið 1917, að bændur í Krýsuvík tóku að hugsa til fiskiróðra út frá Húshólma. Ekki var hér um stórútgerð að ræða, enda ætlaði eigandinn að taka á sig tapið, ef eitthvert yrði, svo sem þeir munu enn gera, sem sjósókn stunda á opnum fleytum. Í Krýsuvík bjó þá Þorvarður Þorvarðarason, með systur sinni Hallbjörgu. Í Stóra-Nýjabæ bjó Guðmundur Jónsson.
Gata lá frá Krýsuvík niður í Húshólma og í gegnum Ögmundarhraun, áleiðis yfir á Selatanga.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Harðsporar 1951.
-Ferðabók Eggerts Ólafssonar.
-Ferðabók Þorvaldar Toroddsens, I, bls. 186.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

 

S-ið

Haldið var í S-ið, helli í Núpshlíð, upptökum Ögmundarhrauns í vestri. Ekki er langt síðan að sást niður í myrkur um þröngt gat á hálsinum. Snjór var í botninum, en hvergi veggi að sjá. Nú var stigi með í för og var ætlunin að fara niður um opið og kanna innihaldið.

S-ið

Í S-inu.

Björn Hróarsson, hellafræðingur nr. 1, fór fyrstur niður í hellinn. Hann er sennilega fyrstur núlifandi af u.þ.b. 6 milljarða manna á þessari jarðkringlu til að líta hann augum. Hann fetaði öruggum skrefum niður um opið og hvarf.
Þegar niður var komið blasti við litardýrð og mikil klakalistaverk niður úr veggjum. Þarna var greinilega hvelfing undir gosgíg, vel rúmgóð. Kannað var um hugsanlegar rásir út úr henni, en engar fundust að þessu sinni. Þess bera að geta að hvelfingin var rúmlega hálffull af snjó og því erfitt að leita utan í veggnum undir opinu.

Núpshlíð

Núpshlíð – gígar.

Gígurinn er dæmigerður gjallgígur á sprungurein. Reinin liggur samhliða landrekssprungunni og er hluti af u.þ.b. 25 km langri spungurein er nær alla leið að Gvendarselsgígum í norðri. Hið sérstæða við hellinn er það að hægt er að komast undir gíginn sjálfan og skoða innihaldið, þ.e. það sem öðrum er hulið þegar þeir berja gígin sjálfan augum.
Þessi hellir er ágætt dæmi um hvelfingar undir eða við gígop. Litirnir voru aðallega rauðir og brúnir. Áhugavert væri að setja stiga niður um opið og leyfa honum að vera þar svo vegfarendur gætu kíkt þarna niður og dáðst að jarðfræðifyrirbærinu.
Frábært veður.

S-ið

S-ið.

Húshólmi

Gengið var eftir stíg austur Ögmundarhraun frá Lat, neðan Óbrennishólma og inn í Húshólma eftir stíg frá Brúnavörðum ofan við Miðreka. Stígurinn hefur verið flóraður á köflum. Hann kemur inn í Húshólma við minjarnar, sem eru þar vestan við hólmann. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson skrifuðu um „Krýsuvíkurelda – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins“ í Jökul árið 1988:

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Minjasvæðið er allstórt. Mótar þar fyrir skálum og sveigðum garðlögum, auk fjárborgar og löngum görðum inni í hólmanum. Aldur þessarra minja hafa verið á reiki. Hafa menn helst reynt að greina aldur hraunsins, sem færði þær í kaf að mestu og þannig reynt að finna út aldur þeirra. Í frásögnum frá því á 18. öld er hraunið talið vera frá því á 16. öld eða 14. öld. Nýlegri rannsóknir telja það geta hafa runnið í kringum 1000 og enn aðrar kveða á um 1150 eða 1180. Hvað sem öllu líður er ljóst að Ögmundarhraun er ekki einungis eitt hraun, það er nokkur hraun, sem hafa runnið á mismunandi tímum. Vegna takmarkaðra rannsókna er ekki gott að kveða á um hvort stutt hafi verið á millum þeirra eður ei.
Þarna við rústirnar var rifjuð upp rannsókn þeirra Hauks og Sigmunds á þeim síðla hausts 1987. Í grein þeirra í Jökli er fjallað um aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Aldur hraunsins var kannaður í ljósi öskulaga sem eru undir því og ofan á. Eitt þessara öskulaga er svonefnt miðaldalag, en sterk rök eru leidd að að aldri þess og uppruna.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Einnig voru geislakolsaldursgreiningar leiðréttar með nýjustu aðferðum, sem þá tíðkuðust. Þessar athuganir voru bornar saman við ritheimildir og töldu þeir félagar sig geta ákvarðað aldur Ögmundarhrauns upp á ár. Í lokin fjalla þeir um aldursákvörðun hins forna torfgarðs í Húshólma, sem reyndist vera eitt af elstu mannvirkjum er fundist hafa á Íslandi.
“Nokkuð hefur verið ritað um aldur Ögmundarhrauns á Reykjanesi á undanförnum árum og hefur sitt sýnst hverjum. Jón Jónsson (1982,1983) og Sigurður Þórarinsson (1974) hafa á grundvelli geislakoslaldursgreininga og afstöðu hraunsins til mannvistarleifa í Krýsuvík dregið þá ályktun, að það hafi brunnið á öndverðri 11. öld. Sveinbjörn Rafnsson (1982) hefur kannað sögulegar heimildir um hraunið og kirkjustaðinn í Krýsuvík og álítur hann, að hraunið hafi runnið seint á tímabilinu 1558-1563.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni fyrrum.

Þorvaldur Thoroddsen (1925) áleit að Ögmundarhraun gæti hafa runnið 1340 og Jónas Hallgrímsson (útg. 1934-37) var sömu skoðunar. Tómas Tómasson (1948) og Einar Gunnlaugsson (1973) hafa rakið heimildir um eldgos á Krýsuvíkursvæðinu en taka ekki afstöðu til aldurs Ögmundarhrauns. Ástæða þess, að áhugi hefur verið meiri fyrir könnun Ögmundarhrauns en annarra hrauna á Reykjanesi er sú, að það hefur runnið yfir bæ og önnur mannvirki s.s. fjárrétt og torf- og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
Gjóskulög sem nefnt hefur verið miðladalagið hjálpar til við ákvörðun á aldri Ögmundarhrauns og skal fyrst reynt að varpa ljósi á aldur þess. Miðaldalagið er eina gjóskulagið frá miðöldum auk landnámslagsins sem finnst í jarðvegssniðum á svæðinu. Í þessari grein verður skýrst frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvarkerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – refakyttubyrgi. Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Eldgosið hefur einkennst af umbrotahrinum, af gliðnun lands og kvikuhlaupum með hléum á millum. Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Um þau verður fjallað í annarri lýsingu. Jón Jónsson hefur áður haldið því fram að að Ögmundarhraun, Kapelluhraum og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Í Ögmundarhrauni er Húshólmi stærstur óbrennishólma, sem þar eru. Hann er austast og neðst í hrauninu. Nokkru vestar er Óbrennishólmi. Rústir eru í báðum þessum hólmum. Merkastar eru rústirnar í svenefndum Kirkjulágum, sem eru smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þeim hefur Brynjúlfur Jónnson (1903) lýst. Þar eru greinilegar rústir af bæjarhúsum sem hlaðin hafa verið að mestu úr lábörðu grjóti. Í efri láginni hefur hraunið runnið upp að byggingum og að hluta yfir þær. Í neðri láginni er m.a. ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og hefur verið talið líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til. Hús þetta virðist hafa verið brúkað eftir að hraunið rann sem sést af því hve miklu greinilegri og hærri tóftin er heldur en þær sem hraunið hefur lagst upp að. Húsið hefur dyr í vestur og snýr eins og kirkjur hafa gert um aldir.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Þar sem segir frá Krýsuvík í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (31. mars 1755) og einnig í hinni prentuðu ferðabók þeirra (Eggert Ólafsson, 1772) er þess getið að hraunflóð hafi eytt kirkjustað sem Hólmastaður hét. Það átti að sögn heimamanna í Krýsuvík að hafa gerst tveim öldum áður en Eggert og Bjarni komu þar. Nafnið Hólmastaður bendir til að staðurinn dragi nafn af Húshólma en það nafn hefur hann vart fengið fyrr en eftir að Ögmundarhraun rann.
Landslag við bæjarrústirnar bendir til að bærinn hafi staðið nærri sjó, sennilega við austanverða vík, sem hefur verið hin eiginlega Krýsuvík, en hún hefur fyllst af hrauni í Krýsuvíkureldum. Í sjávarkampinn hafa menn sótt grjót í byggingar á hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Í Húshólma eru tveir garðar, sem hverfa inn undir hraunið. Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn úr torfi en þó sést í grjót á stöku stað. Allnokkur hluti hans er nú blásinn. Neðri garðurinn liggur í sveig vestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Þessi garður mun marka það stykki sem nefnt var Kirkjuflöt. Efst í Húshólma er lítil fjárborg forn og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.
Í Óbrennishólma eru tvö mannvirki. Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana (Jón Jónsson, 1982).
Gata liggur í Húshólma austan frá. Hún er greinilega rudd og 2-3 m á breidd og allgreiðfær. Augljóst er af ummerkjum að þessi vegagerð er ekki frá síðustu tímum.
Til að kanna aldur Ögmundarhrauns voru mæld nokkur gjóskulagasnið, bæði í jaðra hraunsins og utan þess. Á þessu svæði eru nokkur gjóskulög af þekktuma ldri.

Landnámslagið

Landnámslagið í gjóskulagi.

Þekktaskta gjóskulagið á þessum slóðum er svonefnt landnámslag. Lagið er venjulega tvílitt, neðri hlutinn er ljós og erfi hlutinn dökkur. Lagið hefur greinilega fokið til og því að líkindum fallið að vetri til. Þessi litaskipti hafa verið álitin marka upphaf búsetu í landinu (Þorleifur Einarsson, 1974). Lagið hefur verið notað til að ákvarða hvaða hraun á Reykjanesi hafa brunnið eftir að land byggðist (sbr. Jón Jónsson, 1983).
Annað nokkuð þekkt gjóskulag á Reykjanesskaga er svonefnt miðaldalag. Reynt hefur verið að heimfæra það upp á eldgos sem getið er um í rituðum heimildum. Upptök öskulagsins eru í sjó við Reykjanestána. Leifar gígsins eru Karlinn, stakur drangur skammt undan landi, en hluti af gígbarminum er skammt norðbestur af Valahnúk og hefur yngra Stampahraunið runnið upp að honum.

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Til eru fimm geislakolsaldursgreiningar, sem tengjast Ögmundarhrauni. Árið 1974 tók Þorleifur Einarsson tvö koluð sýni úr eldstæði í rústunum í Krikjulágum (efri láginni) í Húshólma og lét aldursgreina þau. Niðurstaðan var 980+/-60 og 960+/-170. Sýnið ætti því að vera frá því um 1027 e.Kr. Jón Jónsson (1982) lét gera þrjár aldursgreiningar árið 1979 á koluðum gróðuleifum undan hrauninu. Niðurstöður mælinganna voru ártölin 1050, 1095, 1125, 1141 og 1148.
Fátt er um sögulegar heimildir um eldgos á Reykjanesskaga á þessum tíma og eru þær allknappar. Frá 1151 er getið um gos í Konungsannál, bs. 115, Oddaverjaannál, bls. 474 og Annál Flateyjarbókar, bls. 301. Árið 1188 segir frá gosi í Trölladyngju í Skálholtsannál, bls. 180. Talið er að miðaldaöskulagið geti verið frá 1226/27.

Jarðfræði

Hraun á sögulegum tíma.

Sigurður Þórarinsson (1965) birti kort af Íslandi þar sem merkt eru inn gos á sögulegum tíma og þar telur hann eldgos í Trölladyngju á Reykjanesi vera 1151, 1188 og 1360, en telur þó síðastnefnda áratalið óvisst.
Þegar gögn eru skoðuð hníga ýmis rök að því að Ögmundarhraun hafi runnið á 12. öld og engin ástæða er til að véfengja frásagnir annála af gosi 1151. Eldgosið sem varð 1188 gæti hafa verið á svipuðum slóðum og hluti af sömu goshrinu. Þar sem svo langt hefur liðið milli goshrina þá er hugsanlegt að seinna gosið hafi verið mun minna.

Húsólmi

Húshólmi – uppdráttur.

Til eru lýsingar Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á hraunrennsli í sjó á Íslandi. Rit hans, Liber miraculorum (Bók um furður) er skrifið 1178-80. Þar lýsir hann hrauni, sem rann í sjó fram á Íslandi á 12. öld og þá fyrir 1188. Þar sem hraunrennsli í sjó á þessum tíma er aðeins þekkt frá Krýsuvíkureldum renna skrif kapellánsins frekari stoðum undir þá skoðun að Ögmundarhraun hafi runnið 1151.
Grafið var eitt snið í gegnum efri garðinn í Húshólma og reyndist það forvitnilegt. Garðurinn er mjög vel varðveittur. Pælan, sem stungin hefurverið með garðinum beggja vegna til efnistöku, sést greinilega af litaskiptum í jarðvegi og er hún um 10-15 cm djúp í sniðinu. Neðst í pælunni norðan megin við garðinn var dreif af landnámslaginu en hún lá ekki inn undir garðinn svo það hefur fallið eftir að hann var hlaðinn.
Miðaldalagið liggur upp að garðinum beggja vegna. Hann er því hlaðinn fyrir 900, en þegar miðaldalagið féll um 1226/27 var verulega fokið að honum.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur

Einnig var grafið snið við fjárborgina efst í Húshólma og þar lá miðaldalagið upp að vegghleðslunni og er hún því allnokkru eldri en öskulagið.”
Samkvæmt framangreindum rannsóknum virðist sá hluti Ögmundarhrauns, sem umlukti rústirnar í Húshólma hafa runnið 1151. Garðurinn, sem rannsakaður var, virðist hafa verið hlaðinn fyrir 900. Það er því fullljóst að þarna er um mjög fornar minjar að ræða.“
Ekki er vitað til þess að rústirnar sjálfar hafi verið rannsakaðar, en þegar það verður gert mun án efa sitthvað forvitnilegt koma í ljós. Hugsanlega vakna þá fleiri spurningar en hægt verður að svara með góðu móti.
Skoðaðar voru seljaminjar nyrst í Húshólma, en að því búnu var gengið áfram út úr hólmanum eftir stígnum austan hans og norður með austanverðum hraunkanti Ögmundarhrauns. Utan í hrauninu er hringlaga gróið gerði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir:
-Krýsuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins – Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson – Jökull nr. 38 1988 bls 71-85.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólmi

Gengið var suður með austurjarðri Ögmundarhrauns. Ætlunin var að ganga Húshólmastíginn inn í Húshólma og skoða hraunin umhverfis hólmann. Á leiðinni var rifjuð upp frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um gömlu Krýsuvík, Húshólma og Ögmundarhraun. Skrifin birtust í Úr Tillaga til alþýðlegra fornfræða (bls. 101-102), sem Menningar- og fræðslusamband alþýðu gaf út 1953. Þau eru eftirfarandi:

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

“Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af, að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram á milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess, er að höndum kæmi, og fal sig guði: því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann, og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan Óbrennishólmi, er hann var. Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað, þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað, sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð, fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau, og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart, að það var óvinnandi, og varð ekki veginum komið á.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Ögmundur hét maður. Hann var berserkur, illur viðskiptis og flakkaði um land og gjörði mörgum mönnum óskunda. Hann kom að Krýsuvík og bað dóttur bónda. Bóndi þorði ekki að neita og lofaði honum dóttur sinni, ef hann legði veg yfir hraunið. Hann gekk að því og fór til, byrjaði að vestan, en bóndi stóð við hraunbrúnina að austan. Ögmundur hamaðist og hjó rösklega veginn yfir hraunið, en þegar hann kom austur yfir og var búinn, dasaðist hann. Þá hjó bóndi hann banahögg og dysjaði hann þar. Grjóthrúga er þar við götuna, sem kallað er leiði Ögmundar, en stendur á kletti. Vegurinn gengnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór björg (hraunstykki), en víða þrepóttur í botninn, sem hin gamla gata segir (ort á seinni tímum):

Húshólmi

Húshólmi og Óbrennishraun.

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar, sem áður var bærinn Krýsuvík, heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.“

Rétt er að geta þess að Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála, sem var með vegarvinnumönnum við gerð Hlínarvegar um 1932, sagði í viðtali 2002 að vegurinn hafi að mestu verið lagður ofan í Ögmundarstíg. Þar hafi þá verið djúp för í klöppunum eftir ferðalanga fyrri alda. Sums staðar hafi hellan brotnað vegna þess hve þunn hún hafi verið orðin og undir verið djúpar holur.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Ögmundarhraun er greinilega nokkur hraun. Elsta hraunið er efst og austast í Húshólma, næsta er umhverfis hólmann, en í þeim eru m.a. rústirnar, sem nefndar eru í frásögninni og enn annað, nýrra, er vestar. Þá eru hraun, sem sjá má utan við Óbrennishólma, ótengd, enda koma þau úr öðrum gígum, skammt vestar og norðar. Eldra hraun má sjá efst og vestast í Óbrennishólma en hraunin umhverfis. Forvitnilegt væri að láta rannsaka þetta svæði og kortleggja með meiri nákvæmni en gert hefur verið. Jón Jónsson, jarðfræðingur, gerði merkilega rannsókn á öllum Reykjanesskagnum, en þá taldi hann Ögmundarhraun geta hafa runnið um 1005. Ljóst er að um nokkur hraun er að ræða. Ef til villa hafa sum þeirra runnið á svipuðum tíma úr mismunandi gígum, en önnur eru greinilega bæði eldri og yngri.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólmi

Gengið var eftir stíg austur Ögmundarhraun frá Lat, neðan Óbrennishólma og inn í Húshólma eftir stíg frá Brúnavörðum ofan við Miðreka. Stígurinn hefur verið flóraður á köflum. Hann kemur inn í Húshólma við minjarnar, sem eru þar vestan við hólmann.

Húshólmi

Húshólmi í Ögmundarhrauni.

Minjasvæðið er allstórt. Mótar þar fyrir skálum og sveigðum garðlögum, auk fjárborgar og löngum görðum inni í hólmanum. Aldur þessarra minja hafa verið á reiki. Hafa menn helst reynt að greina aldur hraunsins, sem færði þær í kaf að mestu og þannig reynt að finna út aldur þeirra. Í frásögnum frá því á 18. öld er hraunið talið vera frá því á 16. öld eða 14. öld. Nýlegri rannsóknir telja það geta hafa runnið í kringum 1000 og enn aðrar kveða á um 1150 eða 1180. Hvað sem öllu líður er ljóst að Ögmundarhraun er ekki einungis eitt hraun, það er nokkur hraun, sem hafa runnið á mismunandi tímum. Vegna takmarkaðra rannsókna er ekki gott að kveða á um hvort stutt hafi verið á millum þeirra eður ei.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Þarna við rústirnar var rifjuð upp rannsókn þeirra Hauks Jóhannessonar og Sigmunds Einarssonar á þeim síðla hausts 1987. Niðurstaða rannsóknarinnar birtist m.a. í Jökli nr. 88 árið 1988. Í greininni er fjallað um aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Aldur hraunsins var kannaður í ljósi öskulaga sem eru undir því og ofan á. Eitt þessara öskulaga er svonefnt miðaldalag, en sterk rök eru leidd að að aldri þess og uppruna.

Einnig voru geislakolsaldursgreiningar leiðréttar með nýjustu aðferðum, sem þá tíðkuðust. Þessar athuganir voru bornar saman við ritheimildir og töldu þeir félagar sig geta ákvarðað aldur Ögmundarhrauns upp á ár. Í lokin fjalla þeir um aldursákvörðun hins forna torfgarðs í Húshólma, sem reyndist vera eitt af elstu mannvirkjum er fundist hafa á Íslandi.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar.

“Nokkuð hefur verið ritað um aldur Ögmundarhrauns á Reykjanesi á undanförnum árum og hefur sitt sýnst hverjum. Jón Jónsson (1982,1983) og Sigurður Þórarinsson (1974) hafa á grundvelli geislakoslaldursgreininga og afstöðu hraunsins til mannvistarleifa í Krýsuvík dregið þá ályktun, að það hafi brunnið á öndverðri 11. öld. Sveinbjörn Rafnsson (1982) hefur kannað sögulegar heimildir um hraunið og kirkjustaðinn í Krýsuvík og álítur hann, að hraunið hafi runnið seint á tímabilinu 1558-1563. Þorvaldur Thoroddsen (1925) áleit að Ögmundarhraun gæti hafa runnið 1340 og Jónas Hallgrímsson (útg. 1934-37) var sömu skoðunar. Tómas Tómasson (1948) og Einar Gunnlaugsson (1973) hafa rakið heimildir um eldgos á Krýsuvíkursvæðinu en taka ekki afstöðu til aldurs Ögmundarhrauns. Ástæða þess, að áhugi hefur verið meiri fyrir könnun Ögmundarhrauns en annarra hrauna á Reykjanesi er sú, að það hefur runnið yfir bæ og önnur mannvirki s.s. fjárrétt og torf- og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
Gjóskulög sem nefnt hefur verið miðladalagið hjálpar til við ákvörðun á aldri Ögmundarhrauns og skal fyrst reynt að varpa ljósi á aldur þess. Miðaldalagið er eina gjóskulagið frá miðöldum auk landnámslagsins sem finnst í jarðvegssniðum á svæðinu. Í þessari grein verður skýrst frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvarkerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Eldgosið hefur einkennst af umbrotahrinum, af gliðnun lands og kvikuhlaupum með hléum á millum. Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Um þau verður fjallað í annarri lýsingu. Jón Jónsson hefur áður haldið því fram að að Ögmundarhraun, Kapelluhraum og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Í Ögmundarhrauni er Húshólmi stærstur óbrennishólma, sem þar eru. Hann er austast og neðst í hrauninu. Nokkru vestar er Óbrennishólmi. Rústir eru í báðum þessum hólmum. Merkastar eru rústirnar í svonefndum Kirkjulágum, sem eru smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þeim hefur Brynjúlfur Jónsson (1903) lýst. Þar eru greinilegar rústir af bæjarhúsum sem hlaðin hafa verið að mestu úr lábörðu grjóti. Í efri láginni hefur hraunið runnið upp að byggingum og að hluta yfir þær. Í neðri láginni er m.a. ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og hefur verið talið líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til. Hús þetta virðist hafa verið brúkað eftir að hraunið rann sem sést af því hve miklu greinilegri og hærri tóftin er heldur en þær sem hraunið hefur lagst upp að.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Húsið hefur dyr í vestur og snýr eins og kirkjur hafa gert um aldir.
Þar sem segir frá Krýsuvík í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (31. mars 1755) og einnig í hinni prentuðu ferðabók þeirra (Eggert Ólafsson, 1772) er þess getið að hraunflóð hafi eytt kirkjustað sem Hólmastaður hét. Það átti að sögn heimamanna í Krýsuvík að hafa gerst tveim öldum áður en Eggert og Bjarni komu þar. Nafnið Hólmastaður bendir til að staðurinn dragi nafn af Húshólma en það nafn hefur hann vart fengið fyrr en eftir að Ögmundarhraun rann.

Húshólmi

Garður í Húshólma.

Landslag við bæjarrústirnar bendir til að bærinn hafi staðið nærri sjó, sennilega við austanverða vík, sem hefur verið hin eiginlega Krýsuvík, en hún hefur fyllst af hrauni í Krýsuvíkureldum. Í sjávarkampinn hafa menn sótt grjót í byggingar á hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík.

Í Húshólma eru tveir garðar, sem hverfa inn undir hraunið. Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn úr torfi en þó sést í grjót á stöku stað. Allnokkur hluti hans er nú blásinn. Neðri garðurinn liggur í sveig vestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Þessi garður mun marka það stykki sem nefnt var Kirkjuflöt. Efst í Húshólma er lítil fjárborg forn og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.
Í Óbrennishólma eru tvö mannvirki. Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana (Jón Jónsson, 1982).

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Gata liggur í Húshólma austan frá. Hún er greinilega rudd og 2-3 m á breidd og allgreiðfær. Augljóst er af ummerkjum að þessi vegagerð er ekki frá síðustu tímum.
Til að kanna aldur Ögmundarhrauns voru mæld nokkur gjóskulagasnið, bæði í jaðra hraunsins og utan þess. Á þessu svæði eru nokkur gjóskulög af þekktuma ldri.
Þekktaskta gjóskulagið á þessums lóðum er svonefnt landnámslag. Lagið er venjulega tvílitt, neðri hlutinn er ljós og erfi hlutinn dökkur. Lagið hefur greinilega fokið til og því að líkindum fallið að vetri til. Þessi litaskipti hafa verið álitin marka upphaf búsetu í landinu (Þorleifur Einarsson, 1974). Lagið hefur verið notað til að ákvarða hvaða hraun á Reykjanesi hafa brunnið eftir að land byggðist (sbr. Jón Jónsson, 1983).

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Annað nokkuð þekkt gjóskulag á Reykjanesskaga er svonefnt miðaldalag. Reynt hefur verið að heimfæra það upp á eldgos sem getið er um í rituðum heimildum. Upptök öskulagsins eru í sjó við Reykjanestána. Leifar gígsins eru Karlinn, stakur drangur skammt undan landi, en hluti af gígbarminum er skammt norðbestur af Valahnúk og hefur yngra Stampahraunið runnið upp að honum.

Til eru fimm geislakolsaldursgreiningar, sem tengjast Ögmundarhrauni. Árið 1974 tók Þorleifur Einarsson tvö koluð sýni úr eldstæði í rústunum í Krikjulágum (efri láginni) í Húshólma og lét aldursgreina þau. Niðurstaðan var 980+/-60 og 960+/-170. Sýnið ætti því að vera frá því um 1027 e.Kr. Jón Jónsson (1982) lét gera þrjár aldursgreiningar árið 1979 á koluðum gróðuleifum undan hrauninu. Niðurstöður mælinganna voru ártölin 1050, 1095, 1125, 1141 og 1148.
Fátt er um sögulegar heimildir um eldgos á Reykjanesskaga á þessum tíma og eru þær allknappar. Frá 1151 er getið um gos í Konungsannál, bs. 115, Oddaverjaannál, bls. 474 og Annál Flateyjarbókar, bls. 301. Árið 1188 segir frá gosi í Trölladyngju í Skálholtsannál, bls. 180. Miðaldaöskulagið er talið geta verið frá 1226/27.

Húsólmi

Húshólmi – uppdráttur.

Sigurður Þórarinsson (1965) birti kort af Íslandi þar sem merkt eru inn gos á sögulegum tíma og þar telur hann eldgos í Trölladyngju á Reykjanesi vera 1151, 1188 og 1360, en telur þó síðastnefnda áratalið óvisst.
Þegar gögn eru skoðuð hníga ýmis rök að því að Ögmundarhraun hafi runnið á 12. öld og engin ástæða er til að véfengja frásagnir annála af gosi 1151. Eldgosið sem varð 1188 gæti hafa verið á svipuðum slóðum og hluti af sömu goshrinu. Þar sem svo langt hefur liðið milli goshrina þá er hugsanlegt að seinna gosið hafi verið mun minna.
Til eru lýsingar Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á hraunrennsli í sjó á Íslandi. Rit hans, Liber miraculorum (Bók um furður) er skrifið 1178-80. Þar lýsir hann hrauni, sem rann í sjó fram á Íslandi á 12. öld og þá fyrir 1188. Þar sem hraunrennsli í sjó á þessum tíma er aðeins þekkt frá Krýsuvíkureldum renna skrif kapellánsins frekari stoðum undir þá skoðun að Ögmundarhraun hafi runnið 1151.
Grafið var eitt snið í gegnum efri garðinn í Húshólma og reyndist það forvitnilegt. Garðurinn er mjög vel varðveittur. Pælan, sem stungin hefurverið með garðinum beggja vegna til efnistöku, sést greinilega af litaskiptum í jarðvegi og er hún um 10-15 cm djúp í sniðinu. Neðst í pælunni norðan megin við garðinn var dreif af landnámslaginu en hún lá ekki inn undir garðinn svo það hefur fallið eftir að hann var hlaðinn.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur

Miðaldalagið liggur upp að garðinum beggja vegna. Hann er því hlaðinn fyrir 900, en þegar miðaldalagið féll um 1226/27 var verulega fokið að honum.
Einnig var grafið snið við fjárborgina efst í Húshólma og þar lá miðaldalagið upp að vegghleðslunni og er hún því allnokkru eldri en öskulagið.”
Samkvæmt framangreindum rannsóknum virðist sá hluti Ögmundarhrauns, sem umlukti rústirnar í Húshólma hafa runnið 1151. Garðurinn, sem rannsakaður var, virðist hafa verið hlaðinn fyrir 900. Það er því fullljóst að þarna er um mjög fornar minjar að ræða.“
Ekki er vitað til þess að rústirnar sjálfar hafi verið rannsakaðar, en þegar það verður gert mun án efa sitthvað forvitnilegt koma í ljós. Hugsanlega vakna þá fleiri spurningar en hægt verður að svara með góðu móti.
Skoðaðar voru seljaminjar nyrst í Húshólma, en að því búnu var gengið áfram út úr hólmanum eftir stígnum austan hans og norður með austanverðum hraunkanti Ögmundarhrauns. Utan í hrauninu er hringlaga gróið gerði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir:
-Krýsuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins – Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson – Jökull nr. 38 1988 bls 71-85.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

 

Ögmundarhraun

Gengið var upp frá Ísólfsskálavegi eftir gamalli götu að gígaröð þeirri er hluti Ögmundarhrauns kom úr haustið 1151. Síðan var formfagurri gígaröðinni fylgt til efsta gígsins í þeim hluta. Í henni er m.a. að finna fjárskjól með miklum hleðslum, bæði fyrir og inni. Sennilega hefur hann þjónað Þórkötlustaðaseli á og meðan var í notkun þar skammt ofar.
Til baka var gengið um slétta völlu er þrautseigur lækur í gegnum hraunið hefur mótað um aldir – og er enn að á leið sinni til sjávar.
Einn gígurinn - Mælifellið fjærÖgmundarhraun rann úr gígaröðinni framundan árið 1151, eða fyrir 857 árum síðan. Þeirri eldgosahrinu er þá hófst hefur síðan verið kennd við Krýsuvíkurelda.
Þá gaus einnig við Trölladyngju. Afstapahraun og Kapelluhraun eru auk Ögmundarhrauns afsprengi Krýsuvíkureldanna. Um 25 metra löng sprunga opnaðist og hraun rann til sjávar bæði norðan og sunnan megin við Reykjanesskagann. „Hraun, þú talar um hraun. Hvað er það?,“ varð einhverjum að orði. „Hraun er það, sem þú stendur á, jarðskorpan.“ Hraun er reyndar jarðskorpa eða möttulefni (einnig kallað bergkvika) sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos. Hitastig sem getur verið frá 700 – 1200°C. Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum og rennur sem hraun. Hér kom glóandi kvikan upp um sprunguna, sem gígaröðin myndar nú, flæddi út frá henni undan hallanum og storknaði – myndaði hraunið. Nú þekur það lægðir milli hæða og hóla, sem fyrir voru, auk þess það rann til sjávar og jók verulega við landið að sunnanverðu. Fyrir gosið var ströndin mun vogskornari, með litlum grunnum víkum. Ein þeirra nefndist Krýsuvík, en „krýs“ er gamalt orð yfir grunna skoru í aski. Ofan við víkina var þétt byggð, enda væntanlega verið góð lending innan við hana.
Þegar Ögmundarhraun rann yfir byggðina eyddi það byggðinni – að mestu. Það hélt þó eftir og Á einni gígbrúninni - Sveifluháls fjærumfaðmaði hluta af henni, svona til að eiga eitthvað til minningar um það sem þá var – og hafði verið. Tóftirnar við Húshólma, garðarnir í hólmanum og hvorutveggja í Óbrennishólma þar skammt vestar gefa til kynna að þarna hafi áður verið allnokkur byggð. Ekki einungis öskulagið frá gosinu 1151 þekja rústirnar heldur og öskulagið í Kötlugosinu frá árinu 872. Það vekur von um að byggðin við Krýsuvík hafi verið þar þegar fyrstu norrænu landnemarnir sigldu framhjá og tóku sér bólfestu norðar á Reykjanesskaganum.
Annars er Reykjanesskaginn stórbrotin kennslubók í jarðmyndunarfræðum. Á Reykjanesgosbeltinu eru 12-15 gos þekkt frá nútíma. Segja má að Reykjanesskaginn sé þakinn gosmenjum því að
nánast milli allra stapa og hryggja eru hraun frá nútíma. Það einkennir Reykjanesskagann hversu gróf þessi hraun eru og landslagið virðist því oft snautt af gróðri. Engar ár renna á yfirborði og því er lítið sem getur haldið lífi í gróðri. Lækir eru þó nokkrir. Þeir minnstu virðast hafa getað afkastað mestu hvað landmótunina varðar, s.s. hér í Ögmundarhrauni, í Króksmýri, á Lækjarvöllum og á Höskuldarvöllum, skammt ofar.
Sjálfsmyndun við myndasmíði - kleprar með hitauppstreymi og ískristallsmyndunÁ Reykjanesskaganum kemur Atlantshafshryggurinn á land og má ímynda sér að Reykjanestáin yst á skaganum sé þar sem hann er að teygja sig upp á landið. Þrjú goskerfi eru á Reykjanesskaganum; Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið og Brennisteinsfjöll. Þrjár gerðir gosmyndana einkenna Reykjanesskagann en það eru litlar dyngjur sem hafa framleitt að mestu leyti framleitt Pikrít, önnur tegund er sprungugos sem hafa myndað hraun eins og Ögmundarhraun og Kapelluhraun.
Sprungugos hafa einnig skilið eftir sig gjall- og klepragíga og gjósku- og sprengigíga. Berggerð þeirra er oftast þóleiít. Þriðja gerð gosmyndana eru stórar dyngjur en líklega eru um 26 dyngjur á skaganum frá nútíma. Þær eru því áberandi á Reykjanesskaganum stundum tekur maður þó ekki eftir þeim þar sem hallinn á þeim er svo lítill og stærð þeirra er slík að maður missir eiginlega af þeim þær framleiða að mestu ólivín þóleiít (78% gosefna).
Talið er að stóru dyngjurnar séu allar eldri en 4500 ára (Ari Trausti 2001).
Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði. Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtishraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ber mest á mó og Einn gígurinnmýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hafa runnið frá. Allmargar eldstöðvar eru á Krýsuvíkurjörðinni en þær merkustu eru Stóra- og Litla-Eldborg undir Geitahlíð sem eru á austurmörkunum og sprengigígasvæði austan til í Sveifluhálsi. Stóra-Eldborg er 50 m há og gnæfir yfir umhverfið, 30 m djúp og mjög regluleg. Fáein samfelld gos hafa orðið á sögulegum tíma: Yngsta goshrinan (Krýsuvíkureldar) er talin hafa staðið 1151-1188, og Ögmundarhraun og Kapelluhraun runnið um 1151 og hrinunni lokið með gosi í Mávahlíðum.
Gjall- og klepragígaraðir eru víða þar sem gosið hefur apalhrauni á sprungum. Sprungugos af þessari gerð eru mjög algeng hér á landi og einkennandi fyrir eldvirkni landsins og virðist svo hafa verið frá upphafi jarðsögu Íslands. U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²).
Ef hægt væri að kalla einhver gos einkennisgos Íslands væru það sprungugosin. Þau geta verið nokkur hundruð metra upp í tugi kílómetra. Oft myndast gígar þegar líður á svona gos og þeir geta verið eins eða blandaðir.
Ögmundarstígur í vetrarbúningiSnertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við hraunrennsli á yfirborði kallast gosberg.
Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru „Aa-lava“ (apalhraun) og „Pahoehoe“ (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.
Helluhraun (e. Pahoehoe; úr Hawai’isku) er nokkuð slétt hraun sem verða til við eldgos með þunnfljótandi basalt-kviku. Helluhraun eru að jafnaði auðveld yfirferðar og oft alsett hraunreipum sem myndast þegar efsta lag hraunsins storknar en massinn heldur áfram að hreyfast. Stærstu helluhraun heims eru á Hawaii en einnig eru helluhraun á Íslandi; svo sem Þráinsskjaldarhraun og Sandfellshæð.
Apalhraun (e. Aa, úr havaiísku) er úfið hraun sem verður til í þeim eldgosum þar sem er flæðigos með basískri hraunkviku. Dæmi um apalhraun er sum hraunin sem liggja yfir Suðurnesin.
Lækurinn í vetrarbúningi - Mælifell fjærÞegar komið var upp að gígaröðinni fyrstnefndu var henni fylgt til norðurs. Nokkrir myndarlegir gígar eru í henni og sumir dýpri en aðrir. Í þeim dýpsta er gat, sem kíkja þarf inn í við tækifæri. Sprungureinin hefur, meðan hún var virk á sínu tæplega 40 ára tímabili, verið tæplega 100 metra breið. Virknin hefur ekki alltaf verið allsstaðar heldur hefur hún greinilega færst til, þ.e. dottið niður um tíma, en síðan vaknað að nýju og þá myndað nýjar gígaraðir, gjallrana og hraunbreiður.
Fjárskjólið reyndist stútfullt af snjó þrátt fyrir tiltölulega lítinn slíkan að öllu jöfnu á svæðinu. Víðast hvar sást í auða jörð. Snjórinn var hins vegar frosinn svo ómögulegt var að reyna inngöngu. Þó sáust vel fótspor tófunnar, sem hafði vaknað snemma og farið vítt yfir í leit að þeirri einu upp til heiða, rjúpunni.
Læknum var fylgt inn á Suðurvelli og síðan niður hraunið milli Mælifells og Latshóla. Fáir vita af þessum litla læk. En  „margur er knár þótt hann sé smár“. Í tæp 860 hefur hann af einurð hlaðið markvisst undir sig uppruna sínum, úr hlíðum Hettu og Sveiflu í Sveifluhálsi. Og það einungis yfir sumartímann, því hann, líkt og aðrir lækir, leggjast gjarnan í dvala á veturnar – bæði vegna efnisleysis og frosta. Hann hefur jafnan náð að þétta gljúpt hraunið og þannig komst áfram, smám saman. Þegar lækurinn mætti fyrirstöðu beygði hann af leið og reyndi fyrir sér á nýrri og lægri slóðum. Þannig hefur þetta gengið – svo vel að nú er hann kominn niður fyrir Ísólfsskálaveg og á væntanlega um fimmtungs leið eftir til sjávar. Með læknum eru grónir grösugir bakkar, sem féð hefur síðan sótt í og aðstoðað við að móta hraunlenduna á þessu svæði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-wikipedia.org
-Málfríður Ómarsdóttir – Reykjanesskagi – náttúrusaga og eldvörp, apríl 2007.
-Jónas Guðnason – Eldvirkni á Íslandi á nútíma, apríl 2007.

Einn gígurinn

Húshólmi

Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi safnaði og ritaði m.a. um gömlu Krýsuvík, Húshólma og Ögmundarhraun. Skrifin birtust í „Úr Tillaga til alþýðlegra fornfræða“ (bls. 101-102), sem Menningar- og fræðslusamband alþýðu gaf út 1953. Þau eru eftirfarandi:

Húshólmi

Húshólmi – fjárborg.

“Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af, að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram á milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess, er að höndum kæmi, og fal sig guði: því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann, og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan Óbrennishólmi, er hann var.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – fjárborg/virki.

Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað, þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað, sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð, fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau, og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart, að það var óvinnandi, og varð ekki veginum komið á.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Ögmundur hét maður. Hann var berserkur, illur viðskiptis og flakkaði um land og gjörði mörgum mönnum óskunda. Hann kom að Krýsuvík og bað dóttur bónda. Bóndi þorði ekki að neita og lofaði honum dóttur sinni, ef hann legði veg yfir hraunið. Hann gekk að því og fór til, byrjaði að vestan, en bóndi stóð við hraunbrúnina að austan. Ögmundur hamaðist og hjó rösklega veginn yfir hraunið, en þegar hann kom austur yfir og var búinn, dasaðist hann. Þá hjó bóndi hann banahögg og dysjaði hann þar. Grjóthrúga er þar við götuna, sem kallað er leiði Ögmundar, en stendur á kletti. Vegurinn gegnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór björg (hraunstykki), en víða þrepóttur í botninn, sem hin gamla gata segir (ort á seinni tímum):

Húshólmi

Húshólmi og Óbrennishólmi – loftmynd.

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar, sem áður var bærinn Krýsuvík, heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.“

Rétt er að geta þess að Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála, sem var með vegarvinnumönnum við gerð Hlínarvegar um 1932, sagði í viðtali 2002 að vegurinn hafi að mestu verið lagður ofan í Ögmundarstíg. Þar hafi þá verið djúp för í klöppunum eftir ferðalanga fyrri alda. Sums staðar hafi hellan brotnað vegna þess hve þunn hún hafi verið orðin og undir verið djúpar holur.

-Úr Tillaga til alþýðlegra fornfræða (bls. 101-102) – Brynjúlfur Jónsson – Menningar- og fræðslusamband alþýðu 1953.

Husholmi-25

Áð í Húshólma.

https://ferlir.is/husholmi-i/https://ferlir.is/husholmi/