Tag Archive for: Tanga-Tómas

Selatangar

„Tómas hét maður, er eitt sinn kom að Krýsuvík og baðst þar gistingar en honum var úthýst.

Arnarfell

Bærinn Arnarfell undir Arnarfelli í Krýsuvík.

Fór Tómas þá þaðan, en varð úti á Selatanga. Tómas gekk aftur og var draugurinn jafnan nefndur Tanga-Tómas. Margir urðu fyrir aðsókn hans en einkum Beinteinn úr Hraunum suður, enda var hann oft við selaskot á tanganum.
Stundum skaut Beinteinn silfurhnöppum á drauginn en það hreif ekkert. Aftur fældist hann í svipinn, þá er skotið var á hann lambaspörðum. Oft fylgdi draugurinn Beinteini heim og varð honum helzt til friðar að láta konu sína sofa fyrir framan sig, því að þá komst draugurinn ekki að honum. Einhverju sinni var draugurinn kominn inn í bæinn á undan Beinteini. Hann krossaði fyrir dyrnar, eins og þá var siður til, til þess að varna draugnum að komast inn, en þetta varð til þess í þetta skipti að draugurinn komst ekki út. Hann var með gustmesta móti um nóttina og var stundum bjart í baðstofunni af eldglæringum.“

-ÓLAFUR DAVÍÐSSON I 315

Selatangar

Selatangar – sjóbúð.

Brúnavörður

Selatangar eru forn verstöð, sennilegast notuð þegar á miðöldum. Hraunið, Ögmundarhraun, er frá því um 1150, en það ár lagði það gamla Krýsuvíkurbæinn í Húshólma, sem er litlu austar, í eyði og færði garða og mannnvirki í og við Óbrennishólma í kaf. Þó má sjá þar móta fyrir hlöðnum vegg, sem hraunið hefur stöðvast við, fjárskýli, jarðlægu garðlagi og fjárborg (virki?).

Á Selatöngum

Verkhús á Selatöngum.

Frá Selatöngum var róið frá Krýsuvík, Skálholti og Ísólfsskála. Talið að a.m.k. 80 manns hafi hafst þar við í verum. Síðast var verið á Selatöngum um 1880, en róið var þaðan frá Skála og selveiðar voru stundaðar allnokkur ár eftir það. Þá var oft lent þar síðar ef lending var ófær annars staðar meðan róið var á opnum skipum, s.s. frá Þórkötlustöðum, Hrauni og víða. Við Dágon neðst á Töngunum eru landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Um minjarnar og minjasögu Selatanga er m.a. fjallað í nýútkomnu riti Ferðamálafélags Grindavíkur „Merkar minjar í umdæmi Grindavíkur- Seltangar. Auk þess hefur Ferðamálafélagið gefið út ritið „Merkar minjar í umdæmi Grindavíkur – Húshólmi„,

Selatangar

Selatangar – refagildra.

Á og við Selatanga sjást miklar rústir seinni tíma verbúða hlöðnum úr hraungrýti svo og rústir af fiskbyrgjum þar sem hertur fiskur var geymdur. Sjórinn hefur afmáð elstu minjarnar. Á görðunum, sem víða sjást, var einnig hertur fiskur þegar veður gaf. Sums staðar er hlaðið fyrir hraunhella og þeir notaðir sem byrgi. Vestan við Seltanga er sagður hellir sem notaður var til smíða í landlegum. Einnig má sjá hlaðnar refagildrur frá síðustu öld.

Selatangar

Selatangar- Tanga-Tómas með FERLIRSfélögum.

Á Selatöngum var afturgangan Tanga-Tómas, sjórekinn spánskur sjómaður, svo hatröm að ekki þýddi að skjóta á hana silfurhnöppum sem yfirleitt dugðu helzt á drauga, en frekast dugðu lambaspörð. Auk Tanga-Tómasar eru margir aðrir draugar á ferli á Seltöngum og í nágrenni þeirra, einkum þegar skyggja tekur. Síðast þegar FERLIRsfélagar voru á ferð á Selatöngum birtist þeim einmitt Tanga-Tómas með eftirminnilegum hætti, auk þess sem hann kom einum félaganum að óvörum þegar verið var að skoða refagildrurnar í annarri ferð þangað. Fræg er og sagan af Arnarfellsbónda og átökum hans við drauginn seint á 19. öld.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Á Miðrekum eru líka sagnir um anda, reyndar annarskonar, og greinir mönnum á um eðli hans. Sumir segja að þar hafi þeir rekist á vín-anda, en aðrir heilagan anda. Hvort vínandinn hafi orðið að heilögum anda, eða öfugt, á leiðinni er erfitt að segja til um. Austan Miðreka eru Brúnavörður. Frá þeim liggur stígur yfir hraunið inn í Húshólma.

Selatangar

Sögunarkór í Katlahrauni

Í Húshólma eru fornar minjar búsetu. Landnámsöskulagið frá um 872 er þar í garðpælu, en í hólmanum og í hrauninu vestan hans má m.a. sjá rústir, garða og hleðslur. Sumir vilja halda því fram að þarna hafi búið fólk löngu á undan komu norrænna manna til landsins.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Minjarnar í og við Húshólma hafa ekki verið rannsakað að ráði, en ljóst er að Ögmundarhraunið rann yfir landið um 1150, kaffærði byggðina, færði ströndina utar og lokaði víkum og lónum við ströndina, þ.á.m. gömlu Krýsuvík, en „krys“ nefndist áður fyrr vík eða skora. Lágbarið fyrrum grágrýtið ofan við Hólmasundið bendir til þess ströndin hafi þarna fyrrum legið vel við sjó.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Í Húshólma er m.a. forn langur bogadreginn garður, skáli, kirkja, kirkjugarður, hústótt, fjárborg, selstaða (stekkur og hús), sjóbúð (notuð síðast 1913), hlaðin refagildra, rétt o.fl. Það hefur verið öðruvísi um að litast á þessu landssvæði við upphaf byggðar.
Gangan tók 4 klst og 6 mín. Frábært veður.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Selatangar

Gengið var um Selatanga og einstakar minjar gaumgæfðar. Skoðaðar voru m.a. sjóbúðir, verkhús, þurrkbyrgi, þurrkgarðar, brunnur, smiðja, skiptivöllur, byrgi, hella, hlaðnar refagildrur og gamlar götur. Síðan var gengið um Katlahraunið eftir Rekagötunni að Ísólfsskála. Á leiðinni var rifjuð upp jarðsaga svæðisins.

Sjóbúð

Í þessari heimsókn kom berlega í ljós hversu varnarlausar minjarnar á Selatöngum eru. Hraunþakið á fyrirhlöðnum skúta austast á Selatöngum hafði fallið niður á hleðsluna svo hana má varla greina lengur. Þá hefur sjórinn brotið enn meira af miðverkunarhúsinu svo nú er varla nema þriðjungur eftir.
Á Selatöngum var allmikið útræði, bæði á vegum Krýsuvíkurbónda og annarra, meðal annars er talið að þaðan hafi fyrrum verið róið á skipum frá Skálholtsbiskupi (sjá má bækling um Selatanga HÉR). Vísa er til sem nefnir 82 sjómenn á Töngunum. Útræði lagðist niður á Selatöngum eftir 1880.
Allmiklir verbúðarústir eru þar enn og víða hefur verið hlaðið fyrir hraunskúta, s.s. hesthús og geymslur. Minjarnar þar eru friðlýstar.

Selatangar

Selatangar – verkhús.

Á seinni hluta 19. aldar kom upp reimleiki á Selatöngum og var draugurinn nefndur Tanga-Tómas. Mikill reki er við Selatanga. Þar er stórbrotið umhverfi og má einkum nefna Katlahraun vestan við Tangana. Nefndur Tómas var maður, er eitt sinn kom að Krýsuvík og baðst þar gistingar en honum var úthýst. Fór Tómas þá þaðan, en varð úti á Selatanga. Tómas gekk aftur og var draugurinn jafnan nefndur Tanga-Tómas. Margir urðu fyrir aðsókn hans en einkum Beinteinn úr Hraunum suður, enda var hann oft við selaskot á tanganum. Stundum skaut Beinteinn silfurhnöppum á drauginn en það hreif ekkert. Aftur fældist hann í svipinn, þá er skotið var á hann lambaspörðum. Oft fylgdi draugurinn Beinteini heim og varð honum helzt til friðar að láta konu sína sofa fyrir framan sig, því að þá komst draugurinn ekki að honum. Einhverju sinni var draugurinn kominn inn í bæinn á undan Beinteini. Hann krossaði fyrir dyrnar, eins og þá var siður til, til þess að varna draugnum að komast inn, en þetta varð til þess í þetta skipti að draugurinn komst ekki út. Hann var með gustmesta móti um nóttina og var stundum bjart í baðstofunni af eldglæringum (sjá meira HÉR).

Selatangar

Selatangar – þurrkbyrgi.

Nú standa eftir verbúðarústirnar, fiskbyrgi og fiskgarðar auk hraunhella sem voru notaðir til ýmissa hluta. Standa mörg fiskbyrgin og fiskgarðarnir enn að miklu leyti, en sjórinn hefur verið að brjóta smám saman niður þær minjar er standa næst ströndinni. Núverandi minjar eru flestar yngri en 1799 er stórflóð og fárviðri gerði þá á Suðvesturströndinni og braut niður og skolaði í burt fjölmörgum mannvirkjum. Svæði þetta var allt friðlýst, sem fyrr sagði, 1966 af Kristjáni Eldjárn, þáverandi þjóðminjaverði.

Selatangar eru í Ögmundarhrauni á mörkum jarðanna Ísólfsskála og Krýsuvíkur.

Selatangar

Gengið um Selatanga.

Ljóst er að hraunið hefur runnið eftir landnámsöld (sjá meira HÉR og HÉR. Einnig HÉR). því undir því eru leifar mannvirkja sem greinilegar eru á svonefndum Húshólma. Geislakolsaldursgreining á koluðum gróðurleifum dagsettu hraunið til miðrar 12. aldar og annálar nefna eldgos 1151. Óvíst er hvenær útgerð hefst frá Selatöngum en samkvæmt ofangreindu eru minjarnar ekki eldri en frá miðri 12. öld. Víst er að útgerðin lagðist niður um tíma eftir Básendaflóðið 1799 (sjá meira HÉR og HÉR), og svo að fullu og öllu 1884 en það ár var síðast róið frá Selatöngum. Um það leyti féll seinasta sjóbúðin, og hafa menn eigi hafst þar við síðan, utan þess að bændur frá Skála voru þar lengur við útræði og selveiðar.

Selatangar

Selatangar – sjóbúð og fiskbyrgi.

Rústirnar eru margar, auk garðhleðslanna sem eru á hraunnefunum og eru nú að mestu horfnar.
Á Selatöngum er talið að fyrrum hafi m.a. verið biskupsskip frá Skálholti. Hella við Tangana notuðu vermenn til ýmissa nota. Í einum höfðu þeir kvörn sína og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir í helli einum ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum.

Selatangar

Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur. Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans:
„Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini“.
SelatangarEinu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti han
n sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið.

Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini að hann hélzt loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hröklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður. Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: „Og hann fylgir staurunum, lagsi“.

Selatangar

Nokkru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæju ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu búð sem eftir var þar þá og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttinni, en fara á fætur með birtu og ganga þá á fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig að Einar svaf við gaflhlaðið en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagzt niður, töluðu þeir saman dálitla stund og segir þá Guðmundur meðal annars:
„Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar?“
Austasta sjóbúðin og byrgiKvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætlað að sofna en er þeir hafa legið litla stund
heyra þeir að ofan af ytra bálkinum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað. Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna:

„Þarna er hann þá núna“, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, inn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekara til sín heyra.
VerkhúsSölvi Björn Sigurðson hefur ritað umsögn um eitt verka Árna Bergmanns, Geirfuglinn, en sagan á m.a. að gerast á Selatöngum.

Í Geirfuglunum rekur maður á miðjum aldri uppvaxtarsögu sína og minningar frá æskustöðvunum, þorpi á Suðurnesjum sem nefnist Selatangar og er fyrir ill tíðindi orðið frægari staður en bæði Vestmannaeyjar og Reykjavík. Titill bókarinnar gefur það til kynna að hér er lýst heimi á hverfanda hveli, fólki sem heyrir fortíðinni til og er í bráðri útrýmingarhættu. Hin mikla tákngerving þessarar útrýmingar er ægilegt slys sem veldur bana meiri hluta íbúanna; aðeins fáeinir lifa af og þjást af söknuði, tómleikakennd og væntanlega samviskubiti yfir því að hafa komist af.
RefagildraHin válegu tíðindi sem gerst hafa marka þáttaskil fyrir alla þá sem eftir lifa. Þessi þáttaskil eiga sér ef til vill djúptækar menningarlegar og pólitískar aðstæður sem um nokkurt skeið hafa mótast í landinu og stefnt þjóðinni í voða. 

Ýmsar blikur eru á lofti um að slysið tengist tilraunum bandaríska hersins og aðsetri kafbáta hans í sjávarhellum skammt frá byggðinni. Þetta fæst að vísu ekki staðfest og aðrir telja að ægilegar jarðhræringar hafi valdið slysinu. Það verður samt ekki annað skilið en að hinir nýju landnemar í íslensku samfélagi séu engir aufúsugestir, og að ýmsar þjóðfélagshræringar og stríðsræskingar sem þjóðin hefur bægt frá sér í ellefu aldir etji henni nú á vafasama braut með skelfilegum afleiðingum.

Verbúð

Framármaður – málverk Bjarna Jónssonar.

Kaldastríðsskjálftinn hlýtur að vera raunverulegur áhrifaþáttur við ritun þessarar fyrstu skáldsögu Árna Bergmanns, sem einnig er uppgjör við liðna tíma, horfna bernsku og þjóðlíf sem hans kynslóð hefur séð líða undir lok.
Geirfuglinn er dágætt dæmi um hvernig nútíminn er oft tengdur við liðna sögu, sögu er snert getur hina viðkvæmustu sálarstrengi þjóðar (sjá meira HÉR).
Loks voru refagildrunar skoðaðar sunnan Katlahrauns (sjá meira HÉR).
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.reykjanes.is/um_Reykjanes
-http://www.fornleifavernd.is
-Fornleifaskrá. Skrá um friðlýstar fornleifar. Ágúst Ó. Georgsson tók saman – Reykjavík 1990.
-Jón Thorarensen: Rauðskinna- Rvk. 1949, bl.72-76
-Ísólfsskáli. Örnefnalýsing. Guðmundur Guðmundsson bóndi Ísólfsskála. Ari Gíslason skráði – Örnefnastofnun Íslands.
-Lúðvík Kristjánsson: Íslenzkir sjávarhættir II. Rvk. 1982, bls. 410-11
-http://bokasafn.rnb.is
-http://www.bokmenntir.is

Selatangar

Í Katlahrauni.

Á Selatöngum

Á Selatöngum.