Gengið var inn í Húshólma um Húshólmastíg (1.1 km). Með í för var m.a. hinn mæti Grindvíkingur Dagbjartur Einarsson. Skoðað var aðhald austast í hólmanum, stekkur eða rétt og brunnur sem og hugsanlegar seltóftir. Þá var litið á grenið nyrst sem og skotbyrgi refaskyttunar, auk gróins gerðis í hraunkrika. Allt eru þetta nýlegri minjar í hólmanum, en engu að síður minjar manna, sem þar voru í ákveðnum erindagjörðum, hvort sem var að sitja yfir ám eða liggja fyrir ref.
Húshólmastígur um Ögmundarhraun.
Skammt vestar er forn fjárborg. Hún var skoðuð. Gengið var að fornum garði er legið hefur þvert yfir hólmann, en hefur nú látið verulega á sjá. Garðurinn er heillegastur að norðvestanverðu, næst hraunkantinum. Þá var gengið að bogadregnum garði skammt sunnar. Honum var fylgt inn í hraunið uns komið af að hinu fornu minjum ofan við Kirkjulág. Um er að ræða tvo skála. Hraunið frá 1151 hefur umlukið þann nyrðri. Í honum sjást stoðholur eftir miðju tóftar, jafnvel tvöföld. Svo virðist sem hraunið hafi einni brennt torfið utan af tveimur eða þremur hringlaga byggingum skammt suðaustan hans.
Meginskálinn virðist vera með sveigðum veggjum. Dyraop er mót suðri, en við austurenda hans er bygging. Dyraop er þar einnig mót suðri.
Í Kirkjuláginni eru garðar, tóft áætlaðrar kirkju sem og hugsanlegur skáli vestan hennar. Torfhlaðnir bogadregnir veggir eru norðan og austan hennar. Þeir umlykja og kirkjutóftina.
Brúnavörður að baki.
Vestan hennar er stígur er liggur að Brúnavörðunum, á hraunkantinum að suðvestanverðu. Hann er flóraður að hluta. Sagt er að sonur Guðmundar Bjarnasonar frá Krýsuvík hafi lagt stíginn, en áður hafi forn stígur úr Húshólma legið að Selatöngum sjávarmegin, en hann lagst af við áganginn.
Þar er fornt garðlag, forn fjárborg sem og hugsanlega tóft topphlaðins húss. Ofar og norðar í hólmanum er hlaðinn veggur er hraunið hafði stöðvast við fyrrnefnt ár. Skammt ofar í hrauninu er nýrra hringlaga skjól.
Húshólmastígur hefur greinilega verið mikið notaður í gegnum tíðina því óvíða má sjá markað í jarðfast grjót, en víðast hvar hefur grjóti verið kastað úr götunni og myndar smærra grjót undirlagið. Hann er auðveldur umferðar. Þegar komið er í Hólmann er við enda hans fyrirhleðsla til að varna því að fé leitaði eftir stígnum og út úr Hólmanum.
Húshólmi – stekkur.
Í líklegum brunni ofarlega í hólmanum virðast vera hleðslur. Þar skammt frá er réttin eða stekkurinn, auk annarra ógreinilegra mannvirkja, s.s. lítil tóft og hlaðið hringgerði.
Megingarðarnir í Húshólma eru gerðir úr torfi. Undirlagið var steinhlaðið. Þvergarður um Kirkjuflötina virðist þó hafa verið hlaðinn með grjóti.
Efst er þvergarður til austurs og vesturs. Hraunið hefur runnið yfir hann vestast. Annar garður liggur skammt sunnar til suðausturs og í boga til suðvesturs. Á hann er þvergarðurinn. Innan hans að norðanverðu er skeifulaga gerði. Það sést best þegar sólin er tiltölulega lágt á lofti. Heitir þar Kirkjuflöt.
Á meginminjasvæðinu í hrauninu vestan Húshólma virðast vera þrír, skálar, kirkjutóft og garðar. Í nyrsta skálanum er stoðholuröð, sennilega tvöföld, miðskálinn er heillegur af útlitslínum að dæma og sá syðsti er þvert á þá efri. Austan við hann er kirkjutóftin, í svokallaðri kirkjulág. Til austurs frá henni inn í Húshólma liggur kirkjugatan.
Beinteinsbúð í Húshólma.
Tóft (Beinteinsbúð) er skammt ofan rekagötuna niður að Hólamsundi. Hún gæti verið frá verið Krýsuvíkurbænda við útfræði þar árið 1917. Annars gerðu þeir fyrrum út frá Selatöngum. Húshólmastígur og stígurinn að Brúnavörðunum sem og stígurinn upp með vestanverðu Ögmundarhrauni gæti verið gömul vergata þeirra, en þá hefur Húshólminn verið á 1/3 leiðarinnar og þeir þá átt um 2/3 hennar eftir. Ekki er með öllu útilokað að einhverri tóftinni við Húshólma hafi enn verið haldið við sem skjóli á þeirri leið, t.d. kirkjutóftinni.
Frá því að fyrst var farið að búa í Krýsuvík, sem nú er, og fram á síðstu ár (ritað 1951), hafa alltaf verið þar menn, sem vissu að í Húshólma hefur endur fyrir löngu verið byggð, og hún ekki alllítil, svo sem sjá má af húsarústum og öðrum ummerkjum, sem eru þar enn í dag. Húshólmi – eða staður sá, sem svo hefur verið nefndur um langan aldur, er austast í Ögmundarhrauni, er það óbrenndur heiðalandsblettur, um 25-30 ha að stærð.
Húshólmi – skáli.
Hinum sýnilegu minjum í Húshólma, sem vitna það í þögn sinni, en þó svo glöggt, að ekki verður um villst, að það hafi fólk búið endur fyrir löngu, hefur hraunflóðið þyrmt, þegar það beljaði þarna fram ís jó, yfir stórt og sennilega fagurt land og gott ásamt byggð, sem enginn veit, hve mannmörg hefur verið. – Þegar staðnæmst er við þessar fornu húsarústir, þá hlýtur hver hugsandi maður að fyllast undrun yfir þeirri algjöru þögn, sem svo rækilega hefur fram á þennan dag hvílt yfir þeim atburðum, sem hér hafa gerst.
Eggert Ólafsson segir í ferðabók sinni um jarðelda í Trölladyngju: “Að minnsta kosti er það víst, að krýsvíkingar kunna að segja frá ægilegum jarðeldi, er brann í fjöllum þessum í fornöld. Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóftanna.”
Skáli við Húshólma.
Þorvaldur Thoroddsen segir í ferðabók sinni um rústirnar í Húshólma: “Ein sú lengsta er 49 fet, en breidd hennar sést ei fyrir hrauni.” Og ennfremur segir hann: “Þessar tóttir, sem hraunið hefur runnið yfir, eru full sönnun fyrir því, að það hefur myndast síðan land byggðist, þótt hvergi finnist þess getið í sögum eða annálum.” Einnig getur Þorvaldur um allmarga garða, sem sjáist þar enn. Hann segir um Ögmundarhraun, að Jónas Hallgrímsson hafi giskað á, að það hafi runnið í kringum 1340, “án þess þó að færa heimildir fyrir því”.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi skrifar í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903 um Húshólma og fornminjarnar þar. Þar getur hann garða og húsarústa á svipaðan hátt og Þorvaldur Thoroddsen. Í greins inni kemst Brynjúlfur þannig að orði á einum stað: “Krýsuvík hefur til forna staðið niður undir sjó, fyrir vestan endann á Krýsuvíkurbjargi. Nafnið Krýsuvík bendir til þess.” Brynjúlfur er sá eini af þessum þremur fræðimönnum, sem minnist á og telur víst, að Krýsuvík hafi verið upphafalega þar, sem nú er Húshólmi.
Húshólmi – stoðhola.
Það, sem einkum styður þá kenningu, að Krýsuvíkin hafi í upphafi staðið við sjó, er aðallega þetta: Nafn byggðarinnar – Krýsuvík, eins og Brynjúlfur Jónsson bendir á, því að lítt hugsanlegt er, hafi byggðin staðið frá landnámi þar, sem nú er, að hún hefði þá fengið þetta nafn, því að þar er ekki um neina vík að ræða, ekki einasta að byggðin sé það nærri Kleifarvatni, að nafnið gæti þaðan verið komið. Í öðru lagi eru það hinar miklu húsarústir og önnur verksummerki í Húshólma, með nöfnum svo sem Kirkjuflöt og Kirkjulág. Nöfn þessi benda til, að þar hafi kirkja verið, en aldrei mun getið nema einnar kirkju í Krýsuvík, og er að ég hygg fyrst getið í máldaga 1275, en prests getið þar snemma á 14. öld. Mun þetta hvort tveggja áður en Ögmundarhraun myndaðist.
Í Húshólma.
Nú mun vera vaknaður nokkur áhugi fyrir hinum fornu rústum í Húshólma. Vonandi tekst áður en langur tími líður að lyfta þeim huliðshjálmi, sem fram að þessu hefur hvílt yfir leifum þessara fornu byggðar, þessum leifum, sem segja má, að neitað hafi að láta ægivald elds og hrauns undiroka sig, til þess að síðar, þegar við værum þess umkomin, gætum lesið sögu þessara byggðar og að einhverju leyti sögu þess fólks, sem þarna lifði og starfaði – og “sat meðan sætt var”.
Strjálir munu róðrar hafa verið frá Húshólma síðustu aldirnar. Þó munu menn stöku sinnum hafa lent þar bátum sínum, einkum á seinni árum, til þess að sækja timbur og annað það, sem á land hefur þar skolað, því rekasælt er í Hólmanum í góðum rekárum.
Húshólmi – skáli.
Eins hefur það borið við, að sjóhraktir menn hafa náð þar landi. Þannig tók þar land um eða laust fyrir 1920, skipshöfn af selveiðiksipinu “Kóp”, sem sökk út af Krýsuvíkurbjargi á leið til Austurlands með saltfarm.
Skipshöfnin barði skipsbátnum í norðanbáli og kulda vestur með landi, en landtaka víst vart hugsanleg fyrr en í Húshólma, enda norðanáttin besta áttin þar. Þeir lentu í Húshólma heilum bát sinum, settu hann undan sjó, gengu svo – einhverjir eða allir – til Krýsuvíkur, því að allir komust þeir þangað og fengu þar og í Stóra-Nýjabæ, sem voru einu bæirnir í byggð þá.
Þær viðtökur og viðurgerning, sem Íslendingar eru svo þekktir fyrir þegar svo stendur á, ekki einasta hérlendis, heldur og allvíða erlendis.
Húshólmi – garður.
Vitað er það, að Krýsvíkingar höfðu á síðari öldum útræði nokkurt, en þeir reru ekki út úr Húshólma, heldur frá Selatöngum, sem liggja fjær en tvennar vegalengdir í Húshólma, og hefur þetta vitanlega orsakað af því einu, að eins og þá var komið, mun ófært hafa verið talið útræði úr Húshólma, en gott frá Selatöngum að öðru leyti en því, að vatnslaust má telja þar, en oftast nægt vatn í Húshólmanum.
Svo var það sumarið 1917, að bændur í Krýsuvík tóku að hugsa til fiskiróðra út frá Húshólma. Ekki var hér um stórútgerð að ræða, enda ætlaði eigandinn að taka á sig tapið, ef eitthvert yrði, svo sem þeir munu enn gera, sem sjósókn stunda á opnum fleytum. Í Krýsuvík bjó þá Þorvarður Þorvarðarason, með systur sinni Hallbjörgu. Í Stóra-Nýjabæ bjó Guðmundur Jónsson.
Gata lá frá Krýsuvík niður í Húshólma og í gegnum Ögmundarhraun, áleiðis yfir á Selatanga.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson – Harðsporar 1951.
-Ferðabók Eggerts Ólafssonar.
-Ferðabók Þorvaldar Toroddsens, I, bls. 186.
Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.