Snorrastaðatjarnir

Eftirfarandi umfjöllun um skotæfingasvæði fyrir bandaríska herinn í heiðinni ofan Voga birtist í Nja tímanum 1953:
herinn-221„Guðmundur Í. heimtar beitiland Vatnsleysustrandar-bænda til skotæfinga fyrir herinn Heiðin frá Grindavíkurvsgi allt snn hjá Keili á að vera bannsvæði fyrir Íslendinga.
Guðmundur Í. Guðmundsson, varnarmálanefndar-maður í Gullbringu- og Kjósarsýslu og þingmaður Alþýðuflokksins fer nú hamförum við að afhenda bandaríska hernum lönd Suðurnesjamanna. Í júní í fyrra skýrði Nýi tíminn frá því að bandaríski herinn hefði gert kröfu til að fá til sinna umráða Reykjanesið frá Keflavíkurflugvelli allt suður til Grindavíkur, og síðan að fyrirhugað væri að herinn teygði umráðasvæði sitt lengra inn eftir nesinu. Svæðið milli Grindavíkur og flugvallarins hefur bandaríski herinn haft til umráða síðan í fyrrasumar og það er nú einnig komið á daginn að umráðasvæði hersins sé teygt inn eftir skaganum. Síðasta afrek Guðmundar Í. Guðmundssonar við að leggja lönd Suðurnesjamanna undir bandaríska herinn er það að afhenda hernum beitiland Vatnsleysustrandarbúa frá Grindavíkurvegi að vestan allt austur hjá Keili. Að norðan eru takmörkin skammt ofan við Vatnsleysustrandarbyggðina, að sunnan lína frá Skógfellinu austur með Fagradalsfjalli til Keilis.
herinn-222Eins og skýrt er frá annarsstaðar í blaðinu er bandaríski herinn nýbúinn að afmarka bannsvæði á landi Vogamanna ög hefur m.a. tekið skógræktarsvæði Suðurnesjamanna undir skotæfingar sínar. En það var’ ekki aðeins að bandaríski herinn tæki skógræktarsvæðið heldur raðaði hann bannmerkjum sínum allt frá Stapanum og skammt fyrir ofan byggðina inn móts við vitann í Ásláksstaðahverfinu á Vatnsleysuströndinni. Til suðurs frá Stapanum var bannmerkjunum raðað fast við Grindavíkurveginn allt suður hjá Arnarsetri. Guðmundur Í. í landvinningahug. Að liðnum uppstigningardegi skrapp fréttam. Nýja tímans á fund Suðurnesjamanna til að kynna sér landvinninga Guðmundar Í. Guðmundssonar o.g. bandaríska hersins. Jú, Vatnsleysustrandarbúar sáu það frá húsum sínum að komin voru merki þónokkuð fyrir ofan sem bönnuðu þeim að stíga fæti sínum ofan við vissa línu. Fyrir um það bil mánuði lét Guðmundur Í. Guðmundsson, sýslumaður og alþingismaður einn starfsmann embættis síns spyrja Vatnsleysustrandarbúa um landamerki og hreppamörk. Hvers vegna var Guðmundi Í. allt í einuu orðið svona annt um landamerki? Jú, elsku Kaninn þurfti að fá meira land undir skotæfingar. Og Guðmundur Í var þjónustusamlegast reiðubúinn að heimta meira land af Suðurnesjamönnum handa bandaríska hernum.
Forsvarsmönnum Vatnsleysustrandarbúa var tjáð að land það sem bandaríski herinn hefði nú litið girndarauga væri í línu frá Litla-Skógfelli (sem er á leiðinni til Grindavíkur) til Keilis og frá suðausturenda Stapans einnig til Keilis. Var Vatnsleysustrandarbúum boðið að tilnefna fulltrúa sinn við landaafsal þetta og skyldi hann sitja í gerðardómi til að meta leigu fyrir landið.
Þegar landeigendur á Vatnsleysuströndinni ræddu þetta mál kom strax fram það sjónarmið að neita þessari landakröfu. Völdu þeir sem málsvara sinn mann af Vatnsleysuströndinni, sem nú er búsettur í Rvík. Hann neitaði hinsvegar að eiga þátt að landaafsali þessu og setjast í slíkan gerðardóm. Til að byrja með var Vatnsleysustrandarbúum tjáð að elsku Kaninn þurfi land þetta ekki nema haust og vor, 6 vikna tíma á vorin, jafnlengi á haustin. Þyrftu bændur að smala búsmala sínum brott, — og reka hann hvert?!
herinn-223Fyrir fáum dögum kom svo bandaríski herinn á vettvang og raðaði upp bannmerkjum sem á var letrað: ? Bannmerki þessi setti hann upp frá útvarpsstöðinni sinni alræmdu á Stapanum og fast með Grindavíkurveginum suður móts við Arnarsetur, skammt frá í Stóra-Skógfelli, en línan þaðan til Keilis liggur fast við norðurhlíð Fagradalsfjallsins. Beitilandið tekið. Samskonar merki setti herinn upp fast við Keflavíkurveginn fyrir ofan gamla herspítalagrunninn austast á Stapanum. En frá austurenda Stapans var merkjalínan ekki í stefnu á Keili, eins og upphaflega hafði verið látið í veðri vaka, heldur þvert á móti inn ströndina í átt til Hafnarfjarðar, skammt fyrir ofan Vatnsleysustrandarbyggðina — innsta merkið. sem frá veginum sást ofan við Ásláksstaðahverfi. Hvað langt inn eftir ströndinni að fyrirhugað er að herinn teygi sig hefur enn ekki verið uppskátt látið.
Þegar fréttamaður Nýja tímans leit þarna suður eftir í fyrradag voru öll bannmerkin þar sem þau höfðu upphaflega verið sett af herraþjóðihni, og eru meðfylgjandi myndir sýnishorn af þeim. Síðan skrapp fróttamaðurinn til Grindavíkur, en þegar hann kom til baka eftir skamma viðdvöl í Grindavík höfðu merkin, er áður stóðu fast við veginn til Grindavíkur, verið færð nokkurn spöl austur í hraunið. Aðeins eitt merki stóð enn uppi, var það rétt við veginn austan við Seltjörnina, þ.e. í lægðinni milli hraunsins og Stapans.
En um sama leyti komu þar Bandarikjamenn í bíl, hljóp einn þeirra út úr sprengja-21bílnum, réðist á merkið og fleygði því niður fór svo inn í bílinn aftur! — Hin merkin höfðu verið flutt þangað sem þau voru ekki eins áberandi frá veginum! Þar á ekki að slaka til. Merkin sem áður voru uppi á Stapanum höfðu einnig verið felld, en þótt merkin við Grindavíkurveginn hefðu verið færð, þá var bannmerkjalínan inn ströndina ófærð með öllu. Þar virtist ekki ætlunin að hopa hið minnsta. Guðmundur Í. Guðmundsson Bandaríkjafógeti virðist ekki geta hugsað sér að færa það bannsvæði hóti fjær byggðinni.
Vatnsleysustrandarbúar tóku sauðfé aftur á sl. hausti. Auk þess eiga þeir hross og kýr. Landið sem Guðmundur í og bandaríski herinn hafa nú gert að bannsvæði fyrir þá er beitilandið fyrir búsmalann. Auðvitað tekur enginn mark á því að herinn noti ekki landið nema nokkrar vikur haust og vor. En segjum að svo væri. Hvar eiga bændurnir að geyma búsmala sinn á meðan herinn rótar upp beitilandinu með byssum sínum? Hver vill eiga búfé sitt á skotæfingasvæði hers? Og hver vill smala skotæfingasvæði (þótt herinn heiti því að skjóta ekki rétt á meðan)?
sprengja-222Allt fram á þennan dag hafa verið að finnast ósprungnar sprengjur frá skotæfingum er fram fóru á stríðsárunum, og oft hafa hlotizt af þeim slys. Á sú saga nú að endurtaka sig? Með því að taka beitiland Vatnsleysu-strandarbúa undir skotæfingar hersins, gera það að bannsvæði fyrir bændunum sem þarna búa er ekki annað sýnilegt en ætlunin sé að hrekja þá á brott af jörðum sínum; — en um þetta verður meira rætt síðar.“
Í fréttatilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu árið 2003 segir m.a.: „
Eins og fram kom í fréttum fann barn virka sprengju úr sprengjuvörpu á Vogaheiði 12. apríl sl. Síðan hefur sprengjudeild Landhelgisgæslunnar, í samráði við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins rannsakað svæðið við Háabjalla og Snorrastaðatjarnir. Bandaríski herinn notaði svæðið frá 1952-1960 til að æfa skotárásir með sprengjuvörpum, fallbyssum, skriðdrekum og öðrum vopnum sem landherir nota.
Frá 12. apríl hefur sprengjudeild Landhelgisgæslunnar fundið og eytt yfir 70 virkum sprengjum á fyrrum skotæfingasvæðinu. Samanlagt innihalda þessar sprengjur 60 kíló af TNT og öðrum sprengiefnum. Meirihluti sprengjanna fannst nálægt útivistarsvæðinu við Snorrastaðatjarnir. Um er að ræða allt frá 60 mm. sprengjum úr sprengjuvörpum til 105 mm. fallbyssukúla sem m.a. eru notaðar til að ráðast á skriðdreka. Þetta eru hættulegar sprengjur sem geta valdið slysum og dauða ef hreyft er við þeim.
sprengja-223Árið 1986 og 1996 gerði varnarliðið umfangsmikla yfirborðsleit að sprengjum á svæðinu. Við leitina fundust alls 600 virkar sprengjur. Í kjölfar þess voru sett upp aðvörunarskilti á svæðinu sem gert er ráð fyrir að verði endurnýjuð á næstunni. Samtímis verður svæðið rannsakað betur til að gera það öruggt yfirferðar.
Hernaðarsprengjur eru hannaðar til að bana fólki og eyðileggja eignir. Sprengjurnar á Vogaheiði eru ekki frábrugðnar þeim að neinu leyti. Þrátt fyrir að þær séu komnar til ára sinna eru þær jafn virkar og þær voru í upphafi, jafnvel enn hættulegri. Landhelgisgæslan varar fólk við að snerta eða taka upp hluti sem grunur leikur á að séu sprengjur.“
Í frétt frá Landhelgisgæslunni um þetta svæði árið 2004 segir: „
Í gær voru endurnýjuð viðvörunarskilti við gamalt skotæfingasvæði bandaríska hersins á Vogaheiði.  Einnig voru sett upp ný skilti og enn á eftir að bæta nokkrum við.
Það er full ástæða til að vara almenning við þeirri hættu sem getur stafað af gömlum sprengjum á svæðinu.  Þær hafa fundist í miklu magni á Vogaheiði sem er vinsælt útivistarsvæði.
Bandaríski herinn stóð fyrir mikilli leit á svæðinu árið 1986 í samráði við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.  Aftur var hafist handa við að leita að sprengjum á svæðinu árið 1996 og í fyrra stóð Landhelgisgæslan fyrir nokkuð ítarlegri leit.  Alls hafa fundist u.þ.b. 800 ósprungnar sprengjur á svæðinu síðan 1986 og telja sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar víst að þar sé enn mikið magn af sprengjum. Sprengjurnar eru yfirleitt undir jarðveginum en geta komið upp á yfirborðið þegar rignt hefur um tíma eða vegna annarra jarðvegsbreytinga.“

Heimild:
-Nýi tíminn, 13. árg. 1953, 19. tbl. bls. 2 og 11.
-Fréttatilkynning frá Utanríkisráðuneytinu 3. 7. 2003.
-Landhelgisgæsla Íslands 6. apríl 2004.

Arnarbæli

Upp með Arnarbælisveggjum innan við Kirkjuvogslágar ofan Ósabotna í Höfnum liggur vörðuröð.
Varda-33Auk hennar má sjá fallnar vörður, sem verið hafa allstórar á meðan þær stóðu heilar. Ein þeirra er nánast grasi gróin, líklega mið frá Kirkjuvogi eða Kotvogi í Súlur. Nokkrar vörður standa þó enn heilar. Ætlunin er að reyna að fylgja þessum vörðum áleiðis upp í heiðina og sjá hvert þær leiddu. Í leiðinni var stefnan tekin á Arnarbæli, áberandi klapparhól. Á honum er varða.
Þegar skoðuð er örnefnalýsing Vilhjálms Hinriks í Merkinesi um Hafnir má sjá eftirfarandi um göngusvæðið: „
Nú ökum við til baka og tökum veginn, sem liggur til Hafna. Þegar kemur niður fyrir Bringa, sem áður eru nefndir, sjáum við litla tjörn á vinstri hönd, Vötn (í Vötnunum). Í leysingum getur verið þarna vatnsagi talsverður, því landi hallar þarna alls staðar að og verður stór slakki milli Arnarbælis að vestan og Selsins og Gjáhóla að austan. Ofarlega í hvilft þessari, sem er að mestu basaltklappir, eru þrír talsverðir hólar, og heita þeir einu nafni Hvalhólar. Ef við horfum til Arnarbælis, sjáum við bríkur og brúnir, sem lækka til norðvesturs, Arnarbælisveggir, en lægðin kölluð einu nafni Kirkjuvogslágar.
ArnarbaeliÍ nærri beinni línu frá Arnarbæli til norðvesturs eru þrír hólar. Hinn efsti heitir Sjónarhóll. Sá í miðið heitir Torfhóll og er hann þeirra stærstur, með rofhnubb uppi á toppnum. Neðst er strýtumyndaður, grasi vaxinn hóll, sem heitir Grænhóll.“
Skotæfingasvæði Keflavíkur er þarna í heiðinni. Skothvellir heyrðust af og til þegar gengið var samsíða skotstefnunni áleiðis upp í Arnarbæli. Hrunin varða, áður stór, var þar fremst á lágu klapparholti. Þegar komið var upp og inn fyrir skotbrautina kom í ljós stór heilleg varða. Gul málning var á einum steininum. Hún gat því verið landamerkjavarða, líklega á gömlum hreppamörkum.
Varda-34Önnur minni var skammt ofar, með stefnu á Stapaþúfu. Skammt frá henni var minni varða, með stefnu á Arnarbæli. Þegar horft var upp að Hvalhólum, mátti sjá vörðu hægra megin ofan þeirra. Þar er lægð í landið er liggur síðan niður með vestanverðu Arnarbæli.
Á Arnarbæli er varða á hraundrangi. Af honum er hið ágætasta útsýni yfir nágrennið, allt niður í Hafnir. Ekki er erfitt að álíta að Össur hafi gert sér bæli þar fyrrum.
Neðan Arnarbælis eru vörðubrot, en allt umleikis hefur verið tiltölulega greiðfært um heiðina, hvaðan og hvert svo sem ferðinni hefur verið heitið.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-Hafnir (Hafnahreppur) Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði; fæddur 12/8 1899, Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu; flytur að Merkinesi í Höfnum 1934.

Arnarbælisgjá

Arnarbælisgjá.

Stóra-Vatnsleysa

Tekið var hús á Sæmundi bónda á Stóru-Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Komið var kvöld. Suðaustan andvari strauk kinn. Sæmundur hafði beðið FERLIR um að reyna að leysa þá torráðnu gátu að lesa úr fornri áletrun á stökum steini í túninu, en það hafði engum tekist til þessa (svo hann vissi til a.m.k.).
LetursteinninnÞegar komið var út á hlaðið benti Sæmundur á hól í suðvestri og sagði: „Þetta er nónhóll“. Þá sneri hann sé 47° til suðurs og bætti við: „Og þarna er hádegishóll – á bak við húsin“. Hóll sá lá sunnanlægt við Keili. „Annars var venjulega miðað við Keili þegar bent var á suðrið“. Enda munaði þar litlu. Líklega hefur viðmiðið verið þvert á útnorður frá Vatnsleysu.
Þegar komið var örskammt suður fyrir núverandi íbúðarhús benti Sæmundur á hleðslur og sagði að þarna væri talið að hefði fyrrum verið kirkja (kirkja allrarheilagrarmessu), sem getið er um í annálum árið 1262. Henni hafi verið þjónað frá Kálfatjörn og bar prestinum að messa þar annan hvern helgidag – að minnsta kosti. Kirkjugatan millum jarðanna gæfi það og til kynna. Sæmundur dró fram gögn máli sínu til stuðnings. Hann sagði bæ hafa verið byggðan á rústum kirkjunnar, en sagan segir að þar hafi fólki ekki orðið vært vegna draugagangs. Kvað svo rammt að honum að hurðir hafi ekki tollað á hjörum. Bærinn var þá yfirgefinn og hann síðan rifinn. Kirkjan hefur skv. þessu staðið á hæsta hólmum ofan við Vatnsleysuvíkina. Austan við hæðina hallar hún undan. Líklegt er að þar hafi veirð kirkjugarður forðum. A.m.k. er letursteinn þar staðfestur vottur um slíkt.
Steinn þessi er stór grágrýtissteinn, sjávarbarinn. Hann er ca. 80 c, hár, 100 cm breiður og 40 cm þykkur. Skýringin á hvers vegna svona stórt lábarið grjót hafi verið langt uppi á landi kom síðar. Ekki væri ólíklegt að þarna væri grafreitur og að steinninn voru einu sýnilegu ummerkin eftir hann.
Byrjað var að skoða letursteininn, sem nú er þarna í túninu suðaustan við bæinn. Í fyrstu virtist áletrunin torráðin og í rauninni óskiljanleg, en þegar gengið var handan við steininn, varð lausnin augljós. Steininum virtist hafa verið velt um koll og áletrunin því óljós. Að þessu staðfestu komu í ljós klappaðir stafir; GI er sameinast með krossmarki að ofanverðu. Til hliðar, hægra megin að ofan, er ártalið 1643 eða 1649.

Áletrun

Enn hefur ekki verið fundið út hvert tilefni áletrunarinnar var. Þetta gæti verið legsteinn, sem fyrr sagði. Steinninn er ólíklega á upprunalegum stað því undir er klöpp, þótt gróið hafi yfir. Norðvestan við steininn eru að því er virðist leifar grjótgarðs. Sæmundur sagði þetta vera úrkast úr túninu. Ofan úrkastsins gæti kirkjugarðurinn hafa verið. Letursteinninn hefur því verið í honum, vel áberandi er hann stóð upp á rönd, en af sömu ástæðu og aðrir steinar verið færðir til í eina samfellu svo hægt væri að nýta svæðið sem slægju. Fyrr á árum þurfti að nýta sérhvern blettur með stækkandi stórgripabúum.
Þarna undir eru því bæði leifar af kirkju frá 13. öld og grafreitur. Letursteinninn bendir til þess. Steinninn er það þungur að hefur ekki verið færður langa vegarlengd með fyrri tíma tækjabúnaði.
Sæmundur kvaðst muna að þegar grafið var fyrir núverandi húsi hafi verið komið niður á hlaðinn kjallara, u.þ.b. 130 cm háan, en húsið hafi þá verið byggt nálægt fimm metrum norðar. Það stæði á ísaldarkampinum og þá hafi grafreiturinn og kirkjan einnig verið á honum þarna suður af húsinu. Hvað væri undir veginum að bænum vissi enginn, en hann hefði að hluta verið lagður ofan á jarðveginn, sem þá var. Þar væri skýringin komin á hinu lábarða grjóti svona langt uppi í landinu. Landið hafi legið lægra fyrrum er ísaldarjökullinn þrýsti því niður, en er hann hopaði lyftist landið og meðlagið sömuleiðis (þ.m. sjávargrýtið).
LetursteinnHafist var handa við að reisa letursteininn upp eins og honum hafði verið komið fyrir upphaflega. Með tveimur járnkörlum og jafnmörgum kraftakörlum vana gamalli áreynsluhefð tókst smám saman með lagni að lóðrétta láréttliggjandi letursteinninn. Þegar hann féll við, var sem ásýnd hans opinberaðist.
Áletrunin er ekki nákvæmlega efst og fyrir miðju steinsins, en ef grannt er skoðað má sjá að krossinn hefur verið gerður miðsvæðis. Gé-ið vinstra megin er stærra en I-ið hægra megin svo hlutföllin hafa eðlilega raskast miðað við miðjusetninguna.
Þegar steinninn hafði verið færður í rétta stöðu kom í ljós að fallegt listaverk er efst á honum hægra megin, ofan við ártalið, líkast fugli. Ef skoðaðir eru legsteinar í kirkjugörðum nú til dags má einmitt sjá fuglastyttur ofan á þeim. Hér gæti verið um samsvörun að ræða – 365 ára gamla.
Aðspurður um fleiri fornminjar í nágrenninu sagði Sæmundur þær vera fáar núorðið. Í norðaustri frá kirkjunni eru tún. Þar voru fyrrum nokkur kot, en þegar túnin voru sléttuð á fyrri hluta 20. aldar, auk þess sem ágangur sjávar hafi gert það nauðsynlegt, hefði öllu verið nýtilegu ýtt niður að ströndinni með það að markmiði að hindra frekari landeyðingu. Þar með hefðu leifar kotanna með öllu tilheyrandi þurrkast út á svæðinu.
Sæmundi var vinsamlegast bent á að nú mætti ekki, skv. þjóðminjalögum, raska neinu innan 20 metra radíus frá letursteininum. Hann sagði það nú lítið mál; „steinninn hefði áður verið færður svo líta mætti á staðsetninguna nú sem geymslustað fyrir hann – ef þurfa þætti“.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – loftmynd; yfirlagt túnakort frá 1919, auk annarra bæja og vara.

Í samtali við Sæmund komu fram upplýsingar um „holustein“ ofan á jarðfastri klöpp á hugsanlegum óþekktum mörkum Ísólfsskála og Hrauns á Núpshlíðarhálsi. Lýsingin passar vel við landamerkjalýsingu Ísólfsskála. Ætlunin er að skoða vettvanginn fljótlega.
Sæmundur sagðist ekki vita að letursteininn hafi verið skráðan em „fornleif“. Honum var heldur ekki kunnugt um að fornleifayfirvöld landsins hefðu yfirleitt haft nokkurn áhuga á honum sem slíkum. Að bænum hafi fyrir einhverju sinni komið fornleifafræðingur. Sá hafi gengið um svæðið, staðnæmst stuttu austan við bæinn, bent til norðurs á hlaðna bátarétt, sem þar er og sagt: „Ég skrái þetta, það er augljóslega meira en hundrað ára“. „Þá hlýt ég að vera mun eldri en ég er“, svaraði Sæmundur, „því ég tók þátt í að hlaða þetta þegar ég var kominn fram yfir tvítugt“. Ekki er gott að segja hvort mannvirkið hafi ratað inn á fornleifaskrá eða ekki.
Frábært veður.

Letursteinninn

Húshólmi

Í tilefni af útgáfu á Húshólmaritinu bauð Ferðamálafélag Grindavíkur áhugasömum íbúum Grindavíkur og öðrum landsmönnum í Húshólmagöngu laugardaginn 23. júlí s.l. (2005). Áhugasamir mættu annaðhvort við bæjarskrifstofuna (við verslunarmiðstöðina) í Grindavík kl. 13:00 og þáðu rútuferð á staðinn í boði Ferðamálafélags Grindavíkur eða mættu á Ísólfsskálavegi undir Krýsuvíkur-Mælifelli kl 13:30.

Húshólmi

Húshólmi.

Ekið var að og gengið niður í Húshólma undir leiðsögn og hinar fornu minjar skoðaðar. Gangan, sem varði í 3 klst og 33 mín (fram og til baka), var róleg og tiltölulega auðveld. Fólk var hvatt til að taka með sér nesti og búa sig eftir veðri. Því var lofað að ferðin myndi verða eftirminnileg. Léttleikinn var í fyrirrúmi og fornmaður einn, sem lokaðist inni í Húshólmanum þegar Ögmundarhraun brann árið 1151, var á vappi í rústunum. Hann lýsti aðstæðum fyrrum sem og þegar hraunið rann og bað um skilaboð til fólks, sem vildi sækja Húshólma heim.
Gengið var suður gamlan stíg um Ögmundarhraun neðan við Krýsuvíkur-Mælifell. Stígur þessi hefur ekki verið genginn lengi, en nú ruddi hópur brautryðjenda slóðina að nýju svo hún var greinilegri en áður. Nú ætti að vera tiltölulega auðvelt að fylgja henni frá þjóðveginum niður í Húshólma.
Gatan liggur um tiltölulega slétt hraun, milli úfinna apalhrauna. Fara þarf yfir tvö stutt úfin hraunhöft á leiðinni.
Gengið var framhjá Mælifellsgrenjunum (miðsvæðis

Húshólmi

Gengið í Húshólma.

á vinstri hönd), en við þau eru hlaðnar vörður og byrgi refaskyttna. Efri byrgin eru sérlega falleg og heilleg. Þau eru gegnt vörðu á hraunbrún í austri.
Skammt frá neðri grenjunum er fornt arnarhreiður á háum hraunhól á hægri hönd. Þegar komið var neður í hraunið sást vel hversu hátt hóllinn stendur og hreiðrið blasir við víðast hvar úr hrauninu. Græn gróðurtorfan er áberandi í annars gráu gamburmosahrauninu.

Þegar komið var niður fyrir neðra hraunhaftið tók við nokkuð slétt mosahraun. Þar þurfti að venda til austurs og ganga upp á apalhraunsbrúnina, en yfir hana liggur grófur stígur tiltölulega stutta vegarlengd. Þá er komið inn í efstu gróðurtorfu Húshólma. Hægt er að fylgja stíg áfram til austurs og síðan suðausturs inn í hólmann, en hann er þakin þykkum mosa og því ógreiðfær. Ótrúlega blómleg gróðurflóra hefur myndast í hólmanum á tiltölulega stuttum tíma. Hvönn er t.d. að festa þar rætur, mikið er um blágresi og brönugras.
Vesturbrún hólmans var fylgt til suðurs, að fjárborginni ofarlega í honum. Þar var lýst nýtingu og fjölda fjárborga á Reykjanesskaganum, fjárskjóla, selja og nýtingu þeirra fyrrum.

Húshólmi

Fornmaður í Húshólma.

Haldið var áfram til suðurs, að fornum garði, sem liggur til austurs undan hraunbrúninni og beygir síðan til suðurs og suðvesturs. Sunnan hans er annar garður er liggur í svipaða stefnu, innan megingarðsins. Þá var haldið inn í Ögmundarhraun eftir stíg til austurs uns komið var að nyrstu rústinni, þeirri sem er algerlaga hraunoprin. Í henni miðri lá fornmaður.
Þegar byrjað var að velta við hraunhellum og sýna stoðholur í rústinni reis fornmaðurinn upp og rakti sögu staðarins, allt frá tímum hins heilaga Brendans og þeirra írsku munka er þarna reyndu að festa rætur við fagra vík, þeirra er fundu brunninn heilaga (Saint Kylda), og er síðar komu, en héldu saltan þótt hann skilaði fersku vatni á fjöru (afsakið, en tungumálið hefur breyst nokkuð frá því sem var). Þá lýsti hann og ófriði þeirra norsku manna, er síðar komu, á hendur þeim. Þar hafi fremstur í flokki verið Ingálvur nokkur er vanfeðraður var og bjó við Reykjavík í norðri. Annar norskur maður, Molda-Gnúpur og hans hyski, hafi haft ófrið við þá í vestri, og síðan bættist enn annar, Suðureyjamaður og enn verri, við í austri, Þórir er kenndur var við hið versta, haustið.

Húshólmi

Gengið um Húshólma.

Fornmaðurinn lýsti staðháttum við hina grunnu vík, er kennd var við logg og nefnd var Krýsa; fiskur nægur útifyrir og fugl í fjöru, fé á landi og friður með mönnum, í fyrstu. Þegar um átta hundruð árum og sjö tygum betur eftir fæðingu Kristus, hafi ásýnd með mönnum breyst þá er hinir heiðnu Norvegsmenn komu með ófriði. Ari, sá er kenndur var við fróðleik, hafi tekið bækur heimamanna, þótt norskir hafi ekki kunnað lestur á latínu, og breytt forskrift sögunnar í sinni lýsingu þá er gjörð var fyrir valdið. Minjarnar í Húshólma og í hrauninu er brann ætti hins vegar að segja hina réttu sögu ef vel væri lesið.

Þá er eldar komu upp efra og himininn brann flúði fólkið við víkina Krýsu (grunn skora) hvert sem betur gat, ýmist til austurs eða á skip, en til vesturs, út í óvissuna þorði það ei, þar sem fyrir voru afkomendur Moldans-Gnúps, þess er hamaðist sem mannýgt naut.
HúshólmiSjálfur hafi hann ákveðið að verða um kyrrt og skylja hvorki við sig bústað né brynju (sverð). Þá vörn vildi hann öngvum manni eftir gjöva. Þess vegna væri hann enn á vappi í rústum þeim, er sögðu hefðu að segja.
Bað fornmaðurinn fólk fara með friði, hvatti það til að koma aftur til að vita hins forna staðar og lagðist til hvílu í hinni fornu rúst.
Fornmaðurinn var leikinn af Erlingi Kristjánssyni, en næstur tók til máls bæjarstjórinn í Grindavík, Ólafur Örn Ólafsson, sem leikinn var af honum sjálfum.
Ólafur Örn þakkaði þátttakendum áhugann, benti á Húshólmarit Ferðamálafélagsins og kvað það viðleitni til að vekja athygli fólks á hinum merku minjum, sem umdæmi Grindavíkur hefur að geyma.

Húshólmi

Húshólmavarðan.

Bæjarstjórn sagðist hafa haft áhuga á að láta rannsaka rústirnar við Húshólma, en fengið dræmar undirtektir Fornleifaverndar ríksins, hingað til að minnsta kosti. Þar gæti vonandi orðið breyting á. Hvatti hann göngufólk til að nýta sér hinar sögulegu minjar, sem Grindavík hefur upp á að bjóða, sem sumar hverjar þykja einstakar, jafnvel á heimsvísu.
Gengið var um Kirkjulág, lýst var hinum einstöku minjum, bæði görðum og híbýlum. Kirkjurústinni var gefinn sérstakur gaumur.
Þá var gengið um Kirkjustíg yfir á Kirkjuflöt og garðurinn og hinn meinti grafreitur, sporöskjulaga, skoðaður.
Loks var gengið upp Húshólma og upp á Húshólmastíg, sem fetaður var til austurs yfir Ögmundarhraun.

Húshólmi

Uppgræðsla í Húshólma.

Þegar gengið var um efri hluta hólmans kom vel í ljós árangur uppgræðslunnar, sem FERLIRsfélagar höfðu tekið þátt í með fulltrúa Landgræðslunnar fyrir u.þ.b. mánuði síðan. Grænni slykju sló nú á moldarbörðin. Áætluð er önnur landgræðsluferð niður í Húshólma einhverja kvöldstundina fljótlega. Áhugasamir geta skráð sig á ferlir@ferlir.is.
Þá geta og þeir, sem áhuga hafa á gagnmerkri leiðsögn um Grindavíkurumdæmi, sent inn óskir þess efnis á sama netfang; ferlir@ferlir.is.
FERLIR vill þakka Ferðamálafélgi Grindavíkur, þátttakendum, bæjarstóranum sem og „fornmanninum“ fyrir þeirra framlag til að gera þessa ferð eftirminnilega.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín, sem fyrr sagði.

Húshólmi

Bæklingur Ferðamálafélags Grindavíkur um Húshólma.

 

Lónakot

Gengið var til norðurs á ská niður hraunið frá gatnamótum Lónakotsafleggjara við Reykjanesbraut. Eftir stutta göngu var komið í hraunlægð á milli hóla skammt norðan við landamarkagirðingu Óttarsstaða. Þar suður undir þeim, suðsuðaustan Sjónarhóls, var hlaðið myndarlegt fjárskjól, gjarnan nefnt Óttarsstaðahellir, en í örnefnalýsingu er það nefnt Sjónarhólsskjól. Stígur liggur frá því til norðurs í átt að Óttarsstöðum.

Lónakot

Tóftir Lónakotsbæjarins.

Haldið var áfram suðvestur hraunið að Lónakoti. Komið var að suðurgarðinum og inn fyrir gerðið. Inni í því er heillegt tótt af húsi. Búið var í Lónakoti framundir 1930, en eftir það var byggt þar myndalegt sumarhús, sem nú er fallið. Lónin voru yfirfull vegna háflæðis. Ferskvatn var efst í lónunum. Gengið var framhjá hlöðnum nátthaga og áfram yfir túngarðinn að Lónakotsbæjarstæðinu. Austan þess mátti sjá Krumma, klofinn hraunhól, en lónið sunnan undir bænum, þar sem brunnurinn er. Var það svo yfirfullt að hvergi sást í skeljasandsstrandmyndina undan bænum. Tóttir fjóss mátti greina norðar í túninu og sauðakofa norðaustan á því. Víða eru þarna garðar og tóttir.
Gengið var vestur með ströndinni, framhjá hlöðnu gerði eða rétt og áfram yfir hraunhaft. Áður en gengið er upp hraunhaftið mátti sjá greinilegan flóraðan veg og annan hluta þess vestan við haftið. Þarna eru garðar og gerði, tóttir o.fl. í fögru umhverfi. Sækindin var þarna á beit við tjörn skammt vestar, en þegar hún varð mannaferða vör, tók hún strikið í átt að hafinu og hvarf sjónum enn á ný.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

Gengið var spölkorn lengra til vesturs og var þá komið inn í fallega hrauntjörn, Dulu, með skjól á allar hliðar. Innan um hraunklettanna var tendraður varðeldur og var síðan sest við guðsveigainnlegg um stund, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Sólin skein frá hafi og lognið speglaðist í tjörninni.
Loks var haldið suðaustur upp hraunið með viðkomu í Lónakotsfjárhelli. Norðan hans er Réttartangi eða Réttarklettar. Umhverfis þá eru garðhleðslur, hlaðinn stekkur eða rétt og tóftir undir klettum. Talið er að annað hvort hafi svæðið verið nýtt sem heimaselstaða frá Lónakoti eða hreinlega að gamli Lónakotsbærinn hafi staðið þarna, en verið færður fyrir nokkrum öldum vegna ágangs sjávar. Þá er og hermt að bærinn hafi heitið Svínakot.
Þegar gengið hafði verið enn lengra upp hraunið var komið að tveimur fyrirhleðslum undir gjávegg á mót suðaustri. Frá hólnum mátti sjá roðagyllta sólina setjast á sléttan hafflötinn. Útsýnið var eins og að horfa á málverk skapandi listamanns.
Frábært veður. Gangan 1. klst. og 11. mín.

Lónakot

Lónakot – sjóhús.

Arnarfell

Starfsmaður hjá kvikmyndafyrirtækinu Truenorth, sem þessa dagana er að aðstoða bandaríska aðila við undirbúning á kvikmyndinni Flags of our Fathers, bauðst til að hitta FERLIRsfélaga við Arnarfell, en eins og kunnugt er munu tökur á kvikmyndinni fara fram þar og í Stóru Sandvík við Hafnir.
Starfsmaðurinn kvaðst hafa verið að fylgjast með greinum í blöðum síðustu dagana vegna kvikmyndatökunnar í Arnarfellinu og virtist honum sem þar væri nokkur misskilningur á ferðinni um raunverulegt umfang verksins og þá helst þeim hluta sem fer fram við Arnarfell.
Við Arnarfell var dregin fram loftmynd af svæðinu þar sem fyrirhuguð veglína og athafnasvæði voru merkt inn á. Starfsmaðurinn sagði töluverðar breytingar hafa verið gerðar frá fyrstu áætlunum. Þá hefði verið fyrirhugað að gera veg til austurs með Arnarfelli frá Ísólfsskálavegi, á móts við athafnasvæði skátanna, en þá var yfir nokkrar fornleifar að fara. Nú væri hins vegar ætlunin að gera vegspotta að norðaustanverðu Arnarfelli frá Herdísarvíkurvegi. Hann á að liggja um gróðurlitlar lænur í landslaginu og enda við lítið athafnasvæði við fellið. Jarðvegsdúkur verður settur yfir jarðveginn og á hann lagður sandur. Hvorutveggja væri hægt að fjarlægja að loknum kvikmyndatökum, en ef vilji Hafnarfjarðarbæjar stendur til að hafa veginn áfram sem og athafnasvæðið undir fellinu þá stendur það til boða. Ljóst væri að aðkoma að Arnarfelli verður mun betri á eftir.

Arnarfell

Byssubyrgi í Arnarfelli.

Til stóð að grafa sprengigíga við og í fellið, en nú hefur verið horfið frá því. Þeir verða grafnir í Stóru-Sandvík, en alls ekki í þeim stærðarhlutföllum sem lýst hefur verið. Við Arnarfell verður litlum gígum komið fyrir með gervisprengjum. Skotsprengjum verður komið fyrir víða, en þær ættu ekki að skilja eftir sig sár, sem ekki verður hægt að laga. Skotbyrgi úr spónarplötum verða byggð í fjallshlíðina, en þau verða öll fjarlægð. Svíða á gróðurtorfur í hlíðinni með gasloga, en það verður gert eftir leiðbeiningum Landgræðslunnar. Sáð verður í sárin og áburður borinn á. Gróðurinn ætti að geta jafnað sig á nokkrum árum. Reynt verður að valda eins litlu raski og mögulegt er og allt fært í samt lag aftur að athöfnum loknum.
Fáninn frægi (Flags of our Fathers) verður reistur við Eiríksvörðuna, en allur myndbúnaður verður fluttur á fellið með þyrlu. Til stendur að nota eitthvað suðurhlíðina, en þó óverulega.
Breyttar áherslur eru frá því sem var. Stórvirk tól verður ekki ekið um svæðið, heldur munu einhver standa kyrr undir fellinu á meðan á tökum stendur. Umferð starfsfólks (um 500 manns) mun verða takmörkuð við fellið, enda á engin að koma inn á myndasvæðið nema þeir, sem þangað eiga erindi í hvert sinn.
Ljóst er að athafnsvæðið er nú utan seilingar fornleifa, nema kannski gömlu þjóðleiðarinnar, sem farið var yfir með jarðýtu fyrir mistök. Sú fornleif, sem næst er, er skjól undir stórum steini, beint undir Stínuskúta. Hvorutveggja staðurinn ættu að vera utan látamarka.
Upptökur við Arnarfell munu líklega fara fram 24. – 29. ágúst n.k., en mun lengur í Stóru-Sandvík. Á meðan á upptökum stendur mun umferð um svæðið verða takmörkuð. FERLIR verður að sjálfsögðu velkominn í kurteisiheimsókn. Starfsmaðurinn sagðist hafa góðan skilning á mikilvægi þess að rödd almennings heyrðist þegar efasemdir kæmu upp um að rétt væri að málum staðið. Kvikmyndafélaginu væri hins vegar í mun að ganga þannig frá svæðum, sem það notaði, að sómi væri að.

Arnarfell

Virki í Arnarfelli.

Fram kom að aðallega þrjár ástæður athugasemda vegna kvikmyndatökunnar hafa verið tilgreindar; í fyrsta lagi vegna sögu og arfleiðar svæðisins, í öðru lagi vegna gróðurfars og mögulegra skemmda og í þriðja lagi vegna hugsanlegra röskunar fornleifa, sem tilheyra heildstæðum búsetuminjum Krýsuvíkurbæjanna og fólksins, sem þar bjó um aldir.
Sóknarprestur Hafnfirðinga vísiteraði Krýsuvík meðan á heimsókninni stóð. Var honum greinilega mikið í mun að svæðinu yrði sýnd sú virðing, sem því ber. Áhuga- og afskiptaleysi þeirra, sem ættu bæði að hafa vit og þor, væri í rauninni sorglegur vitnisburður um slæmt viðhorf til arfleifðarinnar. Tilfinningahliðin virðist sýnileg, en sjaldnast tiltekjanleg.

Arnarfell

Búðir við Arnarfell.

Það kom fram hjá starfsmanni kvikmyndaaðstoðarfyrirtækisins að öryggisverðir hafa verið beðnir um að amast ekki við áhugasömu göngufólki um svæðið. Kamranir munu verða þeirra meginverkefni. Hins vegar mun umferð þess verða takmörkuð á meðan á upptökum stendur, sem fyrr segir.
Þá kom fram í samtalinu að bæjarstjóri Grindvíkinga hafði boðið kvikmyndafyrirtækinu aðstöðu í einhverju Grindavíkurfellinu ef það þyrfti að hverfa frá Arnarfellinu af einhverjum orsökum. Þá er og hugmyndin að nýta Hesthelli við Grindavík, en hann er í óskiptu landi Þórkötlustaðahverfisbæjanna. Landeigendafélagið mun væntanlega skoða það.
Einn FERLIRsfélaganna hefur fengið svar bæjarstjóra Hafnfirðinga vegna athugasemda hans um að rétt hafi verið að málum staðið við afgreiðslu málsins. Í svarinu kemur m.a. fram að „umferð um beitarhólfið er óheimil skv. 1. tl. auglýsingarinnar um fólkvanginn“. Bæjarstjórinn virðist gleyma sér í hinum pólitíska orðaleik í stað þess að útskýra bara hvaða heimildir hann hafði og hvar þær er að finna. Allir aðrir vita að umferð um fólkvanginn og þar með talið beitarhólfið er opin bæði gangandi og akandi umferð. Þjóðvegur liggur um það og á honum er rimlahlið til að auðvelda aðgengið. Þá vita líka margir hvernig bæjarfulltrúi, alþingismaður og ráðherra tiltekins stjórnmálaflokks færði Hafnfirðingum Krýsuvíkursvæðið, sneið úr lögsögu Grindvíkinga, á slilfurfati. Það má heita pólitískur gjörningur, sem enginn myndi komast upp með í dag, um 50 árum síðar. Bæjarfulltrúar Hafnfirðinga ættu að hugsa um það í fullri alvöru hvort þeir ættu ekki að afhenda Grindvíkingum
Krýsuvíkursvæðið á nýjan leik.
Umhverfi Arnarfells er stórbrotið, fyrir þá sem hafa auga fyrir slíku (sjá myndir).
FERLIR þakkar framangreindum starfsmanni Truenorth fyrir upplýsingarnar og kynninguna, en þar eru gleggri en nokkur nefnd eða opinber stofnun hefur látið frá sér fara um málið fram að þessu.
Þá vonar FERLIR þess að leikstjórinn, Eastwood, eigi ánægjulega og eftirminnilega daga á Reykjanesskaganum meðan á upptökum stendur.
Frábært veður.

Arnarfell

Sprengigígur við Arnarfell.

Gestsstaðir

Gengið var frá Sveinsstofu (-safni) við Gestsstaðavatn um Sveiflu og upp undir Hettu, þaðan niður Hettustíg inn á Bleikingsvelli innan Vigdísarvalla og um Drumbsstíg yfir sunnanverðan Sveifluháls að Gestsstöðum, tóftum elsta bæjar Krýsuvíkur að talið er.
HnakkurHnakkur blasti við norðan Hettu. Hann er að kortum nefndur Hattur, en sá mun vera þarna næst norðar (þar sem sér best niður á Seltúnið). Sveiflan mun heita dalskorningur suðaustan Hettu. Um hann rennur lækur, heitur efst, en smákólnar eftir því sem neðar dregur. Sveinar í Vinnuskólanum í Krýsuvík stífluðu lækinn fyrst árið 1962 og reistu kofaborg í neðanverðum dalnum og ári síðar byggðu þeir varanlegri stíflu á læknum (neðan við núverandi gróðurhús) og gerðu þar volga sundlaug. Áður höfðu þeir gert sundlaug sunnan undir Bleikhól, en þar eru heitar uppsprettur á annars gróðursnauðum sandinum. Allar þessar heitavatnsuppsprettur hafa kólnað umtalsvert á s.l. aldarfjórðungi. Löngu seinna taldi göngumaður á ferð um svæðið sig hafa fundið þar fornminjar, en við athugun kom í ljós að þar var um umrædda sundlaugagerð að ræða frá því um 1960. Enn má sjá leifar mannvirkisins á sandinum.
Þegar komið var upp í Hettu gafst hið ágætasta útsýni yfir Krýsuvíkursvæðið; Gestsstaðavatn, Grænavatn, Bæjarfell, Arnarfell, Geitafell (Æsubúðir) og allt niður að Selöldu. Litbrigði jarðvegsins eru þarna ólík öðrum stöðum, enda um virkt háhitasvæði að ræða.
járnbrautarlestin Sunnan við Hettu (379 m.y.s.) er ílangt móbergshæð. Vinnuskólastrákarnir kölluðu hana jafnan „Járnbrautarlestina“ því hún er ekki ólík lest að sjá þar sem hún kemur út úr henni að norðanverðu. Þegar upp er komið er hægt að velja um tvær leiðir; annars vegar til vesturs norðan Járnbrautarlestarinnar og hins vegar til vesturs sunnan hennar. Í fyrrnefnda tilvikinu er komið inn á Hettustíg, götu áleiðis niður að Vigdísarvöllum. Í síðarnefnda tilvikinu er farið yfir litbrigðafagra hlíð þa sem útsýni yfir að Vigdísarvöllum birtist í allri sinni dýrð.´
Síðarnefnda leiðin var valin að þessu sinni. Haldið var niður með hlíðinni og inn á Hettustíg. Hann sést vel á köflum þar sem hann er markaður í móbergsbrúnir. Þegar komið var niður í Bleikingsdal var vesturhlíð Sveifluhálsins (Austurhálsins) fylgt til suðurs. Áður hafði uppspretta lækjar þess er rennur niður um Ögmundarhraun og reynir nú eftir bestu getu að hlaða undir sig jarðvegi úr hlíðunum til að komast til sjávar, opinberast. Í Krýsuvík var fjöldi íbúa og býla stöðugur fram undir 1825, en eftir það fór ásókn í nýbýli að aukast í sókninni. Til að byrja með voru stofnuð nýbýli undir Bæjarfelli, þ.e. Garðshorn og Lækur. Landrými var hins vegar takmarkað og voru þrjú Gestsstaðirnýbýli stofnuð fjarri Bæjarfelli á árunum 1830-1850. Vigdísarvellir og Bali á svokölluðum Vigdísarvöllum og Fitjar undir fellinu Strákum suður undir sjó. Fólksfjöldinn í sókninni jókst stöðugt og varð mestur á 6. áratug 19. aldar þegar rúmlega 70 manns byggðu sóknina. Á þeim árum byggðust kotin Arnarfell, Snorrakot og Hnaus, sem voru í byggð einujngis í skamman tíma.
Eftir 1865 fór svo að halla undan fæti fyrir byggðinni. Fólkinu fækkaði um leið og býlin lögðust í eyði hvert á fætur öðru. Eftir aldarmótin voru íbúarnir orðnir færri en í byrjun 18. aldar og einungis 3 bæir í byggð. Litli Nýibær og Vigdísarvellir lögðust í eyði eftir jarðskjálfta 1905.
Gengið var inn á svonefndan Drumbsstíg austur yfir hálsinn til Krýsuvíkurtorfunnar. Efst í brúninni er drykkjarsteinn. Um er að ræða þægilega leið um fallegt umhverfi. Þegar komið var að austurbrúnum Austurshálsar var stefnan tekin til norðurs. Stígur liggur með móbergshlíðinni. Upp í einni gróðurkvosinni má sjá tóftir. Leifar hinna fornu Gestsstaða (sem nú eru friðlýstir) sjást að handan. Tóftirnar í hlíðinni eru að öllum líkindum hluti megintóftanna og ættu því að njóta friðlýsingar að sama skapi. Reyndar njóta þær hennar skv. Þjóðminjalögum því þar eru allra minjar eldri en 100 ára friðaðar.
TóftEkki er vitað til þess að fornleifauppgröftur hafi farið fram á að Gestsstöðum í Krýsuvík, en eflaust kemur að því. Guðrún Gísladóttir segir í skýrslu sinni um „Gróður ofl. í Reykjanesfólkvangi“ að gera ætti upp allar sýnilegar rústir á svæðinu. Taka má undir orð hennar að hluta því nauðsynlegt er að endurgera a.m.k. eitt sel og eina verbúð á svæðinu.
Getsstaðatóftirnar sunnan undir brúnum Gestsstaðavatns (sem nú hýsir starfsemi Krýsuvíkursamtakanna) sjást vel frá hálsinum. Vestar er stór ílöng megintóft, en austar tóftaþyrping.
Í Gestsstaðavatni er silungur. Vatnið var vatnsforðabúr Vinnuskólans á sínum tíma. Austar er Grænavatn, alldjúpur sprengigígur. Gestsstaðavatnsgígurinn hefur jafnan verið nefndur „hinn mildi“ á meðan Grænavatnsgígurinn hefur fengið nafnbótina „hinn hvassi“. Nafngiftin er fengin af brúnum þeirra.
Austanverðum hálsinum var fylgt uns haldið var niður að Sveinssafni – að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 31 mín.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Tvíbollahraun

Um kl. 15:00 í dag (22.07.2009) var tilkynnt um reyk í hrauninu milli Valahnúka og Helgafells. Slökkviliðsmenn frá SHS komu á vettvang á sexhjóli skömmu síðar. FERLIR fór að sjálfsögðu fótgangandi á vettvang. Þegar á tilkynntan stað var komið varð ljóst að mikinn reyk lagði upp úr hrauninu ofan við Kaplatóur.
Gert klártEldurinn var í jaðri Tvíbollahrauns, sunnan gömlu Selvogsgötunnar, milli Kaplatóa og Strandartorfa. Af ummerkjum að dæma virðist sem göngufólk á leið um Selvogsgötu skömmu eftir hádegi þennan dag hefði sest niður í skjólinu undir jaðri hraunsins, hvílt sig, etið m.a. epli og appelsínubát og síðan kveikt í vindlingi – áður en það hélt ferðinni áfram. Glóðin úr reyktum vindlingnum gæti óafvitandi hafa kveikt eldinn í skrjáfþurru lynginu og mosatóunum með tilheyrandi afleiðingum.
Við fyrstu sýn var að sjá sem óvinnandi vegur væri að slökkva elda og glóðir í skrjáfþurrum mosanum. Þegar reynt var að drepa í á einum stað kom sjálkrafa upp eldur á öðrum skammt frá. Hraunið sjálft er þarna úfið apalhraun og því varla á færi færustu manna að slökkva slíkan eld á þeim staðnum. Allt stefndi í að mosahraunið, eða öllu heldur mosahraunin, norðan Bláfjallavegar og austan Helgafells myndu brenna öðru sinni. Fyrra sinnið var um 980 er Tvíbollahraunið upphaflega rann. Undir því er Þríhnúkahraun, norðaustar Húsfellsbruni og suðvestar Stórubollahraun og Hellnahraun; allt mikil mosahraun. Svæðið sem heild er líka sérstaklega viðkvæmt því um vatnsverndarsvæði Hafnfirðinga er að ræða.
BrunasvæðiðÍ frétt mbl.is frá því í marsmánuði mátti lesa eftirfarandi: „Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og yfirmenn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins æfðu viðbrögð við gróðureldum við Kleifarvatn í gær. Við æfingarnar notaði þyrlusveitin tvö þúsund lítra fötu til að dæla vatni upp úr Kleifarvatni. Fatan var keypt eftir gróðureldana miklu á Mýrum árið 2006.“ (Sjá fréttina.)
Þarna var komin lausin að vandanum. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kvödd til með fyrrgreindan búnað, vatn sótt í Hvaleyrarvatn og hellt yfir eldsvæðið, aftur og aftur. Eftir u.þ.b. 20 ferðir með vatn mátti lesa eftirfarandi á mbl.is: „Slökkvistarf stendur enn yfir þar sem eldur kviknaði í mosa og öðrum gróðri í hrauni á milli Helgafells og Valahnjúka við Kaldársel í nágrenni Hafnarfjarðar um klukkan hálf þrjú í dag.
SlökkvistarfiðSamkvæmt upplýsingum slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins gengur slökkvistarf nú betur en það gerði fyrr í dag. Alltaf er þó erfitt að slökkva í mosa og þurfa slökkviliðsmenn að nota skóflur til að grafa upp mosann og komast að eldunum. Þá er erfitt að komast að svæðinu þar sem það er fjarri vegum og erfitt yfirferðar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur því verið notuð til að flytja vatn til slökkvistarfsins í dag. Hún hefur nú flogið tugi ferða með vatn á svæðið og m.a. hellt vatni yfir kanta þess.
Heldur hefur dregið úr eldinum en þó er gert ráð fyrir að slökkvistarf standi fram eftir nóttu og að eftirlit verði á svæðinu í nótt.“ Með fréttinni fylgdi að sjálfsögðu mynd frá FERLIR.
GlóðEftir að hafa verið um stund á staðnum, rætt við slökkviliðsmenn og fylgst með vatnsdreifingu þyrlumanna má segja að þar hafi æðrulausir fagmenn verið að verki. Byrjað var á því að slökkva elda upp í vindáttina (að norðanverðu), síðan hugað að jöðrunum beggja vegna og loks lokað fyrir frekari útbreiðslu eldsins til suðurs. Allt tók þetta tíma. Slökkviliðsmenn á jörðu niðri leiðbeindu flugmönnum þyrlunnar inn á svæðið. Í fyrstu virtust aðfarirnar ómarkvissar, en þegar á leið reyndust þær mjög fagmannlegar. Til að mynda var þyrlunni flogið inn yfir svæðið og vatninu sleppt úr skjóðunni á þarflegustu staðina, staðnæmst, bakkað og 2000 lítrarnir þannig nýttir til hins ítrasta. Segja má að eldurinn á svæðinu hafi þannig orðið bæði hin ágætasta æfing við erfitt slökkvistarf við tilætlaðar aðstæður og auk þess má segja að án notkunar þyrlunnar og tilheyrandi búnaðar hefði slökkvistarf þarna verið næsta vonlaust.
SlökkvistarfiðÍ stað þess að allt mosahraunið (eða öll) hafi brunnið þarna á þessum tíma brann einungs svæði sem nam ca. 15×30 metrar – og verður það að teljast lítið við framangreindar aðstæður, þökk sé ágætum slökkviliðs- og þyrluflugmönnum sem og tilheyrandi búnaði.
Undir kvöld birtist eftirfarandi frétt á www.visir.is: „Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins barðist við töluverða gróðurelda í mosa og lággróðri, í hrauni í nágrenni Hafnarfjarðar seinni part dags og fram á kvöld.
HvunndagshetjurRétt fyrir ellefu tókst endanlega að slökkva eldana en þyrla Landhelgisgæslunnar tók virkan þátt í slökkvistarfinu.
Slökkviliðsmaður, sem fréttastofa náði tali af, telur að þyrlan hafi í heildina farið um 50-60 ferðir á svæðið. Þyrlan fór með um tvö tonn af vatni í hverri ferð og jós hún því líklega á bilinu 100-120 tonnum af vatni yfir svæðið.
Í augnablikinu eru tveir slökkviliðsmenn sem vakta svæðið en ljóst þykir að töluverðar gróðurskemmdir hafi hlotist af eldinum, hve miklar er ekki ljóst á þessari stundu.
Ekki er vitað um ástæður eldsupptaka.“
Á mbl.is á sama tíma sagði: „
Slökkvistarfi þar sem eldur kviknaði í mosa og öðrum gróðri í hrauni á milli Helgafells og Valahnjúka við Kaldársel í nágrenni Hafnarfjarðar lauk á tólfta tímanum í gærkvöldi samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni en þyrla hennar var notuð til að slökkva eldinn.Samkvæmt upplýsingum slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins gekk slökkvistarf betur er líða tók á daginn. Alltaf er þó erfitt að slökkva í mosa og þurftu slökkviliðsmenn að nota skóflur til að grafa upp mosann og komast að eldunum. Þá var erfitt að komast að svæðinu þar sem það er fjarri vegum og erfitt yfirferðar. Þyrla Landhelgisgæslunnar var því verið notuð til að flytja vatn til slökkvistarfsins. Hún flaug tugi ferða með vatn á svæðið og hellti  m.a. vatni yfir kanta þess. Gert var ráð fyrir að eftirlit yrði á svæðinu í nótt.“ (Sjá fréttina HÉR.)
HÉR má sjá hvert þyrlan sótti vatnið.
Umfjöllun netmiðlanna er sett hér inn vegna þess að með því mun hún lifa þá til mun lengri tíma…

Heimild m.a.:
-mbl.is 17.04.2009.
-mbl.is 22.07.2009.
-visir.is 22.07.2009.

Tvíbollahraun

Tvíbollahraun.

Lágafellsleið

Á ferð FERLIRs með vesturmærum Grindavíkur frá austanverðum Valahnúk um Sýrfell, Súlur og Stapafell áleiðis að Arnarkletti var m.a. gengið þvert á forna þjóðleið milli Lágafells og Ósabotna (Hafna/Keflavíkur). Leið þessi er vörðuð litlum vörðum og eru sumar fallnar fyrir alllöngu, einkum norðan af.
LeidirÞegar fyrrnefnd leið var skoðuð frá sunnanverðu Lágafelli og henni fylgt niður að Ósabotnum kom í ljós að sumstaðar hafi verið kastað úr götunni, en mosi gróið yfir. Þannig sást hún t.d. greinilega suðvestan í Lágafelli, brú var hlaðin á Súlugjá og þá sást hún vel norðan Mönguselsgjár. Lægð er í landinu svo til alla leið að Mönguselsgjá. Gatan er vörðuð í lægðinni. Ljóst er að leið þessi hefur ekki verið farin um aldir og hún virðist flestum gleymd. Ekki er ólíklegt að leiðin hafi verið notuð fyrr á öldum jafnt fyrir ferðir frá Þórkötlu- og Járngerðarstöðum í Hafnir, að Básendum og í Keflavík. Ekki hefur enn verið fullkannað hvar gatnamótin eru, en það verður gert fljótlega, nú þegar búið er að kanna meginleiðina.
Í örnefnalýsingu Vilhjálms Hinriks Ívarssonar frá Merkinesi um Hafnahrepp má lesa eftirfarandi: „Svo sem 1/2 kílómetra norðaustar í gjánni er klapparhóll, sem lítið ber á, og heitir hann Gamli-Kaupstaður. Ekki er kunnugt um nafngift þessa nema ef vera kynni, að setja megi í samband við alfaraleið (hestagötu) úr Grindavík til Keflavíkur til forna og þarna hafi máske verið áningarstaður.“
Varda-29Líklega á Vilhjálmur Hinrik við þessa götu þegar hann nefnir alfaraleiðina. Um er að ræða auðvelda reiðleið, tiltölulega slétta að Lágafelli. Ásinn, sem þar þarf að fara yfir, er aflíðandi, gróinn og mjög greiðfær.
Sem fyrr sagði er ætlunin að skoða þetta víðfeðmi betur fljótlega m.t.t. framangreinds. Ekki er ólíklegt að ætla að hlöðnu fiskibyrgin undir Sundvörðuhrauni (bæði við Árnastíginn) og í Eldvörpum (við Hafnaheiðaveginn)) hafi verið staðsett með hliðsjón af þessarri leið, sem eftirleiðis verður nefnd Lágafellsleið.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild:
-Hafnir (Hafnahreppur), Vilhjálmur Hinrik Ívarsson skráði. Skrásetjari:  Vilhjálmur Hinrik Ívarsson; fæddur 12/8 1899, Eyvík, Grímsnesi, Árnessýslu; flytur að Merkinesi í Höfnum 1934.

Arnarbæli

Varða á Arnarbæli.

Sólstafir

Sérhver sá, sem upplifir að sjá sólstafi, gleymir aldrei þeirri sjón. Óvíða eru sólstafirnir fegurri en á Reykjanesskaganum, hvort sem er inn til landsins eða úti yfir sjó.
Sólstafir En hvernig stendur á því að sólstafir eru eins og þeir eru; ekki lóðréttir, heldur eins og blævængur á hvolfi?
„Sólstafir myndast þegar sólin skín gegnum göt í skýjaþykkninu og geislar hennar ná að lýsa upp loftið í samanburði við dekkri bakgrunn. Af þessu leiðir að stefna þeirra er beint frá sól. Hér á norðurslóð eru þeir því aldrei lóðréttir heldur getur frávik þeirra frá láréttu mest orðið um 50° á Suðurlandi en nokkrum gráðum minna á Norðurlandi.
Sólin er svo langt í burtu að sólstafir og sólargeislar eru allir samsíða. Sólstafir sýnast mynda blævæng eins og spyrjandi segir og það stafar af þrívíddaráhrifum (perspektífi), samanber að beinn og jafnbreiður vegur framundan sýnist mjókka. Margir kannast við þetta af alls konar myndum. Sólstafirnir stefna í rauninni allir frá einum punkti á himninum, punktinum þar sem sólin væri ef við sæjum hana en það gerum við sjaldnast þegar sólstafir eru á lofti.
SólstafirVissulega getur komið fyrir að einn sólstafurinn virðist lóðréttur við fyrstu sýn. Þegar betur er að gáð sjáum við þó einnig að hann sýnist breikka niður á við. Þetta er líkast því að stigi sem er alls staðar jafnbreiður hallist að húshlið og við horfum á hann þvert á hana. Stiginn virðist þá breikka niður á við alveg eins og sólstafurinn og af nákvæmlega sömu ástæðu.
Sólstafir eru skemmtilegt og snoturt náttúrufyrirbæri sem er ekki erfitt að skilja með svolítilli umhugsun. Við ættum að gefa okkur tíma til að virða þá fyrir okkur og hugleiða þá þegar þeir láta sjá sig. Þeir geta leitt hugann að ýmsum fræðigreinum, svo sem stærðfræði (rúmfræði), eðlisfræði (ljósfræði), stjarnvísindum (ganga og fjarlægð sólar), veðurfræði (eðli lofthjúpsins) og listasögu (perspektífið). Ásamt öðrum hliðstæðum fyrirbærum eru þeir líklega kveikjan að því að okkur er svo tamt að líta á ljósið sem geisla.“
Matthías Jóhannessn orti „Á ferð um landið“:

Sólstafir„Í dag voru sólstafir
á fjöllum
og skuggi af hvítu skýi
sigldi fullum seglum
eftir dimmbláum hlíðum
lyngs og mosa.“

Á sama hátt ortu Haraldur Reynisson og Sigurður Sigurbjörnsson frá Vígholtsstöðum:

„Það grétu allir englar á himnum í nótt.
hamingjutárum,
og ég upplifði það sem ég ætíð hef sótt,
til þín, á liðnum árum.“

Einhverjum varð að orði er hann sá fallegu sólstafina: „Ég vona að himininn verði einmitt svona þegar ég dey“. Þessi tíu orð endurspegla nákvæmlega hugvitund svo margra er líta fyrirbærið augum. Svo virðist sem einmitt þá gangi hið himneska og hið mennska hvoru öðru á hönd – sættist á svo undurfagran hátt.

Heimild:
-visindavefur.is

Sólstafir