Gamli-Kirkjuvogur

Gengið var með Ósunum að Gamla-Kirkjuvogi.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – kort.

Áhugi er nú að láta rannsaka rústirnar, en Kirkjuvogur er gamalt höfuðból við norðanverða Ósa. Jörðin virðist hafa verið byggð frá landnámi fram á sextándu öld. Þá var Kirkjuvogur fluttur suður fyrir Ósa, með kirkjunni, og stendur nú við Hafnir. Til aðgreiningar er eldri staðurinn nefndur Gamli-Kirkjuvogur, en þar hefur ekki verið búið síðan bærinn var fluttur.
Bæjarhóllinn er óspilltur. Skammt vestan hans er óvenjulega vel varðveittur brunnur, fallega hlaðinn úr grjóti.

Gamli-Kirkjuvogur

Gamli-Kirkjuvogur – kirkjugarður.

Við bæjarhólinn má sjá leifar af því er virðist vera kirkjugarður. Kirkjuvogsselið er austar í heiðinni, austan Ósa.
Við Ósana er einnig Stafnessel, en á milli þess og Gamla-Kirkjuvogs fundu FERLIRsfarar mjög gamla tótt og garð, sem hvorki hefur verið minnst á né verið settur á kort. Greinilega er um mjög gamla tótt að ræða. Önnur stærri stendur þar við víkurbotn. Garðurinn liggur út í Ósinn og má sjá í hann undir yfirborði sjávar. Landið hefur lækkað þarna nokkuð og tekið breytingum frá því sem var. Gamla þjóðleiðin frá Hvalsnesi liggur skammt ofan við tóttirnar. Innan við Djúpavog eru tóftir a.m.k. tveggja óþekktra selja.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – gerði.

Brynjúlfur Jónsson segir í lýsingu sinni árið 1902 að „Kirkjuvogur hefir til forna staðið langt inn með Ósunum að norðanverðu. Innst skiftast Ósarnir í smávoga og kallast þeir Ósabotnar. Þar sem bærinn var er rústbunga mikil. Þar er allt nú blásið hrauhn, þó er rústin að nokkur leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.“

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Efri-Hellir

Gengið var yfir Beinvörðuhraun að Húsafelli og leitað tveggja hella, sem þar áttu að vera þar skv. gömlum heimildum.

Hraun

Garðbjargarhellir.

Annar þeirra átti að geta hýst Grindvíkinga ef Tyrkirnir kæmu aftur, en hinn átti að hafa verið athvarf konu, Guðbjargar, frá Hrauni.

Mjög erfitt var að leita þeirra vegna víðfemrar lýsingar í annars erfiðu landslagi. Brugðið var því á það ráð að ganga að Hrauni og heimsækja Sigurð gamla, bónda, Gíslason. Hann tók FERLIRsfélögum vel og fylgdi þeim að Guðbjargarhelli, spottkorn ofan við veg gegnt heimkeyrslunni að bænum. Skútinn var ekki áfrýnilegur inngöngu, en þarna átti konuhróið að hafa leitað er hún vildi fá næði eða vera út af fyrir sig í friði og ró.

Tyrkjahellir

Í Tyrkjahelli (á Efri-hellu).

Þá fylgdi Sigurður hópnum upp að Efri-helli, eins og hann nefndi hellinn. Hann er í framjaðri suðuraxlarinnar á Húsafelli þegar fer að halla niður að hraunkantinum á Hópsheiði. Hellirinn hefur tvö op og er hægt að ganga í gegnum hann. Talið var að hann hefði áður getað hýst alla Grindvíkinga ef til ófriðar hefði komið að nýju.
Til marks um hversu erfitt er að finna opin má segja frá því að þegar umhverfi þeirra var skoðað kom í ljós að spor leitarmanna voru einungis í u.þ.b. tveggja metra fjarlægð frá öðru þeirra, en sá sem þau átti kom ekki auga á opið.
Sigurði var þökkuð aðstoðin, en hann er ágætt dæmi um þau dýrmæti, sem felast í hagvönum heimamönnum á vettvangi.

Tyrkjahellir

Í Tyrkjahelli (Efra-Helli) ofan Hrauns.

Óbrennishólmi

FERLIR leitaði tófta næstelsta upplandsbæjar Krýsuvíkur, Gestsstaða. Elsti bærinn mun vera, að því er talið er, Kaldrani við suðvesturhorn Kleifarvatns.

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða í Krýsuvík – austan hálsa…

Þrjár heimildir eru um hvar tóttir Gestsstaða kunni að vera að finna. Sú yngsta segir að bærinn hafi verið undir Píningsbrekkum norðaustur af gróðurhúsunum sunnan Hettu, en engin ummerki eru á þeim slóðum. Hinum eldri heimildum tveimur ber saman, þótt orðaðar séu á mismunandi vegu. Þær kveða á um að bærinn hafi verið sunnan undir brekkunum sunnan Gestsstaðavatns, nálægt núverandi skólahúsi. Mikið landrof hefur orðið á svæðinu, en undir brekkunum eru tóftir bæjarins, á a.m.k. þremur stöðum. Megintóftirnar eru neðan við brekkurnar og er merki um Friðlýsar fornminjar í annarri þeirra. Þriðja tóftarsvæðið er uppi í Sveifluhálsi ekki langt frá. Þar er stök tóft og hleðslur ekki fjarri. Vel má sjá móta fyrir húsunum undir Gestsstaðavatnsbrekkunum. Þarna hafa verið nokkuð stór hús, en óvíst er um aldur þeirra.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir sunnan Lats.

Tilgangur ferðarinnar var einnig að skoða minjar í Óbrennishólma í Ögmundarhrauni í landi Grindavíkur. Á leiðinni var komið við í hlöðnu sæluhúsi undir Lat. Steinhella, sem notuð hefur verið sem hurð, var enn á sínum stað – til hliðar við dyraopið.
Í svo til beina stefnu á húsið eru merki um tillöguna að svonefndum Suðurstrandavegi í gegnum hraunið. Ef sú tillaga (sem fyrir liggur er þetta er skrifað) verður að veruleika mun vegurinn fara yfir húsið.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – tóft utan í Sveifluhálsi.

Í Óbrennishólma var hinn forni garður skoðaður, stóra fjárborgin, sem hefur verið sú stærsta á Reykjanesi, minni fjárborgin skammt austar og ofar nýlegrar kvíar í hraunkantinum sem og forna garðhleðslan, sem hraunið hefur stöðvast við á leið sinni til sjávar. Óbrennishólmi auk Húshólma þarna skammt austar eru sennilega merkustu fornminjasvæði á landinu og jafnvel kunna að leynast þar fornminjar, sem breytt geta vitneskju manna um landnám á þessu landi, sem síðar var nefnt Ísland. Fyrirhugað er nú (gæti breyst) að leggja breiða hraðbraut í gegnum Hólmana með ófyrirséðum afleiðingum því svæðin hafa þrátt fyrir allt verið mjög lítið rannsökuð. Til að mynda er hvergi til vitneskja á einum stað um allar minjarnar, sem vitað er um í hólmunum.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík.

Í Húshólma, sem síðar verður skoðaður nánar, er þó vitað um fornu kirkjuna, sem talið er að hafi verið notuð eftir að Ögmundarhraun rann árið 1151, forna skálann, reyndar tvo eða þrjá, sem hraunið umlukti og enn má sjá leifar af, Kirkjuflötina, sem talið er að sé forn grafreitur, Kirkjulágina og forna garðinn, sem liggur á ská í gegnum hólmann, þvergarðinn og fjárborgina í honum ofanverðum – svo til í vegastæði fyrirhugaðs Suðurstrandavegar. Hins vegar liggur ekki fyrir vitneskja um tóttir syðst í hólmanum, sennilega tengt útræði á Seltöngum, en svo eru tangarnir nefndir utan hans við Hólmasundið.

Norðurkot

Norðurkot í Krýsuvík 1892.

Selatangar eru vestar á ströndinni þar sem verið hefur verstöð undir Katlahrauni og enn má sjá miklar leifar af. Þá liggur hvorki fyrir vitneskja um sýnilegar tóttir sels (stekks) efst í Húshólma né hringlaga garðlags austan undir Ögmundarhrauni þar sem Húshólmastígur liggur inn í Hraunið. Einnig mótar fyrir sporöskjulaga gerði í Kirkjuflötinni, sem gæti verið tóft, jafnvel kirkjunnar, sem menn hafa gefið sér að sé innar í hrauninu og fyrr var nefnd. Annars staðar í hrauninu má einnig sjá hleðslur fornra garða. Og án efa, ef svæðið yrði rannsakað betur, kæmu í ljós mun fleiri minjar, en þegar er vitað um að þar kunni að leynast.
Húshólmi og Óbrennishólmi eru því án efa einir af áhugaverðustu stöðum með tilliti til fornminja og sögu landsins.
Frábært veður.

Óbrennishólmi

Tóft í Óbrennishólma.

/https://ferlir.is/husholmi-ogmundarhraun/

Fóelluvötn

Leitað var að 180 ára gömlu sæluhúsi undir Eystri-Vatnsási við Fóelluvötn.

Guðrúnartóft

Guðrúnartóft.

Ritað hefur verið um sögu hússins í gömlu tímariti. Verður saga þess og aðdragandi rakin hér síðar. Gerður var út leiðangur fyrir allmörgum árum að leita að tóftunum og fundust þær þá. Farið var eftir þeirri lýsingu við leitina núna. Talað var um tóftir mót norðvestri í grónum klapparhrygg, en þegar komið var á vettvang reyndust þær nokkrar á svæðinu. Sagt er frá minjunum í annarri FERLIRslýsingu þar sem reyndist vera um að ræða, við nánari athugun, minjar nýbýlis í heiðinni. Tóftirnar gætu hafa eftirá um stund verið notaðar sem skjól fyrir ferðamenn á Austurleiðinni sunnan Lyklafells

Guðrúnartóft

Guðrúnartóft á Vatnaási við Fóelluvötn.

Ákveðið var að beita útilokunaraðferðinni, nýta reynsluna og möguleg kennileiti á svæðinu.
Fóelluvötnin teygja sig yfir nokkuð stórt svæði, þ.e. þegar eitthvað er í vötunum, en að þessu sinni var mjög lítið vatn í þeim. Líklegasta þjóðleiðin ofan við vötnin var rakin. Sæluhúsið fannst þá eftir tíu mínútna göngu. Um er að ræða tvær tóftir undir klapparhryggnum. Sáust þær vel í kvöldsólinni.
Tíminn vekur vitund um hversu vel FERLIRsfólk er orðið þjálfað í að finna það sem leitað er að. Þá var Vatnakofinn við Sandskeið skoðaður, gamalt sæluhús á gömlu leiðinni austur.

Guðrúnartóft

Guðrúnartóft – uppdráttur.

Slaga

Gengið var um Skollahraun í blíðskaparveðri. Vestast í hrauninu eru gamlir fiskigarðar og fiskbyrgi frá árabátaútgerðinni við Ísólfsskála.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – fiskbyrgi við Nótarhól.

Þarna, líkt og í Strýthólahrauni, Slokahrauni, á Selatöngum og í Herdísarvík eru hundruðir metra af þurrkgörðum er liggja um hraunið. Inni á milli má sjá þurrkbyrgin. Erfitt er að koma auga á sum þeirra vegna þess hversu mosavaxin þau eru orðin. Enn einn verstöðvaminjastaðurinn við strönd Reykjanesskagans. Þessar minjar hafa varðveist vel vegna þess hversu fáir hafa vitað af þeim.
Skoðaður var fjárhellir Skálabúa undir öxlinni er liggur suðvestur úr Slögu og síðan kíkt á vatnslind þeirra undir hlíðinni.

Slaga

Slaga.

Slaga er merkilegt jarðfræðifyrirbæri. Undir henni sunnanverði voru fyrrum sjávarhamranir, en nýrra hraun færði hana utar þar sem hún nú er. Á bak við Slögu að norðanverðu er Drykkjasteinsdalur. Dregur dalurinn nafn sitt af Drykkjarsteininum, sem aldrei á að þrjóta vatn í. Hann er við gömlu þjóðleiðina um dalinn austur til Krýsuvíkur.
Síðan var haldið á Núpshlíðarháls þar sem gengið var eftir eldgígaröðinni og skoðaðar hraunæðar og hraunfarvegir.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Gengið var um Stóra-Hamradal og við norðurenda hans upp á Núpshlíðarhálsinn þar sem útsýni er um bakland Keilis, norður til höfðuborgarsvæðisins og vestur til Grindavíkur. Neðan undir hálsinum kúrði Hraunssel með tóttum og stekkjum. Á bakaleiðinni var gengið að gígunum, sem Ögmundahraun kom úr, dáðst að útsýninu yfir Bleikingsdal og síðan haldið með gígaröðinni til suðurs.
Um var að ræða frábæra göngu í fallegu umhverfi.

Ísólfsskáli

Refagildra Í Skollahrauni við Ísólfsskála.

Magnúsarsæti

Gengið var um Vogastapa. Enn má sjá móta fyrir gamla Suðurnesjaveginum (um Reiðskarð) upp Stapann og liðast (Stapagatan) síðan áfram áleiðis upp að Grímshól. Grímshóll kemur við sögu þjóðsögunnar af vermanninum norðlenska.

Grímshóll

Á Grímshól.

Þess er getið um norðanmenn að þá er þeir fóru suður í verið gerði byl á þá nálægt Grímshóli á Stapanum. Einn þeirra var heldur hjárænulegur og dróst hann aftur úr hjá hólnum og hvarf félögum sínum. En er hann var einn orðinn kom maður að honum og bað hann róa hjá sér. Norðlingurinn varð feginn boðinu og fór með hinum ókunna manni og réri hjá honum um vertíðina. En um lokin þegar Norðlendingar fóru heim fundu þeir hann í sama stað á leið sinni og þeir skildu áður við hann. Var hann þar þá með færur sínar og hafði ekki leyst þær upp því ekki hafði hann lagt sér neitt til um vertíðna.

Stapinn

Stapinn – uppdráttur ÓSÁ.

Landar hans gerðu nú heldur en ekki gys að honum að hann skyldi hafa setið þarna alla vertíðina og spurðu hvar hann hefði verið. Hann sagðist hafa róið eins og þeir og ef til vill ei hafa aflað minna. Tekur hann þá upp hjá sér sjóvettling einn fullan af peningum og segir að þarna sé hluturinn sinn. Blæddi þeim þá mjög í augum er þeir sjá það og sýndist aflinn ei alllítill. Fóru þeir síðan allir saman norður. Maðurinn réri suður margar vertíðir eftir þetta, og fór æ á sömu leið og fyrsta skipti. En aldrei sagði hann neitt greinilega hvar hann var og vissu menn það eitt um hann er allir sáu, að hann réri einhverstaðar þar sem hann aflaði vel.
Skoðaðar voru minjar eftir bæinn Brekku og heillegar sjóbúðir undir Stapanum; Hólmabúðir, Stapabúð og Kerlingarbúð, auk þess sem gengið var út í Hólmann og minjar þar skoðaðar. Gamall innrásarprammi marrar í fjöruborðinu. Sagan segir að honum hafi verið ætlað mikilvægt hlutverk, verið siglt þarna upp í fjöruna og síðan ekki söguna meir. Þarna hefur hann verið sem nátttröll gefinna vona.

Stapinn

Leifar Kerlingarbúða.

Kerlingarbúðir eru elstu sýnilegar minjar um búsetu manna á Ströndinni, að sagt er. Bæði við Brekku og Stapabúð eru hlaðnir brunnar. Ofar í hlíðinni eru hleðslur eftir menn. Nú er fuglinn í bjarginu næsta einráður á svæðinu, en selurinn vakir þó skammt utan við ströndina. Hann stingur ávallt upp hausnum þegar rautt vekur forvitni hans.
Í leiðinni, vegna þess hve veðrið var gott, var ákveðið að líta á Gíslaborg ofan Voga. Gengið var að stekknum í Kúadal og fjárborginni Hringnum innan við Knarrarnesholt. Þá var skoðaður rúnasteinninn við Knarrarnes (1700), ártalssteininn við Kálfatjörn (1706), legsteinninn á Flekkuleiði (?) og litið á áletranir (1888) yfir Magnúsarsæti í Hrafnagjá á Stóru-Vatnsleysu. Áletrunin er til minningar um nefndan Magnús, sem fann sér stað þarna við gjána til að friðþægjast við sjálfan sig. Sagt er þó að einhverju sinni hafi barn komið þar óvart undir. En það er nú önnur saga. Sem sagt: Margt og mikið merkilegt á skömmum tíma.
Frábært veður.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

Flekkuvíkursel

Skoðað var Flekkuvíkurselið.

Flekkuvíkursel

Stekkur í Flekkuvíkurseli.

Þar eru mikil mannvirki, fallegur stekkur framundan því og kví norðar í skjólsælli kvos. Annar stekkur er norðar sem og stök tóft, sem vakti sérstaka athygli.
Flekkuvíkursel er drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts. Selið stendur nokkuð neðan Grindavíkurgjár. Í því sjást sex kofatóftir og kví auk stekkjanna. Vatnsstæðið er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna. Fáeinir steinar eru við það. Í örefnaskrá frá árinu 1976 segja Gunnar og Ólafur Erlendssynir að „Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, f: 1858, hafi komið í selið sem barn og voru þar þá bæði smali og selráðskona. Í selinu voru þá eingöngu hafðar kindur.“

Bræður

Bræður – vörður við stíginn í Flekkuvíkursel.

Norðan Flekkuvíkusels, svo til mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður, sem standa mjög þétt saman. Heita þær Bræður. Sunnan þeirra er hlaðið hringlaga byrgi á litlum hraunhól.

Frábært veður. Gangan tók 2. klst og 2. mín.

Heimild m.a.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Hellisgerði

Leitað var Fjarðarhellis í miðbæ Hafnarfjarðar. Hann fannst eftir stuttan umgang, en hellir þessi var notaður sem fjárhellir áður en byggð fór að þrengja að honum.

Hellisgerði

Fjarðarhellir í Hellisgerði.

„Landslag í Hafnarfirði er víða mjög sérkennilegt. Hraunið setti áður fyrr mestan svip á bæinn, enda stendur hann í hraunbrekku, sem hallar niður að flæðamáli. Hraunið var mjög óslétt og mishæðótt, klettar margir og furðurlega lagaðir. Eftir því sem byggðin jókst í Hafnarfirði og færðist út, hurfu ýmiss sérkenni landslagsins. Hamrar voru sprengdir og sléttað yfir gjár. Árið 1922 var lagt til að Málfundafélagið Magni kæmu upp blómagarði og skemmtigarði, þar sem sérkenni landslagsins, hraunborganna og gjánna, fengju að halda sér, en gróðurinn væri aukinn af prýði og yndi. Nefnd, sem sett var í málið, leyst vel á svæði það, sem nú er Hellisgerði, en þar var þá nokkur vísir af trjágróðri. Knud Zimsen, borgarstjóri í Reykjavík, segir í endurminningum sínum, að móðir hans hafi fylgst með gróðrinum í nánd við Fjarðarhelli af miklum áhuga og innileik. Faðir Knuds lét girða og friða allstórt svæði í kringum hellinn, og hlaut það nafnið Hellisgerði. Síðar var svæðið stækkað og aukið. Helstu samkomur Hafnfirðinga voru þar um allnokkurt skeið.“

Heimild m.a.:
-Saga Hafnarfjarðar 1908-1983.

Hellisgerði

Fjarðarhellir.

Gvendarborg

Gengið var að Gvendarborg, um Þráinsskjaldarhraun að Rauðhólsseli.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Spurnir höfðu borist af tóftum í lítilli dalkvos nokkru suðvestan borgarinnar. Ekki er að sjá að þær hafi verið skráðar eða ljóst hvaða tilgangi þær hafi þjónað. Um er að ræða land frá Vatnsleysu svo líklegt má telja að þessi selstöð hafi tilheyrt þeim bæ. Nefndum hana Kolhólasel.
Eftir nokkra göngu fram og aftur um svæðið fundust minjarnar norðvestan undir hæðardragi. Gróið er undir hæðinni. Þrjár tóftir eru nokkuð þétt saman og enn ein skammt vestar. Hún gæti hafa verið stekkur, en hinar hús.

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki er ósennilegt að þarna hafi verið sel fyrrum, en það fallið í gleymsku. Þannig hefði og orðið um mörg hin selin í heiðinni ef ekki hafi komið til áhugi og dugnaður örfárra heimamanna við að leita uppi og varðveita staðsetningu þeirra.
Haldið var upp heiðina austan Þórustaðastígs með stefnu í Rauðhólssel. Það er frekar lítið sel frá Vatnsleysu. Í Jarðabókinni 1703 er þess getið að oft hafi ekki verið vært í því vegna draugagangs. Líklegt er einnig að vatnsskortur hafi háð búskapnum þarna í þurrkum.
Gengið var til baka um Rauðhólsselsstíg, norður með vestanverðum hraunkanti Afstapahrauns.
Bakaleiðin var og nýtt til berja, enda af nógu að taka.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Kaupstaðavegurinn

Á gömlum kortum er Stafnessel sýnt austan við Djúpavog í Ósum.

Stafnessel

Stafnessel.

Gengið var með austanverðum Ósabotnum inn að Selhellu. Á henni landmegin eru tvær tóftir, auk mannvirkja á sjálfri hellunni. Þarna er hin ákjósanlegasta lending fyrir smábáta.
Efst á brúninni með sunnanverðum Djúpavogi er tóft. Gamla þjóðleiðin lá fyrir botnsendann. Skammt norðar eru tóftir í víkurmynni. Gamla Kaupstaðagatan liggur ofan við þær, að og ofan við Gamla-Kirkjuvog. Ofan við hana er gróinn klapparhóll. Reyndar eru þeir nokkrir á þessu svæði, en enginn jafnvel gróinn og þessi. Í brekkunni mót norðvestri eru tóftir, að öllum líkindum selstóftir. Ef Stafnessel er þarna komið er það ekki svo mjög langt frá hinum gömlu kortastaðsetningum. Tóftirnar eru greinilega gamlar, en enn má sjá móta fyrir veggjum.
Minkur hafði grafið sig inn undir eina tóftina, en lét fara lítið fyrir sér.
Veðrið var dýrðlegt, logn og hiti.

Stafnessel

Stafnessel – uppdráttur ÓSÁ.