Göngufólk rakst nýlega (apríl 2010) á dauðann hrút á ferð um Berghraun vestan við Grindavík.
Hræið
virtist hafa legið þarna um skamma hríð. Afturfæturnir voru bundnir saman, líklega vegna þess að þá er auðveldara að færa hann úr stað. Eflaust er til haldgóð skýring á tilvist hrútsins þarna í hrauninu en eigandinn gæti þekkt hann á eyrnarmerkinu, sem enn er á sínum stað.
FERLIR leitaði til gamalreynds fjárbónda í Grindavík eftir hugsanlegri skýringu á tilvist hrútsins dauða í hrauninu. Svarið var: „Ég hef ekki komið að þessu hræi og veit ekkert um það. Kindur eiga það til að drepast á öllum tímum árs, jafnt í fjárhúsi sem í haga. Sást í mark eða merki í eyra? Mér þykir líkleg skýring á þessu, að þeir sem stunda vetrarveiðar á refum (og þeir eru nokkrir í Grindavík sem og annars staðar) hafi komið honum þarna fyrir sem útburð fyrir tófu. Það er næsta víst að hann hefur ekki farið þarna af sjálfsdáðun þar sem afturfætur hans eru vel bundnir saman.“
Lýsingin vakti strax forvitni því hér var komin vísbending um að þarna kynnu að leynast gamlar tóftir; beitarhús, kot eða jafnvel gömul selstaða.Í gamalli lýsingu á Sandgerði segir m.a.: „Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var jarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.“
Í örnefnalýsingu fyrir Sandgerði segir m.a. um kotin: „Hjáleigur 1703 eru nefndar Bakkakot, sem einnig er til 1847; Krókskot, er einnig til enn; Landakot, er einnig til enn; Tjarnarkot, er einnig til enn; Harðhaus og Gata munu horfin. Stöðulkot var komið í eyði 1703, svo og Bakkabúð og Helgakot. Sums staðar er sagt frá því, að Sandgerði hafi heitið Sáðgerði. Má og sjá merki akurlanda í landi jarðarinnar.“
Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.
Hvort fyrstnefnd tóft hafi verið svonefnd Gvendartóft eða Oddstóft er erfitt að segja nokkuð til um. Þó er það ósennilegt.
Tóftin í Grænulaut er aflöng með þremur rýmum. Hún er of lítil til að geta hafa verið bær og tæplega nógu stór til að geta hafa verið kot, en hæfileg sem selstaða. Miðað við stærð rýma og skipulag þeirra gæti þarna hafa verið sel frá Sandgerði (Sáðgerði). Fjórða rýmið, aflangt, vestast gæti þá hafa verið stekkur undir selhúsinu.Auðvitað gæti þarna hafa byggst upp örkot eða önnur nytsöm mannvirki um skamman tíma, en þegar horft er til aðstæðna má leiða að því líkum að þarna hafi verið selstaða fyrrum. Reyndar er ekki minnst á selstöðu frá Sáðgerði í Jarðabókinni 1703, en það segir þó lítið um fyrri not.
Grasgróningar eru þarna í skjóli og lægðum, en hvergi er ræktaðan blett að finna. Það styrkir tilgátuna um selstöðu svo ofarlega í heiðinni.
Tóftin er í skjóli fyrir austanáttinni. Neðan við þær hefur runnið lækur fram á sumarið. Neðan við þær hafa myndast tjarnir, ákjósanlegar til beitar. Tóftin sjálf er gróin, en þó má sjá í henni grjóthleðslur í veggjum og lögun rýma. Lítill ágangur hefur verið á tóftina í seinni tíð.
Ef um selstöðu hefur verið að ræða er hún sambærileg við það sem sjá má í Bæjarskersseli undir Álaborginni og Fuglavíkurseli í Miðnesheiði, undir Selhólum. Hvalsnesselin tvö hafa enn ekki verið skoðuð, en það verður gert fljótlega.
Þarna gæti verið komin 253. selstaðan í fyrrum landnámi Ingólfs. Annars væri forvitnilegt að glugga í fornleifaskráningu, sem unnin var fyrir Sandgerðisbæ v/nýbyggingarsvæðis ofan bæjarins. Hún var lögð fram á fundi byggingarnefndar bæjarins 21. maí 2008.
Frábært veður. Gangan tók 12. mínútur.
Heimildir m.a.:
-Reynir Sveinsson.
-Jarðabók 1703.
-Örnefnalýsingar fyrir Sandgerði.
„Kveikjan að þessari frásögn er grein Sigurðar G. Tómassonar í síðasta Skógræktarriti. Árið 2007 var gerð úttekt á skerðingarsvæði Suðurlandsvegar við Rauðavatn vegna fyrirhugaðrar breikkunar vegarins þar. Í framhaldi af henni vakti úttektarmaður athygli á leifum girðingar sem þar væru að finna og gerði m.a. Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri viðvart um minjar þessar. Þann 11. september 2008 fórum við tveir félagarnir á vettvang með þau áform að
bjarga frá áformuðum vegarframkvæmdum þeim girðingarstaur sem næstur var þjóðveginum og yrði í öllum tilvikum að víkja. Breikkun Suðurlandsvegar á þessum stað lenti í útideyfu en það er önnur saga.
Nú kann einhverjum að þykja sem hátt hafi verið reitt til höggs fyrir einn girðingarstaur, en svo einfalt er málið ekki því að girðingin um Rauðavatnsstöðina – hvað elstu minjar um skógrækt í Reykjavík – virðist á sínum tíma hafa verið svo vönduð að við fátt jafnast er síðar þekktist á því sviði. Áður en sagt verður frá minjabjörgunaraðgerðum okkar félaga er rétt að rifja upp nokkuð af því sem vitað er um sjálfa girðinguna – mannvirkið.
Frá fyrstu framkvæmdum skógræktarmanna við Rauðavatn er meðal annars sagt í skýrslu Flensborgs, hins danska skógræktarstjóra landsins, fyrir árið 1902. Við þýðum lauslega orð skógræktarstjórans: „Spildan við Rauðavatn var girt sams konar girðingu og hin nýfengnu svæði að Hálsi og á Hallormsstað… Spildan var girt með járnstaurum og gaddavír og sléttum vír til skiptis [afvekslende Pigtraad og glat Traad]. Ég legg með nánari upplýsingar um girðinguna, sem áhugaverð kann að þykja, þar sem hlutur girðinga mun skipta miklu fyrir skóga framtíðarinnar…“
Síðan lýsti Flensborg girðingarefni og -aðferð af mikilli nákvæmni; „hér er aðeins getið helstu atriða er vörðuðu undirbúning verksins: Finna þarf girðingarefni sem er ódýrt og auðvelt í flutningum og uppsetningu, er sterkt og heldur úti sauðfé og hrossum. Eikarstaurar og gaddavír duga vel, en hver hestur ber aðeins 4 staura, auk þess sem staurarnir taka mikið pláss í skipunum…“
Þar eð í ár skyldi girða um það bil 40 tunnur landsins á þremur stöðum var um að ræða mikið efni. Við leituðum því tilboða ýmissa framleiðenda í Kaupmannahöfn á grundvelli fastrar áætlunar. Athugað var hvort gömul gasrör kæmu til álita… Einnig var leitað til Englands… og fór svo að samið var við Jones & Bayliss í London um 4500 stika langa girðingu (um 4.100 m). Rækileg lýsing Flensborgs á hinni ensku girðingu er upplögð æfing í „ólesinni“ dönsku, svo við látum hana koma orðrétta: „Hegnet, som har 4 Pigtraade og 3 glatte Traade med 3–10 Tommers Afstand, tættest forneden, er 4 Fod højt over Jorden. Det opstaaende Materiel udgøres af: Hjørnestolper, massive, firkantede Jernstøtter, som forneden bærer en stor Plade og i Jordoverfladen et Kors af mindre Plader, og som støttes af 2 Skraastivere ligeledes med Jordplade paa den nederste Ende.
Dernæst Strammestolper, dannede af 2 Stkr. svært Pladejern og forsynede med Plader som Hjørnestolperne. Endvidere Mellemstolper af dobbelt T-Jern, hvorpaa der fæstes en Plade i Jordoverfladen, parallelt med Hegnslinien. Og endelig Dropper, Vinkeljern, som kun gaar til Jordoverfladen. Der sættes en Hjørnestolpe i hvert vandret eller lodret skarpt Knæk paa Hegnslinien samt ellers for hver 6–800 Fod; en Strammestolpe indsættes for hver 3–400 Fod, en Mellemstolpe for hver 24 Fod og endelig for hver 6 Fod en Dropper. Paa Hjørne- og Strammestolper sidder der Strammeruller med Palhjul og Nøgletap; i Mellemstolper og Dropper er der Indsnit til Traaden, som fastholdes med drejelige Lukkehager og med Splitter. De fornødne Laager hænge mellem 2 Strammestolper med Skraastivere. Alle Stolper graves 2 Fod ned i Jorden.“
Og efnið kom frá Leith vorið 1902, sjóleiðis að sjálfsögðu. Flutningur þess til Norður- og Austurlands tafðist vegna hafísa, er bæði jók kostnað við efnisaðdrætti og seinkaði girðingavinnunni. En girðingin um gróðrarstöðina (planteskolen) við Rauðavatn komst upp og síðan liðu ein 106 ár.
Segir nú af athugun okkar eins og frá henni var greint í verksskýrslu: „Í fyrsta lagi gengum við hluta hins gamla girðingarstæðis, austur og upp í holtið þar sem „Planteskolen“ á að hafa verið, sbr. loftmynd af svæðinu. Þar uppi er afar vandaður hornstaur. Staurinn er jarðfastur og hefur ekki gefið sig á neinn veg. Undir girðinguna virðist hafa verið hlaðið jarðvegi og þarna nærri má sjá skýran garð í girðingarstæðinu, sbr. lýsingu Flensborgs: „Planteskolen skal omgives med en 3 Fod Jordvold, af hvilken Allerede en Del er bygget“, Ákveðið var að láta borgarminjavörð vita um minjar þessar svo þær mætti færa á skrá. Þannig væri helst hægt að forða þeim frá eyðileggingu vegna mannvirkjagerðar síðari tíma. Sem stendur eru minjarnar það langt frá umferð að þeim er sennilega fremur lítil hætta búin. Vel mætti líka stinga þarna niður merki sem héldi til haga merkri skógræktar- og girðingasögu.
Í öðru lagi var það svo ´kraftstaur´ (strammestolpe) er varðveist hafði á girðingarlínunni meðfram Suðurlandsvegi, gengt bensínstöð Olís er þarna stendur. Þessi og áðurnefndur hornstaur virtust við fyrstu skoðun okkar félaganna vera einu staurarnir úr girðingunni, sem eftir eru. Kraftstaurinn stóð traustum fótum og hreyfðist lítt þótt skekinn væri. Við ákváðum að bjarga staurnum en ljóst var að hann myndi verða í vegi framkvæmda kæmi að þeirri breikkun Suðurlandsvegar sem áformuð var.
Sýnilega hafði verið grafið fyrir staurnum og púkkað vel að honum með hnullungsgrjóti. Eftir að hafa fjarlægt nokkra steina úr púkkinu tókst okkur að hreyfa staurinn töluvert en upp vildi hann ekki. Fengum við þá dráttarvél Skógræktarfélagsins til aðstoðar. Reynt var að hífa staurinn lóðrétt upp en þá slitnaði borði, sem átti að sögn ekils dráttarvélarinnar, að þola fimm tonna átak. Fjarlægðum við þá enn meira grjót úr púkkinu. Tókst þá loks að lyfta staurnum. Kom þá í ljós hvað hélt honum niðri: Allstór platti sem boltaður var við staurinn en ofan á hann hafði grjótinu verið púkkað. Hefðum við betur kannað lýsingu Flensborgs nákvæmar áður en við vörðum öllum svitadropunum til verksins. Kraftstaurinn reyndist vera 222 cm langur. Á honum eru sjö strekkirúllur fyrir vír; um það bil 90 cm af staurnum voru neðanjarðar. Ber þessum málum vel saman við lýsingu Flensborgs nema hvað staurinn hefur sennilega verið settur dýpra í jörð en þar var sagt. Líka kann að gæta þar áhrifa áfoks. Áðurnefndur platti er um 45 x 31 cm að stærð og á langhlið hans er 11 cm hornrétt ´uppábrot´. Kraftstaurinn er, eins og hornstaurinn, ótrúlega heill eftir allan þennan tíma. Á málminum, sem að mestu virðist vera steypt járn, sá undralítið.
Það er af staurnum að segja að hann var tekinn til athugunar er í Landbúnaðarsafnið kom. Reyndist hann sáralítið ryðgaður, helst þó þar sem jarðaryfirborð hafði verið. Strekkihjól voru heil að mestu. Staurinn var forvarinn með Jóhannesar-olíu og honum síðan komið fyrir gestum safnsins til sýnis. Það er ljóst að mjög hefur verið vandað til þessarar fyrstu skógræktargirðingar á SV-landi. Minjarnar sýna líka að a.m.k. girðingarstaurum má koma þannig fyrir hérlendis, bæði um efni og frágang, að þeir standi lengur en í heila öld!
Við samningu þessarar greinar kom upp í huga höfunda hvort útséð væri með að fleiri staurar – hvort sem væru hornstaurar eða kraftstaurar – gætu leynst einhversstaðar í upprunalegu girðingarlínunni.
Til að ganga úr skugga um það fór annar höfundur í reisu meðfram gömlu girðingunni núna í lok ágúst 2013. Og viti menn, í þéttum skógi ofan við gömlu gróðrarstöðina (planteskolen) fannst einn kraftstaur sem virðist vera alveg í jafngóðu ástandi og staurinn góði sem nú er á Landbúnaðarsafninu.
Ekki fundust fleiri staurar þrátt fyrir nokkra leit meðfram upprunalega girðingarstæðinu. Það er þó ekki hægt að útiloka að fleiri standi þarna enn, enda skógurinn mjög þéttur á köflum. Ekki er vafi á því að þessar minjar eru býsna merkilegar í ræktunarsögu þjóðarinnar. Girðingaöld Íslendinga var að hefjast á fyrstu árum tuttugustu aldar og það sama átti við um skógræktina. Minjarnar eru hluti af upphafi þeirrar sögu. Full ástæða er því til þess að gæta vel skógræktarminjanna þarna við Rauðavatn.“
Heimild:
-Skógræktarritið 2013 2. tbl.- Bjarni Guðmundsson og Jón Geir Pétursson – Rauðavatnsstöðin – sögubrot af vandaðri girðingu, bls. 68-71.
Eftirfarandi fróðleik um Dysjar má finna í fornleifaskráningu Þjóðminjasafnsins í Garðahverfi árið 2003:
„Dysjar eru nefndar meðal Garðakirkjujarða í máldögum þegar árin 1397 og 1477 , í Jarðaskrá kirkjunnar 1565 með ábúandann Jón Markússon og í Gíslamáldaga 1570. Skv. Jarðabók Árna og Páls var þetta lögbýli í eigu Garða og árið 1703 bjó ekkjan Valgerður Nikulásdóttir á hálfri jörðinni með sex manns í heimili. Hinn helmingurinn var ábúandalaus um nokkurt skeið og hafði séra Ólafur í Görðum af honum nytjar en af Manntali má sjá að Ásmundur Gissurarson flutti þangað sama ár ásamt kvinnu sinni Hildi Guðmundsdóttur og 11 ára sveitarómaga. Bændur með jarðnyt voru einnig tveir árið 1801, Jón Þorsteinsson og Hans Ormsson hreppstjóri, og hafa búið á Vestur-Dysjum og Austur-Dysjum sem var stærri bærinn. Jón var giftur Iðunni Jónsdóttur og bjuggu hjá þeim 22 ára dóttir, Guðrún, og Guðbrandur Hannesson vinnumaður.
Hreppstjórafrúin Vigdís Jónsdóttir var ljósmóðir að atvinnu. Heimilismenn voru 12 og meðal vinnumanna Narfi Jónsson, trúlega sonur hjóna í einu tómthúsi jarðarinnar, Jóns Narfasonar og Solveigar Hannesdóttur. Jarðnæðislaus eins og þau var einnig nafni hreppstjórans Arnórsson, titlaður húsmaður og fiskari og átti heimili ásamt konu sinni og föður. Fyrir fimmta býlinu var loks handverkskonan og ekkjan Ragnheiður Jónsdóttir sem bjó ásamt móður sinni og 82 ára gömlum húsmanni. Einhver af þessum fjölskyldum hefur væntanlega haldið til í hjáleigunni Dysjakoti en aðrar þurrabúðir eru ekki nafngreindar á Dysjum.
Í Manntal 1816 var fólkið flutt og ekki vitað hvert nema hvað Guðrún Jónsdóttir frá Vestur-Dysjum giftist Bjarna Sveinssyni húsmanni í
Sjávargötu. Jónar tveir höfðu hins vegar tekið við ábúð í Dysjum, bókbindari með konu og þrjú börn sem fyrir tilviljun var alnafni fyrri ábúanda, og svo Þorgrímsson nokkur með sjö í heimili, þeirra á meðal mæðgurnar Herdís Símonsdóttir húskona og Ástríður Jónsdóttir, rétt komin yfir tvítugt. 28 ára gamall sonur húsbóndans, Gamalíel, mun síðar hafa flust í áðurnefnda hjáleigu. Í Manntali 1845 hafði aftur fjölgað á jörðinni en þá var í Vestur-Dysjar kominn Erlendur Halldórsson, þrítugur bóndi og fiskari með konu og þrjú börn, að líkindum sonur Halldórs Erlendssonar í Hlíð. Sjötti heimilismaður hans var Pétur gamli Jónsson sem var á sveitinni. Vigfús Hjörtsson á hinum Dysjabænum hafði sjö í heimili og bjó þar áfram Ástríður, dóttir Herdísar, ekkja og sjálf komin með titilinn húskona og lifði á handiðn. Með henni var fimmtán ára gömul dóttir, Guðrún. Þá voru tómthúsmennirnir þrír, Þórvaldur Sæmundsson með konu og barn, Sigvaldi Árnason með konu og Guðmundur Gíslason með vinnukonu og barn. Loks bjó á jörðinni Ólafur Bjarnason smiður og hafði níu í heimili. Þegar Jarðatal var tekið 1847 voru Dysjar enn í eigu kirkjunnar og ábúendur tveir. Þær eru nefndar í Jarðabók 1861 og voru áfram kirkjueign skv. Fasteignabókum árin 1932 og 1942-4. Dysjar eru skv. Fasteignamati ríkisins enn í ábúð og skráður eigandi Úlfhildur Kristjánsdóttir.
Árið 1565 galt Jón Markússon í landskuld þrjár vættir fiska, mannslán og vallarslátt, jörðinni fylgdu tvö kúgildi og bóndi hafði eins dags sölvatekju í landi staðarins. 1703 var jarðardýrleiki óviss en landskuld orðin hundrað álnir sem guldust með fjórum fiskavættum í kaupstað og vallarslætti. Kúgildi var eitt á jörðinni og borgaði Valgerður það hálft með fæði til vallarsláttarmanna en auk þess með fiski eða smjöri til staðarhaldara sem bar að uppyngja það. Kvaðir á hvern ábúanda voru dagsláttur, hríshestur og hestlán. Í bústofninum voru tvær kýr en fóðrast kunnu þrjár. Heimræði var allt árið og uppsátur í Dysjavör. Jarðardýrleiki var enn óviss 1847 en landskuld hafði lækkað í 80 álnir. Kúgildið var sem áður eitt. 1861 taldist jörðin 11,5 ný hundruð. 1932 var verðið 37 hundruð kr. fyrir Vestur-Dysjar og 51 hundruð fyrir Austur-Dysjar. Fyrrnefnda bænum fylgdu tvö kúgildi og 20 sauðir, þeim síðarnefnda þrjú kúgildi og 30 sauðir og einn hestur hvorum.
Matjurtagarðar sem við gerð Túnakorts 1918 voru 900 m² á Vestur-Dysjum og 1100 m² á Austur-Dysjum höfðu minnkað í 480 m² vestan megin en stækkað í 1220 m² austan megin og
fengust árlega úr þeim tíu og átján tunnur garðávaxta. Jörðin hafði útræði og hrognkelsaveiði hefur verið í Dysjaþara af Dysjabryggju. Árin 1942-4 eru aðeins nefndar Austur-Dysjar og var fasteignamat þeirra orðið alls 61 hundruð kr. Nautgripir voru fjórir, sauðirnir jafn margir og áður og hesturinn einn. Úr görðunum fengust um 24 tunnur og auk fyrri hlunninda nefnd mótekja. Túnið skiptist í Dysja-Vesturbæjartún sem skv. Túnakortinu var 1,2 ha og Dysja-Austurbæjartún sem var 2,1 ha, þ.e. „allstórt“ eins og segir í Örnefnaskrá 1964 en þar eru sérstaklega nefndir nokkrir túnskikar: Hólsflöt ofan bæjanna og Minkaflöt austarlega, kennd við minkabú sem þar var í eina tíð.
Brúarflatir þrjár sem urðu til eftir að Dysjamýri var ræst fram og ræktuð og liggja meðfram henni og eru kenndar við mýrarveginn Dysjabrú og neðan þeirra er loks nýræktin Dýjaflöt. Frá túnunum er einnig sagt í Örnefnalýsingu 1976-7: „Austan bæjar á Dysjum er túnið sundurskorið af skurðum og teygist upp í Dysjamýrina. Næst bænum er Gerði, þá er Hólsflöt og síðan Minkaflöt. Þar ól Guðmann [Magnússon] eitt sinn minka. Þá er Dýjaflöt og þar fyrir austan Brúarflatir, þrjár flatir, aðgreindar með skurðum, og liggja þær að veginum. Allar þessar flatir hafa verið skírðar í seinni tíð, enda ekki svo langt síðan þær hafa verið ræktaðar.“ Norðan í túninu var svo Dysjakot sem öðru nafni hét Gamlakot og kallaðist þar Dysjakotsvöllur eða Gamlakotsvöllur. Dysjatún var að mestu umgirt garði.
Þetta er syðsta jörðin í Garðahverfi og voru Bakki og Pálshús að vestan og norðan. Austar var jörðin Bali og nefndist vestasti hluti Balamalar Dysjamöl. Að norðaustan var Dysjamýri og við sjóinn suðvestan megin neðan bæjanna hétu Dysjafjörur.
Skv. Túnakortinu heita Dysjar öðru nafni Desjar. Við Fornleifaskráningu 1984 taldi heimildakona skrásetjara nafnið komið frá Völvudys en hún er hins vegar í Miðengislandi. Á Túnakorti er athugasemd um þetta í tengslum við landbrot við Dysjar af völdum sjávar: „Hér munu og hafa brotnað upp síðan í fornöld engjar miklar. – Og líklegra að býlin séu kend við des: (hey) en við dys (dauðra) þar á röku láglendinu.“
Á Túnakorti 1918 má sjá tvær stórar torfbyggingar í bæjarstæðinu, væntanlega bæina tvo en sá vestari skiptist í tvö aflöng hólf og hið vestara aftur í tvö ferningslaga hólf. Stefnan er suðvestur-norðaustur. Skv. Fasteignabók eru Vestur-Dysjar enn úr torfi árið 1932 en þær eru ekki nefndar árin 1942-4 og hafa væntanlega verið komnar úr byggð þá. Í Örnefnaskrá 1964 er talað um Dysjar Vesturbæ og Dysjar Austurbæ. Stóðu bæirnir „lítið eitt aðgreindir fram um 1900“. Í Örnefnalýsingu frá 1976 segir: „Dysjabæir standa vestan Balatjarnar. Standa Vestur-Dysjar aðeins nær sjónum en Dysjar, en stutt er á milli bæjanna. Dysjavör er vestan við Balamöl. Gömlu bæirnir á Dysjum stóðu frammi á sjávarbakkanum, beint niður af íbúðarhúsinu, sem nú er.
Nú hefur sjór brotið alveg upp að gamla bæjarstæðinu. Fast fyrir norðan núverandi íbúðarhús er fjós og hlaða, byggt um 1944-45. Bílskúr tengir það íbúðarhúsinu. Fjárhús er fast norðaustan fjóssins. […] Íbúðarhúsið á Vestur-Dysjum stendur, eins og nafnið bendir til, rétt vestan við Austur-Dysjar og gripahús og hlaða frá Vestur-Dysjum rétt sunnan hússins. U.þ.b. 15 m sunnan við gripahúsin voru gömlu Dysjabæirnir […]“. Þeir voru að mestu horfnir í sjóinn þegar fornleifaskráning fór fram 1984, annar þeirra, líklega sá vestari, var alveg farinn en „hleðslugrjót sést í bakkanum“.
Heimild:
-Þjóðminjasafn Íslands 2004, Garðahverfi – fornleifaskráning 2003, bls. 16-24.
Þessi fjöllótta eyja er stirðnuð af sífelldu frosti og snjó. Rétt nafn hennar er Ísland, en nefnist Thile á latínu. Hún liggur óralangt í norðvestur frá Bretlandi. Þar eru lengstir dagar sagðir 22 sólarstundir eða lengri og að sama skapi eru nætur stuttar sökum fjarlægðar hennar frá jafndægrabaug, en hún telst allra (landa) fjarlægust honm.
Sökum ógurlegs kulda loftslagsins fæst þar ekkert matarkyns nema fiskur þurr af kulda, en hann nota eyjarskeggjar sem gjaldmiðil og skipta fyrir korn og mjöl og aðrar nauðsynjar hjá Englendingum, sem eru vanir að sigla þangað árlega til þess að flytja út téðan fisk. Að sögn Englendinga er fólk þar hálfvillt og ruddalegt, hálfbert og býr í lágum neðanjarðarhúsum. Þar hafið lagt sex mánuði og ósiglandi.“
[Portugalskt sjókort frá upphafi 16. aldar, varðveitt á Bibliothéque Nationale í Paris (451. Inv. gén. 203). Halldór Hermannsson telur að Íslandskortið sýni auðsæ persónuleg kynni af landinu. Þar eru ekki sýnd örnefni, en dregnar myndir af þremur kirkjum,, og bendir staðsetning þeirra til Skálholts, Hóla og Helgafells. — Islands Kortlægning, Khöfn 1944, bls. 13, H. Hermannsson: Islandica XXI 1931, bls. 15—16, Nordenskiöld: Bidrag, bls- 3, tafl. 6.]
Heimild:
-Íslenzkt fornbréfasafn, sem hefir inni að halda bréf og gjörninga, dóma …,útgefandi: Hið íslenzka bókmenntafjelag, 1857, 16. bindi (1415-1589), bls. 470-471.
Í Ægi 1985 fjallar Jón Ó. Ísberg um „Sjómennsku í Grindavík„:
Veiðar
„Eitthvað er það á reiki í gömlum heimildum hvenær vetrarvertíð átti að hefjast, en samkvæmt úrskurði lögréttumanna á Alþingi 1578, skyldi vetrarvertíð eigi byrja síðar en á Pálsmessu þ.e. 25. jan. Í Píningsdómi 1490 segir að vetrarvertíð skuli lokið á föstudegi þegar níu nætur eru af sumri. Vetrarvertíð til forna við Suðurland hefur því staðið yfir í 14 vikur.
Þegar hið gregorianska tímatal var lögleitt á Alþingi árið 1700 breyttust dagsetningar er vörðuðu upphaf og lok vertíða. Eftir 1700 skyldi vetrarvertíð hefjast á Kyndilmessu þ.e. 2. febrúar og standa til 12. maí. Sú venja skapaðist að telja 11. maí lokadag því þann dag var farið í síðasta róðurinn.
Við Faxaflóa og víðar gilti sú regla, að úr lokadagsróðri átti að vera lent fyrir kl. 12 á hádegi. Ef formenn hirtu ekki um þessa venju, gátu þeir átt á hættu að hásetarnir sneru skipinu rétt fyrir utan lendinguna, og reru því með skutinn að landi. Var það til mikillar háðungar fyrir formann að ljúka vertíð með þessum hætti.

Öldum saman var færið eina veiðarfærið sem Íslendingar notuðu. Veiðiskapurinn var þá ekki flókið fyrirbæri, menn reru út á miðin beittu sín færi og drógu uns nóg þótti og sneru þá í land.
Með tilkomu annarra veiðarfæra, línu og neta breyttist veiðiskapurinn all verulega. Í Grindavík byrjuðu menn ætíð vetrarvertíð með færaveiðum en er loðnan kom miðin var skipt yfir á net, sumir voru einnig með lóð. Róður hófst vanalega um kl. 5 að morgni. Menn fengu sér eitthvað í svanginn áður en lagt var af stað, vanlega kaffi og brauð. Skipið var sett niður með þessum orðum formannsins: „Setjum nú hendur á það í Herrans nafni“.
Hver maður hafði sitt rúm og var rúmið stjórnborðsmegin í andófinu talið það virðingarmesta og í því besti maðurinn, að undanskildum formanninum. Þegar skipinu hafði verið ýtt frá, var tekið í á bak og því snúið sólarsinnis til has, þá tóku menn ofan höfuðföt og fóru með sjóferðarbæn. Misjafnt var hvað róður stóð lengi og fór það eftir veðri og fiskdrætti, ef vel fiskaðist var stundum farið í fleiri en einn róður á dag, yfirleitt var þá róðri (róðrum) lokið seinnipart dags (17:00-18:00). Er komið var að landi þurfti fyrst að seila fiskinn á land og síðan setja skipið upp, því höfn var engin. Venja var að menn fengju sér að borða er þessu var lokið. á meðan skipti formaður fengnum.
Að þessu loknu var allur fiskur borinn í verbúðir þar sem hann var þveginn, hausaður, flattur og saltaður. Söltun hófst á 18. öld, en áður var fiskurinn breiddur á klappir og garða og hengdur upp til þerris. Veiðarfæri voru einnig borin til verbúða að kvöldi. Vinnudagurinn vildi oft verða í lengra lagi og stritið mikið, margur slitnaði því fyrir aldur fram.
Vorvertíð hófst er vetrarvertíð lauk og stóð hún til Jónsmessu. Á vorvertóð var róið á smærri batum, sexmannaförum og þaðan af minni, aðkomumenn voru því færri en á vetrarvertíð. Veiðarfæri var annað hvort færi eða lóð og eitt var ræksni eða krækling. Grindvíkirngar beittu yfirleitt lóð sín í landi og voru þau því einbeitt, en á móti kom að lóð þeirra voru lengri en hjá þeim er beittu um borð. Venja var að fara út að kvöldi til, um eða upp úr miðnætti, legið var við fram undir morgun, en þá dregið og síðan siglt í land.
Haustvertíð hófst í lok september og stóð til jóla, róðra stunduðu þá eingöngu heimamenn og var yfirleitt róið á sexmannaförum. Veiðarnar gengu svipað fyrir sig og á vorvertíð, sömu veiðarfæri voru notuð, en róið síðar um nóttina og verið styttra að.
Á sumrin milli vertíða var ekki verið á sjó, nema hvað menn skruppu öðru hvoru til að fá sér í soðið.
Með tilkomu vélbáta urðu litlar breytingar á veiðum Grindvíkinga, skipan vertíða og veiðiaðferðir héldust að mestu óbreytt. Það var ekki fyrr en með tilkomu dekkbáta í kringum seinna heimsstríð að breytingar urðu.
Nýrri og fullkomnari veiðarfæri komu á markaðinn ásamt gjörbreyttum tækjabúnaði um borð, bæði í brú og á dekki. Í kjölfar þessa riðlast öll vertíðarskipan, að undanskilinni vetrarvertíð, sem enn er með hefðbundnum hætti og á sama tíma. Í dag eru vertíðir frekar kenndar við þá fisktegund sem veidd er hverju sinni, s.s. humarvertíð og síldarvertíð.
Nokkuð er því árstíðarbundið hvaða veiðarfæri eru notuð hverju sinni og fer það eftir því í hvað er sótt. Aðalveiðarfærin á vetrarvertíð eru sem fyrr net og lína. Á sumrin fara vertíðarskipin yfirleitt á fiskitroll eða humartroll, en á haustin á síldveiðar, með nót eða reknet, nokkur fara á línuveiðar, en útilega hefur lítið verið stunduð. Á síðustu árum hafa nokkur vertíðarskip farið á úthafsrækju yfir sumartímann, hafa þau þá stundað veiðar fyrir norðan og yfirleitt landað hjá rækjustöðvum við ísafjarðardjúp. Meðan á loðnuvertíð stendur, þ.e. frá október fram í mars, elta loðnuskipin gönguna. Þessi skip hafa mjög lítinn bolfiskkvóta en þeim litla kvóta sem þau hafa, ná þau í troll á sumrin.
Fiskiskip Grindvíkinga stunda veiðar með flestum þeim veiðarfærum sem Íslendingar nota yfirleitt, enda hefur útgerð frá Grindavík verið hvað blómlegust á landinu á síðustu árum og áratugum.
Bátar
Höfundur Laxdælasögu byrjar á að lýsa íslandi þannig, að þar sé veiðistöð á öllum misserum og er auðsýnt að hann telur það góða kosti. Orðið veiðistöð merkir stað þar sem meira en einum bát er haldið til fiskjar, og samkvæmt lögum Jónsbókar merkir orðið stað, þar sem um er að ræða veiði á landi eða við land.
Lúðvík Kristjánsson telur upp í riti sínu Íslenskir sjávarhættir II 326 verstöðvar, allt í kringum landið. Verstöðvarnar eru síðan flokkaðar niður eftir aðstæðum ogfyrirkomulagi.
Heimaver var það kallað, er róið var úr heimavör. Gagnstætt því var útver, en þá fóru menn með báta sína og áhafnir að heiman og dvöldu í verbúðum meðan á vertíð stóð. Í sumum verstöðum voru aldrei verbúðir þótt þar væru aðkomubátar og aðkomumenn, var það kallað viðleguver. Viðleguver gátu verið með tvennum hætti. Annars vegar viðlegubátar, þ.e. aðkomubátar með áhöfnum, en hins vegar viðleguhafnir, þ.e. aðkomumenn, er reru á heimabátum verstöðvarinnar. Áhafnirnar bjuggu í heimahúsum í stað verbúða meðan á vertíð stóð og höfðu þar þjónustu.
Grindavík var dæmigerður staður fyrir blandað ver, þar sem löngum var allt í senn, heimaver, útver og viðlegurver, enda var Grindavík ein mikilvægasta verstöð landsins um aldir, önnur aðalverstöð Skálholtsstaðar, og hvergi á landinu var uppsátur metið sérstaklega nema í Grindavík.
Frá aldaöðli hafa íbúar Grindavíkur haft aðallífsbrauð sitt frá sjónum. Þeim skipum er þaðan var róið svipar mjög til annarra er notuð voru í öðrum verstöðvum. Á vetrarvertíð var róið á tólf-, tein- og áttæringum. Á vor og haustvertíð var notast við minni báta, sexæringa og þaðan af minni, allt niður í skektur.
Um miðbik 18. aldar voru nálgæt 60 skip í Grindavík, sexæringar upp í teinæringa. Frá sjötta áratug 19. aldar fram á þann áttunda var mikið eymdarástand í Grindavík. Lítið fiskaðist og var Grindavík talin aumasta veiðiplássið á Suðurlandi, útróðrarmenn vildu ekki lengur róa þaðan og lagðist þá útgerð stærri skipanna niður en smærri bátum fjölgaði. En Grindavík náði sér aftur á strik er veiði fór að glæðast á ný. Árið 1896 eru gerð þaðan út 30 skip flest áttæringar. Algengt var í Grindavík, að áttæringarnir væru tírónir, enda voru þeir margir hverjir í stærra lagi af áttæringum að vera.

Grindavík liggur fyrir opnu hafi, þar sem brimaldan gengu óbrotin á land. Stærð og þyngd bátanna takmarkaðist því lengstum af því, að hægt væri að setja þá á land. Meðal annars af þeirri ástæðu komu vélar mun seinna báta í Grindavík en víða annars staðar á landinu, þar sem hafna skilyrði voru betri frá náttúrunna hendi.
Framtil 1910 var róið á árabátum frá Suðurnesjum, en þá var farið að setja vélar í bátana, allsstaðar nema í Grindavík. Þangað kom fyrsta vélin ekki fyrr en 1926 og 1929 var sett vél í síðasta áraskip Grindvíkinga. Þessir bátar voru uppistaða í flota Grindvíkinga fram yfir stríð, lítið var um nýja báta en nokkrir voru endurbyggðir, og þá dekkaðir. Upp úr stríði er farið að byggja nýja dekkbáta ca. 10 lestir.
Það sem gerði útgerð þeirra mögulega frá Grindavík var, að 1939 var hafist handa við að grafa leið inn í Hópið þar sem höfnin er nú. Með tilkomu hafnarinnar þurfti ekki lengur að setja bátana, enda var það ekki mögulegt með dekkaða báta vegna þyngdar þeirra. Annað er breyttist með höfninni var að þá lögðust róðrar niður frá Staðar- og Þórkötlustaðahverfi og síðan hefur útgerð eingöngu verið stunduð frá Járngerðarstaðahverfinu. Höfnin var frumskilyrði þess að Grindavík fengi þrifist sem útgerðarbær og að ekki færi þar sem í Höfnum en þar lagðist niður blómleg útgerð sökum hafnleysis.
Upp úr 1955 tekur útgerð í Grindavík mikinn fjörkipp og var þar mikið blómaskeið allt fram til 1967. Á þessu tímabili voru keypt fjölmörg ný skip. Orsakir þessa blómaskeiðs eru þær helstar að síldveiði jókst mjög fyrir Norður- og Austurland og gerðu Grindvíkingar mikið út á þær. Fiskigengd var og mikil við suðvesturströndina á þessu tímabili, og raunar allt fram til 1972. Skipin stækkuðu sífellt á þessum árum og urðu stöðugt tæknilega fullkomnari.
Hér á eftir kemur tafla yfir fjölda báta í Grindavík á tímabilinu 1945-1985, tekinn er bátafjöldinn á 5 ára tímabili. (Samkvæmt skipaskrá Siglingamálastofnunar).
1945 – 15
1950 – 13
1955 – 12
1960 – 17
1965 – 15
1970 – 24
1975 – 47*
1980 – 43*
1985 – 48
*Togararnir Guðsteinn og Jón Dan meðtaldir.
Skipta má Grindavíkurskipunum í tvo meginhópa, vertíðarskip og lonuskip. Vertíðarskipin voru flest byggð sem síldarskip á árunum 1956-1967, en síðan 1980 hefur farið fram gagnger endurbygging vertíðarflotans og mörg skipanna hafa nú verið yfirbyggð þ.e. tvídekkuð. U.þ.b. helmingur vertíðarflotans eru skip á bilinu 150-200 lestir, hinn helmingurinn þar fyrir neðan. Minni skipin eru flest úr tré en þau stærri stálskip. Loðnuskipin eru mun stærri en vertíðarskipin. Flest þeirra hafa um 600 tonna burðargetu og eitt þeirra, Grindvíkingur GK-606, ber t.d. 1100 tonn.
Fjölbreytni í stærð og búnaði skipa er nauðsynleg til að hægt sé að nýta alla þá möguleika er gefast til veiða. Skuttogaraútgerð hefur þó lítt átt upp á pallborðið hjá Grindvíkingum. Er það bæði vegna þess, að bátarnir hafa alla tíð getað séð fiskvinnslufyrirtækjunum fyrir hráefni, og að fyrirgreiðsla opinberra sjóða, svo sem Byggðasjóðs náði ekki til þessa landshluta.
Fyrsti togarinn sem Grindvíkingar eignuðust var Guðsteinn GK-140, hann var sameign þriggja fyrirtækja í Grindavík, Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og Barðans h.f. í Kópavogi. Einnig áttu Grindvíkingar hlut í togaranum Jóni Dan GK 141. Reynslan af togaraútgerðinni var ekki nógu góð og hafa Grindvíkingar því selt sinn hluta íbáðum skipunum.
Kjör
Frá upphafi byggðar stunduðu bændur við sjávarsíðuna róðra, aflinn gekk til heimilisins og var einnig notaður í skiptum fyrir landbúnaðarafurðir. Þeir menn er stunduðu róðra, en áttu ekki bát voru ráðnir upp á hlut. Venja var að formaður fengi tvo hluti en báturinn þrjá, þó voru á þessu undantekningar.
Er tímar liðu og kirkja, kóngur og höfðingjar efldust og sölsuðu undir sig sífellt meira jarðnæði versnuðu kjör sjómanna, sem og annarra. Vinnumenn og landsetar voru með kvöðum ýmiss konar látnir róa fyrir húsbændur sína fyrir smánarkaup, en hluturinn varð eign húsbóndans. Á bessu verður breyting til batnaðar með afnámi einokunarverslunarinnar og sölu stólsjarða. Flestir fara að róa fyrir hlut sínum sem áður og afkoman skánar verulega.
Með tilkomu vélbáta var nokkuð um að menn væru ráðnir fyrir fast kaup, líkt og á þilskipunum, sérstaklega átti þetta við ef um aðkomumenn var að ræða, þessi háttur lagðist þó fljótt af. Í kreppunni versnuðu kjör bátasjómanna mikið, sem og hjá öðrum.
Er síldveiðin brást 1935 gengu margir allslausir í land eftir vertíðina, og voru ekki einu sinni taldir matvinnungar. Þessi kollsteypa varð til þess að sjómenn settu kröfuna um hlutatryggingu á oddinn. Tryggingin komst fyrst á 1936, hún var að vísu lág, en þó betri en engin. 1958 voru gerðar þær breytingar á kjarasamningum bátasjómanna, er gjörbreyttu aðstöðu beirra, en þá var afnumin sú regla að útgerðarkostnaður bátanna væri greiddur af óskiptum afla. Um svipað leyti komst sú skipan á, að hafa kokka um borð í dagróðrarbátum, en áður höfðu menn haft með sér skrínukost. Næsta stóra breytingin hvað varðar kjörin, verður í samningunum 1977, en þá verður hver mánuðum að sérstöku tryggingartímabili. Áður höfðu tímabilin verið þrjú, þ.e. 1/1-15/516/5-15/9 og 16/9-31/12. Í samningunum 1982 var svo skrefið stigið til fulls, en þá var um það samið að sjómenn hefðu rétt á að fá kauptrygginguna greidda vikulega.
Í dag eru kjör sjómanna á hefðbundnum vertíðarbát 50- 110 rúml. þannig að skipverjar fá 28,5% af brúttóafla miðað við 11 menn, kauptrygging á mánuði fyrir háseta er 27.000 kr. að frádregnum ferðakostnaði. Vinnuskyldan er 18 t. á sólarhring, sex daga vikunnar og skal frídagurinn ætíð vera sunnudagur á tímabilinu 1/4-31/12 en frá 1/1 31/3 annað hvort laugardagur eða sunnudagur. Ýmsa félagsmálapakka hafa sjómenn einnig sem aðrir launþegar, og verða þeir ekki taldir hér, enda verða fáir feitir af þeim pökkum. Sjómennskan getur gefið góðar tekjur ef vel fiskast en ekki er tímakaupið hátt ef einungis er róið fyrir trygginguna, eins og oft vill verða.
Konungsbréf um fiskútveg frá 1758
Nú á dögum fer jafnan um viðskipti sjómanna og útvegsmanna eftir kjarasamningum milli aðila.
En hvernig færi ef kjarasamningar væru ekki fyrir hendi? Þá yrði að fara eftir gildandi lögum að svo miklu leyti sem þau ættu við hverju tilviki. Vegna kjarasamninganna eru mjög fáar lagasetningar um þessi samskipti. Ein slík lög er að finna í Konungsbréfi til stiftamtmanns og amtmanna frá 28. febrúar 1758.
Hér birtast nokkrar glefsur úr þessu bréfi sem enn eru í gildi.
1. Allir formenn og hásetar sem hafa látið sig leigja eður festa til að róa nokkrum fiskibát um vertíðina skulu án forsómunar koma í þann áskilda vissa tíma á þann stað, hvar þeir ætla að róa, og það allir í einu undir það straff að bæta fyrir þann tíma sem þeir koma eigi.
2. Þegar formaðurinn hefur snúið skipinu upp og fengið allar þær tilheyrandi tilfæringar, má enginn af hásetum á nokkurn hátt hindra hann frá því að sækja sjóinn, hvenær sem tækifæri gefst til þess, heldur skal sérhver skyldur vera þegar hann er af formanninum kallaður aðláta sig án dvalar finna við bátinn og á honum róa.
3. Ef nokkur háseti er burtu eina klukkustund, eftir það honum hefur verið sagt til og hinir aðrir eru komnir til bátsins, skal hann gjalda þrjá fiska í sekt fyrir það, nema hann geti sannað lögleg forföll.
4. Enginn háseti má á sjónum á nokkurn hátt kúga formanninn til að fara tillands, fyrr en hann skipar það sjálfur.
5. Hver sá háseti er sýnir sig hyskinn eða latan til að fiska og lætur ekki að formannsins áminningu og skipan, sem hann gerir honum í því tilliti, skal gjalda 2 fiska í hvert sinn.
6. Eins og formennirnir eru skyldir til að hafa gætur á, að hásetar verki afla sinn sem best þeim er mögulegt. Í sama máta skal og formaðurinn hafa vakandi auga á, að hásetar sínir haldi sjóklæðum þeirra í góðu standi, svo að enginn þurfi, ef það brestur, að hindrast frá róðri og vera ónýtur til sjósóknarinnar.
7. Enginn háseti má yfirgefa þann fiskibát, á hvern hann er ráðinn, fyrr en formaðurinn hefur sagt upp vertíðinni, nema hann hafi fengið formannsins leyfi þar til vegna mikilvægra orsaka. En strjúki þar á móti nokkur burt án formannsins vitundar og samþykkis, þá skal sá hinn samti takast af sýslumanni og bæta fyrir það fjárlátum eða straffi á líkamanum, eftir málavöxtum.
8. Sérhver formaður skal kostgæfilega sækja fiskveiðar, þegar verðurátt og sjór leyfa það, og má enginn af þeim vera í landi þann dag, sem einn fjórði partur af bátum þeirrar veiðistöðu, hvar hann rær, eru á sjó, nema hann geti sannað, að hann hafi gilda orsök til þessa.
9. Formaðurinn skal einnig hafa vakandi auga á, að fiskibát hans sé altíð haldið í góðu standi með veiðarfærum og öðru tilheyrandi, sem og að hann í hvert sinn verði settur svo hátt upp frá sjónum og skorðaður, að honum geti hvorki grandað sjór eða stormur. Líka skal hann halda sínum hásetum til að gera bátinn jafnaðarlega hreinan. Hann skal og nákvæmlega gæta þess, að hver og einn fari varlega með árar og önnur bátsins og fiskifangsins áhöld.
Verbúð

Líklegt er að verbúðir hafi í öndverðu verið sömu gerðar víðast hvar á landinu, og gerð þeirra hélst svo til óbreytt allt fram undir síðustu aldamót. Teikning sú sem hér er, er af verbúð sem var á Járngerðarstöðum um aldamótin síðustu. Verbúðin var ca. 20 m2 (5,6×3,6). Veggir voru tvöfaldir, annað lagið var grjót en hitt torfstrengir, á milli var troðið mold. Þak var úr torfi, tvöfalt, í sumum búðum var haft þrefalt lag, mold var í gólfi. Svefnbálkar voru með hliðum þrír hvorum megin, í þeim var grjót og urðu vermenn því að finna eitthvað mýkra og var ýmist til notað hey, skeljasandur, lyng eða þang. Eldstæði voru í hverri verbúð, en oft voru erfiðleikar með eldivið, einnig var vatn víða takmarkað.

Vermenn höfðu með sér kost að heiman, smjör og annað feitmeti, einnig sýru eða sýrublöndu. Soðningu höfðu þeir og oftast kaffi, en lítið var um kjöt, helst voru það rifrildi er nýttust best í súpu. Kornmatur var af skornum skammti, sérstaklega hjá þeim er voru fjarri kaupstað. Ekki er þetta þó algild lýsing um mataræði, og undantekningamar æði margar.
Yfirleitt var reynt að búa vel að vermönnum hvað varðar mat, og bjuggu þeir vart við lakari kost en margur annar er ekkert átti nema vinnuaflið.“
Heimild:
-Ægir, 6. tbl. 01.06.1985, Sjómennska í Grindavík – Jón. Ó. Ísberg, bls. 334-342.
Að Hjalla í Ölfusi er Ólafskirkja, kennd við Ólaf helga Noregskonung.
Núverandi kirkja er byggð 1928. Talið er að kirkja hafi staðið á Hjalla í Ölfusi frá um 1000, trúlega alltaf á sama staðnum, nema
e.t.v. í upphafi. Hjalli í Ölfusi kemur mjög við sögu kristnitökunnar því að þar bjuggu þeir feðgar Þóroddur Eyvindsson goði og Skafti Þóroddsson lögsögumaður.
Ofan Hjalla stöðvaðist kristnitökuhraunið. Þá komst Hjalli aftur í fréttir sögunnar þegar síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, leitaði þar skjóls hjá systur sinni árið 1541. Gafst hann upp fyrir dönskum hermönnum gegn því að fá að fara frjáls maður. Þeir handtóku hann hins vegar og fluttu um borð í skip áleiðis til Kaupmannahafnar. En biskupinn aldni hlaut samt sitt frelsi því að hann dó í hafi.
Heimild:
-Morgunblaðið, 14. nóvember 1998, bls. 72.
Í þjóðsögunni „Þórkatla og Járngerður“ eptir handriti Brynjólfs Jónssonar frá Minnanúpi 1861 í Landsbókasafni 542. 4to. má lesa eftirfarandi:
„Þórkatla bjó á Þórkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar vora þær giptar. Einu sinni sem optar voru bændur þeirra báDir á sjó. Nú gerði mikið brim, og héldu þeir því báðir til lands. lióndi Þórkötlu fékk gott lag á Þórkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þórkatla feigin mjög, og mælti svo fyrir, að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast, ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og vita menn ekki til, að þar hafi farizt skip á réttu sundi. En það er að segja frá bónda Járngerðar, að hann drukknaði á Járngerðastaðasundi. Þá varð Járngerður afarreið og grimm í hug, og mælti svo um, að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú (1861), sé fyrir víst nítján farin, og er þá eitt eptir, og má búast við, að það farist þá og þá. Á götu þeirri, sem til skips er geingin frá Járngerðarstöðum, er leiði Járngerðar, nálega einn faðmur á breidd og þrír á leingd frá austri til vesturs, og er austurendinn hærri. Ganga sjómenn opt yfir það.“
Heimild:
-Þjóðsögur og munnmæli, Sigfús Eymundsson 1899, bls. 206-207.
Kári Jónason skrifaði um útivistar- og virkjanamöguleika á Reykjanesskaga í Fréttablaðið þann 8. september 2006:
„Landshættir hér á landi eru gjarnan þannig að á sömu stöðunum fara saman mikil náttúrufegurð og álitlegir virkjunarkostir. Á þetta bæði við um jarðvarmavirkjanir og vatnsaflsvirkjanir, eins og öllum ætti að vera kunnugt núorðið.
Kárahnjúkavirkjun hefur mikið verið í umræðunni sem eðlilegt er, og þar sýnist sitt hverjum. Sú umræða hefur svo leitt til þess að augu manna hafa beinst að öðrum vatnsaflsvirkjunarkostum á landinu, sem reyndar er bæði gömul umræða og ný. Minna hefur hins vegar verið tekist á um jarðvarmavirkjanir fyrr en nú á allra síðustu misserum, en því er ekki að leyna að þær hafa einnig í för með sér breytingar á umhverfinu, þótt með öðrum hætti sé.
Í næsta nágrenni við höfuðborgina og nálægar byggðir eru mikil eldfjallasvæði, sem jafnframt eru upplögð útivistarsvæði, þótt þau sé mörgum íbúum á Suðvesturlandi ókunn. Það er oft þannig að menn leita langt yfir skammt til að komast í ósnortna náttúru. Reykjanesskaginn allur býður upp á mikla möguleika bæði sem útivistar- og náttúrusvæði og svo virkjunarkosti fyrir jarðvarmaveitur. Nú þegar eru miklar virkjanir á vestasta hluta skagans og svo á Hengilssvæðinu. Stór svæði um miðbik hans eru hins vegar tiltölulega ósnert, utan þess að þar hafa á nokkrum stöðum verið boraðar tilraunaholur til að kanna hvað felst þar í iðrum jarðar, og síðan hefur verið óskað eftir að fara í frekari tilrauna- eða rannsóknaboranir, þar sem eru óspillt svæði.
Það eru þessi ósnortnu svæði á Reykjanesskaganum, sem menn þurfa nú að fara að taka ákvörðun um hvað gert verður við. Þeim ætti eindregið að hlífa við hvers konar raski, nema að gera eitthvað til að þau verði aðgengilegri fyrir gesti og gangandi. Þeim má alls ekki spilla með virkjunum og því sem þeim fylgir.
Nesjavallavirkjun er austast á þessu svæði og með virkjun og vegalagningu þangað má segja að opnast hafi nýr heimur fyrir marga. Mikill fjöldi innlendra og erlendra ferðamanna leggur leið sína þangað árlega og það er eiginlega fastur liður að fara þangað með erlenda tignarmenn sem koma hingað í heimsókn, til að kynna fyrir þeim á auðveldan og aðgengilegan hátt þær orkulindir sem eru hér í jörðu.
Íslendingar gera sig nú æ meira gildandi varðandi nýtingu á jarðvarma í öllum heimshlutum og þar er byggt á reynslunni af slíkum verkefnum hér heima. Svipaða sögu er að segja af nýtingu jarðvarmans vestast á Reykjanesskaganum – það kemur varla nokkur útlendingur til landsins án þess að heimsækja Bláa lónið.
Það er því miðja skagans sem fyrst og fremst þarf að verja og vernda frá strönd til standar, jafnframt því að svæðið verði gert aðgengilegt fyrir þá sem vilja njóta þess. Þarna eru miklir möguleikar fyrir hendi til útivistar, ekki aðeins á þeim svæðum þar sem jarðhiti er talinn nýtanlegur heldur ekki síður við og upp af suðurströndinni. Nægir þar að nefna Krísuvíkurbjarg, Ögmundarhraun og Seltanga, að ógleymdum Selvogi og svæðinu þar í kring.“
Heimild:
-Útivistar- og virkjanamöguleikar geta farið saman – Reykjanesskagi – Kári Jónasson skrifar – Fréttablaðið 8. september 2006, bls. 24.
Þegar einhver er spurður: „Hvað er menning?“, verður viðkomanda annaðhvort svarafátt eða svarið verður svo víðfemt að inniheldið verðu um allt og ekkert.
Menning hefur stundum verið skilgreind sem „samsafn hegðunarmynstra sem fyrirfinnast í ákveðnum samfélögum, og gildishlaðinna tákna sem gefa hegðuninni ákveðna merkingu eða tilgang. Margar mismunandi skilgreiningar eru til á menningu. Mannfræðingar nota hugtakið til að vísa til þeirrar viðleitni mannsins að skipa lífsreynslu sinni í flokka eða mynstur, og að tjá hana á skipulegan máta. Menning hefur einnig verið skilgreind sem „lífsmynstur heilla samfélaga“. Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, hefur einnig lagt til að menning sé skilgreind sem: „… samsafn þeirra trúarlegu, efnislegu, vitrænu og tilfinningalegu þátta sem einkenna hvert samfélag eða samfélagshóp. Listir og bókmenntir teljast til menningar, en einnig lífsstíll, sambúðarform, mannleg gildi, hefðir og skoðanir.“ Í skilgreiningunni liggur að menning grundvallast á orðinu minning.
Stundum er talað um handverksmenningu, þ.e. hvernig verkin voru unnin áður fyrr. Bókmenning lýtur sama lögmálinu. Það er og eðli goðsagna að hugsa til hins forsögulega og leita skýringa á uppruna heimsins og upphafi sögunnar. Allir menningarheimar eiga sér goðsögulegan uppruna og vestræn menning á sinn uppruna ekki síst í hinum auðuga og fjölbreytta goðsagnaheimi Forn-Grikkja.
Íslensk sendiráð á erlendri grundu kynna gjarnan Ísland og íslenska menningu sem mikilvægan þátt í starfsemi. Jafnan er boðið upp á spennandi möguleika á því að koma íslenskri menningu á framfæri. Á hverju ári eru íslenskar kvikmyndir teknar til sýningar í Norræna húsinu og einnig er þar góð aðstaða til fyrirlestra og tónleikahalds. Einnig er náið samstarf með öðrum norrænum aðalræðisskrifstofum að sameiginlegum verkefnum á sviði lista- og menningarmála. Sjaldnast er menningin kynnt í formi minja eða áþreifanlegrar arfleifðar, en þess frekar í hlóði (söng og spili) og mynd (kvikmynd). Getur ástæðan verið sú að ímyndunarhönnuðir vilji gefa aðra mynd af „menningunni“ en hún raunverulega er? Skammast þjóðin sig fyrir „fátæklegheitin“ í samanburði við „íburðinn“ erlendis?
Hér heima er málum öðruvísi háttað. Haldnar eru sýningar á bókmenntaarfinum í Þjóðmenningarhúsinu, upphafi landsnáms í kjallara hótels í miðborginni og Þjóðminjasafnið gefur gestum kost á að líta menningarverðmætin augum.
Skoðum dæmi um klysjukenndan áhuga landans út á við: „Íslendingar hafa haldið fram þeirri skoðun að nýta beri í miklu ríkara mæli þann styrk sem Norðurlöndin búa yfir og felst í mannauði, sameiginlegum menningararfi og gildismati, svo og öflugu mennta-, vísinda- og nýsköpunarkerfi. Margt bendir til þess að Norðurlönd hafi hingað til vannýtt þessa auðlind til að hasla sér völl á alþjóðlegum vettvangi.
Íslendingar leggja því áherslu á að nýta sem best innri og ytri styrk Norðurlanda til að efla samkeppnisstöðu á sviði menningar, mennta og vísinda. Lykilorðin eru annars vegar samlegð (synergi) og hins vegar hnattræn útrás. Með öflugra rannsóknarsamstarfi þarf að samþætta og samræma þekkingarauðinn í löndunum, en jafnframt stefna að útbreiðslu norrænna menningar-, mennta- og vísindaafurða.“ Hér er öllu grautað saman; menningu, vísindum, útrás og nýsköpun – ágætt dæmi um ómeðvitaða arfleifð.
Menningarmál hafa jafnan verið ofarlega á baugi í byggðum landsins og bera menningarstefnur sveitarfélaga þess glöggt merki. Menningarstefnur eru staðfesting og viðurkenning á mikilvægi og gildi menningarlífs í sérhverju sveitarfélagi og markmið hennar er að skapa sem best skilyrði fyrir varðveislu, ræktun og miðlun sameiginlegs svæðisbundins menningararfs. Ennfremur er það gjarnan markmið að tryggja eftir föngum að „allir geti notið menningarlífs og að búa í haginn fyrir skapandi, lifandi listasemi og stuðla að sem almennastri þátttöku íbúa á því sviði.“
En hvað er menning?
„Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs er menning „þroski mannlegra eiginleika mannsins, það sem greinir hann frá dýrum, þjálfun hugans, andlegt líf.“ Íslensk orðsifjabók bætir því við að menning sé „þroski hugar og handa; … það að manna einhvern … þróun, efling, siðmenning“. Orðabók Menningarsjóðs segir líka að menning sé „sameiginlegur arfur (venjulega skapaður af mörgum kynslóðum) … rótgróinn háttur, siður“. Hin Íslenska alfræðiorðabók Arnar og Örlygs segir að menning sé „sú heild þekkingar, siðferðis, trúar og tákna sem er undirstaða mannlegs samfélags“.
Hér má greina að minnsta kosti tvær ólíkar merkingar sem lagðar eru í hugtakið „menningu“ í almennri notkun. Í fyrsta lagi mætti nefna hugmyndina um siðmenningu. Í öðru lagi kæmi svo hugmyndin um menningu sem rótgróinn sið, sameiginlegan arf. Síðari hugmyndin er oft tengd hugtakinu þjóðmenning, að hver þjóð eigi sérstaka menningu, [líkt og sveitarfélög landsins].
„Menning“ er einnig lykilhugtak ýmissa fræðigreina, ekki síst mannfræðinnar. Í því sem hér fer á eftir er sett fram mjög einfölduð mynd af hefðbundnum hugmyndum mannfræðinnar um menninguna.
Mannfræðin hefur lengi litið svo á að mannkynið sé eitt og það búi yfir sameiginlegum eiginleikum. Við blasir þó að það hefur búið sér mjög fjölbreytilega lifnaðarhætti. Eitt af helstu verkefnum mannfræðinnar að lýsa og skýra þennan fjölbreytileika og það hvernig hann er mögulegur.
Mannfræðingar hafa lengi haft þá skoðun að fjölbreytileikinn byggi ekki á líkamlegum mun manna eins og sjáist af því að fólk fylgi þeim siðum sem það lærir. Barn sem á ættir að rekja til Íslands en er ættleitt og elst upp hjá japönskum foreldrum, lærir japönsku eins og hvert annað barn þar í landi. Klassískar hugmyndir mannfræðinga um menningu ganga út á það að hún sé afl sem mótar einstaklinginn, hugsun hans og hegðun, og að þannig megi líta á að sá fjölbreytileiki í lifnaðarháttum sem mannkyn hefur búið sér sé menningarlegur.
Þá hafa mannfræðingar lengi álitið svo að í heiminum séu margar ólíkar menningar, að við getum talað um íslenska menningu, danska menningu og svo framvegis. Þó að hverri menningu megi skipta niður í ákveðna þætti – trúarbrögð, goðsagnir og vígslusiði, svo einhverjir séu nefndir – fléttist þessir þættir í hverju tilviki saman og myndi ákveðna heild. Þannig kennir klassískur skilningur mannfræðinnar að einstakur þáttur tiltekinnar menningar verði ekki skilinn í einangrun heldur verði að skoða hann í samhengi við alla aðra þætti hennar. Samkvæmt þessu er hver menning heildstæð eining.
Ef menningin er heildstæð, er hún líka afmörkuð. Við getum þannig talað um íslenska menningu og enska menningu og dregið skýr mörk milli þeirra. Það fólk sem tilheyrir hverri menningu, tilheyrir henni allt á sama hátt. Íslensk menning er menning íslensku þjóðarinnar en ekki bara einhvers hluta hennar. Hugmyndin er líka sú að menning hafi ákveðinn stöðugleika. Íslensk menning er „íslensk menning“ hvort sem talað er um landnámstímann eða nútímann, og þarna á milli er eitthvert sögulegt samhengi, einhver stöðuguleiki.
Þetta er þá hin klassíska hugmynd mannfræðinnar um menninguna: Hver menning er sjálfstætt kerfi sem endurnýjar sjálft sig. Þessi hugmynd um menningu hefur verið tekin til gagngerrar endurskoðunar undanfarna áratugi. Nú telja flestir að menning sé afsprengi valdatengsla og drottnunar, að menning sé ákveðið form valds og drottnunar, hún sé miðill þar sem vald er bæði skapað og spornað við því.
Sem dæmi um þetta má benda á hvernig vísað var í þætti úr íslenskri menningu og sögu til rökstuðnings fyrir uppsetningu gagnagrunns á heilbrigðissviði: Víkingaarfleiðina og sagnirnar. Einnig má benda á hvernig andstæðingar gagnagrunnins notuðu hliðstæð menningarleg rök gegn gagnagrunninum: Afsal sjálfstæðisins 1262 og „sölu landsins“ 1949. Menning er þess vegna ekki hlutur til fyrir utan og ofan okkur, heldur er hún hluti af hinu daglega lífi, með allri sinni baráttu og striti.“
Í raun, ef vel er að gáð, fela sérhver mannanna verk í sér afurð menningar er krefst ákveðinnar varðveislu og virðingar þeirra er á eftir koma. Hversu vel hún hefur varðveist á ekki að skipta neinu máli.
Þegar menningarsögulegar minjar á Reykjanesskaganum eru skoðaðar, hvort sem um er að ræða á einstaka stað eða sem heild, blasir vanræksla hvarvetna við. Svo er að sjá sem fulltrúar minjavörslunnar hafi MJÖG litlar áhyggjur af þessum fornleifum, enda hafði einn þeirra það á orði í einni kennslustundinni í HÍ að “engar merkilegar fornleifar væri að finna á svæðinu”. Þá var hann að miða við Glaumbæ í Skagafirði, Víðimýri og aðra slíkar er endurreistar hafa verið í „sómasamlegri mynd“. Það segir nokkuð um gildismat viðkomandi. Fátækleg, óhreyfð, en áþreifanleg arfleifð, jafnvel jarðlæg, er auðvitað engu að síður merkileg en uppgerð fornleif. Þessum skilningi “sérfræðinganna” þarf að breyta. Ef það tekst verður Reykjanesskaginn eitt merkilegasta minjasvæði landsins. Alþingismenn (fjárveitingavaldið) er mjög svo upptekið, líkt og var í lok 19. aldar, að dýrð Íslendingasagnanna og endurreisn þeirra, en huglægni þeirra kemur samt sem áður aldrei til með að geta staðfest eitt eða neitt á vettvangi fornleifanna. Þess vegna eru minjarnar sjálfar svo mikilvægar, þ.e. myndbreyting þess sem var í raun, bæði frá einum tíma til annars svo og raunverulegum aðstæðum fólksins er þar bjó – og dó. Þær, hversu lítilmótlegar sem þær eru, hver og ein, ber að virða til eins langrar framtíðar og mögulegt er.
Heimildir m.a.:
-wikipedia.org
-visindavefur.is













































