Reykjanes

Við Valahnúk á Reykjanesi eru þrjú upplýsingaskilti. Tvö þeirra eru um vitana, annars vegar á Valahnúk og hins vegar á Vatnsfelli. Um fyrrnefnda vitann segir:

Reykjanesviti

Vitinn á Valahnúk.

“Fyrsti ljósvitinn á Íslandi var reistur á Valahnúk árið 1878. Hann var tekinn í notkun 1. desember sama ár. Vitinn var áttstrendur, 4.5 metrar í þvermál og 8.2 metrar á hæð. Hann var hlaðinn úr tilhöggnum íslenskum grásteini. Þykkt veggjanna hefur verið um 1 metri. ljóskerið á vitanum var áttstrent eins og vitinn með koparhvelfingu yfir. Neðan ljóskersins voru vistarverur fyrir tvo vitaverði sem gættu ljóssins á meðan logaðu á honum, frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert. Vitinn eyddi að meðaltali 16 tunnum af olíu á ári.

Vitinn fór illa í jarðskjálfta 28. október 1887. Þá hrundi mikið úr Valahnúk og allir lampar og speglar í vitanum fóru í gólfið. Næstu nætt var ómögulegt að kveikja á vitanum. Árið 1905 höfðu jarðskjálftar og brim brotið það mikið úr hnúknum að hætta þótti á að vitinn myndi hrynja í sjóinn.

Reykjanesviti

Flóraður stígur milli hús vitavarðar að vitanum á Valahnúk.

Vitavörðurinn var einnig hræddur við að vera á vakt enda ekki nema 10 metrar frá vitanum fram á brún. Því var ákveðið að reisa nýjan vita á Vatnsfelli og stendur hann enn. Gamli vitinn var hins vegar felldur með sprengingu 16. apríl 1908.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – grjótið úr gamla vitanum á Valahnúk.

Grjótið hér til hægri eru leifar vitans.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – leifar af geymsluskúrnum undir Valahnúk.

Hleðslan til vinstri eru leifar geymsluhússins sem þjónaði vitanum.”

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk – skilti.

Reykjanesviti

Við Valahnúk á Reykjanesi eru þrjú upplýsingaskilti. Á einu þeirra eru upplýsingar um Reykjanesvita. Þar stendur eftirfarandi:

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

“Reykjanesviti er elsti vitinn sem nú stendur við Íslandsstrendur, tekinn í notkun 20. mars 1908. Vitinn var fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum 1. desember 1904.

Vitinn er sívalur turn, 9 metrar í þvermál neðst en 5 metrar efst. Hæð hans er 20 metrar og stendur hann á breiðri 2.2 metra hárri undirstöðu. Ljóshúsið er 4.5 metrar á hæð og er heildarhæð vitans 26.7 metrar. veggirnir eru tvískiptir. Ytra byrðið er úr tilhöggnu grjóti en innra byrði úr steinsteypu. Þykkt þeirra við sökkul er 3.2 metrar en efst er veggþykktin 1.2 metrar.

Upphaflegur ljósgjafi vitans var steinolíulampi og var ljós hans magnað með 500 millimetra snúningslinsu. þetta snúningstæki, knúið af lóðum sem vitavörðurinn dró upp með reglulegu millibili. Gastæki var sett í vitann árið 1929 og var þá gasþrýstingurinn látinn snúa linsunni. Vitinn var rafvæddur árið 1957.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Vitavörður var búsettur á Reykjanesi frá upphafi vitareksturs árið 1878 fram til ársins 1999. Íbúðarhúsið sem nú stendur við vitann var byggt árið 1947. Vitaverðirnir stunduðu búskap samhliða starfi sínu og má víða sjá ummerki um búsetu þeirra m.a. tóftir eldri húsa og hlaðna garða.”

Reykjanesviti

Reykjanesviti – skilti.

Stampar

Neðan gígs á Stampagígaröðinni vestast á Reykjanesskaganum er skilti með eftirfarandi texta:

Stampar

Stampar.

“Tvær gossprungur liggja frá sjó inn í land á vestanverðu Reykjanesi og mynda gígaraðir. Þessar gígaraðir hafa verið kenndar við Stampa. Gígaraðirnar eru frá tveimur tímaskeiðum og fylgja stefnunni SV-NA sem er algengasta sprungustefna á Reykjanesi.

Sú eldri myndaðist í gosi á tæplega 4 kílómetra langri sprungu fyrir 1.800-2000 árum.

Stampar

Gígur á Stampagígaröðinni.

Yngri-Stampagígaröðin myndaðist í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240. Gígaröðin er um 4 kílómetrar að lengd og er flatarmál þess hrauns sem þá rann um 4.6 km2. Þeir tveir gígar sem næst eru veginum, nefndir Stampar, eru við norðurenda gígaraðarinnar. Sunnar á gígaröðinni má sjá stæðilega gíga s.s. Miðahól. Eldborg dýpri og Eldborg grynnri sem allir voru notaðir sem mið við fiskveiðar fyrr á tímum. Flestir gígarnir eru þó klepragígar og lítt áberandi.

Þess má geta að í Reykjaneseldum 1210-1240 runnu fjögur hraun í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum auk þess sem neðarsjávargos urðu í sjó undan Reykjanesi.

Stampar

Gígar á eldri gígaröðinni.

Hundrað gíga leiðin, merkt gönguleið, liggur að hluta um Stampahraunið. Leiðin hefst við Valahnúk á Reykjanesi og er 13 kílómetra löng. leiðin liggur m.a. um háhitasvæðið á Reykjanesi, fram hjá gjall- og klepragígum og móbergsfjallinu Sýrfelli að Stampagígunum. Þaðan er gengið um úfið helluhraun og sandskafla og þræðir leiðin sig frá vesturhlið gígsins sem er næst veginum, áfram eftir gígaröðinni, sjávarmegin við Reykjanesvirkjun. Gígarnir sem gengið er með fram eru fjölmargir og viðkvæmir.

Leyfilegt er að ganga á gíginn sem er nær veginum. Mikilvægt er þó að hafa í huga að raska ekki viðkvæmum jarðminjum.”

Stampar

Stampar – skilti.

Reykjavíkurflugvöllur

Vorið 1919 kom Rolf Zimsen, flugmaður og frændi borgarstjórnans Knud Zimsens, til landsins til að kanna aðstæður fyrir samgöngur í lofti á Íslandi.

Reykjavíkurflugvölur

Vatnsmýrin, Seljamýri og nágrenni, milli Skildingarness og Öskjuhlíðar, árið 1903.

Rolf leizt bezt á Vatnsmýrina sem flugvallarstæði og bæjarstjórnin lagði til 92.300 m² af svonefndu Briemstúni. Samtímis var hið fyrsta af fjórum fyrirtækjum, sem hlutu nafnið „Flugfélag Íslands”, stofnað og fyrsta flugvélin kom til landsins í stórum kassa. Hann var fluttur að skýlinu, sem hafði verið reist í Vatnsmýrinni.

Reykjavíkurflugvölur

Avro 504K.

Klukkan var um það bil 17:00 þegar fyrsta íslenska flugvélin lyfti sér til flugs frá íslenskri grund í fyrsta sinn. Flugvélin, sem var eign Flugfélags Íslands og alveg ný, var af breskri gerð, Avro 504K, sem var tvívængja með 110 ha. Le Rhöne-mótor. Flugmaðurinn var kapteinn Cecil Faber. Völlurinn var í Vatnsmýrinni í Reykjavík.

Þetta var þann 3. september 1919. Er hægt að hugsa sér spennuna sem var í loftinu á þessum tíma, á þessari stundu? Flug á Íslandi var að hefjast!

Reykjavíkurflugvölur

Kort af Skildinganesi og Seljamýri árið 1933.

Eflaust hafa margir bæjarbúar séð þegar fyrsta flugvélin flaug yfir Reykjavík þetta síðdegi í byrjun september. Búið var að kynna það að vélin yrði til sýnis í skálanum á flugvellinum að kvöldi 3. sept. kl: 8, og átti þar að halda hátíð og væntanlega fljúga fyrsta flugið fyrir augum almennings.

Á forsíðu Vísis 3. sept. auglýsing:
Flugvélin er nú sett saman og verður sýnd í skálanum á flugvellinum kl. 8. Aðgöngumiðar seldir hjá Sigf. Eymundssyni, í Ísafold og við inngangana og kosta 50 aura. Harpa leikur væntanlega á lúðra á flugvellinum. Inngangar að veginum niður á völlinn eru af Laufásvegi fyrir utan Laufás og af Melunum beint niður af Loftskeytastöðinni – Flugfélagið.”

Reykjavíkurflugvöllur

Junkers f13. Fyrsta farþegaflugvél Flugfélags Íslands.

En hvað gerðist? Af hverju flaug Capt. Faber af stað á þessum tíma síðdegis? Var búið að undirbúa það flug? Almenningur virðist ekki hafa vitað af flugi á þessum tíma. Hátíðin átti að hefjast kl: 8 um kvöldið. Í frétt Morgunblaðsins daginn eftir, þ.e.a.s. 4. september er frétt þar sem m.a. segir:
Fyrsta flugið á Íslandi. Capt. Faber flaug tvisvar í gær.” Svo segir, ”En um kl. 5 í gær (3. sept.) gerðist óvæntur atburður suður á Flugvelli. Reynsluflugið var ákveðið þá strax, og án þess að nokkur vissi, ók Faber vélinni út á völl, settist við stýrið og renndi af stað. Vélin rann nokkra tugi faðma niður eftir túninu, eins og álft sem flýgur upp af vatni, og loks losnaði hún frá jörðu og smáhækkaði.

Reykjavíkurflugvöllur

Flugfélagið tók á leigu flugvélar frá Þýskalandi ásamt áhöfnum. Fyrsta flugvélin var af Junkers F.13 og bar einkennisstafina D-463. Fjórar Junkers vélar voru notaðar til farþegaflugs, póstflutninga og síldarleitar á Íslandi á árunum 1928 til 1931, þó aldrei nema tvær í einu, þrjár þeirra voru af gerðinni Junkers F.13 og ein af gerðinni Junkers W.33d. Vélarnar báru íslensk nöfn; Súlan, Veiðibjallan og Álftin.

Hljóðið frá mótornum heyrðist inn í bæinn og menn fóru að skima í kringum sig. Og allir, sem skimuðu, ráku augum í það sama: vélin leið áfram um loftið eins og risavaxinn fugl, stöðugri en nokkur vagn á rennsléttum vegi, sneri sér krappar beygjur og tyllti sér eftir dálitla stund aftur á grassvörðinn.”

Þennan sama dag stóð þetta í Bæjarfréttum Vísis:
Flugvélin er nú komin í það horf, að ekki vantar nema herslumuninn, að henni verði treyst til að hefja sig á loft. Eins og auglýst er hér í blaðinu verður hún sýnd almenningi í kveld kl. 8. Vel er mögulegt að fyrsta flugsýningin geti orðið annað kveld. Mótorinn hefur verið látinn fara af stað og reynst ágætlega.- Stendur af loftskrúfunni svo mikið hvassviðri að það fjúka höfuðföt af mönnum, er standa fyrir aftan vélina. Ættu menn, er vilja sjá þetta nýtískunnar furðuverk að nota nú tækifærið, því að við flugsýningarnar fá menn ekki að koma í flugskálann eða alveg að vélinni. Alþingismönnum og flugfélagsmönnum er boðið að skoða vélina kl. 7 ½.”

Reykjavíkurflugvöllur

Teikning Gústafs E. Pálssonar verkfræðings af flugvelli í Vatnsmýrinni frá árinu 1937.

Næsta ár tók vesturíslenzkur flugmaður, Frank Fredrickson, við starfinu. Fyrsta slys tengt flugi á landinu varð 27. júlí 1920, þegar hætt var við flugtak og vélin lenti á tveimur börnum, 10 ára stúlku, sem lézt, og bróður hennar fjögurra ára, sem slasaðist mikið. Rekstur vélarinnar gekk ekki og hún var seld úr landi árið eftir. Árið 1928 var nýtt félag stofnað (Alexander Jóhannesson). Það starfaði til 1931 en heimskreppan og fleiri áföll urðu því að falli. Næstu tvö árin notuðu hollenzkir veðurathugunarmenn völlinn, sem hafði verið sléttaður og lagaður töluvert. Skýlið og fleiri mannvirki voru seld, þegar þeir fóru, því að mikill skortur var á alls konar efniviði.

Í “Fornleifaskrá og húsakönnun fyrir Nauthólsvík og Nauthólsvíkurveg” frá árinu 2019 má lesa eftirfarandi um Reykjavíkurflugvöll:

Reykjavíkurflugvöllur

Á Vatnsmýrarhól hafa verið útihús frá Skildinganesi sem hætt var að nota um 1930, öðru húsinu var síðan raskað við gerð flugbrautanna. Á hólnum var þriggja bursta rúst en henni var raskað þegar fyrsti flugturnninn var byggður þar um 1940 og hóllinn þá nefndur Flugstjórnarhóll. Enn má greina hleðslur í hólnum frá eldra húsinu.
Á korti frá 1933 varpað yfir loftmynd frá 2012. Greinilega má sjá tvær rústir útihúsa, önnur þriggja bursta á hólnum og hin einar burstar rétt suðvestan við hólinn.
Þarna var töluverður búskapur um 1930. Þá var Vatnsmýrinni skipt upp í Vatnsmýrarbletti en Skildingnesmegin var einnig búið á litlum skikum. Búskapur þessi lagðist af þegar flugvöllurinn var gerður. Öll íbúðarhúsin við Reykjavíkurveg og Hörpugötu sem lentu inni á flugvallarsvæðinu, eða um 25 hús, þurftu að hverfa.

“Flugsaga Íslands hófst miðvikudaginn 3. september árið 1919 kl. 17.00 þegar fyrsta íslenska flugvélin lyfti sér til flugs frá íslenskri grund. Flugvélin, sem var í eigu Flugfélags Íslands, var af breskri gerð og var flugmaðurinn kapteinn Cecil Faber. Völlurinn var í Vatnsmýrinni í Reykjavík. [Flugvélin var Avro 504K.]
Flugfélag Íslands var stofnað í Reykjavík í mars 1919. Eitt fyrsta mál á dagskrá hins nýstofnaða félags var að finna heppilegan stað fyrir starfsemina. Félagið sendi bæjarstjórninni í Reykjavík eftirfarandi bréf þann 4. júní 1919:
„Flugfélag Íslands er stofnað til þess að undirbúa og koma á flugsamgöngum hér á landi, svo fljótt sem ástæður leyfa. Eitt hið fyrsta sem þarf að útbúa, eru tryggir og góðir lendingastaðir fyrir flugvélarnar og er auðsætt að ein helsta flughöfnin verður að vera hér í Reykjavík. Til hennar útheimtist svæði sem sléttast og grasi vaxið, með gott svigrúm til allra hliða, og liggi hún þó sem næst bænum.
Í samráði við Rolf Zimsen liðsforingja, flugmann úr danska hernum, sem nú er hér staddur, höfum vér athugað staði hér nærlendis, sem komið gætu til greina. Urðum vér ásáttir um, að heppilegast og kostnaðarminnst verði að útbúa góða flughöfn á túnblettum þeim er liggja í Vatnsmýrinni suðvestanverðri, því að á þeim er landrými gott og svigrúm nægilegt í kring, þar eð hvorki eru þar hæðir svo háar, né byggingar eða símar svo nærri, að flugið heftist.

Reykjavíkurflugvöllur

Kort sem sýnir erfðafestulönd og byggðina sem hvarf undir flugvöllinn.

Vér leyfum oss því hér með að óska þess að háttvirt bæjarstjórn útvegi Flugfélaginu til kaups svæði til flugvallar á þessum stað, helst eigi minna en 400×500 metra að stærð, eða tryggi félaginu á annan hátt sem varanlegust afnot af þessu svæði með sem aðgengilegustum kjörum.“
Málinu var vísað til fasteignanefndar og fjárhagsnefndar bæjarins. Fasteignanefnd Reykjavíkur taldi „… helst tiltækilegt að taka til þessara afnota hæfilegan hluta af erfðafestulandi E. Briem í Vatnsmýrinni eins og stjórn félagsins hefur farið fram á, og leigja það flugfélaginu …“
Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti síðan þann 26. júní 1919 ákvörðun fasteignanefndar og tók um 92.300 fermetra af túni Eggerts Briem til að nota semlendingarstað fyrir flugvélar.

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur og nágrenni – herforingjaráðskort.

Eggert fékk 15 aura fyrir hvern fermetra. Samkvæmt lýsingu í Morgunblaðinu þá var inngangur að flugvellinum af miðjum þeim vegi sem lá yfir Vatnsmýrina þvera frá Briemsfjósinu við Laufásveg og yfir að Loftskeytastöðinni. En menn spurðu sig í blöðunum hvernig þeir færu að því að lenda á flugvél í Vatnsmýrinni þar sem í hugum manna var hún eitt forarfen. Í einu blaðanna segir: „En þeir sem nú þessa dagana hafa komið út á flugvöll, falla hreint í stafi. Svona stórar og skrúðgrænar grasflesjur héldu þeir ekkiað þarna væru til. Síðustu árin, eftir því sem skurðum hefir fjölgað, þá hafa þessi tún þornað og eru nú skráþurr, eins og önnur tún …Væri haldin hér þjóðhátíð, þá væri ómögulegt að hugsa sér fegurri stað í nánd við bæinn en flugvöllinn.“
Rekstur Flugfélags Íslands stóð ekki undir sér og var flugvélin seld úr landi árið 1921.

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur og nágrenni – AMS kort.

Árið 1928 var stofnað í Reykjavík nýtt flugfélag en þó með sama nafni og hið fyrra. Bækistöð þess var í Vatnagörðum þar sem félagið notaðist einkum við sjóflugvélar. Félagið leigði þýska sjóflugvél af Junkers-gerð og tók hún 5 farþega og var notuð til farþega-, póst-, sjúkra- og síldarleitarflugs. Vélin var skírð Súlan og ári síðar bættist Veiðibjallan við. Rekstur félagsins stóð til ársins 1931 en varð þá að hætta sökum fjárskorts. Árið 1930 var flugvöllurinn í Vatnsmýrinni orðinn lélegur, en á árunum 1932 og 1933 notuðu hollenskir flugmenn, sem voru hér við veðurathuganir, völlinn. Nokkru áður en þeir komu höfðu verið gerðar endurbætur á landinu, það sléttað og brýr settar á skurði. Þá var einnig reist flugskýli sem var síðar selt til niðurrifs eftir að rannsóknum hollensku flugmannanna lauk. Árið 1937 heppnaðist einnig fyrsta tilraun til svifflugs hér á landi og var það í Vatnsmýrinni.

Örninn

Þessi Waco-flugvél var keypt frá Bandaríkjunum haustið 2009. Hún er af nákvæmlega sömu tegund og ÖRNINN, fyrsta flugvél Flugfélags Akureyrar, sem smíðuð var 1937 og kom til landsins 1937, þá á flotum. Vélin var oftast kölluð Örninn, eða Akureyrarflugvélin. Eftir að aðalstöðvar Flugfélags Akureyrar voru fluttar frá Akureyri til Reykjavíkur, og nafninu breytt í Flugfélag Íslands, fékk félagið aðra vél sem var nánast sömu tegundar og Örninn.

Um svipað leyti og Flugfélag Akureyrar var stofnað, árið 1937, var mikið rætt um að gera varanlegan flugvöll í Reykjavík og var gildi góðs flugvallar jafnað við mikilvægi Reykjavíkurhafnar. Nokkrir staðir sem komu til greina voru athugaðir. Það voru Kringlumýrin, hraunið fyrir sunnan Hafnarfjörð, Bessastaðanesið, Sandskeiðið, flatirnar austan Rauðhóla, við Ártún og að endingu Vatnsmýrin í Reykjavík. Flugmálafélag Íslands, sem var stofnað árið 1936 í þeim tilgangi að ryðja flugi braut, barðist einkum fyrir gerð nothæfs flugvallar í Vatnsmýrinni. Samkvæmt greinargerð voru teiknaðar fjórar brautir sem ætlaðar voru til lendingar og burtfarar flugvéla og var stefna þeirra eftir helstu vindáttum í Reykjavík. Einnig var lega þeirra ákveðin að nokkru leyti eftir byggingum sem þegar voru á svæðinu umhverfis flugvöllinn.

Reykjavíkurflugvöllur

Horft í suður yfir bæjarstæði Nauthóls og braggabyggðina við Nauthólsvík 1946. Á bæjarstæðinu hafa verið reist fjarskiptamastur.

Þegar umræður um varanlegan flugvöll stóðu sem hæst var búið að tengja saman þrjár landspildur í mýrinni með tveimur brúm og myndaðist þannig austur-vestur flugbraut. Brautin var þó talsvert blaut og beindu menn þá sjónum sínum að landinu suður með og vestur af Öskjuhlíð, sem var þurrara. Það sem stóð í vegi fyrir að þar yrði sett niður flugbraut var að til stóð að þar yrði íþróttaleikvangur bæjarins. Fékkst þá leyfi til að setja niður tilraunaflugbraut vestan við þar sem gamli flugturninn stendur nú. Þar var gerður vísir að flugbraut sem var notuð um skamma hríð.

Reykjavík

Hermaður á verði í Aðalstræti.

Reykjavík var hernumin þann 10. maí 1940 af bresku herliði. Breski herinn hóf að gera herflugvöll við Reykjavík í fyrri hluta október árið 1940. Þeir fundu flugvellinum stað á svipuðum slóðum vestan Öskjuhlíðar og flugvelli Reykjavíkur var ætlaður staður.
Flugbrautirnar sneru að mestu eins þó að stærðir þeirra væru aðrar. Þegar ríkisstjórn Íslands varð ljóst að Bretum var alvara með gerð flugvallar á þessum stað ákvað hún að taka landið eignarnámi. Þann 16. nóvember 1940 voru gefin út bráðabirgðalög „… sem heimiluðu ríkisstjórninni að taka eignarnámi allt það land við Skerjafjörð sem þurfti undir flugvöllinn og greiða með því götu framkvæmdarinnar.“

Reykjavíkurflugvöllur

Niðurrif íbúðarhúsa á Skildinganesi [Skerjafirði] hófst um miðjan júlí 1941. Á þessari loftmynd frá 10. júní 1941 sést að svæðinu næst flugbrautunum hefurverið umturnað. gerð N/S-brautarinnar er komin lengst á veg en við norðurenda hennar má þó enn greina gömlu flugbrautirnar á túnunum í Vatnsmýri. Þrjár trébrýr (ljós hvít strik) liggja yfir skurði til þess að skapa nægilega brautarlengd og hjá þeim stendur flugskýri. Byggðin á Skildingarnesi (sést aðeisn að hluta) er enn þá óskert en NV/SA-brautin, sem er í byggingu, teygir sig að henni. Við Nauthólsvík er risið braggahverfi. – Landmælingar Íslands

Vinna við gerð vallarins hófst í fyrri hluta október 1940 og var fram haldið næsta vor. Fjöldi Íslendinga vann við flugvallargerðina, auk hermanna. Byrjað var á miðjunni á þeim stað þar sem Íslendingar höfðu byrjað að gera flugvöll. Fyrst var „… grafin burt mold og aur og fyllt síðan upp með grjóti sem sótt var í Öskjuhlíðina. Ofan á þetta var jafnað rauðamöl sem tekin var úr Rauðhólunum austan Reykjavíkur … Síðan var rauðamölin völtuð og ofan á hana kom þykkt lag steinsteypu og ekkert til sparað … Steypt voru breið svæði í beinum línum ýmist norður/suður eða austur/vestur.“
Á meðan á vinnunni stóð gengu einar tíu til tólf steypuhrærivélar á vellinum frá fimm á morgnana til tíu á kvöldin. Unnið var á tvískiptum vöktum fram til 1. september 1941, en þá var vaktavinnu hætt og unnið frá hálf sjö á morgnana til sex á kvöldin. Þá hafði flugvélum og mannvirkjum á vellinum fjölgað og var þá enn hert á eftirliti með vellinum og öllu því sem þar var.

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur 1944.

Flugvöllurinn var formlega opnaður þann 4. júní 1941. Þá var haldin stutt athöfn til að fagna því að flugbraut nr. 1 var tilbúin til notkunar. Öllum verkamönnum og hermönnum á flugvellinum var boðið að vera við athöfnina þar sem Major General H.O. Curtis, yfirforingi breska setuliðsins, hélt stutta tölu. Hann þakkaði íslensku verkamönnunum og gaf þeim eins dags kaup sem viðurkenningu fyrir dugnað og góða samvinnu. Að athöfninni lokinni gengu allir til vinnu sinnar.
Auk flugvallarins reis á stríðsárunum fjöldinn allur af mannvirkjum á svæðinu. Stór hluti þeirra er nú (2019) horfinn en þó má enn finna leifar mannvirkja eins og stjórnbyrgi, skotgrafir, loftvarnarbyrgi, varnarveggi fyrir eldsneytistanka, neðanjarðarvatnstanka, bryggjur, vegi, fjölda gólfa og grunna undan bröggum og öðrum byggingum, akstursbrautir fyrir flugvélar o.s.frv.

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur 1943.

Þá risu á flugvallarsvæðinu um 500 braggar og var braggabyggðin einna þéttust vestan í Öskjuhlíðinni og út með Fossvoginum. Nokkrir braggar standa enn vestan við rætur Öskjuhlíðar og einn við gamla flugturninn. Einnig hefur hluti af flutningsbúðum eða Transit Camp verið endurgerður í Nauthólsvík í nýrri mynd (2018). Á stríðsárunum hýstu búðirnar flugmenn og aðra sem áttu leið um Reykjavíkurflugvöll, en eftir stríð var þar starfrækt flughótel á vegum flugmálastjórnar um margra ára skeið. Þá eru öll stærstu flugskýlin, sem nú standa á Reykjavíkurflugvelli, frá tíma setuliðsins. Nú (2019) hefur nær allt lauslegt frá stríðsárunum verið fjarlægt af rannsóknarsvæðinu eða orðið ryði að bráð. Á það einnig við um gaddavírsgirðingar og sandpokavígi.

Nauthólsvík

Þessi húsvoru upphaflega hluti af stærri herskálaþyrpingu sem reist var af breska flughernum í Nauthólsvík veturinn 1944-1945 til að hýsa “Transit camp” eða gistibúðir flugáhafna og farþega flughersins. Bretar nefndu gistibúðirnar Hótel Winston. Gistirými var í bröggum sem tengdir voru saman með yfirbyggðum gangi en í öðrum húsum voru eldhús, veitingasalur, setustofur o.fl. Eftir að flugmálastjórn tók við rekstri flugvallarins 1946 var rekið þarna flughótel á vegum hennar. 

Íslendingar tóku formlega við Reykjavíkurflugvelli þann 6. júní 1946. Þann dag tók Flugmálastjórn Íslands við rekstri og viðhaldi flugvallarins. Við breytingar á skipulagi Flugmálastjórnar Íslands tóku Flugstoðir ohf. við rekstri og viðhaldi flugvallarins. Árið 2010 sameinuðust Flugstoðir og Keflavíkurflugvöllur ohf. í Isavia sem tók við starfsemi beggja fyrirtækja. Ummerki frá hernámsárunum afmást jafnt og þétt og í dag (2019) eru flugvélastæði, flugskýli, nokkrir braggar og gamli flugturninn við flugvöllinn ásamt minjum í Öskjuhlíð einn helsti vitnisburður um hernámsárin í Reykjavík. Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugs á Íslandi og einn af fjórum alþjóðlegum flugvöllum landsins.”

Heimildir:
-Nauthólsvík og Nauthólsvíkurvegur; Fornleifaskrá og húsakönnun, Reykjavík 2019, bls. 15-21.
-https://is.nat.is/reykjavikurflugvollur/
-https://www.flugsafn.is/is/flugsagan/flug-i-100-ar

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur 1942.

Naauthólsvík

Við Nauthólsvík, vestan við Nauthólsvíkurveg, er minningarsteinn um veru herdeildar 330 norsku flugsveitarinnar sem var stofnuð sem herdeild í Konunglega breska flughernum (Royal Air Force) í Bretlandi í apríl 1941.

Nauthólsvík

Skjöldur á minnismerkinu.

Verkefni herdeildarinnar var að leita að kafbátum og fylgja lestum flutningaskipa yfir hafið. Hún byrjaði með 24 Northrop N-3PB sjóflugvélar sem Noregur hafði haft í pöntun frá því fyrir apríl 1941. Til þess að fylla í skarð þeirra véla sem töpuðust var bætt við Catalina-sjóvélum í staðinn. Alls töpuðust 12 Northrop vélar í stríðinu og með þeim 21 maður.

Bautasteinninn úr grágrýti með áletrunum á báðum hliðum. Á norðurhliðinni er steypt málmplata. Efst er hringlaga merki flugsveitarinnar með nafni hennar: 330 (NORWEGIAN) SQUADRON 330 ROYAL AIR FORCE, kringum víkingaaldarseglskip. Á borða undir stendur: TRYGG HAVET. Texti undir merkinu: REIST TIL MINNE OM DEN NORSKE 330 SKVADRON SOM FRA APRIL 1941 TIL APRIL 1943 OPERERTE FRA REYKJAVIK, AKUREYRI OG BUDAREYRI.

Nauthólsvík

Áletrun á bakhlið minnismerkisins,.

Á suðurhliðina er meitlað í steininn:
LIÐSMENN ÚR 330. FLUGSVEIT ÞAKKA ÍSLENSKU FRÆNDÞJÓÐINNI HJÁLP OG AÐSTOÐ SEM ÞEIM VAR VEITT Á ÍSLANDI. Steinninn stendur á steyptum fleti og í steypuna hefur verði skrifað nafn og ártalið 1943.

Á vefsíðu Landhelgisgæslunnar má lesa eftirfarandi um nefnda herdeild:
“Upprunaleg herdeild 330 var norsk og var stofnuð sem herdeild í Konunglega breska flughernum (Royal Air Force) í Bretlandi í apríl 1941 . Deildin byrjaði að starfa á Íslandi í september sama ár og var Njörður Snæhólm einn af stofnendum hennar. Herdeildin starfaði á Íslandi frá Reykjavík, Reyðarfirði og Akureyri.

Nauthólsvík

Nauthólsvík – minnismerkið.

Verkefni herdeildarinnar var að leita að kafbátum og fylgja lestum flutningaskipa yfir hafið. Hún byrjaði með 24 Northrop N-3PB sjóflugvélar sem Noregur hafði haft í pöntun frá því fyrir apríl 1941. Til þess að fylla í skarð þeirra véla sem töpuðust var bætt við Catalína sjóvélum í staðin. Alls töpuðust 12 Northrop vélar í stríðinu og með þeim 21 manns.

Nauthólsvík

Northrop N-3PB til sýnis í Reykjavík, mynd: Jón Kr. Friðgeirsson.

Meðfylgjandi mynd var tekin er Northrop N-3PB sem var til sýnis í Reykjavík eftir af hafa verið gerð upp í Bandaríkjunum. Vélin var hluti af norsku flugsveitinni. Hún nauðlenti á Þjórsá 21. apríl 1943, á leið frá Búðareyri til Reykjavíkur. Í lendingunni skemmdist vélin og sökk, en áhöfn hennar, 2 menn, björguðust í land. Í nóvember 1979 var flak hennar tekið úr ánni og 10. nóvember 1980 lauk viðgerð á henni. Þessi flugvél er eina heila eintakið af þessari tegundar í heiminum og er nú til sýnis í Osló í Noregi. Á leið hennar þangað var hún sýnd í Reykjavík.

Nauthólsvík

Vél 330 herdeildarinnar á hafsbotni utan Nauthólsvíkur.

Árið 1943 flutti herdeildin til Oban í Skotlandi og síðar sama ár til Hjaltlandseyja þar sem deildin notaði 13 Short Sunderland sjóvélar. Herdeildin var endurvakin í konunglega norska hernum (RnoAF) eftir seinni heimstyrjöldina og hélt þá sínu upprunalega herdeildarnúmeri frá RAF (Royal Air Force) eða 330. Síðan árið 1973 var hún aftur endurvakin, aðalega með Sea King þyrlum og hennar meginhlutverk er leit og björgun (SAR). Deildin notar 8 Sea King þyrlur og eru aðalstarfsstöðvar deildarinnar í Bodo, Banak, Örland og Stavanger-Sola.

Árið 2002 fannst svo, við sjómælingar á vegum sjómælingasviðs Landhelgisgæslunnar, ein véla 330 herdeildarinnar á hafsbotni. Á mynd af fjölgeislamælingunni má greinilega sjá lögun vélarinnar.”

Heimildir:
-Nauthólsvík og Nauthólsvíkurvegur; Fornleifaskrá og húsakönnun, Reykjavík 2019, bls. 57.
-https://www.lhg.is/frettir-og-fjolmidlar/frettasafn/frettayfirlit/nr/1049

Nauthólsvík - minnismerkið.

Nauthólsvík – minnismerkið.

Nauthóll
Bærinn Nauthóll var reistur um árið 1850. Hann var eitt margra nýbýla, sem risu í nágrenni Reykjavíkur á þessum tíma og einn af sex bæja er byggðust út frá Skildinganesi. Hann var því hjáleiga frá Skildinganesbænum og stóð við fjölfarinn vegaslóða. Taugaveiki kom upp á bænum í kringum aldamótin 1900 og var hann þá brenndur. Tóftirnar sjást enn auk garða og fleiri mannvirkja er tilheyrðu.
Nauthóll

Nauthóll.

“Nauthóllinn, sem bærinn dró nafn sitt af, stendur enn óhreyfður þrátt fyrir að setuliðið hafi flatt flest út á þessum slóðum á stríðsárunum. Bærinn, umgirtur garði, stóð austan við hólinn.
Gamli bærinn á Skildinganesi var rifinn á árunum 1869-1870 og byggður nýr bær. Bærinn var byggður úr grjóti og torfi. Tvíbýlt var á Nesinu og stutt bil milli bæjanna. Á göflunum voru tveir gluggar en báðir bæirnir voru eins. Sex rúðu gluggi niðri en fjögurra rúðu gluggi uppi. Það var ekki hátt til lofts í nýja bænum. Niðri var varla manngengt og urðu stórir menn að ganga hálfbognir eftir göngunum.

Nauthóll

Nauthóll á korti frá 1903.

Á nesinu voru þrjár aðalvarir, austurvör, miðvör og vesturvör. Hafa bæirnir verið byggðir 140-150 faðma upp af vörunum. Í Austurvörinni lenti bóndinn í Austurbænum og vesturvörin var fyrir bóndann í Vesturbænum en miðvörin var fyrir kotin.
Á milli bæjanna var ekki nema tveggja faðma bil eða traðir og þessar traðir lágu áfram norður túnið að túngarðinum, en traðirnar voru hlaðnar upp til beggja handa til varnar túninu. Útihús voru nokkur.

Nauthóll

Nauthóll – matjurtargarður.

Auk aðalbýlanna á nesinu voru þar sex kot. Í túninu stóðu þessi kot. Margrétarkot, Harðarkot og Austurkot. Þetta voru smábýli og fylgdi hverju þeirra eitt kýrgras, nema Harðarkoti.
Margrétarkot var vestast í túninu og bjuggu Árni og Valgerður foreldrar Árna læknis á Akranesi þar.
Fjórða kotið var Nauthóll sem stóð austarlega á landinu, næstum því austur undir Öskjuhlíð, sem fyr var nefnt.
Fimmta kotið var Þormóðsstaðir. Sjötta býlið var Lambhóll sem stóð fast við landamerki Skildinganess og Grímstaðaholts niður við sjó.

Nauthóll

Minjar í bæjarstæði Nauthóls.

Árið 2006 vann Minjasafn Reykjavíkur fornleifaskráningu væntanlegrar lóðar Háskóla Reykjavíkur vestan Öskjuhlíðar að beiðni skipulagsfulltrúa Reykjavíkur vegna deiliskipulagsvinnu. Í henni er m.a. fjallað um jörðina Nauthól ofan Nauthólsvíkur.
“Nauthóll er ein af sex hjáleigum Skildinganess, og var hann kominn í byggð um 1850. Bærinn stóð skammt norður af samnefndri vík. Hann var við vegarslóða sem fyrrum var allfjölfarinn og lá hann með sjónum frá Fossvogsdal yfir í Skildinganes. Um síðustu aldamót mun taugaveiki hafa stungið sér niður í Nauthóli og var hann þá brenndur að ráði Guðmundar Björnssonar landlæknis. Síðan hefur ekki verið búið þar.

Nauthóll

Nauthóll – útihús.

Ýmsar minjar eftir Nauthól hafa varðveist, bæði húsarústir, garðar og brunnar. Tvö kort eru til sem sýna hvernig Nauthóll var í stórum dráttum. Annað kortið er frá árinu 1903, hitt er frá 1933. Með hjálp þeirra er hægt að glöggva sig á rústunum. Hóllinn, Nauthóll, er einnig á sínum stað, þrátt fyrir tilhneigingu setuliðsins á árunum 1940-1945 til að slétta land á þessum slóðum. Kortinn sýna nánast það sama en síðari mælingin er nokkuð nákvæmari, bærinn er þá löngu farinn í eyði.” Mógrafirnar voru fyrir norðan og norðvestan bæinn, nú jafnan fullar af vatni.

Nauthóll

Nauthóll  og nágrenni 1903.

Um bæjarhúsin í Nauthóli greinir Sigurður í Görðum svo frá í æviminningum sínum, en hann ólst upp í Skildinganesi. “Á Nauthóli var tvíbýli. Bæjarhúsin voru byggð hvort sínu megin við allmikið bjarg og myndaði bjargið sameiginlegan gafl húsanna. Á stríðsárunum, 1940-1945, setti setuliðið upp mastur með steyptri undirstöðu þar sem aðalbæjarhúsin höfðu staðið, svo að nær ekkert er eftir af tóftum þeirra.” Bjargið sem Sigurður í Görðum minntist á enn á sínum stað.
“Á bæjarhólnum voru nokkur útihús og matjurtagarðar. Greinilegt er að rústunum hefur aðeins verið breytt, frá því að þær voru mældar upp 1933, og má trúlega rekja það til hersetunnar á svæðinu.”

Nauthóll

Nauthóll -Bæjarstæðið árið 1933.

Í fornleifaskráningunni er auk þessa staðháttum lýstþars em m.a. er vitnað í Sigurð í Görðum: „Fjórða kotið á nesinu var Nauthóll. Hann stóð austarlega á landi Skildinganess, næstum því austur undir Öskjuhlíð. Kotið var byggt við hól nokkurn og mun hafa dregið nafn sitt af honum, hóllinn stóð vestur af bænum, en dálítill túnblettur var á milli.“
Jafnframt kemur fram að “…Nauthóll var austasti bærinn í Skildinganeslandi. Uppmæling á bæjarhúsunum er til á kortum frá 1903 og 1933. Bæjarhúsin eru syðst við Hlíðarfót að vestan, ekki langt frá bröggum sem eru á vegum Flugmálastjórnar, svæðið er grasi gróið og þýft og er búið að gróðursetja í hluta af svæðinu.

Nauthóll

Nauthóll – bæjarstæðið fyrrum.

Bæjarhúsin voru 11 x 8 m skv. korti síðan 1933. Veggir voru úr torfi og grjóti, um 1,0 – 1,2 m á breidd og 0,5 – 0,7 m á hæð. Húsið hefur verið með tvær burstir. Hólfin eru nú illgreinanleg.”
Þótt hvorki býlið né búskapur að Nauthóli geti varla talist sérstakrar frásagnar virði umfram önnur kot á svæðinu hefur Minjasafn Reykjavíkur unnið sína vinnu af samviskusemi enda runnið blóðið til skyldunnar þegar boð kom frá skipulagsfulltrúanum að skrá skyldi alla byggðina. Skýrslan um svæðið hefur að öllum líkindum kostað meira en sem samsvaraði kotinu á sínum tíma. Eftir stendur vitundin um minjarnar, sem væntanlega munu hverfa sjónum fólks innan skamms undir byggingar Háskóla Reykjavíkur.

Nauthóll

Nauthóll.

Reykjavíkurbærinn átti land að Skildinganesi. Margar minjarnar vestan Öskjuhlíðar tilheyrðu honum. Á mörkunum er Öskjuhlíðarselið, sem stundum hefur ranglega verið nefnt Reykjavíkursel eða Víkursel. Sú selstaða mun hafa verið við Selvatn þar sem Urðarlágarlækur rennur í vatnið. Sunnan við það voru Litlasel og Stórasel. Víkurselið er nú að mestu horfið í mýri, en þó má enn sjá hvar það var.
Skammt frá Öskjuhlíðarseli eru ýmsar minjar, s.s. fjárborg og stekkur.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Þótt selsheitið hafi í seinni tíð verið á aðstöðunni þarna undir hlíðinni er ekki fullvíst að hún hafi verið nýtt sem slík. Tóftirnar, sem nú hafa illu heilli verið lagðar undir trjárækt, gætu alveg eins gefið vísbendingu um fráfærur frá Skildinganesbæjunum, sem stóðu þeim næst.
Nauthólsvíkin og Nauthóll munu hins vegar standa vörð um Nauhólsbæjarnafnið enn um sinn þótt eggið hafi auðvitað komið á eftir hænunni. Víkin og bærinn drógu nöfn af hólnum. Þess vegna er hóllinn þar sem naut (þarfanaut til viðhalds lífi) komu fyrrum við sögu, og enn stendur, merkilegastur. Vonandi verður honum hlíft við væntanlegar framkvæmdir á svæðinu.”

Enn í dag (2024) má sjá leifar Nauthóls, s.s. úihúss, matjurtargarða og veggjarbrota, auk hólsins, þrátt fyrir að bænum hafi verið rutt um koll á síðari hluta fjórðaáratugs síðustu aldar.

Heimildir m.a.:
-http://reykjavikurborg.is/Portaldata/1/Resources/skipbygg/
skipulagsm_ /mal_kynningu/adalskipulag_2006/Vatnsmyri_vidauki3.pdf
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_nautholsvik.htm
-http://skildinganes.homestead.com/bok.html

Nauthólssvæðið

Stóri-Hólmur

Farið var að Stóra-Hólmi þar sem Guðmundur og Bjarni Kjartanssynir tóku á móti hópnum. Veður var í einu orði sagt stórkostlegt – sól og blíða – þrátt fyrir vonda spá. Enda höfðu bræðurnir orð á því að þeir myndu ekki eftir annarri eins blíðu og höfðu þeir þó báðir alið þar allan sinn aldur.

Stori-Holmur-201Þeir bræður byrjuðu að draga úr úr bíl sínum tveggja metra langa loftmynd af svæðinu þar sem á voru letruð öll nöfn staða og bæja með ströndinni. Farið var yfir kortið og þeir gengu síðan með hópnum um svæðið og bentu á hitt og þetta. M.a. var gengið um gamla garðlagið, skoðuð var gamla lindin undir klettunum (þar sem áður var Steinkot), skoðað gamla barnaskólahúsið og litið á hlöðnu brunnana, bæði við Hólm og eins niður undan Leiru, en þar er mjög fallega hlaðinn brunnur suð-austast á golfvellinum.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – SG.

Annars er merkilegt hvað golfararnir hafa getað eyðilagt mikið af minjum á svæðinu – menn sem segjast vilja varðveita og viðhalda minjum á landi sínu. Þeim er reyndar vorkunn því lítill áhugi virðist hafa verið að varðveita gamlar minjar á svæðinu næst Keflavík. Norðan við húsið á Stóra-Hólmi er bátslaga ósleginn blettur með hleðslum í kring. Þar sögðu bræðurnir að væru sagnir um heigðan fornmann og hefði aldrei mátt hrófla við blettinum. Hann hefði lengst af verið girtur af, en er nú aðgengilegur. Í hólnum voru greinilegar hleðslur.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Við Bæjarskersréttina hitti hópurinn fyrir Reyni Sveinsson (Fræðasetrinu) og Péturs Bryngarðsson, sagnfræðing í Sandgerði. Pétur benti á Bæjarskersréttina og leiddi hópinn að Bæjarskersleiðinni og gekk með henni fyrsta áfangann upp að Stekknum. Þar er álfaborg og Álfaklettur.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur – SG.

Norðaustan í klettunum eru nokkrar tóttir og bera þau öll merki selja. Pétur hélt að þarna hefði fyrrum verið sel frá Býskerjum. Þarna fyrir ofan blasir Álaborgin syðri (rétt) við og er hún mjög heilleg. Pétur sagði að elsta réttin á svæðinu, svo vitað sé, hafi verið Álaborgin nyrðri ofan við Flankastaði, síðan hafi Álaborg syðri verið byggð ofan við Bæjarsker, en hún hafði síðan verið flutt í réttina, sem við komið var fyrst að. Austan við réttina (borgina) eru þrjár tóttir, mis gamlar. Um er að ræða hús, nokkurn vegin jafnstór. Þau gætu vel hafa verið frá sama tíma og borgin upphaflega.

Leiran

Leiran – örnefni; ÓSÁ.

Þá var leiðin elt að Vegamótahól þar sem mætast Bæjarskersleið og Sandgerðisleið.

Sandgerðisleiðin er greinileg í áttina að gamla Sáðgerði (Sandgerði). Þaðan var gengið að Digruvörðu, sem var mið úr Sandgerðissundinu í Keili. Norðan vörðunnar fannst Sjónarhól og neðan hennar er Árnakötluhóll. Á milli þessara hóla átti Dauðsmannsvarðan neðri að vera. Dauðsmannsvarðan efri er ofan við Norðurkot, fast við varnargirðinguna, við gömlu leiðina niður að Hvalsnesi.

Sandgerðisgata

Sandgerðisgata.

Leitað var og fundin var gömul varða á einum hólanna austan Sandgerðisleiðar. Skömmu síðar fannst önnur gömlu varða vestan leiðarinnar. Hún er mjög álitlegur staður – skammt utan við götuna. Þriðja varðan er á hól sunnan við Árnakötluhól. Nú er vitað hvaða svæði leturhellan (sem getið er um í gömlum heimildum) gæti verið á. Þetta er tiltölulega lítið svæði og ætti að vera auðvelt að leita skipulega á því. Mosinn var hins vegar frosinn nú svo frekari leit varð að bíða.
Þá var gengið yfir móann niður að Bæjarskersrétt. Loks var litið á fornmannaletursteininn í Garði og var reynt að finna út hvers konar letur var á honum miðjum. Erfitt að segja til um það, en virðast vera rúnir. Þegar reynt var að taka mynd af letrinu festist myndavélin svo hún vildi ekki smella af. Þegar hins vegar var komið aftur að Leiru virtist allt vera í lagi. Svona getur þetta verið.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Guðmundur Kjartansson f. 1. nóv. 1937 og Bjarni Kjartansson f. 17. apríl 1939 (Tjarnargötu 27, Reykjanesbæ, sími: 421 1570).

Leiran

Leiran – örnefnamynd Guðmundar og Bjarna.

 

Álfasteinn

Austan við Hótel Loftleiðir (Hótel Reykjavík Natura) í Vatnsmýrinni er skilti, sem á stendur eftirfarandi:

Álfasteinn

Álfasteinn – skilti.

“Tilvist Álfasteinsins má rekja til árdaga Icelanair Hótels Reykjavík Natura, sem þá hét Hótel Loftleiðir. Sagan segir að þegar reynt var að hrófla við álfasteininum á sínum tíma var snarlega hætt við vegna vandræða sem upp komu í kjölfarið. Alþekkt er að álfar og huldufólk gefi ekki eftir heimkynni sín mótþróalaust og hefur mannfólikið ítrekað þurft að láta í minni pokann fyrir þeim. Mælt er með því að þeir sem vilja heimsækja álfana færi gestgjafanum blóm sem tákn um vináttu, setjist á steininn og klappi honum, ef vel liggur á þeim gætu þið átt ánægjulegt samtal.”

Árið 1962 ákváðu Loftleiðir að reisa byggingu fyrir aðalskrifstofur félagsins og fengu til þess lóð við Reykjavíkurflugvöll. Jafnframt var ákveðið að reisa þar flugstöð.
Flutt var inn í skrifstofurnar fyrri hluta sumars 1964. Þá var búið að steypa undirstöður og kjallara fyrir nýju flugstöðina.

Álfasteinn

Álfasteinninn.

Byggingarframkvæmdir hótelsins hófust um miðjan janúar 1965. Fyrstu gestir Hótels Loftleiða komu 29. apríl 1966 en það voru hjónin Marie Louise og Björn
Stenstrup. Björn að aðalumboðsmaður Loftleiða í Svíþjóð. Þann 30. apríl buðu Loftleiðir 800-900 gestum til opnunarhátíðar í nýja hótelinu.
Hinn 11. apríl 1970 hófust svo framkvæmdir við hina nýju álmu, eftir að samningar höfðu verið undirritaðir milli Loftleiða og verktakanna. Fyrstu gestirnir í nýju álmunni gistu þar 1. maí ári seinna.
Allt frá árinu 1971 hafa stöðugar breytingar og endurbætur átt sér stað á hótelinu. Þeim stærstu og umfangsmestu ásamt nafnbreytingu lauk árið 2011. Byggingar af þessu tagi þurfa sífellt að endurnýja sig til þess að fylgja gangi tímans og tískunni. Hótel Reykjavík Natura, eins og hótelið heitir nú, er eitt af glæsilegustu hótelum landsins.

Heimild m.a.:
-E. Aspelund.

Álfasteinn

Álfasteinninn við Hótel Reykjavík Natura.

Öskjuhlíð

Í “Byggðakönnun; fornleifaskrá og húsakönnun fyrir Vatnsmýri – Seljamýri – Öskjuhlíð” frá árinu 2013 má lesa eftirfarandi um Víkursel:

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð – á kafi í gróðri.

“Vestan í Öskjuhlíðinni er merkilegur staður sem nefnist Víkursel. Nafngiftin bendir til seljabúsakapar þar. Helgi M. Sigurðsson sagnfræðingur rannsakaði sögu selsins og ritaði eftirfarandi:
Elsta ritaða heimild um seljabúskap Reykjavíkurbænda er eignaskrá, öðru nafni máldagi, frá 1379. Er selið þar sagt vera í Víkurholti, sem gæti verið eldra nafn á Öskjuhlíð en einnig eru getgátur um að það hafið verið Skólavörðuholt. Staðsetning selsins framan af er þannig óljós. Selin gætu raunar hafa verið fleiri en eitt og vísast hafa þau verið flutt til í aldanna rás.

Í máldögum frá 1397 og 1505 er ekki getið um selið. Ekki er þó ástæða til að álykta að seljabúskapur hafi legið niðri á því tímabili, því máldagarnir er mjög fáorðir um búskaparefni.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Víkursel kom við sögu atburða sem gerðust nálægt aldamótum 1600 og vörðuðu tildrög hjúskapar. Séra Gísli Einarsson, hálfbróðir Odds biskups, „fékk lítilmótlega giftingu, átti mörg börn, en erfitt bú og hjónaband.“ Kona hans var Þórey Narfadóttir bónda í Reykjavík. Frá því er greint að Gísli, þá óvígður, hafi átt leið um Mosfellsheiði og náttað í Víkurseli. Var Þórey í selinu en smalamaður fór heim um nóttina og tilkynnti Narfa bónda mannkomuna. Hann brá við skjótt og var kominn snemma næsta morgun til selsins að óvörum komumanni, gekk hart fram og neyddi Gísla til að taka Þóreyju að sér og ekta hana. Klemens Jónsson, skrásetjari Reykjavíkursögu 1929, dró þá ályktun af frásögn þessari að selið hafi verið undir Mosfellsheiði. En hann hefur í raun ekki á miklu að byggja í því efni.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Elsta heimildin sem með vissu greinir frá því að Víkursel hafi verið í Öskjuhlíð er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Selsins er getið á eftirfarandi hátt: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ Undirhlíðar voru Öskjuhlíð sunnan- og vestanverð. Athyglisvert er að hér er talað um „gamla Víkursel.“ Það styður þá ályktun að löng hefð hafi verið fyrir selinu á þessum stað.

Víkursel

Víkursel – stekkur.

Skýrasta lýsingin á staðsetningu Víkursels er frá upphafi 19. aldar, um það leyti sem það var lagt niður. Kona að nafni Elín Þórðardóttir, Sighvatssonar í Hlíðarhúsum, var síðasta selráðskonan í Víkurseli. Árið 1828 var hún beðin að gefa vitnisburð um landamerki milli Reykjavíkur og Skildinganess og sagði þá meðal annars: „Sel hafði faðir minn og allir hans forfeður vestan og sunnan undir Öskjuhlíð…“ Þessi vitnisburður færir okkur talsvert áleiðis.

Víkursel

Víkursel.

Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur skráði í fornleifaskrá Reykjavíkur Víkursel, en hann taldi fornleifarnar vera ógreinilegar og ekki hægt með vissu að skera úr um hvort um sel væri að ræða. En það sem styrkir þá tilgátu að þetta sé Víkursel eru umhverfisaðstæður, það er að segja lækurinn og beitilandið sem hefur verið gott þarna í kring, auk þess sem stekkur er ekki fjarri. Í dag (2013) er selið hulið barrtrjám sem þarf að fjarlægja.”

Sjá meira um Víkusel HÉR.

Heimild:
-Vatnsmýri – Seljamýri – Öskjuhlíð; Byggðakönnun, Fornleifaskrá og húsakönnun – Reykjavík 2013, bls. 6-7.

Víkursel

Víkursel – fjárborg.

Stapagata

Stapagata er gömul gata er liggur ofan við Stapann milli Voga og Innri-Njarðvíkur. Gatan er vel greinileg og gaman að ganga hana. Á leiðinni er m.a. Grímshóll þar sem gerðist sagan af vermanninum og huldumanninum í hólnum.

Reiðskarð

Reiðskarð.

Eftirfarandi saga segir af Jóni Jónssyni frá Landakoti á Vatnsleysuströnd og Þorbjörgu Ásbjarnardóttur úr Innri-Njarðvík er þau voru að draga sig saman. Fóru þau oft fundaferðir hvort til annars. Eitt sinn, í síðari hluta ágústmánaðar, skrapp Þorbjörg að Landkoti. Tekið var að bregða birtu þegar hún kom að Vogastapa á heimleið. Þar er farið upp Stapann um svokallað Reiðskarð. Var það alltaf farið, áður en akvegurinn var lagður nokkru austar í Stapanum. Skarðið var mjög bratt og sendið, og teymdu vegfarendur oft reiðhesta sína upp úr því og niður úr.
Þegar Þorbjörg var að leggja á skarðið, verður henni það fyrir að óska sér, að hún hefði nú samfylgd yfir Stapann. Það er rösk fimm kílómetra leið og þótti óhreint í skuggsýnu, og nú var farið að skyggja.
Rétt í þessu verður Þorbjörgu litið upp eftir skarðinu. Sér hún þá, hvar þrjár verur er að þokast upp eftir, 50 til 60 metra fyrir framan hana.

Stapagata

Stapagata ofan Reiðskarðs.

Fremst gengur kona, á eftir henni kýr, sem konan teymir, og á eftir kúnni labbar hundur. Konan er klædd eins og þá tíðkaðist um sveitakonur, hafi til dæmdis hyrnu á herðum. Kýrin var kjöldótt og hundurinn flekkóttur. Fannst Þorbjörgu ekkert óeðllegt við þetta. Hún kallar til konunnar: “Kona, eigum við ekki að verða samferða?” En konan lét sem hún heyrði ekki. Þorbjörg kallar aftur: “Kona, eigum við ekki að verða samferða yfir Stapann?”. En það fer sem fyrr, konan ansar ekki. Þegar hún er komin upp á skarðsbrúnina kallar Þorbjörg til hennar ennþá einu sinni. Þá lítur konan við og glottir til hennar. Í þeim svifum hverfur hún fyrir brúnina með kúna og hundinn.

Stapagata

Stapavegur.

Þegar upp úr skarðinu kom, gerðist gatan mjög niðurgrafin, svo að götubrúnirnar tóku meðalmanni í öxl. Þar var og mikil bugða á henni. Ekkert sá Þorbjörg til konunnar, þegar hún kom upp á skarðsbrúnina. Gerir húnsér þá í hugarlund, að hún sé niðri í götuskorningnum hinum megin við bugðuna, því henni datt ekki enn í hug, að þetta væri allt með felldu.
Hún steig nú á bak hestinum og hyggst ná konunni handan við bugðuna. En þegar þangað er komið, sér hún enga lifandi veru. Dettur henni þá í hug að konan hafi vikið út af götunni og haldið niður að bæ, sem hét Brekka og stóð norðvestan undir Stapanum.

Stapagata

Stapagata.

Snýr Þorbjörg hestinum á leið þangað og að stíg, sem lá niður að Brekku og kallaður var Kvennagönguskarð. En þar var ekkert kvikt að sjá.

Þá fyrst rann það upp fyrir henni, að þessar verur gátu ekki verið af okkar heimi, enda lá það nú í augum uppi, að ef konan hefði verið mennsk, myndi hún hafa gengið götuna, sem lá undir Stapanum heim að Brekku, því það er venjuleg leið, í stað þess að taka á sig krók upp í Stapann og klöngrast þaðan ógreiðari veg niður að bænum.
Setti beyg að Þorbjörgu, sló hún í hestinn og reið í einum spretti heim í Innri Njarðvík.
Reykjanesið er sagnakennt umhverfi.

(Ritað eftir frásögn Ásbjörns Ó. Jónssonar 1961).

Stapagata

Gengið um Stapagötu.