Gengið var upp Hellisskarð frá Kolviðarhóli, framhjá Búasteini og eftir gömlu þjóðleiðinni um Hellisheiði. Hellukofinn var skoðaður á heiðinni og þar sem gamla gatan fer undir Suðurlandsveg var haldið út af henni til suðurs og inn á gamla Suðurlandsveginn. Honum var fylgt langleiðina að Kömbum, inn á Skógarveginn er liggur þar sunnan við Urðarás, með Núpafjalli og áleiðis niður að Þurá undir Hnúkum. Veginum var fylgt að Urðarásartjörnum (sumir segja Hurðarásavötnum). Þar var beygt út af honum til vesturs, skoðaðar rústir og síðan haldið áfram vestur með norðurrótum Skálafells. Gengið var með Hverahlíð að Lakahnúkum, um Hveradali og með Reykjafelli að upphafsstað.
Garður við Kolviðarhól.
Ætlunin var m.a. að leita að hugsanlegum helli á heiðinni er hún kynni að draga nafn sitt af. Jón Jónsson, jarðfræðingur telur sennilegt að stór hellir hafi verið á Hellisheiði, en hraun runnið fyrir opið og lokað því. Orustuhólshraun rann af heiðinni niður með Skálafelli, niður Vatnsskarð og myndaði m.a. svonefnt Þurárhraun. Hellirinn ætti, að hans mati, að hafa verið á sunnanverðri heiðinni, sunnan núverandi Suðurlandsvegar. Þekkt er að hellar, sem lokast hafa, hafi opnast að nýju. Ætlunin var m.a. að gaumgæfa svæðið m.t.t. þessa.
Hellisskað er á vestanverðri Hellisheiði, kallað Öxnaskarð að fornu, nálægt Kolviðarhól. Í Árbók Ferðafélags Íslands árið 2003 segir m.a.: Í Árnesþingi vestanverðu, eftir Þór Vigfússon, er fjallað um nafnið Hellisheiði með eftirfarandi orðum: „Ekki er vitað hví Hellisheiði heitir svo, enginn er hér hellirinn.“ Ennfremur segir í skýringargrein:
„Sigmundur Einarsson jarðfræðingur hefir getið sér þess til að Hellisheiði dragi nafn af Raufarhólshelli, en um Þrengsli og fram hjá hellinum kunni að hafa legið ein fjölfarnasta leiðin austur yfir fjall á fyrstu öld byggðar í landinu.
Gosið úr Eldborgum við Lambafell um árið 1000 teppti Þrengslin með Svínahraunsbruna og menn hafi því þurft að velja sér leiðir á nýjum forsendum. Við það kunni örnefnið Hellisheiði að hafa flust um set, norður á bóginn.“
Kolviðarhóll 2010.
Þessi skýring er alls ekki fráleit. Hugsanlegt er einnig að annar hellir hafi verið áður þar sem nú er Hellisheiði og Kristnitökuhraunið hafi runnið yfir hann*.
Sumir hafa talið að nafnið sé dregið af örnefninu Hellur, sem er austur af Stóra-Meitli þar sem miklar sléttar hellur eru og því dregið af kvenkynsorðinu ‘hella’. Nafn heiðarinnar hefði þá átt að vera ‘Helluheiði’ eða ‘Hellnaheiði’ en síðan breyst í Hellisheiði.“
Nú er breytt mynd á heiðinni; stórvirkjunarframkvæmdir í gangi með tilheyrandi mannvirkja- og vegagerð og háspennumastur liggja þvers og kurs um svæðið. Er þetta sýnin, sem vænta má á Brennisteinsfjalla- og Trölladyngjusvæðinu, einum fallegustu náttúruperlum landsins??? Getur verið að fólk með umhyggju fyrir náttúru og umhverfi hafi verið of upptekið af hálendinu, en gleymt því sem stendur því nær??? Virkjanir eru nauðsynlegar í nútíð og framtíð, en varla er til of mikils mælst að við þær verði jafnan gætt eins mikillar tillittsemi við landið og nokkurs er kostur. Fallegt virkjunarmannvirki í „ósnortinni“ náttúru þarf ekki að vera svo afleitt, en fylgimöstrin eru og verða hryllileg. Mun ein slík koma frá Reykjanesvirkjun á næstunni – langsum eftir Reykjanesskaganum. Þótt Reykjanesskaginn hafi hingað til verið eitt vanmetnasta útivistarsvæði landsins er ekki þar með sagt að hver sem er megi „vaða yfir það á skítugum skónum“.
Varða efst í Hellisskarði.
Hellisheiðasvæðið er verðmæti, hvort sem litið er til jarðhitans eða mögulegrar ferðamennsku, sem er einn hraðvaxnasta atvinnugrein hér á landi og gefur af sér meiri gjaldeyristekjur en flestar aðrar, að undanskildum fiskvinnslu og stóriðju.
Ljóst er að aðstandendur Hellisheiðarvirkjunarinnar ætla sér að vanda sig og raska ekki meiru en nauðsynlegt er. Hins vegar virðist vera óþarfi að krukka í fleiri gíga til efnisöflunar þegar hægt er að komast að því að eyðileggja einungis fáa.
Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er nafnið skrifað Hellirsheiði sem bendir til þess að orðið hellir sé þar að baki, en ekki hellur þær sem nefndar eru í lýsingunni. Samt er það svo að ruglingur getur verið í örnefnum hvort um er að ræða hellu eða helli.
Niðurstaðan er sú að langlíklegast er að orðið hellir sé í örnefninu Hellisheiði en álitamál hvort það er Raufarhólshellir eða einhver annar hellir sem nú er týndur.
Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið, sem kölluð hefur verið Gamli vegurinn, lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag.
Hellisskarð – gata.
Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann. Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Hann er borghlaðinn, 1,85 m á hvern veg og 2 m á hæð. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn.
Gangan hófst neðan við Kolviðarhól. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Vestan og norðan við bæjarstæðið eru sléttar grasi grónar grundir að Húsmúla og Svínahrauni, en að austan er mosagróið hraun. Almenn sögn segir, að í Kolviðarhól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.
Gemgið um Hellisskarð.
Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. „[Vorið 1883] sezt líka að á Kolviðarhóli Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum.“ Bærinn hefur staðið framan í hólnum, suðvestantil.
Nýtt hús á Kolviðarhóli var fullgjört 1878. Húsinu er lýst þannig: Tvö herbergi niðri og annað með ofni, ennfremur eldhús með suðuvél. Uppi tvö herbergi, annað til geymslu, en hitt fyrir ferðamenn.“ Ekki er vitað hvar þetta hús stóð m.v. fyrra sæluhúsið frá 1844, en þegar búskapur hófst á Kolviðarhóli 1883 var búið í þessu húsi og stóð það lengi eftir. Þorvaldur Thoroddsen lýsir húsinu í Ferðabók sinni og frétt birtist um bygginguna í Þjóðólfi 1878: „Sæluhúsið á Kolviðarhóli, sem að mestu var fullgjört í fyrra haust, hefir nú fengið þá aðgjörð, sem þurfa þótti, hefir það verið notað í sumar og fólk haft þar byggð. Húsið er 10-11 álnir á breidd og lengd með samsvarandi hæð, úr límdum steini byggt og allsterkt, í því er og skorsteinn og herbergi til íbúðar, en meiri hluti hússins er ætlaður ferðamönnum. . .. Hið eldra sæluhús er notað fyrir hesthús …“
Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.
Kolviðarhóll – bæjarhóllinn 2008.
Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Steinarnir eru allstórir, margir um 60x30x30 sm. Sumstaðar er steypt á þessar hleðslur. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Sunnan við hólinn er lítill heimagrafreitur með steyptum veggjum. Hleðslugrjót og steypuleifar eru á nokkrum stöðum á og utan í hólnum, einkanlega norðantil en ekkert af því svo mikið að talist geti húsaleifar. Upphlaðinn vegur, sennilega frá því snemma á öldinni – mögulega gerður með handverkfærum – liggur upp á hólinn að norðan úr vestri.
Hellisheiði – forna leiðin um helluna.
Guðni Þorgergsson fór að búa á Kolviðarhóli 1895. Stækkaði hann túniðs. Grjóthlaðinn garður er um túnið á Kolviðarhóli, alls 753 m langur með hliði á norðurhlið sem veit að Hellisskarði.
Garðurinn er sennilega hlaðinn í tveimur áföngum, annarsvegar er U-laga garður, mjög jafn og fallega hlaðinn suðvestan við bæjarhólinn á sléttri grundinni og er þar gróið upp á garðinn að innan og horn fagurlega sveigð, og gæti þetta verið sá hlutinn sem Jón hlóð. Hinn áfanginn hefur hafist í brekkurótunum beint suður af bæjarstæðinu og liggur svo upp á hjallann og svo norður fyrir hólinn við rætur hans og er hvasst horn að norðaustan, og gæti þetta verið tilkomið seinna og verið stækkun Guðna en ekki er þó óhugsandi að þessu hafi verið öfugt farið.
Kolviðarhóll 1907.
Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum.
Neðan við Kolviðarhól, „á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur Sælhús (ei langt frá veginum) svo kallað, hvort allt þessa tíma Ölves innbyggjarar hafa upp haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli.“, segir í lýsingu af því 1793.
Draugatjörn – sæluhúsið.
„Skömmu áður en komið er að fjallinu, sést lítill kofi, hlaðinn úr hraungrjóti, en hefur verið með torfþaki. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans. Árið 1845 var kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól.“
Kolviðarhóll 1939.
Sæluhúsið á Kolviðarhóli var að öllu leyti tréhús, en stóð í álnar hárri grjóttóft til beggja hliða og fyrir apturgafli. Það var því „nær 9 álna langt og 4 álna breitt, í þremur stafgólfum og portbyggt; þak, gaflar og hliðar tvöfalt niður fyrir bita; lopt er í öllu húsinu og hurð fyrir og stigi til uppgaungu; glergluggar uppi og niðri og járnrimlar fyrir rúðum niðri; gólfið af tvílögðu hellugrjóti. Á framgafli er hurð, sem gengur út og verður ekki tekin af hjörum, með loku fyrir sem skjóta má frá og fyrir bæði að innan og utan. Í húsi þessu hafa verið í einu 24 menn á loptinu en 16 hestar niðri.“ Ekki er vitað hvar á hólnum þetta hús stóð þó líklegt megi telja að það hafi verið á sama stað og bærinn seinna.
Reykjafellsrétt í Dauðadal.
Um 200 m norðvestan við Kolviðarhól, um 30 m vestan við veginn inn í Sleggjubeinsdali er stór grjóthlaðin tóft. Veggirnir eru grjóthlaðnir í gegn, mest 7 umför en mold eða torfi hefur verið hrúgað utan með að neðan og nær mest um 0,7 m upp á grjóthleðsluna. Torfleifar eru einnig ofan á syðri langveggnum. Bárujárnsleifar og fúnir húsaviðir eru inni í tóftinni en þó er sáralítið eftir af þekjunni. Í gólfinu sér í steypu sem líklega er leifar afa garða. Dyr á báðum göflum. Örugglega fjárhús.
„Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell, norðan í því er Dauðidalur, í honum er fjárrétt.“ segir í örnefnalýsingu. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal.
Hellisheiði – vörður.
Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kring um hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við í dældinni og enn fjær eru mosaþembur.
Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.
Gengið var á skarðið. Enn má sjá móta fyrir „Eiríksvegi“ Eríks Ásmundssonar frá Grjóta er lagður var yfir heiðina um 1880.
Upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.“ „Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; þetta er Búasteinn.
Búasteinn.
Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga sögu, þar sem Búi, þegar hann kom niður og Öxnaskarði og sá fyrirsát Kolfinns, reið að stórum steini, sem stóð undir skarðinu, „svo mikill sem hamar, mátti þá framan at eins at honum ganga“, og varði sig þar.“ Búasteinn er stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
„Austur frá Reykjafelli eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.“ segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Á þessari leið, sem merkt er með vörðum má víða rekja rás í helluna sem myndast hefur af umferð járnaðra hesta.
Helluhraun. Rásin sést fyrst og fremst þar sem hraunið er slétt og ógróið en á milli er mosagróður og grjóthröngl.
Hellukofinn.
„[Hellisheiðar] vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu.“ „Þegar komið er upp á heiðina [úr Hellisskarði], verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana. Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar … Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn.“
Rásin er misgreinileg, yfirleitt um 0,4 m breið (á bilinu 0,25-0,45 m) og víðast 0,05-0,1 m djúp en mest 0,26 m. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðr um djúpar rásir þar sem grjóri hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli klappasvæðanna og helsur ekki alltaf áfram í beinu framhaldi af því sem sleppti.
Gata um Helluna á Hellisheiði.
Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld. Sumstaðar sést engin rás þar sem þó er klöpp og annarsstaðar sést rásin aðeins sem örlítil dæld sem ekki verður greind nema af því að litamunur er þannig að bergið er ljósara í rásinni en í kring. Rásin sést mjög skýrt um 100 m sunnan við vörðuröðina, skammt vestan við neyðarskýli slysavarnarfélagsins við þjóðveg 1, en þar skammt vestan við hefur ráisin verið skemmd þar sem rafmagnsmastur hefur verið byggt á klöppinni en auk þess hefur hringvegurinn verið lagður yfir klöppina. Rekja má rásina um 200 m til austurs, sunnan við hringveginn, eða u.þ.b. jafnlangt og vörðurnar ná en þar austan við fer að halla undan fæti auk þess sem þar er minna um berar hraunklappir en meira um mosaþembur.
Í Hellukofanum.
Árið 1703 segir í lýsingu að „á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið. Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn, en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður.
Vörður á Hellisheiði.
Vörðuð leið liggur frá norðurhlíðum Skarðsmýrarfjalla, þar sem lækjargil er í fjallinu og allstór hvammur við fjallsræturnar og dæld í fjallið að ofan, beina leið yfir hraunið að neyðarskýli LHS við þjóðveg 1, en þar endar leiðin enda eru þar „gatnamót“ við vörðurnar á Hellisheiðarleið. Vegpóstur vísar á leiðina undir Skarðsmýrarfjöllum.
Vörðurnar eru með 50-60 m millibili, breiðar og lágar, 1,5-2 m í þvermál en fæstar hærri en 1,5 m. Þær eru ekki vel hlaðnar þó mikið grjót sé í þeim og eru margar hrundar að hluta til. Tæplega eru þetta gamlar vörður og gætu staðið í sambandi við starfsemi Slysavarnarfélagsins.
„Norður af Lambafellshrauni er Lambafell, sunnan við það er Stakihnúkur, er hann hjá Lágskarði. Eftir skarðinu liggur Lágaskarðsvegur.“ segir í örnefnalýsingu. „[Á Breiðabólstað] hefst Lágaskarðsvegur. Hann liggur yfir Bæjarlæk [við Breiðabólsstað] rétt fyrir ofan Fossinn, inn Torfdalshraun, austan Torfdalsmels og innan til á móts við Krossfjöll austur yfir Eldborgarhraun, austur að Lönguhlíð.“
Lakastígur.
Leiðin liggur frá Hveradalaflöt, undir austurhlíðum Lakahnúka og síðan um breitt skarðið yfir slétt og greiðfært helluhraun (að mestu mosagróið) og síðan niður úr skarðinu (sem er meira eins og grunnt dalverpi en skarð) til Þorlákshafnar og í Selvog. Á herforingjaráðskorti frá 1909 (1:50000) er norðurendi leiðarinnar sýndur vestar en hér er gert ráð fyrir. Þar liggur Lágaskarðsleiðin útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt en sú leið er mun ógreiðfærari þó hún sé styttri. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns.
Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið.
Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul.
„Ofarlega í Kömbum er Biskupslaut. Sagt er að Hallgrímur biskup hafi áð í lautinni og í gamni nefnt lautina þessu nafni.“
Orrustuhóll.
Í lýsingu 1703 segir að „fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn, þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.“ segir Hálfdan Jónsson í lýsingu sinni. „Austan undir hrauninu er Orustuholl.
Réttin við Orrustuhól.
Gömul sögn segir, að á þessum slóðum hafi verið sundurdráttarrétt. Áttu réttarmenn að hafa orðið missáttir og barist á hólnum. Engin mannvirki sjást þar nú.“ segir í örnefnalýsingu. Kolbeinn Guðmundsson telur sig hafa fundið þessar gömlu réttir eftir lýsingu Hálfdanar: „Réttirnar hafa verið fast við hólinn suðvestanverðan. Hefir þar verið að miklu leyti sjálfgert aðhald. Hóllinn annars vegar og hraunbrúnin hins vegar. Hvort tveggja snarbratt, svo að lítið hefir þurft að hlaða. Réttunum hefir verið skipt í tvennt. Vestari hlutinn talsvert minni. Dilkar hafa ekki verið eins og nú tíðkast í réttum. Aðaldyr snúa í austur, og hafa þær verið um 2 faðmar að vídd.“ Suðvestan við Orrustuhól er alldjúp gjá með bröttum veggjum sem liggur í sveig frá austri til suðvesturs. Hún er um 15-20 m breið og alls um 70 m löng og hækkar botninn mjög til vesturs og dregst gjáin þar saman. Austurendinn opnast út á gróið hraunið sunnan og austan við hólinn en að vestan er yngra og úfnara hraun sem gjáin er í. Þar sem gjárbotninn verður ósléttur vestantil og fer að hækka mikið hefur verið hlaðið steinum fyrir og eru þeir mjög mosagrónir. tveir stórir steinar í botninum gætu verið komnir þangað af sjálfum sér en sunnan við þá er greinileg hleðsla, um 1,5 m löng og um 3 umför. Engin önnur mannvirki eru greinileg á þessum stað en gjáin hefur verið mjög gott aðhald af náttúrunnar hendi og hefur þó þurft að hlaða fyrir austurendann en þar sjást engar hleðslur.
Hellisheiðarvegur.
Gjáin er gróin í botnin en hrunið hefur ofaní hana, nú síðast allmikið bjarg í jarðskjálfta í júní 1998.
„Eftir bardagann í Orusturhólsréttum áttu Ölfusingar og Mosfellssveitarmenn að hafa skilið félag sitt um fjallleitir, og fluttu þá Ölfusingar réttir sínar austur á heiðina, austur fyrir Hengladalaá. [Árið 1878 var fé rekið inn í Hengladali] Var riðið fram Smjörþýfi og fram með Hengladalaánni, og sýndi þá gamall maður, er í förinni var, okkur yngri rekstarmönnunum þessar réttir. Sást þá vel fyrir þeim, bæði almenning og dilkum, þótt djúp skörð væru hrunin í veggi. Sumir dilkanna voru allstórir, gerði ekkert, almenningsdyr sneru á Hengil. Sennilega hefir Ölfusingum þótt afundið að hafa lögréttir sínar uppi á fjalli, og voru því réttirnar færðar undir Ingólfsfjall að Hvammi þegar fyrir 1700.“ Réttin fannst ekki og gæti verið farin í ána sem brýtur mikið af bökkunum. Smjörþýfi er um 1,5×0,5 km stór þúfnamói, mjög grösugur og greinilega gott beitiland. Suðaustan við tekur við lyngmói.
Hellisheiðarvegur.
Af lýsingunni að dæma hefur réttin átt að vera norðan til á Smjörþýfi nálægt ánni og reiðgötunum sem liggja nálægt henni inn í Hengladali og eru mjög skýrar. Farvegur eftir leysingavatn er einnig undir brekkurótunum austanmegin norðantil á Smjörþýfi og gæti þar hafa verið réttarstæði sem síðan hefur horfið.
„Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m í þvermál að innan á sömu klöppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak.“ segir í örnefnalýsingu. Kofinn er um 70 m norður af hinni vörðuðu Hellisheiðarleið, um 1,3 km vestan við neyðarskýli LHS við þjóðveg 1.
Kofinn stendur framarlega á klapparbrún og er hann sjálfur á upphækkun á klöppinni. Kofinn sést allsstaðar af heiðinni. Í kringum hann sést hvar hleðslugrjót hefur verið rifið upp. Húsið gerði Þórður Erlendsson, þá bóndi á Völlum, síðar Tannastöðum.
Hellisheiðarvegur.
Biskupsvarða var stór og hlaðin í kross með 4 arma, þá var skjól í kverkunum. Hún var mjög gömul og hrunin í rúst. Hún stóð á klöpp hægra megin við veginn, þegar suður var farið (til Faxaflóa). Kofinn var byggður úr sama grjótinu, og að öllum líkindum á sömu klöppinni. Heimild fyrir þessu er Skúli Helgason, eftir Kolbeini Guðmundssyni bónda á Úlfljótsvatni, en hann hafði það eftir gömlum mönnum og langminnugum.“ Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr). „Á þeim stað sem hétu Syðri-Þrívörður var laust eftir 1820 byggður sæluhúskofi, borghlaðinn úr grjóti og þéttur með mosa. Kofi sá stendur enn óhaggaður eftir rúm 150 ár. Lítið skjól er þar nú því að þétting öll er fokin í burtu.“ SB III, 282. Kofinn er ferhyrndur að innan, 2×2 m og 1,85 m undir þak, um 20 umför af 7-15 sm þykkum hraunhellum. Suðausturhorn þaksins er aðeins farið að síga inn en annars standa hleðslurnar mjög vel. Dyr eru á norðurhlið, austantil. Veggir eru um 0,8 m þykkir við dyraop, þar er þröskuldur, 2 umför af hraunhellum. Talsverður mosi og skófir eru á kofanum. Inni í kofanum er hart moldargólf, að mestu slétt. Ekkert friðlýsingarmerki er á staðnum.
Hellisheiðarvegur.
„Vestur Ölkelduháls liggja hreppamörki milli Ölfushrepps og Grafnings. Þar er Brúnkollublettur nyrðri á mörkum hreppanna, áningarstaður ferðamanna, sem fóru leiðina milli Hrauns og hlíða.“ segir í örnefnalýsingu. Brúnkollublettur er allstór (um 200×200 m) þýfður grasblettur með grónum götupöldrum sem liggja SV-NA, fast norðan við vatnskilin þar sem hálsinn er lægstur og breiðastur, sunnan undir lágum melhól með grösugum suðurhlíðum. Um 100 m austan við nýjan línuveg sem liggur yfir hálsinn. Nafnið gæti einnig hafa náð yfir grasteyginga í austurhlíðum Hengilsins, um 400 m vestan við þennan móa og er nafnið oftast merkt þar á kortum. „Þýfður grasblettur í breiðri kvos. Þar er mjög skjólgott, a.m.k. í norðanátt.“
Þrívörður vestari/nyrðri heita þar sem neyðarskýli LHS við þjóðveg 1 er nú (neyðarskýlið er reyndar horfið, en sökkullinn stendur enn eftir).
Aðrar Þrívörður eystri voru við gamla veginn í Kömbunum.
Haldið var yfir Suðurlandsveg og yfir á gamla veginn, sem fyrrum var nýr.
Sá, sem fylgir gömlu götunni yfir Hellisheiði, gerir sér grein fyrir nafngiftinni. Gatan er á sléttri hellu svo til alla leiðina, sem er bæði óvenjulegt á svo langri leið og þærgilegt þar sem heiðarveg er að ræða.
Smiðjulaut – Smiðjutóft.
Nýr vegur var lagður um Hellisheiði 1894-95: „Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður [Thoroddsen landsverkfræðingur] færa veginn frá hinu bratta og óvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjafell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá hinn sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar. / Sigurður mældi fyrir veginum upp kamba og varð nú að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 hárnálarbeygjur á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. .. . Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir.“
Skógargatan.
Skógargötunni var fylgt áleiðis til suðurs. Rifjuð var upp sagan af manni einum úr austursýslunni, sem fyrir löngu síðan lagði af stað að heiman og ætlaði til sjóróðra suður með Faxaflóa. … Þetta var um vetur, sennilega í febrúar. Var maðurinn fótgangandi og einn á ferð. Segir eigi af ferðum hans, fyrr en hann kemur á Hellisheiði. Var það að hallandi degi. Veður var kalt og fjúkandi, svo að hann treystist naumlega til að rata rétta leið og allt af gerðist hríðin svartari, eftir því sem lengra leið á daginn. Var þá eigi akvegur kominn yfir heiðina og vörður meðfram veginum mjög af skornum skammti. Loks tekur maðurinn þá ákvörðun að leita sér skjóls þar á heiðinni og helzt með því að grafa sig í fönn, áður en hann færi mikið afvega. Fer hann nú að skygnast um eftir stað, er nota megi í þessu augnamiði, og eftir nokkra leit finnur hann sér fylgsni nokkurt eða skúta og borar sér þar inn. Þá er hann hefir skriðið skammt, finnur hann, að fylgsninu hallar niður á við, og því lengra sem hann kemst, verður ætíð ljósara fyrir augum hans, og getur hann vel greint það, er fyrir augun bar.
Eiríksbrú (Eiríksvegur) á Hellisheiði.
Loks kemur hann þar niður á flatlendi, grasi gróið. Var þar fagurt um að litast og hlýtt og bjart, eins og sumar væri. Gengur hann þar um völlu víða og fagra og kemur að vatni einu eða tjörn. Þar á bökkum vatnsins kemur hann auga á stóra lóuhópa, er lágu þar dauðar eða sofandi, og hafði hver þeirra grænt blað í nefinu. Þegar hann hefir virt þetta allt fyrir sér, sezt hann niður og tekur sér hvíld eftir gönguna. Tekur hann síðan nestismal sinn og matast, sem honum líkaði, og að því búnu fær hann sér vænan svaladrykk úr tjörninni. Býst hann nú um þar á hentugum stað að taka á sig náðir. Leggst han nú fyrir til svefns og hagræðir sér eftir föngum og bagaði eigi kuldi. Sofnaði hann þegar og svaf vært um nóttina, og var líðan hans svo góð sem vænta mátti. Næsta morgun vaknar hann hress og glaður eftir næturhvíldina. Fær hann sér nú morgunverð, áður gangan sé hafin, og á eftir góðan svaladrykk úr tjörninni. Lágu lóurnar kyrrar eins og kvöldið áður. Þegar þessu er lokið og hann er ferðbúinn, fer hann að leita upp á yfirborð jarðarinnar. Er eigi annars getið en að honum hafi gengið griðlega útgangan. En þegar út var komið, var hríðinni af lett og komið viðunanlegt veður. Er hann nú glaður yfir því, að svo vel greiddist úr með náttstað kvöldið áður, svo illa sem á horfðist. Setur hann nú nákvæmlega á sig ýmis kennimerki, svo að honum mætti takast að finna staðinn, þegar vora taki og hann haldi heimleiðis að liðinni vertíðinni.
Hellisheiði – Snjóþyngsli á Hellisheiði, líklega á fjórða áratug síðustu aldar. Oft var Hellisheiði lokuð frá nóvember fram í maí vegna ófærðar. Snjór var mokaður í fyrsta skipti á Hellisheiði vorið 1927, með handskóflum, en ruðningur með stórtækari vinnuvélum hófst ekki fyrr en á árum síðari heimsstyrjaldar.
Þegar hann þykist hafa fest þetta í minni sér svo glögglega, að eigi geti skeikað, leggur hann af stað og heldur ferðinni áfram, eins og leið liggur, og ber nú ekkert sögulegt við. Komst hann þangað, er hann hafði ætlað að róa um vertíðina, og gekk það allt skaplega. … Leið nú vertíðina til enda, og að henni lokinni býst hann að halda heimleiðis, … þegar hann kemur á Hellisheiði, ætlar hann að koma við í hinum einkennilega stað, þar sem hann hafði náttstað haft veturinn áður. Gætir hann nú nákvæmlega að merkjum þeim, er hann hafði sett sér að muna. En hvernig sem hann leitaði og gekk aftur og fram, var honum ómögulegt að finna staðinn, og var sem einhver hula legðist þar yfir. Vera má, að þessi maður hafi ferðazt þessa leið oftar, en staðinn fann hann aldrei síðan, og er því líkast, að hann hafi verið numinn í einhverja huliðsheima, þegar honum lá mest á og tvísýnt var, hvort hann fengi lífi haldið næturlangt sakir illviðris og kulda.
Hellisheiðarvegur um 1900.
Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum.
„Þegar nokkuð var liðið fram á næsta vor, tók Margrét að gá til veðurs og líta í kringum sig á nýjan leik. Hljóp hún loks aftur að heiman og hélt þá enn í vesturátt. … Hún lagði nú leið sína vestur yfir Ölfus og vestur á Hellisheiði og hafðist þar við í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á suðuferðaleið manna. var hún þar á slangri um sumarið, og stóð mörgum ógn af henni. Oft greip hún plögg ferðamanna, er þeir voru í tjaldstöðum, einkum þegar þoka var og dimmviðri, og svo gerðist Margrét stórtæk um afla, að hún kippti skreiðarböggum á bak sér og hljóp í burtu með. Tóku menn þá að ferðast margir saman í hóp, og hafði Margrét sig þá minna í frammi. En bæri svo við, að menn færu einir síns liðs eða svo fáir saman, að hún treysti sér til við þá, máttu þeir eiga vísa von á fundi hennar, og hlaut hún þá alla jafnan að ráð sköpum og skiptum þeirra í milli. … [Guðmundur Bjarnason á Gljúfri í Ölfusi fór í grasaferð þetta sumar og unglingspiltur með honum] Fara þeir sem leið liggur og ætla í Hverahlíð.
Hurðarásvötn.
En er þeir koma upp á Kambabrún eða í Hurðarásvötn, fór veður að þykkna og gerði kalsa slyddu, svo að háfjöll urðu gráhvít … héldu þeir … áfram ferðinni og allt suður fyrir Reykjafell. Gerir þá sólskin og lokgn og hið bezta veður. Halda þeir nú áfram, unz þeir koma niður í Svínahraun, en þangað vr förinni heitið. Finna þeir þar nægtir fjallagrasa um daginn, svo að fullar klyfjar voru á reiðingshestinum og þó nokkuð um fram, er þeir bundu við söðla sína. Var þá nálægt miðjum aftni, er þeir höfðu lokið við að búa upp á hesta sína og bjuggust til heimferðar. / Er þeir Guðmundur og fylgdarmaður hans voru ferðbúnir, vildu þeir taka sér matarbita, áður en þeir legðu af stað, því að ekki höfðu þeir gefið sér tíma til þess fyrr um daginn. Fór Guðmundur og náði í malpoka þeirra og bjóst til að setja sig niður, meðan hann mataðist, og hélt á malnum í hendinni. Veit hann þá ekki fyrr til en þrifið er í malnum heldur sterklega. Guðmundur víkst við skjótt og sér, að þar er þá komin Margrét sú hin nafnkunna og vill kippa af honum malnum. En hann lá ekki á lausu, því að Guðmundur var vel fær að afli. Sviptast þau nú um stund og hnykkja malnum á víxl, svo að hvorugt vinnur neitt á.
Engidalur – hleðslur fyrir skúta.
Gekk á þessu um hríð, en ekki er getið orða þeirra. Loksins sleppti Guðmundur malnum og réðst á Margréti. Hún sleppti þá líka og tók á móti, og það ekki með mjúkum meyjarhöndum. Áttust þau við um stund, og sparði hvorugt af, unz Guðmundi vili það til, að hann steytti fót sinn við steini. Hrasaði hann áfram og fell við, en Margrét á hann ofan. Guðmundur brauzt þá um, sem hann mátti, en svo var Margrét sterk, að hann gat með engu móti velt henni af sér, og fékk hún jafnharðan hlaðið honum. Loks tók Guðmundur að mæðast og sá nú sitt óvænna. Hét hann þá á fylgdarmenn sinn að veita sér lið. En pilturinn var svo hræddur, að hann þorði hvergi nærri að koma. Leizt honum eigi ráðlegt að hlutast til leiks þeirra, þar sem húsbóndi hans, tveggja manna makinn, lá undir, en Margrét, fjallaflagðið, gein yfir honum, svo grimmileg sem hún var. Duldist piltinum það eigi, að svo ólíklega hafði farið, að Guðmundur hafði beðið lægra hlut í viðskiptum þeirra Margrétar, þótt mikilmenni væri og harðfengur í meira lagi.
Tóftir útilegumanna í Engidal.
Guðmundur þóttist nú illa kominn, en vildi þó ógjarna griða biðja. Varð hér skjót úrræði að hafa, því að Margrét gerði sig líklega til að sýna honum í tvo heimana. Verður það þá fangaráð Guðmundar, að hann dregur hana af sér og bítur á háls henni fyrir neðan hökuna, allt það er tennur tóku. Vildi hún þá sem skjótast losna úr slíkum faðmlögum, en þess var enginn kostur. Lagði Guðmundur fast að hálsi hennar, og eigi létti hann fyrr en hann hafði bitið í sundur á henni barkann, og varð það hennar bani. Eftir það velti hann Margréti af sér og staulaðist á fætur, dasaður mjög eftir allar þessar aðfarir, en þó óskemmdur að mestu. Þeir félagar drógu síðan Margréti burt þaðan og huldu hræ hennar í hraunskúta nokkrum eða klettagjögri og báru á það grjót og mosa. Eftir það fóru þeir til hesta sinna og stigu á bak og héldu heimleiðis. Guðmundur bauð nú fylgdarmanni sínum mestan varnað á því að segja nokkrum frá atburði þeim, er gerðist í ferð þeirra, því það gæti kostað líf þeirra beggja, ef uppvíst yrði. Hét hann þagmælsku sinni fullkominni …
Tóft útilegumanna í Engidal.
Ferðamenn hættu nú alveg að verða varir við Margréti, eins og við var að búast, og var talið víst, að hún myndi farin heim til sín austur í Flóa. En þegar lengra leið frá og það varð kunnugt, að hún hafði ekki komið heim til sín, kom sá kvittur upp, að Guðmundur á Gljúfri myndi hafa séð fyrir henni … / Það var annaðhvort á síðari árum síra Jóns prests Matthíassonar í Arnarbæli eða á fyrri árum síra Guðmundar Einarssonar þar, að Gísli [Jónsson á Sogni í Ölfusi] fann leifar af mannsbeinum suður í Svíanhrauni, sem höfðu verið hulin grjóti og mosa. Gísli fór þegar er heim kom á fund prests og sagði honum til beinanna og vildi láta sækja þau og jarðsetja í Reykjakirkju. En prestur kvað slíkt engu gegna og hæddist að þessum fundi Gísla, sagði vera mundu hrossbein, sem slátrað hafði verið og eitrað síðan fyrir refi … Talið var, að bein þau, er Gísli fann, mundu hafa verið bein Fjalla-Margrétar.“ Guðmundur banamaður Margrétar var fæddur 1765 en bjó á Gljúfri í Ölfusi 1805-1815 og hefur útlegð Margrétar þá verið á því tímabili. Guðmundur dó 3.5.1848. Önnur sögn er til um viðureign Guðmundar við útilegukonu en það á að hafa verið í Ólafsskarði og með öðrum atburðum.
Núpastígur.
1703: „Fyrir austan Valhnúk er strax Gnúpahnúkur, með miklum hömrum, nær allt að Gnúpastíg, hvor eð liggur fyrir ofan Gnúpatún upp á fjallið, brattur yfirferðar, og samtengist við almenningsveginn á sunnanverðri Hellirsheiði, þar Hurðarásvötn heita.“
„Núpastígur: Gömul gata, sem lá á ská upp fjallið af Hjallhól. Þar var farið með heyband ofan af fjallinu. Ein kona fór þar niður ríðandi í söðli og þótti það með tíðindum.“
1703: „Upp á [Hverahlíð] er hátt fell, mjög blásið, þó án hamra, er Skálafell nefnist, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur.“ 1840: „.. . sunnanvert á [Hellisheiði] er Skálafell – dregur það nafn af skála Ingólfs, sem mælt er þar hafi staðið, þó ekki sjáist menjar hans. svo hér verði greint .. .“
„Í litlum hvammi rétt ofan við Skíðaskálann eru Hverar þeir sem dalirnir eru við kenndir. Móts við þá er allstór grasflöt sem nær að Lakahnúkum. Hún heitir Hveradalaflöt. Þar áðu ferðamenn hestum sínum áður en þeir lögðu á Hellisheiði, og er þeir komu af heiðinni.“ Þjóðvegur 1 liggur þvert yfir Hveradalaflöt, sem er slétt grasflöt sem nær frá skíðaskálanum í Hveradölum norðan við veginn og að hnúkunum sunnan við hann. Flötin er allt að 500 m löng frá norðri til suðurs en innan við 200 m á breidd.
Slétt grasflöt milli hálfgróinna hlíða heiðarinnar að austan og hrauntagla að vestan. Mosi í grasrótinni og grasið ekki þétt.
Hveradalir.
Fyrir utan þjóðveginn hafa hús verið byggð á flötinni, fyrir utan skíðaskálann og mannvirki í kringum hann, eru sunnan við veginn skátaskáli og allstór braggi og aðkeyrslur að þessum byggingum. Allt að fjórðungur flatarinnar er því horfin undir mannvirki. Á Hveradalaflöt hefur sennilega ekki verið reglulegur áningarstaður fyrr en þjóðvegurinn var lagður sunnan við Reykjafell yfir flötina 1894. Fyrir þann tíma hafa varla margir átt þar leið um nema þá helst þeir sem fóru Lágaskarðsveg.
Vörðuhóll heitir í Vestur-Hálsum, austan við Hrossabotna sem er dalverpi sunnan í Stóra-Sandfelli. Sunnan við Vörðuhól eru Vegarbrekkur og er þetta á Sanddalaleið.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/
-http://www.bokasafn.is/
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/
-Árbók Ferðafélags Íslands árið 2003.
-Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar (1979), bls. 238.
-Reykjavíkurpóstur 1847/8, bls.115; Sunnanpóstur III, 95; Ný tíðindi 1851, 9-10; Ingólfur I, 75-76.
-Þorvaldur Thoroddsen, Ferðabók I, 125; Þjóðólfur 25.9.1878, 106.
-Þjóðólfur XXVI, 134-135; XXVII, 27-28; XXVIII, 56, 129-130; XXX, 32.
-Þjóðólfur 25.9.1878, bls. 106.
-Ísafold VI (1879), 128.
-Stjórnartíðindi 1876, 86.
-Skrá um friðlýstar fornleifar, 77.
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr); SB III, 280-282.
-Áningarstaðir á lestamannaleiðum, 148; Magnús Grímsson.
-Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi, Landnám Ingólfs 2 (1985), 88.
-Þórður Ö. Jóhannesson: Nokkur örnefni varðandi landnýtingu og þjóðtrú í Ölfusi, 12.4.1976 (hdr); SB III, 282.Íslenskir sagnaþættir XII, 9-12.
-Íslenskir sagnaþættir III, 6-7.
-Íslenskir sagnaþættir III, 7-13.
-Blanda VI, 187-89.
-E.J. Stardal: „Mosfellsheiði og nágrenni.“ ÁFÍ 1985, 137.
-Farfuglinn 19(1), (1975), 14.
-Lýður Björnsson: „Á slóðum Fjalla-Eyvindar eldri og Margrétar Símonardóttur.“ Útivist 12 (1986), 12-13; ÍA II, 247, 512, IV, 119-120; AÍ VII, 349, 403-405.
-Útilegumenn og auðar tóftir, 146-50; Þórður Sigurðsson, Tannastöðum: „Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra.“ Lesbók Mbl. 1939, bls. 30-31.
-Kort Ingólfs Einarssonar 1969.
-Gráskinna hin meiri I, 239-243.
-Jón Pálsson: Austantórur II, 134.
–Örnefnaskrá Núpa, Þórður Ö. Jóhannsson skráði 1968, Örnefnastofnun.
Hellisheiðarvegur.
Reykjasel – Vorsabæjarsel
Þegar FERLIR var á göngu um Gufudal ofan við Hveragerði sást á landakorti örnefnið Selgil fremst í austanverðum dalnum.
Reykjasel/Gufudalssel – uppdráttur ÓSÁ.
Ekki var vitað um selstöðu þarna; hennar hefur hvorki verið getið í örnefnalýsingum né fornleifaskráningum af svæðinu. Að fenginni reynslu þar sem nánast má heita tryggt að leifar selstöðu kunni að finna þar slíkra örnefna er getið var ákveðið að skoða gilið og nágrenni þess. Selgilslækur rennur ofan úr gilinu, en skammt norðan þess rennur annar lækur, bergvatnslækur, ofan úr hlíðum Selfjalls. Selfjall þetta er einnig nefnt svo vegna selstöðu austan þess.
Frá Gufudal er fjallið nefnt Reykjafell (-fjall).
Við leit komu í ljós leifar af stekk skammt upp með norðanverðum Selgilslæk. Hann hefur verið hlaðinn úr smágrjóti úr lækjarfarveginum og er nú nánast jarðlægur öðrum en fráum augum fornleifaleitenda. Norðan við hann er augsýnilega gömul stutt gata upp á gróinn bakka. Uppi á bakkanum, á grasi grónum stalli, eru leifar selstöðunnar, hér nefnd Gufudalssel (Reykjasel). Um er að ræða nokkuð stóra tóft, tæplega 7 metra langa (660 cm) og um 480 cm breiða. Op er mót vestri. Vestan hennar eru tvær aðskyldar hringlaga tóftir og er sú syðri öllu greinilegri. Frá selstöðunni er ágætt útsýni yfir neðanvarðan framdalinn. Tært vatn er í læknum og hið ágætasta skjól undir grónum brekkunum, sem halla frá selinu upp með hlíðum Selfjalls (Reykjafells). Sauðalækur (Sauðaá) rennur um Gufudal.
Af ummerkjum að dæma ber selstað þessi merki um að hafa verið tiltölulega nálægt bæ. Stóra tóftin hefur að öllum líkindum verið baðstofa og hinar tvær aðskilið búr og aðskilið eldhús. Það er svolítið óvenjulegt af selstöðum á Reykjanesskaganum að dæma, en hún ber með sér að geta verið frá seinni hluta 18. aldar.
Af loftmynd að dæma virtust tóftir vera vestast við Varmá (Hengladalaá), við Nóngil undir Kvíum, sunnan Djúpagils. FERLIR hefur áður getið um forna reiðleið upp frá því um Kvíarnar, bratta hlíð, áleiðis upp á austanverða Hellisheiði þar sem hún liggur síðan til norðvesturs um gróninga að Fremstadal og síðan inn á Götu milli hrauna að Hellisskarði.
Vorsabæjarsel – uppdráttur ÓSÁ.
Þessi gata sést vel skáhallt í brattri hlíðinni. Ætlunin er að fylgja þessari götu fljótlega frá þeim stað er hún fer yfir vað á Hengladalaánni, upp Nóngil og á ská upp hlíðina Kvíahlíðina fyrrnefndu ofan Djúpadals.
Við skoðun á Nóngili kom í ljós leifar selstöðu; þrjú rými og stekkur til hliðar (austar). Um er að ræða dæmigerða selstöðu af eldri gerð, þ.e. óreglulega þyrpingu rýma; baðstofu, búrs og eldhúss með sér inngangi. Selstaðan, sem virðist gleymd, gæti hafa verið frá því á 17. eða 18. öld.
Björn Pálsson, fyrrum héraðsskjalavörður Árnesinga, sem er manna fróðastur um sögu og minjar á þessu svæði, sagðist aðspurður halda að selstaðan við Hengladalaánna hefði verið frá Völlum og selstaðan við Selgilið í framanverðum Gufudal hefði sennilega verið frá Reykjum af landamerkjum að dæma því Reykir hafi átt land austan við Sauðalækinn.
Með framangreindum selstöðum hefur FERLIR staðsett 265 selstöður á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs. Líklegt má telja, að fenginni reynslu, að fleiri slíkar eigi eftir að opinberast í náinni framtíð (sjá t.d. HÉR).
Líklegt má telja að meiri fróðleikur um framangreindar selstöður og nálægar minjar muni koma til umfjöllunar hér í framtíðinni. Minjarnar voru færðar inn á sérstaka hnitaskrá. Í henni eru varslaðar allar minjar sem FERLIR hefur staðsett á Reykjanesskaganum síðustu áratugina.
Í Jarðabók ÁM og PV 1703 er getið um sel frá Reykjum; „Selstaða er nýtanleg í heimalandi, og kokkast allur matur þar á hveri, en ei á eldi„. Skammt ofan við selstöðuna eru hverir. Þá er getið um sel frá Vorsabæ; „Selstöðu á jörðin í landi því, sem eignað var áður Litlu-Reykjum, en lagðist til Ossabæjar, þá þeir lögðust í eyði, vide Stóru-Reyki supra, og í annað mál beit fyrir búsmala norður yfir á, í Árstaðafjall, sem að eignað er Stóru-Reykjum„. Fjallið ofan við selstöðuna heitir Ástaðafjall og áin umrædda er Hengladalaáin. Lýsingin á staðsetningu á selstöðu Vorsabæjar passar við staðhætti á umræddum stað.
Auk framangreind er getið um selstöður frá Krossi og Völlum, sem lýst verður síðar.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Reykjasel.
Gíslhellir
Í örnefnalýsingu Innri-Njarðvíkur segir: „Suður af tjörninni (Seltjörn) eru tættur, sem heita Sel. Í gamalli sóknarlýsingu Njarðvíkursóknar segir: „Frá Njarðvíkum er sel, Njarðvíkursel, við Selvatn“). Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu… vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar kenndar við Gíslhellir, sem er þarna ofan við Rauðamel. Í Stórugjá er stórt berg á köflum“.
Gíslhellir – fyrirhleðsla.
Næsta verkefni á þessu svæði var að leita svæðið er hefur örnefnið Lágar, þ.e. sunnan við Rauðamelinn og austan við Vörðugjá og Skipsstíg – í háaustur af Stapafelli. Um var að ræða svæði sunnan við svæði, sem leitað hafði verið áður í fyrri FERLIRsferð.
Áður en leit hófst hafði maður, jarðfræðingur, samband og sagðist sennilega hafa séð hellir þann, sem leitað væri að á þessu svæði. Hann hefði verið á gangi um hraunið í leit að jarðfræðifyrirbærum er hann rakst á fallega fyrirhleðslu fyrir opi á leitarsvæðinu (Gíslhellislágar) og innan við var gólfið flórað. Ákveðið var að fá manninn á svæðið.
Gíslhellir er fundinn. Maðurinn, doktor Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, sem hafði séð hellinn er hann gekk fram á hann af tilviljun á sínum tíma, fylgdi FERLIR á vettvang. Án hans hefði verið nær ómögulegt að hafa upp á hellinum þrátt fyrir örnefnalýsingu frá Njarðvíkum.
Gengið var um Gíslhellislágar og síðan strikið tekið á tiltekið hraun, en þau eru nokkur þarna frá ólíkum tímum. Kristján gaf sér góðan tíma til að fræða þátttakendur um þau sem og jarðlögin á leiðinni. T.a.m. var tekin hola til að skoða öskulögin. Sást þá vel Reykjanesöskulagið frá 1226 (svart) og síðan R-3, um 2200 ára gamalt (sem Karlinn út við Reykjanes fæddist í) og landnámslagið þar á milli.
Hellirinn sjálfur er vandfundinn. Hann mun líkast til hafa verið þekktur áningarstaður eða skjól vegfarenda um Skipsstíginn á sínum tíma, en er stígurinn lagðist af að mestu, hefur skjólið fallið í gleymsku – enda ekki fast við stíginn og alls ekki auðfundið, eins og áður sagði.
Í hellinum er heil, mikil (yfir mannhæðahá) og falleg fyrirhleðsla, Gólfið er nokkuð slétt. Mannvistarleifar eru inni í honum (hleðsla). Athyglisvert (og ekki óhugsandi að hellirinn hafi verið notað sem skjól fyrir Tyrkjum á sínum tíma) er m.a. hlaðinn bekkur utan í veggnum. Þegar staðið er upp á honum sést yfir hleðsluna og beint í toppinn á Þórðarfelli, en sagan segir einmitt að þar hafi átt að vera maður er veifa átti til merkis um að Tyrkirnir væru farnir. Eins og kunnugt er voru Grindvíkingar í felum víða í hraununum þarna í kring. Ekki er t.d. svo langt í Dýrfinnuhelli eða „Tyrkjabyrgin“ í Sundvörðuhrauni.
Í einum endanum er falleg rás inn og upp á við og síðan niður aftur. Í henni eru dýrabein, nokkuð stór. Gætu verið af miðlungsstóru dýri.
Gíslhellir.
Samtals er hellirinn (með rásinni) um 40 metra langur. Heila rásin sjálf er 15-20 metrar.
Ef hellirinn væri nefndur eftir Gísla myndi hann hafa verið nefndur Gíslahellir. Hugsanlegt er að í honum hafi einhverjum verið haldið í gíslingu um tíma og nafnið hlotist af því. Gæti það tengst einhverri sögu svæðisins. Til er t.a.m. saga af ræningjum er héldu til í Þjófagjá á Þorbjarnarfelli. Þá eru uppi hugmyndir um að Gíslhellir gæti hafa verið notaður í tengslum við gerð Grindavíkurvegarins 1914-1918. A.m.k. gætu hleðslurnar bent til þess. Ekki ólíklegt að þarna gæti hafa verið eldhúsaðstaða vegavinnumanna. Þá gæti þarna hafa verið nátthagi frá Innra-Njarðvíkurseli. Einnig samkomu- og felustaður þeirra, sem tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu árið 1532, en þeir söfnuðust áður saman við Þórðarfell. Gæti líka hafa tengst fyrirhuguðum vegaumbótum á Skipsstígnum (atvinnubótavinna ca. 1909), en sjá má upphaf þeirra undir Lágafelli (hleðslurnar virðast unnar af kunnáttumönnum í hleðslu).
Til öryggis var nágrennið (og rúmlega það) gengið og kannað hvort þarna kynnu að leynast fleiri mannvirki. Svo reyndist ekki vera. Einungis beinaleifar í skjólum og hraunskjólum. Spurn hefur borist af fallegri hleðslu fyrir munna þarna allnokkru sunnar, sem á eftir að kanna nánar. Hún gæti einnig hafa tengst gerð Grindavíkurvegarins, en minjar eftir þá vegagerð er á a.m.k. 12 stöðum við veginn, frá Stapa að Hrossabrekkum.
Fróðlegt væri nú að fá sögn eða sagnir af Gíslhelli, ef þær eru þá til. Mosinn í og við hellinn var óhreyfður og ekkert spor í botninum, sem bendir til þess að í hann hafi ekki komið maður í langan tíma.
Vogsósar – séra Eggert Sigfússon
Á Vogsósum í Selvogi er merkilegur steinn í túninu.
Þótt steinninn láti ekki mikið yfir sér, er reyndar nánast jarðlægur og lækist jafnan fyrir slátturvélum, hefur Þórarinn Snorrason, bóndi gætt hans vandlega. Segja má að steinn þessi hafi verið minnisvarði um séra Eggert Sigfússon, síðasta prestsins á Vogsósum. Séra Eggert Sigfússon fæddist 22. júní 1840 og lést 12. október 1908, einmitt við þennan stein í túninu. Mun prestur hafa verið að koma úr messu í Krýsuvík þegar hann veiktist á leiðinni heim og dó þarna við steininn.
Í Tímanum 1988 er fjallað um séra Eggert. Fyrirsögnin er „Lómar og skúmar“, en Eggert „þótti undarlegasti maður landsins um sína daga“. Í Vogsósum skildu menn ekki þankagang þessa óvenjulega manns, sem álasaði mönnum fyrir að hugsa ekki um annað en „gemlinga
og grút.“
„En það er gömul saga að snillingseðlið getur tekið á sig margvíslegar myndir og í stað þess að vera hampað sem afbragðsmönnum samtíðarinnar, kunna menn að lenda á einhvern hátt utan vegar og verða fyrst og fremst taldir til furðufugla. Þau urðu örlög þess manns sem hér mun greint frá – hins sérkennilega prests, Eggerts Sigfússonar í Vogsósum í Selvogi. Hann þótti með afbrigðum kynlegur, en þegar við lesum sumar þeirra sagna sem af honum gengu, læðist að okkur sá grunur að það sem haldið var flónska og sérviska, hafi verið á einhvern hátt afbragðslegs eðlis, að þarna hafi verið á ferðinni spekingur, sem samtímamönnum tókst aðeins ekki að botna í.
Á Eyrarbakka var Eggert fæddur hinn 22. júní 1840. Faðir hans, Sigfús „snikkafi“ Guðmundsson, var hagleiksmaður hinn mesti og alkunnur kirkjusmiður, greindur vel og vandaðasti maður í öllu dagfari.
Hann veitti snemma athygli gáfum og námslöngun sonarins og ákvað að senda hann til mennta. Gekk Eggert inn í Latínuskólann nýja í Reykjavík 15 ára gamall og lauk prófi á tilskildum tíma og stúdentsprófi frá Prestaskólanum tveimur árum seinna.
Ekki lét hann þó vígjast að sinni, heldur fékkst við barnakennslu á ýmsum stöðum næstu sex árin, bæði norðanlands og sunnan. En þá hugsaði hann sér til næðisamara lífs og óskaði vígslu af Pétri biskupi Péturssyni og hana hlaut hann 29. ágúst 1869. Fyrst gerðist hann prestur hjá Húnvetningum að Hofi á Skagaströnd og gegndi þar í þrjú ár. Þá flutti hann að Klausturhólum í Grímsnesi og urðu þjónustuárin tólf á þeim stað. Loks árið 1884 tók hann svo við Selvogi og Krýsuvík, er í þá daga var sérstakt prestakall, og hafðist þar við til dauðadags. Bjó hann í Vogsósum í Selvogi og hefur ætíð verið kenndur við þann stað.
Þessum skrýtna presti var svo lýst að hann hefði verið með hæstu mönnum vexti, en ákaflega grannur og krangalegur. Höfuðið var mjög lítið og augun þar eftir smá, en sakleysislega skær og tindrandi. Bar og öllum saman um sem þekktu hann að hann hefði verið hrekklaus eins og dúfa og aldrei gert flugu mein. En hafði fastar skoðanir á ýmum málum og þá ekki síst sumum af kennisetningum kirkjunnar, en þær hafði hann að engu þegar honum bauð svo við að horfa og hann taldi annað skynsamlegra. „Þegar ég skíri barn, gef saman hjón eða jarða framliðna, dettur mér ekki annað í hug en að sleppa öllum bölvuðum bjánaskap úr handbókinni.
Eða hvað er það annað en bjánaskapur, þetta, sem ætlast er til að lesið sé yfir brúðinni: „Með sótt skaltu börn þín fæða.“ Þarf að segja nokkurri heilvita konu það að hún muni verða eitthvað lasin um það leyti, sem hún elur barn? Og til hvers er þá að hryggja hana með því að minna hana á þetta á mesta hátíðisdegi ævinnar? Þér megið kalla þetta hvað sem þér viljið, en ég kalla það bjánaskap. Og hvað þýðir að segja næturgömlu barni að það sé getið í synd eða dauðum manni að hann eigi að verða að mold? En svona eru margar fyrirskipanir kirkjunnar og ég ansa þeim ekki.“
Þar sem Eggert sté ekki á bak hestum varð hann að fara allra sinna ferða um sóknir sínar fótgangandi, hvernig sem viðraði. Voru þá oft lækir á vegi hans illir yfirferðar, en hann hafði mikla óbeit á því að vökna. Lagði hann nú höfuðið í bleyti og dó ekki ráðalaus. Lét hann gera sér stóran skinnsokk, klofháan, en þó einungis á annan fótinn. Hafði honum reiknast svo til að einn skinnsokkur mundi nægja, eins og lækjum var háttað við vanalegar aðstæður í prestakallinu. Sté hann út í lækina með þeim fætinum er sokkurinn var á og teygði síðan hinn fótinn upp á bakkann hinum megin. Náði hann með tímanum slíkri leikni í þessari íþrótt að orð var á gert. Skildi hann skinnsokkinn aldrei eftir, þyrfti hann að bregða sér að heiman.
Eftir að séra Eggert gerðist prestur í Vogsósum hófst mótlæti hans að marki. Hann var þar kominn meðal manna sem höfðu lítinn skilning á hinu sérstæða gáfnafari hans. En þetta mótlæti var skki síst runnið af þvf hve hann var hárnæmur á eðlisfar sóknarbarna sinna og hvers konar óheilindi, tilgerð og hroki var eitur í hans beinum. Þá menn er hann taldi sérstaklega búna slíkum eiginleikum nefndi hann aldrei annað en skúma, en þá aðra sem voru hjartahreinir og lítillátir kallaði hann lóma. Þessum tveimur manntegundum hélt hann vandlega aðgreindum og beitti tegundarheitum þeirra umsvifalaust í allra áheyrn og hvort sem mönnum þótt betur eða verr. Þetta hispursleysi aflaði honum lítilla vinsælda meðal skúmanna, en hann kippti sér ekki upp við það. „Mér er alveg sama hvað um mig er sagt lífs og liðinn,“ varð honum að orði. Ef ég gæti þess að stíga ekki á hestbak, þá dey ég ekki af því að detta af baki.
Þannig verð ég heldur ekki með réttu sakfelldur, ef ég gæti þess að gefa engan höggstað á mér með breytni minni.“
Fjölmörg bréf eru til með hendi séra Eggerts, sem sýna hve fyrirlitning hans á skúmunum stóð föstum rótum. Í einu bréfanna er þessi klausa: „Ég kom beint úr Þorlákshöfn í dag um sólarlag að Strönd. Sigurður var heima. Selvogshreppstjórinn var þar staddur og sagði mér að Þ… væri búinn að bera Gr… út í annað skipti. Hér er dæmi þess á hve háu stigi réttlætiskennd skúmanna stendur. Hvar sem maður er eða fer í veröldinni, þá held ég að naumast sjái í heiðan himininn fyrir þessum bölvuðum skúmum! Ég vildi óska að allar veraldarinnar manneskjur væru orðnar að lómum. Þá þyrfti maður ekki að eiga við annað eins „jastur“ og þetta. Takk fyrir síðast.“
Í öðru bréfi til Jóns kaupmanns Árnasonar í Þorlákshöfn kemst séra Eggert svo að orði: „Hér kom skúmur og tilkynnti mér sem hreppsnefndarmanni að hann ætti barn í vonum. Þetta kalla ég þunnar trakteringar og þess vegna bið ég þig að láta mig hafa á meðfylgjandi 8 potta kút, svo ég geti hresst mig á þessum skúmalegu vandræðum!“
Eggert sá líka kvenfólk á meðal skúmanna og ein þeirra var frúin í Hlíð, en af henni er þessi frásögn í bréfi frá Eggert til sálmaskáldsins sr. Valdemars Briem: „Frúin í Hlíð!
Það er nú frú í lagi. Kötturinn í Vogsósum skrapp upp að Hlíð um daginn að fá sér kött, en veistu hvað frúin gerði? Hún tók köttinn og drekkti honum í Hlíðarvatni. Tarna er ljóta „frúin“.
Svo alvarlega tók klerkurinn í Vogsósum þessa skiptingu á mönnum að hann skráði þá vandlega er á prestssetrið komu sem lóma eða skúma, sbr. eftirfarandi skrá, sem varðveist hefur: „Skúmar“ aðkomir að Vogsósum anno 1887: Janúar 25. febrúar 92, mars 4, apríl 6, maí 43, júní 62… .=232 Júlí 75, ágúst 5, sept. 91, október 65, nóvember 14, desember 1… =257. SKÚMAR ALLS: =489 „Lómar“ aðkomnir að Vogsósum anno 1887: Janúar 1, febrúar 1, mars 0, apríl 1, maí 0, júní 0 … =3 Júlí 3, ágúst 3, september 5, október 2, nóvember 0, desember 0… =13. LÓMAR ALLS: =16.
Greinilega hefur flokkur skúmanna því verið heldur betur öflugri að áliti Eggert en hinna blessuðu lóma.
Ekki er lengra frá dauða séra Eggerts en svo að enn í dag er nær efalaust til – að vísu mjög aldrað – fólk sem man hann sem börn, en hann lést 1908. Hér hefur mest verið gert úr því sem sérkennilegast þótti við hann en minna drepið á ágæta eiginleika hans. Hann tók sannleika og einlægni fram yfir allt annað og predikari var hann ágætur, enda þótt ræður hans stæðu sjaldnast lengur en sjö til fimm mínútur. Þá var hjálpsemi hans við bágstadda við brugðið og vandaðri mann og skilríkari getur ekki. Svik fundust ekki í hans munni. Á sama hátt virti hann sér til fánýtis og trafala hverja þá fjármuni sem tóku til annars en brýnustu nauðþurftar og byðu fátækir menn honum greiðslu fyrir unnin embættisverk, hafnaði hann henni jafnan jafnan með einu viðkvæði: „Þú mátt ekki missa þetta. Ég á nóg.“
Á efri árum hans gekk sá spádómur um sóknir hans að heimsendir væri í nánd. Höfðu margir af því þungar áhyggjur og þar á meðal var ungur drengur sem bar sig illa. Reyndi prestur að hughreysta hann og mælti: „Nei, barnið gott, almættið hefur ekki neinn heimsendi í huga og þú þarft ekki að óttast hann í bráð. En komi heimsendir seinna, verða það mennirnir sem hrinda honum af stað.“ Hvort spegluðu þessi orð klerksins lífsreynslu hans eða sá hann svo miklu lengra en þeir menn sem festu sér ummælin í minni, vegna þess hve fjarstæðukennd þau þá virtust – fyrir rúmum 80 árum.
Það var hinn 12. október 1908 í gráu og hráslagalegu haustveðri að Vogsósapresturinn var að koma frá messu í Krýsuvík – gangandi að vanda. Hann var kominn að túngarði í Vogsósum, þegar vinnumaður á bænum sá hvar hann greip sér um hjartastað og féll niður. Hann kom að honum örendum, þar sem hann lá á grúfu í sölnuðu grasinu [við lítinn stein] og hélt dauðahaldi um lítinn böggul, sem vinnumaðurinn vissi að geymdi snjáða prestshempu hans. Þar með var lokið ævi síðasta prestsins sem sat í Vogsósum – og vafalaust hins undarlegasta þeirra allra um leið.“
Heimild:
-Tíminn, 14. maí 1988, bls. 11-13.
Vogsósar.
Fornigarður – rannsókn
Í ritinu „Árnesingur VII“ árið 2006 er grein um Fornagarð í Selvogi eftir Bjarna F. Einarsson, „Garður er grannna sættir“. Tilvísun þessi er sótt í Jónsbók.
Greinin er tilefni rannsóknar, sem Bjarni gerði á garðinum árið 8. – 18. júlí 2003. Þrátt fyrir að véfengja megi niðurstöðu rannsóknarinnar í nokkrum megindráttum kemur í greininni fram ýmiss fróðleikur um þennan merka garð.
Ljóst var að nýr Suðurstrandarvegur myndi rjúfa „Forngarð“? skammt frá nýrri heimreið að Vogsósum. Hann var því rannsakaður þar sem vegurinn átti að fara í gegnum garðinn.
Bjarni segir „Fornagarð“ liggja á milli Vogsósa og Strandar í Selvogi.
Guðnabær.
Nákvæmar er að segja að umræddur vörslugarður liggi milli Hlíðarvatns í landi Vogsósa austur fyrir Nes (að Snjóthúsi/Snjóhúsi) í Selvogi líkt og segir í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1902. Snjóthús var þar sem nú er Nesviti (Selvogsviti). Að vísu eru hlutar vörslugarðsins misgamlir og garðinum hefur augsýnilega verið breytt í gegnum tíðina, m.a. til að verjast sandfoki, en megingarðurinn hefur varla náð í upphafi á milli síðarnefndu staðanna, enda ber hann þess öll ummerki.
Fornigarður sunnan Vogsósa.
Hinn eldri garður er nú hrofinn að hluta, enda var talsvert grjót tekið úr honum á milli Strandar og Torfabæjar og Þorkelsgerðis og Guðnabæjar þegar vegagerð fór fram á þjóðveginum á Strandarhæð um miðja síðustu öld (Þórarinn Snorrason og Þórður Bjarnason). Bjarni getur reyndar í umfjöllun sinni um breytt hlutverk garðsins á mismunandi tímum, bæði vegna umhverfisins sem og tengingu við fleiri en eitt lögbýli í sveitinni.
„Fornagarðs er trúlega fysrt getið í miðaldaheimildum og því býsna merkilegur, Árið 1927 voru allar „Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar“ friðlýstar í landi Vogsósa og Vindáss (Fornleifaskrá 1990).
Markmiðið með rannsókninni var að reyna að grafast fyrir um aldur garðsins og kanna byggingu hans..
Garðar hafa verið hlaðnir um allt land frá upphafi byggðar í landinu.
Gerð þeirra og hlutverk hefur verið með ýmsum hætti en eitt eiga þeir allir sameiginlegt og það er að allir eru þeir gerðir úr jarðefnum, þ.e.a.s. grjóti, torfi, mold og öðrum jarðvegi…“.
Í Grágás og Jónsbók eru ákvæði um breidd og hæð löggarða og hvenær vinna við þá skyldi fara fram. Skyldu þeir vera fimm fet á þykkt niður við rót en þrjú fet efst. Hæðin átti að ná meðalmanni í öxl. Garða skyldi hlaða í fyrsta lagi á vorönn þegar mánuður var af sumri.
Árið 1776 kom tilskipun er fól m.a. í sér að girða skyldi tún með torf- eða grjótgarði verði því við komið.
„Almennt er talið að Fornagarðs sé fyrst getið í rekaskrá Strandarkirkju áruð 1275. Þar segir m.a.: „Sex vætter æ huert land fyrer garde enn fiorar utan gardz og skal reida með slijku sem rekur“ (Íslenskt fornbréfasafn 1893, bls. 124).
Garðsins er ekki getið aftur fyrr en í bréfi séra Jóns Vestmanns (1769-1859) til hinnar konunglegu dönsku nefndar til varðveislu fornminja í Danmörku. Er bréfið ritað þann 25. júní 1818. Í lýsingu Jóns segir svo um garðinn: „Máské mætti telia Meniar-Fornaldar; Sýnishorn af þeim stóra Vórdslu Gardi, úr Hlídar-Vatni, alt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa Vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar/ sem óll skyldu þá hafa misfóst verid/ með læstu Hlídi að Lógbýli hvóriu;; – Eignad er verk þetta Erlendi Þorvardssyni sem Hér var Lógmadur sunnan og austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd í selvogi og Deidi þar 1576…
Þessum naudsynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidgaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, í Fyrndinni góda og prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, að sógn Manna“ (Frásögum um fornaldaleifar 1817-1823 (1983) bls. 228).
Fornigarður.
Næst er garðsins getið í Sýslu- og sóknarlýsingum árið 1840 og enn er það séra Jón Vestmann sem heldur á pennanum. Hljóðar lýsing hans svo: „Engar fornleifar er hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlends lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina. Var þá hagalandið milli garðs og fjalla, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hverju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þess vegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis. Þar um þessi vísa:
Fegurðin um fram annað
einna var þó mest,
vart mun verða sannað,
víða hafi sést
öll vera tún í einum reit,
garði varin miklum mjög
um meiri part af sveit“ (Sýslu og sóknarlýsingar, Árnessýsla, bls. 226-227).
Í Örnefnaskrá Vogsósa, sem var tekin saman á sjöunda áratug síðustu aldar, virðist nafnið Fornigarður fyrst koma fram svo að vitað sé (Örnefnaskrá fyrir Vogsósa, ártal vantar).
Brynjúlfur Jónsson nefnir garðinn ekki þessu nafni í grein sinni um athuganir sínar í Gullbrungusýslu. Hann kallar hann einungis aðalgarðinn (Brynjúlfur Jónsson, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903, bls. 51-52). Kannski festist nafnið við garðinn þegar menn uppgötvuðu að hugsanlega hafi verið átt við þennan garð í rekaskrá Strandarkirkju árið 1275. áður virðast menn hafa kennt hann við Erlend Þorvarðsson lögmann á 16. öld eins fram kemur hér að ofan. Margt mun vera kennt við þann mann og sumt með þjóðsagnablæ.
Sagt er í Örnefnaskrá að á garðinum sé hlið sem Gamlahlið heitir. Hafi þar verið eitt af hliðum Fornagarðs að lögbýlunum sbr. lýsingu séra Jóns Vestmanns hér að ofan…
Landið sem Fornigarður liggur um er að mestu leyti örfoka, sandorpið og lítt gróið. Víða sér í bera hraunhelluna. Sandurinn sem þarna liggur kemur trúlega aðallega frá ósum Ölfusár, enda má rekja þetta sandorpna og blásna land alla leið þangað. Þessi sandblástur hefur sennilega snemma orðið að vandamáli fyrir bændur í Vogsósum og byggðina þar hjá.
Einkennandi fyrir landslagið á svæðinu eru misháir hólar, lægðir og lautir með einstaka grónum þúfum þar sem kyrkingslegur gróður leynist á stöku stað. Landið er afar þurrt og djúpt virðist vera á grunnvatn. Eina ferskvatnið sem finnst í nágrenninu er Hlíðarvatn og ósinn sem úr því rennur til sjávar.
Rannsóknin á Fornagarði fólst í að grafa tveggja metra breiðan skurð þvert á garðinn. Fyrir rannsókn stóð aðeins einföld, u.þ.b. 0.45 metra há og u.þ.b. 0.40 metra breið grjóthleðsla upp úr sandinum þars em vegurinn átti að fara yfir. Þessi hleðsla var áberandi illa hlaðin og engar líkur á því að hún væri hluti af fornum hleðslum sem gætu verið allt að 700 ára.
Einungis nánasta umhverfi garðsins var kannað. Engin mannvistarlög fundust, en nokkur gjóskulög sáust undir garðinum sem ástæða þótti til að kanna frekar. Var jarðfræðingur fenginn til að kanna gjóskuna sérstaklega og reyna að fá á hreint hvort grunur um að undir garðinum mætti sjá H1 gjóskulagið (Hekla 1104) væri réttur.
Heildarhæð garðsins eftir uppgröft var 1.66 metrar. Þar af var 1.1. metrar vel hlaðinn eða hugsanlega úr upprunalega garðinum. Vantaði trúlega eitthvað á hæðina eins og hún hefur verið þegar garðurinn var og hét. Mesta breidd hans neðst var 0.96 metrar. Garðurinn mjókakði upp og var hann tæplega helmingi breiðari niðri en uppi við efri brún eldri hlutans.
Gulhvítt gjóskulag, sem lá „in situ“ (á upprunalegum stað) undir garðinum reyndist að öllum líkindum vera gjóska úr Heklu frá árinu 1104 (Bryndís G. Róbertsdóttir, Skýrsla um fornleifarannsóknir sumarið 2003; Bjarni F. Einarsson).
Jarðvegssiðin undir garðinum bentu einnig til þess að uppblástur á staðnum hafi hafist einhvern tímann um 1120, eða fyrir gosið mikla í sjónum úti fyrir Reykjanesi 1226.
Munnmæli og sagnir herma að upphaflega hafi Vogsósar staðið þar sem nú heitir Baðstofuhella austan við Ósinn. Nú stendur bærin hins vegar við útfall Óssins hjá Hlíðarvatni. Í upphafi hét bærinn Vogur eða Vágr (Landnámabók) og svo virðist hann heita árið 1275 þar sem Fornagarðs er fyrst getið [??]. Í máldaga Strandarkirkju árið 1367 er nafnið hins vegar Vogshús og aftur í máldaga sömu kirkju upp úr 1570 (Íslenskt fornbréfasafn III, bls. 212). Nú á dögum heitir bærinn Vogsósar. Hugsanlega eru þessar nafnabreytingar eitthvað tengdar flutningi bæjarins þótt telja megi að breytingin hafi ekki orðið fyrr en eftir að bærinn var fluttur. Breytingin hefur þá væntanlega orðið eitthvern tímann á árabilinu 1275-1367.
Fornigarður gæti hafa verið byggður utan um hinn upprunalega túngarð Vogsósa (Vágs) og þann nýja eftir flutninginn og þannig umlukið bæði gömlu túnin og þau nýju. Túnin lifðu gamla bæinn og geta hafa verið nýtt löngu eftir að hann hafði verið fluttur. Garðurinn er býsna langt frá bæjarstæðunum og afar umfangsmikill miðað við þá túngarða sem við þekkjum í dag. Meginhlutverk hans hefur vafalaust verið að vernda tún Vogsósa fyrir ágangi sandsins.
Vogsósar.
Sagnir um að Fornigarður hafi legið utan um alla byggðina í selvogi eru mögulegar ungar og til komnar löngu eftir að upprunalegi garðurinnn var gleymdur og Vogsóasr fluttir á núverndi stað. Bogadreginn garðurinn [yfir að Strönd] er líkur þeim túngörðum sem þekktir eru frá fyrstu öldum byggðar í landinu og bendir helst til þess að hafa legið utan um eitt býli.
Fornigarður.
Þannig voru t.d. túngarðarnir utan um landnámsbýlin, ef þeir voru til staðar yfirleitt. Síðar breyttust þeir í lögun og færðust gjarnan nær eða fjær býlunum. Þegar viðbæturnar við Fornagarð voru komnar á það stig að þær tengdust öðrum túngörðum annarra býla við Selvoginn má tala um að um alla byggðina hafi verið einn garður.
Fornigarður er byggður einhvern tímann eftir Heklugosið 1104 og fyrir gosið mikla í sjónum úti fyrir Reykjanesi 1226, hugsanlega einhvern tímann á bilinu 1120-1226.
Um 1104, eða nokkru fyrr, verður sandfok all áberandi á svæðinu og hlýtur það að hafa skapað ákveðin vandamál fyrir bændur þar. Til að verja tún fyrir þessum vágesti hefur mikill garður verið hlaðinn utan um gömlu og nýju tún Vogsósa hvort sem það hefur verið gert fyrir flutninginn á bænum eða á eftir.
Nafnið Fornigarður er ekki ýkja gamalt og alls óvíst hvort garðurinn hafi haft nokkurt nafn í byrjun. [Þórarinn á Vogsósum, f: 1931, nefnir garðinn jafnan Gamlagarð]. Smám saman missir garðurinn þýðingu sína, kannski vegna þess að menn gáfust upp á vonlausri baráttunni við sandinn. Þó hefur honum verið haldið við í seinni tíð með miklu minni tilkostnaði en áður. Grjóti hefur verið hrúgað upp eftir þörfum, en ekki vandað til verksins enda ekki þörf á því.
Rannsóknin leiddi í ljós að garðurinn er að mestu heill þar sem hann var skoðaður undir sandinum, þótt eitthvað kunni að vanta upp á efsta hluta hans.
Trúlega voru garðhleðslur eitt af stærstu verkum sem samfélag manna tók sér fyrir hendur á þjóðveldistímanum og lengi síðan. Um þær giltu strangar reglur sem kváðu á um skyldur manna og viðurlög ef þeim var ekki hlýtt. engar framkvæmdir voru jafn viðamiklar, nema ef vera skyldi stærri kirkjubyggingar. Líkja má garðhleðslum þjóðveldistímans við vegagerð nútímans. Umfangið var líklega svipað og kostnaðurinn sömuleiðis“.
Þegar framangreind rannsókn á „Fornagarði“ er skoðuð vaknar a.m.k ein spurning; beindist rannsóknin virkilega að hinum eiginlega Fornagarði eða var bara
Selvogur – Minja- og örnefnaskilti (ÓSÁ).
um einhvern annan og yngri garð að ræða?
Þegar uppdrátturinn hér að framan er skoðaður má sjá að um nokkur garðlög er um að ræða á svæðinu millum Strandar og Vogsósa. Augljóst er að garðurinn liggur til norðurs austan Strandar þar sem austurgarðurinn frá Snjóthúsi/-um kemur að honum þvert ofan við gömlu byggðina í Selvogi (sjá meðfylgjandi uppdrátt ÓSÁ).
Í rannsókninni er gengið út frá því að Fornigarður liggi á milli Strandar og Vogsósa, en var það svo? Þegar garðlögin þarna á millum voru gengin daglangt komum í ljós miklar efasemdir um að svo kunni að hafa verið í upphafi.
Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ.
Ofan við Stórhól sameinast tveir garðar (hnit:6350460-2141926); innri garður og ytri garður. Sá ytri er greinilega veigaminni (sá er kemur við sögu rannsóknarinnar). Sjá má þessa greinileg ummerki á klapparhæðum og holtum þar sem jafnan er einungis um eina steinaröð að ræða. Þessi garður liggur hins vegar alla leið yfir að Vogsósum og lá, þrátt fyrir strokleðrun (túnasléttun) ofan fjárhúsanna á Vogsósum II, alla leið niður að Imbukofahól og endar í Hlíðarvatni skammt neðar. Athyglisverðar minjar eru austan við þennan vörslugarð skammt ofan túnmörkin á Vogsósum; tvær fornar, nú grónar, fjárborgir með gerði umleikis. Annarri fjárborginni, þeirri syðri, hefur greinilega síðar verið umbreytt í stekk, en þó má enn sjá grjótleifar hinnar eldri fjárborgar umleikis.
Hinn grjótgarðurinn er augsýnilega veigameiri, bæði að breidd og hæð. Telja verður hann eldri en hinn efri af tveimur ástæðum; hann er nær hinni fyrstu byggð og meira er í hann lagt. Tilgangurinn fyrir tilurð hans virðist hafa verið annar en þess efri, þ.e. að halda búfé innan hans eða utan. Efri garðurinn virðist hins vegar einungis hafa verið varnargarður, bæði vegna breytinga á búsetu (bærinn Vágr er fluttur upp að ósum Hlíðarvatns móts við Nauthólma (Vaðhóll)) og breyttri þörf á að varsla svæðið fyrir búfé (kindum og kúm). Nýlegri álagshleðslan ofan á fornan garðinn hefur að öllum líkindum orðið til vegna varnaraðgerða sandfokinu á 13. öld og síðar.
Þegar svæðið var skoðað af nákvæmni kom a.m.k. þrennt áður upplýst í ljós; 1. leifar af garði, sem hefur verið sértaklega mikill umleikis, eru til vestan við „upplýstan“ vörslufornagarð er framangreind rannsókn beindist af, 2) fornleifar, sem eru ofan við tún Vogsósa II, virðast hvergi skráðar (tvær grónar fjárborgir þar sem annarri (þeirri syðri) hefur á einhverjum tíma verið breytt í stekk), og 3) hvergi er getið leifa beitarhúsa (sauðahúsa) á ósamótum affalls Hlíðarvatns frá því um aldamótin 1900. Að sögn Þórarins Snorrasonar (f. 1931) bónda á Vogsósum hlóð afi hans þessi tilteknu hús skammt ofan þar sem nú heitir Baðstofuhella. Að sögn Þórarins er Baðstofuhellan hæsti beri klapparhóllinn undan strandlandinu austan ósa affallsins.
Þar hafði hann oftlega setið í sprungu í hólnum daglangt og dundað sér við að skjóta fugl. Hins vegar væri augljóst, þegar hugmyndir eru uppi um að landnámsbýlið Vágr hafi verið þar, að það gæti vel verið sennilegt því á hans stuttu æfi einungis hafi sjórinn þá og þegar brotið mikið land af strandlengjunni frá því sem áður var.
Lágur hóll er skammt austan fyrrnefndra beitarhúsatófta, nánast niður á ströndinni. Í honum virðast vera mannvistarleifar.
Hvað sem allri umfjöllun um Fornagarð líður virðast (ekki síst að teknu tilliti til sambærilegra garða annars staðar, t.d. í Húshólma og Óbrinnishólma (þar sem einungis er í fornleifaskráningu getið um „fjárborg“, en hvorki topphlaðnar leifar húss né forna garða) vera miklar líkur til þess að vestari garðurinn sé eldri en sá er grafið var í títtnefndri rannsókn.
Rannsóknin, sem slík, stendur vissulega undir sér með tilheyrandi óþarfa kostnaði fyrir Vegagerðina og með samþykki Fornleifa-verndar ríkisins (þar sem enginn hjá stofnunni virðist nokkru sinni hafa litið nauðsynlega rannsókn gangnrýnum augum).
Niðurstaðan skiptir hins vegar mestu máli; framangreind rannsókn var nauðsynleg vegna gildandi laga og krafna þar af lútandi og var í rauninni mikilvæg að teknu tilliti til aðstæðna þar sem kanna þurfti þá fornleif er vegagerðinni var ætlað að spilla. Ef einhver þekking og dugur (fjármagn og vilji) væri fyrir hendi hjá Fornleifavernd ríkisins myndi stofnunin láta framkvæma fornleifarannsókn á hinum eiginlega Fornagarði, þ.e. garðinum er nær frá Snjóthúsi að Stórhól, vestan fyrrnefnds vörslugarðs og sunnan núverandi Suðurstrandarvegar. Ef af verður mun það verða tilefni til sérstakrar umfjöllunar.
Sjá meira um Fornagarð/Gamlagarð/Langagarð HÉR.
Heimild:
-Bjarni F. Einarsson, „Garður er grannasættir“, Árnesingur VII 2006, bls.205-230.
Fornigarður við Nes.
Hellisheiði II
Gengið var upp Hellisskarð frá Kolviðarhóli, framhjá Búasteini og eftir gömlu þjóðleiðinni um Hellisheiði. Hellukofinn var skoðaður á heiðinni og þar sem gamla gatan fer undir Suðurlandsveg var haldið út af henni til suðurs og inn á gamla Suðurlandsveginn. Honum var fylgt langleiðina að Kömbum, inn á Skógarveginn er liggur þar sunnan við Urðarás, með Núpafjalli og áleiðis niður að Þurá undir Hnúkum. Veginum var fylgt að Urðarásartjörnum (sumir segja Hurðarásavötnum). Þar var beygt út af honum til vesturs, skoðaðar rústir og síðan haldið áfram vestur með norðurrótum Skálafells. Gengið var með Hverahlíð að Lakahnúkum, um Hveradali og með Reykjafelli að upphafsstað.
Garður við Kolviðarhól.
Ætlunin var m.a. að leita að hugsanlegum helli á heiðinni er hún kynni að draga nafn sitt af. Jón Jónsson, jarðfræðingur telur sennilegt að stór hellir hafi verið á Hellisheiði, en hraun runnið fyrir opið og lokað því. Orustuhólshraun rann af heiðinni niður með Skálafelli, niður Vatnsskarð og myndaði m.a. svonefnt Þurárhraun. Hellirinn ætti, að hans mati, að hafa verið á sunnanverðri heiðinni, sunnan núverandi Suðurlandsvegar. Þekkt er að hellar, sem lokast hafa, hafi opnast að nýju. Ætlunin var m.a. að gaumgæfa svæðið m.t.t. þessa.
Hellisskað er á vestanverðri Hellisheiði, kallað Öxnaskarð að fornu, nálægt Kolviðarhól. Í Árbók Ferðafélags Íslands árið 2003 segir m.a.: Í Árnesþingi vestanverðu, eftir Þór Vigfússon, er fjallað um nafnið Hellisheiði með eftirfarandi orðum: „Ekki er vitað hví Hellisheiði heitir svo, enginn er hér hellirinn.“ Ennfremur segir í skýringargrein:
„Sigmundur Einarsson jarðfræðingur hefir getið sér þess til að Hellisheiði dragi nafn af Raufarhólshelli, en um Þrengsli og fram hjá hellinum kunni að hafa legið ein fjölfarnasta leiðin austur yfir fjall á fyrstu öld byggðar í landinu.
Gosið úr Eldborgum við Lambafell um árið 1000 teppti Þrengslin með Svínahraunsbruna og menn hafi því þurft að velja sér leiðir á nýjum forsendum. Við það kunni örnefnið Hellisheiði að hafa flust um set, norður á bóginn.“
Kolviðarhóll 2010.
Þessi skýring er alls ekki fráleit. Hugsanlegt er einnig að annar hellir hafi verið áður þar sem nú er Hellisheiði og Kristnitökuhraunið hafi runnið yfir hann*.
Sumir hafa talið að nafnið sé dregið af örnefninu Hellur, sem er austur af Stóra-Meitli þar sem miklar sléttar hellur eru og því dregið af kvenkynsorðinu ‘hella’. Nafn heiðarinnar hefði þá átt að vera ‘Helluheiði’ eða ‘Hellnaheiði’ en síðan breyst í Hellisheiði.“
Nú er breytt mynd á heiðinni; stórvirkjunarframkvæmdir í gangi með tilheyrandi mannvirkja- og vegagerð og háspennumastur liggja þvers og kurs um svæðið. Er þetta sýnin, sem vænta má á Brennisteinsfjalla- og Trölladyngjusvæðinu, einum fallegustu náttúruperlum landsins??? Getur verið að fólk með umhyggju fyrir náttúru og umhverfi hafi verið of upptekið af hálendinu, en gleymt því sem stendur því nær??? Virkjanir eru nauðsynlegar í nútíð og framtíð, en varla er til of mikils mælst að við þær verði jafnan gætt eins mikillar tillittsemi við landið og nokkurs er kostur. Fallegt virkjunarmannvirki í „ósnortinni“ náttúru þarf ekki að vera svo afleitt, en fylgimöstrin eru og verða hryllileg. Mun ein slík koma frá Reykjanesvirkjun á næstunni – langsum eftir Reykjanesskaganum. Þótt Reykjanesskaginn hafi hingað til verið eitt vanmetnasta útivistarsvæði landsins er ekki þar með sagt að hver sem er megi „vaða yfir það á skítugum skónum“.
Varða efst í Hellisskarði.
Hellisheiðasvæðið er verðmæti, hvort sem litið er til jarðhitans eða mögulegrar ferðamennsku, sem er einn hraðvaxnasta atvinnugrein hér á landi og gefur af sér meiri gjaldeyristekjur en flestar aðrar, að undanskildum fiskvinnslu og stóriðju.
Ljóst er að aðstandendur Hellisheiðarvirkjunarinnar ætla sér að vanda sig og raska ekki meiru en nauðsynlegt er. Hins vegar virðist vera óþarfi að krukka í fleiri gíga til efnisöflunar þegar hægt er að komast að því að eyðileggja einungis fáa.
Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er nafnið skrifað Hellirsheiði sem bendir til þess að orðið hellir sé þar að baki, en ekki hellur þær sem nefndar eru í lýsingunni. Samt er það svo að ruglingur getur verið í örnefnum hvort um er að ræða hellu eða helli.
Niðurstaðan er sú að langlíklegast er að orðið hellir sé í örnefninu Hellisheiði en álitamál hvort það er Raufarhólshellir eða einhver annar hellir sem nú er týndur.
Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið, sem kölluð hefur verið Gamli vegurinn, lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag.
Hellisskarð – gata.
Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann. Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Hann er borghlaðinn, 1,85 m á hvern veg og 2 m á hæð. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn.
Gangan hófst neðan við Kolviðarhól. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Vestan og norðan við bæjarstæðið eru sléttar grasi grónar grundir að Húsmúla og Svínahrauni, en að austan er mosagróið hraun. Almenn sögn segir, að í Kolviðarhól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.
Gemgið um Hellisskarð.
Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. „[Vorið 1883] sezt líka að á Kolviðarhóli Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum.“ Bærinn hefur staðið framan í hólnum, suðvestantil.
Nýtt hús á Kolviðarhóli var fullgjört 1878. Húsinu er lýst þannig: Tvö herbergi niðri og annað með ofni, ennfremur eldhús með suðuvél. Uppi tvö herbergi, annað til geymslu, en hitt fyrir ferðamenn.“ Ekki er vitað hvar þetta hús stóð m.v. fyrra sæluhúsið frá 1844, en þegar búskapur hófst á Kolviðarhóli 1883 var búið í þessu húsi og stóð það lengi eftir. Þorvaldur Thoroddsen lýsir húsinu í Ferðabók sinni og frétt birtist um bygginguna í Þjóðólfi 1878: „Sæluhúsið á Kolviðarhóli, sem að mestu var fullgjört í fyrra haust, hefir nú fengið þá aðgjörð, sem þurfa þótti, hefir það verið notað í sumar og fólk haft þar byggð. Húsið er 10-11 álnir á breidd og lengd með samsvarandi hæð, úr límdum steini byggt og allsterkt, í því er og skorsteinn og herbergi til íbúðar, en meiri hluti hússins er ætlaður ferðamönnum. . .. Hið eldra sæluhús er notað fyrir hesthús …“
Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.
Kolviðarhóll – bæjarhóllinn 2008.
Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Steinarnir eru allstórir, margir um 60x30x30 sm. Sumstaðar er steypt á þessar hleðslur. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Sunnan við hólinn er lítill heimagrafreitur með steyptum veggjum. Hleðslugrjót og steypuleifar eru á nokkrum stöðum á og utan í hólnum, einkanlega norðantil en ekkert af því svo mikið að talist geti húsaleifar. Upphlaðinn vegur, sennilega frá því snemma á öldinni – mögulega gerður með handverkfærum – liggur upp á hólinn að norðan úr vestri.
Hellisheiði – forna leiðin um helluna.
Guðni Þorgergsson fór að búa á Kolviðarhóli 1895. Stækkaði hann túniðs. Grjóthlaðinn garður er um túnið á Kolviðarhóli, alls 753 m langur með hliði á norðurhlið sem veit að Hellisskarði.
Garðurinn er sennilega hlaðinn í tveimur áföngum, annarsvegar er U-laga garður, mjög jafn og fallega hlaðinn suðvestan við bæjarhólinn á sléttri grundinni og er þar gróið upp á garðinn að innan og horn fagurlega sveigð, og gæti þetta verið sá hlutinn sem Jón hlóð. Hinn áfanginn hefur hafist í brekkurótunum beint suður af bæjarstæðinu og liggur svo upp á hjallann og svo norður fyrir hólinn við rætur hans og er hvasst horn að norðaustan, og gæti þetta verið tilkomið seinna og verið stækkun Guðna en ekki er þó óhugsandi að þessu hafi verið öfugt farið.
Kolviðarhóll 1907.
Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum.
Neðan við Kolviðarhól, „á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur Sælhús (ei langt frá veginum) svo kallað, hvort allt þessa tíma Ölves innbyggjarar hafa upp haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli.“, segir í lýsingu af því 1793.
Draugatjörn – sæluhúsið.
„Skömmu áður en komið er að fjallinu, sést lítill kofi, hlaðinn úr hraungrjóti, en hefur verið með torfþaki. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans. Árið 1845 var kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól.“
Kolviðarhóll 1939.
Sæluhúsið á Kolviðarhóli var að öllu leyti tréhús, en stóð í álnar hárri grjóttóft til beggja hliða og fyrir apturgafli. Það var því „nær 9 álna langt og 4 álna breitt, í þremur stafgólfum og portbyggt; þak, gaflar og hliðar tvöfalt niður fyrir bita; lopt er í öllu húsinu og hurð fyrir og stigi til uppgaungu; glergluggar uppi og niðri og járnrimlar fyrir rúðum niðri; gólfið af tvílögðu hellugrjóti. Á framgafli er hurð, sem gengur út og verður ekki tekin af hjörum, með loku fyrir sem skjóta má frá og fyrir bæði að innan og utan. Í húsi þessu hafa verið í einu 24 menn á loptinu en 16 hestar niðri.“ Ekki er vitað hvar á hólnum þetta hús stóð þó líklegt megi telja að það hafi verið á sama stað og bærinn seinna.
Reykjafellsrétt í Dauðadal.
Um 200 m norðvestan við Kolviðarhól, um 30 m vestan við veginn inn í Sleggjubeinsdali er stór grjóthlaðin tóft. Veggirnir eru grjóthlaðnir í gegn, mest 7 umför en mold eða torfi hefur verið hrúgað utan með að neðan og nær mest um 0,7 m upp á grjóthleðsluna. Torfleifar eru einnig ofan á syðri langveggnum. Bárujárnsleifar og fúnir húsaviðir eru inni í tóftinni en þó er sáralítið eftir af þekjunni. Í gólfinu sér í steypu sem líklega er leifar afa garða. Dyr á báðum göflum. Örugglega fjárhús.
„Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell, norðan í því er Dauðidalur, í honum er fjárrétt.“ segir í örnefnalýsingu. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal.
Hellisheiði – vörður.
Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kring um hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við í dældinni og enn fjær eru mosaþembur.
Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.
Gengið var á skarðið. Enn má sjá móta fyrir „Eiríksvegi“ Eríks Ásmundssonar frá Grjóta er lagður var yfir heiðina um 1880.
Upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.“ „Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; þetta er Búasteinn.
Búasteinn.
Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga sögu, þar sem Búi, þegar hann kom niður og Öxnaskarði og sá fyrirsát Kolfinns, reið að stórum steini, sem stóð undir skarðinu, „svo mikill sem hamar, mátti þá framan at eins at honum ganga“, og varði sig þar.“ Búasteinn er stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
„Austur frá Reykjafelli eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.“ segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Á þessari leið, sem merkt er með vörðum má víða rekja rás í helluna sem myndast hefur af umferð járnaðra hesta.
Helluhraun. Rásin sést fyrst og fremst þar sem hraunið er slétt og ógróið en á milli er mosagróður og grjóthröngl.
Hellukofinn.
„[Hellisheiðar] vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu.“ „Þegar komið er upp á heiðina [úr Hellisskarði], verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana. Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar … Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn.“
Rásin er misgreinileg, yfirleitt um 0,4 m breið (á bilinu 0,25-0,45 m) og víðast 0,05-0,1 m djúp en mest 0,26 m. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðr um djúpar rásir þar sem grjóri hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli klappasvæðanna og helsur ekki alltaf áfram í beinu framhaldi af því sem sleppti.
Gata um Helluna á Hellisheiði.
Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld. Sumstaðar sést engin rás þar sem þó er klöpp og annarsstaðar sést rásin aðeins sem örlítil dæld sem ekki verður greind nema af því að litamunur er þannig að bergið er ljósara í rásinni en í kring. Rásin sést mjög skýrt um 100 m sunnan við vörðuröðina, skammt vestan við neyðarskýli slysavarnarfélagsins við þjóðveg 1, en þar skammt vestan við hefur ráisin verið skemmd þar sem rafmagnsmastur hefur verið byggt á klöppinni en auk þess hefur hringvegurinn verið lagður yfir klöppina. Rekja má rásina um 200 m til austurs, sunnan við hringveginn, eða u.þ.b. jafnlangt og vörðurnar ná en þar austan við fer að halla undan fæti auk þess sem þar er minna um berar hraunklappir en meira um mosaþembur.
Í Hellukofanum.
Árið 1703 segir í lýsingu að „á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið. Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn, en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður.
Vörður á Hellisheiði.
Vörðuð leið liggur frá norðurhlíðum Skarðsmýrarfjalla, þar sem lækjargil er í fjallinu og allstór hvammur við fjallsræturnar og dæld í fjallið að ofan, beina leið yfir hraunið að neyðarskýli LHS við þjóðveg 1, en þar endar leiðin enda eru þar „gatnamót“ við vörðurnar á Hellisheiðarleið. Vegpóstur vísar á leiðina undir Skarðsmýrarfjöllum.
Vörðurnar eru með 50-60 m millibili, breiðar og lágar, 1,5-2 m í þvermál en fæstar hærri en 1,5 m. Þær eru ekki vel hlaðnar þó mikið grjót sé í þeim og eru margar hrundar að hluta til. Tæplega eru þetta gamlar vörður og gætu staðið í sambandi við starfsemi Slysavarnarfélagsins.
„Norður af Lambafellshrauni er Lambafell, sunnan við það er Stakihnúkur, er hann hjá Lágskarði. Eftir skarðinu liggur Lágaskarðsvegur.“ segir í örnefnalýsingu. „[Á Breiðabólstað] hefst Lágaskarðsvegur. Hann liggur yfir Bæjarlæk [við Breiðabólsstað] rétt fyrir ofan Fossinn, inn Torfdalshraun, austan Torfdalsmels og innan til á móts við Krossfjöll austur yfir Eldborgarhraun, austur að Lönguhlíð.“
Lakastígur.
Leiðin liggur frá Hveradalaflöt, undir austurhlíðum Lakahnúka og síðan um breitt skarðið yfir slétt og greiðfært helluhraun (að mestu mosagróið) og síðan niður úr skarðinu (sem er meira eins og grunnt dalverpi en skarð) til Þorlákshafnar og í Selvog. Á herforingjaráðskorti frá 1909 (1:50000) er norðurendi leiðarinnar sýndur vestar en hér er gert ráð fyrir. Þar liggur Lágaskarðsleiðin útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt en sú leið er mun ógreiðfærari þó hún sé styttri. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns.
Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið.
Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul.
„Ofarlega í Kömbum er Biskupslaut. Sagt er að Hallgrímur biskup hafi áð í lautinni og í gamni nefnt lautina þessu nafni.“
Orrustuhóll.
Í lýsingu 1703 segir að „fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn, þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.“ segir Hálfdan Jónsson í lýsingu sinni. „Austan undir hrauninu er Orustuholl.
Réttin við Orrustuhól.
Gömul sögn segir, að á þessum slóðum hafi verið sundurdráttarrétt. Áttu réttarmenn að hafa orðið missáttir og barist á hólnum. Engin mannvirki sjást þar nú.“ segir í örnefnalýsingu. Kolbeinn Guðmundsson telur sig hafa fundið þessar gömlu réttir eftir lýsingu Hálfdanar: „Réttirnar hafa verið fast við hólinn suðvestanverðan. Hefir þar verið að miklu leyti sjálfgert aðhald. Hóllinn annars vegar og hraunbrúnin hins vegar. Hvort tveggja snarbratt, svo að lítið hefir þurft að hlaða. Réttunum hefir verið skipt í tvennt. Vestari hlutinn talsvert minni. Dilkar hafa ekki verið eins og nú tíðkast í réttum. Aðaldyr snúa í austur, og hafa þær verið um 2 faðmar að vídd.“ Suðvestan við Orrustuhól er alldjúp gjá með bröttum veggjum sem liggur í sveig frá austri til suðvesturs. Hún er um 15-20 m breið og alls um 70 m löng og hækkar botninn mjög til vesturs og dregst gjáin þar saman. Austurendinn opnast út á gróið hraunið sunnan og austan við hólinn en að vestan er yngra og úfnara hraun sem gjáin er í. Þar sem gjárbotninn verður ósléttur vestantil og fer að hækka mikið hefur verið hlaðið steinum fyrir og eru þeir mjög mosagrónir. tveir stórir steinar í botninum gætu verið komnir þangað af sjálfum sér en sunnan við þá er greinileg hleðsla, um 1,5 m löng og um 3 umför. Engin önnur mannvirki eru greinileg á þessum stað en gjáin hefur verið mjög gott aðhald af náttúrunnar hendi og hefur þó þurft að hlaða fyrir austurendann en þar sjást engar hleðslur.
Hellisheiðarvegur.
Gjáin er gróin í botnin en hrunið hefur ofaní hana, nú síðast allmikið bjarg í jarðskjálfta í júní 1998.
„Eftir bardagann í Orusturhólsréttum áttu Ölfusingar og Mosfellssveitarmenn að hafa skilið félag sitt um fjallleitir, og fluttu þá Ölfusingar réttir sínar austur á heiðina, austur fyrir Hengladalaá. [Árið 1878 var fé rekið inn í Hengladali] Var riðið fram Smjörþýfi og fram með Hengladalaánni, og sýndi þá gamall maður, er í förinni var, okkur yngri rekstarmönnunum þessar réttir. Sást þá vel fyrir þeim, bæði almenning og dilkum, þótt djúp skörð væru hrunin í veggi. Sumir dilkanna voru allstórir, gerði ekkert, almenningsdyr sneru á Hengil. Sennilega hefir Ölfusingum þótt afundið að hafa lögréttir sínar uppi á fjalli, og voru því réttirnar færðar undir Ingólfsfjall að Hvammi þegar fyrir 1700.“ Réttin fannst ekki og gæti verið farin í ána sem brýtur mikið af bökkunum. Smjörþýfi er um 1,5×0,5 km stór þúfnamói, mjög grösugur og greinilega gott beitiland. Suðaustan við tekur við lyngmói.
Hellisheiðarvegur.
Af lýsingunni að dæma hefur réttin átt að vera norðan til á Smjörþýfi nálægt ánni og reiðgötunum sem liggja nálægt henni inn í Hengladali og eru mjög skýrar. Farvegur eftir leysingavatn er einnig undir brekkurótunum austanmegin norðantil á Smjörþýfi og gæti þar hafa verið réttarstæði sem síðan hefur horfið.
„Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m í þvermál að innan á sömu klöppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak.“ segir í örnefnalýsingu. Kofinn er um 70 m norður af hinni vörðuðu Hellisheiðarleið, um 1,3 km vestan við neyðarskýli LHS við þjóðveg 1.
Kofinn stendur framarlega á klapparbrún og er hann sjálfur á upphækkun á klöppinni. Kofinn sést allsstaðar af heiðinni. Í kringum hann sést hvar hleðslugrjót hefur verið rifið upp. Húsið gerði Þórður Erlendsson, þá bóndi á Völlum, síðar Tannastöðum.
Hellisheiðarvegur.
Biskupsvarða var stór og hlaðin í kross með 4 arma, þá var skjól í kverkunum. Hún var mjög gömul og hrunin í rúst. Hún stóð á klöpp hægra megin við veginn, þegar suður var farið (til Faxaflóa). Kofinn var byggður úr sama grjótinu, og að öllum líkindum á sömu klöppinni. Heimild fyrir þessu er Skúli Helgason, eftir Kolbeini Guðmundssyni bónda á Úlfljótsvatni, en hann hafði það eftir gömlum mönnum og langminnugum.“ Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr). „Á þeim stað sem hétu Syðri-Þrívörður var laust eftir 1820 byggður sæluhúskofi, borghlaðinn úr grjóti og þéttur með mosa. Kofi sá stendur enn óhaggaður eftir rúm 150 ár. Lítið skjól er þar nú því að þétting öll er fokin í burtu.“ SB III, 282. Kofinn er ferhyrndur að innan, 2×2 m og 1,85 m undir þak, um 20 umför af 7-15 sm þykkum hraunhellum. Suðausturhorn þaksins er aðeins farið að síga inn en annars standa hleðslurnar mjög vel. Dyr eru á norðurhlið, austantil. Veggir eru um 0,8 m þykkir við dyraop, þar er þröskuldur, 2 umför af hraunhellum. Talsverður mosi og skófir eru á kofanum. Inni í kofanum er hart moldargólf, að mestu slétt. Ekkert friðlýsingarmerki er á staðnum.
Hellisheiðarvegur.
„Vestur Ölkelduháls liggja hreppamörki milli Ölfushrepps og Grafnings. Þar er Brúnkollublettur nyrðri á mörkum hreppanna, áningarstaður ferðamanna, sem fóru leiðina milli Hrauns og hlíða.“ segir í örnefnalýsingu. Brúnkollublettur er allstór (um 200×200 m) þýfður grasblettur með grónum götupöldrum sem liggja SV-NA, fast norðan við vatnskilin þar sem hálsinn er lægstur og breiðastur, sunnan undir lágum melhól með grösugum suðurhlíðum. Um 100 m austan við nýjan línuveg sem liggur yfir hálsinn. Nafnið gæti einnig hafa náð yfir grasteyginga í austurhlíðum Hengilsins, um 400 m vestan við þennan móa og er nafnið oftast merkt þar á kortum. „Þýfður grasblettur í breiðri kvos. Þar er mjög skjólgott, a.m.k. í norðanátt.“
Þrívörður vestari/nyrðri heita þar sem neyðarskýli LHS við þjóðveg 1 er nú (neyðarskýlið er reyndar horfið, en sökkullinn stendur enn eftir).
Aðrar Þrívörður eystri voru við gamla veginn í Kömbunum.
Haldið var yfir Suðurlandsveg og yfir á gamla veginn, sem fyrrum var nýr.
Sá, sem fylgir gömlu götunni yfir Hellisheiði, gerir sér grein fyrir nafngiftinni. Gatan er á sléttri hellu svo til alla leiðina, sem er bæði óvenjulegt á svo langri leið og þærgilegt þar sem heiðarveg er að ræða.
Smiðjulaut – Smiðjutóft.
Nýr vegur var lagður um Hellisheiði 1894-95: „Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður [Thoroddsen landsverkfræðingur] færa veginn frá hinu bratta og óvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjafell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá hinn sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar. / Sigurður mældi fyrir veginum upp kamba og varð nú að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 hárnálarbeygjur á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. .. . Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir.“
Skógargatan.
Skógargötunni var fylgt áleiðis til suðurs. Rifjuð var upp sagan af manni einum úr austursýslunni, sem fyrir löngu síðan lagði af stað að heiman og ætlaði til sjóróðra suður með Faxaflóa. … Þetta var um vetur, sennilega í febrúar. Var maðurinn fótgangandi og einn á ferð. Segir eigi af ferðum hans, fyrr en hann kemur á Hellisheiði. Var það að hallandi degi. Veður var kalt og fjúkandi, svo að hann treystist naumlega til að rata rétta leið og allt af gerðist hríðin svartari, eftir því sem lengra leið á daginn. Var þá eigi akvegur kominn yfir heiðina og vörður meðfram veginum mjög af skornum skammti. Loks tekur maðurinn þá ákvörðun að leita sér skjóls þar á heiðinni og helzt með því að grafa sig í fönn, áður en hann færi mikið afvega. Fer hann nú að skygnast um eftir stað, er nota megi í þessu augnamiði, og eftir nokkra leit finnur hann sér fylgsni nokkurt eða skúta og borar sér þar inn. Þá er hann hefir skriðið skammt, finnur hann, að fylgsninu hallar niður á við, og því lengra sem hann kemst, verður ætíð ljósara fyrir augum hans, og getur hann vel greint það, er fyrir augun bar.
Eiríksbrú (Eiríksvegur) á Hellisheiði.
Loks kemur hann þar niður á flatlendi, grasi gróið. Var þar fagurt um að litast og hlýtt og bjart, eins og sumar væri. Gengur hann þar um völlu víða og fagra og kemur að vatni einu eða tjörn. Þar á bökkum vatnsins kemur hann auga á stóra lóuhópa, er lágu þar dauðar eða sofandi, og hafði hver þeirra grænt blað í nefinu. Þegar hann hefir virt þetta allt fyrir sér, sezt hann niður og tekur sér hvíld eftir gönguna. Tekur hann síðan nestismal sinn og matast, sem honum líkaði, og að því búnu fær hann sér vænan svaladrykk úr tjörninni. Býst hann nú um þar á hentugum stað að taka á sig náðir. Leggst han nú fyrir til svefns og hagræðir sér eftir föngum og bagaði eigi kuldi. Sofnaði hann þegar og svaf vært um nóttina, og var líðan hans svo góð sem vænta mátti. Næsta morgun vaknar hann hress og glaður eftir næturhvíldina. Fær hann sér nú morgunverð, áður gangan sé hafin, og á eftir góðan svaladrykk úr tjörninni. Lágu lóurnar kyrrar eins og kvöldið áður. Þegar þessu er lokið og hann er ferðbúinn, fer hann að leita upp á yfirborð jarðarinnar. Er eigi annars getið en að honum hafi gengið griðlega útgangan. En þegar út var komið, var hríðinni af lett og komið viðunanlegt veður. Er hann nú glaður yfir því, að svo vel greiddist úr með náttstað kvöldið áður, svo illa sem á horfðist. Setur hann nú nákvæmlega á sig ýmis kennimerki, svo að honum mætti takast að finna staðinn, þegar vora taki og hann haldi heimleiðis að liðinni vertíðinni.
Hellisheiði – Snjóþyngsli á Hellisheiði, líklega á fjórða áratug síðustu aldar. Oft var Hellisheiði lokuð frá nóvember fram í maí vegna ófærðar. Snjór var mokaður í fyrsta skipti á Hellisheiði vorið 1927, með handskóflum, en ruðningur með stórtækari vinnuvélum hófst ekki fyrr en á árum síðari heimsstyrjaldar.
Þegar hann þykist hafa fest þetta í minni sér svo glögglega, að eigi geti skeikað, leggur hann af stað og heldur ferðinni áfram, eins og leið liggur, og ber nú ekkert sögulegt við. Komst hann þangað, er hann hafði ætlað að róa um vertíðina, og gekk það allt skaplega. … Leið nú vertíðina til enda, og að henni lokinni býst hann að halda heimleiðis, … þegar hann kemur á Hellisheiði, ætlar hann að koma við í hinum einkennilega stað, þar sem hann hafði náttstað haft veturinn áður. Gætir hann nú nákvæmlega að merkjum þeim, er hann hafði sett sér að muna. En hvernig sem hann leitaði og gekk aftur og fram, var honum ómögulegt að finna staðinn, og var sem einhver hula legðist þar yfir. Vera má, að þessi maður hafi ferðazt þessa leið oftar, en staðinn fann hann aldrei síðan, og er því líkast, að hann hafi verið numinn í einhverja huliðsheima, þegar honum lá mest á og tvísýnt var, hvort hann fengi lífi haldið næturlangt sakir illviðris og kulda.
Hellisheiðarvegur um 1900.
Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum.
„Þegar nokkuð var liðið fram á næsta vor, tók Margrét að gá til veðurs og líta í kringum sig á nýjan leik. Hljóp hún loks aftur að heiman og hélt þá enn í vesturátt. … Hún lagði nú leið sína vestur yfir Ölfus og vestur á Hellisheiði og hafðist þar við í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á suðuferðaleið manna. var hún þar á slangri um sumarið, og stóð mörgum ógn af henni. Oft greip hún plögg ferðamanna, er þeir voru í tjaldstöðum, einkum þegar þoka var og dimmviðri, og svo gerðist Margrét stórtæk um afla, að hún kippti skreiðarböggum á bak sér og hljóp í burtu með. Tóku menn þá að ferðast margir saman í hóp, og hafði Margrét sig þá minna í frammi. En bæri svo við, að menn færu einir síns liðs eða svo fáir saman, að hún treysti sér til við þá, máttu þeir eiga vísa von á fundi hennar, og hlaut hún þá alla jafnan að ráð sköpum og skiptum þeirra í milli. … [Guðmundur Bjarnason á Gljúfri í Ölfusi fór í grasaferð þetta sumar og unglingspiltur með honum] Fara þeir sem leið liggur og ætla í Hverahlíð.
Hurðarásvötn.
En er þeir koma upp á Kambabrún eða í Hurðarásvötn, fór veður að þykkna og gerði kalsa slyddu, svo að háfjöll urðu gráhvít … héldu þeir … áfram ferðinni og allt suður fyrir Reykjafell. Gerir þá sólskin og lokgn og hið bezta veður. Halda þeir nú áfram, unz þeir koma niður í Svínahraun, en þangað vr förinni heitið. Finna þeir þar nægtir fjallagrasa um daginn, svo að fullar klyfjar voru á reiðingshestinum og þó nokkuð um fram, er þeir bundu við söðla sína. Var þá nálægt miðjum aftni, er þeir höfðu lokið við að búa upp á hesta sína og bjuggust til heimferðar. / Er þeir Guðmundur og fylgdarmaður hans voru ferðbúnir, vildu þeir taka sér matarbita, áður en þeir legðu af stað, því að ekki höfðu þeir gefið sér tíma til þess fyrr um daginn. Fór Guðmundur og náði í malpoka þeirra og bjóst til að setja sig niður, meðan hann mataðist, og hélt á malnum í hendinni. Veit hann þá ekki fyrr til en þrifið er í malnum heldur sterklega. Guðmundur víkst við skjótt og sér, að þar er þá komin Margrét sú hin nafnkunna og vill kippa af honum malnum. En hann lá ekki á lausu, því að Guðmundur var vel fær að afli. Sviptast þau nú um stund og hnykkja malnum á víxl, svo að hvorugt vinnur neitt á.
Engidalur – hleðslur fyrir skúta.
Gekk á þessu um hríð, en ekki er getið orða þeirra. Loksins sleppti Guðmundur malnum og réðst á Margréti. Hún sleppti þá líka og tók á móti, og það ekki með mjúkum meyjarhöndum. Áttust þau við um stund, og sparði hvorugt af, unz Guðmundi vili það til, að hann steytti fót sinn við steini. Hrasaði hann áfram og fell við, en Margrét á hann ofan. Guðmundur brauzt þá um, sem hann mátti, en svo var Margrét sterk, að hann gat með engu móti velt henni af sér, og fékk hún jafnharðan hlaðið honum. Loks tók Guðmundur að mæðast og sá nú sitt óvænna. Hét hann þá á fylgdarmenn sinn að veita sér lið. En pilturinn var svo hræddur, að hann þorði hvergi nærri að koma. Leizt honum eigi ráðlegt að hlutast til leiks þeirra, þar sem húsbóndi hans, tveggja manna makinn, lá undir, en Margrét, fjallaflagðið, gein yfir honum, svo grimmileg sem hún var. Duldist piltinum það eigi, að svo ólíklega hafði farið, að Guðmundur hafði beðið lægra hlut í viðskiptum þeirra Margrétar, þótt mikilmenni væri og harðfengur í meira lagi.
Tóftir útilegumanna í Engidal.
Guðmundur þóttist nú illa kominn, en vildi þó ógjarna griða biðja. Varð hér skjót úrræði að hafa, því að Margrét gerði sig líklega til að sýna honum í tvo heimana. Verður það þá fangaráð Guðmundar, að hann dregur hana af sér og bítur á háls henni fyrir neðan hökuna, allt það er tennur tóku. Vildi hún þá sem skjótast losna úr slíkum faðmlögum, en þess var enginn kostur. Lagði Guðmundur fast að hálsi hennar, og eigi létti hann fyrr en hann hafði bitið í sundur á henni barkann, og varð það hennar bani. Eftir það velti hann Margréti af sér og staulaðist á fætur, dasaður mjög eftir allar þessar aðfarir, en þó óskemmdur að mestu. Þeir félagar drógu síðan Margréti burt þaðan og huldu hræ hennar í hraunskúta nokkrum eða klettagjögri og báru á það grjót og mosa. Eftir það fóru þeir til hesta sinna og stigu á bak og héldu heimleiðis. Guðmundur bauð nú fylgdarmanni sínum mestan varnað á því að segja nokkrum frá atburði þeim, er gerðist í ferð þeirra, því það gæti kostað líf þeirra beggja, ef uppvíst yrði. Hét hann þagmælsku sinni fullkominni …
Tóft útilegumanna í Engidal.
Ferðamenn hættu nú alveg að verða varir við Margréti, eins og við var að búast, og var talið víst, að hún myndi farin heim til sín austur í Flóa. En þegar lengra leið frá og það varð kunnugt, að hún hafði ekki komið heim til sín, kom sá kvittur upp, að Guðmundur á Gljúfri myndi hafa séð fyrir henni … / Það var annaðhvort á síðari árum síra Jóns prests Matthíassonar í Arnarbæli eða á fyrri árum síra Guðmundar Einarssonar þar, að Gísli [Jónsson á Sogni í Ölfusi] fann leifar af mannsbeinum suður í Svíanhrauni, sem höfðu verið hulin grjóti og mosa. Gísli fór þegar er heim kom á fund prests og sagði honum til beinanna og vildi láta sækja þau og jarðsetja í Reykjakirkju. En prestur kvað slíkt engu gegna og hæddist að þessum fundi Gísla, sagði vera mundu hrossbein, sem slátrað hafði verið og eitrað síðan fyrir refi … Talið var, að bein þau, er Gísli fann, mundu hafa verið bein Fjalla-Margrétar.“ Guðmundur banamaður Margrétar var fæddur 1765 en bjó á Gljúfri í Ölfusi 1805-1815 og hefur útlegð Margrétar þá verið á því tímabili. Guðmundur dó 3.5.1848. Önnur sögn er til um viðureign Guðmundar við útilegukonu en það á að hafa verið í Ólafsskarði og með öðrum atburðum.
Núpastígur.
1703: „Fyrir austan Valhnúk er strax Gnúpahnúkur, með miklum hömrum, nær allt að Gnúpastíg, hvor eð liggur fyrir ofan Gnúpatún upp á fjallið, brattur yfirferðar, og samtengist við almenningsveginn á sunnanverðri Hellirsheiði, þar Hurðarásvötn heita.“
„Núpastígur: Gömul gata, sem lá á ská upp fjallið af Hjallhól. Þar var farið með heyband ofan af fjallinu. Ein kona fór þar niður ríðandi í söðli og þótti það með tíðindum.“
1703: „Upp á [Hverahlíð] er hátt fell, mjög blásið, þó án hamra, er Skálafell nefnist, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur.“ 1840: „.. . sunnanvert á [Hellisheiði] er Skálafell – dregur það nafn af skála Ingólfs, sem mælt er þar hafi staðið, þó ekki sjáist menjar hans. svo hér verði greint .. .“
„Í litlum hvammi rétt ofan við Skíðaskálann eru Hverar þeir sem dalirnir eru við kenndir. Móts við þá er allstór grasflöt sem nær að Lakahnúkum. Hún heitir Hveradalaflöt. Þar áðu ferðamenn hestum sínum áður en þeir lögðu á Hellisheiði, og er þeir komu af heiðinni.“ Þjóðvegur 1 liggur þvert yfir Hveradalaflöt, sem er slétt grasflöt sem nær frá skíðaskálanum í Hveradölum norðan við veginn og að hnúkunum sunnan við hann. Flötin er allt að 500 m löng frá norðri til suðurs en innan við 200 m á breidd.
Slétt grasflöt milli hálfgróinna hlíða heiðarinnar að austan og hrauntagla að vestan. Mosi í grasrótinni og grasið ekki þétt.
Hveradalir.
Fyrir utan þjóðveginn hafa hús verið byggð á flötinni, fyrir utan skíðaskálann og mannvirki í kringum hann, eru sunnan við veginn skátaskáli og allstór braggi og aðkeyrslur að þessum byggingum. Allt að fjórðungur flatarinnar er því horfin undir mannvirki. Á Hveradalaflöt hefur sennilega ekki verið reglulegur áningarstaður fyrr en þjóðvegurinn var lagður sunnan við Reykjafell yfir flötina 1894. Fyrir þann tíma hafa varla margir átt þar leið um nema þá helst þeir sem fóru Lágaskarðsveg.
Vörðuhóll heitir í Vestur-Hálsum, austan við Hrossabotna sem er dalverpi sunnan í Stóra-Sandfelli. Sunnan við Vörðuhól eru Vegarbrekkur og er þetta á Sanddalaleið.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/
-http://www.bokasafn.is/
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/
-Árbók Ferðafélags Íslands árið 2003.
-Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar (1979), bls. 238.
-Reykjavíkurpóstur 1847/8, bls.115; Sunnanpóstur III, 95; Ný tíðindi 1851, 9-10; Ingólfur I, 75-76.
-Þorvaldur Thoroddsen, Ferðabók I, 125; Þjóðólfur 25.9.1878, 106.
-Þjóðólfur XXVI, 134-135; XXVII, 27-28; XXVIII, 56, 129-130; XXX, 32.
-Þjóðólfur 25.9.1878, bls. 106.
-Ísafold VI (1879), 128.
-Stjórnartíðindi 1876, 86.
-Skrá um friðlýstar fornleifar, 77.
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr); SB III, 280-282.
-Áningarstaðir á lestamannaleiðum, 148; Magnús Grímsson.
-Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi, Landnám Ingólfs 2 (1985), 88.
-Þórður Ö. Jóhannesson: Nokkur örnefni varðandi landnýtingu og þjóðtrú í Ölfusi, 12.4.1976 (hdr); SB III, 282.Íslenskir sagnaþættir XII, 9-12.
-Íslenskir sagnaþættir III, 6-7.
-Íslenskir sagnaþættir III, 7-13.
-Blanda VI, 187-89.
-E.J. Stardal: „Mosfellsheiði og nágrenni.“ ÁFÍ 1985, 137.
-Farfuglinn 19(1), (1975), 14.
-Lýður Björnsson: „Á slóðum Fjalla-Eyvindar eldri og Margrétar Símonardóttur.“ Útivist 12 (1986), 12-13; ÍA II, 247, 512, IV, 119-120; AÍ VII, 349, 403-405.
-Útilegumenn og auðar tóftir, 146-50; Þórður Sigurðsson, Tannastöðum: „Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra.“ Lesbók Mbl. 1939, bls. 30-31.
-Kort Ingólfs Einarssonar 1969.
-Gráskinna hin meiri I, 239-243.
-Jón Pálsson: Austantórur II, 134.
–Örnefnaskrá Núpa, Þórður Ö. Jóhannsson skráði 1968, Örnefnastofnun.
Hellisheiðarvegur.
Húshólmi – tillögur um rannsóknir – verndun og aðgengi
Eftirfarandi „Tillögur liggja fyrir um frekari rannsóknir, verndun og aðgengi að minjasvæðinu í Húshólma“ í Ögmundarhrauni sem og nærliggjandi svæðum:
Þörf á ítarlegri rannsóknum
Húshólmi – skilti.
Mikilvægur þáttur fornleifaverndar er varðveisla minja, rannsóknir og varðveisla upplýsinga. Mikilvægt er fyrir þjóðina að vernda minjar; hlúa að menningararfi hennar.
Skv. Þjóðminjalögum lætur Fornleifavernd, eftir föngum, skrá allar þekktar fornleifar. Skv. reglugerð um þjóðminjavörslu annast Fornleifavernd einnig rannsóknir, skráningu og kynningu fornleifa.
Mikilvægt er að vettvangsskoða og skrá vandlega allar fornleifar á Húshólmasvæðinu sem og á aðliggjandi svæðum. Þá þarf að gera áætlun um frekari rannsóknir á svæðinu, bæði út frá mögulegum aldri minjanna og hraunsins sem og samhengi þeirra. Þá þarf að rannsaka sérstaklega alla garða, tóftir og meintan grafreit með hliðsjón af tilurð, meintum íbúum og öðru menningar- og búsetusamhengi svæðisins í heild. Ekki er ólíklegt að niðurstaðan geti haft áhrif á hina stöðluðu mynd af landnámi hér á landi. Það er jafnframt ein helsta skýringin á því hvers vegna ekki hafa þegar verið hafnar skipulegar rannsóknir á svæðinu.
Gengið í Húshólma um Húshólmastíg.
Rannsóknir, s.s. fornleifaskráning, hafa farið fram í og við Húshólma, samanber m.a. framangreindar athuganir Brynjúlfs, rannsóknir Sigurðar Þórarinssonar, Jóns Jónssonar og Hauks og Sigmundar og skráning Bjarna F. Einarssonar vegna fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar.
Í fornleifaskráningu Bjarna kemur m.a. fram að fjárborgin í Húshólma sé eldri en frá 1226, garðar eru sagðir eldri en 1550 sem og tóftir við hólmann. [Líklega er hér ekki um fjárborg að ræða heldur virki í samhengi minjasvæðisins í heild].
Til fróðleiks má geta þess að í fornleifaskýrslunni er Húshólmastígur t.d. sagður vera Ögmundarstígur og vörður austan Ísólfsskála sagðar vera við gömlu þjóðleiðina, en þær voru hlaðnar til gamans af syni Guðmundar á Ísólfsskála og vinnumanni á bænum á fyrstu áratugum 20. aldar (sbr. umsögn bróður þeirra). Þær nefnast Bergur og Brandur.
Vörðurnar Brandur og Bergur.
Suðurstrandarvegur hefur á undanförnum árum fengið talsverða athygli, en nokkrar rannsóknir hafa farið fram á svæði er lútað hefur að fyrirhugaðri legu hans, m.a. í gegnum Ögmundarhraun. Um tíma var ein hugmynd að leggja veginn í gegnum ofanverðan Húshólma. Skiptar skoðanir voru um ágæti þess m.t.t. verndunarsjónarmiða minjanna.
Bjarni gerði athugasemdir við umsagnir umsagnaraðila v/Suðurstrandarvegar í mars 2001. Í þeim kemur m.a. fram að “getið hefur verið um fyrirhugaða lagningu Suðurstrandarvegar þar sem hann liggur m.a. í gegnum Ögmundarhraun. Aðilar gáfu út umsagnir um legu vegarins, m.a. með tilliti til fornleifa. Í athugasemdum kom m.a. fram:
Fornleifafræðistofan hefur fengið til athugunar umsagnir fjögurra aðila um tillögu að matsáætlun Suðurstrandarvegar.
Húshólmastígur um Ögmundarhraun.
Allar eru ábendingarnar sem fram koma góðar og eru umsagnaraðilar sammála þegar svo ber undir. Þó er einn staður sem umsagnaraðilar eru ekki sammála um, en það er Húshólmi í Ögmundarhrauni í landi Grindavíkur. Þjóðminjasafn, Hafnarfjarðarbær og Landmótun leggja til að hinn fyrirhugaði vegur verði færður upp fyrir hólmann, en Grindavík mælir með því að hann verði lagður í gegnum hann.
Rökin með færslunni upp fyrir Húshólma eru þau að um samfellt minjasvæði frá Húshólma, Fitjum og að Selöldu sé að ræða og að færsla vegarins komi betur út vegna tengingar við Ísólfsskálaveg, þ.e.a.s. aðkomu að Krýsuvíkurhverfi að sunnan (Landmótun og Hafnarfjarðarbær).
Gengið í Húshólma.
Þjóðminjasafnið bendir á að vegurinn muni skera í sundur Húshólma og fjórar fornleifar lenda ofan vegar. Væntanlega er gengið út frá sömu forsendum og Hafnarfjarðarbær og Landmótun gera, þ.e.a.s. að um samfellt minjasvæði sé að ræða, allavega í sjálfum Húshólmanum.
Rök Grindavíkur með því að hafa veginn í gegnum Húshólma voru nokkur: Þau eru; öryggisatriði varðandi hugsanlegan sjávarháska, öryggi gagnvart snjóalögum og skemmti- og fagurfræðilegt gildi vegna ferðamanna (Grindavík). Einnig er bent á að leiðin muni liggja nærri fornminjum og áhugaverðum stöðum sem ekki hafa notið sín eins og verðugt væri hingað til. Er hér átt við þá staðreynd að minjarnar í Húshólma eru afar óaðgengilegar. Þjóðminjasafnið tekur undir þetta sjónarmið en mælir þó gegn legunni. Því ber að álykta að eina röksemdin fyrir færslu vegarins norður fyrir Húshólma sé samfellt minjasvæði.”
Bjarni telur hins vegar að Húshólmi og Selalda eigi fátt annað sameiginlegt en að á þeim séu fornleifar. Hinar fornu rústir í Húshólma séu mun eldri en rústirnar við Selöldu og af allt öðrum toga. Einnig megi benda á að svæðin séu í sitt hvoru sveitarfélaginu og að þau hafi ólíkar skoðanir til umgengis og verndunar minjanna á þeim. Bjarni telur að Húshólminn sjálfur sé merkilegt fyrirbæri, en það sé allt önnur saga.
Gengið í Húshólma.
“Skráning fornminja er einn þáttur rannsókna. Í Húshólma þarf að skrá allar fornminjar, hvort sem um er að ræða tóftirnar vestan hólmans, garða, fjárborg, rétt/stekk, gerði, refabyrgi, tóft ofan við Hólmasund, gerði vestan í Ögmundarhrauni, stíga og annað er tengst gæti og skapað heilstæða mynd af minjasvæðinu. Færa þarf upplýsingarnar inn á aðgengilega kortagrunna, merkja minjar, gera ráðstafanir til að varðveita þær, gera ráð fyrir reglubundnu eftirliti eða vöktun á svæðinu, koma á góðu samstarfi við framkvæmda- og hagsmunaaðila tengdum svæðinu, þátttöku almennings og áhugafólks, upplýsingamiðlun og fjármagn til þeirra aðgerða og ráðstafana er lagðar verða til.”
Í grein á vefsíðu Fornleifafræðistofnunar segir Bjarni m.a. að “samband náttúru og menningar hefur verið manneskjunni hugleikið allt frá tímum Forn-grikkja. Menn sáu snemma sambandið á milli menningar og umhverfis og vægi náttúrunnar í örlögum mannsins.
Fornmaður í Húshólma.
Manneskjan hefur lagað sig að ólíkustu aðstæðum. Því nær sem dregur nútímanum þeim mun stórtækari er mótun hennar á umhverfinu. Maðurinn hefur tekið meira úr umhverfinu en hann skilar til þess og til frambúðar getur það aðeins þýtt einn hlut ef ekki verður að gáð: stórslys. Og í þessu sambandi á ég ekki aðeins við hið náttúrulega eins og hráefni ýmisskonar, ég á einnig við leifar eftir gengnar kynslóðir en þær eru jafn mikilvægur hluti af umhverfinu og vatnið, grösin og bergið. Umhverfi samanstendur nefnilega bæði af náttúrulegum og menningarlegum þáttum. Hin mikla og nauðsynlega umræða sem tengist umhverfismálum og virðist fara vaxandi hér á landi, hefur því miður nær einvörðungu snúist um hið fyrrnefnda. Nú er tími til kominn að gefa hinu síðarnefnda gaum.
Hinn menningarlegi þáttur umhverfisins er rústir og önnur verksummerki manna, örnefni og ýmsir staðir sem tengjast trú manna, sérstökum atburðum eða verkmenningu þjóðarinnar. Slíkt umhverfi í félagi við hið náttúrulega köllum við menningarlandslag. Menningarlandslagið er mikilvægt fyrir sjálfsvitund einstaklinganna. Það eru minningar sem tengjast forfeðrunum, þeim sjálfum og sögunni. Þeir eru hluti af menningarlandslaginu.
Þegar fé er ráðstafað er mikilvægt að hafa framangreida þætti í huga. Afleiðingarnar gætu komið fram síðar, þegar of seint verður að bregðast við fyrrum mögulegri varðveislu framangreindra menningarminja. Þegar á heildina er litið er það bæði lífríki einstakra staða og mannvistarleifarnar sem gera þessa þjóð að því sem hún er.
Menningararfurinn er ekki aðeins fólginn í handritunum okkar, tungunni eða því sem söfnin geyma. Hann er að verulegu leyti einnig fólginn í rústunum sem finnast út um allt land. Í þeim er fólgin saga, sem hvergi er geymd annarsstaðar. þær eru lykillinn að skilningi okkar á gripunum, sem horfið hafa úr sínu eðlilega umhverfi inn á söfnin og sumar rústanna geta einar varpað ljósi á líf alþýðunnar og hlutskipti hennar í lífsbaráttunni. Íslensk þjóð varð þjóð á meðal þjóða í húsum, sem nú eru rústir einar. Rústirnar skipta okkur því nákvæmlega jafn miklu máli og rústir annarra þjóða skipta þær, þó svo að þær séu ekki jafn miklar að vexti og ekki úr jafn varanlegum efnum og rústir margra annarra þjóða. Minnimáttarkennd okkar Íslendinga í þessum efnum er athyglisverð, en hún stafar fyrst og fremst af vankunnáttu okkar um þessi mál og þeirri staðreynd að við höfum ekki skilið þýðingu rústanna fyrir þjóðarímyndina. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, voru þessar rústir hluti af tilverunni og veruleikanum og þess vegna eru þær mikilvægar fyrir þjóðina, sögu hennar og ímynd. Ef hún eyðir þeim, eyðir hún hluta af sjálfri sér. Mikilvægi rústanna nær að auki út fyrir landsteinana og má t.d. benda á þá staðreynd að erlendis hefur plógurinn meira eða minna afmáð híbýli bænda frá víkingaöld. Hér á landi tíðkuðust aðrir búskaparhættir, sem hlífðu þessum tegundum rústa. Þær varpa því ljósi á hlutskipti manneskjunnar í norrænum veruleika.
Húshólmi – stekkur.
Grundvallaratriði í minjavernd af því tagi sem rætt hefur verið um hér að framan, og reyndar minjavörslu allri, er að vita hvað til er svo að hægt sé að marka einhverja skynsamlega stefnu um verndunarmál. Tækið til þess heitir fornleifaskráning.
Minjavernd er umhverfisvernd. Við skiljum ekki umhverfið til fulls ef við skiljum ekki áhrif genginna kynslóða á það.”
Mikilvægt er aðhafa í huga að þótt minjar á nálægum svæðum séu ekki að vera frá sama tíma eða jafnvel minjar innan tiltekins svæðis, geta þær sem heild eftir sem áður verið jafn merkilegar. Þær geta lýst og endusagt búsetu-, atvinnu- og nýtingarsögu svæðisins til lengri tíma.
Selatangar – verkhús.
Á Selatöngum er t.d. saga vermennsku og sjósóknar, fiskverkunar og mannlífs í veri, í Húshólma eru væntanlega frumbúsetuminjar og nýting svæðisins til fjárhalds og undir Selöldu er m.a. saga seljabúskapar og væntanlega búskapar á síðari öldum. Allt getur þetta vel spilað saman og bæði stuðlað að fjölbreyttri nýtingu og áhrifaríkri upplýsingagjöf til handa áhugasömu fólki.
Hvað á að rannsaka?
Minjavernd verður að byggja á vettvangsathugunum en benda má á nokkur atriðið sem vert er að hafa í huga við áætlanagerð, skipulag og varðveislu svæða.
Langmest af fornleifum er að finna á gömlum bæjarstæðum sem oftar en ekki er enn búið á. Mikilvægt er að reynt verði að takmarka framkvæmdir á slíkum stöðum og fylgjast vel með því raski sem nauðsynlegt er. Brýnt er að komið verði í veg fyrir eyðileggingu slíkra minja. Auk vegagerðar og línulagna stafar fornleifum nú helst hætta af skógrækt og aukinni sumarbústaðabyggð auk þess sem nýbyggingar og framkvæmdir á þétt-býliskjörnum. Minjunum í Húshólma og nágrenni stafar þó ekki ógn af síðastnefndu þáttunum.
Fjárborgin í Húshólma.
Í Húshólma hafa minjarnar varðveist svo vel sem raun ber vitni vegna þess að þær hafa verið tiltölulega óaðgengilegar inni í hrauni og jafnvel þótt áhugasamt fólk hafi reynt að finna þær hefur því fundist það erfitt. Sama á við um minjarnar í Óbrennishólma. Aðrar minjar á svæðinu, þ.e. Selatangar að vestanverðu, hafa um allnokkurt skeið verið aðgengilegar fólki, en þrátt fyrir hversu nærtækar þær hafa verið, hefur furðu mörgum reynst erfitt að finna þær. Verminjunum þar hefur helst stafað hætt af ágangi sjávar, enda má sjá mikinn mun á minjunum er standa næst sjónum frá því einungis fyrir nokkrum árum síðan. M.a. hefur sjórinn nýlega brotið niður hluta eins heillega verkshússins af þremur. Eftir standa tvö, en þau gætu einnig hæglega farið forgörðum í einhverjum stórsjónum einn vondan veðurdag. Að austanverðu stafar minjunum undir Selöldu ekki ógn af fólki vegna þess hve fáir vita af tilvist þeirra. Þar eru jarðvegseyðingaröflin hins vegar ógnandi skaðvaldur. Um þau verður rætt nánar síðar í verkefninu.
Húshólmi – skilti.
Allar framngreinar minjar eru hvorki aðgengilegar eða einu sinni sýnilegar, en full ástæða væri til að koma upplýsingum um þær á framfæri við ferðamenn og almenning og auka þannig útivistargildi svæðisins að hluta eða í heild. Þegar skipulögð eru útivistarsvæði, þá er sjálfsagt að reyna að nýta þær auðlindir sem fyrir eru og fornleifastaðir geta verið afar spennandi og upplýsandi fyrir skólafólk eða ferðamenn, jafnt innlenda sem útlenda, að skoða. Til þess að það sé hægt þarf ekki annað en að skrá staðinn á vettvangi, merkja hann svo fólk viti hvert að eigi að fara og gera upplýsingar um hlutverk og gildi minjanna aðgengilegt á einn eða annan hátt, t.d. með prentuðum bæklingum eða skiltum á staðnum. Fyrir ferðaþjónustuna, og þá um leið viðkomandi byggðarlag, eru menningarleifar líkt og í Húshólma og nágrenni, mikil verðmæti.
Eins og fram kemur í kaflanum hér að framan er mikilvægt að skrá vandlega allar fornleifar á Húshólmasvæðinu sem og á aðliggjandi svæðum. Þá þarf að gera áætlun um frekari rannsóknir á svæðinu, bæði með hliðsjón af aldri minjanna og hraunsins. Rannsaka þarf garða, tóftir og grafreit með hliðsjón af aldri, tilurð og hugsanlegum menningar- og búsetuminjum.
Gildi minjanna í Húshólma
Forn garður í Húshólma.
Eins og fram kemur í athugasemdum Bjarna F. Einarssonar er Húshólmi merkilegt fyrirbæri. Sama viðhorf endurspeglast í athugunum Brynjúlfs Jónssonar og annarra, sem skrifað hafa um minjarnar í hólmanum eða rannsakað þær m.t.t. aldurs.
Mikilvægt er að vernda minjar og umhverfi Húshólma. Ljóst er að aldur minjanna er hár og telja má fullvíst að Ögmundarhraun, er færði hluta þeirra í kaf og hlífði öðrum, rann á sögulegum tíma. Það gefur hrauninu ákveðið gildi, auk þess sem einstakt má telja að hægt sé að ganga að minjum við slíkar aðstæður.
Segja má að minjarnar í Húshólma feli í sér flest þau gildi er gjaldgeng eru í minjavernd. Þau hafa mikið gildi fyrir land og þjóð, hvort sem um er að ræða ímyndargildi fyrir landssvæðið og fólkið, tengslagildi við sögu og uppruna, vísindalegt gildi vegna takmarkaðra fyrirliggjandi upplýsinga og hugsanlegra möguleika þeirra á að varpa ljósi á fyrrum óljósa hluti með rannsóknum, upplifunargildi fyrir áhugasamt fólk, fagurfræðilegt gildi vegna aðstæðna á svæðinu þar sem eru samspil hrauns er runnið hefur á sögulegum tíma og minja, sem til eru komnar eftir að fólk settist fyrst að hér á landi, upplýsingagildi er felst í að miðla þekkingu sem aflað hefur verið á fræðilegum grundvelli og ekki síst nota- og fjárhagslegt gildi fyrir ferðaþjónustuna hér á landi. Fjallað verður nánar um síðastnefnda gildi sérstaklega.
Minjar eru áþreifanlegur og efnislegur tengill við fortíðina umfram sem bækur eða frásagnir gera. Þær eru tákn fortíðar, geta gefið upplýsingar um liðna sögu, miðla þekkingu milli kynslóða og eru í raun tengill nútímafólks við forfeður þess.
Í bréfi Kristins Magnússonar, fornleifafræðings, f.h. Þjóðminjasafns Íslands 23. júlí 2003 varðandi Suðurstrandarveginn milli Grindavíkur og Þorlákshafnar í framhaldi af vettvangsskoðun í Húshólma er m.a. fjallað um fyrrgreindar athugsemdir Bjarna um Húshólma og skilyrði veglagningar í gegnum hólmann.
Húshólmi – leifar af fornum garði.
“Þjóðminjasafnið telur að til að hægt sé að fallast á lagningu vegarins gegnum Húshókma þurfi aðgera bílastæði við veginn. Mæla þarf rústirnar á svæðinu upp og búa til upplýsingaspjöld á bílastæðinu þar sem almenningur getur fræðst um það sem þar er að sjá. Leggja þarfs tíga ums væðið þannig að umferð um það sé stýrt. Búa þarf til umbúnað um rústirnar sjálfar þannig að þeim stafi ekki hætta af umferð gangandi fólks um svæðið en jafnframt þannig að tilfinningin fyrir mikilfengleika rústanna í hrauninu glatist ekki. Til athugunar er að efna til samkeppni um frágang svæðisins. Huga þyrfti að samtarfi við Þjóðminjasafnið, Vegagerðina, Grindavíkurbæ, Náttúru-vernd ríkisins og e.t.v. fleiri aðila í þessu sambandi. Samningur milli þessara aðila og framkvæmdaáætlun verður að liggja fyrir áður en hafist verður handa við vegaframkvæmdirnar og framkvæmdir við frágang svæðisins verða að haldast í hendur við vegagerðina og vera lokið áður en almennri umferð verður hleypt áveginn. Tryggja þarf viðhald þeirra mannvirkja sem þarna verða reist í framtíðinni og eftirlit með fornleifunum. Ráða þarf umsjónarmann yfir sumartímann sem hefði með höndum leiðsögn eftirlit á svæðinu. Einungis með þessum skilmálum getur Þjóðminjasafn Íslands fallist á að vegur verði lagður í gegnum Húshólma. Ef ekki er hægt að tryggja varðveislu minjanna á svæðinu með slíkum aðgerðum telur safnið að eina leiðin til að forða þeim frá skemmdum sé að viðhalda erfiðu aðgengi að svæðinu með því að leggja veginn norðan Húshólmans.”
Við gerð tillagna, sem hér eru lagðar fram um aðgengi aðminjasvæðinu í Húshólma, var m.a. tekið mið af framangreindum skilyrðum Kristins f.h. Þjóðminjasafnsins, en þær eiga jafnvel við í öllum meginatriðum þótt Suðurstrandarvegur verði lagður ofan við Húshólma.
Ráðstafanir til að koma í veg fyrir yfirstandandi eyðingu minja í Húshólma
Húshólmavarðan.
Í dag er helsta ógnin við hluta fornleifanna jarðvegsrof í Húshólma. Þegar hafa langir hlutar torfgarða fokið burt og ljóst er að þeir munu hverfa að mestu í framtíðinni verði ekkert aðgert. Landgræsla ríkisins, sem staðið hefur fyrir uppgræðslu og áburðargjöf í Krýsuvíkurheiði austan við Ögmundarhraun, hefur haft áhuga á að græða upp sárin í Húshólma. Mikilvægt er að ákveðið verið sem fyrst hvernig að þeim málum skuli staðið svo minjar í hólmanum beri ekki meiri skaða af.
Landgræðsla ríkisins hefur samið við Landhelgisgæsluna um flutning á fræi og áburði inn í Húshólma. Síðan er ætlunin að leita eftir sjálfboðaliðum á vori komanda til að sá í sárin, sem þegar hafa myndast í hólmanum og stöðva þannig frekari gróðureyðingu.
Einnig er mikilvægt að huga að Óbrennishólma því þar hefur gróðureyðingin bæði sótt að fjárborginni stóru, tóft skammt austan hennar sem og jarðlægum garði er liggur upp með fjárborginni að vestanverðu.
Þá eru minjarnar undir austanverðri Selöldu einnig í mikilli hættu vegna jarðvegseyðingar. Tvær fjárborgir eru nú á rofabörðum, forn tóft stendur á gömlum lækjarfarvegi og veður, vindar og vatn sækja að jarðlægum tóftum skammt austan hennar.
Minjar á Selatöngum eru í hættu vegna ágangs sjávar. Sjórinn hefur t.d. nýlega brotið niður hluta af annars heillegu verkhúsi er stendur hvað næst sjónum. Líklega mun sjórinn smám saman taka til sín flestar minjanna á Selatöngum líkt og hann hefur gert víðast hvar með ströndum Reykjanesskagans í gegnum tíðina.
Aðgangur að minjunum – tillögur
Húshólmi – meintur grafreitur.
Mikilvægt er að gefa fólki kost á að skoða minjarnar í Húshólma. Það þarf bæði að gera með ákveðnum takmörkunum, en jafnframt á þann hátt að það auki gildi og áhrif heimsóknarinnar. Í Húshólma eru bæði menningarminjar og náttúruminjar. Hvorutveggja eru greinanlegar minjar og þær þarf að gera aðgengilegar. Í tillögum hópsins hefur verið reynt að samræma þau sjónarmið er lúta að friðun og verndun annars vegar og aðgengi almennings að fornminjum hins vegar. M.a. voru eftirfarandi upplýsingar frá Fornleifavernd ríksins hafðar í huga: “Það að vekja athygli á stað eða minjum og gefa hvorutveggja gildi er besta varðveisluaðferðin.”
Á að tengja Húshólmasvæðið við önnur svæði – af hverju og hvernig?
Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?
Önnur nálæg svæði er tiltölulega auðvelt að tengja Húshólmasvæðinu. Um er að ræða Óbrennishólma annars vegar og Selatanga í vestri og Selöldu í austri hins vegar. Í tillögum hópsins er ekki gert ráð fyrir bættu aðgengi í Óbrennishólma með beinum hætti, að sinni að minnsta kosti. Aftur á móti er lögð áhersla á að tengja saman hin svæðin þrjú með sjávargötu eða -stíg. Bæði myndi það auka möguleika og gildi svæðisins til skoðunar og útivistar og um leið gefa áhugasömu fólki kost á að kynnast samfelldari sögu og atvinnuháttum á suðurströnd Reykjanesskagans í fögru umhverfi, en óvíða er t.d. fallegra útsýni með ströndum landsins, auk þess sem hraunin eru jafn gott skjól fyrir vindum og snjór leysir þar tiltölulega snemma þá sjaldan sem snjóar þar eitthvað að ráði.
Göngugatan myndi, skv. tillögunni, liggja með ströndinni frá Heiðnabergi út á Selatanga, um 6.5 km leið (sjá með-fylgjandi upp-drátt). Það tæki að meðaltali u.þ.b. klukku-stund að ganga þá leið. Upp frá götunni væru lagðir göngu-stígar, sem reyndar er mjög auðvelt (þyrfti einungis að merkja með stikum eða hælum) frá 1. Heiðnabergi við Hælsvík upp að tóftum Eyrar og Krýsuvíkursels og vestur með sunnanverðri Selöldu, að Fitjum, þar sem gert er ráð fyrir bílastæði, 2. upp Húshólma að minjasvæðinu (einnig auðvelt með hraunkantinum að vestanverðu) og 3. um Selatanga, en þar er göngustígur fyrir upp á bílastæðið ofan og vestan við minjasvæðið. Gera þyrfti ráð fyrir göngustíg inn í Ketilinn í Katlahrauni, skammt vestan Seltanga. Þar er skjólgóður og fagur áningarstaður, auk merkilegra jarðfræðifyrirbæra, ekki ólík Dimmuborgum við Mývatn.
Húshólmi – skáli.
Tiltölulega auðvelt er að leggja göngugötu þessa leið með ströndinni, en á köflum verður að vinna gerð hennar á höndum. Sléttlent er frá Hælsvík að austurjaðri Ögmundarhrauns, að mestu mólendi. Ekki er lagt til að fylgt verði gamla Húshólmastígnu í gegnum austan-vert Ögmundarhraun því hann þarf að fá að vera áfram eins og hann er. Um austanvert Ögmundarhraun ofan við ströndina er stígur fyrir og því ætti að vera auðvelt að fylgja honum með tilheyrandi lagfæringum. T.d. þyrfti að bera ofan í hann fínni grús. Í gegnum Húshólma er auðvelt að leggja stíg ofan við sjávarkambinn, með gömlu strandlínunni. Þá tekur við annar af tveimur erfiðari hlutum leiðarinnar m.t.t. stígagerðar. Hægt væri að fara yfir þennan kafla eftir fyrirliggjandi stíg frá minjasvæðinu austan Húshólma, að Brúnavörðum, en hér er hins vegar lagt til að sjávargatan fylgi sem mest ströndinni. Kaflann yfir hraunhaftið vestan Húshólma þarf að handgera, sem fyrr segir. Reynsla er komin á slíka stígagerð í Dimmuborgum á vegum Landgræðslu ríkisins. Samkvæmt upplýsingum frá henni er kostnaður við slíka stígagerð um 100.000 kr. á hverja 100 metra. Vinnan er unnin af sjálfboðaliðum undir leiðsögn sérfræðings. Efni og aðdrættir eru keyptir. Fulltrúi Landgræðslunnar taldi í samtali mjög líklegt að hún gæti orðið þeim, sem leggja vildi stíg þessa leið, innan handar við útvegun sjálfboðaliða og leiðsögn. Í Dimmuborgum er gert ráð fyrir að stígur sé það breiður að a.m.k. tveir geti gengið hann samhliða.
Kaflinn áfram að Selatöngum um Miðreka er misgreiðfær yfirferðar, ágætur á köflum en erfiðari utan þeirra. Þannig er síðasti kaflinn að Selatöngum austanverðum, að Eystri-Látrum, ógreiðfær og þyrfti að sæta sama lagi við stígagerðina og við vestanverðan Húshólma, þ.e. sýna útsjónasemi og taka mið af landslaginu við lagninguna. Á þessum kafla eru m.a. fallegar hraunmyndanir, auk möguleika á greiðfæri gönguleið upp í Óbrennishólma.
Húshólmi – stoðholur.
Staðsetning bílastæða við minjasvæði er mikilvæg út frá verndunarsjónarmiðum. Því lengra sem er fyrir folk að ganga því færri leggja ferðina á sig. Ástæða er, a.m.k. fyrst um sinn, að takmarka fjölda fólks að minjasvæðinu í Húshólma. Þess vegna er lagt til að bílastæðið við Húshólma verði upp við Suðurstrandarveginn og að fólk þurfi að ganga þaðan niður að minjasvæðinu. Gert e
r ráð fyrir að lengd stígsins geti orðið, miðað við núverandi tillögu að vegstæði, um 2 km. Húshólmastígurinn er 1.1. km. Það tæki því fólk um 20 mín. að ganga stíginn frá bílastæðinu að minjasvæðinu (40 mín fram og til baka). Það er vipuð vegarlengd og upp og niður Laugaveginn.
Hafa þarf samráð við Hafnarfjarðarbæ við samræmingu og vegna ráðstafna með hliðsjón af tillögunum þar sem Selöldusvæðið er undir forsjá bæjarfélagsins, sbr. afsal landbúnaðarráðherra á landi úr Krýsuvíkur til Hafnarfjarðarbæjar 20. febrúar 1941. Þá hafa fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar sínt minni áhuga á nýtingu Krýsuvíkur til útvistar en t.a.m. fulltrúar Grindavíkurbæjar á nýtingu Húshólma og Selatanga, en þeir hafa nýlega m.a. stuðlað að útgáfu bæklings um minjar, sögu og sagnir á síðarnefnda staðnum (2004). Fyrirhuguð er útgáfa á sambærilegum bæklingi um Húshólma. Hvorutveggja er liður í glæða áhuga fólks á svæðunum og auðvelda því jafnframt að gera sér grein fyrir einstökum minjum sem og aðstæðum.
Gildi Húshólma fyrir ferðaþjónustuna
Húshólmi – skálatóft.
Gildi Húshólma og nærliggjandi svæða, sem og reyndar alls Reykjanesskagans, fyrir ferðaþjónustu á svæðinu er ótvírætt. Í Húshólma eru merkar minjar og fólk hefur áhuga á merkum minjum. Í könnunum ámeðal ferðamanna, sem heimsækja Ísland sem og á meðal innlendra ferðamanna, kemur yfirleitt berlega í ljós að þeir hafa mestan áhuga á náttúrunni og sögulegum menningaminjum. Á Reykjanesskagnum hafa gönguferðir átt auknum vinsældum að fagna. Hingað til hefur skaginn verið stórlega vanmetinn m.t.t. ferðamennsku. Athyglinni hefur verið beint að mjög fáum stöðum, s.s. Bláa lóninu og Reykjanesvita svo einhverjir séu nefndir. Á svæðinu eru hins vegar ótal minjar er tengjast sögu, mannlífi og lífsbaráttu fólks frá upphafi byggðar hér á landi. Má þar nefna t.d. dysjar, tóftir bæja, selja og tengdra mannvirkja, s.s. stekkja, rétta, fjárborga og fjárskjóla, gamlar þjóðleiðir djúpt markaðar í klöppina, vörður er tengjast sögum og sögnum, þjóðsagnatengdir staðir, staðir tengdir þjóðsögum, götur og vegir er lýsa þróun vegagerðar, vitagerð frá upphafi, hús er enduspegla gerð þeirra og notkun um aldir, mannvistaleifar í hellum og skjólum, hlaðnar refagildrur er lýsa veiðiaðferðum og þannig mætti lengi telja. Þá er ónefnd óviðjafnanleg náttúrufegurð og fjölbreytni jarðsögunnar.
Upplýsingaskilti í Húshólma.
Þegar litið er á hið afmarkaða svæði suðurstrandarinnar, sem hér hefur verið til umfjöllunar, verður því varla neitað að það hefur mikla möguleika upp á að bjóða. Hægt er að bæta aðgengið að ákveðum aðgerðum afstöðnum. Tillögur hópsins kveða á um hverja þær eru á þegar tilnefndum svæðu.
Ein af forsendum ferðaþjónustunnar er aðgengi. Mikilvægt er þó að staðsetja bílastæði með hliðsjón af sjónarmiðum um nauðsyn verndunar. Þannig gera tillögur hópsins ráð fyrir staðsetningu bílastæði fólks, er vill heimsækja Húshólma, upp við Suðurstrandarveginn og síðan gerð göngugötu frá því niður að minjasvæðinu við hólmann. Þar er gert ráð fyrir stýringu fólks með merkingum, stígum og jafnvel lágum girðingum. Gert er ráð fyrir að umgengi fólks verði takmarkað og minjunum sjálfum hlíft, sbr. meðfylgjandi uppdrátt.
Ekki er ástæða til að óttast yfirgengilegan ágang fólks á Seltaöngum og Selöldu og því er lagt til að bílastæðin verði staðsett nær minjasvæðunum. Það er og gert til að göngufólk, er nýtir sér sjávargötuna til skoðunar, eigi auðveldara með að nálgast hana til endanna.
Upplýsingar um minjarnar
Húshólmi – stoðholur.
Á hverjum stað þurfa að koma fram réttar og hnitmiðaðar upplýsingarnar um aðgengilegar og sýnilegar minjar á viðkomandi svæði. Í Húshólma, og jafnvel víðar, á eftir að framkvæma rannsóknir og sjálfsagt er að leyfa fólki að fylgjast með framgangi þeirra með ákveðinni upplýsingagjöf til hliðar við megin upplýsingatöflurnar. Á töfluna við Húshólmarústirnar er sjálfsagt að geta um hvers vegna fjarlægð frá bílastæðinu að minjunum er eins löng og raun ber vitni, þ.e. út fráverndunarsjónarmiðum. Það myndi jafnframt vera ábending til fólks að umgangast minjarnar með meiri varúð og virðingu. Upplýsingagjöf, ábendingar og vel afmarkaðir stígar geta stuðlað að verndun minja ef rétt er að málum staðið. Reynslan sýnir að langflestir fara eftir leiðbeiningum og fylgja stýringum þar sem þær eru fyrir hendi. Þannig þarf að hafa í huga að nota upplýsingarnar á viðkomandi stöðum bæði til fróðleiks og sem leiðbeinandi tilmæli um umgengni, mikilvægi fornleifa og ábyrgð almennings á verndun þeirra, sbr. gildandi ákvæði laga þar að lútandi.
Gerð og útlit skilta
Mikilvægt er að samræma útlit og upplýsingagjöf á svæðunum.
Í tilllögunum er gert ráð fyrir bílastæðum við Selatanga, við Suðurstrandarveg ofan við Húshólma og vestan við Selöldu. Merkja þarf bílastæðin og aðliggjandi göngustíga að minjasvæðunum. Við aðkomuna að minjasvæðunum sjálfum þurfa að vera upplýsingatöflur með ítarlegri upplýsingum, s.s. v/leiðir og stíga, uppdráttum og áhugaverðum söguskýringum.
Óbrennishólmi – fjárborg eða virki.
Þá þarf að merkja einstakar minjar með minni skiltum eða merkingum þannig að fólki sé ljóst hvaða minjar það er að skoða á hverjum stað. Auk þessa þarf vegvísa við sjávargötuna, t.d. er lagt er af stað frá tilteknum stað og komið er að tilteknum stað. Á þurfa að kom afram vegarlengdir á milli staðanna. Þá þurfa að vera leiðarvísar á einstaka stað, s.s. þar sem hægt er að ganga frá stígnum upp í Óbrennishólma. Ekki er að svo komnu máli gert ráð fyrir sérstakri upplýsingatöflu þar.
Ferðamálasamtök Suðurnesja hefur gert áætlun um merkingar leiða og minjasvæða á Suðurnesjum. Samkvæmt upplýsingum þeirra kostar uppsett upplýsingatafla um 250.000 króna. Grindavíkurbær hefur jafnframt lagt fram drög að skipulegum merkingum á minjum í umdæmi bæjarins. Eins og fram kom í upphafi er mikilvægt að samræma uppsettar merkingar og upplýsingatöflur á Reykjanesskaganum og reyndar helst um land allt.
Fá styrktaraðila
Í Óbrennishólma.
Leita þarf til styrktaraðila til að fjármagna gerð skilta og jafnvel göngustígagerð. Að fenginni reynslu er mjög líklegt að áhugasamir aðilar; fyrirtæki, stofnanir, félög og aðrir, muni sýna verkefninu áhuga, auk þess hægt ætti aðvera að sækja styrki tilverkefnisins frá sjóðum Ferðamálaráðs, Poskasjóði sem og fleiri hálf-opinberum og opinberum aðilum, auk þess líklegt megi telja að Grindavík myndi leggja einhverja fjármuni til verksins.
Ljóst er að Landgræðsla ríksins er reiðubúin að veita aðstoð og faglega ráðgjöf ef eftir því verður leitað. Án efna gildir slíkt hið sama um aðrar stofnanir samfélagsins, s.s. Fornleifavernd ríksins, Þjóðminjasafn Íslands, Byggðasafn hafnarfjarðar o.fl.
Mikilvægt er að ákveðinn aðili, ef af verður, haldi utan um verkefnið, annist framkvæmd þess og hafi samráð við alla þá hlutaðeigandi aðila er stuðlað geta að framgangi þess, samræmt og lagt til góð ráð eða stuðning. Ferðamálafulltrúi Grindavíkur væri tilvalinn til verksins eða annar, sem bæjarfélagið fengi til þess, í samstarfi við forstöðumann Byggðasafns Hafnarfjarðar.
Vöktun – Eftirlit
Tóft í Óbrennishólma.
Í lögum er kveðið á um að allir beri í raun ábyrgð á forlleifunum og varðveislu þeirra. Fornleifavernd ríkisins hefur lagalega umboðið varðandi ákvörðunartöku á varðsveislu, rannsóknir, meðhöndlun eða nýtingu minja.
Rétt er að taka undir skilyrði Kristins Magnússonar, fornleifafræðings, Ráða þarf umsjónarmann yfir sumartímann, sem hefði með höndum leiðsögn eftirlit með minjum á svæðinu. Gera þarf áætlun um viðhald og varðveislu þeirra.
Reyndar væri tilvalið að knýja á um að Fornleifavernd ríkisins fengi umbeðið stöðugildi minjavarðar á Reykjanesi. Sá aðili gæti annast framangreint eftirlit með þessum svæðum sem og öðrum á skaganum. Reyndar er líkt orðið löngu tímabært.
Framkvæmdaráætlun
Forn garður í Óbrennisbruna.
Við tillögugerð þessa hefur það verið haft að leiðarljósi að lágmarka kostnað við gerð aðstöðu, en gera hin merkilegu minjasvæði eftir sem áður sem aðgengilegust almenningi, þó með ákveðin verndunarsjónarmið að markmiði.
Þessar tillögur er auðveldlega hægt að framkvæma í áföngum m.v. hvert svæði fyrir sig eða hvert á fætur öðru.
Lagt er til að þeim verði komið í framkvæmd samhliða lagningu fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar og verði lokið áður en umferð verður hleypt á hinn nýja veg, sbr. fyrrnefndar tillögur Magnúsar Kristinssonar, fornleifafræðings.
Lokaorð
Gengið um Selatanga.
Í bók sinni Harðsporar lýsir Ólafur Þorvaldsson, sem manna best þekkti til Krýsuvíkur á síðari árum og hafði skoðað minjarnar og velt fyrir sér mögulegu fyrrum mannlífi í Húshólma og veltir vöngum yfir fyrri athugunum. “Vonandi tekst betur til, þegar þeir menn, sem þeim málum ráða, ganga á landamæri nútíðar og fortíðar í Húshólma, til þess að skera úr og ákveða, eftir þeim gögnum, sem þar kunna fram að koma, aldur og annað, sem máli skiptir, varðandi hina fornu byggð, sem þar hefur áður verið og lengi hefur legið óbætt hjá garði – að sá vettvangsdómur, sem þeir þar upp kveða, megi verða svo skýlaus og ákveðinn, að framtíðin þurfi ekki lengur um það efni að deila. Hér mun verða óvenjulegt efni til úrlausnar.”
Skilyrði fornleifauppgrafta í sumum nágrannalandanna er jafnan þau að í upphafi verði gert ráð fyrir hvernig eigi að lokum að gera almenningi kleift að skoða afraksturinn með aðgengilegum hætti. Má nefna Hjaltland og Orkneyjar sem dæmi. Einföld skýrsla á óskiljanlegu máli er ekki látin duga. Strax í byrjun er gert ráð fyrir að uppgröfturinn skili einhverju nýtanlegu – einhverju upplýsandi. Til þess þarf að gera slíkt svæði bæði aðgengilegt og áhugavert með stígagerð, merkingum og skiltum með helstu niðurstöðum. Með því að byggja upp þannig fyrirkomulag hér á landi myndi sýnileiki sögunnar, tengsl þjóðar við fortíð sína, verða markviss og áhrifin á menntastofnanir og ferðaþjónustuna myndu margfaldast frá því sem verið hefur.
Framangreint er unnið af Ómari Smára Ármannssyni – og er til í aðgengilegu ritgerðarformi, sem hann gaf Grindavíkurbæ – bænum að kostnaðarlausu á sínum tíma…
Heimildir m.a.:
-Bjarni F. Einarsson: Krýsuvík. Fornleifar og umhverfi – Fornleifastofan – 1998.
-Bjarni Einarsson – byggt á grein hans “Minjavernd er umhverfisvernd” á vefslóðinni http://www.mmedia.is/~bjarnif/frame.htm
-Bjarni F. Einarsson: Fornleifaskráning vegna mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs Suðurstrandarvegar frá Þorlákshöfn að Grindavík. Lokaskýrsla – Reykjavík 2003.
-Bjarni F. Einarsson: Athugasemdir við umsagnir umsagnaraðila v/Suðurstrandarvegar – 2. mars 2001.
-Brynjúlfur Jónsson: Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1903 (bls. 48-50 og myndasíða IX) – Reykjavík 1903.
-Brynjúlfur Jónsson: Tillag til alþýðlegra fornfræða (bls. 101-102). Menningar og fræðasamband alþýðu – 1953.
-Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson: Ferðabók 1752-1757 – Reykjavík 1987.
-Einar Gunnlaugsson: Hraun á Krýsuvíkursvæði. B.S.-ritgerð við verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands, bls. 79 – 1973.
-Gísli Oddsson: Annalium in Islandia Farrago and De Mirabilibus Islandiae,, Islandica 10: 1-84.
-Gísli Sigurðsson: Gönguleiðir út frá Krýsuvík. Landslag og leiðir – útvarpserindi, ódagsett.
-Gísli Þorkelsson: Setbergsannáll. Í: Annálar 1400-1800 (annals Islandici Posteriorum Sæculorum), 4. bindi 1-215 – Reykjavík 1940-’48.
-Gráskinna hin meiri: Tyrkjarán í Krýsuvík, bls. 257.
-Guðrún Gísladóttir: Environmental Characterisation and Change in South-western Iceland, bls. 111-124 – doktorsritgerð 1998.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson: Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Jökull no. 38, (bls. 71-85) – 1988.
-Jón Vestmann: Sóknarlýsing 1840
-Jónas Hallgrímson: Bréf og dagbækur, bls. 366– Reykjavík 1989.
-Kristinn Magnússon: Suðurstrandarvegur milli Grindarvíkur og Þorlákshafnar. Húshólmi – Garðabæ 23. júlí 2001.
-Krýsuvík: Örnefnalýsing – Örnefnastofnun, ódagsett.
-Landbúnaðarráðherra: Afsal af hluta af Krýsuvíkurlandi til Hafnarfjarðarbæjar – 20. febrúar 1941.
-Menningarminjar í Grindavíkurhreppi: Svæðisskráning, Orri Vésteinsson – 2001.
-Náttúruvernadrráð – Skrá um náttúruminjar á Suðvesturlandi – Tillaga um Ögmundarhraun – 1998.
-Jón Jónsson: Um Ögmundarhraun og aldur þess, bls. 193-197 – Reykjavík 1982.
-Ólafur E. Einarsson: Hamfarir í Húshólma – Morgunblaðið 4. september 1989.
-Ólafur E. Einarsson: Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess – Lesbók Mbl. 7. mars 1987.
-Ólafur Olavíus: Ferðabók 1775-1777 – Reykjavík 1965
-Ólafur Þorvaldsson: Krýsuvíkurkirkja að fornu og nýju – Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1961.
-Ólafur Þorvaldsson: Harðsporar, bls. 115-120 – Reykjavík 1951.
-Reglugerðð um þjóðminjavörslu: 23. gr. – 1998.
-Stefán Stefánsson: Krýsuvík og Krýsuvíkurland, fyrri hluti – Sunnudagsblað Timans 25. júní 1967.
-Stefán Stefánsson: Krýsuvík og Krýsuvíkurland, seinni hluti – Sunnudagsblað Tímans 2. júlí 1967.
-Sveinn Pálsson: Ferðabók, dagbækur og ritgerðir 1791-1797, bls. 659-660 – Reykjavík 1983.
-Sveinbjörn Rafnsson: Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823. Fyrri hluti (bls. 227). Stofnun Árna Magnússonar – Reykjavík 1983.
-Sveinbjörn Rafnsson: Um aldur Ögmundarhrauns. Eldur í norðri. Afmælisrit helgað Sigurði Þórarinssyni sjötugum 8. janúar 1982 (bls. 415-424) – Sögufélag, Reykjavík 1982.
-Tómas Tómasson: Eldsumbrot á Reykjanesi, Faxi 8, 3. tbl, bls. 10, 4. tbl. bls. 6-7 og 5. tbl. bls. 3-4 – 1982.
-Vegagerð ríkisins: Suðurstrandarvegur. Mat á umhverfisáhrifum – 2001.
-Þorleifur Einarsson: Jarðfræði Reykjavíkur og nágrennis – Reykjavík 1974.
-Þorvaldur Thoroddsen: Ferðabók 1883, bls. 180 – Reykjavík 1925.
-Þjóðminjalög: 11. grein – 2001
Aðrar heimildir:
-http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_ogmundarhraun.htm
-http://www.fornleifavernd
Samgöngur og verslun á Miðnesi
Í bókinni “Við opið haf – Sjávarbyggð á Miðnesi” eftir Ásgeir Ásgeirsson er stuttur kafli um samgöngur á Miðnesi fyrrum.
“Byggð og mannlíf var háð ákveðnum takmörkunum í tíma og rúmi sem bændasamfélag á frumstæðu tæknistigi fékk ekki yfirstigið. Utanvert Rosmhvalanes gat ekki talist afskekkt byggðalag sé miðað við fjöllum lukta firði og sveitir umluktar söndum, jöklum og stórám. Engu að síður hömluðu umtalsverðar landfræðilegar tálmanir samgöngum við umheiminn – torfærur á þeirra tíma mælikvarða.
Landvegur var torsóttur og ógreiðfær þótt hvorki þyrfti að fara yfir fjallvegi eða vaða stórfljót. Reykjaneshraunin voru torveld yfirferðar; Miðnesheiðin, þótt lág sé, grýtt og seinfarin – villugjörn á vetrum og í náttmyrkri. Við bættist, ef farið var á hestum, að á löngum köflum var fátt um fýsilega áningarstaði þar sem vatn var að finna og sleppa mátti hestum á beit. Vegir stóðu vart undir svo hátíðlegu heiti, voru aðeins “troðningar með ströndum fram” svo vitnað sé til orða ferðalangs þessa tíma, Þorvaldar Thoroddsens.
Sumir þessara slóða voru skilgreindir sem “sýsluvegir” og nutu framlags úr sýslusjóði. Aðrir voru “hreppsvegir” á ábyrgð hreppsfélags. Fram til ársins 1894 var vinnufærum mönnum gert að leggja hálft dagsvek til viðhalds þeirra. Þegnskylduvinna þessi gafst illa og fyrrgreint ár var skattheimta tekin upp í hennar stað. Svo dæmi sé nefnt voru sumarið 1888 samkvæmt eldri löggjöfinni unnin 30 dagsverk við hreppsveginn (á löngum köflum aðeins vörðuð leið) frá Stafnesi að hreppamörkum í Ósbotnum, sem aukinheldur var “kirkjuþjónustuvegur”, leið Útskálaklerks frá Hvalsnesi að Kirkjuvogi. Erfitt var að halda þessari leið við og var sjóvegur oftar farinn á milli Hafnahrepps og Miðneshrepps. Úr Kirkjubólshverfinu lá slóði, svonefndur þangvegur, að sýsluveginum fyrir ofan Varir í garði. Annars má segja að allar leiðir af Miðnesi hafi legið til Keflavíkur: úr Kirkjubóls-, Sandgerðis-, Fuglavíkur og Hvalsneshverfum lágu misgreiðfærir slóðar til kauptúnsins. Aðalleiðin lá frá Melabergi til Keflavíkur enda beinust leið yfir heiðina. Árið 1893 var þessi stígur útnefndur sýsluvegur. Í því fólst hagræði fyrir Miðnesinga því veginum yfir heiðina var lítt sinnt af “innhreppnum handan markalínu” enda lá sjaldnar leið innhreppinga suður fyrir Skaga. Enn má sjá móta fyrir hinum gamla sýsluvegi við Melaberg.
Vegur lá einnig meðfram ströndinni og tengdi saman dreifð byggðahverfi Miðsneshrepps. Erfitt reyndist einnig að halda honum í nothæfu ástandi. Á vertíð 1890 er t.d. leiðin frá Bæjarskerjum að Fuglavík sögð með öllu ófær. Magnús Þórarinsson minntist þess að menn hafi fremur kosið að ganga fjöruna en vegnefnuna fyrir ofan Fuglavík. Fjaran þótti oft greiðasta leiðin einkum að vetrarlagi. Einnig brá fólk sér útaf vegi og gekk túnin. Um það vitna bönn bænda gegn átroðningi á viðkvæmum túnum. Öllu verri þótti atgangur óðalsbóndans Sveinbjarnar Þórðarsonar í Sandgerði (sé sú saga sönn) er hann reið sjónhending úr Garðinum yfir tún og engi og ruddi niður túngörðum er á leið hans urðu.
Árið 1892 varð vegurinn eftir endileöngum hreppnum hluti af leiðakerfi póstþjónustunnar er aukapósturinn í Gullbringusýslu tók að venja komur sínar að Hvalsnesi er nú varð bréfhirðingarstöð (áður þurftu Miðnesingar að sækja póst sinn út í Garð). Ekki tókst að koma veginum í tölu sýsluvega þrátt fyrir þessa upphefð.
Lítt hefði stoðað að fara á hestvögnum þessa troðninga. Slík undratæki voru hvort er var fáséð á íslandi um aldamótin. Burður klyfja á hestbaki var stórvirasta flutningaaðferðin um landveg sem á var völ hvort heldur um vöru- eða mannflutninga var að ræða. Fáir hestar voru á Miðnesi og Suðurnesjum yfirleitt. Fólk fór því almennt ferða sinna fótgangandi, vílaði ekki fyrir sér gönguferð til Reykjavíkur. Yfirleitt var sú ferð farin á tveimur dögum – a.m.k. í skammdegi og aubleytu eða snjóþyngslum – þótt fara mætti þessa leið á einum degi í góðri færð.
Fæstir þurrabúðarmenn gátu birgt upp heimili sín á kauptíð; efni og lántraust leyfðu það ekki. Þeir þurftu því oft að “skreppa í Keflavík” eftir nauðsynjum og til að falla fyrir freistingum sem stundum lífguðu upp á daufa lífsbaráttu en leiddu líka af sér margan harmleikinn. Á vertíð brá oft við á útvegsbæjum að ófyrirsjánlegur skortur varð á nauðsynjum og veiðarfærum svo senda þurfti menn í kaupstað. Þá vildu vermenn gera sér glaðan dag í landleum. Það mátti því heita daglegt brauð á útnesjum að menn færu fótgangandi til keflavíkur og til baka að kveldi klyfjaðir nauðsynjavöru. Ætíð var freistandi að fá sér brennivínsstaup eða áfyllingu á flösku. Oft sóttist þá seint heim að kveldi… Í náttmyrkri og ef eitthvað var að veðri var auðvelt að lenda í villum í kennileitasnauðu landslagi.
Fórnalömb Miðnesheiðar eru furðu mörg. Á þrjátíu ára tímabili, 1860-1890, urðu 25 manns úti milli byggða á Rosmhvalanesi, þar af 13 á Miðnesi. Fjöldi annarra var hætt kominn og margir báru heiðarvolksins aldrei bætur. Flest slysin eru keimlík. Menn leggja upp illa búnir með þungar byrgðar, drukknir, svangir eða hvort tveggja, villast af leið sökum náttmyrkurs og illviðra, verða viðskila við samferðamenn (stundum varð að skilja menn eftir sem ófærir voru um að halda áfram), leggjast fyrir, viljaþrek lamað af áfengisneyslu, frjósa í hel eða verða vosbúð að bráð. Dæmi voru um að menn villtust svo langt af leið að lík þeirra fundust ekki fyrr en eftir marga mánuði – kafnvel ekki fyrr en mörgum árum seinna.
Fólk varð einnig úti milli bæja á Miðnesi. Fræg er sagan af Runólfi Runólfssyni húsmanni úr Klapparkoti er í þá tíð nefndist Kólga. Hann varð úti milli Landakots í Sandgerðishverfi og heimilis síns í Flankastaðahverfi aðfaranótt 17. október 1879. Hafði Runólfur komið að Landakoti skömmu fyrir hátt á heimleið úr Keflavík. Hafði hann skamma viðdvöl en hélt heimleiðis um ellefuleytið, allkenndur af víni er hann hafði meðferðis. Þótt skömm væri leiðin auðnaðist Runólfi ekki að rata hana í náttmyrkri og stormi. Af honum fannst hvorki tangur né tetur um nokkra hríð. En um jólaleytið fóru bein Runólfs að reka upp undan Flankastöðum. Að sögn sr. Sigurðar B, Sívertsen “voru öll bein slitin í sundur og allt hold af þeim”.
Á kreik komust þjóðsögur syðra um að Írafellsmóri, sá víðförli ári, hefði grandað Runólfi eða þá illvígt sæskrýmsli.”
Enn má sjá þær gömlu götur á Miðnesheiði er getið er hér að framan, auk fleiri.
Heimild:
-Við opið haf – Sjávarbyggð á Miðnesi – Ásgeir Ásgeirsson, 1998, bls. 127 – 132.
Búrfellshraun – Maríuhellar
Gengið var um hluta Búrfellshrauns með viðkomu í Maríuhellum (í Heiðmörk). Hraunið rann fyrir u.þ.b. 8000 árum síðan.
Árni Hjartarson.
Árni Hjartarson skrifaði grein um Búrfellshraun í Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags 2009. Greinin er ágætt yfirlit yfir efnið, en þó alls ekki tæmandi, enda hefur það kannski ekki verið markmiðið. Hér verður drepið niður í greinina á nokkrum stöðum þar sem m.a. er lýst stærð hraunsins, aldri, hrauntröðum og hraunhellum. Á köflum hafa misvísanir slæðst inn í umfjölluna, auk þess sem inn í hana vantar á köflum nánari lýsingar til uppfyllingar heildarmyndinni.
„Búrfell upp af Hafnarfirði er gígur af þeirri gerð sem kallast eldborg. Eldborgir einkennast af því að gos hefur orðið á stuttri sprungu eða pípulaga gosrás og myndar því stakan aðalgíg og stundum smærri gíga þar hjá. Engir slíkur hliðargígar eru hjá Búrfelli. Hrauninu svipar til dyngjuhrauna. Hraunstraumurinn sem rann frá Búrfelli í sjó fram á nokkrum stöðum nefnist einu nafni Búrfellshraun en hefur fjölmörg sérnöfn eftir einstökum hlutum hraunsins, s.s. Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun. [Hér má bæta við nöfnum s.s. Stekkjarhraun, Balahraun, Svínahraun, Flatahraun og Klettahraun.]
Mikil msigengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu frá norðaustri til suðvesturs og teygir sig raunar allar götur frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell. Búrfell hlóðst upp í gosi við austurbrún sigdalsins.“
Á meðfylgjandi korti af útbreiðslu hraunsins má sjá að nútímahraun, s.s. Bruninn (Nýjahraun/-Kapelluhraun) hafa runnið yfir það að hluta að vestanverðu, þ.e. í átt að Straumsvík. Þar má þó enn sjá Selhraunin vestan hans sem leifar Búrfellshraunsins. Í Búrfellsgosinu rann elsta hrauntungan til Straumsvíkur (nú að mestu hulin nútímahraunum). Næstelst er hrauntunga sem rann að Kaldá og síðan niður með Ásfjalli til Hafnarfjarðar. Þriðja hrauntungan rann niður með Vífilsstaðahlið og til sjávar í Hafnarfirði og Arnarnesvogi. Hraun frá lokahrinu gossins er síðan sunnan við Búrfellsgíg. Gígurinn er sýndur í rauðum lit. .
„Gígurinn og misgengin tilheyra eldstöðvakerfi Trölladyngju. Gossögunni má skipta í fjóra þætti eða lotur og í hverri hrinu runnu ólíkar hrauntungur frá gígnum.
I. Straumsvíkurlota.
Selhraun[in] er áþreifanlegur hluti þessa. [Selhraunin eru þrjú á þessu svæði og eru þau sennilega öll hluti Búrfellshraunsins (jarðfræðikort ÍSOR).] Sjá meira um Selhraunin ofan Straumsvíkur (sjá HÉR).
II. Lambagjárlota.
Fyrsti hraunstraumurinn hafði hlaðið undir sig og komst yfir misgengisþröskuld við Kaldá. Þá gat það farið að renna niður með Ásfjalli og hefur hugsanlega náð til sjávar utan við Hamarinn í Hafnarfirði. Ystu tungur hraunsins þar eru nú huldar yngri hrauntungum sem runnu í þriðja kafla gossins. Á þessum tíma myndaðist Lambagjá. (Sjá meira um Lambagjá HÉR.)
III. Urriðavatnslota. Gosið fyllti sigdalinn neðan við Búrfell og komst yfir misgengisstalla við Smyrlabúð. Þá rann hraunið niður með Vífilsstaðahlíð og náði til sjávar bæði við Hafnarfjörð og í Arnarnesvogi. Þess laieð hefur hraunið runnið alllengi og þá hefur Búrfellsgjáin og hellarnir í tengslum við hana myndast og verið meginfarvegur hraunstraumsins frá gígnum.
IV. Goslok.
Við goslok virðist hraunið hafa hætt að flæða um Búrfellsgjána og tekið að streyma um undirgöng til suðurs frá gígnum. Þar urðu til sérkennilegar hrauntjarnir sem tæmdust í goslok og mynduðu Kringlóttugjá. Líklegt er að gosið hafi staðið alllengi, jafnvel í eitt til tvö ár.
Land hefur sigið nokkuð á höfuðborgarsvæðinu síðan þett var og að auki stóð sjór nokkrum metrum lægra í heimshöfunum þá en hann gerir nú, svo ystu tungur hraunsins teygja sig út fyrir ströndina. Líklega hefur sjávarstaðan verið um 8-10 metrum lægri er hraunið rann.
Búrfellshraun er miðlungshraun að stæð á íslenskan mælikvarða. Flatarmál þess á yfirborði er rúmlega 16 km2.
Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkusvæðinu. Skv. aldursgreiningu á fjörumó undir hrauninu er hann um 8100 ára. Hraunið sjálft er lítið eitt yngra, eða að líkindum rétt um 8000 ára og hefur runnið um 6000 f. Kr. Á þessum tíma er talið að hið almenna yfirborð heimshafanna hafi staðið um 10 m lægra en nú.
Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð. Elsta tröðin sem enn sést liggur niður hjá Kaldárseli og hefur myndast meðan aðalhraunið rann niður hjá Ásfjalli til Hafnarfjarðar. Hún nefnist Lambagjá. Búrfellsgjá og Selgjá eru yngri hrauntraðir, en þær eru í hraunstraumi sem rann niður með Vífilsstaðahlíð. Yngst er svonefnt Kringlóttagjá.
Búrfellsgjá á fáa sína líka á landinu. Næst gígnum, þar sem halli er mikill, er hún þröng (20-30 m) og með bröttum veggjum (hin eiginlega Búrfellsgjá) en er niðurá jafnsléttu kemur verður hrauntröðin lægri og víðari. Þar sem Hjallamisgengið liggur yfir hraunið eru gapandi sprungur og stallar. Þar er Hrafnagjá, en við hana skiptir hrauntröðin um nafn og heitir Selgjá þar utan við. Búrfellsgjá og Selgjá eru yfir 200 m breiðar þar sem þær eru breiðastar. Vegna síðari tíma höggunar og landsigs í grennd við Búrfell liggur Selgjá nú ofar í landi en Búrfellsgjá. Veggir traðanna eru oft 5-10 m háir og sum staðar þverhníptir og sítandi þannig að víða eru skjól og skútar sem þóttu fyrrum ágætt afdrep fyrir sauðfé í vondum veðrum. Við utanverða Selgjá eru veggirnir þó lægri, Undir þeim eru einnig fjöldi gamalla seljarústa og minja um forna búskaparhætti.
Neðan við Selgjá hefur hrauná runnið áfram á yfirborði, en einnig í rásum undir storknuðu yfirborði hraunsins. Þar eru fjölmargir skútar og hraunhellar.“
Margir hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni, s.s. Hundraðmetrahellir (Fosshellir) (102 m), Níutíumetrahellir (93 m), Rauðshellir (65 m), Ketshellir (22 m), Kershellir (34 m), Hvatshellir (50 m), Sauðahellir syðri (Þorsteinshellir) (43 m), Sauðhellir nyrðri (32 m), Skátahellir syðri (237 m), Skátahellir nyrðri (127 m), Vífilsstaðahellir (19 m), Urriðakotshellir (24 m ), Draugahellir (78 m), Jónshellar (68 m), Hraunholtshellir (23 m), Vatnshellir (23 m), Sauðaskjólið (12 m), Selgjárhellir syðri (8 m), Selgjáhellir eystri (11 m) og fleiri mætti nefna.
Maríuhellar er samheiti á hellum í hrauninu á landamerkjum Urriðavatns og Vífilsstaða. Björn Hróarsson lýsir þessum hellum; Vífilsstaðahelli, Urriðakotshelli og Draugahelli; auk þess minnist hann á fjórða hellinn, Jósepshelli. Samheitin Vífilsstaðahellar, Fjárhellrar, Vífilsstaðafjárhellrar og Urriðakotsfjárhellrar hafa einnig sést á prenti um þessa hella.
Nafnið Maríuhellar virðist gamalt eins og fram kemur í landamerkjalýsingu Urriðakots sem dagsett er 20. sept. 1834 [1890?]. Þar kemur fram að ósamkomulag hafi ríkt um eignarhald á hellunum.
Maríuhellarnir þrír eru rétt við bílveginn og í sömu hraunrás, alls um 150-160 m langri. Meginniðurfallið virðist vera gamall viðmiðunarpunktur á landamerkjum Urriðakots og Vífilsstaða [landamerkjahóllinn er þar beint sunnan við].“
Þegar hér er komið í greininni verður veruleg misvísun m.t.t. örnefna. Þannig er Vífilsstaðahellir tilgreindur sem Urriðakotshellir og Jósepshellir sagður stakur þar sem fyrir var Vífilsstaðahellir. Ekki verða eltar ólar við þá umfjöllun hér.
„Draugahellir er vestastur Maríuhella, 18 m norðvestur af munna Vífilsstaðahellir [Urriðakotshellis]. Inngangurinn í hann er um þrönga gjótu sem liggur niður með vegg hraunrásarinnar og stórgrýtis úr fönnu þakinu. Fyrst er farið 3.f m niður en síðan má smeygja sérmilli stórgrýtis og veggjar eftir hallandi göngum uns komið er í víðara rými innan við hraunið. Þar verður fyrir gild hraunsúla á vinstri hönd, 20 m að ummáli. Hellirinn er í heild 65-70 m langur inn í botn en mjög lágur innst.
Í hellabókinni nefnir Björn Jósepshellinn Vífilsstaðahelli [og er það rétt til getið].“
Í lokin fjallar höfundur um „örnefnaflækju“ tengja Maríuhellum, sem reyndar er óþarfi ef grannt er skoðað. „Flækjan“ virðist fyrst og fremst vera af eðlilegum misvísunum og því eru ekki eltar ólar við hana hér.
Eftir stutta göngu var komið að Jónshellum. Þeir eru undir klettavegg er snýr að Vífilsstöðum. Mikið kjarr og hár trjágróður er allt um kring. Jónshellar eru þrír skútar. Einn er sýnum stærstur og einn hefur greinilega verið notaður sem fjárskjól. Hleðsla er fremst í þeim skútanum, en fyrir innan er slétt moldargólf. Spýtnabrak er í gólfi. Þessi skúti gæti auðveldlega hýst 40-50 rollur. Í kverkinni þar sem hellarnir eru, er gamall timburpallur. Sennilega hefur fólk af Vífilstaðahælinu gengið þangað á góðum dögum til að njóta veðurblíðunnar á þessum fallega stað. Örnefnið Jónsflöt eða Jónshellraflöt er þarna skammt norðvestar.
Nyrsti hellirinn er stærstur, um 50 m langur. Þegar komið er inn fyrir opið liggur leiðin spölkorn niður á við til norðvesturs. Þá hækkar til lofts og sjá má grjóthrauka á tveimur stöðum. Svo virðist sem tekið hafi verið til á gólfinu og grjótið sett á tvo staði. Innar er rúmgott, en óraskað. Hér, líkt og í örðum hraunhellum, er rakakennt í bleytutíð. Þessi hluti Jónshella svipar mjög til Hraunsholtshellis (Arnesarhellir) í vesturjaðri Flatahrauns.
Gengið var eftir Jónshellustíg austur yfir hraunið. Á köflum hefur stígurinn verið lagaður til og hlaðið í lægðir. (Sjá meira HÉR).
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimild:
-Árni Hjartarson, Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags 77 (-34), bls. 93-100, 2009.
Í Maríuhellum.
Þorbjarnarfell – Þjófagjá
Gengið var á Þorbjarnarfell ofan við Grindavík. Hæst er fellið 243 m.y.s. skv. upplýsingum Landmælinga Íslands (EE).
Þorbjarnarfell – örnefni og gönguleiðir (ÓSÁ)
Þorbjarnarfell, eða Þorbjörn eins og fellið er jafnan nefnt, er allsérstakt í tvennum skilningi. Bæði er það með eldri fjöllum á Reykjanesskaganum, að hluta a.m.k., því það virðist að einhverju leyti vera frá fyrra ísaldarskeiði, en jafnframt því síðara. Það er því að nokkru leyti eldra en t.d. Fagradalsjall, sem er um tíu þúsund ára gamalt. Þá gengur misgengi þvert á fellið, frá suðri til norðurs, skáhallt á landsrekssprungurnar, sem annars eru áberandi á skaganum. Þorbjörninn er úr bólstrabergi, líkt og Stapafellið.
Þorbjörninn býður upp á ýmsar uppgönguleiðir; veginn austan í fellinu, stíg upp frá Baðsvöllum að norðanverðu, Gyltustíginn að suðvestanverðu og síðan upp hlíðar þess neðan Þjófagjár, svo til fyrir því miðju að sunnanverðu.
Í Þjófagjá.
Að þessu sinni var gengið á ská til vesturs upp sunnanvert fellið, með stefnu á Þjófagjá. Þjóðsaga tengist gjánni, en í henni segir að „skammt fyrir ofan byggðina í Grindavík er fjall, sem heitir Þorbjarnarfell, – oftast nefnt Þorbjörn. Í toppi þess er hamragjá, sem heitir Þjófagjá.
Er svo sagt, að þar hafi einu sinni hafst við fimmtán þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Eigi sáu byggðarmenn færi á að vinna þá fyrr, en bóndason frá Hópi tókst á hendur að svíkja þá. Hann fór til þeirra, sór þeim trúnaðareið og var með þeim um hríð. Hann varð þess vís, að þeir fóru hvern laugardag í bað í laug þeirri, sem er á Baðsvöllum norðan undir fjallinu.
Einn gætti klæða þeirra, meðan þeir voru í baðinu, og gerðu þeir það til skiptis. Svo kom, að þeir trúðu bóndasyni fyrir að geyma föt sín. Þá sneri hann um annarri skyrtuerminni og annarri brókarskálminni hjá þeim öllum og hljóp síðan, sem fætur toguðu, til bæja.
Í Þjófagjá.
Það fór eins og hann ætlaðist til; þjófunum varð tafsamt að komast í föt sín, og ekki fóru þeir nema í nærklæðin og eltu hann síðan, en náðu honum ekki. Urðu þeir mjög sárfættir í grjótinu.
Nú þustu byggðarmenn að þeim, og gátu þeir ekki komist undan. Voru þeir allir teknir höndum og hengdir þar, sem síðan heita Gálgaklettar. Bóndasonurinn varð ólánsmaður, en eigi er getið, hvað fyrir hann kom.“
Frá suðurenda Þjófagjár er fallegt útsýni yfir byggðalagið. Haldið var upp einstigi í gjánni og hún skoðuð í leiðinni. Á einstaka stað eru fallegar hraunmyndanir sem og kynjamyndir.
Þegar komið var upp úr gjánni var haldið niður í gíginn í því miðju. Í honum eru leifar eftir hernámsliðið, braggabrak, götur, hleðslur og einmana arinn stendur þar enn sem tákn um það sem var.
Af Þorbjarnarfelli er ágætt útsýni yfir Baðsvellina þar sem þjófarnir áttu að hafa farið til baða fyrrum með hinum afdrifaríkum afleiðingum. Þá er og þaðan ágætt útsýni yfir að Gálgaklettum undir Hagafelli þar sem þjófanir eiga að hafa endað ævi sína hangandi milli klettanna í ófrjálsu falli.
Heimildir m.a.:
-Huld I, bls. 60-61.
Í Þjófagjá.
Illaklif – Guðnahellir
Árið 1677 segir í Hestaannál frá ókyrrleika af stuldi og ráni víða um land. „Urðu menn þá varir og vísir, að þjófar lágu á fjöllum uppi, og drápu naut og sauði sér til matar.“ Talið er að útilegumenn hafi m.a. hafst við í helli í Illaklifi á Mosfellsheiði. Hellir þessi hefur í seinni tíð verið nefndur Guðnahellir eftir Guðna Bjarnasyni (f: 1971) refaskyttu á Harðastöðum sem hefur legið þar á greni.
Á þessum slóðum gerðist mikil harmsaga laust eftir miðja 19. öld. Það var laugardaginn, hinn þriðja í Góu, árið 1857, er 14 vertíðarmenn úr Biskupstungum og Laugardal höfðu lagt upp á Mosfellsheiði frá Þingvöllum. Brast á iðulaus norðanhríð með grimmdarfrosti og slíku hvassviðri að vart varð stætt. Fimm vermannanna urðu úti við hól [hér eftir nefndur Vermannahóll] við Illaklif sunnan og ofan við Leirvogsvatn. Rennur lækur þar niður að vatninu, sem sjaldan frýs.
Ætlunin var að skoða hólssvæðið og leita uppi útilegumannahellinn fyrrnefnda. Þá var og ætlunin að skoða Lómatjörn og Mosfellssel austan við Illaklif. Lagt var upp frá Svanastöðum (Leirvogsvatni) við norðurenda Leirvogsvatns og gengið til suðvesturs vestan vatnsins, áleiðis að Illaklifi.
Við norðanvert Leirvogsvatn eru búsetuleifar; grunnur undan húsi, tún og rafstöðvarrenna. Svanastaðir, en svo mun hafa verið nafnið á býlinu (síðar Leirvogsvatn), urðu nýbýli 1930.
Á 3. áratugi síðustu aldar knúðu bændur í Mosfellshreppi á um að sveitarfélagið eignaðist Mosfellsheiðarlandið. Var hér um mikið hagsmunamál að ræða fyrir hreppsfélagið. Lagafrumvarp til sölu á Mosfellsheiði var lagt fyrir alþingi árið 1927 og var málið leitt til lykta árið 1933. Samkvæmt afsalinu var undanskilið: a) svonefnt Bringnaland. Þar var stofnað nýbýli úr landi Mosfells um miðja 19. öld en jörðin fór í eyði um 1970. b) veiðiréttindi í Leirvogsvatni. c) nýbýlið Svanastaðir við Leirvogsvatn. d) svonefnt Jónselssland ofan við Mosfellsdal. Um það leyti, sem heiðin var seld, var stofnað nýbýli á þessum slóðum og nefnt Seljabrekka.
Dómsmálaráðuneytið skrifaði Mosfellspresti bréf 7. mars 1930 þar sem óskað var umsagnar um leigu til Valgerðar Gísladóttur á landi á Mosfellsheiði til nýbýlisstofnunnar. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið leigði Valgerði Gísladóttur og afkomendum hennar, 5. júní 1930, landspildu til nýbýlisstofnunar úr kirkjujörðinni Mosfelli í Mosfellssveit með 50 ára ábúð. Í júlí 1935 fór Valgerður Gísladóttir fram á að leigja syni sínum býlið. Lýsti ráðuneytið yfir í bréfi 12. júlí 1935 að það yrði látið óátalið og vísaði til leigusamningsins 5. júlí 1930. Landbúnaðarráðherra, f.h. ríkissjóðs, afsalaði Mosfellshreppi kirkjujörðinni Svanastöðum 19. febrúar 1945, samkvæmt heimild í lögum nr. 53/1927 um sölu á nokkrum hluta úr kirkjueigninni Mosfellsheiðarlandi, með þeirri kvöð að ekki væri heimilt að selja hið keypta land aftur, hvorki í heild sinni eða hluta af því.
Þegar komið var upp í Illaklif var gengið eftir því frá austri til vesturs. Vörður eru á því með jöfnu millibili, líklega til að marka brún klifsins fyrir ferðamenn á leið um heiðina því veggurinn norðanverður sést ekki ofan af leiðinni. Öruggara hefur þótt að varða þessa leið, einkum fyrir þá er fóru þar um að vetrarlagi.
Hóllinn fyrrnefndi er austast í Illaklifi. Á honum hafa verið settir steinar ofan á steina á nokkrum stöðum. Bautarsteinn stendur efst á hólnum. Þeir hafa reyndar verið tveir og er hinn fallinn á hliðina. Verðugt væri að merkja hólinn til minningar um þá sem þar urðu út árið 1857.
Þarna gerðist mikil harmsaga. „Það var laugardagur, hinn þriðja í Góu, árið 1857, er 14 vertíðarmenn úr Biskupstungum og Laugardal höfðu lagt upp á Mosfellsheiði frá Þingvöllum. Veður var blítt um morguninn, frostlaust, en þung færð vegna snjóa.
Þegar þeir fóru frá Kárastöðum var slíkt þíðviðri að vatn draup af upsum, en þegar komið var vestur í Vilborgarkeldu brast skyndilega á iðulaus norðanhríð með grimmdarfrosti og slíku hvassviðri að vart varð stætt.
Vermennirnir kusu samt að freista þess að halda áfram í þeirri von að finna sæluhúsið vestan við Þrívörður eða ná til bæja í Mosfellsdal. Sæluhúsið fundu þeir ekki og héldu áfram meðan þróttur vannst, þó klæði þeirra, blaut eftir þíðviðrið og ösl í ófærðinni, frysi í stokk. Mennirnir voru flestir orðnir örmagna alllöngu fyrir dagsetur og grófu sig því fönn undir Illaklifi ofan við Leirvogsvatn, nema tveir sem gátu haldið sér uppréttum og vakandi alla næstu nótt. Hinir sofnuðu og féllu í ómegin, fennti í kaf og frusu fastir við snjóinn. Er leið að morgni tókst hinum vakandi að vekja félaga sína, sem enn voru lífs, og rífa þá upp úr snjónum. Voru 12 á lífi er dagaði. Þá herti veðrið enn og létust nú þrír í viðbót í höndum félags inna. Hinir brutust af stað og náðu fimm þeirra til bæjar í Bringum um miðjan morgun. Voru þeir svo þrekaðir að þeir gáðu ekki í fyrst að segja til þeirra sem ókomnir voru eða lágu dauðir uppi á heiðinni. En jafnskjótt og húsráðanda á Bringum varð ljóst hvað hafði gerst, sendi hann eftir hjálp á næstu bæi, en fór sjálfur að leita þeirra sem enn kynnu að vera á lífi. Fann hann tvo þeirra villta er drógu eða hálfbáru tvo örmagna félaga sína með sér. Annar þeirra dó þó í höndum þeirra. Fórust þannig sex af þeim fjórtán, sem lagt höfðu upp í byrjun og þeir sem af komust voru flestir kalnir til stórskemmda og urðu örkulma lengi, sumir ævilangt. Hinir látnu fundust daginn eftir og voru jarðsettir að Mosfelli.“
Eftirfarandi frásögn af atburðinum birtist í Óðni árið 1911: „
Mannskaðinn á Mosfellsheiði veturinn 1857: – Nú eru að eins tveir eftir á lífi þeirra 14 manna, sem úti lágu á Mosfellsheiði hina voðalegu hríðarnótt milli þess 7. og 8. mars veturinn 1857.
Eru það þeir Guðmundur Pálsson á Hjálmsstöðum og Pjetur Einarsson frá Felli. Flytur nú »Óðinn« hjer skýra og greinilegri frásögn atburðarins eftir Guðmundi á Hjálmsstöðum. Mun sú frásögn vera rjett og hlutdrægnislaust sögð, því Guðmundur er maður stálminnugur og óljúgfróður.
Frásögn hans er á þessa leið: »Að morgni hins 6. mars veturinn 1857 lögðum við af stað til sjóróðra átta menn saman úr Laugardalnum. Var þá snjódrífa og lausamjöll mikil, en þó frostlítið. Við hjeldum sem leið liggur út Lyngdalsheiði.
Þegar við komum út í svo nefnt Barnaskarð, komu til samfylgdar við okkur sex menn úr Biskupstungum, sem einnig voru á leið til sjávar. Talaðist þá svo til milli okkar, að við yrðum allir samferða, úr því við á annað borð áttum allir samleið. Þess skal getið, að í öllum þessum hóp voru að eins menn á besta aldri, flestir á þrítugsaldrinum, að eins einn fyrir innan tvítugt, og flestir voru mennirnir duglegir og vel frískir. Þennan dag höfðum við upphaflega ætlað okkur að komast að Kárastöðum og Heiðarbæ (ystu bæjum í Þingvallasveit). En vegna ófærðar og dimmveðurs komumst við ekki nema að Vatnskoti og Þingvöllum, og náðum við ekki þangað fyr en um háttatíma. Skiftum við okkur svo niður á þessa tvo bæi til gistingar. Á báðum þessum bæjum var okkur tekið eftir föngum, þurkuð af okkur vosklæði eins og hægt var og eftir föngum einnig veittur beini. Út af gistingu okkar á þessum bæjum spunnust ýmsar sögur, ýktar og ósannar, t. d. það, að ekkert hefði verið hirt um sokka okkar og við hefðum farið í þá jafnblauta að morgni eins og við hefðum skilið þá við okkur kvöldið áður. En þrátt fyrir góðan vilja fólksins, sem við gistum hjá, voru föt okkar stamdeig, og við alt annað en vel við því búnir, að taka móti þeim ósköpum, er við áttum fyrir höndum.
Morguninn 7. mars lögðum við snemma upp frá Þingvöllum. Var veður þá allgott, ljettur á vestur- og útsuður-loftið, en þykkur og dimmur í austrið. Frost var ekki mikið þá um morguninn, en snjór var mikill á jörðu, svo að ófærð var fyllilega í hné; sóttist ferðin þar af leiðandi afar seint. Þegar við komum út í svonefnda Vilborgarkeldu, fór að byrja að hvessa, og herti þá jafnframt mjög frostið, svo fötin stokkgödduðu á okkur og áttum við því enn erfiðara með að komast áfram. Á svonefndum Moldbrekkum, næstum því á miðri Mosfellsheiði, var sæluhúskofanefna, og töluðum við þegar um, er veðrið versnaði, að reyna að finna kofann og láta þar fyrir berast. Þegar við hugðum okkur komna svo langt, dreifðum við okkur til að leita kofans, en gátum með engu móti fundið hann, enda var þá komin blindhríð með feikna frosti og fannburði af hánorðri. Var þá eina lífsvonin úr því sem komið var, að reyna að ná til bæjar í Bringunum,
en þangað var enn löng leið fyrir höndum. Hjeldum við svo áfram skáhalt við veðrið og höfðum nóg með að halda hópinn og tvístrast ekki hver frá öðrum. Í kring um sólarlagið fórum við að halda kyrru fyrir, því flestir voru þá orðnir aðframkomnir af þreytu. Klakahúð var komin fyrir andlit okkar svo augnanna naut ekki heldur við, og föt okkar einnig orðin slálfreðin. Ekki var neitt glæsilegt að hugsa til þess, að láta fyrir berast þarna um nóttina, ekkert afdrep, alt sljett af jökli, og það feikna-veður að ekki var stætt. Við fórum að pjakka með stöfunum niður í snjóinn til að reyna að fá eitthvert skýli, sem við gætum sest í; fyltist það jafnharðan af snjó; urðum við þó fegnir að fleygja okkur þar niður, því þreyta og kuldi gengu mjög nærri okkur. Eftir þetta kom nú dimman og hafði þá hver lítið af öðrum að segja, og mátti svo kalla, að hver einn berðist við dauðann. Jeg get ekki greinilega sagt frá öðrum en sjálfum mjer þessa nótt; átti jeg, eins og flestir hinna, nóg með sjálfan mig og var lítt fær um að rjetta öðrum hjálparhönd. Jeg lá lítið niðri, gerði allar tilraunir til að halda á mjer hita; jeg lagðist á bakið og barði saman fótunum, og hafði yfir höfuð þá hreyfingu, sem jeg frekast gat.
Litlu eftir dagsetur andaðist drengur 17 ára, Þorsteinn Guðmundsson frá Kjarvalsstöðum, og heyrði jeg til hans hljóð eða andvarp um leið og hann skildi við. Nálægt miðri nóttu heyrði jeg angistaróp til eins; fór jeg að huga frekar að því; var það Egill Jónsson mágur minn, frá Hjálmsstöðum, og var hann fastur í fönninni, berhöfðaður, og berhentur á annari hendinni; hafði hann þá mist höfuðfatið og annan vetlinginn. Eftir mikla erfiðismuni náði jeg honum á fætur og batt tveimur vasaklútum um höfuð hans, en hendinni fór jeg að reyna að koma í buxnavasann; var hún þá stálgödduð og ósveigjanleg og sagðist hann ekkert finna til hennar. Jeg gat ekki yfirgefið Egil svo á sig kominn, enda gat hann furðanlega staðið uppi með því að hafa stuðning af mjer. Nokkru síðar heyrði jeg hrópað nálægt mjer, og fór jeg að gæta að því. Var það Þiðrik Þórðarson frá Útey; var hann einnig fastur í fönninni og sagðist hafa ákafan brjóstkrampa, sem hann áður átti vanda til að fá. Að lokum tókst mjer að ná honum á fætur, og studdi jeg þá svo báða, Egil og Þiðrik, lengi næturinnar. Eftir að jeg hætti að hafa sjálfráðar hreyfingar, fann jeg að mig kól ákaft bæði á höndum og fótum. Fram undir dögun vissi jeg ekkert hvað hinum leið. Þeir voru vitanlega að hjálpa, sem eitthvað gátu, hinum, sem litla eða enga björg gátu veitt sjer. Undir dögunina slotaði veðrinu lítið eitt. Sást þá að eins rofa fyrir tungli, og komust þá allir á fætur, hver með annars hjálp, og voru þá allir lifandi nema áður nefndur drengur; töluðum við þá saman og mælti enginn æðru orð. Þegar var hálfbjart orðið af degi, rauk hann aftur upp með þeim feikna-ofsa, að langt keyrði úr hófi fram yfir það, sem á undan var gengið. Fanst okkur þá sem við stæðum alveg berir fyrir heljarfrostinu og hrökluðumst af stað undan veðrinu; voru þá nokkrir, sem ekkert gátu komist, þar á meðal þeir Egill og Þiðrik, og skildist jeg þar við þá. Þessi hrina stóð á að giska eina klukkustund og er jeg þess alveg viss, að ef hún hefði staðið yfir aðra klukkustundina til, þá hefði enginn okkar komist lífs af. Veðrið dró niður um það leyti að albjart var orðið, og var þó enn hároksbylur. Sáum við þá höggva fyrir topnum á Grímmansfelli. Vorum við þá rjett fyrir neðan Leirvogsvatn, heldur nær Stardal en Bringunum, og höfðum við því lítið sem ekkert vilst.
Guðnahellir.
Nálægt kl. 9 um morguninn komum við fjórir eða fimm niður að Bringunum (efsta bæ í Mosfellssveit); hinir þrír eða fjórir komu nokkuð seinna, höfðu þeir tafist eitthvað lengur við að hjálpa þeim, sem ósjálfbjarga voru. Þá bjó í Bringunum fátækur maður, Jóhannes Lund; voru þar lítilfjörleg húsakynni og knapt um bjargræði og eldivið. Var okkur þó veitt þar hin besta aðhjúkrun, sem hægt var. Fengum við þegar kaffi og nýmjólk, en fórum síðan niður í vatnsílát með hendur og fætur, og vorum þannig niðri í því fram eftir deginum, og var það óskemtilegur dagur.
Jóhannes bóndi í Bringunum fór þegar til næstu bæja og fjekk menn með sjer til að leita þeirra 6, sem vantaði. Er þeir komu upp í heiðina, þar sem við vísuðum þeim til, fundu þeir þá þegar; voru þeir allir dauðir, aðeins lífsmark með einum; var hann fluttur að Stardal og dó að vörmu spori. Lík hinna voru flutt að Mosfelli. Voru þau lögð í snjó og vakað yfir þeim nokkur dægur og voru engin lífsmörk sjáanleg. Hinir átta, sem eftir lifðu, voru allflestir mikið kalnir. Einn var þó mjög lítið eða ekkert skemdur, Sveinn heitinn á Vífilsstöðum. Vorum við svo fluttir til Reykjavíkur og gátum aðeins riðið í söðlum. Þar lá jeg rúmfastur í 18 vikur, misti allar tær af báðum fótum og kól einnig mikið á úlnliðum og höndum«. – 15/11 1910. M. G.“
Mennirnir fimm urðu úti við hól við Illaklif sunnan og ofan við Leirvogsvatn. Rennur lækur þar niður að vatninu, sem sjaldan frýs. Fylgdi frásögn eftirlifanda að óneining hefði komið upp í hópnum hvert halda skyldi. Sá sem hraustastur var, þekkti vel til og best slapp úr hrakningunum iðraðist þess jafnan að hafa ekki yfirgefið hópinn strax up kvöldið og reynt að brjótast til bæja eftir hjálp. Þessi atburður sýnir vel hversu alvarlegar afleiðingar vondur útbúnaður og fáfræði á ferðalögum gat haft í för með sér þegar í harðbakkan slær. En hann getur líka verið þörf áminning um að ferðalög, um ekki lengri veg, geta verið varasöm ef ekki er allrar varúðar gætt og ferðabúnaður í góðu lagi. Auk þess má vel læra af honum þá lexíu að þegar allir vilja ráða för getur villan orðið þess meiri. Nauðsynlegt er að að láta þann ráða, sem mesta reynslu og besta þekkingu hefur á staðháttum.
Mennirnir, sem létust, eru grafnir í einni röð í ómerktum gröfum undir kirkjuveggnum í Mosfellskirkju.“
Þegar komið var að hólnum settist hundur, sem var með í för, niður og neitaði að fara lengra. Lagðist hann síðan niður og dinglaði skotinu, en hreyfði sig ekki meðan aðrir ferðalangar skoðuðu hólinn.
Í Sögu Mosfellsbæjar er m.a. fjallað um útilegumenn í Mosfellssveit. Þar segir m.a. frá Guðnahelli í Illaklifi.
„Þess voru dæmi að fólk yfirgaf mannlegt samfélag og varð útilegumenn sem héldu sig gjarnan nærri mannbyggð. Árið 1677 segir í Hestaannál frá ókyrrleika af stuldi og ráni víða um land. „Urðu menn þá varir og vísir, að þjófar lágu á fjöllum uppi, og drápu naut og sauði sér til matar.“ Ári síðar fundust Eyvindur Jónsson og Margrét Símonardóttir „við helli í Mosfellsheiði fyrir ofan Mosfellssveit og lifðu við kvikfjárstuld, “ segir í Setbergsannál.
Í Alþingisbókum segir að þau hafi fundist í einum helli suður undir Örfiriseyjarseli í Kjalarnesþingi og tekin þar með þýfi af nautakjöti og öðrum hlutum. Ekki er vitað hvar bólstaður þeirra var nákvæmlega en lítið er um hella í Mosfellsheiði sem nýta mátti sem mannabústaði. Helst hafa menn getið sér þess til að útlagaranir hafi búið í hellisskúta undir Illaklifi sunnan við Leirvogsvatn. Hellirinn er um sjö metrar að lengd, fimm á breidd og lofthæð er víða um tveir metrar. Hann hefur í seinni tíð verið nefndur Guðnahellir eftir Guðna Bjarnasyni refaskyttu á Harðastöðum sem hefur legið þar á greni.
Þegar komið var að hellinum þessu sinni var hann pakkaður snjó svo ekki reyndist unt að komast inn í hann. Ný hnit voru tekin á hellinn því skv. eldri hnitum skeikaði um 300 metrum á réttri staðsetningu.
Á bakaleiðinni var komið við í Mosfellsseli sunnan við Leirvogsvatn. Seltóftirnar voru á kafi í snjó, en þó stóð hluti stekkjarins upp úr snjónum. Hvít tófa skaust hjá.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimild m.a.:
-Óðinn, 6. árg. 1910-1911, 9. tbl. bls. 69-71.
Guðnahellir.