Vogar

Í Vogum og Vatnsleysuströnd eru nokkur minnismerki:

Arahólavarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Arahólsvarða.

“Arahóll er austan til við Minni-Voga á honum stendur Arahólsvarða. Vogamenn nefna Hólinn Arhól, Arhólsvarða, Arhólsbrekka.” segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og Mannvirki segir: “[…] minnisvarði um Hallgrím [Scheving Árnasonar], er hann lét gera á svonefndum Arahól, sem er hæð austanvert við íbúðarhúsið og heitir minnisvarðinn Arahólsvarða. Hallgrímur fékk vinnumann í Minni-Vogum til að byggja vörðuna. Sá hét Sveinbjörn Stefánsson, hálfbróðir Hinriks Hansens, er byggði Mýrarhús. Varðan var byggð árið 1890, í hvaða tilgangi er ekki ljóst, nema þá sem prýði fyrir plássið. […] Leifur Kristjánsson frá Helgafelli efndi gamalt loforð, […] um 1982, að laga vörðuna og var það gert svo gott sem á aldarafmæli hennar.”
Arahólsvarða er um 320 m NA við Stóru-Voga og um 125 m SA við Minni-Voga.

Vogar

Vogar – minnismerki; Arahólavarða.

Varðan stendur á grasigrónum hól, Arahól, sem er um 10-20 m á hæð og snýr NA-SV. Varðan er grjóthlaðin og steinlímd. Varðan er um 2,5 m á hæð, um 2 m á breidd og 2 m á lengd. Hlutverk vörðu er óþekkt ef hún hefur nokkurn tíman nýst til einhvers annars en sem minnisvarði. Samkvæmt ljósmynd frá árinu 1921 í fórum Þjóðminjasafns Íslands er varðan sem stendur í dag (2007) steinlímd með kalki úr Esjunni sem brennt var í Kalkofninum í Reykjavík. Áður var grjótvarða á sama stað.

Arahólavarða stendur á Arahól við skrúðgarð Vogabúa.

Stefánsvarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Stefánsvarða.

„Neðan við Strandarveg, innst á há Hæðinni, er Stefánsvarða, falleg og reisuleg, kennd við Stefán Pálsson (f. 1838) útgerðarmann á Stóru-Vatnsleysu. Vegagerðarmenn rifu vörðuna eins og margar aðrar á þessum slóðum en hún var endurhlaðin árið 1970 af Jóni Helgasyni frá Litlabæ og Magnúsi syni hans. Á „hafnfirskan“ stein í vörðunni er klappað nafnið „Stefánsvarða“.“ (SG)

Í athugasemdum og viðbótum við örnefnalýsingu segir að varðan hafi verið hlaðin endurhlaðin um 1950. Ekki er vitað hvenær varðan var hlaðin upphaflega en líkur eru á því að hún hafi átt að varða leið.

Þegar vegfarendur aka um Vatnsleysustrandarveg eða ganga um Almenningsveginn, hina fornu þjóðleið um Ströndina, er Stefánsvarðan eitt helsta kennileitið á leiðinni. Almenningsvegurinn lá um Hæðina skammt sunnan við vörðuna og má enn sjá móta fyrir honum á köflum.

Vogar

Vogar – minnismerki; Stefánsvarða.

Stefán Pálsson fæddist í Hvassahrauni 5. febrúar 1838.  Vegagerðarmenn er unnu við gerð þjóðvegarins ofan Strandarbæjanna í byrjun 20. aldar rifu vörðuna og notuðu grjótið sem kanthleðslur í nýja veginn. Eftir að hæðin hafði verið vörðulaus í u.þ.b. hálfa öld tóku þeir Jón Helgason og Magnús sonur hans sig til árið 1970 og endurhlóðu vörðuna. Magnús var um skeið minjavörður í Byggðasafni Hafnarfjarðar og skrifaði margar fróðleikslýsingar um mannlífið þar fyrrum, s.s. “Byggð í byrjun aldar.” Til fróðleiks má geta þess að Magnús sótti áður steininn í vörðuna heim að gamla bænum á Minni-Vatnsleysu og markaði sjálfur áletrunina í hann til minningar um nefndan Stefán.

Kristmundarvarða

Vogar

Vogar – minnsimerki; Kristmundarvarða.

„Tvær vörður eru í Djúpavogsheiði ofan við Bieringstanga og heitir önnur þeirra Kristmundarvarða, kennd við Kristmund Magnússon sem varð úti á heiðinni þar sem varðan er, svo til beint austur af svonefndum Voghól.
Þessi atburður gerðist 1907 eða 1908 er verið var að smala fé,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi.
Varðan er um 360 m sunnan við Töðugerðisvörðu og um 1,1 km suðvestan við Efri-Brunnastaði.
Varðan stendur lágt í hraunmóa sem er að hluta uppblásinn.
Varðan stendur vel. Hún er um 1 m í þvermál og 1,1 m á hæð. Í henni sjást 6 umför. Fast norðaustan undir vörðunni er minningarskjöldur um Kristmund. Ekki er vitað hvenær varðan var upphaflega hlaðin en hún var endurhlaðin árið 1993 af Ragnari Ágústssyni frá Halakoti.

Árni Vigfús Árnason

Vogar

Vogar – minnismerki; Árni Vigfús Árnason.

Minningarreitur um Árna Vigfús Árnason gildismeistara sem lést í bílslysi á Reykjanesbraut 16.10.1991.
Blessuð sé minning hans!
St. Georgsgildið í Keflavík.

Minnisvarðinn stendur austan við Reykjanesbrautina, rétt sunnan Vogaafleggjara.

Jónas E. Waldorff

Waldorff

Vogar – minnismerki; Waldorff.

Skammt norðan Reykjanesbrautar, skammt vestan við Vogaafleggjara er kross. Á honum er eftirfarandi áletrun:
„Til minningar um Jónas E. Waldorff sem lést hér í bílslysi, f. 01.04.1989 – d. 09.03.2003“.

Íslands Hrafnistumenn
Minnismerki við gangstíg með ströndinni vestan Stóra-Vogaskóla.

Listaverkið Íslands Hrafnistumenn eftir Erling Jónsson var afhjúpað 2008 á Stóru-Voga túni við Stóru-Voga tanga.

Vogar

Vogar – minnismerki; Íslands Hrafnistumenn.

Á tímum árabátaútgerðar var Vatnsleysuströnd ein stærsta verstöð landsins og var verkið reist sem minnisvarði um sjómennsku og útgerð frá Vogum og Vatnsleysuströnd.

Birgir Þórarinsson í Minna- Knarrarnesi með aðstoð Birgis Guðnasonar hjá Listasafni Erlings Jónssonar áttu frumkvæði að því að minnisvarði yrði reistur. Þeir leituðu til Erlings um gerð listaverks sem skírskotaði til sjómennsku og útgerðar frá Vogum og Vatnsleysuströnd. Erlingur brást mjög vel við hugmyndinni enda sjálfur frá Vatnsleysuströnd, og úr varð verkið Íslands Hrafnistumenn.

Vogar

Vogar – minnismerki; Íslands Hrafnistumenn.

Erlingur fæddist í Móakoti á Vatnsleysuströnd 1920. Hann lést í Reykjanesbæ 2022. Mörg verk standa eftir hann í Reykjanesbæ og víðar. Erlingur starfaði lengi sem handavinnukennari í Keflavík og fór síðar til Noregs til að mennta sig frekar og starfaði þar síðar sem listakennari.

Á fótstalli minnismerkisins er skjöldur. Á honum stendur: „Íslands Hrafnistumenn – Erlingur Jónsson 2009.

Íslands Hrafnistumenn
lifðu tímamót tvenn,
þó að töf yrði á framsóknar leið.
Eftir súðbyrðings för
kom hinn seglprúði knörr,
eftir seglskipið vélknúin skreið.
En þótt tækjum sé breytt,
þá er eðlið samt eitt –
eins og ætlunarverkið,
er sjámannsins beið. – Örn Arnarsson“.

Sjómannadagsráð efndi til samkeppni um ljóð og lag fyrir sjómannadag 1939. Sigurljóðið var Hrafnistumenn Arnar Arnarsonar við lag eftir Emil Thoroddsen. Framangreint er fyrsta erindið af fjórum.

Jón Daníelsson

Vogar

Vogar – minnismerki; aflraunasteinn.

Jón Daníelsson í Stóru-Vogum á Vatnsleysuströnd varð þjóðsagnarpersóna í lifandi lífi. Auk þess að vera atorkumikill sjávarútvegsbóndi þótti mörgum til hans koma af ýmsum öðrum gáfum og atgervi.

Í Morgunblaðinu 1988 er fjallað um afhjúpun “Minnisvarða Jóns sterka Daníelssonar” við Stóru-Vogaskóla:
“Við skólaslit Stóru-Vogaskóla í Vogum sunnudagínn 15. maí klukkan 14 verður afhjúpaður minnisvarði um Jón sterka Daníelsson dannebrogsmann frá Stóru-Vogum, en minnisvarðanum hefur verið valinn staður á skólalóðinni, sem er í landi Stóru-Voga.
Jón Danfelsson fæddist 21. mars 1771 að Hausastöðum í Garðahverfi í Gullbringusýslu og ólst upp hjá foreldrum sínum við fremur kostalítil kjör, því foreldrarnir voru fátæki og fjölskyldan fjölmenn.

Vogar

Vogar – minnismerki; Jón Daníelsson.

Eitt var þó sem Jón skorti ekki í æsku og uppvexti, en það var hákarlalýsið og hákarlalýsisbúðingurinn, sem hann neytti sem feitismatar alla sína löngu ævi, en hann andaðist 16. nóvember 1865.

Minnisvarðinn, aflraunasteinn, er framan við Stóru-Vogaskóla. Á minnisvarðanum er skjöldur. Á honum má lesa eftirfarandi: „Aflraunasteinn – 450 kg. Til minningar um Jón Daníelsson frá Stóru-Vogum, f. 21. mars 1771, d. 16. nóv. 1865. Sæmdur Dannebrogs orðunni 1848.
Hér var Egils afl og áræði
fræleiki Gunnars, framsýni Njáls
hyggindi Snorra, hagvirkni Þórðar
Áskels frjósemi, ígrundun Mána“.

Flekkuleiði

Vogar

Vogar – minnismerki; Flekkuleiði.

Túnið við Flekkuvíkurbæinn er að mestu sunnan og ofan við húsið. Syðst í því, svo til alveg undir túngarðinum ofanverðum er Flekkuleiði; lágur gróinn hóll, einn af nokkrum. Á leiðinu er “rúnasteinn”, sem segir að þar “Hvíli Flekka”. Í raun er um 16. eða 17 aldar leturstein að ræða skv. áliti sérfræðinga. Sagan segir að Flekka, norsk landnámskona, sem áður byggði Flekkuvík, hafi viljað láta grafa sig í jarðri túnsins þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna að bænum. Þar mun hún hvíla, blessunin.
Ekki er ólíklegt að ætla að Flekka hafi verið grafinn á ystu mörkum hins ræktaða lands á þeim tíma, m.a. til að vernda það fyrir hugsanlegum yfirgangi þeirra, sem á eftir kynnu að koma, en miklir fólksflutningar voru til landsins á landnámsöld og landamörk því fljót að breytast.
Rúnasteinn Flekku er einn af a.m.k. þremur á Reykjanesskaganum.

Rúnasteinninn er í lágum grónum hól sunnan bæjarhúsanna, innan garðs.

Kúagerði

Vogar

Vogar – minnismerki; Kúagerði.

Varða þessi var hlaðin að frumkvæði Áhugamanna um bætta umferðarmenningu í byrjun sumars 1990 til minningar um þá sem látist höfðu eða slasast í umferðinni á Reykjanesbrautinni. Þessi kafli brautarinnar hafði sérstaklega háa slysatíðni og þess vegna var ákveðið að hlaða vörðuna þarna, bæði til minningar um þá látnu og jafnframt öðrum vegfarendum til áminningar um að fara gætilega.
Það var hleðslumaður úr Hafnarfirði sem hlóð mannvirkið.

Varðan stendur við Vatnsleysuvík í Kúagerði, rétt við gamla Suðurnesjaveginn.

Minnismerki – „Hot Stuff“
Kastið; flugslys.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Í hlíðinni ofan við Kastið vestast í Fagradalsfjalli er brak úr B-24 sprengiflugvélinni “Hot Stuff” er fórst þar mánudaginn 3. maí árið 1943, kl. 16:20.
var að koma frá Bretlandi með stefnu á Meeks-völl. Hún var hluti af 8. flugsveitinni í Bovington í Englandi. Fjórtán menn af fimmtán manna áhöfn fórust í slysinu. Þetta var mesta flugslys hér á landi fram á þennan dag. Leitarsveitir komu að flakinu daginn eftir, kl. 15:05. Aðkoman reyndist hryllileg. Afturhluti vélarinnar var brunninn og annað eftir því.
Í Kastinu, upp undir hlíðum Fagradalsfjalls, eru hlutar flugvélarinnar enn á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Þarna má sjá ýmsa vélarhluta, sem fer þó óðum fækkandi. Einnig hvar álið hefur bráðnað utan um steina úr hlíðinni. Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum.

Vogar

Vogar – minnismerki; Kastið 1943.

Eftirminnilegar slysavettvangiljósmyndir voru teknar á vettvangi skömmu eftir slysið. Einn maður, George A. Eisel, skytta í afturturni vélarinnar, komst lífs af. Hann sat fastur í flakinu í 26 tíma og það tók hjálparmenn einn til viðbótar að ná honum út. Eldur kom upp í vélinni, en hellirigning á svæðinu slökkti hann fljótlega. Vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá slysinu fyrr en þremur dögum síðar. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjanna um allan heim.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Aðrir, sem fórust þennan örlagaríka dag, voru skv. slysaskýrslu Bandaríkjamanna þeir Charles H. Barth, Frank L. Miller, Morrow Krum, Fred. A. Chapman, Theodore C. Totman, Robert Humprey, Joseph T. Johnson, Robert H. Shannon, James E. Gott, Lloyd C. Weir, Kemmeth A. Jeffers og Paul H. McQueen, Sá er lifði flugslysið af hét George. A. Eisel og var stélskytta, sem fyrr sagði.
Þessa örlaganótt nálgaðist flugvélin Kaldaðarnesflugvöll. Fllugvélinni var flogið lágt yfir flugbrautinni, en flugmaðurinn gerði ekki tilraun til að lenda. Þess í stað hélt hann áfram til vesturs með suðurströndinni í u.þ.b. 60 fetum. Við Reykjanes snéri vélin til norðurs.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Ekkert fjarskiptasamband var við hana. Flugvélinni var beygt í austlæga stefnu og flugmaðurinn virðist stefna sjónflug inn á Meeks-völl. Lélegt skyggni og lágskýjun hindraði það. Flugmaðurinn reyndi að fljúgja undir skýjum. Þá varð slysið. Hún rakst á 1100 feta hæðina, 150 fet frá toppnum á a.m.k. 160 mílna hraða.
Í febrúar þetta ár hafði Andrews hershöfðingi orðið yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu. Í minningargrein um hans sagði H.H., “Hap” Arnold, yfirmaður flugflota Bandaríkjamanna að hann teldi að Andrews hefði verið gerður að yfirmanni innrásarliðs bandamanna í Evrópu, en þá stöðu fékk síðan Dwight D. Eisenhower, hershöfðingi, síðar forseti Bandaríkjanna. Segja má því með sanni að atburður þessi hafði viss áhrif á heimssöguna.

Áhöfn og farþegar
Capt. Robert H. Shannon – Pilot †
Lt. Gen. Frank Maxwell Andrews – Copilot †
Capt. James E. Gott – Navigator †
T/Sgt. Kenneth A. Jeffers – Radio Operator †
S/Sgt. Lloyd C. Weir – Crew Chief †
S/Sgt. Paul H. McQueen – Gunner †
Civilian Adna W. Leonard – Methodist Bishop and Chairman of the Corps of Chaplains †
Brig. Gen. Charles A. Barth Gen. Andrews Chief of Staff †Hot Stuff Crew in front of aircraft
Col. Marlow Krum – Member of Gen. Andrews Staff †
Col. Frank L. Miller – US Army, Chief of Chaplains †
Maj. Theodore C. Totman – Gen. Andrews Secretary †
Lt. Col. Fred A. Chapman – US Army†
Maj. Robert H. Humphrey – US Army Chaplain †
Capt. Joseph T. Johnson – Gen. Andrews Aide †
S/Sgt. George A. Eisel – Tailgunner – lifði slysið af

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Flugvélin
Consolidated B-24D-1-CO Liberator
Serial no: 42-23728
USAF 8th. Airforce 93rd. Bombardment Group.

Bandaríska B-24 Liberator – sprengjuflugvélin Hot Stuff, var fyrst flugvéla 8. flughersins til að ljúka 25 árásarferðum frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari. Áhöfnin fékk fyrirmæli um að snúa flugvélinni heim til Bandaríkjanna vorið 1943 þar sem fara skyldi sýningarför um landið í fjáröflunarskyni fyrir Bandaríkjaher.

Vogar

Vogar – minnismerki; Andrews og félagar.

Yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu, Frank M. Andrews, hafði verið boðaður til skrafs og ráðagerða í Washington, óskaði eftir því við vin sinn Ted Timberlake ofursta, yfirmann 93. sprengjudeildar, að fá far með Robert ,,Shine” Shannon höfuðsmanni og áhöfn hans á Hot Stuff, en Andrews var einnig kunnugur Shannon. Hershöfðinginn var reyndur flugmaður og skyldi vera aðstoðarflugmaður í ferðinni.
Rétt fyrir brottför kom í ljós að með Andrews í för voru átta aðrir farþegar, nánustu starfsmenn hershöfðingjans, biskup Methodistakirkjunnar sem fór fyrir prestadeild Bandaríkjahers og tveir herprestar. Sprengjuflugvélin rúmaði ekki svo marga farþega og urðu því fimm úr áhöfninni eftir og biðu annarrar ferðar.
Hot Stuff lagði upp frá Bovington flugvelli í Englandi að morgni 3. maí og skyldi hafa viðkomu í Prestwick í Skotlandi og Reykjavík á leiðinni vestur um haf. Veður var gott í fyrstu en fór versnandi þegar komið var upp að suðurströnd landsins með dimmviðri og rigningu.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Flugvélin sást hringsóla yfir breska herflugvellinum í Kaldaðarnesi en hélt áfram förinni lágt vestur með strönd Reykjaness. Ólendandi var í Reykjavík og þegar ekki tókst að finna Keflavíkurflugvöll sökum dimmviðris var ákveðið að halda aftur til Kaldaðarness. Lágskýjað var og hvass vindur með slagviðri. Bar flugvélina af leið og hafnaði hún á brún Fagradalsfjalls og splundraðist.
Við slysið fórust allir um borð nema stélskyttan, George Eisel liðþjálfi, sem slapp lítt meiddur en klemmdur í byssuturninum. Bjóst hann við dauða sínum í brennandi flakinu en byssukúlur sprungu um allt í eldinum. Slagviðrið vann þó um síðir á bálinu og barst Eisel hjálp þegar leitarflokkar fundu flakið tæpum sólarhring eftir slysið.

Minnisvarðinn var upphaflega reistur í Arnarseturshrauni við Grindavíkurveg, en var síðar færður vegna tæringar frá Svartengisvirkjun og stendur nú í hlíðinni nyrst við gatnamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar.

Ólafsvarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Ólafsvarða við Ólafsgjá.

Nokkurn veg norðvestur frá Arahnúk er Ólafsvarða við Ólafsgjá í Vogaheiði. Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta Klifgjár, millum hennar og Stóru-Aragjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring, ólík hinum. Hún sést ekki fyrr en komi er að henni ef ekki væri varðan við hana.

Um aldamótin 1900 (21. desember) hrapaði Ólafur Þorleifsson, bóndi úr Hlöðuneshverfi, þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jól. Mikil leit var gerð að honum, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson.

Varðan var hlaðin til minningar framangreindan atburð.

Magnúsarsæti

Magnúsarsæti

Letur við Magnúsarsæti.

Á Stóru-Vatnsleysu dvaldi Magnús nokkur Eyjólfsson frá Torfastöðum í Fljótshlíð, f. 1827. Magnús var kallaður „gjörtlari“, en það er fornt nafn á gull- og silfursmiðum. Magnús var ölkær maður, þó aldrei yrði það neinum til meins. Svo hagar til á Stóru-Vatnsleysu, að í gegnum túnið liggur Hrafnagjá og sagt er að hún liggi í sjó fram út í Vatnsleysuvík. Er gjá þessi víða hættuleg í túninu, með stöllum og syllum og heitir ein syllan „Magnúsarsæti“ eftir Magnúsi „gjörtlara“. Er sagt að margar ferðir hafi Magnús farið á syllu þessa og sofið þar úr sér vímuna. Í bergið fyrir ofan syllu þess eru höggnir stafir, ME. 1888 til minningar um nefndan Magnús, og þar fyrir neðan S.J.

Magnúsarsæti

Magnúsarsæti – letur.

Stafirnir S.J. gætu verið upphafsstafir þess er meitlaði þetta í bergið og að M. eigi við Magnús. S.J. gæti átt við tvo menn frá Stóru-Vatnsleysu. Annar var Sigurjón Jónsson, síðar bóndi í Garðhúsum í Vatnsleysutúninu, en árið 1888 er Sigurjón 14 ára gamall og vil ég síður eigna honum þetta verk. Hinn var Sigurður Jónsson, bóndi og silfursmiður, f. 1814, og hefur hann þá verið 74 ára árið 1888 og því trúlegra að hann hafi gert þessa stafi, þó orðinn þetta gamall, en stafirnir eru gerðir af hagleiksmanni með góðum verkfærum.
Magnúsarsæti er í austanverðri Hrafnagjá skammt vestan Stóru-Vatnsleysu.

Litli sjómaðurinn

Þorvaldur Guðmundsson eignaðist Minni-Vatnsleysu árið 1953 – og varð þar með eigandi að stærsta svínabúi landsins.

Minni-Vatnsleysa

Litli sjómaðurinn á Minni-Vatnsleysu.

Þorvaldur notaði íbúðarhúsið sem starfsmannaíbúð, uns hann reif það árið 1978 og byggði ný hús fyrir menn og skepnur.

Nálægt grunni gamla hússins á Minni-Vatnsleysu lét Þorvaldur setja styttu, sem hann hafði látið gera. Heitir hún Litli sjómaðurinn, til minningar um þá er sóttu sjóinn. Styttuna gerði listamaðurinn Ragnar Kjartansson.
Styttan stendur á lágum grasi vöxnumhól skammt norðan við Ráðsmannsbústaðinn, ofan við sjávarkambinn. Á fótstallinum er skilti. Á því stendur: „Litli sjómaðurinn eftir Ragnar Kjartansson. Til minningar um þá er sóttu sjóinn frá Minni-Vatnsleysu – 1962“.

Hafa ber í huga að eflaust eiga eftir að koma fram minnisvarðar í umdæminu er víða kunna að leynast.

Þyrluvarða

Þyrluvarða

Þyrluvarðan 2008.

Vestast í Breiðagerðislakka, fast norðan Reykjanesbrautar, er varða – „Þyrluvarða“.
Það var 1. maí 1965 að Sikorsky björgunarþyrla frá Varnarliðinu hrapaði niður í lægðina suðvestur frá Skrokkum norðan Reykjanesbrautar. Hún var að koma frá Hvalfirði á leið til Keflavíkurflugvallar. Þarna fórust fimm menn, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvar Varnarliðsins og var varðan reist í minningu þeirra.
Fréttin birtist m.a. á forsíðu MBL þriðjudaginn 4. maí – Hörmulegt slys er 5 varnarliðsmenn farast í þyrlu, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli – “Sá hörmulegi atburður gerðist s.l. laugardagskvöld um kl. 19, að þyrla frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli hrapaði til jarðar við jaðar nýja vegarins vestan Kúagerðis upp af Landakoti á Vatnsleysuströnd, með fimm mönnum. Allir biðu þeir bana, enda varð þyrlan alelda um leið og hún snerti jörðina.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, 2007.
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/#rey

Vogar

Vogar – minnismerki; Skjöldur við Kristmundarvörðu.

Andrews

Í frásögnum fjölmiðla 2018 var fjallað um afhjúpun minnisvarða um flugslysið í Kastinu árið 1943.

Afhjúpun minnisvarðar um flugslys á Reykjanesi 27.04.2018:

Andrews

Andrews – minnismerki vígt.

„Fyrir 75 árum, hinn 3. maí 1943, fórst bandarísk sprengjuflugvél af gerðinni B-24D Liberator sem bar heitið „Hot Stuff“ á Fagradalsfjalli á Reykjanesi. Flugvélin var á leið heim til Bandaríkjanna í fyrirhugaða sigurför sem fyrsta sprengjuflugvélin sem hafði náð ósködduð að fljúga 25 árásarferðir frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni.

Andrews

Andrews – minnismerki.

Í fyrstu voru margar slíkar flugvélar skotnar niður af orrustuflugmönnum Þjóðverja og hét Bandríkjaher áhöfnum sprengjuflugvéla sem lykju 25 árásarferðum að þeir fengju að snúa heim. Áhöfn „Hot Stuff“ var sú fyrsta til að ná þessum merka árangri.

Í flugslysinu i Kastinu fórust [þrettán] manns, þar á meðal Frank M. Andrews hershöfðingi og æðsti maður herafla Bandaríkjanna í Evrópu sem var á leið til Washington til þess að leggja á ráðin um undirbúning innrásar Bandamanna á meginland Evrópu. Einn maður lifði slysið af, George A. Eisel stélskytta, og var það í annað sinn sem hann komst lífs af úr slíku flugslysi.

Andrews

Andrews – Minnsmerki vígt.

Við fráfall Andrews tók Dwight D. Eisenhower hershöfðingi við sem æðsti maður herafla Bandaríkjanna í Evrópu og alls herafla bandamanna í Evrópu og stjórnaði innrásinni í Normandí árið eftir. Eisenhower var síðan forseti Bandaríkjanna á árunum 1953 – 1961. Andrews hershöfðingi var ötull talsmaður þess að bandaríski flugherinn yrði gerður að sjálfstæðri liðsdeild og er honum jafnan eignaður heiðurinn að því að sú skipan komst á árið 1947.

Hot Stuff

Áhöfnin á Hot Stuff er fórst í Kastinu hinn örlagaríka dag.

Var Andrews herflugvöllurinn í Maryland, aðsetur einkaflugvélar Bandaríkjaforseta, Air Force One, nefndur til heiðurs honum. Bandaríska herstjórnin á Íslandi nefndi nýreist íþróttahús við Hálogaland í Reykjavík Andrews Memorial Field House til heiðurs hershöfðingjanum en húsið var helsta íþróttahús höfuðborgairnnar í tvo áratugi eftir stríðið. Varnarliðið nefndi einnig samkomuhús sitt á Keflavíkurflugvelli (nú Ásbrú) Andrews Theater til heiðurs Andrews hershöfðingja.

Í tilefni af því að 75 ár eru liðin frá þessum örlagaríka degi var afhjúpaður minnisvarði um flugslysið við Grindarvíkurveg, fimmtudaginn 3. maí kl. 13:00. Minnismerkið er tilkomumikið og skartar meðal annars gríðarlega stórri eftirlíkingu af B-24 Liberator sprengjuflugvélinni úr ryðfríu stáli. Þá verður í kjölfarið minningarathöfn í Andrews Theater á Ásbrú, kl. 14:30.

Minnisvarðinn er reistur að frumkvæði Bandaríkjamannsins Jim Lux og ættingjum þeirra sem fórust, með aðstoð Þorsteins og Ólafs Marteinssona. En allir eru þeir miklir áhugamenn um flugvélar og flugsögu seinni heimstyrjaldarinnar. Gert er ráð fyrir „heiðursflugi“ B-52 Stratofortress flugvélar bandaríska flughersins yfir svæðið á meðan á afhjúpun stendur.

Nokkrir ættingjar þeirra sem létust í flugslysinu koma frá Bandaríkjunum til að vera viðstaddir athöfnina. Meðal annarra gesta verða Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra og Jill Esposito, staðgengill sendiherra bandaríska sendiráðsins á Íslandi, ásamt Lt. Gen. Richard Clark og Col. John Teichert frá bandaríska lofthernum. Í lok athafnarinnar verða fluttir nokkrir fyrirlestrar um slysið og Frank M. Andrews hershöfðingja.“

Kastið

B-17 líkanið.

Fyrir stuttu (skrifað 10.05.2021) barst FERLIR sú fregn að flugvélalíkaninu á minnismerkinu framangreinda virðist hafa verið stolið, a.m.k. væri það horfið. Viðkomanda var bent á að mögulega eðlilegra skýringa gæti verið að finna á hvarfinu.

Andrews

Andrews – áritun á bakhlið minnismerkisins.

Hringt var í nefndan Þorstein Marteinsson, s.892 3628, er var annar þeirra bræðra er m.a. stóðu að gerð minnismerkisins á núverandi stað.
Þorsteinn sagði að þeir hefðu nýlega tekið líkanið af minnismerkinu vegna þess hversu illa það virtist útleikið, sennilega vegna gufuefnissambanda frá Svartsengi. Ætlunin væri að fægja það og síðan setja minnismerkið upp á nýjum stað; ofan hringtorgs Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Eftir nýlegar vegaframkvæmdir við Grindavíkurveginn, þar sem umferð til suðurs hefði verið verulega hindruð að minnismerkinu, hafi þurft að hugsa staðsetninguna upp á nýtt. Upplýsingafulltrúa Grindavíkurbæjar hafi verið tilkynnt um framkvæmdina.
Stefnt er að úrbótunum á næstu vikum…

Sjá meira um minnisvarðan HÉR.

Heimildir:
-https://www.keilir.net/is/um-keili/frettir/afhjupun-minnisvardar-um-flugslys-a-reykjanesi
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/05/03/afhjupudu_minnisvarda_um_ahofn_b24d/
-https://www.vf.is/frettir/afhjupun-minnisvarda-um-flugslys-a-reykjanesi
-https://www.ruv.is/frett/afhjupa-minnisvarda-um-ahofn-flugvelar
-https://www.grindavik.is/v/24046
-https://stridsminjar.is/en/a-list-of-crash-sites-by-year/incidents-in-1943/103-b-24-liberator-kast-fagradalsfjall-may-3-1943
-https://www.keilir.net/is/um-keili/frettir/afhjupun-minnisvardar-um-flugslys-a-reykjanesi

Kastið

Hot Stuff.

Andrews

Á RÚV 3. maí 2023 var eftirfarandi umfjöllun um „Flugslys á Fagradalsfjalli sem breytti rás viðburða“ í tilefni af því að áttatíu ár voru frá því bandarísk sprengjuflugvél fórst í Kastinu á Fagradalsfjalli skammt frá Grindavík.

Andrews

Minnismerkið á Stapanum um áhafnameðlimi Hot Stuff er fórst í Kastinu á Fagradalsfjalli 3. maí 1943.

Fimmtán voru um borð en aðeins einn komst lífs af. Tilefnið var auk þess tilfærsla á minnismerkinu um atburðinn, en því hafði áður verið komið fyrir austan Grindavíkurvegarins miðja vegu milli Stapans og Grindavíkur. Áhrif tæringar frá nálægri Svartsengisvirkjuninni varð til þess að ástæða var að færa minnismerkið upp á ofanverðan Stapa norðan gatnamóta Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar. Þaðan er ágætt útsýni (í góðu skyggni) yfir að slysstaðnum í kastinu í vestanverðu Fagradalsfjalli. Gerður hefur verið göngustígur ofan í endurgerðan gamla Grindavíkurveginn frá hringtorgi ofan gatnamótanna.

„Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var viðstaddur minningarathöfnina á Stapa í dag.
Hershöfðingjar í Bandaríkjaher, sendiherra og forseti Íslands minntust í dag fjórtán bandarískra hermanna sem fórust í flugslysi á Fagradalsfjalli fyrir áttatíu árum.

Andrews

Frá minningarathöfninni við minnismerkið á Stapanum 3. maí 2023.

Fimm ár eru frá því minnisvarði um flugslysið 3. maí 1943 var reistur en nú verið færður að Stapa við Reykjanesbraut. Fimmtán voru um borð í sprengjuflugvélinni Hot Stuff þegar hún brotlenti á Fagradalsfjalli og komst aðeins einn lífs af. Um borð voru bandarískir hermenn og Frank Maxwell Andrews hershöfðingi.
Minningarathöfnin í dag var einkar hátíðleg þótt bæði væri hvasst og kalt. Mannanna fjórtán var minnst með ræðum, blómsveigar lagðir og þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir auk flugvélar frá Bandaríkjaher.

Andrews

Frá minningarthöfninni á Stapanum.

„Mér finnst það heiður að vera fulltrúi Andrews-herstöðvarinnar sem dregur nafn sitt af Andrews hershöfðingja, og fara fyrir flughermönnum frá herstöðinni við þessa athöfn,“ segir Todd Randolph, yfirmaður Andews-herstöðvarinnar í Bandaríkjunum.
Carrin Patman, sendiherra Bandaríkjanna, segir mikilvægt að minnast þeirra sem fórust. Þeir hafi barist fyrir lýðræðingu.

„Já, mjög svo og enn frekar núa þegar Ísland og Bandaríkin standa aftur saman í andófinu gegn innrás Rússa í Úkraínu,“ segir Patman.

Andrews

Annað upplýsingaskilti af tveimur við minnismerkið. 

Þegar slysið varð hafði enginn jafn háttsettur embættismaður og Andrews hershöfðingi fallið í stríðinu úr röðum bandamanna.
„Rás viðburða hefði orðið önnur hefði það ekki gerst. Hann hefði farið fyrir liði bandamanna sem réðist inn í Normandí í júní 1944. En í stað hans tók Eisenhower við keflinu,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Andrews

Á öðru skiltinu er m.a. lýst 12 flugslysum er urðu á nálægum slóðum á stríðsárunum.

„Hann var þá háttsettur yfirmaður í flughernum á þeim tíma og frumkvöðull í því sem nefnt er Flugher Bandaríkjanna nú. Hann er einn helsti höfundurinn að aðskilnaði herjanna, landher frá flugher til að yfirráðum í lofti sem hernaðaraðferð,“ segir Randolph.

Andrews

Tíu áhafnameðlimir Hot-Stuff er fórust í Kastinu 1943.

Fagradalsfjall sést vel frá minnisvarðanum á Stapa. Frumkvæðið að því að setja upp minnisvarðann eiga tveir bræður [Þorsteinn og Ólafur Marteinssynir] og sem hafa mikinn áhuga á sögunni og halda úti vefsíðu með korti af flugslysum.

„Þeir höfðu reynt lendingu í Keflavík en vegna veðurs fundu þeir ekki völlinn. Við erum að horfa hérna á Fagradalsfjall sem flestir kannast við eftir að það gaus. En hérna vestast, þar sem er smá hækkun [Kastið], það var þar sem vélin rakst á fjallið,“ segir Þorsteinn Marteinsson, áhugamaður um sögu flugslysa.

Á tveimur upplýsingaskiltum við minnismerkið má m.a. lesa eftirfarandi:
B-24 Liberator-sprengjuflugvélin Hot Stuff – Sigurganga og örlagarík endalok
„Bandaríska B-24 sprengjuflugvélin Hot Stuff og áhöfn hennar var fyrsta flugvél 8. flughersins sem lauk 25 árásarferðum frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari.

Andrews

Áhöfn Hot Stuff.

Yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu, Frank M. Andrews, hafði verið boðaður til skrafs og ráðagerða í Washington, óskaði eftir því við vin sinn Ted Timberlake ofursta, yfirmann 93. sprenguflugdeildar, að fá far með Robert „Shine“ Shannon höfuðsmanni og áhöfn hans á Hot Stuff, en Andrews var einnig kunnugur Shannon. Hershöfðinginn var reyndur flugmaður og skyldi vera aðstoðarflugmaður í ferðinni.
Rétt fyrir brottför kom í ljós að með Andrews í för voru átta aðrir farþegar, nánustu starfsmenn hershöfðingjans, biskup Meþódistakirkjunnar sem fór fyrir prestadeild Bandaríkjahers og tveir herprestar. Sprenguflugvélin rúmaði ekki svo marga farþega og urðu því fimm úr áhöfninni eftir og biðu annarrar ferðar.

Andrews

Robert „Shine“ Shannon.

Hot Stuff lagði upp frá Bovington flugvelli í Englandi að morgin 3. maí og skyldi hafa viðkomu í Prestwick í Scotlandi og Reykjavík á leiðinni vestur um haf. Veður var gott í fyrstu en fór versnandi þegar kom upp að suðurströnd landsins með dimmviðri og rigningu. Flugvélin sást hringsóla yfir breska herflugvellinum í Kaldaðarnesi en hélt áfram förinni lágt vestur með strönd Reykjaness. Ólendandi var í Reykjavík og þegar ekki tókst að finna Keflavíkurflugvöll sökum dimmviðris var ákveðið að halda aftur til Kaldaðarness. Lágskýjað var og hvass vindur með slagviðri. Bar flugvélina af leið og hafnaði hún á brún Fagradalsfjalls og sundraðist.

AndrewsVið slysið fórust allir um borð nema stélskyttan, George Eisel liðþjálfi, sem slapp lítt meiddur en lá klemmdur í byssuturninum. Bjóst hann við dauða sínum í brennandi flakinu, en byssukúlur sprungu um allt í eldinum. Slagviðrið vann þó um síðir á bálinu og barst Eisel hjálp þegar leitarflokkar fundu flakið tæpum sólarhring eftir slysið“.

Frank Maxwell Andrews – yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu – 3. feb. 1884-3. maí 1943
Andrews„Frank M. Andrews hershöfðingi fæddist 3. febrúar 1884 í Nashville í Tennssee. Hann hóf nám í háskóla Bandaríkjahers í West Point árið 1902 og brautskráðist árið 1906. Hann starfaði í flugdeild Bandaríkjahers í fyrri heimsstyrjöldinni og árið 1935 valdi Douglas Mac Arthur yfirhershöfðingi hann til þess að gegna starfi yfirmanns nýrrar aðgerðardeildar flughersins.
Andrew var ötull talsmaður þess að bandaríski flugherinn yrði gerður að sjálfstæðri liðsheild og er honum jafnan eignaður heiðurinn að því að sú skipan komst á árið 1947.
Andrews var einnig ákafur hvatamaður að smíði stórra sprengjuflugvéla og eggjaði stjórnvöld til kaupa á fjölda nýrra sprengjuflugvéla af gerðinni B-17 „Fljúgandi virki“ en hlaut ekki stuðning yfirstjórnar hersins. Framsýni hans sannaðist þó þegar Bandaríkin drógust inn í síðari heimsstyrjöldina og stjórnvöld létu smíða B-17 og B-24 Liberator sprenguflugvélar í stórum stíl.

Andrews

Hot Stuff.

Andrews hafði verið hækkaður í tign árið 1941 og var þá falin yfirstjórn bandarískra herja við Karíbahaf sem önnuðust varnir aðkomuleiða til Bandaríkjanna úr suðri, þ.á.m. um Panamaskurð. Eftir innrás bandamanna í Norður-Afríku haustið 1942 var honum falin stjórn alls herafla Bandaríkjanna við sunnanvert Miðjarðarhaf sem átti þátt í að vinna sigur á Afríkuher þýska hershöfðingans Erwins Rommels.

Andrews

Einkennismerking Hot Stuff.

Í febrúar 1943 var Andrew skipaður yfirmaður herja Bandaríkjanna í Evrópu með aðsetur í Bretlandi og 3. maí sama ár valdi bandaríska yfirherráðið hann til þess að stjóra sameinuðum herafla bandamanna sem undirbúa skyldi innrás á meginland Evrópu. Andrew fékk þó aldrei boðin um þess merku hækkun í tign því hann fórst sama dag þegar Liberator flugvél hans, sem gekk undir nafninu „Hot Stuff“ og flytja átti hann til Bandaríkjanna, fórst á Fagardalsfjalli á Reykjanesi.

Andrews

Slysstaðurinn í Kastinu. Þaðan hefur nú, á áttatíu ára tímabili, verið hirt nánast allt er gefur slysstaðnum gildi.

Flugvélin hafði horfið frá lendingu í Keflavík vegna veðurs og var á leið til flugbækistöðvar breska flughersins í Kaldaðarnesi. Við lát Andrews hershöfðingja tók Dwight D. Eisenhower, síðar Bandaríkjaforseti, við stjórn Evrópuherstjórnarinnar en hann hafði áður gegnt starfinu árið 1942.
Andrews hershöfðingi og þrettán samferðarmenn hans voru grafnir með mikilli viðhöfn í Fossvogskirkjugarði 8. maí 1943. Líkamsleifar þeirra voru flutta heim til Bandaríkjanna árið 1947 og var Andrews lagður til hinstu hvílu í þjóðargrafreit Bandaríkjanna í Arlingtonkirkjugarði í útjarðri Washingtonborgar“.

Keflavíkurflugvöllur

Keflavíkurflugvöllur

Georg C. Bonesteel, hershöfðingi og yfirmaður Bandaríkjahers á Íslandi opnaði Keflavíkurflugvöll (Meeks) formlega 24. mars 1943.

„Upphaflega var flugvöllurinn lagður af Bandaríkjaher í Seinni-Heimsstyrjöldinni og tekin formlega í notkun 23. mars 1943. Banndaríkjamenn nefndu hann „Meeks Field“ í höfuðið á ungum flugmanni, George Meeks að nafni, sem fórst á Reykjavíkurflugvelli og var fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem lést á Íslandi í styrjöldinni. Að styrjöldinni lokinni var flugvöllurinn og bækistöðin, sem við hann stóð, afhentur Íslendingum til eignar og var hann þá nefndur Keflavíkurflugvöllur eftir stærstu nágrannabyggð hans, Keflavík.

Andrews

Leiði Andrews og félaga í Fossvogskirkjugarði.

Flugvellirnir við Keflavík voru reyndar tveir, Meeks og Pattersonflugvöllur ofan Njarðvíkurfitja, sem þjónaði orrustuflugsveit Bandaríkjahers til stríðsloka. pattersonflugvöllur var ekki notaður eftir stríðslok. Keflavíkurflugvöllur var rekinn af bandarísku verktakafyrirtæki til ársins 1951, er Bandaríkjaher kom aftur til landsins samkvæmt varnnarsamningi Íslands og Bandaríkjana sem gerður var að tilstuðlan Norður-Atlantashafsbandalagsins, NATO.

Andrews

Grafsteinn Andrews í Arlingtonkirkjugarði.

Bandaríkjaher (varnarliðið á Íslandi) reisti bækistöð sína við Keflavíkurflugvöll. Þar var afgirtur bær sem hýsti allt að 5700 hermenn, starfsfólk og fjölskyldur þeirra allt til ársins 2006 þegar herstöðin var lögð niður. Í dag her herstöðin hverfi í Reykjanesbæ og gengur undir nafninu Ásbrú“.

Konunglegur flugvöllur í Bretlandi var nefndur eftir Frank M. Andrews, Andrews Field, í Essex, England. Þetta var fyrsti flugvöllurinn, sem verkfræðideild bandaríska hersins endurbyggði þar í landi.

Andrews

Andrews Theater á Keflavíkurflugvelli.

Þetta var 1943, skömmu eftir slysið í Kastinu. Hann var þekktur fyrir að vera fyrsti endurgerði flugvöllurinn í Bretlandin 1943, hét áður RAF Station Great Saling, á heimsstyrjaldarárunum síðari. Flugvöllurinn var notaður af  USAAF 96th sprengjuflugdeildinni og 322nd sprengjusveitinni á stríðsárunum sem og  nokkrum RAF deildum áður en honum var lokað 1946. Í dag er þarna lítill einkaflugvöllur.

Andrews breiðstræti, vegur er liggur að alþjóðaflugvellinu Filippseyja, Ninoy Aquino International Airport Terminal 3, var nefndur eftir honum. Þá var „Andrews Theater“ á Keflavíkurflugvelli einnig nefnt eftir Frank í minningu hans.

Sjá meira um minnisvarðan HÉR.

Heimildir m.a.:
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-05-03-flugslys-a-fagradalsfjalli-breytti-ras-vidburda
-RÚV, Flugslys á Fagradalsfjalli breytti rás viðburða – Áttatíu ár eru frá því bandarísk sprengjuflugvél fórst á Fagradalsfjalli skammt frá Grindavík. Fimmtán voru um borð en aðeins einn komst lífs af, Kristín Sigurðardóttir, 3. maí 2023.
-Minnismerki ofan Stapa um Andrews og félaga.
–https://en.wikipedia.org/wiki/Frank_Maxwell_Andrews

Andrews

Afsteypa af Hot Stuff, Liberator-24, á minnisvarðanum.

Kópavogur

Framan við Kópavogsbæinn/Kópavogsbúið er upplýsingaskilti. Á því má m.a. lesa eftirfarandi texta:
„Engar ritheimildir eru til um upphaf búskapar á jörðinni Kópavogi, en fornleifarannsóknir við Þinggerði árið 1973-1976 leiddu í ljós bæjarrústir frá miðöldum og því líklegt að menn hafi verið hér frá síðari hluta 9. aldar.

Kópavogur

Kópavogsbærinn – túnakort 1916.

Kópavogur er fyrst nefndur árið 1523 í dómi yfir Týla Péturssyni frá Kópavogsþingi, en hann var fundinn sekur um rán á Bessastöðum. Bærinn er fyrst nefndur í afgjaldsreikningum frá árinu 1553. Kópavogur hafði verið eign Skálholtskirkju en fór í konungseign ásamt öðrum jörðum kirkjunnar eftir siðaskiptin 1550.

Kópavogur

Kópavogsbærinn nú og fyrrum.

Jarðabækur gefa til kynna að Kópavogsjörðin hafi verið rýr að landgæðum. í jarðabókum frá 17. og fram til 19. aldar var jarðardýrleiki um 11 hundruð. Árið 1861 var jarðardýrleikinn skráður 13.6 hundruð. Til samanburðar við næstu jarðir voru Digranes og Vammkot 15 hundruð hvor jörð og Vatnsendi 22 hundruð. Jörðin gat því ekki framfleytt mörgum.
Upphaflega stóðu bæjarhús Kópavogs við Þinggerði en á 19. öld voru þau við sjávarbakkann beint suður af núverandi steinhúsi sem reist var 1902-1904. Engin ljósmynd er til af gamla bænum frá 19. öld, en einstakar lýsingar af bæjarhúsunum eru til. Ein er frá sumri 1856, er hinn breski lávarður Dufferin (1826-1902) var á leið frá Reykjavík til Bessastaða og leiðinni lýsti hann svo: „Fyrstu mílurnar riðum við yfir öldótta doloritsléttu, uns við komum til bóndabæjar, sem var við vog nokkrun. Í fjarlægðinni virtist bærinn eins og lítil vin í eyðimörk, því allt í kringum hann voru gráar grjótbrekkur, en er nær dró virtist þarna vera keltneskir virkisveggir, en innan þeirra haugar eins eða tveggja fallinna kappa. Það kom á daginn, að haugarnir voru bara torfþök bæjar og gripahúsa, en virkisveggirnir torfgarðarnir, sem eru hlaðnir utan um best ræktuðu skákina í landi bóndans“.
KópavogurÞarna lýsti lávarðurinn einnig túngarði Árna Péturssonar (1781-1854) bónda í Kópavogi, svonefndum Árnagarði, um 680 metra langri garðhleðslu umhverfis túngarðinn við bæinn. Útlínur garðsins sjást á gömlum kortum og loftmyndum, en Árni var verðlaunaður af konungssjóði árið 1827 fyrir jarðabætur á Kópavogsjörðinni.

Kópavogur

Kópavogsbærinn er elsta steinhlaðna hús Kópavogs.
Jörðin Kópavogur á sér langa og merka sögu meðal annars vegna þess að þar var þingstaður til ársins 1751. Elsta húsið sem nú stendur á jörðinni reisti Erlendur Zakaríasson á árunum 1902 til 1904, en þá voru gömlu bæjarhúsin, sem stóðu sunnar á jörðinni, orðin afar hrörleg. Erlendur var steinsmiður og hlóð hann bæ sinn úr tilhöggnu grjóti ognotaði steinlím með svipuðum hætti og hann hafði lært þegar hann vann við byggingu Alþingishússins á árunum 1880 til 1881. Húsið er elsta húsið í Kópavogi og er eitt fárra steinhlaðinna húsa sem enn standa utan Reykjavíkur. Því hefur það ásamt síðari tíma viðbyggingum mikið varðveislugildi sem eini uppistandandi vitnisburðurinn um elstu byggð Kópavogs og þann búskap sem stundaður var frá fornu fari á því svæði sem nú markar þéttbýli Kópavogs.

Í annarri lýsingu Kópavogsjarðarinnar, frá 21. febrúar 1882, segir: „Bæjarhús eru þar góð, baðstofa byggð á bekk. Hálf er hún ný uppbyggð með kjallara undir. Frambær, búr og eldhús í góðu standi. Tún eru þar stór, sum part þýfð, sum part sléttuð og ábúandinn hefur verið að slétta í þeim. Þessi tún vantar tað. Kemur það til af því að augnvar eru útheyisslægur. Girðing er í kring úr torfi og grjóti. Er hér um bil 2/3 partar túnsins og hálf er hún vel uppbyggð, aftur hálf í falli. Traðir eru heim að bænum, hlaðnar úr torfi og grjóti vel uppgerðar. Kálgarðar eru þar góðir. Í kringum þá góð girðing. Þar jörð þessi liggur að sjó það eru þar góð vergögn. Þar er góð grásleppuveiði og gerir það jörðinni mikinn hag því inn vols hennar gefur jörðinni áburð. Kúgildi jarðarinnar eftir því sem ábúandinn skýrir frá eru 2.“
Erlendur Zakaríasson (1857-1930) steinsmiður, hóp byggingu núverandi íbúðarhússins um 1902 og lauk því árið 1904. Hann hafði áður unnð við byggingu Alþingishússins árið 1880, reisti Kópavogsbæinn á sama hátt og hlóð hann úr tilhöggnu grágrýti og steinlími. Hér hóf hann kúabúskap ásamt konu sinni Ingveldi Guðmundsdóttur, seldi mjólk til Reykjavíkur og var einnig með hesta og kindur. Engjar auk túns við bæinn voru austur af Hvammakotslæk í brekkunum upp af Fífuhvammi og í Fossvogi. Þar var einnig mikil mótekja.

Kópavogur

Hressingarhælið. Húsið var tekið í notkun árið 1926 en það er reist fyrir tilstuðlan Hringskvenna sem settu á laggirnar hressingarhæli fyrir berklasjúklinga. Arkitekt hússins er Guðjón Samúelsson. Kópavogsbær hefur undanfarin ár unnið að endurbótum á því að utan sem innan.

Eftir að Kvenfélagið Hringurinn fékk aðstöðu fyrir hressingarhæli á Kópavogsjörðinni árið 1924 taldið félagið hagkvæmt að vera með búresktur samhliða rekstri hælisins. Hringurinn keypti Kópavogsbæinn þegar hann losnaði úr ábúð og var með búrekstur til 1948. Félagið let byggja fjós, hlöðu, hænsnahús og geymslu við steinhús Erlendar. Óskar Eggertsson (1897-1978) gerðist ráðsmaður á búinu hjá Kvenfélaginu Hringnum 1931 og bjó hér ásamt konu sinni, Guðrúnu Einarsdóttur (1899-1989) og sonum þeirra, Magnúsi (1927-2019), Einari (1930-2016) og tvíburunum Jóhanni Stefáni (1936-1046) og Guðmundi. Ríkissjóður og ríkisspítalar fengu búið 1948 og búskapur hélt áfram þar til skömmu eftir 1960. Síðustu ábúendur í Kópavogsbúinu voru Bjarni Pétursson Walen (1913-1987) bústjóri og Svanborg Sæmundsdóttir (1913-1995). Þau bjuggu hér árin 1959-1983. Íbúðarhúsið er elsta hús í Kópavogi. Kópavogsbærinn var friðaður samkvæmt lögum um húsafriðun í október 2012.“

Kópavogur

Kópavogsbúið.

Seltjarnarnes

Sunnan við Nes á Seltjarnarnesi er garður, nefndur „Urtagarður„. Á tveimur upplýsingaskiltum við garðinn má lesa eftirfarandi; annars vegar:

Saga Urtagarðsins

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – urtagarður.

Garðurinn var opnaður árið 2010 í minningu þriggja mann sem tengdu saman ræktun og heilsubót í lífi og starfi. þeir voru Bjarni Pálsson (1719-1779) landlæknir, Björn Jónsson (1738-1798) lyfjafræðingur og lyfsali og Hans Georg Schierbeck (1847-1911) landlæknir. Árið 2010 voru liðin 250 ár frá skipun Bjarna Pálssonar í nýstofnað embætti landlæknis (1760) og 125 ár frá stofnun Garðyrkjufélags Íslands (1885). Fyrsti formaður þess var Hans Georg Schierbeck þáverandi landlæknir.

Nesstofa og nytjagarðurinn

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Björn Jónsson.

Stofnun landlæknisembættisins með konunglegri tilskipun Friðrik V. Danakonungs árið 1760 markaði tímamót í sögu opinberrar heilbrigðisþjónustu á íslandi. Í tengslum við embættið var rekið apótek og seld lyf undir umsjón menntaðs lyfjafræðings. Voru lækningajurtir m.a. ræktaðar í hluta allstórs matjurtagarðs við Nesstofu. Björn Jónsson var fyrsti menntaði lyfjafræðingur landsins og byggði hann upp og annaðist þennan matjurta- og lækningajurtagarð í Nesi frá 1768. Björn vann fyrst sem aðstoðarmaður Björn Pálssonar landlæknis en var síðan skipaður fyrsti lyfsali á Íslandi árið 1772. Sama ár kom fyrsta útgáfa af Lyfjaskrá Danska ríkisins, Pharmacopea Danica, út. Apótek var rekið í Nesi til ársins 1834 er það flutti til Reykjavíkur. Má þá ætla að ræktun lækningajurta hafi lagst af.

Framlag til heilsubótar
Lyflækningar hafa löngum byggst á notkun jurta sem taldar eru hafa áhrif á heilsu fólks og jafnvel einstaka sjúkdóma.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Bjarni Pálsson.

Ofangreindir heiðursmenn höfðu allir frumkvæði að nýtingu og ræktun nytjajurta, hver á sinn hátt enda var þekking á jurtum og lækningarmætti þeirra mikilvægur hluti menntunar þeirra. Bjarni Pálsson landlæknir (1719-1779) hvatti ráðamenn holdsveikraspítala til að rækta kál og kartöflur handa sjúklingum sínum. Skyldi gefa sjúklingum kál og ferskar jurtir úr íslenskri náttúru minnst tvisvar í viku (fjallagrös, skarfakál, hrafnaklukku, njólablöð og Ólafssúrur). Björn Jónsson (1738-1798) kynntist lækningajurtagörðum við apótek á námsárum sínum í Danmörku.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Urtagarður.

Við suðurgafl Nesstofu útbjó hann stóran jurtagarð með hlöðnu torfgerði í kring og nýttist hann vel til ræktunar. Auk lækningajurta, ræktaði Björn matjurtir, reyndi kornrækt og var einna fyrstur til að reyna trjárækt hér á landi. Hans Georg Schierbeck (1847-1911) sameinaði læknisstarfið og garðyrkjuháhugann með því að hafa forgöngu um eflingu og útbreiðslu garðyrkju og ræktun matjurta, almenningi til heilsubótar. Ekki var vanþörf á, enda voru margir Íslendingar vannærðir og þjáðir af skortssjúkdómum vegna einhæfs mataræðis. Með stofnun Garðyrkjufélags íslands var hafin skipuleg fræðsla almennings um garðyrkju og útveguð aðföng til ræktunarinnar.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – bekkur sem minnisvarði um Georg Schierbeck í Urtagarðinum.

Schierbeck hafi lagt stund á garðyrkjunám í Danmörku og nýttist það vel við fjölbreyttar tilraunir á ræktun korns, matjurta og ýmiss konar skrautjurta, runna og garðtrjáa. Elsta innflutta garðtré á íslandi sem enn lifir er silfurreynirinn í Fógetagarðinum við Aðalstræti í Reykjavík og er það gróðursett af Schierbeck árið 1884.

Urtirnar í garðinum

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Urtagarðurinn.

Garðurinn skiptist í tvo meginhluta, efri garð og neðri garð auk áningar- og fræðslusvæðis við hlið neðri garðsins sem hefur fengið nafnið Björngerði til heiðurs Birni Pálssyni, apótekara í Nesi. Í efri garðinum eru alls um 130 tegundir jurta og finnast um 70 þeirra í íslenskri flóru. Við val á jurtum í garðinn var tekið mið af heimildum um ræktun hér á landi og í garðinum í Nesi á árunum 1768 til 1834. Takmarkaðar heimildir eru fyrir því hvaða lækningajurtir Björn mun hafa ræktað. Í garðinum eru því einungis nokkur dæmu um jurtir sem voru skráðar í dönsku lyfjaskránni, Pharmacopoea Danica, fra 1772 og gætu hafa verið reyndar hér á landi. Aðrar jurtir sem hér eru sýndar voru ekki ræktaðar hér fyrr en síðar. Til dæmis eru ekki til heimildir fyrir því hvenær rabarbari kom til landsins.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Nes.

Ýmsar jurtir úr íslenskri flóru voru nýttar á þessum tíma og einnig hafa fundist merki um þekktar, fornar lækningajurtir við fornleifarannsóknir á klausturstæðum frá miðöldum á íslandi. Nokkrar slíkar eru til sýnis í garðinum og eru þær sérstaklega merktar með mynd af heilagari Dóróteu. Heimildir varðandi matjurtir og kornrækt eru ítarlegastar. Jurtir þær sem sýndar eru í garðinum eru merktar og fylgja upplýsingar hverri plöntu. Staðsetning jurta í garðinum tekur bæði mið af flokkun og vaxtarskilyrðum plantnanna. margar plönturnar tilheyra fleiri en einum flokki. Sérstakir sýngareitir eru í görðunum fyrir jurtir sem nýnæmi þykir að sýna á hverjum tíma.

Plöntunum í görðunum má skipta í fimm flokka eftir eiginleikum og heimildum um nýtingu þeirra.

Í efri garði eru:

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Urtagarður; skilti I.

Lækningajurtir, alþýðulækningajurtir, matjurtir, korn og krydd.

Urtagarðurinn í Nesi
er samstarfsverkefni Seltjarnarnesbæjar, Garðyrkjufélags Íslands, Embættis landlæknis, Læknafélags íslands, Lyfjafræðingafélags Íslands, Þjóðminjasafns Íslands og Lyfjafræðisafnsins. garðurinn er rekinn sem hluti af starfsemi safnanna í nesi og þar má nálgast upplýsingar um leiðsögn og plöntuvísi Urtagarðsins með fróðleik um plönturnar og nýtingu þeirra.

Og hins vegar:

Lyfjagerð fyrr og nú
SeltjarnarnesLengi hefur maðurinn nýtt jurtir og jurtahluta til þess að lina þrautir og lækna mein. Bakstrar, smyrsl og seyði voru unnin úr villtum jurtum sem var safnað sérstaklega til þess að nýta til lækninga. Þekking á virkni jurtanna og hvernig þær megi best nýta til lækninga gekk mann fram af manni. Með stofnun landlæknisembættisins árið 1760 varð breyting á þessari hefð. Lyfjagerð og lyfsala var viðfangsefni yfirvalda. Jurtir og steinefni voru undirstaða allrar lyfjaframleiðslu á þessum tíma og í fyrst hefur fremur lítill munur verið á þeim lyfjum sem unnin voru á hefðbundinn hátt og þeim sem unnin voru í nesi. Þá má ætla að einhver munur hafi verið á því hvernig og hvaða lyfjum var beitt í lækningaskyni þar sem notast var við fjölbreytt úrval ýmiss konar innfluttra jurta og steinefna í apótekinu í Nesi.

SeltjarnarnesÁrið 1772 urðu nokkur vatnaskil í sögu lyfsölu og lyfjaframleiðslu á Íslandi. Þá var embætti lyfsala stofnað. Í árslok 1771 sigldi Björn Jónsson til Danmerkur og lauk kandídatsprófi í lyfjafræði fyrstur Íslendinga. Hann var skipaður lyfsali á íslandi 18, mars 1772 og tók við rekstri apóteksins í Nesi úr hendi landlæknis. Sama ár kom út fyrsta lyfjaskráin Pharmacopoea Danica. Hún gilti fyrir öll apótek í ríki Danakonungs og innihélt 640 staðlaðar lyfjauppskriftir sem öllum bar að fylgja við blöndun lyfja. Einungis örfáar af þeim jurtum sem eru tilgreindar í lyfjaskránni vaxa villtar á Íslandi.

SeltjarnarnesMeð aukinni þekkingu á lyfjafræði og auknum kröfum um gæði lyfjanna fækkaði jurtalyfjunum ört. Þess í stað var farið að framleiða lyf úr hreinum efnum sem ýmist voru unnin úr plöntum eða framleidd á annan hátt. Á íslandi hurfu jurtalyfin alveg þegar framleiðslu lyfja í apótekum var hætt í lok síðustu aldar. Þá var enda orðið erfitt að útvega jurtir sem stóðust kröfur lyfjafræðinnar um gæði og virkni. Í Evrópsku lyfjaskránni er enn nokkur jurtalyf skráð enda ríkari hefð fyrir jurtalyfjum í Mið-Evrópu þar sem gróður er fjölbreyttari.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Urtagarðurinn neðri.

Nokkur náttúrulyf eru skráð á Íslandi nú til dags og fullnægja þau þar með kröfum Evrópsku lyfjaskrárinnar og íslenskrar reglugerðar. Það er ljóst að í upphafi var aðeins lítill hluti landsmanna, sem átti þess kost að leita til lærðra lækna og kaupa lyf í apóteki. Flestir treystu á húsráð og kunnáttu vísra manna á notkun þeirra villtu jurta sem uxu í nágrenninu. Þetta breyttist mjög á 20. öld. Þekkingu á nýtingu jurtanna hefur þó verið viðhaldið innan lyfjafræðinnar og á vettvangi alþýðulækninga.

Í neðri garði eru:

Seltjarnarnes

Seltjarnarses – skilti II.

Berjarunnar og epli. Villiepli þóttu mikilvæg hollustufæða til forna áður en matarepli frá Austur-Asíu komu til sögunnar.

Hvannir og laukar. Hvannir og laukar voru mikilvægar lækninga- og heilsujurtir til forna a Norðurlöndum og má vísa til íslensks og latnesks heitir á ætishvönninni – Angelica Archangelica L, eða erkiengisjurt, til marks um það. Ætihvönnin vakti athygli sem lækningajurt og barst frá Noregi til Mið-Evrópu á síðari hluta Miðalda.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – Nesstofa 2024.

Hafnir

Norðan við Kirkjuvogskirkju í Höfnum, utan garðs, er upplýsingaskilti um „Hafnir og kirkjur í Höfnum„. Þar má lesa eftirfarandi:

Hafnir„Elstu ritheimildir um byggð í Höfnum er að finna í Landnámu þar sem greint er frá því að Ingólfur Arnarsson hafi gefið Herjólfi Bárðarsyni, frænda sínum og fóstbróður, land á milli Vágs og Reykjaness. Landsvæði sem er líklega nálægt stærð gamla Hafnahrepps. Herjólfur var langafi Bjarna Herjólfssonar, sæfaranda, sem talið er að hafi ásamt áhöfn sinni, fyrstur Evrópumanna, litið meginland Norður-Ameríku augum. Fjölskylda Bjarna á Íslandi hafði flutt að Drepstokki við Eyrarbakka og þaðan til Grænlands og var ástæða ferða Bjarna sú að hann var að heimsækja foreldra sína, en villtist af leið.

HafnirÁvallt hefur verið talið að landnámsbýlið Vogur hafi verið norðan Ósa, þar sem heitir Gamli Kirkjuvogur. Þegar skáli með landnámslagi fannst í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju kom fram sú tilgáta að þar væri að finna landnámsbæinn og fékk hann því nafnið Vogur.

Við fornleifarannsóknir hafa hins vegar vaknað efasemdir um að skálarústin sé bændabýli og hefur sú tilgáta verið sett fram að um sé að ræða rústir útstöðvar eins konar könnunarbúðir líkt og á L’Anse aus Meadows á Nýfundnalandi.

Hafnir

Hafnir – landnámsskáli?

Hafnir eru taldar hafa nafn sitt af tveimur fyrrum stórbýlum, Kirkjuhöfn og Sandhöfn sem stóðu talsvert sunnar en núverandi byggð, en þar var búseta fram á 17. öld. Á síðari tímum hafa Hafnir verið samheiti fyrir 3 hverfi, þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvogshverfi. Byggðin í Höfnum hefur mótast mjög af erfiðum náttúruskilyrðum en þó er líklegt að fyrstu árhundruðin hafi verið búsældarlegra um að litast.

Í kjölfar Reykjaneselda, mikillar eldvirknishrinu á Reykjanesi á 13. öld tók land að eyðast vegna sandfoks.

Hafnir

Hafnir.

Byggðin hefur hopað og nú er, svo komið að byggð er fyrst og fremst í Kirkjuvogshverfinu auk Merkiness. Eftir því sem landgæði rýrnuðu fór vegur sjávarútvegs vaxandi og varð helsti bjargræðiskostur Hafnamanna. Fiskimiðin voru svo gjöful að efnamenn sóttust mjög eftir jörðum í hreppnum og í gegnum aldirnar voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins.

Á 18. öld fór íbúum í þéttbýliskjarnanum í Kirkjuvogshverfi að fjölga og var mikill vöxtur fram á 20. öld. Þá var rekin mikil útgerð stórra áraskipa, bæði frá Kotvogi og Kirkjuvogi. ´

Á 19. öld þótti Kotvogur eitt reisulegasta býli landsins. Blómaskeiðið tók enda er vélbátar fóru að ryðja sér rúms og fjarlægð á mið fór að skipta minna máli og krafa jókst um bætt hafnarskilyrði.

Kirkjur í Höfnum

HafnirKirkja hefur verið í Hafnahreppi að minnsta kosti frá 14. öld, en fyrstu sagnir um kirkju eru frá árinu 1332. Miðaldakirkjan stóð hins vegar norðan Ósa en afar lítið er vitað um sögu hennar. Enn má sjá móta fyrir rústum bæjar- og kirkjustæðis og leifum sem gæti verið kirkjugarður og mögulega kæmi fram ný þekking ef rústir Gamla-Kirkjuvogs yrðu rannsakaðar. Heimildir eru um að mannabein hafi verið flutt þaðan að Kirkjuvogi eftir uppblástur allt fram að aldamótum 1800. Þessarar gömlu jarðar er getið ú Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 en kirkjan hafði verið flutt á núverandi stað árið 1575.

Núverandi kirkja, Kirkjuvogskirkja, var vígð 26. nóvember 1861. Fordyri og kór var bætt við nokkrum árum síðar. Árið 1970 var ákveðið að fara í viðamiklar viðgerðir á kirkjunni en í ljós kom að byggingin var í afar slæmu ástandi. Að tilstuðlan Þórs Magnússonar þjóðminjavarðar voru Hörður Ágústsson og Þorsteinn Gunnarsson fengnir til að stýra verkinu með það að markmiði að færa kirkjuna nær því sem hún var á 19. öld.

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja – Jón Helgason 1920.

Söfnuðurinn var fámennur en með útsjónarsemi tókst að ljúka viðgerðum og endurvígði dr, Sigurbjörn Einarsson biskup kirkjuna 10. desember 1972. Á þessum tíma var húsfriðunarsjóður að taka sín fyrstu skref og sást mjög glögglega hve mikil þörf var á þeim sjóði í þess konar verkefni.

Kirkjuhöfn er bær sem stóð aðeins sunnar en Kalmanstjörn. Nafnið bendir til að þar hafi verið kirkja en heimildir eru fátæklegar. Þegar Árni Magnússon skráði efni í jarðabókina árið 1703, kemur fram að jörðin hafi verið í eyði í um 40 ár. Nokkur ummerki eru um byggð á þeim slóðum sem bærinn mun hafa staðið og talið er að þar hafi einnig verið kirkjugarður en sagnir eru um að bein hafi verið flutt þaðan í kirkjugarðinn í Kirkjuvogshverfinu.“

Hafnir

Hafnir – skilti.

Seltjarnarnes

Eiríkur Þ. Einarsson, bókasafnsfræðingur, hefur tekið saman yfirlit um minnismerki á Seltjarnarnesi:

Ásmundur Sveinsson – Trúarbrögðin

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Trúarbrögðin.

Frummynd þessa járnskúlptúrs er frá 1956. Árið 1975 var hún stækkuð og reist á núverandi stað í tilefni 100 ára afmælis Mýrarhúsaskóla.

Ár: 1965/1975.
Efni: járn.

Trúarbrögðin eru frá því skeiði í list Ásmundar (1893-1982) þegar járnið leysti stein og tré af hólmi sem aðal efniviður listamannsins. Jafnframt urðu viðfangsefni hans óhlutbundin, oft sótt í heim tækni og geimvísinda. Í þessu verki notar Ásmundur geómetrísk form og tákn sem vísa til ýmissa trúarbragða og andlegra minna. Hálfmáninn er tákn múhameðstrúar, utan hans stendur kross sem tengist öðrum hlutum verksins með járngeislum. Margs konar þríhyrnd form vísa til heilagrar þrenningar en einnig til viðleitni alls til æðri upphafningar og sameiningar. Hringurinn er tákn eilífðar og einingar. Við fyrstu sýn líkist verkið skipi, með stefni, möstrum og segli. Má skilja það svo að hin ýmsu trúarbrögð og andleg leit mannsins séu á sama fleyi, siglandi hraðbyri inn í framtíð einingar og andlegs þroska.

Minnismerki er staðsett við Kirkjubraut, á holtinu skammt vestan Seltjarnarneskirkju.

Bjarni Pálsson (1719-1779)

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Bjarni Pálsson.

Minnisvarði um Bjarna Pálsson landlækni stendur við Nes við Seltjörn á Seltjarnarnesi.

Bjarni var skipaður fyrsti landlæknir á Íslandi 17. mars 1760 og sat að Nesi við Seltjörn 1763-1779.

Minnisvarðinn er reistur af Seltjarnarneskaupstað á 200 ára ártíð Bjarna Pálssonar 8. september 1979.

Bjarni fæddist að Upsum á Upsaströnd við Dalvík. Foreldrar hans voru hjónin séra Páll Bjarnason prestur á Upsum og Sigríður Ásmundsdóttir. Bjarni missti föður sinn tólf ára að aldri og fluttist þá með móður sinni að Stað í Hrútafirði. Hann hóf nám í Hólaskóla 1734 en hætti vorið 1736 til að gerast fyrirvinna móður sinnar. Hann hóf þó nám að nýju síðar og lauk stúdentsprófi frá Hólaskóla 1745, þá 26 ára að aldri. Hann innritaðist í Kaupmannahafnarháskóla 1746 og lagði þar stund á læknisfræði og náttúruvísindi.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Bjarni Pálsson.

Bjarni lauk læknanámi í september 1759 fyrstur Íslendinga og var þá orðinn fertugur. Hann var skipaður fyrsti landlæknir Íslands 18. mars 1760 og bjó eftir það á Bessastöðum og síðan á Nesi við Seltjörn þar sem nú er Nesstofa á Seltjarnarnesi. Hann kenndi nokkrum mönnum læknisfræði og veitti sumum þeirra lækningaleyfi eftir að hafa prófað þá en aðrir sigldu til Kaupmannahafnar og luku þar læknanámi.

Kona Bjarna var Rannveig Skúladóttir (1742-1803), dóttir Skúla Magnússonar landfógeta. Sveinn Pálsson læknir skrifaði ævisögu Bjarna og var hún gefin út í Leirárgörðum árið 1800.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Bjarni Pálsson.

Minnismerkið, þrír stuðlabergsstandar, er skammt norðan við Nes. Á þeim hæsta, í miðið, er tákn lækna, á þeim til vinstri handar er áletrunin „Reist af Seltjarnarkaupstað á 200 ára ártíð Bjarna Pálssonar 8. sept. 1979“ og á þeim til hægri handar er áletrunin „Bjarni Pálsson f:17. maí 1719, d: 8. sept 1779. Skipaður fyrsti landlæknir á íslandi 18. mars 1760. Sat að Nesi við Seltjörn 1763-1779“.

Björn Jónsson í Nesi (1772-1798)
Fyrsti lyfjafræðingurinn og apótekarinn á Íslandi.

Minnisvarðinn var afhjúpaður 24. september 2021 og stendur í Urtagarði apótekarans við Nes á Seltjarnarnesi, en urtagarðurinn var gerður árið 2010 í minningu Björns Jónssonar, Bjarna Pálssonar landlæknis og Hans Georg Schierbeck, landlæknis með jurtum sem vitað er að apótekarar og lyfjafræðingar notuðu 1763-1834.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Björn Jónsson í Nesi.

Upphaflega er talið að Urtagarðurinn hafi staðið suður af Nesstofu, en nýi garðurinn er suðaustur af Nesstofu og stendur minnisvarðinn í garðinum.
Minnisvarðinn er grágrýtisbjarg með áletruninni „Björn Jónsson, lyfjafræðingur. Apótekari í Nesi 1772-1798“.

Georg Schierbeck (1847-1911)
Í Urtagarðinum er gulmálaður garðbekkur, að baki minnismerkinu um Björn Jonsson í Nesi.. Á honum er áletrun: „Georg Schoerbeck landlæknir, f. 24.02.1847, d. 07.09.1911. Græðandi og heiðursfélagi Garðyrkjufélags Íslands“.

Ankeri
Norðan Norðurstrandar gegnt gatnamótum Sefgarða er ankeri. Á því er skjöldur með eftirfarandi áletrun: „Akkeri við Nýjabæjarvör. Ekki er vitað um uppruna þess akkeris, sem fannst í Súgandafirði um 19160. Akkerið er gjöf Jóns Snæbjörnssonar til Seltjarnarnesbæjar.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Skilti á Ankeri við Nýjabæjarvör.

Amma Jóns, Bryndís Ó. Guðmundsdóttir f. 20.06.1900, d. 23.06.1966 og afi, Jón Guðmundsson f. 14.031899, d. 27.07.1964 voru síðustu ábúendur Nýjabæjar.
Akkerið stendur hér við Nýjabæjarvör í landi sem áður tilheyrði Nýjabæ“.

Ankeri
Sunnan Suðurstrandar, skammt ofan við Björgunarmiðstöð bæjarins, er ankeri við grágrýtisbjarg. Einhver gömul, ryðbrunnin, áletrun er á ankerinu, en engar aðrar skýringar er þar að finna.

Björn Jónsson (1932-2010)
Björnslundur

Seltjarnarnes

Seltjanarnes – minnismerki; Björnslundur.

Gróðursettur af félögum Rotaryklúbbs Seltjarnarness í minningu Björns Jónssonar (1932-2010) skólastjóra og skógræktarfömuðar 2019.

Gróðurlundurinn er í útivistarsvæði norðan við Suðurströnd á Seltjarnarnesi, skammt vestan við íþróttasvæði bæjarsins. Við hann er lítið skilti, sem á stendur: „Björnslundur – Gróðursettur af félögum Rótarýklúbbs Seltjarnarness í minningu Björns Jónssonar (1932-2010) skólastjóra og skógræktarfrömuðar 2019“.

Friðartré

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Friðartré.

Á útivistarsvæðinu, þar sem Björnslundur er, hefur verið komið fyrir skilti við hálfdauða hríslu. Á því stendur: „Friðartré – Gróðursett 5. júlí 2011. Augnabliks friður getur og mun bjarga heiminum. -Sri Chinmoy stofnandi Friðarhlaupsins (Wold Harmony Run)“.

Nes við Seltjörn

Hér stóð kirkja til ársins 1799.

Minnisvarðinn um kirkju í Nesi við Seltjörn er skammt sunnan Ness.

Rotaryklúbbur Seltjarnarness reisti minnisvarðan.

Heimildir m.a.:
-https://www.seltjarnarnes.is/is/mannlif-nattura/menning/listaverk-baejarins
-https://eirikur.is/minnisvardar/vesturland/reykjavik-minn/#selt
-https://is.wikipedia.org/wiki/Bjarni_P%C3%A1lsson

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Neskirkja.

Húsatóftir

Í Faxa árið 1958 fjallaði Jóhanna Kristinsdóttir um „Skátaskólann“ að Húsatófum við Grindavík.

Húsatóftir„Eins og flestir Keflvíkingar vita, réðist Skátafélagið Heiðarbúar í Keflavík í það stórræði í sumar, að starfrækja skátaskóla að Húsatóftum í Staðahverfi í Grindavík. Jörðin Húsatóftir, sem löngu var komin í eyði, er ríkisjörð. Húsið er myndarlegt, eins og meðfylgjandi mynd sýnir, en eftir að skátarnir höfðu fengið umráðarétt yfir því, endurbættu þeir það mikið og gerðu hið vistlegasta. Forstoðukona var frú Jóhanna Kristinsdóttir, sam góðfúslega varð við þeim tilmælum blaðsins, að segja í stuttu máli frá starfseminni í sumar.
Fer frásögn hennar hér á eftir:
„Skátaskólinn að Húsatóftum, tók til starfa 28. júní í sumar, og komu þá 4 telpur og 13 drengir, sem voru fyrstu vikuna, strax næstu viku á eftir varð fullskipað, eða 12 telpur og 18 drengir.
Sunnudaginn 5. júlí var svo vígsla skátaskólans, og var það sambandi við afmæli kvenskátasveitarinnar, en hún átti 15 ára afmæli 2. júlí, í því tilefni komu 50 skátastúlkur í útilegu svo og nokkrar af þeim elztu og nokkrir gestir. Séra Björn Jónsson messaði, úti, skátar og gestir sungu, síðan var staðurinn sýndur og loks almenn kókódrykkja, var þetta hinn ánægjulegasti dagur.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Starfsfólk við skátaskólann auk mín voru, frú Hera Olafsson, matráðskona, Rakel Olsen, sveitarforingi, Rut Lárusdóttir, Ragnhildur Árnadottir, Sveinbjörn Jónsson, Svan Skúlason, flokksforingjar og síðustu 3 vikurnar Gunnar Guðjónsson, því hinir hættu.
Börnunum var skipt niður í flokka og var þeim stjórnað af flokksforingjum, t. d. eldhúsflokk, hann þvoði upp, lagði á borðið og þvoði borðsalinn. Í þessum flokki var starfað í einn dag. Skálaflokkur, hreinsaði til innan húss, þvoði gólf og fl. Sorp- og AraBínuflokkur, brenndi rusli, dældi vatni og þvoði AraBínu, en svo nendist kamarinn.
Út á AraBínu, okkar skari fer,
að hitta annað þeirra, erindið oftast er
Bína syngur hátt, og brosir blítt,
en Ari raular og hlær á víxl
og okkur líður vel.
HúsatóftirÚtivinnuflokkar voru tveir, þeir hreinsuðu til í kringum húsið, brutu spýtur í eldinn, og sóttu kol, og löguðu girðinguna umhverfis.
Þessi vinna var yfirleitt unnin fram að hádegi, annars var dagskráin á þessa leið:
Kl. 8.00 Vakið, morgunleikfimi þegar veður var gott.
Kl. 8.45  Skálaskoðun, foringjar skoðuðu í töskur og kojur.
Kl. 9.00 Hafragrautur, brauð og mjólk.
Kl. 10.00 Fáni dreginn upp.
Kl. 10—12. Flokkar við störf.
Kl. 12.00 Hádegismatur.
Kl. 1.00 Hvílt. Þá máttu börnin leggja sig.
Kl. 2.00 Flokksfundir.
Kl. 3.00 Kókó, brauð, kringlur, kex.
Kl. 3.30 Gönguferðir, leikir o.fl.
Kl. 5.00 Þvottur.
Kl. 6.00 Kvöldverður.
Kl. 7.00 Fylkst.
Kl. 8.00 Fáni dreginn niður.
Kl. 8.15  Varðeldur eða kvöldvaka.
Kl. 9.00 Kvöldbænir.
Kl. 9.15  Kyrrð, og voru þá flestir sofnaðir.
Varðeldur var yfirleitt tvö kvöld í viku, eða kvöldvaka, e£ veður var vont, svo var lesin framhaldsaga í hverju herbergi hin kvöldin.
HúsatóftirGönguferðir voru farnar um nágrennið, t. d. tvisvar gengið á „Þorbjörn“ einu sinni farið út í Þórköllustaðarhverfi, oftast var þó farið út í hraun og út að Stað. Fjaran var líka könnuð og mikið týnt af skeljum og kuðungum.
Börnin fengu ekki að fara út fyrir girðingu nema í fylgd með foringja.
Þá höfðum við þann sið að gefa kross, ef einhver braut reglurnar, t. d. fór út fyrir girðinguna, lék sér í vatnsdælunni, blótaði og fl. fl. Krossarnir voru svo lesnir upp á varðeldum á föstudögum, og þótti það mikil hneisa að hafa fengið kross, sum fengu nokkuð marga krossa en önnur engan, t. d. var einn drengur hjá okkur í þrjár vikur og fékk níu krossa, hann kom svo aftur seinna og var í viku og fékk þá engann, og það gladdi okkur mikið því þá fundum við einhvern árangur af starfinu.
Á flokksfundum voru kennd atriði úr skátahreyfingunni, t. d. hnútar, leynimerki, armbendingar, teikna ísl. fánann og þekkja meðferð hans, skátasöngvar og leikir og fl. Einnig voru búin út hnútaspjöld sem börnin fóru svo með heim.

Húsatóftir

Húsatóftir – skátasamkoma.

Einn drengur tók nýliðapróf og vann skátaheitið, var það Margeir Margeirsson, og var hann einnig skipaður flokksforingi yfir drengjunum. Hann sat við borðsendann og hélt reglu við borðið, flautaði ef einhver hávaði var. Þessi vísa var búin til um hann:

Hann Maggi Magg er flokksforingi
og stjórnar litlu strákaþingi.
Þegar hann flautar borðið við
þagna strax ólætin.

Einnig tóku 7 drengir ylfingapróf og unnu yfingaheitið, eru þetta fyrstu ylfingar í félaginu. Þá tóku ljósálfar mörg sérpróf.
Það bjargaði okkur alveg hvað veðrið var dásamlegt í allt sumar, en það hefði orðið nokkuð þröngt hjá okkur ef mikið hefði ringt, því ennþá á eftir að gera við útihúsin, setja þar upp rólur og fleira sem hægt er að una við í leiðinda veðri.
Að síðustu vil ég láta í ljós þá von að skátaskólinn á Húsatóftum fái að starfa af krafti næstu ár, því þetta er mikill menningarauki fyrir bæjarfélagið í heild.
Þetta var allt á byrjunarstigi hjá okkur í sumar, og mjög dýrt að setja húsið í stand og koma þessu í gang, en ef allir standa saman um að hlú að þessu starfi, megum við líta björtum augum á framtíðina.“ – Jóhanna Kristinsdóttir.
Faxi

Rosabaugur

Ætlunin var að leita uppi tvö sel, annars vegar frá Hlíð og hins vegar frá Stóra-Hálsi í Grafningi. Fyrra selið átti að vera í austanverðum Hlíðardal og hitt í austanverðum Kringluvatnsdal.

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel – Dalagata.

Gengið var upp með sunnanverður Nóngili frá útihúsunum á Stóra-Hálsi. Slóði liggur til að byrja með ofan í selstígnum upp á Stórahálsfjall. Í hlíðinni beygir hann til norðurs fast ofan við gilið og liggur síðan upp eftir melum og móum áleiðis að Geithamragili, sem er á milli bæjanna Stóra-Háls og Hlíðar. Norðan við gilið er Hlíðarfjall, einnig nefnt Háafell. Selstígurinn, „Dalagatan“, sést af og til en hverfur þesss á milli á gróðulausum melum. Þegar komið er þangað sem lækir úr Kringluvatnsdal og Hlíðardal mætast beygir stígurinn til suðvesturs. Greinilegur stígur er einnig áfram til norðurs norðan lækjarmótanna.

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel í Grafningi.

Í örnefnalýsingu fyrir Stóra-Háls segir: „Dalagata; Dalagatan liggur út úr túninu vestanverðu, upp með Miðaftangili að vestan, yfir fjallið í Kringluvatnsdal. Sú leið var farin með heyband úr “Dalnum“, en svo var Kringluvatnsdalur jafnan nefndur.

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel – uppdráttur ÓSÁ.

Gatan liggur beint upp fjallshlíðina fyrir ofan bæinn þangað sem leið liggur yfir fjallið og yfir Stórahálsfjall og yfir í Stórahálsdal. Þarna er fremur grýtt en að nokkru mosa vaxið. Talsvert heyjað þar í þurrkasumrum.“

Selsstígurinn liggur í selið; þriggja rýma staka tóft á annars gróðurllitlu svæði austan lækjarins. Í Sunnlenskum byggðum segir: „Sel frá Stóra-Hálsi: Fornt sel er á Selflötum úti í hálsi. Annað sel var suður af mýrunum í Stóra-Hálsdal. Það er hlaðið úr torfi og grjóti og mun vera síðasta selið sem notað var í Grafningi, en það var notað fram yfir 1850. Seltóftin er um miðjan dalinn. Vestan við tóftina er melur austan við er móar í austurhlíð dalsins. Tóftin er 9 metra löng og 4 metra breið og samanstendur af tveimur hólfum. Grjóthleðslur sjást að innanverðu og tóftin opnast til austurs.“

Hlíðarsel

Hlíðarsel í Grafningi.

Selið er enn greinilegt; grjóthlaðnir veggir, tvö rými liggja saman og það þriðja er framan við dyr þeirra. Útsýni er yfir dalinn, sem jafnan var nefndur „Dalurinn“, upp og norður Hlíðardal. Efjumýrarhryggir eru í norðvestri, Klyftartungur í suðvestur, Innri-Botnahnúkur til vesturs og Dagmálafjall í norðri.
Auðvelt er að fylgja selstígnum í Hlíðarsel. Mjög líklega hefur hann einng verið notaður sem reiðleið milli bæja í Grafningi fyrrum.
Selið er uppi á grónum stalli í fjallinu á augljósum stað. Í því eru þrjú rými. Veggir eru lágir og grónir.

Hlíðarsel

Hlíðarsel Grafningi – uppdráttur ÓSÁ.

Í örnefnalýsingu Hlíðar segir: “Selið. Þar er grashvammur nokkuð hátt suðvestan í Hlíðarfjalli gegnt dalnum. Þegar farið er norður Hlíðardal, hækkar hann brátt og verður allur óvistlegri en suðurendinn. Þar ber mest á uppblásnum börðum og moldargiljum, en nokkru eftir að hallar norður af, er komið á grasflöt“. Í Sunnlenskum byggðum segir: „Í Kringluvatnsdalnum. Sel frá Hlíð var norðan til í Hlíðardal utan í rótum Hlíðarfjalls, í valllendishvammi sem snýr móti suðvestri. Sést vel móta fyrir því enn.
Selið var á grasbala austantil í dalnum, fyrir austan er mosavaxin hlíð en vestan aflíðandi hlíð niður í dalsbotninn. Þarna er fremur slétt og grasi gróið svæði. Ekki langt frá selinu frá Stóra-Hálsi um 20 mín gangur. Leifar selsins eru orðnar mjög ógreinilegar, þó vel megi sjá merki þeirra í landslaginu.“
Selstígnum var fylgt frá selinu niður  með norðanverður Geithamragili og að Hlíð.
Frábært veður.

Stóra-Hálssel

Stóra-Hálssel.

Reykjanesbær- minnismerki; Baldur.

Eftirfarandi upplýsingar lögðust upp í meðfylgjandi handrit eftir leit að minnismerkjum í Reykjanesbæ:

17. júní flaggstöngin

Reykjanesbær

Reykjanesbær- Flaggstöngin; minnismerki.

Á fyrsta ári lýðveldisins var ákveðið að gera myndarlega fánastöng í Skrúðgarði Keflavíkur til minningar um lýðveldistökuna 17. júní 1944.

Séra Eiríkur Brynjólfsson á Útskálum vígði svo stöng á þjóðhátíðardaginn 1945 sem síðan var lengd og settur undir hana hærri fótstallur. Nú er heildarlengd stangarinnar með fótstalli um 17,5 metrar. Hönnuður fótstallsins var Helgi S. Jónsson og Sævar Helgason gerði landvættirnar eftir teikningum Helga. Framan á miðjum stöplinum sem snýr að Suðurgötu eru stafirnir 17. júní 1944 og á þeirri hlið sem snýr inn í garðinn er lágmynd af Jóni Sigurðssyni, gerð af Ríkarði Jónssyni. Á hverju horni eru súlur sem gnæfa upp fyrir stöpulinn og eiga að minna okkur á festu og óbilandi hugrekki þjóðarinnar og einnig tákna þær keflin sem staðurinn Keflavík heitir eftir. Út frá hverjum stöpli rísa svo landvættir Íslands.

Umhverfis stöpulinn er steypt blómaker sem táknar fósturjörðina og þar skal plantað hreinblárri íslenskri fjólu með umgjörð úr hreinhvítum lágum kantblómum; tákn hreinleikans og bláhvíta íslenska fánans í upphafi aldarinnar.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Flaggstöngin; minnismerki.

Á þessa stöng skal þjóðfáninn dreginn að húni 17. júní ár hvert og ekki við önnur tækifæri. Þessi regla hefur þó verið brotin í þrjú skipti, eða þegar forsetar lýðveldisins hafa komið í opinbera heimsókn til Keflavíkur.

Við minnismerkið standa tveir stuðlabergsstöplar. Á sitthvorum þeirra eru koparskildir. Á öðrum þeirra er eftirfarandi yfirskrift: „Til heiðurs þeim sem dregið hafa þjóðhátíðarfánann að hún 17. júni ár hvert“. Undir eru 49 nöfn einstaklinga, auk skátafélagsins Heiðabúa. Á hinum eru nöfn 31 einstaklings undir sömu yfirskrift, það nýjasta frá 2024, nafn Friðriks Georgssonar.

Koparskjöldur með vangamynd Jóns Sigurðssonar er á minnismerkinu vestanverðu.

Minnismerkið er í Skrúðgarðinum í Keflavík – gegnt Ráðhúsinu.

Ankerið við Ægisgötu

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Ankerið; minnismerki.

Ankerið er af Brúarfossi og Karvel Ögmundsson flutti það til bæjarins. Það var sett upp við opnun Bátasafns Gríms Karlssonar í Duus Safnahúsum 2002.

Í frétt í Morgunblaðinu frá 6. apríl 2004 segir: Sögulegu ankeri hefur verið komið fyrir á landfyllingunni neðan við Ægisgötu í Keflavík. Ankerið er af Brúarfossi sem Eimskipafélag Íslands lét smíða í Danmörku árið 1927 og átti í 30 ár. Brúarfoss var eitt af farsælustu skipum félagsins fyrr og síðar. Í einni ferðinni fyrir vestan brotnaði önnur flaugin af ankerinu í blágrýtinu í Aðalvík. Karvel Ögmundsson, útgerðarmaður í Njarðvík, keypti síðar ankerið og notaði það sem legufæri í Njarðvíkinni, fyrir bátinn Vöggu GK 204. Karvel lét síðan taka ankerið á land og á síðustu árum hefur það legið við smábátahöfnina í Keflavík eða þar til því var komið fyrir á landfyllingunni. Ankerið er sannarlega þögull minnisvarði liðins tíma.

Minnismerkið er við ströndina neðanvið Duushús.

Askur Yggdrasils – Lífsins tré

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Askur Yggdrasils; minnismerki.

Gjöf Iðnaðarmannafélags Suðurnesja til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á fimmtíu ára afmæli stofnunarinnar.

Verkið er eftir Erling Jónsson og er gefið til minningar um alla þá iðnaðarmenn sem fallnir eru frá og til að minna á að án iðnaðarmanna er ekki hægt að vera. Verkið var afhjúpað 18. nóvember 2004. Í hugleiðingu Konráðs Lúðvíkssonar, lækningaforstjóra HSS sem hann flutti í tilefni gjafarinnar segir m.a. “Heimstré Erlings Jónssonar tengist stofnun okkar á margan hátt. Hann kaus að skreyta greinar þess með þrastarpari sem bíður eftir að lífið birtist því úr innviðum fimm eggja sem snyrtilega eru lögð í fagurlega tilsniðið hreiður. Talan fimm er tákn þeirra skilningarvita sem dýrmætust eru manninum.“

Hvorki er til að dreifa skildi eða öðrum upplýsingum við minnismerkið.

Minnismerkið er á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Skólavegi 6.

Minning – Valgerður Halldórsdóttir og Kristján Sigurðsson

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Valgerður Halldórsdóttir og Kristján Sigurðsson; minnismerki.

Minnismerkið er koparskjöldur á Stuðlabergsstöpli. Á honum stendur: „Til minningar um hjónin Valgerði Halldórsdóttur og Kristján Sigurðssom yfirlækni 1971-1992. 18.11.2004 – Styrktarfélag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja“.

Minnismerkið er framan við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, skammt frá „Askur Yggdrasils“, minnismerki um alla þá iðnaðarmenn sem fallnir eru frá.

Flug

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Flug; minnismerki.

Verk eftir Erling Jónsson sem fyrst var sýnt á Vindhátíð í Reykjavík haustið 2000

Verslunin Ný-ung keypti verkið og setti það upp fyrir framan verslunina að Hafnargötu 12 á Ljósanótt , 1. september 2001. Var það gert í minningu Steinþórs Júlíussonar, fyrrverandi bæjarstjóra. Þegar vindurinn blæs um verkið, hvín í pípunum eins og um lifandi veru sé að ræða.

Minnismerkið er á hringtorgi á mótum Iðavallar og Aðalgötu.

Hrafna-Flóki

Styttan af Hrafna-Flóka var afhent á sérstökum trjáræktardegi sem varnarliðsmenn á Keflavíkurflugvelli héldu hátíðlegan um nokkurra ára skeið í viðleitni til fegrunar umhverfisins

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Hrafna-Flóki; minnismerki.

Þann 11. júní 1994 var auk hefðbundinnar gróðursetningar vígður reitur framan við gömlu flugstöðina þar sem um langt árabil stóðu stangir er báru fána Íslands, Bandaríkjanna og Norður-Atlantshafsbandalagsins. Þar var styttan afhjúpuð af forsætisráðherra Íslands, Davíð Oddssyni.

Styttan sem var höggvin úr marmara af bandaríska listamanninum Mark J. Ebbert var gjöf Varnarliðsins til íslensku þjóðarinnar í tilefni hálfrar aldar afmælis lýðveldisins. Listamaðurinn hafði þá dvalið hér á landi í tvö ár með eiginkonu sinni sem var sjóliðsforingi í Varnarliðinu. Sagan segir að listamanninum hafi unnist verkið svo seint að hann var langt frá því að vera búinn að höggva styttuna niður í fyrirhugaða stærð þegar hún þurfti að afhendast. Þess vegna er víkingurinn svo þykkur og pattaralegur. Styttan var flutt að Víkingaheimum árið 2010.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Hrafna-Flóki; minnismerki.

Minnismerkið var upphaflega á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll, en hefur nú verið fært og staðsett við Víkingaheima í Njarðvík.

Hvorki fugl né fiskur

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki.

Erlingur Jónsson var fyrstur til að fá útnefninguna Listamaður Keflavíkur og var það árið 1991.

Af því tilefni var ákveðið að reisa listaverk á stöpli í miðbæ Keflavíkur, þar sem ígreipt skyldu nöfn þeirra sem valdir eru listamenn bæjarins á hverju kjörtímabili. Listaverkið var svo sett upp sumarið 1992 í skrúðgarði Keflavíkur. Hugleiðing höfundar að verkinu er: “Þrívíð hugleiðing til heiðurs listafólki Keflavíkur. “Áttvís á tvennar álfustrendur, einbýl, jafnvíg á báðar hendur, situr hún hafsins höfuðmið.” Listafólk Keflavíkur hvorki sitji né standi stjarft í viðjum vanans, heldur leiti sem víðast jákvæðra fanga.”

Annars vegar á minnismerkinu er fimm koparskildir, hver upp af öðrum. Á þeim efsta; „Heiðurslistamenn Keflavíkur“, síðan „1991 – Erlingur Jónsson, myndhöggvari“, „1992 – Gunnar Þórðarson, tónlistarmaður“, „1998 Halla Haraldsdóttir, gler- og myndlistarkona“, og loks „Hilmar Jónsson, rithöfundur“.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki.

Hinsvegar eru sjö koparskildir undir skildi með áletruninni: „Heiðurslistamenn Reykjanesbæjar“. Neðsti skjöldurinn er frá 2022, tileinkaður „Karen I. Sturlaugsson, tónlistarmanni“.

Á meginlistaverkinu er einnig koparskjöldur með meðfylgjandi áletrun: „Þrívíð hugleiðing til heiðurs listafólki Keflavíkur – Áttvís á tvennar álfustrendur, einbýl, jafnvel á báðar hendur. Situr hún hafsins höfuðmið. – Einar Benediktsson; Sóley“.

Minnismerkið er í Skrúðgarðinum í Keflavík, við Sólvallagötu.

Jamestown ankerið

Í Höfnum varð uppi fótur og fit þegar það spurðist út í þorpinu að morgni 26. júní 1881 að risastórt seglskip væri að stranda við Hvalsnes, á milli Hestakletts og Þórshafnar í Ósunum gegnt Kotvogi. Þeir sem fyrstir komu á vettvang sáu að skipið var mannlaust og töldu ljóst að það hefði verið lengi á reki því allur seglbúnaður þess og reiði var horfinn. Þetta reyndist vera timburflutningaskipið Jamestown, gríðarstórt bandarískt seglskip (líklega um 4.000 tonn á núverandi mælikvarða), sem rekið hafði mannlaust um hafið í 4 mánuði áður en það strandaði.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Ankeri Jamestown; minnismerki.

Skipið brotnaði í spón á fáum dögum en það tókst að bjarga stórum hluta farmsins, um 100 þúsund plönkum, skv. sumum heimildum, af góðum borðviði sem nýttist til húsbygginga á Suðurnesjum og víðar. Ankerið var híft á land fyrir tilstilli Jóns Borgarssonar og fleiri íbúa Hafna árið 1989. Annað samsvarandi ankeri stendur á þurru landi í Sandgerði og tvö minni ankeri og keðja í Vestmannaeyjum.

Á skilti við ankerið stendur: „Ankerið er úr seglskipinu Jamestown sem rak mannlaust upp í fjöru við Hvalvíkk fyrir utan Hafnir 26. júní árið 1881. Talið er að skipið hafi verið á reki í fjóra mánuði mannlaust á Norður-Atlantshafi. Snemma árs 1881 kom eimskipið Ethiopia að Jamestown á reki illa leikið og bjargaði 27 manna uppgefinni áhöfn þess. Jamestown var 1889 tonn, 207 feta langt, 40,7 fet á breidd, 28,7 fet á dýpt og með þrjú þilför, smíðað 1879 í Richmond USA.
Jón Borgarson í Höfnum og vinir björguðu ankerinu á land 19.08.1989. Jamestown var eitt stærsta seglskip sem sigldi um heimshöfin á þessum tíma.
Að Jóni Borgarssyni látnum á Reykjanesbær ankerið“.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Jamestown; minnismerki.

Ankerið, minnismerkið um Jamestown, er norðan við Kirkjuvogskirkju, utan garðs.

Keflavíkurmerkið

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Keflavíkurmerkið; minnismerki.

Bæjarstjórn Keflavíkur ákvað 12. maí 1966 að taka upp byggðarmerki fyrir Keflavíkurkaupstað.

Helgi S. Jónsson teiknaði merkið og hugsaði táknmál merkisins á þessa leið: “Blái liturinn er tákn himins og hafs. Súlurnar þrjár eru keflin sem Keflavík heitir eftir og þær eru líka þær þrjár meginstoðir sem bera Keflavík uppi; land, loft og sjór. Bárurnar eru tákn úthafsöldunnar sem berst að landi. Fuglinn er tákn hinna hvítu máva en einnig flugsins og ferðarinnar inn í framtíðina.” Fljótlega gerði Helgi S. tillögu að standmynd merkisins og árið 1976 vann Erlingur Jónsson standmyndina sem stóð fyrir framan bæjarskrifstofur Keflavíkur frá 1976 til 1991. Þá stóð það við Ráðhús Reykjanesbæjar að Tjarnargötu 12 til ársins 2002 þar til það var flutt á Ósnef og afhjúpað á nýjum stað á Ljósanótt.

Minnismerkið er við Ósnef (á Strandleiðinni), skammt vestan Duushúsa.

Laxnessfjöðrin

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Laxnesfjöðrin; minnismerki.

Áhugahópur um listasafn Erlings Jónssonar undir forystu Birgis Guðnasonar, gaf Bókasafninu verkið á árið 2002.

LAXNESS-FJÖÐRIN, listaverk Erlings Jónssonar, var afhjúpuð við hátíðlega athöfn í Keflavík á Ljósanótt í Reykjanesbæ. Listaverkið er gjöf til Bókasafns Reykjanesbæjar frá stuðningshópi að listasafni Erlings Jónssonar. Viðstaddir afhjúpunina var m.a. Auður Laxnes.

Í ávarpi sínu við afhjúpunina líkti Erlingur Nóbelsskáldinu við örn og sagði: „Þannig var Halldór Laxness eins og haförn sem hafði íslenska þjóð undir áhrifavaldi sínu í sínum bókmenntum og dró ævinlega arnsúg á fluginu.”

Þegar ætlunin var að skoða minnismerkið stóðu yfir miklar framkvæmdir umleikis Skólaveg 1. Það hafði því verið fjarlægt um stundarsakir.

Minnismerkið hefur verið, og mun væntanlega verða, á lóð gamla barnaskólans við Skólaveg 1.

Merki Njarðvíkurkaupstaðar

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Merki Njarðvíkur; minnismerki.

Verk Áka Gränz.

Afhjúpað 1992 á 50 ára afmæli Njarðvíkurkaupstaðar til að minnast endurreisnar Njarðvíkurhrepps og fyrstu hreppsnefndarinnar. Merkið sýnir stílfærðar línur sem höfða til víkinga og sjávarguðsins Njarðar. Í merkinu er höfuð sem vísar til fortíðar með tvo ölduborða sem kórónu, tákn tvískiptrar byggðar, Ytri- og innri Njarðvíkur. Yfir segli er þotumynd sem minnir á nútímann og lögun Reykjaness. Skrifstofur Njarðvíkur voru staðsettar á þessum stað fyrir sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna árið 1994.

Minnismerkið er á augljósum stað á Fitjum.

Minningarsteinn um Sveinbjörn Egilsson

27. febrúar 1991 var minnisvarði um Sveinbjörn Egilsson afhjúpaður austan við Innri-Njarðvíkurkirkju.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Sveinbjörn Egilsson; minnismerki.

Þá voru liðin 200 ár frá fæðingu þessa merkismanns sem var fyrsti rektor við Lærða skólann í Reykjavík en hafði áður verið kennari um árabil við Bessastaðaskóla. Sveinbjörn var mikill fræðimaður og þýddi mörg af helstu bókmenntaverkum heims yfir á íslensku, s.s. Hómerskviður og Biblíuþýðingar hans þóttu frábærar. Hann orti líka talsvert og frægastur er eflaust sálmurinn Heims um ból. Sveinbjörn var fæddur á stórbýlinu Innri-Njarðvík árið 1791 og lést 1852. Minnisvarðinn er eftir Áka Gränz og var reistur að tilhlutan bæjarstjórnar Njarðvíkur.

Minnismerkið austan við Innri-Njarðvíkurkirkju, utan garðs.

Minnismerki um Krossinn

Krossinn í Ytri-Njarðvík var samkomuhús allra Suðurnesjamanna um tveggja áratuga skeið.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Krossinn; minnismerki.

Hann var upphaflega byggður sem hersjúkrahús og mun nafn hans af því dregið. Magnús í Höskuldarkoti gekk frá kaupum á byggingunni 1942. Kvenfélagið og Ungmennafélagið í Njarðvík ráku síðan bygginguna uns Stapinn var tekinn í notkun [Stapinn var vígður 23. október 1965]. Ýmis félög höfðu afnot af henni, þ.á.m. skátahreyfingin og æskulýðsráð. Sigtryggur Árnason, yfirlögregluþjónn, annaðist niðurrif Krossins 1979. Hann mundi eftir 18 dansleikjum einn vetrarmánuðinn og ávallt húsfyllir, um 400 manns.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Krossinn; minnismerki.

Minnismerkið er grágrýtisbjarg. Á því er koparskjöldur. Á honum stendur: „Hér stóð Krossinn, samkomuhús Njarðvíkinga 1947-1965“.

Minnismerkið er fast við Krossmóa. Sunnan þess standa yfir nýbyggingaframkvæmdir.

Minnismerki sjómanna

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Minnismerki sjómanna; minnismerki.

Minnismerki sjómanna eftir Ásmund Sveinsson var afhjúpað á sjómannadaginn 4. júní 1978 í holtinu fyrir ofan Holtaskóla.

Sumarið 2000 var það flutt niður að sjónum, neðarlega við Hafnargötu. Í upphafi var það reist að frumkvæði Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur. Ásmundur gerði verkið 1973 og hjá Listasafni Reykjavíkur er það skráð undir heitinu Sjómannaminnismerki. Í bókinni um Ásmund (útg. 1999) eftir Matthías Johannessen segir á bls. 45: “Ásmundur klappaði lítilli gipsstyttu í safninu: Hérna er akkerið og þetta er björgunarhringurinn, sagði hann. Þeir vilja fá þetta til Keflavíkur. Það á að minna á sjómennina. Ég kalla það Fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn, því ég var alltaf að raula það fyrir munni mér, meðan ég var að hugsa um styttuna.”

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Minnismerki sjómanna; minnismerki.

Minnismerkið er á móts við Hafnargötu 6.

Minnisvarði horfinna

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Minnisvarði horfinna; minnismerki.

Sóknarnefnd Keflavíkurkirkju lét reisa minnisvarðann og var hann vígður á sjómannadaginn 5. júní 1994.

Minnisvarðinn er gerður úr þremur stuðlabergssúlum og á honum stendur: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ Minnisvarðinn var unninn í Steinsmiðju S. Helgasonar hf.

Um er að ræða þrjá stuðlabergsstanda. Sá í miðið og þeirra hæstur inniheldur ofangreind minningarorð. Til beggja hliða er lægri standar. Á hvorum þeirra eru sex skildir með nöfnum horfinna sjómanna.

Minnisvarðinn er vestast í Keflavíkurkirkjugarði.

Minnisvarði um drukknaða skipsáhöfn

Aðstandendur reistu steininn til minningar um 4 unga skipverja sem fórust í lendingu við Stokkavör 6. apríl 1930

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Minnisvarði um drukknaða skipsáhöfn; minnismerki.

Í tímaritinu Ægi 1930, 23. Árg, 4. tbl bls. 91 birtist eftirfarandi grein um atburðinn: Slys í Keflavík. 4 menn drukkna. Vélbáturinn Baldur réri úr Keflavík á laugardaginn 4. þ. m. og kom aftur daginn eftir. Þegar búið var að koma aflanum í land, fóru skipverjar með bátinn út á höfn til þess að leggja honum þar. Síðan fóru þeir allir 5 í land á stóru fjögra manna fari. En þá bar út af réttri leið, og lentu á flúð fyrir vestan bryggjuna og hvolfdi bátnum og brotnaði nokkuð. Drukknuðu 4 skipverjar en sá fimmti bjargaðist. Hékk hann á bátnum, en var þó búinn að sleppa honum, enda meðvitundarlaus, þegar hann náðist; það var vaðið út eftir honum.

Bátur var strax settur fram, en það kom að engu haldi. Þetta skeði um kl. 7 og var ekki orðið dimt. Þeir sem drukknuðu hétu: Guðjón Sigurðsson úr Keflavík, ógiftur, 23—24 ára.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Minnisvarði um drukknaða skipsáhöfn; minnismerki.

Stefán Jóhannesson úr Keflavík, milli þrítugs og fertugs (giftur Þórdísi Torfadóttur, þau eiga 2 eða 3 börn). Júlíus Hannesson, 18 eða 19 ára, á foreldra í Reykjavik, og Skafti Guðmundsson af Seyðisfirði, ógiftur, um þrítugt.

Þrír af þessum mönnum kunnu að synda. — Öll líkin hafa fundist. Fanst eitt um nóttina kl. 4, en tvö kl. 10 morguninn eftir. Sá skipverja, sem bjargaðist, var Arinbjörn Þorvarðarson formaður bátsins, maður á fertugsaldri (sonur Þorv. Þorvarðarsonar í Keflavík). Vélbáturinn Baldur er eitthvað innan við 12 smál. Þeir eiga hann Arinbjörn form., Valdimar Kristmundsson, Keflavík, og Ólafur Ásbjörnsson kaupmaður í Reykjavík.

Minnisvarðin er skammt frá suðurgafli Duus Safnahúsa.

Til minningar um drukknaða

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Til minningar um drukknaða; minnismerki.

Í kirkjugarðinum í Innri-Njarðvík er fallegt minnismerki um drukknaða sjómenn. Um er að ræða áletrun á grágrýtisbjargi með ártalinu 1990. Austan við minnisvarðan eru nokkrir minni steinar í röð með áletruðum nöfnum sem minnst hefur verið.

Minnismerkið er norðan við Innri-Njarðvíkurkirkju.

Hólmfastur Guðmundsson

Suðvestan við Innri-Njarðvíkurkirkju, utan garðs er stuðlabergsstöpull með koparskildi. Á honum stendur: „Minning – Hólmfastur Guðmundsson Hólmfastskoti, fæddur 1647 – dæmdur 1698.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Hólmfastur; minnismerki.

Hólmfastur var dæmdur á Einokunartímabilinu fyrir það að selja í keflavík þrjár löngur, tíu ýsur og tvö sundmagabönd, sem Hafnarfjarðarkaupmaður, Knútur Storm, hafði ekki viljað veita viðtöku.
Hann var dæmdur í átta marka sekt, en hlíft við þrælkun fyrir bænastað dómsmanna.
Þegar í ljós kom að hann átti ekkert upp í sektina, nema gamalt og ónýtt bátskriflim var refsingunni breytt í sextán vandarhögg.
Var Hólmfastur færðru í tóft eina og hendur hans bundnar við tré, er lagt hafði verið um þvera tóftina, og hann síðan hýddur í viðurvist Knúts kaupmanns og Mullers amtmanns.
Þjóðinni ofbauð þessi málsmeðferð, en í kjölfarið var einokunni aflétt.“

Á stöplinum er merki Lionshreyfingarinnar.

Minnismerki um Helga S.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Helgi S.; minnismerki.

Merkið var reist af Keflavíkurbæ og nokkrum félagasamtökum og afhjúpað 21. ágúst 1985.

Lágmynd af Helga S, eins af stofnendum félagsins og foringja þess í yfir 30 ár, framan á vörðunni er eftir Erling Jónsson en hönnun vörðunnar og umhverfisins var í höndum garðyrkjumannanna Guðleifs Sigurjónssonar og Einars Þorgeirssonar. Grunnflötur verksins er helluhraun af Reykjanesi. Í það er lögð áttavitarós en innan rósarinnar rís lágur hraunhóll sem varðan stendur á. Merkið á að undirstrika einkunnarorð skátafélagsins Heiðabúa; “Heiðabúar, vísið veginn, vörðum hlaðið eyðisand.”

Minnismerkið er við Skátahús Skátafélagsins Heiðabúa, Hringbraut 101.

Jón Þorkelsson

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Jón Þorkelsson; minnismerki.

Eitt af stærstu verkum Ríkarðs Jónssonar, afhjúpað í maí árið 1965.

Sýnir skólamanninn Jón Þorkelsson sitjandi með tvö börn. Jón Thorkillius fæddist í Innri-Njarðvík 1697 og dó í Kaupmannahöfn 1759. Hann var mikill lærdómsmaður og barðist fyrir endurbótum í fræðslumálum á Íslandi. Hann arfleiddi fátæk skólabörn í átthögum sínum, Kjalarnesþingi, að öllum eigum sínum. Stofnaður var sjóður, Thorkellisjóður og m.a. var fyrsti barnaskóli landsins starfræktur fyrir fé úr þessum sjóði.

Minnismerkið er suðvestan við Innri-Njarðvíkurkirkju, utan garðs.

Skjaldarbruninn

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Skjaldarbruninn; minnismerki.

Aðstandendur fórnarlamba brunans 30. desember 1935 létu reisa steininn (í bæklingi er missagt 30. apríl) Afhjúpaður 24. nóvember 1991

Í sögu Keflavíkur 1920 – 1949 segir svo frá að um árlega jólatrésskemmtun ungmennafélagsins hafi verið að ræða í samkomuhúsi þess. Hátt jólatré stóð á miðju gólfi og loguðu vaxkerti á greinum þess. Á skemmtuninni voru um 200 manns, mestan part börn. Skyndilega varð eldur laus við jólatréð sem varð alelda á augabragði og húsið stóð í björtu báli á skammri stundu. Eldsvoðinn kostaði 10 mannslíf, þrátt fyrir hetjulega framgöngu ýmissa björgunarmanna. Sex fórust í brunanum sjálfum, fjögur börn og tvær konur. Þrír dóu af sáum daginn eftir og sá fjórði nokkrum vikum síðar. Þá lá fjöldi fólks á sjúkrastofum vegna brunasára og annarra meiðsla. Eftir harmleikinn mátti kalla að Keflavíkurkauptún væri lamað um hríð og áfallið snerti raunar við landsmönnum öllum. Árið 2010 gaf Dagný Gísladóttir út bókina Bruninn í Skildi árið 2010 þar sem m.a. má finna viðtöl við fólk sem upplifði þennan hörmungaratburð.

Minnismerkið er á auðu svæði austan Kirkjuvegar, skammt suðaustan Keflavikurkirkju.

Minnisvarði um Þjóðhátið 1874

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Þjóðhátiðin 1874; minnismerki.

Árið 1874 var þjóðhátíð haldin á Þingvöllum til að fagna 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar.

Þjóðhátíðarinnar var minnst á Suðurnesjum eins og víðast annars staðar á landinu. Í tilefni þessa var reistur minnisvarði við kirkjuna í Innri-Njarðvík árið 1974, en á þeim stað héldu fjórir innstu hreppar Gullbringusýslu þjóðhátíð sína dagana 15.-16. ágúst 1874. Áki Gränz og Ingvar Jóhannsson sáu um framkvæmdina að tilhlutan Byggðasafnsnefndar og hreppsnefndar Njarðvíkur.

Minnismerkið er að baki kirkjunnar í Innri-Njarðvík, utan garðs.

Paradís

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Paradís; minnismerki.

Minningarreitur um látna Lionsfélaga.

Á grágrýtisbjargi er skjöldur. Þar kemur fram að árið 1984 hafi Loinsfélagar í Njarðvík að gróðursetja tré í Paradís. Um er að ræða skjólsælan stað undir hjöllunum.

Steinninn er vestan Njarðabrautar, skammt norðan enda Fitjaáss.

Nónvarða

Norðan og austan innst við götuna Nónvörðu.

Rótarýklúbbur Keflavíkur endurreisti vörðu þessa á holtinu ofan við götuna Nónvörðu árið 1973.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Nónvarða; minnismerki.

Holtið gekk ætíð undir nafninu Nónvarða og mundu menn vörðu er áður hafði staðið þarna. Varða sú var eyktamark frá Keflavíkurbæ og sýndi eyktamarkið nón, þ.e. um kl. 15:00. Eyktamark er fastur punktur í landslagi sem var til forna notaður sem viðmið við sólargang til að vita hvað tímanum líður. Til dæmis átti það við um fjallatoppa, hóla eða hæðir eða jafnvel hlaðnar vörður, sem sólina bar í séð frá ákveðnum bæ, á tilteknum tíma. Algengt var að slíkir staðir hétu eftir eyktamörkunum, svo sem eins og Nónvarða, Hádegishnúkur eða eitthvað slíkt.

Ólafur Thors

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Ólafur Thors; minnismerki.

Fokkan, túnbali milli Hringbrautar og Brekkubrautar.

Fyrsta höggmyndin sem sett var upp í Keflavík.

Fyrsta höggmyndin sem sett var upp í Keflavík var af Ólafi Thors fyrrum þingmanni Sjálfstæðisflokksins og var hún afhjúpuð af ekkju hans Ingibjörgu Thors 12. október 1976. Áki Gränz hannaði listaverkið og undirstöðu þess að frumkvæði Sjálfstæðismanna á Suðurnesjum.

Á fótstalli styttunnar er skjöldur: „Ólafur Thors, 19.01.1892-31.12.1964. Forsætisráðherra. Formaður Sjálfstæðisflokksins. Alþingismaður Gullbringu- og Kjósarsýslu og Reykjaneskjördæmis 1926-1964“.

Undir kopaplötunni á framhliðinni er skjöldur. Á honum stendur: „Eftirfarandi aðilar stóðu að fegrun svæðis og lýsingu á styttu Ólafs Thors í október 2001; Sjálfstæðisfélögin í Reykjanesbæ, Sparisjórðurinn í Keflavík, Hitaveita Suðurnesja, ÍAV hf, Saltver, nesprýði, Áki Gränz og niðjar Ólafs Thors“.

Sólúrið

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Sólarúrið; minnismerki.

Framan við Myllubakkaskóla við Sólvallagötu.

Sólúrið á lóð Myllubakkaskóla var afhjúpað 29. maí 2004.

Það var gjöf nemenda Barnaskóla Keflavíkur sem fæddir eru árið 1950, í tilefni af fjörutíu ára fermingarafmæli hópsins. Sólúrið er minnisvarði og tákn um sameiginlegt ferðalag nemendanna í gegnum skólann og tileinkað minningu Vilhjálms Ketilssonar, fyrrverandi skólastjóra Myllubakkaskóla, sem lést árið 2003 og annarra úr fermingarhópnum sem fallnir eru frá.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Sólarúrið; minnismerki.

Innan í sólúrinu er steyptur „hornsteinn” og í honum er geymdur undirskriftarlisti með nöfnum og hinstu kveðju allra nemenda, kennara og starfsfólks Myllubakkaskóla til Vilhjálms. Sólúrið er á skemmtilegan hátt táknrænt fyrir sköpunarkraft mannsandans og er hugsað sem hvatning nemendum til dáða í náttúruvísindum jafnframt því að vera til gleði og yndisauka. Þegar sólúr mælir hreyfingar sólar frá austri til vesturs vísar það á stundir dagsins með því að varpa skugga af priki á skífuna. Talið er að Babýloníumenn hafi fundið upp sólúrið a.m.k. 2000 árum fyrir Krist. Sólúr eiga sér um 4000 ára sögu en þetta sólúr er hannað og framleitt af hátækni nútímans. Sólúrið er þannig útbúið að sá sem ætlar að nota það til að sjá hvað tímanum líður verður að stíga á mánuðinn og sjá skugga sinn falla á klukkuna.

Vinabæjarsamskipti Norðurlandanna

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Vinabæjarsamskipti; minnismerki.

Skrúðgarðurinn í Njarðvík, skammt vestan Ytri-Njarðvíkurkirkju.

Settur upp 18. júní 1998.

Settur upp til að minna á vinabæjarsamskipti Norðurlandanna.

Stjáni blái

Verk Erlings Jónssonar keypt og sett upp í tilefni 40 ára afmælis Keflavíkurkaupstaðar árið 1989.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Stjáni blái; minnismerki.

Það var frú Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands sem afhjúpaði verkið 1. apríl þetta sama ár. Kvæði Arnar Arnarsonar um Stjána bláa varð höfundi listaverksins tilefni til hugleiðinga, sbr. „austur af sól og suður af mána, sýður á keipum himinlind.”

Á koparskildi áföstum minnismerkinu má lesa: „Stjáni blái. Myndskreyting við kvæði Arnar Arnarssonar þar sem fjallað er um siglingu Stjána blá frá Hafnarfirði heim tl Keflavíkur og er um leið tákn íslenskra sjómanna.
Reist 1. sunnudag í júni 1988, en þá voru 50 ár liðin frá því að sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur hér á landi.
Að verkinu stóðu; Keflavíkurbær, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, Útvegsmannafélag Suðurnesja. Höfundur; Erlingur Jónsson“.

Minnismerkið er á móts við Hafnargötu 84.

Stjörnuspor

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Stjörnuspor; minnismerki.

Stjörnuspor Reykjanesbæjar.

Hugmynd frá árinu 2003 sem Hilmar Bragi Bárðarson, blaðamaður Víkurfrétta, fékk að láni frá Los Angeles.

Hún var löguð að aðstæðum í Reykjanesbæ í samvinnu við Steinþór Jónsson þáverandi formann undirbúningsnefndar Ljósanætur. Hugmyndin var sú að allir sem skarað hafa fram úr og markað spor í bænum með einum eða öðrum hætti komi til greina og útfærslan á sporunum geti orðið mismunandi eftir tilefnum. Megin hugmyndin er þó sú að málmskildir tileinkaðir viðkomandi aðilum eru settir í gangstéttina víða við aðalgötu bæjarins, Hafnargötuna.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Stjörnuspor; minnismerki.

Stjörnusporin eru nú orðin fimm að tölu og má finna víða, beggja vegna, á gangstéttum miðbæjarins, þá helst er nær dregur til norðurs.

Súlan

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Súlan; minnismerki.

Menningarverðlaun Reykjanesbæjar.

Menningarverðlaun Reykjanesbæjar eru veitt árlega einstaklingum eða fyrirtækjum sem unnið hafa vel að menningarmálum í bæjarfélaginu. Verðlaunagripurinn er eftir Elísabetu Ásberg og ber heitið Súlan.

Menningarráð Reykjanesbæjar lagði til á fundi sínum í apríl 2018 að gerð yrði eftirmynd af Súlunni og listaverkið sett upp í nágrenni Duus Safnahúsa. Tilefnið var afmæli þriggja menningarstofnana bæjarins á árinu. Bókasafn Reykjanesbæjar varð 60 ára, Byggðasafn Reykjanesbæjar 40 ára og Listasafn Reykjanesbæjar 15 ára. Bæjarstjórn samþykkti tillöguna.

Minnismerkið er skammt suðvestan við Duushús.

Togvíraklippur

Togvíraklippur, fallbyssa úr varðskipi og skel af tundurdufli

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Togvíraklippur; minnismerki.

Á túninu eru hlutir frá Landhelgisgæslu Íslands, togvíraklippur, fallbyssa úr varðskipi, líklega Þór og skel af tundurdufli. Þegar í upphafi 15. aldar leituðu breskir fiskimenn á Íslandsmið og aðrar þjóðir fylgdu í kjölfarið. Margvíslegar deilur spruttu af þessum fiskveiðum og einnig verslun við landsmenn. Danska stjórnin reyndi að stjórna þessari umferð með misjöfnum árangri.

Árið 1952 var landhelgin færð í 4 sjómílur og jafnframt út fyrir grunnlínur til að loka fjörðum og flóum. Landhelgin var síðan færð út í nokkrum áföngum. Árið 1958 í 12 sjómílur, 1972 í 50 sjómílur og loks 1975 í 200 sjómílur eins og hún er í dag. Allar þessar aðgerðir ollu miklum deilum við nágrannaþjóðir, einkum Breta.

Ýmsum brögðum var beitt. Bretar settu hafnbann á fiskútflutning Íslendinga til Bretlands og sendu herskip á miðin til varnar fiskiskipum sínum. Íslensku varðskipin reyndu að stöðva og trufla veiðarnar. Þann 5. september 1972 var leynivopni, hönnuðu af Íslendingum, fyrst beitt en það voru togvíraklippur.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – togvíraklippur; minnismerki.

Klippt var á togvíra um 100 breskra togara áður en yfir lauk. Bresku herskipin reyndu að trufla varðskipin með því að sigla á þau og einu sinni lá við að varðskipinu Tý yrði hvolft. Þann 11. september 1975, kærðu Íslendingar Breta til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og slitu stjórnmálasambandi við þá í nokkra mánuði árið 1976. Þessum deilum lauk með samningum. Þann 1. desember 1976 hurfu bresk fiskveiðiskip úr íslenskri lögsögu og allir útlendingar utan Færeyingar voru farnir ári seinna.

Klippurnar eru á Keflavíkurtúni vestan og gegnt Duus Safnahúsum.

Guðmundur Kr. Guðmundsson (1897-1946)

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Guðmundur Kr. Guðmundsson.

Til minningar um Guðmund Kr. Guðmundsson, skipstjóra, f. 14. janúar 1897 og þá sem með honum fórust 9. febrúar 1946.
Pál Sigurðsson, f. 29. okt. 1915,
Ólaf Guðmundsson, f. 12. nóv. 1925,
Kristinn Ragnarsson, f. 23. okt. 1924,
Marías Þorsteinsson, f. 25. mars 1906.
Blessuð sé minning þeirra.

Í umfjöllun um slysið má lesa: „Geir frá Keflavík ferst – Síðastliðinn föstudag fóru Keflavíkurbátar almennt á sjó, og var veðurspá góð, en þó sneru þrír bátar aftur. Í birtingu fór að hvessa og um hádegi á laugardag var komið fárvirðri.
Um kl. 4 á laugardag fóru fyrstu bátarnir að koma að landi og um miðnætti voru allir Keflavíkurbátar komnir að nema v.b. Geir.
Strax morguninn eftir var hafin leit úr flugvél en hún reyndist árangurslaus.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Guðmundur Kr. Guðmundsson.

Fyrri hluta sunnudags bárust fregnir af Miðnesi að farið væri að reka brak, sem reyndist vera úr v.b. Geir.
Fimm menn voru á bátnum, Eigandi hans og skipstjóri var Guðmundur Kr. Guðmundsson, 49 ára, alþekktur afla- og dugnaðarmaður, hann lætur eftir sig konu og tvo uppkomna syni og unga fósturdóttur. Vélstjóri var Páll Sigurðsson, 30 ára, kvæntur og átti tvö börn. Aðrir skipverjar voru Kristinn Ragnarsson 21 árs, kvæntur en barnlaus, Ólafur Guðmundsson 20 ára, ókvæntur og Marías Þorsteinsson frá Ísafirði, 39 ára og ókvæntur.

V.b. Geir var 22 smálestir að stærð, smíðaður í Reykjavík 1938 og var mjög traustur bátur.

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum í Keflavík.

Bolafótur
Hallgrímur Pétursson (1614-1674)

Upp, upp mín sál og allt mitt geð
upp mitt hjarta og rómur með.
Hugur og tunga hjálpi til
herrans pínu ég minnast vil.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Bolafótur.

Svo hljóðar upphaf Passíusálma Hallgríms Péturssonar, eins mesta sálmaskálds allra tíma á Íslandi. Ævi skáldsins var viðburðarrík, hann ólst upp á biskupssetrinu á Hólum en rúmlega tvítugur var hann við nám í Kaupmannahöfn þegar hópur Íslendinga kom þangað frá Alsírborg. Hann var hluti hóps sem sjóræningjar höfðu rænt í Tyrkjaráninu um áratug fyrr og selt í ánauð til Norður-Afríku.

Í hópnum var Guðríður Símonardóttir og tókust með þeim heitar ástir. Vorið 1637 birtust þau í Keflavík og var hún þá langt gengin með fyrsta barn þeirra, Eyjólf. Framundan var ótrúlega erfiður tími fyrir þetta langt að komna par. Hér á þessu túni hefur kotbýlið Bolafótur verið, þar sem þau hjón bjuggu um einhvern tíma á fyrstu búskaparárum sínum.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Bolafótur – tóftir.

Á Suðurnesjum bjuggu þau líklega í um 14 ár. Hallgrímur vann við það sem til féll, m.a. fyrir kaupmenn í Keflavík og við sjósókn. Þrátt fyrir mikla erfiðleika kom náungakærleikurinn þeim til hjálpar. Grímur Bergsson í Njarðvík, lagði á sig að aðstoða þau með því að borga sektargjöld vegna þess að barnið þeirra fæddist utan hjónabands.

Hallgrímur gerðist prestur á Hvalsnesi. Hagurinn vænkaðist en þó var harmurinn ekki langt undan. Prestsembættið á Hvalsnesi var þó upphafið á farsælum ferli Hallgríms í prestastétt en lengst þjónaði hann í Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd. Þar samdi hann Passíusálmana. Um miðjan aldur veiktist Hallgrímur af holdsveiki eða líkþrá og dó árið 1674.

Minnisvarðinn stendur norðan Sjávargötu í Njarðvík þar sem álitið að býlið Bolafótur hafi staðið.

Hafsteinn Guðmundsson (1923-2012)

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Hafsteinn Guðmundsson.

Hafsteinn var hvalreki fyrir æskulýðs- og íþróttastarf í Keflavík. Hann var aðalhvatamaður þess að Íþróttabandalag Keflavíkur var stofnað árið 1956 og gegndi formennsku þess frá upphafi til 1975. Hann var spilandi þjálfari Keflavíkurliðsins á árunum 1958-1960. Í formannstíð Hafsteins var ÍBK fjórum sinnum Íslandsmeistari á mesta blómaskeiði knattspyrnunnar í Keflavík, fyrst 1964 og síðan 1969, 1971 og 1973 og ÍBK var einnig bikarmeistari 1975.
Hafsteinn er með réttu nefndur faðir knattspyrnunnar í Keflavík. Hann var formaður Ungmennafélags Keflavíkur 1978-1981, sat í stjórn KSÍ og var landsliðseinvaldur 1969-1973.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Hafsteinn Guðmundsson.

Hafsteinn var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu, heiðurskrossi ÍSÍ, heiðurskrossi KSÍ, gullmerki ÍBK, heiðursgullmerki Keflavíkur, gullmerki Knattspyrnudeildar Keflavíkur og hann var heiðursfélagi UMFK.

Þetta minnismerki var reist með stuðningi Íslandsmeistara Keflavíkur 1964, 1969, 1971 og 1973 og bikarmeistara 1975.

Nöfn 36 leikmanna eru á skildinum.

Einnig styrktu þessir aðilar verkið,
Reykjanesbær, Kaupfélag Suðurnesja, KSÍ, Samfylkingin, K. Steinarsson, Steinar Sigtryggsson, Knattspyrnudeild Keflavíkur.

Minnisvarðinn stendur á knattspyrnuvellinum í Keflavík.

Jón H. Jörundsson

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Jón H. Jörundsson.

Stuðlabergsslysið er sjóslys sem varð að kvöldi 17. febrúar eða aðfaranótt 18. febrúar 1962. Síldarbátur frá Seyðisfirði Stuðlaberg NS 102 með 11 manna áhöfn fórst þá út af Stafnesi að talið er og rak brak úr bátnum á fjörur milli Garðskaga og Sandgerðis. Meðal þess sem rak á land var bjarghringur með nafni bátsins sem fannst hjá Þóroddstöðum. Stuðlaberg var á síldveiðum fyrir Suðurlandi. Síðast heyrðist í bátnum þar sem hann var staddur út af Selvogi á leið til Keflavíkur til löndunar og voru mörg skip á þeirri siglingaleið. Stuðlaberg kom hins vegar aldrei til Keflavíkur og var talið þar að báturinn hefði haldið til Hafnarfjarðar þar sem hann hafði áður landað. Vegna þessa varð bátsins ekki saknað fyrr en 21. febrúar er Slysavarnafélagi Íslands var gert viðvart. Eins og áður segir rak talsvert brak úr bátnum á fjörur milli Hafna og Garðskaga og fannst lík eins skipverja rekið undan bænum Fuglavík. Stuðlaberg NS 102 var 152 lesta stálbátur sem gerður var út frá Suðurnesjum.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Ólafur B. Ólafsson.

Til minningar um
Jón H. Jörundsson, f. 21. mars 1929,
Pétur Þorfinnsson f. 20. mars 1931,
Kristján Jörundsson, f. 9. nóv. 1927,
Karl G. Jónsson, f. 7. ágúst 1933,
Birgi Guðmundsson, f. 19. maí 1922,
Guðmund Ólason, f. 5. ágúst 1923,
Gunnar L. Hávarðarson, f. 5. júlí 1944,
Ingimund Sigmarsson, f. 23. maí 1930,
Kristmund Benjamínsson, f. 16. sept. 1929,
Stefán Elíasson, f. 8. júní 1922,
Örn S. Ólafsson f. 12. febr. 1940
Fórust með mb. Stuðlabergi, 17. febr. 1962.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – minnismerki; Ólafur B. Ólafsson.

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum í Keflavík.

Ólafur B. Ólafsson (1945-1999)
Til minningar um Ólaf B. Ólafsson f. 10.7.1945 – d. 19.12.1999

Gefið af eiginkonu hans str. Hildi Guðmundsdóttur.

Minnisvarðinn stendur við Oddfellowhúsið í Keflavík.

Hafa ber í huga að eflaust eiga einhverjir minnisvarðar er leynast kunna í Reykjanesbæ að bætast við framangreinda upptalningu er fram líða stundir.

Reykjanesbær

Reykjanesbær – Stapakot og Víkingaheimar.