Ólafur við Faxafen, eins og höfundur nefnir sig, skrifaði um „Hæð sjávarborðs við strendur Íslands“ í tvö tbl. Náttúrufræðingsins árið 1947:
Sjávarhæð – mismundur.
„Landið stendur ekki kyrrt, það hækkar og lækkar undir fótum vorum. Það gerir það nú, það gerði það fyrir hundrað árum, fyrir tvö hundruð árum, og hefur sennilega gert það frá landnámstíð, ef það hefur þá ekki alltaf annað slagið dúað og vaggað, síðan þurrt land varð á þessum hluta jarðaryfirborðsins, sem nefndur er Ísland. Það er tvisvar stórstreymt og tvisvar smástreymt á hverjum tunglmánuði, alls staðar þar sem sjávarfalla gætir á jörðinni. Og hér við land, (en þó ekki hvarvetna á Iinettinum, þar sem munur er flóðs og fjöru) stígur sjórinn tvisvar og fellur á sólarhring. En þó að stórstraumsflóð séu misjafnlega mikil, aðallega af mismunandi ólgu sjávarins og áhlaðningi við land, breytist meðalhæð stórstraumsflóða ekki, miðað við ströndina, nema annað komi til. En af því að Ísland ýmist hækkar eða sígur, þó að hægt fari, þá hlýtur efsta fjöruborð að breytast í samræmi við það. En fjöruborðið hér við land er að breytast á ýmsa vegu. Því svo fjarri er það, að Foldin hreyfist alls staðar jafnt, að hún er sumsstaðar að síga, en rís á öðrum stöðum.
En hér verður rætt eingöngu um þær breytingar, er stafa af hreyfingu lands, og aðallega þær breytingar, sem eru að verða nú á vorum dögum. Nokkuð verður þó að seilast aftur á bak, jafnvel til landnámstíðar. En um sjávarborð, sem eru eldri en byggð landsins, verður ritað síðar og sér.
Þó að allnákvæmlega sé hér sums staðar frá sagt, er langt frá, að hér séu öll kurl látin til grafar koma — ekki einu sinni sviðið í hverri gröf.
Landnám Ingólfs
Gægst um í Þorlákshöfn.
Verður nú byrjað á landnámi Ingólfs austanverðu og haldið vestur með landi. Náði landnám hans í fyrstu að Ölfusá, er feður vorir nefndu Hvítá. Fellur áin nú til sjávar úr austurkrika lóns þess, er hún myndar við sjóinn. En ósinn var á landnámstíð nálægt miðri sandeyrinni, sem er framan við lónið og mun hafa verið nefndur Álfsós.
Víkarskeið – gleymt örnefni við Ölfusárósa.
Ós árinnar hefur hlaupið til og frá í tímans rás.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns — hér eftir til hægðarauka nefnd bara Jarðabók — getur ýmissa jarða í Ölfusi, er spillzt hafa af sjávarflóðum. En þeim verður sleppt hér, því betur á við að geta þeirra, þegar kemur að flata landinu, austan Ölfusár. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, er þeir tóku saman á árunum 1702 til 1712, en ekki var prentuð fyrr en liðlega tveim öldum síðar. Hafa 1.—9. bindi verið prentuð í Kaupmannahöfn á árunum 1913 til 1943 og eru ekki enn komin öll.
Eini bærinn í Ölfusi, er stendur við sjálfan útsæinn er Þorlákshöfn, en hún er 6—8 rastir frá þeim bæjum, sem næstir eru. Jarðabók getur þess (ár 1706), að sjávarbrot grandi þar túni. Síðan fara litlar sögur af þess konar skemmdum þar, en landið þar virðist þó hafa verið að síga, því í stórflóðum flæðir inn yfir allan kamp. Varð mest þess konar flóð þar fyrir um 20 árum (að líkindum 1925).
Á þessum slóðum gerist ströndin klettótt, en endar sendna ströndin, er nær, svo að segja óslitin, meðfram landinu að sunnanverðu, austur undir Berufjörð.
Selvogur
Selvogur.
Engin byggð er í vestur frá Þorlákshöfn, fyrr en komið er í Selvog, og eru þarna um 15 rastir milli bæja. Selvogurinn er sérstakur hreppur, og eru þar aðallega tvær byggðir, auk nokkra einstakra bæja.
Selvogur – Nesborgir. Borgirnar eru nú nánast komnar undir kampinn.
Jarðabók (ár 1706) getur, að sjór grandi að framan túnunum á Nesi og Bjarnastöðum, og er líkt sagt um túnin í Götu og Þorkelsgerði. Um Bæjarbúð er sagt, að lendingin sé orðin ónýt, um Eimu, að sjór brjóti framan af túni, og um Vindás, að sjórinn sé búinn að brjóta svo af túninu, að bænum sé varla óhætt lengur. Voru bæði Eima og Vindás komin í eyði fyrir 1750. Um Snjóthús er sagt í Jarðabók, að sandur og sjávargangur spilli þar túninu ár frá ári, og um Sauðagerði, að sjávargangur skemmi árlega meir og meir túnið og sé nú svo komið, að hvorki sé óhætt húsum né mönnum og hafi fólkið oft þurft að flýja úr bænum í stórbrimum. Snjóthús og Sauðagerði voru bæði komin í eyði, þegar séra Jón Vestmann ritaði sóknarlýsingu Selvogs 1840 (en ekki er fullkunnugt, að það hafi allt verið Ægi að kenna, því að sandfok af landi hefur líka verið mikið í Selvogi).
Herdísarvík. Sjórinn hefur rofið grandann milli sjávar og Tjarnarinnar.
Vestasti bærinn í Selvogshreppi er Herdísarvík. Um hana segir Jarðabók, að tjörn, sem sé hjá bænum, grandi túninu, því að hún fyllist af sjávargangi, svo að bænum sé ekki óhætt fyrir flóði tjarnarinnar. Síðan hafa þar oft komið stór flóð, eitt þeirra skömmu eftir aldamótin og annað á fyrri stríðsárunum eða rétt á eftir. Tók þetta síðarnefnda flóð af bæinn, sem sennilega hefur staðið þarna frá landnámstíð. Að minnsta kosti er ólíklegt, að hann hafi verið fluttur nær sjó þaðan, sem hann fyrst var byggður. En vafalaust hafa mörg stærri flóð komið en þetta og hefðu tekið bæinn fyrr, hefði landið ekki staðið hærra þá.
Selvogur er enn að lækka. Má sjá það á því, að sker koma minna upp úr en áður, og á því, að kampar færast upp á við. Hefur sjór verið að brjóta f járborgir, sem byggðar hafa verið nokkuð fyrir ofan sjávarmál (til skjóls fyrir sauðfé, sem beitt er á fjöruna) í mikla flóðinu, sem kom fyrir liðlega tuttugu árum, braut sjórinn aðra af tveim fjárborgum í Nesi. Sjórinn er nú að brjóta þar fjárborg, og er sagt, að það sé sú, sem eftir stóð árið 1925.
Grindavík
Grindavík.
Frá Herdísarvík er engin byggð við sjó, fyrr en komið er að austasta bænum í Grindavíkurhreppi, og er sú vegalengd um 25 rastir, og er á þessari leið hið nafnkunna Krýsuvíkurberg.
Ísólfsskáli er þar austast við sjó.
Ísólfsskáli – túnakort 1918 sett yfir nýlega loftmynd. Gamli brunnurinn er kominn undir kampinn. ÓSÁ
Getur Jarðabók þess (ár 1703), að vatnsból, sem þá er grafinn brunnur, sé háskalegt bæði mönnum og skepnum, enda sjórinn þá kominn svo nærri, að hætta sé á, að brunninn fylli af möl og grjóti, og þá jafnvel hætta á, að jörðin leggist í eyði af vatnsleysi. Svo illa hefur þó ekki farið. En að sjórinn hefur gengið upp í brunninn og fyllt liann, má sjá á því, að séra Geir Bachmann getur þess árið 1841, að mikill vatnsskortur sé á ísólfsskála og ekki annars kostur þar en fjöruvatna og sé það vatn haft bæði til neyzlu heimilisfólks og búpenings. En fjöruvötn eru nefndar þær uppsprettur, einatt aðeins seytlur, sem koma upp fyrir neðan flóðmál og ekki er hægt að ná til nema um fjöru. (Geir Bachmann: Lýsing Grindavíkursóknar 1840—41.) Líka getur séra Geir þess, að sjór brjóti land á ísólfsskála og sandur frá sjónum sé farinn að berast upp í selalátur jarðarinnar undir Festarfjalli og spilla þeim.
Ísólfsskáli.
Frá Ísólfsskála eru 4—5 rastir til hinnar eiginlegu Grindavíkurbyggðar, því að björg eru með sjónum, svo að ekki verður farin stytzta leið, heldur verður að fara kringum Festarfjall.
Þórkötlustaðanes – brak.
Sjórinn hefur brotið framan af Nesinu.
Jarðabók (1703) getur þess, að sjór brjóti af túninu á Hópi, svo og land Þorkötlustaða, einkum hjáleigunnar Bugðungu, og sé hætt við enn meira landbroti. Fór það og svo, því að eitthvað liðlega 100 árum síðar, þurfti að flytja tvær hjáleigur Þorkötlustaða, sem voru í landsuður að sjá frá bænum, hærra upp á túnið, því að svo nærri þeim var sjórinn þá farinn að ganga. Var önnur þessara hjáleigna Bugðunga (Bullunga), en hin var Klöpp.
Selalátur hafði verið syðst í Þorkötlustaðanesi, en séra Geir segir (1841), að selurinn hafi „vegna brims og uppbrots á landið yfirgefið látrin“. Vera má, að fleira kunni að liafa komið til en landbrotið, að selurinn fór, en það skiptir engu máli. Aðalatriðið er, að séra Geir er kunnugt um, að þarna hefur brotið svo mikið land, að hann álítur það næga skýringu.
Þórkötlustaðir.
En um 40 árum áður en séra Geir ritaði lýsingu Grindavíkur, hafði sjórinn gert mikinn usla á prestsetrinu Stað: skemmt þar tún, brotið mikið land og tekið alveg af tvær hjáleigur, er liétu Sjávarhús og Litlagerði. Sópaði þá burt öllum jarðvegi, þar sem Sjávarhús höfðu staðið, svo að þar var ekki annað eftir en ber klettur. „Fellur nú sjór á milli klettsins og naustanna í hverju stórstraumsflóði,“ segir séra Geir og ennfremur, að þar, sem Litlagerðishúsin stóðu, sé nú hár og stórgrýttur malarkambur.
Staðarhverfi suðvestan við Grindavík. Litlagerði og Kvíadalur er nú nánast komnir í sjó fram.
Hann lýsir túnunum á prestssetrinu þannig, að þau séu „mikið slétt, og í gróandanum yfrið fögur,“ en þau skemmist nokkuð af sandfoki, og það sem verra sé, að þeim er „af sjávar ágangi líka mikill skaði búinn, af sunnanveðrum og brimi“. Um jörðina Húsatóttir er sagt í bréfi dags. 19. maí 1703, að hún sé skaðvænlegum grjóts- og sjávargangi undirlögð. En séra Geir segir um hana meðal annars: „Milli túnsins og sjávarins er landið mjög lágt, og í sjávargangi gengur löðrið svo að segja alveg upp undir klettana, (sem túnið er á). Hefur jörð þessi mjög liðið við það, því að smágrjót og sandur er nú nægur á láglendi þessu. Muna gamlir menn, að þar hafi verið aligott beitiland, ef ekki líka slægjuland.“ Loks getur Jarðbók Járngerðarstaða, að sjór brjóti nokkuð á land þeirra. Hið sama á sér enn stað í tíð séra Geirs, því að hann segir sjó brjóta þar og bætir svo við: „Ekki eru heldur hjáleigurnar á Járngerðarstöðum fríar fyrir sjávargangi, t. d, eru Hrafnshús, sem áður stóðu milli Akurhúsa og Kvíhúsa, í seinni tíð flutt þangað, sem þau nú eru. Kvíhús standa árlega í miklum voða fyrir sjávaráfalli, og það sama má segja um Akurhús, nema herrann vilji enn meiri miskunn gera.“ Það er að heyra á séra Geir, að hann hafi ekki búizt við neinu kraftaverki þarna, enda mun ekki hafa af því orðið, því að hjáleigan er liðin undir lok.
Um hina fornu höfn í Grindavík segir í sóknarlýsingu séra Geirs (1840): „Á milli Staðar og Húsatótta, þó nær Stað og rétt í austur þaðan, er höfn sú eður skipalægi, er forðum var siglt upp í Grindavík. Eru tveir festarhringir með boltunum, sá að austan og norðanverðu, enn þá óbrjálaðir í skerjum þeim er Húsatóttum tillieyra.
Staðarhverfi.
En hinn þriðji boltinn, en úr honum er hringurinn farinn, er á Staðarlóð í skeri austur af Sjávarhúsi. Var kaupskip þannig bundið á þrjá vegu, en atkerum varpað fram af því, og horfði svo á sjó út í landsuður.“ Tvö þessara skerja eru nú alvaxin þangi og eru mjög lág að sjá, þó að enn komi þau upp um fjöru.
Kvíadalur.
Segir séra Brynjólfur Magnússon í Grindavík (1947), að segja megi um Staðarhverfið (og eiginlega allt byggðarlagið), að sjórinn smámylji niður landið og megi svo að segja árlega sjá mun einhvers staðar, þó að mest beri á þessu í stórflóðum, því að þá beri sjórinn kampinn hærra, og mest í flóðinu mikla, er kom 1925. En í því flóði braut víða stór skörð, er sjá má með allri ströndinni, en kampinn rak flóðið á undan sér nokkuð upp á tún. Nokkur hús lögðust þá í eyði, en sjórinn gekk eftir þetta svo upp í naustin, að nauðsynlegt þótti að steypa varnargarð fyrir framan þau.
Byggð er ekki önnur en sú, er lýst hefur verið, á allri ströndinni frá Þorlákshöfn til Reykjaness , og er vegalengdin um 70 rastir, þó að í lofti sé farið. En við Reykjanes fer landið að ganga sem næst beint til norðurs. Er vesturströnd þessa mikla útskaga 30 rasta löng norður á tá Garðskaga, en syðsti þriðjungur hennar er óbyggður frá fornu fari. Voru þarna enn tíu rastir með sjó óbyggðar frá Stað í Grindavík til Kalmanstjarnar í Höfnum, áður en Reykjanesviti var reistur.
Hafnir
Hafnir.
Fyrir um að bil 100 árum ritar Brandur Guðmundsson, að þurft hafi að fækka kúm í Kirkjuvogi og Kotvogi, af því að tún hafi gengið úr sér, meðal annars vegna sjávar landbrots, og um líkt landbrot talar hann í Junkaragerði. (Brandur Guðmundsson hreppstjóri: Lýsing á Höfnum.) Árnagerði er þá komið í eyði, og segir Brandur, að orsökin hafi verið sandfok frá sjó og landbrot.
Miðneshreppur
Stafnes.
Enn kemur nokkurt óbyggt svæði, þar til komið er að byggðu bóli í Miðneshreppi (eða Rosmhvalahreppi, er svo hér til forna. (Rosmhvalur þ. e. rostungur).
Segir Jarðabók, að sjötíu árum áður en hún er rituð hafi á jörðinni Stafnesi verið land það, er Snoppa (eða Snapa) var kallað, hafi það verið að stóru gagni til slægna og einnig verið notað til skipauppsátra, en nú sé það „af sandi aldeilis yfirfallið og með hverri stórflæði næstum því yfirflotið af sjó.“
Stafnes – örnefni. ÓSÁ.
En um túnin er sagt, að þau spillist ,,æ meir og meir af sandi og sjávargangi.“ Um hjáleigurnar þetta: Refakot fór í eyði 1663, og huldi sjórinn síðan allt túnið möl og sandi. Líklegast hefur það verið sama árið, sem Litla-Hólmahús fór í eyði, af því að sjór tók af graslendi það, er því fylgdi. Af sjó og sandi lagðist Halldórshús í eyði 1697 og sama ár Grímuhús vegna skemmda af sjávargangi. En fimm árum síðar var bæjarstæðið, þar sem Grímuhús hafði verið, brotið alveg af. Árið 1701 reisti maður, sem mun hafa heitið Steinn, sér nýbýli, er nefnt var Steinskot, í Stafneslandi. En tveim árum síðar braut sjórinn meiri hlutann af túninu þar. En eitthvað um 140 árum eftir að Jarðabók er rituð, segir sr. Sigurður B. Sívertsen um Stafnes, að það hafi áður verið 143 hundraða jörð,en hafi nú verið sett niður í 30 hundruð. (Sigurður B. Sivertsen: Lýsing Útskálaprestakalls 1839. Prentuð í Sýslulýsingum og Sóknalýsingum, Reykjavík 1937-39.)
Bætir svo við „má þar af sjá, hvað stórlega sú jörð hefur af sér gengið og gengur enn í stórflóðum af sandi og sjávarágangi.“
Um jarðirnar Lönd og Busthús er þess getið, rétt eftir 1700, að túnin skemmist af sjávargangi, og aftur 1839, um hina fyrrnefndu, að hún verði „fyrir sjávarbroti.“
Básendar
Básendar.
Verzlunarstaðurinn Básendar var í fyrstu nýbýli úr Stafneslandi. En höfnin þar er vík, sem skerst um 600 stikur inn í landið til norðausturs. Er hún um 300 stikur á breidd fremst, en mjókkar, og er innri hluti hennar um 130—150 stikna breiður. Skerjaröð, sem er um 500 stikur, er fyrir framan víkina og nokkuð suður með landi, svo að leið inn á höfnina er krókótt. Verður fyrst að nálgast land um 500 stikum sunnar en víkin er opin, en síðan, þegar komið er austur fyrir skerin, halda til norð-norðvesturs, þó að víkin liggi til norðausturs, eins og fyrr var frá greint.
Básendar. Land, sem áður var gróið, er nú nánast horfið.
Tvö skip gátu legið þarna í einu, ef þau voru vágbundin, en til þess voru hringir festir þarna í klettana. Lá þá það skipið, er utar var (á Ytri-Leið), á 9 stikna dýpi, við tvær taugar fram af, og lá önnur í austurlandið, en hin í sker þar beint vestur af. En aftur af skipinu var taug til noðurlandsins. En það skipið, er á Innri-Leið lá, var á 5 stikna dýpi og lá við fjórar taugar, tvær fram af, en tvær aftur af. Lágu stjórnborðstaugarnar til norðurlandsins, en á hitt borðið lágu þær til suðurstrandarinnar.
Segir Skúli Magnússon (árið 1784), að þegar mjög sé stórstreymt, hafi það borið við, að sjór hafi flætt inn í verzlunarhúsin á Básendum, en það hafi þó ekki valdið verulegu tjóni. En fimmtán árum síðar, nóttina milli 8. og 9. janúar 1799, verður mikla flóðið, sem nefnt hefur verið Básendaflóð og víða gerði mikinn skaða, bæði sunnan og vestan lands, en mestan þó á Básendum. Fórst þar ein gömul kona, sem ekki trúði fyrr en um seinan, að hætta væri á ferðum. En verzlunarhúsin tók alveg af. Voru þau þrjú talsins og stóðu 50—120 stikur frá fjöruborðinu inni undir botni vogsins norðanvert við hann. Engin byggð hefur verið í Básendum síðan.
Másbúðir
Másbúðir.
Um jörðina Másbúðir fyrir norðan Hvalnes segir Jarðabók: „Túnið fordjarfast stórkostlega af sands- og sjávargangi, og hefur sjórinn síðustu sjötíu árin (þ. e. frá því um 1630 til 1700) brotið sig gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarðfast land, svo nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer þetta landbrot árlega í vöxt, svo þar er ekki fært yfir í stórstraumsflæði nema um brú, sem sjórinn brýtur um vetur.“
Másbúðarhólmi var áður landfastur.
Másbúðir entust þó lengur en á horfðist, því að það var ekki fyrr en um 56 árum eftir að Tarðabók er tekin saman, að bæinn tók af, að því er séra Sigurður B. Sivertsen segir, er getur um viðburðinn 80 árum síðar. Land Másbúða heyrir nú undir Nes (eða Nesjar), er áður var hjáleiga, og myndi Másbúða-nafnið gleymt, ef ekki væri þarna sund og lítill hólmi, er enn heita Másbúðasund og Másbúðahólmi.
Um Býjasker segir Jarðabók (1703), að tún gangi af sér af sandi og sjávargangi og hafi bóndinn þar orðið að leggja tún tveggja hjáleignanna undir sig (en þær mun u þá liafa verið sjö). Hjáleigan Glæsir var þá búin að vera í eyði frá því um 1620, og var ekki talið hægt að byggja hana upp aftur, því að sjórinn hafði brotið af túnstæðið og borið upp stóra sandhauga. Líka er getið þar um Flankastaði og Sandgerði, að tún spillist af sandi og sjó, en það er tekið fram um Sandgerði, að það sé ekki til stórmeina enn. En í Sandgerði og hjáleigum þess áttu þetta ár (1703) 26 manns heima samtals. En 1839 segir séra Sig. B. Siv. um Sandgerði: „Sjór brýtur þar og á Flankastöðum í stórflæðum og gerir skaða á túnum og görðum.“
Sandgerði.
Um jörðina Fitjar er sagt 1703, að tún spillist af sjávargangi. Á þessum slóðum er nú ekkert, er sjá megi á, af hverju jörðin hefur nafn dregið, og munu sjávarfitjar þær, er hún heitir eftir, fyrir löngu vera komnar undir sjó. Um Lambastaði er sagt, að sjórinn hafi gert þar svo rækilegan usla, að þurft hafi að flytja bæinn, sé sjór enn að færast nær og hafi brotið á ný svo mikið og sé kominn svo nálægt bænum, að varla megi kalla, að skepnum og heyjum sé óhætt. En 1839 segir séra Sig B. Siv. um Lambastaði, að tvær af þrem hjáleigum þeirra séu komnar í eyði, brotnar af sjó og það svo gersamlega, að ekki sjáist nein. merki eftir þar, sem þær voru, og gangi jörðin mikið af sér af „sjávargangi og sjávar landbroti“. Hann segir, að Lambastaðir hafi sérstaka vör og sé þar útræði mikið, oft mörg aðkomuskip og bátar af suðurnesinu, „þegar þar ekki gefur og fiskur ei fyrir“. En þetta hefur breytzt mikið á þeim 100 árum, sem liðin eru frá því, er séra Sigurður ritaði þetta, því að búið er að flytja bæinn ofar, vörin brotin alveg af upp í túngarð og útræði þarna ekkert.
Kirkjuból – grafstæði. Sjórinn hefur verið að grafa sig inn í kirkjugarðinn.
Milli Fitja og Lambastaða er Kirkjuból. Um það segir séra Sigurður, að það hafi verið 67 hundraða jörð, en sé nú að mestu komið í eyði og hafi bærinn verið fluttur fyrir tveim árum heim á eina hjáleiguna (að nokkru leyti af skemmdum, sem ekki stöfuðu frá sjó).
Frá því sagt var hér á undan frá Stafnesi, syðsta bænum í Miðneshreppi, hefur byggð verið nær óslitin norður með sjó, og er nú komið fyrir nokkru inn í Gerðahrepp (en hér eru engin eðlileg takmörk milli hreppa) og norður á tá Garðsskagans. Gengur land nú til suðausturs.
Gerðahreppur
Gerðahreppur.
Um Útskála segir Jarðabók: „Túnin spillast af sjávargangi, sem brýtur garðana, og af sandi, sem sjór og vindur ber á.“ Um 80 árum seinna ritar Skúli fógeti, að sjávargangur brjóti þar af túnum. Og enn, 60 árum eftir það, ritar séra Sigurður B. Sivertsen: Undir Útskála heyra 7 hjáleigur, en áður voru býlin 12, þar á meðal jörðin Naust, og var þar þríbýli 1759. En sjór braut svo þar á, að Naust voru óbyggileg ár 1762 og eyðilögð með öllu 1782. Þar, sem tún þessarar jarðar var fyrrum, heitir nú Naustarif. Gengur sjór þar alltaf yfir, og er þar ekki nema grjót og möl. En um Útskála sjálfa segir séra Sigurður: „Mælt er, að staðarins tún hafi mikið af sér gengið og tvívegis hafi túngarðurinn verið færður upp á túnin að norðanverðu. Núlifandi elztu menn [þ. e. ár 1839] muna eftir grastóm fremst fram í fjöru, sem sýnir, að fyrrmeir hafi allt það svið verið grasi vaxið og ef til vill tú.n. Hefur sjór þá ekki gengið lengra en að rifi því, sem nú brýtur á, fremst framan við fjörumál (þaragarð).“
Vatnagarður – loftmynd 2022. Sjórinn brítur ströndina.
Um Gerðar segir Jarðabók, að tún, hús og garðar jarðarinnar skemmist árlega af sjávar- og vatnagangi, því að þar sem menn ættu á þurru landi að ganga, verði stundum skinnklæddir menn að bera kvenfólk til nauðsynlegra heimilisverka innanbæjar og utan, þegar vetrarleysingar og sjávargangur hjálpist að, og sé stórt mein að þurfa jafnoft að byggja garðana upp aftur og bera sand og grjót af túninu.
Um aldamótin síðustu lét Finnbogi Lárusson í Gerðum gera þar fiskreit. (Skúli Magnússon landfógeti: Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu. Rituð á dönsku á árunum 1782—84 til þess að sýna stjórninni fram á, að fátæktin og eymdin sé hvorki landinu eða þjóðinni að kenna, heldur einokuninni. Þýtt og prentað á íslenzku, Reykjavík, 1935—36.) Stendur hann óhaggaður, en það flæðir nú yfir hann um hvert stórstraumsflóð.
Um Gauksstaði segir Jarðabók, að sjórinn spilli túnum, görðum og hjöllum, og um Meiðastaði, að sjór grandi þar túni að neðan og hafi þrisvar á 30 árum orðið að færa naustin lengra upp á túnið.
Garður – kort 1903.
Þá segir og í Jarðabók, að góðir menn segi, að heyrt hafi þeir getið, að í þessari sveit hafi til forna verið tvær jarðir, sem hétu Darrastaðir og Stranglastaðir eða Straglastaðir, viti enginn, hvar þessar jarðir hafi verið, en þeirra sé getið í gömlum rekaskiptamáldaga Rosmhvalaneshrepps [er áður náði yfir núverandi Gerðahrepp] og standi þær þar í þeirri röð jarðanna í Garði, að ætla megi, að það séu hinar sömu, sem nú (1703) séu nefndar Kothús og Ívarshús, en hvorugt þetta nafn sé nefnt í gamla máldaganum.
Um jarðirnar í Leiru segir Jarðabók, að sjór grandi túni á Stóra Hólmi og brjóti svo neðan af túninu á Litla Hólmi, að þar hafi tvisvar á níu árum þurft að færa naustin lengra upp. Um Hrúðurnes er tekið fram, að lendingin sé góð, en sjávargangur „túnum og húsum til stórmeina“. Skúli fógeti getur þess líka (1784), að brotni af túni á Stóra Hólmi, og ennfremur, að jörð þessi verði fyrir ágangi af svörtum sandi, en á jarðirnar vestan við Skagann og alla leið að Útskálum sé ágangur af gráum eða hviileitum sandi, og komi hvor tveggja sandurinn, svarti og grái, úr fjörunni.
Leiran – loftmynd.
Séra Sigurður segir um Hrúðurnes (1839), að bærinn hafi áður staðið nær sjó, en verið fluttur lengra upp vegna sjávargangs, hafi sjór þá áður brotið hjáleigu, sem undir jörðina lá.
Kunnugur maður segir svo frá: Þegar Garðskagavitinn var byggður, var langur, grasivaxinn tangi norður af honum. Nú er grasið löngu horfið og flæðir sjór nú þarna yfir í hverju flóði. En vitinn hefur verið færður ofar en hann var áður. Sjórinn gengur á við Síkið, og verður sú tjörn bráðum ekki til. Verður þarna þá aðeins rif, líkt og það, sem er þarna fyrir framan og mun vera leyfar tjarnar, sem þarna hefur verið enn framar.
Þar sem skip eru sett upp á flatar klappir, kemur far eftir í klappirnar. Þess konar för má sjá við Útskála í klöppum, sem eru nú svo neðarlega, að þær koma ekki upp nema um stórstraumsfjöru.
Keflavík og Njarðvíkur
Keflavík.
Þegar Jarðabók er rituð (1703), var Keflavík hjáleiga (ein af mörgum) frá Stóra-Hólmi og kóngseign eins og hann. Var afgjaldið 50 kg af harðfiski, sem skila átti í kaupstað landeiganda að kostnaðarlausu.
Eystri-Bergsendi – útsýni til vesturs.
Íbúar í Keflavík voru þá samtals 6 (sex). Það fara því litlar sögur af Keflavík á fyrri tímum. En þegar Skúli Magnússon fógeti ritar lýsingu sína á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1784, eru þar 4 kaupmannabúðir, 16 timburhús og íbúar 120. Má vera, að eitthvað mætti ráða af uppdráttum frá þeim tímum um breytt sjávarborð. En kunnugt er, að frá því um síðustu aldamót hefur orðið þar mikil breyting, og eru nú sums staðar berar klappir, sem sjór þvær um í hverju stórstraumsflóði, þar sem áður voru bakkar, sem sjávarhús stóðu á. Um Ytri-Njarðvík er sagt 1703, að sjór brjóti svo þar tún, að tvisvar hafi þurft að færa (það) á 17 árum. Landið gengur héðan til austurs.
Vatnsleysustrandarhreppur
Vatnsleysustrandarhreppur.
Þegar komið er fram hjá Vogastapa er svo að segja óslitin hraunströnd, þar til komið er inn undir Hafnarfjörð. Er sú vegalengd fullar 20 rastir, þó að farin sé skemmsta leið yfir holt, hæðir og víkur.
Jarðabók getur þess (1703), að sjávargangur spilli Vogunum, brýtur tún í Minni-Vogum, en um Stærri-Voga er kvartað undan, að skemmdirnar aukist þar ár frá ári. Einnig er sagt, að skemmdir fari í yöxt á Brunnastöðum, þ. e. sjórinn brýtur túnið og ber á sand. Þá er talin hjáleiga frá Brunnastöðum, Tangabúð, sem sjórinn sé að brjóta af, og mun hún hafa farið í eyði. Hjáleiga frá Stóru-Ásláksstöðum, sem hét Atlagerði, var líka að skemmast um þessar mundir. Er hún horfin, en enn heitir þar Atlagerðistangi.
Byggð er hér samhangandi á 5—6 rasta svæði meðfram ströndinni, og segir Jarðabók ennfremur frá skemmdum af völdum sjávarins á þessum jörðum: Hlöðunesi, Stóru- og Minni- Ásláksstöðum, Minna og Stóra-Knarrarnesi, Breiðagerði, Auðnum, Landakoti, Þórustöðum, Kálfatjörn, Bakka, Flekkuvík, Minni-Vatnsleysu (en ekki Stóru Vatnsleysu).
Jarðabók getur um forna jörð, Akurgerði, sem sé búin að vera í eyði frá því fyrir 1600. Álítur séra Pétur Jónsson, (1840), að Akurgerði muni hafa verið innst í Vatnsleysuvíkinni, innar (austar) en Kúagerði. (Pétur Jónsson: Njarðvíkur og Kálfatjarnarsóknir 1840.) Um Vogavík, sem er austan við Vogastapann (eða Kvíguvogabjörg, er forðum hétu), segir séra Pétur, að hún lengist hvað af öðru upp með Stapanum, því að þarna sé flatur sandur. Og mun hún enn vera að lengjast (1946). En um ströndina yfirleitt í Vatnsleysustrandarhreppi segir hann: „Sjórinn brýtur af túnum og landi,“ og munu þau orð hans einnig eiga við enn í dag.
Hafnarfjörður
Hafnarfjörður.
Hvaleyrargrandi er nefnd eyri, sem nú flæðir yfir og er sunnan megin fjarðarins inn með bænum (til austurs), og mun bilið milli hennar og landsins fyrir sunnan hana vera höfn sú, er Hafnarfjörður dregur nafn af. Voru verzlunarhúsin fyrst á eyri þessari. En á 17. öld er farið að bera svo mikið á því, að sjór gangi á eyrina, að óráðlegt þótti að hafa þau þar lengur, og voru þau flutt árið 1677 austur fyrir fjörðinn og reist á túni Akurgerðis, sem þá var hjáleiga frá Görðum.
Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.
En um höfnina við grandann segir Skúli fógeti 1784: „Sunnan megin fjarðarins fyrir ofan áður nefndan Hvaleyrargranda er lítil höfn, 225 faðma breið og nefnd Hvaleyrartjörn. Á henni liggja fiskiskúturnar á vetrum, lausar við sjógang með öllu. Fyrir innan Skiphól er dýpið í höfn þessari 8—9 fet, en fyrir utan hann 9 1/2—12 fet.“ (Eftir ísl. útgáfunni.) En Akurgerðistúnið var lítið hærra en eyrin, sem flúið var frá, og þegar Skúli fógeti ritar um þetta (sem var 107 árum eftir að húsin voru flutt), þá er sjórinn farinn að flæða upp í þau, þegar stórstreymt er. Og þegar séra Árni Helgason ritar um þetta, 58 árum á eftir Skúla, segir hann Akurgerðistúnið komið í sjó (sjá síðar). (Árni Helgason: Lýsing Garðaprestakalls 1842.) Á þeim liðlega hundrað árum frá því húsin voru flutt, þar til Skúli fógeti ritar, hafði sjávarhæð breytzt það, að sjórinn var sumsstaðar farinn að flæða yfir Hvaleyrargranda, þegar stórstreymt var.
Þegar landmælingar voru gerðar í Hafnarfirði, 1903, flæddi yfir mestan hluta hans. Samt var breiddur fiskur á honum, og mátti sjá þar á sumrin 2—3 fiskstakka fram undir 1910, en nú flæðir yfir hann allan. Hann er sýndur ofansjávar (en nokkuð mjór) á sjókorti, sem birt er í lýsingu hafna (Löwenörns) á suðvesturhluta landsins, eftir mælingum H. E. Minors skipstjóra, er mældi hér strendurnar í tvö ár, en drukknaði í Hafnarfirði þriðja árið, vorið 1778. (Beskrivelse over den islandske Kyst o. s. frv., Kjöbenhavn 1788.)
Garðahreppur
Garðahreppur.
Jarðabók getur þess ekki, að sjór sé neitt ásælinn við Lónakot, vestasta bæinn í hreppnum. En um sjötíu árum síðar (1776) eyddist það af sjávargangi. Segir Skúli fógeti, að sjórinn hafi þá rifið grassvörðinn af túninu og fyllt vörina“ og húsin af grjóti og möl. Var Lónakot þá álitið með öllu óbyggilegt og var í eyði um tvo mannsaldra.
Nú er komið að Straumi. Segir Jarðabók um Óttarsstaði, að sjór brjóti eitt hjáleigulandið, um Lambhaga, að túnin skemmist árlega af sjávaryfirgangi, og fari það sífellt í vöxt. (Er þessi hluti Garðahrepps fyrir sunnan Hafnarfjörð.) Af jörðum í Garðahverfi getur Jarðabók einkum um fimm, er sjór brjóti, Dysjar, Bakka, Hlíð, Sandhús og Lónshús, einkum þó Bakka, því að þar spillist túnið svo stórlega, að það hafi þurft þrisvar að færa bæinn frá sjónum, og sé þar þó enn svo illa statt, að það „sýnist sem að túnið, mestan part, muni með tíðinni undir ganga“.
Bessastaðahreppur
Bessastaðahreppur.
Eftir því sem Jarðabók skýrir frá (1703), er sjórinn að brjóta eða á annan hátt aðskemma margar jarðir á Álftanesi. Hlið: Tún jarðarinnar brotnar af sjávargangi, sífellt meir, og er hið sama sagt um þrjár hjáleigur þar. Möishús: Þar grandar sjávargangur túninu á tvo vegu. Skógtjörn: Sjórinn brýtur engi, og fer það ár eftir ár í vöxt. Brekka: Sjór spillir túninu og gerir jafnframt usla á hjáleigunni Svalbarða. Sviðholt: Sjávargangur spillir túni. Deild: Sjávargangurinn þar svo mikill, að varla er óhætt mönnum og fénaði fyrir stórflæðum, „og hafa menn fyrir þessum háska í þrjár reisur flúið bæinn“. Báruseyri: Brýtur á tvo vegu tún. Akrakot: Túnskemmdir af sjó. Breiðabólstaður: Sjórinn brýtur af landinu og ber sand á tún. Kasthús: Sjórinn skemmir. Bessastaðir: Túni ð brýtur að sunnan verðu Lambhúsatjörn, er gengur úr Skerjafirði. En norðanvert á Bessastaðalandi ganga flæðiskurðir úr Bessastaðatjörn og brjóta haglendið. Selskarð: Sjórinn spillir túnum.
Álftanes – kort frá 1796.
Skúli fógeti segir (1784), að túnin á Álftanesi hafi langflest minnkað verulega af sjávargangi.
Það er fróðlegt, að séra Árni Helgason, sem ritar nær sex áratugum á eftir Skúla, segir mikið til hið sama. Kemst hann svo að orði, að sjór sé smátt og smátt að þoka sér á landið og nuddi af bökkum og túnum meira eða minna á hverju ári, og að allar jarðir, sem tún eigi að sjó, verði að kalla árlega fyrir skemmdum á þeim af sjávargangi. Þannig sé Akurgerðistún, sem verzlunarhúsin í Hafnarfirði voru flutt á 1677, allt horfið, og að mestu leyti af völdum sjávar.
Báruseyri hafi tvívegis verið færð frá sjó (og að því er virðist á þeim 16 árum, sem hann hefur dvalizt á þessum slóðum). Fóðri þessi fyrrum 24 hundraða jörð nú aðeins eina kú. Engi, sem legið hafi undir Svalbarða, sé á síðustu árum orðið ónýtt og Bakkatún mikið skemmt.
Sandhús í Garðahverfi séu að mestu leyti farin í sjó, þótt leifar sjáist af þeim. En um þessa jörð segir Jarðabók 139 árum áður: Túnin skemmast á hverju ári stórlega, og hefur ábúandinn mikið ómak af því á hverju ári að bera og láta bera af sandinn. Árið 1701 hafi sjórinn varpað upp svo miklum sandi, að sýnilegt þótti, að bóndinn yrði ekki þess megnugur að ráða bót á, og hafi þá umboðsmaður konungs á Bessastöðum fyrirskipað nábúum hans að hjálpa honum. Samt brjóti sjávargangur árlega æ meir af jörðinni.
Álftanes 2021.
Landnorðan á Álftanesi var við Skerjafjörð (gegnt Skildingarnesi) hafskipahöfn, sém hét Seilan. Um hana ritar Björn á Skarðsá og segir frá því, að þegar fréttist til Tyrkjans 1627, hafi höfuðsmaðurinn á Bessastöðum sent eftir dönsku kaupförunum, er í nágrenninu voru. (Tyrkjaránssaga Björns á Skarðsa, samin 1643.) Komu tvö þeirra og var haldið inn á Seilu. Vofu þar þá þrjú skip, því að skip höfuðsmannsins lá þar fyrir. En er Tyrkir komu á tveim skipum og ætluðu inn á Seiluhöfn, rann annað skipið á grunn. Höfðu þeir sig á brott, er þeir náðu því út aftur.
Eggert Ólafsson getur um Seilu í ferðabók sinni (1757) og segir, að höfuðsmenn á Bessastöðum hafi notað höfn þessa sumarlangt, meðan siður var, að þeir kæmu á skipum, er þeir áttu sjálfir. (Eggert Olafsson: Reise igiennem Island, Soröe 1772.) Segir hann, að skipunum verði að halda inn í höfnina um flóð og það fjari úr mestum hluta hennar, en þarna sé öruggt vetrarlægi meðalstórum skipum og þaðan af minni.
Skúli fógeti ritar 1784: „Hin gamla skipahöfn, Seila, er alveg uppi undir virkinu á Bessastöðum, sem nú er með öllu niður fallið. Þarna er örugg lega handa skipum þeim, er fluttu lénsmenn konungs til Íslands fyrr á tímum og lágu þar að sumrinu til. Innsigling á höfn þessa er torveld og nálega ófær nema með vel kunnugum leiðsögumanni Annars er höfnin rúmgóð, laus við allan meiriháttar sjógang, hefur tvö stór skipalægi á 9 faðma dýpi og sandbotn, sem er þó nokkuð blandinn skeljum. Ég efast ekki um, að tíu skip gætu legið þar yfir veturinn, ef vel væri linað á köðlum, þegar sjógangur er Bessastaðátjörn fyrir innan Seiluna er vetrarlægi fyrir seglskútur og smáskip.“ Höfn þessi er nú ekki lengur til.
Sjávarvíkur, sem heita tjarnir
Hlið á Álftanesi.
Á Álftanesi eru þrjár víkur, sem skerast inn frá sjónum, en allar heita þær tjarnir, Bessastaðatjörn, Lambhúsatjörn og Skógtjörn.
Hlið – Álftanesi.
Skýringin á þessum nöfnum er sú, að þetta hafa upprunalega verið tjarnir nokkuð frá sjó, en með hækkandi fjöruborði hefur sjórinn brotizt inn í þær, þær orðið sjávarvíkur, en haldið nafninu.
Viðburðir gleymast stundum ótrúlega fljótt, en stundum eru þeir lengi í minnum manna, þar, sem þeir gerðust, ásamt öðrum munnmælum, sem oft eru uppspuni einn. Telur séra Árni Helgason (1842) upp ýmis munnmæli, er þar gangi í sveitinni og honum þyki ótrúleg, en segir svo: „Aðrar sögur segja menn, sem meiri líkindi eru til, að gæti verið satt, að Skógtjörn og Lambhúsatjörn hafi fyrrum verið engi.“ Bendir það á, að það hafi verið alllöngu fyrir tíð séra Árna, að þessi breyting varð, enda má sjá á Jarðabók, að 1703, þegar sá kafli hennar er ritaður, sem segir frá Álftanesi, eru bæði Lambhúsatjörn og Bessastaðatjörn sjávarvíkur. Hins vegar bendir sumt á, að í Skógtjörn hafi þá enn verið ósalt vatn.
Melshöfði
Álftanes – Melshöfði. Gömlu verbúðirnar eru nú komnar út í sjó.
Svo hét nes, er gekk vestur frá bænum Hliði á Álftanesi. Þar voru árið 1703 þrjú hús, og áttu þrjár fjölskyldur heima þar, eða alls 11 manns. En auk þess höfðu Bessastaðamenn þarna sjóbúðir, og voru þar stundum þrjátíu kóngshásetar, því að of langt þótti að róa frá Bessastöðum, þ. e. innan úr Skerjafirði og kringum Álftanesið. Melshöfði er nú gersamlega horfinn í sæ, en suðvestur frá Hliði ganga flúðir og má vera, að þær séu leyfar höfðans, sem átti reyndar eftir munnmælum að vera til vesturs, séð frá bæjarhúsunum á Hliði.
Laug í fjörunni
Laug var í fjörunni undan Hliði. Segir séra Árni, að hún sé í skeri, er verði þurrt um stórstraumsfjöru, og sjáist þá reykurinn úr henni. Eftir því, sem kunnugir menn segja, hefur ekki sézt rjúka úr henni í 30—40 ár. Hún er komin undir sjó.
Um Álftanes hefur landskunnur fræðimaður, Björn i Grafarholti, ritað mér í bréfi: „Hér syðra er sjórinn alls staðar að ganga á landið. Ber mest á því þar, sem láglent er eins og á Álftanesi. Þar er t. d. ekki lengur Bessastaðavík heldur vík, sama um Skógtjörn, hún er horfin. Á norðurhluta Álftanessins eru horfnar í sjó jarðirnar Bárekseyri (Báruseyri), Bakki (?) og Bakkakot. Um 1890 var hjá mér kaupamaður bóndinn í Bakkakoti. Ég kom þá þar, og var um 3 til 4 faðma bil frá bæjarvegg að sjávarbakkanum. Bóndinn í Gesthúsum, nú 76 ára, hefur alið þar allan aldur sinn, segir svo: Þar sem Bakkakot stóð, fellur nú yfir í hverju stórstraumsflóði. Var kálgarður fyrir ofan bæinn, einnig þar fellur nú yfir. Á þeim tíma (um 1890) var þar túnblettur, sem af fengust 25—30 kpl. af töðu, og allt þar til nú fyrir 20 árum, að allt er komið í sand og möl. Sama má segja um mikinn part af engjunum.
Hlið – túnakort 1917.
Þar voru fyrir 20 árum 2 tjarnir, sem ekki voru væðar, nú orðnar fullar af sandi og möl. Um Hlið segir Ólafur í Gesthúsum: „Rétt fyrir mína tíð gaf Jörundur, sem þá bjó á Hliði og var faðir ömmu minnar, hreppnum (þá Álftaneshreppi) svonefndan Sveitarpart, sem var 2 kúa gras. Af parti þessum er nú ekkert eftir, orðin fjara þar, sem hann var áður.“ Hliðsnes, sem var landfast við Hlið, er nú svo brotið, að ekki er eftir nema táin, sem er orðin eyja. Fram af Hliði var Melshöfði, sem nú er horfinn, og mest af Hliðslandi.“
Arnarnes (MWL).
Ekki getur Jarðabók skemmda í Arnarnesi né Kópavogi. En sjór hefur frá því um 1916 brotið smám saman framan af túninu í Arnarnesi á að gizka hálfa þúfu á ári. Gras var á klettum þar fyrir neðan bakkann, en það er nú farið. Ekki nær Garðahreppur lengra en þetta á þennan veg, en hér mun skroppið snöggvast yfir í Seltjarnarneshrepp. Í Kópavogi hefur brotið land og það svo, að venjulega hefur sézt munur á missirum. Var brotið alveg upp að gamla bænum í Kópavogi, þegar hann var rifinn. Arnarnesvogur og Kópavogur ganga inn úr Skerjafirði, og leggur þangað aldrei inn haföldu og sízt inn í botn, þar sem tveir áður taldir bæir eru. Lækir renna fram í botn þessara voga, og kemur þar lækkun landsins fram á áberandi hátt á því, hve lengra flæðir upp eftir þeim en áður, og eru þarna brýr, sem auðvelt er að miða við. Þriðji vogurinn inn úr Skerjafirði er Fossvogur. Er þar líka þriðji lækurinn og þriðja brúin, og er einnig þarna greinilegt, hve sjórinn teygir sig lengra inn á við. Klettar eru þarna fyrir botni vogsins úr linu bergi, og hefur vogurinn teygzt þó nokkuð inn í landið, frá því vegur, sem ekki er notaður lengur, var lagður yfir Öskjuhlíð og upp á Digraneshálsinn. En það var á síðara helmingi nítjándu aldar, að hann var lagður. En hann lá þannig, að farið var fyrir framan klettana fyrir Fossvogsbotni, og þyrfti nú að sæta sjávarföllum, ef fara ætti þessa leið. Er þessi gamli vegur á hægri hönd, þegar farið er suður Öskjuhlíðarveginn, en á vinstri, þegar farið er upp Digranesháls.
Niðurlagsorð
Þórkötlustaðahverfi .
Nú hefur verið farið yfir svæðið frá Ölfusá, vestur með ströndinni fyrir Reykjanes, og er nú komið inn með Faxáflóa, að Seltjarnarnesi, og verður þessi áfangi frásagnarinnar ekki lengri að sinni.
Alstaðar hefur verið sama sagan, sjórinn er að brjóta landið. Sumstaðar hefur verið sagt frá því, að þurft hafi að færa bæi undan sjávargangi og marga þeirra oft.
Þorlákshöfn 1913.
Víst er, að frásagnir gætu verið fleiri, ef skráðar hefðu verið. Bæjargerðin okkar hefur verið þannig, að það þurfti alltaf að vera að byggja bæina upp aftur. Væri sjórinn kominn óþægilega nálægt bænum, þegar þurfti að byggja hann upp, var bærinn byggður lengra frá sjávarbakkanum. En engum datt í hug að kalla það, að það hefði þurft að flytja bæinn vegna sjávarins.
Það var ekki nema þegar þurfti að flytja úr bænum, af því að sjórinn var farinn að brjóta hann, og að þar með var lagt í sérstakan kostnað, að þetta var kallaður flutningur vegna sjávar. Á sama hátt er flutningur túna upp á við, undan sjávargangi, miklu algengari, en í frásögur er fært. Það var ekki nema þegar svo mikið braut af túni á skömmum tíma, að það varð að mestu eða öllu leyti ónýtt, að slíkt varð skráð, eða þegar túnið varð á fáum árum ónýtt af því, að sjórinn bar á það sand og grjót. En hinu veittu menn litla eftirtekt, þótt dálítið bryti árlega framan af túni. Þá var borið í staðinn á móa eða mel ofan við það, og túnið færðist upp. En þau eru mörg túnin, sem þannig hafa skriðið jafnt og þétt upp frá sjónum og bæirnir smátt og smátt fylgt þeim. En breytingin hefur verið svo lítil á hverjum mannsaldri, að eftir þessu hefur varla verið tekið.
Selvogur – fjaran.
Vera má, að einhver myndi vilja spyrja, hvort allt þetta sjávarbrot, sem getið er um í Jarðabók, sé ekki barlómur fátæks almennings, sem hafi óttazt, að þessi yfirheyrsla um kosti jarða myndi
fyrirboði hærri skatta og gjafda. Því er að svara, að sams konar landbrot og lýst er í Jarðabók er enn þann dag í dag á allri þessari strönd, sumpart á sömu jörðunum, sumpart á næstu jprðum. En þegar komið er norður og vestur með landi, þar sem landið bersýnilega er að rísa, hætta líka að heita má allar umkvartanir í Jarðabók, um að sjórinn brjóti land.
Lindarsandur neðan Melabergs.
Rétt er að geta, að heyrzt hafa raddir um, að landið væri ekki að síga, hér væri eingöngu um landbrot að ræða. En landbrot getur ekki verið orsökin að sér sjálfu. Það er afleiðing einhvers, en hver er orsökin? Land, sem stendur kyrrt, miðað við sjávarborð, brýtur ekki sýnilega nema nokkrar aldir, því að sjórinn er þá búinn að taka allt, sem hann nær til, og hlaða með því undir sig við ströndina.
Ef sjór gæti haldið áfram að brjóta, væru flest lönd sæbrött nema þau, sem væru að rísa.
En hvaða skýringu væri að finna á því, að landið brýtur hér sunnanlands, aðra en þá, að það sé að síga? En hér hefur verið sagt frá landbrotinu, af því það er tákn þess, sem fram er að fara.
En sannanirnar fyrir því, að landið sé að síga, eru nægar. Sjór flæðir lengra og lengra upp á flatt land, sem enginn man til, að hafi flætt upp á, við voga, þar sem aldrei kemur úthafsalda. Sker, sem ekki flæddi yfir nema í stærstu flóðum, fellur nú allaf yfir. Önnur sker, sem alltaf komu upp um stórstraum, koma nú aldrei upp. Þari færist hærra upp eftir sjávarklettum, og hrúðurkarlabekkurinn hækkar á þeim og á flúðum. Allt eru þetta nægar sannanir þess, að land er að síga, og svo eru loks beinar mælingar, sem sýna það.
Verður frá því öllu skýrt, er tími vinnst til.“
Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 01.04.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 40-44.
-Náttúrufræðingurinn. 2. tbl. 01.06.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 57-71.
Reykjanesskagi.
Sorgarsteinn – Auðsholtshellir
Í „Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi, Áfangaskýrslu II“ frá árinu 2017 segir m.a. um „Auðsholt, Sogarstein og Auðsholtshelli„:
„30 hdr, 1708. JÁM II, 408. 42 2/3 hdr. 1844. JJ, 74. 1397: LXXXII. Audshollt. Heilog kirkia j Audzhollti a .ij. kyr. Hun a innann sig kross. alltarisklædi oc dvkur. kluckur .ij. paxspialld. portio Ecclesiæ vmm .ij. ar næstu .vij. aurar. forn tiund oll saman .ccc. fellur nidur .c. firir vppgiaurd kirkiunnar er Lytingur liet vppgiaura.“ DI IV, 92. 1708: Jarðdýrleiki xxx eftir munnmælum, en engi geldst hjer tíund af. Inn til næstliðinna 14 eður 12 ára var af þessari jörðu goldið til sveitarinnar það sem menn kölluðu jarðareyrir, að fátækir fengu 12 fiska. “ JÁM II, 408. „Gömul jörð og stór, 42 hundruð að fornu mati. Austast skiptast á mýrar og holt; þar var góð vetrarbeit og skjólsælt. Bærinn stendur á grónu holti. Vestast og norðan þess eru blautar engjar og grasgefnar sem Ölfusá flæðir yfir í stórflóðum. SB III, 388. Ekki er föst ábúð á jörðinni, hún er nýtt til beitar og þar er alifuglabú.
1917: Tún 8 ha, þar af c. 1/3 slétt. Garðar 1824 m2.
Auðsholt.
„…Auðsholt … standa enn á sama stað…,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn er sýndur í miðju heimatúninu á túnakorti frá 1918 og stafnar snéru líklega til suðurs. Árið 2004 var fyrst komið að Auðsholti í tengslum við skráningu á kirkjum og bænhúsum á landinu. Auðsholti var lýst svohljóðandi þá: „Bæjarhóllinn er frekar háreistur hóll og er núverandi íbúðarhús ennþá þar og hefur fengið nokkra upplyftingu. Heimtröðin er nokkuð löng og komið að húsunum að vestan. Garður er í kringum húsið með sundlaug og nokkuð af trjám. Unnið hefur verið að endurbótum bæði á húsi og garði.“ Árið 2014 var aftur komið að Auðsholti vegna aðalskráningu minjastaða í sveitarfélaginu Ölfusi. Strax var ljóst að miklar breytingar höfðu átt sér stað á bæjarstæðinu. Íbúðarhúsið eyðilagðist í jarðskjálfta árið 2008 og var rifið árið 2009. Í gegnum tíðina hafði verið byggt við það nokkrum sinnum og húsið stækkað. Það var ókostur og húsið eyðilagðist, að hluta til vegna þessa.
Auðsholt – álfhóll.
Nú er ekkert hús á bæjarhólnum fyrir utan 20. aldar hlöðu sem er í norðvesturhorni bæjahólsins. Öll önnur útihús hafa verið rifin en sundlaugin sést enn innan bakgarðsins. Fyrir sunnan bæinn var sambyggður kálgarður samkvæmt túnakorti frá 1918, sundlaugin er innan hans. Suðurhlið kálgarðsins sést ennþá, þar er 1-1,5 m hár og brattur kantur. Óljóst mótar fyrir hluta af austur- og vesturhliðinni í túni. Þær byggingar sem tilheyra kjúklingabúinu eru nýlegar.
Bærinn var á náttúrulegu holti, syðst á því. Þar eru ræktuð tún til allra átta.
Bæjarhóllinn sést ennþá enn er mikið raskaður. Hann er um 80 x 45 m að stærð og snýr norður-suður. Það er búið að grafa mikið í hólinn og miklar framkvæmdir átt sér stað á honum. Elsti hluti íbúðarhússins var byggður 1926 en annað sambyggt íbúðarhús var byggt 1965. Húsið var að hluta mikið endurnýjað og sundlaug grafin í suðurhluta bæjahólsins með handafli og dráttarvél. Samkvæmt Runólfi Gíslasyni, heimildarmanni, varð hann í flestum tilfellum var við hleðslur og mannvist við framkvæmdir næst bænum. Nú (2015) er slétt, gróið svæði þar sem íbúðarhúsið var en bakgarðurinn sést ennþá. Það er erfitt að átta sig á hæð uppsafnaðra mannvistarlaga vegna rasksins en hann er 1,5 m á hæð syðst.
Sorgarsteinn – þjóðsaga 63°57.013N 21°09.827V:
Sorgarsteinn.
„Sorgarsteinn: Blágrýtissteinn á Bæjarholtinu. Nafnið er þannig til komið að sögn er um að kona hafi alið barn sitt undir steininum og fannst þar dáin,“ segir í örnefnaskrá. Sorgarsteinn er rúma 450 m norðaustan við bæ og 350 m vestan við helli 020. Þetta er eini blágrýtissteinninn á þessum slóðum og hann sker sig vel úr umhverfinu.
Sorgarsteinn er innan beitarhólfs fyrir hross. Þar eru óræktuð tún og á einhverjum tímapunkti voru þau ræktuð. Steinninn er nyrst á Bæjarholtinu og þar norðar tekur mýrin Sakka við. Umhverfis Sorgarstein eru lægri klettar úr móbergi. Steinninn sjálfur en nánast ferkantaður, 1 – 2 m á hæð og umhverfis hann er gras. Greinilegt er að hross híma gjarnan þarna við.“
Auðsholtshellir – hellir (fjárskýli) 63°56.991N 21°09.409V:
Auðsholtshellir.
„Hellir vestan í Skyggnisholti. Þar var hýst fé, sauðir,“ segir í örnefnaskrá.
Auðsholtshellir er um 650 m norðaustan við bæ. Hellirinn er náttúrulegur en hleðsla er framan við op hans.
Vesturhlíðar Skyggnisholts eru brattar og víða eru klettar. Neðri hluti þeirra eru grónar en klettar efst. Hellirinn er í einu klettabeltinu og brekkan nær upp að honum.
Hellisopið er 7 m langt og 2,5 – 3 m á hæð. Hellirinn snýr norðvestur – suðaustur og lofthæðin er minnst 1 m. Hellirinn er nokkuð reglulegur og myndar snotra hvelfingu. Engin mannaverk sjást þar inni. Nýlegt eldstæði er innst í hellinum svo hann er eitthvað notaður til skemmtana. Hleðsla er framan við opið. Hún er 8 m að lengd, 0,5 m á hæð og 3 m á breidd. Það er bratt til vesturs frá henni, niður brekkuna. Hleðslan lokar hellinum ekki að ofan og líklega var hann alltaf opinn þar. Op inn í hellinn er í suðvesturhorni.“
Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla II, Ragnheiður Gló Gylfadóttir, Orri Vésteinsson og Stefán Ólafsson, Fornleifastofnun Íslands ses, Reykjavík 2017.
Auðsholt.
Ágrip af sögu Austurvegar síðastliðin 30 ár – Ólafur Ketilsson
Í Tímann árið 1955 ritaði Ólafur Ketilsson „Ágrip af sögu Austurvegar síðastliðin 30 ár„. Ólafur Ketilsson, eða Óli Ket, eins og hann var jafnan nefndur, var víðfrægur rútubílstjóri millum m.a. höfuðborgarinnar og uppsveita Árnessýslu.
„Hæstvirtir alþingismenn.
Ólafur Ketilsson.
Fyrir 69 árum var unnið við þær framkvæmdir í landi voru, að staðsetja og leggja veg frá Reykjavík og áleiðis austur í Árnessýslu. Sú vegalagning var unnin samkvæmt kröfum og tækniþekkingu yfir standandi tíma, svo sem venja er til, en þekking og þörf hinna fyrri tíma var m.a. sú, eftir því sem sagt er, að staðsetja veginn og leggja hann þar, sem jarðlag var sléttast, án þess að hirða um beygjur, króka og brekkur, því að flutningatæki voru þá baggahestar og reiðhestar.
Það má segja að vegurinn væri lagður eftir kröfu síns tíma. Nokkru síðar urðu flutningatækin kerrur, sem hestum var beitt fyrir, en þá komu fljótlega fram kröfur um það að brekkur mættu ekki verða brattari en aðeins einn metri móti hverjum fimmtán til átján lengdarmetrum, þar sem því var við komið, utan þar sem lagt var f fjalllendi og öðru óhagstæðu landi.
Árin 1920 til 1922 hófst svo bílaöldin og bætt við kröfur tímans um vaxandi hraða.
Enn fremur varð fljótt þörf á því að geta ekið eftir veginum allt árið. Kom þá fljótt í ljós hversu óhagstæður hinn gamli vegur var vegna króka og snjóþyngsla, þar sem víða fylltist af snjó strax í fyrstu éljum. Gerðust kröfur manna strax háar um endurbætur og breytingar á vegstæðinu og veginum. Reyndist þá Smiðjulautin svonefnda verst vegna snjóþyngsla, enda mun vegurinn hafa verið færður þar til, og nýr byggður í staðinn um árið 1925, en hefir verið endurbættur 6 eða 7 sinnum síðan.
Á árunum 1926 til 1930 voru gerðar mjóar vetrarbrautir í Sandskeiðsbrekku, Bolaöldum, á Hellisheiði, í Kömbum og víðar. Árið 1930 til 1938 var gerður nýr vegur milli Baldurshaga og Hólms, ennfremur vetrarbrautir ofan Lögbergs, í Bolaöldum, svo og í Svínahrauni, ásamt nokkrum vetrarbrautum á Hellisheiði sjálfri, austan Smiðjulautar, við Útileguskafl, Urðarás og víðar.
Bolöldur – kort. Lega gamla vegarins að Svínahrauni um Bolöldur.
Á þeim árum var vegurinn og breikkaður og færður til, vestan Baldurshaga, milli Hólms og Baldurshaga, neðan Gunnarshólma, í Sandskeiðsbrekku, vestri og eystri, í Bolaöldum, í Svínahrauni í Hveradalsbrekkum, á Hellisheiði, við Urðarás og miklar breytingar gerðar í Kömbum og víðar og víðar, sem ekki er hægt upp að telja. Árin 1938 til 1944 var vegurinn breikkaður og færður til, meðal annars frá Reykjavík upp íyrir Ártúnsbrekku, við Rauðavatn, milli Baldurshaga og Hólms, skammt frá Gunnarshólma, í Lögbergsbrekku ofan Lögbergs, á Sandskeiði, í Sandskeiðsbrekkum báðum, neðan til í Svínahrauni, mjög mikið í Hveradalabrekkum, á Hellisheiði, við Urðarás og í Kömbum. Margt voru þetta breytingar, sem ökumenn töldu nauðsynlegar eins og þá stóð viðhorfið í vegamálum.
Þá var nýlega hafin lagning á svonefndum Krýsuvíkurvegi, sem okkur var kunnugt um að ekki mundi verða góður né hagstæður til aksturs vegna þess hve langur hann mundi verða. Ennfremur valið á vegarstæðinu.
Hellisheiðarvegur – kort.
Var okkur kunnugt þar sem sóst er eftir að finna sem flestar brekkur bæði brattar og krókóttar. Enda varð það líka staðreynd þá er honum var lokið að brattinn varð mestur og beygjurnar flestar til samanburðar við aðra okkar austurvegi.
Ég tel líka rétt að geta þess að á umtöluðu tímabili hófst breikkun og endurbætur á Ölfusvegi og brúm. Það skeði rétt eftir að bílar frá þeim Churchill og Thoraren sen mættust á einni brúarmænunni og brotnuðu báðir mjög mikið þá er þeir duttu út af brúnni og niður í skurð.
1944 til 1954 hafa árin liðið, svo sem venja er, og endurbætur á austurvegi halda áfram þrátt fyrir nýjar ákvarðanir og ný vegalög. En ekki hefir ykkur, hæstvirtir alþingismenn, frekar enn öðrum líkað gamla vegstæðið, né gamli vegurinn, þrátt fyrir allar endurbæturnar.
Letursteinninn á Klifhæð.
Á tímabilinu 1944 eða 1945 settuð þið ný lög um það, að leggja skyldi nýjan veg (Austurveg) alla leið frá Rauðavatni til Selfoss, á næstu 7 árum, og leggja gamla veginn niður. Á þeim árum létuð þið vegamálastjóra gera kostnaðaráætlun um sama veg. Kostnaðaráætlunin reyndist það há að ykkur hefir víst svimað við, og það svo, að þið hafið hvorki látið framkvæma verkið né leggja nýjan Austurveg, ekki heldur endurskoða kostnaðaráætlunina.
Hellisheiðarvegur.
Við þetta situr enn í dag. Má það furðu gegna að hæstvirtir alþingismenn hlíti ekki sinum eigin lögum, þrátt fyrir marg endurteknar áminningar frá okkur kjósendum, en ætlist svo til að við hlíðum öllu því, sem þið setjið sem lög.
Árin líða 1944 til 1954. Á þessu tímabili hefir enn á ný, á þessum sömu stöðum verið bætt og bætt, bót við bót, vestan Rauðavatns, milli Baldurshaga og Hólms, en þar hefir snjórinn verið dýpstur á veginum síðastliðna vetur, þrátt fyrir bætur þriðja til fjórða hvert ár hin síðastliðnu þrjátíu. Endurbæturnar halda áfram, norðan Hólms, við Geitháls, móts við Geitháls, austan við Geitháls, í Lögbergsbrekku og það oft, ofan Lögbergs, ofan Lögbergs, ofan Lögbergs, ofan Lögbergs, margendurtekið, þar hefir staðið margra ára styrjöld við símamálastjóra og símastrengi. Endurbæturnar halda áfram, við ártalasteininn 1887 er vegurinn orð inn fimmfaldur, móts við Neðrivötn margendurbættur, við 20 km. steininn er vegurinn fjórfaldur, í Sandskeiðabrekku vestri er búið að gera 10 eða 12 áhlaup til lögunar á beygjunni, en er þó nær vinkilbeygja enn, á Sandskeiðinu er búið að endurbyggja veginn mörgum sinnum á sama stað. Þar hafa hver orðið fyrir öðrum, símastrengurinn og vegurinn orðið að stórtjóni.
Smiðjulaut – Smiðjutóft.
Í Sandskeiðsbrekku er vegurinn orðinn fimmfaldur, í Bolaöldum er hann margfaldur, í Svínahrauni hafa verið gerð stór áhlaup, við Reykjafjall hefir verið kostað nokkru til. Í Hverabrekku hefir enn verið bætt og settur upp minnisvarði (Geirfuglaskeri) móti Skíðaskála og á Hellisheiði, teknar af beygjur og aðrar búnar til, við Urðarás og víðar. Í Kömbum hefir veginum verið breytt úr 33 beygjum í aðeins 11 beygjur. Þetta hefir verið bætt og margt fleira á þessum mörgu árum, gæti því margur haldið að komið væri nóg þegar árið 1953 var liðið, en það reyndist ekki.
Bæturnar héldu áfram á næsta ári. Vinnuaðferðum og afköstunum skal hér lýst með nokkrum orðum.
Fyrsti Suðurlandsvegurinn 1887.
Mánudaginn 2. ágúst byrjaði vegagerð ríkisins vinnu við endurbætur vegarins skammt fyrir ofan Lækjarbotna á Austurvegi. Unnið var við það alla vinnudaga svo sem venja er. Vinnuaðferðin var hin sama og svo oft áður, ekið möl á venjulegum bílum norðan úr Rauðhólum, en burðarmagn malarbílanna er 3 tonn (en aðrir aðilar nota við flutninga á sama vegi 8 til 12 tonna bíla, og jafnvel stærri). Mokað var á með vélskóflu og rótað út af þrem eða fjórum mönnum. Enn fremur var öllum bílunum ekið til Reykjavíkur á hverju kvöldi, og á vinnustað á hverjum morgni, fyrir háa greiðslu.
Á þessum umrædda stað var vegurinn hækkaður allt frá 25 cm. og upp í 70 til 80 cm. Vegalengdin sem þessi hækkun var gerð á er sennilega um 300 metrar. Þessi vegarstúfur er því ekki langur miðað við alla vegalengdina austur yfir Hellisheiði, því að það eru margir kílómetrar.
Það mun hafa verið þriggja vikna verk að hækka þennan bút. Mun það því hafa kostað ærið fé, og væri því ekki þörf fyrir ráðamenn að kynna sér vel hvað þessi vegstúfur hefir kostað. Ekki væri siður þörf á að kynna sér hvert gildi þessi hækkun hefir á vegi sem er að verða 69 ara. Varla er það svo hátíðlegt afmæli að svona miklu þurfi að kosta til. Annað mál væri ef um sjötugsafmæli væri að ræða, þá veitti ekki af að halda sér til.
Hellisheiðarvegur ofan Hveragerðis.
Þess er rétt að minnast að svona vinnuaðferð má teljast alveg sérstök, þar sem um er að ræða mjög gott ýtuland, en slík verkfæri eru ekki einu sinni notuð til að hækka undir þar sem breikkað er, heldur ekið möl og aftur möl. Verður malarlagið því á annan metra að þykkt, þar sem breikkað hefir verið líka. En hver teningsmetri af aðkeyrðu efni kostar yfir 30 krónur, en þar sem ýtt væri upp með jarðýtu kostað teningsmetrinn aðeins 4 til 5 krónur.
Austurvegurinn 1900.
Þarna geta menn séð hagsýni vegagerðarinnar, en svona vinnuaðferð er búið að viðhafa í mörg ár öðru hvoru á austurvegi, en það er þó sá vegur, sem á að leggjast niður innan fárra ára og nýr að koma í staðinn, og mun koma.
Svo sem áður er sagt þótti ykkur kostnaðaráætlun vegamálastióra um nýjan veg of há, en hefir auðvitað verið miðuð við svona vinnubrögð eins og þau hafa verið á þessum umrædda vegbút. Svo há þótti kostnaðaráætlunin að hin hæstvirta fjárveitinganefnd Alþingis hefir ekki enn þann dag í dag, fengist til að byrja á fjárveitingu til vegarins. En í svona vegbúta veita alþingismenn fé, ár eftir ár, svo tugum þúsunda skiptir. án þess að fyrirskipa eða láta framkvæma nauðsynlegar endurbætur og vegalagningar eftir tækni og þekkingu nútímans, eins og tíðkast mun í nágrannalönd um okkar. Nei, ekki er svo gjört, heldur halda bæturnar áfram. Þá er þeirri 300 metra bót var lokið, seint í ágúst, var enn byrjað a nýrri bót milli Lögbergs og Sandskeiðs. Unnið var við þessa bót svo lengi sem sumarið entist, og jafnvel fram á vetur. Enginn veit hvort því verki er lokið eða ekki, né hvenær næsta bót verður sett utan á eða ofan á umræddan vegstúf.
Hellisheiðarvegur.
Löngu áður en því verki var lokið, var byrjað á einum vegbút móti Vorsabæ í Ölfusi. Unnið var við þetta verk fram á vetur og byggður nokkur bútur, en það er vitað mál að því verki er ekki nærri lokið, það sögðu þeir sem þar unnu að þessi bútur ætti að verða 950 m. langur, að báðum beygjum meðtöldum.
Nú hafið þið heyrt (og jafnvel séð) hvað gerst hefir til endurbóta á Austurvegi í heilan mannsaldur. Ég vona líka að þið hafið fylgst með hverju sinni hvernig bæturnar minnka snjólögin á veginum, að því hefir verið stefnt annars var fjöldi bótanna óþarfur.
En hvað skeður? 8. nóvember síðastl. gerði snjóél með stinningskalda á suðvestan. Hinn sama dag, var tilkynnt í ríkisútvarpinu um hádegið að Hellisheiði væri ófær bifreiðum. Hvað hafði skeð?
Það hafði fallið snjór á hinn gamla veg í 4 til 6 tíma og hann orðið ófær bifreiðum um leið. Þrátt fyrir allar endurbæturnar síðastl. 30 ár.
Hvað er fram undan næst?
Ég leyfi mér hér með að spyrja:
Í fyrsta lagi: Hvað hafa þær bætur kostað, sem gerðar voru í sumar á austurvegi?
Í öðru lagi: Í hve mörg ár enn, er hugsað um að halda áfram með þennan bótaklasa?
Í þriðja lagi: Hvað veldur því að ekki er lagður hinn nýi austurvegur? Svar óskast.
Staddur á bættum vegbút, 12. desember 1954.“ – Ólafur Ketilsson.
Á Mbl.is 15. ágúst. 2013 segir af „Merkum Íslendingi“; Ólafi Ketilssyni:
„Ólafur Ketilsson sérleyfishafi fæddist á Álfsstöðum á Skeiðum 15.8. 1903, og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Ketill Helgason, bóndi á Álfsstöðum, og k.h., Kristín Hafliðadóttir húsfreyja.
Ketill var sonur Helga, b. í Skálholti og Drangshlíð undir Eyjafjöllum Ólafssonar, og Valgerðar Eyjólfsdóttir, frá Vælugerði í Flóa.
Kristín var dóttir Hafliða Jónssonar b. á Birnustöðum, frá Auðsholti í Biskupstungum, og Sigríður Brynjólfsdóttir frá Bolholti á Rangárvöllum.
Systkini Ólafs urðu níu en átta þeirra komust á legg. Meðal þeirra voru Brynjólfur, lengi starfsmaður hjá Reykjavíkurborg; Valgerður, húsfreyja á Álfsstöðum; Helgi, bóndi á Álfsstöðum: Sigurbjörn, skólastjóri í Ytri-Njarðvík; Kristín Ágústa, húsfreyja í Forsæti; Hafliði, bóndi. á Álfsstöðum, og Guðmundur, mjólkurfræðingur hjá Mjólkurbúi Flóamanna.
Kona Ólafs var Svanborg Þórdís Ásmundsdóttir, húsfreyja, frá Neðra-Apavatni í Grímsnesi, og eignuðust þau þrjár dætur og einn kjörson.
Ólafur var á togurum nokkrar vetrarvertíðir og eftirsóttur háseti enda þrekmaður, rammur að afli. Hann tók bílpróf 1928, festi kaup á vörubifreið sama vor og ók um skeið fyrir kaupfélagið á Minni-Borg í Grímsnesi.
Ólafur fékk sérleyfi fyrir fólksflutninga til Laugarvatns, Gullfoss og Geysis 1932 og hélt uppi áætlunarferðum milli Reykjavíkur og Laugarvatns í marga áratugi. Hann varð með tímanum góðkunn þjóðsagnapersóna fyrir hnyttin tilsvör og sérlega gætilegan akstur. Þá átti hann stundum í útistöðum við embættismenn kerfisins sem honum fannst svifaseint og stirt.
Ólafur var lengst af búsettur í Svanahlíð á Laugarvatni en síðustu árin bjó hann í íbúð sinni í Sunnuhlíð í Kópavogi.
Árið 1988 komu út æviminningar Ólafs, Á miðjum vegi í mannsaldur.
Ólafur lést 9.7. 1999.“
HÉR má lesa meira um Óla Ket.
Heimildir:
-Tíminn, 13. tbl. 18.01.1955, Ágrip af sögu Austurvegar síðastliðin 30 ár, Ólafur Ketilsson frá Laugarvatni, bls. 4 og 6.
-Mbl.is, 15. ágúst. 2013, Merkir Íslendingar, Ólafur Ketilsson – https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1476103/
-https://skemman.is/bitstream/1946/22419/1/BA_ritgerd_Oli_Ket.pdf
Óbrennishólmi I
Tiltölulega stutt er í Óbrennishólmann í Ögmundarhrauni, þangað sem ferðinni var heitið. Hægt er að ganga inn í hólmann vestast í honum eða fylga stígnum uns komið er að þvergötu til vinstri. Hún liggur í gegnum hraunið og inn í suðaustanverðan hólmann.
Á hæð í sunnanverðum hólmanum er nokkuð stór fjárborg – að ætla mætti. Þegar betur er að gáð gæti þarna hafa verið um virki frá fyrstu tíð landnáms á svæðinu, nokkru fyrir landnám „hins fyrsta landnámsmanns“. Enn sést vel móta fyrir hringnum. Hann hefur staðið að hæsta hól ofan við hina fornu Krýsuvík þar sem útsýni var yfir hafflötinn framundan.
Skammt austan hennar, nær hraunkantinum, er tóft húss, sennilega topphlaðið hús að forni fyrirmynd. Sunnan tóttarinnar er rétt eða gerði inni í hraunkraga. Hlaðið er framan við kragann, en þær hleðslur virðast vera nýrri en t.d. fjárborgirnar.
Virkið (fjárborgin) í Óbrennishólma.
Efst í hólmanum norðaustanverðum (fara þarf yfir mosahraun á kafla) er hlaðinn beinn og síðan bogadreginn garður, sem hraunið hefur stöðvast við. Vel sést móta fyrir hleðslunum á nokkrum stöðum. Garðurinn endar í króg skammt neðar. Þar gæti einnig hafa verið fjárbyrgi og að neðsta hleðslan sé hluti þess. Ekki er óhugsandi að Óbrennishólmi hafi verið notaður sem selstaða eða til beitar um tíma því ofan hans má greina manngerða stíga.
Tóft í Óbrennishólma.
Vestan við stóru fjárborgina liggur gróinn og nokkuð jarðlægur garður undan hraunkantinum, upp með dragi og áfram upp í hólmann. Hér virðist vera um mjög fornan garð að ræða. Hann eyðist nokkru ofar, en þó má enn sjá móta fyrir honum ofan við miðjan hólmann, en þá hefur hann breytt lítillega um stefnu, skammt neðan við eldri hraunkant í miðjum hólmanum. Garðurinn virðist vera með samskonar lagi og garðarnir í Húshólma. Af því að dæma er ekki fjarri lagi að álykta sem svo að líta verði á svæðið (Húshólmi/Óbrennishólmi) sem eina heild.
Gangan tók 2 klst og 11 mín. Frábært veður.
Fornir garðar í Óbrennishólma.
VE 113 – letursteinn
Í hól á lóð Karlsskála, Víkurbraut 13, í Grindavík er steyptur sléttur steinn með áletruninni „VE 113„. Í gegnum steinnin gengur járnteinn.
Steinninn við Karlsskála.
Rætt við nokkra staðkunnuga um tilurð steinsins, en fátt var um svör.
Karlsskáli var byggður árið 1923. Núverandi eigandi hanns er Gunnar Ólafsson, Sæbóli (Víkurbraut 5). Hann sagði að steininn hafi verið þarna í hólnum þegar að hann keypti Karlsskála fyrir tveimur áratugum, hann mundi eftir honum áður og taldi að þetta væri netadreki/stjóri. Stjórinn var með járngjörð og auga sem er ryðgað af, en meira vissi hann ekki.
Von VE 113 var smíðaður í Vestmannaeyjum, en seldur þaðan árið 1943. Ekki er vitað um afdrif bátsins, en bátur með sama nafni, Von II VE 113 var smíðaður sama ár í Vestmannaeyjum. Hann varð síðar Von II GK 113 og var brenndur á áramótabrennu í Innri-Njarðvík 1992. Líklegt er að Von GK 113 hafi orðið að Von GK 113 og verið gerð út frá Grindavík um tíma.
Steinninn við Karlsskála – VE 113.
Er jarðskurnin að springa undir Íslandi?
Í Lesbók Morgublaðsins 1962 fjallar Gísli Halldórsson um jarðfræði undir fyrirsögninni „Er jarðskurnin að springa undir Íslandi?“
Áður héldu menn, að jörðin vœri að kólna og dragast saman —
en nú segja þeir sérfróðu: Hún er að hitna og þenjast út.
Er jarðskurnin að springa undir Íslandi?
„Krýsvík er gamalkunnugt hverasvæði. Þar eru bæði gamlar og líka nýjar hverastöðvar og þar hafa orðið miklar gossprengingar sbr. t.d. Grænavatn. Jörð er þarna víða sundursoðin og jarðhiti virðist megn og upprunalegur, á litlu dýpi.
Sveifluhálsinn liggur, eins og helztu eldfjallasprungur hér á landi, frá suðvestri til norðausturs. Sé farið meðfram hálsinum austanverðum, má sjá ótal gufuhveri, bæði við rætur hálsins og í hlíðum hans, allt upp undir efstu brúnir. Einnig má sjá hveri hinum megin hálsins.
Jörðin.
Og um 4 km vestar er Trölladyngja, sem er gamalt jarðihitasvæði, er liggur í framhaldi af Vesturhálsi. Í sömu stefnu og hálsarnir, en norðar og austar, liggja Sauðabrekkugjá og Fjallgjá og á milli þeirra margar sprungur, allar samhliða. Skammt sunnan og vestan við Sveifluháls, sem einnig er nefndur Austurháls, er Engihver og Nýihver, ekki alllangt frá Grænavatni. Þá er og laug sunnan við Kleifarvatn.
Brennisteinsfjöll – kort.
Næsta stórsprunga virðist vera allmiklu austar, þar sem heita Brennisteinsfjöll. Liggur sú sprunga einnig samhliða hálsunum og gjánum sem fyrr voru nefndar.
Ekki verður efast um það, að allt þetta svæði er í nánum tengslum við heit jarðlög, og er líklegt að geysimikil sprunga sé undir þessu svæði og nái inn úr jarðskorpunni.
Samkvæmt þeim hugmyndum, sem menn hafa síðast gert sér um eðli jarðskorpunnar og fram komu á hinni alþjóðlegu jarðeðlisfræðiráðstefnu, sem fyrr var nefnd, er skurn jarðar lagskipt. Er yzta lagið aðeins um 5—7 km á þykkt, þar sem það liggur undir sjávarbotni. Og er það haldið vera að mestu úr basalti. En undir meginlöndunum er lag þetta miklu þykkara, eða líklega um 35—60 km á þykkt, og úr léttu graníti. Innan við þetta lag tekur við hin svokallaða yzta skurn jarðhjúpsins. Og nær um 50 km dýpi, undir höfum, en um 100 km dýpi undir meginlöndum. Þar tekur við innra lag skurnarinnar. En samtals eru þessi lög um 3000 km á þykkt. Ofan á jarðlög þau, sem í sjó liggja, hafa sezt létt lög af botnfalli, en niður í gegn um þessi lög ganga þau berglög, sérstaklega undir fjöllum, sem virðast fljóta eins og ísjakar í jarðskorpunni.
Flekaskil jarðar.
Vegna þeirra átaka, sem jarðskurnin verður sífellt fyrir, breytir hún iðulega um lögun. Stafa átök þessi að nokkru leyti frá tunglinu, í formi aðdráttaraflsins, og frá hitabreytingum, hitastraumum og misþennslu, innanfrá.
Fjallið eina.
Þá getur mikill ísþungi þrýst niður jarðlögum og jarðlögin á ný flotið upp, eða lyfzt, þegar ísinn bráðnar. Loks hlaðast upp heil lönd og fjallgarðar, af gosefnum innan úr jörðinni. En stundum ná þessi efni ekki upp á yfirborðið og lyfta þá landinu sem ofan á liggur upp. Á öðrum stöðum myndast holrúm og landið fellur niður. Fylgja þessu oft jarðskjálftar.
Það hefur lengi verið skoðun jarðfræðinga, að jörðin væri að kólna og við kólnunina að dragast saman, og að fyrir bragðið myndi skurnin hafa tilhneingu til að mynda fellingar, og að bær fellingar væru orsök hinna ýmsu fjallgarða. En þótt finna megi fjöll, sem virðast hafa myndazt við fellingar, þá telja ýmsir nú að síðustu rannsóknir bendi til þess, að mestu fjallgarðar heimsins hafi ekki myndazt vegna samdráttar skorpunnar, og séu ekki fellingar.
Jörðin að þenjast út
Flekaskilin um Ísland.
Fremur mun það nú álit manna, að jörðin sé að hitna að innan og að orsök fjallamyndana séu geysilegar sprungur, sem ná langt inn í skorpu jarðar. Er álitið að undir meginlöndum falli þessar sprungur, með 30° halla, allt niður í 300 km dýpi, en breyti þá um halla, allt niður í 700 km dýpi.
Undir eyfjöllum mynda sprungurnar hins vegar 60° halla, allt í 700 km dýpi. En þegar komið er í þetta dýpi er bergið orðið mjög holt og fljótandi og þrýstingur á því geysilegur. Sprungur við eyfjöll eru taldar koma app sjávarmegin fjallsins.
Þriðja tegund sprungna er loks talin vera undir eldfjöllum á Mið-Atlantshafsfjallgarðinum, sem Ísland liggur á. Eru þær sprungur, sem næst lóðréttar og mjög grunnar, e.t.v. aðeins 20—30 km.
Frá sprungum þessum í Mið-Atlantshafsfjallgarðinum ganga ótal hliðarsprungur skáhallt upp á við, og vella þar upp hraun og heit jarðlög.
Norður-Atlanfshafshryggurinn.
Á hinu svokallaða jarðeðlisári, sem ábur var á minnst, komust menn fyrst að raun um, hve geysilega víðáttumikill Mið-Atlantshafs-fjallgarðurinn er, því að hann nær óslitinn, heimskautanna á milli. Og er frá 500 til 2000 km á breidd.
Eftir honum endilöngum, og þar sem Ihann rís hæst, gengur sprunga, sem sker hann í sundur og er allt að 50 km að breidd. Stafa hverir bæði á Íslandi og á Azoreyjum, frá varmanum sem berst upp um þessa sprungu. Fjallgarður þessi tekur yfir nær 1/3 hluta Atlantshafsins. Í Kyrrahafinu, sunnanverðu, beygir Austur-Kyrrahafs-fjallgarðurinn, eða neðansjávar-hásléttan, sem, svo mætti nefna og sem er nær 5000 km á breidd, í kringum Ástralíu og tengist Mið-Atlantshafs-fjallgarðinum. Og saman ná þessir tveir fjallgarðar, að mestu neðansjávar, yfir 64,000 km lengd og grípa umhverfis gjörvalla jörðina.
Mælt hefur verið, að varmauppstreymið í skorpunni yfir neðansjávarhásléttunni, undir Galapagos og Páskaeyjum, reyndist sjöfallt meira en þekkist í jarðskorpunni annars staðar. Og æ fleiri rök hníga nú að því, að fjallmyndun fari fram, ekki með samdrætti og fellingum, heldur með þeim hætti, að efni berist innan úr jörðinni, upp í gegnum sprungur í jarðskorpunni og að land þar ofan á rísi þá smám saman úr sjó, en eins og vitað er. Þá nær sjór yfir meir en 70% af yfirborði jarðar.
Skurnin að springa undir Íslandi?
Flekaskil og eldsumbrot á jörðinni síðustu milljón árin.
Ef skoðanir þær, sem hér hefur yfirborð, eða efsta skurn jarðar umhverfis Krýsuvík, sé þanið, eins og ef teygt væri á landinu til norðvesturs og suðausturs, þvert á sprungurnar, sem við þetta hafa myndazt.
Hverasvæðið í Seltúni.
En Ísland virðist einmitt hafa orðið til, og vera sífellt að rísa hærra, vegna jarðhræringa og gosa, sem stafa frá hinni miklu sprungu í Mið-Atlantsbafs-fjallgarðinum. Þessi mikla sprunga skiptir jarðskurninni í rauninni í tvo helminga og er eins konar öryggis- og þensluloki fyrir hið heita berg, sem helzt undir miklum þrýstingi innan við skurnina. Þetta berg kann að endurnærast af ofsa heitum bergstraumum innan úr jörðinni, sem þenjast út þegar ofar dregur og fargið minnkar, undir þunnri jarðskorpu.
Í ljósi þessa skilnings má gizka á, að hitinn undir Krýsuvíkurlandi eigi sér upptök á ekki miklu dýpi, e.t.v. á aðeins 20—25 kílómetra dýpi. Einnig að aðalsprungurnar séu brattar eða lóðréttar, en hliðarsprungur greinist frá þeim, með langtum minni halla. Því miður eru jarðlög í Krýsuvík þannig, að erfitt er með hitamælingum að finna aðalupptök varmans.
En þetta gerir jarðboranir vandasamar, vegna þess hve erfitt er að staðsetja heppilega borstaði.“ – Gísli Halldórsson
Heimild:
-Lesbók Morgublaðsins, 4. tbl. 11.03.1962, Er jarðskurnin að springa undir Íslandi?, Gísli Halldórsson, bls. 9 og 15.
Flekaskilin um Ísland.
Sjórinn brýtur land á Reykjanesskaganum
Ólafur við Faxafen, eins og höfundur nefnir sig, skrifaði um „Hæð sjávarborðs við strendur Íslands“ í tvö tbl. Náttúrufræðingsins árið 1947:
Sjávarhæð – mismundur.
„Landið stendur ekki kyrrt, það hækkar og lækkar undir fótum vorum. Það gerir það nú, það gerði það fyrir hundrað árum, fyrir tvö hundruð árum, og hefur sennilega gert það frá landnámstíð, ef það hefur þá ekki alltaf annað slagið dúað og vaggað, síðan þurrt land varð á þessum hluta jarðaryfirborðsins, sem nefndur er Ísland. Það er tvisvar stórstreymt og tvisvar smástreymt á hverjum tunglmánuði, alls staðar þar sem sjávarfalla gætir á jörðinni. Og hér við land, (en þó ekki hvarvetna á Iinettinum, þar sem munur er flóðs og fjöru) stígur sjórinn tvisvar og fellur á sólarhring. En þó að stórstraumsflóð séu misjafnlega mikil, aðallega af mismunandi ólgu sjávarins og áhlaðningi við land, breytist meðalhæð stórstraumsflóða ekki, miðað við ströndina, nema annað komi til. En af því að Ísland ýmist hækkar eða sígur, þó að hægt fari, þá hlýtur efsta fjöruborð að breytast í samræmi við það. En fjöruborðið hér við land er að breytast á ýmsa vegu. Því svo fjarri er það, að Foldin hreyfist alls staðar jafnt, að hún er sumsstaðar að síga, en rís á öðrum stöðum.
En hér verður rætt eingöngu um þær breytingar, er stafa af hreyfingu lands, og aðallega þær breytingar, sem eru að verða nú á vorum dögum. Nokkuð verður þó að seilast aftur á bak, jafnvel til landnámstíðar. En um sjávarborð, sem eru eldri en byggð landsins, verður ritað síðar og sér.
Þó að allnákvæmlega sé hér sums staðar frá sagt, er langt frá, að hér séu öll kurl látin til grafar koma — ekki einu sinni sviðið í hverri gröf.
Landnám Ingólfs
Gægst um í Þorlákshöfn.
Verður nú byrjað á landnámi Ingólfs austanverðu og haldið vestur með landi. Náði landnám hans í fyrstu að Ölfusá, er feður vorir nefndu Hvítá. Fellur áin nú til sjávar úr austurkrika lóns þess, er hún myndar við sjóinn. En ósinn var á landnámstíð nálægt miðri sandeyrinni, sem er framan við lónið og mun hafa verið nefndur Álfsós.
Víkarskeið – gleymt örnefni við Ölfusárósa.
Ós árinnar hefur hlaupið til og frá í tímans rás.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns — hér eftir til hægðarauka nefnd bara Jarðabók — getur ýmissa jarða í Ölfusi, er spillzt hafa af sjávarflóðum. En þeim verður sleppt hér, því betur á við að geta þeirra, þegar kemur að flata landinu, austan Ölfusár. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, er þeir tóku saman á árunum 1702 til 1712, en ekki var prentuð fyrr en liðlega tveim öldum síðar. Hafa 1.—9. bindi verið prentuð í Kaupmannahöfn á árunum 1913 til 1943 og eru ekki enn komin öll.
Eini bærinn í Ölfusi, er stendur við sjálfan útsæinn er Þorlákshöfn, en hún er 6—8 rastir frá þeim bæjum, sem næstir eru. Jarðabók getur þess (ár 1706), að sjávarbrot grandi þar túni. Síðan fara litlar sögur af þess konar skemmdum þar, en landið þar virðist þó hafa verið að síga, því í stórflóðum flæðir inn yfir allan kamp. Varð mest þess konar flóð þar fyrir um 20 árum (að líkindum 1925).
Á þessum slóðum gerist ströndin klettótt, en endar sendna ströndin, er nær, svo að segja óslitin, meðfram landinu að sunnanverðu, austur undir Berufjörð.
Selvogur
Selvogur.
Engin byggð er í vestur frá Þorlákshöfn, fyrr en komið er í Selvog, og eru þarna um 15 rastir milli bæja. Selvogurinn er sérstakur hreppur, og eru þar aðallega tvær byggðir, auk nokkra einstakra bæja.
Selvogur – Nesborgir. Borgirnar eru nú nánast komnar undir kampinn.
Jarðabók (ár 1706) getur, að sjór grandi að framan túnunum á Nesi og Bjarnastöðum, og er líkt sagt um túnin í Götu og Þorkelsgerði. Um Bæjarbúð er sagt, að lendingin sé orðin ónýt, um Eimu, að sjór brjóti framan af túni, og um Vindás, að sjórinn sé búinn að brjóta svo af túninu, að bænum sé varla óhætt lengur. Voru bæði Eima og Vindás komin í eyði fyrir 1750. Um Snjóthús er sagt í Jarðabók, að sandur og sjávargangur spilli þar túninu ár frá ári, og um Sauðagerði, að sjávargangur skemmi árlega meir og meir túnið og sé nú svo komið, að hvorki sé óhætt húsum né mönnum og hafi fólkið oft þurft að flýja úr bænum í stórbrimum. Snjóthús og Sauðagerði voru bæði komin í eyði, þegar séra Jón Vestmann ritaði sóknarlýsingu Selvogs 1840 (en ekki er fullkunnugt, að það hafi allt verið Ægi að kenna, því að sandfok af landi hefur líka verið mikið í Selvogi).
Herdísarvík. Sjórinn hefur rofið grandann milli sjávar og Tjarnarinnar.
Vestasti bærinn í Selvogshreppi er Herdísarvík. Um hana segir Jarðabók, að tjörn, sem sé hjá bænum, grandi túninu, því að hún fyllist af sjávargangi, svo að bænum sé ekki óhætt fyrir flóði tjarnarinnar. Síðan hafa þar oft komið stór flóð, eitt þeirra skömmu eftir aldamótin og annað á fyrri stríðsárunum eða rétt á eftir. Tók þetta síðarnefnda flóð af bæinn, sem sennilega hefur staðið þarna frá landnámstíð. Að minnsta kosti er ólíklegt, að hann hafi verið fluttur nær sjó þaðan, sem hann fyrst var byggður. En vafalaust hafa mörg stærri flóð komið en þetta og hefðu tekið bæinn fyrr, hefði landið ekki staðið hærra þá.
Selvogur er enn að lækka. Má sjá það á því, að sker koma minna upp úr en áður, og á því, að kampar færast upp á við. Hefur sjór verið að brjóta f járborgir, sem byggðar hafa verið nokkuð fyrir ofan sjávarmál (til skjóls fyrir sauðfé, sem beitt er á fjöruna) í mikla flóðinu, sem kom fyrir liðlega tuttugu árum, braut sjórinn aðra af tveim fjárborgum í Nesi. Sjórinn er nú að brjóta þar fjárborg, og er sagt, að það sé sú, sem eftir stóð árið 1925.
Grindavík
Grindavík.
Frá Herdísarvík er engin byggð við sjó, fyrr en komið er að austasta bænum í Grindavíkurhreppi, og er sú vegalengd um 25 rastir, og er á þessari leið hið nafnkunna Krýsuvíkurberg.
Ísólfsskáli er þar austast við sjó.
Ísólfsskáli – túnakort 1918 sett yfir nýlega loftmynd. Gamli brunnurinn er kominn undir kampinn. ÓSÁ
Getur Jarðabók þess (ár 1703), að vatnsból, sem þá er grafinn brunnur, sé háskalegt bæði mönnum og skepnum, enda sjórinn þá kominn svo nærri, að hætta sé á, að brunninn fylli af möl og grjóti, og þá jafnvel hætta á, að jörðin leggist í eyði af vatnsleysi. Svo illa hefur þó ekki farið. En að sjórinn hefur gengið upp í brunninn og fyllt liann, má sjá á því, að séra Geir Bachmann getur þess árið 1841, að mikill vatnsskortur sé á ísólfsskála og ekki annars kostur þar en fjöruvatna og sé það vatn haft bæði til neyzlu heimilisfólks og búpenings. En fjöruvötn eru nefndar þær uppsprettur, einatt aðeins seytlur, sem koma upp fyrir neðan flóðmál og ekki er hægt að ná til nema um fjöru. (Geir Bachmann: Lýsing Grindavíkursóknar 1840—41.) Líka getur séra Geir þess, að sjór brjóti land á ísólfsskála og sandur frá sjónum sé farinn að berast upp í selalátur jarðarinnar undir Festarfjalli og spilla þeim.
Ísólfsskáli.
Frá Ísólfsskála eru 4—5 rastir til hinnar eiginlegu Grindavíkurbyggðar, því að björg eru með sjónum, svo að ekki verður farin stytzta leið, heldur verður að fara kringum Festarfjall.
Þórkötlustaðanes – brak.
Sjórinn hefur brotið framan af Nesinu.
Jarðabók (1703) getur þess, að sjór brjóti af túninu á Hópi, svo og land Þorkötlustaða, einkum hjáleigunnar Bugðungu, og sé hætt við enn meira landbroti. Fór það og svo, því að eitthvað liðlega 100 árum síðar, þurfti að flytja tvær hjáleigur Þorkötlustaða, sem voru í landsuður að sjá frá bænum, hærra upp á túnið, því að svo nærri þeim var sjórinn þá farinn að ganga. Var önnur þessara hjáleigna Bugðunga (Bullunga), en hin var Klöpp.
Selalátur hafði verið syðst í Þorkötlustaðanesi, en séra Geir segir (1841), að selurinn hafi „vegna brims og uppbrots á landið yfirgefið látrin“. Vera má, að fleira kunni að liafa komið til en landbrotið, að selurinn fór, en það skiptir engu máli. Aðalatriðið er, að séra Geir er kunnugt um, að þarna hefur brotið svo mikið land, að hann álítur það næga skýringu.
Þórkötlustaðir.
En um 40 árum áður en séra Geir ritaði lýsingu Grindavíkur, hafði sjórinn gert mikinn usla á prestsetrinu Stað: skemmt þar tún, brotið mikið land og tekið alveg af tvær hjáleigur, er liétu Sjávarhús og Litlagerði. Sópaði þá burt öllum jarðvegi, þar sem Sjávarhús höfðu staðið, svo að þar var ekki annað eftir en ber klettur. „Fellur nú sjór á milli klettsins og naustanna í hverju stórstraumsflóði,“ segir séra Geir og ennfremur, að þar, sem Litlagerðishúsin stóðu, sé nú hár og stórgrýttur malarkambur.
Staðarhverfi suðvestan við Grindavík. Litlagerði og Kvíadalur er nú nánast komnir í sjó fram.
Hann lýsir túnunum á prestssetrinu þannig, að þau séu „mikið slétt, og í gróandanum yfrið fögur,“ en þau skemmist nokkuð af sandfoki, og það sem verra sé, að þeim er „af sjávar ágangi líka mikill skaði búinn, af sunnanveðrum og brimi“. Um jörðina Húsatóttir er sagt í bréfi dags. 19. maí 1703, að hún sé skaðvænlegum grjóts- og sjávargangi undirlögð. En séra Geir segir um hana meðal annars: „Milli túnsins og sjávarins er landið mjög lágt, og í sjávargangi gengur löðrið svo að segja alveg upp undir klettana, (sem túnið er á). Hefur jörð þessi mjög liðið við það, því að smágrjót og sandur er nú nægur á láglendi þessu. Muna gamlir menn, að þar hafi verið aligott beitiland, ef ekki líka slægjuland.“ Loks getur Jarðbók Járngerðarstaða, að sjór brjóti nokkuð á land þeirra. Hið sama á sér enn stað í tíð séra Geirs, því að hann segir sjó brjóta þar og bætir svo við: „Ekki eru heldur hjáleigurnar á Járngerðarstöðum fríar fyrir sjávargangi, t. d, eru Hrafnshús, sem áður stóðu milli Akurhúsa og Kvíhúsa, í seinni tíð flutt þangað, sem þau nú eru. Kvíhús standa árlega í miklum voða fyrir sjávaráfalli, og það sama má segja um Akurhús, nema herrann vilji enn meiri miskunn gera.“ Það er að heyra á séra Geir, að hann hafi ekki búizt við neinu kraftaverki þarna, enda mun ekki hafa af því orðið, því að hjáleigan er liðin undir lok.
Um hina fornu höfn í Grindavík segir í sóknarlýsingu séra Geirs (1840): „Á milli Staðar og Húsatótta, þó nær Stað og rétt í austur þaðan, er höfn sú eður skipalægi, er forðum var siglt upp í Grindavík. Eru tveir festarhringir með boltunum, sá að austan og norðanverðu, enn þá óbrjálaðir í skerjum þeim er Húsatóttum tillieyra.
Staðarhverfi.
En hinn þriðji boltinn, en úr honum er hringurinn farinn, er á Staðarlóð í skeri austur af Sjávarhúsi. Var kaupskip þannig bundið á þrjá vegu, en atkerum varpað fram af því, og horfði svo á sjó út í landsuður.“ Tvö þessara skerja eru nú alvaxin þangi og eru mjög lág að sjá, þó að enn komi þau upp um fjöru.
Kvíadalur.
Segir séra Brynjólfur Magnússon í Grindavík (1947), að segja megi um Staðarhverfið (og eiginlega allt byggðarlagið), að sjórinn smámylji niður landið og megi svo að segja árlega sjá mun einhvers staðar, þó að mest beri á þessu í stórflóðum, því að þá beri sjórinn kampinn hærra, og mest í flóðinu mikla, er kom 1925. En í því flóði braut víða stór skörð, er sjá má með allri ströndinni, en kampinn rak flóðið á undan sér nokkuð upp á tún. Nokkur hús lögðust þá í eyði, en sjórinn gekk eftir þetta svo upp í naustin, að nauðsynlegt þótti að steypa varnargarð fyrir framan þau.
Byggð er ekki önnur en sú, er lýst hefur verið, á allri ströndinni frá Þorlákshöfn til Reykjaness , og er vegalengdin um 70 rastir, þó að í lofti sé farið. En við Reykjanes fer landið að ganga sem næst beint til norðurs. Er vesturströnd þessa mikla útskaga 30 rasta löng norður á tá Garðskaga, en syðsti þriðjungur hennar er óbyggður frá fornu fari. Voru þarna enn tíu rastir með sjó óbyggðar frá Stað í Grindavík til Kalmanstjarnar í Höfnum, áður en Reykjanesviti var reistur.
Hafnir
Hafnir.
Fyrir um að bil 100 árum ritar Brandur Guðmundsson, að þurft hafi að fækka kúm í Kirkjuvogi og Kotvogi, af því að tún hafi gengið úr sér, meðal annars vegna sjávar landbrots, og um líkt landbrot talar hann í Junkaragerði. (Brandur Guðmundsson hreppstjóri: Lýsing á Höfnum.) Árnagerði er þá komið í eyði, og segir Brandur, að orsökin hafi verið sandfok frá sjó og landbrot.
Miðneshreppur
Stafnes.
Enn kemur nokkurt óbyggt svæði, þar til komið er að byggðu bóli í Miðneshreppi (eða Rosmhvalahreppi, er svo hér til forna. (Rosmhvalur þ. e. rostungur).
Segir Jarðabók, að sjötíu árum áður en hún er rituð hafi á jörðinni Stafnesi verið land það, er Snoppa (eða Snapa) var kallað, hafi það verið að stóru gagni til slægna og einnig verið notað til skipauppsátra, en nú sé það „af sandi aldeilis yfirfallið og með hverri stórflæði næstum því yfirflotið af sjó.“
Stafnes – örnefni. ÓSÁ.
En um túnin er sagt, að þau spillist ,,æ meir og meir af sandi og sjávargangi.“ Um hjáleigurnar þetta: Refakot fór í eyði 1663, og huldi sjórinn síðan allt túnið möl og sandi. Líklegast hefur það verið sama árið, sem Litla-Hólmahús fór í eyði, af því að sjór tók af graslendi það, er því fylgdi. Af sjó og sandi lagðist Halldórshús í eyði 1697 og sama ár Grímuhús vegna skemmda af sjávargangi. En fimm árum síðar var bæjarstæðið, þar sem Grímuhús hafði verið, brotið alveg af. Árið 1701 reisti maður, sem mun hafa heitið Steinn, sér nýbýli, er nefnt var Steinskot, í Stafneslandi. En tveim árum síðar braut sjórinn meiri hlutann af túninu þar. En eitthvað um 140 árum eftir að Jarðabók er rituð, segir sr. Sigurður B. Sívertsen um Stafnes, að það hafi áður verið 143 hundraða jörð,en hafi nú verið sett niður í 30 hundruð. (Sigurður B. Sivertsen: Lýsing Útskálaprestakalls 1839. Prentuð í Sýslulýsingum og Sóknalýsingum, Reykjavík 1937-39.)
Bætir svo við „má þar af sjá, hvað stórlega sú jörð hefur af sér gengið og gengur enn í stórflóðum af sandi og sjávarágangi.“
Um jarðirnar Lönd og Busthús er þess getið, rétt eftir 1700, að túnin skemmist af sjávargangi, og aftur 1839, um hina fyrrnefndu, að hún verði „fyrir sjávarbroti.“
Básendar
Básendar.
Verzlunarstaðurinn Básendar var í fyrstu nýbýli úr Stafneslandi. En höfnin þar er vík, sem skerst um 600 stikur inn í landið til norðausturs. Er hún um 300 stikur á breidd fremst, en mjókkar, og er innri hluti hennar um 130—150 stikna breiður. Skerjaröð, sem er um 500 stikur, er fyrir framan víkina og nokkuð suður með landi, svo að leið inn á höfnina er krókótt. Verður fyrst að nálgast land um 500 stikum sunnar en víkin er opin, en síðan, þegar komið er austur fyrir skerin, halda til norð-norðvesturs, þó að víkin liggi til norðausturs, eins og fyrr var frá greint.
Básendar. Land, sem áður var gróið, er nú nánast horfið.
Tvö skip gátu legið þarna í einu, ef þau voru vágbundin, en til þess voru hringir festir þarna í klettana. Lá þá það skipið, er utar var (á Ytri-Leið), á 9 stikna dýpi, við tvær taugar fram af, og lá önnur í austurlandið, en hin í sker þar beint vestur af. En aftur af skipinu var taug til noðurlandsins. En það skipið, er á Innri-Leið lá, var á 5 stikna dýpi og lá við fjórar taugar, tvær fram af, en tvær aftur af. Lágu stjórnborðstaugarnar til norðurlandsins, en á hitt borðið lágu þær til suðurstrandarinnar.
Segir Skúli Magnússon (árið 1784), að þegar mjög sé stórstreymt, hafi það borið við, að sjór hafi flætt inn í verzlunarhúsin á Básendum, en það hafi þó ekki valdið verulegu tjóni. En fimmtán árum síðar, nóttina milli 8. og 9. janúar 1799, verður mikla flóðið, sem nefnt hefur verið Básendaflóð og víða gerði mikinn skaða, bæði sunnan og vestan lands, en mestan þó á Básendum. Fórst þar ein gömul kona, sem ekki trúði fyrr en um seinan, að hætta væri á ferðum. En verzlunarhúsin tók alveg af. Voru þau þrjú talsins og stóðu 50—120 stikur frá fjöruborðinu inni undir botni vogsins norðanvert við hann. Engin byggð hefur verið í Básendum síðan.
Másbúðir
Másbúðir.
Um jörðina Másbúðir fyrir norðan Hvalnes segir Jarðabók: „Túnið fordjarfast stórkostlega af sands- og sjávargangi, og hefur sjórinn síðustu sjötíu árin (þ. e. frá því um 1630 til 1700) brotið sig gegnum túnið á tvo vegu, þar sem áður var svarðfast land, svo nú stendur bærinn á umflotinni eyju, og fer þetta landbrot árlega í vöxt, svo þar er ekki fært yfir í stórstraumsflæði nema um brú, sem sjórinn brýtur um vetur.“
Másbúðarhólmi var áður landfastur.
Másbúðir entust þó lengur en á horfðist, því að það var ekki fyrr en um 56 árum eftir að Tarðabók er tekin saman, að bæinn tók af, að því er séra Sigurður B. Sivertsen segir, er getur um viðburðinn 80 árum síðar. Land Másbúða heyrir nú undir Nes (eða Nesjar), er áður var hjáleiga, og myndi Másbúða-nafnið gleymt, ef ekki væri þarna sund og lítill hólmi, er enn heita Másbúðasund og Másbúðahólmi.
Um Býjasker segir Jarðabók (1703), að tún gangi af sér af sandi og sjávargangi og hafi bóndinn þar orðið að leggja tún tveggja hjáleignanna undir sig (en þær mun u þá liafa verið sjö). Hjáleigan Glæsir var þá búin að vera í eyði frá því um 1620, og var ekki talið hægt að byggja hana upp aftur, því að sjórinn hafði brotið af túnstæðið og borið upp stóra sandhauga. Líka er getið þar um Flankastaði og Sandgerði, að tún spillist af sandi og sjó, en það er tekið fram um Sandgerði, að það sé ekki til stórmeina enn. En í Sandgerði og hjáleigum þess áttu þetta ár (1703) 26 manns heima samtals. En 1839 segir séra Sig. B. Siv. um Sandgerði: „Sjór brýtur þar og á Flankastöðum í stórflæðum og gerir skaða á túnum og görðum.“
Sandgerði.
Um jörðina Fitjar er sagt 1703, að tún spillist af sjávargangi. Á þessum slóðum er nú ekkert, er sjá megi á, af hverju jörðin hefur nafn dregið, og munu sjávarfitjar þær, er hún heitir eftir, fyrir löngu vera komnar undir sjó. Um Lambastaði er sagt, að sjórinn hafi gert þar svo rækilegan usla, að þurft hafi að flytja bæinn, sé sjór enn að færast nær og hafi brotið á ný svo mikið og sé kominn svo nálægt bænum, að varla megi kalla, að skepnum og heyjum sé óhætt. En 1839 segir séra Sig B. Siv. um Lambastaði, að tvær af þrem hjáleigum þeirra séu komnar í eyði, brotnar af sjó og það svo gersamlega, að ekki sjáist nein. merki eftir þar, sem þær voru, og gangi jörðin mikið af sér af „sjávargangi og sjávar landbroti“. Hann segir, að Lambastaðir hafi sérstaka vör og sé þar útræði mikið, oft mörg aðkomuskip og bátar af suðurnesinu, „þegar þar ekki gefur og fiskur ei fyrir“. En þetta hefur breytzt mikið á þeim 100 árum, sem liðin eru frá því, er séra Sigurður ritaði þetta, því að búið er að flytja bæinn ofar, vörin brotin alveg af upp í túngarð og útræði þarna ekkert.
Kirkjuból – grafstæði. Sjórinn hefur verið að grafa sig inn í kirkjugarðinn.
Milli Fitja og Lambastaða er Kirkjuból. Um það segir séra Sigurður, að það hafi verið 67 hundraða jörð, en sé nú að mestu komið í eyði og hafi bærinn verið fluttur fyrir tveim árum heim á eina hjáleiguna (að nokkru leyti af skemmdum, sem ekki stöfuðu frá sjó).
Frá því sagt var hér á undan frá Stafnesi, syðsta bænum í Miðneshreppi, hefur byggð verið nær óslitin norður með sjó, og er nú komið fyrir nokkru inn í Gerðahrepp (en hér eru engin eðlileg takmörk milli hreppa) og norður á tá Garðsskagans. Gengur land nú til suðausturs.
Gerðahreppur
Gerðahreppur.
Um Útskála segir Jarðabók: „Túnin spillast af sjávargangi, sem brýtur garðana, og af sandi, sem sjór og vindur ber á.“ Um 80 árum seinna ritar Skúli fógeti, að sjávargangur brjóti þar af túnum. Og enn, 60 árum eftir það, ritar séra Sigurður B. Sivertsen: Undir Útskála heyra 7 hjáleigur, en áður voru býlin 12, þar á meðal jörðin Naust, og var þar þríbýli 1759. En sjór braut svo þar á, að Naust voru óbyggileg ár 1762 og eyðilögð með öllu 1782. Þar, sem tún þessarar jarðar var fyrrum, heitir nú Naustarif. Gengur sjór þar alltaf yfir, og er þar ekki nema grjót og möl. En um Útskála sjálfa segir séra Sigurður: „Mælt er, að staðarins tún hafi mikið af sér gengið og tvívegis hafi túngarðurinn verið færður upp á túnin að norðanverðu. Núlifandi elztu menn [þ. e. ár 1839] muna eftir grastóm fremst fram í fjöru, sem sýnir, að fyrrmeir hafi allt það svið verið grasi vaxið og ef til vill tú.n. Hefur sjór þá ekki gengið lengra en að rifi því, sem nú brýtur á, fremst framan við fjörumál (þaragarð).“
Vatnagarður – loftmynd 2022. Sjórinn brítur ströndina.
Um Gerðar segir Jarðabók, að tún, hús og garðar jarðarinnar skemmist árlega af sjávar- og vatnagangi, því að þar sem menn ættu á þurru landi að ganga, verði stundum skinnklæddir menn að bera kvenfólk til nauðsynlegra heimilisverka innanbæjar og utan, þegar vetrarleysingar og sjávargangur hjálpist að, og sé stórt mein að þurfa jafnoft að byggja garðana upp aftur og bera sand og grjót af túninu.
Um aldamótin síðustu lét Finnbogi Lárusson í Gerðum gera þar fiskreit. (Skúli Magnússon landfógeti: Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu. Rituð á dönsku á árunum 1782—84 til þess að sýna stjórninni fram á, að fátæktin og eymdin sé hvorki landinu eða þjóðinni að kenna, heldur einokuninni. Þýtt og prentað á íslenzku, Reykjavík, 1935—36.) Stendur hann óhaggaður, en það flæðir nú yfir hann um hvert stórstraumsflóð.
Um Gauksstaði segir Jarðabók, að sjórinn spilli túnum, görðum og hjöllum, og um Meiðastaði, að sjór grandi þar túni að neðan og hafi þrisvar á 30 árum orðið að færa naustin lengra upp á túnið.
Garður – kort 1903.
Þá segir og í Jarðabók, að góðir menn segi, að heyrt hafi þeir getið, að í þessari sveit hafi til forna verið tvær jarðir, sem hétu Darrastaðir og Stranglastaðir eða Straglastaðir, viti enginn, hvar þessar jarðir hafi verið, en þeirra sé getið í gömlum rekaskiptamáldaga Rosmhvalaneshrepps [er áður náði yfir núverandi Gerðahrepp] og standi þær þar í þeirri röð jarðanna í Garði, að ætla megi, að það séu hinar sömu, sem nú (1703) séu nefndar Kothús og Ívarshús, en hvorugt þetta nafn sé nefnt í gamla máldaganum.
Um jarðirnar í Leiru segir Jarðabók, að sjór grandi túni á Stóra Hólmi og brjóti svo neðan af túninu á Litla Hólmi, að þar hafi tvisvar á níu árum þurft að færa naustin lengra upp. Um Hrúðurnes er tekið fram, að lendingin sé góð, en sjávargangur „túnum og húsum til stórmeina“. Skúli fógeti getur þess líka (1784), að brotni af túni á Stóra Hólmi, og ennfremur, að jörð þessi verði fyrir ágangi af svörtum sandi, en á jarðirnar vestan við Skagann og alla leið að Útskálum sé ágangur af gráum eða hviileitum sandi, og komi hvor tveggja sandurinn, svarti og grái, úr fjörunni.
Leiran – loftmynd.
Séra Sigurður segir um Hrúðurnes (1839), að bærinn hafi áður staðið nær sjó, en verið fluttur lengra upp vegna sjávargangs, hafi sjór þá áður brotið hjáleigu, sem undir jörðina lá.
Kunnugur maður segir svo frá: Þegar Garðskagavitinn var byggður, var langur, grasivaxinn tangi norður af honum. Nú er grasið löngu horfið og flæðir sjór nú þarna yfir í hverju flóði. En vitinn hefur verið færður ofar en hann var áður. Sjórinn gengur á við Síkið, og verður sú tjörn bráðum ekki til. Verður þarna þá aðeins rif, líkt og það, sem er þarna fyrir framan og mun vera leyfar tjarnar, sem þarna hefur verið enn framar.
Þar sem skip eru sett upp á flatar klappir, kemur far eftir í klappirnar. Þess konar för má sjá við Útskála í klöppum, sem eru nú svo neðarlega, að þær koma ekki upp nema um stórstraumsfjöru.
Keflavík og Njarðvíkur
Keflavík.
Þegar Jarðabók er rituð (1703), var Keflavík hjáleiga (ein af mörgum) frá Stóra-Hólmi og kóngseign eins og hann. Var afgjaldið 50 kg af harðfiski, sem skila átti í kaupstað landeiganda að kostnaðarlausu.
Eystri-Bergsendi – útsýni til vesturs.
Íbúar í Keflavík voru þá samtals 6 (sex). Það fara því litlar sögur af Keflavík á fyrri tímum. En þegar Skúli Magnússon fógeti ritar lýsingu sína á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1784, eru þar 4 kaupmannabúðir, 16 timburhús og íbúar 120. Má vera, að eitthvað mætti ráða af uppdráttum frá þeim tímum um breytt sjávarborð. En kunnugt er, að frá því um síðustu aldamót hefur orðið þar mikil breyting, og eru nú sums staðar berar klappir, sem sjór þvær um í hverju stórstraumsflóði, þar sem áður voru bakkar, sem sjávarhús stóðu á. Um Ytri-Njarðvík er sagt 1703, að sjór brjóti svo þar tún, að tvisvar hafi þurft að færa (það) á 17 árum. Landið gengur héðan til austurs.
Vatnsleysustrandarhreppur
Vatnsleysustrandarhreppur.
Þegar komið er fram hjá Vogastapa er svo að segja óslitin hraunströnd, þar til komið er inn undir Hafnarfjörð. Er sú vegalengd fullar 20 rastir, þó að farin sé skemmsta leið yfir holt, hæðir og víkur.
Jarðabók getur þess (1703), að sjávargangur spilli Vogunum, brýtur tún í Minni-Vogum, en um Stærri-Voga er kvartað undan, að skemmdirnar aukist þar ár frá ári. Einnig er sagt, að skemmdir fari í yöxt á Brunnastöðum, þ. e. sjórinn brýtur túnið og ber á sand. Þá er talin hjáleiga frá Brunnastöðum, Tangabúð, sem sjórinn sé að brjóta af, og mun hún hafa farið í eyði. Hjáleiga frá Stóru-Ásláksstöðum, sem hét Atlagerði, var líka að skemmast um þessar mundir. Er hún horfin, en enn heitir þar Atlagerðistangi.
Byggð er hér samhangandi á 5—6 rasta svæði meðfram ströndinni, og segir Jarðabók ennfremur frá skemmdum af völdum sjávarins á þessum jörðum: Hlöðunesi, Stóru- og Minni- Ásláksstöðum, Minna og Stóra-Knarrarnesi, Breiðagerði, Auðnum, Landakoti, Þórustöðum, Kálfatjörn, Bakka, Flekkuvík, Minni-Vatnsleysu (en ekki Stóru Vatnsleysu).
Jarðabók getur um forna jörð, Akurgerði, sem sé búin að vera í eyði frá því fyrir 1600. Álítur séra Pétur Jónsson, (1840), að Akurgerði muni hafa verið innst í Vatnsleysuvíkinni, innar (austar) en Kúagerði. (Pétur Jónsson: Njarðvíkur og Kálfatjarnarsóknir 1840.) Um Vogavík, sem er austan við Vogastapann (eða Kvíguvogabjörg, er forðum hétu), segir séra Pétur, að hún lengist hvað af öðru upp með Stapanum, því að þarna sé flatur sandur. Og mun hún enn vera að lengjast (1946). En um ströndina yfirleitt í Vatnsleysustrandarhreppi segir hann: „Sjórinn brýtur af túnum og landi,“ og munu þau orð hans einnig eiga við enn í dag.
Hafnarfjörður
Hafnarfjörður.
Hvaleyrargrandi er nefnd eyri, sem nú flæðir yfir og er sunnan megin fjarðarins inn með bænum (til austurs), og mun bilið milli hennar og landsins fyrir sunnan hana vera höfn sú, er Hafnarfjörður dregur nafn af. Voru verzlunarhúsin fyrst á eyri þessari. En á 17. öld er farið að bera svo mikið á því, að sjór gangi á eyrina, að óráðlegt þótti að hafa þau þar lengur, og voru þau flutt árið 1677 austur fyrir fjörðinn og reist á túni Akurgerðis, sem þá var hjáleiga frá Görðum.
Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1909.
En um höfnina við grandann segir Skúli fógeti 1784: „Sunnan megin fjarðarins fyrir ofan áður nefndan Hvaleyrargranda er lítil höfn, 225 faðma breið og nefnd Hvaleyrartjörn. Á henni liggja fiskiskúturnar á vetrum, lausar við sjógang með öllu. Fyrir innan Skiphól er dýpið í höfn þessari 8—9 fet, en fyrir utan hann 9 1/2—12 fet.“ (Eftir ísl. útgáfunni.) En Akurgerðistúnið var lítið hærra en eyrin, sem flúið var frá, og þegar Skúli fógeti ritar um þetta (sem var 107 árum eftir að húsin voru flutt), þá er sjórinn farinn að flæða upp í þau, þegar stórstreymt er. Og þegar séra Árni Helgason ritar um þetta, 58 árum á eftir Skúla, segir hann Akurgerðistúnið komið í sjó (sjá síðar). (Árni Helgason: Lýsing Garðaprestakalls 1842.) Á þeim liðlega hundrað árum frá því húsin voru flutt, þar til Skúli fógeti ritar, hafði sjávarhæð breytzt það, að sjórinn var sumsstaðar farinn að flæða yfir Hvaleyrargranda, þegar stórstreymt var.
Þegar landmælingar voru gerðar í Hafnarfirði, 1903, flæddi yfir mestan hluta hans. Samt var breiddur fiskur á honum, og mátti sjá þar á sumrin 2—3 fiskstakka fram undir 1910, en nú flæðir yfir hann allan. Hann er sýndur ofansjávar (en nokkuð mjór) á sjókorti, sem birt er í lýsingu hafna (Löwenörns) á suðvesturhluta landsins, eftir mælingum H. E. Minors skipstjóra, er mældi hér strendurnar í tvö ár, en drukknaði í Hafnarfirði þriðja árið, vorið 1778. (Beskrivelse over den islandske Kyst o. s. frv., Kjöbenhavn 1788.)
Garðahreppur
Garðahreppur.
Jarðabók getur þess ekki, að sjór sé neitt ásælinn við Lónakot, vestasta bæinn í hreppnum. En um sjötíu árum síðar (1776) eyddist það af sjávargangi. Segir Skúli fógeti, að sjórinn hafi þá rifið grassvörðinn af túninu og fyllt vörina“ og húsin af grjóti og möl. Var Lónakot þá álitið með öllu óbyggilegt og var í eyði um tvo mannsaldra.
Nú er komið að Straumi. Segir Jarðabók um Óttarsstaði, að sjór brjóti eitt hjáleigulandið, um Lambhaga, að túnin skemmist árlega af sjávaryfirgangi, og fari það sífellt í vöxt. (Er þessi hluti Garðahrepps fyrir sunnan Hafnarfjörð.) Af jörðum í Garðahverfi getur Jarðabók einkum um fimm, er sjór brjóti, Dysjar, Bakka, Hlíð, Sandhús og Lónshús, einkum þó Bakka, því að þar spillist túnið svo stórlega, að það hafi þurft þrisvar að færa bæinn frá sjónum, og sé þar þó enn svo illa statt, að það „sýnist sem að túnið, mestan part, muni með tíðinni undir ganga“.
Bessastaðahreppur
Bessastaðahreppur.
Eftir því sem Jarðabók skýrir frá (1703), er sjórinn að brjóta eða á annan hátt aðskemma margar jarðir á Álftanesi. Hlið: Tún jarðarinnar brotnar af sjávargangi, sífellt meir, og er hið sama sagt um þrjár hjáleigur þar. Möishús: Þar grandar sjávargangur túninu á tvo vegu. Skógtjörn: Sjórinn brýtur engi, og fer það ár eftir ár í vöxt. Brekka: Sjór spillir túninu og gerir jafnframt usla á hjáleigunni Svalbarða. Sviðholt: Sjávargangur spillir túni. Deild: Sjávargangurinn þar svo mikill, að varla er óhætt mönnum og fénaði fyrir stórflæðum, „og hafa menn fyrir þessum háska í þrjár reisur flúið bæinn“. Báruseyri: Brýtur á tvo vegu tún. Akrakot: Túnskemmdir af sjó. Breiðabólstaður: Sjórinn brýtur af landinu og ber sand á tún. Kasthús: Sjórinn skemmir. Bessastaðir: Túni ð brýtur að sunnan verðu Lambhúsatjörn, er gengur úr Skerjafirði. En norðanvert á Bessastaðalandi ganga flæðiskurðir úr Bessastaðatjörn og brjóta haglendið. Selskarð: Sjórinn spillir túnum.
Álftanes – kort frá 1796.
Skúli fógeti segir (1784), að túnin á Álftanesi hafi langflest minnkað verulega af sjávargangi.
Það er fróðlegt, að séra Árni Helgason, sem ritar nær sex áratugum á eftir Skúla, segir mikið til hið sama. Kemst hann svo að orði, að sjór sé smátt og smátt að þoka sér á landið og nuddi af bökkum og túnum meira eða minna á hverju ári, og að allar jarðir, sem tún eigi að sjó, verði að kalla árlega fyrir skemmdum á þeim af sjávargangi. Þannig sé Akurgerðistún, sem verzlunarhúsin í Hafnarfirði voru flutt á 1677, allt horfið, og að mestu leyti af völdum sjávar.
Báruseyri hafi tvívegis verið færð frá sjó (og að því er virðist á þeim 16 árum, sem hann hefur dvalizt á þessum slóðum). Fóðri þessi fyrrum 24 hundraða jörð nú aðeins eina kú. Engi, sem legið hafi undir Svalbarða, sé á síðustu árum orðið ónýtt og Bakkatún mikið skemmt.
Sandhús í Garðahverfi séu að mestu leyti farin í sjó, þótt leifar sjáist af þeim. En um þessa jörð segir Jarðabók 139 árum áður: Túnin skemmast á hverju ári stórlega, og hefur ábúandinn mikið ómak af því á hverju ári að bera og láta bera af sandinn. Árið 1701 hafi sjórinn varpað upp svo miklum sandi, að sýnilegt þótti, að bóndinn yrði ekki þess megnugur að ráða bót á, og hafi þá umboðsmaður konungs á Bessastöðum fyrirskipað nábúum hans að hjálpa honum. Samt brjóti sjávargangur árlega æ meir af jörðinni.
Álftanes 2021.
Landnorðan á Álftanesi var við Skerjafjörð (gegnt Skildingarnesi) hafskipahöfn, sém hét Seilan. Um hana ritar Björn á Skarðsá og segir frá því, að þegar fréttist til Tyrkjans 1627, hafi höfuðsmaðurinn á Bessastöðum sent eftir dönsku kaupförunum, er í nágrenninu voru. (Tyrkjaránssaga Björns á Skarðsa, samin 1643.) Komu tvö þeirra og var haldið inn á Seilu. Vofu þar þá þrjú skip, því að skip höfuðsmannsins lá þar fyrir. En er Tyrkir komu á tveim skipum og ætluðu inn á Seiluhöfn, rann annað skipið á grunn. Höfðu þeir sig á brott, er þeir náðu því út aftur.
Eggert Ólafsson getur um Seilu í ferðabók sinni (1757) og segir, að höfuðsmenn á Bessastöðum hafi notað höfn þessa sumarlangt, meðan siður var, að þeir kæmu á skipum, er þeir áttu sjálfir. (Eggert Olafsson: Reise igiennem Island, Soröe 1772.) Segir hann, að skipunum verði að halda inn í höfnina um flóð og það fjari úr mestum hluta hennar, en þarna sé öruggt vetrarlægi meðalstórum skipum og þaðan af minni.
Skúli fógeti ritar 1784: „Hin gamla skipahöfn, Seila, er alveg uppi undir virkinu á Bessastöðum, sem nú er með öllu niður fallið. Þarna er örugg lega handa skipum þeim, er fluttu lénsmenn konungs til Íslands fyrr á tímum og lágu þar að sumrinu til. Innsigling á höfn þessa er torveld og nálega ófær nema með vel kunnugum leiðsögumanni Annars er höfnin rúmgóð, laus við allan meiriháttar sjógang, hefur tvö stór skipalægi á 9 faðma dýpi og sandbotn, sem er þó nokkuð blandinn skeljum. Ég efast ekki um, að tíu skip gætu legið þar yfir veturinn, ef vel væri linað á köðlum, þegar sjógangur er Bessastaðátjörn fyrir innan Seiluna er vetrarlægi fyrir seglskútur og smáskip.“ Höfn þessi er nú ekki lengur til.
Sjávarvíkur, sem heita tjarnir
Hlið á Álftanesi.
Á Álftanesi eru þrjár víkur, sem skerast inn frá sjónum, en allar heita þær tjarnir, Bessastaðatjörn, Lambhúsatjörn og Skógtjörn.
Hlið – Álftanesi.
Skýringin á þessum nöfnum er sú, að þetta hafa upprunalega verið tjarnir nokkuð frá sjó, en með hækkandi fjöruborði hefur sjórinn brotizt inn í þær, þær orðið sjávarvíkur, en haldið nafninu.
Viðburðir gleymast stundum ótrúlega fljótt, en stundum eru þeir lengi í minnum manna, þar, sem þeir gerðust, ásamt öðrum munnmælum, sem oft eru uppspuni einn. Telur séra Árni Helgason (1842) upp ýmis munnmæli, er þar gangi í sveitinni og honum þyki ótrúleg, en segir svo: „Aðrar sögur segja menn, sem meiri líkindi eru til, að gæti verið satt, að Skógtjörn og Lambhúsatjörn hafi fyrrum verið engi.“ Bendir það á, að það hafi verið alllöngu fyrir tíð séra Árna, að þessi breyting varð, enda má sjá á Jarðabók, að 1703, þegar sá kafli hennar er ritaður, sem segir frá Álftanesi, eru bæði Lambhúsatjörn og Bessastaðatjörn sjávarvíkur. Hins vegar bendir sumt á, að í Skógtjörn hafi þá enn verið ósalt vatn.
Melshöfði
Álftanes – Melshöfði. Gömlu verbúðirnar eru nú komnar út í sjó.
Svo hét nes, er gekk vestur frá bænum Hliði á Álftanesi. Þar voru árið 1703 þrjú hús, og áttu þrjár fjölskyldur heima þar, eða alls 11 manns. En auk þess höfðu Bessastaðamenn þarna sjóbúðir, og voru þar stundum þrjátíu kóngshásetar, því að of langt þótti að róa frá Bessastöðum, þ. e. innan úr Skerjafirði og kringum Álftanesið. Melshöfði er nú gersamlega horfinn í sæ, en suðvestur frá Hliði ganga flúðir og má vera, að þær séu leyfar höfðans, sem átti reyndar eftir munnmælum að vera til vesturs, séð frá bæjarhúsunum á Hliði.
Laug í fjörunni
Laug var í fjörunni undan Hliði. Segir séra Árni, að hún sé í skeri, er verði þurrt um stórstraumsfjöru, og sjáist þá reykurinn úr henni. Eftir því, sem kunnugir menn segja, hefur ekki sézt rjúka úr henni í 30—40 ár. Hún er komin undir sjó.
Um Álftanes hefur landskunnur fræðimaður, Björn i Grafarholti, ritað mér í bréfi: „Hér syðra er sjórinn alls staðar að ganga á landið. Ber mest á því þar, sem láglent er eins og á Álftanesi. Þar er t. d. ekki lengur Bessastaðavík heldur vík, sama um Skógtjörn, hún er horfin. Á norðurhluta Álftanessins eru horfnar í sjó jarðirnar Bárekseyri (Báruseyri), Bakki (?) og Bakkakot. Um 1890 var hjá mér kaupamaður bóndinn í Bakkakoti. Ég kom þá þar, og var um 3 til 4 faðma bil frá bæjarvegg að sjávarbakkanum. Bóndinn í Gesthúsum, nú 76 ára, hefur alið þar allan aldur sinn, segir svo: Þar sem Bakkakot stóð, fellur nú yfir í hverju stórstraumsflóði. Var kálgarður fyrir ofan bæinn, einnig þar fellur nú yfir. Á þeim tíma (um 1890) var þar túnblettur, sem af fengust 25—30 kpl. af töðu, og allt þar til nú fyrir 20 árum, að allt er komið í sand og möl. Sama má segja um mikinn part af engjunum.
Hlið – túnakort 1917.
Þar voru fyrir 20 árum 2 tjarnir, sem ekki voru væðar, nú orðnar fullar af sandi og möl. Um Hlið segir Ólafur í Gesthúsum: „Rétt fyrir mína tíð gaf Jörundur, sem þá bjó á Hliði og var faðir ömmu minnar, hreppnum (þá Álftaneshreppi) svonefndan Sveitarpart, sem var 2 kúa gras. Af parti þessum er nú ekkert eftir, orðin fjara þar, sem hann var áður.“ Hliðsnes, sem var landfast við Hlið, er nú svo brotið, að ekki er eftir nema táin, sem er orðin eyja. Fram af Hliði var Melshöfði, sem nú er horfinn, og mest af Hliðslandi.“
Arnarnes (MWL).
Ekki getur Jarðabók skemmda í Arnarnesi né Kópavogi. En sjór hefur frá því um 1916 brotið smám saman framan af túninu í Arnarnesi á að gizka hálfa þúfu á ári. Gras var á klettum þar fyrir neðan bakkann, en það er nú farið. Ekki nær Garðahreppur lengra en þetta á þennan veg, en hér mun skroppið snöggvast yfir í Seltjarnarneshrepp. Í Kópavogi hefur brotið land og það svo, að venjulega hefur sézt munur á missirum. Var brotið alveg upp að gamla bænum í Kópavogi, þegar hann var rifinn. Arnarnesvogur og Kópavogur ganga inn úr Skerjafirði, og leggur þangað aldrei inn haföldu og sízt inn í botn, þar sem tveir áður taldir bæir eru. Lækir renna fram í botn þessara voga, og kemur þar lækkun landsins fram á áberandi hátt á því, hve lengra flæðir upp eftir þeim en áður, og eru þarna brýr, sem auðvelt er að miða við. Þriðji vogurinn inn úr Skerjafirði er Fossvogur. Er þar líka þriðji lækurinn og þriðja brúin, og er einnig þarna greinilegt, hve sjórinn teygir sig lengra inn á við. Klettar eru þarna fyrir botni vogsins úr linu bergi, og hefur vogurinn teygzt þó nokkuð inn í landið, frá því vegur, sem ekki er notaður lengur, var lagður yfir Öskjuhlíð og upp á Digraneshálsinn. En það var á síðara helmingi nítjándu aldar, að hann var lagður. En hann lá þannig, að farið var fyrir framan klettana fyrir Fossvogsbotni, og þyrfti nú að sæta sjávarföllum, ef fara ætti þessa leið. Er þessi gamli vegur á hægri hönd, þegar farið er suður Öskjuhlíðarveginn, en á vinstri, þegar farið er upp Digranesháls.
Niðurlagsorð
Þórkötlustaðahverfi .
Nú hefur verið farið yfir svæðið frá Ölfusá, vestur með ströndinni fyrir Reykjanes, og er nú komið inn með Faxáflóa, að Seltjarnarnesi, og verður þessi áfangi frásagnarinnar ekki lengri að sinni.
Alstaðar hefur verið sama sagan, sjórinn er að brjóta landið. Sumstaðar hefur verið sagt frá því, að þurft hafi að færa bæi undan sjávargangi og marga þeirra oft.
Þorlákshöfn 1913.
Víst er, að frásagnir gætu verið fleiri, ef skráðar hefðu verið. Bæjargerðin okkar hefur verið þannig, að það þurfti alltaf að vera að byggja bæina upp aftur. Væri sjórinn kominn óþægilega nálægt bænum, þegar þurfti að byggja hann upp, var bærinn byggður lengra frá sjávarbakkanum. En engum datt í hug að kalla það, að það hefði þurft að flytja bæinn vegna sjávarins.
Það var ekki nema þegar þurfti að flytja úr bænum, af því að sjórinn var farinn að brjóta hann, og að þar með var lagt í sérstakan kostnað, að þetta var kallaður flutningur vegna sjávar. Á sama hátt er flutningur túna upp á við, undan sjávargangi, miklu algengari, en í frásögur er fært. Það var ekki nema þegar svo mikið braut af túni á skömmum tíma, að það varð að mestu eða öllu leyti ónýtt, að slíkt varð skráð, eða þegar túnið varð á fáum árum ónýtt af því, að sjórinn bar á það sand og grjót. En hinu veittu menn litla eftirtekt, þótt dálítið bryti árlega framan af túni. Þá var borið í staðinn á móa eða mel ofan við það, og túnið færðist upp. En þau eru mörg túnin, sem þannig hafa skriðið jafnt og þétt upp frá sjónum og bæirnir smátt og smátt fylgt þeim. En breytingin hefur verið svo lítil á hverjum mannsaldri, að eftir þessu hefur varla verið tekið.
Selvogur – fjaran.
Vera má, að einhver myndi vilja spyrja, hvort allt þetta sjávarbrot, sem getið er um í Jarðabók, sé ekki barlómur fátæks almennings, sem hafi óttazt, að þessi yfirheyrsla um kosti jarða myndi
fyrirboði hærri skatta og gjafda. Því er að svara, að sams konar landbrot og lýst er í Jarðabók er enn þann dag í dag á allri þessari strönd, sumpart á sömu jörðunum, sumpart á næstu jprðum. En þegar komið er norður og vestur með landi, þar sem landið bersýnilega er að rísa, hætta líka að heita má allar umkvartanir í Jarðabók, um að sjórinn brjóti land.
Lindarsandur neðan Melabergs.
Rétt er að geta, að heyrzt hafa raddir um, að landið væri ekki að síga, hér væri eingöngu um landbrot að ræða. En landbrot getur ekki verið orsökin að sér sjálfu. Það er afleiðing einhvers, en hver er orsökin? Land, sem stendur kyrrt, miðað við sjávarborð, brýtur ekki sýnilega nema nokkrar aldir, því að sjórinn er þá búinn að taka allt, sem hann nær til, og hlaða með því undir sig við ströndina.
Ef sjór gæti haldið áfram að brjóta, væru flest lönd sæbrött nema þau, sem væru að rísa.
En hvaða skýringu væri að finna á því, að landið brýtur hér sunnanlands, aðra en þá, að það sé að síga? En hér hefur verið sagt frá landbrotinu, af því það er tákn þess, sem fram er að fara.
En sannanirnar fyrir því, að landið sé að síga, eru nægar. Sjór flæðir lengra og lengra upp á flatt land, sem enginn man til, að hafi flætt upp á, við voga, þar sem aldrei kemur úthafsalda. Sker, sem ekki flæddi yfir nema í stærstu flóðum, fellur nú allaf yfir. Önnur sker, sem alltaf komu upp um stórstraum, koma nú aldrei upp. Þari færist hærra upp eftir sjávarklettum, og hrúðurkarlabekkurinn hækkar á þeim og á flúðum. Allt eru þetta nægar sannanir þess, að land er að síga, og svo eru loks beinar mælingar, sem sýna það.
Verður frá því öllu skýrt, er tími vinnst til.“
Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1. tbl. 01.04.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 40-44.
-Náttúrufræðingurinn. 2. tbl. 01.06.1947, Hæð sjávarborðs við strendur Íslands, Ólafur við Faxafen, bls. 57-71.
Reykjanesskagi.
Fagradalshraun – rangnefni
Í 12. lið fundargerðar Bæjarráðs Grindavíkur þann 5. maí 2021 má lesa eftirfarandi um örnefnanefnu í Fagradalsfjalli:
„Nafn á nýju hrauni og gígum við Fagradalsfjall – 2103090.
Lögð fram umsögn Örnefndanefndar á heiti á nýju hrauni og gígum í mótun við Fagradalsfjall. Með vísan til laga nr. 22/2015 leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að nýtt hraun austan Fagradalsfjalls verði nefnt Fagradalshraun.„
Fagradalsfjall – Fagridalur efst til vinstri.
Skv. framangreindu virðast hlutaðeigendur ekki vera meðvitaðir um staðhætti í og við Fagradalsfjall. Fjallið er nefnt eftir Fagradal norðan þess. Dalurinn er óháður gosstöðvunum í Geldingadölum.
Fagradalsfjall – örnefni (ÓSÁ).
Í Fagradal eru m.a. Nauthólar og Dalssel, fyrrum selstaða frá Þórkötlustöðum. Hún hvílir þar við uppþornaðan lækjarfarveg er áður myndaði Aurana neðar í dalnum.
Gígar hraunsins, er málið snýst um, urðu til á sprungu uppi í hlíðum Geldingadala – í miðju Fagradalsfjalli. Sunnar er Hrútadalur millum Einihlíða og Langahryggs og norðaustar eru Merardalir millum Merardalahnúka og Stóra-Hrúts. Afurð gíganna rann fyrst niður í Geldingadali, annars gróðurlitlar kvosir og kaffærði meinta dys Ísólfs á Skála, áður en hún tók upp á því að venda niður í Merardali.
Nefnt hraun hefur, a.m.k ekki hingað til, runnið niður í Fagradal. Til þess þyrfi það að fylla Gildingadalina upp fyrir neðanverðan Langhól eða Merardalina út fyrir Merardalahnúkana og síðan renna upp á við sunnan Þráinsskjaldar áður en það gæti náð rennsli milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells og Fagradals-Hagafells.
Hraun í Grindavík.
Í örnefnalýsingu fyrir Hraun segir m.a. um Fagradalsdalsfjall og nágrenni:
Fagradalsfjall – herforingjaráðskort.
„Borgarfjall er eiginlega fremsti hluti Fagradalsfjalls en Fagradalsfjall er eitt stærsta fjall á Reykjanesskaga. Á milli Borgarfjalls og Mókletta er Borgarhraun. Vinkillaga flatlendi framan við Fagradalsfjall heitir Nátthagakriki. Einbúi er þar nokkuð stór stakur hóll. Selskál er grasbrekka framan í Fagradalsfjalli. Trippalágar er graslendi á milli Borgarhrauns og Beinavörðuhrauns og nær fram að Móklettum. Vestan við Trippalágar við hraunjaðarinn á Beinavörðuhrauni er Bleikshóll. Kast er fell sem gengur út úr Fagradalsfjalli að suðvestan. Görn heitir skarðið á milli og nær hún alla leið inn í Innstadal. Stóragil er uppi á fjallinu fyrir ofan Innstadal. Norður af Kasti eru allháir grasgeirar í fjallshlíðinni og heita Fremstidalur, Miðdalur og Innstidalur. Þetta eru ekki raunverulegir dalir heldur brekkur og kvosir.
Kastið.
Hraunið vestur af Kasti heitir Beinavörðuhraun og nær fram að Hrafnshlíð, Fiskidalsfjalli og Vatnsheiði. Norður á móts við áður getinna er hraunið mikið sléttara með stórum mosaþembum og heitir þar Dalahraun. Í Dalahrauni eru tveir hólar með nokkru millibili og heita Innri-Sandhóll og Sandhóll sem er hærri og sunnar.
Sandakravegur.
Gömul gata inn með Fagradalsfjalli að vestan og allt til Voga heitir Sandakravegur. Norðan við hraunið eru Nauthólaflatir og ná þær upp að Fagradalsfjalli. Dalssel heitir innst með fjallinu fyrir norðan Nauthólaflatir. Austast á Nauthólaflötum er hóll sem heitir Nauthóll. Vestan flatanna er uppblásið land, nú aurmelar, kallað Aurar en hét áður fyrr Fagridalur og er svo nefnt á korti. Nyrsti hluti Fagradalsfjalls heitir Fagradalsvatnsfell og er í landi Þórkötlustaða. Þar norður af er Fagradalshagafell, lítt áberandi að norðanverðu. Vatnskatlar uppi á Fagradalshagafelli eru landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða. Eitthvað af nefndum örnefnum vestan Fagradalsfjalls að innanverðu gætu verið í landi Þórkötlustaða.
Uppi á Fagradalsfjalli er hæsti hnúkur á norðausturhorninu og heitir Langhóll. Að suðaustan er annar hnúkur og heitir sá Stórhóll.
Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.
Austan undir Borgarfjalli og á milli þess og Langahryggs er Nátthagi. Þetta er nokkuð breitt skarð á milli fjallanna og við suðurenda þess er Drykkjarsteinsdalur. Austan undir Fagradalsfjalli og norðan við Nátthagaskarð og í austur frá Stórhól er smáás og heitir Nátthagaskarð. Þar norður af eru Geldingadalir. Smádalkvosir grónar nokkuð. Þar er sagt að Ísólfur, fyrsti ábúandi á Ísólfsskála, sé grafinn og hafi hann viljað láta grafa sig þar sem geldingarnir hans höfðu það best.
Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.
Norðaustur frá Langhól er lítið fell fast við Fagradalsfjall sem heitir Kálffell. Norð-norðaustur af Langahrygg er Stóri-Hrútur og síðan þar norður af Meradalir. Þetta eru gróðurlitlar leirflatir.
Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.
Þar norður af eru Meradalshlíðar og vestur frá þeim er Kistufell í austur frá Langhól. Norður af Meradalshlíðum er Litli-Hrútur og þar norður af er Litli-Keilir.
Þaðan í norðaustur er Keilir, alþekkt fjall. Austan undir Kistufelli er smáhryggur sem nefndur er Rjúpnahryggur. Þarna eru víðast hraun á milli fjallanna og örnefnalaust.
Suðaustan og framan í Langahrygg eru Lyngbrekkur og þar framan við er Stóri-Leirdalur. Austan við Langahrygg eru Einihlíðar. Þetta eru ávalar, gróðurlitlar bungur en hafa sjálfsagt verið vel grónar þegar þær hlutu nafn. Litli-Leirdalur er framan við Einihlíðar að vestan og hlíðin þar austur af, þar sem gamli Krýsuvíkurvegurinn liggur upp, heitir Brattháls (Skyggnir). Litli-Hrútur heitir nyrsti hluti Einihlíða. Þverbrekkur heita grasigrónar brekkur nyrst í Litla-Leirdal.
Dalssel í Fagradal.
Skarðið á milli Langahryggs og Einihlíða heitir Hrútadalur og við hann eru Hrútadalsbörð. Austan í Einihlíðum eru allmiklar grasigrónar kvosir og heita Bratthálskrókur sú fremri og Einihlíðarkrókur sú innri. Sandurinn þar norður af inn með Einihlíðum heitir Einihlíðasandur.„
Geldingadalur – dys Ísólfs.
Örnefnanefnd og fulltrúar Grindavíkurbæjar virðast, skv. ofangreindu, fara villu vegar er þeir ákveða að nefna hið nýja hraun í Geldingadölum „Fagradalshraun„. Til álita kæmu hins vegar með réttu örnefnin „Fagrahraun“, „Fagradalsfjallshraun“ eða „Geldingadalahraun“. En örnefnið „Fagradalshraun“ til framtíðar litið er eins og út úr kú, a.m.k. að teknu tilliti til framangreindra örnefna. Fulltrúum Grindavíkurbæjar er þó fyrirgefið því flestir þeirra virðast vera aðkomnir, en ekki er vitað undan hvaða hól fulltrúar Örnefnanefndar hafa skriðið. Ef örnefnið verður að veruleika mun það verða sem myllusteinn um háls nefndarinnar um ókomna tíð…
Sjá meira um Fagradal HÉR.
Fagridalur – Nauthólar og Dalssel.
Hellarnir á Lyngdalsheiði – Vilmundur Kristjánsson
Á Mbl.is þann 10.01.1999 er fjallað um „Hellana í Lyngdalsheiði„.
Lyngdalsheiði.
„Á Lyngdalsheiði eru nokkrir afar merkilegir hellar sem vert er að kíkja á og fara ofan í sé gát höfð á. Vilmundur Kristjánsson fór í skoðunarferð og segir að meðal nauðsynja í slíka ferð séu hjálmar, ljós, hlýr fatnaður, reipi eða stigi og félagar.
Upphaflegi vegurinn um Lyngdalsheiði var lagður fyrir komu Friðriks VIII Danakóngs sumarið 1907 og þessvegna í eina tíð kallaður Kóngsvegur. Þó hann sé í dag kallaður Lyngdalsvegur eða Lyngdalsheiðarvegur þá er það rangnefni. Hann liggur nefnilega fyrir norðan Lyngdalsheiði, um Gjábakkahraun og um Reyðarhraun.
Í Gjábakkahelli.
Sé farið frá Þingvöllum frá eyðibýlinu Gjábakka um Gjábakkahraun og til Laugarvatns kemst maður ekki hjá því að rekast á nokkra hella. Aðeins þarf að hafa augun hjá sér. Á þessari leið er urmull hella og gjótna.
Ég hef oft farið þessa leið og kíkt á hellana og umhverfið með myndavél í farteskinu enda félagi í Ljósálfum sem er félag áhugamanna um ljósmyndun. Þessi leið er í uppáhaldi hjá mér en hellar hafa alltaf vakið einhverja undarlega kennd hjá mér, sennilega arfur frá forfeðrum okkar; víkingunum sem lögðu á sig að kanna ókunna stigu.
Með stiga ofan í Lambhelli
Lambhellir er stutt fyrir ofan veginn eða um 50 metra frá. Hann fékk nafn sitt af því að einhverju sinni hefur fallið lamb ofan í hellinn og borið bein sín þar í bókstaflegri merkingu. Er hellirinn fannst voru beinin óhreyfð á syllu innarlega í honum. Ekki verður komist niður í hellinn án áhalda, hægt er að bjargast með reipi en af eigin reynslu myndi ég mæla með stiga því hann er um 4 metra djúpur og ekkert til að spyrna í. Leiðin til hans þekkist á því að við veginn norðan megin, eru hjólför og troðið svæði þar sem bílunum er yfirleitt lagt.
Gjábakkahellir
Gjábakkahellir.
Gjábakkahellir liggur undir veginn um 2 km frá Gjábakka. Hann er opinn í báða enda og er neðri endinn merktur með vörðu. Efri hellismunninn er fyrir ofan Lambhelli. Hann er mikið hruninn og ógreiðfær en bót í máli að auðvelt er að komast niður í hann. Þar er nokkuð um sepa og ýmsar hraunmyndanir. Á einum stað skiptist hellirinn í tvennt og á öðrum er hann á tveim hæðum.
Tvíbotna á tveimur hæðum
Í Tvíbotna.
Tvíbotni er sá glæsilegasti í Gjábakkahrauni. Hann er 310 metra langur og tiltölulega lítið snortinn. Hann fannst 1985. Erfitt er að rata á hann en hann er nokkrum hundruð metrum ofar en Gjábakkahellir og í sömu hraunrás. Nafnið er tilkomið vegna þess að hann er á tveim hæðum en einnig að velja má um tvær leiðir er niður er komið. Um tvær mannhæðir eru niður í hann svo stiga eða reipi þarf til. Mikið er í honum af ósnortnum spenum en einnig nokkrir dropasteinar. Í honum þarf sérstaka aðgát, bæði til að stíga ekki sumstaðar niður úr veiku gólfinu en einnig vegna sérlegra viðkvæmra hraunmyndana.
Vegkanthellir
Vegkantshellir er um metra hægra megin eða sunnan við veginn. Hann birtist skyndilega í einni beygjunni skammt vestan við afleggjarann að Tintron. Ekki er ráðlegt að fara ofan í hann án áhalda en reyndar er það takmarkað sem er í honum að sjá. Heilmikið stórgrýti er í honum því mikið hefur hrunið úr þakinu svo þakþykktin er sumstaðar ekki nema nokkrir tugir sentimetrar. Hann liggur undir veginn. Er ég var þarna seinast höfðu vegfarendur haft það að leik að henda ótrúlegasta rusli í hann. Vegkantshellir er ekki ruslakista!
Sérstæður hraunketill
Trinton.
Tintron er sunnan undir Stóra- Dímon og er á náttúruminjaskrá. Tintron er nokkuð sérstæður hraunketill ofan við veginn. Þangað er ágætur vegarslóði. Hann er í raun rúmlega 10 metra djúp hola og er í laginu einsog gosflaska. Hann er um 27 metra langur frá suðri til norðurs. Efsti hluti hans er 3 metra hraunhraukur með litlum hraunrásum, bæði opnum og lokuðum. Góðan sigbúnað þarf í þennan helli og er ekki óvönum fært. Talið er að hann hafi myndast við það, að brennheit gufa hafi brotist þarna upp úr hrauninu. Er Tintron einn af mörgum slíkum kötlum, sem liggja þarna í röð nokkurnveginn frá norðri til suðurs. Ég hef séð fólk brjóta bita úr hraunrásunum og finnst mér það vægast sagt ljótur siður.
Laugavatnshellir.
Laugarvatnshellir.
Gamlar áletranir á veggjum
Laugavatnshellir fyrrum.
Seinastir í röðinni eru Laugarvatnshellar sem eru sandsteinshellar staðsettir í Reyðarbarmi. Reyðarbarmur er á Laugardalsvöllum (Vellir í daglegu tali) sem eru sléttar valllendisflatir, skammt frá Gjábakkavegi. Fátt bendir til að í hellunum hafi verið búið fyrr en á þessari öld þó þeir hafi í eina tíð verið í þjóðbraut. Lengstum voru þeir notaðir sem fjárhellar og lá þar sauðamaður á nóttum. Þá þótti þar reimt. Síðar flytja þangað ung hjón, Guðrún Kolbeinsdóttir og Indriði Guðmundsson, til að hefja búskap og voru þar 1910-1911. Nefndu þau býlið „Reyðarmúli“ sem reyndar er fornt nafn staðarins og kemur fyrir í fornsögunum. Þau ráku þar veitingasölu í tjaldi skammt frá hellunum. Reyðarmúli var í eyði til 1918 en þá fluttust önnur hjón þangað, Jón Þorvarðarson og Vigdís kona hans, og dvöldu þar frá 1918-1922. Á þessu tímabili eignaðust þau Vigdís dóttur sem Jón tók sjálfur á móti, en svo braust hann í ófærð langa leið til að finna ljósmóður.
Laugarvatnshellir.
Sjá má ummerki búskaparins en fram undan hellunum má enn sjá móta fyrir kálgörðum. Hellarnir eru litlir, þeir eru tveir og sá stærri er 12 metra langur og 4 metrar á breidd en hinn er álíka langur en mjórri. Nú eru allir veggir hellanna og nágrenni útskorið fangamörkum og má þar sumstaðar greina ansi gamlar áletranir.
Ef menn eru á góðum bílum með fjórhjóladrifi má þræða ýmsa slóða og finna margt forvitnilegt. Það verður að gefa sér góðan tíma, sérstaklega ef verið er að hugsa um göngutúra, hellakönnun eða ljósmyndun eða þá allt þetta. Á góðviðrisdegi er þetta ótrúlega falleg leið og ekki skemmir fyrir að hún liggur til Laugarvatns í kaffi.“
Heimild:
-Mbl.is, 10.01.1999, Hellarnir í Lyngdalsheiði, – https://www.mbl.is/greinasafn/grein/442201/
Gjábakkahellir.
Hellaferðir – Björn Hróarsson
Björn Hróarsson skrifaði um „Hellaferðir“ í Helgapóstinn, ferðablað, árið 1987.
Björn Hróarsson við Snorra.
„Ísland er eitt af merkari eldfjallalöndum jarðar og óvíða getur að líta jafn margar gerðir eldfjalla og hrauna. hraununum er fjöldinn allur af hellum. Þeir eru af ýmsum stærðum og gerðum með strompum, afhellum, útskotum, fossum, veggsyllum, dropsteinum, hraunstráum og margs konar öðrum formum.
Þegar hraunár renna lengi í sömu stefnu myndast fyrst hrauntraðir og síðan í mörgum tilfellum hellar. Hraunið getur runnið langar leiðir í göngum undir storkinni hraunhellu. Þegar hraunrennslinu lýkur, slíkt getur bæði gerst er eldvirkni stöðvast eða ef hraunáin fær annan farveg, heldur streymið oft áfram niður göngin, þau tæmast og holrúm myndast. Ef þak holrúmsins er nægilega sterkt til að haldast uppi eftir kólnunina varðveitist hellirinn.
Í Víðgemli.
Margskonar hraunmyndanir eru í hellum og eitt af því sem gleður augað er dropasteinar sem myndast meðan hraunið er að storkna. Dropasteinar myndast hins vegar smátt og smátt vegna útfellingar efna eins og t.d. kaiks eða salts og finnast vart hér á landi. Ýmis form í hellum myndast við endurbráðnun hrauns. Slíkt gerist líklega vegna gasbruna við mikinn hita og þá lekur hið endurbráðna hraun oft niður veggi hellisins eða lekur niður úr loftinu og myndar stuttar keilulaga myndanir, gjarnan með glerjuðu yfirborði.
Dropsteinn í Snorra.
Í sumum heilum eru afar fagrar ísmyndanir sem eru hvað fegurstar eftir langa frostakafla síðla vetrar. Íssúlurnar geta orðið meira en mannhæðarháar. Vatnsdropar er falla úr hrauninu frá lofti hellisins frjósa er þeir koma niður í hellinn og ísdrjólar hlaðast upp. Er líður á sumarið og hlýnar bræða vatnsdroparnir sig inn í ísdrjólana, gera þá hola að innan og eyða þeim.
Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins er fjöldi hella, enda Reykjanesskagi þakinn hraunum. Hraun á skaganum þekja yfir 1000 ferkílómetra og þar leynist fjöldi glæsilegra hella.
Þingvallasvæðið er einnig þakið hraunum er geyma nokkra skemmtilega hella. Hallmundarhraun, ofan byggða í Borgarfirði, hefur nokkra sérstöu meðal íslenskra hrauna, þar eru kunnir nokkrir stórir hellar. Stærstu og þekktustu hellarnir eru Víðgelmir, Surtshellir og Stefánshellir. Víðgelmir er talinn stærstur hraunhella á jörðinni, rúmmál hans er um 150.000 rúmmetrar sem samsvarar um 250 meðal einbýlishúsum.
Hraunmyndanir í hellum eru viðkvæmar og þola margar þeirra nær enga snertingu án þess að brotna. Samt eru flestir þeir hellar sem fundist hafa á liðnum árum alveg ósnortnir, þegar þeir finnast, þó þeir séu jafnvel 5.000—10.000 ára gamlir. Í hellunum er stöðugt veður, svipað hitastig árið um kring, alltaf logn og veðrun engin. Hellarnir haldast því óbreyttir þar til ferðafólk tekur að leggja leið sína þangað.
Tanngarðshellir.
Nær allir íslenskir hraunhellar sem frést hefur af eiga það sameiginlegt að vera stórskemmdir. Viðkvæmar hraunmyndanir hafa verið brotnar og fjarlægðar. Rusl af ýmsu tagi hlaðist upp og hellarnir sótast. Um þennan undraheim íslenskrar náttúru hefur umgengni verið með ólíkindum slæm. Hraunhellar eru hluti af viðkvæmustu náttúru Íslands. Þar má lítið út af bera til að valda skemmdum. Fjölmargir hellar eru þess eðlis að þeir verða aldrei opnaðir ferðafólki. Aðrir eru stórir og ekki eins viðkvæmir þó glæsilegir séu.
Glæsilegir hraunhellar eiga það sameiginlegt að þar er margt að skoða en hellarnir eru það stórir að lítil hætta er á skemmdum og í þessum hellum er lítið af viðkvæmustu hraunmyndununum.“ – Björn Hróarsson
Heimild:
-Helgapósturinn, ferðablað 24.06.1987, Hellaferðir, Björn Hróarsson, bls. 14.
Búri – svelgurinn.
Hraunhóll undir Vatnsskarði
Í Náttúrufræðingnum 1975 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um „Sandfellsklofagíga og Hraunhól efst í Kapelluhrauni undir Vatnsskarði“. Margir telja Kapelluhraun runna úr Hraunhól, en svo var ekki, enda hraunið úr honum um 5500 ára gamalt, en Kapelluhraunið (Nýjahraun/Bruninn) rann árið 1151. Hraunhóll var einn fegursti gjallgígurinn á gjörvöllum Reykjanesskaganum, en hefur nú verið gjörspillt af námuvinnslu.
Hraunhóll
„Eins og áður er sagt, hef ur hraunið runnið upp að eldri gíg, sem ber nafnið Hraunhóll. Þetta var stór og reglulegur gígur, einn hinn fegursti á öllum Reykjanesskaga, hlaðinn upp úr gjalli og hraunkleprum. Aðalgígurinn var um 250 m í þvermál, en inni í honum var lítill en alldjúpur hraungígur, vafalaust myndaður á lokastigi gossins. Skarð er í gíginn austan megin og þar hefur Sandfellsklofahraun runnið inn í hann eins og áður segir og myndað þar lítinn hraunpoll, sem orðið hefur að sléttu helluhrauni.
Nú er Hraunhóll svipur hjá sjón frá því sem áður var. Hann hefur orðið þeim að bráð, er rauðmalarnám stunda og hefur verið leikinn svo grátt, að nú er rúst ein. Hann var um árabil ein aðalnáman á þessu svæði og er nú svo komið, að búið er að grafa langt niður fyrir hraunin, sem upp að honum hafa runnið. Við það kemur í ljós, að hann hefur verið líklega vart minna en 40 m hár, áður en hraun tók að renna upp að honum.
Sýnið, sem áður er getið um, var tekið austan megin í gígnum, þar sem Sandfellsklofahraun rann inn í hann.
Kapelluhraun (rauðlitað).
Annað sýni var tekið norðan í hólnum, og hugði ég fyrst, að hraunið sem þar hefur lagst upp að Hraunhól, væri Kapelluhraun, en nú hefur komið í ljós, að svo er ekki. Þar má sjá, að um 25—30 cm þykkt jarðvegslag hefur verið komið utan á gíginn, þegar hraun eyddi þeim gróðri, er þar var fyrir. Gróðurleifarnar eru mosi og einhver kvistgróður og því væntanlega ekki ósvipað þeim gróðri, er þarna var fyrir, áður en maðurinn fór ránshendi um Hraunhól. Kolaða kvisti og sprota mátti tína úr jarðvegslaginu, en ekki var það meira en svo, að margra klukkustunda verk var það að fá nægilega mikið efni (um 20 g) í eina aldursákvörðun. Hvað þetta varðar, er sama að segja um bæði sýnin, sem tekin voru við Hraunhól. Sýnið, sem tekið var norðan í hólnum reyndist 2690 ± 60 C14 ára. Enn er ekki fullkomlega ljóst, hvaðan það hraun er komið, sem eyddi gróðrinum norðan í hólnum. Eins og ég nefndi áður hugði ég fyrst að það væri Kapelluhraun en að því slepptu Sandfellsklofahraun. Nú er hins vegar svo mikill munur aldurs þessara gróðurleifa, að dr. Ingrid U. Olsson telur, að ekki geti verið um samtímamyndun að ræða. Verður því spurningunni um, hvaða gos hafi verið að verki, þegar gróðurinn norðan í Hraunhól eyddist, ekki svarað að svo stöddu.
Hraunhóll og nágrenni.
Það er hins vegar ljóst, að gíghólar, sem hlaðnir eru úr nær eintómu gjalli, gróa ekki sérlega fljótt og er sjálfsagt ein meginorsök þess sú, að allt vatn hripar þar strax niður. Af þessu leiðir, að Hraunhóll hlýtur að hafa verið orðinn nokkuð gamall, þegar þessi hraun runnu upp að honum. Mætti því ætla, að hann væri vart yngri en 3500 ára gamall. Hraunið, sem úr honum hefur komið, er ólívín basalt hraun með töluverðu a£ 3—5 mm stórum ólívínkristöllum og eins feltspatdílum, sem ósjaldan eru 4—5 mm.
Annað, sem einkennir þetta hraun eru hnyðlingar, flestallir af sömu gerð og fundist hafa á Reykjanesskaga og víðar, en fundist hefur þar hnyðlingur með aðra samsetningu líka. Verður það ekki nánar rakið hér. Eins og getið var um í upphafi þessarar greinar eru Sandfellsklofagígir á sprungu með þá venjulegu stefnu norðaustur-suðvestur, svo er og um Hraunhól og má vel sjá þar að sprungan, sem hann er á, hefur opnast frá því að gosið varð og er ekki ástæða til að efast um, að sú gliðnun sé enn í gangi, þó hægt fari miðað við mannlegt æviskeið. Sama fyrirbæri má og sjá m.a. í Óbrinnishólum (Jónsson 1972) og raunar á fleiri stöðum á Reykjanesskaga. Er þá óneitanlega ekki fráleitt að spyrja: Hve mikla gliðnun þarf til þess að þarna gjósi á ný?
Hraunhóll.
Aðeins um 300 m suðvestur af Hraunhól er annar gígur, sem næstum hefur færst í kaf, þegar Sandfellsklofahraun rann. Ekki veit ég nafn á þessum gíg, enda var hann svo lítið áberandi, að litlar líkur eru á, að honum hafi nokkru sinni verið nafn gefið og líklega fáir veitt því athygli, að um eldgíg væri að ræða. Frekar en ekkert mætti í bili nefna hann Litla-Hraunhól. Ber það nafn þá vitni um ámóta hugmyndaauðgi og vel flest cnnur örnefni á Reykjanesskaga og orsakar ekki áhalla hvað það snertir.
Kapelluhraun og nágrenni – örnefni og gamlar leiðir (ÓSÁ).
Einnig Litli-Hraunhóll hefur verið grátt leikinn af nútíma vinnutækni og þar vægast sagt ljótur umgangur, en því miður er alltof víða pottur brotinn hvað þetta snertir á voru landi. Ekki sést nú neitt af því hrauni, sem úr Litla-Hraunhól hefur runnið, fremur en því, sem rann úr Hraunhól sjálfum, en sýni mátti ná úr gígnum. Kemur þá í ljós, að hraunið er að heita má eins úr báðum þessum gígum. Það er og snarlíkt eldra Óbrinnishólahrauni og Búrfellshrauni. Vott af gróðurleifum má sjá undir gjallinu í Litla-Hraunhól og sýnist jarðvegslagið þar vera mjög ámóta og í Hraunhól, en ekki hefur reynst mögulegt að ná nothæfu sýni úr LitlaHraunhól. Af ofangreindum ástæðum tel ég þó langlíklegast, að gosið hafi samtímis á þessum stöðum.
Varðandi aldursákvörðunina hér að framan skal þess getið, að hún er meðaltal af tveim, þar sem við aðra er notaður helmingunartími 5570 ár en við hina 5730 ár.“
Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 2. tbl. 01.03.1975, Sandfellsklofagígir og Hraunhóll, Jón Jónsson, bls. 188-191.
Hraunhóll – námuvinnsla og sóðaskapur.