Skoðaður var Gunnuhver á Reykjanesi sem og næsta nágrenni. Hverasvæðið er litskrúðugt og mikilfenglegt, en varasamt og síbreytilegt. Við hverasvæðið eru m.a. nokkrar tóftir og grunnur húss.
Reykjanes – grunnur húss Höyers.
Margir kannast við söguna af Gunnu Önundardóttur er hverinn er nefndur eftir. Hún segir af Guðrúnu og viðureign hennar við Vilhjálm á Kirkjubóli á Suðurnesjum. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina. Viðureign þeirra endaði með því stakkst ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver. (Hafa ber í huga að hverinn sá hefur átt það til að hlaupa til um svæðið og er því síbreytilegur.)
Hús Höyers og Eriku við Gunnuhver.
Tóftirnar við Gunnuhver eru eftir búsetu Anders Christian Carl Julius Höyer og konu hans, Eriku Höyer, á Reykjanesi. Høyer var danskur garðyrkjumaður. Fæddur var hann einhvers staðar í hinum fyrrum rússnesku Eystrasalts-héruðum Prússlands, og sá þess stað í óvenjulegri málakunnáttu. Hann fluttist til Íslands á 3. áratugnum og kom sér upp garðyrkjubýli í Hveradölum við hverina þar hjá sem nú er Skíðaskálinn. Kona hans var lettnesk. Þau fengu ekki frið í Hveradölum og fluttu sig þá út á Reykjanes. Þar komu þau sér fyrir á spildu úr landi Staðar, reistu hús og dvöldu með litlum syni sínum 3 eða 4 síðustu árin fyrir stríð, en hurfu þá til Kaupmannahafnar. Nýbýli þeirra hét Hveravellir.
Reykjanes – Gunnuhver. Hús Höyers var nálægt bílastæðinu t.v.
Grunnur íbúðarhússins sést enn sunnan í Kísilhólnum, rétt við veginn út að vita. (Kísilhóll er hóllinn suðvestan við Gunnuhver). Þar er volg jörð og þurfti ekki aðra hitun. Annar endi hússins var gróðurhús og innangengt í íbúðarhlutann. Þarna er vatnslaust, en Høyer bjargaði sér með því að þétta gufu úr hverunum “für Menschen, Hund und Blumen” segir í þýskri ferðabók (E. Dautert án ártals). Aðallega munu þau hjón hafa fengist við að búa til blómapotta úr hveraleir sem þau bökuðu/hertu við jarðhitann.
Anders C. Höyer.
Høyer var aðstoðarritstjóri garðyrkjublaðs “Politiken” fyrir komu sína hingað og líklega einnig á stríðsárunum (finn ekki heimild um það, en minnir ég hafi lesið). Þá skrifaði hann ævisögu konu sinnar fram að því að hún komst til Þýskalands eftir fyrra stríð. Bókin kom út í Danmökru á stríðsárunum. Árni Óla þýddi hana á íslensku (hún heitir „Anna Ivanowna“ og höfundur er skráður Erika Høyer). Bókin er átakanleg lýsing á miklum hörmungatímum í ævi konunnar, var lesin sem útvarpssaga. Erika var 15 árum yngri en Høyer. Hann kom aftur til Íslands eftir stríð en hún varð eftir í Danmörku. Hann endaði sem “flugumferðarstjóri” á Melgerðismelum í Eyjafirði. Heimildir eru um Høyer í bók Árna Óla “Erill og ferill blaðamanns.”
Reykjanes – texti á skilti við fyrrum bústað Höyers.
Í bók eftir Erich Dautert (Islandfahrt) er sagt frá viðkynningu og innliti til hjónanna.
Einnig er að finna frásögn af heimsókn til þeirra í bókinni “Árin okkar Gunnlaugs” (Scheving) eftir konu hans (G.L. Grönbech). Kristján Sæmundsson tók saman upplýsingarnar um Höyer. Þá segir í Degi 16. mars 1955 um Höyer:“Ræktaði blóm í Hveradölum – afgreiddi flugvélar í Melgerði„.
Gunnuhver – loftmynd.
„A. C. Höyer Jóhannesson afgreiðslumaður á Melgerðisflugvelli varð 70 ára í gær“.
Þegar A. C. Höyer kom hingað til Íslands áríð 1925, hafði hann þegar víða farið og reynt margt. Hann er fæddur í Árósum í Danmörku, af suður-józku foreldri, en uppalinn í Suður-Jótlandi undir þýzku krúnunni.
Bræðratunga í Biskupstungum.
Ungur lagði hann land undir fót og fór suður um Evrópu, gekk á búnaðarskóla í Berlín, og réðist til ræktunarstarfa á lettnaskum búgarði. En útlendingum var ekki vært þar þegar byltingin flæddi yfir, þótt þeir hefðu þraukað af styrjaldarárin. Þá hélt Höyer til Danmerkur með unga konu af lettneskum uppruna. Ætlunin var að fá jarðnæði í Danmörk, en það var ekki laust fyrir efnalítinn mann. Úr fjarlægð að sjá var nóg landrými á Íslandi. Höyer réðist vinnumaður að Bræðratungu í Biskupstungum, síðan á búgarði Thor Jensens, en árið 1927 hófu hjónin, Höyer og Erika, landnám sem þótti harla nýstárlegt hér á landi á þeim tíma.
Við Gunnuhver.
Landnám í Hveradölum og Reykjanesi.
Þau byggðu sér bæ við heitar Laugar í Hveradölum við rætur Hellisheiðar, og bjuggu þar í 7 ár. Þar reis þá upp næst fyrsta gróðurhús á Íslandi og þar ræktuðu þau hjónin alls konar suðræn blóm. Þóttu það tíðindi í höfuðstaðnum, er þessi útlendi ræktunarmaður auglýsti að hann mundi hafa torgsölu á blómum.
Hann kom svo akandi með bílfarm af fallegum blómum og þau seldust öll á svipstundu. En með árunum urðu Hveradalir landnám skíðafólksins í æ stærri stíl, og þá var ekki rúm fyrir búskap Höyers. Þá hóf hann annað landnám sitt hér á landi og settist að úti á Reykjanestá, við heitar laugar þar. Þar höfðu þau hjónin garðrækt og seldu garðávexti og blóm til höfuðstaðarins. En þar var lífið erfitt, staðurinn einangraður og samgöngur strjálar.
Þar hófu þau leirmunagerð í smáum stíl til búdrýginda, en skorti verkfæri. Þau fóru til Danmerkur skömmu fyrir stríð til að afla sér þeirra, en lokuðust inni í Danmörk í styrjöldinni og komust ekki hingað út fyrr en árið 1946.
Leirgoshver við Gunnuhver.
Þriðja landnámið á Melgerðismelum.
Eftir viðdvöl í Reykjavík komu þau hingað norður, og litlu seinna réðist Höyer til Flugfélags Íslands og flugmálastjórnarinnar sem gæslumaður á Melgerðisflugvelli, og þar hafa þau hjónin átt heima síðan. Fyrst í húsakynnum vallarins, sem brunnu árið 1950 þeim til mikils tjóns, og síðan á nýbýli því, er Höyer hefur byggt og nefnir Melbrekku. Er það þriðja landnám hans hér á landi.
Frá 1947 til ársloka 1954 var mikil flugvélaferð um Melgerðisflugvöll og var nafn Höyers tengt henni á einn eða annan veg. Farþegar allir sáu þennan gráhærða, góðlega mann fyrst er þeir stigu á land, og síðastan manna, er þeir litu út um gluggana er vélin ók út á flugbrautina. Inni í skálanum við völlinn — meðan uppi stóð — hafði frú Erika veitingasölu, sem var mjög vinsæl af farþegum og fólki héðan úr bænum, sem gjarnan kom í heimsókn.
Melgerðisflugvöllur (MWL).
Nú eru flugvéladrunurnar yfir Melgerðisflugvelli þagnaðar, en Höyer hefur eftirlit með tækjum og eignum flugmálastjórnarinnar þar, því að völlurinn er enn nothæfur ef þörf krefur. En þótt árin færist yfir og landnám gerist erfiðara, er það samt fjarri skapgerð Höyers að leggja árar í bát. Nú rekur hann hænsnarækt á búi sínu og unir allvel við sitt.
Upplýsingaskilti um Höyer við Gunnuhver.
Sýslar við bú, þótt svalt blási.
Lífið í Lettlandi á stríðsárunum fyrri vandi þau hjónin ekki á lúxus, og það kom sér vel í vistinni í Hveradölum og á Reykjanesi. Ríkmannlegt hefur aldrei verið hjá þeim á Melgerðisvelli, en hlýlegt, og ævinlega nóg um bækur og blöð, enda eru þau hjónin bæði bókelsk og vel að sér í mörgum greinum. Bæði hafa þau ritað nokkuð og margir minnast sögu Eriku um Önnu, Ivanovnu, en þar er víða haldið meira en í meðallagi vel á penna.
Nú eru 70 ár að baki og trauðla hyggur Höyer á nýtt landnám. Hann segist líka kunna vel við sig í Eyjafirðinum og talar um að gott verði að hvílast að Möðruvöllum eða Saurbæ að afloknu dagsverki. En þótt elli sæki nokkuð á, er engin uppgjöf hjá honum nú frekar en fyrri daginn. Á mánudaginn blés svalt um Melgerðismela og lítt sá til fjalla fyrir fjúki. En þá stóð Höyer enn að starfi við búsýslu sína. Hann þarf að sinna um 100 hænur í kofa. Þær verða 200 næsta ár, segir hann.
Hún ætlar að endast honum, sjálfsbjargarhvötin.“
Í Litla Bergþóri, 2. tölublað (01.12.2012), bls. 20-23, er fjallað um „Hveradala Höyer og konu hans“:
„Hér verður fjallað um hjón, sitt af hvoru þjóðerni, sem skolaði hér á land í umróti millistríðsáranna. Þau voru ólík sem dagur og nótt en undu sér samt vel saman og voru hér til dauðadags, með hléum þó.
Þau höfðu bæði reynt ýmislegt áður en þau settust að á Íslandi og hér fóru þau heldur ekki troðnar slóðir.
Sérstakt var að þau virtust sækjast eftir að búa á hrjóstrugum jaðarsvæðum, þó þau væru engar mannafælur. Þvert á móti. Þau tóku gjarnan á móti ferðamönnum og voru vel liðin af þeim sem höfðu við þau samskipti. Þau komu á sinn hátt að tveimur starfsgreinum, sem voru að hasla sér völl þegar þau voru á manndómsárum, ylrækt og svo farþegaflugi innanlands, þar sem þau voru umsjónarmenn á flugvelli. Það gætu því þess vegna hangið myndir af þeim bæði á Flugminjasafninu og á tilvonandi Garðyrkjusafni.
„Var hún ekki rússnesk prinsessa?“ Þannig spurði fullorðinn Akureyringur þegar ég nefndi við hann hvort að hann myndi eftir Ericu Höyer og þeim hjónum fyrir norðan. Já, það var ekki laust við að nokkur ævintýrabragur þætti á þeim og margt höfðu þau brallað á langri ævi. Það var fyrst að frétta af Anders C. Höyer hér á landi að hann kom sem vinnumaður í Bræðratungu í Biskupstungum í maí 1926. Þar var hann í fjóra mánuði, en eigandi jarðarinnar þá var hinn danski ritstjóri Berlinske Tidende, Svend Paulsen. Höyer kynnti sig hér sem garðyrkjumann og var það sjálfsagt, en síðar kom á daginn að hann hafði starfað sem blaðamaður í Danmörku og því ekki ólíklegt að hann hafi þekkt til Sveins bónda, enda höfðingjadjarfur og ófeiminn að koma sér í kynni við mann og annan.
Johannes Boeskov í dyrum gróðurhúss.
Fyrsta gróðurhúsið reis á Reykjum í Reykjahverfi árið 1923. Var það gert að frumkvæði Guðmundar Jónssonar skipstjóra og mágs hans Bjarna Ásgeirssonar alþingismanns en báðir bjuggu þeir á Reykjum og höfðu þeir mikinn áhuga á ylrækt. Helsti hvatamaður þeirra var Daninn Johannes Boeskov sem starfaði sem vinnumaður á Reykjum. Á garðyrkjusýningu sem haldin var í Reykjavík 1924 mætti Johannes með afurðir gróðurhússins eða 14 tegundir af matjurtum og blómum sem vöktu töluverða athygli enda ýmislegt sem ekki hafði sést áður.
Johannes stofnaði árið 1926 garðyrkjubýlið Blómvang sem telst vera eitt fyrsta nýbýlið sem byggðist eingöngu á ylrækt.
Johannes lést af völdum voðaskots árið 1927.
Um haustið fór hann ekki heim til Danmerkur heldur réði sig að Lágafelli í Mosfellssveit og var þar til vors. Hann sagði seinna (1953) í grein í Garðyrkjuritinu, að hann hefði strax heyrt um „vitlausa“ Danann, sem vildi byggja gróðurhús og lifa af ylrækt. Því miður ruglar Höyer aðeins saman gróðurhúsi sem byggt var á Reykjum í Mosfellssveit 1924, að vísu í umsjón Danans Jóhannesar Boeskov, en í eigu máganna á Reykjum, Bjarna Ásgeirssonar og Guðmundar skipstjóra, og svo aftur gróðurhúsi sem Boeskov byggði á nýbýlinu Blómvangi 1926 og telst fyrsta garðyrkjubýli á Íslandi þar sem eingöngu var treyst á ylrækt. Höyer og Boeskov urðu vinir og Höyer hjálpaði honum við byggingu gróðurhússins í Blómvangi og vildi svo fara sjálfur út í ræktun. Um sumarið var hann í Reykjavík og þá kom til hans hingað til lands unnustan Erica, fædd Hartmann, en hún var fimmtán árum yngri, aðeins 27 ára, en Höyer 42. Erica var frá Lettlandi, þeim hluta sem kallast Kúrland, og hafði ratað í ótrúlegustu hörmungar í fyrra stríði og sagði frá því í skáldsöguformi seinna. Það var bókin Anna Íwanowna, sem kom út í Danmörku haustið 1939, um þann mund sem seinna stríðið skall á og fékk góða dóma.
Skáldævisaga Kúrlendings.
Bókin er svokölluð „skáldævisaga“ og segir sögu fjölskyldu Ericu frá því að fyrri heimstyrjöld skellur á, þegar Erica var fjórtan ára, og þangað til þau snúa heim úr útlegð í Rússlandi og koma að öllu í rúst í sveitinni sinni í Lettlandi í stríðslok. Rússar og Þjóðverjar völtuðu til skiptis yfir þetta smáríki og það stóð varla steinn yfir steini er yfir lauk. Þau upplifðu stríðsátök, flótta, borgarastríð og rússnesku byltinguna, svo það var engin furða að henni þætti
friðsamlegt á Íslandi þegar hún rifjaði upp ævi sína á efri árum.
Auðvitað hefur Höyer skrifað bókina“, sagði Árni Óla löngu seinna, enda reyndist Höyer eftir allt saman þrælvanur blaðamaður þótt hann væri í fjósverkum og öðru púli meðan hann dvaldi hér fyrir stríð. Hvað um það, Erica er enn viðurkennd í Danmörku sem rithöfundur fyrir þessa bók. Árni Óla þýddi hana 1942 og var hún ein mest auglýsta og selda bókin hér á landi það árið. Ég var að enda við að lesa hana núna sem kvöldsögu fyrir konuna mína og gefum við henni bestu meðmæli. Erica, hin unga og lífsreynda, var semsagt komin til unnusta síns er hallaði sumri 1927. Þau fengu leyfi til að setjast að í Hveradölum á Hellisheiði þá um haustið og voru svo bjartsýn að ætla sér að búa í tjaldi á þessum stað meðan þau væru að hrófla sér upp kofa.
Landnámið í Hveradölum og á Reykjanesi.
Aldrei í manna minnum hafði rignt svo mikið eins og þetta haust. Allt fór á flot, matur eyðilagðist, enga flík var hægt að þurrka og þeim var ekki svefnsamt um nætur vegna kulda þó þau væru örþeytt eftir 14 til 16 tíma þrældóm við moldarverk. En þetta hafðist, þau gátu í lok október flutt í hlýjan kofa þar sem hverahitinn var nýttur og voru þannig í senn útilegufólk í anda Eyvindar og Höllu, og einskonar brautryðjendur. Þann 27. október þetta haust giftu þau sig og voru svaramennirnir fyrrnefndur Johannes Boeskov garðyrkjumaður og svo sendiherra Dana, sá með langa nafnið, Frank le Sage de Fonteney. Þarna í Hveradölum voru þau að basla til ársins 1934 þegar Skíðafélag Reykjavíkur reisti þar sinn skála og hóf greiðasölu. Þá fannst þeim sér ofaukið og leituðu annað. Þau prófuðu ýmislegt þarna uppfrá, ræktuðu í gróðurhúsum, brugguðu jurtamjöð, reyndu leirbaðslækningar, þjónuðu ferðamönnum og voru fyrst með torgsölu í Reykjavík með afurðir sínar. Þau stunduðu líka rjúpnaveiði sem stundum var happafengur en gaf stundum ekki neitt. Erica sagði löngu seinna er hún leit yfir líf sitt; „Bara að við hefðum aldrei farið úr Hveradölum“.
Erika Höyer – minningargrein.
Já margt átti eftir að henda þau hjón áður en yfir lauk. Fyrst fóru þau bókstaflega úr öskunni í eldinn, því þau fluttu út á Reykjanes og gerðu sér annað nýbýli við Gunnuhver þar sem allt ólgar og sýður og ekki þurfti upphitun í kofann. Hitinn streymdi upp um fjalirnar í gólfinu eins og í „Nature Spa Laugarvatn Fontana“ í dag. Þau gátu ræktað og gerðu það, en vegaleysið varð til þess að þau komu ekki afurðum frá sér. Síðar datt þeim svo í hug að búa til jurtapotta úr leir, sem þarna var við hendina. Þau hertu pottana ýmist við hverahita eða brenndu í ofni sem kyntur var með rekaviði, sem þau söguðu í búta og klufu. Þau spöruðu ekki erfiðið, það var eins og þau væru að keppast í „ræktinni“ og þyrftu að passa línurnar. Árni Óla heimsótti þau þarna og leist ekki á. Höyer var kátur að vanda en sagðist samt vera á förum til Danmerkur, sér hefði verið boðin staða hjá Politiken og ætti að verða aðstoðarritstjóri landbúnaðarútgáfu blaðsins. Þegar hér var komið sögu höfðu þau eignast son og var trúlega ekki gæfulegt til frambúðar að hokra þarna hjá Gunnuhver með stækkandi fjölskyldu.
Þarna við hverinn er nú skilti þar sem sagt er frá „síðustu ábúendunum“ en það voru þau hjónin. Því miður eru nokkrar missagnir í frásögninni, t.d. að Höyer hefði verið fæddur í „einhverjum fyrrum Eystrasaltshéruðum Prússlands og það skýrði hina sérstöku málakunnáttu hans“. Hið rétta mun vera að hann fæddist í Árósum á Jótlandi 1885 og var kominn til Kaupmannahafnar fyrir tvítugt. Sem ungur maður hafði Höyer starfað sem formaður Ungra jafnaðarmanna í Kaupmannahöfn og á landsvísu og kynnst mörgum lykilmönnum í Jafnaðarmannaflokknum. Og ekki urðu kynnin minni er hann gerðist blaðamaður á þeirra vegum og þá líka hjá stærsta blaðinu Socialdemokraten. Hann var þá á uppleið, hafði eignast konu og tvo syni, en eitthvað fór úrskeiðis, hann skildi við konuna og fluttist til Lettlands. Hann dvaldi í Lettlandi árin 1923 til 1925, þar sem hann hitti Ericu og þar með tóku örlögin nýja stefnu. Annað sem missagt er á skiltinu er að Erica hafi orðið eftir í Danmörku eftir stríð en Höyer hafi komið einn til Íslands. Hið rétta er að hjónin komu saman og voru hér til dauðadags, en sonur þeirra varð eftir í Danmörku, þó hann væri aðeins 12 ára gamall er þau fluttu „heim“.
Í dönsku útvarpi og þýsku.
Þau fluttust sem sagt frá Gunnuhver á Reykjanesi til Danmerkur 1937. Höyer komst strax inn á danska útvarpið og var mælt með honum sem fyrirlesara og fékk hann venjulega greiðslu fyrir, sem voru 100 krónur fyrir hvert erindi. Hann flutti þó nokkur erindi í Statsradioen fram að stríði og var mjög fundvís á efni sem þóttu nýstárleg í Danmörku á þessum tíma. T.d. hét einn þátturinn „Danskur veiðimaður og landnemi á Íslandi“, annar hét „Að eiga heima á eldfjalli“ o.s.frv. Sem dæmi um fjölbreytnina má nefna erindi um skipakirkjugarð við Ísland, rjúpnaveiðar og bindindismál, að ógleymdu erindi um íslenskan landbúnað, þar sem hann lýsir búskapnum í Bræðratungu og þótti takast vel upp. Hann var óþreytandi að bjóða efni, sumt var tekið en öðru hafnað, og þótti vel frambærilegur fyrirlesari. Það virkar því dálítið kómískt að lesa það í bók Jóhannesar flugstjóra, Skrifað í skýin, um Höyer að þegar hann var orðinn umsjónarmaður á flugvellinum á Melgerðismelum, hafi hann verið búinn að týna niður dönskunni, sem og öðrum tungumálum og verið næsta óskiljanlegur, þó að oft þyrfti hann að leiðbeina flugmönnum í lendingu gegnum talstöð. Flugstjórinn hefur ekki vitað að Höyer var ekki alls óvanur að handleika hljóðnema.
Erika Höyer.
Nú voru þau Erica og Höyer semsagt komin til Danmerkur eftir fyrri dvöl sína á Íslandi og það var ekki langt í næstu heimstyrjöld. Það var örlagadagur fyrir Höyer og fjölskyldu þegar Danmörk var hertekin 9. apríl 1940. Höyer gekk þá strax Þjóðverjum á hönd og tók þátt í útvarpssendingu á þeirra vegum þar sem hann studdi „frelsun Danmerkur“. Þá var hann umsvifalaust rekinn frá útvarpinu, því að danska útvarpið hélt merkilegt nokk sjálfstæði sínu alveg þangað til í hreinsunum í ágúst 1943, þegar lögreglan var leyst upp og ríkisstjórnin fór frá. Í júlí 1941 varð Höyer fréttaritari í Berlín fyrir dönsku bændasamtökin, en þau gáfu út blöð og tímarit í Danmörku. Danskir bændur voru hallir undir þjóðverja, enda þénuðu þeir á úflutningi til Þýskalands, sem var óþrjótandi markaður fyrir danskar landbúnaðarvörur.
Meðfram fréttaritarastarfinu kom Höyer líka að sendingum þýska útvarpsins á dönsku og flutti m.a. 10 erindi um landbúnaðarmál á þessum tíma. Í Berlín var Höyer fram að uppgjöf Þjóðverja, en Erica var í Danmörku með soninn. Þau lentu í yfirheyrslum í Danmörku í stríðslok en sluppu með skrekkinn, enda íslenskir ríkisborgarar og komu „heim“ með Drottningunni um miðjan janúar 1946, eins og segir í klausu í Morgunblaðinu.
Erika Höyer – legsteinn í Möðruvallakirkjugarði – 1900-1982.
Ástandið í Danmörku hafði verið þrúgandi öll hernámsárin. Fyrsta stríðsveturinn 1939-40 höfðu Danir reynt að halda uppi hlutleysi eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar, en 9. apríl 1940 var sá draumur úti. Ráðherrar voru rifnir upp á rassinum úr hlýjum sængurfiðunum og settir úrslitakostir, annað hvort að samþykkja hernámið eða fá sprengjuregn yfir Kaupmannahöfn. Þeir völdu fyrri kostinn með óbragð í munni eins og sagt er. Spennan fór vaxandi eftir því sem tíminn leið og þegar Þjóðverjum fór að ganga verr í stríðinu óx andstöðuhópum fiskur um hrygg í Danmörku og þeir voru tilbúnir á friðardaginn 5. maí 1945 með lista yfir handbendi Þjóðverja í styrjöldinni. Það var engin miskunn sýnd, 34.000 manns voru handteknir fyrstu dagana eftir friðardaginn, smalað aftan á vörubíla og keyrðir þannig um götur með uppréttar hendur og skammaryrði hengd um háls. Og múgurinn hrópaði krossfestum þá, eða eitthvað álíka. Mörgum urðu þessir frelsisvinir að sleppa vegna óljósra sannana, en margir fóru í fangelsi og 48 fengu dauðadóm fyrir landráð. Kamban var skotinn án dóms og laga og varð af því mikið milliríkjastapp, sem kunnugt er.
Braggalíf á Melgerðismelum og ekkjustand á Akureyri.
Þeim Ericu og Höyer þótti margt breytt á Íslandi eftir stríðið, ekki síst í garðyrkjunni, þar sem risnar voru stórar garðyrkjustöðvar með fleiri þúsund fermetrum undir gleri. Þó ætluðu þau sér enn að reyna að lifa á landsins gæðum og jarðhitanum. Þau fluttust norður í Eyjafjörð að Melgerðismelum, en þar hafði verið flugvöllur og bækistöð Bandamanna á stríðsárunum. Þar komu þau sér fyrir í bragga, sem þau skiptu í tvennt, annars vegar íbúð og hins vegar afgreiðslusal fyrir flugið. Þar voru þau hjón umsjónarmenn og höfðu greiðasölu. „Við vorum þar mörg góð ár“ sagði Erica í endurminningum sínum.
Sigmundur Benediktsson, Eyfirðingur sem ég talaði við, man eftir þeim hjónum í bragganum, þar sem haldin voru böll sem þóttu nýstárleg. Þar skaust hin dökkeyga, smávaxna Erica á milli dansfólksins og stráði yfir það „Konfetti“-pappírsræmum. Það hafði ekki tíðkast í Eyjafirði þó mörg erlend áhrif hefðu borist til Akureyrar gegnum tíðina. Þessir góðu dagar á Melgerðismelum tóku enda eins og aðrir dagar. Flugið fluttist inn til Akureyrar 1955. Þá var bragginn rifinn og hjónin byggðu sér lítið hús, sem þau nefndu Melbrekku.
Anders Christian Carl Julius Höyer – legsteinn í Möðruvallakirkjugarði – 15 mars 1885-30 júní 1959.
Anders var eins og áður sagði 15 árum eldri en Erica og heilsan fór að bila. Síðustu þrjú árin sem hann lifði var hann á sjúkrahúsinu á Akureyri og lést þar 30. júní 1959. Erica auglýsti látið og jarðarförina rækilega. Fyrst auglýsir hún í Morgunblaðinu: „Hjartkær eiginmaður minn og faðir A.C.Höyer, Melbrekku, áður Hveradölum, lést á sjúkrahúsi Akureyrar 30. júní. Jarðsett verður frá Fossvogskirkju 8. júlí kl. 2“.
Þá er önnur auglýsing þar sem bálförin er auglýst frá Fossvogskapellu þann 7. júlí og undir stendur Erica Höyer og synir. Síðan er í Degi 16. september auglýst minningarathöfn um Carl Höyer Jóhannesson umsjónarmann, sem fari fram daginn eftir frá Möðruvallakirkju. Síðast kemur þakkartilkynning, einnig í Degi, þar sem Erica þakkar öllum sem studdu hana við útförina; sr. Pétri Sigurgeirssyni fyrir ræðu og liðveislu, söngkór fyrir aðstoð og kvenfélagskonum fyrir gefnar veitingar. Það hafa margir lagt þessari erlendu konu lið og hún var vel kynnt hjá þeim sem umgengust hana.
Erika Höyer – Helgafell, 3. hefti 01.05.1942, bls. 149.
Erica átti mörg ár eftir ólifuð sem ekkja á Akureyri. Hún stundaði saumaskap meðan heilsa leyfði, eignaðist vinkonur sem ortu til hennar í minningagrein þegar hennar tími kom. Seinustu tvö árin átti hún heima á dvalarheimilinu Hlíð, en hún lést 9. maí 1982, fyrir aðeins 30 árum.
Annar Kúrlendingur, Wolf von Seefeld, minnist hennar í grein í Íslendingaþáttum Tímans, og nefndi m.a. að hún hafi verið þrítyngd, jafnvíg á þýsku, lettnesku og rússnesku. Íslenskan hennar var ekki alveg eftir málfræðinni sagði hann, en kom beint frá hjartanu. Wolf, sem seinna varð Úlfur Friðriksson, var líka flóttamaður úr stríðunum tveim, fæddur 1912 í Kúrlandi og kom til starfa hjá föður mínum 1955. Hann var fornfræðingur og sagnfræðingur, en hafði „lent í garðyrkju“ upp úr stríðinu. Mér fannst hann vera gamalmenni er ég sótti hann á rútuna þá um sumarið, en þá hefur hann verið 43 ára. Það var þó seigt í karli, því að hann varð 97 ára, mikill Íslendingur og skrifaði bækur, bæði um íslenska hestinn og minningabrot úr Hólavallakirkjugarði.
Nú hef ég verið að stikla á stóru í lífi útileguhjónanna Höyer. Ekki koma öll kurl til grafar með þeirra líf, en þau voru hluti af íslenskri sögu á umbrota- og framfaraskeiði þjóðarinnar og áttu sinn hlut, ekki síður en hinir, sem hér voru bornir og barnfæddir.
Erica gaf Íslendingum góðan vitnisburð í minningarbrotum, sem hún var beðin um að skrifa í jólablað Dags 1957: „Helstu kostir Íslendinga eru heilbrigð skynsemi þeirra og jafnaðargeð. Þeir rasa ekki um ráð fram, þeir gera ekki vanhugsaða hluti í reiðiköstum. Svo eru Íslendingar óþreytandi að hjálpa þeim sem miður mega sín og gestrisni þeirra er frábær“.
Þetta er ekki slæmur vitnisburður hjá gestinum glögga, sem bjó hér í yfir 40 ár. Þau hjónin hvíla í Möðruvallakirkjugarði í Eyjafirði, hlið við hlið, eins og í tjaldinu í Hveradölum forðum. En nú gildir einu þó að rigni.“
Heimildir:
-Árni Óla: Erill og ferill blaðamanns hjá Morgunblaðinu um hálfa öld, (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1963).
Ásgeir Guðmundsson: Berlínarblús. Íslenskir meðreiðarsveinar og fórnarlömb þýskra nasista, (Reykjavík: Skjaldborg,
1996).
-Danmarks Historie, Kjersgaard, Erik, önnur útáfa, 1997.
-Erica Höyer: Anna Iwanowna, (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, [1942]).
-Hallir gróðurs háar rísa, Haraldur Sigurðsson, 1995.
-Grete Grönbech: Árin okkar Gunnlaugs, ([Reykjavík]: Almenna bókafélagið, 1979).
-Garðyrkjuritið, 1953.
-Íslensk dagblöð á ýmsum tímum.
-Sunnlenskar byggðir 3 : Laugardalur, Grímsnes, Þingvallasveit,
-Grafningur, Ölfus, Hveragerði og Selvogur, Páll Lýðsson bjó undir prentun, ([Selfoss]: Búnaðarsamband Suðurlands, 1983).
Gangan tók 1 klst. Frábært veður.
Meginheimildir m.a.:
-Dagur, 16, mars 1955, Ræktaði blóm í Hveradölum – afgreiddi flugvélar í Melgerði, bls. 16.
-Litli Bergþór – 2. tölublað (01.12.2012) – bls. 20-23.
-Íslendingaþættir Tímans, 24. tbl. 23.06.1982, Minning; Erika Höyer, bls. 4.
-Helgafell, 3. hefti 01.05.1942, bls. 149.
Reykjanesviti.
Stríðsminjar I
Minjar stríðs geta verið margskonar. Þær geta verið leifar bygginga, tækja og búnaðar sem tengjast herliði en þær geta líka verið leifar áhrifa hersetuliða á tungumál.
Slysstaðurinn í Kastinu. Þaðan hefur nú, á áttatíu ára tímabili, verið hirt nánast allt er gefur slysstaðnum gildi.
Félagsleg samskipti ólíkra menningarheima, samskipti erlendra hermanna og íslensks kvenfólks sem meðal annars leiddi af sér „ástandið” og „ástandsbörnin”, örnefni eftir staðsetningu herliðs, „stríðsgróðinn” sem varð til vegna mikilla verðhækkana á fiskafurðum okkar, „Bretavinnan” sem útvegaði landsmönnum atvinnu hjá setuliðinu við framkvæmdir og svo framvegis. Þessar „óáþreifanlegu” minjar eru því allsstaðar umhverfis okkur í samfélaginu.
„Áþreifanlegu” minjarnar, svo sem leifar mannvirkja og búnaðs er hins vegar hægt að staðsetja. Bretar hernámu landið 10. maí árið 1940 og sendu hingað fjölmennt setulið síðsumars 1941, eða um 28.000 manns. Bandaríkjamenn hófu að leysa þá af hólmi í júlí 1941 og var hér tæplega 40.000 manna varnarlið frá þeim þegar mest lét. Þar að auki voru liðsmenn bandaríska og breska flotans og flughersins, alls nærri 50.000 sumarið 1943. Til samanburðar má nefna að við manntal árið 1940 voru íbúar Reykjavíkur einungis um 38.000. Þó svo að Bandaríkjaher leysti þann breska af hólmi árið 1941 voru hér breskir hermenn út allt stríðið og allt til ársins 1947.
Brak í Kastinu.
Herinn kom fljótlega upp varnarstöðvum víða um land. Bretar töldu Reykjavík vera langmikilvægasta staðinn sökum góðrar hafnar- og flugvallarskilyrða og því var fjölmennt lið ávallt þar. Þegar Bandaríkjamenn leystu Breta af hólmi þá fylgdu þeim breyttar áherslur við varnarviðbúnað. Stafaði það meðal annars af aukinni baráttu gagnvart kafbátaógn Þjóðverja auk þess sem hættan á innrás þeirra var talin hverfandi. Bandaríkjamenn lögðu enn meiri áherslu á varnir Reykjavíkursvæðisins en Bretar og höfðu allt að 80% liðsaflans á suðvestur horninu. Uppbygging flugvallarins í Keflavík hafði þó eitthvað þar að segja. Í heild námu hernumin svæði hérlendis ríflega 19.000 hekturum og þar af voru byggingar hersins á nærri 5.000 hekturum. Allur aðbúnaður hersveita Bandaríkjamanna var þó allt annar og betri en Breta auk þess sem þeir fluttu hingað með sér mikið magn stórvirkra vinnuvéla. Báðir reistu umfangsmiklar herbúðir víða um land.
Braggahverfi á Skólavörðuholti.
Alls risu um 6000 breskir braggar, hundruð annarra bygginga eins og eldhús og baðhús. Síðar bættust við um 1500 bandarískir braggar. Bretar byggðu aðallega svokallaða Nissen-bragga en Bandaríkjamenn Quonset-bragga. Má segja að megin munur þessara tegunda hafi verið vandaðri smíð þeirra síðarnefndu.
Við árslok 1944 bjuggu rúmlega 900 manns í bröggum í Reykjavík. Búsetan náði hámarki á sjötta áratugnum en þá bjuggu 2300 manns í nærri 550 íbúðum. Á 7. áratugnum var skálunum hins vegar að mestu útrýmt. Á landsbyggðinni voru flestir braggarnir rifnir og seldir bændum og risu þeir víða sem geymslur og fjárhús sem má ennþá sjá í fullri notkun. Enn er jafnvel búið í íbúðarhúsum sem reist voru úr braggaefni.
Reykjavíkurflugvöllur – braggi.
Greiðslur Sölunefndarinnar voru meðal annars ætlaðar til að gera landeigendum kleift að útmá ummerki um veru herliðsins. En mörgum landeigendanna, sem þágu skaðbætur fyrir landspjöll, láðist að hreinsa til eftir veru setuliðsins. því má segja að viðkomandi aðilar hafi með þessu bjargað mörgum ómetanlegum menningarverðmætum frá glötun og vonandi að þau verði varðveitt sem flest um ókomin ár.
Af einstökum byggingum hérlendis er flugturninn við Reykjavíkurflugvöll sennilega merkust en því miður stendur til að rífa hann. Af stærri svæðum eru helst Öskjuhlíðin og Brautarholt á Kjalarnesi sem gefa heillega mynd af varnarviðbúnaði bandamanna hérlendis. Hvalfjörður, Reykjavíkurflugvöllur og Pattersonflugvöllur á svæði varnarliðsins við Keflavík hafa sömuleiðis að geyma mjög merkar minjar um síðari heimsstyrjöldina.
Öskjuhlíð – skotbyrgi.
Í borgarlandinu hafa stríðsminjar helst varðveist í Öskjuhlíð og á Reykjavíkurflugvelli sem nær yfir Vatns- og Seljamýri. Af varnarviðbúnaðinum á Öskjuhlíðinni eru meðal annars steypt skotbyrgi, stjórnbyrgi, víggrafir úr torfi og grjóti, loftvarnarbyrgi, varnarveggir fyrir eldsneytistanka, neðanjarðarvatnstankar, bryggjustubbur, veganet, fjöldi gólfa og grunna undan bröggum og öðrum byggingum og akstursbrautir fyrir flugvélar.
Braggar við Keflavíkurflugvöll.
Nokkrir braggar eru við rætur Öskuhlíðar. Hluti gistibúða farþega og flugáhafna breska flughersins (e. Transit Camp) má enn sjá í Nauthólsvík. Öll stóru flugskýlin fjögur á Reykjavíkurflugvelli eru frá stríðsárunum og sömuleiðis gamli flugturninn. Allar meginbrautir flugvallarins voru lagðar á stríðsárunum en hafa verið lengdar og endurbættar eftir stríð. Nær allt lauslegt frá stríðsárunum hefur verið fjarlægt eða ryðgað og fúnað. Þar á meðal gaddavírsgirðingar og sandpokavígi.
Patterson 1942.
Patterson og Meeks flugvellirnir sem lagðir voru í Keflavík árin 1942 og 1943 mynduðu Keflavíkurflugstöðina sem var meðal þeirra stærstu í heimi enda var vallargerðin dýrasta herframkvæmd hérlendis. Þar er meðal annars stóra flugskýlið af Kaldaðarnesflugvelli sem var rifið í ágúst 1943 og sett upp við vestanverðan Keflavíkurflugvöll. Það hýsir nú tækjabúnað til snjó og hálkuvarna. Minna flugskýlið var rifið sumarið 1944 og sett upp við Reykjavíkurflugvöll.
Garðaholt – stríðsminjar.
Af öðrum stríðsminjum má nefna að minjar um ratsjárstöðvar og kampa eru meðal annars uppi á Þorbjarnarfelli við Grindavík og leifar skotbyrgja og skotstöðva má einnig sjá við Vífilsstaði, Hraunsholt, á Garðaholti, Nónhæð og á Seltjarnarnesi.
Ásfjall – stríðsminjar.
Hlaðin byrgi og skotgrafir má m.a. sjá á Ásfjalli, Urriðaholti, Rjúpnahæð og víðar. Miklar framkvæmdir kalla á töluverða malartöku til uppfyllingar og vegagerðar. Við Reykjavík var helst sótt í námur úr Rauðhólunum og Öskjuhlíð. Af einstökum verkefnum vó uppfyllingin undir Reykjavíkurflugvöll þar þyngst. Segja má að Rauðhólarnir hafi ekki borið sitt barr síðan.
Af ummerkjum beinna hernaðarátaka má nefna þegar þýska vélin JU-88 var skotin niður 24. apríl 1943 á Strandarheiði. Bandamenn misstu þó mun fleiri vélar sjálfir vegna tíðra slysa. Til dæmis fórust að minnsta kosti 43 hervélar auk 11 sjóvéla á Reykjavíkursvæðinu.
Reykjavíkurflugvöllur 1942.
Allar flugvélaleifar í nágrenni Reykjavíkur hafa nú verið fjarlægðar. Málmurinn var notaður í brotajárn eftir stríð og sérstaklega var sóst eftir álinu. Til dæmis keyptu Stálhúsgögn hf. 32 Thunderbolt P-47 orrustuvélar 33. flugsveitarinnar fyrir 10.000 krónur við stríðslok og bræddu þær niður í stóla og borð. Flugvélaflök er nú helst að finna í Fagradalsfjalli og við Grindavík. Töluvert er líka um flugvélaflök í sjónum. Flugvélar stríðsaðila sem fóru í sjóinn hafa sumar hverjar verið að koma upp með botnvörpum togaranna. Þær eru flestar á óaðgengilegum stöðum og koma upp í bútum.
Sprengjur eru enn að koma upp úr jörðu á skotæfingasvæðum vegna frostlyftingar og hafa valdið mannskæðum slysum. Skotæfingasvæði voru meðal annars við Kleifarvatn og við Snorrastaðatjarnir.
Skotbyrgi á Garðaholti.
Bandaríski landherinn notaði sprengjuæfingasvæðin á Reykjanesi á sjötta áratugnum. Leitað hefur verið á aðgengilegustu svæðunum en ókleift er að finna allt. Líklega hafa um 1000 sprengjur fundist bara við Vogastapa. Öryggisbúnaður þessara sprengja er oftast illa farinn og mjög lítið hnjask þarf til að þær springi. Mikið af tundurduflum var á reki í og fyrst eftir stríðið og helsta vörnin gagnvart þeim var að skjóta á þau og sökkva þeim. Núna eru þau svo að koma í veiðarfæri fiskiskipa sem hófu að sækja á nýrri mið með tilkomu fullkomnari botnvarpa. Fyrir 10 árum var þetta mánaðarlegur viðburður en hefur dregist töluvert saman nú orðið. Töluvert af óvirkum djúpsprengjum hefur líka komið í veiðarfæri í Faxaflóa suður af Malarrifi. Sennilegt er að þeim hafi verið varpað frá borði herskipa eða flutningabáta sem ráðnir voru til að sökkva þeim.
Heimild:
-http://www.visindavefur.hi.is
Uppdráttur af Camp Russel á Urriðaholti.
Valahnúkshellir
Leitað var Valahnjúkshellis, en gamlar sagnir eru um mikinn draugagang í hellinum. Eftir að mikið timbur rak á Valahnjúksmalir á 18. öld voru vinnumenn Kirkjuvogsbónda við sögunarvinnu á mölunum. Þeir hlóðu byrgi og tjölduðu á mölunum.
Tröll á Valahnúkum.
Sagan segir að einn sögunarmanna hafi fundið þurran og rúmgóðan helli uppi í hnúknum og hafi þeir flutt sitt hafurtask þangað. Fyrsta kvöldið, eftir að hafa farið með bænir og sygnt sig, sofnuðu þeir, en vöknuðu fljótlega aftur við lætin í hundunum og raddir ósýnilegra manna. Kvað svo rammt að þessu að þeir urðu að flýja út í sunnanbálið, sem þá geisaði. Nokkru seinna komu tveir menn til sögunarvinnu frá Kirkjuvogi, en vildu ekki, þrátt fyrir beiðni heimamanna, að taka með sér tjald, því þeir höfðu ákveðið að gista í hellinum. Um nóttina kom annar mannanna aðframkominn heim að Kirkjuvogi.
Félaga hans var leitað og fannst hann á reiki um hraunssandinn. Aldrei fékkst upp úr þeim hvað gerðist í hellinum um nóttina. Hellirinn sést ekki nema þegar komið er alveg að opinu.
Valahnúkur – Draugahellir.
Skoðaður var upphlaðinn stígur, sem liggur frá Bæjarfelli að Valahnjúkum.
Hellisskútinn uppi í austanverðum Valahnúk er ekki verri Draugahellir en hver annar. A.m.k. fékkst hundkvikindi, sem var með í för, ekki til þess að fara þangað inn ótilneytt. Hafi hellirinn verið sunnan í hnúknum er hann löngu horfinn því aldan sverfur stöðugt af honum framanverðum.
Undir austanverðum Valahnúk má sjá sjá hleðslu undan búðum. Hún gæti hafa verið gerð þegar fyrsti vitinn á Íslandi var reistur á Valahnúk 1878. Leifar vitans liggja nú neðan og norðan við hnúkinn.
Reykjanes – sundlaug.
Þá var skoðuð gamla hlaðna sundlaugin, sem Grindavíkurbörn lærðu að synda í um og eftir 1930.
Frábært veður.
Við Reykjanesvita – uppdráttur ÓSÁ.
Úr Ferðabók Eggerts og Bjarna
Hér kemur svolítil, en forvitnileg lýsing, úr „Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um Reykjanesskaga 1752-1757„:
Krýsuvíkurhraun – herforingjaráðskot.
„-Sunnan við Reykjanes er Grindavíkurhöfn, en Bátsandar, sem farmenn kalla Bátssanda, fyrir norðan.
-Sagt er að nykur sé í ýmsum stöðuvötnum. En þetta er allt of alvanalegt, og höfum við áður skýrt skoðun okkar á því efni.
-Grænavatn er í grennd við Krýsuvík. Það er ekki aðeins merkilegt sakir dýptarinnar, sem valda mun litnum á vatninu, sem það dregur nafn af, heldur einnig af því, að þeir, sem búa þar í grennd, segja, að þeir hafi oft séð furðuleg kykvendi koma upp úr því, en þau hafa þó ætíð verið mjög skamma hríð ofan vatns.
Grænavatn.
Maður nokkur fullyrti við okkur, að hann hefði eitt sinn sjálfur séð slíka skepnu. Hún hafi verið smávaxin, á stærð við hnísu, en hún hvarf skjótt aftur. Í Kleifarvatni eru greinilegri frásagnir. Árið 1755 sagði maður einn okkur, að hann hefði þá fyrir skemmstu séð einhvers konar skepnu synda í vatnsborðinu. Að lögun og lit líktist hún skötu, en var geysileg fyrirferðar. Öllum bar saman um, að kykvendin í Kleifarvatni séu stórvaxnari en í Grænavatni og sjáist lengur í einu.
Kleifarvatn – Indíaninn.
Þegar við vorum á þessum slóðum 1750, var okkur sagt margt um Kleifarvatn, aðallega þó það, að þótt menn vissu, að vatnið væri fullt af fiski, sem vakir þar sífellt í yfirborðinu, þyrðu menn ekki að veiða í því fyrir ormi eða slöngu, sem væri í vatninu.
Kleifarvatn.
Ormur þessi væri svartur á lit og á stærð við meðalstórhveli, eða 30-40 álna langur. Fylgdarmaður okkar sagði okkur, að hann hefði oftsinnis horft á orm þenna, bæði þegar hann hefði verið þar einn á ferð og í hópi annarra manna, því að oftast þegar ormurinn sést, er hann nálægt tveimur mínútum uppi. Hann sagði okkur einnig, að í ágústmánuðu 1749 hefi allmargt fólk, bæði karlar og konur, sem var að heyskap við vatnið í kyrru veðri og sólskini, séð orm þenna miklu betur en nokkur maður hefðu áður gert, því að hann hefði þá skriðið upp úr vatninu upp á lágan og mjóan tanga eða rif, sem gengur út í það, og þar hefði hann legið í hart nær tvær klukkustundir, áður en hann skreiddist út í vatnið á ný.
Herdísarvík 1898.
Fólkið var svo skeflt allan þenna tíma, að það þorði ekki fyrir sitt líf að nálgast orminn, en af því að hann lá hreyfingarlaus allan tímann, flýði það ekki brott, en samt gat það ekki frá því skýrt, hvernig ormurinn komst upp á land eða hvernig hann fór aftur út í vatnið. En mergurinn málsins er þetta, að ormurinn kom upp úr vatninu, óx eða hækkaði og skreið áfram, án þess að því bæri, og hvarf síðan, á meðan fólkið sá til. Við höfum tilgreint þess sögu til þess að bera hana saman við og treysta það, sem áður er sagt um Lagarfljót.
Hverinn eini.
-Hverinn eini heitir kunnur hver, sem liggur nokkrar mílur norðaustur frá Reykjanesi, mitt á milli þess og Krýsuvíkur. Sagt er að hverafuglar, svartir á lit á stærð við smáendur, fiðurlausir með smávængjum, stingi sér í hverinn. (Rétt er að geta þess að hverafuglar verpa jafnan harðsoðnum eggjum, sbr. harðsoðnu eggin ofan við brennisteinstökusvæðið, skammt neðan búðartóftanna, í Brennisteinsfjöllum).
-Fyrir utan Eyrabakka er byggðalagið Flói. Þar búa Flóafífl.
-Magahúð dýra, einkum nautgripa, er skæni kallast, er að vísu notað í glugga, en algengt er það ekki og alls ekki í glugga íveruherbergja, því að það ber lélega birtu, enda þótt það sé sterkt og endingargott. Þess vegna er það mest notað í önnur hús, fjós og þess háttar.
Gluggi (skjár) á torfbæ.
Algengasta gluggaefnið er líknarbelgur. Er það hin tvöfalda fóstuhimna dýranna. Innri og fíngerðari himnan er kölluð sérstaklega vatnsbelgur. Einkum er teknar fósturhimnur úr kúm, en stundum einnig úr ám. Eru þær svo tærar og gegnsæjar, að menn fá ekki séð úr nokkurri fjarlægð mun á þeim og loftinu.“
-ÓSÁ tók saman.
Kleifarvatn.
Sögur af Selatöngum og nágrenni
Selatangar á suðurströnd Reykjanesskagans, hin forna verstöð Krýsuvíkurbænda, Ísólfsskálabænda og Skálholtsdómkirkju hafa gefið af sér ýmiss ævintýri, skrímsla- og draugasögur sem og sagnir af álfum og tröllum.
Gengið um Selatanga.
Hér hefur verið gerð samantekt fyrir þá/þær, sem bæði hafa gaman af sögnum og vilja til að gæða landslagið lífi. Sumar sögurnar eru til í ýmsum myndum, en hér eru þær staðfærðar upp á Selatangana.
Ögmundarhraun er talið hafa runnið árið 1151. Katlahraun, það er umlykur Tangana að vestanverðu, er hluti þess. Verstöðin sjálf getur því ekki verið eldri en frá 12. öld. Þá er talið að Skálholtsdómkirkja hafi ásælst flestar sjávarjarðir á suðurströnd Skagans, en svæðið var eitt gjöfulasta forðabúr landsins á þeim tíma sem og eftirleiðis. Helsta útflutningsvaran varð og er enn verkaður fiskur. Þá var fiskur frá Grindavík og nágrenni helsta viðurværi biskups, hans fólks og skólasveinanna í Skálholti um langa tíð. Sjórinn hefur nú tekið til sín hinar fornu minjar fyrri alda. Núverandi minjar á Selatöngum eru því nánast allar frá því á 19. öld, en eru þó hinn ágætasti vitnisburður um söguleg tengsl fortíðar við nútíðina.
Tanga-Tómas (draugasaga)
Verkhús á Selatöngum.
Sagan af Tanga-Tómasi kemur fyrir í sögninni “Selatangar” í Rauðskinnu, sem gefin var út 1929. Síðan hefur hún verið gefin út í nokkrum útgáfum. Hér er sagan svona [með innskotum vegna mismunar í öðrum frásögnum af sama atburði]:
“Á Selatöngum, miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og göðrum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herslu. Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs, og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum þeirra höfðu þeir kvörn sína, og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir, og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum, og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum. Á Selatöngum mun ort hafa verið margt um manninn, eins og ráða má af vísu þessari um sjómenn þar:
Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Árna, Þorkel, Svein,
fimm Guðmunda og Þorstein þá,
þar með Guðlaug, Freystein,
Einara tvo, Ingimund, Rafn,
Vilhjálmur Gesti verður jafn,
Selatanga sjóróðramenn;
sjálfur guð annist þá.
Selatangar – Vestari rekagatan.
[Hér er um að ræða stytta afbökun á vísunni. Hún mun vera til í nokkrum útgáfum og jafnvel heimfærð upp á aðrar verstöðvar með suðurströndinni.]. Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar Sæmundsson hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mælt, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur.
Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið, að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: “Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini”.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeita. var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt, er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefnið.
Selatangar – austari rekagatan.
Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki, fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini, að hann hélst loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. [Í annarri sögu af sama atviki kemur fram að þegar Beinteinn hafi ætlað að ganga til náða, gert krossmark fyrir dyrum, lagt hurðina aftur og stein fyrir svo Tanga-Tómas héldist úti, hafi draugsi rumskað, séð að hann hafði verið lokaður inni, ráðist á Beintein og þeir slegist úti sem inni. Hafi Beinteinn komist berfættur og við illan leik heim að Arnarfelli og þurft að liggja þar næstu daga til að jafna sig]. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi, og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður.
Selatangar – verbúð.
[Í hljóðrituðu viðtali við Sæmund Tómasson frá Járngerðarstöðum, sem varðveitt er hjá þjóðháttadeild Árnastofnunnar, kemur fram að Beinteinn frá “Vigdísarvöllum” hafi skorið silfurhnappa af peysunni sinni til þess að skjóta á drauginn því það hefði verið eina ráðið. Í enn annarri frásögn kemur hins vegar fram að silfurhnappar hefðu ekki dugað á Tanga-Tómas, einungis lambaspörð]. Sjá m.a. HÉR.
Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: “Og hann fylgir staurunum, lagsi”.
Nokkuru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæu ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Selatangar – verkhús fjær og verbúð nær.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu verbúð, sem eftir var þar þá, og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttunni, en fara á fætur með birtu og ganga þá fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum, og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig, að Einar svaf við gaflhlaðið, en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagst niður, töluðu þeir saman dálitla stund, og segir þá Guðmundur meðal annars: “Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar”? Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætla að sofna, en er þeir hafa legið litla stund, þá heyra þeir, að ofan af ytra bálkanum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað, Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir, er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna: “Þarna er hann þá núna”, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli, sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, einn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekar til sín heyra.
Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafst þar við síðan.
Tangaboli (skrýmsli)
Selatangar – þurrkbyrgi.
Við sjóinn vestan af hinum forna stað Húshólma í Krýsuvík, þann stað er hraunið í eyði lagði um miðja 12. öld, eru Selatangar eða Seltangar, eins og fyrrum var kveðið. [Það nafn færðist síðar á tanga í Hólmasundi]. Lengi vel var talið að þar hafi selstöð verið, en lagst af þegar Tangarnir voru teknir undir útver Krýsuvíkurbænda á 18. öldinni. Kletturinn Dágon með tveimur bræðrum sínum skiptir jörðum Krýsuvíkur og Ýsuskála, sem nú mun heita Ísólfsskáli, neðan við gömlu búðina. LM er klappað í klöppina neðan við Dágon og sést markið enn í lágfjöru.
Katlahraun.
Katlahraun heitir hraunið vestan við Tangana. Í því er Ketillinn. [Sumir nefna þann stað Borgir eftir hraunborgunum í því miðju]. Austast í Katlahrauni, í viki víkur er krókur eða hellir nokkur sem kallaður var Bolabás, en nú nefndur Nótarhellir. Eftir að verstöðin lagðist af á Selatöngum var staðurinn notaður til selaveiða. Var þá dregið fyrir selinn yfir víkina af löngum tanga, sem enn sést og yfir í hellirinn. Ekki er hægt að komast niður í hann af háum hraunkambinum eða ganga þurrum fótum í hann með sjónum nema þegar velfjarað hefur út. Um Tangabola er saga sú er nú skal greina:
Það var trú manna að í Bolabás væri vættur einn sem kallaður var Tangaboli, og eru engar sögur um það hvörs kyns hann væri, en sagt er að hann hefði mannsmynd niður að mitti, en menn greinir á um hvort neðri hlutinn átti að hafa líkst sel eður nauti, en það var annað hvört. Öngvir eru nú lifandi er hann gátu hafa séð.
Selatangar – verkhús.
Þegar Tangaboli hafði aðsetur í hellinum hljóðaði hann ákaflega, einkarlega undir slæm suðaustanveður, sumar sem vetur, en sú átt stendur beint upp á Bolabás.
Engum átti hann þó að hafa gjört illt og líka var sjaldgæft að sjá hann; þó er sagt að eitthvört sinn hafi maður verið á gangi upp á kambinum að vitja um refagildru er hann heyrði Tangabola hljóða ámátlega. Maðurinn, sem var bæði hvatvís og ófyrirleitinn, fór með mesta flýti ofan og suður með hraunkambinum til að sjá skepnu þessa; honum tókst það líka og átti hann að segja svo frá að kvikindi þetta hafi verið mjög svo aumlegt og ljótt og hafi sagt við sig að honum mundi verða það lítið til gæfu að kappkosta að skoða sig, en fór við það svo búið í helli sinn. En sagt er að maðurinn hafi orðið lánlítill eftir þetta.
Selatangar – sjóbúðartóft.
Fáum árum áður lágu þar tveir menn við í búðinni á Selatöngum, en voru við róðra þess á milli. Höfðu ungan dreng með sér til léttis. Annar maðurinn var frekur og ósvífinn og alþekktur að því alla sína tíð. Nú um nóttina tók Tangaboli að hljóða, en fyrrnefndur maður tók undireins með háðsglósum til við að herma eftir honum. Við það espaðist Tangaboli svo að þeim sem vöktu þótti sem hljóðið væri einlægt að færast nær og verða grimmlegra, og seinast heyrðist þeim sem hljóðið væri komið heim undir búð. Þá beiddi hinn þennan að hætta að herma eftir því, hvað hann og gjörði, enda haldið að honum hafi ekki verið farið að finnast til, en þegar hann hætti að herma eftir. Þá hætti líka Tangaboli undireins að hljóða.
Sjóbúð.
Ekki er um það borið á móti að aftur hafi heyrst til Tangabola við komur manna á Selatanga, einkum þegar brimasamt er. En eftir að fella féll úr berginu ofan við op hellisins fyrir nokkrum árum er ekki vitað til að heyrst hafi til Tangabola enda er nú sjórinn búinn að brjóta mikið upp hellirinn hans svo hann er orðinn víðari og opnari og ólíkur því sem áður var. Því verður ekki neitað að vættur þessi var til, en líkast virðist hann hafa verið af sjóskrímslakyni. Vissa er um eina sanna sögu um það að það hafi verið til hér í sjónum:
Gengið um Selatanga.
Þegar Gvendur bjó á Skála var einn bræðra hans þar með honum um tíma. Bróðirinn var skotmaður frægur og hagleiksmaður með marga hluti.
Eitt sinn skaut Gvendur sel; bróðirinn stóð í fjörunni, en selurinn var á sundi út á sjó. Selurinn var dauðskotinn, og sendi Gvendur hundinn þeirra bræðra eftir honum, en hann réði ekki við selinn. Fór þá Gvendur sjálfur og ætlaði að sækja selinn, en sneri aftur allt í einu þegar hann átti skammt þangað sem selurinn var, og kom í land aftur. Var hann þá spurður hvað til hafi komið að hann fékkst ekki við selinn, en hann sagði að móti sér hefði komið sjóskrímsli bæði ljótt og mikið vexti og hann skyldi aldrei að nauðsynjalausu fara til sunds í þennan sjó.
Þótt kvikindið hafi ekki sést í seinni tíð er ekki hægt með öllu að fortaka að Tangaboli sé allur.
Sjórekna skútan (draugasaga)
Sögunarkór í Katlahrauni.
Fyrir mörgum árum fórst bátur utan við Selatanga með 7 mönnum. Þrír komust á kjöl og kölluðu á hjálp því að margir vermenn stóðu á sandinum – báturinn barst á skammt undan lendingu – en brimið var svo mikið að ómögulegt var að hjálpa þeim.
En er mennirnir voru allir dauðir og drukknaðir þá snerist báturinn við og kom sjálfur í land eins og honum væri stýrt. Stóð hann svo uppi í sandfjörunni vestan við Dágon og snart enginn við honum fyrr en veturinn eftir er hann var færður lengra upp á land. Vildi enginn róa bátnum framar því að geigur stóð mönnum af honum.
Þegar báturinn var settur upp á land stóð fjármaður frá Ísólfsskála, sem er þarna vestan við Hraunsnesið, uppi undir Katlahraunsbrúninni að leita fjár. Sá hann þá að öll dauða skipshöfnin gekk á eftir bátnum þegar hann var settur upp og var ófrýn á að sjá. Eftir það stóð báturinn í djúpri sandhvilft upp við berghamarinn.
Selatangar – rekagatan (Tangagatan) um Katlahraun.
Skömmu seinna reið þar um bóndi utan af Vík er Guðmundur hét og bjó á Þorkötlustöðum. Ætlaði hann austur undir Fjöll. Þetta var í svartasta skammdegi og reið Guðmundur bóndi Tangagötuna, um Ketilinn og út á bergbrúnina því þar liggur alfaravegurinn. Hundur fylgdi með í för. Gatan beygir þarna til norðausturs ofan við sandhvilft. Þegar Guðmudnur er kominn á móts við hana mætir honum maður er hann bar eigi kennsl á og segir sá við hann:
„Settu með okkur, lagsmaður!“
Guðmund grunar ekkert því að báturinn sást ekki af götunni og tekur hann vel undir þetta. Ekki mælti maður þessi fleira en snýr við og bendir Guðmundi að koma á eftir sér. Guðmundur ríður svo á eftir honum en það þótti honum skrýtið að hestur hans var alltaf að frýsa og virtist nauðulega vilja elta manninn. Hundurinn var og afundinn og flóttalegur ásýndum.
Refagildra við Selatanga.
Nú koma þeir í lágina þar sem báturinn stóð og sér Guðmundur þá 6 menn standa í kringum bátinn og voru svaðalegir álitum. Þá man Guðmundur fyrst eftir frásögnum af bátreikanum undan Tanganum um haustið og þykist hann þarna þekkja þá sem drukknað höfðu. Verður hann þá skelkaður mjög og slær upp á klárinn. Tekur hann til fótanna en Guðmundur heyrir draugana kveða vísu þessa um leið og hann reið upp úr lautinni:
Dágon á Selatöngum.
Gagnslaus stendur gnoð í laut,
gott er myrkrið rauða.
Halur fer með fjörvi braut,
fár er vin þess dauða,
fár er vin þess dauða.
Guðmundur nam vísuna. [Hún er bæði til í annarri útgáfu auk þess sem vísan hefur verið notuð með öðrum þjóðsögnum]. Reið hann nú allt hvað af tók og náði í Krýsuvík um kvöldið. Eftir það fór Guðmundur bóndi aldrei einn um þennan veg og lét alltaf einhverja fylgja sér þótt albjartur dagur væri.
Báturinn var loks höggvinn að mestu niður í eldinn, en áður höfðu menn oft heyrt högg og brak í því, einkum er kvölda tók. Enn má þó merkja leifar úr bátnum inni í Rekavik [vik var stundum notað yfir skjól ofan ströndina, en vík niður við sjó] ofan við Selatanga.
Ketilskessan (tröllasaga)
Selatngar – þurrkbyrgi.
Skessa bjó í Festisfjalli ofan við Ægisand austan við Grindavík. Frænka hennar hafði dvöl í helli einum í Katlinum í Katlahrauni skammt vestan við Selatanga. Hellir þessi var stundum nefndur Skessuhellir, en vermenn er síðar voru á Selatöngum nefndu hann Mölunarhellir. Lítið hafði hún gjört mönnum til móðs. Einu sinni fór hún að ganga á rekana. Ekki er getið um að hún hafi fundið nokkuð á rekunum, en á heimleiðinni varð hún naumt fyrir, því hana greip skyndilega jóðsótt þar á leiðinni.
Á Katlinum er steinn mikill; skammt frá alfaraleiðinni. Þar lagðist hún við og fæddi barn sitt. Kom þá maður með hest til hennar og beiddi hún hann að liðsinna sér. Maðurinn gjörði það. Hún fékk hann til að lofa sér að ríða hestinum og hjálpa sér að Festisfjalli. Hann segir: „Stíg þú á bak stórkona, en sligaðu ekki hestinn.“
Selatangar – þurkkbyrgi.
Hún strauk höndum um hrygg hestsins og fór síðan á bak. Reiddi hann hana upp með Móklettum, á Siglubergsháls og að fjallinu. En er hún steig af baki var alblóðugt bakið á hestinum. Hún bað hann hafa þökk fyrir, en hesturinn mundi aldrei uppgefast.
Steinninn er síðan kallaður Skessusteinn og er enn í Katlinum og laut við hann.
Annað sinn fór skessan á fjöru, en er hún kom af fjörunni mætti henni maður sá er Hjálmar hét. Réðist hún á hann; fór hann heldur halloka. Urðu það úrræði hans að hann greip hægri hönd sinni í magaskegg skessunnar og felldi hana með því.
Bað hún hann þá að gefa sér líf, hvað hann gjörði. En er hún var upp staðin þakkaði hún Hjálmari lífgjöfina.
Sagt er að skessan hafi enn viðdvöl í helli sínum í Katlinum. Þegar veður eru góð og lygnt á Töngunum og vel er hlustað má heyra hana raula við barn það er hún fæddi við Skessustein, en hann er skammt frá opinu.
Bátamál (fyrirbærasaga)
Selatangar – Smíðahellir.
Eftirfarandi galdrasaga var oftlega sögð á sagnastundum vermanna á kvöldvökum eða landlegum Selatöngum:
„Stundum heyrist marra í bátunum þótt logn sé og þeir standi í naustum. Það er málipð bátanna sem fáum er gefið að skilja.
Einu sinni var þó maður er skildi bátamál. Hann kom þar að sem tveir bátar stóðu og heyrir hann að annar bátanna segir: „Lengi höfum við nú saman verið, en á morgun verðum við að skilja.“
„Það skal aldrei verða að við skiljum,“ sagði hinn báturinn, „höfum við nú verið saman í þrjátíu ár og erum við orðnir gamlir, en ef annar ferst þá skulum við farast báðir.“
„Það mun þó ekki verða. Gott veður er í kvöld, en annað veður mun verða á morgun og mun enginn róa nema formaður þinn, en ég mun eftir verða og allir bátar aðrir. En þú munt fara og aldrei aftur koma; munum við eigi standa hér saman oftar.“
„Það skal ekki verða og mun ég ekki fram ganga.“
„Þú munt þó verða að ganga fram og er þessi nótt hin síðasta sem við verðum saman.“
„Aldrei skal ég fram ganga ef þú fer ekki.“
Rit um Selatanga.
„Það mun þó verða.“
„Ekki nema andskotinn sjálfur komi til.“
Eftir þetta töluðu bátarnir svo hljótt að heyrandinn í holtinu nær heyrði ekki hljóðskraf þeirra.
Morguninn eftir var veður ískyggilegt mjög og sýndist engum ráð að róa nema einum formanni og áhöfn hans. Gengu þeir til sjóar og margir fleiri sem ekki varð úr að réru.
„Skinnklæðið ykkur í Jesú nafni,“ segir formaður sem títt er. Þeir gjöra svo.
„Setjum fram bátinn í Jesú nafni,“ segir formaður eins og vant var. Þeir taka til, en báturinn gekk ekki fram. Heitir þá formaður á sjómenn aðra sem þar voru staddir að duga þeim, en það kom fyrir ekki. Þá heitir hann á alla sem við voru að setja fram bátinn og gekk þá maður undir manns hönd, og kallar nú formaður: „Setjum fram bátinn“ með sama formála sem áður. En báturinn gekk ekki að heldur.
Þá kallar formaður hátt: „Setjið fram bátinn í andskotans nafni.“ Hljóp þá báturinn fram, og so hart að ekki varð við ráðið og á sjó út. Sóferðabænin misfórst sem og annað regluverk. Höfðu haldsmenn nóg að vinna; síðan var róið, en ekki hefur sést til þess báts síðan og ekki spurst til nokkurs sem á honum var.“
Álfheimar (álfasaga)
Nótarhellir við Selatanga.
Unglingspiltur var einu sinni með öðrum vermönnum á Selatöngum. Hann hafði orðið eftir er aðrir réru. Ákvað hann að ganga sér til hreyfings. Veður var heitt eins og oft vill vera á suðurströndinni. Í leið sinni til baka varð hann bæði göngumóður og þyrstur, en hann kom hvergi auga á vatn til að svala sér á.
Katlahraun – ströndin.
Hann gengur nú hjá hömrum vestast á Töngunum og heyrist honum þar eitthvað inni; hann ímyndar sér að einhverstaðar kunni vatn að renna ofan af klettinum og fer að skyggnast um. Þá heyrir hann glöggt strokkhljóð og í sama vetfangi þykir honum hamarinn vera opinn og sér hann þar unglegan kvenmann snöggklæddan sem stendur upp við háan rúmgafl og skekur strokk. Við þessa sýn verður honum nokkuð bilt, en horfir þó um stund á stúlkuna og virðir hana fyrir sér.
Hún horfir líka á hann og hættir á meðan verki sínu og segir loksins: „Ertu þyrstur; viltu drekka?“
Við þetta ávarp varð hann dauðhræddur og hljóp í burtu. Þegar aðrir vermenn komu að landi sagði hann einum þeirra, greindum manni, þessa sýn. Þá sagði hinn: „Ekki skyldi mér hafa farið eins og þér; ég skyldi hafa þegið það sem mér var boðið.“
En næstu nótt dreymdi piltinn sömu stúlkuna og segir hún við hann: „Því vildir þú ekki þiggja af mér svaladrykk? Ég bauð þér hann í einlægni.“
Pilturinn þóttist svara: „Ég gat það ekki fyrir hræðslu.“
Varða við vestari rekagötuna.
Þá segir hún: „Hefðir þú þegið af mér að drekka skyldir þú hafa orðið mesti auðnumaður, en nú legg ég það á þig að þú getir aldrei orðið annað en fjársmalamaður.“ Að svo mæltu hvarf hún.
Er frá því að segja að pilturinn fór úr verinu af ótta við stúlkuna; hann sá hana ekki oftar, hvorki í vöku né svefni. En ámæli hennar urðu að áhrínsorðum.
Með réttu, án þess að þurfa að bæta þar nokkru við, er fjölmargt auk þessa að skoða og upplifa á Selatöngum. Minjasvæðið er bæði aðgengilegt og auðgengið, en hefur verið verulega vanrækt af þeim opinberu yfirvöldum, sem gæta eiga menningarverðmætanna. Grindavíkurbær hefur þó af eigin frumkvæði reynt að leiðbeina fólki um svæðið, leggja göngustíga og setja upp upplýsingaskilti, án þess að Menntamálaráðuneytið (Þjóðminjasafnið og Minjavernd ríkisins) hafi svo sem sýnt hinn minnsta vott um áhuga á menningarvarðveislu svæðisins. Benda má í því sambandi á viðleytni Menningarfélags Grindavíkur er gaf út á sínum tíma bækling um svæðið. Hann er enn til fáanlegur í Saltfisksetri Íslands í Grindavík. Síðast er fréttist voru sex eintök enn óseld.
Refagildra á Selatöngum.
Hvassahraun – Lónakot
Gengið með ströndinni frá Hvassahrauni að Lónakoti. Byrjað var við gamla Keflavíkurveginn skammt ofan við gömlu Hvassahraunsréttina. Í þessari lýsingu er ekki ætlunin að lýsa örnefnum sérstaklega heldur fyrst og fremst því sem fyrir augu bar á leiðinni.
Hvassahraunsrétt.
Réttin er hlaðin, ferningslaga, norðaustan utan í hraunhól vestan í hæðinni þar sem vegurinn er hæstur austan Hvasshrauns. Gengið var skáhalt niður lyngvaxið hraunið. Lóuhreiður á mosa og þrastarhreiður í kjarri, en síðan blasti skyndilega við hinn blákaldi veruleiki; sundurtættur mávur og einungis fjaðrinar eftir. Refurinn þarf jú sitt til að geta skrimt.
Bergmyndanirnar með ströndinni eru bæði fjölbreytilegar og stórbrotnar. Sumstaðar eru þverfallnir stuðlar, annars staðar hefur hraunið runnið lagskipt í sjó fram. Aldan hefur síðan dundað við að brjóta það upp, hnoða það í grágrýtiskúlur og varpa upp á land. Víða má sjá holu- eða bráðnunarmyndanir í annars hörðu berginu. Fjölbreytileikinn virðist ótakmarkaður. Um er að ræða forsögulega hraunmyndun, líklega frá fyrra hlýskeiði, milli síðustu ísalda. Sjórinn hefur dundað sér við að brjóta upp hraunflekana og fagurgera hraunyndanirnar áður en hann skellti þeim upp á sjávarbakkann.
Réttarklettar- stekkur.
Hrafnklukka, lambagras, bláberja- og krækiberjalynd, ljónslappi og fleiri tegundir hafa tekið sér svæðisbundna búsetu; hver tengundin tekur við af annarri.
Á Hraunsnesi og ofan við það eru fallega lygnartjarnir milli stórbrotinna hraunhóla. Botninn er gróinn því þarna gætir fljóðs og fjöru. Græni liturinn undir blámanum setur sjarmerandi svip á svæðið. Þannig skiptast litirnir í tjörnunum eftir því hvernig birtan fellur til.
Á leiðinni var fjölmargt að sjá; hnyðjur, rekaviður, brúsar, kúlur, ryðgað járn, garða, fjárskjól, selsstaða, fjárskjól, flöskuskeyti og hvaðaneina er prýtt getur fallega fjöru.
Hraunsnesskjól.
Fjárskjól er í Hraunsnesi og einnig skammt austar. Þar eru garðar, stekkur og tóftir. Grunur er um að þarna hafi Lónakot haft selstöðu um tíma, en að öllum líkindum hafa mannvirkin verið nýtt til útróðra þess á millum. Gerðið er afgirt hleðslugörðum og sæmileg lending er neðan við klettaborgina, sem selsstaðan hefur verið mynduð í kringum. Skammt suðvestan við hana eru hlaðið fjárskjól í hraunkrika.
Myndarlega hlaðið gerði er skammt austar. Þarna gæti verið um bátarétt að ræða er rennir enn frekar stoðum undir nýtinguna á svæðinu. Áður en komið er að Réttarklettum er farið með Dularklettum og -tjörnum, framhjá Grænhólsskjóli (fjárskjól) og Réttarklettum með allnokkrum görðum og gerðum umleikis, Nípa, Nípuskjól og Nípurétt eru skammt austar.
Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.
Lónakot er svolítið austar. Þegar svæðið var skoðað komu í ljós gerði, garðar, tóftir útihúsa, bæjarhóllinn og tóftir hans, brunnurinn sunnan við hann, heimagarðurinn og tjarnirnar (lónin) allt um kring.
Lónakotsbærinn.
Lónakot fór í eyði á 20. öldinni, en sumar minjanna gætur verið nokkuð eldri. Heimagarðurinn er líkur öðrum slíkum, en víða með tjörnunum má greina hleðslur og gömul mannvirki. Leiðir að Lónakoti eru varðaðar (sjá háar vörður ofar í hrauninu). Liggja þær að Straumi (til austurs) og að Hvasshrauni (til vesturs).
Gengið var upp gamla veginn frá Lónakoti. Sjá mátti fallegar hleðslur utan í honum sumstaðar þar sem hann liggur um jarðföll og gjár.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 10 mín.
Lónakot – bæjartóftin.
Sveifluháls frá Vatnsskarði – Arnarvatn – Bæjarfell
Lagt var af stað efst í Vatnsskarði um kl. 10:30 þann 17. júní 2000.
Sveifluháls – Folaldadalur syðri.
Gengið var sem leið lá suður hálsinn, vestan við Miðdegishnúk og niður í Nyrðri-Folaldadal, eftir sléttum sandbotna dalnum og upp á hálsinn aftur við suðurenda hans. Þegar komið var á móts við Stapatinda var tækifærið notað til að dáðst að útsýninu suður eftir Syðri-Folaldadal í fjallgarðinum, í átt að Arnarvatni. Þarna er mosvaxinn hraunhóll og móbergshólar um kring. Sunnan við hólinn eru fallegir skessukatlar. Gengið var niður í dalinn um móbergsskarð og síðan áleiðis eftir sléttum botninum. Þegar komið var í miðjan dalinn heyrðist allt í einu og mjög skyndilega mikill þytur úr suðaustri, líkt og þota nálgaðist óðfluga.
Sveifluháls – Folaldadalur nyrðri.
Skömmu síðar sást hvar Sveifluhálsinn reis undir nafni – gekk í sveiflum úr suðri, að því er virtist. Undir tók í fjöllunum allt í kring og stór grjót féllu úr þeim og skoppuðu niður í dalinn. Síðan tók við dauðaþögn. Fyrsta hugsunin var: „Skyldi nú vera byrjað að gjósa hér rétt hjá?“ Hvergi voru þó merki þess. (Síðar kom í ljós að skjálftinn reyndist rúmlega 7° á Richter).
Arnarnýpa á Sveifluhálsi.
Haldið var áfram för, en skömmu síðar kom annar kröftugur jarðskjálfti, en mjög ólíkur hinum fyrri. Hann kom beint upp undir hálsinn. Steinar skruppu upp af jörðinni í nokkurs konar skjálftadansi. Stóð þetta í nokkrar sekúndur. Þegar skjálftinn hætti sást hvar skórnir höfðu grafist niður í mölina. Enn var svipast um eftir hugsanlegu gosi, en ekkert bólaði á því. (Reyndist vera 5.5°á Richter). Eftir að síðustu steinarnir stöðvuðust í dalnum varð grafarþögn. Síðan komu nokkrir minni skjálftar í kjölfarið, en þeir hristu einungis jörðina líkt og væri hún á floti. Gengið var fram á norðurbrún Sveifluhálsins. Á henni blasti við svipur tröllkarls, sem virtist fylgjast vel með öllu. Undir Núpshlíðarhálsi, við Djúpavatn, virtist fólk á hlaupum. Þar hafði greinilega grjót skroppið úr hlíðinni.
Á Sveifluhálsi.
Þegar gengið var áfram suður hálsinn mátti víðs vegar sjá hvar björg höfðu losnað úr hlíðum og einnig hvar smásteinar á ákveðnum svæðum höfðu losnað og jafnvel snúist við. Þegar komið var upp að Arnarvatni mátti sjá sprungur í jarðveginum við vatnið að austanverðu. Gróðurhaft hafði losnað úr hlíðinni að sunnaverðu. Stapatindur í norðaustri, eitt af prýðunum á hálsinum, stóð þó óhaggaður.
Miðegishnúkur á Sveifluhálsi.
Það sem eftir var leiðarinnar mátti víða sjá hvar stórt grjót hafði losnað og skroppið niður gróðurhlíðar, s.s. norðan við Hettu. Þoka skall á þegar komið var suður fyrir Arnarvatn svo fara þurfti þétt með norðanverði hlíðinni. Þegar áætlað var að Krýsuvík væri handan við hálsinn var lagt á hann, upp bratta brunahlíð. Í þokunni glytti í gang á milli tveggja gíga. Haldið var eftir honum og síðan beygt aftur til suðurs. Var þá komið niður í gróinn dal nokkuð norðan við Krýsuvíkur-Mælifell. Beitilegur dalur, Bleikingsdalur, en farin að láta á sjá í botninn. Aðeins sunnar á hálsinum tók við náttúrulega flórað hellusvæði.
Drumbdalastígur.
Komið var niður á veg, Drumbdalastíg, austan við Borgarhól 6 klst. eftir að lagt hafði verið af stað. Þá átti eftir að ganga að Bæjarfelli þar sem bíll beið. Fylgt var gamalli götu frá fjárbyrginu á Borgarhól, um mela, eftir flóraðri brú að vörðu norðan vegarins og síðan áfram að gömlu réttinni sunnan Bæjarfells.
Veður var frábært – sól og hiti.
Sveifluháls – gönguleiðin rauðlituð.
Gunnuhver – Höyer og Erika
Skoðaður var Gunnuhver á Reykjanesi sem og næsta nágrenni. Hverasvæðið er litskrúðugt og mikilfenglegt, en varasamt og síbreytilegt. Við hverasvæðið eru m.a. nokkrar tóftir og grunnur húss.
Reykjanes – grunnur húss Höyers.
Margir kannast við söguna af Gunnu Önundardóttur er hverinn er nefndur eftir. Hún segir af Guðrúnu og viðureign hennar við Vilhjálm á Kirkjubóli á Suðurnesjum. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina. Viðureign þeirra endaði með því stakkst ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver. (Hafa ber í huga að hverinn sá hefur átt það til að hlaupa til um svæðið og er því síbreytilegur.)
Hús Höyers og Eriku við Gunnuhver.
Tóftirnar við Gunnuhver eru eftir búsetu Anders Christian Carl Julius Höyer og konu hans, Eriku Höyer, á Reykjanesi. Høyer var danskur garðyrkjumaður. Fæddur var hann einhvers staðar í hinum fyrrum rússnesku Eystrasalts-héruðum Prússlands, og sá þess stað í óvenjulegri málakunnáttu. Hann fluttist til Íslands á 3. áratugnum og kom sér upp garðyrkjubýli í Hveradölum við hverina þar hjá sem nú er Skíðaskálinn. Kona hans var lettnesk. Þau fengu ekki frið í Hveradölum og fluttu sig þá út á Reykjanes. Þar komu þau sér fyrir á spildu úr landi Staðar, reistu hús og dvöldu með litlum syni sínum 3 eða 4 síðustu árin fyrir stríð, en hurfu þá til Kaupmannahafnar. Nýbýli þeirra hét Hveravellir.
Reykjanes – Gunnuhver. Hús Höyers var nálægt bílastæðinu t.v.
Grunnur íbúðarhússins sést enn sunnan í Kísilhólnum, rétt við veginn út að vita. (Kísilhóll er hóllinn suðvestan við Gunnuhver). Þar er volg jörð og þurfti ekki aðra hitun. Annar endi hússins var gróðurhús og innangengt í íbúðarhlutann. Þarna er vatnslaust, en Høyer bjargaði sér með því að þétta gufu úr hverunum “für Menschen, Hund und Blumen” segir í þýskri ferðabók (E. Dautert án ártals). Aðallega munu þau hjón hafa fengist við að búa til blómapotta úr hveraleir sem þau bökuðu/hertu við jarðhitann.
Anders C. Höyer.
Høyer var aðstoðarritstjóri garðyrkjublaðs “Politiken” fyrir komu sína hingað og líklega einnig á stríðsárunum (finn ekki heimild um það, en minnir ég hafi lesið). Þá skrifaði hann ævisögu konu sinnar fram að því að hún komst til Þýskalands eftir fyrra stríð. Bókin kom út í Danmökru á stríðsárunum. Árni Óla þýddi hana á íslensku (hún heitir „Anna Ivanowna“ og höfundur er skráður Erika Høyer). Bókin er átakanleg lýsing á miklum hörmungatímum í ævi konunnar, var lesin sem útvarpssaga. Erika var 15 árum yngri en Høyer. Hann kom aftur til Íslands eftir stríð en hún varð eftir í Danmörku. Hann endaði sem “flugumferðarstjóri” á Melgerðismelum í Eyjafirði. Heimildir eru um Høyer í bók Árna Óla “Erill og ferill blaðamanns.”
Reykjanes – texti á skilti við fyrrum bústað Höyers.
Í bók eftir Erich Dautert (Islandfahrt) er sagt frá viðkynningu og innliti til hjónanna.
Einnig er að finna frásögn af heimsókn til þeirra í bókinni “Árin okkar Gunnlaugs” (Scheving) eftir konu hans (G.L. Grönbech). Kristján Sæmundsson tók saman upplýsingarnar um Höyer. Þá segir í Degi 16. mars 1955 um Höyer:“Ræktaði blóm í Hveradölum – afgreiddi flugvélar í Melgerði„.
Gunnuhver – loftmynd.
„A. C. Höyer Jóhannesson afgreiðslumaður á Melgerðisflugvelli varð 70 ára í gær“.
Þegar A. C. Höyer kom hingað til Íslands áríð 1925, hafði hann þegar víða farið og reynt margt. Hann er fæddur í Árósum í Danmörku, af suður-józku foreldri, en uppalinn í Suður-Jótlandi undir þýzku krúnunni.
Bræðratunga í Biskupstungum.
Ungur lagði hann land undir fót og fór suður um Evrópu, gekk á búnaðarskóla í Berlín, og réðist til ræktunarstarfa á lettnaskum búgarði. En útlendingum var ekki vært þar þegar byltingin flæddi yfir, þótt þeir hefðu þraukað af styrjaldarárin. Þá hélt Höyer til Danmerkur með unga konu af lettneskum uppruna. Ætlunin var að fá jarðnæði í Danmörk, en það var ekki laust fyrir efnalítinn mann. Úr fjarlægð að sjá var nóg landrými á Íslandi. Höyer réðist vinnumaður að Bræðratungu í Biskupstungum, síðan á búgarði Thor Jensens, en árið 1927 hófu hjónin, Höyer og Erika, landnám sem þótti harla nýstárlegt hér á landi á þeim tíma.
Við Gunnuhver.
Landnám í Hveradölum og Reykjanesi.
Þau byggðu sér bæ við heitar Laugar í Hveradölum við rætur Hellisheiðar, og bjuggu þar í 7 ár. Þar reis þá upp næst fyrsta gróðurhús á Íslandi og þar ræktuðu þau hjónin alls konar suðræn blóm. Þóttu það tíðindi í höfuðstaðnum, er þessi útlendi ræktunarmaður auglýsti að hann mundi hafa torgsölu á blómum.
Hann kom svo akandi með bílfarm af fallegum blómum og þau seldust öll á svipstundu. En með árunum urðu Hveradalir landnám skíðafólksins í æ stærri stíl, og þá var ekki rúm fyrir búskap Höyers. Þá hóf hann annað landnám sitt hér á landi og settist að úti á Reykjanestá, við heitar laugar þar. Þar höfðu þau hjónin garðrækt og seldu garðávexti og blóm til höfuðstaðarins. En þar var lífið erfitt, staðurinn einangraður og samgöngur strjálar.
Þar hófu þau leirmunagerð í smáum stíl til búdrýginda, en skorti verkfæri. Þau fóru til Danmerkur skömmu fyrir stríð til að afla sér þeirra, en lokuðust inni í Danmörk í styrjöldinni og komust ekki hingað út fyrr en árið 1946.
Leirgoshver við Gunnuhver.
Þriðja landnámið á Melgerðismelum.
Eftir viðdvöl í Reykjavík komu þau hingað norður, og litlu seinna réðist Höyer til Flugfélags Íslands og flugmálastjórnarinnar sem gæslumaður á Melgerðisflugvelli, og þar hafa þau hjónin átt heima síðan. Fyrst í húsakynnum vallarins, sem brunnu árið 1950 þeim til mikils tjóns, og síðan á nýbýli því, er Höyer hefur byggt og nefnir Melbrekku. Er það þriðja landnám hans hér á landi.
Frá 1947 til ársloka 1954 var mikil flugvélaferð um Melgerðisflugvöll og var nafn Höyers tengt henni á einn eða annan veg. Farþegar allir sáu þennan gráhærða, góðlega mann fyrst er þeir stigu á land, og síðastan manna, er þeir litu út um gluggana er vélin ók út á flugbrautina. Inni í skálanum við völlinn — meðan uppi stóð — hafði frú Erika veitingasölu, sem var mjög vinsæl af farþegum og fólki héðan úr bænum, sem gjarnan kom í heimsókn.
Melgerðisflugvöllur (MWL).
Nú eru flugvéladrunurnar yfir Melgerðisflugvelli þagnaðar, en Höyer hefur eftirlit með tækjum og eignum flugmálastjórnarinnar þar, því að völlurinn er enn nothæfur ef þörf krefur. En þótt árin færist yfir og landnám gerist erfiðara, er það samt fjarri skapgerð Höyers að leggja árar í bát. Nú rekur hann hænsnarækt á búi sínu og unir allvel við sitt.
Upplýsingaskilti um Höyer við Gunnuhver.
Sýslar við bú, þótt svalt blási.
Lífið í Lettlandi á stríðsárunum fyrri vandi þau hjónin ekki á lúxus, og það kom sér vel í vistinni í Hveradölum og á Reykjanesi. Ríkmannlegt hefur aldrei verið hjá þeim á Melgerðisvelli, en hlýlegt, og ævinlega nóg um bækur og blöð, enda eru þau hjónin bæði bókelsk og vel að sér í mörgum greinum. Bæði hafa þau ritað nokkuð og margir minnast sögu Eriku um Önnu, Ivanovnu, en þar er víða haldið meira en í meðallagi vel á penna.
Nú eru 70 ár að baki og trauðla hyggur Höyer á nýtt landnám. Hann segist líka kunna vel við sig í Eyjafirðinum og talar um að gott verði að hvílast að Möðruvöllum eða Saurbæ að afloknu dagsverki. En þótt elli sæki nokkuð á, er engin uppgjöf hjá honum nú frekar en fyrri daginn. Á mánudaginn blés svalt um Melgerðismela og lítt sá til fjalla fyrir fjúki. En þá stóð Höyer enn að starfi við búsýslu sína. Hann þarf að sinna um 100 hænur í kofa. Þær verða 200 næsta ár, segir hann.
Hún ætlar að endast honum, sjálfsbjargarhvötin.“
Í Litla Bergþóri, 2. tölublað (01.12.2012), bls. 20-23, er fjallað um „Hveradala Höyer og konu hans“:
„Hér verður fjallað um hjón, sitt af hvoru þjóðerni, sem skolaði hér á land í umróti millistríðsáranna. Þau voru ólík sem dagur og nótt en undu sér samt vel saman og voru hér til dauðadags, með hléum þó.
Þau höfðu bæði reynt ýmislegt áður en þau settust að á Íslandi og hér fóru þau heldur ekki troðnar slóðir.
Sérstakt var að þau virtust sækjast eftir að búa á hrjóstrugum jaðarsvæðum, þó þau væru engar mannafælur. Þvert á móti. Þau tóku gjarnan á móti ferðamönnum og voru vel liðin af þeim sem höfðu við þau samskipti. Þau komu á sinn hátt að tveimur starfsgreinum, sem voru að hasla sér völl þegar þau voru á manndómsárum, ylrækt og svo farþegaflugi innanlands, þar sem þau voru umsjónarmenn á flugvelli. Það gætu því þess vegna hangið myndir af þeim bæði á Flugminjasafninu og á tilvonandi Garðyrkjusafni.
„Var hún ekki rússnesk prinsessa?“ Þannig spurði fullorðinn Akureyringur þegar ég nefndi við hann hvort að hann myndi eftir Ericu Höyer og þeim hjónum fyrir norðan. Já, það var ekki laust við að nokkur ævintýrabragur þætti á þeim og margt höfðu þau brallað á langri ævi. Það var fyrst að frétta af Anders C. Höyer hér á landi að hann kom sem vinnumaður í Bræðratungu í Biskupstungum í maí 1926. Þar var hann í fjóra mánuði, en eigandi jarðarinnar þá var hinn danski ritstjóri Berlinske Tidende, Svend Paulsen. Höyer kynnti sig hér sem garðyrkjumann og var það sjálfsagt, en síðar kom á daginn að hann hafði starfað sem blaðamaður í Danmörku og því ekki ólíklegt að hann hafi þekkt til Sveins bónda, enda höfðingjadjarfur og ófeiminn að koma sér í kynni við mann og annan.
Johannes Boeskov í dyrum gróðurhúss.
Fyrsta gróðurhúsið reis á Reykjum í Reykjahverfi árið 1923. Var það gert að frumkvæði Guðmundar Jónssonar skipstjóra og mágs hans Bjarna Ásgeirssonar alþingismanns en báðir bjuggu þeir á Reykjum og höfðu þeir mikinn áhuga á ylrækt. Helsti hvatamaður þeirra var Daninn Johannes Boeskov sem starfaði sem vinnumaður á Reykjum. Á garðyrkjusýningu sem haldin var í Reykjavík 1924 mætti Johannes með afurðir gróðurhússins eða 14 tegundir af matjurtum og blómum sem vöktu töluverða athygli enda ýmislegt sem ekki hafði sést áður.
Johannes stofnaði árið 1926 garðyrkjubýlið Blómvang sem telst vera eitt fyrsta nýbýlið sem byggðist eingöngu á ylrækt.
Johannes lést af völdum voðaskots árið 1927.
Um haustið fór hann ekki heim til Danmerkur heldur réði sig að Lágafelli í Mosfellssveit og var þar til vors. Hann sagði seinna (1953) í grein í Garðyrkjuritinu, að hann hefði strax heyrt um „vitlausa“ Danann, sem vildi byggja gróðurhús og lifa af ylrækt. Því miður ruglar Höyer aðeins saman gróðurhúsi sem byggt var á Reykjum í Mosfellssveit 1924, að vísu í umsjón Danans Jóhannesar Boeskov, en í eigu máganna á Reykjum, Bjarna Ásgeirssonar og Guðmundar skipstjóra, og svo aftur gróðurhúsi sem Boeskov byggði á nýbýlinu Blómvangi 1926 og telst fyrsta garðyrkjubýli á Íslandi þar sem eingöngu var treyst á ylrækt. Höyer og Boeskov urðu vinir og Höyer hjálpaði honum við byggingu gróðurhússins í Blómvangi og vildi svo fara sjálfur út í ræktun. Um sumarið var hann í Reykjavík og þá kom til hans hingað til lands unnustan Erica, fædd Hartmann, en hún var fimmtán árum yngri, aðeins 27 ára, en Höyer 42. Erica var frá Lettlandi, þeim hluta sem kallast Kúrland, og hafði ratað í ótrúlegustu hörmungar í fyrra stríði og sagði frá því í skáldsöguformi seinna. Það var bókin Anna Íwanowna, sem kom út í Danmörku haustið 1939, um þann mund sem seinna stríðið skall á og fékk góða dóma.
Skáldævisaga Kúrlendings.
Bókin er svokölluð „skáldævisaga“ og segir sögu fjölskyldu Ericu frá því að fyrri heimstyrjöld skellur á, þegar Erica var fjórtan ára, og þangað til þau snúa heim úr útlegð í Rússlandi og koma að öllu í rúst í sveitinni sinni í Lettlandi í stríðslok. Rússar og Þjóðverjar völtuðu til skiptis yfir þetta smáríki og það stóð varla steinn yfir steini er yfir lauk. Þau upplifðu stríðsátök, flótta, borgarastríð og rússnesku byltinguna, svo það var engin furða að henni þætti
friðsamlegt á Íslandi þegar hún rifjaði upp ævi sína á efri árum.
Auðvitað hefur Höyer skrifað bókina“, sagði Árni Óla löngu seinna, enda reyndist Höyer eftir allt saman þrælvanur blaðamaður þótt hann væri í fjósverkum og öðru púli meðan hann dvaldi hér fyrir stríð. Hvað um það, Erica er enn viðurkennd í Danmörku sem rithöfundur fyrir þessa bók. Árni Óla þýddi hana 1942 og var hún ein mest auglýsta og selda bókin hér á landi það árið. Ég var að enda við að lesa hana núna sem kvöldsögu fyrir konuna mína og gefum við henni bestu meðmæli. Erica, hin unga og lífsreynda, var semsagt komin til unnusta síns er hallaði sumri 1927. Þau fengu leyfi til að setjast að í Hveradölum á Hellisheiði þá um haustið og voru svo bjartsýn að ætla sér að búa í tjaldi á þessum stað meðan þau væru að hrófla sér upp kofa.
Landnámið í Hveradölum og á Reykjanesi.
Aldrei í manna minnum hafði rignt svo mikið eins og þetta haust. Allt fór á flot, matur eyðilagðist, enga flík var hægt að þurrka og þeim var ekki svefnsamt um nætur vegna kulda þó þau væru örþeytt eftir 14 til 16 tíma þrældóm við moldarverk. En þetta hafðist, þau gátu í lok október flutt í hlýjan kofa þar sem hverahitinn var nýttur og voru þannig í senn útilegufólk í anda Eyvindar og Höllu, og einskonar brautryðjendur. Þann 27. október þetta haust giftu þau sig og voru svaramennirnir fyrrnefndur Johannes Boeskov garðyrkjumaður og svo sendiherra Dana, sá með langa nafnið, Frank le Sage de Fonteney. Þarna í Hveradölum voru þau að basla til ársins 1934 þegar Skíðafélag Reykjavíkur reisti þar sinn skála og hóf greiðasölu. Þá fannst þeim sér ofaukið og leituðu annað. Þau prófuðu ýmislegt þarna uppfrá, ræktuðu í gróðurhúsum, brugguðu jurtamjöð, reyndu leirbaðslækningar, þjónuðu ferðamönnum og voru fyrst með torgsölu í Reykjavík með afurðir sínar. Þau stunduðu líka rjúpnaveiði sem stundum var happafengur en gaf stundum ekki neitt. Erica sagði löngu seinna er hún leit yfir líf sitt; „Bara að við hefðum aldrei farið úr Hveradölum“.
Erika Höyer – minningargrein.
Já margt átti eftir að henda þau hjón áður en yfir lauk. Fyrst fóru þau bókstaflega úr öskunni í eldinn, því þau fluttu út á Reykjanes og gerðu sér annað nýbýli við Gunnuhver þar sem allt ólgar og sýður og ekki þurfti upphitun í kofann. Hitinn streymdi upp um fjalirnar í gólfinu eins og í „Nature Spa Laugarvatn Fontana“ í dag. Þau gátu ræktað og gerðu það, en vegaleysið varð til þess að þau komu ekki afurðum frá sér. Síðar datt þeim svo í hug að búa til jurtapotta úr leir, sem þarna var við hendina. Þau hertu pottana ýmist við hverahita eða brenndu í ofni sem kyntur var með rekaviði, sem þau söguðu í búta og klufu. Þau spöruðu ekki erfiðið, það var eins og þau væru að keppast í „ræktinni“ og þyrftu að passa línurnar. Árni Óla heimsótti þau þarna og leist ekki á. Höyer var kátur að vanda en sagðist samt vera á förum til Danmerkur, sér hefði verið boðin staða hjá Politiken og ætti að verða aðstoðarritstjóri landbúnaðarútgáfu blaðsins. Þegar hér var komið sögu höfðu þau eignast son og var trúlega ekki gæfulegt til frambúðar að hokra þarna hjá Gunnuhver með stækkandi fjölskyldu.
Þarna við hverinn er nú skilti þar sem sagt er frá „síðustu ábúendunum“ en það voru þau hjónin. Því miður eru nokkrar missagnir í frásögninni, t.d. að Höyer hefði verið fæddur í „einhverjum fyrrum Eystrasaltshéruðum Prússlands og það skýrði hina sérstöku málakunnáttu hans“. Hið rétta mun vera að hann fæddist í Árósum á Jótlandi 1885 og var kominn til Kaupmannahafnar fyrir tvítugt. Sem ungur maður hafði Höyer starfað sem formaður Ungra jafnaðarmanna í Kaupmannahöfn og á landsvísu og kynnst mörgum lykilmönnum í Jafnaðarmannaflokknum. Og ekki urðu kynnin minni er hann gerðist blaðamaður á þeirra vegum og þá líka hjá stærsta blaðinu Socialdemokraten. Hann var þá á uppleið, hafði eignast konu og tvo syni, en eitthvað fór úrskeiðis, hann skildi við konuna og fluttist til Lettlands. Hann dvaldi í Lettlandi árin 1923 til 1925, þar sem hann hitti Ericu og þar með tóku örlögin nýja stefnu. Annað sem missagt er á skiltinu er að Erica hafi orðið eftir í Danmörku eftir stríð en Höyer hafi komið einn til Íslands. Hið rétta er að hjónin komu saman og voru hér til dauðadags, en sonur þeirra varð eftir í Danmörku, þó hann væri aðeins 12 ára gamall er þau fluttu „heim“.
Í dönsku útvarpi og þýsku.
Þau fluttust sem sagt frá Gunnuhver á Reykjanesi til Danmerkur 1937. Höyer komst strax inn á danska útvarpið og var mælt með honum sem fyrirlesara og fékk hann venjulega greiðslu fyrir, sem voru 100 krónur fyrir hvert erindi. Hann flutti þó nokkur erindi í Statsradioen fram að stríði og var mjög fundvís á efni sem þóttu nýstárleg í Danmörku á þessum tíma. T.d. hét einn þátturinn „Danskur veiðimaður og landnemi á Íslandi“, annar hét „Að eiga heima á eldfjalli“ o.s.frv. Sem dæmi um fjölbreytnina má nefna erindi um skipakirkjugarð við Ísland, rjúpnaveiðar og bindindismál, að ógleymdu erindi um íslenskan landbúnað, þar sem hann lýsir búskapnum í Bræðratungu og þótti takast vel upp. Hann var óþreytandi að bjóða efni, sumt var tekið en öðru hafnað, og þótti vel frambærilegur fyrirlesari. Það virkar því dálítið kómískt að lesa það í bók Jóhannesar flugstjóra, Skrifað í skýin, um Höyer að þegar hann var orðinn umsjónarmaður á flugvellinum á Melgerðismelum, hafi hann verið búinn að týna niður dönskunni, sem og öðrum tungumálum og verið næsta óskiljanlegur, þó að oft þyrfti hann að leiðbeina flugmönnum í lendingu gegnum talstöð. Flugstjórinn hefur ekki vitað að Höyer var ekki alls óvanur að handleika hljóðnema.
Erika Höyer.
Nú voru þau Erica og Höyer semsagt komin til Danmerkur eftir fyrri dvöl sína á Íslandi og það var ekki langt í næstu heimstyrjöld. Það var örlagadagur fyrir Höyer og fjölskyldu þegar Danmörk var hertekin 9. apríl 1940. Höyer gekk þá strax Þjóðverjum á hönd og tók þátt í útvarpssendingu á þeirra vegum þar sem hann studdi „frelsun Danmerkur“. Þá var hann umsvifalaust rekinn frá útvarpinu, því að danska útvarpið hélt merkilegt nokk sjálfstæði sínu alveg þangað til í hreinsunum í ágúst 1943, þegar lögreglan var leyst upp og ríkisstjórnin fór frá. Í júlí 1941 varð Höyer fréttaritari í Berlín fyrir dönsku bændasamtökin, en þau gáfu út blöð og tímarit í Danmörku. Danskir bændur voru hallir undir þjóðverja, enda þénuðu þeir á úflutningi til Þýskalands, sem var óþrjótandi markaður fyrir danskar landbúnaðarvörur.
Meðfram fréttaritarastarfinu kom Höyer líka að sendingum þýska útvarpsins á dönsku og flutti m.a. 10 erindi um landbúnaðarmál á þessum tíma. Í Berlín var Höyer fram að uppgjöf Þjóðverja, en Erica var í Danmörku með soninn. Þau lentu í yfirheyrslum í Danmörku í stríðslok en sluppu með skrekkinn, enda íslenskir ríkisborgarar og komu „heim“ með Drottningunni um miðjan janúar 1946, eins og segir í klausu í Morgunblaðinu.
Erika Höyer – legsteinn í Möðruvallakirkjugarði – 1900-1982.
Ástandið í Danmörku hafði verið þrúgandi öll hernámsárin. Fyrsta stríðsveturinn 1939-40 höfðu Danir reynt að halda uppi hlutleysi eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar, en 9. apríl 1940 var sá draumur úti. Ráðherrar voru rifnir upp á rassinum úr hlýjum sængurfiðunum og settir úrslitakostir, annað hvort að samþykkja hernámið eða fá sprengjuregn yfir Kaupmannahöfn. Þeir völdu fyrri kostinn með óbragð í munni eins og sagt er. Spennan fór vaxandi eftir því sem tíminn leið og þegar Þjóðverjum fór að ganga verr í stríðinu óx andstöðuhópum fiskur um hrygg í Danmörku og þeir voru tilbúnir á friðardaginn 5. maí 1945 með lista yfir handbendi Þjóðverja í styrjöldinni. Það var engin miskunn sýnd, 34.000 manns voru handteknir fyrstu dagana eftir friðardaginn, smalað aftan á vörubíla og keyrðir þannig um götur með uppréttar hendur og skammaryrði hengd um háls. Og múgurinn hrópaði krossfestum þá, eða eitthvað álíka. Mörgum urðu þessir frelsisvinir að sleppa vegna óljósra sannana, en margir fóru í fangelsi og 48 fengu dauðadóm fyrir landráð. Kamban var skotinn án dóms og laga og varð af því mikið milliríkjastapp, sem kunnugt er.
Braggalíf á Melgerðismelum og ekkjustand á Akureyri.
Þeim Ericu og Höyer þótti margt breytt á Íslandi eftir stríðið, ekki síst í garðyrkjunni, þar sem risnar voru stórar garðyrkjustöðvar með fleiri þúsund fermetrum undir gleri. Þó ætluðu þau sér enn að reyna að lifa á landsins gæðum og jarðhitanum. Þau fluttust norður í Eyjafjörð að Melgerðismelum, en þar hafði verið flugvöllur og bækistöð Bandamanna á stríðsárunum. Þar komu þau sér fyrir í bragga, sem þau skiptu í tvennt, annars vegar íbúð og hins vegar afgreiðslusal fyrir flugið. Þar voru þau hjón umsjónarmenn og höfðu greiðasölu. „Við vorum þar mörg góð ár“ sagði Erica í endurminningum sínum.
Sigmundur Benediktsson, Eyfirðingur sem ég talaði við, man eftir þeim hjónum í bragganum, þar sem haldin voru böll sem þóttu nýstárleg. Þar skaust hin dökkeyga, smávaxna Erica á milli dansfólksins og stráði yfir það „Konfetti“-pappírsræmum. Það hafði ekki tíðkast í Eyjafirði þó mörg erlend áhrif hefðu borist til Akureyrar gegnum tíðina. Þessir góðu dagar á Melgerðismelum tóku enda eins og aðrir dagar. Flugið fluttist inn til Akureyrar 1955. Þá var bragginn rifinn og hjónin byggðu sér lítið hús, sem þau nefndu Melbrekku.
Anders Christian Carl Julius Höyer – legsteinn í Möðruvallakirkjugarði – 15 mars 1885-30 júní 1959.
Anders var eins og áður sagði 15 árum eldri en Erica og heilsan fór að bila. Síðustu þrjú árin sem hann lifði var hann á sjúkrahúsinu á Akureyri og lést þar 30. júní 1959. Erica auglýsti látið og jarðarförina rækilega. Fyrst auglýsir hún í Morgunblaðinu: „Hjartkær eiginmaður minn og faðir A.C.Höyer, Melbrekku, áður Hveradölum, lést á sjúkrahúsi Akureyrar 30. júní. Jarðsett verður frá Fossvogskirkju 8. júlí kl. 2“.
Þá er önnur auglýsing þar sem bálförin er auglýst frá Fossvogskapellu þann 7. júlí og undir stendur Erica Höyer og synir. Síðan er í Degi 16. september auglýst minningarathöfn um Carl Höyer Jóhannesson umsjónarmann, sem fari fram daginn eftir frá Möðruvallakirkju. Síðast kemur þakkartilkynning, einnig í Degi, þar sem Erica þakkar öllum sem studdu hana við útförina; sr. Pétri Sigurgeirssyni fyrir ræðu og liðveislu, söngkór fyrir aðstoð og kvenfélagskonum fyrir gefnar veitingar. Það hafa margir lagt þessari erlendu konu lið og hún var vel kynnt hjá þeim sem umgengust hana.
Erika Höyer – Helgafell, 3. hefti 01.05.1942, bls. 149.
Erica átti mörg ár eftir ólifuð sem ekkja á Akureyri. Hún stundaði saumaskap meðan heilsa leyfði, eignaðist vinkonur sem ortu til hennar í minningagrein þegar hennar tími kom. Seinustu tvö árin átti hún heima á dvalarheimilinu Hlíð, en hún lést 9. maí 1982, fyrir aðeins 30 árum.
Annar Kúrlendingur, Wolf von Seefeld, minnist hennar í grein í Íslendingaþáttum Tímans, og nefndi m.a. að hún hafi verið þrítyngd, jafnvíg á þýsku, lettnesku og rússnesku. Íslenskan hennar var ekki alveg eftir málfræðinni sagði hann, en kom beint frá hjartanu. Wolf, sem seinna varð Úlfur Friðriksson, var líka flóttamaður úr stríðunum tveim, fæddur 1912 í Kúrlandi og kom til starfa hjá föður mínum 1955. Hann var fornfræðingur og sagnfræðingur, en hafði „lent í garðyrkju“ upp úr stríðinu. Mér fannst hann vera gamalmenni er ég sótti hann á rútuna þá um sumarið, en þá hefur hann verið 43 ára. Það var þó seigt í karli, því að hann varð 97 ára, mikill Íslendingur og skrifaði bækur, bæði um íslenska hestinn og minningabrot úr Hólavallakirkjugarði.
Nú hef ég verið að stikla á stóru í lífi útileguhjónanna Höyer. Ekki koma öll kurl til grafar með þeirra líf, en þau voru hluti af íslenskri sögu á umbrota- og framfaraskeiði þjóðarinnar og áttu sinn hlut, ekki síður en hinir, sem hér voru bornir og barnfæddir.
Erica gaf Íslendingum góðan vitnisburð í minningarbrotum, sem hún var beðin um að skrifa í jólablað Dags 1957: „Helstu kostir Íslendinga eru heilbrigð skynsemi þeirra og jafnaðargeð. Þeir rasa ekki um ráð fram, þeir gera ekki vanhugsaða hluti í reiðiköstum. Svo eru Íslendingar óþreytandi að hjálpa þeim sem miður mega sín og gestrisni þeirra er frábær“.
Þetta er ekki slæmur vitnisburður hjá gestinum glögga, sem bjó hér í yfir 40 ár. Þau hjónin hvíla í Möðruvallakirkjugarði í Eyjafirði, hlið við hlið, eins og í tjaldinu í Hveradölum forðum. En nú gildir einu þó að rigni.“
Heimildir:
-Árni Óla: Erill og ferill blaðamanns hjá Morgunblaðinu um hálfa öld, (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, 1963).
Ásgeir Guðmundsson: Berlínarblús. Íslenskir meðreiðarsveinar og fórnarlömb þýskra nasista, (Reykjavík: Skjaldborg,
1996).
-Danmarks Historie, Kjersgaard, Erik, önnur útáfa, 1997.
-Erica Höyer: Anna Iwanowna, (Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja, [1942]).
-Hallir gróðurs háar rísa, Haraldur Sigurðsson, 1995.
-Grete Grönbech: Árin okkar Gunnlaugs, ([Reykjavík]: Almenna bókafélagið, 1979).
-Garðyrkjuritið, 1953.
-Íslensk dagblöð á ýmsum tímum.
-Sunnlenskar byggðir 3 : Laugardalur, Grímsnes, Þingvallasveit,
-Grafningur, Ölfus, Hveragerði og Selvogur, Páll Lýðsson bjó undir prentun, ([Selfoss]: Búnaðarsamband Suðurlands, 1983).
Gangan tók 1 klst. Frábært veður.
Meginheimildir m.a.:
-Dagur, 16, mars 1955, Ræktaði blóm í Hveradölum – afgreiddi flugvélar í Melgerði, bls. 16.
-Litli Bergþór – 2. tölublað (01.12.2012) – bls. 20-23.
-Íslendingaþættir Tímans, 24. tbl. 23.06.1982, Minning; Erika Höyer, bls. 4.
-Helgafell, 3. hefti 01.05.1942, bls. 149.
Reykjanesviti.
Hvassahraun – heimalandið innanvert
Hvassahraun lætur ekki mikið yfir sér þrátt fyrir að bæjarstæðið hafi lengi verið í þjóðleið. Framhjá því hafa farið milljónir ferðamanna, auk Íslendinga, sem átt hafa leið um Reykjanesbrautina millum Kapelluhrauns og Kúagerðis.
Það, sem einkum hefur náð athygli augans á þessari leið, er brúnleitt mannlaust hús, braggi í sama lit og nokkrir kofar á stangli í hrauninu. Brúnleita yfirgefna húsið og bragginn eiga sér sögu, líkt og önnur hús. Rætt var m.a. við Pétur Kornelíusson, einn eigenda Hvassahraus, bæði um húsið og örnefnin.
Hvassahraun virðist ekki hafa tilheyrt Hraunabæjunum s.s. Straumi, Óttarsstöðum, Eyðikoti, Lambhaga, Þorbjarnarstöðum og Lónakoti. Ástæða mun að öllum líkindum fyrst og fremst hafa verið hreppamarkalegs eðlis því Hvassahraun var og er í Vatnsleysustrandarhreppi, en hinir voru í Garðahreppi (nú Hafnarfirði).
Tengslin við Hraunabæina hefur áreiðanlega verið meiri en af er látið. Óvenjulítið hefur verið skrifað um Hvassahraun sem bæjarkjarna, þrátt fyrir að hann hafi verið í fjölfarinni þjóðleið millum Innnesja og Útsnesja á Reykjanes-skaganum. Hér er að mörgu leyti um áhugaverða fyrrum „sveit“ að ræða þótt ekki væri lengur fyrir annað en minjarnar, sem þar eru; áþreifanlegur vitnisburður um gengnar kynslóðir.
Annað sérstaklega áhugavert við Hvassahraunssvæðið er fyrsta viðmót þeirra, sem þar búa, gagnvart ókunnugum. Ólíklegt er að það séu leifar frá löngu liðinni tíð, en einhverri þó. Þegar FERLIR skoðaði svæðið fyrsta sinni með örnefnalýsingar að vopni virtist við fyrstu sín af nógu að taka, enda tóftir, garðar, götur, lægðir og hólar hvert sem litið var, en þegar að íbúunum eða umráðamönnum kom mætti þátttakendum hvarvetna tortryggni og andúð – í fyrstu a.m.k.
Einn öskraði á þátttakendur og bað þá um að hypja sig af landinu (jafnvel þótt hann hefði ekkert með það að gera) og annar kom síðar út og heimtaði skýringar á veru þeirra á svæðinu. Í ljós kom, eftir stuttar viðræður við viðkomandi, að hinn fyrrnefndi var bara eins og hann er, og hinn síðarnefndi hafði ástæðu til að tortryggja fólk, sem gekk um svæðið. Öðrum hafði verið bolað frá með fé sitt og hinn hafði þurft að berjast fyrir áframhaldandi tilveru sinni á svæðinu.
Hvassahraun.
Allir er ágætir inn við beinið. Samskiptin, þrátt fyrir tortryggni í upphafi, áttu eftir að breytast til hins betra við nánara samtal. Hafa ber í huga að FERLIR hefur haft þann hátt að kynna viðkomandi ekki strax tilefni ferðar á vettvang, heldur reynt að fá fram viðbrögð hjá viðkomandi er gætu gefið til kynna tilbrigði tilfinninga og ástæðna þeirra er undir liggja hverju sinni. Eftir að upphaflega viðmótinu sleppir og að útskýringum fengnum hefur FERLIR aftur á móti hvarvetna verið vel tekið – með tilheyrandi fróðleik og ávísun á nálægar minjar. Þessi ferð varð engin undantekning í þeim efnum.
Hvassahraun – Herforingjaráðskort 1903.
Áður en lagt var af stað voru vopn sótt til Örnefnastofnunar, á loftmyndavefinn og til Fornleifastofnunar Íslands. Fornleifakönnun var gerð um Hvassahraunsland árið 2002 að beiðni Styrktarfélags vangefinna, sem er eigandi Hvassahraunslands vestan og norðan túngarðs, í tilefni af skipulagningu sumarbústaða-byggðar á svæðinu.
Í skýrslunni er m.a. bæjarstæði Hvassahrauns-bæjanna (I og II – Vesturbæjar og Austur-bæjar) staðsett, auk kotanna; Suðurkots, Norðurkots, Þorvaldskots og Niðurkots.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Hvassahraun er m.a. fjallað um svæðið næst bæjarstæðinu. Þar segir m.a. að Hvassahraun sé jörð í Vatnsleysus-trandarhreppi næst austan við Vatnsleysur og um leið austasta jörð hreppsins á þá vegu. Í lýsingunni segir að upplýsingar hafi Sigurður Sæmundsson frá Hvassahrauni gefið og aðallega kona hans. Hér er sennilega átt við Sæmund Sigurðsson.
„Jörðin Hvassahraun er allmikil jörð að landrými og er meirihluti þess eldbrunnið land, bærinn sjálfur er nærri sjó, norðan þjóðvegarins sem liggur um Suðurnesin. Rétt er þar austan við bæ, er allhár hóll norðan við veg þar sem vegurinn liggur milli þess hóls og annarra sunnan vegar.
Þessi hái hóll heitir Skyggnir, þetta er stór hraunhóll, sundursprunginn með vörðu á. Þaðan sést vítt um landið og er gott að svipast þaðan til örnefna en upphaflega hefur hann fengið nafn sitt af að þaðan var gott að skyggnast eftir kindum og öðrum búfénaði.“ Skyggnir er áberandi hóll norðan við gamla Keflavíkurveginn. Á honum eru hlaðnar a.m.k. tvær vörður og þarf önnur af nútímafólki, sem hefur haft gaman að því að skilja eftir sig verksummerki. Hin varðan er gróin og gæti hafa verið eyktarmark frá Hvassahrauni.
Þegar farið er beint niður að sjó neðan við Hvassahraun má líta yfir svæðið með hliðsjón af eftirfarandi í örnefnalýsinunni: „Svo er þar næst vík sem heitir Heimavík og inn úr henni Hvassahraunsvör. Þar fram af tanganum vestan vararinnar er sker sem heitir Snoppungur og þar uppaf er Litliklofi. Þessir Klofar stóðu hver á móti öðrum upp úr sjó þegar allt annað var farið í kaf um stórstraumsflóð [Þeir sjást mjög vel frá Austurbæjarstæðinu]. Þar er svo Sjávarbrunnur, þar er lón og þar er graslendi, Þaravíkur. Þar upp af er svonefnt Vesturhraun, nær upp að vegi. Fúla er vík sunnan við lendingarvík niður í fjöru, þar safnast saman þari og ýlda, þar voru grasflatir.
Svo eru þar utar þrír hólar, Láturhólar, þar hjá eru Láturtjarnir og út af þeim eru tangar sem heita Láturtangar, þeir ná langt út um fjöru, á þeim er mikill þari. Svo er þar næst vestur dalur sem heitir Siggudalur þar sem vegurinn liggur næst sjó, er við veginn upp af Látrahólum. Þá taka þar næst við Bakkar. Innst á þeim er Þórðarhóll, er í fjöru. Sagt er að hann hafi fyrrum staðið í miðju túni og heitir sá Látrabakkar og að hann hafi lent undir hrauni því er brann, Afstapahrauni, og þá hafi byggðin flust að Hvassahrauni. Bakkarnir ná suður að Afstapahrauni og heitir syðst á þeim Bakkatjörn. Svo er þar næst Skuggi sem er stór klettur, þar suður af heitir svo Mölvík. Þar næst er svo Fagravík sem er niður af Afstapavörðu sem er uppi á brunanum ofan við veginn.“ Að sögn Péturs fór Siggudals-Bakkatjörn undir Reykjanesbrautina þegar hún var lögð.
Í örnefnalýsingu kemur fram að við Heimavík er Hvassahraunsvör. Við hana eru Lendingavör á Lendingum. Stutt er þarna á millum. Ofan við eru leifar af hlöðnu húsi og gamalt gerði. Búið er að byggja huggulegt hús ofan við gerðið, sem gæti vel hafa verið rétt um tíma, en segja má eigendunum til hróss að þeir hafa látið garðana halda sér ósnerta.
„Nú færum við okkur heim í tún. Hellur eru ofan vegar og ná þær niður í tún, slétt land, er þetta þar vestar. Ofan [við] veg er svo Hjallahóll er síðar getur. Stærsti hóllinn og efsti á því er stór hóll sem heitir Sönghóll. Á honum var eitt sinn býli, þar bjó kona er Margrét hét er átti 10 börn.
Norður af Sönghól er lægð sem heitir Leynir, suður af Sönghól milli Traðarinnar sem var en er nú horfin, hét þar Rófa nær vegi. Svo er þar nær bæ Beinateigur, er svo laut þar norður af, var einnig meðfram heimreiðinni. Vestur af Leyni er svo Langhóll, sprunginn hraunhóll áfastur við Sönghól og norðan undir honum er smádalur sem heitir Þjófagerði. Svo er annað gerði þar vestur af sem heitir Kotagerði. Þar er klöpp og stór hóll á bak við það og heitir það Miðmorgunshella [sést mjög vel frá Vesturbænum]. Svo eru þar norður af Hvassahraunskot, þar bjuggu áður fyrr fjórir menn og þar eru balar sem heita Kotatún.
Vestur af Langhól heitir svo Norðurvöllur og þar næst er svo hóll sem heitir Kirkjuhóll rétt við húsið. Austur af honum er annar klettur grasivaxinn að ofan og heitir hann Einbúi, það er álfakirkja. Geta réttsýnir menn séð álfana þyrpast þangað til messuhalds á helgum dögum og þar er ekki messufall. Eitt sinn sá maður nokkur líkfylgd frá Miðmorgunshellu að Einbúa.
Þar niður af er svæði sem heitir Fjósatunga, svo er þar niður af býli nefnt Niðurkot og Sölvhóll er þar. Uppaf í túni er svo Fimmálnaflöt, er þar vestur af þar sem nú er sumarbústaður. Sú flöt var vanalega slegin þegar lítið var um þurrka. Þá brá vanalega til þerris. Vestur undan húsinu er dalur sem heitir Stekkjardalur, þar sunnar er svo flöt í túni sem heitir Kvíavöllur. Brunnur er suður af bæ. Gíslalaut er suður í túni og þar bak við hólana er Undirlendi sem er milli hólanna og túngarðsins. Þessir hólar voru svo nefndir Suðurhólar.“
Hér að framan er getið um Sönghól. Í skýrslu um ábúendur í Kálfatjarnarsókn um 1840 nefndir prestur býlið Saunghól sem hjáleigu frá Hvassahrauni. Þar hafi verið byggð 1803 og virðist búskapur þar hafa verið skammvinnur, ef til vill nokkur ár um 1830.
Í örnefnalýsingu segir og að í Sönghól hafi verið álitin huldufólksbyggð. „Sönghóll hafi einnig verið nefndur Einbúi“. Hér hefur skrásetjari farið villur vegar um allnokkra metra þar sem hann hefur ruglað saman Sönghól og Einbúa, sem er sitthvor staðurinn, eins og annars staðar er lýst. Þegar Einbúi var skoðaður og leitað var skráningarskjóls undir honum mátti sjá þar vængbrotinn þúfutittling kúra undir honum í skjóli fyrir rammri austanáttinni, sem verið hafði undanfarna daga. Litli smáfuglinn virtist rólegur þar sem hann beið ásjár huldufólksins í hólnum – eða varanlegra örlaga sinna. Norðvestur undir hólnum mótar fyrir tóft.
„Nú flytjum við okkur vestur fyrir, þar upp á flatneskjuna og tókum þaðan svæðið þar vestar og ofar vegar. Utan við túnið er flatlendi, hraun með lausagrjóti, nefnt Melurinn, þetta er flatneskja. Vestan hans eru svo Vatnsgjár.
Ofan við núverandi veg vestur af Melnum, neðan við veg á melnum er nafnlaust þúfubrot. Vatnsgjárnar eru svo þrjár og er það Helguhola næst vegi, svo er þar Þvottagjá. Þar austar og ofar er svo smáhóll á milli, þá er Ullargjá, er svo syðst og þar fram af er svo Strokksmelur, þar eru gamlir gígir og smá gömul eldvörp.“
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar og upplýsingum, sem Guðmundur Sigurðsson [f: 1919] gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980, segir auk þessa um sama svæðið (sumt er endurtekið og annað hefur ekki verið skráð áður): „Hvassahraun er austust jarða Vatnsleysu-strandarhrepps. Hún er mikil að flatarmáli, en eldri og yngri hraunbreiður þekja hana alla. Um jörðina hafa frá alda öðli legið ferðamannaleiðir til Suðurnesja. Má enn sjá þrjár brautir: Alfaraleið, troðninga hestalestanna, þjóðveginn, leið hestvagna og bifreiða, og nú síðast liggur um jörðina Reykjanesbrautin.
Hvassahraun var aðallega fjárjörð, því að erfitt var til slægna. Líka var stundaður sjór, og þurfti ekki langt að fara til fanga. Hvassahraunsbær stóð á klapparrana.“ Í fornleifakönnuninni segir að bæjarstæðið hfi veri þar sem íbúðarhúsið með steyptum kjallara stendur nú. „Það sem er hæð virðist að mestu náttúrlegt enda túnið allt í hæðum. Víða sjást hleðslur í og við bæinn, Engar leifar um torfbyggingar hafa sést á þessum stað um áratugaskeið“. Aðalheimildarmaður fornleifa-könnunarinnar er sagður Guðmundur Stefánsson, en á að öllum líkindum að vera fyrrnefndur Guðmundur Sigurðsson.
Þá segir í örnefnalýsingunni: „Þar var oftast í fyrri daga tvíbýli, Austurbær og Vesturbær (001).“ Í fornleifakönnunni segir um Austurbæinn: „Um 30 m suðaustan við [Vesturbæinn] 001 er merkt hús inn á túnakort. Guðmundur Sigurðsson telur þetta vera það hús sem kallað var Austurbær eða Hvassahraun 2. Þar er nú hlað“. Ef vel er að gáð má sjó ummerki eftir Austurbæinn á hlaðinu framan við fjárhúsbraggann. Þar mótar fyrir vegghleðslum. Ofar, vestan við braggann, eru leifar af húsi og vestan við þær eru bæjarhólshleðslur. Undir þeim er ferhyrndur torfgarður, augljóslega matjurtargarður.
Í örnefnalýsingunni segir síðan: „Hvassahraunstún var allmikið um sig og lá á hraunklöppum og í lægðum milli þeirra. Túnið var girt túngarði, aðallega austan og sunnan. Hvassahraunstraðir lágu í suðaustur frá bænum. Á túngarðinum var Traðarhlíð. Suðurtún lá sunnan bæjar og traðanna. Undirlendi var lægð suðaustan við bæinn og lá út að túngarðinum við þjóðveginn. Fjósatunga var hluti túnsins, suður frá bænum. Þar rétt hjá var Fjóshóll og annar hóll, Einbúi. Þar átti að vera huldufólksbyggð. Kvíadalur er einnig í Suðurtúni og Hjallhólar. Í Kvíadal voru ærnar mjólkaðar, en það var löngu fyrir minni Guðmundar. Vestan til í Suðurtúni var Gíslalaut. Vatnsgatan lá heiman frá bæ suðvestur í Vatnsgjárnar sunnan þjóðvegarins. Austurtún lá austan og ofan bæjar og norðan við traðirnar.
Rófa var slakki nefndur meðfram traðarveggnum nyrðri. Beinateigur var í túninu norðan Austurbæjar. Sönghóll var í Austurtúni. Hann var álitinn huldufólksbústaður. Þarna var Sönghólsbær, stundum tvíbýli, og man Guðmundur eftir görðum þar. Langhóll var norðan við Beinateig. Norðan við Langhól voru Leynir og Þjófagerði, kriki á milli hóla. Þegar verið var að verja túnið, gátu kindur oft laumazt þangað án þess að nokkur sæi. Í Þjófagerði er tóft af hrútakofa. Norðurvöllur var einn partur túnsins, norðan Langhóls. Sjávargatan lá heiman frá bæ niður í Víkina. Sölvhóll var niður með götunni. Þar voru sölin þurrkuð. Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði, Norðurkot með Norðurkotstúni, þá var Niðurkot og Niðurkotstún, líka Þorvaldskot og Þorvaldskotstún. Sjást þar alls staðar rústir. Gerði eða Sjávargerði voru túnin og gerðin kringum kotin kölluð einu nafni, og einnig Kotabalar og Kotagerðin og Kotatún.“
Sjávargatan er augljós niður frá Hvassahraunsbæjunum áleiðis niður að Hvassahraunsvör. Hún hefur verið gerð bílfær undir það síðasta þótt gróið sé yfir hana nú. Þá mótar fyrir Vatnsgötunni, en líklegt má telja að hún hafi öðru fremur legið að brunni í Suðurtúni. Þar mótar enn fyrir stórum brunni, sem gróið er yfir. Hvasshraunstraðirnar lágu hins vegar til suðausturs vestan við Sönghól og sést enn hvar þær lágu í gegnum Austurgarðinn skammt vestan við Braggann sem þar er. Þær hafa legið inn á Alfaraleiðina, sem þarna liðast á milli Nesjanna.
Í fornleifakönnunni eru kotin staðsett. Um Suðurkot segir: „Ekki er vitað hvar Suðurkot var. Suðaustan við Hvassahraunsbæinn (001) voru tún nefnd Suðurtún og því eðlilegt að álykta að á þeim slóðum hafi Suðurkot verið. Samkvæmt örnefnalýsingu átti Suðurkot hins vegar að vera austan Sjávargötunnar, þ.e. norðan bæjarins. Ef svo hefur verið má vera að hringlaga garðlag sunnan Norðurkots gæti hafa kallast Suðurkot. Garðlagið sem enn sést er a.m.k. sunnar en önnur kot sem þekkt eru í túninu“. Ályktun skrásetjara um að Suðurkot hafi verið við Suðurtún er að öllum líkindum rétt. Þar er tóft á grónum klapparrana, Suðurhólum, sunnan við túnið, er tóft með op mót suðvestri, svipuð að stærð og Niðurkotið. Þarna gæti vel hafa verið nefnt Suðurkot og hefur það þá verið við Vatnsgötuna en ekki Sjávargötuna. Reyndar eru hin kotin ekki við Sjávargötuna heldur nokkuð austan hennar.
Um Norðurkot segir: „Sjást merki þess enn greinilega. Norðurkot er á hæð og allt umhverfis er grasigróið, ræktað upp á hrauni. Túnið er allt í hæðum og dælum“. Norðurkotið hefur verið stærst kotanna; þrjú rými og stórt útihús. Af ummerkjum að dæma virðast bæði Niðurkot og Suðurkot hafa verið tómthús eða þurrabúðir, en Norðurkot og Þorvaldskot kotbýli eða grasbýli.
Um Niðurkot segir: „Enn sjást leifar Niðurkots. Kotið er um 80 m suðvestan við Norðurkot. Tóftin er á grasi gróinni hraunhæð en allt umhverfis eru dældir og hæðir“.
Um Þorvaldskot segir: „Þorvaldskot virðist hafa verið nyrsta kotið í túni Hvassahrauns, fremur nálægt sjó. Lýsingin gæti helst átt við tóftir um 300 m norðvestan við bæ. Þar er hringlaga túngarður og tóft í miðjunni“.
Í lýsingum er einnig getið um Þóroddskot. Ekki er vitað hvar það var, en möguleiki er á að það sé annað hvort annað nafn á Þorvaldskoti eða að eitthvert hinna kotanna hafi tímabundið verið nefnt því nafni.
Auk þessa segir um Kirkjuhól: „Skáhallt suðaustru af Norðurkoti er aflöng klöpp eða hóll sem liggur norð-vestur-suðaustur og var nefndur Kirkjuhóll. Gróinn aflangur hóll í túni. Klöppin er mjög löng og í suðausturenda hennar er fjárréttin.“ Fjárréttin er svo byggð utan í klapparhól. „Vesturvegginn myndar klöppin og suðurvegginn myndar túngarðurinn. Allir veggir eru sérstaklega hlaðnir. Réttin er alveg grjóthlaðin“.
Hvassahraun – túnakort 1919.
Í örnefnalýsingunni segir svo: „Bak við Gerðin er hóll, nefndur Miðmorgunshella, eyktamark frá Hvassahrauni.“ Hella þessi ber við Hjallhól. „Uppi í Norðurkotstúni er flöt, nefnd Fimmálnaflöt. Þar hraktist aldrei taða. Kirkjuhóll er í Norðurtúni og Kirkjuhólsflöt. Hóllinn er einnig nefndur Álfhóll, því að þar messaði huldufólkið. Þangað mátti einnig sjá jarðarfarir huldufólks frá Miðmorgunshellu. Gísli Sigurðsson segir, að í túninu nyrzt sé Stekkur og Stekkjardalur, en Guðmundur kannast ekki við, að þar séu nein stekkjarbrot.
Vatnsgatan var einnig kölluð Suðurtraðir. Þar rétt hjá voru Suðurhólar, klappir. Stóri-Klofi er klettur vestan við Stekkjarnes. Frá honum og vestur að Litla-Klofa er Víkin eða Heimavík. Stóri- og Litli-Klofi eru klofnir klettar í fjörunni.
Austast í Víkinni er Svartiklettur. Ofan sjávarkampsins er fjárréttin gamla. Þar litlu vestar eru Sjávarbrunar. Fellur saltvatn inn í þá í stórstraumi, og er þar hálfgerð fúlutjörn. Næst er svo Hvassahraunsvör eða Vörin. Hún var einnig nefnd Lendingin og Víkin stundum kölluð Lendingarvík. Upp af Vörinni var Naustið. Víkurtangar heita vestan Víkurinnar og þar fram er sker, sem heitir Snoppungur. Sunnan við Lendingarvík er önnur vík, sem kallast Fúla. Þar safnast þari, sem fellur inn í stórstraumi og fúlnar í smástraumi. Þarna er einnig Fúlaklöpp og Fúlubakkar. Þá er komið að Látrum, klöppum vestan við Fúluvík. Ekki er vitað, hvort þar hefur verið selalátur áður fyrr. Þarna eru grasi grónir hólar, sem nefnast Láturhólar. Þeir eru þrír, aðgreindir sem Láturhóllinn yzti, Mið-Láturhóll og Láturhóllinn syðsti. Vestan þeirra er Látrasund. Í Látrunum er einnig Láturtjörn eða Láturtjarnir. Þangað slæddist fiskur, koli og ufsi og þyrsklingur smár. Innraland er allt svæðið kallað frá túngarði í Hvassahrauni að landamerkjum móti Lónakoti.
Vestan Látra tók við Vesturhraun. Þar, er talið, að staðið hafi bær, sem lagðist af við hraunrennslið, nefndist Látur. Austast og næst vegi er Siggudalur og Siggudalstjörn, ein fúlutjörnin ennþá. Hún er alveg við veginn. Ekkert er vitað um Siggu þá, sem þessi örnefni eru dregin af. Þá voru þarna Syðri-Bakkar og Innri-Bakkar og lágu umhverfis Siggudal, einnig nefndir aðeins Bakkar eða Hvassahraunsbakkar.
Utar voru svo Ytri-Bakkar eða Lónabakkar. Svæðið þarna var líka kallað Vestur-Látrar og tjarnir utan Siggudals Bakkatjarnir.“
Að þessu sinni var athyglinni, sem fyrr sagði, beint að heimatúninu og næsta nágrenni þess að vestanverðu. Utan heimatúnsins eru fjölmargar minjar, s.s. fjárskjól, gerði, réttir, hústóftir, götur o.fl.
Að sögn Péturs Kornilíussonar, eiganda Hvassahrauns, væri þekking hans á örnefnum á jörðinni takmarkaður. Eftir viðræður við hann kom þó hið gagnstæða í ljós.
Pétur sagðist hafa keypt hluta af jörðinni með fermingarpeningum sínum. Hann myndi eftir því að núverandi íbúðarhús, brúnmálað þrílyft, var flutt frá Bergstaðastræti 7 að Hvassahrauni annað hvort árið 1966 eða ’67. Kirkjuhóll (Álfhóll) væri rétt austan við íbúðarhúsið. Norðan hans væri stakur hóll eða klettur; Einbúi. Hann væri álfakirkja. Langaflöt væri svo sunnan við húsið, en þar á millum væri Brunnurinn. Hann væri hlaðinn hringlega, ferlega djúpur. Sönghóll væri austan við fjárhúsið og Langhóls norðan hans. Austan þess væri Leynir því það svæði sæist ekki frá bænum. Þjófagerði væri litlu innar þar sem sauðhústóftin væri. Uppi á holti norðan við Þjófagerði væru útihúsatóftir, líklega frá þeim tíma er síðast var búið torfbæjarbúskap að Hvassahrauni.
Pétur staðsetti Bakka, Bakkatjarnir og Sigguvík neðan við Siggudals. Bakkatjarnir þar ofan við hefðu farið undir Reykjanesbrautina líkt og brugghola Hvassahraunsbónda, sem þar var skammt vestar.
Á bökkum sagði hann hafa verið fjárhús er sjá mætti leifar af. Túnið hefði fyrrum verið grónir blettir í hrauninu, en væri nú orðið samfelldara og hefði verið stækkað mikið.
Hvassahraun er í dag vel í sveit sett milli byggðakjarna á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og Suðurensjum hins vegar. Svæðið gefur góða mynd af heilstæðu bússetulandslagi sem telja verður dæmigert fyrir útvegsbændasamfélag fyrri tíma. Með skipulegum göngustígum og góðum merkingum á heimajörðinni og næsta nágrenni hennar mæti gera þarna eftirsóknarverðan áfangastað ferðamanna, en um 90% þeirra fara um Reykjanesbrautina, örskammt frá, á leið sinni til og áleiðis frá landinu hverju sinni.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Hvassahraun.
-Fornleifakönnun fyrir Hvassahraun, Elín ÓSk Hreiðarsdóttir fryir Fornleifastofnun Íslands, 2002.
-Pétur Kornelíusson, eigandi Hvassahrauns, f: 29.03.1953.
-Róbert Kristjánsson, Hvasssahrauni.
-Arndís Einarsdóttir, Hvassahrauni.
-Túnakort af Hvassahrauni frá 1919.
-Jarðatal Johnsen 1847.
-Jarðabók JÁM 1703 (Kaupm.höfn 1943).
Hvassahraun – gerði.
Fljóðahjalli og nágrenni
Í Morgunblaðinu árið 2002 birtist grein undir fyrirsögninni „Tóftin á Flóðahjalla og horfin tíð í Urriðakoti„. Greinin var skrifuð af Þorkeli Jóhannessyni og Óttari Kjartanssyni. Hér birtist hluti hennar:
„Ný tegund tófta hér á landi er leifar mannvirkja vegna hernáms Íslands 1940 og síðari dvalar hers í landinu.
Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson kynntu sér eina tóft þessarar gerðar sem er í Setbergslandi, á Flóðahjalla, sunnan eyðibýlisins Urriðakots í Garðabæ.
Tóftir á Íslandi hafa verið flokkaðar í tvo meginflokka: húsatóftir (tóftir íveruhúsa og peningshúsa af ýmsu tagi) og tóftir margvíslegra skýla (tóftir sæluhúsa, skothúsa, brunnhúsa, myllukofa eða fjárborga og fjárrétta svo að dæmi séu tekin). Ný tegund tófta hér á landi er að kalla tóftir mannvirkja vegna hernáms Íslands 1940 og síðari dvalar hers í landinu. Ein tóft þessarar gerðar er í Setbergslandi á Flóðahjalla sunnan eyðibýlisins Urriðakots í Garðabæ. Tóftin hefur vakið athygli okkar á reiðferðum um landið í kring og þá ekki síst vegna stærðar sinnar.
Fremst á Flóðahjalla heitir Hádegisholt og var eyktarmark frá Urriðakoti. Eyktarmörk minna á horfna tíð með sínum búskaparháttum og mannlífi. Í Urriðakoti var áður sveit, en þar er nú útivistarsvæði borgarbúa – og í vændum er mikil byggð og þar á meðal bygging tæknigarða, ef trúa má fréttum (Morgunblaðið 27.6.2001). Segja má að sú gerbreyting á landnýtingu og lífsháttum, sem hér hefur orðið á síðustu áratugum, hafi fylgt í kjölfar hernáms Breta 1940. Við höfum þess vegna einnig freistast til þess að hyggja lítillega að horfinni tíð á þessum slóðum.
Flóðahjalli.
Á Flóðahjalla.
Flóðahjalli er grágrýtisrani, sem liggur í um það bil norðvestur í framhaldi af Setbergshlíð. Allbreitt skarð skilur Flóðahjalla til suðausturs frá Sandahlíð, sem er hæsti hluti Setbergshlíðar.
Flóðahjalli og nágrenni – Herforingjaráðskort 1903.
Flóðahjalli er hæst um 125 m yfir sjávarmáli og Sandahlíð er svipuð á hæð. Skarðið á milli er í um það bil 100 m hæð. Þar liggur nú háspennulína til Straumsvíkur og línuvegur meðfram. Skarðið nefnist Klif, en var þó aldrei ferðaleið.
Norðaustanvert á Flóðahjalla er markagirðing milli Urriðakots og Setbergs. Þar hefur land greinilega blásið, en í verið sáð lúpínu. Sækir hún nú ört upp hjallann og að tóftinni. Norðan við heitir Urriðakotsdalur og Hraunflatir næst Búrfellshrauni. Þar hafa Oddfellowar eftir 1990 gert stóra og vel búna golfvelli á sínu landi, og var þar golfskáli risinn þegar 1992.
Hádegisvarðan á Hádegisholti.
Suðvestan undir Flóðahjalla, milli hans og Svínholts og Setbergsholts, er Oddsmýri, en Oddsmýrardalur er til suðurs. Oddsmýri hefur verið ræst fram og þar verið ræktuð tún frá Setbergi. Mýrin hefur án efa verið mjög blaut og gæti einhvern tíma hafa verið verið kölluð „flóð“ og af því sé nafngiftin Flóðahjalli dregin. Eldri og væntanlega réttari nafngift er Flóðháls. Frá mýrinni rennur Oddsmýrarlækur í Urriðakotsvatn (Urriðavatn). Í Oddsmýrardal, skammt innan við Oddsmýri, er beitarhúsatóft frá Setbergi. Þaðan er þægilegt að ríða eða ganga inn í botn Oddsmýrardals og svo áfram línuveginn til norðurs upp Klifið og síðan út eftir hjallanum að fornri og nokkuð hruninni vörðu fremst á Hádegisholti (vafalaust hádegiseyktarmark frá Urriðakoti). Tóftin er nokkru framan við háhjallann, um það bil miðja vegu milli hans og vörðunnar. Þaðan er víðsýnt, ekki síst yfir Hafnarfjörð og nágrenni. Flóðahjalli er allnokkuð gróinn og kjarrivaxinn að sunnanverðu, en er nú, því miður umlukinn þéttri lúpínubreiðu á sumrum.
Urriðakot.
Norðaustan undir Flóðahjalla þar, sem heitir Flóðahjallatá, liggur svokallaður Flóttamannavegur, öðru nafni Elliðavatnsvegur eða Vatnsendavegur. Milli vegarins undir Flóðahjallatá og Urriðakotsvatns heitir Dýjamýri austar, en Þurramýri vestar. Dýjakrókar heita fjær undir Urriðakotshálsi (ranglega nefndur Urriðaháls í Mbl. 27.6.2001). Þar eru uppsprettur og úr þeim rennur Dýjakrókalækur vestur Dýjamýri í Þurramýrarlæk, á mótum Urriðakots og Setbergs, og svo í vatnið. Eru lækir þessir ásamt Oddsmýrarlæk helsta aðrennsli í vatnið ofan jarðar. Ef vernda á lífríki Urriðakotsvatns, ekki síst eftir að byggð færist nær beggja megin vatnsins, er því nauðsynlegt að friða bæði Dýjakróka og mýrlendið að sunnanverðu við vatnið. Frárennsli úr vatninu er í norðvesturhorni þess í landi Setbergs. Rennur þaðan lækur, Stórakrókslækur, nú að mestu í rásum og stokkum, sem sameinast Hamarskotslæk (Hafnarfjarðarlæk) neðan og vestan við Setberg. Gekk áður sjóbirtingur í lækinn, en hann hvarf eftir virkjunarframkvæmdir Jóhannesar Reykdals, síðar á Setbergi (föður Elísabetar Reykdals, sjá síðar) árið 19043. Jóhannes Reykdal var frumkvöðull um rafvæðingu hér á landi sem kunnugt er.
Urriðavatn 2023.
Austan Urriðakotsvatns stóð bærinn í Urriðakoti í grónu túni. Túnið er enn grænt, en bæjarins sér nú lítinn stað. Hádegisholt og varðan á því hefur vissulegs blasað vel við frá bænum og útsýni er sömuleiðis gott af holtinu í átt að bæjarstæðinu.
Á Urriðakotshálsi voru á stríðsárunum nokkuð stórar herbúðir Bandaríkjamanna. Þær sjást allvel á loftmynd frá l954 og enn má sjá þar húsgrunna og steinsteypuleifar frá þeim tíma. Það er víst einmitt hér, sem hinir nýju tæknigarðar skulu rísa.
Tóftin.
Flóðahjalli – uppdráttur.
Tóftin er á og umhverfis klöpp eða klapparfláka nokkurn spöl vestan við hæsta hluta Flóðahjalla eins og áður segir. Hún er óreglulega hringlaga, hlaðin úr grágrýti og hafa steinarnir án efa verið fengnir uppi á hrygg hjallans. Grjótveggirnir hafa að mestu verið hlaðnir á melnum utan við klöppina. Þeir hafa því riðlast umtalsvert í áranna rás. Þar, sem veggirnir hafa staðist best, má ætla, að þeir hafi verið nokkuð á 2. m að hæð. Öll er tóftin furðustór að flatarmáli eða nærri 800 m². Norðanvert í tóftinni eru innri hleðslur. Verða þannig til tvö lítil ferhyrnd rými (ca. 2,5x 4 m og ca. 3×1,8 m að innanmáli og eitt hringlaga (ca. 4 m að innanmáli. Í öðru ferhyrnda rýminu fundum við leifar af timburfjölum og utan við hringlaga rýmið fundum við ryðgaða járnplötu, 1×1 m, með ca. 8 cm háum hnúð eða pinna á í miðju, en alls ekkert annað, sem bent gæti til mannvistar.
Á klöppinni syðst eru nokkrar stafristur. Þar teljum við ótvírætt að höggvið hafi verið ártalið 1940, fangamarkið D. S. og væntanlega mannsnafnið J. E. Bolan. Þessi stafagerð er öll með sama breiða lagi. Auk þess má greina fangamörkin J. A. og G. H. með annarri og yngri (?) stafagerð svo og ártalið 1977 (?). Bolan er þekkt mannsnafn í Englandi. Það og ártalið 1940 bendir því eindregið til þess að hér hafi Bretar verið að verki hernámsárið 1940.
Elísabet Reykdal (f. 1912), sem alla tíð hefur búið á Setbergi, man vel eftir komu Breta í Hafnarfjörð sumarið 1940, og hún var í nábýli við þá og síðar Bandaríkjamenn. Hún minnist þess, að Bretar voru með gervifallbyssur (símastaura?) á Setbergshamrinum. Hún man einnig vel eftir Bretunum á ferð í einhvers konar beltabílum („einhvers konar smáskriðdrekar“) á vegaspottunum milli Setbergs og Urriðakots (þetta hafa verið svokallaðir Bren Gun Carriers). Telur hún líklegast, að Bretarnir hafi farið á bílunum upp á Flóðahjalla. Hún þvertekur fyrir, að Íslendingar hafi komið þar að verki.
Af bók prófessors Þórs Whiteheads, Bretarnir koma, má ráða, að meðal þeirra staða, sem Bretar óttuðust mest, að Þjóðverjar myndu nota til landtöku hér, voru lendingarstaðir flugvéla á Sandskeiði og í Kaldaðarnesi og höfnin í Hafnarfirði.
Strax hernámsdaginn (10. maí) voru hermenn sendir upp á Sandskeið og austur yfir Fjall í svo ólíkindalegum herflutningatækjum og hvítar Steindórsrútur voru. Til Hafnarfjarðar voru hermenn fyrst sendir fáum dögum síðar og svo að marki 18. maí, þegar liðsauki hafði borist til landsins með tveimur stórum herflutningaskipum. Þá voru fluttir 700 hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga sjóleiðis til Hafnarfjarðar. Þessir hermenn höfðu þó ekki strax yfir að ráða Brenvögnum, þar eð slík farartæki komu fyrst til landins í júlí um sumarið (9; bls. 132 og 212).
Camp Russel á Urriðakotsholti – kort.
Þór Whitehead telur því einsýnt, að hermenn úr 1/7 herfylki Wellingtons hertoga hafi gert mannvirkið á Flóðahjalla. Hafi tilgangurinn verið sá að efla varðhöld og vígstöðu við Hafnarfjörð til þess að mæta hugsanlegri innrás Þjóðverja11. Ótvírætt er, að Bretar óttuðust mjög landgöngu Þjóðverja í Hafnarfirði, ef svo bæri við. Í bók Þórs er þannig mynd, sem sýnir menn úr herfylki Wellingtons hertoga á æfingu á holti við Hafnarfjörð. Í texta við myndina segir m. a.: „Bærinn var talinn einn líklegasti landgöngustaður þýsks innrásarliðs og Bretar gerðu ráðstafanir til að sprengja Hafnarfjarðarhöfn í loft upp“.
Öðrum okkar (Þ.J.) hefur nú borist svar við fyrirspurn til aðalstöðva herfylkis Wellingtons hertoga þess efnis, að tóftin („the stone defence work mentioned“) hafi verið reist af mönnum úr 1/7 herfylki Wellingtons og tilgangurinn hafi verið svipaður og Þór Whitehead telur („…to cover open ground, which might have been used by enemy parachutists, road approaches to the town and, possibly, likely landing places on the coast“).
Þessar upplýsingar eru byggðar á ritaðri frásögn eins þeirra hermanna, sem þarna komu við sögu og er enn á lífi. Í ljósi þessara upplýsinga þykir okkur líklegt, að byssustæði hafi verið í hringlaga rýminu (járnplatan leifar af því?) og einhvers konar vistarverur hefðu getað verið í ferhyrndu rýmunum (fjalaleifarnar leifar af timburgólfi?).
Urriðakot var áður konungseign og síðar ríkiseign, en komst í einkaeign 1890. Alþingishátíðarárið 1930 bjuggu þar og höfðu búið í áratugi hjónin Guðmundur Jónsson (1866–1941), frá Urriðakoti, og Sigurbjörg Jónsdóttir (1865–1951), frá nágrannabænum Setbergi og áttu þau jörðina. Þau eignuðust 12 börn og er frá þeim mikill ættbogi kominn.
Urriðakot – fornleifauppgröftur neðan bæjarins; forn sel frá Hofstöðum.
Samkvæmt Fasteignabók 1932 var bústofn þeirra 140 sauðkindur og 5 kýr og auk þess 2 hross. Voru þá einungis fjórir bændur í Garðahreppi og aðliggjandi hreppum (Seltjarnarneshreppur, Bessastaðahreppur og Vatnsleysustrandarhreppur), sem voru fjárríkari en þau hjón og þar af einungis tveir, sem áttu að marki fleira fé en þau. Fimm kýr þótti og álitleg nautgripaeign í þá daga. Er því nokkuð ljóst, að Urriðakotshjón hafa orðið að halda vel á spöðunum til þess að sjá bæði bústofni sínum og sér og sínum börnum farborða.
Í Urriðakoti og nágrannabæjunum þar, sem sauðfjáreign var umtalsverð, byggðist sá búskapur mjög á útibeit. Voru þá höfð fjárhús ýmist heima við bæ eða beitarhús frá bæ þar, sem útibeit þótti góð. Sauðaeign var einnig veigamikill liður í fjárbúskap í þá tíð, en sauðir voru jafnan látnir ganga nær sjálfala úti árið um kring. Jón Guðmundsson á Setbergi (1824–1909), faðir Sigurbjargar í Urriðakoti, var einn mesti fjárbóndi, sem sögur fara af hér um slóðir. Hann átti og fleiri sauði en allir aðrir. Í æviþætti af honum segir: „Allt fé á Setbergi í tíð Jóns bjargaðist á útigangi nema lömb og hrútar.“
Fjárhús í Urriðakotshrauni.
Guðmundur í Urriðakoti hafði á vetrum lömb og hluta af ánum í fjárhúsi heima við tún og beitti ánum með gjöf. Hluti af ánum var hafður fram eftir vetri við beitarhús í hraunjaðrinum þar nærri, sem nú er golfvöllurinn. Þegar snjóþyngsli voru, fór Guðmundur með hey í stórum poka upp eftir að hygla ánum. Guðmundur átti einnig um það bil 20 sauði, þegar mest var. Gengu þeir sjálfala, einkum í austanverðri Vífilsstaðahlíð, Selgjá, Búrfellsgjá og á Tungum, og gátu haft afdrep í hellum og skútum, sem þar eru víða. Á síðari árum notaði Guðmundur skúta í jaðri Búrfellshrauns undir Vífilsstaðahlíð, sunnan við Kolanefsflöt og örskammt frá grillstæðinu og bílastæðinu, sem nú er, til þess að gefa við sauðum sínum í harðindum. Hann bar heyið í pokum yfir hraunið frá beitarhúsunum. Áður hafði Guðmundur vanið sauði sína við veglegra fjárbyrgi, sem er skammt sunnan línuvegarins í hrauninu.
Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.
Ef Guðmundur í Urriðakoti mætti nú rísa úr gröf sinni og skunda um Urriðakotsland, myndi honum án efa finnast púttarar í námunda við beitarhús sín og grillarar í námunda við sauðaskúta sinn framandlegir menn og óvelkomnir á sínu landi. Ef þeir hinir sömu skyldu hins vegar sjá mann koma hlaupandi við fót (Guðmundur í Urriðakoti var með afbrigðum léttstígur), er eins víst, að þeim yrði líkt við. Og þó! Þeim myndi án efa falla allur ketill í eld, þótt ekki væri nema vegna klæðaburðar mannsins. („Þótt snjór væri eða bleyta var hann alltaf á kúskinnsskóm og án yfirhafnar hvernig sem viðraði.“). Mjólkin úr kúnum var mjög spöruð heima fyrir og var hún vafalaust drýgsta tekjulind búsins. Var mjólkin seld til Hafnarfjarðar og flutt á reiðingi allt fram undir 1930, að ökufær vegur var lagður milli Urriðakots og Setbergs. Um líkt leyti var tekið að nota heygrind til heyflutninga, en sláttuvél eignaðist Guðmundur aldrei.
Urriðakot – uppdráttur.
Eitt var sérlega athyglisvert í tengslum við heyskap í Urriðakoti, en það var nýting fergins (tjarnarelftingar), sem óx í vatninu. Fergin er nú horfið í vatninu og því miður er engin mynd til af því sérstaka verklagi, sem tengdist nýtingu þess. Um þetta farast Guðmundi Björnssyni svo orð: „Ferginið stóð ca. 30 cm upp úr vatninu og glitti í það á köflum. Við sláttinn voru menn á þrúgum úr tunnustöfum eða klofháum stígvélum og höfðu nót á milli sín. Með gaffli var því skóflað í land og síðan þurrkað á svokallaðri Ferginisflöt. Það var svo gefið kúm sem fóðurbætir“. Svo mikill var þessi ferginsheyskapur í vatninu, að hann nam 40–50 hestburðum (ekki tíundað sérstaklega í Fasteignabók 1932). Voru kýrnar sólgnar í þennan „fóðurbæti“ og hafa án efa verið vel haldnar og í góðri nyt.
Urriðakotsvatn. Fornleifauppgröftur neðst t.h.
Ferginið í Urriðakotsvatni var með vissu slegið 1952. Engin bein skýring er hinsvegar á því hvers vegna fergin er nú horfið úr vatninu.
Talið er, að það hafi horfið eftir 1973–1974 og orsökin hafi verið breytingar á frárennsli vatnsins. Önnur skýring kann þó að liggja beinna við, sem sé að vöxtur og viðgangur fergins í vatninu hafi verið háður því að það væri slegið reglulega.
Lok búskapar í Urriðakoti.
Urriðakot – túnakort frá 1908.
Þau Guðmundur og Sigurbjörg hættu búskap í Urriðakoti 1935. Þau voru þó áfram í Urriðakoti með 20–30 kindur. Jörðina leigðu þau dóttur sinni og tengdasyni. Um mitt ár 1939 seldu þau tveimur sonarsonum sínum jörðina og fluttust alfarin frá Urriðakoti 1941. Að heimsstyrjöldinni lokinni komst jörðin í eigu Oddfellowa. Eftir það bjuggu ýmsir á jörðinni fram undir 1960. Þá fór jörðin endanlega í eyði og skömmu síðar brann bærinn þar.
Urriðakot.
Sú verðbólga, er hófst í landinu í kjölfar hernáms Breta, gleypti andvirði jarðarinnar og urðu Guðmundur og Sigurbjörg þá eignalaus. Auður þeirra fólst því í börnum þeirra og öðrum afkomendum líkt og hefur orðið hlutskipti fjölmargra annarra, sem hafa séð eignir sínar fuðra upp í verðbólgubáli. Sonarsynir Urriðakotshjóna, sem jörðina keyptu, fengu í desember 1944 nafni jarðarinnar breytt í Urriðavatn. Það var óþarfaverk að breyta fornu nafni jarðarinnar. Nafninu Urriðakoti er því haldið hér í samræmi við örnefnalýsingu Svans Pálssonar frá 19787.“
Heimildir:
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson: Fjórar leiðir í Gjáarrétt. Hesturinn okkar, 1. og 2. tbl. 1983.
-Elísabet Reykdal (f. 1912), Setbergi, viðtal 20. apríl 1998.
-Guðmundur Björnsson (1917-2001), augnlæknir, prófessor, Reykjavík (viðtöl apríl 1998 og maí 2000). Einnig Urriðakotsættin. Niðjatal (handrit 1995) og fleiri gögn (nr. 5, 7 og 13 hér á eftir). – Guðmundur var ættaður frá Urriðakoti og að nokkru alinn þar upp og var þar gerkunnugur. Höfundar eru í þakkarskuld við Guðmund heitinn fyrir þann áhuga, sem hann sýndi snuddi þeirra og fyrir lán á heimildum.
-Golklúbbur Oddfellowa (Heimasíða á Netinu).
-Urriðavatnsland. Oddfellowreglan. Handrit, 1987.
-Valgarð Thoroddsen: Elzta rafstöð á Íslandi. Ársskýrsla Sambands íslenzkra rafveitna 12. ár (bls. 175–181). Reykjavík 1955.
-Svanur Pálsson: Örnefnalýsing í Urriðakotslandi. Handrit 15.10. 1978. – Svanur Pálsson er ættaður frá Urriðakoti og er þar gerkunnugur.
-Ólafur Valsson, kortagerðarmaður: Útvegun loftmynda og gerð korts
-Þór Whitehead: Bretarnir koma. Vaka-Helgafell, 1999.
-Páll Lýðsson: Hernaðarsaga stórveldis. Þjóðólfur 11.12. 1967.
-Þór Whitehead: Persónulegar upplýsingar (1999 og 2001). – Höfundar eiga Þór að þakka að hafa komist í samband við ritara herfylkis Wellingtons hertoga, bls. 12.
-Bréf D. L. J. Harraps, majórs, ritara herfylkis Wellingtons hertoga, aðalstöðvum herfylkisins í Halifax, Vestur-Jórvíkurskíri, til Þ. J., dagsett 17.8.2001.
-Jón Sigurðsson í Skollagróf: Þáttur af Jóni á Setbergi. Handrit, 1996.
-Jónína Hafsteinsdóttir, Örnefnastofnun: Persónulegar upplýsingar (22.1. 2001).
-Svanur Pálsson: Bréf til Þ.J., dags. 24.9. 2001.
Heimild:
-Morgunblaðið 13. janúar 2002, bls. 10-11.
Fjárhústóft í Urriðakotshrauni.
Reykjanesviti – staðsetning?
„Vangaveltur hafa verið um nafn fellsins sem núverandi Reykjanesviti stendur á:
Reykjanesviti á Vatnsfelli.
-1752-7. Ferðabók Eggerts og Bjarna: “ . . . en þrjú lítil leirfjöll skera sig þó mjög úr umhverfinu. Þau heita Hverhólmar, Írafell og Vatnsfell. Í því er dálítið vatn í dýjaveitum, sem safnast þar saman af snjó- og regnvatni, . . . „
-1840. Lýsing Grindavíkursóknar. Geir Bachmann: “ . . . Valahnúkur . . . Skammt þaðan í landnorður er aðrísandi fell, Vatnsfell kallað. “ Sérann nefnir ekki Bæjarfell. Á öðrum stað segir hann: “ . . . Sandfell, Sílfell, Grasfell eða áður nefnt Vatnsfell og fram á Skarfasetur.“
Reykjanesviti. Bæjarfell er framan við nýja Reykjanesvitann á Vatnsfelli.
-1883. Þorvaldur Thoroddsen. “ Upp úr hraununum standa nokkrir móbergshryggir, t.d. Valahnúkur (43 m), sem vitinn stendur á [gamli vitinn], Vatnsfell (54 m) og Sýrfell (105 m).
-1908-10: Herforingjaráðskort, 1:50 þús. : Þar sést fell með rana til suðurs. Orðið ´viti´ er skráð vinstra megin við háfellið en örnefnið Bæjarfell er skráð til hægri og sunnar þar sem raninn byrjar. Ekki er hægt að segja til um hvort örnefnið á við hæsta hluta fellsins (Vatnsfellið, nýi bærinn] eða þann lægsta (Bæjarfellið, gamli bærinn).
-1945 kort 1:100 þús.: Þar er Vatnsfell skráð vsv við Bæjarfellið [smbr. Jón Jónsson hér neðar).
-1926. Lesbók Mbl.. Valtýr Stefánsson, ritstjóri: “ . . . Því var ráðist í það að byggja annan vita á Vatnsfelli.·“
Reykjanesvitinn nýi. Vitavarðahúsin gömlu neðar.
-1984. Árbók F.Í.. Séra Gísli Brynjólfsson:“ . . . reis núverandi viti á Bæjarfellinu. “ Sama rit. Jón Jónsson, jarðfr.:. “ . . Lítð eitt
austar [er að lýsa frá vestri] er gosmalarkeila, Vatnsfell, sem sjór er nú sem óðast að brjóta niður [ þarna er greinilega hvorki átt við fellið sem vitinn er á eða gamla bæjarhólinn, en Vatnsfell heitir annað fell austar með ströndinni]“ “ . . . Í fellinu neðan við vitann, Bæjarfelli, stendur bústaður vitavarðar. . .“
-1988. Suður með sjó. Jón Böðvarsson: “ Reykjanesviti trjónar efst á Grasfelli . . . . Eftir byggingu hússins þokaðist gamla örnefnið fyrir heitinu Bæjarfell.“
-1989.
Hús fyrsta vitavarðarins.
Íslandshandbókin. Örn og Örlygur (mynd): “ . . . Bæjarfell með Reykjanesvita fjær . . . „
-1991. Tímaritiði Áfangar. Hafnahreppur. Leó M. Jónsson,: “ . . . og var núverandi viti á Vatnsfelli tekinn í notkun árið 1908.“ Í greininni er mynd af fellunum á Reykjanestá tekin úr norðri, frá veginum og undir henni stendur: “ Frá vinstri sést í Bæjarfell [hóllinn (fellið) sem gamli bærinn stóð á] , þá Reykjanesviti á Vatnsfelli . . „
-2004. FERLIR 665: „Var annar viti byggður á Vatnsfelli (Grasfelli), síðar nefnt Bæjarfell, þar sem hann er nú.“
-Vitamálastofnun notar örnefnið Bæjarfell.
Undirrituð velur Vatnsfell, svona fyrir aldurs og úbreiðslu sakir . . „.
-Sesselja Guðmundsdóttir tók saman.
Reykjanesviti – uppdráttur ÓSÁ.