Nauthólsvík er lítil vík norðan megin í Fossvogi suðvestanmegin við Öskjuhlíð. Víkin heitir eftir kotinu Nauthól sem stóð þar við rætur Öskjuhlíðar í landi Skildinganess. Í Nauthólsvík er skeljasandur og þar hefur verið vinsælt útivistarsvæði frá því eftir Síðari heimsstyrjöld þegar Reykjavíkurborg eignaðist landið. Áður hafði breski herinn tekið landið eignarnámi (hvernig s.s. það gekk fyrir sig?) fyrir Reykjavíkurflugvöll og byggingar honum tengdar. Í Nauthólsvík var braggabyggð í stríðinu og hótel fyrir flugvallarfarþega.

Í Nauthólsvík.
Í Nauthólsvík er vinsælt að stunda alls kyns vatnaíþróttir, svo sem sjósund, kajakróður, kænusiglingar, seglbrettasiglingar og kappróður. Siglingafélag ÍTR, Siglunes, Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey og Sportkafarafélag Íslands eru þar með aðstöðu, en auk þeirra er fjöldi íþrótta- og áhugamannafélaga með aðstöðu í og við Nauthólsvík.

Öskjuhlíð og nágrenni 1945.
Árið 1932 falaðist Íþróttasamband Íslands eftir lóð í Nauthólsvík til að gera þar sundskála og íþróttavelli. Árið 1936 var þar skipulagt íþróttasvæði með stórum íþróttaleikvangi, átta knattspyrnuvöllum og níu tennisvöllum. Kappróðradeild Ármanns hóf þá að reisa þar hús yfir tvo innróna kappróðrabáta sem félagið átti og hafist var handa við að gera skeiðvöll fyrir kappreiðar. Framkvæmdir við svæðið lögðust hins vegar alveg af þegar breska setuliðið á Íslandi tók það undir braggabyggð í tengslum við Reykjavíkurflugvöll. Á styrjaldarárunum var því farið að horfa til Laugardals sem framtíðarsvæðis fyrir íþróttaiðkun í Reykjavík.

Nauthólsvík – bryggja.
Eftir styrjöldina var róðradeild Ármanns starfrækt í Nauthólsvík. Síðar bættist við bátaskýli Róðrarfélags Reykjavíkur. Siglunes, siglinga- og róðraklúbbur æskulýðsráða Reykjavíkur og Kópavogs, var stofnaður árið 1962 og vorið 1967 keypti klúbburinn síðarnefnda bátaskýlið sem þá átti að rífa og hóf þar starfsemi. Á 8. áratugnum var skýlið stækkað mikið og steyptur rampur frá húsinu að sjó.
Frá 1971 til 1983 voru hátíðahöld á sjómannadaginn haldin í Nauthólsvík, en 1984 var dagskráin flutt yfir í Reykjavíkurhöfn.
Núverandi Ylströnd í Nauthólsvík átti sér nokkrun aðdraganda, allt frá því að setuliðið hlóð frárennisrás frá herkampinum við Nauthól, sem síðar var notaður sem affall frá heitavatnstönkunum á Öskjuhlíð.
Í Vísi 1977 var fjallað um „Nafntogaðan læk„:

Nauthólslækur – loftmynd 2023.
„Sá einstæði atburður gerðist á fimmtudaginn í síðustu viku að fólk lagðist í sólbað á Íslandi, í miðjum október. Fjölmenni var í læknum góða í Nauthólsvík, sem nú getur státað af mörgum ágætum nöfnum. Hann er kallaður: Volga, Læragjá, Beruvík, Læralind og Dóná, svo nokkuð sé nefnt. Nafntogaður lækur það.“
Á Wikipedia er kafli um „Læragjá„:

Nauthólslækur. Vestan við Lyngberg er uppþornaður lækjarfarvegur sem nær frá göngustíg og suður í sjó, um 80 m. Upprunalega var þetta frárennslisskurður frá tíma setuliðsins og lá með öllum Nauthólsvegi að vestanverðu. Nú er einungis syðsti hluti hans sýnilegur og grjóthlaðinn. Hitaveita Reykjavíkur leiddi affallsvatn úr heitavatnsgeymunum á Öskjuhlíð í lækinn á árunum 1968 til 1983. Í örnefnalýsingu Skildinganess segir: „Í Nauthólsvík … fellur til sjávar tilbúinn lækur, heitur, yfirfall frá Hitaveitu Reykjavíkur, nú vinsæll baðstaður, rétt við Lyngberg. Nú hefur lækurinn verið lagfærður og byggður upp. Sumir hafa nefnt lækinn Volgu og gjána þar sem menn baða sig í Læragjá. Vel má vera að þessi örnefni eigi enga framtíð fyrir sér en eru skemmtileg samt sem áður.“ Hætt var að veita affalli frá heitavatnstönkunum á Öskjuhlíð í lækinn 1985 vegna ógætilegrar umgengni baðgesta við lækinn.
„Læragjá var nafn sem var notað um breiðasta og dýpsta hluta lækjarins í Nauthólsvík þar sem fólk baðaði sig, sérstaklega eftir að skemmtistöðum var lokað. Margir böðuðu sig þar naktir og fékk staðurinn nafn af því. Vatnið var yfirfallsvatn úr heitavatnstönkunum uppi á Öskjuhlíð og var affall sem seytlaði í lækinn úr framræsluskurði með hlíðinni. Þar sem menn böðuðu sig var hlaðið dálítið baðsvæði með höggnu grjóti. Löngum fór orð af gjálífi í læknum, og auk þess voru drukknir menn oft nærri drukknaðir í honum, og sökum þessa beindi borgarstjórn því til hitaveitustjóra hvort framkvæmanlegt væri að loka fyrir rennsli í lækinn að næturlagi. Hætt var að láta heitt vatn renna að næturlagi í Læragjá um 1980. Um líkt leyti komu upp hugmyndir um að breyta svæðinu þar í kring í hitabelti undir þaki. Af því varð þó aldrei.
Lækurinn gekk einnig undir ýmsum öðrum heitum, svo sem: Volga, Beruvík, Læralind, Dóná og Rasslind, en var oftast nefndur Læragjá.“
Í Lesbók Morgunblaðsins 1976 skrifar Ásgeir Jakobsson svonefnda „Öskjuhlíðarþanka„:
„Það var eldsnemma, rúmlega sjö, á laugardagsmorgni þann 10. júlí aö ég rölti uppí Öskjuhlíð að njóta sólar eftir langan dumbungskafla. Ég fann orðið til dálítillar sektarkenndar gagnvart þessari vinkonu minni og reykvísku heimasætu eftir langt framhjáhald með öðrum og reisulegri meyjum í nágrenni Reykjavíkur, svo sem Esjunni og fleiri hennar líkum. En nú þarf ég að endurnýja kynnin, og kominn heim eftir langa útivist, sá ég strax margt, sem hafði dulizt mér í hlaðvarpanum.

Nauthólslækur. Farvegur lækjarins er greinilegur frá göngustíg neðan við Nauthólsveg að sjó, liggur nánast norður-suður. Hann er V laga, hlaðinn úr grjóti með steypu á milli. Stærð steina er breytileg frá 20 x 10 cm upp í 40×70 cm, blanda af tilhöggnum brúnsteinum og kantsteinum auk náttúrulegra steina. Sjö þverhleðslur, stíflur, eru í læknum til að stöðva vatnið, lækurinn er um 3 m breiður en sumstaðar er lækjarfarvegurinn breiðari, t.d. fyrir ofan stíflurnar, en þar er hann allt að 7 m að breidd þar sem hann er breiðastur. Neðarlega í lækjarfarveginum eru leifar af trébrú og fyrir neðan hana breikkar farvegurinn aftur og er neðsta þverhleðslan við fjöruna er um 5 m á lengd. Áletrunin „EH77“ er höggvin í einn hleðslusteininn í vesturbakkanum, nánast neðst fyrir ofan syðstu þverhleðsluna. Farvegurinn er nú grasi gróinn með töluverðum trjágróðri og ekkert vatn er í honum lengur. Gengið var með bökkum lækjarins og þeir mældir inn.
Ég fór léttan stíg niður hlíðina, enda í svo góðri þjálfun. Þegar ég nálgaðist, sá ég konur baukuðu sér en karlmenn stóðu álengdar og horfðu til þeirra. Þær vóru að tína af sér spjarirnar. Sú athöfn er vissulega ein af undirstöðuathöfnum mannlífsins og útá hana hefur margur maðurinn fæðst og alltaf er nú þetta forvitnilegt verk — kona að hátta —. Þó að mestu skipti í hvaða tilgangi hún háttar.
Berrassað fólk á asfalti eða í borgarumhverfi er hjákátlegt og særir augað og hjartað og ergir skynsemina. Bert mannsholdið fellur ekki vel við borgarumhverfið. Nakin kona á steinsteypunni er eins og blóm, sem fallið hefur á gangstétt. — Hins vegar myndi allsbert fólk sóma sér vel á beit úti í guðgrænni náttúrunni.
Þegar fólk vill leita uppruna síns í einu eða öðru tilliti þá verður það að gæta þess, að gera það í samsvarandi umhverfi. Sem sagt: Strípaður maður á almannafæri í borg, á þar ekki heima fremur en maður á lakkskóm með pípuhatt og í kjólfötum í fjallgöngu.
Þegar ég hafði uppgötvað hvað var að gerast vissi ég til hvers þetta fólk var komið. Það ætlaði, a.m.k., eitthvað af því, að baða sig í hinni frægu Læragjá, eins og margir nefna þessa nýju heilsulind, sem fellur úr Öskjuhlíðinni. (Rasslind, eins og sumir nefna Lindina finnst mér ósmekklegt, en óneitanlega réttnefni). Ég hafði aðeins heyrt þessarar heilsulindar getið svo og þess að meiningar væru deildar um ágæti hennar. Nú gafst mér tækifæri eldsnemma morguns að fylgjast með heilsuræktinni.

Öskjuhlíð 1946.
Vatnið í Læragjá er affall frá hitaveitugeymunum uppi á Öskjuhlíðinni, en einnig seytlar í hana skurðvatn úr framræsluskurði í brekkukverkinni vestur með hlíðinni. Í rauninni er heilsulindarfarvegurinn framræsluskurður, sem hefur verið hugsaður til að veita vatnsaganum ofan úr hlíðinni og undan henni til sjávar og þurrka upp svæðið vestan við skurðinn. Vegurinn að bátanaustinu og gufuböðunum og reyndar öllum hinum gamla baðstað liggur yfir skurðinn þar sem affallsrörin koma í hann, en þau liggja senni]ega nokkurn veginn beint frá geymunum efra.

Nauthólslækur (Sigmund-mbl).
Í Læragjá eru þrjú uppistöðulón; það hafa verið hlaðnar stíflur á þremur stöðum í stokknum og þær mynda þessi lón, hvert svo sem eins og tvær mannslengdir. Stíflurnar hljóta náttúrlega að draga úr gegnumstreyminu.
Eiginmenn, (eða það skyldi maður halda), kvennanna, sem voru í vatnsnuddinu, stóðu á skurðbakkanum og horfðu ólundarlega á konur sfnar, en þær brostu alsælar á móti. Þarna var mikið hold, sem þurfti að fjarlægja, og líklegra verkefni fyrir Dettifoss en þessa lækjarsytru úr hitaveitugeymunum. Það kom á daginn, að það hafði fleirum dottið í hug að þörf gæti reynzt á kraftmeira rennsli. Eg spurði:
—Finnst ykkur þetta hafa borið árangur?
Mennirnir vóru seinir til svars.
Loks sagði annar:
— Það skiptir nú minnstu, hvað okkur finnst. Þær segja að þetta grenni þær, en þú sérð nú að eitthvað er eftir þarna niðri í skurðinum.
— Það þarf að auka rennslið, sagði ég hughreystandi.
— Já, sagði nú hinn maðurinn ákafur, þaö var einmitt það, sem ég sagði við mína konu í morgun, að ef hún ætlaði að ná af sér spikinu með vatnsrennsli, segði þessi spræna lítið, hins vegar skyldi ég fara með hana austur í Þjórsá, þar sem hún fellur þrengst og leggja henni þar við stjóra fram yfir aldamót …“
Í Morgunblaðinu 1978 segir: „Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum„:

Nauthólslækur (Mbl. Ó.K.M)
„Útideild og lögreglustjóri hafa áhyggjur af Læragjá – Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum.
Fyrir tilstuðlan Æskulýðsráðs Reykjavíkurborgar er nú lækurinn í Nauthólsvík eða Læragjá, eins og hann er oft nefndur, að nýju kominn á dagskrá í borgarstjórn. Upphaf pessa nýja erindis fyrir borgarstjórn má rekja til bréfs frá Útideild/Eskulýðsráðs og Félagsmálaráðs, en þar kemur fram að ástandið að næturlagi við lækinn veldur starfsfólki deildarinnar miklum áhyggjum og að það telur nauðsynlegt að koma vitneskju þeirra um ástandið á framfæri við viðkomandi yfirvöld. Sendi því Útideildin bréf til Æskulýðsráðs, Félagsmálaráðs og Heilbrigðisráðs.
Í bréfi Útideildar kemur fram, að hún hefur margsinnis í störfum sínum kannað ástand og fjölda ungs fólks við hinn margumtalaða læk við Nauthólsvík. Á umliðnum vetri hafi oft verið mjög slæmt ástand þar en þó einkum að næturlagi um helgar.

Nauthólslækur. Mbl. Ó.K.M.)
Þá hafi fólk safnazt saman í tugatali, yfirleitt dauðadrukkið og tekið sér bað í læknum, ýmist í alfatnaði, hálfnakið og jafnvel allsnakið. Ekki hafi verið óalgengt að sjá fólk í samförum og stóran hóp áhorfenda umhverfis. Mikið er um flöskubrot og annan óþrifnað, og fólk gerir þarfir sínar í lækinn eða nánasta umhverfi hans, þar sem engin hreinlætisaðstaða er fyrir hendi. Meiðsli eru einnig tíð að því er fram kemur í bréfinu.
Flest er fólkið yfir tvítugt en einnig eru áberandi hópar unglinga og hefur sá hópur alltaf stækkað með hækkandi sól, að því er segir f bréfinu. Er það álit starfsmanna Útideildar að mesta mildi sé að ekki skuli nú þegar hafa hlotizt þarna af stórslys, og segir í bréfinu að miðað við núverandi aðstæöur telji starfsmenn deildarinnar algjörlega óforsvaranlegt aö fólk hafi aðgang að læknum aö næturlagi.

Nauthólslækur. (Mbl. Ó.K.M.)
Í framhaldi af þessu ritaði Æskulýðsráð lögreglustjóranum í Reykjavík bréf og óskaði umsagnar hans, og er sú umsögn barst var hún lögð fram í borgarráði ásamt bréfi Útideildar. Umsögn lögreglustjóra er mjög á sömu lund og bréf Útideildar. Hann getur þess í upphafi aö þessi afrennslislækur hafi lengi verið búinn aö renna til sjávar í Nauthólsvík án þess að nokkur vandræði hlytust af. Hins vegar hafi loks komið að því að ölvað fólk fór að sækja í lækinn um nætur, dagblöð að birta myndir og þar með hafi verið komin sú athygli og auglýsing er þurfti til að stefna því fólki þangað er sízt skyldi. Borgarstjórn hafi þá látið lagfæra lækjarbakkana og snyrta til svo vistlegra yrði á svæðinu en slíkt hafi dugað skammt er baðgestir kunnu ekki fótum sínum forráð.

B-vakt lögreglunnar 1975. Hafði nóg að gera að nætulagi við Nauthólsvík.
Fram kemur í umsögn lögreglustjóra, að lögreglan hafi að undanförnu þurft að hafa dagleg afskipti af baðgestum sakir ölvunar, slagsmála og slysa og sé nú svo komið að ekki verði viðunað lengur. Sérstaklega sé ástand við lækinn um nætur slæmt eftir að dansleikjum lýkur, fólk haldi að baðstaðnum, og leggist í lækinn ýmist nakið, á nærfötum eða í öllum fötum. Af þessum sökum hafi hlotizt alvarleg slys og einn maður hafi fundizt örendur í læknum. Hinn 17. júní sl. hafi rænulaus maður verið fluttur í gjörgæzludeild eftir að hafa sofnað í læknum og næstum drukknað og margir hafi þarna skorizt illa á glerbrotum, slasazt í slagsmálum og hrasað.

Nauthólslækur.
Fyrir liggi margar lögregluskýrslur um óhöpp á staðnum og slæma hegðun fólks, m.a. vegna þess að engin snyrtiaðstaða sé á staðnum og menn gangi þar örna sinna á víðavangi og í læknum. Ekki er heldur aðstaða til að hafa fataskipti og geyma verðmæti, svo að talsvert hefur borið þarna á þjófnaði á fötum og munum. Þá kemur fram að aöfaranótt 17. júní þurfti lögreglan tvívegis að fara á björgunarbát og sækja ölvaða menn, sem höfðu lagt til sunds yfir Fossvog eftir bað í læknum og voru báðir aðframkomnir er þeir náðust. Þá kemur fram, að mjög mikið ónæði er á Hótel Lottleiðum af völdum fólks sem kemur úr læknum um nætur og ítrekaðar kvartanir hafa borizt frá hótelinu í því sambandi.“
Í Morgunblaðinu 1978 segir:

Nauthólslækur. Önnur umfjöllun í Morgunblaðinu 1978: “ Læragjá lokuð að næturlagi,“
„Læragjá lokað að næturlægi? Dæmi um og að menn hafi jafnvel í ölæði lagzt til sunds úr læknum.
LÆRAGJÁ eða lækurinn í Nauthólsvikinni veldur borgarstjórn áhyggjum eða öllu heldur sú slysahætta sem af honum stafar vegna ásóknar ölvaðs fólks um nætur.
Í borgarráði Reykjavíkur í gær var lagt fram bréf frá framkvæmdastjóra Æskulýðsráðs borgarinnar með skýrslu lögreglustjóra, þar sem lýst er heldur ókræsilegu næturlífi við lækinn vegna mikillar ásóknar ölvaðs fólks. Minnt er á að þegar hafi hlotizt af þessu eitt dauðaslys, fólk hafði verið fiskað meðvitundarlaust upp úr læknum og út í sjálfa víkina.
Þá hefur löngum farið það orð af gjálífi þessu, að það fari langt út fyrir öll velsæmismörk, en engu að síður mun það vera áðurnefnd slysahætta sem af læknum er talin stafa sem veldur borgarstjórn mestum áhyggjum. Var í því sambandi rætt á borgarráðsfundinum í gær hvað væri til ráða og var því beint til hitaveitustjóra og borgarverkfræðings hvort framkvæmanlegt væri að loka fyrir rennsli í læknum að næturlagi og hver kostnaður af því væri.“
Í DV árið 1983 segir:
„Lækurinn aldrei framar baðstaður?
Lækurinn vinsæli í Nauthólsvík mun hugsanlega aldrei opnast framar til baða. Heitt vatn hefur ekki runnið í hann frá því í apríl síðastliðnum.
„Það er eins líklegt að þetta verði svona um alla framtíð,” sagði Árni Gunnarsson, verkfræðingur hjá Hitaveitu Reykjavíkur, þegar DV spurði hann um hversu lengi yrði vatnslaust í Læknum.
„Við höfum verið að auka dælingu úr Reykjavíkursvæðunum. Þar af leiðandi höfum við þurft að fullnýta afgangsvatnið,” sagði Árni.

Nauthólslækur.
Borholusvæði Hitaveitunnar eru þrjú; Laugardalssvæði sem er tæplega 130 gráðu heitt; og Reykjasvæði í Mosfellssveit sem er um 80 gráðu heitt.
Hitaveitan selur viðskiptavinum sínum 80 gráðu heitt vatn. Vatnið úr Reykjavíkursvæðunum er hins vegar mun heitara. Það þarf því að kælast niður.
Til kælingarinnar notar Hitaveitan frárennslisvatn. Það vatn er orðið um 40 gráðu heitt eftir að viðskiptavinurinn hefur notað það til upphitunar.
Áður rann afgangur af þessu frárennslisvatni um öryggisventil úr gömlu geymunum á Öskjuhlíð niður í Lækinn í Nauthólsvík. Eftir að Hitaveitan fór að nýta heitari svæðin meira þarf hún á öllu frárennslisvatninu að halda til kælingarinnar.
„Það er ákaflega erfitt að segja til um það hvort það verði til afgangsvatn fyrir Lækinn í framtíðinn. Það þarf ekki að búast við neinu. Þetta er algerlega háð rekstri Hitaveitunnar,” sagði Árni.
Lækurinn var á sínum tíma fjölsóttur baðstaður. Mikil vinna hefur verið lögð í að gera umhverfi hans snyrtilegt.“ -KMU.
Svo mörg voru þau orð – vandinn var einfaldlega leystur með eðlilegri og betri nýtingu í stað langra óþarfa skoðanaskipta stjórnmálamanna…
Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Nauth%C3%B3lsv%C3%ADk
-Vísir, 256. tbl., Nafntogaður lækur, 17.10. 1977.
-https://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%A6ragj%C3%A1
-Lesbók Morgunblaðsins, Öskjuhlíðarþankar, Ásgeir Jakobsson, 34. tbl. 05.09. 1976, bls. 14 og 15.
-Morgunblaðið, 142. tbl. 06.07.1978, Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum, bls. 5 og 20.
-Morgunblaðið, 141. árg., Læragjá lokað að Næturlagi?, 1978, bls. 32.
-DV, 205. tbl., Lækurinn aldrei framar baðstaður?, 9. sept. 1983, bls. 40.
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-Morgunblaðið, 167. tbl, 05.08.1978, Læragjá lokuð að næturlagi, bls. 48.

Nauthólsvík og nágrenni 1945.
Fagradalsfjall – flugvélaflök
Gengið var um Fagradalsfjall með það að markmiði að finna og skoða þrjú flugvélaflök, sem þar eiga að vera.
Hluti braksins í Kastinu.
Gengið var frá Siglubergshálsi og gengið um Lyngbrekkur og upp með Langahrygg að austanverðu. Þaðan er gott útsýni yfir að Skála-Mælifelli. Flugvélabrak frá því á stríðsárunum liggur norðaustan í hryggnum. Tólf menn fórust, Bretar og Bandaríkjamenn. Stutta stund tók að finna brakið. Það er efst í hryggnum og í brekkunni þar fyrir neðan. Hluti braksins er í gili undir brekkunni.
Haldið var yfir að Langhól. Þar fórst önnur vél í stríðinu, Sunderland flugbátur. Ekki er ljóst með mannskaða. Brakið er norðaustan í hólnum, nokkuð ofarlega. Áður en komið vara ð barkinu var gengið fram á vatnsketil þar í hlíðinni og var þó svolítið vatn í honum. Vel gekk að finna brakið. Gengið var svo til beint á það.
Eftir að hafa skoðað svæðið var gengið upp á hæsta punkt Langhóls (391 m.y.s.).
Langhóll – brak.
Þar er gott útsýni yfir hinar fögru og blómlegu byggðir Suðurnesja og Útnesja. Brak af flugvél er ofarlega undir Langhól í norðaustur.
Frá Langhól var haldið í Kastið, en þar er þriðja flugvélabrakið. Það er af Liberator-flugvél Andrews yfirhershöfðingja Bandaríkjanna í Evrópu í stríðinu, en hann fórst þarna 3. maí 1943. Fjórtán fórust og einn komst lífs af í þessu slysi.
Eftir að hafa skoðað brakið í Kastinu var haldið sem leið lá að upphafsstað.
Veður var frábært. Gangan tók 5 klst og 5 mín. Átján km voru lagðir að baki.
Kastið í Fagradalsfjalli.
Tóustígur – Búðarvatnsstæði – Skógarnef – Öskjuholt – Öskjuholtsskjól
Gengið var frá Hvassahrauni að Afstapahrauni (Arnstapahrauni) og inn í hraunið. Það virtist ógreiðfært við fyrstu sýn, en raunin var önnur. Það er vel gróið á kafla og auðvelt yfirferðar. Að austanverðu eru falleg gróin svæði strax og komið er inn í hraunið með fallegum klettamyndunum.
Vinnuvélar komnar fast af fornum garði í Neðstu-tóu – Tóustígur h.m.
Sjá mátti fyrirhleðslu á einum stað. Stígur liggur þar í gegnum. Gengið var upp á línuveginn og eftir honum til vesturs uns komið var inn í Tóu tvö. Jarðvinnuvélar voru að moka hrauninu vestan hennar, u.þ.b. tveimur metrum frá Tóustígnum og hlöðnu görðunum, fornminjum, sem þar eru. Sorglegt á að horfa. (FERLIR vakti athygli MBL á aðstæðum. Það birti mynd af jarðvinnuvélunum og sagði frá nálægðinni við garðana. Vegagerð ríkisins stöðvaði framkvæmdir og þáði afsökun verktakans. Hann hafði ekki áttað sig, að sögn, á hversu nálægt hann var kominn, þrátt fyrir skráða skilmála þess efnis).
Tóustígur.
Gengið var til suðurs upp eftir Tóustígnum, upp í Tóu þrjú. Þar er jarðfall og hleðsla fyrir. Bændur munu hafa hýst fé þar í skjóli. Bein voru ofan við jarðfallið eftir refaveiðimenn, en þeir munu hafa borið þar út æti með það fyrir augum að veiða refinn. Greni eru þarna í hraunkantinum. Haldið var eftir stíg í Hrístóu. Hún er vel gróin að hluta. Gengið var með Seltóunni og var stígurinn þræddur til austurs í gegnum gróft hraunið uns komið var í slétt mosahraun – Dyngnahraun. Í því voru greni og mjög fallega hlaðið refabyrgi. Mjög erfitt er að koma auga á það – svo vel fellur það inn í landslagið. Sennilega er þarna fundið byrgi er Jónas Bjarnason var að reyna að lýsa fyrir FERLIR fyrir u.þ.b. tveimur árum og nokkrum sinnum hefur verið reynt að hafa uppi á. Allt finnst þetta þó að lokum.
Tóustígur.
Efst suðvestan í efstu Tóunni liggur varðaður stígur til suðvesturs yfir Afstapahraunið. Stígurinn er mjög greinilegur og hefur verið fjölfarinn fyrrum. Greinilegt er að þarna hefur verið um hrísgötu að ræða, enda lagaður til umferðar. Hún hefur legið upp með vesturjaðri Afstapahrauns og beygt inn á hraunið að efstu Tóunni þar sem haunhaftið er mjóst. Með því að fara upp með gróningunum vestan hraunsins hefur meðferð hesta verið mun meðfærilegri en að fara með þá niður Tóurnar, yfir hraunhöft og torleiði þar sem hrísið var m.a. annars vegar.
Upp af Tóunum tók við hraunkantur, sem stígurinn lá í gegnum.
Þegar út úr hrauninu var komið var haldið til austurs uns komið var í hraunkrika Dyngnahrauns.
Skógarnefsgreni.
Haldið var upp í krikann og stígur þræddur yfir úfið hraunið. Þegar yfir það var komið tók við gróinn Almenningur skammt vestan við Gömlu þúfu. Gengið var spölkorn norður með hraunkantinum og þá komið að Búðarvatnsstæðinu. Það reyndist því miður þurrt með öllu. Vatnsbirgðirnar voru því látnar duga. Girðing hefur legið í gegnum vatnsstæðið og beygt þar hornrétt. Eftir að hafa áð við vatnsstæðið var gengið með hraunkantinum og stefnan tekin á Hvassahraun.
Skógarnefsgreni.
Gengið var í gegnum gróið hraun, niður í gegnum Skógarnefið, sem er þarna skammt frá, og áfram í genum gróið mosahraun vestan þess. Gerð var leit að Skógarnefsskúta, en án árangurs. Gengið var um Jónshæð og niður að Öskjuholti. Staldrað var við Öskjuholtsskúta og hann skoðaður. Þá var gengið áfram til norðurs, niður með Bláberjahrygg og að upphafsreit.
Frábært veður. Gangan tók 6 klst og 6 mín. Gengnir voru 19.4 km.
„Víkingaskip“ í Afstapahrauni.
Hrafnagjá – Stóra-Aragjá – Knarrarnessel – Brunnastaðasel – Nýjasel
Gengið var yfir Hrafnagjá frá Reykjanesbraut, upp Vogaheiði áleiðis upp í Knarrarnessel og Brunnastaðasel, síðan niður heiðina á ný, niður að Snorrastaðatjörnum með viðkomu í Nýjaseli.
Hrafnagjá.
Hrafnagjá liggur, að sumir segja, frá Háabjalla og alla leið í sjó fram í túninu á Stóru-Vatnsleysu. Af loftmyndum að dæma eru skil á milli Hrafnagjá Vatsleysumanna og Hrafnagjár Vogamanna. Hvað sem því líður er gjáin falleg og gefur Almannagjá lítið eftir á köflum. Hæst er Hrafnagjá um 30 metrar, þ.e. ofan Voganna.
Gjárnar upp Vogaheiðina eftir að gengið hefur verið yfir Hrafnagjá heita m.a. Huldugjá, Litla-Aragjá, Stóra-Aragjá, Klifgjá, Gjáselsgjá, Holtsgjá og Brunnastaðaselsgjá.
Á Huldugrjárbarmi er Pétursborg. Gjáin er nokkuð há á kafla. Litla-Aragjá og Stóra-Aragjá eru óljóslega sagðar heita eftir Ara, fornmanni í Vogum, en ekki eru til skráðar heimilir um það. Sá möguleiki er fyrir hendi að Aranafnið sé jafnvel tilkomið af fuglsnafninu örn. Þar sem bergveggurinn er hæstur í Stóru-Aragjá heitir Arahnúkur.
Arasel.
Undir Arahnúk er Arahnúkasel eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel, en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðurinn eyddist. Arahnúkaselstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn og þar finnast tíu kofatóftir ásamt kví. Sagt er að bletturinn hafi síðast verið sleginn árið 1917. Ekkert vatnsból finnst við selið og líklega hefur vatn verið sótt alla leið í Snorrastaðatjarnir.
Arahnúkasel.
Í bergveggunum á Arahnúk er hrafnsóðal og þar sem uppgangan er á hnúkinn er Araselsgrenið. Heimildir er um tvö önnur nöfn á Stóru-Aragjá, Aragjá og Stór-Aragjá. Stóra-Aragjá nær allt að Skógfellahrauni til suðvesturs, en þegar komið er nokkuð norðaustur fyrir Arahnúk þrengist gjáin til muna og er svo til horfin í Brunnastaðalandi. Nokkrar heimildir segja að Stóra-Aragjá sé sama gjá og Klifgjá þegar komið er austar í heiðina.
Í norðaustur frá Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða.
Ólafsgjá og Ólafsvarða.
Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta klifgjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring. Um aldamótin 1900 hrapaði Ólafur Þorleifsson úr Hlöðuneshverfi þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jólin. Mikil leit var gerð, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson.
Brunnastaðasel – stekkur.
Brunnastaðaselið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr. Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst byggðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir, en aðeins norðar og neðar á grasblettinum eru tvær til þrjár nýrri. Í þröngri gjánni er lítil heilleg kví og hafa gjárveggirnir verið notaðir sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltatíma. Ofar er Brunnastaaðselsvarða og heimildir eru um Brunnastaðaselsvatnsstæði.
Gengið var niður heiðina áleiðis að Snorrastaðatjörnum. Þegar skammt var eftir að tjörnunum var komið við í Nýjaseli undir Nýjaselsbjalla. Selið hefur tilhyert bændum í Vogum og líklega byggst eftir að selstaða lagðist af ofar í heiðinni eða þá að þarna hafi eingöngu verið kúasel. Rétt norður af selinu eru grasgefnir hólar, sem gætu heitið Selhólar, en heimildir eru til um það örnefni á þessum slóðum.
Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.
Í gömlum heimildum er getið um Snorrastaði einhvers staðar við Snorrastaðatjarnir, en hvergi sést merki um þann bæ. Í Jarðabókinni 1703 segir um Snorrastaði: “Forn eyðijörð og hefur um langan aldur í eyði legið… Nú er allt land þessarar jarðar lagt undir brúlkun ábúenda í Vogum hvoru tveggja, og hefur yfir hundrað ár verið svo”. Tjarnirnar eru oftast sagðar þrjár, en eru í það minnsta fimm ef ekki er því meiri þurrkur.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnseysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.
Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.
Fossvogsbakkar – skilti
Norðan Fossvogs, milli Nauthólsvíkur og Nestis, er skilti; Fossvogsbakkar. Á því má lesa eftirfarandi:
„Fossvogsbakkar eru friðlýstir vegna einstæðra setlaga frá lokum ísaldar. Friðlýsta svæðið nær all frá Nauthólsvík inn í botn Fossvogs. Stærð svæðisins er um 18 ha.
Jarðsaga og myndun
Fossvogsbakkar – mörk friðlýsta svæðisins.
Á síðustu hlýskeiðum ísaldar fyrir um 11 þúsund árum leiddi bráðnun jökla til umtalsverðrar hækkunar sjávarstöðu. Þá mynduðust sjávarsetlög í kyrrlátu grunnsævi sem sjást einstaklega vel i Fossvogsbökkum. Setlögin mynduðust ofan á grágrýtisklöpp sem tilheyrir Reykjavíkurgrágrýtinu sem myndaðist við eldumbrot á hlýskeiðum síðustu ísaldar, sennilega fyfir 100-200 þúsund árum. Silt-, eðju- og sandsteinslög einkenna setlögin sem eru auk þess mjög rík af steingervingum. Allra síðustu jöklar gengu yfir svæðið skömmu eftir myndun setlaganna og skildu eftir jökulruðning.
Setlögin
Fossvogsbakkar – setlög.
Setlögin ná yfir 2 km strandlengju en eru misþykk og víðar nær rofin í burt af sjávarföllunum. Þykkust eru þau í botni Fossvogs og er hámarksþykktin tæpir 5 metrar. Neðsta lagið er jökulberg myndað úr jökulruðningi sem bendir til hörfunar jökla. Næstu lög eru sjávarsetlög, einkum fíngerð silt- og eðjusteinslög sem sýna að sjávarstaða hafi hækkað.
Í sjávarsetinu eru steingervingar einkum skeljar samlokutegunda svo sem hallloka, rataskel, smyrslingur, gimburskel, trönuskel og kúskel, en einnig skeljar kuðunga og hrúðukarla.
Flestir steingervingarnir eru óbrotnir og í lífstöðu sem bendir til þess að setið hafi myndast í kyrrlátu grunnsævi.
Fossvogsbakkar.
Ofan á sjávarsetinu er meira jökulberg frá síðasta jökulskeiði ísaldar. Þar eru ummerki um áhrif rennandi vatns sem bendir til þess að jökullinn hafi verið þunnur.
Vestast á svæðinu, næst Nauthólsvík, er hið 200.000 ára gamla Reykjavíkurgrágrýti áberandi undir setlögunum.
Í klettinum Míganda innst í Fossvogi eru setlögin þykk og auðvelt að skoða þau. Þar eru nær eingöngu eðjusteinslög, mjög þykk og lagskipt. Það sést ekki í Reykjavíkurgrágrýtið. Neðsta dökka lagið er hvarfs- leirkenndur eðjusteinn og ofan á honum eru ljósari eðjusteinslög. Á einstöku stað eru skeljar eða för eftir skeljar.“
Fossvogur.
Laugarás – skilti
Efst á Laugarásholti er skilti; Laugarás. Á því má lesa eftirfarandi.
Laugarás – mörk friðlýsta svæðisins.
„Laugarás er eitt af sex friðlýstum svæðum í Reykjavík.
Berggrunnur Laugaráss er Reykjavíkurgrágrýtið er rann sem hraun á síðasta hluta ísaldar fyrir um 200 þúsund árum.
Síðan gengu jöklar yfir svæðið og mótuðu landslag í grágrýtisflákann; eyjar, sund, holt og hæðir. Laugarás er ein þessara jökulmótuðu hæða. Þegar síðustu meginjöklar ísaldar höfuðu fyrir um tíu þúsund árum flæddi sjór inn yfir svæðið. Laugarás varð þá sker þar sem brimið velti hnullungunum og mótaði. Sjór stóð þá 43 metrum hærra en nú.
Laugarás (45 m yfir sjávarmáli) er einn af örfáum stöðum í borgarlandinu þar sem slíkar minjar eru enn varðveittar.
Laugarás.
Laugarás var friðlýstur sem náttúruvætti þann 5. janúar 1982. Ástæða friðlýsingar svæðisins var að halda opnu svæði þar sem unnt er að skoða jökulrispað berg og hæstu sjávarstöðu en svæðið er dæmi um ísaldaminjar.
Stærð náttúruvættisins er 1,5 ha.
Á friðlýstum svæðum er óheimilt aðs pilla gróðri og skerða jarðmyndanir. Öllum er heimil umferð um svæðið sé góðrar umgengni gætt.
Fyrir um tíuþúsund árum og um aldir var Laugarás eyja sem stóð upp úr Kollafirði. Nálægar eyjar voru t.d. Öskjuhlíð og Grensás. Þær eyjar sem við þekkjum í dag voru þá langt neðan sjávarmáls.
Laugarás sem eyja.
Ef til vill hefur Laugarás líkst Akyrey eins og við þekkjum hana í dag eða jafnvel skerjunum Hólmum sem er á milli hennar og Örfiriseyjar. Á myndinni eru sýndar núverandi byggingar til að glöggva okkur á því hvernig svæðið liti út í dag ef sjávarstaða yrði aftur sú sama og var eftir lok ísaldar.“
Á Laugarási.
Háubakkar – skilti
Vestan Geirsnefs nyrst í Fossvogi (veg veg að smábátahöfninni) er skilti; Háubakkar. Á því má lesa eftirfarandi:
Háubakkar – mörk hins friðaða svæðis.
„Háubakkar eru eitt af sex friðlýstum svæðum í Reykjavík. Háubakkar voru friðlýstir árið 1983. Á Háubökkum finnast þykk og afar merkileg setlög, sennilega um 200 þúsund ára gömul.
Þar sjást áhrif mikilla loftslagsbreytinga á ísöld. Eftir nýjar aldursgreiningar í Fossvogslögunum sem leiddu til nýrra upplýsinga um aldur þeirra er e.t.v. rétt að taka framanskráðan aldur Háabakka með fyrirvara. Setlögin eru um 8 m á þykkt og er þar m.a. að finna undir grágrýtislagi um 20 sm þykkt surtarbrandslag og í því fræ, aldin og fjókorn ýmissa jurtategunda.
Stærð náttúrvættisins er 2,1 ha.
Setlög
Setlögin í Háubökkum eru staðsett undir Reykjavíkurgrágrýtinu sem myndar að miklum hluta berggrunn Reykjavíkur og er grunnur setlaganna á tveggja milljón ára gömlum hraunlagamyndunum frá fyrri hluta ísaldar.
Háubakkar – setlög.
Þar ofan á eru sjávarsetlög með steingerðum leifum ýmissa sjávaradýra og má þar nefna skeljategundir eins og hallloku, kúskel og krókskel.
Ofan á sjávarsetlögunum eru síðan setlög mynduð af framburði áa sem runnið hafa um svæðið. Þar ofan á er um 20 sm þykkt surtarbrandslag (en þá var gróðurfar svipað og nú) og efst er Reykjavíkurgrágrýtið.
Í klettunum hér beint á móti eru nær eingöngu siltsteinslög og sandsteinslög til skiptis. Ekki sést þar í Reykjavíkurgrágrýtið né í surtarbrandslögin, en þau eru norðar í setlögunum.
Jarðasaga og myndun
Háubakkar.
Þegar ísaldarjökullinn hopaði í lok þriðja síðasta jökulsskeiðs ísaldar fylltust lægðir í berggrunninum af sjávarsetlögum. Yfir þau lögðust síðan setlög mynduð í sjó úr áframburði. Eftir það tók við langt tímabil þar sem land var algróið þar til gífurlegt eldgos varð á Mosfellsheiði og hraunið er myndar Reykjavíkurgrágrýtið rann yfir svæðið.
Jöklar síðustu íslandarskeiða gengu síðan yfir og mótuðu landið í svipað horf og það er nú.“
Auðvelt aðgengi að Háubökkum er frá litlu bílastæði við skiltið.
Háubakkar í Elliðavogi.
Krýsuvíkurvegur- ákvörðun og þrætur 1936
Þrætur hafa löngum sést í fjölmiðlum hér á landi um fyrirhugaðar vegalagningar í gegnum tíðina. Sumt hefur mönnum sýnst í þeim efnum.
Ákvörðun um lagningu Krýsuvíkurvegarins frá Hafnarfirði meðfram Kleifarvatni árið 1936 var þar engin undartekning, eins og sjá má:
Í Nýja dagblaðinu. 24.03.1936 má lesa eftirfarandi um „Vetrarleiðina austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fyrir vetrarveginum um Krýsuvík„:
Krýsuvíkurvegir 2021.
„Alþingismennirnir Jónas Jónsson og Jón Baldvinsson lögðu í gær fram í efri deild frv. til laga um breytingu á vegalögum. Meginbreytingin, sem fellst í frv., er að tvískipta Suðurlandsveginum. Verður önnur leiðin um Lækjabotna, en hin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog. Auk þess er lagt til að teknir verði í tölu þjóðvega ýmsir vegir, sem ekki hafa verið þar áður.
Í greinargerð frv. segir: „Stærsta breytingin í þessu frv. frá núverandi vegalögum, er sú, að Suðurlandsvegur verði tvískiptur austur í Ölfus, og ný leið valin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog, aðallega sem vetrarvegur.
Lægsta leiðin
Krýsuvíkurvegir 1996.
Höfuðtilgangurinn með lagningu þessarar nýju Suðurlandsbrautar, er að fá eins tryggt samband og unnt er milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins, að vetrarlagi. Hefir þessi leið hin beztu skilyrði í því augnamiði, þar sem hún liggur aðeins 168 m. yfir sjó þar sem hún er hæst, en annars allmiklu lægra langsamlega mestan hluta leiðarinnar.
Til samanburðar má geta þess, að núverandi leið yfir Hellisheiði liggur hæst 370 m. yfir sjó, eða um 200 m. hærra, leiðin um Þrengslin kemst upp í rúmlega 260 m., eða 100 m. hærra, og Þingvallaleiðin kemst í svipaða hæð (260 m.). Það er því bert, að þetta er sú lang lægsta leið, sem hægt er að fá milli þessara tveggja staða, ef ekki er farið enn lengra vestur á Reykjanesið, en því fylgja aftur ókostir nokkrir, sem síðar mun lítillega verða vikið að. Vegalengdin frá Reykjavík að ölfusárbrú þessa leið er um 103 km. og því að vísu allmiklu lengri en núverandi vegur yfir Hellisheiði, sem mun vera um 60 km. (59 km.). En til samanburðar má geta þess, að Þrengslaleiðin mun vera um 70 km. og Þingvallaleiðin 93 km.
Tvær torfærur
Krýsuvíkurvegurinn um austanvert Vatnsskarð 1961.
Vegarstæðið mun vera mjög svipað því, sem venjulega gerist hér á landi, hvorki verra né betra. Þó eru tvær torfærur á leiðinni, en hvorug stór. Hin fyrri er Kleifarvatn. Þar mun verða að fara með veginn norðvestan með vatninu, en á nokkrum hluta þess svæðis hagar svo til, að klettar ganga þverhnýpt niður í vatnið. Meðframhömrum þessum er vatnið mjög grunnt, 1—2 m., og getur stundum verið alveg á þurru, svo að sennilega má fá mjög ódýra fyllingu með því að sprengja úr berginu og láta grjótið detta niður fyrir. Ekki er þetta svæði heldur lengra en svo, að nema mun samtals tæpum 1 km. Hin torfæran er sandkamburinn fyrir framan Hliðarvatn, því að örðugt mjög mun að fara með veginn ofan við vatnið. Sandkambur þessi mun vera laus fyrir og breytast ef til vill eitthvað af ölduróti sjávar, og þyrfti því sennilega að tryggja hann eitthvað með sterkri steinsetningu. Ósinn þyrfti líka að brúa, en hvorugt þetta mun vera mjög kostnaðarsamt, þar sem lengd kambsins er ekki nema um 12—1300 m.
Kostir Krýsuvíkurleiðarinnar
Krýsuvíkurvegur um Helluna undir Sveifluhálsi.
Einn höfuðkostur vegar þessa er sá, að hann liggur um ræktanlegt land og að nokkru leyti byggt, og bætir þar úr mjög brýnni þörf, auk þess að vera vetrarvegur fyrir Suðurlandsundirlendið. Neðsti hluti Ölfuss, Þorlákshöfn, Selvogur, Herdísarvík og Krýsuvík geta öll notað þennan veg, sér til mikils hagræðis, en sum þessi héruð eru nú að mestu og önnur að öllu leyti veglaus. Hinn nýi vegur um Þrengslin liggur aftur á móti algerlega um alls óræktanlegt og ónothæft land til nokkurs hlutar. — Þetta sjónarmið réði því og, að vegstæðið var valið um Krýsuvík en ekki vestar, þó að þar hefði sennilega mátt fá allgott vegstæði um eða undir 100 m. yfir sjó þar sem það var hæst, enda hefði vegalengdin líka vaxið þá um 5—10 km.“
Krýsuvíkurvegurinn. Krýsuvík framundan.
Sama umfjöllun birtist í Alþýðublaðinu, 70. tbl. 24.03.1936, undir fyrirsögninni „Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog„.
Í Nýja dagblaðinu 19.04.1936 birtist grein eftir Árna G. Eyland um efnið undir fyrirsögninni „Vanhugsað fálm„:
Krýsuvíkurvegurinn gamli við Vellina.
„Hugmyndin, að leggja nýjan Suðurlandsveg um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog hefir mætt þeim þroskavænlegu móttökum manna á meðal og í blöðunum, að nú mun öruggt, að hún verði ekki þöguð í hel né falli í gleymsku. Síðast ritar Morgunblaðið um þessa Krýsuvíkurleið miðvikudaginn 15. apríl og talar þá um vanhugsað fálm samhliða því sem það dregur fram ýms atriði úr umsögn þeirri, er vegamálastjóri hefir sent Alþingi um málið. En í þeirri umsögn eru tvenn meginrök til framdráttar Krýsuvíkurleiðinni. Annað: að hún liggi svo lágt „að naumast er að óttast snjó þar“, en hitt: „að umferð verði mun meiri um Krýsuvíkurveg“ — en Þrengslaveg, þrátt fyrir það, þótt Þrengslavegur yrði styttri! Góð rök og sterk þegar þau renna saman. Annmarkarnir sem verið er að draga fram, heldur af vanefnum, verða lítill í samanburði við meðmælin. Þó er rétt að athuga annmarkana suma hverja.
Fyrst er nú kostnaðurinn. Morgunblaðið telur Krýsuvíkurleiðina þrefalt dýrari, en þá gleymist aðeins að Krýsuvíkurvegurinn er áætlaður breiðari, og ennfremur gleymist, að taka með í samanburði 290 þús. króna kafla af Þrengslaveginum, frá Lækjarbotnum í ofanvert Svínahraun, en sá kafli verður að sjálfsögðu að teljast með þar sem sannað er að vegur gegnum Þrengslin kemur ekki að notum nema í snjóléttum vetrum, ef þeim kafla er ekki breytt, og jafnvel veginum alla leið niður að Baldurshaga.
Krýsuvíkurvegurinn gamli norðan Rauðhóls.
Þá mun ekki tekið tillit til þess við samanburðinn, að vegur um hina snjóléttu Krýsuvíkurleið þarf ekki frekar en vill fyrst um sinn að vera eins hár eins og vegur á snjóþyngri slóðum. Hinsvegar dettur engum í hug að efa það, að góður vegur um Krýsuvík verði dýrari en vegur um Þrengslin, enda má fyr rota en dauðrota, eða ætlast til þess að betri vegur og nothæfari um lengri leið, verði ódýrari endanna á milli.
Aðeins nokkur orð um vegstæðið frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Það er talað um rannsókn á vegstæðinu, sem framkv. hafi verið. Ég held það sé réttast að setja orðið rannsókn í gæsalappir í því sambandi, enda ætlast enginn til þess, að rannsókn er að gagni komi fáist á fáum dögum eða með örfáum dagsverkum.
Kleifarvatn – Hellan.
Það er aukaatriði í þessu vegamáli, hvort betra þykir að ieggja veginn fyrir austan eða vestan Sveifluháls, þar ber að hafa það, er betra reynist að lokinni samvizkusamlegri og ýtarlegri rannsókn. En það er óþarfi að sjá drauga um hábjartan dag. Það ber ekki að telja leiðina um Kleifarvatn „algerlega óhæfa“ á grundvelli misskilnings og „rannsóknar“, sem engin rannsókn er. Vegstæði um Kleifarvatn er talið til tormerkja: snjóþyngsli í Vatnsskarði „svo og víðast hvar á leiðinni frá brennisteinshverunum austan undir Sveifluhálsi og Undirhlíðum vestan Helgafells allt til Kaldárssels“, — svo orðrétt sé hermt. Þessi ummæli munu eiga að þýða, að það sé snjóþungt meðfram Undirhlíðum — og Helgafelli að norðvestan, og sömuleiðis meðfram Sveifluhálsi að suðaustan, frá Kleifarvatni suður að Krýsuvíkurbæjum. — Við þetta er að athuga að það kemur varla til mála að vegurinn liggi um Kaldársel eða meðfram Undirhlíðum, það er langtum eðlilegra, ef leiðin um Kleifarvatn verður valin, að vegurinn liggi sem beinast frá Hafnarfirði eða Hvaleyrarholti í hásuður suður hraunin, í stefnu á skarð það í Undirhlíðum, sem heppilegast reynist að lokinni rannsókn, að leggja veginn yfir hlíðarnar. Undirhlíðar eru löng hálsadrög með skörðum á milli, og það er um fleiri staði að ræða en Vatnsskarð (172 m.) sem vegstæði yfir þann þrepskjöld.
Krýsuvíkurvegurinn í dag austan Krýsuvíkur. Gamli vegurinn var skammt austar.
Vegarstæðið frá Kleifarvatni til Krýsuvíkurbæja er um allbreiðan og jafnlendan dal, og því engin þörf að vegurinn liggi við hlíðarrætur Sveifluháls þar sem helzt er von snjóalaga. Á jafnlendinu miðdælis eru allar líkur til að vel upphlaðinn vegur verjist ágætlega. Yfirleitt bendir margt til þess að heppilega lagður vegur um Kleyfarvatn verði mun snjóléttari en leiðin frá Lækjarbotnum til Kolviðarhóls er nú.
Vegstæðið um Kleifarvatn hefir allverulega kosti fram yfir vegstæðið fyrir vestan Sveifluháls og um Mælifellsskarð: Það liggur lægra, það er styttri leið, og nemur sá munur sennilega 4—5 kílómetrum írekar en 2 eins og talið hefir verið. Ennfremur er gnótt af ágætum ofaníburði við Kleifarvatn, en ofaníburðarleysi hefir verið nefnt sem einn ókostur Krýsuvíkurleiðarinnar, en í því sambandi hefir gleymst að geta þess hvernig væri ástatt með Þrengslaleiðina að því leyti, en þar mun þurfa að sækja ofaníburð alla leið niður á Sandskeið ef vel á að vera. — Mest er þó um vert að vegur um Kleifarvatn kemur til að liggja í boga um allt hið bezta ræktunarland í Krýsuvíkurhverfinu og meðfram mestu jarðhitastöðunum.
Seltún – hverasvæði við Krýsuvík.
Þótt þetta vegagjörðar glapræði, frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, sé nú svo langt komið, að trautt muni aftur snúið frá því, ætti samt að vera ámælislaust, að benda forkólfum þess — einu sinni enn á — þó ekki væri nema eitt — vegarstæði.
Þar sem bæði hefði orðið miklu ódýrara að leggja veg um og þar sem, þó sjaldnar, hefði orðið ófært sökum fannfergis en á hinni marg umtöluðu leið, sem meirihluti Alþingis lét ginnast til að lögbjóða.
Setjum svo, að afleggjarinn til Krýsuvíkur væri ekki lagður út af Suðurnesjaveginum fyrr en komið er suður að Hraunabæjunum, t.d. nálægt Þorbjarnarstöðum (h.u.b. 5 km. frá Hafnarfirði). Haldið síðan suður Almenninginn, framhjá Mávahlíðarhnjúk og svo suðvestur eftir hrauninu, miðsvæðis millum Vesturhálsins (Núphlíðarháls) og Austurhálsins (Sveifluháls), austan Vígdísarvalla, og allt þar til komið væri að hinum forna Drumbdalavegi, sem liggur yfir Sveifluháls örlítið vestar en bæjarstæðið í Krýsuvík er (því vart er nú unnt að kalla að þar sé bær lengur, heldur „Berurjóður“ eitt).
Mælifell – gamla þjóðleiðin.
En einmitt í skarði því, er verður í Sveifluháls, hjá felli því er Drumbur heitir, er hálsinn lægstur og greiðfærastur yfirferðar. En þætti nú ekki tiltækilegt, að leggja leiðina þarna yfir hálsinn, sem varla kemur þó til, þá er hægurinn einn, að sveigja veginn vestur fyrir endann á Sveifluhálsi og mundi sá krókur varla lengja hann meira en 2 kílómetra; og brekkulaust alla leiðina.
Vegur sá, er leggja þyrfti frá Þorbjarnarstöðum, um Drumbdali og heim í tún í Krýsuvík, mundi verða um 22ja kílómetra langur, en vegur sá hinn nýi, (snjólausi vegurinn) um Vatnsskarð og fram með Kleifarvatni, sá er hér að framan hefir verið gjörður að umtalsefni, verður a. m. k. 25 km. langur.
Alla leið frá Þorbjarnarstöðum og suður að Drumbdalaveginum (18 til 19 km.) er hallalítil og mishæðalaus hraunbreiða, og mjög svipað vegarstæði því, sem afleggjarinn upp í Vatnsskarð liggur nú um.“ – Janúar 1941; Þórir
Vegur til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949.
Heimildir:
-Nýja dagblaðið, 70. tbl. 24.03.1936, Vetrarleiðin austur um Krýsuvík – Rökstuðningur Jónasar Jónssonar og Jón Baldvinssonar fryir vetrarveginum um Krýsuvík, bls. 3.
-Alþýðublaðið, 70. tbl. 24.03.1936, „Ný Suðurlandsbraut um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog“, bls. 3.
-Nýja dagblaðið. 90. tbl. 19.04.1936, „Vanhugsað fálm“, Árni G. Eylands, bls. 3-4.
-Vísir, 29. tbl. 06.02.1941, Krýsuvíkurvegurinn er dýrasti og óheppilegasti vegur á landinu, Þórir, bls. 2.
Drumbdalastígur.
Öskjuhlíð – fornsteinarnir?
Í „Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024“ er m.a. getið um tvo fornsteina í Öskjuhlíð er nú prýða innganginn að kirkju Árbæjar í Árbæjarsafni:
Kortið sýnir staðsetningu á meintri „hoftóft“.
„Um 15 m austan við núverandi Bústaðaveg þar sem nú er göngu- og hjólastígur, um 90 m suðaustur af gatnamótum Bústaðavegar og Litluhlíðar, var tóft sem merkt er inn á kort Bolla Thoroddsen.
Árið 1939 skrifaði Ólafur Friðriksson grein í Fálkann um fornleifar í Öskjuhlíð og segir þar frá tóftinni. „Austan við þar, sem vegurinn liggur nú yfir Öskjuhlíðina gengur dálítil kvos inn í hana, og hefur hún ef til vill gefið hlíðinni nafn. En þarna í kvosinni eru fornminjar sem ekki hefur verið tekið eftir, þó að þær séu þarna rétt hjá langfjölfarnasta þjóðvegi landsins, Hafnarfjarðarbraut. […] Veitti jeg eftirtekt, að austan við veginn, ofan við áðurnefnda kvos, var steinn sem unninn var af manna höndum.“ Virtist Ólafi í fyrstu að þetta væri steinkross en við nánari athugun hafði steinninn lögun sem Þórshamar.
Lárus Sigurbjörnsson (22. maí 1903 – 5. ágúst 1974) var íslenskur rithöfundur, leikskáld og minjavörður.
Lárus þýddi fjölda leikrita, m.a. Hrekkir Scapins (Les fourberies de Scapin) eftir Molière (meðþýðandi), Jóhann úlfstjarna (Johan Ulfstjerna) eftir Tor Hedberg og Jeppi á fjalli (Jeppe paa Bierget) og fleiri gamanleikrit eftir Ludvig Holberg. Auk þess skrifaði hann greinar og bækur um leiklist og leiklistarsögu Íslands.
Á árunum 1954 til 1968 var hann forstöðumaður Minjasafns Reykjavíkur og varð sá fyrsti til að gegna því embætti. Hann beitti sér fyrir stofnun Árbæjarsafns. Árbæjarsafn var fyrsta útisafnið á Íslandi og var opnað árið 1957.
Myndin er af Lárusi Sigurbjörnssyni og Sveini Þórðarsyni við gamla kistu fulla af munum. Enginn myndatexti en fyrirsögn greinar er „Árbæjarsafnið opnað í dag“. Þar segir m.a. „Mynd þessi var tekin þá er Sveinn Þórðarson bankagjaldkeri framkvstj. Reykvíkingafélagsins, til hægri og Lárus Sigurbjörnsson skoða ýmsa gripi, úr stórum kistli sem geymdur var í eldtraustum skáp.“
Þegar hann leit í kringum sig sá hann annan stein sem hann taldi líka tilhöggvinn, í laginu eins og stóll. Ólafur velti fyrir sér hverjir hefðu höggvið þessa steina og í hvaða tilgangi og taldi að þetta myndi vera fornt hof.“
Árið 1963 fjallaði Lárus Sigurbjörnsson um þessa sömu tóft í grein í Vísi. Þar segir hann frá því að Matthías Þórðarson þjóðminjavörður hafi talið líklegra að þetta væru rústir af gömlu seli frekar en hoftóft. „Í henni fundust tveir merkilegir steinar, annar greinilega tilhöggvinn sem sæti en hinn í lögun sem Þórshamar. Báðir þessir steinar eru nú komnir í Árbæjarsafn. Af rúst þessari sér ekki urmul lengur. Hún er gersamlega horfin, og var farið yfir það síðasta af henni með ýtu.“
Steinarnir tveir standa nú fyrir framan safnkirkjuna á Árbæjarsafni, þeir eru skráðir undir jörðina Árbæ og eru ekki taldir manngerðir.
Á ljósmynd sem fylgdi grein Ólafs af öðrum steininum er hægt að áætla að um sömu rúst sé að ræða og er merkt inn á kort frá 1933. Á myndinni er langt útihús sem stóð á Norðurmýrarbletti 33 (Litlu-Hlíð), sama húsið sést á ljósmynd HAP RVK. Á annarri ljósmynd; ÁBS, sem er tekin úr vestri í austur, má sjá að rafmagns- og símastaurar eru að norðan við veginn. Samkvæmt grein Ólafs fór vinur hans upp í einn staurinn til að sjá betur yfir og rissaði upp rústina. Var stærð hennar um 11 stikur á hvorn veg og telur Ólafur að um hof Ingólfs sé að ræða.
Örnefnið Háfaleiti á milli Öskjuhlíðar og Minni-Öskjuhlíðar á korti frá 1933.
Á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1850 sem sýnir mýrar í Reykjavík er merki á svipuðum stað eða norður af Leynimýri, býlið „Háfaleiti“ sem er líklega nafnið á þessum rústum.
Fyrir margt er þetta sérstakur staður, líklega hafa þetta verið í grunninn gömul útihús frá Reykjavík sem hugsanlega hefur verið búið í um 1850, Háfaleiti kemur ekki fram í manntölum. Háfaleiti svipar mikið til örnefnisins Háaleiti sem er þarna ekki langt frá.“
Þegar steinarnir í Árbæjarsafni eru skoðaðir er augljóst, þrátt fyrir allar fyrrum spekulagsjónir hinna fyrrum „sérfræðinga“, að þarna er um aðflutta náttúrumyndun að ræða.
Heimildir:
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-Páll Líndal, Reykjavík: Sögustaðir við Sund, bindi 2 og 3.
-Ljósmyndasafn Reykjavíkur. KAN 001 145 4-1. Ljósmyndari Karl Christian Nielsen.
-Borgarsögusafn. Korta- og uppdráttasafn. Bolli Thoroddsen, [Rauðará – Öskjuhlíð – Vatnsmýri 1932–1933].
Árbæjarsafn – steinarnir tveir…
Nauthólsvík – Nauthólslækur; Læragjá
Nauthólsvík er lítil vík norðan megin í Fossvogi suðvestanmegin við Öskjuhlíð. Víkin heitir eftir kotinu Nauthól sem stóð þar við rætur Öskjuhlíðar í landi Skildinganess. Í Nauthólsvík er skeljasandur og þar hefur verið vinsælt útivistarsvæði frá því eftir Síðari heimsstyrjöld þegar Reykjavíkurborg eignaðist landið. Áður hafði breski herinn tekið landið eignarnámi (hvernig s.s. það gekk fyrir sig?) fyrir Reykjavíkurflugvöll og byggingar honum tengdar. Í Nauthólsvík var braggabyggð í stríðinu og hótel fyrir flugvallarfarþega.
Í Nauthólsvík.
Í Nauthólsvík er vinsælt að stunda alls kyns vatnaíþróttir, svo sem sjósund, kajakróður, kænusiglingar, seglbrettasiglingar og kappróður. Siglingafélag ÍTR, Siglunes, Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey og Sportkafarafélag Íslands eru þar með aðstöðu, en auk þeirra er fjöldi íþrótta- og áhugamannafélaga með aðstöðu í og við Nauthólsvík.
Öskjuhlíð og nágrenni 1945.
Árið 1932 falaðist Íþróttasamband Íslands eftir lóð í Nauthólsvík til að gera þar sundskála og íþróttavelli. Árið 1936 var þar skipulagt íþróttasvæði með stórum íþróttaleikvangi, átta knattspyrnuvöllum og níu tennisvöllum. Kappróðradeild Ármanns hóf þá að reisa þar hús yfir tvo innróna kappróðrabáta sem félagið átti og hafist var handa við að gera skeiðvöll fyrir kappreiðar. Framkvæmdir við svæðið lögðust hins vegar alveg af þegar breska setuliðið á Íslandi tók það undir braggabyggð í tengslum við Reykjavíkurflugvöll. Á styrjaldarárunum var því farið að horfa til Laugardals sem framtíðarsvæðis fyrir íþróttaiðkun í Reykjavík.
Nauthólsvík – bryggja.
Eftir styrjöldina var róðradeild Ármanns starfrækt í Nauthólsvík. Síðar bættist við bátaskýli Róðrarfélags Reykjavíkur. Siglunes, siglinga- og róðraklúbbur æskulýðsráða Reykjavíkur og Kópavogs, var stofnaður árið 1962 og vorið 1967 keypti klúbburinn síðarnefnda bátaskýlið sem þá átti að rífa og hóf þar starfsemi. Á 8. áratugnum var skýlið stækkað mikið og steyptur rampur frá húsinu að sjó.
Frá 1971 til 1983 voru hátíðahöld á sjómannadaginn haldin í Nauthólsvík, en 1984 var dagskráin flutt yfir í Reykjavíkurhöfn.
Núverandi Ylströnd í Nauthólsvík átti sér nokkrun aðdraganda, allt frá því að setuliðið hlóð frárennisrás frá herkampinum við Nauthól, sem síðar var notaður sem affall frá heitavatnstönkunum á Öskjuhlíð.
Í Vísi 1977 var fjallað um „Nafntogaðan læk„:
Nauthólslækur – loftmynd 2023.
„Sá einstæði atburður gerðist á fimmtudaginn í síðustu viku að fólk lagðist í sólbað á Íslandi, í miðjum október. Fjölmenni var í læknum góða í Nauthólsvík, sem nú getur státað af mörgum ágætum nöfnum. Hann er kallaður: Volga, Læragjá, Beruvík, Læralind og Dóná, svo nokkuð sé nefnt. Nafntogaður lækur það.“
Á Wikipedia er kafli um „Læragjá„:
Nauthólslækur. Vestan við Lyngberg er uppþornaður lækjarfarvegur sem nær frá göngustíg og suður í sjó, um 80 m. Upprunalega var þetta frárennslisskurður frá tíma setuliðsins og lá með öllum Nauthólsvegi að vestanverðu. Nú er einungis syðsti hluti hans sýnilegur og grjóthlaðinn. Hitaveita Reykjavíkur leiddi affallsvatn úr heitavatnsgeymunum á Öskjuhlíð í lækinn á árunum 1968 til 1983. Í örnefnalýsingu Skildinganess segir: „Í Nauthólsvík … fellur til sjávar tilbúinn lækur, heitur, yfirfall frá Hitaveitu Reykjavíkur, nú vinsæll baðstaður, rétt við Lyngberg. Nú hefur lækurinn verið lagfærður og byggður upp. Sumir hafa nefnt lækinn Volgu og gjána þar sem menn baða sig í Læragjá. Vel má vera að þessi örnefni eigi enga framtíð fyrir sér en eru skemmtileg samt sem áður.“ Hætt var að veita affalli frá heitavatnstönkunum á Öskjuhlíð í lækinn 1985 vegna ógætilegrar umgengni baðgesta við lækinn.
„Læragjá var nafn sem var notað um breiðasta og dýpsta hluta lækjarins í Nauthólsvík þar sem fólk baðaði sig, sérstaklega eftir að skemmtistöðum var lokað. Margir böðuðu sig þar naktir og fékk staðurinn nafn af því. Vatnið var yfirfallsvatn úr heitavatnstönkunum uppi á Öskjuhlíð og var affall sem seytlaði í lækinn úr framræsluskurði með hlíðinni. Þar sem menn böðuðu sig var hlaðið dálítið baðsvæði með höggnu grjóti. Löngum fór orð af gjálífi í læknum, og auk þess voru drukknir menn oft nærri drukknaðir í honum, og sökum þessa beindi borgarstjórn því til hitaveitustjóra hvort framkvæmanlegt væri að loka fyrir rennsli í lækinn að næturlagi. Hætt var að láta heitt vatn renna að næturlagi í Læragjá um 1980. Um líkt leyti komu upp hugmyndir um að breyta svæðinu þar í kring í hitabelti undir þaki. Af því varð þó aldrei.
Lækurinn gekk einnig undir ýmsum öðrum heitum, svo sem: Volga, Beruvík, Læralind, Dóná og Rasslind, en var oftast nefndur Læragjá.“
Í Lesbók Morgunblaðsins 1976 skrifar Ásgeir Jakobsson svonefnda „Öskjuhlíðarþanka„:
„Það var eldsnemma, rúmlega sjö, á laugardagsmorgni þann 10. júlí aö ég rölti uppí Öskjuhlíð að njóta sólar eftir langan dumbungskafla. Ég fann orðið til dálítillar sektarkenndar gagnvart þessari vinkonu minni og reykvísku heimasætu eftir langt framhjáhald með öðrum og reisulegri meyjum í nágrenni Reykjavíkur, svo sem Esjunni og fleiri hennar líkum. En nú þarf ég að endurnýja kynnin, og kominn heim eftir langa útivist, sá ég strax margt, sem hafði dulizt mér í hlaðvarpanum.
Nauthólslækur. Farvegur lækjarins er greinilegur frá göngustíg neðan við Nauthólsveg að sjó, liggur nánast norður-suður. Hann er V laga, hlaðinn úr grjóti með steypu á milli. Stærð steina er breytileg frá 20 x 10 cm upp í 40×70 cm, blanda af tilhöggnum brúnsteinum og kantsteinum auk náttúrulegra steina. Sjö þverhleðslur, stíflur, eru í læknum til að stöðva vatnið, lækurinn er um 3 m breiður en sumstaðar er lækjarfarvegurinn breiðari, t.d. fyrir ofan stíflurnar, en þar er hann allt að 7 m að breidd þar sem hann er breiðastur. Neðarlega í lækjarfarveginum eru leifar af trébrú og fyrir neðan hana breikkar farvegurinn aftur og er neðsta þverhleðslan við fjöruna er um 5 m á lengd. Áletrunin „EH77“ er höggvin í einn hleðslusteininn í vesturbakkanum, nánast neðst fyrir ofan syðstu þverhleðsluna. Farvegurinn er nú grasi gróinn með töluverðum trjágróðri og ekkert vatn er í honum lengur. Gengið var með bökkum lækjarins og þeir mældir inn.
Ég fór léttan stíg niður hlíðina, enda í svo góðri þjálfun. Þegar ég nálgaðist, sá ég konur baukuðu sér en karlmenn stóðu álengdar og horfðu til þeirra. Þær vóru að tína af sér spjarirnar. Sú athöfn er vissulega ein af undirstöðuathöfnum mannlífsins og útá hana hefur margur maðurinn fæðst og alltaf er nú þetta forvitnilegt verk — kona að hátta —. Þó að mestu skipti í hvaða tilgangi hún háttar.
Berrassað fólk á asfalti eða í borgarumhverfi er hjákátlegt og særir augað og hjartað og ergir skynsemina. Bert mannsholdið fellur ekki vel við borgarumhverfið. Nakin kona á steinsteypunni er eins og blóm, sem fallið hefur á gangstétt. — Hins vegar myndi allsbert fólk sóma sér vel á beit úti í guðgrænni náttúrunni.
Þegar fólk vill leita uppruna síns í einu eða öðru tilliti þá verður það að gæta þess, að gera það í samsvarandi umhverfi. Sem sagt: Strípaður maður á almannafæri í borg, á þar ekki heima fremur en maður á lakkskóm með pípuhatt og í kjólfötum í fjallgöngu.
Þegar ég hafði uppgötvað hvað var að gerast vissi ég til hvers þetta fólk var komið. Það ætlaði, a.m.k., eitthvað af því, að baða sig í hinni frægu Læragjá, eins og margir nefna þessa nýju heilsulind, sem fellur úr Öskjuhlíðinni. (Rasslind, eins og sumir nefna Lindina finnst mér ósmekklegt, en óneitanlega réttnefni). Ég hafði aðeins heyrt þessarar heilsulindar getið svo og þess að meiningar væru deildar um ágæti hennar. Nú gafst mér tækifæri eldsnemma morguns að fylgjast með heilsuræktinni.
Öskjuhlíð 1946.
Vatnið í Læragjá er affall frá hitaveitugeymunum uppi á Öskjuhlíðinni, en einnig seytlar í hana skurðvatn úr framræsluskurði í brekkukverkinni vestur með hlíðinni. Í rauninni er heilsulindarfarvegurinn framræsluskurður, sem hefur verið hugsaður til að veita vatnsaganum ofan úr hlíðinni og undan henni til sjávar og þurrka upp svæðið vestan við skurðinn. Vegurinn að bátanaustinu og gufuböðunum og reyndar öllum hinum gamla baðstað liggur yfir skurðinn þar sem affallsrörin koma í hann, en þau liggja senni]ega nokkurn veginn beint frá geymunum efra.
Nauthólslækur (Sigmund-mbl).
Í Læragjá eru þrjú uppistöðulón; það hafa verið hlaðnar stíflur á þremur stöðum í stokknum og þær mynda þessi lón, hvert svo sem eins og tvær mannslengdir. Stíflurnar hljóta náttúrlega að draga úr gegnumstreyminu.
Eiginmenn, (eða það skyldi maður halda), kvennanna, sem voru í vatnsnuddinu, stóðu á skurðbakkanum og horfðu ólundarlega á konur sfnar, en þær brostu alsælar á móti. Þarna var mikið hold, sem þurfti að fjarlægja, og líklegra verkefni fyrir Dettifoss en þessa lækjarsytru úr hitaveitugeymunum. Það kom á daginn, að það hafði fleirum dottið í hug að þörf gæti reynzt á kraftmeira rennsli. Eg spurði:
—Finnst ykkur þetta hafa borið árangur?
Mennirnir vóru seinir til svars.
Loks sagði annar:
— Það skiptir nú minnstu, hvað okkur finnst. Þær segja að þetta grenni þær, en þú sérð nú að eitthvað er eftir þarna niðri í skurðinum.
— Það þarf að auka rennslið, sagði ég hughreystandi.
— Já, sagði nú hinn maðurinn ákafur, þaö var einmitt það, sem ég sagði við mína konu í morgun, að ef hún ætlaði að ná af sér spikinu með vatnsrennsli, segði þessi spræna lítið, hins vegar skyldi ég fara með hana austur í Þjórsá, þar sem hún fellur þrengst og leggja henni þar við stjóra fram yfir aldamót …“
Í Morgunblaðinu 1978 segir: „Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum„:
Nauthólslækur (Mbl. Ó.K.M)
„Útideild og lögreglustjóri hafa áhyggjur af Læragjá – Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum.
Fyrir tilstuðlan Æskulýðsráðs Reykjavíkurborgar er nú lækurinn í Nauthólsvík eða Læragjá, eins og hann er oft nefndur, að nýju kominn á dagskrá í borgarstjórn. Upphaf pessa nýja erindis fyrir borgarstjórn má rekja til bréfs frá Útideild/Eskulýðsráðs og Félagsmálaráðs, en þar kemur fram að ástandið að næturlagi við lækinn veldur starfsfólki deildarinnar miklum áhyggjum og að það telur nauðsynlegt að koma vitneskju þeirra um ástandið á framfæri við viðkomandi yfirvöld. Sendi því Útideildin bréf til Æskulýðsráðs, Félagsmálaráðs og Heilbrigðisráðs.
Í bréfi Útideildar kemur fram, að hún hefur margsinnis í störfum sínum kannað ástand og fjölda ungs fólks við hinn margumtalaða læk við Nauthólsvík. Á umliðnum vetri hafi oft verið mjög slæmt ástand þar en þó einkum að næturlagi um helgar.
Nauthólslækur. Mbl. Ó.K.M.)
Þá hafi fólk safnazt saman í tugatali, yfirleitt dauðadrukkið og tekið sér bað í læknum, ýmist í alfatnaði, hálfnakið og jafnvel allsnakið. Ekki hafi verið óalgengt að sjá fólk í samförum og stóran hóp áhorfenda umhverfis. Mikið er um flöskubrot og annan óþrifnað, og fólk gerir þarfir sínar í lækinn eða nánasta umhverfi hans, þar sem engin hreinlætisaðstaða er fyrir hendi. Meiðsli eru einnig tíð að því er fram kemur í bréfinu.
Flest er fólkið yfir tvítugt en einnig eru áberandi hópar unglinga og hefur sá hópur alltaf stækkað með hækkandi sól, að því er segir f bréfinu. Er það álit starfsmanna Útideildar að mesta mildi sé að ekki skuli nú þegar hafa hlotizt þarna af stórslys, og segir í bréfinu að miðað við núverandi aðstæöur telji starfsmenn deildarinnar algjörlega óforsvaranlegt aö fólk hafi aðgang að læknum aö næturlagi.
Nauthólslækur. (Mbl. Ó.K.M.)
Í framhaldi af þessu ritaði Æskulýðsráð lögreglustjóranum í Reykjavík bréf og óskaði umsagnar hans, og er sú umsögn barst var hún lögð fram í borgarráði ásamt bréfi Útideildar. Umsögn lögreglustjóra er mjög á sömu lund og bréf Útideildar. Hann getur þess í upphafi aö þessi afrennslislækur hafi lengi verið búinn aö renna til sjávar í Nauthólsvík án þess að nokkur vandræði hlytust af. Hins vegar hafi loks komið að því að ölvað fólk fór að sækja í lækinn um nætur, dagblöð að birta myndir og þar með hafi verið komin sú athygli og auglýsing er þurfti til að stefna því fólki þangað er sízt skyldi. Borgarstjórn hafi þá látið lagfæra lækjarbakkana og snyrta til svo vistlegra yrði á svæðinu en slíkt hafi dugað skammt er baðgestir kunnu ekki fótum sínum forráð.
B-vakt lögreglunnar 1975. Hafði nóg að gera að nætulagi við Nauthólsvík.
Fram kemur í umsögn lögreglustjóra, að lögreglan hafi að undanförnu þurft að hafa dagleg afskipti af baðgestum sakir ölvunar, slagsmála og slysa og sé nú svo komið að ekki verði viðunað lengur. Sérstaklega sé ástand við lækinn um nætur slæmt eftir að dansleikjum lýkur, fólk haldi að baðstaðnum, og leggist í lækinn ýmist nakið, á nærfötum eða í öllum fötum. Af þessum sökum hafi hlotizt alvarleg slys og einn maður hafi fundizt örendur í læknum. Hinn 17. júní sl. hafi rænulaus maður verið fluttur í gjörgæzludeild eftir að hafa sofnað í læknum og næstum drukknað og margir hafi þarna skorizt illa á glerbrotum, slasazt í slagsmálum og hrasað.
Nauthólslækur.
Fyrir liggi margar lögregluskýrslur um óhöpp á staðnum og slæma hegðun fólks, m.a. vegna þess að engin snyrtiaðstaða sé á staðnum og menn gangi þar örna sinna á víðavangi og í læknum. Ekki er heldur aðstaða til að hafa fataskipti og geyma verðmæti, svo að talsvert hefur borið þarna á þjófnaði á fötum og munum. Þá kemur fram að aöfaranótt 17. júní þurfti lögreglan tvívegis að fara á björgunarbát og sækja ölvaða menn, sem höfðu lagt til sunds yfir Fossvog eftir bað í læknum og voru báðir aðframkomnir er þeir náðust. Þá kemur fram, að mjög mikið ónæði er á Hótel Lottleiðum af völdum fólks sem kemur úr læknum um nætur og ítrekaðar kvartanir hafa borizt frá hótelinu í því sambandi.“
Í Morgunblaðinu 1978 segir:
Nauthólslækur. Önnur umfjöllun í Morgunblaðinu 1978: “ Læragjá lokuð að næturlagi,“
„Læragjá lokað að næturlægi? Dæmi um og að menn hafi jafnvel í ölæði lagzt til sunds úr læknum.
LÆRAGJÁ eða lækurinn í Nauthólsvikinni veldur borgarstjórn áhyggjum eða öllu heldur sú slysahætta sem af honum stafar vegna ásóknar ölvaðs fólks um nætur.
Í borgarráði Reykjavíkur í gær var lagt fram bréf frá framkvæmdastjóra Æskulýðsráðs borgarinnar með skýrslu lögreglustjóra, þar sem lýst er heldur ókræsilegu næturlífi við lækinn vegna mikillar ásóknar ölvaðs fólks. Minnt er á að þegar hafi hlotizt af þessu eitt dauðaslys, fólk hafði verið fiskað meðvitundarlaust upp úr læknum og út í sjálfa víkina.
Þá hefur löngum farið það orð af gjálífi þessu, að það fari langt út fyrir öll velsæmismörk, en engu að síður mun það vera áðurnefnd slysahætta sem af læknum er talin stafa sem veldur borgarstjórn mestum áhyggjum. Var í því sambandi rætt á borgarráðsfundinum í gær hvað væri til ráða og var því beint til hitaveitustjóra og borgarverkfræðings hvort framkvæmanlegt væri að loka fyrir rennsli í læknum að næturlagi og hver kostnaður af því væri.“
Í DV árið 1983 segir:
„Lækurinn aldrei framar baðstaður?
Lækurinn vinsæli í Nauthólsvík mun hugsanlega aldrei opnast framar til baða. Heitt vatn hefur ekki runnið í hann frá því í apríl síðastliðnum.
„Það er eins líklegt að þetta verði svona um alla framtíð,” sagði Árni Gunnarsson, verkfræðingur hjá Hitaveitu Reykjavíkur, þegar DV spurði hann um hversu lengi yrði vatnslaust í Læknum.
„Við höfum verið að auka dælingu úr Reykjavíkursvæðunum. Þar af leiðandi höfum við þurft að fullnýta afgangsvatnið,” sagði Árni.
Nauthólslækur.
Borholusvæði Hitaveitunnar eru þrjú; Laugardalssvæði sem er tæplega 130 gráðu heitt; og Reykjasvæði í Mosfellssveit sem er um 80 gráðu heitt.
Hitaveitan selur viðskiptavinum sínum 80 gráðu heitt vatn. Vatnið úr Reykjavíkursvæðunum er hins vegar mun heitara. Það þarf því að kælast niður.
Til kælingarinnar notar Hitaveitan frárennslisvatn. Það vatn er orðið um 40 gráðu heitt eftir að viðskiptavinurinn hefur notað það til upphitunar.
Áður rann afgangur af þessu frárennslisvatni um öryggisventil úr gömlu geymunum á Öskjuhlíð niður í Lækinn í Nauthólsvík. Eftir að Hitaveitan fór að nýta heitari svæðin meira þarf hún á öllu frárennslisvatninu að halda til kælingarinnar.
„Það er ákaflega erfitt að segja til um það hvort það verði til afgangsvatn fyrir Lækinn í framtíðinn. Það þarf ekki að búast við neinu. Þetta er algerlega háð rekstri Hitaveitunnar,” sagði Árni.
Lækurinn var á sínum tíma fjölsóttur baðstaður. Mikil vinna hefur verið lögð í að gera umhverfi hans snyrtilegt.“ -KMU.
Svo mörg voru þau orð – vandinn var einfaldlega leystur með eðlilegri og betri nýtingu í stað langra óþarfa skoðanaskipta stjórnmálamanna…
Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Nauth%C3%B3lsv%C3%ADk
-Vísir, 256. tbl., Nafntogaður lækur, 17.10. 1977.
-https://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%A6ragj%C3%A1
-Lesbók Morgunblaðsins, Öskjuhlíðarþankar, Ásgeir Jakobsson, 34. tbl. 05.09. 1976, bls. 14 og 15.
-Morgunblaðið, 142. tbl. 06.07.1978, Menn nær drukknaðir, slagsmál tíð og ástarlíf með áhorfendum, bls. 5 og 20.
-Morgunblaðið, 141. árg., Læragjá lokað að Næturlagi?, 1978, bls. 32.
-DV, 205. tbl., Lækurinn aldrei framar baðstaður?, 9. sept. 1983, bls. 40.
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-Morgunblaðið, 167. tbl, 05.08.1978, Læragjá lokuð að næturlagi, bls. 48.
Nauthólsvík og nágrenni 1945.
Fossvogur – skotbyrgi
Á sjávarbakka í botni Fossvogs á klettinum Hanganda/Votabergi um 110 m vestur af Kringlumýrarbraut og 122 m norðvestur af bensínstöð N1 er skotbyrgi.
Fossvogur – skotbyrgi.
Byrgið tilheyrði Camp Fossvogi sem var fyrir botni vogsins og var síðar einnig nefndur Camp Cook South. Kampurinn er skráður undir jörðina Laugarnes.
Á bakkanum norðvestan við eru leifar af tveimur undirstöðum og grunni sem tilheyrðu einnig kampinum.
Byrgið er heillegt skotbyrgi. Veggir eru hlaðnir en þakið er steypt með halla að framan. Gengið er niður þrjú steypt þrep í byrgið á norðausturhlið. Byrgið er þakið jarðvegi og er grasi vaxið.
Fossvogur – skotbyrgi.
Norðvestan við er lágt garðlag um 20 m á lengd, liggur norður-suður með ströndinni og annað minna 10 m austar, um 10 m á lengd, bæði garðlögin eru greinileg á loftmyndum frá árinu 1954 og síðar, ekki er ljóst hvaða garðlög þetta eru.
Úr byrginu var útsýni til sjávar þannig að þar hefur verið hægt að fylgst með skipaferðum og flugi yfir Fossvog. Fyllt hefur verið upp í skotraufina en líklega hefur það verið notað sem geymsla fyrir matjurtir seinna.
Hlaðin eða steypt skotbyrgi frá stríðsárunum eru 50 talsins á höfuðborgarsvæðinu.
Heimild:
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
Fossvogur – skotbyrgi.