Guðmundur Kjartansson ritaði grein í 4. tbl. Náttúrufræðingsins árið 1973 um „Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð„:
„Skilgreining og nafngift.
Hafnarfjarðarkaupstaður stendur hálfur á jökulsorfinni grágrýtisklöpp, hinn helmingurinn í úfnu hrauni. Lækurinn, sem fyrrum hét fullu nafni Hamarskotslækur, en nú oftast Hafnarfjarðarlækur, fylgir nákvæmlega mörkum þessara jarðmyndana. Að hafnfirskri málvenju er grágrýtissvæðið „fyrir sunnan læk“ en hraunið „fyrir vestan læk“.
Búrfellshraun.
Raunar er grágrýtið, bæði sunnan lækjar í Hafnarfirði og um öll innnes allt til Kollafjarðar, einnig hraun að uppruna, en of gamalt og máð til að heita svo í daglegu máli. Þessum fornu grágrýtishraunum er hárrétt lýst í tveimur ljóðlínum í kvæði Arnar Arnarsonar um Hamarinn í Hafnarfirði:
„Jökulhefluð hamrasteypa,
hafi sorfin, stormi fægð“.
Veit ég þess ekki dæmi, að meiri jarðsaga hafi verið réttilega sögð í svo stuttu máli. Heimamönnum í Hafnarfirði er tamast að kalla hraunið fyrir vestan læk bara Hraunið, aðrir nefna það Hafnarfjarðarhraun. En þetta er aðeins hluti af allvíðáttumiklu hrauni. Aðrir hlutar þess heita hver sínu nafni, t. d. Garðahraun og Gálgahraun norðvestur og norður frá Hafnarfirði, en í gagnstæða átt er Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Stekkjarhraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðarhraun. Allt er þetta eitt og sama hraunflóð að uppruna, og runnið í einu eldgosi úr Búrfellsgíg, 7 l/2 km suðaustur frá miðbænum í Hafnarfirði. Hér verður það í heild kallað Búrfellshraun. Það er allt innan marka Garðahrepps og Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Búrfell og Kringlóttagjá
Það sem hér hefur verið staðhæft um upptök og útbreiðslu Búrfellshrauns, varð Þorvaldi Thoroddsen fullljóst á rannsóknarferðum um þessar slóðir, fyrst 1883 og aftur 1899. Hann lýsir þessu skilmerkilega í ritum sínum (Thoroddsen 1906 og 1911) að öðru leyti en því, að honum er ekki nógu vel kunnugt um örnefni á eldstöðvunum.
Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.
Hann nefnir hraunið í heild oftast Garðahraun en stundum Hafnarfjarðarhraun og upptakagíg þess Garðahraunsgíg. Hann þekkir bersýnilega ekki nafn á Búrfelli, að öðrum kosti hlyti hann að hafa kennt hraunið og gíginn við það fremur en við Garða á Álftanesi eða Hafnarfjörð. Þorvaldur lýsir mætavel hrauntröðinni Búrfellsgjá og skýrir réttilega uppruna hennar, en hann hefur ekkert nafn á hana, heldur notar örnefnið Búrfellsgjá ranglega um misgengissprungurnar í Hjöllum austur af Vífilsstaðahlíð og Vatnsendaborg.
Nokkrir hellar í Búrfellshrauni.
Þeir sem eitthvað hafa ritað um Búrfellshraun á eftir Þorvaldi Thoroddsen, hafa flestir farið að hans dæmi og kennt hraunið í heild annaðhvort við Garða (t. d. Guðmundur G. Bárðarson, Sigurður Skúlason 1933 og Ólafur Lárusson 1936) eða við Hafnarfjörð (Guðmundur Kjartansson 1954 og Þorleifur Einarsson 1968). En hvorug þeirra nafngifta hefur náð festu — nema í hinni upphaflegu merkingu um vissa hluta hraunsins, og mætti gjarna þar við sitja. En heildarnafnið Búrfellshraun, um allt það hraun sem frá Búrfelli er runnið, komst fyrst á prent í ritgerð um jarðfræði þessa svæðis eftir ]ón Jónsson (1965) og öðru sinni í grein eftir Eystein Tryggvason (1968). Þetta nýnefni er vel til fundið og einkar hentugt. En á það ber að líta sem jarðfræðilegt hugtak, og það má með engu móti útrýma gömlum og grónum örnefnum.
Kringlóttagjá
Þó að markmið þessarar greinar sé fyrst og fremst að skýra frá nýgerðri aldursákvörðun á Búrfellshrauni, skal nú hrauninu samt fyrst lýst nokkru nánar og raktir kaflar þess frá upptökum til enda. Kortið, sem hér birtist a£ Búrfellshrauni er lítið breytt frá fyrra korti mínu af hraununum kringum Hafnarfjörð (Guðmundur Kjartansson 1954), en þó með smá leiðréttingum eftir nánari könnun, og þakksamlega þegnar ábendingar Jóns Jónssonar jarðfræðings.
Búrfell.
Eldvarpið Búrfell er hringlaga kambur úr hraunkleprum utan um stóran eldgíg, Búrfellsgíg. Mundi sú gerð eldvarpa kölluð eldborg í kennslubókum. Gígbarmurinn er hæstur að norðan, 179 m.y.s. (sbr. Uppdr. ís.), en frá brekkurótum utan gígs er hæðin um 80 . að vestan og aðeins um 30 m. að norðan. Gígurinn er um 140 m. að þvermáli milli barma. Dýpt hans hefur mér mælst (með loftvog) 58 m. frá hæsta og 26 m. frá lægsta barmi.
Garðaflatir. Garður milli Búrfellsgjár og Vatnsholts.
Mishæðirnar á barmi Búrfellsgígs valda því, að fellinu er nokkuð áfátt um reglulega eldborgarlögun. Það er mun hærra að norðvestan en að suðvestan við gíginn. Þetta stafar af misgengi, sem orðið hefur, eftir að eldvarpið hlóðst upp. Um grágrýtissvæðið norðan og vestan Búrfells liggur fjöldi brotalína í stefnu h. u. b. norðaustur-suðvestur og ein í gegnum Búrfell sjálft.
Búrfellsgjá.
Um margar þeirra hefur orðið lóðrétt misgengi og nær alls staðar á þann veg, að norðvesturbarmur sprungunnar rís hærra en suðausturbarmurinn. Þannig er þessu farið um sprunguna gegnum Búrfell. Misgengið um hana kemur einkar glöggt fram í Helgadal við suðvesturrætur Búrfells og myndar þar alla norðvesturbrún dalsins, en hún er lágur þverhöggvinn hamraveggur, óslitinn um 2 km veg.
Smyrlabúð – misgengi; uppdráttur Gk.
Sá stallur er í Búrfellshrauni. En misgengið má rekja miklu lengra í báðar áttir frá gígnum. Sums staðar klýfur það eldra berg, ýmist grágrýti eða móberg, og á þeim köflum er misgengisstallurinn yfirleitt hærri en í hrauninu. Af því má ráða, að misgengi hafði þegar átt sér stað áður en hraunið rann, en ágerst síðar. Um þetta sprungukerfi, bæði í hraunum og berggrunni, fjalla þeir Jón Jónsson og Eysteinn Tryggvason í ritgerðum sínum, sem áður var til vitnað og hér verður enn stuðst við.
Hellisskúti í Búrfellsgjá.
Á öllu hinu unga eldbrunna svæði Suðurkjálkans, frá Reykjanesi til Þingvallavatns, eru langflestar eldstöðvarnar gossprungur, markaðar gígaröðum að endilöngu. Því kemur það nokkuð á óvart um eldvarp eins og Búrfell, sem stendur svo augljóslega á sprungu, að í Búrfellsgosinu virðist það hafa verið eina virka eldvarpið á þeirri sprungu og er ekki einu sinni ílangt í stefnu hennar heldur því nær kringlótt.
Í Maríuhellum.
Það er augljóst, að Búrfell hefur gosið aðeins einu sinni. Gos þess var flæðigos, og framleiðsla þess var fyrst og fremst Búrfellshraun. En um leið hlóðst upp sjálft eldvarpið Búrfell úr slettum frá kvikustrókum upp úr gígnum. Sletturnar skullu niður á ýmsu stigi storknunar. Þær sem lengst þeyttust hörðnuðu á fluginu í frauðkennt, stökkt gjall, sem nú gætir helst í útveggjum gígsins. En þær sem nær féllu gosstróknum voru linar af hita. Þær klesstust saman í fallinu lag ofan á lag í mun samfelldari og traustari hraunsteypu, sem þó er öll smáholótt. Það köllum við klepra og eru þeir meginuppistaðan í eldvarpinu. Að innanverðu eru gígveggirnir brynjaðir hraunkleprum. Þeir eru nokkuð lagskiptir og hallar klepralögunum bratt niður í gíginn.
Í Gerðinu.
Á norðurbarmi gígsins skagar kleprabrynjan upp úr hinni lausari gosmöl í utanverðri gígbrekkunni og myndar hvassa egg, sem er hátindur Búrfells. Þetta sýnir, að nokkuð hefur rofist ofan af og utan úr Búrfelli, væntanlega af völdum storma og jarðskriðs, síðan það hlóðst upp. En einnig hefur mjög hrunið úr kleprabrynjunni niður í gíginn, og er þar nú stórgrýtisurð í botni. Auðvelt er að ganga þangað niður á þeim tveimur stöðum, þar sem gígbarmurinn er lægstur, að sunnan og vestan, en illkleift annars staðar.
Búrfell – gígurinn.
Norðan Búrfells liggja berar, jökulrákaðar grágrýtisklappir því nær fast að rótum þess, og er því sennilegt, að goskvikan hafi rutt sér braut upp í gegnum grágrýtismyndun. Botn Búrfellsgígs er 25—30 m lægri en þessar klappir. Samt sér hvergi á bergrunninn niðri í gígnum, hvorki grágrýtis- né móbergsklöpp. Ekki hef ég heldur fundið þar nein brot úr þessum bergtegundum.
Gerðið.
Vegna halla landsins hefur hraunið úr Búrfellsgíg sama sem ekkert runnið til norðurs og norðausturs. Það hefur einnig komist mjög skammt suðaustur og suður, í mesta lagi að rótum móbergsfellanna Húsafells, Valahnúka og Kaldárhnúka. En á þessa hlið er nokkur óvissa um legu hraunjaðarsins, eins og síðar verður að vikið. í vestri hverfur Búrfellshraunið undir yngri hraun aðeins 1—2 km frá upptökum, og rennur þar Kaldá á hraunmótunum. Hennar verður síðar að nokkru getið.
Kaldá.
Hraunin fyrir sunnan Kaldá eru mjög ungleg að sjá. Eitt þeirra, hraun úr Óbrinnishólum, er samkv. C14-aldursgreiningu, sem Jón Jónsson hefur nú fyrir skemmstu fengið gerða á koluðum jurtaleifum undir því, aðeins um 2200 ára. Hið allra yngsta, Kapelluhraun, sem álverið við Straumsvík stendur á, er vafalítið runnið eftir landnám (Guðm. Kj. 1952). Fyrir neðan (vestan) Kaldársel er nokkur brekka fram af Búrfellshrauni niður að ánni. Sú brekka líkist grunsamlega hraunbrún og gefur með því í skyn, að Búrfellshraunið nái ekki að neinu ráði inn undir yngri hraunin, heldur hafi þau staðnæmst þarna við jaðar þess. En þetta er engan veginn einhlítur hraunjaðar. Hitt kemur einnig til mála, að Búrfellshraun nái langar leiðir vestur og síðan norðvestur sunnan við Stórhöfða, Hamranes, Grímsnes og Hvaleyrarholt, og jafnvel allt til sjávar á Hvaleyrarsandi, en sé nú á þessum kafla víðast grafið undir yngri hraununum.
Búrfellshraun.
Það skiptir vissulega miklu um stærð Búrfellshrauns í heild, hvort og hve langt það nær undir ungu hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Ákveðnari vísbending eða úrskurður í þessu vafamáli fæst vonandi einhvern tíma með nánari rannsóknum. Bergfræðileg rannsókn, efnagreining og ekki síst mæling á segulstefnu t. d. í Hvaleyrarhrauni og Hafnarfjarðarhrauni hlyti annað hvort að afsanna eða gera sennilegt, að þessi hraun séu eitt og hið sama. En hvort sem Búrfellshraun teygist lengra eða skemmra í vesturátt, ósýnilegt undir ungu hraununum, þá er hitt víst, að það rann lengstan veg í meginstefnu norðvestur, allt til sjávar bæði í Hafnarfirði og Skerjafirði, eins og hér verður síðar rakið.
Búrfellsgjá
Búrfellsgjá.
Framan af eldgosinu í Búrfellsgjá má ætla, að hraunið hafi ollið út yfir barmana í ýmsar áttir. En er barmarnir hlóðust upp, takmarkaðist hraunrennslið við vissar rásir, ýmist yfir eða undir gígbarmana. Augljóst er, að það hraun, sem síðast rann út úr gígnum ofanjarðar, lagði leið sína um allkrappt skarð í vesturbarminn. Botn þess liggur í h. u. b. 35 m. hæð yfir gígbotninn. Þetta skarð er upphaf eða efri endi Búrfellsgjár.
Búrfellsgjá.
Búrfellsgjá er engin gjá í venjulegri merkingu þess orðs, heldur hrauntröð, þ. e. farvegur, sem rennandi hraunkvika hefur eitt sinn fyllt upp á barma, líkt og á, sem rennur aðkreppt milli ísskara. En stundum flæddi kvikan upp yfir skarirnar, storknaði þar og hækkaði þær. Af ástæðum, sem brátt verður vikið að, þvarr hraunrennslið snögglega í Búrfellsgjá. Þar sem halli var nægur, eins og í brekkunni vestur af Búrfelli, tæmdist farvegurinn því nær í botn. Þar er tröðin kröpp og með nærri „U-laga“ þverskurði. En niðri á jafnlendinu hafa síðustu leifar þverrandi hraunárinnar storknað í flatan botn veggja á milli.
Búrfellsgjá er um 3 1/2 km á lengd með meginstefnu norðvestur, en bugðótt nokkuð og meira að seiga í kröppum hlykkjum fyrsta spölinn, ofan hlíð Búrfells. Þar er hún einnig mjóst, aðeins 20—30 m milli barma. En neðar er breidd hennar breytileg, verður mest um 300 m, bæði skammt frá rótum Búrfells og aftur í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð, þar sem hrauntröðin grynnkar og hverfur.
Búrfell.
Sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Annars staðar eru gjárveggirnir víða 5—10 m. háir. Á köflum eru þeir þverhníptir eða jafnvel slútandi, og mynda sums staðar grunna hellisskúta, munnvíða og með snarhöllu þaki, ágæt afdrep fyrir sauðfé í illviðrum. Einn hellir af þessu tagi hefur holast inn í íhvolfan bakka gjárinnar á kröppustu beygju hennar uppi í hlíð Búrfells. Á öðrum köflum eru gjábakkarnir aðeins urðarbrekka, þannig til komin, að storkuskörin hefur haldist á floti meðan hraunkvikan fyllti tröðina, en brotnað og hrunið niður um leið og lækkaði í hraunánni.
Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá.
Að sjálfsögðu, eru barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar allt úr Búrfellshrauni, og í meira en 5 m djúpum giám (sprungum) á botni hennar sér hvergi niður úr því. Næst upptökunum er þetta hraun frauðkennt líkt og kleprarnir í gígnum og víðast greinilega lögótt. Lögin eru þunn, fáir sentimetrar, og hallast á ýmsa vegu. Uppi á börmunum virðist þeim yfirleitt halla eins og yfirborði hraunsins, þ. e. lítið eitt burt frá hrauntröðinni, og má ætla, að hvert lag samsvari skammæru flóði þunnrar kviku úr hraunánni upp úr farvegi hennar. Í gjáveggjunum má sums staðar líta þessi hallalitlu lög skorin um þvert, en annars staðar eru þeir brynjaðir lóðréttum lögum, sem virðast hafa smurst hvert utan á annað og þrengt tröðina. Og loks liggja þessi lög sums staðar í sveigjum og fellingum, sem gefa í skyn, að veggir traðarinnar hafi verið linir af hitanum frá hraunánni og látið undan straumi hennar. Þess sér og merki, nálægt rótum Búrfells, að deigkennd hraunflikki hafa hálflosnað úr neðanverðum traðarveggnum, rifnað frá honum að ofanverðu, hnigið af þunga sínum, en harðnað að nýju og hætt við að detta.
Í Heklugosinu 1947—1948 rann meginhraunið kílómetrum og mánuðum saman eftir hrauntröð, sem um margt líktist Búrfellsgjá. Þar horfði ég oftar en einu sinni á sams konar deigkennd flikki hníga hægt niður í kvikustrauminn og berast áfram með honum. Hrauntröðin í Heklu er ekki lengur til sýnis. Áður en gosinu lauk hafði hún fyllst að endilöngu meira en upp á barma af storknuðu hrauni. Þau munu örlög flestra hrauntraða.
Búrfell og Búrfellsgjá.
Auk Búrfellsgjár eru talsverðar leifar eftir af annarri hrauntröð í Búrfellshrauni. Sú liggur í hlykkjum með meginstefnu nálægt vestri skammt norðan við Kaldárrétt og Kaldársel. Hún hefur bersýnilega myndast fyrr í Búrfellsgosinu en Búrfellsgjá, og af þeim sökum eru nú aðeins slitrur eftir af henni. Annars staðar hefur hún fyllst aftur af hrauni síðar í gosinu. Þessi hrauntröð verður víst að teljast nafnlaus, og er það illa farið. Hú n hefur stundum — út úr vandræðum, eða af misskilningi — verið nefnd „Gullkistugjá“, en það er gamalt örnefni í nágrenninu og á við raunverulega gjá (sprungu) í allt öðru hrauni, suður frá Helgafelli. Gísli Sigurðsson, varðstjóri í Hafnarfirði, sem hefur af mikilli natni og kunnleika skráð örnefni á þessum slóðum, kveðst einnig hafa heyrt hrauntröðina hjá Kaldárseli kallaða Lambagjá, en telur það nafn naumast viðurkennt af kunnugum mönnum. En eitthvað verður „gjáin“ að heita, og af framangreindum óviðurkenndum nöfnum er „Lambagjá“ heppilegast.
Lambagjá.
Í báðum hrauntröðunum, Búrfellsgjá og Lambagjá, eru snotur og skemmtileg mannvirki hlaðin úr hraungrýti. — Niðri í Búrfellsgjá, um 1/2 km norðvestur frá Búrfelli, stendur fjárrétt. Þangað var rekið og þar dregið sundur afréttarsafn Hafnfirðinga, Garðahreppinga og Álftnesinga á hverju hausti fram yfir 1920. Réttin er nú friðlýst að tilhlutan þjóðminjavarðar. — En um þvera Lambagjá liggur garður einn mikill og vel hlaðinn. Hlutverk hans liggur engan veginn í augum uppi ókunnugum manni. Hann var undirstaða undir vatnsveitu úr Kaldá yfir á vatnasvið Hafnarfjarðarlækjar, en síðarnefnt vatnsfall knúði hreyflana í raforkustöð Hafnarfjarðar á fyrstu áratugum þessarar aldar.
Vatnsveitan yfir Lambagjá.
Vatninu var veitt í opinni rennu, timburstokk, sem sums staðar varð að hlaða undir en annars staðar að grafa nokkuð niður, svo að alls staðar yrði vatnshalli í rétta átt. Vatninu var sleppt niður í hraunið fjarri upptökum lækjarins, en mun allt hafa skilað sér þangað. Það virðist skilyrði fyrir langlífi hrauntraðar, að hraunáin, sem myndar hana, þverri nokkuð snögglega. En tilefni þess getur verið tvenns konar, annaðhvort það, að hraungosið hættir snögglega, eða hitt, að hraunrennslið fer allt í einu í annan farveg. Hið síðarnefnda á við um Búrfellsgjá. Meðan enn hélzt allmikið hraungos og kvikan beljaði út um skarðið í vesturbarm gígsins til Búrfellsgjár, brast gat á suðurvegg hans niðri við rætur. Hrauntjörnin, sem fram til þessa hafði fyllt gíginn upp á barma, fékk þar nýja útrás, sem var fáeinum tugum metra lægri en hin fyrri. Yfirborð tjarnarinnar lækkaði að sama skapi, og síðan rann aldrei hraun til Búrfellsgjár né annars staðar yfir gígbarminn. Hraunáin í Búrfellsgjá var þar með stemmd að ósi. Kvikan, sem þar var fyrir, rann burt undan hallanum, svo að „gjáin“ tæmdist að meira eða minna leyti.
Hraunrennsli undan suðurbarmi Búrfellsgígs. — Kringlóttagjá.
Búrfellsgjá.
Það sem eftir var gossins kom hraunið allt út undan suðurbarmi gígsins. Það hraun, sem við skulum hér kalla „suðurhrauni“, varð raunar mjög lítið að vöxtum hjá því sem áður hafði runnið vestur af. Þetta hraun, sem var síðasta framleiðsla gossins í Búrfelli, myndar nú mjög flatvaxna bungu sunnan við Búrfell. Hún minnir á hvirfil lítillar hraundyngju að öðru leyti en því, að ekkert hallar norður af henni.
Rauðshellir.
Á hábungunni, um 400 m suður frá rótum Búrfells, er allsérkennileg skál, grunn og flatbotna, kringd 5—10 m háum klettaveggjum. Þvermál hennar er 200—300 m og lögunin óregluleg. Upp úr botni hennar rísa klettaeyjar, flatar að ofan og nokkuð jafnháar börmunum. Þessi náttúrusmíð heitir Kringlóttagjá, og er Gísli Sigurðsson heimildarmaður minn að því örnefni, sem helst til fáir munu þekkja. Kringlóttagjá er fornt hrauntjarnarstæði. Barmar hennar voru storknar skarir að glóandi kvikunni, en tjörnin hefur haft frárennsli neðanjarðar um æðar í nýstorknuðu hrauninu og lækkað í henni áður en hún storknaði í botn.
Reykjanes – jarðfræði.
Frá suðurrótum Búrfells, þar sem gígbarmur þess er lægstur, liggur allbreið en fremur grunn hrauntröð og opnast í Kringlóttugjá. Þá leið hefur hraunið runnið frá gígnum til hrauntjarnarinnar. Ef ekki væru þessi tengsl milli hennar og Búrfells, væri freistandi að telja hraunbunguna með Kringlóttugjá sérstaka eldstöð, litla dyngju, sem hefði myndast í öðru og síðara gosi en Búrfell, og hrauntjörnina gíg hennar.
Búrfell.
En tröðin sýnir ljóslega, að suðurhraunið er runnið undan rótum Búrfells og fyrst upp komið í gíg þess. Auk þess bendir slakki í gígbarminn, þar sem tröðin kemur út undan honum til þess, að rás sem þar lá undir hafi sigið saman. Nú er gígbarmurinn hvergi eins lágur og í þessum slakka (um 25 m.y. gígbotn), en samt er auðséð, að þar hefur hraun aldrei runnið yfir hann.
Af því er fullljóst, að meðan hraun rann um h.u.b. 10 metrum hærra skarð til Búrfellsgjár, var þessi slakki ekki til. Hann er síðar tilkominn, bæði við samansig hraunrásarinnar undir honum og að enn meira leyti við höggun eldvarpsins um misgengissprunguna.
Helgadalur – Búrfell fjær.
Þó að einsætt virðist, að hraunið sem rann til suðurs frá Búrfellsgíg hafi breiðst fast að rótum móbergshæðanna Valahnúka og Kaldárhnúka, þá verða nú mörk þess ekki rakin þar nákvæmlega svo að víst sé. Svo stendur á því, að vestur með þessum hæðum hefur runnið hraun af óvissum uppruna. Það liggur þvert vestur yfir Helgadal og allt til Kaldár og Lambagjár, og hefur átt þátt í að fylla upp þá hrauntröð ofanverða. Þetta er flatt helluhraun og jaðar þess, þar sem það liggur ofan á Búrfellshrauninu, víða mjög óglöggur. Halli og storknunarmynstur þessarar hraunálmu benda helst til, að hún sé ekki frá Búrfelli komin, heldur öðrum eldstöðvum ókunnum í suðaustri, og yngri en Búrfellshraunið.
Kringlóttagjá.
Aldursmunur getur þó vart verið mikill, því að í misgengisstallinum um Helgadal hefur þetta hraun haggast jafnt Búrfellshrauni, en önnur hraun í nágrenninu, sem eru ótvírætt yngri en Búrfellshraun, slétta yfir misgengisstallana óhögguð — eða a. m. k. óbrotin. Jón Jónsson hallast að þeirri skoðun, að þessi liraunálma sé annað hraun og yngra en Búrfellshraun. Ég verð einnig að telja það sennilegt, en þykir þó hitt koma til mála, að hún sé allra síðasta rennslið í Búrfellsgosinu, komið úr hrauntjörninni í Kringlóttugjá.“
Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 4. tölublað (01.03.1973) – Guðmundur Kjartansson, bls. 159-182.
Búrfellsgjá – upplýsingaskilti.
Bullaugu
Skrifað var um „Bullaugu“ í Morgunblaðið 3. mars árið 1962:
„Þegar ljóst var, að ekki væri með auðveldu móti hægt að virkja vatnið í hrauninu hjá Jaðri, var fenginn jarðbor til borunar í Grafarlandi á landi því, sem Golfklúbbur Reykjavíkur hefur fengið úthlutað undir golfvöll.
Bullaugu og nágrenni – loftmynd.
Ástæðurnar til þess, að boranir hófust þarna voru nokkrar m.a.:
1. Rannsóknir Jóns Jónssonar bentu til þess, að mikið jarðsig lægi um golfvallarlandið með tiltölulega opnum sprungum sitt hvoru megin við sigið.
2. Jón Þorláksson, fyrrv. borgarstjóri, benti árið 1907 á lindir í Grafarlandi. Hvaða fjarlægð er leyfileg milli borholanna er ekki vitað, en það mun koma í ljós við frekari rannsóknir á svæðinu.
c. Gerlarannsóknir á vatninu bæði úr lindunum og fyrrnefndu holunni var það góð, að Sigurður Pétursson gerlafræðingur lét þá athugasemd fylgja, að „vatnið væri óvenju gerilsnautt“. Efnagreining á sama vatni sýndi engin skaðleg efni og er vatnið svipað og Gvendabrunnavatnið, þó aðeins steinefnaríkara.
AÐRAR FRAMKVÆMDIR
Verði horfið að því ráði að virkja vatnið við Bullaugu verða aðrar framkvæmdir vatnsveitunnar vitaskuld við það miðaðar. Og er líklegt, að framkvæmdum yrði í stórum dráttum hagað sem hér segir á árinu 1962:
1. Haldið verður áfram og lokið við lagningu 24 þuml. aðalæðar í Kringlumýrarbraut frá gamla Sogavegi suður að Vallarleiti (Hamrahlíð). Nú þegar er meginhluta pípulagnar lokið á þessum kafla, en tengingum á brunnum verður lokið næsta sumar.
2. Lögn að geymi á Litlu Hlíð frá mótum Vallarleitis. Á korti því, sem hér fylgir, má sjá, hverjar eru þær vatnsveituframkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru á næstu 2—3 árum. Á þessu ári verður lögð 32″ aðalæð meðfram Miklubraut, frá Kringlumýrarbraut austur fyrir Grensásveg og byggður vatnsgeymir á Litlu Hlíð. Á árinu 1963 verður svo sú æð tengd við aðra 32″ aðalæðina við Sogaveginn inni við Skeiðvöllinn. Og fyrir árslok 1963 á að vera búið að leggja æð frá hinu nýja vatnsbóli, Bullaugum í Grafarlandi, í þessar aðalæðar Oodds Th. Sigurðssonar, vatnsveitustjóra og leitaði hjá honum nánari upplýsinga um þessi mál, og fara þær hér á eftir.
Eina vatnsból Reykvíkinga nú er Gvendarbrunnar, en núverandi rennsli þaðan er 700 1/sek. Það er fyrir alllöngu orðið ljóst, að á þeim er ekki hægt að byggja meiri aukningu, sem er þó óumflýjanleg. Þess vegna hefur á undanförnum 2 árum verið unnið við rannsóknir á lindum og vatnsbólum, sem til greina komu. Hefur vatnsveitan haft Jón Jónsson jarðfræðing í þjónustu sinni við þessar rannsóknir, en hann hefur rannsakað allt svæðið frá Kaldá norður að Úlfarsfelli og gert sprungukort aif svæðinu.
Niðurstaðan af þessum athugunum er sú, að til greina kem ur að virkja ýmsar lindir, sem allar hafa þó þann annmarka, að þær eru nokkuð langt frá núverandi aðalæðum nema svæðið í Grafarlandi. Þessi kortlagning jarðsprungnanna er sá grunnur, sem öll vatnsleit mun byggjast á í framtíðinni, og hlýtur að verða unnið áfram að tilraunaborunum, svo að kortleggja megi grunnvatnsrennsli heiðarlandsins fyrir austan borgina. Við rannsóknir á virkjunarmöguleikum á svæðinu milli Jaðars og Gvendarbrunna kom í ljós, að þar er mjög mikið vatnsmagn, og runnu á þurrkatímabilinu á s.l. sumri t.d. að minnsta kosti 500 1/sek. af mjög góðu drykkjarvatni undan hrauninu á þessu svæði út í Kirkjuhólmatjörn. Niðurstöður þeirra rannsókna, sem þarna fóru fram voru þær, að virkjun á þessum stað yrði mjög kostnaðarsöm, og er það skoðun mín, að fresta eigi framkvæmdum þarna í nokkur ár, þar sem boranirnar (sem hann nefnir Bullaugu) á þessum stað og telur þær koma til greina sem vatnsból fyrir Reykjavík, en hvarf frá þeim og valdi Gvendarbrunna vegna óhagstæðari hæðarlegu Bullaugnalindanna, en nú skiptir það atriði ekki lengur máli.
3. Golfvöllurinn verður væntanlega tekinn í notkun árið 1963, og af þeim sökum var æskilegt að fá vissu fyrir vatnsöflunarmöguleikum svæðisins í tíma og samræma aðgerðir V.R. gerð brautanna eftir föngum.
MJÖG GOTT VATN
Uppdráttur (hluti) af nágrenni Grafarholts
Uppdráttur frá 1963 sem sýnir örnefni á Grafarholtslandinu og nágrenni þess.
Þarna voru svo boraðar 2 holur og varð árangur þeirra borana sá, að úr annarri holunni fást 120 1/sek., og úr hinni 70 1/sek., en núverandi sjálfsrennsli úr Bullaugum er samkvæmt laus legri mælingu a. m. k. 200 1/sek. Að svo komnu er of snemmt að fullyrða nokkuð um vatnsmagn það, sem unnt á að vera að vinna á þessum stað, en þó virðist ástæða til nokkurrar bjartsýni, og eru ástæðurnar til þess helztar:
a. Eftir athugunum Jóns Jónssonar á borsvarfinu virðist vera komið niður á sandsteinslag neðan við 20 m dýpi í fyrrnefndu holunni, og náði það í ca. 29 m dýpi. Við borun í Rauðhólum í sl. viku fannst svipað sandsteinslag á milli 12 og 22 m dýpi.
Þessi atriði benda til þess, að undir Hólms- og Reynisvatnsheiði sé sandsteinslag, sem ber grunnvatn til sjávar og virkar jafnframt sem mikið vatnsforðabúr, sem dæla má úr.
b. Sprungulengdin yfir dalverpið er um 600 m á lengd, og á því að leyfa dælingu úr nokkrum borholum samtímis.
3. Bygging vatnsgeymis á Litlu Hlíð, sumarið 1962.
4. Lögn 32″ (800 mm’) aðalæðar meðfram Miklubrautinni frá Kringlumýrarbraut austur fyrir Grensásveg. Efni í þessa lögn er að mestu komið til landsins og undirbúningsvinna til útboðs að verða lokið.
5. Bygging dælustöðvarhúss við Stóragerði.
6. Lögn 16″ aðalæðar í Rauðarárstíg milli Háteigsvegar og Laugavegar. Verk þetta er nú hafið og því lýkur væntanlega fyrir vorið.
HEILDARKOSTNAÐURINN 33,2 MILLJ. KR.
Bullaugu.
Heildarkostnaðurinn við þessar framkvæmdir og virkjun Bullaugna yrði samkvæmt kostnaðaráætlun, sem gerð hefur verið um 33,2 millj. kr., en sjálf getur vatnsveitan lagt til þeirra 17,2 millj. kr. á árunum 1962—’63, svo að afla þyrfti 16 millj. kr. láns, ef ljúka á þessum framkvæmdum á næstu 2 árum. Ef ráðizt yrði út í framkrvæmdir þessar án lánsfjár tælki virkjun Bullaugna hins vegar ekki skemmri tíma en 5—6 ár, en ef fresta ætti framkvæmdum svo lengi mundi það vafalaust hafa í för með sér alvarlegan vatnsskort fyrir þá bæjarhluta, sem hæst standa. Það er þess vegna skoðun mín, að varhugavert sé að draga virkjun Bullaugna lengur en til ársloka 1963 og í lengsta lagi til ársloka 1964.“
Rétt er að geta þess að ekki varð að vatnsöflun fyrir Reykvíkinga úr Bullaugum.
Sjá meira um neysluvatnið HÉR og HÉR.
Heimild:
-https://timarit.is/page/1341853#page/n7/mode/2up
Uppdráttur með örnefnum (1963)
Uppdráttur með örnefnum í nágrenni Grafarholts og Korpúlfsstaða, sem unnin var árið 1963 af Steindóri Björnssyni í Gröf, að beiðni Þorvarðar Árnasonar, eins framámanns í Golfklúbbi Reykjavíkur. Uppdrátturinn hékk lengi í klúbbhúsinu í Grafarholti en er nú geymdur á Korpúlfsstöðum. Höfundur er óþekktur.
Hlöðuneshverfi
Eftirfarandi var skrifað um Vatnsleysuströnd (Narfakot, Halldórsstaði, Hlöðunes og Atlagerðistangavita) í Morgunblaðið árið 1970:
Atlagerðistangaviti.
„Þetta var á einum hinna frosthýru daga í fyrri viku, þegar loftið var tært, eilítið skæni á pollum eftir nóttina, en sól á suðurhveli, og þeim ekkert að vanbúnaði, sem langaði í hressandi helgargöngu um íslenzka náttúru; hún er söm við sig, sami yndisleikinn, hvort sem er kalt eða svalt, eða hlýjan leikur um mannfólkið sem kemur blóðinu óneitanlega á meiri hreyfingu, en kuldinn.
Vatnsleysuströnd – Hlöðuneshverfi.
Förinni var heitið suður á Vatnsleysuströnd, til þeirrar strandar, sem Spegillinn í eina tíð, ætlaði að innlima í Reykjavík á þeim árunum sem vatn skorti í höfuðborginni. Greið er förin, þegar Hafnarfirði sleppir, suður Kapellu hraun, framhjá Straumi, og áfram allar götur eftir Hvassahrauni, sem í raun réttri heitir Afstapahraun, og sunnan við það erum við þá einu sinni enn komin i Kúagerði. Raunar er Kúagerði merkur staður í samgöngusögu þjóðarinnar. Það var eini staðurinn, þar sem hœgt var að brynna hestum í ósöltu vatni á þessum hraun fláka á Innnesjunum, og kom slíkt í góðar þarfir, bæði þeim ríðandi og gangandi. Í vesturjaðri þess var lítil graslaut með smátjörn í, fast við veginn á vinstri hönd. Heitir lautin Kúagerði, og var mikill án ingarstaður, jafnvel í heiðnum sið. Ég hef það fyrir satt, og sagði mér það maður, ættaður frá Hvassahrauni, sem var einu sinni stofufélagi minn á Vífilsstöðum, að kaffið hefði alltaf verið salt á þeim bæ, og þó var Kúagerði örskotsspöl í burtu.
Hlöðunes.
Síðan lagður var akfær vegur frá Keflavík til Reykjavíkur, hefur það oftast verið siður, að menn hefðu ekki tíma til að stanza og var þó meiri ástæða áður, en núna, þegar þetta hlemmiskeið liggur milli staða, — en í þetta skiptið, síðast liðinn sunnudag, gerðum við okkur dagamun, sveigðum til hægri út á gamla veginn, framhjá Vatnsleysunum, þar sem hann Þorvaldur okkar kæri ræktar svín, framhjá Flekkuvík, hinni frægu, þar sem Jónasi Hallgrímssyni var ekki i eina tíð betur treyst en svo um land að fara til að grafa í Flekkuleiði, að hann fékk rautt ljós. Jónas varð þá að útvega leyfi til rannsóknarinnar hjá séra Pétri Jónssyni á Kálfatjörn, en Páll Vigfússon bóndi i Flekkuvík var lengi tregur, því að Jónas segir: „Ég hét þeim að láta Flekku kyrra, ef ég fyndi hana, og kvaðst gera þetta í virðingarskyni, svo sem oft hefði verið gert við helga menn.“
Hlöðunes – túnakort 1919.
Og áfram allar götur framhjá Kálfatjörn, en þeim stóra stað tilheyrði fjárborgin mikla, Staðarborg, sem er vel sýnileg frá þessum gamla þjóðvegi, þar austar og ofar í hrauninu. Í þetta sinn er ákveðið að heimsækja Gerðistangavita, sem löngum hefur lýst bátum og skipum, sem meðfram Vatnsleysuströnd sigla. Hlutverk hans er nú orðið svipur hjá sjón, en fallegt er engu að síður niður við vitann. Og þótt Gerðistangaviti hafi nú að mestu lokið sínu dygga hlutverki, hefur hann áreiðanlega bjargað mörgum sjómanninum heilum í höfn, lýst þeim, sem þráir höfn.
Miðhús.
Við ökum út af veginum við Halldórsstaði, litlu býli, og leggjum bílnum okkar við hliðina á þriggja metra djúpum, hlöðnum brunni, sem er enn við lýði á þessari vatnslausu strönd, en þó sennilega núna aðeins handa svínum í kaldri kró.
Í suðvestri blasir við okkur annað býli Narfakot. Vafalaust hafa báðir þessir bæir verið fyrrum eins konar hjáleigur aðalbæjarins, Hlöðvisness. Heitir hann í dag Hlöðunes, og er í eyði.
Þetta var stór staður, og kenndur við þann, er þar byggði fyrstur manna. Þar í túninu á þessi Hlöðvir að vera heygður og heitir þar enn Hlöðvishaugur.
Hlöðunes – tóftir.
En áður en við höldum niður í fjöruna við Gerðistangavita, skulum við aðeins staldra við nafnið Narfakot. Það er nefnilega komið inn í Íslandssöguna á mjög merkan hátt. Meira að segja líka inn í bókmenntirnar. Áður fyrri, þegar Danir ráku hér „velferðarríki“ sitt með möðkuðu mjöli og fleiru tilheyrandi til sálubóta, skorti allt, jafnvel snæri til að hengja sig, hvað þá, að hægt væri að nota til veiðiskapar, var það einnig bannað með „majestets“ skipun, að verzla við annan kaupmann, en þann, sem staðsettur var í manns eigin „Krummavík“.
Tóftir Hlöðversness.
Gerðust margir brotlegir, meðal annarra bláfátækur bóndi á hjáleigu frá Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd, sem hét Hólmfastur Guðmundsson. Fór með 13 fiska til kaupmannsins í Keflavík að auki 2 knippi af hertum sundmögum og lagði þar inn, þegar honum bar að Guðs og manna lögum og hans hátign ar Danakóngs, að leggja þetta allt inn hjá Knúti Stormi, kaupmanni í Hafnarfirði. Fyrir þetta var Hólmfastur dæmdur til að kaghýðast á Kálfatjarnarþingi, 27. júlí 1699. Með því að áðurnefndur Stormur vildi ekki taka skektu hans upp í sektina. Þótt Hólmfastur fengi nokkru síðar bæði uppreisn æru og skaðabætur, hefur Laxness gert hann ódauðlegan og komið honum inn í ísl. bókmenntir sem samfanga Jóns Hreggviðssonar í dýflissunni á Bessastöðum og segir nú frá því.
Brunnur við Halldórsstaði.
Jón Hreggviðsson hafði spurt Hólmfast: „Var þér ekki útlátalaust að leggja fiskana inn í því umdæmi þar sem þér er skipað að verzla af mínum allra náðugasta herra?“
„Og þetta átti að koma fyrir mig, Hólmfast Guðmundsson.“
„Þú hefðir betur hengt þig í spottanum,“ sagði Jón Hreggviðsson. „Hvenær hefur heyrzt í fornum bókum, að danskir hafi dæmt til hýðingar mann með mínu nafni í landi hans sjálfs hér á Íslandi?“
„Það er heiður að vera höggvinn. Jafnvel lítill karl verður maður af því að vera höggvinn. Lítill karl getur farið með vísu um leið og hann er leiddur undir öxina. Aftur á móti verður hver maður lítill á því að vera hýddur,“ sagði Hólmfastur.
Halldórsstaðir – tóftir.
En því minnumst við á Hólmfast hér, að meðal mannanna, sem dæmdu hann vegna þessa „glæps“, sem við góðu heilli í dag, gætum sett tvö upphrópunarmerki við, sem háðsmerki, vegna þess, að við í dag búum við frjálsa verzlun, — voru einmitt tveir menn frá þessu Narfakoti, sem við okkur blasir í suðvestri, þeir Bjarni og Brynjólfur Þórólfsson, sem þá bjuggu þar.
Og nú látum við gamla sögu lönd og leið, göngum framhjá gömlum hvalbeinum, sem áður voru notuð fyrir hlunna og beint niður í fjöruna hjá vitanum.
Halldórsstaðir.
Á vegi okkar verða gamlar verbúðir, hlaðnar úr hraungrýti, bátur liggur ofarlega í landi, og við hugsum með okkur,: „Það er ekki hægt að setja hann út, nema á flóði.“ Raunin varð önnur, þetta reyndist hin ákjósanlegasta vör sunnan við Gerðistangann. Einkennilegt var smágert þangið, þegar komið var fram undir sjó. Við þekktum það ekki, en fallegt var þar álitum. Einstakur æðarbliki styggðist og flaug á braut. Annars urðum við ekki vör við fugla. Skorkvikindi skriðu að venju undir þarabrúski, en það hæfir ekki þessari miklu strönd að minnast á slík kvikindi.
Hlöðversleiði. Narfakot í baksýn.
Þarna á ströndinni er margt að sjá, bæði lifandi og dautt. Vel má vera, að það vindi á þessari strönd, en samt sem áður held ég, að hún geymi í fórum sínum svo mikla fjársjóði, að erfitt reynist að gera þá upp. Fjöruferð meðfram þessari úfnu strönd, meðfram skerjunum, meðfram vörunum, er að minnsta kosti þeirra peninga virði, sem maður verður að greiða samvizku sama manninum í tollskýlinu við Straum, þegar aftur er haldið heim. Ég lofa þvi, að ég skal síðar skrifa meir og betur um Vatnsleysuströnd, og áður en mig varði, rann bíllinn inn í óða umferðina á Hafnarfjarðarveginum, þar sem vegir liggja til allra átta og flestra óþekktra, en ég vona samt heim til mín. – Fr.S.“
Heimild:
-Morgunblaðið, Fr.S.; Úti á víðavangi, 255. tölublað (08.11.1970), bls. 6.
Tóftir Bjarghóls v.m. Atlagerðistangi h.m. „Hlöðuneshverfi á Vatnsleysuströnd tilheyrðu eftir taldir bæir. Hlöðunes, Halldórsstaðir, Narfakot, Miðhús, Bjarghóll, Nýlenda, Holt var rétt hjá Hlöðunesi og á Töngunum Gerði og Atlagerði.“ Klöpp var einnig afbýli sem fór í eyði fyrir aldamótin 1900. Jörðin einnig nefnd Hlöðversnes. Þar var tvíbýli og seinni bærinn nefndur Hlöðversneskot, Gilsbakki og Vesturkot.
Laugarnesið – Guðfinna Ragnarsdóttir
Guðfinna Ragnarsdóttir skrifaði um „Laugarnesið“ í rit Ættfræðingafélagsins árið 2017:
Guðfinna Ragnarsdóttir.
„Það lætur ekki mikið yfir sér Laugarnesið, þessi snubbótti tangi sem teygir sig til norðvesturs út í flóann í átt að Engeynni. En þar leynist bæði löng og merk saga, saga kvenna og karla, saga atburða og örlaga, saga biskupa og valda, saga mennta og menningar, saga stríðs og átaka, saga hernáms og fátæktar, saga sjúkdóma og erfiðleika, saga lista og listamanna og inn á
milli, þótt ekki fari hátt, saga alþýðunnar, sem háði þar sitt stríð öld fram af öld. Ströndin við Laugarnesið er einnig einstök náttúruparadís. Þar er eina ósnortna fjaran sem eftir er á norðurströnd Reykjavíkur frá Örfirisey að Grafarvogi. Þar móka selir á steinum, tjaldurinn hoppar í fjörunni, krían gargar og mávurinn sveimar yfir hafsbrúninni í leit að æti. Í norðrinu rísa Esjan og Skarðsheiðin og vinalegt Akrafjallið teygir sig til vesturs.
Hún var víðlend, jörðin Laugarnes, þegar hún var og hét. Svo víðlend að hún tók yfir meirihluta þess svæðis sem Reykjavík stendur á í dag. Sjálfsagt hefur það verið Ingólfur okkar Arnarson og hans lið sem fyrst bjó á þessu svæði. Það er gaman að eiga eina ljósa mynd af þessum frumbyggjum Reykjavíkur, og þar með Laugarness, mynd sem sýnir okkur sonarson Ingólfs, Þorkel mána, sem lét á banadægri bera sig út í sólskinið og fól sál sína þeim guði sem hefði skapað sólina, og var hann þó maður heiðinn. Þormóður, sonur Þorkels, varð svo allsherjargoði þegar kristni kom á Ísland. Þeir Þorkell og Þorgeir Ljósvetningagoði lögsögumaður voru þremenningar, en ömmur þeirra voru systur, dætur Hrólfs rauðskeggs.
Það er líka gaman að geta þess að laugarnar góðu sem komu við sögu nafngiftar Reykjavíkur gáfu einnig ótal öðrum örnefnum svæðisins nafn: Laugarnes, Laugamýri, Laugaholt, Laugalækur og einnig seinni tíma nöfn eins og Laugarás og Laugardalur.
Jarðabókin
Laugarnes og Laugarnesstofa.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín veitir góða lýsingu á Laugarnesi sem og öðrum jörðum á Íslandi í byrjun 18. aldar. Jörðin er 20 hundruð að dýrleika, kirkjukúgildi 3 og leigukúgildi 3. Kvikfénaður 4 kýr, 2 kvígur mylkar, 1 kálfur, 16 ær, 15 sauðir veturgamlir, 4 lömb, 2 hestar, 2 hross. Fóðrast kunna 6 kýr. Heimilismenn 7. Torfrista, stunga og móskurður nægilegt í heimalandi. Rekavon lítil. Hrognkelsaveiði má vera, ef iðkuð væri með neti. Túnið spillist stórlega af vatnsgangi. Engjar litlar, spillast af vatni. Vatnsból erfitt. Heimræði er hér varla að kalla; þó er það um vor og haust, þegar fiskur gengur grunnt inn á fjörðinn. En um vertíð, ef heima skal lenda, er langræði meira en hófi sætir, og fyrir þá grein hefir jörðin um langar stundir átt og brúkað skipauppsátur og verbúð.
Laugarnes og Engey voru fyrstu jarðirnar sem fóru undan landnámi Ingólfs, en það mun hafa verið innan við öld eftir landnám. Einhvern tíma fyrir 1575 byggðust svo jarðirnar Bústaðir og Kleppur út úr Laugarnesjörðinni. Kleppsjörðin stóð nokkru sunnan við núverandi Kleppsspítala. Jörðinni fylgdu miklar kvaðir og búskapur var erfiður. Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að túnin fordjarfist stórlega af sjávargangi og á 18. öld varð að flytja Kleppsbæinn vegna sjávargangs. Bústaðir, sem sneru mót suðri og sól, voru mun betri jörð, enda oft tvíbýlt
þar.
Reykjavíkurkort frá 1944. Sjá má Fúlalæk ofan Fúlutjarnar.
Fúlilækur
Það var hinn frægi Fúlilækur sem myndaði vesturlandamæri Laugarnesjarðarinnar. Hann kom upp í Kringlumýrinni, rann til norðurs niður holtið, breiddi sem snöggvast úr sér í Fúlutjörninni niður við ströndina, rétt áður en hann liðaðist gegnum fjörukambinn og sameinaðist sjávaröldunum. Hann er nú löngu horfinn undir malbik Kringlumýrarbrautarinnar.
Hann var hinn versti farartálmi þegar hann var vatnsmikill, og fræg er sagan um vinnukonuna sem drukknaði í honum með þvottinn sinn á bakinu.
Frá upptökum Fúlalækjar lágu landamærin síðan til suðurs, alla leið í klettinn Hanganda innst í Fossvoginum.AusturlandamæriLaugarnesjarðarinnar hafa fram eftir öldum verið Elliðaárnar, enda átti kirkjan ítök í laxveiðinni þar öld fram af öld.
Það saxast svo hægt og bítandi af landnámi Ingólfs og á 13. öldinni eru fimm jarðir á Seltjarnarnesinu: Nes, Vík, Laugarnes, Kleppur og Gufunes. Frægasti ábúandi Laugarness var Hallgerður langbrók sem bjó þar eftir víg Glúms, manns síns. Sagnir eru um að hún hafi látist þar og sé grafin þar og sé leiði hennar jafngrænt vetur sem sumar. Ekki fundust þó við eftirgrennslan nein merki Hallgerðar.
Kirkjan
Laugarnes.
Það er svo kirkjunni og kirkjuskjölunum að þakka að við getum rakið sögu Laugarness allt til okkar daga. Öldum saman var Laugarnes, ásamt Engey, í eigu sömu ættarinnar, s.k. Möðruvallaættar. Það er í Kirknatali Páls Jónssonar Skálholtsbiskups frá því um 1200 sem fyrst er getið kirkju í Laugarnesi.
Saga Laugarneskirkjunnar, líkt og saga flestra annarra guðshúsa þessa lands, endurspeglar bágborið ástand og afkomu þjóðarinnar, sjúkdóma, hallæri, eldgos og aðra óáran sem yfir þjóðina dundi. 1234 á kirkjan rétt á fjórðungi allra laxa í Elliðaánum, Viðeyingar annað eins og Reykvíkingar afganginn. Þetta voru mikil hlunnindi, sem áttu eftir að reytast af kirkjunni í aldanna rás. Sömuleiðis kúgildin. Árið 1379 á kirkjan tíu hundruð í metfé, tvenn messuklæði, þrenn altarisklæði, einn kaleik, tvær kertastikur, kantarakápu, tvær klukkur stórar, glóðarker, sacarium, mundlaug og kross. Þá á hún einnig fjórðung reka á móts við Nes, Engey og Laugarnes „utan Seltjörn og Laugar“. 1575 er altarisklæðið sagt gamalt og því tjáslað saman, hökullinn er gamall, kaleikurinn ærulaus, metaskálar tómar, og járnkarlinn sem á að pota Laugarnesingum sex fet niður, á köldum frostavetrum, er lítill.
Kúgildin
Brynjólfur biskup Sveinsson vísiterar í Laugarnesi 1642. Þá er þar einn hökull gamall og altarisklæðið á flækingi ásamt sloppi gömlum og slitnum. Kúgildin, sem upphaflega voru tíu, eru nú aðeins þrjú. Þetta þykir biskupnum miður og lætur nótera það í Kirkjustólinn. Nítján árum seinna þegar biskupinn leggur leið sína aftur í Laugarnesið eru þau enn ófundin! 1659 þegar ný kirkja var reist í Laugarnesi var ekki úr miklu að moða, því allar jarðir sem kirkjunni tilheyrðu voru í konungseign, nema Laugarnesið, og voru því undanþegnar tíundargjöldum.
Laugarnesspítali.
Þegar Brynjólfur vísiterar Laugarnesið í hinsta sinn, árið 1670, er nýja kirkjan illa farin af fúa, kúgildin enn á flandri og auk þess vantar kistu eina gamla. En menn hafa sjálfsagt haft annað að gera á þeim hörmungatímum sem þá gengu yfir þjóðina en eltast við horfin kúgildi og fúnar kistur. En það sem verra er, nú er laxveiðin endanlega gengin úr greipum þeirra Laugarnesmanna og Bessastaðamenn búnir að kasta eign sinni á þessi fornu hlunnindi.
1703 sýnir manntalið okkur að 27 manns eru í Laugarnesi og jörðin enn í einkaeign. 1725 reis af grunni ný og vönduð kirkja og þá dró einnig til tíðinda í eignamálunum. Kirkjan, sem hafði verið í eigu sömu ættar öld fram af öld, etv. allt frá landnámi, komst nú í annarra eigu. Sjálfur biskupinn, Jón Árnason, tók jörðina upp í skuld. Við tóku mörg góð ár, en 1758 þegar Finnur Skálholtsbiskup kemur í sína fyrstu vísitasíu, er kirkjan að falli komin.
Bænabríkin
Kirkjan átti þó sína velgjörðarmenn en það voru Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson sem höfðu átt athvarf í kirkjunni þegar þeir dvöldu hjá Skúla fógeta í Viðey, sem þá var orðin kirkjulaus. Þeir gáfu Laugarneskirkjunni forláta altaristöflu eða bænabrík. Á hana er letrað: Til maklegrar skylduendurminningar er þessi tafla gefin heilagri Maríukirkju að Laugarnesi af þeim B. og E. 1757. Þessi altaristafla, sem síðar lenti í kirkjunni að Stað í Grindavík, er eini gripurinn sem varðveist hefur úr gömlu Laugarneskirkjunni. Hún er nú varðveitt á Þjóðminjasafninu.
Þegar Laugarneskirkjan seig saman undan feysknum fjölum sínum árið 1794, voru horfnar sjö af þeim kirkjum sem röðuðu sér með Sundunum fyrir siðaskiptin. Aðeins voru eftir kirkjurnar í Vík, Viðey og Gufunesi.Allt frá miðöldum til loka 18. aldar höfðu kirkjuklukkur Laugarneskirkju kallað fólk á tíu bæjum til messu, en það voru bæirnir Laugarnes, Kleppur, Rauðará, Bústaðir, Breiðholt, Digranes, Hvammkot, Kópavogur, Vatn og Hólmur. Þær hafa mátt hljóma hátt og skært, kirkjuklukkurnar, svo kallið bærist.
Kirkjusandur og Laugarnes um 1920.
Ein ástæða þess að Laugarneskirkjan var lögð niður var að á sama tíma reis af grunni í hjarta bæjarins, á gamla Reykjavíkurtúninu, á Austurvelli, ný og vegleg dómkirkja sem var vígð 1796. Laugarneskirkjan var þá sameinuð Dómkirkjusókninni í Reykjavík. Eins og söfnuðinum var vísað á önnur mið, dreifðust hinar fátæklegu eigur kirkjunnar út um borg og bý. Kirkjuklukkurnar, sem hringt höfðu til tíða og messugjörða öldum saman, voru seldar hæstbjóðanda, og hvar þær svo að lokum hringdu sig inn í eilífðina veit enginn lengur. En á tímum allsleysis var fleira verðmætt en kirkjugripirnir. Hver fjöl, jafnvel þótt fúin væri og lasburða, var seld hæstbjóðanda á uppboði. Þannig keypti Brynjólfur Einarsson lögréttumaður af Kjalarnesi Laugarneskirkjuna, eins og hún lagði sig, á 17 ríkisdali og 56 skildinga. Það segir margt um ástand timbursins í kirkjunni að á sama tíma var timbrið úr Neskirkju selt á 125 ríkisdali!
Hannes
Það var svo eftir jarðskjálftana miklu 1784 sem menn fóru að hugsa sér til hreyfings með biskupssetur, því Skálholtsstaður var í rúst. Reykjavík hafði þá öðlast kaupstaðarréttindi og til stóð að flytja bæði biskupssetrið og Skálholtsskólann til Reykjavíkur, auk Alþingis. Innan lóðamarka kaupstaðarins voru þá 39 hús og 167 íbúar. Hannes Finnsson Skálholtsbiskup kom að skipulagningu hins nýja biskupsseturs. Hann var bæði mjög efnaður og framsýnn maður og hann gerði sér lítið fyrir og keypti Skálholtið og fékk konungsleyfi til að sitja þar áfram í sinni biskupstíð.
Laugarnesið hafði hann erft árið 1787 eftir fjarskylda frænku sína, Elínu Hákonardóttur, og hafði því ekkert á móti því að biskupssetrið yrði þar. Ekkert varð þó úr flutningi biskupsstólsins og sat Hannes í Skálholti til dauðadags árið 1796. Hann hafði þá verið sjö ár í hjónabandi með seinni konu sinni, Valgerði Jónsdóttur. Á þeim var 32 ára aldursmunur. Hún var 18 ára og hann fimmtugur þegar þau gengu í hjónaband.
Hún varð því ekkja 25 ára gömul. Þau Hannes voru frændsystkin, skyld að öðrum og þriðja. Valgerður fæddist 1771 á Seljalandi undir VesturEyjafjöllum. Foreldrar hennar voru efnafólk og faðirinn sýslumaður. Fyrri kona Hannesar var Þórunn, dóttir Ólafs Stephensens stiftamtmanns í Viðey, en hún var aðeins 16 ára er þau Hannes giftust. Hana missti hann rúmlega tvítuga.
Hannes Finnsson, biskup.
Þau Hannes og Valgerður eignuðust fjögur börn sem öll komust upp. Eldri dóttur sína skírðu þau Þórunni, eftir fyrri konu Hannesar. Hún giftist Bjarna Thorsteinssyni amtmanni og þeirra sonur var Steingrímur Thorsteinsson skáld og rektor. Engan hefði grunað að Þórunn Hannesdóttir, síðasta biskupsdóttirin í Skálholti, ætti eftir að verða tengdamóðir bláfátækrar stúlku, barnabarns Eiríks Hjörtssonar, ungs bónda í Laugarnesbænum, sem um aldamótin 1800 stóð þar í kirkjugarðinum yfir moldum konu sinnar og ungrar dóttur á helköldum vetrardegi. Slík blöndun æðri og lægri stétta var nánast óhugsandi.
Þessi fátæka, unga stúlka hét Guðríður Eiríksdóttir og var frá Stöðlakoti við Bókhlöðustíg. Hún átti eftir að verða seinni kona Steingríms Thorsteinssonar og eiga með honum fimm mannvænleg börn.
Voldug og rík
Valgerður biskupsfrú var systir Jóns Johnsen lögsagnara á Stóra-Ármóti, en hann var umboðsmaður konungsjarða í Árnessýslu. Hún naut hans vel í viðskiptum sínum þegar hún eftir lát Hannesar sankaði að sér jörðum, enda varð hún ein efnaðasta og voldugasta kona landsins. Ólafur Stephensen stiftamtmaður, fyrrverandi tengdafaðir Hannesar manns hennar, var henni einnig afar hollur ráðgjafi. Í tíu ára ekkjudómi sínum eftir lát Hannesar eignaðist hún 22 jarðir og rekaítök á tíu rekafjörum austan úr Öræfum og vestur á Strandir. Hún reisti einnig kirkju í Skálholti og var sú kirkja kölluð Valgerðarkirkja. Allt þetta sýnir að hér var enginn meðalmaður á ferð.
Steingrímur Jónsson, seinni maður Valgerðar, var fræði- og lærdómsmaður. Hann hafði verið skrifari Hannesar biskups í Skálholti, en Hannes átti mikið safn gamalla rita. Steingrímur var mikill gáfumaður og einstakur námsmaður, hann lauk embættisprófi í guðfræði við háskólann í Kaupmannahöfn með ágætiseinkunn sumarið 1803. Hann var fyrsti rektor Bessastaðaskóla, prestur og prófastur í Odda og loks biskup yfir Íslandi. Foreldrar hans voru Jón Jónsson, prófastur á Mýrum í Álftaveri, síðar í Holti undir Eyjafjöllum, og kona hans, Helga Steingrímsdóttir. Hún var systir eldklerksins Jóns Steingrímssonar.
Steingrímur biskup átti mikið safn handrita og bóka og var stórvirkur rithöfundur. Hann var frábærlega vel að sér í sögu landsins og einn lærðasti maður Íslands um sína daga. Jón Sigurðsson forseti var biskups skrifari hjá þeim hjónunum í Laugarnesi árin 1831-32, eftir að hann varð stúdent. Steingrímur biskup var einn helsti ættfræðingur landsins. Ættartölubækur hans í ellefu bindum, flestar með hans eigin hendi, eru stórmerkileg rit. Í Laugarnesi var geymt mesta safn íslenskra handrita sem þá var til í landinu. Bókaog handritasafn Steingríms varð síðar uppistaða Landsbókasafnsins.
Biskupsstofan
Laugarnes – Biskupsstofa.
Þau Valgerður og Steingrímur giftu sig árið 1806, og árið 1809, þegar Valgerður er 38 ára, fæðist einkasonurinn Hannes Johnsen Steingrímsson, síðar kaupmaður í Reykjavík, heitinn eftir Hannesi biskupi.
Steingrímur tók við biskupsembættinu 14. júní 1825. Þau fluttust þó ekki inn í Laugarnes fyrr en vorið 1826, þegar biskupsstofan var tilbúin. Þá vantaði, segir sagan, enn bæði glugga og hurðir í húsið. Þar bjuggu þau þar til Steingrímur lést 14. júní 1845.
Laugarnes 1952.
Hinn nýi biskupsbústaður var jafnan nefndur Laugarnesstofan, Biskupsstofan í Laugarnesi eða aðeins Stofan. Það var mikið hús, eitt fárra steinhúsa á landinu, en ekki var það að sama skapi vandað, þótt konungurinn styrkti byggingu þess.
Steingrímur gerði samning 7. apríl 1825 við danskan múrara frá Kaupmannahöfn um smíði stofunnar. Sá hét Fredrik August Maltezow. Vinnulaun hans áttu að vera tveir ríkisdalir á dag, auk fæðis, ókeypis ferð og fæði til Íslands og heim aftur, nægilegt öl daglega, og peli af brennivíni, bæði á leiðinni og allan vinnutímann. Stofan var hlaðin úr múrsteini, með helluþaki, en
mikið af því fauk í ofviðri 1848. Kvistur var á stofunni með svonefndu skútaþaki, og segja fróðir menn að hafi verið fyrsti kvistur á húsi hér á landi. Það kom brátt í ljós að margir gallar voru á Biskupsstofunni og hélt hún hvorki vindum né vatni. 1839 seldi Steingrímur bænum jörðina, en um það hafði áður verið samið. Valgerður lést 1856 hjá Sigríði dóttur sinni og manni hennar Árna Helgasyni prófasti í Görðum á Álftanesi. Hún hafði þá verið ellefu ár í ekkjustandi.
30 ár
Næsti biskup í Laugarnesi var dómkirkjupresturinn í Reykjavík, Helgi Guðmundsson Thordersen. Ragnheiður, kona Hannesar ráðherra Hafstein, var sonardóttir hans. Helgi biskup undi ekki í Laugarnesi nema í 10 ár. Undir eins og hann varð biskup, sótti hann um að mega búa í Reykjavík, en ekki í Laugarnesi, en honum var neitað um það. Hann flutti ekki úr Laugarnesi fyrr en árið 1856, en þá hafði Laugarnes verið biskupssetur í rétt 30 ár.
Laugarnes – upplýsingaskilti.
Biskupsstofan mun hafa staðið vestan til á nesinu, rétt suður af Listasafni Sigurjóns. Hún var rifin til grunna, þegar Holdsveikraspítalinn var reistur árið 1898. Hún var síðast notuð handa frönskum, bólusjúkum sjúklingum. Til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins var Stofan gerð að bólusóttarsjúkrahúsi. Franskur sjómaður, segir sagan, deyr úr bólu „á bóluspítalanum“ (Biskupsstofunni) að Laugarnesi 2. apríl 1872, og er greftaður daginn eftir í Laugarneskirkjugarði. Það mun vera síðasta gröfin sem tekin er í þeim gamla garði í Laugarnesinu. Árið áður hafði annar franskur sjómaður látist úr bólu 23. apríl, einnig hann var jarðaður strax daginn eftir.
Holdsveikraspítalinn
Skjöldur Holdsveikraspítalans í Laugarnesi. Við vígslu Laugarnesspítala 27. ágúst 1898 festi Dr. Petrus Beyer þetta skilti yfir dyrum spítalans með þremur nöglum og viðhafði um leið eftirfarandi formála: „Ég rek fyrsta naglann í vináttunar nafni, því að hús þetta er sprottið af vinarþeli því, er hin danska þjóð ber til hinna íslensku bræðra sinna. Drottinn veit það, að sama hugarþel verði jafnan ríkjandi meðal þessara bræðraþjóða meðan heimurinn stendur. Ég rek annan naglann í kærleikans nafni með því að hús þetta, sem sprottið er af bróðurkærleiksþeli því, er allir menn eiga að vera gagnteknir af, á að vera hæli þar sem vináttuþel þróast, líknarhendur hjúkra sjúkum og allir eiga að leitast við að inna kærleiksverk af hendi. Ég rek þriðja naglann í sannleikans nafni, af því að þetta hús á að vera sannur vottur um hið innilega samband, sem er milli íslensku og hinnar dönsku þjóðar, og af því að hin íslenska þjóð á einnig að geta séð á þessu verki, sem hér hefur verið af hendi innt, að hin danska þjóð er sannur vinur hennar, því sá er vinur, sem í raun reynist.“ Bretar hernámu Ísland 9.maí 1940, og skömmu eftir hernámið fóru þeir að svipast um eftir húsnæði er þeir gætu fengið til afnota hér á landi. Voru þá mjög fáir sjúklingar eftir á Laugarnesspítalanum og samþykkti ríkisstjórnin að láta flytja þá á Kópavogshælið, sem áður hafði verið notað fyrir berklasjúklinga og leigja Bretum Laugarnesspítala. Var þeim flutningum lokið um haustið 1940 og fékk þá breski herinn húsið til afnota. En hinn 8. apríl 1943 barst sú harmafregn um bæinn eins og eldur um sinu að kviknað væri í Laugarnesspítala. Brann húsið þá til kaldra kola á svipstundu og varð ekki við neitt ráðið og var því mikill sjónarsviptir fyrir bæinn. Skilti þessu varð svo bjargað úr brunarústum og ber það þess glöggt merki að hafa gengið í gegnum mikla eldraun. Og er vel viðeigandi að hafa það sem grip NR. 1 í minjasafni Oddfellowa.
Holdsveikraspítalinn var gjöf dönsku þjóðarinnar til Íslendinga að frumkvæði dönsku Oddfellowreglunnar. Hann var reistur í nafni vináttu, kærleika og sannleika og vígður 27. júlí 1898. Byggingin var úr timbri á tveim hæðum um 2000 m² að stærð. Spítalinn var þá stærsta hús sem hafði verið reist á Íslandi. Hann var starfræktur til ársins 1940, er hann var fluttur í Kópavog. Spítalinn var gerður fyrir 60 sjúkrarúm, en talið er að um aldamótin 1900 hafi verið um 237 holdsveikir menn á Íslandi. Þegar holdsveikum fækkaði var hluti byggingarinnar tekinn til annarra nota.
Þegar spítalinn var fluttur lagði breski herinn bygginguna undir sig og síðar sá bandaríski. Spítalinn brann til kaldra kola 7. apríl árið 1943. Einu menjarnar um brunann er skjöldur sem festur var yfir aðalinngangi spítalans. Hann er varðveittur hjá Oddfellowreglunni.
Hjáleigurnar
Fjórar hjáleigur fylgdu lengi Laugarnesi: Norðurkot, Suðurkot, Barnhóll og nafnlaus hjáleiga austan við bæinn. Suðurkot var niður við sjóinn, beint vestur af síðasta bæjarstæðinu, Suðurkotsvörin er nokkru sunnan við Suðurkotið. Suðurkot var einnig kallað Naustakot. Norðurkot var norðvestur af síðasta bæjarstæðinu og Norðurkotsvörin þar rétt austan við. Norðurkot var einnig kallað Sjávarhólar. Hverri hjáleigu fylgdi 1 kúgildi. Landskuld eftir hvert þeirra var 40 álnir. Allar þessar hjáleigur voru enn byggðar 1801, en 1835 eru þær komnar í eyði og munu ekki hafa byggst eftir það.
Við manntalið 1762 er tvíbýli í Laugarnesi og heimilisfólk alls 14 á báðum búum. Árið 1784 er enn tvíbýli í Laugarnesi. Heimilismenn eru þá 15 alls. Við manntalið 1801 er þar einnig tvíbýli og heimilisfólk alls 17. 1847 er Laugarnes sem fyrr talið 20 hundruð að dýrleika, en 1861 var það 31,3 hundruð. Síðasti torfbærinn í Laugarnesi var rifinn 1885. Hann mun hafa staðið þar sem gamla kirkjan var, eða litlu ofar. Enn sér greinilega móta fyrir kirkjugarðinum.
Sameigendur
Eftir að biskup flutti frá Laugarnesi 1856 var Laugarnesjörðin seld félaginu „Sameigendur Lauganess“ en það réði til sín ábúanda sem sá um að reka jörðina, leigja hagagöngu og selja hey til skepnueigenda í Reykjavík auk þess að selja mó úr Laugamýri og Kirkjumýri. Jörðin varð síðan eign Reykjavíkurbæjar 1885.
Síðustu ábúendur Laugarnesjarðarinnar voru hjónin Þorgrímur Jónsson söðlasmiður og Ingibjörg Kristjánsdóttir sem fluttu að Laugarnesi 1915 með stóran barnahóp. Þau sáu um rekstur á jörðinni og leigu á hagabeit fyrir bæjabúa. 1948 flutti Sigurður Ólafsson söngvari og kona hans Inga Valfríður Einarsdóttir frá Miðdal, systir Guðmundar listmálara og myndhöggvara, í Laugarnes, og bjuggu þar á fjórða áratug ásamt börnunum sínum sex og frægu, ljósu hrossunum sínum, þar á meðal hinni landsfrægu Glettu. Yngri dóttir Sigurðar og Ingu er Þuríður söngkona og listmálari.
Með tímanum færðist borgarbyggðin austur á bóginn, erfðafestulöndum var úthlutað og Laugarnesjörðin var tekin undir íbúðabyggð. Á stríðsárunum voru einnig mörg hús flutt í Laugarneshverfið þegar flugvöllurinn var byggður í Skerjafirði.
Kampurinn
Á stríðsárunum var reist stórt braggahverfi á Laugarnestanganum, kallað Laugarneskampur. Árið 1941 tók síðan bandaríska setuliðið við Laugarneskampi, sem hýsti þá aðallega sjúkradeildir hersins auk skála hjúkrunarkvenna, yfirmanna og annarra hermanna. Kampurinn samanstóð af 100 bröggum og öðrum byggingum.
Þegar umsvif bandaríska hersins drógust saman um 1945, var kampurinn nýttur sem íbúðarhúsnæði fyrir Íslendinga. Á árunum 1951-1957 voru íbúar flestir í kampinum eða um 300 manns. Þessi byggð setti um tíma mikinn svip á Laugarnesið en er nú horfin með öllu. Í einum bragganna bjó Sigurjón Ólafsson myndhöggvari með fjölskyldu sinni. Þar var byggt listasafn sem ber nafn hans. Síðasti bragginn í Laugarnesi var rifinn árið 1980.
Í dag er búið í fjórum húsum á svæðinu. Einn íbúanna er Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns Ólafssonar. Hún er fædd á Fjóni og nam höggmyndalist við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannhöfn.
Við hlið Listasafnsins býr Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndagerðarmaður og í þriðja húsinu, sem stendur enn sunnar á nesinu býr listakonan Kogga, Kolbrún Björgólfsdóttir, en eiginmaður hennar var Magnús Ólafur Kjartansson myndlistarmaður.
Saga Laugarnessins er orðin löng, saga þessa grágrýtistanga sem forðum myndaðist við eldgos í Mosfellsheiðinni eins og allur berggrunnur borgarinnar og eyjarnar allar. Þar birtist okkur saga þjóðarinnar í hnotskurn öld fram af öld. Kirkjugarðurinn, eina mannanna verkið sem enn sér glöggt stað aftan úr öldum, geymir íbúa þessarar jarðar í að minnsta kosti 800 ár. En allt er breytingum háð. Engir bátar liggja lengur í vörunum, söngur Sigurðar er þagnaður, líkt og hófatak Glettu, en listverk Sigurjóns prýða nesið þar sem aldan skellur á ströndinni, blíð og stríð, líkt og hún hefur gert frá ómuna tíð.“
Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins – 2. tölublað (01.04.2017), Guðfinna Ragnarsdóttir; Laugarnesið, bls. 3-8.
Lauganes – minnismerkið um Holdsveikispítalans.
Reykjanesskagi – jarðfræði
Reykjanesskaginn er yngsti hluti Íslands en mjög eldbrunninn; um 2.000 ferkm að flatarmáli. 5-6 eldstöðvakerfi eru talin vera á skaganum eftir því hvort Hengilskerfið er talið með eða ekki. Hér er það ekki talið með því landfræðilega er miðja Hengilskerfisins fyrir utan [sjálfan] Reykjanesskagann og að auki er Hengillinn mjög ólíkur öðrum eldstöðvakerfum á skaganum.
„Þessi fimm kerfi eru nátengd og það virðist gjarnan gjósa í þeim flestum í sömu hrinunum. Þau eru 1. Reykjaneskerfið sem er vestast á skaganum, 2. Svartsengi sem er norður af Grindavík, 3. Fagradalsfjall sem er litlu austar, 4. Krýsuvíkurkerfið, kennt við Krýsuvík, 5. Brennisteinsfjallakerfið sem einnig er kennt við Bláfjöll.
Flekaskilin um Ísland.
Reykjanesskaginn tilheyrir hinu svonefnda Vestara gosbelti sem nær frá Reykjanesi og norður fyrir Langjökul. það belti er ekki eins virkt og Suðurlands- og Eystra gosbeltið en þó ganga yfir kröftugar rek- og goshrinur á Reykjanesskaganum á 800-1000 ára fresti. Síðast gekk slíkt tímabil yfir á árunum 950-1240 og þar áður fyrir um 1800-2500 árum.
Öll fimm kerfin eiga það sameiginlegt að í þeim eru ekki megineldstöðvar og í þeim öllum kemur eingöngu upp basalt. Gosin eru gjarnan sprungugos og magn gosefna í hverju gosi að jafnaði lítið eða innan við hálfur rúmkílómetri. Þó eru undantekningar frá þessu eins og nokkrar stórar dyngjur á skaganum sýna vel.
Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.
Mikil eldvirkni hefur verið á Reykjanesskaga á nútíma og yfir þúsund ferkílómetrar lands huldir nýju hrauni auk landauka í sjó. Gjall- og klepragígaraðir eru algengustu eldstöðvarnar en að auki eru fjölmargar dyngjur á skaganum. Þær hafa þó flestar myndast á fyrrihluta nútíma, reyndar allar taldar yfir 4500 ára gamlar og myndun þeirra tengist væntalega hröðu landrisi eftir hvarf ísaldarjökulsins á skaganum. Gossprungur á skaganum á nútíma eru hátt í 200 talsins sem sýnir vel hve virkur skaginn hefur verið þrátt fyrir að engin staðfest gos hafi orðið síðan á 13. öld. Jarðskjálftar eru tíðir á skaganum og jarðhitavirkni mikil.
Eldstöðvakerfi raða sér svo til suðvesturs frá Reykjanesskaganum og vitað er um allmörg neðansjávargos á Reykjaneshrygg síðustu aldir. Öflugt gos varð suður af Eldeyjarboða árið 1783. Þá myndaðist eyja sem hvarf þó stuttu síðar vegna ágangs sjávar. Á 19. öld er vitað um 3 gos á þessum slóðum og á 20. öldinni varð nokkrum sinnum vart við ólgu í sjó og gjóskuþústir sem líklega hafa verið af völdum lítilla neðansjávargosa.
Reykjaneskerfið
Reykjanesskagi – örnefni.
Vestasta eldstöðvakerfið á skaganum er Reykjaneskerfið. Nær það nokkurnveginn frá Reykjanestá að Grindavík og þaðan í norðaustur yfir skagann. Það nær einnig einhverja kílómetra í suðvestur á sjávarbotni og hafa margsinnis orði gos í sjó í kerfinu.
Reykjanesskagi – jarðfræðikort; nútímahraun.
Mikil goshrina gekk yfir kerfið á árunum 1211-1240. Hófst þessi hrina með gosi í sjá skammt frá landi en síðan urðu allmörg gos á næstu árum á svipuðum slóðum, þ.e. í sjó skammt undan landi. Eitt hefur verið áberandi mest, árið 1226 og skilur eftir sig gjóskulag sem hefur nýst vel í gjóskulagarannsóknum á Suðvesturlandi. Heimildir eru fyrir þessu gosi í Oddaverjaannál og er þar talað um “Sandfallsvetur á Íslandi”. Gos urðu svo uppi á landi á næstu árum. Þessi gos eru nefnd einu nafni Reykjaneseldar. Síðan þá hefur kerfið ekki bært á sér frekar en önnur eldstöðvakerfi á skaganum hvað gos varðar en jarðskjálftar eru þar tíðir.
Svartsengi
Svartsengiskerfið, kennt við samnefnt háhitasvæði, var áður flokkað með Reykjaneskerfinu en þó þau séu um flest lík og nálægt hvort öðru þá eru þau flokkuð sem tvö aðskild kerfi nú. Þau fylgjast hinsvegar að hvað gos varðar og gýs í þeim báðum á svipuðum tíma. Þá rennur syðsti hluti kerfisins saman við Reykjaneskerfið vestan við Grindavík.
Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Dyngjurnar eru gular.
Allmargar dyngjur eru í kerfinu sem er um 7 km. breytt og amk. 30 km. langt. Gossvæðin eru þó í suðurhluta kerfisins.
Goshrina varð í kerfinu fyrir um 2000-2400 árum og rann þá m.a. svokallað Sundhnúkahraun ofan við Grindavík. Hluti Grindavíkur stendur á þessu hrauni.
Einnig gaus í kerfinu samhliða Reykjaneseldum í kringum árið 1226. Virðast þá hafa orðið í það minnsta þrjú gos, fremur lítil þó. Illahraun sem orkuverið í Svartsengi stendur á og er við Bláa Lónið rann í einu þessara gosa.
Reykjanesskagi – örnefni.
Fagradalsfjall
Fagradalsfjall og nágrenni – kort.
Kerfið heitir eftir samnefndu fjalli á milli Svartsengis- og Krýsuvíkurkerfanna. Þetta er lítið kerfi og ólíkt hinum eldstöðvakerfunum á Reykjanesskaganum er það fremur lítt virkt hvað gos varðar, líklega hefur ekki orðið þar gos í um 6000 ár. Jarðskjálftar eru hinsvegar tíðir á svæðinu.
Krýsuvíkurkerfið
Ögmundarhraun – yfirlit.
Kerfið var áður nefnt Trölladyngjukerfið eftir samnefndri dyngju í kerfinu. Réttara þykir þó að kenna það við helsta kennileiti kerfisins og það svæði í því þar sem er að finna vísi að megineldstöð.
Það er sennilega ekki ofsögum sagt að segja að Krýsuvíkurkerfið sé eitt hættulegasta eldstöðvakerfi landsins vegna nálægðar þess við höfuðborgarsvæðið. Nyrstu gossprungurnar eru rétt suðvestur af Hafnarfirði og hraun hefur amk. á tveimur stöðum runnið til sjávar örskammt vestan Hafnarfjarðar eftir landnám.
Um árið 1150 – 1180 urðu veruleg eldsumbrot í kerfinu og opnuðust nokkrar gossprungur í þeirri hrinu. Hafa þessi eldgos verið nefnd Krýsuvíkureldar. Hraun runnu þá til sjávar báðu megin við Reykjanesskagann. Þá varð gos við Sveifluháls um 1180. Ekki virðist hinsvegar hafa gosið í kerfinu í Reykjaneseldunum á 13. öld þegar mikil goshrina gekk yfir vestar á Reykjanesskaganum.
Brennisteinsfjallakerfið
Syðsti hluti kerfisins er við Krýsuvíkurbjarg og það teygir sig svo í norðaustur yfir Bláfjöll og inn á Mosfellsheiði. Líkt og í flestum eldstöðvakerfunum á skaganum urðu allmikil umbrot í kerfinu skömmu eftir landnám og reyndar öllu fyrr í Brennisteinsfjallakerfinu. Nokkur gos urðu líklega í tveimur megingoshrinum á svæðinu frá Bláfjöllum að Hellisheiði. Þessi gos urðu rétt fyrir og rétt eftir árþúsundin. Þekktast er gosið sem Kristnitökuhraunið rann í árið 1000.
Framtíðarhorfur á Reykjanesskaga
Eldgos ofan Grindavíkur 2023.
Það verður ekki undan því komist að fjalla örlítið um hve hættulega nálægt byggð eldstöðvakerfin á Reykjanesskaganum eru. Eldvirknin er lotubundin og gengur yfir á um 800-1000 ára fresti og stendur þá yfir í nokkur hundruð ár. Nú eru nálægt 780 ár frá síðustu staðfestu gosum á skaganum og alveg ljóst að frekar fyrr en síðar munu verða eldgos og það sennilega nokkuð mörg á skaganum.
Eldgos í Fagradalsfjalli 2021.
Þessi gos eru ekki afkastamikil en þau eru mörg hver hraungos og geta eldsuppkomur orðið mjög nálægt byggð. Sérstaklega verður að telja hluta Hafnarfjarðar á hættusvæði hvað þetta varðar og einnig Grindavík. Það er því sérlega mikilvægt að fylgjast vel með öllum jarðskorpuhreyfingum á skaganum til að auka líkurnar á að hægt sé að segja til um gos með einhverjum fyrirvara og gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir.“
Heimild:
–http://eldgos.is/reykjanesskagi/
Gunnuhver.
Laugarnes – menningar- og búsetulandslag
Búseta hófst í Laugarnesi skömmu eftir landnám. Samkvæmt Jarðabókinni frá 1703 voru þá í Laugarnesi fjórar hjáleigur og íbúar 28. Búskapur var þá mestur hjá bóndanum í sjálfu Laugarnesi en í kotunum var hokurbúskapur. Tvö hjáleigukotanna stóðu hvort við sína vörina, Norðurkotsvör og Suðurkotsvör. Norðurkot var áður kallað Sjávarhólar en Suðurkot, sem var nær Kirkjusandi, var kallað Naustakot. Bóndinn þar var formaður á báti Laugarnesbóndans. Þriðja hjáleigan, Barnhóll, stóð við samnefndan hól.
Fjórða hjáleigan var á hlaðinu hjá Laugarnesbænum. Laugarnesstofa var byggð árið 1825 sem embættisbústaður biskups. Þá var hjáleigubúskapur í Laugarnesi lagður af. Meðan stofan var heimili biskups bjuggu um 20 manns þar. Eftir að biskup flutti frá Laugarnesi 1856 var Laugarnesjörðin seld félaginu ,,Sameigendur Lauganess“ en það réði til sín ábúanda sem sá um að reka jörðina, leigja hagagöngu og selja hey til skepnueigenda í Reykjavík auk þess að selja mó úr Laugamýri og Kirkjumýri. Jörðin varð síðan eign Reykjavíkurbæjar 1885. Rekstur jarðarinnar var með svipuðu móti og áður, en þá bjuggu á jörðinni Jón Þórðarson og kona hans Þorbjörg Gunnlaugsdóttir. Hann stundaði miklar jarðarbætur, slétti tún og hlóð upp mikla túngarða. Auk þess byggði hann nýtt íbúðarhús. Síðustu ábúendur Laugarnes jarðarinnar voru hjónin Þorgrímur Jónsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir sem fluttu að Lauganesi 1915 með stóran barnahóp. Þau sáu um rekstur á jörðinni og leigu á hagabeit fyrir bæjabúa. Með tímanum færðist borgarbyggðin smám saman austur á bóginn og Laugarnesjörðin var tekin undir íbúðabyggð.
Eftir að Laugarneskampi var breytt í íbúðabyggð bjuggu þar mest um 300 manns á árunum 1952-1957. Laugarnesbærinn var rifinn 1987.
Í Laugarneskampi um 1950.
Breski herinn gekk á landi í Reykjavík þann 10. maí 1940. Hann lagði undir sig ýmsar byggingar fyrir starfsemi sína auk þess sem reistar voru tjaldbúðir víðsvegar um bæinn. Síðar voru reistir hermannaskálar eða svokallaðir braggar á vegum hernámsliðsins. Í Reykjavík risu um 80 braggahverfi sem hýstu um 12.000 hermenn.
Eitt þeirra var vestast á Laugarnesi, Laugarneskampur. Árið 1941 tók síðan bandaríska seturliðið við Laugarneskampi sem hýsti þá aðallega sjúkradeildir hersins auk skála hjúkrunarkvenna, yfirmanna og annarra hermanna. Kampurinn samanstóð af 100 bröggum og öðrum byggingum. Þegar umsvif bandaríska hersins drógust saman um 1945, var kampurinn nýttur sem íbúðarhúsnæði fyrir Íslendinga. Á árunum 1951-1957 voru íbúar flestir í kampinum eða um 300 manns. Þessi byggð setti um tíma mikinn svip á Laugarnesið en er nú horfin með öllu. Í einum bragganna bjó Sigurjón Ólafsson myndhöggvari með fjölskyldu sinni. Þar var byggt listasafn sem ber nafn hans.
Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1996 skrifar Margrét Hallgrímsdóttir um Laugarnesið:
Laugarnes – MWL.
„Stóran hluta af menningarsögu okkar má finna í mannvistarleifum og örnefnum. Byggð hefur verið í Reykjavík frá því land var numið og eru skráðar fornleifar í Reykjavík hátt á annað hundrað. Vitað er um mun fleiri minjastaði og má þar sérstaklega nefna eyjarnar í Kollafirði. Tvisvar hefur verið gerð fornleifaskrá yfir minjar borgarinnar og síðast 1994-1995. Um þessar mundir er unnið að annarri endurskoðun skrárinnar.
Fornleifaskrá Reykjavíkur hefur legið til grundvallar minjavörslu höfuðborgarinnar og í nýútkomnu Aðalskipulagi Reykjavíkur er sérstök áhersla lögð á varðveislu menningarminja í Reykjavík, húsa og fornleifa.
Laugarnes – spítalinn.
Laugarnes sem hér er átt við, er sjálf táin þar sem bærinn Laugarnes stóð fyrrum og listasafn Sigurjóns Olafssonar stendur nú. Afmarkast þetta svæði af tollvörugeymslum við Héðinsgötu í vestri, og Sæbraut í suðri og hafinu, Kollafirðinum. Strandlengjan með nánasta umhveríi á þessu svæði er sú eina í borgarlandinu og á Seltjarnarnesinu hinu forna, norðanmegin, sem enn er ósnortin og upprunaleg. Er Laugarnesið á náttúruminjaskrá og strandlengjan friðlýst. Gróðurfar, sérlega umhverfis mýrina hjá Norðurkoti, og á holtinu norðaustan við hana, er með því fjölbreyttasta sem til er innan borgarmarkanna.
Útsýni frá Laugarnesinu er fagurt og fuglalíf fjölbreytt og því möguleikar á áhugaverðri útivist fyrir almenning þar sem fer saman fjölbreytt og óspillt náttúra og minjar.
Elstu öruggu heimildir ritaðar um mannavist í Laugarnesi eru í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar í Skálholti, sem talin er frá því um 1200.
Kirkjan í Laugarnesi var lögð niður árið 1794, þegar sóknin var sameinuð dómkirkjusókninni í Reykjavík. Rústir kirkjunnar og kirkjugarðsins eru friðlýstar.
Gera má ráð fyrir að búskapur í Laugarnesi sé jafn gamall byggð í landinu, eða allt að því. Bæjarhóll Laugarnesbæjarins er stór og eru varðveittar þar rústir langvarandi búsetu.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru þrjár hjáleigur nefndar frá Laugarnesi. Eru þær Barnhóll, Norðurkot og Suðurkot. Í manntali frá sama ári eru hins vegar fjórar hjáleigur taldar til, og eru þær; Barnhóll, Naustakot (Norðurkot), Á Fitinni (Suðurkot) og Á hlaðinu. Sú síðast talda mun hafa verið heima við bæinn. Rústirnar eru enn greinilegar. Sama er að segja um varirnar Norðurkotsvör (Norðurvör) og Suðurkotsvör (Suðurvör). Síðustu bæjarhúsin voru rifm árið 1987, en eiginlegur búskapur hafði lagst af allnokkru fyrr.
Til gamans má geta þess að Laugarness er getið í Njálu, en á landnámsöld mun Ragi sonur Ólafs hjalta hafa eignast Laugarnesið, en hann mun hafa numið land fast á hæla Skalla-Gríms. Eftir því sem Njáls saga hermir hefur Laugarnes því orðið sjálfstæð jörð nokkrum áratugum eftir að land byggðist. Þar segir að Þórarinn Ragabróðir, sem var lögsögumaður eftir Hrafn Hængsson, hafi búið í Laugarnesi. Þórarinn fór með lögsögu 950-969. Mágkona Þórarins, Hallgerður Höskuldsdóttir, betur þekkt undir viðurnefninu langbrók, er sögð hafa búið í Laugarnesi og þaðan lagt upp í ferð til Þingvalla þar sem hún er sögð hafa hitt fyrir Gunnar á Hlíðarenda.“ Munnmæli herma að hún hafi flust aftur í Laugarnes eftir víg Gunnars og borið þar beinin, sbr. örnefnið Hallgerðarleiði. Legstaður hennar er talinn hafa verið í hinum friðlýsta Laugarneskirkjugarði eða utan hans við gatnamót Laugarnesvegar og Kleppsvegar. Þegar unnið var að gatnagerð á þessu svæði var hóllinn fjarlægður og kom þá í ljós að hann var leifar rauðablásturs.
Laugarnesstofa um 1830.
Á Laugarnesi eru þó ekki eingöngu varðveittar minjar búskapar. Árið 1787 er Hannes biskup Finnson talinn eigandi Laugarness og að honum látnum giftist ekkja hans séra Steingrími Jónssyni, er síðar varð biskup. Við það eignaðist hann Laugarnes. Árið 1824 fékk Steingrímur því framgengt að veitt var álitleg fjárhæð til að byggja embættisbústað handa honum. Voru til þess fengnir danskir iðnaðarmenn, sem fengu öl eftir þörfum og pela af brennivíni á dag til að ljúka verkinu. Húsið var hið veglegasta að útliti, en þó sagt bæði illa byggt og lekt. Laugarnesstofa var svipuð Viðeyjarstofu að útliti, en minni og með stórum kvisti á framhlið.
Árið 1838 keypti konungur Laugarnes af biskupi og var tilgangurinn m.a. að hafa þar biskupssetur til frambúðar. En næsti biskup á staðnum, Helgi Thordersen, kvartaði undan staðnum og benti á að farartálmar á leið hans til Reykjavíkur væru slíkir, að ekki væri forsvaranlegt að búa á staðnum. Fluttist hann á brott árið 1856 og lauk þá sögu biskupa í Laugarnesi. Stofan stóð þó eftir, en var auðveld bráð eyðingaraflanna og var stuttu síðar „heríileg að sjá, flestir gluggar brottnir, og ótérlegt inn að líta.“
Síðasta hlutverk Stofunnar var hlutverk sjúkrahúss, en 1871 voru geymdir þar nokkrir bóluveikir franskir sjómenn og báru nokkrir þeirra beinin í Laugarnesi. Stofan var rifm þegar danskir Oddfellowar gáfu Íslendingum holdsveikraspítala, sem var fullbyggður árið 1898. Spítalinn var stórt timburhús eins sjá má á gömlum ljósmyndum, sem teknar voru frá Kirkjusandi. Líklegt má telja að spítalinn hafi verið stærsta hús landsins á þeim tíma. Húsið var tvílyft me ð stuttum álmum til endanna. Laugarnesspítali stóð á flötinni austan við Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og sneri framhlið í suður. Starfaði spítalinn í hartnær hálfa öld.
Árið 1940 lagði breski herinn hald á spítalann. Mikið hverfi bragga reis þar allt í kring á þeim slóðum sem listasafnið nú er. Spítalinn brann árið 1943 er hann var í notkun breska setuliðsins.
Laugarnes – Holdsveikraspítalinn.
Engin greinileg merki sjást lengur um þessar byggingar, en fullvíst má telja að jörðin geymi síðustu leifar þessa tímabils í sögu Laugarness þótt þar hafi orðið nokkurt rask vegna braggabyggðar stríðsáranna. Sigurjón Ólafsson myndhöggvari (d. 1982) fékk til umráða einn herskála í Laugarnesi árið 1945 og setti þar upp vinnustofu sína. Það var grunnurinn að Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, sem stofnað var árið 1984
Minjavarsla Laugarness
Laugarnesið einkennist enn af hinu gamla og óspillta svipmóti og er strandlengjan að mestu ósnortin. Ibúðarbyggð er nokkur á nesinu og hefur hlotist nokkurt rask af því. Laugarnes er á náttúruminjaskrá og er fjaran á Laugarnestanga friðlýst. Gróður í mýrlendinu umhverfis Norðurkotsvörina og á holtinu norðaustan við hana er meðal þess fjölbreyttasta sem finnst á Reykjavíkursvæðinu. Utsýni frá Laugarnesi er mjög fagurt og fjölbreytilegt. Auk hinna ómetanlegu náttúru sem þarna er að finna hefur Laugarnesið þó sérstöðu vegna sögu þess og minja.
Þarna er talið að stundaður hafi verið búskapur allt frá 10. öld og fram á níunda tug þessarar aldar. Bændur heyjuðu tún, beittu búsmala og réru til fiskjar. Norðurkotsvörin er einstök og ein fárra slíkra sem varðveist hafa í borgarlandinu. Laugarnesbændur nýttu fjörur og annað það sem náttúran færði þeim til nytja. Laugarnes er því dæmi um vel varðveitt menningarlandslag þar sem sögulegar minjar haldast í hendur við náttúru og umhverfi.
Bæjarhóllinn og kirkjugarðurinn í Laugarnesi eru friðlýst svæði vegna sérstaks minjagildis. Friðaðar fornminjar teljast til þjóðminja, sem sérstaka þýðingu hafa fyrir menningarsögu íslendinga og skal slíkum friðlýstum minjum fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifanna. Kirkjugarðurinn er ferhyrndur og sést enn móta fyrir sáluhliði á vesturvegg hans. Þar má greina rúst síðustu torfkirkjunnar í miðjum kirkjugarðinum. Hún var lögð niður árið 1794 þegar Laugarnessókn var lögð undir Dómkirkjuna í Reykjavík. Kirkjan hefur verið torfkirkja með timburstafhi og hefur snúið frá austri til vesturs í samræmi við kirkjulög.
Laugarnes – upplýsingaskilti.
Enn má sjá dæmigert gamalt tún með beðasléttum frá því um aldamót vestan bæjarhólsins. Beðaslétturnar má telja vel varðveittar og eru heimildir fyrir slíkum beðasléttum allt frá víkingaöld í nágrannalöndum okkar. Einnig sést móta fyrir leifum hjáleigukotanna í Laugarnesi og er mikilvægt að lögð verði áhersla á varðveislu þeirra í tengslum við sjálft bæjarstæði Laugarnesbæjarins.
Auk þeirra rústa, sem getið er í fornleifaskrá, má nefna rúst beint vestur af grunni Laugarnesstofu (kölluð Spítalahóll hér á eftir) og aðra norðvestur af Norðurkoti. Síðarnefnda rústin er leifar skotbyrgis frá setuliðinu.
Niðurstaða og tillaga að varðveislu
Reykjavík er menningarlandslag í heild sinni. Þar eru fornleifar á annað hundrað stöðum. Þar á meðal eru merk svæði, sem hafa sérstakt gildi fyrir menningarsögu Islendinga. Slík svæði hafa verið skilgreind sem menningarlandslag eða búsetulandslag. Laugarnes er dæmi um heilsteypt búsetulandslag með sérstakt varðveislugildi. Í minjavörslu Reykjavíkur hefur oft reynst flókið að standa vörð um þá heild sem þar er varðveitt. Í Laugarnesi má rekja söguna til aldamótanna 1200 og sennilega lengra aftur. Saga Laugarnessins snertir byggðasögu landsins, kirkjusögu, sjúkrahúsasögu, sögu Reykjavíkur og sögu hernáms á Islandi.
Laugarnes og Kirkjusandur.
Á tánni var ekki aðeins lögbýlið Laugarnes, þar voru einnig hjáleigur, og kotið Suðurkot um tíma og þar var kotið Norðurkot, sennilega bæði stærra í sniðum og með lengri búsetu. Auk býlanna var kirkja og kirkjugarður í Laugarnesi um aldir og á síðustu öld risu þar biskupssetur og spítali. Minjar þessara mannvirkja eru varðveittar enn. Á nesinu er fjölbreytt náttúra, bæði dýra og gróðurs, og þar er ein af fáum ósnertum fjörum Reykjavíkur. Bæði fjaran og bæjarhóll Laugarness eru friðuð. Sérstakt náttúrufar og fagurt útsýni tilheyrir hinu forna sögubóli Laugarness. Hjáleigurústirnar, Norður- og Suðurkotsvör, túnið með beðasléttunum og fjaran eru mikilvægir hlutar eins elsta bæjarstæðis á íslandi, rétt eins og hinar friðlýstu minjar bæjarhólsins og kirkjugarðsins.
Þessi atriði eru öll hluti af samspili, sem gerir Laugarnesið að heilsteyptu menningarlandslagi. Ómetanlegt er að slíkar heildir varðveitist innan höfuðborgar og því mikilvægt að ásjóna Laugarness raskist ekki. Er það mat undirritaðrar að stuðla beri að varðveislu Laugarness, sem heilsteypts búsetulandslags vegna ómetanlegs samspils náttúru og sögulegra minja. Laugarnesið hefur sérstöðu í menningarsögu Reykjavíkur. Því ber að varðveita það í núverandi mynd, sem næst ósnortið þótt snyrta þurfi svæði og bæta merkingar. Er það minjavörslu svæðisins til framdráttar að gera svæðið að aðgengilegu útivistarsvæði fyrir almenning þar sem minjar ekki síður en náttúra gefa svæðinu gildi. Það eykur virðingu og áhuga fólks á gildi slíkra svæða. Þannig yrði Laugarnestáin gerð að útivistarsvæði fyrir almenning, þar sem minjarnar í samspili við náttúru og útsýni fengju notið sín.“
Heimild:
-Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1996 – Margrét Hallgrímsdóttir, „Menningarlandslagið Reykjavík og búsetulagið Laugarnes“, bls. 141-148.
Laugarnesstofa.
Esjan – Ingvar Birgir Friðleifsson
Sjáið tindinn, þarna fór ég!
Eftirfarandi viðtal um Esjuna og nágrenni tók Anna G. Ólafsdóttir við Ingvar Birgi Friðleifsson, jarðfræðing, fyrir Morgunblaðið sunnudaginn 20. september 1998:
„Fátt þykir Reykvíkingum betra en að hafa óskert útsýni yfír Esjuna. Anna G. Ólafsdóttir grófst fyrir um hin ólíku svipbrigði fjallsins í spjalli við Ingvar Birgi Friðleifsson, jarðfræðing og skólastjóra Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Ingvar Birgir þekkir Esjuna manna best því hann skrifaði doktorsritgerð um jarðfræði fjallsins fyrir aldarfjórðungi.
Æ fleiri Reykvíkingar geta tekið sér orð borgarskáldsins Tómasar Guðmundssonar „Sjáið tindinn, þarna fór ég!“ í munn og litið stoltir í átt til Esjunnar í norðri. Reykvíkingur er varla nema hálfur Reykvíkingur án þess að hafa klifið Esjuna minnst einu sinni. Esjan er í tísku og sprækustu íþróttamenn hafa lagt af sprikl í yfirfullum íþróttasölum til að geta sveigt kroppinn og andað að sér fersku lofti í Esjuhlíðum.
Langalgengast er að lagt sé upp frá Skógrækt ríkisins við Mógilsá og fetað eftir gönguslóða upp hlíðina með stefnu á Þverfellshorn í norðri.
Esja – gönguleiðin upp frá Garðyrkjustöðinni.
Gönguleiðin er falleg og hefur þann ótvíræða kost að vera flestum fær. Engu að síður er ekki nema eðlilegt að eftir nokkrar ferðir upp og niður svipaða leið vakni áhugi á nánari kynnum við Esjuna enda sé fortíð fjallsins margbrotnari en í fyrstu virðist.
Einna nánust kynni við Esjuna hefur haft Ingvar Birgir Friðleifsson, skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, en hann skrifaði doktorsritgerð um jarðfræði Esjunnar árin 1970 til 1973. Ingvar Birgir segist hafa dvalist nánast öllum stundum þegar veður leyfði í Esjunni í þrjú sumur. Hann leynir ekki aðdáun sinni á fjallinu og viðurkennir með fjarrænt blik í augum að tilfinningin fyrir því að koma aftur á fallegan reit í Esjunni eftir 25 ára fjarveru sé að mörgu leyti eins og að hitta aftur gamla kærustu.
Blaðamaður getur ekki orða bundist og spyr hvort að hann geti greint breytingar í fjallinu á þessu tímabili. Ekki stendur á svarinu hjá Ingvari Birgi. „Esjan breytist miklu hægar en kærusturnar en samt finnast alltaf á henni nýjar hliðar.“
Eins og maðurinn er landið nefnilega lifandi og tekur breytingum í tímans rás. Esjan er þar engin undantekning og veitir með fjölbreytileika sínum ágæta innsýn í stórbrotna jarðfræði Íslands.
Esjan.
Ef grafist er fyrir um fortíð Esjunnar er eðlilegt að byrja á því að rifja upp hvernig eins konar flekar mynda jarðskorpuna. Ein af höfuðflekamótunum á Atlantshafshryggnum kljúfa ísland frá suðvestri til norðausturs. Flekana rekur til vesturs og austurs frá flekamótunum og er rekhraðinn að jafnaði talinn vera um einn sm á ári í hvora átt. Þó þarf ekki að óttast að landið klofni í tvo eða fleiri hluta því að við gos á gosbeltinu á flekamótunum fylla gosefni í skarðið. Á norðanverðu landinu fara flekamótin í gegnum Þingeyjarsýslu og valda því að sýslan tútnar smám saman út. Á sunnanverðu landinu horfir svolítið öðruvísi við því að flekaskilin klofna í tvær kvíslar: að vestanverðu í Gulibringusýslu og Árnessýslu og austanverðu í Rangárvallasýslu og Austur-Skaftafellssýslu.
Uppruninn á Þingvöllum
Esjan og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós myndaðist í gosbelti því sem nú liggur frá Reykjanestá um Þingvallasveit og norður í Langjökul. Esjan myndaðist vestan til í gosbeltinu og hefur mjakast í takt við rekhraðann í átt til vesturs. Elsti hluti Esjunnar að vestanverðu er 2,8 milljóna ára gamall og hefur því ferðast tæplega 30 km frá Þingvöllum. Einn yngsti hluti fjallsins er Móskarðshnúkar, um 1,8 milljóna ára gamlir, en þá hefur rekið um 18 km frá gosbeltinu í Þingvallavatni.
Á sama tíma og landið rak til vesturs hélt gosvirknin áfram inni í sjálfu gosbeltinu á flekamótunum. Vestan við gosbeltið er röð af megineldstöðvum sem hafa myndast í því. Fyrst er að telja eldstöðvar í Hafnarfjalli og Skarðsheiði en þær voru virkar fyrir um 4,5 milljónum ára. Hvalfjarðareldstöðin aðeins austar tók svo við fyrir um 3 milljónum ára. Smám saman dó virknin þar út og Kjalarneseldstöðin tók við og átti stóran þátt í myndun Esjunnar. Kjalarneseldstöðin var virk í um hálfa milljón ár þar til landrekið olli því að virknin dofnaði. Stardalseldstöðin tók því næst við og Hengillinn með háhitasyæði allt um kring er megineldstöð í gosbeltinu í dag.
Esjan – Kistufell.
Esjan myndaðist í rauninni við stöðuga eldvirkni í um milljón ár fyrir 2 til 3 milljónum ára. Mótunin var hins vegar langt frá því að vera lokið fyrir um tveimur milljónum ára. Jökulskeið koma á um 100.000 ára fresti og áttu eftir að marka landslagið með ýmsum hætti. Allra stærstu jöklarnir skófu út Hvalfjörðinn, sundin og fjalllendið á höfuðborgarsvæðinu. Minni jöklar skófu ofan af sjálfu fjallinu og minnstu jöklarnir skófu út dali í fjallið eins og verið væri að taka með óskipulögðum hætti tertusneiðar af stórri lagköku.
Esjan – gönguleiðir.
Ingvar Birgir segir að til að einfalda jarðsöguna líki hann mótun Esjunnar stundum við æviskeið konu um sjötugt. „Barnvöxtinn tekur hún út á Kjalarnesi, um fermingu gengur yfir merkilegt vaxtarskeið með kvikuhlaupum og háhitavirkni í Skrauthólum og Þverfelli. Hátindi líkamlegs þroska nær hún liðlega tvítug með myndun Móskarðshnúka en þá er hún bústin og heit. Æskublóminn fer því næst að dvína, holdin tálgast utan af henni hér og þar, þó háhitavirknin í Stardalsöskjunni endist nokkuð lengi. Hún eldist illa og varta sprettur út úr henni á Mosfelli um sextugt. Önnur sprettur svo upp í Sandfelli í Kjós nokkrum árum síðar.“
Spennandi gönguleiðir
Eins og áður segir hefjast Esjugöngur gjarnan við Mógilsá. Ingvar Birgir segir ágætt að meginstraumurinn fari þar um. „Þarna hefur verið komið til móts við almenning með ágætis bílastæði og stigum yfir girðingar landeiganda á leiðinni upp á Þverfellshorn. Göngugarpar taka gjarnan eftir hvítu bergi í sprungum í gilinu og upp með Mógilsánni. Hvíta bergið er kalk og þarna var kalk tekið í fyrstu sementsgerðina á Íslandi. Kalkið var flutt á bátum yfir til borgarinnar og heitir Kalkofnsvegur, þar sem Seðlabankinn og bílageymslan undir honum eru nú, eftir kalkgerðinni. Eins hafa niðurstöður rannsókna gefið til kynna að þarna sé að finna vott af gulli og er í björtu veðri hægt að sjá glampa á steina í fjallinu. Þar glittir hins vegar því miður aðallega í glópagull.
Esja – óhefðbundin gönguleið.
Gangan tekur dálítið á en er nánast öllum fær langleiðina upp á Þverfellshorn eða þangað til komið er að klettabelti síðustu 20 til 30 m. Lofthræddum gæti orðið um og ó og vafalaust væri til bóta að setja þarna upp reipi til stuðnings eða einfaldlega fyrir lofthrædda að vita af.“
Hins vegar segist Ingvar Birgir undrast að sumir skuli hafa áhuga á því að fara sömu gönguleiðina oft og jafnvel mörgum sinnum í hverjum mánuði. „Af Þverfellshorni er frábært útsýni yfir Sundin og yfir Reykjanesið. Aftur á móti þarf að ganga töluvert langa leið uppi á sjálfu fjallinu til að njóta útsýnisins til norðurs.
Esja – Þverfellshorn.
Að fara hjá Skrauthólum upp á Kerhólakamb eða fjalllendið þar fyrir vestan gefur mun víðari sjóndeildarhring. Eins er hægt að fara upp á Móskarðshnúka til að sjá yfir höfuðborgarsvæðið, suðurfyrir og austur í gosbeltið á Þingvöllum, Kjósina og norður um allt. Löngu er orðið tímabært að varða þarna fleiri gönguleiðir fyrir göngufúsa.“
Aðrir eiga eflaust eftir að halda áfram að skeiða sömu leið upp á Þverfellshorn.
Esja – Þverfellshorn.
„Kunningi minn er einn af þeim,“ segir Ingvar Birgir og gefur til kynna að kunninginn hafi reynt að útskýra fyrir honum hvað lægi að baki atferlinu. „Hann sagðist hafa farið í World Class og hamast þar í svitaskýi frá sér og öðrum áður fyrr. Á meðan hann nyti líkamsræktarinnar einn í Esjunni þyrfti hann hins vegar aðeins að þola svitalyktina af sjálfum sér. Hann andaði að sér fersku útilofti og nyti fegurðarinnar í umhverfinu. Síðast en ekki síst þyrfti hann ekki að velta því fyrir sér hvaða stefnu bæri að taka heldur skeiða einfaldlega ósjálfrátt upp sömu leið eins og af gömlum vana.“
Flestar gerðir gosbergs
Ekki er að undra að Esjan sé talsvert notuð í kennslu því þar er að finna flestar gerðir íslensks gosbergs. „Ísland er að 90 hundraðshlutum basalt og því er efniviðurinn nánast allur sá sami. Lögun og ásýnd fer einfaldlega eftir því við hvaða aðstæður gosin hafa orðið. Ef gos verður á þurru landi myndast gígaröð og hraunið rennur í nokkra metra þunnu lagi yfir stórt svæði eins og til dæmis í Heiðmörk eða kringum Reykjavík. Ef gosið verður á hinn bóginn í sjó, stöðuvatni eða undir jökli verða mun meiri átök. Glóandi kvikan, hátt í 1.200 gráðu heit, snarkólnar og veldur gufusprengingu. Basaltblandan þeytist í háaloft, rignir aftur niður á jörðina og myndar hrúgur. Gott dæmi um hvort tveggja er þegar Surtsey myndaðist. Eftir að Surtsey var orðin svo há að sjórinn náði ekki lengur inn í gíginn hvarf feikimikill gufustrókur og basaltkvika með nákvæmlega sömu samsetningu fór allt í einu að mynda þunnt hraunlag,“ útskýrir Ingvar Birgir.
Gengið á Esjuna.
Hann rifjar upp að á milljón ára myndunarskeiði Esjunnar hafi gengið yfir um 10 jökulskeið. „Gosin urðu því gjarnan undir jökli og mynduðu stóra móbergshrauka eins og við sáum beinlínis í sjónvarpinu þegar gaus í Vatnajökli fyrir tveimur árum. Á hlýskeiðum hörfuðu jöklarnir og eftir stóðu fallega mynduð móbergsfjöll. Ef gos urðu á hlýskeiðum tóku við hraunlög og eftir því sem hlýskeiðin voru lengri og gosvirknin meiri grófst meira og meira af móberginu undir hraunlög. Með þversniði af Esjunni væri því auðveldlega hægt að greina heilu móbergsfjöllin inni í sjálfu fjallinu. Móbergið gefur Esjunni sérstakan blæ og ekki síst vestast. Þar hefur bergið orðið fyrir áhrifum frá feikilega stórum kvikuþróm frá tímum Kjalarneseldstöðvarinnar. Kvikuþrærnar teygðu sig upp og hituðu bergið í efstu lögum jarðskorpunnar. Bergið er mestmegnis úr gleri og svo viðkvæmt að við 100 til 200 gráðu hita fara sum efnanna að leysast upp og bergið fær á sig ljósan blæ.
Þegar Þórbergur kvað „Esjan er yndisfögur utan úr Reykjavík. Hún ljómar sem litfríð stúlka í ljósgrænni sumarflík,“ er hann að lýsa ljósu skriðunum þarna.“
Ingvar Birgir segir fróðlegt að líta upp í hlíðarnar í vestanverðri Esjunni. „Athyglisvert er að sjá hvernig dökk hraunlögin liggja neðan og ofan við móbergið.
Í Esju.
Ef vel er að gáð sést sumstaðar hvernig jarðhitasprungur ná upp í gegnum móbergið og hraunlögin þar fyrir ofan. Hraunlögin eru þéttari fyrir og hafa því ekki ummyndast eins og móbergið. Fjallið er ekki heldur frítt við líparít. Líparítið kom upp í gosi í hringlaga sprungu utan við Stardalsöskjuna fyrir um 2 milljónum ára. Hringsprungan sker Þverárkotsháls, fer um suðurhlíðar Móskarðshnúka, klórar utan í Skálafell og aðeins í hæðina Múla fyrir austan Stapa. Oftar en einu sinni hefur gosið í hringsprungunni og ágætt er að sjá hvað kom út úr gosunum í Móskarðshnúkum. Ekki verður heldur undan skilið að stórir líparítgangar fara í gegnum Þverárdal, yfir Grafardal og ná langleiðina upp á hátind Esjunnar“, segir hann og tekur fram að hægt sé að sjá líparítið langar leiðir. „Oft finnst fólki að sólskin sé austast í Esjunni af því að Móskarðshnúkarnir eru svo ljósir.“
Ágæt dæmi um innskotsberg eru að sögn Ingvars Birgis í Þverfelli í Esjunni og á Músarnesi á Kjalarnesi.
Kjalarnes.
Á Músarnesi, hinu eiginlega Kjalarnesi, séu skemmtilegar gönguleiðir við allra hæfi. „Ekið er að Brautarholti á Kjalarnesi og falast eftir leyfi landeiganda að fara niður í fjöruna þar. Mjög skemmtileg fjara er norðanmegin Músarnessins og gaman að ganga um klettaborgirnar. Eins er hægt að skoða Presthúsatanga á austanverðu Kjalarnesinu.
Skemmtileg ganga er frá Skrauthólum og upp á Kerhólakamb í vestanverðu fjallinu. Önnur skemmtileg ganga er frá Skeggjastöðum inn í hjarta Stardalseldstöðvarinnar í farvegi Leirvog inn að Tröllafossi. Auðvelt er að greina móberg sem myndaðist í öskjuvatni Stardalsöskjunnar og sjá hvernig hraunlögin undir móberginu halla inn að öskjumiðjunni. Svo hefur kvika troðið sér inn í móbergið og myndað grófkornótt innskot.
Fyrir þá sem ekki eru mjög uppteknir af jarðfræðinni getur verið gaman að sjá þarna hrafhslaup með ungum og tilheyrandi á sumrin,“ segir Ingvar Birgir og bætir því við að til að sjá enn meiri fjölbreytileika í landslagi sé gaman að halda áfram fram hjá Hrafnahólum. „Inn eftir Þverárdal er hægt að keyra hvaða bíl sem er að Skarðsá og þaðan er hægt að ganga upp í stórt innskot sem heitir Gráhnúkur og virða fyrir sér fallegt stuðlaberg. Á
Skarðsá.
fram er svo hægt að ganga upp á gígtappann Bláhnúk og alla leið upp á Móskarðshnúka.“ „Önnur auðveld leið er með gamla þjóðveginum upp í Svínaskarð. Efst úr Svínaskarði er svo auðvelt að ganga á austasta Móskarðshnúkinn. Þaðan er frábært útsýni til suðurs, austurs og norðurs. Stardalshnúkur er svo í sérstöku uppáhaldi hjá klifrurum. Þarna er einna fallegast innskot á vestanverðu landinu. Bergið er fallega stuðlað og svo grófkristallað að þarna eru góðar festur fyrir þá sem stunda fjallaklifur með reipum.“
Spurningum ósvarað
Eins og áður segir er Ingvar Birgir skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og fram kemur að doktorsverkefnið hafi á sínum tíma tengst jarðhita. „Ein aðalástæðan fyrir því hversu nákvæmlega ég rannsakaði fjallið var að ég hafði áhuga á að vita meira um í gegnum hvaða jarðlög verið væri að bora eftir heitu vatni i þéttbýlinu hér sunnanlands. Eini munurinn á jarðlögunum í Esjunni og í borholum eftir heitu vatni fyrir Reykvíkinga, Seltirninga og íbúa í Mosfellssveit er að hægt er að sjá jarðlögin í fjallinu með berum augum í giljum og klettaveggjum en jarðlögin í holunum koma aðeins upp í svarfi. Að mörgu leyti er því hægt að skilja betur eðli jarðhitans á höfuðborgarsvæðinu með því að skoða Esjuna.“
Gengið á Esjuna.
Ingvar Birgir segir að þó hann haldi að með rannsóknum sínum hafi hann getað dregið fram helstu einkenni í myndunarsögu fjallsins sé enn mörgum spurningum ósvarað. „Eftir að styrkari stoðum hefur verið rennt undir framhaldsnám í jarðfræði við Háskóla íslands er ekki ólíklegt að fleiri fari að rannsaka jarðlög í megineldstöðvum eins og í Esjunni. Ný greiningartækni er spennandi kostur og gefur ítarlegri upplýsingar en hægt var að nálgast á áttunda áratugnum.“
Heimild:
-Morgunblaðið, sunnudagur 20. september 1998, bls. 22-23.
Í Viðey er eitt elsta berg höfuðborgarsvæðisins. Viðey er liggur á hluta megineldstöðvar sem var virk fyrir um tveimur til þremur milljónum ára og er hún ýmist kennd við Kjalarnes eða Viðey. Þessi eldstöð var virk í um eina milljón ára og var umfangsmikil á sínum líftíma. Kjarni hennar var að mestu rofinn af ísaldarjöklum og er nú komin undir sjó og yngri jarðlög. Á nokkrum stöðum er þó hægt að greina leifar eldstöðvarinnar á yfirborði, svo sem í Gufunesi, við Vatnagarða og yst á Kjalarnesi. Mestu ummerkin eru hinsvegar í sunnanverðri Viðey.
Krýsuvík – höfuðból og fjórtán hjáleigur
Árið 1989 ritaði Ólafur E. Einarsson eftirfarandi grein í Dagblaðið-Vísir undir fyrirsögninni „Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess„. Tveimur árum áður (7. mars, bls. 4-6) hafði hann ritað grein í Lesbók Morgunblaðsins um sama efni.
Krýsuvíkurkirkja fyrir 1810 sett inn í nútímamynd af aðstæðum.
„Svo segir í fornum ritum að Grindavík eða Grindavíkursókn takmarkist að vestanverðu af Valahnúk á Reykjanesi, sem aðskilur bæði land og reka Hafna og Grindavíkur, en að austanverðu af Selatöngum, stuttum tanga í sjó fram vestan við Krýsuvíkurberg. Á Selatöngum er klettur nokkur, bergdrangur kallaður Dagon, sem er bæði landa- og rekamörk Grindavíkur og Krýsuvíkur að austanverðu. Þótt ofangreind landamerkjalýsing sé tekin úr riti síra Geirs Bachmanns frá 1840 veit ég ekki betur en að landamerki Grindavíkur að austanverðu séu þar sem jarðirnar Krýsuvík og Herdísarvík mætast, og þótt Hafnarfjarðarbær hafi á árunum um 1930 fest kaup á Krýsuvík tilheyrir hún landfræðilega Grindavík eftir sem áður.
Gestsstaðir í Krýsuvík, sunnan Gestsstaðavatns – skáli.
Í embættisbókum Gullbringusýslu er landamerkjum Krýsuvíkur lýst þannig: „Maríukirkja í Krýsuvík í Gullbringusýslu á samkvæmt máldögum og öðrum skilríkjum heimaland allt, jörðina Herdísarvík í Árnessýslu og ítök, er síðar greina.
Landamerki Krýsuvíkur eru: 1. Að vestan: Sjónhending úr Dagon (Raufarkletti), sem er klettur við flæðarmál á Selatöngum í Trölladyngjufjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall norðanvert í Vesturhálsi, þaðan bein stefna í Markhelluhól, háan steindrang við Búðarvatnssvæði. 2. Að norðan: Úr Markhelluhól, sjónhending norðanvert við Fjallið eina, í Melrakkagil (Markrakkagil) í Undirhlíðum og þaðan sama sjónhending að vesturmörkum Herdísarvíkur, eða sýslumörkum Gullbringu- og Árnessýslu.
Krýsuvíkurkirkja 1940 – Sigríður Hansen Guðmundsdóttir.
3. Að austan: Samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, sjónhending úr Kóngsfelli, sem er lág, mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg, á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hamarfjarðar, örskammt frá veginum í Seljabótarnef, klett við sjó fram. 4. Að sunnan: nær landið allt að sjó.“
Ummál og takmörk
Þessu næst eru talin ítök þau sem kirkjan á og loks „ítök sem aðrir eiga í landi kirkjunnar“. Í jarðabók sinni geta þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín þess að ágreiningur nokkur sé um landamerki milli Krýsuvíkur og ísólfsskála en ekki skýra þeir neitt frá því um hvað sá ágreiningur sé.
Báðar þessar jarðir eru þá (1703) í eigu dómkirkjunnar í Skálholti. Í máldögum og öðrum skjölum, sem rituð eru löngu fyrir daga þeirra Páls og Árna, er svo sagt að hraundrangurinn eða kletturinn Dagon (Raufarklettur) sé landamerki og þá auðvitað fjörumerki millum jarða þessara. En hitt mun lengi hafa orkað tvímælis hvor af tveim brimsorfnum hraundröngum sem standa í flæðarmáli á Selatöngum, sé Dagon. Og enn eru eigi full 50 ár liðin (árið 1897) síðan þras varð. nokkurt og málaferii risu út af því hvor þessara tveggja kletta væri Dagon. Um þetta mál sýndist sitt hverjum og mun svo enn vera. Vísast um þetta mál í bækur GuUbringusýslu.
Selatangar – kort danska herforingjaráðsins.
Á korti herforingjaráðsins danska er Dagon sýndur mjög greinilega en hér þarf að hafa í huga – eins og raunar víða annars staðar – hversu öruggar heimildir þeirra mælingamannanna hafi verið. Bilið milli þeirra tveggja hraundranga eða fjöruræma, sem deilurnar hafa verið um, mun eigi lengra en það að meðalstóran hval getur fest þar.
Ummál Krýsuvíkurlandareignar er milli 60 og 70 km en flatarmálið eitthvað á þriðja hundrað ferkílómetrar. Segja má að takmörk þessa svæðis séu: Ögmundarhrauh að vestan, Sveifluháls að norðvestan, Kleifarvatn að norðan, gróðurlitlar hæðir og melásar að norðaustan og svo Geitahlíð, Eldborg og Krýsuvíkurhraun að austan en bjargið og hafið að sunnan.
Eystri-Bergsendi – útsýni til vesturs.
Þessi óbrunna landspilda er nálega 6 km breið syðst, eða sem svarar allri lengd Krýsuvíkurbergs frá Ytri-Bergsenda til hins eystri, en mjókkar svo jafnt og þétt allt norður að Kleifarvatni og verður þar ekki breiðari en suðurendi vatnsins, 1-2 kflómetrar.
En frá bjargbrún og inn að Kleifarvatni eru um 9 kílómetrar. Geta mætti þess til að valllendið og mýrarnar á þessu svæði mundi vera um 19 ferkílómetrar.
Kennileiti
Ýmis fell og hæðir rísa upp úr sléttlendi þessu, svo sem Lambafellin bæði sem aðskilja Vesturengi og Austurengi. Bæjarfeflið norðan við Krýsuvíkurbæinn og Arnarfell suður af bænum eru bæði móbergsfjöll. Nokkru sunnar er hálsdrag eitt er liggur austur af Fitjatúninu, eru þar vestastir móbergstindarnir Strákar, þá Selalda, Selhóll og Trygghólar austastir. – Það er talinn hádegisstaður frá Krýsuvík, þar sem mætast rætur eystri Trygghólsins og jafnsléttan austur af honum.
Krýsuvíkurberg – Skriða.
Suður af Selöldu og fremst á brún Krýsuvíkurbjargs er hæð sú er Skriða heitir. Mun þar vera hinn eini staður í berginu sem nokkurs móbergs gætir. En vestanvert við hæð þessa er basaltlag, eitt eða fleiri, efst í bjai^bníninni, skagar það lengra fram en móbergjð (af skiljanlegum ástæðum), svo að loftsig er aUa leið niður í urðina þar neðan undir. Er þar einn hinna fáu, fremur smáu staða á allri strandlengju Krýsuvíkur sem vænta má að nokkuð reki á fjörurnar. Framan í Skriðunni er Ræningjastígur (hans er getið í þjóðsögum J.Á. og e.t.v. víðar). Stígur þessi er gangur einn sem myndast hefur í móberginu og liggur skáhallt ofan af bjargbrún og niður í flæðarmál.
Ræningjastígur hefur verið fær til skamms tírna en nú er sagt að svo mikið sé hrunið úr honum á einum stað að hann muni lítt fær eða ekki. Krýsuvík með hjáleigum sínum öllum hefur um langan aldur verið sérstök kirkjusókn og mun kirkja jafnari hafa haldist þar frá ómunatíð þar til nú fyrir fáeinum árum, nokkru fyrr en Hafnarfjarðarbær keypti Krýsuvíkurtorfuna, að kirkjan var lögð niður. Líklegt má telja að það hafi gerst í kaþólskum sið að Krýsuvíkurkirkja eignaðist jörðina Herdísarvík í Árnessýslu.
Krýsuvíkurkirkja 1861-1970.
En eftir að kirkjan í Krýsuvík var lögð niður var ekkert því til fyrirstöðu að jarðirnar yrðu aðskildar eignir enda er nú svo komið. Herdísarvík hefur jafnan talist til Selvogshrepps og fólk þaðan átt kirkjusókn að Strandarkirkju. Sé Stóri-Nýibær talinn tvíbýlisjörð, eins og oftast mun verið hafa fram undir síðastiiðin aldamót, og því ennfremur trúað að einhvern tíma hafi verið byggð á Kaldrana, verða hjáleigur Krýsuvíkur 14 að tölu, þær sem menn vita nú um að byggðar hafi verið.
Heita þær svo: Stóir-Nýibær (austurbærinn), Stóri-Nýibær (vesturbærinn), Litli-Nýibær, Norðurkot, Suðurkot, Lækur, Snorrakot, Hnaus, Arnarfell, Fitjar, Gestsstaðir, Vigdísarstaðir, [B]Hali, Kaldrani.
Óvíst er og jafnvel ekki óklegt að hjáleigur þessar hafi á nokkrum tíma yerið allar í byggð samtímis. Þeir Arni Magnússon og Páll lögmaður Vídalín nefna Norðurhjáleigu og Suðurhjáleigu og má telja vafalítíð að það séu sömu hjáleigurnar og nú kallast Norðurkot og Suðurkot. Einnig nefna þeir Austurhús og Vesturhús og er hugsanlegt að Austurhús hafi verið þar sem nú er Lækur, en engum getum skal að því leitt hér hvar Vesturhús hafi verið.
Heimajörðin sjálf og allar hjáleigurnar, nema Vigdísarvellir og Bali, eru í daglegu tali kallað Krýsuvíkurhverfi, en þessar tvær hjáleigur eru suðaustan undir Núpshlíðarhálsi, sem oft er nefndur Vesturháls, og skilur Sveifluháls þær frá Aðalhverfinu.
En þar um slóðir er Sveifluháls einatt kallaður Austurháls eða „Hálsinn“. í Jarðabók sinni telja þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín að árið 1703 hafi 7 af hjáleigunum verið byggðar og er þá tvíbýli í Stóra-Nýjabæ. Þá geta þeir og þess, að Krýsuvíkin sé eign dómkirkjunnar í Skálholti og að kirkjan í Krýsuvík sé annexía frá Selvogsþingum. Telja þeir að 41 sála sé í söfnuðinum. En þess má geta hér að um miðbik 19. aldar voru um 70 manns í Krýsuvíkursókn. Ef treysta má því að þeim PáU og Árna hafi verið rétt skýrt frá sauðfjáreign þeirra Krýsvíkinganna, hefur hún verið næsta lítilfjörleg á slíkri afbragðs hagagöngujörð.
Hrossafjöldi er og af mjög skornum skammti en mjólkurkýr telja þeir vera 22. Sem hlunnindi telja þeir fuglatekju og eggver, einnig nefna þeir sölvafjöru og sé „sérhverjum hjáleigumanni takmarkað pláss til sölvatekju“. Þá geta þeir þess að á Selatöngum sé útræði fyrir hverfisbúa, „en lending þar þó merkilega slæm“. En þrátt fyrir þessa „merkilega slæmu“ lendingu mun þó útræði á Selatöngum hafa haldist fram um 1870, a.m.k. alltaf öðru hverju. Til er gömul þula þar sem taldir eru með nöfnum vermenn á Selatöngum og er þetta upphaf: „Tuttugu og þrjá Jóna telja má,“ o.s.frv. Þulan endar svona: „ Á Selatöngum sjóróðramenn, sjálfur guð annist þá“.
Gróður og nytjar
Krýsuvík 1936. Ljósm. Ásgeir L. Jónsson.
Ekki munu aðrar hjáleigur en þær sex sem hér eru fyrst taldar hafa átt rétt til fuglatekju í bjarginu og þó aðeins íþeim hluta þess sem kaUaður er Kotaberg. Er það miðhluti bjargsins, austan heimabergsins en vestan Strandarbergs. Þó leyfðist hverri hjáleigu ekki að taka fleiri egg en 150 pg ekki að veiða meir en 300 fugla (svartfugl, álku og lunda).
Ekki fylgdu heldur neinar engjar öðrum hjáleigum en þessum sex og hafði hver þeirra nokkrar skákir, ýmist á Vesturengjum eða Austurengjum.
Á flestum þessara 6 býla mátti fóðra tvær kýr, hesta eftir þörfum og um sauðfjáreign munu engin ákvæði hafa verið né þótt þurfa. Þegar Nýjulöndin (hið innra og fremra) lágu ekki undir vatni úr Kleifarvatni áttu og þessar sex hjáleigur (en ekki aðrar) tilkall til heyskapar þar. Átti þar höfuðbólið helming en hver hjáleiga tólfta hluta. Á góðu grasári gat hver hjáleiga fengið í sinn hlut af hvoru Nýjalandi um 50 hestburði af nautgæfu heyi. Vigdísarvellir og Bali höfðu sínar eigin engjar og nærtækar. Er og um nokkuð langan veg og einkar torsóttan að sækja þaðan á Krýsuvíkurengjar. Langt mun nú síðan Gestsstaðir voru byggðir en vel má það vera að ábúandinn þar hafi átt útslægjur bæði í Rauðhólsmýri og Hveradölum.
Árni Magnússson getur þessarar hjáleigu í handriti þeirra Páls lögmanns, en lauslega nokkuð. Snorrakot og Hnaus hafa verið smábýli ein, eða næstum því tómthús. Hið svokallaða Snorrakotstún er aðeins horn af Norðurkotstúni og skilur smálækur einn túnin. Getur horn þetta vart gefið meira af sér en 3 til 4 töðukapla þegar best lætur. Á Arnarfelli mun hafa verið búið fram um eða fram yfir 1870 en túnið þar var jafnan slegið frá höfuðbólinu fram undir 1890 og þá er túnið í rækt. Var talið að það gæfi af sér eitt kýrfóður. Má og vel vera að ábúandi Arnarfells hafi fengið leyfi til að heyja eitthvað á mýrum þeim sem kringum fellið eru (Stekkjarmýri, Bleiksmýri og Kúabletti). Á Fitjum voru nokkuð stæðilegar bæjartóftir fram yfir síðustu aldamót, þar var og safngryfja sem óvíða sáust merki til annars staðar í hverfinu. Túnstæði er nokkuð vítt á Fitjum og útslægjur hefði mátt hafa þaðan á Efri-Fitjum, á Lundatorfu eða í Selbrekkum. Eigi var og heldur heybandsvegur þaðan á Trygghólamýrina.
Minjar á Austurengjum.
Utan þessa svæðis, sem hér er nefnt, má telja til gróðurlendis hina svonefndu Klofhinga í Krýsuvíkurhrauni, þar er sauðfjárbeit góð. Þá er Fjárskjólshraun sunnan í Geitahlíð austarlega, og hólmarnir tveir í Ögmundarhrauni, þeir Húshólmi og Óbrennishólmi. Er á öUum þessum stöðum lynggróður og dálítið kjarr, sprottið upp úr gömlum hraunum. Þá eru hjáleigurnar tvær austan við Núpshlíðarháls, Vigdísarvellir og Bali, með túnstæðum sínum og mýrarskikum í nágrenninu, og svo að lokum „Dalirnir“ og valllendisflatirnar fyrir Kleifarvatn ásamt grasbrekkum nokkrum sem ganga þar upp í hlíðarnar.
Strandlengja landareignarinnar frá Dagon á Selatöngum og austur í sýslumörk á Seljabót er 15-16 kílómetrar. Frá Dagon og á austurjaðar Ögmundarhrauns eru 5-6 km, er það óslitin hraunbreiða allt í sæ fram, að undantekinni Húshólmafjöru sem vart er lengri en 300-400 metrar.
Austan Ögmundarhrauns tekur við þverhnípt bjargið (Krýsuvíkurberg) og er það talið þrítugt eða fertugt að faðmatali. Ekki er ólíklegt að þessi áætlun um hæð bjargsins sé nokkuð rífleg, því á korti herforingjaráðsins eru sýndar tvær hæðarmælingar á bjargbrúninni og er önnur 33 en hin 36 metrar. Ef til vill gæti það átt við hér, það sem Páll Ólafsson kvað forðum: „Þeir ljúga báðir – held ég megi segja.“ Fyrir austan Eystri-Bergsenda tekur við Krýsuvíkurhraunið, allt austur á Seljabót, og þar fyrir austan Herdísarvíkurhraun. En þá er komið austur fyrir sýslumörk og skal því staðar numið í þá átt.“
Lækur í krýsuvík.
Snorrakot í Krýsuvík.
Norðurkot í Krýsuvík.
Heimild:
-Dagblaðið-Vísir, 31. júlí 1989, Ólafur E. Einarsson, Höfuðbólið Krýsuvík og fjórtán hjáleigur þess, bls. 18.
-Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.
Yfirlit um jarðfræði Reykjanesskaga – í ljósi nýjustu tíðinda
Magnús og Kristján Sæmundsson jarðfræðingur skrifuðu ítarlegan kafla um Reykjanesskagann og eldvirkni þar í ritið Náttúruvá á Íslandi ; „Eldgos og jarðskjálftar„:
Reykjanesskagi – jarðfræðikort ÍSOR – https://arcgisserver.isor.is/?lon=-18.44452&lat=64.98592&zoom=7&layers%5B%5D=satellite
Í kaflanum fjalla þeir um eldstöðvakerfin frá Hengilskerfinu í norðaustri og suður og vestur um að Brennisteinsfjallakerfinu, Krýsuvíkurkerfinu, Fagradalsfjallskerfinu, Svartsengiskerfinu og Reykjaneskerfinu.
Eldgosahrinur með hléum
„Síðast byrjaði goshrina þarna austast og færðist í vestur,“ sagði Magnús um elda á Reykjanesi á 13. öld. Vísbendingar eru um að gosskeiðið hafi byrjað með eldum í Brennisteinsfjöllum og á Trölladyngjurein Krýsuvíkurkerfisins laust fyrir árið 800 . Eftir þá hrinu kom um 150 ára hlé þar til eldvirkni tók sig upp aftur í Brennisteinsfjallakerfinu á 10. öld. Þar á eftir fylgdi Krýsuvíkurkerfið á 12. öld. Að síðustu komu vestustu kerfi Reykjanesskagans á 13. öld eftir um 30 ára goshlé. Þessum eldum lauk um árið 1240, eða fyrir um 780 árum.
Gígar Stampahrauns á Reykjanesi.
Goshrinur hafa komið
Magnús benti á að þetta hefði átt við um síðustu elda en ekki væri vitað nákvæmlega um ferli í fyrri hrinum, t.d. fyrir 2-3 þúsund árum. Hann sagði erfitt að segja fyrir um það nú hvernig atburðarásin með landrisi og jarðskjálftum við Þorbjörn myndi enda.
Eldgos ofan Grindavíkur 2023.
Miðað við sögu Reykjanesskaga og síðustu goshrinur þar mætti segja að það gæti verið að koma tími á viðvarandi jarðelda á svæðinu. „Þetta er eiginlega alveg ný reynsla, má segja. Þetta sést fyrst og fremst vegna þessara nákvæmu mæla sem komnir eru,“ sagði Magnús. Hann sagði að svipuð atburðarás og er nú gæti vel hafa orðið fyrir einhverjum áratugum eða árhundruðum án þess að hennar hafi orðið vart. Jarðhræringarnar og landrisið nú er á svæði sem tilheyrir Svartsengiskerfinu. Engin merki eru um að eldvirkni þar hafi náð út í sjó, eins og sums staðar annars staðar á Reykjanesskaganum. Ekki er útilokað að það geti þó gerst, að sögn Magnúsar. Svartsengiskerfið er um sjö km breitt og allt að 30 km langt. Gosstöðvar eru á syðstu 17 km. Kæmu upp jarðeldar gæti hraunkvika mögulega farið eftir sprungum og komið upp fjarri sjálfri gosstöð inni. Sprungur ná langt í norðaustur frá Svartsengi. „Gosvirknin er bundin við suðurpartinn. Það gildir líka um Reykjaneskerfið og Krýsuvík,“ sagði Magnús.
Síðasta eldgosahrina á 13. öld
Nokkur hraun runnu í Reykjaneseldum á tímabilinu frá 1211 til 1240. Vestast er Eldvarpahraun. Þar fyrir austan er Illahraun. Orkuverið í Svartsengi stendur á því og Bláa lónið er við norðurjaðar þess. Arnarseturshraun er norðaustast af þessum þremur hraunum. Talið er að það hafi runnið síðast af þeim. Arnarseturshraun og Illahraun runnu bæði inn á Eldvarpahraunið.
Arnarsetur.
Grindavíkurvegurinn liggur að hluta í gegnum Arnarseturshraunið. Rannsóknir sýna að eldar á Reykjanesskaga geta staðið í nokkra áratugi eða lengur, með hléum. Þeir eru nokkuð svipaðir og Kröflueldar voru. Magnús sagði að eldarnir í Krýsuvík þegar Ögmundarhraun rann virtust hafa staðið í 2-3 áratugi. Svipuð atburðarás hefði orðið í Brennisteinsfjöllum á 10. öld þegar gaus á þó nokkrum stöðum þar. Samkvæmt mælingum er landrisið á Svartsengissvæðinu vestan við fjallið Þorbjörn og ekki mjög langt frá Eldvarpagossprungunni. Magnús sagði ómögulegt að fullyrða um framhaldið. Líklegast væri að þetta hjaðnaði en tæki sig síðan mögulega upp aftur í framtíðinni.
Virðist vera fremur lítil kvika
Áætlað er að Arnarseturshraun sé um 0,3 rúmkílómetrar að rúmmáli. Samkvæmt frétt Veðurstofu Íslands 26. janúar var áætlað samkvæmt grófu mati að rúmmál kvikusöfnunarinnar hefði verið um ein milljón rúmmetra eða 0,001 rúmkílómetri. Það er 1/300 af rúmmáli Arnarseturshrauns. Ef þessi kvika nær til yfirborðs og ekki verður meira aðstreymi kviku verður um lítið gos að ræða, að sögn Magnúsar. Hann sagði talið að kvikan væri á um þriggja til fjögurra km dýpi.
Þorbjarnarfell og Baðsvellir. Selháls lengst t.v.
Jarðskjálftar og landris í grennd við fjallið Þorbjörn upp af Grindavík hafa sett menn í viðbragðsstöðu gagnvart eldsumbrotum þar í grennd. Af þeim sökum hafa menn líka rýnt í jarðfræðileg gögn og gamlar frásagnir af eldgosum á þessum slóðum.
Yngsta goshrinan, Reykjaneseldar, gekk yfir á árabilinu 1210-1240, það er fyrir um 800 árum. Þá urðu neðansjávargos úti fyrir Reykjanesi og hraun runnu á landi bæði á Reykjanesi og við Svartsengi. Eitt þessara hrauna var Eldvarpahraun vestan Grindavíkur. Gígaröðin, Eldvörpin, er um 8 km löng og nær alveg suður að ströndinni við Staðarberg og þar rann hraun í sjó.
Á fjölgeisla dýptarmælingum, sem Landhelgisgæslan hefur aflað með sjómælingaskipinu Baldri og látið ÍSOR í té til frekari úrvinnslu, sést að hraunið hefur ekki numið staðar við ströndina heldur hefur það runnið langa leið neðansjávar og myndar þar fallegar tungur úr úfnu hrauni. Lengst nær það um 2,7 km út frá strönd og er þar komið niður á um 90 m dýpi. Hugsanlegt er að gossprungan teygi sig líka út fyrir ströndina og að þarna hafi einnig gosið í sjó. Flatarmál hraunsins á sjávarbotni er um 3,4 km2. Hraun af þessu tagi er engan veginn einsdæmi.
Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.
Hópsnesið hjá Grindavík er hluti af hrauni sem runnið hefur niður að strönd og myndað allmikinn tanga út í sjó. Það er um 8000 ára gamalt. Á myndum má sjá að það teygir sig áfram neðansjávar og myndar hrauntungu sem nær niður á um 100 m dýpi.
Á dýptarmælingum sem aflað hefur verið á Reykjaneshrygg og Kolbeinseyjarhrygg sést að hraun geta runnið á hafsbotni frá gígum og gossprungum á allmiklu dýpi. Talið er að þetta séu svokölluð bólstrabergshraun eða bólstrabreiður.
Til þess að hraun geti runnið með þessum hætti þurfa þau að verja sig gegn sjávarkælingu. Þau virðast mynda einangrandi kápu úr gjalli og storknuðu bergi um leið og þau streyma fram. Ljóst er að hraunrennslið þarf að vera mikið og stöðugt til að hrauntunga nái að myndast á sjávarbotni. Við slíkar aðstæður myndi vera illgerlegt að stöðva hraunrennsli með sjókælingu.
Heimildir:
-http://isor.is/frettir/yfirlit-um-jardfraedi-reykjanesskaga
-http://isor.is/frettir/nedansjavarhraun-vid-grindavik-sogulegt
Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.
Búrfellshraun – aldur I
Guðmundur Kjartansson ritaði grein í 4. tbl. Náttúrufræðingsins árið 1973 um „Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð„:
„Skilgreining og nafngift.
Hafnarfjarðarkaupstaður stendur hálfur á jökulsorfinni grágrýtisklöpp, hinn helmingurinn í úfnu hrauni. Lækurinn, sem fyrrum hét fullu nafni Hamarskotslækur, en nú oftast Hafnarfjarðarlækur, fylgir nákvæmlega mörkum þessara jarðmyndana. Að hafnfirskri málvenju er grágrýtissvæðið „fyrir sunnan læk“ en hraunið „fyrir vestan læk“.
Búrfellshraun.
Raunar er grágrýtið, bæði sunnan lækjar í Hafnarfirði og um öll innnes allt til Kollafjarðar, einnig hraun að uppruna, en of gamalt og máð til að heita svo í daglegu máli. Þessum fornu grágrýtishraunum er hárrétt lýst í tveimur ljóðlínum í kvæði Arnar Arnarsonar um Hamarinn í Hafnarfirði:
„Jökulhefluð hamrasteypa,
hafi sorfin, stormi fægð“.
Veit ég þess ekki dæmi, að meiri jarðsaga hafi verið réttilega sögð í svo stuttu máli. Heimamönnum í Hafnarfirði er tamast að kalla hraunið fyrir vestan læk bara Hraunið, aðrir nefna það Hafnarfjarðarhraun. En þetta er aðeins hluti af allvíðáttumiklu hrauni. Aðrir hlutar þess heita hver sínu nafni, t. d. Garðahraun og Gálgahraun norðvestur og norður frá Hafnarfirði, en í gagnstæða átt er Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Stekkjarhraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðarhraun. Allt er þetta eitt og sama hraunflóð að uppruna, og runnið í einu eldgosi úr Búrfellsgíg, 7 l/2 km suðaustur frá miðbænum í Hafnarfirði. Hér verður það í heild kallað Búrfellshraun. Það er allt innan marka Garðahrepps og Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Búrfell og Kringlóttagjá
Það sem hér hefur verið staðhæft um upptök og útbreiðslu Búrfellshrauns, varð Þorvaldi Thoroddsen fullljóst á rannsóknarferðum um þessar slóðir, fyrst 1883 og aftur 1899. Hann lýsir þessu skilmerkilega í ritum sínum (Thoroddsen 1906 og 1911) að öðru leyti en því, að honum er ekki nógu vel kunnugt um örnefni á eldstöðvunum.
Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.
Hann nefnir hraunið í heild oftast Garðahraun en stundum Hafnarfjarðarhraun og upptakagíg þess Garðahraunsgíg. Hann þekkir bersýnilega ekki nafn á Búrfelli, að öðrum kosti hlyti hann að hafa kennt hraunið og gíginn við það fremur en við Garða á Álftanesi eða Hafnarfjörð. Þorvaldur lýsir mætavel hrauntröðinni Búrfellsgjá og skýrir réttilega uppruna hennar, en hann hefur ekkert nafn á hana, heldur notar örnefnið Búrfellsgjá ranglega um misgengissprungurnar í Hjöllum austur af Vífilsstaðahlíð og Vatnsendaborg.
Nokkrir hellar í Búrfellshrauni.
Þeir sem eitthvað hafa ritað um Búrfellshraun á eftir Þorvaldi Thoroddsen, hafa flestir farið að hans dæmi og kennt hraunið í heild annaðhvort við Garða (t. d. Guðmundur G. Bárðarson, Sigurður Skúlason 1933 og Ólafur Lárusson 1936) eða við Hafnarfjörð (Guðmundur Kjartansson 1954 og Þorleifur Einarsson 1968). En hvorug þeirra nafngifta hefur náð festu — nema í hinni upphaflegu merkingu um vissa hluta hraunsins, og mætti gjarna þar við sitja. En heildarnafnið Búrfellshraun, um allt það hraun sem frá Búrfelli er runnið, komst fyrst á prent í ritgerð um jarðfræði þessa svæðis eftir ]ón Jónsson (1965) og öðru sinni í grein eftir Eystein Tryggvason (1968). Þetta nýnefni er vel til fundið og einkar hentugt. En á það ber að líta sem jarðfræðilegt hugtak, og það má með engu móti útrýma gömlum og grónum örnefnum.
Kringlóttagjá
Þó að markmið þessarar greinar sé fyrst og fremst að skýra frá nýgerðri aldursákvörðun á Búrfellshrauni, skal nú hrauninu samt fyrst lýst nokkru nánar og raktir kaflar þess frá upptökum til enda. Kortið, sem hér birtist a£ Búrfellshrauni er lítið breytt frá fyrra korti mínu af hraununum kringum Hafnarfjörð (Guðmundur Kjartansson 1954), en þó með smá leiðréttingum eftir nánari könnun, og þakksamlega þegnar ábendingar Jóns Jónssonar jarðfræðings.
Búrfell.
Eldvarpið Búrfell er hringlaga kambur úr hraunkleprum utan um stóran eldgíg, Búrfellsgíg. Mundi sú gerð eldvarpa kölluð eldborg í kennslubókum. Gígbarmurinn er hæstur að norðan, 179 m.y.s. (sbr. Uppdr. ís.), en frá brekkurótum utan gígs er hæðin um 80 . að vestan og aðeins um 30 m. að norðan. Gígurinn er um 140 m. að þvermáli milli barma. Dýpt hans hefur mér mælst (með loftvog) 58 m. frá hæsta og 26 m. frá lægsta barmi.
Garðaflatir. Garður milli Búrfellsgjár og Vatnsholts.
Mishæðirnar á barmi Búrfellsgígs valda því, að fellinu er nokkuð áfátt um reglulega eldborgarlögun. Það er mun hærra að norðvestan en að suðvestan við gíginn. Þetta stafar af misgengi, sem orðið hefur, eftir að eldvarpið hlóðst upp. Um grágrýtissvæðið norðan og vestan Búrfells liggur fjöldi brotalína í stefnu h. u. b. norðaustur-suðvestur og ein í gegnum Búrfell sjálft.
Búrfellsgjá.
Um margar þeirra hefur orðið lóðrétt misgengi og nær alls staðar á þann veg, að norðvesturbarmur sprungunnar rís hærra en suðausturbarmurinn. Þannig er þessu farið um sprunguna gegnum Búrfell. Misgengið um hana kemur einkar glöggt fram í Helgadal við suðvesturrætur Búrfells og myndar þar alla norðvesturbrún dalsins, en hún er lágur þverhöggvinn hamraveggur, óslitinn um 2 km veg.
Smyrlabúð – misgengi; uppdráttur Gk.
Sá stallur er í Búrfellshrauni. En misgengið má rekja miklu lengra í báðar áttir frá gígnum. Sums staðar klýfur það eldra berg, ýmist grágrýti eða móberg, og á þeim köflum er misgengisstallurinn yfirleitt hærri en í hrauninu. Af því má ráða, að misgengi hafði þegar átt sér stað áður en hraunið rann, en ágerst síðar. Um þetta sprungukerfi, bæði í hraunum og berggrunni, fjalla þeir Jón Jónsson og Eysteinn Tryggvason í ritgerðum sínum, sem áður var til vitnað og hér verður enn stuðst við.
Hellisskúti í Búrfellsgjá.
Á öllu hinu unga eldbrunna svæði Suðurkjálkans, frá Reykjanesi til Þingvallavatns, eru langflestar eldstöðvarnar gossprungur, markaðar gígaröðum að endilöngu. Því kemur það nokkuð á óvart um eldvarp eins og Búrfell, sem stendur svo augljóslega á sprungu, að í Búrfellsgosinu virðist það hafa verið eina virka eldvarpið á þeirri sprungu og er ekki einu sinni ílangt í stefnu hennar heldur því nær kringlótt.
Í Maríuhellum.
Það er augljóst, að Búrfell hefur gosið aðeins einu sinni. Gos þess var flæðigos, og framleiðsla þess var fyrst og fremst Búrfellshraun. En um leið hlóðst upp sjálft eldvarpið Búrfell úr slettum frá kvikustrókum upp úr gígnum. Sletturnar skullu niður á ýmsu stigi storknunar. Þær sem lengst þeyttust hörðnuðu á fluginu í frauðkennt, stökkt gjall, sem nú gætir helst í útveggjum gígsins. En þær sem nær féllu gosstróknum voru linar af hita. Þær klesstust saman í fallinu lag ofan á lag í mun samfelldari og traustari hraunsteypu, sem þó er öll smáholótt. Það köllum við klepra og eru þeir meginuppistaðan í eldvarpinu. Að innanverðu eru gígveggirnir brynjaðir hraunkleprum. Þeir eru nokkuð lagskiptir og hallar klepralögunum bratt niður í gíginn.
Í Gerðinu.
Á norðurbarmi gígsins skagar kleprabrynjan upp úr hinni lausari gosmöl í utanverðri gígbrekkunni og myndar hvassa egg, sem er hátindur Búrfells. Þetta sýnir, að nokkuð hefur rofist ofan af og utan úr Búrfelli, væntanlega af völdum storma og jarðskriðs, síðan það hlóðst upp. En einnig hefur mjög hrunið úr kleprabrynjunni niður í gíginn, og er þar nú stórgrýtisurð í botni. Auðvelt er að ganga þangað niður á þeim tveimur stöðum, þar sem gígbarmurinn er lægstur, að sunnan og vestan, en illkleift annars staðar.
Búrfell – gígurinn.
Norðan Búrfells liggja berar, jökulrákaðar grágrýtisklappir því nær fast að rótum þess, og er því sennilegt, að goskvikan hafi rutt sér braut upp í gegnum grágrýtismyndun. Botn Búrfellsgígs er 25—30 m lægri en þessar klappir. Samt sér hvergi á bergrunninn niðri í gígnum, hvorki grágrýtis- né móbergsklöpp. Ekki hef ég heldur fundið þar nein brot úr þessum bergtegundum.
Gerðið.
Vegna halla landsins hefur hraunið úr Búrfellsgíg sama sem ekkert runnið til norðurs og norðausturs. Það hefur einnig komist mjög skammt suðaustur og suður, í mesta lagi að rótum móbergsfellanna Húsafells, Valahnúka og Kaldárhnúka. En á þessa hlið er nokkur óvissa um legu hraunjaðarsins, eins og síðar verður að vikið. í vestri hverfur Búrfellshraunið undir yngri hraun aðeins 1—2 km frá upptökum, og rennur þar Kaldá á hraunmótunum. Hennar verður síðar að nokkru getið.
Kaldá.
Hraunin fyrir sunnan Kaldá eru mjög ungleg að sjá. Eitt þeirra, hraun úr Óbrinnishólum, er samkv. C14-aldursgreiningu, sem Jón Jónsson hefur nú fyrir skemmstu fengið gerða á koluðum jurtaleifum undir því, aðeins um 2200 ára. Hið allra yngsta, Kapelluhraun, sem álverið við Straumsvík stendur á, er vafalítið runnið eftir landnám (Guðm. Kj. 1952). Fyrir neðan (vestan) Kaldársel er nokkur brekka fram af Búrfellshrauni niður að ánni. Sú brekka líkist grunsamlega hraunbrún og gefur með því í skyn, að Búrfellshraunið nái ekki að neinu ráði inn undir yngri hraunin, heldur hafi þau staðnæmst þarna við jaðar þess. En þetta er engan veginn einhlítur hraunjaðar. Hitt kemur einnig til mála, að Búrfellshraun nái langar leiðir vestur og síðan norðvestur sunnan við Stórhöfða, Hamranes, Grímsnes og Hvaleyrarholt, og jafnvel allt til sjávar á Hvaleyrarsandi, en sé nú á þessum kafla víðast grafið undir yngri hraununum.
Búrfellshraun.
Það skiptir vissulega miklu um stærð Búrfellshrauns í heild, hvort og hve langt það nær undir ungu hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Ákveðnari vísbending eða úrskurður í þessu vafamáli fæst vonandi einhvern tíma með nánari rannsóknum. Bergfræðileg rannsókn, efnagreining og ekki síst mæling á segulstefnu t. d. í Hvaleyrarhrauni og Hafnarfjarðarhrauni hlyti annað hvort að afsanna eða gera sennilegt, að þessi hraun séu eitt og hið sama. En hvort sem Búrfellshraun teygist lengra eða skemmra í vesturátt, ósýnilegt undir ungu hraununum, þá er hitt víst, að það rann lengstan veg í meginstefnu norðvestur, allt til sjávar bæði í Hafnarfirði og Skerjafirði, eins og hér verður síðar rakið.
Búrfellsgjá
Búrfellsgjá.
Framan af eldgosinu í Búrfellsgjá má ætla, að hraunið hafi ollið út yfir barmana í ýmsar áttir. En er barmarnir hlóðust upp, takmarkaðist hraunrennslið við vissar rásir, ýmist yfir eða undir gígbarmana. Augljóst er, að það hraun, sem síðast rann út úr gígnum ofanjarðar, lagði leið sína um allkrappt skarð í vesturbarminn. Botn þess liggur í h. u. b. 35 m. hæð yfir gígbotninn. Þetta skarð er upphaf eða efri endi Búrfellsgjár.
Búrfellsgjá.
Búrfellsgjá er engin gjá í venjulegri merkingu þess orðs, heldur hrauntröð, þ. e. farvegur, sem rennandi hraunkvika hefur eitt sinn fyllt upp á barma, líkt og á, sem rennur aðkreppt milli ísskara. En stundum flæddi kvikan upp yfir skarirnar, storknaði þar og hækkaði þær. Af ástæðum, sem brátt verður vikið að, þvarr hraunrennslið snögglega í Búrfellsgjá. Þar sem halli var nægur, eins og í brekkunni vestur af Búrfelli, tæmdist farvegurinn því nær í botn. Þar er tröðin kröpp og með nærri „U-laga“ þverskurði. En niðri á jafnlendinu hafa síðustu leifar þverrandi hraunárinnar storknað í flatan botn veggja á milli.
Búrfellsgjá er um 3 1/2 km á lengd með meginstefnu norðvestur, en bugðótt nokkuð og meira að seiga í kröppum hlykkjum fyrsta spölinn, ofan hlíð Búrfells. Þar er hún einnig mjóst, aðeins 20—30 m milli barma. En neðar er breidd hennar breytileg, verður mest um 300 m, bæði skammt frá rótum Búrfells og aftur í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð, þar sem hrauntröðin grynnkar og hverfur.
Búrfell.
Sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Annars staðar eru gjárveggirnir víða 5—10 m. háir. Á köflum eru þeir þverhníptir eða jafnvel slútandi, og mynda sums staðar grunna hellisskúta, munnvíða og með snarhöllu þaki, ágæt afdrep fyrir sauðfé í illviðrum. Einn hellir af þessu tagi hefur holast inn í íhvolfan bakka gjárinnar á kröppustu beygju hennar uppi í hlíð Búrfells. Á öðrum köflum eru gjábakkarnir aðeins urðarbrekka, þannig til komin, að storkuskörin hefur haldist á floti meðan hraunkvikan fyllti tröðina, en brotnað og hrunið niður um leið og lækkaði í hraunánni.
Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá.
Að sjálfsögðu, eru barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar allt úr Búrfellshrauni, og í meira en 5 m djúpum giám (sprungum) á botni hennar sér hvergi niður úr því. Næst upptökunum er þetta hraun frauðkennt líkt og kleprarnir í gígnum og víðast greinilega lögótt. Lögin eru þunn, fáir sentimetrar, og hallast á ýmsa vegu. Uppi á börmunum virðist þeim yfirleitt halla eins og yfirborði hraunsins, þ. e. lítið eitt burt frá hrauntröðinni, og má ætla, að hvert lag samsvari skammæru flóði þunnrar kviku úr hraunánni upp úr farvegi hennar. Í gjáveggjunum má sums staðar líta þessi hallalitlu lög skorin um þvert, en annars staðar eru þeir brynjaðir lóðréttum lögum, sem virðast hafa smurst hvert utan á annað og þrengt tröðina. Og loks liggja þessi lög sums staðar í sveigjum og fellingum, sem gefa í skyn, að veggir traðarinnar hafi verið linir af hitanum frá hraunánni og látið undan straumi hennar. Þess sér og merki, nálægt rótum Búrfells, að deigkennd hraunflikki hafa hálflosnað úr neðanverðum traðarveggnum, rifnað frá honum að ofanverðu, hnigið af þunga sínum, en harðnað að nýju og hætt við að detta.
Í Heklugosinu 1947—1948 rann meginhraunið kílómetrum og mánuðum saman eftir hrauntröð, sem um margt líktist Búrfellsgjá. Þar horfði ég oftar en einu sinni á sams konar deigkennd flikki hníga hægt niður í kvikustrauminn og berast áfram með honum. Hrauntröðin í Heklu er ekki lengur til sýnis. Áður en gosinu lauk hafði hún fyllst að endilöngu meira en upp á barma af storknuðu hrauni. Þau munu örlög flestra hrauntraða.
Búrfell og Búrfellsgjá.
Auk Búrfellsgjár eru talsverðar leifar eftir af annarri hrauntröð í Búrfellshrauni. Sú liggur í hlykkjum með meginstefnu nálægt vestri skammt norðan við Kaldárrétt og Kaldársel. Hún hefur bersýnilega myndast fyrr í Búrfellsgosinu en Búrfellsgjá, og af þeim sökum eru nú aðeins slitrur eftir af henni. Annars staðar hefur hún fyllst aftur af hrauni síðar í gosinu. Þessi hrauntröð verður víst að teljast nafnlaus, og er það illa farið. Hú n hefur stundum — út úr vandræðum, eða af misskilningi — verið nefnd „Gullkistugjá“, en það er gamalt örnefni í nágrenninu og á við raunverulega gjá (sprungu) í allt öðru hrauni, suður frá Helgafelli. Gísli Sigurðsson, varðstjóri í Hafnarfirði, sem hefur af mikilli natni og kunnleika skráð örnefni á þessum slóðum, kveðst einnig hafa heyrt hrauntröðina hjá Kaldárseli kallaða Lambagjá, en telur það nafn naumast viðurkennt af kunnugum mönnum. En eitthvað verður „gjáin“ að heita, og af framangreindum óviðurkenndum nöfnum er „Lambagjá“ heppilegast.
Lambagjá.
Í báðum hrauntröðunum, Búrfellsgjá og Lambagjá, eru snotur og skemmtileg mannvirki hlaðin úr hraungrýti. — Niðri í Búrfellsgjá, um 1/2 km norðvestur frá Búrfelli, stendur fjárrétt. Þangað var rekið og þar dregið sundur afréttarsafn Hafnfirðinga, Garðahreppinga og Álftnesinga á hverju hausti fram yfir 1920. Réttin er nú friðlýst að tilhlutan þjóðminjavarðar. — En um þvera Lambagjá liggur garður einn mikill og vel hlaðinn. Hlutverk hans liggur engan veginn í augum uppi ókunnugum manni. Hann var undirstaða undir vatnsveitu úr Kaldá yfir á vatnasvið Hafnarfjarðarlækjar, en síðarnefnt vatnsfall knúði hreyflana í raforkustöð Hafnarfjarðar á fyrstu áratugum þessarar aldar.
Vatnsveitan yfir Lambagjá.
Vatninu var veitt í opinni rennu, timburstokk, sem sums staðar varð að hlaða undir en annars staðar að grafa nokkuð niður, svo að alls staðar yrði vatnshalli í rétta átt. Vatninu var sleppt niður í hraunið fjarri upptökum lækjarins, en mun allt hafa skilað sér þangað. Það virðist skilyrði fyrir langlífi hrauntraðar, að hraunáin, sem myndar hana, þverri nokkuð snögglega. En tilefni þess getur verið tvenns konar, annaðhvort það, að hraungosið hættir snögglega, eða hitt, að hraunrennslið fer allt í einu í annan farveg. Hið síðarnefnda á við um Búrfellsgjá. Meðan enn hélzt allmikið hraungos og kvikan beljaði út um skarðið í vesturbarm gígsins til Búrfellsgjár, brast gat á suðurvegg hans niðri við rætur. Hrauntjörnin, sem fram til þessa hafði fyllt gíginn upp á barma, fékk þar nýja útrás, sem var fáeinum tugum metra lægri en hin fyrri. Yfirborð tjarnarinnar lækkaði að sama skapi, og síðan rann aldrei hraun til Búrfellsgjár né annars staðar yfir gígbarminn. Hraunáin í Búrfellsgjá var þar með stemmd að ósi. Kvikan, sem þar var fyrir, rann burt undan hallanum, svo að „gjáin“ tæmdist að meira eða minna leyti.
Hraunrennsli undan suðurbarmi Búrfellsgígs. — Kringlóttagjá.
Búrfellsgjá.
Það sem eftir var gossins kom hraunið allt út undan suðurbarmi gígsins. Það hraun, sem við skulum hér kalla „suðurhrauni“, varð raunar mjög lítið að vöxtum hjá því sem áður hafði runnið vestur af. Þetta hraun, sem var síðasta framleiðsla gossins í Búrfelli, myndar nú mjög flatvaxna bungu sunnan við Búrfell. Hún minnir á hvirfil lítillar hraundyngju að öðru leyti en því, að ekkert hallar norður af henni.
Rauðshellir.
Á hábungunni, um 400 m suður frá rótum Búrfells, er allsérkennileg skál, grunn og flatbotna, kringd 5—10 m háum klettaveggjum. Þvermál hennar er 200—300 m og lögunin óregluleg. Upp úr botni hennar rísa klettaeyjar, flatar að ofan og nokkuð jafnháar börmunum. Þessi náttúrusmíð heitir Kringlóttagjá, og er Gísli Sigurðsson heimildarmaður minn að því örnefni, sem helst til fáir munu þekkja. Kringlóttagjá er fornt hrauntjarnarstæði. Barmar hennar voru storknar skarir að glóandi kvikunni, en tjörnin hefur haft frárennsli neðanjarðar um æðar í nýstorknuðu hrauninu og lækkað í henni áður en hún storknaði í botn.
Reykjanes – jarðfræði.
Frá suðurrótum Búrfells, þar sem gígbarmur þess er lægstur, liggur allbreið en fremur grunn hrauntröð og opnast í Kringlóttugjá. Þá leið hefur hraunið runnið frá gígnum til hrauntjarnarinnar. Ef ekki væru þessi tengsl milli hennar og Búrfells, væri freistandi að telja hraunbunguna með Kringlóttugjá sérstaka eldstöð, litla dyngju, sem hefði myndast í öðru og síðara gosi en Búrfell, og hrauntjörnina gíg hennar.
Búrfell.
En tröðin sýnir ljóslega, að suðurhraunið er runnið undan rótum Búrfells og fyrst upp komið í gíg þess. Auk þess bendir slakki í gígbarminn, þar sem tröðin kemur út undan honum til þess, að rás sem þar lá undir hafi sigið saman. Nú er gígbarmurinn hvergi eins lágur og í þessum slakka (um 25 m.y. gígbotn), en samt er auðséð, að þar hefur hraun aldrei runnið yfir hann.
Af því er fullljóst, að meðan hraun rann um h.u.b. 10 metrum hærra skarð til Búrfellsgjár, var þessi slakki ekki til. Hann er síðar tilkominn, bæði við samansig hraunrásarinnar undir honum og að enn meira leyti við höggun eldvarpsins um misgengissprunguna.
Helgadalur – Búrfell fjær.
Þó að einsætt virðist, að hraunið sem rann til suðurs frá Búrfellsgíg hafi breiðst fast að rótum móbergshæðanna Valahnúka og Kaldárhnúka, þá verða nú mörk þess ekki rakin þar nákvæmlega svo að víst sé. Svo stendur á því, að vestur með þessum hæðum hefur runnið hraun af óvissum uppruna. Það liggur þvert vestur yfir Helgadal og allt til Kaldár og Lambagjár, og hefur átt þátt í að fylla upp þá hrauntröð ofanverða. Þetta er flatt helluhraun og jaðar þess, þar sem það liggur ofan á Búrfellshrauninu, víða mjög óglöggur. Halli og storknunarmynstur þessarar hraunálmu benda helst til, að hún sé ekki frá Búrfelli komin, heldur öðrum eldstöðvum ókunnum í suðaustri, og yngri en Búrfellshraunið.
Kringlóttagjá.
Aldursmunur getur þó vart verið mikill, því að í misgengisstallinum um Helgadal hefur þetta hraun haggast jafnt Búrfellshrauni, en önnur hraun í nágrenninu, sem eru ótvírætt yngri en Búrfellshraun, slétta yfir misgengisstallana óhögguð — eða a. m. k. óbrotin. Jón Jónsson hallast að þeirri skoðun, að þessi liraunálma sé annað hraun og yngra en Búrfellshraun. Ég verð einnig að telja það sennilegt, en þykir þó hitt koma til mála, að hún sé allra síðasta rennslið í Búrfellsgosinu, komið úr hrauntjörninni í Kringlóttugjá.“
Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 4. tölublað (01.03.1973) – Guðmundur Kjartansson, bls. 159-182.
Búrfellsgjá – upplýsingaskilti.
Búrfellshraun og Maríuhellar
Árni Hjartarson skrifaði um „Búrfellshraun og Maríuhella“ í Náttúrufræðinginn árið 2009:
Búrfellshraun og Maríuhellar
Maríuhellar.
„Búrfell upp af Hafnarfirði er gígur af þeirri gerð sem kallast eldborg. Eldborgir einkennast af því að gos hefur orðið á stuttri sprungu eða pípulaga gosrás og myndar því stakan aðalgíg og stundum smærri gíga þar hjá. Engir slíkir hliðargígar eru hjá Búrfelli; það stendur eitt og stakt, hlaðið úr gjalli og hraunkleprum (1. mynd). Berggerðin er ólivínbasalt með hvítum plagíóklasdílum og ljósgrænum ólivíndílum. Um þetta og fleira svipar hrauninu til dyngjuhrauna. Hraunstraumurinn sem rann frá Búrfelli í sjó fram á nokkrum stöðum nefnist einu nafni Búrfellshraun en hefur fjölmörg sérnöfn eftir einstökum hlutum hraunsins, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Svínahraun, Stekkjarhraun, Selhraun, Kaldárselshaun, Hafnarfjarðarhraun, Balahraun, Garðahraun og Gálgahraun.“
Búrfellsgígur.
Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur rannsakaði Búrfellshraun, lét gera á því aldursgreiningar og ritaði um það – sjá HÉR.
Flest sem síðar hefur verið skrifað um hraunið grundvallast á rannsóknum hans, m.a. þessi grein.
Stærð hraunsins og aldur Mikil misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem myndar nokkuð samfelldan misgengishjalla allt frá Elliðavatni að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu frá norðaustri til suðvesturs og teygir sig raunar allar götur frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell. Búrfell hlóðst upp í gosi við austurbrún sigdalsins.
Gígurinn og misgengin tilheyra eldstöðvakerfi Trölladyngju á Reykjanesi. Gossögunni má skipta í fjóra þætti eða lotur og í hverri hrinu runnu ólíkar hrauntungur frá gígnum.
I. Straumsvíkurlota.
Maríuhellar (Urriðakotsfjárhellir).
Í upphafi goss rann hraunið niður í sigdalinn og eftir honum til suðvesturs í átt að Kaldárbotnum. Þar hefur það sveigt til vesturs og síðan til norðvesturs hjá Stórhöfða og runnið til sjávar í Straumsvík og þar í grennd. Nær allur sá hraunstraumur er nú hulinn yngri hraunum, en komið hefur í ljós að Búrfellshraun leynist þar undir. Við boranir hjá nýrri skolphreinsistöð við ströndina austur af Álverinu í Straumsvík sást að hraunið er þar að finna. Yfirborð þess er á 15,5 m dýpi í borholunni, eða 8 m undir sjávarmáli.
Selhraun vestan Kapelluhrauns.
Nýverið benti Haukur Jóhannesson greinarhöfundi á að Búrfellshraun sæist hugsanlega á yfirborði á dálitlum bletti í svokölluðu Selhrauni sunnan við Straumsvík. Á jarðfræðikorti hefur þetta hraun verið nefnt Selhraun 1 og uppruni þess talinn óljós en tekið er fram að um dyngjuhraun sé að ræða. Ekkert í landslaginu mælir gegn því að Búrfellshraun gæti hafa runnið þarna yfir en bæði útlit, berggerð og dílasamsetning, sem og aldursafstaða hraunsins til annarra hrauna, benda til þess að þetta sé Búrfellshraunið.
II. Lambagjárlota.
Lambagjá.
Næsti kafli í gossögunni hófst þegar hraunið hafði hlaðið vel undir sig og komst yfir misgengisþröskuld við Kaldá. Þá gat það farið að renna niður með Ásfjalli og hefur hugsanlega náð til sjávar utan við Hamarinn í Hafnarfirði.
Ystu tungur hraunsins þar eru nú huldar yngri hrauntungum sem runnu í þriðja kafla gossins. Á þessum tíma myndaðist Lambagjá, sem er hrauntröð við Kaldárbotna.
III. Urriðavatnslota.
Þegar enn lengra leið á gosið fyllti hraunið sigdalinn neðan við Búrfell og komst yfir misgengisstalla við Smyrlabúð. Þá hætti það að flæða niður með Ásfjalli en rann þess í stað niður með Vífilsstaðahlíð, stíflaði uppi Urriðavatn og náði til sjávar bæði við Hafnarfjörð og í Arnarnesvogi. Þessa leið hefur hraunið runnið alllengi og þá hefur Búrfellsgjáin og hellarnir í tengslum við hana myndast og verið meginfarvegur hraunstraumsins frá gígnum.
IV. Goslok.
Við goslok virðist hraunið hafa hætt að flæða um Búrfellsgjána og tekið að streyma um undirgöng til suðurs frá gígnum. Þar urðu til sérkennilegar hrauntjarnir sem tæmdust í goslok og mynduðu Kringlóttugjá. Erfitt er að gera sér grein fyrir hversu lengi gosið stóð. Ekkert bendir þó til mikils gosofsa og hrauntraðir og hellar í hraunum þurfa oftast nokkurn tíma til að myndast. Það er því líklegt að gosið hafi staðið alllengi, jafnvel í eitt til tvö ár.
Jarðfræðikort ÍSOR. Eldra Hellnahraun er merkt SKÚ (Skúlatúnshraun/Stórabollahraun).
Land hefur sigið nokkuð á höfuðborgarsvæðinu síðan þetta var og að auki stóð sjór nokkrum metrum lægra í heimshöfunum þá en hann gerir nú, svo ystu tungur hraunsins teygja sig út fyrir ströndina. Í borholunni við skolphreinsistöðina hjá álverinu í Straumsvík sést að sjávarborð var a.m.k. 8 m neðar en nú og Guðmundur Kjartansson nefnir að aðstæður í Hafnarfirði sýni að sjór gæti hafa staðið um 10 m neðar en í dag þegar hraunið rann.
Búrfellshraun.
Búrfellshraun er miðlungshraun að stærð á íslenskan mælikvarða. Flatarmál þess á yfirborði er rúmlega 16 km2. Ekki er gott að átta sig á hversu stórt hraunið hefur verið í upphafi því yngri hraunstraumar hafa runnið yfir það og þekja nánast alla álmuna sem teygði sig til sjávar við Straumsvík. Hér er reiknað með því að þriðjungur hraunsins sé hulinn og það sé því 24 km2 að flatarmáli. Jón Jónsson álítur meðalþykkt þess vera um 20 m og byggir það á borholugögnum frá Hafnarfirði og Garðabæ.
Búrfellshraun.
Rúmmál hraunsins er því um 0,5 km3. Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu. Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur lét gera aldursgreiningar á gróðurleifum undir og ofan á því og birti um það grein í Náttúrufræðingnum. Þegar aldursgreiningarnar eru umreiknaðar yfir í raunaldur fæst að fjörumórinn undir hrauninu er um 8100 ára. Hraunið sjálft er lítið eitt yngra, eða að líkindum rétt um 8000 ára og hefur því runnið um 6000 f.Kr. Á þessum tíma er talið að hið almenna yfirborð heimshafanna hafi staðið um 10 m lægra en nú. Athugunum á hrauninu, sem fyrr hefur verið greint frá, ber saman við þetta.
Hrauntraðir.
Búrfellsgjá.
Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð, við það að hrauná rann út úr gígnum í lengri tíma og myndaði eins konar farveg. Elsta tröðin sem enn sést liggur niður hjá Kaldárseli og hefur myndast meðan aðalhraunið rann niður hjá Ásfjalli til Hafnarfjarðar. Hún nefnist Lambagjá, svo sem fyrr er nefnt. Búrfellsgjá og Selgjá eru yngri hrauntraðir, en þær eru í hraunstraumnum sem rann niður með Vífilsstaðahlíð. Yngst er svonefnd Kringlóttagjá en hún er sunnan við Búrfellsgíg og hefur orðið til í lokahrinum gossins. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið, svo sem Hrafnagjá og Vatnsgjá sem hafa myndast við jarðhræringar og brot af þeirra völdum.
Búrfellsgjá.
Búrfellsgjá á fáa sína líka á landinu. Næst gígnum, þar sem halli er mikill, er hún þröng (20–30 m) og með bröttum veggjum (hin eiginlega Búrfellsgjá) en er niður á jafnsléttu kemur verður hrauntröðin lægri og víðari. Þar sem Hjallamisgengið liggur yfir hraunið eru gapandi sprungur og stallar. Þar er Hrafnagjá, en við hana skiptir hrauntröðin um nafn og heitir Selgjá þar utan við. Búrfellsgjá og Selgjá eru yfir 200 m breiðar þar sem þær eru breiðastar. Vegna síðari tíma höggunar og landsigs í grennd við Búrfell liggur Selgjá nú ofar í landi en Búrfellsgjá. Veggir traðanna eru oft 5–10 m háir og sums staðar þverhníptir og slútandi þannig að víða eru skjól og skútar sem þóttu fyrrum ágætt afdrep fyrir sauðfé í vondum veðrum. Við utanverða Selgjá eru veggirnir þó lægri. Undir þeim er einnig fjöldi gamalla seljarústa og minja um forna búskaparhætti.
Hraunhellar.
Búrfellsgjá – hellir efst í gjánni.
Neðan við Selgjá hefur hrauná runnið áfram á yfirborði, en einnig í rásum undir storknuðu yfirborði hraunsins. Þar eru fjölmargir skútar og hraunhellar. Samkvæmt skilgreiningu er talað um hraunhelli ef hann er meira en 20 m langur og manngengur, en annars er talað um skúta. Hraunhellum má skipta í nokkra flokka eftir því hvernig þeir mynduðust; hraunrásarhella, gíghella, hraunbólur, sprunguhella o.fl.
Í Búrfellshrauni eru nær allir þeir hellar sem ná máli hraunrásarhellar. Skútarnir í hrauninu eru ýmist í hraunrásum, undir hraunbólum eða myndaðir á annan hátt. Hraunrásarhellar eru orðnir til við rennsli hrauns í hraunrás undir storknuðu yfirborði. Þegar kvika berst ekki lengur til hraunrásarinnar getur hún tæmt sig ef landhalli er nægilegur og þá myndast hellir. Oft er þakið svo þunnt að það hrynur ofan í hraunrásina og því stundum erfitt að segja til um hvar einn hellir endar og annar hefst.
Búrfellshraun – Skátahellir.
Margir hraunhellar eru þekktir í Búrfellshrauni. Í hinni miklu hellabók Björns Hróarssonar eru nafngreindir 13 hellar og skútar í hrauninu, en þó munu þeir vera fleiri.
Maríuhellar er samheiti á hellum í hrauninu á landamerkjum Urriðavatns (Urriðakots) og Vífilsstaða rétt við veginn upp í Heiðmörk.
Björn Hróarsson lýsir stuttlega þremur hellum á þessum slóðum, Vífilsstaðahelli, Urriðakotshelli og Draugahelli; auk þess minnist hann á fjórða hellinn, Jósefshelli.
Samheitin Vífilsstaðahellar, Fjárhellrar, Vífilsstaðafjárhellrar og Urriðakotsfjárhellrar hafa einnig sést á prenti um þessa hella. Nafnið Maríuhellar virðist gamalt eins og fram kemur í landamerkjalýsingu Urriðakots sem dagsett er 20. september 1834 og birt er í riti Guðlaugs R. Guðmundssonar um örnefni og leiðir í landi Garðabæjar: „Urriðakot á hálfa Fjárhellra mót Vífilsstöðum sem fyrrum hjetu Maríuhellrar, fram í vörðuna sín megin á Norðurhellragjárbarmi, og í stóra steininn á fremmsta Tjarnholtinu með grasþúfu uppá, þaðan heimleiðis í vörðuna á miðri Þverhlíðinni, þaðan í vörðuna á Flóðahjallatánni, úr henni í Álptatanga, þaðan í hellu sem er í miðjum Hrauntanganum, kölluð Sílingarhella, úr henni í uppmjóan háan klett með klofavörðu upp á sín megin Stórakróks og í gamlar fjárréttargrjótgirðingar í Moldarhrauni, og upp í áðurnefnda Urriðakotsfjárhellra.“
Búrfellshraun.
Þessi lýsing var þinglesin 1890 en þá gerði umboðsmaður Garðakirkju eftirfarandi athugasemd um leið og hann skrifaði undir skjalið: „Landamerkjaskrá þessa samþykki jeg fyrir hönd Garðakirkju, að öðru leyti en því að Maríuhellrar (nú Vífilsstaðahellrar) eru samkvæmt máldögum eign Vífilsstaða svo sem jeg hefi lýst yfir þar sem jeg hefi skráð það sem Vífilsstaðir eiga sjerstaklega“. Af þessu skjali má ljóst vera að Maríuhellanafnið er gamalt og að ósamkomulag hafi ríkt um eignarhald á hellunum.
Engar sagnir fylgja þessari nafngift en Maríuvellir (Maríuflöt) eru illi hrauns og hlíðar þarna skammt frá, þar sem bílastæði eru nú. Mörg dæmi eru um það að Maríuörnefni tengist kirkjum sem helgaðar voru guðsmóðurinni. Í Múlafjalli í Kjós er t.d. hellir sem nefnist Maríuhellir og á Reynivöllum er Maríukirkja. Í máldaga frá 1397 segir að kirkjan eigi: „… sauðahöfn í Múlafjalli og skjól í Maríuhelli og skal sá telja eftir hverja hríð er í Múla býr.“
Maríuhellar.
Þetta þýðir að bóndinn í Múla átti að telja kindurnar við Maríuhelli eftir hvert hríðarveður, vafalaust til gæta þess að enga vantaði. Reynivallakirkja átti einnig sölvafjöru þar sem heitir Maríusker og rétt til kolagerðar á Maríuhjalla í Ingunnarstaðaskógi í Brynjudal. Þarna virðast ótvíræð tengsl kirkju og örnefnis. Vífilsstaðir voru lengi í eigu Garðakirkju en hún er helguð Pétri postula svo ekki er nafnið þaðan runnið. Garðakirkja eignaðist jörðina 1558 en þar áður hafði hún lengi tilheyrt Viðeyjarklaustri. Kirkjan og klaustrið í Viðey voru helguð Maríu mey og því er líklegast að nafn hellanna sé frá þeim tíma er þeir voru eign og hlunnindi klaustursins. Ekki er vitað hvenær Vífilsstaðir féllu undir Viðey en klaustrið þar var stofnað um 1225 og starfaði til siðaskipta.
Maríuhellanafnið gæti því verið frá 13. öld. Maríuhellarnir þrír eru rétt við bílveginn og í sömu hraunrás svo í augum sumra hellarannsóknamanna er hér um einn þrískiptan helli að ræða sem alls er 150–160 m langur ef mælt er eftir meginlínu.
Þarna er hægt að ganga ofan í allmikið niðurfall um 15 vel hlaðin hraunhelluþrep. Þar niðri eru tveir víðir hellismunnar hvor gegnt öðrum. Niðurfallið virðist vera gamall viðmiðunarpunktur á landamerkjum Urriðakots (Urriðavatns) og Vífilsstaða. Urriðakotshellir gengur suður frá niðurfallinu. Hann er víðastur yst en dregst saman og lækkar innar. Auðvelt er að komast 22 m inn en þá taka við þröng göng sem ekki verður skriðið í. Gat er á hellisþaki. Þarna átti Urriðakot fjárból. Vífilsstaðahellir gengur til norðvesturs frá niðurfallinu. Aðeins 22 m eru á milli hellanna. Hann er 22 m langur undir þaki, fallega hvelfdur og 3–4 m á hæð. Hann er mun rúmbetri en Urriðakotshellirinn þótt lengdin sé sú sama. Þröngur munni er þar við hellisendann sem frá niðurfallinu snýr og því hægt að ganga í gegnum hellinn. Talsvert tað var þar á gólfinu fram eftir 20. öld en það var að lokum allt stungið út og notað að Vífilsstöðum.
Vífilsstaðafjárhellir.
Úti fyrir munnanum þrönga er annað niðurfall þar sem hellisþakið hefur hrunið. Það er grunnt en 22 m langt. Draugahellir er vestastur Maríuhella, 18 m norðvestur af munna Vífilsstaðahellis. Inngangurinn í hann er um þrönga gjótu sem liggur niður með vegg hraunrásarinnar og stórgrýtis úr föllnu þakinu. Fyrst er farið 3,5 m niður en síðan má smeygja sér milli stórgrýtis og veggjar eftir hallandi göngum uns komið er í víðara rými innan við hrunið, á 5–6 m dýpi í hrauninu. Þar verður fyrir gild hraunsúla á vinstri hönd, 20 m að ummáli, en rúmgóð og hvelfd hellisgöng þar inn af. Hellirinn er í heild 65–70 m langur inn í botn en er mjög lágur innst. Víð hvelfing með kúpulaga þaki gengur út frá honum til hægri. Allmikið hrun hefur orðið þar úr loftinu svo hrúgur af stórgrýti eru á gólfi. Annars staðar er lítið um hrun. Hellirinn gengur inn undir þjóðveginn upp í Heiðmörk þannig að vel heyrist í bílum sem aka yfir hann. Nafn hellisins er tilgreint í örnefnaskrá Guðlaugs R. Guðmundssonar, en engin saga fylgir því. Eitthvað er þó órökrétt við það að draugar haldi til í Maríuhellunum.
Jósefshellir (?) er 70 m austan við Maríuhella skammt frá göngustíg um hraunið. Þar er allmikið niðurfall en norður úr því gengur lágur hvelfdur hellir, 22 m á lengd en um 12 m víður yst. Mold er á gólfi og ljóst að þar hefur sauðfé haft afdrep þótt óvíst sé hvort um gamlan fjárhelli sé að ræða. Í hellabók sinni frá 19908 segir Björn Hróarsson að skammt frá Maríuhellum sé lítill hellir sem nefndur sé Jósefshellir og oftast talinn með Maríuhellum. Í hellabókinni frá 2009 nefnir Björn þennan helli, Vífilsstaðahelli en þar er Jósefshellir horfinn úr hellatali.
Maríuhellar.
Örnefnaflækja.
Af ofanrituðu sést að óvissa er um nöfn hellanna. Hér er að mestu fylgt lýsingu Guðlaugs R. Guðmundssonar10 en einnig var farið á vettvang með Svani Pálssyni, sem er fæddur í Urriðakoti 1937 og þekkir öllum betur örnefni á þessum slóðum. Guðlaugi og Svani ber saman um nafngiftir hellanna þriggja en hvorugur þeirra kannast við Jósefshelli. Samkvæmt lýsingu Björns Hróarssonar frá 2009 og hnitum sem hann gefur upp, slær hann saman Vífilsstaða- og Urriðakotshellum og nefnir einu nafni Urriðakotshelli.
Í Draugahelli.
Um Draugahelli er hann sammála Svani og Guðlaugi en hellinn sem hann nefnir Jósefshelli í bók sinni og kallar hann Vífilsstaðahelli í stóru hellabókinni frá 2006, sem fyrr er greint. Enn annar skilningur kemur fram í örnefnaskrá Vífilsstaða frá 1991; þar er Vífilsstaðahellir nefndur Maríuhellir en Urriðakotshellir kallaður Jósefshellir. Þessari örnefnaskrá ber ekki saman við eldri skrár og virðist hér komið dæmi um nýlega örnefnaþróun því engar heimildir finnast um Jósefshelli fyrr en 1990.
Upphaflega virðist Maríuhellanafnið hafa átt við fjárhellana tvo sem kenndir eru við Vífilsstaði og Urriðakot. Seinna bætist Draugahellir í hópinn enda í raun hluti af sömu hellasamstæðu. Örnefnið er líklega ungt og sést ekki á prenti fyrr en undir lok 20. aldar. Að lokum kemur fjórði hellirinn til sögunnar, kenndur við Jósef, enda réttlætismál að eigna honum helli nálægt hellum eiginkonu sinnar.
Niðurstöður.
Búrfellshraun – Þorsteinshellir.
Helstu niðurstöður þessarar greinar eru þær að Búrfellshraun við Hafnarfjörð sé stærra en áður hefur verið talið og eru færð rök fyrir því. Hraunflóð virðist hafa fallið til Straumsvíkur en nú er sú hrauntunga að mestu hulin yngri hraunum. Rannsóknir benda þó til að Selhraun 1 sunnan Straumsvíkur sé hluti Búrfellshrauns. Saga Búrfellsgossins er rakin og henni skipt upp í fjóra þætti. Birt er nýtt kort af Maríuhellum og reynt er að greiða úr örnefnaflækju sem þeim tengist. Hér er um einn þrískiptan hraunrásarhelli að ræða og stakan helli, Jósefshelli, þar skammt frá. Nafnið Maríuhellar virðist hafa fest við þá þegar þeir voru eign Maríukirkjunnar og klaustursins í Viðey. Örnefnið er því gamalt og gæti verið frá 13. öld.
Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 3.-4. hefti (01.03.2009), Árni Hjartarsson, bls. 93-100.
–https://timarit.is/page/6468192?iabr=on#page/n27/mode/2up/search/búrfellsgjá
Maríuhellar.