Selsvellir

Þrír lækir, Selsvallalækir, renna um Selsvelli en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrsti kemur úr gili fast sunnan Kúalága, en sá syðsti rennur fram sunnan og nokkuð nálægt Selsvallaselja. Bæði örnefnið og lækirnir benda til þess að kýr hafi verið hafðar í seli á Selsvöllum.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Af minjum á Selsvöllum að dæma er ljóst að þar hefur verið haft í seli um langan tíma. Líklegt má telja að þar á austanverðum völlunum hafi fyrrum verið nokkrar selstöður frá Grindavíkurbæjunum þar sem bæði fé og kýr hafa verið hafðar í seli. Ef glögglega er skoðað má sjá a.m.k. minjar tveggja fjósa. Svo virðist sem selastaðan hafi lagst af um tíma, hugsanlega flust á Baðsvelli norðan Þorbjarnarfells líkt og heimildir herma. Frásögn er um ofbeit á Baðsvöllum svo aflögð selstaða Grindvíkinga hefur verið flutt á nýjan leik inn á Selsvelli, en bara á annan stað. Á meðfylgjandi uppdrætti má sjá afstöðu gömlu og nýju selstöðvanna á Selsvöllum.
Fróðlegt er að skoða aldurssamsetningu selsminjanna á Selsvöllum. Sjá má t.d. minjar fjósa á báðum svæðunum og einnig er áhugavert að skoða hvernig Grindvíkingar hafa veitt einum Selsvallalæknum að nýju selstöðunni – gagngert vegna kúaseljabúskapsins.
Nýrri selstóttirnar kúra í vesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar eru a.m.k. þrjár kofaþyrpingar og tveir nokkuð stórir stekkir nálægt þeim. Úti í hrauninu, fast við tóttirnar, er einn kofi og lítið gerði á grasbletti.

Selsvellir

Selsvellir – Uppdráttur ÓSÁ.

Skúti er undir kletti á bak við miðtóttirnar. Í bréfi frá séra Geir Backmann Staðarpresti til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selsstæðinu liggur selsstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Annar selsstígur liggur norður af völlunum, framhjá Hvernum eina. Er það hluti Þórustaðastígs.
Upp undir fjallshlíðinni, utan í Selsvallafjalli, að sunnanverðu við vellina, norðan við syðsta lækinn, eru eldri selstóttir, bæði ofan og neðan slóðans, sem liggur eftir endilöngum völlunum. Enn neðar á völlunum má sjá móta fyrir kví og stekk.
Deilur hafa löngum staðið með Grindvíkingum og Vatnsleysustrandarhreppsbúum um það hvorum megin landamerkja Selsvellir liggja.

Fyrrum höfðu þeir í seli á Baðsvöllum norðan Þorbjarnarfells og við Selsháls, en á báðum stöðum má enn sjá tóttir seljanna. Eftir ofbeit þar voru selin færð upp á Selsvelli.

Selsvellir

Selsvellir.

Moshóll er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð Moshóls er mjög illa farin eftir hjólför ökumanna sem hafa fundið hjá sér þörf að aka sem lengst upp í hlíðar hans. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið úr Moshól hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun.
Selsvallafjall er 338 m hátt. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn skáhalt upp fjallið. Vellirnir eru um 2 km að lengd en aðeins rúmlega 0.2 km ábreidd.
Selsvellir-224Á Selsvöllum var selsstaða frá bæjum Grindavíkur og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi haft þar í seli. Hraun hafði í seli í Hraunssseli, sem er nokku sunnar með vestanverðum Núpshlíðahálsi, en það sel lagðist síðast af á Reykjanesi (1914).
Sagnir eru til um útilegumannahelli nálægt Hvernum eina, norðan selsvalla. Ólafur Briem segir í bókinni Útilegumenn á Reykjanesfjallgarði frá þremur þjófum, sem getið er um í Vallnaannál 1703: …”á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu, þar tóku þeir sér hæli undir skúta nokkrum…. Leist þeim eigi að vera þar lengur og fóru norður með fjallinu í helli þann, er skammt er frá hverinum Eini. Voru þar síðan þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar í hálsinum, rændu ferðamenn….” Leit hefur verið gerð að hellinum, en hella er sögð hafa verið lögð yfir op hans til að varna því að sauðfé félli þar niður um.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Sjá MYNDIR.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur.

 

Búrfell

Guðmundur Kjartansson skrifaði um „Hraunin kringum Hafnarfjörð“ í jólablað Þjóðviljans árið 1954:

Hafnarfjörður

Hraun ofan Hafnarfjarðar – uppdráttur GK.

„Ekki verður komist landveg til Hafnarfjarðar úr öðrum byggðarlögum án þess að fara yfir hraun, því að kvíslar úr hinu mikla hraunflæmi Reykjanesskagans ná út í sjó báðum megin fjarðarins. Auk þess stendur hálfur kaupstaðurinn (þ. e. fyrir norðan eða „vestan“ læk) í hrauni, en hinn hlutinn (fyrir sunnan læk) er hraunlaus. Hraunið í Vesturbænum er í meira lagi mishæðótt og setur einkennilegan og fáséðan svip á þennan bæjarhluta. Hraunhólar og drangar skaga jafnvel hærra upp en húsin; gömlu göturnar laga sig eftir landslaginu, brattar og krókóttar, en hinar nýrri, sem liggja beinna, eru ýmist hlaðnar Hátt upp yfir hraunbolla og gjár eða sprengdar djúpt niður í gegnum hraunkambana. Þarna í Vesturbænum, þar sem hraunið er hvað úfnast, er skrúðgarður Hafnfirðinga, Hellisgerði.

hellisgerði

Hellisgerði.

Að landslagi til, á sá skrúðgarður sér engan líka hér á landi. Þetta hraun, sem hluti Hafnarfjarðarbæjar stendur í, mun ég í þessu erindi kalla Hafnarfjarðarhraun til hægðarauka, því að það er ein heild, upp komið í einu gosi. En raunar heita ýmsir hlutar þess sérstökum nöfnum: Gálgahraun, Garðahraun, Vífilsstaðahraun, Svínahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Stekkjarhraun, Gráhelluhraun, Smyrlabúðarhraun o.fl.

Vífilsstaðahraun

Í Vífilsstaðahrauni.

Suðurbærinn í Hafnarfirði stendur í stórri eyju, sem hraun umkringja, og sunnan hennar (sunnan við Hvaleyri) tekur við mikil breiða af mörgum misgömlum hraunum, óslitin suður að Vogastapa. Hér verður aðeins getið þeirra tveggja af suðurhraununum, sem næst liggja Hafnarfirði. Þó að þetta greinarkorn eigi aðallega að fjalla um hraun, þá þykir mér hlýða að fara um það nokkrum orðum, hvernig umhorfs var hér í Firðinum, áður en hraunin urðu til. Ég ætla því að rekja í tímaröð helstu stórviðburði í sköpunarsögu Hafnarfjarðar frá ísöld.

Hvaleyrarhraun

Hvaleyrarhraun – loftmynd.

Röð viðburðanna má heita ljós, en því miður get ég ekki tímasett þá nema heldur ónákvæmt og skal ekki eyða mörgum orðum að því. Tímasetningin stendur þó til bóta við nánari rannsóknir.

Hamarinn

Markaðar klappir á Hamrinum.

Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar, undirstaðan sem allt annað hvílir á, er grágrýti. Úr þeirri bergtegund er allt það, sem við myndum í daglegu tali kalla fasta klöpp, að undanskildum hraununum. Hamarinn, sem Flensborgarskóiinn stendur á, er úr grágrýti, ennfremur allar þær hæðir í grenndinni, sem hafa „holt“, „hlíð“, „brún, „hæð“ eða „alda“ að endingu í nafni sínu. Ásfjall er ein af rismestu grágrýtishæðunum. Víðast er grágrýtisklöppin hulin lausum jarðlögum, þ.e. ýmiss konar melum eða grónum jarðvegi, En hvar, sem til er grafið, kemur niður á klöppina fyrr eða síðar, og mjög víða liggur hún ber.

Ástjörn

Ástjörn og Ásfjall.

Hér verður ekki frá því sagt hvernig þetta öldótta grágrýtislandslag varð til, heldur hefjum við þar söguna, er það er að verða fullmyndað og hvert holt og hæð hefur fengið núverandi lögun sína í öllum stórum dráttum.

Búrfellshraun

Búrfellshraun – kort. Hraunið náði allt að Hraunum ofan Straumsvíkur (sjá Selhraun), en yngri hraun, s.s. Kapelluhraun, Óbrinnishólahraun, Skúlatúnshraun, Stóra-Bolla- og Tví-Bollahraun og Hraunhólshraun (Sandklofahraun) hafa þakið það að mestu leyti.

Einu hljótum við þó að veita athygli um uppruna þessa landslags: Sá, sem þar vann að síðastur hefur rist fangamark sitt skýrum stöfum í klappirnar. En það var jökulskjöldur sá, er lá yfir því nær öllu íslandi á síðasta jökulskeiði ísaldarinnar. Jöklar liggja ekki kyrrir, heldur mjakast undan hallanum og sópa með sér lausagrjóti og lausum jarðlögum; sem verða á vegi þeirra.

Hamarinn

Hamarinn – hvalbök.

Grjótið frýs fast í botnlagi jökulíssins og dragnast með. Með því grópar og rispar jökullinn klöppina líkt og skörðótt hefiltönn. Frostið sprengir nýtt lausagrjót upp úr botnsklöppinni, svo að það gengur meira til þurrðar. Flestar grágrýtisklappir í grennd við Hafnarfjörð eru skýrt rispaðar með þessu móti og rispurnar stefna allar h.u.b. frá SA til NV. Hreyfing jökulsins hefur verið undan hallanum, ofan af Reykjanesfjallgarði út í Faxaflóa. Einkar skýrar og fallegar jökulrispur eru uppi á Hamrinum fast norðan við Flensborgarskóla. Jökullinn hefur mætt fast á þessum grágrýtishnjót á botni sínum og fastast á þeim klöppum, sem hallar til suðausturs gegnt skriðstefnu hans; þar eru rispurnar dýpstar og allar brúnir ávalaðar og máðar.

Hamarinn

Hamarinn – upplýsingaskilti.

Um margar þúsundir ára svarf ísaldarjökull ofan af grágrýtisspildunni, sem þá mun hafa náð óslitin um allt það svæði, sem nú er sunnanverður Faxaflói og sveitir og heiðar upp frá honum allt til Þingvallavatns.
Í ísaldarlokin, sennilega fyrir fullum 10 þúsundum ára, bráðnaði þessi jökull fyrir batnandi loftslagi. En klappirnar bera æ síðan þær minjar hans, sem þegar er getið, og annars staðar eru þær þaktar jökulruðningi, þ.e. leir og grjóti, sem jökullinn ýtti með sér og lá eftir, er hann bráðnaði. Um þessar mundir leysti ísaldarjökla víða um heim, og við það hækkaði í öllum höfum. Fyrir þá hækkun var sennilega mikið af botni Faxaflóa ofan sjávar. Sjórinn hækkaði meir en upp að núverandi sjávarmáli. Mun hann hafa náð mestri hæð skömmu eftir að jökulinn leysti hér í grennd.

Hafnarfjörður

Ásfjall – útsýni yfir Hafnarfjörð.

Enn má glögglega sjá hér á holtunum við Hafnarfjörð og Reykjavík, hvar sjávarborðið hefur legið, er það var hæst. Þau merki köllum við efstu sjávarmörk. Þau liggja í 33 metra hæð yfir núverandi sjávarmál á Hvaleyrarholti sunnan við Hafnarfjörð, en um 10 m hærra á Öskjuhlíð í Reykjavík. Austur í Ölfusi er hæð efstu sjávarmarka um 60 m, uppi í Borgarfirði 80—100 m og Austur í Hreppum allt að 110 m.
Reykjaneseldar
Þessi mismunur stafar vitaskuld ekki af því, að sjávarfletinum hafi hallað, er hann lá sem hæst; heldur af því að þessir staðir hafa lyftst mismikið síðan. En ástæðan til þess, að sjórinn fjaraði aftur af undirlendinu, er sú, að landið tók að lyftast, er jökulfarginu létti af því. Áður hafði jökullinn sveigt það niður.

Fuglastapaþúfa

Fuglastapaþúfa.

En landið lyftist afar hægt, og því vann sjórinn á í bili og flæddi inn yfir láglendið, er hann hækkaði í ísaldarlokin, Markalínari efstu sjávarmörk kemur einna gleggst fram í því, að neðan hennar er stórgrýtið, sem jöklinum lá þar eftir, orðið að lábörðum hnullungum af að velkjast í brimi; en ofan línunnar verður þetta grjót snögglega með flötum hliðum og lítt slævðum brúnum, eins og jökullinn skildi við það. Þá hafa hnullungarnir einnig víða kastast upp í kamba, sem marka hæstu sjávarstöðuna einkar glöggt og eru í engu frábrugðnir nýmynduðum sjávarkömbum, nema hvað mold og þurrlendisgróður er nú kominn á milli steinanna.

Hrafna-Flóki

Minnisvarða um Hrafna-Flóka á Hvaleyrarholti.

Yzt á holtunum, “ þar sem brimasamast hefur verið, hafa sjóirnir sums staðar klappað bergstáli í þau. Efstu sjávarmörk eru einkar glögg hringinn í kringum Hvaleyrarholt, nema áð austan, þar sem mjótt eiði hefur tengt það við meginlandið. Frá Hvaleyrarholti má rekja þessa fornu fjöru í sömu hæð neðan við túnið á Jófríðarstöðum umhverfis hamarinn hjá Flensborg (sem aftur er fornt sjávarberg) og inn í Lækjarbotna. Þaðan heldur hún áfram, glögg malar- og hnullungafjara, en að vísu grasi gróin, laust neðan við Setbergsbæinn og um hlaðið á Þórsbergi. Loks hverfa þessi efstu sjávarmörk undir Hafnarfjarðarhraun, sem rann löngu eftir að sjórinn fjaraði frá þeim.

Rauðhóll

Rauðhóll – uppdráttur GK.

Fast sunnan undir Hvaleyrarholti stóð til skamms tíma lítill hóll að mestu úr rauðu hraungjalli og með grunna gígskál í kolli. Hann hét Rauðhóll. Nú er lítið eftir af Rauðhól. Í hans stað er komin stór malargryfja. Um 1940 var farið að taka þarna mikið af rauðamöl í vegi og fleira. Nú er hún upp urin að kalla, svo að undirlag hennar, sem er harðla fróðlegt, kemur í ljós. Eftir stendur þó stabbi í miðju, og sér enn fyrir botni gígskálarinnar uppi á honum. Þessi stabbi, sem er sjálfur hrauntappinn í gígnum, reyndist of fastur fyrir, er rauðamölinni var mokað á bíla, og því var honum leift.

Hraunhóll

Hraunhóll – námuvinnsla og sóðaskapur undir Vatnsskarði.

Rauðhóll er mjög lítið eldvarp. Þar hefur aðeins kornið upp eitt smágos, sem virðist ekki hafa afrekað annað en hrúga upp þessum gíghól. Ekki er að sjá, að neitt hraun hafi runnið frá honum. En því get ég Rauðhóls hér, að hann hefur að geyma furðu merkilegar og auðlesnar jarðsöguheimildir. Þær komu ekki í ljós fyrr en hann var allur grafinn sundur. Þessar heimildir eru vitaskuld jarðlög, og við lestur þeirra ber að byrja á neðstu línunni og lesa upp eftir. Þessi lög hafa eflaust myndast víðar, en máðst burt aftur, þar sem þau lágu ber en Rauðhóll hefur hreint og beint innsiglað þau og varðveitt með því að hrúgast ofan á þau og liggja þar eins og ormur á gulli.
Dýpst í malargryfjunni liggur einkennilegt leirlag allt að hálfum metra á þykkt. Þetta er svokölluð barnamold. Hún er mjúk og þjál og ljós-gulbrún að lit meðan hún er vot, en verður stökkari viðkomu og snjóhvít við þurrk. Ef barnamoldin er látin undir smásjá, kemur í ljós, að hún er því nær eingöngu úr örsmáum skeljum og skeljabrotum, af lífverum þeim, er nefnast kísilþörungar (eða eskilagnir eða díatómeur).

Rauðhóll

Rauðhóll 2020.

Þetta eru örsmáar svifverur, sem lifa víða í mikilli mergð í vatni, og teljast til jurtaríkisins, þó að margar þeirra syndi knálega um í vatninu. Þegar jurtirnar deyja, rotna þær upp, en skeljarnar falla til botns og mynda eðju eins og þá, sem hér var lýst. Danskur sérfræðingur hefur rannsakað fyrir mig lítið sýnishorn af barnamoldinni undan Rauðhól og fann í henni 117 tegundir kísilþörunga. Sú tegundagreining leiddi í ljós, að barnamoldin hefur sest til í ósöltu vatni, a.m.k. að mestu leyti. Af þessu er sýnt, að þarna hefur verið tjörn, oftast eða alltaf með ósöltu vatni, löngu áður en Rauðhóll varð til. Enn fremur sannar barnamoldin, að sjávarflóðið mikla í ísaldarlokin hefur þá verið að mestu fjarað, eða a. m. k. niður fyrir 10 m hæð yfir núv. sjávarmál, því að í þeirri hæð liggur hún.

Rauðamöl

Rauðamöl í Rauðhól.

Yfir barnamoldinni í Rauðhólsgryfjunni liggur fínn ægissandur morandi af skeljum og skeljabrotum. Skeljarnar eru allar af sjódýrum. Ég hef getað greint tíu tegundir af þeim örugglega, og eru allar þær tegundir enn algengar lifandi á sams konar sandbotni hér í Faxaflóa. Þetta lag sýnir, að sjórinn hefur hækkað aftur í bili og flætt inn yfir landið, þar sem tjörnin var áður.

Hraunhóll

Hraunhóll undir Vatnsskarði.

Enn fremur sýna dýrategundirnar, sem eru frekar kulvísar, að þetta hið síðara sjávarflóð var ekki öllu kaldara en Faxaflói er nú, og hefur því ekki getað átt sér stað fyrr en alllöngu eftir ísaldarlokin, er sjórinn var fullhlýnaður. Yfir þessum ægissandi liggur ennfremur þunnt lag af fínni, brúnni sandhellu, sem er miklu fastari í sér og hefur engar skeljar að geyma. Þykir mér sennilegt, að það sé fokmyndun, til orðin á þurrlendi, eftir að síðara sjávarflóðið fjaraði. Ekki hef ég fundið neinar gróðurleifar í þessu lagi, en það sannar engan veginn, að landið hafi verið ógróið. Ofan á þessu móhellulagi stendur loks Rauðhóll sjálfur. Hann hefur hrúgast þarna upp í litlu eldgosi, eins og fyrr segir, ofan sjávar, en. ef til vill nærri sjávarströndu. Rauðhóll er elsta gosmyndun í grennd við Hafnarfjörð — að undanskildu grágrýtinu, sem að vísu er hraun að uppruna, en runnið löngu fyrir ísaldarlok,; enda ekki kallað hraun í daglegu tali.

Rauðhóll

Rauðhóll – uppdráttur GK.

Nokkur rauðamöl er enn eftir í Rauðhól, en ekki auðvelt að ná henni. Það ber til, að hraunflóð eitt mikið hefur runnið kringum hólinn og ekki aðeins upp að honum, heldur yfir hin ystu börð hans, sem einnig eru úr Rauðamöl. Aðeins háhóllinn, sem stóð upp úr hrauninu, er burt grafinn. Hraunið kringum Rauðhól nefnist nú Hvaleyrarhraun. Það hefur runnið út í sjó sunnan við Hvaleyrarholt og komið að suðaustan, en verður ekki rakið lengra í átt til upptaka en að Stórhöfða. Þar hverfur það undir miklu yngra hraun, Brunann, sem síðar verður getið. í börmum malargryfjunnar í Rauðhól liggur Hvaleyrarhraunið víðast milliliðalaust á rauðamölinni. Það þótti mér lengi benda til, að aldursmunur væri lítill, jafnvel enginn, á hólnum og hrauninu.

Rauðamöl

Rauðamöl.

En þegar gryfjan stækkaði, kom reyndar í ljós á litlum kafla í nýja stálinu örþunnt moldarlag og þar yfir svart öskulag, hvort tveggja á milli rauðamalarinnar og hraunsins. Í öskunni fundust kolaðir lyngstönglar. Þetta þunna millilag með jurtaleifum sínum sannar ótvírætt, að þarna hefur þó verið komin lyngtó með þunnum moldarjarðvegi neðarlega í austurbrekku Rauðhóls, áður en Hvaleyrarhraun rann þar yfir. Askan er sennilega úr sama gosi og hraunið, sem yfir henni liggur.

Hellnahraun

Eldra-Hellnahraun (svart), Yngra-Hellnahraun (grátt), Óbrinnihólabruni (ljósgrár) og Kapelluhraun (blátt). Fært inn á nútíma loftmynd.

Hvaleyrarhraun er einna fomlegast hrauna í grennd við Hafnarfjörð, og má vel vera, að það sé elst þeirra allra. En það er helst ellimarka á því, að sjórinn hefur klappað í það nokkurra mannhæða háan bergstall um núverandi sjávarmál, þar sem nú heita Gjögrin sunnan við Hvaleyrarsand.
Ég hef áður getið að nokkru Hafnarfjarðarhrauns, þ.e. hraunsins sem nær út í Hafnarfjörð norðanverðan og kaupstaðurinn stendur að nokkru leyti í. Þetta hraun er auðvelt að rekja til upptaka. Það hefur komið upp í Búrfelli eða Búrfellsgíg skammt norðaustur frá Kaldárseli. Þaðan hafa runnið hraun eitthvað til suðurs og suðvesturs, en þau hverfra skammt frá upptökum undir yngri hraun, og verður eigi vitað, hvert þau hafa komist.

Garðahraun

Í Garðahrauni.

En langveigamesti hraunstraumurinn er Hafnarfjarðarhraun, sem teygist til norðvesturs og nær niður í sjó báðum megin við Álftanes, annars vegar að Lambhúsatjörn, sem er vogur inn úr Skerjafirði, er vogur inn úr Skerjafirði, hins vegar í Hafnarfjörð. Þetta er 12 kílómetra vegur mælt eftir miðjum hraunstraumnum. Minni kvísl úr þessum hraunstraumi hefur runnið sunnan við Setbergshlíð og breiðst þar yfir, sem nú heitir Gráhelluhraun; þaðan hefur hún runnið í mjóum taumi áfram ofan lækjargil og komið saman við meginhraunið aftur niðri á Hörðuvöllum.

Búrfell

Gígur Búrfells.

Í Búrfelli er stór og djúpur gígur, en það er lítið einstakt eldfjall, aðeins 179 m yfir sjó og fáir tugir metra frá rótum. Sennilegast þykir mér, að þar hafi gosið aðeins einu sinni og öll hraunin, sem þaðan hafa runnið, séu því jafngömul, en ekki er þetta óyggjandi, þó að ég ætli nú að gera ráð fyrir því. Hitt er fullvíst, að það sem hér er kallað Hafnarfjarðarhraun, hefur runnið allt í einu lagi.
Reynum nú að gera okkur í hugarlund, hvernig það land leit út, sem Hafnarfjarðarhraun breiddist yfir. Vitaskuld renna hraunflóð æfinlega undan halla og ekki skáhallt, heldur í þá átt sem hallinn er mestur. Það má því t. d. gera ráð fyrir, að hraun, sem lent hefur í árfarvegi, yfirgefi hann ekki úr því, heldur fylgi honum svo langt sem magn þess endist til.

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Nú liggur meginstraumur Hafnarfjarðarhrauns — sá sem lengstan veg hefur runnið frá upptökum — norðvestur á milli Setbergshlíðar og Vífilstaðahlíðar. Þá er varla heldur að efa, að vatn, sem komið hefði upp á sama stað og hraunið, hefði einnig runnið sömu leið.

Kaldá

Kaldárbotnar.

Með þetta í huga er fróðlegt að athuga hinar miklu vatnsuppsprettur skammt frá Búrfelli, þar sem heita Kaldárbotnar. Þar eru upptök Kaldár, eins og nafnið bendir til, og þar er enn fremur hið nýja vatnsból Hafnfirðinga. Kaldá er ólík flestum ám í því, að hún er vatnsmest í upptökunum, en minnkar stöðugt á leið sinni. Hún kemst ekki nema röskan kílómetra frá upptökunum; þá er hún öll sigin í jörð Þessa skömmu leið rennur hún eftir hrauni, sem er ættað úr Búrfelli og virðist helst jafngamalt Hafnarfjarðarhrauni eða með öðrum orðum hluti af því. En einnig í miðri höfuðkvísl Hafnarfjarðarhrauns, hjá Gjáarrétt norðvestur frá Búrfelli, sér í vatn niðri í djúpum gjám, og í því vatni er mjög greinilegur straumur til suðvesturs.

Kaldá

Kaldá – farvegur árinnar fyrrum, áður en Búrfellshraunin runnu.

Áður en Hafnarfjarðarhraun rann, hlýtur allt þetta vatn, sem nú rennur um upptakasvæði þess — bæði ofanjarðar (í Kaldá) og neðanjarðar (í gjám) — að hafa runnið ofanjarðar — sem vatnafall — þá leið, sem hraunið rann síðan. Við getum kallað þetta vatnsfall „Fornu-Kaldá“.  Að líkindum hefur hún verið drjúgum meira vatn en sú Kaldá, sem við þekkjum nú, því að botn hinnar fornu Kaldár lak ekki frá vatninu. Hún rann eftir hraunlausum dal undir Vífilstaðahlíð norður að Vífilsstaðatúni. En hvar rann hún í sjóinn? Hraunið gefur okkur einnig ákveðna bendingu um það: Meginhluti þess féll út í Hafnarfjörð. Og þar sem hraunið er þykkast, þar liggur árfarvegurinn enn undir því.

Kaldá

Kaldá.

Forna-Kaldá hlýtur að hafa runnið í Hafnarfjörð. En þá var fjörðurinn lengri en nú, ekki af því að sjórinn stæði hærra — hann var lækkaður niður að núverandi sjávarmáli, áður en hraunið, rann — heldur styttist fjörðurinn við það, að hraunið fyllti upp í innstu voga hans. Ekki verður vitað með vissu, hvar fjörðurinn endaði. Ef til vill hefur hann náð langleiðina upp að Vífilsstöðum, ef til vill skemmra. Vitaskuld mætti kanna þetta með því að bora gegnum hraunið og finna hvar undirlag þess kemst upp fyrir sjávarmál. Að sjálfsögðu hefur innsti hluti fjarðarins verið grunnur. Hann hefur smám saman verið að fyllast af framburði Fornu-Kaldár. Trúlegt er, að þar hafi verið leirur og mikið útfiri, og ef til vill voru grösugir óshólmar milli árkvíslanna. En nú er þetta allt innsiglað af hrauninu, nema sá leirinn, sem lengst barst út eftir firðinum. Hann stendur út undan hraunbrúninni og þekur þar fjarðarbotninn í þykku lagi. Það leirlag hefur reynst heldur ótraust undirstaða undir hina nýju hafnargarða. Þeir hafa hvað eftir annað sigið og sprungið.

Búrfell

Búrfell.

Af því, sem ég hef nú sagt frá Búrfelli og Hafnarfjarðarhrauni, mætti ætla, að Hafnarfjarðarbæ stafaði nokkur hætta af eldgosum og hraunflóðum: Þá leið, sem hraun hefur áður runnið, gæti hraun runnið aftur! En þessi hætta er miklu minni en ég hef til þessa gefið í skyn: Búrfell, þar sem hraunið kom upp, og stór landspilda hið næsta því öllum megin hefur sigið, eftir að hraunið rann. Hin signa spilda hefur brotnað sundur í rima milli sprungna, sem stefna allar frá norðaustri til suðvesturs. Barmarnir hafa sigið mismikið, svo að stallur er um sumar sprungurnar, eystri barmurinn þá jafnan lægri en hinn vestri, rétt eins og á Almannagjá. Sums staðar eru sprungurnar gínandi gjár, en annars staðar saman klemmdar og koma aðeins fram sem bergveggur. Einn slíkur sigstallur brýtur Hafnarfjarðarhraun um þvert við suðurenda Vífilsstaðahlíðar. Sá er 5—10 m hár og myndi einn sér veita verulegt viðnám nýju hraunflóði. En raunar er sigið meira en nemur hæð þessa stalls.

Búrfell

Misgengi í Helgadal – uppdráttur GK.

Önnur misgengissprunga liggur vestan við Helgadal, sem er sigdalur, og sú klýfur sjálft Búrfell í miðju. Misgengið veldur því, að eystri gígbarmurinn er nú lægri en hinn vestri. En þetta var öfugt, meðan Hafnarfjarðarhraun var að flæða upp úr gígnum. Það rann vestur úr honum, og eru þar mjög fagrar og lærdómsríkar hrauntraðir eftir rennsli þess. Þær nefnast Búrfellsgjá (þótt þær séu raunar engin gjá í venjulegri merkingu) og eru óslitnar um nokkurra kílómmetra veg vestur og norður frá fjallinu. Hraun, sem nú flæddi upp úr Búrfellsgíg, tæki ekki þessa stefnu, heldur rynni austur eða suður af.

Kaldá

Farvegir Kaldár.

Hrakningasögu Kaldár lýkur ekki með uppkomu Hafnarfjarðarhrauns. Það lokaði leið hennar til Hafnarfjarðar, eins og þegar er getið. En það er engan veginn óhugsandi, að hún hafi samt um þúsundir ára eftir allar þær ófarir komist ofanjarðar alla leið til sjávar — og þá fyrir sunnan Hafnarfjörð, litlu innar á ströndinni en þar, sem Straumsbæirnir eru nú. En hvort sem hún hefur nú komist til sjávar eða ekki, þá er fullvíst, að hún hefur um langt skeið náð miklu lengra áleiðis en nú.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Þá kemur enn upp eldgos, hið síðasta, sem orðið hefur í nágrenni Hafnarfjarðar. Að þessu sinni gaus úr sprungu, sem nú markast af gígaröð með fram Undirhlíðum, langleiðina frá Vatnsskarði til Kaldárbotna. Í syðsta og stærsta gíghólnum skammt frá Krýsuvíkurveginum eru nú stórar malargryfjur. Frá þessari sprungu rann hraun það, sem nú er kallað Bruninn í heild, en efri hlutinn Óbrinnishólabruni og fremsta totan, sem komst alla leið niður í sjó, Kapelluhraun.

Kapelluhraun

Kapelluhraun og nágrenni – fornar leiðir og örnefni.

Þetta hraun nær alla leið norður að Kaldá og hefur bersýnilega ýtt henni eitthvað norður á bóginn. Hún fylgir nú jaðri þess ofan á Búrfells- (eða Hafnarfjarðar-) hrauninu, sem fyrr getur. Vatnið úr Kaldá virðist allt hverfa inn undir þennan hraunjaðar. Ekki er nú annað sennilegra en hinn forni farvegur Kaldár liggi undir Brunanum þar, sem hann er þykkastur, og áfram í átt til sjávar undir hinni tiltölulega mjóu álmu Brunans, sem endar í Kapelluhrauni.

Smyrlabúð

Smyrlabúð – misgengi; uppdráttur GK.

Bruninn (að meðtöldu Kapelluhrauni) er unglegastur að sjá og vafalaust einnig yngstur allra hrauna, sem runnið hafa út í Faxaflóa sunnanverðan. Hann breiddist yfir allan suður- og vesturhluta Hvaleyrarhraunsins, sem fyrr var getið, og féll út í sjó fram af lágu sjávarbergi vestan við Gjögrin og myndaði þar dálítinn tanga út í sjóinn. Ekki hefur sjórinn enn brotið þann tanga að neinu ráði. Í Kjalnesinga sögu er getið hrauns, sem þar er kallað Nýjahraun, og er þar varla öðru til að dreifa en Brunanum. Og í máldaga, sem talinn er vera frá miðri 15. öld, er nafnið Nýjahraun haft alveg ótvírætt um það, sem nú heitir þykir nafnið Nýjahraun (sem nú hefur fyrnst) benda eindregið til, að menn hafi verið sjónarvottar að myndun hraunsins, það hafi ekki runnið fyrr en á landnámsöld eða söguöld. Að vísu hefur engin frásögn um það eldgos varðveist til þessa dags.

Bollar

Tvíbollar.

En annálariturum hefur löngum þótt annað merkilegra til frásagnar en náttúruviðburðir, og þögn þeirra sannar ekkert. Enda er fullvíst, að fleiri eldgos hafa orðið á Reykjanesskaga, löngu eftir að land byggðist, án þess að þeirra sé nokkurs staðar getið í annálum. Hér hlýt ég að enda þetta gloppótta söguágrip, þar sem aðeins stórviðburða er getið, því að síðan Kapelluhraun rann í sjó fram á fyrstu öldum Íslands byggðar, hafa engin þau tíðindi orðið í nágrenni Hafnarfjarðar, er sambærileg séu að mikilfengleika þeim sem nú var sagt frá.“

Heimild:
-Guðmundur Kjartansson, Hraunin kringum Hafnarfjörð. Þjóðviljinn 24. 12. 1954, jólablað, bls. 10-12.
-Náttúrufræðingurinn 19. árg. 1. hefti 1949, Guðmundur Kjartansson, Rauðhóll, bls. 9.-19.

Mygludalir

Búrfell – Kringlóttagjá nær.

Sel í Bleikdal

Í Blikdal (Bleikdal) eiga að vera leifar selja frá Brautarholti, Saurbæ, Borg, Hjarðarnesi, Nesi, Mýrarholti, Ártúni og Hofi, s.s. Hofselin gömlu. Ætlunin var að reyna að finna og skoða selleifarnar í Blikdal. Blikdalur er um 7 km langur svo gangan var a.m.k. 14 km.

 Blikdalur

Selin í Blikdal eru í landnámi Ingólfs – þess fyrsta norræna manns er nam land hér á landi til lífsframbúðar. Í 8. kafla Sturlubókar afskriftar Landnámu segir að „Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.“

Jarðabók Árna og Páls segir að Brautarholt (kirkjustaður) hafi haft „selstöðu og beitiland á kirkjan á Blikdal og liggur það til jarðarinnar, tekur nú mjög af sjer að gánga af skriðum og vatnsgángi. Haglaust er að mestu á jörðunni bæði sumar og vetur.“
Um Ártún (kirkjujörð frá Saurbæ) segir: „Selstöðu og beit hefur jörðin frí á Bleikdal um sumar og vetur í Saurbæjarlandi.“
 BlikdalurOg um Saurbæ (kirkjustaður): „Fjárupprekstur, hestagöngu og selstöðu hefur jörðin í sínu eigin landi, þar sem heitir Blikdalur.“
Hjarðarnes (kirkjujörð frá Saurbæ) er nefnt: „Fjárupprekstur hefur jörðin frí á Blikdal í Saurbæjarlandi. Item selstöðu frí ibidem.“
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er einnig vikið að beitilandi og
selstöðum fleiri jarða á Blikdal.
Um Hof segir: „Selstaða segja menn að hjeðan hafi brúkuð verið á Blikdal, þar sem heita Hofsel gömlu, hvort frí eða fyrir toll nokkurn til Brautarholts vita menn ekki.“
Borg (kirkjujörð frá Brautarholti): „Selstöðu á jörðin frí í Blikdal þar sem er Brautarholts kirkjuland.
 BlikdalurUm Nes, eina af hjáleigum Brautarholts segir Jarðabókin: „Selstöðu hefur jörðin brúkað frí í Blikdal þar sem er Brautarholtskirkjuland.“
Mýrarholt, kirkjujörð frá Brautarholti, hefur samkvæmt Jarðabókinni eftirfarandi selstöðu: „Selstöðu má jörðin hafa með frjálsu í Brautarholtskirkjulandi í Blikdal.“
Samkvæmt framangreindum  heimildum eiga að hafa verið allt að átta selstöður í Blikdal. Hvort þær hafi allar verið í sama selinu eða víðar í dalnum átti eftir að koma í ljós.

Blikdalur

Seltóft í Blikdal.

Í greinargerð Þjóðskjalasafns segir að til íhugunar sé varðandi jarðir í Kjalarneshreppi að samkvæmt Jarðabók Árna og Páls átti konungur eða hafði átt allar jarðir í hreppnum innanverðum, þ.e. Þerney, Álfsnes, Fitjakot, Varmadal, Stardal, Hrafnhóla, Þverárkot, Gröf (Norðurgröf), Velli, Kollafjörð, Mógilsá, Esjuberg, Móa, Saltvík og Skrauthóla. Einn einstaklingur var eigandi að Brautarholti og Bakka og hafði þá yfirráð yfir jörðum Brautarholtskirkju, Borg og Mýrarholti, og átti einnig hluta úr Hofi og Lykkju.
Í landamerkjabréfi jarðanna frá 1922 er merkjum í Blikdal lýst þannig að þau liggi eftir beinni stefna í Strítu á fjallsbrún og „þaðan sem vötnum hallar suður fram í Bleikdalsbotn, og síðan þaðan eins og Bleikdalsá ræður í sjó niður.“

Blikdalur

Blikdalur.

Blikdalur [Bleikdalur] er nefndur í máldaga Saurbæjarkirkju frá því um 1220. Þar segir: „Bru scal hallda a blic dals a. þar milli fialls oc fioru. ær sa vill sem j saurbæ byr.“ Sömu upplýsingar koma fram í Vilchinsmáldaga frá 1397. Fjallað er um eignarrétt Brautarholtskirkju á Blikdal samkvæmt máldögum og visitasíum undir Brautarholti hér að framan.
Skúli Magnússon segir í Lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem samin var á
árunum 1782 – 1784 um Blikdal: „Undir síðast greindar jarðir [þ.e. Brautarholt og Saurbæ] liggur dalur einn, Bleikdalur að nafni. Skerst hann inn milli Esju og Esjuháls. Eru þar sel og góðir hagar.“
 Blikdals er ekki getið sérstaklega í biskupsvisitasíum í Saurbæ. Kirkja þar átti 30 hndr. í heimalandi en samkvæmt máldögum voru það jarðirnar Ártún og
Hjarðarnes.
Árið 1812 var lögð fyrir sáttanefnd ákæra Saurbæjarbónda á hendur bóndans í Arnarholti fyrir ágang hrossa á óðals- og kirkjulandi Saurbæjarkirkju. Ekki er ólíklegt
að þar hafi verið um Blikdal að ræða. Í byrjun 5. áratugar 19. aldar hafði Runólfur Þórðarson í Saurbæ kirkjulönd Saurbæjar og Brautarholts til umráða. Þessi svæði lágu í Bleikdal [Blikdal]. Þann 17. maí 1842 gaf Runólfur út viðvörun til íbúa Kjalarneshrepps þess efnis að þeir mættu ekki reka stóðhross, lömb eða annan geldan fénað þangað án hans leyfis. Í tilkynningunni, sem var þinglesin þann 1. júní 1842, minnist hann á Ártúnsrétt og nauðsyn þess að reisa nýja rétt.

Blikdalur

Blikdalur innanverður.

Í tilkynningu sem ábúandinn á Saurbæ undirritaði 26. maí 1850 lýsir hann því yfir að hann hafi ákveðið að banna „innan og utansveitarmönnum“ að stunda stóðhestarekstur í Blikadal. Ábúandinn telur sig hafa rétt til þessa því hann hafi Blikadal á leigu. Í tilkynningunni kemur einnig fram að gamlar stóðhryssur sem „hvergi annars staðar tolla” séu undanþegnar banninu. Tilkynningin var þinglýst 31. maí 1850.
Á manntalsþingi, sem haldið var á Esjubergi þann 8. júní árið 1860, var lesin upp tilkynning frá A. Björnssyni [í Brautarholti], Ásbirni Ásbjörnssyni [í Mýrarholti] og Runólfi Þórðarsyni [Saurbæ], sem dagsett var 31. maí sama ár, en í henni banna
þeir notkun á Bleikdal.

Þann 17. maí 1873 skrifaði umráðamaður Brautarholtskirkju undir tilkynningu þess efnis að enginn mætti reka fé á Bleikdal [Blikdal] án þess að hafa til þess leyfi frá bændunum á býlunum tveimur Mýrarholti og Brautarholti, sem höfðu einhvers konar byggingarleyfi fyrir dalnum. Yfirlýsingin var þinglesin þann 20. maí 1873.
Þann 29. maí 1890 var landamerkjabréf jarðarinnar Bakka undirritað. Það var þinglesið 3. júní sama ár. Þar er að finna upplýsingar um Blikdal: Að norðanverðu ræður Ártúnsá að Bleikdalsmynni, þaðan eru landamerki í Urðargeira, þaðan í Pollalæk en úr Pollalæk ræður garðlag sem ber í þúfu
sunnanvert við Grænhól, úr þeirri þúfu beina stefnu í Fjósgróf við sjó fram. Hér er minnst á garðlag í dalnum.
 Landamerkjabréf Saurbæjar var undirritað í maí 1890 og þinglesið 3. júní
1890. Í því er að finna upplýsingar um Blikdal: „Á Bleikdal eiga allar jarðirnar óskipta beit en slægjur þannig: að Hjarðarnesin (bæði kotin) hafa slægjur fyrir ofan götu milli Heygils og Bolagils, en Ártún fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk.“ Hér er getið um Selgilslæk.
Í fasteignamatinu 1916-1918 eru með Brautarholti taldar allar hjáleigur, Andríðsey og kirkjujarðirnar Brekka, Arnarholt, Mýrarholt, Prestshús og 2.2 hundruð í Bakkaholti. Landið er talið allmikið, láglent og því fylgir hálfur Blikdalur en þar uppfrá er afrétt.

Blikdalur

Tóft í Blikdal.

Landamerkjabréf fyrir Brautarholt ásamt jörðunum Bakkaholti, Brekku, Arnarholti, Mýrarholti og Presthúsum var undirritað 31. maí 1921. Því var þinglýst 22. júní 1922. Í lok landamerkjabréfsins er að finna upplýsingar um Blikdal: „Ennfremur fylgir Brautarholti Bleikdalur allur sunnan Bleikdalsár, suður og austur á fjallsbrún eins og vötnum hallar, ennfremur Andriðsey á Hvalfirði.“
Árið 1922 var samið nýtt landamerkjabréf fyrir Saurbæ. Það var undirritað 8. maí það ár og þann 22. júní var það þinglesið. Þar er líka að finna upplýsingar um Blikdal: „Gagnvart Melalandi eru mörk frá jarðföstum steini með þúfu á við sjó, fyrir sunnan svokallaðan Markalæk, fyrir norðan Hjarðarneskot og svo þaðan beina stefnu í tvo steina báða merkta með M.K. og stendur annar þeirra í stórasandhól fyrir norðan veginn en hinn sem er stærri stendur að sunnan verðu við veginn.
 BlikdalurFrá merkjasteinum þeim er við veginn standa er bein stefna í Strítu á fjallsbrún og þaðan sem vötnum hallar suður fram í Bleikdalsbotn, og síðan þaðan eins og Bleikdalsá ræður í sjó niður. Á Bleikdal eiga allar jarðirnar óskifta beit en slæjur þannig að Hjarðarnes og Hjarðarneskot hafa slæjur fyrir ofan götu milli Heygils og Bolagils, en Ártún fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk.“

Blikdalur

Blikdalur – Saurbæjarsel.

Rétt aðeins er minnst á Blikdal [Bleikdal] á nokkrum stöðum í fasteignamati árins 1932. Í umfjölluninni um afréttarland Saurbæjar er sagt að hálfur Blikdalur sé afréttarland hennar en að nyrðri hluti sé kirkjujarðarinnar. Þar kemur einnig fram að: „6 + 8 [þ.e. Hjarðarnes og Ártún] nota líka. Í kaflanum um Arnarholt kemur fram að
hálfur syðri hluti Blikdals sé upprekstrarland jarðarinnar og í umfjölluninni um
jörðina Brautarholt er nefnt að afréttarland jarðarinnar sé hálfur syðri hluti Blikdals.
Við sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar, 3. apríl árið 1998, eignaðist borgin þann hluta Blikdals sem Kjalarneshreppur hafði keypt árið 1960.
Þann 13. september árið 2000 keypti Reykjavíkurborg hluta Saurbæjar í óskiptri sameign í Blikdal norðan Blikdalsár.

 

Margir þverlækir eru í Blikdal

Í bókinni „Upp á sigurhæðir –  Saga Matthíasar Jochumsonar“ eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur er að finna eftirfarandi texta á bls 259: „Matthías segir frá því þegar Guðrún (dóttir Runólfs óðalsbónda í Saurbæ – viðbót HÓ) sendi honum úr selinu í Blikdal ber í skjólu og fáeinar línur með. Matthías nefnir ekki hvað Guðrún skrifaði, en bregst svo glaður við að hann ríður fram á dal til að þakka henni sendinguna.Sól skein „hlæjanda í heiði“ og Blikdalurinn var hinn hýrasti. Í fyrri útgáfunni að Söguköflum Matthíasar hefur allt er varðar þetta tildragelsi verið fellt niður. Þessi stund í dalnum leið í algleymi svo auðvelt er að ímynda sér hvað þau Guðrún gerðu. Eftir þetta fór samdráttur þeirra að „verða hljóðbær“.
Á bls. 260 segir ennfremur: „Annað ástarkvæði, „Daladrósin“, er skrifað í sömu stílabók og því greinilega um Guðrúnu uppi í selinu:

Hátt í dalnum, sólarsalnum,
Situr stillt og þýð,
Snotur, hýr og hnellin,
Há og grönn og smellin,
dala-drósin blíð.

Saurbæjarsel

Saurbæjarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Hún er þar innan um lömbin; ástin rís með yndisþrá í ungu brjósti hennar, en rósin hnígur og hún er ein eftir í dalnum þegar sá sem hún elskar fer frá henni….en hann kemur loks aftur úr austri. Lok þessa kvæðis er bara í stílabókinni en ekki í Ljóðmælum Matthíasar. Þar er sá sem hún elskar úti á hafi, ann henni heitt og biður fjallavindinn að færa sér koss „eldheitrar meyjar“ við „úrsvalan foss“.
Raunveruleikinn var nokkurn veginn eins og í kvæðinu nema hvað hann varð mun svartari þegar samdráttur þeirra Matthíasar og Guðrúnar varð lýðum ljós. Dagurinn sæli í Blikdalnum er á berjatíma haustið 1872 en barn þeirra fæðist í janúar 1874. Samband þeirra virðist því hafa staðið í marga mánuði. Það er ekki fyrr en Guðrún verður þykkari sem skelfingin vaknar.“
ÁrtúnAð sjá gerðist ýmislegt í seljum landsins þó ekki séu til margar frásagnir af lífinu þar. Það verður þó að geta þess að Matthías og Guðrún giftust sumarið 1875 eftir að Matthías hafði stungið af úr hempu og sókn frá henni óléttri haustið 1873.
Það var vel við hæfi  að rifja þetta upp við seljarústirnar í Blikdal. Efsta myndin er af seli Guðrúnar. Það er greinilega yngst af þeim 8 seljarústum, sem sjá má í dalnum. Selið er fremst fjögurra selja norðan árinnar. Fjögur sel eru sunnan hennar. Öll selin eru á tiltilölulega afmörkuðu svæði. Fremsta selið stendur efst. Það er tvískipt tóft með dyr mót vestri. Þaðan hefur verið auðvelt að fylgjast með aðkomufólki. Selsstígurinn liggur beint að tóftinni. Austan hennar er tóft, sennilega af eldra seli, sem hefur verið nokkurn tíma í notkun. Norðar er tvískiptur stekkur. Sjá má grjót í honum líkt og í nýrri seltóftinni.
Efsta tóftin að norðanverðu er einnig tvískipt og stakt hús við hliðina. Dæmigert sel á Reykjanesskaganum. Vestar eru Ártúnfleiri tóftir og vestan við beygju á ánni eru jarðlægar tóftir, greinilega mjög gamlar. Handan árinnar er tóftir austast í grónum hól. Á sléttlendi við ánna eru ógreinilegar tóftir ca. 25 m vestar. Skammt vestan þeirra eru tóftir tveggja selja, líkum þeim sem sjá má austast að norðanverðu, tvískipt hús með öðru við hliðina. Tóftirnar eru allar grónar en vel mótar fyrir veggjum. Selin að norðanverðu eru öll við lækjasitrur, en suðurselin eru á árbakkanum.
Það eru sem sagt leifar átta selja í Blikdal. Tækifærið var notað til að rissa nokkur seljanna upp. Dalurinn er gróinn að norðanverðu og auðvelt að greina svæðin þar sem selin voru. Staðsetningin er heppileg því þar sem selin eru má heita logn þegar blæs annars staðar í dalnum. 

Hofssel

Hofssel í Blikdal.

Að sögn Páls Ólafssonar, bónda í Brautarholti, var Blikdalurinn tvískiptur; Brautarholt átti suðurdalinn og Saurbær norðurdalinn. Nes, Borg og Hof tilheyrðu Brautarholtsstorfunni og Ártún, Hjarðarnes og Mýrarholt (Mýrarhús) tilheyrðu Saurbæjartorfunni. Á handrituðu örnefnakorti af norðanverðum Blikdal er getið um Selfjall, Selgil, Selgilsbolla, Sel og Ha[?]ssel.
Blikdalsáin var í leysingum líkt og að vorlagi, snjór þakti læki, en á einstaka stað mátti sjá lífsneista að vori.
Rústir Ártúns eru rétt austan við Vesturlandsveginn. Ofan þeirra má enn sjá grónar rústir hinnar gömlu Ártúnsréttar, sem nefnd er hér að ofan. Kjalnesingaréttin nýrri (Arnarhamarsréttin) er nokkru sunnar, undir lítilli klettarhæð, Arnarhamri.
Stefnt er að annarri ferð í Blikdal (Bleikdal) fljótlega. Til fróðleiks má geta þess að orðið „bleik“ þýðir „mjólk“ á gelísku.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Máldagar Saurbæjarkirkju frá 1220 og 1315.
-Landnám Ingólfs. I. bindi. Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu. Verðlaunaritgerð eftir Skúla Magnússon, landfógeta. Reykjavík 1935-1936, bl. 136.
-Upp í Sigurhæðir. Saga Matthíasar Jochumssonar eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur, bls. 259.
-Jarðabók JÁM og PV 1703. III. bindi.
-Landamerkjabréf
-www.obyggðanefnd.is

Blikdalur

Blikdalur.

 

Selvogsgata

Gömlu Selvogsleiðirnar eru nú til dags jafnan taldar hafa verið þrjár, þ.e. Selvogsgata, Stakkavíkurvegur og Hlíðarvegur, hvort sem var um Grindaskörð eða Kerlingarskarð.

Hlíðarskarð

Hlíðarskarð framundan.

Í raun voru leiðirnar ofan Skarðanna lengst af einungis tvær, þær fyrrnefndu, annars vegar niður í Selvog (Austurvog) og hins vegar niður að Stakkavík og Herdísarvík (Vesturvog), en seint á 20. öldinni varð ætlunin að leggja vagnveg um Kerlingarskarð frá Hafnarfirði niður að Hlíð í Selvogi. Fjárveiting fékkst til fjallvegarins, einkum vegna þess að vonast var til að brennisteinsnámið í Brennisteinsfjöllum á árunum 1885-1887 kynni að verða endurtekið og skapa þannig atvinnu fyrir þurfandi hendur. Byrjað var á því að varða leiðina frá Mygludölum að Hlíðarskarði og síðan var ætlunin að hefja hina eiginlegu vegalagningu. Úr henni varð þó aldrei, en göngufólk hefur æ síðan rakið sig eftir vörðunum í þeirri trú að þar væri hin eiginlega Selvogsgata millum byggðalaganna. Er það skiljanleg afstaða því vörður á hinum leiðinum tveimur eru víðast hvar fallnar eða orðnar nánast jarðlægar (enda miklu mun eldri og hefur ekki verið haldið við). Eftir að bílvegur var lagður um Selvog og Krýsuvík á sjötta áratug tuttugustu aldar lagðist umferð um gömlu leiðirnar af að mestu. Bæir í Selvogi voru þá flestir komnir í eyði, Stakkavík fór í eyði 1943 og Herdísarvík fór einnig í eyði um það leyti.
Þegar göturnar voru gengnar kom í ljós að Hlíðarvegurinn reyndist vera ~17 km, Stakkavíkurvegurinn reyndist vera ~18 km og Selvogsgatan ~24 km. Allar voru leiðirnar mældar frá Bláfjallavegi.
Upphaflega leiðin, Selvogsgatan (Suðurferðagatan) milli Hafnarfjarðar og Selvogs, lá upp frá bænum um Lækjarbotna, Setbergssel og með jaðri Smyrlabúðarhrauns. Þar má sjá vegghleðslur, væntanlega fyrrum áningastað Selvogsmanna. Gatan lá um Helgadal, upp með austanverðum Valahnúkum, Strandartorfum og um Hellur. Syðst á þeim skiptist gatan. Eldri gatan, sem jafnframt var reiðgata, lá upp í Grindaskörð austan við Konungsfell (Stóra-Bolla). Nýrri leið, sem einkum var notuð eftir að brennisteinsnámið byrjaði í Fjöllunum eftir 1885 lá um Kerlingarskarð. Sæluhús (úr timbri með aðhleðslum) var reist norðan undir Skarðinu og má sjá leifar þess enn. Húsið var skjól fyrir lestarmenn, sem ýmist fluttu brennisteininn neðan úr námunum eða umhestuðu honum og fluttu niður til Hafnarfjarðar. Þetta vinnslutímabil varði um tveggja ára skeið. Tvennt kom til; bæði var vinnslan og flutningurinn kostnaðarsöm og lítið fékkst fyrir afurðina á þessum tíma (forsendur brennisteinsvinnslu hafði jafnan verið stríðsáran og vandræðagangur einhvers staðar úti í Evrópu).

Kerlingarskarðsvegur

Efst í Kerlingaskarði. vegur sést vel neðra sem og drykkjarsteinninn í efra.

Kerlingarskarð er einungis fært að sumarlagi og þá oftast fótgangandi. Grindaskörð hafa verið fær öllu lengur og þá ríðandi. Að öllu jöfnu hafa þessar götur lítt eða ekkert verið farnar að vetrum þótt vörðuleifarnar við Selvogsgötuna bendi hins vegar til þess að síðar hefði verið reynt að gera hana nytsamlegri til ársins lengri tíma.
Ofan Grindaskarða / Kerlingarskarðs á Kerlingarskarðsleiðinni austan Girðingarhliðsins (sem nú er horfið að mestu) eru tvær vörður. Við þær eru gatnamót; annars vegar áframhaldandi leið úr Skarðinu yfir á Selvogsgötu upp frá Grindaskörðum og hins vegar (til hægri) leið um Stakkavíkurveg. Hlíðarvegurinn liggur aftur á móti til suðurs frá fyrstu vörðunni austan „hliðsins“ með stefnu á næstu vörðu sunnan hennar. Vegurinn kemur síðan saman við Stakkavíkurveginn við vörðu nokkru sunnar. Reyndar skarast Hlíðarvegur og Stakkavíkurvegur þrisvar áður en þeir skiljast að ofan Ása. Þar liggur Hlíðarvegurinn áfram niður úfið hraunhaft að vestanverðum Austurásum, en Stakkavíkurvegurinn heldur áfram niður með austanverðum hraunjaðri Draugahlíðargígshraunsins að austanverðum Vesturásum.
Fyrrnefndi vegurinn liggur síðan kerlingarskard-223til suðurs með vestanverðum Austurásum með stefnu á Hlíðarskarð. Hinn síðarnefndi liggur aftur á móti til vesturs með sunnanverðum Vesturásum, niður með Urðarási, niður Dýjabrekkur og Selbrekkur uns varða blasir við framundan efst á Selsstígnum efst á Stakkavíkurfjalli. Þar liggur gatan niður hlíðina og liðast um hana kjarrivaxna áleiðis niður að bæjarstæðinu við norðvestanvert Hlíðarvatn.
Selvogsgatan hins vegar, meginleiðin, skiptist í tvennt sunnan Grindaskarða (Konungsfells). Annars vegar liggur leiðin niður með hraunkanti þeim er þar blasir við uns komið er að lítilli vörðu á litlum hraunhól.

Hlidarvegur-553

Þar eru gatnamót Götunnar og Heiðarvegarins (til vinstri) er liggur áfram upp að Bláfjallaenda, Kerlingahúk og áfram niður í Ölfus. Hins vegar liggur leiðin til hægri og áfram upp á slétta hraunbrúnina. Vörður og vörðubrot vísa leiðina um „sléttuna“ uns komið er út af henni nokkru sunnar, inn á fyrrnefndu leiðina er lýst var.
Nú heldur Selvogsgatan áfram um auðrekjanlega slóð yfir mosahraun. Hún greinist í tvennt á kafla, en kemur fljótlega saman á ný. Vörður vísa leiðina. Þá er aðþrengdum grasbala fylgt og beygt til hægri. Framundan eru upplyftar hraunhellur er vísa leiðina að tveimur vörðum er gefa enn ein gatnamótin til kynna. Annars vegar er um að ræða leiðina, sem gengin hefur verið síðastnefnda leið upp frá Grindaskörðum og hins vegar leiðina er liggur frá vörðunum tveimur er gáfu til kynna gatnamót Stakkavíkurvegar og áður voru nefndar við leiðina upp frá Kerlingarskarði.

kerlingarskard-224

Hér skilja leiðir – til vinstri og framundan er gamla Selvogsgatan. Hún liggur greinileg að vestanverðu Litla-Kóngsfelli. Augsýnilega hefur gatan verið unnin á þessum kafla og það talsvert á köflum. Reynt hefur verið í gegnum tíðina að gera hana vel greiðfæra, bæði fyrir lestir og vagna (undir það síðasta). Líklegt má telja að verk þessi hafo verið unnin um og eftir miða 19. öld, en þá voru í gildi tilskipanir konungs um þegnskyldu og umbætur á helstu vegum landsins. Sérhver vinnandi maður átti þá að leggja sitt af mörkum til slíkra framkvæmda eftir tilvísun og undir eftirliti hrepsstjóra. En vegna þess hve vinnandi menn voru fáir og tíminn takmarkaður varð oft lítið úr verki, s.s. sjá má á umbótunum, en á afar litlum köflum hér og þar.
kerlingarskard-225Selvogsgatan liðast niður (ýmist utan í eða upp á hraunbrúninni) í Stóra-Leirdal, yfir hann og upp og yfir Hvalsskarð. Nafnið er reyndar ekki komið af engu. Þjóðsagan segir að tröllskessa í Stórkonugjá þar efra hefi farið niður í Selvog er fréttist af hvalreka, sótt sér hlut og stefnt heimleiðis. Bóndi, sá er hlutinn átti, fémargur í Selvogi, frétti af ferðum hennar, sótti á eftir henni og náði í Hvalskarði. Sá hann aumur á skessunni og samdist þeim um að hún héldi hvalfanginu gegn því að passa þess að fé bóndans færi ekki yfir Skörðin. Gerði skessan til þess grindur í Gridarskörðum, en gætti Kerlingarskarðsins sjálf. Þar af eru komin örnefnin Grindaskörð og Kerlingarskarð.
Hlidarvegur-554Neðan Hvalskarðs beygir Selvogsgatan allverulega til vinstri uns horft er mót vörðu á klapparhól í suðaustri. Að henni náð verður eftirfylgjan auðveld.
Að vísu er nú búið að aka ofan í gömlu götuna á köflum (af refaskyttum), en ef vörður og vörðubrot eru gaumgæfð sem og umförin á gömlu leiðinni, er tiltölulega auðvelt að fylgja götunni niður í Hlíðardal og áfram niður um Strandardal allt að Strandarmannahliði.

Selvogsgata

Selvogsgata (Suðurferðavegur), Hlíðargata og Stakkavíkurgata/-stígur.

Þar greinist gatan; annars vegar áfram niður Selvosgheiði að Strandarhæð og í Selvog og hins vegar um Hlíðargötu neðan Borgarskarða að Hlíð norðan Hlíðarvatns (sem áður hefur verið lýst).

Selvogsgatan um Selvogsheiði er tiltölulega auðrötuð þrátt fyrir uppblástur og jarðvegseyðingu á köflum. Suðvestan Vörðufells eru gatnamót; annars vegar Selvogsgötu og hins vegar Hlíðarvegar/ Vogsósargötu /- vegar (varða er á gatnamótunum). Selvogsgatan liggur hins vegar áfram um graslendi uns halla tekur niður að Selvogi. Gatan er augljós handan gamla malarvegarins um ofanverðan Selvog og niður „túninn“ austan Vogsósa, yfir nýja Suðurstrandarveginn og allt niður í Selvog þar sem gatan endar og greinist skammt norðvestan við núverandi veitingarbæinn T-Bæ, ofan Torfabæjar og Þorkelsgerðis, austan Strandar.
Frábært veður.
Gangan tók 6 klst og 6 mín.

 

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli.

Ómar Smári

Sandakravegur liggur nú að hluta undir nýrunnu hrauni austan Sundhnúks. Gosið hófst 18. desember. Vegurinn var gamall þjóðvegur milli Grindavíkur og Voga á Vatnsleysuströnd og mátti greina fornan slóða í hrauninu.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Skógfellavegur er gamall þjóðvegur milli Voga og Grindavíkur. Út frá honum lá Sandakravegur en er hann nú einnig að hluta undir hrauni.

„Í gær var þetta til, nú er þetta horfið,“ segir Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur um minjar sem nú liggja undir nýju hrauni sem runnið hefur úr gossprungunni við Sundhnúkagíga frá því í gærkvöldi. Ómar Smári er Grindvíkingur sem þekkir sögu og umhverfi bæjarins vel, auk þess að vera einn helsti sérfræðingur landsins um minjar og gönguleiðir á Reykjanesi.

Skógfellavegur er gamall þjóðvegur milli Voga og Grindavíkur. Vegurinn er um það bil 16 kílómetra langur. Vörður voru hlaðnar alla leiðina og í seinni tíð var leiðin stikuð. Út frá Skógfellastíg er gönguleiðin Sandakravegur. Sá vegur er nú kominn að stórum hluta undir hraun.

Skógfellavegur

Skógfellavegur við hraunbrúnina að norðanverðu.

Eldgosið „á kórréttum stað“ en kemur upp á „verstu sprungu sem gat gosið á“
Sandakravegur lá af Skógfellavegi en vegurinn var aldrei varðveittur. Ef marka má djúp för í hraun klöppunum eða veginum má ætla að vegurinn hafi verið fjölfarinn. Vegurinn endaði hjá Ísólfsskála í Grindavík. Var það heimilisfólkið í Ísólfsskála sem stytti sér leið um Sandakraveg. Hófaför sáust í klöppum og á leiðinni eru gerði fyrir hesta og kindur. Einhverjar vörður voru á svæðinu en þær líklegast skemmdar af mannavöldum til að koma í veg fyrir að fólk villtist á Sandakraveg af Skógafellsleiðinni. Vegurinn hefur ekki verið merktur formlega inn á nein kort.

Heimild:
-Heimildin, 19. desember 2023, Gömlu þjóðleið horfin undir hraun – Katrín Ásta Sigurjónsdóttir.

Skógfellavegur

Nýja hraunið, Skógfellavegur og Sandakravegur.

Hafnarfjarðarhöfn

Byggð í Hafnarfirði varð til í kringum sjósókn, verslun og siglingar, enda þótti skipalægi sérlega gott í firðinum alla tíð. Bærinn varð snemma á öldum einn helsti verslunar- og hafnarbær landsins og á tímabili var Hafnarfjörður aðal verslunarhöfn á landinu.

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn 2022.

Byggðin stóð við sjóinn og mestallt mannlíf í bænum byggðist á virkni í kringum höfnina. Svæðið við Flensborgarhöfn er staðsett í einum elsta hluta hafnar- og athafnasvæðis, í „hjarta“ bæjarins, og á sér því langa og mikilsverða sögu. Tengsl við sögu og arfleifð er þýðingarmikill þáttur í umhverfi fólks og er því mikilvægt að gera sögunni skil þegar hugað er að framtíðarskipulagi á þessum stað. Hér verður skyggnst í það helsta í sögu og þróun gömlu hafnarinnar og svæðisins við Flensborgarhöfn.

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn – hafskipabryggjan; stálþilið komið.

Hafnarfjörður hefur lengi verið talinn vera ein besta höfn landsins frá náttúrunnar hendi, enda er heiti fjarðar og byggðar kennt við höfnina. Englendingar gerðu Hafnarfjörð að bækistöð sinni upp úr aldamótunum 1400, en þá byrjuðu þeir að stunda fiskveiðar og verslun við Ísland.

Flensborgarhöfn
Flensborgarhöfn er innan jarðarmarka Jófríðarstaða, sem upphaflega hétu Ófriðarstaðir.

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn fyrrum. Hvaleyrarlónið var lengi notað til geymslu á skipum, nú er lónið friðað, meðal annars vegna varpstöðva fugla og fuglalífs og er lítið notað. Talsverðar landfyllingar og uppbygging á Suðurhöfninni hafa breytt landslagi mikið við Hafnarfjarðarhöfn. Auk Suðurhafnar er Straumsvíkurhöfn starfrækt í dag og í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013 – 2025 er svæði vestan Straumsvíkur til skoðunar til framtíðarþróunar fyrir höfnina. Á suðursvæðinu er umfangsmikil löndunar- og flutningsþjónusta, þar eru vörugeymslur fyrir frosnar, þurrar og blautar vörur og einnig viðhaldsþjónusta bæði í flotkví og slipp. Á Suðurhöfninni stendur Fiskmarkaðurinn, sem hefur starfað þar í tæp 30 ár (Már Sveinbjörnsson, viðtal 1, 2014; Hafnarfjarðarbær, 2014a).

Með tímanum var Jófríðarstaðalandi skipt upp í nokkur smærri lönd (Katrín Gunnarsdóttir, skv. tölvupósti, 28.3. 2014).

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn 2022.

Fyrsti verslunarstaðurinn í firðinum reis á Háagranda, þar sem nú er norðurhorn smábátahafnarinnar við Óseyrarbryggju. Hann hét Fornubúðir og talið er að Englendingar hafi valið verslunarstaðnum þennan stað eftir að þeir fóru að koma til Hafnarfjarðar snemma á 15. öld, því við grandann var gott skipalægi (Ásgeir Guðmundsson, 1983).
Talið er að þýsku Hansakaupmennirnir hafi reist fyrstu lútersku kirkjuna á Íslandi á svipuðum slóðum. Þýska kirkjan er fyrst nefnd í heimildum 1537, þá sennilega nýbyggð. Kirkjan var tekin niður í kjölfar þess að danskri einokunarverslun var komið á. Álitið er að kirkjan hafi staðið við Óseyri (Sigurður Skúlason, 1933).

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – herforingjaráðsuppdráttur 1902.

Þýskir kaupmenn stofnuðu Flensborgarverslun undir lok 18. aldar og reistu verslunarhús við sunnanverðan botn Hafnarfjarðar. Kaupmennirnir voru frá Flensborg í Slésvík og nefndu verslunina eftir heimaborg sinni (Sigurður Skúlason, 1933). Verslunarbyggingin Flensborg stóð á svipuðum slóðum og Íshúsið stendur nú.
Farið var um Illubrekku eða sætt fjöru til að komast fyrir klettinn að Flensborg. Heimild: Byggðasafn Hafnarfjarðar Árið 1877 var gamla verslunarhúsinu breytt í skóla, sem nefndur var Flensborgarskóli. Önnur bygging reis við hliðina á gamla verslunarhúsinu árið 1906 og Flensborgartún var sunnan við húsin. Flensborgarskóli var upphaflega barnaskóli, síðar gagnfræðaskóli og kennaraskóli og einnig var þar heimavist. Gamla verslunarhúsið brann árið 1930, en skólahaldi var haldið áfram í nýrri byggingunni. Flensborgarskóla var fundin ný staðsetning á Hamrinum árið 1937 og lagðist þá skólahald af á þessum stað (Ásgeir Guðmundsson, 1983; Sigurður Skúlason, 1933).

Flensborgarverslun

Flensborgarhöfn

Fyrsta skipsmíðastöð landsins var í Hafnarfirði, athafnamaðurinn Bjarni Sivertsen kom henni upp árið 1805. Talið er að hún hafi verið staðsett á sömu slóðum og slippurinn við Flensborgarhöfn stendur nú. Árið 1918 tók Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar til starfa á sama stað, en flutti sig um set nokkrum árum síðar. Skipasmíðastöðin Dröfn var sett á stofn árið 1941 og hóf upp úr því að byggja skipasmíðastöð og slippinn sem enn stendur við Flensborgarhöfn. Þar fór fram bæði nýsmíði á bátum af ýmsum stærðum og gerðum og einnig bátaviðgerðir (Ásgeir Guðmundsson, 1983; Jón Pálmason, á.á.).

Fyrsti hluti Íshúss Hafnarfjarðar við Flensborgarhöfn reis árið 1918, og byggðist það síðan áfram upp í áföngum. Elsti hlutinn hefur verið rifinn, en núverandi byggingar eru frá því um eða rétt fyrir miðja 20. öld allt fram til 1992, er nýjasta viðbyggingin reis. Upphaflega var þar aðallega fryst beitusíld og geymsla á kjöti. Í gegnum árin hefur ýmis konar starfsemi verið í byggingunum, en lengst af fiskvinnsla (Ásgeir Guðmundsson, 1983; Haraldur Jónsson, viðtal 8, 2014).

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn – smábátahöfnin 2024.

Upphaf smábátahafnarinnar má rekja til ársins 1969 þegar flotbryggja var gerð við Óseyri. Óseyrarbryggja var síðan fullgerð árið 1976 og trillubátabryggja, rampi sem hallaði út í sjó, var byggð 1977. Árið 1989 varð mikil breyting á allri aðstöðu í smábátahöfninni þegar ráðist var í umbætur á henni, höfnin var dýpkuð og settar voru upp flotbryggjur fyrir allt að hundrað báta. Þá fékk smábátahöfnin nafnið Flensborgarhöfn og dró nafn sitt af Flensborgarskólanum, sem áður stóð skammt frá flotbryggjunum (Björn Pétursson & Steinunn Þorsteinsdóttir, 2012).

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón – bygð smábátaeigenda.

Löng hefð er fyrir smábátaútgerð í Hafnarfirði og þykir aðstaða trillueigenda mjög góð í Flensborgarhöfn frá því henni var komið upp. Grásleppukarlar voru þarna og seldu afurðir sínar beint til viðskiptavina við höfnina. Þeir áttu margir netaskúra skammt frá flotbryggjum sem voru fjarlægðir (Björn Pétursson & Steinunn Þorsteinsdóttir, 2012), en í þeirra stað risu verbúðir um og upp úr miðjum níunda áratugnum. Verbúðirnar voru ætlaðar smábátaeigendum í útgerð, þar var aðstaða fyrir veiðarfæri, beitningu og fleira (Már Sveinbjörnsson, viðtal 1, 2014). Verbúðirnar eru staðsettar á Flensborgarhöfn og hýsa nú lítil fyrirtæki og starfsemi af ýmsum toga.

Þytur

Siglingaklúbburinn Þytur.

Siglingaklúbburinn Þytur fékk lóð sunnan Drafnarslippsins og byggði húsnæði þar, sem var tekið í notkun árið 1999. Þar er bátaskýli, verkstæði og félagsaðstaða klúbbsins (Siglingaklúbburinn Þytur, 2014). Umræða um framtíðaruppbyggingu á Flensborgarhöfn hefur staðið lengi. „Ef vel tekst til getur Flensborgarhöfn orðið perla Hafnarfjarðar“ segir í umfjöllun í Morgunblaðinu árið 1989 og um leið var því sjónarmiði lýst að „Flensborgarhöfn verði staður sem allir Hafnfirðingar og gestir þeirra hafi gaman af að heimsækja“ (Morgunblaðið, 1989). Þetta var um það leyti sem umbætur á smábátahöfninni voru gerðar og hún stækkuð. Síðan hefur umræða haldið áfram og fjöldi frumhugmynda verið unnar fyrir svæðið, ýmist að beiðni bæjaryfirvalda, lóðahafa eða hafnaryfirvalda (Bjarni Reynarsson, 2009;

Heimild:
-https://www.hafnarfjordur.is/media/flensborgarhofn/Soguagrip_Hafnarfj.+Flensborgarhof

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn – í sögulegu samhengi,

Seltún

Verkefnið um Brennisteinsvinnslu í Krýsuvík er unnið 2010-2014 með það að markmiði að safna upplýsingum um minjar tengdar brennisteinsnámusvæðunum á Reykjanesskaganum; í Seltúni og Baðstofu í Krýsuvík annars vegar og Brennisteinsfjöllum hins vegar, sem og að skrá og miðla fróðleiknum til annarra.

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsnám á Reykjanesskaga.

Meginviðfangsefnið er þó að reyna að gefa sem sögulegast yfirlit um brennisteinsvinnsluna, bæði í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum, með hliðsjón af fyrirliggjandi heimildum og leggja fram fornleifaskráningu af svæðunum (sjá fornleifaskráningu af svæðu, auk korta og örnefnaloftmynda á Krýsuvíkursvæðinu). Fylgt var leiðbeiningum Minjsstofnunar Íslands (Fornleifaverndar ríkisins) um fornleifaskráningu.
Eins og að framan greinir er Krýsuvíkursvæðinu skipt í tvennt, annars vegar Seltúnssvæðið með tilheyrandi minjum sem og svæði norðan Kleifarvatns er tengst gæti brennisteinsvinnslunni á árunum 1879-1883 og hins vegar Baðstofusvæðinu ofan svonefndra bústjórahúsa. Götur að námunum eru tilgreindar í örnefnalýsingum um Krýsuvík og verður því einnig lýst hér, enda hlutar af órjúfanlegri minjaheild.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í Brennisteinsfjöllum er í lýsingum og getið heimilda um leiðir að og frá námunni og minja við þr sem og námusvæðið sjálft austan Kistufells. Öll voru námusvæðin fyrrum í Krýsuvíkurlandi (sjá kort á bls. 4) og tilheyrðu því lögsagnarumdæmi Grindavíkur á meðan var. Um er að ræða hluta af atvinnu- og verslunarsögu Íslands og því ástæða til að halda henni til haga. Talið er að brennisteinn hafi verið unninn af Krýsuvíkurbónda á námusvæðinum allt frá 12. öd. Á 17. öld yfirtók danski konungurinn eignarhaldið uns þar var framselt einstaklingum og loks félögum í eigu erlendra aðila. Endalok brennisteinsvinnslu í Krýsuvík var um 1882 og í Brennisteinsfjöllum þremur árum síðar.

Ritið í heild fæst hjá Antikva ehf í Garðabæ.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

Búrfell

Gengið var frá Kaldárseli að Valahnúkum. Steinrunnin tröllin trjónuðu efst á hnúkunum. Þau sáust langt að og reyndu heldur ekki að leynast. Tröllin virtust vera að bíða af sér veturinn.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Annars eru tröll fallega ljót, hvert með sitt sérkenni. Þau eru afar misjöfn í útlit, sum stórskorin, önnur með horn og vígtennur, stór eyru og nef en lítil augu. Vörtur finnst þeim vera mesta prýði og oft virðast þau grimm á svip, en það segir bara hálfa söguna því flest eru þau gæðablóð og trygglindir náttúruvættir.
Tröllin eru bæði stór og sterk, í sumum þjóðsögum er sagt að þau séu líka heimsk, gráðug og oft svolítið grimm en í öðrum sögum eru þau góð og launa vel fyrir ef að eitthvað gott er gert fyrir þau. Tröll ferðast yfirleitt um á nóttunni og þá einkum að vetrarlegi. Tröllin búa í hömrum og klettum upp í fjöllum eða í hellum. Sum tröll mega ekki vera úti í dagsljósi og verða að steini þegar sólin kemur upp, þau heita nátttröll. Tröllin á Valahnúkum eru ágætt dæmi um tröll, sem hafa dagað uppi þegar þau voru of sein fyrir, sólin kom upp yfir Bláfjöllum og þau urðu að steini þar sem þau voru. Það eru til ýmsir skrítnir steinar í náttúrunni sem má kannski geta sér til um að hafi verið tröll sem ekki náðu heim til sín áður en sólin kom upp.
Tröllabörn
Talið er líka að sum önnur ummerki í náttúrunni séu eftir tröll því sumar sögur segja að þau hafi fært til fjöll. Grýla og Leppa-Lúði, sem svo margir hafa heyrt um og eru foreldrar jólasveinanna, eru tröllahjón. Vitað er um dvalarstað þeirra í einum hellanna í Arnarseturshrauni við Grindavík (sjá FERLI-783). Önnur tröllafjölskylda er talin búa í Rauðshelli skammt frá Valabóli, örskotslengd frá Valahnúkum. Maður úr Hellarannsóknar-
félaginu, sem sá tröllabarnastóðið og heyrði hroturnar á ferð sinni um hellinn, varð svo mikið um að hann flúði öfugur út aftur – og er hann þó talinn með stilltari mönnum. Síðar var nákvæm mynd af hópnum rissuð upp eftir lýsingu hans. Þá er vitað af tröllum í Trölladyngju. Sögn er a.m.k. um að hjón úr Vogunum hafi séð þar tröllabarni bregða fyrir síðla kvölds í hálfrökkrinu.

Valaból

Í valabóli.

Tröll eru líka stundum kölluð skessur, risar, jötnar eða þursar.
Komið var við í Músarhelli og síðan gengið eftir slóð í gegnum Mygludali, um Víghól að Húsfelli. Þar var haldið um Kringlóttugjá og upp á brún Búrfells. Gígurinn er stórbrotinn og hrauntröðin tilkomumikil þar sem hún liggur um og myndar Búrfellsgjána. Í stað þess að ganga niður gjána var haldið til norðurs yfir að Kolhól. Hólinn er landamerki. Sunnan undir honum, í grónum hvammi, má sjá hleðslur. Einnig eru hleðslur með hraunkanti skammt vestar.
Gengið var frá Kolhól niður um Garðaflatir og að Gjáarrétt.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.hi.is/~soleya/#TRÖLL

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Stóri-Hólmur

Gengið var um Stóra-Hólm og Litla-Hólm í Leiru.
Í Landnámu segir, að Ingólfur Arnarson hafi gefið frændkonu sinni, Steinunni, Rosmhvalanes allt utan Hvassahrauns, en hún kaus að gefa fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla. Henni þótti það Stóra-Hólmshúsiðóhættara við riftingu. Steinunn kom út til Íslands, ekkja eftir Herlaug bróður Skalla-Gríms og með henni synir hennar tveir, Njáll og Arnórr. Talið er að Steinunn hafi búið að Stóra Hómi (síðar nefndur Stór-Hólmur) í Leiru. Kaup Steinunnar við Ingólf héldu betur en mörg önnur landkaup er Landnáma greinir frá. Síðar kom Ketill gufa út til Íslands, og lenti á hrakhólum. Hann sóttist eftir landi að Gufuskálum í Leiru, en Steinunn fékk hann til að fara annað gegn því að fá verbúðarrétt á Hólmi. Er samkomulag þeirra talið upphaf verstöðva utanhéraðsmanna á Suðurnesjum. Slíkir samningar um aðstöðu og nýtingarétt áttu sér síðan um þúsund ára skeið í atvinnusögu þjóðarinnar.
Litla-HólmshúsiðLandnám Steinunnar tókst og er hún talin meðal fyrstu landsnámsmanna Íslands. Vitsmunir hennar, hagkvæmni og samkomulagsvilji í skiptum við aðra mun hafa verið ástæða þess að við hana festist viðurnefnið og virðingarheitið „hin gamla“.

Í örnefnalýsingu fyrir Hólm segir m.a.: „Þetta var höfuðbólið í Leirunni, næst við Gufuskála. Upplýsingar eru frá þeim sömu og fyrr var getið og þar að auki Jóel  Jónsson, Kötluhól.
Litlihólmur var býli byggt úr landi Stórahólms. Þar var sérstök lending og þar er enn búið. [Við Stóra-Hólm voru] Bakkakot, Nýlenda, Rófa, Garðhús, Ráðagerði og Kötluhóll er nefndur 1703 og enn er hann til sem býli. [Býlið Steinar (Steinakot) er þar einnig að finna.]

Litla-Hólmskot

Í Litlahólmslandi eru hjáleigubýli, Litlahólmskot og Þórukot. Í Sjálfkvíum rak hval 1882. Þetta var stór jörð, margar kýr og mikið að gera. Þess má geta að aldrei fórust skip í Leiru nema frá Litlahólmi. Þá er næst að geta Bakkakots, sem einnig var sérbýli með sérlendingu og grasbýli. Þar voru tvö kot, Traðarkot, þar [sem] þær (svo) voru heitir nú Kúamóatraðir, og Steinar sem fóru í eyði 1930. Innan við Steina tók við Nýlenda. Tún hennar liggur að Bakkakoti. Þar ofar var hjáleiga sem hét Hábær. Þar austur af var Rófa. Upp af henni er hóll sem heitir Kollhóll.
Kötluhóll er grasbýli ofan við Bakkakot. Efst upp við garðinn ofan við bæinn er hóll sem virðist vera holur innan. Heitir hann Kötluhóll. Túngarður er á merkjum móti Garðhúsum. Norðan við Kötluhól er svo Rófan sem fyrr getur. Þar utar og neðar var Nýlenda. Beint fram undan LindBakkakoti er Leiruhólmi. Milli Bakkakots og Hrúðurness, er síðar getur, er Lásalón). Kötluhóll  á fjörustykki frá Stekkjarnefi að Flúðarsnös. Vatnshóll er á merkjum móti Litlahólmi.
Efst við veginn er holt sem heitir Sundvörðuholt. Þar ofar eru Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Á vesturhluta Langholts var 1793 hlaðin varða, nefnd Ranglát. Var hún merki þess hvar mætti leggja línu.
Þá er að athuga Stórahólmslandið. Að vestanverðu eru merkin þannig: Á Stórahólmshólma vestan til við svonefndar Stíflur en það er lágt rif er liggur frá hólmanum að Bakkakotslendingu um stórstraumsfjöru, þá til landsuðurs að merktum steini í litlu sandlóni, svo í austurlendingarkamp hjá Nýlendu. Svo er merkt klöpp efst á Hjallarifi.

Brunnur

Þaðan til landnorðurs austast að Skarfatanga.
Hólmssund hét sundið sem farið var hér um. Inn úr því voru allmargar varir, svo sem Stór[a]hólmsvör, Ráðagerðisvör, svo Hrúðurnesvör og Melbæjarvör er síðar getur. Stór[a]hólmsvör er sú sem sagt er frá 1840. Hafi vörin verið rudd með miklum kostnaði fyrir um 50 árum og fékk sá verðlaun frá konungi fyrir. Fram undan hér er Leiruhólmi. Hólmi þessi var áður grasi vaxinn og þar munu Þjóðverjar hafa haft bækistöðvar sínar. Grjótbelti liggur inn að Hólmssundi, slítur þar sundur og heitir Hrúðurlón. Hjá Stórahólmi var þurrabúð sem heitir Krossabrekka. Þar er bærinn nú. Þar fyrir ofan var kot þar sem nú heita Fjósvellir. Þar upp af var Garðhús. Neðan við Stórahólm er Nikulásarnaust og Nikulásarvör.“
FornmannagröfSumir hafa haldið því fram að Steinunn gamla hafi búið á Steinum ofan og milli Stóra-Hólm og Litla-Hólms og að gröf hennar sé í sléttum hól ofan við Stóra-Hólm, neðan Kötluhóls.
Norðan við íbúðarhúsið að Stóra-Hólmi er bátslaga hleðslur. Kunnugir segja að þar hafi Hólmkell, fornmaður, verið grafinn. Aðrir segja hann hafa heitið Stórólfs og bletturinn nefnist Stórólfsleiði. Þennan blett mátti aldrei slá, enda girtur af til langs tíma.
Sagan segir að smali hafi látist þar eftir áverka. Áður en hann lést óskaði hann þess að verða grafinn við götuna heim að bæ. Mun hann hafa verið grafinn „skammt innan við hliðið“. Yfir honum á að vera hella og á henni áletrun. Hella þessi hefur ekki fundist þrátt fyrir leitir.
GarðurÍ örnefnalýsingu fyrir Innrileiru segir m.a. um Hólm: „Verður nú haldið til baka út í Litla-Hólm. Bærinn stóð á háum hól og var norðurhluti hans öskuhaugur. Húsið sem nú er stendur aðeins ofar á hólnum en gamli bærinn.
Stórt tún var á Litla-Hólmi, suðaustan og sunnan við bæinn. Liggur það að túni Bakkakots, sem er við sjóinn suðaustur af Litla-Hólmi. Frá Bakkakoti var gata niður í naust. Aðeins suðaustan við naustin stóðu tvö sjávarhús. Var saltaður fiskur í því austara, en veiðarfæri geymd í hinu. Þessi hús voru pakkhús frá Bakkakoti.
Lending frá Litla-Hólmi var beint niður frá bænum og voru þar einnig sjávarhús fast suðaustan hennar – einnig nefnd pakkhús, en svo voru stærri sjávarhús kölluð á þessum slóðum. Lendingin var kölluð Litla-Hólmsvör (og var langmest mannvirki af öllum vörum í Leiru. Um hana segir svo í bókinni, Undir Garðskagavita: „Litla-Hólmsvör er byggð af Páli bónda Jónassyni, er þar bjó á seinni hluta 19. aldar. Vörin er 50 metra löng, 10 metra breið og vegghæð einn til tveir metrar. Af þessu mikla mannvirki eru 20 metrar byggðir í sjó. Margir steinar í vegghleðslunni munu vega yfir 1 tonn, sumir allt að 2 1/2 tonn. Er hleðslan gerð af meistarahöndum og raunar hið mesta þrekvirki, svo að gengur undrum næst, hvernig verkfæralaus maður hefur getað framkvæmt þetta. Páll Jónsson bjó seinast í Vörum í Garði og dó þar skömmu eftir aldamótin, fimmtugur að aldri.“
Norðvestast í Litla-Hólmstúni voru tvö tómthúskot. Var það efra kallað Litla-Hólmskot, en það neðra Stóra-Hólmsvörhét Móhús. Örskammt var á milli þeirra. Kot þessi munu hafa farið í eyði nálægt 1916.
Suðvestur af miðju Bakkakotstúni voru þrjú tómthúskot frá norðaustri til suðvesturs. Nokkrir faðmar eru á milli þeirra. Næst Bakkakoti var Traðarkot, þá Steinar og fjærst Hábær.
Stórhólmur er nálægt því beint í suður frá Bakkakoti, þó aðeins vestan við suður. Bærinn stóð á miklum hól, Stórhólmshól, ofarlega í túni.
Neðan við hólinn, aðeins austanhallt, var brunnstæði og var þangað sótt vatn, bæði til bæjar og gripa. Fjós var sambyggt gamla bænum.
Lendingin er beint í norðaustur af bænum. Krossabrekka var tómthús, neðanhallt í miðju túni, á milli lendingar og gamla bæjar. Heldur ofar en á þeim stað er nú nýja húsið á Stóra-Hólmi.
HólmurRófa var grasbýli vestur frá Stórhólmi og lágu túnin saman. Bærinn stóð nokkurn veginn í miðju túni. Nýlenda var norðnorðvestast í Rófutúni, Henni fylgdi dálítið tún til austsuðausturs og norðausturs. Tún Stórhólms var neðan og austan þess.
Kötluhóll er suðaustan Rófu. Hann er grasbýli. Tún Rófu og Kötluhóls lágu saman. Bærinn á Kötluhól var suðvestast í túninu.
Suðaustur af Kötluhólstúni voru Garðhús ft., grasbýli. U.þ.b. 100-150 m eru milli Kötluhóls og Garðhúsa.“
Stóri-Hólmur í Leiru er í jarðabók 1861 langstærst metna jörð í Rosmhvalaneshreppi. Um aldamótin [1900] var byggð mjög blómleg í Leirunni. Þá áttu þar heima 134 manns á 29 heimilum, 11 eru taldir bændur, hinir tómthúsmenn. Þá gekk þaðan um einn tugur heimaskipa á vetrarvertíð og á vorvertíð fóru þaðan 62 fleytur þegar flest var.
Skoðaðar voru tóftir hinna gömlu bæja við Stóra-Hólm og Litla-Hólm. Á síðarnefndu jörðinni eru Litla-Hólmskot og Móhús ofan við gamla bæinn. Reynistaður var ofar og nær Langholti. Á síðarnefndu jörðinni má enn sjá tóftir gamla Stóra-Hólms, Rófu, Nýlendu, Steina, Hábæjar, Kötluhóls og Bakkakots. Síðar verður fjallað um innri Leirubæina þar sem nú er golfvallasvæði .
Frábært veður. Gangan tók 2. klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stóra-Hólm (og Litla-Hólm).
-Undir Garðskagavita, bls. 334.

Litla-Hólmsvör

Grindavík

Klukkan þrjú í nótt, 14. janúar 2024, hófst áköf smáskjálftavirkni á sama svæði og gos hófst 18. desember síðastliðinn austan við Sundhnúk. Einkenni jarðskjálftavirkninnar voru á þá leið að talið var fullvíst að kvikuhlaup væri hafið. Grindavíkursvæðið var rýmt.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024.

Klukkan sex um morguninn hafi virst sem framrás gangsins hafi stöðvast. Eftir það virtist jarðskjálftavirkni hafa náð jafnvægi og gos hófst rétt fyrir klukkan átta austan við Hagafell á ca. 900 m langri sprungu, skammt sunnan við eldri gossprunguna. Um hádegisbilið opnaðist svo ný 100 m sprunga skammt suðvestar, u.þ.b. 200 metrum ofan við efstu húsin við götuna Efra Hóp í í Hópshverfinu. Hraun tók fljótlega að renna áleiðis að hverfinu og eyrði engu, sem á vegi þess varð.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024.

Hraunið úr Sundhnúk og gígaröðinni norðan hans er talið vera yngra en 3000 ára og eldra en 2000 ára. Þá myndaðist Sundhnúkahraun. Eldra hraunið, sem myndaði Dalahraun, kom upp í gígaröðnni skammt austar, er talið vera yngra en 8000 ára og eldra en 3000 ára.

Fornleifar hafa farið undir nýja hraunið þar sem Skógfellavegur lá um gossvæðin millum Grindavíkur og Voga. Fornar götur hafa ekki hingað til verið í fyrirrúmi við skráningu fornleifa þrátt fyrir ákvæði þess efnis í fyrrum Þjóðminjalögum og núverandi Minjalögum.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024. Neðri gossprungan.

Lengri sprungan er að mestu leyti norðan þeirra varnagarða sem lokið hafði verið við að mestu. Þeir beindu megin hraunstraumnum til vesturs og náði hrauntungan fljótlega vel yfir Grindavíkurveg og þaðan áfram meðfram görðunum til suðvesturs.

Telja verður líklegt að gosið verði skammvinnt nú, líkt og hið fyrra. Grindavík er nú rafmagns-, hitavatns- og heitavatnslaus. Ljóst er að mikil uppbyggingarvinna er framundan, bæði meðal íbúanna og stjórnenda sveitarfélagsins með nauðsynlegum stuðningi ríkisvaldsins sem og alls almennings í landinu.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024.

Á vefsíðunni www.ferlir.is má sjá lýsingar, fróðleik, frásagnir, myndir og uppdrætti af öllum fornum þjóðleiðum á Reykjanesskagnum. Þú þarft einungis að skrifa örnefnið í leitina efst á vefsíðunni…

Sjá má myndir af goshrinunum ofan Grindavíkur HÉR. Einnig má sjá myndir frá eldgosum við Litla-Hrút, í Geldingadölum og í Meradal.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024. Efri gossprungan.