Færslur

Brúnavörður

Ætlunin var að berja þetta fágæta og jafnframt dýrmæta svæði auga og skoða hinar merkilegum minjar á því. Nú er ljóst að vegstæði svonefnds Suðurstrandarvegar mun ekki liggja yfir hólmann, eins og ein tillagan af þremur kvað á um.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Með í för var m.a. hinn áhugasami bæjarstjóri Grindvíkinga, Ólafur Örn Ólafsson, auk fleiri fjölfróðra samsveitunga hans. Farið var niður með austurjarði Ögmundarhrauns, litið á gróið gerði utan í hrauninu og síðan haldið yfir í hólmann eftir Húshólmastíg. Skoðaðar voru hleðslur í norðausturhluta hólmans þar sem fé hefur haldið til haga, gróið gerði og forn fjárborg. Þá var gengið að efsta garðinum, sem nær yfir hólmann frá vestri til austurs. Reyndar er garðurinn rofinn á miðkaflanum, en hann hefur að mestur verið úr torfi. Þá var haldið að neðri garðinum, sem liggur í boga úr suðri til norðurs og beygir síðan til vestur inn undir hraunið. Sjá má í enda hans undir hrauninu þar sem það hefur brennt hann á kafla. Haldið var inn í hraunið til vesturs af Kirkjuflöt, fornum grafreit, og að hinum fornu minjum, gamla Krýsuvíkurbænum og tóttunum þar í kring, görðum og hinum forna skála, auk þess sem komið verður við í hinni fornu Krýsvíkurkirkju eða hofi, en minjarnar eru a.m.k. frá því fyrir rennsli Ögmundarhrauns, sem rann 1151. Jafnvel er talið að minjarnar kunni að vera eldri en norrænt landnám hér á landi.

Húshólmi

Húshólmi – fjárborg.

Að minnsta kosti er hér um að ræða einar “verðmætustu” fornleifar hér á landi. Í skálanum mátti til dæmis sjá holur eftir miðstoðir (stoðarholur). Bent var á hinn flóraða Brúnavörðustíg og síðan gengið út á Kirkjulágina, skoðaður þvergarður þar sem og jarðlægt gerði vestast í henni. Loks var litið á sjóbúðina syðst í hólmanum, á rekagötuna niður að Hólmasundi og síðan gengin sjávargatan út úr hólmanum til austurs. Við hana eru einnig fornar minjar í gróðurvin inn í hrauninu. Neðar eru Þyrsklingasteinar og sjá má í hluta gamla bjargsins þar sem nýja hraunið hefur runnið fram af og allt um kring.
Frábært veður.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma.https://ferlir.is/husholmi-7/

Húshólmi

Gengið var niður með austanverðu Ögmundarhrauni. Talið er að hraunið hafi runnið 1150. Nokkurn veginn miðja vegu að Húshólmastíg er nokkuð stórt bogadregið gerði utan í hraunkantinum. Óvíst er hversu gamalt þetta er, en líklega hefur það verið notað sem hestagerði.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var 1.1 km inn eftir Húshólmastíg. Stígurinn er bæði breiður og vel ruddur. Komið er niður í rana á norðaustanverðum hólmanum. Þegar gengið er niður má sjá h beggja meginn stígsins, líklega til að varna fé uppgöngu. Þegar gengið er niður ranann er komið að hleðslum yfir stíginn og skammt þar frá er stekkur hægra megin við hraunkantinn, nokkuð stór. Vestan við stekkinn má sjá nokkrar tóttir. Þær gætu hafa verið sel frá Krýsuvík, en lega þeirra er í samræmi við legu flestra annarra selja á Reykjanesi, í skjóli fyrir austanáttinni. Neðan við tóttirnar má víða sjá vatnsbolla. Handan við hraunhornið hægra megin er skotbyrgi refaskyttu, andspænis greni í nokkurra metra fjarlægð til austurs. Steinn er ofan við opið. Enn innar, upp í krika að norðanverðu, má sjá móta fyrir mjög gömlu garði – í boga út frá gróinni hrauntotu.

Húshólmi

Húshólmi – fjárborg.

Hóll í suðri er gömul fjárborg. Haldið er framhjá henni, niður með hraunkantinum og er þá komið að gömlu garði er liggur upp í hólmann, undan hrauninu. Sjá má slitrur af honum ofar í hólmanum, í beinu framhaldi, ef vel er að gáð. Spölkorn neðar liggur annar stór garður neðanfrá hólmanum og hverfur undir hraunið. Sjá má framhald garðsins fyrir innan hraunkantinn. Sunnan garðsendans liggur stígur til vesturs inn í hraunið. Honum er fylgt spölkorn uns komið er að vörðu. Þar neðan við eru tóttir gamla Krýsuvíkurbæjarins, vel greinilegar. Vestan við þær sjást aðrar tóttir og norðan þeirra er forn bátlaga skáli, sem hraunið hefur runnið upp að allt um kring. Ef farið er ofan í skálina og flötum steinum lyft má sjá hvar miðsperrurnar, sem héldu uppi loftinu, voru. Ganga þarf frá öllu aftur eins og það var.

Husholmi-24

Skálatóft í Húshólma.

Umhverfis má sjá fleiri göt í hrauninu eftir að það rann að öðrum húsum, flestum líklega topphlöðnum, sem bendir til þess að tóttirnar séu mjög gamlar. Sýnatökur í hólmanum staðfesta reyndar að svo sé, eða allt frá um og fyrir 870. Stígur liggur áfram til vesturs að Óbrennishólma. Þar eru a.m.k. tvær fjárborgir, önnur mjög stór, og hlaðinn garður, sem hraunið hefur runnið að og stöðvast. Þá er þar einni langur garður langleiðina upp hólmann, sem enn sést móta fyrir. Óbrennishólma verður líst annars staðar.

Húshólmi

Húshólmi – stekkur.

Fylgt er stíg til norðurs, að gömlu Krýsuvíkurkirkju. Vestan við hana er greinilegur garður. Liggur hann í boga að kirkjutóttinni og virðist hafa umlukið hana. Innan garðsins virðast vera tóttir af skála. Vestan hans liggur stígur til suðvesturs inn í hraunið, í áttina að brúnavörðum. Þessi stígur var ruddur af sonum Krýsuvíkur-Gvendar, og er mjög fallegur á köflum. Hann nær þó ekki alla leiðina yfir hraunbrúnina, heldur endar skammt norðaustan við hæð þá, sem vörðurnar eru á. Þá er reyndar skammt eftir ofan af hraunbrúninni yfir á sléttan stíg er liggur upp með hraunkantinum að Óbrennishólma og áfram að og fyrir Lat.

Húshólmi

Húshólmi – stígur að Brúnavörðum.

Genginn var kirkjustígurinn aftan við kirkjuna inn í hólmann. Þá var komið í Kirkjulágina, sem mun vera forn grafreitur, sem á eftir að kanna nánar, eins og reyndar svo til allar tóttirnar í Húshólma. Sunnan Kirkjuláginnar liggur enn einn garðurinn undan hraunkantinum að vestanverðum og upp að garðinum, sem lýst var áðan. Sá garður liggur áfram niður hólmann og hverfur undir hraunkantinn syðst í honum.
Syðst í hólmanum er tótt. Hún er hluti sjóbúðar, sem síðast var notuð 1913. Rekagatan, Hólmastígur, liggur niður að sjónum neðan hennar.
Annar stígur liggur suðaustan í Húshólma, svo til alveg niður við ströndina. Hann var genginn til baka. Þá var gengið ofan við Seltanga og komið við á grónu svæði ofan þeirra. Þar sést móta fyrir garði eða görðum undan hrauninu.
Húshólmi

Í Húshólma.https://ferlir.is/husholmi-7/

Brúnavörður

Selatangar eru forn verstöð, sennilegast notuð þegar á miðöldum. Hraunið, Ögmundarhraun, er frá því um 1150, en það ár lagði það gamla Krýsuvíkurbæinn í Húshólma, sem er litlu austar, í eyði og færði garða og mannnvirki í og við Óbrennishólma í kaf. Þó má sjá þar móta fyrir hlöðnum vegg, sem hraunið hefur stöðvast við, fjárskýli, jarðlægu garðlagi og fjárborg (virki?).

Á Selatöngum

Verkhús á Selatöngum.

Frá Selatöngum var róið frá Krýsuvík, Skálholti og Ísólfsskála. Talið að a.m.k. 80 manns hafi hafst þar við í verum. Síðast var verið á Selatöngum um 1880, en róið var þaðan frá Skála og selveiðar voru stundaðar allnokkur ár eftir það. Þá var oft lent þar síðar ef lending var ófær annars staðar meðan róið var á opnum skipum, s.s. frá Þórkötlustöðum, Hrauni og víða. Við Dágon neðst á Töngunum eru landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur. Um minjarnar og minjasögu Selatanga er m.a. fjallað í nýútkomnu riti Ferðamálafélags Grindavíkur “Merkar minjar í umdæmi Grindavíkur- Seltangar. Auk þess hefur Ferðamálafélagið gefið út ritið “Merkar minjar í umdæmi Grindavíkur – Húshólmi“,

Selatangar

Selatangar – refagildra.

Á og við Selatanga sjást miklar rústir seinni tíma verbúða hlöðnum úr hraungrýti svo og rústir af fiskbyrgjum þar sem hertur fiskur var geymdur. Sjórinn hefur afmáð elstu minjarnar. Á görðunum, sem víða sjást, var einnig hertur fiskur þegar veður gaf. Sums staðar er hlaðið fyrir hraunhella og þeir notaðir sem byrgi. Vestan við Seltanga er sagður hellir sem notaður var til smíða í landlegum. Einnig má sjá hlaðnar refagildrur frá síðustu öld.

Selatangar

Selatangar- Tanga-Tómas með FERLIRSfélögum.

Á Selatöngum var afturgangan Tanga-Tómas, sjórekinn spánskur sjómaður, svo hatröm að ekki þýddi að skjóta á hana silfurhnöppum sem yfirleitt dugðu helzt á drauga, en frekast dugðu lambaspörð. Auk Tanga-Tómasar eru margir aðrir draugar á ferli á Seltöngum og í nágrenni þeirra, einkum þegar skyggja tekur. Síðast þegar FERLIRsfélagar voru á ferð á Selatöngum birtist þeim einmitt Tanga-Tómas með eftirminnilegum hætti, auk þess sem hann kom einum félaganum að óvörum þegar verið var að skoða refagildrurnar í annarri ferð þangað. Fræg er og sagan af Arnarfellsbónda og átökum hans við drauginn seint á 19. öld.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Á Miðrekum eru líka sagnir um anda, reyndar annarskonar, og greinir mönnum á um eðli hans. Sumir segja að þar hafi þeir rekist á vín-anda, en aðrir heilagan anda. Hvort vínandinn hafi orðið að heilögum anda, eða öfugt, á leiðinni er erfitt að segja til um. Austan Miðreka eru Brúnavörður. Frá þeim liggur stígur yfir hraunið inn í Húshólma.

Selatangar

Sögunarkór í Katlahrauni

Í Húshólma eru fornar minjar búsetu. Landnámsöskulagið frá um 872 er þar í garðpælu, en í hólmanum og í hrauninu vestan hans má m.a. sjá rústir, garða og hleðslur. Sumir vilja halda því fram að þarna hafi búið fólk löngu á undan komu norrænna manna til landsins.

Húshólmi

Húshólmi – minjasvæðið. Kirkjulágar efst.

Minjarnar í og við Húshólma hafa ekki verið rannsakað að ráði, en ljóst er að Ögmundarhraunið rann yfir landið um 1150, kaffærði byggðina, færði ströndina utar og lokaði víkum og lónum við ströndina, þ.á.m. gömlu Krýsuvík, en “krys” nefndist áður fyrr vík eða skora. Lágbarið fyrrum grágrýtið ofan við Hólmasundið bendir til þess ströndin hafi þarna fyrrum legið vel við sjó.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Í Húshólma er m.a. forn langur bogadreginn garður, skáli, kirkja, kirkjugarður, hústótt, fjárborg, selstaða (stekkur og hús), sjóbúð (notuð síðast 1913), hlaðin refagildra, rétt o.fl. Það hefur verið öðruvísi um að litast á þessu landssvæði við upphaf byggðar.
Gangan tók 4 klst og 6 mín. Frábært veður.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Húsatóftir

Í Fornleifaskráningum í Grindavík, 1., 2. og 3. áfangi, á vegum Fornleifastofnunar Íslands 2002 sem og í svæðisskráningu um Menningarminjar í Grindavíkurkaupstað 2001, er m.a. fjallað um einstakar vörður. Hér verður fjallað um þær vörður, bæði þær er enn standa og einnig þær horfnu, sem ekki eru við þjóðleiðir, s.s. sundvörður, leiðarvörður, vörður af miðum o.s.frv. Þá verður einnig fjallað um samskonar vörður, sem ekki hefur verið getið í fornleifaskráningum í byggðalaginu. Hafa ber í huga að land Grindavíkur er umfangsmikið; nær frá Seljabót í austri að Valahnúkamöl í vestri.

Vörður á Þórkötlustaða- og Hópsnesi (Látravarða (Gjáarvarða) og Sigga)

Gjáarvarða

Gjáarvarða ofan Gjárinnar á Nesinu.

“Rétt hjá Siggu ofan við Kambinn er Vatnsgjá. Í henni gætti flóðs og fjöru. Þar upp frá skammt frá vitanum er Látravarða, og norður af þeim hólum heita Katlar.”, segir í örnefnaskrá AG.
Látravarða var í sjónlínu frá Siggu, um 300 m sunnan við þar sem stórt skipsflak er í fjöru. Langur klettahryggur liggur til norðurs frá vegarslóðanum um Hópsnesið (nálægt landamerkjum við Þótköltustaði). Varðan stóð á þessum hrygg, nyrst. Nú er grjóthrúga þar sem varðan var. Grasi- og mosagróið hraunlendi. Enn sést móta fyrir vörðunni en grjóthrúga er á hraunhryggnum þar sem hún stóð.”
Meint “Látravarða” er í raun “Gjáarvarða”, sem stendur enn, gróin og álút, ofan við Vatnsgjána í Hópsnesi.

Heiðarvarða ofan Hóps

Heiðarvarða

Heiðarvarða.

“Svæðið fyrir ofan veginn er nefnt einu nafni Hópsheiði. Það hækkar smátt og smátt. Rétt ofan við veginn er hraunklapparhóll, sem heitir Strandarhóll. Þar austur af er hæðarbrekka, sem heitir Hestabrekkur…Þar ofan við veg (Bræðratungu) utan í Hestabrekkum er komið tún nú. Uppi á þeim er varða, sem heitir Heiðarvarða. Varða þessi er innsiglingarmerki.”, segir í örnefnaskrá AG. Heiðarvarðan er 1100-1200 m norðnorðvestan við bæ og um 900-1000 m austan við þjóðveginn frá Grindavík. Hún er nálega beint austan við mastur sem stendur austan við þjóðveginn. Varðan er 850 m norðan við elliheimilið í Grindavík. Mosa- og grasivaxið hraunlendi. Varðan er á gróinni hraunhæð og sést víða að. Hún er sjálf 2,0-2,5 m á hæð en 3-4 m í þvermál. Nokkuð hefur hrunið úr vörðunni, sérstaklega úr suðurhlið hennar.” (FERLIRsfélagar löguðu vörðuna ásamt nokkrum Grindvíkingum árið  2010.)

Varða –  sjómerki

Grindavík

Efri-Sundvarðan á Leiti – ofan Þórkötlustaða. Vitinn á Þórkötlustaðanesi fjær.

“Sjómerki “3 m austan við girðingu í apalhrauni. Sjómerki. Úr grjóti, 2×2 m (A-V) og 2,2 m hátt. Vel hlaðið. Sjómerkið vísaði leiðina fyrir Járngerðarstaðahverfi inn á Járngerðarstaðasund.” segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg. Varðan er um 200 m norðnorðvestan við og 70-80 m neðan sunnan við girðingu sem girðir af neðri hluta heiðarinnar. Varðan er í grónu hraunlendi. Hún er rúmir 2 m á hæð (2,2) og 2 m í þvermál.”
Um er að ræða efri sundvörðuna á Leiti. Þarna er hún ranglega skráð sem “sjómerki fyrir Járngerðarstaðahverfi inn í Járngerðarsund“.

Stekkjarvarða

Grindavík

Varðan Sigga, austan Síkis.

“Þar fyrir utan [Hópsvör] er Stekkjarvarða og síðan Hellir …” segir í Sögu Grindavíkur I. Um 50 m norðan við gatnamót á vegarslóðanum sem liggur út í Hópsnes austast er hleðsla á hól. Hóllinn sem varðan stóð á er fast sunnan við vegarslóðann. Hún er alveg hrunin og en vel sést hvar varðan hefur staðið. Grjóthrúgan er á klettahrygg, í grónu hraunlendi. Hrúgan er um 1,5 m í þvermál en 0,2 m á hæð. Hún hefur væntanlega verið kennd við sama stekk og Stekkjarfjara.”
Hér er um ranga skráningu að ræða því þetta er sama varðan og “Sigga”. Stekkjarfjaran er mun vestar, nálægt Síkinu. Sunnan þess var Hópsvörin, enda má enn sjá minjar verbúðarinnar ofan við varnargarðinn, sem þar er nú. Norðan (austan) Síkisins eru stekkurinn, fiskhús og fiskþurrkgarðar áður en byrjað var að salta fisk í Grindavík.

Varða neðan Hóps – innsiglingavarða

Grindavík

Grindavík – neðri Hópsvarðan (innsiglingarvarða).

Innsiglingavarða er neðst í túni að Hópi, um 20m suðvestan við bæjartóftirnar og fast norðan við Bakkalág. Sunnan við neðri innsiglingavörðuna er malbikuð gata og fjara en norðar sléttuð tún. Varðan er nýlega hlaðin og steypt, Hún er 4-5 m í þvermál en 4 m á hæð.

Varða neðan Hóps (Neðri-Hópsvarða)
“Vegur liggur frá Bakkalág til norðurs austan við Hópstún, 5-10 m vestan við slóðann er efri innsiglingarvarðan í túninu. Hún er um 50 m sunnan við Austurveg. Hún stendur á grónum hraunhrygg. Varðan er nýleg, hlaðin og steypt. Hún er 5 m í þvermál en 3-4 m á hæð.”
Neðri-Hópsvarða var hlaðin sem innsiglingarvarða eftir að Hópið hafði verið grafið út árið 1939. Hún var síðan endurgerð árið 1955 og á hana sett ljósmerki. Varðan stenst á við Efri-Hópsvörðuna.

Varða ofan Hóps  (Efri-Hópsvarða)

Hóp

Hóp – efri innsiglingarvarðan.

“Upp við girðingu umhverfis tún. Efst á hraunhól. Í hrauni. Sjómerki. Úr grjóti, 3,2x 4m (A – V) og 2,5m hátt. Vel hlaðið. Ofan á sjómerkinu er fúinn tréstaur. Sjómerkið vísaði leiðina fyrir Þórkötlustaðahverfi inn á Þórkötlustaðasund.” segir í skýrslu um fornleifar við Suðurstrandarveg. Varðan er 10 m ofan við sléttuð tún, norðaustan við hesthúsahverfi. Ofan við tún er 10 m breitt hraunsvæði, þar ofan (norðan) við er girðing og er varðan fast ofan við hana. Varðan er um 1 km frá bæ. Varðan er í grónu hrauni. Varðan er 2,5m á hæð og er fúinn staur upp úr henni miðri. Hún er 3-4 m í þvermál.”

Svíravarða neðan Járngerðarstaða

Svartiklettur

Svartiklettur – sundmerki (Svíravarða).

“Næstur er Svartiklettur austan við Staðarvör, upp úr sjó á fjörunni. Þar upp af heitir Svíri…Á Svíra var hlaðin varða, Svíravarða, en áður bar Svartiklettur þetta nafn.”, segir í örnefnaskrá AG. Svíravarða var áður við suðausturhorn fiskvinnsluhúss, þar sem sjógarður gengur til austurs. Hún var um 750 m austan við Járngerðarstaði. Þar sem varðan stóð eru nú tankar og fiskvinnsluhús.”
Vissulega er “Svíravarða” horfin, líkt og sundvarðan neðst í Staðarsundi, en Svartiklettur stendur enn, þótt hann megi muna fífil sinn fegurri.

Vörður í Þórkötlustaðanesi

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – sundvörður.

“Við bryggjuna í Nesvör í Þórkötlustaðanesi eru tvær sundvörður. Vörðurnar eru í grónu en ósléttu og grýttu túni norðan við rústir Þórshamars sem er syðsta húsarústin í Nesinu. Eystri varðan er fast vestan við lendinguna í Vörinni 024 norðaustur af Þórshamri, fast við sjávarkampinn. Sú vestari er um 50 m vestsuðvestar. Hleðsluhæð varðanna er um 2 m og eru þær mest um 1,5 m í þvermál. Umför grjóts eru um 15.”
Nesvörðurnar eru heillegar og standa ofan við gömlu vörina, steypta bryggjuna.

Vörðunes/Vörðunestangi neðan Húsatófta

Húsatóptir

Húsatóptir – neðri sundvarðan ofan Vatnslóns.

Í örnefnaskrá segir: “Fyrir vestan Markhól er Hvalvík… Vestan Hvalvíkurkletta er Jónsbás, u.þ.b. 80 m breiður… Vestan Jónsbáss er hár malarkampur, sem kallaður er Stekkjartúnskampur…Vestan Stekkjartúnskamps eru klettabásar, nefndir Sölvabásar… Vestan Sölvabása skagar tangi fram í sjó. Heitir hann Vörðunes, en er í daglegu tali nefndur Vörðunestangi. Beint upp af honum, u.þ.b. 1 kílómetra, er stór hlaðin varða.”, segir í örnefnaskrá. “Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 metrum austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður.” Varðan er um 800 m austur af bæjarhól, fast norðan þjóðvegar í norðaustur frá húsum fiskeldisins. Varðan er í uppgrónu hrauni.
Í örnefnaskrá segir: “Þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi…Var því miði haldið, þar til Hvirflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóftarvör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað um að vera komin á Snúning.” Varðan er hlaðin úr hraungrýti og er um 2 m á hæð. Hún er mest um 1,5 m í þvermál og umför grjóts eru um tíu. Hleðslur standa. Vörðurnar voru áður tvær en aðeins önnur þeirra er enn til staðar. Sú sem er horfin var suðvestar, þar sem hús fiskeldisins standa nú.”
Framangrein er ekki alveg rétt því báðar vörðurnar standa enn – báðar heillegar. Önnur er ofan vegar og hin á hraunhól vestan Vatnslóns.

Nónvörður vestan Húsatófta

Húsatóftir

Nónvarða ofan Húsatófta.

“Vestur af Húsatóftum er landið nokkru hærra og heita þar Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktamark frá Húsatóftum.”, segir í örnefnaskrá. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn, fast vestan við golfvöllinn og um 250 m vestur af bæjarhól. Fremri varðan sést greinilega af þjóðvegi. Í sendnu, uppblásnu hrauni.”
“Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini. Hefur það orðið að árhrínsorðum, enda standa Nónvörður að nokkru enn.”, segir í örnefnaskrá.
Vörðurnar, sem enn standa, eru tvær og er sú fremri syðst á hraunbungunni en hin um 50 m norðar. Báðar eru hlaðnar úr hraungrýti og eru um 1,2 m á hæð. Þær eru heillegar.

Hvyrflavörður  milli Húsatófta og Staðar.

Hvyrflar

Hvyrflar – sundvarðan (landamerki).

Í örnefnaskrá segir: “Í eystri öxl [Þórðarfells] á vörðu að bera, sem er uppi í háhrauni, þannig að hálf varðan sé inn undir fellinu. Í þessari sömu stefnu eru tvær vörður á undirlendi. Þessu miði skal halda, þangað til tvær vörður, sem eru milli Staðar og Húsatófta, bera saman. Þeim skal svo halda inn undir land, og skal þá beygja við, suður á við, í vörina.” Vörðurnar voru á Hvyrflum sem er hæðardrag á mörkum Staðar og Húsatópta. Syðsta sundvarðan er á sjávarbrúninni fast vestan við bryggjuna og um 500 m norðaustur af bæjarstæði. Á stórgrýttum sjávarkampi.
“Þá koma Hvyrflar; þar eru merki fyrir grunnleiðina inn á víkina. Þau sundmerki eru og landamerkjavörður milli Staðar og Húsatófta …” GE.
Frá Valahnúk. “Neðri varðan er ofan við efsta flóðfar, hin um 150 metrum ofar. Vörðurnar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli Húsatófta og Staðar með stefnu um Skothól í Hauga við Haugsvörðugjá, en hún er á mörkum Húsatófta og Hafnar”, segir í örnefnaskrá Húsatópta.
Í sóknarlýsingu 1840 segir: “…skal stýra beint inn á Þórð og vörðuna, þar til tvær vörður, Hvyrflar eða Hvyrflavörður, auðséðar rétt við sjóinn á bakborða, bera saman, skal þá sleppa sundmerkjunum og halda beint á vörðurnar, þar til opnar liggja lendingarnar á Stað og Húsatóttum, sem liggja til beggja handa.” SSGK, 131. Varðan stendur á steyptum grunni og er um 1,5 m há. Umför eru um tólf. Steypt hefur verið í hleðsluna en varðan er nýlega endurgerð. Eldri varða stóð á nákvæmlega sama stað en sjórinn tók hana.”
Síðastnefnda varðan var endurhlaðin fyrir allnokkru ofan og vestan við bryggjuna. Hún var einnig landamerkjavarða milli Húsatófta og staðar. Brimið tók svo þá vörðu eftir áramótin 2022. Leifar gömlu Hvyrflavörðunnar, þeirrar neðri er í grasbrúninni neðst á Hvyrflum. Varða er einnig á hraunbrúninni ofan Hvyrfla, en varða, sem stóð á hól ofan fiskverkunarhúss er horfin.

Eiríksvarða á Arnarfelli í Krýsuvík.

Arnarfell

Eiríksvarða á Arnarfelli.

“Vestan við Krýsuvíkurhraun niðri undir sjó er fornhraun, sem nefnt er Litlahraun, en í Krýsuvíkurhrauni er Skyggnisþúfa, vestur af Seljabótarnefi. Vestur frá Litlahrauni tekur við allmikil mýri, sem heitir Bleiksmýri. … Vestarlega í mýrinni er stakt fell nokkuð hátt, sem heitri Arnarfell. Vestur af því gengur svo Arnarfellstagl, og framan í því er túnið … Á fellinu er varða, sem heitir Eiríksvarða”, segir í örnefnaskrá.
Arnarfell er stakt fell um 600 m austur af Krýsuvík, eina fellið þar austan við þjóðveginn. Umhverfis fellið er þýfður mói eða mýri. Fellið er gróið upp í miðjar hlíðar en klettótt efst. Varða er vestarlega á fellinu, ofan við bæjartóftir Arnarfells. Hún er að mestu hrunin.”
Eiríksvarða er eignuð Eiríki galdrapresti á Vogsósum, en sagan segir að hann hafi látið hlaða vörðuna eftir að hafa stefnt Tyrkjum, sem komu upp Ræningjastíg við Heiðnaberg, hvern gegn öðrum með þeim orðum að á meðan varðan stæði myndi Krýsvíkingum óhætt fyrir ágangi heiðingjanna. Sagan er svo sama og skráð hefur verið um Gíslavörðu í Staðarhverfi.

Núpshlíðarhorn

Núpshlíðarhorn – varða.

Núpshlíðarhorn – landamerki Ísólfsskála og Krýsuvíkur
“Síðan ber landeigendum ekki saman um landamerki. Eigendur Hrauns segja þau vörðu í Núphlíð og síðan norður í Sogaselsdal. Eigandi Ísólfsskála segir þau úr öxl Borgarfjalls og í Selsvallafjall og þaðan í Sogaselsdal.”, segir í örnefnaskrá LJ. Varða er á Núpshlíðinni norðan við gamla veginn yfir hana. Best að ganga vestur frá Djúpavatnsvegi (Vigdísarvallavegi) þar sem hann sveigir til norðurs austan við sunnanverða Núpshlíð. Varðan er vestan undir háhorninu í hlíðinni og sést í sjónauka frá þjóðveginum. Núpshlíðin er þarna hálf- eða ógróin og grýtt. Varðan stendur, um 1 m á hæð. Umför um tíu, en vörðunni hefur verið haldið við. Hún er um 0,5 m á breidd.”
Varðan á Núpshlíðarhorni var notuð sem mið, en hún er einnig landamerkjavarða Ísólfsskála og Krýsuvíkur.

Gíslavarða

Gíslavarða

Gíslavarða.

Vestur af Húsatóptum er landið nokkuð hærra og heita Hæðir suðvestur af bænum. Á þeim eru Nónvörður, eyktarmark frá Húsatóptum. Vörðurnar eru tvær og standa á hárri ógróinni hraunbungu norðan við þjóðveginn. Fremri varðan sést greinilega frá veginum. Sagan segir að “þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker í landi Staðar. Gekk þá Staðarprestur upp á efstu brún Hæðanna, hlóð þar þrjár vörður og mælti svo fyrir um, að Grindavík skyldi ekki verða rænd, á meðan í þeim stæði steinn yfir steini.”
Á sautjándu öld kom ræningjaskip til Grindavíkur. Þá bjó prestur á Stað er Gísli hét og var hann talin fjölkunnugur. Bæjarbúar fengu hann til að hrekja ræningjana á burt. Hlóð hann svo vörðu til minja um atburðinn og lét svo um mælt að á meðan nokkur steinn væri óhrunin í vörðunni skyldu ræningjar ekki granda Grindavík.” (Rauðskinna hin nýrri. 3 bindi. Rits. Jón Thorarensen. (Reykjavík: Þjóðsaga, 1971), I, 44. Skrásetjari Jón Thorarensen).
Hefur framangreint orðið að áhrínisorðum, enda standa Nónvörður enn, auk vörðunnar á hraunhól (Gíslavarða) skammt vestar, í Staðarlandi.

Vörður, sem ekki er getið um í fornleifskráningum:
-Gróin varða í hrauninu ofan Austurvegar. Varðan var efra sundmerkið frá Buðlungavör. Neðri varðan, sem stóð ofan kampsins vestan og neðan bæjarins er horfin vegna ágangs sjávar. “Túnið á Buðlunga liggur að vörinni og sundvarðan var þar neðst í túni.”, segir í örnefnaskrá AG. “Sundvarða við Buðlungu átti að bera í Fjós og Lambhús á túninu hjá Einlandi og þaðan eru þessi nöfn dregin [þ.e.a.s. nöfn boðanna].

Þórkötlustaðir

Sundvarða ofan Þórkötlustaða.

-Varða ofan hesthúsanna á Leiti. Þar eru tvær sundvörður, en einungis annarrar þeirra er gefið í fornleifaskráningum.
-Varða ofan Hrauns. Hún er skráð sem dys, en var efri innsiglingavarðan í Hraunsvörina. Neðri varðan var ofan við kampinn ofan vararinnar, en er nú hörfin vegna sjóvarna. Þriðja varðan er á túninu ofan Hrauns, skammt ofan og vestan við þann stað, sem gamli bærinn og kirkjan stóðu.
Gíslavarða (sjá umfjöllun úr örnefnaskrá).
Neðri sundvarðan austan Húsatófta (sjá umfjöllun úr örnefnaskrá).
Fiskivörður á Staðarbergi. Ekki er um eiginlegar vörður að ræða heldur hraunstrýtur á berginu þar sem það ber hæst.

Brandur

Vörðurnar Brandur og Bergur.

Sundavarða austan Barnaóss í Hópi. Varðan er horfin undir framkvæmdir.
Stamphólsvarða. Varðan stóð á Stamphól austan Hóps, en hóllinn er nú horfinn undir veg.
Títublaðavarða. Varðan er við Skipsstíg ofan Járngerðastaða. Hún var fyrrum efri sundvarðan inn í Fornuvör. Tómas Þorvaldsson sagði frá því að sú sögn hafi fylgt fólkinu á Járngerðarstöðum að Títublaðavörðunni ætti ávallt að viðhalda.
Brandur og Bergur við Ísólfsskála. Brandur, bóndi á Skála, og vinnumaður hans, Bergur (faðir Guðbergs Bergssonar) hlóðu þessar vörður sér til dægrastyttingar er þeir voru við fjárgæslu við bragga Skálabónda undir Núsphlíðarhorni. (Brandur hrundi í jarðskjálftunum 2020.)
Varða á Krýsuvíkurbjargi. Varðan var hlaðin skammt vestan Vestari Bergsenda sem mið frá veiðistað undir bjarginu. Þessi hluti bjargsins nefnist Krýsuvíkurbjarg, en vestan Eystri-Lækjar, sem rennur fram af því, nefnist það Krýsuvíkurberg.

Selalda

Selalda – varða.

Varða á Selöldu. Varðan var mið neðan við bergið (Heiðnabergs).
Þrjár vörður á Strýthól. Um var að ræða vörður sem mið; þegar þær féllu saman í eina. Strýthólarnir eru tveir vestarlega í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, en miðað var við þann eystri.

Ögmundarhraun

Varða neðst í Ögmundarhrauni – nú hrunin.

Varða neðst í Ögmundarhrauni. Varðan var há og vel hlaðinn uppi á hraunkanti, en er nú fallin. Hún var notuð sem mið.
Varða ofan Selatanga. Varðan var leiðarvarða í innsiglinguna neðan við Selatanga með stefnu í vörðuna á Núpshlíðarhorni.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Brúnavörður. Vörðurnar eru tvær, áberandi, á afrúnuðum hraunhól neðalega í Ögmundarhrauni, millum Óbrennishólma og Húshólma. Þær voru notaðar sem mið.
Sundvarða í Sundvörðuhrauni. Sundvarðan í austanverðu Sundvörðuhrauni (sem er eitt Eldvarpahraunanna, sem myndaðist í Reykjaneseldum á árabilinu 1210 til 1240) er áberandi kennileiti; klettastandur. Hann var mikið notaður sem mið.

Örnefnalýsingar:
Utan (vestan) við Búðasand eru Hvyrflar, hæðardrag á mörkum Húsatófta og Staðar. Þar er vindasamt og einnig taka Hvyrflar af útsýni á milli Húsatófta og Staðar.

Hvyrflar

Hvyrflar.

Á Hvyrflum eru tvær vörður, Hvyrflavörður. Neðri varðan er ofan við efsta flóðfar, hin um 150 m ofar. Vörðurnar eru leiðarmerki á Staðarsundi og landamerki milli Húsatófta og Staðar með stefnu um Skothól í Hauga við Haugsvörðugjá, en hún er á mörkum milli Húsatófta og Hafna.

Tvær vörður með dálitlu millibili stóðu á bakkanum tæpum 200 metrum austan við Vatnslón. Vörður þessar heita Sundvörður. Þegar þær bar í háan hraunstand í háhrauninu og í Höskuld, hnjúk austan í Þórðarfelli, þá var verið á réttu Djúpsundi (þ. e. ytra hluta Staðarsunds). Var því miði haldið, þar til Hvyrflavörður bar saman á Snúningnum. Þá var sveigt til vinstri inn á Staðarvík, en þaðan var greið leið inn í Staðarvör og Tóftavör, þótt brimhroði væri. Snúningur var nefnt, þar sem beygjan var tekin, og talað var um að vera kominn á Snúning. Hraunstandurinn, sem áður var nefndur, var alltaf kallaður Sundvarða og hraunið umhverfis hann Sundvörðuhraun.

Staðarsund

Þórðarfell

Þórðarfell.

“Næsta fell, fjallmyndað, fyrir vestan Þorbjörn kallast Þórðarfell. Í eystri öxl þess á vörðu að bera, sem er uppi í háhrauni, þannig að hálf varðan sé inn undir fellinu. Í þessari sömu stefnu eru tvær vörður á undirlendi. Þessu miði skal halda, þangað til tvær vörður, sem eru milli Staðar og Húsatófta, bera saman. Þeim skal svo halda inn undir land, og skal þá beygja við, suður á við, í vörina.” – Safnað af Andrési Markússyni 1926.

Í bókinni “Leiðir og lendingar í fiskverum Íslands I” frá árinu 1890 eftir séra Odd. V. Gíslason er m.a. sagt frá kyndilmessubæn, sjómannabæn, drukknun og leiðum og lendingum á helstu hafnir á sunnanverðu landinu, s.s. við Grindavík; (Þorkötlustaðasund, Járngerðarstaðasund og Staðarsund). Lýsing séra Odds er í raun endurskrif á sóknarlýsingu séra Geirs Backmanns frá því á fyrri hluta 19. aldrar og verður því ekki reynt að eyða tíma lesenda með þeirri endurtekningu.

Þórkötlustaðir (varða í túninu)

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – varða.

Í “Sóknarlýsingu Geirs Backmanns fyrir Grindavík 1835-1855” má lesa eftirfarandi um vörðu í túninu neðan við Þórkötlustaðarbæinn gamla: “Hins vegar skal auðsén stór varða í túninu á Þorkötlustöðum, niður við sjóinn, bera í austustu bæjardyrnar á sama bæ. Halda skal stöðugt, meðan sundið er farið inn, á vörðuna í þilið, það er rétt í norður, þar til tvær vörður á bakborða í nesinu, báðar lína auðsénar, bera hver í aðra, og á að halda að þeim til lands, sem harðlega skal saman haldið alltaf. “

Í “Sögu Grindavíkur, frá landnámi til 1880” fjallar Jón Þ. Þór m.a. um “Fiskimið Grindvíkinga“:

Jón Þ. Þór

Jón Þ. Þór.

“Orðið fiskimið hefur tvenns konar merkingu í íslensku máli. Annars vegar merkir það fiskislóðina, sátrið, þar sem menn setja yfir fiski, en hins vegar þau mið á landi eða sjó, sem menn notuðu til að finna þá staði, sem þeir hugðust fiska á.
Sjómenn veittu því snemma athygli, að ekki var sama, hvar færi væri rennt. Á sumum stöðum gaf fiskur sig betur en á öðrum, og meiri líkur voru á ákveðnum fiskitegundum á einni slóð en annarri. Þessa staði þekktu menn með því að taka mið af kennileitum í landi, fjöllum, holtum, hólum, hömrum, hæðum, bæjum o.frv. Lína hugsaðist dregin gegnum tvö kennileiti, sem bera átti saman. Með þessum hætti gátu sjómenn staðsett sig í hafinu, og þar sem línur tveggja miða á landi skárust á sjó, voru fiskimið. Aðferðin var ævagömul, og elstu ritaða lýsingu á henni er að finna í Guðmundar sögu byskups (skáletrað) sem Arngrímur ábóti á Þingeyrum ritaði um 1350.”
Miklu yngri er lýsing Skúla Magnússonar landfógeta, en hann lýsti fiskimiðum þannig í verðlaunaritgerð sinni, Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu, árið 1785:

Grindavík

Grindavíkurfjöll; Hagafell lengst til vinstri og Geitahlíð lengst til hægri.

“Sjómenn sækja jafan út á þau svæði, sem þeir vita af reynslunni, að fiskur hefst við á; kallast þau fiskileiti. Þessum svæðum á sjónum er skipt nánara í sundur, og eru þau nefnd mið, vegna þess að þegar tvö nes eða fjöll uppi á landinu eru í sömu stefnu frá austri til vesturs, og tvö önnur ber einnig saman í stefnu frá norðri til suðurs, eru þeir á réttu miði eða þeim stað, sem þeir leituðu að. gefa þeir miðunum nöfn.”

Hraun

Hraun – landslag.

Þekking á miðum var þannig reynsluvísindi, og liggur í augum uppi, að fiskimið voru önnur á djúpslóð en á grunnslóð. Á grunnslóðinni miðuðu menn gjarnan við kennileiti í byggð, eða nærri ströndinni, en á djúpmiðum há fjöll og fjallatinda, sem gátu verið langt inni í landi og urðu ekki sýnileg, fyrr en menn voru komnir djúpt. Er þá auðsætt, að dimmviðri gat gert mönnum erfitt fyrir, og varð þá oft að taka mið af öðrum þáttum, enda veittu sjómenn einnig nána athygli sjólagi og botnlagi.

Magnús Hafliðason

Magnús Hafliðason.

Þannig varð smám saman til mikill fjöldi miða umhverfis allt land, og má geta þess, að í fiskimiðasafni dr. Lúðvíks kristjánssonar er telin 2.197 árabátamið víðsvegar um landið, þar af 440 á Suðurnesjum og í Faxaflóa. Tæpur fjórðungur þessara miða, um eitt hundrað, er í Grindavík, og skrái Lúðvík þau eftir Sæmundi Tómassyni frá Járngerðarstöðum.
Í bókinni Frá Suðurnesjum eru prentaðar fiskimiðaskrár, sem Friðrik K. Magnússon skráði eftir frásögn bræðranna Gísla og Magnúsar Hafliðasona á Hrauni og Jóns Jónssonar formanns í Sjólist. Allir voru þeir gjörkunnugir miðum Grindvíkinga á árabátaöld. Í skránni, sem höfð var eftir Hraunsbræðrum, voru talin alls 43 mið, 18 djúpmið og 25 grunnmið, og í frásögn Jóns í Sjólist var ekið 19 miða, og virðast þau öll vera grunnmið.
Alegnt var, að menn gerðu sér kennileiti til að miða, og voru þau einkum vörður, sem hlaðnar voru í þessu skyni. Margar slíkar vörður voru í Grindavík, og mun Sigguvarða hafa verið einn þekktust. Var miðað við hana af öllum grunnmiðum, eða af samtals 26 stöðum. Á hraunbrúninni var Stamphólsvarða og framan á henni tréspjald eða þil, svo hún sæist betur af sjó. Látravörðu var getið, svo og Svíravörðu og Fiskivarða á Staðarbergi.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell.

Loks er þess að geta, að algengt var að kennileiti bæru annað nafn á sjó en á landi. Þannig var Þorbjarnarfell stundum kallað Setufell á sjó, og Svínfell á Reykjanesi var ávallt nefnt Sýrfell (skáletrað) á sjó. Þá hét Sílfell á Reykjanesi Djúpafjall á sjó. Ekki er ljóst, hvernig stóð á nafnbreytingunni á Þorbjarnarfelli, sem Sýrfell var svo nefnt, vegna þess að samkvæmt þjóðtrúnni mátti ekki nefna svín á sjó; þá gat svínhvalur komið og gert mönnum lífið leitt.

Hraun

Hraunsvör.

Nútíma tækni og breytingar, sem orðið hafa á landslagi á síðustu árum og áratugum, valda því, að nú eru mörg hinna gömlu fiskimiða Grindvíkinga horfin og gleymd. Nöfn þeirra, sem varðsveist hafa, bera hins vegar vitni ævargamalli merkmenningu, reynsluvísindum, sem nýttust mönnum vel í aldanna rás.”
Framangreindar vörður bera framangreindu glögg vitni.

Í “Sýslu- og sóknarlýsingum Bókmenntafélagsins 1839-1855” eru m.a skrif séra Geirs Backmanns um Grindavík. Í lýsingu Geirs á merkjum og miðum Grindvíkinga á fyrri hluta 19. aldar má lesa eftirfarandi:

Geir Backmann

Geir Backmann.

“Um Staðarsund segir: Merkin, þá sundið liggur, eru; Eldeyjar fastar við Staðarmalir og stór varða, Sundvarða nefnd, í hátt norður að sjá við loft; hún á að liggja í eystri rótum Þórðarfells. Þegar þessi merki liggja, skal stýra beint inn á Þórð og vörðuna, þar til tvær vörður, Hvyrflar eða Hvyrflavörður, auðséðar rétt við sjóinn á bakborða, bera saman; skal þá sleppa sundmerkjunum og halda beint á vörðurnar, þar til að opnar liggja lendingar á Stað og Húsatóttum, sem liggja til beggja handa. Eigi skyldi maður kærulaus um sundmerkin þau fyrri, því á stjórnborða eru tveir boðar, hver út af öðrum, sem hafa verður auga á, ef nokkurt brim er. Heitir hinn grynnri Arfadalur, en hinn dýpri Sundboði. Standa þeir aldrei upp úr, því þeir eru þaragrynningar. þegar Sundboðinn fellur, þá segja menn albrima og leiðina ófæra.

Sundvarða í Sundvörðuhrauni

Sundvarðan í Sundvörðuhrauni.

Staðarsund er haldið þrautagott í útsynningi og allri vestanátt, eins og líka Járngerðarstaðasund í landnyrðingi og öllum austanáttum. Haldi maður framhjá Staðarsundi og vilji taka land að Járngerðarstöðum eða Hópi, þá ætti ekki að stýra svo nærri landi, að hætta væri af búin, því ekki er það neins staðar boðar né grynningar, fyrri en að sundinu er komið, og það þá aðeins, ef mikið brim er. Sundið liggur inn með Þorkötlustaðanesi að vestanverðu og byrjar, þegar tvær vörður, eður réttara varða og hóll framarlega á nesinu og sjást við loft, bera saman; eiga þá undir eins tvær vörður á landi í landnorðri að vera í beinni stefnu; er önnur þeirra upp í hrauni langt frá sjó, Heiðarvarða nefnd, hin við sjó fyrir innan og austan sundið, Sundvarða.

Grindavík

Grindavík – uppdráttur 1772.

Allar eru vörður þessar auðsénar, því þeim er dyggilega við haldið. Á þær síðstnefndu vörður skal nú halda og stýra inn sundið, þar til enn þá aðrar tvær vörður að vestanverðu eða á bakborða liggja saman; skal þá sleppa Heiðarvörðunni og Sundvörðunni og halda á þessar, ef lenda skal á Járngerðarstöðum, en ella róa miðslóð áfram, þar til sést í vörðuna á Hópi til hægri handar. Vörðurnar, sem seinast vóru nefndar, heita, sú nær sjó Svíravarða, hin, sem lengra er uppi á landi, Stamphólsvarða. – Aðgætandi er enn, þegar þessar vörður skilja, að á bakborða, rétt fyrir utan lendinguna á Járngerðarstöðum, eru miklir þarar og grynningar, Rif kölluð; hafa mörg skip af þeim beðið meira eða minna tjón og margur maður við þau lífið látið. Skal stýra sem næst þeim að mögulega verður, svo löðrið af boðanum, sem af þeim fellur, reri á árarblöðin; segja menn þá, að rétt sé haldið með þeim í brimi, þó ekki megi nær fara.

Heiðarvarða

Heiðarvarða.

Þess vegna skal Járngerðarsund svo framarlega taka, að boði liggur á stjórnborða skammt frá nesinu, Hellirsboði, af hverjum hætta er vís, ef innar er lagt á sundið en þá allar r fyrstnefndu vörður liggja, nefnilega þær tvær í nesinu og Sundvörðurnar. Hætta er líka innst í sundinu, þá Svíra- og Stamphólsvörður bera saman, þar hér eru þrengsli mikil; þá eru á stjórnborða með nesinu grynningar af manntapaflúð og á bakborða boði, Sundboði eður aðrar grynningar, sem er afleiðing af svonefndum Vallarhúsaboða, er þó liggur langt vestar með landi og ei nærri þessari leið; ríður því á góðri stjórn og ötulum róðri, þar boðinn ber af sér á flúðina, en aldrei skyldi þó sleppa Sundvörðunum, þeim í heiðinni og austan til við sundið, fyrri en hinar tvær á bakborða liggja. Enginn haldi nú skipi svo nærri landi fyrir framan Þorkötlustaðanes, að þar fái skaða. Þó eru þau merki, er stýra skal fyrir það í brimi, að Selalda (þ.e. hóll upp á Krýsuvíkurbergi) skal bera yfir djúpa klauf í bergið, milli þess og Selatanga, eða, sem glöggara er, Sílfell á Reykjanes laust við Hafsteina, sem eru fyrir vestan Járngerðarstaði, þar til Þorkötlustaðasund liggur, sem er inn með Þorkötlustaðanesi að austanverðu. Þegar á það skal leggja, eru merkin; Lyngfell (það er hátt strýtufell fyrir austan Festarfjall) skal bera í eður milli tveggja hóla á Borgarfelli (undir þessu felli liggur Sandakravegurinn og er þá nýbyrjaður); er þetta merki þá að sjá í landnorður.

Hraun

Hraun – Festarfjall (t.v.) og Lyngfell (t.h.), Borgarfell fjær, Langihryggur í Fagradalsfjalli, Slaga og Skála-Mælifell.

Hins vegar skal auðsén stór varða í túninu á Þorkötlustöðum, niður við sjóinn, bera í austustu bæjardyrnar á sama bæ. Halda skal stöðugt, meðan sundið er farið inn, á vörðuna í þilið, það er rétt í norður, þar til tvær vörður á bakborða í nesinu, báðar lína auðsénar, bera hver í aðra, og á að halda að þeim til lands, sem harðlega skal saman haldið alltaf. Fyrir framan lendinguna í nesinu er sker, Vararsker, með því skal halda að norðanverðu, en varast má að því frásláttinn og róa karlmannlega. Á snúningnum eru tveir boðar að vestanverðu eða bakborða, Lambhúsi og Fjósi. Skal löðrið af þeim renna á árarblöðin, og segja menn þá rétt haldið leiðinni í nesið, hvar annars er engi góð landtaka, en verður þó ei annars staðar lent hættulaust, ef nokkuð er í sjó, að austanverðu við oft nefnt Þorkötlustaðanes.
Hér mun eg hafa verið óþarflega margorður, enda má bæði þetta og annað gjarnast styrra.”

Skúli Magnússon skrifaði grein í Morgunblaðið árið 2016 um “Aldur sundmerkja við Staðarsund í Grindavík”:

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

“Í gosunum miklu á Reykjanesskaga á 13. öld, er eldur kom upp rétt við bæjardyr Grindvíkinga, er ekki ofsögum sagt að byggð væri þá í Grindavík hættast komin frá landnámi og tvísýnt um tíma hvort hún lifði þær hörmungar af. Þá rann m.a. hraun það úr Eldvörpum, sem hleðslurnar eru í sem fundust 1872 og Þorvaldur Thoroddsen greinir frá. Apalhraunið greindist í tvær kvíslar, Eldborgarhraun og Sundvörðuhraun. Sundvarða er hraunsandur austan í Sundvörðuhrauni. Hraunstandur þessi kom upp í gosunum á 13. öld. Hann ber í austasta taglið á Þórðarfelli, er nefnist Höskuldur. Höskuldur, Sundvarða og tvær vörður aðrar er hlaðnar voru á sjávarbakkanum austan við svokallað Vatnslón í landi Húsatófta, bar saman og voru leiðarmerki á djúpsundinu þegar bátar lögðu inn Staðarsund. Þessi merki sjást á korti af legunni á Staðarvík frá 1751. Tvær síðarnefndu vörðurnar voru hugsanlega hlaðnar upp eftir 1650 vegna kaupskipa sem þá fóru að sigla á Staðarvík frá Danmörku. Enda sést af hafnarkortinu 1751 að þessi neðstu merki vestan við Vatnslón hafa verið endurbætt eftir að siglingar hófust á víkina frá 1650. Gos urðu líka í sjó undan Reykjanesi á 13. öld og 1210 fann Sörli Kollsson sjófarandi Eldey hina nýju. Sóknarlýsing staðarsóknar frá 1840 greinir frá þessum sundmerkjum inn Staðarsund er lagt var á sundið og bátar lentu ýmist í Staðarvör eða Tóftavör.

Húsatóftir

Sundvarða austan Húsatófta, Þórðarfell t.h. og Sundhnúkavarðan t.v.

Er bátur kom í mynni Staðarsunds og hugðist leggja þar inn áttu Staðarmalir að liggja á stjórnborða og bera í Eldey er var hæsta og ysta kennileiti í sjónlínunni úr bátnum í sundinu til vesturs. Er komið var inn úr sundmynninu var stýrt á Höskuld í norður og Sundvörðu og neðstu vörðurnar tvær í heimalandi Tófta. Bar Sundvörðu merkilega vel við loft utan af sundinu og var bungan í raun annað lykilmerki við leiðina inn Staðarsund ásamt Eldey. Ljóst er að bæði þessi kennileiti, Eldey og bungan Sundvarða, verða til í gosunum á 13. öld, líklega 1210-1230. Eldey var þá greinilega nýtt merki sem tekið var að miða við eftir uppkomu hennar 1210. Sama virðist um upptök Sundvörðu sem leiðarmerkis. Merkin á Staðarsundi virðast því varla eldri en frá fyrrihluta 13. aldar eins og þeim er lýst í sóknarlýsingunni frá 1840. Þau voru síðan notuð allt til loka byggðar í Staðarhverfi um 1946 þegar róðrar þaðan lögðust niður.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

En hófust róðrar um Staðarsund fyrst með gosunum miklu á 13. öld eða voru þar notuð önnur og eldri leiðarmerki inn sundið fyrir uppkomu Eldeyjar og Sundvörðu? Voru þessi eldri merki lögð niður í kjölfar hamfaranna á 13. öld. Vart verður fullyrt um það nú en heldur þykir manni ólíklegt að ekki hafi verið róið úr sundinu fyrir þann tíma allt frá landnámi í Grindavík. Eiginlegt prestssetur var ekki á Stað í kaþólskum sið frá því um 1000 til 1540 því prestar voru menn búlausir og bjuggu heima á bæjum hjá bændum og höfðu þar uppihald og bjó Staðarprestur líklega á Járngerðarstöðum fremur en á Húsatóftum. Aðeins kirkjan stóð ein á graftrasvæði sem var kirkjugarður og átti hún allar eignir sjálf. Prestur var þjónn hennar í kaþólskum sið og prestsheimili með vinnufólki og fjölskyldu þekktust ekki á Stað fyrr en eftir siðaskipti 1550. Þá var byggt prestssetur á Stað. Því var færra fólk sem dvaldi þarna við víkina fyrir siðaskipti og minni þörf að róa þaðan eftir að bústaður reis þar fyrir prest. Aðalbýlið við víkina var því að Húsatóftum sem átti líka uppsátur við Staðarvíkina. Viðeyjarklaustur, stofnað 1227, átti Húsatóftir en Skálholtsstóll aðrar jarðir í Grindavík.

Staðarvör

Staðarvör – flóruð.

Hvort byggð hófst á Húsatóftum er jörðin komst í eigu Viðeyinga einhvern tíma eftir 1227 er óljóst en hins vegar hófust þá um leið stöðugir róðrar úr Tóftavör við Staðarvík enda þurfti klaustrið jafnan á miklum fiski að halda. Stóðu róðrar þaðan samfellt fram á 20. öld. Því er ljóst að aldur sundmerkjanna við Staðarsund ber greinilega saman við eignarhald Viðeyinga á Húsatóftum. Líklegt er að upptaka sundmerkjanna sem áður var lýst virðist fremur tengjast útvegi klaustursins á Húsatóftum en róðrum frá kirkjunni á Stað, enda óljóst hvort eiginleg Staðarvör var þá til orðin.
Heimræði er því eldra úr Tóftavör en Staðarvör. Hugsanlegt er að örnefnið Höskuldur, nafnið á austasta tagli Þórðarfells sé ekki eldra en frá gostíma 13. aldar og sé dregið af nafni einhvers formanns á þessum tíma, t.a.m. frá Húsatóftum sem lagði leið sína um sundið en nafnið hefur orðið hluti af leiðarmerkjum upp frá því.”

Um þessar mundir hafa nokkrar af áberandi innsiglingvörðum hrunuð að hluta, s.s. Efri- og Neðri-Hópsvörðuna sem og efri sundvörðuna á Leyti. Ekki er langt um liðið að FERLIRsfélagar og nokkrir áhugasamir Grindvíkingar lagfærðu Heiðarvörðuna eftir hrun.  Mikilvægt er að viðhalda þessum menningarverðmætum, áþreifanlegum táknum horfinna atvinnuhátta.

Fleiri fróðir hafa skrifað um mið og örnefni í Grindavík í gegnum tíðina. Eftir standa menningarminjarnar, sem vart er hægt að hunsa. Þær ber að varðveita til framtíðar, komandi kynslóðum til fróðleiks um fortíðina; grundvöll nútíðarinnar…

ÓSÁ tók saman 2022

Heimildir:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 1., 2. og 3.  áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2002.
-Menningarminjar í Grindavíkurkaupstað – Svæðisskráning, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2001.
-Örnefnalýsingar.
-Oddur V. Gíslason, Leiðir og lendingar í fiskverum Íslands I – Frá Jökulsá á Sólheimasandi til Reykjaness – Reykjavík 1890.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1587015/ – Aldur sundmerkja við Staðarsund í grindavík – Skúli Magnússon.
-Saga Grindavíkur, frá landnámi til 1880 – Jón Þ. Þór, Grindavíkurbær 1994,Fiskimið Grindvíkinga, bls. 186-189.
-Gullbringu- og Kjósarsýsla – sýslu- og sóknarlýsingar Bókmenntafélags 1839-1855, sögufélagið 2007, Grindavík 1840-1841 – séra Geir Backman, bls. 41-43.

Sundhnúkur

Sundhnúkur.

Húshólmi

Gengið var eftir stíg austur Ögmundarhraun frá Lat, neðan Óbrennishólma og inn í Húshólma eftir stíg frá Brúnavörðum ofan við Miðreka. Stígurinn hefur verið flóraður á köflum. Hann kemur inn í Húshólma við minjarnar, sem eru þar vestan við hólmann.

Húshólmi

Húshólmi í Ögmundarhrauni.

Minjasvæðið er allstórt. Mótar þar fyrir skálum og sveigðum garðlögum, auk fjárborgar og löngum görðum inni í hólmanum. Aldur þessarra minja hafa verið á reiki. Hafa menn helst reynt að greina aldur hraunsins, sem færði þær í kaf að mestu og þannig reynt að finna út aldur þeirra. Í frásögnum frá því á 18. öld er hraunið talið vera frá því á 16. öld eða 14. öld. Nýlegri rannsóknir telja það geta hafa runnið í kringum 1000 og enn aðrar kveða á um 1150 eða 1180. Hvað sem öllu líður er ljóst að Ögmundarhraun er ekki einungis eitt hraun, það er nokkur hraun, sem hafa runnið á mismunandi tímum. Vegna takmarkaðra rannsókna er ekki gott að kveða á um hvort stutt hafi verið á millum þeirra eður ei.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Þarna við rústirnar var rifjuð upp rannsókn þeirra Hauks Jóhannessonar og Sigmunds Einarssonar á þeim síðla hausts 1987. Niðurstaða rannsóknarinnar birtist m.a. í Jökli nr. 88 árið 1988. Í greininni er fjallað um aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Aldur hraunsins var kannaður í ljósi öskulaga sem eru undir því og ofan á. Eitt þessara öskulaga er svonefnt miðaldalag, en sterk rök eru leidd að að aldri þess og uppruna.

Einnig voru geislakolsaldursgreiningar leiðréttar með nýjustu aðferðum, sem þá tíðkuðust. Þessar athuganir voru bornar saman við ritheimildir og töldu þeir félagar sig geta ákvarðað aldur Ögmundarhrauns upp á ár. Í lokin fjalla þeir um aldursákvörðun hins forna torfgarðs í Húshólma, sem reyndist vera eitt af elstu mannvirkjum er fundist hafa á Íslandi.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar.

“Nokkuð hefur verið ritað um aldur Ögmundarhrauns á Reykjanesi á undanförnum árum og hefur sitt sýnst hverjum. Jón Jónsson (1982,1983) og Sigurður Þórarinsson (1974) hafa á grundvelli geislakoslaldursgreininga og afstöðu hraunsins til mannvistarleifa í Krýsuvík dregið þá ályktun, að það hafi brunnið á öndverðri 11. öld. Sveinbjörn Rafnsson (1982) hefur kannað sögulegar heimildir um hraunið og kirkjustaðinn í Krýsuvík og álítur hann, að hraunið hafi runnið seint á tímabilinu 1558-1563. Þorvaldur Thoroddsen (1925) áleit að Ögmundarhraun gæti hafa runnið 1340 og Jónas Hallgrímsson (útg. 1934-37) var sömu skoðunar. Tómas Tómasson (1948) og Einar Gunnlaugsson (1973) hafa rakið heimildir um eldgos á Krýsuvíkursvæðinu en taka ekki afstöðu til aldurs Ögmundarhrauns. Ástæða þess, að áhugi hefur verið meiri fyrir könnun Ögmundarhrauns en annarra hrauna á Reykjanesi er sú, að það hefur runnið yfir bæ og önnur mannvirki s.s. fjárrétt og torf- og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
Gjóskulög sem nefnt hefur verið miðladalagið hjálpar til við ákvörðun á aldri Ögmundarhrauns og skal fyrst reynt að varpa ljósi á aldur þess. Miðaldalagið er eina gjóskulagið frá miðöldum auk landnámslagsins sem finnst í jarðvegssniðum á svæðinu. Í þessari grein verður skýrst frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvarkerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Eldgosið hefur einkennst af umbrotahrinum, af gliðnun lands og kvikuhlaupum með hléum á millum. Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Um þau verður fjallað í annarri lýsingu. Jón Jónsson hefur áður haldið því fram að að Ögmundarhraun, Kapelluhraum og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Í Ögmundarhrauni er Húshólmi stærstur óbrennishólma, sem þar eru. Hann er austast og neðst í hrauninu. Nokkru vestar er Óbrennishólmi. Rústir eru í báðum þessum hólmum. Merkastar eru rústirnar í svonefndum Kirkjulágum, sem eru smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þeim hefur Brynjúlfur Jónsson (1903) lýst. Þar eru greinilegar rústir af bæjarhúsum sem hlaðin hafa verið að mestu úr lábörðu grjóti. Í efri láginni hefur hraunið runnið upp að byggingum og að hluta yfir þær. Í neðri láginni er m.a. ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og hefur verið talið líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til. Hús þetta virðist hafa verið brúkað eftir að hraunið rann sem sést af því hve miklu greinilegri og hærri tóftin er heldur en þær sem hraunið hefur lagst upp að.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Húsið hefur dyr í vestur og snýr eins og kirkjur hafa gert um aldir.
Þar sem segir frá Krýsuvík í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (31. mars 1755) og einnig í hinni prentuðu ferðabók þeirra (Eggert Ólafsson, 1772) er þess getið að hraunflóð hafi eytt kirkjustað sem Hólmastaður hét. Það átti að sögn heimamanna í Krýsuvík að hafa gerst tveim öldum áður en Eggert og Bjarni komu þar. Nafnið Hólmastaður bendir til að staðurinn dragi nafn af Húshólma en það nafn hefur hann vart fengið fyrr en eftir að Ögmundarhraun rann.

Húshólmi

Garður í Húshólma.

Landslag við bæjarrústirnar bendir til að bærinn hafi staðið nærri sjó, sennilega við austanverða vík, sem hefur verið hin eiginlega Krýsuvík, en hún hefur fyllst af hrauni í Krýsuvíkureldum. Í sjávarkampinn hafa menn sótt grjót í byggingar á hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík.

Í Húshólma eru tveir garðar, sem hverfa inn undir hraunið. Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn úr torfi en þó sést í grjót á stöku stað. Allnokkur hluti hans er nú blásinn. Neðri garðurinn liggur í sveig vestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Þessi garður mun marka það stykki sem nefnt var Kirkjuflöt. Efst í Húshólma er lítil fjárborg forn og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.
Í Óbrennishólma eru tvö mannvirki. Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana (Jón Jónsson, 1982).

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Gata liggur í Húshólma austan frá. Hún er greinilega rudd og 2-3 m á breidd og allgreiðfær. Augljóst er af ummerkjum að þessi vegagerð er ekki frá síðustu tímum.
Til að kanna aldur Ögmundarhrauns voru mæld nokkur gjóskulagasnið, bæði í jaðra hraunsins og utan þess. Á þessu svæði eru nokkur gjóskulög af þekktuma ldri.
Þekktaskta gjóskulagið á þessums lóðum er svonefnt landnámslag. Lagið er venjulega tvílitt, neðri hlutinn er ljós og erfi hlutinn dökkur. Lagið hefur greinilega fokið til og því að líkindum fallið að vetri til. Þessi litaskipti hafa verið álitin marka upphaf búsetu í landinu (Þorleifur Einarsson, 1974). Lagið hefur verið notað til að ákvarða hvaða hraun á Reykjanesi hafa brunnið eftir að land byggðist (sbr. Jón Jónsson, 1983).

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Annað nokkuð þekkt gjóskulag á Reykjanesskaga er svonefnt miðaldalag. Reynt hefur verið að heimfæra það upp á eldgos sem getið er um í rituðum heimildum. Upptök öskulagsins eru í sjó við Reykjanestána. Leifar gígsins eru Karlinn, stakur drangur skammt undan landi, en hluti af gígbarminum er skammt norðbestur af Valahnúk og hefur yngra Stampahraunið runnið upp að honum.

Til eru fimm geislakolsaldursgreiningar, sem tengjast Ögmundarhrauni. Árið 1974 tók Þorleifur Einarsson tvö koluð sýni úr eldstæði í rústunum í Krikjulágum (efri láginni) í Húshólma og lét aldursgreina þau. Niðurstaðan var 980+/-60 og 960+/-170. Sýnið ætti því að vera frá því um 1027 e.Kr. Jón Jónsson (1982) lét gera þrjár aldursgreiningar árið 1979 á koluðum gróðuleifum undan hrauninu. Niðurstöður mælinganna voru ártölin 1050, 1095, 1125, 1141 og 1148.
Fátt er um sögulegar heimildir um eldgos á Reykjanesskaga á þessum tíma og eru þær allknappar. Frá 1151 er getið um gos í Konungsannál, bs. 115, Oddaverjaannál, bls. 474 og Annál Flateyjarbókar, bls. 301. Árið 1188 segir frá gosi í Trölladyngju í Skálholtsannál, bls. 180. Miðaldaöskulagið er talið geta verið frá 1226/27.

Húsólmi

Húshólmi – uppdráttur.

Sigurður Þórarinsson (1965) birti kort af Íslandi þar sem merkt eru inn gos á sögulegum tíma og þar telur hann eldgos í Trölladyngju á Reykjanesi vera 1151, 1188 og 1360, en telur þó síðastnefnda áratalið óvisst.
Þegar gögn eru skoðuð hníga ýmis rök að því að Ögmundarhraun hafi runnið á 12. öld og engin ástæða er til að véfengja frásagnir annála af gosi 1151. Eldgosið sem varð 1188 gæti hafa verið á svipuðum slóðum og hluti af sömu goshrinu. Þar sem svo langt hefur liðið milli goshrina þá er hugsanlegt að seinna gosið hafi verið mun minna.
Til eru lýsingar Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á hraunrennsli í sjó á Íslandi. Rit hans, Liber miraculorum (Bók um furður) er skrifið 1178-80. Þar lýsir hann hrauni, sem rann í sjó fram á Íslandi á 12. öld og þá fyrir 1188. Þar sem hraunrennsli í sjó á þessum tíma er aðeins þekkt frá Krýsuvíkureldum renna skrif kapellánsins frekari stoðum undir þá skoðun að Ögmundarhraun hafi runnið 1151.
Grafið var eitt snið í gegnum efri garðinn í Húshólma og reyndist það forvitnilegt. Garðurinn er mjög vel varðveittur. Pælan, sem stungin hefurverið með garðinum beggja vegna til efnistöku, sést greinilega af litaskiptum í jarðvegi og er hún um 10-15 cm djúp í sniðinu. Neðst í pælunni norðan megin við garðinn var dreif af landnámslaginu en hún lá ekki inn undir garðinn svo það hefur fallið eftir að hann var hlaðinn.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur

Miðaldalagið liggur upp að garðinum beggja vegna. Hann er því hlaðinn fyrir 900, en þegar miðaldalagið féll um 1226/27 var verulega fokið að honum.
Einnig var grafið snið við fjárborgina efst í Húshólma og þar lá miðaldalagið upp að vegghleðslunni og er hún því allnokkru eldri en öskulagið.”
Samkvæmt framangreindum rannsóknum virðist sá hluti Ögmundarhrauns, sem umlukti rústirnar í Húshólma hafa runnið 1151. Garðurinn, sem rannsakaður var, virðist hafa verið hlaðinn fyrir 900. Það er því fullljóst að þarna er um mjög fornar minjar að ræða.”
Ekki er vitað til þess að rústirnar sjálfar hafi verið rannsakaðar, en þegar það verður gert mun án efa sitthvað forvitnilegt koma í ljós. Hugsanlega vakna þá fleiri spurningar en hægt verður að svara með góðu móti.
Skoðaðar voru seljaminjar nyrst í Húshólma, en að því búnu var gengið áfram út úr hólmanum eftir stígnum austan hans og norður með austanverðum hraunkanti Ögmundarhrauns. Utan í hrauninu er hringlaga gróið gerði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir:
-Krýsuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins – Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson – Jökull nr. 38 1988 bls 71-85.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

 

Latur

Gengið var frá Lati niður Ögmundarhraun til suðurs og síðan hrauninu fylgt upp til norðausturs að Húshólma. Reynt var að finna hina gömlu sjávargötu inn í hólmann, að Hólmasundi. Þá var gengið upp Húshólma og sem leið lá upp Ögmundarhraun áleiðis að Núpshlíðarhorni. Hér verður ekki rakin leiðin í gegnum Húshólmann og minjarnar þar, enda hefur það verið gert í FERLIR-046, 128, 217, 300, 286, 545, 634 og 715, auk þess sem þeim verður lýst mun nákvæmar síðar.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir, Víkurhellir, í Ögmundarhrauni sunnan Lats.

Miðrekar eru austan Selatanga. Eystri Látrar eru á millum. Fyrir sunnan Lat eru hraunskipti með nokkuð háum hraunhrygg. Stígnum austur yfir hraunið frá þjóðveginum var fylgt að skilunum og beygt þar til suðurs. Eftir stutta göngu var komið að sæluhúsinu, sem þar er. Sá síðasti, sem skyldi við húsið, hefur lagt hurðarhelluna settlega við dyraopið þar sem hún var notuð hinsta sinni. Nú. u.þ.b. 100 árum síðar, er þessi hella ásamt öðru, sem þarna er, friðar skv. þjóðminjalögum, án þess að friðunaröflin hafi hina minnstu hugmynd um tilvistina. Eflaust hafa margir haft skjól þarna í skútanum í gegnum tíðina. Gott hefur verið að geta hallað sér í skjólið og á öruggum stað í svartnættinu þegar allra veðra var von. Frá skútanum er u.þ.b. klukkustundar gangur að Ísólfsskála og u.þ.b. tveggja klukkustunda gangur til Krýsuvíkur.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Haldið var áfram niður með hraunkantinum og stefnan tekin á háa vörðu neðarlega í hrauninu. Hún stendur þar ein og yfirgefin, án fylgdarvarða. En vörður voru ekki hlaðnar að ástæðulausar hér áður fyrr, allra síst svo háar og myndarlegar. Þegar farið var að grennslast um hverju hún sætti kom í ljós að austan við hana eru greni (Miðrekagrenin) og byrgi grenjaskyttna. Grónir bollar eru í hrauninu austan og ofan við vörðuna. Grenjaopin eru merkt og hlaðin eru skjól fyrir skyttur. Meira að segja var óbrotin brennivínsflaska í einu byrgjanna. Hún var látin liggja á sínum stað, líkt og FERLIRs er háttur.

Hraunkarl

Hraunkarl.

Stefnan var tekin upp hraunið til norðausturs. Eftir nokkra göngu um þykkt mosahraun var komið að listaverkagarði náttúraflanna. Þar, á tiltölulega litlu svæði, virtust náttúruöflin hafa staldrað við á leið sinni með hraunið til sjávar, svona til að leika sér stutta stund, a.m.k. m.v. jarðfræðimælikvarðann. Þegar staldrað var við og augun látin líða yfir hraunsvæðið birtist hvert listaverkið á fætur öðru. Það skal tekið fram, til að fyrirbyggja misskilning, að brennivínsflaskan, sem skilin hafði verið eftir í byrginu, var tóm er að var komið. Eflaust gæti hver og einn túlkað hraunlistaverkin á sinn hátt – líkt og gengur og gerist með listaverk mannanna.

Enn var stigið skrefið og stenan tekin á Brúnavörður á hraunhæð framundan. Vörðurnar eru tvær og voru mið af sjó.

Brúnavörður

Brúnavörður.

Hins vegar eru þær einnig ágæt mið fyrir fótgangendur á landi því handan þeirra tekur við manngerður stígur áleiðis inn í Húshólma. Segir sagan að syndir (hann átti reyndar ekki nema einn) hafi flórað stíginn til ferðalaga. En í stað þess að taka þennan auðveldasta stíg inn í Húshólma var ákveðið, svo sem upphafega var stefnt til, að ganga niður með hraunkantinum til suðausturs í von um að finna framhald þess stígs, sem þar liggur, inn í Húshólma. Þegar komið var niður að ströndinni hvarf stígurinn.

Brúnavörður

Brúnavörður að baki.

Varð það seginn saga, svo sem algengt er með sjávarstíga, að Ægir hefur þegar brotið þá undir sig. Auðvelt er að gera sér í hugarlund hvernig sjórinn hefur smám saman brotið af ströndinni, enda sjálf ekki bætt við sig neinu s.l. 850 árin.
Gengið var ofan við ströndina í gegnum hraunið, sem reyndar var ekki neinum kveifiskötum ætlað. En með þolinmæði og þjálfun varð komist í gegnum stórbrotið hraunið og alla leið inn í Húshólma. Ekki var að þessu sinni litið á hinar merki minjar í hólmanum heldur strikið tekið upp til norðurs í gegnum hann, framhjá selstöðuminjunum og áfram áleiðis upp í gegnum Ögmundarhraunið.

Húshólmi

Húshólmi – stekkur.

Á þeirri leið, sem er bæði löng og erfið, var gengið framhjá Mælifellsgrenjunum. Við þau eru einnig hleðslur eftir grenjaskyttur. Ofar var Mælifell (Krýsuvíkur-Mælifell). Gengið var inn á gamla Ögmundarstíginn, framhjá Ögmunardys og veginum, sem endurruddur hefur verið nokkrum sinnum, fylgt yfir Ögmundarhraun til vesturs. Haldið var áfram upp og yfir Latsfjall að norðanverðu og síðan gengið niður Tófurbuna og gömlu götunni fylgt að Núpshlíð þar sem hún var síðan rakin niður með fjallsrótunum. Gengið var áfram til vesturs sunnan hlíðarendans.

Núpshlíð

Núpshlíðarhorn.

Núpshlíðarhornið var framundan. Hlíðin hét áður Gnúpshlíð og hálsinn inn af Gnúpshlíðarháls. Þegar horft var á hlíðina, aðstæður ígrundaðar sem fyrrum voru og rifuð var upp sagan af Molda-Gnúpi Hrólfssyni, var ekki órótt um að þarna, sem minjarnar í Húshólma voru, gæti sá maður hugsanlega hafa haft samastað. Einn þátttakenda setti fram þá kenningu að nefndur Molda-Gnúpur, sá sem hálsinn er nefndur eftir, hafi búið þar undir. Hann er í Landnámu sagður hafa sest að í Grindavík eftir að hafa orðið fyrri því óláni í Álftaveri að flóð úr Mýrdalsjökli frá Eldgjárgosinu mikla 934-938 hljóp á land hans og lagði í eyði.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Hann fór þá í Mýrdalinn og var þar einn vetur, en þar var þá fullnumið og hann hraktist eftir deilur við þá, sem fyrir voru, áfram vestur á bóginn, allt til Grindavíkur, eins og Landnáma segir. “Allt til Grindavíkur” gæti þýtt áleiðis til Grindavíkur, enda Grindavík ekki til þá í upphafinu. Eflaust og áreiðanlega hafa aðstæður verið allt aðrar en nú eru undir Núpshlíðarhálsi. Bær og bæir gætu hafa verið byggðir, garðar hlaðnir, borgir (fjárborgir) reistar og búskap komið á fót. Viðurnefnið Molda gæti Gnúpur hafa fengið vegna elju sinnar við að nýta moldina og það sem í henni var, grjót og torf, enda virðast hafa verið nóg af görðunum undir Ögmundarhrauni. Hins vegar bjó faðir hans, Hrólfur höggvandi, á Norðmæri, þar sem hét Moldatún. Bróðir Molda-Gnúps var Vémundur, en “þeir voru vígamenn miklir og járnsmiðir”, eins og segir í Landnámu.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

U.þ.b. 210 árum síðar, eftir fjórar kynslóðir og mikla uppbyggingu á gjöfulum stað, tók jörð skyndilega að skjálfa nótt eina og hraun að renna. Fólkið flýði sem fætur toguðu og skyldi eftir allt, sem það átti. Enn var ekki farið að skrifa sögu Íslendinga eða landnáms þeirra og alls ekki þess fólks sem almúgi hét. Sá, sem skrifaði fyrst um frægð og frama, með hliðsjón af landsins yfiráðarétti, gerði það í ákveðnum tilgangi, enda tilgangslaus skrif þá ofar dýrum feldi.
Þetta var nú einu sinni hugsun um möguleika – ekki staðreynd.
Gnúpshlíðin var fögur á að líta.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 44 mín.

Brúnavörður

Brúnavörður að baki.