Tag Archive for: Grindavík

Dringull

Í örnefnalýsingu fyrir Stað segir m.a. um svæðið í Klofningahrauni: „Dringull heitir stakur klettur, u.þ.b. 2-3 km norðvestur af Mölvík. Var hann alkunnugt kennileiti í smalamennskum hér áður. (Austur af honum er Stampahraun).“ 

Dringull-2

Einnig segir: „Þá taka við tvö vik inn í bjargið. Nefnast þau Sölvabásar og Hróabásar. (Ath.: Yfirleitt voru nöfnin á básum þessum höfð í fleirtölu, þótt í rauninni sé hvor um sig bara einn bás). Hróabásar eru við vestari bergsendann. Í þeim var flóruð vör og sjást hennar enn nokkur merki. Bendir það til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráðar heimildir – aðeins munnmæli. Í Sölvabásum áttu Húsatóftir sölvatekju.“
Ætlunin var að skoða fyrrnefndar mannvistarleifar í Hrófabásum og leita Dringuls í Klofningahrauni. Eins og sjá má hér að framan er rithátturinn „Hróabásar“ í örnefnalýsingu, en „Hrófabásar“ á landakortum.

Í gossannálum segir m.a.:
1226-27 – nokkur gos á Reykjanesi. Þeim eru eignuð Yngra Stampahraun, (Klofningahraun), Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Þetta á var Viðeyjarklaustur stofnað (Ágústínusarregla). Það varð vellauðugt og eignaðist áður en lauk meginþorra jarða á Suðurnesjum.“
HróarbásarÍ jarðfræðilegu tilliti er Reykjanesskaginn mjög merkilegur. Hann er hluti af Atlandshafshryggnum mikla, sem liggur um þvert Ísland og er eini staðurinn þar sem hægt er að skoða hann ofansjávar. Sköpunarsaga landsins verður hér ljóslifandi. Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Það nýjasta sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum, hafa um 200 eldstöðvar í fjórum eldstöðvakerfum, verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni, sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landsvæði. Má þar á meðal finna allar helstu gerðir íslenskra eldstöðva.
HrófarbásarÍ Matsskýrslu Náttúruverndar-samtaka Íslands vegna háspennulínulagnar um þetta svæði segir m.a.: „Hér er um svæði með sérstöðu á heimsmælikvarða í jarðfræðilegu tilliti. Samt var enginn jarðfræðingur fenginn til þess að skoða áhrifasvæðið og gaumgæfa umhverfisáhrifin. Umfjöllun skýrslunnar er ekki fullnægjandi hvað þetta varðar einkum m.t.t. sérstöðu jarðfræði svæðisins. Ekki kemur t.d. fram að línan fari þvert yfir Tjaldstaðagjárhraun áður en hún fer inn á Yngra Stampahraun. Tjaldstaðgjárhraun rann í sömu goshrynu og Eldra Stampahraun fyrir um 1500 – 1800 árum. Það getur verið mjög sérstök upplifun að ganga í 1600 ára gömlu hrauni, síðan í 800 ára gömlu hrauni og vita til þess að þarna megi í sjálfu sér búast við gosi á hverri stundu í jarðfræðilegum tímaskala.
Flóraða vörinÍ matsskýrslu segir eftirfarandi (bls 6): „Hraun sem runnið hefur úr Stampagígum er einkennandi fyrir svæðið, úfið en töluvert sandorpið og gróðurlaust að mestu. Hraunið nefnist Stampahraun.“ Þarna er gefið í skyn að hraunin séu minna virði vegna þess að þau séu gróðurlaus og sandorpin.  Þetta er mikill misskilningur. Verðmæti hrauna fer ekki eftir því hvort þau eru þakin gróðri eða ekki. Verðmæti hrauna fer fyrst og fremst eftir berggerð þeirra og þeim jarðmyndunum sem í hrauninu eru. Hraunin á utanverðu Reykjanesi, eru mjög merkileg á landsvísu vegna þess hve sérstakar jarðmyndanir þau eru. Stampagígaröðin er einstæð í sinni röð og saman mynda öll hraunin á svæðinu landslagsmynd sem er hrikaleg, ljóðræn og fögur.“
Hrófarbásar-2Gengið var bæði á Dringul og um Hófarbása. Fyrrnefndi staðurinn er líklegur smalamótastaður Grindvíkinga og Hafnarmanna, enda nálægt landamarkalínunni á Sýrfelli, en „flórinn“ á síðarnefnda staðnum virðist vera frá náttúrunnar hendi gjörður. Líklega er fyrrnefnd fullyrðing sett inn í örnefnalýsinguna eftir að einhver hafi sagt að þarna væri „líkt og flóruð vör“, en bæði eru lendingaraðstæður þarna óraunhæfar sem og uppsátur (sker og háar klappir). Engin vísbending er þarna um lendingu fyrrrum, hvorki í fjörunni né ofan hennar.
Dringull er 2.7 km NV við Mölvík. Hann er hæstur gjallgíga í röð slíkra að hluta til undir yngra Stampahrauni. Hraunbrúnin er skammt ofar. Gígaröðin er hluti af Tjaldstaðagjárhrauni austan Sýrfells.
Afstaða hraunannaMagnús Á Sigurðgeirsson skrifar grein um svæðið í Náttúrufræðinginn 1994-1995. Þar segir m.a.: „Stærst þessara hrauna á Reykjanesi er Tjaldstaðagjárhraun sem þekur um fímmtung nessins. Erfitt er að átta sig á stærð eldri sprunguhraunanna þar sem þau eru að miklum hluta þakin yngri hraunum. Eldra-Stampahraunið og Tjaldstaðagjárhraun runnu fyrir 1500-1800 árum, í sömu eldum eða goshrinu. Gígaraðirnar sem hraunin runnu frá liggja í framhaldi hvor af annarri, lítillega hliðraðar.
Við norðanverðan Kerlingarbás þar sem Eldri-Stampagígaröðin teygðist til sjávar hlóðst upp gjóskugígur í sjó skammt undan landi. Sjást þess merki að austurjaðar hans hafi legið við núverandi ströndu og að gjóskan hafí gengið yfír syðsta hluta gígaraðarinnar. Gjóskulagið má rekja um vestanverðan Reykjanesskaga.
Skýrasta dæmið um eldgos af þessu tagi er Yngra-Stampagosið á 13. öld, síðustu eldsumbrot á Reykjanesi. Í gosinu rann hraun frá gígaröð á landi og gjóskugos urðu undan og við ströndina þar sem gossprungan náði út í sjó. Hlóðust þar upp tveir gjóskugígar. Hlutar af gígrimum þeirra eru varðveittir á ströndinni gegnt dranginum Karli.
Undirstaða hraunannaMikilvægasta og best þekkta gjóskulagið í sniðinu er landnámslagið (LNL). Það myndaðist í miklum eldsumbrotum á Veiðivatnasvæðinu um 900 e.Kr. og nær útbreiðsla þess til meginhluta landsins (Guðrún Larsen 1984). Þetta gjóskulag má finna um allan Reykjanesskaga, ljósgulleitt á vestanverðum skaganum en tvílitt á honum austanverðum, með dökkan efri hluta og ljósari neðri hluta.
Til Reykjaneselda hafa verið heimfærð fjögur hraun auk Yngra-Stampahraunsins, sem eru: Klofningshraun, Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun, talin frá vestri til austurs (Haukur Jóhannesson 1989, Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson 1989).“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Náttúrverndarsamtök Íslands – Greinargerð með athugasemdum Náttúruverndarsamtaka Íslands vegna mats á umhverfisáhrifum háspennulínu á utanverðu Reykjanesi.
-Örnefnalýsing fyrir Stað.
-Magnús Á. Sigurgeirsson, Náttúrufræðingurinn 64. árg. 1995-1995, bls. 211-214.

Klofningahraun

Klofningahraun.

Eftirfarandi umfjöllun birtist í Ísafold 1880: „Vegagjörð úr Grindaskörðum ofan við Hafnarfjörð“ –
Grindaskord-222Verði nokkuð úr því áformi brennisteinsfjelagsins enska, að gjöra að sumri komanda góða akbraut úr brennisteinsfjöllunum ofan í Hafnarfjörð, þá væri ekki illa til fallið, að Grindaskarðavegurinn, sem er einn af þeim fjallvegum, er landssjóður samkvæmt lögum, 15. okt. 1875, á að kosta, jafnframt yrði ruddur, þótt upphaflega væri tilætlazt, að aðrir vegir gengi fyrir. Myndi það þá geta orðið að minnstum kostnaði og á haganlegastan hátt. Vesturhluti Árnessýslu og suðurhluti Gnllbringusýslu eiga heimtingu á, að þetta komist í kring, sem fyrst auðið er. Skreiðar- og kaupstaðarferðir eru miklar á þessari leið milli Eyrarbakka, Þorlákshafnar, Selvogs, Krýsuvíkur, Grindavikur, Hafnarfjarðar og suður með öllum sjó. Enda er Grindaskarðavegurinn einn þeirra fjallvega milli sýslna, sem samkvæmt áliti amtsráðs suðuramtsins eiga að hvíla á landssjóði (stj.tíð. 1876 B, bls. 75).“

Heimild:
-Ísafold, 26. nóvember 1880, bls. 120.

Þríhnúkar

Kvöldsýn frá Grindaskörðum.

Grindavíkurkirkja

Altaristafla úr Staðarkirkju, sem áætlað hafði verið að setja í nýju kirkjuna, var flutt á “fornminjasafnið”. Á því, nú Þjóðminjasafni Íslands, eru nú 16 gripir úr Staðarkirkju, s.s. textílar (höklar, altarisklæði og patínudúkur), altaristafla, predikunarstóll, ljóshjálmur, stjakar, söngtafla og skarbakki.
Staðarkirkja
Ný kirkja í Járngerðarstaðahverfi var reist 1909. Einar Jónsson í Garðhúsum gaf t.a.m. 200 krónur til kaupa á nýrri altaristöflu. Fyrir valinu varð málverk eftir Ásgrím Jónsson. Hún var sett upp í kirkjunni árið 1910. Einar G. Einarsson, kaupmaður í Garðshúsum, hét því og að gefa kirkjunni orgel. Hann stóð við orð sín og eignaðist hún orgelið, M. Hörügel, árið 1912. Sjá

Grindavíkurkirkja

Grindavíkurkirkja – altaristafla krikjunnar frá 1909.

Einar segir frá því einhvers staðar að hann hafi viljað að Ásgrímur hefði líf sjómanna í huga við gerð töflunnar, enda var Einar þá formaður á árabát og hugur hans snerist fyrst og fremst um róðra, fisk og útgerð, minnugur þess að þegar á reyndi og líf sjómannanna lá við gat sú stund runnið upp að fátt var á annað að treysta en Guð almáttugan þeim til bjargar. Altaristaflan sýnir Krist stilla vind og sjó. Kunnuglegt kennileiti er í bakgrunni, Krýsuvíkurberg (Krýsuvíkurbjarg heitir bergið austan Eystri-lækjar að Eystri Bergsenda). Grindavík var lengstum útvegsbændasamfélag með aðaláherslu á útveginn. Margir sjómenn höfðu í gegnum aldirnar lent í sjávarháska undir berginu og sumir þeirra farist. Þeim stóð stuggur af berginu.
Listfræðingar hafa skrifa um það hvers vegna t.d. Ásgrímur, Kjarval, Jón Hallgrímsson, Þórarinn B. Þorláksson, Finnur Jónsson og Halldór Pétursson, sem málaði m.a. altaristöfluna í Garðakirkju með Keili í bakgrunni, hafi ekki þorað að stíga skrefið til fulls og málað annað fólk á myndum sínum í íslenskum fötum, í þessu tilviki sjómennina í sjóklæðum. Altaristafla Ásgríms Jónssonar, sem hann málaði fyrir Stóra-Núpskirkju í Árnessýslu 1912 má glöggt þekkja landslag úr Þjórsárdalnum og andlit sumra þeirra sem hlýða á fjallræðuna. Þetta eru að sögn Steinþórs Gestssonar á Hæli þekkt andlit úr sveitinni. Jón Ófeigsson menntaskólakennari mun vera fyrirmyndin að Kristsmyndinni. Meðal áheyrenda er fremstur í flokki prófasturinn, séra Valdimar Briem, og einnig má þekkja þarna fræðimanninn Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi og vísast fleiri. Í hverju einstöku tilviki hlýtur þó söfnuðurinn að hafa þurft að gera það upp við sig, hvort hann telji verkið eiga heima í kirkjunni, en þá reyndi vissulega á dómgreind hans. Á 20. öldinni virðist ríkari þjóðernisvitund gera auknar kröfur um íslenskt myndefni í samspili við hið trúarlega.

Sjá meira um Grindavíkurkirkju HÉR og HÉR.

Grindavíkurkirkja

Grindavíkurkirkja frá 1909.

Clam

Við strönd Reykjaness, báðum megin nessins, hafa orðið mörg og mikil sjóslys á umliðnum öldum, ekki síst þeirri tuttugustu. Við Reykjanesið strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam.
Það var 28. febrúar árið 1950. Skipið varð vélarvana eftir að hafa Clam á strandsstaðrekið upp í fjöru í Reykjavík og var á leið til útlanda, dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri. Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga.
Slysið var þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Um borð voru 50 manns, helmingur Kínverjar og helmingur Englendingar. Hluti áhafnarinnar fór í björgunarbáta, en hluti var um kyrrt í skipinu. Allir sem fóru í björgunarbáta fórust, en hinum var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði í spón á staðnum innan skamms. Þessi atburður var rótin að skáldsögunni Strandið eftir Hannes Sigfússon, en hann var einmitt á Reykjanesvita þegar þessir atburðir gerðust.
Víkur nú sögunni að upphafinu. Þann 21. febrúar 1950 rak breska olíuskipið Clam á land við Köllunarklett í Reykjavík og laskaðist nokkuð. Að morgni 28. febrúar var það í togi á leið til Cardiff í Bretlandi til viðgerðar þegar það slitnaði frá dráttarbátnum. Skipið rak stjórnlaust að landi og strandaði, miðja vegu milli gamla og nýja Reykjanesvitans og því sem næst fremst á nesinu. Yfirmenn voru allir enskir en undirmenn flestir af kínversku bergi brotnir. Við strandið greip mikil skelfing um sig meðal kínversku skipverjanna og þustu allmargir til (31 maður, þar af 5 Bretar) og reyndu að bjargast á land í tveimur björgunarbátum. Afleiðingarnar urðu sorgleg endalok 27 manna sem fórust er bátunum Clam á strandsstaðhvolfdi. Aðeins fjórum var bjargað á land. Þeim 19 mönnum, sem eftir urðu um borð í Clam, var bjargað nokkru síðar án teljandi erfiðleika. Viku síðar fundu menn níu lík rekin, um það bil einn kílómetra frá sjálfum strandstaðnum. Þau voru flutt til Reykjavíkur og komið fyrir í Fossvogskapellu. Þar sem líkin reyndust óþekkjanleg, var tæknideild rannsóknarlögreglunnar beðin um aðstoð. Var þá haft í huga að ef til vill yrði hægt að ná fingraförum af líkunum, en fingraför voru til af allri áhöfninni í spjaldskrám skipafélagsins. Rannsókn tæknideildarmanna varð til þess, að fimm líkanna þekktust aftur. Fingraförin sem tekin voru af hinum látnu voru send til Englands þar sem samanburður fór fram. Þetta er í fyrsta skipti sem aðstoð við slíka rannsókn er framkvæmd hérlendis. Bretar heiðruðu Axel Helgason fyrir ómetanlegt starf við þessa rannsókn.
Ýmislegt var hirt úr skipunu áður en grimmur sjórinn á þessum slóðum tók það sem eftir var. Sigurjón Ólafsson, vitavörður í Reykjanesvita, sem hafði komið á slysstað og tekið þátt í björgunaraðgerðunum, náði t.a.m. fágætri kommóðu úr skipinu. Hún var síðar (árið 2005) afhent Byggðasafni Kommóða úr ClamReykjanesbæjar. Kommóðan kom til safnsins frá Ólafi syni Sigurjóns.
Björgunarsveit Grindavíkur undir stjórn Tómasar Þorvaldssonar, bjargaði 19 mannanna með því að skjóta línu út í skipið. Líklegt er talið að bjarga hefði mátt flestum ef ekki öllum úr áhöfninni ef þeir hefðu beðið í skipinu í stað þess að freista þess að ná landi í björgunarbátunum. Fimmtán lík rak á land og voru þau jarðsett í Fossvogskirkjugarði.
Ekki er óeðlilegt að einhverjar spurningar kynnu að vakna um það hvernig stæði á því að 50 manns hafi verið um borð í vélarvana skipi í drætti frá Íslandi til Bretlands á þessum tíma??? Ekki er vitað til þess að þeirri spurningu hafi nokkurn tímann verið svarað – enda kannski aldrei lögð fram!

Heimild:
-http://www.logreglan.is/default.asp?cat_id=660
-http://www.wikipedia.org/wiki/Reykjanes+clam+reykjanes
-http://www.rnb.is/clam+reykjanes
-Ljósmynd 2; í eigu Sævars Jóhannessonar, rannsóknarlögreglumanns í Reykjavík.

Reykjanes

Reykjanes – JÓH.

Minja- og sögufélag Grindavíkur hefur fest kaup á hinni „fornu“ verbúð Bakka við Garðsveg og stendur til að koma húsinu í upprunalegt horf – líkt og ætlunin var hjá fyrri eigendum þess.
Bakki - 231Húsið var byggt 1933 og er því með eldri húsum í Grindavík. Þarna var jafnframt ein elsta „sjóverbúð“ í nútíma á Suðurnesjum (Grindavík var fyrrum ekki hluti Suðurnesja) og hefur því menningarsögulegt gildi sem slíkt. Húsið, sem er klætt bárujárni, hefur látið mjög á sjá í seinni tíð. Skammt norðar stóð hin forna Staðarbúð (Staðarhús), hús Skálholtsstóls. Enn má sjá þar leifar steinhleðslu hússins. Sunnar stendur endurbyggt Flagghúsið, upprunalega byggt árið 1890.

Bakki

Bakki gengur í endurnýjun lífdaga.

 

 

Krýsuvíkureldar

Í Jökli 1991 er fjallað um „Krýsuvíkureldana“ 1151:

Gossprunga Krýsuvíkurelda

Krýsuvíkureldar
Gossprungan og hraunin sem frá henni hafa runnið em sýnd á 1. mynd. Eins og flestar gossprungur á Suðvesturlandi hefur hún meginstefnu nálægt N45°A. Gjallhröngl syðst í austurhlíð Núpshlíðarháls markar suðvesturenda gígaraðarinnar en norðausturendinn er austanvert í norðausturenda Undirhlíða, á móts við Helgafell ofan Hafnarfjarðar. Vegalengdin milli enda sprungunnar er um 25 km.
Syðst í Núpshlíðarhálsi er austurhlíðin orpin gjalli og hrauni sem sést vel af Ísólfsskálavegi þar sem hann liggur næst hálsinum. Gígaröðin liggur til norðausturs í eða við vesturhlíð Móhálsadals, allt norður undir Vigdísarvelli, fyrst slitrótt en síðan samfellt, og sumstaðar er gígaröðin tvöföld. Um þremur kílómetrum sunnan Vigdísarvalla breytist stefnan skyndilega; gígaröðin sveigir þvert yfir dalinn og fær síðan mun norðlægari stefnu. Áfram liggur hún skástígt norður með vesturhlíð Sveifluháls að Slögu og þaðan slitrótt með Vigdísarhálsi að Traðarfjöllum og hefur þá hliðrast aftur að Núpshlíðarhálsi.
Krýsuvíkureldar
Gossprungan liggur um Traðarfjöll vestanverð og í dalverpinu milli þeirra og Núpshlíðarháls. Á móts við Djúpavatn slitnar gossprungan en tekur sig upp aftur skammt norðan við vatnið. Þar em nyrstu gígamir á suðurhluta sprungunnar utan í Núpshlíðarhálsi, beint vestur af Hrútafelli. Þar sem landið liggur hæst í Móhálsadal slitnar gossprangan en hún tekur sig upp á ný skammt norðan við Vatnsskarð, en þar er landið tekið að lækka verulega. Þaðan liggur gígaröðin, tvöföld á kafla en nokkuð slitrótt, áfram til norðausturs vestan undir móbergshryggnum Undirhlíðum. Skammt norðan Bláfjallavegar sveigir gígaröðin upp í móbergið og norðausturendi hennar, sem Jón Jónsson (1978) hefur nefnt Gvendarselsgíga, liggur austan undir nyrsta hluta Undirhlíða, skammt sunnan við Kaldársel.
Skammt vestur af Mávahlíðum er um 400 m löng gígaröð. Mjög er líklegt að hún hafi myndast í þessari sömu goshrinu. Stefna gígaraðarinnar er um N60°A, sem er um 15° frávik frá meginstefnu gossprungunnar.
Fjarlægðin milli enda gossprungunnar er um 25 km en í henni er um 8 km löng eyða, þannig að alls hefur gosið á um 17 km langri sprungu. Syðri hlutinn er um 10,5 km að lengd og nyrðri hlutinn um 6,5 km.

Hraun Krýsuvíkurelda

Krýsuvíkureldar

Krýsuvíkureldar – kort jarðfræðinga lagt yfir loftmynd.

Eins og sjá má á 1. mynd mynduðust fjórir aðskildir hraunflákar í Krýsuvíkureldum. Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó. Næst norðan við það er lítið hraun sem runnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megin gossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Öll hraunin eru ólivínþóleiít basalt. Bergfræðirannsóknir Einars Gunnlaugssonar (1973) sýna að þau eru hvert öðru lík og að hraunin í Móhálsadal verða ekki greind hvert frá öðrum í þunnsneið. Þau eru dæmigerð fyrir apalhraunin sem koma upp í gliðnunarhrinum á Reykjanesskaga. Hraunin eru þunnfljótandi og gasrík og mynda oft þunnt frauðkennt helluhraun næst gígunum. Algeng þykkt slíkra hrauna er um einn metri á sléttu landi og eru hraunjaðrarnir oft ekki nema um hálfur metri á hæð. Þegar hraunin hafa runnið nokkur hundruð metra frá gígunum hefur verulegur hluti gassins verið rokinn úr hraunkvikunni, þannig að hún verður seigari og hraunið þykknar og breytist smám saman í apalhraun sem verður þeim mun úfnara sem fjær dregur gígunum. Hæstu hraunjaðrar af þessari gerð á Reykjanesskaga eru 10-15 m.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunnar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og rann í sjó fram á um 5 km breiðu belti. Hraunið fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík.
Þessi hraunfláki er stærstur af þeim fjórum sem mynduðust í Krýsuvíkureldum. Hann gæti hafa myndast í tveimur gosum (en þó í sömu goshrinu). Sá hluti hraunsins sem kominn er frá gígunum við Djúpavatn hefur runnið til austurs og síðan til suðurs austan Traðarfjalla. Við suðurbrún Traðarfjalla leggst yfir það yngra hraun sem runnið hefur frá þeim hluta gígaraðarinnar sem liggur í skarðinu milli Traðarfjalla og Núpshlíðarháls. Samsvarandi mörk hafa hins vegar ekki fundist á sjálfri gígaröðinni, sem virðist alveg samfelld norður skarðið að gígunum við Djúpavatn. Norðurbrún hraunsins er milli 0,5 og 1,0 m há en annars staðar hefur fyllst að jöðrunum þannig að þeir sjást ekki. Hraunið er allúfið austan Traðarfjalla, enda hefur það runnið þar í nokkrum halla.

Traðarfjöll

Traðarfjöll – loftmynd.

Syðri hluti hraunsins fyllir allan Móhálsadal sunnan Traðarfjalla. Þar er hraunið víðast slétt helluhraun en í dalnum ofanverðum er það að verulegu leyti horfið undir framburð lækja, sem er afar mikill á þessum slóðum. Móbergið í hálsunum í grennd er mikið ummyndað vegna jarðhita og því auðrofið. Jafnhliða ummynduninni þéttist bergið þannig að úrkoma hripar ekki beint niður, eins og víðast á Reykjanesskaga, heldur myndar læki sem renna á yfirborði. Þeir hverfa reyndar fljótlega niður í jörðina er þeir koma út fyrir ummyndaða svæðið. Af þessum sökum er ógerningur að segja til um þykkt hraunsins í dalnum. Meginhraunið hefur komið upp í dalnum sunnanverðum. Þegar hraunið fellur suður úr dalnum breytist það að mestu í úfið apalhraun, enda búið að renna alllangan veg frá gígunum. Hraunið hefur síðan runnið allt til sjávar og fyllt hina fornu Krýsuvík. Ætla má að á flatlendi sé hraunið víðast um 5-10 m þykkt og miklu þykkara þar sem það náði út í sjó. Í Móhálsadal er það eflaust nokkru þynnra og vart meira en 3-4 m þykkt, en slík tala er þó ágiskun ein. Flatarmál hraunsins er um 18,6 km2 og ef gert er ráð fyrir 7 m meðalþykkt er rúmmálið um 0,13 km3.
Norður af Djúpavatni liggur ungleg gígaröð til norðausturs eftir Móhálsadal, í beinu framhaldi af gígum Krýsuvíkurelda. Þegar fyrri hluti greinarinnar var skrifaður var það álit okkar að gosið hefði á allri þessari sprungu í Krýsuvíkureldum, en þá hafði aðeins syðsti hluti gossprungunnar verið kannaður að fullu. Síðar hefur komið í ljós að þessir nyrstu gígar eru eldri og hefur Landnámslagið fundist ofan á hrauninu frá þeim.

Hraun við Lœkjarvelli

Mávahlíðarhraun

Mávahlíðarhraun – jarðfræðikort Ísor.

Skammt norðan við Djúpavatn hefur hraun runnið til austurs frá litlum gígum sem þar liggja, austan undir Núpshlíðarhálsi. Þunnfljótandi kvikan hefur myndað helluhraun, sem víðast er 1-2 m þykkt, og hefur lengst náð að renna austur að Hrútafelli, um 500 m vegalengd. Hluti hraunsins er nú horfinn undir framburð lækjarins á Lækjarvöllum. Í jarðvegssniðum við gígana sést glöggt að Landnámslagið liggur neðan við gjalldreif frá þeim en Miðaldalagið ofanvið. Flatarmál þessa hrauns er 0,47 km2 og ef gert er ráð fyrir tveggja metra meðalþykkt er rúmmálið um 0,001 km3.

Mávahlíðahraun

Mávahlíðar

Mávahlíðar – loftmynd.

Skammt norðan við Fíflavallafjall er móbergshryggur er nefnist Mávahlíðar. Um 300 m vestan við hann er stutt gígaröð og liggur frá henni stórskorin og torfarin hrauntröð til norðausturs meðfram Mávahlíðum.
Hraunið, Mávahlíðahraun, hefur einkum runnið til norðurs og norðvesturs, lengst um 3 km frá gígunum, og fallið í tveimur fossum fram af Einihlíðum. Það er víðast mjög úfið og illt yfirferðar en ekki mjög þykkt. Mávahlíðahraun rennur alls staðar út yfir eldri hraun og því augljóst að það er eitt af yngstu hraununum norðan við Dyngjurnar.
Suðvestur af gígaröðinni liggur önnur gígaröð eftir endilöngum móbergshrygg sem teygir sig til norðausturs frá Grænudyngju. Frá henni hefur runnið hraun sem hverfur undir hraunið frá Mávahlíðagígum og einnig undir hraunið frá Eldborg við Trölladyngju.
Jón Jónsson (1978) taldi gígana sem mynduðu Mávahlíðahraunið framhald þessarar gígaraðar til norðausturs og að ekki yrði annað séð en að hraunin rynnu saman í eitt þar sem þau koma saman. Jón nefndi hraunið í heild Dyngnahraun en sá samt ástæðu til að fjalla um Mávahlíðahraunið sérstaklega og nefna hvað það væri unglegt. Mávahlíðahraunið er örugglega yngra en Dyngnahraunið. Því til stuðnings hefur Landnámslagið fundist ofan á Dyngnahrauninu og er það því örugglega runnið fyrir landnám. Landnámslagið liggur hins vegar inn undir Mávahlíðahraun og má því ljóst vera að þessi hraun hafa ekki myndast í sama gosi. Mávahlíðahraun er um 3,7 km2 að flatarmáli og meðalþykktin er áætluð 5 m. Rúmmál hraunsins er þá um 0,02 km3.

Kapelluhraun

Kapelluhraun

Kapelluhran – loftmynd.

Sem fyrr sagði höfðu höfundar ekki að fullu kannað hraunin frá nyrsta hluta gígaraðarinnar þegar fyrri greinin um Krýsuvíkurelda var skrifuð. Þá var það skoðun okkar að Kapelluhraun, hraunin frá Óbrinnishólum og Hellnahraun hefðu öll runnið í sama gosinu. Könnun á svæðinu sumarið 1989 leiddi í ljós að þetta var ekki alls kostar rétt og verður nánar vikið að því síðar.
Meginhraunflákinn sem myndaðist í Krýsuvíkureldum á þessu svæði er vestan undir Undirhlíðum, milli Óbrinnishóla og Vatnsskarðs.
Mestur hluti hraunsins hefur komið úr tveimur syðstu kílómetrum gossprungunnar og sýnu mest úr syðsta og vestasta gígnum. raunstraumurinn frá honum hefur fallið til norðurs og norðvesturs eftir lægð sem var á milli hraunsins frá Hrútagjárdyngju, þ.e. Almenninga, og hraunsins frá Óbrinnishólum, allt til sjávar í Straumsvík. Þetta er hið eiginlega Kapelluhraun, þó svo að hér sé nafnið notað um hraunið í heild. Jarðvegssnið við jaðar Kapelluhrauns er sýnt á 6. mynd. Næst gígnum hefur hraunið runnið eftir snoturri hrauntröð og liggur vegurinn til Krýsuvíkur yfir hana skammt norðan við gíginn. Mesta lengd þessa hraunstraums er um 10 km. Frá öðrum hlutum gossprungunnar hafa aðeins runnið þunnfljótandi hraun um skamman veg. A svæðinu sunnan við Óbrinnishóla hafa þau myndað allmikla hrauntjörn sem síðar hefur sigið saman er gas rauk úr kvikunni.

Kapelluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort Ísor.

Á nokkrum stöðum í hrauninu má sjá hvernig það hefur runnið niður í gjár og sprungur og er augljóst að hraunið er víða aðeins eins eða tveggja metra þykkt á þessu svæði. Skammt sunnan við Bláfjallaveg hefur hraunið runnið umhverfis litla hæð úr bólstrabrotabergi sem nefnist Stakur, en milli hans og Óbrinnishóla eru aðeins 300-400 m. Telja verður næsta líklegt að hæðin hafi eftir gosið verið kölluð Óbrennishóll eða -hólmi og nafnið síðar færst yfir á gjallgígana sem nú heita Óbrinnishólar. Skammt norðan við Bláfjallaveg eru litlir en snotrir gígar við rætur Undirhlíða og nefnast þeir Kerin. Frá þeim hefur runnið lítið hraun til vesturs og norðurs. Norðan við gígana er hraunið á nokkrum kafla svo rennislétt að furðu sætir. Rétt er á þessum stað að rifja upp kafla úr fyrri grein okkar, þar sem vitnað er í lýsingu Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á eldgosi á Islandi sem að öllum líkndum á við um Krýsuvíkurelda (hluti af þýðingu Jakobs Benediktssonar sem birtist í grein Sigurðar Þórarinssonar 1952): „Og þótt furðulegt sé frásagnar, bráðnuðu fjöll úr grjóti og jafnvel málmi algjörlega fyrir eldi þessum eins og vax, runnu yfir landið og þöktu það, svo að dalirnir umhverfis fylltust af leðjunni og fjalllendi jafnaðist við jörðu. En bráðnu klettarnir, sem runnu út yfir allan jarðveginn í allar áttir, dreifðust síðan, þegar eldinum slotaði, og þá varð yfirborð jarðar eins og úr marmara og eins og steinlagt stræti, og jörðin, sem áður var byggileg og frjósöm, varð að eyðimörk.“ Þó svo að víða megi finna sæmilega slétta bletti í hrauninu frá Krýsuvíkureldum er enginn þessum líkur.
Kerin
Leiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar hefur um aldir ýmist legið vestanundir eða uppi á Undirhlíðum og hefur þetta „marmarahraun“ því verið vel þekkt af öllum þeim sem þarna áttu leið um. Þar sem gossprungan sveigir upp í Undirhlíðar verður hún slitróttari og eru þar aðeins tveir litlir gígkoppar á móberginu. Litlu norðar taka við Gvendarselsgígar sem Jón Jónsson (1978) hefur nefnt svo. Frá Gvendarselsgígum hefur runnið lítið hraun sem þekur botn lítils dals milli nyrsta hluta Undirhlíða og Helgafells, norður að Valahnúkum. Hraunið hefur runnið fram úr dalnum til norðvesturs. Lítill hrauntaumur hefur runnið niður í Kaldárbotna en meginhraunstraumurinn, sem reyndar er ekki stór, hefur runnið út yfir farveg Kaldár og meðfram honum, um eins kílómetra veg.
Þykkt Gvendarselshrauns virðist víðast um og innan við einn metri. Hraunin frá Gvendarselsgígum og Kerjum verða ekki talin sérstök hraun, heldur hluti af Kapelluhrauni, enda um einn samfelldan hraunfláka að ræða. Alls þekur Kapelluhraun 13,7 km2. Ef meðalþykktin er um 5 m er rúmmál þess um 0,07 km.

Aldur hraunanna
í fyrri grein voru leiddar að því líkur að Ögmundarhraun hafi runnið árið 1151 og er þar jöfnum höndum stuðst við frásagnir annála, geislakolsaldur og rannsóknir á öskulögum.

Heimild:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1991, Krýsuvíkureldar, bls. 64-69.

Kerið

Kerið – gígur.

Grindavíkurvegur

Grindavík er fallegt sjávarþorp við suðurströnd Reykjanesskagans. Frá Reykjavík tekur u.þ.b. 30 mínútur að aka þangað á 3×30 km hraða. Talan 3 er svo nátengd Grindavík að engu lagi er líkt. Bara nafnið sjálft er 3×3 bókstafir (Gri-nda-vík).

Skipsstígur

Skipsstígur – vagnvegurinn norðan Lágafells.

Til Grindavíkur liggja þrjár meginleiðir – um Ísólfsskálaveg úr austri, um Grindavíkurveg úr norðri og Reykjanesveg úr vestri. Fyrrum voru meginþjóðleiðirnar einnig þrjár; Prestastígur, Skipsstígur/Árnastígur og Skófellastígur/-vegur).
Landnámsmaður sté fyrst fæti í Grindavík árið 933, en þá höfðu liðið 3 þúsund ár síðan hraun það rann úr Vatnsheiðinni með sínum þremur gígum er nú myndar undirlag byggðarinnar við ströndina.
Synir Landnámsmannsins, Molda-Gnúps, voru þrír; Björn, Þórður og Þorsteinn. Sauðþráir afkomendur þeirra, fjárbændurnir, eiga einungis þrílembur. Þriðjungur þeirra bregður til fósturs.
Hverfin, sem byggð hafa verið í Grindavík, eru þrjú – Staðarhverfi vestast, Járngerðarstaðahverfi í miðjunni, við núverandi höfn, og Þórkötlustaðahverfi austast.
Þrjár gamlar þriggja fiskroðsskóa þjóðleiðir lágu til Grindavíkur; Prestastígur frá Höfnum, Skipsstígur frá Njarðvíkum og Skógfellavegur frá Vogum.
1939 (3×3) var grafið skipalægi inn í Hópið, sem myndar núverandi hafnaraðstöðu í Grindavík.

Tyrkir

Tyrkirnir koma.

Um aldamótin 1900 voru íbúar þorpsins 353 talsins. Nú eru þeir 2.339 (m.v. 1. des s.l.) og stefna á þreföldum hraða í töluna 3.000.
Grindavík átti 30 ára kaupstaðarafmæli á síðasta ári. Efst hægra megin á vefsíðu bæjarins, www.grindavik.is, standa 3 orð; „Grindavík – 30 ára“.
Þriggja stiga körfur eru algengar hjá hina sterka körfuboltaliði bæjarins og knattspyrnufélagið tapar yfirleitt ekki leik með meira en þriggja marka mun.
Veður er afar gott í Grindavík, hiti oftast yfir 3×3 gráður að sumarlagi og varla undir –3 gráðum að vetrarlagi. Vindhraðinn er oftar en ekki þriðjungur af því sem hann ætti ekki að vera. Súrefnið er því þrefaldlega ferskara.
Höfuðlandáttir eru þrjár í Grindavík, vestur, norður og austur, en suður er hafáttin; þrisvar sinnum merkilegri en hinar þrjár.
Ef þríhöfða þurs væri til myndi hann búa í Þorbjarnarfelli ofan við Grindavík. Þar er Þjófagjá og Gálgaklettar skammt frá.
Í bæjarstjórn Grindavíkur eru fulltrúar þriggja flokka. Þrír bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar mynda meirihluta með Sjálfstæðismönnum.
Þriðji í jólum er aðalhátíð síungra Grindvíkinga. Þá kveikja þeir þríefldir í öllu eldfimu og efna til staðbundinna óeirða í mótsögn við heilaga þrenningu.
Þriðji hver íbúi bæjarins er aðkomumaður, en hinir þrírþriðju eru innfæddir, svonefndir Grindjánar. Reyndar var og er talan 3 einnig heilög tala hjá indjáum.

Páll Vilbergsson

Páll Vilbergsson.

Árið 1532 börðust þýskir, enskir, danskir og lenskir við Grindavík um yfiráðin yfir versluninni og 1627 komu Tyrkir til Grindavíkur og numu 15 (3×3+3+3) manns á brott með sér. Síðan eru liðin þrisvar sinnum 126 ár.
Nú eru fleiri en þrjár verslanir opnar gestum og gangandi í Grindavík 3×3 klst á dag virka daga og vöruúrvalið hefur aldrei verið meira, þrjár tegundir af hverri vöru. Á veitingahúsunum þremur er þriðji bjórinn (33 cl) frír fyrir klukkan 3 þriðja hvern dag.
Í Grindavík er menningin nú orðið í þrívídd og minjasagan er óvíða aðgengilegri, a.m.k. fyrir einum færra en þrífætta.
Slagorð bæjarins er; „Grindavík – góður bær“ = þrjú orð. „Allt er þá er þrennt er“, er almælt máltæki meðal Grindvíkinga.
Mörgum finnst líka alltaf þrisvar sinnum skemmtilegra að koma til Grindavíkur en annarra stórra smábæja í landinu. Og þar skín sumarsuðursólin (3 ess) þrisvar sinnum skærar en t.d. á norðanverðum Reykjanesskaganum. Samt munar einungis tæplega 3×3+3+3 mínútum á þessum landssvæðum – þrjáþriðju ársins.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Mölvíkurvatnsstæðið

Eitt er það örnefni, enn a.m.k., sem ekki hefur verið hægt að finna með „goggli“, en það er Mölvíkurvatnsstæðið. Vatnsstæðisins er getið í örnefnaskrá fyrir Stað í Grindavík: „Upp af miðri Mölvík gengur klapparhryggur, Mölvíkurklöpp, upp fyrir Reykjanesveginn. Ofan við hana er Mölvíkurvatnsstæði (eintala).“
MölvíkurvatnsstæðiðVatnsstæðið er stórt af vatnsstæði að vera en þó ekki stærra en sambærileg „vatnsstæði“ í Grindavík, s.s. við Járngerðarstaði, Stað og Húsatóftir. Sérstaða þess er helst fólgin í að það er eina vatnsbólið á innanverðu Reykjanesinu. Allt um kring er landslagið bæði eyðilegt, sendið og fremur slétt. Ofar er Klofningahraunið með sínum stórbrotnu ýfingum. Austan við það er slétt mosavaxið Berghraunið og austan þess er hólótt Lynghólshraunið.
Vestan við Vatnsstæðið þekur svartur basaltsandur úr Sandvíkinni allt svæðið. Sandflákinn tekur höndum saman við bróður sinn úr Stóru-Sandvík vestan Hafnarbergs. Saman mynda þeir samfellu og hafa að mestu lagt undir sig utanvert Reykjanes. Ef ekki hefði komið til sandgræðsla á síðari áratugum hefði sandurinn lagt undir sig allt land á þessu svæði. Sandinn má vel sjá í Vatnsstæðinu. Augljóst er að þarna gætir náttúruáhrifa, þ.e. þegar stórbrimað er framanvert flæðir sjór upp á land og hækkar þá í tjörninni. Í „eðlilegu“ árferði lækkar í henni á ný og seltan minnkar í samsteningunni.
Landgræðsla ríkisins miðar aldur sinn við setningu laga um „skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands“ frá árinu 1907. Þá var Sandgræðsla Íslands stofnuð en árið 1965 var nafninu breytt í Landgræðsla ríkisins. Hún er ein elsta stofnun sinnar tegundar í heiminum og er reynsla Íslendinga í baráttu við landeyðingu því mikil.
Mölvíkurvatnsstæðið-2Í upphafi beindist starfið einkum að því að stöðva sand sem ógnaði mörgum byggðarlögum. Landgræðslustarfið hefur skilað mikilum árangri frá upphafi því tekist hefur að hefta skæðasta foksandinn og klæða mikið land gróðri á ný. Nú er talið að meira grói upp en það sem eyðist þótt enn eyðist mikill gróður og jarðvegur á Íslandi.
Starfshættir Landgræðslunnar hafa breyst mikið frá upphafi en þá voru flest verk unnin með höndum eða frumstæðum verkfærum. Meðal annars voru langir sandvarnargarðar hlaðnir úr hraungrýti.
Í hrauninu upp af Ósum má enn sjá leifar landgræðslugirðingar sem mun hafa verið lokið við um 1939 en hún skipti Reykjanesskaganum í 2 svæði. Girðingin lá eftir hrauninu og niður í Merkinesvör og hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sunnan hennar var sauðfé bannað. Síðar var svæðið stækkað með því að sett var horn á girðinguna uppi í hrauninu og girt norður að Ósum og sá hluti girðingarinnar sem lá fram í sjó að vestanverðu var lagður niður.
Leitað var að hugsanlegum grjótgildrum umhverfis Vatnsstæðið, en engar fundust að þessu sinni. Ekki er þekkt þjóðsaga tengd vatnsstæðinu, sem verður að teljast í frásögu færandi. Fyrirhuguð er ganga um Klofningahraun fljótlega.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stað.
-land.is

Mölvíkurvatnsstæði

Mölvíkurvatnsstæði – kort.

Ísólfsskáli

Erling Einarsson, áhugasamastur Grindvíkinga að leita að áður ófundnu, helst stöðum, sem enginn hefur áður stigið niður fæti, rakst nýlega á lítið, nýmyndað, gat í sléttu hrauni skammt austan Ísólfsskála. Það þarf góða sjón, athyglisgáfu og kunnugleika til að geta greint svo lítið gat í víðfeðminu. Hann var reyndar með FERLIRshúfu umrætt sinn – og af Skálafólkinu [r]unninn.

Í hellinum

Í einni FERLIRsferðinni fyrir skemmstu var m.a. hugað að gatinu. Það er í þunnri hraunhellu eldra hraunsins, sem þarna er. Nýrra hraunið hefur verið nefnt Skollahraun, en Skálinn er á því eldra, líklega frá fyrra hlýskeiði. Það hraun mætti þess vegna nefna Ísólfsskálahraun, sbr. Krýsuvíkurhraun og Herdísarvíkurhraun austar.
Nú var ferðinni sérstaklega beint að þessu gati, sem var um fet í ummál. Þegar priki var stungið niður nam það botn á u.þ.b. metersdýpi, en hvergi var fyrirstöðu að finna innar. Gaf það von um umferðarvæna rás.
Eftir að hafa stækkað gatið nægilega með járnkarli til þess að maður gæti komist niður hófst könnun undirheima Skálans. Hafa ber í huga að áður hafa áhugaverðir og sérstakir hellar fundist í námunda við Ísólfsskála. Einn þeirra var um tíma í túninu austur af gamla bænum, sunnan þess nýja, en fyllt var í opið undir lok síðustu aldar. Erling telur sig þó vita hvar það er og gæti gengið að því ef á þyrfi að halda. Mokstur og annað jarðrask þyrfti þó eðlilega samþykkis viðkomandi. Þá er stutt að minnast hellis þess, sem kom í ljós við gerð nýja Ísólfsskálavegar (Suðurstrandarvegar – það virðist alltaf þurfa að nefna örnefnin eitthvað annað þegar nýtingin verður önnur, sbr. orðið Háaleiti þar sem nú er Keflavíkurflugvöllur [Kevlavik International airport eða Reykjavik airport eins og gefið er í skyn víða í útlenskum flughöfnum.

Í hellinum

En það þarf þó ekki alltaf útlendinga til]. Örnefnið Háaleiti var þar sem núverandi íbúðarbyggð á vallarsvæðinu er nú. Á Háleiti var Kalka, sem síðar fór undir flugvöllinn. „Útlenskir“ Íslendingar, sem annað hvort hafa ekki kynnt sér örnefnin, sem fyrir voru, á svæðinu, nenna því ekki eða hafa ekki áhuga á því, datt í fyrstu í hug hug að nefna svæðið Sólarhæðir, sbr. þegar Selbrekku var breitt í Sólbrekku norðan Seltjarnar (sem reyndar hét Selvatn). Nýjasta tilraunin er að nefna Háaleitissvæðið Vallarheiði, sem á þá væntanlega að mynna á notkun þess fyrir breytingu. Segja má að þarna sé Keflvíkingum, mörgum hverjum, vel lýst, sem og viðhorfi þeirra til sögu og menningar svæðisins.
Jæja, aftur að hellinum við nýja Ísólfsskálaveginn. Þar rak gröfumaður arminn niður úr þunnri skel og við blasti hyldýpi. Í ljós koma geymur, sem hafði myndast eftir að ísstykki er bráðnað hafði úr jökli, sennilega frá því í lok síðustu ísaldar. Áður hafði stykkið umverpst ösku og gjósku og því ekki náð að bráðna fyrr en ofur hægt og á löngum tíma. Það var ekki fyrr en gröfumaðurinn mætti á svæðið að það opinberaðist,
Í hellinumOfar er Slaga. Í henni eru elstu ummerki bergmyndunar á Reykjanesskaganum, jökurispuð innskot frá fyrri hlýskeiðum.
Og þá aftur að litla opinu í Ísólfsskálahrauni. Þegar stigið hafði verið fyrsta sinni niður á hellisgólfið reyndi myrkrið að villa sýn. Þetta var lítið skref, en stórt í sögu FERLIRs. Sigur myrkursins þarna um 20 alda skeið stóðst ekki opinberunina. Í ljós kom tómarúm í umlykjandi hrauninu. Það var þó ekki komið af engu því augljóst var að þarna hafði glóandi kvika streymt um við myndun hraunsins eftir að yfirborð þess hafði náð að storkna. Þegar fóðuröflunin fór þverrandi rann innkoman hægt áfram undan hallanum uns hún stöðvaðist við hlið samafurðum hennar, undir og yfir. Þótt „hellirinn“ sé ekki stór á hraunhellamælikvarða landsins er hann að mörgu leyti „læsilegri“ en margir stærri bræður hans. Og vegna þess hversu loftið er þunnt má víða sjá rætur ofanágróðursins liggja niður úr loftinu. Að vísu liggur þröng rás úr hellinum til suðvesturs, en ekki var aðstaða til að fylgja henni eftir að þessu sinni.
Erfitt var um myndatökur þarna niðri vegna móðu er fyllti hellinn bæði fljótt og vel, enda væntanlega kærkomin tilbreytni.
Frábært veður.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli.

 

Hans Hedtoft

Í Morgunblaðinu árið 1959 er sagt frá bjarghring úr Hans Hedtoft er rak í Grindavík, en farið hafði farist við Grænland fyrr á árinu:
Hans Hedtoft„Aðfaranótt miðvikudags rak bjarghring úr danska Grænlandsfarinu Hans Hedtoft á land í Grindavík. Mun ekkert annað hafa fundizt svo öruggt sé úr Grænlandsfarinu, sem fórst með farþegum og allri áhöfn [95 manns] SA af Hvarfi á Grænlandi 31. janúar sl. vetur. Er bjarghringurinn óskemmdur og greinilega merktur Hans Hedtoft, Köbenhavn. Er Magnús Hafliðason bóndi á Hrauni, sem er austasti bær í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík, kom út á miðvikudagsmorgun og niður á tún, sá hann hvar glampaði á eitthvað hvítt úti í fjörunni. Um nóttina hafði verið mikið rok á suðaustan og brim, en um morguninn var komið logn. Gekk hann út með fjörunni og fann óskemmdan bjarghring uppi í malarkambinum.

magnus haflida-221

Tók hann hring inn heim með sér og um kvöldið hafði hann orð á því við Árna Eiríksson, bílstjóra á áætlunarbíl Grindvíkinga, að hann hefði fundið hring merktan Köbenhavn. Árni athugaði hringinn nánar og sá að hann var af Hans Hedtofi. Er hann kom til Reykjavíkur í gær, gerði hann Henry Hálfdánarsyni, framkvæmdastjóra Slysavarnafélags-ins aðvart. Hringdi Henry til Magnúsar bónda og bað hann um að halda á hringnum með sér er hann kæmi næst í bæinn. Sennilega leystur frá skipinu eins og áður er getið, sér nær ekkert á bjarghringnum þó hann hafi hrakizt i sjó í 9 mánuði. Svolitlar skellur eru komnar í rauða litinn, en áletrunin er alveg óskemmd og greinileg. Á tveimur stöðum er eins og eitthvað hafi höggvizt í hringinn og aðeins er að byrja að koma skeljungur á kaðalinn, sem er alveg heill. Enginn spotti er i hringnum og tóið hvergi slitið, svo engu er líkara en að hringurinn hafi verið leystur af skipinu, en ekki slitnað frá því.
Fréttamaður Mbl. átti í gær tal við Magnús bónda á Hrauni. Hann er 68 ára gamall, fæddur og uppalinn á Hrauni og því oft búinn að ganga f jöruna neðan við bæinn. Sagði hann að þar ræki oft ýmislegt, einkum hefði borizt mikið dót á land þar á stríðsárunum, enda væri þetta fyrir opnu hafi. Sagði Magnús að þarna ræki oft brot úr bjarghringum, en þeir ‘væru oftast of illa farnir til að þekkjast.

hans hedtoft - hringur

Við hliðina á hringnum af Hans Hedtoft lá einmitt eitt slíkt brot.
Bjarghringir eru ákaflega léttir og telur Magnús líklegt að hringurinn af Hans Hedtoft hafi borizt fyrir vindi, fyrst suðurum undan norðanáttinni í vetur. þá upp undir Suðurlandið í vestanáttinni og loks hafi honum skolað upp í Grindavík undan suðaustanrokinu, sem staðið hefur nú um langan tíma. Annars er ómögulegt að segja hvað svona léttir, fljótandi hlutir geta flækst, sagði Magnús að lokum.“
Bjarghringurinn nú er varðveittur í kapellunni í Qaqortog eða Julianehåb á Grænlandi.

Heimild:
-Morgunblaðið 9. október 1959, bls. 24.

Hans Hedtoft

Hans Hedtoft.