Í Jökli 1991 er fjallað um „Krýsuvíkureldana“ 1151:
Gossprunga Krýsuvíkurelda
Gossprungan og hraunin sem frá henni hafa runnið em sýnd á 1. mynd. Eins og flestar gossprungur á Suðvesturlandi hefur hún meginstefnu nálægt N45°A. Gjallhröngl syðst í austurhlíð Núpshlíðarháls markar suðvesturenda gígaraðarinnar en norðausturendinn er austanvert í norðausturenda Undirhlíða, á móts við Helgafell ofan Hafnarfjarðar. Vegalengdin milli enda sprungunnar er um 25 km.
Syðst í Núpshlíðarhálsi er austurhlíðin orpin gjalli og hrauni sem sést vel af Ísólfsskálavegi þar sem hann liggur næst hálsinum. Gígaröðin liggur til norðausturs í eða við vesturhlíð Móhálsadals, allt norður undir Vigdísarvelli, fyrst slitrótt en síðan samfellt, og sumstaðar er gígaröðin tvöföld. Um þremur kílómetrum sunnan Vigdísarvalla breytist stefnan skyndilega; gígaröðin sveigir þvert yfir dalinn og fær síðan mun norðlægari stefnu. Áfram liggur hún skástígt norður með vesturhlíð Sveifluháls að Slögu og þaðan slitrótt með Vigdísarhálsi að Traðarfjöllum og hefur þá hliðrast aftur að Núpshlíðarhálsi.
Gossprungan liggur um Traðarfjöll vestanverð og í dalverpinu milli þeirra og Núpshlíðarháls. Á móts við Djúpavatn slitnar gossprungan en tekur sig upp aftur skammt norðan við vatnið. Þar em nyrstu gígamir á suðurhluta sprungunnar utan í Núpshlíðarhálsi, beint vestur af Hrútafelli. Þar sem landið liggur hæst í Móhálsadal slitnar gossprangan en hún tekur sig upp á ný skammt norðan við Vatnsskarð, en þar er landið tekið að lækka verulega. Þaðan liggur gígaröðin, tvöföld á kafla en nokkuð slitrótt, áfram til norðausturs vestan undir móbergshryggnum Undirhlíðum. Skammt norðan Bláfjallavegar sveigir gígaröðin upp í móbergið og norðausturendi hennar, sem Jón Jónsson (1978) hefur nefnt Gvendarselsgíga, liggur austan undir nyrsta hluta Undirhlíða, skammt sunnan við Kaldársel.
Skammt vestur af Mávahlíðum er um 400 m löng gígaröð. Mjög er líklegt að hún hafi myndast í þessari sömu goshrinu. Stefna gígaraðarinnar er um N60°A, sem er um 15° frávik frá meginstefnu gossprungunnar.
Fjarlægðin milli enda gossprungunnar er um 25 km en í henni er um 8 km löng eyða, þannig að alls hefur gosið á um 17 km langri sprungu. Syðri hlutinn er um 10,5 km að lengd og nyrðri hlutinn um 6,5 km.
Hraun Krýsuvíkurelda
Krýsuvíkureldar – kort jarðfræðinga lagt yfir loftmynd.
Eins og sjá má á 1. mynd mynduðust fjórir aðskildir hraunflákar í Krýsuvíkureldum. Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó. Næst norðan við það er lítið hraun sem runnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megin gossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Öll hraunin eru ólivínþóleiít basalt. Bergfræðirannsóknir Einars Gunnlaugssonar (1973) sýna að þau eru hvert öðru lík og að hraunin í Móhálsadal verða ekki greind hvert frá öðrum í þunnsneið. Þau eru dæmigerð fyrir apalhraunin sem koma upp í gliðnunarhrinum á Reykjanesskaga. Hraunin eru þunnfljótandi og gasrík og mynda oft þunnt frauðkennt helluhraun næst gígunum. Algeng þykkt slíkra hrauna er um einn metri á sléttu landi og eru hraunjaðrarnir oft ekki nema um hálfur metri á hæð. Þegar hraunin hafa runnið nokkur hundruð metra frá gígunum hefur verulegur hluti gassins verið rokinn úr hraunkvikunni, þannig að hún verður seigari og hraunið þykknar og breytist smám saman í apalhraun sem verður þeim mun úfnara sem fjær dregur gígunum. Hæstu hraunjaðrar af þessari gerð á Reykjanesskaga eru 10-15 m.
Ögmundarhraun
Ögmundarhraun – loftmynd.
Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunnar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og rann í sjó fram á um 5 km breiðu belti. Hraunið fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík.
Þessi hraunfláki er stærstur af þeim fjórum sem mynduðust í Krýsuvíkureldum. Hann gæti hafa myndast í tveimur gosum (en þó í sömu goshrinu). Sá hluti hraunsins sem kominn er frá gígunum við Djúpavatn hefur runnið til austurs og síðan til suðurs austan Traðarfjalla. Við suðurbrún Traðarfjalla leggst yfir það yngra hraun sem runnið hefur frá þeim hluta gígaraðarinnar sem liggur í skarðinu milli Traðarfjalla og Núpshlíðarháls. Samsvarandi mörk hafa hins vegar ekki fundist á sjálfri gígaröðinni, sem virðist alveg samfelld norður skarðið að gígunum við Djúpavatn. Norðurbrún hraunsins er milli 0,5 og 1,0 m há en annars staðar hefur fyllst að jöðrunum þannig að þeir sjást ekki. Hraunið er allúfið austan Traðarfjalla, enda hefur það runnið þar í nokkrum halla.
Traðarfjöll – loftmynd.
Syðri hluti hraunsins fyllir allan Móhálsadal sunnan Traðarfjalla. Þar er hraunið víðast slétt helluhraun en í dalnum ofanverðum er það að verulegu leyti horfið undir framburð lækja, sem er afar mikill á þessum slóðum. Móbergið í hálsunum í grennd er mikið ummyndað vegna jarðhita og því auðrofið. Jafnhliða ummynduninni þéttist bergið þannig að úrkoma hripar ekki beint niður, eins og víðast á Reykjanesskaga, heldur myndar læki sem renna á yfirborði. Þeir hverfa reyndar fljótlega niður í jörðina er þeir koma út fyrir ummyndaða svæðið. Af þessum sökum er ógerningur að segja til um þykkt hraunsins í dalnum. Meginhraunið hefur komið upp í dalnum sunnanverðum. Þegar hraunið fellur suður úr dalnum breytist það að mestu í úfið apalhraun, enda búið að renna alllangan veg frá gígunum. Hraunið hefur síðan runnið allt til sjávar og fyllt hina fornu Krýsuvík. Ætla má að á flatlendi sé hraunið víðast um 5-10 m þykkt og miklu þykkara þar sem það náði út í sjó. Í Móhálsadal er það eflaust nokkru þynnra og vart meira en 3-4 m þykkt, en slík tala er þó ágiskun ein. Flatarmál hraunsins er um 18,6 km2 og ef gert er ráð fyrir 7 m meðalþykkt er rúmmálið um 0,13 km3.
Norður af Djúpavatni liggur ungleg gígaröð til norðausturs eftir Móhálsadal, í beinu framhaldi af gígum Krýsuvíkurelda. Þegar fyrri hluti greinarinnar var skrifaður var það álit okkar að gosið hefði á allri þessari sprungu í Krýsuvíkureldum, en þá hafði aðeins syðsti hluti gossprungunnar verið kannaður að fullu. Síðar hefur komið í ljós að þessir nyrstu gígar eru eldri og hefur Landnámslagið fundist ofan á hrauninu frá þeim.
Hraun við Lœkjarvelli
Mávahlíðarhraun – jarðfræðikort Ísor.
Skammt norðan við Djúpavatn hefur hraun runnið til austurs frá litlum gígum sem þar liggja, austan undir Núpshlíðarhálsi. Þunnfljótandi kvikan hefur myndað helluhraun, sem víðast er 1-2 m þykkt, og hefur lengst náð að renna austur að Hrútafelli, um 500 m vegalengd. Hluti hraunsins er nú horfinn undir framburð lækjarins á Lækjarvöllum. Í jarðvegssniðum við gígana sést glöggt að Landnámslagið liggur neðan við gjalldreif frá þeim en Miðaldalagið ofanvið. Flatarmál þessa hrauns er 0,47 km2 og ef gert er ráð fyrir tveggja metra meðalþykkt er rúmmálið um 0,001 km3.
Mávahlíðahraun
Mávahlíðar – loftmynd.
Skammt norðan við Fíflavallafjall er móbergshryggur er nefnist Mávahlíðar. Um 300 m vestan við hann er stutt gígaröð og liggur frá henni stórskorin og torfarin hrauntröð til norðausturs meðfram Mávahlíðum.
Hraunið, Mávahlíðahraun, hefur einkum runnið til norðurs og norðvesturs, lengst um 3 km frá gígunum, og fallið í tveimur fossum fram af Einihlíðum. Það er víðast mjög úfið og illt yfirferðar en ekki mjög þykkt. Mávahlíðahraun rennur alls staðar út yfir eldri hraun og því augljóst að það er eitt af yngstu hraununum norðan við Dyngjurnar.
Suðvestur af gígaröðinni liggur önnur gígaröð eftir endilöngum móbergshrygg sem teygir sig til norðausturs frá Grænudyngju. Frá henni hefur runnið hraun sem hverfur undir hraunið frá Mávahlíðagígum og einnig undir hraunið frá Eldborg við Trölladyngju.
Jón Jónsson (1978) taldi gígana sem mynduðu Mávahlíðahraunið framhald þessarar gígaraðar til norðausturs og að ekki yrði annað séð en að hraunin rynnu saman í eitt þar sem þau koma saman. Jón nefndi hraunið í heild Dyngnahraun en sá samt ástæðu til að fjalla um Mávahlíðahraunið sérstaklega og nefna hvað það væri unglegt. Mávahlíðahraunið er örugglega yngra en Dyngnahraunið. Því til stuðnings hefur Landnámslagið fundist ofan á Dyngnahrauninu og er það því örugglega runnið fyrir landnám. Landnámslagið liggur hins vegar inn undir Mávahlíðahraun og má því ljóst vera að þessi hraun hafa ekki myndast í sama gosi. Mávahlíðahraun er um 3,7 km2 að flatarmáli og meðalþykktin er áætluð 5 m. Rúmmál hraunsins er þá um 0,02 km3.
Kapelluhraun
Kapelluhran – loftmynd.
Sem fyrr sagði höfðu höfundar ekki að fullu kannað hraunin frá nyrsta hluta gígaraðarinnar þegar fyrri greinin um Krýsuvíkurelda var skrifuð. Þá var það skoðun okkar að Kapelluhraun, hraunin frá Óbrinnishólum og Hellnahraun hefðu öll runnið í sama gosinu. Könnun á svæðinu sumarið 1989 leiddi í ljós að þetta var ekki alls kostar rétt og verður nánar vikið að því síðar.
Meginhraunflákinn sem myndaðist í Krýsuvíkureldum á þessu svæði er vestan undir Undirhlíðum, milli Óbrinnishóla og Vatnsskarðs.
Mestur hluti hraunsins hefur komið úr tveimur syðstu kílómetrum gossprungunnar og sýnu mest úr syðsta og vestasta gígnum. raunstraumurinn frá honum hefur fallið til norðurs og norðvesturs eftir lægð sem var á milli hraunsins frá Hrútagjárdyngju, þ.e. Almenninga, og hraunsins frá Óbrinnishólum, allt til sjávar í Straumsvík. Þetta er hið eiginlega Kapelluhraun, þó svo að hér sé nafnið notað um hraunið í heild. Jarðvegssnið við jaðar Kapelluhrauns er sýnt á 6. mynd. Næst gígnum hefur hraunið runnið eftir snoturri hrauntröð og liggur vegurinn til Krýsuvíkur yfir hana skammt norðan við gíginn. Mesta lengd þessa hraunstraums er um 10 km. Frá öðrum hlutum gossprungunnar hafa aðeins runnið þunnfljótandi hraun um skamman veg. A svæðinu sunnan við Óbrinnishóla hafa þau myndað allmikla hrauntjörn sem síðar hefur sigið saman er gas rauk úr kvikunni.
Kapelluhraun – jarðfræðikort Ísor.
Á nokkrum stöðum í hrauninu má sjá hvernig það hefur runnið niður í gjár og sprungur og er augljóst að hraunið er víða aðeins eins eða tveggja metra þykkt á þessu svæði. Skammt sunnan við Bláfjallaveg hefur hraunið runnið umhverfis litla hæð úr bólstrabrotabergi sem nefnist Stakur, en milli hans og Óbrinnishóla eru aðeins 300-400 m. Telja verður næsta líklegt að hæðin hafi eftir gosið verið kölluð Óbrennishóll eða -hólmi og nafnið síðar færst yfir á gjallgígana sem nú heita Óbrinnishólar. Skammt norðan við Bláfjallaveg eru litlir en snotrir gígar við rætur Undirhlíða og nefnast þeir Kerin. Frá þeim hefur runnið lítið hraun til vesturs og norðurs. Norðan við gígana er hraunið á nokkrum kafla svo rennislétt að furðu sætir. Rétt er á þessum stað að rifja upp kafla úr fyrri grein okkar, þar sem vitnað er í lýsingu Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á eldgosi á Islandi sem að öllum líkndum á við um Krýsuvíkurelda (hluti af þýðingu Jakobs Benediktssonar sem birtist í grein Sigurðar Þórarinssonar 1952): „Og þótt furðulegt sé frásagnar, bráðnuðu fjöll úr grjóti og jafnvel málmi algjörlega fyrir eldi þessum eins og vax, runnu yfir landið og þöktu það, svo að dalirnir umhverfis fylltust af leðjunni og fjalllendi jafnaðist við jörðu. En bráðnu klettarnir, sem runnu út yfir allan jarðveginn í allar áttir, dreifðust síðan, þegar eldinum slotaði, og þá varð yfirborð jarðar eins og úr marmara og eins og steinlagt stræti, og jörðin, sem áður var byggileg og frjósöm, varð að eyðimörk.“ Þó svo að víða megi finna sæmilega slétta bletti í hrauninu frá Krýsuvíkureldum er enginn þessum líkur.
Leiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar hefur um aldir ýmist legið vestanundir eða uppi á Undirhlíðum og hefur þetta „marmarahraun“ því verið vel þekkt af öllum þeim sem þarna áttu leið um. Þar sem gossprungan sveigir upp í Undirhlíðar verður hún slitróttari og eru þar aðeins tveir litlir gígkoppar á móberginu. Litlu norðar taka við Gvendarselsgígar sem Jón Jónsson (1978) hefur nefnt svo. Frá Gvendarselsgígum hefur runnið lítið hraun sem þekur botn lítils dals milli nyrsta hluta Undirhlíða og Helgafells, norður að Valahnúkum. Hraunið hefur runnið fram úr dalnum til norðvesturs. Lítill hrauntaumur hefur runnið niður í Kaldárbotna en meginhraunstraumurinn, sem reyndar er ekki stór, hefur runnið út yfir farveg Kaldár og meðfram honum, um eins kílómetra veg.
Þykkt Gvendarselshrauns virðist víðast um og innan við einn metri. Hraunin frá Gvendarselsgígum og Kerjum verða ekki talin sérstök hraun, heldur hluti af Kapelluhrauni, enda um einn samfelldan hraunfláka að ræða. Alls þekur Kapelluhraun 13,7 km2. Ef meðalþykktin er um 5 m er rúmmál þess um 0,07 km.
Aldur hraunanna
í fyrri grein voru leiddar að því líkur að Ögmundarhraun hafi runnið árið 1151 og er þar jöfnum höndum stuðst við frásagnir annála, geislakolsaldur og rannsóknir á öskulögum.
Heimild:
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1991, Krýsuvíkureldar, bls. 64-69.
Kerið – gígur.