Tag Archive for: Grindavík

Vigdísarvellir

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaðinu 1960, er birt þjóðsagan  „Í risaklóm„. Sagan birtist einnig í Æskunni árið 1981:

Vigdísarvellir

Móhálsadalur austan Vigdísarvalla.

„Endur fyrir löngu bjuggu hjón á bæ þeim, skammt frá Krýsuvík, er Vigdísarvellir hét. Sá bær er nú í eyði. Þau hjón áttu sér eina dóttur. Hún hét Guðrún. Guðrún var forkunnar fögur. Svo fögur að hennar líki fannst enginn á öllu íslandi. Ekki er þess getið að þau hjón hafi átt fleiri barna. Og bjuggu þau með dóttur sinni einni á Vigdísarvöllum.

Þegar þessi saga gerðist eru hjónin hnigin mjög á efri aldur, en dóttir þeirra gjafvaxta. Fregnir um fegurð Guðrúnar og gjörvuleik fóru víða. Menn komu víðsvegar að til þess að biðja hennar. En allt var það árangurslaust.
Hversu fríðir og föngulegir og fémiklir sem biðlarnir voru, neitaði Guðrún þeim öllum. Og getur sagan ekki um ástæðu fyrir því. Gekk svo um langan tíma.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Eitt kvöld síðla sumars er barið all-harkalega á bæjardyrnar á Vigdísarvöllum. Verður þeim hjónum og Guðrúnu bilt við, og hikaði bóndi við að fara til dyra. Er þá aftur barið og enn þunglegar en áður. Verður bónda nú ekki um sel og fer hvergi. Þess er þá skammt að bíða, að barin eru þrjú bylmingshögg á bæjardyrnar. Og þorir bóndi nú eigi annað en út að ganga. Nokkuð var farið að rökkva. Koldimmt var í göngum. Uggur var í bónda. Þreifaði hann sig fram eftir göngunum, fálmaði eftir slagbrandinum, tók hann gætilega frá dyrunum og gægðist út. Sá hann þá hvar stór maður, ferlegur útlits og ófríður, stóð frammi fyrir honum. Fannst bónda maðurinn mikilúðlegur og illa vaxinn. Þóttist hann aldrei hafa séð svo ljótan mann fyrr á ævi sinni. Sýndist honum hann meira líkur risa en mennskum manni. Hugði nú bóndi að hér væri ekki allt með felldu, en reyndi sem allra minnst að láta á ótta sínum bera. Heilsaði hann manni þessum, spurði um heiti hans og innti hann eftir erindi hans, og hvaðan hann væri. Kvaðst maðurinn heita Ögmundur og vera kominn til þess að biðja dóttur hans.
Ekki sagðist hann geta sagt hvaðan hann væri. Svo óttasleginn sem bóndi var fyrir, varð hann hálfu hræddari, er hann heyrði erindi komumanns og hinn hrikalega málróm hans. Bóndi varð fár við í fyrstu en sá fljótt að nú var annað hvort að duga eða drepast. Bað hann komumann hinkra ögn við meðan hann brygði sér í baðstofu og færði þetta í tal við konu sína og dóttur.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraunið rutt.

Þarf ekki að orðlengja það, að bónda þótti nú þunglega horfa, og að konu hans og Guðrúnu þóttu tíðindin ill. Æddi bóndi nú eirðarlaus fram og aftur um baðstofugólfið. Álasaði hann dóttur sinni harðlega fyrir að hafa ekki þegið bónorð einhvers af þeim mörgu ágætu og glæsilegu mönnum, er höfðu beðið hennar. Hefði þá þessum vansa verið bægt frá dyrum þeirra. En um það dugði ekki að fást, úr því sem komið var. Hér var vandi á ferðum. Góð ráð voru dýr. Hryllti bónda við að láta dóttur sína í hendurnar á þessum hræðilega risa. Og ef hann neitaði, var eins líklegt að hann tæki Guðrúnu með valdi og flytti hana á brott með sér. Í öngum sínum og ráðaleysi ráfaði bóndi nú til dyranna, en kona hans og dóttir fylgdu honum eftir með skelfdum augum. Komumaður leit löngunarfullum augum til bónda er hann kom út. En í því er bónda varð litið upp til hins ljóta og afskræmda andlits risans, kom honum skyndilega ráð í hug. —

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Nú er frá því að segja að skammt frá Vigdísarvöllum var hraun nokkurt, ógreiðfært og illt yfirferðar. Var það ákaflega úfið, holótt og þversprungótt og lá víða á því mosaslæða, svo að stórhættulegt var yfir að fara. Kom það eigi sjaldan fyrir að slys urðu á mönnum og dýrum. Bóndi hafði þá nýlega misst hest sinn og hafði hann fótbrotnað í klungri hraunsins.
Bóndi bað komumann fylgja sér. Mæltu þeir fátt en gengu hratt. Þegar þeir komu að hraunjaðrinum, mælti bóndi: „Ég skal gefa þér dóttur mína fyrir konu en með einu skilyrði þó. Þú skalt ryðja þetta hraun. Skaltu ryðja greiðfæran veg í gegnum það og vera búinn að því að sólarhring liðnum. Verðurðu ekki búinn að því fyrir lágnætti annað kvöld, verður þú af dóttur minni.“ Að svo mæltu gekk bóndi snúðugt burtu. Varð fátt um kveðjur. En risinn tók til óspilltra málanna við að ryðja hraunið.
Bóndi gekk glaður heim á leið og þóttist nú heldur en ekki vel hafa dugað sér og sínum. Sváfu þau hjónin vel um nóttina. Guðrún svaf illa. Hafði hún ýmist þunga drauma eða lá andvaka. Gat hún ekki varist þeirri hugsun, að verið gæti að risanum tækist að ryðja hraunið. En bóndi kvað það hina mestu fjarstæðu, taldi í hana kjark og bað hana sofa.

Ögmundardys

Ögmundardys.

Árla næsta morgun reis bóndi úr rekkju. Hann gekk út á bæjarhólinn og skyggði hönd fyrir auga. Sá hann þá hvar risinn hamaðist sem mest hann mátti. Var engu líkara en kominn væri á hann berserksgangur. Grýtti hann grjótinu til beggja handa sem óður væri. Fannst bónda atgangur hans mikill og æðisgenginn. Og ekki var ásýnd risans ásjálegri.
Bónda leist nú ekki á blikuna. Hvarf hann inn í bæinn aftur og tjáði konu sinni, að tvísýnt væri nú að ráð hans dygði nokkuð. Kvað hann vera komið æði á risann enda miðaði honum drjúgum. Svo gæti farið að honum tækist að ryðja hraunið og yrðu þau hjónin að láta af hendi dóttur sína.
Ögmundardys
Þennan dag var eigi rótt í koti karls og kerlingar og varð lítið úr verki á Vigdísarvöllum. Var sem enginn gæti innt af hendi nokkurt verk til hlítar.
Tíðum var þeim hjónum og Guðrúnu gengið út á hólinn, einkum þó Guðrúnu. Og var sem hún hefði enga eirð í sínum beinum.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni. Jón Guðmundsson frá Skála við dysina.

Risanum miðaði æ betur og betur. Eftir því sem á daginn leið lengdist vegurinn og styttist nú óðum sá kafli er eftir var.

Leið nú dagurinn uns komið var fram í myrkur. Tóku hjónin að örvænta að úr þessu mundi rætast. Guðrún var orðin vonlaus. Fór hún að búa sig undir brottförina, og gerði hún það ekki sársaukalaust. Hjartað barðist ótt í brjósti hennar. Bar hún sig næsta aumlega, sem vonlegt var. Hafði hún aldrei úr föðurgarði farið áður enda ætlað sér vænlegra hlutskipti en að lenda í risaklóm. Grét hún beisklega yfir örlögum sínum. Móðir hennar reyndi að hughreysta hana þótt það kæmi einnig við hjarta hennar að skilja svo við dóttur sína.
Bóndi horfði á dapur í bragði. Rann honum svo til rifja að sjá örvæntingu dóttur sinnar, að hann ákvað að gera eitthvað, hvort sem það dygði eða dygði ekki. Æstur í skapi, samanherptur og þrútinn í andliti af reiði, yfirgaf hann mæðgurnar í þessu ástandi.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – bóndinn tekst á við tröllið.

Bóndi gekk út í skemmu. Hann tók sveðju eina mikla og stóra og brýndi snarplega. Er hann hafði lokið því gekk hann rakleiðis út í hraunið. Stóð það heima að risinn hafði lokið hlutverki sínu. Greiðfær og allgóður vegur var nú kominn yfir hraunið.
Eins og bóndi bjóst við var risinn yfirkominn af þreytu. Var hann kominn miðja vegu til baka aftur og skjögraði til beggja hliða, er hann gekk.
Bóndi beið risans við hraunjaðarinn.
Honum var órótt. Eftir alllanga stund kom risinn að hraunjaðrinum. Gekk hann upp og niður af mæði og var þreyttur mjög. Réðst bóndi þegar að honum. Er hann sveiflaði sveðjunni og sá blika á hana, óx honum ásmegin. Ekki var allt afl þrotið úr æðum risans. Var þetta bæði harður leikur og langur, en þó fór svo að bóndi felldi risann. Var hann svo þjakaður eftir viðureignina að hann gat sig hvergi hreyft. Er hann hafði jafnað sig dysjaði hann risann þarna við hraunjaðarinn. Og heitir þar síðan Ögmundardys og hraunið Ögmundarhraun. Má enn þann dag í dag sjá Ögmundardys við vegarendann í Ögmundarhrauni.
Er bóndi kom heim voru heldur en ekki fagnaðarfundir á Vigdísarvöllum.
Af Guðrúnu er það að segja að hún giftist skömmu síðar og lifði við gæfu og gengi allt sitt líf.
Og lýkur svo þessari sögu.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1960, Í risaklóm – þjóðsaga, bls. 33-34.
-Sagan birtist einnig í Æskunni, 1. tbl. 01.01.1981, bls. 16-17.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurleið

Gengið var frá Skökugili um Siglubergsháls, eftir Krýsuvíkurleiðinni þar sem langar birgðarlestirnar fullhlaðnar þurrkfiski liðuðust um áleiðis til Skálholts forðum, gömlu gönguleiðinni austur til Krýsuvíkur, framhjá Drykkjarsteini og Hlínarvegi fylgt að Méltunnuklifi, haldið yfir Grákvíguhraun, yfir Núpshlíð og um Tófubruna niður af Lathólum og síðan var hinum forna Ögmundarstíg fylgt austur yfir Ögmundarhraun. Staðnæmst var við dys Ögmundar, þess er þjóðsagan segir að hafi rutt brautina í gegnum hraunið forðum daga.

Skálavegur

Gamli vegurinn að Skála um Siglubergsháls – nú horfinn vegna framkvæmda.

Nýr Suðurstrandarvegur mun fara yfir hina fallegu leið á Siglubergshálsi svo hver var að verða síðastur til að berja hana augum.
Að sögn Jóns Guðmundssonar frá Ísólfsskála var jafnan farið upp á Siglubergsháls um sneiðing utan í Skökugili. Nafnið er dregið af því að þar féll af hesti smjörskaka, en skaka hét smérstykkið, sem pressað hafði verið í strokknum. Nafnið er til komið líkt og Méltunnuklif nokkru austar, en þar munu menn hafa misst méltunnu af einum hestanna á leið sinni um klifið. Það var þá mun mjórra en nú er.
Jón sagði að elsta gatan um hálsinn hafi verið göngugatan er liggur upp með vestanverðu Festisfjalli. Guðmundur á Skála, faðir Jóns, og Bergur bróðir hans löguðu veginn að hluta árið 1930. Þá gerðu þeir götuna akfæra upp hálsinn. Sá hluti vegarins sést vel á honum vestanverðum þar sem hann liggur á ská niður brattann. Þessi hluti götunnar fer undir Suðurstrandarveginn.

Siglubergsháls

Vegur um Siglubergsháls.

Af Siglubergshálsi er fegurst útsýni til suðvesturs yfir fegurstu byggð á gjörvöllu landinu. Hún er og hefur verið fámenn, en með afbrigðum góðmenn. Fólkið þar hefur skilið tilgang lífsins betur en flest annað fólk, en borist lítið á, enda hreykir það fólk, sem veit og skilur, sér jafnan ekki hátt yfir meðvituð takmörk.

Gamla gatan frá Grindavík til Krýsuvíkur lá í gegnum Móklettana, en vegur þeirra Guðmundar og Bergs, sem sjá má ofan við Móklettana, lá áfram niður með og norður fyrir þá, þar sem nýi vegurinn mun liggja. Í austanverða Móklettana eru klöppuð landamerki Hrauns og Ísólfsskála (V 1890).

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Gamla gatan liggur undir núverandi vegarstæði austan Mókletta. Hún liðaðist niður með norðanverðu Festisfjalli og áfram milli Lyngfells og Litlahálss. Utan í honum eru klöppuð fangamörk fyrrum vegfarenda í móbergið. Götuna áleiðis niður að Skála má sjá rétt ofan við nýja veginn, vestan og utan í Lyngfellinu. Jón sagði að yfirleitt hafi verið reynt að sneiða hjá bjallanum ofan við Skála vegna þess hve brattur hann var. Sem dæmi mætti nefna að þegar Jóhannes Reykdal sendi vörubíl fullhlaðinn timbri í íbúðarhúsið á Skála hafi gengið þokkalega að koma honum niður brekkuna, sem þá var skammt vestan við núverandi vegarstæði, en þegar aka átti bílnum upp aftur hafi ekkert gengið. Varð að sækja 13 menn og reipi til Grindavíkur með til að draga hann upp brekkuna svo hægt væri að koma honum til baka.

Krýsuvíkurvegur

Gamli-Krýsuvíkurvegur: Skála-Mælifell fjær.

Gömlu götunni til Krýsuvíkur var hins vegar fylgt frá Litlahálsi yfir Litla-Borgarhraun og áleiðis í Drykkjarsteinsdal. Gatan sést vel í gegnum hraunið. Fjárborgin í Borgarhrauni er skammt sunnan við götuna. Þar á hæð var hlaðið lítið ferkantað mannvirki.
Staðnæmst var við Drykkjarsteininn. Símon Dalaskáld orti um hann vísu og þjóðsaga er tengd steininum (sjá Drykkjarsteinn – saga – undir Fróðleikur).

Drykkjarsteinn með þorstans þraut
þráfalt gleður rekka.
Sá hefur mörgum geiragaut
gefið vatn að drekka.

Sagnir hafa og verið um að steinninn hafi verið vígður af Guðmundi góða Hólabiskupi með þeim orðum að vatnið í steininum ætti að vera meinabót. Vatn var nú í báðum skálum hans, en sú sögn hefur fylgt steininum að vatnið í þeim ætti aldrei að þverra.

Krýsuvíkurvegur

Gamli_Krýsvíkurvegurinn austan Skála-Mælifells.

Gengið var framhjá Stóra-Leirdal og Lyngbrekkum, inn á Hlínarveginn, sem Jón ásamt fjórum öðrum, þ.á.m. Indriða föðurbróðir hans, lögðu gegn kaupi fyrir Hlín Johnson í Herdísarvík árið 1932. Var lagður vagnfær vegur frá Skála ofan Slögu alla leið í Krýsuvík, aðallega fyrir fyrirhugaða heyflutninga þaðan til Grindavíkur. Hlínarvegurinn er beinn og mjög greinilegur á sléttum melnum. Fyrirhuguð efnistaka í Einihlíðum ofan við Lyngbrekkur vegna Suðurstrandarvegarins stefna þessum vegarkafla í hættu. Jón man að sérhver vegavinnumanna fékk kr. 100 greitt fyrir verkið úr hendi Hlínar. Vegurinn sést vel til hliðar við nýrri veg upp með Lyngbrekkum og síðan áfram áleiðis að Méltunnuklifi.

Méltunnuklif

Gamli-Krýsuvíkurvegurinn um Méltunnuklif.

Þegar komið var að Méltunnuklifi mátti vel sjá hvernig vegavinnumenn höfðu kroppað drjúgt úr berginu og sprengt sér leið fram hjá stóru bjargi í klifinu ofan við bjargbrúnina, mesta farartálmanum. Eftir það var leiðin nokkuð greið í gegnum Grákvíguhraun og Leggjabrjótshraun, upp og yfir Núpshlíð þar sem gatan er höggvin í gegnum móbergskletta efst á hálsinum, áfram niður á Djúpavatnsveg og síðan var gamla veginum fylgt yfir Tófubruna að Latsfjalli. Á Núpshlíðarhálsi eru nokkrir eldgígar. Undir einum þeirra er gat og sést þar niður í myndarlega hvelfingu undir. Stiga þarf til að komast niður. Forvitnilegt væri að skoða rýmið þarna niðri við tækifæri. Hellirinn hefur fengið nafnið S. Þá vantar bara Á-ið, en Óið er norðvestan Grindavíkur.

Krýsuvíkurvegur

Gamli-Krýsuvíkurvegur um Ögmundarhraun.

Af hálsinum var ágætt útsýni yfir Ögmundarhraun. Nýi vegurinn er eftir gamla sneiðingnum niður hlíðina að austanverðu. Ögmundarstígnum gamla var síðan fylgt yfir Ögmundarhraun. Jón sagði að þeir hefðu lagt veginn 1932, ofan í gömlu göngu- og hestagötuna í gegnum hraunið. Þá hafi klöppin verið djúpt mörkuð eftir hófa og fætur liðinna alda. Sums staðar hafi komin göt í bergið og holrúm verið undir. Það hafi verið fyllt upp og gatan breikkuð. Ef hreinsað væri upp úr götunni kæmi sú gamla eflaust aftur í ljós. Nú sæist hins vegar ekkert eftir af gömlu götunni nema stuttur spotti austast í hrauninu, þar sem hún liggur framhjá Ögmundardys.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Staðnæmst var við dysina austur undir Krýsuvíkur-Mælifelli.
Best varðveittu kaflarnir á leiðinni frá Grindavík áleiðis til Krýsuvíkur eru á Siglubergshálsi, vestan við Méltunnuklífið og í gegnum Ögmundarhraunið vestan við Krýsuvíkur-Mælifell. Á þessum stöðum hefur þó verið farið yfir elstu götuna með nýrri vegagerð, nema á tveimur stöðum, þ.e. austast í Ögmundarhrauni og vestan við Tófubruna. Annars staðar hefur verið lagðir enn nýrri vegir yfir gömlu götuna eða þeir skemmdir með jeppaakstri. Þeir kaflar, sem heillegastir eru, eru vel þess virði að gefa góðan gaum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Krysuvikurvegur-21

Gamli Krýsuvíkurvegurinn austan Skála-Mælifells.

 

Selsvellir

Ólafur Briem skrifaði í Andvara árið 1959 um „Útilegumannaslóðir á Reykjanesfjallgarði„. Þar getur hann m.a. um útilegumenn við Selsvelli undir Sveifluhálsi í byrjun 18. aldar:

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur

„Selsvellir og Hverinn eini. Nokkru vestar en Sveifluháls eða Austurháls við Kleifarvatn er annar háls samhliða honum, sem heitir Núpshlíðarháls eða Vesturháls. Vestan við Núpshlíðarháls miðjan er víðáttumikið graslendi, sem heitir Selsvellir. Þar voru áður sel frá Grindavík, og sjást þar enn nokkrar seltóttir. Norðan við Selsvelli nær hraunið á kafla alveg upp að hálsinum. Þar er Hverinn eini úti í hrauninu. Hann er í botninum á kringlóttri skál, sem er alþakin hraunbjörgum, og koma gufur alls staðar upp á milli steinanna, en vatn er þar ekkert. Nú er hverinn ekki heitari en svo, að hægt er að koma alveg að honum án allra óþæginda og gufan úr honum sést ekki nema skamman spöl. En til skamms tíma hefur hann verið miklu heitari. Þorvaldur Thoroddsen lýsir honum sem sjóðandi leirhver, þegar hann kom þangað 1883, og segir, að þar sjóði og orgi í jörðinni, þegar gufumekkirnir þjóta upp um leðjuna. Og lýsingunni á hvernum lýkur hann með þessum orðum: „Úr Hvernum eina leggur stækustu brennisteinsfýlu, svo að mér ætlaði að verða óglatt, er ég stóð að barmi hans. Í góðu veðri sést gufustrókurinn úr þessum hver langt í burtu, t. d. glögglega frá Reykjavík“ (Þorvaldur Thoroddsen: Ferðabók I. bls. 178).

Hverinn eini

Hverinn eini.

Fyrir sunnan Selsvelli og við Hverinn eina var athvarf þriggja útileguþjófa vorið 1703. I alþingisbókinni það ár er skýrt frá dóminum yfir þeim, og talið upp það, sem þeir höfðu stolið og brotið af sér. Þeir eru þar nefndir útileguþjófar, en ekki nánar sagt frá útilegu þeirra. En saga þeirra er greinilegast rakin í Vallaannál, sem ritaður er af séra Eyjólfi Jónssyni á Völlum í Svarfaðardal. En séra Eyjólfur var um þessar mundir uppkominn maður á Nesi við Seltjörn hjá föður sínum, Jóni Eyjólfssyni, sýslumanni í Gullbringusýslu, sem rannsakaði mál þjófanna. Verður því vart á betri heimild kosið. Þar sem skýrt er frá störfum alþingis, segir á þessa leið: „Þennan sama dag voru hengdir þrír þjófar, hét hinn fyrsti Jón Þórðarson, ættaður úr Gnúpverjahrepp, annar Jón Þorláksson, ættaður úr Landeyjum. Þeim fylgdi piltungur nokkur, er Gísli hét Oddsson, ættaður úr Hrunamannahrepp.

Selsvellir

Selsvellir.

Þessir komu úr Gullbringusýslu. Það er af þeim framar að segja, að Jón Þórðarson fór austan úr Hrepp um allraheilagramessuleytið veturinn fyrir, og Gísli með honum, flökkuðu síðan vestur um sveitir, unz þeir komu í Hvamm. Þar aðskildi þá Jón Magnússon sýslumaður. Fór Jón einn upp þaðan, unz hann kom á Kvennabrekku, og fann þar á næsta bæ Jón Þorláksson. Gerðu þeir þá félag sitt og fóru báðir suður til Borgarfjarðar og yfir Hvítá í Bæjarhrepp. Þar kom Gísli til þeirra. Fóru síðan allir suður til Skorradals og hófu stuldi mikla; fóru þeir með þeim suður um Hvalfjarðarströnd, Kjós og Mosfellssveit, og svo suður á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu; þar tóku þeir sér hæli undir skúta nokkrum, en er þeir höfðu þar lítt staðar numið, kom til þeirra Hallur Sigmundsson, búandi í Ísólfsskála í Grindavík, og vandaði nokkuð svo um þarveru þeirra. Leizt þeim þá eigi að vera þar lengur og fóru norður aftur með fjallinu í helli þann, er skammt er frá Hvernum eina.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Voru þar síðan í þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar á hálsunum, rændu einnin ferðamann, er Bárður hét Gunnarsson úr Flóa austan. Loksins í vikunni fyrir alþing fór Jón Árnason, búandi í Flekkuvík upp til hellisins við 12. mann, og hittu þá heima. Vildu þeir ei skjótt í ljós koma, unz Jón hleypti byssu af, er hann hafði, og bað hvern einn fylgdarmanna skjóta sinni byssu. Gerði hann það til skelks þjófunum, því eigi voru fleiri byssurnar en tvær. Hann skaut hettu af Jóni Þorlákssyni, svo að honum grandaði ekki. Féll þjófunum þá hugur og gengu í hendur þeim. Voru síðan allir teknir og fluttir inn til Bessastaða. Þar voru þeir þrjár nætur og á þeim tíma rannsakaðir á Kópavogsþingi, færðir síðan upp á þing og hengdir báðir Jónarnir, en Gísli hýddur sem bera mátti og rekinn svo til sveitar sinnar; var honum vægt fyrir yngis sakir“.
Ekki hefur mér tekizt að fá vitneskju um hella á þeim slóðum, þar sem þjófarnir voru. Og vorið 1951 komum við Björn Þorsteinsson að Hvernum eina til að svipast um eftir hellum í hrauninu í kring. Við sáum nokkra örlitla skúta, en engan svo stóran, að okkur þætti hugsanlegur mannabústaður. En hraunið er þannig, að þar getur hellir lengi leynzt sjónum manna, og að sjálfsögðu hafa útilegumennirnir reynt að velja sér skúta, sem ekki var auðfundinn. Líklegt er og, að þeir hafi tekið sér bólstað þarna til þess að geta soðið mat sinn í Hvernum eina, því að ekki þarf að efa, að hann hefur þá verið nógu heitur til þess. Skammt er einnig þaðan að sækja vatn í læk nyrzt á Selsvöllum.

Þáttur þessi er úr bók um útilegumenn og útilegumannabyggðir, sem kemur út hjá Bókaútgáfu Menningarsjóðs í haust.“

Heimild:
-Andvari, 84. árg. 1959, 1. tbl., bls. 103-104.

Selsvellir

Tóftir við Selsvelli.

Þórkötlustaðir

Ætlunin er að ganga um Þórkötlustaðanes og Hópsnes (sem er í rauninni sami nestanginn). Hraunið kom úr Sundhnúki fyrir um 2500 árum og féll beint í sjó fram og myndar þar þennan um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, „en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði“.
Thorkotlustaðanes - loftmynd„Hverjum þeim er um Reykjanesskaga ferðast, hlýtur að verða ljóst, að geysileg eldvirkni hefur átt sér þar stað frá því að ísöld lauk, sem talið er, að hafi verið fyrir 10.000-15.000 árum. Erfiðara er hins vegar að segja til um aldur einstakra hrauna, því óvíða er hægt að ná í sönnunargögn hvað það snertir, og lítið er þar um öskulög, sem vitað er um aldur á. Án efa hafa nokkur gos átt sér stað á þessu svæði, eftir að land byggðist og eru skráðar heimildir til um það, flestar séu þó óljósar.

Sundhnúkahraun við Grindavík
ThorkotlustaðanesvitinnÁ Reykjanesskaga er mikill fjöldi eldstöðva og hrauna. Mörg þeirra hafa ekki nafn, svo vitað sé. Vafalaust hafa ýms örnefni fallið í gleymsku hin síðari ár og önnur brenglazt. Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka.

Sundhnúkahraun og Sundhnúkur
Hluti af hrauninu ofan við Grindavík, milli Járngerðarstaðahverfis og Þorbjarnarfells, ber nafnið Klifhólahraun. Af þessu virðist mega ráða að til séu örnefnin Klifhólar og Klif, en hvar þau eru, hefur mér ekki tekizt að fá upplýsingar um. Hólar eru ekki á svæðinu, nema gíghólarnir suðvestur af Hagafelli, en samkvæmt korti herforingjaráðsins 1:50000 heitir sá hóll Melhóll. [Innsk: Klifhólar eru axlir er ganga út frá Þorbjarnarfelli sunnanverðu og dregur hraunið sunnan undir fellinu nafn sitt af þeim]. Þaðan er verulegur hluti hrauns þess, er Klifhólahraun er nefnt, án efa komið, því að hólarnir eru endinn á langri gígaröð.
A Thorkotlustaðanesi
Sökum þeirrar óvissu, sem ríkir um þessi örnefni, hef ég leyft mér að nota hér nýtt nafn um hraunin og eldvörpin, sem þau eru komin frá. Það skal þó tekið fram, að þetta nafn er eingöngu hugsað sem jarðfræðilegt hugtak og breytir að sjálfsögðu ekki örnefnum, sem fyrir eru á svæðinu. Ennfremur gildir þetta aðeins fyrir eldvörp þau og hraun, sem til urðu í því gosi, sem síðast varð á þessu svæði.

GígaröðinA Thorkotlustaðanesi-2

Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Úr ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar. Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það.

A Thorkotlustaðanesi-3

Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegn um nyrzta hluta þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar. Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunflóð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands.

A Thorkotlustaðanesi-4

Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).

A Thorkotlustaðanesi-5

Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum. Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra. Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum(P) gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, enda er sýnilegt, að hver straumurinn hefur þar hlaðizt ofan á annan. 

A Thorkotlustaðanesi-6

Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi. Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðar-dyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk. Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.

Sundhnúkagígaröð

Sundhnúkagígaröðin.

Við suðurhornið á Stóra Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs.
Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra Skógfells og Litla Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra Skógfelli sjálíu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum, að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess víða hulin. Að þessu leyti verður kort af hraunröndinni ekki hárnákvæmt.

A Thorkotlustaðanesi-7

Fremur lítið hraun hefur runnið úr gígaröðinni eftir að kemur austur fyrir Stóra Skógfell. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smáhraunspýja hefur runnið norður eftir vestanhallt við Litla Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af dyngjunni miklu, sem er við norðausturhornið á Fagradalsfjalli. Í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd. Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun. Guðmundur G. Bárðarson (1929) er fyrstur til að nefna þessa eldstöð.

Eldri gígaröð
A Thorkotlustaðanesi-8Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir. Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan. Gígur þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröðinni, sem áður er getið.

Hvenær rann hraunið?

A Thorkotlustaðanesi-9

Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Mest eru það smágreinar og stofnar, líklega af víði, lyngi og ef til vill fjalldrapa og birki. Jarðvegslagið hefur verið örþunnt, líkt og það er víða á gjallhólum ennþá. Viðarbútarnir eru sjaldan meira en 2—3 mm í þvermál. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C1 4 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.“
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Jón Jónsson, Náttúrufræðingurinn 45. árg. (1975-1976), 1. tbl. bls. 27.
-Jón Jónsson, Náttúrufræðingurinn 43. árg. (1973-1974), 3.-4. tbl. bls. 145-146.

A Thorkotlustaðanesi-10

Húshólmi

Gengið var eftir stíg austur Ögmundarhraun frá Lat, neðan Óbrennishólma og inn í Húshólma eftir stíg frá Brúnavörðum ofan við Miðreka. Stígurinn hefur verið flóraður á köflum. Hann kemur inn í Húshólma við minjarnar, sem eru þar vestan við hólmann. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson skrifuðu um „Krýsuvíkurelda – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins“ í Jökul árið 1988:

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Minjasvæðið er allstórt. Mótar þar fyrir skálum og sveigðum garðlögum, auk fjárborgar og löngum görðum inni í hólmanum. Aldur þessarra minja hafa verið á reiki. Hafa menn helst reynt að greina aldur hraunsins, sem færði þær í kaf að mestu og þannig reynt að finna út aldur þeirra. Í frásögnum frá því á 18. öld er hraunið talið vera frá því á 16. öld eða 14. öld. Nýlegri rannsóknir telja það geta hafa runnið í kringum 1000 og enn aðrar kveða á um 1150 eða 1180. Hvað sem öllu líður er ljóst að Ögmundarhraun er ekki einungis eitt hraun, það er nokkur hraun, sem hafa runnið á mismunandi tímum. Vegna takmarkaðra rannsókna er ekki gott að kveða á um hvort stutt hafi verið á millum þeirra eður ei.
Þarna við rústirnar var rifjuð upp rannsókn þeirra Hauks og Sigmunds á þeim síðla hausts 1987. Í grein þeirra í Jökli er fjallað um aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Aldur hraunsins var kannaður í ljósi öskulaga sem eru undir því og ofan á. Eitt þessara öskulaga er svonefnt miðaldalag, en sterk rök eru leidd að að aldri þess og uppruna.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Einnig voru geislakolsaldursgreiningar leiðréttar með nýjustu aðferðum, sem þá tíðkuðust. Þessar athuganir voru bornar saman við ritheimildir og töldu þeir félagar sig geta ákvarðað aldur Ögmundarhrauns upp á ár. Í lokin fjalla þeir um aldursákvörðun hins forna torfgarðs í Húshólma, sem reyndist vera eitt af elstu mannvirkjum er fundist hafa á Íslandi.
“Nokkuð hefur verið ritað um aldur Ögmundarhrauns á Reykjanesi á undanförnum árum og hefur sitt sýnst hverjum. Jón Jónsson (1982,1983) og Sigurður Þórarinsson (1974) hafa á grundvelli geislakoslaldursgreininga og afstöðu hraunsins til mannvistarleifa í Krýsuvík dregið þá ályktun, að það hafi brunnið á öndverðri 11. öld. Sveinbjörn Rafnsson (1982) hefur kannað sögulegar heimildir um hraunið og kirkjustaðinn í Krýsuvík og álítur hann, að hraunið hafi runnið seint á tímabilinu 1558-1563.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni fyrrum.

Þorvaldur Thoroddsen (1925) áleit að Ögmundarhraun gæti hafa runnið 1340 og Jónas Hallgrímsson (útg. 1934-37) var sömu skoðunar. Tómas Tómasson (1948) og Einar Gunnlaugsson (1973) hafa rakið heimildir um eldgos á Krýsuvíkursvæðinu en taka ekki afstöðu til aldurs Ögmundarhrauns. Ástæða þess, að áhugi hefur verið meiri fyrir könnun Ögmundarhrauns en annarra hrauna á Reykjanesi er sú, að það hefur runnið yfir bæ og önnur mannvirki s.s. fjárrétt og torf- og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
Gjóskulög sem nefnt hefur verið miðladalagið hjálpar til við ákvörðun á aldri Ögmundarhrauns og skal fyrst reynt að varpa ljósi á aldur þess. Miðaldalagið er eina gjóskulagið frá miðöldum auk landnámslagsins sem finnst í jarðvegssniðum á svæðinu. Í þessari grein verður skýrst frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvarkerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – refakyttubyrgi. Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Eldgosið hefur einkennst af umbrotahrinum, af gliðnun lands og kvikuhlaupum með hléum á millum. Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Um þau verður fjallað í annarri lýsingu. Jón Jónsson hefur áður haldið því fram að að Ögmundarhraun, Kapelluhraum og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Í Ögmundarhrauni er Húshólmi stærstur óbrennishólma, sem þar eru. Hann er austast og neðst í hrauninu. Nokkru vestar er Óbrennishólmi. Rústir eru í báðum þessum hólmum. Merkastar eru rústirnar í svenefndum Kirkjulágum, sem eru smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þeim hefur Brynjúlfur Jónnson (1903) lýst. Þar eru greinilegar rústir af bæjarhúsum sem hlaðin hafa verið að mestu úr lábörðu grjóti. Í efri láginni hefur hraunið runnið upp að byggingum og að hluta yfir þær. Í neðri láginni er m.a. ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og hefur verið talið líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til. Hús þetta virðist hafa verið brúkað eftir að hraunið rann sem sést af því hve miklu greinilegri og hærri tóftin er heldur en þær sem hraunið hefur lagst upp að. Húsið hefur dyr í vestur og snýr eins og kirkjur hafa gert um aldir.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Þar sem segir frá Krýsuvík í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (31. mars 1755) og einnig í hinni prentuðu ferðabók þeirra (Eggert Ólafsson, 1772) er þess getið að hraunflóð hafi eytt kirkjustað sem Hólmastaður hét. Það átti að sögn heimamanna í Krýsuvík að hafa gerst tveim öldum áður en Eggert og Bjarni komu þar. Nafnið Hólmastaður bendir til að staðurinn dragi nafn af Húshólma en það nafn hefur hann vart fengið fyrr en eftir að Ögmundarhraun rann.
Landslag við bæjarrústirnar bendir til að bærinn hafi staðið nærri sjó, sennilega við austanverða vík, sem hefur verið hin eiginlega Krýsuvík, en hún hefur fyllst af hrauni í Krýsuvíkureldum. Í sjávarkampinn hafa menn sótt grjót í byggingar á hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Í Húshólma eru tveir garðar, sem hverfa inn undir hraunið. Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn úr torfi en þó sést í grjót á stöku stað. Allnokkur hluti hans er nú blásinn. Neðri garðurinn liggur í sveig vestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Þessi garður mun marka það stykki sem nefnt var Kirkjuflöt. Efst í Húshólma er lítil fjárborg forn og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.
Í Óbrennishólma eru tvö mannvirki. Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana (Jón Jónsson, 1982).
Gata liggur í Húshólma austan frá. Hún er greinilega rudd og 2-3 m á breidd og allgreiðfær. Augljóst er af ummerkjum að þessi vegagerð er ekki frá síðustu tímum.
Til að kanna aldur Ögmundarhrauns voru mæld nokkur gjóskulagasnið, bæði í jaðra hraunsins og utan þess. Á þessu svæði eru nokkur gjóskulög af þekktuma ldri.

Landnámslagið

Landnámslagið í gjóskulagi.

Þekktaskta gjóskulagið á þessum slóðum er svonefnt landnámslag. Lagið er venjulega tvílitt, neðri hlutinn er ljós og erfi hlutinn dökkur. Lagið hefur greinilega fokið til og því að líkindum fallið að vetri til. Þessi litaskipti hafa verið álitin marka upphaf búsetu í landinu (Þorleifur Einarsson, 1974). Lagið hefur verið notað til að ákvarða hvaða hraun á Reykjanesi hafa brunnið eftir að land byggðist (sbr. Jón Jónsson, 1983).
Annað nokkuð þekkt gjóskulag á Reykjanesskaga er svonefnt miðaldalag. Reynt hefur verið að heimfæra það upp á eldgos sem getið er um í rituðum heimildum. Upptök öskulagsins eru í sjó við Reykjanestána. Leifar gígsins eru Karlinn, stakur drangur skammt undan landi, en hluti af gígbarminum er skammt norðbestur af Valahnúk og hefur yngra Stampahraunið runnið upp að honum.

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Til eru fimm geislakolsaldursgreiningar, sem tengjast Ögmundarhrauni. Árið 1974 tók Þorleifur Einarsson tvö koluð sýni úr eldstæði í rústunum í Krikjulágum (efri láginni) í Húshólma og lét aldursgreina þau. Niðurstaðan var 980+/-60 og 960+/-170. Sýnið ætti því að vera frá því um 1027 e.Kr. Jón Jónsson (1982) lét gera þrjár aldursgreiningar árið 1979 á koluðum gróðuleifum undan hrauninu. Niðurstöður mælinganna voru ártölin 1050, 1095, 1125, 1141 og 1148.
Fátt er um sögulegar heimildir um eldgos á Reykjanesskaga á þessum tíma og eru þær allknappar. Frá 1151 er getið um gos í Konungsannál, bs. 115, Oddaverjaannál, bls. 474 og Annál Flateyjarbókar, bls. 301. Árið 1188 segir frá gosi í Trölladyngju í Skálholtsannál, bls. 180. Talið er að miðaldaöskulagið geti verið frá 1226/27.

Jarðfræði

Hraun á sögulegum tíma.

Sigurður Þórarinsson (1965) birti kort af Íslandi þar sem merkt eru inn gos á sögulegum tíma og þar telur hann eldgos í Trölladyngju á Reykjanesi vera 1151, 1188 og 1360, en telur þó síðastnefnda áratalið óvisst.
Þegar gögn eru skoðuð hníga ýmis rök að því að Ögmundarhraun hafi runnið á 12. öld og engin ástæða er til að véfengja frásagnir annála af gosi 1151. Eldgosið sem varð 1188 gæti hafa verið á svipuðum slóðum og hluti af sömu goshrinu. Þar sem svo langt hefur liðið milli goshrina þá er hugsanlegt að seinna gosið hafi verið mun minna.

Húsólmi

Húshólmi – uppdráttur.

Til eru lýsingar Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á hraunrennsli í sjó á Íslandi. Rit hans, Liber miraculorum (Bók um furður) er skrifið 1178-80. Þar lýsir hann hrauni, sem rann í sjó fram á Íslandi á 12. öld og þá fyrir 1188. Þar sem hraunrennsli í sjó á þessum tíma er aðeins þekkt frá Krýsuvíkureldum renna skrif kapellánsins frekari stoðum undir þá skoðun að Ögmundarhraun hafi runnið 1151.
Grafið var eitt snið í gegnum efri garðinn í Húshólma og reyndist það forvitnilegt. Garðurinn er mjög vel varðveittur. Pælan, sem stungin hefurverið með garðinum beggja vegna til efnistöku, sést greinilega af litaskiptum í jarðvegi og er hún um 10-15 cm djúp í sniðinu. Neðst í pælunni norðan megin við garðinn var dreif af landnámslaginu en hún lá ekki inn undir garðinn svo það hefur fallið eftir að hann var hlaðinn.
Miðaldalagið liggur upp að garðinum beggja vegna. Hann er því hlaðinn fyrir 900, en þegar miðaldalagið féll um 1226/27 var verulega fokið að honum.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur

Einnig var grafið snið við fjárborgina efst í Húshólma og þar lá miðaldalagið upp að vegghleðslunni og er hún því allnokkru eldri en öskulagið.”
Samkvæmt framangreindum rannsóknum virðist sá hluti Ögmundarhrauns, sem umlukti rústirnar í Húshólma hafa runnið 1151. Garðurinn, sem rannsakaður var, virðist hafa verið hlaðinn fyrir 900. Það er því fullljóst að þarna er um mjög fornar minjar að ræða.“
Ekki er vitað til þess að rústirnar sjálfar hafi verið rannsakaðar, en þegar það verður gert mun án efa sitthvað forvitnilegt koma í ljós. Hugsanlega vakna þá fleiri spurningar en hægt verður að svara með góðu móti.
Skoðaðar voru seljaminjar nyrst í Húshólma, en að því búnu var gengið áfram út úr hólmanum eftir stígnum austan hans og norður með austanverðum hraunkanti Ögmundarhrauns. Utan í hrauninu er hringlaga gróið gerði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir:
-Krýsuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins – Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson – Jökull nr. 38 1988 bls 71-85.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Jón Baldvinsson

Þann 31. mars árið 1955, klukkan tæplega 4 um nóttina, strandaði togarinn Jón Baldvinsson, rétt hjá Reykjanesvita. Loftskeytastöðin í Reykjavík heyrði strax neyðarkall togarans og tilkynnti það til skrifstofustjóra Slysavarnarfélagsins, sem þegar vakti vitavörðinn á Reykjanesvita, Sigurjón Ólafsson, og kallaði einnig til björgunarsveitina í Grindavík.
Jón Baldvinsson á strandstaðUm kl. 5 var vitavörðurinn kominn á strandstaðinn. Reyndist togarinn vera strandaður skammt undir  svokölluðu Hrafnkelsstaðarbergi sem er skammt suður af Reykjanesvita. Tilkynnti Sigurjón Ólafsson vitavörður Slysavarnarfélaginu strax um hvar skipið væri strandað, og einnig að skipbrotsmenn væru búnir að skjóta línu í land. Um kl. 7 kom björgunarsveitin úr Grindavík á strandastaðinn, eftir mjög erfiða ferð, þar sem vegurinn út á Reykjanes var nærri ófær, en björgunarmennirnir voru ekki fyrr komnir á strandstað, en að þeir hófu björgunarstarfið, og kl. 07:30 var fyrsti skipbrotsmaðurinn dreginn á land. Jafnhliða því að Grindvíkingar voru búnir að búa sig af stað, fóru tveir menn úr björgunarsveitinni í Reykjavík áleiðis á strandstað. Um kl. 9 f.h. var búið að bjarga öllum skipbrotsmönnunum, 52 að tölu, og var hægt að fylgjast með björguninni vegna talstöðvarinnar. Strax eftir að búið var að bjarga skipbrotsmönnunum, var farið með þá heim í vitavarðarbústaðinn, þar sem vitavarðarhjónin höfðu mat og drykk á reiðum höndum, en Bæjarútgerð Reykjavíkur hafði sent matvæli til þeirra hjóna. Slysavarnarfélag Íslands sendi björgunarbifreið sína, ásamt fleiri bifreiðum, til að sækja skipbrotsmennina.

Jón Baldvinsson

Jón Baldvinsson – bjarghringur.

Þetta er stærzta björgun áhafnar úr einu skipi, sem framkvæmd hefur verið af björgunarsveit Slysavarnarfélags Íslands. Stærzta björgun áður var, er 38 mönnum var bjargað af franska togaranum Cap Fagnet, sem strandaði á Hraunsfjörum nálægt Grindavík 24. mars 1931. Einnig þá var björgunarsveitin í Grindavík að verki og hefur engin önnur björgunarsveit félagsins bjargað jafn mörgum mannslífum og þessi frækna sveit, enda hvergi á landinu strandað fleiri skip en í námunda við Reykjanes.

Heimild:
-Árbók Slysavarnarfélags Íslands 1955-1956.Jón Baldvin

Húshólmi

Gengið var suður með austurjarðri Ögmundarhrauns. Ætlunin var að ganga Húshólmastíginn inn í Húshólma og skoða hraunin umhverfis hólmann. Á leiðinni var rifjuð upp frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um gömlu Krýsuvík, Húshólma og Ögmundarhraun. Skrifin birtust í Úr Tillaga til alþýðlegra fornfræða (bls. 101-102), sem Menningar- og fræðslusamband alþýðu gaf út 1953. Þau eru eftirfarandi:

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

“Krýsuvík var fyrst byggð niður við sjó fyrir utan Krýsuvíkurberg, en lagðist svo af, að eldur kom upp í fjöllunum þar norður frá og runnu hraunkvíslar hér og þar fram á milli hálsanna. Hin austasta var einna mest. Smalamaður frá krýsuvík var kippkorn frá bænum með féð. Hann sá glóandi hraunleðjuna brjótast með feikna hraða ofan úr skarðinu upp frá bænum og fleygjast út yfir láglendið. Hann sá sér enga von til undankomu og beið með fjárhópinn þess, er að höndum kæmi, og fal sig guði: því hefir þetta skeð í kristni. Eldflóðið fór allt í kringum hann, og sakaði hvorki hann né féð nema eina á, segja sumir. Það heitir síðan Óbrennishólmi, er hann var. Hraunið hljóp um allt láglendið og fram í sjó, en túnið í Krýsuvík stóð óskaddað og bærinn, en nálega var ófært þangað, þegar hraunið var storknað. Þá var bærinn fluttur þangað, sem Krýsuvík er nú, það er ofar og austnorðar. Þegar eldgangurinn var afstaðinn og hraunin storknuð, fóru menn að leggja veg til Grindavíkur yfir þau, og urðu öll rudd að þessu austasta fráteknu. Það var svo stórgert og hart, að það var óvinnandi, og varð ekki veginum komið á.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Ögmundur hét maður. Hann var berserkur, illur viðskiptis og flakkaði um land og gjörði mörgum mönnum óskunda. Hann kom að Krýsuvík og bað dóttur bónda. Bóndi þorði ekki að neita og lofaði honum dóttur sinni, ef hann legði veg yfir hraunið. Hann gekk að því og fór til, byrjaði að vestan, en bóndi stóð við hraunbrúnina að austan. Ögmundur hamaðist og hjó rösklega veginn yfir hraunið, en þegar hann kom austur yfir og var búinn, dasaðist hann. Þá hjó bóndi hann banahögg og dysjaði hann þar. Grjóthrúga er þar við götuna, sem kallað er leiði Ögmundar, en stendur á kletti. Vegurinn gengnum hraunið er djúpur og mjór og víða brotinn eða höggvinn gegnum stór björg (hraunstykki), en víða þrepóttur í botninn, sem hin gamla gata segir (ort á seinni tímum):

Húshólmi

Húshólmi og Óbrennishraun.

Eru í hrauni Ögmundar
ótal margir þröskuldar
fáka meiða fæturnar
og fyrir oss brjóta skeifurnar.

Síðan hefir hraunið heitið Ögmundarhraun. Þar, sem áður var bærinn Krýsuvík, heitir nú Húshólmi. Þar er vatnsskortur oftast. Litlar menjar kvað sjást þar af tóftum, en þó nokkrar.“

Rétt er að geta þess að Jón Guðmundsson frá Ísólfsskála, sem var með vegarvinnumönnum við gerð Hlínarvegar um 1932, sagði í viðtali 2002 að vegurinn hafi að mestu verið lagður ofan í Ögmundarstíg. Þar hafi þá verið djúp för í klöppunum eftir ferðalanga fyrri alda. Sums staðar hafi hellan brotnað vegna þess hve þunn hún hafi verið orðin og undir verið djúpar holur.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Ögmundarhraun er greinilega nokkur hraun. Elsta hraunið er efst og austast í Húshólma, næsta er umhverfis hólmann, en í þeim eru m.a. rústirnar, sem nefndar eru í frásögninni og enn annað, nýrra, er vestar. Þá eru hraun, sem sjá má utan við Óbrennishólma, ótengd, enda koma þau úr öðrum gígum, skammt vestar og norðar. Eldra hraun má sjá efst og vestast í Óbrennishólma en hraunin umhverfis. Forvitnilegt væri að láta rannsaka þetta svæði og kortleggja með meiri nákvæmni en gert hefur verið. Jón Jónsson, jarðfræðingur, gerði merkilega rannsókn á öllum Reykjanesskagnum, en þá taldi hann Ögmundarhraun geta hafa runnið um 1005. Ljóst er að um nokkur hraun er að ræða. Ef til villa hafa sum þeirra runnið á svipuðum tíma úr mismunandi gígum, en önnur eru greinilega bæði eldri og yngri.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Húshólmi

Gengið var eftir stíg austur Ögmundarhraun frá Lat, neðan Óbrennishólma og inn í Húshólma eftir stíg frá Brúnavörðum ofan við Miðreka. Stígurinn hefur verið flóraður á köflum. Hann kemur inn í Húshólma við minjarnar, sem eru þar vestan við hólmann.

Húshólmi

Húshólmi í Ögmundarhrauni.

Minjasvæðið er allstórt. Mótar þar fyrir skálum og sveigðum garðlögum, auk fjárborgar og löngum görðum inni í hólmanum. Aldur þessarra minja hafa verið á reiki. Hafa menn helst reynt að greina aldur hraunsins, sem færði þær í kaf að mestu og þannig reynt að finna út aldur þeirra. Í frásögnum frá því á 18. öld er hraunið talið vera frá því á 16. öld eða 14. öld. Nýlegri rannsóknir telja það geta hafa runnið í kringum 1000 og enn aðrar kveða á um 1150 eða 1180. Hvað sem öllu líður er ljóst að Ögmundarhraun er ekki einungis eitt hraun, það er nokkur hraun, sem hafa runnið á mismunandi tímum. Vegna takmarkaðra rannsókna er ekki gott að kveða á um hvort stutt hafi verið á millum þeirra eður ei.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Þarna við rústirnar var rifjuð upp rannsókn þeirra Hauks Jóhannessonar og Sigmunds Einarssonar á þeim síðla hausts 1987. Niðurstaða rannsóknarinnar birtist m.a. í Jökli nr. 88 árið 1988. Í greininni er fjallað um aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Aldur hraunsins var kannaður í ljósi öskulaga sem eru undir því og ofan á. Eitt þessara öskulaga er svonefnt miðaldalag, en sterk rök eru leidd að að aldri þess og uppruna.

Einnig voru geislakolsaldursgreiningar leiðréttar með nýjustu aðferðum, sem þá tíðkuðust. Þessar athuganir voru bornar saman við ritheimildir og töldu þeir félagar sig geta ákvarðað aldur Ögmundarhrauns upp á ár. Í lokin fjalla þeir um aldursákvörðun hins forna torfgarðs í Húshólma, sem reyndist vera eitt af elstu mannvirkjum er fundist hafa á Íslandi.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur Brynjúlfs Jónssonar.

“Nokkuð hefur verið ritað um aldur Ögmundarhrauns á Reykjanesi á undanförnum árum og hefur sitt sýnst hverjum. Jón Jónsson (1982,1983) og Sigurður Þórarinsson (1974) hafa á grundvelli geislakoslaldursgreininga og afstöðu hraunsins til mannvistarleifa í Krýsuvík dregið þá ályktun, að það hafi brunnið á öndverðri 11. öld. Sveinbjörn Rafnsson (1982) hefur kannað sögulegar heimildir um hraunið og kirkjustaðinn í Krýsuvík og álítur hann, að hraunið hafi runnið seint á tímabilinu 1558-1563. Þorvaldur Thoroddsen (1925) áleit að Ögmundarhraun gæti hafa runnið 1340 og Jónas Hallgrímsson (útg. 1934-37) var sömu skoðunar. Tómas Tómasson (1948) og Einar Gunnlaugsson (1973) hafa rakið heimildir um eldgos á Krýsuvíkursvæðinu en taka ekki afstöðu til aldurs Ögmundarhrauns. Ástæða þess, að áhugi hefur verið meiri fyrir könnun Ögmundarhrauns en annarra hrauna á Reykjanesi er sú, að það hefur runnið yfir bæ og önnur mannvirki s.s. fjárrétt og torf- og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
Gjóskulög sem nefnt hefur verið miðladalagið hjálpar til við ákvörðun á aldri Ögmundarhrauns og skal fyrst reynt að varpa ljósi á aldur þess. Miðaldalagið er eina gjóskulagið frá miðöldum auk landnámslagsins sem finnst í jarðvegssniðum á svæðinu. Í þessari grein verður skýrst frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvarkerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Eldgosið hefur einkennst af umbrotahrinum, af gliðnun lands og kvikuhlaupum með hléum á millum. Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Um þau verður fjallað í annarri lýsingu. Jón Jónsson hefur áður haldið því fram að að Ögmundarhraun, Kapelluhraum og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Í Ögmundarhrauni er Húshólmi stærstur óbrennishólma, sem þar eru. Hann er austast og neðst í hrauninu. Nokkru vestar er Óbrennishólmi. Rústir eru í báðum þessum hólmum. Merkastar eru rústirnar í svonefndum Kirkjulágum, sem eru smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þeim hefur Brynjúlfur Jónsson (1903) lýst. Þar eru greinilegar rústir af bæjarhúsum sem hlaðin hafa verið að mestu úr lábörðu grjóti. Í efri láginni hefur hraunið runnið upp að byggingum og að hluta yfir þær. Í neðri láginni er m.a. ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og hefur verið talið líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til. Hús þetta virðist hafa verið brúkað eftir að hraunið rann sem sést af því hve miklu greinilegri og hærri tóftin er heldur en þær sem hraunið hefur lagst upp að.

Húshólmi

Húshólmi – Kirkjulágar.

Húsið hefur dyr í vestur og snýr eins og kirkjur hafa gert um aldir.
Þar sem segir frá Krýsuvík í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (31. mars 1755) og einnig í hinni prentuðu ferðabók þeirra (Eggert Ólafsson, 1772) er þess getið að hraunflóð hafi eytt kirkjustað sem Hólmastaður hét. Það átti að sögn heimamanna í Krýsuvík að hafa gerst tveim öldum áður en Eggert og Bjarni komu þar. Nafnið Hólmastaður bendir til að staðurinn dragi nafn af Húshólma en það nafn hefur hann vart fengið fyrr en eftir að Ögmundarhraun rann.

Húshólmi

Garður í Húshólma.

Landslag við bæjarrústirnar bendir til að bærinn hafi staðið nærri sjó, sennilega við austanverða vík, sem hefur verið hin eiginlega Krýsuvík, en hún hefur fyllst af hrauni í Krýsuvíkureldum. Í sjávarkampinn hafa menn sótt grjót í byggingar á hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík.

Í Húshólma eru tveir garðar, sem hverfa inn undir hraunið. Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn úr torfi en þó sést í grjót á stöku stað. Allnokkur hluti hans er nú blásinn. Neðri garðurinn liggur í sveig vestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Þessi garður mun marka það stykki sem nefnt var Kirkjuflöt. Efst í Húshólma er lítil fjárborg forn og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.
Í Óbrennishólma eru tvö mannvirki. Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana (Jón Jónsson, 1982).

Húshólmi

Húshólmastígur um Ögmundarhraun.

Gata liggur í Húshólma austan frá. Hún er greinilega rudd og 2-3 m á breidd og allgreiðfær. Augljóst er af ummerkjum að þessi vegagerð er ekki frá síðustu tímum.
Til að kanna aldur Ögmundarhrauns voru mæld nokkur gjóskulagasnið, bæði í jaðra hraunsins og utan þess. Á þessu svæði eru nokkur gjóskulög af þekktuma ldri.
Þekktaskta gjóskulagið á þessums lóðum er svonefnt landnámslag. Lagið er venjulega tvílitt, neðri hlutinn er ljós og erfi hlutinn dökkur. Lagið hefur greinilega fokið til og því að líkindum fallið að vetri til. Þessi litaskipti hafa verið álitin marka upphaf búsetu í landinu (Þorleifur Einarsson, 1974). Lagið hefur verið notað til að ákvarða hvaða hraun á Reykjanesi hafa brunnið eftir að land byggðist (sbr. Jón Jónsson, 1983).

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Annað nokkuð þekkt gjóskulag á Reykjanesskaga er svonefnt miðaldalag. Reynt hefur verið að heimfæra það upp á eldgos sem getið er um í rituðum heimildum. Upptök öskulagsins eru í sjó við Reykjanestána. Leifar gígsins eru Karlinn, stakur drangur skammt undan landi, en hluti af gígbarminum er skammt norðbestur af Valahnúk og hefur yngra Stampahraunið runnið upp að honum.

Til eru fimm geislakolsaldursgreiningar, sem tengjast Ögmundarhrauni. Árið 1974 tók Þorleifur Einarsson tvö koluð sýni úr eldstæði í rústunum í Krikjulágum (efri láginni) í Húshólma og lét aldursgreina þau. Niðurstaðan var 980+/-60 og 960+/-170. Sýnið ætti því að vera frá því um 1027 e.Kr. Jón Jónsson (1982) lét gera þrjár aldursgreiningar árið 1979 á koluðum gróðuleifum undan hrauninu. Niðurstöður mælinganna voru ártölin 1050, 1095, 1125, 1141 og 1148.
Fátt er um sögulegar heimildir um eldgos á Reykjanesskaga á þessum tíma og eru þær allknappar. Frá 1151 er getið um gos í Konungsannál, bs. 115, Oddaverjaannál, bls. 474 og Annál Flateyjarbókar, bls. 301. Árið 1188 segir frá gosi í Trölladyngju í Skálholtsannál, bls. 180. Miðaldaöskulagið er talið geta verið frá 1226/27.

Húsólmi

Húshólmi – uppdráttur.

Sigurður Þórarinsson (1965) birti kort af Íslandi þar sem merkt eru inn gos á sögulegum tíma og þar telur hann eldgos í Trölladyngju á Reykjanesi vera 1151, 1188 og 1360, en telur þó síðastnefnda áratalið óvisst.
Þegar gögn eru skoðuð hníga ýmis rök að því að Ögmundarhraun hafi runnið á 12. öld og engin ástæða er til að véfengja frásagnir annála af gosi 1151. Eldgosið sem varð 1188 gæti hafa verið á svipuðum slóðum og hluti af sömu goshrinu. Þar sem svo langt hefur liðið milli goshrina þá er hugsanlegt að seinna gosið hafi verið mun minna.
Til eru lýsingar Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á hraunrennsli í sjó á Íslandi. Rit hans, Liber miraculorum (Bók um furður) er skrifið 1178-80. Þar lýsir hann hrauni, sem rann í sjó fram á Íslandi á 12. öld og þá fyrir 1188. Þar sem hraunrennsli í sjó á þessum tíma er aðeins þekkt frá Krýsuvíkureldum renna skrif kapellánsins frekari stoðum undir þá skoðun að Ögmundarhraun hafi runnið 1151.
Grafið var eitt snið í gegnum efri garðinn í Húshólma og reyndist það forvitnilegt. Garðurinn er mjög vel varðveittur. Pælan, sem stungin hefurverið með garðinum beggja vegna til efnistöku, sést greinilega af litaskiptum í jarðvegi og er hún um 10-15 cm djúp í sniðinu. Neðst í pælunni norðan megin við garðinn var dreif af landnámslaginu en hún lá ekki inn undir garðinn svo það hefur fallið eftir að hann var hlaðinn.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur

Miðaldalagið liggur upp að garðinum beggja vegna. Hann er því hlaðinn fyrir 900, en þegar miðaldalagið féll um 1226/27 var verulega fokið að honum.
Einnig var grafið snið við fjárborgina efst í Húshólma og þar lá miðaldalagið upp að vegghleðslunni og er hún því allnokkru eldri en öskulagið.”
Samkvæmt framangreindum rannsóknum virðist sá hluti Ögmundarhrauns, sem umlukti rústirnar í Húshólma hafa runnið 1151. Garðurinn, sem rannsakaður var, virðist hafa verið hlaðinn fyrir 900. Það er því fullljóst að þarna er um mjög fornar minjar að ræða.“
Ekki er vitað til þess að rústirnar sjálfar hafi verið rannsakaðar, en þegar það verður gert mun án efa sitthvað forvitnilegt koma í ljós. Hugsanlega vakna þá fleiri spurningar en hægt verður að svara með góðu móti.
Skoðaðar voru seljaminjar nyrst í Húshólma, en að því búnu var gengið áfram út úr hólmanum eftir stígnum austan hans og norður með austanverðum hraunkanti Ögmundarhrauns. Utan í hrauninu er hringlaga gróið gerði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir:
-Krýsuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins – Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson – Jökull nr. 38 1988 bls 71-85.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

 

Staðarhverfi

Birgir Kjaran skrifaði þrjár greinar í Lesbók MBl árið 1960 um Suðurnes, einkum þó Grindavík og nágrenni. Fyrsta greinin birtist í apríl. Í grein III segir m.a.:
Manni á Stað skyggnist yfir Staðarbótina„Við göngum upp á hæð  fyrir ofan bæinn og horfum til hafs. Það brimar fyrir Stað þótt logn sé undan Grindavík. – Við okkur blasir nokkurra kílómetra löng strandlengja, suðurströnd Reykjanesskagans. Enginn jafn skammur spölur Íslandsstranda getur sagt sögu jafn margra skipsskaða og geymir slíkan ógnafjölda minninga átakanlegra atburða, og þó sem betur fer einnig frábærra afreka við björgun úr sjávarháska. Þarna innst er Selvogurinn og Strandarkirkja, Krýsuvíkurbergið, Hraunsvíkin, Þorkötlustaðahverfið, Hópið við Grindavík, Gerðistangar, Staðarmalir, Víkurnar, Háleyjar, Hrafnkelsstaðarbergið og Skarfasetur yzt á suðurtánni.
Allt sjáum við þetta nú, að vísu ekki í sömu andránni, en við erum að leggja upp í leiðangur eftir tröllaveginum út að vita, og á leiðinni kemur þetta smám saman í ljós.
Áður en við höldum af Stað, verður okkur enn skrafdrjugt, því Manni kann frá mörgu forvitnilegu að segja og hefur ákveðnar meiningar um hlutina. – Ég varpa t.d. fram spurningu um það, hvað hald hans sé um göngin hans Eggerts Ólafssonar, göngin undir Reykjanesið. – Vegna þeirra, sem ekki þekkja þetta mál, felli ég hér inn í, það sem Eggert segir í Ferðabók sinni um Reykjanesgöngin: „Annars er það algeng sögn, að undir skaga þann hinn mikla, sem er meginhluti Gullbringusýslu, liggi göng, og sérstaklega séu göngin víð milli Grindavíkur og Vogastapa, og á fiskur að ganga í gegnum þau. – Sögn þessi er í sjálfu  sér alls ekki fráleit, því að vér vitum, að landið er hér allt umbylt af jarðeldi bæði á yfirborði og niðri í djúpinu og hvarvetna í því gjár. Þar hljóta einnig að vera neðanjarðarvatnsföll, sem falla út í Reykjanesröst.“ – Þannig fórust Eggerti orð fyrir um það bil tvö hundruð árum, og nú legg ég spursmálið fyrir Staðarbóndann og honum verður hvergi svarfátt. Hann segist trúa því, að á renni neðanjarðar undir nesið. – „Það er alveg víst eftir gömlum sögum og meira að segja veit ég það eftir pabba sáluga, að þegar þeir reru í Höfnum, þá sögðust þeir hafa náð í ósalt vatn, eitthvað blandað náttúrlega, en daufara en sjó, út af Skarfasetri. – Pabbi sagði, að það væri alveg sjúrt, að hægt væri að fá sér þarna að drekk í barning. Þeir höfðu fengið sér þarna vatn á kútinn. Það rennur þarna út í Röstina – það er sko alveg sjúrt“, segir minn góði leiðsögumaður ákveðið, því að þegar Gamalíel á Stað segir eitthvað „sjúrt“ meinar hann að það sé enginn vafi um þá hluti.
Clam á StrandsstaðEn að fiskur gangi eftir þessum göngum eða þessari á? Það er ekki eins víst. – „Ja, maður veit ekkert um fiskana“, segir hann, „en hérna í Bjarnargjá milli Járngerðarstaða og Staðahverfis hafa þeir oft og iðulega séð ufsa, svo að hvað veit maður svo sem nema hann gangi lengra?“
Erindið hingað var meðal annars að kanna veginn út að vita, og jafnframt að njóta leiðsögu hins örnefnafróða Staðarbónda, sem jafnframt kann öðrum fermur að segja sögu sjóslysanna hér um slóðir, því hann hefur um áratugi verið ekki aðeins áhorfandi harmleikanna, heldur líka og oftar virkur þátttakandi í barátunni milli manns og hafs um líf einstaklinganna. Manni er nefnilega fæddur í Reykjanesvita sama árið, sem kveikt var á nýja vitanum. Það mun hafa verið árið 1908. Faðir hans var þriðji vitavörðurinn á Reykjanesi og gegndi þeim starfa um tuttugu ár. Á þessari strönd sleit Manni barnsskónum og stælti mandómsþrek sitt. Og mér dettur í hug brimið, já, brimið, ætli hann hafi ekki vanizt á að hlæja svona hátt til þess að yfirgnæfa brimgnýinn?
Björgun áhafnar á Skúla fógetaÞorvaldur Thoroddsen var á ferð hér á þessum slóðum árið 1883, og segir hanní ferðabók sinni: „Af Reykjanesi fórum við 11. ágúst inn í Grindavík. Þar er enginn vegur, ein eintóm hraun yfir að fara. Alls staðar liggur hér mesti urmull af rekatrjám í fjörunni, og heyrir það allt undir kirkjuna að Stað í Grindavík.“ Síðan eru liðnir röskir þrír aldarfjórðungar, og hálfgerð vegleysa er þetta enn.
Það hefur líka fyrr og síðar ýmsu öðru en rekatrjám skolað á Staðarfjörurnar. Hann tjáir okkur það, Staðarbóndinn, að hún hafi stundum verið óhugnanleg aðkoman á þessari víðsjálu strönd. Þegar Ægir hefur látið brimrótið skila feng sínu upp í fjörugrjótið. – „Það var verst með það fyrsta“, segir hann. „Það var gamall, reyndur maður, sem var með okkur og gekk fyrstur. Það bjargaði okkur og tók af okkur versta stuðið.

Cap Fagnet á strandsstað

Síðar bregður manni minna. – Einkennilegast var það, þegar ég fann sjórekna manninn undir Háleyjarbergi. Það skil ég aldrei, segi alltaf, að hann hafi hjálpað mér til þess að koma  sér upp. Við vorum tveir bræðurnir, Helgi heitinn og ég, sem fundum hann. – Við sáum, hvar tvær ritur sátu á steini í stórstraumsfjöru. Þetta var í há-átt. Ég fór fram eftir, og þar lá hann undir steininum. Við lögðum líkið í poka og bárum það milli okkar upp að berginu tveir einir, en sjö tíma vorum við að koma því austur með berginu, og veittist þó fullerfitt að koma því alveg austur úr. – Ég skil það aldrei, hvernig við tveir einir skyldum koma því upp allt strórgrýtið og það án þess að blása úr nös. – Ég er viss um, að hann hefur hjálpað til við það sjálfur.“
Þessi frásögn getur eðlilega af sér stuttlegt samtal um myrkfælni, sem mun hafa hljóðað eithvað á þessa leiðina:
-Eru einhverjir þeirra jarðaðir í krikjugarðinum að Stað?
-Jú, hér er eitt lík austan af Selatöngum, af enskum, og fleiri munu hvíla hér, sem rak af hafinu.
-Finnst þér ekki lakara að hafa kirkjugarðinn svona rétt við bæjarhúsin?
-Nei, ég finn ekki til þess.
-Þú ert þá ekkert myrkfælinn?
Á Staðarbergi við Ræningjasker-Nei, ég var myrkfælinn þangað til ég fluttist hingað í nábýlið við kirkjugarðinn, -en þá fór hún af mér.
-Og þið verðið aldrei vör við neitt?
-Það getur ekki heitið. Það er þá helzt, þegar von er á þeim hingað í garðinn. – Þeir láta oft vita af sér, um leið og þeir skilja við þetta jarðneska hérna.
-Meinarðu, að menn geri vart við sig hérna í þann mund, sem þeir gefa upp öndina?
-Já, reyndar, mennirnir, Grindvíkingar, þeir koma og banka og ganga um rétt eftir að þeir eru búnir að skilja við.
-Hefur þú orðið var við það?
-Já og já, ég held nú það.
-En aldrei séð neitt?
-Nei, nei, en ég hef oft orðið var við það.
Vegalengdin frá Grindavík út á Reykjanes, að vita, mun vera um 10 kílómetrar. Frá Stað til Reykjaness er í sæmilegu gangfæri tveggja tíma gangur. Sá, sem gerði þann veg, sem nú er notazt við, var Ólafur Sveinsson, vitavörður á Reykjanesi. Var það á árunum 1926-´28. Bar hann að mestu grjótið í veginn. Ólafur er sagður hafa verið mikill atorkumaður. Veginn lagði hann til þess að komast með hestvagn til Grindavíkur og auðvelda sér þannig aðdrættina. Það mun hafa verið haustið 1928, sem fyrsti bílinn fór út í Mölvík. Lengra komst hann ekki. „Vitasjóður lagði svo eitthvað í veginn á hverju hausti, en þetta var svo lítið, að það var svona viku tíma á ári, sem unnið var fyrir tillag hans“, bætir Staðarbóndinn við.
Gamli vegurinn - lagfærðurÁður en við stigum upp í bílinn bendir Manni okkur út á Staðarbótina og segir: „…Það var þarna út á Staðarsundið, sem sagt er, að séra Oddur hafi farið með menn til þess að kenna þeim björgunartilraunir, kenna þeim að synda og nota bárufleyginn, sem hann fann upp. Hann fermdi pabba hérna á Stað. Það eru til margar sögur og sagnir af honum. Hún heitir Silfra gjáin, sem þú varts að spyrja um og álarnir eru núna í. Í hana missti hann tösku með 60 spesíum. Hann var að sækja konuarfinn. Hún er þar enn taskan, segja þeir.“
Þessari síðustu athugasemd Staðarbóndans fylgir hláturm sem sóttur er hreint niður á neðstu tasíu og endar beinlínis eins og veltandi öldurót við ströndina, brimhljóðinu, sem berst frá Staðarberginu.
Lagt er í torleiðið á tveggja drifa bíl, og við höldum áfram að spyrja hann um veginn, hvort nokkurn tíma hlaði snjó á hann að ráði. Ekki er það talið  vera og oftast hægt að komast hann, þótt fenni. Umbætur á veginum eru Staðarbónda hjartans mál.
-Heldur þú að það hefði getað munað mannslífum, ef þessi vegur hefði verið lagfærður fyrr?
Brosmilt andlit Staðarbóndans verður mjög alvörugefið, og það kemur djúp hrukka milli augnanna og aðrar skáhallt upp af hvou auga, er hann segir með þunga: „Já, það er ábyggilegt, að ef það hefði verið brim, þegar Jón Baldvinsson fórst, þá hefði það getað  munað miklu að vera kominn hálftíma eða klukkutíma fyrr út eftir. Í stað þess að við vorum, ég man ekki með vissu, víst eitthvað á þriðja klukkutíma á vöruníl. Hann sagði það skipstjórinn á Jóni Baldvinssyni, að það hefði verið langur tími, fannst honum, frá því hann sendi skeytið og þangað til hann sá okkur. Það var ábyggilega tími, sem var lengi að líða. En hvað hefði það verið lengi að líða, ef það hefði verið brim og vegurinn svona?“
Hann bætti við: Undir Háleyjarbergi - Háleyjarhlein„Eins var það með Clam, þá urðum við líka að aka þessa vegleysu með fullan bíl af fólki. Vörubílarnir urðu að taka ytri barðana af sér til þess að komast áfram. Allt tafði þetta. Við urðum líka að bíða til þess að hafa nógan liðsafla, ef ýta þyrfti bílunum. Ég er alveg viss um, að þetta hefur allt tekið eina þrjá klukkutíma. Það hefði verið munur að geta stokkið strax, nokkrir menn, með slysavarnartækin og skotizt út eftir á góðum vegi. Þeir fórust 27 á Clam eins og þú veizt“, bætir hann við.
„Já. Ég gæti sagt þér eitt og annað af sjóslysunum hérna fyrr og síðar. Það hefur oft munað mjóu, og þó ekki alltaf nógu. Fyrsta sjóslysið, sem ég man eftir, var 1916. Þeim hafði borizt á í Katrínarvíkinni. „Resolut“ hét það víst skipið. Einn synti í land með spotta, og hinir voru dregnir á eftir. – Þrímöstruð skúta, saltskip, strandaði skömmu síðar við Þorkötlustaðanesið. – Svo var það franski togarinn Cap Fagnet, sem fóst upp á Hraunsfjörum í marz 1931, og þá var í fyrsta sinn skotið af línubyssu við bjögunarstarf. Hann hét Guðmundur Erlendsson, sem skaut. Sjálfur drukknaði hann fáum árum síðar í róðri á trilli, en þarna björguðust 38 menn af franska togarum. Svo strandaði Skúli fógeti hér á Staðarmölum. Þú sérð þarna, beint út af. Það var svona klukkan að ganga sex um nóttina, sem við vissum um það. Það komu að austan tveir menn og létu okkur vita. Karl heitinn Guðmundsson fór niður um nóttina og var að hlusta á veðrið frá Vestmannaeyjum, og þá heyrir hann, að það var kallað út, að Skúli fógeti væri strandaður. Minnismerki um óþekkta sjómanninn í Fossvogskirkjugarði - vitinn
Það var stöðin í Vestmannaeyjum, sem kallaði þetta út með verðinu. Hann vakti mennina og fór að leita, og svo ræstu þeir okkur. Við höfðum komið heim að Stað um nóttina kl. tvö frá aðgerð. Það var mikið brim, og það var langt að skjóta út í Skúla. Línan var 97 faðmar. – Já, það það mátti ekki miklu muna. Það var síðasta línan, sem náðist í. Við áttum ekki fleiri. Það var seinasta skotið, sem hægt var að skjóta. Við voru svo heppnir, að vindurinn bar línuna upp að mastrinu, þar sem þeir sátu á hvalbaknum, og einn gat teygt sig í hana. Þeir voru sumir mjög þrekaðir, skipsbortsmennirnir, en einn var þó ótrúlegt hraustmenni, og var hann ekki nema 16 ára gamall. Hann hljóp eins og krakki þegan hann kom upp á kambinn, hreint eins og ekkert hefði í skorist. Það var mikið tekið eftir því. Það var Sæmundur Auðunsson, sem síðar varð skipstjóri á Akureyrartogurunum.

Staðarkirkjugarður

Þeir fórust 14 á Skúla, en 24 var bjargar, svo ver hefði getað farið þar, ef síðasta línan hefði brugðizt. – Eitt árið strandaði færeysk skúta á Ræningjaskeri framan við endann á Staðarhrauni og öll áhöfnin fórst. Þá var það Clamslysið. Það var hinum megin á nesinu, rétt innan við litla vitann. Ég kom með þeim fyrstu þarna að. Skipið hefur ekki verið nema svona 30 faðma frá landi. Hann var suðlægur, nokkurt brim. Þeir fóru í bátana, svo liggur hann niðri og svo slepptu þeir og ætluðu að róa upp að landinu, en þá er straumur þarna í röstinni svo mikill, að hann kastaði þeim og bara hvolfdi bátunum strax. Við sáum það, þegar við vorum að koma að, við Björn heitinn, sem var skipstjóri á Grindvíkinni, hann fór með mér. Það var komið fljótlega með tvo skipbrotsmenn á jeppa. Ég fór að Reykjanesi til þess að hjálpa konu vitavarðarins með þá. Bar þá inn og skar utan af þeim fötin. Það var svo mikil bakkerolía í þeim, að þau voru alveg límd við skrokkana. Þetta voru Kínverjar. Þegar ég kom með hnífinn og risti utan af, greip hann ofsahræðsla, og hann veinaði upp, því að hann hefur víst haldið, að ég ætlaði að gera á sér kviðristu.
Bóndinn á Stað hefur ótal sinnum séð strönduð skip í brimgarðinum. Hann hefur gengið fjöru og fundið líkin. Suma þekkti hann, aðra ekki. Það var hann, sem bar heim lík óþekkta sjómannsins, sem fannst undir Háleyjarbjargi, og nú hvílir undir merki vitans í Fossvogskirkjugarði. Hann sagði, að það væri glæpur að leggja ekki þenna veg, því að á liðnum 30 árum hefðu að minnsta kosti 20 skiptapar orðið á ströndinni frá Stafnesi til Krýsuvíkurbergs og í þeim hefðu um sextíu menn farizt.
Við skulum nefna þenna veg, sem lagður verður frá Oddsvita að Reykjanesvita, og fyrst og fremst á að hafa þann tilgang að bjarga mönnum úr sjávarháska; „Oddsbraut“, í minningu hins mikla brautryðjanda slysavarnanna á Íslandi, séra Odds Gíslasonar að Stað í Grindavík.“

Heimild:
-Birgir Kjaran – Svipast um á Suðurnesjum III – Lesbók Morgunblaðsins 8. maí 1960, bls. 245 – 249.

Staður

Staðarhverfi.

Ögmundarhraun

Gengið var upp frá Ísólfsskálavegi eftir gamalli götu að gígaröð þeirri er hluti Ögmundarhrauns kom úr haustið 1151. Síðan var formfagurri gígaröðinni fylgt til efsta gígsins í þeim hluta. Í henni er m.a. að finna fjárskjól með miklum hleðslum, bæði fyrir og inni. Sennilega hefur hann þjónað Þórkötlustaðaseli á og meðan var í notkun þar skammt ofar.
Til baka var gengið um slétta völlu er þrautseigur lækur í gegnum hraunið hefur mótað um aldir – og er enn að á leið sinni til sjávar.
Einn gígurinn - Mælifellið fjærÖgmundarhraun rann úr gígaröðinni framundan árið 1151, eða fyrir 857 árum síðan. Þeirri eldgosahrinu er þá hófst hefur síðan verið kennd við Krýsuvíkurelda.
Þá gaus einnig við Trölladyngju. Afstapahraun og Kapelluhraun eru auk Ögmundarhrauns afsprengi Krýsuvíkureldanna. Um 25 metra löng sprunga opnaðist og hraun rann til sjávar bæði norðan og sunnan megin við Reykjanesskagann. „Hraun, þú talar um hraun. Hvað er það?,“ varð einhverjum að orði. „Hraun er það, sem þú stendur á, jarðskorpan.“ Hraun er reyndar jarðskorpa eða möttulefni (einnig kallað bergkvika) sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos. Hitastig sem getur verið frá 700 – 1200°C. Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum og rennur sem hraun. Hér kom glóandi kvikan upp um sprunguna, sem gígaröðin myndar nú, flæddi út frá henni undan hallanum og storknaði – myndaði hraunið. Nú þekur það lægðir milli hæða og hóla, sem fyrir voru, auk þess það rann til sjávar og jók verulega við landið að sunnanverðu. Fyrir gosið var ströndin mun vogskornari, með litlum grunnum víkum. Ein þeirra nefndist Krýsuvík, en „krýs“ er gamalt orð yfir grunna skoru í aski. Ofan við víkina var þétt byggð, enda væntanlega verið góð lending innan við hana.
Þegar Ögmundarhraun rann yfir byggðina eyddi það byggðinni – að mestu. Það hélt þó eftir og Á einni gígbrúninni - Sveifluháls fjærumfaðmaði hluta af henni, svona til að eiga eitthvað til minningar um það sem þá var – og hafði verið. Tóftirnar við Húshólma, garðarnir í hólmanum og hvorutveggja í Óbrennishólma þar skammt vestar gefa til kynna að þarna hafi áður verið allnokkur byggð. Ekki einungis öskulagið frá gosinu 1151 þekja rústirnar heldur og öskulagið í Kötlugosinu frá árinu 872. Það vekur von um að byggðin við Krýsuvík hafi verið þar þegar fyrstu norrænu landnemarnir sigldu framhjá og tóku sér bólfestu norðar á Reykjanesskaganum.
Annars er Reykjanesskaginn stórbrotin kennslubók í jarðmyndunarfræðum. Á Reykjanesgosbeltinu eru 12-15 gos þekkt frá nútíma. Segja má að Reykjanesskaginn sé þakinn gosmenjum því að
nánast milli allra stapa og hryggja eru hraun frá nútíma. Það einkennir Reykjanesskagann hversu gróf þessi hraun eru og landslagið virðist því oft snautt af gróðri. Engar ár renna á yfirborði og því er lítið sem getur haldið lífi í gróðri. Lækir eru þó nokkrir. Þeir minnstu virðast hafa getað afkastað mestu hvað landmótunina varðar, s.s. hér í Ögmundarhrauni, í Króksmýri, á Lækjarvöllum og á Höskuldarvöllum, skammt ofar.
Sjálfsmyndun við myndasmíði - kleprar með hitauppstreymi og ískristallsmyndunÁ Reykjanesskaganum kemur Atlantshafshryggurinn á land og má ímynda sér að Reykjanestáin yst á skaganum sé þar sem hann er að teygja sig upp á landið. Þrjú goskerfi eru á Reykjanesskaganum; Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið og Brennisteinsfjöll. Þrjár gerðir gosmyndana einkenna Reykjanesskagann en það eru litlar dyngjur sem hafa framleitt að mestu leyti framleitt Pikrít, önnur tegund er sprungugos sem hafa myndað hraun eins og Ögmundarhraun og Kapelluhraun.
Sprungugos hafa einnig skilið eftir sig gjall- og klepragíga og gjósku- og sprengigíga. Berggerð þeirra er oftast þóleiít. Þriðja gerð gosmyndana eru stórar dyngjur en líklega eru um 26 dyngjur á skaganum frá nútíma. Þær eru því áberandi á Reykjanesskaganum stundum tekur maður þó ekki eftir þeim þar sem hallinn á þeim er svo lítill og stærð þeirra er slík að maður missir eiginlega af þeim þær framleiða að mestu ólivín þóleiít (78% gosefna).
Talið er að stóru dyngjurnar séu allar eldri en 4500 ára (Ari Trausti 2001).
Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði. Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtishraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ber mest á mó og Einn gígurinnmýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hafa runnið frá. Allmargar eldstöðvar eru á Krýsuvíkurjörðinni en þær merkustu eru Stóra- og Litla-Eldborg undir Geitahlíð sem eru á austurmörkunum og sprengigígasvæði austan til í Sveifluhálsi. Stóra-Eldborg er 50 m há og gnæfir yfir umhverfið, 30 m djúp og mjög regluleg. Fáein samfelld gos hafa orðið á sögulegum tíma: Yngsta goshrinan (Krýsuvíkureldar) er talin hafa staðið 1151-1188, og Ögmundarhraun og Kapelluhraun runnið um 1151 og hrinunni lokið með gosi í Mávahlíðum.
Gjall- og klepragígaraðir eru víða þar sem gosið hefur apalhrauni á sprungum. Sprungugos af þessari gerð eru mjög algeng hér á landi og einkennandi fyrir eldvirkni landsins og virðist svo hafa verið frá upphafi jarðsögu Íslands. U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²).
Ef hægt væri að kalla einhver gos einkennisgos Íslands væru það sprungugosin. Þau geta verið nokkur hundruð metra upp í tugi kílómetra. Oft myndast gígar þegar líður á svona gos og þeir geta verið eins eða blandaðir.
Ögmundarstígur í vetrarbúningiSnertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við hraunrennsli á yfirborði kallast gosberg.
Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru „Aa-lava“ (apalhraun) og „Pahoehoe“ (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.
Helluhraun (e. Pahoehoe; úr Hawai’isku) er nokkuð slétt hraun sem verða til við eldgos með þunnfljótandi basalt-kviku. Helluhraun eru að jafnaði auðveld yfirferðar og oft alsett hraunreipum sem myndast þegar efsta lag hraunsins storknar en massinn heldur áfram að hreyfast. Stærstu helluhraun heims eru á Hawaii en einnig eru helluhraun á Íslandi; svo sem Þráinsskjaldarhraun og Sandfellshæð.
Apalhraun (e. Aa, úr havaiísku) er úfið hraun sem verður til í þeim eldgosum þar sem er flæðigos með basískri hraunkviku. Dæmi um apalhraun er sum hraunin sem liggja yfir Suðurnesin.
Lækurinn í vetrarbúningi - Mælifell fjærÞegar komið var upp að gígaröðinni fyrstnefndu var henni fylgt til norðurs. Nokkrir myndarlegir gígar eru í henni og sumir dýpri en aðrir. Í þeim dýpsta er gat, sem kíkja þarf inn í við tækifæri. Sprungureinin hefur, meðan hún var virk á sínu tæplega 40 ára tímabili, verið tæplega 100 metra breið. Virknin hefur ekki alltaf verið allsstaðar heldur hefur hún greinilega færst til, þ.e. dottið niður um tíma, en síðan vaknað að nýju og þá myndað nýjar gígaraðir, gjallrana og hraunbreiður.
Fjárskjólið reyndist stútfullt af snjó þrátt fyrir tiltölulega lítinn slíkan að öllu jöfnu á svæðinu. Víðast hvar sást í auða jörð. Snjórinn var hins vegar frosinn svo ómögulegt var að reyna inngöngu. Þó sáust vel fótspor tófunnar, sem hafði vaknað snemma og farið vítt yfir í leit að þeirri einu upp til heiða, rjúpunni.
Læknum var fylgt inn á Suðurvelli og síðan niður hraunið milli Mælifells og Latshóla. Fáir vita af þessum litla læk. En  „margur er knár þótt hann sé smár“. Í tæp 860 hefur hann af einurð hlaðið markvisst undir sig uppruna sínum, úr hlíðum Hettu og Sveiflu í Sveifluhálsi. Og það einungis yfir sumartímann, því hann, líkt og aðrir lækir, leggjast gjarnan í dvala á veturnar – bæði vegna efnisleysis og frosta. Hann hefur jafnan náð að þétta gljúpt hraunið og þannig komst áfram, smám saman. Þegar lækurinn mætti fyrirstöðu beygði hann af leið og reyndi fyrir sér á nýrri og lægri slóðum. Þannig hefur þetta gengið – svo vel að nú er hann kominn niður fyrir Ísólfsskálaveg og á væntanlega um fimmtungs leið eftir til sjávar. Með læknum eru grónir grösugir bakkar, sem féð hefur síðan sótt í og aðstoðað við að móta hraunlenduna á þessu svæði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-wikipedia.org
-Málfríður Ómarsdóttir – Reykjanesskagi – náttúrusaga og eldvörp, apríl 2007.
-Jónas Guðnason – Eldvirkni á Íslandi á nútíma, apríl 2007.

Einn gígurinn