Tag Archive for: Krýsuvík

Krýsuvík

Þórður Jónsson á Eyrarbakka skrifaði grein í Alþýðublaðið 1935 um „Krýsuvík„:

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

„Krýsuvík er staður, sem virðist vera að falla í gleymsku, og vegna þess að ég heyri varla þann stað nefndan á nafn, langar mig aö minna menn á, að Krýsuvík er þó enn til á landi voru, þó að sé með öðrum hætti en áður var.
Eflaust eiga einhverjir af núlifandi mönnum minningar frá þeim stað — Krýsuvík — ef til vill þær ljúfustu og beztu, minningar æskuáranna.
Krýsuvík er nú í eyði — eða víst að mestu leyti. — En fyrir nokkrum tugum ára var þar allblómleg bygð, eins og kunnugt er.
Guðmundur Ísleifsson frá Stóru-Háeyri hefir gefið mér dálitlar upplýsingar um Krýsuvík, og fer ég eftir frásögn hans í eftirfarandi línum.

Krýsuvík

Krýsuvík – Norðurkot.

Guðmundur Ísleifsson fluttist með foreldrum sínum frá Kirkjubæjarklaustri í Skaftafellssýslu árið 1858 að Krýsuvík, þá átta ára. Ísleifur, faðir Guðmundar, varð að víkja frá Kirkjubæjarklaustri fyrir Árna sýslumanni Gíslasyni, sem hafði ráð á þeirri jörð. En rétt er að geta þess einkennilega tilfellis, að nokkrum árum síðar fluttist þessi sami Árni sýslumaður að Krýsuvík í annað sinn í „ból“ Ísleifs — að því er virðist.
Guðmundur Ísleifsson dvaldi á þessum slóðum — Krýsuvík og Selvogi — til 20 ára aldurs, er hann fluttist til Eyrarbakka.

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – kort (ÓSÁ).

Árið 1861 segir Guðmundur Ísleifsson þannig högum háttað í Krýsuvík og umhverfi Krýsuvíkur:
Á heimajörðinni:
Krýsuvík – 2 búendur
Stóra-Nýjabæ – 2 búendur
Litla-Nýjabæ – 1 búandi
Norðurkoti – 1 búandi
Suðurkoti – 1 búandi
Arnarfelli – 1 búandi
Fitjum – 1 búandi
Vigdísarvöllum – 2 ábúendur

[Svo virðist sem bæirnir Lækur og Garðshorn hafi gleymst í upptalningunni, auk Fells.]

Þessir bæir allir höfðu svokölluð jarðarafnot.
Auk þessara bæja voru tvö tómthúsbýli, er hétu Snorrakot og Hnausar. Ofantaldir bæir voru svo einu nafni kallaðir Krýsuvíkurhverfi.

Krýsuvík

Krýsuvík – Snorrakot.

Allmiklar engjar fylgdu þessum jörðum, og lágu þær umhverfis Kleifarvatn að sunnan og vestan, en Kleifarvatn er allstórt stöðuvatn um klukkustundarferð í norðaustur frá Krýsuvík. Engjarnar skiftust hlutfallslega milli býlanna í „skákar.“
Meirihlutinn af engjunum var mýrkent, og stundum í þurrkatíð fjaraði svo vatnið, að mikið engi náðist þannig, sem vatnið flóði annars yfir, og var það ágætt starengi.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli í Krýsuvíkurhrauni.

Bændur í Krýsuvíkurhverfi höfðu 1—4 kýr, og sauðfé eftir efnum, því hagaganga fyrir sauðfé var ótakmörkuð, og sauðfé gekk úti að mestu leyti. Hús voru engin til fyrir féð.
Slíkt voru ekki landslög á þeim tíma. Fénu var helzt haldið í hrauninu framan við Geitahlíð, fram undir sjó, þar voru hellar, sem fénu var haldið við í illviðrum á vetrin.
Til hlunninda Krýsuvíkur mátti telja eggja- og fuglatekju, sem var allmikil í Krýsuvíkurbergi. Var sú veiði stunduð af miklum dugnaði, og skiftust þau föng niður á búendur í Krýsuvíkurhverfi eftir því, sem hver hafði kraftinn til við veiðina.

Krýsuvík

Krýsuvík – minjar brennisteinsvinnslu undir Baðstofu.

Þá er að minnast á hina miklu brennisteinshveri í fjallahálsunum vestan við Kleifarvatn, en á þessum árum, 1858—1861, var það sem Englendingar byggðu þar hús og starfræktu hinar nafnkunnu brennisteinsnámur í Krýsuvík, og var brennisteininn fluttur á hestum til Hafnarfjarðar, og höfðu þá Krýsuvíkurbúar mikinn hagnað af þessum atvinnurekstri Englendinga við námurnar. En örlög þessa fyrirtækis urðu sem kunnugt er.
Í Krýsuvík var kirkja, og kirkjusóknin Krýsuvíkurhverfi, og rnessaði Vogsósaprestur þar þriðja hvern sunnudag.

Selatangar

Selatangar – búðir Krýsuvíkurbænda.

Á þessum tímum var ekki lítil búsæld í Krýsuvík. Atvinnuvegirnir eins og áður er sagt var landbúnaður, eggja- og fuglatekja, auk þess sjávarafli nokkur. Þá var útræði á Selatöngum. Gekk þá eitt — áttróið — skip þar úr Krýsuvík, og var á því skipi formaður Einar frá Stóra-Nýjabæ, og mun það síðasta skip, er þaðan hefir gengið, en sú sögn fylgir, að útræði frá Selatöngum hafi lagst niður vegna reimleika.

Krýsuvík

Krýsuvík – minjar gamla bæjarins.

Fyrr á árum var Krýsuvík mikið „ferðamannaland“. Allir, sem fóru til Suðurnesja syðri leiðina austan úr sýslum, fóru um Krýsuvík, og eins og gefur að skilja gaf það þessum afskekta stað alt annan svip. Af umferðinni leiddi fjölbreyttara líf og meiri gleðibrag í litla þorpinu.
Að líkindum hefir Krýsuvík staðið á hátindi blóma síns þessi ár, sem Englendingar starfræktu brennisteinsnámurnar.

Fornugata

Fornugata austan Herdísarvíkur.

Austan úr sýslum, Árness-, Rangárvalla- og Skaftafellssýsum, var þá kallað að fara suður „innra“, og „syðra“ þeir, sem fóru til Suðurnesja. Innri leiðin var yfir Hellisheiði nálægt þeim stað, sem nú er farið yfir hana, yfir stórárnar Þjórsá og Ölfusá á þessum stöðum: Þjórsá á Egilsstöðum eða Króki, og yfir Ölfusá í Laugardælum. En þeir, sem fóru syðri leiðina, fóru yfir Þjórsá á Sandhólaferju eða Selparti, og Ölfusá í Óseyrarnesi og þá um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík, Krýsuvík. Sumir fóru hringferð, t.d. „innri“ aðra leiðina og „syðri“ hina.

Fornugötur

Fornugötur.

Þarna — syðri leiðina — um Krýsuvík — er ljóst að hefir verið mikil umferð um margra alda skeið. Þess bera ljósan vott hestagötur í hraununum á þeirri leið. Þó eru slíkar götur mest áberandi í Herdisarvíkurhrauni, þar liggur gatan víða á sléttum hraunhellum, og ég — sem þetta rita — fór yfir Herdísarvíkurhraun fyrir nokkrum árum, og mældi ég dýpt götunnar á nokkrum stöðum, og reyndist hún að vera 8—12 cm. á sléttum hraunhellunum, Og þó þetta sé brunahraun, þá sætir það furðu, hvað djúpar þessar götur eru, og sýnilegt, að margir hestafætur hafa orðið að stíga á bergið til að mynda slíka götu, og er næsta fróðlegt að sjá þetta „fornaldarsmíð“, og mikill er sá mismunun á nútímafarartækjum og slíkum, er forfeður okkar áttu við að búa.

Krýsuvík

Krýsuvík – útihús.

En skyldu þeir í nokkru hafa verið vansælli, sígandi með hestalestina sína klyfjaða af skreið en við í bílunum okkar og vaggandi í alls konar þægindum? Um slíkt er ekki hægt neitt að fullyrða. En sennilegt er að oft hafi verið glatt á hjalla í þessum ferðum, þó erfiðar væru.
En ef nokkrar lifandi verur hefðu ástæðu til að hrósa happi yfir breyíingum tímans í þessu efni, þá væru það hestarnir, því þeir hafa oft hlotið að eiga erfiðar stundir í slíkum ferðalögum.

Krýsuvík

Krýsuvík – kirkjan og gömlu bæjartóftirnar. Hnausar h.m. við kirkjuna.

Þó ef til vill sé ekki ástæða til að harma það, að slíkir staðir sem Krýsuvík leggist í eyði, þá er engu síður vert að muna eftir þeim stöðum og sýna þeim rækt og sóma. Þarna á þessum stað — Krýsuvík — hefir fjöldi manna háð sína hörðu lífsbaráttu við óblíð náttúruskilyrði öld fram af öld með hreysti og karlmensku, því öllum öðrum en hraustmennum hefir náttúran hlotið að vera þar naumgjöful. Gínandi fuglabjargið og stórhríðarnar á vetrum við fjárgeymsluna hefir ekki verið heiglum hent, og oft hefir hlotið að vera teflt á tæpasta vaðið við slík störf. Þau hreystiverk eru því miður óskráð.

Krýsuvík

Krýsuvík – Garðshorn.

Mér, sem þetta rita, hefir lengi verið hlýtt til þessa staðar, Krýsuvíkur, af þeirri ástæðu, að aldrei á æfinni hefi ég orðið fegnari að koma til mannabústaða en einmitt að Krýsuvík. Það var veturinn 1896, að ég — þá unglingur var á ferð til Grindavíkur, og vorum við fjórir saman — alt unglingar — og skall á okkur norðan blindhríð þegar við komum í hraunið utan við Herdísarvík, og eftir langa villu hittum við þó Krýsuvík af einhverri tilviljun — um hánótt. Ég hefi aldrei efast um hver örlög okkar, þessara unglinga, hefðu orðið hefðum við ekki hitt Krýsuvík, því þessi blindhríð stóð í tvo daga — og nætur.

Krýsuvík

Legsteinn Árna Gíslasonar að baki Krýsuvíkurkirkju.

Þá bjó i Krýsuvík Árni sýslumaður Gíslason, og á heimili hans, meðan veðrið hélst, í tvo daga, nutum við hinnar mestu gestrisni.
Trúlegt þætti mér að húsaskjól í Krýsuvík hafi oftar verið ferðamönnum kærkomið en í þetta skifti, sem að ofan greinir.
Þegar ég hugsa um Krýsuvík og íhuga það, hvað erfitt hefir verið að búa þar og nota þau gæði, sem þar hafa verið fáanleg, finnst mér ómögulegt að þar hafi getað lifað aðrir en afburðamenn að dugnaði. Af þeirri kennd verður manni staðurinn hugþekkari. Nútímakynslóðin vill ekki leggja á sig þá erfiðleika, sem útheimtast til að lifa á slíkum stöðum sem Krýsuvík er. Það er hægara og þægilegra að búa í borgum og þorpum og leggja svo slíka stáði í eyði, sem Krýsuvík er, og jarðsyngja með því allar búmannsraunir. Því ef í nauðir rekur leggja borgir og bæir fram einhver bjargráð til framdráttar atvinnubótavinnu eða eitthvað slíkt. En hvort slík bjargráð verða eins haldgóð til að viðhalda karlmennsku og hreysti og búskapurinn í Krýsuvík, skal ósagt látið.
Krýsuvík 1998Ég hefi því miður hvergi séð Krýsuvíkur minnst í bókum eða blöðum. Nú er það ætlun mín og von, að einhver, sem er mér fróðari um þennan stað — Krýsuvík — lýsi betur en hér er gert þessum forna mannabústað, sem nútímakynslóðin vill ekkert með hafa, því staðurinn er vel þess verður, og varla má minna vera en Ferðafélag Íslands líti þangað augum sínum í eitt skifti. Því þó Krýsuvík krjúpi í sorg sinni yfir vanþóknun mannanna og ræktarleysi, þá hlýtur umhverfi hennar að vera broshýrt í sólskini sumardaganna.“ – Þórður Jónsson.

Heimild:
-Alþýðublaðið, tölublað 07.04.1935, Krýsuvík eftir Þórð Jónsson, Eyrarbakka, bls. 3 og 4.

Krýsuvík

Krýsuvík – Lækur.

Seltún

Á fjórum upplýsingaskiltum við „Seltún í Krýsuvík“ má lesa eftirfarandi fróðleik:

Reykjanesskaginn – myndun og mótun – jarðfræði

Seltún

Kort af eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga, háhitasvæðum og rekbelti á upplýsingaskilti við Seltún.

Reykjanesskagi hefur verið í sífelldri myndun og mótun síðustu 6 milljónir ára, allt frá að rekbelti Atlantshafshryggjarins fluttist af Snæfellsnesgosbeltinu og Reykjanes-Langjökulsgosbeltið tók að myndast.
Á Reykjanesi má sjá hvernig rekbelti (flekaskil) Atlantshafshryggjarins gengur á land og fer þvert yfir landið til norðausturs. Það markar virk gosbelti landsins ásamt heita reitnum sem liggur undir miðju landsins. Á gosbeltið raðast virk eldstöðvakerfi ásamt háhitasvæðum landsins.
Fyrir sex til sjö milljónum ára lá rekbeltið um Snæfellsnes og fór eftir það að flytjast til austurs og við það myndaðist Reykjanes-Langjökulsgosbeltið. Síðan þá hefur Reykjanesskagi verið í sífelldri myndun og mótun með eldgosum neðansjávar, undir jöklum ísaldar og á þurru landi, auk þess sem landið hefur mótast af rofi sjávar, vatns og vinda.

Grindavík

Grindavík – eldgos við Sundhnúk 2024.

Á Reykjanesskaga eru fimm eldstöðvakerfi: Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Í hverju kerfi eru sprungusveimar með stefnu norðaustur-suðvestur og háhitasvæði sem raða sér eftir flekaskilum Atlantshafshryggjarins. Að Hengli undanskildum eiga kerfi það sameiginlegt að eingöngu kemur upp basaltkvika í eldgosum.
Goshrinur á Reykjanesskaga virðast að jafnaði verða á um 1000 ára fresti og geta þær staðið yfir í nokkur hundruð ár. Í goshrinum einkennist eldbvirkni af sprungugosum en í goshléum eru jarðskjálftar algengir í eldstöðvakerfunum. Eftir að ísöld lauk, eða síðustu 10.000 ár, hafa hátt í 200 gossprungur myndast á Reykjanesskaga og eru gjall- og klepragígaraðir algengastar. Auk þess hafa myndast níu dyngjur eftir ísöld en talið er líklegt að flest dyngjugosin hafi byrjað sem sprungugos.

Eldstöðvakerfið Krýsuvík

Jarðfræði

Jarðfræði Reykjaness.

Krýsuvíkurkerfið er um 8 km á breidd og um 50 km á lengd. Innan þess eru tvö gos- og sprungukerfi sem eru kennd við Trölladyngju og krýsuvík. Jarðfræði svæðisins einkennist af lágum móbergshryggjum, gígum og gígaröðum, hraunflákum og jarðhita.
Móbergshryggirnir Sveifluháls og Vesturháls mynduðust við eldvirkni undir jökli á ísöld og sýna glöggt ríkjandi sprungustefnu eldstöðvakerfisins norðaustur-suðuvestur. Á hryggjunum má greina sprungur, misgengi og sigdali.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Síðast gaus í Krýsuvíkurkerfinu á 12. öld og er sú goshrina nefnd Krýsuvíkureldar. Í goshrinunni opnuðust gossprungur frá syðsta hluta Núpshlíðarháls [Vesturháls], eftir endilöngum Móhálsadal og norðausturenda Undirhlíða. Gossprungurnar eru ekki samfelldar og sums staðar tvöfaldar, en fjarlægðin frá upphafi til enda þeirra er um 25 km. Í þessum eldum árið 1151 runnu Kapelluhraun og Ögmundarhraun. Kapelluhraun rann úr gosgígum í nyrsta hluta sprungunnar við Undirhlíðar og þaðan til sjávar á norðanverðum Reykjanesskaga. Ögmundarhraun kom upp í syðsta hluta gossprungunnar, fyllti Móhálsadal af hraunum og rann til sjávar á sunnanverðum Reykjanesskaga þar sem það fór yfir hina fornu Krýsuvík.

Seltún

Upplýsingaskilti við Seltún.

Í Krýsuvíkurkerfinu er háhitasvæði með gufuhverum og ummyndun á yfirborði. Ummerki jarðhita eru mest og samfelldust við Seltún í Krýsuvík. Jarðhitasvæðið við Austurengjar markar austurhluta háhitasvæðisins og teygir jarðhitasvæðið sig norður í Kleifarvatn.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Jarðhitasvæðið við Trölladyngju nær frá Djúpavatni að Oddafelli og markar vesturhluta háhitasvæðisins. Við Sandfell eru smávægileg jarðhitaummerki á yfirborði.
Hverasvæðin eru síbreytileg og sjá má kaldar jarðhitaskellur á yfirborði sem bendir til þess að þar hafi áður verið virk hverasvæði. Hveravirkni svæðisins hefur oft breyst í kjölfar jarðskjálfta á svæðinu.
Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu með hlutaðeigandi nöfnum svo lesandinn geti áttað sig á umhverfinu, staðháttum og því sem um er fjallað.]

Háhitasvæði – almennt

Seltún

Háhitasvæðið við Seltún.

Háhitasvæði eru oft staðsett í miðju eldstöðvakerfi þar sem eldvirkni er mest. Þau verða til vegna heitra innskota djúpt í jörðu sem geta verið allt að 1000-1200 °C heit í upphafi. Innskotin hita upp nálægt grunnvatn sem verður eðlisléttara og stígur upp til yfirborðsins sem djúpvatn eða gufa.

Sogin

Sogin – hátitasvæði.

Hluti grunnvatnsins kólnar á leið sinni upp og leita þá aftur niður. Við þetta myndast hringrásakerfi sem er eitt af einkennum háhitasvæða.
Kvikugös sem losna úr heitu innskotinu, eins og til dæmis brennisteinsveti (H25) sem veldur hverafýlu, brennisteinstvíoxíð (SO2) og koltvísýringur (CO2), blandast við grunnvatnið og berast með því til yfirborðs. Hitinn og súr efnasambönd valda því að berg grotnar, ummyndast og útfellingar myndast. Þetta kallast efnaveðrun. Háhitasvæði einkennast af fjölbreytilegum jarðhitafyrirbærum og mikilli litadýrð á yfirborði, sérstaklega þar sem berggrunnurinn er úr móbergi en þar er ummyndun meiri og hraðari en t.d. í hraunum.

Jarðhiti við Seltún og Baðstofu.

Seltún

Leirhver við Seltún. Leirhverir myndast þar sem gufa streymir upp gegnum grunnvatn og súr vökvinn leysir upp berg og myndar leir sem oft sýður og vellur.

Jarðhitinn í Krýsuvík dreifist að langmestu leyti á aflangt svæði sem erum um 1500 m langt og um 500 m breitt með stefnu u.þ.b. ANA-VSV. Í austurhlíðum Sveifluháls, við Seltún og Baðstofu (Hveragil), er mest um jarðhita á yfirborði og ummyndanir.

Krýsuvík

Baðstofa – hverasvæði í Krýsuvík.

Gufa er ríkjandi á svæðinu en hún hitar upp yfirborðsvatn þannig að bæði leirhverir og gufuhverir eru algengir. Einnig finnast gufuaugu, brennisteinsþúfur og soðpönnur.
Í Krýsuvík er ummyndun mikil og litskrúðug sem sést best á fjölda leirhvera og mislitum leirflögum sem eru rauð, bleik, dökkgrá, blágrá, gulbrún, gul og hvít á lit. Algengustu útfellingar eru hverasölt, brennisteinn [mynd] og gifs. Dálítið hefur fundist af hverajárni.

Seltún

Seltún – borhola.

Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og Bjarni Pálsson landlæknir voru fyrstir til að bora í jarðhitasvæði á Íslandi og líkast til í heiminum öllum. Handsnúinn jarðbor var fenginn að láni hjá Konungslega danska vísindafélaginu. Tilgangur borunar var að leita að brennisteini í jarðlögum á hverasvæðum, en brennisteinn var verðmæt útflutningsvara á ófriðartímum í Evrópu. Fyrst var borað við Laugarnesið haustið 1755 og sumarið 1756 í Krýsuvík. Í Krýsuvík voru boraðar tvær holur og náði sú dýpri 10 metrum. Borholan gaus og var þá bortilraunum hætt.

Brennisteinsnám var í Krýsuvík á árunum 1754-1763 og síðan 1858-1880, en eftir það var lítil eða engin námuvinnsla í Krýsuvík. Samvæmt samtímaheimildum voru flutt út 72,5 tonn af brennisteini frá Krýsuvík á 18. öld.

Brennisteinsnám

Brennisteinsvinnslan í Seltúni 1882.

Ekki var reynt að bora aftur á svæðinu fyrr en 1941 þegar tilraunaboranir hófust í því skyni að nýta jarðhitann í Krýsuvík til húshitunar og raforkuframleiðslu.

Krýsuvík

Drengir í Vinnuskólanum við Seltún. Drottningarholan í bakgrunni – HH.

Árið 1947 lét Rafveita Hafnarfjarðar bora svokallaða Drottningarholu í Seltúni Þegar komið var niður á um 230 metra dýpi gaus holan og var þá borun hætt, holunni lokað, en henni leyft að blása vegna mikils gufuþrýstings. Í október 1999 hætti Drottningarholan að blása en nokkru seinn varð sprenging á borholusvæðinu og myndaðist gígur sem mældist 43 metrar í þvermál. Grjót og grá leirdrulla dreifðist í allt að 700 metra fjarlægð til norðurs frá gígnum. Talið er að Drottningarholan hafi stíflast eða hrunið saman sem olli því að sprenging varð.

Nálægt hverasvæðunum má víða sjá sprengigíga og eru Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun við Krýsuvík gott dæmi um slíka gíga.

Krýsuvík

Grænavatn (t.h.) og Stampar.

Sprengigígar (stærri en 50 metrar í þvermál) myndast viðs nögga suðyr grunnvatns, oft í tengslum við eldgos eða kvikuhreyfingar. Minni sprengigígar eru algengir á háhitasvæðum og myndast við að vatn hvellsýður á litlu dýpi, venjulega í tengslum við jarðskjálfta. Nær engin hraun myndast í sprengigosum en dálítið getur komið upp af gjalli og kleprum. Oftast er þó eingöngu að finna grjót og bergmylsnu úr gígveggnum sem getur dreifst hundruð metra frá gígnum.

Grænavatn

Grænavatn.

Í Krýsuvík hófust rannsóknarboranir að nýju fyrir nokkrum árum og hefur komið í ljós að mestur jarðhiti er á um 300 m dýpi. Nú er til skoðunar að nýta háhita á fjórum svæðum í Krýsuvík en það er á Austurengjum, Sveifluhálsi, Trölladyngju og Sandfelli.
[Á upplýsingaskiltið vantar kort af svæðinu þar sem m.a. má sjá hvar Drottningarholan var, nálægir sprengugígar sem og brennusteinsvinnslusvæðin.]

[Brennisteinn myndast við oxun á brennisteinsvetni (H25) þar sem vatn er ekki til staðar. Hann er gulgrænn á litinn.]

Almennt um gróður

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Gróðurfar í Krýsuvík og nágrenni er mótað af langvarandi beit. Afleiðingar gróðureyðingar og jarðvegsrofs sjást víða sem lítið grónir melar, moldarflög og rofabörð. Þar má þó finna allmikið votlendi, grasgefna velli og algróin hraun.

Krýsuvík

Krýsuvík – dyngja við Nýjaland.

Suðvestan Kleifarvatns er mikið votlendi í sléttum dalbotninum og hallamýrar í hlíðum. Á Reykjanesskaga er lítið um stór og samfelld votlendissvæði og því hefur þetta svæði mikið gildi. Vestan Sveifluháls eru grösugir vellir sem eru sérstæðir á landsvísu. Hraun sem hafa runnið yfir vellina á sögulegum tíma eru nú vaxin gamburmosa. Í hraungjótum má finna burknategundir sem hafa takmarkaða útbreiðslu hér á landi.

Austurengjar

Krýsuvík – Austurengjalækur.

Jarðhiti mótar sérstæðar vistgerðir á afmörkuðum svæðum við hveri og laugar. Austan Sveifluháls er jarðvatnsstaða víða há, þar spretta fram heitir lækir og uppsprettur og finna má mýrahveravist. Laugasef vex víða í rakanum, ásamt öðrum tegundum af sefi og störum, og mosinn laugaslyðra vex í breiðum við hveri. Í þurrara landi má finna móahveravist þar sem mosar eru jafnan ríkjandi. Þar sem jarðhiti hefur ummyndað jarðveg og berg má finna ljósleitt eða rauðleitt yfirborð hveraleirsvistar.

Jarðtegundir og aðrar sjaldgæfar tegundir

Njaðurtunga

Njaðurtunga.

Laugadepla (Veronica anagallis-aquatica) vex einungis á örfáum jarðhitasvæðum hér á landi. Hún þrífst aðeins við laugar og í vogum lækjum. Plantan getur myndað þéttar breiður, stönglarnir eru uppréttir eða fljóta á vatni, laufblöðin fagurgræn og gagnstæð en blómin smá og ljósfjólublá. Laugadepla hefur takmarkað vaxtasvæði og á válista flokkast hún sem tegund í nokkurri hættu.

Naðurtunga (Ophioglossum azoricum) er sjaldgæf jurt sem vex einungs við jarðhita. Hún þrífst í þurrum, mosavöxnum hraunum en líka rökum, mosagefnum hveramýrum. Plantan er lágvaxin með lanfan og mjóan stöngul sem vex upp af einu til þremur fagurgrænum blöðum.

Soppmosar

Soppmosar.

Heiti plöntunnar, naðurtunga, vísar til einhliða gróax sem líkist tungu efst á plöntunni. Á válista flokkast tegundin í nokkurri hættu þar sem vaxtarsvæði hennar er takmarkað. Hún finnst þó á mörgum jarðhitasvæðum landsins.

Laugaslyðra (Gymnocolia inflata) er mosategund sem má finna víða á jarðhitasvæðum hér á landi, líkt og aðra soppmosa. Mosinn getur myndað þéttar breiður. Hann er breytilegur að lit, jafnan brúnn eða brúnleitur, stundum grænn eða gulleitur og getur jafnvel verið svartleitur eða rauðbrúnn. Hann vex í leirflögum við hveri og laugar en einnig í rökum jarðvegi við tjarnir og læki eða á kafi í vatni.
Vatnalaukur (Isoetes lacustris) er sjaldgæf vatnajurt að mestu bundin við Suðvesturland. Plantan hefur dökkgræn, upprétt og striklaga blöð. Hún er ekki tengd jarðhita og lætur lítið yfir sér þar sem hún vex á botni stöðuvatna og djúpra tjarna. Hún finnst við Krýsuvík og telst sem tegund í yfirvofandi hættu.

Lifandi náttúra

Austurengjahver

Austurengjahver.

Kyngikraftur náttúrunnar blasir við augum í Krýsuvík. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás.

Austurengjahver

Austurengjahver (Stórihver) í Krýsuvík.

Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhverir leika taktfasta sinfóníu, hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Náttúröflin eira engu í glímunni við gróðurinn, vatnsrof leikur stórt hlutverk þegar það rignir og ísa leysir. Vindurinn flettir þekjunni í burtu og feykir jarðvegi á haf út þar sem öldur ólmast við klettaströnd og mola strandbergið hvíldarlaust. Þetta er náttúran í öllu sínu veldi.

Krýs og Herdís deila um landamerki

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu í Kerlingardal.

Þjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna þar sem þær mættust. Þegar þær hittast á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kyngimagn Krýsuvíkur.
[Hér gleymist að geta um hvernig samskiptum kvennanna lauk, en þær slógust og barst leikurinn til austurs niður í Kerlingardal þar sem þær drápu hvora aðra. Með í för voru smalar hvorrar um sig og laug viðureigninni með því að smali Krýsu drap smala Herdísar og dysjaði bæði þær og hann við gömlu þjóðleiðina milli bæjanna. Þar má enn sjá dysjarnar.]

Fornminjar

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.

Í landi Krýsuvíkur eru víða merkar fornleifar og búsetuminjar. Elstar eru Gestsstaðarústirnar, senilega frá fyrri hluta miðalda. Mestar eru fornleifarnar í Krýsuvíkurhverfi undir Bæjarfelli þar sem höfuðbólið og flestar hjáleigurnar voru. Nútímavæðing hefur lítið komið við sögu og jörðin haldist nánast óbreytt frá fyrri tíð, en snemma á sjöunda áratugnum varð sögulegt slys á bæjarhólnum. Krýsuvíkurbærinn, sem stóð vestan kirkjunnar, var þá kominn að falli og voru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að ryðja hólinn og slétta út minjar um þennan merka bæ. Neðan hólsins og allt í kringum hann eru gömlu túnin með túngörðum sínum ósnertum að mestu, tóftir gömlu kotanna og fleiri merkar fornminjar.
[Hér vantar nauðsynlega kort af staðsetningu þess, sem um er rætt.]

Dulúð regnsins

Austurengjar

Austurengjar.

Það getur verið mjög votviðrasamt í Krýsuvík því þar gætir fyrst áhrifa frá lægðum sem nálgast landið úr suðvestri. Umhleypingar eru algengir með tilheyrandi úrkomu en í norð-austlægum áttum má gera ráð fyrir þurrviðri í Krýsuvík. Þá skartar staðurinn sínu fegursta, en einnig getur dulúðin sem fylgir þokulofti og skýjuðu veðurfari búið yfir ólýsanlegri fegurð.

Einföld bændakirkja

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja endurgerð.

Krýsuvíkurkirkju er fysrt getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en [tré]kirkjuna byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1875. Þetta var lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns. kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar.

Krýsuvík

Krýsuvík og Krýsuvíkurkirkja 1950.

Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari [og lögreglumaður] jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðsutu greftrun þar. Á vorin var haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.
Krýsuvíkurkirkja brann til kaldra kola aðfaranótt 2. janúar 2020.
[Kennarar og nemendur Iðnskólan í Hafnarfirði, nú Tækniskólans, hafa lokið endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju, eins og hún leit út í upphafi (1875). Hún er væntanleg á upprunanlegan stað fljótlega.] Ný kirkja var flutt á grunn hinnar gömlu tíu árum síðar.

Land í mótun

Seltún

Hveraútfellingar við Seltún.

Virka gosbeltið sem liggur eftir Reykjanesskaga er á milli landsreksflekanna sem kendnir eru við Evrópu og Ameríku. Elsti hlutinn eru Lönguhlíðarfjöll norðaustan Kleifarvatns sem sýna merki tveggja kuldaskeiða og tveggja hlýskeiða, Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Skriða.

Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtsihraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ner mest á mó- og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hefur runnið frá. Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun (eiga) eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum, gígum við Eldborgir sunna Geitahlíðar og í gossprungum í Móhálsadal.
[Hér vantar loftmynd af svæðinu þar sem sjá má m.a. hraunflæðin.]

Sprengigígar kallast á

Krýsuvík

Grænavatn og Stampar – sprengugígar í Krýsuvík.

Landslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýsmum tímum.

Augun

Krýsuvík – eitt Augað af þremur. Bæjarfell fjær.

Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit frá sólu í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum.
[Stamparnir; Stóri-Stampur og Litli-Stampur eru vatnslausir sprengigígar sunnan Grænavatns væru vel umfjöllunarinnar virði – að ekki sé talað um minjar Gömlu-Krýsuvíkur í Húshólma.]

Fuglalíf og eggjataka

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Um 57.000 sjófuglapör verpa í krýsuvíkurbergi, aðallega rita og svartfugl, sem skiptist í álkur, langvíur og stuttnefjur. Einnig verpir þar nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-lækur og fossinn á góðum degi.

Fyrrum var ekkjataka mikil og máttu kotamenn taka tiltekið magn af fugli og eggjum úr berginu. Svo mikið fékkst af svartfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu var að segja af bergfuglinum sem gaf af sér kjöt og fiður. Á Krýsuvíkurheiði og nágrenni Bæjarfells verpir mófugl, spói, heiðlóma, snjótittlingur og fleiri tegundir. Arnarfell og Arnarfellstjörn eru kunn kennileiti á Krýsuvíkurheiði og á miðjum Sveifluhálsi eru Arnarvatn og Arnarnípa. Þessi nöfn vísa til þess að ernir hafi orpið á þessum stöðum í eina tíð.
[Enn og aftur; á skiltið vantar kort af svæðinu þar sen nefndra örnefna er getið.]

Mannrækt við Krýsuvíkurskóla

Krýsuvík

Krýsuvík.

Um miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætluninn að reisa skóla fyrir unglinga sem þurftu á sérúrræðum að halda.

Krýsuvík

Krýsuvík – skólinn.

Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Var þar rekið meðferðarheimili fyrir fíkniefnaneytendur um langt skeið.
[Hér er nálægra sýnilegra mannvirkja ógetið, s.s. fjóssins, starfsmannahússins, ráðsmannshússins, gróðurhúsanna o.fl., en við þau voru bundnar miklar framtíðarvæntingar við uppbyggingu Krýsuvíkursvæðisins. Þá var Vinnuskólinn í Krýsuvík sérstaklega merkileg viðeytni í lok sjötta og byrjun sjöunda áratuga síðustu aldar og er vel þess virði að vera getið á upplýsingaskilti þar sem fjallað er um Krýsuvík.]

-ÓSÁ dró saman.

Seltún

Seltún – hverasvæði.

Sogaselsgígur

Bæirnir Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu áður í seli á Fornaselshæð, vestan Rauðhóls norðan Keilis og síðan vestur undir Oddafelli, en fengu síðan mun betri selsstöðu í Sogaseli í skiptum við Krýsuvík fyrir uppsátur á Ströndinni.

Sogasel

Sogasel – tóftir einnar stöðunnar.

Enn má sjá leifar selstöðvanna, ekki síst í Sogagíg. Elsta selstöðin, frá Krýsuvík, er reyndar utan við gíginn, neðarlega í Sogadal. Tóftarhóllinn sést vel og enn má, ef vel er að gáð, greina þar rými.

Í Sogagígnum eru leifar þriggja selstöðva. Sú elsta er í miðjum gígnum. Þar má enn greina rými, en þær, sem eru austar og norðar undir gígveggjunum eru augljósar. Þar eru rýmin augljós, s.s. eldhús, baðstofa og búr. Rétt er í gígnum sem og stekkir og kvíar. Gerði norðan nyrstu selstöðunnar hefur nú orðið fyrir áhrifum nýlegrar jarðskjálftarhrinu.

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Þegar farið er til suðurs frá Höskuldavöllum upp Sogaselsdal eða Sogadal, er þar stór og víður gýgur á vinstri hönd. Hann heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur. Op hans snýr til suðurs, að Sogalæk, sem rennur niður dalinn og áfram niður á Höskuldarvellina, allt niður í Sóleyjarkrika. Lækurinn hefur í gegnum tíðina myndað gróðið undirlendi vallanna. Gígurinn, gróinn, er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því ágætt aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og enn fyrrum Krýsuvík um tíma, sem fyrr sagði.

Sogasel

Sogasel.

Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningarminjar í Grindavíkurkaupstað frá árin 2001 segir m.a. að “Sogaselsdalur sé grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík”, segir í örnefnaskrá fyrir Vesturháls. Guðrún Gísladóttir getur Sogasels í skýrslu frá 1993 og birtir af því uppdrátt: “Seljarústirnar eru þrjár. Sú austasta er í bestu ásigkomulagi. Þarna var haft í seli um 1703 frá Kálfatjörn í Vatnsleysustrandarhreppi, en síðar einnig frá Bakka”.

Sogasel

Í Sogaseli.

Gígurinn er mjög skjólgóður og þar hefur verið góð selsstaða. Frá honum liggur selsstígur niður og norður yfir vellina og áfram á milli nyrstu hluta Oddafellsins þar sem farið hefur verið framhjá Oddafellsseli, yfir hraunið á Oddafellsselsstíg og áfram norður Þórustaðastíg heim að bæjum.

Sogasel er skjólsæl selstaða í grónum gíg. Utan hans eru einnig góðir gróningar, auk Sogalækjarins, sem hefur verið grundvöllur selstöðunnar. Skiljanlegt er að Krýsuvíkurbændur hafi gefið hana eftir fyrir útræði á Vatnsleysuströnd, enda selsstígurinn þaðan æði langur. Sogasels er getið í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík: „Vestast í Sogunum er sel, sem heitir Sogasel“. Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík er hins vegar ekki minnst á selstöðuna, einungis á örnefnið „Sogaselshrygg“. Í örnefnalýsingu fyrir Kálfatjörn má finna örnefndið „Krýsuvíkurvör“ skammt austan Kálfatjarnarvararinnar.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Herdísarvík

Krýsuvík er austastur bær í Gullbringusýslu með sjávarsíðunni, en Herdísarvík er vestastur bær í Árnessýslu. Þetta eru næstu bæir sinn hvoru megin við sýslumótin; hvort tveggja er landnámsjörð og svo að ráða sem sín konan hafi gefið hvorri nafn er þar bjuggu lengi, og hét sú Krýs er byggði Krýsuvík, en Herdís sú er setti bú í Herdísarvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Jarðir þessar hafa alla tíð verið taldar með beztu bólstöðum hér á landi og er það ekki að undra, því báðum fylgir útræði, fuglaberg mikið og trjáreki nógur. Á landi áttu báðar jarðirnar veiðivötn ágæt.

Krýsuvík

Krýsuvík og Herdísarvík – herforingjaráðskort.

Krýsuvík mjög í suður og austur frá bænum þar sem hann er nú, en Herdísarvík litla tjörn eina í heimatúni milli sjós og bæjar. Rétt hjá veiðivötnunum átti Krýsuvík starengi mikið og fagurt. Herdísarvík átti aftur á móti ekkert engi, en beitiland svo miklu betra fyrir sauði en Krýsuvík að nálega tekur aldrei fyrir haga í Herdísarvíkurhrauni; er þar bæði skjólasamt af fjallshlíð þeirri er gengur með endilangri norðurbrún hraunsins og kölluð er Geitahlíð og skógur mikill.

Breiðivegur

Breiðivegur neðan Geitahlíðar.

Þótt fjarskalöng bæjarleið, hér um bil hálf þingmannaleið, sé milli þessara bæja voru þær Krýs og Herdís grannkonur og var nábúakritur megn á milli þeirra; því hvor öfundaði aðra af landgæðum þeim er hin þóttist ekki hafa, Krýs Herdísi af beitilandinu, en Herdís Krýs aftur af enginu. Svo hafði lengi gengið að hvor veitti annari þungar búsifjar; rak Krýs sauðfénað sinn í land Herdísar, en Herdís vildi aftur ná í engið, og beittust svo þessu á víxl með því landamerki virðast annaðhvort hafa verið óglögg eða engin í það mund.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Þegar þær grannkonurnar eltust meir fóru þær síður að hafa fylgi á framkvæmdum til að ásælast hvor aðra, en ekki var skap þeirra að minna eða vægara fyrir það. Bar þá svo við einhverju sinni að Herdís hafði gengið út í hraun og síðan út með Geitahlíð svo sem leið liggur út í Krýsuvík. En utarlega undir hlíðinni ganga úr henni hæðir nokkrar fram að hrauninu og eru þær kallaðar Eldborgir. Yfir þessar hæðir liggur vegurinn. Þann sama dag er Herdís tókst þessa göngu á hendur fór og Krýs að heiman. Í suður frá Krýsuvík er slétt melgata; er hún nokkuð langur skeiðsprettur suður undir hornið á Geitahlíð, en þegar komið er fyrir það horn blasa Eldborgir við sunnar með hlíðinni og er allskammt þangað undan hlíðarhorninu.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg og Geitahlíð í Krýsuvík.

Nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar. Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma.

Dysjar

FERLIRsfélagar skoða dysjar kerlinganna og smalans neðan Kerlingadals.

Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er. Heitir þar kerlingadalur, en Deildarháls ofar.

Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein.
Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið þótt ekki sé þess getið að neinn hafi af því bana beðið. Aftur var það einn vetur eftir þetta er sjómenn gengur til sjávar snemma morguns frá Herdísarvík, en skemmst leið er að ganga til sjávar þaðan yfir tjörnina þegar hún liggur, að þeir fórust allir í tjörninni ofan um hestís, og segja menn þeir hafi verið 24 að tölu. Um starengið í Krýsuvík er það enn í dag sannreynt að það lækkar smátt og smátt fram við tjörnina er það liggur að svo að hún gengur hærra upp eftir því unz hún er komin yfir allt engið eftir 20 ár, en þá fjarar tjörnin aftur smásaman svo engið kemur æ betur upp unz það er orðið jafngott og áður að öðrum 20 árum liðnum.

-Jón Árnason I 459.

Herdísarvík

Herdísarvík – uppdráttur ÓSÁ.

Beitarhús

Hér á eftir verður m.a. fjallað um beitarhús sem og slík hús frá Elliðavatni, Vatnsenda, Fífuhvammi, Vífilsstöðum, Urriðakoti, Setbergi, Hvaleyri, Jófríðarstöðum og Krýsuvík.

Beitarhús

Beitarhús.

Beitarhús hafa jafnan verið skilgreind sem „fjárhús (langt frá bæjarhúsum þar sem vetrarbeit er fyrir sauðféð).“ Húsin voru ákveðin gerð af fjárhúsum sem notuð voru á Íslandi fyrr á öldum. Þau voru oft langt frá bæjum og var ástæðan sú að ærnar eða sauðirnir sem þar voru hýstir voru settar út um veturinn og látnar bíta á meðan smalinn stóð yfir. Ef mikill snjór var mokaði hann ofan vellinum af fyrir sauðunum með varreku. Hugmyndin með staðsetningunni, oft við ystu mörk bæja, var að dreifa beitarálaginu og eyja jafnframt möguleika að beita inn á land nágrannans. Beitarhús stóðu einnig víða við fjöruna til að ærnar kæmust í fjörubeit og rústir af slíkum húsum er mjög víða að finna.

Skammidalur

Skammidalur – beitarhús.

Eftir að seljabúskapur og stekkjartíð lagðist af í lok 19 aldar voru selstöðurnar eða nálægð þeirra gjarnan nýttar fyrir beitarhús. Áður höfðu hús ekki verið byggð sérstaklega fyrir sauðfé, a.m.k. ekki á Suðvesturlandi. Í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns ofan Hafnarfjarðar eru t.d. beitarhús frá Jófríðarstöðum. Þar var áður selstaða frá sama bæ. Tóftir hússins er allgreinilegar. Þeim hefur verið hlíft að mestu við skógræktinni umleikis. Leifar selsins eru norðvestan við beitarhússtóftina. Þær eru mun eldri og því ógreinilegri.

Gráhella

Gráhella – beitarhús.

Í Gráhelluhrauni má sjá dæmigert útihús fyrri tíma; hlaðið hús með gerði til beggja hliða. Mannvirkið er byggt utan í náttúrulegan hraunstand; Gráhellu. Útihúsið var frá Setbergi. „Syðra sauðahúsið“ var útihús frá Urriðakoti skammt vestan Selgjár, byggt utan í háan hraunstand, líkt og við Gráhellu. „Nyðra sauðahúsið“ var grjóthlaðið útihús, einnig frá Urriðakoti í Urriðakotshrauni.

Elliðavatn

Beitarhúsahæð – beitarhús frá Elliðavatni.

Elliðavatnsfjárhúsin voru á Beitarhúsahæð skammt ofan við Þingnes. Vatnsendi hafði beitarhús á Vatnsendaheiði og síðar í gróinni dallægð undir Vatnsendahlíð. Fífuhvammur (Hvammkot) byggði beitarhús í Rjúpnadalshæð, Vífilsstaðir byggðu beitarhús í Finnsstöðum og síðar norðaustan Svínahrauns, Setbergsbóndinn reisti síðar beitahús í Húsatúni á Setbergshlíð, Hvaleyri átti beitarhús suðvestan við Grísanes, Jófríðarstaðir byggðu beitarhús í Beitarhúsahöfða (nú Höfðaskógur) og Krýsuvík átti beitarhús á Krýsuvíkurheiði – svo einhver slíks séu upp talin.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Elstu menn segjast hafa heyrt af því að í Jónsbúð hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum, Árna Gíslasyni.

Eftir því sem best verður séð er lítill munur á beitarhúsum og sauðahúsum. Beitarhúsin voru fjárhús, sem voru yfirleitt í nokkurri fjarlægð frá bænum, stundum alllangt. Orðið sauðhús eða sauðahús var notað í tvenns konar merkingu. Annars vegar almennt um fjárhús fyrir sauðfé en hins vegar um fjárhús sérstaklega ætlað geldfé. Þau voru oftar en ekki nálægt bæjum, líkt og sjá má t.d. við Lónakot.

Litlahraun

Litlahraun – beitarhús.

Í Búnaðarritinu árið 1916 er m.a. fjallað um beitarhús: „Ekki er langt síðan að beitarhús voru algeng mjög um land ait til ómetanlegs gagns fyrir sauðfjárbændur. Nú eru þau að mestu horfin, og er margt, sem því veldur. Sauðir voru mest hafðir á beitarhúsum, enda bezt að beita þeim. Nú eru þeir að mestu horfnir. Þó svo sé, er ekkert vit í því að hætta að beita gemlingum og ám; það má fara vel með féð fyrir því, og skynsamleg beit er skepnunni miklu hollari en kyrstaða í loftillum fjárhúsum. Þá vantar ieitarhúsamennina. Þeir eru horfnir eins og sauðirnir. Hvert? Líklega á eftir kvenfólkinu i kaupstaðinn, þar sem pilsin þjóta. Þykir þeim annað ómaksminna og notalegra en að standa yfir fé og í snjómokstri.
Þá var víða langt og erfitt að jlytja hey á beitarhúsin. En víða hagar svo til, að vel mætti byggja beitarhús, þar sem auðvelt væri að rubba upp á stuttum tíma talsverðum fóðurforða í mýrum og fjallalöndum og flytja í votheystóft heim á beitarhúsin“.

Grísanes

Grísanes – beitarhús.

Í Höldur árið 1861 eru skrif um „Búnað- og verkaskipun í lands- og sveitarjörðum“ eftir Halldór Þorgrímsson: „Þeir húsbændur, sem ekki eru lagaðir
til fjárhirðingar eða ekki geta sinnt þess konar störfum vegna áðurtaldra kringumstæða, ætti að útvega sjer trúan, vanan og glöggan fjármann til vetrarhirðingar. Þar sem svo er hátt að með beit og landslag, að beitarhúsa þarf við, er áríðandi, að fjármaður sje viss og einbeittur að rata í hríðum og dimmu veðri, og að hann hafi heilsu og þrek til að standa úti yfir fje, hvernig sem viðrar. Er tilvinnandi að hlynna aö slíkum mönuum fram yfir hin hjúin með kinda fóðrum eður einhverri annari ívilnun, stundi þeir verk sitt með dyggð og dugnaði.

Kaldársel

Kaldársel – ófullgert beitarhús, líklega byggt af Kristmundi Þorlákssyni, síðar bónda í Stakkavík.

Á öllum útbeitarjörðum, eins þó þar sje ekki haldið upp á beitarhús, er áríðandi, að fjármenn sje gæddir þessum hæfilegleikum eigi fjárhirðingin að vera í góðu lagi“.

Í Skagfirðingabók 1985 segir í grein Eiríks Eiríkssonar frá Skatastöðum, „Viðurværi – Lifnaðarhættir Skagfirðinga á 19. öld„: „Engvir karlmenn fengu þá morgunbita nema þeir, er gengu á beitarhús“.

Elliðavatn

Beitarhúsahæð – stekkur.

Tímarit kaupfjelaga og samvinnufjelaga 1908 fjallar um „Sauðfjárverslunina„: „Bændur lögðu því einkum stund á það að hafa sauðfje sitt feitlagið og ullarmikið að svo miklu leyti sem þetta var samrýmanlegt. Jafnhliða þessu var kostað kapps um það að sauðfje kæmist af með sem allraminnst innifóður. Vetrarbeit var því sótt með kappi og áhuga. Þá voru »beitarhús« mjög víða notuð.“

Blaðið Lögfræðingur 1897 taldi ástæðu til að fjalla um „Ágang búfjár„. Páll Briem skrifaði: „Enginn má byggja nær annars landamerkjum, er nú var sagt, sel, beitarhús, fjárrjettir eða nokkur önnur peningshús, nema það hafi staðið þar áður, eða sá, sem land á á móti, leyfi“.

Álfsnes

Álfsnes – beitarhús.

Björn Bjarnason í Gröf skrifaði um „Að beita sauðfé“ í Frey árið 1904: „Menn, er fyrir 30—40 árum voru aldraðir höfðu uppalist við þann sið, að beita sauðfé svo mikið sem unt var. Var það látið liggja við beitarhús (hagahús), er oft voru jötulaus, og fénu „gefið á gadd“, þá sjaldan því var gefið. Þessi beitarhús eru mjög víða lögð niður, en í þeirra stað komin innigjafahús heima við bæinn“.

Jónas Jónsson frá Hrafnagili lýsir beitarhúsamanninum í bók sinni „Íslenskir þjóðhættir“ frá árinu 1961: „“Sauði höfðu menn víða og gerðu þá gamla, 5 til 6 vetra. Sú trú var almenn, að þeir skærust betur á ójöfnu árunum en þeim jöfnu – þrevetrir og fimmvetra en fjögra vetra eða sex.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – beitarhús.

Víða voru beitarhús, og það sumsstaðar langt frá bæjum; þurfti þá beitarhúasmaðurinn að fara af stað fyrir dag að láta féð út, ef gott var og næg jörð, en gefa því fyrst, ef lítið var um jörð. Svo létu þeir út og stóðu yfir því, ef viðlit var veðurs vegna, og var það kaldstætt verk í harðindum. En víða áttu þeir skinnhempur með ullinni innan á til þess að standa yfir í og duglegar hettur yfir, þykkar og hlýjar; sumir höfðu hattgarm yfir hettunni, og oftast voru menn í skinnleistunum við það starf. Ef svo var kalt og illt, að féð fór að halfa uppi fótunum fyrir kulda, ráku þeir það dálítinn sprett til, ef hægt var. Ef fanndýpi var mikið, svo að tæplega var krafsturfært, höfðu þeir reku litla með sér og mokuðu oft ofan af, því til léttis.

Vatnsendaheiði

Vatnsendaheiði – beitarhús.

Í rökkri byrgðu menn svo féð og héldu heim á vökunni. Oft komust þeir í hann krappan í hríðum og dimmviðrum, en harðneskjan var mikil, og vaninn gaf listina og gerðu menn einbeitta og örugga að rata“.

Bjarni F. Einarsson skrifaði „Um fornleifaskráningu á Íslandi, upphaf og ástæður“ í Sveitarstjórnarmál árið1996: „Ef við tökum sem dæmi fomleifar eins og beitarhús, þar sem kindur voru hafðar yfir veturinn og þeirn beitt á landið (kjarrið eða sinuna), þá eru beitarhúsin leifar ákveðinna búskaparhátta sem eru löngu horfnir.

Húsatún

Húsatún – beitarhús.

Þessum húsum var gjaman komið fyrir nálægt landamerkjum á milli bæja svo að kindurnar gætu skroppið yfir til nágrannans og náð þar í eina og aðra tuggu svona rétt til að létta bónda sínum byrðina. Því eru beitarhús jafnframt nokkurs konar vitnisburður um tilfinningu manna gagnvart lögunum og kannski eilítið hvers gagnvart öðrum.
Þegar skipuleggja á eitthvert svæði eða jarðrask er í vændum vegna húsbygginga, vegagerðar o.s.frv. er nauðsynlegt að viðkomandi aðilar séu meðvitaðir um þær minjar sem kunna að vera á svæðinu.

Suður-Reykir

Suður-Reykir – beitarhús.

Til að svo megi vera þarf fornleifaskráning að hafa farið fram og niðurstaða þeirrar skráningar verður einnig að vera aðgengileg þeim sem hennar kunna að þurfa við. Án þessarar skráningar er minjavarslan einfaldlega máttlausari en ella í ráðgjöf sinni til einstakra aðila, svo sem skipulagsyfirvalda, framkvæmdaraðila ýmiss konar og jafnvel einkaaðila.
Fyrsta vinnuregla niinjavörslunnar í þessum efnum er að allar fornleifar beri að varðveita, enda er það tekið fram í lögum. Þegar því verður hins vegar ekki við komið er það minjavarslan ein sem ákvarðar hvað skuli gera, eða hversu ítarleg rannsókn þurft að vera eigi slík að fara fram að áliti minjavörslunnar“.

Jónatan Garðarson fjallaði um „Selja- og beitarhúsatóftir í lögsögu Garðabæjar“ á vef Hraunavina árið 2010:

Straumssel

Straumssel.

„Selin voru stór þáttur í bændasamfélaginu á Íslandi frá fyrstu tíð og virðist sem selvenjur hafi að mestu flust hingað til lands frá Noregi. Selstöður voru einnig þekktar víðsvegar í mið og suður Evrópu, þannig að seljabúskapur var greinilega viðtekin venja um aldir. Hér á landi þróaðist seljabúskapurinn með álíka hætti og á norðurlöndum og átti drjúgan þátt í að beitarstýring var með allgóðu móti lengi vel, þó svo að það hafi ekki verið einhlítt. Á nokkrum stöðum voru byggð beitarhús þar sem áður voru sel en sum beitarhúsanna voru reist þar sem haglendi var gott, stundum í námunda við gamla fjárhella eða sauðaskjól.

Setbergssel

Setbergs- og Hamarkotssel. Helgafell fjær.

Landslag í kringum selin er keimlíkt og hægt að gera sér nokkra grein fyrir því hvernig landið var umhorfs á meðan það var nýtt fyrir seljabúskap. Talið er að selfarir hafi að mestu lagst af í hreppnum um eða eftir 1865, sem er ekki alveg öruggt því sagnir hafa verið á kreiki um að fært hafi verið frá fram undir 1910-20 á bæjum í Hraunum og haft í seli á sumrin þó svo að það hafi verið í mun smærri stíl en áður tíðkaðist.
Finnsstaðir nefnast rústir tvískiptra beitarhúsa í hraunbrúninni undir Hlíðarhorni Vífisstaðahlíðar skammt suður af Vífilsstöðum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – beitarhús.

Björn Konráðsson ráðsmaður á Vífilsstöðum taldi að þarna hefði verið býli og peningshús, sem var seinna breytt í beitarhús. Húsatóftin stendur skammt frá mýrlendinu suðvestan Vífilsstaðalækjar eins og Hraunsholtslækur nefnist þar sem hann rennur úr Vífilsstaðavatni í gegnum land Vífilsstaða. Göngustígur liggur þétt við Finnsstaðatóftina og þar er bekkur til að hvíla lúin bein.

Setberg var stórbýli á sínum tíma og eru þrennar fjárhúsa- og beitarhúsatóftir uppistandandi sem áhugavert er að líta á. Sú sem er næst Setbergshverfinu er Svínholtsmegin á Norðlingahálsi í jaðri Oddsmýrardalstúnsins rétt handan við Vífilsstaðaveginn.

Oddsmýri

Oddsmýri – beitarhús.

Oddsmýrarfjárhús var notað vel fram yfir miðja 20. öldina. Gráhellubeitarhús stóð vestan við hraundranginn Gráhellu í Gráhelluhrauni. Þetta var ekki mjög stórt beitarhús og sennilega verið notað sem sauðakofi þegar þeim var haldið á vetrarbeit í hrauninu. Veggirnir standa enn og hægt að ganga inn í tóftina sem er án þekju. Beitarhúsið er stærst að ummáli en það lét Jóhannes Reykdal reisa í hæðarslakka Setbergshlíðinni mitt á milli Sandahlíðar og Þverhlíðar.

Oddsmýri

Oddsmýri – beitarhús.

Þar má enn sjá vegghleðslur úr holtagrjóti og hefur húsið átt að hýsa vel yfir 100 fjár. Umhverfis húsatóftina var Húsatún sem sker sig rækilega úr umhverfinu.“

Hér á eftir er fjallað stuttlega um nokkur framangreindra beitarhúsa. Upplýsingarnar eru m.a. fengnar úr opinberum fornleifaskráningum. Hafa ber í huga að skráningarnar eru misgóðar eða áreiðanlegar. Á meðan vel er vandað til sumra þeirra virðist annað hvort kastað til höndunum við aðrar eða þekking skráningaraðila hafi verið takmörkuð.

Vatnsendaheiði – Beitarhús

Vatnsendaheiði

Vatnsendaheiði – beitarhús.

10×14 m (N – S). Veggir úr grjóti, 1- 1,8 m breiðir og 0,3-0,6 m háir. Þrjú hólf eru á rústinni (A-C) og eru dyr á þeim öllum til austurs. Í hólfi C er garður eftir því endilöngu og áberandi stór og ferhyrndur steinn fyrir endanum. Garðlög eru víða greinileg, en rústin er farin að falla talsvert. Kampsteinar all áberandi. Gólf rústarinnar eru vel gróin og nánasta umhverfi einnig. Þar fyrir utan er talsver!ur uppblástur. Um 60 m vestan við rústina, neðar í brekkunni, er slóði sem gæti verið gamall. Hann var ekki skráður.

Rjúpnadalaháls – Beitarhús

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – beitarhús.

8,5×14 m stórt. Veggir úr grjóti og torfi, 1,5-2,5 m breiðir og 03-0,7 m háir. Þrjú hólf eru á rústinni. Í vestasta hólfinu mót NV, á austasta hólfinu mót NA og á syðsta hólfinu eru dyr inn í austasta hólfið. Syðsta hólfið er hlaða. Víða sést í garðlög að innanverðu. Rústin er gróin grasi og mosa.

Norðan húsa nr. 76-78 við Austurkór í Rjúpnadalshlíð í Kópavogi er tóft beitarhúss frá Fífuhvammi (Hvammkoti). Við tóftina er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:
„Minjar um eldri byggð í landi Kópavogs er víða að finna. Helstar sem enn eru greinilegar ber kannski að nefna rústir gamla bæjarins í Digranesi og tóftirnar á þingstaðnum við ósa Kópavogslækjarins.

Fífuhvammur

Skilti við beitarhús á Rjúpnadalshlíð.

En víða eru merki um hversdagslíf Kópavogsbúa fyrr á öldum þótt ekki beri mikið á þeim. Eitt af þeim er þessi tóft hér í Rjúpnadalshlíð.

Tóftin er um 10×15 metrar og er innan landamerkja Fífuhvamms. Svo heitir jörðin frá árinu 1891, áður hét hún Hvammkot. Um þessa tóft hafa engar ritheimildir fundist. Fólkið sem gerði hleðsluna og stafaði hér er og verður því miður nafnlaust og ástæður hennar á huldu.

En þótt ekki finnist heimildir um þennan stað hindrar það okkur ekki við að velta vöngum yfir tilgangi mannvirkjanna. Í seljum var búfénaður haldinn á sumrin í bithaga, þar var mjólkað og mjólkin unnin. Oft voru þrjú hús í seljum, búið í einu, mjólkin geymd í öðru og það þriðja eldhús. En þessi tóft er ekki nema í rétt tæplega tveggja kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem bæjarhúsin í Hvammkoti stóðu (þar er nú bílastæði við Melalid 8 og 10).

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – beitarhús.

Um selstöður segir í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, en þeir ferðuðust um landið á árunum 1752-1757, að sel séu oft í tveggja mílna fjarlægð eða lengra frá bæjum. Ein dönsk míla var rúmlega sjö og hálfur kílómetri og því er þesssi tóft of nálægt bænum til að sennilegt megi telja að hér sé um sel að ræða.
Líklegra er að þetta hafi verið kvíar frá Hvammkoti. Kvíar voru réttir fyrir ær sem lömbin höfðu verið færð frá. Þegar fráfærurnar höfðu borið um vorið voru lömbin alin við heimajörðina en ærnar mjólkaðar í kvíum.

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – beitarhús.

Vegna nálægðarinnar við bæjarhúsin og stærðar tóftarinnar verður það að teljast sennileg skýring á tilgangi þessara húsa.“

Rétt er að benda á að tóftirnar bera þess merki að þarna hafi fyrrum verið beitarhús með heimkumli að baki.
Bjarni F. Einarsson skráði minjarnar sem „beitarhús“ í endurskoðaðri Fornleifaskrá Kópavogs 2020.

Vatnsendahæð – Beitarhús

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – beitarhús.

12×14 m (NV-SA). Veggir úr grjóti (og torfi), 1-2 m breiðir og 0,3-0,7 m háir (utanmál). Fimm hólf eru á rústinni (A-E), en upprunalega hafa þau aðeins verið þrjú (A/B, C/D og E). Dyr eru á nær öllum hólfum til NNV og sennilega hafa verið dyr á milli E og hinna hólfanna, en hólf E hefur verið hlaða. Gólf í hólfi E er (mjög) niðurgrafið. Garðlög eru víða greinileg að innanverðu, sérstaklega í hólfi E, sem er S langveggur. Þar er veggurinn 1,7 m hár. Garðar (jötur) eru tveir í rústinni og er steypa ofan á þeim báðum. Við N enda þess eysri er steypt baðkar. Rústin er vel gróin. Einstaka fúin spýta sést í rústinni. Rústabrot gætu leynst um 10 m NV af rústinni.

Beitarhúsahæð – Beitarhús

Elliðavatn

Beitarhúsahæð – beitarhús.

Húsin (frá Elliðavatni) eru um 15 x 14 m (NV – SA). Veggir úr grjóti um 1,0 – 2,0 m á breidd og 0,3 – 1,0 m á hæð. Fornleifarnar samanstanda af 4 hólfum (A, B, C og D). Dyr eru á hólfi A, B og C í NV. Á hólfi D eru dyr inn í hólf B og C. Hleðslur eru mjög greinilegar. Í hólfi A, B og C er hlaðinn garði eftir miðju gólfi um 0,6 m á breidd og 0,2 – 0,4 m á hæð. Gólf eru niðurgrafin, sérlega í hólfi A. NA – hornið á hólfi D er hrunið.

Grísanes – Beitarhús

Grísanes

Grísanes – beitarhús.

Landareign: Hvaleyri. Aldur: 1550-1900. Lengd: 14.6m. Breidd: 13.1m. Vegghæð: 0 – 0.7m. Breidd veggja: 2.8. Húsið er neðst í grýttri brekku vestan undir Grísanesi. Tóftin er grjóthlaðin og opin í vestur. Fóðurbekkir meðfram langveggjum og í miðju. Tóftin er töluvert sigin, mótar fyrir grunni við inngang sem gefur til kynna að þar hafi verið timburþil. Tóftin er í mikilli hættu vegna framkvæmda Hauka á svæðinu og er hún innan áhrifasvæðis framkvæmdanna, þ.e. innan 15m.

Húsatún – Beitarhús

Húsatún

Húsatún – beitarhús.

Húsatún er á vestanverðri Setbergshlíð. Það er um 2,9 km SA af bæ og um 930 m ASA af Gráhellu. Í kringum beitarhúsið er melur og vex á honum lyng á stangli, en fjær er kjarrgróður. Tóftin er algróin þykkri sinu að innan og einnig er smá grasblettur fast vestan við tóftina,
gróinn þykkri sinu. Beitarhúsið er hlaðið úr grágrýti og virðist hleðslan vera nokkuð vönduð þó hún sé nú tilgengin á stórum hluta. Mest hleðsluhæð er um 1,5 m, á norðurvegg einna austast og eru þar 5-6 umför. Grjótið í hleðslunni er af öllum stærðum, en mest er þó af miðlungs og stóru grjóti. Utan með grjóthleðslunni er sigin torfhleðsla, um 1 m breið og 0,5 m há. Beitarhúsið er um 17 x 11 m að stærð A-V og er innanmál um 14 x 8 m. Vestur hlið tóftarinnar er að mestu opin og hefur þar að líkindum verið timburþil fyrir.

Finnsstekkur/Finnsstaðir – Stekkur/Beitarhús

Finnsstekkur

Finnsstekkur/Finnsstaðir – beitarhús.

Í örnefnaskrá segir: ,,Finnsstekkur: Stekkur var þarna í eina tíð við voginn.“ Finnsstekkur er um 1 km austnorðaustur frá Vífilsstaðaspítala). Hann er rétt norðan við veginn að Elliðavatni, undir „suðvestur horni“ Smalaholts. Reiðvegur liggur hjá tóftinni. Á grasi- og lyngi grónum hjalla við brekkurætur. Tóftin er um 14×6 m stór. Hún skiptist í tvö hólf, rétt og lambakró. Er lambakróin byggð við réttina að suðaustanverðu, bæði hólfin norðvestur-suðaustur. Ekki eru greinilegar dyr á milli hólfanna. Dyr eru hins vegar allgreinilegar á norðvestur enda réttarinnar hólfsins. Réttin er um 11×6 m að stærð og lambakróin um 4x3m. Hleðsluhæð er mest um 1 m. Hleðslur eru yfirleitt grónar þótt sjáist í hleðslugrjót hér og þar.

Vífilsstaðir – Beitarhús

Víðistaðir

Vífilstaðir – beitarhús.

Tóftin, sem líkast til er af beitarhúsi, er fast austan við göngustíg sem liggur N-S milli skógar og hrauns. Gras, mosa- og skógivaxinn mói. Birkihríslur vaxa inni í tóftinni. Tóftin er 12 m löng, 5 m breið og snýr N-S. Veggjahæð er 0,6-0,8 m en breidd 1-1,5 m. Tóftin er eitt hólf og inngangur er ekki greinanlegur. Engar grjóthleðslur eru sjáanlegar í tóftinni og er hún algróin grasi og mosa.

Vífilsstaðahlíð – Beitarhús

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir/Heiðmörk – beitarhús.

Í örnefnaskrá segir: ,,Vífilsstaðabeitarhús: Í Hraunbrúninni er fjárhústótt, jötustallar.“ Tóftin er um 280 m SSA af Sauðahellinum nyrðri og rúmlega 50 m SV við veg undir Vífilsstaðahlíð. Beitarhúsið er um 2,5 km SSA af bæ. Rúmlega 3 m austur af tóftinni er rúst fjárborgar og um 10 m vestan við er garðbrot. Umhverfis tóftina er úfið mosavaxið hraun, en fyrir framan tóftina og fjárborgina er hraunið vel grasivaxið á smá bletti, sem er eflaust leyfar túnbleðils. Tóftin er tvö hólf, hið stærra er austanmegin og er að líkindum fjárhús en hið minna kann að vera hlaða.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir/Heiðmörk – beitarhús.

Hún er hlaðin úr þurri hraungrýtishleðslu, úr hraunhellum sem sumar hverjar kunna að hafa verið klappaðar til. Utanmál tóftarinnar er 10,5 x 7,5 og snýr hún N-S. Hleðsluhæð er mest um 1,5 m, en víðast kringum 1 m og mesti fjöldi umfara er 7-8. Tóftin er gróin mosa, grasi og lyngi og er austurveggur mest yfirgróinn. Óvíst er hvort veggirnir hafi verið einangraðir að utan með torfi.

Urriðakotshraun – Sauðahús/Beitarhús

Urriðakot

Urriðakotshraun – sauðahús/beitarhús.

„Áberandi hóll er í hrauninu, sem heitir Einbúi. Suðaustur af einbúa eru rústir beitarhúss, sem byggt var fyrir minni heimildarmanns“, segir í örnefnaskrá SP. „Sauðahúsið: Tóft þessi er eftir sauðahús, sem Guðmundur bóndi Jónsson í Urriðakoti byggði,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Beitarhúsið er um 130 m ASA af Réttinni gömlu, en mannvirkin eru sitthvoru megin við hraunkargann sem myndar
vesturbrún Flatahrauns. Beitarhúsið stendur við úfið hraun að sunnan og vestan, en norðan við er gamall algróinn túnblettur, um 20×10 m N-S. Um 20-30 m austan við er malarborinn göngustígur sem hlykkjast gegnum hraunið frá N-S.

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun – beitarhús – Kjarval.

Tóftin er eitt hólf sem opnast til norðurs, að gamla túnbleðlinum og er 7×5 m að utanmáli N-S. Hún er þurrhlaðin úr miðlungs- og stóru hraungrýti, flest tilklappað í múrsteinslagaða kubba og
hleðsluhæð er um 1,4 m. Hleðslan í tóftinni er vönduð en er nokkuð tilgengin. Utan með veggjunum að neðan, er pakkað að grjóthleðslunni með torfi.

Urriðakotshraun – Beitarhús

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun – beitarhús.

„Austan við Kúadali er Fjárhústóftin syðri. Það var upphaflega reist sem Sauðahús“, segir í örnefnaskrá GS. „Nokkru norðar en Skotbyrgið er rúst gamals fjárhúss við allstóran klett“, segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Fjárhústóftin syðri er um 470 m NV af Selgjárhelli, skammt frá öðru háspennumastri frá Heiðmerkurvegi. Fjárhústóftin er uppi á hárri mosa- og grasigróinni hæð í hrauninu. Tóftin er hlaðin uppvið náttúrulegt bjarg, sem myndar hluta suðurveggjar hennar. Innanmál tóftarinnar er 6×2,5 m A-V og dyr eru á vesturvegg. Veggirnir eru um 0,8 á hæð og um 1-2 m á breidd. Nokkuð hefur hrunið úr hraunhleðslum veggjanna, sem eru grónar mosa, grasi og lyngi. Gluggi er hlaðinn í suðurvegg tóftarinnar.

Gráhelluhraun – Beitarhús

Gráhella

Gráhella – beitarhús.

„Sel. Byggt norðan í hraunkletti, sem nefnist Gráhella í Gráhelluhrauni. … Gráhella er merkt á „uppdrátt Íslands“, geodætisk Institut, blað 27.“ Selið er á mörkum Setbergs og Hamarskots og er fast austan í skógarlundi sem er í Gráhelluhrauni. Það er um 930 m VNV af beitarhúsatóft sem stendur í Húsatúni. Selið er um 2.2 km SSA af bæjarstæði Setbergs. Bæði í kringum og innan tóftarinnar og garðlagsins er grasi gróið, en fjær er mosi og lyng. Mannvirkin eru í úfnu hrauni og vestur af er skógræktarsvæði í landi Hafnarfjarðar þar sem eru reiðstígar nýttir af eigendum nærliggjandi hesthúsa.

Gráhella

Gráhella – beitarhús.

Mannvirkið er hlaðið upp að klettinum Gráhellu, sem myndar suðurvegg þess, og samanstendur af einni tóft og hlöðnum grjótgarði fast austan við hana. Tóftin er að utanmáli um 9×6 m, snýr N-S og að innanmáli 7×2,5 m. Dyr vísa til norðurs. Veggir hennar eru hlaðnir úr torfi og grjóti og eru grjóthleðslurnar að innanverðu. Veggirnir eru milli 1,5 og 2 m breiðir, um 1,2 m háir og samanstanda af 5-6 umförum af meðalstóru hraungrýti, sem er nokkuð fallega hlaðið. Lítill skúti gengur suður úr enda tóftarinnar inn í Gráhellu, um 2 m djúpur, 4 m breiður og um 1 m á hæð. Bogadregið garðlag úr hraungrýti gengur frá norðausturhorni tóftarinnar og sveigir til suðurs að Gráhellu. Grjóthleðslan í gerðinu er nokkuð tilgengin, mest 2 m breið og 0,5-1 m há. Innanmál gerðisins er um 8×8 m og myndar tóftin vesturvegg en Gráhella
suðurvegg. Garðurinn hefur mögulega verið aðhald fyrir sauðfé eða heystæði.

Húshöfði – Beitarhús

Beitarhúsaháls

Beitarhúsaháls/Húshöfði – beitarhús.

Fornleifaskrá Hafnarfjarðar IX, Kaldársel og nágrenni, 2021, bls. 51. Hlutverk: Beitarhús. Aldur: 1900+. Lengd: 8.5m. Breidd: 7.7m. Vegghæð: 0.5 – 1.2m. Breidd veggja: 1.1m. Í litlu rjóðri umkringt háum grenitrjám, um 160m austan við Hvaleyrarvatn. Útihús, grjóthlaðið og grasivaxið. Vel stæðilegir veggir og inngangur í SV horni, einhverskonar hleðsla í innanverðu NV horni. Liggur smá garðbútur í vestur frá NV horni. Veggjahæð er frá 0.5 – 1.2m og veggjabreidd er að jafnaði um 1.1m. Búið er að gera eldstæði í miðri tóftinni úr grjóti úr henni.

Litlahraun – Beitarhús

Litlahraun

Litlahraun – beitarhús.

Hlutverk: Beitarhús. Aldur: 1550 – 1900. Lengd: 15.2m. Breidd: 5.6m. Vegghæð: 0.4 – 1.1m. Breidd veggja: 1m. Í hraunjaðri undir klettum á grónu svæði – uppblásið í kring. Um 1.1 km sunnan við Suðurstrandaveg og um 350m vestan við landamerki Hafnarfjarðar og Grindavíkur.
Beitarhús úr torfi og grjóti, grasi vaxið. Inngangur í suður, aðeins hrunið inn í hann. Tóftin sjálf er um 15m löng og 5m breið. Tóftin er hlaðin upp við kletta og rúmgóður skúti er í NA horni hennar sem hefur verið nýttur. Búið er að hlaða undir girðingu sem liggur yfir tóftina miðja (ekki mælt). Veggjahæð er frá 0.4 – 1.1m og veggjabreidd er að jafnaði um 1m.

Krýsuvíkurheiði; Jónsbúð – Beitarhús.

Jónsbúð

Jónsbúð – beitarhús.

Hlutverk: Beitarhús. Aldur: 1550 – 1900. Lengd: 14.8m. Breidd: 7.1m. Vegghæð: 0.5 – 1.1m. Breidd veggja: 1.3m. Á grasivöxnum bakka á annars uppblásnum mel, um 500m sunnan við Suðurstrandaveg og um 430m austan við Eystri-læk. Beitarhús úr torfi og grjóti. Inngangur í suður, hrunið inn í hann. Tóftin er um 15m löng og um 7m breið. Veggjahæð er frá 0.5 – 1.1m og veggjabreidd er að jafnaði um 1.3m.

Heimildir m.a.:
-Búnaðarrit, 3. tbl. 01.08.1916, beitarhús, bls. 166.
-Höldur, 01.01.1861, Búnað- og verkaskipun í lands- og sveitarjörðum, Halldór Þorgrímsson, bls. 81-82.
-Skagfirðingabók, 1. tbl. 01.01.1985, Viðurværi – Lifnaðarhættir Skagfirðinga á 19. öld, Eiríkur Eiríksson frá Skatastöðum, bls. 70.
-Tímarit kaupfjelaga og samvinnufjelaga, 1. tbl. 01.03. 1908, Sauðfjárverslunin, bls. 30.
-Lögfræðingur, 1. tbl. 01.01.1897, Ágangur búfjár. Samið hefur Páll Briem, bls. 18.
-Freyr, 4. tbl. 01.04.1904, Að beita sauðfé, Björn Bjarnarson í Gröf, bls. 36.
-Íslenskir þjóðhættir, Jónas Jónsson frá Hrafnagili, Reykjavík 1961, bls. 100-101.
-Sveitarstjórnarmál, 2. tbl. 01.06.1996, Um fornleifaskráningu á Íslandi, upphaf og ástæður, Bjarni F. Einarsson, bls. 114.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Beitarh%C3%BAs
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=63412
-https://skraning.minjastofnun.is/Verkefni_2332.pdf
-https://www.hraunavinir.net/seljatoftir-i-gar%C3%B0ab%C3%A6jarlandi/
-https://www.kopavogur.is/static/extras/files/20200512-0518_fornleifaskra-kopavogs_lok-compressed-1420.pdf
-https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-VIII-A%CC%81sland.pdf
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 33.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 34.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 48.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 56.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 65.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 66.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 67.
-Fornleifaskrá Reykjavík – Bjarni F. Friðriksson 1995.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VI III – Ásland, 2021, bls. 55.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XI I – Krýsuvík, 2021, bls. 98.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XI I – Krýsuvík, 2021, bls. 104.

Beitarhús

Beitarhús.

Seltúnssel

Ætlunin var að ganga um gömlu brennisteinsnámurnar í Baðstofu ofan við Krýsuvík og leita ummerkja eftir námumenn á svæðinu, en brennisteinn var unninn þar fyrrum líkt og ofan við Seltún skammt norðar.
Þaðan átti að Leirhver í Baðstofuhalda upp á austurbrúnirnar sunnan Hnakks (Baðstofu) á Sveifluhálsi, milli Hettu (379 m.y.s.) og Hatts. Frá hvorutveggju er hið ágætasta útsýni yfir undirlendið, allt til sjávar. Í leiðinni átti að kanna með hugsanlegar götur innar á hálsinum, milli Hettu og Arnarnípu; Hettustígs, Smérklofastígs og Ketilsstígs.. Eins og svo oft áður leiddi ferðin til óvæntrar uppgötvunar.
Byrjað var þó að rifja upp vísuna góðu:
„Í Krýsuvík er Hetta, Hnakkur og Hattur. Kært er mér þetta, kem þangað aftur og aftur…“
En hvort er réttara að skrifa Krýsuvík eða Krísuvík? Báðar útgáfur af þessu orði koma fyrir í fræðiritum og bókum.

Húshólmi

Húshólmi – skáli í gömlu Krýsuvík, áður grunn vík, þar sem nú er Húshólmi.

„Í Landnámu (Íslensk fornrit I:392 og víðar) og fornbréfum er nafnið ritað Krýsuvík. Uppruni þess er óviss. Alexander Jóhannesson taldi að forliður nafnsins gæti verið Crisa, fornháþýskt kvenmannsnafn (Über den Namen Krýsuvík. Mittelungen der Islandfreunde 1929, bls. 36-37). Líklegra er þó að nafnið sé dregið af germanskri rót sem merkir ‘beygja’ og hafi vísað til lögunar víkurinnar (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 510 og 512). „Krísa“ merkir vandræði, en „Krýsa“ merkir skora eða grunn vík. Því virðist eðlilegra að rita örnefnið með „ý“.

Við Baðstofu

Engin vík heitir nú Krýsuvík þar sem Ögmundarhraun rann yfir bæinn Gömlu-Krýsuvík og í víkina. Miðað við elsta rithátt nafnsins í Landnámu þykir mér því réttara að skrifa Krýsuvík. Þjóðsagan um Krýsu eða Krýsi og Herdísi í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (2. útg. I:459-461) er vafalítið til orðin út frá nöfnum víkanna.“
Önnur eðlilegri skýring er á nafngiftinni, em hún er sú að ‘krys’ merki í fornnorrænu grunna skoru og þá gjarnan í ask. Krýsuvík hin forna hefur því verið grunn vík og við hana hafa landnámsmenn tekið sér bólfestu ef marka má hinar fornu minjar, sem þar má enn sjá.
Í þjóðsögunni um Krýsu og Herdísi segir: „
Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefir verið seint á landnámstíð, því fjölbyggt hefir verið orðið syðra eftir þeirri sögn að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall.
Brennisteinn í BaðstofuÞað þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í skarð það sem farið er úr Grindavík upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík.
Það er naumast annað en getgáta að Krýsa og Herdís hafi verið dætur Þóris haustmyrkurs; þó hefir það verið sagt.
Krýsa bjó í Krýsuvík, en Herdís á Herdísarvík. Þær deildu um landamerki milli sín. Vildi Krýsa eiga Geitahlíð alla og væru landamerki í stóran stein er stendur í hrauninu fyrir austan hlíðarhornið. Herdís vildi eiga út á Deildarháls. Hann er nokkuð vestar en undir miðri Geitahlíð og hefir spúð eldi því í honum er gígur ekki alllítill, og úr honum hefir runnið hraun það er Klofningur heitir eða Klofningar. Þar hittust þær og deildu þar til báðar heittust, og eru dysjar þeirra á hrygg nokkrum undir hlíðinni skammt fyrir austan hálsinn. Má geta til að Herdís hafi gengið þangað undan, því henni veitti miður þó hvorug hefði vel.
SveltirÞangað til hafði veiði mikil verið í Kleifarvatni í Krýsuvíkurlandi og tjörnin í Herdísarvík stararflóð og silungapollur í miðjunni.
Herdís mælti svo um að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða loðsilungur óætur.
Þá lagði Krýsa það á að tjörnin í Herdísarvík skyldi éta sig út og eyða úr sér störinni og brjóta bæinn, en allur silungur skyldi verða að hornsílum. Það skyldi og fylgja að tvær skipshafnir skyldu í henni drukkna.
Þetta gekk allt eftir. Bærinn Herdísarvík stóð áður undir Búrkletti, en tjörnin gróf undan honum grundvöllinn svo hann varð að flytja úr stað og einn vetur sem oftar var tjörnin lögð með ís, þá komu sjómenn frá skipum (þau voru tvö) og gengu tjörnina, en ísinn brast og allir drukknuðu. Og enn er varazt að ganga hana þó hún sé lögð. Svo fór um landamerkin sem Krýsa vildi og heitir nú kletturinn Sýslusteinn.

Herdís og Krýsa

Kerlingadysjar Herdísar (Dísu) og Krýsu, auk smalans.

Skammt fyrir austan Kerlingar (dys Krýsu og Herdísar) eru tveir steinar sem líka hafa verið nefndir Sýslusteinar, en eru auðsjáanlega hrapaðir úr hlíðinni á seinni tímum.“
Í annarri sögu segir að: „
Herdís og Krýs hétu konur tvær í fyrri daga; þær bjuggu í víkum þeim í Gullbringusýslu sem við þær eru kenndar síðan, Krýs í Krýsuvík, en Herdís í Herdísarvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – minjar brennisteinsvinnslu undir Baðstofu.

Þar er vatn eitt uppi á heiðunum sem þá var veiði í. Þóttust báðar kerlingarnar eiga veiðina í vatninu og notuðu hana hvor um sig eftir megni.
Einu sinni mættust þær á leiðinni til vatnsins í hrauninu milli víkanna; þar deildu þær út af veiðinni og heituðust og urðu loks sín að hvorum steini. Standa þar steinarnir sinn hvorumegin við götuna í hrauninu, og heitir hinn syðri Herdís en hinn nyrðri Krýs.“

Búseta í Krýsuvík undir Bæjarfelli, var frá 12. öld þegar talið er að bærinn hafi verið fluttur frá Húshólma, til ársins 1942.

Seltúnssel

Seltúnssel – nátthagi.

Krýsuvík var talin höfuðból, enda stærsta jörð á Reykjanesskaga. Jörðin náði að sjó frá Selatöngum austur að sýslumörkum. Byggðin náði hámarki á miðöldum en 1860 var t.a.m. búskapur á 13 býlum. Eftir aldamótin 1900 fór fólki að fækka og kotin fóru í eyði. Það eina sem minnir á höfuðbólið Krýsuvík og hjáleigurnar er Krýsuvíkurkirkja sem stendur á bæjarhólnum. Umhverfis hólinn eru tóftir Norðurkots, Snorrakots, Suðurkots, Lækjar og Hnausa.
Lækur undir HattiÞar sem gengið var um Baðstofu og hlíðarnar ofanverðar mátti hvarvetna sjá mikinn jarðhita, enda gáfu ummerkin slíkt greinilega til kynna. Brennisteinn var og víða á hverasavæðunum.
Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell. Fjögur þau fyrst töldu sýna sig samfelld í viðnámsmælingum, en Sandfellssvæðið er laust frá. Meginsvæðið er hringlaga um 50 km2 að flatarmáli innan 10 ohmm jafnlínu. Sandfellssvæðið er mælt á sama hátt um 4 km2. Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir samsettir úr mörgum goseiningum og ná mest í 300-400 m hæð. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum beggja megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans, en hraunmagn úr öllum er lítið.
Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður af lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af.

Krýsuvík

Krýsuvík – Dyngja sunnan Kleifarvatns.

Hveravirknin á ofannefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík.
Í Krýsuvík er hveravirknin samfelldust í Hveradölum og við Seltún og nokkuð upp á hálsinn, með gufu- og leirhverum. Þar er nokkuð um brennisteinshveri og miklar gipsútfellingar. Hverir eru einnig í Grænavatni. Frá Grænavatni og Gestsstaðavatni liggja gossprungur með fleiri gígum til norðurs, og stefnir önnur upp í Hveradali, en hin á hverina við Seltún. Hæstur hiti í borholum er í Hveradölum um 230°C. Dýpst hefur verið borað um 1200 m. Hiti er nærri suðuferli niður á ~300 m dýpi, en þar neðan við kólnar. En engar mælingar eru til úr borholum neðan 400 m.
Litadýrðin er mikil á jarðhitasvæðinuÁ Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja megin. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál skammt norðaustur af Stóra-Lambafelli og mikil gjalldreif austur frá honum. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Ein 600 m djúp borhola er við Kleifarvatn um 150 m vestan við hverarákina. Hæstur hiti í henni er um 160°C. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta, var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norðurfrá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.

Köldunámur

Köldunámur.

Köldunámur heita vestan í Sveifluhálsi langt norður frá jarðhitanum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver), en í hlíðinni köld jarðhitaskella. Gipsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.

Seltún

Brennisteinsnámuvinnslusvæðið við Seltún 1976.

Krýsuvíkursvæðið er stórt háhitasvæði með mörgum gufu- og leirhverum. Jarðhitasvæðið skiptist í tvennt: Sveifluháls og Trölladyngju. Jarðhitavatnið er lítið salt og hefur hitinn mælst 230-260°C sem er mjög ákjósanlegur hiti til gufuframleiðslu (Halldór Ármannsson o.fl. 1996).
Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík.  Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni.
Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Horft niður á SeltúnshverasvæðiðBushby brennisteinsnámurnar í Krýsuvík.  Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann. Bora þurfti því eftir brennisteininum. Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir (Sveinn Þórðarson, 1998). 

Gengið var niður með læk milli Hnakks og Hatts. Þar framar var hið ágætasta útsýni yfir Seltún og Vesturngjar.
SeltúnshverasvæðiðÁrið 1941 fékk Hafnarfjarðarbær afsal fyrir jörðinni Krýsuvík ásamt hitaréttindum. Sama ár voru boraðar þrjár tilraunaholur við sunnanvert Kleifarvatn.  Ætlunin var að komast að því hvort þar mætti fá gufu til að framleiða rafmagn fyrir Hafnarfjarðarbæ. Það varð þó ekki raunin því ekki fékkst nægt vatn eða gufa úr holunum. Hafnfirðingar gáfust þó ekki upp og árin 1945 og 1946 var ráðist í nýjar boranir. Tilgangurinn var sem fyrr að fá gufu til að framleiða rafmagn en einnig að virkja jarðhitann til upphitunar gróður- og íbúðarhúsa á jörðinni. Í þetta skiptið gekk aðeins betur og fékkst meiri gufa en í borununum árið 1941.

Seltún

Seltún – orkuvinnsla.

Gufan var nýtt til upphitunar í Krýsuvík en ekki var ráðist í gerð jarðgufustöðvar eins og staðið hafði til og streymdi því gufan út í loftið, engum til gagns. Enn sem komið er hefur ekki orðið neitt úr framkvæmdum um nýtingu jarðhitans í Krýsuvík til rafmagnsframleiðslu og upphitunar en það er þó ekki ólíklegt að jarðhitinn á svæðinu verði nýttur í framtíðinni til upphitunar á höfuðborgarsvæðinu eða iðnaðarframleiðslu. Orkustofnun hefur einnig látið bora rannsóknarholur og gert víðtækar rannsóknir á svæðinu í gegnum tíðina (Sveinn Þórðarson, 1998).
Fimmtudaginn 25. október 1999 varð mikil gufusprenging á hverasvæðinu við Seltún. Svartur gufubólstur steig til himins og stór gígur myndaðist þar sem sprengingin hafði orðið. Grjót og drulla dreifðust fleiri hundruð metra frá gígnum. Kaffiskúr sem stóð í um 100 metra fjarlægð frá gígnum eyðilagðist í sprengingunni, rúður brotnuðu og stór steinn féll niður í gegnum þakið á skúrnum. Gígurinn mældist um 43 metrar í þvermáli en drullan dreifðist 700 metra til norðurs frá holunni.
KlettafellÁstæðu sprengingarinnar má  rekja til gamallar rannsóknarholu sem Rafveita Hafnarfjarðar lét bora árið 1949. Þegar borað hafði verið niður á 229 metra dýpi þeyttist bormeitillinn og borvírinn upp úr holunni. Þá var lokað fyrir holuna en haldið var áfram að mæla afl og afköst holunnar. Gufan úr rannsóknarholunni var talin nægja til 3 MW raforkuframleiðslu en raforkuvinnslan varð aldrei að veruleika. Holan hefur blásið líkt og hver upp í gegnum steypta pallinn í kringum holuna síðustu 20 árin. Í október 1999 var talið að holan hefði sofnað en líklegra er að hún hafi stíflast af útfellingum. Töluverður þrýstingur hefur þá byggst upp og er talið að þrýstingurinn hafi náð 10-20 bör. Eftir sprenginguna hætti öll gufuvirkni í gígnum en ekki er ólíklegt að virknin komi upp á nýjan leik seinna meir.
Í hlíðum HettuHverasvæðin eru síbreytileg. Barth (1950) segir að einn hveranna þar hafi gosið 3-4 metra háum gosum af leirkenndu vatni árið 1936. Hann segir flesta hverina vera súra með pH gildi um 4. Þó séu þar einhverjir basískir hverir sem streyma út í lækinn sem rennur út í Kleifarvatn. 

Austurengjahver, áður nefndur Nýihver, er syðstur svokallaðra Austurengjahvera. Sonder (1941) mældi 118°C í hvernum, sem á þeim tíma var gufuhver en telst í dag vatnshver (Barth 1950). Austurengjahver er talin hafa myndast í jarðskjálftum árið 1924. Rennsli er ekki mikið frá hvernum og mest gufa sem stígur upp frá honum.  Aðrir þekktir hverir við Seltún er Pínir og Svunta. Pínir var öflugur gufuhver þar til fyrir nokkrum árum síðan að hann breyttist í hitaskellu (Björn Hróarsson o.fl. 1991).

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsvinnsla við Seltún.

J. Wright, einn leiðangursmanna í Íslandsleiðangri Stanleys árið 1789, segir þetta um hverina í Krýsuvík: „Við komum að hverunum kl. 7. Í fimm eða sex þeirra var dökkblár grautur mismunandi þykkur, og spýttu þeir honum upp í verulega hæð.  Hinn stærsti þeirra er ein hin ljótasta og ægilegasta sjón, sem maður fær augum litið. Þetta er stór, ef til vill botnlaus ketill meira en 30 feta langur og 20 feta breiður, bókstaflega barmafullur af sjóðandi brennisteini, sem kastast upp í 10-12 feta hæð við suðuna. Auk þess hávaða, sem suðan veldur, heyrðist annað hljóð, sem virtist koma neðan úr jörðinni, líkast þungum fossnið. Það eykur á óhugnað þessa staðar, að geysilegir hvítir gufumekkir streyma sífellt fram og líkt og veltast yfir klettana sem liggja að baki og allir eru tættir í sundur. Eins og við hverina, sem við skoðuðum í gær, er hér gnótt af hreinum, kristölluðum brennisteini.“
Gata austan við ArnarvatnÍ seinni tíð hafa náttúru- og umhverfisverndarsjónarmið verið að ryðja sér til rúms innan raða þeirra sem taka þátt í virkjun jarðvarma.  Lengst af hafa slík sjónarmið ekki verið reifuð sérstaklega en nýtingin hefur reyndar ekki verið umfangsmikil fram á síðustu áratugi. Eyðilegging hvera hefur þó átt sér stað bæði vegna nýtingar eða af öðrum ástæðum.  Í Náttúruverndarkönnun árið 1979-1980 í Borgarfirði reyndust nærri helmingur hvera hafa verið eyðilagður og var þó heitt vatn langt umfram þarfir íbúa á svæðinu (Tryggvi Þórðarson 1981). Nýting vatnsins var algengasta orsökin fyrir eyðileggingunni, sem fólst oftast í því að steypt hafði verið yfir hverina. Mjög algengt var einnig að náttúrulegar laugar og volgrur höfðu verið eyðilagðar með skurðgreftri og framræslu. Sú nýting jarðhitasvæða sem nú er ráðgerð  í landinu er talsvert umfangsmeiri en sú sem stunduð var í Borgarfirði og því er mun nauðsynlegra að náttúru- og umhverfisvernd séu höfð að leiðarljósi við alla áætlunargerð og framkvæmdir. Ljóst er þó að þekkingn á nýtingu jarðhitans er orðin miklu meiri en þekkingin á verndarmöguleikum og umhverfisáhrifum slíkra framkvæmda. Ástæðan er sú að miklu fé hefur verið varið í undirbúning jarðorkunýtingar en tiltölulega litlu í rannsóknir á umhverfisáhrifum á hverina og lífríki þeirra.

Isor

Jarðfræðikort ISOR af Suðvesturlandi.

Ísland er ungt land jarðfræðilega séð. Elsta berg á yfirborði landsins er 14-16 milljónir ára gamalt en til samanburðar er jörðin um 4500 milljónir ára. Virkt gosbelti liggur eftir flekaskilunum endilöngum. Gosefni hafa síðan hlaðist upp og eru yngstu jarðlögin næst núverandi rekbeltum en þau elstu liggja yst á Austfjörðum og á Vestfjörðum.
Jarðvirkni á Íslandi er mikil og landmótun hröð. Þetta má helst skýra með legu landsins á Atlantshafshryggnum sem teygir sig úr Norður-Íshafinu suður fyrir Afríku. Á hryggnum er hár hiti úr jörðu sem stýrir eldvirkninni og nefnist þetta svæði á Íslandi virka gosbeltið einnig kallað eldvirka beltið. Atlantshafshryggurinn liggur á mörkun tveggja fleka (sjá landrekskenninguna) sem rekur í sundur til vesturs og austurs.  Þessar plötur eru nefndar Evrópuplatan og Norður-Ameríkuplatan. Plöturnar eru um 100-200 km þykkar og mörg þúsund kílómetar að breidd. Jarðvirkni á Íslandi, svo sem eldgos og jarðskjálftar, er afleiðing þessa landreks.

EinirSums staðar á hryggnum, á svokölluðum heitum reitum, eru mikið uppstreymi kviku og jarðvarmi mikill. Fræðimenn hallast að þeirri kenningu að undir reitunum myndist möttulstrókar vegna mikils varmaflæðis frá kjarnanum til jarðskorpunnar. Heitur reitur liggur undir Íslandi en talið er að um 20-30 heitir reitir séu dreifðir um jörðina, óháð flekamörkum. Eldvirkni á heitum reitum er oftast meiri en umhverfis hann og því liggur Ísland 2000 metrum ofansjávar meðan hryggurinn rétt hjá er á 2000-3000 metra dýpi. Ísland væri allt öðruvísi í lögun ef heiti reiturinn einn hefði valdið gosum, Ísland myndi þá líkjast meira Hawaii.  Ísland hefði að sama skapi sjálfsagt ekki myndast ef einungis hefði verið um að ræða gos vegna plötureks. Ísland er einsdæmi á Atlantshafshryggnum að því leyti að saman fara plötuskil og heitur reitur sem bætir við efni þannig að landið er ofansjávar. Til eru eyjar nálægt úthafshryggjum en engin er nákvæmlega á honum miðjum, líkt og Ísland er eða jafnstór.
Lækur neðan HnakksÖll okkar vitneskja um innri gerð jarðarinnar fáum við með óbeinum hætti því nærri ómögulegt er að nálgast þessar upplýsingar á beinan hátt. Með mælingum á hraða jarðskjálftabylgna hafa menn komist að því að jörðin er lagskipt. Innst er kjarni, utan um kjarnann kemur möttullinn og yst höfum við jarðskorpuna. Kjarninn samanstendur að mestu úr járni og inniheldur 1/3 af massa jarðar þrátt fyrir að hann sé aðeins 1/5 af rúmmáli jarðar. Skýringin á því er mikill hiti og þrýstingur í kjarnanum sem þjappar saman massanum. Kjarninn inniheldur mikið af geislavirkum efnum. Þessi efni gefa frá sér hita þegar þau brotna niður, og sá hiti berst hægt í gegnum jörðina og upp á yfirborðið og hjálpar til við plötuhreyfingar.

Jörðin

Möttull jarðar.

Efsti hluti möttulsins og jarðskorpan kallast stinnhvolf og skiptist í fleka eða plötur. Þessar plötur (sjá landrekskenningin) eru á hreyfingu vegna hitans sem berst frá kjarnanum og möttlinum við niðurbrot geislavirkra efna. Mest af kvikunni sem berst frá möttlinum storknar neðanjarðar en hluti hennar kemur upp á yfirborðið og þá verða eldgos. Dreifing jarðskjálfta og eldvirkni er þar af leiðandi mest þar sem flekamót eru. Hiti vex með dýpi í jörðinni. Það stafar af niðurbroti geislavirkra efna frá möttlinum og kjarnanum.

Hverasvæði undir Hnakk

Hitastig er mismunandi í efstu lögum jarðskorpunnar og er hann hæstur á virkum eldfjallastöðvum. Ástæðan er að kvika berst upp í jarðskorpuna og hitar hana upp. Jarðskorpan öll samanstendur af risastórum plötum eða flekum. Plöturnar eru úr föstu efni, sem fljóta ofan á seigu efni í möttli jarðar. Iðustraumar í möttlinum valda því að plöturnar eru á stöðugu reki og því er hreyfingin nefnd landrek. Þar sem flekarnir færast í sundur, eins og á Íslandi, þar er uppstreymi í möttlinum og ný jarðskorpa myndast stöðugt. Þar sem flekar rekast á eyðist jarðskorpan þegar hún hverfur ofan í jörðina og bráðnar. Sannanir fyrir plötuhreyfingunum hafa vísindamenn meðal annars fengið með að bera saman steinategundir mismunandi heimsálfa. Vísindamenn fundu meðal annars að ákveðnar steinaraðir á strönd Brasilíu birtust aftur í Afríku á nákvæmlega þeim stað þar sem gera mætti ráð fyrir að þær væru ef þessi tvö meginlönd hefðu verið föst saman.
Jarðvirkni í heiminum er mest þar sem plötur mætast og þar finnum við aðal skjálfta- og eldsumbrotasvæði Vetrarblómjarðar. Á Íslandi skapar landrekið stöðugt nýja jarðskorpu í gosbeltum landsins. Í virka gosbeltinu, sem liggur á plötuskilunum, eru öll virk eldfjöll á Íslandi staðsett. Virka gosbeltið nær frá Reykjanesi til norðausturs þvert yfir landið. Plöturnar færast í sundur um að meðaltali 1 sm á ári þannig að bergið sem einu sinni myndaðist þar er að finna á Austfjörðum og Vestfjörðum. Þar má finna elsta berg á Íslandi en það yngsta næst plötuskilunum.
Krýsuvík komst eftir króka- og klækjaleiðum í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Um 1930 var erfitt að stunda búskap í kringum Hafnarfjörð, bæjarbúar voru sjálfum sér ekki nógir um neyslumjólk og beitiland vantaði fyrir sauðfé. Ekki fékkst aukið ræktarland úr Garðakirkjulandi og var þá farið að svipast um eftir öðrum jörðum nærri bænum. Krýsuvík þótti álitlegust og ritaði bæjarstjórn Hafnarfjarðar Einari Benediktssyni bréf í janúar 1933 og spurðist fyrir um hvort jarðeignir hans í Krýsuvík eða Herdísarvík væru fáanlegar til kaups.
VinnuskólinnTveimur árum síðar átti bærinn kost á að kaupa Krýsuvík fyrir 50.000 krónur og tók jörðina á leigu á fardögum 1935 til eins árs, með það í huga að kaupa hana síðan með gögnum og gæðum. Með lögum nr. 11, 1. febrúar 1936 var ríkissjóði heimilað að taka eignarnámi lönd í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og lönd sem liggja að Hafnarfirði. Eftir það upphófst mikið málaþras um væntanleg kaup bæjarins á jörðum Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar og afnotaréttinn. Gekk á þessu í nokkur ár þar til lögunum var breytt og tóku lög nr. 101, gildi 14. maí 1940. Þar sagði að Gullbringusýsla skyldi fá í sinn hlut lítt ræktanlegt beitiland jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar til sumarbeitar fyrir sauðfé samkvæmt skiptagerð frá 1. maí 1939, en Hafnarfjarðarkaupstaður fengi jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem þeim fylgdu og fylgja bæri, að undanteknum námuréttindum. Hinn 20. febrúar 1941 gaf Dóms- og kirkjumálaráðuneytið út afsal fyrir Krýsuvík til Hafnarfjarðar.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegur ofan Kleifarvatns 1937. Ljósm. Emil Jónsson.

Árið 1935 var ákveðið að leggja Suðurlandsbraut um Krýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur. Árið 1945 var lagningu vegar fyrir Kleifarvatn lokið og árið eftir hófst borun eftir jarðhita í Krýsuvík. Gróðurhús voru reist og tekin í notkun í mars 1949 ásamt húsi fyrir starfsfólk. Tveimur árum síðar hófst bygging bústjórahúss og 130 gripa fjóss sem aldrei var lokið því 1950 var framkvæmdafé á þrotum. Þá hafði ræst úr mjólkurskorti bæjarbúa með bættum samgöngum við Suðurland. Framkvæmdir hófust að nýju í Krýsuvík 1954 er 15 hektarar voru teknir í fulla ræktun. Keypt voru 100 gimbralömb og flest varð féð um 650 áður en þessum rekstri var hætt nokkrum árum síðar. Gróðrarstöðin og búskapurinn gengu ekki vel og illa hélst á starfsfólki. Var búrekstri af hálfu bæjarins hætt í Krýsuvík 1960. Eftir það voru húsin leigð til einstaklinga sem ráku þar ýmiskonar starfsemi, þar á meðal gróðurhús, svínabú og refabú svo fátt eitt sé talið.

Sundlaugin

Árið 1953 kom Hafnarfjarðarbær á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Dvöldust um 40-50 drengir í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka, en komu heim til sín aðra hverja helgi. Bjuggu þeir í íbúðarhúsi því sem reist hafði verið fyrir starfsfólk gróðrarstöðvarinnar. Drengirnir stunduðu ýmis störf meðan á sumardvölinni stóð, fóru í leiki, stunduðu íþróttir og fóru í gönguferðir um nágrennið. Árið 1960 var tekið við drengjum frá 8-12 ára og dvölinni skipt upp í tvö fimm vikna holl. Voru rúmlega 50 piltar í hvoru holli og var nú meiri áhersla lögð á léttari störf og leiki ýmiskonar. Lauk þessari starfsemi árið 1964.

 

Sundlaug vinnuskóladrengjanna milli Bleikhóls og Irpuhóls

Eitt af því sem drengirnir gerðu, og enn má sjá merki um, er sundlaug á sandinum millum Bleikhóls og Irpuhóls. Þar er mikill jarðvarmi rétt undir yfirborðshimnunni. Drengirnir stungu niður skóflu á söndunum og úr varð uppspretta af heitu vatni. Þeir leiddu vatn úr henni spölkorn til austurs eftir að hafa grafið þar myndarlega vatnsþró. Í fyrstu reyndu þeir að koma fyrir trébrettum á botninum, en þau vildu fljóta upp. Þá var ákveðið að sleppa tréverkinu og láta sandinn ráða. Dýptin á „lauginni“ var um 120 cm. Að og frá vinnusvæðinu sungu þeir „Krýsuvíkursönginn“ svo hátt að enn má heyra hann hljóma í hlíðum fjallanna:

Vasklega að verki göngum
vinir með gleðisöngvum
karlmennskan lokkar löngum
lífsglaðan hug.

Ræktum og byggjum, bætum,

brosandi þrautum mætum,
vonleysi, þrefi og þrætum,
þeytum á bug….

Kempur í kappasveit,
í Krýsuvík vinnum heit,
að duga og treysta vort drenglyndi og þor.
Vorhugans verkin kalla
verkglaða drengi snjalla.
Sindrar um sali fjalla
sólskin og vor.“

[Höfundur; Hörður Zóphaníasson].

Á heimleiðNú hefur bæði safnast sandur í gryfjuna og slý þekur yfirborðið. Enn má þó sjá rörið, en eitthvað virðist heitavatnið hafa kólnað síðan þá var (1962).
Bústjórahúsið var reist árið 1948 fyrir Jens Hólmgeirsson sem átti að stjórna kúabúinu í Krýsuvík. Hann flutti aldrei í húsið og aldrei kom til þess að kýr yrðu bundnar á bása í fjósinu. Árið 1952 sagði Jens stöðu sinni lausri og eftir það var húsið notað í stuttan tíma fyrir stjórnendur vinnuskólans í Krýsuvík. Árin liðu, húsið grotnaði niður og var mjög illa farið þegar Sveinn Björnsson listmálari fékk það til afnota 1974. Hann gerði húsið upp, flutti þangað málaratrönur, pensla, liti og húsbúnað og kom sér upp vistlegri vinnustofu.

Sveinn Björnsson

Sveinn Björnsson.

Sveinn hafði tekið þátt í að reisa þaksperrurnar á fjósinu í Krýsuvík á sínum tíma og þekkti því staðhætti. Þarna starfaði hann að list sinni þar til hann lést 1997. Húsið ber þess merki að þar hefur listamaður verið að störfum. Sveinn skreytti loft, veggi og hurðir hússins og lagði tröppurnar litskrúðugum teppabútum. Nú kallast bláa húsið með rauða þakinu ekki lengur ústjórahúsið heldur Sveinshús eftir listmálaranum og rannsóknarlögreglumanninum Sveini Björnssyni, sem sá til þess að húsið endaði ekki sem gapandi tóft, heldur öðlaðist virðulegan sess sem listasetur.

Eins og nafnið gefur til kynna var Stóri-Skógarhvammur vaxinn gömlum birki- og víðiskógi þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fékk svæðið til umsjónar og ræktunar 1958.

Krýsuvík

Krýsuvík – Seltúnssel sett inn á mynd.

Byrjað var á að girða 56 ha spildu sumarið 1958 en árið eftir hófst plöntun trjágróðurs af fullum krafti. Samið var við Hafnarfjarðarbæ um að piltar í vinnuskólanum í Krýsuvík önnuðust ræktunarstarfið undir stjórn Hauks Helgasonar forstöðumanns vinnuskólans. Þegar Vinnuskólinn í Krýsuvík var lagður niður haustið 1964 var formlegu ræktunarstarfi lokið í Stóra-Skógarhvammi. Skógurinn hefur fengið að aðlagast landsháttum undanfarna fjóra áratugi og hefur nánast verið sjálfbær þennan tíma.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Götu var fylgt með hlíðum sunnan og austan Arnarvatns. Þá var komið áleiðis niður á Seltún sunnan Hatts. Líklegt má telja að örnefnið Seltún hafi ekki komið til ef engu. FERLIR hefur löngum, á öðrum leiðum, gengið um Seltúnssvæðið í leit að ástæðu nafngiftarinnar; selinu. Á einu Krýsuvíkurkorti er selið sýnt norðvestan við gatnamótin að hverasvæðinu. Það er í sjálfu sér ágætt, nema þar eru bara engar tóftir. Smátóft er þó á gróðurtorfu sunnan við aðalhverasvæðið. Hún gæti hafa tilheyrt námumönnum.

Seltún

Seltúnsselið sést á þessari mynd Sigfúsar Eymundssonar frá 1884 – myndin er tekin frá Lambafelli að Seltúni. Selið er á miðri mynd.

Og þá gerðist það, sem svo oft gerist þegar leitað er aftur og aftur; skyndilega kom í ljós tóft með þremur rýmum.

Seltúnssel

Seltúnssel – tóft.

Tóftin er greinilega mjög gömul, snýr dyrum mót norðri. Grjót eru í veggjum að hluta. Sjá má beina veggi og lögun tóftarinnar þrátt fyrir þýfið.
Að baki hennar eru leifar af hringlaga gerði, sem gert hefur verið úr torfi, trúlega kúagerði. Líklegt má telja að hér sé komið selið í Seltúni. Ketilsstígurinn hefur fyrrum legið framhjá selinu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir:
-Ari Trausti Guðmundsson, 1982: Ágrip af jarðfræði Íslands handa skólum og almenningi. Reykjavík, Bókaútgáfan Örn og Örlygur, 186 bls.
-Ari Trausti Guðmundsson, 1986: Íslandseldar. Reykjavík, Vaka-Helgafell, 168 bls.
-Axel Björnsson, 1990: Jarðhitarannsóknir, yfirlit um eðli jarðhitasvæða, jarðhitaleit og  vinnslu jarðvarma. Orkustofnun, OS-90020/JHD-04, 50 bls.
-Ingvar Birgir Friðleifsson, 1979: Geothermal activity in Iceland. Jökull, 29, 47-56.
-Náttúra Íslands, 2. útgáfa, 1981. Reykjavík, Almenna bókafélagið, 475 bls.
-Tryggvi Þórðarson. 1981. Varmalindir: Hvítársíða, Hálsasveit og innanverður Reykholtsdalur: Náttúruverndarkönnun. Reykjavík. Náttúruverndarráð. Fjölrit nr. 10., 77 bls.
-Barth, Tom. F. W., 1950: Volcanic Geology: Hot Springs and Geysers of Iceland. Washington, Carnegie Institution of Washington, 174 bls.
-Björn Hróarsson og Sigurður Sveinn Jónsson, 1991: Hverir á Íslandi. Reykjavík, Mál og menning, 160 bls.
-Íslandsleiðangur Stanleys 1789: Ferðabók, 1979. Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenskaði, Örn og Örlygur, 352 bls.
-Halldór Ármannsson og Sverrir Þórhallsson, 1996: Krísuvík, Yfirlit um fyrri rannsóknir og nýtingarmöguleika ásamt tillögum um viðbótarrannsóknir. Orkustofnun, OS-96012/JHD-06 B. 25 bls.
-Sveinn Þórðarson, 1998: Auður úr iðrum jarðar. Ásgeir Ásgeirsson (ritstj), Safn til Iðnsögu Íslendinga XII. bindi (ritröð). Reykjavík, Hið íslenzka bókmenntafélag, 656 bls.
http://visindavefur.is/svar.php?id=6532

Krýsuvík

Grindavík

Grinda­vík hlaut kaupstaðarrétt­indi 10. apríl 1974. Saga Grindavíkur sem byggðar er þó mun lengri.
Í Fornleifaskráningu í Grindavík – 3. áfanga, má lesa eftirfarandi yfirlit um „Þróun byggðar í Grindavík“ í sögulegu samhengi. Taka þarf þó skráninguna með hæfilegum fyrirvara.

Grindavík

Grindavík – umdæmi.

„Grindavíkurhreppur liggur með suðurströnd Reykjaness frá Valahnúk að vestan, sem skilur land og reka Grindavíkur og Hafna, austur að Seljabót, en þar austan við tekur við Selvogshreppur (nú Ölfus). Að norðan eiga Grindavíkingar hreppamörk á móts við Hafnamenn, Njarðvíkinga, Garðahrepp og Vatnsleysustrandarhrepp.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Náttúrufar í hreppnum einkennist af þeim miklu eldsumbrotum sem þar hafa orðið á nútíma og sögulegum tíma og er stór hluti svæðisins óbyggilegur af þeim sökum. Víða meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna eru þó fagurgrænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. En það eru ekki aðeins eldsumbrot sem ógna landi og lífi á þessum slóðum. Landbrot sjávar hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál og hafa þannig áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum.

Staðarberg

Staðarberg.

Hér verður fyrst gerð grein fyrir landnámi í Grindavíkurhreppi eins og því er lýst í Landnámabók, en á grunni þess og staðsetningu kirkna og kumla má oft setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrstar. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um búsetu fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Nærtækasta skýringin á hinum mikla fjölda guðshúsa almennt er sú að þau hafi upphaflega verið reist við heimagrafreiti, sem voru líklega við hvern bæ líkt og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkjur sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið kominn í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Lögbýli á skráningarsvæðinu, átta talsins, eru ef talið er frá vestri til austurs: Staður, Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun, Ísólfsskáli og Krýsuvík.

Grindavík

Útsýni til sjávar frá Grindavík.

Samkvæmt Landnámabók voru landnámsmenn í Grindavíkurhreppi tveir. Annars vegar Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam land í Grindavík, og hins vegar Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Krýsuvík og Selvog. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðurmæri í Noregi, en bróðir hans Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann þar til landið spilltist af jarðeldum og hann flúði vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn.

Núpshlíð

Núpshlíðarhorn.

Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar. Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Um landnám í Krýsuvík eru Sturlubók og Hauksbók sammála og segja: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.“ Af því má áætla að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Um tímasetningu landnáms í Grindavík og Krýsuvík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík. Segja má að Grindavík hafi horfið af kortinu á 13. og 14. öld. Ástæðan var ítrekuð eldgos. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Grindavík

Járngerðarstaðir – gömlu húsin færð í nútímann.

Hvenær Þórir haustmyrkur kom í Krýsuvík og Selvog er hins vegar ekki hægt að lesa úr frásögn Landnámu. Hvergi er heldur talað um hversu margir fylgdu þeim Þóri eða Molda-Gnúp að landnámum þeirra á Suðurströndinni. Staðsetning allra lögbýlanna í hreppnum er kunn, enda var búið á þeim öllum fram á 20. öld. Enn er búið á Járngerðarstöðum, Hópi, Þórkötlustöðum og Hrauni, þótt búskapur sé þar ekki mikill.

Staður

Staður 1960. Kirkjugarðurinn fjær.

Staður fór í eyði árið 1964, og hafa flestöll hús þar verið rifin og tún að miklu leyti sléttuð. Þar er þó enn kirkjugarður Grindvíkinga, þótt sóknarkirkja hafi ekki verið þar síðan 1909.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Á Húsatóptum hefur ekki verið búið síðan 1946 en þar er nú Golfvöllur Grindvíkinga og er heimatúnið því meira og minna rennislétt. Síðasta íbúðarhúsið á Tóptum, reist 1930, er nú klúbbshús golfklúbbsins en nýtt íbúðarhús hefur verið reist í túninu norðaustan þess. Þar er þó enginn búskapur. Ísólfsskáli og Krýsuvík fóru í eyði um eða eftir miðja 20. öld. Á Ísólfsskála stendur íbúðarhús frá 1929 enn ásamt tveimur sumarbústöðum. Að öðru leyti eru þar engin hús og túnin meira og minna sléttuð. Í Krýsuvík hafa hús verið rifin, nema kirkjan frá árinu 1857 sem enn stendur. Ólíkt hinum jörðunum hafa tún þar hins vegar ekki verið sléttuð nema að litlu leyti.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

Tveir bæjanna hafa verið fluttir til svo vitað sé. Annars vegar Ísólfsskáli, en árið 1916 var bærinn fluttur, eftir að hafa verið í eyði í þrjú ár. Bærinn var byggður frá stofni um 150 m norðan við eldra bæjarstæði í túninu, en landbrot sjávar er mikið vandamál á þessum slóðum. Hins vegar Krýsuvík, en talið er að upprunalega hafi bærinn staðið þar mun sunnar, enda er nafngiftin einkennileg fyrir bæ sem stendur svo langt inn í landi. Austast í Ögmundarhrauni eru hólmar tveir í hrauninu og heitir sá eystri Húshólmi. Í honum eru rústir bæjar og kirkju og hafa þær verið nefndar Gamla-Krýsuvík. Munnmæli herma að þar hafi bærinn staðið áður en hraunið rann. Þótt ekkert sé vitað með vissu um það er víst að í hólmanum eru greinilegar tóftir sem benda til þess að þar hafi verið bær. Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609.

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem lýsir ferðum þeirra árin 1752-57, segir ennfremur: „Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.“ Örnefnið „Hólmastaður“ er þó líklega til komið eftir að hraunið rann og má því ímynda sér að þar hafi bærinn í Krýsuvík áður verið. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur gróf tvö snið í Húshólma, annað í gegnum torfgarð sem þar er og hitt í vegghleðslu fjárborgar nyrst í hólmanum. Bæði sniðin bentu til þess að mannvirkin hefðu verið reist áður en landnámslagið féll, eða fyrir árið 900. Hins vegar lá miðaldalagið upp að hleðslunum beggja vegna sem bendir til þess að verulega hafi verið fokið að þeim þegar það féll 1226/27.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki hefur fundist heillegt kuml á skráningarsvæðinu svo vitað sé, en kuml eru sjálfstæður vitnisburður um byggð fyrir 1000. Sögusagnir herma þó að Járngerðarleiði og Þórkötluleiði sé að finna í túnum samnefndra bæja. Brynjúlfur Jónsson lét grafa í leiði Járngerðar sumarið 1902 og reyndist það vera öskuhaugur.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu ofan Kerlingahvamms. Dys smalans fremst.

Í landi Krýsuvíkur eru auk þess heimildir um fjórar steindysjar og eru tvær þeirra friðlýstar síðan 1964. Þar eiga að vera dysjaðar fornkonur tvær, þær Krýs og Herdís, en bæir þeirra, Krýsuvík og Herdísarvík, drógu nafn af þeim. Kerlingarnar greindi á um landamerki og mættust á Deildarhálsi og vildi hvorug gefa eftir. Lauk svo með þeim að hvor drap aðra og voru þær síðan dysjaðar í svonefndum Kerlingadal austan við hálsinn. Auk þeirra mun þar vera dysjaður smali sem einnig féll í átökum kvennanna. Hin fjórða dys í Krýsuvíkurlandi er svokallað Ögmundarleiði. Mun þar vera dysjaður Ögmundur sá er Ögmundarhraun dregur nafn sitt af og myrtur var eftir að hafa rutt braut í gegnum hraunið. Ekki hefur verið grafið í dysjar þessar svo vitað sé. Að lokum herma sögusagnir að í Geldingadölum í Hraunslandi sé þúst þar sem Ísólfur á Skála sé grafinn, en hún hefur ekki verið rannsökuð.

Dágon

Dágon á Selatöngum – í fjöruborðinu. Nú horfinn.

Frá fornu fari og allt til ársins 1946, þegar hluti Krýsuvíkurlands var innlimaður í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir. Þetta voru Staðarsókn að vestan og Krýsuvíkursókn að austan. Staðarsókn, eða Grindavíkursókn eins og hún var einnig nefnd, teygði sig á milli Valahnúks að vestan að Selatöngum að austan. Miðuðust sóknarmörkin við klett í fjöruborðinu sem nefndur var Dágon, og náði Krýsuvíkursókn frá honum og austur að Seljabótarnefi.14 Allir bæirnir nema Krýsuvík, þ.e. Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli ásamt hjáleigum áttu kirkjusókn að Stað. Var því um langan kirkjuveg að fara, sérstaklega fyrir austustu bæina, Ísólfsskála og Hraun. Krýsuvík þjónaði heimilisfólki sínu og hjáleigum auk þeirra sem dvöldu í verstöðinni á Selastöngum.

Staður

Staður fyrrum.

Í dag er sóknarkirkja Grindvíkinga í Járngerðarstaðahverfi (Grindavíkurkaupstað), en kirkjugarður sóknarinnar er að Stað í Staðarhverfi, þar sem sóknarkirkja var til ársins 1909. Aðeins er ein önnur uppistandandi kirkja í hreppnum og er sú í Krýsuvík. Öruggar heimildir eru um kirkjur að Stað, á Hrauni og í Krýsuvík frá fornu fari, en hugsanlega hafa þær verið fleiri. Páll Jónsson biskup í Skálholti lét í sinni biskupstíð gera skrá yfir kirkjur í umdæmi Skálholtsstóls. Hann var biskup frá 1195 til 1211 og er skráin yfirleitt talin vera frá því um 1200. Kirknaskrá Páls greinir frá tveimur kirkjum í Grindavíkurhreppi. Annars vegar er sögð prestskyld kirkja að Stað í Grindavík og hins vegar í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Eins og áður segir herma munnmæli að bærinn í Krýsuvík hafi í upphafi verið þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni og telja menn að þar megi sjá bæði bæjartóftir og kirkjutóft. Ögmundarhraun er talið hafa runnið 1151 og ætti því sú kirkja sem nefnd er í kirknaskrá Páls að vera sú sem reist var eftir að bærinn var fluttur, en ekki sú í hólmanum. Það verður þó ekki fullyrt og telja sumir að svo sé einmitt ekki, heldur hafi kirkjan í Ögmundarhrauni verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að hraunið rann og þannig sé til komið nafnið „Hólmastaður“.18 Er sú tilgáta meðal annars reist á því að kirkjutóftin í Húshólma þykir mun heillegri en aðrar tóftir sem þar eru. Auk þess hefur kirkjan verið miðsvæðis, þ.e. á milli Krýsuvíkur og Selatanga. Að lokum er svo sú staðreynd að Krýsuvíkurprestakall var afnumið með hirðstjórabréfi árið 1563, fjórum öldum eftir að hraunið rann, vegna þess hve fámennt það var orðið. Guðshús fékk þó að standa þar áfram vegna þess heimilisfólks sem þó var þar.19 Ekkert af þessu eru óyggjandi rök fyrir því að meint kirkja í Húshólma hafi ekki lagst af um leið og byggðin þar.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Hin kirkjan sem nefnd var í kirknaskrá Páls Jónssonar var sú að Stað í Grindavík, en þar var sóknarkirkja Grindvíkinga frá fornu fari til ársins 1909. Gömul munnmæli herma hins vegar að kirkja hafi einnig verið á Skarfasetri vestast á Reykjanesi. Árni Magnússon greinir frá munnmælum þessum í Chorographica Islandica og segist hafa þau eftir Eyjólfi Jónssyni og öðrum gömlum Grindvíkingum. Samkvæmt þeim var Staður áður í miðri sveit og sóttu Grindvíkingar kirkju að Hrauni þar til nesið brann og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Sjö bæir áttu þá að hafa verið vestan Staðar: Rafnkelsstaðir, Mölvík, Sandvík, Háleyjar, Krossvík, Herkistaðir og kirkjustaðurinn Skarfasetur. Engar heimildir styðja þessa frásögn né hrekja, en margir jarðfræðingar munu þó telja ólíklegt að þetta svæði hafi nokkurn tíma verið gróið og byggilegt. Sem fyrr er þó ekkert hægt að fullyrða í þessum efnum. Mögulega hefur kirkjan á Skarfasetri verið einhverskonar útkirkja, en höfuðkirkja Grindvíkinga, þá sem síðar, verið að Stað. Að minnsta kosti á það við svo langt sem öruggar heimildir ná. Reykjaneseldar eru taldir hefjast eftir 1210 og standa með hléum til um 1240 og því hefði Skarfasetur samkvæmt munnmælunum átt að vera í byggð þegar kirknaskrá Páls biskups var tekin saman. Ef þar hefði verið kirkja með prestskyldu hefði það átt að koma fram í skránni.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Sóknarkirkja var að Stað til ársins 1909 er hún var aflögð og önnur kirkja vígð í Járngerðarstaðahverfi, þ.e. núverandi Grindavíkurkaupstað. Kirkjugarður Grindvíkinga er hins vegar enn að Stað og því hefur aldrei verið grafið við Grindavíkurkirkju. Bænhús og útkirkjur voru algeng á Íslandi og voru oft á öðrum til þriðja hverjum bæ, þótt heimildir séu ekki alltaf tiltækar um þau. Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi og gæti það verið vísbending um bænhús á þessum stöðum. Engar aðrar heimildir minnast á bænhús á Þórkötlustöðum eða Hópi, en á Hrauni var sem áður segir.

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Samkvæmt munnmælum, sem áður er greint frá, áttu Grindvíkingar að hafa sótt kirkju að Hrauni áður en Reykjaneseldar brunnu og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Þetta er fremur ólíklegt þar sem Hraunskirkju er ekki getið í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá því um 1200. Hins vegar er enginn vafi á að kirkja var á Hrauni á miðöldum. Engar heimildir minnast á kirkju á Hrauni á 15. eða 16. öld, og er fyrstu beinu heimildina um hana að finna í Fitjaannál fyrir árið 1602. Þar segir: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík … og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Skömmu síðar hefur kirkjan líklega verið aflögð, en í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon kirkjuna aflagða fyrir um 100 árum. Í máldaga Staðarkirkju frá 1642 kemur auk þess fram að klukka í eigu hennar sé komin frá Hrauni. Að öðru leyti er lítið vitað með vissu um guðshús þetta. Líklega hefur það verið annaðhvort bænhús eða hálfkirkja, og þá vafalítið þjónað frá Stað. Við kirkjuna hefur verið kirkjugarður þar sem greftraðir hafa verið heimamenn og e.t.v. menn úr Þórkötlustaða- og Járngerðarstaðahverfum.

Hraun

Hraun.

Í Vilkinsmáldaga frá 1397 kveður á um kirkjutíundargreiðslur, legkaup og legsöngskaup Járngerðarstaðamanna, og ber Járngerðarstaðamönnum samkvæmt því að greiða legsöngskaup til Staðar en ekkert legkaup. Þetta gæti bent til þess að á Járngerðarstöðum hafi verið bænhús eða útkirkja, en um það eru engar frekari heimildir. Líklegra er hins vegar að þetta sé vísbending um að grafreitur Járngerðarstaðamanna, og þá væntanlega Þórkötlustaðamanna einnig, hafi verið á Hrauni en presturinn setið að Stað.

Staðarhverfi

Staðarhverfi. 

Í áðurnefndum Vilkinsmáldaga frá 1397 er eftirfarandi klausa: „Hún [kirkjan að Stað] á fjórðung úr Lónalandi, og skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Þessi klausa hefur þótt torskilin þar sem jörð með þessu nafni hefur aldrei verið í Grindavík svo vitað sé. Í riti sínu Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800 gerir Jón Þ. Þór ráð fyrir því að um misritun sé að ræða og í stað „Lónalands“ eigi þar að standa „Hraunsland“. Ennfremur leggur hann þann skilning í ofangreinda klausu að leiga af jarðarpartinum í Lónalandi skyldi renna til Staðar eftir því sem um semdist milli kirkjuhaldara á Lónalandi og ábúanda þar. Á þessum grunni telur hann hugsanlegt að kirkja á Hrauni sé risin 1397, þegar Vilkinsmáldagi er gerður. Hér er hins vegar um misskilning að ræða. Það sem átt er við með ofangreindri klausu er að leiga af eignarhlut Staðarkirkju í Lónalandi skyldi renna til kirkjunnar, þ.e. Staðarkirkju, eftir því sem um semdist við ábúanda á Lónalandi. Það er því auðséð að ekki má af þessu draga neinar ályktanir um kirkju á Hrauni.

Grindavík

Grindavík – Rafnkelsstaðir í Járngerðarstaðahverfi.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau oft gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Ósamsett náttúrunöfn í Grindavíkurhreppi eru tvö, Hraun og Hóp. Ein jörð, Krýsuvík, ber samsett náttúrunafn, og er í Landnámu sögð numin um leið og Selvogur, sem einnig er samsett náttúrunafn. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Tvö lögbýli bera slík nöfn, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir (og eyðijörðin Gestsstaðir í landi Krýsuvíkur), auk þess sem hugsanlega mætti telja Stað til þessa flokks.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Sé hins vegar litið til áðurgreindra jarðfræðirannsókna á eldsumbrotum í Skaftafellssýslu, má e.t.v. samkvæmt þeim rekja landnám í Grindavík til 4. áratugar 10. aldar (en engan veginn er hægt að fullyrða um það). Það verður að teljast til síðari stiga landnáms, enda hafði Ari Þorgilsson, ritari Íslendingabókar, það eftir spökum mönnum „…at á sex tegum vetra yrði Ísland albyggt…“. Samkvæmt því væri eðlilegt að þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík hafi borið nöfn með endingunni –staðir. Auk þess má benda á að byggð í Grindavík skiptist í þrjú hverfi sem bera nafn af jörðunum Stað, Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum, þ.e. þeim jörðum sem samkvæmt nafnakenningunni teljast til síðari stiga landnáms. Í öllum hverfunum eru þó tvö lögbýli, Staður og Húsatóptir í Staðarhverfi, Járngerðarstaðir og Hóp í Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðir og Hraun í Þórkötlustaðahverfi.

Hraun

Hraun – Þórkötlustaðagata fremst.

Ef áðurnefnd kenning um náttúrunöfn ætti að standast í þessu tilviki og Hraun og Hóp væru þær jarðir sem fyrstar byggðust hefði verið eðlilegra að hverfin drægju nafn af þessum fyrstu lögbýlum, þ.e. „Hraunshverfi“ og „Hópshverfi“. En Jón Þ. Þór segir í Sögu Grindavíkur að líklega megi rekja hverfaskiptinguna allt aftur til landnámsaldar. Ef litið er á landfræðilega dreifingu jarðanna má einnig sjá að dreifing jarðanna Staðar, Járngerðarstaða og Þórkötlustaða er mun jafnari ( þ.e. fjarlægð á milli bæjanna er mjög svipuð) en Staðar, Hóps og Hrauns. Hafi landnámsmenn þá viljað skipta landinu bróðurlega á milli sín hefði því verið hyggilegra að velja fyrri kostinn. Þetta eru hins vegar aðeins getgátur einar og ekkert hægt að fullyrða um þessi efni. Standist þessar örnefnakenningar hins vegar má hugsa sér að landnám í Krýsuvík (og Selvogi) hafi orðið fyrr en í Grindavík.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Dýrleiki jarða getur oft gefið vísbendingar um byggðaþróun þar sem ætla má að dýrustu jarðirnar hafi byggst fyrstar. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett mjög snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna. Dýrleiki flestra jarðanna helst sá sami milli 1695 og 1847. Ísólfsskáli, Hraun og Hóp lækka hins vegar verulega í dýrleika á tímabilinu og er líklegt að landbrot sjávar og uppblástur lands séu helstu orsakir þess. Eins og sést er Staður sagður vera í konungseign árið 1847. Neðanmáls í Jarðatali Johnsens segir hins vegar: „Sýslumaður, og eins jb. [jarðabók] 1803, telur jörð þessa konúngs eign, en jb. 1760 og en prentaða stólsjarðabók, með hér greindum dýrleika og lsk., meðal stólsjarða. “Líklega hefur Stað þarna verið ruglað saman við Húsatóptir, sem voru í konungseign (til 1837) og er getið meðal seldra konungsjarða frá 1760 til ársloka 1846 í jarðatali Johnsens. Staðar er hins vegar ekki getið meðal seldra jarða Skálholtsstóls í fyrrgreindu jarðatali og ætti því réttilega að teljast eign Skálholtsstóls en ekki konungs árið 1847.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Í Grindavíkurhreppi var margbýlt á flestum jörðum, og hjáleigur og tómthús voru nokkuð mörg, enda ekki síður treyst á sjósókn en búskap í þessari sjávarsveit. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru byggðar hjáleigur 27 talsins. Í Jarðatali Johnsens 150 árum síðar eru þær 23. Búseta á hjáleigum og afbýlum fór þó mjög eftir árferði, spratt upp í góðærum en dróst saman þegar harðnaði í ári, og hefur því verið mjög breytileg í gegnum aldirnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Bygging hjáleiga og þurrabúða var að mestu hætt þegar kom fram á 20. öld, en í staðinn var tekið að reisa nýbýli, oft í landi eldri bújarða. Fiskneysla jókst til muna á 12. og 13. öld og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða þess er m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Verstöðvar tóku þá að spretta upp í Grindavík sem annars staðar þar sem stutt var á miðin og ný stétt manna, búðsetufólk og þurrabúðarfólk, varð til. Það er ljóst að sjávarútvegur hefur leikið stórt hlutverk í Grindavíkurhreppi frá öndverðu og svæðið fljótlega orðið mikilvægt að því leyti. Landgæði eru ekki mikil í byggðarlaginu og hafa í gegnum aldirnar spillst mjög af eldsumbrotum, uppblæstri og ágangi sjávar. Það verður því að teljast einsýnt að í byggðarlaginu hafi menn þurft að reiða sig á sjósókn samhliða búskapnum þar sem landbúnaðurinn einn hafi ekki staðið undir viðurværi manna.

Seltangar

Selatangar – vestasta sjóbúðin.

Verstöðvar voru á tveimur stöðum í Grindavíkurhreppi, í Grindavík og á Selatöngum. Á Selatöngum var útver með nokkrum verbúðum en aldrei föst búseta. Frá Selatöngum var einkum útræði Krýsuvíkurmanna og var síðast róið þaðan 1884. Þar var aldrei stórt útver, en til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra þar. Í Grindavík var dæmigert „blandað ver“, þar sem var í senn heimaver, útver og viðleguver.

Keflavík

Keflavík – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Þegar á 13. öld áttu Viðeyjarklaustur og Skálholtsstaður rekaítök í Grindavík og þótt þess sé ekki getið sérstaklega er líklegt að þessir staðir hafi þá þegar haft skipstöðu þar. Að minnsta kosti varð Grindavík, ásamt Þorlákshöfn, aðalverstöð Skálholtsstóls, enda átti biskupsstóllinn þar allar jarðir nema Húsatóptir þegar komið er fram á 17. öld. Það var jafnan margt aðkomu vermanna í Grindavík en bátafjöldinn var löngum breytilegur eftir árferði. Sem dæmi reru 26 skip þaðan á vetrarvertíð árið 1703, en árið 1767 eru taldir þar 75 bátar. Um 1870 voru 12 skip gerð út frá Grindavík og um aldamótin 1900 voru þau 30. Sögu Grindavíkur sem árabátaverstöðvar lauk ekki fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst. Forn verslunarstaður.

Grindavík var einnig verslunarstaður og komu þangað erlend kaupskip allt frá miðöldum fram á 18. öld. Lengi vel, eða fram á 14. öld, sóttu Grindvíkingar líklegast verslun til Eyrarbakka, en fyrst er getið um komu kauskips til Grindavíkur í lok þeirrar aldar. Með vaxandi skreiðarútflutningi varð vægi kauphafnarinnar í Grindavík meira og benda tiltækar heimildir til þess að umsvifin hafi verið orðin þó nokkur á 15. öld. Englendingar og Hansakaupmenn komu mjög við sögu Grindavíkur á 15. og 16. öld, eins og landsins alls. Fyrsta koma ensks skips hingað til lands, sem heimildir greina frá, var árið 1412, en siglingar Englendinga jukust svo á næstu árum. Umsvif þeirra urðu mest á suður- og vesturlandi og Grindavík varð ein helsta bækistöð þeirra ásamt Básendum, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Rifi og Flatey á Breiðafirði.

Virki

Virkið Jóhanns breiða ofan við Stórubót.

Aðsetur Englendinga í Grindavík mun hafa verið þar sem heitir „á Hellum“ í Járngerðarstaðahverfi, lítið eitt utan við aðalbyggðina þar. Þegar leið á 2. áratug 16. aldar fór að halla undan fæti hjá enskum kaupmönnum hér við land um leið og vegur Hansakaupmanna fór vaxandi. Um 1520 var svo komið að Englendingar höfðu hvergi fasta bækistöð nema í Grindavík og Vestmannaeyjum. Sögu þeirra í Grindavík lauk svo að fullu með „Grindavíkurstríðinu“ árið 1532 þegar Jóhann Breiði og menn hans voru drepnir í búðum sínum, og síðan dysjaðir þar sem síðan heitir Engelska lág. Eftir þetta komst útgerð í Grindavík að fullu í hendur heimamanna, konungs og kirkju, en Þjóðverjar tóku við versluninni og síðar þegnar Danakonungs. „Enska öldin“ í sögu Grindavíkur hefur því ekki staðið nema í um 14 ár, og samskipti þeirra við heimamenn því e.t.v. ekki verið gríðarleg.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir brotthvarf Englendinga úr Íslandsversluninni færðust Þjóðverjar mjög í aukana og sátu þeir nánast einir að henni í um sjö áratuga skeið. Þessi útgerð og verslun Hansamanna hér við land var konungsvaldinu mikill þyrnir í augum enda stefndi það dönskum yfirráðum beinlínis í hættu. Samtímaheimildir greina ekki frá því hvort Hansakaupmenn stunduðu útgerð frá Grindavík, en það er þó ekki ólíklegt þar sem aðalbækistöðvar þeirra voru á Básendum og í Höfnum. Munnmæli herma að aðsetur þeirra í Víkinni hafi verið á Gerðavöllum í Járngerðarstaðahverfi. Eftir að svonefndur Skipadómur var dæmdur árið 1545 versnaði staða Þjóðverja hér við land til muna. Þeir héldu versluninni þó áfram út öldina en samkeppnin við Dani óx jafnt og þétt.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.

Með opnu bréfi Kristjáns konungs IV, dagsettu þann 20. apríl 1602, var borgurum í Kaupmannahöfn, Málmeyjum og Helsingjaeyri veittur einkaréttur á allri Íslandsverslun. Lét konungur skipta kauphöfnum hér á landi á milli borganna þriggja og kom Grindavíkurhöfn í hlut Kaupmannahafnar. Hvar í Víkinni verslunin hefur verið er ekki vitað með vissu, en heimildir um Tyrkjaránið árið 1627 herma að danska kaupskipið hafi þá legið á Járngerðarstaðasundi. Hefur verslunin líklega haft bækistöðvar sínar þar til ársins 1639 þegar kaupmenn hættu að sigla til Grindavíkur vegna slæmrar hafnaraðstöðu þar. Urðu Grindvíkingar þá að sækja alla sína verslun að Básendum eða Eyrarbakka.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Verslun í Grindavík hófst að nýju 1665 eftir að Skálholtsbiskup hafði hvatt til þess í bréfi. Að þessu sinni fór hún hins vegar ekki fram í Járngerðarstaðahverfi heldur voru verslunarbúðir reistar í Arfadalsvík í Staðarhverfi. Þangað sigldu kaupmenn til ársins 1745 að skyndilega var hætt að sigla þangað og báru kaupmenn fyrir sig að hafnaraðstaðan hefði spillst af sandi. Verslunin lagðist þó ekki af með öllu því nokkurskonar útibúi var haldið úti í Arfadal, þar sem undirkaupmaður frá Básendum sá um móttöku og afhendingu varnings. Grindvíkingar önnuðust sjálfir allan flutning á milli Grindavíkur og Básenda en þáðu kaup fyrir.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Með konungstilskipun og lögum sem gefin voru út 13. júní 1787 var tekin upp svokölluð fríhöndlun á Íslandi, þ.e. öllum þegnum Danakonungs var frjálst að versla á Íslandi. Með lögunum voru stofnaðir sex kaupstaðir og landinu skipt í kaupsvið. Innan kaupsviðanna voru nokkrar úthafnir þar sem sjálfstæðir kaupmenn störfuðu. Með þessu lenti Grindavík, ásamt öðrum höfnum á Suðurnesjum, innan kaupsviðs Reykjavíkur. Eignir konungs á Búðasandi í Arfadal voru boðnar upp en kaupandinn, Árni Jónsson undirkaupmaður á Eyrarbakka, reyndist ekki farsæll í starfi og var versluninni brátt lokað. Næstu öldina urðu Grindvíkingar því að sækja verslun til Keflavíkur.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Af dreifingu byggðar í Grindavíkurhreppi má greina þrjá byggðarkjarna eða „hverfi“, Staðarhverfi vestast, þá Járngerðarstaðahverfi og loks Þórkötlustaðahverfi. Raunar mætti með nokkrum rökum tala um Krýsuvík og hjáleigur hennar sem hið fjórða hverfi, en byggð þar er skýrt afmörkuð frá annarri byggð í hreppnum. Í heimildum frá 19. öld kemur einnig fram að Grindvíkingar litu margir hverjir á Krýsuvík sem „hverfi“ töluðu gjarnan um Krýsuvíkurhverfi. Ekkert er vitað með vissu um upphaf hverfanna en þó er líklegt að þau hafi tekið að myndast þegar á landnámsöld. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má telja hugsanlegt að þeir hafi byggt bæina Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það. Þá má einnig ætla að einhverjir úr fylgdarliði þeirra hafi fengið land til búskapar á Húsatóptum og Hrauni. Þessar jarðir auk Hóps hafa svo orðið að lögbýlum sem hjáleigur eða önnur afbýli byggðust útfrá og þannig hafa hverfin smám saman orðið til.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sú staðreynd að sjósókn hefur löngum verið stunduð jafnhliða landbúnaði á svæðinu hefur án efa einnig ráðið nokkru um tilurð og viðhald hverfanna. Um aldamótin 1800 var byggð í Grindavík með sama sniði og þá hafði verið um aldir. Fjölmennast var í hverfunum þremur og Járngerðarstaðahverfi þeirra stærst og þéttbýlast með 59 íbúa. Alla 19. öldina hélt byggðin í Járngerðarstaðahverfi áfram að vaxa og styrkjast og við upphaf 20. aldar var þar orðið til þorp, við og umhverfis Hópið.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1963.

Margt hefur valdið því að þéttbýlisþróunin varð á þennan veg. Járngerðarstaðahverfi lá miðsvæðis í sveitinni og leiðin þangað frá öðrum vaxandi þéttbýliskjörnum á Reykjanesi og við Faxaflóa var bæði skemmri og greiðari en t.d. að Þórkötlustöðum. Auk þess voru skilyrði til lendingar og útróðra betri í Járngerðarstaðahverfi en á Þórkötlustöðum. Síðast en ekki síst tók fyrsta verslun svæðisins til starfa í Járngerðarstaðahverfi um aldamótin 1900, þ.e. sú fyrsta frá því verslun í Grindavík lagðist af í lok 18. aldar eins og áður greinir. Þessi þéttbýliskjarni, einkum vestan megin Hópsins, í Járngerðarstaðahverfi, varð þungamiðja Grindavíkurkauptúns sem síðan hlaut kaupstaðarréttindi árið 1947.“

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1958.

Krýsuvíkurkirkja

Íslensku biskuparnir áttu árlega að fara um biskupsdæmi sín og koma í hvern hrepp, svo að menn næðu fundi þeirra, vígja kirkjur, ferma börn og veita mönnum skriftagöngur. Þetta nefndist að vísitera.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1811.

Prófastar virðast hafa átt að fara einu sinni á ári um sóknir í umdæmi sínu. Breytingar urðu á þessu við siðaskipti með kirkjuskipun Kristjáns III árið 1537 og síðar með kirkjuskipun Kristjáns IV árið 1607, Norsku lögum Kristjáns V árið 1687 og erindisbréfi biskupa árið 1746.
Bækur þær, sem í er skráð það, sem fram fer við visitasíu, nefnast visitasíubækur. Þar er fyrst og fremst lýst eignum kirkna, föstum og lausum, og ítökum, eignarbréfum, kirkjuhúsi, skrúða og innanstokksmunum og fylgifé með áorðnum breytingum frá síðustu visitasíu, tekjum og gjöldum, kunnáttu og framferði prests og safnaðar og samkomulagi þeirra. Elstu, íslensku biskupsvisitasíubækurnar eru frá fyrri hluta 17. aldar. Fyrirrennarar þeirra voru máldagabækur, þar sem skráðar voru eignir kirkna og ítök.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789.

Prófastar urðu umboðsmenn (þ.e. aðstoðarmenn) biskupa með kirkjuskipun Kristjáns III árið 1537. Þeir áttu að vísitera hverja kirkju í umdæmi sínu árlega, athuga reikninga kirkna, skýra barnalærdóm, veita náðarmeðul, kanna kunnáttu og hegðun sóknarfólks, athuga kirkjur og kirkjugarða og kynna sér launamál presta.
Væntanlega hafa prófastar tekið biskupa sér til fyrirmyndar með færslu visitasíubóka. Elsta prófastsvisitasíubókin er „Héraðsbók“ Halldórs Jónssonar í Reykholti fyrir árin 1663-1699. Sú bók er allt í senn: Bréfa-, visitasíu- og máldagabók. Sömu atriði eru tekin til meðferðar í visitasíubókum biskupa og prófasta.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789. Norðurkot er neðst t.v.

Máldagi er skjal, þar sem skráðar eru eignir kirkju og ýmis réttindi og tekjustofnar sem hún á að njóta. „Máldagi“ hefur einnig merkinguna „samningur“, og e.t.v. var máldagi kirkju upphaflega samningur um eignaskipti milli kirkjubóndans og kirkjunnar. Orðið máldagi var einkum notað í kaþólskri tíð.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Vísitasía biskups.

Umsjónarmönnum kirkna var skylt að láta skrá máldaga viðkomandi kirkju og halda honum við. Biskupar höfðu eftirlit með því að það væri gert. Einnig átti að lesa máldagann upp einu sinni á ári við fjölmenna messu. Elsti máldagi sem varðveittur er í frumriti er Reykjaholtsmáldagi, um eignir Reykholtskirkju í Borgarfirði. Elsti hluti hans er frá því um 1180. Hugsanlegt er að rithönd Snorra Sturlusonar sé á hluta máldagans.

Íslensku kirkjumáldagarnir eiga sér enga hliðstæðu í Norður-Evrópu, og veita mjög mikilvæga yfirsýn um eignir og búnað íslenskra kirkna frá því á 12. öld og fram yfir siðaskipti.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Vísitasía.

Árið 1789, 24. júlí, var gefin út tilskipun um ráðstafanir til viðurhalds á eignum kirkna og prestakalla á Íslandi og því, sem þeim fylgir. Þar var próföstum boðið að taka út kirkjur, prestssetur og kirkjujarðir, þegar prestar dæju eða færu frá brauðunum eða þess gerðist þörf eins og ævagömul venja væri til á Íslandi. Úttektargerðirnar skyldu ritaðar í kirkjubókina (þ.e. kirkjustólinn) og lýst nákvæmlega ásigkomulagi hvers hlutar og getið breytinga frá síðustu úttekt svo og álags. Þessi tilskipun gildir enn (2017) í flestum atriðum. Ákvæðið um kirkjubækur er t.d. þar með.
Þegar kemur fram yfir 1900, fór mjög að draga úr færslu kirkjustóla. Virðast menn oft láta sér nægja að færa visitasíur og skoðunargerðir kirkna inn í visitasíubækur biskupa og prófasta, og hvað varðar kirknareikninga, hafa lögin um innheimtu og meðferð á kirknafé nr. 20/1890, 22. maí, líklega haft þau áhrif, að margir hættu að skrá reikningana í kirkjustóla en í staðinn á laus blöð eða eyðublöð, því að lögin gera ráð fyrir endurskoðun reikninganna af hlutaðeigandi presti eða safnaðarfulltrúa og síðan prófasti.

Krýsuvíkurkirkja – altaristafla?

Altaristafla

Altaristafla í kirkju fyrrum.

Krýsuvíkurkirkja var byggð árið 1857 og endurbyggð og endurvígð árið 1964.
FERLIR sendi Þjóðskjalasafni Íslands eftirfarandi fyrirspurn: „Kemur eitthvað fram í gögnum safnsins um altaristöflu í Krýsuvíkurkirkju. Í ferðabók Englendings frá því á ofanverðri 19. öld segir að í kirkjunni sé „altaristafla, bogadregin að ofan“.
Þjóðminjasafnið kannast ekki við að altaristafla hafi verið til í kirkjunni. Krýsuvíkursókn var á þessum tíma ýmist færð til Selvogs eða að Stað í Grindavík. Einhverjir kirkjugripir gætu hafa færst á milli kirknanna á þesum tímamótum, líkt og kirkjugripir frá Staðarkirkju að Grindavíkurkirkju 1907 og voru flestir þeirra þá geymdir á lofti nýju kirkjunnar.
Þórarinn Snorrason, nú látinn, sýndi okkur forna dýrgripi Selvogskirkju (Strandarkirkju) á sínum tíma, en þar var þá enga aðra altaristöflu en þá er nú prýðir kirkjuna að finna.
Líklegt má telja að altaristafla hafi prýtt Krýsuvíkurkirkju á 19. öld, allt til upphafs þeirrar 20. og þá verið talin henni til eignar.“

Krýsuvík

Krýsuvík – bæir fyrrum.

Svar: „Þjóðskalasafnsins var afrit af tveimur Vísatasíum biskups, annað frá 1875 og hitt frá 1911“. Ekkert kemur fram um altaristöflu í þessum „tasíum“, en þær eru þó fróðlegar fyrir margt:

Vístasíubók Íslands-biskupsdæmis 1868-1898; Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Visitasíubók 1911.

„Ár 1875, 4. dag júnímánaðar vísiteraði biskupinn yfir Íslandi Dr. P. Pjetursson kirkju og söfnuð að Krýsuvík. Hún á alla Herdísarvík, 1x mælira lands á þórkötlustöðum, hálfan hvalreka í Hraunsnesi, milli Rangárgjögurs og marks við Besstaðinga, og enga grasnautn með, 3 hluti hvals, en Viðeyjingafjórðung, en frá Mígandigróf til Kirkjufjöru eiga staðir í Skálholti og Krýsuvík helming hvals og viðar og alla grasnautn og allan reka á Kirkjufjöru og þaðan frá og til marks við Herdísarvík hálfan hval og viðreka og alla grasnautn, en í Herdísarvík á staðurinn í Skálholti helming viða við Krýsuvík; þriðjun hvalreka eiga báðir staðir saman til marks við Strandamenn, en fjórðung hvala við Strandamenn til Vogs; hálfan tóftung hvals á Krýsuvík í Strandarhluta.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Húsið sjálft er úr timbri í 5 stafgólfum með tvöfaldri súð, 4 bitum og 2 sexrú’na gluggum á hverri hlið og 1 4 rúðna glugga á vesturstafni. Í framkirkjunni eru 5 bekkir hvoru megin og 1 sæti að auk að sunnanverðu; í kórnum eru hálffóðraðir bekkir allt í kring. Altari lítilfjörlegt með óskrálæstri hurð. Af ornamentis á kirkjan silfurkaleik með gylltri platínu úr silfri og coporadúk? bilaðan úr rósasilki. Í skrúða á kirkjan 1 rikkilín og hörkul úr rósadamanski fóðraðan, 2 altarisklæði, hvar af annað er með silkikögri á einn veg; kirkjan á tvo ljósstjaka úr tinu frá 17. öld.

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

Enn eru þeir sömu gallar á húsinu, sem seinustu prófastsvísitasíur tilgreina; porzionsreikningur? er heldur ekki aflagður fyrir þetta faradagaár né hin seinustu síðan 1871, enda virðist ekki fjárhald kirkjunnar hafa verið falið í hendur nokkrum eigenda hennar, sem eru fleiri en einn, nema hvað prófasturinn í seinustu vísitasíu hefur talið það eðlilegt, að kirkjubóndinn, Sjr. Jón Odsson hefði það á hendi, eins og hann hérmeð af mér er skipaður til eftirlieðis að vera fjárhaldsmaður kirkjunnar, að innkalla allar tekjur hennar, endurbæta húsið svo það verði sómasamlegt guðshús og gjöra reglulegan reikning fyrir tekjum og útgjöldum kirkjunnar eftirleiðis og að svo miklu leyti auðið er fyrir hin síðustu ár, og tekst hann þetta starf á hendur, og lofar að ræða bót á göllum kirkjunnar þetta ár, en gallar þessir, sem eins og áður er sagt eru taldir í seinustu prófastsvísitasíu, eru einkum þeir að ytri súð þarf að leggja á suðurhlið kirkjunnar og smíða nýjar gráður.
Kirkjugarðurinn þarf endurbóta við.“

Þrjú börn mættu til yfirheyrslu.
aelum ut supra

Undir skrifa þrettán einstaklingar, s.s. P. Pjetursson, Jón Oddsson, Vigfús Guðnason, Jón Jónsson, Guðmundur Vigfússon, Steingrímur Steingrímsson, Lárus Halldórsson, Björn Björnsson og Einar Einarsson.

Vístasíubók Íslands-biskupsdæmis 1900-1912; Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940.

„Ár 1911 hinn 21. sept. var biskup Þórh. Bjarnarson staddur Krýsuvík í Kjalarnesþingi. var hann þangað kominn til að hafa eigin sjón af kirkjunni,hafði bæði prófastur í skýrslum lýst afar bágbornu ástandi hennar og sóknarpresturinn hafði við komu sína til Reykjavíkur 20. þ.m. lýst kirkjuna alófæra til messugjörðar.
Biskup var að öllu sammála síðustu vísitasíu prófasts 20. júlí 1910, sem hjer umfærist til athugunar:
„Húsið er byggt 1857 úr timbri, á því hefir í upphafi verið ósmekkleg mannasmíð, gerðin ókirkjuleg, veggir mjög lágir, ekki fullar 3 álnir, undir bita, sem er um þvera kirkjuna framanverða, og á þeim afþiljað geymsluloftm gluggar afleitir og aðeins 4 á húsinu og veita ekki nægilega birtu nema vel sje bjart í lofti. Turnlaus hefur hún verið frá upphafi, og ekkert merki þess á henni að utan að hún sje kirkja. Járnvarin er hún öll að utan. Að innri gerð hefir hún aldrei sómt sér vel sem guðsþjónustuhús, en er svo úr sér gengin hið innra að hún getur ekki talist sæmilegt hús til safnaðarguðsþjónustu nema verulega sje fáguð og umbætt, enda ber á fúa á innviðum(sperra lá gjörfúinn af fúa) á suðurhliðinni og altari og grátur í versta ástandi og vegna súgs og kulda er hún alls óhæfileg til þeirrar notkunar að vetrarlagi. Prófastur hyggst að bera undir álit biskups og leita íhlutunar hans um hver ráð verði höfð til þess að bæta úr þessum vandræðum.

Krýsuvík

Krýsuvík 1943.

Muni kirkjunnar segir ábúandi sína og verið hafi – hvorki viðbætst nje reitt burtu fallið. Sem stendur eru aðeins tvö heimili í sókninni, og á báðum til saman að jafnaði nær 30 manns. Kirkjugarður þarf umbóta. 7 voru atkvæðisbærir við nýlega afstaðna pretskosningu.“
Biskup álítur að gera verði gangskör að því við eigendur kirkjunnar sem eru erendis að endurreisa hana hið fyrsta. Um viðgerð getur eigi verið að ræða. Verður prestur í bráð að flytja predrikanir sínar í heimahúsum í Krýsuvíkursókn.
Lýst var því yfir af viðstöddum sóknarnefndaroddvita að það sje eindregin vilji hins fámenna safnaðar að kirkja haldist í Krýsuvík enda ómissandi eftir landslegu.
Kirkjugarður er illa varinn og ætlar sóknarnefnd úr að bæta.
Kirkjugjöld hafa eigi verið innheimt nokkur hins síðustu ár en munu að mestu leyti vera fyrir hendi til endurbyggingar hennar.“
Skrúði kirkjunnar allgóður en nokkuð forn. Tveir altarisstjakar með ártalinu 1650.

Sjá meira um Krýsuvíkurkirkju HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Þórh. Bjarnason

Heimildir:
-https://ordabelgur.skjalasafn.is/kb/visitasiubaekur/
-https://is.wikipedia.org/wiki/M%C3%A1ldagi
-Krýsuvíkurkirkja – biskupsvísitasía 1875
-Krýsuvíkurkirkja – biskupsvísitasía 1911

 

 

 

Kleifarvatn

Hér kemur svolítil, en forvitnileg lýsing, úr „Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um Reykjanesskaga 1752-1757„:

Krýsuvíkurhraun

Krýsuvíkurhraun – herforingjaráðskot.

„-Sunnan við Reykjanes er Grindavíkurhöfn, en Bátsandar, sem farmenn kalla Bátssanda, fyrir norðan.
-Sagt er að nykur sé í ýmsum stöðuvötnum. En þetta er allt of alvanalegt, og höfum við áður skýrt skoðun okkar á því efni.
-Grænavatn er í grennd við Krýsuvík. Það er ekki aðeins merkilegt sakir dýptarinnar, sem valda mun litnum á vatninu, sem það dregur nafn af, heldur einnig af því, að þeir, sem búa þar í grennd, segja, að þeir hafi oft séð furðuleg kykvendi koma upp úr því, en þau hafa þó ætíð verið mjög skamma hríð ofan vatns.

Grænavatn

Grænavatn.

Maður nokkur fullyrti við okkur, að hann hefði eitt sinn sjálfur séð slíka skepnu. Hún hafi verið smávaxin, á stærð við hnísu, en hún hvarf skjótt aftur. Í Kleifarvatni eru greinilegri frásagnir. Árið 1755 sagði maður einn okkur, að hann hefði þá fyrir skemmstu séð einhvers konar skepnu synda í vatnsborðinu. Að lögun og lit líktist hún skötu, en var geysileg fyrirferðar. Öllum bar saman um, að kykvendin í Kleifarvatni séu stórvaxnari en í Grænavatni og sjáist lengur í einu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – Indíaninn.

Þegar við vorum á þessum slóðum 1750, var okkur sagt margt um Kleifarvatn, aðallega þó það, að þótt menn vissu, að vatnið væri fullt af fiski, sem vakir þar sífellt í yfirborðinu, þyrðu menn ekki að veiða í því fyrir ormi eða slöngu, sem væri í vatninu.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Ormur þessi væri svartur á lit og á stærð við meðalstórhveli, eða 30-40 álna langur. Fylgdarmaður okkar sagði okkur, að hann hefði oftsinnis horft á orm þenna, bæði þegar hann hefði verið þar einn á ferð og í hópi annarra manna, því að oftast þegar ormurinn sést, er hann nálægt tveimur mínútum uppi. Hann sagði okkur einnig, að í ágústmánuðu 1749 hefi allmargt fólk, bæði karlar og konur, sem var að heyskap við vatnið í kyrru veðri og sólskini, séð orm þenna miklu betur en nokkur maður hefðu áður gert, því að hann hefði þá skriðið upp úr vatninu upp á lágan og mjóan tanga eða rif, sem gengur út í það, og þar hefði hann legið í hart nær tvær klukkustundir, áður en hann skreiddist út í vatnið á ný.

Herdísarvík

Herdísarvík 1898.

Fólkið var svo skeflt allan þenna tíma, að það þorði ekki fyrir sitt líf að nálgast orminn, en af því að hann lá hreyfingarlaus allan tímann, flýði það ekki brott, en samt gat það ekki frá því skýrt, hvernig ormurinn komst upp á land eða hvernig hann fór aftur út í vatnið. En mergurinn málsins er þetta, að ormurinn kom upp úr vatninu, óx eða hækkaði og skreið áfram, án þess að því bæri, og hvarf síðan, á meðan fólkið sá til. Við höfum tilgreint þess sögu til þess að bera hana saman við og treysta það, sem áður er sagt um Lagarfljót.

Hverinn eini

Hverinn eini.

-Hverinn eini heitir kunnur hver, sem liggur nokkrar mílur norðaustur frá Reykjanesi, mitt á milli þess og Krýsuvíkur. Sagt er að hverafuglar, svartir á lit á stærð við smáendur, fiðurlausir með smávængjum, stingi sér í hverinn. (Rétt er að geta þess að hverafuglar verpa jafnan harðsoðnum eggjum, sbr. harðsoðnu eggin ofan við brennisteinstökusvæðið, skammt neðan búðartóftanna, í Brennisteinsfjöllum).
-Fyrir utan Eyrabakka er byggðalagið Flói. Þar búa Flóafífl.
-Magahúð dýra, einkum nautgripa, er skæni kallast, er að vísu notað í glugga, en algengt er það ekki og alls ekki í glugga íveruherbergja, því að það ber lélega birtu, enda þótt það sé sterkt og endingargott. Þess vegna er það mest notað í önnur hús, fjós og þess háttar.

Gluggi

Gluggi (skjár) á torfbæ.

Algengasta gluggaefnið er líknarbelgur. Er það hin tvöfalda fóstuhimna dýranna. Innri og fíngerðari himnan er kölluð sérstaklega vatnsbelgur. Einkum er teknar fósturhimnur úr kúm, en stundum einnig úr ám. Eru þær svo tærar og gegnsæjar, að menn fá ekki séð úr nokkurri fjarlægð mun á þeim og loftinu.“

-ÓSÁ tók saman.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Selalda

Selalda er ofan við Heiðnaberg, sem er hluti Krýsuvíkurbergs. Víkin framan við Heiðnaberg heitir Hælsvík. Hæðin að austanverðu heitir Rauðskriða. Undir henni, við Hælsvík, var Ræningjastígur, fær leið upp á bjargið. Hann er nú horfinn með öllu. Ræningjastígur er nefndur eftir ræningjum þeim er Eiríkur á Vogsósum, prestur í Krýsuvík, atti saman sunnan við Kirkjuna. Þar er nú Ræningjadys.

Eyri

Eyri – tóftir.

Tveir bæir voru undir Selöldu, Fitjar og Eyri. Eyri fór í eyði 1775 og Fitjar um 1867. Fitjar er sunnan Stráka og Eyri við uppþornaðan lækjarfarveg nokkru austar. Tóttirnar sjást enn vel á ofanverðum bakkanum. Sunnan við bæjartóttirnar eru tvær borgir. Sú efri er minni, en utan í þeirri neðri hefur verið gerður stekkur og jafnvel hús. Litlu austar eru tóttir sels, greinilega mjög gamlar. Talið er að þar hafi verið sel frá Krýsuvík, líkt og var á Selsvöllum um tíma, á Vigdísarvöllum, á Seltúni og í Húshólma.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Af því segir þjóðsagan af ræningjunum, selsstúlkunum og smalanum er flúði upp að Krýsuvíkurbæjunum, kom að kirkjunni þar sem séra Eiríkur var við messu og móttökum hans við ræningjana. Enduðu þau með því að ræningjarnir drápu hvern annan að áeggjan séra Eiríks, sem sagði það guðsmildi að ekki væri sunnudagur því annars hefði hann mælt svo um að þeir ekki bara dræpu hvern annan, heldur og ætu. Ræningjadys sunnan Krýsuvíkurkirju er til marks um atburðinn.

Selalda

Selalda – fjárhús.

Undir Strák á Selöldu eru fallega hlaðin fjárhús. Vestan við tóttir Fitja eru tóttir tveggja fjárhúsa og vestan þeirra er enn heilleg steinbrú yfir Vestarilæk.
Undir Krýsuvíkurbjargi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt, en þar er engin lending. Lendingin hefur líklega verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík í Húshólma, en eftir að Ögmundarhraun rann um 1150 tók hana af og gert var út frá Selatöngum. Krýsuvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir – með hléum.

Fitjar-21

Fitjar.

Tugþúsundir sjófuglapara verpa í Krýsuvíkurbjargi, aðallega rita og svartfugl. Svo mikið fékkst af svartsfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu er að segja af bergfuglinum sem gaf af sér bæði fiður og kjöt.

-ÓSÁ tók saman.

Selalda

Krýsuvíkursel í Selöldu. Uppdráttur ÓSÁ.