Hafnarfjörður

Sú klausa er hér fer á eftir stendur í blaðinu Fjallkonan 19. júní 1908:
„Hafnfirðingar höfðu það til hátíðarbrigðis afmælisdag Jóns Sigurðssonar að stofna hjá sér ungmennafélag. Hlaut það nafnið Ungmennafélagið 17. júní. Framkvæmdahugur var mikill í félagsmönnum, enda margvísleg mál er ungmennafélög hafa á stefnuskrá sinni. Þar á meðal að klæða landið skógi.
vidistadirHafnfirðingar létu sig ekki vanta í hóp þeirra brautryðjenda. Því til sönnunar stendur eftirfarandi í sama blaði 28. apríl 1909:
„Ungmennafélagið 17. júní í Hafnarfirði hefur fengið lofun fyrir landi til skógræktar í nánd við bæinn í Víðistöðum.  Félagið er tekið til við að vinna við skógarstæðið – girða það. Vinna flestir félagar að því með eigin höndum, karlar og konur í frístundum sínum og miðar verkinu furðuvel áfram. Hugsað er til að rækta þarna tré í næsta mánuði.“
Lengri eru upplýsingar Fjallkonunnar ekki. En staðreynd er að þarna voru á þessu vori gróursettar um eitt þúsund trjáplöntur. Garðhleðsla og undirbúningur var eins og fyrr segir framkvæmdur af félögum. Stofnuðu þeir um þetta nokkurskonar hlutafélag, þannig að fyrir 5 kr. vinnu fengu menn hlutabréf og mun eitthvað af þeim enn vera til hér meðal gamalla 17. júní félaga. Árið 1910 fór Árni Helgason sem nú er verkfræðingur í Chicago til náms í trjárækt upp að Rauðavatni. Hvernig þessum trjágróðri í Víðistöðum reiddi af er mér ekki kunnugt. En mjög dofnaði yfir starfi þessa ungmennafélags eftir 1910 og það leið alveg undir lok 1913. En margir eru þeir Hafnfirðingar sem harma það að þarna skyldi ekki rísa upp almennur skemmtistaður með trjám og blómstrum.

Víðistaðir

Skógrækt á Víðistaðatúni.

Í Náttúrufræðingnum – 4. tölublað (01.03.1973), bls. 177 segir m.a. um Víðistaði: „Í vesturjaðri Hafnarfjarðarbæjar er lítill hraunlaus blettur, um 200 m á hvorn veg, nefndur Víðistaðir. Þetta er ein af þeim fáu eyjum, sem standa upp úr Búrfellshrauni og raunar aðeins smáhólmi í samanburði við hinar háu grágrýtiseyjar, sem áður var getið (með Setbergshlíð og Smyrlabúð). Hitt er þó kynlegra um Víðistaðahólmann, hve lágur hann er og flatur, en hraunbrúnin há allt í kring. Áður en hraunið rann, hefur hann væntanlega verið dálítil hæð, sem það sveigði hjá, en fyllti svo rækilega að á alla vegu.“

Alþýðublaði Hafnarfjarðar – Jólablað 1959 (19.12.1959), bls. 6-8, fjallar Stefán Jónsson athyglisverða grein um Víðistaði. Hann telur svæðið sem heild varðveislunnar virði.
Í meðfylgjandi fornleifaskráningu, reyndar mjög takmarkaðri, er farið yfir sögu Víðistaða, sem vert er að staldra við og skoða.

Hafnfirðingar mættu gjarnan huga meira að sögu sinni því spillt arfleifð verður ekki aftur tekin.

Víðistaðir eru, og verða vonandi um ókomna framtíð, vin íbúa Hafnarfjarðar í hjarta bæjarins.

Víðistaðir

Brot úr fornleifaskráningu Víðistaða frá 2002.

Víðistaðir

Víðistaðir

Víðistaðir

Frásögn Stefáns Jónssonar um Víðistaði.

Heimildir:
-http://www.skoghf.is/greinar
-https://timarit.is/files/12537511#search=“Víðistaðir%20Víðistaðir“
-Alþýðublað Hafnarfjarðar – Jólablað 1959 (19.12.1959), bls. 6-8ttps://www.hafnarfjordur.is/media/nordurbaer/Vidistadir-fornleifaskraning2002.pd
-Náttúrufræðingurinn, 4. tölublað (01.03.1973), bls. 177.

Hvaleyri

Árni Óla skrifaði um „Hvaleyri“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1973.

„Að undanteknum írskum nöfnum er Húsavík við Skjálfanda líklega elzta staðarheiti á Íslandi. Staðurinn er kenndur við það, að þar reisti Garðar Svavarsson hús og hafði þar vetursetu. Næstelztu norrænu nöfnin munu svo vera Faxaós (nú Faxaflói), Hafnanfjörður og Hvaleyri. Þau nöfn gátu þeir Hrafna-Flóki og félagar hans.

Hvaleyri

Hvaleyri í dag. Varða til minningar um Flóka Valgarðsson, þess er elst er getið á svæðinu, í forgrunni. Hvaleyrarbæinn frá 1772 í bakgrunni.

Landnáma segir frá því, að þeir höfðu fyrst vetursetu vestur í Vatnsfirði (ef til vill hafa þeir gefið það nafn líka) og síðan segir: „Þeir Flóki ætluðu brott um sumarið og urðu búnir litlu fyrir vetur. Þeim beit eigi fyrir Reykjanes og sleit frá þeim bátinn og þar á Herjólf. Hann tók þar sem nú heitir Herjólfshöfn.

Hvaleyrarlón

Herjólfshöfn 2022.

Flóki kom í Hafnarfjörð. Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum og kölluðu þar Hvaleyri. Þar fundust þeir Herjólfur.“ Nafnið Herjólfshöfn er nú gleymt og vita menn ekki hvar það hefir verið. En mundi sú höfn eigi hafa verið í Hafinarfirði og (fjörðurinn hafi fyrst í stað verið nefndur Herjófs-hafnarfjörður, en nafnið síðan stytt í Hafnarfjörð?
Hval

Hvaleyri

Hvaleyri við Hafnarfjörð 2021.

eyrar er síðan lítt getið fram eftir öldum, en þó hefir snemma verið reist þar bú og jörðin um langt skeið hin stærsta og bezta við Hafnarfjörð og hefir verið bændaeign. Í skrá um leigumála jarða Viðeyjarklausturs frá 1313, segir að klaustur „eigi allt land að Eyri“ og mun þar átt við Hvaleyri. En ekki verður séð hvernig klaustrið eignaðist hana og þó hefir það sennilega gerzt á þann hátt, að einhver sem gekk í klaustrið hafi lagt hana á borð með sér, eða þá að hún hefir verið gefin því í guðsþakkarskyni. Þetta var þá dýrasta jörðin, sem klaustrið átti, því að afgjaldið var fjögur hundnuð. Þarna var (þá kirkja og er til máldagi hennar frá dögum Steinmóðar ábóta í Viðey. Er henni talið heimaland allt, nema dálítill skógarteigur sunnan í Hvaleyrarhöfða, sem Laugarneskirkja átti, og er þetta til sannindamerkis um, að þá hefir land þarna verið betur gróið en nú er.

Hvaleyrarlón

Hvaleyrarlón, Hvaleyrargrandi og Háigrandi (Fornubúðir) árið 1902.

Á dögum Steinmóðar Bárðarsonar ábóta (1444-1481) gerðust þarna ýmsir sögulegir viðburðir. Enskir og þýzkir kaupmenn voru þá farnir að keppast um verzlun hér á landi, einkum þar sem beztar voru vertstöðvar. Þá var mikið útræði frá Hvaleyri og náðu Þjóðverjar furðu fljótt bækistöð þar, en sagt er að Englendingar hafi tekið fisk á Fornubúðum, sem voru spölkorn innar í firðinum. Þeir voru þá sem oftar yfirgangssamir og (töldu sér allt leyfilegt.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – minnismerki við Flensborgarhöfn (áður Fornubúðir) um veru Þjóðverja í Hafnarfirði fyrrum.

Segir svo frá því í Biskupasögum Jóns Egilssonar: — Engellskir lágu í Hafnarfirði inn hjá Fornubúðum einu skipi. Á því voru þrennir 100, það voru 100 kaupmenn og 100 undirkaupmenn og 100 skipsfólks. En svo bar til að þeir gripu skreið fyrir ábótanum í Viðey og fleiri Nesjamönnum þar. Ábótinn gerði sig þá að heiman með 60 manna til bardaga við þá. En áður en hann reið fram til þeirra, þá spurði hann alla hvort þeir væri samhugaðir sér að fylgja. Þeir játuðu því allir. En sem heim var riðið, sneru aftur 30, en aðrir 30 riðu fram og sló þar í bardaga. Lyktaði svo, að þeir íslensku unnu, en ábótinn missti son sinn, þann er Snjólfur hét, hvern hinir, er aftur hurfu, borguðu þrennum manngjöldum fyrir svik sín.
Ábótinn var og komin á kné í bardaganum, og kom þá einn af hans mönnum að og hjálpaði honum. Þeim sama gaf hann 20 hndr. jörð… Eftir þetta gerðist fullur fjandskapur með enskum og þýzkum kaupmönnum og lauk honum svo, að Þjóðverjar boluðu Bretum algjörlega úr Hafnarfirði og sátu þar lengi síðan, eða framundir einokun.
Hvaleyri
Frá tímum erlendra kaupmanna eru miklar steinaristur á fjórum stórum steinum í Hvaleyrartúni, og þó langflestar á hæsta steininum. Flestar þessair ristur eru fangamörk, en auk þeirra eru bandrúnir. Víða eru ártöl og munu þau elztu vera frá 1657. Mikið hefir verið rætt um steina þessa og voru þeir upphaflega kallaðir rúnasteinar. Jónas Hallgrímsson skoðaði þá sumarið 1841. Höfðu sumir sagt honum að þarna væri fornar rúnir, en aðrir töldu að hér væri ekki um annað að ræða en krot eftir útlendinga. En þegar Jónas fór að athuga stærsta steininn, þóttist hann finna, undir þessu kaupmannakroti, ævagamlar rúnir, stórar bandrúnir og vel gerðar upphaflega og alllæsilegar þegar skólfir höfðu verið hreinsaðar úr þeim. Alls taldi hann að þarna væru 26 bandrúmir, og gerði hann uppdrátt af steininum og hvar þessar rúnir væri að finna. Hann sagði um þetta í bréfi til Finns Magnússonar:
Hvaleyri
— Engum blöðum er um það að fletta að rúnir (þessar eru mjög merkilegar. Ég fœ ekki bertur séð, en að þarna séu nöfn Hrafna-Flóka og félaga hans. Ef til vill hefir Herjólfur stytt sér stundir við að rista rúnirnar, meðan hann beið eftir skipinu. — En að öllu gamni slepptu, þá vænti ég að þér lesið úr rúnum þessum. — Sjálfur þóttist Jónas geta lesið þarna þessi nöfn: Sörli, Tóki(?), Flóki, Herjólfur, Þórólfur. Og steininum gaf hann nafn og kallaði Flókastein. Má vera að þar hafi óskhyggja ráðið, því að hann hafi viljað finna þarna minjar um komu þeirra Hrafna-Flóka til Hafnarfjarðar. En seinni athuganir sýna, að þetta er ekki rétt, en steinarnir þó merkilegir og eru þeir enn óhreyfðir í Hvaleyrartúni. Við siðaskiptin sölsaði konungur undir sig Hvaleyri eins og aðrar eignir klaustranna.

Hvaleyri

Hvaleyri – túngarður.

Og hér fór sem víða annars staðar, að jörðinni hnignaði stöðugt undir handarjaðri Bessastaðamanna, eins og bezt má sjá á Jarðatók Árna og Páls. Kirkjan hrörnaði eins og annað. Fyrst varð hún útikirkja frá Görðum, og seinast var hún kölluð bænhús. Hún var lögð niður 1765 að boði Friðriks V. konungs.

Hvaleyri

Hvaleyri.

Hvaleyri hefir borið nafn með rentu, því að oftar hefir þar orðið hvalreki en á dögum Hrafna-Flóka. Á jólaföstunni 1522 rak þar t.d. 8 stórhveli í einu.
Seinasti „hvalrekinn“ þar er heljar mikill golfvöllur, er nær yfir allt túnið.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 22. tbl. 10.06.1973, Hvaleyri – Árni Óla, bls. 8, 9 og 10.

Hvaleyri

Hvaleyri.

Ferlir

Nokkrar mistækar gönguleiðabækur hafa verið gefnar út um möguleika Reykjanesskagans, s.s. „Náttúran við bæjarvegginn – 25 gönguleiðir á Reykjanesskaga“ eftir Reynir Ingibjartsson, „Átta gönguleiðir í nágrenni Reykjavíkur“ eftir Einar Skúlason, og „Gönguleiðir á Reykjanesi“  eftir Jónas Guðmundsson. Síðastnefnda bókin byggir titil sinn reyndar á hugtakaruglingi því Reykjanesskaginn er svo miklu umfangsmeiri en Reykjanesið yst á skaganum.

Jónas Guðmundsson

Jónas Guðmundsson.

Í auglýsingu um bókina „Gönguleiðir á Reykjanesi“ segir m.a.: „Gönguleiðir á Reykjanesi hefur að geyma lifandi leiðarlýsingar tæplega 30 áfangastaða á Reykjanesskaga, fjársjóðskistu útivistarfólks. Sumar leiðirnar eru á fjöll, aðrar um hraun og dali og margar eru hringleiðir. Allar eru lýsingarnar innblásnar af þeim miklu jarðumbrotum sem hafa einkennt svæðið alla tíð. Margar leiðirnar henta fyrir fjallahjól, aðrar fyrir utanvegahlaup og enn aðrar til að kynna yngstu kynslóðina fyrir töfrum fjallaferða og eru þær merktar sérstaklega.

Jónas Guðmundsson er leiðsögumaður, landvörður og ferðamálafræðingur sem varið hefur ótal stundum á fjöllum. Reykjanes skipar sérstakan sess í huga hans og þangað leitar hann aftur og aftur til að njóta, upplifa og endurhlaða rafhlöður líkamans og sálartetursins.

Gönguleiðir á ReykjanesiÞessi bók hentar öllum þeim sem ætla að leggja land undir fót. Hverri leið fylgir leiðarlýsing, kort og GPS-hnit, fjöldi ljósmynda og upplýsingar um staðhætti og aðstæður. Auk þess er settur fram sögulegur og landfræðilegur fróðleikur um þær leiðir sem gengnar eru hverju sinni. Í bókinni er einnig hagnýtur kafli um undirbúning og fjölda góðra ráða sem varða fjallgöngur og útivist.“

Í inngangi bókarinnar segir m.a.: “ Sem fyrr er bók þessi aldrei eins manns verk því allnokkrir lögðu hönd á plóginn og að góðum íslenskum sið er rétt að þakka þeim… Otti Rafn Sigmarsson í Grindavík varpaði ljósi á nokkra þætti og hið sama gerði Ásta Þorleifsdóttir, jarðfræðingur með meiru, og nokkrar heimildir voru sóttar í vefsíðuna ferlir.is sem er hafsjór af fróðleik. Allir þessir og þeir sem ekki er hér minnst á fá þakkir fyrir sitt.“ Nefndur Jóns bað hvorki svo lítið sem um leyfi né heimild til að nota efni af vefsíðunni í bók sína.

Allar framangreindar bækur eiga a.m.k. eitt sameiginlegt; þ.e. að hafa sótt a.m.k. hluta fróðleiksins á vefsíðuna www.ferlir.is, sem er reyndar ágætt því markmið hennar er er fyrst og fremst að miðla fróðleik um svæðið til áhugasamra. Á þeirri síðu er reyndar að finna endurgjaldslaust alla eiginlega leiðsögn um dásemdir Reykjanesskagans á einum stað frá upphafi til nútíma – langt umfram allar útgefnar göngubækur og villulýsingarnar, sem þar er að finna.

Hellugatan

Hellugatan í Selvogi.

Keilir

Gengið var á Keili (379 m.y.s.). Venjan er að ganga að fjallinu frá norðanverðu Oddafelli, en að þessu sinni var gengið að því frá Rauðhól, rúmlega miðja vegu milli Reykjanesbrautar og Oddafells. Stíg var fylgt upp eftir frá Rauðhólsselinu. Þegar komið var upp á hraunbrúnina (varða) áleiðis að fjallinu sást Keilisvarðan við Þórustaðastíginn vel í vestri.
Keilir er einkennisfjall á vestanverðum Reykjanesskaganum. Fjallið, sem er strýtulaga, sést vel víða frá, t.d. frá ásum höfuðborgarsvæðisins, Ströndinni og Rosmhvalanesi. Það er formfagurt og minnir að mörgu leyti á eldkeilu. Hvers vegna fjallið varð nefnt í karlkyni er mörgum hulið. Eðlilegra heiti á því hefði verið Keila.

Upphafsstaður flestra - við Oddafell

Keilir varð til við gos undir jökli á ísöld. Það er því að mestu úr móbergi. Strýtumyndunin er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju. Gígtappinn er að að mestu úr basalti/bólstrabergi og veðrast því síður en móbergið, sem er samanþétt öskumyndun undir þrýstingi. Auk þess ver móbergið kjarnan þótt vindum. Vatni og frosti hefur þó smám saman tekist að flytja efni af efstu brúnum fjallsins niður með hlíðum þess og myndað strýtuna, sem nú má sjá.
Líkt og gott útsýni er að Keili er ekki síðra útsýni ofan frá honum – til allra átta.
Þetta formfagra fjall varð til, sem fyrr sagði, við gos á sprungu undir jökli á ísöld. Upphaflega hefur Keilir því verið hluti móbergshryggjar sem eyddist með árunum af völdum veðrunar og huldist nýrri hraunum þannig að eftir stendur fjallið. Þráinsskjöldurinn hefur t.a.m. hulið hluta þeirra, en þó má enn sjá suma fyrrum hæstu hluta gossprungunnar; Litla-Keili, Litla-Hrút og fjöllin suðvestan við þá. Strýtumynduð lögun Keilis gefur til kynna að gosið hafi á sínum tíma ekki náð að bræða gat í jökulhvelfinguna og mynda hraun.
Frá því sjósókn hófst á norðanverðum Reykjanesskaga hefur Keilir verið notaður til að marka mið sjómanna. Þannig má sjá að margar innsiglingavörður í varir og lendingar á norðan- og vestanverðum Reykjanesskaganum hafa fyrrum haft vísan á Keili.
Fjallið er eitt af þeim fjöllum sem heilla og seiða göngumenn til sín enda vekur það jafnan athygli fyrir fegurð sína og Keilir - uppgönguleiðin framundaneinstæða staðsetningu. Göngutími á fjallið er um 2-3 klst ef lagt er afs tað frá norðanverðu Oddafelli eða frá Rauðhól skammt norðvestar. Hækkunin er um 250 metrar.
Til að komast að Keili er ekið af Reykjanesbraut skammt vestan við Kúagerði, en þar eru mislæg gatnmót Vatnsleysustrandarvegar. Greiðfært er öllum bílum með rólegum akstri um Afstapahraun (yngra) upp að Höskuldarvöllum, þaðan sem venjulega er gengið á fajllið frá norðurenda Oddafells.
Gott er að ganga á fjallið þótt bratt sé á köflum, en vissara er að fara varlega því laust getur verið í rásinni. Auðfarið er þó upp því myndast hefur greinilegur göngustígur eiginlega allt frá Oddafelli og upp á tind. Þegar gengið er upp er Hrafnafell á hægri hönd og gengur út úr Keili til norðurs. Handan þess eru keilisbörn (142 m.y.s.). Uppi á fjallinu gestabók í sérhönnuðum standi og á honum stendur að Alcan hafi gefið hann. Til stendur að setja upp útsýnisskífu á Keili (skrifað í júni 2008), auk örnefnaloftmyndar við norðanvert Oddafellið.
Gestabókastandur á KeiliMóbergsfjöll myndast við gos undir jökli, í sjó eða vatni. Meðan vatnsþrýstingur er nægur yfir eldstöðinni hleðst upp bólstraberg. Ljúki gosi á þessu stigi verður til bólstrabergshryggur, dæmi: Sigalda. Haldi gosið áfram, minnkar vatnsdýpið vegna upphleðslu gosefna undir yfirborði vatnsins/jökulsins og tekur þá fyrir bólstrabergsmyndun enda er vatnsþrýstingur þá ekki nægur til að halda vatnsgufu og gosgufum niðri. Gosvirkni breytist þá í þeytigos. Ofan á bólstrabergið leggst því gjóska sem er ýmist úr vikri, ösku eða brotabergi. Ef gosið hættir á þessu stigi verða til móbergshryggir, dæmi: Sveifluháls, eða keilulaga móbergsfjöll líkt og Keilir (ef um gos á kringlóttu gosopi eða stuttri sprungu er að ræða). Haldi gosið enn áfram, hlaðast gígrimar upp úr vatnsborðinu og vatn nær þá ekki lengur að komast í snertingu við bergkvikuna og snöggkæla hana og valda þeytigosi. Tekur þá að mestu fyrir myndun lausra gosefna og hraun fer að renna úr gígnum. Séu gígrimarnir umflotnir vatni, fyllir hraunið undir sig upp að vatnsborði með skálögðuð bólstra- og gjalllagi sem hraunhella leggst síðan ofan á. Fallegir bólstrar eru í hlíðum Keilis – ef vel er að gáð (enda engin ástæða til að flýta sér).

Útsýni til suðvesturs - Litli-Keilir t.h. - Litli-Hrútur, Kistufell og Stóri-Hrútur framundan fjær

Þegar litið er af Keili yfir „landakortið“ neðanvert til vesturs og suðurs má m.a. sjá Þráinsskjöld með Litla-Keili, Fagradals-Hagafell og Fagradals-Vatnsfell, Litla-Hrút, Kistufell og Stóra-Hrút. En það er líkt með þessi fjöll, mishá og -stór, að fólki hefur ekki alltaf verið sammála um nöfnin, þ.e. hvers er hvurs. Ástæðan hefur jafnan verið af „landamerkjatoga“ fremur en nákvæmum heimilda- og vettvangsrannsóknum. Litli-Keilir (300 m.y.s.) og Litli-Hrútur (310 m.y.s.) hafa af sumum verið nefndir Keilisbræður. Það er svo sem ekkert vitlausara en hvað annað. Verra er að þeim hefur þeim verið ruglað saman og þá nefndir Litli-Hrútur og Stóri-Hrútur, en sá síðastnefndi er mun sunnar. Litli-Hrútur (Litlihrútur) er fast norðan við Kistufell. Litli-Keilir (Litlikeilir) er milli hans og Keilis, en spölkorn vestar á Þráinsskjaldarbrúninni.
Gengið var niður að austanverðu, mun auðveldari niðurför en í „hálkustigunum“ að norðanverðu.
Þegar komið var niður var hægt að velja um nokkrar leiðir; Þórustaðastíg inn á norðanverða Selsvelli, götuna yfir að Oddafelli eða til baka að Rauðhól. Auk þess stíg yfir úfið hraun austan við Driffell. Allt eru þetta áhugaverðar leiðir því hver og ein leiðir vegfarendur að ákveðnum, en ólíkum, dásemdum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
http://www.landvernd.is/arfjalla2002/fjall_14.html

Litli-Keilir og Keilir

Grindavík

Á vefsíðunni www.grindavik.is var þann 23. júlí 2009 fjallað um „Nýtt bæjarhlið á Grindavíkurvegi“, sem auðvitað átti að vera umfjöllun um nýtt „borgarhlið“ ef horft er til lengri framtíðar.
BorgarhliðiðÞar sagði m.a.: „Þeir sem hafa átt leið um Grindavíkurveginn að undanförnu hafa tekið eftir nýju bæjarhliði Grindavíkurbæjar sitt hvoru megin við veginn, nálægt Seltjörn, sem er mikil bæjarprýði og var tekið í noktun fyrir Sjóarann síkáta þetta árið. Ekki fer á milli mála að þeir sem aka í gegnum bæjarhliðið átta sig á því að þeir eru komnir til Grindavíkur og jafnframt hversu stórt land heyrir undir bæjarfélagið.
Nýja bæjarhliðið er hannað af Ingu Rut Gylfadóttur landslagsarkitekt hjá Forma en hún rekur fyrirtækið ásamt Björk Guðmundsdóttur.
Inga Rut segir að hugmyndin á bak við vörðurnar hafi verið að halda í og spila með náttúrunni á svæðinu:
,,Umhverfið er auðvitað einstakt Borgarhliðiðmeð þetta úfna hraun. Hugmyndin byggir á gömlu vörðunum sem víða sjást í náttúrunni og eru vegvísar eða kennileiti. Það má segja að þær hafi verið ýktar upp og stækkaðar,“ segir Inga Rut.
Efnisvalið er náttúrugrjót frá nánasta umhverfinu og hugmyndin af mótspili í efnisnotkun á móti náttúrugrjótinu er ryðgað stál. Hugmynd er í raun tekin úr Hópsnesinu þar sem er að finna gömul skipsflök. Að sögn Ingu Rutar er framtíðarplanið að vörðurnar verði upplýstar.“
Í framhaldi af þessu sendi FERLIR Ingu Rut eftirfarandi tölvupóst: „
Var að skoða www.grindavik.is í gegnum www.ferlir.is þar sem fjallað er um nýja “bæjarhliðið” sem réttara er nú að kalla “borgarhlið” með skýrskotun til framtíðarinnar… Vefsíðan hafði áður birt mynd af verkinu – http://ferlir.is/?id=8426 – en hún bar ekki með sér hver höfundurinn er.
BorgarhliðiðFERLIR fjallar gjarnan um fornar minjar, en einnig áhugaverð nútímaverk, sem verða munu minjar. Spurningin er hvort þú átt eitthvað meira kjöt á beinin varðandi tilurð, vangaveltur og hugsýn v/nýja hliðið, sem áhugavert væri að fjalla um á vefsíðunni? Já, og til hamingju með bæði hugmyndina og verkið!“
Ekkert svar barst frá Ingu Rut.
Borgarhliðið

Heimild m.a.:
-grindavik.is
-Erna Rut Gylfadóttir.

Grindavík

Nú hafa sögu- og minjaskiltin í Grindavík verið lagfærð. Skiltin eru orðin sjö talsins; í Þórkötlustaðahverfi, á Þórkötlustaðanesi, við Hóp, í Járngerðarstaðahverfi, á Gerðarvöllum, í Staðarhverfi og við Hraun.
SkiltiFyrsta sögu- og minjaskiltið var sett upp í Járngerðar-staðahverfi fyrir þremur árum. Kortið á því, og næstu skiltum þar á eftir, var prentað á hlífðarlausan pappír og sett undir plasthlíf. Þegar raki komst að pappírnum vildi hann smám saman bæði bólgna og upplitast. Núverandi kort eru varin álfilmu svo þau ættu að verja sig betur og endast þar af leiðandi lengur. Nýju kortin eru auk þess skýrari en þau gömlu.
Í kjölfar afhjúpunar skiltisins við Hraun var farið í þá vinnu að gefa út veglegan bækling með öllum kortunum, textum og fjölda ljósmynda af sögu- og minjastöðum í Grindavík. Vonast er til að Ferðamálafélag Grindavíkur komi að því verki líkt og það gerði svo myndarlega við útgáfu bæklinga um Selatanga og Húshólma.
SkiltiLíklegt má telja að kortabæklingurinn verði vinsæll, bæði meðal heimafólks og ekki síður gesta þess. Í raun má segja að hér verði um einstakt verk að ræða því ekkert annað sveitarfélag á landinu getur státað að því að hafa látið teikna upp og staðsetja allar sýnilegar (og jafnvel horfnar) minjar og örnefni í bænum og gera gögnin aðgengileg fyrir áhugafólk um efnið. Kennarar og nemendur í skólum bæjarins munu og geta notað gögnin til að fræðast betur um bæinn sinn, sögu hans og þróun allt frá upphafi byggðar.
Kortin er allnákvæm. Upplýsingar- og staðsetningar eru unnar í nánu samráði við aldna Grindvíkina er gerst þekkja til staðháttu. Sem dæmi má nefna að í fornleifaskráningu fyrir Staðarhverfi er getið um 8 býli í hverfinu, en á kortinu er getið um 28 slík, enda má sjá leifar þeirra enn ef grannt er skoðað. Nú við endurnýjun skiltanna hefur 29 bærinn (sem verið hefur nafnlaus á kortinu) skilað sér. Hann mun hafa heitið „Ölfus“.
Skilti

Húshólmi

FERLIR hefur átt ágætt samstarf við Landgræðslu ríkisins um uppgræðslu í Húshólma. Eins og mörgum er kunnugt hafði orðið mikil jarðvegseyðing í hólmanum, sem nú hefur tekist að stöðva. Landhelgisgæslan flaug með fræ og áburð inn á svæðið á síðastliðnu ári (2005) og markmiðið var fara eina umferð um hólmann á því ári og síðan að ljúka dreifingunni nú í sumar (2006).
Húshólmi

Nú var ætlunin að fara lokaferð í Húshólma og klára það sem eftir er. Mæting var undir Mælifelli þar sem haldið var um slóða niður að Húshólmastíg. Allar hjálpendur voru velkomnar.
Þegar afrakstur liðins árs var skoðaður kom í ljós annars vegar mjög góður árangur og hins vegar árangursleysi. Fyrri áburðar- og frædreifingin hafði heppnast vonum framar. Gott gras hafði myndast í rofsvæðum og myndað gott skjól fyrir annan gróður, auk þess sem það bindur raka í jarðveginum. Mófuglar, s.s. lóa og músarrindill, höfðu verpt í nýorðnu skjólinu. Geldingarhnappur, holurt, blóðberg og lambagras, og jafnvel einir, döfnuðu af áburðargjöfinni sem aldrei fyrr. Þarna mun grasið innan skamms tíma mynda sinu, sem aðrar „heimjurtir“ munu nýta sér og svæðið mun smám saman gróa upp. Að ca. fjórum árum liðnum væri ágætt að gefa því svolítinn áburð yfir allt og þá mun heimagróðurinn ná yfirhöndinni.
Seinni áburðar- og frædreifingin hafði hins vegar misheppnast að mestu. Sjá mátti einstaka grasstúfa upp úr, en þeir væru varla tilefni frekari útbreiðslu. Ástæðan mun líklega vera sú að ofanvert svæðið var of seint sáð. Fræin hafa ekki náð að festa sig nægilega vel í sessi og frostlyftingin því átt auðvelt með að rífa þau upp og eyða.

Húshólmi

Orkunni var beint að efra svæðinu að þessu sinni. Áburði var dreift yfir gróið svæðið, auk þess sem fræjum var sáð í gloppur. Ætlunin er að fara aðra ferð í Húshólma innan skamms og þá dreifa fræjum og áburði aftur yfir neðra svæðið.
Engin ástæða er til að óttast að frædreifingin geti haft áhrif á fornar minjar í Húshólma, enda eru þær að mestu leyti vestan og utan við hólmann sjálfan.
Tíminn þessa kvöldstund, að dreifingu lokinni, var notaður til að skoða minjasvæðið í og við Húshólma. Þegar hin heillega skálatóft næst nyrst ofan við Kirkjulág var gaumgæfð kom í ljós ferköntuð vegghleðsla. Þessi hleðsla hefur væntanlega gert það að verkum að hraunið, sem rann 1151, náði ekki skálanum. Það hefur hins vegar náð að eyða nyrsta skálanum, en veggur þessi hefur haldið hlífiskyldi yfir þeirri neðri. Holtagrjótið sést vel í hleðslunni.
Þegar Kirkjuflötin var skoðuð þetta lengsta kvöld (lengsti dagur reyndar) ársins sást gerðið innan garðs mjög vel í kvöldsólinni. Hlaðinn garður, nær jarðlægur, liggur sunnan þess, þvert á bogadreginn langgarð, þó innan megingarðsins, sem er skammt austar og norðar. Hvað þetta gerði hefur haft að geyma er enn hulin ráðgáta. Gerðið hefur að mestu verið gert úr torfi.

Stoðhola

Gat hafði myndast í jörðina nyrst í Húshólma. Eftir að nokkrir steinar höfðu verið fjarlægðir kom í ljós grunn hraunrás. Hún er í hrauni, sem runnið hefur áður en hraunið 1151 rann. Umhverfis má víða sjá slík göt, niður í grunnar og stuttar rásir.
Í kvöldsólinni mátti sjá tóft norðvestan við hlaðinn stekk nyrst í hólmanum. Ekki er óraunhæft að ætla að þarna kunni að leynast forn seltóft.
Frábært veður; lyngt, hlýtt og bjart í frábæru umhverfi með fuglasöng á báðar hendur. Villtur ameríkani, með myndavél framan á bumbunni, birtist skyndilega í hólmanum undir það síðasta. Í fyrstu var talið það þarna væri álfur á ferð, en þegar hann tjáði sig á útlensku hvarf sú birtingarmynd skyndilega. Maðurinn, greinilega einn af hinum síðustu varnarliðsmönnum af Vellinum, Levisgallabuxnaklæddur og í Nikestrigaskóm, gaut sitthvoru auganu samtímis til austurs og vesturs og spurði án þess að hugsa hvort „puffins“ væri þarna einhvers staðar nálægur. Honum var bæði bent til suðurs og til vinstri. Maðurinn var ánægður með svarið og hvarf að því búnu niður í Hólmasundið. But what a heck – in this time of the year. Og það einn af þeim, sem var að hverfa hvort sem er.

Húshólmi

Uppgræðsla í Húshólma.

 

/https://ferlir.is/husholmi-sagan/

Hvaleyri

Gísli Sigurðsson, blaðamaður, skrifaði grein í Morgunblaðið árið 2006 undir fyrirsögninni „Íhugunarefni á Hvaleyri„. Fjallaði hann þar m.a. um þær breytingar sem voru að verða á þessu af enu af elstu kennileitum Íslands.

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

„Hvaleyri skagar fram í flóann sunnan við Hafnarfjörð. Hvorttveggja er að þessi tangi er fyrir margt merkilegur, og svo hitt að hann er á útmörkum höfuðborgarsvæðisins; þangað er stutt að fara fyrir þá sem þar búa. Hvaleyri er sögulega merkileg vegna þess að hennar er getið í Landnámu, jafnvel áður en greint er frá landnámi Ingólfs Arnarsonar í Reykjavík. Þá hafði þar viðkomu Hrafna-Flóki Vilgerðarson, „víkingur mikill“ segir í Landnámu, og hafði hann áður haft vetursetu í Borgarfirði og þar áður í Vatnsfirði, þar sem hann fékk nóg af klakanum; skírði hann Ísland og sigldi til baka. Segir svo af komu þeirra félaga til Hafnarfjarðar: „Þeir fundu hval á eyri einni út frá firðinum og kölluðu þar Hvaleyri.“ Ekki er nefnt hvort þeir dvöldu þar lengur eða skemur áður en þeir sigldu áfram út til Noregs. Sú arfsögn lifði að þeir hefðu höggvið rúnir á klappir, sem enn sjást, og eru friðlýstar vestarlega á eyrinni. Hafði Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur, heyrt af þeim og sá ástæðu til þess að koma við á Hvaleyri í rannsóknarleiðangri og teikna þær upp. Niðurstaða Jónasar var sú að þar væru skráð nöfn einhverra skipverja Hrafna-Flóka. Þessar fornu rúnir sjást enn, en þeim hefur verið spillt; meðal annars með því að síðari tíma menn hafa krotað upphafsstafi sína ofan í þær.

Hvaleyri

Hvaleyri – Flókavarða (minnismerki) fremst.

Gamlir Hafnfirðingar telja að þar hafi hermenn verið að verki, en Bretar reistu kamp á Hvaleyrinni og þar eru nokkrar herminjar sem enn sjást. Á klapparásnum þar sem rúnasteinarnir eru sjást á tveim stöðum, ef að er gáð, niðurgrafin vaktmannaskýli, að hluta steinsteypt og yfir þeim grófrifflað þak með braggalagi. Á norðvesturströndinni hafa fram til þessa verið leifar af byssustæði og á grýttu svæði sunnan á eyrinni má sjá tæplega hnédjúpa skotgröf. Þarna skyldi tekið á móti þýzka innrásarhernum, ef hann birtist, en þetta varnarmannvirki er eiginlega átakanlega aumlegt og hefði naumast orðið Bretunum mikið skjól. Annað sem heyrir undir herminjar er steinsteypt birgðaskemma; eina húsið á norðanverðri eyrinni.

Hvaleyri

Hvaleyri – herminjar.

Jarðfræðilega er Hvaleyri merkileg vegna þess að hún er syðsti hluti af geysistórum hraunstraumi, sem upp kom í Borgarhólum á Mosfellsheiði fyrir um 200 þúsund árum. Hraunið myndaði þá undirstöðu sem Reykjavík stendur á, en sú kvísl hraunsins sem lengst náði frá eldstöðinni rann í sjó fram sunnan við Hafnarfjörð og þá varð Hvaleyri til. Upphaflega gæti hún hafa náð langt út á flóa, þegar þess er gætt hversu mjög hefur kvarnast af henni í tíð núlifandi manna. Ugglaust hefur drjúg sneið horfið fyrir um 9 þúsund árum á skammvinnu jökulskeiði, sem hefur skilið eftir sig ummerki á klöppunum fyrrnefndu, þar sem djúpar rispur í veturátt vitna um mikið jökulfarg.
Sem dæmi um niðurbrotið má nefna að gamall Hafnfirðingur mundi eftir fjárhúsum um það bil 100 metrum norðan við ströndina eins og hún er nú. Neðantil er þetta hraunlag gljúpt eins og jafnan verður þegar hraun rennur út í sjó. Þar grefur brimaldan sig inn í undirstöðuna og síðan hrynur efri hlutinn. Sárt er að horfa á þetta án þess að nokuð sé að gert; til að mynda féll steinbogi fyrir fáeinum árum, sem stóð fram úr vesturenda Hvaleyrar.
Hvaleyri
Umræður um varanlega aðgerð til að koma í veg fyrir frekara niðurbrot hafa lengi staðið yfir. Hluta strandarinnar að norðanverðu var bjargað með stórgrýti og sú hugmynd hefur skotið upp kollinum að byggja upp slíkan kraga umhverfis tangann og þá jafnvel að á honum yrði vegur. En ljóst er að einhverjar björgunaraðgerðir mega ekki dragast úr hömlu.
Frameftir öldum voru mörg smákot á Hvaleyri; síðast stóðu þar eftir Hvaleyrarbærinn, Vesturkot, Hjörtskot og Sveinskot.

Hvaleyri

Hvaleyri – minjar.

Því miður eru fá ummerki eftir um búskapinn; þó vitna hlaðnir grjótgarðar um útmörk ræktunarlandsins og við 17. flötina á golfvellinum stendur enn hrútakofi eða eitthvert álíka fjárhús. Um 1966 fengu áhugamenn um golf augastað á landinu sem allt var ræktað og grasgefið; stofnuðu þar Golfklúbbinn Keili 1967 og hófust handa um golfvallarhönnun. Það er þessum brautryðjendum að þakka að Hvaleyrin er enn græn yfir að líta á sumardögum og bæjarprýði, en það stóð oft tæpt þegar sveitarstjórnarmenn og athafnamenn létu sig dreyma um vöruskemmur og annað álíka fagurt á svæðinu.
Hvaleyri
Á Hvaleyri hefur golfvöllur Keilis tekið ýmsum breytingum í áranna rás og nú er hann að hluta í hrauninu fyrir sunnan. Sem golfvallarland hefur Hvaleyri þann ókost að mishæðir skortir, en á móti kemur að þar festir sárasjaldan snjó til langframa og Keilisfélagar geta leikið allan veturinn þegar tíðarfar er eins og verið hefur að undanförnu. Þegar íþróttablaðamenn fjalla um golf nefna þeir æði oft Hvaleyrarholtsvöll. Það er rangt. Hvaleyrarholt heitir hæðin austan við golfvöllinn þar sem byggðin er. En völlurinn er einungis á Hvaleyri. Þeim sem ekki elta kúluna hvítu, en hafa hug á að ganga um Hvaleyri, skal bent á að bílastæði er við golfskálann.

Hvaleyri

Hvaleyri 2022.

Bezt er, og jafnframt áhugaverðast, að ganga meðfram ströndinni. Það gera margir og það þarf hvorki að vera hættulegt eða trufla leik golfara. En séu þeir að leik verður að hafa auga með þeim á ákveðnum stöðum og ef til vill verður þá að hinkra við, rétt til að draga andann og njóta útsýnis á meðan þeir slá, og ágætt er að spyrja þá hvar öruggast sé að fara. Sé það gert geta allir notið þess að rölta um með augun opin, finna angan úr fjöru, hlusta á klið fuglalífsins og íhuga herminjar og fornar rúnir.“

Heimild:
-Morgunblaðið, 29.11.2006, Íhugunarefni á Hvaleyri – Gísli Sigurðsson, bls. 20F.

Hvaleyri

Hvaleyri – túngarður.

Fjallgrensvarða

Gengið var upp í Almenning frá Brunatorfum í gegnum Gjásel og Hafurbjarnarholt með viðkomu í Stórholtsgreni þar sem Skotbyrgið var m.a. barið augum, við Steininn, Fjallsgrensvörðu og Fjallsgrensskotbyrgin norðvestan Sauðabrekkna.
Gamla thufaÍ örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum segir m.a. af þessu svæði: „Úr Jónshöfða liggur landamerkjalínan um Katlana og höfðann og um svokallaðar Stórhæðir, og þaðan liggur línan í Hafurbjarnarholt. Þar uppi er svo Hafurbjarnarholts-varðan. Síðan liggur línan í Steininn, stóran og mikið sprunginn.
Suður í garði frá [Straums]Selinu liggur Straumshellnastígur suður að Straumshellum nyrðri, miðja vegu milli Gömluþúfu og Straumssels, og þaðan liggur stígurinn í Straumshellana syðri. Hér eru allgóð fjárskjól, og hafði Tjörvi þarna fé. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstrar. Suðvestur og upp er allmikil hæð, sem ekki ber sérstakt nafn, en þar er þúfa mikil, sem nefnist Gamlaþúfa. Vestur af henni liggja Bringurnar. Þar er Steinhús, klapparhóll mikill og áberandi. Rétt austan við það er fjárskjól eða skúti, sem mun ekki hafa neitt sérstakt nafn. Í skrá Gísla Sigurðssonar er skúti þessi nefndur Gústafsskjól. En þetta nafn hafði Gísli sjálfur gefið, þegar hann var í örnefnaleiðangri ásamt Gústaf Brynjólfssyni. Áður höfðu þeir Gústaf gefið þessu nafnið Steinhússkjól.
StorholtAustur frá Gömluþúfu er lægð, sem nær allt austur að Hafurbjarnarholti. Þar er að finna Stórholt og á því Stórhóll. Þar er einnig að finna Stórholtsgreni og þar skammt frá Skotbyrgið. Hér suður af er Fjárskjólsklettur með sitt Fjárskjól. Þá er Fjallgrenshæð og þar í kring Fjallgrensbalar og Fjallgrensgjá og Fjallgren. Fjallgrenið er í austur frá Gömluþúfu, á að gizka. Þá kemur nokkuð slétt helluhraun, en suður af því kemur svo Sauðabrekkugjá, sem heitir Fjallgrensgjá austar.“
SteinhússkjólAuðvelt var að ganga að Skotbyrginu við Stórholtsgrenið. Í rauninu eru grenin þar efra tvö; beggja vegna byrgisins. Þau eru bæði merkt með steinum. Ekki var að sjá að rebbi hafi dvalið þar að undanförnu.
Reynt var að staðsetja framangreind Steinhússkjól og Fjárskjólið við Fjárskjólsklett, en hvorutveggja var fjandanum erfiðara. Bæði er landið allt kjarri vaxið og auk þess eru klettar og klapparhæðir hvert sem litið er. Fyrst var reynt að finna Fjárskjólið, en við lestur lýsingarinnar gæti munað einum greinarskilum. Ef svo er ættu skjólin að vera nokkuð nálægt hvoru öðru.
Straumsselsfjarhellar sydriÖrnefnið „Steinhús“ er venjulega tilkomið vegna þess að þar er húslíki í kletti eða hæð. Hér að framan á það að vera „klapparhóll mikill og áberandi“. Hafa ber í huga að skrásetjari var að koma neðan frá upp í Almenning. Þaðan má sjá a.m.k. tvo áberandi og mikla klapparhóla í Bringum. Skammt austan við þann efri er skúti; hið ágætasta skjól. Grasi gróið jarðfall er framan við hann og virðist sem þar hafi verið grafið lítið vatnsstæði og lægðin notuð sem nátthagi. Það ætti ekki að vera svo óraunverulegt því frá skjólinu má sjá Gerðið við Straumsselsfjárhella syðri.
Gengið var að Gerðinu og umhverfis það að vestanverðu. Hafa ber í huga að í lýsingunni er norður útnorður, þ.e. beint út á sjó, og aðrar áttir í Hafurbjarharholtsvardahenni taka mið af því. Ekki dugar að nota núgildandi höfuðáttirnar þarna í algleymi hraunanna.
Enn og aftur var reynt að staðsetja Fjárskjólið. Það var líka eftir bókinni; hvergi sjáanlegt þrátt fyrir að knévaðið hafi verið yfir kjarr og klapparhóla í hvívetna. Grænt gras og þéttvaxið var víðast hvar í lægðum ofan við Stórholt og því verður að telja líklegt að Fjárskjólið kunni að leynast þar. Allmargar vörður og vörðubrot mátti sjá á hraunhólum, en við eftirgrennslan reyndist þar hvergi leynast fjárskjól. Á mörgum stöðum voru að vísu hraunskegg, en hvergi var mannvistarleifar að sjá er gætu gefið vísbendingu um tilefnið. Að fenginni reynslu á Fjárskjólið við Fjárskjólsklett eftir að finnast, en þá að allt öðru tilefni í allt annarri FERLIRsferð.
Frábært veður á jónsmessunni. Gangan tók 8 klst og 8 mín.

Hafurbjarnaholt

Varða á Hafurbjarnaholti.

 

Selvogur

Uppi á fjörukambinum skammt austan við Selvogsvita má enn sjá leifar hluta trébáts, sem þar fórst á sínum tíma. „Báturinn hét Vörður RE 295,  er hann rak á land með bilaða vél austan við Selvogsvita, 9. mars 1956, með fullfermi af loðnu. Með bátnum fórst öll áhöfnin samtals 5 manns.
Vordur-21Bátur þessi var kantsettur tvísöfnungur smíðaður af Þórði Jónssyni frá Bergi í Vestmannaeyjum árið 1913 og átti hann bátinn sjálfur og réri á honum fyrstu árin. Báturinn var eini báturinn sem Þórður smíðaði.  Umb. 1937.
Bátur þessi er sagður hafa verið með fullfermi af loðnu sem er nokkuð framúrstefnuleg, en nokkrum árum áður eða 1954, var hann gerður út á humarveiðar frá Grindavík og var skipstjóri þá Jón Eiríksson og lagði hann hjá frystihúsinu í Höfnum.
Nöfn: Enok VE 164, Enok II VE 164, Ingólfur Arnarson VE 187, Ingólfur Arnarson GK 187, Stuðlafoss SU 550, Vörður SU 550 og Vörður RE 295.“

Heimild:
-emilpall.123.is/blog/yearmonth/2010/04/18/

Vordur-22