Gengið var að Hásteini þar sem Kristófer Bjarnason, kirkjuvörður í Strandarkirkju, tók á móti þátttakendum. Með í för var einnig Guðmundur G. Þorsteinsson, hellafræðingur með meiru. Kristófer vísaði m.a. á Svarthól, sem er þarna vestan við Hástein (Hásteina).
Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.
Undir Svarthól eiga að vera tóttir. Ætlunin var að skoða þær síðar. Þá lýsti Kristófer landamerkjum og fl. með vísan til væntanlegra selfunda á og við Selvogsheiði. Þessi ferð var sérstök að því leyti að ætlunin var að finna nokkra staði, a.m.k. einn þeirra hafði hingað til ekki verið merktur inn á kort og aðeins örfáir núlifandi menn vissu hvar væri að finna. Þá áttu fleiri uppgötvanir eftir að koma á óvart í ferðinni.
Á kortum er Bjarnastaðaból sagt vera við Hástein. Þar eru tóftir og hleðslur. Ekki er ólíklegt að þar hafi einhvern tíma verið selstaða. Upplýsingar höfðu borist um að selið frá Bjarnastöðum væri hins vegar mun ofar í heiðinni. Gengið var áleiðis þangað eftir áður gefinni leiðarlýsingu Snorra frá Vogsósum, með stefnu til norðausturs að Hnúkunum, en þar undir brekkunum, u.þ.b. kílómeter ofan við Háststein, átti Bjarnastaðaból að vera. Það reyndist líka vera þar. Uppi á og vestan undir hól áður en komið var að efsta hólinn undir brekkunum var stórt sel með allmörgum tóttum. Hlaðinn stekkur var vestan af selinu, einnig á hól.
Þorkelsgerðissel – uppdráttur ÓSÁ.
Suðvestan við Bjarnastaðaból, í svipaðri fjarlægð frá Hásteini, í norður frá honum, var gengið fram á Þorkelsgerðisból, einnig stórt sel með mögum tóttum. Stekkurinn var á hól skammt norðan við selið. Á kortum hefur Þorkelsgerðissel verið sýnt norðan til við Vörðufell, nálægt Eimubóli.
Eimuból – uppdráttur ÓSÁ.
Línan var tekin norður fyrir Vörðufell, um tveggja kílómetra leið, þar sem komið var að Eimubóli. Tóttirnar eru austan við stórt gróið jarðfall, en í því eru hellisop til suðurs og norðurs. Hlaðinn gerður er ofan og umhverfis opið. Í öðru jarðfalli skammt sunnar er gömul tótt og kví. Hellir þar í suður hefur verið notaður sem fjárhellir. Hleðsla er inn í honum miðjum. Op er upp úr þeim helli skammt sunnar. Að sögn Guðmundar eru Eimuhellar, eða Eimuhellir því um eina sundurslitna hraunrás er að ræða, um 400 metrar í heildina. Norðan við stóra jarðfallið er hlaðinn stekkur og einnig er hlaðinn lítill stekkur ofan á syðsta opinu, ofan við fjárhellinn.
Vindássel – Uppdráttur ÓSÁ.
Tóttir eru skammt austan við Eimuból, Vindássel. Landamerki Eimu og Vindáss liggja í vörðu syðst á Vörðufelli og í vörðu á Hellholti. Frá Vindásseli mátti vel sjá gömlu réttina ofan á Vörðufelli.
Gengið var að Einbúa vestan Vörðufells. Um 200 metrum vestan við hólinn er gróið jarðfall. Niður í því er gamalt tófugreni. Guðmundur kannaði hraunrás, sem þar er og virtist hún ná eitthvað til norðurs og einnig til suðurs. Rásin mun verða skoðuð nánar síðar. Botninn í rásinni er hrjúfur. Loftið innan við munnann stendur á hraunsúlum.
Stekkur í Bjarnastaðabóli.
Þá var gengið til norðurs í átt að Hraunhól í mið Svörtubjörg, vestan við Hellholt. Á meðan aðrir leituðu að tóttum, sem áttu að vera þar í slakka miðsvæðis, en þó vestar, kíkti Guðmundur í Bólið, helli austan í Hellholti. Við opið er lítil tótt og inni í hellinum eru miklar hleðslur. Í leiðinni var litið ofan í hraunrás suðvestan Hellholts, en hún reyndist vera um 10 metra löng. Nánar verður fjallað um Hellholtssvæðið í annarri FERLIRslýsingu.
Eftir nokkra leit fannst tóttin, sem nefnd hefur verið Strandarsel (Staðarsel) uns annað vitnast. Stór varða er á hæð austan við tóttina og liggur gömul leið úr suðri í átt að vörðunni, en sunnan hennar beygir gatan til vesturs að selinu. Suðvestan við tóttina er fallega hlaðinn stekkur.
Gengið var í átt að Hlíðarborg, en þar sunnan borgarinnar átti skv. lýsingu að vera önnur hlaðinn fjárborg, svonefnd Valgarðsborg. Hún var þar líka, hringlaga og hefur verið allnokkuð mannvirki á sínum tíma.
S
Hlíðarsel – uppdráttur ÓsÁ.
vo gerðist hið furðulega. Á leið frá Valgarðsborg að Hlíðarborg í norðvestri gengu þátttakendur fram á stórt sel. Það er að öllum líkindum Hlíðarsel, en bein sjónlína er að frá selinu að bænum Hlíð norðan við Hlíðarvatn. Selið er efst í brúninni í austur séð frá Hlíð. Í örnefnalýsingu fyrir Hlíð er getið um Selstöðu frá Hlíð í Selbrekkum, sem eiga að vera skv. henni ofan við Vogsósaréttina við girðinguna austan við Hlíðarvatn. Ekki var að sjá nein merki um minjar þar, a.m.k. ekki að þessu sinni. Hér gæti verið um ónákvæma staðsetningu að ræða, en selstaðan hins verið sem hér getur.
Hlíðarborg í Selvogi – síðar stekkur.
Skammt norðan við selið, handan girðingarinnar, er Hlíðarborg, mikið mannvirki vestan undir háum hraunhól. Niður með borginni til vesturs liggur greinileg gömul gata (Hlíðargata) áleiðis að Hlíð við Hlíðarvatn. Við hana eru litlar vörður og vörðubrot. Skammt norðar eru tóftir (borg o.fl.) undir Borgarskörðum.
Frá Hlíðarborg var gengið að hellinum Ána, en við op hans eru talsverðar hleðslur. Ennig er hlaðinn lágur garður skamma leið til suðurs frá hleðslunum.
Loks var haldið yfir að Vogsósaseli, sem er skammt austan við Vogsósaréttina. Selið eru tvær tóttir efst á hraunhrygg sunnan Vatnaása.
Ferðin var frábær. Veður einnig – hlýtt, stilla og sól. Gangan tók 5 klst og 11 mín.
Bjarnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.
Arnarþúfa
Skoðaðar voru rústir eftir Bretana frá stríðsárunum vestan undir hólum vestan Arnarþúfu vestan Sandskeiðs.
Skjól í Arnarþúfum.
Vestan við hólana eru miklar rústir eftir, s.s. skotbyrgi, vegir, varnarveggir og önnur mannvirki. Nyrst undir vestanverðum hólunum eru einnig tvær, sem virðast vera eldri en aðrar rústir á svæðinu. Önnur er hlaðið hús úr móbergssteinum. Norðan við tóttina er sorpbrennsluofn frá Bretanum. Tóttin er nokkuð heilleg. Í einn steininn inni í henni eru ritaðir stafirnir R.B. Þarna gæti verið um gamalt sæluhús að ræða, en það er, líkt og svo magrar aðrar tóttir á Reykjanesi, í skjóli fyrir austanáttinni. Skammt sunnan við tóttina er önnur graslæg. Þar virðist hafa verið brunnur og er allgróið í kringum hann. Gamla þjóðleiðin austur er þarna skammt austar. Ekki langt frá, á klapparhól skammt vestan við Sandskeið, er tótt hlaðins sæluhús. Það sæluhús er annað tveggja, sem vitað er um nálægt Fóelluvötunum. Hitt er svo til miðja vegu á milli þessa húss og Lyklafells, þar vestan undir smáhæð. Þar eru a.m.k. tvær tóttir.
Áletrun í Arnarþúfum.
Kirkjuvogssel
Gengið var upp í Hafnaheiðina. Ætlunin var að skoða svæðið betur í kringum Kirkjuvogssel ofan.
Tóftir í Kirkjuvogsseli.
Frést hefur af gömlum hleðslum norðvestan við selið. Þar gætu verið leifarnar af Gamla Kaupstað, sem var gamall áningastaður á milli Grindavíkur og Hafna. Þar á og að vera Hestavegurinn svonefndi.
Selssvæðið er vel varið varúðarskiltum frá verndurum vorum, en þarna mun hafa verið æfingasvæði hersins um tíma. Klæðst var sprengiheldum skóm og stikklað af stað. Selið sást framundan, vel gróið undir hraunhól, mót norðvestri. Talsverar tóftir eru í selinu, m.a. stór stekkur vestan við þær, kví og önnur mannvirki. Ekki var brunn eða vatnsstæði að sjá, enda búið að vera mjög þurrt, en norðan við tóftirnar mótar fyrir reglulegu hringlaga gerði. Talsvert jarðvegsrof er þarna, en svo virðist sem hringurinn hafi verið grunnmynd af torfhlöðnu gerði eða fjárborg.
Kirkjuvogssel.
Ofan við hraunhólinn er tóftir sem og mannvirki eftir verndarana þar sem þeir hafa verið við æfingar. Varða er á klapparhrygg í norðvestri, í línu að „nýja“ Kirkjuvogi og Kotvogi.
Ekki gafst tími til að leita þarna að hugsanlegum ummerkjum eftir Gamla Kaupstað eða Hestaveginn að þessu sinni, en það verður gert við tækifæri.
Ágætisveður var á svæðinu. Gangan tók 59 mínútur.
Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ 2012.
Letursteinn (1779) – Brunnastaðir
Skoðaður var nýlega fundinn letursteinn á bæ á Vatnsleysuströnd. Hann fannst nýlega þegar verið var að grafa á hlaðinu fyrir símastreng nálægt bænum.
Brunnastaðasteinninn – 1779.
Steinninn er sæmilega stór, með áletruninni 1779 á annarri hlið og skrautletruðum stöfum (GL & ED) á hinni. Svo virðist sem steinninn hafi áður haft járnvirki yfir sér því grópað er efst í hann á fjóra vegu. Fyrsta sem heimilisfólki datt í hug eftir fundinn var að hafa samband við FERLIR. Skoðað verður nánar hverjum steinnin kann að hafa tilheyrt og af hvaða tilefni hann kann að hafa verið gerður. Ekki er ólíklegt að hann hafi verið til gjafa að sérstöku tilefni, t.d. brúðkaupi, enda vel til fundið.
Brunnastaðir.
Fólkið á bænum er margfrótt, bæði um sögu og staðhætti. Það er í rauninni ágætt dæmi og þörf ábending um það hversu mikilvægt er að vera í góðu sambandi við fólkið í landinu, sem býr yfir reynslu og vitneskju, og leyfa því góðfúslega að miðla fróðleik til skráningar, eftirkomandi kynslóðum til gangs. Ef ekkert er að gert verður ekkert að gert, að því gengnu. Og þvílík sóun…
Þessu tiltekna fólki datt ekki einu sig í hug að fela einhverri opinberri stofnu steininn til varðveislu, enda „sóun“ á góðum grip…
Letursteinn á Brunnastöðum.
Breiðabáshellir – Vigdísarvellir
Haldið var að Herdísarvík. Fengist höfðu greinargóðar upplýsingar um týndan helli þar austan við, en hann á að ná frá Breiðabás upp í mitt Mosaskarð í Herdísarvíkurfjalli. Ef það reynist rétt gæti hellirinn verið um 800 metra langur. Sagnir eru til um að vinnumaður í Herdísarvík hafi eitt sinn farið inn í hellinn og en villst þar inni í sjö klukkustundir.
Þorkell Kristmundsson við Breiðabás í Herdísarvík.
Tekin voru mið af lýsingunni (Klofaklettur í Hamragerði). Viti menn. FERLIRsfólkð gekk svo til beint að opinu. Á svæðinu er mörg op, en einungis tvö þeirra virðast fela slungnar rásir. Fyrst var farið inn í rás, sem lokaðist eftir 20. metra. Ofan í rásina hafði fallið grjót, sem auðvelt ætti að vera að forfæra. Innan við það heldur rásin áfram. Þegar farið var inn í Breiðabáshelli varð að ganga boginn til að byrja með. Síðan hækkaði rásin. Þá var komið að litlu opi. Innan við það heldur rásin greinilega áfram upp undir hraunið.
Klofaklettur.
Einnig eru rásir til hægri og vinstri. Ekki var lagt í langferð að þessu sinni. Hún mun bíða betri tíma. Ef hellirinn er eins og lýst hefur verið gæti hann verið meiriháttar. Einn maður er á lífi, sem farið hefur inn í hellinn, en hann komst ekki langt því það slokknaði á kerti, sem hann var með svo hann varð að snúa við, rataði ekki út aftur, en komst loks upp um þröngt gat í hrauninu. Ætlunin er að fara fljótlega aftur á staðinn með það að markmiði að skoða allan hellinn.
Í leiðinni var skoðaður fjárhellir vestan við Breiðabás. Um er að ræða stóra hraunbólu. Engar hleðslur eru inni í henni.
Fjárskjól sunnan Vigdísarvalla.
Þá var haldið að Vigdísarvöllum. Á leiðinni var tekið mið af réttinni í Stóra-Hamradal og síðan stöðvað við fjárskjól undir Ögmundahraunsgígum. Hleðslur eru fyrir opi og bekkur inn eftir honum miðjum. Guðmundur Hannesson, bóndi á Bala, sá hinn sami og hlóð Gvendarborg á Vatnsleysuheiði og síðar bjó á Ísólfsskála, gerði hleðslur þessar fyrir fjárhellinn.
Skoðaðar voru tóttirnar á Vigdísarvöllum, en vellirnir sjálfir eru þarna skammt sunnar. Upp frá bænum gengur Bæjargil milli Núpshlíðarháls og Bæjarfells. Austan við Bæjarfell, samtengt, er Vigdísar[valla]háls.
Bali.
Sunnan undir honum eru tóttir bæjarins Bala. Eftir að hafa skoðað þær var haldið að rétt norðaustan við hálsinn. Þær eru að hluta til hlaðnar utan á náttúrlegan vegg og að hluta til girðingaréttir. Þaðan var haldið yfir að Sveifluhálsi, gengið upp hálsinn eftir Hettustíg. Hann er ruddur upp hlíðina og efst á hálsinum er grópað í bergið eftir hófa, fætur og klaufir. Gengið var suður eftir Bleikinsdal, sem er grasi gróinn og niður að gígaröð austan Vigdísavalla. Þar var komið við í miklu jarðfalli. Rás gæti leynst sunnan í jarðfallinu. Frá henni var gengið yfir að tóttum Vigdísarvalla þar sem uppdekkað kaffihlaðborð beið göngufólks.
Frábært veður.
Loftskúti – Hvassahraunssel
Gengið var frá gömlu (malbornu) Reykjanesbrautinni þar sem hún kemur undan nýju brautinni að sunnanverðu vestan Lónakots.
Hvassahraunssel.
Tekið var mið að vörðu á hól í suðri. Frá henni sést yfir að annarri vörðu á hól í suðri, ekki langt frá. Sunnan undir þeim hól er jarðfall og hlaðið fyrir skúta í því norðanverðu, Loftskútahellir. Þarna geymdu Hvassahraunsmenn m.a. skotnar rjúpur á veiðum sínum. Þarna er skjólgott, en hins vegar gæti verið erfitt að finna skútann í snjóum. Varðan á hólnum gæti bætt úr því.
Hvassahraunssel – tilgáta.
Þegar komið er að línuveginum sést í vörðu á hól í suðri. Ef þeirri vörðuröð er fylgt til austurs er komið á Hvassahraunsselsstíginn. Hann er vel greinilegur á köflum og liggur að Hvassahraunsseli. Háa vörðu ber við himinn á hól. Vestan við hólinn kúrir selið undir skeifulaga hraunhæð, tvær tóttir og fallegur stekkur í krika undir hraunhól. Selssvæðið er vel gróið. Háa varðan í austri er á fallegum gjábarmi.
Hvassahraunssel – selsvarða.
Gengið var í norðnorðvestur frá henni. Þegar komið var yfir línuveginn tekur við talsvert kjarr á hæðum og hólum. Á einum þeirra var komið að fallinni refagildru. Skammt frá henni var önnur fallinn. Líklega hefur þarna verið um að ræða refgildrur frá Lónakoti, en vörðurnar upp í Lónakotssel liggja þarna til suðausturs skammt austar. Refagildrur sem þessar hafa sést víða um Reykjanesið, s.s. Á Selatöngum, við Grindavík, á Vatnsleysustrandarheiði, ofan við Hafnir og við Húsfell ofan við Hafnarfjörð. Þá má víða sjá hleðslur, byrgi og önnur merki eftir refaskyttur á skaganum.
Í Loftskúta.
Kúluhattshellar – ný rás
Gengið var frá Geitafelli á móts við Stórahvamm. Þaðan voru 3.4 km upp í “Kúluhattshella” ofan við Guðrúnarbotna í Heiðinni há.
Í Kúluhattshelli
Ætlunin var að skoða þá betur. Svarta þoka var á svæðinu svo varla sást út úr augum. Auk þess var stormur af suðaustan. Einhver hefði ekki talið þetta árennilegt, en FERLIR, sem er vant miklum hitum á ferðum sínum, tekur andblæ sem þessum fagnandi. Og eftir að hafa sett upp FERLIRshúfur virtist þokunni sem svipt í burt. Þá var ekkert í veginum að leggja af stað. Gengið var þvert á Guðrúnarbotnana og á heiðina.
Fyrst var kíkt í austasta gatið. Það er í jarðfalli, u.þ.b. fjórum metrum í þvermál og tæplega tveggja metra djúpt. Rás, sem liggur niður úr því til suðausturs er um 20 metra löng, talsvert hrunin. Efri hluti jarðfallsins skiptist í tvær rásir. Önnur liggur til norðurs, en hin til norðvesturs. Sú nyrðri er víð, en fremur stutt. Í henni eru dropasteinar og aðrar fallegar hraunmyndanir. Hin er öllu lengri. Nú var rásin könnuð að fullu. Hún er um 100 metra löng. Efst í henni eru tvö önnur op, þar af eitt stórt og mikið.
Í Kúluhattshelli.
Skammt neðan við það op, fremst í lægri rás, er beinagrind af hreindýrskálfi. Þessi rás er heil og eru dropasteinar á gólfinu. Hraunstrá eru í lofti. Svo er einnig í stóru rásinni. Löng hraunstrá hanga hér og þar úr loftinu, en víða, einkum neðri hlutinn, er nokkuð hruninn. Á móts við og ofan við þveropið þar sem hreindýrsbeinin eru, er fallegur brúnn flór. Ofan við hann er enn fallegri rauður flór.
Annað jarðfall er þarna skammt vestar. Sunnan í því var stór og mikil hraunrás, en hún endar með hruni eftir um 10 metra. Handan við hrunið má sjá niður í rásina þar sem hún hélt áfram til suðausturs. Ofar í jarðfallinu lá hraunrás upp á við, um 60 metra löng. Hún endar í hruni.
Hreindýrabein í Kúluhattshelli.
Við skönnun á nágrenninu sást ofan í enn eina rásina. Eftir smátilfæringar var hægt að skríða ofan í hana. Hún rúmgóð og slétt í botninn í fyrstu, en síðan tók við mold I gólfinu uns rásin lokaðist nokkru neðar. Hægra megin neðan við opið er mjög falleg 15 metra þverrás. Í henni er eitt fallegasta hraunsráaloft, sem finnst í helli á Reykjanesi – sannkallaður hraunstráaskógur. Hæðin á rásinni er u.þ.b. mannhæð og eru hraunstráin um 30 cm löng. Loftið er gljáandi og má vel sjá á því hvernig útfellingarnar hafa orðið og hraunstráin hafa orðið til. Þessi rás lokast skyndilega þar skammt innar. Ef mynda á hraunstrá þá ætti að gera það þarna.
Svæðið í nágrenni við þessi göt lofa góðu. Þegar komið var upp aftur var komið enn verra veður en áður, en það lagaðist strax og húfurnar höfðu verið settar upp.
Í þessari ferð var gerður uppdráttur af hellunum á “Kúluhattssvæðinu” og ljósmyndir teknar.
Frábært veður í kvöldkyrrðinni. Gangan tók 4 klst og 2 mín.
Kúluhattshellar – uppdráttur ÓSÁ.
Borgarskörð – Bjössabólur
Gengið var frá Hlíðarskarði til austurs undir Katlabrekkunum að Borgarskörðum. Undir skörðunum fundust fljótlega tvær rústir í skjóli við stóran klett. Önnur rústin snéri til vesturs, en hin til suðurs. Svo virtist sem þarna hafi verið beitarhús, líklega frá Hlíð. Skammt sunnan rústanna lá gömul gata niður heiðina úr austri og áfram áleiðis vestur að Hlíð. Skammt austar sá í grænan hól. Við nánari athugun reyndist þar vera um nokkuð mikla fjárborg að græða. Hún var gróin að utan, en að innan mátti vel sjá fallega hleðslur. Borgin hefur fyrrum verið opin til suðurs, líkt og flestar aðrar fjárborgir á Reykjanesi. Langsteinninn yfir opinu sást enn vel.
Fjárborg undir Borgarskörðum.
Gengið var til baka og haldið niður í Krýsuvíkurhraun. Á leiðinni var kíkt ofan í jarðfall norðan við þjóðveginn, skammt austan Herdísarvíkur.
Slóðanum niður í Krýsuvíkurhraun var fylgt til komið var niður fyrir beina vestlæga stefnu á neðsta gat Bálkahellis. Þar sást til nokkurra manna, ýmist stinga höfðinu upp úr jörðinni eða hverfa niður í hana á ný. Við eftirgrennslan kom í ljós að þar voru nokkrir stórir og smáir í fylgd fulltrúa HERFÍs í hellaskoðun. Nokkur op eru þarna í hrauninu, en nokkuð þröngt þegar niður er komið.
Tóft undir Borgarskörðum.
Skammt vestan hellasvæðisins voru hleðslur er gáfu með sér að þar kynnu að vera greni, en þau eru merkt á ákveðinn hátt. Það reyndist rétt vera. Nokkur greni eru þarna í skútum og hraunbólum. Suðaustan við eitt grenið var nýlegt hlaðið refabyrgi, en norðaustan við annað var greinilega gamalt hlaðið skjól. Því var gefinn gps-punktur.
Þá var stefnan tekin á neðsta op Bálkahellis. Farið var ofan í hellinn og hann skoðaður. Þegar komið er einn má sjá stóran dropastein þegar farið er til vinstri. Leiðin niður liggurhins vegar beint af augum, niðurbeyging og áframhald. Hellirinn opnast í víðri og hárri rás.
Í Bálkahelli.
Eins gott að hafa gott ljós meðferðis. Þarna eru fallegir dropasteinar, dellur og önnur hraunvirki, sem erfitt er að nefna. Miklar hraunstráagresjur eru í loftum og á kafla má sjá hvar brúnleitt þunnfljótandi hraunið hefur runnið upp með veggjum rásarinnar, sem er allvíð á kafla.
Hvarvetna var stigið varlega niður og þess gætt að kollur kæmi ekki of nálægt síðu hraunstrái. Þessi hellir er án efna með fallegri hellum á Reykjanesi – og þótt víðar væri leitað. Varðveita þarf hann vel, a.m.k. þennan hluta hans, til framtíðar.
Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).
Eftir að hafa skoðað neðsta hlutann var gengið upp í gegnum efsta hlutann og staðnæmst við bálkana efst í honum áður en haldið var yfir í Arngrímshelli, sem er þarna skammt vestar.
Í Arngrímshelli.
Í Arngrímshelli er tótt fyrir vesturopinu. Innan þess eru beinar hleðslur er mynda nokkurs konar flór, u.þ.b. þriggja metra breiðan. Innar til vinstri er lambakró, eins og gamlar sagnir herma. Norðan hennar er hlaðinn beinn veggur yfir mesta hluta hellisins. Það hefur væntanlega verið gert til að koma í veg fyrir að féð leitaði innar í hellinn, en handan veggjarins eru alllöng göng áfram til norðurs. Í sunnanverðum hellinum er hlaðinn lár veggur. Innan hans er sá hluti er liggur að suðuropinu, en allnokkrar hleðslur eru fyrir því. Suðurhlutinn er mun þurrari. Þar er ekki moldargólf heldur hefur gólfið verið flórað svo sem kostur hefur verið. Hleðslur eru beggja megin við vesturopið. Þjóðsagan um Arngrím og Grákollu verður ekki endurtekin hér.
Í Bjössabólum.
Skammt sunnan við Arngrímshelli fannst lítið op. Þegar komið var niður og inn fyrir það, tók við dýpri rás. Við enda hennar, nær opinu, voru tveir raftar. Svo virðist sem þessi hellir hafi verið hafður til einhverra nota, t.d. sem geymsla. Rás liggur u.þ.b. 30 metra til norðvesturs með nokkrum minni hliðarrásum.
Á leiðinni til baka var komið við í Bjössabólum, nefndum eftir finnandanum fyrir nær þremur árum, en hann var nú með í för. Skriðið var inn í neðstu bóluna, en hún reyndist vera um 30 metra löng. Sú bóla er um 200 metrum ofan við efsta gatið á Bálkahelli. Miðbólan reyndist vera um 80 metra löng. Helstu einkennin í þeirri rás er breiður bekkur á einum stað í henni. Rásin upp úr efstu bólunni var lengst eða um 90 metrar. Nokkuð hrun er í henni, en sömu litir og í Bálkahelli. Þessi rás er með nokkrum litlum hliðarrásum, en aðalrásin gæti náð mun lengra upp eftir hrauninu til norðvesturs. Það er enn ókannað.
Veður var með ágætum – hægur andvari, hlýtt og milt.
Tóft neðan Borgarskarða.
Fjárskjólshraunshellar
Neðsti hluti Bálkahellis hefur verið mældur. Hellirinn er nánast flatur, eða með um 1-2° halla og mæld lengd var um 220m.
Í Bálkahelli.
Að því loknu var gengið sem leið lá, beint frá Bálkahelli, niður að sjó, en á þeirri leið fundust engin op. En þegar fari var að skoða hraunstraumana austan við Bálkahelli, allt frá strönd og upp að vegi, fóru hlutirnar að gerast. Ekki hafði verið gengið lengi þegar komið var að tveimur opum, ekki mjög stórum en opum samt. Létt skönnun á opunum leiddi í ljós að hér var um helli að ræða. Til að gera langa sögu stutta þá fundust ein sjö svæði með hellum. Mörg þessa svæði hafa fleiri en eitt op og allflest eru mjög álitleg hellafræðilega séð.
Á neðsta svæðinu voru tvö op, annað er þröngt og hrjúft, en hitt meira vænlegt.
Fjárskjólshraunshellir.
Á næsta svæði voru átta inngangar fundust, margir litlir, en kerfið sem slíkt er mjög álitlegt.
Næst fannst einn inngangur.
Þá lítið op og alveg ókannað.
Á öðrum stað var einn inngangur.
Á þeim næsta voru a.m.k. 5 inngangar. Margir mjög álitlegir hellar.
Og loks fannst lítið op, alveg ókannað, en á svæðinu sáust margar yfirborðsrásir sem gætu legið eitthvað inn.
Hér er um að ræða svæði, sem þarf að skoða gaumgæfilega. Rétt er að geta þess að FERLIR fann fyrir skömmu helli á þessu svæði í grónu jarðfalli. Með lagni var hægt að komast ofan í og bak við rásina. Þar opnaðist falleg rás, algerlega heil. Stutt litskrúðug hliðarrás var í henni til hægri. Við enda aðallrásarinnar var myndarlegur „öfugur“ hraunfoss, þ.e. hann virtist koma upp úr gólfinu og myndaði það storknaðan hraungúl. Myndræn bergmyndun, sem fáir hafa barið augum.
Hellir í Fjárskjólshrauni.
Kerlingaskarð – brennisteinsnámur – Kistufellshellar
Gengið var upp Selvogsgötuna um Kerlingaskarð.
Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði.
Áður en komið var efst í skarðið var beygt til austurs að tótt brennisteinsmanna undir hlíðinni. Enn sést móta vel fyrir hleðslum umhverfis húsið, sem þar var. Efst í skarðinu var staðnæmst við drykkjarsteininn, sem er vinstra megin við stíginn. Skálin var full af tæru vatni. Ofan skarðsins var beygt til vesturs ofan Tinda og haldið inn eftir sléttu helluhrauni Stórkonugígs norðan Draugahlíða. Á móti blasti Draugahlíðagígurinn, en rauði liturinn utan á honum gerir hann frábrugðinn öðrum gígum, sem eru fjölmargir, á svæðinu. Vatn er í gíg á hálsinum vestan Stórkonugígs. Gengið var niður hann að vestanverðu, eftir sléttum dal norðan hálsanna þar sem brennisteinsnámurnar eru sunnan undir.
Brennisteinsfjöll – tóft af húsi námumanna í Námuhvammi.
Fast undir þeim að sunnanverðu eru tóttir af húsi námumanna. Englendingar hófu þar brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin var um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Þegar komið var í hallann upp að Kistufelli var byrjað að leita að niðurföllum, sem þar áttu að vera. Í ljós komu þrjú op á stórri rás, sem lá NV-SA í brekkunni. Rás er upp í fyrsta opið, en þó ekki nema um 5 metra löng.
Einn Kistfellshellanna.
Þriðja opið er stærst. Niður úr því liggur stór rás, en mikið hrun er í henni. Hún endar í hruni eftir um 20 metra. Í neðsta opinu er einnig rás niður á við, um 15 metra löng. Hún virðist lokast í hurni. Alls virðist rásin vera vel á annað hundrað metra á lengd. Engin merki voru í rásinni.
Skoðaður var hellir norðaustan við Kistufellsgíg. Þar eru nokkar lágar rásir, en ein virtist þeirra stærst. Hún lofaði góðu, en lokaðist stuttu síðar.
Jarðföllin norðvestan við Kistufell voru skoðuð næst. Um er að ræða gríðarstóra katla. Í nokkrum þeirra eru hellar (geimar) og rásir. Í þeim geimum, sem kíkt var inn í, var merki HERFÍ. Á þeim stóð, auk nr. hellanna, “Hér voru á ferð Björn Símonarson og Sverrir P. Símonarson, 30. 08. 1997”.
Jökulgeymir í Kistufellshrauni.
KST-1, sem fékk staðarnafnið “Ískjallarinn”, er í vesturenda efsta jarðfallsins, sem hellar eru í. Gatið liggur um 10 metra niður á við. Hægt er að komast ofan í hellinn með því að fara vinstra megin niður með niðurfallinu og þaðan af stórum steini á botninn. Rásin þar niður í er um 15 metra löng. Á leiðinni þarf að fara yfir ísfoss og síðan niður ísbrekku. Gæta þarf varúðar.
KST-2 fékk viðurnafnið “Jökulgeimur”. Þegar komið er niður í geiminn blasir ísgólf við. Það fyllir gólfið á milli veggja. Dropar falla úr loftinu og hafa þeir mótað bolla í ísinn. Bollarnir eru fullir af vatni og myndar samspil dropanna hljómkviðu í hellinum. Undir niðri heyrist í læk, sem rennur undir ísnum. Um 15 metrar eru á milli veggja og lofthæðin er mikil. Innar í hellinum er talsvert hrun. Inni á milli í hruninu eru glærir ísklumpar. Þegar komið er yfir hrunið tekur við rás áfram. Í henni er einnig allnokkur ís. Innst í hellinum er fallegur rauður litur í lofti. Alls er þessi hellir um 60 metra langur.
Hellisop í Brennisteinsfjöllum.
KST-3 var nefndur “Kistufellsgeimur”. Um er að ræða vítt gat í nýlegra hruni í minna jarðfalli ofan við eldra og stærra jarðfall. Þegar komið er inn og niður er komið í stóra hvelfingu.
KST-4 fékk nefnuna “Loftgeimur. Nafngiftirnar eru aðallega skráningarlegs eðlis m.t.t. GPS-punkta. Hellirinn er austan í miklu jarðfalli. Opið er stórt, en innan við það hefur loftið fallið í einu lagi ofan á hellisgólfið. Innar er grágrýtisgeimir. Hellirinn er ekki nema um 20 metrar.
Norðvestan við jarðföllin er mikil fallin hraunrás. Yfir hana liggur breið steinbrú. Greinilegt er að fallið hefur nýlega úr steinbrúnni beggja vegna. Í rásinni eru einnig mikil jarðföll og höft á milli. Stór op eru sumstaðar, en hellarnir eru stuttir. Þeir lokast yfirleitt með hruni. Gjá þessi er allöng og endar þar sem helluhraun hefur runnið í enda hennar þar sem hún er opin á móti nýja hrauninu.
Einn Kistufellshellanna.
Skammt austan við þessa miklu hraunrás eru nokkur op á rásum. Kíkt var inn um eitt opið, sem nýlega virtist hafa fallið niður. Hellirinn var nefndur Nýhruni, en þessi hluti hans var stuttur. Hann lokaðist í hruni eftir einungis nokkra metra. Hins vegar má sjá hraunrásina liggja áfram til austurs og á þeirri leið eru allnokkur op.
Norðan við Kistufell er alllöng gróin hraunrás. Víða í henni eru op og hellar innundir. Síðast er FERLIR var á ferð á þessum slóðum var gengið fram á a.m.k. tvö göt í hrauninu norðan við þessa grónu rás. Götin voru u.þ.b. 2-3 metrar í þvermál og virtust um 12-15 metra djúp.
Einn Kistufellshraunshellanna.
Opið var þrengst og vítkuðu rásirnar niður. Snjór var í botninum á annarri þeirra. Þessi op sáust ekki fyrr komið var alveg að þeim. Þau urðu á vegi FERLIRs þegar gengið var frá Kerlingagili með beina stefnu á skarðið vestan við austustu hæðina norðan Kistufellsgíg. Þau eru ekki allfjarri brún hinnar nefndu hraunrásar. Opin fundust ekki að þessu sinni, en ætlunin er að ganga síðar sömu leið og fyrrum til að freista þess að finna þau aftur.
Skoðaðir voru á annan tug hella á Kistufellssvæðinu, en enginn var þó öðrum fremri.
Á leiðinni til baka var gengið yfir mikla hraunrás er lá til norðvesturs. Hún var um 10 metra breið og um átta metra há, slétt og gróin í botninn. Hvergi virtist vera þak á þessari rás.
Gengið var ofan hamrana í átt að Hvirfli, síðan niður í dalina og til baka ofan Draugahlíða. Í stað þess að fara niður Grindarskörð var farið niður skarðið vestan Grindarskarðstinda og síðan niður dalinn norðan þeirra. Það er mjög falleg leið. Þrjár rjúpur.
Gengið var tæplega 15 kílómetra. Veður var með ágætum – logn og hlýtt.
Brennisteinsfjöll.
Bjarnastaðaból – Vogsósasel
Gengið var að Hásteini þar sem Kristófer Bjarnason, kirkjuvörður í Strandarkirkju, tók á móti þátttakendum. Með í för var einnig Guðmundur G. Þorsteinsson, hellafræðingur með meiru. Kristófer vísaði m.a. á Svarthól, sem er þarna vestan við Hástein (Hásteina).
Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.
Undir Svarthól eiga að vera tóttir. Ætlunin var að skoða þær síðar. Þá lýsti Kristófer landamerkjum og fl. með vísan til væntanlegra selfunda á og við Selvogsheiði. Þessi ferð var sérstök að því leyti að ætlunin var að finna nokkra staði, a.m.k. einn þeirra hafði hingað til ekki verið merktur inn á kort og aðeins örfáir núlifandi menn vissu hvar væri að finna. Þá áttu fleiri uppgötvanir eftir að koma á óvart í ferðinni.
Á kortum er Bjarnastaðaból sagt vera við Hástein. Þar eru tóftir og hleðslur. Ekki er ólíklegt að þar hafi einhvern tíma verið selstaða. Upplýsingar höfðu borist um að selið frá Bjarnastöðum væri hins vegar mun ofar í heiðinni. Gengið var áleiðis þangað eftir áður gefinni leiðarlýsingu Snorra frá Vogsósum, með stefnu til norðausturs að Hnúkunum, en þar undir brekkunum, u.þ.b. kílómeter ofan við Háststein, átti Bjarnastaðaból að vera. Það reyndist líka vera þar. Uppi á og vestan undir hól áður en komið var að efsta hólinn undir brekkunum var stórt sel með allmörgum tóttum. Hlaðinn stekkur var vestan af selinu, einnig á hól.
Þorkelsgerðissel – uppdráttur ÓSÁ.
Suðvestan við Bjarnastaðaból, í svipaðri fjarlægð frá Hásteini, í norður frá honum, var gengið fram á Þorkelsgerðisból, einnig stórt sel með mögum tóttum. Stekkurinn var á hól skammt norðan við selið. Á kortum hefur Þorkelsgerðissel verið sýnt norðan til við Vörðufell, nálægt Eimubóli.
Eimuból – uppdráttur ÓSÁ.
Línan var tekin norður fyrir Vörðufell, um tveggja kílómetra leið, þar sem komið var að Eimubóli. Tóttirnar eru austan við stórt gróið jarðfall, en í því eru hellisop til suðurs og norðurs. Hlaðinn gerður er ofan og umhverfis opið. Í öðru jarðfalli skammt sunnar er gömul tótt og kví. Hellir þar í suður hefur verið notaður sem fjárhellir. Hleðsla er inn í honum miðjum. Op er upp úr þeim helli skammt sunnar. Að sögn Guðmundar eru Eimuhellar, eða Eimuhellir því um eina sundurslitna hraunrás er að ræða, um 400 metrar í heildina. Norðan við stóra jarðfallið er hlaðinn stekkur og einnig er hlaðinn lítill stekkur ofan á syðsta opinu, ofan við fjárhellinn.
Vindássel – Uppdráttur ÓSÁ.
Tóttir eru skammt austan við Eimuból, Vindássel. Landamerki Eimu og Vindáss liggja í vörðu syðst á Vörðufelli og í vörðu á Hellholti. Frá Vindásseli mátti vel sjá gömlu réttina ofan á Vörðufelli.
Gengið var að Einbúa vestan Vörðufells. Um 200 metrum vestan við hólinn er gróið jarðfall. Niður í því er gamalt tófugreni. Guðmundur kannaði hraunrás, sem þar er og virtist hún ná eitthvað til norðurs og einnig til suðurs. Rásin mun verða skoðuð nánar síðar. Botninn í rásinni er hrjúfur. Loftið innan við munnann stendur á hraunsúlum.
Stekkur í Bjarnastaðabóli.
Þá var gengið til norðurs í átt að Hraunhól í mið Svörtubjörg, vestan við Hellholt. Á meðan aðrir leituðu að tóttum, sem áttu að vera þar í slakka miðsvæðis, en þó vestar, kíkti Guðmundur í Bólið, helli austan í Hellholti. Við opið er lítil tótt og inni í hellinum eru miklar hleðslur. Í leiðinni var litið ofan í hraunrás suðvestan Hellholts, en hún reyndist vera um 10 metra löng. Nánar verður fjallað um Hellholtssvæðið í annarri FERLIRslýsingu.
Eftir nokkra leit fannst tóttin, sem nefnd hefur verið Strandarsel (Staðarsel) uns annað vitnast. Stór varða er á hæð austan við tóttina og liggur gömul leið úr suðri í átt að vörðunni, en sunnan hennar beygir gatan til vesturs að selinu. Suðvestan við tóttina er fallega hlaðinn stekkur.
Gengið var í átt að Hlíðarborg, en þar sunnan borgarinnar átti skv. lýsingu að vera önnur hlaðinn fjárborg, svonefnd Valgarðsborg. Hún var þar líka, hringlaga og hefur verið allnokkuð mannvirki á sínum tíma.
S
Hlíðarsel – uppdráttur ÓsÁ.
vo gerðist hið furðulega. Á leið frá Valgarðsborg að Hlíðarborg í norðvestri gengu þátttakendur fram á stórt sel. Það er að öllum líkindum Hlíðarsel, en bein sjónlína er að frá selinu að bænum Hlíð norðan við Hlíðarvatn. Selið er efst í brúninni í austur séð frá Hlíð. Í örnefnalýsingu fyrir Hlíð er getið um Selstöðu frá Hlíð í Selbrekkum, sem eiga að vera skv. henni ofan við Vogsósaréttina við girðinguna austan við Hlíðarvatn. Ekki var að sjá nein merki um minjar þar, a.m.k. ekki að þessu sinni. Hér gæti verið um ónákvæma staðsetningu að ræða, en selstaðan hins verið sem hér getur.
Hlíðarborg í Selvogi – síðar stekkur.
Skammt norðan við selið, handan girðingarinnar, er Hlíðarborg, mikið mannvirki vestan undir háum hraunhól. Niður með borginni til vesturs liggur greinileg gömul gata (Hlíðargata) áleiðis að Hlíð við Hlíðarvatn. Við hana eru litlar vörður og vörðubrot. Skammt norðar eru tóftir (borg o.fl.) undir Borgarskörðum.
Frá Hlíðarborg var gengið að hellinum Ána, en við op hans eru talsverðar hleðslur. Ennig er hlaðinn lágur garður skamma leið til suðurs frá hleðslunum.
Loks var haldið yfir að Vogsósaseli, sem er skammt austan við Vogsósaréttina. Selið eru tvær tóttir efst á hraunhrygg sunnan Vatnaása.
Ferðin var frábær. Veður einnig – hlýtt, stilla og sól. Gangan tók 5 klst og 11 mín.
Bjarnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.