Gengið var vestur eftir Fógetastíg (Álftanesgötu) og þvert yfir Garðahraun.
Garðar – fjárborg við Garðastekk í Garðahrauni.
Gatan er greinileg í gegnum hraunið. Við hana eru gömul vörðubrot á nokkrum stöðum. Á a.m.k. tveimur stöðum eru grashólar er gætu þess vegna verið gamlar dysjar eða önnur ummerki. Þegar stígnum er fylgt er komið út úr hrauninu við Hrauntunguflöt. Hrauntunga er sá tangi, sem skagar lengst til vesturs út úr hrauninu að vestanverðu. Þó, skammt áður en komið er komið út úr hrauninu, rétt sunnan vörðubrots, liggur stígur til vinstri. Það er Garðagata. Hún liggur síðan áfram til vesturs upp norðanvert Garðaholt þar sem hún fer m.a. í gegnum skotgrafir og skotbyrgi áður en komið er upp á háholtið.
Garðastekkur, tóftin lengst til vinstri, og Garðarrétt.
Beygt var út af Fógetastíg sunnan Garðagötu. Þaðan liggur stígur að Garðastekk. Áður en komið var að stekknum var staldrað við og skoðuð, að því er virðist, allstór fjárborg uppi á hraunkantinum ofan við stekkinn. Borgin er greinilega mjög gömul. Þarna gætu einnig verið um að ræða leifar af húsi eða byrgi ofan við stekkinn. Stekkurinn undir vesturhraunbrúninni er allstór og gæti þess vegna hafa verið breytt í rétt undir það síðasta. Norðan stekksins, inni í stekkjargerðinu, er greinilega gömul tótt og vinkillaga garður norðan hennar. Ekki er vitað hvað sú tótt gæti hafa verið því hvorki er minnst á hana né fjárborgina í örnafnaskrám.
Presthóll.
Gengið var áfram til vesturs áleiðis upp á Garðaholt. Við gatnamót Álftanesvegar og Garðaholtsvegar er stór hóll – Presthóll eða Prestahóll. Utan í honum er miklar skotgrafir og hlaðið smáhús.
Haldið var áfram til suðurs og upp á hæð, sem í seinni tíð hefur verið nefnd Völvuleiði. Á henni er Mæðgnadys skv. örnafnalýsingu. Utan í henni er skotgröf, sem og víðar í holtinu.
Mæðgnadys.
Áfram var haldið til vesturs og þá komið að hinu eiginlega Völvuleiði skv. lýsingu Ágústar frá Miðengi. Það er við hinn gamla Kirkjustíg, sem lá þarna frá Engidal að Garðakirkju. Gömul sögn segir að valva hafi orðið þar úti og verið dysjuð við stíginn.
Eftir stutt staldur við Garðaholt var guðað á glugga á Króki, gömlu uppgerðu húsi skammt neðan við veginn. Það mun nú vera í eigu Garðabæjar og er látið halda sér að innan eins og það var yfirgefið á sínum tíma. Gengið var niður með Austurtúnsgarði Garða og niður fyrir kirkjugarðinn, eftir Lindargötu og að Garðalind. Lindin er undir stórum steini og liggur hlaðinn stokkur niður frá henni. Yfir stokkinn er brú upp við lindina og önnur aðeins neðar. Neðan og vestan við lindina var Garðhúsabrunnur, en hann var fylltur upp eftir að dauð rolla fannst í honum. Þarna skammt frá voru Garðhús (gæti verið áberandi tótt sunnan við Garðalind, fast upp við kirkjugarðsgirðinguna.
Fógetagata.
Gengið var til norðurs að bæjarhóls þurrabúðarinnar Hóls við norðvesturhorn kirkjugarðsins, upp túnið norðan hans, framhjá Ráðagerði og upp á Garðaholt. Þaðan sést vel Hallargerðið, þar sem bærinn Höll stóð, í suður. Staðnæmst var við þann stað, sem Garðaviti stóð. Þar á stórri vörðu var höfð lukt á 19. öld að skipan Garðapresta. Framhjá henni til austurs liggur Garðagata niður holtið – þvert í gegnum hlaðnar skotgarfir og tvö steypt skotbyrgi. Litið var á þau og síðan haldið áfram niður eftir Garðagötu. Miðja vegu í holtinu, vinstra megin og alveg við götuna, er gömul ferköntuð hleðsla. Gömul hringlaga hleðsla er utan um hana. Þarna er eitthvað, sem skoða þarf nánar. Í örnafnalýsingu segir m.a. að “frá Garðatúnshliði lá Garðagata (Stekkjargatan) vestan Götuhóls, framhjá Mæðgnadys í norðanverðu Garðaholti rétt hjá Presthól við vegamót Garðaholtsvegar og Álftanesvegar”.
Hallargerði.
Í örnefnaskránni segir að Presthóll sé við fyrrnefnd gatnamót. Það segja og Ágúst á Miðengi og Guðjón á Dysjum.
Um Mæðgnadys segir einnig í örnefnalýsingunni að hún sé “í norðanverðu Garðaholti sunnan við Presthól”. Hér gætir ónákvæmni. Ekki er ólílegra að Mæðgnadysin kunni að vera þessi því hún er við götu eins og flestar dysjar, sbr. Völvuleiðið, sem er við Kirkjustíg. Því eru hér uppgefnir GPS-punktar af báðum stöðunum.
Fiskbyrgi í Gálgahrauni við Sakamannastíg.
Síðan var haldið áfram að Sakamannagötu eða Gálgastíg, eins og hann hefur stundum verið nefndur. Þarna lá gatan, nyrst í vesturjarði Gálgahrauns, austur með sjónum að Gálgaklettum. Á leiðinni eru m.a. hleðslur við stíginn og garðar á stangli. Þeir voru fyrst og fremst notaðir sem þurrkgarðar fyrir þang, sem skorið var þarna í fjörunni. Gengið var framhjá Hrauntanga, en ofan þeirra er fallegt útsýni að klettunum.
Gálgaklettar voru skoðaðir í krók og kima. Þeir eru gamall aftökustaður frá Bessastaðavaldinu. Í lýsingum er talað um Gálgaflöt þar sem hengdir voru grafnir, en óljóst er hvar hún er nákvæmlega. Þó má sjá á einu korti af svæðinu að flötin sé nokkru norðaustan við klettana, svo til alveg niður við sjó, á milli Hrauntanga og Vatnagarða. Skoðað síðar. Tækifærið var notað og skimað eftir skútum við Gálgakletta, en engir fundust að þessu sinni.
Gálgahraun – Garðahraun – uppdráttur ÓSÁ.
Í fornleifakönnun FÍ 1999 segir m.a. um Gálgakletta: „Við Lamhústjörn [í Garðahrauni] eru Gálgaklettar, og dregur nokkur hluti hraunsins nafn af þeim…. Skammt austur frá Hraundröngunum, með tjörninni, eru Gálgaklettar, klofinn hraunstandur, og er skammt á milli klettanna. Á milli þeirravar lagt tré og óbótamenn hengdir þar. Þessi klettar eru einnig nefndir Gálgi og hraunið þar í kring Gálgahraun.“
Um Garðastekk segir jafnframt: „Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana… Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930“, segir í örnefnalýsingu.
„Fógetastígur er mjög sérstæð og óvenjuleg fornleif. Hún getur engan vegin talist greiðfær fyrir hesta, en engu að síður ber hún vitni um mikla umferð á þessari leið um aldir. Gatan er enn þann í dag skemmtileg gönguleið og hefur ótvírætt varðveislugildi…. [Fógetastígur] greinist um mitt hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur.“
Ástæða er til að hvetja áhugasamt fólk að skoða stígana í Garðahrauni, skoða Garðastekk og kíkja á Gálgaklettana í Gálgahrauni. Aðkoman að þeim eftir Sakamannagötunni úr vestri er áhrifarík.
Frábært veður. Gangan, fram og til baka, tók 3 klst og 3 mín.
Garðagata ofan Garðakirkju.
Ginið
Eftirfarandi er tekið af vef Hellarannsóknarfélagsins eftir ferð í Ginið:
Ginið.
„Eftir fund Ginsins hafa félagar í HERFÍ iðað í skinninu og beðið þess að berja undrið augum. Af þessu varð í dag.
Föngulegur hópur hellaáhugamanna, undir leiðsögn FERLIRs, þrammaði um Hrútagjárdyngjuna með það eitt að markmiði að skoða 2 „nýja“ hella og einn vel þekktan. Fyrsta stoppið var við sprungu sem liggur rétt sunnan við Dyngjuna sjálfa. Hér er á ferð þröng sprunga (engar bjórvambir leifðar í þessum) sem liggur um 10-15m niður í hraunið. Það merkilega við þessa sprungu er að bráðið hraun hefur fundið sér farveg í sprungunni og myndað fossa, kvikutauma og 8-10cm kvikuhúð um alla sprunguna. Þessi kvikuhúð er sumstaðar laus eða að losna og er því nauðsynlegt að vera með hjálm og passa vel upp á hrun. James, Jakob og Fernando skriðu niður og fullkönnuðu alla afkima hellisins. Hann heldur áfram bæði að ofan og neðan, en vegna þess að við erum allir komnir á gamals aldur og búnir að ná fullri stærð þá tókst okkur ekki að troða ofvöxnum líkömum okkar áfram.
Í Húshelli.
Á leiðinni í Ginið stoppuðum við í Húshelli. Eftir að hafa skoðað hleðslunar í Húshelli og beinin héldum við yfir hraunið og út í auðnina. Hraunið hér er slétt helluhraun, mosavaxið og mjög sprungið. Ginið gapti við okkur og öskraði á okkur „komið niður“. Þó við höfum verið allar að vilja gerðir þá gafst ekki tími til að skoða undrið því við höfðum aðeins 30 mín eftir af dagsbirtu og héldum því fljótlega niður að bílunum. Hellirinn er um 15 m djúpur og snjór er í botninum. Varla sést marka fyrir gjalli eða kleprum á yfirborði og því er hér um að ræða 15 m niðurfall sem birtist í hrauninu eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Þetta op verður næsta viðfangsefni HERFÍ – jafnvel þó að ekkert sé þarna niðri er þetta eflaust „töff“ hellafundur.“
Ginið.
Selalda – Trygghólar
Við vegamót Ísólfsskálavegar og Selölduvegar slógust nokkrir áhugasamir Grindvíkingar í hópinn.
Eyri.
Gengið var niður að Selöldu. Við slóðann mótar fyrir undirstöðum bragga. Ólafur Kr. Guðmundsson, fyrrv. aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, var þar á ferð á hestum með föður sínum og bróður árið 1942. Komu þeir við hjá Magnúsi í Krýsuvíkurkirkju, sem benti þeim á fimm Ameríkana er höfðust við í bragga ofan við Selöldu. Höfðu þeir þann starfa að fylgjast með skipaferðum með ströndinni.
Steinbrú ofan Fitja.
Staðnæmst var við gamla steinbrú yfir Vestari-læk, við tóttir bæjarins Fitja og við fallega hlaðið fjárhús undir Strákum. Þá var gengið niður að Hælsvík og rifjuð upp sagan af komu Tyrkjanna upp Ræningjastíg. Í framhaldi af því var gengið í slóð Tyrkjanna upp að Krýsuvíkurseli þar sem þeir áttu að hafa ráðist að selsstúlkum. Smali var þess var og hljóp upp að Krýsuvíkurbæjunum, með Tyrkina á hælunum. Séra Eiríkur á Vogsósum var þá við messu í kirkjunni. Hann lagði þegar á Tyrkina að þeir myndu snúast gegn sjálfum sér, sem og þeir gerðu. Eru þeir dysjaður í Ræningjadys á Ræningjahól, sem er við Suðurkot. Litið var á tvær fjárborgir og tóttir bæjarsins Eyri áður en komi var í selið. Selstóttirnar, sem eru þar skammt austar, eru greinilega mjög gamlar.
Fitjar.
Eftir skoðunina undir Selöldu var haldið að Trygghólum, sem eru þarna nokkru austar. Frá þeim er víðsýnt um Krýsuvíkurheiðina. Sést þaðan vel yfir Grindavíkurlandið austan Hafnarfjarðarlandsins ofan við Hælsvík. Sást meira að segja alla leið til hellamanna vera að snuðra í kringum Litlu-Eldborg í fjarska. Samviskan hefur nagað Grindvíkinga eftir langa áþján landsins og hafa þeir verið að reyna að græða upp landið að hluta fyrir Hafnfirðingana. Ef einhver töggur væri í Grindvíkingum myndu þeir ná þessum hluta Krýsuvíkurlandsins til sín aftur með hurðum og gluggum, enda Hafnfirðingar lítt hafa kunnað að meta þetta landssvæði hingað til. En þetta var nú smá útidúr.
Arnarfellsrétt.
Frá Trygghólum var gengið í átt að Arnarfelli og komið við í Arnarfellsréttinni, heillegri hlaðinni fjárrétt í lægð nokkru sunnan við fellið. Þetta var nú smá útidúr.
Vegna þess hversu veðrið var gott var ákveðið að kíkja á Ögmundardys við Ögmundarstíg og Smíðahellinn í Katlahrauni áður en göngunni lyki. Í leiðinni var Lestargatan vestari (Skeiðargatan) gengin, litið á hlaðnar refagildrur og Sögunarkórinn.
Krýsuvíkursel í Selöldu og bærinn Eyri – uppdráttur ÓSÁ.
Selgjá (Norðurhellragjá) – nyrðri hluti
Eftir að hafa skoðað fjárborg í kjarri vaxinni Heiðmörk og hlaðin tvískipt fjárhús, þ.e. annars vegar fyrir kindur og hins vegar fyrir sauði, var gengið yfir í Norðurhellagjá (Norðurhellragjá), eins og hún jafnan var nefnd.
Gjáin dró nafn sitt af fjárhellum norðan hennar, en þeir voru jafnan nefndir Norðurhellar (Norðurhellrar). Síðar voru þeir aðgreindir og var þá hellir, sem er norðan úr Gjánni nefndur Selgjárhellir og hellar þar skammt vestur af nefndur Sauðahellirinn nyrðri og Sauðahellirinn syðri. Fyrrnefndi hellirinn gekk um tíma einnig undir nafninu Þorsteinshellir frá því að Þorsteinn Þorsteinsson í Kaldárseli nýtti hann um aldarmótin 1900. Sá hellir er fallega hlaðinn niður og tvískiptur. Sjá meira HÉR.
Norðurhellrar í Selgjá.
Hleðslur eru á mörgum stöðum beggja vegna í Selgjá. Vel sést móta fyrir a.m.k. þremur seljum enn þann dag í dag, en talið er að þau hafi verið allt að 11 talsins þegar mest var. Rústirnar sjást sumar vel, en aðrar síður. Flest hafa selin verið minni í sniðum en t.d. Vífilsstaðasel. Rústirnar standa fast upp við gjárbarmana. Selstaða þarna er nefnd í Jarðabók 1703 og virðist skv. henni átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Í öllum heimildum er talað um selstöðu þarna í þátíð svo hún virðist vera mjög gömul. Stekkir og kvíar, sem voru hlaðnir, sjást greinilega á flestum staðanna. Eins og kunnug var búsmalinn hafður í seli á sumrum frá fráfærum til tvímánaðar. Þangað var farið með allan ásauð og stundum kýr.
Tóft í Selgjá.
Í selinu var jafnan einn kvenmaður, selmatseljan (selráðskonan) og ef fé var mjög margt hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag. Smalinn átti að sjá um að féð væri komið í kvíar á dagmálum og náttmálum til þess að það yrði mjaltað. Sniðugur smali kom sér upp nátthaga til að fé hlypi ekki út og suður á mðan hann hallaði sér um stund á annað eyrað. Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús, selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Vatn er ekki að finna í Selgjá, en hins vegar er gott vatn í Vatnsgjánni í Búrfellsgjá, sem er þarna skammt sunnar, lítt norðan við Gjáarréttina. Í raun er Selgjáin og Búfellsgjáin hluti af sömu hraunrásinni frá Búrfelli, en vegna misgengis og ris landsins hafa þær aðskilist a.m.k. hvað hæðarmismuninn varðar.
Eftir gjánni lá Norðurhellagjástígur austur með gjánni. Við austurbrúnina er steinn með merkinu B. Annar samskonar steinn fannst skammt norðar, en snúa þarf honum við til að kanna hvort á honum er einnig merki. Steinar þessi hafa verið reistir upp á endann og “púkkað” með þeim. Telja má líklegt að þarna geti hafa verið um hestasteina að ræða. Áhugavert væri að skoða aðrar selstöður og kanna hvort svipaða steina geti verið þar að finna. Sjá meira HÉR. Stígurinn liggur síðan upp úr gjánni sunnan syðstu seljarústanna í austanverðri gjánni.
Selgjá.
Nokkuð glögg gróðurskil eru þarna í gjánni. Sunnar er mosinn ráðandi, en að norðanverðu er grasi gróið með gjárbörmunum þar sem minjarnar eru. Meginselstöðurnar hafa verið tvær, sitt hvoru megin í gjánni. Á báðum stöðunum eru leifar húsa, fjárskjóla, stekkja og vatnsbóla.
Á einum stað á austanverðri gjánni er skjól og hleðslur í því og fyrir. Hitastreymi virðist upp úr skjólinu því ekki frýs í því á vetrum.
Í raun er Selgjáin stórmerkilegur minjastaður, í einungis örskotsfjarlægð frá alfaraleiðinni um Heiðmörkina. Þegar gengið er um gjá er varla þverfótað fyrir leifum húsa, stekkja, fjárskjóla, brunna og öðrum margra alda gömlum mannvirkjum. Engar merkingar eru við eða í nánd við minjasvæðið.
Sel í Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.
Gengið var eftir Norðurhellagjárstíg suður með austanverðri gjánni og síðan áfram þangað til komið var á móts við syðstu meginrústirnar að vestanverðu. Gengið var yfir að þeim og m.a. litið inn í fjárhellinn, sem þar er. Í honum eru hleðslur. Bæði norðan hans og austan eru talsverðar hleðslur. Þar við eru og leifa tveggja stekkja er benda til þess að þarna hafi verið selstöður tveggja bæja.
Síðan var haldið norður með vestanverðum barminum og endað á upphafsstað. Í hinni meginsselstöðunni við austurbarminn hafa einnig verið tvær selstöður. Þar sjást enn glögg merki húsa, stekkja og fjárskjóla. Á leiðinni var alltaf eitthvað sem bar fyrir augu. Hellarnir norðan og vestan gjárinnar voru ekki skoðaðir að þessu sinni, enda stutt síðan þeir litið var á þá. (Sjá uppdrátt betur HÉR.)
Veður var með ágætum þrátt fyrir svolítinn vind. Skúr gekk yfir smástund á meðan verið var að skoða fjárhellinn suðvestast í gjánni og kom því ekki að sök.
Það er stutt að komast í Selgjána, auk þess sem hún er auðveld yfirferðar. Í henni eru ótrúlega miklar minjar, sem leynast víða í henni, aðallega þó með gjárveggjunum. Sá, sem hefur áhuga á að skoða sig um þar, þarf að fara hægt yfir og hafa augun hjá sér. Það er líka fyllilega þess virði. Hægt væri að rita langa og lærða ritgerð um selstöðurnar í Selgjá og hlutdeild þeirra í búskaparháttum fyrri alda, en það verður ekki gert hér.
Frábært veður. Gangan tók um 1 og ½ klst. Tækifærið var notað og gerður meðfylgjandi uppdráttur af norðurhluta Selgjár.
Ljóskollulág – Jónshellar
Gengið var norður með Vífilstaðahlíð að Ljóskollulág. Ofan lágina liggur Selstígur frá Vífilstaðaseli, sem er þarna uppi í hlíðinni. Ekki er vitað hvaðan nafngiftin er komin, en ekki er ósennilegt að hún heiti eftir fyrstu ljóskunni, þ.e. ljóskollóttri á.
Urriðakot – Stekkjatúnsrétt.
Þegar komið var að Kolanefi var vent til vinstri og litið á Sauðahelli, sem þar er utan í hraunkantinum. Skeifulaga hleðsla er fyrir munnanum. Inni er rúmgóður fjárhellir, fyrir ca. 10-15 væna sauði. Í skjóli þessu voru hafðir sauðir frá Urriðakoti og þeim gefið þar á gaddinn (á jörðina). Heyið var borið í þá frá bænum.
Haldið var vestur yfir Flatahraun að hlaðinni Sauðahústótt vestast í Urriðakotshrauni. Húsið er nokkuð heillegt, en hleðslurnar bera með sér að það hafi líklega verið hlaðið eftir 1900. Gengið var áfram vestur yfir hraunið og var þá komi á Kúadalastíg. Stígnum var fylgt til norðurs að Stekkjartúnsrétt (Gamla rétt), fallega hlaðinni rétt í krika við vesturjaðar hraunsins. Norðan við réttina liggur stígur inn í hraunið, Grásteinsstígur. Grásteinn er þarna inn í hrauninu, alveg við stíginn.
Landamerkjavarða á Dyngjuhól.
Gengið var áfram norður með hraunkantinum og á Dyngjuhól. Um hólinn liggja landamerki Urriðakots og Vífilstaða. Dyngjuhólsvarða er á hólnum, en auk hennar hafa verið hlaðnar þar nokkrar aðrar vörður. Hóllinn var nefndur Dyngjuhóll af Urriðakotsfólkinu, en hann sést ekki frá bænum. Í hólnum er lítil dyngja. Þessi hóll heitir einnig Hádegishóll frá Vífilstöðum.
Frá Dyngjuhól blasa Maríuhellar við í norðri. Landamerkjalínan liggur um hellana að Miðaftanshóli inni í Svínahrauni (Vífilstaðahrauni).
Vífilsstaðir – Maríuhellar.
Maríuhellar eru nýnefni á hellunum. Urriðakot átti um aldir fjárskjól í hellunum sem oft voru einungis nefndir Fjárhellar. Syðsti hellirinn heyrði til Urriðakoti og var nefndur Urriðakotshellir en hinn Vífilsstöðum og var því nefndur Vífilsstaðahellir. Sagnir eru þó til um að Vífilsstaðir hafi notað syðri hellinn, þ.e. þann sem er gegnumgengur, enda getur það vel verið svo um tíma. Auk þeirra var talað um þriðja hellinn, Draugahellir, en hann átti að vera þröngur niðurgöngu og ósléttur.
Maríuhellar.
Gengið var um svæðið. Nyrsti hellirinn er í stóru jarðfalli. Í norður úr því er stórt op og þar fyrir innan rúmgóður hellir, ca. 30 metra langur. Mold er á gólfi. Hellirinn hefur greinilega verið notaður sem fjárhellir. Líklegast er þarna um Vífilsstaðahelli að ræða. Sunnan af honum er enn stærra og mun grónara jarðfall. Í því er mjög rúmgóður hellir til vesturs. Hægt er að ganga í gegnum þann hluta. Þessi hellir hefur greinilega verið notaður sem fjárhellir. Frosin grýlukerti héngu niður úr loftinu í hundraðatali og gáfu þau hellinum dulúðlegt yfirbragð. Í austanverðu jarðfallinu er einnig víður hellir. Inni í hvelfingunni er op á loftinu. Þarna er líklegast um Urriðakotshelli að ræða því sjá má hleðslur undir girðingu austan hans, á milli þessarra tveggja hella. Skammt vestan við vestara opið á hellinum, sem hægt er að ganga í gegnum, er hraunsprunga. Niður í hana liggur op. Þegar niður er komið tekur við rúmgóður hellir. Sver hraunsúla er á vinstri hönd, en rúmgóður hellir framundan.
Jónshellar.
Liggur hann um 50 metra niður hraunið. Á leiðinni er gat til hægri og innan þess nokkuð rúmgóður hellir. Ekki er óvarlegt að álykta að þarna sé um svonefndan Draugahelli að ræða. Áður fyrr voru engir vegir á þessu svæði og fullorðnir ekki viljað að börn væru mikið að fara ofan í þennan helli því með slæm ljós gæti verið erfitt að finna leiðina út þar sem gatið er bæði lítið og liggur upp á við. Af því tilefni hafi verið búin til sagan af veru draugs í hellinum – til að fæla fólk frá.
Gengið var norðvestur eftir Moldargötum með vesturjarðri Svínahrauns, niður að vestasta hraunnefinu áður en beygt til með hlíðinni áleiðis að Urriðakoti. Þar var haldið beint inn á hraunið til austurs. Eftir stutta göngu var komið að Jónshellum. Þeir eru undir klettavegg er snýr að Vífilsstöðum. Mikið kjarr og hár trjágróður er allt um kring. Jónshellar eru þrír skútar. Einn er sýnum stærstur og einn hefur greinilega verið notaður sem fjárskjól. Hleðsla er fremst í skútanum, en fyrir innan er slétt moldargólf. Þessi skúti gæti auðveldlega hýst 40-50 rollur.
Í Jónshellum.
Í kverkinni þar sem hellarnir eru, er gamall timburpallur. Sennilega hefur fólk af Vífilstaðahælinu gengið þangað á góðum dögum til að njóta veðurblíðunnar á þessum fallega stað.
Gengið var eftir Jónshellustíg austur yfir hraunið. Á köflum hefur stígurinn verið lagaður til og hlaðið í lægðir. Staðnæmst var við hlaðinn fjárhús Vífilstaða vestan við Vatnsmýrina og þau skoðuð áður en haldið var að upphafsreit.
Veður var með ágætum – stillt og bjart. Gangan tók 2 klst og 3 mín.
Fjárhústóft í Urriðakotshrauni.
Selvogsgata – Valaból
Gengið var norður gömlu Selvogsgötuna frá Bláfjallavegi neðan Grindarskarða.
Hleðslur í Rauðshelli.
Haldið var niður Hellurnar þar sem gatan er klöppuð í bergið á kafla undan fótum, klaufum og hófum liðinna alda. Litið var á Strandartorfur (Kaplatóur) og gengið um Mygludali að Valabóli þar sem áð var í Músarhelli.
Að því búnu var haldið að opi Fosshellis og hann þræddur undir sauðfjárveikigirðinguna. Kíkt var á op Hundraðmetrahellis austan Helgadals og síðan á stekki norðaustan við Rauðshelli. Þá var haldið í hellinn og hann skoðaður.
Helgadalur – Í Rauðshelli.
Í Rauðshelli er allnokkrar hleðslur, bæði utan hans og innan. Hangikjötslyktin leyndi sér enn í hellinum, en hann er talinn hafa hýst margan manninn í gegnum aldirnar. Um tíma var hellirinn nefndur Pólverjahellir eftir pólskri áhöfn báts, sem dvaldist um tíma í Hafnarfjarðarhöfn, en fengu ekki inni í bænum. Þá er talið að um tíma hafi verið sel í og við hellinn, auk þess ekki er ólíklegt að álykta að hann sé sá hellir þar sem 12 þjófar voru handteknir um 1440 og síðan hengdir.
Í Rauðshelli.
Í lýsingu Gísla Sigurðssonar, forstöðumanns Minjasafns Hafnarfjarðar, segir hann í lýsingu sinni um Selvogsgötuna að þeir hafi hafst við í helli í hraunrima austan við Helgadal. Um þá hugmynd er m.a. fjallað í öðrum FERLIRslýsingum eftir nokkrar ferðir um svæðið til að reyna að finna umrætt skjól. Rauðshellir liggur vel við vatni, hann hefur verið í hæfilegu skjóli frá mannabyggð, en þó nálægt skjólgóðum högum sauðfjárins. Þá hefur hann verið það nálægt þjóðleið að hægt hefur verið að fylgjast með mannaferðum og hugsanlega ræna þá, sem þar áttu leið um. Þess skal getið að útilegumenn dvöldu sjaldnast lengi á sama stað.
Valaból.
Þá var haldið áfram norður Mosana yfir að Smyrlabúðum. Þar var staldrað við og skoðuð gömul vegghleðsla utan í Smyrlabúðahrauni þar sem ætla mætti að gæti hafa verið hinn gamli áningastaður Selvogsmanna eða viðstaldur brennisteinslestarmanna á leið þeirra úr Grindarskörðum.
Kíkt var inn í Ketshelli og hann skoðaður að hluta. Þá var Setbergsselið skoðað, litið á stekkinn og gengið í gegnum Kershelli, fjárskjól í selinu þar sem einnig er fyrir aðstaða Hamarskotssels og litið í skjól norðan selsins. Haldið var áfram niður með Setbergshlíð og litið eftir gömlu hlöðnu fjárhúsi frá Setbergi er byggt var 1906 er féð var flutt úr fjárhellinum í selinu upp í hlíðina. Staldrað var við fjárskjól undir Gráhellu í Gráhelluhrauni og síðan skoðuð vatnsvirkjunin og stíflurnar í Lækjarbotnum áður en ferðinni lauk við kirkjugarðinn.
Veður var frábært – sól og blanka logn. Gangan tók um 5 og ½ klst því áningartíminn í Músarhelli var óvenjulangur að þessu sinni.
Valaból.
Helgadalur – tótt – hellir – hleðslur
Gengið var frá Kaldárseli, fyrir vatnsverndargirðinguna, yfir austari Kaldárhnúk og niður í Helgadal. Ætlunin var að leita að útilegumannahelli þeim er getið er um í Setbergsannál á 15. öld, en þar segir m.a. að “12 þjófar [voru] í einu teknir syðra í helli þar sem nefnt er Húsfell”.
Í Helgadalshellum.
Með í huga hvar annállinn var skrifaður og hvenær var ákveðið að miða við Helgadal, en hann mun hafa verið vel þekktur á þeim tíma, enda talið að áður hafi verið í eða við dalinn. Gamla þjóðleiðin frá Hafnarfirði í Selvog lá um dalinn og má sjá tótt við götuna í dalnum sunnanverðum. Haldið var suður og austur fyrir hæðina, yfir í hraunið austan Mygludala á milli Húsfells og Búrfells. Beygt var til suðurs að Víghól og staðan metin. Norðan og austan við hólinn er eldra hraun, en að austan er Húsfellsbruni og að norðan er Búrfellshraun. Þar er Kringlóttagjá sunnan við fellið. Meginstofn þeirra hrauna sem Hafnarfjöður og Garðabær standa á runnu frá þessari eldstöð fyrir um 7300 árum. Á þessu svæði eru allnokkur jarðföll og op. Sunnan Víghóls sér vel í “Gálgakletta”.
Húsfell – Víghóll neðst til vinstri.
Ekki er vitað hvaðan nafnið Víghóll er komið, en ef menn vilja leika sér svolítið með nafngiftir á svæðinu gætu sumar þeirra hafa tengst veru útilegumanna og sakamanna í hraununum. Þeir hafa áreiðanlega gætt þess vel að ekki væri hægt að koma þeim að óvörum. Hafi það hins vegar gerst gætu þeir hafa flúið á Víghól og einhverjir þeirra verið vegnir þar. Hafi einhverjir yfirvaldsins menn einnig verið drepnir við þá atlögu gæti hefndarþorsti hafa blossað upp í sigurvegurunum og þeir ákveðið að hengja hina handteknu þegar í stað í hæsta gálga á svæðinu. En þetta eru nú einungis hugrenningar, ekki tilvitnun í fyrri lýsingar.
Í Rauðshelli.
Hvað sem þessum hugrenningum líður á eftir að fara eina ferð á svæðið til að sannreyna hvar útilegumannahellirinn er. Nú er einn staður líklegri en aðrir, þ.e. Rauðshellir norðaustan Helgadals. Þar við sést móta fyrir hleðslum, nokkurs konar aðhaldi, en auðvelt ætti þaðan að hafa verið fyrir þjófana að ná sér í fé á fæti, bæði í Búrfellsgjá og Selgjá og einnig í Kaldársel. Inni í helli, sem er um 60 metra langur, er hleðsla. Ætlunin er að aka næst að sauðfjárveikigirðingunni sunnan Helgadals og ganga þaðan frá Fosshelli um austurjaðar Mygludala, um hraunið þar austan við og nálgast síðan Helgadal úr austri. Ef ekkert nýtt finnst á þeirri leið má telja líklegt að framangreindur staður sé sá sem líklegast kemur til greina að hafa hýst útilegumennina forðum. Hins vegar verður sennilega aldrei hægt að ákvarða það með neinni vissu, fremur en svo margt annað.
Í Rauðshelli.
Rauðshellir er ekki langt frá Selvogsgötunni, en auðvelt er að dyljast í honum. Einnig er hægt að komast út úr honum á fleiri en einum stað svo undankomuleiðir hafa verið fyrir hendi. Inni í eystri hluta hellisins er ráshluti er veitir gott skjól. Þar er nokkuð þurrt og erfitt að koma auga á þann eða þá, sem þar væru, séð frá opinu.
Veður var frábært – sól og stilla. Gangan tók um 2 og ½ klst.
Hleðslur í helli í Helgadal.
Húsatóttir – flugvélaflak
Haldið var í hraunið skammt vestan við Húsatóttir, en þar hafði FERLIR nýlega skoðað flak flugvélar, sem sagt var að hefði verið þýskt, sbr. sögu HG um handtöku og skjólsgjöf Staðarmanna til handa þýskum flugmanni.
Húsatóftir – kort.
Grafið var í haug, sem þarna er, auk þess sem skoðað var í sprunguna ofan við hauginn, uppi á hraunbrúninni. Þar voru bæði kúlur og skothylki. Við athugun á staðnum kom í ljós að skrúfur og rær voru með tommumáli. Þar með gat vélin ekki hafa verið þýsk.
Við nánari eftirgrennslan er þarna að öllum líkindum um flak amerískrar P-47 flugvélar er hrapaði til jarðar, skv. dagbók hersins, um eina mílu vestur af Grindavík þann 13. júní 1944 kl. 08:55. Flugmaðurinn, annar liðþjálfi Thomas J. Latham, komst út í fallhlíf og komst lifandi frá óhappinu. Hluti af flakinu hefur verið hulið með jarðvegi, en annað er vel sýnilegt.
Brak úr vélinni – slidesmynd Viðar Valdimarsson.
Sigurður Viðarson frá Grindavík (býr nú í Hafnarfirði) hafði samband vegna flugvélarinnar.
„Ég hef kíkt stöku sinnum á síðuna www.ferlir.is og haft mjög gaman af. Ég rak augun í lýsingu á FERLIR-493 þar sem þið funduð flugvélaflakið af þýsku vélinni. Faðir minn Viðar Valdimarsson rafvirki í Grindavík fór fyrir um 35 árum síðan með Helga Hjartarsyni fyrrum rafveitustjóra að þessu flaki og tók mynd af byssunum sem stungist höfðu í bergið þegar hún fórst.
Húsatóftir – brak.
Ég mundi alltaf svo vel eftir þessari mynd hjá pabba og fann hana í slidesmyndasafninu hans fyrir 3 árum síðan og ákvað í framhaldi af því að reyna að finna flakið, en pabbi mundi nú ekki nákvæmlega hvar þetta var enda langt um liðið og hann var þá tiltölulega nýkominn til Grindavíkur þegar þetta var og áttaði sig ekki almennilega á hvar þetta var. Ég ræddi við Didda rafvirkja og vissi hann hvar það var og benti mér á, fann ég flakið en engar byssur sá ég. Ég ræddi betur við Didda og hann sagði mér að þær væru alveg við flakið þannig að ég fór aftur og fínkembdi svæðið en fann þær því miður ekki.
Slysstaðurinn.
Annað hvort hafa þær verið fjarlægðar af einhverjum eða lent undir grjótruðningi, en hruflað hefur töluvert við svæðinu rétt við flakið vegna fiskeldisins. Diddi man vel eftir þeim og sagði að þær hefðu verið svo kyrfilega fastar í berginu að þær yrðu ekki fjarlægðar nema með heilmikilli aðgerð. En faðir minn á allavegna mynd af byssunum og ábyggilega hægt að skanna hana fyrir þig ef þú hefur áhuga.“
Í framhaldi af framangreindu sendi Sigurður meðfylgjandi mynd af byssunum. Þær hafa verið fjarlægðar af einhverjum, en eftir er talsvert smálegt úr vélinni.
Frábært veður.
Bark úr vélinni.
Bjarnastaðasel (-ból) – Strandarhellir
Gengið var í fylgd Guðmundar Óskarssonar upp frá Hásteinum eftir að tóttirnar undir þeim höfðu verið skoðaðar sem og LM-merkið á landamerkjasteini er skipti löndum Bjarnastaða og Þorkelsgerðis.
Stekkur í Bjarnastaðaseli (-bóli).
Komið var í Bjarnastaðaból og skoðaðar tóttirnar þar sem og hlaðinn stekkur vestan við selið. Selið hefur verið nokkuð stórt. Haldið var til vesturs að Þorkelsstaðaseli, en þar er m.a. að finna tóttir fimm húsa og hlaðinn stekk í hraunhól norðan við selið. Þá var lagt í ´ann til norðvesturs um Selvogsheiði, upp í Eimuból þar sem selið var skoðað, eldri tóttir í grónu jarðfalli sem og Eimuhellir. Einn hluti hans hefur verið notaður sem fjárskjól og í öðrum hluta eru miklar hleðslur, líklega fullhlaðinn stekkur. Sá hluti hellisins gæti hafa verið notaður við fráfærur. Skammt austan við Eimuból eru tóttir Vindássels. Norðan þess er hlaðinn stekkur. Selminjarnar eru sumar hverjar greinilegar, en mjög gamlar.
Vörðufell – LM/krossmark?
Gengið var til suðurs á Vörðufell þar sem hin mikla Vörðufellsrétt var skoðuð. Þá var litið á Smalavörðurnar og fornt krossmark í steini sunnan undir stóru Vörðufellsvörðunni. Brotnað hefur ofan af steininum, en enn sést vel móta fyrir krossmarkinu. Í örnefnalýsingu er kveðið á um að þarna eigi að vera letrað stafurinn M, sbr. landamerki. Varðan ofan við steininn gegnir hlutverki í lýsingu af viðureign Eiríks galdraprests á Vogsósum og Tyrkja sem og varðan þar fyrir ofan – á Svörtubjörgum.
Í Strandarhelli.
Strikið var loks tekið niður á Strandarhæð og komið við í Strandarhelli. Hringlaga hleðsla er allt í kringum jarðfallið á Strandarhelli og er hellirinn þar ofan í. Hlaðið gerði er í kringum hól norðvestan við hellinn og einnig er hlaðið stórt hringlaga gerði vestan og sunnan við jarðfallið. Norðan þess eru tveir stórir skútar í hraunhól.
Strandarhellir var skoðaður vel og vandlega. Fyrirhleðslur eru á tveimur stöðum inn í honum. Hægt er að fara yfir hleðslurnar og skríða áfram inn eftir rásunum. Hægri rásin virðist vera vænlegri, en vegna moldar á gólfum var ekki farið þangað innfyrir nú. Þægilegra er að gera það þegar gólfið er frosið um vetur.
Í Strandarhelli.
Hægra megin í hellinum er hleðsla fyrir mjórri hraunrás. Innan við hleðsluna beygir hún til hægri og stækkar. Hægt er að far inn eftir rásinni, en eftir um 10-15 metra þrengist hún alveg og lokast. Í suðvestanverðu jarðfallinu virðist hins vegar hægt að komast inn undir hraunið og eitthvað áfram. Skríða þarf þar inn, en hvað tekur við þar fyrir innan er ómögulegt að segja. Þetta þarf einnig að skoða nánar. Strandarhellir er í um 15 mín. gangi frá þjóðveginum svo auðvelt ætti að vera að kíkja í hann aftur við tækifæri og þá með viðhlítandi búnað.
Komið var við í Bjargarhelli og hann skoðaður. Fyrirhleðslur eru í honum á tveimur stöðum. (Fjallað hefur verið nokkuð um Bjargarhelli í öðrum FERLIRslýsingum).
Selvogsheiði – uppdráttur ÓSÁ.
Loks var gengið niður á þjóðveg, framhjá Árnavörðu. Skammt frá henni er hlaðið byrgi fyrir refaskyttu, en þaðan hefur hún haft ágætt útsýni um og niður fyrir Strandarhæð. Skammt norðan vörðunnar liggur gömul þjóðleið vestur og austur um hæðina. Ekki var komið við í Gap (Gaphelli) að þessu sinni, en hann er u.þ.b. 300 metrum vestan við Bjargarhelli. Framan við Gaphelli er Gapstekkur, fallega hlaðinn og heilllegur.
Suðvestan við Bjargarhelli er hola í gróinn hraunhól og þar ofan í er skúti. Sumir segja það þar sé Bjargarhellir, en sú saga fylgir hellinum að í hann hafi fólk úr Selvogi ætlað að flýja ef Tyrkirnir létu sjá sig að nýju. Hella átti að vera við opið, sem hægt var að hylja það með.
Strandarhæð – uppdráttur ÓSÁ.
Engin slík hella er á hólnum nú, en gróið gæti hafa yfir hana eða hún tekin í nálæga vörðu. Mold er inni í skútanum, en þrátt fyrir lítið op er innihaldið sæmilega rúmgott. Bjargarhellir hefur þó verið öllu álitlegri til dvalar. Þótt mold sé í botni hans nú er grunnt niður á slétt hraungólfið. Í honum hafa einnig verið vatnspollar, sem gætu hafa komið sér vel, auk þess sem opið er ekki auðfundið ókunnugum.
Suðvestan af hólnum eru tveir litlir skútar – Litli-Skolli og Stóri-Skolli.
Ljóst er að bæði Selvogsheiði og Strandarheiði hafa upp á fjölmarg forvitnilegt að bjóða þeim, sem það nenna að skoða.
Veður var ágætt – hliðarvindur og frískurlegur andblær. Gangan tók u.þ.b. 4 klst.
Selvogsheiði – uppdráttur ÓSÁ.
Útilegumannahellir við Húsfell
Leiðinni frá Helgadal upp fyrir Hellur lýsir hann svo: “Leiðin úr dalnum liggur í troðningum tveim megin við rúst, sem ég hygg að sé fjárhúsarúst. Hún stendur nú undir vernd fornminjavarðar, allt frá því að Brynjólfur fræðimaður Jónsson frá Minna-Núpi var hér á ferð 1897”.
Tóftir í Helgadal.
[Innskot: Samkvæmt þessu virðist rústin í sunnanverðum Helgadal, við götuna upp úr dalnum, sú sem FERLIR leitaði að og skoðaði á sínum tíma og taldi gamla, vera einmitt þessi rúst].
Gísli heldur áfram: “En hraunriminn austur frá Helgadal geymir sína sögu. Í Setbergsannál segir svo frá við árið 1474: “Þjófnaðaröld mikil um Suðurland. Voru 12 þjófar í einu teknir syðra í helli þar sem nefnt er Húsfell. Voru þeir allir hengdir um sumarið”. [Í annarri heimild er sagt að þjófarnir hafi verið handteknir 1633]. Í hraunrima þessum er hellir og hygg ég, að þar sé hellir sá, sem um getur í annálum. Kannske getum við giskað á hvar þjófar þessir voru réttaðir þegar við komum lengra….. Þegar kemur suður fyrir [Strandartorfur] taka við Hellurnar….
Gálgaklettar við Selvogsgötu.
Þegar við höfum farið um 10 mín. gang upp Hellurnar eru á hægri hönd klettar, sem heita Gálgaklettar. Mér er að detta í hug, að þegar Álftnesingar hafi verið búnir að fanga útileguþjófana í heimahögum sínum hafi þeir farið með þá að klettum þessum og hengt þá þar. Þegar komið er eftir hellunum upp þar sem aðalbrekkan byrjar, er þar jarðfall mikið. Þar í eru hellar nokkrir. 1927 eða 8 var einn þessara hella notaður af rjúpnaskyttum, sem stunduðu veiði upp um fjöllin og lágu þarna um nætur…”.
Gengið var suður Selvogsgötu frá línuveginum ofan við Helgafell. Farið var eftir ruddri götunni í gegnum mjótt hraunhaft og henni fylgt áfram upp fyrir Strandartorfur á hægri hönd.
Selvogsgata ofan Helgafells.
Þegar komið var að Hellunum var gengið upp þær þangað til komið var upp fyrir “aðalbrekkuna”. Þar eru að vísu klettar, en þeir hafa varla dugað til að hengja þar mann, nema hann hafi verið þess styttri í annan endann. Jarðfallið, sem nefnt er að framan var ekki skoðað að þessu sinni, en ætlunin er að fara fljótlega aftur þessa leið. Hins vegar var gengið til norðausturs frá stígnum að grágrýtisklettum, sem þar eru. Ekkert forvitnilegt sást þar.
Hins vegar, eftir um 500 metra göngu frá stígnum, í stefnu til austurs frá klettunum, blasti forvitnilegur staður við. Þar eru klettar, eftirlíking af Gálgaklettunum í Gálgahrauni og álíka háir. Góð aðkoma er að klettunum úr norðri og sjást þeir mjög vel frá Húsfelli. Klofið í klettunum er svo til alveg eins, þó ekki jafnvel gróið og í þeim nyrðra. Roðagylltur himininn skapaði fallega umgjörð um dökka klettana. Hafa ber í huga að þjófarnir þurfa ekki endilega hafa verið hengdir eftir handtökuna. Hins vegar gætu þessir klettar hafa fengið nafngiftina Gálgaklettar vegna þess hversu líkir þeir eru nöfnum sínum í Gálgahrauni, nánast eftirlíking.
Í Rauðshelli.
Hraunið þarna, Húsfellsbruni er hrikalegt á köflum, en hvylftir eru inni í því á stangli. Þær virðast vera eldra hraun. Gengið var í átt að Húsfelli, en enginn hellir fannst að þessu sinni. Þarna eru þó víða op og gjár. Ef 12 menn hafa hafst við í helli þar sem nefnt er Húsfell má telja líklegt að hellirinn sé í eða nálægt fellinu. Í honum ættu að sjást ummerki og í honum eða við hann gætu verið hleðslur eftir fjárhald. Slík ummerki eru reyndar í og við Rauðshelli norðaustan við Helgadal. Ekki er vitað hvert nafnið er á fellinu sunnan hans.
Svæðið við Húsfell er mjög lítið gengið og hefur lítt verið skoðað. Ákveðið hefur verið að ganga næst um sunnanvert Húsfellið og síðan frá því að “Gálgaklettum”, upp á Hellurnar og skoða betur jarðfallið, sem Gísli skrifar um. Það gæti leynt á sér.
Veður var með miklum ágætum – sól og stilla. Gangan tók 3 klst og 14 mín.
Tóftir í Helgadal.
Fógetastígur – Garðagata – Völvuleiði
Gengið var vestur eftir Fógetastíg (Álftanesgötu) og þvert yfir Garðahraun.
Garðar – fjárborg við Garðastekk í Garðahrauni.
Gatan er greinileg í gegnum hraunið. Við hana eru gömul vörðubrot á nokkrum stöðum. Á a.m.k. tveimur stöðum eru grashólar er gætu þess vegna verið gamlar dysjar eða önnur ummerki. Þegar stígnum er fylgt er komið út úr hrauninu við Hrauntunguflöt. Hrauntunga er sá tangi, sem skagar lengst til vesturs út úr hrauninu að vestanverðu. Þó, skammt áður en komið er komið út úr hrauninu, rétt sunnan vörðubrots, liggur stígur til vinstri. Það er Garðagata. Hún liggur síðan áfram til vesturs upp norðanvert Garðaholt þar sem hún fer m.a. í gegnum skotgrafir og skotbyrgi áður en komið er upp á háholtið.
Garðastekkur, tóftin lengst til vinstri, og Garðarrétt.
Beygt var út af Fógetastíg sunnan Garðagötu. Þaðan liggur stígur að Garðastekk. Áður en komið var að stekknum var staldrað við og skoðuð, að því er virðist, allstór fjárborg uppi á hraunkantinum ofan við stekkinn. Borgin er greinilega mjög gömul. Þarna gætu einnig verið um að ræða leifar af húsi eða byrgi ofan við stekkinn. Stekkurinn undir vesturhraunbrúninni er allstór og gæti þess vegna hafa verið breytt í rétt undir það síðasta. Norðan stekksins, inni í stekkjargerðinu, er greinilega gömul tótt og vinkillaga garður norðan hennar. Ekki er vitað hvað sú tótt gæti hafa verið því hvorki er minnst á hana né fjárborgina í örnafnaskrám.
Presthóll.
Gengið var áfram til vesturs áleiðis upp á Garðaholt. Við gatnamót Álftanesvegar og Garðaholtsvegar er stór hóll – Presthóll eða Prestahóll. Utan í honum er miklar skotgrafir og hlaðið smáhús.
Haldið var áfram til suðurs og upp á hæð, sem í seinni tíð hefur verið nefnd Völvuleiði. Á henni er Mæðgnadys skv. örnafnalýsingu. Utan í henni er skotgröf, sem og víðar í holtinu.
Mæðgnadys.
Áfram var haldið til vesturs og þá komið að hinu eiginlega Völvuleiði skv. lýsingu Ágústar frá Miðengi. Það er við hinn gamla Kirkjustíg, sem lá þarna frá Engidal að Garðakirkju. Gömul sögn segir að valva hafi orðið þar úti og verið dysjuð við stíginn.
Eftir stutt staldur við Garðaholt var guðað á glugga á Króki, gömlu uppgerðu húsi skammt neðan við veginn. Það mun nú vera í eigu Garðabæjar og er látið halda sér að innan eins og það var yfirgefið á sínum tíma. Gengið var niður með Austurtúnsgarði Garða og niður fyrir kirkjugarðinn, eftir Lindargötu og að Garðalind. Lindin er undir stórum steini og liggur hlaðinn stokkur niður frá henni. Yfir stokkinn er brú upp við lindina og önnur aðeins neðar. Neðan og vestan við lindina var Garðhúsabrunnur, en hann var fylltur upp eftir að dauð rolla fannst í honum. Þarna skammt frá voru Garðhús (gæti verið áberandi tótt sunnan við Garðalind, fast upp við kirkjugarðsgirðinguna.
Fógetagata.
Gengið var til norðurs að bæjarhóls þurrabúðarinnar Hóls við norðvesturhorn kirkjugarðsins, upp túnið norðan hans, framhjá Ráðagerði og upp á Garðaholt. Þaðan sést vel Hallargerðið, þar sem bærinn Höll stóð, í suður. Staðnæmst var við þann stað, sem Garðaviti stóð. Þar á stórri vörðu var höfð lukt á 19. öld að skipan Garðapresta. Framhjá henni til austurs liggur Garðagata niður holtið – þvert í gegnum hlaðnar skotgarfir og tvö steypt skotbyrgi. Litið var á þau og síðan haldið áfram niður eftir Garðagötu. Miðja vegu í holtinu, vinstra megin og alveg við götuna, er gömul ferköntuð hleðsla. Gömul hringlaga hleðsla er utan um hana. Þarna er eitthvað, sem skoða þarf nánar. Í örnafnalýsingu segir m.a. að “frá Garðatúnshliði lá Garðagata (Stekkjargatan) vestan Götuhóls, framhjá Mæðgnadys í norðanverðu Garðaholti rétt hjá Presthól við vegamót Garðaholtsvegar og Álftanesvegar”.
Hallargerði.
Í örnefnaskránni segir að Presthóll sé við fyrrnefnd gatnamót. Það segja og Ágúst á Miðengi og Guðjón á Dysjum.
Um Mæðgnadys segir einnig í örnefnalýsingunni að hún sé “í norðanverðu Garðaholti sunnan við Presthól”. Hér gætir ónákvæmni. Ekki er ólílegra að Mæðgnadysin kunni að vera þessi því hún er við götu eins og flestar dysjar, sbr. Völvuleiðið, sem er við Kirkjustíg. Því eru hér uppgefnir GPS-punktar af báðum stöðunum.
Fiskbyrgi í Gálgahrauni við Sakamannastíg.
Síðan var haldið áfram að Sakamannagötu eða Gálgastíg, eins og hann hefur stundum verið nefndur. Þarna lá gatan, nyrst í vesturjarði Gálgahrauns, austur með sjónum að Gálgaklettum. Á leiðinni eru m.a. hleðslur við stíginn og garðar á stangli. Þeir voru fyrst og fremst notaðir sem þurrkgarðar fyrir þang, sem skorið var þarna í fjörunni. Gengið var framhjá Hrauntanga, en ofan þeirra er fallegt útsýni að klettunum.
Gálgaklettar voru skoðaðir í krók og kima. Þeir eru gamall aftökustaður frá Bessastaðavaldinu. Í lýsingum er talað um Gálgaflöt þar sem hengdir voru grafnir, en óljóst er hvar hún er nákvæmlega. Þó má sjá á einu korti af svæðinu að flötin sé nokkru norðaustan við klettana, svo til alveg niður við sjó, á milli Hrauntanga og Vatnagarða. Skoðað síðar. Tækifærið var notað og skimað eftir skútum við Gálgakletta, en engir fundust að þessu sinni.
Gálgahraun – Garðahraun – uppdráttur ÓSÁ.
Í fornleifakönnun FÍ 1999 segir m.a. um Gálgakletta: „Við Lamhústjörn [í Garðahrauni] eru Gálgaklettar, og dregur nokkur hluti hraunsins nafn af þeim…. Skammt austur frá Hraundröngunum, með tjörninni, eru Gálgaklettar, klofinn hraunstandur, og er skammt á milli klettanna. Á milli þeirravar lagt tré og óbótamenn hengdir þar. Þessi klettar eru einnig nefndir Gálgi og hraunið þar í kring Gálgahraun.“
Um Garðastekk segir jafnframt: „Krummaklettar eru fyrsta örnefnið á hægri hönd, þegar farið er norður hraunbrúnina norðan Álftanesvegar. Hefur hraunskelin brotnað þar niður og myndað klettana… Rústir af gamalli fjárrétt, Garðastekk, eru u.þ.b. 150 metrum norðan við Krummakletta, á móts við Garðaholtsveg, þar sem hann kemur á Álftanesveg. Rétt þessi var notuð fram yfir 1930“, segir í örnefnalýsingu.
„Fógetastígur er mjög sérstæð og óvenjuleg fornleif. Hún getur engan vegin talist greiðfær fyrir hesta, en engu að síður ber hún vitni um mikla umferð á þessari leið um aldir. Gatan er enn þann í dag skemmtileg gönguleið og hefur ótvírætt varðveislugildi…. [Fógetastígur] greinist um mitt hraunið. Liggur annar í Garðahverfið, en hinn út á Álftanes. Rétt sunnan við, þar sem vegirnir skiptast, er Skyggnir, stór, einstæður klettur.“
Ástæða er til að hvetja áhugasamt fólk að skoða stígana í Garðahrauni, skoða Garðastekk og kíkja á Gálgaklettana í Gálgahrauni. Aðkoman að þeim eftir Sakamannagötunni úr vestri er áhrifarík.
Frábært veður. Gangan, fram og til baka, tók 3 klst og 3 mín.
Garðagata ofan Garðakirkju.