“Heimildarritin geta eigi nema tveggja þinga hér á landi áður en alþingi var sett á stofn, Þórsnesþing og Kjalarnesþing. En að leiða út af þessu þá ályktun, að fleiri þing hafi eigi verið til hér á landi fyrir 930, virðist nokkuð hæpið. Það er auðvitað, að þinganna hér á landi er eigi getið nema í sambandi við einhverja atburði, eða þá af einhverjum öðrum sérstökum ástæðum. Að öðrum kosti er gengið þegjandi fram hjá þeim, eins og gengið er þegjandi fram hjá svo mörgum öðrum merkum atburðum, því fornsagan er fyrst og fremst viðburðasaga, en eigi réttarsaga eða þjóðmenningarsaga.
Þingnes – upplýsingaskilti.
Ari fróði, sem bezt og og áreiðanlegast þræðir réttarsögu landsins og framvaxtarsögu þjóðfélagsins, þótt fljótt sé yfir farið, minnist eigi einu sinni á Þórsnesþing. Aftur á móti getur hann um Kjalarnesþing á talsvert einkennilegan hátt. Hann segir svo frá: “Alþingi vas sett at ráþi Ulflíótz oc alra lanzmanna, þar es nú es, en áþr var þing á Kialarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr lannámamannz, faþeer Þorkels mána lögsögumannz, hafþi þar, oc höfþingiar þeir es at þuí hurfu”. Beinast liggur við að skilja orð þessi þannig, að eigi hafi verið til nema eitt þing hér á landi áður alþingi var sett á stofn, – Kjalarnesþing. Nú vitum vér með fullri vissu, að Þórsnesþing að minsta kosti, var sett löngu fyrir þann tíma, og þar er sjálfsagt, að Ara fróða var fullkunnugt um það líka, því hann var ættaður að vestan, afkomandi Þórðar gellis, er deiluna jafnaði [með liðum á Þórsnesþingi]. Hlýtur þá eitthvað og sérstakt að hafa verið einkennilegt við Kjalarnesþing, úr því hann minnist á það með þannig löguðum orðum, og getur það varla eftir atvikum verið annað en það, að Kjalarnesþing hafi haft líka þýðingu fyrir landið í heild sinni eins og alþingi hafi síðar, eða með öðrum orðum, að það hafi verið eins konar allsherjarþing, og verðum vér að hallast að þeirri skoðun. Þangað var skotið málum úr öðrum héruðum, sektarfé það, sem þar var dæmt, var gert að almannafé, þvert ofan í allar venjur, hefði þingið verið skoðað eingöngu sem héraðsþing, og goði sá, sem Kjalarnesþingi stýrði, var síðar við stofnun alþingis gerður að allsherjargoða. Allt bendir þetta í þá átt, að Kjalarnesþing hafi verið sameiginlegt fyrir land allt, og var þá engin furða, þótt endurminningin um það geymdist bæði vel og lengi”.
Esjuberg – Leiðvöllur 1946.
Á öðrum stað (bls. 62-63) segir um Kjalarnesþing: “Kjalarnesþing hefir eflaust eins og nafnið bendir á verið haldið á Kjalarnesi, þótt nú sjáist þess lítil eða engin merki. Kjalnesingasaga segir, að það hafi verið haldið “suðr við sjóinn”, og þótt hún sé í flestum greinum á áreiðanleg, er eigi ólíklegt að hún hafi rétt fyrir sér í þessu, því endurminningin um hið forna, merka Kjalarnesþing hlaut að geymast lengi í minnum manna. Skammt út frá Mógilsá undir kleifunum við sjóinn er nefnt “Leiðvöllur”, og bendir það nafn á, að þar hafi einhvern tíma verið þing haldið. Leiðvöllur er breið grjóeyri, sem gengur út í sjóinn. Fyrir ofan eyrina liggur síki, og þar upp af að austanverðu er lítill grasgeiri, sem nú heitir Kirkjuflötur. Á henni sjást leifar af lítilli tóft, og þó mjög óglöggt. Önnur mannvirki sjást þar nú eigi, og mun sjórinn hafa rótað til og brotið af. Upp af eyrinni er brekka, víða grasi vaxin; hefur það eflaust verið “Þingbrekkan”. Slíkar þingbrekkur eru víða nefndar í fornsögunum, og hyggjum vér, að fornmenn hafi jafnan valið sér þingstað með tilliti til þess, að brekka eða hæð væri í nándinni, þaðan er vel mætti heyra mál manna, því frá þingbrekku fóru fram löglýsingar allar og tilkynningar”.
Esja – stekkur ofan Leiðvalla.
Af framangreindum skrifum að dæma virðist Kjalarnesþing upphaflega verið sem önnur hinna 13 vorþinga, en vegna tengslaleysis þeirra við setningu laga og dómauppkvaðningu virðist hafa orðið þörf fyrir samræmt þing þegar fyrir árið 900. “Víða í sveitum var orðið svo þéttbýlt þegar laust eftir 900, að brýn nauðsyn var á þingum eða einhverju öðru í þeirra stað til að ræða nauðsynjamál héraðanna og jafna deilur, og má nærri geta að örðugt hefir þótt að leita í aðra landsfjórðunga með hvert smáræði. Vér höfum því fyrir satt, að þing hafi risið smám saman víðsvegar um land, þótt eigi sé þess getið í sögunum.
Þingvellir – kort.
Í hverju þingi fyrir sig hafa menn komið sér saman um helztu lagaákvæði og reglur, er fylgja skyldi, og hafa þær sjálfsagt verið nokkuð mismunandi í ýmsum héruðum landsins og sóttar sitt í hverja áttina. Meðan um innanhéraðsdeilur einar var að ræða, hefir þetta sjálfsagt getað bjargast og eigi orðið svo mjög að meini. En þegar landsbúum tók að fjölga og viðskifti og samgöngur á milli héraða að aukast, þá hlutu menn von bráðar að festa sjónir á annmörkum þeim, sem á þessu voru. Þegar sækja skyldi mál í önnur þing, kom það upp úr kafinu, að þar var allt öðrum reglum fylgt um málatilbúnað, sókn og vörn, eiðspjöll og sakarvætti, en í varnarþingi málshefjanda, og úrskurðir ef til vill byggðir á allt öðrum lagagrundvelli. Þetta hefir gert mönnum ókleift eða að minnsta kosti mjög örðugt að ná rétti sínum, er leita skyldi í önnur þing. Hlaut það því að verða eitt af brýnustu nauðsynjamálum landsins, að koma föstu skipulagi á þingin og mynda sameiginlega löggjöf fyrir allt land”.
Þetta gæti hafa verið hlutverk þingsins á Þingnesi, þ.e. að vera undanfari Alþingis, sem síðar var sett á Þingvöllum.
Efnið er úr Gullöld Íslendinga eftir Jóns Jónsson, alþýðufyrirlestrar með myndum, Reykjavík 1906, bls. 26-28.
Minjasvæðið á Þingnesi.
Rauðshellir – Garðaflatir
Farið var í Rauðshelli norðan Helgadals. Á leiðinni þangað, rétt eftir að komið var niður af misgenginu norðan við hellinn, var gengið fram á greinilega mjög gamlan tvískiptan stekk. Mjög líklega hefur stekkurinn verið í tengslum við hellinn því sagnir eru um að Rauðshellir hafi verið notaður sem fjárhellir, enda vart til ákjósanlegri hellir til slíkra nota. Hvergi hefur verið minnst á þennan stekk svo vitað sé.
Í Rauðshelli.
Leitað var að ummerkjum, letri eða rúnum í og við Rauðshelli, en án árangurs. Á einum stað, ofan og norðan við miðopið, gat þó verið áletrun því svo virtist sem stafurinn C eða G hafi verið klappaður þar, á stærð við undirskál. Gengið var í gegnum hellinn, sem er um 80 – 100 metra langur í heild. Hægt er að ganga í gegnum nyrsta hlutann. Þá er komið í jarðfall þar sem fyrirhleðslur eru fyrir opum í báðar áttir, stærri og meiri þó að sunnanverðu. Þar er aðalskjólið og lengsti hluti hellisins innan við breiða hraunsúlu. Hann lokast í hinn endann. Á milli opa í forsal eru sléttar grasi vaxnar syllur, sem gæti mögulega hafa verið bæli. Þar hefur birtu notið hvað lengst. Sunnar er enn eitt opið og þar eru tvískiptar rásir lengra til suðurs.
Smyrlabúð.
Þar sem enn naut birtu þennan daginn var ákveðið að skoða betur garðhleðsluna undir Smyrlabúðahrauni. Hún liggur þar í hálfboga og virðist vera hlaðin utan í hraunkant. Innan garðsins eru sléttur skjólgóður bali. Þegar staðurinn er skoðaður er ekki með öllu útilokað að þarna kunni að hafa verið Smyrlabúð. Garðurinn hefur sigið allnokkuð, en hann sést enn vel. Hann gæti hafa verið aðhald fyrir hesta og jafnvel fé á leið Selvogsmanna að og frá Hafnarfirði. Bollinn er skjólgóður og þar hefur auðveldlega verið hægt að slá upp búðum því ekki var alltaf gistingu að fá í bænum. Góð beit er þarna ofan og út með með hraunkantinum. Varða er á holti sunnar. Þarna gætu menn hafa gist nóttina áður en þeir héldu í kaupstað og jafnvel á bakaleiðinni ef svo bar undir. Giskað er á að staðurinn hafi gleymst í seinni tíð og nafnið þá færst yfir á fjallshólinn þar austur af, við suðurjaðar Smyrlabúðahrauns. Þarna eru allavega ummerki um mannvirki á ákjósanlegum áningastað um Selvogsgötu.
Tóft á Garðaflötum.
Um Smyrlabúð segir Gísli Sigurðsson, fyrrv. lögreglumaður, í leiðarlýsingu sinni um Selvogsgötu: „Þegar brunann þrýtur, til vinstri, er hæð eða ás með aflíðandi halla móti vestri, að austan eru brattar skriður en hamrabelti með smápöllum hið efra. Þetta er Smyrlabúð. Nokkuð hefur verið um þetta nafn deilt, eða réttara sagt nafn á þessari hæð, og hafa þar ýmsir haldið fram nafninu Smillibúð. Út úr því nafni hef ég aldrei getað fundið og hef eindregið haldið á lofti nafninu Smyrlabúð. Ekki skal ég fullyrða hvað liggur þessu nafni til grundvallar…..“.
Garðaflatir – minjar.
Þess skal og getið að í sögnum um Garða á Garðaflötum er talað um Smyrlabúð svo áningastaðurinn, ef rétt er, gæti verið mjög gamall. Ef haldið er áfram með umleitun Gísla gæti búðin hafa heitið Millibúð og hraunið dregið nafn sitt af henni – Millibúðahraun. Síðar, þegar staðurinn gleymdist, og nafnið færðist á hæðina hefur þótt betur viðeigandi að nefna hana Smyrlabúð. Dæmi er um að nöfn hafi breyst í gegnum tíðina, s.s. Nærvík varð að Njarðvík, Arnstapi varð Afstapi og þannig mætti lengi telja.
En þetta eru nú bara vangaveltur. Hins vegar er garðlagið þarna og slétt kvosin innan þesss. Þar gætu leynst fleiri minjar.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 2 mín.
Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.
Ráðagerði – Garðalind
Gengið var um Ráðagerði og nágrenni í fylgd Ágústar, bónda í Miðengi.
Garðalind.
Gengið var til austurs frá bænum og þá komið að hárri tótt með nokkrum hleðslum fyrir. Ágúst sagði að þarna hafi áður staðið þurrabúðin Hóll. Hún er gott dæmi um hinar mörgu hjáleigur frá Görðum, sem þarna voru víða. Hóllinn er svo til einu ummerkin eftir þær á svæðinu. Hver hjáleigubóndi átti að slá eina dagsláttur til að létt af leigu. Neðan við búðina og austan við hana má enn sjá móta fyrir Lindargötu. Gatan lá að Garðalind, aðalvatnsbóli Garðhverfinga. Ofan við lindina stendur stórt bjarg, Grettistak. Lindin er í raun undir steininum. Hlaðinn stokkur er niður frá henni og á honum hlaðin brú. Lindargatan heldur síðan áfram að Austurbæjunum. Sauðkind drapst í Garðalind og var brunnurinn þá fylltur með grjóti og möl. Það sést þó enn móta vel fyrir lindinni sjálfri og hlaðni stokkurinn er enn vel greinanlegur. Ofan og austan við hana er tótt, Garðhús.
Völvuleiði.
Gengið var til norðurs og austurs um Garðaholt. Á holtinu var höfð lukt á tímum Séra Þórarins Böðvarssonar og séra Jens Pálssonar (19. öldin). Nefndist luktin Garðaviti. Frá túnhliðinu liggur stígur í austur um Garðaholt, framhjá Torfavörðu og á Völvuleiði að Flatahrauni. Í dag er hæðin öll sögð heita Völvuleiði. Á og utan í því eru skotgrafir frá því á stríðsárunum. Ágúst fylgdi okkur suður með girðingunni neðan við rétt, sem þarna er og tilheyrir Ráðagerði, að þúfnahólum skammt ofan við skurð í mýri. Sagði hann hólinn líklega hafa verið hið svonefnda Völvuleiði, en nafnið síðan færst á holtið er fólk hafi ekki lengur vitað hvar leiðið var að finna.
Hallargerði.
Gengið var upp á holtið að skotbyrgjum, sem þar eru og snúa til norðurs. Um og í kringum þær eru ýmist grafnar eða hlaðnar skotgrafir. Sunnan þeirra, þegar fer að halla að Garðakirkju, eru hleðslur. Þar var þurrabúðin Höll í Hallargerði. Sést gerðið enn. Þegar gengið er frá túnhliðinu á Görðum, Garðatúnshliði, lá Garðagata vestan við svonefndan Götuhól, framhjá Mæðgnadys í norðanverðu Garðaholti rétt hjá Presthól, sem enn er þar nokkuð áberandi við gatnamót Garðaholtsvegar og Álftanesvegar.
Garðaholt – örnefni – ÓSÁ.
Gengið var spölkorn eftir veginum til vesturs og síðan beygt vestur götuna að Miðengi. Þar við veginn voru bæirnir Gata, Háteigur og Ráðagerði. Ágúst sagðist ekki treysta sér til að benda á hvaða bær hafi verið hvar. Þarna eru allnokkrar hleðslur, sem skoða þarf nánar. Þá eru gamlar sagnir um dómhring við Ráðagerði, en ætlunin er að fara síðar á vettvang og reyna að staðsetja hringinn. Ágúst sagðist sjálfur ekki hafa heyrt af dómhring þarna, en svæðið næst og ofan við Ráðagerði hefur verið látið óhreyft að mestu.
Garðahverfi er minjasvæði. Við hvert fótmál birtist saga fyrri tíma. Óvíða annars staðar er að finna jafn ósnert heildarlandslag minja en umhverfis Garðakirkju.
Veður var frábært – lygnt og sól. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Mæðgnadys.
Setberg
Í FERLIRsferð nr. 505 var gengið undir leiðsögn Friðþjófs Einarssonar, bónda, um land Setbergs í Hafnarfirði, fyrrum Garðahreppi. Ferðin var ekki síst áhugaverð vegna þess að einn þátttakendanna var afkomandi Jóns Guðmundssonar, fyrrum bónda á Setbergi og hreppsstjóra í Garðahreppi.
Jón var frá Haukadal í Biskupstungum, sonur Guðmundar frá Álfsstöðum, hins fjárglögga. Guðmundur auðgaðist af fé og fluttist að Haukadal þar sem afkomendur hans bjuggu m.a. í Tortu og Bryggju, þeim einu kotum í sveitinni er Skálholtsbiskup auðnaðist ekki að söðla undir sig, þrátt fyrir gjaflyndi fólks á dánardægri með prestinn einan nálægan að vitundarvotti. „Hefðir“ og „lög“ samfélagsins voru ákvörðuð af yfirvaldinu og því erfitt fyrir almúgann að andmæla – líkt og nú. Þetta var því enn staðfastara fólk en nú þekkist og það stóð á sínu þótt á móti hvessti.
Setbergsbærinn – tilgáta.
Jón fluttist að Hvaleyri við Hafnarfjörð fyrir aldarmótin 1900, bjó þar í þrjú ár, og fluttist síðan að Setbergi. Þar gerðist hann mikill fjárbóndi uns hann hafði, á gamals aldri, skipti við Jóhannes Reykdal, á jörðinni og húsi „niður í bænum“. Skiptin voru reyndar báðum til góðs þvi þau auðvelduðu hinum aldna Jóni síðustu æviárin og hinum frumkvæðna Jóhannesi drifkraftinn og áræðnina er leiddi síðar til rafvæðingar bæjarins. Börn Jóns og Ingveldar, konu hans, urðu ellefu. Ein dóttir þeirra, Sigurbjörg, bjó síðar að Urriðakoti, og önnur, Ingveldur, að Þorbjarnarstöðum í Hraunum. Þau hjónin, hún og Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi, eignuðust einnig 11 mannvænleg börn er öll komust til manns. Nú standa tóftir Þorbjarnarstaða, líkt og Setbergsbæjarins, eftir sem ómeðvitaður bautarsteinn þess sem var – handan við hornið.
Skilti Byggðasafns hafnarfjarðar við gamla Setbergsbæinn.
Fyrst var gengið að stæði gamla Setbergbæjarins í hlíðinni ofan við Háabergið, við vesturjaðar golfvallarins. Þar var bærinn fram á miðja 19. öld. Af þeim bæ er teikning Collingwoods af bænum frá árinu 1771, sem birtist í bók hans, sömu og teikningin er af Hvaleyrarbænum. Gaflar hafa staðið mót vestri. Friðþjófur benti á eina tóftina og sagði að inni í henni væri heill lýsisbræðslupottur. Þar reyndist hann vera, sennilega á sínum upprunalega tilveru- og notkunarstað, í tóftinni. Við suðurhornið er steinn og í hann reknir margir járnnaglar. Nýrri bærinn stóð vestar og neðar í hlíðinni, en öll ummerki eftir hann eru nú horfin.
Galdraprestsþúfa við gamla Setbergsbæinn.
Gengið var spölkorn til norðurs og var þá komið að litlum hól við norðurbrún gamla vegarins upp að Urriðakotsvatni. Friðþjófur sagði hólinn heita Galdraprestshóll. Í honum væri grafinn nafngreindur prestur, Einar, og væri til þjóðsaga um hann. Sá hefði komið undir eftir að sýn birtist föður hans, sem jafnframt var prestur úti á landi, í draumi og gat hann í framhaldi af því barn með ungri konu á altari kirkjunnar. Hertrukki var ekið utan í hólinn á stríðsárunum og valt hann við það sama. Ekki er getið um kirkju þarna, en gamall grafreitur er norðan við hólinn. Það hafi komið í ljós þegar verið var að slétta túnið snemma á 20. öldinni. Einar þessi mun hafa verið rammgöldróttur. Í örnefnalýsingu GS segir um hól þennan: „Frá vesturbæjarhorni lágu Setbergstraðir austur um túnið. Þar sem það var hæst, var farið framhjá Galdraprestsþúfu, en þúfa sú mun vera kapella, sem eitt sinn var hér á Setbergi. Á þúfu þessari sat löngum Þorsteinn Björnsson prestur, og hér orti hann „Noctes Setbergenses“. Eru ströng fyrirmæli um að hrófla ekki við þúfu þessari.“
Áfram var gengið til norðvesturs upp á Setbergshamar (Þórsbergshamar) og skoðaðar mjög gamlar tóftir, sem þar eru. Sú eystri er enn heilleg. Ástæðan mun vera sú að óvenju stórt grjót hefur verið notað í hleðsluna. Sést enn móta fyrir burstalaginu.
Nokkru norðan við húsið, ofar í hæðinni, er hleðsla og umhverfis það rúmgóður hringlaga garður, greinilega mjög gamall. Hann er mótaður af stórgrýti. Augljóst er að þarna hafa engi aukvisar verið að verki.
Setbergsbærinn – tóftir.
Friðþjófur sagðist hafa rekið augun í þetta, spurt nokkra um hugsanlegar skýringar, en enginn kunnað svör við því hvað þarna kynni að vera. Ekki er með öllu útilokað að um væri að ræða gamlan dómhring líkt og sjá má víðar á Reykjanesskaganum (t.a.m. á Stafnesi og Þingnesi) sem og annars staðar á landinu. Vestan við hringinn er gömul hlaðin tóft. Vel mótar fyrir hleðslum. Snýr framhliðin til norðvestur í átt að miðbænum. Augljóst er að þilgafl hefur verið á henni mót vestri. Lega tóftarinnar bendir til þess að þarna kynni að hafa verið fyrrum bænhús. Fróðlegt væri að fá sérfræðing til að skoða þessar tóftir, en það gæti þó reynst erfitt því ekki var að sjá neina yfirbyggða skrifborðsaðstöðu á svæðinu.
Setbergsbærinn gamli í dag á miðri loftmyndinni.
Hlaðinn vörslugarður er skammt norðar. Hann liggur af hamrinum til austurs, en er rofinn á kafla. Friðþjófur sagði afa sinn hafa látið ýta hluta garðsins í haug við enda vestari hluta garðsins þegar holtið var slétt og túnið gert á þeim stað – á grafreitnum og norðan hans.
Þá var gengið austur yfir Fjárhúsholtið og að Svínholti. Norðan undir því, syðst á túni, sem þar er, eru tóftir og hringlaga gerði framan við. Friðþjófur sagði afa sinn hafa byggt þarna fjárhús er þau voru flutt úr Setbergshlíðinni, þ.e. fjárhúsin, sem byggð voru þar 1904 eða 1906 eftir að aðstaðan hafði verið færð þangað úr Setbergsseli. Aftan við húsið hafi verið lítil hlaða, en sjálft hafði það verið byggt úr holsteini. Hins vegar hafi alltaf verið haft á orði að þarna hafi áður verið gamalt mannvirki, sem ekki væru kunn skil á. Það skýrði m.a. hringlaga gerðið við húsin.
Veður var frábært – logn og sólkinsbjart. Gangan tók 43 mín.
Tóftir Setbergsbæjarins.
Hnappur – Flatur
Leitað var að Hnapp í Arnarseturshrauni. Skv. lýsingu Björns Hróarssonar er hann hafði eftir nafna sínum Símonarsyni átti að leita hans í stefnu frá Hestshelli að Arnarseturshelli, nokkurn veginn miðja vegu, en þó heldur nær hinum síðarnefnda. Þar átti að vera yfirborðsrásakerfi og þar fyrir ofan hóll með lítilli vörðu. Við vörðuna eitt mjög lítið gasútstreymisop – þröngt og bratt, skrið og síðan niður í salinn.
Hnappur – opið.
Þessi lýsing gekk eftir. Nokkrar vörður eru þarna við smáskúta, en á nefndum stað fannst þröngt gat á hraunhæð, utan í annarri hærri. Ekki er auðvelt að koma auga á opið og því auðvelt að ganga þar framhjá. Opið er um 500 metra frá Hesthelli. Ekki er fyrir aðra en granna að renna sér og smeygja sér síðan niður um gatið. Ráðlegt er að skilja nestið eftir uppi, en borða það ekki niðri í hellinum því gera þarfr áð fyrir að þurfa að komast út aftur. Þá er komið í fallegan rauðleitan geymi. Þarna er breið efri rás, en hún virðist enda fljótlega. Rásin liggur inn til norðvesturs, þurr og þarf að ganga þar hálfboginn. Þá þrengist hún og þarf að skríða nokkurn spöl áfram þangað til hún víttkar aftur. Rás til hægri lokast og svo virðist sem vinstri rásin lokist líka, en þegar komið er í enda hennar sér niður um op. Þar fyrir neðan er rúmgóður salur með nokkrum rásum. Rásir þessar liggja svo til allra átta, misjafnlega langar og greiðfærar. Hægt er að komast upp úr a.m.k. tveimur þeirra um op á hraunhellunni.
Í Hnappnum.
Hnappur er með fallegri hellum og alveg heill, en lítið er um myndanir í honum. Þó eru þær til fremst í honum þar sem komið er niður. Um 30 metrar eru að niðurgangnum, en í heildina gæti hellirinn þess vegna verið hátt í hundrað metra langur. Þegar komið er niður í háan og rúmgóðan salinn liggja rásir út frá honum í ýmsar áttir er áhugavert væri að kanna nánar.
Þorvaldur Örn, kennari í Vogum, upplýsti síðar, að hann hefði farið í þennan helli ásamt félaga sínum Geirdal, sennilega fyrstir manna. Hefðu þeir nefnt hellinn Geirdal og afhenti hann góðan uppdrátt af hellinum því til staðfestingar.
Í Flat.
Eftir þessa skoðun var hraunið gengið til norðurs uns komið var að opnum skúta í hraunbólu. Á honum er varða. Rásir liggja til hægri og vinstri, en þar virðist vera um yfirborðsrásir að ræða. Norðan við skútann er áberandi gata í gegnum hraunið. Hún virðist koma frá Seltjörn og í boga í gegnum Arnarseturshraun. Götunni var fylgt langleiðina yfir að Skógfellastíg. Þarna virðist vera um að ræða götu frá Njarðvíkum yfir á stíginn. Hún er lítt áberandi næst Grindavíkurveginum, en þegar komið er u.þ.b. 300 metra austur fyrir hann er gatan mjög greinileg og er þannig áfram í gegnum hraunið.
Hestshellir.
Á leiðinni til baka var komið að rás norðaustan við Hesthelli. Við opið er varða. Rásin er fremur lág, en liggur til vesturs undir hraunið. Eftir u.þ.b. 20 metra beygir hún til norðurs og lækkar. Síðan beygir hún til norðvesturs og heldur áfram. Skríða þarf hana á þeim kafla. Skoðaðir voru um 50 metrar af henni, eða þangað til skríða þurfti á maganum. Rásinni var gefið vinnuheitið Flatur.
Veður og dagsbirta skipta ekki máli í hellaferðum og verða því ekki tíunduð hér. Gangan tók 2 klst og 3 mín.Uppdrátturinn af svæðinu hefur verið uppfærður.
Í Arnarseturshellum.
Arnarseturshraun – hellar I
Gengið var um Arnarseturshraun undir leiðsögn Björns Hróarssonar, hellafræðings.
Í Dollunni.
Fyrst var farið í Dolluna, sem rétt við gamla Grindavíkurveginn við bílastæðið á Gíghæð. Dollan opnaðist er þakið féll niður undan vörubíl þegar verið var að vinna við nýja veginn, en þá var svæðið þarna notað sem athafnasvæði verktakans. Opið er svo til alveg vestan til í svæðinu. Dýptin á fast er um mannhæð og hallar undir á alla vegu. Þarna þyrfti að vera góður stigi fyrir ferðafólk því hellirinn er aðgengilegur svona nálægt vegi. Fyrst þyrfti þó að hreinsa upp drasl, sem safnast hefur neðan við opið. Björn skellti sér niður og skoðaði hellinn. Hann nær umm 30 metra upp á við til austurs og einnig til vesturs og uppfyllir því öll skilyrði til að geta flokkast sem góður hellir.
Hnappur – opið.
Næst var gengið áfram niður hraunið og hraunrásinni fylgt til vesturs. Eftir u.þ.b. 500 metra endar rásin og við tekur hellir. Hann liggur í hægri boga og endar eftir u.þ.b. 50 metra. Þar er stórt op í gólfinu og sést niður á neðri hæðina. Mannhæða hátt er niður. Eftir að haf rutt niður grjóti til að búa til lendingarpall var hoppað niður. Þar liggur víð og góð rás til austurs, undir gólfið sem áður var gengið. Gólfið í rásinni er alveg hreint og slétt. Þessi hluti endaði eftir u.þ.b. 50 metra. Þar inni var bréfmiði á vegg, en letrið var ólæsilegt. Þó mátti greina dagsetningu og ártalið 1992. Þá var haldið til vesturs. Eftir um 30 metra var komið út í jarðfall. Úr því hélt rásin áfram um 20 metra uns komið var út úr henni á ný. Miðað við lýsingu á Hellinum Kubb gæti þetta vel verið hann. GPS-punktur af hellinum sýndi staðsetningu u.þ.b. 20 metrum norðar, en þrátt fyrir leit þar fannst ekkert op. Miðað við nýjan GPS-punkt, sem tekin var þar, gæti hér verið um misvísun að ræða. Um Kubb segir m.a. í lýsingu: “Kubbur er sennilega í sama hellakerfi og Dollan. Kubbur er á tveimur hæðum”.
Op í Kubbnum.
Annað op fannst skammt austan við þann stað, næstum mannhæða djúpt. Björn hoppaði þar ofan í. Þarna reyndist vera hellir í sömu stefnu og hinir hellarnir, u.þ.b. 30 metra langur. Þessi hellir hefur ekki verið nefndur, en fær hér vinnuheitið Naddur í merkingunni nálægur. Erfitt er að koma auga á holuna nema ganga svo til beint á hana.
Ekki lágu fyrir GPS-punkt á Hnapp, en um hann er til eftirfarandi lýsing: “Hann er með skemmtilegri hellum, sem hægt er að komast í. Hann er ekki mjög langur, en hefur upp á margt að bjóða. Inngangurinn er í gegnum þröngt gasútstreymi. Strax þegar niður er komið er hægt að fara á efri eða neðri hæð.
Í Kubbnum.
Efri hæðin lokast fljótt, en neðri hæðin liggur góðan spöl inn þar til komið er að hraunfossi. Fyrir innan fossinn lækkar gólfið verulega. Þá er maður staddur í miðjum hellinum í stórumsal. Út frá þessum sal liggja rásir í margar áttir og ein þeirra liggur í hring”. Fróðlegt væri að fá nánari staðsetningu eða leiðarlýsingu á Hnapp. (Síðar kom í ljós að Þorvaldur Örn, kennari í Vogum, hefði farið með félaga sínum Geirdal, í Arnarseturshraun og þá farið niður í Hnapp. Hefðu þeir m.a. rissað hellinn upp og nefnt hann Geirdal).
Vegavinnubyrgin á Gíghæð.
Haldið var upp að vegavinnubyrgjunum austan Grindavíkurvegar og áfram upp fyrir þau. Þar eru hellar í hraunrás. Rásin er fallin niður á tveimur stöðum og er efri hlutinn öllu lengri, eða um 50 metra langur. Hann endar í hafti, sem aðskilur hann og efsta hluta hinnar miklu hraunrásar úr Arnarsetursgígnum. Í heildina er þessi hallahluti um 100 metrar á lengd. Þeir fá vinnuheitið Gegnumgangur. Á bökkum rásarinnar eru margar stórar og fallegar hraunæðar.
Dátahellir.
Loks var gengið niður í Dátahelli. Hann nefnist svo vegna þess að í honum fannst beinagrind er talin er hafa verið af amerískum hermanni er týndist í hrauninu að vetrarlagi allmörgum árum áður. Við skoðun reyndist hellirinn vera um 40 metra langur.
Veður var frábært – bjart og hlýtt miðað við árstíma.
Allar staðsetningar voru samviskusamlega skráðar, en þegar heim var komið uppgötvaðist að blaðið með öllum tölunum hafði gleymst við Dátahelli.
Arnarsetushraunshellar – uppdráttur ÓSÁ.
Farið var aftur í Arnarseturshraun og GPS-punktar endurteknir. Við það fannst hellir, er nefndur hefur verið Skjóli sem og Kubbur að öllum líkindum.
Farið er inn í Skjóla, sem er nokkuð norðan við Nadda, inn í hraunbólu. Inn úr henni liggja rásir bæði til norðurs og suðurs. Ýmislegt bendir til að þetta séu yfirborðsrásir, en þarna örskammt frá er allnokkurt jarðfall er bendir til að þar undir hafi runnið talsvert hraun. Skjóli var ekki kannaður að þessu sinni, einungis framan við rásirnar er liggja inn.
Á leiðinni til baka var aftur hugað að hraunhól, sem lítil varða stendur á, og skoðaður hafði verið daginn áður. Hóllinn er skammt vestan við Dolluna. Í honum eru tvö gasuppstreymisop. Eystra opið er þröngt, en liggur inn til norðurs og víttkar síðan og hallar niður á við. Þarna gæti vel verið um opið á Hnapp að ræða. Fötin gáfu ekki tækifæri til að elta rásina lengra niður að þessu sinni, en þarna er svolítið skrið til að byrja með.
Ferðin var notuð til að gera uppdrátt af svæðinu og merkja þar inn á alla hellana níu. Skilið var eftir autt pláss fyrir enn ófundna hella þarna.
Sjá meira HÉR.
Kubburinn.
Selvogsgata – Setbergshlíð – Hádegisholt (Flóðahjalli)
Gengin var gamla Selvogsgatan frá Lækjarbotnum upp með austurbrún Gráhelluhrauns að Gráhellu milli Svínholts og hraunbrúnarinnar, í Kershelli, þaðan að vörðunni í Smyrlabúðahrauni og síðan Setbergshlíðin og Vatnshlíðin til baka.
Gráhella.
Skoðuð var hlaðin stífla og hleðslur undir vatnsveituhúsið í Lækjarbotnum. Vegna þess hve vatnið var slétt mátti vel greina síðasta bútinn af gömlu tréleiðslunni neðan við upptökin.
Norðan undir Gráhellu í Gráhelluhrauni er hlaðið fjárskjól. Uppi í Setbergshlíðinni, ofan við stóra vörðu skammt austan við Gráhellu, má enn sjá háar hleðslur af gömlum fjárhúsum, sem byggð voru þar árið 1904 þegar Setbergsbóndi flutti fé sitt úr Setbergsseli, sem er þarna skammt ofar. Gott útsýni er til selsins frá fjárhúsinu. Góðir hagar eru ofar í hlíðinni. Húsið hefur verið nokkuð stórt á þeirra tíma mælikvarða. Í miðjunni er hlaðinn garður og minna hús hlaðið við endann.
Markasteinn – huldufólkshús.
Eftir að hafa farið í gegnum Setbergsselið var beygt til austurs og gengin gömul leið í gegnum gjá norðvestast í Smyrlabúðahrauni og stefnan tekin á stóru vörðuna inni í hrauninu. Farið var yfir gamla landamerkjagirðingu Setbergs. Ekki er ólíklegt að varðan geti verið leiðarmerki að helli, sem var á í hrauninu. Leitað var vel og vandlega á leiðinni, en án árangurs í þetta sinnið. Þá var stefnan tekin á Markastein, en í hann liggur landamerkjagirðingin úr vörðunni ofan við op Kershellis. Steinninn stendur syðst í Fremstahöfða með smágrasstúf á toppi. Að sögn mun Urriðakotsbóndi fyrrum hafa heyrt úr honum rokkhljóð og dregið þá ályktun að í honum byggju huldufólk. Fylgdi sögunni að allt þrek eigi að þverra þeim er nálgast steininn.
Refagildra á Tjarnholti.
Ákveðið var að láta huldufólkið í friði að þessu sinni í tilefni hátíðarinnar. Af ummerkjum að dæma hefur steinninn einhvern tímann verið girtur af, enda lá markagirðingin við hann.
Gengið var eftir Seljahlíðinni og upp á Tjarnholtið með útsýni til allra átta. Sást vel yfir að Trölladyngju og allt yfir að Þorbjarnarfelli ofan við Grindavík. Sólin hafði teygt sig yfir Lönguhlíðar og roðagyllti Esjuna.
Neðar, í norðvestri, sást vel til leifa herbragganna í Camp Russel á Urriðakotshæð (sjá HÉR). Hú hefur hæðinni verið umturnað vegna nýrrar byggðar á hæðinni.
Virki á Fjóðahjalla.
Nikulás Jónsson bóndi á Norðurkoti í Vogum lýsti svæðinu 1834 hér á millum með eftirfarandi hætti: „Milli dala lá troðningurinn niður á Neðri-Flatir, Dalinn neðra eða Dalinn og Urriðakotsdalinn neðri, en svæði þetta sem nú hefur verið lýst nefndist einu nafni Urriðakotsdalir [þar sem nú er golfvöllur] og lá stígurinn hér um miðjan dal í Gjárréttarstíginn og síðan yfir á Hálsinn, Flóðahjallaháls eða Urriðakotsháls sem fyrr er talinn og síðan niður til bæjar. Urriðakot hefur verið í eyði nú um árabil. Þá var tekið upp á því að kalla jörðina Urriðavatn.
Letur á Flóðahjalla.
Svanur Pálsson lýsti svæðinu á eftirfarandi hátt, en heimildarmaður hans var móðir hans, Guðbjörg Guðmundsdóttir sama stað. Hún er fædd í Urriðakoti 1906 og átti þar heima til 1939. Örnefnin nam hún af föður sínum, Guðmundi Jónssyni bónda í Urriðakoti, en á uppvaxtarárum sínum vann hún mikið með honum við útistörf. Guðmundur var fæddur í Urriðakoti 1866 og átti þar heima til 1941, en foreldrar hans bjuggu þar á undan honum og mun faðir hans hafa flust þangað 1846, en móðir hans nokkru síðar.
Varða á Hádegisholti.
„Til suðurs frá traðahliði lá svonefndur Urriðakotsvegur eldri ofan við mýrina. Hann beygði síðan vestur með Hádegisholti, öðru nafni Flóðahjalla, sem er stórt holt suður af Urriðakotsvatni. Síðan lá vegurinn norðvestur eftir Setbergsholti norðaustanverðu, meðfram túngarði á Setbergi, norðvestur fyrir Setbergshamar og síðan til suðurs niður á Setbergsveg, sem lá til Hafnarfjarðar.“
Á hæstu bungu Hádegisholts (Flóðahjalla) var komið við í stóru hlöðnu virkisskjól frá stríðsárunum. Á einn steininn þar er klappað ártalið 1940 auk nokkurra upphafsstafa. Ef vel er að gáð má sjá að virkið gæti áður hafa verið hluti af gamalli fjárborg eða gerði, vandlega hlaðinni, en grjótið hefur síðan verið tekið úr henni í virkishleðslur.
Oddnýjardalur – gata.
Niðri í dalnum til suðurs, Oddnýjardal, mátti sjá gerði og líklega tóft, sem þarf að skoðast betur síðar. Að sögn Friðþjófs bónda á Setbergi mun þarna upphaflega hafa verið hús frá hernum, en síðar verið notað sem skjól fyrir skepnur frá Setbergi. Gengið var niður á Flóttamannaveg og hringnum lokað.
Veður var frábært – logn og bjart. Gangan tók nákvæmlega 3 klst.
Þess skal getið að á leiðinni þóttust einhverjir þátttakenda sjá litskrúðuga álfa á ferð nálægt Markasteini, en enginn sagðist vera tilbúinn að staðfesta það ef spurt væri.
Setbergssel og Hamarkotssel.
Snorri – jarðfall austan Geitahlíðar
Upplýsingar höfðu fengist um jarðfall austan Geitahlíðar. Jarðfallið átti að vera nokkrir metrar í ummál og um sex metra djúpt. Þar ofan í sást í rásir.
Haldið upp í Snorra.
Haldið var upp slóða, sem liggur upp með girðingunni vestan Sýslusteins og honum síðan fylgt upp hraunhlíðina. Á slóðanum er einn og einn girðingastaur á stangli, en hann hefur verið ruddur þarna upp með það fyrir augum að leggja girðingu eftir fjallgarðinum. Þegar komið var upp á hæðina heldur slóðinn áfram uns hann beygir til vinstri við beygju á girðingunni. Úr hornstaurnum liggja strengir í henni áfram til norðurs, upp grasbrekkur. Ekið var slóðann upp brekkuna. Þegar komið var upp beygir girðingin og slóðinn enn til vinstri og heldur áfram yfir hraunbreiðu. Þarna vinstra megin, við hornið, er melhóll. Af honum á að taka mið á jarðfallið.
Á leið í Snorra.
Ekið var áfram eftir slóðanum, en útsýni er þarna allfagurt; Geitahlíð til suðurs, fjórir fallegir eldgígar til vesturs, Sveifluháls norðar, Sandfell og Vörðufell til norðurs, Austurásar, Vesturásar og Herdísarvíkurfjall til austurs. Inni í hrauninu beygir girðingin enn í nær 45° til vinstri. Litið var á einn gíginn, næst slóðanum, en hann er mosagróinn og opnast til suðvesturs. Þegar komið er út úr hrauninu beygir girðingin til norðausturs með hraunkantinum. Slóðinn liggur þar að mestu í grasi og virðist liðast með honum langleiðina að Vörðufelli. Mikil vinna og mikill kostnaður hefur legið í bæði vegavinnunni og girðingavinnunni, en strengirnir liggja víðast hvar niðri og er girðingin því ónothæf með öllu.
Leitin að Snorra.
Haldið var aftur að melhólnum og gengið út frá honum til vesturs, eins og lýsingin sagði. Þarna er nýtt hraun á eldra hrauni á kafla, en nýja hraunið er mjög mosagróið. Jarðfallið átti að vera þarna í 50-100 metra fjarlægð frá melhólnum, en það fannst ekki þrátt fyrir leit.
Haft var samband við upplýsingagjafann. Hann sagðist hafa farið að rifja staðsetninguna betur upp, en nokkuð er um liðið síðan hann var þarna á ferð. Sagðist hann hafa verið að koma frá Vörðufelli, komið að hæsta melhólnum vestan girðingarinnar og ætlað að stytta sér leið yfir hraunið því hann hafi ætlað niður í Sláttudal á milli Æsubúðar-Geitahlíðar og Geitahlíðar. Hann hafi gengið ofan hraunbrúnarinnar áður en hraunið tekur að halla undan til suðurs. Þegar hann hafi verið kominn 50, 100 eða 200 metra inn í hraunið hafi hann allt í einu staðið á barmi jarðfallsins. Hann hefði ekki séð það tilsýndar. Steinbogi er yfir því. Hann taldi að hægt væri að fara ofan í jarðfallið án búnaðar. Rétt væri því að ganga frá melhólnum með stefnu á Geitahlíð, þ.e. meira til suðvesturs og fara með hraunbrúninni.
Björn Hróarsson við Snorra.
Á leið til baka sást op vinstra megin við slóðann þar sem hann liggur niður hraunhlíðina. Þarna er um hraunrás í katli að ræða. Í katlinum er gat, ca. 3×4 metrar að ummáli og er um 6 metrar niður á botn. Ekki er hægt að komast þar niður nema á stiga eða síga. Rás virðist liggja þar til suðvesturs. Uppi liggur rás til norðurs, u.þ.b. 20 metra löng. Hún endar í hruni og lausu hrauni. Í katlinum má einnig sjá inn í reglulega fallega, en mjóa rás. Innan hennar sést í þrifalega hraunrás. Neðri rásina þarf að skoða síðar með viðeigandi búnaði.
Ætlunin er að gera aðra tilraun fljótlega með það fyrir augum að finna jarðfallið – FERLIR er þekktur fyrir allt annað en að gefast upp.
Snorri – kort.
Njarðvík – Áki Grënz
Farið var um Ytri- og Innri-Njarðvík í fylgd Áka Guðna Grënz. Áki byrjaði að sýna uppdrætti og myndir, sem hann hefur unnið eftir heimildum af svæðinu. Uppdrættir þessir eru mjög vel gerðir og lýsa vel staðháttum og einstökum stöðum fyrr á árum.
Áki Grënz.
Áki leiddi hópinn um svæði ofan við þar sem staðið hafði fyrrum bær Hallgríms Péturssonar. Fyrst eftir að Hallgrímur fékk síðar brauð í Hvalsnesi þurfti hann að fara þaðan yfir heiðina eða út með Ósabotnum. Sennilega er þar komin skýringin á tilvist HP-steinsins utan við Þórshöfnina. Öllu þessu svæði hefur nú verið raskað af miklu tillitsleysi og engar minjar eru þar eftir, ekki einu sinni brunnstæðið á Bolafæti.Þá var haldið að Stekkjarhamri, en það er eini staðurinn þarna, sem friðaður hefur verið. Þó er búið að fylla að hluta upp í Stekkjarhamarslautina vestan við hamarinn. Hún var vinsæll áningastaður Keflvíkinga þegar farið var í ferðir með ströndinni á góðvirðisdögum. Sögur eru og um að einhver og jafnvel nafngreind börn hafi komið það undir.
Njarðvík – brunnur.
Þá var haldið upp fyrir Hjallana að landamerkum Keflavíkur og Ytri-Njarðvíkur. Áki sagðist minnast þess að tóttir hafi verið við Hjallatún áður fyrr. Mest af túninu og jarðveginum hafi hins vegar verið flutt að húsum verndaranna uppi á Vallarsvæðinu. Áki benti á hinn raunverulega Grænás og sagðist hafa heyrt að þar ætti að vera álfakirkja.
Áki bauð þátttakendum í Stekkjarkot, en þar hefur hann lyklavöld. Við kotið, sem nú hefur verið gert upp, hefur verið byggt fjós. Innan þess leynist snyrtiaðstaða, en flórinn er hlaðinn sem fyrrum. Áki skýrði hugmyndir Reykjanesbæjarmanna um varnargarð yfir skerjagarðinn og hugmyndir að víkingaþorpi á ströndinni norðan Stekkjarkots.
Innri-Njarðvíkurkirkja.
Þá var haldið að Innri-Njarðvíkurkirkju. Á leiðinni benti Áki á hvar Litli-Krossgarður og þá um leið Narfakotsborg hefðu verið, þ.e. við austurhorn kappakstursbrautarinnar, sem nú er. Því svæði hefur svo til öllu verið raskað meira og minna.
Við kirkjuna benti Áki á Hólmfastskot og sagði söguna af Hólmfasti Guðmundssyni og hans fólki. Tóttin er nokkuð heilleg og stendur sunnan við og næst Tjörninni vestan kirkjunnar.
Tóttir tveggja annarra kota eru þar skammt ofar. Enn ofar er steinbærinn Garðakot, svo til alveg heill. Hólmfastur var eins og kunnugt er hýddur eftir að hafa brotið lög um einokunarverslun Dana að mati kaupmannsins í Hafnarfirði, Knúts Storms, með því að versla með úrkastið við kaupmanninn í Keflavík.
Tóftir Hólmfastskots.
Hólmfastur bjó þá á hjáleigu frá Brunnastöðum (1699). Hann var dæmdur í háa sekt, en var ekki borgunamaður fyrir henni. Var Hólmfastur þá dæmdur til kaghýðingar, bundinn við staur og húðstrýktur rækilega. Þóttu þetta harkalegar aðfarir að sumra mati, m.a. Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, og varð úr að Hólmfastur fékk dæmdar miskabætur að upphæð 20 ríkisdalir. Umdæmisverslunin var afnumin 1732.
Haldið var út á Stapa, framhjá fjárborginni Grænuborg ofan við hesthúsin og vísaði Áki á fótinn af Kolbeinsvörðunni, eða “Kúfúdvörðu”, eins og hún mun einnig hafa verið nefnd. Varðan mun hafa verið landamerkjavarða Voga og Innri-Njarðvíkur. Sést móta fyrir vörðunni vestan við Innri-Skor. Áttu landamerkin að vera úr henni í miðja Skoruna og í Arnarklett suðvestan við Snorrastaðatjarnir. Ekki var að sjá neinn ártalsstein á eða við þessa vörðu, en skv. sögnum átti að hafa verið í henni steinn með ártalinu 1724.
Varða sunnan við Stapa.
Í leiðinni var ekið suður gamla Grindavíkurveginn, en staðnæmst skömmu áður en komið var að Reykjanesbrautinni. Þar, u.þ.b. 100 metrum vestan við veginn er klapparhóll og á honum breiður vörðufótur. Áki sagðist ekki hafa heyrt minnst á þessa vörður áður. Varðan er ekki alveg í beina stefnu á milli Arnarkletts og vörðunnar vestan við Innri-Skoru, en gæti þó alveg verið landamerkjavarða.
Eftir ferðina var gengið frá Innri-Njarðvíkurkirkju með ströndinni að Stapakoti. Á leiðinni eru m.a. hlaðnar tóttir, þar af ein bæði mjög stór og mjög heilleg. Gengið var eftir gömlum garði austan við núverandi íbúðarhús og honum fylgt til vesturs. Innan hans eru m.a. tóttir af stóru fjárhúsi og fleiru.
Innri Njarðvík – Áki Grenz.
Kjalarnesþing – Jón Jónsson
“Heimildarritin geta eigi nema tveggja þinga hér á landi áður en alþingi var sett á stofn, Þórsnesþing og Kjalarnesþing. En að leiða út af þessu þá ályktun, að fleiri þing hafi eigi verið til hér á landi fyrir 930, virðist nokkuð hæpið. Það er auðvitað, að þinganna hér á landi er eigi getið nema í sambandi við einhverja atburði, eða þá af einhverjum öðrum sérstökum ástæðum. Að öðrum kosti er gengið þegjandi fram hjá þeim, eins og gengið er þegjandi fram hjá svo mörgum öðrum merkum atburðum, því fornsagan er fyrst og fremst viðburðasaga, en eigi réttarsaga eða þjóðmenningarsaga.
Þingnes – upplýsingaskilti.
Ari fróði, sem bezt og og áreiðanlegast þræðir réttarsögu landsins og framvaxtarsögu þjóðfélagsins, þótt fljótt sé yfir farið, minnist eigi einu sinni á Þórsnesþing. Aftur á móti getur hann um Kjalarnesþing á talsvert einkennilegan hátt. Hann segir svo frá: “Alþingi vas sett at ráþi Ulflíótz oc alra lanzmanna, þar es nú es, en áþr var þing á Kialarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr lannámamannz, faþeer Þorkels mána lögsögumannz, hafþi þar, oc höfþingiar þeir es at þuí hurfu”. Beinast liggur við að skilja orð þessi þannig, að eigi hafi verið til nema eitt þing hér á landi áður alþingi var sett á stofn, – Kjalarnesþing. Nú vitum vér með fullri vissu, að Þórsnesþing að minsta kosti, var sett löngu fyrir þann tíma, og þar er sjálfsagt, að Ara fróða var fullkunnugt um það líka, því hann var ættaður að vestan, afkomandi Þórðar gellis, er deiluna jafnaði [með liðum á Þórsnesþingi]. Hlýtur þá eitthvað og sérstakt að hafa verið einkennilegt við Kjalarnesþing, úr því hann minnist á það með þannig löguðum orðum, og getur það varla eftir atvikum verið annað en það, að Kjalarnesþing hafi haft líka þýðingu fyrir landið í heild sinni eins og alþingi hafi síðar, eða með öðrum orðum, að það hafi verið eins konar allsherjarþing, og verðum vér að hallast að þeirri skoðun. Þangað var skotið málum úr öðrum héruðum, sektarfé það, sem þar var dæmt, var gert að almannafé, þvert ofan í allar venjur, hefði þingið verið skoðað eingöngu sem héraðsþing, og goði sá, sem Kjalarnesþingi stýrði, var síðar við stofnun alþingis gerður að allsherjargoða. Allt bendir þetta í þá átt, að Kjalarnesþing hafi verið sameiginlegt fyrir land allt, og var þá engin furða, þótt endurminningin um það geymdist bæði vel og lengi”.
Esjuberg – Leiðvöllur 1946.
Á öðrum stað (bls. 62-63) segir um Kjalarnesþing: “Kjalarnesþing hefir eflaust eins og nafnið bendir á verið haldið á Kjalarnesi, þótt nú sjáist þess lítil eða engin merki. Kjalnesingasaga segir, að það hafi verið haldið “suðr við sjóinn”, og þótt hún sé í flestum greinum á áreiðanleg, er eigi ólíklegt að hún hafi rétt fyrir sér í þessu, því endurminningin um hið forna, merka Kjalarnesþing hlaut að geymast lengi í minnum manna. Skammt út frá Mógilsá undir kleifunum við sjóinn er nefnt “Leiðvöllur”, og bendir það nafn á, að þar hafi einhvern tíma verið þing haldið. Leiðvöllur er breið grjóeyri, sem gengur út í sjóinn. Fyrir ofan eyrina liggur síki, og þar upp af að austanverðu er lítill grasgeiri, sem nú heitir Kirkjuflötur. Á henni sjást leifar af lítilli tóft, og þó mjög óglöggt. Önnur mannvirki sjást þar nú eigi, og mun sjórinn hafa rótað til og brotið af. Upp af eyrinni er brekka, víða grasi vaxin; hefur það eflaust verið “Þingbrekkan”. Slíkar þingbrekkur eru víða nefndar í fornsögunum, og hyggjum vér, að fornmenn hafi jafnan valið sér þingstað með tilliti til þess, að brekka eða hæð væri í nándinni, þaðan er vel mætti heyra mál manna, því frá þingbrekku fóru fram löglýsingar allar og tilkynningar”.
Esja – stekkur ofan Leiðvalla.
Af framangreindum skrifum að dæma virðist Kjalarnesþing upphaflega verið sem önnur hinna 13 vorþinga, en vegna tengslaleysis þeirra við setningu laga og dómauppkvaðningu virðist hafa orðið þörf fyrir samræmt þing þegar fyrir árið 900. “Víða í sveitum var orðið svo þéttbýlt þegar laust eftir 900, að brýn nauðsyn var á þingum eða einhverju öðru í þeirra stað til að ræða nauðsynjamál héraðanna og jafna deilur, og má nærri geta að örðugt hefir þótt að leita í aðra landsfjórðunga með hvert smáræði. Vér höfum því fyrir satt, að þing hafi risið smám saman víðsvegar um land, þótt eigi sé þess getið í sögunum.
Þingvellir – kort.
Í hverju þingi fyrir sig hafa menn komið sér saman um helztu lagaákvæði og reglur, er fylgja skyldi, og hafa þær sjálfsagt verið nokkuð mismunandi í ýmsum héruðum landsins og sóttar sitt í hverja áttina. Meðan um innanhéraðsdeilur einar var að ræða, hefir þetta sjálfsagt getað bjargast og eigi orðið svo mjög að meini. En þegar landsbúum tók að fjölga og viðskifti og samgöngur á milli héraða að aukast, þá hlutu menn von bráðar að festa sjónir á annmörkum þeim, sem á þessu voru. Þegar sækja skyldi mál í önnur þing, kom það upp úr kafinu, að þar var allt öðrum reglum fylgt um málatilbúnað, sókn og vörn, eiðspjöll og sakarvætti, en í varnarþingi málshefjanda, og úrskurðir ef til vill byggðir á allt öðrum lagagrundvelli. Þetta hefir gert mönnum ókleift eða að minnsta kosti mjög örðugt að ná rétti sínum, er leita skyldi í önnur þing. Hlaut það því að verða eitt af brýnustu nauðsynjamálum landsins, að koma föstu skipulagi á þingin og mynda sameiginlega löggjöf fyrir allt land”.
Þetta gæti hafa verið hlutverk þingsins á Þingnesi, þ.e. að vera undanfari Alþingis, sem síðar var sett á Þingvöllum.
Efnið er úr Gullöld Íslendinga eftir Jóns Jónsson, alþýðufyrirlestrar með myndum, Reykjavík 1906, bls. 26-28.
Minjasvæðið á Þingnesi.
Herdísarvík – Seljabót – Sýslusteinn
Gengið var framhjá bæ Einars Benediktssonar, skálds, og Hlínar Johnson í Herdísarvík.
Herdísarvík.
Dyttað hafði verið að húsinu daginn áður og lítur það bara nokkuð vel út núna. Þegar farið var eftir heimtröðinni að gamla bænum mátti sjá gamla netasteina, steinum með mörkum í sem og gamla myllusteina. Framan við gamla bæinn er sjórinn að brjóta bakka og undan honum er smám saman að koma ýmislegt, sem einhvern tímann hefur tilheyrt smiðjunni við bæinn. Sjá má gólfborð undan bakkanum og einstaka málmhlut, s.s. fötuhald, nagla, stangir o.fl. Sjá má móta fyrir útlínum hússins á klöppunum framan við bakann.
Herdísarvík um 1900.
Gengið var suður með Herdísarvíkurtjörninni. Sunnan hennar eru góðir beitihagar auk þess sem vatnsbollar eru þar á víð og dreif. Lítið sést þar af minjum.
Haldið var vestur með ströndinni, sem hækkaði smám saman. Gróið er ofan við bakkann, en þar fyrir ofan tekur við lyng og kjarrivaxið Herdísarvíkurhraunið. Gengið var framhjá sandlóuhreiðri með þremur eggjum í, skammt vestar var stelkshreiður auk hreiðra nokkurra annarra fugla. Tófuspor sáust í sandinum ofan við bergið. Á nokkurum stöðum mátti sjá greni og voru sumhver merkt með hefðbundnum hætti; tveir steinar, annar ofan á hinum. Kjói flaug lágt yfir mosahrauninu, greinilega í leit að eggjum eða öðru ætilegu. Kríur sáust svo að sjálfsögðu ýmsar mávategundir. Gata liggur ofan við bergið, en hún er ógreinileg á köflum. Sjá má einstaka heila vörðu á leiðinni ef vel er að gáð, en einnig má sjá vörðurnar á leiðinni að Herdísarvík austan við selið, þá er liggur upp á og sameinast gömlu þjóðleiðinni skammt austan við Sláttudal.
Herdísarvík- hnyðja.
Víða var mikill reki ofan rekamarka og mátti innan um sjá fallegar hnyðjur og hnoðja, kúlur og keilur.
Gullkollur hafði skotið upp kollinum á nokkrum stöðum, en hann er eitt af einkennisblómum Reykjanessins. Hrafnaklukka, brjóstagras og smjörgras sáust einnig á stangli. Hluti hrossaleggjar lá í götunni, hauskúpa af selskóp, sakka og sérkennilegir steinar, sem sjórinn hafði kastað hátt á land.
Sjórinn var tiltölulega ládauður og virtist ekki abbast mikið upp á bergið. Gott tóm gafst því til að skoða bergsylluraðirnar, en þær voru sumstaðar allt að sex talsins, hver ofan á annarri. Skiptist á grágrýti og gjall.
Herdísarvíkurbjarg – brotgangur.
Á einum stað hafði sjórinn í einhverju reiðiskastinu brotið gat upp í gegnum bergið, en nú mátti sjá hann leika ljúft við það undir niðri. Á öðrum stað mátti sjá bergþursa ræðast við fyrir opinni vík. Litadýrð bergsins á kafla var einstök. Sjá mátti rautt innan um svart og grátt sem og gula og bleika steina, sem sjórinn hafði brotið úr berginu fyrir neðan og kastað upp á bakkann.
Skammt austan Seljabótar eru leifar af hlöðnum refagildrum. Hafa þær mjög látið á sjá. Einungis ein er nú með einhverju lagi og má vel sjá hlaðinn ganginn og hleðsluna utan um hana.
Herdísarvíkursel.
Haldið var að Herdísarvíkurseli. Ró hvíldi yfir tóftunum undir hraunkantinum. Upp úr einni þeirra stakk sér svartur hyrndur haus. Reyndist það vera rolla með lamb. Hafði hún leitað næðis í stærstu tóftinni. Þegar komið var nær sást þar önnur ær, þríhyrnd, með golsótt lamb. Þriðja hornið stóð svo til beint upp úr höfði kindarinnar og var það kindarlegt á að líta, líkara einhyrningi. Greyin voru ekki það styggar að ekki væri hægt að virða þær fyrir sér nokkra stund. Þá gengu þær í hægðum sínum út með hraunkantinum og fylgdu lömbin á eftir. Ær og lömb í seli tilheyra víst liðinni tíð.
Herdísarvegir – ÓSÁ.
Vatnsstæði selsins reyndust tóm, enda varla komið dropi úr lofti í marga daga. Megintóftin er undir hraunbrúninni, einn skammt sunnar, önnur austar og tvær sunnan hennar. Gerði eða kví er í hraunkantinum vestan megintóftarinnar. Herdísarvíkursel hefur verið myndarlegt sel á meðan var.
Gengið var upp með Seljabótagirðingunni að Sýslusteini. Í bakaleiðinni bauð fótgangandi álftapar ferðalöngum að virða fyrir sér tvo unga þess. Mátti varla á milli sjá hvort faðirinn eða móðirin væru stoltara af afkvæmunum sínum.
Grænavatn.
Grænavatn var óvenjugrænt og Krýsuvíkurhverirnir skörtuðu sérkennilegri skerpu undir sólstöfunum; rautt, blátt, grænt, grátt, hvítt og svart. Svæðið allt, sem reyndar allt tilheyrir Hafnarfirði nú af einhverjum óskiljanlegum nútímaástæðum (var reyndar ekki heldur skiljanlegar í þá daga er koma átti rauðum kúm þar til mjalta), en ætti með réttu að tilheyra Grindavík, enda í lögsagnarumdæmi þess, býður upp á mikla útivistarmöguleika, enda landslagið bæði fjölbreytt og fagurt. Hafnfirðingar hafa sýnt þessu sagnaríka og mikilfenglega svæði tilsýndaráhuga um nokkurt skeið. Á meðan hefur það slegið í eðlislægum takti við hjarta Grindvíkinga. Nafnið Krýsuvík (Deiluvík) er ekki komið af engu.
Veður var frábært – sólstafir og sætukoppar, en rigning í bænum.
Gangan tók 2 klst og 53 mín.
Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.