Ætlunin var að skoða útilegumannahella í Innstadal, Engidal og Marardal.
Draugatjörn – sæluhúsið.
Gengið var frá sæluhúsinu og réttinni við Draugatjörn. Saga er að segja frá hvorutveggja, en það verður gert í annarri lýsingu. Haldið var upp með Húsmúlanum að Sleggjubeinsskarði og áfram upp skarðið. Þá var komið í Innstadal. Gengið var austur dalinn og alveg inn að hverasvæði, sem þar er. Volg laug er læk, sem rennur niður úr hlíðinni innst í dalnum. Ofarlega í klettum er hellir og dálítil grastó fyrir framan. Hellirinn sást vel þegar gengið var inn dalinn.
Innstidalur – hellir.
Mjög bratt er upp í hellinn um einstigi og nær ókleift á kafla. Hann er rúmlega tveggja metra langur inn í botn og um tveggja metra breiður. Hlaðið hefur verið fyrir hellismunnan, en hleðslurnar hafa mikið til fallið niður. Talið er að útilegumenn hafi hafst við í helli þessum. Engin leið virtist vera að komast að þeim. Sagt var að útilegumennirnir hafi verið skipshöfn, 6-7 menn, úr Höfnum, sem átti að hafa unnið eitthvert níðingsverk. Þeir áttu að hafa hafst við í hellinum í um tvö ár – aðrir sögðu eitt sumar, ásamt tveimur hlutakonum. Þeir höfðu með sér kaðal og drógu konurnar á honum upp í hellinn sem og föng sín, sem voru að mestu sauðfé Ölfusinga og Grafningsmanna. Bændur héldu uppi njósn um þá. Þegar útilegumennirnir fóru úr hellinum og voru á leið til baka með sauðfé, sátu þeir fyrir þeim og höfðu betur. Hellismenn flýðu, en sveitamenn eltu þá uppi.
Innstidalur.
Upphófust þá miklar eltingar í Hengafjöllunum, sem enduðu með því að hellismenn voru allir drepnir, ýmist vestan í Henglinum eða á Mosfellsheiði þar sem þeir gátu vart veitt viðnám sökum mæði, illa skóaðir. Hálfu verra var fyrir bændu að sækja að konunum í hellinum. Samt urðu þær þó teknar að lokum og fluttar á brott. Eftir stendur hellirinn – auður.
Draugatjörn – rétt.
Gengið var til baka vestur Innstadal. Þegar komið var að skarðinu var beygt til norðurs og haldið niður, efst í skarð á milli Hengils og Húsmúla. Þar var stíg fylgt norður með vestanverðum Hengli. Þegar tók að halla undan á ný blasti Engidalur við fyrir neðan. Gengið var ofan við gilskorninga, sem eru þarna utan í hlíðinni og haldið áfram niður á Reykjaveginn, sem liggur þarna frá Nesjavöllum og áfram út á Reykjanestá, og yfir Engidalsá.
Þjófahlaup.
Áð var við sæluhúsið norðvestan í dalnum. Frá húsinu blasir móbergsklettahæð við þar sem hann gengur út frá Marardal í suðaustri. Í hæsta og þriðja síðasta hnúknum í móbergsrananum við ána, um 400 metra frá sæluhúsinu, uppi í hæðinni, er hellisgjögur. Þar eru hleðslur og hafa verið dyr á veggnum. Skútinn snýr í suður og blasir við frá skálanum þegar betur er að gáð. Hann er um 5 metra breiður og innan við tveir metrar á dýpt. Hæðin er um tveir metrar. Skammt frá þessum helli, u.þ.b. 30 metrum og litlu neðar, er annar skúti. Hann er um 3 metra langur, 2 metra breiður og rúmlega meter á hæð. Einnig hefur verið hlaðið fyrir minni þessa skúta. Þar er þrifalegt og virðist hafa verið ákjósanlegt svefnstæði.
Tóft útilegumanna í Engidal.
Talið er að útilegumenn, Eyvindur Jónsson og Margrét Símonardóttir hafi hafst við í skútum þessum um tíma í seinni útlegð sinni vorið 1678. Þeirra er getið í annálum. Einnig að hreindýraveiðimenn hafi hafst þar við um 1835. Eyvindur og Margrét lögðust út í Henglafjöllum, en náðust. “Réttað var í máli þeirra á Alþingi og var Eyvindur höggvinn þar og Margréti drekkt í Öxará. Þau höfðu verið strýkt veturinn fyrir og látin laus, en tóku sig saman, þá voraði og lögðust á nýju á fjöll”. Eyvindur og Margrét eru einnig sögð hafa dvalið um tíma í helli sunnan undir Þríhnúkum suður af Örfiriseyjaseli undir Selfjalli (sjá FERLIR-103). Hellir sá er ofan við gilskorninga og eru hleðslur bæði inni í hellinum og við inngang.
Gengið var um þrengsli inn í Marardal. Dalurinn er sléttur og grösugur, umlukinn á svo til alla vegu. Þegar komið er inní dalinn í gegnum þrengslin sést hlaðinn garður. Hann er talinn hafa verið fyrirstaða nauta er beit var í dalinn á öldum áður. Nokkrir hellar eru í Marardal, tiltölulega hátt uppi í hömrunum. Við þá og í þeim eru hleðslur, ártöl og fangamörk.
Marardalur – hellisskúti.
Einn þessara hella er skammt frá götunni, sem liggur inn í dalinn. Hann var notaður sem skýli handa réttamönnum. Fyrir framan hann hefur verið hlaðinn garður til skjóls. Hellirinn er austan megin í dalnum, um 30 metra frá gönguleiðinni og um 3 metra uppi í hlíðinni. Grasi gróin brekka er upp í skútann. hann er um 12 metra langur og 3 metra djúpur. Hleðslan fyrir norðurhlutanum er um 6 metra löng.
Gengið var úr Maradal til baka um opið og sömu leið til vesturs upp norðurhlíð Hengilsins og yfir Húsmúlann.
Gangan tók rúmlega 5 tíma. Veður var hlýtt og þurrt.
Tóftir útilegumanna í Engidal.
Selalda – meintur Gvendarhellir í Litlahrauni
Ekið var niður að Selöldu og steinbrúin skoðuð yfir Vestari-læk, fjárhúsin undir Strákum, bærinn á Fitjum og fjárhúsin, borgirnar sunnan við Eyri, tóttir bæjarins Eyri og gamla selið frá Krýsuvík þar undir austanverðri Selöldunni.
Selalda – fjárborg.
Við skoðun á syðri fjárborginni kom í ljós að hún virðist vera meira en bara fjárborg. Vestan í henni eru tóttir húsa. Annað þeirra virðist jafnvel hafa verið notaður við fráfærur eða jafnvel ílangt hús. Norðan við hann er greinilega gamall vörslugarður og annar þvert á hann að austanverðu.
Haldið var upp á Rauðaskriðu og áfram austur eftir Krýsuvíkurbjargi. Staðnæmst var í Litlahrauni við svonefndan “Gvendarhelli” eða Gvendarstekk skv. korti JG af umhverfi Krýsuvíkur.
Í Gvendarhelli.
Sennilega er þarna um einhverja „tilhliðrun“ að ræða því Gvendur hafði fé í helli í Klofningum um tíma. Ekki er þó útilokað að hann hafi einnig haft fé þarna um sinn, enda benda mannvirkin til nokkurra umsvifa. Þarna eru m.a. talsverð tótt og skúti inn í henni undir hraunhól. Sunnar, við nef hraunhólsins, er hlaðið fyrir fjárskjól og garðhleðsla austan við það. Þegar verið var að skoða svæðið kom í ljós hlaðin rétt í hraunkrika vestan við fjárskjólið. Lítið gerði er hlaðið utan í réttina, en inni í henni er skúti og hleðslur fyrir framan hann.
Litlahraun – fjárskjól.
Skammt norðar, með hraunkantinum, er þröngt gat og þar undir virðist vera hellir. Uppi á hólnum, lítillega norðar, er fallin gömul varða. Greinilegt er að hraunhólar þessir hafa verið notaðir, annað hvort sem selsstaða eða fjárhald um tíma. Norðan við stóru tóttina er hola er virðist hafa verið brunnur. Í skjóli þar skammt norðar eru verksummerki er benda til þess að þar kunni að vera tótt eða tóttir undir og við nokkuð sléttan hraunvegg, er veitt hefur skjól fyrir austanáttinni. Enn norðar með hraunkantinum er ágætt vatnsstæði.
Líklegt verður að telja að Krýsuvíkur-Gvendur frá Læk hafi haft fé þarna í Litlahrauni um tíma og jafnvel hafi átt fjárhúsið, réttina og fjárskjólið, sem þar eru.
Frábært veður í fögru umhverfi.
Minjar í Litlahrauni – uppdráttur ÓSÁ.
Hrossagjár – Kúluhattshellir
Gengið var frá Sandfelli eftir slóða, vestur yfir grassléttu, Þúfnavelli, austan Geitafells og áfram eftir slóðanum vestur með norðanverðu fjallinu.
Í Kúluhattshelli.
Norðan og ofan við Geitafell er gróið hraun og því auðvelt yfirferðar. Með í för var m.a. einn helsti hellafræðingur landsins. Þegar komið er upp á brúnina blasir Heiðin á við í vestri. Þegar komið var á móts við norðurhornið, eftir þriggja kílómetra og 15 mínútna göngu, var gengið í norðvestur í átt að Hrossagjárhorni, en það heitir þar sem Hrossagjá beygir úr norðri til vesturs. Þar austan við eru Guðrúnarbotnar; grasi grónar brekkur og dældir utan og neðan við hraunkantinn á Heiðinni há. Botnarnir liggja með hraunkantinum til suðurs. Þegar komið var neðst í Guðrúnarbotna bar kúlahattslegan klett, u.þ.b. tveir metrar í þvermál, við himinn í norðvestri, uppi í heiðinni. Kletturinn er norðaustan við klapparhól, sem reyndar er nóg af á þessu svæði. “Kúluhatturinn” er eina kennileitið á þessu svæði, sem sker sig úr, þótt lítill sé á mælikvarða heiðarinnar.
Í Kúluhattshelli.
Um 200 metrum austan við klettinn eru nokkur jarðföll. Fyrst var komið í jarðfall, u.þ.b. fjórir metrar í ummál og tæplega tveggja metra djúpt. Rás, sem lá niður úr því til suðausturs reyndist vera um 20 metra löng. Efri hluti jarðfallsins skiptist í tvær rásir. Önnur lá til norðurs, en hin til norðvesturs. Sú nyrðri reyndist nokkuð víð, en fremur stutt. Í henni voru dropasteinar og aðrar fallegar hraunmyndanir. Hin reyndist öllu lengri. Kannaðir voru um 100 metrar af rásinni. Í henni voru m.a. tvö önnur op, þar af eitt stórt og mikið. Skammt innan við opið var beinagrind, að því er virtist af hreindýri, en síðasta villta hreindýrið á Reykjanesi var einmitt drepið á Hellisheiði í lok annars áratugar 20. aldar.
Í Kúluhattshelli.
Í þessum helli eru því óneitanlega eitthvað skoðunnar virði, auk dropasteina og fleiri myndana. Annað jarðfall var þarna skammt vestar. Sunnan í því var stór og mikil hraunrás, en endaði með hruni eftir um 10 metra. Handan við hrunið mátti sjá niður í rásina þar sem hún hélt áfram til suðausturs. Ofar í jarðfallinu lá hraunrás upp á við.
Líklegt má telja að á þessu svæði kunni að leynast fleiri göt og fleiri rásir. A.m.k. lofaði þetta góðu.
Frá Geitafelli eru tæplega fimm kílómetrar upp í hellana, eða u.þ.b. klukkustunda gangur. Þegar lagt var af stað til baka var orðið myrkvað. Það kom hins vegar ekki að sök því stjörnubjart var og norðurljósin dönsuðu litríkan strikadans um himninn. Það var því tiltölulega auðvelt að rata til baka aftur.
Veður var hlýtt og stillulogn var allan tímann – sem sagt; hið fegursta haustkvöld.
Kúluhattshellar – uppdráttur ÓSÁ.
Lambafellshraun – Ólafsskarðsvegur
Gengið var til vesturs yfir Lambafellshraun af Þrengslavegi frá svonefndum Hrafnakletti á móts við Litla-Meitil í stefnu á Fjallið eina. Á milli þess og Heiðinnar há liggur Ólafsskarðsvegur norður með hlíðinni. Honum var fylgt spölkorn til suðurs með Kerlingahnúk, en síðan beygt af honum til suðvesturs og gengið inn í svonefnda Hrossahryggi.
Frá þjóðveginum inn í hryggina er um klukkustundar gangur. Þar vestan af er jaðar Heiðinnar há. Frá jaðrinum að Hrossagjá í suðsuðvestri er u.þ.b. hálftíma gangur. Norðan og ofan þeirrar gjáar á að vera niðurfall, um fjórir metrar í ummál og um tveggja metra djúpt. Í niðurfallinu eiga að vera hraunrásir. Þær verða skoðaðar síðar. Frá Hrossahryggjum var stefnan tekin í austur að Rauðhól og frá honum í Hrafnaklett, upphafsstaðinn. Gangan tók u.þ.b. tvær klukkustundir.
Varða við Ólafsskarðasveg ofan Ólafsskarðs.
Lambafellshraunið er tiltölulega gróið helluhraun. Nokkur mosi er á hrauninu, en góðir gróðurblettir í lægðum. Fjölmörg vatnsstæði eru á því svæði, sem gengið var, sem og rúmgóð fjárskjól í opnum hraunbólum. Gengið var fram á nokkur greni, sum hver með eigin vatnsstæði svo til beint framan við munnana.
Á leiðinni var kíkt inn í nokkrar bólur, sem eru á tiltölulega afmörkuðu svæði miðsvæðis í hrauninu, auk skúta og opa. Þarna virðast einungis vera um að gasbólur og stuttar hraunrásir að ræða. Einnig lágar rásir undir þykkum hraunhellum. Þó var þarna lögulegt gat uppi í háum hraunhól, en við nánari skoðun reyndist botn vera á rás, sem einhvern tímann hefur legið þar niður.
Ólafsskarðsvegur.
Ólafsskarðsvegurinn, sú gamla þjóðleið á milli Ölfuss og Svínahrauns, er varðaður á kafla, en sést að öðru leyti ógreinilega. Helst er að sjá hann þar sem hann hefur mikið til legið um grónar lænur. Fagurt útsýni er suður af heiðinni um allt til sjávar. Vörðuð leið er einnig um hraunið skáhallt á Ólafskarsðveginn, til suðausturs með stefnu milli Votabergs og Eldborgarinnar syðri. Virðist vera leið upp frá Hrauni, með Löngubrekkum, og áleiðis upp á Ólafskarðsveg þar sem hann mætir Kristnitökuhrauni neðan við Eldborgina.
Þrjár rjúpur sáust á stangli (fótaflugi).
Veður var frábært – logn og hlýtt. Komið var til baka kl. 19:30, en u.þ.b. 10 mínútnum síðar var orðið nær myrkvað.
Leiti.
Sýslusteinn – Sláttudalur
Gengið var í þoku upp girðingaveg á mótum Árnessýslu og Gullbringusýslu við Sýslustein.
Við Slóðaketil.
Veður var að öðru leyti milt og hlýtt. Í miðri hraunhlíð var litið ofan í hraunketil, sem nefndur hefur verið Slóðaketill. Ofan í honum er um 6 metra gat virðist hraunrás liggja þar inn undir. Rás þessa þarf að skoða betur síðar. Slóðanum var fylgt upp á hraunbrúnina og áfram upp grónar hlíðar melhóla uns komið var á efstu brún. Inni í þokunni í austur eru Sandfjöllin og fjær Vesturás og Austurás. Í suðaustur er Herdísarvíkurfjallið og í góðu skyggni sést þaðan inn yfir Svörtubjörg og alveg að Hnúkum. Í suðvestri eru Æsubúðir á Geitahlíð. Í vestri er Sveifluhálsinn, en nær má sjá gíga, bæði austan í Geitahlíð og eins ofan við Kálfadalahraunið, sem rann þarna til vesturs ofan í Kálfadalina. Þar liggur slóðinn til norðurs inn á hraunbreiðu, en beygir fljótlega til vesturs. Vinstra megin er fallegur hraungígur.
Brennisteinsfjöll – Kistufell framundan.
Áð var þegar komið var út úr hrauninu eftir tæplega klukkustundar gang. Þar í austur á að vera hægt að sjá Vörðufell og inn að Kistufelli í Brennisteinsfjöllum. Austan við Vörðufell er Eldborgin, röð fallegra hraungíga og mikilla hraunrása. Þar vestan við rann Hvammadalshraun niður í Hvammadal austan Kleifavatns. Í suðurjaðri þess er m.a. Gullbringuhellir.
Hraunkantinum var fylgt til suðurs. Austan við hraungíga Kálfadalshrauns var haldið til suðsuðausturs inn á mosahraunið og þar fylgt háum hraunkanti á hægri hönd. Þegar komið var út úr hrauninu var komið í gróið hraun úr eldborgunum austan Geitahlíðar. Þeim kanti var fylgt til suðausturs þangað til hann mætti eysti hluta Geitarhlíðar. Þar rann hluti gróna hraunsins niður svonefndan Sláttudal, á milli hlíða. Hallar þar undan til suðurs. Hlíðin er nokkuð brött efst, en jafnar sig fljótlega. Neðar er hraunið mjög gróið. Hamrar eru á vinstri hönd og mikil hraunrás á þá hægri.
Slóðaketill.
Þegar komið er niður á þjóðveginn er hlaðið hrossaskjól undir hraunkantinum handan hans. Þar var áð uns haldið var að bílunum. Eða eins og einn þátttakenda sagði þegar niður var komið:
“Flestum þykir eigi miður,
komin niður,
um gil,
sem reyndar virtist ekki til
og að hafa sloppið heil,
um geil,
í fjalli
úr margra alda gömlu gjalli.
Þokan reyndist óvenjuþétt,
en gangan létt,
enda vanir menn,
sem þekkja og rata þetta enn.
Förum síðar aftur sömu leið,
gatan er greið.”
Gangan var um 7.7 km og tók um 3 klst. Ætlunin er að fara aftur upp girðingaslóðann, yfir hraunið ofan melhólanna og fylgja síðan hraunkantinum til austurs, í stað vesturs eins og nú var gert, og koma niður við suðaustanvert Kleifarvatn, þar sem bílar munu bíða göngufólks. Sú ganga mun líklega taka um 4 klst, en á þessu svæði er hægt að líta eitt mikilfengslegasta eldgosasvæði landsins.
Frábært veður.
Sýslusteinn.
Snorri I
Farið var aftur inn í hraunið austan Geitahlíðar til að leita að Snorra, jarðfalli sem upplýsingar höfðu fengist um að ætti að vera þar inni í hrauninu.
Leitin að Snorra.
Smali hafði gengið frá Vörðufelli í gegnum mosahraun, komið að grasbrekkum neðan við Melhóla og haldið áfram til suðvesturs að geilinni á Geitahlíð ofan við Sláttudal. Austan Geitahlíðar eru allnokkrir eldgígar og eldborgir. Vestara hraunið hefur runnið til vesturs og niður í Kálfadali, en eystra hraunið hefur runnið til austurs og niður með austanverðri Geitahlíð vestan Sláttudals. Um er að ræða mikil hraun. Smalinn hafði á leið sinni gengið fram á mikið jarðfall, sem birtist fyrirvaralaust framundan í hrauninu. Yfir jarðfallið átti að vera falleg steinbrú.
Á leið í Snorra.
Svarta þoka var á fjallinu þegar að var komið, en milt veður. Haldið var fyrst í um kílómetra til vesturs yfir hraunið, að brún Kálfadalahraunsins, síðan til suðausturs og loks til austurs. Jarðskálftinn 17. júní árið 2000 hafði greinilega leikið hraunhólana þarna illa. Margir þeirra voru klofnir, aðrir maskaðir. Ekki er ólíklegt að seinni skjálftinn þennan dag hafi átt upptök sín einhvers staðar þarna undir hrauninu. Þegar um 500 metrar voru eftir í vestari melhólinn birtist jarðfallið fyrirvaralaust framundan, djúpt og mikið um sig. Steinboginn var fallinn niður í jarðfallið, en hann hefur verið nokkuð stór.
Leitin að Snorra.
Gríðarlegt gat var inn í jarðfallið til vesturs. Þar hefur runnið mikið hraunmagn. Veggir voru sléttir og virtist rásin hafa verið nær hringlaga. Fallið hefur úr loftinu, svo mikið að lokast hefur fyrir rásina rétt fyrir innan opið. Á milli steina fremst í rásinni sást þó niður í dimman “kjallara”. Með nokkrum tilfæringum var hægt að forfæra grjót og var þá hægt að láta sig síga niður um gat. Um mannhæðar hátt er niður á fast, en þar í frá lækkar hvelfingin, sem þar er undir, inn til miðjunnar. Hún er mikil um sig og er undir stóru hraunrásinni. Inni í enda hennar er lítið gat í um tíu metra hæð.
Unnið að inngöngu í Snorra.
Stiga þarf til að komast upp í hana. Út um gatið hefur seitlað þunnfljótandi hraun og myndar það fallegan storknaðan foss svo til beint niður úr gatinu. Þá var farið inn í eystri rásina, sem eiginlega liggur fyrst til suðurs og beygir síðan til austurs. Mikið hrun er í henni. Var rásinni fylgt í um 20 metra, en þá lokaðist hún nær alveg í hruni. Loftið virtist ótryggt.
Á leiðinni til baka var aftur litið á Slóðaketilinn austan Geitahlíðar. Ekki verður hjá því komist að nota stiga til að komast ofan í neðri rásina í katlinum sjálfum til að kanna hvort og hversu löng neðri rásin kann að vera.
(Framhald í annarri lýsingu – Snorri sigraður – óvæntur fundur).
Snorri – kort.
Vogastapi – Kolbeinsvarða
Lengi hefur verið leitað að Kolbeinsvörðu á Vogastapa. Hún var sögð vera við Innri-Skoru, á landamerkjum Voga og Njarðvíkur. Hið rétta er að við Innri-Skoru, vestanverða, eru landamerkin í sjó. Ofan hennar er Brúnavarðan og í sjónhendingu frá henni er Kolbeinsvarða, en úr Kolbeinsvörðu áttu landamerkin að liggja í Arnarklett sunnan Snorrastaðatjarna.
Vogastapi – kort.
Eftir vísbendingu Ólafs frá Stóra-Knarrarnesi, sem hafði séð Kolbeinsvörðu er hann var ungur, var haldið inn á gamla Grindavíkurveginn frá nýja Keflavíkurveginum og honum fylgt u.þ.b. 50 metra. Þá var stöðvað og haldið til vesturs í u.þ.b. 100 metra. Þar upp á hól stendur Kolbeinsvarða. Fótur hennar stendur enn og einnig svolítið af vörðunni. Hún hefur greinilega verið sver um sig, u.þ.b. 3 metrar að ummáli og sést neðsti hringurinn nokkuð vel. Fokið hefur yfir hluta vörðunnar að vestanverðu og gróið yfir.
Kolbeinsvarða?
Á steini í vörðunni á að vera ártalssteinn (1724). Gera þarf talsvert rask við vörðuna ef finna á steininn (ef hann er þá þarna enn). Frá vörðunni sér í Brúnavörðu í norðri og Arnarklett í austri. Að sögn Ólafs mun hafa verið tekið úr vörðunni, líkt og úr svo mörgum öðrum vörðum og görðum, er verið var að ná í grjót í hafnargarðinn í Vogum. Hann myndi vel eftir því þegar hún stóð þarna, fallega hlaðin upp.
Grindavíkurveginum var fylgt upp Stapann. Víða má sjá fallega handavinnu vegagerðarmanna á veginum, s.s. ræsi og kanthleðslur, einkum þegar stutt er eftir yfir á gamla Keflavíkurveginn.
Grindavíkurvegur á Stapanum.
Skammt vestan við veginn áður en komið er að gatnamótunum eru allmikil gróin börð. Ef vel er að gáð má sjá mótaða hleðslu er myndar gerði á milli barðanna. Á einum stað sést vel hvernig gerður hefur verið garður úr mold og grjóti umhverfis gerðið. Innan þess er nokkuð gróðið svæði, hornlaga. Ekki er ósennilegt að þarna hafi vegagerðarmennirnir, er tóku til við að byggja Grindarvíkurveginn árið 1913 á Vogastapa, hafi haft sínar fyrstu búðir. Frá Seltjörn (Selvatni) hafa búðir þeirra eða aðstaða verið með u.þ.b. 500 metra millibili. Sjá má móta fyrir þeim á a.m.k. 12 stöðum við Grindavíkurveginn, en svo mikið hefur verið nýtt af hrauninu við gerð nýja vegarins að telja má fullvíst að margar aðrar hafi þá farið forgörðum.
Mikil landeyðing hefur orðið þarna á heiðinni og því erfitt að greina fleiri mannvirki. Þó á eftir að skoða þetta svæði betur með tilliti til fleiri ummerkja.
Nú væri tilvalið að skella þarna svo sem einu steintrölli til að vekja athygli á minjunum, sem nú eru að verða aldargamlar, en það mun jú vera einn yfirlýstur tilgangur tröllasmíðanna á heiðinni.
Frábært veður.
Varða sunnan við Stapa.
Innstidalur – Engidalur
Ætlunin var að skoða útilegumannahella í Innstadal, Engidal og Marardal.
Draugatjörn – sæluhúsið.
Gengið var frá sæluhúsinu og réttinni við Draugatjörn. Saga er að segja frá hvorutveggja, en það verður gert í annarri lýsingu. Haldið var upp með Húsmúlanum að Sleggjubeinsskarði og áfram upp skarðið. Þá var komið í Innstadal. Gengið var austur dalinn og alveg inn að hverasvæði, sem þar er. Volg laug er læk, sem rennur niður úr hlíðinni innst í dalnum. Ofarlega í klettum er hellir og dálítil grastó fyrir framan. Hellirinn sást vel þegar gengið var inn dalinn.
Innstidalur – hellir.
Mjög bratt er upp í hellinn um einstigi og nær ókleift á kafla. Hann er rúmlega tveggja metra langur inn í botn og um tveggja metra breiður. Hlaðið hefur verið fyrir hellismunnan, en hleðslurnar hafa mikið til fallið niður. Talið er að útilegumenn hafi hafst við í helli þessum. Engin leið virtist vera að komast að þeim. Sagt var að útilegumennirnir hafi verið skipshöfn, 6-7 menn, úr Höfnum, sem átti að hafa unnið eitthvert níðingsverk. Þeir áttu að hafa hafst við í hellinum í um tvö ár – aðrir sögðu eitt sumar, ásamt tveimur hlutakonum. Þeir höfðu með sér kaðal og drógu konurnar á honum upp í hellinn sem og föng sín, sem voru að mestu sauðfé Ölfusinga og Grafningsmanna. Bændur héldu uppi njósn um þá. Þegar útilegumennirnir fóru úr hellinum og voru á leið til baka með sauðfé, sátu þeir fyrir þeim og höfðu betur. Hellismenn flýðu, en sveitamenn eltu þá uppi.
Innstidalur.
Upphófust þá miklar eltingar í Hengafjöllunum, sem enduðu með því að hellismenn voru allir drepnir, ýmist vestan í Henglinum eða á Mosfellsheiði þar sem þeir gátu vart veitt viðnám sökum mæði, illa skóaðir. Hálfu verra var fyrir bændu að sækja að konunum í hellinum. Samt urðu þær þó teknar að lokum og fluttar á brott. Eftir stendur hellirinn – auður.
Draugatjörn – rétt.
Gengið var til baka vestur Innstadal. Þegar komið var að skarðinu var beygt til norðurs og haldið niður, efst í skarð á milli Hengils og Húsmúla. Þar var stíg fylgt norður með vestanverðum Hengli. Þegar tók að halla undan á ný blasti Engidalur við fyrir neðan. Gengið var ofan við gilskorninga, sem eru þarna utan í hlíðinni og haldið áfram niður á Reykjaveginn, sem liggur þarna frá Nesjavöllum og áfram út á Reykjanestá, og yfir Engidalsá.
Þjófahlaup.
Áð var við sæluhúsið norðvestan í dalnum. Frá húsinu blasir móbergsklettahæð við þar sem hann gengur út frá Marardal í suðaustri. Í hæsta og þriðja síðasta hnúknum í móbergsrananum við ána, um 400 metra frá sæluhúsinu, uppi í hæðinni, er hellisgjögur. Þar eru hleðslur og hafa verið dyr á veggnum. Skútinn snýr í suður og blasir við frá skálanum þegar betur er að gáð. Hann er um 5 metra breiður og innan við tveir metrar á dýpt. Hæðin er um tveir metrar. Skammt frá þessum helli, u.þ.b. 30 metrum og litlu neðar, er annar skúti. Hann er um 3 metra langur, 2 metra breiður og rúmlega meter á hæð. Einnig hefur verið hlaðið fyrir minni þessa skúta. Þar er þrifalegt og virðist hafa verið ákjósanlegt svefnstæði.
Tóft útilegumanna í Engidal.
Talið er að útilegumenn, Eyvindur Jónsson og Margrét Símonardóttir hafi hafst við í skútum þessum um tíma í seinni útlegð sinni vorið 1678. Þeirra er getið í annálum. Einnig að hreindýraveiðimenn hafi hafst þar við um 1835. Eyvindur og Margrét lögðust út í Henglafjöllum, en náðust. “Réttað var í máli þeirra á Alþingi og var Eyvindur höggvinn þar og Margréti drekkt í Öxará. Þau höfðu verið strýkt veturinn fyrir og látin laus, en tóku sig saman, þá voraði og lögðust á nýju á fjöll”. Eyvindur og Margrét eru einnig sögð hafa dvalið um tíma í helli sunnan undir Þríhnúkum suður af Örfiriseyjaseli undir Selfjalli (sjá FERLIR-103). Hellir sá er ofan við gilskorninga og eru hleðslur bæði inni í hellinum og við inngang.
Gengið var um þrengsli inn í Marardal. Dalurinn er sléttur og grösugur, umlukinn á svo til alla vegu. Þegar komið er inní dalinn í gegnum þrengslin sést hlaðinn garður. Hann er talinn hafa verið fyrirstaða nauta er beit var í dalinn á öldum áður. Nokkrir hellar eru í Marardal, tiltölulega hátt uppi í hömrunum. Við þá og í þeim eru hleðslur, ártöl og fangamörk.
Marardalur – hellisskúti.
Einn þessara hella er skammt frá götunni, sem liggur inn í dalinn. Hann var notaður sem skýli handa réttamönnum. Fyrir framan hann hefur verið hlaðinn garður til skjóls. Hellirinn er austan megin í dalnum, um 30 metra frá gönguleiðinni og um 3 metra uppi í hlíðinni. Grasi gróin brekka er upp í skútann. hann er um 12 metra langur og 3 metra djúpur. Hleðslan fyrir norðurhlutanum er um 6 metra löng.
Gengið var úr Maradal til baka um opið og sömu leið til vesturs upp norðurhlíð Hengilsins og yfir Húsmúlann.
Gangan tók rúmlega 5 tíma. Veður var hlýtt og þurrt.
Tóftir útilegumanna í Engidal.
Bjargarhellir – Strandarhellir – Fótalaus
Haldið var í Selvog. Staðnæmst var við Bjarnastaðasel. Einn FERLIRsfélaga hafði greinilega unnið heimavinnuna sína og rætt við heimamenn. Hann gekk rakleiðis að klöppinni Fótalaus suðaustan selsins og benti á stafina “LM”, sem klappaðir voru þar. Upp úr klöppinni stendur landamerkjahornstaur bæjanna Ness og Bjarnastaða. Áletrunarinnar er getið í gömlum heimildum, en erfiðlega hefur gengið að finna hana – þangað til nú. Tóftir eru austan og norðaustan við hraunhól vestan klapparinnar, en það hafði fram að þessu verið merkt sem Bjarnastaðasel (Bjarnastaðaból) á kort. Það reyndist hins vegar ekki rétt þegar betur var að gáð (það er mun ofar í heiðinni).
Árnavarða.
Haldið var að Árnavörðu á Strandarhæð, en hún er norðan Þorlákshafnarvegarins, svolítið ofan og austan við gatnamótin að Selvogi. Varðan, sem er mjög gömul, var endurhlaðinn af Kristófer Bjarnasyni frá Þorkelsgerði, kirkjuverði í Selvogskirkju til margra ára. Hann hefur áður leitt FERLIRsfélaga um Selvoginn og m.a. boðið þeim í kirkjuna til að heyra sögu hennar og skoða dýrgripina, sem eru allt frá því á 13. öld.
Frá Árnavörðu var gengið að hlöðnu smalabyrgi austan vörðu norðvestan hennar. Þaðan var gengið til austurs og skoðaðir tveir skútar, Stóri-Skolli og Litli-Skolli, sem þar eru; annar undir hraunhellu og hinn ofan í sæmilegum grashól.
Innan við op Bjargarhellis.
Báðir þessir skútar hafa verið nefndir til sögunnar er minnst hefur verið hinn sögufræga Bjargarhelli, sem Selvogsbúar ætluðu að flýja í ef Tyrkirnir kæmu á nýjan leik. Til þess kom þó ekki og var Bjargarhellir notaður sem fjárhellir. Hellirinn er þarna skammt norðaustan við skútana. Opið er í norðanverðu jarðfalli, sem hlaðið hefur verið um að austanverðu. Hellirinn er vel manngengur, en hann átti að geta vistað um 200 rollur. Ljóst er að svo getur vel hafa verið. Mold er á botni hellisins og miklar mannvistaleifar eru í honum. Hlaðið er fyrir vinstra megin þegar komið er inn, einni framundan og mestar eru hleðslurnar hægra megin.
Gasuppstreymisop í Bjargarhelli.
Hraunrás er upp undir lofti gegnt opinu. Virðist hún liggja eitthvað inn undir hraunið. Í sunnanverðu jarðfallinu er op inn í skúta, sem einnig virðist hafa verið notaður sem fjárskjól. Sá hluti er opinn til endanna.
Þarna norðnorðaustur af er Strandarhellir. Hann er einnig í jarðfalli og sýnum stærri. Opið er einnig í norðanverðu jarðfallinu og umhverfis það að ofanverðu er hlaðið gerði. Hellirinn er einnig með moldargólf og vel manngengur. Í honum eru einnig talsverðar mannvistaleifar.
Strandarhellir.
Sagnir eru um að Strandarhellir hafi átt að ná alllangt inn undir hraunið og svo getur vel verið. Í stað grjóts gætu bændur hafa notað sand til að fylla í op, sem þeir vildu ekki að kindur þeirra leituðu inn í. Rás gæti því hæglega leynst þarna undir einhverjum veggnum.
Norðan Strandarhellis er hóll og umleikis það allstórt hlaðið gerði.
Gengið var til suðvesturs að Gapinu, rúmgóðum fjárhelli. Nafnið er tilkomið vegna þess að þegar komið er að hellinum úr suðri gapir opið við viðkomandi. Fyrir sunnan opið er hlaðinn allstór stekkur, Gapstekkur.
Landamerki Eimu og Strandar.
Loks var haldið niður í Selvog og litið á merki á klöpp austan við Strandarvör. FERLIRsfélaginn glöggi hafði uppgötvað að þar var klappaður stafurinn “M” og virðist merkið vera mjög gamalt. Það er á mörkum bæjanna Strandar og Eimu. Líklega er ekki langt þangað til að Ægi takist að brjóta klöppina eins og annað þarna við ströndina.
Veður var frábært – sól, lygnt og hiti.
Í Strandarhelli.
Óbrennishólmi II
Gengið var frá Ísólfsskálavegi til austurs vestan við Lat.
Tóft í Óbrennishólma.
Gengið er yfir úfið mosahraun og inn á stíg er liggur áfram til austurs sunnan við Latshornið. Skammt austan við hornið, þar sem úfna hrauninu sleppir liggur hraunbakki til suðurs. Ef honum er fylgt spölkorn er komið að fallegum dyrahleðslum fyrir skúta. Hurðarhellan stendur enn vinstra megin við dyrnar. Inni má sjá mannvistaleifar. Á skútanum er op og hlaðið í kringum það. Líklegt er talið að skútinn hafi verið notaður sem sæluhús á ferðum manna um stíginn frá Húshólma, ofan Seltanga, að Ísólfsskála og áfram, annað hvort norður um Sandakraveg að Skógfellastíg eða til Grindavíkur. Þá gæti hann einnig hafa verið notaður af vegagerðarmönnum er lögðu Ísólfsskálaveginn á sínum tíma. Sæluhús þetta er fáum kunnugt.
Fjárborg (virki) í Óbrennishólma.
Tiltölulega stutt er í Óbrennishólmann, þangað sem ferðinni var heitið. Hægt er að ganga inn í hólmann vestast í honum eða fylga stígnum uns komið er að þvergötu til vinstri. Hún liggur í gegnum hraunið og inn í suðaustanverðan hólmann.
Á hæð í sunnanverðum hólmanum er nokkuð stór fjárborg. Enn sést vel móta fyrir hringnum. Erfitt er að mynda hringinn vegna afstöðu hans á hólnum. Skammt austan hennar, nær hraunkantinum, er önnur minni fjárborg. Einnig gæti þarna hafa verið um topphlaðið hús að ræða að forni fyrirmynd. Sunnan tóttarinnar er rétt eða gerði inni í hraunkraga. Hlaðið er framan við kragann, en þær hleðslur virðast vera nýrri en t.d. fjárborgirnar.
Óbrennishólmi – garður.
Efst í hólmanum norðaustanverðum (fara þarf yfir mosahraun á kafla) er hlaðinn garður, sem hraunið hefur stöðvast við. Vel sést móta fyrir hleðslunum á nokkrum stöðum. Garðurinn endar í króg skammt neðar. Þar gæti einnig hafa verið fjárbyrgi og að neðsta hleðslan sé hluti þess.
Vestan við stóru fjárborgina liggur gróinn og nokkuð jarðlægur garður undan hraunkantinum, upp með dragi og áfram upp í hólmann. Hér virðist vera um mjög fornan garð að ræða. Hann eyðist nokkru ofar, en þó má enn sjá móta fyrir honum ofan við miðjan hólmann, en þá hefur hann breytt lítillega um stefnu skammt, neðan við eldri hraunkant í miðjum hólmanum. Garðurinn virðist vera með samskonar lagi og garðarnir í Húshólma.
Arnarhreiður á Arnarhæð í Ögmundarhrauni.
Ögmundarhraun, sem umlykur Óbrennishólma, kom úr gígaröðum austan í Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Það hefur runnið til suðurs á milli Latfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells – allt niður í sjó – og gjörbreytt ströndinni. Hefur hraunið runnið yfir bæ, eða bæi, og önnur mannvirki sem þarna voru. Óbrennishólmi og Húshólmi hafa þá væntanlega staðið hátt í landinu, en hraunið runnið með hlíðum og lægðum. Eldra hraunið inni í Óbrennishólma og Húshólma hefu runnið áður en Ögmundarhraun rann. Virðist það hafa komið úr gígaröð suðaustur af Krýsuvíkur-Mælifelli.
Nyrsti gígurinn í gígröð Ögmundarhrauns vestan Helgafells.
Jón Jónsson, jarðfræðingur, sagði einn gíginn þar, einn þann merkilegasta hér á landi, en sá hefur nú að mestu verið eyðilagður vegna efnistöku.
Sagnir eru til um að á þessu svæði hafi verið blómleg byggð áður en Ögmundarhraun rann um 1150. Ströndin hafi verið lík og nú er á Selatöngum, neðan við Húshólma og við Skála. Þar hafi verið góð lending og kjörstaða, bæði til lands og sjávar.
Veður var með ágætum – hlýtt og lygnt. Gangan tók 2 klst og 43 mín.
Forn garður í Óbrennisbruna.
Húshólmi 3
Ætlunin var að berja þetta fágæta og jafnframt dýrmæta svæði auga og skoða hinar merkilegum minjar á því. Nú er ljóst að vegstæði svonefnds Suðurstrandarvegar mun ekki liggja yfir hólmann, eins og ein tillagan af þremur kvað á um.
Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.
Með í för var m.a. hinn áhugasami bæjarstjóri Grindvíkinga, Ólafur Örn Ólafsson, auk fleiri fjölfróðra samsveitunga hans. Farið var niður með austurjarði Ögmundarhrauns, litið á gróið gerði utan í hrauninu og síðan haldið yfir í hólmann eftir Húshólmastíg. Skoðaðar voru hleðslur í norðausturhluta hólmans þar sem fé hefur haldið til haga, gróið gerði og forn fjárborg. Þá var gengið að efsta garðinum, sem nær yfir hólmann frá vestri til austurs. Reyndar er garðurinn rofinn á miðkaflanum, en hann hefur að mestur verið úr torfi. Þá var haldið að neðri garðinum, sem liggur í boga úr suðri til norðurs og beygir síðan til vestur inn undir hraunið. Sjá má í enda hans undir hrauninu þar sem það hefur brennt hann á kafla. Haldið var inn í hraunið til vesturs af Kirkjuflöt, fornum grafreit, og að hinum fornu minjum, gamla Krýsuvíkurbænum og tóttunum þar í kring, görðum og hinum forna skála, auk þess sem komið verður við í hinni fornu Krýsvíkurkirkju eða hofi, en minjarnar eru a.m.k. frá því fyrir rennsli Ögmundarhrauns, sem rann 1151. Jafnvel er talið að minjarnar kunni að vera eldri en norrænt landnám hér á landi.
Húshólmi – fjárborg.
Að minnsta kosti er hér um að ræða einar „verðmætustu“ fornleifar hér á landi. Í skálanum mátti til dæmis sjá holur eftir miðstoðir (stoðarholur). Bent var á hinn flóraða Brúnavörðustíg og síðan gengið út á Kirkjulágina, skoðaður þvergarður þar sem og jarðlægt gerði vestast í henni. Loks var litið á sjóbúðina syðst í hólmanum, á rekagötuna niður að Hólmasundi og síðan gengin sjávargatan út úr hólmanum til austurs. Við hana eru einnig fornar minjar í gróðurvin inn í hrauninu. Neðar eru Þyrsklingasteinar og sjá má í hluta gamla bjargsins þar sem nýja hraunið hefur runnið fram af og allt um kring.
Frábært veður.
Skálatóft í Húshólma.https://ferlir.is/husholmi-7/