Strax á haustin var farið að búa út “færur” þeirra, er róa áttu í verunum, en færur var nefnt einu nafni allt það, sem vermaður þurfti að hafa að heiman, svo sem föt, gerðir skór, skinnklæði, ýmsir smámunir, sem búast mátti við, að ekki fengjust í verinu, eða væru dýrari þar, og verskrínan með smjöri, sem drepið var í annan enda, en “smálka” eða kæfu rennt í hinn. Færurnar voru svo sendar í verið, annaðhvort á haustin, eða um það bil að menn fóru til vers. Duglegir menn tóku þá að sér að flytja þær fyrir marga, voru það oft slæmar ferðir um hávetur, allt veglaust og býr engar. Ráku þeir hestana lausa til baka og voru þá kallaðir “heimrekstrarmenn”.
Herdísarvík – sjóbúðir.
Vermenn áttu að vera komnir í verin sunnudaginn fyrstan í góu. Var brottfarardagur vermanna allmikill alvörudagur á heimilunum. Öllum var ljóst, hve mikil hætta fylgir sjóróðrunum, en tilfinnanlegast var það vinum og vandamönnum. Þar að auki neyddust sumir til róðranna frá misjöfnum ástæðum heima fyrir.
Verbúðir, stundum nefndar sjóbúðir, voru útihús, stundum eitt sér, eða fleiri saman, veggir hlaðnir að innan úr grjóti og torfi eða grjóti eingöngu, en að utan úr grjóti og torfi eða sniddu. Veggjaþykkt við undirstöðu var um 2 ½ alin, en dróst að sér að utan, svo að veggir urðu að ofan 1 ½ alin á þykkt. Dyr voru jafnan á öðrum gafli, og kampur nokkru þykkri en veggir. Hæð veggja var um 2 ½ alin. Breidd búðanna var 5 álnir, en lengd þriggja eða fjögra rúma. Hæð frá gólfi til mæniáss var um 5 ½ alin, gólfbreidd 1 ½ alin. Oft voru gólfin flóruð með flötum steinum. Venjulega var haft ofurlítið niðurgengt í búðirnar, til að verjast gólfkulda.
Vermaður í sjóklæðum.
Í bilið milli hliðarveggja og stoða var hlaðinn grjótbálkur, um 18 þuml. á hæð, sem tók jafnlangt fram og stoðirnar. Dálítil hola var látin vera framan í bálkinn um miðju hvers rúmsstæðis. Bálkur þessi var botn rúmanna. Framan á allar stoðirnar við efri brún bálkans var slegið borðum, sem mynduðu rúmstokkana, svo langt sem venjuleg rúmbrík myndi hafa náð. Frá stoðunum og út í vegginn gengu fjalir, sem mynduðu rúmgaflana. Hurð á hjörum með lás og og loku var fyrir búðum að utanverðu. Dyraumbúningurinn var einungis þröskuldur og dyrastafir, sem greyptir voru í digurt þvertré að ofan, sem gekk út á kampana. Þverreft var yfir dyrnar.
Öllum verbúðum fylgdi smiðjukofi. Stóð hann við búðarhliðina eða ystu búðina, ef fleiri stóðu saman.
Um þetta bil voru skipin flest tírónir áttæringar, með 14 mönnum auk hálfdrættings, nokkrir sexæringar áttrónir með 10 mönnum, og örfáir teinæringar tólfrónir, með 16 mönnum.
Þegar vermenn komu til búa, lá fyrst fyrir að búa um sig. Hey, hálmur, hefilspænir eða marhálmur var látð í rúmstæðin, og lagði útgerðarmaður það til. Tveir og tveir skipverjar gerðust lagsmenn, bjuggu um sig og sváfu í sama rúmi, og ef hálfdrættingur var, þá var hann sá þriðji í einu rúminu. Létu þeir skrínur sínar efst við vegg í rúmin. Hver maður hafði eina rekkjuvoð og eitt brekán, flestir kodda og einstaka yfirsæng. Ígangsföt voru höfð að höfðalagi, og þar með var rúmið tilbúið.
Sjómenn með seilaðan fisk – Bjarni Jónsson.
Allir lágu andfætis og tóku sér rúm annaðhvort eftir samkomulagi eða fyrirsögn formanns. Þó svaf formaður jafan í ysta rúmi til vinstri handar, þá er í búðina var gengið, eða í þverrúmi,sem í sumum búðum var fyrir gaflinum, og kallað var “kórrúm”. Úr þessum stöðum mátti best sjá yfir alla búðina.
Skinnklæðin voru hengd á stoðirnar við höfðalögin, en skór og vettlingar um bríkurrimlana. Matvæli, sem eigi komust í skrínuna, svo sem hangikjöt, brauð og harðfiskur, voru hengd upp í rjáfrið.
Matvæli þau, sem vermenn áttu að hafa um vertíðina, voru nokkurnveginn fastákveðin, að minnsta kosti hvað þá snerti, er gerðir voru út af öðrum, svo sem vinnumanna og þeirra, er einstakir menn gerðu út.
Í verstöðvunum átti verðmaðurinn að hafa útgerð, ef vel átti að vera; í skrínu 3 fjórðunga af smjöri og 1 sauð, soðinn niður í smálka eða kæfu. Þetta var kölluð “mata”. Þar að aiki eitt sauðafall reykt, 5 fjórðunga af rúgi og 4 fjórðunga af harðfiski, auk skipulagsins, sem var 1 fjórðungur af harðfiski og 1 fjórðungur af rúgi. Ennfremur 2 pd. af kaffi, 2 pd. af kandíssykri og 1 pd. af kaffirót. Entist þetta ekki til loka, varð hlutaðeigandi að bæta við frá sjálfum sér.
Verbúð – málverk Bjarna Jónssonar.
Einstöku maður lauk mikils til of fljótt úr skrínu sinni, og var hann þá kallaður “mötustuttur”. Þar á móti voru aðrir, sem spörðuðu helst til mikið við sig, til þess að geta selt af mötunni, og þótti hvorutveggja heldur niðrandi.
Þjónustu og brauðgerð fengu vermenn ánæstu bæjum og guldur fyrir eftir samkomulagi.
Þegar ekki var róið, var máltíðum hagað eins og tíðkaðist heima fyrir, en daglegu lífi manna var þá þannig háttað, að hver sýslaði það, er hann vildi, ef ekki þurfti að starfa að skipi eða veiðarfærum. Sumir saumuðu skinnklæði, aðrir unnu úr hrosshári, sem haft var með að heiman, nokkrir fléttuðu reiptögl, hnappheldur eða brugðu gjarðir, hagir menn smíðuðu búsáhöld ýmislegt, klyfbera, lampa, kyrnur, hornspæni o.fl., sem lítið fór fyrir, því að þrengsli voru mikil.
Skemmtanir inni við voru helst sögusagnir, sögulestur og rímna kveðskapur, einnig gátur og “skanderingar” (að kveðast á) ennfremur spil, tafl, skák, “kotra”, “mylla”, og að “elta stelpu”.
Úti skemmtu menn sér við glímur, aflraunir og ýmsa leiki svo sem “höfrungahlaup”, “að ríða til páfans”, “járna pertu”, “sækja smér í strokk” o.fl. Var oft glatt á hjalla í landlegum í þá daga. Á hverju kvöldi var lesinn húslestur og sálmar sungnir hvernig sem á stóð, áður menn legðust til svefns.
Slokahraun – fiskigarðar.
Formaður leit til veðurs að morgni dags og ákvað hvort róið væri. Síðan var gengið til skips, stundum langan veg og þess gætt að formaður færi fyrstur. Hindraðist hann af einhverju á leiðinni, stönsuðu allir á meðan. Væri þess ekki gætt var það talið óhappamerki, en enn verra var, ef kvenmaður var á vegi skipshafnar. Þá var síst við góðu að búast þann róður; sjálfasagt “fýla”, bullandi barningur eða brotalág.
Þegar komið var á flot var farið með sjóferðabæn.
Í lendingu hlupu framámenn, sem voru skiphaldsmenn, útbyrðis og urðu að vera búnir að fóta sig áður en skipið tók niður af framan. Héldu þeir svo við svo skipinu á “kollubandinu”, sem fest var í mitt stefnið, svo að skipið gat hvorki farið upp eða út, var það oft hið mesta þrekvirki, því fyrir gata komið, að sjór gengi þeim um axlir og skipið tók ákaflega á. Formaðurinn einn, eða með örðum, hélt skipinu með stjaka í horfinu, eða að því slægi ekki til hliðar, á meðan aðrir seiluðu fiskinn, og þurfti það að gerast svo fljótt sem unnt var.
Ef ekki var róið aftur, var skipið sett upp fyrir flæðamál eða dregið upp á hlunnum. Hásetar báru fiskinn upp á skiptivöllinn. Formaður skipti í köst og voru tveir hásetar um eitt kast, hétu það hlutalagsmenn.
Grindavík – verbúð við Járngerðarstaði; uppdráttur.
Þar sem færi voru notuð, var næstum ekki öðru skipt en þorski, hitt voru “happadrættir”, eign þeirra, er þá drógu, t.d. keila, steinbítur, ufsi, karfi og jafnvel ýsa, ennfremur sporður, hryggur, haus og rafabelti af flakandi lúðu, sköturassar og hrognið úr löngunni (lönguskjaldið). Þetta dró drjúgum góða fiskimenn, enda var það kölluð “hlutabótin”. Ennfremur tók skipeigandi 1 besta fiskinn úr hverjum róðri af óskiptu, ef segl voru notuð í róðrinum. Hét það seglfiskur. Drykkjarfisk var þá hætt að taka á sama hátt fyrir að fá sér færðan drykk að skipi, er komið var að.
Útgerðarmaður tók 3 hluti, 2 fyrir skipið með áhöldum, búðar- og byrkisleigu, uppsátur og færi, – öngul og sökku lögðu hásetar sér til – og 1 fyrir “tilögurnar”, en það voru skipulag, sýra lifurílát, seilar- og byrðarólar, sjóskóþvengir, skinnstakksvindingur, bróklindi og baggaband, auk þess var glaðning á sumardaginn fyrsta nokkurskonar skylduskattur á útgerðarmann.
Ef einhver skipverji veiktist, var honum gefinn hlutur og jafnvel þótt hann lægi alla vertíðina.
Verbúðir – Bjarni Jónsson.
Þegar búið var að “gera að” fiskinum, var hann þakinn grjótbyrgi, eða lagður í “kös”, ef gera átti hann að harðfiski. Þorskhausar voru þvegnir, helst upp úr sjó, þóttu þá “renna” fremur, síðan ýmist raðað hverjum við annan með munnana upp, “skrúfað”, eða hver látinn sér “trantað” á steina. Þegar þeir höfðu þornað nokkuð, voru þeir klofnir upp og lagðir í hlaða.
Í “kös” gat fiskur haldist mjög lengi óskemmdur, hvernig sem viðraði, ef vel var kasað, svo að vatn gæti hvergi staðið á fiskinum. Flattur fiskurinn var lagður saman þannig í lítinn hring, að sporðar komu saman, og utanyfir var lögð önnur röð og tóku sporðar hennar upp á hina miðja og svo koll af kolli eftir rúmi og þörfum, kösin þurfti helst að vera í sléttum halla.
Fiskgarðar í Slokahrauni.
Þegar fiskurinn var tekinn úr kösinni og breiddur upp, venjulega á lága grjótgarða (vergögnin) reið mjög á því, að frostlaus þerrir héldist næstu daga, svo að fiskurinn næði að þorna að utan (skelja). Ef það heppnaðist, var fiskurinn venjulega úr allri hættu, varð hlaðatækur, og með góðri hirðu bestan vara, hvort sem vildi til kaupstaðar eða matar.
Ef illa vildi til og fiskurinn fékk ekki þurrk strax eftir uppbreiðslu, slepjaði hann og varð “maltur”, en meltingur sá þótti fáum góður matur og var öldungis óhæf verslunarvara. Ef fiskurinn fraus í herslunni, varð hann að vísu ágæt matvara, en gekk ekki í kaupstað. Væri hann breiddur upp nýr og þornaði án þess að frjósa, varð hann “ólseigur” og illur til átu, en ágæt kaupstaðavara.
Selatangar – þurrkbyrgi.
Að hirða vel um afla sinn og “bösl” – svo voru sjóklæðin í heild sinni kölluð – tók allmikinn tíma í landlegum, og ef róið var alla vikuna, varð að nota sunnudaginn til þess. Þá tíðkuðust ekki helgidagaróðrar.
Lífið í verbúðunum var furðulega skemmtilegt, þegar þess er gætt, að svo að segja öll þægindi, sem menn voru vanir heima, skorti, enginn stóll, ekkrt borð, ekkert matarílát nema vasahnífurinn og eitt bollapar eða krukka til að drekka kaffið úr, þrengsli mikil, þegar 2 menn og stundum 3, með hálfdrætting, urðu að sofa og vinna allt, sem unnið var, innan búðar á sama rúminu, blaut og grútug skinnklæðiin hangandi á hverri stoð við höfðalögin, skór og vettlingar á bríkarrimlum og rottur hlaupandi út og inn um veggjarholurnar. En í verinu var ofurlítið meira frjálsræði en heima, og því hafa Íslendingar unnað frá öndverðu.
Sjómenn frá Stóru-Vatnsleysu.
Á lokadaginn 11. maí á hádegi, voru menn lausir úr skipsrúmi og bjuggust til heimferðar. Sammældu sig oft margir, er samleið áttu, og voru þá kallaðir “heimgöngumenn”.
Heimkoman var sannalega fagnaðarfundur, er allt hafði gengið slysalaust, og afli sæmilegur, en ástvinir og vandamenn svo sem úr helju heimtir. Öðru máli var að gegna á þeim heimilum, þar sem unnustinn, sonurinn, faðirinn eða eiginmaðurinn var ekki í flokki heimgöngumanna – sem því miður bar oft við – þá skerandi sorg, sem á þeim heimilum ríkti, getur enginn þekkt nema guð einn og þeir, sem hana reyndu.
Heimildir:
-Oddur Oddsson – Sagnir og þjóðhættir – 1941.
-Málverk eftir Bjarna Jónsson.
Sjóbúð á Selatöngum.
Lækningajurtir og galdraplöntur
Efirfarandi fróðleikur um „Lækningajurtir og galdraplöntur“ birtist í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000:
„PLÖNTUR hafa fylgt manninum frá upphafi vega. Þær hafa gegnt veigamiklu hlutverki í sögu hans og menningu. Land-búnaðarbyltingin grundvallaðist á því að menn fóru að rækta korn og eftir það hófst myndun borga og nútímamenning varð til.
Í indversku spekiritunum Rig Veda segir að maðurinn hafi lært að þekkja ætar plöntur frá eitruðum með því að fylgjast með fæðuvali grasbíta. Síðan hefur hann lært að rækta og kynbæta plöntur til að fullnægja þörfum sínum. Á miðöldum var lækningajurtum safnað úti í náttúrunni af grasalæknum og þær voru ræktaðar í klausturgörðum. Munkar og grasalæknar sáu um að lfkna sjúkum og græða sár með jurtalyfjum og smyrslum.
Í seinni tíð hefur vegur grasalækninga vaxið mikið, og oftar en ekki í samfloti við svo nefnda nýaldarhyggju. Svo virðist sem vesturlandabúar leiti æ oftar til grasalækna í von um að þeir geti bætt mein sem læknavísindin standa ráðþrota frammi fyrir. Grasalækningar hafa í grófum dráttum þróast frá göldrum, þar sem seiðmenn ráku út illa anda með hjálp plantna, yfir í að vera vísindi. Í þessu ferli hafa komið fram allskyns hugmyndir um lækningarmát plantana. Á tímabili var því trúað að plöntur sem bæru blöð sem væru í laginu eins og lifur, væru góðar gegn lifrarsýkingum og að plöntur sem líktust kynfærum á einhvern hátt ykju kyngetuna.
Í einni athugun kom í ljós að af 119 mikilvægustu plöntunum sem notaðar eru til lyfjagerðar eru 88 af tegundir þekktar meðal frumstæðra þjóðflokka sem lækningar-jurtir. Jurtalyf hafa ekki eingöngu verið notuð til lækninga, þau geta líka verið sterk eitur, og á tímum Grikkja og Rómverja voru þau mikið notuð til að ryðja pólitískum keppinautum úr vegi. Frú Lacusta eitursérfræðingur Neró keisara var einstaklega lagin við það og aðstoðaði hún hann í valdabaráttunni með því að eitra fyrir andstæðingum hans.
Náttúruþjóðir lifa að stórum hluta á jurtum. Þær eru notaðar til að komast í samband við guðina og til þess að fara sálförum yfir í andaheiminn. Einstaka trjátegundir voru og eru dýrkaðar sem guðir væru. Drúítar álitu að eikin væri tákn styrkleika og veitti vernd. Sedrusviðurinn naut á sínum tíma átrúnaðar kristinna manna, gyðinga og múslíma, þótt hver hefði sína ástæðu. Fíkjutré eru álitin heilög af búddhistum vegna þess að Siddharta Gautama öðlaðist nirvana undir einu slíku. Hindúar trúa því að guðinn Brahna hafi breyst í fíkjutré. Helgileikir í tengslum við árstíðir og uppskeru eru oft tengdir hlutum úr tré, þekkt dæmi um þetta eru jólatré og maístöngin. Fyrir tíma kristninnar þekktist það í Norður-Evrópu að unglingar færu út í skóg og kæmu til baka með skreyttar trjágreinar, reðurstákn – tákn frjósemi sem síðan var dansað kringum. Í kristni eru plöntur notaðar sem tákn og Jesú notaði þær oft í dæmisögum sínum. Fífillinn sem er bitur á bragðið og táknar pínu Krists og krossfestinguna. Samkvæmt helgisögninni var krossinn smíðaður úr ösp og þess vegna skjálfa lauf asparinnar án afláts. Rósir eru tákn Krists og María guðsmóðir var kölluð rós án þyrna vegna þess að hún var talinn syndlaus. En kristnir menn hafa ekki alltaf verið jafn sáttir við rósir. Rómverjar litu á hana sem merki um sigur og hún var tákn ástargyðjunnar Venusar. Rósin var eftirlætisblóm keisarans í Róm og heiðins háaðals og hafði táknrænt gildi.
Forn-Grikkir töldu að Adonis hefði fæðst af mytrustré og að börkur þess hafi rifnað eftir tíu mánaða meðgöngu. Alexander mikli á að hafa komið að talandi tré í einni herferð sinni, tréð ávítaði hann fyrir valdagræðgi og spáði fyrir um dauða hans í ókunnu landi.
Askurinn er heimstréð í norrænni goðafræði. Óðinn hékk níu nætur í tré til að öðlast visku og Adam og Eva borðuðu af skilningstrénu og voru rekin úr paradís fyrir vikið. Í norrænni goðafræði eru dæmi þess að menn hafi blótað tré og lundi í tengslum við Freysdýrkun.
Alþýðleg þekking á nýtingu plantna hélst við hér á landi fram undir síðustu aldamót en hefur nú að mestu fallið í gleymsku. Breyttir búskaparhættir og ör þróun læknavísinda ruddi henni til hliðar og gerði hana að mestu óþarfa. Nokkuð er um forn goðaheiti á íslenskum plöntum þó þau séu fá, þau eru m.a. baldursbrá, friggjargras og lokasjóður. Á hinum Norðurlöndunum eru allmargar tegundir plantna kenndar við Jesú Krist en ekkert hér á landi. Nokkur gömul íslensk plöntunöfn eru kennd við Maríu mey t.d. Maríugras og Maríuskór. Talsvert ber á því í sögum þar sem plöntur eru taldar til að ekki er getið um tegundarheiti, plantan er nefnd til sögunar án þess að vera kjarni hennar. Í Allrahanda samkvæmt Steindóri Steindórssyni frá Hlöðum eru tvær jurtir sem eru þeirri náttúru gæddar að geta opnað skrár og lása þ.e.a.s. tungljurt (Botrycium lunaria) og fjórlaufasmári
(Paris quadrifolia). „Hefir það vafalaust verið trú hér eins og í Noregi að lásar hrykkju opnir, ef tungljurt var borin að þeim.“ Og „hér á landi var mikil trú á töframætti ferlaufasmárans, talið var, að ef hann væri borin að læsingum, hvort heldur á húsum eða hirslum, hrykkju þær upp. Af því verða til nöfnin lásagras, skráagras, þjófagras og þjófarót.
Nafnið lausnargras, [… ], gæti bent til trúar á, að plantan greiddi konum fæðing, sbr. lausnasteinn.“ Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er að finna eftirfarandi sögu um þjófagras. „Þjófarót er gras eitt með hvítleitu blómi. Er það mælt að hún sé vaxin upp þar sem þjófur hefur verið hengdur og sé sprottin upp af náfroðu upp úr honum. En aðrir segja að hún sé sprottin upp af þjófadysinni. Rót gras þessa er mjög angótt. Þegar þjófarót er tekin verður að grafa út fyrir alla angana á henni án þess að skerða nokkurn þeirra nokkurstaðar nema miðangann eða meginrótina sem gengur beint í jörð niður, hana verður að slíta. En sú náttúra fylgir þeim anganum að sérhvert kvikindi sem heyrir hvellinn þegar hann slitnar liggur þegar dautt. Þeir sem grafa þjófarót binda því flóka um eyru sér. En til þess að þeir sé því ugglausari að þeir heyri alls ekkert hafa þeir þó varúð við að þeir binda um rótina og hinum endanum við hund sem þeir hafa með sér. Þegar þeir eru búnir að undirbúa allt hlaupa þeir frá greftrinum og þegar þeir þykjast komnir nógu langt burt kalla þeir á hundinn. Slitnar þá anginn við það að hundurinn gegnir og ætlar að hlaupa til mannsins, en hundurinn drepst þegar í stað er hann heyrir slithvell rótarinnar. Síðan er rótin tekin og geymd vandlega. Gras þetta hefur þá náttúru að það dregur að sér grafsilfur úr jörð eins og flæðamús dregur fé úr sjó. En þó verður fyrst að stela undir hana peningi frá bláfátækri ekkju milli pistils og guðspjalls á einhverri af þremur stórhátíðum ársins. En ekki dregur rótin aðra peninga en þá sem samkyns eru þeim er undir hana var stolið í fyrstu [… ].
Ekkert vandlæti hef ég heyrt að sé á því að geyma eða verða af með rót þessa: því fleygja má henni hvar og hvenær sem vill að ósekju. Þess má geta að í Evrópu er þekkt galdrajurt með kræklótta rót sem nefnist gaddepli (Datura stramonium). Þar er því trúað að hún spretti upp af sæði þjófs sem hefur verið hengdur og eru aðferðirnar við að ná rót hennar þær sömu.
Vallhumall þykir hin besta lækningarjurt og er sögð brúkleg gegn ýmsum kvillum, jurtin er mýkjandi, blóðleysandi og styrkjandi. Sé rótin þurrkuð og mulin er hún talinn góð gegn ígerð og tannpínu. Seyði jurtarinnar er talið gott gegn kvefi, hrukkum og fílapenslum í andliti þvoi menn andlit sitt með því fyrir svefninn.
Á Íslandi naut reyniviðurinn sérstakrar helgi, eins og sjá má á eftir farandi sögu. „Hér hafði í fyrndinni verið tígulegt, einstakt tré, talsvert hátt, með beinum og auk þess ílöngum blöðum og glæsilegum ávöxtum. Er það ætlun mín, að það hafi að vísu verið lárviður, sem þarna hafi verið gróðursettur af einhverjum dýrkanda forns átrúnaðar vegna þess, hvað staðurinn var hentugur, eða þá að hann hafi vaxið upp fyrir einstaka velgjörð Guðs, því að löngu fyrir vora daga flykktist almenningur að tré þessu með gjöfum, ljósum og ýmiss konar þjónustu, sem var öldungis runnin af rótum páfatrúar og hjáguðadýrkunar, þar til óhjákvæmilegt var að eyðileggja það, til þess að taka fyrir hjátrúna.
En nú hefur það aftur blóðgat með blöðum og ávöxtum og er orðið hið yndislegasta að nýju. Þess vegna er nágrönnunum það óhæfa að skemma það.“ Þótt Gísli tali hér um lárvið þá er auðséð á lýsingunni að um reynivið er að ræða. Tréð er hátt með beinum greinum, ílöngum blöðum og glæsilegum ávóxtum. Allt þetta á við reynivið og svo ber þess að gæta að á tímum Gísla Oddssonar voru einungis tvær trjátegundir á Íslandi sem náðu einhverri hæð. Annað var birki og hitt reynir, allir sem eitthvað þekkja til trjáa sjá strax að lýsingin á ekki við birki en kemur vel saman við útlit reyniviðar. Þess má til gamans geta að talsverð hjátrú loðir við reyninn og var það trú manna að hann hefði níu náttúrur vondar og níu góðar og var það talið ógæfumerki að fella hann.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar stendur m.a. þetta um reynivið. „Af viðartegundum hafa einna mestar sögur farið að reyniviðnum enda hefur verið allmikil trú á honum bæði að fornu og nýju og jafnvel allt fram á okkar daga. Hann hefur haft einhvers konar helgi á sér og merkilegt er það að hann skyldi verða Ásaþór til lífs er hann óð yfir ána Vilmur til Geirröðargarða og er því reynir síðan kallaður sjálfsagt í heiðurs skyni „björg Þórs“ sem Edda segir.
Þó er það enn helgara og háleitnara sem stendur um hann í Sturlungu þar sem Geirmundur heljarskinn sá ávallt ljósið yfir reynilundi sem vaxinn var í hvammi einum er Skarðskirkja á Skarðsstönd var síðan byggð í. Af því að hann var heiðinn maður var honum ljós þetta ekki að skapi, en svo voldugur og ríkur höfðingi sem Geirmundur var dirfðist harm allt um það ekki að uppræta reynirunninn, en óskaði sér þess aðeins að hann væri horfinn burt úr landareign sinni og fékk ekki við gjört að heldur og hýddi smalamann sinn harðlega fyrir það að hann lamdi fé Geirmundar með reyniviðarhríslu.
Seinna á öldum hefur hann þótt einhver óbrigðulasti sakleysisvottur þegar hann hefur sprottið á leiðum þeirra manna sem sökum hafa verið bornir og af teknir án þess að hafa getað sannað sýknun sína í lifanda lífi og eru um það sögur.“
Í lokin má svo geta þess að nokkur bæjarnöfn eru kennd við reynivið, eins og Reynistaðir og Reynivellir og svo er auðvitað til mannsnafnið Reynir.
Sortulyng eða mulningur var notað til að drýgja tóbak (þetta er reyndar einnig þekkt meðal Sioux indíána Norður-Ameríku) og til að búa til blek, það var einnig notað sem litarefni. Í galdrabók frá 15. öld er það sagt gott til að fæla burt drauga. Nafnið lúsamulningar er einnig þekkt, en það stafar af því að menn töldu sig verða lúsuga af því að borða sortulyng.
Birki er ein af þessum plöntum sem Íslendingar hugsa til í hálfgerðri lotningu, talað er um endurheimt birkiskóganna og skuldina við landið. Fyrirtæki og einstaklingar keppast við að koma nafni sínu á blað í tengslum við skógrækt. Seyði úr birkiberki þótti afar gott gegn niðurgangi og til að verja barnarassa sviða. Þá þótti einnig gott að brugga vín, svo nefnt birkivatn, úr birki.
Skarfakál, kálgresi, síonsjurt eða skyrbjúgsjurt er gömul lækningarjurt og mjög Cvítamínrík, henni var safnað á vorin og þótti hún hin besta lækning við skyrbjúg eins og eitt af nöfnum hennar gefur til kynna. Skarfakál var talið örva tíðir og þótti gott að leggja hana í mat til að varna rotnun.
Ætihvönn hefur alla tíð verið mikils metin hér á landi og reyndar víðar. Á latínu heitir hún Archangelca sem þýðir erkiengilsjurt. Síra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal talar um það í Grasnytjum sínum að hvönnin lækni milli 10 og 20 sjúkleika og Oddur Hjaltalín segir Í bók sinni íslenzk grasafræði. „Urtin hefir styrkjandi, vindeyðandi, svitaeyðandi, ormdrepandi, uppleysandi, forrotnum mótstandandi og blóðhreinsandi krapt. Hún er því góð ímót matarólyst, vindum í þörmum, innvortis tökum, gulu, hósta, skyrbjúgi, stöðnuðu tíðablóði, og mótstendr drepsóttum [… ].
Til manneldis má rótina brúka, er hún munntöm fæða með fiski og nýu smjöri; hún er og bezta sælgæti bituð og selltuð með sykri.“ Það er ekki ólíklegt að hvönn hafi verið ræktuð hér á landi allt frá landnámi, hún var að minnsta kosti mikið ræktuð í Noregi, og í fornsögum er minnst á hvannagarða. Hvannir hafa þótt hin mesta búbót og hafa mörg bæjarnöfn og örnefni hvönn sem hluta af nafni sínu, s.s. Hvanneyri, Hvanná, Hvannavellir og Hvanndalir. Nafngiftir að þessu tagi eru ómetanleg heimild um gróðurfar og plöntunytjar, hvönnin hefur sett svip á landið og verið mikilvæg nytjaplanta.
Göngum við í kringum einiberjarunn er þýðing á dönskum texta sem á frummálinu heitir Sá går vi rundt om en Enebærbusk. Flestir Íslendingar þekkja textann vel og syngja hann þegar þeir ganga kringum jólatré. Barr einis er einkar gott við aflleysi og tíðarteppu og það þykir hið hollasta reykelsi. Áður fyrr voru einiber brennd og reykurinn látinn leika um sængurkonur til að halda djöflinum í skefjum. Þess má einnig geta að það eru einiber sem gefa sénever og gini sitt sérstaka bragð
Grasafræðin er tvíþætt, annars vegar sá þáttur sem snýr að líffræði jurta og hinsvegar sá sem snýr að nýtingu þeirra og sögu. Hér að framan hafa verið tíndar til nokkrar þjóðsögur og sagnir um notkun plantna á Íslandi. Dæmin sýna tengsl þeirra við lækningar eða galdur.“
Heimildaskrá:
-Gísli Oddsson. 1942. Íslenzk annálabrot og undur Íslands. Akureyri, Þorsteinn M; Jónsson.
-Jón Árnason. 1980. íslenzkar þjóðsögur og ævintýri. Reykjavík, Þjóðsaga.
-Jón Norðmann. 1946. Allrahanda. Reykjavík, Leiftur.
-Oddur Hjaltalín. 1830. Íslenzk grasafræði. Kaupmannahöfn, Hið íslenzka Bókmenntafélag.
-Ólafur Davíðsson. 1940-1943. Galdur og galdramál á Íslandi. Reykjavík, Sögufélagið.
-Steindór Steindórsson. 1978. Íslensk plöntunöfn. Reykjavík, Menningarsjóður.
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Vilmundur Hansen, „Lækningajurtir og galdraplöntur“, 26. ágúst 2000, bls. 4-5.
Vetrarblóm.
Þorvaldur Thoroddsen
Þorvaldur Thoroddsen ritaði m.a. ýmislegt fróðlegt um Reykjanesið í Ferðabók sinni (1913-1915). Hann fæddist 6. júní 1855 í Flatey á Breiðafirði. Hann var frumburður foreldra sinna, Jóns Thoroddsens skálds og sýslumanns og Kristínar Þorvaldsdóttur. Þekktustu verk Jóns eru skáldsögurnar Piltur og stúlka (1850) og Maður og kona (1876).
Þorvaldur Thoroddsen.
Þorvaldur gekk í Lærða skólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi 1875, tvítugur að aldri, og hélt samsumars til háskólanáms í Kaupmannahöfn. Í fyrstu hugðist hann leggja stund á dýrafræði en á öðru námsári sneri hann sér að jarðfræði og landafræði.
Þegar starf losnaði á Íslandi hætti hann námi að ráði kennara sinna til þess að tryggja sér lifibrauð. Hann stundaði kennslu framan af, fyrst á Möðruvöllum og síðan í Reykjavík til ársins 1895 er hann fluttist til Kaupmannahafnar. Þar gaf hann sig mest að ritstörfum og er Landfræðissaga Íslands hið fyrsta í röð stórverka hans.
Þorvaldur var vísindamaður í náttúrufræði. Hann orti ekki ættjarðarljóð og hann gekk ekki fram fyrir skjöldu í stjórnmálabaráttu Íslendinga, en hann setti sér það mark að kanna og kynna ættjörðina sem frelsishetjur og skáld börðust fyrir og sungu lof.
Þorvaldur Thoroddsen – Ferðabókin.
Hann vildi ekki að útlendingar einir ferðuðust til þess að rannsaka náttúru Íslands og lýsa henni. Það særði þjóðarmetnað hans. Þess vegna varði hann nærfellt 20 æviárum sínum til þess að ferðast um Ísland og rannsaka það, og næstu 20 árum varði hann til þess að rita um það, náttúru þess og sögu.
Einna kunnastur er Þorvaldur fyrir þessar ferðir sínar um Ísland og rannsóknir á landinu. Afrakstur þeirra eru m.a. grundvallarritin tvö, Ferðabók (ný útgáfa 1958) og Lýsing Íslands (1908-1911).
Síðla árs 1895 fluttist Þorvaldur Thoroddsen með fjölskyldu sinni til Kaupmannahafnar og átti þar heima til dauðadags, 28. september 1921. Hann varð því aðeins 66 ára gamall. Banamein hans var heilablæðing.
Þorvaldur lést 28. september 1921. Hann og kona hans, Sigríður Thoroddsen, eru grafin í Solbjerg Parkkirkegård, Frederiksberg.
Selvogur – ofan garðs og neðan
Farið var með Þórði Sveinssyni um Selvogssvæðið, en hann er (að öllum öðrum ólöstuðum) fróðastur núlifandi manna um minjar og sögu svæðisins. Ætlunin var m.a. að staðsetja Imphólaréttina, sem í fornleifaskráningu er sögð „horfin“, Fornugötu, Járnhellra, Víghól eða Dómshæð (dómsstað fyrrum), Víghólsrétt, Nesstekk og Bjarnastaðastekk o.fl.
Þórður les Selvogslandið eins og hverja aðra skruddu. FERLIRsfélagar höfðu örnefnalýsingar frá Nesi, Bjarnastöðum, Þorkelsgerði og Götu. Þær voru samdar með hliðsjón af skrám eftir Gísla Sigurðsson, sem lesnar voru yfir af Eyþóri Þórðarsyni. Eyþór fæddist í Torfabæ í Selvogi 1898 og ólst þar upp. Hann bjó í Torfabæ til 1962. Upplýsingarnar voru skráðar í okt. 1980. Eyþór var frændi Þórðar, en hann tók fram að lýsingarnar gætu mögulega verið misjafnlega nákvæmar og þyrfti að taka tillit til þess við leitir að minjum á svæðinu.
Byrjað var við Litlu-Hásteina og réttin skoðuð, haldið yfir í Imphólaréttina í Imphólum og síðan um Öldurnar í leit að framangreindum örnefnum og mannvirkjum. Þórður benti m.a. að austurmörk Bjarnastaða hafi legið austar en talið er, þ.e. um hólklöppina Fótalaus, sem hann tilgreindi skammt norðan þjóðvegarins, nokkur austan markagirðingarinnar, sem nú er að mestu horfin. Norðar er Sótahóll. Þá benti hann á þjóðleiðir, nýjar og gamlar; núverandi akveg og þann eldri sunnar og Fornugötu, enn sunnar. Hún er enn vel greinileg og má sjá vörður við hana, bæði endurreistar og fallnar fyrir löngu.
Í lýsingum segir m.a. um Fornugötu: „Austur við Nesmörk er Fornagata, langur hraunhóll sprunginn eftir endilöngu. Á honum var Fornugötuvarða, sem nú er fallin, og kringum hann Fornugötuflatir.“ Jafnframt að „ofar en Víghóll er Fornagata, klöpp með sprungu, sem líkist götutroðningi. Við Fornugötu mætast göturnar frá Vogsósum og neðan úr Selvogi. Hún er við götuslóðann austur á Sand, í slægjulöndin. Fornagata er bæði í landi Ness og Bjarnastaða, liggur yfir mörkin.“ Þórður sagði götuna liggja frá austri til vesturs. Gatan sést enn vel austan við Hlíðarenda í gegnum hraunið, um Djúpadalahraun sunnan við fjárborgina og ofan við Kvennagönguhól(a). Þar færi hún með Eggjunum neðan við Hellisþúfu, um Fornagötuklöpp eða – hæð, með stefnu á Fuglastapaþúfu og um Strandarhæð, sunnan Vogsósa, yfir ósinn og áfram í gegnum hraunið sunnan og vestan Stakkavíkur, um Herdísarvík og áfram til vesturs um slétt Herdísarvíkurhraunið. Víða sæist gatan greinilega, s.s. í Strandarhæð sunnan við Gap og á sléttu helluhrauninu suðvestan við Stakkavík. Þetta hefði verið hin forna gata með suðurströndinni. Faðir hans hefði getið þess að gatan suðvestan Stakkavíkur hefði áður sést sunnar en nú er og mun sjórinn hafa tekið þann kafla hennar.
FERLIR rakti þessa götu fyrir nokkrum árum frá Hlíðarenda og vestur yfir hraunið. Síðan í Djúpudalahrauni, ofan Kvennagönguhóls, á Strandarhæð og vestan Vogsósa. Gatan er vörðuð vestan Hlíðarenda óg um Djúpudali og víðar á leiðinni má sjá fallnar vörður. Hinn nýji Suðurstrandarvegur mun fara yfir þessa fornu götu á kafla þar sem hún er hvað mest mörkuð í harða hraunhelluna.
Þegar gatan var skoðuð núna má vel rekja sig eftir henni við flatirnar. Vörður sjást enn, sem fyrr sagði, sumar vel skófgrónar. Norðaustan við Fornugötu(hól) greinist gatan, annars vegar niður í Selvog og hins vegar eins og að framan er lýst. Norðan í Fornugötu(hól) er tvískipt hlaðin gróin tóft, gæti hafa verið stekkur.
Ef götunni er fylgt í átt að Selvogi er rétt (lík Imphólaréttinni) nokkur suðvestar. Hún er skammt Bjarnastaðamegin við gömlu girðinguna. Eyþór Þórðarson getur þess í sinni lýsingu að Víghóll hafi verið „Dómstaður [og] átti við Víghól að hafa farið fram víg eða aftökur.“ Er sagt, að Erlendur lögmaður Þorvarðarson hafi reiðst sveini sínum, er spáði því, að Strönd mundi eyðast af sandfoki. Hafi sveinninn flúið, en Erlendur elt hann upp að Víghól og drepið hann þar. Víghóll er skammt frá Fornugötu, hún liggur dálítið ofar en réttin. Gamla gatan lá framhjá Fornugötu. Ef þessi rétt er Víghólsréttin er gasi gróinn hóll örskammt norðaustan hennar umræddur Víghóll. Hafa ber í huga að mikla breytingar hafa orðið þarna á landsháttum frá því sem áður var því sandurinn fauk þar um fyrrum nánast óbeislaður. Þessi rétt er hins vegar mjög heilleg, en ekki auðfundin.
Nefndir Hásteinar eru þrír hraunhólar við þjóðveginn. „Stóri-Hásteinn er efstur. Mörkin milli Ness og Bjarnastaða eru austan í honum. Þar er við hann klöpp, sem kölluð er Fótalaus, og var merki klappað í hana. [Hér virðist vera um misvísun að ræða hjá Eyþóri því ef þessi lína er notuð verður Bjarnastaðasel, sem er þarna ofan við, í Neslandi. Ef tekið er mið af eystri hólnum, sem Þórður benti á, þá er selið réttu megin við mörkin]. Ókunnugt er um tildrög þessa nafns. Litlu-Hásteinar eru tveir, og liggur vegurinn nú milli þeirra, utan í neðsta Hásteininum. Rétt var við neðsta Hásteininn. Hásteinahraun er milli Hásteina og kringum þá, og í því er Hásteinahellir. Það er smáskúti, kemst varla kind inn í hann. Hásteinsflag er fyrir neðan nýjasta veginn, undir neðsta Hásteininum. Það er gróið. Hásteinaflatir heita fyrir neðan Hásteina.
Austur með þjóðveginum eru Imphólar, lágir grashólar. Þar var Imphólarétt, sem nú er farin. Imphólaflatir og Klakksflatir ná saman, og Klakkur er þar fyrir austan.“ Imphólar eru grónir lágir hólar sunnan Litlu-Hássteina. Norðan utan í þeim vestari er falleg rétt með leiðigarði.
„Spölkorn fyrir ofan Kvennagönguhól eru aðrir hraunhólar og kringum þá grösugar flatir. Þarna var Nessel, og sést enn fyrir tóftum þess. Selið er innan sandgræðslugirðingarinnar. Nú hafa verið reist fjárhús á móti selinu (ofan vegar, í Austurslökkum). Norðan þjóðvegar, hærra í heiðinni, var Hafliðavarða, sem var smalavarða, þ. e. hlaðin af smala.
Hellisþúfa er hraunhóll mikill í vestur frá Háaleiti og í honum Hellisþúfuhellir. Í hellinum var eitt sinn búið, og er einhver hleðsla úti fyrir. Sá mun hafa heitið Gísli, er þarna bjó.“
Þórður sagðist hafa hafst við í tjaldi þegar hann var yngri skammt vestan við Kvennagönguhóla ásamt föður sínum og bróður. Þá hefðu þeir fundið tölur eða hnappa, sem taldar voru hafa komið upp úr dys í örfoka landi. Nú hefði sandurinn lagst yfir moldarflagið og hulið dysina. Hann vissi nokkurn veginn hvar hún væri. Hnapparnir væru enn til.
„Tveir brunnar voru á Bjarnastöðum. Eldri brunnurinn var í miðju Gerðinu, en annar yngri nær bæ, alveg við traðirnar.
Á sjávarkampinum niður af Bjarnastöðum, Bjarnastaðakampi, var hlaðinn sjóvarnargarður og hlið í hann niður af tröðunum. Garðbrot, sem lá frá bæjarhúsunum niður með sjávargötunni, var nefnt Bryggjan. Bryggjan var til að ganga eftir, því að tjörn myndaðist fyrir ofan kampinn. Þar yzt fyrir ofan kampinn var gömul sjóbúð, Þorsteinsbúð. Tóftin af henni hefur staðið til skamms tíma og verið notuð sem kartöflugeymsla. Yngri brunnurinn var rétt við búðina.
Efst við traðirnar heim að Bjarnastöðum, vestan við þær, var Guðnabær, hjáleiga frá Bjarnastöðum, nú löngu komin í eyði. Tún Guðnabæjar skiptist í tvennt, Austurgerði og Vesturgerði, og lágu traðirnar heim að Bjarnastöðum milli þessara stykkja. Efst í Austurgerði er Unhóll á landamerkjum móti Nesi, rétt innan við eða í túngarðinum, sem liggur ofan við alla bæina. Alveg um landamerki Ness og Bjarnastaða, nokkru neðan við Unhól, var brunnur fyrir Guðnabæ og Þórðarkot, hjáleigu í Nesi.
Nokkru vestar en Guðnabær var þurrabúð, nefnd Klöpp, og stóð hún ofan garðs. Túnblettur var þar í kring og í honum vestast lítill hóll, Æshóll. Merkin milli Götu og Bjarnastaða liggja alveg um Æshól. Vestast í Bjarnastaðalandi var hjáleigan Beggjakot, nú í eyði. Sömu traðir voru að Götu og Beggjakoti. Tún Beggjakots lá upp með tröðunum, upp undir garð og spöl niður fyrir bæinn. Á því standa fjárhús á nokkrum stöðum. Neðst í túninu var brunnur fyrir kotið.
Nokkru vestar stóðu Bjarnastaðaborgir, tvær fjárborgir á kampinum, en þær tók af í flóðinu mikla 25. febr. 1925. Lítið vik milli klappa niður af þeim heitir Borga(r)vik, og vestur af því Borga(r)klettar. Þeir eru fram af borgunum. Þar var fjárrétt lengi. Á milli Borgaklettanna er Sandlón, og vestan Borgakletta er Djúpalón. U. þ. b. upp af Borgaviki er Bjarnastaðarétt eða Miðvogsrétt, neðst í Gerðinu innan við sjóvarnargarðinn.
Selvogsheiði tekur við ofan túngarða á Bjarnastöðum, og er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði þar fyrir vestan.
Ofan Bjarnastaðatúns eru Bjarnastaðaflatir. Vestast á þeim ofan við hjáleiguna Klöpp var Litlavarða og Litluvörðuflöt. Eitthvað mun vera eftir af vörðunni. Ofar en Litlavarða var önnur varða ofarlega á Flötunum (68), kölluð Digravarða, Stóravarða eða Austurvogsvarða. Hún var Sundvarða fyrir Útvogssund. Átti hana að bera í austustu Hnúkana. Við túngarðshlið Bjarnastaða byrjaði leiðin suður og lá upp heiðina.
Spölkorn upp frá Flötunum eru Bjarnastaðahólar kringum Digruvörðu. Það eru þrír lágir hraunhólar. Vestasti hóllinn er í Götulandi, Mið-Bjarnastaðahóll e.t.v. einnig, en Austasti-Bjarnastaðahóll er í Bjarnastaðalandi. Eitthvað er eftir af grónu landi milli hólanna, sandurinn er ekki kominn þangað.“ Ekki er fjallað um Bjarnastaðastekk í örnefnalýsingunni, en þar með er ekki sagt að hann hafi ekki verið til því hans er getið í lýsingu fyrir Götu.
„Á Nessandi er stórt svæði, nefnt Öldur. Sandurinn er þar gáróttur og lægðir á milli gáranna. Öldur liggja frá Flötum austur að landamerkjum, milli Heimasands og Sandamóta, en svo heitir, þar sem sandurinn mætir gróna landinu fyrir ofan og fer að hækka upp í heiðina. Öldurnar voru slegnar frá Nesi og kotunum, hver hafði þar sitt stykki, en þetta var aðalslægjulandið utan túns. Vestust er Ertualda. Þá er Bartakotsalda. Á henni voru tættur, e.t.v. af býli. Milli þessara tveggja eru Járnhellrar, sem svo voru nefndir. Járnhellrar eru klappir, og var í þær hellir, en hann fylltist af sandi. Þarna voru jafnvel rústir gamlar. Járnhellrar fylgja aðallega Bartakotsöldu.“ Vegna framkominna upplýsinga um að hellirinn hafi lokast svo og vegna þess að Miðheiðin er einn sandur, var ekki gerð sérstök leit að honum að þessu sinni.
Farið var niður undir Strákhæðir. „Norður af þeim er Smalaskáli á Heimasandi. Þar var einhver hleðsla. Var talið, að þar hefði einhvern tíma verið búið. Þar norður af er Taðhóll. Ekki er vitað, hvers vegna hann heitir svo, e.t.v. hafa hross staðið í skjóli undir honum. Við Taðhól byrjar Ertualda, og þar eru takmörk Heimasands.
Vestur af Taðhól er Dómhæð. Sagt var, að þar hefðu farið fram dómar.
Frá túngarðshliði að austan lá gata upp í heiðina, upp hjá Víghólsrétt, upp á Klakksflatir. Tvær smávörður við götuna voru kallaðar Ljúf og Leið, ekki vitað hvers vegna. Ofar er klöpp, sem kallast Beð, og á henni Beðvarða. Vestan götunnar er Grænaskjól. Þar er hleðsla, hefur eitthvað verið byggt. Vestur og upp af Grænaskjóli eru Lambastekkshólar og Lambastekkur þar hjá.“ Vörður eru á þessari leið en erfitt er að sjá eftir lýsingunni hver hafi heitið hvað.
„Nesstekkur var vestan við Víghólsrétt, en hún er austan við Stóruvörðu, sem er ofarlega á Bjarnastaðaflötum. Nesstekkur er við mörk Ness og Bjarnastaða. Víghólsrétt er við Víghól, sem er svolítil hæð. Við Nesstekk er Nesstekkatún. Stekkir voru þarna í röð yfir landið, austast Nesstekkur, þá Bjarnastaðastekkur og Útvogsstekkur.“ Þessi lýsing frá Nesi gefur tilefni til að fara aftur á vettvang og gaumgæfa svæðið vestan við fyrrnefnda rétt (Víghólarétt), sem gæti einnig verið Bjarnastaðastekkur. Hins vegar var engar minjar að sjá austan við hana. Meira síðar.
„Fyrir ofan Götutún halda áfram Bjarnastaðaflatir, og á þeim eru Bjarnastaðahólar. Vestasti-Bjarnastaðahóll er í Götulandi og e. t. v. einnig Mið-Bjarnastaðahóll. Ofan við hólana var lægð eða flöt, sem nefnd var Skjaldbreið, en er nú orðin uppblásin og nefnd Grjót (ft.). Þar ofar var Bjarnastaðastekkur, alveg við mörkin í Götu og e.t.v. í Útvogslandi. Sést fyrir honum enn. Við stekkinn var Stekkatún og Stekkatúnsflatir í kring. Þetta er við veginn niður að bæjunum.“ Þessi lýsing frá Götu bendir til að Bjarnastaðastekkurinn geti verið vestar en hér er tilgreind Víghólsrétt. Þá ætti Nesstekkur að vera á millum.
Ofar eru tveir hólar, Grænshólar (G.S. nefnir þá Grenshóla). Við þá mun áður fyrr hafa verið gren. Umhverfis hólana eru Grænshólaflatir. Þar austur af er Fornagata í Bjarnastaðalandi.“
Í örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði segir: „Áður fyrr var byggð í Selvogi skipt í Austurvog, sem var fyrir austan kirkjuna, og Vesturvog fyrir vestan kirkju, þ. e. frá kirkju og vestur að Vogsósum. Þá var Þorkelsgerði í Austurvognum. Í Þorkelsgerði voru Austurbær og Miðbær, sem var tómthús. Vestan við Þorkelsgerði er Torfabær. Hver bær átti sín tún, sem kennd voru við þá og voru áður fyrr girt með görðum, en í seinni tíð eru komnar girðingar í þeirra stað. Traðir eða götur voru milli bæjanna. Ævagamall túngarður liggur fyrir ofan alla byggðina; hann nær alveg austur undir vita og vestur að Vogsósum. Víða hefur fokið mjög að honum sandur, svo að hann er nær á kafi, en þó sést hann sums staðar. Hlið voru á garðinum heim að hverjum bæ, gjarnan kennd við bæina. Sagt er, að hliðin hefðu verið læst og grind í. Þorkelsgerðisbæir og Torfabær eiga hver sín tún, eins og fyrr segir, en land utan túns, í Selvogsheiði og fjalllendi er sameiginlegt.
Þorkelsgerði stóð áður neðarlega í túni, en var fært ofar undan sjó. Gömlu bæirnir sjást enn í Kampinum, svolítið uppi í túni, en nú standa bæirnir samhliða Torfabæ, sem var ofar. Sunnan eða framan við gamla bæinn hét Framtún eða Flötin. Í því var Þorkelsgerðisbrunnur, sem lengi vel var aðalbrunnur hverfisins. Síðar tók Eyþór brunn við Torfabæ einnig. Frá brunninum lágu götur heim að bæjunum. Brunnurinn er til enn, en sjór fyllir hann í flóðum. Traðir fyrir kýr voru aðallega að austan, og var hlið á túngarðinum þar, rétt við hól, sem nefnist Kinn. Þaðan lágu traðir heim að bæ.
Torfabær er vestan Þorkelsgerðis. Að sögn bjó þar Torfi lögréttumaður. Bærinn stendur uppi undir túngarði að norðan, það langt frá sjó, að hann var aldrei í hættu. Efst í norðvesturhorni túnsins er Mosakrókur, óræktarlaut vaxin mosa. Þar voru tóttir, hefur e. t. v. verið þar býli. Neðst í túni er Krókur, þar stóðu fjárhúsin. Framtún var túnið neðan bæjar kallað, og í því var Torfabæjarbrunnur. Áður en hann var gerður, var sótt í Þorkelsgerðisbrunn.
Upp af Torfabæjartúni er Torfabæjarstekkur. Eyþór man ekki eftir fráfærum, þeim var hætt fyrir aldamót. Við stekkinn stendur Stekkjarvarða. Hún var mið fyrir Goltanga; átti hana að bera í Sundvörðuna á kampinum og í hæstu nípu á Björgunum (Svörtubjörgum).
Fyrir vestan Torfabæ var býli, sem hét Eima, komið í eyði fyrir löngu. Þar sem Eima stóð, heitir nú Eimuhóll.
Milli Torfabæjar og Eimu eru Útvogsréttir eða Þorkelsgerðisréttir, við túngarðinn í Torfabæ.
Ofan túngarða tekur við Selvogsheiði. Er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Þorkelsgerðis- og Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði er land Eimu og Vogsósa.
Ofan garðs er Gunnustekkur á merkjum Þorkelsgerðis og Eimu. Ormsstekkur var austarlega í Þorkelsgerðislandi, austur undir Götumörkum. Vestar og ofar var Brynkastekkur, sem nú er kominn í kaf. Þar nokkru ofar er Stekkjarvarðan, áður nefnd, mið á innra sundið.“
Af framangreindu má sjá að enn er að mörgu að hyggja á Selvogsheiðum.
Ferðin tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður.
Heimildir m.a.:
-Þórður Sveinsson (f: 1930), mars 2007.
-Eyþór Þórðarson, (f: 1898), 30. okt. 1981.
-Örnefnalýsingar fyrir Bjarnastaði, Nes, Þorkelsgerði og Götu.
-Brynjúlfur Jónsson, 1903, bls. 51.
Hestaþinghóll
„Leirurnar við Leiruvog hafa ætíð laðað að sér ríðandi fólk, bæði það er átti erindi milli héraða og þess sem vildi nota sléttar og mjúkar skeiðflatir. Þar var hægt að spretta úr spori eða stefna til hestaats. Hestaþing, hestaat eða hestavíg voru samkomur þar sem menn öttu saman stóðhestum og létu þá bítast og slást. Stórir og reisulegir graðhestar voru valdir til að kljást og höfðu jafnvel verið þjálfaðir til slíkrar iðju. Nauðsynlegt þótti að leiða að þeim hryssur til að koma þeim í vígamóð. Þessi siður mun hafa flust með landnámsmönnum frá Noregi og þótti það hin besta skemmtun að koma saman og sjá þessar stóru og fallegu skepnur kljást, með prjóni, spörkum og biti. Hið viðkunnulega hnegg hestsins hvarf og öskur, frýs og fnæs komið í þess stað.
Þegar komið var ríðandi að Leiruvogi mátti stundum á fyrri tíð sjá fjölda manna og hesta við Hestaþinghól sem er stór tangi eða sandhóll og skagar fram í sunnanverðan Leiruvog, vestan við svonefndan Surtteig í landi Varmár. Engar skjalfestar sögur eru til um hestaat við Leiruvog og ekki er vitað hve lengi Mosfellingar stunduðu þar hestaat. Þó er líklegt að það hafi verið eitthvað fram yfir siðaskipti á 16. öld.
Í prestastefnusamþykkt Odds biskups Einarssonar (1559-1630) frá 1582 er amast við ýmsum leikjum og skemmtun alþýðunnar. Í skjali þessu, sem nefnt hefur verið Kýraugastaða-samþykkt, skyldu prestar setja út af sakramenti alla þá er færu með kukl, rúnir, ristingar, særingar og kveisublöð. Einnig skyldu prestar banna hestaþing, vökunætur og smalabúsreiðar á helgum dögum, hvort heldur að nóttu eða degi að viðlagri klögun til sýslumanns. Síðasta hestaat, sem sögur fara af, var háð árið 1623 að Illugastöðum í Fnjóskadal.
Það eina sem minnir á hestaat í Leiruvogi er örnefnið Hestaþinghóll. Það fer sérlega vel á því að örskammt þaðan er kappreiðarvöllur Hestamannfélagsins Harðar og hesthúsahverfi Mosfellinga. Áður komu menn saman til að horfa á stóðhesta í vígaham við Hestaþinghól og enn njóta Mosfellingar samskipta við þarfasta þjóninn á þessum slóðum.“
Varla þarf að taka það fram að svæðinu hefur verið raskað verulega frá því sem áður var.
Hestaþingsflatir eru til í Hlíð í Grafningi. Þær eru nokkuð stórar valllendisflatir, niður undan Hellisgili, með gulvíðisrunnum í kring. Þar var áður haldið hestaþing. Hestaþingshóll er í landi Kaldaðarness í Flóa. Þar voru háð hestaþing til forna. Ef til vill hefur það einmitt gerst þar að Jóra bóndadóttir trylltist er hún sá hest föður síns bíða lægra hlut fyrir öðrum. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu eru tveir Hestaþingshólar þekktir, annar fyrrnefndur í landi Varmár, tangi út í Leiruvog. Bendir nafn hans á forn hestaöt þarna niður við sjóinn. Hóll þessi er á tanganum, og ef vel er að gáð, virðist vera þarna um gamalt mannvirki að vera (Örnefnaskrá). Hinn Hestaþingshóllinn er á Eyri í Kjós.
Þá segir svolítið meira frá síðasta hestaatinu þótt ekki hafi það verið á Reykjanesskaga, ef frá er talið hestaatið á Þingvöllum 1930. „Flaustur nefnist fornbýli um 17 km. sunnan við Reyki. Þar sést vel til mikilla tótta og garða, og telja munnmæli að verið hafi kirkjustaður og stórbýli með átján hurðir á járnum. Átján hurða sagan gengur líka um Skarðssel sem stóð 7 km. norðar. Sléttlendi og engjar eru um Flaustur, þar nefnast Flausturbalar með ánni. Skammt þar utan við heitir Vindhólaskál í fjalli og Vindhólanes við ána. Þar var háð síðasta hestavíg á Íslandi upp úr 1600 og sér enn garðinn um leiksvæðið. Ástæður hestavígsins voru ósætti milli Sveins ríka á Illugastöðum og eyfirsks stórbónda. Af Sveini ganga miklar sagnir og talið var að hann hafi átt 500 sauði þegar flest var, auk annars fjár. Sveinn var talinn forspár því hann seldi alla sauði sína haust eitt fyrir fellisvetur. Örlög Sveins urðu að hann drukknaði í kíl einum milli Illugastaða og Kotungsstaða sem síðan er nefndur Sveins kíll. Talið er að Sveinn hafi falið fé í jörð í landi Illugastaða og er það þar enn fólgið.“
Heimild:
-Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, Pjaxi 2005, bls. 31.
-(Jón Sigurðsson, Saga þingeyinga III. S. 150 og 146)
–www.arnastofnun.is
-Hallgrímur Óli Helgason.
-Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur I, 173-175.
Steðji í Kjós.
Sauðhóll
Fjallað er m.a. um Sauðhól í bókinni Mosfellsbær – Saga byggðar í 1100 ár.
Þar segir: „Það var um veturnætur að bóndinn á Helgafelli í Mosfellssveit fór fram í Skammadal til að smala heim fé sínu. Veðurútlit var slæmt, kafaldskóf og skyggni því ekki gott. Bónda gekk vel að ná saman fénu, enda undan veðrinu að sækja heim til bæja, því vindur var af austri. Bónda fannst fé fleira en hann átti, en sá það ekki vel fyrir snjómuggunni. Hélt hann að þetta ókunna fé væri annaðhvort frá Reykjum eða Varmá.
Segir ekki af ferðum bónda fyrr en hann kom fram, á Hrísholt fyrir ofan Sauðhól. Þá taka sig útúr nokkrar kindur og sveigja niður að hólnum. Bóndi ætlar að hlaupa fyrir kindurnar og reka þær tilbaka, en nær ekki að stöðva þær. Kindurnar hlaupa beint að hólnum. Sér bóndi þá að dyr opnast á hólnum og renna kindurnar þar inn og svo lokast hóllinn.“
Heimild:
-Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, Pjaxi 2005, bls. 135.
Mosfellsbær.
Ketill á Gufuskálum
Í Egils sögu Skallagrímssonar má lesa eftirfarandi um búsetu Ketils gufu á Gufuskálum og í Gufunesi:
„Þá er þetta var tíðenda, at Egill var vt kominn ór þessi ferð, þá var heraðit albygt. Voro þá andaðer aller landnámamenn, en synir þeira lifðu eða sonarsyner, ok bjuggu þeir þá í heraðe. Ketill gufa kom til Íslandz, þá er land var mjog bygt. Hann var hinn fyrsta vetr at Gufuskálum á Rosmhualanesi. Ketill hafði komit vestan vm haf af Írlandi. Hann hafði með sér þræla marga írska. Lond voro oll bygð á Rosmhualanesi þann tíma. Réz Ketill þuí þaðan í brott ok inn á nes, ok sat annan vetr á Gufunesi ok feck þar engan ráðstafa. Síðan fór hann inn í Borgarfjorð, ok sat þar hinn þriðja vetr, er síðan er kallat at Gufuskálum, en áin Gufá, er þar fellr í ofan, er hann hafði skip sitt í vm vetrinn.“
Heimild:
-Egils saga Skallagrímssonar, 1886, bls. 280.
Gufuskálar – Kóngsgarður.
Í verinu 1880 -´90
Strax á haustin var farið að búa út “færur” þeirra, er róa áttu í verunum, en færur var nefnt einu nafni allt það, sem vermaður þurfti að hafa að heiman, svo sem föt, gerðir skór, skinnklæði, ýmsir smámunir, sem búast mátti við, að ekki fengjust í verinu, eða væru dýrari þar, og verskrínan með smjöri, sem drepið var í annan enda, en “smálka” eða kæfu rennt í hinn. Færurnar voru svo sendar í verið, annaðhvort á haustin, eða um það bil að menn fóru til vers. Duglegir menn tóku þá að sér að flytja þær fyrir marga, voru það oft slæmar ferðir um hávetur, allt veglaust og býr engar. Ráku þeir hestana lausa til baka og voru þá kallaðir “heimrekstrarmenn”.
Herdísarvík – sjóbúðir.
Vermenn áttu að vera komnir í verin sunnudaginn fyrstan í góu. Var brottfarardagur vermanna allmikill alvörudagur á heimilunum. Öllum var ljóst, hve mikil hætta fylgir sjóróðrunum, en tilfinnanlegast var það vinum og vandamönnum. Þar að auki neyddust sumir til róðranna frá misjöfnum ástæðum heima fyrir.
Verbúðir, stundum nefndar sjóbúðir, voru útihús, stundum eitt sér, eða fleiri saman, veggir hlaðnir að innan úr grjóti og torfi eða grjóti eingöngu, en að utan úr grjóti og torfi eða sniddu. Veggjaþykkt við undirstöðu var um 2 ½ alin, en dróst að sér að utan, svo að veggir urðu að ofan 1 ½ alin á þykkt. Dyr voru jafnan á öðrum gafli, og kampur nokkru þykkri en veggir. Hæð veggja var um 2 ½ alin. Breidd búðanna var 5 álnir, en lengd þriggja eða fjögra rúma. Hæð frá gólfi til mæniáss var um 5 ½ alin, gólfbreidd 1 ½ alin. Oft voru gólfin flóruð með flötum steinum. Venjulega var haft ofurlítið niðurgengt í búðirnar, til að verjast gólfkulda.
Vermaður í sjóklæðum.
Í bilið milli hliðarveggja og stoða var hlaðinn grjótbálkur, um 18 þuml. á hæð, sem tók jafnlangt fram og stoðirnar. Dálítil hola var látin vera framan í bálkinn um miðju hvers rúmsstæðis. Bálkur þessi var botn rúmanna. Framan á allar stoðirnar við efri brún bálkans var slegið borðum, sem mynduðu rúmstokkana, svo langt sem venjuleg rúmbrík myndi hafa náð. Frá stoðunum og út í vegginn gengu fjalir, sem mynduðu rúmgaflana. Hurð á hjörum með lás og og loku var fyrir búðum að utanverðu. Dyraumbúningurinn var einungis þröskuldur og dyrastafir, sem greyptir voru í digurt þvertré að ofan, sem gekk út á kampana. Þverreft var yfir dyrnar.
Öllum verbúðum fylgdi smiðjukofi. Stóð hann við búðarhliðina eða ystu búðina, ef fleiri stóðu saman.
Um þetta bil voru skipin flest tírónir áttæringar, með 14 mönnum auk hálfdrættings, nokkrir sexæringar áttrónir með 10 mönnum, og örfáir teinæringar tólfrónir, með 16 mönnum.
Þegar vermenn komu til búa, lá fyrst fyrir að búa um sig. Hey, hálmur, hefilspænir eða marhálmur var látð í rúmstæðin, og lagði útgerðarmaður það til. Tveir og tveir skipverjar gerðust lagsmenn, bjuggu um sig og sváfu í sama rúmi, og ef hálfdrættingur var, þá var hann sá þriðji í einu rúminu. Létu þeir skrínur sínar efst við vegg í rúmin. Hver maður hafði eina rekkjuvoð og eitt brekán, flestir kodda og einstaka yfirsæng. Ígangsföt voru höfð að höfðalagi, og þar með var rúmið tilbúið.
Sjómenn með seilaðan fisk – Bjarni Jónsson.
Allir lágu andfætis og tóku sér rúm annaðhvort eftir samkomulagi eða fyrirsögn formanns. Þó svaf formaður jafan í ysta rúmi til vinstri handar, þá er í búðina var gengið, eða í þverrúmi,sem í sumum búðum var fyrir gaflinum, og kallað var “kórrúm”. Úr þessum stöðum mátti best sjá yfir alla búðina.
Skinnklæðin voru hengd á stoðirnar við höfðalögin, en skór og vettlingar um bríkurrimlana. Matvæli, sem eigi komust í skrínuna, svo sem hangikjöt, brauð og harðfiskur, voru hengd upp í rjáfrið.
Matvæli þau, sem vermenn áttu að hafa um vertíðina, voru nokkurnveginn fastákveðin, að minnsta kosti hvað þá snerti, er gerðir voru út af öðrum, svo sem vinnumanna og þeirra, er einstakir menn gerðu út.
Í verstöðvunum átti verðmaðurinn að hafa útgerð, ef vel átti að vera; í skrínu 3 fjórðunga af smjöri og 1 sauð, soðinn niður í smálka eða kæfu. Þetta var kölluð “mata”. Þar að aiki eitt sauðafall reykt, 5 fjórðunga af rúgi og 4 fjórðunga af harðfiski, auk skipulagsins, sem var 1 fjórðungur af harðfiski og 1 fjórðungur af rúgi. Ennfremur 2 pd. af kaffi, 2 pd. af kandíssykri og 1 pd. af kaffirót. Entist þetta ekki til loka, varð hlutaðeigandi að bæta við frá sjálfum sér.
Verbúð – málverk Bjarna Jónssonar.
Einstöku maður lauk mikils til of fljótt úr skrínu sinni, og var hann þá kallaður “mötustuttur”. Þar á móti voru aðrir, sem spörðuðu helst til mikið við sig, til þess að geta selt af mötunni, og þótti hvorutveggja heldur niðrandi.
Þjónustu og brauðgerð fengu vermenn ánæstu bæjum og guldur fyrir eftir samkomulagi.
Þegar ekki var róið, var máltíðum hagað eins og tíðkaðist heima fyrir, en daglegu lífi manna var þá þannig háttað, að hver sýslaði það, er hann vildi, ef ekki þurfti að starfa að skipi eða veiðarfærum. Sumir saumuðu skinnklæði, aðrir unnu úr hrosshári, sem haft var með að heiman, nokkrir fléttuðu reiptögl, hnappheldur eða brugðu gjarðir, hagir menn smíðuðu búsáhöld ýmislegt, klyfbera, lampa, kyrnur, hornspæni o.fl., sem lítið fór fyrir, því að þrengsli voru mikil.
Skemmtanir inni við voru helst sögusagnir, sögulestur og rímna kveðskapur, einnig gátur og “skanderingar” (að kveðast á) ennfremur spil, tafl, skák, “kotra”, “mylla”, og að “elta stelpu”.
Úti skemmtu menn sér við glímur, aflraunir og ýmsa leiki svo sem “höfrungahlaup”, “að ríða til páfans”, “járna pertu”, “sækja smér í strokk” o.fl. Var oft glatt á hjalla í landlegum í þá daga. Á hverju kvöldi var lesinn húslestur og sálmar sungnir hvernig sem á stóð, áður menn legðust til svefns.
Slokahraun – fiskigarðar.
Formaður leit til veðurs að morgni dags og ákvað hvort róið væri. Síðan var gengið til skips, stundum langan veg og þess gætt að formaður færi fyrstur. Hindraðist hann af einhverju á leiðinni, stönsuðu allir á meðan. Væri þess ekki gætt var það talið óhappamerki, en enn verra var, ef kvenmaður var á vegi skipshafnar. Þá var síst við góðu að búast þann róður; sjálfasagt “fýla”, bullandi barningur eða brotalág.
Þegar komið var á flot var farið með sjóferðabæn.
Í lendingu hlupu framámenn, sem voru skiphaldsmenn, útbyrðis og urðu að vera búnir að fóta sig áður en skipið tók niður af framan. Héldu þeir svo við svo skipinu á “kollubandinu”, sem fest var í mitt stefnið, svo að skipið gat hvorki farið upp eða út, var það oft hið mesta þrekvirki, því fyrir gata komið, að sjór gengi þeim um axlir og skipið tók ákaflega á. Formaðurinn einn, eða með örðum, hélt skipinu með stjaka í horfinu, eða að því slægi ekki til hliðar, á meðan aðrir seiluðu fiskinn, og þurfti það að gerast svo fljótt sem unnt var.
Ef ekki var róið aftur, var skipið sett upp fyrir flæðamál eða dregið upp á hlunnum. Hásetar báru fiskinn upp á skiptivöllinn. Formaður skipti í köst og voru tveir hásetar um eitt kast, hétu það hlutalagsmenn.
Grindavík – verbúð við Járngerðarstaði; uppdráttur.
Þar sem færi voru notuð, var næstum ekki öðru skipt en þorski, hitt voru “happadrættir”, eign þeirra, er þá drógu, t.d. keila, steinbítur, ufsi, karfi og jafnvel ýsa, ennfremur sporður, hryggur, haus og rafabelti af flakandi lúðu, sköturassar og hrognið úr löngunni (lönguskjaldið). Þetta dró drjúgum góða fiskimenn, enda var það kölluð “hlutabótin”. Ennfremur tók skipeigandi 1 besta fiskinn úr hverjum róðri af óskiptu, ef segl voru notuð í róðrinum. Hét það seglfiskur. Drykkjarfisk var þá hætt að taka á sama hátt fyrir að fá sér færðan drykk að skipi, er komið var að.
Útgerðarmaður tók 3 hluti, 2 fyrir skipið með áhöldum, búðar- og byrkisleigu, uppsátur og færi, – öngul og sökku lögðu hásetar sér til – og 1 fyrir “tilögurnar”, en það voru skipulag, sýra lifurílát, seilar- og byrðarólar, sjóskóþvengir, skinnstakksvindingur, bróklindi og baggaband, auk þess var glaðning á sumardaginn fyrsta nokkurskonar skylduskattur á útgerðarmann.
Ef einhver skipverji veiktist, var honum gefinn hlutur og jafnvel þótt hann lægi alla vertíðina.
Verbúðir – Bjarni Jónsson.
Þegar búið var að “gera að” fiskinum, var hann þakinn grjótbyrgi, eða lagður í “kös”, ef gera átti hann að harðfiski. Þorskhausar voru þvegnir, helst upp úr sjó, þóttu þá “renna” fremur, síðan ýmist raðað hverjum við annan með munnana upp, “skrúfað”, eða hver látinn sér “trantað” á steina. Þegar þeir höfðu þornað nokkuð, voru þeir klofnir upp og lagðir í hlaða.
Í “kös” gat fiskur haldist mjög lengi óskemmdur, hvernig sem viðraði, ef vel var kasað, svo að vatn gæti hvergi staðið á fiskinum. Flattur fiskurinn var lagður saman þannig í lítinn hring, að sporðar komu saman, og utanyfir var lögð önnur röð og tóku sporðar hennar upp á hina miðja og svo koll af kolli eftir rúmi og þörfum, kösin þurfti helst að vera í sléttum halla.
Fiskgarðar í Slokahrauni.
Þegar fiskurinn var tekinn úr kösinni og breiddur upp, venjulega á lága grjótgarða (vergögnin) reið mjög á því, að frostlaus þerrir héldist næstu daga, svo að fiskurinn næði að þorna að utan (skelja). Ef það heppnaðist, var fiskurinn venjulega úr allri hættu, varð hlaðatækur, og með góðri hirðu bestan vara, hvort sem vildi til kaupstaðar eða matar.
Ef illa vildi til og fiskurinn fékk ekki þurrk strax eftir uppbreiðslu, slepjaði hann og varð “maltur”, en meltingur sá þótti fáum góður matur og var öldungis óhæf verslunarvara. Ef fiskurinn fraus í herslunni, varð hann að vísu ágæt matvara, en gekk ekki í kaupstað. Væri hann breiddur upp nýr og þornaði án þess að frjósa, varð hann “ólseigur” og illur til átu, en ágæt kaupstaðavara.
Selatangar – þurrkbyrgi.
Að hirða vel um afla sinn og “bösl” – svo voru sjóklæðin í heild sinni kölluð – tók allmikinn tíma í landlegum, og ef róið var alla vikuna, varð að nota sunnudaginn til þess. Þá tíðkuðust ekki helgidagaróðrar.
Lífið í verbúðunum var furðulega skemmtilegt, þegar þess er gætt, að svo að segja öll þægindi, sem menn voru vanir heima, skorti, enginn stóll, ekkrt borð, ekkert matarílát nema vasahnífurinn og eitt bollapar eða krukka til að drekka kaffið úr, þrengsli mikil, þegar 2 menn og stundum 3, með hálfdrætting, urðu að sofa og vinna allt, sem unnið var, innan búðar á sama rúminu, blaut og grútug skinnklæðiin hangandi á hverri stoð við höfðalögin, skór og vettlingar á bríkarrimlum og rottur hlaupandi út og inn um veggjarholurnar. En í verinu var ofurlítið meira frjálsræði en heima, og því hafa Íslendingar unnað frá öndverðu.
Sjómenn frá Stóru-Vatnsleysu.
Á lokadaginn 11. maí á hádegi, voru menn lausir úr skipsrúmi og bjuggust til heimferðar. Sammældu sig oft margir, er samleið áttu, og voru þá kallaðir “heimgöngumenn”.
Heimkoman var sannalega fagnaðarfundur, er allt hafði gengið slysalaust, og afli sæmilegur, en ástvinir og vandamenn svo sem úr helju heimtir. Öðru máli var að gegna á þeim heimilum, þar sem unnustinn, sonurinn, faðirinn eða eiginmaðurinn var ekki í flokki heimgöngumanna – sem því miður bar oft við – þá skerandi sorg, sem á þeim heimilum ríkti, getur enginn þekkt nema guð einn og þeir, sem hana reyndu.
Heimildir:
-Oddur Oddsson – Sagnir og þjóðhættir – 1941.
-Málverk eftir Bjarna Jónsson.
Sjóbúð á Selatöngum.
Mosfellssveit – landnám
Í bókinni Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, er m.a. fjallað um landnám í Mosfellsveit. Þar segir um landnámsmennina: „Landnámabók (Landnáma) greinir frá því að liðlega 400 nafngreindar fjölskyldur, ásamt vinnufólki, þrælum og búpeningi, hafi numið land á Íslandi á árunum eftir 870.
Landnám Ingólfs Arnarssonar náði frá Hvalfjarðarbotni, suður um Þingvallavatn og austur að Ölfusi og öll nes út. Hann byggði bæ sinn í Reykjavík.
Í Sturlubók Landnámu er landnámi í Mosfellssveit lýst þannig: „Þórðr skeggi hét maðr. Hann var sonr Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórðr átti Vilborgu Ósvaldsdóttur. Helga hét dóttir þeirra. Hann átti Ketilbjörn hinn gamli.
Þórðr fór til Íslands ok nam land með ráði Ingólfs í hans landnámi á milli Úlfarsár ok Leiruvágs. Hann bjó á Skeggjastöðum. Frá Þórði er margt stórmenni komit á Íslandi.“ Þórður og Vilborg gætu hafa komið frá Englandi eða víkingabyggðum á Íralandi en Vilborg er sögð dóttir Úlfrúnar hinnar óbornu sem var dóttir Játvarðar Englakonungs.
Áður en Þórður og Vilborg settust að í Mosfellssveit bjuggu þau á Bæ í Lóni, skammt austan Hornafjarðar [líkt og landnámsmaður Grindavíkur 60 árum áður, Molda-Gnúpur Hrólfsson].
Í Hauksbók Landnámu segir af þeim hjónum: „Þórðr byggði fyrst í Lóni austr tíu vetr eða fimmtán; en er hann frá til öndvegissúlna sinna í Leirvági, þá seldi hann lönd sín Úlfljóti; … En hann fór vestr með allt sitt ok nam land at ráði Ingólfs millum Úlfarsár og Leirvágsár ok bjó síðan á Skeggjastöðum. Hans dóttir var Helga, er átti Ketilbjörn hinn gamla at Mosfelli.“
[Í ljósi sögunnar um Helgufoss, Helgusel og Helgustein er ekki óraunhæft að ætla að nafngiftin tengist dóttur landnámsmannsins, enda selstaðan landfræðilega eðlileg frá Skeggjastöðum þótt hún hafði síðar tilheyrt Mosfelli.]
Talið er að þau Þórður og Vilborg hafi komið í Lón um 890 og gætu því hafa verið í Mosfellssveit um 900 eða laust eftir það.
Ættingjar Þórðar skeggja bjuggu í næsta nágrenni við hann. Helgi bjóla nam land á Kjalarnesi frá Mógilsá og var kvæntur Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar, en Helgi og Þórður voru bræðrasynir. Örlygur gamli Hrappsson, bróðir Þórðar, fékk hluta af landnámi Helga bjólu og settist að á Esjubergi á Kjalarnesi þar sem hann byggði fyrstu kirkju á Íslandi eftir því sem Landnáma hermir. Þriðji frændi Þórðar var Hallur goðlausi sem fékk land frá Leirvogsá og að Mógilsá í Kollafirði, Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar og þar með frændi Þórðar skeggja, fékk landið þar sem síðar varð Bessastaðahreppur, Garðbær og Hafnarfjörður.
Vestan við landnám Þórðar skeggja er Gufunes sem var hluti af Mosfellssveit fram á 20. öld. Í einni gerð Landnámabókar er getið um Gufu Ketilsson sem vildi reisa þar bæ en Ingólfur Arnarson rak hann þaðan á brott. Ljóst er að bæjarnafnið Gufunes er ævafornt.
Ritheimildir greina ekki frá því hvernig Mosfellssveit byggðist, utan þess sem sagt er um landnámsfólkið á Skeggjastöðum.
Við landnám var Ísland viði vaxið frá fjöru til fjalls. Af þeim sökum var auðveldara að nýta landið til beitar við efri skógarmörk en nær sjó og upphaf byggðar í landinu [er því] að jafnaði frekar til fjalla en við sjávarsíðuna: „Sumir þeir, er fyrstir kómu út, byggðu næstir fjöllum ok merktu at því landskostina, at kvikfét fýstisk frá sjónum til fjallanna.“
Bær Þórðar og Vilborgar, Skeggjastaðir, stóð í norðausturjaðri landnámsins, skammt sunnan Leirvogsár þar sem bæði var lax- og silungsveiði. Bærinn komst fljótt í þjóðbraut því reiðleiðin yfir Svínaskarð liggur framhjá Skeggjastöðum og svonefndur Stardalsvegur yfir Mosfellsheiði lá um bæjarhlaðið.
Landnáma greinir frá fjölmörgum dæmum um landnámsmenn sem reistu bæi sem urðu engin stórbýli, jafnvel þvert á móti. Þannig var því farið með Skeggjastaði, lítið fer fyrir landnámsjörð Mosfellinga í heimildum frá miðöldum, hennar er þó getið í skrá yfir jarðir sem komust undir Viðeyjarklaustur árið 1395 og þá sögð vera 12 hundruð. Hins vegar er ekki minst á Skeggjastaði í upptakningu konungsjarða í Mosfellssveit í svonefndum Fógetareikningum frá miðri 16. öld. Getið eru um Skeggjastaði í Jarðabók 1704 þar sem lýst er Minna-Mosfelli. Þar segir að „selstaða var áður brúkuð frí þar sem nú eru Skeggjastaðir.“
Þórður skeggi og Vilborg eignuðust þrjár dætur, Helgu, Þuríði og Arndísi. Helgu og Þuríðar er getið í Landnámu og Arndísar í Kjalnesinga sögu. Þessar landnámsdætur settust ekki að í Mosfellssveit, þær fluttu með mönnum sínum í aðrar sveitir, á Kjalarnes, í Biskupstungur og Goðdali. Arndís giftist t.a.m. Þorgrími Helgasyni bjólu frá Brautarholti og bjuggu þau í Hofi á Kjalaranesi. Þau eignuðust soninn Búa og er hann ein aðalpersónan í Kjalnesinga sögu.“
Heimild:
-Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, Pjaxi 2005, bls. 13-15.
Trantar – Hattur – Kvennagöngubásar
Gengið var frá Ísólfsskála inn á Skollahraun, litið á hlaðnar refagildrur á tveimur stöðum í hrauninu sem og byrgi refaskyttu og ströndinni síðan fylgt um Tranta og Hattvík inn í Kvennagöngubása þar sem kvenfólk baðaði sig fyrrum. Þar átti að vera „brimketill“, sem fáir hafa augum litið. Hið formfagra Hraunsnes var skammt utar. Ætlunin var að skoða það sem og Veiðibjöllunefið (Vondanef), samhangandi, vestan Mölvíkur.
Í örnefnalýsingu af Ísólfsskála (einni af fjórum) segir Guðmundur Guðmundsson, bóndi þar, m.a. frá þessu landssvæði að austanverðu: „Mölvík er vík þessi er með möl í botni. Þá tekur við berg með sjó, sem heitir ekki sérstakt, það er 1-2 mannhæðir, en svo ganga inn í það vik, básar og víkur. Þar vestar er svo Vondanef, og vestur og fram af því er Veiðibjöllunef. Þar hækkar hraunið og breytir um svip. Austar er það lágt og nokkuð sandborið. Þar vestar er bás, sem heitir Heimastibás. Hraun er þar vestur með, þar til kemur nafnlaus bás, svo er Rangagjögur. Austur og upp af honum er hóll, sem heitir Hattur. Enn vestar er hraun fram á kamb. Þar vestar er hraun fram á kamb. Þar vestar er vík, sem heitir Hattvík. Vestan við Hattvík tekur við skerjagarður, sem brýtur á um flóð, og heitir hann Trantar. Þar vestur af er sker, sem heitir Gvendarsker. Milli Tranta og Gvendarskers er mjó vör, sem breikkar þegar inn kemur, og heitir hún Gvendarvör. Upp af Gvendarvör er hóll, sem heitir Nótarhóll.“
Ísólfur Guðmundsson, sonur hans, upplýsti nánar um einstök örnefndi, s.s.: „Veiðibjöllunef: Þegar mikið var um loðnu í Mölvík, sat veiðibjallan mikið á nefinu. Rangagjögur er dálítíð fyrir austan Ísólfsskála. Þetta er sprunga, sem liggur frá suðri til norðurs og frá austri til vesturs, liggur í kross. Þetta er stór og mikil gjá, sem sjórinn gengur í. Hattur er klettur uppí á hraunínu, og er gras á honum. Trantar eru austan við Gvendarvör. Hraun hefur runnið fram í sjó, en klettadrangar standa upp úr.“
Loftur Jónsson skráði sömu örnefni skv. eftirfarandi: „Austan Tranta er Hattvík, smámalarvík. Rangagjögur er lón inn í landið og fellur sjórinn um rifna klöpp. Þar austur af er klettur upp á kampinum með grastó í toppinn sem heitir Hattur. Þar austur af er smábás sem heitir Skálabás. Þar austur af er hraunnef í sjó fram og austur af því eru Kvennagöngubásar. Heimastibás er vestasti básinn. Hraunsnes skagar í sjó fram þar fyrir austan. Þar er talið hálfnuð leið frá Ísólfsskála að Selatöngum en þessi leið er talin um það bil klukkustundar gangur. Veiðibjöllunef, öðru nafni Vondanef , er þar fyrir austan og er það í vesturmörkum á Mölvík.“
Ísólfur Guðmundsson svaraði svo spurningu um Kvennagöngubásana með eftirfarandi hætti. „Er nokkuð vitað um tilefni nafnsins Kvennagöngubásar? Sv.: Þar var kvenfólk sagt baða sig.“
Um vestanvert svæðið segir m.a. í örnefnalýsingum um Nótarhól; „Á Nótarhól var byrgi. Fram af Nótarhól var annar hóll með sama nafni. En hann er nú horfinn í sjó.“ Jafnframt; „Nótarhóll er hóll upp af Gvendarvör, vestan við hraunið. Nótarhóll dregur nafn af því að dregið var fyrir sel í Gvendarvör og nótin síðan geymd á hólnum.
Norðvestur af Nótarhól er smágerði sem kallað er Hestagerði. Í fjörinni austur af Nótarhól eru tveir svartir klettar sem heita Svörtuklettar. Niður undan túninu er legan og ströndin kölluð Bót.“
Staðreyndin er hins vegar sú að innan við Nótarhól eru einar mestu verminjar á Reykjanesskaganum.
Nótarhóll – fiskbyrgi og þurrkgarðar.
Sem fyrr segir voru refagildrurnar í vestanverðu Skollahrauni fyrst barðar augum. Sú syðri er öllu heillegri. Fallhellan er þar enn og skammt suðvestar er byrgi refaskyttu. Mikið var um spor eftir refi í þunnföllnum snjónum. Sporin voru nánast öll frá því kvöldið áður svo líklegt má telja að þar hafi nokkrir refir verið á ferð í leit að æti. Í holu skammt ofan við ströndina hafði dauð æðarkolla verið dregin og verkhafi þegar búinn að éta af henni hausinn og öll bitastæðustu innyfli.
Hattur er áberandi kennileiti í sunnanverðu hrauninu, „skammt ofan strandar“. Neðan undir honum er Hattvíkin. Skammt ofan hennar er mosavaxinn hraunhóll. í honum norðanverðum er hlaðið hús, sem nú eru leifar þess. Líklega er hér um að ræða hluta af Nótarhólsminjunum, sem síðar verður vikið að.
Utar bar merkileg sjávarásýnd auga. Þegar létt alda barst að landi lyfti hún sér skyndlega á tilteknum stað utan við ströndina, líkt og hún vildi rísa hátt úr sæ, en tókst það aldrei alveg. Líklega eru þarna drangar í sjónum er lyfta öldunni með þessum áhrifaríka hætti. Jón Guðmundsson frá Skála, lýsti einmitt svæðinu sem slíku í viðtali við FERLIR fyrir nokkrum árum. Sagði hann fiskinn laðast að dröngum þessum og þar hefði lóðningar jafnan bæði verið bestar og vísastar.
Ströndinni var fylgt til austurs með það að markmiði að leita brimketilsins við Kvennagöngubása. Fljótlega kom „Rásin“ í ljós og utar á básunum mátti berja brimketilinn auga. Um er að ræða merkilegt náttúrufyrirbæri. Hann er mun stærri en nafni hans á vestar á Reykjanesskaganum, en bæði dýpri og tilkomumeiri. Í góðu veðri, eftir nokkra sólskinsdaga, hefur þar verið hinn ákjósanlegasti baðstaður. Dýpið er mest um 2 metrar og botninn bæði sléttur og þægilegur. Óvíða er betra útsýni yfir Ægisásýndina í allri sinni dýrð.
Haldið var yfir að Hraunsnesi, þeim einstaka stað frá náttúrunnar hendi. Á tiltölulega litlu svæði í hrauninu hafa myndast sérstæðar hraunstrýtur, líkt og í Katlahrauni vestan við Selatanga. Hraun hefur runnið þarna í sjó og náð að mynda þak á hraunelfuna, sem síðan hefur fallið niður, en skilið strýturnar eftir sem augnayndi.
Gengið var yfir að Veiðibjöllunefi með útsýni yfir Mölvíkina. Handan hennar mátti sjá heim að Selatöngum. Eftir að hafa dást að hinu tilkomumikla útsýni austur með ströndinni var hún fetuð sléttfeld til vesturs. Komið var m.a. að sjávarhelli og einstakri ásýnd á Hraunsnesdrangana inn til landsins. Gengið var á millum þeirra og slóði síðan rakinn framhjá Hatti og yfir að Nótarhól.
Austan og norðaustan við Nótarhól er eitt margflóknasta „hraungarðakerfi“ er um getur hér á landi. Garðarnir voru að sjálfsögðu notaðir sem þurrkgarðar á tímum fiskhersluvinnslunnar. Skálholt hafði þarna útræði um tíma, líkt og á Selatöngum og á Þórkötlustaðanesi (Strýthólahrauni), en eftir að það lagðist af á 18. öld tóku heimamenn við mannvirkjunum og nýttu þau fram til loka 19. aldar.
Komið var við í Bótinni, sem Jón Guðmundsson nefndi gjarnan Börubót. Ástæðan var sú að ef ekki var hægt að lenda í Gvendarvör skammt austar, var lent í Bótinni. Þá þurfti að bera fiskinn á börum yfir að Nótarhól og gera að honum þar. Gvendarvör er sunnan af og á millum Nótarhóls og Bótarinnar.
Í óveðrinu s.l. vetur hefur Bótin gengið a.m.k. 10 metra inn á kampinn og sent grjót langt inn á túnsléttur Skálans. Það mun því verða eitt af verkefnum eigendanna n.k. vor að „túnhreinsa“ líkt og gert hefur verið á sjárvarjörðum Grindvíkinga um aldir.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Ísólfsskála – GG, LJ og ÍG
Guðnahellir – útilegumannahellir
Í Sögu Mosfellsbæjar er m.a. fjallað um útilegumenn í Mosfellssveit. Þar segir m.a. frá Guðnahelli í Illaklifi.
„Þess voru dæmi að fólk yfirgaf mannlegt samfélag og varð útilegumenn sem héldu sig gjarnan nærri mannbyggð. Árið 1677 segir í Hestaannál frá ókyrrleika af stuldi og ráni víða um land. „Urðu menn þá varir og vísir, að þjófar lágu á fjöllum uppi, og drápu naut og sauði sér til matar.“ Ári síðar fundust Eyvindur Jónsson og Margrét Símonardóttir „við helli í Mosfellsheiði fyrir ofan Mosfellssveit og lifðu við Kvikfjárstuld, “ segir í Setbergsannál. Í Alþingisbókum segir að þau hafi fundist í einum helli suður undir Örfiriseyjarseli í Kjalarnesþingi og tekin þar með þýfi af nautakjöti og öðrum hlutum. Ekki er vitað hvar bólstaður þeirra var nákvæmlega en lítið er um hella í Mosfellsheiði sem nýta mátti sem mannabústaði. Helst hafa menn getið sér þess til að útlagaranir hafi búið í hellisskúta undir Illaklifi sunnan við Leirvogsvatn. Hellirinn er um sjö metrar að lengd, fimm á breidd og lofthæð er víða um tveir metrar. Hann hefur í seinni tíð verið nefndur Guðnahellir eftir Guðna Bjarnasyni refaskyttu á Harðastöðum sem hefur legið þar á greni.
Heimild:
-Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, Pjaxi 2005, bls. 98.
Guðnahellir.