Saga Elliðavatnsbæjarins er áhugaverð og samofin sögu Reykjavíkurborgar og þeim breytingum sem orðið hafa á síðustu öldum.
Fyrstu heimildir um Elliðavatnsjörðina finnast í máldaga frá 1234 en þar segir að Viðeyjarklaustur eigi Elliðavatnið hálft. Við siðaskipti varð jörðin konungseign en ekki fer miklum sögum af jörðinni þar til Innréttingar taka til starfa í Reykjavík upp úr miðri 18. öld. Eitt helsta verkefni þessa fyrirtækis var ullarvinnsla. Ákveðið var árið 1756 að stofna fjárræktarbú á Elliðavatni fyrst og fremst til að bæta þar með kynbótum þá ull, sem yrði tekin til vinnslu, en jafnframt til að tryggja fyrirtækinu næg verkefnið. Til kynbóta voru fluttir inn hrútar af enskum stofni. Sænskur maður, Hastfer barón, mikill áhugamaður um kynbætur sauðfjár rak þetta fyrirtæki fyrst í stað, en fjárbú Innréttinganna var aftur stofnað í Helliskoti þarna skammt frá árið 1757. Á ýmsu gekk með reksturinn; svo virðist þó brátt, að allt mundi fara skaplega, en þá dundi ólánið yfir. Í búinu kom upp veiki í sauðfénu, aðallega fjárkláði, sem breiddist út með miklum hraða, þannig að ekkert fékkst við ráðið. Um 1760 var sauðfjáreign landsmanna talin nálægt 360 þúsund, en 1770 var hún komin niður í um það bil 140 þúsund. Þetta er talið eitt mesta áfall, sem íslenskur landbúnaður hefur nokkur sinni orðið fyrir. Það er nokkuð sjálfgert að sögu fjárræktarbúsins á Elliðavatni var nú lokið. Var það formlega lagt niður 1764. Árið 1815 var jörðin seld eins og fjöldi konungsjarða þá um mundir.
Árið 1860 eignast Benedikt Sveinsson alþingismaður og yfirdómari í Landsyfirrétti jörðina og flutti þangað ásamt fjölskyldu sinni árið eftir. Þann 30. október 1864 fæddist sonur Benedikts og Katrínar konu hans, þjóðskáldið Einar Benediksson.
Benedikt hóf mikil umsvif á Elliðavatni; búskapur var þar fyrst í stað mikill, vinnufólk 11, en auk þess bætt við um sláttinn. Hann ákvað að ráðast í geysimiklar áveituframkvæmdir, réð tugi manna til að gera um eins km langan stíflugarð yfir Dimmu og Bugðu (nokkurn veginn þar sem stífla Rafmagnsveitunnar er nú). Með þessari áveitu á Elliðavatnsengin sem átti að ná yfir 200 ha lands, átti að vera unnt að margfalda heyfenginn. Svo fór þó að draumar Benedikts um að gera Elliðavatn að mestu bújörð á Íslandi vildu lítt rætast. Búskapur gekk saman og Benedikt hvarf úr embætti yfirdómara og fluttist norður að Héðinsflóa sem sýslumaður Þingeyinga.
Benedikt var mikill áhugamaður um byggingu steinhúsa, enda af sumum talinn sjúklega eldhræddur. Hann réðst í það að láta reisa steinhús á Elliðavatni úr hlöðnu grjóti. Hefur það nú um skeið verið notað sem hlaða. Þegar Benedikt var kominn í andstöðu við yfirvöldin hugðist hann stofna án tilskilins leyfis prentsmiðju á Elliðavatni, en næsta lítið varð úr því fyrirtæki. Var rekstur stöðvaður þegar í byrjun. Aðeins tveir ritlingar voru prentaðir þar og var Jón Ólafsson höfundur beggja.
Elliðavatn og Heiðmörk hafa af og til komist í kastljós fjölmiðla. Skógareldar hafa komið upp, óáran geisað og leyfislausar framkvæmdir hafa leikið hið friðaða svæði grátt.
Á árunum 1923, 1927 og 1928 eignaðist Rafmagnsveit Reykjavíkur Elliðavatn. Var jörðin keypt í sambandi við raforkuvinnslu, sem hófst við Elliðaárnar árið 1921. Búskapur var stundaður með hefðbundnum hætti þar til 1941, en þá tók þar til starfa vistheimili fyrir geðsjúklinga, og starfaði það um alllangt skeið. Að því kom að vistheimilið var lagt niður og búskap með öllu hætt. Árið 1963 var samið um það við Skógræktarfélag Reykjavíkur, að það skyldi fá jörðina til varðveislu, frá 1964 var bærinn aðsetur starfsmanns félagsins sem hafði eftirlit með Heiðmörk. Árið 2004 flutti Skógræktarfélag alla starfsemi sína í Heiðmörk og er bærinn nú notaður undir skrifstofur félagsins.
Saga Heiðmerkur er einnig áhugaverð fyrir margra hluta sakir en hún segir einnig sögu vaxandi byggðarlags í nágrenni svæðisins. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur frá upphafi sinnt svæðinu sem var friðað 1950. Gróðursetning hefur verið í höndum starfsmanna félagsins, fjölmargra landnema en einnig hefur Vinnuskóli Reykjavíkur unnið ómetanlegt starf á svæðinu, en ungingar á þeirra vegum eru enn við störf á svæðinu að sumarlagi. Í dag einbeita starfsmenn sér í auknum mæli að grisjun þó svo að gróðursetning haldi áfram. Hafa ýmsir lagt þar hönd á plóginn, nú síðast Kópavogsbær.
Sigurður Guðmundsson málari hafi hug á því þegar árið 1870 að gera Heiðmörk að útivistarsvæði fyrir Reykvíkinga, en það mál varð ekki að veruleika fyrr en u.þ.b. 70 árum síðar þegar Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, var í reiðtúr um Heiðmörkina þann 16. júní 1935. Erindi hans var að skoða þar kjarrleifar og gróður er leyndust milli hrauna og meðfram Hjöllunum þar sem Vatnsendaborgin trjónir fagurlega enn þann dag í dag.
Eftir þessa ferð kom Hákon fram með hugmynd um friðland og útivistarsvæði fyrir borgarbúa og verndun þeirra kjarrleifa á þessu svæði í grein sem hann skrifaði í ársrit Skógræktarfélags Íslands 1936 og nefndist: „Frá ferðum mínum sumarið 1935.“
Upp úr þessu tóku að þróast í einstökum atriðum hugmyndir um útivistarsvæði Reykvíkinga austan og sunnan Elliðavatns.
Árið 1941 gaf Skógræktarfélag Íslands út bækling, sem nefndist Friðland Reykvíkinga ofan Elliðavatns. Þar var birtur ýmis fróðleikur um svæðið og skýrt frá frumkvæði félagsins í þessum málum.
Nafnið Heiðmörk var fyrst sett fram í útvarpsþætti sem félagið stóð að til kynningar á hugmyndinni, vorið 1941 og var það prófessor Sigurður Nordal sem það gerði. Árið 1946 var Skógræktarfélag Íslands gert að landsambandi skógræktarmanna og var þá stofnað nýtt félag, Skógræktarfélag Reykjavíkur sem tók það við ýmsu sem Skógræktarfélag Íslands hafði unnið að, þar með talið hugmyndinni að stofnun Heiðmerkur. hefur félagið síðan haft umsjón með og annast framkvæmdir á svæðinu samkvæmt samningi sem gerður var við bæjarstjórn Reykjavíkur þann 3. mars 1949.
Fyrsta gróðursetningin fór fram árið 1949 en þá fóru nokkrir starfsmenn félagsins á hestum með plöntur og verkfæri og gróðursettu um 5000 plöntur. Voru það, skógarfura, rauðgreni og sitkagreni og nefnist þessi lundur Undanfari.
Sama ár var lokið við að girða 1350 hektara. Nú var verkið svo vel á veg komið að tímabært var að vígja það formlega. Það gerði þá verandi borgarstjóri Gunnar Thoroddsen á vígsluhátíð sem haldin var sunnudaginn 25. júní 1950, með því að gróðursetja sitkagreniplöntu á svokallaðri Vígsluflöt.
Fljótlega fór að vakna áhugi fyrir stækkun friðlandsins. Það er svo á árunum 1957 – 58 að suðurhluti núverandi Heiðmerkur er girtur, er það svæði úr landi Garðakirkju og Vífilsstaða. Við það stækkaði friðlandið í 2500 hektara. Það er svo árið 1963 Þegar Skógræktarfélag Reykjavíkur gerir samning um varðveislu Elliðavatnslands að girðingin er færð norður fyrir Rauðhóla. Við það stækkaði Heiðmörk í 2800 hektara og er það í dag að undanskildum þeim svæðum sem Orkuveita Reykjavíkur hefur girt af vegna nálægðar við brunnsvæði.
Árið 1956 hófu unglingar á vegum Vinnuskóla Reykjavíkur störf á Heiðmörk og hafa þeir unnið í um 2 mánuði á hverju ári, frá 100 og upp í 450. Þessir unglingar hafa unnið stórvirki í skógrækt, göngustígagerð o.fl. og má segja að Heiðmörk sé talandi dæmi um hverju unglingastarf getur skilað. Einnig ber að geta þess að mikið hefur verið gróðursett fyrir gjafafé frá fyrirtækjum og stofnunum og frá einstaklingum sem gefið hafa fé til minningar um nákomna.
Jörðin Elliðavatn var löngum ein sú þekktasta í nágrenni Reykjavíkur og höfðingjasetur á tímabili. Bæjarstæðið er glæsilegt, en umhverfið gerbreyttist þegar stíflað var vegna vatnsmiðlunar 1924. Þá stækkaði vatnið um helming, en hinar frægu Elliðavatnsengjar hurfu. Á þeim tíma stóð enginn styr um þessar umhverfisbreytingar.
Í Reykjavík og næsta nágrenni hafa eðlilega orðið stórfelldar umhverfisbreytingar; það fylgir því að byggja borg. Einhverjar mestu umhverfisbreytingar í borgarlandinu hafa orðið við Elliðavatn, en ekki vegna bygginga. Jafnframt er bújörðin Elliðavatn ekki til lengur, hún er orðin hluti af friðlandinu í Heiðmörk.
Flest nútímafólk hefur enga hugmynd um þær umhverfisbreytingar sem orðið hafa á bökkum Elliðavatns, eða hvernig vatnið leit út á fyrsta fjórðungi 20. aldarinnar. Því þarf að minnsta kosti ekki að lýsa fyrir fólki sem þekkir til á höfuðborgarsvæðinu að vatnið, sem bezt sést af hæðunum ofan við Vatnsenda, er mikil umhverfisprýði og náttúruperla. Ef nauðsynlegt yrði talið að minnka vatnið verulega vegna einhverra framkvæmda er hætt við að rekið yrði upp ramakvein. Vonandi kemur aldrei til þess. En í ljósi alls þess sem búið er að segja og skrifa um uppistöðulón á hálendinu er hins vegar er ekki úr vegi að minnast þess að í aldanna rás og allt fram til 1924 var Elliðavatn miklu minna. Raunar voru vötnin tvö en tveir mjóir álar tengdu þau saman eins og sést á korti frá árinu 1916. Vestara vatnið var kennt við Vatnsenda, en það eystra var nefnt Vatnsvatn, kennt við bæinn á Elliðavatni, eða á Vatni eins og sagt var.
Ásamt með beitarlandinu uppi á Elliðavatnsheiði voru víðáttumiklar og grasgefnar engjar beztu hlunnindi jarðarinnar á Vatni. Túnið var alltaf lítið, en hafi Elliðavatnsbændur náð í starung á engjunum; sem ekki er ólíklegt, þá var hann kúgæft hey og þótti geysileg búbót. Lítið eitt vestan við miðju vatnsins eins og það er nú var allstór eyja sem skildi vötnin nánast að. Úr vestara vatninu rann áin Dimma allar götur niður að brúnni við núverandi Seláshverfi. Þar rann í hana áin Bugða, en svo heitir neðsti og vestasti hluti Hólmsár. Tvö læmi tengdu þó árnar saman við hólinn Skyggni, skammt frá stíflunni sem síðar kom.
Hvað hefur eiginlega gerzt sem haft hefur í för með sér svo róttækar breytingar á umhverfi Elliðavatns? Ekki annað en það, að á árunum 1923-1928 eignaðist Rafmagnsveita Reykjavíkur jörðina Elliðavatn og 1924 var ráðizt í vatnsmiðlun með stíflu sem síðar var tvívegis hækkuð og flestir þekkja þessa stíflu núna. Við stíflugerðina hefur vatnsborð Elliðavatns hækkað hvorki meira né minna en um heilan metra og vatnið hefur stækkað um það bil um helming. Eyjan út af Þingnesi fór að stórum hluta í kaf, svo og hinar rómuðu Elliðavatnsengjar.
Starungur er að vísu ekki lengur eftirsóttur heyfengur og engjaheyskapur allur aflagður fyrir löngu, svo segja má að ekki hafi stór skaði verið skeður. En það er annað þessu tengt sem nútíminn telur verðmæti: Votlendi. Hér var sökkt stórum flæmum votlendis þar sem án efa hefur verið fjölskrúðugt fuglalíf.
Ekki verður séð að því hafi verið mótmælt árið 1924, eða að tilfinning hafi verið fyrir því að þarna væri verið að vinna náttúruspjöll. En var það svo?
Um það má ugglaust deila, en ljóst er að Elliðavatn, þessi náttúruperla við útmörk höfuðborgarsvæðisins, er að stórum hluta uppistöðulón. Því er á það bent, að í hita undangenginnar umræðu um virkjanir á hálendinu hafa öfgamenn haldið ákaflega fram þeirri skoðun að öll uppistöðulón séu beinlínis ljót. Að sjálfsögðu var skaði að missa votlendið. En í staðinn höfum við fengið stærra og fegurra Elliðavatn.
Í umhverfi Elliðavatns er víðast hvar fagurt um að litast og bærinn sem ber nafn af vatninu var byggður á fallegum stað á nesi sem skagar út í vatnið frá austri. Kvöldfegurð á Vatni er við brugðið; útsýnið fyrst og fremst yfir vatnið og til hæðanna ofan við Vatnsenda. Nú klæðir skógur baklandið; hlíðar Heiðmerkur sem búið var að ganga svo nærri með ofbeit að uppblástur var næsta þróunarskref. Þar er ævintýri líkast um að ganga og víða frábært útsýni yfir það land sem fyrrum tilheyrði jörðinni Elliðavatni, en var þó aldrei stórt. Vatnsendaland var mun stærra og Hólmsland var það einnig; það náði allar götur upp í Bláfjöll, sunnan við Elliðavatnsland.
Allt er þetta umhverfi mikilfenglegt, en einhver fegursti reiturinn er við smærri vötnin norðaustur og austur af Elliðavatnsbænum: hjá Helluvatni, Hrauntúnstjörn og Kirkjuhólmatjörn. Þessi undrafögru smávötn sjást þegar ekið er sem leið liggur að Elliðavatni framhjá Rauðhólunum. Vegurinn liggur á brú yfirálinn úr Helluvatni og áfram upp í Heiðmörk, en afleggjari er heim að Elliðavatnsbænum. Stöldrum aðeins við þarna áður en lengra er haldið..
Norðan við Helluvatn eru nokkrir lágir gjallhólar af sama uppruna og Rauðhólarnir, en óskemmdir, og verður þetta umhverfi ævintýralega fallegt í lok júnímánaðar þegar lúpínan, sem þar er útbreidd, blómstrar og breiðir bláan lit yfir umhverfi tjarnanna.
Rauðhólarnir urðu til fyrir 4.600 árum þegar glóandi og þunnfljótandi hraunstraumur rann úr eldstöðinni Leiti í Svínahrauni og fylgdi nokkurn veginn sömu slóð til sjávar og Suðurlandsvegurinn. Þorleifur Einarsson jarðfræðingur taldi að Elliðavatn, eða einhver hluti þess, hafi þá náð þangað sem Rauðhólarnir mynduðust og hefur það eflaust verið tilkomumikil sjón að sjá glóandi hraunstraum þurrka vatnið upp. Hraunstraumurinn hélt áfram niður í voginn sem 3.500 árum síðar var kenndur við Elliða, skip Ketilbjarnar hins gamla. Árnar bera og nafn skipsins og trúlega Elliðavatn einnig.
Vatnið í tjörnunum þremur sprettur fram undan hraununum í Heiðmörk, en að hluta er það úr Suðurá sem á upptök sín í Silungapolli og undir Selfjalli hjá Lækjarbotnum. Við erum hér í næsta nágrenni Gvendarbrunna; þeir eru suðaustan við Hrauntúnstjörn.
Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
Elliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað. Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesinga sögu, sem skrifuð var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ „er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn“ hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að. Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
Ekki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, „síðan Kolfiðr hefir spillt henni“.
Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé „kóngl. Majestat.“ Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með „iii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola“ (viðarkol).
Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, „tveir dagslættir“ renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup „ef þeim heppnast afli.“ Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta „til fálkafjár í Hólmskaupstað“.
Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar „fer mjög í þurð“. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga „lök og lítt nýtandi“.
Þessi lýsing bendir ekki til mikillar búsældar á Elliðavatni. Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma upp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé.
Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú.Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist „mikil stofa“ þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, „meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað“.
En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Ugglaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap.
Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur; hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal var teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum.
Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Fyrir kemur að þekkt kennileiti eru óþekkjanleg og þar á meðal er hæðin ofan við Elliðavatnsbæinn. Ætla má þó að myndin sé trúverðug heimild um bæinn og hún er einnig allnokkur vísbending um að Elliðavatn hafi þá þótt markverður bær. Kirkja var þó aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Á teikningu Mayers af Elliðavatnsbænum er aðeins að sjá eina stæðilega byggingu. Hún er með hefðbundnu lagi torfbæja eins og það varð á síðustu öld og snýr stafninum fram. Prýði þessa húss er vindskeið og hefur verið lagður metnaður í að hafa hana viðhafnarlega. Slíkar vindskeiðar voru ekki á bæjum almennt. Skýringuna má ef til vill finna í því, að ábúendur á Elliðavatni voru þá Jón Jónsson silfursmiður og Ragnheiður Guðmundsdóttir. Kynni að vera að listrænn metnaður silfursmiðsins kæmi þarna í ljós. Að öðru leyti sýnir myndin venjulega og fremur bágborna torfkofa, en hjallur úr timbri stendur sér. Tröðin heim að bænum liggur meðfram hlöðnum grjótvegg sem sveigist til suðurs, enda var algengasta leiðin úr Reykjavík að Elliðavatnsbænum sunnan við vatnið.
Hægt var að fara aðra leið norðan vatnsins, en þá þurfti að komast yfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn úr Helluvatni.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þaðan hélt Jónas för sinni áfram til Þingvalla og Skjaldbreiðar og lenti í frægri villu og útilegu, sem fór þó vel og gaf af sér eitt vinsælasta kvæði Jónasar.
Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið. Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má að kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk
Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og hafa fleiri en Jónas Hallgrímsson rannsakað hann. Þeirra á meðal er Sigurður Guðmundsson málari, sem gerði uppdrátt af staðnum, Brynjólfur frá Minna-Núpi, Daniel Bruun, Finnur Jónsson prófessor, svo og Þjóðminjasafnið að sjálfsögðu. Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett „at ráði Ulfljóts ok allra landsmanna þar es nú es, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu“.
Því er verr, að ekki eru til neinar heimildir um það hvar Kjalarnessþing var háð, en vísir menn hafa talið að um tíma hafi það verið í Þingnesi. Rannsóknir sem fóru fram 1984 benda eindregið til þess að þar hafi mannfundir farið fram. Dr. Jakob Benediktsson telur ljóst í Sögu Íslands, 1. bindi sem út kom 1974, að Kjalarnesþing hafi verið eins konar undanfari Alþingis, enda þótt það hafi ekki verið löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og „sennilegt sé að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að þinginu á Kjalarnesi.“
Sé þetta rétt er Þingnes hinn allra merkasti staður á bökkum Elliðavatns.
Heimild m.a.:
-http://www.heidmork.is
-Gísli Sigurðsson – „Skin og Skúrir á Elliðavatni“ I. hluti – Lesbók Morgunblaðsins 12. febrúar 2000.
Sólheimakot – Seljadalur – gata
Ákveðið var að fylgja mjög gamalli götu upp frá Geithálsi framhjá Sólheimakoti, undir Hríshöfða, framhjá Djúpadal og Myrkurtjörn áleiðis inn í Seljadal.
Gatan sést mjög vel á köflum, en á nokkrum stöðum hefur trjám verið plantað í hana, einkum utan við Sauðhúsahvamm og undir Hríshöfða. Nefnd gata kemur inn á aðra er liggur áleiðis upp í Seljadal um sunnanvert Búrfell, framhjá Búrfellskoti, og norðan Leirtjarnar. Götunar mætast norðvestan Silungartjarnar.
Til baka var gengið með Selvatni niður að Sólheimakoti.
Tryggvi Einarsson í Miðdal skráði örnefni í Miðdalslandi. Þar segir m.a. um svæðið, sem gatan liggur um: „Örnefni í Miðdalslandi sunnan gamla-Þingvallavegar. Frá mörkum Geitháls í austanverða Sólheimatjörn og úr suðurenda Sólheimatjarnar rennur Augnlækur um Markholt í Dugguós. Austan við Augnlæk er Sólheimamýri. Upp að norðurenda Sólheimatjarnar er Háabrekka, ofan við Háubrekku eru Brekkubrúnir, sunnan við Brekkubrúnir er fallegur hvammur er Sauðhúsahvammur heitir. Ofan við Sauðhúsahvamm eru sauðhús er afi minn byggði. Móts við Sauðhúsahvamm er kriki er Fífukrókur heitir.
Skammt suður af Fífukrók er Sólheimakot, hjáleiga frá Miðdal, sést þar vel fyrir veggjum. Ofan við Sólheimakot er Sólheimamelur, sunnan við Sólheimamel er mýri er Dugguósmýri heitir. Ofan við Sólheimabrúnir. Frá Selvatni að Dugguósmýri rennur Dugguós í alldjúpu gljúfri er Dugguósgljúfur heitir. Norður af Selvatnsenda er mýrarfláki er Sauðhúsamýri heitir. Úr norð-vestur horni Sauðhúsamýrar liggur lægðardrag niður að Sauðhúsahvammi er Gíslalág heitir, úr Sauðhúsamýri rennur lækur í vestanvert Selvatn er Sauðhúsamýrarlækur heitir. Norður af Sauðhúsamýri er allstór heiði sem Heytjarnarheiði heitir. Í norð-austur horni Heytjarnarheiðar er Heytjörn, lítil tjörn, í henni vex hávaxinn gróður sem kallaður var Rauðólfur. Gras þetta er mjóvaxið og var oft slegið, þótti það hafa lækningarmátt við búfjárkvillum.
Austan við Heytjörn er smá klettaborg með grasþúfu sem Heytjarnarþúfa heitir. Frá miðju Selvatni austan Sauðhúsamýrar er Langimelur, skammt austur af suðurenda Langamels rennur Hrútslækur í Selvatn. Hrútslækur á upptök austan við Löngubrekkuhorn, þarna er allstór mýri er Hrútslækjarmýri heitir. Austan við Hrútslæk skagar grýtt holt út í Selvatnið sem Bleikjunef heitir. Nokkru austar við Selvatn skagar annað holt út í vatnið, það heitir Urriðanef. Milli Bleikjunefs og Urriðanefs er vík er Litla-Selsvík heitir. Norður af Litlu-Selsvík er Litla-Sel, sést aðeins móta fyrir rústum þar. Ofan við Litla-Sel er Litlaselshæð. Austur af Selvatnsenda er Víkursel, talið vera frá Vík á Seltjarnarnesi, sést þar fyrir selstóftum. Norður af Víkurseli eru Selbrúnir.
Austan við Víkurselsbrúnir er allstór ás, er Selás heitir [á honum er varða; Selásvarða]. Norð-vestur undir Selás er Seldalur. Austan við Selsás er tjörn er Helgutjörn heitir. Sunnan undir Selás er valllendislágar er Urðarlágar heita, þar eru upptök Urðarlágarlækjar sem rennur í austurenda Selvatns. Nokkru norðar rennur Sellækur í Selvatn. Úr eystri Selvatnsenda í Lyklafellskoll eru landamörk milli Miðdals og Elliðakots.
Austan við áðurnefndan Hrútslæk er Hrútslækjarmýri. Norður af upptökum Hrútslækjar er Langabrekka. Milli Löngubrekku og Langamels er Langamýri. Norður af Löngumýri er Borgarholt, þar var hjáleiga frá Miðdal. Austan við Borgarholt er mýrarkriki er Borgarholtsmýri heitir. Suð-vestan við Borgarholt er mýrarsund er Borgarholtskelda heitir. Á Borgarholti er jarðfastur bergdrangur sem Borgarholt dregur nafn sitt af og heitir Borgin.
Norðan við Borgarholt er stór hæð sem Hríshöfði heitir. Vestan í Hríshöfða er Hríshöfðabrekka. Vestur af norð-vestur horni Hríshöfða er hringlaga holt sem Holtið-Eina heitir, þar er nú nýbýlið Dalland. Milli Einholts og Borgarholts er Borgarholtsmýri. Undir norð-vestur horni Hríshöfða er uppsprettulind sem Kaldakvísl heitir, er Kaldakvísl raunveruleg upptök Bæjarlækjar. [Á Hríshöfða eru tóftir; fjárhús og manngert eyktarmark eða dys. Umhverfis mannvirkið fremst á höfðanum er bátslaga hleðsla. úsfreyjan á Dal taldi að fjárhúsin hafi verið frá Miðdal. Þau eru tvískipt með heykumli í austurenda. Þeim svipar mjög til fjárhúsanna (beitarhúsann) ofan við Sauðhúsahvamm við Sólheimakot, bæði að stærð og gerð. Húsin virðast hafa verið í notkun á svipuðum tíma og gætu hafa verið byggð af sömu mönnum.]
Norðan við Holtið-Eina og Hríshöfða er mýri sem Hríshöfðavik heitir. Austan við Hríshöfðavik undir smáhæð er Gamli-Stekkur, sést þar vel fyrir Stekkjartóftum. Austur af Gamla-Stekk er lágur ás, norður að gamla-Þingvallavegi er Rjúpnaás heitir. Austur af Rjúpnaás er Efri-Djúpidalur, sá konunglegi dalur; árið 1907 sá faðir minn Einar Guðmundsson í Miðdal að öllu leyti um aðbúnað og móttöku Friðriks VIII, Danakonungs á leið sinni til Þingvalla. Var dalurinn allur flöggum prýddur, byggður var eldhússkúr en matarveisla í tjaldbúðum. Fékk faðir minn lof fyrir stundvísi og aðbúnað allan. Spölkorn suður af Djúpadal er Hríshöfðadalur.“
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Miðdal, Tryggvi Einarsson í Miðdal skráði.
-Húsfreyjan á Dallandi.
-Jón Svanþórsson.
Núpafjall – Camp Cameron
Í „Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi – Áfangaskýrslu III“ má lesa eftirfarandi um Camp Cameron á Núpafjalli í Ölfusi:
“Vorið 1941 sendu Bretar aftur herlið fram á Núpafjall. Gerðu þeir bílfæra braut, kílómetra langa, suður af Hellisheiðarvegi […]. Þaðan lá brautin vestan undir klettabelti um einstigi og á sveig niður í dalverpið norður af Hurðarásvötnum. Þar reistu þeir tjaldbúðir og eitthvað af bröggum fyrir veturinn […]. Þegar Bandaríkjamenn tóku við vörnum Suðurlands vorið 1942, yfirtóku þeir stöðvarnar á fjallinu af Bretum. Við Hurðarásvötn voru reistir einir 15 braggar. Þar var sett upp öflug dísilstöð og kampurinn raflýstur, en neyzluvatn sótt á tankbíl úr Hveragerði,” segir í Styrjaldarárin á Suðurlandi e. Guðmund Kristinsson. Camp Cameron er í hálfgrónu dalverpi ofarlega á norðausturhluta Núpsfjalli. Landið er smáhæðótt og er mosi mikill í sverði, þó stendur smágrýti og annað grjót sums staðar upp úr mosanum. Herminjar eru innan svæðis 21440×270 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Í bókinni Styrjaldarárin á Suðurlandi er teikning birt af braggahverfinu, byggður á þeim minjum sem sáust á yfirborði árið 1998. Teikningin er ekki í réttum hlutföllum, en sýnir ágætlega þær minjar sem sjáanlegar eru þegar komið er á vettvang.“
Leifar skotbyrgja eftir loftvarnabyssur má sjá á fjallinu ofan við braggahverfið, en auk þess voru þar ratsjármastur.
Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi – Áfangaskýrsla III, 2020.
Núpafjall – Camp Cameron; loftmynd 2020.
Stykkisvöllur
Um „Stykkisvöll“ í Brynjudal segir Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi svo í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1904:
„Svo segir Harðarsaga (24 k.) >Refr hét maðr . . . . Hann bjó á Stykkisvelli í Brynjudal«. Enginn bær í Brynjudal heitir nú Stykkisvöllur og er það nafn alveg týnt. Eru ýmsar getgátur um, hvar sá bær muni hafa verið, t. d. að Þrándarstaðir muni hafa skift nafni, heitið Stykkisvöllur áður; því að túnið þar er »stykkjað« sundur í reiti með fornum girðingum. En bærinn hét nú Stykkisvöllur en ekki Stykkjavöllur. Og hæpið mun, að »stykki« hafi haft sömu merkingu sem reitur, eða gerði. Auk þess sýnist Þrándarnafnið hafa lagzt svo snemma niður, að bær, sem við það er kendur, hefði orðið að fá nafn sitt áður en sögurnar voru ritaðar. Og ef Stykkisvöllur hefði fengið annað nafn þá er Harðarsaga var rituð, mundi hún hafa getið þess. Af stöðum, sem nú eru óbygðir í Brynjudal, eru Gulllandsvellir langlíklegastir til að vera Stykkisvöllur. Það er slétt og fögur grund innan til á móts við Ingunnarstaði, sunnanmegin við ána. Auðséð er á bakkanum, sem afmarkar grundina að innan, að gil, sem þar kemur ofan, hefir á sínum tíma brotið mikið af henni. Annars væri þar líklega bær enn. Hann hefir verið þar fyrrum. Það sýnir forn bæjarrúst skamt frá bakkanum. Hún er svo niðursokkin, að fólk vissi ekki af henni fyr en eg kom auga á hana. Þó sér svo vel fyrir henni, að eg gat gjört uppdrátt af henni. Hann komst samt ekki að á uppdráttablöðum minum í þetta sinn. Tóftirnar eru 3, hver af enda annarar, miðgaflar þó eigi vel glöggir. Dyr á miðjum suðurhliðvegg og vesturendi opinn. Lengd allrar rústarinnar nál. 16 fðm., meðalbreidd hennar 3 1/2 fðm. Fjósrúst sést eigi, mun vera afbrotin. Ef til vill lýsi eg þessu gjör síðar. – Br. J.“
Heimild:
-Árbók Hins íslenska forleifafélags, 19. árg. 1904, bls. 19-20.
Brynjudalur.
Þríhnúkar – gígaröð
Áætlanir eru um að gera stærsta hraunhelli í heimi, Þríhnúkahelli, aðgengilegan ferðamönnum. Að þessu sinni var gengið um Þríhnúka og athyglinni séstaklega beint að gígaröð, gjám og misgengi suðaustan við þá. Við athugun á berglögum við Þríhnúka komu í ljós fjögur misgömul hraun. Grágrýtishraunin eldri eru 4000-4500 en þau yngri 2900-3400 ára. Síðarnefndu hraunin eru úr Þríhnúkagígunum, en þau eldri úr gígaröðinni fjær. Þar eru góðir gróninga, fallegir gígar og dulin op.
Hellirinn í Þríhnúkum er um 115 m djúpur niður á grjótbing, en um 200 m djúpur að meðtöldum rangala sem gengur til SV niður úr aðalhvelfingunni. Þríhnúkar eru gjarnan kallaðir Vesturhnúkur, Miðhnúkur og Þríhnúkagígur sá austasti. Á skilti við Þríhnúkagíg segir að gosið hafi í gígnum um landnám.
Í jarðfræðirannsókn Kristjáns Sæmundssonar jarðfræðings um Þríhnúkagíg og nágrenni kemur m.a. eftirfarandi fram:
„Berggrunnur kringum Þríhnúka er móberg (elst), grágrýti og hraun. Hraunin eru ber eða mosavaxin, en þó eru sums staðar á þeim jarðvegsflákar, jafnvel þýfðir, í raklendum flögum og eins í lægðum, lautum og jarðföllum. Norðvestan undir fjallinu eru þessi sömu hraun lynggróin í brekkum og lautun, en þykkar mosaþembur á milli. Þar er um að ræða aðallega Þríhnúkahraun I. Þótt bratt sé niður af fjallinu vestan megin eru fjallskriður óvíða nema niður undan móbergi í Vesturhnúknum. Innar er brekkan að mestu þakin hrauni og lausaskriðan á því þunn og ekki samfelld.
Þríhnúkagígur er á gosrein með nokkrum samsíða gígaröðum sem ná yfir um 500 m breitt bil og síðan eru 750 m austur að næstu gosrein sem byrjar við Kóngsfell. Á Þríhnúkareininni koma hér við sögu 4 hraun með gíg og gígröðum. Ef gera skal upp á milli gosmenja er þar merkast Þríhnúkahraunin og gígarnir í þeim með hellishvelfingunni miklu undir þeim yngri, en aflöng hrauntjörn í þeim eldri og hraunrás frá henni.
Þrjár móbergseiningar koma fyrir í nánd við gígasvæðið, og tvær í viðbót allangt norðaustan þess. Bergið í þeim er mismunandi að gerð, en í öllum er það ferskt. Vestastur Þríhnúka er stuttur móbergshryggur með NA-SV-stefnu (Vesturhnúkur).
Frá Þríhnúkagíg eru 250 m að brekkufæti hans. Hann er úr móbergs-breksíu og túffi, nokkuð feldspatdílóttu, en bólstraberg kemur einnig fyrir, t.d. vestan í honum undir breksíunni. Breksían er fremur laus í sér þar sem mest er af basaltbrotum í henni (kjarninn í hnúknum), en fastari í sér þar sem hún er túffrík.
Gangar eru norðaustan í háhnúknum og kambinum norðaustur af honum. Grágrýti er efst utan í háhnúknum, en einnig á tveim stöðum þar sem lægra er, þ.e. sunnan í honum á smástalli, og austan í kambinum norðaustan hans, dílótt eins og móbergið. Móberg kemur fram neðarlega í vesturhlíð hnúksins undan lausaskriðu og myndar þar dálítinn stall. Þriðja móbergseiningin kemur fram miðhlíðis og ofarlega í vesturhlíð fjallsins norður frá Þríhnúkagíg. Líklega sér þarna í kaffærðan móbergshrygg. Móbergslag kemur fram í hlíðinni neðan undir suðvestasta gígnum í gígaröð H-147 nyrst á Spors-stapanum. Loks sést í móberg eða öllu heldur bólstraberg neðst í brekkunni austan við gígaröð H-147. Það myndar smáhól sem hraun frá gígunum hylur alveg nema á kafla austan megin.
Grágrýti kemur fram á nokkrum stöðum í nánd Þríhnúkagíg. Upptök þess eru í stórri gígskál sem Jón Jónsson (1978) nefndi Spor. Grágrýtið er ekki mjög rofið uppi á hásléttunni. Efsta frauðið er þó af, en víða eru varðveittir á því skafnir hraunhólar (push ups), annars er það uppbrotið af frostveðrun og lausagrjót og blokkir á yfirborðinu.
Jökulrákir eru lítt sýnilegar, finnast þó sé eftir þeim leitað. Stórgrýtisbjörg úr móbergi og jökulbergi liggja ofan á grágrýtinu í brekkunni og ofan brúnar austan við H-147-gígana. Þau eru jökulborin, en ekki úrkast úr gígum. Frá Þríhnúkagíg er styst í grágrýtisopnur 600 m austar og sunnar, en fleiri eru fjær norðan og norðaustan hans. Frá grágrýtisfláka norðaustan við Spor teygir sig álma vestur í átt að Þríhnúkagíg svo einungis vantar 200 m að hugsanlegum gangamunna.
Suðvestan við Vesturhnúkinn er grágrýtið stöllótt. Skilin fara lækkandi þaðan vestur í Kristjánsdalahorn. Skil þessi marka stöðu vatnsborðs í jökullóni á þeim tíma sem grágrýtishraunið rann. Hæðin á skilum sem þessum getur verið nokkuð breytileg eftir því hversu bræðsluvatn rennur greiðlega burt.
Fullvíst má telja að grágrýtið sé yngra en móbergshryggirnir. Hvort tveggja er að lítið stendur af þeim upp fyrir grágrýtið, en þó fremur hitt að vik kemur í stapann þar sem Vesturhnúkurinn og kaffærði hryggurinn norðaustan hans stóðu fyrir rennslinu sunnan frá. Líklega er Spors-stapinn yngri en stóru staparnir vestar á Reykjanesskaga, þ.e. yngri en Fagradalsfjall og Lönguhlíðar-stapinn, líkast til frá síðasta jökulskeiði og myndaður við töluvert minni jökulþykkt en hinir tveir.
Elst hraunanna er það sem Jón Jónsson (1978) auðkennir H-143. Það er býsna gamalt, fáð af veðrun og uppbrotið. Það rann úr gígaröð sem byrjar um 500 m suðaustur af Þríhnúkagíg og liggur þaðan til suðvesturs yfir Sporsgíginn. Hraunbrúnin er mjög lág, 10-30 cm á grágrýtinu norðan og austan við. Hraunið er eftir því þunnt þarna nyrst þar sem það endar. Hraun þetta gæti hafa náð að Þríhnúkagíg og væri þá næst ofan á grágrýtinu. Næst að aldri er hraun sem Jón Jónsson (1978) auðkennir H-144. Það rann úr gígaröð sem er í tveim pörtum og byrjar 500 m suðvestan við Þríhnúkagíg, rétt suðvestan við hrauntjörnina í Þríhnúkum.
Hraunið er uppbrotið af veðrun og mjög þunnt til jaðranna sem vel sést þar sem það hefur runnið út á H-143-hraunið og grágrýtið. Hraun þetta gæti náð til Þríhnúkagígsins. Þá er komið að Þríhnúkum sjálfum. Í þeim hafa komið upp tvö hraun sem Jón Jónsson (1978) auðkenndi H-145 og H-146. Upptök þess eldra, Þríhnúkahrauns I, eru í hrauntjörn sem er 400 m löng og sveigist lítið eitt til í meginstefnu NA-SV. Gígop hefur verið austan undir gjallhól, íhvolfum þeim megin sem snýr að hrauntjörninni. Gíghóllinn (Miðhnúkurinn) er úr ólivíndílóttu rauðagjalli og kleprum. Þótt mestallt hraunið sem nú sést hafi komið upp í gíghólnum (Miðhmúknum) hefur gosið hafist á sprungu með NA-SV-stefnu. Stubbur af henni sést norðan í móbergshryggnum M-2 með gjalldrílum og ganghlein sem stendur upp úr móberginu og sjást af henni um 50 m. Jón Harðarson o.fl. (1983) nefna þessa gíga.
Austan í Miðhnúknum sést neðarlega hraunborð, jafnhátt barmi hrauntjarnarinar, greinilegt þó aðeins nyrst. Innveggir hennar eru annars úr 10-15 cm þykkum hraunskánum og bergið ólivínríkt, svo til án feldspatdíla eins og í gjallhólnum. Bunga hefur hlaðist upp kringum gígtjörnina og hraunrás, sem liggur austur frá henni. Hún hefur byggst upp er hraun vall yfir barmana og má telja víst að hún sé öll úr þess háttar hraunskánum, ella hefði hún ekki byggst upp, jafnbrött og hún er, úr þunnfljótandi hrauni. Fyrir utan hraunskvetturnar hefur nokkuð runnið úr hrauntjörninni til norðurs og fram af fjallinu þar, en meira þó eftir hraunrásinni til austurs og síðan áfram til NA uns hún þverbeygir til NV. Hraunrásin er efst í endilangri, ávalri og jafnhallandi hraunbungu sem hlaðist hefur upp út frá rásinni við skvettur líkt og bungan kringum hrauntjörnina sjálfa. Hraunrásin er mjó á NA-SV-kaflanum, þ.e. á bilinu 10-20 m yfir barma, og mesta dýpi hennar 15-20 m. Ofan til eru hraunskánirnar eða -beltin einnig þunn í veggjum rásarinnar, mældust algeng á bilinu 15-50 cm, en niðri í henni eru þau þykk, oft 1-2 m. Hraunrásin endar spölkorn norðvestan við þverbeygjuna. Þaðan hefur hraunið breiðst út og síðan vestur af fjallinu. Á þverbeygjunni og þar sem hraunrásin endar eru hraunbólur þar sem flætt hefur upp úr henni. Í fjallshlíðinni sem er um 120 m há er hraunið víða samfellt, jafnvel þar sem bratt er, annars sundurlaust, en lausahroðinn á því er hvergi þykkur nema þá neðst þar sem grjót hefur borist niður með leysingavatni og við hrun.
Talað hefur verið um hraunrásina sem hrauntraðir og þannig er hún sýnd á kortum. Það er þó ekki alveg rétt, því að hún hefur verið lokuð, alla vega á síðustu stigum. Þetta sést á því að víða eru heil höft yfir hana, en kaflarnir á milli fallnir niður. Það sem sést af eldstöðinni sjálfri er gjall- og klepragígur. Kleprabrynja utan á kambinum sem gengur norðaustur frá vesturhnúknum vitnar um strókavirkni. Dyngjulögun hefur hraunið ekki, en yfirborð þess er þó með eindregnum dyngjueinkennum, þ.e. helluhraun með klofnum hraunhólum þegar kemur niður undir Kristjánsdalahorn. Grafið var á hraun þetta á nokkrum stöðum, bæði uppi á fjallinu og neðan undir því þar sem jarðvegur er þykkri og lynggrónar lautir og brekkur. Þar þekktust neðst í
moldinni tvö Kötlulög (mynd 2) sem víða má finna á þessum slóðum. Aldur þeirra er allt að 2900 ár og 3400 ár (Bryndís G. Róbertsdóttir (1992).
Þríhnúkagígur er fast austan við hrauntjörnina. Ekki er að sjá hraunborð utan í honum þar sem veit að henni. Hún hefur verið komin áður en gaus og gíghóllinn hefur byggst upp yfir barm hennar.
Ljóst er því að það hraun (H-146) tilheyrir sérstöku gosi. Í jarðvegssniði sunnan við Þríhnúkagíg fannst aðeins efra Kötlulagið, ofan á Þríhnúkahrauni II. Á eldra hrauninu er neðra og þykkara Kötlulagið einnig að finna (mynd 2) og undir því 5-7 cm þykkt moldarlag. Aldursmunur hraunanna gæti verið um eða yfir 1000 ár. Aldur Þríhnúkahrauns I má áætla um 4500-5000 ár, en Þríhnúkahrauns II amk. 3500 ár. Í skýrslu Helga og Magnúsar (2001) er “Þríhnúkahraun yngra” sem svo er kallað sýnt eldra en Heklulagið HA (um 2500 ára). Í athugasemd í hraunatöflu kemur fram að þeir grófu á það við Kristjánsdalahorn, en þar nokkru austar eru bæði Kötlulögin ofan á Þríhnúkahrauni I sem eitt nær vestur að Kristjánsdalahorni.
Misgengi og gjár Misgengi og gjár í nánd við Þríhnúkagíg sjást aðeins í grágrýtinu og elsta hrauninu (H-143). Svo er að sjá sem sprunguhreyfingar hafi ekki orðið á þessum hluta Brennisteinsfjallakerfisins eftir að Þríhnúkahraun I og II runnu fyrir 3500-5000 árum. Gjár sjást hins vegar í Þríhnúkahrauni I vestan undir fjallinu í NA-framhaldi af brotunum í Kristjánsdalahorni. Eftirtekjan varðandi gjár og misgengi sem orðið gætu á gangaleiðum er rýr. Þar er fyrst að nefna misgengi/gjá í framhaldi af gígum og gjá í H-143 hrauninu, en hún stefnir nærri gangamunna eða öllu heldur skurði ef komið yrði austan frá (sjá meðfylgjandi kort). Brot gæti komið fram í NA-framhaldi af gígaröðunum í H-144 hrauninu. Hliðrun er á þeim suðvestan við Þríhnúkagíg og stefnir eystri greinin nánast beint á gíginn. Brot í framhaldi hinnar myndu verða fyrir á gangaleið vestan frá.
Þríhnúkagígur er yngsta eldstöðin á ~500 m breiðri gosreinin sem framar greindi, en aldur hans er nokkuð yfir 3000 ár. Yngri hraun eru vestur við Brennisteinsfjöll og austur við Kóngsfell. Þau yngstu, þ.á.m. Kóngsfellshraun, runnu fyrir 1000-1100 árum (Jón Jónsson 1978). Eldvirkni á Reykjanesskaga kemur í lotum sem ganga yfir eldstöðvakerfin á um það bil 300 ára tímabili. Þar á milli er hlé á gosum en skjálftavirkni á plötuskilunum. Eina hléið sem er bærilega vel tímasett er það síðasta sem stóð í um það bil 800 ár (Kristján Sæmundsson og Haukur Jóhannesson 2006). Núverandi goshlé hefur staðið í ~750 ár. Í Brennisteinsfjallakerfinu hefur síðasta goshlé varað í um það bil 1000 ár. Aðrir kaflar í Brennisteinsfjallakerfinu en Þríhnúkareinin myndu teljast líklegri til að gjósa í næstu goslotu ef álykta mætti að gosin endurtækju sig á sömu reinum og í síðustu goslotu, og raunar þeirri næstsíðustu líka.
Það var nefnt hér að framan að gjár og misgengi koma ekki fram í yngstu hraununum í Þríhnúkareininni. Þar hafa brotahreyfingar af því tagi ekki átt sér stað í meira en 3000 ár. Hins vegar eru opnar gjár og misgengi í Þríhnúkahrauni I, á sprungurein sem liggur frá Brennisteinsfjöllum yfir Kristjánsdalahorn og hraunin norðan undir Þríhnúkum og Spors-stapanum. Fjarlægðin milli jaðarsins á henni og Þríhnúkagígs er um 1 km.
Ekki er vitað um norð-suðlægar sprungur, virkar á skjálftatímabilum, nær en norður frá Hvalhnúkum og austur við Rjúpnadalahnúka. Á þeirri fyrrnefndu varð skjálfti yfir 6 að stærð árið 1929. Hún stefnir um það bil 2 km vestan við Þríhnúkagíg. Hin er álíka langt austan við hann (austan í Kóngsfelli). Óefað verður hrun úr hellishvelfingunni í slíkum skjálftum. Líklegt er að grjótbingurinn á botninum sé fyrst og fremst þannig myndaður.
Athugum þá hvaða berglög myndu koma fram í hellinum undir Þríhnúkagíg. Hann er um 115 m djúpur niður á grjótbing, en um 200 m djúpur að meðtöldum rangala sem gengur til SV niður úr aðalhvelfingunni Árni B. Stefánsson (1992).
Í hellinum ættu skil á milli hrauna og grágrýtis að vera í rétt rúmlega 480 m h.y.s. eða 65-70 m neðan við topp gígsins (sjá jafnhæðarlínur á korti og teikningu Árna B. Stefánssonar (1992). Reikna má með að Þríhnúkahraun I nái niður í 510-515 m hæð, en þar taki við Þríhnúkahraun II niður í rúmlega 480 m hæð og síðan hugsanlega H-143-hraunið, etv um 1 m þykkt með þunnu moldarlagi ofan á. Hraunin eru líkast til þunnbeltótt næst gígnum og hrauntjörninni, en beltin líklega þykkari næst hraunrásinni. Þykkt grágrýtisins er ekki þekkt en skiptir efalaust nokkrum tugum metra. Skv. því sem séð verður í grágrýtinu vestur frá gígasvæðinu eru hraunbeltin í því nokkuð þykk, algeng rúmir 2 m. Árni B. Stefánsson (1992) sýnir þau hins vegar miklu þykkri í hellinum sjálfum. Neðst í honum að norðvestan er móberg sem nær frá 433 m hæð um það bil 10 m upp í vegginn og því hallar bratt til suðausturs (Árni B. Stefánsson 1992).
Innveggir hellisins eru húðaðir hraunskel þar sem hann er mjóstur, og raunar töluvert þar niður fyrir. Neðst er hún 10-30 cm þykk (Árni B. Stefánsson 1992). Talað er um að illa sjáist út í veggina þar sem hvelfingin er víðust (50-60 m?), stundum amk. vegna þokuúða af vatni sem drýpur úr lofti hennar. Botninn er þakinn stórgrýti og grjót mylsnu sem myndar lága bungu í miðjum hellinum og skriðu sums staðar með veggjum, hallandi upp að þeim. Mest er það hrun úr slútandi hvelfingunni.
Nokkrar hugmyndir hafa komið upp um gangaleiðir að hellinum. Sú raunhæfasta gerir ráð fyrir aðkomuvegi og lögnum (rafmagn og vatn) frá Bláfjöllum. Hún verður skoðuð hér á eftir sem besti kostur, en einnig fjallað um aðkomu norðaustan og norðvestan frá. Stefnt er að því að göngin opnist inn í hellinn þar sem hraunskel er á innvegg hans og ekkert hefur hrunið frá síðan þarna gaus. Skelin er líkast til viðkvæm. Verði ákveðið að velja innkomu þar sem hún þekur þarf að standa þannig að verki að hún brotni ekki frá kringum opið. Innkoma í hellinn er hér við það miðuð að hafa sem mest af göngunum í hrauni (Þríhnúkahrauni I) sem að miklu leyti mætti líklega vinna án sprenginga. Síðasti spölurinn er hugsaður niðri við skilin milli grágrýtis og hrauns. Innkoma í hellinn yrði þá í kringum 480-485 m hæð y.s.“
Gangan tók 4 klst og 4 mín. Frábært veður.
Heimild:
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, Jarðfræðirannsókn á Þríhnúkagígum, 2006.
Kræklingurinn í Hvalfirði
Í Ægi árið 1963 er m.a. fjallað um kækling sem beitu:
„Það er enginn vafi, að þorskurinn hefur öðrum fiskum fremur haldið lífinu í Íslendingum. Er þetta svo viðurkenndur sannleikur, að flattur þorskur var um skeið tekinn upp sem skjaldarmerki þjóðarinnar. Íslendingar hafa líka alla tíð sýnt þessum fiski vissa kurteisi. Þó meiri áður fyrr, meðan múgmorðstæki, eins og botnvarpa og net, voru ekki notuð til Veiða, heldur aðeins gljáfægðir önglar, beittir af einstakri nákvæmni. Beitan var jafnan hið valdasta góðgæti. Þannig buðu t.d. Suðurnesjamenn þorskinum áður fyrr aðallega upp á kavíar og krækling, en þetta þykir nú hvort tveggja herramannsmatur. Voru Suðurnesjamenn parna langt á undan þeim erlendu sælkerum, sem hugkvæmdist að gera kavíar úr grásleppuhrognum og framleiða krækling sem ostrur. Segja má, að enn hafi hvorugt brugðizt, kurteisi Suðurnesjamanna né matarsmekkur þorsksins, því að aðalbeitan nú á dögum er síld, sem tvímælalaust er líka herramannsmatur og mun betri en þorskurinn sjálfur.
Í endurminningum Erlendar Björnssonar á Breiðabólsstöðum (Sjósókn 1945), Segir frá því, að Suðurnesjamenn notuðu mjög mikið af kræklingi til beitu, og var hann allur sóttur í Hvalfjörð. Var kræklingurinn tekinn þar um stórstraumsfjöru, en er heim kom, var hann settur í lón í fjörunni, þar sem hann hélzt lifandi. Var svo tekin beita úr lóninu fyrir hvern róður. Á Suðurnesjum virðist kræklingur hafa verið notaður til beitu nær allt árið, nema um sumarmálaleytið, Þegar hrognkelsaveiðin stóð yfir, en þá var beitt ræsknum. Ræskni nefndust innyfli hrognkelsanna og munu hrognin hafa verið aðalhluti þeirra. Augljóst er af frásögn Erlendar á Breiðabólsstöðum, að í Hvalfirði hefur verið mjög mikið af kræklingi. Hafa verið beitufjörur í kringum nær allan fjörðinn. Erlendur getur um helztu beitustaðina, en þeir voru þessir, taldir sunnan frá: Laxárvogur, Stampar, Hvammsvík, Hvítanes, Fossá, Brynjudalsvogur, Botnsvogur, Þyrill, Litlisandur, Miðsandur, Brekka, Bjarteyjarsandur og Kalastaðir. Beztu beitustaðirnir voru taldir Laxárvogur, Stampar og Brekka. Til marks um það, hversu kræklingstekja var þarna mikil, er sú frásögn Erlendar, að vorið 1892, er hann eitt sinn var á leið heim úr beitufjöru við Brekku, þá mættu þeim 88 skip á leiðinni út að Andrésey, sem er í mynni fjarðarins, en öll þessi skip voru að sækja krækling inn í Hvalfjörð. Í annað sinn taldi Erlendur 30 skip við kræklingstekju í Laxárvogi einum saman.
Nú er löngu hætt að taka krækling til beitu í Hvalfirði, en nokkuð var tekið þar af honum á árunum 1940—50 og soðið niður. Var það niðursuðuverksmiðja S.Í. F., sem að þeirri framleiðslu stóð. Enda þótt vara þessi hafi verið ágæt, er hún ekki framleidd hér lengur, og kræklingurinn í Hvalfirði hefur fengið að vera í friði í mörg ár.“
Heimild:
-Ægir, 56. árg. 1963, 12. tbl. bls. 201.
Hvalfjörður.
Kjalarnes og Kjós
Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins árið 2000 má lesa eftirfarandi frásögn um „Kjalarnes og Kjós„:
„Esjan er fjall sem allir Reykvíkingar og fleiri hafa fyrir sjónum nær alla daga.Uppi í hlíðum þess var unnið kalk og flutt til Reykjavíkur. Brennsluofhinn stóð þar sem nú heitir Kalkofnsvegur og eru enn til hús sem kalkið var notað í. Á Esjuna eru margar góðar og frekar auðveldar gönguleiðir, t.d á Þverfellshorn, um Gunnlaugsskarð, úr Blikdal og margar fleiri. Á Esjubergi var fyrsta kirkja á Íslandi reist og þar bjó Búi Andríðsson, aðalsöguhetja Kjalnesingasögu.
Á Móum bjó séra Matthías Jochumsson þegar hann var prestur í Saurbæ á Kjalarnesi 1867-73 og þar þýddi hann leikritin Hamlet, Othello og Rómeó og Júlíu.
Um Brautarholt segir í Kjalnesingasögu að Helgi bjóla, sem nam land á Kjalarnesi fengi Andríði, írskum manni, bústað. Þar fæddist Bjarni Thorarensen, 1786-1841, skáld og amtmaður. Helgi bjóla bjó á Hofi, en Þorgrímur goði reisti þar hof mikið.
Saurbær á Kjalarnesi er kirkjustaður og höfuðból. Árið 1424 rændu enskir víkingar staðinn og stálu vopnum, hestum og fleiru.
Tíðaskarð innan við Saurbæ heitir svo því að þar fóru kirkjugestir um á leið til tíða og þegar til þeirra sást, þótti tími til að hringja til tíða. Fyrir um 15-20 árum var farið að brotna mikið úr sjávarbakkanum fyrir neðan kirkjugarðinn og komu þá í ljós bein úr garðinum.
Hvalfjarðareyri, löng og flöt eyri er gengur út í Hvalfjörðinn. Þar var verslunarstaður um tíma á seinni hluta 17. aldar eftir að Maríuhöfn eyðilagðist. Rétt innan eyrarinnar heitir Naust. Þaðan gekk ferja um tíma yfir að Katanesi. Þar er og elsti vegarkafli í Kjósinni, sem enn er notaður.
Laxárvogur (Laxvogur) er grunnur en þótti góður beitutínslustaður.
Maríuhöfn var verslunarstaður á miðöldum og sjást þar rústir, sem eru að mestu ókannaðar. Árið 1402 kom Hval-Einar Herjólfsson skipi sínu í Maríuhöfn og flutti með sér svarta dauða, mannskæðustu drepsótt er hingað hefur komið. Þegar Alexíus prestur Svarthöfðason á Saurbæ reið frá skipi, komst hann ekki nema í Botnsdal og andaðist hann þar og sjö fylgdarmenn hans. Svo bráð var sóttin.
Árið 1387 kom Björn Einarsson Jórsalafari skipi sínu í Hvalfjörð.
Hvammur, þar bjó Hvamm-Þórir er land nam milli Laxár og Fossár.
Steðji, Karlinn í Skeiðhól, Staupasteinn, sem allt eru nöfn á sama steininum, en þar er forn áningarstaður.
Í Landnámu segir að Ávangur hinn írski hafi reist bú að Botni. Um Botnsdalinn rennur Botnsá, en hún skiptir löndum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu. Í henni er Glymur, 198 m hár, talinn hæsti foss á Íslandi. Botnsá fellur úr Hvalvatni, sem er næst dýpsta vatn landsins, um 160 m djúpt. Inn af dalnum er Hvalfell, móbergsfjall, sem hlóðst upp í gosi undir jökli síðla á ísöld. Grágrýtiskollur er á fjallinu, sem bendir til að gosið hafi náð upp úr jöklinum. Sagt er að Arnes Pálsson hafi hafst við í hellisskúta við vatnið á árunum 1750-57.
Botnssúlur, einstakir tindar, sá hæsti 1095 m. talið er að um gamla eldstöð sé að ræða og tindarnir séu rústir af gömlum gíg. Þyrill er 358 m hátt hömrum girt fjall úr basalti, þar finnast margar tegundir sjaldgæfra geislasteina. Nafnið mun vera dregið af þyrilvindum þeim, sem eru svo algengir fyrir botni Hvalfjarðar. Í Þyrli er klauf, Helguskarð, sem sagan segir að Helga jarlsdóttir klifi upp með syni sína, Björn og Grímkel, á flótta eftir víg Hólmverja á leið sinni yfir að Indriðastöðum í Skorradal.
Í Geirshólma höfðust við Hólmverjar undir forustu Harðar Grímkelssonar, sem frá segir í Harðar sögu og Hólmverja. Þar hafðist við flokkur Sturlu Sighvatssonar undir forustu Svarthöfða Dufgussonar og fóru með ránum þaðan um hríð.
Bessastaðir, kirkjustaður og fornt höfuðból á Álftanesi. Bessastaða er fyrst getið í Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar og eru þá í eigu Snorra Sturlusonar. Eftir dráp Snorra sló Noregskonungur eign sinni á Bessastaði og eru þeir fyrsta jörðin í konungseign á íslandi. Frá 1867 voru Bessastaðir í eigu Gríms Thomsen, en faðir hans bjó bar áður. Grímur var fæddur á Bessastöðum 1820. Á Bessastöðum fæddist einnig skáldið Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal 1826. Þar var Bessastaðaskóli, arftaki Hólavallaskóla, frá 1805 og í um 40 ár. Þá var hann fluttur til Reykjavíkur aftur og nefndist þá Lærði skóli og síðar Menntaskólinn í Reykjavík. Bessastaðir voru gefnir íslenska ríkinu 1941, með því skilyrði að þar yrði setur ríkisstjóra og forseta. Gefandinn var Björgúlfur Ólafsson, læknir á Bessastöðum og síðar í Kópavogi. Hús þar eru í elstu röð húsa í landinu, reist á árunum 1761-66 sem amtmannssetur. Kirkja var reist þar á árunum 1777-1823. Þar var gert virki á 17. öld, Skansinn, til varnar sjóræningjum og óvinaherjum.“
Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins, 18. árg. 2000, 4. tbl., bls. 1 og 3.
Esjuberg á Kjalarnesi.
Heiðmörk – Elliðavatn
Saga Elliðavatnsbæjarins er áhugaverð og samofin sögu Reykjavíkurborgar og þeim breytingum sem orðið hafa á síðustu öldum.
Fyrstu heimildir um Elliðavatnsjörðina finnast í máldaga frá 1234 en þar segir að Viðeyjarklaustur eigi Elliðavatnið hálft. Við siðaskipti varð jörðin konungseign en ekki fer miklum sögum af jörðinni þar til Innréttingar taka til starfa í Reykjavík upp úr miðri 18. öld. Eitt helsta verkefni þessa fyrirtækis var ullarvinnsla. Ákveðið var árið 1756 að stofna fjárræktarbú á Elliðavatni fyrst og fremst til að bæta þar með kynbótum þá ull, sem yrði tekin til vinnslu, en jafnframt til að tryggja fyrirtækinu næg verkefnið. Til kynbóta voru fluttir inn hrútar af enskum stofni. Sænskur maður, Hastfer barón, mikill áhugamaður um kynbætur sauðfjár rak þetta fyrirtæki fyrst í stað, en fjárbú Innréttinganna var aftur stofnað í Helliskoti þarna skammt frá árið 1757. Á ýmsu gekk með reksturinn; svo virðist þó brátt, að allt mundi fara skaplega, en þá dundi ólánið yfir. Í búinu kom upp veiki í sauðfénu, aðallega fjárkláði, sem breiddist út með miklum hraða, þannig að ekkert fékkst við ráðið. Um 1760 var sauðfjáreign landsmanna talin nálægt 360 þúsund, en 1770 var hún komin niður í um það bil 140 þúsund. Þetta er talið eitt mesta áfall, sem íslenskur landbúnaður hefur nokkur sinni orðið fyrir. Það er nokkuð sjálfgert að sögu fjárræktarbúsins á Elliðavatni var nú lokið. Var það formlega lagt niður 1764. Árið 1815 var jörðin seld eins og fjöldi konungsjarða þá um mundir.
Árið 1860 eignast Benedikt Sveinsson alþingismaður og yfirdómari í Landsyfirrétti jörðina og flutti þangað ásamt fjölskyldu sinni árið eftir. Þann 30. október 1864 fæddist sonur Benedikts og Katrínar konu hans, þjóðskáldið Einar Benediksson.
Benedikt hóf mikil umsvif á Elliðavatni; búskapur var þar fyrst í stað mikill, vinnufólk 11, en auk þess bætt við um sláttinn. Hann ákvað að ráðast í geysimiklar áveituframkvæmdir, réð tugi manna til að gera um eins km langan stíflugarð yfir Dimmu og Bugðu (nokkurn veginn þar sem stífla Rafmagnsveitunnar er nú). Með þessari áveitu á Elliðavatnsengin sem átti að ná yfir 200 ha lands, átti að vera unnt að margfalda heyfenginn. Svo fór þó að draumar Benedikts um að gera Elliðavatn að mestu bújörð á Íslandi vildu lítt rætast. Búskapur gekk saman og Benedikt hvarf úr embætti yfirdómara og fluttist norður að Héðinsflóa sem sýslumaður Þingeyinga.
Benedikt var mikill áhugamaður um byggingu steinhúsa, enda af sumum talinn sjúklega eldhræddur. Hann réðst í það að láta reisa steinhús á Elliðavatni úr hlöðnu grjóti. Hefur það nú um skeið verið notað sem hlaða. Þegar Benedikt var kominn í andstöðu við yfirvöldin hugðist hann stofna án tilskilins leyfis prentsmiðju á Elliðavatni, en næsta lítið varð úr því fyrirtæki. Var rekstur stöðvaður þegar í byrjun. Aðeins tveir ritlingar voru prentaðir þar og var Jón Ólafsson höfundur beggja.
Elliðavatn og Heiðmörk hafa af og til komist í kastljós fjölmiðla. Skógareldar hafa komið upp, óáran geisað og leyfislausar framkvæmdir hafa leikið hið friðaða svæði grátt.
Á árunum 1923, 1927 og 1928 eignaðist Rafmagnsveit Reykjavíkur Elliðavatn. Var jörðin keypt í sambandi við raforkuvinnslu, sem hófst við Elliðaárnar árið 1921. Búskapur var stundaður með hefðbundnum hætti þar til 1941, en þá tók þar til starfa vistheimili fyrir geðsjúklinga, og starfaði það um alllangt skeið. Að því kom að vistheimilið var lagt niður og búskap með öllu hætt. Árið 1963 var samið um það við Skógræktarfélag Reykjavíkur, að það skyldi fá jörðina til varðveislu, frá 1964 var bærinn aðsetur starfsmanns félagsins sem hafði eftirlit með Heiðmörk. Árið 2004 flutti Skógræktarfélag alla starfsemi sína í Heiðmörk og er bærinn nú notaður undir skrifstofur félagsins.
Saga Heiðmerkur er einnig áhugaverð fyrir margra hluta sakir en hún segir einnig sögu vaxandi byggðarlags í nágrenni svæðisins. Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur frá upphafi sinnt svæðinu sem var friðað 1950. Gróðursetning hefur verið í höndum starfsmanna félagsins, fjölmargra landnema en einnig hefur Vinnuskóli Reykjavíkur unnið ómetanlegt starf á svæðinu, en ungingar á þeirra vegum eru enn við störf á svæðinu að sumarlagi. Í dag einbeita starfsmenn sér í auknum mæli að grisjun þó svo að gróðursetning haldi áfram. Hafa ýmsir lagt þar hönd á plóginn, nú síðast Kópavogsbær.
Sigurður Guðmundsson málari hafi hug á því þegar árið 1870 að gera Heiðmörk að útivistarsvæði fyrir Reykvíkinga, en það mál varð ekki að veruleika fyrr en u.þ.b. 70 árum síðar þegar Hákon Bjarnason, þáverandi skógræktarstjóri, var í reiðtúr um Heiðmörkina þann 16. júní 1935. Erindi hans var að skoða þar kjarrleifar og gróður er leyndust milli hrauna og meðfram Hjöllunum þar sem Vatnsendaborgin trjónir fagurlega enn þann dag í dag.
Eftir þessa ferð kom Hákon fram með hugmynd um friðland og útivistarsvæði fyrir borgarbúa og verndun þeirra kjarrleifa á þessu svæði í grein sem hann skrifaði í ársrit Skógræktarfélags Íslands 1936 og nefndist: „Frá ferðum mínum sumarið 1935.“
Upp úr þessu tóku að þróast í einstökum atriðum hugmyndir um útivistarsvæði Reykvíkinga austan og sunnan Elliðavatns.
Árið 1941 gaf Skógræktarfélag Íslands út bækling, sem nefndist Friðland Reykvíkinga ofan Elliðavatns. Þar var birtur ýmis fróðleikur um svæðið og skýrt frá frumkvæði félagsins í þessum málum.
Nafnið Heiðmörk var fyrst sett fram í útvarpsþætti sem félagið stóð að til kynningar á hugmyndinni, vorið 1941 og var það prófessor Sigurður Nordal sem það gerði. Árið 1946 var Skógræktarfélag Íslands gert að landsambandi skógræktarmanna og var þá stofnað nýtt félag, Skógræktarfélag Reykjavíkur sem tók það við ýmsu sem Skógræktarfélag Íslands hafði unnið að, þar með talið hugmyndinni að stofnun Heiðmerkur. hefur félagið síðan haft umsjón með og annast framkvæmdir á svæðinu samkvæmt samningi sem gerður var við bæjarstjórn Reykjavíkur þann 3. mars 1949.
Fyrsta gróðursetningin fór fram árið 1949 en þá fóru nokkrir starfsmenn félagsins á hestum með plöntur og verkfæri og gróðursettu um 5000 plöntur. Voru það, skógarfura, rauðgreni og sitkagreni og nefnist þessi lundur Undanfari.
Sama ár var lokið við að girða 1350 hektara. Nú var verkið svo vel á veg komið að tímabært var að vígja það formlega. Það gerði þá verandi borgarstjóri Gunnar Thoroddsen á vígsluhátíð sem haldin var sunnudaginn 25. júní 1950, með því að gróðursetja sitkagreniplöntu á svokallaðri Vígsluflöt.
Fljótlega fór að vakna áhugi fyrir stækkun friðlandsins. Það er svo á árunum 1957 – 58 að suðurhluti núverandi Heiðmerkur er girtur, er það svæði úr landi Garðakirkju og Vífilsstaða. Við það stækkaði friðlandið í 2500 hektara. Það er svo árið 1963 Þegar Skógræktarfélag Reykjavíkur gerir samning um varðveislu Elliðavatnslands að girðingin er færð norður fyrir Rauðhóla. Við það stækkaði Heiðmörk í 2800 hektara og er það í dag að undanskildum þeim svæðum sem Orkuveita Reykjavíkur hefur girt af vegna nálægðar við brunnsvæði.
Árið 1956 hófu unglingar á vegum Vinnuskóla Reykjavíkur störf á Heiðmörk og hafa þeir unnið í um 2 mánuði á hverju ári, frá 100 og upp í 450. Þessir unglingar hafa unnið stórvirki í skógrækt, göngustígagerð o.fl. og má segja að Heiðmörk sé talandi dæmi um hverju unglingastarf getur skilað. Einnig ber að geta þess að mikið hefur verið gróðursett fyrir gjafafé frá fyrirtækjum og stofnunum og frá einstaklingum sem gefið hafa fé til minningar um nákomna.
Jörðin Elliðavatn var löngum ein sú þekktasta í nágrenni Reykjavíkur og höfðingjasetur á tímabili. Bæjarstæðið er glæsilegt, en umhverfið gerbreyttist þegar stíflað var vegna vatnsmiðlunar 1924. Þá stækkaði vatnið um helming, en hinar frægu Elliðavatnsengjar hurfu. Á þeim tíma stóð enginn styr um þessar umhverfisbreytingar.
Í Reykjavík og næsta nágrenni hafa eðlilega orðið stórfelldar umhverfisbreytingar; það fylgir því að byggja borg. Einhverjar mestu umhverfisbreytingar í borgarlandinu hafa orðið við Elliðavatn, en ekki vegna bygginga. Jafnframt er bújörðin Elliðavatn ekki til lengur, hún er orðin hluti af friðlandinu í Heiðmörk.
Flest nútímafólk hefur enga hugmynd um þær umhverfisbreytingar sem orðið hafa á bökkum Elliðavatns, eða hvernig vatnið leit út á fyrsta fjórðungi 20. aldarinnar. Því þarf að minnsta kosti ekki að lýsa fyrir fólki sem þekkir til á höfuðborgarsvæðinu að vatnið, sem bezt sést af hæðunum ofan við Vatnsenda, er mikil umhverfisprýði og náttúruperla. Ef nauðsynlegt yrði talið að minnka vatnið verulega vegna einhverra framkvæmda er hætt við að rekið yrði upp ramakvein. Vonandi kemur aldrei til þess. En í ljósi alls þess sem búið er að segja og skrifa um uppistöðulón á hálendinu er hins vegar er ekki úr vegi að minnast þess að í aldanna rás og allt fram til 1924 var Elliðavatn miklu minna. Raunar voru vötnin tvö en tveir mjóir álar tengdu þau saman eins og sést á korti frá árinu 1916. Vestara vatnið var kennt við Vatnsenda, en það eystra var nefnt Vatnsvatn, kennt við bæinn á Elliðavatni, eða á Vatni eins og sagt var.
Ásamt með beitarlandinu uppi á Elliðavatnsheiði voru víðáttumiklar og grasgefnar engjar beztu hlunnindi jarðarinnar á Vatni. Túnið var alltaf lítið, en hafi Elliðavatnsbændur náð í starung á engjunum; sem ekki er ólíklegt, þá var hann kúgæft hey og þótti geysileg búbót. Lítið eitt vestan við miðju vatnsins eins og það er nú var allstór eyja sem skildi vötnin nánast að. Úr vestara vatninu rann áin Dimma allar götur niður að brúnni við núverandi Seláshverfi. Þar rann í hana áin Bugða, en svo heitir neðsti og vestasti hluti Hólmsár. Tvö læmi tengdu þó árnar saman við hólinn Skyggni, skammt frá stíflunni sem síðar kom.
Hvað hefur eiginlega gerzt sem haft hefur í för með sér svo róttækar breytingar á umhverfi Elliðavatns? Ekki annað en það, að á árunum 1923-1928 eignaðist Rafmagnsveita Reykjavíkur jörðina Elliðavatn og 1924 var ráðizt í vatnsmiðlun með stíflu sem síðar var tvívegis hækkuð og flestir þekkja þessa stíflu núna. Við stíflugerðina hefur vatnsborð Elliðavatns hækkað hvorki meira né minna en um heilan metra og vatnið hefur stækkað um það bil um helming. Eyjan út af Þingnesi fór að stórum hluta í kaf, svo og hinar rómuðu Elliðavatnsengjar.
Starungur er að vísu ekki lengur eftirsóttur heyfengur og engjaheyskapur allur aflagður fyrir löngu, svo segja má að ekki hafi stór skaði verið skeður. En það er annað þessu tengt sem nútíminn telur verðmæti: Votlendi. Hér var sökkt stórum flæmum votlendis þar sem án efa hefur verið fjölskrúðugt fuglalíf.
Ekki verður séð að því hafi verið mótmælt árið 1924, eða að tilfinning hafi verið fyrir því að þarna væri verið að vinna náttúruspjöll. En var það svo?
Um það má ugglaust deila, en ljóst er að Elliðavatn, þessi náttúruperla við útmörk höfuðborgarsvæðisins, er að stórum hluta uppistöðulón. Því er á það bent, að í hita undangenginnar umræðu um virkjanir á hálendinu hafa öfgamenn haldið ákaflega fram þeirri skoðun að öll uppistöðulón séu beinlínis ljót. Að sjálfsögðu var skaði að missa votlendið. En í staðinn höfum við fengið stærra og fegurra Elliðavatn.
Í umhverfi Elliðavatns er víðast hvar fagurt um að litast og bærinn sem ber nafn af vatninu var byggður á fallegum stað á nesi sem skagar út í vatnið frá austri. Kvöldfegurð á Vatni er við brugðið; útsýnið fyrst og fremst yfir vatnið og til hæðanna ofan við Vatnsenda. Nú klæðir skógur baklandið; hlíðar Heiðmerkur sem búið var að ganga svo nærri með ofbeit að uppblástur var næsta þróunarskref. Þar er ævintýri líkast um að ganga og víða frábært útsýni yfir það land sem fyrrum tilheyrði jörðinni Elliðavatni, en var þó aldrei stórt. Vatnsendaland var mun stærra og Hólmsland var það einnig; það náði allar götur upp í Bláfjöll, sunnan við Elliðavatnsland.
Allt er þetta umhverfi mikilfenglegt, en einhver fegursti reiturinn er við smærri vötnin norðaustur og austur af Elliðavatnsbænum: hjá Helluvatni, Hrauntúnstjörn og Kirkjuhólmatjörn. Þessi undrafögru smávötn sjást þegar ekið er sem leið liggur að Elliðavatni framhjá Rauðhólunum. Vegurinn liggur á brú yfirálinn úr Helluvatni og áfram upp í Heiðmörk, en afleggjari er heim að Elliðavatnsbænum. Stöldrum aðeins við þarna áður en lengra er haldið..
Norðan við Helluvatn eru nokkrir lágir gjallhólar af sama uppruna og Rauðhólarnir, en óskemmdir, og verður þetta umhverfi ævintýralega fallegt í lok júnímánaðar þegar lúpínan, sem þar er útbreidd, blómstrar og breiðir bláan lit yfir umhverfi tjarnanna.
Rauðhólarnir urðu til fyrir 4.600 árum þegar glóandi og þunnfljótandi hraunstraumur rann úr eldstöðinni Leiti í Svínahrauni og fylgdi nokkurn veginn sömu slóð til sjávar og Suðurlandsvegurinn. Þorleifur Einarsson jarðfræðingur taldi að Elliðavatn, eða einhver hluti þess, hafi þá náð þangað sem Rauðhólarnir mynduðust og hefur það eflaust verið tilkomumikil sjón að sjá glóandi hraunstraum þurrka vatnið upp. Hraunstraumurinn hélt áfram niður í voginn sem 3.500 árum síðar var kenndur við Elliða, skip Ketilbjarnar hins gamla. Árnar bera og nafn skipsins og trúlega Elliðavatn einnig.
Vatnið í tjörnunum þremur sprettur fram undan hraununum í Heiðmörk, en að hluta er það úr Suðurá sem á upptök sín í Silungapolli og undir Selfjalli hjá Lækjarbotnum. Við erum hér í næsta nágrenni Gvendarbrunna; þeir eru suðaustan við Hrauntúnstjörn.
Elliðavatn í Seltjarnarneshreppi var lengst af meðal þekktustu bújarða í nágrenni Reykjavíkur. Vatn eins og bærinn var gjarnan nefndur var þó ekki höfuðból; til þess að svo væri þurftu jarðir að vera 60 hundruð, en Vatn var aðeins 12. Hlunnindin voru engjarnar fyrrnefndu sem nú sjást ekki lengur, kvistbeit í hraununum og veiði í vatninu og ánum Dimmu og Bugðu.
Elliðavatn var í landnámi Ingólfs og því ekki landnámsjörð. Ef til vill hefur Ingólfur ráðstafað þessari blómlegu og kjarri vöxnu engjajörð til frændfólks eða vina, en um það er ekkert vitað. Engar heimildir eru til um upphaf bæjarins á Elliðavatni, en í máldaga frá 1234 segir að Viðeyjarklaustur eigi hálft land jarðarinnar. Getið er um Elliðavatn í Kjalnesinga sögu, sem skrifuð var á 14. öld, en telst full ævintýraleg til þess að vera treystandi sem heimild. Þar segir að á þeim bæ „er heitir að Vatni, er síðan er kallat Elliðavatn“ hafi búið kona sem Þorgerður hét. Hún átti son þann er Kolfinnur hét og var kolbítur, eða með öðrum orðum: Hann lá í öskustó og hafðist lítt að. Þetta fyrirbæri er vel þekkt úr ævintýrum. Ef til vill þjáðist hann af þunglyndi, en síðan hefur bráð af honum; hann reis úr öskustónni og tók að líta í kringum sig eftir konuefni. Með tilliti til þess að kolbítar voru ekki í miklu áliti, verður að teljast að Kolfinnur hafi ekki ráðizt á garðinn þar sem hann var lægstur með því að leita eftir ástum Ólafar vænu, dóttur Kolla bónda í Kollafirði. Urðu vígaferli vegna bónorðsins og kolbíturinn sýndi að það voru töggur í honum, því hann nam Ólöfu á brott og hafði hana með sér heim að Elliðavatni.
Ekki hélst honum þó lengi á konunni. Ástmaður hennar, sá mikli kappi Búi Ástríðsson sem Kjalnesinga saga greinir frá, gerði sér lítið fyrir og felldi Kolfinn. Við konunni leit hann ekki meir, „síðan Kolfiðr hefir spillt henni“.
Klausturjarðir urðu konungseign eftir siðaskiptin og þeirra á meðal var Elliðavatn. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem gerð var skömmu eftir 1700 segir að eigandinn sé „kóngl. Majestat.“ Jarðardýrleiki er sagður óviss og á jörðinni er þá þríbýli. Ábúendur eru Einar Eyvindsson á hálfri jörðinni, Tómas Vigfússon á fjórðungi og sá þriðji er Snorri Snorrason, og býr hann á þeim fjórðungi jarðarinnar, sem áður var hjáleigan Vatnskot. Allir eru þeir leiguliðar hjá kónginum og er landskuld goldin með „iii vættum fiska eður í fríðu og átta tunnum kola“ (viðarkol).
Margvíslegar kvaðir eru og á jörðinni, enda þótti ekki gott að búa í næsta nágrenni við Bessastaðavaldið. Sem dæmi um þessar kvaðir má nefna að eitt mannlán er um vertíð, hestlán til alþingis eða austur á Eyrarbakka; einn hestur frá hverjum ábúanda. Enn gætir yfirráðanna frá Viðey, „tveir dagslættir“ renna þangað. Hægt er að kalla menn til formennsku á bátum ef þeir eru til þess hæfir og fá þeir formannskaup „ef þeim heppnast afli.“ Tvo til þrjá hríshesta verður jörðin að láta af hendi og tvö til þrjú lömb skulu tekin í fóður og láta verður tvo heyhesta „til fálkafjár í Hólmskaupstað“.
Tólf kýr má fóðra á allri jörðinni segir Jarðabókin, en rifhrís til eldiviðar og kolagjörðar „fer mjög í þurð“. Þrönglendi er í högum, engjar spillast af vatnsgángi, en torfrista og stúnga „lök og lítt nýtandi“.
Þessi lýsing bendir ekki til mikillar búsældar á Elliðavatni. Segir nú fátt af búskap á Vatni þar til brautryðjandinn Skúli Magnússon kom upp Innréttingum sínum í Reykjavík eftir 1750. Meðal verkefna þar var ullarvinnsla og þurfti þá að koma upp fjárræktarbúi, bæði til þess að tryggja vinnslunni næga ull, en einnig var ætlunin að bæta hana með blöndun á útlendu sauðfé.
Elliðavatn varð fyrir valinu og má ætla að ástæðan hafi einkum verið sú að þar hefur verið talin bezta fjárjörðin í nágrenni Reykjavíkur vegna beitarinnar í skóglendinu þar sem Heiðmörk er nú.Vegna kynbótanna voru fluttir inn hrútar af enskum sauðfjárstofni, en sænskur barón, Hastfer að nafni, átti að stýra kynbótunum fyrsta kastið. Ekki er alveg ljóst hvers vegna þessi kynbótatilraun var flutt að Helliskoti, skammt frá Elliðavatni árið 1757. En þar var reist „mikil stofa“ þó ekki sjái hennar stað, en einnig að sjálfsögðu vandaðasta fjárhús landsins, „meira en flestar kirkjur hér á landi og afþiljað“.
En ekki dugði þetta afburða fjárhús til þess að bægja óláninu frá, sem fólst í að upp kom veiki í fénu: Fjárkláði sem breiddist ört út og olli gífurlegum búsifjum. Á einum áratugi frá 1760-1770 hrapaði sauðfjáreign landsmanna úr 360 þúsundum í 140. Ugglaust er það eitthvert mesta efnahagsáfall sem Íslendingar hafa orðið fyrir, svo háðir sem þeir voru sauðfjárbúskap.
Fjárræktarævintýrinu á Elliðavatni lauk með þessu; búið var lagt formlega niður 1764. Ber nú lítt til tíðinda fram til 1815 að fjöldi konungsjarða var seldur og Elliðavatn þar á meðal.
Sextán árum síðar, 1836, var Paul Gaimard í öðrum Íslandsleiðangri sínum. Hann var maður ferðavanur; hafði þá tvívegis farið kringum hnöttinn. Í leiðangurinn til Íslands hafði hann með sér lið valinkunnra manna og þar á meðal var teiknarinn Auguste Mayer. Hann gerði fjölda teikninga og skyssa á Íslandi sem eru ómetanleg heimild, ekki sízt um húsakynni landsmanna, og þar á meðal er teikning af Elliðavatnsbænum.
Mayer var frábær teiknari, en ætla má að oft hafi hann fullunnið baksviðið, fjöll og annað úr umhverfi bæja, eftir að heim var komið. Fyrir kemur að þekkt kennileiti eru óþekkjanleg og þar á meðal er hæðin ofan við Elliðavatnsbæinn. Ætla má þó að myndin sé trúverðug heimild um bæinn og hún er einnig allnokkur vísbending um að Elliðavatn hafi þá þótt markverður bær. Kirkja var þó aldrei á Vatni; bærinn átti kirkjusókn að Laugarnesi ásamt Breiðholtsbænum, Vatnsenda, Bústöðum, Kleppi, Rauðará, Hólmi, Hvammskoti, Digranesi og Kópavogi.
Á teikningu Mayers af Elliðavatnsbænum er aðeins að sjá eina stæðilega byggingu. Hún er með hefðbundnu lagi torfbæja eins og það varð á síðustu öld og snýr stafninum fram. Prýði þessa húss er vindskeið og hefur verið lagður metnaður í að hafa hana viðhafnarlega. Slíkar vindskeiðar voru ekki á bæjum almennt. Skýringuna má ef til vill finna í því, að ábúendur á Elliðavatni voru þá Jón Jónsson silfursmiður og Ragnheiður Guðmundsdóttir. Kynni að vera að listrænn metnaður silfursmiðsins kæmi þarna í ljós. Að öðru leyti sýnir myndin venjulega og fremur bágborna torfkofa, en hjallur úr timbri stendur sér. Tröðin heim að bænum liggur meðfram hlöðnum grjótvegg sem sveigist til suðurs, enda var algengasta leiðin úr Reykjavík að Elliðavatnsbænum sunnan við vatnið.
Hægt var að fara aðra leið norðan vatnsins, en þá þurfti að komast yfir Elliðaárnar, Bugðu og álinn úr Helluvatni.
Bærinn á teikningu Mayers hefur trúlega verið á Elliðavatni 1841 þegar náttúrufræðingurinn og skáldið Jónas Hallgrímsson kom þar til að sjá og teikna upp minjar um þingstaðinn Þingnes sunnan við vatnið. Þaðan hélt Jónas för sinni áfram til Þingvalla og Skjaldbreiðar og lenti í frægri villu og útilegu, sem fór þó vel og gaf af sér eitt vinsælasta kvæði Jónasar.
Þingstaðurinn var þó ekki á sjálfu nesinu sem skagar út í vatnið, heldur í hallanum ofan við nesið. Þar hafa fornleifarannsóknir farið fram; stórt rannsóknarsvæði var grafið upp og komu í ljós leifar af stórum, hringlaga garði. Innan hans sást móta fyrir fleiri mannvirkjum. Garður og rústir voru taldar vera frá 11.-12. öld og undir þeim reyndust vera minjar frá 10. öld. Frá vegamótum austan við Elliðavatnsbæinn liggur vegur sem nefndur er Þingnesslóð út með vatninu og er ökufært alla leið að Þingnesi. Sunnan vegarins er Myllulækur og samnefnd tjörn, sem samkvæmt uppdrættinum frá 1916 virðist ekki hafa verið til þá, enda hefur hún orðið til við framkvæmdir Vatnsveitunnar. Ætla má að kornmylla hafi einhverju sinni verið við Myllulæk
Þingnes er talinn einn merkasti sögustaður í nágrenni Reykjavíkur, jafnvel á landsvísu og hafa fleiri en Jónas Hallgrímsson rannsakað hann. Þeirra á meðal er Sigurður Guðmundsson málari, sem gerði uppdrátt af staðnum, Brynjólfur frá Minna-Núpi, Daniel Bruun, Finnur Jónsson prófessor, svo og Þjóðminjasafnið að sjálfsögðu. Ari fróði segir í Íslendingabók sinni, að Alþingi hafi verið sett „at ráði Ulfljóts ok allra landsmanna þar es nú es, en áður var þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfssonr landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu“.
Því er verr, að ekki eru til neinar heimildir um það hvar Kjalarnessþing var háð, en vísir menn hafa talið að um tíma hafi það verið í Þingnesi. Rannsóknir sem fóru fram 1984 benda eindregið til þess að þar hafi mannfundir farið fram. Dr. Jakob Benediktsson telur ljóst í Sögu Íslands, 1. bindi sem út kom 1974, að Kjalarnesþing hafi verið eins konar undanfari Alþingis, enda þótt það hafi ekki verið löggjafarþing, heldur aðeins dómþing og „sennilegt sé að upptakanna að stofnun Alþingis sé að leita í hópi þeirra höfðingja, sem stóðu að þinginu á Kjalarnesi.“
Sé þetta rétt er Þingnes hinn allra merkasti staður á bökkum Elliðavatns.
Heimild m.a.:
-http://www.heidmork.is
-Gísli Sigurðsson – „Skin og Skúrir á Elliðavatni“ I. hluti – Lesbók Morgunblaðsins 12. febrúar 2000.
Elliðaárdalur – Perla Reykjavíkur
Í Morgunblaðinu 2016 er fjallað um bókina „Elliðaárdalur – Perla Reykjavíkur„:
„Elliðaárdalur er stærsta græna svæðið innan Reykjavíkur, hluti af umhverfi og menningarsögu borgarinnar og eitt vinsælasta útivistarsvæði höfuðborgarinnar. Í nýrri bók um Elliðaárdalinn, Elliðaárdalur – Perla Reykjavíkur, er fjallað um gróðurfar, fuglalíf og fjölbreytilega jarðfræði dalsins og einnig sögustaði og friðlýstar minjar.
Í eftirfarandi kafla úr bókinni er í máli og myndum gerð grein fyrir ýmsum minjum frá stríðsárunum síðari.
Stríðsminjar í Elliðaárdal
Í síðari heimsstyrjöldinni, 1940-1945, var kömpum, þ.e. braggaþyrpingum setuliðsins, komið upp nánast alls staðar í borgarlandinu þar sem því varð við komið. Þar á meðal voru nokkrir í Elliðaárdal.
Kampar og stríðsminjar í landi Ártúns
Camp Ártún 1942.
Fimm herkampar voru í landi Ártúns, þar af þrír á því landi sem nú er undir borgarvernd og einn í jaðri þess. Tveir kampar voru sitt hvorum megin við bæjarhólinn.
Camp Alabaster (Camp Pershing) var skammt frá Elliðaárstöð. Þar voru aðalstöðvar breska setuliðsins eftir að þær voru fluttar úr Menntaskólanum í Reykjavík við Lækjargötu. Alabaster var nafn á hernaðaráætlun Breta við töku Íslands. Þann 13. maí 1942 flutti bandaríska setuliðið hluta af aðalstöðvum sínum eða „Iceland Base Command HQ“ í þennan kamp. Breyttu þeir nafni hans í Camp Pershing.
Camp Battle var norðan við Camp Alabaster/Pershing, hinum megin við bæjarhól Ártúns.
Camp Hickham var í Ártúnsbrekku, þar sem jarðhýsin eru nú, reistur af bandaríska setuliðinu. Camp Fenton Street var á þeim slóðum sem bílaumboðið BL er nú.
Þann 22. apríl 1942 tóku Bandaríkjamenn við yfirstjórn hers bandamanna á Íslandi úr höndum Breta. Af því tilefni fór herforingi Breta af landi brott en við yfirstjórn breska hersins hér tók fylkisforingi og voru aðalstöðvar hans í Camp Fenton Street.
Camp Pershing 1942.
Auk þessa var einn kampur á Ártúnshöfða (Camp Ártún) og tveir kampar voru vestan við Elliðaár, á móts við Ártún (Camp Pony og Camp New Mercur).
Eins og nærri má geta höfðu kamparnir mikil áhrif á líf fólksins á svæðinu. Til að mynda var öryggisgæsla svo ströng að jafnvel börnin þurftu vegabréf til að komast heim til sín. Eftirminnilegt þótti að Elliðaárstöðin var máluð í felulitunum á stríðsárunum, ekki hvít eins og alltaf. En svo var raunar um ýmis önnur mannvirki einnig.
Þegar setuliðið hvarf af landi brott í stríðslok fluttust íslenskar fjölskyldur inn í Camp Fenton Street og fékk hann þá nafnið Elliðaárhverfi. En nú hafa nær öll hernaðarmannvirki verið fjarlægð úr landi Ártúns. Einu ummerkin eru í Ártúnsbrekkunni. Annars vegar er það dæld eftir sandpokavígi sem nú er að mestu fallið saman. Hin ummerkin eru undir yfirborði jarðar, neðanjarðarbyrgi, sem búið er að hylja munnann á með jarðvegi.
Camp Baldurshagi
Camp Baldurshagi – þar sem Fákssvæðið varð síðar. Horft í átt að Breiðholti.
Hann var þar sem nú er skeiðvöllur hestamannafélagsins Fáks á Víðivöllum. Þetta var stór kampur með um 100 bröggum sem breska setuliðið reisti.
Fyrst voru þarna breskir hermenn úr Duke of Wellington hersveitinni. Síðar, þegar landgönguliðar bandaríska sjóhersins komu til landsins, 7. júlí 1941, fengu þeir þar inni. Bretarnir fluttust þá að Geithálsi þar sem þeir reistu nýjan kamp. Ummerkin sem nú sjást eftir Camp Baldurshaga eru leifar af braggagólfum og sökklum. Ennfremur var eitt húsið úr kampinum flutt í Seláshverfi og gert að íbúðarhúsi. Nafnið á kampinum er raunar villandi því að hinn upphaflegi Baldurshagi er við Suðurlandsveg.
Meðal íbúa í Camp Baldurshaga árið 1941 var Ralph Hannam, sem eftir stríðið settist að í Elliðaárdal.
Skotbyrgi
Í Breiðholtshvarfi, ofan við Árbæjarlón, er steypt skotbyrgi af þeirri gerð sem algeng var á stríðsárunum og finnast enn m.a. í Öskjuhlíð. Þetta er steinkassi, um 3 m á hvern veg, og hefur verið skotrauf framan á honum. Þakplata byrgisins er steypt og hefur lítið látið á sjá. Veggir eru hins vegar hlaðnir úr holsteini og eru þeir farnir að molna nokkuð.“
Heimild:
-Morgunblaðið, 294. tbl. 15.01.2016, Elliðaárdalur – Perla Reykjavíkur, bls. 62.
Elliðaárdalur.
Rétt á Reynisvatnsheiði
Á þessum ferðum þeirra hefur hann, fremur en hún, uppgötvað ýmislegt, sem öðrum hefur verið fjarrænt – jafnvel hulið. Ekki er langt síðan þau feðginin gengu þarna fram á leifar af gamalli hlaðinni fjárborg ofan skammt ofan skógræktarmarka, staðsettu vörðubrot og nánast jarðlæg landamerki, auk þess sem dóttirinn þefnæma staðnæmdist við leifar af rétt, aðhaldi eða stórri fjárborg á heiðinni. Hún, sem og aðrar minjar, t.a.m. leifar af hlöðnum stekk skammt neðan Grafarsels, gætu hafa verið hluti af selstöðunni. Þó er öllu líklegra að þetta tiltekna mannvirki hafi verið vorrétt (rúningsrétt) frá Hólmi og jafnvel fleiri nálægum fjárbæjum á síðari öldum.
Réttin er 12×10 m að stærð. Útveggir hafa verið gerðir úr torfi, en innveggir (dilkar) úr grjóti. Útveggirnir standa grónir og innveggir hafa verið einhlaðnir. Það bendir til fjárréttarnota.
Reynisvatn.
Leiðir og lendingar við Faxaflóa I
Oddur V. Gíslason skrifaði grein er birtist í Sjómannablaðinu Víkingi um „Leiðir og lendingar við Faxaflóa“ árið 1949. Hér fjallar hann um leiðina að Suður-Vogum:
„Árið 1890 kom út dálítill bæklingur eftir hinn kunna sægarp, séra Odd V. Gíslason á Stað í Grindavík. Bæklingur þessi var leiðarvísir fyrir sunnlenzka sjómenn, og hafði meðal annars að geyma allnákvæma lýsingu á flestum helztu lendingastöðum opinna báta við Faxaflóa. Þar sem ætla má, að ýmsir, einkum sjómenn við Faxaflóa, hafi gaman af að lesa lýsingar þessar eftir nák’unnugan mann, er sá hluti kversins endurprentaður hér á eftir. Það mun fullvíst, að kverið er nú í fárra manna höndum og næsta torgætt orðið.
Þegar leggja skal til lands, verður að gæta að skeri því, er Geldingur heitir (sem flýtur yfir nema um bláfjöru) og liggur út af hinu svonefnda Þóruskeri. Miðin á Gelding eru Keilir um bæinn Stóru-Voga (sem er eina steinhúsið í Vogum nú sem stendur) og Ánhellir (sem er austan við Brekkuskarði í Vogastapa) á að bera vestan til við Hólmahúsin (sem eru undir Stapanum). Til þess að vera að öllu frí við sker þetta, er bezt að halda aðal-þilskipaleið. Þá á hæsti hnúkurinn á suðurendanum á Fagradalsfjalli að bera í Fálkaþúfu (sem er austurendinn á Vogastapa, fyrir austan Reiðskarð, þar sem vegurinn liggur upp á hann). Þessari stefnu á að halda inn þangað til Keilir ber sunnan til við Krúnutótt (þ. e. syðsti bær í Vogum, af byggðum bæjum), úr því má halda beint á Keili, en hvorki norðar né sunnar. — Þessari stefnu má svo halda — sé um opin skip að ræða — þangað til Fálkaþúfa ber í Tangahúsið (Kristjánstangahús, það er eyðihús, fyrir sunnan Vogana). Þá er komið á móts við sker, sem er að norðanverðu við leiðina og nefnt er Stóru-Voga-tangi. (Miðið á honum er Keilir beint um Krúnutótt og Fálkaþúfa um Tangahúsið. — Úr því má halda í austur-landnorður inn í lendingu í Stóru-Vogum.“
Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 11. árg. 1949, 1.-2. tbl. bls. 45-46.
Verstöðvar á Suðvesturlandi.