Stafnes (Starnes, Sternes, Stapnes, Stafsnes) er lítið nes á Reykjanesskaga, nánar tiltekið vestast á Miðnesi, nálægt Hvalsnesi. Þar er samnefnd jörð sem tilheyrði Rosmhvalaneshreppi en í dag Suðurnesjabæ. Upphaflega hefur nesið heitið Starnes (líklega eftir melgresi sem vex þar í fjörunni) og kemur fyrir undir því nafni í heimildum frá því um 1270 og síðar. Nafnið Stafnes kemur fyrst fyrir í Jarðabókum undir lok 17. aldar. Stafnes er í Hvalsnessókn.
Stafneshverfi.
Jörðin Stafnes hefur verið stórbýli frá upphafi með margar hjáleigur og útgerð, þótt höfuðbólið Hvalsnes hafi verið stærra, en varð fyrir miklum skemmdum vegna stórflóða og sandblásturs á 17. og 18. öld. Stafnes var keypt af Magnúsi Einarssyni biskupi fyrir Skálholt kringum árið 1140, en hefur síðan gengið til Viðeyjarklausturs, hugsanlega við stofnun þess. Við siðaskiptin varð Stafnes konungsjörð. Jörðin var boðin upp í Reykjavík 27. júní 1792 ásamt 24 öðrum konungsjörðum á Miðnesi, en boðin sem fengust voru svo lág að stjórnin féllst ekki á neitt þeirra. 10. september 1805 var jörðin svo loks seld á kaupþingi í Keflavík og komst í bændaeigu.
Stafnesviti.
Á Stafnesi var ein mesta konungsútgerð á Miðnesi frá því fyrir 16. öld og fram um miðja 18. öld. Árið 1548 eru í skilagrein Kristjáns skrifara talin upp á staðnum fimm skip í eigu konungs; einn tólfæringur, tveir teinæringar og tveir áttæringar, en með tímanum minnkuðu skipin og undir lokin voru tvíæringar orðnir algengastir á Miðnesi. Auk konungs gerðu útvegsbændur báta sína út frá Stafnesi, eins og kauphöfninni Básendum lítt sunnan við. Útgerð frá Stafnesi hélst töluverð fram undir miðja tuttugustu öld, en eftir það sáralítil.
Við Stafnes hafa verið tíð sjóslys um aldir, enda skerjótt þar úti fyrir. Á síðustu öld má nefna strand togarans Jóns forseta árið 1928, en þá fórust 15 menn og 10 björguðust. Þetta sjóslys mun hafa valdið miklu um stofnun Slysavarnafélags Íslands og fyrstu björgunarsveitar þess, sem er Sigurvon í Sandgerði. Á Stafnesi var reistur viti árið 1925.
Ari Gíslason skráði eftirfarandi um Stafnes eftir Metúsalem Jónssyni: „Beint vestur af heimabæ í Stafnesi er hóll, sem heitir Vallarhúsahóll. Þar hefur verið mikil byggð hér áður fyrr. Ofan við efra húsið á Stafnesi í túni er hringur, nefndur Lögrétta. Ekki er vitað, hvað þetta var, og má geta þess, að hann er ekki eins í laginu og slíkir lögréttuhringir eru vanir að vera. Rétt vestur af húsinu eru allmiklar rústir, sem ekki er vitað um, hvað er. Austur af Eystrahúsinu í Stafnesi heitir Lodduvöllur, og í honum er Loddubrunnur.
Kvíslarhóll er gamall öskuhaugur við Loddu. Býli voru mörg hér og hvar, og örugglega eru sum þeirra farin alveg í sjó. Má t.d. nefna, að 1703 er talað um landssvæði, sem hét Snoppa. Nú veit enginn, hvar það hefur verið. Krumfótsbúð var gömul sjóbúð, sem ekki er vitað, hvar var.“
Austur-Stafnes.
Magnús Þórarinsson skrifaði um Stafnes í „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi„: „Syðsta örnefni í Hvalsneslandi var Mjósund. Er þá komið að landareign Stafness og Stafneshverfis. Á góðu og gömlu, sjómannamáli bátverjanna á opnum áraskipum var öll hin stóra vík frá Ærhólmum að Stafnesrifi kölluð einu nafni, Hólakotsbót. Á henni eru eftirtalin örnefni: Landamerki milli Hvalsnes og Stafneshverfis eru í viki einu litlu sunnan við Ærhólma; heitir það Mjósund, stundum kallað Skiptivik. Á bakkanum er lítill grasblettur, sem heitir Ögmundargerði, og þar sunnan við er gamalt byrgisbrot, sem er kallað Stafnesstekkur. Víkin sunnan við Stekkinn heitir Stafnesvík. Sunnan við er Glaumbæjarvík, og skilur smágrjótrani víkurnar. Á bakkanum fyrir ofan er hóll grasi gróinn, sem heitir Glaumbæjarhóll, það er gömul rúst. Sunnan við Glaumbæjarvík er Glaumbæjarrif, öðru nafni Kúarif, í fjörunni. Sunnan við Kúarif er Nýlenduvík; nær hún suður að Hliðhólsklöpp, sem er í sjávarmáli niður af hliðinu á túngarðinum norðan við gamla Hólakot, ætíð nefnt af umfarendum „Hólakotshliðið“. Fram af Hliðhólsklöppum eru Selatangar. Það eru nokkur smásker í röð, sem koma upp úr um fjöru; þar á meðal eru Skjöldusker og Kringlótta-Sker.
Vestur-Stafnes.
Sunnan við allt þetta, sem nú hefir nefnt verið, er nafnlaus fjara suður að svo nefndum Hólakotshól, en það, er gömul rúst á sjávarbakkanum, niður af Hólakoti, sem var nyrzti bær í Stafneshverfi og nyrzta túnið, en bærinn hefir staðið í eyði um allmörg ár.
Öll túnin í Stafneshverfi eru samliggjandi flatneskja, en sundur greind með gaddavír á stólpum. Þess má geta um víkur þær, sem kenndar eru við Glaumbæ, og Nýlendu, að þarna var rekafjara þeirra og þangtekja, enda voru þetta gamlar hjáleigur frá Stafnesi.
Stafnes – minnismerki um Jón forseta.
Byrjar nú sjávarröndin í Stafneslandi: Nyrzt, rétt við mörkin, er hóll á bakkanum með gamalli bæjarrúst; heitir það Harðhaus. Þá liggur túnbakkinn bogadreginn til suðvesturs; heitir það Refar. Ná þeir yfir túnspildu talsverða neðan af túninu og fram á tanga þann, sem heita Refagarðar, en fremst heitir það Refstangi. Er þarna fjöldi af gömlum bæjarrústum. Má það eðlilegt kalla, að eitthvað sjáist af rústum, því 10 voru hjáleigurnar, sem Stafnesi fylgdu 1703, og auk þess 12 eyðihjáleigur og búðir, allar taldar með nafni í jarðabók. Þó eru nokkur nefnd nú, sem ekki eru þar talin; hafa líklega verið byggð síðar, en þó fyrir löngu í eyði komin.
Stafnesviti og minnismerki um Jón forseta.
Víkin fyrir framan Refagarða heitir Vallarhúsavík, og fremst í henni eru Sveinshöfðaklappir. Á þeim stóð áður bær með því nafni. Við sjóinn niður af Refagörðum er Borgarvör, gamall lendingarstaður. Upp af Sveinshöfðaklöppum er Kerlingarlón efst í fjörunni milli klappanna og túnbakkans, féll sjór upp í lón þetta á stórstraumsflóðum, en ekki þess í milli; fúlnaði þá í lóninu vegna þara og óþverra, og þótti heldur ami að. Vallarhúsarif liggur til suðvesturs frá Selatöngum; fremst á því er hnúður, sem heitir Vallarhúsahaus. Á Refstanganum er svo kölluð Litla-Rétt. Heitir hún svo, af því að önnur rétt stærri var þar nokkru sunnar, en Réttarkampur heitir moldarhryggur við sjóinn milli Réttanna.
Stafnes – Norðlingavör.
Á klöpp niður af Litlu-Rétt, beint fram af Refstanga, er stór svartur steinn, sem er mið á innsiglingu og verður síðar getið Fram af Litlu-Rétt er rif eitt, hátt nokkuð, sem heitir Bóndarif, en fram af Bóndarifi liggur sjálft Stafnesrif til suðvesturs. Milli Bóndarifs og Stafnesrifs er djúpt lón eða öllu heldur hylur; mun þar vera 12-14 faðma dýpi um lágflæði. Utan við hylinn er slétt sker, sem aðeins kemur upp úr um fjöru; heitir það Kolaflúð. Þar hafa strandað tvö botnvörpuskip, svo vitað sé, Jón forseti 1928 og Admiral Toco 1913. Strandaði hinn síðarnefndi í foráttu brimi, svo engin björgun var hugsanleg, enda fórust menn allir, og svo einkennilega bar við, að aldrei hefir lík rekið af því skipi. Sömu urðu afdrif þessara skipa, að þau limuðust sundur á Flúðinni, flökin hurfu niður í hylinn og bólar ekki á þeim síðan. Þarna virðist vera dauður blettur; aldrei fellur brim yfir hylinn sjálfan, og kyrrð virðist í botni, því ekkert rekur upp af því, sem þar sekkur niður.
Spöl norður af Kolaflúð eru Litli-Hásteinn og lítið eitt norðar Stóri-Hásteinn, hvorttveggja einstakir steinar upp úr sjó að sjá með lágsjávuðu. Eru nú talin örnefni í Hólakotsbót. Gelluklappir (frb. hart, eins og hella, fella) heita klappirnar háu og stóru, sem eru syðst og yzt fram af Stafnestúni. Þar stóðu fiskhús allra hverfismanna efst á klöppunum og ofan við þær. Var húsaþyrping þessi kölluð Garðarnir og var algengt mið út af Norður-Miðnesi, einkum á Skörðum. Stafnesvitinn stendur á Gelluklöppum, byggður 1925. Er hann góð leiðbeining sjófarendum fyrir hina hættulegu Stafnestanga, þó raunar hafi strönd orðið þar síðan. Fram af Gelluklöppum er Möngurif, fremur stutt, en nokkuð hátt, það liggur til suðvesturs út í Gjána, er síðar verður nefnd. Milli Gelluklappa og Möngurifs er mjó rás fast við klappirnar; flýtur þar bátur með hálfföllnum sjó. Var rásin oft notuð í ládeyðu, ef för var heitið norður á bóginn. Önnur rás var utan við Bóndarif; heitir hvor tveggja rásin „Hörmungasund“ , og sama mið á báðum, en það er, að Stóri-Básendahóll jaðri við Skiphólma.
Frá Gelluklöppum liggur sjávarmál til austurs, inn í svo nefnt Sandhúsavik , sem er sunnan við Stafnestúnið. Eru þar þessi örnefni.
Í suðurenda Gelluklappa myndast lítið vik, sem heitir Norðlingabaðstofa. Mun nafnið vera frá þeim tíma, er Norðlingar sóttu sjó á Stafnesi fyrir öldum síðan. Ýmsar sagnir eru skráðar um sjómennsku Norðlinga þar. Ein er sú (úr Sögu Íslendinga VI, 452), er Skúli Magnússon, síðar landfógeti, hafði ráðsmennsku Hólastóls.
„…Þá hafði Stóllinn 9 menn í veri á Stafnesi syðra um vetrarvertíð 1742. Var hlutur vermanna alls 30 hundruð stór og 70 fiskar, og vo afli þessi verkaður alls 70 vættir og 5 1/2 fjórðung, auk sundmaga og hausa.“
Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.
Má nærri geta, að ekki hafa þetta verið einu Norðlingarnir, sem þá reru á Stafnesi. – Önnur sögn, sem er í ýmsum annálum, er hér tekin upp úr Suðurnesja annál séra Sigurðar B. Sívertsen á Útskálum (prentaður í Rauðskinnu 1953, III, 19): „1685. Mannskaðavetur. Skiptapar ógurlegir á Góuþrælnum. Sjö á Stafnesi. Drukknuðu 58 menn. Það sjöunda [hér er einhver villa] gat hleypt inn Hamarsund og björguðust menn. Á tíæringunum frá Stafnesi voru flestir útróðrarmenn að norðan og margir valdir menn . . . þar á meðal Ólafur yfirlestamaður frá Hólum, Þorsteinsson. – Þann 11. marz voru 42 menn jarðsettir við Útskálakirkju, en daginn eftir rak 47 upp, er einnig voru grafnir þar, í almenningi að kórbaki. Reiknaðist svo til, að í allt hafi drukknað 156 manns …“
Austan við Norðlingabaðstofu er Stokkavör, ævagömul, enda stundum nefnd Gamlavör. Þar innan við er Gosuvik; hefir þar verið gjörð lending, sem heitir Gosuvör, en er oft nefnd Skökk; mun það vera af því að hún stefnir skáhallt inn í grjótið. Þar uppi á bakkanum er hóll með rúst. Þar stóð bærinn Gosa. Innan við Gosuvör er Skiphólmi. Það er hár hóll, grasi gróinn að nokkru. Þar var áður býli, en nafnið er týnt, það kynni að vera Litlu-Hólmahús, sem var eitt af eyðibýlunum við Stafnes 1703. Til suðvesturs frá Skiphólma liggur grynningatunga út í Gjána. Hyldýpi er báðum megin við, en á tungu þessari eru þrjú sker, sem heita: Vatnasker, grynnst, þá Brúnkolla og Hvirfill, yzt, er Hvirfill aðeins þaratoppur. Austan við Skiphólma er annar hóll stór, með gömlum bæjarrústum; hét það Sandhús, en hóllinn heitir nú Sandhúsahóll. Sjór er enn góðan spöl inn í landið. Er það fremur mjótt vik og heitir Sandhúsavik. Það er inn af Gjánni eða innsti hluti hennar. Slétt láglendi er upp af vikinni, og fellur þar sjór langt upp á land í stórflóðum. Fyrir sunnan Sandhúsavik er stórt, slétt og fallegt graslendi; heitir það Flatir.
Stafnes – túnakort 1919.
Fram af Flötum er stór og breiður hraunfláki, sem nær langt út í sjó; nokkuð flatur yfir að líta, er það Urðin, er svo heitir. Fremst á Urðinni er stórt lón, heitir það Urðarlónið. Þvert yfir Urðina liggja tvær rennur eða rásir; heitir sú fremri, sem liggur þvert yfir Lónið, Ytri-Dyr. Hin, sem er nokkru ofar, heitir Innri-Dyr. Fara mátti í ládeyðu á bátum um Rennurnar og með því stytta sér leið, ef hæfilega hátt var í sjó. Fram yfir 1880 sáust grasblettir víða um Urðina, og í Lóninu sjálfu hafði verið stargresi. Mun þar af dregið hið forna nafn jarðarinnar: „Starnes“. Enn fremur er sagt, að áður fyrr hafi gengið í Urðarlón bæði silungur og lax. Hafi svo verið, hefir sjór ekki gengið svo að við Stafnes sem nú er. Yfir alla Urðina fellur í stórstraumsflóði, og svaði mikill er þar í brimi.
Þó muna elztu menn, að laxar fundust við Lónið, en það mun hafa verið fyrir aðgjörðir sela eða veiðibjöllu. Ofarlega á Urðinni er Sundvörðuklöpp, nokkuð stór klapparbunga; á henni stóð sundvarðan áður, en var síðar flutt hærra upp, vegna sjávarágangs. Urðin er nokkurn veginn ferköntuð í laginu, þó nokkuð lengri til sjávar en með landi. Útnorðurhornið er skarpast, nærri vinkilhorn; er það kallað Urðartáin.
Stafnes – Vallarhús.
Norðan í tánni er klettur, sem upp kemur með lágum sjó, kúpulagaður eins og skál á hvolfi; er hann nefndur „Steinninn“. Hann er við innri snúninginn á sundinu. Við hann er 10-12 faðma dýpi, og má fara fast við hann, því hann kastar frá sér. Þó mest beri á hnullungs grjóti á börmum Urðar, er hún svo snarbrött, að nærri er þverhnípt við tær þess, er stendur á brúninni, og hyldýpi fast upp að henni, bæði vestan og norðan, þess vegna er aldrei brim fyrir framan Urðina, en stórfellur á blábrúninni, sem að hafi veit. –
Skal nú reynt að lýsa innsigling á Stafnesi.
Stafnes – Grund.
Eins og áður segir er Bóndarif fram af Litlu-Rétt, en fram af Bóndarifi er Stafnesrif og stefnir til suðvesturs. Það nær lengst út allra skerja á þessu svæði eða fram undir miðið, Eldborg grynnri lausa, (sjá örnefni á Reykjanesi, í: Fiskimið opnu bátanna á Miðnesi). Er það alræmdur hættustaður. Hafa þar mörg skipströnd orðið og mannskaðar, sem kunnugt er. Sunnan megin er hraunflákinn, sem heitir Urðin; hún nær fram undir miðið Kerlingin.
Milli Stafnesrifs og Urðar er stórt lón; mætti næstum segja: lítill fjörður, heitir það Gjáin. Dálítil sjávarálma liggur úr Gjánni utan við Möngurif en innan við Stafnesrif, norður með Gelluklöppum í kverkina við Bóndarif og Refstanga. 18-20 faðma dýpi er víðast hvar á Gjánni. Oft er þar straumrugl og sjór tipplóttur, stundum svo, að varla er sjór skiplægur þar.
Stafnes – loftmynd 1954.
Sundið er oftast nefnt Stafnessund, en heitir Álsund, og liggur sundið um Álinn svo nefnda. Mið á Álnum (sundinu) eru: Hólakotsvarða, þó oftar nefnd Heiðarvarða, er stendur í hrauninu skammt fyrir ofan Hólakotstúnið, það er stór og allgild grjótvarða með sundtré eða þríhyrning ofan á. Önnur varða nákvæmlega af sömu gerð stóð á Urðinni, kölluð Urðarvarða. Þetta er þá Állinn (sundið): vörðurnar saman, og mun sundið oftast byrjað á miðinu Valahnúkur. Þegar farið er inn Álinn og komið er á miðið Kerlingin laus, er skammt upp að Urðinni, enda er þá snúið norður með henni (eða beðið lags, ef með þarf) og haldið undan Kerlingu, en þá er annað mið fram undan í sömu stefnu, en það mið var fjárrétt, sem var á Hvalsnestanga (nú horfin) í svarta steininn á klö[p]pinni fram af Refstanga eins og áður var getið. En þá er á bakborða hættulegasti boðinn „Stafurinn“, sem er fram af Urðinni. Hann tekur sig upp á miðinu, Eldborg grynnri, og stefnir upp á Urðina. Verður því að róa undir flötum Stafnum. Má segja, að skip og menn séu milli tveggja elda, þegar róið er fast við bak Urðarbrims, en Stafurinn, stór og hár, stefnir á flatt skipið. En öllu er óhætt, því að full vissa er fyrir, að Stafurinn dettur niður, nema mikil forátta sé, enda er sundið ófært, ef hann veður í land, en það kemur ekki fyrir nema í aftaka brimi. Sömu stefnu er haldið, þar til komið er norður fyrir „Steininn“ norðan í Urðartánni. Er þá snúið að og haldið inn Gjána, Heiðarvörðu um rofbakka ofan við Glaumbæ (nú í eyði). Suður úr Stafnesrifi er grynnsli nokkurt; á því fellur boði, sem stefnir upp á Gjána, heitir hann Hólmaflaga. Hann gengur allnærri sundinu um snúninginn við Steininn, en veldur þó eigi verulegum baga.
Stafnes – Stórarétt.
Eins og áður segir, var oft tipplóttur sjór á Gjánni í brimi og verri, er átt var vestlæg. Er þá farið þvert yfir hana að utan og haft skjól af rifinu inn Gjána norðanverða. Einkum er slæmur eitill norðan og innan við Steininn. Gýs eitill þessi upp snögglega, en fellur nærri ofan í sjálfan sig. Þetta er Hvirfillinn, sem er fremst á grynningatungunni, er liggur út í Gjána. Að öðru leyti verður ósjórinn af aðstæðum þarna. Gjáin er djúp og alllöng, en fremur þröng, brimöldurnar skella á Urð, rifi og Gelluklöppum, mynda frákast öllu megin, sem mætist á Gjánni. Auk þess veldur brimið ætíð sogadrætti í öllum þrengslum. Orsakar allt þetta straumköst og ósjó.
Annað sund eiga Stafnesingar. Það heitir Stafsund. Liggur það beint inn á Gjána, norðan við boðann, Stafinn, á miðinu Heiðarvarða um rofbakkann ofan við Glaumbæ. Þetta sund var aðeins notað í brimlausu til að stytta sér leið.
Stafnesbrunnur.
Þegar komið var inn úr Gjánni, var lent í Stokkavör, sem var aðallendingin. Þar var fiskurinn seilaður og borinn upp á skiptivöll við sjávarhúsin. Þegar búið var að losa skipin, voru þau færð að Skiphólmanum, sem var uppsátur skipanna. Var þá farið innan við Vatnasker og inn með Hólma sunnan megin og lent austan á Hólmanum. Þar eru sléttar klappir í flæðarmáli, svo nefndur Flór. Þegar góð var tíð og daglega róið, voru skipin látin standa á Flórnum yfir nóttina, en ef útlit versnaði, voru þau hækkuð upp meira eða minna eða sett alla leið upp á Hólmann. Var það ærið erfitt verk, meðan ekki voru önnur tæki en bök mannanna, því Skiphólmi er hár og snarbrattur. Efst uppi er
sléttur flötur, og þar stóðu skipin, en þykkur tvíhlaðinn grjótgarður er umhverfis flötinn, skipunum til skjóls fyrir ofviðri, enda var þeim óhætt í þessu ágæta nausti, hvað sem á gekk. Skiphólmi stendur neðan við flóðmál og fellur kringum hann á stórstraumsflóðum.
Var gjörð grjótbrú milli lands og Hólma, en með því að sogadráttur var sterkur í þröngri rásinni, vildi oft ruglast hleðslan, svo fótfesta varð óviss. Einkum var þetta illt, ef bera þurfti beitt lóðarbjóð yfir brúna í dimmu, en mjög fallið yfir. Var svo jafnan þar, sem slíkar brýr varð að nota.
Stakkavör eða Gamlavör hefír augsýnilega verið rudd inn í stórgrýtisurð einhvern tíma fyrir löngu síðan. Hún líkist nú mest gróinni götu, aflöguð af grjótburði og öll þangi vaxin, Á síðari árum útgerðar á Stafnesi var steypt gangbraut eða vagnvegur á austurbrún Gömlu-Varar, en aldrei var lokið verkinu til fulls. Útgerðinni lauk fyrr. Nú er sjórinn að brjóta skörð í steypuna og ónýta hana. Þannig eyðast og hverfa gömlu sporin, hvert sem litið er.
Stafnes – Ögmundagerði.
Hvergi á Miðnesi var eins gott til sóknar sem á Stafnesi. Þar var jafnan útgerð mikil, bæði fyrr og síðar, enda dugnaðarmenn, sem að henni stóðu og að unnu. Þar voru einnig sjávarhús mörg og myndarleg. – Gætu Stafnesklappir talað, mættu þær taka undir með gömlu konunni gigtveiku. „Önnur var mín ævi.“ Nú hefir Urðarvarða misst prýði sína, tréstólpann með þríhyrning. Eftir stendur enn grjótvarðan, óþekkjanleg frá öðrum systrum sínum, ef ekki verður að gjört. Grjótbyrgi hrunin. Sjómannakofar horfnir. Önnur hús, er enn standa, drúpa hnípin og afrækt. Svo er jafnan um það, sem hætt er að nota, enda mun útgerð á Stafnesi hafa lagzt niður fyrir fullt og allt um 1945, og þó áður mjög úr henni dregið.
Góðir Stafnesingar, sem enn eruð starfandi! Þið eruð afkomendur og eftirmenn mikilla formanna á Stafnesi. Má þar nefna Daða Jónsson og Eyleif Ólafsson, sem voru með þeim síðustu. Væntanlega setjið þið strax skautafaldinn á Urðarvörðu, til heiðurs við margar merkar minningar frá fornri útgerð á Stafnesi og til þess, að hún megi þekkjast frá óæðri systrum sínum um hraun og heiði. Hún heitir enn Urðarvarða og á að halda því nafni, þó flúin sé upp á Flatir.
Stafnes – sundmerki.
Sundmerkjum á Stafnesi á að halda við, svo lengi sem sögur eru til af einum merkasta útgerðarstað á Íslandi frá fyrri tíma.
Langt er enn til Djúpavogs í Ósabotnum, en þar endar Stafnesland. Eins og sjá má á öllum kortum, beygist landið austur á við fyrir sunnan Stafnestanga og er bogadregið allt inn í Ósa. Fyrst til suðurs, landsuðurs og loks í háaustur. Skal nú haldið með ströndinni og leitað örnefna.
Suður og inn af syðri Urðartánni er einkennilegt sker. Boði, sem á því fellur, heitir Svörfull. Sker þetta lítur helzt út fyrir að vera gamall eldgígur, því að í miðju skerinu er hylur, 10-12 faðma djúpur. Þegar Svörfull er uppi, fellur hann fyrst til norðausturs, svo í hring til suðurs og virðist þannig fylgja gígbarminum, og endar með því að falla beint á sjó út.
Í september 1881 strandaði á Svörful skip, 440 lestir að stærð, hlaðið ofnkolum. Menn björguðust í land á bátnum, komu heim að Stafnesi um kvöldið og voru þar um nóttina.
Stafnes – Hólakotsstekkur.
Um morguninn er komið var á fætur sást ekkert af skipinu, nema ofan á hæsta masturstoppinn. Brimið hafði fært briggskipið inn yfir gígbarminn, og það sokkið niður í hylinn í skerinu. Ekkert rak upp af því skipi, annað en það, sem lauslegt var á dekki og flotið gat. Enn eru menn á lífi, er höfðu glöggar frásagnir um þetta strand og frá því er sagt í Suðurnesjaannál (bls. 180), en síðar bætir annálshöfundur (sr. Sig. B. Sívertsen) við): „Skip það, sem sokkið hafði fyrir framan [sunnan] Stafnes með ofnkolin, var nú, þann 22. desember, loks selt við uppboð, þegar útséð var um, eftir brim, hroða og stórflóð, að ekkert mundi reka upp af því. Komst það í 45 krónur og þótti ráðleysa að kasta út meira fé í slíkan vonarpening, svo valtan.“
Sunnan við Urðina er í flæðarmáli stór og hár grashóll, sem heitir Stóri-Básendahóll. Framan við hann og aðeins nær Urðinni er sandblettur, sem heitir Gunnusandur. Framan við sandinn og eilítið sunnar eru svonefndar Róklappir, dálítill klapparbálkur; fellur ekki yfir þær á flóði nema brim sé. Framan við Róklappir er aftur lítil sandflúð, sem heitir Rósandur, en þar fram af er út í sjó kringlótt sker, sem heitir Rósker. Þar voru flestir selirnir skotnir af Stafnesbændum á fyrri tíð. Mér er sagt, að Eyvindur Pálsson, sem bjó á Stafnesi frá 1860, þar til tengdasonur hans Hákon Eyjólfsson tók við, hafi verið sundmaður ágætur. Hann hafði þann hátt á að synda með byssuna út í Rósker með útfalli og vera kominn, áður en selirnir lögðust upp á skerið. Vöruðust þeir ekki þessa veiðibrellu.
Stafnes – Bali.
Nokkru dýpra fram af Róskeri er skerjagarður, sem liggur til suðurs; heitir það einu nafni Básendasker. En víkjum nú aftur upp á land. 20 til 30 föðmum suður af StóraBásendahól er graslaus klapparhóll; heitir hann Litli-Básendahóll. Sunnan við þann
hól stóð Básenda-verzlunarstaður. Þar fram af er malartangi með sljóu horni. Á tanganum sér enn til rústa eftir meira en 150 ár, en 1799 var Básendaflóð. Sunnan við tanga þennan er ílangt lón; það var Básendahöfn. Leiðin inn á höfnina hefir verið löng milli skerja, en að mestu bein og djúp. Sundmerki eru nú gleymd. Má enn sjá leifar af umbúnaði, hringjum og stólpum, sem var tinsteyptur í klappir og sker til þess að svínbinda skipin.
Varla hefir þetta verið góð og örugg höfn, eins og nokkrir hafa talið, en það vita kunnugir bezt, hve hollt er að vera á vélarlausum dekkbát inni á milli skerja sunnan við Stafnes í sunnanátt og hroða, þó að sumri sé. En stundum dróst afgreiðsla skipanna fram á haust, enda brotnaði þar skip 1669, albúið til siglingar, og tvö skip 1714, hlaðin fiski, segir Suðurnesjaannáll.
Stafnes – Nýlenda.
Skúli Magnússon landfógeti ræðir í sýslulýsingu sinni nokkuð um Básenda, þar segir svo: „Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í vestanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farizt þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á höfn þessa um hríð. Höfnin er því eigi örugg nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. Í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrr nefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 í hinu síðar nefnda. Þarna lækkar og lækkar í sjónum um 9 fet í góðu veðri, þegar stórstreymt er, en um 5 fet, þegar smástreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi … Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar. Aftur á móti er fiskverkunarstæði því betra kringum Stafneslendingu, einkum á Refshalabæjum svo nefndum. Að vísu hafa þeir lagzt í eyði síðan konungsbátarnir voru lagðir niður 1769. Þó mætti byggja þá upp aftur, ef þörf væri á, því að á Stafnesi hefir þótt fremst fiskiver á Íslandi um vetrarvertíð á fyrri tímum og allt fram að því ári. En síðan hefir sjósókn þorrið þar mjög.“
Stafnes – Heiðarbær.
Efalaust hefir útgerð og sjósókn þorrið á Stafnesi, sem annars staðar á síðari hluta 18. aldar og framan af þeirri 19., þegar eymdarhagir voru á landi hér, enda mátti víst heita, að Stafnes væri í eyði um aldamótin 1800 (sjá um Básendaflóð eftir Vigfús Guðmundsson í Blöndu III, bls. 57). En á síðari hluta 19. aldar voru 20 til 25 stórskip gerð út á vetrarvertíðum af bændum á Miðnesi, og ætíð var Stafnes talið í fremstu röð, með þá merkismennina hvern fram af öðrum: Erlend Guðmundsson, Eyvind Pálsson og Hákon Eyjólfsson. Það hefir í annálum og öðrum ritum verið talað um útgerð og aflabrögð á Stafnesi, og yngsti annállinn, Suðurnesjaannáll, sem ritaður var á 19. öld, er fjölorður um mikil aflabrögð hjá Stafnesmönnum, enda var þar bezt til sóknar af Miðnesi á tíma áraskipanna.
Bátsendahöfn mun heita réttu nafni Brennitorfuvík, en Brennitorfa var þar fyrir ofan. Þar höfðu Básendamenn brennur sínar. Stendur þar nú varða á grjótholti, en Torfan sjálf er örfoka. Sunnan við Brennitorfu er Draughóll og Draughólskampur með sjó fram til suðurs. Fram af kampi þessum er stór klettahólmi úti í sjó; heitir hann Arnbjarnarhólmi. Þar eru suðurtakmörk Básendahafnar. Sunnan við Draughólskamp er stórgrýtishryggur, sem heitir Kuðungavíkurkampur, og Sandvík sunnan hans heitir Kuðungavík. Enn er dálítill kampur og sunnan hans er Djúpavík, allstór. Þar nokkuð úti í víkinni er stór klettur einstakur; heitir hann Svartiklettur; hann er mið á einni fiskiholu. Stafnesinga. Ofan við Djúpuvík eru svo nefndar Dauðsmannsklappir.
Stafnes – Hólakot.
Sunnan við Djúpuvík er mjög langur hrauntangi, sem nær langt út í sjó; heitir hann Skarfurðartangi. Fyrir sunnan tangann er á löngu svæði bein urðarfjara; heitir það Skarfurð. Fram af Skarfurðartanga er sker eða flúð, er sjaldan kemur upp úr; heitir það Vefja. Sjávarhræringar á Vefju eru óvenjulegar, líkt og á Svörful. Sunnan við Skarfurð er stór djúp vík, sem heitir Stólsvík; hún dregur nafn af einkennilegum kletti þar úti í víkinni, nokkuð frá landi; hann líkist mest prédikunarstól og heitir Tómasarstóll, en ókunnugt mun vera nú, af hverju nafnið er til orðið. Oftast er stóllinn alsetinn skörfum með útbreidda vængi.
Sunnan við Stólsvík er þröngt og djúpt vik inn í klettana, kallað af Stafnesmönnum Norðurvik Þórshafnar. Þar sunnan við er klettarani, mjög stórgrýttur fremst, en grasi gróinn ofan; heitir það Þórshafnarbali. Hann er vesturhlið á löngum bás, er liggur til norðausturs inn í landið. Básinn heitir Þórshöfn. Það er hin fornkunna höfn verzlunarskipanna á síðari hluta 19. aldar. Af sýslulýsingu Skúla fógeta (Landnám Ingólfs, bls. 117) vitum við, að „leiðin inn að henni er 55 faðma breið.
Stafnesgarðar.
Mesta lengd innsiglingar er 170 faðmar, en breidd 51 faðmur, þó ekki nema 26 faðmar, ef skipin rista meira en 6 fet [hér mun vera átt við Þórshöfn sjálfa frá mynni til botns]. Höfnin var að vísu notuð, þegar Hansakaupmenn eða Þjóðverjar ráku verzlun hér á landi.“ (1601 var síðasta verzlunarár þeirra, því einokunin byrjaði 1602, sem kunnugt er). Skúli gjörir lítið úr þessari höfn, segir að hún sé „lítil og léleg og komi ekki heldur sjómönnum að liði.“ Svo virðist, að hún hafi lítið eða ekkert verið notuð á hans dögum.
Eigi er vitað með vissu, hvenær dönsku skipin byrjuðu að hafa þar hafnlegu; þó varla fyrr en Básendar lögðust niður. Leiðin inn á Þórshöfn er tvær vörður saman; stóð önnur í norðvesturhorni Þórshafnar, en hin uppi á heiðinni; heitir sú Mjóavarða (93) og mun enn vera uppi standandi, enda algengt mið í Stafnesdjúpi. Höfn þessi er svo þröng, að ekki varð komizt inn eða út á seglskipi, nema einstefnu leiði væri, og skipin varð að svínbinda á allar hliðar. Flest voru þar 5 skonnortur í einu, sem mér er kunnugt um. Þau lágu þar öll saman bundin, hlið við hlið, og vissi framstafn allra til hafs. Ætíð var stillt í þessum mjóa og langa bás, og sogadráttur furðu lítill, þó nokkurt brim væri, enda eru Þórshafnarsker fyrir framan og braut brimið á þeim.
Austurhlið Þórshafnar er langur hrauntangi, en austan hans er stór og breið vík; heitir hún Hvalvík. Þar eru sandleirur í botni og þornar þar á stóru svæði um stórstraumsfjöru.
Stafnes – Refamýri.
Smávik er vestast í Hvalvíkinni, gengur vikið inn í hrauntangann austanmegin framarlega, gegnt Þórshöfn; er það kallað syðra Þórshafnarvik. Vikið er þurrt um fjöru, en skemmtilegt sjávarvik á flóði. Frá viki þessu er á austurhlið hrauntangans, Hvalvíkur megin, stórgrýttur kampur, sem heitir Skeljaurð; nær hann inn að botni Hvalvíkur, en upp af sjálfum botni hennar eru grasbakkar.
Úti í Hvalvíkinni er Hvalvíkurhólmi, allstór og hár nokkuð; hann var grasi gróinn.
Út að honum liggur grandi, eða öllu heldur röð af smáskerjum, en rásir eru á milli og var þarna mikil flæðihætta, meðan sauðfé var margt, en Miðnes var talinn fjárríkasti hreppur á Suðurnesjum um næstliðin aldamót.
Allbreiður tangi austan Hvalvíkur er í daglegu tali nefndur Torfan, en mun heita Preststorfa. Við Torfuna er lending, nefnd Grímsvör öðru nafni Bárðarvör, en fram af Torfunni er stór klettur; heitir hann Hestaklettur (101), en örskammt frá er Selsker. Af Torfunni er skemmst sjóleið yfir Ósana. Fólk, sem ferðaðist gangandi milli Miðness og Hafna, einkum prestarnir, kom oft á Torfuna og kallaði til Kirkjuvogs, sem vel heyrðist. Var fólkið þá sótt og flutt yfir á bát.
Vallarhúsabrunnur.
Það slys varð í þessum flutningum árið 1748, er ég tek hér upp úr Suðurnesja annál Sig. B. Sívertsen, orðrétt: „Fimmta sunnudag í föstu drukknaði presturinn á Hvalsnesi, séra Árni Hallvarðsson, er hann ætlaði til embættisgjörðar að Kirkjuvogi. Hafði hann farið af svo nefndri Prestatorfu í góðu veðri. En þeir, sem fluttu hann, höfðu farið of nærri skeri því, er Selsker kallast; hvirflar á því, en kemur upp úr um fjöru, en á móti því er klettur stór, er Hestaklettur kallast. Þar á milli liggur leiðin og allnærri klettinum, en þeir héldu nær skerinu en mátti.
Reisti sig þá upp boði, er hvolfdi bátnum, er hann kenndi grynninga. Drukknaði þar prestur og sjö menn aðrir. Var einn þeirra Einar, sonur Hákonar í Kirkjuvogi, bróðir Vilhjálms. Einn eða tveir menn komust af, og þeir heyrðu prest segja, þegar hann sá, hvernig fara mundi: „Herra Jesú, meðtaktu sálir okkar allra.“ Nýlega hafði þá síra Árni verið búinn að taka af jólagleðina, sem haldin var á Flankastöðum, nauðugt mörgum. Hann var 36 ára gamall“.
Nýlendubrunnur.
Austan við Torfuna er allmikil sandvík; í vík þessari er stór og hár grashólmi, sem heitir Einbúi (103), umflotinn á flóði. Hann er áberandi mið í Stafnesdjúpi. Mjög skammt fram af Einbúa er annar hólmi lítill, grasi gróinn; hann heitir Runkhólmi. Í öllum þessum hólmum, Hvalvíkurhólma, Einbúa og Runkhólma, var æðarvarp, meðan um var hirt. Frá Einbúa er sjávarmál skorið af smávikum en grjótranar á milli, allt að tanga þeim, sem heitir Fremri-Skotbakki.
Það bar við á hvítasunnudag 1881, að timburskip, mannlaust, tröllaukið að stærð, eftir því er þá var kallað, rak að landi í Ósum. Heyrði ég mikið talað um skip þetta á ungdómsárum mínum, enda var þá sem óðast verið að byggja baðstofur, timburhús, sjávarhús (timburskúra) og alls konar útihús úr efnivið þessum. Tvær eru heimildir, mér tiltækar, um skip þetta, en því miður ekki samhljóða um stærðina.
Stafnes – Refatjörn.
Ólafur Ketilsson hreppstjóri í Höfnum (hann var 16 ára, er strandið skeði, og vann við skipið) skrifaði skemmtilega og fróðlega grein um skip þetta í Lesbók Morgunblaðsins 44. og 45. tbl. 1936. Hann segir (þrisvar) í grein sinni, að skipið hafi verið 360 fet á lengd og 65 fet á breidd. Til samanburðar má hafa að nýi Gullfoss okkar er 355 fet á lengd, stafna milli, en 47 1/2 fet á breidd. – Hins vegar segir séra Sigurður B. Sívertsen í Suðurnesjaannál (sjá Rauðskinnu 1953, bls. 175) að eftir því sem hann komist næst; var lengd þessa skips 128 álnir (256 fet) og á breidd 27 álnir (54 fet) en setur svo milli sviga: allt að 30 álnir. Svo virðist, að Ólafur Ketilsson viti málið, en séra Sigurður hafi sennilegustu ágizkun eftir annarra sögn. Ólafur segir, að sér teljist svo til, að í skipinu hafi alltaf verið um 100 þúsund plankar, fyrir utan alla plankabúta og fleira, að meðaltali 16 feta lengd, 8 þumlunga breidd og 3 þumlunga þykkt. Þetta „fleira“, sem Ólafur telur, var afarstór borðabunki aftast í miðlestinni og einnig í sömu lest afarstór – eins og hann orðar það – hlaði af hvítum múrsteini, fleiri þúsundir að tölu, sem allur fór í sjóinn og loks var seglfesta skipsins silfurgrjót, sem talið var af sérfræðing (útlendum) meira virði en skipið sjálft með öllum öðrum farmi, það fór einnig í sjóinn. Skipið hét James Town.
Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.
Því er á þetta minnzt hér, að kjölsvínið af skipi þessu með hluta af annarri síðunni hefir legið og liggur enn við Skotbakka, en mun nú vera sokkið í sand eða leir.
Nokkurn spöl austur af Fremri-Skotbakka er annar tangi, sem heitir Innri-Skotbakki. Skammt innar er gamli Kirkjuvogur. Þar sér aðeins fyrir rústum, en engin önnur merki um fyrri byggð. Til marks um það, hve Vogur (107a) (gamli Kirkjuvogur) var mikil jörð, skal þess getið, að árið 1407 selur Björn Þorleifsson hirðstjóri manni einum, er Eyjólfur hét Arngrímsson, Voga á Rosmhvalanesi, sem þá var kirkjustaður, fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum. (Árb. Esp. 2, 68.)
Nokkur fróðleiksauki er þáttur jarðabókar (Á. M. & P. Víd.) 1703. Þar segir svo: „Gamli Kirkjuvogur. Forn eyðijörð, um hana er skrifað síðast meðal Hafnahreppsbæja, að óvíst sé, hvort hún liggi í Kirkjuvogs- eða Stafneslöndum, item, að munnmæli séu, að Kirkjuvogsbær sé þaðan fluttur. Nú að fleirum kringumstæðum betur yfirveguðum sýnist að sitt hafi hvor bær verið. Kirkjuvogur sem nú er byggður, og þessi gamli Kirkjuvogur, sem af gömlum documentum ráða er að heitið hafi til forna Djúpivogur. Hvað sem hér um er að segja, þá er það víst, að þessi eyðijörð öldungis ekki kann upp aftur að byggjast, með því so vel túnstæðið sem landið allt um kring af sandi uppblásið er og að bláberu hrjóstri orðið. Svo er og lendingin, er þar sýnist verið hafa, af útgrynni öldungis fordjörfuð og ónýtt. Grastór, sem hér og hvar í landareigninni kunna til baka að vera, nýta sér Stafnesingar og Kirkjuvogsmenn og er hér ágreiningur um landamerki.“
Stafnesvegur.
Árið 1703 hefir gamli Kirkjuvogur legið í auðn yfir stórt hundrað ár, segir þar, þ. e. frá 1580 eða nokkru fyrr. Þegar hér er komið, er orðið grónara heiðarland með lyngklóm niður undir sjávarbakka. Útfiri er mikið innst í Ósum og sandleirur allmiklar um stórstraumsfjöru.
Djúpivogur er nyrzti, innsti og lengsti vogurinn í Ósabotnum. Þar voru landamerki milli Stafness og Hafna og um leið hreppamörk. Þeim mun þó hafa verið lítilsháttar breytt á síðari árum.
Yfir margt er að líta á langri ævi og umbreytingasamri. Frá strönd ég stari og sé í fjarska tímans: sjóinn og fjöruborðið með öllu Miðnesi, eins og rósótta ábreiðu, síbreytilega eftir sjávarhæð og ljósbroti sólar. Á lognblíðum dögum, þegar síkvik báran lék við þarann og sandinn, fóerlan söng sitt ljúfasta lag og æðurin ú-aði á útmánuðum, var yndislegt að vera ungur og lifa í óskadraumum, sem aldrei rættust. – En svo dró bliku á loft og bakka við hafsbrún. Þau sendu sterkan hvínandi storm, þá varð dimmt undir él, sjórinn úfinn og ægilegur, eins og reiður jötunn, er Hræsvelgur blakaði arnarvængjum sínum. Þannig er, í fáum orðum, myndin á spjaldi minninganna.
Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Stafnes
-Rauðskinna (Sögur og sagnir), IX-X bindi, ritstj. Jón Thorarensen, Reykjavík, 1958.
-Landið þitt Ísland, 4. bindi S-T, Þorsteinn Jósepsson/Steindór Steindórsson, Reykjavík 1983
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Stafnes“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, Hafnarfirði, 1960, bls. 151 –165.
-Ari Gíslason skráði eftir Metúsalem Jónssyni.
Stafnes – lögrétta.
Trölladyngja – Selsvellir – Hraunssel – Leggjabrjótshraun – Núpshlíðarháls
Gengið var frá Trölladyngju upp í Sogadal, þaðan upp að Spákonuvatni og síðan niður Þórustaðastíginn þar sem hann liggur skásniðinn niður Selsvallafjall á Selsvelli, suður með vestanverðum Núpshlíðarhálsi, um Þrengsli og Hraunsel, áfram niður með austurjarði Leggjabrjótahrauns og síðan gamla Krýsuvíkurveginum (Hlínarveginum) fylgt austur yfir Núpshlíðarhálsinn á Djúpavatnsveg sunnan Stóra Hamradals.
Trölladyngja og nágrenni.
Trölladyngjusvæðið er nátttúrminjasvæði, auk Keilis og Höskuldarvalla. Mörk svæðisins eru um Keili að vestan, Markhelluhól að norðan, fylgja síðan vesturmörkum Reykjanesfólkvangs á móts við Hverinn eina, þaðan um Driffell í Keili. Þá er gígasvæðið vestan í Vesturhálsi er liggur frá Höskuldarvöllum suður á milli Oddafells og Trölladyngju til Selsvalla hluti af náttúrverndarsvæðinu, en úr gígaröðinni þar hefur Afstapahraun runnið. Gígasvæðið er að hluta innan Reykjanesfólkvangs. Sjálf er Trölladyngjan móbergsfjall, líkt og Grænadyngja, systir hennar, og Keilir.
Spákonuvatn.
Gengið var yfir Sogalækinn og áfram upp á gígbrún Spákonuvatns. Þaðan er tilkomumikið útsýni yfir litskrúðugt Oddafellið og formfagran Keili. Spákonuvatnið er í einum gíg af mörgum á Núpshlíðarhálsinum. Önnur vötn má t.d. nefna Djúpavatn og Grænavatn.
Gengið var um Grænavatnsengjar áleiðis niður að Selsvallafjalli. Af fjallinu var horft yfir Grænavatn í suðaustri. Skásneiðingur Þórustaðastígsins var síðan tekinn niður á Selsvellina vestur undir fjallinu. Selsvallafjall er 338 m hátt. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn skáhalt niður fjallið. Reykjavegurinn liggur um Selsvellina.
Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.
Þrír lækir, Selsvallalækir, renna um Selsvelli en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar vellina til vesturs. Sá nyrsti kemur úr gili fast sunnan Kúalága, en sá syðsti rennur fram sunnan og nokkuð nálægt Selsvallaselja.
Moshóll er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð Moshóls er mjög illa farin eftir hjólför ökumanna sem hafa fundið hjá sér þörf að aka sem lengt upp í hlíðar hans. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið úr Moshól hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun.
Upp í fjallshlíðinni, utan í Selsvallafjalli, að sunnanverðu við vellina, norðan við syðsta lækinn, eru eldri selstóttir, bæði ofan og neðan slóðans, sem liggur eftir endilöngum völlunum. Enn neðar á völlunum má sjá móta fyrir kví og stekk.
Hluti selstóttanna kúra í vesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar eru a.m.k. þrjár kofaþyrpingar og tveir nokkuð stórir stekkir nálægt þeim. Úti í hrauninu, fast við tóttirnar, er einn kofi og lítið gerði á grasbletti. Skúti er undir kletti á bak við miðtóttirnar.
Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.
Í bréfi frá séra Geir Backmann Staðarpresti til biskups árið 1844, kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selsstæðinu liggur selsstígurinn til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Á Selsvöllum var selsstaða frá bæjum Grindavíkur og í sóknarlýsingu þaðan frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi haft þar í seli.
Í sóknarlýsingu sr. Geirs Backmanns, sem var prestur að Stað í Grindavík 1835-1850 kemur greinilega í ljós, hvers virði selsturnar hafa verið Grindvíkingum. Þar segir: “Eftir jarðabókinni 1760 á Staður selstöðu á Selsvöllum, þó það nú sýnist orðið almennings selstaða úr allri Grindavík”.
Keilir.
Það fer ekki á milli mála, að selstaðan hefur verið Grindvíkingum dýrmæt á 19. öld. Þeir einu, sem ekki nytjuðu selstöðuna á Selsvöllum, Hraunsmenn, notuðu sitt eigið sel árlega.
Ef marka má lýsingu sr. Geirs var ekki um marga kosti að ræða: “Eigi verður höfð nokkur skepna heima á sumrum, og eru allir hestar daglega langt í burtu á bak við Fiskidalsfjall, þó brúka eigi strax að morgni”. Telur hann, að sumarið áður hafi að minnsta kosti 500 fjár, ungt og gamalt, og 30 nautgripir auk inntökupenings gengið á völlunum og geti menn getið sér þess nærri, að þvílíkur urmull af kúm og kindum geri “ærið usla og jarðnag í beitilandi í Þrengslum”. Vegna hagleysis verði að reka allan fénað, sem tíðum sé kominn í selhagana löngu fyrir fráfærur í 7. viku sumars, heim á miðjum selvinnutímanum, eintatt í 17. viku sumars
Vera kann, að ein ástæðan fyrir þessari miklu ássókn í selstöðuna á Selsvöllum um daga sr. Geirs sé sú, að Grindvíkingar hafi ekki lengur haft innhlaup í selstöðurnar í Krýsuvíkurlandi eins og var á 18. öldinni.
Hraunssel.
Gengið var niður Þrengslin og tóftir Hraunssels skoðaðar. Hraun hafði í seli í Hraunssseli, en það sel lagðist síðast af á Reykjanesi (1914).
Haldið var áfram niður syðri Þrengslin, með austurjaðri Leggjabrjótshrauns og niður í Línkrók. Þar skammt frá á Sængurkonuhellir að vera í hrauninu undir hlíðinni. Þegar komið var niður á gömlu götuna (Hlínarveginn), sem rudd var fyrir hestvagna um 1932, var beygt til vinstri og götunni fylgt í sneiðingi upp Núpshlíðarhálsinn, um móbergsskarð og niður hálsinn að vestanverðu. Gangan endaði á Djúpavatnsvegi þar sem FERLIR-095 hafði byrjað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.
Dyngjur.
Selsvellir II
Í Faxa árið 1960 skrifar Hilmar Jónsson „Ferðaþátt“ um för Ferðafélags Keflavíkur á Selsvelli og nágrenni:
„Eins og lesendum Faxa er kunnugt, var starfsemi Ferðafélags Keflavíkur fremur lítil í fyrra, aðeins ein ferð var farin á vegum félagsins. Nú hefur brugðið mjög til hins betra um hag félagsins. — Þegar þetta er skrifað hafa 5 ferðir verið farnar, en það er einni ferð fleira en gert var ráð fyrir í áætlun F. K.
— Eflaust er þessi ágæti árangur mikið veðrinu að þakka, en fram hjá hinu verður ekki gengið, að í ár hafa félaginu bætzt starfskraftar, sem ríða baggamuninn. — Á ég þar við smiðina Magnús og Bjarna Jónssyni, að ógleymdum konum þeirra. En á síðasta aðalfundi var Magnús kosinn varaformaður, en Ásta Arnadóttir, kona Bjarna, gjaldkeri. Þetta fólk hefur myndað kjarnann í flestum ferðum félagsins í sumar. Og í fyrstu ferðinni, sem var gönguferð á Trölladyngju og nærliggjandi staði, var Magnús Jónsson leiðsögumaður.
Lagt var af stað í þá ferð kl. 8 að morgni hins 6. júní. Þátttakendur voru 17. Þykir það mjög gott, jafnvel í höfuðstaðnum, þegar um gönguferð er að ræða. Á Höskuldarvelli vorum við komin um kl. 10, þar var setzt að snæðingi. Þá var hæg gola og leit út fyrir bezta veður. En að hálftíma liðnum var byrjað að rigna og það veðulag hélzt til kvölds. Fyrst var haldið á Selsvelli. —
Þrátt fyrir veðrið voru allir í góðu skapi, sérstaklega lá vel á Guðmundi Magnússyni, sem fór með óprenthæfan kveðskap kvenfólkinu til andlegrar uppbyggingar.
Í Árbók F. Í. 1936 skrifar Bjarni Sæmundsson um Suðurnes. Hann segir: „Einn fallegasti staðurinn á suðurkjálkanum, og einn sá, er verðast er að sjá þar, eru Selsvellir, vestan undir algrænni hlíðinni á Selsvallafjalli, sem er miðhlutinn af vestur hálsinum. Þeir byrja, má segja, þegar komið er inn úr þrengslunum og ná „milli hrauns og hlíðar“ 2 1/2 km. inn með hálsinum, rennsléttir og grösugir. Tærir lækir úr hlíðinni renna yfir vellina og hverfa svo í hraunið.“
Fjallasýn er þarna mjög fögur, á aðra hönd er Keilir, en á hina Grænadyngja (393 m.) og Trölladyngja. Í fjarska eru Fagradalsfjöll. Frá Selsvöllum til Grindavíkur er allgreiðfær leið. Í fyrra gengum við Hafsteinn Magnússon frá Festarfjalli í Grindavik og á Keili. Gallinn var bara sá, að við fórum of nálægt Keflavík og lentum þar af leiðandi utan í aðalfjallgarðinum. Á Selsvöllum eru nokkrar tættur eftir sel frá Grindavík. Í bókinni Útilegumenn og auðar tóttir er frásaga um þjófa þrjá, sem höfðust við á Selsvöllum við Hverinn eina. Þeir voru hengdir samkvæmt Vallaannál 13. júlí 1703.
Hverinn eini.
Frá Selsvöllum fórum við síðan yfir Selsvallaháls og komum á Vigdísarvelli. Þar eru miklar rústir bæði eftir útihús og mannabústaði. Þaðan er nokkur gangur að Djúpavatni. Með í förinni voru þrír ungir piltar, synir Bjarna og Magnúsar, og Jón Eggertsson. Þegar hér er komið sögu höfðu þeir gengið okkur eldra fólkið af sér. Urðum við að hafa hraðann á til að ná þeim, því að þoka var á og villugjarnt fyrir unga menn og ókunnuga. —
Frá Djúpavatni var gengið yfir hálsinn frá Grænudyngju, og það verð ég að segja, að sjaldan hefur maður verið fegnari mat sínum en þegar við komum aftur á Höskuldarvelli.
Var nú farið að rigna allmikið og ekki til setunnar boðið. Tóku menn það ráð, að ganga niður á veg, þar eð bíllinn, sem skyldi flytja okkur heim, var ekki væntanlegur fyrr en kl. 6.
Lýkur hér með frásögn af þessari ágætu göngu. – Hilmar Jónsson.“
Heimild:
-Faxi – Ferðaþáttur – Hilmar Jónsson, 7. tbl., 1. sept. 1960, bls. 111-112.
Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.
Tyrkjaránið í Grindavík 1627 og afdrif Járngerðarstaðafólksins – Karl Smári Hreinsson og Adam Nivhols
Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 2019 rekja Karl Smári Hreinsson og Adam Nivhols „Tyrkjaránið í Grindavík 1627 og afdrif Járngerðarstaðafólksins„:
„Margir þekkja til Tyrkjaránsins á Íslandi í júlí 1627 þegar hartnær 400 manns var rænt í Vestmannaeyjum og á Austfjörðum og fólkið flutt á þrælamarkað í Algeirsborg á norðurströnd Afríku. Hér verður fjallað um annan þátt Tyrkjaránsins 1627 þegar sjóræningjar semvoru frá borginni Sale á strönd Marokko rændu verðmætum og fólki í Grindavík. Þessir sjóræningjar, sem Íslendingar nefna oftast Tyrki, sigldu um 3.500 kílómetra vegalengd yfir úfið Atlandshafið og komu fólki í Grindavík algjörlega í opna skjöldu.
Járngerðarstaðir
Á fyrri hluta 17. aldar var Grindavík, eins og bæði fyrr og síðar verslunar- og útgerðarstaður. Í margar aldir skiptist Grindavík í þrjú hverfi eða bæjarþyrpingar. Það eru Staðarhverfi vestast, þar var kirkjustaður, síðan Járngerðarstaðahverfi þar sem þorpið og síðar Grindavíkurbær byggðist upp og austast er Þórkötlustaðahverfi.
Öll þessi hverfi voru kennd við aðalbýlin á þessum stöðum og í raun eru það landfræðilegar aðstæður, hraunflákar, sem skipta byggðinni í þrennt. Sjósókn og sjávarnytjar voru alla tíð aðalatvinnuvegurinn. Járngerðarstaðir voru höfuðbýli og besta jörð sveitarinnar. Þar hófst byggð þegar á landnámsöld. Þar var þingstaður sveitarinnar. Járngerðarstaðir komust í eigu Skálholtsstóls löngu fyrir siðaskipti og voru Járngerðarsstaðir mjög mikilvægur útgerðarstaður Skálholtsstóls. Á fyrri hluta 16. aldar þegar enskir kaupmenn höfðu mikil umsvif í útgerð og verslun á Íslandi höfðu þeir aðalbækistöð sína í landi Járngerðarstaða.
Járngerðarstaðir á dögum Tyrkjaránsins
Árið 1627 bjuggu á Járngerðarstöðum hjónin Jón Guðlaugsson, sagður smiður og Guðrún Jónsdóttir frá Stað. Foreldrar Guðrúnar voru Séra Jón Jónsson og Guðrún Hjálmsdóttir. Sr. Jón hafði verið prófastur á Stað á árunum 1582-1602.
Dæmigert sjávarbýli 1627.
Ekki eru heimildir um foreldra Jóns Guðlaugssonar. Guðrún átti fjóra bræður, Filippus, Hjálm, Halldór og Jón. Guðrún og Jón Guðlaugsson áttu þrjá syni sem voru ungir menn og einn þeirra enn á barnsaldri. Líkur eru á að móðir Guðrúnar hafi verið á lífi árið 1627 þar sem Jón sonur Guðrúnar, biður í bréfi sem hann skrifaði úr Barbaríinu (eins og múslimski hluti Norður-Afríku var kallaður) að heilsa ömmu sinni, sé hún enn á lífi, en Jón minnist ekki á afa sinn og því má telja að hann hafi verið látinn árið 1627. Heimildir telja að Jón Guðlaugsson hafi verið nokkuð við aldur en Guðrún hefur verið um fertugt í Tyrkjaráninu. Halldór Jónsson, bróðir Guðrúnar var fæddur um 1590 og því 37 ára þegar þessir atburðir gerðust. Hann var kvæntur Guðbjörgu Oddsdóttur Oddssonar prests á Stað frá 1602-1618, þannig að Oddur tók við Stað af sr. Jóni Jónssyni, föður Guðrúnar.
Grindavík – Tyrkjaskipin.
Þetta dæmi sýnir náin tengls fjölskyldunnar innbyrðis og stöðu hennar í samfélaginu. Halldór og Guðbjörg áttu tvö ung börn, Jón sem var fæddur 1623 og Guðbjörgu sem var fædd 1625. Um aðra bræður Guðrúnar, Filippus, Hjálmar og Jón eru fáar heimildir. Af þessari upptalningu má sjá að Járngerðarstaðafólkið var vel sett og áhrifamikið í samfélaginu sem allar líkur voru að héldi áfram til næstu kynslóða. Jón, sonur Guðrúnar sem var nýútskrifaður úr Skáholtsskóla var líklegur til að taka við Járngerðarstöðum, gerast prestur eða taka við öðru góðu embætti. Járngerðarstöðum tilheyrðu 10-12 hjáleigur þannig að alls bjuggu margir tugir manna á Járngerðarstöðum og hjáleigunum. (Þess má geta að í manntalinu 1703 bjuggu um 70 manns á Járngerðarstöðum og hjáleigunum).
Miðvikudagurinn, 20. júní 1627
Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið „Tyrkjaránsins“ – uppdráttur ÓSÁ.
Sjóræningjar frá Norðurströnd Afríku gerðu oftast árásir á mörgum skipum samtímis líkt og úlfahjörð. Þeir voru þekktir fyrir að ráðast á fólk og fénað með öskrum og látum. En svo var ekki um sjóræningjaskipið sem kom til Grindavíkur frá hafnarborginni Salé í Marokkó. Foringi þeirra var gætnari en svo. Sjóræningjarir voru einskipa og hafa því hugsanlega verðið varkárari fyrir vikið. Þegar komið var fram á sumar voru skipaferðir tíðar umhverfis landið.
Grindavíkurhöfn fyrrum.
Bæði verslunarskip og fiskiduggur voru algeng sjón og því var fólk í Grindavík ekki sérstaklega á verði þegar sjóræningjaskipið kom að landi. Sjóræningjarnir beittu brögðum. Danskt kaupskip lá við akkeri fyrir utan ströndina.
Sjóræningjarnir sendu menn um borð í danska skipið til að kanna aðstæður. Þeir þóttust vera danskir hvalfangarar sem villst höfðu af leið. Þegar hér var komið sögu sendi danski kaupmaðurinn bát með átta mönnum innanborðs til að kanna hverjir væru á þessu nýkomna skipi. Þegar þeir klifruðu um borð í sjóræningjaskipið voru þeir yfirbugaðir. Allar líkur eru á að þeirra hafi beðið barsmíðar og ill meðferð. Það voru fastir liðir hjá sjóræningjum þessa tíma. Eftir að hafa gengið í skrokk á þessum átta mönnum er ljóst að sjóræningjarnir hafa fengið allar þær upplýsingar um staðhætti sem þeir vildu fá. Í Tyrkjaránssögu Björns Jónssonar á Skarðsá, sem er ein aðalheimildin um þennan atburð er þess getið að sjóræningjarnir hafi þegar þeir lögðu frá Grindavík gefið tveim íslenskum mönnum af þessum átta frelsi. Ekki er ólíklegt að það hafi verið sem um það samið að þeir fengju frelsi í stað upplýsinga um aðstæður í landi. Hvað sem öllu líður þá urðu sjóræningjarnir mun öruggari með sig eftir að hafa kyrrsett þessa átta menn. Þrjátíu sjóræningjar, vopnaðir byssum, sveðjum og sverðum reru yfir í danska verslunarskipið og yfirbuguðu áhöfnina auðveldlega þar sem aðeins skipstjóri skipsins og tveir úr áhöfninni voru enn um borð.
Jan Janszoon van Haarlem
Tyrkir koma.
Sjóræningjarnir réðust nú skjótt til atlögu í landi. Foringi þeirra var hollenskur trúskiptingur (kristinn maður sem snúið hafði til múhameðstrúar), að nafni Jan Janszoon van Harlem, betur þekktur sem Murat Reis (Kafteinn Murat) Hann hóf sinn feril tuttugu árum áður sem sjóvíkingur og siglgdi þá undir hollensku flaggi. Þá rændi hann spænsk skip. Árið 1618 var hann hertekinn á Lanzarote einni af Kanaríeyjum og færður til Algeirsborgar. Þar snérist hann til Múhameðstrúar og varð skipstjóri á sjóræningjaskipi, fyrst frá Algeirsborg og síðan borginni Salé.
Í Salé var hann aðmíráll flotans. Morat Reis var reynslumikill foringi. Hann hafði eytt mörgum árum í sjóræningjaferðum bæði á Miðjarðarhafi og á Atlantshafsströnd Spánar og Portúgals og við strendur Suður-Englands. Hann vissi nákvæmlega hvernig standa átti að árás á strandbæi líkt og Grindavík. Á skipi hans var á milli 60 og 70 manna áhöfn. Líklegt er því að yfir 50 þeirra hafi gert áhlaup á byggðina í Grindavík. Óvopnað fólk í Grindavík var því auðveld bráð.
Tyrkir ráðast til atlögu
Tyrkjaskip.
Sjóræningjar voru þekktir fyrir takmarkalausa grimmd en markmið árásar sem þessarar í Grindavík var ekki að drepa fólk og eyðileggja verðmæti heldur að ræna fólki og verðmætum og koma í verð. Þegar sjóræningjarnir gerðu atlögu að íbúum Grindavíkur hafa þeir farið um með ópum og látum en fyrst og fremst til að ógna fólki en þeir hafa forðast að særa fólk líkamlega nema það veitti mótstöðu.
Sært fólk eða illa haldið var ekki álitleg söluvara á þrælamörkuðum Norður-Afríku. Þegar sjóræningjarnir komu inn í byggðina réðust þeir á dönsku verslunarhúsin. Danski kaupmaðurinn hafði flúið en hafði falið eins mikið af verðmætum eins og hann gat áður þannig að sjóræningjarnir gripu í tómt. Næst urðu Járngerðarstaðir fyrir sjóræningjunum.
Fyrsta manneskjan sem féll í hendur þeirra var húsfreyjan Guðrún Jónsdóttir.
Bróðir hennar, Filippus reyndi að koma henni til aðstoðar en ræningjarnir slógu hann og skildu hann eftir hálfdauðan.
Annar bróðir Guðrúnar, Hjálmar sem var á hestbaki reyndi einnig að koma Guðrúnu til bjargar. Hann drógu ræningjarnir af hestinum. Hjálmar var óvopnaður fyrir utan písk sem hann hafði í hendi.
Með písknum sló hann til ræningjanna en það dugði skammt. Ræningjarnir slógu hann og meiddu á margan hátt og skildu hann eftir liggjandi í sárum sínum. Þeir settu nú Guðrúnu á hest Hjálmars og færðu hana til skips. Í lok dagsins höfðu þeir ekki aðeins hertekið Guðrúnu og Jón bróður hennar heldur einnig Halldór bróður hennar og þrjá syni, þá Jón, Helga og Héðinn. Samkvæmt Tyrkjaráns-sögu voru Halldór og „aðrir“ auðveldir viðfangs fyrir sjóræningjana þar sem ekki hvarflaði að þeim að þeim yrði rænt þannig að þeir reyndu ekki að flýja. Íslendingar höfðu áður fengið að kenna á sjóræningjum en þeir voru af annari sort, þeir rændu ekki fólki, aðeins verðmætum og fénaði. Maður Guðrúnar, Jón Guðlaugsson var einnig tekinn höndum en Tyrkirnir höfðu lítinn áhuga á honum þar sem hann var nokkuð við aldur og því skildu þeir hann eftir í sárum eftir barsmíðar.
Hollensk heimild um Grindavíkurránið
Tyrkjaránið – handrit.
Heimildir um ránið segja ekki hvort bræður Guðrúnar, Halldór og Filippus náðu sér af sárum sem þeir hlutu af Tyrkjum. Í bréfi sem Oddur Einarsson Skálholtsbiskup skrifaði haustið 1627 kemur fram að Tyrkir rændu dönsku kaupskipi í Grindavík og 12 Íslendingum, þar á meðal „konu og stúlku“ og að einn íslenskur maður hafi fengið mörg sár og verið rúmliggjandi upp frá því. Hér er greinilega átt við Guðrúnu og bróður hennar. Hvort annar bróðir hennar hafði verið drepinn kemur ekki fram í bréfi Odds biskups. Svo vill til að til er bók sem fjallar um ýmsa atburði á fyrri hluta 17. aldar í Evrópu, Norður-Afríku, Asíu og Ameríku. Höfundurinn var Nicolaes van Wassenaer, læknir í Amsterdam, Hollandi. Bókin, Historisch verhael… ( hefur afar langan titil) var tuttugu og eitt bindi, gefin út á árunum 1622-1630. Í umfjöllun um árið 1627 rekur Nicolaes van Wassenaer ránið í Grindavík og segir að sjóræningjarnir frá Salé hafi hertekið 12 manneskjur, og: „þar á meðal konu ásamt þrem sonum sínum og tveim bræðrum og tveir aðrir bræður hennar voru drepnir.“ Hér er augljóslega verið að vísa til Guðrúnar, bræðra hennar og sona. Það er því nokkuð víst að bæði Filippus og Hjálmar dóu af sárum sínum.
Murat Reis heldur frá Grindavík
Skansinn við Bessastaði.
Þegar Murat Reis hélt með ránsfeng sinn frá Grindavík sigldi hann næstu daga með ströndinni í átt til Bessastaða. Nú hafði hann mannað danska kaupskipið og því voru skipin nú orðin tvö sem hann réði fyrir. Það var ekki tilviljun að Murat Reis hélt til Bessastaða þar sem þar var einna helst von til að finna verðmæti í hirslum dönsku yfirvaldanna þar. Járngerðastaðafólkið var hlekkjað í lest stærra skipsins. En ekki vildi betur en svo til að þegar hann sigldi skipum sínum inn á Seyluna, sem eru grynningar rétt utan við Bessastaði strandaði stærra skipið. Hirðstjórinn á Íslandi, Holgeir Rosinkrans bjóst til varnar en hikaði þó að láta til skarar skríða gegn ræningjaskipunum. Murat Reis tók það til bragðs að hann flutti farm, þar á meðal Járngerðastaðafólkið úr stærra skipinu yfir í það minna og náði stærra skipinu þannig á flot. Síðan sigldu ræningjaskipin í brott og héldu nú undir Snæfellsnes. Allmargar enskar fiskiskútur voru að veiðum út af Vestfjörðum en þeirra var vel gætt af enskum herskipum. Þegar Murat Reis og hans menn fréttu að herskip væru á þessum slóðum ákvað hann að snúa við og tók nú stefnuna á heimahöfn sína. Í lok júlí eftir rúmlega mánaðar siglingu komu bæði skipin til Salé.
Salé á strönd Marokkó
Fólkið sem rænt var í Grindavík var flutt til borgarinnar Salé sem er á Atlantshafsströnd Marokkó í tæplega 300 kílómetra fjarlægð frá Gíbraltar, nokkru norðar en borgin Casablanka. Í dag er oftast talað um borgirnar Salé-Rabat, sem er höfuðborg Marokkó sem eina heild. Borgirnar eiga sér ólíkan uppruna þrátt fyrir að aðeins áin Regret skilji þær að.
Salé (sem stundum er nefnd Gamla Salé) er á norðurbakka árinnar var stofnuð á 11. öld. Hafnaraðstaða er góð og þar var rekin verslun og landbúnaður. Á fyrsta fjórðungi 17. aldar varð Salé sjálfstætt ríki og víðkunn bækistöð sjóræningja. Jan Janszzon, foringi sjóræningjanna í Grindavík átti þátt í stofnun þess.
Ástæðan fyrir uppgangi sjóræningja í Salé er sú að þegar múslímar voru reknir frá Spáni í lok 15. aldar fengu margir þeirra að verða eftir á Spáni gegn því að taka kristna trú og siði. En þar sem þeir aðlöguðust ekki vel og Spánverjar sem voru kaþólskir treystu þeim ekki til þess að verða góðir og gegnir Spánverjar. Því voru þessir múslímar reknir frá Spáni í byrjun 17. aldar og fluttir til Norður-Afríku. Þessir múslímar voru nefndir Márar en þeir voru reyndar ekki alls staðar velkomnir í Norður-Afríku. Því settust sumir þeirra að í Salé (Gömlu-Salé) þar sem þeir tóku upp sjórán og gerðust herskáir sjóræningjar.
Borgin skiptist í Gömlu-Salé og Nýju-Salé. Á þessum tíma var Nýja-Salé mikilvæg miðstöð sjóræningja með mikil tengls við sjóræningjaborgir á Norðurströnd Afríku, sérstaklega Algeirsborg. Nýja-Salé var heimahöfn 30 til 40 sjóræningjaskipa og íbúafjöldi borgarinnar líklega um 15.000, þar af stór hluti þrælar. Murat Reis var foringi þessa sjóræningjaflota sem gerði þaðan út.
Þessi velheppnaða ránsferð Murat Reis til Íslands var tilefni til mikils fagnaðar, hleypt var af fallbyssum, lúðrar hljómuðu og sekkjapípur flautuðu. Þessi ránsferð hafði verið óvenju löng og hættuleg, en þrátt fyrir það vel heppnuð. Ránsfengurinn var danskt kaupskip, allur ránsfengur sem ræningjarnir höfðu komist yfir í landi og ekki síst 50 til 100 manns, Íslendingar, Danir og Englendingar. Þó er erfitt að finna út einhverja nákvæma tölu. Fangaða fólkið var sett á land og rekið upp á „kastala borgarinnar Kyle, að frá tekinni Guðrúnu Jónsdóttur, hennar yngsta syni og lítilli stúlku er Guðrún Rafnsdóttir hét“ segir í Tyrkjaránssögu. Síðan segir í sömu heimild: „Margt landsfólk kom þangað í húsið til fanganna, kristnir menn til að gleðja þá og hugga en Tyrkjar til að skoða þá og spotta. Þar eftir voru þeir leiddir út á kauptorg staðarins, og til settir menn að bjóða þá fram til sölu sem önnur ferfætt kvikindi.“
Alsírborg og höfnin fyrrum.
Afdrif systkinanna Guðrúnar og Halldórs
Guðrún Jónsdóttir var ekki seld á þrælamarkaðinum eins og aðrir. Hún var leidd ásamt Guðrúnu Rafnsdóttur í hús til Tyrkja nokkurs. Ástæðan fyrir þessu gæti verið að einhver ræningjanna, eða fjárhagslegur bakhjarl leiðangursins hafi sjálfur viljað gera samning um útlausn hennar. En það var ekki síður gróðavegur fyrir sjóræningja og samverkamenn þeirra að heimta lausnargjald fyrir fangana. Halldór Jónsson var seldur Tyrkja nokkrum en síðar eignaðst Beram Reis Halldór. Beram Reis var einn þeirra sem tók þátt í Grindavíkurráninu og var gerður að kapteini á danska kaupfarinu sem rænt var. Halldór átti illa vist í Salé. Hann var skorinn í andlit og á höndum og bar örkuml þessi alla ævi. Oftast er þess getið í frásögnum um Tyrkjaránið að Guðrún og Halldór bróðir hennar hafi verið leyst út af hollenskum manni og þau komið til Íslands innan árs eftir að þeim var rænt. En hvernig má það vera að þau eru leyst úr ánauð svo skömmu eftir að þau koma til Salé? Þessi stutti tími útilokar að Íslendingar hafi samið um lausnargjald fyrir þau. Bréf bárust seint og illa á milli landa. Bréf voru oft jafnvel nokkur ár á leiðinni frá Norður-Afríku til Íslands ef þau á annað borð komust til skila.
Hollenskt kaupfar.
Hér verður því að gera ráð fyrir því að Guðrún sjálf hafi samið um lausnina á einn eða annan hátt fyrir þau systkinin. Það er ekki tilviljun að það var hollenskur kaupmaður sem keypti þau laus eða haft milligöngu um að kaupa þau laus. Hollendingar voru verslunarþjóð og siglingaveldi á þessum tíma og þeir áttu viðskipti víða. Í bók Nicolasar van Wassenaer sem áður er minnst á var danska kaupfarið sem rænt var á legunni í Grindavík í raun hollenskt kaupfar sem hét, Oliifboom, eða Ólífutréð upp á íslensku. Mjög mörg kaupför sem komu til Íslands á þessum tíma voru hollensk. Þess má geta að séra Ólafur Egilsson, prestur í Vestmannaeyjum sem rænt var í Tyrkjaráninu kom með hollensku kaupfari til Íslands sumarið 1628. Það er því hugsanlegt að þessi hollenski kaupmaður sem greiddi lausnargjaldið fyrir Guðrúnu og Halldór hafi þekkt til þeirra. Járngerðarstaðir voru mikilvæg verstöð og verslunarstaður. Guðrún hefur án efa borið það með sér að hún var ekki dæmigerð alþýðukona, heldur húsfreyja sem átti talsvert undir sér og kom frá efnuðu heimili. Því má alveg gera ráð fyrir að hún hafi samið um lausnargjaldið þeirra systkina sjálf.
Hollenski kaupmaðurinn hefur í gegnum sín sambönd greitt götu þeirra og líklega hagnast sjálfur vel á viðskiptunum. Þetta eru ekki tómar getgátur heldur má færa sterk rök fyrir þessu í bréfi sem Jón sonur Guðrúnar skrifaði til Íslands frá Algeirsborg til foreldra sinna árið 1630. Þar segir: „Þakkir séu lifandi guði, að móðir okkar sæl frelsaðist héðan, og ég segi fyrir mig, að þó ég ætti hér í staðinn vera, veit ég vel að ykkar peningur hefir þar til gengið – má vera.“ Með öðrum orðum segir Jón hér að það séu ekki til meiri peningar á Járngerðarstöðum til að leysa hann út og þá bræður. Jón Guðlaugsson maður Guðrúnar lést um svipað leyti og hún snéri aftur til Íslands. Guðrún giftist síðan Gísla Bjarnasyni prófasti í Grindavík en hann var ekkjumaður. Halldór snéri aftur til konu sinnar og barna. Hann var jafnan nefndur Halldór hertekni eftir herleiðinguna. Á meðal afkomenda hans er margt merkisfólk og fólk af hinni þekktu Járngerðarstaðaætt á Suðurnesjum getur rakið ætt sína til hans. Halldór skrifði rit um Tyrkjaránið sem nú er glatað.
Afdrif Járngerðarstaðabræðra
Jón Jónsson stúdent er þekktastur þeirra bræðra frá Járngerðarstöðum, sona Guðrúnar og Jóns Guðlaugssonar. Vitað er að hann skrifaði nokkur bréf til Íslands og eitt þeirra hefur varðveist í afskriftum.
Það er bréf sem hann skrifaði til foreldra sinna frá Algeirsborg og dagsett er 24. janúar 1630. Helgi bróðir hans skrifar einnig undir það bréf. [Bréfið er varðveitt í Landsbókarsafninu]. Ævi Jóns var í engu frábrugðin annarra þræla í Barbaríinu eins og Íslendingar kölluðu íslamska hluta Norður-Afríku einu nafni. Hann var fljótlega eftir komuna til Salé seldur áfram til Algeirsborgar ásamt Helga bróður sínum. Þegar árið 1630 hafði hann verið seldur fimm sinnum. Ein ástæða fyrir því að hann var ekki keyptur úr ánauð var sú að hann var of dýr eins og hann minnist sjálfur á í bréfi sínu sem varðveist hefur. Um afdrif hans er ekki vitað annað en hann var enn á lífi ári 1635 en gera má ráð fyrir að hann hafi dáið sem þræll í Algeirsborg en þangað var hann kominn ekki löngu eftir að hann var settur á land í Salé.
Héðinn Jónsson
Héðinn varð frjáls maður aðeins sex árum eftir að hann kom til Salé og fékkst við smíðar. Það bendir til þess að hann hafi turnast, kastað kristni og gerst Múhameðstrúar. Það var í raun eina leiðin til að verða frjáls. Um afdrif hans er ekki vitað frekar. Helgi átti litríkan feril í Barbaríinu. Hann var hraustur og hugrakkur og var um tíma á galeiðu undir stjórn sjóliðsforingjans Jairi Mustafa. Þó er ólíklegt að hann hafi verið galeiðuþræll þar sem vitað er að hann kom eitt sinn í land í borginni Salé en hlekkjaðir galeiðuþrælar gátu aldrei yfirgefið skipin. Gera má ráð fyrir að Helgi hafi verið innan við 7 ára gamall þegar hann kom til Salé. Það má ráða af því að hann fylgir fyrst móður sinni eftir komuna til Salé en hefur síðan alist upp sem múslími eins og venja var með unga drengi sem rænt var. Það skýrir einnig hvers vegna hann varð frjáls maður og varð smiður. Það hefði hann ekki getað gert sem kristinn maður.
Helgi Jónsson
Þegar loks farið var að kaupa Íslendingum í Barbaríinu frelsi var Helgi einn þeirra. Hann var keyptur úr ánauð í maí 1635, síðastur þeirra 37 Íslendinga sem keyptir voru. Lausnargjaldið fyrir hann var 200 ríkisdalir. Helgi kom til Íslands sumarið 1637 ásamt öðrum Íslendingum sem leystir höfðu verið. Helgi kvæntist Guðbjörgu Gísladóttur og tóku þau við búi á Járngerðarstöðum eftir lát Guðrúnar Jónsdóttur. Helgi lést 1664 eða 1665. Við Járngerðarstöðum tók um tíma Guðbjörg ekkja Helga en Jón Helgason sonur þeirra tók við Járngerðarstöðum 1668.
Þess má geta að í Sögu Grindavíkur, fyrra bindi frá árinu 1994 eftir Jón Þ. Þór er því haldið fram að Guðrún Jónsdóttir frá Stað hafi átt þrjá bræður og þau hafi verið hertekin og öll komið aftur til Íslands. (sjá bls. 114) Þetta er ekki rétt.
Eins og fram hefur komið hér átti Guðrún fjóra bræður, Jón og Halldór sem voru herteknir, og Halldór síðan leystur út með Guðrúnu en Filippus og Hjálmur (Hjálmar) sem dóu líklega af sárum sínum í ráninu í Grindavík.)“
Um höfundana
Karl Smári Hreinsson er ásamt Adam Nichols annar þýðandi Reisubókar sr. Ólafs Egilssonar á ensku. Hann var í mörg ár kennari í nútíma íslensku við Maryland háskóla. Hann er höfundur margra greina um söguleg efni og aðalhandritshöfundur tveggja heimildamynda. Hann á og rekur málaskólann Sögu Akademíu í Keflavík.
Adam Nichols hefur skrifað margar greinar um Tyrkjaránið og skyld efni og er nú að vinna að bók um einn þekktasta sjóræningja 17. aldar, Jan Janszzon. Adam hefur einnig skrifað nokkrar skáldsögur og er liðtækur vatnslitamálari. Hann er prófessor við Maryland háskóla og kenndi á Íslandi af og til í 10 ár. Hann heldur úti bloggsíðu um sjórán og siglingar 17. aldar: corsairandcaptivesblog.com.
Þessi grein birtist upphaflega í Heima er bezt, 10 tbl. 68.árg. 2018.
Helstu heimildir framangreinds:
-Tyrkjaráns-saga eftir Björn Jónsson á Skarðsá. Samin 1643. Reykjavík. 1866.
-Tyrkjaránið á Íslandi 1627. Sögufélagið gaf út. Reykjavík 1906-1909.
-Jón Þ. Þór. Saga Grindavíkur. Frá Landnámi til 1800. Grindavíkurbær 1994.
Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 2019 – Tyrkjaránið í Grindavík 1627 og afdrif Járngerðarstaðafólksins – Karl Smári Hreinsson og Adam Nivhols, bls. 8-17.
Grindavík – Járngerðarstaðir – örnefna og minjakort – ÓSÁ.
Grindavík – samantekt um byggðasögu
Í skýrslu um „Húsakönnun, Gamli bærinn í Grindavík“ frá árinu 1914 má m.a. lesa eftirfarandi samantekt um byggðasögu Grindavíkur:
Staðhættir
Fiskgarðar í Slokahrauni.
Land Grindavíkur er að mestu þakið hrauni sem runnið hefur eftir lok síðustu ísaldar. Hraunflákar skipta Byggðinni í þrennt og milli hraunanna eru gróin svæði þar sem byggðin hefur risið. Sjóndeildarhringur Grindvíkinga til norðurs einkennist af frekar lágum en svipmiklum fjöllum sem flest eru í landi sveitarfélagsins. Til suðurs er ströndin fyrir opnu úthafinu og er víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga inn í hana og eru Staðarvík, Járngerðarstaðarvík og Hraunsvík þeirra stærstar.
Landnám og byggðaþróun
Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.
Í landnámabók er greint frá því að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið land í Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson í Selvogi og Krýsuvík um árið 934. En Grindavíkurhreppur náði yfir tvær kirkjusóknir, Staðarsókn og Krýsuvíkursókn allt til ársins 1946.
Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.
Líklega hefur Molda-Gnúpur búið á þessum slóðum.
Synir Moldar-Gnúps settust að á þremur höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Þessi hverfi eru meðal þess sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Lítið sem ekkert er vitað um byggð í Grindavík næstu þrjár aldir eftir landnám en gert er ráð fyrir því að hverfin þrjú hafi byrjað að myndast strax á 10. eða 11. öld. Líklegt verður að teljast að staðsetning hverfanna ráðist af samspili graslendis á þessum stöðum og því að aðstaða til sjósóknar hefur verið góð. Hverfin þrjú voru aldrei formlegar einingar heldur aðeins þrír hreppshlutar og á milli þeirra voru engin formleg mörk, heldur réðust þau af landamerkjum jarða. Um það bil þremur öldum eftir landnám (á 13. öld) hófst eldgosahrina sem almennt gengur undir nafninu Reykjaneseldar. Þessi umbrot ollu miklum landspjöllum í Grindavík. Rituð heimild frá því um aldamótin 1700 gefur til kynna að þau hafi jafnvel eytt vestasta hluta byggðarinnar sem þá var. Má reikna með að öskulagið hafi þakið alla sveitina, kæft gróður og valdið bændum miklum búsifjum.
Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.
Byggðin í hverfunum í Grindavík virðist hafa verið í svipuðu formi frá 13. öld og allt til upphafs 20. aldar. Byggð í hverfunum virðist hafa svipað mjög hver til annarrar og ekkert hverfi virðist hafa verið á nokkurn hátt fyrir hinum. Hugtakið hverfi var notað yfir þéttbýli sem risu hvort sem er til sjávar eða sveita hér á landi og virðist hafa verið notað eins í Noregi. Orðið þorp var ekki notað hér yfir þéttbýli fyrr en mikið seinna.
Þó hefur Staður haft nokkra sérstöðu. Þar var kirkjustaður og grafreitur Grindvíkinga og þar hafði verslun einnig þróast og því munu Grindvíkingar hafa átt tíðari erindi þangað en á aðra bæi í sveitinni.
Eftir Svarta dauða 1402 mun þungamiðja byggðar hafa færst nær sjónum og sjávarútvegur efldist. Grindavíkurhverfin munu þá hafa vaxið og byggðin aukist. Risu þar fjöldi verbúða.
Ekki er ljóst hvenær Grindavík varð verslunarstaður, en heimildir eru um aukna verslun þar á 15. öld og líklegt virðist að Skálholtsstóll hafi átt þar vörugeymslu- eða verslunarhús í lok aldarinnar.
Þórkötlustaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.
Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, var tekin saman árið 1703, voru allar jarðir í Grindavík, aðrar en Húsatóftir, í eigu Skálholtsstóls og voru það framundir aldamótin 1800, er biskupsstóll var lagður niður í Skálholti og stólsjarðirnar seldar. Húsatóftir voru konungseign, en höfðu verið eign Viðeyjarklausturs fyrir siðaskipti.
Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.
Á 15. öld og fyrri hluta þeirrar 16. stunduðu Englendingar og Hansakaupmenn verslun í Grindavík. Ekki voru samskipti þeirra þó friðsamleg og kom til átaka milli þeirra með mannavígum.
Þegar einokunarverslun Dana var komið á 1602 var Grindavík meðal þeirra 20 hafna sem gert var ráð fyrir að siglt yrði til árlega. Leyfi sem Hansakaupmenn höfðu til verslunar var úr gildi fallið. Íslandsversluninni var skipt milli þriggja borga, Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingjaeyrar. Í hlut Kaupmannahafnar komu Grindavík, Keflavík, Hafnarfjörður, Dýrafjörður, Ísafjörður og Hofsós. Þrátt fyrir þetta héldu Þjóðverjar áfram að versla á Íslandi á fyrstu áratugum 17. aldar og oft komu skip þeirra til Grindavíkur á þessu tímabili.
Grindavík – Járngerðarstaðir – örnefna og minjakort – ÓSÁ.
Ákvæði um árlega skipakomu á verslunarstaði voru oft hunsuð og einokunarverslunin var stopul framan af.
Á einokunartímanum risu ýmiss konar verslunarhús í Grindavík eins og öðrum verslunarstöðum, bæði úr timbri og torfi. Verslunarfélögin fluttu tilsniðin hús til landsins af nokkrum gerðum. Mörg voru gerð úr láréttum stokkum, önnur voru grindarhús, klædd lóðréttum borðum og um 1765 risu svokölluð bolhús á mörgum verslunarstaðanna. Fáein hús eru enn uppi standandi frá þessum tíma annars staðar á landinu. Flest eru þau í Neðstakaupstað á Ísafirði, en þar getur að líta hús af þeim þremur gerðum sé hér hafa verið nefndar.
Básendar – uppdráttur ÓSÁ.
Um miðja 18. öld var Grindavíkurhöfn talin ófær venjulegum hafskipum og beinar siglingar þangað höfðu fallið niður. Vörur sem ætlaðar voru Grindavíkurverslun voru fluttar að Básendum og þaðan voru þær fluttar á hestum og bátum til Grindavíkur. Grindavík varð eins konar úthöfn Básendaverslunar.
Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.
Við afnám einokunarverslunarinnar 1786 voru eignir hennar seldar og víðast bárust nokkur tilboð. Enginn sýndi þó verslunareignunum í Grindavík áhuga í fyrstu enda staðurinn ekki árennilegur til verslunarreksturs. Veturinn 1788 – 1789 keypti Árni Jónsson á Eyrarbakka þó verslunina í Grindavík, meðal annars fjögur hús í landi Húsaftófta. Verslunarrekstur hans gekk afar illa og lognaðist út af um 1796. Haustið 1802 var verslunarhúsið rifið og efni þess selt og árið 1806 höfðu öll verslunarhúsin verið seld og rifin. Verslun lá niðri í Grindavík fram undir lok aldarinnar. Um aldamótin 1900 sóttu Grindvíkingar verslun til Lefoliiverslunar á Eyrarbakka og Duusverslunar í Keflavík.
Saga Grindavíkur
Einar G. Einarsson var fyrsti staðbundni kaupmaðurinn en hann hóf verslun í Grindavík árið 1897. Verslun hans dafnaði vel og að sama skapi dró úr umsvifum Eyrarbakka- og Keflavíkurverslana. Árið 1902 var stofnsettur þar löggildur verslunarstaður á ný en í þetta sinn var hann við Járngerðarstaðarvík.
Flagghúsið 1910 og Einarsbúð.
Árið 1932 tók til starfa önnur verslun á staðnum undir nafninu Gimli og upp úr 1940 hóf Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis starfsemi í Grindavík en Kaupfélag Suðurnesja tók svo við rekstrinum og varð stærsta verslunarfyrirtækið á staðnum.
Grindavík – Norðurvör.
Frá fyrstu tíð hefur sjósókn verið stunduð í Grindavík ásamt landbúnaði og héldust þeir búskaparhættir fram á miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar í svokölluðum landbýlahverfum. En þegar sjávarútvegur jókst á 14. öld byggðust svokölluð sæbýlahverfi í námunda við verstöðvar.
Hraun – minja- og örnefnakort af Hrauni unnið í samráði við Sigurð Gíslason – ÓSÁ.
Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Fólksfjöldi var svipaður en á fyrri hluta 20. aldarinnar dró þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar.
Síðari heimsstyrjöld hafði mikil áhrif á byggðaþróun Grindavíkur. Fyrstu áhrif styrjaldarinnar voru að stórir markaðir lokuðust tímabundið árið 1939 en síðla sama árs tóku Bretar við nær allri vöru sem sett var á markað. Vinna tengd hersetuliðinu dró fólk frá fiskvinnslu svo tímabundin fækkun varð í Grindavík.
Fiskveiðar og útgerð
Grindavík – tíæringur.
Fiskveiðar og fiskvinnsla hafa löngum verið aðaluppistaðan í atvinnu og lífsbjörg í Grindavík.
Frá því Grindavík byggðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðiaðferð notuð, handfæri. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.
Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra… Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14. aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15. öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína á vertíð í verið á Suður- og Vesturlandi, og hafa þá verið settar upp einhverskonar verbúðir. Um miðja 19. öld var fyrst komið með lóð (línu) til Grindavíkur. Línan var stutt í byrjun og stutt á milli öngla, um 100 önglar á streng og 5-6 strengir með áttæringum, en þær smálengdust, ár frá ári en í upphafi var ávallt beitt á sjó. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. Þá er byrjað að nota net og um svipað leyti er hætt að beita línur á sjó.
Árið 1924 hófst vélvæðing báta í Grindavík, nokkru seinna en annars staðar á landinu. Ástæða þess er líklega léleg hafnaraðstaða fyrir stærri báta miðað við önnur vogskornari landsvæði.
Vélbátur.
Árið 1928 voru allir bátar sem gerðir voru út frá Grindavík orðnir vélbátar en þá þurfti enn að setja bátana á land eftir hvern róður, það var ekki fyrr en á 20. öld sem menn byrjuðu að nota spil til þess að draga báta á land. Fyrsta bryggjan í Grindvík var byggð í Járngerðarstaðahverfi, önnur var svo byggð í Þórkötlustaðahverfi árið 1930 og 1933 var bryggja byggð í Staðarhverfi.
Árið 1939 var Ósinn grafinn og er með ólíkindum að það hafi tekist þar sem allt var grafið með handverkfærum. Dýpkun hafnarinnar árið 1949 markaði svo enn á ný tímamót í uppbyggingu staðarins. Í framhaldinu urðu miklar breytingar á atvinnuháttum þegar fyrirtæki um fiskvinnslu og útgerð voru stofnuð og voru hafnarframkvæmdir miklar á næstu árum og áratugum.
Landbúnaður
Grindavík 1930 – heyskapur við Gjáhús og Krosshús.
Eitt einkenni elsta hluta bæjarins er að húsin standa frekar strjált og eru túnskákir víða á milli en þetta helgast af því að svokallaður tómthúsbúskapur, sjósókn ásamt landbúnaði, tíðkaðist í Grindvík fram undir miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar en hann hefur þó alla tíð verið erfiður í Grindavík, eldsumbrot með hraunrennsli og öskulagi hafa skert gróður og valdið búsifjum. Til að fóðra búpeninginn hafa bændur því þurft að grípa til fleiri ráða en heyskapar, einkum seljabúskapar á sumrin og fjörubeit og söfnun hríss og lyngs til að drýgja hey fyrir kýr. Sel eru þekkt víða í Grindavík og eru sum þeirra ævaforn.
Núlifandi Grindvíkingar (fæddir upp úr 1940) muna enn vel eftir því að á hverju heimili voru hænur og kindur og sums staðar einnig kýr, en þeir sem héldu kýr seldu oft nágrönnum sínum hluta af mjólkinni. Heimilisfeðurnir voru flestir sjómenn. Enn í dag er fjárbúskapur í Grindavík þó það sé í mjög litlu mæli og eingöngu stundaður af tómstundabændum.
Járngerðarstaðahverfi
Blóðþyrnir í Grindavík. Bakki fjær.
Járngerðarstaðir voru vettvangur Grindavíkurstríðsins 1532 og Tyrkjaránsins 1627 og vex þar blóðþyrnir er heiðið og kristið blóð blandaðist.
Árið 1703 voru „öngvar engjar“ á Hópi. „Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“ Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar, líkt og flestir útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans.
Járngerðarstaðir – loftmynd 1954.
Um Járngerðarstaði 1840 segir í Landnámi Ingólfs III6: „eigi fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt. Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. Bæði í túninu og utanhúss eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóptir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóptum.“
Járngerðarstaðir 1890.
Árið 1847 voru Járngerðarstaðir eign Skálholtsstaðar líkt og flestir betri útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans. „Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir. Hjáleigur eru; Vallarhús, Lambús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús og Hlaðhús. Búðir til forna voru; Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu-Gjáhús, skv. Jarðabók Árna Magnússonar 1703. Þá var „heimræði árið um kring og lending í betra lagi. Engvar öngvar. Jörðin nær frá sjó upp til fjalls eins og önnur býli hér.“
Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa, göng, bæjardyr, skáli, eldahús, búr í norðurenda baðstofu, fjós með 3 básum, hesthús fyrir 3 hesta, heyhús, smiðja, sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd, túngarður 160 fðm, traðargarður 85 fðm og kálgarður. Fyrir sumu þessu mótar fyrir enn í dag.
Grindavík – Vorhús fyrir 1925. Gamli barnaskólinn ofar t.v.
Þróun byggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi hefur einkennst mjög af atvinnuháttum og landfræðilegum aðstæðum. Árið 1925 gerði mikið sjávarfljóð í Grindavík er eyðilagði mörg hús og skemmdi stórkostlega uppsátrið í annarri vörinni og eyðilagði hina að mestu. Fram til þess tíma bjuggu margir í torfhúsum sem skemmdust í flóðinu.
Járngerðarstaðir – gamli bærinn.
Mikið af húsum í gamla bænum er byggður á næstu árunum eftir flóðin, 1925-1930. Í Landnámi Ingólfs segir um 1840 „á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.“ En vatn hefur væntanlega ávallt verið verðmæti í Grindavík enda hraunið gljúpt og regnvatn rennur fljótt niður og saltur sjór gengur undir skagann og brim yfir hann og ofanvatn því oft heldur salt. Enda var í Grindavík lengi steypt vatnsþró við hvert hús þar sem regnvatni var safnað. Eftir að vatnsveita kom í bæinn var þessum þróm iðulega breytt í salernisaðstöðu.
Breyttir atvinnuhættir, eftir 1950 þegar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki eru stofnuð, hafa haft áhrif á heimilishald í Grindavík en smám saman lagðist búfjárhald af á heimilum og útihús grotnuðu því niður eða voru tekin til annarra nota.
Skipulagsmál í Grindavík
Grindavík – uppdráttur 1946.
Á fyrstu áratugum síðustu aldar var Grindavík á mörkum sveitar og þéttbýlis. Árið 1942 fór Guðsteinn Einarsson þáverandi oddviti Grindavíkurhrepps þess á leit að skipulagsuppdráttur yrði gerður af þorpinu á vegum félagsmálaráðuneytis. Erindið var sent til skipulagsnefndar ríkisins sem tók málið í sínar hendur og árið 1944 var fyrsti uppdrátturinn gerður af Grindavík. Vegna erindis nokkurra manna um að byggja sjóhús við höfnina í Hópinu, lagði hreppsnefndin það til við skipulagsstjóra að nýtt skipulag yrði undirbúið. Skipulagsstjóri sendi mann til Grindavíkur til mælinga og setti fram skipulagstillögu þann 12. nóvember 1945. Frekar var unnið að tillögu þessari og árið 1946 gerði Páll Zóphóníasson uppdrátt af Járngerðarstaðahverfi.
Heimild:
-Húsakönnun, Gamli bærinn í Grindavík, janúar 2015.
Grindavík.
Lítil saga sunnan af Hvaleyri
Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1964 má lesa eftirfarandi um beinafund við Hjörtskot á Hvaleyri undir fyrirsögninni „Lítil saga sunnan af Hvaleyri„:
„Nokkru eftir að Pálína gerðist ráðskona hjá Magnúsi í Hjartarkoti, sennilega haustið 1922, fann hún þarna mannabein í rofbakka, höfuðkúpu og hálslið. Tók hún beinin í sínar vörzlur, svo að þau veltust ekki í reiðuleysi í fjörunni. Sjálfsagt hafa henni verið bein þessi hugstæð, enda ekki alsiða, að bústýrur á Íslandi hafi mannabein í fórum sínum. En hvað sem um það er, þá gerðist það þessu næst, að Pálínu birtist sýn í svefni. Þótti henni sem á sinn fund kæmu tveir karlmenn og ein kona og þökkuðu henni varðveizlu beinanna, en báðu hana þó að hlúa betur að þeim. Sungu þau síðan sálm og lauk með því draumnum. Þótti þeim hjónum ráð að grafa beinin sem næst þeim stað, er þau höfðu fundizt á, en þó svo, að þau væru óhult í sjávargangi. Voru þau látin í kistil, sem Magnús gróf í mónum úti á bökkunum, skammt frá fundarstaðnum, þegar klaki var úr jörðu.
En þess var ekki langt að bíða, að meira fyhdist af mannabeinum þarna á Hvaleyrarbökkum. Haustið 1924 veitti Magnús því athygli, að bein voru í fjörunni og fleiri stóðu út úr rofinu. Safnaði hann þeim saman og gróf síðan nokkuð í bakkann fyrir forvitnis sakir. Fann hann þar tvær hauskúpur til viðbótar og mörg bein önnur úr tveim mönnum, ásamt einum hornhnappi.
Nú var fólkinu í Hjartarkoti nóg boðið, er mannabein hlóðust að því með þessum hætti, og varð það fanga ráðið að láta fornminjavörðinn, Matthías Þórðarson, vita um þetta. Skoðaði hann höfuðkúpurnar, sem báðar voru heillegar, og komst hann að þeirri niðurstöðu, að önnur myndi af manni, sem kominn hefði verið allmjög til aldurs, er hann dó, en hin af miðaldra manni. Tjáði Magnús honum, að glöggt hefði mátt sjá, að eldri maðurinn hefði ekki verið lagður til, því að hann hefði sýnilega verið krepptur í gröf sinni, og öll hefðu beinin verið þétt saman.
Nú leið og beið, því Matthías hafði ekki tök á því að sinni að kanna sjálfur stað þann, er beinin fundust á. Voru beinin því geymd og ráðstöfun þeirra látin bíða betri tíma. Og meðan þess var beðið, að fornminjavörður kæmi á vettvang, skeggræddu menn sín á millí um það, hvernig staðið gæti á þessum beinum í Hvaleyrarbökkum. Það var raunar kunnugt, að á Hvaleyri hafði lengi verið kirkja, sem ekki var tekin af fyrr en árið 1765. Sást þar enn fyrir kirkjugarðinum í túni heimajarðarinnar, og hafði hann ekki verið þar, sem beinin voru. Þá var enn fremur kunnugt, að þýzkir kaupmenn áttu kirkju í Hafnarfirði á 16. öld, og sjálfsagt hafa þeir farmenn þýzkir, er létust í Íslandsferðum, verið grafnir við hana En engin líkindi voru til þess, að hún hefði staðið yzt á sjávarbökkum á Hvaleyri, auk þess sem allt benti til þess, að þeir menn, sem þarna hvíldu, hefðu verið dysjaðir utan garðs, án þess umbúnaðar, er siður var að veita líkum í vígðum reitum. Bar því allt að þeim brunni, að þarna lægju annað tveggja sekir menn eða útlendingar, sem ekki þóttu þess verðir að hvíla meðal annarra kristinna manna, kasaðir af óvinum sínum eða minnsta kosti þeim, er ekki vildu við þá kannast sem bræður í Kristi.
Nú voru uppi ýmsar sagnir um um erjur og bardaga á þessum slóðum, er enskir og þýzkir kaupmenn lögðu hvað mest kapp á að ná hér fótfestu. Þess vegna tóku menn að fletta í gömlum annálum og leita þar frásagna, er gætu leyst þessa gátu.
Biskupaannálar Jóns Egilssonar í Hrepphólum geymdu tvær sögur, sem menn stöldruðu við. Þar var sagt, að ábótinn í Viðey á dögum Magnúsar Eyjólfssonar, sem biskup var í Skálholti 1477-1490, hefði í kringum 1480 ráðizt með liðsafla á Englendinga, er lágu við Fornubúðir í Hafnarfirði, fyrir þær sakir, að þeir höfðu rænt skreið klaustursins. Hefur þessi ábóti verið Steinmóður Bárðarson, harðskeyttur maður og mikill fyrir sér. Hafði hann sigur í orrustunni, en mannfall hefur nokkurt orðið, því að þar lét lífið sonur ábótans, er Snjólfur hét. Í öðru lagi kunni Jón Egilsson að greina frá öðrum bardaga á þessum sömu slóðum milli Englendinga og þýzkra kaupmanna, Hamborgara. Lutu Englendingar í lægra haldi í þeirri viðureign fyrir Þjóðverjum“, sem „rýmdu hinum burt og fluttu sig fram á eyrina og hafa verið þar síðan.“ Þetta gerðist kringum 1518. Leizt mönnum fljótt, að þarna á Hvaleyrarbökkum myndu Englendingar, sem fallið höfðu í öðrum hvorum þessara bardaga, hafa verið heygðir, því að einsýnt var, að bæði íslenzkir menn og þýzkir, er féllu í þessum bardögum, hefðu verið færðir til kirkju.
Hvaleyri – samsett herforingjaráðskort 1903.
Er ekki ólíklegt, að um þetta leyti hafi ýmsum orðið tíðlitið til þeirra staða, þar sem hinir ensku og þýzku kaupmenn höfðu bækistöðvar sínar endur fyrir löngu. Á eyrinni, þar sem nú heitir Skiphóll, voru búðir Hamborgara, en í túnfæti fyrir austan Hjartarkot voru vallgrónar rústir tveggja stórra búða: Fornubúðir, þar „em hinir ófyrirleitnu Englendingar lágu með kaupskip á dögum Steinmóði ábóta. Það mátti að sönnu láta sér til hugar koma, að Jón í Hrepphólum hafi ekki kunnað glögg skil á hinum gömlu erjum í Hafnarfirði — jafnvel, að sitthvað væri missagt í fræðum hans. Hann fæddist sjálfur ekki fyrr en um miðja sextándu öld, svo að margt það, sem um þessi stórtíðindi hafði verið sagt, gat afbakazt, áður en hann nam söguna, einkum hvað varðaði hinn fyrri bardaga, er Viðeyjarábóti átti við Englendinga. En engin ástæða er til þess að rengja það, að þarna hafi mannskæð átök orðið, enda segir Jón Guðmundsson lærði einnig frá því í rtii sínu „um ættir og slekti“, að forfaðir sinn, Magnús Auðunsson hins ríka, hafi fallið á Jófríðarstöðum „í því engelska Hafnarfjarðarstríði fyrir svik landsmanna.“
Bústýran í Hjartarkoti leitaði hófanna um það við sóknarprest sinn, séra Árna Björnsson í Görðum, að hann greftraði beinin, þegar það væri tímabært Hann færðist undan því að jarðsyngja beinin, en Pálína sótti þeim mun fastar á, og þegar hún fékk engu um þokað, sneri hún sér til biskups í þeirri von, að hann vildi taka af skarið. En þegar biskup fékkst ekki til þess að skipa séra Árna að verða við óskum Pálínu, fór málið að vandast.
Þegar hér var komið, mun fólkinu í Hjartarkoti hafa verið orðið mikið kappsmál, að beinin yrðu grafin í kirkjugarði, enda greip það nú til þess ráðs að segja sig úr þjóðkirkjunni og ganga í fríkirkjusöfnuðinn í Hafnarfirði. Séra Ólafur Ólafsson var prestur fríkirkjusafnaðarins, og hann tjáði sig fúsan að jarða beinin með þeim hætti, er Hjartarkotsfólki mátti vel líka. En ekki var það unnt fyrr en Matthías Þórðarson hafði gert þær athuganir, er hann taldi við eiga.
Ekki varð úr því fyrr en í ágústmánuði, að Matthías kæmi suður á Hvaleyri til rannsókna. Gróf hann þá í bakkann, þar sem Magnús Benjamínsson hafði fundið beinin úr mönnunum tveimur. Fann hann þar bein úr neðri hluta annars mannsins, sem önnur hauskúpa var úr, svo sem fimmtíu sentímetra undir grassverðinum. Þessi bein voru heilleg, og mældust lærleggirnir fimmtíu sentimetrar á lengd. Hafði hægri handleggur verið sveigður yfir manninn miðjan, og þótti Matthíasi ekki vafi leika á þvi, að þessi maður hefði verið lagður til líkt og venja var á miðöldum.
Þegar hann hafði tekið upp þessi bein, var grafinn upp kistill sá, er í var hauskúpan og beinin, er Pálína í Hjartarkoti fann í öndverðu. Var hún þar í mónum, er Magnús vísaði til, og reyndist kúpan af ungum manni. Þegar Matthías hafði þetta starfað, seldi hann þeim Magnúsi og Pálínu beinin í hendur, kvaddi og hélt á brott.
Nú var það eitt eftir að neyta þess, að séra Ólafur fríkirkjuprestur vildi syngja yfir beinunum. Og það var ekki látið dragast úr hömlu. Þetta var stutt athöfn, og innan lítillar stundar, er henni lokið. Þegar beinakistunni hefur verið sökkt í gröfina í kirkjugarðinum ofan við Jófríðarstaði og séra Ólafur kastað á hana rekunum, tekur Magnús Benjamínsson skóflu og mokar ofan í. Þá er þessu lokið. Beinunum hefur verið sýnt sú tillitssemi, sem er á valdi fólksins í Hjartarkoti, og fólk aftan úr öldum þarf ekki framar að koma til bústýrunnar í draumi til þess að bera henni tilmæli sín.“
Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 9. ágúst 1964, bls. 724-725 og 247.
Hvaleyri fyrrum – tilgáta.
Skagagarður
Skagagarðurinn á Rosmhvalanesi er eitt fárra íslenskra mannvirkja frá miðöldum sem varðveist hefur. Fáum mun kunnugt um tilvist hans, en engu að síður má telja Skagagarðinn einhverjar merkustu forminjar landsins og gefur hann vísbendingar um löngu horfna atvinnuhætti.
Garðurinn lá frá bænum Kirkjubóli norður til Útskála. Við báða enda hans tóku við miklir túngarðar og munu mannvirki þessi því hafa girt með öllu fyrir skagann. [Hluti garðsins liggur norðan Hafurbjarnarstaða, en það gæti sagt nokkuð til um aldur og tilgang hans.] Sjálfur garðurinn var um 1500 metra langur, um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi vel var talið að garðurinn væri frá 13. eða 14. öld, en elstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur vart verið hlaðinn síðar en á 10. öld.
Garðinum hefur væntanlega verið ætlað að halda sauðfé frá kornökrum á norðanverðum skaganum, en örnefni og fornar akurreinar benda til umfangsmikillar kornræktar á Suðurnesjum fyrr á öldum. Herma þjóðsögur meira að segja að bærinn Sandgerði hafi upphaflega gengið undir nafninu „Sáðgerði“.
Á hinum köldu öldum Íslandssögunnar áttu Suðurnesjamenn bágt með að trúa sögnum um akuryrkju á Garðsskaga fyrr á tíð. Þess í stað freistuðust þeir til að skýra byggingu Skagagarðsins á öllu skemmtilegri hátt.
Frá því að elstu menn kunnu frá að segja, höfðu verið haldnir vikivakar og jólaskemmtanir að bænum Flankastöðum. Þetta voru hinar mestu dans- og gleðisamkomur og oft drukkið meira en góðu hófi gegndi. Þar sem veislugestir frá Útskálum og öðrum bæjum af norðanverðum skaganum áttu yfir heiði að fara, gat bakaleiðin reynst æði varasöm, enda auðvelt að villast þegar saman fór myrkur, ölvun og flatt landslag án hæða, hóla eða annarra kennileita. Það var því hald manna að garðurinn hafi verið hlaðinn til að vísa slompuðum vegfarendum veginn.
Skagagarðurinn – minnismerki.
Af vikivökunum að Flankastöðum er það hins vegar að segja að sr. Árni Hallvarðsson, prestur á Hvalsnesi 1743 til 1748, bannaði þá vegna óreglu. Var því spáð að Árna hefndist fyrir tiltækið og gekk það eftir þegar hann drukknaði skömmu síðar á leið til annexíunnar í Kirkjuvogi.
Heimild:
-www.sandgerdi.is
Skagagarðurinn – kort.
Hvaleyri – síðasti ábúandinn
Í Lesbók Morgunblaðsins má lesa eftirfarandi um síðasta ábúandann á Hvaleyri árið 1977:
„Nesið sunnan við Hafnarfjörð hefur heitið Hvaleyri frá fornu farí, ef marka má Landnámu. Þar áttu þeir viðdvöl, Hrafna Flóki og hans menn og fundu rekinn hval eftir því sem sagan segir, og nefndu staðinn Hvaleyri. Sé það rétt, mun það örnefni elzt við Faxaflóa. Síðan fer litlum sögum af landnámi og búskap á Hvaleyri. Þar var grösugast við Hafnarfjörð og kotin urðu mörg og smá. Líkt og víðast annarsstaðar suður með sjó, var fátæktin förunautur þeirra sem kusu sér búsetu þar og nábýlið við Bessastaði var búendum ekki fagnaðarefni.
Túnin á Hvaleyri voru grasgefin og þar var þó ólíkt betra undir bú en suður í Hraunum eða á Vatnsleysuströnd.
Þannig leið tíminn án sjáanlegra stórmerkja, unz þáttaskil urðu fyrir 10 árum, að Golfklúbburinn Keilir fékk túnin til umráða og þar hefur verið golfvöllur síðan. Það voru undarleg ósköp í augum þeirra, sem höfðu erjað þessa jörð og aldrei litið uppúr puðinu. En tímanna tákn var það aungvu að síður.
Nú hafa kotin verið jöfnuð við jörðu. Eftir standa Vesturkot, sem nú er félagsheimili golfklúbbsins Hvaleyrarbærinn, sem senn mun hverfa — og Sveinskot, neðan við veginn, skammt eftir að komið er inn á Hvaleyrina. Það er eini bærinn, sem eftir er og hefur dálítinn afgirtan túnbJett út af fyrir sig, íbúðarhús og útihús. En einnig þar er allt á síðasta snúningi og meðfylgjandi myndir frá í vor voru teknar til að halda á lofti minningunni um síðasta bæinn á Hvaleyri og bóndann þar, Ársæl Grímsson. Húsið ber svipmót kreppuáranna, klætt bárujárni og lítið á mælikvarða nútíðar. En það ber með sér þokka, sem smiðir þessa tíma gátu laðað fram, þó ekki væri úr miklu að spila. Út um víðan völl voru lambærnar að kroppa grængresið, gular á lagði.
Eins og í hverjum öðrum vorönnum, grípur Ársæll í að verka svo sem eina hjólbörufylli af grásleppu og hengir á rár. Það er eins og vant er, að bóndinn sér ekki út úr verkefnunum og hefur hann þó í fleiri horn að líta en þau, sem blasa við augum innan girðingar í Sveinskoti. Frá stofnun golfklúbbsins hefur Ársæll verið ötull og ómissandi starfskraftur og hefur hann bætt við eigin bústörf lengri vinnudegi á golfvellinum en hægt er að ætlast til að einn maður geri, jafnvel þótt hann væri á bezta aldri.
Það sýnist þó ekki há Ársæli, að hann er nálega jafn gamall öldinni; 76 ára, og mættu ýmsir aldarfjórðungi yngri, öfunda hann af þrekinu. Sjálfum þykir honum ekki svo mikið til þess koma. Hann þekkir ekki annað en vera fílhraustur og hann hefur aðhyllst þá kenningu um dagana, að vinnan sé guðs dýrð, eins og Halldór Laxness segir einhversstaðar, og guðsdýrðin verður aldrei meiri en á vorin, þegar helzt þarf að gera allt í senn: Bera áburð, hengja upp grásleppu, slá brautir og flatir á golfvellinum og sinna lambfé. Á vorin og sumrin er Ársæll kominn til starfa um sexleytið á morgnana og heldur sínu striki frameftir deginum fyrir því.
Eftir tveggja ára búskap á Tóftum við Grindavík fluttist Ársæll með fjölskyldu sína að Sveinskoti á Hvaleyri, sem hefur orðið honum kærastur samastaður; svo samgróinn er hann eyrinni, að hann er líkt og hluti af ásýnd staðarins.
Um það leyti sem þau hjón fluttu þangað inneftir, voru fimm bæir á Hvaleyri: Sveinskot, Hjörtskot, Hvaleyri, Vesturkot og Halldórskot. Nú var mun landþrengra en á Tóftum, en túnið var og er grasgefið og hann gat haft 7 kýr, 40—50 fjár og einn vagnhest. Ekki var þó alveg heyfengur handa þeirri áhöfn, en hér var Ársæll kominn í tölu mjólkurframleiðenda. Mjólkin var sótt til Hafnarfjarðar og fór í samsöluna í Reykjavík. En jafnframt stundaði Ársæll vinnu hjá Olíustöðinni í Hafnarfirði þegar tími gafst til. Það fór vel um þau í Sveinskoti og þau fundu, að þarna áttu þau heima. Þeim Ársæli og Hansínu varð auðið þriggja dætra og tveggja sona. Annar sonanna drukknaði af Grindvíkingi, en Grímur sonur þeirra er einn af grásleppukóngunum svonefndu við Hafnarfjörð.
Þáttaskil urðu í búskap Ársæls í Sveinskoti urðu þegar Golfklúbburinn Keilir fékk Hvaleyrina til umráða.
Hvaleyri – túngarður.
Þegar það var á döfinni, kvaðst Ársæll hafa kviðið fyrir þeim umskiptum, sem hlutu að verða, án þess þó að hafa hugmynd um, hvað þar var á ferðinni. Það fór þó svo, að Ársæll varð nánast ómissandi starfskraftur fyrir þennan félagsskap og óhætt að segja, að hann er tengdur honum sterkum böndum. Það var enda að vonum og verðleikum, að Ársæll var sæmdur heiðursmerki Keilis á tíu ára afmæli klúbbsins á þessu ári.
Fyrir tveimur árum urðu enn þáttaskil. Þá fluttust þau hjónin úr gamla húsinu í Sveinskoti í sambýlishús við Suðurgötu í Hafnarfirði. Þau voru heppin með sambýlisfólk, en þetta voru aungvu að síður mikil viðbrigði og Ársæll kveðst ekki beint geta sagt, að hann eigi þar heima. „Ég á fyrst og fremst heima á Hvaleyrinni,“ segir Ársæll, „af þeim stöðum sem ég hef búið á, hef ég kunnað bezt við mig þar“.
Ársæll lést 23. febrúar árið 1998.“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 6 nóv. 1977, bls. 8-9 og 16.
Hvaleyri – uppdráttur.
Eldstríð Hafnfirðinga – Gísli Sigurðsson
Gísli Sigurðsson fjallar um „Eldstríð Hafnfirðinga“ í Þjóðviljanum árið 1960. Greinin er sú fyrri af tveimur um sama efni:
„Fyrr á tímum háðu Hafnfirðingar baráttu við eldinn, slíka að henni verður ekki betur lýst er með orðum mannsins er bezt hefur kynnt sér það mál: „Það var heimsstríð“. Maður er nefndur Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn í Hafnarfirði. Í tíu ára hefur hann varið hverri frístund til þess að grafa úr gleymsku og forða frá glötun fjölmörgu úr sögu Hafnarfjarðar, sem ella hefði glatazt. Hann segir hér húsmæðrum er nú kveikja ljós og eld með snertingu við rafmagnshnapp (og fá vonandi enn fleiri slíka hnappa og aukna sjálfvirkni í eldhúsin) frá eldstríði formæðra þeirra.
Sögufélag mun ekkert vera til í Hafnarfirði (en örfáir Hafnfirðingar í Sögufélagi Ísfirðinga), en saga Hafnarfjarðar kom út á aldarfjórðungsafmæli Hafnarfjarðar sem kaupstaður árið 1933. Kjartan Ólafsson flutti tillögu í bæjarstjórninni um ritun slíkrar sögu og Sigurður Skúlason magister var ráðinn til verksins og fékk hann ekki nema tvö ár til þessa verks og því ekki að vænta að hann gæti grafið allt upp.
Gísli Sigurðsson lögregluþjónn hefur eytt til þess öllum frístundum sínum í tíu ár að safna til varðveizlu ýmsu er bregður ljósi yfir lífsbaráttu og störf fólksins á þessum stað. Hvort Hafnfirðingar meta þetta starf að verðleikum fyrr en löngu eftir að Gísli er genginn og grafinn skal ósagt látið, en seinni tíma menn verða honum þakklátir. Fyrir tilviljun komst ég á snoðir um þessar rannsóknir Gísla og spurði hann því nánar um málið.
— Ert þú innfæddur Hafnfirðingur, Gísli?
— Nei, ég kom hingað 1911, stráklingur með foreldrum mínum, en fram að þeim tíma voru þau vinnuhjú austur í sveit.
—En samt ert það þú sem reynir að varðveita þætti úr sögu Hafnarfjarðar. Er langt síðan þú byrjaðir á því?
— Það var á miðju sumri 1950 að ég byrjaði á þessu, en síðan hef ég notað allar frístundir í þessu augnamiði.
— Hvernig hefur þú unnið að þessu?
— Ég hef bæði safnað munnlegum heimildum gamals fólks í bænum og einnig farið í gegnum ógrynni af prentuðum heimildum. Ég hef fengið um hálft annað hundrað viðtala við gamla Hafnfirðinga, lýsingu á 50 gömlum húsum og um hundrað gamalla bæja, torfbæja og timburbæja. Ég hef einnig fengið nokkrar lýsingar á lóðum, annars var lóðaskipunin gamla fremur lítið breytt fram til þess að ég kom til Hafnarfjarðar. Nokkuð hef ég fengið af þjóðsögum, en það er ekki mjög mikið af þeim hérna.
— Hvernig þjóðsögur eru það?
— Huldufólkssögur helzt, en þó eru til nokkurs konar draugasögur, — og nú brosir Gísli kankvíslega um leið og hann heldur áfram: eins og t.d. þegar Ólöf gamla hálfhrakti hann Geira bróður útúr Undirhamarsbænum á gamlárskvöld 1923. Það mun vera ein yngsta fyrirburðasagan hér í bæ. Gamlir menn sögðu mér að þetta hefði ekkert verið og röktu flest slíkt til missýninga. Í þessum viðtölum við gamla Hafnfirðinga hef ég komizt töluvert inn í lífsbaráttu fólksins, t.d. eldiviðaröflun, — það var heimsstríð að hafa í eldinn.
— Já, segðu mér eitthvað frá því stríði.
— Flestir urðu að taka upp mó inni í Hraunsholtsmýri og bera móinn á sjálfum sér suður í Hafnarfjörð. Þar af eru nöfn „Hvíldarklettanna“ við veginn í hrauninu komin. Nú er búið að brjóta þá alla niður í veginn nema einn. Þar settist fólk til að hvíla sig undir mópokunum. Svo var verið að hirða þöngla og allskonar rek í fjörunni. Þá fóru menn líka í hrísmó upp um allt og rifu hrís og mosa svo til landauðnar horfði. En það var líka til fólk sem ekki þurfti að standa í þessu stríði. Kaupmennirnir keyptu t.d. flestir um 40 hesta af mó árlega og létu flytja að sér. Þeir sem áttu skip fóru fyrir Álftanes á haustin og fluttu móinn sjóleiðis. Þeir urðu að velja sér sérstaklega gott veður því bátarnir voru svo hlaðnir. Þeir settu spýtur upp með borðstokkunum og þverslár þar á milli og þannig urðu bátarnir háfermdir. Stundum þurftu þeir því að hleypa upp á Álftanes á heimleiðinni til þess að forða mönnum og bátum frá því að sökkva.
— Var allur mór sóttur í þessa mýri?
— Nei, nokkuð fékkst af mó í Firðinum sjálfum og Hafnfirðingar fóru líka alla leið inn í Nauthólsvík til þess að taka upp mó þar. Á þrem stöðum hér í Hafnarfirði var aðallega hægt að fá mó. Það var í Hamarskotsmýrinni meðfram læknum, Sjávarmýrinni, þar sem skipasmíðastöðin Dröfn er nú, þar var mórinn 18 stungur. Þegar dráttarbrautin var byggð þar var tveggja mannhæða rof niður á móhellu. Og í mýrinni hjá Brandsbæ var einnig mór, þar var hann 6 stungur. – Í Sjávarmýrinni náði mórinn talsvert niður fyrir sjávarmál og upp í hallann hjá Kaldárstígnum gamla, þar man ég eftir mógröfum.
— Já, Kaldá, það varð nokkur saga af henni.
— Já, gamla Kaldá er löngu horfin, en þar var reist fyrsta gosdrykkjaverksmiðja á Íslandi. Jón Þórarinsson skólastjóri lét byggja hana og hún mun hafa starfað í 20 ár, en þegar hann seldi tók Milljónafélagið við.
— Milljónafélagið sem Thor Jensen tapaði minninu hjá?
— Nei, þetta var annað milljónafélag. Pétur J. Thorsteinsson o.fl. voru með það, en þetta milljónafélag fór einnig á hausinn. Jensen missti minnið svo gersamlega hjá hinu milljónafélaginu að hann gat með engu móti rámað í það að hann hefði átt heima í gamla Sívertsenhúsinu í Hafnarfirði í 1 eða 2 ár!
En svo við höldum áfram að tala um móinn þá fékkst sjávarmór vestur í Skerseyri. Ef fjörumölinni var mokað ofan af mátti ná bar í mó um fjöru. (Enn ein sönnun þess hve Suðurnesin hafa sigið). Og vestur í Víðistöðum var víst einhver móvera, en undir Víðistaðahvosinni er móhella — Víðistaðir eru eyja niðri í hrauninu sem það hefur runnið í kringum.
Hafnarfjörður.
— Það hefur verið erfitt stríð að halda eldinum lifandi.
— Já, t.d. þegar faðir Jóns Einarssonar verkstjóra fór í róðra kl. 2—3 á næturnar fór kona hans jafnsnemma til að sækja mósa í eldinn suður í Bruna, — það mun vera um 5 km gangur hvora leið. Þær fóru í flokkum kerlingarnar og báru sinn tunnupokann hver af mosa til baka.
Í hrísmó upp í Kaldársel var 7 km leið. Fólk fór það aðallega á næturnar, því eiginlega var það bannað — margbannað. Það var stuldur, en einhverju varð fólkið að brenna.
— Einar minn í Gestshúsum — nú er hann orðinn 90 ára — hefur sagt mér, heldur Gísli áfram, að þegar hann var 8 ára var hann látinn bera út mó úr kesti inni í Hraunholtsmýri á móti mömmu sinni. Þegar litlu fingurnir höfðu ekki lengur afl til að halda um börukjálkana var sett snæri um kjálkana, og aftur yfir háls drengsins, og þannig var hann látinn halda áfram unz síðasti hnausinn var kominn til þerris. Þá andvarpaði móðir hans (sem hafði eldiviðarleysi komandi vetrar í huga): Það vildi ég að kominn væri annar köstur!
Hafnarfjörður.
— En þrátt fyrir þetta er hann nú orðinn níræður, blessaður karlinn. Þeir sem höfðu útgerð létu þurrka hvern hrygg og hvern haus til að hafa í eldinn. Jón Einarsson verkstjóri sagði mér að þegar hann og bræður hans voru strákar voru þeir látnir bera allt slíkt frá útgerð föður síns upp í Einarsgerði (var þar sem Herkastalinn var byggður við Austurgötuna) en þar höfðu verið hlaðnir garðar til að þurrka á. Þorskhausar voru hertir til matar en hausar annarra fiska og hryggir til eldsneytis.
— Og hvernig voru svo eldhúsin sem öllum þessum mó, hnausum, mosa og hrísi var brennt í?
— Hlóðirnar í Hjörtskoti standa enn, en Hjörtskot mun vera eini gamli bærinn sem enn stendur að mestu í svipuðu formi og fyrr, nema sett hefur verið á hann járn. Eldhúsið og hlóðirnar standa enn. Vestur á Skerseyri er enn til gömul eldhústóft. Hún er um 2-1/2×2 álnir að flatarmáli.
—Og bæirnir sjálfir lélegir?
— Já, gömlu bæirnir voru margir af vanefnum byggðir. T. d. var bærinn sem Kristinn Auðunsson (kunnur forfaðir margra ágætismanna) þannig að það kom varla svo dropi úr lofti að ekki hripaði inn í bæinn. Það blæs og hripar gegnum veggi sem hlaðnir eru úr hraungrýti (hraðstorknu gosgrjóti) og því var hafður svelgur í gólfinu í mörgum þeirra bæja sem voru með moldargólfi. Þótt þekjan væri úr tvöfaldri snyddu lak í gegnum hana því grasrót tekin í hrauni er allt annað en mýrartorf. Bæirnir voru viðaðir með skarsúð og þar utanyfir var rennisúð. Sumstaðar voru settir listar á samskeytin og tjargað yfir, en annarstaðár var snyddu hlaðið utaná til skjóls. Bæirnir munu flestir hafa enzt illa. Þórnýjár- og Pétursbær voru t.d. báðir byggðir um 1890 en báðir tæplega mannabústaðir um aldamót. Bæir sem gerðir voru af slíkum vanefnum munu yfirleitt ekki hafa enzt nema í 10 ár.
En hvernig var með vatn – annað en lekann?
Hafnarfjörður.
— Það var líka stríð að hafa neyzluvatn á hraunbæjunum. Allt vatn var sótt í lækinn, hvar sem menn bjuggu í hrauninu. Þar sem Selvogsgatan er nú uppi á Hamrinum var lind, nefnd „Góðhola“ og sóttu Hamarsbúar þangað vatn sitt. Dý var þar sem Kaldá var byggð og þangað sóttu sunnanbyggjar vatn. En allir sem áttu heima fyrir vestan Læk sóttu vatn í Lækinn. María Kristjansdóttir sagði mér frá því að þegar hún var 8 ára, lítið vaxin og pasturslítil, var hún send vestan frá Sveinshúsi (nú Merkurgata 3) suður í Læk með tvær vatnsfötur. Hún fyllti þær í Læknum og rogaðist með þær vestur eftir, en þegar þangað var komið var oft harla lítið eftir í fötunum, því föturnar voru stórar en telpan lítil og var því alla leiðina að reka þær í og hella niður og utaní sjálfa sig. Konur fóru einnig með þvottinn í Lækinn. Læknar sem hingað komu höfðu orð á bví að hér væri þvotturinn hvítari en í Reykjavík, sem mun hafa stafað af því að þegar þvegið var í Laugunum þurfti að bera þvottinn langa leið í bæinn, en hér var hann líka skolaður úr köldu rennandi vatni. — Já, neyzluvatnið var sótt í sama lækinn og þvegið var í.
— Þú segist hafa fengið lýsingu á 100 bæjum, — og þá líka hvar þeir stóðu?
— Já, mér hefur tekizt að fá töluvert af upplýsingum um bæina og byggðahverfin og töluvert um fólkið sem í þeim bjó.
Það segir betur frá því í síðari grein. -J. B.“
Heimild:
-Þjóðviljinn 10. apríl 1960, bls. 6-7 og 10.
Stafnes – Nýlenda – Bali
Stafnes (Starnes, Sternes, Stapnes, Stafsnes) er lítið nes á Reykjanesskaga, nánar tiltekið vestast á Miðnesi, nálægt Hvalsnesi. Þar er samnefnd jörð sem tilheyrði Rosmhvalaneshreppi en í dag Suðurnesjabæ. Upphaflega hefur nesið heitið Starnes (líklega eftir melgresi sem vex þar í fjörunni) og kemur fyrir undir því nafni í heimildum frá því um 1270 og síðar. Nafnið Stafnes kemur fyrst fyrir í Jarðabókum undir lok 17. aldar. Stafnes er í Hvalsnessókn.
Stafneshverfi.
Jörðin Stafnes hefur verið stórbýli frá upphafi með margar hjáleigur og útgerð, þótt höfuðbólið Hvalsnes hafi verið stærra, en varð fyrir miklum skemmdum vegna stórflóða og sandblásturs á 17. og 18. öld. Stafnes var keypt af Magnúsi Einarssyni biskupi fyrir Skálholt kringum árið 1140, en hefur síðan gengið til Viðeyjarklausturs, hugsanlega við stofnun þess. Við siðaskiptin varð Stafnes konungsjörð. Jörðin var boðin upp í Reykjavík 27. júní 1792 ásamt 24 öðrum konungsjörðum á Miðnesi, en boðin sem fengust voru svo lág að stjórnin féllst ekki á neitt þeirra. 10. september 1805 var jörðin svo loks seld á kaupþingi í Keflavík og komst í bændaeigu.
Stafnesviti.
Á Stafnesi var ein mesta konungsútgerð á Miðnesi frá því fyrir 16. öld og fram um miðja 18. öld. Árið 1548 eru í skilagrein Kristjáns skrifara talin upp á staðnum fimm skip í eigu konungs; einn tólfæringur, tveir teinæringar og tveir áttæringar, en með tímanum minnkuðu skipin og undir lokin voru tvíæringar orðnir algengastir á Miðnesi. Auk konungs gerðu útvegsbændur báta sína út frá Stafnesi, eins og kauphöfninni Básendum lítt sunnan við. Útgerð frá Stafnesi hélst töluverð fram undir miðja tuttugustu öld, en eftir það sáralítil.
Við Stafnes hafa verið tíð sjóslys um aldir, enda skerjótt þar úti fyrir. Á síðustu öld má nefna strand togarans Jóns forseta árið 1928, en þá fórust 15 menn og 10 björguðust. Þetta sjóslys mun hafa valdið miklu um stofnun Slysavarnafélags Íslands og fyrstu björgunarsveitar þess, sem er Sigurvon í Sandgerði. Á Stafnesi var reistur viti árið 1925.
Ari Gíslason skráði eftirfarandi um Stafnes eftir Metúsalem Jónssyni: „Beint vestur af heimabæ í Stafnesi er hóll, sem heitir Vallarhúsahóll. Þar hefur verið mikil byggð hér áður fyrr. Ofan við efra húsið á Stafnesi í túni er hringur, nefndur Lögrétta. Ekki er vitað, hvað þetta var, og má geta þess, að hann er ekki eins í laginu og slíkir lögréttuhringir eru vanir að vera. Rétt vestur af húsinu eru allmiklar rústir, sem ekki er vitað um, hvað er. Austur af Eystrahúsinu í Stafnesi heitir Lodduvöllur, og í honum er Loddubrunnur.
Kvíslarhóll er gamall öskuhaugur við Loddu. Býli voru mörg hér og hvar, og örugglega eru sum þeirra farin alveg í sjó. Má t.d. nefna, að 1703 er talað um landssvæði, sem hét Snoppa. Nú veit enginn, hvar það hefur verið. Krumfótsbúð var gömul sjóbúð, sem ekki er vitað, hvar var.“
Austur-Stafnes.
Magnús Þórarinsson skrifaði um Stafnes í „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi„: „Syðsta örnefni í Hvalsneslandi var Mjósund. Er þá komið að landareign Stafness og Stafneshverfis. Á góðu og gömlu, sjómannamáli bátverjanna á opnum áraskipum var öll hin stóra vík frá Ærhólmum að Stafnesrifi kölluð einu nafni, Hólakotsbót. Á henni eru eftirtalin örnefni: Landamerki milli Hvalsnes og Stafneshverfis eru í viki einu litlu sunnan við Ærhólma; heitir það Mjósund, stundum kallað Skiptivik. Á bakkanum er lítill grasblettur, sem heitir Ögmundargerði, og þar sunnan við er gamalt byrgisbrot, sem er kallað Stafnesstekkur. Víkin sunnan við Stekkinn heitir Stafnesvík. Sunnan við er Glaumbæjarvík, og skilur smágrjótrani víkurnar. Á bakkanum fyrir ofan er hóll grasi gróinn, sem heitir Glaumbæjarhóll, það er gömul rúst. Sunnan við Glaumbæjarvík er Glaumbæjarrif, öðru nafni Kúarif, í fjörunni. Sunnan við Kúarif er Nýlenduvík; nær hún suður að Hliðhólsklöpp, sem er í sjávarmáli niður af hliðinu á túngarðinum norðan við gamla Hólakot, ætíð nefnt af umfarendum „Hólakotshliðið“. Fram af Hliðhólsklöppum eru Selatangar. Það eru nokkur smásker í röð, sem koma upp úr um fjöru; þar á meðal eru Skjöldusker og Kringlótta-Sker.
Vestur-Stafnes.
Sunnan við allt þetta, sem nú hefir nefnt verið, er nafnlaus fjara suður að svo nefndum Hólakotshól, en það, er gömul rúst á sjávarbakkanum, niður af Hólakoti, sem var nyrzti bær í Stafneshverfi og nyrzta túnið, en bærinn hefir staðið í eyði um allmörg ár.
Öll túnin í Stafneshverfi eru samliggjandi flatneskja, en sundur greind með gaddavír á stólpum. Þess má geta um víkur þær, sem kenndar eru við Glaumbæ, og Nýlendu, að þarna var rekafjara þeirra og þangtekja, enda voru þetta gamlar hjáleigur frá Stafnesi.
Stafnes – minnismerki um Jón forseta.
Byrjar nú sjávarröndin í Stafneslandi: Nyrzt, rétt við mörkin, er hóll á bakkanum með gamalli bæjarrúst; heitir það Harðhaus. Þá liggur túnbakkinn bogadreginn til suðvesturs; heitir það Refar. Ná þeir yfir túnspildu talsverða neðan af túninu og fram á tanga þann, sem heita Refagarðar, en fremst heitir það Refstangi. Er þarna fjöldi af gömlum bæjarrústum. Má það eðlilegt kalla, að eitthvað sjáist af rústum, því 10 voru hjáleigurnar, sem Stafnesi fylgdu 1703, og auk þess 12 eyðihjáleigur og búðir, allar taldar með nafni í jarðabók. Þó eru nokkur nefnd nú, sem ekki eru þar talin; hafa líklega verið byggð síðar, en þó fyrir löngu í eyði komin.
Stafnesviti og minnismerki um Jón forseta.
Víkin fyrir framan Refagarða heitir Vallarhúsavík, og fremst í henni eru Sveinshöfðaklappir. Á þeim stóð áður bær með því nafni. Við sjóinn niður af Refagörðum er Borgarvör, gamall lendingarstaður. Upp af Sveinshöfðaklöppum er Kerlingarlón efst í fjörunni milli klappanna og túnbakkans, féll sjór upp í lón þetta á stórstraumsflóðum, en ekki þess í milli; fúlnaði þá í lóninu vegna þara og óþverra, og þótti heldur ami að. Vallarhúsarif liggur til suðvesturs frá Selatöngum; fremst á því er hnúður, sem heitir Vallarhúsahaus. Á Refstanganum er svo kölluð Litla-Rétt. Heitir hún svo, af því að önnur rétt stærri var þar nokkru sunnar, en Réttarkampur heitir moldarhryggur við sjóinn milli Réttanna.
Stafnes – Norðlingavör.
Á klöpp niður af Litlu-Rétt, beint fram af Refstanga, er stór svartur steinn, sem er mið á innsiglingu og verður síðar getið Fram af Litlu-Rétt er rif eitt, hátt nokkuð, sem heitir Bóndarif, en fram af Bóndarifi liggur sjálft Stafnesrif til suðvesturs. Milli Bóndarifs og Stafnesrifs er djúpt lón eða öllu heldur hylur; mun þar vera 12-14 faðma dýpi um lágflæði. Utan við hylinn er slétt sker, sem aðeins kemur upp úr um fjöru; heitir það Kolaflúð. Þar hafa strandað tvö botnvörpuskip, svo vitað sé, Jón forseti 1928 og Admiral Toco 1913. Strandaði hinn síðarnefndi í foráttu brimi, svo engin björgun var hugsanleg, enda fórust menn allir, og svo einkennilega bar við, að aldrei hefir lík rekið af því skipi. Sömu urðu afdrif þessara skipa, að þau limuðust sundur á Flúðinni, flökin hurfu niður í hylinn og bólar ekki á þeim síðan. Þarna virðist vera dauður blettur; aldrei fellur brim yfir hylinn sjálfan, og kyrrð virðist í botni, því ekkert rekur upp af því, sem þar sekkur niður.
Spöl norður af Kolaflúð eru Litli-Hásteinn og lítið eitt norðar Stóri-Hásteinn, hvorttveggja einstakir steinar upp úr sjó að sjá með lágsjávuðu. Eru nú talin örnefni í Hólakotsbót. Gelluklappir (frb. hart, eins og hella, fella) heita klappirnar háu og stóru, sem eru syðst og yzt fram af Stafnestúni. Þar stóðu fiskhús allra hverfismanna efst á klöppunum og ofan við þær. Var húsaþyrping þessi kölluð Garðarnir og var algengt mið út af Norður-Miðnesi, einkum á Skörðum. Stafnesvitinn stendur á Gelluklöppum, byggður 1925. Er hann góð leiðbeining sjófarendum fyrir hina hættulegu Stafnestanga, þó raunar hafi strönd orðið þar síðan. Fram af Gelluklöppum er Möngurif, fremur stutt, en nokkuð hátt, það liggur til suðvesturs út í Gjána, er síðar verður nefnd. Milli Gelluklappa og Möngurifs er mjó rás fast við klappirnar; flýtur þar bátur með hálfföllnum sjó. Var rásin oft notuð í ládeyðu, ef för var heitið norður á bóginn. Önnur rás var utan við Bóndarif; heitir hvor tveggja rásin „Hörmungasund“ , og sama mið á báðum, en það er, að Stóri-Básendahóll jaðri við Skiphólma.
Frá Gelluklöppum liggur sjávarmál til austurs, inn í svo nefnt Sandhúsavik , sem er sunnan við Stafnestúnið. Eru þar þessi örnefni.
Í suðurenda Gelluklappa myndast lítið vik, sem heitir Norðlingabaðstofa. Mun nafnið vera frá þeim tíma, er Norðlingar sóttu sjó á Stafnesi fyrir öldum síðan. Ýmsar sagnir eru skráðar um sjómennsku Norðlinga þar. Ein er sú (úr Sögu Íslendinga VI, 452), er Skúli Magnússon, síðar landfógeti, hafði ráðsmennsku Hólastóls.
„…Þá hafði Stóllinn 9 menn í veri á Stafnesi syðra um vetrarvertíð 1742. Var hlutur vermanna alls 30 hundruð stór og 70 fiskar, og vo afli þessi verkaður alls 70 vættir og 5 1/2 fjórðung, auk sundmaga og hausa.“
Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.
Má nærri geta, að ekki hafa þetta verið einu Norðlingarnir, sem þá reru á Stafnesi. – Önnur sögn, sem er í ýmsum annálum, er hér tekin upp úr Suðurnesja annál séra Sigurðar B. Sívertsen á Útskálum (prentaður í Rauðskinnu 1953, III, 19): „1685. Mannskaðavetur. Skiptapar ógurlegir á Góuþrælnum. Sjö á Stafnesi. Drukknuðu 58 menn. Það sjöunda [hér er einhver villa] gat hleypt inn Hamarsund og björguðust menn. Á tíæringunum frá Stafnesi voru flestir útróðrarmenn að norðan og margir valdir menn . . . þar á meðal Ólafur yfirlestamaður frá Hólum, Þorsteinsson. – Þann 11. marz voru 42 menn jarðsettir við Útskálakirkju, en daginn eftir rak 47 upp, er einnig voru grafnir þar, í almenningi að kórbaki. Reiknaðist svo til, að í allt hafi drukknað 156 manns …“
Austan við Norðlingabaðstofu er Stokkavör, ævagömul, enda stundum nefnd Gamlavör. Þar innan við er Gosuvik; hefir þar verið gjörð lending, sem heitir Gosuvör, en er oft nefnd Skökk; mun það vera af því að hún stefnir skáhallt inn í grjótið. Þar uppi á bakkanum er hóll með rúst. Þar stóð bærinn Gosa. Innan við Gosuvör er Skiphólmi. Það er hár hóll, grasi gróinn að nokkru. Þar var áður býli, en nafnið er týnt, það kynni að vera Litlu-Hólmahús, sem var eitt af eyðibýlunum við Stafnes 1703. Til suðvesturs frá Skiphólma liggur grynningatunga út í Gjána. Hyldýpi er báðum megin við, en á tungu þessari eru þrjú sker, sem heita: Vatnasker, grynnst, þá Brúnkolla og Hvirfill, yzt, er Hvirfill aðeins þaratoppur. Austan við Skiphólma er annar hóll stór, með gömlum bæjarrústum; hét það Sandhús, en hóllinn heitir nú Sandhúsahóll. Sjór er enn góðan spöl inn í landið. Er það fremur mjótt vik og heitir Sandhúsavik. Það er inn af Gjánni eða innsti hluti hennar. Slétt láglendi er upp af vikinni, og fellur þar sjór langt upp á land í stórflóðum. Fyrir sunnan Sandhúsavik er stórt, slétt og fallegt graslendi; heitir það Flatir.
Stafnes – túnakort 1919.
Fram af Flötum er stór og breiður hraunfláki, sem nær langt út í sjó; nokkuð flatur yfir að líta, er það Urðin, er svo heitir. Fremst á Urðinni er stórt lón, heitir það Urðarlónið. Þvert yfir Urðina liggja tvær rennur eða rásir; heitir sú fremri, sem liggur þvert yfir Lónið, Ytri-Dyr. Hin, sem er nokkru ofar, heitir Innri-Dyr. Fara mátti í ládeyðu á bátum um Rennurnar og með því stytta sér leið, ef hæfilega hátt var í sjó. Fram yfir 1880 sáust grasblettir víða um Urðina, og í Lóninu sjálfu hafði verið stargresi. Mun þar af dregið hið forna nafn jarðarinnar: „Starnes“. Enn fremur er sagt, að áður fyrr hafi gengið í Urðarlón bæði silungur og lax. Hafi svo verið, hefir sjór ekki gengið svo að við Stafnes sem nú er. Yfir alla Urðina fellur í stórstraumsflóði, og svaði mikill er þar í brimi.
Þó muna elztu menn, að laxar fundust við Lónið, en það mun hafa verið fyrir aðgjörðir sela eða veiðibjöllu. Ofarlega á Urðinni er Sundvörðuklöpp, nokkuð stór klapparbunga; á henni stóð sundvarðan áður, en var síðar flutt hærra upp, vegna sjávarágangs. Urðin er nokkurn veginn ferköntuð í laginu, þó nokkuð lengri til sjávar en með landi. Útnorðurhornið er skarpast, nærri vinkilhorn; er það kallað Urðartáin.
Stafnes – Vallarhús.
Norðan í tánni er klettur, sem upp kemur með lágum sjó, kúpulagaður eins og skál á hvolfi; er hann nefndur „Steinninn“. Hann er við innri snúninginn á sundinu. Við hann er 10-12 faðma dýpi, og má fara fast við hann, því hann kastar frá sér. Þó mest beri á hnullungs grjóti á börmum Urðar, er hún svo snarbrött, að nærri er þverhnípt við tær þess, er stendur á brúninni, og hyldýpi fast upp að henni, bæði vestan og norðan, þess vegna er aldrei brim fyrir framan Urðina, en stórfellur á blábrúninni, sem að hafi veit. –
Skal nú reynt að lýsa innsigling á Stafnesi.
Stafnes – Grund.
Eins og áður segir er Bóndarif fram af Litlu-Rétt, en fram af Bóndarifi er Stafnesrif og stefnir til suðvesturs. Það nær lengst út allra skerja á þessu svæði eða fram undir miðið, Eldborg grynnri lausa, (sjá örnefni á Reykjanesi, í: Fiskimið opnu bátanna á Miðnesi). Er það alræmdur hættustaður. Hafa þar mörg skipströnd orðið og mannskaðar, sem kunnugt er. Sunnan megin er hraunflákinn, sem heitir Urðin; hún nær fram undir miðið Kerlingin.
Milli Stafnesrifs og Urðar er stórt lón; mætti næstum segja: lítill fjörður, heitir það Gjáin. Dálítil sjávarálma liggur úr Gjánni utan við Möngurif en innan við Stafnesrif, norður með Gelluklöppum í kverkina við Bóndarif og Refstanga. 18-20 faðma dýpi er víðast hvar á Gjánni. Oft er þar straumrugl og sjór tipplóttur, stundum svo, að varla er sjór skiplægur þar.
Stafnes – loftmynd 1954.
Sundið er oftast nefnt Stafnessund, en heitir Álsund, og liggur sundið um Álinn svo nefnda. Mið á Álnum (sundinu) eru: Hólakotsvarða, þó oftar nefnd Heiðarvarða, er stendur í hrauninu skammt fyrir ofan Hólakotstúnið, það er stór og allgild grjótvarða með sundtré eða þríhyrning ofan á. Önnur varða nákvæmlega af sömu gerð stóð á Urðinni, kölluð Urðarvarða. Þetta er þá Állinn (sundið): vörðurnar saman, og mun sundið oftast byrjað á miðinu Valahnúkur. Þegar farið er inn Álinn og komið er á miðið Kerlingin laus, er skammt upp að Urðinni, enda er þá snúið norður með henni (eða beðið lags, ef með þarf) og haldið undan Kerlingu, en þá er annað mið fram undan í sömu stefnu, en það mið var fjárrétt, sem var á Hvalsnestanga (nú horfin) í svarta steininn á klö[p]pinni fram af Refstanga eins og áður var getið. En þá er á bakborða hættulegasti boðinn „Stafurinn“, sem er fram af Urðinni. Hann tekur sig upp á miðinu, Eldborg grynnri, og stefnir upp á Urðina. Verður því að róa undir flötum Stafnum. Má segja, að skip og menn séu milli tveggja elda, þegar róið er fast við bak Urðarbrims, en Stafurinn, stór og hár, stefnir á flatt skipið. En öllu er óhætt, því að full vissa er fyrir, að Stafurinn dettur niður, nema mikil forátta sé, enda er sundið ófært, ef hann veður í land, en það kemur ekki fyrir nema í aftaka brimi. Sömu stefnu er haldið, þar til komið er norður fyrir „Steininn“ norðan í Urðartánni. Er þá snúið að og haldið inn Gjána, Heiðarvörðu um rofbakka ofan við Glaumbæ (nú í eyði). Suður úr Stafnesrifi er grynnsli nokkurt; á því fellur boði, sem stefnir upp á Gjána, heitir hann Hólmaflaga. Hann gengur allnærri sundinu um snúninginn við Steininn, en veldur þó eigi verulegum baga.
Stafnes – Stórarétt.
Eins og áður segir, var oft tipplóttur sjór á Gjánni í brimi og verri, er átt var vestlæg. Er þá farið þvert yfir hana að utan og haft skjól af rifinu inn Gjána norðanverða. Einkum er slæmur eitill norðan og innan við Steininn. Gýs eitill þessi upp snögglega, en fellur nærri ofan í sjálfan sig. Þetta er Hvirfillinn, sem er fremst á grynningatungunni, er liggur út í Gjána. Að öðru leyti verður ósjórinn af aðstæðum þarna. Gjáin er djúp og alllöng, en fremur þröng, brimöldurnar skella á Urð, rifi og Gelluklöppum, mynda frákast öllu megin, sem mætist á Gjánni. Auk þess veldur brimið ætíð sogadrætti í öllum þrengslum. Orsakar allt þetta straumköst og ósjó.
Annað sund eiga Stafnesingar. Það heitir Stafsund. Liggur það beint inn á Gjána, norðan við boðann, Stafinn, á miðinu Heiðarvarða um rofbakkann ofan við Glaumbæ. Þetta sund var aðeins notað í brimlausu til að stytta sér leið.
Stafnesbrunnur.
Þegar komið var inn úr Gjánni, var lent í Stokkavör, sem var aðallendingin. Þar var fiskurinn seilaður og borinn upp á skiptivöll við sjávarhúsin. Þegar búið var að losa skipin, voru þau færð að Skiphólmanum, sem var uppsátur skipanna. Var þá farið innan við Vatnasker og inn með Hólma sunnan megin og lent austan á Hólmanum. Þar eru sléttar klappir í flæðarmáli, svo nefndur Flór. Þegar góð var tíð og daglega róið, voru skipin látin standa á Flórnum yfir nóttina, en ef útlit versnaði, voru þau hækkuð upp meira eða minna eða sett alla leið upp á Hólmann. Var það ærið erfitt verk, meðan ekki voru önnur tæki en bök mannanna, því Skiphólmi er hár og snarbrattur. Efst uppi er
sléttur flötur, og þar stóðu skipin, en þykkur tvíhlaðinn grjótgarður er umhverfis flötinn, skipunum til skjóls fyrir ofviðri, enda var þeim óhætt í þessu ágæta nausti, hvað sem á gekk. Skiphólmi stendur neðan við flóðmál og fellur kringum hann á stórstraumsflóðum.
Var gjörð grjótbrú milli lands og Hólma, en með því að sogadráttur var sterkur í þröngri rásinni, vildi oft ruglast hleðslan, svo fótfesta varð óviss. Einkum var þetta illt, ef bera þurfti beitt lóðarbjóð yfir brúna í dimmu, en mjög fallið yfir. Var svo jafnan þar, sem slíkar brýr varð að nota.
Stakkavör eða Gamlavör hefír augsýnilega verið rudd inn í stórgrýtisurð einhvern tíma fyrir löngu síðan. Hún líkist nú mest gróinni götu, aflöguð af grjótburði og öll þangi vaxin, Á síðari árum útgerðar á Stafnesi var steypt gangbraut eða vagnvegur á austurbrún Gömlu-Varar, en aldrei var lokið verkinu til fulls. Útgerðinni lauk fyrr. Nú er sjórinn að brjóta skörð í steypuna og ónýta hana. Þannig eyðast og hverfa gömlu sporin, hvert sem litið er.
Stafnes – Ögmundagerði.
Hvergi á Miðnesi var eins gott til sóknar sem á Stafnesi. Þar var jafnan útgerð mikil, bæði fyrr og síðar, enda dugnaðarmenn, sem að henni stóðu og að unnu. Þar voru einnig sjávarhús mörg og myndarleg. – Gætu Stafnesklappir talað, mættu þær taka undir með gömlu konunni gigtveiku. „Önnur var mín ævi.“ Nú hefir Urðarvarða misst prýði sína, tréstólpann með þríhyrning. Eftir stendur enn grjótvarðan, óþekkjanleg frá öðrum systrum sínum, ef ekki verður að gjört. Grjótbyrgi hrunin. Sjómannakofar horfnir. Önnur hús, er enn standa, drúpa hnípin og afrækt. Svo er jafnan um það, sem hætt er að nota, enda mun útgerð á Stafnesi hafa lagzt niður fyrir fullt og allt um 1945, og þó áður mjög úr henni dregið.
Góðir Stafnesingar, sem enn eruð starfandi! Þið eruð afkomendur og eftirmenn mikilla formanna á Stafnesi. Má þar nefna Daða Jónsson og Eyleif Ólafsson, sem voru með þeim síðustu. Væntanlega setjið þið strax skautafaldinn á Urðarvörðu, til heiðurs við margar merkar minningar frá fornri útgerð á Stafnesi og til þess, að hún megi þekkjast frá óæðri systrum sínum um hraun og heiði. Hún heitir enn Urðarvarða og á að halda því nafni, þó flúin sé upp á Flatir.
Stafnes – sundmerki.
Sundmerkjum á Stafnesi á að halda við, svo lengi sem sögur eru til af einum merkasta útgerðarstað á Íslandi frá fyrri tíma.
Langt er enn til Djúpavogs í Ósabotnum, en þar endar Stafnesland. Eins og sjá má á öllum kortum, beygist landið austur á við fyrir sunnan Stafnestanga og er bogadregið allt inn í Ósa. Fyrst til suðurs, landsuðurs og loks í háaustur. Skal nú haldið með ströndinni og leitað örnefna.
Suður og inn af syðri Urðartánni er einkennilegt sker. Boði, sem á því fellur, heitir Svörfull. Sker þetta lítur helzt út fyrir að vera gamall eldgígur, því að í miðju skerinu er hylur, 10-12 faðma djúpur. Þegar Svörfull er uppi, fellur hann fyrst til norðausturs, svo í hring til suðurs og virðist þannig fylgja gígbarminum, og endar með því að falla beint á sjó út.
Í september 1881 strandaði á Svörful skip, 440 lestir að stærð, hlaðið ofnkolum. Menn björguðust í land á bátnum, komu heim að Stafnesi um kvöldið og voru þar um nóttina.
Stafnes – Hólakotsstekkur.
Um morguninn er komið var á fætur sást ekkert af skipinu, nema ofan á hæsta masturstoppinn. Brimið hafði fært briggskipið inn yfir gígbarminn, og það sokkið niður í hylinn í skerinu. Ekkert rak upp af því skipi, annað en það, sem lauslegt var á dekki og flotið gat. Enn eru menn á lífi, er höfðu glöggar frásagnir um þetta strand og frá því er sagt í Suðurnesjaannál (bls. 180), en síðar bætir annálshöfundur (sr. Sig. B. Sívertsen) við): „Skip það, sem sokkið hafði fyrir framan [sunnan] Stafnes með ofnkolin, var nú, þann 22. desember, loks selt við uppboð, þegar útséð var um, eftir brim, hroða og stórflóð, að ekkert mundi reka upp af því. Komst það í 45 krónur og þótti ráðleysa að kasta út meira fé í slíkan vonarpening, svo valtan.“
Sunnan við Urðina er í flæðarmáli stór og hár grashóll, sem heitir Stóri-Básendahóll. Framan við hann og aðeins nær Urðinni er sandblettur, sem heitir Gunnusandur. Framan við sandinn og eilítið sunnar eru svonefndar Róklappir, dálítill klapparbálkur; fellur ekki yfir þær á flóði nema brim sé. Framan við Róklappir er aftur lítil sandflúð, sem heitir Rósandur, en þar fram af er út í sjó kringlótt sker, sem heitir Rósker. Þar voru flestir selirnir skotnir af Stafnesbændum á fyrri tíð. Mér er sagt, að Eyvindur Pálsson, sem bjó á Stafnesi frá 1860, þar til tengdasonur hans Hákon Eyjólfsson tók við, hafi verið sundmaður ágætur. Hann hafði þann hátt á að synda með byssuna út í Rósker með útfalli og vera kominn, áður en selirnir lögðust upp á skerið. Vöruðust þeir ekki þessa veiðibrellu.
Stafnes – Bali.
Nokkru dýpra fram af Róskeri er skerjagarður, sem liggur til suðurs; heitir það einu nafni Básendasker. En víkjum nú aftur upp á land. 20 til 30 föðmum suður af StóraBásendahól er graslaus klapparhóll; heitir hann Litli-Básendahóll. Sunnan við þann
hól stóð Básenda-verzlunarstaður. Þar fram af er malartangi með sljóu horni. Á tanganum sér enn til rústa eftir meira en 150 ár, en 1799 var Básendaflóð. Sunnan við tanga þennan er ílangt lón; það var Básendahöfn. Leiðin inn á höfnina hefir verið löng milli skerja, en að mestu bein og djúp. Sundmerki eru nú gleymd. Má enn sjá leifar af umbúnaði, hringjum og stólpum, sem var tinsteyptur í klappir og sker til þess að svínbinda skipin.
Varla hefir þetta verið góð og örugg höfn, eins og nokkrir hafa talið, en það vita kunnugir bezt, hve hollt er að vera á vélarlausum dekkbát inni á milli skerja sunnan við Stafnes í sunnanátt og hroða, þó að sumri sé. En stundum dróst afgreiðsla skipanna fram á haust, enda brotnaði þar skip 1669, albúið til siglingar, og tvö skip 1714, hlaðin fiski, segir Suðurnesjaannáll.
Stafnes – Nýlenda.
Skúli Magnússon landfógeti ræðir í sýslulýsingu sinni nokkuð um Básenda, þar segir svo: „Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í vestanstormum, þegar hásjávað er. Nokkur skip hafa farizt þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á höfn þessa um hríð. Höfnin er því eigi örugg nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. Í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrr nefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 í hinu síðar nefnda. Þarna lækkar og lækkar í sjónum um 9 fet í góðu veðri, þegar stórstreymt er, en um 5 fet, þegar smástreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi … Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar. Aftur á móti er fiskverkunarstæði því betra kringum Stafneslendingu, einkum á Refshalabæjum svo nefndum. Að vísu hafa þeir lagzt í eyði síðan konungsbátarnir voru lagðir niður 1769. Þó mætti byggja þá upp aftur, ef þörf væri á, því að á Stafnesi hefir þótt fremst fiskiver á Íslandi um vetrarvertíð á fyrri tímum og allt fram að því ári. En síðan hefir sjósókn þorrið þar mjög.“
Stafnes – Heiðarbær.
Efalaust hefir útgerð og sjósókn þorrið á Stafnesi, sem annars staðar á síðari hluta 18. aldar og framan af þeirri 19., þegar eymdarhagir voru á landi hér, enda mátti víst heita, að Stafnes væri í eyði um aldamótin 1800 (sjá um Básendaflóð eftir Vigfús Guðmundsson í Blöndu III, bls. 57). En á síðari hluta 19. aldar voru 20 til 25 stórskip gerð út á vetrarvertíðum af bændum á Miðnesi, og ætíð var Stafnes talið í fremstu röð, með þá merkismennina hvern fram af öðrum: Erlend Guðmundsson, Eyvind Pálsson og Hákon Eyjólfsson. Það hefir í annálum og öðrum ritum verið talað um útgerð og aflabrögð á Stafnesi, og yngsti annállinn, Suðurnesjaannáll, sem ritaður var á 19. öld, er fjölorður um mikil aflabrögð hjá Stafnesmönnum, enda var þar bezt til sóknar af Miðnesi á tíma áraskipanna.
Bátsendahöfn mun heita réttu nafni Brennitorfuvík, en Brennitorfa var þar fyrir ofan. Þar höfðu Básendamenn brennur sínar. Stendur þar nú varða á grjótholti, en Torfan sjálf er örfoka. Sunnan við Brennitorfu er Draughóll og Draughólskampur með sjó fram til suðurs. Fram af kampi þessum er stór klettahólmi úti í sjó; heitir hann Arnbjarnarhólmi. Þar eru suðurtakmörk Básendahafnar. Sunnan við Draughólskamp er stórgrýtishryggur, sem heitir Kuðungavíkurkampur, og Sandvík sunnan hans heitir Kuðungavík. Enn er dálítill kampur og sunnan hans er Djúpavík, allstór. Þar nokkuð úti í víkinni er stór klettur einstakur; heitir hann Svartiklettur; hann er mið á einni fiskiholu. Stafnesinga. Ofan við Djúpuvík eru svo nefndar Dauðsmannsklappir.
Stafnes – Hólakot.
Sunnan við Djúpuvík er mjög langur hrauntangi, sem nær langt út í sjó; heitir hann Skarfurðartangi. Fyrir sunnan tangann er á löngu svæði bein urðarfjara; heitir það Skarfurð. Fram af Skarfurðartanga er sker eða flúð, er sjaldan kemur upp úr; heitir það Vefja. Sjávarhræringar á Vefju eru óvenjulegar, líkt og á Svörful. Sunnan við Skarfurð er stór djúp vík, sem heitir Stólsvík; hún dregur nafn af einkennilegum kletti þar úti í víkinni, nokkuð frá landi; hann líkist mest prédikunarstól og heitir Tómasarstóll, en ókunnugt mun vera nú, af hverju nafnið er til orðið. Oftast er stóllinn alsetinn skörfum með útbreidda vængi.
Sunnan við Stólsvík er þröngt og djúpt vik inn í klettana, kallað af Stafnesmönnum Norðurvik Þórshafnar. Þar sunnan við er klettarani, mjög stórgrýttur fremst, en grasi gróinn ofan; heitir það Þórshafnarbali. Hann er vesturhlið á löngum bás, er liggur til norðausturs inn í landið. Básinn heitir Þórshöfn. Það er hin fornkunna höfn verzlunarskipanna á síðari hluta 19. aldar. Af sýslulýsingu Skúla fógeta (Landnám Ingólfs, bls. 117) vitum við, að „leiðin inn að henni er 55 faðma breið.
Stafnesgarðar.
Mesta lengd innsiglingar er 170 faðmar, en breidd 51 faðmur, þó ekki nema 26 faðmar, ef skipin rista meira en 6 fet [hér mun vera átt við Þórshöfn sjálfa frá mynni til botns]. Höfnin var að vísu notuð, þegar Hansakaupmenn eða Þjóðverjar ráku verzlun hér á landi.“ (1601 var síðasta verzlunarár þeirra, því einokunin byrjaði 1602, sem kunnugt er). Skúli gjörir lítið úr þessari höfn, segir að hún sé „lítil og léleg og komi ekki heldur sjómönnum að liði.“ Svo virðist, að hún hafi lítið eða ekkert verið notuð á hans dögum.
Eigi er vitað með vissu, hvenær dönsku skipin byrjuðu að hafa þar hafnlegu; þó varla fyrr en Básendar lögðust niður. Leiðin inn á Þórshöfn er tvær vörður saman; stóð önnur í norðvesturhorni Þórshafnar, en hin uppi á heiðinni; heitir sú Mjóavarða (93) og mun enn vera uppi standandi, enda algengt mið í Stafnesdjúpi. Höfn þessi er svo þröng, að ekki varð komizt inn eða út á seglskipi, nema einstefnu leiði væri, og skipin varð að svínbinda á allar hliðar. Flest voru þar 5 skonnortur í einu, sem mér er kunnugt um. Þau lágu þar öll saman bundin, hlið við hlið, og vissi framstafn allra til hafs. Ætíð var stillt í þessum mjóa og langa bás, og sogadráttur furðu lítill, þó nokkurt brim væri, enda eru Þórshafnarsker fyrir framan og braut brimið á þeim.
Austurhlið Þórshafnar er langur hrauntangi, en austan hans er stór og breið vík; heitir hún Hvalvík. Þar eru sandleirur í botni og þornar þar á stóru svæði um stórstraumsfjöru.
Stafnes – Refamýri.
Smávik er vestast í Hvalvíkinni, gengur vikið inn í hrauntangann austanmegin framarlega, gegnt Þórshöfn; er það kallað syðra Þórshafnarvik. Vikið er þurrt um fjöru, en skemmtilegt sjávarvik á flóði. Frá viki þessu er á austurhlið hrauntangans, Hvalvíkur megin, stórgrýttur kampur, sem heitir Skeljaurð; nær hann inn að botni Hvalvíkur, en upp af sjálfum botni hennar eru grasbakkar.
Úti í Hvalvíkinni er Hvalvíkurhólmi, allstór og hár nokkuð; hann var grasi gróinn.
Út að honum liggur grandi, eða öllu heldur röð af smáskerjum, en rásir eru á milli og var þarna mikil flæðihætta, meðan sauðfé var margt, en Miðnes var talinn fjárríkasti hreppur á Suðurnesjum um næstliðin aldamót.
Allbreiður tangi austan Hvalvíkur er í daglegu tali nefndur Torfan, en mun heita Preststorfa. Við Torfuna er lending, nefnd Grímsvör öðru nafni Bárðarvör, en fram af Torfunni er stór klettur; heitir hann Hestaklettur (101), en örskammt frá er Selsker. Af Torfunni er skemmst sjóleið yfir Ósana. Fólk, sem ferðaðist gangandi milli Miðness og Hafna, einkum prestarnir, kom oft á Torfuna og kallaði til Kirkjuvogs, sem vel heyrðist. Var fólkið þá sótt og flutt yfir á bát.
Vallarhúsabrunnur.
Það slys varð í þessum flutningum árið 1748, er ég tek hér upp úr Suðurnesja annál Sig. B. Sívertsen, orðrétt: „Fimmta sunnudag í föstu drukknaði presturinn á Hvalsnesi, séra Árni Hallvarðsson, er hann ætlaði til embættisgjörðar að Kirkjuvogi. Hafði hann farið af svo nefndri Prestatorfu í góðu veðri. En þeir, sem fluttu hann, höfðu farið of nærri skeri því, er Selsker kallast; hvirflar á því, en kemur upp úr um fjöru, en á móti því er klettur stór, er Hestaklettur kallast. Þar á milli liggur leiðin og allnærri klettinum, en þeir héldu nær skerinu en mátti.
Reisti sig þá upp boði, er hvolfdi bátnum, er hann kenndi grynninga. Drukknaði þar prestur og sjö menn aðrir. Var einn þeirra Einar, sonur Hákonar í Kirkjuvogi, bróðir Vilhjálms. Einn eða tveir menn komust af, og þeir heyrðu prest segja, þegar hann sá, hvernig fara mundi: „Herra Jesú, meðtaktu sálir okkar allra.“ Nýlega hafði þá síra Árni verið búinn að taka af jólagleðina, sem haldin var á Flankastöðum, nauðugt mörgum. Hann var 36 ára gamall“.
Nýlendubrunnur.
Austan við Torfuna er allmikil sandvík; í vík þessari er stór og hár grashólmi, sem heitir Einbúi (103), umflotinn á flóði. Hann er áberandi mið í Stafnesdjúpi. Mjög skammt fram af Einbúa er annar hólmi lítill, grasi gróinn; hann heitir Runkhólmi. Í öllum þessum hólmum, Hvalvíkurhólma, Einbúa og Runkhólma, var æðarvarp, meðan um var hirt. Frá Einbúa er sjávarmál skorið af smávikum en grjótranar á milli, allt að tanga þeim, sem heitir Fremri-Skotbakki.
Það bar við á hvítasunnudag 1881, að timburskip, mannlaust, tröllaukið að stærð, eftir því er þá var kallað, rak að landi í Ósum. Heyrði ég mikið talað um skip þetta á ungdómsárum mínum, enda var þá sem óðast verið að byggja baðstofur, timburhús, sjávarhús (timburskúra) og alls konar útihús úr efnivið þessum. Tvær eru heimildir, mér tiltækar, um skip þetta, en því miður ekki samhljóða um stærðina.
Stafnes – Refatjörn.
Ólafur Ketilsson hreppstjóri í Höfnum (hann var 16 ára, er strandið skeði, og vann við skipið) skrifaði skemmtilega og fróðlega grein um skip þetta í Lesbók Morgunblaðsins 44. og 45. tbl. 1936. Hann segir (þrisvar) í grein sinni, að skipið hafi verið 360 fet á lengd og 65 fet á breidd. Til samanburðar má hafa að nýi Gullfoss okkar er 355 fet á lengd, stafna milli, en 47 1/2 fet á breidd. – Hins vegar segir séra Sigurður B. Sívertsen í Suðurnesjaannál (sjá Rauðskinnu 1953, bls. 175) að eftir því sem hann komist næst; var lengd þessa skips 128 álnir (256 fet) og á breidd 27 álnir (54 fet) en setur svo milli sviga: allt að 30 álnir. Svo virðist, að Ólafur Ketilsson viti málið, en séra Sigurður hafi sennilegustu ágizkun eftir annarra sögn. Ólafur segir, að sér teljist svo til, að í skipinu hafi alltaf verið um 100 þúsund plankar, fyrir utan alla plankabúta og fleira, að meðaltali 16 feta lengd, 8 þumlunga breidd og 3 þumlunga þykkt. Þetta „fleira“, sem Ólafur telur, var afarstór borðabunki aftast í miðlestinni og einnig í sömu lest afarstór – eins og hann orðar það – hlaði af hvítum múrsteini, fleiri þúsundir að tölu, sem allur fór í sjóinn og loks var seglfesta skipsins silfurgrjót, sem talið var af sérfræðing (útlendum) meira virði en skipið sjálft með öllum öðrum farmi, það fór einnig í sjóinn. Skipið hét James Town.
Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.
Því er á þetta minnzt hér, að kjölsvínið af skipi þessu með hluta af annarri síðunni hefir legið og liggur enn við Skotbakka, en mun nú vera sokkið í sand eða leir.
Nokkurn spöl austur af Fremri-Skotbakka er annar tangi, sem heitir Innri-Skotbakki. Skammt innar er gamli Kirkjuvogur. Þar sér aðeins fyrir rústum, en engin önnur merki um fyrri byggð. Til marks um það, hve Vogur (107a) (gamli Kirkjuvogur) var mikil jörð, skal þess getið, að árið 1407 selur Björn Þorleifsson hirðstjóri manni einum, er Eyjólfur hét Arngrímsson, Voga á Rosmhvalanesi, sem þá var kirkjustaður, fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum. (Árb. Esp. 2, 68.)
Nokkur fróðleiksauki er þáttur jarðabókar (Á. M. & P. Víd.) 1703. Þar segir svo: „Gamli Kirkjuvogur. Forn eyðijörð, um hana er skrifað síðast meðal Hafnahreppsbæja, að óvíst sé, hvort hún liggi í Kirkjuvogs- eða Stafneslöndum, item, að munnmæli séu, að Kirkjuvogsbær sé þaðan fluttur. Nú að fleirum kringumstæðum betur yfirveguðum sýnist að sitt hafi hvor bær verið. Kirkjuvogur sem nú er byggður, og þessi gamli Kirkjuvogur, sem af gömlum documentum ráða er að heitið hafi til forna Djúpivogur. Hvað sem hér um er að segja, þá er það víst, að þessi eyðijörð öldungis ekki kann upp aftur að byggjast, með því so vel túnstæðið sem landið allt um kring af sandi uppblásið er og að bláberu hrjóstri orðið. Svo er og lendingin, er þar sýnist verið hafa, af útgrynni öldungis fordjörfuð og ónýtt. Grastór, sem hér og hvar í landareigninni kunna til baka að vera, nýta sér Stafnesingar og Kirkjuvogsmenn og er hér ágreiningur um landamerki.“
Stafnesvegur.
Árið 1703 hefir gamli Kirkjuvogur legið í auðn yfir stórt hundrað ár, segir þar, þ. e. frá 1580 eða nokkru fyrr. Þegar hér er komið, er orðið grónara heiðarland með lyngklóm niður undir sjávarbakka. Útfiri er mikið innst í Ósum og sandleirur allmiklar um stórstraumsfjöru.
Djúpivogur er nyrzti, innsti og lengsti vogurinn í Ósabotnum. Þar voru landamerki milli Stafness og Hafna og um leið hreppamörk. Þeim mun þó hafa verið lítilsháttar breytt á síðari árum.
Yfir margt er að líta á langri ævi og umbreytingasamri. Frá strönd ég stari og sé í fjarska tímans: sjóinn og fjöruborðið með öllu Miðnesi, eins og rósótta ábreiðu, síbreytilega eftir sjávarhæð og ljósbroti sólar. Á lognblíðum dögum, þegar síkvik báran lék við þarann og sandinn, fóerlan söng sitt ljúfasta lag og æðurin ú-aði á útmánuðum, var yndislegt að vera ungur og lifa í óskadraumum, sem aldrei rættust. – En svo dró bliku á loft og bakka við hafsbrún. Þau sendu sterkan hvínandi storm, þá varð dimmt undir él, sjórinn úfinn og ægilegur, eins og reiður jötunn, er Hræsvelgur blakaði arnarvængjum sínum. Þannig er, í fáum orðum, myndin á spjaldi minninganna.
Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Stafnes
-Rauðskinna (Sögur og sagnir), IX-X bindi, ritstj. Jón Thorarensen, Reykjavík, 1958.
-Landið þitt Ísland, 4. bindi S-T, Þorsteinn Jósepsson/Steindór Steindórsson, Reykjavík 1983
-Magnús Þórarinsson: „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Stafnes“, Frá Suðurnesjum. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, Hafnarfirði, 1960, bls. 151 –165.
-Ari Gíslason skráði eftir Metúsalem Jónssyni.
Stafnes – lögrétta.
Hólmur – dys – Litla-Hólmsvör – Prestsvarða – Árnarétt – Ellustekkur
Gengið var um Stóra-Hólm og Litla-Hólm í Leiru, upp á heiðina fyrir ofan Leiru að Prestsvörðunni, sem þar er. Frá henni var haldið vestur fir heiðina ofan við Langholt að Árnarétt, fallegri fjárborg, og síðan gengið til norðurs að Ellustekk.
Litla-Hólmsvör.
Stóri-Hólmur er fornt höfuðból í Leiru. Talið hefur verið að Steinunn gamla, frændkona Ingólfs Arnarsonar hafi búið á Stóra-Hólmi á landnámsöld. Að sjálfsögðu deila menn um hinn eiginlega dvalastað hennar í umdæminu, en skv. Landnámu þáði hún Rosmhvalanesið allt af frænda sínum, Ingólfi Arnarssyni, fyrir forláta kápu. Það var altalað þá og virðist lengi hafa verið í minnum haft, enda vildi hún að kaup kæmu fyrir gjafakaupin góðu. Í landi Stóra-Hólms er sæmilegur golfvöllur landsins rekin af Golfklúbbi Suðurnesja. Vestan við Stóra-Hólm er bátslaga óræktarsvæði. Hleðsla hefur verið umhverfis og lengi vel var bletturinn girtur af. Sú sögn var um blett þennan að þar væri fornmaður grafinn og honum mætti ekki raska. Sumir segja að þar hafi Hólmkell, fornmaður, verið grafinn með haugfé sínu, en ekki er vitað til þess að gengið hafi verið úr skugga um það.
Enn vestar er fallega hlaðinn brunnur. Utar og neðar er Litla-Hólsmvörin, ein tilkomumesta lending á ströndinni. Úr henni hefur verið kastað stóru sjávargrjóti með takmörkuðum tækjabúnaði.
Stóri-Hólmur – fornmannaleiði.
Gengið var upp frá Stóra-Hólmi og upp fyrir æfingavöll golfklúbbsins ofan vegar. Skammt ofan við vesturjaðar hans er Prestsvarðan. Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen, sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum.
Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum.
Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.
Árnarétt.
Skammt frá vörðunni er gamla leiðin yfir í Garð frá Keflavík. Önnur leið var norðar, framhjá fjárborginni vestast á Berghólum. Hún sést enn mjög vel á köflum, einkum næst borginni.
Strikið var tekið til vesturs, ofan við Langhóla. Austast á þeim er stór ferhyrnd varða. Í fyrstu gæti hún hafa verið leiðamerki inn í vörðina við Hólm, en þarna mun vera merkilegt fyrirbæri er nefnist Ranglát. Var dregin sjónlína úr henni yfir fjörðinn. Veiðitakmarkanir voru beggja vegna línunnar. Árnarétt er í heiðinni nokkru vestar. Hún er hringlaga og vel hlaðin. Litlar upplýsingar virðast vera til um mannvirkið, en það gefur Staðarborginni lítið eftir. Hún er stærri að ummáli en Staðarborgin, svo til alveg heil og næstum því jafn há og hún. Norðan hennar er Álaborgin, forn rétt.
Ellustekkur.
Gengið var til norðurs, niður heiðina, að Hríshólavöru og áfram niður að Elínarstekk. Þetta er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er þessu nafni, stundum þó Ellustekkur. Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.
Ellustekkur.
Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögði líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr. Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fórum neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimild m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=219
Hólmur – örnefnakort; ÓSÁ.