Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021“ segir m.a. um Straum, Óttarsstaði og Lónakot:
„Straumur
Straumur.
Straumur var ein af svonefndum Hraunjörðum en það voru þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.10
Jónsbúð – túnakort 1919.
Jarðarinnar var fyrst getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Ström j legeko. xij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter fiske dt. Thet er jc xxx fiske.“
Næst var jarðarinnar getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að jarðardýrleikinn sé óviss, að jörðin var í konungseign og að ábúandi var Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir.
Jörðin átti selstöð sem hét Straumsel en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar.
Straumssel – selið.
Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsgerði var þá eyðihjáleiga á jörðinni sem hafði verið í eyði eins lengi og menn mundu og var ekki talið að þar yrði búið aftur vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það kæmi niður á hans eigin túni.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var jörðin sögð í bændaeign, dýrleikinn var 12 ½ , landskuldin 0.75, tvö kúgildi, einn ábúandi og var hann eigandi jarðarinnar.
Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar voru landmerki fyrir jörðina Straum:
Steinhes – (Steinhús).
Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Markhella.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str. og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krýsuvíkurlandi.
Á hina hliðina milli Straums og Þorbjarnarstað byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há-Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há-Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til að Krýsuvíkurland tekur við (Undirritað í Straumi 31. maí 1890)“.
Norðan við Straum stóðu tvær þurrabúðir, Þýskabúð og Jónsbúð.
Þýskabúð
Þýskabúð.
Þýskabúð var hjáleiga frá Straumi og dró nafn sitt af því að þýskir kaupmenn munu hafa reist kaupbúðir á tanganum við Straumsvík og verslað þar á 14. og 15. öld.
Engar minjar um þær búðir sjást þó á svæðinu í dag.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tók viðtal við Pál Hannesson, þáverandi eiganda Þýskubúða árið 1993:
Þýskabúð.
„Þýskubúð: Síðasti ábúandi Þýskubúðar hét Guðmundur (Björgúlfsson); hann átti allan Straum. Húsið var byggt 1915? (1910?), síðar innréttað og lagfært.
Tjörvi nokkur Guðmundsson bjó í Þýskubúð 1911-1912 [Innskot í texta frá SÁM: Skv. Manntalsvef Þjóðskjalasafns bjó Guðmundur Tjörfi Guðmundsson í Þýskubúð miklu fyrr(m.t. 1890 og 1901; Leigandi í Straumi í mt. 1910). J.H.].
Áður en Tjörvi var þarna byggði Björn, kallaður „þýski“ (Þýski Björn), [hús þar sem Þjóðverjar versluðu á 14. og 15. öld].
Það sem fylgir húsinu er baðstofa 11×16 álnir með steinsteyptum kjallara: frambær 6×6 álnir, líka steyptur kjallari.
Tún 2 dagsláttur (heyfang 20 hestar?); matjurtagarður.
Tóft við Þýskubúð.
Fiskimið út af Straumi: Í beina línu á Helgafell og miðja fjörumölina við tangan hjá Bala, ca. miðja víkina. (Á Bala átti bústað Loftur Bj[arnason] í hvalnum).
Þær minjar sem sjást á yfirborði við Þýskubúð eru allar seinni tíma og eru í samhengi við steypta húsið (2367-122) sem enn stendur að hluta. Í kringum húsið er að finna ýmis garðlög og matjurtagarða, naust og útihús, sem og gerði og brunn. Túngarðurinn er frekar illa farinn en hann hefur einnig virkað sem varnargarður við sjóinn og er hann þar að mestu kaffærður í fjörugrýti.
Jónsbúð
Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.
Jónsbúð var tæpum 200m norðan við Þýskubúð, sunnan við Jónsbúðartjörn, sem hefur verið vatnsból Jónsbúðar, og Markhól (2367-159) sem er sprunginn hraunhóll sem virkaði sem náttúruleg landamörk Straums og Óttarsstaða. Minjarnar við Jónsbúð eru mjög heillegar en þær hafa alveg sloppið við seinni tíma rask.
Árið 1999 gerði Fornleifafræðistofan, undir stjórn Bjarna F. Einarssonar, þrjár prufuholur í bæjartóftir Jónsbúðar og var markmið rannsóknarinnar að freista þess að ná að aldursgreina tóftina og að sjá í hvað hólfin voru notuð. Ekki fundust nægileg gögn til aldursgreiningar en rannsóknin leiddi í ljós að vestur hólfið var fjós og þaðan var gengið inn í baðstofu en algengt var að nota hita frá skepnum til þess að verma híbýli.
Jónsbúð – túnakort 1919.
Á túnakorti frá 1919 var sagt að kálgarðar væru 180m2 og að tún Jónsbúðar væru holótt og slétt, þau stæðu á klettanefi við sjó, vestur frá Jónsbúð og voru 0,2 teigar.
Jónsbúðar var ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns en vert er að minnast á að ekki var alltaf minnst á þurrabúðir jarða þó að enginn vafi sé á að þær hafi verið til staðar.
Í manntali frá 1910 var minnst á Jónsbúð sem þurrabúð í landi Straums og þar bjó hann Gunnar Jónsson, sjómaður, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau munu hafa komið til Jónsbúðar frá Meðalholti í Flóa 1882.
Í bókinni „Forðum gengin spor“ var tekið viðtal við Jón Magnússon í Skuld í Hafnarfirði:
„Síðan færum við okkur inn að Straumsvík en þar voru tvö kot, Jónsbúð og Þýskubúð. Þar voru Jón í Jónsbúð og Gunnar í Þýskubúð. Þessi kot voru búin að vera um tíma í eyði áður en þessir menn komu þangað. Þeir voru orðnir fullorðnir þegar þeir komu að þessum kotum og ég man eftir þeim en ég kynntist þeim mjög lítið. Þeir voru með nokkar kindur.“
Jónsbúð – brunnur.
Í skýrslu sinni velti Bjarni því upp að Jón þessi í Jónsbúð gæti hafa verið síðasti íbúi Jónsbúðar en að búðin hafi greinilega ekki verið kennd við hann. Hann sagði einnig að líklegt væri að búðin hafi borið ýmiss nöfn í gegnum árin, stundum eftir ábúendum og stundum eitthvað annað, en dæmi um það eru vel þekkt. Hann sagði einnig að Jónsbúð hafi ekki verið lengi í eyði áður en Jón byggði upp kotið, en algengt var að kot og smábýli hafi verið í eyði í smá tíma á milli íbúa.
Jónsbúð – bæjarstæðið (BE).
Bæjarstæði Jónsbúðar er mjög heillegt og eru bæjarrústirnar vel greinanlegar sem og matjurtagarðurinn áfastur þeim. Rétt framan við bæjarrústirnar er vörslugarður en hann hefur verið til þess að beina búfénaðnum inn í fjósið. Fast NV við bæjarrústina er hjallur og túngarður umhverfis túnið. Útihús er áfast vestur hlið túngarðsins og er mögulega fjárhús sbr. viðtalið við Jón Magnússon.
Það er brunnur í Jónsbúðartjörn norðan við bæjarrústirnar og lághlaðin brú að honum en vatnsstaða tjarnarinar stjórnast af sjávarföllum.
Óttarsstaðir
Óttarsstaðir efri.
Óttarsstaðir er jörð í hinum svonefndu Hraunum í landi Hafnarfjarðar. Þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum voru nefndar áður einu nafni Hraunjarðir. Þetta voru jarðirnar Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot. Jörðin Hvassahraun var ein af Hraunjörðunum en hún var í Vatnsleysuhreppi. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550.
Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1837-1839.
Óttarsstaðir – túnakort 1919.
Elsta heimild um Óttarsstaði er frá 1379 í vitnisburði Kára Þorgilssonar og tveggja annara manna um máldaga og reka kirkjunnar í Viðey frá Koleinsskor og inn að Hraunnessvötnum í millum Hvassahrauns og Óttarsstaða. Þar segir: „Svo felldann vittnisburd bervm vier kare þorgilsson, jon oddzson oc olafur kodransson, at vier hofvm heyrt lesinn maldagann j videy advr en kirkiann brann, oc firnefndur olafur kodransson las hann sialfur, at kirkiann j videy ætti fiordv hvoria vætt vr hval hvar m land kæme fra kolbeinsskor oc in at hravnnes vottvm j millvm hvassaravns oc ottastada nema kæme æ kalfatiarnar reka þeim frateknvm j millvm markkeltz oc nyia garda. hier epter villivm vier sveria ef þvrfa þycker. anno domini Պ iijc. lxxix ar.“
Einnig er sagt frá Óttarsstöðum í bréfi frá 9. september 1447 en það var bréf um jarðaskipti Einars Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey fyrir hönd klaustursins. Einar mun hafa keypt jarðir í Húnaþingi og selt jarðir á Vatnsleysuströnd til Viðeyjarklausturs og 10/100 í Óttarsstöðum.
Óttarsstaðir eystri.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Óttarsstaða hafi verið óviss og að jörðin var í konungseign. Landskuldin var 500 álnir sem greiddist með sex vættum og tveimur fjórðungum fiska í kaupstað síðan leigan var hafin en áður greiddist hún til Bessastaða. Ábúandinn, Guðmundur Guðmundsson, lagði við til húsabóta. Kúgildi jarðarinnar voru þrjú og greiddust leigur í smjöri heim til Bessastaða eða með fiski í kaupstað, ábúandinn uppyngdi kúgildin sjálfur.
Óttarsstaðasel – tilgáta.
Útigangur var í betra lagi, ef ekki var um hörkuvetur að ræða, kvikfénaður var fimm kýr og einn hestur. Túnið gat fóðrað fimm kýr en hafði verið í órækt og var úr sér gengið. Heimilismenn voru átta og sóttu þeir sér skóg til kolagerðar og eldiviðar í almenning greiðslulaust. Lyngrif var nýtanlegt, aðallega til eldkveikju, lítil rekavon, sölvafjaran nægði heimilisfólki og hrognkelstekja í lónum var vel nýtt. Heimræði var á Óttarsstöðum árið um kring og var lendingin í meðallagi. Jörðin átti tvær selstöður, eina í almenningi og voru hagar þar góðir en gat orðið vatnslaust á þurrum sumrum, hina í Lónakotslandi á móts við uppsátrið sem Lónakotsmenn fengu að nota í landi Óttarsstaða. Búfénaður fórst oft í gjám í hrauninu, sérstaklega á veturna þegar snjór lá yfir hrauninu. Torfstunga var svo gott sem engin til heyja, þaks og húsa. Tvær hjáleigur voru á Óttarsstöðum, báðar ónafngreindar í Jarðabókinni. Önnur var um sextíu ára gömul þegar Jarðabókin var skrifuð en hin eldri en elstu menn mundu.
Óttarsstaðir eystri – meintur kirkjugarður fremst.
Í Jarðatali Johnsen frá 1847 fékk jörðin númerið 163, Óttarsstaðakot 164, og var jörðin í bændaeign, dýrleikinn var 20 ⅙, landskuldin 1,5, kúgildin 3 og ábúendur 1 eigandi að jörð og 1 leiguliði.
Á túnakorti af Óttarsstöðum og Óttarsstaðakoti frá 1917 var sagt að tún væru holótt og grýtt, þó að miklu slétt og sléttuð. Túnin voru samtals 5,4 teigar og kálgarðar voru samtals 2650m2.
Í örnefnaskrá Óttarsstaða var gerð ítarleg lýsing á bæjarstæðinu:
Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.
„Löngum var tvíbýli á Óttarsstöðum. Voru býlin nefndi Efri-Óttarsstaðir eða Vesturbær og Neðri-Óttarsstaði eða Austurbær. [í dag eru bæirnir helst þekktir sem Óttarsstaðir-Vestri og Óttarsstaðir-Eystri]. Bæirnir stóðu á Bæjarhól, nokkuð vestarlega í túninu. Vesturbærinn stendur ennþá, en Austurbærinn var rifinn fyrir aldamót. Var þá byggt nýtt hús nokkru austar og neðar í túninu, en gömlu bæjartóftirnar notaðar fyrir fjós og hlöðu. Túnið á Óttarsstöðum var allstórt og var því deilt milli bæjanna í Vesturbæjartún og Austurbæjartún. Kringum öll túnin var hlaðinn tvístæður túngarður, feiknamannvirki.
[…] Rétt austur af húsinu, sem nú er á Neðri-Óttarsstöðum, var Eyðikotið [Óttarsstaðakot], þurrabúð frá Óttarsstöðum. Það fór í eyði fyrir 30-40 árum, en bærinn stendur enn og er notaður sem sumarbústaður.
Óttarsstaðir eystri – eldhús.
Niður við Óttarsstaðavörina var önnur hjáleiga eða þurrabúð, nefnd Kolbeinskot. Kot þetta fór í eyði rétt eftir aldamót. […] Vestur af Eyðikotinu var djúpt jarðfall, Eyðikotsker eða Kerið. Neðst í því var hlaðinn brunnur, og var vatnið jafnan tekið þar. Alltaf fylltist þetta af snjó á veturna. Hleðslan í brunninum sést enn. Frá Kerinu lá Brunnstígurinn heim til bæjar. Eyðikotinu tilheyrði sérstök vör, Eyðikotsvör, og lá svokölluð Sjávargata frá kotinu að henni.
[…] Skammt frá Eyðikotinu, til hægri handar, þegar vestur var farið, var hóll sem hét Litlakofahóll. Vestan í honum var kofi, sem kallaður var Litlikofi eða Tótukofi. Þórunn nokkur, systir konunnar á Óttarsstöðum, hafði kindur í þessum kofa. […] Rétt norður af Neðri Óttarsstöðum er lágur rani. Á endanum á honum er smátúnblettur með grjóthleðslu í kring. Er þetta nefnt Rúnugerði […] Rétt austur af Rúnugerði er nokkuð stór hóll, sem kallaður var Fiskhóll. Uppi á þeim hól hafa verið breiðir grjótgarðar, sem enn sést vel móta fyrir, og þar hefur verið þurrkaður fiskur í gamla daga. […] Lengra vestur í túninu og nær sjónum voru fjárhús. Nefndist það efra Torfhús, en það neðra Langbakkahús. Langbakkahús var rifið, svo að veggir einir stóðu eftir, en þeir fóru alveg í stórflóði, líklega 1957.
Rétt fyrir ofan sjávarkampinn var hlið á vesturtúngarðinum, nefnt Fjárhlið, því að féð rann þar í gegn. Rétt fyrir sunnan hliðið var feiknamikið fjárgerði. Þaðan lá götuslóði frá báðum bæjum. […]Smiðjubali var rétt austur af kálgarðinum á Efri-Óttarsstöðum. Þar á að hafa verið smiðja.
Brunnurinn á Efri-Óttarsstöðum var alveg í horninu á kálgarðinum, smáspöl frá bænum. Þangað lá gata, sem kölluð var Brunngata. Í gamla daga var þetta hlaðin steinstétt, en er nú gróin upp.
[…]Í túninu á Neðri-Óttarsstöðum, alveg við mörkin, var kofi, upphaflega smiðja, seinna hesthús. Rétt austur af tóftinni eru þúfur miklar, og töldu menn, að þar væru leiði.
Óttarsstaðir 1950.
Skúli Magnússon landfógeti sagði í Chorographica Islandica að á Óttarsstöðum ætluðu sumir að hafði verið bænhús og í Örnefnalýsingu sagði að „Rétt norðan við Álfakirkju eða Stólpa var talið að verið hafi Kapella. Óttarsstaðakapella. Jafnvel Kirkja og austan eru þúfur miklar, nefnast Kirkjugarður.“
Ekki finnast aðrar heimildir um kirkju eða kapellu á Óttarsstöðum og er frásögn Skúla sú eina sem til er.
Árið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nýta sér forkaupsrétt á öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar og var jörðin Óttarsstaðir þar á meðal.
Óttarsstaðir hafa að mestu sloppið við allar nútíma framkvæmdir og þar er að finna nánast ósnert menningarlandslag. Vegna þessa er svæðið frekar vinsælt útivistarsvæði í dag.
Lónakot
Lónakot – túnakort 1917.
Lónakot er jörð í hinum svonefndu Hraunum í landi Hafnarfjarðar. Þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum voru nefndar áður einu nafni Hraunjarðir. Þetta voru jarðirnar Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot. Jörðin Hvassahraun var ein af Hraunjörðunum en hún var í Vatnsleysuhreppi. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1837-1839.
Elsta heimildin um Lónakot er í fógetareikningum frá 1547-1548 en þar sagði: „Item met Lonakot en legeko. landskyld iij vetter fiske oc ij lege en vet fiske dt. oc ij landskyldt iij vether fiske dt. thet er jc lxxx fiske.“ Lónakot kom fram í öllum fógetareikningum frá 1547 til 1553.
Lónakot – bærinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Lónakots sé óviss, því jörðin tíundaðist engum, og jörðin var í konungseign. Landskuldin var xl álnir sem voru borgaðar með átta tunnum af kolum heim til Bessastaða allt til þess að Andres Ívarsson varð umboðsmaður á Bessastöðum, þá kvartaði ábúandinn, Sigurður Oddleifsson, um að skógurinn í almenninginum væri svo foreyddur að hann treysti sér ekki að safna kolviði til landskuldargjaldsins. Eftir það var landskuldin greidd með tveim vættum fiska í kaupstað. Kvikfénaður var tvær kýr, tvær kvígur mylkar, ein tvívetra, hin þrívetra, tólf ær, fimm sauðir veturgamlir, sjö lömb, einn hestur og eitt hross. Túnin gátu fóðrað þrjár kýr og heimilismenn voru fimm. Jörðin átti selstöðu í eigin landi, Lónakotssel, og voru hagar þar góðir en stórt mein af vatnsskorti þegar það var þurrkur. Jörðin notaði rifhrís til kolagerðar og eldiviðar og jafnvel til að fóðra nautgripi um vetur, torfrista og stunga var í lakasta lagi og varla nýtanleg, lyngrif var nokkurt og var notað til eldiviðar og stundum til að fóðra sauðfé í heyskorti. Fjörugrastekja var nægileg heimilismönnum, rekavon var lítil, sölvafjaran hjálpleg, hrognkelsfjaran gagnleg en skelfiskfjara naumleg og erfiðissöm til beitu. Ekki var heimræði á Lónakoti því engin almenninleg lending var á jörðinni og hafði ábúandinn skipsuppsátur á Óttarsstöðum.
Lónakot – minjar.
Í Jarðatali J. Johnsen frá 1847 fékk Lónakot númerið 162 og var í bændaeign. Dýrleiki jarðarinnar var 10, landskuld var 0,4, kúgildið 1 og ábúendur einn eigandi.
Á túnakorti af Lónakoti frá 1917 töldust túnin vera 0,9 teigar (sléttir) og kálgarðarnir voru 500 m2. Þar kom einnig fram að sjór og sandur gekk yfir lágan tún-/varnargarðinn á stórflóðum.
Lónakot.
Í örnefnaskrá Lónakots, sem Gísli Sigurðsson skráði, var sagt að Lónakot hafi verið í eyði síðan um 1930. Í skránni er einnig ítarleg lýsing á bæjarstæðinu og svæðinu í kring: „Lónakotsbærinn stóð á Bæjarhólnum, sem var sprunginn klettur, því sem næst í miðju Lónakotstúni, sem skiptist í Austurtún, Norðurtún og Vesturtún, öðru nafni Seltún. Túnið lá innan Lónakotstúngarðs, en hann skiptist aftur á móti í suðurtúngarð með suðurtúngarðshliði, en þessi hluti túngarðsins lá um nyrztu hólma og granda Lónakotsvatnagarða, sem eru hólmar og lón í suðsuðaustur frá bænum, með fersku vatni jafnarðarlegast. Austurtúngarður lá á austurkanti túnsins frá einu lónanna um Krumfót, sem er klapparhóll, er einnig nefnist Vökhóll og Sönghóll. […] Sunnanvert við Krumfót var syðra túngarðshliðið, en norðan Krumfótar var nyrðra túngarðshliðið. Garðurinn lá frá Krumfæti út að Norðurfjárhúsi, en frá því lá norðurtúngarðurinn eða sjóvarnargarðurinn á sjávarbakkanum, vestur eftir með norðurtúngarðshliði, sem var vestarlega á garðinum og þar rétt hjá tóft, Hliðsbyrgið.
Lónakot – Norðurfjárhúsið.
Á vesturkant túnsins var vesturtúngarður eða Seltúnsgarður. […] Suðurtjörnin lá aftur á móti sunnan við Bæjarhólinn og þar í brunnurinn, en frá bænum lá Brunnstígurinn niður á Brunnstéttina, sem lá út í tjörnina að brunninum, sem var niðurgrafinn í mjúkan leirbotninn.
Í Vatnagarðahelli.
Lónakotsvatnagarðar, hólmarnir og lónin suðsuðaustur frá Lónakoti, voru einnig nefndir Vatnagarðar eingöngu, Lónin, Lónakotslón, Hólmarnir, Lónakotshólmar, og syðst í Vatnagörðum er Vatnagarðahelli eða Vatnagarðafjárskjól, sem eiginlega liggur í landi Óttarsstaða, og nokkrar tjarnanna.
Þegar haldið var suður út af suðurtúngarðshliði, var þar við Lónakotsselsstíginn, sem seinna varð Lónakotsvegur, alldjúp gjóta, sem nú er fyllt með grjóti, Yrðlingabyrgi. Þar ól Hallgrímur Grímsson, bóndi í Lónakoti um aldamótin 1900, upp tófuyrðlinga. Byrgið er um 30 metra frá túngarðshliðinu. Suður frá því er svo Lónakotsréttin. Austur þar frá, á vinstri hönd við Lónakotsstíginn, er þúfnakargi með fjárhúskofa og kallast hér Kotið, einnig Dys í Koti.
Lónakot – Dys í Koti.
Austar þar var Kotagerði, fjárgerði. Allt lá þetta vestan hólma Vatnagarðanna. Sagnir voru um, að upphaflega hafi Lónakotsbærinn staðið þarna. Umhverfis þennan þúfnakarga var Kotagarðurinn, hlaðinn, einfaldur grjótgarður. Nokkru lengra upp í hrauninu var Hádegishæð, eyktarmark frá Lónakoti.“
Árið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nýta sér forkaupsrétt á öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar og var jörðin Lónakot þar á meðal.
Flestar þær fornleifar sem skráðar voru á jörð Lónakots tengjast bænum og landbúnaði með einum eða öðrum hætti. Helst ber að nefna bæjarrústirnar sjálfar sem eru mjög heillegar. Í bæjarrústunum eru sjö hólf, þar af er nyrsta hólfið niðurgrafin hlaða og næst syðsta að öllum líkindum eldhús eða baðstofa, þar er að finna leifar af steyptum reykháf.
Lónakot – brunnur.
Túnið við Lónakot hefur fengið að kenna á ágangi sjávar og liggur fjöldinn allur sjóbörðum steinum yfir því og varnargarðurinn er horfinn að miklu leyti. Útihúsin eru þó nokkuð heilleg og er þar kannski helst að nefna Norðurfjárhúsið, sem er í norður enda túnsins, og Yrðlingabyrgið, sem er u.þ.b. 100m SV við bæjarrústirnar en þar ól Hallgrímur Grímsson, bóndi í Lónakoti um aldamótin 1900, upp tófuyrðlinga fyrir feldinn.“
FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.
Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar V; Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot, 2021; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-V-Straumur-Ottarsstadir-og-Lonakot-2021.pdf (byggdasafnid.is)
Vatnagarðahellir.
Festarfjall – Ingvar Agnarsson
Í Faxa 1985 fjallar Ingvar Agnarsson um „Festarfjall„:
„Útlit og myndun
Lóðrétt rís Festarfjall upp frá flæðarmáli, þar sem öldur úthafsins brotna á ströndinni og skella á klettum fjallsins í fjöruborði og mynda sumstaðar hella og skúta.
Þetta sífellda gnauð hafsins við rætur fjallsins veldur því, að stöðugt hrynur úr því, og allt það efni sem niður hrynur, hreinsar hafið burt úr fjörunni og ber með sér út í djúpið, þar sem lygnara er. Skemmtilegt er að virða fyrir sér þetta stórbrotna fjall, skoða lögun þess og línur og reyna að gera sér nokkra grein fyrir myndunarsögu þess. Við sjáum í raun inn í miðju þessa fjalls, því eitt sinn var það miklu meira um sig. En sjórinn hefur mulið niður allan suðurhelming þess svo nú sjáum við þversnið af fjallinu allt frá tindi þess, sem er 193 m hár og niður að sjó. Og hér gefur á að líta: Fjallið er að mestu leyti móbergsfjall, og þá sennilega myndað við eldgos undir jökli. En ekki er hér um eindregna móbergsmyndun að ræða. Sýnist mér, að skipta megi myndun fjallsins í nokkra hluta eða þætti.
Fyrst er þykkur móbergsstabbi frá sjó og upp undir þriðjung af hæð fjallsins, en þar gengur blágrýtislag lárétt frá austri og næstum þvert í gegnum fjallið, en endar þar snögglega við breiða gjá er gengur upp fjallið. Vantar aðeins spölkorn á, að það nái út úr því að vestanverðu. Undir þessu blágrýtislagi er lag af rauðri eldfjallaösku eða gjalli. Þetta hraunlag hlýtur að hafa runnið á hlýskeiði, og sennilega eftir að jökull hefur sorfið ofan af upphaflegri móbergsmyndun fjallsins, svo að það hefur verið orðið allt að því lárétt, a.m.k. á þessum kafla sem hraunlagið hefur runnið yfir. En þessi hluti móbergsins undir blágrýtislaginu er hluti af miklu víðáttumeira móbergssvæði, bæði austan og vestan við Festarfjall. Á einum stað gengur berggangur sem kallast Festi lóðrétt upp í gegnum móbergsstabbann frá fjöru og endar uppi við blágrýtislagið. Þessi gangur er um 1—1,5 m þykkur og er myndaður úr þunnum lóðréttum flögum, en ystu flögurnar, þær er snerta móbergsveggina beggja vegna eru þó dálítið stuðlaðar lárétt.
Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur Íslands, í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli. Uppgötvaði m.a. berggang Lyngfells í ferðinni.
Eftir myndun þessa hraunlags í neðri hluta fjallsins hafa jöklar aftur fært hér allt í kaf og á því ísaldarskeiði, líklega því síðasta, hefur svo aftur farið að gjósa á svipuðum slóðum og fyrra skiptið, og nú undir þessum nýja jökulskildi.
Festisfjall – kort.
Og hér hefur hlaðist upp móbergsfjall ofan á blágrýtislaginu og eldra móberginu, sem undir því liggur. Nú verður þessi nýi móbergsstabbi svo hár að hann nær alla leið upp úr jöklinum. Og eftir það getur hraunið, sem vellur upp úr gígnum, runnið óhindrað án þess að breytast í móberg í köldu jökulvatninu. Hin hraða kólnun gosefnanna á sér ekki lengur stað. Og blágrýtishetta myndast efst á þessu fjalli, sem nú hefur skotið kryppunni upp úr hinum mikla frera, tindur Festarfjalls ber þessu vitni enn í dag. Því efsti hluti fjallsins, sem reyndar er lítill um sig, er þakinn blágrýtishellu í nokkrum goslögum þó og undir henni er allþykkt lag af rauðu gjalli eða eldfjallaösku. Hér mun vera um svokallaða stapamyndun að ræða, en skv. kenningum Guðmundar Kjartanssonar, jarðfræðings, eru slík fjöll mynduð undir jökli (eða í vatni), nema efsti hlutinn, sem upp úr hefur komið.
Festarfjall og nágrenni – loftmynd.
Nefna mætti ýmis stapafjöll, eins og t.d. Hrútfell, Herðubreið, Hrafnbjörg, Eiríksjökul og m.fl. sem talin eru mynduð undir jökli og Surtsey sem nýlega myndaðist í sjó.
Ef þessi tilgáta mín er rétt, um myndun Festarfjalls, þá er hér um að ræða eitt af þessum merkilegu fjöllum, sem myndast hafa á þennan sérstaka hátt, og sem svo mjög einkenna landslag á Íslandi.
Og ef Festarfjall hefur hlaðist upp í tveim aðaláföngum á tveim ísaldarskeiðum eins og hér var gert ráð fyrir þá mun hér vera um nokkra sérstöðu að ræða meðal íslenskra stapafjalla.
Fjara og brim undir Festarfjalli
Festarfjall – sjávarhellir.
Skemmtilegt er að koma í fjöruna undir Festarfjalli, þegar sól skín í heiði, enda eru margir farnir að leggja þangað leið sína á góðviðrisdögum á sumrum. Hjón koma þarna með börn sín, sem hlaupa glöð um sandinn. Og séð hef ég fólk steikja kjöt á grilltækjum sínum og nokkrar fjölskyldur safnast saman og halda einskonar útihátíð þarna undir gnæfandi björgunum, sem enduróma af undirleik öldunnar, þar sem hún freyðir við sandinn og leikur sér við að væta litla fætur, sem fara í eltingarleik við hana. En sá leikur er auðvitað ekki hættulaus og betra að gæta varúðar; í norðanátt er þarna ávallt logn, en nær aldrei mun vera bárulaust með öllu, og stundum duna öldurnar við ströndina með miklum gný, þótt logn sé um allan sjó. Þarna mætist hrikalegt landslag og stórbrotnar haföldur, og hefur landið orðið að láta undan síga í þeim átökum. Staðhættir allir bera þess ljós merki.
Festarfjall – brim.
Ekki er hættulaust að ganga undir þessum hrikabjörgum. Varð ég vitni að því eitt sinn, er ég var þarna staddur, ásamt mörgu öðru fólki, að stórgrýtisskriða hrundi úr björgunum nálægt Festi, ganginum sem áður var lýst, og dreifðist um allstórt svæði í fjörunni með miklum gný. Rétt áður var þarna fólk á ferli, hjón frá Keflavík. Þau heyrðu drunur rétt fyrir aftan sig og varð heldur en ekki hverft við. Þarna munaði litlu að stórslys yrði.
Ekki veit ég hvort svona skriðuföll gerast oft. Helst mundi það vera í rigningu, því bergið er nokkuð laust í sér. En einnig er hér talsvert af sjófugli í klettunum og kunna þeir að koma grjóthruni af stað.
Nauðsyn undirstöðuþekkingar í jarðfræði
Festarfjall – sjávarhellir.
Þegar ferðast er um byggðir og óbyggðir landsins, er nauðsynlegt að þekkja helstu örnefni og setja á sig helstu útlitseinkenni og legu hins fjölbreytta landslags á hverjum stað.
Forn setlög.
Þar er um að ræða aðalatriði landafræðinnar. Ekki er síður áhugavert, að kynna sér þá þætti landsins, sem tilheyra jarðfræðinni, myndun og þróunarsögu landslagsins á hverjum stað.
Í barnaskólum er snemma byrjað á að kenna landafræði, og er það vel. En ekki er síður mikilvægt að kunna nokkur skil á jarðfræðilegum atriðum. Þegar ferðast er um landið, mundi það mjög auka á ánægju hvers og eins að geta skoðað og hugleitt það sem fyrir augu ber, út frá jarðfræðilegum skilningi, og þeirri þekkingu sem þegar er fyrir hendi í þeirri grein, en þar hefur orðið um miklar framfarir að ræða, allt frá síðustu aldamótum. Kennslu um helstu atriði jarðfræðinnar þyrfti að taka upp í öllum skólum, miklu fyrr en nú er gert.“ – IA
Í Lesbók Morgunblaðsins 06.11.1949 er í „Fjaðrafoki“ vitnað í lýsingu Jóns Trausta á Fagradalsfjalli:
Festarfjall – nafnið
Festarfjall – málverk.
„Eitt örnefni lærði jeg að minsta kosti á leiðinni frá Grindavík til Krýsuvíkur.
Festarfjall og Hraunsvík.
Það er Festarfjall, rjett innan við Grindavíkurbygðina. Mjer var sagt, að það drægi nafn af því, að einhvern tíma í fyrndinni hefði verið feiknamikil fuglatekja í bjarginu framan í fjallinu, en þá var landið auðvitað ekki bygt öðrum en tröllum og landvættum.
Frá þeim tíma hengi festar miklar framan í fjallinu ofan bjargið og væri ein þeirra úr gulli. Þegar jeg nálgaðist Festarfjall sá jeg undir eins festarnar og það langt til. Svo stendur á þeim, að fjallið, sem er úr fornu móbergi, hefur sprungið sundur við jarðrask einhvern tíma fyrir langa löngu og þá hefur bráðin eldleðja að neðan ollið upp í sprungurnar og storknað þar. Af því að þessar sprungur hafa verið mjög þröngar, eru gangarnir mjóir. Nú er sjórinn að smásverfa framan af fjallinu, og hefur verið að því síðan löngu fyrir landnámstíð. En af því að bergtegundin í sprungunum er harðari en hin, sem er í sjálfu fjallinu, slitnar hún seinna og liggja því upphleyptar bergraðir upp og ofan fjallið. Það eru festarnar.“ – (Jón Trausti).
Í Rauðskinnu er sagan af festinni í Festarfjalli:
Festarfjall – þjóðsagan
Festarfjall – berggangur.
„Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.“ – Rauðskinna I 45
Heimildir:
-Faxi, 6. tbl. 01.08.1985, Festarfjall – Ingvar Agnarsson, bls. 260 og 276.
-Lesbók Morgunblaðsins, 41. tbl. 06.11.1949, Fjarðrafok, bls. 508.
-Rauðskinna I 45.
Festarfjall – sjávarhellar.
Í stríði á Fagradaldsfjalli – Magnús Hafliðason á Hrauni
Meðfylgjandi grein birtist í Morgunblaðinu 22. des. 1963 undir fyrirsögninni „Í stríði á Fagradalsfjalli„:
„Þarna í víkinni við kambinn er hrönn af vikri,“ sagði Magnús. „Allt kemur þetta úr Surtsey. Það eru meiri ósköpin sem hún gýs frá sér. Það er eins og það sé dálítið móberg i vikrinum.“„
En hvað er þetta?“ spurði ég og benti á stóra, rauða belgi, sem lágu í fjörunni.
„Þetta eru rússablöðrur,“ svaraði hann. „Þeir nota þær á reknetin.“
„Ætlarðu ekki að hirða þær?“
„Nei, það fæst ekkert fyrir þær.“
„Eigum við þá ekki að stinga á þeim og hleypa loftinu út?“
„Nei, það fer allt vestur í þessari átt. Það er nóg samt.“
Við stóðum í fjörunni fyrir neðan túnið og töluðum við Magnús Hafliðason á Hrauni, þann garp. Ég hafði komið hingað áður fyrir tveimur árum og átt samtal við Magnús sjötugan, en ætlaði nú að ganga með honum á Fagradalsfjall og skjóta rjúpur í jólamatinn; ætlaði þó að vísu ekki að skjóta sjálfur því eg er í Rjúpnafélagi Jónasar Hallgrímssonar, en langaði að sjá hvernig þessi nafntogaða skytta gengi til verks.
Og svo voru fjöllin eins og segull í desemberskuggunum; veðrið eins og á vordegi, hlýr andvari af austri, þurrt en skýjað. Þar sem við stóðum í fjörunni og horfðum út á hafið fundum við glöggt, að við þurftum ekki að bera neinn kvíðboga fyrir því að hann mundi skella saman á fjallinu, öldurnar teygðu sig upp í vikurinn, engin þeirra hvít í föll, þetta var hroði. Ég rifjaði upp fyrir mér það sem Magnús hafði sagt mér um franska togarann sem hér straedaði 1931 ag spurði hann nú, hvar togarinn hefði lent. Það vatnaði yfir Skarfatanga beint út af Víkurkambinum:
„Þarna var það,“ sagði hann og benti.
„Í túnfætinum?“ spurði ég undrandi.
„Já. Það var engu líkara en þeir ætluðu að leggja honum hér í hlaðinu,“ sagði Magnús og brosti í skeggið. Svo benti hann austur fjöruna, þar sem reis allmikið fjall og gekk í sjó fram. „Þetta er Festi,“ sagði hann. „Bjarni Sæmundsson sagði að hún væri eitt sérkennilegasta fjall á landinu. Hún er laus í sér og kolbrunnin, það hrynur stanzlaust úr henni“ — benti síðan í fjöruna nær túninu: „Og þarna strandaði brezki togarinn Lois í ársbyrjun 1945, ef ég man rétt. Ég hef aldrei sagt þér frá því. í hitteð fyrra töluðum við bara um fransmanninn. Þegar hann strandaði var bræluvindur af landsunnan, en þegar Englendingurinn sigldi upp var logn þó brimið væri óskaplegt, eitt hið mesta sem ég man eftir. Hann sleit úr sér snjó, en samt virtist engin sérstök ástæða til að sigla upp í fjöru. En brimið var aftök. Það var frekar smástreymt, en sjórinn samt tekinn að falla uþp á tún með hálfföllnum sjó að, svo mikið var brimið. Kvöldið áður var ég einn heima, því dæturnar voru á barnaballi. Ég háttaði snemma og las í bók, en húsið skalf svo og nötraði að ég gat ekki lesið í köflum. Ég óttaðist um telpurnar, en þær komu heim um nóttina og einhvern veginn gátum við sofnað, þrátt fyrir veðrið. En svo blálygndi hann um hádegi næsta dag. Um níuleytið þá um kvöldið strandaði togarinn. Skömmu áður sagði ég við telpurnar: „Þið skuluð fara að hátta, þið vöktuð svo lengi fram eftir í nótt.“ Stuttu síðar kemur Ingi björg dóttir mín upp með óvanalega miklu fasi má segja, því hún er heldur róleg, og segir: „Það er eitthvert ljós að sjá í Festi, og eins og verið sé að vagga því til.“ Mér datt strax í hug að skip væri komið upp í fjöruna, gekk út og horfði austur með landi. Þá sá ég ljós og ekki um að villast að það var á skipi. Ég flýtti mér upp eftir að athuga hvað hafði gerzt og þegar ég kom á strandstaðinn heyrði ég köllin í körlunum.
Og þú hefðir átt að heyra skröltið í togaranum, þegar hann veltist á klöppinni. Áður en ég fór á strandstaðinn hafði ég gert björgunarmönnum í Grindavík aðvart, og komu þeir von bráðar. En þó logn væri, var brimið svo mikið að mér datt sem snöggvast í hug að enginn maður mundi komast heilu og höldnu gegnum rótið. Svo mikið var brimið að mannskapurinn varð að halda í tóið, því ekki var viðlit að binda það. En samt var öllum bjargað nema skipstjóranum, og voru þeir komnir heim í hús um miðnætti. Ég tel að skipstjórinn hefði átt að komast af eins og hinir, en það var eins og hann kærði sig ekki um það.
Sjórinn var mörg ár að vinna á togaranum. Við höfðum svolítið upp úr þessu strandi, gátum sótt okkur kol fram eftir vetri og kynt. Flestum finnst hlýjan góð, sama hvaðan hún kemur, en þó verð ég að segja að ég hef alltaf kunnað bezt við mig að vera dálítið þvalur.“
En ferðin að Hrauni var ekki farin í þeim tilgangi að standa í fjörunni og láta tímann ganga sér úr greipum. Við kvöddum nú frú Önnu, konu Magnúsar, sem alltaf er opinn faðmur hlýju og gestrisni þegar maður kemur í heimsókn, og lögðum af stað að Borgarhrauni. Magnús sagði okkur á leiðinni nokkur örnefni og væri tómt mál að rifja þau hér upp: Húsafell, Fiskidalsfjall, Tryppalágar, Þorbjörn — nei, ég hefði annars átt að nefna hann fyrstan, því hann heyrir frekar til leiðinni frá Keflavíkurvegi að Grindavík en þeirri sem við nú fórum. Þorbjörn er sterkt nafn, en óvanalegt á fjalli. Mér finnst fjall með því nafni hljóti að vera traust og innhverft.
Og áfram var haldið. Við skildum bílinn eftir við þjóðveginn, gengum yfir Borgarhraunið í átt til Fagradalsfjalls og fórum heldur hægt, því Magnús sagðist vera orðinn þessi veraldarinnar ræfill. Samt þótti okkur hann ganga nógu hratt, með byssu um öxl og prik í hendi, og áttum við fullt í fangi með að halda í við hann. Leiðin yfir hraunið er sæmilega greiðfær — og þó. Magnús stanzar, litast um og segir: „Þetta er nú heldur tuðrótt leið, hér hafa goðin einhvern tima reiðzt.“ Pikkaði svo með prikinu í grænan mosann og leitaði að sprungu.
„Þær liggja allar frá útsuðri í landnorður,“ sagði hann, „það eru meiri katlarnir, sem hér eru á hverju strái. Allt hefur þetta land logað á sinni tíð. Sagnir eru meira að segja til urri eldsumbrot á þessum slóðum eftir landnámsóld. Þegar snjór liggur yfir hrauninu, er víðast hvar autt yfir holunum af trekki og hlýju sem kemur neðan frá. Undir Reykjanesinu er ekkert nema holrúm og eldur, og þar hafa kyndararnir líklega nóg að gera. Þið ættuð að sjá eldgígina við Tófubrunna og Latshóla, ef þar er ekki eitthvað óhreint undir veit ég ekki hvar það ætti að vera. Og ég hef oft séð hvernig húðar yfir holurnar hér í hrauninu af þunnum vatnsklaka. Fyrir norðan Þorbjörn rýkur úr jörð, þar eru hverir. Hér rýkur þó ekki. Bezt gæti ég trúað því, að Surtur kæmi ekki að sunnan, heldur héðan að ofan.
Hann hefur bara haft sig upp þarna suður frá í þetta sinn.“ Hann leit norður um og benti með prikinu á Fagradalsfjall: „Hér var þoka í gær,“ sagði hann, „og sá ekki í loft. En nú er veðrið eins og bezt verður á kosið. Þetta má kalla heppni. Það fer fínasti farðinn af svona ferðalagi þegar veðrið er vont.“
Síðan héldum við áfram og gengum fram hjá álitlegum grasflötum, sem Magnús nefndi Tryppalágar.
„Hvað hefurðu skotið flestar rjúpur á dag?“ spurði ég.
„Sextíu,“ svaraði hann.
„En á hausti?“
„O, ég hef komizt upp í fjögur hundruð. Það er svolítið starf að bera sextíu rjúpur þessa leið,“ bætti hann við og benti á nyrztu brún Fagradalsfjalls: „Þarna er aftökustaður rjúpunnar,“ sagði hann.
„Þú étur auðvitað oft rjúpur ?“ spurði ég.
„Nei, mér þykir hún ekki góð. Það er of mikið grasbragð af henni. Svið eru betri. En beztir eru mávsungar. Þeir eru lostæti. En nú vantar líklega snjóinn. Hérna skeljaði um daginn, þegar fönn lá yfir hrauninu. Þá fórum við fimm saman og fengum tuttugu rjúpur, ég rakst af tilviljun á smáhóp og náði þeim öllum, þær voru tíu. Kristinn Stefánsson var óheppinn, hann fékk aðeins eina, þó er hann góð skytta. En Snorri læknir gat ekki komið, hann þurfti að fara utan á kongress. Mér líkar vel við þá báða, þeir eru prúðir og kurteisir eins og allir menntamenn eru nú á dögum, það er eitthvað annað en kaup mennirnir í gamla daga. Já, og svo þykir mér hangikjöt ágætt og miklu betra en rjúpur. En eigum við ekki að slá í, okkur miðar ekkert áfram með þessu móti. Áðúr var hún í stórum breiðum eins og fugl í bjargi. Þá kom hún á kvöldin niður í hraun, ef norðanátt var, en nú er eins og hún staldri ekkert við.“
Hann tók nú á rás og engu líkara en hann hlypi, ég heyrði að hann muldraði í barm sér: „Þetta er meiri gangurinn, hálftuðrótt fyrir lassa eins og mig.“
Við litum til baka. Bíllinn var horfinn úr augsýn og fram undan blasti við fjallið og hækkaði eftir því sem nær dró. Magnús hafði þungar áhyggjur af landsmálum og talaði um pólitík meðan við gengum síðasta spölihn að fjallinu. Hann sagðist strax hafa gert sér grein fyrir því að uppbótakerfið mundi steypa landinu. „En maður skilur þetta víst ekki,“ sagði hann mæðulega, „það er ljóti atvinnuvegurinn þessi stjórnmál. Þeir standa upp, kreppa hnefana, rífast, bera þungar sakir hver á annan, setjast aftur, ganga út í horn, takast í hendur, klappast á, og þá syngur hún annað bjallan hjá þeim. Og svo borgar landið brúsann.“
Nú vorum við komnir í Selskál, sem er kriki við fjallsræturnar. Þaðan er gengið upp Görnina, sem svo er kölluð. Hún sker fjallið eins og renna, og þegar upp er komið liggur hún eftir því endilöngu, slétt og greiðfær með grösum og lyngi, en vestur úr henni rís Kast, allhátt fjall og bratt í rætur.
„Það var þægilegra að komast á Skálafell,“ sagði ég á leiðinni upp Görnina.
„Jæja-já,“ sagði Magnús.
„Ég fór í jeppa.“
„Það eru ófá jeppaförin í landinu,“ svaraði hann. „Þú hefur auðvitað verið að leita að veiðibjöllueggjum?“ bætti hann við.
„Nei, ég var að horfa yfir landið.“
„Það er mörg matarholan í landinu,“ sagði hann. „En fyrst þú ert að hugsa um landið, þá er bjart í dag, og við verðum komnir upp áður en mistrið læðist yfir hraunið.“ Ég var hættur að spyrja um rjúpuna, hún skipti ekki lengur máli. „Þessi fjöll eru banaþúfa margra vaskra drengja,“ sagði hann þegar upp var komið.
„Nú hvers vegna?“ spurði ég.
Í vesturslakka Kastsins fórst flugvél Andrews, yfirhershöfðingja Bandaríkjanna í Evrópu í stríðinu. Ég kom ekki að flakinu fyrr en nokkru síðar. Í norðausturhorni Fagradalsfjalls, þar sem heitir Langhóll, fórst enskur flugbátur í stríðinu. Þangað hef ég síðar komið og skotið rjúpur í flakinu. Ekki hef ég orðið var við annað kvikt á þessum slysastöðum. Og hérna suðuraf heitir Langihryggur og gengur út úr Borgarfjalli, þar fórst enn ein flugvélin í stríðinu. Ég var með þeim fyrstu sem komu á staðinn. Það var ljót aðkoma. Það var eins og fjöllin hefðu gengið í lið með Þjóðverjunum og líkast því að þau hafi gert gyllingar til að ná sem flestum flugvélum bandamanna. En nú er farið að fyrnast yfir þessa atburði. Og sem betur fer ætti fáum að standa ógn af hálendinu, eins og tæknin er orðin, ja nema auðvitað blessaðri rjúpunni. Hún nýtur ekki góðs af tækninni, nema síður sé.“
Við báðum Magnús að segja okkur frá aðkomunni á Langahrygg. Hann sagði:
Á slysstað í Langahrygg.
„Við Ísólfur í Ísólfsskála höfðum séð flakið tilsýndar, þar sem það lá norðaustan í hryggnum. Englendingar báðu okkur að koma með sér og við fórum í skriðdreka yfir hraunið, það var heldur svona tuðrótt. Þegar við komum að flakinu lágu tólf flugmenn, Bretar og Bandaríkjamenn, dauðir til og frá í brekkunni, brunnir eða limlestir.
Brezku hermennirnir höfðu ekki leyfi til að ganga að flakinu og biðu átekta eftir foringja sínum. En fyrst ég var kominn á staðinn vildi ég skoða brakið og vegsummerki. Ég sagði við sjálfan mig: Ef þeir reka mig burt, þá er ég farinn og læt þá um þetta. En þeir hreyfðu hvorki legg né lið til að koma í veg fyrir að ég gengi inn í brakið og virti fyrir mér þessa hörmulegu sjón. En það er bezt ég fari ekki út í að lýsa þessu nánar fyrir þér. Þú getur hvort eð er ekki birt það á prenti. Það er yfirþyrmandi. Alúminíum hafði runnið um brekkuna eins og lýsi og var nú storknað að sjá, fallhlífar lágu á víð og dreif, skór, fótur.
Líkin voru vafin inn í fallhlífarnar og flutt til byggða. Það voru þung spor. Nú er flakið horfið, fjallið byrjað að gróa upp og tíminn hefur grætt sárin. Og nú glottir aftur til.“
Þegar við gengum norður Görnina gerði hann svolitla kælu af austri. Engin rjúpa sjáanleg, enda höfðum við meiri áhuga á fjallinu, þar sem Andrews fórst með fylgdarliði sínu, og punktur var settur fyrir aftan einn kapítula styrjaldarsögunnar. Ekki vildi Magnús ganga á slysstaðinn. „Það er óartarkrókur,“ sagði hann. Við stóðum nokkra stund og blíndum á fjallið, horfðum svo niður á hraunbreiðuna fyrir neðan okkur og undruðumst hvað flugvél hershöfðingjans hefur flogið lágt, þegar slysið varð. Engir þeirra höfðu komið áður til Íslands, þeir voru ókunnugir feigð þess og fjöllum. Í sumar voru liðin 20 ár frá því slysið varð. Ég rifjaði það upp með sjálfum mér. Ég hafði alltaf haldið að flugvél Andrews hefði lent á Keili.
Þess vegna hef ég oft litið hann hornauga, en nú varð mér ljóst að ég hafði haft hann fyrir rangri sök. Þannig leiðir tíminn staðreyndirnar í ljós, og nú finnst mér Keilir fallegri og tignarlegri en nokkru sinni fyrr. Ég mundi eftir jarðarför hershöfðingjans og manna hans, við drengirnir stóðum niður við Austurvöll, ef ég man rétt, og horfðum á líkkisturnar fjórtán, þar sem þær voru bornar út úr Dómkirkjunni, hlustuðum á sorgarlögin, virtum fyrir okkur heiðursvörðinn. Þannig eltum við stríðið, það er partur af lífi okkar, óljós minning, skuggi þeirrar sólar sem nefnd er æska.
Slysið varð mánudaginn 3. maí 1943, en vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá því í íslenzkum blöðum fyrr en þremur dögum síðar. Þá hafði Morgunblaðið fengið fréttina frá Washington. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjamanna um allan heim. Skömmu áður hafði Spellmann, þáverandi biskup en nú verandi kardináli, farið svipaða för á vegum kaþólsku kirkjunnar.
Augljóst er af fyrirsögn fréttarinnar í Morgunblaðinu, að hún hefur verið öllum kunn, þegar hún loks var birt. Þar stendur: „Fjórtán (svo) manns voru í flugvjel Andrews hershöfðingja.“ Hvorki í þessari fyrstu frétt af slysinu né nánari frásögn daginn eftir er sagt frá því, hvar flugvél hershöfðingjans hafi farizt og margt annað þykir manni nú vanta í frásögnina. Sá sem komst af hét George Eisel frá Colombia. Hann var afturskytta í Liberator-flugvél hershöfðingjans og sat fastur í stélinu í 26 klukkustundir. Hann hafði oft áður komizt í hann krappan, hafði t. d. bjargazt þegar flugvél hans var skotin niður yfir Túnis og þrír félagar hans farizt. Flugvélar hans höfðu gert loftárásir á borgir í Norður-Afríku, Þýzkalandi, Frakklandi og Ítalíu. í stuttu samtali sem Ívar Guðmundsson átti við hann segir hann m. a. um slysið:
„Við flugum meðfram ströndinni og yfir marga tanga, en svo kom að því að einn þeirra skagaði of langt upp í loftið og við rákumst á.“ Hann telur að allir mennirnir hafi dáið um leið og vélin rakst á fjallið. Hann heyrði ekki til ‘Uokkurs manns og þó missti hann aldrei meðvitund þann tíma sem hann var í flakinu.
Hann segir að skyggni hafi ekki verið nema um 12 metrar. Hann segir að eldur hafi komið upp í flugvélinni og hafi honum ekki dottið annað að í hug en hann mundi brenna inni, „en þá kom hellirigning og kæfði eldinn í flugvélarflakinu.“ Einhvern tíma hefði nú sú rigning verið talin til jartegna. Það tók leitarmennina klukkustund að ná Eisel úr stélinu, þar beið hann þyrstur og svangur. Magnús sagði okkur frá því að hann hefði heyrt, að Eisel hefði farizt nokkru síðar í flug slysi. Við gutum augum í síðasta sinn til slysabrekkunnar í Kasti, þá bætti Magnús við: „Það eru meiri vinnubrögðin þessi stríð.“
Við gengum nú upp úr Görninni, fylgdum bröttum skorningum og fikruðum okkur upp á nyrzta og hæsta hluta Fagradalsfjalls. „Ef hún er ekki við skaflana hér,“ sagði Magnús, „þá er hún hvergi.“
„Er ekki vissara að hvísla?“ spurði ég.
Hann hló. „Nei,“ sagði hann og gekk enn hraðar upp hlíðina. Ég var einnig farinn að skimast um eftir rjúpu. Og mér fannst ég sjá hana alls staðar, í mosanum, við steinana, þeir voru margir með hvítum skellum. Mér fannst þeir hía á okkur. Eins og straumkast árinnar verður að narti fisks í eftirvæntingargómum laxveiðimannsins, þannig verða hvítskellóttir steinar að rjúpum í skimandi augum skyttunnar.
„Hefurðu nokkurn tíma séð fálka hér á fjallinu?“ spurði ég.
„Já,“ sagði Magnús, „ég hef séð fálka slá rjúpu hér á fjallinu, en það er sjaldgæft.“ „Finnst þér þú ekki stundum vera í hlutverki fálkans?“ „Það getur svo sem verið. Þegar fálkinn kemur sópast rjúpan í burtu, en það hefur engin áhrif á rjúpuna, þó ég komi. Hún heldur sig bara við skaflana og….“ Prikið festist við grjóthnullung.
„Og hvað?“ spurði ég.
„Og bíður, bíður. Er það ekki það sem við gerum öll.“ Losaði prikið, hélt áfram og þagði.
„Við Ísólfur í Ísólfsskála sáum tvær arnir í haust, þegar verið var að leggja Krýsuvíkurveginn,“ sagði hann svo upp úr þurru, eins og til að breyta um umræðuefni. „Önilur hafði komið á hverjum morgni og stefnt á Krýsuvíkurberg, og einn morguninn sáum við tvær saman. Líklega hafa þær verið að leita sér að æti.“
Nú færðist brimmóða yfir landið og það fékk einhvern óræðan blámisturssvip, sem gerði það fjarlægara en áður. Það var ekki lengur fjallabjart yfir auðninni. Morguninn hafði verið rauður í skýjum, þetta var yndislegur dagur, magnaður af dul lands og sagna. Hamrabelti blöstu við norðan Kasts, þar eru Gálgaklettar. Þar voru hengdir ræningjar sem héldu til við Þorbjörn gamla.
Og enn fjölgaði hvítu skellunum á steinunum og ég fór að velta því fyrir mér hvort guð hefði svona fínan húmor eða hvort þetta grín væri bara tilviljun.
Magnús ymti að gömlum dögum. „Ég hef alltaf séð eftir árabátunum,“ sagði hann, „og veiztu af hverju? Ég komst einu sinni yfir hundrað kíló. Þá brá mér kynju við. Ég fór að hugleiða hvað hefði valdið þessum ofvexti — jú. Við höfðum fengið vélbáta og lagt niður árarnar. Það var oft glatt á hjalla á gömlu árabátunum og gaman að sigla í góðu leiði. Fiskurinn var borinn upp klappirnar fyrir neðan bæinn, þeir voru í brókum upp undir hendur og skinnstökkum og bundið yfir um mittið til þess þeir yrðu ekki brókarfullir. Þeir báru tólf þorska í einu og enginn taldi eftir sér að bera upp fiskinn. Nú bykir allt erfitt. Skiptivöll ur heitir pa.rtur af túninu fyrir neðan Hraun. Þar deildu þeir út hlutunum. En það var ekkert upp úr þessu að hafa, þó við fiskuðum 500 skippund yfir vertiðina og gerðum að öllu Sjálfir. Þetta fór bara í kaupmennina og þeir voru eins og sjórinn. Lengi tekur sjórinn við.
En nú held ég að þorskurinn sé að ganga til þurrðar, það er ekki annað að formerkja. Áður fylltist allt af fiski, þegar sílin komu. Fyrst þegar ég byrjaði að róa fengum við oft á annað hundrað fiska í 15 möskva djúp net, en nú eru þeir með þetta 30—36 möskva djúp nælonnet og fá einhverja glefsu í eitt og eitt net. Nú sést ekki fiskur á þeim slóðum þar sem við veiddum mest. En fiskifræðingarnir trúa ekki að fiskurinn sé að ganga til þurrðar, það er aðalatriðið. Kannski við getum lifað á bjartsýni þeirra.“
„Var þetta ekki sæmilegt upp úr fyrri heimsstyrjöldinni?“ spurði ég.
„Jú, það var miklu betra en síðar varð. Um 1930 súnkaði fiskurinn í verði og þá byrjaði kreppan.“
Við vorum varla komnir upp á fjallsbrúnina þegar Magnús stanzaði, bandaði til min hendi og sagði: „Þarna er ein —,“ hlóð byssuna, miðaði og — bang.
Þegar Magnús kallaði sá ég dýrið dauðamóða teygja úr skaflhvítum hálsinum, tvö augu sem störðu á okkur í 30—40 metra fjarlægð. Þau báðu ekki um líf, þessi augu, nei horfðu bara á okkur, spurðu. Og svarið kom. Þegar við komum að rjúpunni þar sem hún lá dauð í grænum mosa milli hraungrjóts, beygði Magnús sig niður og sagði: „Þetta er einhver síðgotungur, hún er enn með svartar fjaðrir.“ Svo leit hann á mig og spurði glottaralega:
„Ekki sást þú hana á undan mér?“
Það var nú lítill munur orðinn á rjúpunni og hvítskellóttum steinunum. En blóðið golpaðist ekki upp úr þeim.
Við gengum skimandi vestur fjallið, en sáum ekki fleiri rjúpur. Þessari styrjöld lyktaði með ósigri þeirrar einu rjúpu, sem á fjallinu var þennan dag. Þegar við komum á móts við Kast á heimleið fórum við aftur að tala um flugslysin, enda voru þau ofarlega í hugum okkar. Og þá sagði Magnús: „Það er eins og allt sé fyrirfram ákveðið og hnitmiðað niður. Amma mín, Guðbjörg Gísladóttir frá Lambafelli undir Austur-Eyjafjöllum, sagði mér einhverju sinni frá harðduglegum fiskiformanni, sem alltaf gat sagt hásetum sínum fyrir um, hvað þeir mundu fá til hlutar. En svo einn vetur segist hann ekkert geta sagt þeim. Hann segir að sig hafi dreymt, að hann væri í úlpu með fjórtán hnepslum, en hnapparnir allir skornir af. Annað gæti hann ekki sagt þeim. Skip hans fórst í fyrsta eða öðrum róðri með allri áhöfn, fjórtán mönnum.
Með þetta dularfulla veganesti héldum við til byggða.“ – M.
Heimild:
-Morgunblaðið, 22. des. 1963, Í stríði á Fagradaldsfjalli, bls. 1, 3 og 5.
Magnús Hafliðason – Fæddur 21. nóvember 1891, dáinn 17. desember 1983.
Húshólmi vanvirtur…
Fyrir u.þ.b. fimm árum tók Minjastofnun Íslands að sér að útbúa og setja upp minjaskilti í og við Húshólma f.h. Grindavíkurbæjar – á kostnað bæjarins. Húshólmi geymir einar merkustu mannvistarleifar Grindavíkur – sem og Íslands alls.
Húshólmi – fremra skiltið liggur enn niðri, eftir fimm ára aðkomu.
Sett voru upp fjögur skilti við aðkomuna að Húshólma sunnan Suðurstrandarvegar. Eitt þeirra lýsir minjasvæðinu, tvö segja frá jarðfræði svæðisins og það fjórða frá fuglalífinu.
Húshólmi – skilti.
Við uppganginn að Húshólmastíg við jaðar Ögmundarhrauns að austanverðu var sett upp eitt skilti.
Vestast í Húshólma átti að setja upp tvö skilti. Annað skiltið, er getur minjanna inni í hrauninnu skammt vestar, var sett upp. Hitt, er segir frá görðunum, sem rannsakaðir voru fyrrum og gáfu til kynna að þeir væru eldri en norræna landnámið, sem jafnan hefur verið miðað við varðandi upphaf byggðar hér á landi, fór aldrei upp, heldur var stjakað á staura og komið fyrir í holum við hraunkantinn þar sem gengið að að hinum fornu skálum, er hraunið hlífði ~1151. Þarna hefur skiltið legið óhreyft, jarðlægt, í 5 ár.
Fulltrúar Grindavíkurbæjar virðast ekki hafa hinn minnsta áhuga á að koma síðastnefnda skiltinu sómasamlega fyrir á þessu merkasta minjasvæði bæjarfélagins og Minjastofnun hefur lítið gert til að fullkomna verkið það, er stofnunin tók að sér fyrir fimm árum.
Húshólmi – jarðlæga skiltið.
Þess má einnig geta, að fjórir steinsteypustöplar, sem burðast var með inn í hólmann í hjólbörum fyrir fimm árum, og áttu að bera leiðbeiningaskilti til handa aðkomandi göngufólki að minjasvæðinu, standa enn einir og yfirgefnir á þeim tveimur stöðum, er þeim var komið fyrir á – hingað til án nokkurs tilgangs.
Segja má, með fullri virðingu fyrir starfsfólki Minjastofnunar og Grindavíkurbæjar, að framkvæmdin, eins og hún stendur núna, fimm árum eftir að hún hófst, er báðum aðilum til lítils sóma.
Fjallandi um skiltin þá tók framangreind stofnun að sér auk þess skiltagerð á Selatöngum. Burtséð frá óvaranleika skiltanna þar, sem hafa nú þegar nánast fokið út í veður og vind, má geta þess að upplýsingarnar á báðum skiltunum er verulega ábótavant. T.d. eru augljósar vitleysur á báðum stöðunum, sem eru til verulegra vansa áhugasömum þegar á hólminn er komið.
Í FERLIRsferð um miðjan ágúst 2022 var framangreint enn óbreytt.
Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.
Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.
Garðaholt – skilti
Á Garðaholti er skilti með upplýsingum um herkampana „Camp Gardar og Camp Tilloi„, sem þar voru þar á stríðsárunum. Í texta á skiltinu segir:
Garðaholt – upplýsingar á skilti.
„Sumarið 940, í beinu framhaldi af hertöku landsins, hóf breski herinn varnarviðbúnað með ströndinni frá Kjalarnesi og suður á Hvaleyri í Hafnarfirði og einnig á helstu hæðum á höfuðborgarsvæðinu og austan þess. Fótgöngulið sem gætti strandlengjunnar á Álftanesi, kom sér fyrir á austanverðu Garðaholti og stórkostaliðsflokkur setti þar upp tvær stórar loftvarnarbyssur. Á Garðaholti og beggja vegna Garðaholtsvegar, sem breski herinn lagði upphaflega, má sjá ummerki eftir hersetuna.
Skálahverfin
Garðaholt – upplýsingar á skilti.
Herflokkarnir bresku höfðust fyrst við í tjöldum en reistu síðan tvennar herbúðir, Camp Gardar norðan við Garðaveg og Camp Tilloi nokkru ofar í holtinu.
Loftvarnarbyssurnar stóðu ofan við veginn, í skógræktarlundinum þar sem Grænilundur er nú. Á holtinu má sjá leifar af loftvarnarbyssuvígjum ásamt varnarvirkjum frá stríðsárunum.
Garðaholt – Gamp Tilloi.
Bandarískt herfylki tók við vörnum Hafnarfjarðar og Álftarness í árslok 1941 og leysti breska herflokkinn í Garða-búðunum af hólmi og dvaldi þar fram á sumar 1943. Bandaríkjamenn tóku einnig við loftvarnarvirkinu í Tilloi sumarið 1942 og gættu þess fram í febrúar 1944 þegar þeir fluttu til Keflavíkur.
Að jafnaði höfðu 300 til 340 hermenn aðsetur í báðum búðum og stóðu eftir 36 braggar og níu hús af öðrum gerðum þegar stríðinu lauk. Braggarnir voru af Nissen-gerð og var grjóti og mold hlaðið upp með hliðunum til styrktar. Á þeim grunni í Camp Gardar sem er best varðveittur eru tröppur inn í húsið á tveimur stöðum.
Skilin milli búðanna eru ekki vel greinileg á vettvangi.
Skotbyrgi og skotgrafir
Skotbyrgi á Garðaholti.
Skammt norðvestur af Tilloi-búðunum eru tvö vel varðveitt steinsteypt og sprengjuheld skotbyrgi. Skotgrafir voru þar í kring til varnar byssuvíginu. Niður við sjó, þar sem bærinn Móakot stóð, er skotgröf úr torfi og grjóti. Skotbyrgi og aðrar minjar frá veru hersins í kringum Bakka og Dysjar eru horfnar, að hlyta til vegna landbrots.
Austur af búðunum eru skotgrafir með grjótveggjum.
Hernámið
Að morgni föstudagsins 10. maí árið 1940 gekk breskur her á land í Reykjavík og stóð þá ísland ekki lengur utan styrjaldarátaka stórveldanna. Hernámið, sem hlaut dulnefnið „forkur“, kostaði þó ekki blóðsúthellingar. Þýskir herir höfðu náð Noregi og Danmörku á sitt vald en íslendingar haldið fast við hlutleysisstefnu sína þrátt fyrir það og ekki viljað ganga til liðs við bandamenn.
Garðaholt – skilti við Camp Gardar og Camp Tilloi.
Winston Churchill, sem verið hafði flotamálaráðherra er varð þennan dag forsætisráðherra Bretlands, gerði að sínum hin fleygu orð að sá sem réði yfir íslandi beindi byssu að Englandi, Ameríku og Kanada. Til að koma í veg fyrir innrás Þjóðverja í Ísland ákvað hann að vera fyrri til og tryggja með því siglingaleiðir um Norður-Atlantshaf. Íslendingar mátu sjálfstæði sitt mikils og mótmæltu stjórnvöld hernáminu formlega. Fer þó ekki á milli mála að flestir voru fegnir að njóta verndar fyrir nasistastjórn Þýskalands.
Í stuttri heimsókn Churchills til Íslands árið 1941 sagði hann Hermanni Jónasyni forsætisráðherra að Bretar hefðu neyðst til að hertaka Ísland og hefðu gert það jafnvel þótt Þjóðverjar hefðu orðið á undan þeim.
Herverndarsamningur var undirritaður í júlí árið 1941 milli Bandaríkjanna, bretlands og Íslands og fól í sér að bandarískar hersveitir myndu aðstoða og síðar leysa breska hernámsliðið af hólmi“.
Garðaholt – skotgrafir.
Úlfarsfell – skilti
Á skilti við gamla bílastæðið þar sem göngustígurinn liggur upp á „Úlfarsfell“ er eftirfarandi texti:
Úlfarsfell – skilti.
„Úlfarsfell er vinsælt og aðgengilegt útivistarsvæði.
Höldum okkur á gönguleiðum og hlífum gróðri við óþarfa ágangi. Megin gönguleiðir að sunnanverðu eru frá bílastæðum við Úlfarsfellsveg.
Uppruni örnefnisins Úlfarsfell er ekki ljós en líkum hefur verið leitt að því að fellið og Úlfarsá séu kennd við Korpúlf sem bjó á Korpúlfsstöðum. Berggrunnur fellsins er frá miðbiki ísaldar, um tveggja milljóna ára gamalt berg og skiptast á hraunsyrpur sem myndast hafa á hlýskeiðum og móbergs- og jökulbergslög frá jökulskeiðum. Ekki er mikill gróður á efri hluta fellsins en í Hamrahlíð er gróskumikið skógræktarsvæði, graslendi og allstórar breiður af lúpínu.
Úlfarsfell – gönguhópur á fellinu.
Úlfarsfell mælist á Stórahnúki 295 metra hátt. Vestan í Úlfarsfelli er Hamrahlíð, þverhnípt klettabelti, sem er eitt af kennileitum þess svæðis. Þar fyrir ofan er Hákonn, útsýnisstaður í 280 metra hæð yfir sjávarmáli með útsýni til norðurs, vesturs og suðurs.
Fisfélag Reykjavíkur nýtir sér aðstæður á Úlfarsfelli til flugs sem eru góðar þrátt fyrir litla hæð.
Vegslóði liggur að Hákinn og er hann einungis fær fjórhjóladrifnum bílum. Að gefnu tilefni er vakin athygli á að akstur utan vega er með öllu bannaður á Úlfarsfelli og gildir bannið um öll vélknúin ökutæki einnig í snjó og á frosinni jörð“.
Úlfarsfell – kort.
Úlfarsfell er fjall sem staðsett er í Mosfellssveit og er það 296 metra hátt. Skógrækt hefur verið í hlíðum fjallsins og hefur Skógræktarfélag Mosfellsbæjar umsjón með ræktuninni,
Úlfarsfell í Mosfellssveit kemur hvorki fyrir í Landnámabók né fornsögum eða annálum, en Úlfarsá er nefnd í Landnámabók. Úlfarsfell er nefnt í fornu skjali, Hítardalsbók frá 1367 (Íslenskt fornbréfasafn II, 220), og í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1704 (III, 310). Nafnið er vafalítið dregið af mannsnafninu Úlfar, samanber Úlfarsá, en fjórir eru nefndir með því nafni í Landnámu.
Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58078
Úlfarsfell – útsýni.
Reykjavíkurborg kaupir fjallið Keili
Í Fjarðarpósturinum 1998 segir m.a.: „Reykjavíkurborg kaupir fjallið Keili – landakaup sunnan Hafnarfjarðar komu ráðamönnum í Hafnarfirði í opna skjöldu„:
Keilir.
„Ákvörðun Reykjavíkurborgar að kaupa hluta úr landi Þórustaða virðist hafa farið mjög leynt og kom ráðamönnum í Hafnarfirði verulega á óvart. Einn viðmælanda Fjarðarpóstsins orðaði það svo að menn hefðu komið af fjöllum eða Keili, sem mun fylgja í kaupunum.
Magnús Gunnarsson.
Bæjarstjóri, Magnús Gunnarsson, var nýkomin til landsins á þriðjudagskvöld þegar vinnslu blaðsins var að ljúka og hafði því ekki heyrt fréttirnar. Magnúsi komu þessi landakaup á óvart, þar sem hann hefði nýlega átt fund með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, borgarstjóra um málefni Jarðgufufélagsins. Magnús sagði að á þeim fundi hefði ekki verið minnst á þessi landakaup sem óneitanlega snertu málefni Jarðgufufélagsins þar sem umrædd spilda nær inn á háhitasvæðið í Trölladyngju.
Landeigendur hefðu sér vitanlega ekki boðið Hafnarfjarðabæ landið til sölu. Magnús sagði þessi landakaup snerti ekki beint hagsmuni Hafnarfjarðarbæjar þar sem Þórustaðir væru utan lögsögu bæjarins. Hins vegar mætti líta svo á að vilji ráðamanna Reykjavíkurborgar til samstarfs við þá sem land eiga að háhitasvæðinu þ.m.t. Hafnarfjarðabæjar sé undirstrikuð með þessum kaupum.
Spákonuvatn ofan Soga – Keilir fjær.
„Það er því ljóst að viðræður um nýtingu á þessu sameiginlega háhitasvæði hljóta að vera í augsýn“ sagði Magnús.
Eyjólfur Sæmundsson.
Blaðið hafði einnig samband við Eyjólf Sæmundsson sem hefur áður lagt til bærinn keypti lönd sunnan Hafnarfjarðar til þess að tryggja sér þau jarðhitasvæði sem tengjast Trölladyngjusvæðinu, til að byrja með Hvassahraun og Vatnsleysujarðirnar. Eyjólfur hefur verið formaður viðræðunefndar Jarðgufufélagsins um landakaup. „Þetta kemur mér óvart“, sagði Eyjólfur „þar sem ekkert hefur verið um þetta fjallað á þeim vetvangi sem Hafnarfjörður og Reykjavík hafa skapað til samstarfs um nýtingu á jarðhita á þessu svæði.
Ég sé þó ekki að þessi landakaup spilli neitt fyrir því samstarfi, þó vissulega hefði mér fundist eðlilegt að samráð hefði verið milli sveitarfélaganna um þessi mál.“
Í Morgunblaðinu 1998 er grein; „Keili heim“:
„Nemendur og starfsfólk Fjölbrautaskóla Suðurnesja efna til mótmælagöngu í dag, fimmtudag, við fjallið Keili á Reykjanesi. Nemendur og kennarar vi]ja með göngunni vekja athygli á því að þeir vilja fá Keili heim!
Keilir.
„Það er í umræðunni að selja Keili til Reykjavíkur og því viljum við mótmæla. Keilir er Suðurnesjabúi og við viljum alls ekki að hann fari. Keilir er aðalfjallið okkar hér á Suðurnesjum og við viljum ekki að hann verði ein af blokkunum í Reykjavík. Hvert eitt og einasta Suðurnesjabarn hefur alltaf álitið að hinir einu sönnu jólasveinar búi í Keili. Hver í ósköpunum ætlar að vera svo vondur að eyðileggja jólastemmningu Suðurnesjabarna og flytja jólasveinana til Reykjavíkur?“ segir Viktoría Ósk Almarsdóttir, ritari nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Keilir.
Farið verður með langferðabíl frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja að Keili um klukkan 10 í dag og stendur gangan til klukkan 14. Við Keili munu þátttakendur mótmælagöngunnar sýna tilfinningar sínar í garð Keilis, og þeir sem vilja geta gengið á hann. „Sumir munu klappa og kyssa Keili en aðrir munu flytja ræður og ýmsan áróður,“ segir Viktoría, sem er um þessar mundir að vekja athygli á málstað Suðurnesjabúa í Keilismálinu.“
Í Fréttablaðinu 2020 segir af Keili; „Fagurt fjall sem er fella“, grein eftir Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson:
Oddafell – Keilir fjær. Þorvaldur Thoroddsen nefnir fellið „Fjallið eina“.
„Í þýskumælandi löndum og þá sérstaklega í Ölpunum er gjarnan talað um bæjar- eða borgarfjall (Hausberg), sem flestir í Reykjavík myndu telja vera Esjuna. Annað fjall sem ekki er síður í uppáhaldi borgarbúa er Keilir á Reykjanesskaga. Hann blasir við suður af Reykjavík og sést til dæmis vel þegar keyrt er eftir Suðurgötu út í Skerjafjörð. Eins og nafnið gefur til kynna er Keilir formfagur og 379 m hátt fjallið gnæfir upp úr umhverfi sínu á miðju Reykjanesi.
Orðið keila kemur víða fyrir í íslensku máli. Þannig eru keilulaga eldfjöll sem gjósa endurtekið eins og til dæmis Eyjafjallajökull og Snæfellsjökull, kölluð eldkeilur. Keilir er ekki slík eldkeila, heldur myndaðist hann við stakt gos undir ísaldarjökli og er gerður úr móbergi. Í stærðfræði er keila notað yfir þrívítt form og rúmmál hennar táknað með R=1/3*?*h*r^2. Í augnbotni kallast taugafrumur sem skynja liti í miðgróf sjónhimnu keilur og fisktegundin keila hefur löngum verið veidd við Ísland og þykir herramannsmatur. Loks er keila vinsæl íþrótt, ekki síst í Bandaríkjunum en einnig hér á landi. Þá er reynt að skjóta niður 10 keilur með kúlu og eru tvö skot í hverri umferð. Ef tekst að fella allar keilurnar í fyrsta skoti kallast það fella en feykja ef það næst í tveimur skotum.
Keilir – handan FERLIRsfélaga.
Allir sem gengið hafa á Keili geta vottað að hann er sannkölluð fjallafella og umhverfi hans sömuleiðis. Þetta er auðveld ganga en að vetri til er skynsamlegt að taka með mannbrodda og ísöxi. Aðeins tekur hálftíma að aka að gönguleiðinni við Höskuldsvelli og er fylgt ójöfnum malarslóða frá Vatns[leysu]strandarvegi. Frá bílastæðinu tekur um það bil 45 mínútur að ganga að fjallinu og hálftíma upp fjallið.
Keilir og Keilisbörn, sem sumir nefna Hrafnabjörg.
Efst eru brekkur lausar í sér en útsýnið af hátindinum er frábært, til dæmis yfir höfuðborgarsvæðið, eldbrunninn Reykjanesskaga, Esju, Móskarðshnjúka og Hengilssvæðið. Þegar haldið er heim er hægt að stefna beint í austur yfir falleg mosagróin hraun og komast eftir kindagötum aftur að bílastæðinu. Skammt frá eru spennandi fjöll eins og Trölladyngja en einnig Spákonuvatn og litríkt hverasvæði Soganna, og auðvelt að kíkja nánar á þær perlur í sömu ferð.“
Heimildir:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.1966, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 16-17.
-Fjarðarpósturinn, 29. tbl. 07.09.1998, Reykjavíkurborg kaupir fjallið Keili – landakaup sunnan Hafnarfjarðar komu ráðamönnum í Hafnarfirði í opna skjöldu, bls. 1.
-Morgunblaðið, 216. tbl. 24.09.1998, Keili heim, bls. 14.
-Fréttablaðið, 261. tbl. 10.12.2020, Fagurt fjall sem er fella, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson, bls. 16.
Flugslys í Geitahlíð
Í Morgunblaðiðinu 1.07.1995 segir frá flugslysi í Geitahlíð; „Flugmaðurinn látinn þegar að var komið„:
Partenavia P68.
„Flugvélin TF-VEN fórst í norðanverðri Geitahlíð, skammt suður af Kleifarvatni, síðdegis í gær.
Flugmaðurinn, sem lést, var einn í vélinni. Það var fjögurra manna leitarflokkur úr Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði sem fann vélina um kl. 19.00 í gærkvöldi. Leitarflokkurinn var um kyrrt á slysstað meðan beðið varstarfsmanna loftferðaeftirlits og rannsóknanefndar flugslysa, en óskaði ekki frekari aðstoðar.
Herdísarvíkursel – byrgi refaskyttu. Geitahlíð fjær.
Að sögn leitarmanns á svæðinu er flugvélarflakið efst í fjallinu. Hann sagði leitina hafa verið erfiða, skyggni ekki nema 40-50 metrar og stundum minna og að fjallshlíðin sé brött skriða. Flokkurinn lagði upp af þjóðveginum sunnan Geitahlíðar og leitaði einn og hálfan tíma þar til komið var á slysstaðinn.
Flugvélin fór frá Reykjavík kl. 14.10 og var ferðinni heitið til Selfoss. Samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn var flugmaðurinn reyndur en ekki með blindáritun. Hann áætlaði að fljúga Krýsuvíkurleiðina suður yfir fjöll og síðan austur til Selfoss í sjónflugi. Lágskýjað var á þessum slóðum í gær og versnaði skyggnið þegar leið á kvöldið.
Síðast var haft fjarskipta- og radarsamband við flugvélina kl. 14.15 þar sem hún var stödd við Kleifarvatn og amaði þá ekkert að. Flugvélin hafði flugþol til kl. 16.10.
Slysstaðurinn.
Þegar flugvélin kom ekki fram á tilsettum tíma hóf Flugstjórn þegar eftirgrennslan. Flugvél flugmálastjórnar hóf strax leit og sama gerðu þyrla Landhelgisgæslunnar og einkaflugmenn frá Selfossi. Allar tiltækar björgunarsveitir í Reykjavík, Reykjanesi og á Suðurlandi voru kallaðar út og leituðu 400-500 manns í kringum Krýsuvík og á Bláfjallasvæðinu.
Engin merki bárust frá neyðarsendi flugvélarinnar og gerði það leitina erfiðari en ella. Leitin beindist því ekki síður að vötnum en landi. Leitarmenn fóru á bátum bæði um Djúpavatn og Kleifarvatn og kafarar voru til reiðu.
Geitahlíð.
TF-VEN var tveggja hreyfla af gerðinni Partenavia P68 og í eigu Flugfélags Vestmannaeyja. Flugvélin var nýyfirfarin og vel búin tækjum.“
Í Morgunblaðiðinu daginn eftir segir: „Orsakanna að leita í lélegu skyggni“.
„Flugmaðurinn, sem lést þegar flugvél hans fórst í norðanverðri Geitahlíð, skammt suður af Kleifarvatni, á föstudag, hét Gunnlaugur Jónsson, til heimilis að Heiðmörk 1 á Selfossi.
Gunnlaugur var þrítugur, fæddur 4. apríl 1965 og starfaði sem flugmaður hjá Flugfélagi Vestmannaeyja. Hann lætur eftir sig unnustu og einnig níu ára dóttur.
Starfsmenn loftferðaeftirlitsins og rannsóknarnefndar flugslysa fóru á slysstað efst í Geitahlíð í gær. Sveinn Björnsson, sem sæti á í flugslysanefndinni, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að á þessu stigi rannsóknar benti ekkert til að slysið mætti rekja til bilunar í tækjabúnaði vélarinnar. Hins vegar hefði verið mikil þoka og afar lélegt skyggni og líklega væri orsakanna þar að leita.“
Í skýrslu Flugslysanefndar, M-08595/AIG-07, segir m.a.:
„Slysstaður: NV-hlið Geitahlíðar við sunnanvert Kleifarvatn.
Skrásetning: TF-VEN; farþegaflug.
Farþegi: Enginn.
Dagur og stund: Föstudagur 30. júni 1995, kl. um 14:16.
Geitahlíð.
Yfirlit: Föstudaginn 30. júní 1995 var ákveðið að ferja flugvélaina TF-VEN, sem er í eigu [yfirstrikað] frá Reykjavíkurflugvelli til Selfossflugvallar. Flugmaðurinn áætlaði að fljúga sjónflug og þar sem lágskýjað var hugðist hann fljúga um Kleifarvatn suður um Reykjanesfjallgarðinn og þaðan að Selfossi. Flugtak frá Reykjavíkurflugvelli var kl. 14:09.
Síðast heyrðist í flugmanni TF-VEN kl. 14:17:25, þegar hann taldi sig vera að komast yfir fjallgarðinn. Flugvélin kom ekki fram á Selfossi og leit hófst á áætlaðri flugleið hennar. Flak flugvélarinnar fannst í norðurhlíð fjallsins Geitahlíð, sem er sunnan Kleifarvatns. Flugmaðurinn hafði látist samstundist og flugvélin gerðeyðilagðist.
Rannsókn slyssins bendir til þess, að líklegasta orsök slyssins hafi verið sú, að flugmaðurinn hélt of lengi áfram sjónflugi við versnandi skilyrði, eða þar til í óefni var komið og ekki varð aftur snúið. Flugvélin var í klifri eða lágflugi, þegar hún rakst á fjallshlíðina.
Staðreyndir: Kl. 14:16:55 spurði flugumferðarstjórinn flugmanninn hvernig gengi. Flugmaðurinn sagði þá: „Það gengur bara mjög vel, ég er kominn yfir hálsinn og það er bara bjart hérna hinum megin“.
Geitahlíð. Slysið var efst í fjallinu lengst t.v.
Slysstaður: 6352420-2200420. Flugvélin rakst fyrst á lítið barð, rétt ofan við klettabrúnina við efstu hjalla fjallsins. Flugvélin virtist hafa verið í klifri og báðir hreyflar gengið á miklu afli. Flugvélin kastaðist um 25 metra upp aflíðandi grýttan mel og stöðvaðist. Skrokkur vélarinnar lagðist saman, framendi hans vöðlaðist inn undir sig og framendinn með vængjunum var á hvolfi, en stélið var á réttum kili. Mikill eldur kom upp í flakinu og um 15o m2 svæði á jörðu, aðallega hlémegin eða til norðausturs frá flakinu, var brunnið og sótlitað.
Greining þátta: „Flugmaðurinn kom inn yfir Kleifarvatn í um 800 feta hæð yfir sjávarmáli, eða í 400 feta hæð yfir [Kleifarvatni]. Yfir vatninu var heldur bjartara að sjá, en ský voru það lítið eitt hærra yfir jörð en sunnan vatnsins og flugmaðurinn hélt sjónflugi áfram suður yfir vatnið. Skýjahæðin fór lækkandi til suðurs, mishæðir á borð við Geitahlíð voru umvafðar þoku að rótum og flugmaðurinn átti æ erfiðara með að staðsetja sig. Hann vissi að skýjatopparnir voru í 5000-6000 feta hæð. Því gaf hann hreyflunum mikið afl og hugðist klifra upp úr skýjunum, en flaug á fjallið Geitahlíð, í um það bil 320 m. (1050 feta) hæð yfir sjávarmáli – með framangreindum afleiðingum.“
Heimildir:
-Morgunblaðið, 146. tbl. 01.07.1995, Flugmaðurinn látinn þegar að var komið, bls.60.
-Morgunblaðið, 147.tbl. 0207.1995, Orsakanna að leita í lélegu skyggni, bls. 44.
-Skýrla um Flugslys, Flugslysanefnd, M-08595/AIG-07 – http://www.rnsa.is/media/4589/skyrsla-um-flugslys-tf-ven-thann-30-juni-1995-personuupplysingar-afmadar-af-rnsa.pdf
Geitahlíð.
Hafnarfjörður – Kaplakriki
Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021“ segir m.a. af Kaplakrika:
„Garðar
Kaðlakriki – álfaborg.
Skráningarsvæðið er innan lands Garða en nær þó einungis inn á örlítinn hluta þess, þannig hér á eftir verður stiklað á stóru.
Fyrstu heimildir um Garða eru frá árinu 1307 en það var skjal um rétt til rekafjöru í landi Garða: „ad stadur j Gördum a Alftanese ætte allan vidreka og hvalreka fra Ranganiogre ig (i) Leitu kvenna bása ad kalftiorninga fiouru.“
1367 var staðurinn metinn á 16 hndr. og átti kirkjan þá allt heimalandið.
Kaplakriki 1958 – loftmynd.
Í skjali frá 1558 var sagt að kirkjujörðin Hlíð var lögð til Bessastaða en Garðar fengu Vífilstaði í staðinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að Garðar væru kirkjustaður í eigu kirkjunnar. Þá var sagt að jarðadýrleiki hafi verið óviss allt til ársins 1697 en þá var staðarins getið og var hann metinn af sex mönnum sem valdir voru til matsins af prófastinum á Kjalarnesþingi og sýslumanninum í Gullbringusýslu eftir tilmælum frá amtmanninum. Staðurinn var þá virtur að 60 hndr. að dýrleika. Ábúandinn var þá Sr. Ólafur Pétursson prófastur í Kjalarnesþingi, landskuld var engin og höfðu fyrrnefndir sexmenningar áætlað að leiga fyrir jörðina væri tveir hundruðustu. Kirkjan átti 20 kúgildi, þar af voru sum þeirra í leiguburði á kirkjunnar jörðum og líka á hjáleigum í kringum staðinn.
Garðar voru með selstöðu í Kaldárseli, þar voru bæði hagar og vatnsból mjög góð. Móskurður til eldiviðar var nægur en ef þurrt var fór hann og var erfiður. Heimræði var allt árið og lending góð. Róðrar voru fengsælir þegar fisk var að fá í Hafnarfirði.
Í Jarðabók Johnsens frá 1847 fékk jörðin númerið 185 og var kirkjujörð. Dýrleikinn var 40, landskuld 2 og kúgildi 1.
Árið 1912 gaf Jens Pálsson, prófastur í Görðum, Hafnarfjarðarbæ kost á að kaupa nokkuð af því landi sem bærinn stóð á með beitarlandi fyrir 52.000 kr. og heimilaði Alþingi þessi landakaup með lögum þann 22. október sama ár. Landstjórninni veittist heimild til að selja Hafnarfjarðarkaupstaði land Garðakirkju sunnan og vestan þessara marka:
Hádegisvarða.
1. Bein lína úr Balaklöpp við vesturenda Skerseyrarmalar í veg inn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur þar sem hann fer að fara lækkandi ofan af norðurbrún hraunsins.
2. Þaðan bein lína í Hádegishól, hádegismark frá Hraunholti, nálægt í hásuður frá bænum spölkorn frá hraunjaðrinum.
3. Úr Hádegishól bein lína í Miðaftanshól sem er gamalt miðaftansmark miðað frá Vífilsstöðum; þá tekur við:
4. Urriðakotsland; þá
5. Setbergsland allt til Lækjarbotna og loks
6. Selvogsmanna- eða Grindaskarðsvegur.
Engidalsvegur aftan Fjarðarkaupa.
Árið 1927 skoraði bæjarstjórn Hafnarfjarðar á þingmenn Gullbringu- og Kjósarsýslu að flytja frumvarp á næsta Alþingi um að Hafnarfjarðarkaupstaður fengi það land sem Garðakirkja ætti í miðjum bænum. Alþingi samþykkti söluna 1928 og bærinn keypti landið árið 1930 fyrir 12.000 kr.
Ekki er vitað með vissu hvað sagan um álfaklettinn við Fjarðarhraun er gömul en það birtist frétt í Fjarðarpóstinum þann 20. ágúst 1992 sem hét „Meintir álfar fá grið“. Þar var tekið fram að Vegagerð ríkisins hafi ákveðið að leyfa klettaborginni að standa, a.m.k. á meðan hún truflaði ekki umferð um Fjarðarhraunið. Einnig var fjallað um álfaklettaborgina í bók Bryndísar Björgvinsdóttur og Svölu Ragnarsdóttur og þar var einnig tekið fram að ekki væri vitað hve gömul þessi álfasaga væri.
Landamerkjavarðan er horfin en hún mun hafa staðið á því svæði sem er aftan við verslun Fjarðarkaupa.“
FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.
Heimild:
Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VI; Kaplakriki, 2021; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-VI-Kaplakriki-2021.pdf (byggdasafnid.is)
Hafnarfjörður – örnefni.
Hafnarfjörður – Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot
Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021“ segir m.a. um Straum, Óttarsstaði og Lónakot:
„Straumur
Straumur.
Straumur var ein af svonefndum Hraunjörðum en það voru þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.10
Jónsbúð – túnakort 1919.
Jarðarinnar var fyrst getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Ström j legeko. xij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter fiske dt. Thet er jc xxx fiske.“
Næst var jarðarinnar getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að jarðardýrleikinn sé óviss, að jörðin var í konungseign og að ábúandi var Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir.
Jörðin átti selstöð sem hét Straumsel en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar.
Straumssel – selið.
Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsgerði var þá eyðihjáleiga á jörðinni sem hafði verið í eyði eins lengi og menn mundu og var ekki talið að þar yrði búið aftur vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það kæmi niður á hans eigin túni.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var jörðin sögð í bændaeign, dýrleikinn var 12 ½ , landskuldin 0.75, tvö kúgildi, einn ábúandi og var hann eigandi jarðarinnar.
Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar voru landmerki fyrir jörðina Straum:
Steinhes – (Steinhús).
Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Markhella.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str. og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krýsuvíkurlandi.
Á hina hliðina milli Straums og Þorbjarnarstað byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há-Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há-Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til að Krýsuvíkurland tekur við (Undirritað í Straumi 31. maí 1890)“.
Norðan við Straum stóðu tvær þurrabúðir, Þýskabúð og Jónsbúð.
Þýskabúð
Þýskabúð.
Þýskabúð var hjáleiga frá Straumi og dró nafn sitt af því að þýskir kaupmenn munu hafa reist kaupbúðir á tanganum við Straumsvík og verslað þar á 14. og 15. öld.
Engar minjar um þær búðir sjást þó á svæðinu í dag.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tók viðtal við Pál Hannesson, þáverandi eiganda Þýskubúða árið 1993:
Þýskabúð.
„Þýskubúð: Síðasti ábúandi Þýskubúðar hét Guðmundur (Björgúlfsson); hann átti allan Straum. Húsið var byggt 1915? (1910?), síðar innréttað og lagfært.
Tjörvi nokkur Guðmundsson bjó í Þýskubúð 1911-1912 [Innskot í texta frá SÁM: Skv. Manntalsvef Þjóðskjalasafns bjó Guðmundur Tjörfi Guðmundsson í Þýskubúð miklu fyrr(m.t. 1890 og 1901; Leigandi í Straumi í mt. 1910). J.H.].
Áður en Tjörvi var þarna byggði Björn, kallaður „þýski“ (Þýski Björn), [hús þar sem Þjóðverjar versluðu á 14. og 15. öld].
Það sem fylgir húsinu er baðstofa 11×16 álnir með steinsteyptum kjallara: frambær 6×6 álnir, líka steyptur kjallari.
Tún 2 dagsláttur (heyfang 20 hestar?); matjurtagarður.
Tóft við Þýskubúð.
Fiskimið út af Straumi: Í beina línu á Helgafell og miðja fjörumölina við tangan hjá Bala, ca. miðja víkina. (Á Bala átti bústað Loftur Bj[arnason] í hvalnum).
Þær minjar sem sjást á yfirborði við Þýskubúð eru allar seinni tíma og eru í samhengi við steypta húsið (2367-122) sem enn stendur að hluta. Í kringum húsið er að finna ýmis garðlög og matjurtagarða, naust og útihús, sem og gerði og brunn. Túngarðurinn er frekar illa farinn en hann hefur einnig virkað sem varnargarður við sjóinn og er hann þar að mestu kaffærður í fjörugrýti.
Jónsbúð
Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.
Jónsbúð var tæpum 200m norðan við Þýskubúð, sunnan við Jónsbúðartjörn, sem hefur verið vatnsból Jónsbúðar, og Markhól (2367-159) sem er sprunginn hraunhóll sem virkaði sem náttúruleg landamörk Straums og Óttarsstaða. Minjarnar við Jónsbúð eru mjög heillegar en þær hafa alveg sloppið við seinni tíma rask.
Árið 1999 gerði Fornleifafræðistofan, undir stjórn Bjarna F. Einarssonar, þrjár prufuholur í bæjartóftir Jónsbúðar og var markmið rannsóknarinnar að freista þess að ná að aldursgreina tóftina og að sjá í hvað hólfin voru notuð. Ekki fundust nægileg gögn til aldursgreiningar en rannsóknin leiddi í ljós að vestur hólfið var fjós og þaðan var gengið inn í baðstofu en algengt var að nota hita frá skepnum til þess að verma híbýli.
Jónsbúð – túnakort 1919.
Á túnakorti frá 1919 var sagt að kálgarðar væru 180m2 og að tún Jónsbúðar væru holótt og slétt, þau stæðu á klettanefi við sjó, vestur frá Jónsbúð og voru 0,2 teigar.
Jónsbúðar var ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns en vert er að minnast á að ekki var alltaf minnst á þurrabúðir jarða þó að enginn vafi sé á að þær hafi verið til staðar.
Í manntali frá 1910 var minnst á Jónsbúð sem þurrabúð í landi Straums og þar bjó hann Gunnar Jónsson, sjómaður, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau munu hafa komið til Jónsbúðar frá Meðalholti í Flóa 1882.
Í bókinni „Forðum gengin spor“ var tekið viðtal við Jón Magnússon í Skuld í Hafnarfirði:
„Síðan færum við okkur inn að Straumsvík en þar voru tvö kot, Jónsbúð og Þýskubúð. Þar voru Jón í Jónsbúð og Gunnar í Þýskubúð. Þessi kot voru búin að vera um tíma í eyði áður en þessir menn komu þangað. Þeir voru orðnir fullorðnir þegar þeir komu að þessum kotum og ég man eftir þeim en ég kynntist þeim mjög lítið. Þeir voru með nokkar kindur.“
Jónsbúð – brunnur.
Í skýrslu sinni velti Bjarni því upp að Jón þessi í Jónsbúð gæti hafa verið síðasti íbúi Jónsbúðar en að búðin hafi greinilega ekki verið kennd við hann. Hann sagði einnig að líklegt væri að búðin hafi borið ýmiss nöfn í gegnum árin, stundum eftir ábúendum og stundum eitthvað annað, en dæmi um það eru vel þekkt. Hann sagði einnig að Jónsbúð hafi ekki verið lengi í eyði áður en Jón byggði upp kotið, en algengt var að kot og smábýli hafi verið í eyði í smá tíma á milli íbúa.
Jónsbúð – bæjarstæðið (BE).
Bæjarstæði Jónsbúðar er mjög heillegt og eru bæjarrústirnar vel greinanlegar sem og matjurtagarðurinn áfastur þeim. Rétt framan við bæjarrústirnar er vörslugarður en hann hefur verið til þess að beina búfénaðnum inn í fjósið. Fast NV við bæjarrústina er hjallur og túngarður umhverfis túnið. Útihús er áfast vestur hlið túngarðsins og er mögulega fjárhús sbr. viðtalið við Jón Magnússon.
Það er brunnur í Jónsbúðartjörn norðan við bæjarrústirnar og lághlaðin brú að honum en vatnsstaða tjarnarinar stjórnast af sjávarföllum.
Óttarsstaðir
Óttarsstaðir efri.
Óttarsstaðir er jörð í hinum svonefndu Hraunum í landi Hafnarfjarðar. Þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum voru nefndar áður einu nafni Hraunjarðir. Þetta voru jarðirnar Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot. Jörðin Hvassahraun var ein af Hraunjörðunum en hún var í Vatnsleysuhreppi. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550.
Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1837-1839.
Óttarsstaðir – túnakort 1919.
Elsta heimild um Óttarsstaði er frá 1379 í vitnisburði Kára Þorgilssonar og tveggja annara manna um máldaga og reka kirkjunnar í Viðey frá Koleinsskor og inn að Hraunnessvötnum í millum Hvassahrauns og Óttarsstaða. Þar segir: „Svo felldann vittnisburd bervm vier kare þorgilsson, jon oddzson oc olafur kodransson, at vier hofvm heyrt lesinn maldagann j videy advr en kirkiann brann, oc firnefndur olafur kodransson las hann sialfur, at kirkiann j videy ætti fiordv hvoria vætt vr hval hvar m land kæme fra kolbeinsskor oc in at hravnnes vottvm j millvm hvassaravns oc ottastada nema kæme æ kalfatiarnar reka þeim frateknvm j millvm markkeltz oc nyia garda. hier epter villivm vier sveria ef þvrfa þycker. anno domini Պ iijc. lxxix ar.“
Einnig er sagt frá Óttarsstöðum í bréfi frá 9. september 1447 en það var bréf um jarðaskipti Einars Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey fyrir hönd klaustursins. Einar mun hafa keypt jarðir í Húnaþingi og selt jarðir á Vatnsleysuströnd til Viðeyjarklausturs og 10/100 í Óttarsstöðum.
Óttarsstaðir eystri.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Óttarsstaða hafi verið óviss og að jörðin var í konungseign. Landskuldin var 500 álnir sem greiddist með sex vættum og tveimur fjórðungum fiska í kaupstað síðan leigan var hafin en áður greiddist hún til Bessastaða. Ábúandinn, Guðmundur Guðmundsson, lagði við til húsabóta. Kúgildi jarðarinnar voru þrjú og greiddust leigur í smjöri heim til Bessastaða eða með fiski í kaupstað, ábúandinn uppyngdi kúgildin sjálfur.
Óttarsstaðasel – tilgáta.
Útigangur var í betra lagi, ef ekki var um hörkuvetur að ræða, kvikfénaður var fimm kýr og einn hestur. Túnið gat fóðrað fimm kýr en hafði verið í órækt og var úr sér gengið. Heimilismenn voru átta og sóttu þeir sér skóg til kolagerðar og eldiviðar í almenning greiðslulaust. Lyngrif var nýtanlegt, aðallega til eldkveikju, lítil rekavon, sölvafjaran nægði heimilisfólki og hrognkelstekja í lónum var vel nýtt. Heimræði var á Óttarsstöðum árið um kring og var lendingin í meðallagi. Jörðin átti tvær selstöður, eina í almenningi og voru hagar þar góðir en gat orðið vatnslaust á þurrum sumrum, hina í Lónakotslandi á móts við uppsátrið sem Lónakotsmenn fengu að nota í landi Óttarsstaða. Búfénaður fórst oft í gjám í hrauninu, sérstaklega á veturna þegar snjór lá yfir hrauninu. Torfstunga var svo gott sem engin til heyja, þaks og húsa. Tvær hjáleigur voru á Óttarsstöðum, báðar ónafngreindar í Jarðabókinni. Önnur var um sextíu ára gömul þegar Jarðabókin var skrifuð en hin eldri en elstu menn mundu.
Óttarsstaðir eystri – meintur kirkjugarður fremst.
Í Jarðatali Johnsen frá 1847 fékk jörðin númerið 163, Óttarsstaðakot 164, og var jörðin í bændaeign, dýrleikinn var 20 ⅙, landskuldin 1,5, kúgildin 3 og ábúendur 1 eigandi að jörð og 1 leiguliði.
Á túnakorti af Óttarsstöðum og Óttarsstaðakoti frá 1917 var sagt að tún væru holótt og grýtt, þó að miklu slétt og sléttuð. Túnin voru samtals 5,4 teigar og kálgarðar voru samtals 2650m2.
Í örnefnaskrá Óttarsstaða var gerð ítarleg lýsing á bæjarstæðinu:
Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.
„Löngum var tvíbýli á Óttarsstöðum. Voru býlin nefndi Efri-Óttarsstaðir eða Vesturbær og Neðri-Óttarsstaði eða Austurbær. [í dag eru bæirnir helst þekktir sem Óttarsstaðir-Vestri og Óttarsstaðir-Eystri]. Bæirnir stóðu á Bæjarhól, nokkuð vestarlega í túninu. Vesturbærinn stendur ennþá, en Austurbærinn var rifinn fyrir aldamót. Var þá byggt nýtt hús nokkru austar og neðar í túninu, en gömlu bæjartóftirnar notaðar fyrir fjós og hlöðu. Túnið á Óttarsstöðum var allstórt og var því deilt milli bæjanna í Vesturbæjartún og Austurbæjartún. Kringum öll túnin var hlaðinn tvístæður túngarður, feiknamannvirki.
[…] Rétt austur af húsinu, sem nú er á Neðri-Óttarsstöðum, var Eyðikotið [Óttarsstaðakot], þurrabúð frá Óttarsstöðum. Það fór í eyði fyrir 30-40 árum, en bærinn stendur enn og er notaður sem sumarbústaður.
Óttarsstaðir eystri – eldhús.
Niður við Óttarsstaðavörina var önnur hjáleiga eða þurrabúð, nefnd Kolbeinskot. Kot þetta fór í eyði rétt eftir aldamót. […] Vestur af Eyðikotinu var djúpt jarðfall, Eyðikotsker eða Kerið. Neðst í því var hlaðinn brunnur, og var vatnið jafnan tekið þar. Alltaf fylltist þetta af snjó á veturna. Hleðslan í brunninum sést enn. Frá Kerinu lá Brunnstígurinn heim til bæjar. Eyðikotinu tilheyrði sérstök vör, Eyðikotsvör, og lá svokölluð Sjávargata frá kotinu að henni.
[…] Skammt frá Eyðikotinu, til hægri handar, þegar vestur var farið, var hóll sem hét Litlakofahóll. Vestan í honum var kofi, sem kallaður var Litlikofi eða Tótukofi. Þórunn nokkur, systir konunnar á Óttarsstöðum, hafði kindur í þessum kofa. […] Rétt norður af Neðri Óttarsstöðum er lágur rani. Á endanum á honum er smátúnblettur með grjóthleðslu í kring. Er þetta nefnt Rúnugerði […] Rétt austur af Rúnugerði er nokkuð stór hóll, sem kallaður var Fiskhóll. Uppi á þeim hól hafa verið breiðir grjótgarðar, sem enn sést vel móta fyrir, og þar hefur verið þurrkaður fiskur í gamla daga. […] Lengra vestur í túninu og nær sjónum voru fjárhús. Nefndist það efra Torfhús, en það neðra Langbakkahús. Langbakkahús var rifið, svo að veggir einir stóðu eftir, en þeir fóru alveg í stórflóði, líklega 1957.
Rétt fyrir ofan sjávarkampinn var hlið á vesturtúngarðinum, nefnt Fjárhlið, því að féð rann þar í gegn. Rétt fyrir sunnan hliðið var feiknamikið fjárgerði. Þaðan lá götuslóði frá báðum bæjum. […]Smiðjubali var rétt austur af kálgarðinum á Efri-Óttarsstöðum. Þar á að hafa verið smiðja.
Brunnurinn á Efri-Óttarsstöðum var alveg í horninu á kálgarðinum, smáspöl frá bænum. Þangað lá gata, sem kölluð var Brunngata. Í gamla daga var þetta hlaðin steinstétt, en er nú gróin upp.
[…]Í túninu á Neðri-Óttarsstöðum, alveg við mörkin, var kofi, upphaflega smiðja, seinna hesthús. Rétt austur af tóftinni eru þúfur miklar, og töldu menn, að þar væru leiði.
Óttarsstaðir 1950.
Skúli Magnússon landfógeti sagði í Chorographica Islandica að á Óttarsstöðum ætluðu sumir að hafði verið bænhús og í Örnefnalýsingu sagði að „Rétt norðan við Álfakirkju eða Stólpa var talið að verið hafi Kapella. Óttarsstaðakapella. Jafnvel Kirkja og austan eru þúfur miklar, nefnast Kirkjugarður.“
Ekki finnast aðrar heimildir um kirkju eða kapellu á Óttarsstöðum og er frásögn Skúla sú eina sem til er.
Árið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nýta sér forkaupsrétt á öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar og var jörðin Óttarsstaðir þar á meðal.
Óttarsstaðir hafa að mestu sloppið við allar nútíma framkvæmdir og þar er að finna nánast ósnert menningarlandslag. Vegna þessa er svæðið frekar vinsælt útivistarsvæði í dag.
Lónakot
Lónakot – túnakort 1917.
Lónakot er jörð í hinum svonefndu Hraunum í landi Hafnarfjarðar. Þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum voru nefndar áður einu nafni Hraunjarðir. Þetta voru jarðirnar Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot. Jörðin Hvassahraun var ein af Hraunjörðunum en hún var í Vatnsleysuhreppi. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1837-1839.
Elsta heimildin um Lónakot er í fógetareikningum frá 1547-1548 en þar sagði: „Item met Lonakot en legeko. landskyld iij vetter fiske oc ij lege en vet fiske dt. oc ij landskyldt iij vether fiske dt. thet er jc lxxx fiske.“ Lónakot kom fram í öllum fógetareikningum frá 1547 til 1553.
Lónakot – bærinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Lónakots sé óviss, því jörðin tíundaðist engum, og jörðin var í konungseign. Landskuldin var xl álnir sem voru borgaðar með átta tunnum af kolum heim til Bessastaða allt til þess að Andres Ívarsson varð umboðsmaður á Bessastöðum, þá kvartaði ábúandinn, Sigurður Oddleifsson, um að skógurinn í almenninginum væri svo foreyddur að hann treysti sér ekki að safna kolviði til landskuldargjaldsins. Eftir það var landskuldin greidd með tveim vættum fiska í kaupstað. Kvikfénaður var tvær kýr, tvær kvígur mylkar, ein tvívetra, hin þrívetra, tólf ær, fimm sauðir veturgamlir, sjö lömb, einn hestur og eitt hross. Túnin gátu fóðrað þrjár kýr og heimilismenn voru fimm. Jörðin átti selstöðu í eigin landi, Lónakotssel, og voru hagar þar góðir en stórt mein af vatnsskorti þegar það var þurrkur. Jörðin notaði rifhrís til kolagerðar og eldiviðar og jafnvel til að fóðra nautgripi um vetur, torfrista og stunga var í lakasta lagi og varla nýtanleg, lyngrif var nokkurt og var notað til eldiviðar og stundum til að fóðra sauðfé í heyskorti. Fjörugrastekja var nægileg heimilismönnum, rekavon var lítil, sölvafjaran hjálpleg, hrognkelsfjaran gagnleg en skelfiskfjara naumleg og erfiðissöm til beitu. Ekki var heimræði á Lónakoti því engin almenninleg lending var á jörðinni og hafði ábúandinn skipsuppsátur á Óttarsstöðum.
Lónakot – minjar.
Í Jarðatali J. Johnsen frá 1847 fékk Lónakot númerið 162 og var í bændaeign. Dýrleiki jarðarinnar var 10, landskuld var 0,4, kúgildið 1 og ábúendur einn eigandi.
Á túnakorti af Lónakoti frá 1917 töldust túnin vera 0,9 teigar (sléttir) og kálgarðarnir voru 500 m2. Þar kom einnig fram að sjór og sandur gekk yfir lágan tún-/varnargarðinn á stórflóðum.
Lónakot.
Í örnefnaskrá Lónakots, sem Gísli Sigurðsson skráði, var sagt að Lónakot hafi verið í eyði síðan um 1930. Í skránni er einnig ítarleg lýsing á bæjarstæðinu og svæðinu í kring: „Lónakotsbærinn stóð á Bæjarhólnum, sem var sprunginn klettur, því sem næst í miðju Lónakotstúni, sem skiptist í Austurtún, Norðurtún og Vesturtún, öðru nafni Seltún. Túnið lá innan Lónakotstúngarðs, en hann skiptist aftur á móti í suðurtúngarð með suðurtúngarðshliði, en þessi hluti túngarðsins lá um nyrztu hólma og granda Lónakotsvatnagarða, sem eru hólmar og lón í suðsuðaustur frá bænum, með fersku vatni jafnarðarlegast. Austurtúngarður lá á austurkanti túnsins frá einu lónanna um Krumfót, sem er klapparhóll, er einnig nefnist Vökhóll og Sönghóll. […] Sunnanvert við Krumfót var syðra túngarðshliðið, en norðan Krumfótar var nyrðra túngarðshliðið. Garðurinn lá frá Krumfæti út að Norðurfjárhúsi, en frá því lá norðurtúngarðurinn eða sjóvarnargarðurinn á sjávarbakkanum, vestur eftir með norðurtúngarðshliði, sem var vestarlega á garðinum og þar rétt hjá tóft, Hliðsbyrgið.
Lónakot – Norðurfjárhúsið.
Á vesturkant túnsins var vesturtúngarður eða Seltúnsgarður. […] Suðurtjörnin lá aftur á móti sunnan við Bæjarhólinn og þar í brunnurinn, en frá bænum lá Brunnstígurinn niður á Brunnstéttina, sem lá út í tjörnina að brunninum, sem var niðurgrafinn í mjúkan leirbotninn.
Í Vatnagarðahelli.
Lónakotsvatnagarðar, hólmarnir og lónin suðsuðaustur frá Lónakoti, voru einnig nefndir Vatnagarðar eingöngu, Lónin, Lónakotslón, Hólmarnir, Lónakotshólmar, og syðst í Vatnagörðum er Vatnagarðahelli eða Vatnagarðafjárskjól, sem eiginlega liggur í landi Óttarsstaða, og nokkrar tjarnanna.
Þegar haldið var suður út af suðurtúngarðshliði, var þar við Lónakotsselsstíginn, sem seinna varð Lónakotsvegur, alldjúp gjóta, sem nú er fyllt með grjóti, Yrðlingabyrgi. Þar ól Hallgrímur Grímsson, bóndi í Lónakoti um aldamótin 1900, upp tófuyrðlinga. Byrgið er um 30 metra frá túngarðshliðinu. Suður frá því er svo Lónakotsréttin. Austur þar frá, á vinstri hönd við Lónakotsstíginn, er þúfnakargi með fjárhúskofa og kallast hér Kotið, einnig Dys í Koti.
Lónakot – Dys í Koti.
Austar þar var Kotagerði, fjárgerði. Allt lá þetta vestan hólma Vatnagarðanna. Sagnir voru um, að upphaflega hafi Lónakotsbærinn staðið þarna. Umhverfis þennan þúfnakarga var Kotagarðurinn, hlaðinn, einfaldur grjótgarður. Nokkru lengra upp í hrauninu var Hádegishæð, eyktarmark frá Lónakoti.“
Árið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nýta sér forkaupsrétt á öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar og var jörðin Lónakot þar á meðal.
Flestar þær fornleifar sem skráðar voru á jörð Lónakots tengjast bænum og landbúnaði með einum eða öðrum hætti. Helst ber að nefna bæjarrústirnar sjálfar sem eru mjög heillegar. Í bæjarrústunum eru sjö hólf, þar af er nyrsta hólfið niðurgrafin hlaða og næst syðsta að öllum líkindum eldhús eða baðstofa, þar er að finna leifar af steyptum reykháf.
Lónakot – brunnur.
Túnið við Lónakot hefur fengið að kenna á ágangi sjávar og liggur fjöldinn allur sjóbörðum steinum yfir því og varnargarðurinn er horfinn að miklu leyti. Útihúsin eru þó nokkuð heilleg og er þar kannski helst að nefna Norðurfjárhúsið, sem er í norður enda túnsins, og Yrðlingabyrgið, sem er u.þ.b. 100m SV við bæjarrústirnar en þar ól Hallgrímur Grímsson, bóndi í Lónakoti um aldamótin 1900, upp tófuyrðlinga fyrir feldinn.“
FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.
Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar V; Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot, 2021; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-V-Straumur-Ottarsstadir-og-Lonakot-2021.pdf (byggdasafnid.is)
Vatnagarðahellir.
Fiskibyrgi og fiskigarðar
FERLIR hefur tekið saman myndir af nokkrum fiskibyrgjum og fiskigörðum á Reykjanesskaganum. Um eru að ræða merkar minjar frá fyrri tíð – órjúfandi hluti sjósóknar allt fram á miðja 20. öld.
HÉR má sjá myndasafnið.
Fiskbyrgi í Strýthólahrauni.