Í Faxa árið 1967 ræddi Hallgrímur Th. Björnsson við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára gamla sækempu, um „Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum„. Skipið, sem strandaði, var hið sögufræga Jamestown:
„Fyrir tveimur árum, eða nánar til tekið í jólablaðinu 1965, birtist hér í Faxa langt og fróðlegt viðtal við hinn háaldraða sægarp og heiðursmann, Friðrik Gunnlaugsson, sem nú er langt til búinn að klifa sitt 95. aldursár. Sagði hann þar nokkuð frá aldamótaárunum í lífi þjóðarinnar, sjómannsferli sínum og samskiptum við ýmsa merka menn, t. d. Eldeyjar-Hjalta og brezkan togaraskipstjóra.
Nú á dögunum leit ég inn til Friðriks til að fræðast af honum um merkisatburð, sem skeði í Höfnum á bernskudögum hans þar, fyrir 85 árum, þegar hið mikla timburflutningaskip strandaði þar. Sótti ég furðu vel að gamla manninum, sem hafði lagt sig fyrir með reykjarpípuna sína og las í bók. Friðrik mun eini núlifandi Íslendingurinn, sem sá þenna atburð.
— Er þér þetta enn í fersku minni, Friðrik?
— Já, ég held ég muni það eins og það hefði skeð í gær, þó ég væri þá aðeins á 10. árinu.
— Á hvaða árstíma gerðist þetta?
— Það var um vorið, um vertíðarlokin.
Hafnir og nágrenni – kort,
Tíðin hafði verið góð, en í Höfnum hafði þá verið alveg fiskilaust. Ég man, að daginn áður en skipið strandaði voru vertíðarlok og vermenn því allir farnir. Aðeins 1 var á sjó, Marteinn Ólafsson í Merkinesi, sem var á stóru 6 manna fari. Piltar hans voru enn ófarnir.
Merkines fyrir sunnan Hafnir.
Þennan dag hafði hann farið í Röstina til að fá lúðu og þar höfðu þeir komið auga á þetta stóra skip, sem þeir þá héldu að væri herskip eða eitthvað svoleiðis. Þeir ályktuðu þetta vegna stærðar skipsins, en það var nokkuð úrleiðis þeim stað, sem þeir voru að fiska. Jæja, svo um nóttina rauk hann upp á vestan, og um fótaferðartíma kemur þessi stóri barkur siglandi alveg beint undan vindinum og heldur áfram upp í klettana fyrir austan Þórshöfn, sem er í Miðneslandi.
— Og þið hafið séð þetta greinilega úr Höfnum ?
— Já, ég held nú það. En það sást ekki frá Stafnesi, né bæjunum þar í kring.
— Geturðu nokkuð lýst skipinu, stærð þess og lögun?
Skip líkt Jamestown.
— Þetta var þrímastra skip, afskaplega skelfing stórt. Gæti ég helzt líkt því við m. s. Gullfoss, eins og hann er núna.
Ósar – herforingjaráðskort 1903.
Þegar skipið strandaði, hrökk í sundur toppstöngin af miðmastrinu. Var þá kominn það mikill hroði, að enginn treysti sér að fara út, til að grennslast eftir, hvort fólk væri á skipinu. En það var ekki hægt að sjá úr landi, þar sem skipið hafði lenzað undan. Var nú farið út fyrir á Skotbakkanum, sem svo er kallað og fékk ég að vera þar með. Komumst við út í urðina fyrir austan Þórshöfn, en þaðan var stutt á strandstað. Við höfðum kíkir meðferðis og með honum sáum við vel át í skipið. Þar sást enginn maður, hvorki lífs né liðinn, það er greint varð. Svo komum við úr þessari könnunarferð og var þá sent til Reykjavíkur að láta vita um atburðinn.
— Hvað var þá langt um liðið frá því skipið strandaði?
— Aðeins stundarbil, meðan við skruppum út í urðina. Þegar svo veðrið batnaði, komu sendimenn úr Reykjavík og var þá farið út í skipið til að rannsaka það og innihald þess.
— Þú líktir skipinu áðan við Gullfoss, Friðrik. Hefurðu nokkrar tölur við að styðjast um stærð þess?
Séra Sigurður B. Sívertsen. Hann var sonur hjónanna Brynjólfs Sívertsens (Sigurðssonar) prests á Útskálum (áður dómkirkjuprests í Reykjavík) og Steinunnar Helgadóttur konu hans.
— Sjálfur hefi ég það ekki. En það vill nú svo vel til, að í Suðurnesjaannál, frá þessum tíma, eftir sr. Sigurð B. Sívertsen, prest að Útskálum, er að finna allnákvæma lýsingu á skipinu. Þar segir: „en svo var allt stórkostlegt á tröllskipi þessu, að allri furðu gegndi, og svo að menn hefðu eigi trúað, ef menn hefðu eigi séð. Eftir því, sem ég hefi komizt næst, var lengd þessa skips 128 álnir, og á breidd 27 álnir (allt að 30 álnir).
Möstrin tveir feðmingar á digurð, akkerin á að gizka, hvert af þremur 100 skippund, eða 3000… Hið fjórða var lítið. Hver hlekkur í akkeriskeðjunni var 1 fjórðungur. Káetan á efsta þilfari var svo stór, að rúmað gat 200 manns til borðs. Mátti sjá, að húsið hefir í upphafi verið mjög skrautlegt, en rúið og ruplað hefir það verið öllum húsbúnaði að innan. Aðeins mátti sjá, að í því hafi verið 12 smærri herbergi, en milligerð öll brotin. Dýpt skipsins frá efsta þilfari allt að 20 álnir. Segl voru engin, en þau slitur af þeim, sem fundust, og kaðlar var allt fúið. Samt er óvíst, hve lengi það hefir verið í sjó eða hvenær því hefir borizt á. En að því var komizt, að skipið hefir verið frá Boston í Ameríku, og heitið þar „James Town,“ sem líka er staðarnafn allnærri Boston. Skipið var fermt eintómum plönkum af allri lengd, en svo var í það raðað eða frá gengið og skorðað, að járnkarla þurfti að nota til að losa um það.“
Hestaklettur. Hafnir í bakgrunni.
— Þetta er nú orðin all nákvæm lýsing á skipinu, en getur þú sagt mér, Friðrik, hvaða skýring var á því gefin, að skipið hafði verið rænt og rúið öllu skrauti sínu og húsbúnaði og hvers vegna það rak mannlaust að landi?
Hafnir – Ankeri Jamestown; minnismerki.
— Okkur var sagt, að stýrisútbúnaður þess hefði bilað með einhverjum hætti og áhöfninni verið bjargað í annað skip. Eftir það hafi skipið borizt um hafið fyrir vindum og straumi og þannig legið opið og varnarlaust fyrir óvönduðum ævintýramönnum, sem áttu leið fram hjá því, enda var þar sjón sögu ríkari, eins og framanskráð ber með sér.
— Hvað er talið að timbrið í skipinu hafi verið mikið?
— Sé það rétt, sem ég hefi heyrt, að úr efstu lestinni hafi komið yfir 15.000 plankar, sem ég tel ekki vera of reiknað, og hafi svipað magn verið í hinum lestunum, hvorri fyrir sig, þá lætur nærri, að alls hafi í skipinu verið 45—50 þúsund plankar og annað timbur. Þetta er vitaskuld bara ágizkun mín, en ég hygg samt, að þetta geti látið nokkuð nærri.
— Svo að við víkjum aftur að sjálfu skipinu, Friðrik, var þetta tréskip?
— Já, og allt eirslegið í sjó niður. Á dekki þess voru 2 ákaflega stórir salir og fannst þar mikið af barna- og kvenfatnaði, sem þótti benda til, að um borð í skipinu hafi búið fjölskyldur, foreldrar með börn sín.
— Þóttu ykkur ekki ljótar fregnirnar um ófarir þessa mikla skips og ránin þar um borð?
Strandið – auglýsing.
— Jú, fólki blöskraði slíkt athæfi. En á þessu lék aldrei neinn vafi, enda höfðu ýmsir farmenn héðan bæði haft spurnir af þessu mannlausa skipi og jafnvel komið í það sjálfir, á leið sinni milli landa. Þeirra á meðal var Petersen, skipstjórinn á Ástu frá Duus, sem hingað kom alltaf á sumrin frá Þórshöfn, að taka fisk.
Ankeri Jamestown við Sáðgerði í Sandgerði.
— Lenti skipið upp í kletta, þegar það strandaði ?
— Nei, ekki alveg. Það rann þar upp að klöpp og sneri þá stafninum hér um bil í landsuður, en hinum endanum í útnorður. Þannig lá það meðfram klöppinni, og hafa þá verið um 30 faðmar frá skipinu að henni, og hallaðist það þá lítið eitt til suðurs í stjórnborða.
— Víkjum nú aftur að söguþræðinum, Friðrik. Við vorum þar komnir, sem rannsókn hafði leitt í ljós, að farmur skipsins væri timbur og aftur timbur. Hvað gerðist svo næst?
— Yfirmenn úr Reykjavík voru sendir suður, sem skyldu hafa umsjón með uppskipuninni. Einn þessara yfirmanna hét Sigurður og var járnsmiður. Þótti hann vera mjög orðljótur og harður við lærlinga sína og hlaut af því viðurnefnið Siggi svínabezt. Svo var það einhvern tíma, að alls ókunnur maður, sem aðeins hafði heyrt hann kallaðan þessu nafni, þurfti að finna hann og kom heim til hans og spurði í fáfræði sinni konu hans, hvort Siggi svínabezt væri heima. Konan varð ókvæða við og byrjaði að skamma manninn, sem þá fljótlega áttaði sig, baðst afsökunar á mismæli sínu og kvaðst hafa verið að spyrja eftir Sigurði, sem smíðaði bezt. Hafði þá allt viðhorf eiginkonunnar til málanna breytzt til hins betra og hún boðið manninum til stofu, að þiggja hjá sér góðgerðir.
— Já, þetta hefir verið býsna úrræðagóður náungi. En segðu mér, Friðrik, hvað var svo gert við timbrið?
Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum.
— Það var verið að skipa því upp allt vorið og allt sumarið, bæði þarna út frá í Hvalvíkinni og einnig suður í Kirkjuvogi. Uppskipunin í Hvalvík gekk fremur seint, því að þangað var ekki unnt að koma skipum, vegna mikils aðgrynnis, nema á hásjávuðu, en þá var líka burðurinn upp enginn. Meðal þeirra, sem skipuðu upp suður í Kirkjuvogi, var t.d. Ketill heitinn í Kotvogi, sem lét sína menn annast þetta verk. Einn þeirra man ég að var sonur hans, Ólafur. Öllu timbrinu var þar skipað upp fyrir neðan Kotvog með háum sjó og eins í Vörina, því að þar var örstutt að bera varninginn upp. Ég minnist þess, að það voru býsna stórir búnkar af timbri, sem þar komu á land. Þeir, sem við uppskipunina unnu, áttu að fá helming timbursins, eða andvirði þess, fyrir vinnu sína, enda lögðu þeir til mennina og bátinn, sem skipað var upp á. Nú, nú, þegar svo fór að lækka í fyrstu lestinni, var sett stórt gat á stjórnborðssíðu skipsins og timbrið rétt þar út. Að þessu var hinn mesti flýtisauki, enda komu nú margar skútur, sem lögðust hver af annarri að skipshliðinni og var timbrinu þá skipað út í þær um þetta gat, sem var mjög fljótlegt. Var verið að skipa út í þessar litlu skútur dag eftir dag, en þær voru frá 20—30 tonn að stærð. Timbrið var flutt í Hafnarfjörð, Reykjavík og víðs vegar hér um Suðurnes.
Kotvogur.
— Og selt þá jafnóðum?
— Það tel ég ekki ósennilegt, þó ég viti það ekki. En það veit ég, að þeir fengu viðstöðulaust að fylla skipin, sem báru lítið, og hefir þá sjálfsagt verið vitað, hvað í þau fór, og þannig verið hægt að fylgjast með því, sem hver og einn tók.
— Ætli yfirstjórn þessara mála hafi ekki verið í höndum amtmanns og viðkomandi konsúls?
— Það tel ég sennilegt.
Jamestown – opinber auglýsing um strandið.
— Unnuð þið Hafnarmenn ekki fyrst og fremst við þessa uppskipun?
— Jú, að sjálfsögðu allir, sem til einhvers voru nýtir. Ég kom þar hvergi nærri, sakir bernsku minnar. En svo var mikið af timbrinu, Hallgrímur, að þegar þessi uppskipun hafði staðið langt fram á sumar, var ekki nærri búið allt úr fyrstu lestinni. Hér vil ég geta þess, að önnur af þeim akkeriskeðjum, sem til náðist, var anzi mikið flókin og ekki unnt að greiða hana. Hin var alveg greið og var neðri endi hennar fastur í botni við kjölsvínið. Með þessari keðju var akkerið látið falla, til þess að festa skipið, að það ekki gæti tekið út. En eftir því sem skipið léttist og hækkaði í sjó, kom það náttúrlega ennþá hærra og nær klöppinni. En svo gerir hann þetta ofsa, óskapa veður á vestan í septembermánuði, og var flóðið eftir því mikið. Þá klofnaði skipið í tvennt og voru þá tvær lestarnar eftir ósnertar, og eins og fyrr segir, nokkuð í hinni þriðju. Jæja, þegar skipið var klofnað, flutu síðurnar upp og rak aðra í tvennu lagi upp í Einbúa, sem svo er nefndur, en hin á tangann, rétt hjá Skotbakkanum, og var hún í heilu lagi. En kjölsvínið lenti á skeri, sem er rétt norðan við Hestaklettinn og brotnaði þar.
Mörgum árum síðar fórum við oft og tíðum þangað í beitifjöru, með Bjarna heitnum Guðnasyni. Í einni þeirri ferð fundum við endann á keðjunni upp við skerið og skírðist þetta þá nokkuð fyrir okkur. Annars hefði endinn sennilega aldrei fundizt og enginn þá vitað neitt um afdrif keðjunnar. Nú, nú, þetta varð svo til þess, að Bjarni keypti „sjóboðið,“ sem svo var kallað, fyrir 2 krónur.
Hafnir.
— Hvað fólst í þessu sjóboði?
— Allt það úr skipinu, sem enn var ekki komið í land. En eins og ég gat um, fundum við keðjuna mörgum árum eftir strandið.
— En þú hefir enn ekki sagt mér, hvað varð um timbrið úr tveimur neðri lestunum, Friðrik?
— Þegar skipið brotnaði, barst það upp um allar fjörur og lá þar í hrönnum um alla ströndina, alla leið inn í Djúpavog.
Ásláksstaðir – byggðir úr timbri Jamestown.
— Það var sem sé ekki með í sjóboðinu?
— Nei, alls ekki. Í sjóboðinu fólst einungis vonin um eitthvað, sem ekki hefði rekið á land, væri það þá nokkuð. Enda var sjóboðið í þessu tilviki eins og ég sagði, slegið Bjarna á 2 krónur, sem náttúrlega var engin fjárhæð.
— Hann hefir þá séð sér leik á borði, þegar hann fann keðjuna?
— Já, það er rétt. Og eftir að hann þannig var orðinn eigandi sjóboðsins og þar með keðjunnar, fór þetta að fréttast.
Þorvaldur Bjarnason í Hafnarfirði, ættaður úr Höfnum, faðir Herdísar leikkonu, heyrði um keðjufundinn. Fékk hann áhuga á málinu og keypti vonina í keðjunni af Bjarna. Fékk hann Þorbjörn Klemenzson í lið með sér, en hann var þá einnig búsettur í Hafnarfirði. Hafði Þorvaldur samið við Vestmannaeyinga, um að þeir keyptu af honum keðjuna, ef honum tækist að ná henni upp. Strax þá um sumarið hófust þeir félagar handa við björgunarstarfið. Útbjuggu þeir stóran fleka, sem hvíldi á 8 olíufötum, settu á hann sveifarspil og fleira, sem að gagni mátti verða. Síðan fóru þeir á hverri fjöru og sveifuðu upp það sem þeir gátu, en hitt reif flekinn upp sjálfur, þegar hækkaði í sjónum, því að hann hafði verið rammlega festur við keðjuna.
Í byrjun desember 2018 var vígt við anddyri Safnahússins minnismerki um síðustu og um leið öflugustu botnfestar sem lagðar voru á botni Vestmannaeyjahafnar árið 1920. Theódór S. Ólafsson, vélstjóri og fyrrv. útgerðarmaður hafði frumkvæði að verkinu. Keðjan er frá strandi Jamestown.
En svo lásuðu þeir alltaf jafnóðum frá hvern lás, sem var 15 faðmar, og fóru með þá hvern um sig upp á Hestaklettinn og geymdu þar. Þannig höfðu þeir upp alla keðjuna, 7 liði, samtals 105 faðma og seldu hana síðan Vestmanneyingum þarna á klettinum, og þeir komu síðan þar á stórum mótorbát og fluttu heila kladdann til Eyja. Keðjan var síðan strengd þar yfir höfnina og settir á hana sigurnaglar með jöfnu millibili, handa bátunum til að festa sig við.
— Veiztu nokkuð, hvað Þorvaldur fékk fyrir keðjuna?
— Nei, en það hlýtur að hafa verið töluvert. Ég held nú annars, að þetta hafi þá verið orðin félagseign þeirra Þorbjörns, og sjálfsagt tel ég að þeir hafi fengið ríflega uppborinn útlagðan kostnað og sæmilegt sumarkaup, hvort sem þeir hafa nú grætt annað á fyrirtækinu. En auk keðjunnar náðu þeir þarna einnig upp akkerinu, sem var gríðarlega stórt, en það var með eikarási, er var í burtu, og lá akkerið því flatt. Þeir komu því með keðjunni upp á klöppina, þar sem það mun liggja enn, því að Eyjarskeggjar hirtu aldrei um að taka það. Nú er það auðvitað mosagróið þar á klöppinni, en þó tel ég alveg víst, að enn sjáist það þar. Mundi Vilhjálmur Magnússon manna líklegastur þar í Höfnum til að benda á þessa klapparflúð.
— Jæja, Friðrik. Mig langar að heyra nánar um timbrið í fjörunni og hvernig því reiddi af?
— Já, það var strax farið að númera timbrið, sem rak á fjörurnar, og voru margir við það verk, sem stóð yfir í vikutíma, að mig minnir. Jafnóðum og timbrið var númerað, gat salan á því hafizt, og svo þurfti ekkert annað, þegar númerin voru tekin, en að fleygja timbrinu örlítið hærra upp í fjöruna, svo að sjórinn tæki það ekki, enda var það þá komið úr allri hættu.
— Hvað þýddi þessi númering?
— Það var gert til þess, að hver gæti keypt það sem hann hafði hug á að fá, því að í hverju númeri voru ákveðnar lengdir og tiltekið magn. Sum voru með eintómum löngum plönkum, önnur með styttri og enn önnur með spýrur og borðvið og annað þess háttar. Svo buðu menn í hvert númer fyrir sig. Sumir kannske keyptu 5—6 og upp í 10 númer af þessu. Já, það held ég nú.
Árið 1883 segir Þorvaldur Thoroddsen, að byggingar séu „hvergi jafngóðar á Íslandi“ eins og á Vatnsleysuströnd, „svo að segja eintóm timburhús, vel vönduð og útbúin“. Timburhúsin voru flest reist úr farmi Jamestown, sem rak á fjórur í Höfnum 1881. Strandið olli tímamót um í húsagerð manna suður með sjó.
— Hve lengi stóð þessi verzlun þarna í fjörunni?
— Hún stóð í 4 daga.
— Hverjir komu þar til að verzla?
— Þangað komu menn víðs vegar að, frá Reykjavík, Hafnarfirði og alls staðar hér af Suðurnesjum, enda munu hafa verið byggð einhver ósköp af húsum úr þessu timbri. Ég minnist þess, að Einar í Garðhúsum keypti mjög mörg númer af þessu timbri, fyrir utan Ósa. Svo kom hann um sumarið, fékk skip í Höfnum og fór út eftir, þar sem hann átti timbrið, lét menn sína búnka því öllu í geysistóran fleka og binda saman rammlega. Minnir mig, að í flekanum væru um 200 miklir og stórir plankar, þetta 10—12 álna langir, 3ja þumlunga þykkir og 8—9 feta breiðir. — Jæja, svo þegar þeir voru búnir að koma flekanum af stað í norðan roki, héldu þeir suður úr og út ósinn og ætluðu með flekann suður í Kirkjuósvör, en þar átti að taka plankana í land og geyma þá þar, og þangað ætlaði svo Einar að sækja þá á sínum eigin skipum sumarið eftir. En margt fer öðruvísi en ætlað er. Útfallið var að byrja, þegar þeir komu á móts við vörina og hafði þá straumurinn út úr ósnum betur, svo að þeir lentu fyrir utan Flataskerið og enn bárust þeir lengra út. Þannig héldu þeir suður með öllu landi og þó að þeir leituðust stöðugt við að koma flekanum nær og nær, þá hafði straumurinn sífellt betur og virtist einn hafa vald yfir flekanum, enda misstu þeir hann alveg að síðustu út fyrir eyrina á Kalmanstjörn og út á reginhaf. Þar með var sá draumur búinn.
— Svo Einar hefir ekki byggt hús úr þessu timbri?
— Nei, hann varð þarna fyrir talsverðum skaða.
— Urðu nú ekki fleiri en Einar fyrir tjóni í sambandi við þessa flutninga?
—Jú, það tel ég sennilegt, þó að mig reki ekki minni til þess. Menn sóttu timbrið ýmist á skipum, sem þeir þá sigldu inn á höfnina og lögðu þeim þar meðan verið var að hlaða þau, og fluttu þá litlir bátar timbrið út í skipin, eða þá að timbrið var flutt á hestum, en það gerðu t. d. bæði Keflvíkingar og Njarðvíkingar. Ég minnist þess, að hjá Bjarna heitnum Guðnasyni voru þá vermenn undan Eyjafjöllum og úr Fljótshlíðinni, sem hann gerði út, einnig voru hjá honum sjómenn, þeir Páll og Sigurður frá Hvalsnesi, sem nú eru báðir löngu horfnir af sjónarsviðinu.
Strandsstaður Jamestown.
Allir voru þessir menn meira og minna við smíðar þennan vetur, að smíða úr þessu ódýra timbri ýmiss konar búshluti og áhöld. — Náttúrlega hafa þeir fengið til þess leyfi Bjarna, enda munu þeir aðallega hafa gert það í landlegum og öðrum frístundum, en báðir ætluðu þeir að fara að búa á Hvalsnesi þá um vorið, svo að þetta hefir komið sér vel fyrir þá. Um vertíðarlokin fluttu þeir svo alla smíðina heim með sér. Fljótshlíðingarnir og þeir hinir undan Eyjafjöllunum, munu einnig hafa smíðað nokkuð þenna vetur og flutt gripina heim með sér. Voru það aðallega laupar, byttur, fötur og svo vefstólar. Sigurður heitinn á Hvalsnesi smíðaði handa sjálfum sér vefstól, völundarsmíði, sem var svo léttur og fíngerður, að krækja varð honum niður að aftan, svo að hann ekki lyftist upp, þegar ofið var í honum. Tiltekið var, hve gripur þessi var vandaður að allri gerð, enda var Sigurður orðlagður gæðasmiður.
— Hvað fleira manstu að segja af þessu, var lokið við timbursöluna þá um sumarið?
— Nei, nei, ég held nú síður, það entist í fleiri ár úr skipinu. Og ennþá lengur var þó verið að vinna úr sjálfum skipsskrokknum og búta síðurnar niður. Það var nú engin smáræðis vinna að rífa þetta allt í sundur, því að allt var það samanrekið með sterkum járn- og koparboltum.
Húsið var byggt úr timri úr Jamestown.
— Voru það þá menn frá skipseigendum, sem sáu um þetta?
— Nei, bara frá þeim, sem keyptu skipsflakið, en það gerðu Hafnarmenn í félagi og voru þeir svo alltaf smátt og smátt að rífa þetta í fleiri ár. Og svo jafnóðum og timbrið losnaði úr flakinu, notuðu þeir það ýmist til eigin þarfa eða þeir seldu það öðrum, sem fengu það þá við mjög vægu verði. Síðan bútuðu þeir það með stórviðarsögum í mátulegar lengdir, t. d. rárnar og flettu síðan bútunum og gátu þannig fengið mjög heppilegt timbur.
Hafnir – Kotvogur.
— Þannig hefir allur skipsskrokkurinn meira og minna verið nýttur?
— Já, mjög mikið af honum. Bæjardyrnar í Kotvogi voru t. d. byggðar úr þessum viði, svokölluðum tappaplönkum. Nafnið kom til af því, að tappar voru settir í plankana, þar sem boltarnir höfðu verið.
— Telur þú að menn hafi hagnazt á þessu?
— Það er nú enginn vafi. Þeir fengu þetta svo að segja fyrir ekki neitt. Það var bara vinnan á þessu. Ekki man ég nú hvað skipssíðurnar kostuðu, en það var sáralítið, enda þýddi engum að kaupa þetta nema Hafnarmönnum. Þeir einir höfðu aðstöðu til að hagnýta sér brakið.
— En var ekki timbrið, sem flaut úr lestunum upp í fjörurnar, selt hærra verði?
— Jú, það var selt á uppboði fyrir eitthvað meira, en samt var það líka afar billegt, t. d. kostuðu þessir stóru plankar aldrei meira en 2 krónur og heil númer af öðru timbri voru seld á 1—2 krónur, heil búntin.
— Var ekki stundum margt um manninn þarna í fjörunni?
— Jú, það var það oft, t. d. var alltaf dálítill hópur manna, sem fór í einu til að rífa síðurnar.
— Manstu fleira að segja mér, Friðrik, viðkomandi þessu skipsstrandi?
— Já, ég held ég geti bætt hér við þessa frásögn athyglisverðum hlut. Þegar mörg ár voru liðin frá þessum atburði, kvisaðist sú fregn, að ballestin í þessu fræga skipi, er sökk með því í hafið, hafi ein út af fyrir sig, kostað mikið meira en skipið sjálft, með öllum hinum mikla timburfarmi. Þetta er að mínu viti það merkilegasta við þessa frásögn.
— Hvers konar ballest var það?
— Það var silfurberg, talið mjög verðmætt.
Annað ankeri ásamt keðju við Kirkjuvogskirkju í Höfnum.
— Og hvað varð svo um það?
— Það situr þarna á botninum, þar sem skipið liðaðist í sundur. Jæja, svo var það löngu síðar, ég var þá fluttur hingað til Keflavíkur, að kafarar voru sendir suður í Hafnir að leita hinna týndu fjársjóða, ballestinni úr skipinu. Fóru þeir eftir leiðsögn Sigurðar H. Ólafssonar, sem vísaði þeim á staðinn, þar sem við Bjarni Guðnason fundum keðjuendann, er vikið var að fyrr í þessu spjalli.
Ólafur Ketilsson við ankeri af Jamestown.
En vitanlega gripu kafararnir þarna í tómt, fundu þar aðeins ósköp venjulegan þaragróður, enda ekki við öðru að búast, eins og ég skal nú skýra nánar: Þú minnist þess í frásögn minni, er óveðrið gerði og skipið klofnaði, þar sem það lá við klöppina, að þá var akkerið og hin greiða akkeriskeðja látin falla, til að fyrirbyggja, að skipið tæki út aftur. Flóknu keðjuna, sem þeir ekki gátu greitt, létu þeir þar einnig með hinu akkerinu. Mundi ég vilja álíta, að það síðarnefnda hafi losnað við skipið, þegar það brotnaði, og liggi nú þar við klöppina, sem órækt sönnunargagn um hvar ballestarinnar er að leita.
— En hvar álítur þú þá að týnda akkerið sé?
— Það liggur 150—200 föðmum utan við skerið, sem við fundum keðjuna á. Þar er klöppin, sem skipið klofnaði við og þar hlýtur því bæði akkerið og ballestin að hafa farið niður.
— En hvaða skýring er á því, að þið funduð hitt akkerið ásamt keðjunni svona miklu nær landi?
— Það var vegna þess, að sú keðja var föst í kjölsvíninu, sem hefir dregið hana þarna upp að skerinu, rétt norðan við Hestaklettinn, þar sem við Bjarni fundum hana. Vegna þessa fundar okkar héldu svo ýmsir, að þar hefði skipið klofnað, og þar væri því silfurbergsins að leita. Þarna liggur skekkjan, Hallgrímur. En ég er viss í minni sök, ég veit nákvæmlega um staðinn, þar sem ballestin liggur og hefði einhver hug á að finna hana, meðan ég er ekki lakari til heilsunnar en þetta, þá væri ég fús að skreppa út í Hafnir og gefa upp hin réttu mið..
Hljóðfæri smíðað úr timbri úr Jamestown.
— Það er nú vel boðið og ekki ólíklegt, að einhver notfæri sér það. En hvað getur þú ímyndað þér, Friðrik, að sjálf strandklöppin sé langt frá landi á stórstraumsfjöru?
— Þá er hún eiginlega í fjöruborðinu, hún kemur þá öll upp úr sjó. En eins og ég hefi fyrr sagt þér, lá skipið meðfram þessari klöpp, er það brotnaði, og hafa þá í mesta lagi verið um 30 faðmar frá því og upp á klöppina.
— Mundi þar vera mikið dýpi?
Óttarsstaðir austari, byggðir að hluta úr rekavið Jamestown.
— Nei, í mesta lagi svona 7 faðmar.
— Og þar liggur fjársjóðurinn?
— Já, áreiðanlega, og annar þungavarningur, sem í því kynni að hafa verið. Til frekari glöggvunar vil ég geta þess, að þarna innan við klöppina er stórt lón, og þar lá oft þessi ósköp af sel inni í þessu lóni, en eftir því miðju liggur djúp renna, þar sem selirnir gátu farið út og inn um fjöru. Ég man, að þeir lágu þarna oft í hópum saman í lóninu og uppi á klöppinni. Við fórum oft í beitifjöru í þetta lón, því að það var stundum talsverð öðubeita þar innan við kampinn. Fann ég þar þá stundum all sérkennilega steina á stærð við kaffibolla, eða hnefa manns og suma þaðan af minni.
Allir þessir steinar voru hvítglitrandi og fallegir, en samt tók ég aldrei neinn þeirra. Og uppi í Hvalvíkinni, þar sem útstreymið er svo mikið, var ég stundum í maðkasandi. Þar fann ég eitt sinn stóran stein á stærð við mjólkurkönnuna þarna, og var hann hvítglitrandi eins og hinir. En maður hugsaði þá bara ekkert út í, hvað þetta var og lét því kyrrt liggja, enda hafði maður þá annað við tímann að gera en að leika sér að fallegum steinum í fjörunni. Eftir á þóttist ég vita, að þetta hefði einmitt verið úr ballest skipsins og að steinarnir hefðu skolast inn í lónið, sem lá hringlaga inn frá klöppinni.
Ekki tel ég ósennilegt, að nokkurt magn af steinum þessum hafi þannig komizt inn í lónið, sem er gríðarlega djúpt.
Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.
— En eru nú ekki meiri líkur fyrir því, að silfurbergið, eða hvað þetta nú er, hafi orpist þarna sandi og verði torfundið úr þessu ?
— Það fer náttúrlega nokkuð eftir því, hvernig botninn þarna utan við klöppina er, ég hygg nú að þar sé bara leir og þaragróður, sem naumast ætti að spilla verulega.
— Og að lokum, Friðrik, er þetta þá í Hvalvíkinni?
— Nei, það er ekki í henni sjálfri, heldur austast í urðinni fyrir austan Þórshöfn.
Hér lýkur viðtali okkar Friðriks Gunnlaugssonar, hins hartnær hálftíræða öldungs, sem á að baki sér langa manndómsog merkisævi, þeirrar athafnasömu kynslóðar, sem vann hörðum höndum fyrir sínu daglega brauði og skóp undirstöðuna að okkar háþróaða menningarríki. — Og svo, góðir Suðurnesjamenn: Nú er að taka til höndunum og leita hins týnda fjársjóðs.“ – Hallgrímur Th. Björnsson.
Heimild:
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1967, Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum – Rabbað við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára sækempu, bls. 156-163.
-Fylkir, 5. tbl. 01.12.2018, Minnismerki um botnfestar á fyrstu áratugum vélbátaaldar í Eyjum, bls. 17.
-Tíminn – Sunnudagsblað, 36. tbl. 13.09.1964, Suður með sjón, Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, bls. 856.
Engjaborg
„Engjaborg“ var landamerki milli jarðanna Kópavogs, Digraness, Fífuhvamms og Arnarness.
Borgin er við endann á Lindasmára 59 og 57. Við hana er skilti það, sem sjá má hér að ofan.
Engjaborg.
Engjaborgin var stutt fyrir vestan býlið Smárahvamm, en það var nýbýli frá Fífuhvammi. Á þessum stað fundust tóftir af fjárhúsi og heygarði, sem líklegast er að hafi tilheyrt Fífuhvammsjörðinni, þar sem Smárahvammur er ekki byggt sem nýbýli fyrr en árið 1940, en tóftirnar töluvert eldri en það. Rústin er hringlaga með 2-3 m breeiðum veggjum og út frá henni ganga leifar gerðis sem er um 1 m. á breidd og 0.3 m á hæð.
Í Fornleifaskrá Kópavogs – Enduskoðuð frá árinu 2019, segir um Engjaborgina:
Engjaborg – uppdráttur.
Rúst (fjárborg) og gerði (Engjaborg):
7,5 x 8 m (A – V). Veggir úr grjóti og torfi, 2-3 m breiðir og 0,3 – 0,9 m háir.
Dyr eru hugsanlega mót suðri.
Í NA hluta rústarinnar er hæðarpinni úr kopar steyptur niður í steypt rör. Eitthvað hefur verið fiktað við rústina í seinni tíð.
Út úr suður hluta rústarinnar gengur gerði, ca. 4 x 5 m (NNA – SSV). Vestur hlutinn er greinilegur og þar er veggur úr grjóti og torfi, ca. 1 m breiður og 0,3 m hár. Austur hluti gerðisins er ógreinilegur og þar virðist vera grafið niður.
Skv. örnefnalýsingu var hér fjárhús og heygarður. Einnig kemur fram að staðurinn er á landamerkjum Fífuhvamms og Arnarness. Þessi staðreynd og nafnið Engjaborg gæti bent til þess að hér sé um fjárborg að ræða og/eða að hér hafi beitarhús staðið einhverntíman (þau liggja gjarnan á eða nálægt landamerkjum).
Heimild:
-Fornleifaskrá Kópavogs – Enduskoðuð, Fornleifafræðistofan, Bjarni F. Einarsson – 2019.
Engjaborg.
Leiran – Guðmundur A. Finnbogason I
Í Lesbók Jólalesbókar Morgunblaðsins 1984 segir Guðmundur A. Finnbogason frá „Leirunni„:
Jólalesbók Morgunblaðsins árið 1984.
„Sjávarpláss á Suðurnesjum, sem eitt sinn slagaði uppí Keflavík — þyrping fátæklegra býla með ofurlitlar grasnytjar, en lífsbjörgin kom umfram allt úr sjónum. Nú býr þar enginn, — bærinn á Stórhólmi stendur einn eftir, en þotur koma í lágflug inn yfir þessa grænu vin, þar sem Suðurnesjamenn koma nú saman í frístundum til að leika golf.
Þegar nútímafólk ekur veginn úr Keflavík og vestur í Garð eða útá Garðskaga blasir Leiran við á hægri hönd. Hér var áður fyrr sjávarpláss með útræði og mörgum smábýlum, sem stóðu á undirlendinu, sem verður þarna. Nú er fátt til minja um þá hörðu lífsbaráttu, sem þar var lifað. Engin kot standa þar lengur; ekki heldur bátar í vörum, en þess í stað má sjá vel búna kylfinga leika kúlum sínum fram og aftur um golfvöllinn, sem Keflvíkingar hafa lagt og ræktað með miklum glæsibrag í Leirunni. Þetta er tímanna tákn. Þar fyrir er óþarft að gleymist, að í sumum af þessum lágu kotum, sem nú sést ekkert eftir af, uxu dugandi menn úr grasi: Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður til dæmis og bræður hans. Menn komu þangað langt að fótgangandi til sjóróðra og fátæktin var fylginautur þeirra sem kusu sér búsetu þar.
Sjaldan er logn í Leiru — og þegar hann blæs að norðan, hellast brimskaflarnir uppá klappirnar og inní vörina og sýna hvað lendingin gat verið varasöm. Um miðja síðustu öld voru meira en 100 manns, sem töldust eiga heimili í Leiru og kotin stóðu engan veginn öll á graslendinu hjá Stóra-Hólmi, heldur á víð og dreif um grýtta fláka, sem verða vestur af Leirunni og standa tóftirnar eftir. Af lífsbaráttunni þar fara litlar sögur.
Landnám Steinunnar gömlu
Leiran var á landnámsöld einn þeirra staða við sunnanverðan Faxaflóa, sem Ingólfur landnámsmaður Arnarson skenkti Steinunni gömlu frænku sinni. Hún hafði átt Herlaug bróður Skalla-Gríms, sem land nam á Mýrum og hún bjó í Leiru, þar sem hét Hólmur og síðar Stóri-Hólmur eða Stokkhólmur.
Stóri-Hólmur.
Síðan fer engum sógum af búskap í Leiru þar til 1703, að manntalið fór fram, en þá voru 4 býli í Leiru og íbúar samtals 51. Á Stóra-Hólmi tóldust 23 til heimilis; þar af fern hjón í húsmennsku. Á Litla-Hólmi voru 6 manns í heimili, sjö í Hrúðunesi og 15 á Gufuskálum. Í bændatali á Suðurnesjum 1735 eru skráðir 6 bændur í Leiru, en 13 býli voru þar árið 1801 og íbúarnir 74. Eitthvað hefur árferðið í Leiru ekki verið sem best á fyrriparti síðustu aldar, því býlum fór fækkandi og voru aðeins 6 eftir í byggð árið 1836. Þá brá svo við, að nýtt líf færðist í plássið; býlin urðu 12 og íbúarnir 82. Þessi býli voru í byggð: Hrúðunes (heimajörð), Melbær (tómthús), Stóri-Hólmur (heimajörð), Ráðagerði, Garðhús, Kötluhóll, Nýlenda, Bakkakot og Litli-Hólmur, er öll voru hjáleigur frá Stóra-Hólmi, Gufuskálar (heimajörð) og Vestur-kot, hjáleiga frá Gufuskálum.
Fjölmennasta heimilið var sem áður Stóri-Hólmur. Tíu árum síðar hafði íbúum í Leirunni fjölgað og voru þeir nú orðnir 103 og nú voru bæjarnöfnin orðin 13 og tvö þeirra ný, Krossabrekka skammt frá Nýlendu og Kóngsgerði skammt frá Gufuskálum.
Hrúðurnesbrunnur.
Næstu árin stendur íbúatalan í Leirunni næstum í stað frá því sem hún var 1845. Voru tveir búendur á sumum býlunum og enn var mannflest á Stóra-Hólmi.
Árið 1855 voru Keflavíkurbúar 153 að tölu og höfðu þá 47 manns yfir Leirubúa. Upp frá því fer Keflvíkingum fækkandi en Leirubúum fjölgandi. Árið 1870 eru Keflvíkingar 130 en Leirumenn 138 og þá voru bændabýlin í Leirunni 16 að tölu frá Hólmsbergi talið út Leiruna.
Á Hólmsbergi (Leirubergi) hafa með vissu 15 manns orðið úti á tímabilinu 1785 til 1894, í allflestum tilfellum karlmenn, sem voru á ferð frá Keflavík út í Leiru eða Garð að kvöld- eða næturlagi, oft í vondum veðrum og margir undir áhrifum áfengis.
Þegar ég var unglingur heyrði ég um það talað að reimt væri í Berginu og eitthvað hefur hinn landsþekkti Símon Dalaskáld vitað um draugana á Hólmsbergi, eða Leirubergi er hann nefnir svo. Bendir eftirfarandi vísa hans til þess.
Þó að æði eldingar
og ramskæðir smádjöflar
ég mun hræðast ekki þar
úti á svæði Leirunnar.
Nær allir áttu fleytur
Leiran var á sínu blómaskeiði eitt af allra bestu fiskiþorpum við sunnanverðan Faxaflóa. Þaðan var róið sem víða annars staðar svo til árið um kring. Vetrarvertiðirnar voru þó almesti sjósóknartíminn og oftast allra besti fiskitíminn.
Leiran – Gamli barnaskólinn.
Úr Leirunni var oft á tíðum hægt að sækja til fiskjar á bæði borð, þegar frá landi var á flot komið og þá ekki síður mátti sækja fram af landsteinunum út í Leirusjóinn, sem einatt var gjöfull þegar netafiskur gekk inn á grunnmiðin á vetrarvertíðum frá mars til maí. Eins gátu Leirumenn sótt innar í Flóann, inn á Njarðvíkurleir og Njarðvíkurbrúnir, inn undir Stapa, Voga og Strandarbrúnir. Var það helst þegar fiskur var genginn hjá í Leirusjó og lagstur þar inn á leir og brúnum. Svo var það Garðsjórinn, hinn næstum því ótæmandi aflasjóður (áður en erlendu togararnir komu), er einatt mátti leita til jafnt vetur, sumar, vor og haust.
Hann hafði oftast eitthvað gott að gefa bótt misjafnt væri að magni. Voru gæðin einatt þau sömu, glæný ýsa, koli, lúða, steinbítur og svo framvegis.
Á árabilinu 1631 til 1910 hafa svo vitað sé 14 skip og bátar farist er gengu úr Leirunni.
Litla-Hólmsvör.
Á þessum fleytum fórust 68 menn, þar af tvær konur. 23 menn fórust á þessu tímabili af Gufuskálaskipunum, 15 af Litla-Hólmsskipunum og 8 af Stóra-Hólmsskipunum en færri af öðrum. Leirubændur og hjáleigumenn áttu nær allir árafleytur til sjósóknar — þó ekki allir vertíðarskip. Voru þeir er smærri fleyturnar áttu þá vetrarvertíðarsjómenn á stærri skipunum. Einstöku réru þó árið um kring á sínum bátum, 2—4 manna förum.
Innnesingar voru þeir nefndir er komu suður í Leiru í byrjun vetrarvertíðar með skipshafnir sínar til að róa þaðan. Það mun hafa verið á síðustu tugum sl. aldar, að stærri útvegsskip af Álftanesi og Seltjarnarnesi fóru að heiman suður í Leiru. Þar var oft á tíðum meiri aflavon og styttra að sækja á fiskimiðin. Þessir bændur áttu sín fiskibyrgi og sumir verbúðir í Leirunni (ef verbúðir skyldi kalla). Sumir hverjir fengu inni með sig og sína skipshöfn á bæjunum þar í Leirunni. Meðal þeirra er hýstu Innnesinga á vetrarvertíð voru hjónin í Ráðagerði, þau Gísli Halldórsson og Elsa Dórothea Jónsdóttir, foreldrar hins landsþekkta hagyrðings Ísleifs Gíslasonar, kaupmanns á Sauðárkróki.
Sofið á þangi milli rúmanna
Dóróthea Gísladóttir, dóttir þeirra hjóna, sem fæddist í Ráðagerði 1886 og ólst þar upp, varð háöldruð kona, dó á miðjum tíræðisaldri, gáfuð og minnug. Hún sagði mér að þegar hún var telpa í foreldrahúsum hefði skipshöfn af Innnesjum haft viðlegu á heimili foreldra hennar í Ráðagerði. Þar svaf heimilisfólkið í baðstofu í rúmum sitt til hvorrar handar en dálítið gangpláss á milli rúmanna. Á því gangplássi- fékk aðkomuskipshöfnin svefnpláss. Ekki var um annað pláss að ræða á þeim bæ. Þang var látið á gólfið á milli rúmanna. Sváfu sjómennirnir á þanginu en höfðu teppi eða brekán ofan á sér. Á daginn var svo þanginu ýtt með fótunum undir rúmin — tekið svo fram að nýju á kvöldin.
Leiran – uppdráttur ÓSÁ.
Stóra-Hólmsbændur fengu oft góða hrognkelsaveiði í Hólmósnum. Þar fékkst og síld í lagnet. Allur reki undir Hólmsberginu tilheyrði Stóra-Hólmi. Var Helguvík besti rekastaðurinn. Rak þar oft mikið á stríðsárunum og lengur. Fuglatekja var og nokkur í berginu — mest svartfugl.
Leiran – örnefni; ÓSÁ.
Árið 1930 voru aðeins 5 bændabýli eftir í Leirunni í byggð, en það voru: Bakkakot, Litli-Hólmur, Stóri-Hólmur, Lindarbær og Vesturkot og íbúarnir alls ekki nema 33. Síðan fór býlunum enn fækkandi þar til eftir var orðið aðeins eitt. Var það hið forna býli Stóri-Hólmur er þar stóð enn í byggð 1960.
Síðasti bóndinn í Leirunni bjó á Stóra-Hólmi sem og hinn fyrsti. Aldir, ár og dagar voru á milli Steinunnar gömlu sem fyrst var ábúandi og Kjartans Bjarnasonar sem var þeirra síðastur og margt hafði gerst í Leirunni á því tímabili, bæði til sjós og lands og aldrei fékk hún Steinunn að fylgjast með golfmóti á heimatúninu sínu.
Kjartan Bjarnason síðasti bóndinn á Stóra-Hólmi er Dýrfirðingur að ætt og er nú 86 ára að aldri. Hann og kona hans tóku við búskap á jörðinni 1936 og bjuggu góðu búi í röska tvo áratugi.
Í dag eiga tveir synir Kjartans heima á Stóra-Hólmi en hafa engan búskap þar.“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 34. tbl. Jólalesbók 22.12.1984, Leiran, Guðmundur A. Finnbogason, bls. 33-34.
Hafnarfjörður – Hvaleyri og Straumur
Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021“ fyrir Hvaleyri og Straum segir:
„Hvaleyri
Hvaleyri fyrrum – tilgáta (bærinn er frá 1777).
Hvaleyri er ein af elstu bújörðum í Hafnarfirði og sýndi fornleifarannsókn, sem Dr. Bjarni F. Einarsson gerði árið 2005, að þar væru minjar sem hægt var að segja með 95% öryggi að væru frá tímabilinu 780-980 (líklega voru minjarnar frá því um 900) og að landnámsbýli megi finna á Hvaleyri eða Hvaleyrarholtinu.
Hvaleyri 1772 – Joseph Banks.
Elstu heimildir um Hvaleyri er að finna í Hausbók Landnámu en þar segir frá því að Hrafna Flóki hafi fundið hval á eyri einni og kallað hana Hvaleyri. Í Jarteinabók var Teitur bóndi
sagður búa á Hvaleyri 1300-132511 og árið 1395 var Hvaleyri eign Viðeyjarklausturs og var leiga til klaustursins 4 hndr.12 Þá sagði í vitnisburði Hafliða Gizurarsonar um landeign og landamerki Hvaleyrar við Hafnarfjörð frá 1448 að á Hvaleyri hafi verið kirkja.
Hvaleyri í dag – 2021.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 sagði að á Hvaleyri hafi verið hálfkirkja og embættað þaðan þrisvar á ári. Þá var jörðin í konungseign og jarðadýrleikinn óviss þar sem jörðin tíundaðist engum. Þá var landskuldin eitt hundruð sem greiddist með sex vættum fiska í kaupstað, sem áður greiddist til Bessastaða. Til forna hafði landskuld verið greidd í fríðu með einum hundraðasta. Jörðin átti selstöðu þar sem hét Hvaleyrarsel, þar voru hagar sæmilegir og vatnsból gott. Hrísrif var nokkurt á jörðinni en þegar Jarðabókin var skrifuð var það að mestu eytt en að öðru leyti hafði jörðin hrísrif til eldiviðar í almenningnum og til kolagerðar.
Hvaleyri 1942. Hermannvirki áberandi.
Torfrista og stunga var í lakasta lagi og nærri ónýt en lyngrif, fjörugrastekja og rekavon var nokkur. Jörðin gat nýtt bæði hrognkels- og skelfiskfjöru og heimræði var allt árið um kring og lending góð og gengu skip ábúenda eftir hentugleikum. Þá var sagt að túnin spilltust af sandágangi, engar engjar fylgdu jörðinni og vatnsból var ekki gott en það þraut bæði vetur og sumar. Þá var hjáleigan Hvaleyrarkot, sem var byggð eftir að hafa verið í eyði svo lengi sem menn mundu, aftur komin í eyðu fyrir þrem árum, þ.e. árið 1700.
Hvaleyri – uppdráttur.
Árið 1730 voru Hvaleyrartún stórskemmd af grasmaðki og einnig herjuðu sandfor og fugl á þau. Mikill lausamosi var í túninu og hélt það áfram að skemmast, árið 1751 varð að slá tveimur vættum og einu kúgildi af afgjaldi jarðarinnar hvort sem það hefur eingöngu verið landskemmdunum að kenna.
Á árunum 1754-1757 bjó enginn á Hvaleyri og var líklegt að það var ein ástæða þess að bæjarhús og tún spilltust.16 Í Jarðatali Johnsens frá 1847 segir í skýringum að árið 1803 séu á Hvaleyri fjórar byggðar hjáleigur: Bindindi, Lönd, Lásastaðir og Ásgautsstaðir. Í jarðatalinu fær Hvaleyri númerið 168, þar segir að jörðin hafi verið í bændaeign, dýrleikinn var 20 hundruð, landskuldin var 0,100, kúgildin voru 2 og eigandinn var einn.
Hvaleyri – skotbyrgi.
Árið 1815 keypti Bjarni riddari Sívertsen jörðina af konungi og síðan keypti Jón Illugason snikkari jörðina árið 1834 af dánarbúi Bjarna. Jón Illugason seldi svo jörðina til Jóns Hjartarsonar í Miðengi í Árnessýslu og við andlát Jóns tók ekkja hans, Þórunn Sveinsdóttir, við Hvaleyri. Þórunn gaf svo Sigríði frændkonu manns síns mestan hluta jarðarinnar árið 1868.
Jörðin var svo seld séra Þórarni Böðvarssyni í Görðum árið 1870 og gaf hann jörðina til stofnunar alþýðu- og gagnfræðiskólans Flensborg í Hafnarfirði árið 1881.
Árið 1940 kom breski herinn til landsins og reisti kampa víða í Hafnarfirði og var einn við Hvaleyrartjörn, hét hann West end. Þar var herinn með skotbyrgi og loftvarnarbyssur. Á loftmyndum frá þeim tíma má vel sjá hversu umfangsmikil starfsemi Breta var á Hvaleyri.
Hvaleyri 1972.
Vitað er með vissu hvar síðasti Hvaleyrarbærinn stóð en hann var rifinn í kringum 1970 og líkur eru taldar að hann hafi verið nokkurvegin á sama svæði í gegnum aldirnar.
Þó er ekki hægt að staðsetja hvar kirkjan með kirkjugarði hefur staðið og ekki hægt að sjá það í landinu í dag. Í heimildum segir að kirkjan hafi staðið norður af Hvaleyrarbænum án þess að það sé staðfært eitthvað nánar. Hvaleyrarkirkju var fyrst getið 1444-1481 en hugsanlega gæti hún verið mun eldri. Aðeins eru varðveittar tvær lýsingar af kirkjunni og gripum hennar: í eldri lýsingunni frá 1625-1634 var kirkjan sögð í fjórum stafgólfum, sem þýðir að hún var á bilinu 5,7 – 6,8m að lengd og 2,85–3,4m að breidd.
Hvaleyrarbænum og svæðinu í kring var lýst í Örnefnalýsingu Hafnarfjarðarlands:
Hvaleyri – Hvaleyrarbærinn. Baðhús h.m.
„Hvaleyrarbærinn stóð í miðju Hvaleyrartúni, rétt norðan við byggingu fjóss og hlöðu er þar var reist 1916. Bærinn stóð þar á hrygg er lá sunnan úr holtinu. Hvaleyrartraðir lágu í suður frá bænum að Hvaleyrartúngarði. Túngarðurinn lá austan eða neðan frá tjörn vestur og niður undi sand og norðvestur í Hvaleyrarkletta. Traðargarðurinn eystri og vestri lágu meðfram tröðunum. Sunnan frá Traðarhliði lá þríhyrnd túnskák norður að Brunngötunni er nefndist Pétursvöllur með Pétursvallagarði. Suðurvöllur er utan hans og sunnan. Hestasteinninn stóð á hlaðinu. Hvaleyrarfjárhúsin stóðu hjá Bæjarhólnum nyrðri. Bæjarhólarnir voru gamlir öskuhaugar. Sandbrekknatún lá niður frá Túngarðinum vestri og skiptis í Sandbrekknatúnið syðra og nyrðra. Kirkjugarðurinn var norður frá bænum til hliðar við fjárhúsin.“
Hvaleyri – örnefni.
Guðmundur Guðmundsson smiður sem bjó í Vesturkoti á Hvaleyri fann þar heila mannsbeinagrind með föður sínum þegar hann var unglingspiltur í kringum 1890. Þar fannst einnig krítarpípa, greiðugarður, spónn úr tini og ryðguð hnífbredda. Beinin voru svo grafin aftur ofar í túninu.23 30 árum seinna, eða um 1925, fundust aftur mannabein á Hvaleyri af Magnúsi Benjamínssyni bónda í Hjörskoti á Hvaleyri. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður rannsakaði beinin og taldi sennilegt að þetta væru bein sjórekinna manna sem fundist hefðu á Hvaleyri. Matthías taldi að ekki væri þörf á því að varðveita beinin á Þjóðminjasafninu en þau voru grafin í kirkjugarði Hafnarfjarðar.
Hvaleyri – túnakort 1908.
Árið 1967 var golfklúbburinn Keilir stofnaður og sama sumar var golfvöllurinn á Hvaleyri opnaður og hefur starfað allar götur síðan. Íbúðarhúsið í Vesturkoti var gert að klúbbhúsi Golfklúbbsins strax í upphafi og var að til ársins 1992 þegar nýr golfskáli Keilismanna var tekinn í notkun. Sama ár var leyfi fengið til að kveikja í klúbbhúsinu í Vesturkoti og slökkvilið Hafnarfjarðar nýtti sér það til æfingar. Í dag er ekkert eftir af þeim húsum sem stóðu í Vesturkoti.
Hvaleyri – leifar skotbyrgis.
Mikið hefur verið átt við landslagið á Hvaleyri vegna golfvallarins, það hefur verið sléttað og átt við það vegna ýmissa framkvæmda og flest ummerki um byggðina sem áður var horfin. Þessvegna verður að sýna fyllstu varúð við allar framkvæmdir sem þar eiga sér stað en stutt getur verið niður á fornminjar.
Enn sjást þó nokkur ummerki um byggðina, túngarðar og útihúsatóftir, og veita þessar minjar góða, en brotakennda, sýn á hvernig lífshættir voru á Hvaleyri á fyrri öldum.
Ummerki eftir breska herinn, ýmis skotbyrgi og skotgrafir, flokkast undir stríðsminjar og eru enn vel sjáanlegar, t.d. er uppistandandi þvottahús frá stríðsárunum mjög áberandi í landslaginu, og ætti að varðveita þessar minjar.
Flókaklöpp.
Á Hvaleyrarhöfða er að finna stóran stein og nokkrar klappir með áletrunum, bæði rúnir og latínustafir, sem voru friðlýstar árið 1938.25 Jónas Hallgrímsson var líklega fyrstur til að rannsaka klappirnar árið 1841 og vildi hann eigna Hrafna-Flóka og skipshöfn hans elstu risturnar í klöppunum og hefur stærsti steinninn verið kallaður Flókasteinn (2202-7) síðan.
Hafnarfjörður á 18. öld. Hvaleyri fjær.
Kristian Kålund minntist á Hvaleyri í drögum að staðsögulýsingu Íslands árið 1877 og sagði þar að hægt væri að lesa ártölin 1628 og 1777. Kålund sagði einnig að „almennt sé haldið að verslunarmenn, sjómenn og aðrir, sem leið hafi átt þar hjá, hafi gert risturnar.“27 Sigurður Skúlason minntist einnig á steinana í Saga Hafnarfjarðar og sagði hann steinana vera fjóra talsins. Á fletinum á Flókastein sá hann ártölin 1657 (á þrem stöðum), 1673, 1681, 1697 og 1781, auk þess að sjá töluna 87 sem gæti annaðhvort þá verið 1687 eða 1787.
Leifar Fjarðarkletts GK 210 í Hvaleyrarfjöru.
Á hliðum steinsins sá hann einnig þessi ártöl: 1678, 1681, 1707 og 1723, auk þess stóð þar A 81, A 91 og 17C. Leiddi hann að líkum að þar var verið að meina Anno 1681, Anno 1691 og 1700.28 Ómögulegt er að segja hversu gamlar risturnar á klöppunum eru með vissu en líklegt þykir að ártölin sem rist hafa verið á þær á þeim árum.
Eitt flak var skráð á vettvagni við vestanverðan Hvaleyrarhöfða. Líklega er þetta flak Fjarðarkletts GK 210. Skipið var smíðað í Svíþjóð 1946 úr eik og hét fyrst Ágúst Þórarinsson SH 25. 1953 keypti Fiskaklettur H/f skipið og nefndiþað Fjarðarklett. Eldur kviknaði í skipinu skammt út af Eldey árið 1967 og skemmdist skipið mikið við það en sökk ekki, eftir það lá skipið lengi í höfn í Hafnarfirði og endaði svo daga sína með því að það var brennt út af Hvaleyri og rak þaðan í land. Árið 1970 var skipið talið ónýtt og tekið af skrá.
Samkvæmt 3. grein laga um menningarminjar teljast skip og bátar frá því fyrir 1950 sem fornminjar.
Straumur
Straumur – túnakort 1919.
Straumur er ein af svonefndum Hraunajörðum, en það eru þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.
Jarðarinnar var getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Ström j legeko. xij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter fiske dt. Thet er jc xxx fiske.“
Straumsel – hús skógavarðar.
Næst var jarðarinnar getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að jarðardýrleikinn sé óviss, að jörðin var í konungseign og að ábúandi var Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir.
Straumssel.
Jörðin átti selstöð sem hét Straumsel en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar. Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsgerði var þá eyðihjáleiga á jörðinni sem hafði verið í eyði eins lengi og menn mundu og var ekki talið að þar yrði búið aftur vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það kæmi niður á hans eigin túni.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var jörðin sögð í bændaeign, dýrleikinn var 12½ , landskuldin 0.75, tvö kúgildi, einn ábúandi og var hann eigandi jarðarinnar.
Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar voru landmerki fyrir jörðina Straum:
Markhella – áletrun.
Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str. og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krýsuvíkurlandi [Markhellu].
Fremstihöfði – landamerki Straums.
Á hina hliðina milli Straums og Þorbjarnarstað byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til að Krýsivíkurland tekur við (Undirritað í Straumi 31. maí 1890).“
FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.
Heimild:
Fornleifaskrá Hafnarfjarðar IV; Hvaleyri og Straumur, 2021; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-IV-Hvaleyri-2021.pdf (byggdasafnid.is)
Straumsvík 1965. Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi sem og tjarnirnar.
Hafnarfjörður – Suðurbær
Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2020“ segir frá Suðurbæ:
„Hamarskot
Hamarskot fyrrum – tilgáta.
Elsta heimild um Hamarskot er frá 1565 en það skjal segir frá byggingu jarða Garðakirkju á Álftanesi, þar segir að Hamarskot sé „bygt fyrer iij vætter fiska. Vallarslätt. Med jördunne j kugillde“.
Í annarri heimild frá 1579 segir að jörðin hafi fyrir allöngu verið komin í eign Garðakirkju.
Hamarskot – uppdráttur 1925.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir um Hamarskot að jarðadýrleiki sé óviss því að jörðin tíundast engum. Jörðin var þá enn í eigu Garðakirkju og ábúandinn var Jón Arason. Landskuldin var lx álnir sem borgaðist með iii vættum fiska. Heimilismenn voru sex og kvikfénaður var tvær kýr og einn kálfur. Hamarskot átti selstöðu nærri Sléttahlíð sem kallaðist Hamarskotsel. Torfrista og stunga lök og lítil, lyngrif var nokkurt og móskurður til eldiviðar var slæmur. Engar engjar fylgdu jörðinni.
Hamarskot var að einhverju leiti sama jörð og konungsjörðin Akurgerði sem var seld 1804, þá í eyði. Kaupstaðurinn í Hafnarfirði mun hafa byggst í landi Akurgerðis en þar var ekki aflað til heys 1803 vegna þess að verslunarhúsin stóðu í slægjulandinu.
Í jarðatali Johnsens frá 1803 fékk jörðin númerið 172, þar segir að jörðin sé í Garðakirkjueign, landskuldin sé 0,4, kúgildið sé eitt og einn leiguliði. 1854 var jörðin kirkjujörð hjá Görðum og var landskuldin 40 álnir, 1 kúgildi og leigur þar af 20 pd. smjörs.
Til eru úttektir á húsakosti Hamarskots frá 1818, 1822 og 1823. Sigurður Skúlason tók saman úttektina frá 1818 og lýsir húsakostinum svona:
Hamarskot – tilgáta.
„Af húsum eru hér talin: Baðstofa, búr, eldhús, göng milli baðstofu og bæjardyra og fjós.
Baðstofan var í þrem stafgólfum, rúmar 8 álnir á lengd og 3 ½ alin á breidd. Hún var með „tilhlýðilegri grind, 4 sperrum, þar af eitt höggsperra, þremur bitum, syllum, stöfum hvar af 4 eru hálfir og standa á moldarþrepi.“ Baðstofan var léleg, því sagt er, að veggir og þak hennar sé fallið. Fyrir henni var hurð á hjörum.
Búrið var einnig hrörlegt. Það hafði við síðustu úttekt verið í þrem stafgólfum, en skyldi nú stytt um eitt stafgólf. Var áætlað að það mundi gera sig sjálft upp að viðnum, en það væri minnkað þetta mikið. Hefir eftir því að dæma nálega þriðjungurinn af viðnum í búrinu verið ónýtur af fúa. Fyrir framan var standþil og hurð á hjörum.
Hafnarfjörður 1902.
Eldhúsið var tvö stafgólf á lengd, stæðilegt að viðum og veggjum, en þakið var rotið og moldrunnið.
Bæjargöngin voru 5 faðma löng, þar af 2 faðmar undir grind, hitt með þrem sperrum og bitum, er stóðu á veggjum. Fyrir framan þau var þil með hurð á hjörum. Göngin voru vel upp gerð að viðum og veggjum.
Fjós fyrir tvær kýr átti að fylgja jörðinni, en það var fallið að viðum, og stóðu ekki uppi nema veggirnir.17 Fleiri húsa er ekki getið á jörðina 1818.
Húsakosturinn í Hamarskoti hrörnaði mikið á næstu árum og 1823 var t.a.m. búið að stytta baðstofuna um 1 alin og veggirnir í henni allir fallnir að innan.
Sigurður Þorláksson fluttist að Hamarskoti 1897 og lýsti kotinu í bók sinni Gamlar Minningar:
„Hamarskot var torfbær, veggir hlaðnir úr torfi og grjóti og torf þak, timbur stafnar, og 1 gluggi á hvorum. Baðstofan var þrjú stafgólf að stærð eð 9 álnir, með skarsúð og timburgólfi, dyragangur og eldhús þar innanaf með hlóðum, svo var geymsluhús þar við fyrir eldivið annað slíkt. Í baðstofunni voru 5 rúm, svo var þar smá eldavél kamína eins og það var kallað. Fyrir framan suðurgablinn var kálgarður, 150 fermetrar að stærð og var það nægilegt fyrir heimilið, suðvestur af garðinum var brunnur með ágætu neitsluvatni […].“
Samkvæmt manntölum var búið á Hamarskoti fram til ársins 190621 og þegar Magnús Jónsson skrifaði bók sína Bær í byrjun aldar árið 1967 voru „löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð“.
Bærinn mun hafa staðið á svipuðum stað og nú er norðurendi Brekkugötu, en eftir að hann var rifinn stóð um árabil fjós þar sem suðurálma Flensborgarskólans er, en það er líklega húsið sem sést á meðfylgjandi uppdrætti Jóns Víðis af Hafnarfirði frá 1925-26.
Hamarskot – loftmynd 1954.
Í fasteignamati Hafnarfjarðar frá 1918 var jörðinni og húsakosti lýst svona:
„Gripa og heygeymsluhús. Eigandi: Árni Björnsson prófastur í Görðum.
Stærð á húsinu 6,50 x 4,40m. Hæð 1,50m með risi, bygt úr torfi og grjóti. Þak: járn á langböndum notað til heygeymslu. Gripahúsastærð: 6,50m x 3,80m, hæð 2m. Með vatnshallaþaki bygt úr torfi og grjóti, einn veggur og þak úr timbri járnvarið.
Virðing: 1. Heygeymsluhús og gripahús Kr. 700,00. Samtals Kr. 700,00.
Hamarskotstún. Eigandi: Kirkjujarðarsjóður leigir eignina afgjaldið gengur til Sóknarprestsins á Görðum. Stærð lóðarinnar er e.9 dagsláttur. Öll girt með grjótgarði og við á stólpanum. Ræktuð í tún og notuð til matjurta. Gefur af sér í meðal ári 70 töðu og 8 af jarðávexti.“
Ekki er til túnakort af Hamarskoti.
Það voru 14 minjar skráðar á landi Hamarskots en þar af tengjast þrjár eiginlegum búskapi að Hamarkskoti, það eru útihús (2541-8), (2541-12) og (2541-13). Líklega eru þetta sömu tóftir og minnst var á í handritinu Hús og bæir í Hafnarfirði en þar var sagt að „tættur voru ofarlega í túninu og hygg ég að þær hafi verið útihús, en engin gripahús voru uppistandandi þegar við komum í kotið.“
Hamarinn.
Einnig er á Hamarskotshamri ummerki eftir grjótnámu en grjótið úr honum var nýtt í kjallara og undirhleðslur eldri húsa í bænum og við hafnarframkvæmdir. Einn þeirra sem unnu við það að kljúfa grjót úr Hamrinum var Jón Jónsson, faðir Emils Jónssonar fyrrum alþingismanns og ráðherra, og segir í minningargrein um Emil að „Lyftitæki voru engin, en Jón var „þrautseigur við grjótverkið og vann að því myrkranna á milli““.
Hamarinn.
Hamarskotshamar í Hafnarfirði var friðlýstur árið 1984 sem náttúruvætti og í friðlýsingunni segir að „Varðveita skal jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd.
Hverskonar mannvirkjagerð eða jarðrask sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins eru óheimil, nema komi til séstakt leyfi [Umhverfisstofnunar]. Þó er bæjarstjórn heimilt, í samræmi við skipulag Hamarssvæðisins og í samráði við [Náttúruvernd Ríkisins], að planta þar trjágróðri, leggja gangstíga og setja upp bekki og annan búnað í þágu útivistar á svæðinu.“
Þær minjar sem er að finna á Hamrinum njóta því verndar samkvæmt friðlýsingunni, en eru þó ekki friðlýstar sjálfar.
Dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju.
Þrjár þjóðsögur voru skráðar á landi Hamarskots, þær eru draugur, dvergasteinn við Hafnarfjarðarkirkju og álfasögur við Hamarskotshamar. Sagan um drauginn hljómar svona: „Fram undir 1910 hafðist við á Öldunum og í börðunum útburður. Var barn borið út í tjarnir neðan Setbergs og færðist upp þangað. Heyrðist oft til útburðarins og var fyrirboði um illviðri af sunnan og suðaustan.“
Kirkjugarður Hafnarfjarðar er nú á því svæði sem nefnist Öldurnar. Dvergasteinninn við Hafnarfjarðarkirkju fékk að vera í friði þegar kirkjan var reist árið 1914, enda boðaði það mikla ógæfa að skemma hann.
Fjölmargar álfasögur tengjast Hamarskotshamri, einu helsta kennileiti Hafnarfjarðarbæjar. Þar er sögð stærsta álfabyggðin í bænum og innan í Hamrinum á að vera álfahöll með glæstum sölum.
Reykdalsvirkjun.
Reykdalsstífla eða Hörðuvallastífla, var tekin í notkun árið 1906 og var í eigu Jóhannesar Reykdals. Hann reisti fyrstu almenningsrafveitu Íslands árið 1904 og var rafstöðin við Austurgötu í Hafnarfirði. Vegna mikillar eftirspurnar var ákveðið að reisa Reykdalsstíflu og nýja rafstöð skammt frá. Vegna slyss sem varð við stífluna árið 2014 var lónið við stífluna tæmt og gerðar nokkrar breytingar á yfirfalli stíflunnar til að koma í veg fyrir að atvikið gæti endurtekið sig.
Jófríðarstaðir / Ófriðarstaðir
Jófríðarstaðor á fyrri hluta 20. aldar.
Nafn jarðarinnar Jófríðarstaða hefur orðið fyrir afbökun en jörðin hét áður Ófriðarstaðir og kom nafnið Jófríðarstaðir fyrst fram í prestakallsbók Garðakirkju árið 1869. Breytingin hefur annaðhvort verið leiðréttingartilraun eða að mönnum hafi þótt Ófriðarstaðanafnið óviðfelldið, sbr. máltækið „að vera á Ófriðarstöðum“. Ein útskýringin er að þjóðsaga myndaðist um að á bænum hafi búið kona sem hét Ófríður en nafninu breytt í Jófríðarstaði.
Jófríðastaðir – loftmynd 1954.
Mögulega hefur nafnið verið kennt við einhvern ófrið en eina heimildin um orrustu sem á að hafa átt sér þarna stað fyrr á öldum er að finna í ritgerð Jóns Guðmundssonar lærða „Um ættir og slekti“ sem hann skrifaði 1688. Þar segir að forfaðir Jóns, Magnús Auðunarson ríki, hafi fallið á Ófriðarstöðum „í því engelska Hafnarfjarðarstríði fyrir svik landsmanna“. Það á að hafa verið nokkru eftir miðja 15. öld.33 Sigurður Skúlason skýrir nafnið svona: „Mér þykir einna sennilegast, að nafnið Ófriðarstaðir tákni stað, þar sem allra veðra er von, sbr. bæjarnafnið Alviðra. Húsin á Ófriðarstöðum standa hátt; þar er vart skjól í nokkurri átt. Þetta er því tilfinningarlegra, þar sem veðursældin í Hafnarfirði er við brugðið, og oft er lyngt niðri við fjörðinn, þótt hvasst sé uppi á Ófriðarstöðum“.
Fyrsta heimildin um Ófriðarstaði er frá 1541, en þá nefnir Gizur biskup Einarsson nafn jarðarinnar í ráðsmannabréfi handa síra Oddi Halldórssyni. Svo var minnst á jörðina 1563 en þá höfðu Páll Stígsson höfuðsmaður fyrir hönd Danakonungs og Gísli Jónsson biskups vegna Skálholtskirkju makaskipti á nokkrum jörðum og konungur eignaðist Ófriðarstaði ásamt öðrum jörðum í Gullbringusýslu. Jörðin var þá metin á 10 hdnr.
Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.
Jarðeignir konungs voru svo skráðar í jarðabók frá tímabilinu 1583-1616, en þar segir að landskuld af Ófriðarstöðum sé fjórar vættir af fiski og þrjú leigukúgildi fylgi jörðinni. Árið 1639 var jörðin metin hálfu þriðja hundrað hærra en árið 1583, eða 12 ½ hdnr., og landskuld hennar var þá 150 fiskar, en það var 10 fiskum minna en landskuldin var talin í jarðabókinni frá 1583-1616. Jörðin hefur þá verið metin hærra en kúgildistalan var sú sama. Árið 1693 var dýrleiki jarðarinnar 12 ½ hdnr. en leigukúgildin ekki nema tvö því eitt þeirra hafði verið flutt að Straumi og landskuldin var 150 fiskar. Þremur árum síðar var allt við það sama.
Hafnarfjörður – kort 1908.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir um Ófriðarstaði að jarðadýrleiki sé óviss og að jörðin hafi verið í eigu konungs. Leigukúgildin voru ennþá tvö og landskuldin var lxxv álnir. Hún greiddist með iii vættum og vi fjórðungum fiska í kaupstað, en áður heim til Bessastaða. Kvikfénaður var þrjár kýr, einn kálfur, níu ær, fimm sauðir veturgamlir, átta lömb og tvö hross. Heimilismenn voru níu. Jörðin átti selstöðu í heimalandi, þar voru hagar sæmilegir, en vatnsskortur mikill, og til forna mun bóndinn hafa neyðst til þess að færa selið að eða í Ásland, og fyrir það halda sumir að Áss hafi fengið skipastöðu í landi Ófriðarstaða. Þá var heimræði allan ársins hring og lendingin góð, skip ábúendans gengu eftir hentugleikum.
Jófríðarstaðir.
Árið 1804 keypti Bjarni Sívertsen jörðina og var hún þá 9 hdnr. og 36 álnir og í Jarðatali Johnsen frá 1847 fékk jörðin númerið 170 og er 12 ⅓ hdnr., landskuldin 0.75, kúgildi tvö og einn eigandi.
Búlandi Jófríðarstaða var skipt í hálflendur 1885, Jófríðarstaði I og II, og var jörðunum og húsakostinum lýst í Fasteignamati Hafnarfjarðar frá 1918:
Eigandi: Elín Jónsdóttir ekkja notar eignina sjálf. Eignirnar:
1. Íbúðarhús stærð 6,80 x 6,50m hæð 2,6m með risi. Byggt úr timbri og járnvarið. Því er skipt í: 3 herbergi og eldhús, þiljað panel.
Inngönguskúr stærð 1,60 x 2,65 hæð 3m með vatnshallaþaki byggður úr sama efni og húsið.
2. Útihús: Heyhlaða er tekur e. 180 hesta af töðu. Bás fyrir 2 nautgripi. Fjárhús fyrir er 140 fjár og hesthús fyrir 3 hross. Byggður úr torfi og grjóti þök úr timbri og járnvarið að mestu.
3. Jörðin (hálflendan) 4,8 ½ H: Túnið í allgóðri rækt gefur af sér 70 hesta af töðu. Girt með grjóti og við, matjurtagarðar gefa af sér 6 tunnur. Tekjur af byggingarlóðum er 200kr á ári.
Virðing:
1. Íbúðarhús m/viðbygg. Kr. 3500,00
2. Útihúsin Kr. 900,00
3. Jörðin Kr. 12000.00
Samtals Kr. 16400.00
Jófriðarstaðir – Þóruklöpp.
Ekki er til túnakort af Jófríðarstöðum.
Kaþólska trúboðið í Hafnarfirði eignaðist svo jörðina 1924.
Í örnefnalýsingu er bæjarstæði Ófriðarstaða lýst:
„Ófriðarstaðabær stóð í svolitlum slakka austur af Ófriðarstaðahól. Vestan bæjarins stóð Ófriðarstaðahúsið, eftir að það var reist, og tvíbýlt varð á jörðinni 1885. Ófriðarstaðatún var allstórt, umgirt Ófriðarstaðatúngörðum. Austurtúngarður lá suðaustan og austan að túninu, norðurtúngarður bak við bæinn og vestur fyrir hól, en vesturtúngarður ofan frá hól niður að Ófriðarstaðalæk, sem rann niður með öllu Suðurtúninu. Á Ófriðarstaðahól var mikil huldufólkstrú, og klettum og klöppum í kringum hann. Brekkan suður og niður frá hólnum nefndist Kinn, allt niður að Suðurtröðum, sem enn sér merki, því traðagarðana sér enn. […] Utan austurtúngarðs var ræktun, nefndist Nýjatún. Sagnir voru uppi um, að þar hafi verið kofi, sem Skáld-Rósa átti að hafa búið í, nefndist Rósukofi. Frá bæ norður lágu Norðurtraðir í norðurtraðahlið. Ásgatan lá frá traðarhliðinu suður með austurgarði að Ási, en frá hliðinu lá Ófriðarstaðastígur niður í kaupstaðinn.“
Þórukot (Klapparholt) og lóð, sem gefin var st. Jósepssystrum.
Tvær þjóðsögur voru skráðar á landi Ófriðarstaða og tengist önnur þeirra Þóruklöpp við Þórukot, sem stóð í nokkurnvegin þar sem leikskóli stendur í dag, sem dregur nafn sitt af síðasta ábúanda kotsins. Sagan segir að hún hafi selt St. Jósefssystrum jörðina undir spítalann með því skilyrði að ekki yrði hróflað við klöppinni sem er í bakgarði spítalans. Þóra mun hafa sagt við nunnurnar að „í klöppinni byggi álfkona sem hafði verið góður nágranni alla tíð“ og hafa nunnurnar virt þessa ósk hennar þar sem mannvirkin voru reist allt í kring um klöppina án þess að hróflað væri við henni. Túngarður tengist einnig Þórukoti og sést á uppdrætti af St. Jósefsspítala frá 1926.
Jófríðarstaðaholt.
Hin þjóðsagan tengist Jófríðarstaðahól, en hún segir frá manni sem klauf stein á hólnum til þess að nýta í kjallara á húsi sem hann byggði á árunum 1912-14. Þetta mun hann hafa gert þrátt fyrir að hafa heyrt sögur af álfabústaði í hólnum. Eftir þetta elti ógæfa manninn og á dóttir hans að hafa látist skömmu síðar.“
FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.
Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar III, Suðurbær, 2020; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-III-Sudurbaer-2020.pdf (byggdasafnid.is)
Beitarhús við fyrrum selstöðu Jófríðarstaða í Beitarhúsahálsi.
Hið raunverulega Reykjanes – Leó M. Jónsson
Í grein í Faxa árið 2008 skrifar Leó M. Jónsson um „Ökuferð um Hafnahrepp“ og getur þar um skilgreininguna á „Hinu raunverulega Reykjanesi„, sem er að öllu leyti rétt, bæði skv. örnefnalýsingum og kortum fyrri tíðar:
„Hið raunverulega Reykjanes
Leó M. Jónsson.
Þegar haldið er lengra suður eftir veginum er komið á hæð þar sem vegurinn sveigir til austurs. Beint af augum er gamalt eldfjall, Sýrfell, en á milli þess og Reykjanessvita, sem stendur á hinu 50 m háa Vatnsfelli, í suðvestri, en fellið heitir eftir stórri tjörn sem er við það. Vitinn er 28 m a hæð og því 78 m yfir sjávarmáli. Mannvirkin norðvestan við Rauðhóla er Sjóefnavinnslan (oft ranglega nefnd Saltverksmiðjan). Einnig blasir við nýreist Reykjanesvirkjun. Hér blasir hið raunverulega Reykjanes við augum sem Reykjanesskaginn er kenndur við. Sérkennilegi hnjúkurinn með u-laga skarði í, sem sést héðan vestan vitans, nefnist Valahnjúkur. Lengst til hægri sést strýtan á móbergsdrangi sem nefnist Karl en hann stendur í sjónum skammt suður af vestasta tanga Reykjanessins sem nefnist Önglabrjótsnef og teygir sig út í sjóinn í átt til Eldeyjar. Þjóðsagan segir að tröllkarl og kerling, sem bjuggu í Eldey hafi vaðið til lands og haldið á kú að leiða til nauts. Tókst ekki betur til en svo að vegna tafa dagaði þau uppi og urðu að steini. Karlinn stendur þarna enn úti í sjó en Kerling, hátt eldvarp, sem stóð sunnar uppi á landi, brotnaði niður fyrir löngu.“
Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.02.2008, Ökuferð um Hafnahrepp, Leó M. Jónsson, bls. 9.
Reykjanes – kort frá 1908.
Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930 – Ólafur Ketilsson
Í Brúnni árið 1930 er fjallað um „Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930„. Frásögnin er hluti greinar Ólafs Ketilssonar í Höfnum í Ægi sama ár. Þar eru tíunduð skipströndin á nefndu tímabili, en í Brúnni er einungis fjallað um þann hluta er lítur að strandi Jamestown:
„[Í síðustu tölublöð „Ægis“ (Ægir 01.11.1930 og 01.12.1930) skrifar Ólafur Ketilsson, hreppstjóri að Óslandi í Höfnum, langa og mjög fróðlega grein um skipströnd í Hafnahreppi á síðustu 130 árum. Er greinin bráðskemtilega skrifuð, svo sem Ólafs er von og vísa, því að hann segir manna best frá. Leyfir Brúin sjer að birta hjer kafla úr greininni. Er hann um 4. strandið, „Jamestown“ eða „stóra strandið“, sem Ólafur kallar].
Vorið 1881, á hvítasunnumorgun, rak á land norðanvert við Kirkjuvogssund, geysilega stórt skip, í hafrótar-vestanroki. Var sjáanlegt, meðan skipið var að veltast í brimgarðinurri, að það myndi mannlaust með öllu.
Ekki var hægt að komast út í skipið þrjá fyrstu dagana eftir að það strandaði, fyrir brimi. Þegar skipið strandaði, lá á „Þórshöfn“ skamt þar frá, er skipið strandaði, danskt kaupskip frá H. P. Duusverslun í Keflavík. Skipstjórinn hjet Petersen; sagði hann okkur strax sem skipið var strandað, að það væri ameríkst timburskip, fult stafna á milli af tómum plönkum, og 3500 tonn að stærð. Var svo að heyra sem skipstjóri væri nákunnugur skipinu, því hann sagði okkur líka nákvæmlega um allan útbúnað á því ofan dekks, sem allt stóð heima, er komið var um borð í skipið. Hefir skipstjóri sennilega verið búinn að hitta skipið í hafi, áður en að það strandaði hjer við land.
Skip líkt og Jamestown.
Á fjórða degi var sjór loks orðinn það dauður, að komist varð um borð, og er óhætt að fullyrða að mörgum manninum var orðið meir en mál að komast um borð í báknið! Og aldrei gleymi jeg þeirri stund, þegar jeg, 16 ára unglingur, stóð í fyrsta sinni inni á þilfari „Jamestown“, og horfði undrandi og hugfanginn á þetta 60 faðma skipsbákn! Set jeg hjer stutta lýsingu af „Jamestown“, hinu stærsta skipi, sem strandað hefir við Ísland, síðan landið byggðist.
„Jamestown“ var þrímastraður barkur, og eins og áður er sagt, nákvæmlega 60 faðmar á lengd, en um breidd þess man jeg ekki með vissu, en það var jafnbreitt og franska skútan var löng, sem um sumarið var höfð til að flytja planka úr því. Þrjú þilför voru í skipinu, og óskiftur geimur hver lest, og hver lest troðin eins og síld í tunnu, af tómum plönkum, og enn pá eftir 50 ár blasir við augum mínum hinn óskaplegi geimur, efsta lestin, pegar búið er loks að tæma hana, 60 faðma langa og hátt á þriðju mannhæð á dýpt, má af því nokkurn veginn gera sjer grein fyrjr, hver kynstur hafi rúmast í öllum þessum geim, af plönkum.
Óttarsstaðir eystri í Hraunum voru byggðir úr timbri Jamestown.
Tveir stórir salir voru á efsta þilfari; var annar salurinn miðskips, en hinn millum aftasta og mið siglutrjes, var aftari salurinn hið mesta skrauthýsi, eða rjettara sagt, hafði verið, því búið var að brjóta þar allt og bramla, sennilega bæði af manna- og náttúrunnar völdum, en fyrir aftan öftustu siglu, var hálfdekk, sem tæplega var manngengt undir, hefir að öllum líkindum verið forðabúr [skipsins, því þar var að finna ýmislegt matarkyns, svínsflesk, nautakjöt m.m., og hrannir af spítnabraki, póleruðu mahoní, bæði í útskornum rósum og þiljum, sem borist höfðu þangað úr salnum, og auk þess voru þar kynstrin öll bæði af skrám, lömum og skrúfum, sem allt var úr kopar. 6 herbergi höfðu verið sitt til hvorrar hliðar í salnum, sennilega allt svefnherbergi, en allt var það orðið brotið að mestu, en mátti þó sjá, að öll höfðu herbergin verið mjög skrautleg, því útskornar, póleraðar mahoní-rósir á millum bita og mahoníþiljur voru sumsstaðar óbrotnar, en flest voru þó skilrúm millum herbergjanna brotin að meiru eða minnu. Fremri salurinn var að öllu íburðarminni, en var þó að nokkru leyti skift í svefnherhergi, en ekki líkt því eins vönduð, og sjáanlegt var að borðsalur hafði verið í öðrum enda salsins, þó ekkert fyndist þar af borðbúnaði, eða neitt því, sem verðmæti væri í.
Hafnir og nágrenni – kort,
Af öllu því tröllasmíði, sem sjá mátti á skipi þessu, var þó þrent sem mesta undrun mína vakti, — fyrst miðsiglutrjeð, tveir feðmingar að gildleika, með 18 afar sverum járngjörðum, annað undirbugspjótið, sem kallað er, 36 þml. ákant, og það þriðja, stýrislykkjurnar (3) úr kopar, en hvað þær hver um sig voru þungar, get jeg ekki gert neina ágiskun um, en jeg vil þó geta þess, að einn sunnudag fórum við Eiríkur sál. bróðir minn, ásamt þriðja manni, til þess að reyna að ná efstu lykkjunni, því hún hjekk á einum nagla, og því að kalla mátti laus úr sæti sínu (stýrið var brotið af). — Bundum við afarsverum nýjum kaðli í lykkjugatið, en vorum þeir aular að hafa dálítinn slaka á kaðlinum, svo þegar við loksins vorum búnir að losa naglann, og vega hann úr sætinu (falsinu), þá purpaði hún kaðalinn eins og brent brjef hefði verið, um leið og hún hrökk niður, og munaði minnstu að hún mjelaði bátinn, sem við vorum í.
Sægur af fólki, hvaðanæfa af landinu, kom um sumarið til þess að að skoða þetta skipsbákn, og mátti stundum heyra óp og vein, og guð almáttugur! þegar verið var að drösla kvenfólkinu upp þennan 17 tröppu riðlandi stiga, sem náði upp að öldustokkskipsins.
Annað ankeri ásamt keðju við Kirkjuvogskirkju í Höfnum.
Eftir að „Jamestown“ strandaði og ráðstöfun hafði verið gerð til þess af landshöfðingja, Hilmar Finsen, að fara að bjarga til lands plönkunum, neituðu Suðurnesjabændur algerlega að hreyfa hönd að björgun, töldu það alveg óvinnandi verk, en vildu hins vegar fá skipið keypt með öllu, eins og það stóð. En er því var neitað, buðu sig fram til að bjarga úr skipinu þrír menn í Reykjavík, þeir kaupmennirnir Páll sál. Eggerz og Jón sál. Vídalín og Sigurður Jónsson járnsmiður, sem ennþá er á lífi, nú á níræðisaldri. Komu þeir hingað á strandstaðinn snemma í júnímánuði á franskri skútu (Loggortu); var skipstjóri Ólafur Benediktsson Waage. Fengu þeir fjelagar mikið af verkafólki hjer, því þeir buðu óvenjulega hátt kaup í duglega menn, 25 aura um tímann! 3 kr. um daginn fyrir 12 tíma þrælkun; þótti það óheyrilega hátt kaup, og alt borgað í skíru gulli og silfri, á hverju laugardagskveldi!
Hestaklettur – strandstaður Jamestown.
Keflavíkurkaupmennirnir voru ekki í þann tíð vanir að borga verkafólki í gulli og silfri vinnu sína, heldur í uppskrúfuðum vörum, þurrum og blautum! Var þessari nýjung um greiðslu verkkaups tekið með hinum mesta fögnuði af Suðurnesjabúum, og margur sá maðurinn, sem átti laglegan skilding um haustið í kistuhandraðanum, því í þá daga þektust ekki tálsnörur nútímans bíóin, kaffihúsin m. m., sem nú tæma vasa verkamannsins verkalaunum sínum!
Hvað margir „Loggortu“-farmar af plönkum voru fluttir til Reykjavíkur man jeg ekki með vissu, en jafnaðarlega var verið i tvo daga að ferma skútuna, og svo aðra tvo daga að flytja í land í stórum ílotum, því öllu var skipað í land upp á helming. Þegar kom fram í júlímánuð fóru bændur líka að bjarga upp á helming, voru þá oft fra 12 — 20 plankar á hvern mann, í helmingaskiftum, og stundum var það mikið meira, sem hver maður hafði í sinn hlut eftir daginn, þegar svo stóð á að sunnan stormur var, því þá var plönkunum dyngt í sjóinn og látnir reka til lands, frá 600 — 800 st. í einu! Í júlímánaðarlok var loksins efsta lestin tæmd af timbrinu.
Kaupstaðavegurinn (vagnvegurinn) ofan Ósa. Hefur eflaust tengst strandinu mikla skammt vestar.
Í tvo mánuði voru fleiri tugir manna að tæma eina skipslest og þó þrásinnis fleygt i sjóinn mörg hundruð plönkum á dag! Það ætti að gefa nútíðarmanninum nokkurn veginn ljósa hugmynd um hver ógrynni af plönkum hafi verið í öllum (3) lestum skipsins.
Þegar efsta lestin var tæmd, var fyrsta uppboðið haldið, var sjávarströndin á fleiri hundruð faðma svæði þá ein óslitin plankahrúga. Voru í hverju númeri frá 10 — 20 plankar. Voru plankarnir 6—9 ál. langir, en 3 1/2 tom. þykkir, og af mismunandi breidd, 6—11 tom.
Kristján sál. Jónsson, hæstarjettardómari, var þá sýslumaður í Gullbringusýslu, og hjelt hann fyrsta uppboðið. Stóð uppboðið í tvo daga; var verð á plönkunum 25 — 50 au. og mundu það þykja góð timburkaup nú.
Jamestown – auglýsing.
Að plankauppboðinu loknu, var sjóboðið haldið. Keypti faðir minn möstrin og alla kaðla (vantinn) og víra m. m. á 24 kr., en í skipið sjálft með öllu timbri sem í því var í mið- og neðslu lest, var hæstbjóðandi H. P. Duus, kaupmaður í Keflavík, fyrir kr. 300,00, er hann bauð í það fyrir föður minn og aðra Suðurnesjabændur, en kom þar aldrei nálægt eftir uppboðið.
Strax eftir uppboðið var byrjað að skipa upp úr skipinu aftur og því haldið áfram stanslaust til 10. sept., en þá kom suðvestanrok með stórbrimi og klofnaði skipið þá í tvennt og rak hver spíta til lands. Var stórfengleg sjón að sjá allan þann flota, þegar hann kom að landi, mundi engum manni hafa dottið í hug, ef ekki hefði vitað, að öll sú plankabreiða væri úr einu skipi, og þó var búið að taka meiri partinn úr miðlestinni og alt úr efstu lestum er skipið brotnaði.
Jeg minnist pess, að þegar skipið var nýstrandað, kom til föður míns maður, sem hjet Sölvi Sölvason, og lengi var búinn að vera í siglingum. Sagði hann föður mínum, að hann þyrði að taka 18 sextíu lesta skonnortufarma úr skipinu, en faðir minn taldi það þá öfgar einar. En það hefði verið áhættulaust að tvöfalda þá tölu. Alt var skipið eirslegið í sjó og koparseymt og voru það laglegir koparboltar, sem gengu í gegnum botnrangirnar. Sendi faðir minn mörg þúsund kgr. til Englands af kopar. Það eina; sem tapaðist og aldrei sást, var afturstafn skipsins með stýrislykkjunum. Hefir það sennilega sokkið sökum þyngslanna af lykkjunum.
Hver kynstur að sumir af Suðurnesjabændum söfnuðu að sjer af plönkunum, má meðal annars marka af því, að faðir minn seldi í einu til Jóhanns nokkurs snikkara á Eyrarbakka 1200 st. og sá ekki á eftir, að á hefði verið tekið.
Silfurgrjót.
Þegar leið á sumarið fór að kvisast að ballest skipsins væri afarmikils virði, jafnvel meira verðmæti en skipið sjálft með öllum farminum. Um nýjársleytið kom svo fyrirspurn til föður míns frá landshöfðingja um hvað orðið hefði af ballestinni og hvort ekki væri hægt ennþá að bjarga henni, því hún (ballestin) hefði verið auðæfi mikil, óhreinsað silfurgrjót frá Mexico. Hleypti pessi fregn heldur en ekki púðri í okkur strákana og var ekki dregið á langinn að fara og slæða botninn á strandstaðnum. En allir þessir silfurloftkastalar okkar hrundu og urðu að engu, þó við værum að slæða dag eftir dag, fengum við aldrei einn einasta mola og gátum aldrei sjeð einn einasta stein í botninum þó við sæjum vel í botn.
Þrímastra skip líkt og Jamestown.
Vorið eftir kom svo Sigurður Jónsson, járnsmiður, sem áður er nefndur, í sömu erindagerðum og var jeg oft með honum við að slæða, en það fór á sömu leið. Við höfðum erfiðið og ekkert annað. Sennilega hefir svo farið, að þegar skipið brotnaði, hefir botninn sogast fram í briminu og hvolft þar úr sjer á leirbotni áður en botninn rak til lands. Hinsvegar alveg óskiljanlegt, að í þau 50 ár, sem liðin eru síðan að skipið strandaði, skuli aldrei einn moli hafa borist til lands í öllum þeim hafrótum, sem komið hafa í þessi 50 ár. Það eina, sem mjer er kunnugt um að náðst hafi af ballestinni, er einn hnullungsmoli, sem Sigurður sál. Ólafsson, bóndi í Merkinesi, náði. Skreið hann eitthvað niður með afturstafni skipsins og fann þá þennan mola.
Var Sigurður mikill járnsmiður sem kunnugt er. Fór hann með molann í smiðju sína og bræddi úr silfrið, en hve mikið hann fjekk af silfri veit jeg ekki, því jeg sá það aldrei.
Jeg hefi orðið nokkuð langorður um þetta stóra strand, þó ótalmargt sje enn þá ósagt, en sökum þess að mjer er ekki kunnugt um að nokkur maður, alt til þessa, hafi skrifað einn sögulegan staf strandinu viðvíkjandi, þá hefi jeg ekki viljað láta undir höfuð leggjast að skrásetja það helsta um þetta mikla strand, svo að jafn-stórmerkur viðburður ekki týndist algerlega úr annálum Íslands.
Einkennileg tilviljun má það kallast, að tvö alstærstu timburströndin, sem borið hefir að ströndum þessa lands skuli hafa lent í Hafnahreppi“.
Heimildir:
-Brúin, 97. tbl. 31.12.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, bls. 1-4.
-Ægir, 11. tbl. 01.11.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, Ólafur Ketilsson, bls. 137-240.
-Ægir, 12. tbl. 01.12.1930, Skipströnd í Hafnahreppi árin 1800-1930, Ólafur Ketilsson, bls. 273-277.
Hafnir um og eftir 1900.
Skipstrand í Höfnum – Friðrik Gunnlaugsson
Í Faxa árið 1967 ræddi Hallgrímur Th. Björnsson við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára gamla sækempu, um „Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum„. Skipið, sem strandaði, var hið sögufræga Jamestown:
„Fyrir tveimur árum, eða nánar til tekið í jólablaðinu 1965, birtist hér í Faxa langt og fróðlegt viðtal við hinn háaldraða sægarp og heiðursmann, Friðrik Gunnlaugsson, sem nú er langt til búinn að klifa sitt 95. aldursár. Sagði hann þar nokkuð frá aldamótaárunum í lífi þjóðarinnar, sjómannsferli sínum og samskiptum við ýmsa merka menn, t. d. Eldeyjar-Hjalta og brezkan togaraskipstjóra.
Nú á dögunum leit ég inn til Friðriks til að fræðast af honum um merkisatburð, sem skeði í Höfnum á bernskudögum hans þar, fyrir 85 árum, þegar hið mikla timburflutningaskip strandaði þar. Sótti ég furðu vel að gamla manninum, sem hafði lagt sig fyrir með reykjarpípuna sína og las í bók. Friðrik mun eini núlifandi Íslendingurinn, sem sá þenna atburð.
— Er þér þetta enn í fersku minni, Friðrik?
— Já, ég held ég muni það eins og það hefði skeð í gær, þó ég væri þá aðeins á 10. árinu.
— Á hvaða árstíma gerðist þetta?
— Það var um vorið, um vertíðarlokin.
Hafnir og nágrenni – kort,
Tíðin hafði verið góð, en í Höfnum hafði þá verið alveg fiskilaust. Ég man, að daginn áður en skipið strandaði voru vertíðarlok og vermenn því allir farnir. Aðeins 1 var á sjó, Marteinn Ólafsson í Merkinesi, sem var á stóru 6 manna fari. Piltar hans voru enn ófarnir.
Merkines fyrir sunnan Hafnir.
Þennan dag hafði hann farið í Röstina til að fá lúðu og þar höfðu þeir komið auga á þetta stóra skip, sem þeir þá héldu að væri herskip eða eitthvað svoleiðis. Þeir ályktuðu þetta vegna stærðar skipsins, en það var nokkuð úrleiðis þeim stað, sem þeir voru að fiska. Jæja, svo um nóttina rauk hann upp á vestan, og um fótaferðartíma kemur þessi stóri barkur siglandi alveg beint undan vindinum og heldur áfram upp í klettana fyrir austan Þórshöfn, sem er í Miðneslandi.
— Og þið hafið séð þetta greinilega úr Höfnum ?
— Já, ég held nú það. En það sást ekki frá Stafnesi, né bæjunum þar í kring.
— Geturðu nokkuð lýst skipinu, stærð þess og lögun?
Skip líkt Jamestown.
— Þetta var þrímastra skip, afskaplega skelfing stórt. Gæti ég helzt líkt því við m. s. Gullfoss, eins og hann er núna.
Ósar – herforingjaráðskort 1903.
Þegar skipið strandaði, hrökk í sundur toppstöngin af miðmastrinu. Var þá kominn það mikill hroði, að enginn treysti sér að fara út, til að grennslast eftir, hvort fólk væri á skipinu. En það var ekki hægt að sjá úr landi, þar sem skipið hafði lenzað undan. Var nú farið út fyrir á Skotbakkanum, sem svo er kallað og fékk ég að vera þar með. Komumst við út í urðina fyrir austan Þórshöfn, en þaðan var stutt á strandstað. Við höfðum kíkir meðferðis og með honum sáum við vel át í skipið. Þar sást enginn maður, hvorki lífs né liðinn, það er greint varð. Svo komum við úr þessari könnunarferð og var þá sent til Reykjavíkur að láta vita um atburðinn.
— Hvað var þá langt um liðið frá því skipið strandaði?
— Aðeins stundarbil, meðan við skruppum út í urðina. Þegar svo veðrið batnaði, komu sendimenn úr Reykjavík og var þá farið út í skipið til að rannsaka það og innihald þess.
— Þú líktir skipinu áðan við Gullfoss, Friðrik. Hefurðu nokkrar tölur við að styðjast um stærð þess?
Séra Sigurður B. Sívertsen. Hann var sonur hjónanna Brynjólfs Sívertsens (Sigurðssonar) prests á Útskálum (áður dómkirkjuprests í Reykjavík) og Steinunnar Helgadóttur konu hans.
— Sjálfur hefi ég það ekki. En það vill nú svo vel til, að í Suðurnesjaannál, frá þessum tíma, eftir sr. Sigurð B. Sívertsen, prest að Útskálum, er að finna allnákvæma lýsingu á skipinu. Þar segir: „en svo var allt stórkostlegt á tröllskipi þessu, að allri furðu gegndi, og svo að menn hefðu eigi trúað, ef menn hefðu eigi séð. Eftir því, sem ég hefi komizt næst, var lengd þessa skips 128 álnir, og á breidd 27 álnir (allt að 30 álnir).
Möstrin tveir feðmingar á digurð, akkerin á að gizka, hvert af þremur 100 skippund, eða 3000… Hið fjórða var lítið. Hver hlekkur í akkeriskeðjunni var 1 fjórðungur. Káetan á efsta þilfari var svo stór, að rúmað gat 200 manns til borðs. Mátti sjá, að húsið hefir í upphafi verið mjög skrautlegt, en rúið og ruplað hefir það verið öllum húsbúnaði að innan. Aðeins mátti sjá, að í því hafi verið 12 smærri herbergi, en milligerð öll brotin. Dýpt skipsins frá efsta þilfari allt að 20 álnir. Segl voru engin, en þau slitur af þeim, sem fundust, og kaðlar var allt fúið. Samt er óvíst, hve lengi það hefir verið í sjó eða hvenær því hefir borizt á. En að því var komizt, að skipið hefir verið frá Boston í Ameríku, og heitið þar „James Town,“ sem líka er staðarnafn allnærri Boston. Skipið var fermt eintómum plönkum af allri lengd, en svo var í það raðað eða frá gengið og skorðað, að járnkarla þurfti að nota til að losa um það.“
Hestaklettur. Hafnir í bakgrunni.
— Þetta er nú orðin all nákvæm lýsing á skipinu, en getur þú sagt mér, Friðrik, hvaða skýring var á því gefin, að skipið hafði verið rænt og rúið öllu skrauti sínu og húsbúnaði og hvers vegna það rak mannlaust að landi?
Hafnir – Ankeri Jamestown; minnismerki.
— Okkur var sagt, að stýrisútbúnaður þess hefði bilað með einhverjum hætti og áhöfninni verið bjargað í annað skip. Eftir það hafi skipið borizt um hafið fyrir vindum og straumi og þannig legið opið og varnarlaust fyrir óvönduðum ævintýramönnum, sem áttu leið fram hjá því, enda var þar sjón sögu ríkari, eins og framanskráð ber með sér.
— Hvað er talið að timbrið í skipinu hafi verið mikið?
— Sé það rétt, sem ég hefi heyrt, að úr efstu lestinni hafi komið yfir 15.000 plankar, sem ég tel ekki vera of reiknað, og hafi svipað magn verið í hinum lestunum, hvorri fyrir sig, þá lætur nærri, að alls hafi í skipinu verið 45—50 þúsund plankar og annað timbur. Þetta er vitaskuld bara ágizkun mín, en ég hygg samt, að þetta geti látið nokkuð nærri.
— Svo að við víkjum aftur að sjálfu skipinu, Friðrik, var þetta tréskip?
— Já, og allt eirslegið í sjó niður. Á dekki þess voru 2 ákaflega stórir salir og fannst þar mikið af barna- og kvenfatnaði, sem þótti benda til, að um borð í skipinu hafi búið fjölskyldur, foreldrar með börn sín.
— Þóttu ykkur ekki ljótar fregnirnar um ófarir þessa mikla skips og ránin þar um borð?
Strandið – auglýsing.
— Jú, fólki blöskraði slíkt athæfi. En á þessu lék aldrei neinn vafi, enda höfðu ýmsir farmenn héðan bæði haft spurnir af þessu mannlausa skipi og jafnvel komið í það sjálfir, á leið sinni milli landa. Þeirra á meðal var Petersen, skipstjórinn á Ástu frá Duus, sem hingað kom alltaf á sumrin frá Þórshöfn, að taka fisk.
Ankeri Jamestown við Sáðgerði í Sandgerði.
— Lenti skipið upp í kletta, þegar það strandaði ?
— Nei, ekki alveg. Það rann þar upp að klöpp og sneri þá stafninum hér um bil í landsuður, en hinum endanum í útnorður. Þannig lá það meðfram klöppinni, og hafa þá verið um 30 faðmar frá skipinu að henni, og hallaðist það þá lítið eitt til suðurs í stjórnborða.
— Víkjum nú aftur að söguþræðinum, Friðrik. Við vorum þar komnir, sem rannsókn hafði leitt í ljós, að farmur skipsins væri timbur og aftur timbur. Hvað gerðist svo næst?
— Yfirmenn úr Reykjavík voru sendir suður, sem skyldu hafa umsjón með uppskipuninni. Einn þessara yfirmanna hét Sigurður og var járnsmiður. Þótti hann vera mjög orðljótur og harður við lærlinga sína og hlaut af því viðurnefnið Siggi svínabezt. Svo var það einhvern tíma, að alls ókunnur maður, sem aðeins hafði heyrt hann kallaðan þessu nafni, þurfti að finna hann og kom heim til hans og spurði í fáfræði sinni konu hans, hvort Siggi svínabezt væri heima. Konan varð ókvæða við og byrjaði að skamma manninn, sem þá fljótlega áttaði sig, baðst afsökunar á mismæli sínu og kvaðst hafa verið að spyrja eftir Sigurði, sem smíðaði bezt. Hafði þá allt viðhorf eiginkonunnar til málanna breytzt til hins betra og hún boðið manninum til stofu, að þiggja hjá sér góðgerðir.
— Já, þetta hefir verið býsna úrræðagóður náungi. En segðu mér, Friðrik, hvað var svo gert við timbrið?
Kaupstaðavegurinn ofan Ósa – að Jamestownsrekanum.
— Það var verið að skipa því upp allt vorið og allt sumarið, bæði þarna út frá í Hvalvíkinni og einnig suður í Kirkjuvogi. Uppskipunin í Hvalvík gekk fremur seint, því að þangað var ekki unnt að koma skipum, vegna mikils aðgrynnis, nema á hásjávuðu, en þá var líka burðurinn upp enginn. Meðal þeirra, sem skipuðu upp suður í Kirkjuvogi, var t.d. Ketill heitinn í Kotvogi, sem lét sína menn annast þetta verk. Einn þeirra man ég að var sonur hans, Ólafur. Öllu timbrinu var þar skipað upp fyrir neðan Kotvog með háum sjó og eins í Vörina, því að þar var örstutt að bera varninginn upp. Ég minnist þess, að það voru býsna stórir búnkar af timbri, sem þar komu á land. Þeir, sem við uppskipunina unnu, áttu að fá helming timbursins, eða andvirði þess, fyrir vinnu sína, enda lögðu þeir til mennina og bátinn, sem skipað var upp á. Nú, nú, þegar svo fór að lækka í fyrstu lestinni, var sett stórt gat á stjórnborðssíðu skipsins og timbrið rétt þar út. Að þessu var hinn mesti flýtisauki, enda komu nú margar skútur, sem lögðust hver af annarri að skipshliðinni og var timbrinu þá skipað út í þær um þetta gat, sem var mjög fljótlegt. Var verið að skipa út í þessar litlu skútur dag eftir dag, en þær voru frá 20—30 tonn að stærð. Timbrið var flutt í Hafnarfjörð, Reykjavík og víðs vegar hér um Suðurnes.
Kotvogur.
— Og selt þá jafnóðum?
— Það tel ég ekki ósennilegt, þó ég viti það ekki. En það veit ég, að þeir fengu viðstöðulaust að fylla skipin, sem báru lítið, og hefir þá sjálfsagt verið vitað, hvað í þau fór, og þannig verið hægt að fylgjast með því, sem hver og einn tók.
— Ætli yfirstjórn þessara mála hafi ekki verið í höndum amtmanns og viðkomandi konsúls?
— Það tel ég sennilegt.
Jamestown – opinber auglýsing um strandið.
— Unnuð þið Hafnarmenn ekki fyrst og fremst við þessa uppskipun?
— Jú, að sjálfsögðu allir, sem til einhvers voru nýtir. Ég kom þar hvergi nærri, sakir bernsku minnar. En svo var mikið af timbrinu, Hallgrímur, að þegar þessi uppskipun hafði staðið langt fram á sumar, var ekki nærri búið allt úr fyrstu lestinni. Hér vil ég geta þess, að önnur af þeim akkeriskeðjum, sem til náðist, var anzi mikið flókin og ekki unnt að greiða hana. Hin var alveg greið og var neðri endi hennar fastur í botni við kjölsvínið. Með þessari keðju var akkerið látið falla, til þess að festa skipið, að það ekki gæti tekið út. En eftir því sem skipið léttist og hækkaði í sjó, kom það náttúrlega ennþá hærra og nær klöppinni. En svo gerir hann þetta ofsa, óskapa veður á vestan í septembermánuði, og var flóðið eftir því mikið. Þá klofnaði skipið í tvennt og voru þá tvær lestarnar eftir ósnertar, og eins og fyrr segir, nokkuð í hinni þriðju. Jæja, þegar skipið var klofnað, flutu síðurnar upp og rak aðra í tvennu lagi upp í Einbúa, sem svo er nefndur, en hin á tangann, rétt hjá Skotbakkanum, og var hún í heilu lagi. En kjölsvínið lenti á skeri, sem er rétt norðan við Hestaklettinn og brotnaði þar.
Mörgum árum síðar fórum við oft og tíðum þangað í beitifjöru, með Bjarna heitnum Guðnasyni. Í einni þeirri ferð fundum við endann á keðjunni upp við skerið og skírðist þetta þá nokkuð fyrir okkur. Annars hefði endinn sennilega aldrei fundizt og enginn þá vitað neitt um afdrif keðjunnar. Nú, nú, þetta varð svo til þess, að Bjarni keypti „sjóboðið,“ sem svo var kallað, fyrir 2 krónur.
Hafnir.
— Hvað fólst í þessu sjóboði?
— Allt það úr skipinu, sem enn var ekki komið í land. En eins og ég gat um, fundum við keðjuna mörgum árum eftir strandið.
— En þú hefir enn ekki sagt mér, hvað varð um timbrið úr tveimur neðri lestunum, Friðrik?
— Þegar skipið brotnaði, barst það upp um allar fjörur og lá þar í hrönnum um alla ströndina, alla leið inn í Djúpavog.
Ásláksstaðir – byggðir úr timbri Jamestown.
— Það var sem sé ekki með í sjóboðinu?
— Nei, alls ekki. Í sjóboðinu fólst einungis vonin um eitthvað, sem ekki hefði rekið á land, væri það þá nokkuð. Enda var sjóboðið í þessu tilviki eins og ég sagði, slegið Bjarna á 2 krónur, sem náttúrlega var engin fjárhæð.
— Hann hefir þá séð sér leik á borði, þegar hann fann keðjuna?
— Já, það er rétt. Og eftir að hann þannig var orðinn eigandi sjóboðsins og þar með keðjunnar, fór þetta að fréttast.
Þorvaldur Bjarnason í Hafnarfirði, ættaður úr Höfnum, faðir Herdísar leikkonu, heyrði um keðjufundinn. Fékk hann áhuga á málinu og keypti vonina í keðjunni af Bjarna. Fékk hann Þorbjörn Klemenzson í lið með sér, en hann var þá einnig búsettur í Hafnarfirði. Hafði Þorvaldur samið við Vestmannaeyinga, um að þeir keyptu af honum keðjuna, ef honum tækist að ná henni upp. Strax þá um sumarið hófust þeir félagar handa við björgunarstarfið. Útbjuggu þeir stóran fleka, sem hvíldi á 8 olíufötum, settu á hann sveifarspil og fleira, sem að gagni mátti verða. Síðan fóru þeir á hverri fjöru og sveifuðu upp það sem þeir gátu, en hitt reif flekinn upp sjálfur, þegar hækkaði í sjónum, því að hann hafði verið rammlega festur við keðjuna.
Í byrjun desember 2018 var vígt við anddyri Safnahússins minnismerki um síðustu og um leið öflugustu botnfestar sem lagðar voru á botni Vestmannaeyjahafnar árið 1920. Theódór S. Ólafsson, vélstjóri og fyrrv. útgerðarmaður hafði frumkvæði að verkinu. Keðjan er frá strandi Jamestown.
En svo lásuðu þeir alltaf jafnóðum frá hvern lás, sem var 15 faðmar, og fóru með þá hvern um sig upp á Hestaklettinn og geymdu þar. Þannig höfðu þeir upp alla keðjuna, 7 liði, samtals 105 faðma og seldu hana síðan Vestmanneyingum þarna á klettinum, og þeir komu síðan þar á stórum mótorbát og fluttu heila kladdann til Eyja. Keðjan var síðan strengd þar yfir höfnina og settir á hana sigurnaglar með jöfnu millibili, handa bátunum til að festa sig við.
— Veiztu nokkuð, hvað Þorvaldur fékk fyrir keðjuna?
— Nei, en það hlýtur að hafa verið töluvert. Ég held nú annars, að þetta hafi þá verið orðin félagseign þeirra Þorbjörns, og sjálfsagt tel ég að þeir hafi fengið ríflega uppborinn útlagðan kostnað og sæmilegt sumarkaup, hvort sem þeir hafa nú grætt annað á fyrirtækinu. En auk keðjunnar náðu þeir þarna einnig upp akkerinu, sem var gríðarlega stórt, en það var með eikarási, er var í burtu, og lá akkerið því flatt. Þeir komu því með keðjunni upp á klöppina, þar sem það mun liggja enn, því að Eyjarskeggjar hirtu aldrei um að taka það. Nú er það auðvitað mosagróið þar á klöppinni, en þó tel ég alveg víst, að enn sjáist það þar. Mundi Vilhjálmur Magnússon manna líklegastur þar í Höfnum til að benda á þessa klapparflúð.
— Jæja, Friðrik. Mig langar að heyra nánar um timbrið í fjörunni og hvernig því reiddi af?
— Já, það var strax farið að númera timbrið, sem rak á fjörurnar, og voru margir við það verk, sem stóð yfir í vikutíma, að mig minnir. Jafnóðum og timbrið var númerað, gat salan á því hafizt, og svo þurfti ekkert annað, þegar númerin voru tekin, en að fleygja timbrinu örlítið hærra upp í fjöruna, svo að sjórinn tæki það ekki, enda var það þá komið úr allri hættu.
— Hvað þýddi þessi númering?
— Það var gert til þess, að hver gæti keypt það sem hann hafði hug á að fá, því að í hverju númeri voru ákveðnar lengdir og tiltekið magn. Sum voru með eintómum löngum plönkum, önnur með styttri og enn önnur með spýrur og borðvið og annað þess háttar. Svo buðu menn í hvert númer fyrir sig. Sumir kannske keyptu 5—6 og upp í 10 númer af þessu. Já, það held ég nú.
Árið 1883 segir Þorvaldur Thoroddsen, að byggingar séu „hvergi jafngóðar á Íslandi“ eins og á Vatnsleysuströnd, „svo að segja eintóm timburhús, vel vönduð og útbúin“. Timburhúsin voru flest reist úr farmi Jamestown, sem rak á fjórur í Höfnum 1881. Strandið olli tímamót um í húsagerð manna suður með sjó.
— Hve lengi stóð þessi verzlun þarna í fjörunni?
— Hún stóð í 4 daga.
— Hverjir komu þar til að verzla?
— Þangað komu menn víðs vegar að, frá Reykjavík, Hafnarfirði og alls staðar hér af Suðurnesjum, enda munu hafa verið byggð einhver ósköp af húsum úr þessu timbri. Ég minnist þess, að Einar í Garðhúsum keypti mjög mörg númer af þessu timbri, fyrir utan Ósa. Svo kom hann um sumarið, fékk skip í Höfnum og fór út eftir, þar sem hann átti timbrið, lét menn sína búnka því öllu í geysistóran fleka og binda saman rammlega. Minnir mig, að í flekanum væru um 200 miklir og stórir plankar, þetta 10—12 álna langir, 3ja þumlunga þykkir og 8—9 feta breiðir. — Jæja, svo þegar þeir voru búnir að koma flekanum af stað í norðan roki, héldu þeir suður úr og út ósinn og ætluðu með flekann suður í Kirkjuósvör, en þar átti að taka plankana í land og geyma þá þar, og þangað ætlaði svo Einar að sækja þá á sínum eigin skipum sumarið eftir. En margt fer öðruvísi en ætlað er. Útfallið var að byrja, þegar þeir komu á móts við vörina og hafði þá straumurinn út úr ósnum betur, svo að þeir lentu fyrir utan Flataskerið og enn bárust þeir lengra út. Þannig héldu þeir suður með öllu landi og þó að þeir leituðust stöðugt við að koma flekanum nær og nær, þá hafði straumurinn sífellt betur og virtist einn hafa vald yfir flekanum, enda misstu þeir hann alveg að síðustu út fyrir eyrina á Kalmanstjörn og út á reginhaf. Þar með var sá draumur búinn.
— Svo Einar hefir ekki byggt hús úr þessu timbri?
— Nei, hann varð þarna fyrir talsverðum skaða.
— Urðu nú ekki fleiri en Einar fyrir tjóni í sambandi við þessa flutninga?
—Jú, það tel ég sennilegt, þó að mig reki ekki minni til þess. Menn sóttu timbrið ýmist á skipum, sem þeir þá sigldu inn á höfnina og lögðu þeim þar meðan verið var að hlaða þau, og fluttu þá litlir bátar timbrið út í skipin, eða þá að timbrið var flutt á hestum, en það gerðu t. d. bæði Keflvíkingar og Njarðvíkingar. Ég minnist þess, að hjá Bjarna heitnum Guðnasyni voru þá vermenn undan Eyjafjöllum og úr Fljótshlíðinni, sem hann gerði út, einnig voru hjá honum sjómenn, þeir Páll og Sigurður frá Hvalsnesi, sem nú eru báðir löngu horfnir af sjónarsviðinu.
Strandsstaður Jamestown.
Allir voru þessir menn meira og minna við smíðar þennan vetur, að smíða úr þessu ódýra timbri ýmiss konar búshluti og áhöld. — Náttúrlega hafa þeir fengið til þess leyfi Bjarna, enda munu þeir aðallega hafa gert það í landlegum og öðrum frístundum, en báðir ætluðu þeir að fara að búa á Hvalsnesi þá um vorið, svo að þetta hefir komið sér vel fyrir þá. Um vertíðarlokin fluttu þeir svo alla smíðina heim með sér. Fljótshlíðingarnir og þeir hinir undan Eyjafjöllunum, munu einnig hafa smíðað nokkuð þenna vetur og flutt gripina heim með sér. Voru það aðallega laupar, byttur, fötur og svo vefstólar. Sigurður heitinn á Hvalsnesi smíðaði handa sjálfum sér vefstól, völundarsmíði, sem var svo léttur og fíngerður, að krækja varð honum niður að aftan, svo að hann ekki lyftist upp, þegar ofið var í honum. Tiltekið var, hve gripur þessi var vandaður að allri gerð, enda var Sigurður orðlagður gæðasmiður.
— Hvað fleira manstu að segja af þessu, var lokið við timbursöluna þá um sumarið?
— Nei, nei, ég held nú síður, það entist í fleiri ár úr skipinu. Og ennþá lengur var þó verið að vinna úr sjálfum skipsskrokknum og búta síðurnar niður. Það var nú engin smáræðis vinna að rífa þetta allt í sundur, því að allt var það samanrekið með sterkum járn- og koparboltum.
Húsið var byggt úr timri úr Jamestown.
— Voru það þá menn frá skipseigendum, sem sáu um þetta?
— Nei, bara frá þeim, sem keyptu skipsflakið, en það gerðu Hafnarmenn í félagi og voru þeir svo alltaf smátt og smátt að rífa þetta í fleiri ár. Og svo jafnóðum og timbrið losnaði úr flakinu, notuðu þeir það ýmist til eigin þarfa eða þeir seldu það öðrum, sem fengu það þá við mjög vægu verði. Síðan bútuðu þeir það með stórviðarsögum í mátulegar lengdir, t. d. rárnar og flettu síðan bútunum og gátu þannig fengið mjög heppilegt timbur.
Hafnir – Kotvogur.
— Þannig hefir allur skipsskrokkurinn meira og minna verið nýttur?
— Já, mjög mikið af honum. Bæjardyrnar í Kotvogi voru t. d. byggðar úr þessum viði, svokölluðum tappaplönkum. Nafnið kom til af því, að tappar voru settir í plankana, þar sem boltarnir höfðu verið.
— Telur þú að menn hafi hagnazt á þessu?
— Það er nú enginn vafi. Þeir fengu þetta svo að segja fyrir ekki neitt. Það var bara vinnan á þessu. Ekki man ég nú hvað skipssíðurnar kostuðu, en það var sáralítið, enda þýddi engum að kaupa þetta nema Hafnarmönnum. Þeir einir höfðu aðstöðu til að hagnýta sér brakið.
— En var ekki timbrið, sem flaut úr lestunum upp í fjörurnar, selt hærra verði?
— Jú, það var selt á uppboði fyrir eitthvað meira, en samt var það líka afar billegt, t. d. kostuðu þessir stóru plankar aldrei meira en 2 krónur og heil númer af öðru timbri voru seld á 1—2 krónur, heil búntin.
— Var ekki stundum margt um manninn þarna í fjörunni?
— Jú, það var það oft, t. d. var alltaf dálítill hópur manna, sem fór í einu til að rífa síðurnar.
— Manstu fleira að segja mér, Friðrik, viðkomandi þessu skipsstrandi?
— Já, ég held ég geti bætt hér við þessa frásögn athyglisverðum hlut. Þegar mörg ár voru liðin frá þessum atburði, kvisaðist sú fregn, að ballestin í þessu fræga skipi, er sökk með því í hafið, hafi ein út af fyrir sig, kostað mikið meira en skipið sjálft, með öllum hinum mikla timburfarmi. Þetta er að mínu viti það merkilegasta við þessa frásögn.
— Hvers konar ballest var það?
— Það var silfurberg, talið mjög verðmætt.
Annað ankeri ásamt keðju við Kirkjuvogskirkju í Höfnum.
— Og hvað varð svo um það?
— Það situr þarna á botninum, þar sem skipið liðaðist í sundur. Jæja, svo var það löngu síðar, ég var þá fluttur hingað til Keflavíkur, að kafarar voru sendir suður í Hafnir að leita hinna týndu fjársjóða, ballestinni úr skipinu. Fóru þeir eftir leiðsögn Sigurðar H. Ólafssonar, sem vísaði þeim á staðinn, þar sem við Bjarni Guðnason fundum keðjuendann, er vikið var að fyrr í þessu spjalli.
Ólafur Ketilsson við ankeri af Jamestown.
En vitanlega gripu kafararnir þarna í tómt, fundu þar aðeins ósköp venjulegan þaragróður, enda ekki við öðru að búast, eins og ég skal nú skýra nánar: Þú minnist þess í frásögn minni, er óveðrið gerði og skipið klofnaði, þar sem það lá við klöppina, að þá var akkerið og hin greiða akkeriskeðja látin falla, til að fyrirbyggja, að skipið tæki út aftur. Flóknu keðjuna, sem þeir ekki gátu greitt, létu þeir þar einnig með hinu akkerinu. Mundi ég vilja álíta, að það síðarnefnda hafi losnað við skipið, þegar það brotnaði, og liggi nú þar við klöppina, sem órækt sönnunargagn um hvar ballestarinnar er að leita.
— En hvar álítur þú þá að týnda akkerið sé?
— Það liggur 150—200 föðmum utan við skerið, sem við fundum keðjuna á. Þar er klöppin, sem skipið klofnaði við og þar hlýtur því bæði akkerið og ballestin að hafa farið niður.
— En hvaða skýring er á því, að þið funduð hitt akkerið ásamt keðjunni svona miklu nær landi?
— Það var vegna þess, að sú keðja var föst í kjölsvíninu, sem hefir dregið hana þarna upp að skerinu, rétt norðan við Hestaklettinn, þar sem við Bjarni fundum hana. Vegna þessa fundar okkar héldu svo ýmsir, að þar hefði skipið klofnað, og þar væri því silfurbergsins að leita. Þarna liggur skekkjan, Hallgrímur. En ég er viss í minni sök, ég veit nákvæmlega um staðinn, þar sem ballestin liggur og hefði einhver hug á að finna hana, meðan ég er ekki lakari til heilsunnar en þetta, þá væri ég fús að skreppa út í Hafnir og gefa upp hin réttu mið..
Hljóðfæri smíðað úr timbri úr Jamestown.
— Það er nú vel boðið og ekki ólíklegt, að einhver notfæri sér það. En hvað getur þú ímyndað þér, Friðrik, að sjálf strandklöppin sé langt frá landi á stórstraumsfjöru?
— Þá er hún eiginlega í fjöruborðinu, hún kemur þá öll upp úr sjó. En eins og ég hefi fyrr sagt þér, lá skipið meðfram þessari klöpp, er það brotnaði, og hafa þá í mesta lagi verið um 30 faðmar frá því og upp á klöppina.
— Mundi þar vera mikið dýpi?
Óttarsstaðir austari, byggðir að hluta úr rekavið Jamestown.
— Nei, í mesta lagi svona 7 faðmar.
— Og þar liggur fjársjóðurinn?
— Já, áreiðanlega, og annar þungavarningur, sem í því kynni að hafa verið. Til frekari glöggvunar vil ég geta þess, að þarna innan við klöppina er stórt lón, og þar lá oft þessi ósköp af sel inni í þessu lóni, en eftir því miðju liggur djúp renna, þar sem selirnir gátu farið út og inn um fjöru. Ég man, að þeir lágu þarna oft í hópum saman í lóninu og uppi á klöppinni. Við fórum oft í beitifjöru í þetta lón, því að það var stundum talsverð öðubeita þar innan við kampinn. Fann ég þar þá stundum all sérkennilega steina á stærð við kaffibolla, eða hnefa manns og suma þaðan af minni.
Allir þessir steinar voru hvítglitrandi og fallegir, en samt tók ég aldrei neinn þeirra. Og uppi í Hvalvíkinni, þar sem útstreymið er svo mikið, var ég stundum í maðkasandi. Þar fann ég eitt sinn stóran stein á stærð við mjólkurkönnuna þarna, og var hann hvítglitrandi eins og hinir. En maður hugsaði þá bara ekkert út í, hvað þetta var og lét því kyrrt liggja, enda hafði maður þá annað við tímann að gera en að leika sér að fallegum steinum í fjörunni. Eftir á þóttist ég vita, að þetta hefði einmitt verið úr ballest skipsins og að steinarnir hefðu skolast inn í lónið, sem lá hringlaga inn frá klöppinni.
Ekki tel ég ósennilegt, að nokkurt magn af steinum þessum hafi þannig komizt inn í lónið, sem er gríðarlega djúpt.
Húsið Sandgerði (Sáðgerði) var byggt úr timbri úr Jamestown.
— En eru nú ekki meiri líkur fyrir því, að silfurbergið, eða hvað þetta nú er, hafi orpist þarna sandi og verði torfundið úr þessu ?
— Það fer náttúrlega nokkuð eftir því, hvernig botninn þarna utan við klöppina er, ég hygg nú að þar sé bara leir og þaragróður, sem naumast ætti að spilla verulega.
— Og að lokum, Friðrik, er þetta þá í Hvalvíkinni?
— Nei, það er ekki í henni sjálfri, heldur austast í urðinni fyrir austan Þórshöfn.
Hér lýkur viðtali okkar Friðriks Gunnlaugssonar, hins hartnær hálftíræða öldungs, sem á að baki sér langa manndómsog merkisævi, þeirrar athafnasömu kynslóðar, sem vann hörðum höndum fyrir sínu daglega brauði og skóp undirstöðuna að okkar háþróaða menningarríki. — Og svo, góðir Suðurnesjamenn: Nú er að taka til höndunum og leita hins týnda fjársjóðs.“ – Hallgrímur Th. Björnsson.
Heimild:
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1967, Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum – Rabbað við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára sækempu, bls. 156-163.
-Fylkir, 5. tbl. 01.12.2018, Minnismerki um botnfestar á fyrstu áratugum vélbátaaldar í Eyjum, bls. 17.
-Tíminn – Sunnudagsblað, 36. tbl. 13.09.1964, Suður með sjón, Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, bls. 856.
Fyrsti íbúi á Suðurnesjum – Njáll Benediktsson
Njáll Benediktsson skrifar um „Fyrsta íbúann á Suðurnesjum“ í Faxa árið 1989:
Skáli.
„Það er haft fyrir satt, að Steinunn gamla frændkona Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns hafi verið fyrsti íbúi á Suðurnesjum. Ingólfur nam land í Reykjavík árið 874. Ingólfur helgaði sér allt land norðan vatna.
Gufuskálar – óskilgreind skálatóft á hól.
Ingólfur vildi gefa Steinunni gömlu frændkonu sinni allt land frá Hvassahrauni og suður, norðan megin við Faxaflóa, en Steinunn vildi heldur gera við Ingólf kaup. Taldi slíkt haldbetra er fram liði og borgaði skagann með hlut, sem „flekka“ var nefnd. Enginn veit með vissu hvað þessi hlutur var. Kannski var þetta vaðmálsflík eða prjónaflík? Það má geta þess að formenn notuð höfuðfat, sem náði yfir allt höfuðið og niður á herðar. Það voru aðeins göt fyrir augu, nef og munn. Þetta var kallað „flekka“. Svo breyttust þessar höfuöflíkur og allt andlitið kom fram, þá var farið að kalla þessar höfuðflíkur hettur og síðar lambhúshettur. Steinunn gamla mun hafa byggt sér skála á Steinum í Leiru, sem síðar hét Hólmur og enn síðar Stóri-Hólmur.
Steinunn gamla.
Steinunn gamla var dugmikil kona. Hún hafði fyrstu verstöð við Faxaflóa. Að vísu var hún búin að leyfa Katli gufu Örlaugssyni að byggja skála að Gufuskálum í Leiru og hafði hann þaðan útræði í tvo vetur.
Steinunn gamla vildi koma Katli gufu í burtu og fékk Ingólf frænda sinn í lið með sér. Fór þá Ketill inn í Gufunes við Reykjavík og síðar upp í Gufudal. Sennilega hafði Ketill gufa Örlygsson útræði á Gufuskálum á Snæfellsnesi. En Steinunn gamla hélt sinni verstöð við Faxaflóa.
Steinunn gamla var gift kona, þegar hún kom til íslands. Maður hennar hét Herlaugur Kveldúlfsson. Hann var bróðir Skallagríms Kveldúlfssonar. Herlaugur kom aldrei til íslands. Hann fórst í víking við England, eins og það var kallað.
Herlaugur og Steinunn gamla áttu tvo syni, sem vitað er um, annar hét Arnór og hinn hét Njáll. Sennilega hafa þessir bræður komið til Íslands þó ekki sé hægt að finna hvar þeir bjuggu. Það er eins og það vanti heila öld á spjöld sögunnar, frá 930-1030.
Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.
Það er eins og eldgos hafi geisað á þessari öld á Suðurnesjum, sem valdið hafi mengun og mannflótta þaðan. Ég hefi verið að velta því fyrir mér hvort það gæti staðist, að Njáll Herlaugsson hafi getað átt son á Íslandi, sem skírður var Þorgeir og þessi Þorgeir hafi svo átt son, sem skírður var Njáll og þar sé kominn Njáll Þorgeirsson fyrrum bóndi að Bergþórshvoli í Landeyjum. Með vissu vitum við það, að Njáll bóndi á Bergþórshvoli var fæddur árið 935. Hann kafnaði inni í brunanum á Bergþórshvoli árið 1010, þá 75 ára gamall. Njáll var oft ráðagóður. Hann ætlaði að bjarga sér og Bergþóru konu sinni og breiddi yfir þau skinnhúðir. Ætlaði að verja þau fyrir hita á meðan bærinn brann. En þar feilaði Njáli. Það vantaði loft undir húðirnar, þess vegna fór sem fór.
Kannski er nú allt þetta draumarugl, sem ekki hefur við nein rök að styðjast.
Eitt er víst, Suðurnesjamenn góðir, að það er kominn tími til þess, að reisa Steinunni gömlu minnisvarða og staðsetja hann á klöppunum fyrir ofan Steina í Leiru. Gerðahreppur á býlið Steina. Það ætti að vera auðvelt aö fá lóð undir styttuna. Nú á þessu ári 1989 ættu Njarðvíkurbær, Keflavíkurbær og Gerðahreppur að sameinast um að reisa Steinunni gömlu minnisvarða.“ – Garði 20. apríl 1989; Njáll Benediktsson.
Heimild:
-Faxi, 4. tbl. 01.04.1989, Fyrsti íbúi á Suðurnesjum, Náll Benediktsson, bls. 120-121.
-Faxi, 10. tbl. 01.12.1967, Skipstrand í Höfnum fyrir 85 árum – Rabbað við Friðrik Gunnlaugsson, 95 ára sækempu, bls. 156-163.
Leiran – uppdráttur ÓSÁ.
„Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum“ – Ari Trausti Guðmundsson
Í Dagblaðið Vísir árið 2001 er haft eftir Ara Trausta Guðmundssyni, jarðeðlisfræðingi, að „Það muni verða eldgos á Reykjanesskaganum„:
Þéttbýlasta svæði landsins óþægilega nálægt virkum eldstöðvum
Ari Trausti Guðmundsson.
Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum – segir Ari Trausti Guðmundsson en vill engu spá um hvar eða hvenær.
„Ljóst er að sumar byggðir á þéttbýlasta svæði landsins eru óþægilega nálægt virkum skjálftasprungnum eldstöðvakerfum gosbeltanna fjögurra á Reykjanesskaga, eða nálægt misgömlum gossprungum í þeim.“ Þetta segir Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur m.a. í nýrri bók sinni „íslenskar eldstöðvar“ sem kemur út í þessari viku. Þar er m.a. fjallað ítarlega um eldstöðvakerfi Reykjanesskagans sem talið er líklegt að láti á sér bæra, jafnvel í náinni framtíð.
Í niðurlagi kaflans um Reykjanes segir:
„Enn fremur er vitað að rek- og goshrinur ganga yfir í kerfunum á 700-1000 ára fresti. Nú er langt liðið á kyrrðartímabil hvað jarðeldinn varðar. Þess vegna verður t.d. að gera ráð fyrir að eldar, svipaðir Reykjanes-, Bláfjalla- og Nesjavallaeldum, geti valdið tjóni og óþægindum á Reykjanesskaga á næstu öldum.
Sprungusveimar á Reykjanesskaga.
Áhrif hvers eldgoss ræðst m.a. af legu gossprungna, magni gosefna, aðstæðum á nálægu landsvæði og gosháttum. Hraungos í kerfunum virðast flest vera fremur lítil en skaginn er ekki breiður og ávallt er hætta á að hraun nái af hálendi hans út á láglendið og jafnvel til sjávar. Lítil gjóska fylgir slíkum gosum. Gjóskugos verða helst í sjó undan Reykjanesi eða lengra úti á hryggnum. Gjóskumagnið er þó venjulega fremur takmarkað en gæti samt valdið óþægindum og jafnvel tjóni. Ástæða er til að vinna áætlanir um viðbrögð, meta vel hættur og goslíkur og vakta eldstöðvakerfin á skaganum. Allt þetta hefur verið gert og unnið er áfram að því að draga úr áhættunni við að búa á „landlægum“ hluta plötuskilanna í Norður-Atlantshafinu.“
Líkurnar aukast
Jarðfræðingar hafa á síðustu árum og misserum ítrekað gefið í skyn að gos í einhverju hinna fjögurra eldstöðvakerfa Reykjanesskagans séu ekki mjög langt undan. Þannig sagði Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur í samtali við DV fyrir skömmu að menn velti því fyrir sér núna hvort við séum hugsanlega að sigla inn í nýtt gostímabil.
Jarðskjálftasprungur eftir Suðurlandsskjálftana 17. og 21. júní árið 2000.
Við stóru jarðskjálftana á Suðurlandi á og eftir 17. júní varð keðjuverkun jarðskjálfta vestur eftir Reykjanesskaga. Áhrif þeirra urðu m.a. mjög sýnileg er Kleifarvatn fór að leka ört niður um sprungur sem þá opnuðust. Jarðskjálftar á Hengilssvæðinu undanfarin ár hafa líka vakið athygli. Hvort það séu vísbendingar um að stórir atburðir séu í aðsigi virðist þó erfitt að henda reiður á. Það lá því beinast við að spyrja bókahöfundinn sjálfan, Ara Trausta Guðmundsson, hvernig hann mæti möguleikana á eldgosi á svæðinu í náinni framtíð.
Það mun verða eldgos
„Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum, það er alveg á hreinu. Það sem bæði jarðfræðingar og leikmenn hafa síðan áhuga á að vita er hvar og hvenær slíkt gos verður. Þegar jarðvísindamenn eru að fjalla um svona mál eru þeir ekki endilega að velta upp öllum hugsanlegum möguleikum.
Það er sjaldan hægt að útiloka nokkurn hlut í náttúrunni en menn velta helst fyrir sér því sem líklegast er að gerist. Menn notast við mæligögn, söguna og það sem almennt er vitað um eldvirkni til að leggja upp möguleika í stöðunni. Þá er helst til að taka að við vitum um þessi fjögur eldstöðvakerfi sem liggja skáhalt vestur eftir Reykjanesskaganum.
Ekki allur Reykjanesskaginn undir
Í Brennisteinsfjöllum.
Við þorum nánast að fullyrða að eldgos verði ekki utan þessara kerfa, heldur einungis innan þeirra.
Þar með erum við að segja að á nánast helmingi flatarmáls skagans verða ekki eldgos. Það verður sjaldan eða aldrei eldgos á milli þessara reina sem greinilega má sjá á korti.
Eldur undir hrauni í Geldingadölum 2023.
Í öðru lagi er hægt að sjá nokkuð ákveðna tíðni í eldgosahrinum. Þetta eru yfirleitt rek- og goshrinur eins og Kröflueldar voru. Það verður jarðgliðnun og það koma og fara eldgos á kannski nokkurra áratuga tímabili. Það virðist vera að það séu um 700 til 1000 ár á milli slíkra lotuhrina í einhverjum af þessum fjórum kerfum á skaganum.“
Ari Trausti segir að á sögulegum tíma hefur eldvirknin þó ekki byrjað í austasta svæðinu sem er Hengilskerfið. Það hefur ekki látið á sér bæra í 2000 ár. Gosvirkni byrjaði hins vegar í næstaustasta kerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll. Síðan fór virknin í næsta kerfi sem er Trölladyngukerfið og síðast gaus í vestasta kerfinu sem er Reykjaneskerfið. Þegar slík eldvirknitímabil fara af stað virðast þau standa yfir í nokkra áratugi eða aldir í fleiri en einu kerfi. Á sögulegum tíma stóð það siðast seint á tíundu öld og fram yfir miðja þrettándu öld.
Líkt og Kröflueldar
„Það sem er þó nokkur huggun harmi gegn er að þessi eldgos sýnast ekki vera mikil hvert um sig. Þetta eru sprungugos með hraunflæði og lítilli gjóskumyndun, ekki ólík síðustu Kröflugosum. Það er útilokað á þessari stunda að segja til um hvort svona hrinur byrji eftir ár, einn eða fleiri áratugi eða jafnvel ekki fyrr en eftir eina öld.
Við erum að tala um að 700 til 1000 ár líði á milli hrina og nú eru um 750 ár síðan síðasta hrina gekk yfir.“
Hengill.
Líkindi á gosi á Hengilssvæðinu – Nú hefur ekki gosið á Hengilssvæðinu í um 2000 ár. Er þá ekki kominn tími á það, ekki síst ef menn líta til kvikusöfnunar sem vitað er af undir eldstöðinni fram á mitt ár 1999?
„Jú, ef maður hugsar í líkindum þá er auðvitað rétt að meiri líkindi eru á að Hengilskerfið taki við sér næst frekar en önnur þar sem það hefur verið sofandi dálítið lengi. Við vitum að þar hafa gengið yfir að minnsta kosti þrjár goshrinur á síðustu nokkur þúsund árum, síðast fyrir um 2000 árum. Það er því nokkuð líklegt að það geti tekið við sér.
Landris og kvikusöfnun sem var undir Henglinum í lok tíunda áratugarins sýnir svart á hvítu að þarna er heilmikið líf. Þau áhrif sem Suðurlandsskjálftar valda hafa síðan mest áhrif á Hengilskerfið af öllum þessum eldstöðvakerfum. Sem betur fer stoppaði þetta landris 1999. Menn reiknuðu þá út að þetta hafi verið um 100 milljón rúmmetrar af kviku sem hafi risið upp undir Grafarholtshverfinu. Í því er hætta á mun minni skjálftum.
Grindavík, Hveragerði og Hafnarfjörður
Eldgos í Geldingadölum ofan Grindavíkur 2021.
-Hver er hættan á þétfbýlissvæðum Reykjanesskagans?
Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.
„Ég tel ekki að um yrði að ræða umtalsvert tjón af völdum jarðskjálfta á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Varðandi eldgos er matið öðruvísi. Við getum þó afskrifað gjósku sem alvarlegan tjónvald. Hraunin geta hins vegar runnið langt út frá gossprungum.
Hættan á gosum á Hengilssvæðinu er fyrst og fremst fyrir sumarbústaðasvæði allra syðst við Þingvallavatn. Fyrir Nesjavallavirkjun, mannvirki á Hellisheiðinni og síðan Hveragerði. Ég tel ekki nokkrar líkur á að hraun úr slíku gosi næði fram til Reykjavíkur.
Í Bláfjalla- og Brennisteinsfjallakerfinu er hættan ekki mikil á suðurhluta svæðisins. Hins vegar er viss hætta með skíðamannvirki í Bláfjöllunum. Ekki er mikil hætta á að hraun úr þessu kerfi næðu til þéttbýlissvæða.
Trölladyngjukerfið er einna hættulegast
Horft til Trölladyngju og Grænadyngju frá Helgadal. Mökkur frá gösstöðinni í Geldingadal t.h.
Trölladyngjukerfið er hins vegar einna hættulegast af þessum kerfum, vegna legunnar. Innan þess er t.d. Grindavík, ný mannvirki í Trölladyngju og Svartsengi er í námunda við þetta svæði. Þá er möguleiki á því að hraun úr nyrðri hluta svæðisins nái til sjávar nálægt Hafnarfirði. Þar yrði álverið í Straumsvík í hættu og Keflavíkurvegurinn á kaflanum frá Kúagerði að Hafnarfirði. Þarna hafa runnið hraun á sögulegum tíma.
Trölladyngja og nágrenni.
Reykjaneskerfi er hins vegar fjær allri byggð. Hættan væri hugsanlega varðandi mannvirki á Reykjanesi og í Eldvörpum. Síðan er Svartsengi nálægt þessu kerfi líka eins og Trölladyngjukerfinu. Hins vegar er möguleiki á sprengigosi líku Surtseyjargosi í sjó við Reykjanes. Þar gaus t.d. á þrettándu öld. Sú gjóska getur fallið á allan Reykjanesskagann og víða á Suðvesturlandi. Ekki eru þó líkur á miklu tjóni af þess völdum.“
Í bók Ara Trausta er einmitt lýst þegar Snorri Sturluson missti naut sín í Svignaskarði af völdum öskufalls úr gosi við Reykjanes árið 1226. Þetta öskulag er kallað miðaldarlagið og er notað sem viðmiðun við fornleifarannsóknir. Drangurinn Karl undan vitanum á Reykjanesi er það sem enn má sjá af gígnum.
Ari Trausti Guðmundsson vill engu spá, frekar en aðrir jarðfræðingar, um hvar og hvenær næsta gos verður. Möguleikar til að spá fyrir slíku eru þó alltaf að batna. Fyrirvarinn sem menn hafa er hins vegar æði misjafn og fer algjörlega eftir eðli hvers eldgosasvæðis fyrir sig – kannski hálftími, jafnvel einhverjir klukkutímar eða dagar. – HKr.
Heimild:
-Dagblaðið Vísir 275. tbl. 28.11.2001, Það mun verða eldgos á Reykjanesskaganum – Ari Trausti Guðmundsson, bls. 8-9.
Eldgos á Reykjanesskaganum 2021.
Skáldin í Reykjanesvita
Í Faxa árið 2020 er fjallað um „Skáldin í vitanum„:
„Á Reykjanesi má finna þrettán vita. Þeir eru ekki einungis sögulegt kennileiti heldur leiðarminni í sögu þjóðar sem allt fram á þennan dag hefur átt afkomu sína undir því að draga fisk úr sjó. Vitarnir voru logandi líflína til lands, ljósberar sem leiddu menn heim af hafi.
Með tilkomu vita varð til starf vitavarðar sem gat verið einmanalegt. Svo hagaði til að tvö skáld gegndu starfi aðstoðarvitavarðar þessum elsta vita landsins en það eru atómskáldið Steinn Steinar og Hannes Sigfússon.
Reykjanesviti
Reykjanesviti, byggður 1908 – nýrri vitavarðarhúsin nær.
Reykjanesviti var reistur árið 1878 og var þá fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum. Vitinn laskaðist í jarðskjálfta en sá viti sem nú stendur var tekinn í notkun 1908. Vitinn stendur á Bæjarfelli upp af Valahnjúk, þar sem fyrsti vitinn stóð.
Reykjanesviti var eini viti landsins um nærri tveggja áratuga skeið og hafði vitavörður aðsetur á Reykjanesi sem var víðs fjarri mannabyggð þar sem enginn vegur lá yfir auðnina. Það var langur spölur frá vitavarðarhúsinu að gamla vitanum og þurfti hetjudug til starfsins.
Steinn Steinarr
Steinn Steinarr (fæddur Aðalsteinn Kristmundsson, 13. október 1908, dáinn 25. maí 1958) var íslenskt ljóðskáld og meðal áhrifamestu ljóðskálda Íslendinga á 20. öld.
Starf vitavarðarins gat verið einmanalegt en hann hafði þó með sér aðstoðarvitavörð og skiptu þeir með sér verkum. Það var héraðslæknir Keflvíkinga, Sigvaldi Kaldalóns, sem útvegaði ungum vini sínum Steini Steinari starf aðstoðarvitavarðar á Reykjanesi en þá var vitavörður Jón Ágúst Guðmundsson.
Yngri Reykjanesvitinn á Vatnsfelli.
Steinn hafði oft dvalist í Grindavík hjá tónskáldinu ásamt helstu listamönnum þess tíma. Steinn var þá aðeins 22 ára gamall og ekki gerður fyrir erfiðsvinnu vegna vöðvarýrnunar í handlegg. Framtíðarhorfur hans virtust því ekki glæsilegar enda hafði skólaganga hans verði stutt. Í misjöfnum vetrarveðrum þurfti oft að hafa mann næturlangt uppi í vitanum til að hreinsa af snjó sem vildi festast á rúðurnar í ljósaklefanum, Kom það gjarnan í hlut Steins. Má gera sér í hugarlund að þar hafi orðið til ljóð þegar leiðindi sóttu að honum á þessum löngu og köldu vetrarnóttum og hann þurfti að halda á sér hita. Steinn starfaði í vitanum einn vetur frá 1930 til 1931 en hans fyrsta ljóðabók Rauður loginn brann kom út þremur árum síðar eða 1934. Þar mátti finna róttæk ljóð um hlutskipti lítilmagnans og bar mikið á vonleysi og trega enda þjóðin í kreppu og atvinnuleysi mikið.
Hannes Sigfússon
Hannes Sigfússon skáld fæddist í Reykjavík 2. mars 1922. Foreldrar hans voru Sigfús Sveinbjarnarson, f. 11.3. 1866, d. 11.9. 1931, prentari og fasteignasali í Reykjavík, og Kristín Jónsdóttir, f. 22.4. 1887, d. 19.3. 1970, húsfreyja.
Rithöfundurinn Hannes Sigfússon var aðstoðarmaður vitavarðarins, Sigurjóns Ólafssonar, þegar olíuskipið Clam fórst við Reykjanes þann 28. febrúar árið 1950. Starfið hafði hann fengið í gegnum gott orð frá vini sínum og læriföður, Steini Steinarr.
Hannes var þá 28 ára gamall og hafði gefið út sína fyrstu bók, Dymbilvöku, árinu áður sem er eitt hans þekktasta verk. Skipið var það stærsta til þess að stranda við Íslandsstrendur og voru 50 menn í áhöfn þess þegar það strandaði þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Hluti áhafnarinnar sem var að mestum hluta Kínverjar fór í björgunarbáta sem ýmist brotnuðu við skipshlið eða hvolfdu í briminu. Af þeim fórust 27 manns en fjórum mönnum skolaði upp í klettana þaðan sem þeim var bjargað. Þeim mönnum sem héldu kyrru fyrir um borð í skipinu var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði fljótlega í spón á staðnum. Hannes bjargaði sjálfur tveimur mönnum úr flæðarmálinu og skrifaði síðar um atburðinn í skáldsögu sinni Strandið 1955. Þar segir frá olíuskipinu Atlantis sem rekur stjórnlaust undan veðri og straumum að hrikalegri klettaströnd. Við kynnumst áhöfn skipsins, Kínverjum, Evrópubúum og Bandaríkjamanni og við kynnumst vitaverðinum á Reykjanesi sem rækir einmanaleg skyldustörf í vetrarmyrkri og bíður þess sem verða vill. Bókin fékk ekki góða dóma en Hannes var eitt helsta ljóðskáld sinnar kynslóðar og brautryðjandi í íslenskri ljóðagerð.
Ekki er vitað hvaða áhrif myrkrið og víðáttan á Reykjanesi hafði á skáldin og vinina Stein og Hannes en báðir voru þeir byltingarmenn og ortu um manninn í óræðri og dularfullri veröld þar sem vitundin ein er gegn alheiminum. Í miðju svartnætti ljóðanna leiftra óræðar blikur um mannlega reisn og jafnvel hina innstu vitund.“
Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 2020, Skáldin í vitanum. bls. 29.
Mynd frá vettvangi er [..] olíuskipið Clam strandaði við Reykjanes árið 1950. Af 50 manna áhöfn fórust 27 en 23 tókst að bjarga.