Vigdísarvellir

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaðinu 1960, er birt þjóðsagan  „Í risaklóm„. Sagan birtist einnig í Æskunni árið 1981:

Vigdísarvellir

Móhálsadalur austan Vigdísarvalla.

„Endur fyrir löngu bjuggu hjón á bæ þeim, skammt frá Krýsuvík, er Vigdísarvellir hét. Sá bær er nú í eyði. Þau hjón áttu sér eina dóttur. Hún hét Guðrún. Guðrún var forkunnar fögur. Svo fögur að hennar líki fannst enginn á öllu íslandi. Ekki er þess getið að þau hjón hafi átt fleiri barna. Og bjuggu þau með dóttur sinni einni á Vigdísarvöllum.

Þegar þessi saga gerðist eru hjónin hnigin mjög á efri aldur, en dóttir þeirra gjafvaxta. Fregnir um fegurð Guðrúnar og gjörvuleik fóru víða. Menn komu víðsvegar að til þess að biðja hennar. En allt var það árangurslaust.
Hversu fríðir og föngulegir og fémiklir sem biðlarnir voru, neitaði Guðrún þeim öllum. Og getur sagan ekki um ástæðu fyrir því. Gekk svo um langan tíma.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

Eitt kvöld síðla sumars er barið all-harkalega á bæjardyrnar á Vigdísarvöllum. Verður þeim hjónum og Guðrúnu bilt við, og hikaði bóndi við að fara til dyra. Er þá aftur barið og enn þunglegar en áður. Verður bónda nú ekki um sel og fer hvergi. Þess er þá skammt að bíða, að barin eru þrjú bylmingshögg á bæjardyrnar. Og þorir bóndi nú eigi annað en út að ganga. Nokkuð var farið að rökkva. Koldimmt var í göngum. Uggur var í bónda. Þreifaði hann sig fram eftir göngunum, fálmaði eftir slagbrandinum, tók hann gætilega frá dyrunum og gægðist út. Sá hann þá hvar stór maður, ferlegur útlits og ófríður, stóð frammi fyrir honum. Fannst bónda maðurinn mikilúðlegur og illa vaxinn. Þóttist hann aldrei hafa séð svo ljótan mann fyrr á ævi sinni. Sýndist honum hann meira líkur risa en mennskum manni. Hugði nú bóndi að hér væri ekki allt með felldu, en reyndi sem allra minnst að láta á ótta sínum bera. Heilsaði hann manni þessum, spurði um heiti hans og innti hann eftir erindi hans, og hvaðan hann væri. Kvaðst maðurinn heita Ögmundur og vera kominn til þess að biðja dóttur hans.
Ekki sagðist hann geta sagt hvaðan hann væri. Svo óttasleginn sem bóndi var fyrir, varð hann hálfu hræddari, er hann heyrði erindi komumanns og hinn hrikalega málróm hans. Bóndi varð fár við í fyrstu en sá fljótt að nú var annað hvort að duga eða drepast. Bað hann komumann hinkra ögn við meðan hann brygði sér í baðstofu og færði þetta í tal við konu sína og dóttur.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraunið rutt.

Þarf ekki að orðlengja það, að bónda þótti nú þunglega horfa, og að konu hans og Guðrúnu þóttu tíðindin ill. Æddi bóndi nú eirðarlaus fram og aftur um baðstofugólfið. Álasaði hann dóttur sinni harðlega fyrir að hafa ekki þegið bónorð einhvers af þeim mörgu ágætu og glæsilegu mönnum, er höfðu beðið hennar. Hefði þá þessum vansa verið bægt frá dyrum þeirra. En um það dugði ekki að fást, úr því sem komið var. Hér var vandi á ferðum. Góð ráð voru dýr. Hryllti bónda við að láta dóttur sína í hendurnar á þessum hræðilega risa. Og ef hann neitaði, var eins líklegt að hann tæki Guðrúnu með valdi og flytti hana á brott með sér. Í öngum sínum og ráðaleysi ráfaði bóndi nú til dyranna, en kona hans og dóttir fylgdu honum eftir með skelfdum augum. Komumaður leit löngunarfullum augum til bónda er hann kom út. En í því er bónda varð litið upp til hins ljóta og afskræmda andlits risans, kom honum skyndilega ráð í hug. —

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Nú er frá því að segja að skammt frá Vigdísarvöllum var hraun nokkurt, ógreiðfært og illt yfirferðar. Var það ákaflega úfið, holótt og þversprungótt og lá víða á því mosaslæða, svo að stórhættulegt var yfir að fara. Kom það eigi sjaldan fyrir að slys urðu á mönnum og dýrum. Bóndi hafði þá nýlega misst hest sinn og hafði hann fótbrotnað í klungri hraunsins.
Bóndi bað komumann fylgja sér. Mæltu þeir fátt en gengu hratt. Þegar þeir komu að hraunjaðrinum, mælti bóndi: „Ég skal gefa þér dóttur mína fyrir konu en með einu skilyrði þó. Þú skalt ryðja þetta hraun. Skaltu ryðja greiðfæran veg í gegnum það og vera búinn að því að sólarhring liðnum. Verðurðu ekki búinn að því fyrir lágnætti annað kvöld, verður þú af dóttur minni.“ Að svo mæltu gekk bóndi snúðugt burtu. Varð fátt um kveðjur. En risinn tók til óspilltra málanna við að ryðja hraunið.
Bóndi gekk glaður heim á leið og þóttist nú heldur en ekki vel hafa dugað sér og sínum. Sváfu þau hjónin vel um nóttina. Guðrún svaf illa. Hafði hún ýmist þunga drauma eða lá andvaka. Gat hún ekki varist þeirri hugsun, að verið gæti að risanum tækist að ryðja hraunið. En bóndi kvað það hina mestu fjarstæðu, taldi í hana kjark og bað hana sofa.

Ögmundardys

Ögmundardys.

Árla næsta morgun reis bóndi úr rekkju. Hann gekk út á bæjarhólinn og skyggði hönd fyrir auga. Sá hann þá hvar risinn hamaðist sem mest hann mátti. Var engu líkara en kominn væri á hann berserksgangur. Grýtti hann grjótinu til beggja handa sem óður væri. Fannst bónda atgangur hans mikill og æðisgenginn. Og ekki var ásýnd risans ásjálegri.
Bónda leist nú ekki á blikuna. Hvarf hann inn í bæinn aftur og tjáði konu sinni, að tvísýnt væri nú að ráð hans dygði nokkuð. Kvað hann vera komið æði á risann enda miðaði honum drjúgum. Svo gæti farið að honum tækist að ryðja hraunið og yrðu þau hjónin að láta af hendi dóttur sína.
Ögmundardys
Þennan dag var eigi rótt í koti karls og kerlingar og varð lítið úr verki á Vigdísarvöllum. Var sem enginn gæti innt af hendi nokkurt verk til hlítar.
Tíðum var þeim hjónum og Guðrúnu gengið út á hólinn, einkum þó Guðrúnu. Og var sem hún hefði enga eirð í sínum beinum.

Ögmundastígur

Dys Ögmundar við Ögmundarstíg í Ögmundarhrauni. Jón Guðmundsson frá Skála við dysina.

Risanum miðaði æ betur og betur. Eftir því sem á daginn leið lengdist vegurinn og styttist nú óðum sá kafli er eftir var.

Leið nú dagurinn uns komið var fram í myrkur. Tóku hjónin að örvænta að úr þessu mundi rætast. Guðrún var orðin vonlaus. Fór hún að búa sig undir brottförina, og gerði hún það ekki sársaukalaust. Hjartað barðist ótt í brjósti hennar. Bar hún sig næsta aumlega, sem vonlegt var. Hafði hún aldrei úr föðurgarði farið áður enda ætlað sér vænlegra hlutskipti en að lenda í risaklóm. Grét hún beisklega yfir örlögum sínum. Móðir hennar reyndi að hughreysta hana þótt það kæmi einnig við hjarta hennar að skilja svo við dóttur sína.
Bóndi horfði á dapur í bragði. Rann honum svo til rifja að sjá örvæntingu dóttur sinnar, að hann ákvað að gera eitthvað, hvort sem það dygði eða dygði ekki. Æstur í skapi, samanherptur og þrútinn í andliti af reiði, yfirgaf hann mæðgurnar í þessu ástandi.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – bóndinn tekst á við tröllið.

Bóndi gekk út í skemmu. Hann tók sveðju eina mikla og stóra og brýndi snarplega. Er hann hafði lokið því gekk hann rakleiðis út í hraunið. Stóð það heima að risinn hafði lokið hlutverki sínu. Greiðfær og allgóður vegur var nú kominn yfir hraunið.
Eins og bóndi bjóst við var risinn yfirkominn af þreytu. Var hann kominn miðja vegu til baka aftur og skjögraði til beggja hliða, er hann gekk.
Bóndi beið risans við hraunjaðarinn.
Honum var órótt. Eftir alllanga stund kom risinn að hraunjaðrinum. Gekk hann upp og niður af mæði og var þreyttur mjög. Réðst bóndi þegar að honum. Er hann sveiflaði sveðjunni og sá blika á hana, óx honum ásmegin. Ekki var allt afl þrotið úr æðum risans. Var þetta bæði harður leikur og langur, en þó fór svo að bóndi felldi risann. Var hann svo þjakaður eftir viðureignina að hann gat sig hvergi hreyft. Er hann hafði jafnað sig dysjaði hann risann þarna við hraunjaðarinn. Og heitir þar síðan Ögmundardys og hraunið Ögmundarhraun. Má enn þann dag í dag sjá Ögmundardys við vegarendann í Ögmundarhrauni.
Er bóndi kom heim voru heldur en ekki fagnaðarfundir á Vigdísarvöllum.
Af Guðrúnu er það að segja að hún giftist skömmu síðar og lifði við gæfu og gengi allt sitt líf.
Og lýkur svo þessari sögu.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1960, Í risaklóm – þjóðsaga, bls. 33-34.
-Sagan birtist einnig í Æskunni, 1. tbl. 01.01.1981, bls. 16-17.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Kappella

Gengið var um Kapelluhraun og Hellnahraun sunnan Hafnarfjarðar. Í göngunni var höfð hliðsjón af skrifum Sigmundar Einarssonar, Hauks Jóhannessonar og Árnýjar Erlu Sveinbjörnsdóttur um „Krýsuvíkurelda II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns„, er birtust í Jökli nr. 41 1991.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur.

Gangan hófst við Gerði ofan við Straum, nyrst í vesturjaðri Kapelluhrauns. “Samkvæmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun í Krýsuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvarkerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar. Gossprungan er ekki samfelld en milli enda hennar eru um 25 km. Flatamál hraunanna er 36.5 km2 og rúmmálið er áætlað um 0.22 km3. Vegið meðaltal fimm geislakolsgreininga gefur 68.3% líkur á að hraunin hafi runnið á tímabilinu frá 1026-1153.
Hellnahraun sunnan Hafnarfjarðar er í rauninni tvö hraun og eru bæði komin frá eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla. Yngsta hraunið er sama hraun og Jón Jónsson (1977) hefur nefnt Tvíbollahraun. Það er að öllum líkindum runnið í sömu goshrinu og hraun sem Jónsson (1978a) hefur nefnt Breiðdalshraun. Líklegt er að Yngra Hellnahraun (Breiðdalshraun og Tvíbollahraun) hafi runnið á árunum 938-983.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Í Konungsannál, Oddverjaannál og Annál Flaeyjarbókar 1151 segir frá eldum í Trölladyngjum. Einnig í Skálholtsannál 1188. Ekki er ljóst hvers vegna annálarnir kenna gosin við Trölladyngjur en svo virðist sem þær hafi verið alþekkt örnefni á þessum tíma. Líklegast er að eldgosið 1188 hafi verið lokaþáttur umbrotahrinunnar.
Auk þessara frásagna í annálum eru óbeinar heimildir um hraunrennsli á norðanverðum Reykjanesskaga eftir landnám. Kapelluhraun heitir einnig Bruninn í daglegu tali og það eitt bendir til að menn hafi séð hraunið renna. Yfirleitt er talið að Kapelluhraun hafi áður heitið Nýjahraun og Ólafur Þorvaldsson (1949) segir nafnið Nýjahraun sé enn þekkt um hluta þess. Þessi gögn benda eindregið til að hraunið hafi runnið eftir að land byggðist.
Elstu heimildir um nafnið Nýjahraun er annars vegar í annálum og hins vegar í Kjalnesingasögu. Annálar greina frá skiptapa við Hafnarfjörð árið 1343 og fórust með skipinu 23 eða 24 menn. Annálar segja þannig frá slysinu: “Braut Katrínarsúðina við Nýja hraun.” (Annáll Flateyjarbókar). Í Gottskálksannál,

bls. 352 segir: “Braut Katrínar súðina fyrir Hvaleyri, drukknuðu þar iiij menn ogg xx.”
Í Kjalnesingasögu (1959) er tvívegis minnst á Nýjahraun. Þar segir senmma í sögunni að Þorgrímur Helgason hafi reist bú að Hofi (á Kjalarnesi) og “hafði hann mannforráð allt il Nýjahrauns og kallað er Brunndælagoðorð”. Undir lok sögunnar segir svo frá því er Búi Andríðsson tók við mannaforræði eftir Þorgrím og “hafði hann allt út á Nýjahrauni og inn til Botnsár”.
Kjalnesingasaga gerist á landnámsöld en er talin skrifuð skömmu eftir 1300. Athyglisvert er að höfundurinn skuli nota Nýjahraun til að takmarka Brunndælagoðorð. Notkun örnefnisins Nýjahraun í Kjalnesingasögu bendir til að hraunið sé runnið einhvern tíma á tímabilinu 870-1250

Hraunhóll

Hraunhóll – upptök Kapelluhrauns.

Ótrúlega fáir hafa gert tilraun til að kanna Kapelluhraun, upptök þess, útbreiðslu og raunverulegan aldur. Þorvaldur Thoroddsen (1913) reið á vaðið er hann kannaði Kapelluhraun lauslega 1883. Guðmundur Kjartansson (1954) varð fyrstur jarðfræðinga til að kanna Kapelluhraun og Óbrinnishólabruna svo nokkru næmi. Jón Jónsson hefur nokkrum sinnum ritað um hraun á svæðinu. Hann taldi á grundvelli geislakolsákvarðana að Óbrinnihólar væru liðlega 2100 ára gamlir og að Kapelluhraun hefðu runnið í byrjun elleftu aldar.
Úr gígum nyrst í Undirhlíðum hefur runnið hraun sem Jón Jónsson (1978a, 1983) nefnir Gvendarselshraun. Undir því hefur hann fundið Landnámslagið og út frá aldursgreiningu með geislakolsaðferð telur Jón hraunið runnið á elleftu öld.
Í framhaldi af þessum niðurstöðum hefur Jón stungið upp á því að Ögmundarhraun, Kapelluhraun og Gvendarselshraun hafi öll orðið til í einni goshrinu á fyrri hluta elleftu aldar (Jón Jónsson 1982,1983).
Líkt og Guðmundur gerir Jón ráð fyrir að Hellnahraun sé gamalt og telur það runnið frá svonefndri Hrútargjárdyngju. Á jarðfræðikorti Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands (Kristján Sæmundsson og Sigmundur Einarsson 1980) er hraunið talið koma frá Óbrennishólagígunum, en ekki talið hluti af Hrútargjárdyngju.
Gossprungan, 25 km löng, er frá norðanverðri Gvendarselshæð og suður fyrir Núpshlíðarháls. Á henni er um 8 km löng eyða, þannig að alls hefur gosið á um 17 km langri sprungu. Syðri hlutinn er um 10,5 km að lengd og nyrðri hlutinn um 6.5 km.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Í Krýsuvíkureldum mynduðust fjórir aðskildir hraunflákar. Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó (sjá FERLIR-289). Næst norðan við það er lítið hraun sem runnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megingossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík. Hraunflákinn gæti hafa myndast í tveimur gosum (en þó í sömu goshrinu).
Skammt norðan við Bláfjallaveg eru litlir og snotrir gígar er nefnast Kerin. Frá þeim hefur runnið lítið hraun til vesturs og norðurs. Norðan við gíganna er hraunið á nokkrum kafla svo rennislétt að furðu sætir. Hraunin frá Gvendarselsgígum og Kerjum verða ekki talin sérstök hraun, heldur hluti af Kapelluhrauni, enda um einn samfelldan hraunfláka að ræða. Alls þekur Kapelluhraun 13.7 km2. Ef meðalþykktin er um 5 metrar er rúmmál þess um 0.07 km3.
Líkur hafa verið leiddar að því að Ögmundarhraun hafi runnið 1151 og er þar jöfnum höndum stuðst við frásagnir annála, geislakolsaldur og rannsóknir á öskulögum.

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Kapelluhraun er frá svipuðum tíma. Hellnahraunið er aftur á móti komið úr eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla, þ.e. út Tvíbollum í Grindarskörðum. Hellnahraunið er í rauninni tvö hraun, það Eldra og það Yngra. Aldur Eldra Hellnahraunsins er ekki þekktur. Eftir útliti að dæma er það þó vart eldra en 3000-4000 ára. Yngra Hellnahraun er sennilega frá árunum 938-983.”

Heimild:
-Krýsuvíkureldar II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns – Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir – Jökull nr. 41, 1991.

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Hvalsnessteinninn

Fyrirspurn hafði verið send fulltrúa Þjóðminjasafns Íslands varðandi rúnasteininn á Hvalsnesi.
UtskálasteinninnEftirfarandi svar barst um hæl: „Rúnasteinarnir frá Hvalsnesi eru í vörslu Þjóðminjasafnsins. Líklega eru þeir í geymslu safnsins í Dugguvogi (fremur en í Vesturvör). Það gæti verið dálítið maus að komast að þeim. Þeir hafa skráningarnúmerin Þjms. 10929 (aldur: 1450-1500) og Þjms. 5637 (aldur: 1475-1500). Hægt er að lesa um þá í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 2000-2001 bls. 12.“ Jafnframt er getið um rúnastein frá Útskálum (og fyrr hefur verið fjallað um).
Steinninn, sem fjallað var um í Árbókinni 1908 hefur skv. þessu númerið 5637 hjá Þjms. Jafnframt fylgdi eftirfarandi ábending: „
Þú ættir að hafa samband við Þórgunni Snædal, rúnafræðing. Mér þykir líklegt að hún geti sagt þér allt sem hægt er að vita um þá og gæti líka átt myndir af þeim.“
Rúnasteinn

Haft var samband við Þórgunni. Hún svaraði um hæl: „Allir rúnalegsteinar í vörslu Þjóðminjasafns hafa verið, og eru vonandi enn, í geymslu Þjóðminjasafnsins í Dugguvogi, en þar skoðaði ég þá 1997-98. Því miður var þeim staflað upp í hyllur og erfitt að komast að þeim og nærri ógerlegt að mynda þá. Þess vegna eru svona fáar myndir í skránni minni í Árbók. Ég hef lengi ætlað að fara aftur í Dugguvoginn og reyna að mynda steinana með stafrænni myndavél, en ekki komið því í verk ennþá. Hugsanlega á ég lélega slidesmynd af Hvalsnesbrotunum sem ég gæti skannað og sent, ég skal athuga það, annars er mynd af þeim í Bæksteds Islands Runeindskrifter.
YngraMér virðist tímasetning Bæsteds til loka 15. aldar eða um 1500 geta vel staðist, enda er meirihlutinn af rúnalegsteinunum frá seinni hluta 14. aldar til upphafs 16. aldar.“
Engar ljósmyndir bárust, en finna mátti myndir af framangreindum steinum á vefsíðunni –http://www.arild-hauge.com/islandruner.htm

Í grein Þórgunnar Snæland, „Rúnaristur á Íslandi“, sem birtist í árbók Hins ísl. fornleifafélags 2000-2001, bls. 12, segir m.a. um nefnda rúnasteina á Hvalsnesi:

Hvalsnes 1 (Þjms. 10929); hraungrýti, L.65 cm, B. 39 cm, Þ. 24 cm, RH. 6 cm: „her : huilir : margr…“ – Hér hvílir Margrét. Steinninn fannst í Hvalsneskirkjugarði, ekki er vitað hvenær. eins og steinarnir frá Útskálum var hann sendur til Odnordisk Museum í Kaupmannahöfn 1843 og kom á Þjóðminjasafn 1930. Tímasetning í IR (Anders Bæksted: Islands Runeindskrifter. Bibliotheca Arnamagnsæana. Vol. 2, 1942): 1450-1500.
Um er að ræða legstein. Kross er höggvinn á steininn og inn í „langtréð“ er áletrunin greypt. Síðasta rúnin er eins konar bindirún.

Hvalsnes 2 (Þjms. 5637); grágrýti, L. 118 cm, B. 40 cm. Þ. 7-30 cm, RH. 9-14 cm: „her hu—r : ingibrig: -of-s : doter“EldraHér hvílir Ingibjörg (?) Loftsdóttir. Steinninn, sem er í tveimur brotum, fannst laust eftir aldamótin 1900, kom á Þjóðminjasafn 1908þ Tímasetning í IR: 1475-1500.Â

Um nefndan Anders Bæksted segir Þórgunnur m.a. (bls. 8-9): „Bæksted ferðaðist um Ísland og skoðaði rúnaristur árin 1937, 1938 og 1939. Því miður kom heimsstyrjöldin í veg fyrir að hann fengi lokið verkinu sem skyldi. Hann fékk ekki nauðsynleg gögn frá Íslandi og áform hans að birta rúnaristurnar í samvinnu við þáverandi þjóðminjavörð, Matthías Þórðarson, sem var manna fróðastur um íslenskar rúnaristur, fóru út um þúfur.
Þrátt fyrir erfiðar kringumstæður er IR (Islands Rundeindskrifter) gerð af þeirri vandvirkni og umhyggju um smáatriði sem setur svip á allt sem Anders Bæksted skrifaði um rúnir, en þar má m.a. nefna doktorsritgerð hans Maalruner og Troldruner (1952).

Flekkuvíkursteinninn

Í IR (bls. 13-70) rekur hann sögu og þróun íslenska rúnastafrófsins sem eðilega er mjög skylt norska rúnaletrinu. Hann aldursgreinir rúnalegsteinana út frá rúnagerðunum og málinu, að svo miklu leyti sem það er hægt.“ Á eldri steina er ritað með örðum hætti en þá yngri. „Þessi tímasetning er þó ekki alltaf áreiðanleg, á mörgum steinum blandast eldri og yngri rúnagerðir.
Aldursgreining er að sjálfsögðu einföld ef nöfnin á steinunum eru þekkt úr öðrum heimildum, en það á við um þriðjung steinanna. Ljóst er að flestir steinanna eru frá 15. og 16. öld.“

Fulltrúa Þjms var send eftirfarandi svar: „Þakka skjót svör – Í grein ÞS í Árbókinni 200-2001, bls. 12, er lítið um steinana sjálfa (sendi ÞS þó fyrirspurn með von um meiri fróðleik v/letrið, hugsanlegan aldur og myndir).
Ef það væri ekki óþarfa fyrirhöfn væri áhugavert að fá að skoða umrædda steina (aðallega þó 5637), sem eru í vörslu Þjms. og jafnvel mynda.“ Ekki var hægt að verða við þeirri beiðni fyrr en með vorinu (skrifað í janúar).

„Óðinn var guð menntamannsins. Hann er hinn forni guð sem tók hina dauðu til sín. Athöfnin að hengja glæpamenn er án vafa sprottin frá dýrkun hans. Þegar líður á víkingaöldina er hann í auknum mæli tekinn upp af skáldum og konungum. Óðinn er sagður hafa fundið upp rúnaletrið eftir að hafa hangið öfugur upp í tré í níu daga og níu nætur. Þetta klingir nokkrum bjöllum, heilaga talan níu og heilaga gjörðin að hanga. Samkvæmt goðsögunum þá er það með þessu móti sem Óðinn uppgötvar galdra. En er það hið eina sem rúnaletur gengur út á? Alþýða manna tengdi þetta við galdra enda gat hún ekki lesið skriftina. Skáld, konungar, höfðingjar og annað yfirstéttarfólk, þeir sem tilbáðu Óðinn voru þeir sem notuðu rúnaletur Óðins til Kistugerðissteinninnsamskipta. Honum er einnig þakkað fyrir að hafa komið með skáldskapinn, en hann rænir einmitt skáldskaparmiðinum af jötnum. Það er algengt í frásögnum fornmanna að skáld þurfi að verða drukkinn til að komast í rétt ástand til að yrkja. Margir telja að það sé arfur af því annarlega ástandi sem sjamaninn þarf að vera í, til þess að geta séð um athöfnina.“

Rúnir eru elsta form skrifleturs meðal germanskra þjóða. Orðið rún getur merkt leyndarmál, einkamál eða vísdómur. Til eru tvær gerðir af rúnakerfum. Eldra kerfið hefur 24 rúnir og var notað frá 2. öld e. Kr. fram til þeirrar áttundu. Þá var tekið upp nýtt rúnakerfi með 16 rúnum. Yngri rúnirnar hafa aðeins fundist á Norðurlöndum og á Bretlandi.
Á Víkingaöld notuðu menn rúnaletur og var letrið rist á horn, tré og steina. Íslenskar rúnaristur hafa fundist á legsteinum frá 1300-1700. Textar í rúnaletri voru ekki mjög langir Draughólssteinninnenda gat verið seinlegt að rista þá. Rúnaletrið var einfalt og sumir stafir gátu táknað meira en eitt hljóð. Rúnastafrófið er nefnt fúþark eftir fyrstu sex stöfunum.

En hver var Margrét? Og hver var Ingibjörg? Var Ingibjörg systir Þorvarðar Loftssonar? Og var þetta Margrét sú er kom við sögu í máli Jóns Gerrekssonar Skálholtsbiskups?. Samkvæmt þeirri frásögn girntist brytinn í Skálholti, Magnús kæmeistari, heimasætuna á Kirkjubóli, Margréti Vigfúsdóttur Hólm en bróðir hennar var Ívar Vigfússon Hólm, hirðstjóri konungs. Magnús þessi var af sumum talinn launsonur Jóns biskups og veitti forystu lífvarðasveit hans.
Margrét, … sem talin var einhver bestur kvenkostur á Íslandi“, hryggbraut hann hins vegar og hugðist Magnús leita hefnda. Hann fór að Kirkjubóli, a.m.k. samkv. skáldsögu Jóns Björnssonar; „Jón Gerreksson“. Hann fór að Kirkjubóli í skjóli nætur og brenndi bæinn til grunna, en drap Ívar þegar hann freistaði útgöngu.
HaugbúasteinninnMargrét náði að forða sér með því að grafa göng með skærum sínum og flýja í skjóli reyksins. Sór hún þess dýran eið að eiga þann mann sem næði að hefna bróður síns.
Þar sem Margrét flúði land strax eftir ódæðið hlaut hefndin að koma niður á Jóni Gerrekssyni og kom hún í hlut Þorvarðar Loftssonar, höfðingja frá Mörðuvöllum í Eyjafirði, er hann átti Jóni grátt að gjalda vegna fyrri misgjörða. Jón Gerreksson var aflífaður árið 1433. Veittu höfðingjar úr Eyjafirði og Skagafirði honum aðför í Skálholti, drápu sveina hans sem í náðist, settu Jón í poka og drekktu honum í Brúará.
Þremur árum síðar gekk Þorvarður að eiga Margréti og eignuðust þau börn og buru.

Hvað sem öllum vangveltum líður hefur þarna verið um vel settar konur að ræða í báðum tilvikum, auk þess sem áætlaður aldur rúnasteinanna í Hvalsnesi passa við þann tíma er þær Margrét og Ingibjörg voru uppi. Leturgerð rúnasteinanna virðist vera frá svipuðu tímabili svo ólíklegt má telja að þær skyldkonur hafi átt margar nöfnur á þeim tíma, er þær voru og hétu í Hvalsnessókn. Hafa ber þó í huga þann möguleika að rúnasteinarnir kunni að vera eldri en fyrrgreind aldursákvörðun gefur til kynna. Líklegt má telja að grafsteinar hafi ekki verið teknir úr kirkjugarðinum á Hvalsnesi til nota í kirkjugarðsgarðinn nema þeir hafi verið þess mun eldri og grafirnar fyrir löngu grónar upp og gleymdar. Þá hefur grafreiturinn á Hvalsnesi áreiðanlega verið færður nokkrum sinnum og grjót úr eldri görðum verið tekið og nýtt í hleðslur, enda vel til þess fallið. Vegna aldurs áletranna og úreldis þeirra hefur grjótið verið hætt að þjóna fyrra hlutverki sínu og því verið endurnýtt til nauðsynlegri þarfa.

Geymslan

Rúnir og aðrar áletranir á grjóti hefur áreiðanlega varðveist misvel á ýmsum tímum. Þannig má telja að áletrun, sem hefur umverpst jarðvegi og legið í jörðu hafi varðveist betur en sú er hefur staðið berskjölduð andspænis veðrun; regni og vindum, jafnvel um aldir. Sú fyrrnefnda gæti síðan hafa verið færð upp á yfirborðið, uppgötvuð skömmu síðar, tekin til handargangs og flutt undir þak. Ástandið á mismunandi áletrunum rúnasteina segir því lítið til um aldurinn, en leturgerðin gæti þó gert það, sbr. fyrri umfjöllun og tilvísanir. Hafa ber þó huga að rúnasteinar hafa verið gerðir á seinni tímum, löngu eftir að leturtegundin var aflögð. Eina áreiðanlega vísbendingin um aldur rúna er sú að slíkir steinar geta varla talist eldri en upphafið á notkun letursins segir til um.

Gaman hefði verið ef ofangreindar vangaveltur um þær Margréti og Ingibjörgu hefðu gengið upp, en þær gera það ekki ef tekið er mið af upplýsingum Íslendingabókar. Skv. henni mun Margrét hafa verið á Möðruvöllum fyrir norðan og Þorvarður átti ekki systur að nafni Ingibjörg. Þorvarður átti hins vegar jörð á Reykjanesskaganum, þ.e. Strönd í Selvogi.

Fleiri rúnasteinar eru á Reykjanesskaganum, s.s. í Garði (haugur fornmannsins), við Draughól, í Kistugerði og í Flekkuvík. Aflangur rúnasteinn, sem vera átti við „Kéblavíkurveginn“ ofan við túngarðinn á Hólmi, hefur hins vegar enn ekki komið í leitirnar þrátt fyrir eftirgrennslan.
Framangreindda rúnasteina ætti að varðveita á þeim stöðum sem tilefni þeirra og áverkan varð til enda hluti af menningarafleifð svæðanna. Þeir koma að engu gagni lokaðir inni í óhentugu geymsluplássi sem ekkert hefur að gera með tilvist þeirra.

Heimild:
-Árbók Hins ísl. fornleifafélags 200-2001, Þórgunnur Snædal, Rúnaristur á Íslandi, bls. 5-66.
-Saga Garðs, bls. 94.
-Annálar 1400-1800, I. og III. bindi, Hið íslenska bókmenntafélag 1922-‘ 38.
-www.hugi.is
-http://www.arild-hauge.com/islandruner.htm

Hallgrímshella

Hallgrímshellan.

 

Selsvellir

Ólafur Briem skrifaði í Andvara árið 1959 um „Útilegumannaslóðir á Reykjanesfjallgarði„. Þar getur hann m.a. um útilegumenn við Selsvelli undir Sveifluhálsi í byrjun 18. aldar:

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur

„Selsvellir og Hverinn eini. Nokkru vestar en Sveifluháls eða Austurháls við Kleifarvatn er annar háls samhliða honum, sem heitir Núpshlíðarháls eða Vesturháls. Vestan við Núpshlíðarháls miðjan er víðáttumikið graslendi, sem heitir Selsvellir. Þar voru áður sel frá Grindavík, og sjást þar enn nokkrar seltóttir. Norðan við Selsvelli nær hraunið á kafla alveg upp að hálsinum. Þar er Hverinn eini úti í hrauninu. Hann er í botninum á kringlóttri skál, sem er alþakin hraunbjörgum, og koma gufur alls staðar upp á milli steinanna, en vatn er þar ekkert. Nú er hverinn ekki heitari en svo, að hægt er að koma alveg að honum án allra óþæginda og gufan úr honum sést ekki nema skamman spöl. En til skamms tíma hefur hann verið miklu heitari. Þorvaldur Thoroddsen lýsir honum sem sjóðandi leirhver, þegar hann kom þangað 1883, og segir, að þar sjóði og orgi í jörðinni, þegar gufumekkirnir þjóta upp um leðjuna. Og lýsingunni á hvernum lýkur hann með þessum orðum: „Úr Hvernum eina leggur stækustu brennisteinsfýlu, svo að mér ætlaði að verða óglatt, er ég stóð að barmi hans. Í góðu veðri sést gufustrókurinn úr þessum hver langt í burtu, t. d. glögglega frá Reykjavík“ (Þorvaldur Thoroddsen: Ferðabók I. bls. 178).

Hverinn eini

Hverinn eini.

Fyrir sunnan Selsvelli og við Hverinn eina var athvarf þriggja útileguþjófa vorið 1703. I alþingisbókinni það ár er skýrt frá dóminum yfir þeim, og talið upp það, sem þeir höfðu stolið og brotið af sér. Þeir eru þar nefndir útileguþjófar, en ekki nánar sagt frá útilegu þeirra. En saga þeirra er greinilegast rakin í Vallaannál, sem ritaður er af séra Eyjólfi Jónssyni á Völlum í Svarfaðardal. En séra Eyjólfur var um þessar mundir uppkominn maður á Nesi við Seltjörn hjá föður sínum, Jóni Eyjólfssyni, sýslumanni í Gullbringusýslu, sem rannsakaði mál þjófanna. Verður því vart á betri heimild kosið. Þar sem skýrt er frá störfum alþingis, segir á þessa leið: „Þennan sama dag voru hengdir þrír þjófar, hét hinn fyrsti Jón Þórðarson, ættaður úr Gnúpverjahrepp, annar Jón Þorláksson, ættaður úr Landeyjum. Þeim fylgdi piltungur nokkur, er Gísli hét Oddsson, ættaður úr Hrunamannahrepp.

Selsvellir

Selsvellir.

Þessir komu úr Gullbringusýslu. Það er af þeim framar að segja, að Jón Þórðarson fór austan úr Hrepp um allraheilagramessuleytið veturinn fyrir, og Gísli með honum, flökkuðu síðan vestur um sveitir, unz þeir komu í Hvamm. Þar aðskildi þá Jón Magnússon sýslumaður. Fór Jón einn upp þaðan, unz hann kom á Kvennabrekku, og fann þar á næsta bæ Jón Þorláksson. Gerðu þeir þá félag sitt og fóru báðir suður til Borgarfjarðar og yfir Hvítá í Bæjarhrepp. Þar kom Gísli til þeirra. Fóru síðan allir suður til Skorradals og hófu stuldi mikla; fóru þeir með þeim suður um Hvalfjarðarströnd, Kjós og Mosfellssveit, og svo suður á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu; þar tóku þeir sér hæli undir skúta nokkrum, en er þeir höfðu þar lítt staðar numið, kom til þeirra Hallur Sigmundsson, búandi í Ísólfsskála í Grindavík, og vandaði nokkuð svo um þarveru þeirra. Leizt þeim þá eigi að vera þar lengur og fóru norður aftur með fjallinu í helli þann, er skammt er frá Hvernum eina.

Selsvellir

Á Selsvöllum.

Voru þar síðan í þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar á hálsunum, rændu einnin ferðamann, er Bárður hét Gunnarsson úr Flóa austan. Loksins í vikunni fyrir alþing fór Jón Árnason, búandi í Flekkuvík upp til hellisins við 12. mann, og hittu þá heima. Vildu þeir ei skjótt í ljós koma, unz Jón hleypti byssu af, er hann hafði, og bað hvern einn fylgdarmanna skjóta sinni byssu. Gerði hann það til skelks þjófunum, því eigi voru fleiri byssurnar en tvær. Hann skaut hettu af Jóni Þorlákssyni, svo að honum grandaði ekki. Féll þjófunum þá hugur og gengu í hendur þeim. Voru síðan allir teknir og fluttir inn til Bessastaða. Þar voru þeir þrjár nætur og á þeim tíma rannsakaðir á Kópavogsþingi, færðir síðan upp á þing og hengdir báðir Jónarnir, en Gísli hýddur sem bera mátti og rekinn svo til sveitar sinnar; var honum vægt fyrir yngis sakir“.
Ekki hefur mér tekizt að fá vitneskju um hella á þeim slóðum, þar sem þjófarnir voru. Og vorið 1951 komum við Björn Þorsteinsson að Hvernum eina til að svipast um eftir hellum í hrauninu í kring. Við sáum nokkra örlitla skúta, en engan svo stóran, að okkur þætti hugsanlegur mannabústaður. En hraunið er þannig, að þar getur hellir lengi leynzt sjónum manna, og að sjálfsögðu hafa útilegumennirnir reynt að velja sér skúta, sem ekki var auðfundinn. Líklegt er og, að þeir hafi tekið sér bólstað þarna til þess að geta soðið mat sinn í Hvernum eina, því að ekki þarf að efa, að hann hefur þá verið nógu heitur til þess. Skammt er einnig þaðan að sækja vatn í læk nyrzt á Selsvöllum.

Þáttur þessi er úr bók um útilegumenn og útilegumannabyggðir, sem kemur út hjá Bókaútgáfu Menningarsjóðs í haust.“

Heimild:
-Andvari, 84. árg. 1959, 1. tbl., bls. 103-104.

Selsvellir

Tóftir við Selsvelli.

Krýsuvíkurleið

Gengið var frá Skökugili um Siglubergsháls, eftir Krýsuvíkurleiðinni þar sem langar birgðarlestirnar fullhlaðnar þurrkfiski liðuðust um áleiðis til Skálholts forðum, gömlu gönguleiðinni austur til Krýsuvíkur, framhjá Drykkjarsteini og Hlínarvegi fylgt að Méltunnuklifi, haldið yfir Grákvíguhraun, yfir Núpshlíð og um Tófubruna niður af Lathólum og síðan var hinum forna Ögmundarstíg fylgt austur yfir Ögmundarhraun. Staðnæmst var við dys Ögmundar, þess er þjóðsagan segir að hafi rutt brautina í gegnum hraunið forðum daga.

Skálavegur

Gamli vegurinn að Skála um Siglubergsháls – nú horfinn vegna framkvæmda.

Nýr Suðurstrandarvegur mun fara yfir hina fallegu leið á Siglubergshálsi svo hver var að verða síðastur til að berja hana augum.
Að sögn Jóns Guðmundssonar frá Ísólfsskála var jafnan farið upp á Siglubergsháls um sneiðing utan í Skökugili. Nafnið er dregið af því að þar féll af hesti smjörskaka, en skaka hét smérstykkið, sem pressað hafði verið í strokknum. Nafnið er til komið líkt og Méltunnuklif nokkru austar, en þar munu menn hafa misst méltunnu af einum hestanna á leið sinni um klifið. Það var þá mun mjórra en nú er.
Jón sagði að elsta gatan um hálsinn hafi verið göngugatan er liggur upp með vestanverðu Festisfjalli. Guðmundur á Skála, faðir Jóns, og Bergur bróðir hans löguðu veginn að hluta árið 1930. Þá gerðu þeir götuna akfæra upp hálsinn. Sá hluti vegarins sést vel á honum vestanverðum þar sem hann liggur á ská niður brattann. Þessi hluti götunnar fer undir Suðurstrandarveginn.

Siglubergsháls

Vegur um Siglubergsháls.

Af Siglubergshálsi er fegurst útsýni til suðvesturs yfir fegurstu byggð á gjörvöllu landinu. Hún er og hefur verið fámenn, en með afbrigðum góðmenn. Fólkið þar hefur skilið tilgang lífsins betur en flest annað fólk, en borist lítið á, enda hreykir það fólk, sem veit og skilur, sér jafnan ekki hátt yfir meðvituð takmörk.

Gamla gatan frá Grindavík til Krýsuvíkur lá í gegnum Móklettana, en vegur þeirra Guðmundar og Bergs, sem sjá má ofan við Móklettana, lá áfram niður með og norður fyrir þá, þar sem nýi vegurinn mun liggja. Í austanverða Móklettana eru klöppuð landamerki Hrauns og Ísólfsskála (V 1890).

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.

Gamla gatan liggur undir núverandi vegarstæði austan Mókletta. Hún liðaðist niður með norðanverðu Festisfjalli og áfram milli Lyngfells og Litlahálss. Utan í honum eru klöppuð fangamörk fyrrum vegfarenda í móbergið. Götuna áleiðis niður að Skála má sjá rétt ofan við nýja veginn, vestan og utan í Lyngfellinu. Jón sagði að yfirleitt hafi verið reynt að sneiða hjá bjallanum ofan við Skála vegna þess hve brattur hann var. Sem dæmi mætti nefna að þegar Jóhannes Reykdal sendi vörubíl fullhlaðinn timbri í íbúðarhúsið á Skála hafi gengið þokkalega að koma honum niður brekkuna, sem þá var skammt vestan við núverandi vegarstæði, en þegar aka átti bílnum upp aftur hafi ekkert gengið. Varð að sækja 13 menn og reipi til Grindavíkur með til að draga hann upp brekkuna svo hægt væri að koma honum til baka.

Krýsuvíkurvegur

Gamli-Krýsuvíkurvegur: Skála-Mælifell fjær.

Gömlu götunni til Krýsuvíkur var hins vegar fylgt frá Litlahálsi yfir Litla-Borgarhraun og áleiðis í Drykkjarsteinsdal. Gatan sést vel í gegnum hraunið. Fjárborgin í Borgarhrauni er skammt sunnan við götuna. Þar á hæð var hlaðið lítið ferkantað mannvirki.
Staðnæmst var við Drykkjarsteininn. Símon Dalaskáld orti um hann vísu og þjóðsaga er tengd steininum (sjá Drykkjarsteinn – saga – undir Fróðleikur).

Drykkjarsteinn með þorstans þraut
þráfalt gleður rekka.
Sá hefur mörgum geiragaut
gefið vatn að drekka.

Sagnir hafa og verið um að steinninn hafi verið vígður af Guðmundi góða Hólabiskupi með þeim orðum að vatnið í steininum ætti að vera meinabót. Vatn var nú í báðum skálum hans, en sú sögn hefur fylgt steininum að vatnið í þeim ætti aldrei að þverra.

Krýsuvíkurvegur

Gamli_Krýsvíkurvegurinn austan Skála-Mælifells.

Gengið var framhjá Stóra-Leirdal og Lyngbrekkum, inn á Hlínarveginn, sem Jón ásamt fjórum öðrum, þ.á.m. Indriða föðurbróðir hans, lögðu gegn kaupi fyrir Hlín Johnson í Herdísarvík árið 1932. Var lagður vagnfær vegur frá Skála ofan Slögu alla leið í Krýsuvík, aðallega fyrir fyrirhugaða heyflutninga þaðan til Grindavíkur. Hlínarvegurinn er beinn og mjög greinilegur á sléttum melnum. Fyrirhuguð efnistaka í Einihlíðum ofan við Lyngbrekkur vegna Suðurstrandarvegarins stefna þessum vegarkafla í hættu. Jón man að sérhver vegavinnumanna fékk kr. 100 greitt fyrir verkið úr hendi Hlínar. Vegurinn sést vel til hliðar við nýrri veg upp með Lyngbrekkum og síðan áfram áleiðis að Méltunnuklifi.

Méltunnuklif

Gamli-Krýsuvíkurvegurinn um Méltunnuklif.

Þegar komið var að Méltunnuklifi mátti vel sjá hvernig vegavinnumenn höfðu kroppað drjúgt úr berginu og sprengt sér leið fram hjá stóru bjargi í klifinu ofan við bjargbrúnina, mesta farartálmanum. Eftir það var leiðin nokkuð greið í gegnum Grákvíguhraun og Leggjabrjótshraun, upp og yfir Núpshlíð þar sem gatan er höggvin í gegnum móbergskletta efst á hálsinum, áfram niður á Djúpavatnsveg og síðan var gamla veginum fylgt yfir Tófubruna að Latsfjalli. Á Núpshlíðarhálsi eru nokkrir eldgígar. Undir einum þeirra er gat og sést þar niður í myndarlega hvelfingu undir. Stiga þarf til að komast niður. Forvitnilegt væri að skoða rýmið þarna niðri við tækifæri. Hellirinn hefur fengið nafnið S. Þá vantar bara Á-ið, en Óið er norðvestan Grindavíkur.

Krýsuvíkurvegur

Gamli-Krýsuvíkurvegur um Ögmundarhraun.

Af hálsinum var ágætt útsýni yfir Ögmundarhraun. Nýi vegurinn er eftir gamla sneiðingnum niður hlíðina að austanverðu. Ögmundarstígnum gamla var síðan fylgt yfir Ögmundarhraun. Jón sagði að þeir hefðu lagt veginn 1932, ofan í gömlu göngu- og hestagötuna í gegnum hraunið. Þá hafi klöppin verið djúpt mörkuð eftir hófa og fætur liðinna alda. Sums staðar hafi komin göt í bergið og holrúm verið undir. Það hafi verið fyllt upp og gatan breikkuð. Ef hreinsað væri upp úr götunni kæmi sú gamla eflaust aftur í ljós. Nú sæist hins vegar ekkert eftir af gömlu götunni nema stuttur spotti austast í hrauninu, þar sem hún liggur framhjá Ögmundardys.

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

Staðnæmst var við dysina austur undir Krýsuvíkur-Mælifelli.
Best varðveittu kaflarnir á leiðinni frá Grindavík áleiðis til Krýsuvíkur eru á Siglubergshálsi, vestan við Méltunnuklífið og í gegnum Ögmundarhraunið vestan við Krýsuvíkur-Mælifell. Á þessum stöðum hefur þó verið farið yfir elstu götuna með nýrri vegagerð, nema á tveimur stöðum, þ.e. austast í Ögmundarhrauni og vestan við Tófubruna. Annars staðar hefur verið lagðir enn nýrri vegir yfir gömlu götuna eða þeir skemmdir með jeppaakstri. Þeir kaflar, sem heillegastir eru, eru vel þess virði að gefa góðan gaum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Krysuvikurvegur-21

Gamli Krýsuvíkurvegurinn austan Skála-Mælifells.

 

Þórkötlustaðir

Ætlunin er að ganga um Þórkötlustaðanes og Hópsnes (sem er í rauninni sami nestanginn). Hraunið kom úr Sundhnúki fyrir um 2500 árum og féll beint í sjó fram og myndar þar þennan um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, „en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði“.
Thorkotlustaðanes - loftmynd„Hverjum þeim er um Reykjanesskaga ferðast, hlýtur að verða ljóst, að geysileg eldvirkni hefur átt sér þar stað frá því að ísöld lauk, sem talið er, að hafi verið fyrir 10.000-15.000 árum. Erfiðara er hins vegar að segja til um aldur einstakra hrauna, því óvíða er hægt að ná í sönnunargögn hvað það snertir, og lítið er þar um öskulög, sem vitað er um aldur á. Án efa hafa nokkur gos átt sér stað á þessu svæði, eftir að land byggðist og eru skráðar heimildir til um það, flestar séu þó óljósar.

Sundhnúkahraun við Grindavík
ThorkotlustaðanesvitinnÁ Reykjanesskaga er mikill fjöldi eldstöðva og hrauna. Mörg þeirra hafa ekki nafn, svo vitað sé. Vafalaust hafa ýms örnefni fallið í gleymsku hin síðari ár og önnur brenglazt. Hraun eru allt umhverfis Grindavík, þorpið stendur á hrauni og á beinlínis hrauni tilveru sína að þakka.

Sundhnúkahraun og Sundhnúkur
Hluti af hrauninu ofan við Grindavík, milli Járngerðarstaðahverfis og Þorbjarnarfells, ber nafnið Klifhólahraun. Af þessu virðist mega ráða að til séu örnefnin Klifhólar og Klif, en hvar þau eru, hefur mér ekki tekizt að fá upplýsingar um. Hólar eru ekki á svæðinu, nema gíghólarnir suðvestur af Hagafelli, en samkvæmt korti herforingjaráðsins 1:50000 heitir sá hóll Melhóll. [Innsk: Klifhólar eru axlir er ganga út frá Þorbjarnarfelli sunnanverðu og dregur hraunið sunnan undir fellinu nafn sitt af þeim]. Þaðan er verulegur hluti hrauns þess, er Klifhólahraun er nefnt, án efa komið, því að hólarnir eru endinn á langri gígaröð.
A Thorkotlustaðanesi
Sökum þeirrar óvissu, sem ríkir um þessi örnefni, hef ég leyft mér að nota hér nýtt nafn um hraunin og eldvörpin, sem þau eru komin frá. Það skal þó tekið fram, að þetta nafn er eingöngu hugsað sem jarðfræðilegt hugtak og breytir að sjálfsögðu ekki örnefnum, sem fyrir eru á svæðinu. Ennfremur gildir þetta aðeins fyrir eldvörp þau og hraun, sem til urðu í því gosi, sem síðast varð á þessu svæði.

GígaröðinA Thorkotlustaðanesi-2

Gígaröð sú, sem Sundhnúkahraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð, og er, eða öllu heldur var, einn þeirra mestur, því að nú hefur hann verið um langan tíma notaður sem náma fyrir rauðamöl, og er því farinn að láta á sjá. Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna, að þarna hefur verið hraunfoss. Úr ofangreindum gígum er meginhluti þess hrauns kominn, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítið eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndazt hefur kringum þá á sléttunni norðan við Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir, til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs. Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn liggur nú, en numið þar staðar. Hefur hraunið runnið þar út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið, þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það.

A Thorkotlustaðanesi-3

Allbreiður hraunfoss hefur svo fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar eru fyrir. Er vegurinn skorinn gegn um nyrzta hluta þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar. Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur meginhraunflóð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands.

A Thorkotlustaðanesi-4

Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því að án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Svo vikið sé að nafninu Sundhnúkur, hefur Ísleifur Jónsson, verkfræðingur, bent mér á, að nafnið muni vera komið af því, að hnúkurinn hafi verið notaður sem leiðarmerki fyrir siglingu inn sundið inn á höfnina í Grindavík. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er annar sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst, að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar, og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um mjög stuttan tíma. Virðist þetta eiga almennt við um sprungugos (Jónsson 1970).

A Thorkotlustaðanesi-5

Frá þessum kafla gígaraðarinnar — kannski væri réttara að kalla það gígaraðir — hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígunum. Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan, og þekur allstórt svæði vestur af því, langleiðina norður að Eldvörpum. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra. Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum nafnlausum(P) gíg suðvestur af Þórðarfelli eru samtímamyndun, en ekki verða hér raktar sannanir fyrir því. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt, enda er sýnilegt, að hver straumurinn hefur þar hlaðizt ofan á annan. 

A Thorkotlustaðanesi-6

Geta má þess, að þrjár gossprungur eru í Stóra Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft fellið er úr bólstrabergi. Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðar-dyngjunni að austan. Mikill hraunfláki er milli ofangreindrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hins vegar ljóst, að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera, að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum. Það er greinilegt, að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk. Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígnum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna, en virðast kann við fyrstu sýn.

Sundhnúkagígaröð

Sundhnúkagígaröðin.

Við suðurhornið á Stóra Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs.
Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra Skógfells og Litla Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra Skógfelli sjálíu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum, að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess víða hulin. Að þessu leyti verður kort af hraunröndinni ekki hárnákvæmt.

A Thorkotlustaðanesi-7

Fremur lítið hraun hefur runnið úr gígaröðinni eftir að kemur austur fyrir Stóra Skógfell. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smáhraunspýja hefur runnið norður eftir vestanhallt við Litla Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af dyngjunni miklu, sem er við norðausturhornið á Fagradalsfjalli. Í heild er gígaröðin um 8,5 km á lengd. Nokkru norðan við austurenda gíganna er Kálffell. Það eru gígahrúgöld, ekki sérlega stór, og hefur hraun frá þeim runnið norðvestur og norður. Þessi eldvörp eru eldri en Sundhnúkahraun. Guðmundur G. Bárðarson (1929) er fyrstur til að nefna þessa eldstöð.

Eldri gígaröð
A Thorkotlustaðanesi-8Engum efa er það bundið, að áður hefur gosið svo til á sömu sprungu. Gígir eru suðvestan í Hagafelli aðeins austan við Sundhnúkagígina, og stefnir sú gígaröð alveg eins og þeir. Suðaustur af Stóra Skógfelli sér á stóran gjallgíg, sem opinn hefur verið til suðausturs. Hann er lítið eitt austan við Sundhnúkagígina og einmitt þar, sem sú gígaröð hreytir nokkuð um stefnu. Um 1,5 km austar er svo annar stór ösku- og gjallgígur og er gígaröðin fast við hann að norðan. Gígur þessi er líka eldri. Báðir eru þeir að nokkru leyti færðir í kaf í yngri hraun. Hraunflákinn vestur af Fagradalsfjalli virðist að mestu leyti vera kominn úr þessari eldri gígaröð, en þó eru þar fleiri eldstöðvar. Hraunin á þessu svæði ganga undir nafninu Dalahraun. Hraun frá Vatnsheiðardyngjunni hafa og náð alllangt þarna austur, því að þau koma fram í bollum í yngri hraununum, þar sem þau hafa ekki náð að renna yfir. Eftir þessu að dæma eru bæði gosin á Sundhnúkasprungunum yngri en dyngjugosin, sem skópu Vatnsheiði og Fagradalsdyngju. Loks endar þessi eldri gígaröð í litlum gjall- og klepragígum utan í vesturhlíð Fagradalsdyngju nokkur hundruð metrum sunnar en austustu gígirnir í Sundhnúkaröðinni, sem áður er getið.

Hvenær rann hraunið?

A Thorkotlustaðanesi-9

Þess er getið hér að framan, að hraunfoss frá gígnum vestan við Gálgakletta hafi fallið vestur, eða réttara norðvestur af Hagafelli. Blasir þessi hraunfoss við, þegar komið er suður yfir hraunið við vesturhornið á Svartsengisfelli. Þessi hraunspýja hefur runnið út á forna gjallhóla vestan undir fellinu. Þar er það mjög þunnt, og hefur það verið skorið sundur við rauðmalarnám og vegagerð. Kemur þá í ljós, að hólar þessir hafa verið grónir, þegar hraunið rann. Leifar þess gróðurs má nú finna sem viðarkol undir hrauninu. Mest eru það smágreinar og stofnar, líklega af víði, lyngi og ef til vill fjalldrapa og birki. Jarðvegslagið hefur verið örþunnt, líkt og það er víða á gjallhólum ennþá. Viðarbútarnir eru sjaldan meira en 2—3 mm í þvermál. Þessar jurtaleifar hafa nú verið aldursákvarðaðar með C14-aðferð. Hefur dr. Ingrid U. Olsson á Rannsóknarstofnun Uppsalaháskóla gert það. Samkvæmt niðurstöðum af þeirri rannsókn eru jurtaleifarnar 2420 ± 100 C1 4 ára gamlar, talið frá árinu 1950, og hraunið hefur því runnið tæpum 500 árum fyrir upphaf okkar tímatals.“
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Jón Jónsson, Náttúrufræðingurinn 45. árg. (1975-1976), 1. tbl. bls. 27.
-Jón Jónsson, Náttúrufræðingurinn 43. árg. (1973-1974), 3.-4. tbl. bls. 145-146.

A Thorkotlustaðanesi-10

Kirkjuvogskirkja

Freyja Jónsdóttir ritaði um „Kirkjuvogskirkju í Höfnum“ í Dag árið 1999:
„Hafnir eru á vestanverðu Reykjanesi, sunnan Miðness. Í bókinni „Landið þitt Ísland“, eftir Þorstein Jósepsson og Steindór Steindórsson segir að Hafnir skiptist í þrjú hverfi, Kirkjuvogshverfi, Merkineshverfi og Kalmanstjarnarhverfi. Einnig segir í sömu bók að stórbýli sveitarinnar hafi verið þrjú, Kirkjuvogur, Kotvogur og Kalmanstjörn. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru einnig stórbýli á árum áður og mun nafnið Hafnir vera dregið af þeim.
kirkjuvogskirkja-221Vitað er að kirkja var í Kirkjuhöfn um 1350 en talið er að hún hafi lagst af nokkru síðar. Þá er getið um hálfkirkju að Glámatjörn. Síðar var sóknarkirkja Hafnanna að Vogi. Þegar Svarti dauði geisaði 1402 var kirkja í Vogi. Heimildir herma að kirkjan hafi verið flutt að Kirkjuvogi laust fyrir 1575 en frá því ári eru heimildir um að Gísli biskup hafi vísiterað þar. Þegar kirkjan var flutt frá Vogi að Kirkjuvogi voru bein flutt frá Kirkjuhöfn í Kirkjuvogsgarð.
Þegar Brynjólfur biskup í Skálholti vísiteraði í Höfnum árið 1642 segir hann að kirkjan í Kirkjuvogi sé að mestu ný, með sex stafgólfum og kapellu inn af. Þá áttu sókn að kirkjunni nokkur stórbýli sem mest hlunnindin höfðu eins og Vogar, Ytri-Njarðvík, Innri-Njarðvík, Narfakot, Merkines, Gálmatjörn, Sandhöfn og Kirkjuhöfn. Þá er þess getið að kirkjan hafi fengið stórar gjafir frá Hákoni Brandssyni, sem gaf kirkjunni læsta kistu, og Erlendi Hjaltasyni sem gaf kaleik og messuklæði.
Brandur Guðmundsson hreppstjóri, sem þá bjó í Kirkjuvogi, ritaði sóknarlýsingu Kirkjuvogssóknar árið 1840 eftir beiðni séra Sigurðar Sívertsen á Útskálum. Brandur var fæddur á Rangárvöllum 1771. Faðir hans var Guðmundur Brandsson, bóndi á Brekku á Rangárvölum, sonarsonur Bjarna Halldórssonar á Víkingalæk. Guðmundur flutti suður að Kirkjuvogi og drukknaði á góu árið 1801. Brandur sonur hans þótti siðavandur, smiður góður og smíðaði fjölda skipa, bæði stór og smá. Hann andaðist í Kirkjuvogi, 74 ára gamall. Gróa Hafliðadóttir hét kona hans, orðlögð fyrir heppni í starfi en hún var ljósmóðir. Gróa lést árið 1855.
kirkjuvogskirkja-224Hákon Vilhjálmsson fæddist í Kotvogi árið 1753, sonur Vilhjálms Hákonarsonar og Ingiríðar Tómasdóttur sem ólst upp í Miðbænum í Kirkjuvogi. Hann var hreppstjóri og hafnsögumaður á Básendum. Hann byggði nýja kirkju í Kirkjuvogi árið 1805 fyrir 239 ríkisdali. Í ofsaveðrinu mikla 1799 þegar Bátsendakaupstað tók af, skemmdist kirkjan í Kotvogi mikið sem líklega hefur orðið til þess að ný kirkja var reist. Hákon gaf nýja söngtöflu í kirkjuna og var fjárhaldsmaður hennar alla sína tíð. Hákon Vilhjálmsson lést 1820. Ketill Jónsson (elsti Ketill í Kotvogi) og Guðni Ólafsson í Merkinesi gáfu kirkjunni nýja prestshempu og hökul af rauðu flaueli með gullnum krossi og knipplingum umhverfis.
Ketill Jónsson sem tók við kirkjunni eftir að Hákon lést, lét endurbæta kirkjuna árin 1844, 1848 og 1851. Hann lét einnig steypa silfurkaleik og gaf kirkjunni til minningar um konu sína, Önnu Jónsdóttur. Árið 1859 afsalar Ketill Jónsson sér kirkjunni til Vilhjálms Hákonarsonar, en Vilhjálmur byggði hana í þeirri mynd sem hún er nú. Tómas faðir Ingigerðar konu Vilhjálms Hákonarsonar byggði Kirkjuvogsbrunninn sem lengi var vatnsból byggðarinnar. Brunnurinn er nú aflagður og búið að fylla hann af grjóti, þó enn sjáist vel hvar hann var.
Kirkjan í Höfnum var annexía frá Útskálum, áður lá hún til Hvalsnesprestakalls. Prófasturinn á Kjalarnesi skoðaði kirkjuna 24. ágúst árið 1862. Þá er byggingu hennar lokið og tekið fram að hún sé öll máluð að innan. Í húsvitjunarbókum frá árinu 1865 sem prófasturinn í Kjalarnesþingi skráði, þegar hann vísiteraði í Höfnum í byrjun septembermánaðar, segir að kirkjan sé í prýðisástandi eins og hirðing hennar til sóma. Þá skuldaði kirkjan 685 ríkisdali sem þótti ekki mikið vegna byggingar hennar því talið er að bygging kirkjunnar hafi kostað 1800 ríkisdali. Stefán Sveinsson á Kalmarstjörn gaf kirkjunni nýja kirkjuklukku. Kaupmaður P. Duus í Keflavík gaf kirkjunni glerhjálm og Vilhjálmur Kristinn Hjálmarsson gaf nýtt altarisklæði, gert af rauðu silkiflosi með gullnum krossi og leggingum, einnig gaf hann hvítan altarisdúk með blúndu í kring. Gjöfin var talin afar höfðingleg og tekið er fram að hún hafi kostað yfir 50 ríkisdali.
kirkjuvogskirkja 222Prófastur endar lýsingu á heimsókn sinni í hið veglega guðshús með því að þakka höfðinglegar gjafir. Þá er tekið fram að sóknarbörn munu taka að sér að halda við hurð og dyraumbúnaði á kirkjunni og sáluhliði. Árið 1866 lét Vilhjálmur byggja kór og fordyri við kirkjuna. Kostnaðurinn við bygginguna varð rúmlega 605 ríkisdalir. Vilhjálmur gaf altaristöfluna sem enn er í kirkjunni og máluð af Sigurði Guðmundssyni málara. Einnig gaf hann kaleik og stærri kirkjuklukkuna og flest það sem kirkjuna vanhagaði um. Vilhjálmur var kirkjuhaldari til dauðadags. Hann andaðist í Kirkjuvogi 20. september 1874. Vilhjálmur hafði tvívegis fengið heiðursmerki, frá Danakonungi árið 1852 fyrir giftusamlega björgun sjómanna, og heiðursmerki frá Napoleon Frakklandskeisara. Danebroksmaður varð hann 1869. Eftirlifandi kona hans, Þórunn Brynjólfsdóttir, tók við kirkjunni og stjórnaði henni af mikilli rausn. Hún greiddi niður skuldir kirkjunnar og stjórnaði öllu með miklum skörungsskap í þrettán ár. Steinunn, dóttir Vilhjálms og Þórunnar, tók við stjóminni af móður sinni til ársins 1890. Steinunn gaf kirkjunni stórfé og varð kirkjan skuldlaus í hennar tíð.
Kirkjuvogskirkju var fyrst þjónað frá Hvalsnesi, síðan Útskálum og frá 1907 frá Grindavíkurprestakalli. Íbúar í Höfnum hafa alltaf verið stoltir af sóknarkirkju sinni og hugsað vel um hana enda er hún ákaflega falleg bygging. Helmingur loftsins er með hvolfþaki sem prýtt er með hundrað og einni stjörnu. Hinn hluti loftsins er með bitum. Kirkjan tekur sjötíu manns í sæti og er með fjórtán bekkjum. Í gegnum árin hafa sóknarbörnin gefið kirkjunni flestar eigur hennar, eins og skírnarfont sem séra Jón Thorarensen gaf, maðurinn sem hefur skrifað mest af öllum mönnum um sögu Hafnanna. Jón var alinn þar upp hjá Hildi Jónsdóttur Thorarensen, föðursystur sinni og manni hennar Katli Ketilssyni (yngsti Ketill) í Kotvogi. Ketill var fæddur á Hvalsnesi en faðir hans átti jörðina og byggði þar tvær kirkjur.
Á kirkjuturninum er járnstöng, efst á henni er plata með fangamarki Vilhjálms Kristins Hákonarsonar og ártalinu 1861. Kirkjan er dökkmáluð með rauðu þaki og hvítmáluðum gluggakörmum, dyraumbúnaði og hurð. Hún stendur á hæð í vel grónu túni. Í kringum hana er vel hirtur garður með hvítri girðingu. Í austurhluta garðsins er leiði þeirra Vilhjálms Kristins Hákonarsonar og Þórunnar Brynjólfsdóttur. Í kringum það eru fagurlega smíðaðar grindur.
Heimildir eru úr Suðumesjaannál, Jarðahók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, Blöndu II, Lýsingum Skúla Magnússonar á Gullbringu- og Kjósarsýslu og viðtal við Borgar Jónsson í Höfnum.“

Heimild:
-Dagur 18. desember 1999, bls. 1 og 3.
Hafnir

Lesbók Morgunblaðsins 1943

Lesbók Morgunblaðsins, 7. tbl. 21.02.1943, Hreindýr og hreindýraskyttur – Kristleifur Þorsteinsson, bls. 53-54.

Hreindýr

Hreindýr.

„Miklu verri lífsskilyrði fyrir hreindýr hafa verið á Reykjanesfjallgarði heldur en í Múlasýslum, bæði hvað snertir vetrarbeit og veðurfar. Þar var líka mannabygð á báðar hliðar og dýrin á stöðugum flótta. Samt voru þau orðin nokkuð mörg um miðbik 19. aldar, en fráleitt hefir fengist nokkur vissa fyrir því á hvaða árum þau urðu flest eða hvað tala þeirra varð hæst. —

Skjaldarkot

Skjaldarkot – tóftir.

Er tveir fellisvetur hafa höggvið stærsta skarðið í þau, einkum, veturinn 1859, sem kendur var við hörðu föstuna. Ágúst í Hala koti á Vatnsleysuströnd segir í endurminningum sínum, að þann vetur hafi dýrin leitað skjóls og bjargað sér niður við bæi á Ströndinni og hafi þrettán hreindýr þá verið skotin, sem stóðu við hjallana í Skjaldakoti. Hafa þau öll verið að dauða komin. En svo kom annar fimbulvetur 1880—1881, sem var bæði lengri og harðari. Þá var jeg um vetrarvertíð á Vatnsleysuströnd. Fjell þar þá því nær hver einasta sauðkind, sem hvorki var ætlað hús eða hey. Svo hefir verið með hreindýrin, að ekki hefir nema lítill hluti þeirra afborið slík harðindi. En þá voru þau víst orðin fá, samanborið við það, sem var um miðja öldina. Og í grennd við mannabústaði varð þeirra þá ekki vart. Þegar komið var fram undir aldamótin 1900, þótti það í frásögur færandi, ef hreindýr sáust á þessum stöðum. Vorið 1895 kom til mín kaupmaður austan úr Þorlákshöfn. Taldi hann það merkilegasta sem fyrir hann bar á leiðinni, að á Hellisheiði sá hann fimm hreindýr á beit ekki langt frá alfaravegi.
En hvenær síðasta dýrið hefir sjest þar uppistandandi, veit jeg; ekkert um, en ekki hefir það verið löngu eftir síðustu aldamót.

Tvö hreindýr í einu skoti

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Ekki þótti það gerlegt að, skjóta hreindýr með öðru en kúlurifflum, en þeir voru þá í fárra höndum. Samt veit jeg eitt dæmi til þess, að maður banaði tveimur dýrum í sama skoti úr haglabyssu. Það var Jón Sigurðsson á Vífilsstöðum, síðar í Efstabæ í Skorradal. —
Var jeg samtíða honum margar vertíðir við sjó. Hugði jeg þá að hann hlyti að verða stórbóndi og sveitarhöfðingi svo vel þótti mjer hann til foringja fallinn. En hann, þessi frábæra skytta, beið bana af byssuskoti, þegar hann var í broddi lífsins. Var hann þá á rjúpnaveiðum frá Efstabæ. Jeg gat ekki sneitt hjá því að minnast þessa fornvinar míns hjer, af því hann var sá eini maður, sem jeg hefi áreiðanlega heimild fyrir að skyti tvö hreindýr með einu rjúpnaskoti.
Ekki er mjer kunnugt nema um, tvo menn sem urðu nafnkendir fyrir hreindýraveiðar á Reykjanesfjallgarðinum. Voru það Guðmundur Jakobsson frá Húsafelli og Guðmundur Hannesson frá Hjalla í Ölfusi. Verður þeirra hjer að nokkru getið.

Hreindýraskyttan Guðmundur Hannesson

Móakot

Móakot.

Guðmundur Jakobsson var elstur af tólf börnum þeirra Húsafellshjóna Jakobs Snorrasonar og Kristínar Guðmundsdóttur, fæddur 1794. Hann var talinn gáfumaður, þjóðhagasmiður, rammur að afli og alt var honum vel gefið. Þegar hann var fulltíða maður fluttist hann frá foreldrum sínum suður að Elliðavatni og giftist þar frændkonu sinni Valgerði Pálsdóttur, þau voru systrabörn. Valgerður, var alsystir sjera Páls í Hörgsdal, sem fjölmenn ætt er frá komin. Guðmundur bjó á Vatnsenda, síðar á Reykjum í Ölfusi og síðast í Lambhúsum í grennd við Bessastaði. Guðmundur fór að búa á þeim jörðum, sem lágu að því svæði er hreindýr hjeldu sig í þá daga. Hann var æfð skytta frá æsku og neytti hann nú þeirrar listar, þegar hreindýr gengu honum úr greipum. Var hann að líkindum sá fyrsti og næstum sá eini maður á þriðja og fjórða áratug 19. aldar, sem talinn var frækin hreindýraskytta. Mynduðust þá margar sögur af honum, bæði um skotfimi hans og hreysti, bárust sögur mann frá manni ýktar og endurbættar að gömlum þjóðar sið. Til dæmis um krafta hans var sagt, að hann hefði eitt sinn skotið hreindýr uppi í Henglafjöllum og borið það á herðum sjer til Hafnarfjarðar. Vildu Hafnfirðingar er þetta mundu, fullyrða að þetta væri satt. Einn sagði að til merkis um skotfimi Guðmundar, að hann hefði hæft dýr á 900 faðma færi og byssukúlan hefði farið inn um krúnuna og komið út hjá dindlinum. Sjálfur hafði Guðmundur verið rauplaus maður og voru sögur þær annara verk, sem af honum bárust. En sannleikur var það að hann var rammur að afli. Það sagði sjera Þórður í Reykholti mjer, að þegar hann var í Bessastaðaskóla hefði Guðmundur búið í Lambhúsum.

Lambhús

Lambhús – tóftir.

Myndaðist góð vinátta milli hans og sumra skólapilta, sem þótti gaman að líta heim til þessa glaða og gáfaða bónda. En ekki þótti þeim hann árennilegri en ísbjörn til fangbragða, enda þreyttu þeir þau aldrei við hann. Þegar ég var á barnsaldri man jeg Skagfirðinga, sem voru í skreiðarferðum suður með sjó, sögðust hafa gert sjer erindi til Guðmundar Jakobssonar, bara til þess að sjá þennan mann, sem svo margar sögur gengu um. Og Einar á Mælifelli föðurfaðir dr. Valtýs Guðmundssonar, gerði sjer ferð norðan úr Skagafirði og suður á Álftanes. Sagði hann það væri erindið að sjá Guðmund Jakobsson. Einar var gáfumaður með frábærri elju að afrita bækur. Einar heimsótti foreldra mína í þessari ferð. Var hann spurður, er hann var á heimleið, hvernig honum hefði þótt að heimsækja Guðmund og um hvað þeir hefðu helst talað. Lofaði hann Guðmund mikið fyrir gáfur og fróðleik og sagði að lokum: — Mest töluðum við um skáldskap gamlan og nýjan og aflraunir fornar.
Guðmundur flutti síðast að Móakoti í Garðahverfi til Helgasonar síns og Rannveigar konu hans. Meðal barna þeirra hjóna er Helgi Helgason verslunarstjóri og einn meðal nafnkendustu Reykjavíkurbúa. Það sagði frú Rannveig mjer, að Guðmundur tengdafaðir sinn hefði verið sá glaðasti og skemtilegasti maður, sem hún hefði kynst um æfina. Hann dó í Móakoti 1. jan. 1873, kominn að áttræðu.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – tóftir.

Vigdísarvellir hjet heiðarbýli eigi langt frá Keili, en fjarri öllum bygðum bólum. Þegar jeg var sjómaður á Vatnsleysuströnd frá 1878 til 1888, bjó þar maður að nafni Guðmundur Hannesson. Strandarmenn sögðu mjer að hann væri einn af þeim 29 börnum, sem Hannes bóndi á Hjalla hefði eignast með konum sínum, en bókfærðar heimildir hefi jeg engar fyrir þessu. Jeg sá þennan Guðmund nokkrum sinnum og líka þekti jeg mörg systkin hans, sem voru víðsvegar þar syðra, bæði hjú og búendur, meðal þeirra var Sæfinnur vatnsberi í Reykjavík, er gárungar kölluðu Sæfinn með sextán skó. Þessi systkini voru fyrir mínum augum ekki meiri en miðlungsfólk, og báru sum þeirra vitni þess, að vanlíðan í æsku hefði markað þroska þeirra. Einkum var það einn bræðranna, sem Helgi hjet, er talinn var lítilmenni. En Sæfinnur og Guðmundur voru þeirra burðugastir.

Sæfinnur

Sæfinnur Hannesson.

Ágúst í Halakoti lýsir Guðmundi Hannessyni sem frábæru karlmenni og bestu skyttu, og er það enginn efi að svo hafi verið, hafi hann skotið sjötíu hreindýr eins og Ágúst fullyrðir. Til dæmis um frækleik Guðmundar og hreysti, segir hann sögu af því, að eitt sinn hafi helskotinn tarfur, sem ekki átti undankomu auðið, ráðist á hann. Guðmundur brá sjer þá upp á svíra dýrins og banaði því með beittum hnífi. Þessu nákvæmlega samhljóða sögu heyrði jeg í bernsku minni um Guðmund Jakobsson. Kemur mjer til hugar, að það sama atvik sje fært á milli manna. Ekki var Guðmundur Hannesson jafn stórmannlegur í mínum augum, eins og í lýsingu þeirri sem Ágúst í Halakoti gaf af honum og efast jeg um að allar heimildir um dýraveiðar hans sjeu óyggjandi, því bygðar eru þær á sögnum, er gengið hafa mann frá manni. Jeg hefi spurt Herdísi Sigurðardóttur húsfrú á Varmalæk, sem þekti Guðmund vel, er hún átti heima á Vífilsstöðum og Krýsivík, hvort það geti komið til mála að hann hefði skotið sjötíu hreindýr. Hún þorði ekki að mótmæla því með öllu, að svo hefði getað verið þótt henni virtist líklegra að einhverju hefði verið krítað í þá tölu. En það vissi hún að hann var talinn góð skytta og skaut bæði refi og hreindýr, þegar tök voru á. Að öllum líkindum hefir hann lagt fleiri hreindýr að velli á Reykjanessfjallgarði, en nokkur annar maður.
Það væri fróðlegt að vita nöfn allra þeirra manna, sem skutu hreindýr á þessu svæði og tölu þeirra dýra, sem fjellu fyrir skotum, en um það er ekkert að finna nema í munnmælum, sem færast úr lagi og gleymast síðan með öllu.
Nú á dögum líta ýmsir svo á, að það hafi verið mesta goðgá að leggja þessi friðsömu fjalldýr að velli. En þau áttu ekki ætíð sjö dagana sæla. —
Þegar allt fór saman, vetrarbyljir, stórregn og hagleysi, þá hlutu þau að lokum að hníga að velli helfrosin og hungurmorða. Við allar þær nauðir losnuðu dýrin, sem fengu skot í höfuð eða hjarta og hlutu þar með bráðan bana. Má því líta svo á, að þessir markvissu veiðimenn hafi unnið miskunnarverk með því að leggja dýrin hreinlega að velli. Og með þeim færðu þeir líka oft þurfandi fjölskyldu góða björg í búið. Þá var heldur ekki um lagabrot að ræða, þótt hreindýr væru unnin á þeim árum, sem frásagnir þær gerðust sem hjer eru skráðar.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 7. tbl. 21.02.1943, Hreindýr og hreindýraskyttur – Kristleifur Þorsteinsson, bls. 53-54.

Hreindýr

Hreindýr.

Húshólmi

Gengið var eftir stíg austur Ögmundarhraun frá Lat, neðan Óbrennishólma og inn í Húshólma eftir stíg frá Brúnavörðum ofan við Miðreka. Stígurinn hefur verið flóraður á köflum. Hann kemur inn í Húshólma við minjarnar, sem eru þar vestan við hólmann. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson skrifuðu um „Krýsuvíkurelda – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins“ í Jökul árið 1988:

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Minjasvæðið er allstórt. Mótar þar fyrir skálum og sveigðum garðlögum, auk fjárborgar og löngum görðum inni í hólmanum. Aldur þessarra minja hafa verið á reiki. Hafa menn helst reynt að greina aldur hraunsins, sem færði þær í kaf að mestu og þannig reynt að finna út aldur þeirra. Í frásögnum frá því á 18. öld er hraunið talið vera frá því á 16. öld eða 14. öld. Nýlegri rannsóknir telja það geta hafa runnið í kringum 1000 og enn aðrar kveða á um 1150 eða 1180. Hvað sem öllu líður er ljóst að Ögmundarhraun er ekki einungis eitt hraun, það er nokkur hraun, sem hafa runnið á mismunandi tímum. Vegna takmarkaðra rannsókna er ekki gott að kveða á um hvort stutt hafi verið á millum þeirra eður ei.
Þarna við rústirnar var rifjuð upp rannsókn þeirra Hauks og Sigmunds á þeim síðla hausts 1987. Í grein þeirra í Jökli er fjallað um aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Aldur hraunsins var kannaður í ljósi öskulaga sem eru undir því og ofan á. Eitt þessara öskulaga er svonefnt miðaldalag, en sterk rök eru leidd að að aldri þess og uppruna.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi – garður.

Einnig voru geislakolsaldursgreiningar leiðréttar með nýjustu aðferðum, sem þá tíðkuðust. Þessar athuganir voru bornar saman við ritheimildir og töldu þeir félagar sig geta ákvarðað aldur Ögmundarhrauns upp á ár. Í lokin fjalla þeir um aldursákvörðun hins forna torfgarðs í Húshólma, sem reyndist vera eitt af elstu mannvirkjum er fundist hafa á Íslandi.
“Nokkuð hefur verið ritað um aldur Ögmundarhrauns á Reykjanesi á undanförnum árum og hefur sitt sýnst hverjum. Jón Jónsson (1982,1983) og Sigurður Þórarinsson (1974) hafa á grundvelli geislakoslaldursgreininga og afstöðu hraunsins til mannvistarleifa í Krýsuvík dregið þá ályktun, að það hafi brunnið á öndverðri 11. öld. Sveinbjörn Rafnsson (1982) hefur kannað sögulegar heimildir um hraunið og kirkjustaðinn í Krýsuvík og álítur hann, að hraunið hafi runnið seint á tímabilinu 1558-1563.

Skreiðarlest

Skreiðarlest í Ögmundarhrauni fyrrum.

Þorvaldur Thoroddsen (1925) áleit að Ögmundarhraun gæti hafa runnið 1340 og Jónas Hallgrímsson (útg. 1934-37) var sömu skoðunar. Tómas Tómasson (1948) og Einar Gunnlaugsson (1973) hafa rakið heimildir um eldgos á Krýsuvíkursvæðinu en taka ekki afstöðu til aldurs Ögmundarhrauns. Ástæða þess, að áhugi hefur verið meiri fyrir könnun Ögmundarhrauns en annarra hrauna á Reykjanesi er sú, að það hefur runnið yfir bæ og önnur mannvirki s.s. fjárrétt og torf- og grjótgarða, sem sjást í hraunjaðrinum.
Gjóskulög sem nefnt hefur verið miðladalagið hjálpar til við ákvörðun á aldri Ögmundarhrauns og skal fyrst reynt að varpa ljósi á aldur þess. Miðaldalagið er eina gjóskulagið frá miðöldum auk landnámslagsins sem finnst í jarðvegssniðum á svæðinu. Í þessari grein verður skýrst frá niðurstöðum rannsókna sem gerðar voru.

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvarkerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – refakyttubyrgi. Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Eldgosið hefur einkennst af umbrotahrinum, af gliðnun lands og kvikuhlaupum með hléum á millum. Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Um þau verður fjallað í annarri lýsingu. Jón Jónsson hefur áður haldið því fram að að Ögmundarhraun, Kapelluhraum og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.

Húshólmi

Húshólmi – stoðhola.

Í Ögmundarhrauni er Húshólmi stærstur óbrennishólma, sem þar eru. Hann er austast og neðst í hrauninu. Nokkru vestar er Óbrennishólmi. Rústir eru í báðum þessum hólmum. Merkastar eru rústirnar í svenefndum Kirkjulágum, sem eru smáhólmar skammt vestan við Húshólma. Þeim hefur Brynjúlfur Jónnson (1903) lýst. Þar eru greinilegar rústir af bæjarhúsum sem hlaðin hafa verið að mestu úr lábörðu grjóti. Í efri láginni hefur hraunið runnið upp að byggingum og að hluta yfir þær. Í neðri láginni er m.a. ein tóft sem hraunið hefur ekki náð að renna yfir og hefur verið talið líklegt að þar hafi verið kirkja eins og örnefnin Kirkjulágar og Kirkjuflöt benda til. Hús þetta virðist hafa verið brúkað eftir að hraunið rann sem sést af því hve miklu greinilegri og hærri tóftin er heldur en þær sem hraunið hefur lagst upp að. Húsið hefur dyr í vestur og snýr eins og kirkjur hafa gert um aldir.

Ögmundarhraun

Hraunkarl í Ögmundarhrauni.

Þar sem segir frá Krýsuvík í dagbók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (31. mars 1755) og einnig í hinni prentuðu ferðabók þeirra (Eggert Ólafsson, 1772) er þess getið að hraunflóð hafi eytt kirkjustað sem Hólmastaður hét. Það átti að sögn heimamanna í Krýsuvík að hafa gerst tveim öldum áður en Eggert og Bjarni komu þar. Nafnið Hólmastaður bendir til að staðurinn dragi nafn af Húshólma en það nafn hefur hann vart fengið fyrr en eftir að Ögmundarhraun rann.
Landslag við bæjarrústirnar bendir til að bærinn hafi staðið nærri sjó, sennilega við austanverða vík, sem hefur verið hin eiginlega Krýsuvík, en hún hefur fyllst af hrauni í Krýsuvíkureldum. Í sjávarkampinn hafa menn sótt grjót í byggingar á hinu forna bæjarstæði í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – garður.

Í Húshólma eru tveir garðar, sem hverfa inn undir hraunið. Efri garðurinn liggur þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn þvert yfir hólmann og hefur að mestu verið hlaðinn úr torfi en þó sést í grjót á stöku stað. Allnokkur hluti hans er nú blásinn. Neðri garðurinn liggur í sveig vestast í hólmanum og er mun meira grjót í honum en þeim efri. Þessi garður mun marka það stykki sem nefnt var Kirkjuflöt. Efst í Húshólma er lítil fjárborg forn og niðri við gamla fjörukampinn er lítil hústóft.
Í Óbrennishólma eru tvö mannvirki. Annað er fjárborg sunnan til í hólmanum en hitt eru leifar af fjárrétt nyrst í honum og hefur Ögmundarhraun runnið að nokkru yfir og inn í hana (Jón Jónsson, 1982).
Gata liggur í Húshólma austan frá. Hún er greinilega rudd og 2-3 m á breidd og allgreiðfær. Augljóst er af ummerkjum að þessi vegagerð er ekki frá síðustu tímum.
Til að kanna aldur Ögmundarhrauns voru mæld nokkur gjóskulagasnið, bæði í jaðra hraunsins og utan þess. Á þessu svæði eru nokkur gjóskulög af þekktuma ldri.

Landnámslagið

Landnámslagið í gjóskulagi.

Þekktaskta gjóskulagið á þessum slóðum er svonefnt landnámslag. Lagið er venjulega tvílitt, neðri hlutinn er ljós og erfi hlutinn dökkur. Lagið hefur greinilega fokið til og því að líkindum fallið að vetri til. Þessi litaskipti hafa verið álitin marka upphaf búsetu í landinu (Þorleifur Einarsson, 1974). Lagið hefur verið notað til að ákvarða hvaða hraun á Reykjanesi hafa brunnið eftir að land byggðist (sbr. Jón Jónsson, 1983).
Annað nokkuð þekkt gjóskulag á Reykjanesskaga er svonefnt miðaldalag. Reynt hefur verið að heimfæra það upp á eldgos sem getið er um í rituðum heimildum. Upptök öskulagsins eru í sjó við Reykjanestána. Leifar gígsins eru Karlinn, stakur drangur skammt undan landi, en hluti af gígbarminum er skammt norðbestur af Valahnúk og hefur yngra Stampahraunið runnið upp að honum.

Húshólmi

Skáli við Húshólma.

Til eru fimm geislakolsaldursgreiningar, sem tengjast Ögmundarhrauni. Árið 1974 tók Þorleifur Einarsson tvö koluð sýni úr eldstæði í rústunum í Krikjulágum (efri láginni) í Húshólma og lét aldursgreina þau. Niðurstaðan var 980+/-60 og 960+/-170. Sýnið ætti því að vera frá því um 1027 e.Kr. Jón Jónsson (1982) lét gera þrjár aldursgreiningar árið 1979 á koluðum gróðuleifum undan hrauninu. Niðurstöður mælinganna voru ártölin 1050, 1095, 1125, 1141 og 1148.
Fátt er um sögulegar heimildir um eldgos á Reykjanesskaga á þessum tíma og eru þær allknappar. Frá 1151 er getið um gos í Konungsannál, bs. 115, Oddaverjaannál, bls. 474 og Annál Flateyjarbókar, bls. 301. Árið 1188 segir frá gosi í Trölladyngju í Skálholtsannál, bls. 180. Talið er að miðaldaöskulagið geti verið frá 1226/27.

Jarðfræði

Hraun á sögulegum tíma.

Sigurður Þórarinsson (1965) birti kort af Íslandi þar sem merkt eru inn gos á sögulegum tíma og þar telur hann eldgos í Trölladyngju á Reykjanesi vera 1151, 1188 og 1360, en telur þó síðastnefnda áratalið óvisst.
Þegar gögn eru skoðuð hníga ýmis rök að því að Ögmundarhraun hafi runnið á 12. öld og engin ástæða er til að véfengja frásagnir annála af gosi 1151. Eldgosið sem varð 1188 gæti hafa verið á svipuðum slóðum og hluti af sömu goshrinu. Þar sem svo langt hefur liðið milli goshrina þá er hugsanlegt að seinna gosið hafi verið mun minna.

Húsólmi

Húshólmi – uppdráttur.

Til eru lýsingar Herberts kapelláns í Clairvaux í Frakklandi á hraunrennsli í sjó á Íslandi. Rit hans, Liber miraculorum (Bók um furður) er skrifið 1178-80. Þar lýsir hann hrauni, sem rann í sjó fram á Íslandi á 12. öld og þá fyrir 1188. Þar sem hraunrennsli í sjó á þessum tíma er aðeins þekkt frá Krýsuvíkureldum renna skrif kapellánsins frekari stoðum undir þá skoðun að Ögmundarhraun hafi runnið 1151.
Grafið var eitt snið í gegnum efri garðinn í Húshólma og reyndist það forvitnilegt. Garðurinn er mjög vel varðveittur. Pælan, sem stungin hefurverið með garðinum beggja vegna til efnistöku, sést greinilega af litaskiptum í jarðvegi og er hún um 10-15 cm djúp í sniðinu. Neðst í pælunni norðan megin við garðinn var dreif af landnámslaginu en hún lá ekki inn undir garðinn svo það hefur fallið eftir að hann var hlaðinn.
Miðaldalagið liggur upp að garðinum beggja vegna. Hann er því hlaðinn fyrir 900, en þegar miðaldalagið féll um 1226/27 var verulega fokið að honum.

Húshólmi

Húshólmi – garður – uppdráttur

Einnig var grafið snið við fjárborgina efst í Húshólma og þar lá miðaldalagið upp að vegghleðslunni og er hún því allnokkru eldri en öskulagið.”
Samkvæmt framangreindum rannsóknum virðist sá hluti Ögmundarhrauns, sem umlukti rústirnar í Húshólma hafa runnið 1151. Garðurinn, sem rannsakaður var, virðist hafa verið hlaðinn fyrir 900. Það er því fullljóst að þarna er um mjög fornar minjar að ræða.“
Ekki er vitað til þess að rústirnar sjálfar hafi verið rannsakaðar, en þegar það verður gert mun án efa sitthvað forvitnilegt koma í ljós. Hugsanlega vakna þá fleiri spurningar en hægt verður að svara með góðu móti.
Skoðaðar voru seljaminjar nyrst í Húshólma, en að því búnu var gengið áfram út úr hólmanum eftir stígnum austan hans og norður með austanverðum hraunkanti Ögmundarhrauns. Utan í hrauninu er hringlaga gróið gerði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir:
-Krýsuvíkureldar I – Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins – Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson – Jökull nr. 38 1988 bls 71-85.

Húshólmi

Húshólmi – uppdráttur ÓSÁ.

Jón Baldvinsson

Þann 31. mars árið 1955, klukkan tæplega 4 um nóttina, strandaði togarinn Jón Baldvinsson, rétt hjá Reykjanesvita. Loftskeytastöðin í Reykjavík heyrði strax neyðarkall togarans og tilkynnti það til skrifstofustjóra Slysavarnarfélagsins, sem þegar vakti vitavörðinn á Reykjanesvita, Sigurjón Ólafsson, og kallaði einnig til björgunarsveitina í Grindavík.
Jón Baldvinsson á strandstaðUm kl. 5 var vitavörðurinn kominn á strandstaðinn. Reyndist togarinn vera strandaður skammt undir  svokölluðu Hrafnkelsstaðarbergi sem er skammt suður af Reykjanesvita. Tilkynnti Sigurjón Ólafsson vitavörður Slysavarnarfélaginu strax um hvar skipið væri strandað, og einnig að skipbrotsmenn væru búnir að skjóta línu í land. Um kl. 7 kom björgunarsveitin úr Grindavík á strandastaðinn, eftir mjög erfiða ferð, þar sem vegurinn út á Reykjanes var nærri ófær, en björgunarmennirnir voru ekki fyrr komnir á strandstað, en að þeir hófu björgunarstarfið, og kl. 07:30 var fyrsti skipbrotsmaðurinn dreginn á land. Jafnhliða því að Grindvíkingar voru búnir að búa sig af stað, fóru tveir menn úr björgunarsveitinni í Reykjavík áleiðis á strandstað. Um kl. 9 f.h. var búið að bjarga öllum skipbrotsmönnunum, 52 að tölu, og var hægt að fylgjast með björguninni vegna talstöðvarinnar. Strax eftir að búið var að bjarga skipbrotsmönnunum, var farið með þá heim í vitavarðarbústaðinn, þar sem vitavarðarhjónin höfðu mat og drykk á reiðum höndum, en Bæjarútgerð Reykjavíkur hafði sent matvæli til þeirra hjóna. Slysavarnarfélag Íslands sendi björgunarbifreið sína, ásamt fleiri bifreiðum, til að sækja skipbrotsmennina.

Jón Baldvinsson

Jón Baldvinsson – bjarghringur.

Þetta er stærzta björgun áhafnar úr einu skipi, sem framkvæmd hefur verið af björgunarsveit Slysavarnarfélags Íslands. Stærzta björgun áður var, er 38 mönnum var bjargað af franska togaranum Cap Fagnet, sem strandaði á Hraunsfjörum nálægt Grindavík 24. mars 1931. Einnig þá var björgunarsveitin í Grindavík að verki og hefur engin önnur björgunarsveit félagsins bjargað jafn mörgum mannslífum og þessi frækna sveit, enda hvergi á landinu strandað fleiri skip en í námunda við Reykjanes.

Heimild:
-Árbók Slysavarnarfélags Íslands 1955-1956.Jón Baldvin