Hveragerði er að mörgu leyti sérstakt samfélag – svo að segja í miðju öðru sveitarfélagi. Í Sveitarstjórnarmálum 1986 fjallar Karl Guðmundsson um „Hveragerðishrepp fjörutíu ára„. Þar segir m.a.:

Elsti uppdráttur af byggðinni í Hveragerði. Í skjalasafni Búnaðarfélags Íslands sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni Íslands er að finna elsta uppdrátt af byggðinni í Hveragerði, líklega frá árinu 1930. Á uppdrættinum má sjá fjögur hús, Mjólkurbú Ölfusinga (Breiðamörk 26), Varmahlíð (Breiðamörk 31), Egilsstaði (Skólamörk 4, gamli barnaskólinn) og rafstöðvarhúsið í Varmárgili.
„Á árinu 1946 var Hveragerðishreppur stofnaður með skiptingu úr Ölfushreppi. Dómsmálaráðuneytið gaf út tilskipun hinn 13. marz það ár þess efnis, að frá og með 1. janúar sama ár væri Hveragerði sjálfstætt sveitarfélag. Í framhaldi þessa var fyrsta hreppsnefnd hins nýja hrepps kjörin hinn 28. apríl, og kom hún saman til fyrsta fundarsins hinn 29. apríl. Hreppsnefndin var skipuð 5 fulltrúum.“
Í Sveitarstjórnarmálum 2016 segir af „Hveragerðisbæ 70 ára„:

2016 – Hveragerði 70 ára; „Í ár eru 70 ár síðan íbúar í Hveragerði klufu sig úr Ölfushreppi og stofnuðu sérstakt sveitarfélag, Hveragerðishrepp. Ágreiningur um stækkun á þinghúsi hreppsins (nú Skyrgerðin) hrundi af stað atburðarrás sem varð til þess að 24. júlí 1945 fór fram atkvæðagreiðsla um skiptingu Ölfushrepps í tvo hreppa og var hún samþykkt með 95 atkvæðum gegn 85. Skipting Ölfushrepps í tvö sveitarfélög var svo samþykkt af ráðherra 13. mars 1946. Fyrstu kosningar í hinu nýja sveitarfélagi fóru fram 28. apríl 1946. Fyrsti fundur nýrrar hreppsnefndar var haldin daginn eftir 29. apríl 1946 og var því nýtt sveitarfélag orðið til. Hér má sjá mynd af fundargerð fyrsta fundar hreppnefndarinnar en Héraðsskjalasafn Árnesinga varðveitir frumritið.“
„Byggðar við Varmá mun fyrst getið í Fitjaannál fyrir 1700 þar sem sagt er frá tilfærslu goshvers í jarðskjálfta árið 1597. Í lýsingum Hálfdáns Jónssonar, lögréttumanns á Reykjum um Ölfushrepp frá árinu 1703, kemur fram að fólk hafi nýtt hverahitann til þvotta, suðu matvæla og jafnvel baða á þeim tíma. Á fyrsta áratug 20. aldar var nokkuð um svonefnt þurrabúðarlíf eða býli án mjólkurframleiðslu við Varmá. Þessi fyrsta byggð tengdist ullarverksmiðju sem var byggð 1902 og drifin var af vatnshjóli og reimdrifi virkjunar sem byggð var við Reykjafoss. Ullarverksmiðja þessi starfaði fram til 1912 en var þá rifin að öðru leyti en því að grunnur hennar stendur enn. Fyrsta raunverulega byggðin sem um getur varð til um 1929 ef frá er talið þurrabúðarlífið í kringum Varmá. Á þeim grunni var Hveragerðishreppur stofnaður 1946 sem sjálfstætt sveitarfélag út úr Ölfusinu og hreppnum var síðan breytt í bæjarfélag 1987.“
Í Morgunblaðinu 1987 segir Sigurður Jónsson um Hveragerði: „Stöðug fjölgun íbúa síðastliðin 20 ár„:

Þann 24. júlí 1945 fór fram atkvæðagreiðsla um skiptingu Ölfushrepps í tvo hreppa og var hún samþykkt með 95 atkvæðum gegn 85. Skipting Ölfushrepps í tvö sveitarfélög var svo samþykkt af ráðherra 13. mars 1946. Fyrstu kosningar í hinu nýja sveitarfélagi fóru fram 28. apríl 1946. Fyrsti fundur nýrrar hreppsnefndar var haldin daginn eftir 29. apríl 1946 og var því nýtt sveitarfélag orðið til. Hér má sjá mynd af fundargerð fyrsta fundar hreppnefndarinnar en Héraðsskjalasafn Árnesinga varðveitir frumritið. Framhald fundargerðarinnar má sjá á næstu mynd.

Framhald fundargerðarinnar er lesa má undir mynd hér að ofan.
„Hveragerði öðlaðist bœjarréttindi miðvikudaginn 1. júlí 1987, samkvæmt nýjum sveitarstjórnarlögum. Hveragerði varð sjálfstætt sveitarfélag 13. mars 1946. Íbúafjöldi í Hveragerði þann 1. desember 1986 var 1462. Íbúafjöldi í Hveragerði hefur aukist jafnt og þétt síðastliðin ár en 1970 bjuggu þar um 800 manns.

Mjólkurbú Ölfusinga tók til starfa 1. apríl 1930 og því eru 90 ár síðan það hóf starfsemi en það var stofnað árið 1928. Stofnun Ölfusbúsins markaði upphaf byggðar í Hveragerði. Myndin er frá ágúst 1930 og sýnir Mjólkurbú Ölfusinga ásamt þinghúsi Ölfusinga í byggingu, nú Skyrgerðin. – Ljósmynd: Magnús Ólafsson, Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Upphaf byggðar í Hveragerði er rakin til þess að Ölfusingar stofnuðu með sér samvinnufélag um mjólkurbú sem reist var í Hveragerði. Mjólkurbúið lét gera drög að skipulagi og leigði mönnum lóðir. Vorið 1929 voru reist tvö íbúðarhús, Sigurður Sigurðarson búnaðarmálastjóri reisti hús sitt, Fagrahvamm, við Varmá þar sem er elsta gróðarstöðin í Hveragerði. Bóndi úr Ölfusi Guðmundur Gottskálksson reisti hús undir brekkunni og nefndi Varmahlíð og stendur það hús enn. Hann reisti sér þar hús til elliáranna en hann gekk ekki heill til skógar. Í árslok var fjölskylda Guðmundar, 5 manns, sú eina sem skráð var á manntal 1929.
Segja má að upphaf byggðarinnar sé táknrænt fyrir þá byggð sem þróaðist í Hveragerði annars vegar garðyrkjan og hins vegar áhugi að búa sér í haginn á þægilegum stað.

Ullarverksmiðjan Reykjafoss var starfrækt við samnefndan foss á árunum 1902-1914 og sjást sökklar hússins enn. Verksmiðjunni var valinn þessi staður svo nýta mætti fossaflið til að knýja vélar verksmiðjunnar. Með ullarverksmiðjunni bárust jafnframt ýmsar nýjungar sem ekki höfðu áður sést í sveitum austan fjalls. Árið 1906 var tekin í notkun lítil vatnsaflsrafstöð til lýsingar og árið eftir var sett upp götulýsing frá heimreiðinni og út að þjóðveginum við gömlu Ölfusréttir. Verksmiðjan var reist til þess að vinna afurðir úr íslenskri ull og var tilraun til þess að auka arðsemi ullarinnar og íslensks landbúnaðar. Ullarverksmiðjunni var valinn þessi staður svo nýta mætti fossaflið til að knýja vélar verksmiðjunnar en einnig vegna þess að Varmá frýs aldrei, sem var mikilsvert fyrir verksmiðju sem átti að starfa allan ársins hring. Framleiðslan gekk þó ekki eins vel og vonir höfðu staðið til en lopi, sem var aðalframleiðsluvaran, þótti ekki henta nógu vel til tóskapar. Þann tíma sem fyrirtækið starfaði var því fremur haldið uppi af framfararhug og góðum vilja manna úr héraðinu en fjárhagslegri getu. Fór svo að lokum að verksmiðjan varð gjaldþrota og var húsið rifið í maí 1915 og selt á uppboði ásamt vélum.
Garðyrkjan og gróðurhúsin hafa verið vaxtarbroddur Hveragerðis. Í kringum gróðurhúsin og blómaræktina hefur þróast mikill ferðamannastraumur sem nú er vaxandi atvinnugrein. Einnig er þjónusta í kringum dvalarheimili og heilsuhæli stór þáttur í atvinnulífinu. Þó undarlegt megi virðast var það ekki jarðhitinn sem laðaði menn að Hveragerði í fyrstu heldur fossinn í Varmá, Reykjafoss. Þar var reist ullarþvottastöð og vatn leitt úr fossinum til að knýja vélarnar. Grunnur stöðvarinnar sést ennþá, einnig stíflan í ánni og rústir fyrstu rafstöðvarinnar sem sett var upp austan fjalls, 1906. Í ullarþvottastöðinni var og greiðasala fyrir ferðamenn, fyrsti vísir þess sem koma skyldi.

Virkjunin í Varmá. Fyrsta rafstöðin austan fjalls 1906.
Athafnasemin í kringum Reykjafoss stóð í 12 ár og var byggðin í kring alltaf kennd við fossinn. Hús Ullarþvottastöðvarinnar voru rifin 1915.
Meginatvinnuvegur í Hveragerði hefur ávallt verið garðyrkja. Gert er ráð fyrir að hlutfall garðyrkjunnar í atvinnulífinu sé nú 15%. Gróðurhúsin eru hituð upp með gufu sem fengin er frá hverasvæðinuí miðju bæjarins. Þar og í hverasvæðum í kring er gífurleg orka til staðar.

Konur við þvotta við Bakkahver í Hveragerði árið 1934. Bakkahver var virkjaður árið 1930 fyrir Mjólkurbú Ölfusinga. Steypt var yfir hverinn nokkurs konar hjálmur og hann þannig virkjaður. Tvö fjögurra tommu rör lágu frá hvernum og í mjólkurbúið, annað fyrir heitt vatn sem lá neðst á hjálminum og hitt fyrir gufu sem var efst. Voru rörin vel einangruð með samtals um 30 cm lagi af hveraleir, mómylsnu, tjörupappa og koltjöru til að sem minnstur hiti tapaðist á leið í búið. Hveravatnið var notað ásamt upphituðu köldu vatni til að gerilsneyða mjólk. Gufan var notuð til þess að sjóða mysuost. Vatnið í Bakkahver var nálægt 100° C heitt á yfirborðinu og um 102° C á 1,5 m. dýpi. Rennsli Bakkahvers var um 2 lítrar á sekúndu. Steypuhjálmurinn er nú horfinn og Bakkahver ekki lengur virkur. Ljósmyndin er úr Þjóðskjalasafni Hollands.
Þjónusta á heilsuhælum og við elliheimili er um 15% í atvinnulífinu en Hveragerðis hefur lengi verið getið í tengslum við náttúrulækningar og þjónustu elliheimilisins. Hlutur iðnaðar í atvinnulífinu er um 15%. Aðallega er um að ræða minni fyrirtæki. Eitt öflugasta og þekktasta iðnfyrirtækið er Kjörís sem verið hefur í stöðugum vexti undanfarin ár.

Barnaskólinn í Hveragerði.
Opinber þjónusta hefur farið vaxandi í Hveragerði og staðurinn fyrir löngu orðinn þjónustubær. Hlutfall opinberrar þjónustu nemur 35% í atvinnulífinu og önnur þjónusta svo sem þjónusta við ferðamenn er um 20%. Ferðaþjónustan hefur vaxið gífurlega í Hveragerði og eru þar öflugir máttarstólpar, Eden, Tívolíið, Blómaborg, Hótel Ljósbrá og nú síðast Hótel Örk.

Hveragerði – mörk umdæmisins 2020.
Hjá hinu nýja bæjarfélagi sem er í örum vexti eru mörg verkefni framundan. Það helsta er nýbygging við Grunnskólann sem hýsa mun alla starfsemi skólans. Gagnfræðaskólinn í Hveragerði hefur verið í leiguhúsnæði og mun nýja húsnæðið leysa mikinn vanda. Áformað er að koma skólanum í notkun fyrir haustið 1988. Hann á allur að geta hýst 500 nemendur í 10 bekkjardeildum.

Hveragerði á efri frumbýlisárunum.
Átak í gatnagerð er meðal þess sem framundan er. Gatnakerfið í Hveragerði er óvenju langt, rúmir 16 kílómetrar. Ástæða þess eru hverasvæðin og gróðurhúsabyggðin í bænum sem taka mikið landrými. Til samanburðar má nefna að í Þorlákshöfn er gatnakerfíð í kringum 8 kílómetrar. Búið er að leggja bundið slitlag á helming gatnanna í Hveragerði og verður ein gata tekin fyrir í sumar. Þá er verið að gera nýja knattspyrnuvöll í Reykjadal en uppgangur er í Hveragerði á íþróttasviðinu.“
Skáldagatan hefur aðdráttarafl
„Andans gata er til í Hveragerði og ber hún nafnið Frumskógar. Þar hafa margir andans menn átt heima, má þar nefna skáldin Jóhannes úr Kötlum, Kristmann Guðmundsson, Kristján frá Djúpalæk, sr. Helga Sveinsson, Gunnar Benediktsson og Ólaf Jóhann Sigurðsson.
Aðrir, sem búið hafa við götuna, eru Gunnlaugur Scheving listmálari og Ríkharður Jónsson átti þar sumarbústað. Þessi gata er gjarnan kölluð Skáldagata og hverfið listamannahverfi Hveragerðis. Í næstu götum bjuggu til dæmis Höskuldur Björnsson listmálari, Arni Björnsson tónskáld, Hannes Sigfússon og Kári Tryggvason. Einnig ólst Bergþóra Arnadóttir lagasmiður og söngkona upp í þessu hverfi.
Gatan hefur mikið aðdráttarafl og er snyrtileg. Gísli Sigurbjörnsson, forstjóri Grundar, hefur látið sér annt um viðhald húsa þar en Grund á velflest húsin við götuna.
Hópar, sem leið eiga um Hveragerði, vilja gjarnan fara um þessa götu og hópur kvenna kom þar við fyrir skömmu og gerði sérstaka kröfu um að sjá hús Kristmanns Guðmundssonar.“
Í Sunnudagsblaði Vísis 1942 skrifar Kristmann Guðmundsson um „Hveragerði, Sveitarþorpið, sem vísir til framtíðar hins nýja Íslands„:

Séð yfir Fossflöt við Reykjafoss um 1940. Tjaldbúðir hermanna í forgrunni, líklega kanadísku hersveitarinnar Fusiliers Mont Royal sem hafði aðsetur í Hveragerði á bökkum Varmár sumarið 1940.
„Einu sinni s.l. sumar gekk eg með miðaldra manni, útlendum, um Hveragerði. Hann var hugsjónamaður mikill, og hafði fest yndi við þetta land, sem er erlendu fólki oftast erfitt í fyrstu, sökum auðna og hrjósturs. „Í þessum fjallkrika“, sagði hann, „í þessu „alpvesi“ er framtíð hins nýja Íslands að bruma.“

Hveragerði á hernámsárunum.
Hann hafði rétt fyrir sér. Hér í Hveragerði mun upp rísa fyrsta og mesta landhúnaðarborg Íslands. Og að fimmtíu árum liðnum mun hún ná alla leið til Þorlákshafnar, sem þá verður stærsta höfn landsins, og miðstöð allra viðskipta við útlönd; en óslitið þéttbýli nær þá yfir alla Rangárvallasýslu! Dagar hirðingjabúskapar á Íslandi munu senn taldir. Á næstunni munu tugir þúsunda af ungu fólki leita úr andstyggð borgarlífsins. og vígja líf sitt gróandanum, í tvennum skilningi! Vér höfum nú um skeið verið á bullandi „túr“ í annarlegri kvikmyndamenningu, pólitískum grillum, búðarlokufínheitum, og öðrum óþverra sem hingað hefir skolast. Gleði- og menningarþorsti margra gáfaðra hirðingjakynslóða hefir farið með oss í allskonar gönur. Vér stigum úr móbíl miðaldanna, upp í nýtízku flugvél framtíðarinnar, og því engin furða þó á oss rynni, fyrst í stað. En vér höfum fyrr siglt krappan sjó, og náð þó höfn, heilir að mestu.

Hveragerði 1967.
Svo mun enn verða. Eg sé ekki ástæðu til að bera kvíðboga fyrir framtíð íslenzks kyns, og íslenzkrar tungu, þó að nokkur þúsund erlendir hermenn dvelji hér með oss um hríð. Sú raun, sem vér nú þolum, er ekki meiri en það, að hún mun verða oss til blessunar, ef vér erum þeir menn, sem vér sjálfir höfum lengi gumað af. Og ef svo er ekki, ef vér erum lubbar og aumingjar, þá er ekki nema vel farið að vér hverfum í deiglu sköpunarinnar! En það er undir oss sjálfum komið, og því má enginn ábyrgur Íslendingur gleyma!

Sundlaug í Laugaskarði – Sundlaugin í Laugaskarði um 1940. Sundlaugin var byggð eftir teikningum Jóns Gunnarssonar verkfræðings en búningsklefarnir sem sjást á myndinni eftir teikningum Þóris Baldvinssonar, en nokkru seinna var byggð lítil íbúð fyrir forstöðumann vestanmegin við klefana. Sundlaugin var í fyrstu rekin sem sjálfseignarstofnun á vegum Ungmennafélags Ölfushrepps með styrk frá ríki og sveitarfélögum. Ölfushreppur og Hveragerðishreppur tóku síðar við rekstrinum en lengstum hafa Hvergerðingar annast rekstur og viðhald laugarinnar. Þegar Hveragerðishreppur var stofnaður út úr Ölfushreppi árið 1946 var sundlaugin látin fylgja Hveragerði.
Eg vil leyfa mér að skjóta hér inn atriði, sem er ekki beinlínis tilheyrandi því efni sem þetta greinarkorn á að fjalla um. Ef menning vor þolir ekki þá þrekraun, sem sambúðin við erlent setulið, og allt sem stríðinu fylgir, hlýtur að hafa í för með sér, þá skulum vér að minnsta kosti ekki láta eftir oss þann lúalega ræfilsskap, að kenna kvenfólkinu um það! Ef piltar vorir hefðu ahnennt tamið sér prúðmennsku og siði hvítra manna, í stað allskonar hornrónaháttar, sem hér er landlægur, þá hefði vissulega aldrei þurft að skipa neina nefnd til viðreisnar íslenzku kvenfólki!
Nei, vinir góðir, skipið heldur nefndir sem vinna að því, að gera mönnum kleift að græða og rækta þetta óviðjafnanlega fagra land! Einblínið ekki á hættur og erfiðleika, skapið yður umfram allt ekki grýlur, málið ekki andskotann á vegginn! Segið við sjálfa yður hið sama og engillinn sagði við kerlinguna, sem horfði hugstola á ljá þá hina miklu, er hún skyldi raka:
„Horf þú ekki á ljá þína langa,
láttu heldur hrífuna ganga!“

Hér er yfrið nóg að vinna. Setjið þennan margumtalaða stríðsgróða í ræktun og uppbyggingu nýrra sveitabýlahverfa, fyrst ekki er hægt að kaupa fyrir hann skip! Stríðsgróðinn verður yður hvort sem er því aðeins til blessunar, að hann sé notaður í þjónustu gróðurs og lífs! Annars verður hann ólánið einbert! — Fylgið dæmi Hveragerðinga, og skapið ný verðmæti handa framtíðinni, fyrir það fé, sem berst yður í hendur sökum niðurrifs og eyðilegginga annarsstaðar í heiminum. Þá mun það aldrei svíða hendur yðar, og þér finnið aldrei af því þann þef blóðs og tára, sem við það er bundinn!
Hér í Hveragerði er handagangur í öskjunni. Eftir því sem eg kemst næst, á að byggja hér 25—30 gróðurhús á þessum vetri og 20 íbúðarhús. Illlendismóar, sem legið hafa gagnslitlir um þúsundir ára, eru rifnir sundur með traktorum, og úr þeim skal á sumri komanda vaxa lífsþróttur og hamingja til handa börnum þessa lands!

Hverahvammur – Einstök mynd af Hverahvammi í Hveragerði, þar sem nú er hótelið Frost og funi og veitingastaðurinn Varmá. Óljóst er hvenær myndin er tekin, en ekki er ólíklegt að hún sé tekin snemma á fjórða áratug 20. aldar.
Jarðhitinn, sem allt fram að þessu hefir unnið óbundinn í þjónustu eyðingarinnar, er færður í fjötra og látinn mala gull og gæfu bornum og óbornum. Á hrjóstrum íslenzkra móa vaxa rósir og nytjajurtir, sem auka fegurðina og efla lífskraftinn. Þetta er að vinna í þjónustu lífsins, mínir elskanlegir, þetta er að byggja upp án hiks og æðru, hvað sem hrynur og brotnar í kringum mann. Í þessu starfi liggur einn af sterkustu þáttum framtíðar vorrar, heilla og hags. Í móðurfaðm náttúrunnar eigum vér að sækja endurnýjungu kraftarins, gleðinnar, ástarinnar, alls þess sem gerir oss heila og sterka, og veitir oss þrótt til að vinna bug á hverju því mótlæti sem oss er ætlað.

Fagrihvammur – Fagrihvammur í ágúst 1930. Íbúðarhúsið á myndinni brann en núverandi íbúðarhúsi í Fagrahvammi var reist árið 1933. Við árbakkann sést fyrsta gróðurhúsið í Hveragerði en það var alls 45 fermetrar og í því voru fyrst um sinn ræktaðir tómatar og blóm.
Lífskjör þjóðarinnar þurfa að komast sem fyrst í heilbrigðara horf. Vér erum bændaþjóð, en búskapur vor er orðinn á eftir tímanum, og vér flykktumst í kaupstaðina úr fátækt og fásinni sveitanna. Vér fórum þangað í gæfuleit; manneskjan er ávallt að leita að gæfu sinni. En grunur minn er sá, að almenningur íslenzkur finni ekki gæfu sína í borgum, og hvar er hennar þá að leita? Ætli hún sé ekki einmitt í sveitunum semvér yfirgáfum, í samstarfinu við hið skapandi líf, í hollu erfiði daganna og draumlausri hvíld næturinnar? Ef til vill er hún í því fólgin að sjá börn vor vaxa upp í félagsskap við jurtir og dýr, og sjá á andlitum þeirra hinn hreina svip heilbrigðinnar?

Spegillinn – Forsíða skoptímaritsins Spegilsins frá júní 1947. Á myndinni er gert góðlátlegt grín að fjölda hvera sem mynduðust í Hveragerði í kjölfar eldgoss í Heklu sama ár. Á myndinni má sjá nokkra þjóðþekkta menn sem bjuggu í Hveragerði á þeim tíma. Talið frá vinstri Jónas Jónsson frá Hriflu sem átti sumarbúðstað á Reykjum, Kristmann Guðmundsson, Jóhannes úr Kötlum, Kristinn Pétursson og sr. Helgi Sveinsson.
Mér hefir þótt það sérstaklega eftirtektarvert hvað fólkið hérna í Hveragerði er ánægt að sjá. Það á sér efalaust sínar sorgir, hjá því verður ekki komizt í henni veröld, en almennt séð, virðist vera meiri vellíðan hér en annarsstaðar, þar sem eg þekki til. Skyldi það ekki koma til af því, að menn eru hér í starfi sínu sifellt í nánu sambandi við móður Náttúru?

Berklahæli – Í þessu húsi á Reykjum í Ölfusi var starfrækt heilsuhæli fyrir berklasjúklinga árin 1931-1938. Samhliða því var rekið stórt kúabú og garðyrkjustöð. Eftir að berklahælið hætti var húsið notað undir starfsemi Garðyrkjuskóla ríkisins sem tók til starfa árið 1939. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar voru tekin í notkun ný hús undir starfsemi Garðyrkjuskólans og var því húsið ekki lengur í daglegri notkun. Árið 2005 var gamla berklahælið notað fyrir slökkviliðsæfingar og brennt til grunna.
Hveragerði er ekki staður fyrir svokallaða „snobba“. Hér þrífst engin „buxnavasamenning“, eins og einn Hveragerðingur hefir komizt að orði. Hér er unnið, og unnið vel! Aðra eins blómgun í einu þorpi hefi eg aldrei séð. Þetta er góður staður fyrir skáld, sem vilja vera í stöðugu sambandi við hið lifandi líf! Enda eru nú skáld og aðrir listamenn sem óðast að flytja hingað búferlum, og vel sé þeim! Hér ríkir andi samstarfs og hjálpsemi; vér erum allir verkamenn í víngarði Drottins, og skiljum nauðsyn hvors annars. Þeir, sem ætla sér að okra á náunganum, eru hér illa séðir og munu aldrei þrífast. Enda höfum við ekki haft marga þesskyns fugla hérna. Sá eini, sem mér vitanlega hefir reynt það, komst skjótlega að því, að almenningsálitið var honum ekki hliðhollt!

Garðyrkjuskólinn gamli.
Það eru ekki nema tólf ár síðan fyrsta býlið var reist í Hveragerði. Þá byggði Sigurður heitinn Sigurðsson búnaðarmálastjóri Fagrahvamm. Þar situr nú sonur hans, Ingimar, og er garðyrkjustöð hans hin stærsta innan þorpsins: fimmtán hundruð fermetrar undir gleri. Enn stærri garðyrkjustöðvar eru þó á Reykjabúinu, og í Gufudal. Pálmi Hannesson réktor hefir og snotra garðyrkjustöð í Reykjakoti, þar sem Menntaskólaselið er. Í Gufudal býr Guðjón Sigurðsson, mikill dugnaðarmaður; eru þar um álján hundruð fermetrar undir gleri, og hefir hann byggt það allt upp á fimm árum. Í Fagrahvammi er trjáræktarstöð blómleg, hjá Ingimar Sigurðssyni, og er mikil prýði að henni í þorpinu.

Hellisheiði – Snjóþyngsli á Hellisheiði, líklega á fjórða áratug síðustu aldar. Oft var Hellisheiði lokuð frá nóvember fram í maí vegna ófærðar. Snjór var mokaður í fyrsta skipti á Hellisheiði vorið 1927, með handskóflum, en ruðningur með stórtækari vinnuvélum hófst ekki fyrr en á árum síðari heimsstyrjaldar.
Auk þess, sem eg þegar hefi nefnt, eru 14 garðyrkjustöðvar í Hveragerði, og útlit fyrir að annað eins verði byggt á næstunni, eða meira. Þorpsbúar eru nú þegar á þriðja hundrað, en þeim mun fjölga talsvert á næstunni, því margir eru í þann veginn að flytja hingað.

Kambar.
Kaupfélag Árnesinga á grunninn sem þorpið stendur á, en það er almennur vilji Hvergerðinga að ríkið eignist staðinn, og heyrst hefir, að ekkert sé því til fyrirstöðu frá kaupfélagsins hendi. Væri það líka eðlilegast að svo yrði, og að lóðirnar fengjust á erfðafestu. Þá þyrfti einnig sem fyrst að leggja götur og ræsi, því að enn er frumbýlingsháttur á slíku.

Hveragerði – ferðamannhver.
Hverir og laugar eru nær óteljandi í Hveragerði. Mestir eru Bláhver, Bakkahver og Sandhólahver, en í kringum þá er allstórt svæði óbyggilegt, og hefir það verið afgirt. Goshverir eru nokkrir; þekktastur þeirra er Grýla, sem gýs 20—30 metra i loft upp, en henni miklu meiri er Svaði, er á það til að gjósa all stórkostlega. Hann er uppi í hlíðinni fyrir ofan og austan Varmá. Jarðhitinn er mjög mikill, og skorpan ofan á honum sumstaðar nokkuð þunn, að því er bezt séð verður. Hefir víða verið borað eftir gufu með jarðborum, og tekist vel. Jarðskjálftar eru tíðir en sjaldan verulegir, hverakippir svokallaðir. S.l. sumar voru þeir þó all snarpir og komu með stuttu millibili í nokkra daga.

Í Hveragerði má sjá fjórar kynslóðir af þjóðvegum. Núverandi þjóðvegur var tekinn í notkun 1972, þjóðvegur sem var í notkun 1894-1972, Eiríksvegur sem var lagður 1880-1881 og svo gamla þjóðleiðin sem sést á þessari mynd. Gamla þjóðleiðin er aldagömul. Hún er sérstaklega merkjanleg í Hrauntungu fyrir ofan Hveragerði en ágangur í margar aldir hefur grafið djúpa rák í hraunið eins og sjá má.
Náttúrufegurð er mikil í Hveragerði. Úr þorpinu blasir við Ölfusið allt, og ósar Ölfusár, sést þar á sjó fram. Húsin standa skammt frá hlíðum Reykjafjalls, en fagur klettahjalli vestan við þorpið, og fyrir innan hann dalur grösugur og ljúfur.

Eiríksvegur – lagður um 1880.
Fram úr honum rennur Varmá, en við hana hefir verið byggð rafstöð sem lýsir upp þorpið. Foss er i ánni, fagur mjög, í sjálfu Hveragerði, og er mikil bæjarprýði að honum. Undir klettahjallanum, sem að ofan er nefndur, er falleg hlíð, vaxin víði og blágresi, og mun þar verða lystigarður þorpsins innan tíðar.

Kvennaskólinn á Hverabakka.
Í Hveragerði er barnaskóli, garðyrkjuskóli og kvennaskóli. Garðyrkjuskólinn er rekinn fyrir ríkisfé, í sambandi við Reykjabúið, og læra unglingarnir þar að yrkja og græða land sitt. Kvennaskólanum veitir forstöðu stofnandi hans og eigandi, Árný Filipusdóttir, sem mörgum er að góðu kunn, fyrir gestrisni, listfengi og fádæma dugnað í starfi sínu. Þá er í Hveragerði stærsta sundlaug landsins. Stjórnandi hennar er þjóðkunnur ágætismaður, Lárus Rist sundkennari.

Jónas Jónason frá Hriflu 1934.
Uppi í hlíðinni, undir Reykjafjalli á Jónas Jónsson frá Hriflu sumarbústað, ásamt fleiri góðum mönnum. Annar alþingismaður er nýbúinn að byggja sér hús í Hveragerði: Jóhannes úr Kötlum, sem er þjóðinni reyndar kunnari fyrir skáldskap sinn en þingmensku, að hvorutveggja ólöstuðu. Fleiri listamenn eru hér búsettir, og í ráði að enn nokkrir flytjist hingað, og er það vel. Einn dýrmætasti auður íslenzku þjóðarinnar eru listamenn hennar, og hefir aldrei verið meiri nauðsyn til að hlúa vel að þeim en nú. Og hér í Hveragerði myndi þeim líða vel, ef þeim væri gert kleift að eignast hér heimilL og lifa sæmilegu lífi. Vonandi þekkir nú þjóðin sinn vitjunartíma, og sér sóma sinn í því að reisa nú þegar þetta listamannahús, sem lengi hefir verið um talað! Því væri hvergi betur í sveit komið en í Hveragerði, og nú eru til nógir peningar að byggja það fyrir, svo hvað dvelur orminn langa? Er ekki sífellt verið að prédika í blöðum og útvarpi, að oft hafi verið þörf, en nú sé nauðsyn, að styðja og styrkja íslenzka menningu af fremsta megni, vernda málið, og útbreiða þekkinguna á landinu? Hverjir haldið þér að séu líklegastir til alls þessa? Hverjum eiga Íslendingar að þakka tungu sína og þjóðerni, og þar með líf sitt og tilveru? Hverjir hafa verið inn – og útverðir íslenzkrar menningar gegnum aldirnar? Hverjum er það að þakka að Íslendingar njóta þó nokkurrar virðingar meðal þjóðanna? Sérhver dómbær útlendingur myndi svara: Skáld, fræðimenn og listamenn! En farið þér nú að svara því sjálfir, mínir elskanlegir, og svarið því þannig, að yður sé heldur sómi að en skömm.

Jóhannes úr Kötlum.
Það kveður nú við úr öllum áttum, að nú séu myrkir tímar og kvíðvænlegir, og er það ekki of sagt. En „él eitt mun vera“, eins og Njáll gamli á Bergþórshvoli sagði. Aftur mun Birta, og vér fáum að sjá „upp rísa, öðru sinni, jörð úr ægi iðjagræna“. En á þeirri jörð mun Hveragerðis oft verða að góðu getið, því að hér er framtíð hins nýja Íslands að rísa úr grasi.“
Heimildir:
-Sveitarstjórnarmál. 2. tbl. 01.04.1986, Hveragerðishreppur fjörutíu ára – Karl Guðmundsson, bls. 66.
-Sveitarstjórnarmál, 5. tbl. 01.09.2016, Hveragerðisbær 70 ára, bls. 8.
-Morgunblaðið, 145. tbl. 01.07.1987, Stöðug fjölgun íbúa síðastliðin 20 ár, bls. 26.
-Vísir Sunnudagsblað, 8. blað 12.04.1942, Hveragerði, Sveitarþorpið, sem vísir til framtíðar hins nýja Íslands – Kristmann Guðmundsson, bls. 1-3.
–https://www.facebook.com/HveragerdiSightseeing/photos/

Merki bæjarins – Hreppsnefnd Hveragerðis ákvað haustið 1982 að efna til samkeppni um gerð byggðamerkis fyrir sveitarfélagið. Um 80 tillögur bárust frá 27 aðilum. Í nóvember sama ár var efnt til sýningar á tillögunum og gátu þá allir íbúar, 12 ára og eldri, tekið þátt í skoðanakönnun um val á merki. Hreppsnefnd valdi síðan merki úr hópi tillagna sem flest atkvæði fengu. Höfundur vinningstillögunar var Helgi Grétar Kristinsson málarameistari í Hveragerði. Skjaldarflötur merkisins er í þremur bláum litum. Merkið sýnir gufustrók sem er táknrænn fyrir jarðhitann í Hveragerði. Einnig myndar gufustrókurinn lauf eða smára sem er tákn fyrir garðyrkju- og blómarækt sem sveitarfélagið er þekkt fyrir. Fuglinn í merkinu vísar í þjóðsögu um hverafugla sem syntu á sjóðheitum hverum. Merkið var tekið í notkun árið 1983.
Hvalsneskirkja – Freyja Jónsdóttir
Freyja Jónsdóttir skrifði um „Hvalsneskirkju“ í Dag árið 1999:
„Á Hvalsnesi hóf Hallgrímur Pétursson prestskap sinn og þar missti hann Steinunni dóttur sína.
Hvalsnes er á vestanverðum Reykjanesskaga, sunnar á strandlengjunni en Sandgerði. Þar var fyrst byggð kirkja 1370 sem vígð var sama ár. Þá átti kirkjan sjö kvígildi, fjórðung í heimalandi og jörð í Norður-Nesjum. Á sextándu öld lagðist sú jörð í eyði vegna uppblásturs. Hallgrímur Pétursson var þjónandi prestur á Hvalsnesi eftir að hann tók prestsvígslu, áður en hann fluttist að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hallgrímur var fæddur 1614. Ekki er vitað hvort hann fæddist á Hólum í Hjaltadal eða á einhverjum öðrum bæ þar i dalnum. Faðir hans var Pétur Guðmundsson, sonur velefnaðs bónda í Gröf á Höfðaströnd. Pétur og biskupinn á Hólum, Guðbrandur Þorláksson, voru bræðrasynir. Hallgrímur bróðir Péturs tók við búi í Gröf eftir föður þeirra en Pétur gerðist hringjari í Hólakirkju. Sagan lýsir honum sem atkvæðalitlum manni sem hafi fengið hringjarastarfið fyrir ættar sakir. Sólveig hét kona hans og er lítið um hana vítað. Hallgrímur Pétursson ólst upp á Hólum og var settur til mennta en hætti í skóla og fór til Danmerkur. Talið er að Hallgrímur hafi verið við járnsmíðanám þegar fundi hans og Brynjólf Sveinssonar biskups bar saman.
Tyrkja Gudda – málverk efir Jóhannes S. Kjarval.
Fyrir áeggjan biskupsins fór Hallgrímur í Vor Frue skóla í Kaupmannahöfn. Árið 1636 kom nokkuð af því fólki sem Tyrkir hertóku hér á landi árið l627, til Kaupmannahafnar. Meðal þeirra var Guðríður Símonardóttir sem Tyrkir rændu í Vestmannaeyjum. Hallgrímur og Guðríður feldu hugi saman og vorið eftir, segir sagan að Hallgrímur hafi hætt í skóla til þess að fara með Guðríði heim til Íslands. Eftir að Hallgrímur og Guðríður höfði háð harða baráttu fyrir lífsafkomu sinni í nokkur ár var Hallgrímur vígður til Hvalsnesprestakalls. Vel er hægt að ímynda sér að þá hafi þau talið að allir erfiðleikar væru að baki en svo var þó ekki. Á Hvalsnesi misstu þau Guðríður og Hallgrímur Steinunni dóttur sína nokkurra ára gamla. Steinunn hvílir í Hvalsneskirkjugarði og er ekki lengur vitað hvar leiðið hennar er í garðinum. Steinn sem var á leiði hennar er nú geymdur í kór kirkjunnar á Hvalsnesi en hann fannst í stéttinni fyrir framan kirkjuna. Talið er að Hallgrímur hafi sjálfur höggvið nafn dóttur sinnar í steininn. Talsverð leit hafði verið gerð að bautasteini Steinunnar en án árangurs þar til kirkjustéttin var endurbyggð 1964 að steinninn fannst í gömlu stéttinni. Útfarasálminn „Allt eins og blómstrið eina“, sem enn er sunginn við jarðarfarir, orti Hallgrímur vegna fráfalls Steinunnar. Hann sendi Ragnheiði Brynjólfsdóttur í Skálholti sálminn þegar hún lá banaleguna.
Áður en steinkirkjan var byggð á Hvalsnesi var þar timburkirkja sem Ketill Ketilsson stórbóndi í Kotvogi lét byggja árið 1864. Margar tilgátur eru til um það af hverju hann réðist í að byggja steinkirkjuna og rífa timburkirkjuna sem aðeins var tuttugu og tveggja ára gömul og þótti á þeim tíma hið veglegasta hús. Timburkirkjan sem Ketill lét byggja var inni í kirkjugarðinum en steinkirkjan stendur fyrir utan garðinn.
Magnússon múrara, frá Gaukstöðum í Garði til að taka steinverkið í kirkjubyggingunni að sér. En Magnús fórst með fiskibát frá Gerðum, þegar hann var í róðri, áður en kirkjubyggingunni var lokið. Stefán Eggertsson múrari í Reykjavík tók við verkinu og lauk því. Yfirsmiður við kirkjubygginguna var Magnús Ólafsson, trésmíðameistari í Reykjavík. Magnús var fæddur 20. júlí 1840 á Berjanesi, Vestur-Landeyjum. Foreldrar Magnúsar voru: Magnús Ólafsson, bóndi á Efstu-Grund, fæddur 1797, dáinn 2. mars 1879 og Oddný Jakobsdóttir, fædd 1798 í Eyvindarhólasókn, dáin 9. júní 1884. Magnús lærði steinsmíði hjá Birni Guðmundssyni og vann við byggingu Alþingishússins. Hann hlóð veggi Innri-Njarðvíkurkirkju og var langt komin með að hlaða veggi Hvalsneskirkju þegar hann drukknaði. Í bæklingi um kirkjuna sem sóknarnefnd Hvalsneskirkju gaf út er sagt frá því að smíði predikunarstólsins hafi verið byggingarmönnum áhyggjuefni þar sem þeir óttuðust að fá ekki nægilega gott efni í smíði hans. Þá rak á fjöru mahoní tré mikið sem stóllinn var smíðaður úr. Jafnt að utan sem innan er kirkjan ákaflega falleg og vel við haldið. Við allar endurbætur hefur verið Iagt kapp á að kirkjan héldi sínu upprunalega útliti. Ketill Ketilsson yngri í Kotvogi, átti Hvalsnestorfuna árið 1904. Þá voru gerðar talsverðar endurbætur á kirkjunni og lokið við að mála hana að innan en hún hafði ekki verið máluð strax. Árið 1919 gaf Ketill öllum ábúendum á Hvalsnestorfunni kost á að kaupa ábýlisjarðir sínar með samsvarandi hlut í kirkjunni, en kirkjan hafði verið bændakirkja en rekin af söfnuðinum, og var það til ársins 1942 þegar eigendur hennar óskuðu eftir því að hún yrði safnaðarkirkja.
Altarið er frá 1867 og altaristaflan sem er frá svipuðum tíma er mikið listaverk. Hún sýnir upprisuna og er máluð af Sigurði Guðmundssyni. Minni kirkjuklukkan er frá 1820, einnig silfurkaleikur og korpóralklútur. Tinskál sem kirkjan á er með ártalinu 1824 og skírnarfrontur sem merkileg saga fylgir, að Erlendur Guðmundsson bóndi á Stafnesi hafi smíðað hann og gefið þáverandi kirkju á Hvalnesi. Erlendur var rúmliggjandi þegar hann vann verkið og segir sagan að hann hafi verið lamaður frá mitti en eftir að hann hafði lokið smíðinni og fært kirkjunni gripinn hafi hann komist á fætur.
Saga er til um að þak timburkirkjunnar hafi lekið og Ketill, sem hefur verið maður stórtækur, ákveðið að byggja nýja kirkju frekar en gera við þakið. En sjálfsagt hefur fleira komið til eins og að Katli hafi þótt kirkjan of lítil. Einhverju sinni á hvítasunnudag var hann við fermingarguðsþjónustu í Hvalsneskirkju. Mikill mannfjöldi sótti kirkjuna þennan dag og komust ekki allir inn og stóðu nokkrir úti. Hafði Ketill þá á orði að ekki gæti hann til þess vitað að fólk, sem vildi hlýða á messu, hefði ekki þak yfir höfuðið. Bygging Hvalsneskirkju hófst árið 1886 og var kirkjan vígð á jóladag 1887. Séra Jens Pálsson sóknarprestur vígði kirkjuna. Kirkjan er hlaðin úr tilhöggnum steini sem fleygaður var úr klöppinni við túngarðinn. Grjótið var síðan dregið á hestum og tilhöggvið með hamri og meitli á byggingarstað. Súlur í kór og ýmislegt annað tréverk er gert úr rekavið úr fjörum í nágrenninu. Einnig var efni í bygginguna fengið úr Duusverslun í Keflavík. Ketill fékk Magnús
Þegar Hvalsneskirkja var byggð var hún ekki einangruð og það var ekki fyrr en árið 1945 sem það var gert. Tíu árum síðar var rafmagn sett í kirkjuna, hún raflýst og hituð upp með rafmagni.
Stærri kirkjuklukkan, er gjöf frá sóknarbörnum 1874. Árið 1945 voru miklar endurbætur gerðar á kirkjunni sem Guðjón Samúelsson hafði yfirumsjón með. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Aka Grans, málarameistara í Keflavík. Yfir kirkjudyrunum er bogadregin gluggi úr ópalgleri með helgimynd. Unnur Ólafsdóttir listakona, dótturdóttir Ketils þess er kirkjuna byggði, hefur gefið kirkjunni fagra muni sem hún hefur unnið sjálf. Þar má meðal annars nefna hökul úr rauðu ullarklæði sem er skreyttur með íslenskum steinum, einnig altarisklæði og íslenska fána. Þessar gjafir fékk kirkjan frá Unni á árunum 1964 til 1971.
Vigdís Ketilsdóttir frá Kotvogi gaf kirkjunni Guðbrandsbiblíu. Kirkjan á fjóra brúðarstóla sem henni voru gefnir þegar hún var nýbyggð. Pípuorgel var vígt og tekið í notkun 1985 en það var keypt fyrir framlög og gjafafé. Presturinn á Útskálum þjónar kirkjunni.
Minnismerki um Hallgrím Pétursson við Hvalsneskirkju.
Hvalsneskirkja er merkileg bygging og ekki síst fyrir það að þar var fyrsta kirkja sem mesta trúarskáld Íslendinga Hallgrímur Pétursson þjónaði. Árið 1811 var Hvalsnesprestakall lagt niður og sóknin lögð undir Útskála.
Suðurnesjamönnum þótti langur vegur að sækja kirkju og sóttu um til konungs að kirkjan mætti byggjast upp að nýju. Konungur leyfði það og var kirkjan upp byggð að heita mátti á kostnað ábúenda 1820. Þá voru í sókninni tvö hundruð manns og þrjátíu ábúendur. Í lýsingu sem séra Sigurður Sívertsen gerði um Hvalsnesið segir: „Á Hvalsnesi er mikið tún, hólótt og greiðfært að mestu. Þar er útræði, all gott sund, sem Hvalsnessund kallast, nema í hafáttum. Lítið er um haglendi utan túns, því heiðin fyrir innan er uppblásin, og er að mestu leyti grjót- og sandmelar; þó hafnast þar vel sauðfé og er þar á vetrum einkar góð fjara fyrir útigangsskepnur.“ Hvalsnes var á þessum tíma eign konungs, en óvisst um jarðardýrleika. Næsti bær sunnan við Hvalsnes er Stafnnes.
Heimildir eru frá Þjóðskjalasafni lýsing Útskálaprestakalls 1839 eftir séra Sigurð B. Sívertsen og samantekt úr sögu kirkjunnar sem Iðunn G. Gísladóttir tók saman.“
Heimild:
-Dagur 14. ágúst 1999, bls. 1 og 3.
Hvalsneskirkja.
Konungsútgerðin á Suðurnesjum
Fríða Sigurðsson skrifaði grein um Afnám konungsútgerðar 12. des. 1769 í Faxa árið 1969:
Konungurinn átti í lok miðalda fáar fasteignir á Íslandi. En eftir siðaskiptin tók hann undir sig allar klaustraeignir á landinu auk jarða Skálholtsstóls og jarða þeirra manna, sem mest höfðu barizt móti hinum nýja sið. Er sagt, að hann hafi átt fimmtung allra jarðeigna á Íslandi. Í Útskálasókn t. d. átti hann 1703 27 af 33 jörðum. Þessum 27 jörðum fylgdu 53 hjáleigur. „Kóngurinn átti því sem heita mátti allan Garðskaga, þar sem nú er Garður og Leira, Stafnes, Sandgerði og Keflavík“ (Gunnar M. Magnúss: Undir Garðskagavita bls. 50). Í Og flotann eignaðist konungur með Alþingisdómnum frá 1544 um útræði og verzlun erlendra manna við Ísland. „Voru 45 skip erlendra gerð upptæk, flest þýzk skip… voru skipin dæmd konungseign, og með þeim hófst konungsútgerðin á Suðurnesjum.“ (Sami: bls. 123). Ábúendum allra þessara kirkna-, klausturs- og konungsjarða bar að gjalda tolla og veita þjónustu, en þó að gjöldin þættu há og hrossalán, ferjun og hýsing erfiðar skyldur, þá var þó langóvinsælast mannslán til sjóróðra. Fyrsti votturinn um þá kvöð finnst þegar í Vilkinsmáldaga frá 1397, þar sem lagt er á landseta, að fara með skip staðarins og kosta það að öllu. 100 árum seinna, 1493, skyldar Páll Jónsson biskup landseta Skálholtsstóls til að ljá stólnum hesta í skreiðarferðir í Grindavík og á Rosmhvalanes, og er sennilegt, að mannslán hafi fylgt. En það versnaði um allan helming, þegar konungur hóf útgerð, bæði af því, að hann jók útgerðina að mun, og af því, að kröfurnar til landsmanna urðu meiri og harðari.
Vatnsleysuströnd, og við vitum, að árið 1553 gerði hann út frá Vatnsleysuströnd 1 tólfæring, 7 átta-manna-för, 2 fjögurramanna-för, 5 þriggja-manna-för og eina ferju, alls 16 skip. Áhöfn á vertíð var um 100 manns. „Leið þá eigi á löngu, áður en farið var að heimta af konungsland-setunum alls konar kvaðir og köll að útlendum sið, og gerðust einkum mikil brögð að því í Gullbringusýslu, þar sem höfuðsmennirnir og fógetarnir voru einráðir.“ (Jón Aðils: Einokunarsaga Íslands bls. 209).
Enginn mun gera ráð fyrir því, að bændur hafi lagt sig í líma fyrir konungsútgerðina, enda kærðu kaupmennirnir á árunum 1750 til 1755 fyrir stjórninni, að þeir fengju lítinn fisk til útflutnings vegna hirðuleysis og ómennsku landsmanna. Árið 1756 skrifar Rentukammer amtmanni, að hann leggi fyrir sýslumenn, að taka árlega þingvitni í héruðum sínum um það, hvernig sjór hefði verið sóttur þar, hvort allir, sem hefðu heilsu til þess, hefðu til vers farið og hvort nokkur hefði látið sjósókn undir höfuð leggjast af öðrum ástæðum en ógæftum. Var amtmanni vald fengið til þess, „að skapa mönnum sektir“, ef þeir vanræktu sjósókn. (Konungsbréf 28. febrúar 1758). Þrátt fyrir allt var komið að því um miðja 18. öld, að konungsútgerðin var rekin með tapi.
„Það hefur sennilega alltaf verið róið á Íslandi, en útgerð á fiskimiðin var ekki hafin að ráði fyrr en þau þáttaskil gerðust í íslenzkri verzlunarsögu á öðrum fjórðungi 14. aldar, að sjávarafurðir urðu helzta útflutningsvara þjóðarinnar. Þá fóru allir, sem nokkuð máttu sín, að sækjast eftir jörðum við sjávarsíðuna. Sérstaklega höfðu kirkjunnar menn öll spjót úti til þess, að na í útvegsjarðir. Í hve miklum mæli þetta tókst, sést á dæmi Vatnsleysustrandar, þar sem 1551 var engin einasta hinna 18 jarða lengur bóndaeign. (Árni Óla: Strönd og Vogar). Á Reykjavíkursvæðinu var Viðeyjarklaustur allsráðandi. Þegar það var lagt niður um miðja 16. öld, átti það 116 jarðir, sem það hafði eignazt á þeim rúmlega 300 árum tilveru sinnar. En 89 af þessum 116 jörðum voru í Gullbringu- og Kjósarsýslu, það vill segja, voru útvegsjarðir. En aðallega Skálholtsstóllinn eignaðist allmargar jarðir á Suðurnesjum.
Konungur tók t. d. við útgerð Viðeyjarklausturs á
„En verst urðu menn þó úti í Gullbringu- og Kjósarsýslu, og þóttust konungsbændur þar um slóðir ærið hart leiknir, því jarðarbókarleigjendur (1684—1732) fjölguðu konungsbátunum úr 15 upp í 80 til 90 eða jafnvel 100 og juku svo kvaðir og mannslán, að bændur fengu ekki undir risið. Varð efnahagur manna þar um slóðir svo bágborinn við þetta, að engu tali tók, og réttu sveitirnar ekki við aftur fyrr en eftir nokkra mannsaldra.“
Árið 1766 urðu konungaskipti, og hinn kornungi nýi konungur, Kristján VII., gerði á fyrstu stjórnarárum sínum margar endurbætur á ýmsum sviðum. Hann lét líka til skarar skríða á Íslandi. Hinn 12. desember 1769 var lögð niður konungsútgerð á Íslandi.“
Heimild:
-Faxi, 29. árg. 1969, 10. tbl., bls. 165-167.
Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.
Varmi – Skálafell
Í Varma.
Fara þarf niður í hellinn á bandi því hann er um 5 metra djúpur – til að byrja með. Í allt er hellirinn um 50 metra langur og um 15-17 metra djúpur, frá brún og þar sem hann endar í sandi. Bratti rásarinnar er svipuð og á barmi gígsins utanverðum. Þegar staðið er uppi á hinum formfagra gíg Skálafells má sjá fallegar hrauntraðir til austurs og suðvesturs. Í vestri er gígskál. Ef gengið er til vesturs niður hana í átt að Valbjargargjá (misgengi) má sjá opið á Varma – ef rétt er gengið. Það lítur ekki mikið yfir sér – 2 til 3 m2 að stærð. Í tæplegu frosti, eins og nú var, sést gufa koma upp um opið, líkt og nokkur smáop önnur á leiðinni.
Skálafell er sennilega hluti af lengri gossprungu, líkt og flest gos á Reykjanesskaganum. Hreiðrið í norðnorðaustri er líklega hluti hennar, sem og nokkrir aðrir gígar. Í lok gossins hefur hraun og gjóska haldið áfram að koma upp úr megingígnum, Skálafelli. Dyngjan hefur gefið af sér verulegt magn kvíku því meginhluti Reykjanesstáarinnar er frá henni komin. Líkt og í öðrum dyngjum leita hrauntaumar út úr hliðum þeirra. Þannig hefur suðvesturgígurinn myndast og hrauntaumur leitað úr honum til vesturs. Ein hraunæðin er Varmi.
Háhitasvæði er norðan í Skálafelli þar sem nú er Gunnuhver og nálæg hverasvæði. Vitað er að svæðið allt var mun virkara einungis fyrir áratug síðan. Þar, skammt uppi í hlíðum Skálafells, fæddist m.a. Litli Geysir (eða 1918) skömmu eftir aldamótin 1900 og lifði þar um tíma – en dó síðan. Á unglingsárum sínum gaus hann allt að 20 metra háum vatnsstrókum með ennþá hærri gufutaumum.
Í Varma.
Þegar komið var niður í Varma blasti við falleg hraunssúla. Hægt var að fara beggja megin við hana, en vinstri leiðin var valin að þessu sinni, enda sú hægri þrengri og varfarnari. Bæði eru nippur í henni og auk þess meiðir hún hnén. Vinstri leiðin er greiðfærari og augljósari.
Þegar komið var í gegnum rúmgóða þrengingu við súluna lækkaði rásin. Gólfið er slétt, en hrjúft. Fara þarf á hnjánum inn, en fljótlega er komið inn í bæði breiðan og rúmgóðan ráshluta með fínum sandi í botni, líkt og er í fordyrinu. Fögur sjón tekur við góðu ljósmagni – langar rætur úr lofti. Hitinn í hellinum er um 20°C svo auðvelt væri að fara þarna niður að vetrarlagi á stuttbuxum einum fata – ef ekki væru hraunibburnar fyrrnefndu.
Rásin er heil og hækkar þannig að hægt er að ganga hokinn in eftir henni. Vel má sjá hvítar útfellingar á gólfi og á veggjum. Þá breikkar rásin, en hækkar ekki. Fara þarf á hnjánum áfram að gjóskubyng og hruni. Þar er hægt að komast áfram á maganum. Að spolkorn skriðnum virðist hitna enn á ný í rásinni. Loks virðist loftið sigið niður og verulega áhættusamt að halda áfram. Eflaust mætti reyna það með áræðni og sæmilegri fífldirfsku, en hvorutveggja myndi örugglega taka enda skammt þar vestar því bergveggur gjárinnar (misgengisins) getur varla verið langt undan. Sandur er í „endaþarminum“, en fróðlegt er að sjá á leiðinni hvernig hann hefur sigið niður í gegnum bergið, borist niður rásina með aðstoða vinda og vatns um opið og loks lokað henni. Helst er á sjá samlíkingar þessa í Sundhnúkahellunum. Inni í enda virðist ekki var um sama hitauppstreymi og á hinum, fyrrnefndu, köflunum tveimur, sem fyrr er getið.
Í Varma.
Haldið var til baka upp eftir rásinni og reynt að njóta þess að skríða á hreinum og fínum sandinum í stað þess að hnjámeiðast á grófum hraunbotni.
Uppi við opið liggur rásin spölkorn upp á við, en lokast með fínum sandi. Ljóst er að sandurinn kemur ofan frá – enda lýtur hann, eins og annað, lögmálum þyngdaraflsins sem og „miðjulögmáls jarðar“. Allt það, sem jörðin hefur gefið, dregur hún til sín og formar síðan til búnings á ný, ýmist sem basalt eða myndbreytt (höfundur fékk 10 á jarðfræðiprófi).
Varmi er um 170 m langur í það heila.
Þegar komið var út var komið myrkur – Reykanesvitarnir lýstu lárétta sjónarröndina, hvor í kapp við annan, hvítir gufustrókar virkjanasvæðis misviturrar mannskepnunnar lýstu hins vegar lóðrétt líkt og fingur „Júlíusar“ í „Neðra“ – svo til beint upp í loftið í logninu – og bæði Karlinn og Eldey í fjarska birtust sem þjóðsagnakenndir risar við annars spegilsslétta sjónarrönd Ægis – handan hins mikilúðuga Valahnúks. Þvílík sýn. Og ekki spillti dulúðlegt mánaskinið fyrir. Slíka upplifun á sérhver mannsskepna ekki nema einu sinni á lífsleiðinni – og það með mikilli heppni.
Ferðin tók 1 klst og 11 mín.
Skálafell.
Stafnes – konungsútgerð
Fríða Sigurðsson skrifaði um konungsútgerðina á Stafnesi í Faxa árið 1969:
Stafnes.
„Konungsútgerðin hafði aðalbækistöð sína á Stafnesi. Þaðan var stutt á miðin. Þar var „annáluð veiðistöð“, talin bezta vetrarverstöðin á öllu landinu. Jafnvel Hólabiskupsstóllinn lét róa frá Stafnesi. 1742, þegar Skúli Magnússon var ráðsmaður á Hólum, komu þaðan 9 sjómenn suður á Stafnes, og enn minnir örnefnið „Norðlingabaðstofa“ á þessa menn. Það var Stafnesbóndinn, Guðni Sigurðsson, sem 1749 var settur landfógeti, fyrstur allra íslenzkra manna. Hann gegndi þessu embætti, þangað til Skúli Magnússon tók við því 1750. Þá gerðist Guðni sýslumaður, og næstu 2 árin var Stafnes sýslumannssetur, en 1752 fluttist Guðni að Kirkjuvogi.
Tveir verzlunarstaðir voru í nánustu nánd við Stafnes: Þórshöfn, sem á 18. öld var reyndar ekki lengur notuð, og Bátsendar, sem síðan 1640 voru hin löggilta höfn danska konungsins á Suðurnesjum. Þegar konungsútgerðin var lögð niður 1769, hnignaði mjög sjávarútvegi á Stafnesi.
Fljótlega fóru Refshalabæirnir, hjáleigur frá Stafnesi, í eyði. Í Stafnesi sjálfu bjó gamli bóndinn, Magnús Jónsson, til 1784, og síðan ekkja hans, Helga Eyvindsdóttir, sem var 73 ára gömul, þegar maður hennar dó. 1786 eru aðeins 3 menn búsettir á þessum áður svo fjölmenna stað, 1790 jafnvel bara ein hjón. Þau tolla þar upp undir aldamót og ala á þessum árum nokkur börn, en þegar flóðið mikla brýtur húsin á Bátsendum þann 9. janúar 1799, þá fær kaupmannsfólkið frá Bátsendum í hálfan mánuð húsaskjól á Loddu, en hreiðrar þá um sig „á eyðibýlinu Stafnesi“.
Heimild:
-Faxi, 29. árg. 1969, 10. tbl., bls. 167.
Á Stafnesi.
Vogavík og Vatnsleysuvík
„Um og eftir aldamótin 1900 var útgerð í Vatnsleysustrandarhreppi vart svipur hjá sjón miðað við það umfang sem verið hafði á meginhluta síðari helmings liðinnar aldar.
vetravertíð frá flestum bæjum meðfram ströndinni frá Hvassahrauni að Vogastapa. Segja má að útvegsmenn í hreppnum hafi verið nokkuð fljótir að tileinka sér vélbáta sé miðað við framvindu vélvæðingar á Suðurnesjum. Besti möguleiki til að halda bát á legu var í Vogavík sem jafnframt var talin ein besta höfnin á Suðurnesjum frá náttúrunnar hendi. Einnig var hægt að láta báta liggja við festar á Vatnsleysuvík. Frá þessum stöðum hófst vélbátaútgerðin í hreppnum.
Róðrabátaútgerð var þó stunduð á
Fyrsti vélbáturinn
Höfrungur.
Fyrsti vélbáturinn í eigu heimamanna kom haustið 1908, var það Vonin GK. 352. rúmlega 7. tonn að stærð í eigu Ásmundar Árnasonar og fl. í Vogum. Vonin var fyrst gerð út á vetrarvertíð 1909, en þá vertíð hófu einnig tveir aðrir vélbátar róðra frá Vogavík. Voru báðir bátarnir frá Akranesi, Höfrungur um 7. tonn í eigu Haraldar Böðvarssonar og fl . og Fram um 12. tonn í eigu Bjarna Ólafssonar og fl. Var útgerð Akranesbátanna með aðstöðu á hólma undir Vogastapa þar sem verstöðin Hólmabúð hafði áður haft aðsetur.
Sjö vélbátar á vetrarvertíð
Stapinn – flugmynd.
Á vetrarvertíð 1913 voru gerðir út sjö vélbátar af heimamönnum, fimm frá Vogavík og tveir frá Vatnsleysuvík. Frá Vogavík voru auk Vonarinnar. Sörli um 10. tonna bátur í eigu Sigurjóns J. Waage og Klemensar Egilssonar. Björgvin tæplega 5 tonn. eigendur voru bræðurnir Þórður og Bjarni Skúlasynir. Báturinn var síðan umbyggður og stækkaður og hét eftir það Skúli. Hafalda tæplega 11 tonn, eigendur voru bræðurnir Eyjólfur, Andrés og Ólafur Péturssynir. Auk þess var leigubátur Víkingur tæplega 8 tonn, sem Benedikt Pétursson gerði út. Frá Vatnsleysuvík voru Hermann um 6,5 tonn. í eigu Sæmundar Jónssonar og fl. af Vatnsleysubæjum, og Barðinn, tæplega 9 tonn, leigubátur gerður út af Auðunni Sæmundssyni og fleirum.
Aflinn breytilegur
Um þetta leyti var vélbátaeignin í hreppnum í hámarki, tveir bátar bættust að vísu við og fylltu upp í skörð annara. Voru báðir með kútterlagi, nýrri gerð vélbáta sem þá voru að verða allsráðandi. Annar báturinn Haukur, um 11 tonn, var fyrst í eigu Hallgríms Sc. Árnasonar og fl. Vogum en síðar sameign manna frá Vatnsleysum, Hvassahrauni og Þorbjarnarstöðum. Hinn var Sæbjörg, um 11 tonn að stærð, í eigu Auðuns Sæmundssonar og fl. af Vatnsleysubæjum. Úthaldstíminn var að mestu bundinn við vetrarvertíðina en lítið var um útgerð vélbáta á öðrum tíma ársins. Afli var breytilegur frá ári til árs og þegar skoðað er afl abrögð vertíðanna 1913-1917 þá hefur aflinn verið að jafnaði um 50 tonn á bát. En sá afli hefur vart dugað til endurnýjunar báta.
Sjóslys
Slysfarir settu svip sinn á tímabilið. Tveir vélbátar fórust með allri áhöfn með fi mm ára millibili, og voru báðir frá sömu útgerðinni. Vélbáturinn Hermann frá Vatnsleysu fórst þann 24. mars 1916 í illviðri sem þá gekk yfir. Báturinn réri frá Sandgerði og var í fiskiróðri suður í Miðnessjó en fékk á sig brotsjó og sást ekki til bátsins eftir það. Með bátnum fórst öll áhöfnin sjö menn. Þá fórst vélbáturinn Haukur frá Vatnsleysu þann 9. febrúar 1921 með allri áhöfn fi mm mönnum. Báturinn hafði stundað róðra frá Sandgerði og farið til veiða þá um morguninn. Af einhverjum ástæðum hefur hann farið inn á Vatnsleysuströnd og síðan farist við Keilisnes, en þar fannst báturinn og var svo grunnt að siglutrén stóðu upp úr sjónum. Ef litið er til þessa tímabils má segja að á sama hátt og útvegsmenn hafi verið fl jótir að tileinka sér vélbáta þá sé eins og þessi útgerð hafi ekki staðist væntingar og að hún hafi staðnað. Lítil endurnýjun varð á bátum og með tímanum fór svo að það dró úr útgerðinni og þegar leið á þriðja áratuginn var þessi kynslóð vélbátaútgerðar nær liðin undir lok.“
Heimild:
-Haukur Aðalsteinsson – Faxi 2008, bls. 20-21.
„Sjóðheit djásn beint úr ofninum“ – Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson
Í Fréttablaðinu þann 30. ágúst 2021 segja Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson sögu gossins í Geldingadölum á Fagradalsdfjalli í stuttu máli og lýsa aðstæðum eftir goslokin undir yfirskriftinni „Sjóðheit djásn beint úr ofninum„:
„Það eru ekki margir staðir á jörðinni þar sem náttúrudjásn bókstaflega poppa upp úr jörðinni. Ísland er einn þeirra, enda eitt virkasta eldfjallasvæði jarðar. Það sannaðist þann 19. mars 2021 þegar gos hófst í hlíðum Fagradalsfjalls í Geldingadölum. Það stóð í hálft ár en fram að því hafði ekki gosið á Reykjanesi í næstum 800 ár. Barst kvika til yfirborðs eftir allt að 17 kílómetra kvikugangi og út í gegnum tvo samhliða gíga. Síðan opnuðust ný gosop norðan þeirra sem lokuðust aftur þegar mánuður var liðinn af gosinu. Eftir það barst kvika aðallega úr einum og sama gígnum, og var hraunstreymið lengst af í kringum 5-13 rúmmetrar á sekúndu. Upp úr miðjum ágúst fór síðan að draga úr gosinu og eftir 18. september hefur ekkert hraunstreymi mælst frá gígnum. Þremur mánuðum síðar var goslokum síðan formlega lýst yfir.
Fagradalsfjall – eldgos.
Gosið í Geldingadölum telst ekki á meðal stærstu eldgosa, enda ekki aflmikið, en var engu að síður afar tilkomumikið og auðvelt að fylgjast með því í návígi.
Gígurinn er sérlega mikið fyrir augað, en þar bregður fyrir alls konar litum, meðal annars rauðri gígskál. Á 40 metra háum gígbörmunum eru gular brennisteinsútfellingar síðan mest áberandi sem má rekja til heitra gosgufa sem stafa frá allt að 70 metra þykku hrauninu næst gígnum. Í dag þekur hraunþekjan tæplega 5 ferkílómetra, meðal annars alla Geldingadali, en hrauntungur teygja sig einnig ofan í Meradali og Nátthaga.
Geldingadalir – eldgos.
Þótt gosinu sé nú formlega lokið eru eldstöðvarnar og umhverfi þeirra mikið fyrir augað, ekki síst gígurinn sem þegar telst á meðal helstu djásna í krúnu Reykjanesskaga. Því er óhætt að mæla með göngu að þessu stórkostlega náttúrufyrirbæri. Forðast ber að ganga inn á sjálft hraunið eða upp að gígnum, enda ágætt útsýni að honum frá Stóra-Hrúti eða Fagradalsfjalli. Undanfarið hafa jarðhræringar aftur gert vart við sig á svæðinu, sem gætu verið undanfari goss. Því er skynsamlegt að bíða með heimsóknir í Geldingadali uns óróanum linnir og hætta á gosi minnkar. Þessi stöðugi órói svæðisins dregur þó síst úr aðdráttarafli þess og vonandi verður það gert að friðlandi í náinni framtíð.“
Höfundum ber sérstaklega að þakka að nefna ekki ónefnuna, sem Grindvíkingar höfðu ákveðið á hraunið af lítilli yfirvegun.
Heimild:
-Fréttablaðið 30. ágúst 2021, Sjóðheit djásn beint úr ofninum, Tómas Guðbjartsson og Ólafur Már Björnsson.
Geldingadalir – gígur.
Hveragerði – stofnun og þróun
Hveragerði er að mörgu leyti sérstakt samfélag – svo að segja í miðju öðru sveitarfélagi. Í Sveitarstjórnarmálum 1986 fjallar Karl Guðmundsson um „Hveragerðishrepp fjörutíu ára„. Þar segir m.a.:
Elsti uppdráttur af byggðinni í Hveragerði. Í skjalasafni Búnaðarfélags Íslands sem varðveitt er í Þjóðskjalasafni Íslands er að finna elsta uppdrátt af byggðinni í Hveragerði, líklega frá árinu 1930. Á uppdrættinum má sjá fjögur hús, Mjólkurbú Ölfusinga (Breiðamörk 26), Varmahlíð (Breiðamörk 31), Egilsstaði (Skólamörk 4, gamli barnaskólinn) og rafstöðvarhúsið í Varmárgili.
„Á árinu 1946 var Hveragerðishreppur stofnaður með skiptingu úr Ölfushreppi. Dómsmálaráðuneytið gaf út tilskipun hinn 13. marz það ár þess efnis, að frá og með 1. janúar sama ár væri Hveragerði sjálfstætt sveitarfélag. Í framhaldi þessa var fyrsta hreppsnefnd hins nýja hrepps kjörin hinn 28. apríl, og kom hún saman til fyrsta fundarsins hinn 29. apríl. Hreppsnefndin var skipuð 5 fulltrúum.“
Í Sveitarstjórnarmálum 2016 segir af „Hveragerðisbæ 70 ára„:
2016 – Hveragerði 70 ára; „Í ár eru 70 ár síðan íbúar í Hveragerði klufu sig úr Ölfushreppi og stofnuðu sérstakt sveitarfélag, Hveragerðishrepp. Ágreiningur um stækkun á þinghúsi hreppsins (nú Skyrgerðin) hrundi af stað atburðarrás sem varð til þess að 24. júlí 1945 fór fram atkvæðagreiðsla um skiptingu Ölfushrepps í tvo hreppa og var hún samþykkt með 95 atkvæðum gegn 85. Skipting Ölfushrepps í tvö sveitarfélög var svo samþykkt af ráðherra 13. mars 1946. Fyrstu kosningar í hinu nýja sveitarfélagi fóru fram 28. apríl 1946. Fyrsti fundur nýrrar hreppsnefndar var haldin daginn eftir 29. apríl 1946 og var því nýtt sveitarfélag orðið til. Hér má sjá mynd af fundargerð fyrsta fundar hreppnefndarinnar en Héraðsskjalasafn Árnesinga varðveitir frumritið.“
„Byggðar við Varmá mun fyrst getið í Fitjaannál fyrir 1700 þar sem sagt er frá tilfærslu goshvers í jarðskjálfta árið 1597. Í lýsingum Hálfdáns Jónssonar, lögréttumanns á Reykjum um Ölfushrepp frá árinu 1703, kemur fram að fólk hafi nýtt hverahitann til þvotta, suðu matvæla og jafnvel baða á þeim tíma. Á fyrsta áratug 20. aldar var nokkuð um svonefnt þurrabúðarlíf eða býli án mjólkurframleiðslu við Varmá. Þessi fyrsta byggð tengdist ullarverksmiðju sem var byggð 1902 og drifin var af vatnshjóli og reimdrifi virkjunar sem byggð var við Reykjafoss. Ullarverksmiðja þessi starfaði fram til 1912 en var þá rifin að öðru leyti en því að grunnur hennar stendur enn. Fyrsta raunverulega byggðin sem um getur varð til um 1929 ef frá er talið þurrabúðarlífið í kringum Varmá. Á þeim grunni var Hveragerðishreppur stofnaður 1946 sem sjálfstætt sveitarfélag út úr Ölfusinu og hreppnum var síðan breytt í bæjarfélag 1987.“
Í Morgunblaðinu 1987 segir Sigurður Jónsson um Hveragerði: „Stöðug fjölgun íbúa síðastliðin 20 ár„:
Þann 24. júlí 1945 fór fram atkvæðagreiðsla um skiptingu Ölfushrepps í tvo hreppa og var hún samþykkt með 95 atkvæðum gegn 85. Skipting Ölfushrepps í tvö sveitarfélög var svo samþykkt af ráðherra 13. mars 1946. Fyrstu kosningar í hinu nýja sveitarfélagi fóru fram 28. apríl 1946. Fyrsti fundur nýrrar hreppsnefndar var haldin daginn eftir 29. apríl 1946 og var því nýtt sveitarfélag orðið til. Hér má sjá mynd af fundargerð fyrsta fundar hreppnefndarinnar en Héraðsskjalasafn Árnesinga varðveitir frumritið. Framhald fundargerðarinnar má sjá á næstu mynd.
Framhald fundargerðarinnar er lesa má undir mynd hér að ofan.
„Hveragerði öðlaðist bœjarréttindi miðvikudaginn 1. júlí 1987, samkvæmt nýjum sveitarstjórnarlögum. Hveragerði varð sjálfstætt sveitarfélag 13. mars 1946. Íbúafjöldi í Hveragerði þann 1. desember 1986 var 1462. Íbúafjöldi í Hveragerði hefur aukist jafnt og þétt síðastliðin ár en 1970 bjuggu þar um 800 manns.
Mjólkurbú Ölfusinga tók til starfa 1. apríl 1930 og því eru 90 ár síðan það hóf starfsemi en það var stofnað árið 1928. Stofnun Ölfusbúsins markaði upphaf byggðar í Hveragerði. Myndin er frá ágúst 1930 og sýnir Mjólkurbú Ölfusinga ásamt þinghúsi Ölfusinga í byggingu, nú Skyrgerðin. – Ljósmynd: Magnús Ólafsson, Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
Upphaf byggðar í Hveragerði er rakin til þess að Ölfusingar stofnuðu með sér samvinnufélag um mjólkurbú sem reist var í Hveragerði. Mjólkurbúið lét gera drög að skipulagi og leigði mönnum lóðir. Vorið 1929 voru reist tvö íbúðarhús, Sigurður Sigurðarson búnaðarmálastjóri reisti hús sitt, Fagrahvamm, við Varmá þar sem er elsta gróðarstöðin í Hveragerði. Bóndi úr Ölfusi Guðmundur Gottskálksson reisti hús undir brekkunni og nefndi Varmahlíð og stendur það hús enn. Hann reisti sér þar hús til elliáranna en hann gekk ekki heill til skógar. Í árslok var fjölskylda Guðmundar, 5 manns, sú eina sem skráð var á manntal 1929.
Segja má að upphaf byggðarinnar sé táknrænt fyrir þá byggð sem þróaðist í Hveragerði annars vegar garðyrkjan og hins vegar áhugi að búa sér í haginn á þægilegum stað.
Ullarverksmiðjan Reykjafoss var starfrækt við samnefndan foss á árunum 1902-1914 og sjást sökklar hússins enn. Verksmiðjunni var valinn þessi staður svo nýta mætti fossaflið til að knýja vélar verksmiðjunnar. Með ullarverksmiðjunni bárust jafnframt ýmsar nýjungar sem ekki höfðu áður sést í sveitum austan fjalls. Árið 1906 var tekin í notkun lítil vatnsaflsrafstöð til lýsingar og árið eftir var sett upp götulýsing frá heimreiðinni og út að þjóðveginum við gömlu Ölfusréttir. Verksmiðjan var reist til þess að vinna afurðir úr íslenskri ull og var tilraun til þess að auka arðsemi ullarinnar og íslensks landbúnaðar. Ullarverksmiðjunni var valinn þessi staður svo nýta mætti fossaflið til að knýja vélar verksmiðjunnar en einnig vegna þess að Varmá frýs aldrei, sem var mikilsvert fyrir verksmiðju sem átti að starfa allan ársins hring. Framleiðslan gekk þó ekki eins vel og vonir höfðu staðið til en lopi, sem var aðalframleiðsluvaran, þótti ekki henta nógu vel til tóskapar. Þann tíma sem fyrirtækið starfaði var því fremur haldið uppi af framfararhug og góðum vilja manna úr héraðinu en fjárhagslegri getu. Fór svo að lokum að verksmiðjan varð gjaldþrota og var húsið rifið í maí 1915 og selt á uppboði ásamt vélum.
Garðyrkjan og gróðurhúsin hafa verið vaxtarbroddur Hveragerðis. Í kringum gróðurhúsin og blómaræktina hefur þróast mikill ferðamannastraumur sem nú er vaxandi atvinnugrein. Einnig er þjónusta í kringum dvalarheimili og heilsuhæli stór þáttur í atvinnulífinu. Þó undarlegt megi virðast var það ekki jarðhitinn sem laðaði menn að Hveragerði í fyrstu heldur fossinn í Varmá, Reykjafoss. Þar var reist ullarþvottastöð og vatn leitt úr fossinum til að knýja vélarnar. Grunnur stöðvarinnar sést ennþá, einnig stíflan í ánni og rústir fyrstu rafstöðvarinnar sem sett var upp austan fjalls, 1906. Í ullarþvottastöðinni var og greiðasala fyrir ferðamenn, fyrsti vísir þess sem koma skyldi.
Virkjunin í Varmá. Fyrsta rafstöðin austan fjalls 1906.
Athafnasemin í kringum Reykjafoss stóð í 12 ár og var byggðin í kring alltaf kennd við fossinn. Hús Ullarþvottastöðvarinnar voru rifin 1915.
Meginatvinnuvegur í Hveragerði hefur ávallt verið garðyrkja. Gert er ráð fyrir að hlutfall garðyrkjunnar í atvinnulífinu sé nú 15%. Gróðurhúsin eru hituð upp með gufu sem fengin er frá hverasvæðinuí miðju bæjarins. Þar og í hverasvæðum í kring er gífurleg orka til staðar.
Konur við þvotta við Bakkahver í Hveragerði árið 1934. Bakkahver var virkjaður árið 1930 fyrir Mjólkurbú Ölfusinga. Steypt var yfir hverinn nokkurs konar hjálmur og hann þannig virkjaður. Tvö fjögurra tommu rör lágu frá hvernum og í mjólkurbúið, annað fyrir heitt vatn sem lá neðst á hjálminum og hitt fyrir gufu sem var efst. Voru rörin vel einangruð með samtals um 30 cm lagi af hveraleir, mómylsnu, tjörupappa og koltjöru til að sem minnstur hiti tapaðist á leið í búið. Hveravatnið var notað ásamt upphituðu köldu vatni til að gerilsneyða mjólk. Gufan var notuð til þess að sjóða mysuost. Vatnið í Bakkahver var nálægt 100° C heitt á yfirborðinu og um 102° C á 1,5 m. dýpi. Rennsli Bakkahvers var um 2 lítrar á sekúndu. Steypuhjálmurinn er nú horfinn og Bakkahver ekki lengur virkur. Ljósmyndin er úr Þjóðskjalasafni Hollands.
Þjónusta á heilsuhælum og við elliheimili er um 15% í atvinnulífinu en Hveragerðis hefur lengi verið getið í tengslum við náttúrulækningar og þjónustu elliheimilisins. Hlutur iðnaðar í atvinnulífinu er um 15%. Aðallega er um að ræða minni fyrirtæki. Eitt öflugasta og þekktasta iðnfyrirtækið er Kjörís sem verið hefur í stöðugum vexti undanfarin ár.
Barnaskólinn í Hveragerði.
Opinber þjónusta hefur farið vaxandi í Hveragerði og staðurinn fyrir löngu orðinn þjónustubær. Hlutfall opinberrar þjónustu nemur 35% í atvinnulífinu og önnur þjónusta svo sem þjónusta við ferðamenn er um 20%. Ferðaþjónustan hefur vaxið gífurlega í Hveragerði og eru þar öflugir máttarstólpar, Eden, Tívolíið, Blómaborg, Hótel Ljósbrá og nú síðast Hótel Örk.
Hveragerði – mörk umdæmisins 2020.
Hjá hinu nýja bæjarfélagi sem er í örum vexti eru mörg verkefni framundan. Það helsta er nýbygging við Grunnskólann sem hýsa mun alla starfsemi skólans. Gagnfræðaskólinn í Hveragerði hefur verið í leiguhúsnæði og mun nýja húsnæðið leysa mikinn vanda. Áformað er að koma skólanum í notkun fyrir haustið 1988. Hann á allur að geta hýst 500 nemendur í 10 bekkjardeildum.
Hveragerði á efri frumbýlisárunum.
Átak í gatnagerð er meðal þess sem framundan er. Gatnakerfið í Hveragerði er óvenju langt, rúmir 16 kílómetrar. Ástæða þess eru hverasvæðin og gróðurhúsabyggðin í bænum sem taka mikið landrými. Til samanburðar má nefna að í Þorlákshöfn er gatnakerfíð í kringum 8 kílómetrar. Búið er að leggja bundið slitlag á helming gatnanna í Hveragerði og verður ein gata tekin fyrir í sumar. Þá er verið að gera nýja knattspyrnuvöll í Reykjadal en uppgangur er í Hveragerði á íþróttasviðinu.“
Skáldagatan hefur aðdráttarafl
„Andans gata er til í Hveragerði og ber hún nafnið Frumskógar. Þar hafa margir andans menn átt heima, má þar nefna skáldin Jóhannes úr Kötlum, Kristmann Guðmundsson, Kristján frá Djúpalæk, sr. Helga Sveinsson, Gunnar Benediktsson og Ólaf Jóhann Sigurðsson.
Aðrir, sem búið hafa við götuna, eru Gunnlaugur Scheving listmálari og Ríkharður Jónsson átti þar sumarbústað. Þessi gata er gjarnan kölluð Skáldagata og hverfið listamannahverfi Hveragerðis. Í næstu götum bjuggu til dæmis Höskuldur Björnsson listmálari, Arni Björnsson tónskáld, Hannes Sigfússon og Kári Tryggvason. Einnig ólst Bergþóra Arnadóttir lagasmiður og söngkona upp í þessu hverfi.
Gatan hefur mikið aðdráttarafl og er snyrtileg. Gísli Sigurbjörnsson, forstjóri Grundar, hefur látið sér annt um viðhald húsa þar en Grund á velflest húsin við götuna.
Hópar, sem leið eiga um Hveragerði, vilja gjarnan fara um þessa götu og hópur kvenna kom þar við fyrir skömmu og gerði sérstaka kröfu um að sjá hús Kristmanns Guðmundssonar.“
Í Sunnudagsblaði Vísis 1942 skrifar Kristmann Guðmundsson um „Hveragerði, Sveitarþorpið, sem vísir til framtíðar hins nýja Íslands„:
Séð yfir Fossflöt við Reykjafoss um 1940. Tjaldbúðir hermanna í forgrunni, líklega kanadísku hersveitarinnar Fusiliers Mont Royal sem hafði aðsetur í Hveragerði á bökkum Varmár sumarið 1940.
„Einu sinni s.l. sumar gekk eg með miðaldra manni, útlendum, um Hveragerði. Hann var hugsjónamaður mikill, og hafði fest yndi við þetta land, sem er erlendu fólki oftast erfitt í fyrstu, sökum auðna og hrjósturs. „Í þessum fjallkrika“, sagði hann, „í þessu „alpvesi“ er framtíð hins nýja Íslands að bruma.“
Hveragerði á hernámsárunum.
Hann hafði rétt fyrir sér. Hér í Hveragerði mun upp rísa fyrsta og mesta landhúnaðarborg Íslands. Og að fimmtíu árum liðnum mun hún ná alla leið til Þorlákshafnar, sem þá verður stærsta höfn landsins, og miðstöð allra viðskipta við útlönd; en óslitið þéttbýli nær þá yfir alla Rangárvallasýslu! Dagar hirðingjabúskapar á Íslandi munu senn taldir. Á næstunni munu tugir þúsunda af ungu fólki leita úr andstyggð borgarlífsins. og vígja líf sitt gróandanum, í tvennum skilningi! Vér höfum nú um skeið verið á bullandi „túr“ í annarlegri kvikmyndamenningu, pólitískum grillum, búðarlokufínheitum, og öðrum óþverra sem hingað hefir skolast. Gleði- og menningarþorsti margra gáfaðra hirðingjakynslóða hefir farið með oss í allskonar gönur. Vér stigum úr móbíl miðaldanna, upp í nýtízku flugvél framtíðarinnar, og því engin furða þó á oss rynni, fyrst í stað. En vér höfum fyrr siglt krappan sjó, og náð þó höfn, heilir að mestu.
Hveragerði 1967.
Svo mun enn verða. Eg sé ekki ástæðu til að bera kvíðboga fyrir framtíð íslenzks kyns, og íslenzkrar tungu, þó að nokkur þúsund erlendir hermenn dvelji hér með oss um hríð. Sú raun, sem vér nú þolum, er ekki meiri en það, að hún mun verða oss til blessunar, ef vér erum þeir menn, sem vér sjálfir höfum lengi gumað af. Og ef svo er ekki, ef vér erum lubbar og aumingjar, þá er ekki nema vel farið að vér hverfum í deiglu sköpunarinnar! En það er undir oss sjálfum komið, og því má enginn ábyrgur Íslendingur gleyma!
Sundlaug í Laugaskarði – Sundlaugin í Laugaskarði um 1940. Sundlaugin var byggð eftir teikningum Jóns Gunnarssonar verkfræðings en búningsklefarnir sem sjást á myndinni eftir teikningum Þóris Baldvinssonar, en nokkru seinna var byggð lítil íbúð fyrir forstöðumann vestanmegin við klefana. Sundlaugin var í fyrstu rekin sem sjálfseignarstofnun á vegum Ungmennafélags Ölfushrepps með styrk frá ríki og sveitarfélögum. Ölfushreppur og Hveragerðishreppur tóku síðar við rekstrinum en lengstum hafa Hvergerðingar annast rekstur og viðhald laugarinnar. Þegar Hveragerðishreppur var stofnaður út úr Ölfushreppi árið 1946 var sundlaugin látin fylgja Hveragerði.
Eg vil leyfa mér að skjóta hér inn atriði, sem er ekki beinlínis tilheyrandi því efni sem þetta greinarkorn á að fjalla um. Ef menning vor þolir ekki þá þrekraun, sem sambúðin við erlent setulið, og allt sem stríðinu fylgir, hlýtur að hafa í för með sér, þá skulum vér að minnsta kosti ekki láta eftir oss þann lúalega ræfilsskap, að kenna kvenfólkinu um það! Ef piltar vorir hefðu ahnennt tamið sér prúðmennsku og siði hvítra manna, í stað allskonar hornrónaháttar, sem hér er landlægur, þá hefði vissulega aldrei þurft að skipa neina nefnd til viðreisnar íslenzku kvenfólki!

Nei, vinir góðir, skipið heldur nefndir sem vinna að því, að gera mönnum kleift að græða og rækta þetta óviðjafnanlega fagra land! Einblínið ekki á hættur og erfiðleika, skapið yður umfram allt ekki grýlur, málið ekki andskotann á vegginn! Segið við sjálfa yður hið sama og engillinn sagði við kerlinguna, sem horfði hugstola á ljá þá hina miklu, er hún skyldi raka:
„Horf þú ekki á ljá þína langa,
láttu heldur hrífuna ganga!“
Hér er yfrið nóg að vinna. Setjið þennan margumtalaða stríðsgróða í ræktun og uppbyggingu nýrra sveitabýlahverfa, fyrst ekki er hægt að kaupa fyrir hann skip! Stríðsgróðinn verður yður hvort sem er því aðeins til blessunar, að hann sé notaður í þjónustu gróðurs og lífs! Annars verður hann ólánið einbert! — Fylgið dæmi Hveragerðinga, og skapið ný verðmæti handa framtíðinni, fyrir það fé, sem berst yður í hendur sökum niðurrifs og eyðilegginga annarsstaðar í heiminum. Þá mun það aldrei svíða hendur yðar, og þér finnið aldrei af því þann þef blóðs og tára, sem við það er bundinn!
Hér í Hveragerði er handagangur í öskjunni. Eftir því sem eg kemst næst, á að byggja hér 25—30 gróðurhús á þessum vetri og 20 íbúðarhús. Illlendismóar, sem legið hafa gagnslitlir um þúsundir ára, eru rifnir sundur með traktorum, og úr þeim skal á sumri komanda vaxa lífsþróttur og hamingja til handa börnum þessa lands!
Hverahvammur – Einstök mynd af Hverahvammi í Hveragerði, þar sem nú er hótelið Frost og funi og veitingastaðurinn Varmá. Óljóst er hvenær myndin er tekin, en ekki er ólíklegt að hún sé tekin snemma á fjórða áratug 20. aldar.
Jarðhitinn, sem allt fram að þessu hefir unnið óbundinn í þjónustu eyðingarinnar, er færður í fjötra og látinn mala gull og gæfu bornum og óbornum. Á hrjóstrum íslenzkra móa vaxa rósir og nytjajurtir, sem auka fegurðina og efla lífskraftinn. Þetta er að vinna í þjónustu lífsins, mínir elskanlegir, þetta er að byggja upp án hiks og æðru, hvað sem hrynur og brotnar í kringum mann. Í þessu starfi liggur einn af sterkustu þáttum framtíðar vorrar, heilla og hags. Í móðurfaðm náttúrunnar eigum vér að sækja endurnýjungu kraftarins, gleðinnar, ástarinnar, alls þess sem gerir oss heila og sterka, og veitir oss þrótt til að vinna bug á hverju því mótlæti sem oss er ætlað.
Fagrihvammur – Fagrihvammur í ágúst 1930. Íbúðarhúsið á myndinni brann en núverandi íbúðarhúsi í Fagrahvammi var reist árið 1933. Við árbakkann sést fyrsta gróðurhúsið í Hveragerði en það var alls 45 fermetrar og í því voru fyrst um sinn ræktaðir tómatar og blóm.
Lífskjör þjóðarinnar þurfa að komast sem fyrst í heilbrigðara horf. Vér erum bændaþjóð, en búskapur vor er orðinn á eftir tímanum, og vér flykktumst í kaupstaðina úr fátækt og fásinni sveitanna. Vér fórum þangað í gæfuleit; manneskjan er ávallt að leita að gæfu sinni. En grunur minn er sá, að almenningur íslenzkur finni ekki gæfu sína í borgum, og hvar er hennar þá að leita? Ætli hún sé ekki einmitt í sveitunum semvér yfirgáfum, í samstarfinu við hið skapandi líf, í hollu erfiði daganna og draumlausri hvíld næturinnar? Ef til vill er hún í því fólgin að sjá börn vor vaxa upp í félagsskap við jurtir og dýr, og sjá á andlitum þeirra hinn hreina svip heilbrigðinnar?
Spegillinn – Forsíða skoptímaritsins Spegilsins frá júní 1947. Á myndinni er gert góðlátlegt grín að fjölda hvera sem mynduðust í Hveragerði í kjölfar eldgoss í Heklu sama ár. Á myndinni má sjá nokkra þjóðþekkta menn sem bjuggu í Hveragerði á þeim tíma. Talið frá vinstri Jónas Jónsson frá Hriflu sem átti sumarbúðstað á Reykjum, Kristmann Guðmundsson, Jóhannes úr Kötlum, Kristinn Pétursson og sr. Helgi Sveinsson.
Mér hefir þótt það sérstaklega eftirtektarvert hvað fólkið hérna í Hveragerði er ánægt að sjá. Það á sér efalaust sínar sorgir, hjá því verður ekki komizt í henni veröld, en almennt séð, virðist vera meiri vellíðan hér en annarsstaðar, þar sem eg þekki til. Skyldi það ekki koma til af því, að menn eru hér í starfi sínu sifellt í nánu sambandi við móður Náttúru?
Berklahæli – Í þessu húsi á Reykjum í Ölfusi var starfrækt heilsuhæli fyrir berklasjúklinga árin 1931-1938. Samhliða því var rekið stórt kúabú og garðyrkjustöð. Eftir að berklahælið hætti var húsið notað undir starfsemi Garðyrkjuskóla ríkisins sem tók til starfa árið 1939. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar voru tekin í notkun ný hús undir starfsemi Garðyrkjuskólans og var því húsið ekki lengur í daglegri notkun. Árið 2005 var gamla berklahælið notað fyrir slökkviliðsæfingar og brennt til grunna.
Hveragerði er ekki staður fyrir svokallaða „snobba“. Hér þrífst engin „buxnavasamenning“, eins og einn Hveragerðingur hefir komizt að orði. Hér er unnið, og unnið vel! Aðra eins blómgun í einu þorpi hefi eg aldrei séð. Þetta er góður staður fyrir skáld, sem vilja vera í stöðugu sambandi við hið lifandi líf! Enda eru nú skáld og aðrir listamenn sem óðast að flytja hingað búferlum, og vel sé þeim! Hér ríkir andi samstarfs og hjálpsemi; vér erum allir verkamenn í víngarði Drottins, og skiljum nauðsyn hvors annars. Þeir, sem ætla sér að okra á náunganum, eru hér illa séðir og munu aldrei þrífast. Enda höfum við ekki haft marga þesskyns fugla hérna. Sá eini, sem mér vitanlega hefir reynt það, komst skjótlega að því, að almenningsálitið var honum ekki hliðhollt!
Garðyrkjuskólinn gamli.
Það eru ekki nema tólf ár síðan fyrsta býlið var reist í Hveragerði. Þá byggði Sigurður heitinn Sigurðsson búnaðarmálastjóri Fagrahvamm. Þar situr nú sonur hans, Ingimar, og er garðyrkjustöð hans hin stærsta innan þorpsins: fimmtán hundruð fermetrar undir gleri. Enn stærri garðyrkjustöðvar eru þó á Reykjabúinu, og í Gufudal. Pálmi Hannesson réktor hefir og snotra garðyrkjustöð í Reykjakoti, þar sem Menntaskólaselið er. Í Gufudal býr Guðjón Sigurðsson, mikill dugnaðarmaður; eru þar um álján hundruð fermetrar undir gleri, og hefir hann byggt það allt upp á fimm árum. Í Fagrahvammi er trjáræktarstöð blómleg, hjá Ingimar Sigurðssyni, og er mikil prýði að henni í þorpinu.
Hellisheiði – Snjóþyngsli á Hellisheiði, líklega á fjórða áratug síðustu aldar. Oft var Hellisheiði lokuð frá nóvember fram í maí vegna ófærðar. Snjór var mokaður í fyrsta skipti á Hellisheiði vorið 1927, með handskóflum, en ruðningur með stórtækari vinnuvélum hófst ekki fyrr en á árum síðari heimsstyrjaldar.
Auk þess, sem eg þegar hefi nefnt, eru 14 garðyrkjustöðvar í Hveragerði, og útlit fyrir að annað eins verði byggt á næstunni, eða meira. Þorpsbúar eru nú þegar á þriðja hundrað, en þeim mun fjölga talsvert á næstunni, því margir eru í þann veginn að flytja hingað.
Kambar.
Kaupfélag Árnesinga á grunninn sem þorpið stendur á, en það er almennur vilji Hvergerðinga að ríkið eignist staðinn, og heyrst hefir, að ekkert sé því til fyrirstöðu frá kaupfélagsins hendi. Væri það líka eðlilegast að svo yrði, og að lóðirnar fengjust á erfðafestu. Þá þyrfti einnig sem fyrst að leggja götur og ræsi, því að enn er frumbýlingsháttur á slíku.
Hveragerði – ferðamannhver.
Hverir og laugar eru nær óteljandi í Hveragerði. Mestir eru Bláhver, Bakkahver og Sandhólahver, en í kringum þá er allstórt svæði óbyggilegt, og hefir það verið afgirt. Goshverir eru nokkrir; þekktastur þeirra er Grýla, sem gýs 20—30 metra i loft upp, en henni miklu meiri er Svaði, er á það til að gjósa all stórkostlega. Hann er uppi í hlíðinni fyrir ofan og austan Varmá. Jarðhitinn er mjög mikill, og skorpan ofan á honum sumstaðar nokkuð þunn, að því er bezt séð verður. Hefir víða verið borað eftir gufu með jarðborum, og tekist vel. Jarðskjálftar eru tíðir en sjaldan verulegir, hverakippir svokallaðir. S.l. sumar voru þeir þó all snarpir og komu með stuttu millibili í nokkra daga.
Í Hveragerði má sjá fjórar kynslóðir af þjóðvegum. Núverandi þjóðvegur var tekinn í notkun 1972, þjóðvegur sem var í notkun 1894-1972, Eiríksvegur sem var lagður 1880-1881 og svo gamla þjóðleiðin sem sést á þessari mynd. Gamla þjóðleiðin er aldagömul. Hún er sérstaklega merkjanleg í Hrauntungu fyrir ofan Hveragerði en ágangur í margar aldir hefur grafið djúpa rák í hraunið eins og sjá má.
Náttúrufegurð er mikil í Hveragerði. Úr þorpinu blasir við Ölfusið allt, og ósar Ölfusár, sést þar á sjó fram. Húsin standa skammt frá hlíðum Reykjafjalls, en fagur klettahjalli vestan við þorpið, og fyrir innan hann dalur grösugur og ljúfur.
Eiríksvegur – lagður um 1880.
Fram úr honum rennur Varmá, en við hana hefir verið byggð rafstöð sem lýsir upp þorpið. Foss er i ánni, fagur mjög, í sjálfu Hveragerði, og er mikil bæjarprýði að honum. Undir klettahjallanum, sem að ofan er nefndur, er falleg hlíð, vaxin víði og blágresi, og mun þar verða lystigarður þorpsins innan tíðar.
Kvennaskólinn á Hverabakka.
Í Hveragerði er barnaskóli, garðyrkjuskóli og kvennaskóli. Garðyrkjuskólinn er rekinn fyrir ríkisfé, í sambandi við Reykjabúið, og læra unglingarnir þar að yrkja og græða land sitt. Kvennaskólanum veitir forstöðu stofnandi hans og eigandi, Árný Filipusdóttir, sem mörgum er að góðu kunn, fyrir gestrisni, listfengi og fádæma dugnað í starfi sínu. Þá er í Hveragerði stærsta sundlaug landsins. Stjórnandi hennar er þjóðkunnur ágætismaður, Lárus Rist sundkennari.
Jónas Jónason frá Hriflu 1934.
Uppi í hlíðinni, undir Reykjafjalli á Jónas Jónsson frá Hriflu sumarbústað, ásamt fleiri góðum mönnum. Annar alþingismaður er nýbúinn að byggja sér hús í Hveragerði: Jóhannes úr Kötlum, sem er þjóðinni reyndar kunnari fyrir skáldskap sinn en þingmensku, að hvorutveggja ólöstuðu. Fleiri listamenn eru hér búsettir, og í ráði að enn nokkrir flytjist hingað, og er það vel. Einn dýrmætasti auður íslenzku þjóðarinnar eru listamenn hennar, og hefir aldrei verið meiri nauðsyn til að hlúa vel að þeim en nú. Og hér í Hveragerði myndi þeim líða vel, ef þeim væri gert kleift að eignast hér heimilL og lifa sæmilegu lífi. Vonandi þekkir nú þjóðin sinn vitjunartíma, og sér sóma sinn í því að reisa nú þegar þetta listamannahús, sem lengi hefir verið um talað! Því væri hvergi betur í sveit komið en í Hveragerði, og nú eru til nógir peningar að byggja það fyrir, svo hvað dvelur orminn langa? Er ekki sífellt verið að prédika í blöðum og útvarpi, að oft hafi verið þörf, en nú sé nauðsyn, að styðja og styrkja íslenzka menningu af fremsta megni, vernda málið, og útbreiða þekkinguna á landinu? Hverjir haldið þér að séu líklegastir til alls þessa? Hverjum eiga Íslendingar að þakka tungu sína og þjóðerni, og þar með líf sitt og tilveru? Hverjir hafa verið inn – og útverðir íslenzkrar menningar gegnum aldirnar? Hverjum er það að þakka að Íslendingar njóta þó nokkurrar virðingar meðal þjóðanna? Sérhver dómbær útlendingur myndi svara: Skáld, fræðimenn og listamenn! En farið þér nú að svara því sjálfir, mínir elskanlegir, og svarið því þannig, að yður sé heldur sómi að en skömm.
Jóhannes úr Kötlum.
Það kveður nú við úr öllum áttum, að nú séu myrkir tímar og kvíðvænlegir, og er það ekki of sagt. En „él eitt mun vera“, eins og Njáll gamli á Bergþórshvoli sagði. Aftur mun Birta, og vér fáum að sjá „upp rísa, öðru sinni, jörð úr ægi iðjagræna“. En á þeirri jörð mun Hveragerðis oft verða að góðu getið, því að hér er framtíð hins nýja Íslands að rísa úr grasi.“
Heimildir:
-Sveitarstjórnarmál. 2. tbl. 01.04.1986, Hveragerðishreppur fjörutíu ára – Karl Guðmundsson, bls. 66.
-Sveitarstjórnarmál, 5. tbl. 01.09.2016, Hveragerðisbær 70 ára, bls. 8.
-Morgunblaðið, 145. tbl. 01.07.1987, Stöðug fjölgun íbúa síðastliðin 20 ár, bls. 26.
-Vísir Sunnudagsblað, 8. blað 12.04.1942, Hveragerði, Sveitarþorpið, sem vísir til framtíðar hins nýja Íslands – Kristmann Guðmundsson, bls. 1-3.
–https://www.facebook.com/HveragerdiSightseeing/photos/
Merki bæjarins – Hreppsnefnd Hveragerðis ákvað haustið 1982 að efna til samkeppni um gerð byggðamerkis fyrir sveitarfélagið. Um 80 tillögur bárust frá 27 aðilum. Í nóvember sama ár var efnt til sýningar á tillögunum og gátu þá allir íbúar, 12 ára og eldri, tekið þátt í skoðanakönnun um val á merki. Hreppsnefnd valdi síðan merki úr hópi tillagna sem flest atkvæði fengu. Höfundur vinningstillögunar var Helgi Grétar Kristinsson málarameistari í Hveragerði. Skjaldarflötur merkisins er í þremur bláum litum. Merkið sýnir gufustrók sem er táknrænn fyrir jarðhitann í Hveragerði. Einnig myndar gufustrókurinn lauf eða smára sem er tákn fyrir garðyrkju- og blómarækt sem sveitarfélagið er þekkt fyrir. Fuglinn í merkinu vísar í þjóðsögu um hverafugla sem syntu á sjóðheitum hverum. Merkið var tekið í notkun árið 1983.
Bálkahellir – að liðnum áratug
Gengið var í Klofning í Krýsuvíkurhrauni. Þar var farið í Bálkahelli og Arngrímshelli.
í um 170 ár. Efsti hlutinn er að jafnaði um 7 m breiður og 5 m hár. Neðsti hlutinn er heill með miklum dropsteinsbreiðum. Síðarnefndi hellirinn er fornt fjárskjól sem nefndur er í þjóðsögunni um Grákollu.
Um framangreint er einungis tvennt um að segja; annars vegar eru slíkar bókanir orðin ein því enginn er gerður ábyrgur um að fylgja þeim eftir, og hins vegar hefur enginn hlutaðeigandi haft samband við FERLIR og beðið um að boða betri umgengni um hellana á fólkvanginum. Mikill fróðleikur um slíkt leynist þó hér á vefsíðunni – ef grannt er skoðað.
Þjóðsagan segir að Arngrímur á Læk í Krýsuvík hafi haldið 99 grákollóttar ær á auk einnar grákollóttrar, sem systir hans átti, nefnd Grákolla. Þetta var um aldamótin 1700. Óveður geisaði og hraktist féð fram af Krýsuvíkurbjargi, allt nema Grákolla. Er talið að allt fé Krýsuvíkurbænda sé frá henni komið. Arngrímur lést síðan skömmu eftir aldamótin (1724) er hann var við sölvatekju undir bjarginu með öðrum. Silla féll úr bjarginu og varð hann og tveir aðrir undir henni. Mörðust þeir til bana. Einn maður bjargaðist og varð til frásagnar um atburðinn.
Fyrrnefndi hellirinn er um 500 m langur. Hann endurfannst fyrir einum áratug eftir að hafa gleymst og legið í þagnargildi
Tilefni ferðarinnar var ekki síst sá að áratugur er liðinn síðan Bálkahellir endurfannst. Ætlunin er m.a. að skoða hvort mannaferðir á þessu tímabili hafi haft áhrif á myndanir í hellinum og þá hverjar.
Á fundir Stjórnar Reykjanesfólksvangs 13.12.2007 var eftirfarandi m.a. fært til bókar: „Rætt um hella í fólkvanginum sem eru þó nokkrir. Bálkahellir í Krýsuvíkurhrauni er dæmi um helli þar sem hafa orðið skemmdir. Rætt um að koma mætti á samstarfi við Hellarannsóknarfélagið, Ferlir og fleiri varðandi umgengni og fræðslu. Kristján Pálsson lagði til að stjórnin heimsækti hellana.“
Arngrímshellir er með miklum mannvistarleifum. Við hann gerðist þjóðsagan af Grákollu. Þar segir af Arngrími á Læk um og eftir 1700 og (130 árum síðar) Krýsuvíkur-Gvendi Bjarnasyni, sem héldu fé sínu í hellinum. Gólfið er flórað að hluta, hleðslur eru við op og inni í hellinum, auk tóftar, sem gamlar sagnir eru um.
Um 130 árum síðar er getið um að nefndur Gvendur Bjarnason nokkur frá Krýsuvík hafi haft fé í hellinum. Hlóð hann þvervegg sem og stíur. Byggði hann og hús fyrir opið. Helst þótti til tíðinda að gler var í gluggum þess. Tóftir þess sjást enn, auk annarra nefndra minja í hellinum.
Hún var skemmtileg aðkoman að hellunum þennan febrúardag árið 2010.
Hitinn var um frostmark en hiti innanopa. Opin voru því hrímuð umleikis en allt um kring auð jörð.
Ekki var að sjá að mikil umferð hafi verið um opin, einkum það neðsta. Allar jarðmyndanir virtust að mestu ósnortnar utan þess að hraunstrá í neðsta hluta Bálkahellis höfðu brotnað úr loftum þegar fólk rak höfðuð sín í þau. Er það að mörgu leyti skiljanlegt því bæði er erfitt að koma auga á grönn stráin, einkum ef ljósabúnaður er ekki nægilega góður, og fáir eru að líta upp fyrir sig þegar gengið er inn eftir hellisgólfi.
Að hellunum var gengin gömul fjölfarin gata um Klofning, en á bakaleiðinni var rakin gata að hellunum mun ofar í hrauninu. Vörður voru við götuna, bæði á hraunbrún og á barmi hrauntraðar. Auðvelt var að rekja götuna þegar upp á hraunstall var komið því þaðan var hún einstaklega greiðfær um annars úfið apalhraun. Á leiðinni fannst op á enn einum hellinum. Niðri var stór hraunrás, en ekki vannst tími til að kanna hana nánar að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Í Bálkahelli.
Mela-Seljadalur – Melasel
Stefnt var að því að ganga upp í Melaseljadal ofan við Tindsstaði, Kiðafell og Mela í Kjós. Áður en lagt var af stað var kíkt á eftirfarandi grein um svæðið, sem birtist í MBL 24. nóv. 1968 og bar fyrirsögnina „Hún amma mín það sagði mér“.
„Í þetta skiptið ætlum við að ganga í Tinnuskarð og í Þjófagil, og ef okkur endist þrek, að ganga það allt til enda, þar til Melaseljadal er náð, en hann öðlaðist frægð sýna skyndilega þegar reist var þar brugghús á þeim tíma, þegar „bændurnir brugguðu í friði, meðan Blöndal var suður með sjó“ eins og sagði í kvæðinu.
Og nú sjáum við ofan á þetta einkennilega náttúrufyrirbæri Tinnuskarðið sjálft. Eiginlega er þetta ekki skarð, nema yzt við klettabeltið. Miklu frekar er þetta lítil dalkvos. Sé maður staddur í botni hennar, sér mann enginn. Skarðið er aðeins opið til vesturs, út til fjarðarins, og þeir sem um þjóðveginn fara fyrir neðan, myndu ekki hafa hugmynd um þótt þúsundir manna hefðust við í dalkvosinni innan við sjálft skarðið. Grasivaxnar brekkur eru á allar hliðar og þar er einskonar sæti allt um kring og er þetta engu líkara en [í] rómversku hringleikahúsi. Colosseum er að vísu gert af steini og mannavöldum, en þarna gætu vel farið fram leikar og mannfundir, og nógir eru áhorfendabekkir. Einnig hagar þannig svo til, að innanvert við skarðið, norðanmegin er ræðupallur af náttúrunni gerður hátt í klettum og þar reyndi maður raddþolið hér áður. Það er engu líkara, en klettarnir vörpuðu hljóðinu inn í þetta hringleikahús og óþarft myndi þar að nota gjallarhorn. Tinnuskarð er sem sagt tilvalið fyrir mannafundi.
Enginn veit ég deili á nafngift þessari, Þjófagil. Veit um enga þjófa, sem hafa verið að sniglast í gili þessu. Það er víða grösugt og auðvelt yfirferðar, og endar ekki fyrr en í Melaseljadal bak við Stampana.
Ekki sagði maðurinn frá þessu, en upp komst um húsið fyrir annarra tilverkanað um síðir, og var þá úti hin hagstæða tíð. Einhversstaðar í Þjófagili fann ég líka einu sinni eitthvað af tunnustöfum, sem vafalaust hafa ekki átt annað erindi þar, en til verksmiðjunnar í Melaseljadal. Vafalítið hefur það verið góð heilsubótarganga að ganga til verksmiðurekstursins, en þetta varðaði við landslög og öllu var hellt niður. Æ, það má ekkert skemmtilegt gera á þessu landi lengur.
Við erum fljót yfir bergvatnsána tæru Kiðafellsá upp á Kleyfarnar framhjá klettinum, sem hún amma mín sagðist alltaf sjá álfaborgina í, einkanlega þegar kvöldsólin skein á hana. Ég held að hún hafi þar fyrir utan bæði séð álfakónginn og álfadrottninguna, en henni fannst alltaf álfaborgin hafa burstir, eins og íslenskur sveitarbær. Burstirnar voru þrjár, sagði hún.
Allt er þetta á fótinn, en Tinnuskarð er ekki hátt, þótt klettabeltið sé tilkomumikið og reglulegt, og brátt náum við upp á sléttuna ofanvert við Tinnuskarð.
Enga finnum við samt tinnuna, en hins vegar er mikið um jaspis og kvartzmola, sem liggja á melnum, út um allt. ekki er önnur skýring á nafngiftinni en sú, að gömlu mönnunum hafi fundist jaspísinn svo harður, – þeir gátu skorið með honum gler – og kallað skarðið eftir því.
Rétt sunnan við komum við svo niður í Þjófagil. Eftir því rennur lítill lækur, skoppar stein af steini og fellur svo meðfram norðurjarðri Melaflatar og niður Melagil til sjávar hjá Niðurkoti, en sá bær er nú í eyði. Á Melaflöt var það venjan hér áður að hleypa hestunum á leið til kirkju í Saurbæ, og var hún tilvalinn skeiðvöllur.
Og þá er að segja frá Melaseljadal. Hann er eiginlega örlítið dalverpi opið í báða enda, en þar hefur sjálfsagt verið haft í seli frá Melum hér áður, eins og nafnið bendir til. Ekki hef ég séð neinar rústir aðrar en þær af brugghúsinu fræga, sem nú greinir frá.
Þetta var á þeim tímum, eins og áður sagði, þegar bændurnir brugguðu í friði, meðan Blöndal var suður með sjó en Björn sálugi Blöndal var lögreglueftirlitsmaður með landabruggi þá.
Það var á allra vitorði, að nokkrir þarna í nánd stunduðu lítilsháttar brugg sér til búdrýginda, en allt voru þetta heiðursmenn, og aldrei fannst brugghúsið, fyrr en sólheitan sumardag einn að maður nokkur skapp í fjallgöngu á Dýjadalshnúk í Esju. Á niðurleið gekk hann yfir Melaseljadal, og sá þá lækjarsprænu koma undan einhverri þúst. Við nánari athugun kom í ljós hið haganlegasta brugghús með landalögum í mörgum brúsum og tunnum á stokkunum. Lækurinn var leiddur í gegnum húsið til hagræðingar. Tveir kjóar sátu þar nærri og söng ámátlega í þeim, eins og þeir væru búnir að fá sér heldur mikið neðan í því af framleiðslunni.
Nú var orðið kvöldsett, sólin að síga bak við Akrafjall, og við höldum niður með Þverá til byggða.
Alltaf ber eitthvað nýtt fyrir augu, alltaf opnast meir og meir af íslenskri náttúru fyrir okkur, og við raulum fyrir munni okkar niður Kleyfarnar hið gullfallega erindi Guðmundar skólaskálds:
„Kvöldblíðan lognværa kyssir hvern reit.
Komið er sumar, og hýrt er í sveit.
Sól er að kveðja við bláfjallabrún.
Brosa við aftanskin fagurgræn tún.
seg mér, hvað indælla auga þitt leit
íslenska kvöldinu í fallegri sveit.“
Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. Um Neðrakot [Niðurkot]: „Fjórða býli á jörðinni [Kiðafelli], sem ekki er með hjáleigum talið.“ Í umsögn um Kiðafell er ekki getið um selstöðu. Minnst er á selstöðu Mela upp í Esju í Jarðabókinni: „Selstöðu á jörðin þar sem heitir Mela Seljadalur, og eru þeir hagar að mestu aleyddir af skriðum.“
Að sögn Sigurbjörns Hjaltasonar á Kiðafelli var greinin í Lesbókinni eftir föðurbróður hans, Friðrik Sigurbjörnsson, fyrrverandi lögreglustjóra á Ísafirði. Hann skrifaði m.a. bókina „Sól skein sunnan“ og þar mun vera umfjöllun um svæðið (náttúrufarslýsingar). Tóftir væru í Melaseljadal, en sá dalur væri mun neðar en virðist við fyrstu sýn, eða einungis lítil skál. Þær tóftir voru m.a. notaðar fyrir brugghúsið nefnda. Tinnuskarð hefði verið nefnt Tvistakarð og Þjófadalur Þjódalur vegna þjóhnappalíki, sem í honum eru. Tíminn verður nýttur til að afla fleiri heimilda um svæðið.
Vegna veðurs, ofankomu og skafrennings, var ákveðið að freysta ekki uppgöngu í Melaseljadal að þessu sinni. Uppförin þangað bíður leysinga.
Heimild:
-Mbl. 24. nóv. 1968 – Hún amma mín það sagði mér, bls. 7, úr ritröðinni „Á víðavangi“ (Friðbjörn Sigurbjörnsson).
-Jarðarbók Ám og PV 1703, bls 381 og 394.
Kerlingahnjúkur – Kóngsfell – drykkjasteinn – Grindarskörð
Gengið var upp frá gígunum í Strompahrauni norðvestan við suðurmörk Bláfjalla.
Göngusvæðið – kort.
Ætlunin var að ganga yfir á Kerlingarhnúk og fylgja síðan Heiðarveginum niður að Grindarskörðum, kíkja á Kóngsfell og fylgja síðan götunni um Kerlingargil niður á Bláfjallaveg (Selvogsötu).
Þegar gengið var upp Strompana í Strompahrauni mátti vel sjá hvernig hraunið hefur breytt úr sér til norðurs. Í hrauninu eru allnokkrir hellar, sem vert er að skoða.
Kerlingarhnúkur var framundan, vestast í Bláfjöllum, 613 m.y.s. Af honum er fagurt útsýni yfir svæðin neðanverð. Stefnan var tekin til vesturs í von um að hitta á Heiðarveginn, sem liggur um Heiðina há vestanverða.
Á Heiðarvegi.
Vegurinn liggur frá Ólafsskarðsvegi ofan við Leitin í austanverðum Bláfjöllum og niður á Selvogsgötu ofan Grindarskarða í vestri. Eftir stutta göngu var komið inn á gamla götu. Vörðubrot mátti sjá á stangli. Götunni var fylgt niður með Stórkonugjá og áleiðis niður að gatnamótum Selvogsgötu. Þar eru vörður. Stefnan var tekin á Kóngsfellið ofan við Stórabolla, það skoðað, og síðan haldið áfram að Kerlingarskarði milli Miðbolla (Litla-Kóngsfells) og Syðstubolla. Eftir að hafa litið á drykkjarsteininn efst í skarðinu var götunni fylgt niður skarðið, skoðuð tóft brennisteinsnámumanna undir því og síðan gengið áfram niður á Bláfjallaveg.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.
Tvíbollar.